MAÐUR  OG KONA

eftir Jón Thoroddsen




FYRRI HLUTI



1. kafli

Hér segir frá ýmsum mönnum, er síðar koma til sögunnar


Maður er nefndur Sigvaldi, hann var Árnason, Sigurðarsonar, Hjaltasonar, Gunnarssonar glænefs , úr Grafningi. Móðir Gunnars glænefs var Þorgerður í rauðum sokkum, Eyjólfsdóttir hins digra, Jónssonar, Finnssonar, Bjarnasonar skyrbelgs; hann dó í svartadauða og andaðist, eftir að hann hafði étið í einu átta merkur af ólekju. Þessi ætt verður ekki lengur rakin, því að fáar ættartölubækur ná fram yfir svartadauða. Sigvaldi var prestur og bjó þar, sem heitir að Stað; það er prestsetur og staður góður, og á þeirri tíð, er sagan gjörðist, kirkja vegleg, og liggja til hennar þessir bæir, er nú skal greina: Holt og Hjalli, Háls og Hamar, Vatn og Vogur, Tunga og Tangi, Hóll og fleiri bæir. Hlíð heitir og einn bær þar í Staðarsókn; þá jörð átti Sigvaldi prestur, og bjó þar sá maður, er Sigurður hét Jónsson; hann var borgfirzkur að ætt. Kona hans var Þórdís Bjarnadóttir. Hún var kona vitur vel og hinn mesti kvenskörungur. Sigurður bóndi var búsýslumaður mikill og átti vel lausafé, en ekki aðra fasteign en jörð eina, sem Hamar heitir; það er næsti bær við Hlíð og þrjátíu hundruð að dýrleika. Helmingur jarðarinnar var konuarfur, en hinn helminginn hafði Sigurður keypt af þeim manni, er Þórir hét og þar bjó. Var það í skilmálum með þeim Sigurði og Þóri, að Þórir skyldi eiga heimilt að búa á Hamri, meðan hann lifði og kysi að vera þar. Þau Sigurður og Þórdís voru hnigin á hinn efra aldur; ekki áttu þau barna á lífi; höfðu þau átt börn saman, en þau dóu ung.

Það var einn vetur, skömmu eftir þrettánda, að heimilisfólk í Hlíð var gengið til rökkursvefns, sem vandi er til á bæjum, nema sauðamaður; hann var úti. Húsum í Hlíð var svo varið, að þar var baðstofa í fimm stafgólfum og þiljuð sundur uppi, og var lofthús í öðrum enda; það var herbergi þeirra hjóna, Sigurðar og Þórdísar, og voru rúm þeirra sitt hvorum megin, langsetis undir hliðunum, og borð eitt lítið á millum fyrir miðjum gafli. Fram á baðstofuloftinu og fyrir framan lofthúsdyrnar voru rúm griðkvenna og svo vinnumanna, en fyrir þverum gafli var flet kerlingar nokkurrar, sem Þuríður hét; hún var hreppsómagi og gömul mjög. Ekki þótti hún dæl viðureignar, ef hún skipti skapi. Þetta sama kvöld, sem fyrir skömmu er frá sagt, hafði Sigurður bóndi gengið til svefns sem aðrir heimamenn; lá hann í rúmi sínu og svaf fast og hraut mjög. Húsfreyja hafði og lagzt niður, en sofnaði ekki. Tekur nú að dimma, og líður fram að dagsetri, og sofnar hún ekki; leiðist henni að liggja svo lengur vakandi; stendur hún þá upp og gengur fram í húsdyrnar; þær voru opnar, því ekki var hurð fyrir húsinu. Húsfreyja hlustar eftir, hvort allir sofi fram á baðstofuloftinu, og heyrir hún þá ekki annað en hrotur og svefnlæti í hverju rúmi nema í rúmi Þuríðar kerlingar, og verður hún þess vís, að hún sefur ekki, situr hún uppi í rúmi sínu og tautar eitthvað fyrir munni sér, en ekki heyrir Þórdís nein orðaskil. Loks heyrir hún, að kerling stekkur upp hart og títt og hleypur fram eftir loftinu allt fram að loftsgati, hrækir hún þar og skyrpir ofan í gatið og segir: Svei þér, sneypa, svei þér, andstyggðin! Svei, skratti, farðu, fjandi, tu! Á, varstu feginn að hrökkva undan mér? Og svei þér, tu!

Hvað gengur nú á fyrir þér, Þuríður gamla? sagði húsfreyja. Þuríður heyrði ekki, hvað Þórdís mælti, eða gaf því engan gaum, gengur hún aftur til rúms síns og sezt þar niður og tautar sem áður eitthvað í hálfum hljóðum; snýr þá húsfreyja til rúms Þuríðar og kastar á hana orðum og segir:

Það hefur þá farið líkt fyrir þér, Þuríður mín, eins og mér, að þér hefur ekki orðið svefnsamt í rökkrinu.

Segir kerling svo vera, að ekki hafi hún sofnað í það skipti, enda hafi það verið hentast, að einhver vekti. Innir húsfreyja hana þá eftir, hvort nokkuð hafi borið fyrir hana; lætur kerling í fyrstu fátt yfir, sér sé nú tekin að glapnast sýn, segir hún, enda muni fáir trúnað á leggja, þó hún segði, að eitthvað bæri fyrir hana - en ekki mun mér þykja undarlegt, segir hún, þó einhver ókunnugur komi hér, áður kvöldið er á enda. Húsfreyju fýsti að heyra, hvað það væri, sem kerling lét svo drjúgt yfir, og spyr hana ýtarlega eftir, hvað henni hafi sýnzt; lætur Þuríður þá loks til leiðast.

Ég sat, segir kerling, eins og ég er vön og morraði hérna á bólinu mínu, þangað til það var sofnað fram á loftinu; fannst mér eins og mig sækti einhver eyðilegleiki, og ætlaði ég að halla mér út af, kelli mín, tók skinnkoddableðilinn, sem þarna var í auðarúminu, og ætlaði að stinga honum undir mjaðmargreyið á mér, ef ég kynni heldur að hafa eitthvað viðþol - æ, æ! - ekkí! ekki ertu enn þá búin að yfirgefa mig! - nú hleypur hún í mjóhrygginn á mér, æ, æ! - en í því varð mér litið þarna fram á skörina - æ, æ! nú lætur þér! - og þá sá ég þar einhverjar he.... béaðar eldglæringar, og færðust þær smátt og smátt upp á skörina, þetta leið hægt og hægt inn eftir miðju loftinu og þangað til það kom hérna að fremri gaflinum á auðarúminu, þá fór mér ekki að verða um sel - æ, æ! ætlar hún að drepa mig þarna ! - ég stóð upp, kelli mín, hastaði á það, en mér hefur verið svo varið, að þess háttar sneypur hafa hrokkið undan mér, og þá valt þessi skratti aftur fram eftir loftinu eins og hnykill ofan í stigann, þar skildi ég við það, það var á stærð við meðal spordall, eldrauður ósómi, og tindraði úr því á allar hliðar. Þú mátt eiga von á því, Þórdís mín, hér kemur einhver skrattinn í kvöld, þó ég sé orðin gömul og glámskyggn.

Hver heldurðu það geti verið, sem komi hér í kvöld? sagði húsfreyja.

Og það veit ég ekki, Þórdís mín, sagði kerling, en helzt held ég, að það sé einhver utansveitar, því ekki man ég eftir neinum hér í sveit, sem þessi skolli fylgir, nema ef það er strákurinn, sem kom í vor þar að Leiti, ekki man ég, hvað hann heitir, Ásmundur eða Ámundi, trúi ég, þó hef ég heyrt, að honum fylgi hrútur, sem dregur eftir sér gæruna, en hann Jón á Grundum á hund með ljósi í rófunni, og strákurinn þar í Hvammi á tvo hálfmána. Það er víst eitthvað, sem ég þekki ekki, kelli mín, en ekki hef ég séð leiðari sneypu undan nokkrum manni.

Það mun vera sem þú segir, Þuríður mín, ef hér kemur einhver í kvöld, þá verður hann eitthvað lengra að, en þess vil ég biðja þig að láta fátt yfir þessu, því annars fæ ég ekki stúlkurnar til að fara í fjósið í kvöld, sagði húsfreyja.

Þær eru þó ekki svo litlar á lofti, blessaðar ekki nótentáturnar hérna, það er líklegt þær þori um þvert hús, þó ekki sé allt hreint. Ekki kveinkaði ég mér á árunum, á meðan ég var og hét, þó ég vissi af einhverjum slæðing í kringum mig; það gekk heldur ekki framan að mér, á meðan heimakonuskrattinn var ekki búin að fara með mjöðmina á mér og drepa mig, æ, æ!

Við þetta slitu þær Þuríður talið; sat Þuríður gamla eftir á rúmi sínu, seildist á hillu fyrir ofan rúm sitt, tók þar fiskþunnildi og tók að fást við það og tautar við sjálfa sig í hálfum hljóðum, en húsfreyja gekk fram á loftið og að rúmi vinnukonu einnar, er þar svaf, vakti hún hana og bað hana fara til eldhúss og kveikja, því nú væri mál að bregða rökkursvefni, segir hún. Vinnukonan vaknar skjótt, og er hún hefur klórað sér um stund og geispað og akað sér allri, sem venja er til, stendur hún upp og gengur fram og kveikir. Vaknar þá hver af öðrum í baðstofu, og setjast konur á rúm sín og taka til vinnu. Þar voru þrjár vinnukonur, Sigríður, Guðrún og Ástríður, og spunnu þær, en vinnumaður einn, sá er Hrólfur hét, sat þar allskammt frá á kistli, og var honum ætlað það verk að kemba fyrir þær á kvöldum. Ljósið var hengt í dyrastafinn á húsinu með þeim hætti, að gat eitt var borað í dyrastafinn ofanverðan og haldinu á lampanum smeygt þar í. En því var ljósið þar sett, að það mætti lýsa inn í húsinu og svo fram á loftinu, að ekki þyrfti nema eitt ljósið í baðstofunni. Undir dyrastafnum á lofthúsinu að innanverðu, þeim megin, sem ljósið var, var settur stóll einn og lagður svæfill á ofan; þar var húsfreyja vön að sitja á kvöldum, er hún var að saumum eða gjörði eitthvað annað, sem ljósvant þótti. Hinum megin við húsdyrnar, að framanverðu og á þá hlið, er vissi að loftslánni, stóð pallkistill lítill og breitt yfir samanbrotið brekan; það var sæti Þorsteins vinnumanns, sat hann þar um vökur og fékkst við smíðar, bætti og gjörði við fötur og dalla, bjó til hagldir og hornspæni, skar rúmfjalir og asklok, holaði innan tóbaksbauka eða fitlaði við annað þess konar, en þess á millum hafði hann þann starfa að lesa sögur og kveða rímur, því hann var maður allvel læs og kvæðamaður hinn mesti. Þorsteinn var á fimmtugs aldri. Hann var í hærra lagi meðalmaður, jarpur á hár, fölleitur og grannleitur og óhraustlegur og þó eigi óálitlegur. Sigurður bóndi virði hann mest allra hjúa sinna, var Þorsteinn honum og mjög fylgisamur og vann hvert verk með trúleika og var hinn mesti þrifnaðarmaður. Ekki hafði Þorsteinn kvongazt, en barn hafði hann getið við bóndadóttur einni, er síðan var gefin öðrum manni og þá önduð. Barnið hét Sigrún, og var hún á vistum með föður sínum þar í Hlíð og þá níu vetra gömul og mjög mannvænleg. En er kveikt var og búið var að setja ljósið í dyrastafinn, settist hver í sitt sæti; sat húsfreyja í stóli og saumaði; Þorsteinn settist hinum megin dyra og skefti nafar. Sigurður bóndi vaknar nú einnig og litast um, sér hann þá, að fólk er setzt að vinnu; spyr hann húsfreyju, hvort langt sé þegar liðið af vöku; segir hún honum sem var, að fyrir skömmu væri búið að kveikja; gengur hann síðan þar í horn eitt á húsinu og tekur hrosshársfléttu eina og bregður öðrum enda undir sperrukjálka gagnvart rúmi sínu, sezt síðan niður og tekur að flétta. Líður svo fram nokkra stund af vökunni, að fátt er talað í baðstofu. Kemur nú smalamaður heim. Ekki var honum ákveðið neitt verk á kvöldum, enda kunni hann lítið til ullarstarfa; lá hann jafnan um vökur og svaf eður gambraði við konur, og þótti vel sækjast vinnan, ef hann vatt af einni snældu allt kvöldið eða prjónaði nokkrar umferðir neðan við sokk sinn. Nú kemur smali inn, gengur hann að rúmi sínu, það var gagnvart loftsuppgangi, tekur hann hatt sinn og vettlinga, hendir því til fóta í rúmi sínu, fleygði sér síðan endilangur uppíloft um þvert rúmið og lét býfurnar liggja fram á mitt loftið. Enginn mælti orð til hans, enda yrti hann á engan. Líður nú svo um hríð, að allir þegja í baðstofu, og situr hver þar; sem hann er kominn, við vinnu sína. Loks tekur húsfreyja svo til orða við Þorstein:

Mér virðist, segir hún, ofur dauft og þegjandalegt hérna, Þorsteinn minn, í kvöld. Ljúktu samt út af við nafarinn þinn; en svo lízt mér á stúlkurnar mínar sem þær vænti venjunnar, að þú lesir eða kveðir eitthvað fyrir þær.

Þorsteinn segir, að lítil mundi þess von, því nú hefði hann nálega lesið upp allar þær sögur, er til væru þar á bæ. Húsfreyja sagði, að ekki mundi kveðskapurinn síður þeginn - enda hefur þú sjaldan kveðið fyrir okkur í vetur, en gnægð er til af fallegum rímum. Heimilisfólk gjörði góðan róm að máli húsfreyju og sögðu hana hafa vel mælt og skörulega, og báðu allir Þorstein að kveða. En er um það var rætt, hverjar rímur kveða skyldi, urðu menn í fyrstu ekki allir á eitt sáttir. Bónda þótti bezt til fallið að kveða rímur af Rollant eða Ferakut, sagði, að þeir hefðu verið hinir mestu garpar og kappar miklir. Griðkonur sögðu, að fáar rímur mundu betri en Brönurímur. Hrólfur vinnumaður lagði allfátt til þeirra mála, sagði, að enginn fornmanna væri sér jafnkær sem Grettir, kvaðst þó ógjörla vita, hvort af honum væri gjörðar rímur nokkrar. Smalamaður lá í rúmi sínu og heyrði á umræður manna, leggur hann í fyrstu fátt til málanna, en svo kemur, að hann þykist ekki lengur afskiptalaus hjá þeim málum sitja mega; rís hann nú upp og segir:

Eru rímur af Herrauði og Bósa hér til, Þorsteinn? - Þorsteinn brosti við og mælti, að það væri ekki.

Þá vil ég, að kveðnar séu Jannesarrímur, segir hann og hallaði sér út af aftur. Meðan menn eiga tal um þetta, hefur Þorsteinn gengið inn í svefnhús þeirra hjóna og kemur bráðum aftur með skrifaða rímnabók allþykka, sezt niður, blaðar í henni um hríð, veltir vöngum, tekur af öll tvímæli og hóf að kveða:

Cýrum nefna milding má,
margra er gætti láða,
Persju allri og Asíá
átti fyrir að ráða.

Það er upphaf fyrstu rímu í rímum Úlfars hins sterka, en mansöngnum fyrir þessari rímu varð Þorsteinn að sleppa, af því að fremsta blaðið í kvæðabókinni var ólesandi. Þorsteinn kvað hátt og snjallt, það var hin bezta skemmtan; þögnuðu nú allir í baðstofunni og hlýddu, og var sem allir yrðu hýrari og kviklegri í bragði en áður. Nálin hjá húsfreyju gekk tíðara og liðugra. Ástríður vinnukona kvað undir með Þorsteini, lagði undir flatt og dillaði og var öll sem á hjólum. Þær Sigríður og Guðrún teygðu þriðjung lengra úr lopanum en áður. Sigurði bónda sóttist og betur verkið, fléttaði hann nú miklu hraðara en áður og hnykkti fast á við hverja hendingu, eftir því sem kvæðamaður hóf og herti á röddina. Kveður nú Þorsteinn lengi og vel, og kemur svo, að hann hefur lokið hinni fyrstu rímu; tekur hann þá hvíld nokkra, áður hann byrjar hina næstu rímu, og fara konur að tala um söguna. Verður þá sá atburður, að smali spratt upp hart og títt, kveðst hann glöggt hafa heyrt, að barið hafi verið eitt eða tvö högg á bæjarhurðina, og segir, að einhver muni vera kominn. Ástríður vinnukona kvaðst og heyrt hafa, en aðrir sögðu sitt hvað, þóttust nokkrir heyrt hafa, en aðrir neituðu; segir bóndi, að ekki sé vert að ganga til dyra, segir hann það ekki sið kristinna manna að knýja hurðir eftir dagsetur og fara ekki á bæ og guða á glugga, enda séu það fjandar og forynjur einar, sem ekki berja þrjú högg. Ræða menn nú um þetta, og heyrast þá enn barin þrjú högg; segir þá bóndi, að víst skuli ganga til dyra; hleypur smali fram, dvelst honum um hríð frammi, og er hann kemur aftur, segir hann, að hann hafi ekki orðið var við neinn mann, kveðst hann hafa gengið í kringum allan bæinn, en ekki séð neinn mann, en hundarnir hafi allir hlaupið út með gelti og spangóli. Þetta þótti mönnum allkynlegt, en ræða þó fátt um. Tekur Þorsteinn enn að kveða og kveður um hríð, og líður á seinni hlut vöku. Heyra menn þá, að hundar taka að gelta ákaflega í bæjardyrum, og líður ekki á löngu, áður menn verða þess varir, að klifrazt er upp á baðstofuhliðina hina syðri, og þessu næst er lagzt ofan að glugga þeim, sem var yfir sæng húsfreyju; hleypur Sigurður bóndi þangað, en komumaður kallar á gluggann og segir: Hér sé guð! Sælt veri fólkið!

Guð blessi þig, svaraði húsbóndi og stakk nefinu sem þéttast verða mátti út að glugganum - hvað heitir maðurinn?

Hallvarður Hallsson.

Hallvarður, sagði bóndi, Hallsson; þekkirðu hann nokkuð, gæzka? sagði bóndi við konu sína.

Nei, sagði húsfreyja, spurðu hann, hvar hann eigi heima.

Bóndi stakk enn nefinu að glugganum og kallar út: Hallvarður, segir þú, hvar áttu heima?

Ha? Ég ætla að biðja að lofa mér að vera í nótt, sagði aðkomumaður, því ekki heyrði hann, hvers Sigurður spurði.

Það skal verða komið ofan til þín, hvar áttu heima?

Sunnan af landi, sagði komumaður.

Sunnan af landi segist hann vera, sagði bóndi. Þórdís mín, láttu hana Ástríði koma á eftir með ljós, ég fer til dyranna.

Bóndi gjörir nú svo sem hann hafði sagt, gengur til dyra, og fer Ástríður vinnukona brátt eftir honum með ljós. Kemur bóndi að skammri stundu liðinni aftur og leiðir komumann. Gestur ber í annarri hendi hatt sinn og vettlinga, en í annarri þverbakspoka lítinn og röndóttan, og jafnskjótt sem hann skýtur höfðinu upp um loftsgatið, kastar hann kveðju á heimilisfólk og segir: Hér sé guð, sælt og blessað fólkið! - gengur síðan fyrir hvern mann og heilsar með kossi; hefur hann lokið því jafnsnemma sem Sigurður bóndi er upp kominn; vísar hann gesti til sætis, og leiðir húsfreyja hann að rúmi Sigurður bónda og spyr, hvort hann sé eigi votur; neitar gestur því. Þessu næst spyr hún hann, hvort hann vilji ekki fá að drekka, og segir gestur þess ekki þörf, en húsfreyja skilur samt svo svar hans, að hann muni geta þegið það, ef honum sé boðið það, og sækir honum mjólk. Á meðan teknr bóndi gest tali og segir:

Þér heitið Hallvarður? Rétt er það.

Já, Hallsson, sagði gestur.

Hallvarður Hallsson, rétt er það, og átt heima í Borgarfirði; rétt er það, sagði bóndi.

Nei, Kjalarnesinu, sagði gestur.

Á, já, já, Kjalarnesi, sagði bóndi, rétt er það, það mun þá vera hérna nær?

Það kemur allt an uppá, hvern veginn maður fer; fari maður Sand og Kaldadal, þá get ég trúað, að það sé jafnkortara, sé farið fyrir Ok og Arnarvatnsheiði, þá munu verða áhöld um, en skemmst verður að fara eins og ég er vanur að fara; ég set mig sumsé, karl minn, oftast undir eins upp á fjall beint af Kjalarnesi eða úr Kjósinni, ellegar ég fer inn með Hvalfirði, dríf mig upp Þyrilinn, tek síðan kóssinn og trekki mig fjallasýn fram hjá öllum jöklum og kem svo hvergi til byggða fyrr en í Skagafirði eða einhvers staðar; en ekki leika það allir eftir mér.

Ofan í Skagafjörð, rétt er það, er það ekki feikna fjallvegur og ákaflega villugjarn? sagði bóndi.

Hann er það, beztur fyrir mig, en ekki hef ég villzt á honum, enda hefur annað oftar komið fyrir mig en að villast, þó ég hafi verið svona á ferðum stundum; hann sagði svo tíðum, prófasturinn heitinn: Ekki veit ég, Hallvarður, hver þremillinn hjálpar þér til að rata alls staðar. Það var og sannast að segja, að ég man ekki eftir, að kæmi nokkurn tíma það veður í þau tíu ár, sem ég var hjá honum, að ég færi ekki allra minna ferða, hvað svartur sem hann var.

Rétt er það, segir bóndi, fóruð þér þá fjallasýn núna?

Nei, nú fór ég með sveitum, en ég varð að fara svo, af því ég þurfti að finna mann í Miðfirði um leið; annars er ég norðlenzkur, þó ég hafi verið lengi fyrir sunnan.

Hugsið þér langt að ferðast? frétti bóndi.

Ég er nú á heimleið, ég var sendur með bréf frá sýslumanninum okkar hingað að staðnum til hans séra Sigvalda míns, þar voru með peningar, arfur eftir konu, sem dó fyrir sunnan í haust eð var, en þeir eru kunningjar og skólabræður, sýslumaðurinn og hann séra Sigvaldi minn, og því beiddi hann prestinn að koma þeim til skila, en þess háttar er ekki sent á skotspónum eða með óvissum mönnum; ég held það hafi verið fram undir 100 dalir eða því nær eftir þyngdinni - hann fékk mig til að fara með þá, af því hann vissi til þess, að ég hafði einhvern tíma áður verið sendur með peninga og ekki orðið að slysum, held ég.

Sendur með peninga, rétt er það, sagði bóndi, eru nokkur tíðindi úr yðar för?

Ég verst allra frétta, sagði gestur.

Allt meinhægt og ósjúkt?

Það frekast ég til veit, nema það er víða krankfellt, þó hafa engir nafnkenndir dáið nema börnin, eins og vant er, og skiptapinn, sem varð á Akranesi núna skömmu fyrir jólin, þar drukknuðu þrír menn af bát, en fjórði komst af; þeir fóru úr Reykjavík á áliðnum degi, gjörði þá á þá suðaustan hrinu, en sjógutlandi var, báturinn slæmur og varði sig ekki, en til allrar ógæfu höfðu þeir gleymt austurstroginu og höfðu ekkert í bátnum til að ausa með nema einn legil, sem var á brennivín; þá vildi einn þeirra brjóta botninn úr leglinum og ausa svo með honum, en fékk því ekki ráðið fyrir formanninum, því hann átti brennivínið; það er haft eftir honum, að hann hafi átt að segja: Heldur drep ég mig en láta úr leglinum, því það er ekki gefið, sem á honum er - og þarna fyllti hjá þeim og hvolfdi; en þessi, sem af komst, komst á kjölinn, sást daginn eftir úr Engey og varð bjargað.

Það tókst hraparlega til að vinna það fyrir bannsett brennivínið. Ég kalla þér segið fréttir, segir bóndi.

En hitt hafið þið víst heyrt, um hollenzku dugguna? sagði gestur.

Nei, það höfum við ekki heyrt.

Nú, ég hélt það hefði frétzt, hana rak upp í haust vestur á Seyðisfirði, er mér fortalið, á Dröngum, ég kann að nefna það, í norðanveðrinu, sem hann gjörði litlu eftir réttirnar, þegar hann hljóp upp úr vestangarranum upp í landnorðanofsann; hún hafði liðazt sundur þar við klettana.

En komust mennirnir þó af?

Nei, biddu fyrir þér, ekki því líkt, ekkert mannsbarn nema kokkurinn og hundurinn skipherrans, sem var syndur og kvað bera sig hörmulega og ekki vilja þýðast nokkurn mann, en horfir með tárin í augunum út á sjóinn. Því segi ég það, þær vantar ekki skynsemina, skepnurnar, þó þeim sé varnað málsins. En það var ekki að búast við, að það færi öðruvísi fyrir þessu skipi, því það kvað vera sannfrétt, að þetta var sama skipið, sem kom inn fyrir austan árið fyrir það í hitteðfyrra og hafði mannaket í beitu, þeir voru alls staðar að fala rauðbirkinn strák og vildu láta fyrir hann tvær tunnur af grjónum, tvær tunnur af brauði, 8 færi og 10 sökkur, sem er helmingi meira en þeir eru vanir að gefa fyrir beztu skurðarkú, það er að skilja mötuna, því skinninu skila þeir, og nú höfðu þeir ætlað að taka kokkinn og beita honum.

