AFTANSKIN


eftir Þorgils gjallanda





Oft er hún góa hörð og grimm, breytin og snæsöm og hryngjörn eins og skapversti pilsvargur. Þá finnst öllum þeim, sem þurfa að sjá gangandi fé fyrir fóðri, dagarnir langir og daprir; flestir verða fegnir hverjum degi sem líður; hverri vikunni, sem hverfur að baki; allir horfa vonaraugum til vorsins, til vermandi sólar og þjótandi þeyvinda.

Hitt ber líka við, að góan færir veðurgæði, sólbráð og bjartan himin; stundum drifahláku og staðviðri á eftir; að hún gefur næga hagbeit, beitifæri og hugheil hressindi, bæði mönnum og málleysingjum. Þá vaknar vorhugur og starfsþróttur; kjarkur og djarflegar áætlanir í hugum allra framgjarnra manna. Ferðalög um miklar heiðar og um langan veg hefjast með léttu skapi og hvatleika. Akstursfærið er komið; nú er gott að draga til bús og bygginga. Gaman að stíga á bak selfeitum hesti, létta sér upp, reka erindi sín, hitta fjarstadda vini og viðskiptamenn. Hlaupa á hjarni yfir hálsa og heiðar, koma göngumóður til gestbeinna málvina, segja tíðindi og spyrja almennra frétta; hvílast í mjúkri sæng, spretta heill og hress á fætur að morgni; skeggræða og taka dögurð; kveðja og leggja léttfættur upp brekkurnar; litast um af efstu brún yfir byggðina og búféð á beit; taka síðan á rás eftir hjarninu; léttur í skapi í heiðríkjunni og frostsvalanum.

Svona hló nú góufærið við einn vetur og loftið var heiðríkt, nema lágur þokubakki lá kyrrlegur yst í sjóndeildarhringnum norður við hafið austanvert Gnúpanna.

Ungur maður frálegur teymdi töskuhest upp brekkurnar frá Gauksstöðum, þá kom söðlaður hestur með tauminn uppi og eftir honum roskinn maður með krókstaf í annarri hendi og loðhúfuna í hinni; honum var varmt; útlendu skórnir urðu ómýkri og hálli á hjarni og hörsli en þeir íslensku; maðurinn nokkuð holdugur og ekki vanur fjallgöngum; fullur meðalmaður á hæð, þrekvaxinn; dökkur á hár og mjúkhærður, dökkur á alskeggið og hvorttveggja lítið eitt hæruskotið; höfuðið þreklegt, svipmikill, blágráeygur, fullur að vöngum; sjálegur og þó komnar hrukkur nokkrar á enni og umhverfis augun. Fastlegur og fár við lítt kunna.

"Þú gengur of hart fyrir mig, Snorri, mundu að ég er gamall og stirðfættur, óvanur göngu og brekkum." Hann fór úr kápunni og lagði hana yfir hnakkinn.

"Ég skal fara hægra, hér á röðlinum má vel stansa og kasta mæðinni."

"Feginn verð ég þegar upp á brúnina kemur, ég blæs eins og hvalur."

Af brúninni lituðust þeir um og köstuðu mæðinni.

"Dalurinn er fallegur og björgulegur, vel get ég skilið þó þeim þyki svo, sem hér eru uppaldir."

"En heiðin er nú mestöll eitt jökulflæmi, hér er fátt til að styðjast við, hér er gamanlaust að rata í myrkri og stórhríð."

"Það er furða hvað mönnum tekst og hvað menn rata; vaninn og æfingin gerir mikið að. Úr þessari bakkalæðu kemur þoka eða hríð þegar á daginn líður; andvarinn kembir hana suður Gnúpana þó hægt fari; hér eftir verð ég þér til minni trafala; nú hangi ég á hestinum."

Snorri hljóp við fót, hinn reið á eftir og töskuhesturinn rann við hlið honum; þannig fóru þeir lengi; varla markaði fót, svo var færið öruggt.

"Ríddu nú um stund; ég verð stirður af að dingla svona; mér er fýsn á að reyna, hvort ég get ekki hlaupið á hjarni - sú var tíðin að ég hafði gaman af því.

Fylgdarmaðurinn færðist undan í fyrstu, en þess fastar sótti hinn á; loks lét hann þó tilleiðast.

Það var auðséð að hann hafði verið fóthvatur maður og fylginn sér, þessi ferðalangur, en hann tók sig of geyst og brjóstið var ekki jafn létt og fyrrum. Eftir langa lotu nam hann staðar og sagði:

"Nei - ég er búinn að tapa öllum léttleika, nú verður að tosast í hnakkinn aftur."

Snorri fór nú nokkru harðara en áður; þeim sóttist heiðin furðu fljótt, en síðbúnir höfðu þeir orðið frá Gauksstöðum svo um nón fóru þeir hjá Valahnúk, það er keilumyndaður hár blágrýtishóll yst á melrana sem liggur sunnan heiðina, þar er talin hálfnuð leið milli Fauskadals og Skógahverfis. Þar vötnuðu þeir hestunum, gáfu þeim brauð og skyggndust til veðurs. Andvari kulaði af norðri, þokan slæddist suður eftir; fór hægt en hækkaði og jafnaðist - nú var auðsýnt að skammt mundi að bíða hennar.

"Ertu öruggur að rata ef niðdimm þoka skellur yfir?"

"Það held ég. Á hvern bæ ætlarðu helst í Hverfinu?"

"Að Varmalæk, þar býr jafnaldri minn og æskuvinur, hann Oddur Ólason; þangað vil ég helst leita gistingar... Þegar ég var strákur reið ég eins og rækallinn á reiðing og hverju sem var. Þú ert ungur og frískur, farðu á bak töskuhestinum; við skulum ríða af okkur þokuna, ríða eins og gikkir; ég vil síður koma hundvilltur í æskusveitina mína."

Snorri snaraðist á bak töskuhestinum; það var kátlegt reiðver og fæturnir stóðu óvenju fjarri hrosssíðunum, en Snorri hló og sagðist hvergi kæra sig um reiðverið.

Þeir riðu langa hríð á hægu stökki; þá sagðist Snorri síður vilja sitja á svona krosstré til lengdar; stökk af baki og tók á rás eftir hjarninu. Þokan læddist nær og nær; hráslaginn fannst þó spakviðrið héldist.

"Sprengdu þig ekki, góðurinn minn, við náum einhverjum bæ í Hverfinu og þar kannast ég við mig þó svarta-þoka sé á."

"Það kemur sér vel, þar er ég lítið kunnugur; ég hef einu sinni komið að Kirkjubæ og öðru sinni að Vindheimi. Þú ert alinn upp í Dynskógum; þeir eru austan vatnsins minnir mig."

"Já - og þar þekki ég hverja þúfu."

