EINAR  ANDRÉSSON


eftir Þorgils gjallanda





Mokfiskið hverja vertíðina eftir aðra og ár eftir ár, það dró menn suður að sjónum.

Einar Andrésson var einn af þeim mönnum, sem ekki höfðu neina eiru nema komast suður og ná í uppsprettuna.

Hann var þá tuttugu og fimm ára gamall, fjörmaður mikill, knár og röskur til hvers, sem hann gekk; barst talsvert á og vílaði ekki fyrir sér þó krónan ylti.

En þó hann kæmist suður og næði í mokfiskið, þá æxlaðist það einhvern veginn svo til, að ekki safnaðist auðurinn að Einari; honum þótti gaman að koma til Reykjavíkur og þó hann færi þaðan í fallegum fötum var sjaldan mikið í vösunum þegar hann fór aftur til baka. Svo eru líka fleiri sölustaðir til þar syðra en Reykjavíkin, þó yfir henni einni hvíli borgarbragur en hitt séu bara kauptún og fiskiver. Og Einari þótti gaman að koma á smærri verslunarstaðina líka; smakka þar á víninu og láta vel yfir sér. Hann kveið ekki komanda degi, og vildi með engu móti heita sjálfsníðingur.


*


Þeir tveir menn, sem eru að fara upp á Holtavörðuheiði, reyna að síga svo drjúgum áfram, sem færðin og heilsan leyfa; en færðin er ill og hestarnir daufir, og svo er annar þeirra, sá á horuðu, gömlu bykkjunni með langsekkstetrið þvert yfir hnakkgarminn, ekki fær til að berja alla jafna fótastokkinn og knýja hrossið áfram. Ekki var hann heldur vel til gangsins fallinn né fær til að skjótast af baki þó hrossið væri á kafi í fönnunum; og þó var honum ekki aldurinn að meini; aðeins þrjátíu og fimm ára gamall, en sá sem hefur orðið fyrir því óláni, að gigtin er búin að gera hann mjaðmaskakkan og aldrei þolir að stíga heilum fæti á jörð, hann er ekki til fljótra ferða fallinn eða til skjótra snúninga, þó ekki liggi margir áratugir á bakinu á honum.

Það var Einar Andrésson með aleigu sína í langsekksendunum, í slitnu skjóllausu útlendu fötunum sínum, sem útsynningurinn næddi napurt gegnum. Nú var verið að flytja hann hreppaflutningi norður á sveit sína, alla götu norður í Múlasýslu.

Meðan Einar lá þessa löngu legu og gigtin var að gera hann að örkumlamanni, hurfu kunningjarnir og efnin alveg. Hann reis úr rekkjunni sem einstæður, ókunnur vesalingur úr öðrum landsfjórðungi. Svo þegar hann gat að nafninu talist ferðafær var honum vísað ofur kurteislega og greinilega götuna heim til sín. Það var gert eftir gamalli, löglegri venju og í kristilegu bróðerni.

Einar Andrésson lagði úr Víkinni þegar ein vika var liðin af einmánuði en ferðalagið gekk dauðans hægt og seint þó alltaf væri róið í áttina. Tíðin var misjöfn eins og oft er á vorin svo það var einlægt að hlaupa í mjöðmina á Einari og hann varð að halda við rúmið einn og tvo daga í senn. Hressleikinn var sjaldan svo mikill að hann þyldi að fara fullar dagleiðir. Og svo snjóar og aurar og kröp og torfær vötnin; allt þetta hjálpaðist að til að tefja ferðina.

Ekki gátu menn heldur verið að velja reiðskjóta handa "þessum ræfli", nema að því leytinu að setja hann ekki upp á fjörhesta; hann hafði svo sem ekki mikið með þá að gera svona fatlaður. Hestar eru oft þungir til reiðar snemma á vorin og oft magrir líka; en hvað átti hann Einar Andrésson með að malda um það?

Og hann gerði það heldur ekki; veikindin höfðu lamað allt sjálfstraustið hjá honum og á ferðinni gekk mannþroskinn alltaf meir og meir til þurrðar. "Skakka-Einari" fór að verða heila daga og heilar vikur sama hvernig allt veltist. Ekki var svo gleðilegt, að koma svona til reika heim í sveitina sína aftur. En þegar minnst varði varð hann aftur viðkvæmur fyrir sjálfum sér, eins viðkvæmur og fyrstu árin syðra; munurinn var bara sá að heilsa og þrek var farið; hann varð að vera eins og aðrir vildu, eins og þeim sýndist sem fluttu hann.