Margur ætlar, fyrst ekki strax
á fellur hefndin sama dags,

segir bóndi; en varð nokkru bjargað af fjármununum?

Og það trúi ég, en það kvað nú hafa verið aðgangur í þeim þar; ég talaði við mann, sem kom að vestan og vissi það allt greinilega; þarna fengu þeir eins og þeir gátu komizt með, færin, strengina, grjónin lítt skemmd, röndóttar skyrtur og klútana eins og feldi - það er satt, þeir eru ónýtir - og hollenzku ostana kvað ekki eiga að aka úr spesíu hjá þeim, en sírópið jusu þeir með höndunum í hattana sína upp úr fjörunni, og þetta fyrir alls ekkert, því þegar sýslumaðurinn loksins kom, sem kvað nú sjálfur hafa séð um sig, var ekki annað eftir en skrokkskriflið, sem þó ekki varð dýrt, og heila seglázían á fjóra duggarabandssokka og sykur og járnið fyrir ekkert.

Ég vildi ég hefði verið kominn að fá mér járnmola, sagði bóndi, já, ég kalla þér segið fréttirnar! Nei, ekki höfðum við frétt þetta, rétt er það, og þetta fréttist ekki hér; - á Dröngum, segið þér mér, er það ekki nálægt Drangajökli einhvers staðar?

Jú, fyrir vestan hann, held ég; ég hef aldrei komið í þá paufa, þar kvað vera fullt af galdramönnum og alls konar óþjóð; - en meðal annarra orða, sagði gestur og þreifaði hendinni ofan í vasa sinn, ég var nærri því búinn að gleyma bréfi, sem presturinn bað mig að skilja hér eftir, ég held það sé til yðar; - gestur lítur utan á bréf, er hann tekur úr bréfabagga: Heitið þér ekki signor Sigurður Jónsson á Hlíð?

Jú, svo vænti ég það eigi að heita, sagði bóndi og saug upp í nefið.

Gestur fær honum þá bréfið, var kveðjan utan á því skrifuð með alllæsilegri snarhönd og þannig:

Eðlagöfugum
Sgr. Sigurði Jónssyni
á Hlíð.

Sigurður bóndi tók við bréfinu, leit utan á það og horfði á um hríð, les síðan kveðjuna í hálfum hljóðum: Eðlagöfugum Sgr. Sigurði Jónssyni á Hlíð, rétt er það, það er til mín og höndin hans séra Sigvalda míns; hvað skal hann nú vilja, góði maður? - Ég ætla að láta bíða að lesa það, þangað til konan mín finnur fyrir mig gleraugun mín.

Í þessari svipan kemur húsfreyja og ber gesti mjólkurkönnu. Stendur þá bóndi upp og sýnir húsfreyju bréfið og biður hana um gleraugu; finnur húsfreyja þau og fær honum, og er hann hefur komið þeim fyrir á nefinu eins og honum líkar, lítur hann enn þá eitt skipti á kveðjuna, brýtur það síðan upp, heldur því upp við ljósið sem næst verða mátti og tekur að lesa í hálfum hljóðum, og var það þannig:


Stað, 13. Jan. 17..

Elskulegi eðlagöfugi tryggðavin! Næst því að þakka yður, ásamt elskulegri hústrú, fyrir margauðsýnda og í té látna tryggðreynda vináttu, velvild og góðsemi við mig og mína, sem og fyrir viðfelldna, skemmtilega og ástríka samfundi og ógleymanlegar velgjörðir á yðar heiðraða, góðfræga heimili síðast, er það einasta efni þessa fáorða miða að minnast á það, sem þér nefnduð við mig fyrir yðar hönd að útverka og umgangast, nefnilega kýrkaupin, og er þá í stuttu máli frá að segja, að kýrin, sem þér töluðuð um og báðuð mig að útvega, reynist eftir kunnugra manna frásögn lastagripur, seigmjólk, tannslæm og mesta stritla, og gekk ég því fyrir yðar hönd frá kaupunum, en nú hef ég fengið ádrátt um kú fyrir yður, og kýrin kvað, eftir sögn seljanda og nákunnugra, vera allvænn gripur, sjö vetra gömul, ekki stórmjólk, en dropsöm og mesta happaskepna, og ef hún hafnast að venju, stendur hún til að verða snemmbær; samt sem áður þorði ég ekki að fullgjöra kaupin, fyrr en ég talaði við yður; en maðurinn, sem selur, vill hafa það afgjört sem fyrst, þar fleiri af honum téða kú falað hafa. Ég hef sagt honum að koma hingað næsta sunnudag að færu veðri; verður því nauðsyn, að þér gjörðuð svo vel á greindum tíma hingað að koma og áður áminnzt kýrkaup við hann að slúttera; ítem þarf ég margt fleira við yður að tala mér til ánægju og gagns og skemmtunar. Fyrirgefið flýtislínur þessar. Verið þér svo með ástkærri konu kærlegast kvaddir af yðar þénustu-skuldbundnum elskandi vin og velunnara.

Sigvaldi Árnason.


Þegar Sigurður bóndi hafði vel og vandlega lesið bréf þetta, sýnir hann það húsfreyju, og ræða þau um það um hríð. Ber nú ekkert til tíðinda það eftir var kvöldsins annað en það, að gesti er reiddur kvöldverður, og er hann hinn kátasti og segir af ferðum sínum og stórvirkjum. Er nú lesinn húslestur að venju, en síðan er Hallvarður til sængur leiddur, og var honum búin hvíla í auðarúmi því, er þar var í baðstofunni skammt frá rúmi Þuríðar kerlingar. Það sáu menn, að Þuríður renndi engum vinaraugum á gest, tautaði hún að venju eitthvað fyrir munni sér og var allófrýn, en lét þó allt vera kyrrt, og gengu menn nú að sofa í Hlíð, svo að ekki bar fleira til tíðinda.



2. kafli

Lofa skal mey að morgni,
en veður að kveldi.
                  Málsháttur

Daginn eftir að Sigurður bóndi hafði fengið bréf það, er vér gátum um, fór Hallvarður á stað og hélt áfram för sinni, og er hann úr sögunni. Líður nú fram til helgarinnar, en sunnudagsmorguninn hinn næsta á eftir vaknar Sigurður snemma, og er það nokkru fyrir dögun. Tungl var í heiði og kastaði ljósi inn um loftsglugga, en allir voru enn í svefni í baðstofunni nema bóndi; tekur hann nú klæði sín og fer hljóðlega og gengur út og lítur til veðurs. Engin dagsbrún var enn á lofti, en af sjöstirni og öðrum merkistjörnum sá Sigurður, að skammt var þess að bíða að dagaði. Veður var hið fegursta sem verða má, himinninn alheiður og svo mikil vindstilla, að ekki blaktaði hár á höfði. Bóndi gengur því næst inn aftur og að rúmi Þorsteins; það var rétt við loftsuppganginn, og svaf Sigrún litla dóttir hans þar til fóta hans. Sigurður stingur hendi við Þorsteini, og vaknar hann skjótt. Segir bóndi, að nú sé mál að klæðast, ef þeir hugsi til kirkjuferðar, eins og um var talað. - Veðrið er hið ágætasta, logn og blessuð blíða. Farðu hægt, lagsmaður, ég vil ekki, að neinn vakni nema konan mín, og þegar þú ert kominn á fætur, skaltu skreppa inn í húsið til okkar og grípa þér einhvern bita, áður en við förum, sagði bóndi.

Að svo mæltu gengur Sigurður aftur inn í svefnherbergi þeirra hjóna; var þá húsfreyja klædd; hafði hún vaknað við það, að bóndi hennar fór á fætur. Sigurður bauð henni góðan dag með kossi, og tekur þá húsfreyja svo til orða:

Þið munuð ætla að fara til kirkju, eins og þið hafið gert ráð fyrir; ekki veit ég, hvernig stendur á því, en vænst hefði mér þótt, að þú hefðir látið þessa kirkjuferð vera, en þú munt ekki vilja brjóta það á bágann við prestinn, og því ætla ég ekki að letja þig; er veðrið bærilegt?

Það er logn og blíða og rennihjarn.

Búðu þig samt vel, hjartað mitt! Það er gamalt orðtæki: fáir kunna sig of vel heiman að búa - og þó veðrið sé gott núna, þá getur hann spillzt, áður en þið eruð komnir heim aftur. Fórstu í hvorutveggju sokkana, sem ég lagði hjá þér? - já, ég sé þú hefur farið í þá; hérna eru skinnsokkarnir þínir, það er verst, að þeir eru svo stuttir; þarna hefur þú vettlingana þína, og sting þú þessum einhvers staðar á þig.

Æ, ekki get ég nú verið að hafa tvenna vettlinga, það er ekki til annars en ég týni þeim.

Sem ég segi, þú skalt hafa þá, hinir geta orðið votir, ég læt þá þarna í vasa þinn; mundu eftir treflinum þínum; sýndu mér, láttu mig láta hann á þig, ég vil vera viss um, að þú gleymir honum ekki, það veitir ekki af að búa vel að hálsinum á sér í hörkunum. Nú, þar kemur Þorsteinn uppbúinn; takið ykkur nú dálítinn bita, áður en þið farið, og berið ykkur að borða vel, langur er dagurinn, og það er ekki víst, að það verði undir eins borið á borð fyrir ykkur á Stað.

Húsfreyja setti þá fyrir þá tinfat eitt með hangikjöti, og tóku þeir Sigurður og Þorsteinn að matast, og er því var lokið, stóðu þeir báðir upp og taka vettlinga sína og hatta; húsfreyja kvaðst mundi fylgja þeim út. Sigurður bað Þorstein fara hljóðlega um baðstofuloftið, svo að heimamenn vöknuðu ekki. Húsfreyja gekk ofan á undan þeim, en Sigurður bóndi minntist þess, að honum hafði gleymzt að stinga á sig tveimur sendibréfum, er fara áttu að Stað og lágu inn í húsinu, og sneri því aftur inn í loftið og fór að leita þeirra. Þorsteinn gekk að rúmi sínu og segir um leið við sjálfan sig í hálfum hljóðum: Æ, ég verð að kveðja hana Rúnu litlu, þó hún sé sofandi. Mærin var enn í fasta svefni og hafði ekki orðið vör við, þegar faðir hennar klæddist; hún lá, eins og börnum er tamt, heldur óskipulega í sænginni; höfuðið var fyrir neðan allan kodda, niðrí miðju rúmi, og rekkjuvoðin í snargarði utan um herðarnar og hálsinn; brekanið lá að mestu leyti fram á palli, en fæturnir á Sigrúnu litlu voru þar, sem höfðalagið hafði verið kveldið áður. Þegar faðir hennar sá, hvernig rúmferðin var, segir hann: Æ, nú fer illa um litla skinnið mitt, ég verð að laga þetta dálítið, Rúna. Síðan tekur hann Sigrúnu og lyftir henni upp í fang sér, snyrtir með annarri hendi og hressir við koddann, sem lá allur í böggli fram á stokk, leggur meyjuna niður aftur á koddann, breiðir vandlega ofan á hana síðan og segir: Vertu nú sæl, litla yndið mitt, og gráttu nú ekki, þegar þú vaknar og sér, að hann babbi þinn er horfinn. - Ekki vaknaði Sigrún við allt þetta, en aðeins mátti sjá, að hún ofurlítið losaði svefninn, af því að dálítill roði færðist í kinnarnar á henni. Þegar Þorsteinn hafði kysst og kvatt dóttur sína svona sofandi, gekk hann ofan. Sigurði dvaldist nokkuð inn í húsinu, er hann fann ekki undir eins bréfin, en síðan snýr hann aftur, og er hann kemur fram fyrir húsdyrnar, eru orðin þau umskipti, að allir í baðstofunni eru glaðvaknaðir allt í einu, og bar það til, að Þuríður kerling lét svo illa í svefni, að enginn gat notið svefns eða værðar fyrir hennar illum látum; æpti hún ýmist ámátlega eða það korraði í henni sem hrút á blóðvelli og brauzt um svo hræðilega, að hún ýmist stóð á hæl eða hnakka; þetta gekk um hríð, þar til allir voru vaknaðir, sem voru í baðstofunni; tóku menn þá að æpa á hana, en hún vaknaði ekki að heldur. Í þessari svipan var það, að Sigurður bóndi kom fram á loftið, og heyrir hann þá, hvað um er að vera, og kallar hann þá á einhverja stúlku, sem hann sá að var vöknuð, og segir:

Hana dreymir eitthvað illa, Þuríði gömlu; kallaðu til hennar, Sigga, og láttu kerlinguna hætta þessum ólátum.

Ég hef kallað í hana, en hún verður ekki vakin, kerlingargreyið, sagði Sigga, en nú skal ég ýta við henni. Og í því tekur Sigríður báðum höndum rúmfjölina og seilist með hana yfir í rúm Þuríðar og rekur fjalarendann í síðuna á henni; við það vaknar kerling; hún reis þá upp og blæs mjög mæðilega og segir síðan: Varst það þú, frenjan þín, sem rakst fjölina í síðuna á mér, Sigga? Gaztu ekki látið vera að vekja mig, tæfan þín?

Þú lézt ekki eins og maður, sagði griðkonan, það hafði enginn frið fyrir þér í baðstofunni, og því vakti ég þig.

Og það er verst, að ég hef haldið fyrir þér vöku, kindin þín!

Ég sagði henni að vekja þig, mælti Sigurður, því ég heyrði, að það sótti að þér, þig hefur dreymt eitthvað illa, Þuríður gamla?

Það er lítið að marka, hvað mig dreymir, en haldið hefði ég það, að þetta yrði fyrir einhverju, tautaði kerling í hálfum hljóðum, en bóndi nennti ekki að hlusta á, hvað hún sagði, kastaði í skyndi kveðju á heimilisfólkið og fór ofan, og er hann kemur á hlaðið, stendur Þorsteinn þar ferðbúinn með broddstaf í hendi. Bóndi tekur og staf sinn og gengur síðan að húsfreyju og kveður hana, og segir húsfreyja, áður þau skildu:

Þess ætla ég að biðja þig, Sigurður minn, að fara ekki út í slæmt og ekki seint á stað í kvöld; vertu heldur kyrr á Stað en að fara undir nóttina á hálsinn; veðrið núna er gott, en hann getur spillzt, áður en kvöld er komið; þú veizt, að mér er ekki rótt, þegar þú ert í burtu, og lofaðu mér því að leggja ekki út í neina tvísýnu; Þorsteinn minn, mundu eftir að eggja ekki manninn minn út í slæmt útlit, það þarf ekki að eggja hann, hann er nógu framhaldssamur samt.

Vertu óhrædd um það, Þórdís mín, sagði Sigurðar, við skulum ekki fara út í neina ófæru, og vertu nú blessuð.

Já, vertu viss um það, Þórdís mín, sagði Þorsteinn. Vertu sæl; ég ætla að biðja yður, eins og vant er, að líta eftir henni Sigrúnu litlu, hún á engan að, skinnið, þegar mín missir við, nema guð og þig.

Eftir það héldu þeir félagar á stað, og stóð húsfreyja á hlaðinu og horfði eftir þeim, þar til þeir hurfu fyrir túnið; lengra varð ei séð; gekk hún þá inn.

Skammt fyrir neðan túnið liggur háls nokkur, sem kallaður er Hlíðarháls; yfir háls þenna liggur leiðin að Stað; hálsinn er allbrattur á þá hliðina, sem veit að Hlíð, og að því skapi hár, og þótti það vel gjört að ganga í einum spretti hvíldarlaust neðan af jafnsléttu og upp á hálsbrún, og var það mál manna, að þann leik léki ekki aðrir en léttustu göngumenn. Sigurður var talinn með hinum færustu mönnum; á yngri árum hafði hann oft gjört það að ganga neðan frá Hlíð og upp á háls hvíldarlaust og bera fjögra eða sex fjórðunga þyngd á bakinu, en eftir það að hann fór að eldast og lýjast, lék hann það ekki, ef hann bar nokkuð, en gengi hann laus, breytti hann ekki venju sinni um það að taka ekki hvíld, fyrr en hann kom á brún. Þorsteinn var þrekminni til göngu, en þótti þó óvirða að hvíla sig fyrr en bóndi, og dróst hann heldur aftur úr, þegar á að gizka þriðjungur brekkunnar var eftir. Framan í hálsbrúninni stóð varða, sem kölluð er Dagmálavarða, af því að á henni eru dagmál frá bænum í Hlíð; þar settist Sigurður niður og beið Þorsteins, og kom hann skjótt og settist niður hjá Sigurði. Þá var dagur um allt loft. Þorsteinn situr um hríð, styður hönd undir kinn og lítur yfir bæinn og túnið í Hlíð og segir:

Sárt þótti mér nú, Sigurður minn, að skilja við litla skinnið mitt sofandi í rúminu. - Þá þagnar hann um hríð og tekur síðan aftur til máls: Ef ég hef einhvern tíma unnið hjá þér handarvik með trú og dyggð, Sigurður minn, þá vona ég þú látir hana Sigrúnu litlu heldur njóta þess, þegar ég er dauður.

Það væri ekki meira en skylt, sagði Sigurður, en því talar þú um það fremur nú en endrarnær?

Af því, segir Þorsteinn, að ég veit, að ég á nú ekki langt eftir ólifað, og taktu eftir því, að það er satt, sem ég segi, Sigurður minn. Og um leið sér Sigurður, að nokkur tár hrjóta af augum Þorsteins, en hann sprettur upp skjótlega og heldur áfram sem leiðir liggja yfir hálsinn og var heldur hljóður, og segir ekki af ferðum þeirra Sigurðar, fyrr en þeir koma að Stað; var það í það mund, sem tíðamenn voru þar komnir að kirkju. Var nú gengið í kirkju, og hlýddu þeir Sigurður messunni. Að liðinni embættisgjörð gekk Sigurður að hitta prest, og töluðu þeir um mál sín; er þess ei getið, hvað þeir hjöluðu; lét prestur síðan bera fyrir þá Sigurð mat og annan beina; en ekki þáði Þorsteinn þar annað en eitt eða tvö staup af brennivíni. En er Sigurður bóndi hafði matazt og lokið erindum sínum, vildi hann þegar snúa heimleiðis. Prestur bað hann vera þar um nóttina, sagði sem var, að dagur væri skammur og nú þegar komið að kvöldi; en Sigurður kvaðst það víst ekki vilja, væri og veður gott og stjörnubjart að kvöldinu. Varð það þá svo, að þeir félagar sneru heimleiðis, og var Þorsteinn hinn glaðasti og svo þeir báðir; halda þeir nú skemmstu leið frá Stað og stefna svo sem leið liggur fram hjá Tungu og svo á mýrarnar millum Holts og Tungu. Þar voru á mýrunum afætur margar og lækir og ísinn víða ótraustur. Báðir voru þeir Sigurður og Þorsteinn vel skúaðir og í skinnsokkum upp að hné; bað þá Sigurður Þorstein fara þar varlega og reyna jafnan fyrir sér - því hér er, segir hann, viðsjált, ef ógætilega er farið, og þekki ég það, síðan ég var í Holti, að hér eru sums staðar djúpir skurðir og vatn í, sem ekki leggur fram eftir öllum vetri nema í mestu aftökum. Og í þeirri svipan komu þeir að læk nokkrum. Lækurinn var að sjá lagður og nokkur snjóföl á ofan. Sigurður gengur á lækinn og reynir fyrir sér með stafnum, og finnur hann, að þar er traust, sem hann gekk. Þorstein bar nokkru neðar að, reynir hann og fyrir sér ísinn, en er hann er kominn út í miðjan lækinn, verður hann þess var, að ísinn er þar ekki svo traustur sem skyldi, og vill nú snúa aftur og þangað að, sem Sigurður fer; en í sama vetfangi brestur ísinn undir fótum honum, og fellur hann í lækinn. Lækurinn var bólginn upp og vatnsmegn í, nær Þorsteinn ekki niðri með fótunum, og sekkur hann upp undir hendur, en fær gripið annarri hendinni í skörina og kemst svo með illan leik að landi; lætur hann nú síga úr fötum sínum um stund og fæst ekki um svaðilfarirnar, heldur síðan áfram leið sína. Sigurður telur það óráð, að þeir haldi lengra áfram en til næsta bæjar, er svo illa hafi til tekizt, að Þorsteinn hafi orðið votur. Ekki vildi Þorsteinn það heyra, kvað sig ekki mundi saka, því veður væri frosthægt, væri hann og slíku vosi vanur, enda mundu þeir geta gengið sér til hita; skipta þeir félagar um þetta nokkrum orðum, og leizt sinn veg hvorum, en þó verður það, að Þorsteinn hlýtur að ráða, og halda þeir nú áleiðis og stefna upp að hálsinum og gagnvart bænum á Seli - það er næsti bær undir hálsinum Staðar megin; er þá farið að rökkva, en veðrið tekur heldur að dimma og verða ískyggilegra, og jafnframt tekur að smádrífa; var þó enn vel vegljóst, því bjart var í lofti af stjörnum. Þeir félagar halda nú þannig upp hálsinn, svo þeir eru komnir á að gizka upp í hann miðjan, þá dagsett er orðið. Hálsinum er svo varið, að hann á þá hliðina, er veit að Stað, er jafnt álíðandi með smábrekkum og dældum, en uppi er hann stuttur og sléttur, en snarbrattur ofan þeim megin, sem snýr að bænum í Hlíð, og allur skemmri á þann veginn. Skammt fyrir ofan þá brúnina, er veit að Seli, er holt eitt mikið, sem kallað er Þrívörðuholt; það skilur Selsland frá Hlíðarlandi. Þar segja menn hálsinn hálfnaðan bæja á milli, og þykir þá jafnskemmra þaðan að Hlíð en að Seli. Þessir tveir bæir áttu að halda uppi vegabótum á hálsinum, er hann liggur í landareign beggja landeigenda, en með því bóndinn á Seli ekki var mikill lögskilamaður, voru allar vörður niður fallnar þeim megin á hálsinum og ekki eftir nema brot ein, er þegar fóru í kaf í fyrstu snjóum, og þar að auki var vörðubrotunum, sem enn sáust, svo óhaganlega fyrir komið, að þau fremur voru til þess að villa ferðamenn en að færa þá á rétta leið. Frá Þrívörðum og allt ofan að Hlíð var hálsinn svo ágætlega varðaður, að vart mundi koma svo svört hríð, að menn ekki gætu haft nægan leiðarvísi til mannabyggða; vörðurnar voru bæði stórar og svo þéttar, að vel mátti sjá frá einni til annarrar, hversu dimmt sem var. Þeir Sigurður voru nú á að geta komnir miðja vega upp undir hálsbrúnina, þá er dagur þraut, og í þessum svifum skelldi á allt í einu þreifandi moldviðri, og fylgdi því bæði geysi frost og svo mikið fannfergi, að fádæmum þótti sæta. Þeir félagar voru staddir á einu litlu holti, er hríðinni laust á; verður Sigurður nú fyrri til máls og segir við Þorstein:

Nú eru tveir kostir fyrir hendi, og er þó hvorugur góður: sá annar, að við höldum áfram upp brekkurnar, á meðan við megum, og freistum svo, hvort við náum ekki Þrívörðum; veit ég það, að verði okkur þess auðið, verður hann vart svo dimmur, að við villumst úr því þangað er komið, og værum við þar nú, mundi ég með herrans hjálp halda áfram, en óvíst er, að við náum þeim, er við eigum að sækja á brekkuna, en höfum veðrið í fangið; hinn annar er sá, að við snúum nú þegar aftur og reynum til að komast heim að Seli, og til þess vil ég ráða; eigum við þá bæði að halda undan brekkunni og veðrinu, og fer þá varla svo hraparlega, að við rekum okkur ekki einhvers staðar þar á túngarðinn eða fjárhúsin; eða hvað segir þú hér til, Þorsteinn minn, sýnist þér það ekki tiltækilegast úr því, sem gjöra er?

Þú skalt ráða, Sigurður minn, sagði Þorsteinn, en þó sýnist mér ekki með öllu örvænt um, að við náum Þrívörðum; við erum enn þá á réttri leið, og ef við setjum vel á okkur veðurstöðuna, þá trúi ég því vart, að við getum ekki komizt upp á hana Illubrekku, og þá verður hann varla svo svartur, að við rofum ekki upp í klettinn; þaðan veiztu, að ekki verður villzt á Þrívörðuholtið; en ef við finnum ekki klettinn, er okkur ætíð hægt að snúa aftur, þegar við viljum, enda er það ekki trúlegt, að hann dimmi úr því, sem nú er.

Þú skalt ráða, sagði Sigurður, en þó grunar mig, að nú tökum við það ráð, sem miður gegnir; en til hverrar sögu verður nokkuð að bera; hef ég og aldrei látið eggja mig lengi til framhalds, og áfram þá í drottins nafni.