Hreinn Hjartarson frá Skógum, það lætur í eyrum eins og í fornsögu, hugsaði Snorri. Hann verður reiður ef ég villist - þeir eru svo stíflyndir þessir Vestmenn og heimtufrekir og stundvísir, ég verð að gera hvað ég get.

"Þú gengur á undan, ég ríð lítið eitt síðar og tek eftir stefnunni. Nú er þokan skollin á, kolsvört en meinleysisleg, ekki hríðar hann fyrst um sinn."

Þannig héldu þeir áfram um hríð, fóru hart yfir og töluðust ekki við.

"Norðar finnst mér stefnan mundi að Varmalæk, en allt er hér farið að fyrnast mér, svo ekki er mark á því takandi. Fer nú ekki að styttast austur af?"

"Það hugsa ég, og ekki erum við komnir langt afleiðis."

Nokkru seinna fór að halla undan fæti, snjórinn að minnka og auðu hagblettirnir urðu meiri umferðar.

Þeim sóttist vel niður aflíðandi brekkurnar, þar voru svellalög í lægðum en hestarnir voru hvassjárnaðir og hélustemma á hverjum glotta.

Þeir komu jafnsnemma á sléttar grundir og hundgeltið rétt sunnan við rauf þögnina. Svo riðu þeir í túnið og heim að bænum; þar var enginn úti.

"Þetta er eflaust Kirkjubær, þó húsaskipun sé stórum breytt þá mun þó kirkjan sú sama... Ég vil ekki vera að hrekja þig út að Varmalæk fyrir firrur og sérvisku, heldur biðja hér um gistingu. Býr hún hérna, ekkja séra Arnórs?"

"Jú, Freydís Einarsdóttir, hún býr hér."

"Við vorum kunnug í æsku... viltu ekki gera mér þann greiða að drepa á dyr og spyrja um heilbrigði og hvort húsfreyja sé heima. Þú segir mig bara vesturheimskan Íslending ef ekki verður hjá svörum komist."

Húskarl gekk til dyra; þeir Snorri skiptust orðum við.

Hreinn gekk til þeirra, heilsaði og bað húskarl að skila gistingarbeiðni inn til húsfreyju. Skömmu síðar kom hann aftur og sagði velkomna gistingu, leiddi gesti til stofu og bjóst til að taka af hestunum.

"Snorri minn, hjálpaðu honum til, berið inn reiðverin og hagræðið sem best hestunum."

Hreinn sat einn í stofunni litla stund, húmblæju var farið að draga yfir, þó var sæmilega bjart ennþá. Hann sat og var hugsi, en eftir öllum umgangi tók hann sem vandlegast. Nú var gengið um, klappað hægt á hurð og hún síðan opnuð gætilega; hávaxin kona kom inn.

"Komdu sæl!"

"Komdu sæll!"

Bæði voru lágmælt; bæði horfðu gætnum rannsóknaraugum; bæði skiptu litum. Þau héldust fast í hendur.

"Freydís! Er ekki svo?"

"Jú --- Og Hreinn frá Skógum?"

"Já." Hann sleppti hægt hönd hennar.

"Velkominn heim, velkominn hér á heimili."

"Þakka þér fyrir --- Kæra þökk fyrir --- Mig fýsti svo til landsins, heim til sveitarinnar, æskustöðva, jafnaldra og vina - ef til væru -, að ég eirði ekki lengur vestur frá."

"Sveitin er sú sama, margir jafnaldrarnir lifa, Oddi á Varmalæk líður vel og fleiri munu hér taka glöðum hug við góðum sjaldséðum gesti."

"Til Odds ætlaði ég í kvöld en hér vísaði þokan okkur til húsa."

"Ætlaðirðu ekki að koma hér við?"

"Jú - en seinna, á morgun. Hér þekki ég nú líklega engan nema þig - og það er langt síðan - æskan löngu liðin; æska okkar beggja. Á þrjátíu árum breytist margt og gleymist sumt."

"Allir gamlir muna best bernsku og æsku - þar er bjartast yfir, fegurst og seinfyrndast. Það finnst mér. Er ekki svo?"

"Jú, svo er fyrir mér - en margir gleyma, fá aðrar skoðanir, önnur áhugamál, aðra málvini, aðrar tilfinningar, sumir víðsýnni og hærri, aðrir þrengri og jarðlægari."

Nú komu þeir frá að gefa hestunum; svo þetta samtal varð ekki lengra.

"Hér í stofunni er of svalt; má ekki bjóða ykkur til baðstofu, þar setur varla að ykkur."

"Þakka þér fyrir; ég er orðinn kulvís."

Ekki stóð á löngu áður ljós voru tendruð og beini borinn, en engin frásögn verður af því gerð, né samtali því er varð um kvöldið. Að lokinni vöku var til rekkna búist; tvö rúm voru í húsi húsfreyju, var Einar litli, sveinn á tólfta ári, háttaður í öðru, í hinu svaf víst móðir hans. Sunnan við það hús var annað herbergi lítið en snoturt, þar var rúm og borð, tveir setustólar, bókaskápur á þili og forn spegill í svartri umgerð; þar var Hreini vísað til rekkju. Hann fann að svefninn mundi firrast sig um hríð og fór því að leita sér að hentugri bók til friðunar; settist við borðið og fór að lesa í þjóðsögum Jóns Árnasonar; þær hafði hann ekki lesið síðan hann fór vestur, svo nýnæmi var að lesa þær, en þó náði hugurinn engum föstum tökum á sögunum; hann snerist að öðru: Kyrrð og svefnværð færðist yfir menn í baðstofunni, hægt og hljótt var gengið um; fingrum deplað á hurðina; hann sneri hægt handfanginu; Freydís kom inn með vatnsflösku og glas á smáskutli.

"Ég hafði gleymt vatninu og það var ónærgætni við lúinn ferðamann... Þú ert samur við þig, jafn ákafur ef bókin kemst í hendurnar og var á æskuárunum."

"Öll þessi ár hef ég lítið lesið, og þetta er enginn lestur: endurminningarnar þyrpast að mér, bernsku- og æskuminjar varna mér værðar og lesturs."

"Og þú, sem komst svona óvænt, hefur líka vakið löngu liðna daga upp fyrir mér; ég get ekki fundið svefnhöfgann færast yfir."

Hún settist á auða stólinn.

"Að þú skyldir þekkja mig Freydís; gamlan karl - eftir öll þessi ár - allt stritið - allar bylturnar og braskið."

"Þér fylgdi sama yfirbragðið; ekki litbrigðin - heldur það sem hvílir yfir hverjum manni og gerir hann sérkennilegan og auðgreindan frá öðrum. Ég þóttist þekkja þig, en orðin voru þó komin af vörunum áður en ég sjálf var fullviss."

"Mér var auðveldara, ég vissi þú bjóst hér og þó þú sért mikið breytt, þá er svipurinn sami og augun söm."