Sannarlega opnaðist Einari Andréssyni nýr heimur, honum fannst mismunurinn æði þungur og pínandi stundum; en það leit svo út sem þeir hefðu enga hugmynd um það sem selfærðu hann heimleiðis, að nokkuð væri vandgert við "hreppaflutninginn", svo ef til vill hefur þetta verið óþarfa viðkvæmni úr honum sjálfum.

Veðrið gekk upp með hádeginu og varð stórhvasst, heilbrigði fylgdarmaðurinn á skjólgóðum yfirfrakka var allvel ríðandi og vildi hraða ferðinni, hann rak eftir Einari að herða á "truntunni" og það nokkuð freklega þegar ekki dugði annað; en Einar gat ekki hvatað meir ferðinni en hann hafði hreystina til og sú bleika ekki heldur, hún lattist og lúðist meir og meir.

"Þetta helvítis drasl hjálpar ekki; seint komumst við norður yfir ef þið mollið sona."

"Og ég kemst nú ekki harðara þó ég vildi," Einar var linmæltur; kuldinn var farinn að ganga að honum.

"Skárra er það bölvað hangsið." Fylgdarmaðurinn reið liðugt norður röðulinn.

Og hann mátti staldra við og bíða í öðru hverju holti eftir Einari, ferðalagið gekk svo seint að myrkt var orðið hjá þeim norður í heiðinni og Bleik var staðþreytt. Fylgdarmaðurinn snaraði langsekknum í hnakkinn sinn, tók beislið út úr Bleik, hjálpaði "Skakka-Einari" upp á klárinn sinn og flýtti sér að ná til bæja.

Einar Andrésson var ekki á færum til að neyta mikils það kvöld og nóttin varð honum erfið og kvalafull; hann lá rúmfastur fjóra dagana og hafði nógan tíma til að hugsa um hverfleik lífsins, aðköst andstreymisins, kristilega mannúð og margt fleira.

Kvöldinu fyrir uppstigningardag kom maður með Einar Andrésson undir Sandheiði, og það vildi einmitt svo vel til að hreppstjórinn var þar staddur og gat bæði ráðið mann og hesta til að flytja hann yfir heiðina og skrifað á vegabréfið. Hún var algjört útskrifuð fyrsta örkin af því og hreppstjórinn í næsta hreppi hafði orðið að bæta annarri við, sem líklegt var að dygði Einari heim. Það var þurr rolla fljótt yfir að líta þetta vegabréf, sem taldi bara upp, að þessi hreppur hefði skilað Einari Andréssyni til næsta hrepps heilum og lifandi. Allt löghelgað, forsjálegt og eins og vera bar. Hvað sem tilfinningar Skakka-Einars hafa sagt.

Einar Andrésson fékk að reiða langsekkinn yfir Sandheiði; það var föst venja orðin með það; en nú var honum lánuð skjólgóð hempa utan yfir og gefnir góðir leistar og sokkar; plöggin voru orðin að druslum. Sandheiði er löng og þó hún væri rauð var þó færðin ekki góð fyrir aurana. Hestur Einars harðstígur og hratt farið. Það hljóp í mjöðmina og varpaði Skakka-Einari einu sinni enn á logandi bál.

Ekki kostaði það nema tvær krónur að koma honum þessa dagleið milli þessara hreppanna.

Það var komið rétt að fráfærum þegar Einar Andrésson loksins komst heim í sveitina sína, heim í hreppinn sinn. Hann hafði ekki fallið meðal ræningja - það væri hrópleg lygi að segja það. Hann Einar sem var fluttur af meðbræðrum sínum, bæ frá bæ, hrepp úr hreppi beinlínis eftir blessuðum lögunum.

En eftir þessa ferð var Einar Andrésson aldrei annað en aumingi - líkamlegur og andlegur aumingi. Það var nokkuð undarlegt og óskiljanlegt - en það var samt svo.

Þetta vor amaði ekki hafísinn. Thyra og Laura eða hvað þau nú hétu strandferðaskipin, fóru hringinn í kringum landið alveg fyrirstöðulaust, höfðu flutt marga farþega, suma hafna milli og suma allan hringinn, þeir sem vanir voru sjónum og voru "á fyrsta plássi" létu vel yfir - ágæta vel. En það hét heldur enginn þeirra Einar Andrésson og enginn af þeim var mjaðmaskakkur "hreppaflutningur".

Um leið og Laura varpaði akkeri og fáninn var dreginn upp í kaupstaðnum var Einari Andréssyni fylgt í hlaðið þar - hann átti að verða undir læknishendi þar um tíma.

Svona kom hann heim aftur eftir tíu ára burtveru.




Netútgáfan - janúar 2000