Að svo mæltu snýr Sigurður aftur gegn veðrinu og þreytir á brekkuna. Gengur svo um hríð, að þeir félagar halda upp hálsinn og hafa veðrið á móti sér, og sér nú nær því ekkert frá sér. Sigurður var maður hraustur og þrautgóður og þreytir sterklega gegn veðrinu. Það fundu þeir brátt, að frostið harðnaði, eftir því sem á leið. Föt Þorsteins voru öll gegnvot og frusu þegar, varð honum því erfiðara en Sigurði um gönguna, en vildi þó fyrir hvern mun eigi láta á sér finna, að hann gæti ekki fylgt honum. Þannig gengu þeir félagar um hríð, og er þeir höfðu farið um stund, urðu þeir varir við forbrekki mikið og kenndu, að það var Illabrekka, höfðu þeir mikið erfiði, áður þeir kæmust upp á hana; nema þeir þá staðar og skyggnast eftir, hvort ekki grilli í klett þann, er Þorsteinn hafði um getið og þeir vissu, að standa átti framan í efstu hálsbrúninni; en svo var hríðin þá dimm, að ekki rofaði fyrir honum; tekur þá Sigurður aftur til orða og segir:

Svo er nú komið, Þorsteinn félagi, sem mig grunaði, að ekki mundi för okkar greiðari, þó við hingað kæmum; höfum við nú haft erfiði mikið að komast hingað og sjáum þó ekki klettinn, eða treystir þú þér til að hitta héðan á Þrívörður?

Enga færu sé ég nú til þess, sagði Þorsteinn, að halda lengra áleiðis, og tak nú það ráð fyrir okkur, er þér þykir sæmilegast, og er þó líkast til, að til eins dragi um vort ráð.

Betra er seint en aldrei, en betra var, að ég hefði ráðið fyrri, sagði Sigurður, en þó tjáir nú ekki að æðrast, eða hvort ert þú nú að þrotum kominn, félagi?

Þorsteinn sagði, að svo væri að vísu ekki, en þó tæki honum heldur að kólna fætur, því vart gæti hann með vissu sagt, hvort hann fyndi til þeirra eður ei.

Snúa þeir nú við og leita eftir, hvort þeir geta rakið brautina ofan hálsinn, sem þeir höfðu upp farið, en svo er fannmegnið þá mikið, að þegar hafði fokið í hana, og sást hvergi fyrir henni. Leitast Sigurður nú við að átta sig og taka stefnu ofan hálsinn, en svo var harðviðrið þá mikið, að þeir höfðu fullt í fangi að stjórna sér undan veðrinu, að þá hrekti ekki af þeirri stefnu, er þeir höfðu tekið; tekur Þorsteinn nú að dasast, og getur hann ekki lengur fylgt Sigurði, og verður hann að hafa alla vareygð við, að hann missi ekki sjónar á honum; sér Sigurður þá ekki annað sýnna fyrir en að hann leiði hann, og við þetta komast þeir ofan hálsinn á jafnsléttu, að því þeir halda, og ráða það af því, að ífram var fyrir fæti, en svo var hríðin enn svört, að ekkert vita þeir, hvar þeir eru. Þannig fara þeir um hríð, gjörist Þorsteinn þá svo máttvana, að Sigurður verður að standa við nær því í öðru hverju spori og lofa honum að setja sig niður. Loks koma þeir á holt eitt lítið, og vill Þorsteinn þar láta fyrir berast, enda er hann þá svo dasaður, að hann má ekki ganga, og stendur Sigurður þar um hríð yfir honum; skyggnist hann þá um út í dimmuna, og er hann hefur um stund svipazt um, virðist honum sem við og við móti fyrir hæð nokkurri ekki langt frá þeim, og gjörir hann sér í hugarlund, að þetta muni vera húsaþyrping nokkur eða bær. Nú þótt hann væri þegar orðinn mjög svo þreyttur og kalinn á úlfliðum og í andliti, tekur hann það ráð, að hann gengur að Þorsteini, þar sem hann liggur á fönninni, og vegur hann upp á herðar sér og heldur þangað, sem hann sá móa fyrir húsinu. Þorsteinn var maður stór vexti og líkamaþungur, og veitir Sigurði allörðugt að bera hann; en er Sigurður kemur þangað, sem hann þóttist hafa séð bæinn, sér hann, að ekki var sem honum hafði sýnzt, var þar holt eitt og stór steinn á, sem í kafaldinu álengdar leit út sem hús. Sigurður leggur Þorstein þá niður í skjólið undir steininum, og verður hann þess þá vís, að Þorsteinn er svo máttdreginn, að fyrir engan mun mátti hann ganga og varla uppréttur standa, og sá hann þá eigi annað fyrir en að hann mundi þá og þegar andast, og naumast gat hann talað svo skýrt, að Sigurður mætti skilja hann. Verður þá Sigurði það til orða, að hann segir:

Hér munum við nú verða að hafa næturgisting, þó hún sé ekki góð, því hvorki sé ég nú nokkurt færi á, að við komumst lengra, enda veit ég nú ekki, í hverja átt er að leita mannabyggðar, þó svo væri, að við gætum lengra komizt, og er það líklegt, að til eins dragi fyrir okkur báðum.

Svo mun það að vísu, sagði Þorsteinn og reis um leið upp að steininum, að hér mun minni ævi lokið, og kom mér það ekki óvart, og hefur svo verið um flesta mína frændur, að þeir hafa hlotið skjótan og skyndilegan dauðdaga; afi minn hrapaði úr Drangeyjarbjargi, faðir minn varð úti á Holtavörðuheiði, og bræður mínir tveir drukknuðu undir Jökli; hef ég nú lifað hið fegursta ævi minnar, verður ei feigum forðað eða ófeigum í hel komið, og af því að ég hygg, að þínir dagar, Sigurður minn, séu ei allir, þá skalt þú, vinur, láta mig verða hér eftir og freista, hvort þú getur ekki komizt til mannabyggða; en ef þér verður lengra lífs auðið, þá er það tvennt, er ég vil biðja þig um, það fyrst, er ég áður hef á minnzt, að þú látir ei Sigrúnu litlu dóttur mína fara á flæking, en sú er önnur bónin, ef bein mín finnast og þeim verður auðið leg að kirkju, að þau verði jörðuð út undan miðjum suðurvegg kirkjunnar á Stað - þar liggur móðir Sigrúnar; hér munum við þá skilja, og haf þökk, vinur, fyrir samveru okkar og . . .

Meira gat Sigurður ei heyrt, því Þorsteinn hné máttlaus upp að steininum; þó sá Sigurður, að enn var lífsmark nokkuð með honum, en í þessum svip sér hann, að nokkuð grisjar í kafaldið, svo hann sér góðan kipp frá sér, og í sama bili bregður fyrir ljósi, og sýndist honum ekki langt til að sjá; hann verður harla glaður við, því nú þykist hann mega ráða, að þá séu þeir ekki langt frá einhverjum bæ, því ekki gæti ljós þetta komið annars staðar frá en úr einhverjum glugga; hann starir á ljósið um hríð og er að hugsa um það hann skuli vandlega setja á sig, hverja stefnu hann skuli taka til að ganga á ljósið, en í því lýstur hríðinni aftur á, að því sem Sigurði virðist enn þá svartari en nokkurn tíma áður, og í sama vetfangi er ljósið horfið. Sigurður stóð nokkra hríð og starði út í dimmuna, en það var til einkis; gekk hann þá nokkra stund aftur og fram hjá steininum, en aldrei gat hann komið auga á ljósið aftur. Harkan og veðurhæðin var þá svo grimm, að ekki gat hann haldið á sér hita, og tók hann nú bæði að kala á höndum og fótum; honum dettur þá í hug, að hann hafði heyrt, að margir hefðu bjargað lífi sínu með því að grafa sig í fönn; verður honum litið á dæld nokkra hjá holtinu, nokkra faðma frá steininum; í dæld þessa hafði dregið skafl, og var hún þegar hálffull af fönn; tekur hann nú það ráð, að hann gengur þangað, sem Þorsteinn liggur undir steininum, var hann þá mállaus og allur sem staur, þó hugði hann hann enn með lífi, er hann enn þá hafði roða í kinnum og klakinn þiðnaði frá vitum hans; hann vegur nú Þorstein upp á handleggina og ber hann ofan í dældina og leggar hann þar á skaflinn, en síðan tekur hann að róta upp skaflinum með höndum og fótum og býr til gröf ofan í fönnina svo stóra, er honum virtist næg fyrir tvo; skaflinn var mjúkur og nýskefldur, og tókst honum því greitt að grafa hann; þó varð hann að hafa sig allan við, að gröfin ekki fylltist jafnóðum aftur, svo var fannfergjan og moldin þá áköf; og er hann hafði gjört gröfina á að gizka hálfrar annarrar alinar djúpa, tekur hann Þorstein aftur og ber hann í gröfina, síðan tekur hann staf Þorsteins og rekur hann niður í fönnina hjá gröfinni upp að miðju, og loks gengur hann sjálfur í gröfina og leggst niður hjá Þorsteini og bíður þess, að skefli yfir þá, og leið ekki á löngu, áður gryfjan var skafin full og þykkur skafl lagður yfir höfuð þeirra. Af hita þeim, sem lagði af þeim Þorsteini, þiðnaði fönnin í kringum þá, en veðrið þjappaði og barði fönnina svo fast að ofan, að skaflinn hélzt uppi, og myndaðist eins og hús í kringum þá. Það fann Sigurður, að ekki skorti þar í skaflinum nægan hita, en brátt varð hann þess var, að eftir því sem skaflinn að ofan þykknaði og þéttist, eftir því minnkaði andrúmið, og að hann fyrir þá sök ekki mundi þar lengi lífi halda; hann hafði tekið með sér staf sinn, hann var bæði langur og gildur, og dettur honum það í hug, að hann rekur annan enda stafsins upp í gegnum skaflinn, þar til að hann finnur, að hann nær upp úr að utanverðu, og býr þannig til glugga eða holu, og streymir þar inn nýtt loft. Sigurður vill nú forvitnast um, hvort Þorsteinn muni enn með nokkru lífi, og þreifar um fætur og hendur hans; finnur hann þá, að fötin utan um hann eru svo freðin, að hann var eins og klakastokkur. Hann grúfir ofan að andliti Þorsteins og vill vita, hvort hann heyri hann nokkuð anda, og getur hann ekki fundið neinn andardrátt, og hyggur hann því Þorstein dauðan vera munu. Nú þótt þar væri dauflegt í gröfinni, ásetur Sigurður sér að vaka um nóttina og bíða svo þess, að dagaði, og vita þá, hvort hríðinni létti, og freista, ef hann mætti koma til einhverra bæja. Eftir því sem hann hélt, gizkaði hann á, að skammt mundi til miðnætur, þegar hann gekk í skaflinn, mundu því fáar stundir til dags. Líður nú nokkur tími, að Sigurður situr og vakir, en er farið er að líða á nóttina, tekur Sigurð að sigra svo mikill svefn, að honum þykir sem hann fyrir engan mun geti vakað, rís hann þá upp og rær ákaflega, en hversu mikinn andvara sem hann bar sig að hafa á sér, sé þó við og við að honum svefnmók nokkuð, en svo óvært, að stundum vissi hann ekki gjörla, hvort hann hafði sofið eða vakað. Inn um gat það, er Sigurður gjörði með stafnum, lagði ofan í gjótuna dálitla glætu, svo að Sigurður gat aðeins grillt í kringum sig, virðist honum þá eitt sinn svo sem Þorsteinn liggi ekki kyrr, færist hann í hraukana og sezt upp til hálfs, snýr andlitinu nábleiku að Sigurði, og þóttist Sigurður sjá, að hann hvessti augun að honum og kvað:

Manngi veit
vettvang þann,
þar sem lífi lýkur;
förum, förum,
finnumst hvítir
bústað alvalds í.

Vísu þessa kvað Þorsteinn með lágri og dimmri röddu, en hallast síðan út af aftur. Sigurði þótti ekki aldæla, er hann sér Þorstein rísa upp, því hann hugði hann nú með öllu örendan, og svo hefur Sigurður frá sagt, að á meðan Þorsteinn kvað vísuna, hafi sigið að sér svo mikið ómegin, að hann ekki mátti hreyfa legg eða lið, en er Þorsteinn var aftur lagztur, leið ómegið af honum; ráðgast hann þá um við sjálfan sig, hvort hann ekki skyldi freista þess að komast úr skaflinum, því ekki þótti honum gott þar að vera, en er hann vill upp standa, finnur hann, að fætur hans voru svo aflvana, að hann fyrir engan mun mátti brott komast; verður hann nú að láta þar fyrir berast, sem hann er niður kominn, og líður svo fram nóttin, og segir ekki fleira af Sigurði að sinni.


3. kafli

Svo, þegar dagur úr dökkvanum rís,
dauð er hún fundin á kolbláum ís;
snjóhvíta fannblæju lagði yfir lík
líknandi vetur - en miskunnarrík
sól móti sveininum lítur.
                  J. H.

Þenna hinn sama sunnudag, sem þeir Sigurður fóru til kirkjunnar, bar fátt til tíðinda heima að Hlíð. Þar var að venju lesinn húslestur, og að því loknu gekk smali að gæta fjár, en aðrir sinntu heimilisönnum, sem venja er til, húsfreyja tók sér bók til skemmtunar, og griðkonur fóru sitt að gjöra hver, annaðhvort að sauma eða lesa, nema eldakona, hún tók að elda miðdagsmatinn. Leið svo fram til rökkurs, gekk þá húsfreyja fram og fór að skammta. Þuríður gamla sat upp í rúmi sínu um þveran gafl og raulaði eitthvað fyrir munni sér, sem enginn heyrði hvað var. Það var auðséð á Þuríði gömlu, að hún í það skipti var í þungu skapi; lét hún brúnir síga og var heldur ófrýn undir augu að sjá. Enginn maður í baðstofunni yrti á hana, hafði húsfreyja skipað þeim griðkonum að eyða ekki mörgum orðum við hana, er misjafnt lægi á henni; þessu skipti varð því enginn fyrir reiði Þuríðar nema kisa. Þar var á bænum læða ein gulbröndótt. Þegar hinn betri flöturinn var uppi á Þuríði gömlu, lá kisa oft í rúmi Þuríðar og bældi sig við fætur hennar og malaði, og strauk hún hana þá alla frá trýni og lengst aftur á stýri og talaði við hana sem maður við mann; aftur, þegar miður lá á henni, hrakti hún kisu og hrjáði og barði hana ofan úr rúminu, svo að kisa átti þá hvergi friðland annars staðar en lengst fram á palli. Nú þótt að Branda væri allra katta vitrust um margt, var þó ekki jafnan, að hún af hugviti sínu gæti séð, í hverju skapi Þuríður kerling var í hvert skipti, og svo var að þessu sinni. Hún hafði verið einhvers staðar fram á lofti og ætlar nú að venju að hvíla sig nokkra stund í rúmi Þuríðar og labbar hægt og stillt að rúminu, leggur framlappirnar upp á stokkinn og ætlar að lyfta sér upp. En er Þuríður gamla sér tilræði kisu, grípur hún þegar annarri hendinni ofan í hnakkadrambið á kisu og fleygir henni öfugri fram á pallinn. Kisa var ef til vill ekki öllu skapbetri en kerling; hún stendur skjótlega upp aftur, hvessir fyrst augun á Þuríði gömlu og dinglar rófunni af mikilli reiði, og í því tekur hún undir sig stökk eigi alllítið og hendir sig upp í rúm til kerlingar og neglir klónum svo fast sem hún getur ofan í brekanið, eins og hún búist við, að Þuríður gamla muni ekki láta svo búið standa. Gáta Bröndu var heldur ekki röng; því jafnótt og Þuríður gamla sér, að kisa er komin aftur, fyllist hún bræði mikilli og segir: Á, ertu kominn aftur, vargurinn þinn? - og leggur um leið báðar krumlurnar ofan í hrygginn á kisu og þrífur hana í háa loft og sendir hana með miklu afli lengst fram á pall og segir: Þó ég sé orðin gömul og farin, þá get ég samt ráðið niðurlögum þínum; gæti ég eins ráðið við hyskið hérna, þá skyldi það finna til handanna á mér. Kisa réði ekki í þriðja sinni til uppgöngu á Orminum langa, í rúm Þuríðar; mun hún þegar hafa séð, að kerling ekki í þetta skipti var góð viðureignar, og labbaði nú að öðru rúmi og bældi sig þar. Um þetta leyti var húsfreyja farin að skammta, og bar ein af griðkonum askana jafnóðum frá henni og setti upp á pallskörina. Ekki hægðist Þuríði gömlu við það fyrir brjósti, og þá er hún sér fyrsta askinn koma, tekur hún í hálfum hljóðum að tala við sjálfa sig, og var það helzta umræðuefnið, að ekki mundi askur hennar koma fyrstur, slíku mætti hún venjast, að hún væri minnst metin, hún mætti muna fífil sinn fegri, að henni hefði ekki verið skammtað síðastri af fólkinu. Voru nú allir askarnir inn bornir smátt og smátt, og á meðan lét Þuríður dæluna ganga. Síðastur kom askur kerlingar, en sú, sem askana bar, rétti hann upp á skörina og kallar um leið til Þuríðar og segir:

Þarna er askurinn þinn, Þuríður gamla!

Geturðu ekki skeint honum lengra en á skörina, skitan þín, sagði kerling, heldur þú mér sé léttari fóturinn en þér, trippan þín, til að sækja hann?

Vinnukonan lét sem hún heyrði ekki, hvað Þuríður sagði, og fór þegjandi ofan aftur, en kerling bröltir þá fram úr bóli sínu og staulast fram að pallskörinni og tekur askinn og sezt síðan aftur í hnipur í rúmi sínu, tekur úr litlum stokk, er stóð á bitanum fyrir ofan hana, hrútshyrning og sjálfskeiðing, lýkur síðan upp askinum og skyggnist í hann og segir:

Hér er þá sumsé kjötsúpugutlið gamla, þunnt er þetta, drottinn minn! Þá held ég ketið sé burðugt, ójá, einn horaður hryggjarliður og ekki ljós tægja á! Þetta er þá allur skammturinn sumsé, ekki sýnist mér betur - það er réttast ég gefi því það aftur, hver veit, nema hún Sigga hafi krækt úr askinum, hún er vís til þess, ég trúi því varla, að húsmóðirin hafi ekki gefið mér nema eina bitatætluna - ég skal ekki snerta á honum, það skal sýna sig.

Í þessari svipan kom Þórdís húsfreyja innar og bar í hendinni köku og dálitlar smjöröskjur, gengur síðan til Þuríðar og segir:

Ertu búin að borða úr askinum þínum, hróið mitt?

Ónei, hann stendur þarna með því, sem í honum var, segir kerling.

Ég held þér hafi, sem von var, þótt lítið koma til miðdagsmatarins í dag, það skammtaðist illa hjá mér, og varst þú svo útundan, en taktu við, ég gjörði kökubleðilinn þann arna handa þér til að bæta það upp, borðaðu hann, Þuríður mín, meðan hann er volgur, ég kom með hann rétt af glóðinni.

Þegar Þuríður kerling sá kökuna og smjörið, tók hún heldur að hýrna í bragði, breiddi út báðar hendur og tók við og fór þegar að maula kökuna. Húsfreyja settist á kistil fyrir framan rúm Þuríðar og tók að tala við hana:

Hvernig líður þér, Þuríður mín, ertu nokkuð skárri í öxlinni en í gær?

Og heldur hef ég þolað ögn við í dag, en aldrei skilur hún við mig, heimakonufjandinn, algjörlega, fyrr en hún gjörir út af við mig, nú er hún hlaupin ofan í mjöðm, og síðan í gær er kominn þarna - finndu, Þórdís mín - stóreflis hnútur, hann er stærri en nokkurt barnshöfuð - æ! - æ! - fallega læturðu núna. Það mundi einhver, sem er hraustari en ég, kveinka sér eins mikið og ég gjöri, og verst ólmast hún í skrokknum á mér undan hverju illviðri, mig skyldi ekki furða, þó hann gjörði eitthvert skaðræðis áhlaupið bráðum.

Hefur þig nokkuð dreymt fyrir því, eða hvað var þig að dreyma í morgun? Ég heyrði það hefði sótt að þér.

Ég segi fáum frá, hvað mig dreymir, kelli mín, það tekur enginn mark á, hvað mig dreymir, nema ég sjálf, það kemur samt stundum fram seinna, og ekki kemur mér ætíð allt óvart, Þórdís mín.

Hvað var þá, sem þig dreymdi?

Og það segi ég ekki, ég get ekki sagt frá því, en svo mikið er víst, að hér kom einhver slæðingur upp á loftið í nótt; taktu nú eftir, annaðhvort er einhver skammlífur hérna á heimilinu, ellegar þess er ekki langt að bíða, að hann gjöri eitthvað manndrápsveður, það slæðist margt óhreint undan slæmu veðri, Þórdís mín!

Það er nú ekki ólíklegt, sagði Þórdís, að hann breyti sér bráðum, þar svo lengi hefur gott gengið, en það vildi ég, það segi ég satt, að hann gjörði ekki neitt áhlaupið, þangað til hann bóndi minn er kominn heim; ég veit ekki, hvernig á því stendur, oft hefur maðurinn minn farið út af heimilinu og það lengri ferðir en þessa, en aldrei man ég, að neitt hafi lagzt eins þunglega í mig eins og þessi kirkjuferð; vegurinn er þó ekki langur, en mér stendur alltaf beygur af hálsinum hérna síðan um árið, að hann Sveinn heitinn varð úti á honum.

Já, sagði Þuríður, hann var sá nítjándi, sem varð úti á honum. Það er ekki langur fjallvegur hann Hlíðarháls, en hann hefur þó séð fyrir mörgum. Síðan ég man fyrst til, hafa fjórir farizt á honum og hann Sveinn sá fimmti. Fyrst fórust þeir Tungubræður þar, Jón og Bjarni, báðir efnilegustu menn, annar var 18 vetra, en hann Bjarni var jafngamall mér - ég var þá á tvítugasta árinu - eða nokkrum vikum eldri, því hann var fæddur á þorranum, en ég kom til á einmánuði sama árið. Þeir fóru seint á stað og ætluðu hér yfir í dal, en þegar þeir komu upp á hálsinn, skelldi á þá austnorðan byl, svo að þeir villtust, en héldu sér of mikið vestur á og hröpuðu ofan í gljúfrin á Illagilinu, og þar fundust þeir fáum dögum síðar. - Nokkrum árum seinna, um það leyti, sem ég fór frá foreldrum mínum sælu þar að Holti, varð úti maður eða mannræfill á honum, sem Einar hét, það var hálf-umrenningur, menn héldu hann hefði króknað úr kulda; það var skafrenningur og harka um daginn, en ekki ofankafald, ég man það, eins og það hefði verið í gær, en þetta var linjumaður, og sama daginn fór maður neðan úr sókn um hálsinn, Jón nokkur, sem lengi var á Hamri, Ingjaldsson, og fann hann dauðan undir einu vörðubroti, en sagði ekki til hans. Það fennti yfir hann og fannst ekki fyrr en seint um vorið, eftir að alla snjóa var leyst upp, og var þá allur skaddaður og vargbitinn, en þekktist af stórum koparhnapp, sem var á nærbuxnastrengnum hans.

Því sagði ekki mannfýlan til hans?

Hann nennti sumsé ekki að gjöra sér þann krók að ganga heim að einhverjum næsta bænum undir hálsinum; þetta var líka aumingi, sem í hlut átti, og gilti einu, hvernig fór um hann; og það var sagt hann hefði látið sér um munn fara, þegar menn álösuðu honum fyrir, að hann hefði ei sagt til mannsins, að það skemmdist ekki til vorsins í fönninni. En guð borgar fyrir hrafninn, kelli mín, það fór svo fyrir honum Jóni sjálfum, að það hefur ekki enn leyst upp af honum; varst þú ekki komin hingað í sveitina, Þórdís mín, þegar hann hvarf?

Jón Ingjaldsson, nei, en mig rofar í, að ég heyrði eitthvað talað um það, að hann hefði horfið skyndilega - hvernig bar það til? Ég hef ekki heyrt greinilega sagt frá því.

Og ég man það glöggt allt saman eins og eftir því, að þú gafst mér kökuna áðan og ég er hérna á rúminu, kelli mín! Ég átti heima á næsta bæ við hann. Það var um haustið, hálfum mánuði eftir göngur, fimm heldur en sex árum eftir það, að hann Einar heitinn stautari varð úti. Hann ætlaði inn yfir háls hingað að Hamri að sækja tvo sauði; hann átti þá þar, höfðu þeir gengið með fénu um sumarið; hann fór um kvöldið frá Leiti undir rökkur í góðu veðri, það var þíða og allt marautt; já, tarna man ég, því þá var ég komin að Leiti; við sáum til hans upp undir hálsinn, en niðamyrkur var um nóttina; daginn eftir var bezta veður, þó kom hann ekki, eins og hann hafði gjört ráð fyrir; síðan var hans leitað og sent að Hamri að spyrja um hann; hann hafði þá aldrei komið þar; þeir leituðu eftir honum í þrjá daga tuttugu manns alls staðar þar, sem nokkrum manni kom í hug, en fundu hann ekki; en hátturinn hans og annar vettlingurinn fannst undir sama vörðubrotinu, sem hann Einar stautari króknaði undir.

Það var undarlegt.

Já, það þótti mörgum kynlegt, kelli mín, og engin vegsummerki sáust þar, en tveir blóðdropar sáust þar á einni hellu.

Var þá getið til, að hann hefði verið drepinn?

Nei, enginn gat þess til, að nokkur lifandi maður hefði grandað honum, en á þá leið dreymdi hana móður hans hann sem að það mundi ekki þurfa að leita að honum.