"Segðu mér nú ágrip ævi þinnar, það sem þú vilt segja og heldur að konu fýsi helst að heyra."

"Núna, það verður langur tími sem til þess þarf. Svo spyr ég, og til þess gengur mestöll nóttin. Sitja á einmæli. Er það ekki fulldjarft?"

"Finnst þér svo? Ég er langt komin með fimmtugasta árið. Nú ræður enginn fyrir mér nema eigin sæmdartilfinning og hún segir ég megi sitja hér og frétta hvernig frænda og æskuleikbróður líði."

"Það gleður mig að heyra. Ég byrja þá hér heima, því þar er upphafið og til þess kom ég mestmegnis heim að fá að segja þér og fá að frétta það sem þér er ljúft að segja. Ameríka er búin að tæta nokkuð úr mér bölvaða feimnina, en þó sit ég með dálítinn vöndul meðan ég hjari."

"Byrjaðu þá." Hún leit bládjúpu augunum til hans. - Þau voru jafn hreinskilnisleg og forðum daga.

"Ég hef oft séð tvíhættu lífs og dauða, en aldrei hef ég fundið jafnmikið til ótta og nú, þessa vitlausa ótta, um það hvort fyrsti draumurinn minn, sá skáldljúfasti, hreinasti og ógleymanlegasti hafi aðeins snúist um skuggann sinn; um sjálfan sig og annað ekki. Nú er að stökkva því hrokkið get ég ekki héðan af.

Oft hef ég hugsað um það, að ég hafi verið óvenju ásthneigður í æsku, en það var ekkert hvarfl frá einni til annarrar; frá því á þrettánda ári var aðeins ein sem ég dáðist að, hlóð öllum kostum ímyndunaraflsins á og dreymdi um að vinna þegar ég væri orðinn vaxinn og gjörvulegur maður... Það var þá barn, fjórum árum yngri en ég. Það varst þú, Freydís í Teigi." Hann leit ekki upp og röddin titraði af geðshræringunni.

"Árin færðust yfir bæði og með þeim festist hugur minn, varð dýpri og ákveðnari. Þú varst bæði bráðþroska og fríð. - Þá varstu björt á hárslit og sló á það svo undurfallegum blæ; stillt og glöð og mild. Vorið sem þú varst fermd fannst mér fyrst að ég mætti líta til þín talandi augum, og þá varð ég fyrst fyrir alvöru feiminn við þig; áður var ég að nokkru eins og eldri bróðir og þú svo systurlega góð.

Eftir það bar minna á bernskunni, bæði urðu fálátari; stundum vonaði ég, aðra stundina örvænti ég.

Móðir mín dó, og ég syrgði hana eins og eðlilegt var. Þá mun ég hafa verið nítján ára. Manstu þá, eða vissirðu þá, hvað augun þín gáfu mér mikla stundarvon, svo hluttekningarblíð og djúp og þau voru þegar við kvöddumst á grundunum sunnan við Skóga, við komum mörg frá kirkju héðan frá Kirkjubæ fullum hálfum mánuði eftir jarðarförina; feður okkar voru ölvaðir, þeir gátu ekki skilið þá, fólkið fór, nema bara við tvö, sem biðum eftir þeim, loksins skildu þeir, ég hjálpaði þér á bak og þá, meðan ég hélt í höndina á þér, fannst mér ég eiga bæði hjarta og hönd... Ég sofnaði ekki fyrri en undir morgun, þá var efinn sestur að völdum. Bara góð vinstúlka og leiksystir, sagði hann og með stingandi þraut sofnaði ég loksins."

Hún þokaði stólnum sínum nær, tók í hönd honum og sagði:

"Það var þó svo; ég unni þér; mér var þá orðið full-ljóst hvað í brjósti mér bjó."

"Freydís. Ég held þessari hendi og sleppi henni ekki meðan ég segi söguna áfram."

Hún þrýsti bara fastara að handtakinu og þagði.

"Bræður mínir tveir, þeir voru eldri mér og fullþroska, vildu fá móðurarf sinn og fara til Vesturheims; þá kom upp að jörðin var raunar öll í skuld. Kolbeinn auðgi hafði hana í pant, en báðir fóru svona dult með að enginn okkar hafði grun um það; nú vissi ég tvennt, að Kolbeinn væri að dorga sér jörðina og við værum fátækir. Það var mér ljóti snoppungurinn; til þess að ganga hér þann skaftamuninn sem milli okkar var þurfti margra ára dugnað og forsjá; hjá ykkur var óðal og önnur góð efni; álit á efnum og nógur metnaður. Bræður mínir fóru næsta vor, þeir fengu sínar 200 krónurnar hvor og til þess varð að lóga af gangandi fénu. Við Þórdís systir lögðum okkur fram eftir megni og fénu fjölgaði aftur, en pabbi var bilaður á heilsu, of hneigður til vínsins, það vannst lítið á.

Þegar ég var tuttugu og tveggja ára dó faðir minn; við Þórdís máttum vorinu eftir fara frá Skógum. Kolbeinn hafði búið svo ramlega um hnútana við síðustu lántöku, að ekki voru tiltök að komast undan nema með málaferli og líkast að ekki mundi duga, jörðin var lofuð honum; skuldin var 3000 krónur. Pabbi hafði upphaflega mestmegnis keypt hana af samörfum sínum í skuld og velt sér framan af milli hinna og þessara og loks komist í höfn hjá Kolbeini.

Um þetta er ekki að ræða nú; ekki að rifja upp löngu gefna löðrunga."

"Nei, þó ég væri ung og ógáfull á þeim árum, þá tók ég eftir hvað fast svarf að þér þá, og þess meir unni ég þér."

Hreinn leit upp, horfði í augu henni, innleg, vörm og hrein vináttan endurspeglaðist þar.

"Næsta ár vorum við í vinnumennsku hjá séra Ásgeiri ljúfmenninu, vistin var ágæt; hann hafði fermt okkur og við hann verður mér alla daga innilega vel. Þann vetur var ég látinn fylgja þér heim eitt kvöld á þorranum; þú komst til funda við vinstúlku þína prestsdótturina. Manstu veðrið þá, færið og tunglsljósið?"

"Slíkt kvöld lifir maður varla nema einu sinni á ævinni; en það var stutt stund."

"Hefði ég þá verið auðugri og átt von bólstaðar þá hefði ég látið í ljósi ást mína. Þá var mér heitt um hjarta. Ég vildi vinna mér meira álit, safna meiri efnum; verða þér samboðnari, vona og bíða. Æskan er svo gjörn til vondraumanna."

"Og ég þráði þó aðeins eitt, að þú talaðir; ekki um veður og vind, ekki um sögur, þó þér færist það snoturlega; heldur um ást þó þér vefðist tunga um tönn; af því þú hafðir reynt svo mikla sorg, þráði ég svo heitt að mega ganga með þér meðan ævin entist."

"Vatnið var snjóskýjað og glerhált á milli; ég leiddi þig; einu sinni rasaðirðu, ég greip utan um þig; hélt þér andartak að brjósti mér; svo áttaði ég mig og við héldum aftur af stað. Manstu það?

"Já. Og ef þú hefðir þá séð framan í mig, hefðirðu lesið hvað mér bjó í brjósti; en það gerðirðu ekki."

"Það sem eftir var leiðarinnar fannst mér þú svo svarastutt og þurrleg, ég hélt þér hefði fundist ég full djarfur."

"Hitt var heldur, að mér fannst þú of hikandi og ég hefði mig óbeinlínis á boðstólum. Mér gramdist bæði við þig og mig."

"Það var forlagalegt; þessi fjandans efi og eftirrýni mín hefur brennt mér marga díla og þetta seinlæknandi sárið. Tímann sem þú varst hér til að útbúa fötin með þeim mæðgunum, glæddust aftur vonirnar. Þú varst svo innileg og augun þín hreinskilnislega ástmild, að ég fór, fullur vonar og trúar, í nýju vistina; þar bauðst mér hærra kaup og meiri hlunnindi með fé mitt, og að vera verkstjóri og forráðamaður með ekkjunni á Hjalla, gat aukið álit mitt ef ég stæði vel og sæmdarlega í þeim sporum, skammt var á milli sveita og þó mér margs vegna væri þungt að fara héðan þá réðist ég þó í það samt, Oddur vinur minn lagði svo fast að mér, vegna systur sinnar."

"Og þá sló óttanum og efanum niður í huga mínum. Hún var ung og fríð og efnin álitleg. Áður hafði ég átt bjarta von, bara þetta, þú sagðir ekki orðin, sem ég vænti eftir."

"Þegar ég kvaddi þig eina hérna í þinghúsinu - þú varst að hagræða þar fötum... Manstu hvað ég var óstyrkur í máli, hvað ég hélt lengi í þessa hönd." Hann lukti hana enn fastar í lófa sínum.

Hún leit til hans tárvotum augum:

"Þú sagðir: Gangi þér allt til auðnu og gleði, góða leiksystir... En þarna var ég að gráta burtför þína, ég var svo fljót til táranna á þeim árum."

"Og þú sagðir: Guð fylgi þér ávallt, frændi... Svo kyssti ég þig og flýtti mér burtu. Þessi koss og vonin sem honum fylgdi léttu mér alla vinnu, gáfu mér hugró í útlegðinni. Gott var mig grunaði ekki þá hvað hún varð löng. Norðan í Röðlinum streymdu tárin eins og lind. Ekki var ég nú beysnara karlmenni í þá daga."

"Guðvelkominn heim á æskustöðvar, heim til mín, sem hef syrgt þig alla daga. Ég hef hlýtt hjarta en því miður kaldar varir að bjóða; samt kyssi ég þig heimkominn; nú er útlegðinni lokið."

Það var ekki funahiti æskunnar heldur fastur varmi tryggðar og þeirrar göfugustu og bestu vináttu, sem heimurinn getur gefið mönnum, í þessum langa kossi: "Nú skiljum við ekki framar, góði minn." Hún hallaði höfðinu að brjósti hans.

"Ég vona það; ég kem einstæður heim en þó á ég son í Ameríku. Þú spyrð einskis."

"Og konu - er það?" Hún náfölnaði.

"Nei. Ég hugsaði þú hefðir kannski frétt, að af því varð aldrei, að ég giftist. Dauðinn tók hana frá drengnum sólarhring eftir fæðinguna. Um það tölum við seinna."

"Það er fyrst á þessu ári að ég hef spurt um hagi þína; áður fannst mér ég naumast hafa rétt né þrek til þess. Ég tók vandlega eftir því sem aðrir sögðu um þig; einn sagði þetta, annar hitt, ekki vissi ég hverju mátti trúa."

"Þetta sumar sem ég var á Hjalla, var hagstætt bæði með veðurátt og grasvöxt; ekkjan var mesta sómakona svo ekki amaði á þann hátt neitt að mér, þó undi ég mér ekki, ég taldi dagana til haustsins því þá ætlaði ég til funda hingað upp eftir, þó leyfðu annir mér ekki að fara fyrr en viku fyrir vetur; þá varstu komin á kvennaskólann, svo ég sá þig ekki. Oddur sagði mér þá að nýi presturinn þætti áheyrilegur fyrir altari, gæflyndur og viðmótsgóður, en ekki meiri ræðumaður en í meðallagi; að hann væri í miklum kærleikum við ykkur í Teigi og legði líklegast hug á þig. Þú getur nærri hvernig mér var innanbrjósts á heimleiðinni og hvernig mér leið um veturinn. Bótin var helst sú, að ég gat haft nóg til að vinna og nennti því. Með vorinu sannfrétti ég trúlofun þína og út úr örvænting seldi ég allt sem ég átti og réðist til vesturfarar og Þórdís systir með mér; ég gat ekki horft á þig við hlið annars manns, og aldrei hef ég tekið út aðra eins kvöl og þá. Mér fannst þú hviklynd og meta um of virðingarvonina. Eða ég hafði þá verið auli, sem byggði í lausu lofti og eftir eigin vild."

"Hann sótti kænlega málið og foreldrarnir fylgdu fast þessum ráðahag; ég neitaði fyrst og þá skrifaði ég þér tvö bréf, sem mig brast þó áræði til að senda. Mér fannst það of örlyndislegt og ókvenlegt. Og fá svo kannski neitun. Ég hafði á svo litlu að byggja. Svo fór ég á kvennaskólann og vonaði þá að losna við bónorð og foreldra yfirráð. Eftir miðjan vetur fékk ég bréf frá móður minni, einlægt bréf og ekki á bónorðið minnst; meðal annarra frétta sagði hún: "Altalað er, - og ég held fregnin hljóti að vera sönn -, að Hreinn frá Skógum muni giftast ekkjunni, sem hann er hjá; mér þykir vænt um það, hann var góður piltur og efnilegur; þar fær hann efnilega konu, staðfestu og sæmileg efni." Nóttina eftir sofnaði ég engan blund og næsta dag lá ég; meir fyrir að ég vildi ekki láta neinn sjá mig svona grátbólgna, en líkamlega þjáningu; svo harkaði ég af mér; en bæði var ég þér hrygg og gröm; þó á veiku væri að byggja fannst mér þú helst til kvikur í rásinni.

Hálfum mánuði seinna kom pabbi og séra Arnór. Þá gaf ég jáyrðið og sá þó strax eftir því; það var eitt þetta heimskuflan brugðinna vona - að ætla sér að græða svona djúpt sár með því að bindast öðrum þvert um hug sér.