Það er margt undarlegt, sem við ber, ég hef líka heyrt annan viðburð svipaðan þessu - en guð hjálpi mér, því syrtir svona allt í einu á gluggann? Sigga mín, hlauptu ofan og gættu að veðrinu og kveiktu um leið.

Sigríður fór fram og kom von bráðar innar aftur með ljós í hendi.

Komstu út? sagði Þórdís.

Ójá, hann er allur orðinn kafþykkur allt í kring og farinn að drífa.

Það var auðséð, að húsfreyju brá við þessar fregnir, en fékkst þó ekki um; gengur hún þá inn í svefnherbergi þeirra hjóna og sezt þar, en varla hafði hún setið þar svo sem svaraði drykklangri stundu, áður öll baðstofan í einu vetfangi fór að hristast og skjálfa, svo að hrikti í hverju tré. Um þetta leyti kemur vinnumaður og smali í baðstofu, og voru þeir allir fannbarðir frá hvirfli til ilja. Vinnumaðurinn hét Hrólfur, og í því hann skýtur höfðinu upp um loftsgatið, kallar hann:

Stúlkur, ljáið þið mér sóp að ná af mér mesta klakanum, sér er hvað bölvað áhlaupið.

Hann mun ekki vera fallegur úti núna, sagði húsfreyja.

Nei, sagði vinnumaður og hristi höfuðið, hann er ekki frýnilegur, Þórdís mín. Ég hef varla komið út í verra veður í þessi tíu ár, sem ég hef verið hér, og það svo hastarlega, hann skelldi moldinni næstum því á allt í einu. Við vorum að enda við að láta inn, og á meðan ég var að láta aftur húsið, var hann kominn á með bylinn, og það er ekki frost, ég veit ekki, hvað það er, það er bölvaður brunanístingur, en ekki frost, því meðan ég skaust úr húsinu heim að bænum, frusu fötin svona á mér, og eftir því er fannfergjan.

Er ratljóst?

Biddu fyrir þér, blessuð, mér vildi það til, að ég þekki hverja þúfuna hérna í túninu, annars hefði ég ekki komizt til bæjarins, og er það ekki langt.

Hvað segirðu þá um hann Sigurð minn, er nokkur von til þess, að þeir komi lifandi af hálsinum, ef þeir hafa lagt á hann?

Ekki fyrir mínum sjónum; það er ekki spaug að vera upp á fjalli í þessu veðri, vondur er hann hér, en þó er grimmdin og veðurhæðin tvöfalt meiri á fjallinu; en þeir eru kunnugir, það er satt, og húsbóndinn þekkir hvern steininn á hálsinum - en þó þeir hafi farið á stað frá Stað, þá hafa þeir aldrei verið komnir svo langt.

Ég hugga mig nú við það, að þeir hafi aldrei farið á stað þaðan, því ég beiddi hann fyrir það að fara ekki seint á fjallið; en það verður að taka því, sem að höndum ber, sagði húsfreyja.

Við þetta hættu þau talinu. Ekki var mikil skemmtan á ferðum þar í Hlíð um kvöldið, og kom það einkum af því, að menn sáu, að húsmóðirin var heldur ókát og áhyggjumikil. Leið svo fram kvöldið og til þess menn voru vanir að ganga til svefns. Húsfreyja háttaði síðast allra. Ekki varð henni svefnsamt þá nótt, og leið svo fram eftir allri nótt, að hún ekki gat fest neinn svefn, og bar fleira en eitt til þess, það fyrst, að stormurinn og ofviðrið hristu svo alla baðstofuna, að hún nötraði eins og hrísla, það annað, að hverju sem hún reyndi að sporna á móti því, var henni aftur og aftur að fljúga í hug frásagnir þær, sem Þuríður gamla hafði sagt henni um kvöldið, og spádómur kerlingar um, að einhver þar á bænum mundi vera skammlífur. Hyggur hún nú, að ekki muni renna dúr á auga sitt þá nótt, en ætlar þó að liggja svona vakandi í rúminu, þar til dagaði. En er á að gizka fjórðungur lifði nætur, fellur hún allt í einu í fastan svefn, og dreymir hana þá, að henni þótti maður koma á gluggann yfir rúminu, sem hún svaf í, og guða, og þóttist hún glöggt kenna af málrómnum, að það var Þorsteinn og kvað vísu, og við það hrökk hún upp, og hefur hún svo frá sagt, að henni heyrðist í því hún vaknaði sem einhver renndi sér ofan baðstofuhliðina, og hefði það verið því líkast sem blaut húð væri dregin ofan eftir þekjunni. Hún mundi vísuna, sem kveðin var fyrir henni, og þótti henni sem hún heyrði eiminn af síðustu hendingunni í því hún vaknaði. Vísan er svona:

Sat ég forðum foldu á
í flokki svanna prúðum;
nú er ég dapur og dauður nár,
dauft er í Heljar búðum.

Ekki vissi húsfreyja, hvað lengi það hafði verið, sem hún svaf, en þau áhrif hafði draumur þessi haft á hana, að hana fýsti eigi að leggja sig aftur til svefns. Á lítilli hillu fyrir ofan rúm Þórdísar var dálítill stokkur með eldfærum, tundri, tinnu og eldstáli, fálmar hún nú til þeirra og freistar, ef hún mætti kveikja ljós; tekst henni það greiðlega, en síðan klæðist hún og hyggur skammt muni þess að bíða, að dagur renni; lætur hún nú biðleika við, þar til birta tók á gluggann, þá gengur hún út, og er nú hríðinni nokkuð tekið að slota, rofaði til í hálofti, en skafmold á láglendi og með fjöllum, en ekki ofankafald; virðist henni svo, að ef veðrið ekki versni aftur úr því, sem þá var, muni fært bæja á milli fyrir vel klædda og röska karlmenn; gengur hún nú til og vekur Hrólf vinnumann og biður hann klæðast sem skjótast - og vil ég, segir hún, senda þig að Hamri, og berðu Þóri kveðju mína og segðu honum, að ég biðji hann að koma hingað með þér og ætli ég að biðja hann að fara fyrir mig bæjarleið, ef fært er byggða á milli þegar fullbjart er orðið af degi. - Hrólfur klæddist snarlega. Frá Hlíð og að Hamri var örskammt og ekki lengra en stuttur stekkjarvegur. Segir nú ekki af því, fyrr en Hrólfur kemur aftur, og er þá Þórir bóndi í för með honum; þá var enn ekki orðið fullbjart; fagnar húsfreyja honum vel.

Svo er mál með vexti, Þórir minn, segir hún, að Sigurður bóndi minn og Þorsteinn fóru í gær til kirkju að Stað, og er mér grunur á, að þeir í gærkvöldi hafi lagt á hálsinn, áður en hríðinni skelldi á; þekki ég þá svo að kappi og áframhaldi, að þeir varla munu hafa náttað sig fyrir handan, einknm þar eð hríðinni laust svo seint á. Þú veizt, hver fádæmi hafa á gengið í nótt, og segir mér svo hugur um, að eitthvað muni tálma för þeirra, er þeir eru ekki hér komnir. Nú hef ég enga ró, nema þeirra sé leitað, og með því ég veit, að þú, Þórir minn, ert bæði ötull og greindur maður og hefur hingað til reynzt mér og bónda mínum vel, þá sendi ég eftir þér til þess að fara fyrir mig, ef þér sýnist ekki ófært.

Ég sé ekki betur, Þórdís mín, en að hann sé slarkandi eins og stendur, hann lítur líka heldur út til að fara dagbatnandi.

Já, sagði Hrólfur, hann er slarkandi bæja á milli, en ekki er hann almennilega fær á fjallið.

Og ekki er hann það verri á hálsinum, Hrólfur minn, hann er þar nokkuð frostharðari og veðurhærri, en undir eins og kemur ofan í hana Illubrekkn, þá á hann að vera allur hægri, ef hann er við þessa áttina.

Hvað sem um það er, þá álít ég hann lítt færan; það er vissasta markið, þegar ekki grillir í Lágafell, þá er hann ógóður á hálsinum, sagði Hrólfur og latti heldur fararinnar.

Ekki hefur mér reynzt það neitt víst mark, og hef ég verið hér í dalnum, síðan ég var á tólfta árinu, og hitt veit ég, að þegar ekki byrgir Skarðið, þá er hann fullfær, en það gjörir hann ekki núna. Ég segi fyrir mig, Þórdís mín, ég vil reyna það fyrir yður að fara, því ég get getið því nærri, að yður sé ekki rótt, þegar eins stendur á; en hvern ætlið þér að láta fara með mér? - því betra er, að það séu tveir.

Ég hef nú ekki öðrum á að skipa en honum Hrólii þarna, en ég heyri honum er ekki um að fara.

Og ekki er ég að telja það úr, sagði Hrólfur dræmt, en mér sýnist þetta, að það hefði mátt fresta því þangað til á morgun, og hefðu þeir þá ekki komið í dag, að fara þá tímanlega í fyrramálið, það er líklegt hann verði þá skárri.

Annaðhvort farðu umtölulaust eða sittu heima, sagði Þórdís og hvessti röddina, og var auðséð, að henni þótti miður, en treystir þú þér ekki út í það, sem hann Þórir álítur að vera fært, þá er ekki annað en ég biðji hana Sigríði hérna að fara, hún getur búið sig í karlmannsföt, og þá ætla ég, að það muni teygjast úr henni á við suma, sem eru í brókum.

Nú þykir mér, sagði Þórir og hló við, húsmóðirin heldur sauma að spjörunum okkar, Hrólfur minn, farðu nú og búðu þig, karl minn góður, og láttu hana ekki heyra þessi ummæli oftar.

Hrólfur gekk þá í brott, þó hálfólundarlegur, en fór að búa sig til farar, og er því var lokið, matast þeir af skyndingu og kvöddu húsfreyju og héldu á stað. Veðrið fór dagbatnandi, eftir því sem á morguninn leið, og varð allgott. Þeir héldu sem leið liggur yfir hálsinn; ekki sáu þeir neina braut eða merki þess, að þar hefði verið nýfarið, enda var snjór yfir öllu. Þeir komu að Seli og fundu menn að máli; ekki höfðu þeir Sigurður þar komið, en þar var þeim sagt, að sézt hefði til tveggja manna kvöldið fyrir, skömmu áður en hríðina gjörði, og haldið upp að hálsinum. Þeir Þórir fara frá Seli og ætla að Stað, en um leið koma við í Holti; sá bær stendur á flatlendi og mýrarflákar allt um kring með smáholtum upp úr hingað og þangað; nú var því nær jafnslétta ein yfir allt, og yddi aðeins sums staðar ofan á hæstu holtin. En er þeir félagar áttu allskammt að túninu í Holti, verður Þóri litið á holt eitt kippkorn frá þeim, og sér hann þar eitthvað standa upp í loftið í utanverðu holtinu því líkast sem stöng, er menn stundum reisa upp við brunnvakir eða vatnsból. Hann staldrar lítið eitt við og segir við Hrólf:

Hvað er það, sem stendur þarna upp utan til á holtinu, þarna sem ég bendi á?

Það er einhver stöng, sýnist mér, sagði Hrólfur, þeir í Holti hafa þar líklegast vök til að brynna í hestunum.

Þarna, nei, það getur naumast verið, það er rétt utan í holtinu, við skulum ganga þangað og sjá, hvað það er.

Þeir gjöra nú svo, og er þeir koma á holtið, sjá þeir, að þetta er göngustafur, er stendur næstum upp að miðju niðri í fönninni. Þórir gengur að stafnum og kippir honum upp, lítur síðan á hólkinn og húninn og segir:

Svo virðist mér sem einhver þau tíðindi hafi hér að borið, er margur mundi óska, að ekki hefði orðið; þetta er göngustafurinn hans Þorsteins, ég seldi honum hann í haust, og mun hann vart hafa lifandi skilið hann við sig, og segir mér svo hugur um, að hans sé ekki langt héðan að leita; en hvað er þarna á baka til við þig, þar er annar stafurinn og er næstum sokkinn í fönnina.

Þetta er stafurinn húsbóndans, sagði Hrólfur, hann þekki ég, eikarstafur með stórum hún á og látúnshólk fyrir neðan. Guð hjálpi mér, hér hafa þeir orðið úti.

Mér virðist, að hér sé ekki um mikið vafamál að gjöra, hér má leita þeirra undir skaflinum, hvort sem þeir hafa heldur grafið sig sjálfir eða þeir hafa orðið hér til og fennt. Það er ekki úr mörgu að ráða, farðu sem fljótast heim að Holti og heilsaðu ekkjunni frá mér og segðu, að ég biðji hana undir eins að senda hingað alla þá karlmenn, sem til eru á bænum, með rekur og tvö brekön; á meðan mun ég bíða þín hér, og flýttu þér nú.

Hrólfur átti skammt heim að Holti, hann finnur þar húsráðanda og segir henni orð Þóris, og bregzt hún vel við og lætur tvo verkamenn sína fara með honum, og finna þeir brátt Þóri, og hefur hann á meðan rótað til nokkru af fönninni, en finnur ekki þá Sigurð. Eftir fyrirsögn Þóris taka þeir nú að grafa skaflinn, þar sem stafirnir höfðu staðið, og er þeir hafa grafið á að geta meðalmanni í bringu, finna þeir lík þeirra Sigurðar og Þorsteins, voru þau bæði köld og stirðnuð, og eru þau borin heim að Holti. Húsfreyja, er þar bjó, var kona vitur og vel að sér og læknir góður. Hún vissi það, að hjá mönnum, sem drukkna eða verða úti, leynist oft líf furðu lengi, þó ekki finnist með þeim lífsmark, og væri þess mörg dæmi, að þeir hafi orðið lífgaðir, ef hæfileg aðferð er við höfð. Húsfreyja lætur taka bæði líkin og flytja í útihús eitt og fletta þau klæðum, en svo voru föt öll freðin, að skera varð hverja spjör utan af þeim. Síðan lætur hún færa þar inn nýjan snjó og líkin nakin lögð þar í og fengnir til tveir menn að sitja yfir. Á öðru dægri taka menn eftir, að nokkur ylur tekur að færast í líkama Sigurðar, er hann þá tekinn úr snjódyngjunni og lagður í beztu sæng og dúðaður voðum, og verður hann á þenna hátt lífgaður, en lá þó lengi þar í Holti í sárum, því hann var mjög kalinn á höndum og fótum. En af Þorsteini er það að segja, að hann varð ekki lífgaður, og var hann nokkrum dögum síðar jarðaður að Stað, og lét Þórdís húsfreyja gjöra útför hans virðulega.


4. kafli

Móðir og faðir
mjúk og ástríkur
yfirgáfu þig
á æsku skeiði,
en guð þín geymdi
og gæða fjöld,
lán og lífsfögnuð
ljúflega veitti.
                  J.H.

Eins og nærri má geta, var lengi dauft í Hlíð eftir þenna atburð. Þorsteinn hafði verið maður vinsæll, og varð hann harmdauði öllum á heimilinu og víðar, er menn höfðu nokkur kynni af honum. Þó fór hér eins og vant er, að blóðnæturnar eru hverjum bráðastar. Veturinn leið fram, og vorið nálgaðist, og smátt og smátt fóru menn aftur að taka kæti sína. Sigurður bóndi var gróinn sára sinna og varð svo að kalla alheill; raunar hafði hann orðið að láta taka af sér eina tána á vinstri fætinum, og því nær missti hann hið hægra eyrað, en slíkt er varla í frásögur færandi; missir táarinnar var honum ekki til neinnar fyrirstöðu, að hann ei gæti gengið eins óhaltur eftir sem áður; ekki verður það varið, að eyramissirinn var honum til nokkurra lýta, og gárungarnir þar í sveitinni, er sjaldan fara að lögum eða gjöra greinarmun á því, hvort eitthvað er einum ósjálfrátt eða ekki, gáfu honum kenningarnafn eftir biskupssveini þeim, sem Pétur sveiflaði forðum að sverðinu, og kölluðu hann Malkus, en það var hvorttveggja, að þeir sjaldan gengu svo í berhögg við hann, að þeir hreyfðu slíku hrópi upp í opið geðið á honum, og á hinn bóginn var hann ekki maður spéhræddur.

Sigrún litla dóttir Þorsteins heitins hafði verið mjög elsk að föður sínum og mátti varla stundu lengur af honum sjá. Fyrsta daginn eftir andlát Þorsteins var Sigrún þráspurul um, hvar babbi hennar væri, en af því menn héldu, að hún mundi verða óhuggandi, ef henni væri sagt satt frá um afdrif hans, tóku menn það ráð að skrökva því að henni, að hann hefði farið ferð suður á land, en að hans væri brátt von aftur. Þetta ráð dugði um stund, en fljótt sáu menn, að það ekki nægði til langframa. Sigrún var svo skynug, þó að hún enn væri barn að aldri, að hún varð ei til lengdar dregin á tálar með þeirri skreytni; kom þeim hjónunum því saman um að segja henni hið sanna um þetta efni; hún var búin að fá það vit, að hún vel vissi að gjöra greinarmun dauða og lífs, varð hún af þessum fregnum mjög harmbitin og grét hástöfum; en bráð er barnslund, og svo fór um Sigrúnu litlu, hún grét sárt, en gladdist skjótt og gleymdi bráðum föðurmissinum; harmur hennar var af ást og söknuði, en ekki af eigingirni, því hún vissi ekki, hvaða afleiðingar hann hafði fyrir hana og að hún var munaðarlaus, er hún missti föður síns við.

Þegar hér er komið sögunni, var það eitt skipti seint á útmánuðunum, sama veturinn sem Þorsteinn varð úti, að þau hjónin í Hlíð sátu tvö ein inni í húsi sínu á baðstofulofti. Húsið stóð opið, en engir menn voru í baðstofunni, nema Þuríður gamla kúrði þar í hinum enda baðstofu í rúmi sínu. Sigurður bóndi lá upp í rúmi sínu upp við herðadýnu og lagði olbogann á rúmbríkina og studdi hendi undir kinn og las í sögubók, er hann flettir við og við, eftir því sem hann las áfram, með þeirri hendinni, sem laus var. Húsfreyja sat á kistli, sem var á milli rúmsins og borðs þess, er var fyrir gaflinum í húsinu; hún vaf í spjöldum og hafði tekið skóinn af hægri fætinum og brugðið þar upp á slöngunni og lagt hann á annan minni kistil, er stóð fyrir framan hana; hún hélt slöngunni með annarri hendinni og hafði fingur í skili, en sneri spjöldunum og gaf í með hinni og þagði, en af áhyggjusvip þeim, sem á henni var, mátti sjá, að hún var eitthvað annað að hugsa en um spjaldavefnaðinn einungis. Þannig sat hún um hríð og vaf, en loks lagði hún slönguna frá sér, styður hönd undir kinn, en síðan yrðir hún á Sigurð bónda sinn og segir:

Ekki vil ég nú, Sigurður minn, hindra þig í að lesa þér til skemmtunar, en þó langar mig til að tala um nokkuð við þig, fyrst hér er fátt um; ég hef þessa dagana verið að hugsa um það, en það hefur hingað til ekki orðið neitt úr því.

Hvað er það, Þórdís mín? sagði Sigurður og lét bókina síga ofan í rúmið og færði sig betur upp á koddann.

Ég ætlaði að spyrja þig að, hvað þú hugsaðir fyrir henni Sigrúnu litlu framvegis. Verður hún hjá okkur?

Ég hef ekki hugsað annað en hún yrði að vera hér þetta árið, sem kemur; það er hvort sem er orðið of seint að koma henni fyrir í ár, þó einhver kynni að vilja taka hana í dvöl.

Heldurðu þá, að nokkur muni taka hana í dvöl, eins og hún er? - hún er þó ekki fullra níu áranna enn.

Nei, mér datt það nú heldur ekki í hug, Þórdís mín, í vor, eins og ég sagði, en hitt vorið verður hún tíu ára, og þá gæti það vel verið, að einhver, sem þarf að halda á léttastúlku eða til að sitja hjá kindum að sumrinu, vildi dvelja fyrir henni, því hún er orðin skollans geðuglega ötul, greyið.

Og það er hún eftir aldri, skinnið; hefurðu augastað á nokkrum þess háttar samastað fyrir hana?

Ekki hef ég nú það að sönnu sem stendur, þó þætti mér ekki ólíklegt að hann Jón í Tungu tæki hana; hún er orðin hölt og biluð, kerlingin hans, og dregur eftir sér lærið og kemst ekki út og inn um bæinn; ég held henni væri ekki vanþörf á að hafa einhvern ungling að snúast í kringum sig.

Þú ætlar þá að koma henni þar fyrir?

Það veit ég þó ekki, sagði Sigurður dræmt.

Það er sjálfsagt, sagði húsfreyja, að föðurleysingjar og munaðarlausir verða að taka allt með þökkum, sem á þá er lagt, en ekki held ég nú, að þeir, sem eiga sér einhverja betri úrkosti, mundu keppast eftir slíkum vistum, að þeim Tunguhjónum ólöstuðum, og satt er það, hart hefur hún átt hjá okkur, greyið, en þó held ég henni, ef til vill, mundi bregða við, garminum, að fara í ekki betri samastað en þar er sagður; en ef ég segði eins og mér býr í skapi, sýndist mér réttast, að við hrektum hana ekki frá okkur, á meðan hún ekki getur unnið ofan af fyrir sér sjálf. Hún er efnileg eftir aldri, barnið, en eigi hún nú að komast á flæking og fara í misjafna samastaði, þá held ég verði líkt um hana og suma aðra munaðarleysingjana, sem missa foreldra sína á unga aldri og komast á hrakning mann frá manni, enginn leggur rækt við þá, verða þeir afstyrmi til líkams og sálar alla sína ævi.

Þetta er nú sannleiki, sem þú segir, en ég hugsaði, Þórdís mín, að þér þætti nógu margt hjá okkur samt, við höfum hennar ekki þörf; öðru máli var að gegna, meðan hann Þorsteinn heitinn lifði, þá, varð hún að vera hér, því þó það væri þungt að halda hann með ómaga, þá vissirðu það, að ég vildi vinna það til heldur en missa hann frá okkur, því ekki var að tala um verkin hans og trúmennskuna - og mesti þrifnaðarmaður á heimili og aldrei óvinnandi - annars hefði ég ekki haldið hann með ómaga í sjö ár; eða voru það ekki átta ár, sem hann var hjá okkur?

Jú, hún var þriggja vetra, hún Sigrún litla, eða á þriðja ári, þegar hann fór til okkar, og nú er hún þetta á það tíunda síðan með slættinum í sumar eð var; en þar sem þú talar um trúmennskuna hans Þorsteins heitins, þá verður aldrei ofsögum af henni sagt, hann reyndist okkur stakur dyggðamaður, og við sýnum það þá í verkinu, hvað okkur hefur fundizt til handarvikanna hans, ef við rekum hana Sigrúnu litlu frá okkur, undir eins og öndin er skroppin úr honum og hann getur ekki lengur slitið sér út hjá okkur; enda held ég, að margur muni segja, að þér séu mislagðar hendur, þar sem þú leysir hvern vinnustrákinn, sem hjá okkur er nokkur ár, úr garði með stórgjöfum, en látir þér farast svo lítilmannlega í þessu.

Það er nú meira þér að kenna, að sá vani er kominn á, sagði Sigurður; en húsfreyja lét dæluna ganga og segir:

Það munu og nokkrir mæla, að hún Sigrún litla eigi að okkur föðurmissirinn, er svo illa tiltókst, að hann dó í ferð með þér, og víst er um það, að þó að ég fái það aldrei guði fullþakkað, að hann gaf mér þig aftur heilan á hófi, þá tekur mig samt sárt um dauða Þorsteins heitins, því það hefur aldrei fyrri viljað svo hraparlega til í okkar búskap, að maður hafi dáið eins voveiflega frá okkur, og mér er svo varið, að mér finnst það heldur hvöt fyrir okkur að hlynna einhverju góðu að henni Sigrúnu litlu, svo minnistætt er mér það, að guð leiddi þig aftur úr háskanum.

Um leið og Þórdís sagði þetta, brá hún svuntuhorninu um augu sér og þagnaði; bóndi sá, að henni vöknaði um augu, og segir þá blíðlega:

Þú veizt það, Þórdís mín, að ég er ekki vanur að taka fram fyrir hendurnar á þér í því, sem þú vilt gjöra; mér er ekkert móti skapi, að við dveljum framvegis fyrir henni, krakkaskinninu; ég segi þá hreppstjóranum frá því, að hann megi ekki gjöra mér sveitarútsvar fyrst um sinn; það getur ekki heitið meðgjöf, þó ég hafi útsvarið mitt svo sem í því skyni, sem ég skýt skjóli yfir hana, þangað til hún er fær um að ganga í vist.

Æ, gjörðu það fyrir mig, heillin mín! sagði húsfreyja og brýndi raustina, að láta mig ekki heyra þenna ósóma; mér er svo varið, að annaðhvort gjöri ég hlutinn eða gjöri hann ekki; ætlir þú að fara að taka með henni af hreppnum eða hún eigi að vera hér í sveitarskyni, þá skal hún ekki vera hér eina viku lengur en til krossmessu.

Hvernig ætlast þú til, að hún sé hjá okkur?

Það skal ég segja þér; ég ætlast til, að við tökum hana að okkur og breytum eins við hana og við ættum hana, og hrekjum hana ekki frá okkur, á meðan hún vill vera; hún hefur verið elsk að mér, síðan hún var svolítill angi, og ég veit ekki heldur, hvort ég ætti svo hægt með að slíta hana frá mér; þú manst, að þú hafðir gaman af henni líka, þegar hún var lítil; hún var ætíð svo flíruleg við þig og kallaði þig mömmubabba sinn.

Jæja, já, hún var ætíð skýr og skrýtin, fiðrildið að tarna, sagði Sigurður og brosti við; jæja, það er þá réttast, að við hrekjum hana ekki frá okkur; manstu, þegar við lokuðum hana niður í kistlinum hjá kettlingnum? - ha! ha! - hún var undir eins svo skynug og skýr, greyið.

Hún er það enn, mesta skýrleikstelpa og þar að auki þæg og góðlynd, ég trúi ekki öðru en að það mætti gjöra úr henni kvenmann, og eins er hún lagleg til handanna, og er þó mesta minnkun að því, hvað litla rækt ég hef lagt við að kenna henni nokkuð, en ég skal heita því að hafa meiri alúð á því; og þó við þyrftum að koma henni einhvers staðar fyrir um tíma, þá er guði svo fyrir þakkandi, að við höfum efni á því, enda höfum við ekki fyrir mörgum að hyggja eða fyrir marga saman að draga, fyrst guði mínum góðum þóknaðist að taka þá til sín, sem menn eru vanir að vilja helzt unna þess litla, sem maður á.

Við þessi seinustu orð þagnaði Þórdís um stund og gat engu orði upp komið fyrir kjökri; bóndi hennar varð þess var og sagði, um leið og hann strauk hendinni um kinn hennar:

Við skulum ekki minnast á það, gæzkan mín! Við fáum að sjá þá aftur í eilífðinni.

Verði hans vilji, sagði Þórdís nokkuð málhressari og strauk tárin úr augunum á sér, og fyrst hann blessaður fóstrar þá og annast, svo að þeir ekki þurfa með þessara veraldarmuna, hvað er þá í rauninni réttara en að verja því litla, sem við eigum, fyrir þá, sem hann hefur fengið okkur til fósturs, og það eru munaðarlausir, er engan eiga að; eða hvað ætli við mundum gjöra betur við þessar reytur en að gefa þær eftir okkar dag einhverjum, sem okkur væri hlýlegt til og væri eftir okkar geði, eins og ég vona, að hún Sigrún litla yrði?

Já, hefði hún verið drengur, sagði Sigurður og dró heldur niður í sér - en það er ekki fyrir það, hélt Sigurður áfram ræðunni og tók upp tóbakspontuna sína, leit upp í loftið og sló tappanum á bumbuna á pontunni, þó það sé lítið, sem við eigum, þá mun einhver verða til að þiggja það; þú veizt nú, Þórdís mín, að presturinn okkar hefur látið hann Sigurþór sinn heita í höfuðið á okkur, hann mun, ef mig grunar rétt, ætlast til þess, að við víkjum nafninu eitthvað, vænt'eg.

Og ég beiddi hann aldrei, góða mann, að láta heita í höfuðið á mér; hvort þú hefur gjört það, veit ég ekki.

Nei, mér gat aldrei dottið það í hug; hann mun hafa tekið það upp hjá sjálfum sér, en hitt er það, að það mun þykja töluverð virðing fyrir okkur hérna, karl og kerlingu, að hann góði maður hefur látið einkason sinn heita í höfuðið á okkur; og þeir segja það hérna í sveitinni, að það séu ekki margir, sem hann karlinn hefur í sömu hávegum og mig; þeir öfundast nú sumir yfir því, sagði Sigurður og saug mjög upp í nefið.

Já, við þekkjum það, hérna okkar á milli að segja, Sigurður minn, hvernig honum er varið, karlinum, og mig furðar ekki á því, þó hann sé blíðmáll við þig, ef það býr undir að ná í þessar reytur, sem við eigum, því ef hann getur gjört sig allan að smjöri fyrir einn lítilfjörlegan pússunartoll, þá furðar mig ekki á því, að hann sé blíður, ef til einhvers er að vinna.

Já, hvað sem sumir segja um hann góða mann, þá hef ég ekki, Þórdís mín, að segja af því, að hann hafi reynt til að fá meira hjá mér en hann hefur átt; það er satt, að hann hefur tekið við því, sem ég hef gefið honum fram yfir, en hann hefur þá ætíð sagt: Ég á þetta ekki, og stungið því í vasa sinn, sagði Sigurður, og stundum hefur hann þá gefið okkur meir en því numdi.

Það er satt, Sigurður minn, hann hefur stundum vikið okkur smálega, en sá vill ekki eiga fiskinn, sem sér eftir beitunni; og sé svo, að ekkert búi annað undir vinamálum hans, þá erum við meiri lánsmenn en sumir aðrir, en oft hefur mér dottið hitt í hug, er ég hef séð, hvað mikið far hann hefur gjört sér um að kjassa þig, að til þess yrðu refarnir að vera skornir, að hann á endanum ætlaði sér að verða skaðlaus; eða hefur hann aldrei látið þig ráða í, að hann eða hans yrðu njótandi að því, sem við eigum?

Nei, sagði Sigurður bóndi, hann hefur ekki, það ég man, nunnað að því einu orði, en hitt hefur hann stundum sagt við mig, að hann vissi ekki, til hvers við værum að búa, barnlaus og ómagalaus, það væri réttast fyrir okkur að fara til sín í húsmennsku og hafa svo sem eina kú í heyjum og nokkrar kindur, og á þann hátt gætum við átt eins náðugt og við vildum.

Og rétt segir hann, guðsmaðurinn! En það er ekki víst honum verði kápan úr því klæðinu, sagði Þórdís - en sleppum nú þessu, og svo að ég víki nú málinu aftur að því, sem við vorum að tala um áðan, þá skilst mér, að við séum ásátt um það að hrekja ekki hana Sigrúnu litlu frá okkur, á meðan hún vill hírast hjá okkur.

Og ekki mun það verða okkur að sundurþykkju, að þú fáir ekki að ráða svo litlu, Þórdís mín, sem að gefa einum ungling að éta - og ekki skal ég amast við henni hróinu.

Í þessu bili heyrðu þau hjónin, að komið var upp á loftið, og þá létu þau talið falla, en sá, sem kom upp, gengur inn í húsið til þeirra, og var það Sigrún, hún gengur þar að, sem Þórdís sat, og segir við hana:

Fóstra mín - svo var hún vön að kalla hana - hún Sigga beiddi mig að sækja til þín búrlykilinn, hún er búin að taka ofan pottinn, hún ætlar að setja hann yfir í búrið.

Þórdís þreifaði í vasa sinn og tók þar lykilinn og fær Sigrúnu og segir um leið:

Hérna, en komdu inn aftur, ég ætla að tala við þig.

Sigrún fór, en Þórdís lítur á eftir henni og segir:

Óvart kemur mér það, ef ekki liggur fyrir þessari telpu einhver hamingja, sem okkur er hulin; ekki þykist ég hafa séð telpu lánlegri á svipinn en hana, ef nokkuð er að fara eftir því; en nú er bezt, að við spyrjum hana, hvort hún vill vera hjá okkur, því vilji hún fara frá okkur, krakkinn, og heldur hún muni eiga skárra annars staðar, þá held ég ekki í hana.

Hún ber nú víst ekki mikið skynbragð á það, sagði bóndi.

Það er jafngott að vita, hvað hún segir.

Það stóðst á, að Þórdís hafði sagt þetta og að Sigrún kom aftur og var þá rjóð út undir eyru, og var það annaðhvort af því, að hún hafði flýtt sér svo mikið, eður þó heldur af því hún gjörði sér í hugarlund, að fóstra hennar ætlaði að ávíta hana fyrir eitthvað, sem henni kynni að hafa orðið á. Hún gekk þegjandi innar loftið og nam staðar við hlið fóstru sinnar, horfði í gaupnir sér og stóð þar eins og lamb til slátrunar leitt. Þórdís leit til hennar nokkuð þurrlega, en tekur síðan til orða:

Sigrún litla, sagði húsfreyja, þú hefur nú verið hjá okkur hjónunum síðan þú varst á þriðja árinu; þú hefur hingað til verið hér í skjóli hans föður þíns heitins, en nú er hann dáinn, eins og þú veizt, og okkur hjónunum er ekki skylt að hafa þig lengur; þú átt, það ég veit til, engan að, sem getur tekið þig, og þá liggur ekki annað fyrir þér en að fara á sveitina eða fara til einhvers, sem vill taka þig í dvöl; viltu í vor fara til hans Jóns í Tungu, þú þekkir hann? --- Í þessu leit hún hálfglottandi framan í Sigurð.

Ætlar þú að láta mig fara til hans, fóstra mín? sagði Sigrún og lét höfuðið slúta.

Ég læt þig þangað ekki, en þú ert nú munaðarlaus, og það getur verið, að hann vilji taka þig til að snúast í kringum kerlinguna sína, ég held hún yrði þá góð, tötrið.

Sigrún litla hélt, að þetta mundi vera alvara, að hún ætti að fara frá Hlíð, og fór nú að daprast yfir henni, en tárin tóku að hrynja ofan eftir kinnunum á henni; hún vildi ekki svara já til þess, sem hún var að spurð, en þorði ekki að neita og sagði því svo lágt, að varla heyrðist, snöktandi:

Ég veit það ekki.

Heldurðu þú getir ekki smátt og smátt vanið þig við, þó lítið verði stundum í askinum þínum?

Sigrún svaraði engu, og leit þá Þórdís framan í hana og sá, að hún var öll grátin og gat ekki komið upp orði fyrir ekka; þykist hún þá hafa gjört heldur mikið að verkum og segir nú blíðari rómi:

Okkar hjónanna þarftu ekki að sakna, og það getur þú verið óhrædd um, að ekki slær hún Ingibjörg þig, eins og ég hef gjört.

Sigrún svaraði engu, en grúfði sig með andlitið að handleggnum á fóstru sinni og lagði hægri höndina klappandi á herðarnar á henni.

En ef þú ættir kost á, sagði Þórdís, vildir þú heldur hírast hérna hjá okkur hjónunum og þola ljúft og leitt með okkur? - en þæg yrðirðu að vera.

Sigrún svarað kjökrandi: Já, fóstra mín, og klappaði fóstru sinni aftur á herðarnar; en Þórdís hélt ræðunni áfram:

Við ætlum þá ekki, skinnið mitt, að hrekja þig frá okkur fyrst um sinn, en þér mun fara eins og öðrum, þegar þú eldist og þarft okkar ekki lengur með, að þú munt vilja komast frá okkur.

Ónei, fóstra mín góð, ég vil aldrei fara frá ykkur, sagði Sigrún og tók báðum höndum um hálsinn á henni og kyssti hana.

Vertu ekki að vola lengur, garmur minn, þetta var ekki alvara, sagði Þórdís, maðurinn minn vill ekki hrekja þig héðan, meðan við getum gefið þér eitthvað að borða, kysstu hann fyrir það.

Sigrún gjörði eins og henni var sagt.

Svona, láttu mig ekki sjá, að þú sért að gráta lengur, þetta var allt gaman; heldurðu, skinnið mitt, að við viljum missa þig, sem ert svo falleg stúlka; - en fyrst ég hef nú grætt þig, Rúna litla, þá held ég verði nú að gleðja þig dálítið aftur. Þarna, ljúktu upp kistunni minni - hún réttir að henni lykilinn, en tekur sig aftur - nei, það er bezt ég gjöri það sjálf - gengur síðan að kistu, sem þar var í loftinu, og lýkur henni upp og tekur þar síðan upp dálítinn skorinn kistil og leitar um hríð fyrir sér; loks tekur hún samanvafið bréf eitt, þar var í margs konar kvensilfur; þar voru meðal annars sex ermahnappar, allra mesta gersemi, þeir voru settir gamaldags víravirki, logagylltir, og hnappur með þremur laufum.

Eigðu nú þetta, Rúna mín, ég verð að víkja þér einhverju, um leið og ég ræð þig heima; ég skal geyma þá fyrir þig, þegar þú ert nú búin að skoða þá eins og þér líkar, sagði Þórdís, um leið og hún rétti þá að henni.

Sigrún kyssti fóstru sína fyrir gjöfina og fór nú skjótt að gleðjast af henni aftur, og leið ekki á löngu, áður öll tár voru horfin úr augum hennar og andlit hennar orðið svo hýrt sem glaðasti vordagur. - Hún var nú langan tíma að skoða hnappana og hampa þeim, og varð hún að sýna þá hverjum manni, sem var á bænum, og gat ekki slitið þá frá sér, fyrr en komið var undir rökkur; fékk hún þá fóstru sinni þá aftur og bað hana varðveita. Fleira gjörðist ekki til tíðinda þann dag, og endaði hann þannig með gleði og kæti fyrir Sigrúnu litlu.


5. kafli

Gaman, gaman, gleðjumst nú,
gott er að koma á prófasts bú.
                  J. H.

Þegar menn lesa sögur, er það gömul og góð venja, að lesarinn staldri ögn við, þegar kaflaskipti verða og áður en að hann leggur út í hinn næsta kafla, ljúki af hinum bráðustu nauðsynjum sínum, til að mynda hósta, ræskja sig, taka í nefið; en heyrendur orðsins tala þá á meðan um efni sögunnar og sögumennina, lofa hreysti þeirra og afreksverk, gizka á, hvað fyrir þeim muni liggja það eftir er ævinnar. Ég efast ekki um, lesari góður, að þú hafir haft þessa reglu og staldrað dálítið við, þegar kaflaskiptin urðu síðast; en ég vildi óska, að viðstaðan hefði að þessu skipti orðið í lengra lagi, svo að þú betur gætir ímyndað þér, hvað langt er frá því, að þú skildir við sögumennina í seinasta kaflanum hér að framan, þangað til þú hittir þá aftur í þessum kafla. Það eru sumsé liðin sjö ár síðan, og þú verður að meðtaka það með trúnni sem sannleika. Á þessum sjö árum gjörðust í heiminum stór tíðindi, en vér skeytum ekki öðru en því, sem kemur við söguna, og getum aðeins þeirra atburða, sem snerta þá menn, sem hún er af gjör.

Það er þá fyrst að segja, að á þessu tímabili varð prófastaskipti þar í sýslu, kusu þá nokkrir prestar séra Sigvalda Árnason á Stað, og var hann nærri orðinn prófastur og þjónaði því embætti sem settur þrjá mánuði, tvær vikur og tvo daga, en svo atvikaðist samt, að ekki öðlaðist hann þá tign; látum vér oss litlu varða, hverjar orsakir til voru, enda höfum vér fáar sögur um embættisstörf séra Sigvalda eður hluttekning hans í alþýðlegum málum, því ekki er hans getið í Eftirmælum átjándu aldar eða Árbókum Espólíns eða kirkjusögum þeirra Finns eða Péturs; nema það sé sá hinn sami, sem nefndur er prestur til Holts; en það getur varla verið, því eftir þeim annál, sem vér höfum fyrir oss, var séra Sigvaldi Árnason á Stað aldrei prestur að Holti, og það verðum vér að hafa fyrir satt, þar til vér sjáum glögglega grein fyrir, að hann hafi nokkurn tíma annars staðar verið.

Að Hlíð urðu á þessum árum þau umskipti, að Sigurður bóndi hafði tekið að velli gömlu baðstofuna og reist hana af nýju, og má það óhætt telja einhver hin mestu tíðindi, sem orðið geta á bóndabæ; að öðru leyti stóðu þar allir steinar í stéttum, og allt fór þar fram á venjulegan hátt. - En þótt að þetta hvorutveggja, sem vér nú höfum talið, sé harla merkilegt; höfum vér samt mestar fréttir að segja af Sigrúnu Þorsteinsdóttur. Hún hafði á þessum sjö árum tekið svo miklum og margbreyttum umskiptum og framförum, að lesarinn getur varla þekkt hana aftur. Þar sem vér hættum að segja frá henni í seinasta kafla, var hún munaðarlaus tíu vetra gamall unglingur, en nú er hún orðin gjafvaxta og göfug heimasæta. Að vexti var hún orðin svo þroskuð sem meðalstúlkur, þær er náð hafa tvítugs aldri. Hún var í hærra lagi meðalkvenmaður, réttvaxin og herðabreið, miðmjó og brjóstamikil, útlimagrönn og fótsmá, handstutt, en höndin fremur holdug, svo að þegar hún rétti höndina, mynduðust smábollar fyrir hnúunum, fingurnir voru skammir og þó jafnt framdregnir og svo hvítir sem nýfallinn snjór, neglurnar litlar og gagnsæjar. Sigrún var fríð kona yfirlitum og nokkuð toginleit, hver hluti andlitsins var fagur; ennið miðlungi hátt, nefið rétt, eins og það hefði verið höggvið í marmara í Aþenuborg löngu fyrir Krists burð af myndasmiðum; munnurinn smár og varirnar fram standandi; tennurnar jafnar og hvítar, lágar og breiðar; hakan lítil og hvít með ofurlitlu skarði í. Augu hafði hún svartblá og heldur í stærra lagi. Yfirliturinn var hraustlegur og skiptist fagurlega. En þó að sérhvað í andliti Sigrúnar væri mjög svo fagurlega myndað, mundi enginn hafa orðlagt fríðleik hennar, ef það hefði ekki aukið á fegurð hennar, hversu allt í andlitinu samsvaraði hvað öðru, og svo vöxtur og hár, og hvað svipurinn var hýrlegur, viðfelldinn, fjörugur og blíður. Það var og eitt, sem mest prýðir hvern kvenmann, að hún hafði svo mikið hár, að það tók ofan fyrir kné, er hún stóð upprétt, og vel gat hún fléttað það og brugðið fléttunum um mitti sér,, svo að saman næði, en þá var eigi sá siður að fjötra fagra lokka, heldur láta þá leika sér lausa. Eins og Sigrún hafði tekið framförum að vexti og vænleik, eins hafði henni fleygt fram í allri kunnáttu og kvenlegum íþróttum. Frá því að þau hjónin í Hlíð urðu ásátt um það að taka Sigrúnu að sér, hafði Þórdís lagt alla stund á að manna hana, kenndi hún henni sauma og matreiðslu, sem tíðkast á bóndabæjum, og með því að Sigrún var bæði góðum gáfum gædd og á hinn bóginn hlýðin og ráðþæg við fóstru sína, kom svo, að hún í þessu fékk þær framfarir, að hún þótti um flest jafnoki heldri bændadætra eður meira. En eftir því sem Þórdís sá, hversu vel henni heppnaðist að mennta Sigrúnu, þess meiri alúð varði hún til að frama hana í öllu og lagði jafnframt svo mikla ást á hana, að hún gat varla séð af henni stundu lengur; lét hún hana nú jafnan vera sér við hönd, en hlífði henni við öllum stritverkum, nema þegar eitthvað þurfti fljótlega til að taka, en hélt hana jafnan sæmilega í klæðum, enda var Sigrúnu eins varið og flestum ungum stúlkum, þeim er hafa fengið þá hugmynd kvenna, að þær muni ekki vera í tölu hinna ófríðustu, að hún hafði gaman af því að snotra klæði sín og láta þau fara laglega og sérílagi á mannfundum, og var hún þá jafnan á íslenzkum búnaði vönduðum, sem fóstra hennar gaf henni. Hvern dag var hún svo búin, að hún var í vaðmálspilsi bláu, skósíðu, klæðisupphlut dökkum með silfurmillum á og reimuðum saman að framanverðu, og þar utan yfir var hún í prjónapeysu blárri, nærfelldri, og að framan var krækt með krókapörum, en þó voru nokkur, er hún sjaldan krækti, það voru þrjú efstu pörin, annaðhvort af því hún þoldi ekki að þrengja svo að sér, eða hitt, að hún hirti ekki um, þó að brjóst hennar tækju sig svo út sem unnt var; hún hafði dökkbláa húfu á höfði með svörtum silkiskúf, sem jafnan féll ofan með hægri vanga hennar og nam við öxlina. Hárið lét hún oftast leika laust niður um herðarnar en stundum brá hún á það lykkju upp undir húfuna að aftanverðu, og fell þá tvöföld lykkjan ofan um herðarnar. - Það var tvennt, sem Þórdísi húsfreyju þótti vanta á menntun og kunnáttu Sigrúnar fóstru sinnar, svo að hún væri eins vel að sér í öllu því, sem þá var tíðkanlegt að kenna ungum stúlkum, þeim er kallaðar voru góðir kostir. Það var eitt, að hún kunni ekki pellsaum og blómstursaum og útsaum, og hitt annað, að hún kunni ekki að draga til stafs. Þetta treysti Þórdís sér ekki til að kenna henni til fullnustu, og með því engir bæir voru þar í grennd, er svo stæði á, að þessar listir yrðu numdar þar, nema á prestsetrinu Stað, tóku þau hjón það ráð að koma henni þangað um tíma hjá prestskonu, er var annáluð fyrir hannyrðir og bókmenntir, og þar eð allgóð vinátta var með því Hlíðarfólki og prestskonu, var máli þessu vel tekið, og skyldi Sigrún fara að staðnum um aðventuleytið og vera þar fram á vorið eða svo lengi sem þurfa þætti, og var hún flutt þangað á ákveðnum tíma og var þegar sett við sauma.

En nú verðnm vér að geta þeirra manna, sem þá voru á staðnum, og lýsa þeim fyrir lesendunum; vonum vér þá, að þeir þekkist betur af sögunni. Fyrst skal frægan telja, og það er prestur, hann hét séra Sigvaldi Árnason, eins og áður er greint. Séra Sigvaldi hafði lært í Hólaskóla og var útskrifaður þaðan árið 17..; sama ár var hann vígður, og gjörðist hann fyrst aðstoðarprestur hjá föður sínum og hélt því embætti þar til faðir hans andaðist árið 17..: var honum þá veitt brauðið að Stað og gengu um það ýmsar sögur, með hverjum atburðum það hafði orðið. Aldrei þótti séra Sigvaldi neinn afburða kennimaður, enda sögðu kunnugir hann fremur æfa sig í að lesa ræður, með hvaða hönd, sem þær væru ritaðar, en í því að semja þær sjálfur; að öðru leyti var hann allárvakur í prestsembættinu og húsvitjaði næstum hvert ár; en sá var munur hans og annarra presta um þær mundir, að hann lét aldrei neinn mann skjótast undan fræðalestri fyrir brennivínspela - því slíkar syndir verða ekki af þvegnar, sagði hann, nema með þriggja pela flösku eða heilu ríkisorti að minnsta kosti. Sigvaldi prestur var maður vel auðugur af jörðum og lausafé og öllu, sem til bús heyrir, nema bókum; af þeim var hann ekki ríkari en millum húsgangs og bjargálna. Hann átti nauðsynlegustu húslestrarbækur og Biblíu og Nýjatestamenti, en fræðibækurnar voru ekki til í hans eigu aðrar en gamall Núkleus, skrifaður Dónat og fáeinar ævagamlar skólaskruddur eða réttara sagt miðstykkið úr þeim, því á flestar vantaði bæði tálknin og sporðinn. Nú þótt að séra Sigvaldi hvorki væri neitt afbragð í stólnum eður stundaði mjög bókmenntir, luku samt allir upp sama munni um hann, að ekki þyrfti að frýja manninum vits, og þá er hann átti í skiptum við aðra menn, vannst honum oftast á við þá, er áttu fleiri bækur en hann, einkum ef um fé eða jörð var að deila. Hann var maður blíðmáll og kallaði jafnan þá, er hann átti í tali við, vin sinn, en ef það var kona, sagði hann jafnan: ljúfa. Sigvaldi prestur var maður lágur vexti og þrekvaxinn. Á yngri árum hafði hann verið ljós á háralit og rauður á kampa. Nú var hann orðinn sköllóttur næsta, en kamparnir stóðu eftir og þó harla gráir fyrir hærum. Hann var grannleitur og fölleitur, varaþunnur og nefbjúgur og um flest heldur óálitlegur nema til augnanna, þau voru dökkblá og allsnarleg og hefðu átt betur við að sitja í einhverju öðru höfði, hefði ekki nokkurs konar lymskusvipur skinið út úr þeim. - Kona Sigvalda prests hét Steinunn; hún var nær því fimmtíu ára gömul; það var góð kona og hæglát og vel að sér um flest. Hún hafði á yngri árum verið fríð sýnum. Hálfbróður átti hún, þann er Þórarinn hét, og var þeirra svo mikill aldursmunur, að hann var aðeins tuttugu og tveggja ára. Þórarinn hafði alizt upp hjá mági sínurn séra Sigvalda, og tók hann við arfi hans og lét setja Þórarin til mennta í Hólaskóla; dvaldi hann þar fimm vetur og var nú útskrifaður; fór hann þá heim til mágs síns og var með honum þenna vetur, og var það almæli, að séra Sigvaldi mundi taka hann fyrir aðstoðarprest, þá er hann hefði aldur til fengið. Þórarinn var fríður maður sýnum, hár maður vexti og þrekinn að því skapi, réttleitur og breiðleitur, svartur á hár og dökkbrýnn, munnfríður og nokkuð nefstór og þó réttnefjaður, hann var fagureygur, rjóður í kinnum og að öllu hinn mannvænlegasti. Þórarinn var maður einarðlegur, þó fálátur nokkuð og seintekinn þeim, er honum voru ókunnugir, en ræðinn og alúðlegur við alla þá, er tóku að kynnast honum. Hann var glaðvær og smáskemmtinn, en þó fáskiptinn á heimili; þótti hann jafnan koma fram til góðs, ef hann hlutaðist til um nokkuð. - Þar á staðnum var stúlka ein, sem Guðrún hét og bróðurdóttir prests; hafði faðir hennar verið lögréttumaður, en að móðurinni var hún ættuð úr Hrútafirði. Guðrún var uppfóstruð á Staðarbakka hjá presti þeim, er þar var, en er hann deyði, var hún nær tvítugu; fór hún þá vistferlum til séra Sigvalda, og tók hann um leið við fjárforráðum hennar, því hún átti eignir nokkrar þar nyrðra, og var hún síðan á staðnum; og með því kona séra Sigvalda var farin að eldast og hafði aldrei verið mikið löguð fyrir búskap, gjörðist Guðrún ráðskona þar á staðnum og þótti jafnan ötul og rösk, og fyrir þá orsök var hún í miklum dáleikum hjá séra Sigvalda, er hann var búsýslumaður mikill. Guðrún hafði á yngri árum verið talin með fríðari konum, og þó að hún nú væri komin yfir þrítugt og farin að fella fegursta æskubrumið, varð þó ekki annað sagt en að hún enn þá væri fulleiguleg kona, nema hvað vöxtinn snerti, hann var fremur óliðlegur, er hún var öll jafndigur og nokkuð luraleg á velli; hún var fótstór og óliðleg til handanna og hendurnar jafnan rauðar og sem bólgnar væru. Kenningarnöfn átti Guðrún sér, og var hún ýmist kölluð Staða-Gunna eða Presta-Gunna, og var það dregið af því, að Guðrún hafði jafnan verið á Stöðum og hjá prestum.