Þegar heim kom um vorið frétti ég að þú varst ráðinn til vesturfarar; þá vissi ég, eða grunaði mig, hvað rak þig héðan. En nú var ég gengin í gildruna; nú var loku skotið fyrir ást okkar. Svo einföld var ég samt, að vona eftir að þú talaðir við mig áður en þú færir, ef þú hefðir gefið mér minnstu átyllu mundi ég hafa sagt allt eins og var, slitið böndin og farið með þér. Því gerði ég mér erindi út að Bakka og kom við á Varmalæk - ég hélt þú mundir gista þar - þegar þú komst til að kveðja. Kaupstaðarmenn frá okkur, sem þú náðir, sögðu mér; ekki bjóst ég við þér hingað."

"Ég sá þér var brugðið þegar þú komst inn í stofuna á Varmalæk, svo föl og tekin til augna og óstyrk í máli; mér flaug í hug: Hún óttast að ég missi út úr mér ásakanir eða ástahjal; þykist kannski hafa gefið mér átyllu til að vona; hefur snefil af leiksysturhlýju til mín; fundum bar óvænt saman; nú skal ég vera sterkur og rólegur."

"Þú varst sterkur - meira að segja kaldlegur - þegar þú tókst í hönd mér og sagðir: Komdu sæl, gangi þér allt til gengis og virðingar í hjónabandinu. Mér fannst röddin önnur og harðari; andlitið magrara, dráttaskýrara og brýnnar þyngri; ég kom engu orði upp og stóð þarna eins og dæmd. Síðasti neisti vonarinnar kulnaði."

"Það var eins og ég væri ausinn eldi og þögnin fannst mér löng og kveljandi, þá sagðir þú og röddin var veik og mjúk: "Þið ætlið til Ameríku; guð sé með ykkur." Hugur minn hvarflaði og játningin braust um í brjóstinu, þá kom Oddur; hlutkestinu var varpað."

"Ég flýtti mér að kveðja, komast á bak og á hvarf, ég reið upp í Smáragil, fleygði mér í grasið og grét þangað til ekkinn ætlaði að sprengja brjóstið. Nú var æskusól mín gengin til viðar; foreldrar mínir máttu gefa mig prestinum og fánýta vegsaukanum sem því fylgdi."

"Og þau gerðu það með bestu samvisku; af hinu hefði staðið órói og úlfaþytur; ég var orðinn efnalítill vinnumaður."

"Mér varð aldrei hlýtt til móður minnar upp frá því, en það hef ég engum sagt fyrri en þér, vinur minn."

Hann hallaði henni upp að sér, höfuðið hvíldi við brjóst honum.

"Og hjónabandið, hvernig var það?"

"Hann var góður og gæfur í lund svo allt gekk slétt og styrjaldarlaust; reglumaður og pössunarsamur með embættisverk sín; lítill búsýslumaður og frábrugðinn vinnu og áreynslu; las lítið og varð fljótt á eftir tímanum. Hann var þrályndur og... pokaprestur; aldrei lifandi eldur í neinni ræðu; aldrei sannfæringarhiti né mælska. Mér var angur að sitja undir þeim ræðum og gerði það svo sjaldan sem ég gat. Okkur greindi á um trúarskoðanir en við deildum ekki um það nema fyrst meðan hvort vildi beina öðru á sína braut. Ég las mikið, hvenær sem ég komst höndum undir, án þess að vanrækja störf mín, því ég vildi búa góðu, reglusömu búi eins og foreldrar mínir höfðu gert; ég þótti harðlyndari og heimtufrekari með vinnu en hann ---. Sú kona sem stígur nauðug á brúðarbeð, með þrá til annars manns í hjarta sínu, verður annaðhvort að herða hugann eða glúpna og bogna. Ég reyndi að halda mér uppi, vera sjálfstæð og þó sanngjörn og skapstillt. Bágast átti ég með að vera sanngjörn við hann; við vorum svo ólíkt skapi farin; ég gat aldrei elskað hann og var fálát og líklega köld; hann unni mér og tók sér nærri þunglyndi mitt... Ég var honum erfið kona þó lítið bæri á. Það sá ég loks þegar hann tapaði heilsunni og lá þessa löngu banalegu; þá annaðist ég hann eins og ég hafði vit á; þá náði hlý vinátta tökum á mér; ég sá missmíði á svo mörgu hjá mér, sem áður hafði dulist; greindi nú betur hvað hann hafði átt við að búa; ekkert af fúsum vilja veitt; ekkert með gleðibrosi ástarinnar gefið. Við höfðum bæði goldið þunga skuld óvænlega stofnaðs hjónabands; seint þekkt innsta og besta eðli hvort hjá öðru; nú í eldrauninni varð ég mild og glögg á að geta á óskir hans, og hann víðsýnni, nákvæmari og blíðlyndari.

Einu sinni - þegar hann sótti sem fastast bónorðið - hafði ég sagt honum að ég ynni öðrum manni, sem ég þó ekki gæti með vissu sagt hvort elskaði mig. Ég neitaði að nafngreina manninn og hann trúði fastlega sigri sínum að lokum og gaf þessu lítinn gaum; nokkrum sinnum hafði hann spurt mig eftir nafninu fyrstu árin og ég ávallt neitað að svara; ég vissi hann mundi hafa þungan hug til hans þótt ekki hefði hann orð á því og að honum mundi ekki auðsnúinn hugur frekar en vandi var til. Svo var það eitt sinn; ég hafði lesið fyrir hann í Nýja testamentinu; honum leið bærilega þá; bæði þögðu um stund; þá tók hann í hönd mína og sagði: "Fyrirgefðu mér, Freydís mín, hvað ég sótti heimskulega fast bónorðið; mér auðnaðist ekki að ná ást þinni, og hef líklega spillt gæfu þinni og hans sem þú hafðir hug á. Nú veit ég hver hann er; leikbróðir þinn og frændi; Hreinn frá Skógum, enginn hefur sagt mér það. Þú nefnir hann aldrei ótilkvödd og roðnar ætíð þegar hann er nefndur á nafn; mér var um skeið þungt í skapi við þennan mann, sem þú hafðir lagt hug á, nú er mér ljóst hvað sú fáþykkja var heimskuleg og ranglát. Það er ég sem hef orðið ykkur Þrándur í Götu, ég sem var blindur og eigingjarn. Fyrirgefið mér bæði; ég á varla langt eftir og vildi gjarna skilja sáttur við alla menn. Guð blessi þig, Freydís mín, fyrir þollyndi og blíðuna sem þú hefur sýnt mér í sjúkleika mínum, fyrir hverja blíðu sem þú hefur veitt mér." Ég gat ekki varist tárum; laut niður að honum og kyssti hann; "Þú hefur líka margt að fyrirgefa, góði minn; ég hef verið kaldlynd kona; ekki getað staðið svo við hlið þína sem vera átti úr því ég gekk að eiga þig. Hér eftir skulum við vera ástúðlegir vinir." "Guði sé lof fyrir það, að þú gast þó orðið ástvinur minn að lokum. Sólsetrið verður fagurt. -- Nú er ég laus við að vera bókstafsþræll; veikindin hafa opnað augu mín; ég held næstum að ég geti nú búið til ræðu sem nýtileg yrði. Seint opnuðust augu mín, en ég vona þau verði sjáandi meðan dauðinn lokar þeim ekki -- þar eftir birtir yfir og opnast fagur himinn." Eftir þetta stundaði ég hann með allri þeirri alúð sem ég átti til. Banalegan leiddi okkur bæði á vinsamlega og viðkvæma götu. Hann fékk hægt andlát og mér var þungt um hjarta þegar vegirnir skildu. Nú hvíldi öll áhyggja á mér. Búið er ekki auðugt, en engar skuldir hvíla á því; hann var skuldvar og heldur féfastur að eðlisfari; ekki ágengur né eftirgangsharður um tekjur sínar og eflaust hafa þær aldrei goldist upp á eyri, en ekki grófst ég eftir því og gat vel unnt fátækum ívilnunar.