Eftir að vér nú stuttlega höfum getið hinna helztu manna, sem voru á prestsetrinu, þykjumst vér ekki geta leitt hjá oss að drepa nokkuð á húsaskipun á staðnum, því það er stundum eins nauðsynlegt fyrir lesanda að þekkja vel afstöðu og leg þeirra staða, þar sem sagan gjörist, eins og að þekkja sögumennina sjálfa. Staðurinn var allvel húsaður, eftir því sem þá var títt á landi hér. Húsin voru að sönnu flestöll orðin nokkuð forn, og séra Sigvaldi hafði látið reisa þau á fyrstu prestskaparárum sínum, en öll voru þau þó vel stæðileg, því þau höfðu verið gjör af góðum efnum, enda var það þá tízka að reisa hús sterk og rambyggð og meira löguð til hlýinda en til fegurðar einnar, sem nú á tímum er tíðara. Bæjardyrnar sneru gegn hásuðri, og höfðu menn það fyrir víst dagsmark, að þegar sólargeislann lagði inn um dyrnar og inn á mölunarkvörn þá, er stóð hægra megin inn frá dyrum, að þá væri rétt hádegi. Fyrir bæjardyrum var standþil sterklegt og í bæjarhurðinni stór koparhringur, sem tekið var í, þegar loka skyldi eða upp ljúka; þvers fyrir ofan hurðina að utanverðu var felld dyrafjöl, stóð þar á skorið með rómverskum tölustöfum ártalið, nær bærinn hafði verið reistur síðast. Upp á bæjarbustinni stóð stöng á að gizka álnar há, á henni var veðurviti, það var spjald lítið, er snerist um járnmöndul, sem var efst upp úr stönginni; spjaldið var gagnskorið og innan í nafn prests skammstafað. Spjaldið snerist eftir vindi, og tísti hátt í, þegar hvasst var, og sögðu gárungar, að fé væri jafnan fóstra líkt, því spjaldið hefði sama tónunarlag sem prestur, og drógu það af því, að séra Sigvaldi var veikraddaður. Bæjaranddyrið var hér um 5 álna langt frá dyrum, inn af því gengu dyr til beggja handa, voru aðrar að stofu; hún var í þremur stafgólfum. Á þeirri hlið stofunnar, sem sneri út að hlaðinu og til suðuráttar, voru tveir glergluggar, og þar undir stóð stórt borð og sinn stóll hvorum megin með leðursetum. Bakhluti stólanna var mjög hár og mundi hafa tekið hverjum meðalmanni í hnakkagróf, er hann sat; fyrir gaflinum í stofunni var skápur stór opinn, í hann var raðað ýmislegum borðbúnaði úr tini og leiri. Að norðanverðu í stofunni héngu tvö myndaspjöld, og fyrir miðjum vegg sama megin stóð dragkista ein mikil úr eik og tók nær því upp undir loftið; fyrir framan dragkistuna stóð stór fatakista, og fremst í horninu var skápur læstur. Hinum megin úr anddyrinu var inngangur til skálhúss; það var og í þremur stafgólfum; það var og þiljað, en ekkert fjalagólf í, og á þeirri hliðinni, sem vissi út að hlaði, voru nokkrir kringlóttir skjágluggar. Í skálhúsinu sváfu vinnumenn prests, og var rúmum þeirra skipað þar með báðum hliðum. Inn frá anddyrinu og beina stefnu úr bæjardyrum lágu göngin, og var skammt að ganga, þar til að komu sínar dyr á hvora hönd, gengu aðrar að búri, en aðrar að eldhúsi, er þar voru hvort á móti öðru. Hér um bil fjórar álnir fyrir innan þessar dyr þrutu göngin, og var þá gengið á baðstofugólf mitt rétt við loftsuppganginn. Baðstofan var stórt hús og allsnotur. Niðri á gólfinu var vefstaður gagnvart baðstofudyrum, og í öðrum enda baðstofu, til hinnar vinstri handar, var gestaherbergi og í tvær hvílur; en í hinum endanum var herbergi í tveimur stafgólfum, vel þiljað. Það hafði verið ætlað fyrir svefnherbergi fyrir gesti þá, er þóttu í heldri manna röð, og voru þar tvö rúm, en þá hafði Þórarinn mágur séra Sigvalda þar aðsetur sitt og svaf þar um nætur. Sá helmingur baðstofuloftsins, sem vissi til austnorðurs, var ætlaður fyrir vinnufólk, og sat það þar á kvöldum við vinnu, en griðkonur sváfu þar einar á nóttum, en vinnumenn í skála. Í hinum enda baðstofu var fyrst hús dálítið í einu stafgólfi, og voru í því tvö rúm, sitt hvorum megin; í öðru svaf Guðrún ráðskona, en í hinu sváfu sjaldan nokkrir nema við og við aðkomukonur; í því var Sigrún látin sofa, meðan hún var á staðnum. Innar af þessu húsi var annað herbergi, það var á að gizka hálfu stærra en hið fyrra; það var herbergi þeirra hjóna, í því voru tvö rúm, sitt við hvora hlið og ekki allskammt á milli, því annað stóð sem fremst verða mátti, sunnan til í loftinu, en höfðalagið á hinu náði út að stafnglugga þeim, sem á var baðstofunni. Fyrir framan höfðalagið á þessu rúmi og rétt undir glugganum stóð dálítið borð örskammt frá rúminu. Þegar séra Sigvaldi var að skrifa, sat hann á stól hinum megin borðsins; en oftast, er hann var í baðstofu, var hann vanur að sitja á rúmi sínu og halla sér stundum upp að höfðalaginu og reykja af tóbakspípu, en fyrir framan hann á borðið var sett glóðarker, og kveikti hann þar við í pípu sinni, er hann þurfti, og til þess að prestur því betur gæti talað við komumenn eður aðra, sem hann vildi ræða við, var við fótabrík rúmsins settur stóll og þar á ofan lögð flossessa, er gestir skyldu sitja á. Engin hurð var fyrir dyrum þeim, sem voru á millum herbergjanna. Í fyrstu hafði þó verið þar hurð á járnum, en einhvern tíma bar svo við, að skráin geggjaðist og lykillinn týndist, og fórst það jafnan fyrir, að við það væri gjört; var hurðin síðan svona skráarlaus um hríð, en loks lét prestur með öllu taka hana í burt og bar það fyrir, að kötturinn hlypi oft um nætur milli herbergjanna og skelldi þá hurðinni svo hart, er hann træðist út eða inn um dyrnar, og gjörði þeim, sem svæfu þar í herbergjunum, hið mesta ónæði.

Það var venja þar á staðnum á vetrum, að jafnan var sofið í rökkrum nokkra stund fram yfir dagsetur eða lengur, og lá þá hver í sínu rúmi. Prestskona var svefnstygg mjög, og var hún því vön að leggja sig upp niðri í húsi bróður síns, og þótti henni trúrra um, að hún ekki heyrði þar neinn hávaða, á meðan hún væri að festa svefninn, heldur en ef hún svæfi upp á loftinu. Sigrún var og vön rökkursvefni, og lagðist hún jafnan í rökkrinu sem aðrir í rúm sitt í fremra loftherberginu. Það var eitt kvöld, fáum dögum eftir að hún var komin að staðnum, að hún hafði lagt sig þar út af. Allir fram í baðstofunni voru fast sofnaðir og hrutu. Sigrún grúfði sig niður í rúmið og hafði breitt brekanið ofan á sig og snerist til veggjar og reyndi til að sofna. Guðrún sat enn inni í húsi þeirra hjóna, en prestur gekk þar um gólf og reykti, en húsfreyja var gengin að venju að sofa niðri í húsi, og var þá vel hálfrokkið. Sigrún getur nú fyrst um sinn ekki fest svefn, og líður svo nokkur stund, að hún liggur vakandi; tekur hún þá eftir því, að prestur gengur fram í húsdyrnar og stendur þar við um stund, og þykir henni því líkast sem hann hlusti eftir nokkru, en síðan gengur hann innar í húsið og sezt á rúm sitt, en Guðrún ráðskona situr þar á stól fyrir framan rúmið; heyrir Sigrún þá, að þau prestur og Guðrún taka tal saman og þó lágt. Sigrúnu var eins varið og mörgum öðrum, að hún hafði nokkurn snefil af forvitni, og fýsir hana að heyra, hvað umræðuefnið muni vera. Henni dettur það þá í hug, að hún hafði tekið eftir því, að úr þilinu við höfðalag hennar var fallin dálítil fjöl, og stóð rifan eftir opin; hún ýtir sér nú hægt og hægt að rifunni og leggur eyrað við hana, en þó ekki væri talað hærra en í hálfum hljóðum, heyrir hún samt öll orðaskil og samhengi þess, sem talað er, og var það upphaf ræðunnar, að prestur segir við Guðrúnu:

Sofa allir hérna fram á loftinu, systir?

Það heyrist mér, bróðir minn góður, sagði ráðskona.

Hum, hum, sagði prestur, og eins hún þarna Hlíðarpíkan fram í húsinu?

Og það held ég, ekki heyrist mér betur, svaraði ráðskona.

Ég verð þá, Guðrún systir, að segja þér fréttir af því, sem ég einhvern tíma hef minnzt á við þig; við Þórarinn minn áttum nú í fyrsta skipti tal saman í gær um hitt.

Já, já, og hvað sagði hann? sagði ráðskona nokkuð þurrleg.

Við sátum lengi tveir einir fram í stofu og töluðum fyrst svona á víð og dreif - hum, hum, er glóðarkerið hérna? - og seinast hné ræðan að því, sem ég oft hef ætlað mér að tala um við hann; ég lét hann ráða í, hvers hann kynni að mega vænta, ef hann vildi fara að mínum ráðum; sumsé, að ég mundi ekki vera ófús á að taka mér hann fyrir kapelán og fá honum helming hérna af staðnum til ábúðar, allt að þriðjungi af öllum föstum tekjum og fyrir extraverk eftir samkomulagi, þó með því skilyrði, að hann reyndist mér sem hlýðinn og auðsveipur sonur - hum, hum - og ætti þá stúlku, sem mér væri ekki á móti skapi, efnagóða, honum að öllu samboðna, ráðsetta og reynda - hum, hum, taktu eftir - utan húss og innan í hverju, sem er; ég þarf ekki að segja þér, við hverja ég átti; það hefur lengi verið hugur minn að koma því svo í kring, að þú fengir viðunanlega giftingu, þegar þú ferð úr mínum húsum.

Guðrún saug upp í nefið og mælti: Já, þér hafið nú lofað mér því fyrri, og hvernig tók hann undir - fálega?

Þetta kom, eins og þú getur nærri, flatt upp á hann, hum, hum, hann tók þó af engu og játaði heldur ekki neinu, en engin eik fellur við fyrsta högg; ég bauð honum að láta þetta vera svona fyrst um sinn, hann skyldi hugsa sig um, en þó yrði allt að vera skellt og fellt fyrir fardaga í vor sökum jarðarinnar, ef hann hugsaði upp á búskap í ár; ég er farinn að letjast að þjóna þessu örðuga, vesæla og mér í mörgu tilliti óhallkvæma brauði, hum, hum, og því sagði ég honum, að ég hefði ásett mér að fresta því ekki lengur að taka einhvern geðfelldan mann mér til aðstoðar; sjálfsagt léti ég hann njóta þess fremur en aðra vandalausa, ef hann vildi fylgja mínum ráðum, en hann yrði að segja annaðhvort af eða á í seinasta lagi fyrir messur - hum, hum.

Nú, ég kalla hann eigi þá að fá nægan umhugsunartímann, fyrst þetta á að bíða fram á mitt sumar, sagði Guðrún og þó nokkuð þurrlega, mér hefði sýnzt, að hann gæti bráðum sagt annaðhvort og þér jafnvel, bróðir minn, skipað honum það.

Vertu þolinmóð, systir góð! Flas er ekki til fagnaðar; ég hef skoðað þetta allt vel - hum, hum - ég þekki Þórarin mág og hvernig hann er skapi farinn, það tjáir ekki að beita hörku við hann, hann er þrár, þybbinn, ef geyst er farið að honum; hann lætur oft til leiðast með góðu; hann vill athuga sjálfur, hvað hann gjörir, áður en hann framkvæmir; en ef mig grunar rétt, þá mun sú raunin á verða, að hann á endanum gengur ljúft að öllu; hann mun sjá, hvers hann fer á mis, ef hann hafnar því, sem hann á kost á, og hvað er í aðra hönd, ef hann vill fylgja mínum ráðum, tekur hér við og á þig; en skoða þú nú til, systir, viljugan er hvern bezt að kaupa, við vinnum þetta með laginu - hum, hum - hinu er beitt, ef á þarf að halda, hum, hum.

Þér sögðuð það líka um árið, viti menn, þegar það kom til orða um okkur Jón, en hvernig fór, það dróst og dróst og beið og beið, og þér ætluðuð að vinna hann með laginu, og seinast varð ekki neitt úr neinu, eins og ekki var heldur við að búast, þegar aðrir fengu tíma til að komast í brauðið.

Annað mál var það, sagði prestur, hann átti aldrei að vera annað en varaskeifa, og hverjum var það að kenna, að það dróst í sundur? Þú varst aldrei áfram um það að eiga hann, með fleiri ógreindum orsökum - hum, hum.

Ég hefði þó átt hann á endanum, held ég, og hvernig fer nú, ef Þórarinn þakkar yður fyrir góð boð?

Hum, hum, hvar er glóðarkerið? - Vertu óhrædd, systir, þetta fer öðruvísi en þú heldur; ég tók Þórarin minn, þegar hann var á tíunda árinu; ég hef kennt honum að hlýða, og það er ekki ofsögum sagt, þó ég segi: Það, sem hann er, á hann mér að þakka.

Og það held ég sé óhætt að segja, nokkru hafið þér upp á hann kostað, ætli það sé ekki svo?

Ójú, það væri samtals nokkrir skildingar - hum, hum - ef ég reiknaði það; ég hef það einhvers staðar hjá mér ógleymt; fyrst uppeldið, þar næst meðgjöf með honum í heimaskóla í tvo vetur, 10 krónur hvort ár og 10 fjórðungar smjörs.

Og hvað var hann lengi í skóla?

Það voru fjórir vetur, þar gaf ég með honum árlega 6 sauði gamla og tíu fjórðungana, ítem talsvert til bóka, hestafóður, föt og sérhvað, að ótöldu ýmsu smálegu, allvæn reiðtygi, ítem smásendingar og lítilræði í hans skyni til húsfrúarinnar með meiru, hum, hum. Fyrir reglu sakir hef ég það allt uppskrifað, vona ég, en ekki af því, að ég ætli að láta hann borga mér það aftur, sem ég hef til hans kostað, ef hann hallar sér hér að og á þig, að öðrum kosti skal hann verða að borga mér hvern pening - en hvar á hann að taka það, hróið, bláfátækur maður - eða sýnist þér það ósanngjarnt?

Nei, það held ég engum geti sýnzt.

Sér þú þá ekki, systir, að honum er nauðugur einn kostur að ganga að því, sem ég býð - en hver er þarna að rumska fyrir framan? - mér heyrist einhver vera vakandi.

Ónei, það er Hlíðarstelpan, hún lætur svona í svefninum, verður hún hér lengi?

Fram yfir sumarmálin, held ég, konan mín hefur tekið hana; þau Hlíðarhjónin hafa beðið að lofa henni að vera hér um tíma, hvernig fellur þér hún í geð?

Ég skipti mér ekki af henni, ég sé hún situr þarna hjá húsmóðurinni eins og uppstrokinn köttur og tekur ekki hendi sinni til neins nema að fitla eitthvað við sauma, það er nú lag á því.

Hún fór hingað til þess að komast eitthvað niður í þess háttar, mér var samt, satt að segja, ekkert um hérveru hennar, þó það yrði svo að vera, fyrst þau mæltust til þess; því er svo varið, að ég má ekki afsegja þeim Hlíðarhjónum um það, sem þau mælast til.

Ég hef séð það fyrri, að þér viljið ekki gjöra þeim mikið til miska.

Ójá, það hefur verið fremur hlýlegt milli mín og Hlíðarfólksins, sagði prestur og lét eins og hann vildi eyða þessari nmræðu, sér í lagi hans Sigurðar míns og mín. Monsér Sigurður er ætíð dáindis karl, hann geldur ætíð reiðilega tíundir og ljóstollinn í ull og tólg eða öðrum góðum aurum; ítem offur í góðu lagi - hum, hum.

Það eru nú fleiri, sem standa í skilum við yður, og hafið þér þá sarnt ekki í öðrum eins hávegum og dekri og það Hlíðarfólk; ég hef aldrei getað skilið í þeirri vináttu, sagði Guðrún.

Sérhvað á sína orsök, það getur verið mér hafi einhvern tíma dottið fleira en eitt í hug, systir; það stendur svo á því, ég verð að viðra þau upp, hver veit, nema ég eða mínir einhvern tíma kynni að geta haft einhvern hag af því, þegar fram líða stundir.

Hvernig þá eigið þér við?

Ég segi þér ekki frá því núna - réttu mér glóðarkerið, systir, svona, það er lifandi; - þau eru vel efnuð, ítem er mér grunur á, að monsér Sigurður minn lumi á nokkrum skildingum, og svo eiga þau þenna jarðarpart.

Já, þetta veit ég nú, sagði Guðrún.

Og barnlaus, ljúfa, eiga enga erfingja nema bláfátæka útarfa, sem lítið hafa að gjöra með peninga eða jarðir; mér hefur dottið í hug, að það gæti lánazt, að þau arfleiddu drenginn hann Sigga minn, og því heitir hann í höfuðið á þeim Sigurði og Þórdísi, eins og þú veizt, systir.

Heitir hann ekki raunar eftir Sigurði sæla afa okkar og Þóru ömmu okkar?

Það getur verið, að svo hafi í fyrstu verið til ætlað, en ekki vita þau hjónin í Hlíð annað en hann heiti í höfuðið á þeim. Nú hef ég sagt þér, hvernig í öllu liggur; það er þetta tvennt, sem ég ætla að koma í kring, áður en ég skil hér við: að hann Sigurþór minn gæti orðið aðnjótandi reytanna þeirra þar í Hlíð, því þá hefur hann heldur eitthvað að að hverfa með þessu litla, sem hér er til, og að sjá þér borgið, að þú fengir viðunanlega gifting, hum, hum, sem ég álít vera, ef Þórarinn mágur minn á þig. Það getur orðið vænn og duglegur maður úr honum, og ég ann þér þess vel fyrir langa og holla þjónustu - hum, hum - og frændskap, en nú látum við þetta vera svona að sinni; en það þykist ég vita, að þú reynir til svona heldur að hæna hann að þér - hum, hum - og þarf þér ekki ráð að kenna, kvenþjóð; eða hvernig er hann í viðmóti við þig? - ljáðu mér glóðarkerið.

Hérna! - hann er þurr, skelfilega þurr.

Þú verður að viðra þig upp við hann, ítem, það er sömuleiðis, komdu þér við hann Þórarin mág minn, hann er eins og aðrir, glaðvær í rökkrunum; - en nú held ég sé bezt þú farir að kveikja, ég heyri þær eru vaknaðar, stúlkurnar fram á loftinu.

Við þetta létu þau talið niður falla; Guðrún ráðskona gekk fram á loft og tók að kveikja og bar síðan ljós inn í herbergi þeirra hjóna. Sigrún hafði ekki sofnað í þessu rökkri, en er Guðrún gekk um húsið, lét hún sem svefnlegast, og grunaði Guðrúnu ekki, að hún hafði heyrt viðtal þeirra prests, enda gat Sigrún þess ekki við nokkurn, hvers hún hafði orðið áskynja.


6. kafli

Fyrst er sjón, og svo er tal,
svo kemur hýrlegt auga;
þar næst ástar fagurt fal
Freyju hefst við bauga.
                  S. P.

Það bar til einn morgun, skömmu eftir viðtal þeirra prests og Guðrúnar, að prestur rís snemma úr rekkju og lætur söðla hest sinn og ríður að bæ einum þar í sóknum að þjónusta gamalmenni nokkurt. Guðrún ráðskona var enn niðri við búverk, en húsfreyja var setzt við sauma á rúmi sínu, og var enginn þar í húsinu nema hún og Sigrún. Sigrún var nýlega komin á fætur. Henni voru ekki ætluð nein ullarverk eða innanbæjarstörf, og var hún því ekki vön að rísa fyrr úr rekkju en undir það, að saumabjart fór að verða. Hún sat á stól við höfðalag á rúmi húsfreyju nálægt glugga þeim, er þar var á baðstofuhliðinni, og lét húsfreyja hana sitja þar fyrir þá sök, að hún vildi hafa hana sem næst sér, svo að hún við og við gæti litið eftir því, hvernig henni færist úr hendi það, sem hún var að láta hana sauma, og sagt henni til þess, er henni þurfa þótti. Þær prestskonan og Sigrún voru allkátar og ræddust við um hitt og þetta, og bar margt á góma. Þess er getið hér að framan, að Sigrún var hverri konu fríðari og vænni að vexti og yfirlitum. En þó að hún jafnan væri fríð, leit nú samt að þessu skipti svo út sem hún væri langtum fegri og gjörvulegri en hversdagslega. Í drápu þeirri, er hinn blindi bragsmiður Hómer hefur ort um Ódysseif konung borgarbrjót, segir svo frá, að jafnan, er Ódysseifur konungur kom á mannamót nokkur eður þar, sem fyrir voru gjafvaxta meyjar eða heldri manna konur, steypti gyðjan Aþena yfir hann mikilli fegurð og gjörði hann jafnan stærri og mannborlegri en hann átti að sér, svo að menn fengju þokka á honum, greiddu erindi hans og gjörði farir hans góðar. Ekki er ólíklegt, að svo hafi verið, að Sigrún hafi átt að eitthvert verndargoð, er á líkan hátt og Aþena hafi aukið fegurð hennar, ef á lá; þó höfum vér þess ekki sannar sögur, og sýnist oss því réttara að telja þær orsakir, er vér hyggjum, að verið hafi til þess, að hún að þessu sinni virtist að vera fegri og fríðari en hún var vön að vera. Það er þá fyrst að telja, að Sigrún var nýrisin úr rekkju eftir hægan og sætan svefn, og því var hún, eins og allar rósir, fegurst að morgni dags. Það teljum vér þá, að hún hafði baðað hendur og andlit úr köldu vatni, en vatnið styrkir, lífgar og endurfæðir, og þó sólin ætíð sé fögur, sýnist mönnum hún samt aldrei skína jafnskær eins og þá hún er nýstigin úr Ránarlaug. Hið þriðja, sem studdi að því að gjöra Sigrúnu sem fegursta í þetta skipti, var það, að hún lét hárið falla laust, sem því var lagið, ofan um herðar og axlir, og ekkert prýðir fagra konu meira en fagurt hár, því það er eins og blómið á rósakollunum eða laufið á eikinni, sem breiðist út og blaktir í sunnanvindinum. Húsfreyja tók eftir því, að Sigrún var venju fremur glæsileg ásýndum, og gat ekki gjört að sér að stara á hana um stund, en segir síðan brosandi:

Þú ert einhver blómarós í dag, Sigrún litla; hefði ég verið ung og átt unnusta að fagna, þá hefði ég viljað líta svona út eins og þú núna.

En rétt í því að prestskona sleppti síðasta orðinu, gekk maður inn í húsið, það var Þórarinn stúdent; hann ávarpar þegar systur sína blíðlega og segir:

Heil og sæl, systir góð, hvernig sæki ég að þér?

Velkominn, bróðir sæll, sagði prestskona, þú ert sjaldséður gestur um þessar mundir, þú situr lon og don við lesturinn og sérð mig ekki, systurmyndina þína, nema höppum og glöppum, nú skaltu gjöra svo vel, karl minn góður, og setja þig niður, þú skalt ekki komast undan því í dag að standa við hérna; settu þig niður hjá mér, sætið er til reiðu, hvort sem þú vilt til hægri handar eða vinstri eða hérna á milli okkar Sigrúnar, og nú er ekki í kot vísað, og það viltu, ef ég get rétt til; helzt, já, þar skaltu sitja, ég skal láta hérna kodda fyrir þig að sitja á.

Nei, nei, systir, hafðu ekkert fyrir því, ég sezt þar, sem ég kem fyrst að, skoðaðu, hérna fer ágætlega um mig, sagði Þórarinn og settist á kistil við fótalag systur sinnar.

Þú kannt ekki góð ráð að þýðast, þetta gjörði ég nú fyrir þig að bjóða þér að setjast hérna, ég vildi þú hefðir eitthvað að una þér við.

Og það var, systir góð?

Ég á við morgungeislana, eru þeir ekki nógu fallegt leikfang fyrir þig? sagði prestskona.

Ég skil þig nú ekki, systir, ég sé hér enga sólargeisla.

Á, sagði prestskona og lyfti um leið með lófanum undir hárið á Sigrúnu, sem féll ofan um herðar henni og sat á höfðalagi rúmsins - hvað er þá þetta? Eru þær svona hárprúðar á Hólum?

Þórarinn leit á og roðnaði við, og varð honum það ósjálfrátt, en lét þó sem honum brygði ei við og sagði blátt áfram:

Hárfagrar eru þær Hólameyjar sumar, ekki er það að efa.

Prestskona leit framan í Þórarin og sá, að hann hafði tekið litaskiptum, hún kinkaði þá kollinum framan í hann og sagði:

Nú, ekki ætlaði ég - en ég fyrirbýð þér að líta framan í hana.

Sigrún sat svo á kistlinum, að hún sneri andlitinu ívið meira að glugganum heldur en að húsfreyju og laut ofan í saumana, og varð ekki séð nema utan á hægri vangann þaðan frá, sem Þórarinn var setztur á rúmið, bæði af því að hún laut og sat nokkuð skakkt við, en í því að húsfreyja sagði þetta, bar svo við, að Sigrún leit upp og um leið sneri höfðinu þangað, sem Þórarinn var, og litu þau nú hvort framan í annað. Ekki var tillit þetta langt, en svo var það lagað, að vel mættum vér trúa því, að þeir, sem vitað hefðu, hvað í því lá, gætu betur ímyndað sér það en fært það í letur. Sigrún grúfði sig undir eins aftur niður að saumunum, en prestskona hafði einlægt augun á Þórarni bróður sínum og varð vör við, að hann leit við Sigrúnu. Hana rofaði naumast í það, hvað honum flaug í hug; en af því vel lá á henni, hélt hún áfram í grannleysi og gamni því, sem hún var byrjuð á, og segir:

Sjaldan vinnst vel varaður glæpur, ert þú búinn að sjá hana Sigrúnu mína? - ég bannaði þér það þó, er hún samt ekki lagleg? Þykir þér ekki stúlkan hafa tekið stakkaskiptum, síðan þú sást hana síðast, áður en þú fórst í skólann?

Ég man ekki, hvort ég hef séð hana fyrri en þegar hún kom hingað núna um daginn, sagði Þórarinn mikið ólíkindalætislega, jú, það vænti ég hafi séð hana einhvern tíma.

Og ég held það, allténd þegar þú reiddir hana í fangi þér.

Hvenær var það, heillin góð? sagði Sigrún og leit upp aftur frá saumunum.

Það skal ég segja þér, það var, þegar þú varst svolítil, góða mín. Það var, þegar hann faðir þinn heitinn fór þar að Hlíð, þá flutti hann þig með sér. Hann hafði með sér tvo klyfjahesta, og þú varst bundin þar ofan á milli á öðrum, en þú varst óvær, auminginn, sem von var, að ríða svona og varst öðru hverju að skæla, og kenndi ég í brjósti um þig og bað hann bónda minn að lofa honum Þórarni að fara með honum föður þínum fram eftir og reiða þig; það er ekki von, að þú munir eftir því, þú getur ekki hafa verið eldri en á þriðja eða fjórða árinu.

Nú, mig minnir, sagði Sigrún og var blóðrjóð í framan, að hún fóstra mín hafi sagt mér, að hún hafi reitt mig, þegar ég var flutt þar að Hlíð.

Og sussu, hana misminnir það; þú mátt trúa því, sem ég segi, það var enginn annar en hann Þórarinn bróðir minn, sem reiddi þig þangað, ég veit þú verður að muna eftir því, Þórarinn, þú varst orðinn 11 eða 12 ára gamall.

Og ekki man ég neitt eftir því, sagði Þórarinn hálfbrosandi.

Manstu þá ekki eftir því, að hann Þorsteinn heitinn gaf þér silfurbúna svipu? sagði prestskona.

Jú, það man ég, að hann gaf mér einhvern tíma svipu, ég á hana enn, en hvenær það var, sem hann gaf mér hana, það man ég ekki.

Það var, þegar þú fylgdir honum og reiddir hana Sigrúnu litlu fram að Hlíð, svona er það, sagði prestskona og sneri málinu til Sigrúnar: Ekki hélt ég það þá, að það ætti að liggja fyrir okkur, Sigrún litla, að vera saman, samt leizt mér undir eins vel á þig; ég man, að hann faðir þinn tók þig af baki, á meðan hann stóð hér við, og þá var þér lofað inn á loft; hún móðir mín heitin lifði þá, og man ég það ég sagði við hana, að þetta væri laglegt stúlkubarn, og þó leiztu ekki út til að verða svo afbragðs falleg eins og þú ert, og enn síður gat mér dottið í hug, að þú yrðir slík hannyrða-Steinka sem þú ert orðin, góða mín, en lofaðu mér nú samt að sjá hjá þér.

Æ, verið þér ekki að spauga mig, heillin góð! Það er ekki gustuk, sagði Sigrún.

Öllu gamni fylgir nokkur alvara, það er ekki svo mikið háð, þó ég segi það; það má kalla þú sért orðin prýðilega að þér, þó að einhverja megi finna, sem kann fleiri sauma. Þórarinn bróðir! Ert þú ekki nokkuð kvenskur?

Það er skrýtin spurning, systir, sagði Þórarinn og brosir við, jú, ég held ég sé það, ég hef einu sinni út úr kvenmannsleysi fest á mig einn axlabandahnapp, og það er víst, að enginn hnappur hefur loðað betur á mér en sá.

Segðu ekki lengur, þú kannt þá að sauma, og þá hefur þú vit á að sjá, hvort vel er saumað eða ekki; skoðaðu! ég ætla að bera undir þig, mér þykir gaman, að þeir dæmi, sem hafa betur vit á en ég; hvor af þessum borðum þykir þér vera betur baldýraður? Það hefur sín tilhaldsstúlkan gjört hvorn, en önnur er nú samt viðvaningur.

Um leið og prestskona sagði þetta, rétti hún að Þórarni tvo borða baldýraða, en þegar Sigrún sér það, ætlar hún að grípa borðana, þegar Þórarinn tekur við þeim, og segir: Verið þér ekki að sýna þessa ómynd! Hún nær í borðana, en verður heldur sein, því að Þórarinn hefur þá fengið handfesti á þeim, og toguðust þau um hríð um þá, en bæði var það, að Þórarinn hafði alla yfirburði, enda sleppti Sigrún fljótt og segir hálfömurleg:

Æ, þér áttuð ekki að vera að fá honum hann.

Þórarinn leit á báða borðana og segir: Þú ætlar, systir mín, að gjöra gys að saumavitinu mínu, en ekki er það svo að skilja, að ég sjái ekki, hvor þeirra er betur gjörður.

Vertu þá svo hreinskilinn að segja það, þó hún Sigrún sé við.

Það er auðséð, sagði Þórarinn og leit til Sigrúnar, af því hann hélt, að hún hefði saumað þann, sem honum þótti lakari, að þessi er viðvaningslegri.

Þér þykir þá hinn fallegri, er ekki svo?

Jú, sagði Þórarinn og leit aftur framan í Sigrúnu, eins og honum þætti fyrir að verða að styggja hana, því hann hélt, að hún ætti ljótari borðann - já, ég verð að dæma það, og það eru ef til vill engin undur, þú hefur máske baldýrað þennan sjálf, systir.

Nei, ég sagði þér það, sagði prestskona, að tvær jungfrúrnar hérna nærindis hefði baldýrað sinn hvor; þú ert ekki svo fráleitur, bróðir! Þú sérð það, sem allir sjá; hún Sigrún mín hefur nú samt saumað þenna, sem þú segir sé skárri, og ég trúi það sé í fyrsta sinni, sem hún hefur reynt til að baldýra, eða er ekki svo?

Svo má það heita, sagði Sigrún, fáið þér mér hann aftur, verið þér ekki að sýna hann, það er ómynd.

Og ekki er það; en þú veizt ekki, bróðir, hver hefur hannyrðað hinn, sagði húsfreyja og leit kímilega framan í Þórarin.

Það er, held ég, engin afbragðs hannyrðarófa, sagði Þórarinn, laufin eru öll ramskökk.

Og það held ég hún kunni nokkurn veginn fyrir sér til handanna, stúlkan sú, þú lastaðir hana ekki, ef þú vissir, hver það væri.

Hver hefur þá búið hann til?

Nú, það segi ég þér ekki nema í eyra, komdu hérna með vangann, ég skal hvísla því að þér - um leið og hún sagði þetta, hallaði hún sér að hliðinni á bróður sínum og hvíslar að honum svo lágt, að Sigrún heyrði ekki: Konuefnið þitt, karl minn sæll.

Ha! sagði Þórarinn og kafroðnaði í framan, eins og hann ekki hefði heyrt, hvað hún sagði.

Þú læzt þá ekki heyra það, ég skal hvísla því aftur, komdu!

Þess gjörist ekki þörf; ég heyrði, hvað þú sagðir, systir, en ég er litlu nær fyrir það.

Æ, gjörðu það fyrir mig, Þórarinn bróðir, vertu ekki að þessum ólíkindalátum, það er verst þú þekkir hana ekki!

Nei, hvernig á ég að þekkja hana?

Þá skal ég segja þér það - hún hvíslar nú aftur að honum: Þekkirðu ekki hana Staða-Gunnu?

Og skrattinn fjarri mér, sagði Þórarinn.

Talaðu ekki yfir þig, bróðir, þú veizt, að það er betra að éta yfir sig; þú segir annað að ári um þetta leyti og ef til vill fyrri, þegar þessar litlu hendur koma svona utan á vangann á þér, bróðir minn! sagði prestskona og strauk um leið um kinnina á Þórarni.

Æ, láttu ekki svona, sagði Þórarinn önugur í svari.

Þá skal ég færa þig heim um sanninn síðar; það er sjaldan, sem ég gjöri að gamni mínu, en fyrst þú vilt, að við sleppum þessu tali, þá skulum við ekki tala meira um það að sinni.

Það lízt mér, systir, sagði Þórarinn, það er fremur þarfleysa þetta hjal.

Jæja, bróðir, ég skal ekki stinga á kaununum, en meðal annarra orða, við Sigrún mín höfum verið að ráðgjöra að biðja þig bónar, en ég býst við, að hún geti ekki haft uppburði á að nefna það við þig, sagði prestskona og leit um leið til Sigrúnar, því ætla ég að bera það upp; settu þig, karl minn, snöggvast að borðinu og skrifaðu fyrir okkur fallegt stafrof með snarhandarletri, við erum hérna, við Sigrún mín, við og við að bera okkur að draga til stafs, en eigum enga forskriftina.

Þórarinn tók þessu máli vel; stóð hann nú upp, og gengur hann nú að borðinu, tekur þar penna og pappír og sezt niður og tekur að rita forskriftina, voru það bæði óbreyttir og breyttir snarhandarstafir, og þar neðan undir var skrifuð vísa, sem almennt er að setja á forskriftir:

Skrifa áttu skýrt og rétt,
svo skötnum þyki á snilli;
orðin standa eiga þétt
og svo bil á milli.

Þegar Þórarinn hafði skrifað forskriftina, gekk hann til systur sinnar og fær henni hana, og lítur hún á og lofar mjög, réttir hana síðan að Sigrúnu og segir um leið, að Þórarinn væri þess verður, að hann væri kysstur fyrir. Sigrún neitaði því ekki og játaði heldur ekki, og ekki vitum vér með vissu frá að segja, hvað hún hugsaði um það mál, og hún roðnaði út undir eyru, en þar eftir verður ekkert með vissu sagt, hvort henni var nær skapi, en það veit trúa mín, að ekki fékk Þórarinn kossinn í það skipti, og var það bæði, að hann gekk ekki ríkt eftir, og líka er óvíst, hvað hann hefði afráðið, þó hann hefði átt þess kost. - En nú bar annað til tíðinda, svo þau systkin urðu að hætta öllum gamanræðum, því rétt í þessu var húsinu hrundið upp mjög hvatskeytlega, kemur þar inn kvenmaður og fer allgeyst - er það Guðrún ráðskona; hafði hún hlaupið svo hart upp loftstigann, að því nær var lokað fyrir allt andrúm, stóð hún öll á blístri og gat í fyrstu ekki komið upp nokkru orði, en er hún náði að mæla, segir hún:

Þórarinn, prest - presturinn gjörir yður orð að senda sér handbókina sína!

Þórarni varð nokkuð bilt við og segir: Handbókina?

Já, víst, handbókina, hann hafði gleymt að taka hana með sér í morgun og vissi ekki af því, fyrr en hann ætlaði að fara að þjónusta kerlinguna, það er kominn piltur frá Hálsi, sem á að sækja hana, hann segir presturinn hafi sagt hún mundi annaðhvort vera í bókahillunni fram í stofunni eður í kjólvasanum hans, en í vasanum er hún ekki, þar er ekkert nema klúturinn hans og tvær tóbakstuggur, þér verðið að fara fram, góður, og vita, hvort hún er þar, því ekki þekki ég hana.

Þessi atburður gjörði enda á samræðu þeirra systkina, og varð nú Þórarinn að fara í handbókarleitina með ráðskonu. Kvaddi hann systur sína og Sigrúnu og gekk þegar fram, og er þess ekki við getið, að hann kæmi að máli við systur sína oftar þann dag.


7. kafli

Engi er svo ónýtur,
að einugi dugi.
                  Málsháttur.

Ekki var samdráttur þeirra Þórarins og Sigrúnar búinn að standa lengi, áður menn þar á heimilinu fóru að hafa það í flimtingum sín á milli, að meiri kunnugleikar mundu vera með þeim en svo, að ekkert byggi undir. Að sönnu höfðu þau alla þá varúð, er þeim virtist nægja til að firrast orð og eftirtekt manna í því efni, en í einu atriði eiga þjófarnir og þeir, sem unnast á laun, sammerkt, og það er, að hvorutveggju þurfa á sömu list hvað mest að halda, og hvorutveggju flaska oftast á henni, ef til lengdar lætur, en sú list er að kunna kænlega að fela. Þórarinn og Sigrún voru viðvaningar í þessari list, og því var það, að menn þóttust verða margs þess vísir, sem þeim þótti ekki grunlaust; nokkrir þóttust sjá, að þau Þórarinn litu hýrlegar hvort til annars en karlmaður og kvenmaður, sem ekki hafa þel saman. Sumum þótti það bregða nokkuð kátlega við, að Þórarinn nú oftar en áður vandi komur sínar upp á loftið til systur sinnar og sat þar stundum saman og einkum sætti því lagi, er prestur var ekki við. Þá voru nokkrir, sem sögðust geta svarið það, að þeir hefðu séð Sigrúnu oftar en einu sinni í rökkrinu koma fram úr húsi Þórarins, er fáir höfðu umgöngur um nema hann og systir hans. Þessar og þvílíkar sögur gengu mann frá manni þar á bænum, og þó fór flimt þetta ekki hátt, enda höfðu menn getgátur einar og líkur, en enga vissu, við að styðjast; þó var þar á staðnum piltur einn, er vissi nokkuð gjör um þetta efni en aðrir menn. Piltur þessi hét Finnur og var Bjarnason, hann var alinn upp þar á Stað. Nú var hann orðinn hálfvaxinn og kominn á átjánda ár, Finnur þessi var miðlungi vel þokkaður af heimilisfólki, þótti hann heldur ófyrirleitinn og óvæginn í orðum og smábrögðóttur. Vel var hann viti borinn og laglegur að smokka sér úr vandamálum, er fyrir hann komu og sem stundnm voru ærið mörg. En með því nálega hver maður átti sökótt við hann, þóttist hann ekki einhlítur úr að ráða vandræðunum; leitaði hann þá oft trausts hjá Þórarni og skauzt undir skjaldarrönd hans, og skarst Þórarinn þá jafnan í og miðlaði málum og hélt uppi sektum og fébótum, enda var Finnur ekki jafn trúr eða fylgisamur nokkrum manni þar á bæ sem Þórarni. Það hafði eitt sinn borið við sem oftar, að Finnur þurfti fljótlega að ráða úr vandamáli nokkru og vildi nú leita ásjár hjá Þórarni vini sínum og hljóp inn í hús til hans; dyrunum var læst og lykill í að utan, rykkti hann í skyndi upp hurðinni og flanaði inn, en þá hittist svo á, að Sigrún sat í kjöltu Þórarins og hafði lagt handlegginn um háls honum. Nú var þá ekkert undanfæri, og sá Þórarinn, að ekki var annað úr að ráða en að biðja Finn að þegja, og lofaði hann því, og hélt hann vel heit sín, því aldrei lét hann á sér heyra við nokkurn mann, að hann þættist verða þess vís, að þau Þórarinn og Sigrún hefðu nokkurn kunningsskap saman. Guðrún ráðskona var meðal hinna fyrstu, sem þóttist sjá samdrátt þeirra Þórarins og Sigrúnar, enda fór það að öllum líkindum, að hún öðrum fremur tæki eftir háttum þeirra. Leið nú ekki á löngu, áður hún bar mál það upp fyrir séra Sigvalda og krafðist þess, að Sigrún væri þegar flutt aftur til Hlíðar. Prestur varð í fyrstu afar reiður, en stillti sig þó vel og bað Guðrúnu láta fátt yfir - og vil ég, segir hann, gjör vita, hvað í efni er um þetta mál, og uggir mig, að þau muni ekki lengi fá dulizt, ef svo er sem þú hermir, en þess tel ég alla von, að Þórarinn mágur muni segja þetta álygar einar, nema ég megi nokkur gildari rök til færa, en síðan mun ég taka þau ráð, er þykja vænst, og skal þá Sigrún heim fara. - Að svo búnu fella þau talið, og líkaði Guðrúnu þó hvergi vel, að Sigrún var ekki þegar brott rekin. Hugsar prestur nú, hvernig hann megi bezt fá fulla vitneskju um það, hvort nokkur tilhæfa sé í því, er menn voru farnir að flimta um þau Þórarin og Sigrúnu.

Þar á staðnum var maður nokkur, ef mann skyldi kalla, hann hét Hjálmar og var kallaður tuddi; hann var niðursetningur, og svo hafði hann verið alla ævi, eftir það foreldra hans missti við, og var hann þá hálffertugur að aldri. Hann var ybbinn í skapi og hverjum manni hvumleiður. Það var hvorttveggja, að Tuddi kunni lítt til verka, enda var hann svo kargur og illur viðureignar, að nálega fékkst ekkert af honum til starfa; vildi hann heldur þola högg og barsmíð en að vinna annað en það, sem honum líkaði sjálfum, og svo var hann vandfýsinn og heimtufrekur um flest, að varla mátti gjöra honum nokkuð til hæfis. Ekki þótti smábændum dælt að hafa Tudda á vist, og var hann því jafnan ætlaður presti eður öðrum hreppsmönnum til framfærslu, þeim er voru í heldri bænda röð, og fór á millum þeirra og var sitt árið hjá hverjum, enda vildi hann ekki annars staðar vera en á stórbýlum, því þar þótti honum betra til fanga en á kotbæ. Ekki var æði og látbragð Tudda sem þeirra manna, sem eru með fullu viti eða siðlátir heita, og að öllum háttum og látæði líktist hann meira fífli og fordæðu en mennskum manni, og fyrir því var það almæli, að hann væri umskiptingur. Foreldrar hans höfðu búið þar á einum bæ í sveitinni og áttu son einn barna; hann var vatni ausinn og nefndur Hjálmar eftir föðurföður sínum. Sveinninn óx og dafnaði vel og rann upp sem fífill í túni og var bæði fríður sýnum og skýr vel, og héldu allir, að hann mundi verða laukur ættar sinnar, þá er hann þroskaðist; en er hann var þriggja vetra, bar svo við eitt skipti seint á engjaslætti um sumarið, að enginn maður var við bæinn nema sveinninn og móðir hans; var hún að búverkum inn í bæ, en skildi sveininn eftir út á hól einum þar í túninu, sem kallaður er Álfhóll, og lék hann sér þar að öðum og gimburskeljum. Skömmu síðar vitjaði húsfreyja sveinsins; var glókollur sonur hennar þá horfinn af hólnum, en þar kominn aftur piltur svartur á háralit og skeggjaður á höku; hann var líkur á stærð því, sem sonur hennar hafði verið, en allur var hann ófrýnni og ylgjulegri. Var Hjálmars glókolls leitað lengi, en hann fannst aldrei. Þeim hjónum þótti súrt í brotið um sonarhvarfið og vissu, að sonur þeirra hefði heillaður verið, en ólu þó upp svein þenna og nefndu hann Hjálmar eftir hinum, og var hann snemma stirður og óþjálgur og varð ekki að manni. Þetta var hinn sami, sem vér höfum frá sagt, að kallaður var Hjálmar tuddi. Ekki hafði Hjálmar annríki mikið á staðnum, þó var honum ætlaður sá starfi að bera út ösku og sækja vatn, ef stór nauðsyn bar að hendi, og vann hann það allajafna með nuddi og af nauðung. Korn skyldi hann mala hvern dag úr skál nokkurri, er tók sex merkur, en ógjarna entist honum þó dagur til að afkasta þessu ætlunarverki sínu, og kvartaði hann sífellt um annríki og áníðslu, ef hann var kvaddur til nokkurs handarviks, enda var honum ærið frátafasamt möluninni, er hann hafði að mörgu að hyggja: fyrst og fremst að gæta þess, að enginn annar en hann yrði aðnjótandi skófnapottarins í hvert skipti, sem eldað var, og þessu næst varð hann að vera alls staðar, þar sem nokkurs fengjar var að von, bæði í búri og eldhúsi. Nú þótt að Tuddi hvorki væri mikil bæjarprýði eður störf hans væru til mikillar stoðar fyrir bú séra Sigvalda, hafði þó prestur meiri not af honum en margan mundi gruna. Tuddi var alls staðar nærri, snagaði niðri í hverri kirnu, sem til var á heimilinu, og nálega ávallt aftan við vinnufólkið; og af því flestir töldu hann hálffábjána, vöruðust menn hann ekki, og varð hann á þann hátt margs þess vís og margs þess áheyrandi, sem fara átti dult. En Tuddi var ekki svo heimskur, að hann gæti eigi tekið eftir því, sem honum leizt, og með því hann hafði komizt á snoðir um, að presti geðjaðist allvel að því, að honum væri sagt frá hinu og þessu, sem við bar á heimilinu og leynt átti að fara, var hann í nokkurs konar kærleikum hjá séra Sigvalda og þó heimulega, því hann gat oft vonum framar greinilega skýrt presti frá ýmsu, er hann hafði séð og heyrt, og þáði jafnan nokkur laun fyrir, en til þess voru allir refarnir skornir fyrir Tudda. Þenna sama dag, sem prestur og Guðrún áttu tal saman og vér fyrir skömmu höfum frá sagt, komu gestir nokkrir að Stað, og er þess ekki getið, hverjir það voru; þeir dvöldu þar til þess fram um kveikingu, en fóru síðan; var prestur enn fram í stofu, og stóð ljós á borði. Tudda hafði þann dag ekki tekizt sem greiðast mölunin, sat hann allan daginn á palli og gambraði við griðkonur, en er tók að líða fram á vökuna, rak ráðskona hann ofan og bað hann nú draga af sér slensíuna og mala úr skálinni, ella mundi hann ekki mat hafa það kvöld. Ekki fór Hjálmar orðalaust til mölunarinnar, en þó varð svo að vera sem ráðskona vildi; drattaði hann nú fram göngin, og er hann kemur gagnvart stofudyrum, sér hann, að stofan er í hálfa gátt, og leggur birtuna fram í bæjardyrnar, en um leið og hann kemur gagnvart stofudyrunum, verður honum litið inn í stofuna, og sér hann, að þar stendur matardiskur einn á borðinu með nokkrum kjötleifum. Enginn kvennamaður lítur nokkurn tíma hýrari augum á konur en Hjálmar leit til matar, og getur hann nú ekki stillt sig um að staldra ögn við fyrir framan dyrnar og renna augum til disksins; stendur hann þar um hríð þegjandi og stígur fram á fótinn, en er hann verður þess vís, að prestur ekki verður var við komu hans, tekur hann það ráð, að hann hóstar. Prestur sat við borðið í stofunni og var að lesa bréf, hann lítur upp, er hann heyrir hóstann, og kallar fram og segir:

Er þarna nokkur?

Ójá, það er kvikindi; ég sá blessað ljósið.

Nú, það ert þú, Hjálmar minn, sagði prestur.

Ójá, það er greyið hann Tuddi; má ég setja lapparskarnið hérna inn?

Ójá, Hjálmar minn, en hvað er þér á höndum núna?