Björn minn er í menntaskólanum og Svanlaug í kvennaskólanum; þau eru bæði fremur álitleg og reglusöm; en til þess þarf þó fé að mennta börnin og safna ekki skuldum. Ég vona mér takist það, og eyða þó ekki þriðjungnum mínum úr Teigi, hann hef ég aldrei viljað selja bræðrum mínum."

Hreinn hafði setið hljóður meðan hún talaði og með nokkrum áhyggjusvip, nú tók hann til orða.

"Komi prestur hingað þá ertu vegalaus; er ekki svo?"

"Það getur farið svo."

"Ég hef heldur engan bólstað að bjóða, en allgóð efni þykist ég hafa, eftir íslenskum mælikvarða að telja. Um þetta tölum við seinna; mig fýsir meira að frétta um tilfinningamálin að fornu og nýju... Hugsaðirðu sérstaklega mikið og innilega til mín í sumar og haust?"

"Já, eftir dauða hans hugsaði ég allra fastast til þín; oft grét ég á kvöldin þangað til svefninn færðist yfir; grét hvernig við höfðum misgengist í æsku og aðrir bægt okkur sundur; mér var fró og oft vissa, að þú hefðir unnað mér eins og ég þér; ég óskaði að þú kæmir og talaðir við mig líkt og í kvöld; sérstaklega var ég hrygg og þráandi föstudagsnóttina fyrir fyrstu réttir; þá leysti svefnhöfginn mig frá tárum og harmi."

Hreinn tók upp vasaalmanak, fletti því; benti á eina blaðsíðuna og sagði:

"Þarna hef ég skrifað: "Þessa nótt dreymdi mig hana. Nú fer ég heim." Áður hafði ég lesið um lát séra Arnórs í bréfi að heiman til kunningja míns. Ferðin heim hafði fyrr verið ráðin, en ég ætlaði að bíða vorsins eða sumarsins næsta; eftir drauminn bjó ég mig svo fljótt, sem hægt var; nú var ég þreyjulaus vestur frá."

"Og draumurinn." Hún horfði blíðlega og stillt á hann. "Þú gerir það fyrir mig að segja mér hann."

"Þessi draumur var skýrastur þeirra allra og hann gekk mér næst hjarta; en oft dreymdi mig þig og við það varð ég svo sveimhuga og fús til funda. Svona er hann: Ég þóttist vera heima - það var oftast svo - og ganga suður með vatninu milli Dynskóga og Teigs, á bakkanum vestan við Fagurhólinn sast þú; ekki eins ungleg og vanalega í draumum mínum og ekki svo roskin og nú." Hann horfði lengi og alúðlega: "Þú sast og horfðir út á vatnið og söngst lágt og raunalega, en rödd þín var jafn mjúk og ljúf og ég mundi frá æsku:

Ég veit eitt hljóð svo heljar þungt,
sem hugans orku lamar,
með helstaf lýstur hjartað ungt
og hrædd það tungan stamar.
Það dauðaklukku geymir glym,
og gnýr sem margra hafa brim
þau dómsorð sár með sorgarym:
þið sjáist aldrei framar.

Ég sá tárin í bláu augunum, andlitið fölt og sorgina í öllu yfirbragði, þú varst ljósklædd; þetta sá ég um leið og þú snerir þér að mér og réttir fram hendurnar. Ég vildi hlaupa til þín en þá leiðstu út á vatnið, og hvarfst."

Hún réttist í sætinu og hallaði sér að vanga hans; kinn brann við kinn, og hennar þó nokkuð varmari. Tárin stóðu í augum hennar.

"Þú getur nærri hvort draumurinn hvarf úr huga mínum; ég þurfti að taka á allri karlmennsku til að starfa; koma eigum mínum sumum í peninga og búast til ferðar - flýta mér áður þú liðir burtu."

"Þakka þér ástúðlega fyrir að koma, fyrir tryggðina og ástina, svo sem ég hafði þó gefið lítið tilefni til þess."

"Ég gat ekki gleymt; ég gat ekki annað en komið. Hún var svo sterk minningin þín. Mér léku líka svo miklir landmunir öll þessi útlegðarár. Sveitin og vatnið og Dynskógarnir seiddu huginn, bæði sumar og vetur."

"Því komstu ekki fyrr, vinur minn góður?"

"Af því mig skorti fé, af því ég hlaut að bindast ýmsum áformum og störfum vestra; af því ég gat ekki séð þig bundna öðrum manni - og treysti ekki sjálfum mér nógu örugglega til fulls hlutleysis ef kjör þín freistuðu."

"Og það gat orðið - ég finn það; best úr því sem komið var, að hafið væri milli okkar. -- Nú er ellin að síga yfir okkur en fáein ár megum við þó njótast - lifa, og vinna saman... Elskaðir þú hana -- móður drengsins þíns?

"Já -- en ekki á sama hátt og þig; ekki jafn innilega. Mig dreymdi þig öðru hvoru meðan við vorum lofuð og eftir hvern draum var ég þunglyndur og svarastuttur næsta dag. Þráði þig - og ásakaði mig fyrir óeinlægni og hálfleik gagnvart henni. Hún hét Hildur og sonur okkar Grímur eftir móðurafa sínum.

Aldrei hef ég kynnst konu sem leit jafn björtum augum á mannlífið; fjörmikil, hraust og kjarkgóð; tæplega meðalhá en þrekin og vel vaxin; dökkhærð, móeyg, blómleg og fríð, skýr og vel greind en hafði lítillar fræðslu notið í uppvexti. Fyrst þegar ég tók land til ræktunar og fór að byggja hús, þá varð ég nágranni Gríms; hafði þar fæði og þjónustu og aðsetur tímunum saman, stundum var ég í vinnu hjá honum þegar á lá og verkamann vantaði, og féll okkur vel saman.

Hún var glöð við alla, og ófeimin; nærri allir urðu skotnir í henni, en hún tók ekki einn fram yfir annan, hló upp í opið geðið á þeim þegar fagurgalinn og auðmýktin keyrði lengst; kom flestum til að átta sig og fara gætilega. Mér var vel til hennar eins og systur en meira ekki; Hildur var svo bjartsýn og jafnkát að ég hlaut að verða það í návist hennar. Hún var tvítug um haustið, sem ég kom í nágrennið og þeim þótti ekki margt að því yngri mönnum úr nágrenninu að eiga erindi til Gríms við og við. Sá maður sem opinberlegast vandi komur þangað var Norðmaður á að giska tuttugu og átta ára, mikill vexti og mikill á lofti, ekki ófríður en hrottalegur og ómenntaður; hann bjó skamt frá, var vel efnaður að við álitum en stopult var hjúahaldið, hann hét Óli Brattlíen, en við Hildur nefndum hann aldrei okkar á milli annað en Bratt. Ölhneigður var hann og þá ætíð ófyrirleitinn, Hildur átti leiða daga þegar hann kom drukkinn, hann elti hana á röndum að kalla mátti. Heldur kastaði hann kaldyrðum til mín, og lítilsvirðingin var stundum nokkuð ertandi en ég stillti mig og lét sem ég skildi ekki neitt; eitt gerði ég þó honum til gremju; ég lét hann sjá og finna að okkur Hildi væri vel saman - ég held hún hafi gert slíkt hið sama bara til að storka honum.

Svo var það eitt kvöld um veturnótta leyti, að ég kom heim að húsi Gríms - ég var við smíði á kofanum mínum þann tíma meðan verkljóst var. Ég sá að skriðljós var borið út og að brenniskýlinu og rétt eftir að það var Hildur að sækja eldivið, ég staðnæmdist í myrkrinu skammt frá og virti hana fyrir mér; hún söng lágt lagið "Sólin ei hverfur né sígur í haf" og ég hlustaði á. Svo heyrði ég að þrammað var frá húsinu og rétt eftir stóð Brattur hjá henni. Hún lét sem ekkert væri en hætti þó að syngja. "Berðu fyrir mig eitt fang af viðnum heim og láttu mig sjá hvað þú ert sterkur," sagði hún og benti á skíðin sem hún var búin að taka frá; þó hann skildi lítið íslensku þá grunaði hann hvað hann ætti að gera, rak fótinn í skíðin og færði sig fast að henni. "Fyrst verðurðu að kyssa mig og lofa mér eiginorði," sagði hann á norsku og ætlaði um leið að grípa utan um hana. "Nei," sagði hún og snaraðist frá; hann á eftir: "Þú skalt verða mín á þessu kvöldi," sagði hann og greip í vinstra handlegginn.

"Nei". Hún reiddi upp hægri hönd - og smellandi löðrungur á vangann á Bratt. "Slærðu, stelpa," sagði hann. Hún reyndi að slíta sig lausa en skorti aflið. "Já, það geri ég," og sló annan löðrunginn til. "Bölvuð - nú skaltu fá að kenna á karlmannsaga," hann greip utan um hana. Um leið greip ég í herðarnar og svipti honum til. Hann sleppti Hildi og snerist að mér, reiddi upp hnefann og lét höggið ríða; um leið beygði ég mig og rann undir hann; kinnhesturinn mistókst, hann átti ekki von á að ég tæki fangbrögðum en ég náði þeim góðum, brá á hann hælkrók og Brattur með það sama á hrygginn. Hann lá og stundi og ég stóð á fætur. "Hefurðu meitt þig mikið," sagði ég og laut niður að honum. Hildur kom með skriðljósið.

"Farið þið bæði í helvíti," hann spratt á fætur, með hníf í hendinni og æddi að mér; fyrst stökk ég til hliðar og um leið og hann laut eftir laginu sló ég með öllu afli í hausinn á honum, hann svimaði við og nú greip ég um hægri hönd hans, þá sem hnífurinn var í og sneri upp á; hann orgaði, en nú var ég líka orðinn óður af heift, ég herti á... Ekki vissi ég hvort ég fann eða heyrði brestinn. Brattur æpti og henti sér niður.

"Hreinn gáðu að þér -- slepptu takinu." Hildur greip utan um mig. Þá rann af mér mesta æðið. Ég horfði framan í hana og leiftrið í augum hennar læsti sig um mig allan. "Óli," sagði hún. "Eigum við ekki öll að þegja? Þér skal verða ekið heim og reynt að leita læknis; ef þú þegir gerum við það; annars skaltu fá að kenna á því hvað það kostar, að ráðast með þessum hug að kvenmanni og brúka hníf." Norskan var ekki áheyrileg en Óli komst þó að efninu, hann stundi og hljóðaði þegar hún kom við hægra handlegginn en svaraði engu.

"Handleggurinn er líklega genginn úr liði um olnbogann; ég fer til pabba og bið hann að sjá um að Óli verði fluttur heim - hann hefur verst af því sjálfur ef hann þvaðrar; þá skal ég ekki verða sérlega mjúkhent."

"Ég þegi, og haldið þið svo bölvuðum kjafti."

Ekki leið á löngu áður en Grímur kom; hesti var beitt fyrir kerru og síðan fóru þeir Grímur og vinnumaður hans heim með hann. Við Hildur urðum tvö eftir hjá brenniskýlinu.

"En sá argi dóni og dýr hann er; ég vildi ég hefði verið nógu sterk til að snúa hann úr liði; ég er enn sjóðandi reið." Hún þagnaði og gekk fast að mér og sagði: "Þakka þér hjartanlega fyrir liðveisluna alla saman," hún rétti mér höndina, ég fann hún skalf af geðshræringunni.

"Þú hefðir ekki þurft annað en að kalla, það hefði heyrst og þar með var þér borgið."

"Nei, seint hefði ég gert það; í seinustu forvöð hefði ég tekið þennan;" hún benti á lítinn hníf í slíðrum sem hékk við belti hennar: "Og skellt marki á eyrun. Þá mundi honum hafa fallist hendur og ölæðið sljákkað."

"Má ég ekki leiða þig heim - þú ert svo óvenju æst og óró." Ég tók um leið í hönd hennar.

"Það er bara vígahugur og reiði, ég reiðist ekki oft en þá veit ég varla hvað ég geri. Þú ert svo vænn, Jökull minn, með þér er óhætt að ganga."

Hún kallaði mig Jökul stundum, þegar henni þótti ég þögull og óglaður.

Sviptingaskjálfti var yfir henni, ósjálfrátt dró ég hana nær, mér fannst ennþá þurfa að vernda hana fyrir þorparanum. Hún hallaðist mjúklega að mér. Við þögðum bæði heim að anddyrinu og gengum inn.

Tveimur dögum seinna vorum við trúlofuð. Hvorugu þótti liggja á giftingu; ég lagði allan hug á að ryðja og rækta landið og gera húsið sem vistlegast. Í raun réttri var ég heimilismaður á Grímsstöðum en vann mest fyrir nýbýlið mitt. Næsta ár ætluðum við Hildur að stofna búnað, en ekki leituðum við prestsþjónustu. "Ef við unnum hvort öðru af heilum hug þá erum við hjón og enginn mannlegur kraftur á neitt með að skilja okkar né hlutast til um hjónabandið; það er nú mín sannfæring," sagði Hildur og brosríka andlitið var þá stundum bæði alvarlegt og sakleysislegt í einu. Mér virðist vígsla prestsins þarflítil og í innsta eðli sínu ráðríki yfir sáttmála einstaklinganna, þeim, sem við höfðum gert af fúsu geði og með fullri vitund, að við urðum samþykk að leita ekki prests; gömlu hjónin létu okkur ráða þó hitt væri nær skapi þeirra, að fylgja venjunni.

Við fluttumst að jörðinni vorið eftir; systir hennar sextán vetra fór með henni. Þá vann ég af kappi og hún líka - ef til vill meira en forsjálegt var, því hún fór þá kona eigi ein saman; við höfðum bæði óbifandi trú á hreysti hennar. Um haustið ól hún sveinbarn, móðir hennar sat yfir henni - hún var sjálflærð, æfð og heppin yfirsetukona í mörg ár hér heima - fæðingin gekk vel og báðum heilsaðist vel fyrsta daginn. Þá kom veikin. Morguninn eftir var hún önduð. Ég syrgjandi ekkjumaður.

Drenginn ólu þau fyrst upp gömlu hjónin, svo Þórdís systir mín, sem var gift og vel efnuð. Síðan kom ég honum í skóla. Nú er hann læknir vestra, ötull og bráðskarpur; Vestmaður með lífi og sál; hann verður að líkindum ríkur maður, en ósköp fannst honum ég skammsýnn að fara heim í fátækt og kulda, menningarleysi og moldarkofa. Ég unni honum heitt í æsku; skólavist hans og fasteignasala mín - létu vegina skiljast, með öðru fleira. Við skrifumst á hugsa ég - og unnum hvor öðrum alls góðs en sjáumst varla framar. Sagan mín er búin. Sagan sem þig fýsti að heyra."

"Margt erfitt hefur yfir þig liðið, æskuvinur minn. Ó - að sólsetrið yrði ljúft og rósamt, að ég bæri gæfu til að vera þér eins farsæll förunautur og ég óska eftir; hugur minn fylgir þínum hug fúslega að gröfinni hennar vestra. Ungu konunnar þinnar; vorglöðu og heilbrigðu á sál og líkama."

"Það má yfir mig koma, sem að öllum sækir; aldrei hef ég örvænt; alltaf brölti ég á fætur þó ég detti; enginn kemur svo úr bardaga að kumblalaus sé á sál og líkama. Hvað skyldi ég vera að kvarta nú, með þig við hlið mína og góð efni. Þakka þér samt fyrir hugblíðuna til hennar.. hún var sannarlega góð og hreinlynd í alla staði."

"Ég finn það --- En vinur minn góður, klukkan er orðin fjögur. Eigum við ekki að sofa um stund. Þó blítt sé að tala saman og margt eftir, þá kemur dagur eftir nótt; sem lengst vil ég spara eitthvað af munamálunum."

"Það er vel og viturlega hugsað, Freydís mín."

"Góðan, indælan svefn," hann reis á fætur og þau kysstust.

"Guð sé ævinlega með þér," hvíslaði hún um leið og hún fór burtu, lokaði hurðinni og gekk til hvíldar.

*

Morguninn eftir lá þokan enn yfir; blælogn var og óvenju milt veður á þeim tíma vetrar; Snorri bjóst snemma burtu og skildu þeir með góðum hug Hreinn og hann. Nokkru síðar bjuggust þau til ferðar Freydís og Hreinn; þau riðu samhliða og hægt.

"Nú vildi ég að þokuna birti svo ég mætti horfa yfir sveitina af Rauðshólnum; oft hef ég rennt huganum hér yfir úr fjarlægðinni. Hún er fögur sveitin okkar, Freydís."

"Víst er hún það; þó getur einstæði og kuldi sótt hér að og hugurinn leitað burtu."

Sólin sást í gegnum þokuna, betur og gleggra eftir því sem hún reis hærra á loft, stundum birti til niðri í Hverfinu á stóru svæði, en þar sem slæðan lá, hillti undir steina og hóla, þúfur og hrísrunna, líkt og þar stæðu hamratröll og ferlegir vættir, draugar og haugakyrpingar. Þá lagðist þokan aftur og öll undrin hurfu, nema rétt við götuna, þar sýndist allt með öðrum svip, úfnara, dularfyllra, hverfulla.

Andvara brá frá suðri, þokan sveipaðist til. Rauðshóllinn reis eins og fjallshnúkur rétt norðvestan við, skýrðist og smækkaði eftir því sem þokuna dró af honum. Alltaf jókst útsýnið, birti og fríkkaði yfir. Þau stigu af baki, Hreinn batt saman hestana, svo leiddust þau upp hólbrekkuna þegjandi.

"Það fór þó svo - þú leiddir mig hér upp og sýndir mér sveitina okkar, bjarta og sólgyllta. Hér stöndum við gömul en frjáls, með ungar minningar og ástar-fullvissuna. Þarna eru Dynskógar, austan við Hálsarnir, svo Sauðafell, Teigshnúkur, heiðarnar sunnan við. Vesturbrúnir. Hæðirnar norðan við. Líttu á reykina frá bæjunum, fallega líða þeir í loft og hreinviðrislega. Álftavatnið bláglært, Skógaey og Teigsey og hólmarnir, allt er það svo yndislegt, svo kunnugt, svo hjartfólgið. Og þú, Freydís, við hlið mína." Hann tók ofan húfuna, horfði framan í hana, rjóður og unglegur; hún hafði líka fengið blómlegra yfirbragð, æskulegra, heiðara og blíðara.

"Hér er svo fallegt eins og í æsku, líkt og daginn sem þau giftust Oddur á Varmalæk og Ragnheiður. Þann dag var mér heitt um hjarta, því treystirðu þeim ekki betur þá augunum mínum Hreinn?"

"Svo efagjarn, svo ungur og vonandi meiri vissu og ógæfulega feiminn. Það varð mér að fótakefli... En að við teljum þetta giftingardaginn okkar, hvað sem síðar kann að verða sett í kirkjubókina. Viltu gefa mér hönd þína því til samþykkis? Vottarnir eru sólin, fjöllin og fossinn norður í Urðunum; hann Fallandi."

"Já," sagði hún og rétti honum höndina.




Netútgáfan - mars 2000