Það er nú margt, sem ég þarf að tala um við yður, blessaður húsbóndi minn, mér þykir ekki allt réttilega við mig breytt af sumum, ég segi það eins og það er.

Hvað er það, Hjálmar minn?

Það er nú fyrst um skófnapottinn, ég man ekki betur en þér segðuð og hafið sagt, að enginn ætti að hafa hann nema ég, þegar grautur er gjörður, og því þykist ég eiga hann með öllum rétti og verð að lýsa þá þjófa að honum, sem ræna mig pottinum; ég skil ekki það sé réttvísi, að það megi ekki standa, sem þér hafið talað.

Það getur verið, sagði prestur hálfhlæjandi, að ég einhvern tíma hafi sagt, að mér þætti sanngjarnt, að þú fengir hann, eða færðu hann ekki, Hjálmar minn?

Misbrestur ætla ég verði á því - má ég setja lapparskarnið inn fyrir þrepskjöldinn? - Já, ég vildi mælast til þess, að þér hlutuðuzt til þess, að ég mætti halda skófnapottinum refja- og afdráttarlaust; en það er ekki til neins, þó ég nuddi og suði um það, mér er ekki gegnt; ég hef nú í dagstæða tvo sólarhringa ekki séð svo mikið sem naglsrótarstærð af skóf; í fyrrakvöld var béuð trippan hún Sigga búin að krafsa alla skó'na úr honum, svo ekki voru eftir nema baugarnir utan með, og í gær voru hundavargarnir búnir með alla lífstilveru úr honum, og var það af því ég gat ekki undir eins við snúizt að taka hann, þegar búið var að skammta, en bágt er manni að vera alls staðar í sömu andránni, og ekki mátti það, hyskið, gjöra svo mikið að láta mig vita af, svo ég gæti tekið hann, það varast það eins og glóandi eld að gjöra manni nokkuð til greiðviknis, hyskið hérna.

Þú verður að eiga það við ráðskonuna, Hjálmar minn, að þú fáir skófnapottinn reglulega, sagði prestur.

Já, já, það er nú gott, prestur minn góður, að eiga við hana ráðskonuna hérna, ég ætla það fari eins og um skálina. Það var nú annað, sem ég ætlaði að tala um og þér megið ekki leiða hjá yður; mér finnst það eigi að fara að herða á mér með mölunarverkið, hún er nú sumsé farin að taka upp á því, blessuð ráðskonan yðar, að láta skálina vera kúfaða, ég veit ekki, hvaða lög eru til þess, að hún sé kúfuð; mér sýnist það vera fullnóg, þó það sé ekki hrúgað í hana, svo að strýtan stendur upp í loftið eins og tindur á fjalli eða fjallsgnípa; ég vil fá að heyra það af yðar eigin munni, hvað mikið á að vera í henni gípu, þegar mér er fengin hún, og hvort það á að sálga mér gjörsamlega, eins og það ætlar sér.

Á meðan Tuddi lét þessa dælu ganga, var hann smátt og smátt að mjaka sér innar eftir stofugólfinu og um leið að skotra augunum að leifadiski þeim, er þar stóð; prestur sá gjörla, hvar Hjálmar tíðast hafði augun, en lét samt sem hann sæi það ekki; en eftir því sem Hjálmar færðist nær, þess starsýnna tók honum að verða á diskinn, og loks getur hann ekki stillt sig lengur og segir:

Á, já, já, eitthvað sýnist mér blessaður húsbóndinn eiga fallegt fyrir framan sig núna!

Hvað er það, Hjálmar minn?

Á, já, já, blessaður presturinn sér þá ekki það, sem ég sé, sagði Hjálmar og sté fram á fótinn og neri saman höndunum.

Nei, Hjálmar minn, sagði séra Sigvaldi og brosti.

Blessað kindarbrjóst.

Nú skil ég; þig mun gilda einu, þó þú fengir dálítinn bita?

Að svo mæltu tekur prestur þar af diskinum kjötflykki eitt og réttir að Tudda, en hann tekur við báðum höndum og segir:

Látið þér í lúkugreyin, nú er að vita, hvort lúkuskörnin taka ekki við því, sem að er rétt; en allt er ónýtt, nema blessaður húsbóndinn gjöri góðverkið líka.

Það skil ég ekki, sagði prestur.

Eitthvað mun nú blessaðan húsbóndann rofa í góðverkið; nú hefur enginn gjört góðverkið síðan blessað lambið hann Þórarinn yðar gjörði það seinast.

Hvað áttu við, Hjálmar minn?

Að blessaður húsbóndinn gjöri ögn við sálarskarnið, vökvi ögn sálargreyið og helli dropa á silfrið.

Um leið og Hjálmar segir þetta, lítur hann til þrífætts silfurstaups, er stóð þar á borðinu; prestur sér það og veit nú, hvað Hjálmar á við; hann tekur þá flösku, er þar var, og skenkir á silfurstaupið og réttir að Hjálmari og segir:

Þetta mun vera góðverkið, sem þú átt við.

Ójá, blessaður húsbóndi minn, sagði Hjálmar og setti á munn sér og rétti aftur að presti - guð launi yður, nú hýrnaði brjóstið, ójá! - já, nú kom velgja fyrir brjóstið, það var líka hærra í góðverkinu en um daginn, þegar hann Þórarinn minn lét í það, þá var það ekki nema hálft, en nú var það fullt - eða nærri fullt.

Þér er víst vel til hans Þórarins fyrir það, Hjálmar minn, sagði prestur.

Mér er heldur hlýlegt við hann, hann er nú sá eini hérna á bænum, fyrir utan yður, sem ekki leggur illt til mín; en það getur nú ekki, bannað hyskið hérna, látið hann vera í friði, held ég.

Já, já.

Nú, ég held þér vitið það, blessaður húsbóndi minn, hérna um hann og dúfuna hérna, nýkomnu dúfuna með gullhárið og konubrjóstin.

Nú, nú, ekki hef ég heyrt það.

Já, ég heyri það er að stinga saman nefjunum um það hérna, að honum þyki vænt um dúfuna og blessuð brjóstin á dúfunni, he, he.

Hvað er þessi dúfa, Hjálmar minn?

Æ, ég kalla hana svo, dúfuna frá Hlíð, sagði Tuddi.

Nú, nú, þá skil ég, sagði prestur, heldurðu það sé þá satt, Hjálmar minn?

Nú, ekki veit ég það; - já, nú er ekki neitt í silfrinu, sagði Hjálmar lágt og leit í staupið - ég heyri það segir það, hyskið.

Þig langar þá í meira, Hjálmar minn, ég held ég verði að gefa þér hálft staup í þetta sinn, taktu við; hefurðu nokkurn tíma séð dúfuna hjá honum?

Já, lofið þér mér nú, blessaður prestur minn, að súpa úr silfrinu - já, ég sé, að dúfan kemur stundum á daginn undir rökkrið fram í bæjardyrnar, og svo kemur einhver, ójá, ónefndur á eftir, he, he.

Og hvað gjöra þau þar?

Æ, ekki veit ég það, ég held dúfurnar stingi svona saman nefjunum og kvaki þar saman.

Hvað tala þau þá, Hjálmar minn?

Það heyri ég ekki fyrir nuddinu í meinvættinu.

Hvaða meinvætti?

Meinvættinu henni kvarnarkind, sem er búin að drepa mig, og svo fara dúfurnar út.

Og hvert heldurðu þá, að þau fari?

Það gæti ég ekki vitað, nema að ég færi þá í humáttina á eftir.

Það ættirðu að gjöra, Hjálmar minn, sagði prestur í hálfum hljóðum, svo þú vissir, hvert þau færi, og segja mér svo frá því - og þá hnippaði prestur í hann - og mundu mig um það; þú þarft ekki annað en hósta þrisvar fyrir framan húsdyrnar; en nú held ég þér sé bezt að fara að mala, svo þú getir orðið búinn í kvöld með ætlunarverkið.

Já, en hvað verður þá úttalað um skófnapottinn? - ég vil ekki eiga í þessu lengur, því annaðhvort á ég hann með réttu eða ekki, og þá getur það regerað og rassakastazt með hann, eins og það vill; en ég vildi mælast til, að þér skæruzt í, að það yrði betri regla á þessu hér eftir.

Jæja, það verður talað um það við ráðskonuna, Hjálmar minn, en farðu nú að mala, og mundu eftir því, sem ég sagði þér.

Við þessi orð gekk prestur út, en Hjálmar labbaði að kvörninni og sezt niður við hana og segir við sjálfan sig: Já, nú kemur til hún strýta.

Um það mund, sem þeir Hjálmar og prestur áttu talið í stofunni, kemur Finnur Bjarnason fram, verður honum litið inn í stofuna um leið og hann gengur fyrir og sér Hjálmar stendur þar tvístígandi fyrir framan borðið; hann langar til að forvitnast um, hvað þeir tali, og læðist að dyrunum og leynist við krók einn baka til við hurðina og hlerar eftir viðræðu þeirra, og heyrir hann þá, hvað umræðuefnið er, og það með, að prestur vilji veiða nokkuð upp úr Hjálmari um þau Þórarin og Sigrúnu. Dettur honum það þá í hug, að gaman mundi það vera, ef hann gæti leikið á prest, og hugsar nú um það á allar lundir, hvernig hann megi því fram koma; og er hann sér, að prestur og Hjálmar ætla að ganga úr stofunni, víkur hann sér fram í anddyrið, og urðu þeir ekki varir við hann, en dimmt var. Svo var varið vinfengi þeirra Hjálmars og Finns, að jafnan valt á ýmsu. Stundum voru þeir svo miklir mátar sem þeir hefðu gengið undir jarðarmen og blandað blóði saman; en aftur þess í milli börðust þeir og bitust sem graðhestar. En er Tuddi var setztur að kvörninni og bjó sig sem bezt til mölunarinnar, skotrar Finnur fram úr skotinu og þar að, sem Hjálmar situr, og verður hann ekki fyrr var við en gripið er með báðum höndum ofan í höfuð honum og það heldur óþyrmilega. Tuddi hafði á höfði sauðsvarta kollhúfu, en undir húfunni var ekki allt sem hreinast; hafði hann þar meiri óværu en á þyrfti að auka, og verður hann nú ákaflega reiður og stekkur upp hart og títt og segir:

Það vildi ég fjandinn sjálfur í neðsta horngrýti klipi þig og kreisti með glóandi járntöngum fyrir bölvaða hrekkina.

Fallega syngur í tálknunum á þér núna, Tuddi, sagði Finnur.

Já, það vildi ég, að ég gæti formælt þér svo, að þú ættir ekki neins staðar vært, hvorki á himni né jörðu né undir jörðu og hvergi nema hjá gamla karlinum, fyrst þú lætur mig ekki í friði.

Láttu ekki svona, Tuddatetur; ég var að líta eftir því, að húfupottlokið festist ekki niðri í skallaskömminni á þér.

Þú þarft ekki að gæta að því, hún er ekki svo föst við hann eins og skammirnar við þig. Þú gengur eins og logi yfir akur, landeyðan þín, og hefur ekkert að gjöra annað en áreita þá, sem eru eitthvað að basla og sveitast blóðinu eins og ég.

Heyrið á endemið, þykist þú sveitast blóðinu?

Já, verð ég ekki að ganga fram af mér dauðum við óvættið allan daginn? En hvað gjörir þú?

Og garmskinnið! Þú átt þá eftir að mala úr skálinni, vænti ég, sagði Finnur.

Láttu sem þér komi það ekki við, eða varstu beðinn að spyrja að því? mælti Tuddi.

Nei, ég ætlaði að bjóða þér að snúa sundur tvær eða þrjár kvarnir.

Já, ég held þú gjörir slag í því.

Svei mér, ef ég skal ekki gjöra það, ef þú lætur eins og maður.

Það er þá ekki víst, hvort ég vil þiggja það af þér - en þá læt ég líka svo mikið sem kemst í augað á meinvættinu.

Það mátt þú, sagði Finnur og settist á meis einn, er stóð þar hjá kvörninni og tók að mala, en Hjálmar situr þar hjá honum og tekur úr barmi sér kjötstykki það, sem prestur hafði gefið honum; rennur honum nú brátt reiðin, og á lítilli stundu eru þeir Finnur orðnir sáttir og sammála og tala í mesta bróðerni hvor við annan um hitt og þetta; og loks snýr Finnur ræðunni í þá átt, að hann spyr, hvar Tuddi hafi fengið kjötstykkið hið mikla og hvað það hafi verið, sem prestur hafi verið að tala við hann þar í stofunni, er Hjálmar var þar hjá honum. Tuddi er mjög dulur á því og lætur sem umtalsefnið ekki hafi verið að miklu marki. Tekur Finnur til þess ráðs, sem hann vissi, að mundi verða drjúgast, og segir:

Nú mala ég ekki ögn meira fyrir þig; ég er búinn með fjórar kvarnir, þú getur malað það, sem eftir er.

Já, þú lætur þig ekki muna um það, sem eftir er í skálinni.

Nei, fari ég þá og veri, sagði Finnur, ef ég mala meira; lítill vegur hefði verið til þess, ef þú hefðir viljað segja mér, hvað presturinn var að tala við þig.

Jæja, þá verður þú að sópa kvörnina og láta í skálina.

Finnur segir svo skuli vera:

Og lofa mér því upp á þína æru og trú að segja ekki frá því - hann var að spyrja mig að, hvort ég hefði ekki séð hann Þórarin hérna kjanka neitt við dúfuna og hvert þau gengju, þegar þau fara út fyrir rökkrið á daginn.

Þetta var þá allt leyndarmálið, sagði Finnur.

Já, en þú mátt nú ekki svíkja mig um það, sem þú lofaðir mér, að mala úr skálinni og sópa.

Finnur lét sem hann hefði ekki unnið svo mikið til, ef hann hefði vitað, hve ómerkilegt mál þetta var; en aftur þótti Hjálmari sem töluð orð yrðu ei aftur tekin; kýttu þeir nokkuð um þetta, en svo fór, að Finnur malaði úr skálinni; sagði hann þá Hjálmari frá í trúnaði, að hann væri búinn að komast eftir háttalagi þeirra Þórarins og Sigrúnar; væru þau vön á hverju kvöldi að fara út í fjárhús eitt, sem var þar á túninu skammt frá bænum, og dvelja þar um stund. Skildu þeir nú talið að svo búnu, að hvor hét öðrum að láta ekki bera á viðtali þeirra. Tuddi vissi nú, að efndir ýmsra loforða eru, eins og flest annað, komnar undir atvikum, og er hann skoðaði huga sinn um þetta mál, fannst honum helzt á það lítandi, hvort Finni gæti orðið það að nokkru meini, þó fleiri vissu af eða á; þetta gat hann ekki séð. Aftur gat honum vel skilizt, að það mætti verða sér til hagnaðar, ef hann segði presti frá, hvers hann væri orðinn vísari um hagi Þórarins.


8. kafli

Sem sýnir, að forvitnin er ei öllum hent

Nú líður hinn næsti dagur eftir viðtal þeirra Finns og Hjálmars, og kemur annar dagur þar eftir; veður var þá hreint og kalt. Bar nú ekkert til tíðinda, þar til líður að úthalli, og situr prestur að venju í loftherbergi sínu, en Sigrún gengur ofan, og skömmu á eftir heyrir prestur, að hóstað er þrisvar sinnum á baðstofulofti ekki alllágt, og kennir prestur, að það er Hjálmar, sem hóstar, og skilur hann, hvar þá muni vera komið málunum, og gengur fram. Stendur Tuddi þá tvístígandi hjá stofudyrum og bendir presti, að hann vilji tala við hann. Er nú skjótt yfir sögu að fara, að Tuddi segir presti, hvers hann sé vís orðinn um hagi þeirra Þórarins og Sigrúnar og að þau séu vön að hittast í sauðahúsinu; segir hann og, að nú sé dúfan farin út, og muni þess skammt að bíða, að Þórarinn komi á eftir, ef hann hafi ekki farið, meðan Tuddi gekk upp á loftið að hósta. Presti virðist saga Tudda allkynleg; gjörir samt för hans sæmilega og tekur síðan hatt sinn og vettlinga og gengur út; þótti honum engu í spillt, þó hann prófi hvort nokkuð sé til í þessu, en vill fyrir hvern mun vita gjör um þetta efni. Enginn maður varð var við ferð prests nema Finnur Bjarnason, hann hafði verið á hnotskóg, og fór hann í humóttina eftir presti og sér, að hann gengur til sauðahúss og fer þar inn og lætur hurðina falla að staf á eftir sér. Finnur læðist nú að húsdyrunum og sér inn um rifu eina, sem var á hurðinni, að séra Sigvaldi gengur í garðanum fram með jötunni og þangað, sem mætist geilin og jatan, og sezt þar niður. Dyraumbúningurinn fyrir saðahúsinu var þannig, að dyratré stórt lá á kömpum, í það voru greyptir tveir sterklegir dyrastafir og að neðan, felldir í aurslá. Hurðin var traust og á nýjum járnum og í henni járnhespa mikil, er smeygð var upp á keng, sem var í öðrum dyrastafnum; úr hurðinni hékk snæri og loka stór úr hvalbeini, og var henni stungið í kenginn fyrir framan hespuna. Finni kemur það nú í hug, að hann tekur hespuna og læðir henni hægt og hægt upp á kenginn og rekur síðan lokuna fyrir framan, gengur síðan til bæjar og lætur sem ekkert hafi í orðið; líður svo fram til rökkurs, og gætir þess enginn, hvar prestur er. Líður enn rökkrið, og eru ljós kveikt; tekur nú húsfreyju að þykja kátlega við bregða um burtveru bónda síns og fer að skyggnast eftir, hvar hann muni vera; finnst hann nú ekki, og þykist enginn til vita, hvert hann sé farinn; leitar hún nú með ljósi um allan bæinn og finnur ekki að heldur; getur hún þess nú til, að hann mundi hafa gengið sér til skemmtunar til næsta bæjar, þótt hann ekki væri vanur því, er hattur var brott tekinn, og lætur hún nú um sinn frestað leitinni. En það er nú að segja af séra Sigvalda, þar sem hann situr í geilinni, að hann hyggur fyrst gott til, að á þenna hátt muni hann geta satt forvitni sína um háttalag þeirra Þórarins og Sigrúnar, og bíður hann nú um stund í þeirri von, að þau þá og þá muni koma þar í húsið. Loks kom þó svo, að honum virðist tvísýni á, hvort sú muni raun á verða, að hann verði nokkru að vísari í það skipti; tekur nú mikið að rökkva. Hann bíður enn um hríð og til þeirrar tíðar, sem hann átti von á, að smalamaður mundi koma og láta inn sauði; vill hann nú fyrir hvern mun vera kominn úr húsinu, áður smalamaður kæmi. Honum datt það þá í hug, að þar hann á annað borð hefði komið inn í húsið, skyldi hann hafa þau not af ferðinni að skoða um leið til heyja. Heyið við húsið var alllangt og breitt, en sigið mjög og flatt, er borið hafði verið á það grjót mikið að utan. Ekki var búið að gefa heyið mjög, því vetur var góður, og stóð stabbi mikill í miðri tóftinni og sín geil hvorum megin, náðu þær allt fram með veggjunum inn að gafli. Gengur prestur nú fyrst í hina syðri geilina, og virðist honum þar alllítið gefið og snýr nú til hinnar nyrðri geilarinnar. Þessi geil var dimm mjög og enginn gluggi á; hún var sýnu breiðari en hin syðri og svo há, að hann mátti ganga þar því nær uppréttur. Sauðamaður hafði gefið allt upp að torfi, og með því hann uggði, að torfið mundi ekki geta haldizt uppi og falla niður í geilina, ef frostið hlypi úr, hafði hann lagt flata spýtu undir torfið. sem var yfir geilinni, og rekið þar undir stoð eina. Prestur fór inn eftir geilinni og fylgdi heykleggjanum; en er hann kom innar í geilina, verður hann var við heyhrúgu nokkra og leggst á hné hjá henni og skoðar og finnur, að það er moðbingur, og reiðist hann sauðamanni, er hann hafði skipað honum að bera moðið til hesta, en láta það ekki safnast fyrir í tóftunum; en í þessum svifunum verður honum það, að hann spyrnir óvart fætinum aftur fyrir sig, og lendir það í stoðinni og svo hart, að hún skreppur undan þekjunni, og fylgir þar með öll torfspildan, er yfir var geilinni framanverðri, og ofan á prest, svo honum lá við bana; verður klerkur þar sem mús undir fjalaketti og getur lengi ekki hrært sig; loks tekst honum þó við illan leik að skríða undan torfinu og innar í geilina, var þar fyrir autt rúm nokkuð, þar sem þekjan ekki að öllu féll að heyinu; þó var rúm þetta ekki til hlítar fyrir líkama hans, því ekki mátti hann þar uppréttur standa, og engu bolmagni gat hann þar við komið eða þokað torfinu frá. Ekki þóttist séra Sigvaldi annað skipti í krappara komizt hafa, og varð honum það nú fyrir, að hann ýmist bað fyrir sér eða blótaði torfinu, og ekki jók það heldur lítið á hugraunir hans, að hann heyrði, að sauðamaður kom í húsið og byrgði sauðina. Séra Sigvaldi kallar nú svo hátt sem hann mátti, en bæði var það, að honum lá ekki hátt rómur, og þó hitt heldur, að svo hátt lét í sauðunum, er þeir ruddust á jötuna, að sauðamaður gat ekki greint, hvað það var, er hann heyrði inni í tóftinni; virtist honum það líkara ámátlegu ýlfri en mannsraust, enda átti hann þar ekki manna von; hugsar hann því helzt, að þar væri fjandi eða forynja nokkur í tóftinni, verður hann fullur felmturs og flýtir sér sem mest hann má að komast út og keyrir aftur húsið, en hleypur síðan sem fætur toga til bæjar og hefur það í dylgjum um kvöldið, að eigi muni smábörnum hent að vera í sauðahúsi þá nótt. En í annan stað er það að segja af séra Sigvalda, að honum þykir sitt ráð taka að horfa óvænlega, er hann verður þess vís, að sauðamaður er farinn aftur úr húsinu; hyggst hann nú enn að gjöra þess nokkra raun, hvort hann megi ekki losast úr kvalastað þeim, er hann var í kominn; brýzt hann nú um sem hann má í geilinni, en allt fór að einu; sér hann þá ekki annað sýnna en að hann muni þar lífið láta um nóttina fyrir kulda sakir og þreytu, og þykir honum sá dauði illur. Dettur honum þá í hug, að hann hafi lesið það í fornum bókum, að sumir menn, er staddir voru í háska, hafi heitið á helga menn sér til athvarfs og árnaðar eður gjört áheit að gefa nokkuð til kirkna eða klaustra, og hafi það jafnan komið að góðu haldi; virðist honum eigi ólíklegt, að svo megi enn vera, og gjörir hann nú það heit, að hann skuli gefa kirkjunni á Stað nýja altarisbrún, ef hann komist með lífi úr tóftinni. Líður svo enn stund, að ekki liðkast um hag prests.

Nú víkur sögunni aftur þar að, sem Finnur hefur lokað fjárhúsinu, þá gengur hann til bæjar og fæst ei um og situr á palli; kemur nú sauðamaður, en prest vantar. Það þóttist Finnur skilja, að nokkuð hefði tálmað fyrir presti, þar til sauðamaður lét inn sauðina, en hitt þykir honum kátlega við horfa, er klerkur kemur ekki með sauðamanni; hann vill nú forvitnast um, hverju þetta gegni; gengur hann þá út og til sauðahúss og lýkur upp, eru þá sauðir lagztir og jórtra með kyrrð og spekt. Hann smokkar sér þá inn á milli þeirra og fer inn eftir garðanum, heyrir hann þá stunur miklar í tóftinni. Finnur stígur upp í jötuna og vill innar eftir geilinni, þangað sem hann heyrir stunurnar, en rekur sig brátt á torfdyngjuna, sem fallin var niður í geilina, þótt ekki vissi hann, með hverjum atburðum það hefði orðið; grunar hann nú sem var, að prestur muni vera fastur þar í geilinni. Kallar hann nú inn í geilina og segir:

Er það maður eða fjandi, sem er í geilinni, eða hvað?

Það er maður, svaraði sá, sem var í geilinni, allmæðilega.

Því læturðu svona, eða ertu fastur þarna, ha? sagði Finnur.

Já, ég er nærri dauður hérna undir bölvuðu torfinu; berðu þig að hjálpa mér til að rífa það frá að framanverðu, var svarað í geilinni.

Ha, hvað segirðu?

Ég segi: Rífðu frá torfið, ef þú getur, sagði prestur.

Það get ég ekki, sagði Finnur og fór að vita, hvort hann gæti þokað nokkru til, en fann, að hann gat ekki bifað við neinu, því öll spildan lá samföst og gaddfreðin niðri í geilinni. - Það verður ekki bifað; en ég skal fara og kalla á piltana að hjálpa mér.

Nei, það banna ég þér, anzaði prestur í geilinni.

Þú getur þá setið þar svo lengi sem þér líkar, sagði Finnur.

Farðu heldur út og upp á tóftina að utanverðu, hérna er dálítil smuga, sem ég sé út um, berðu þig að rífa þar til, svo ég komist út.

Finnur hleypur nú út og upp á tóftina, og heyrir hann þá til mannsins og leitar eftir gatinu og finnur það. Gat þetta var ekki stærra en svo, að séra Sigvaldi gat stungið út um það blánefinu og sér til fróunar við og við séð rönd af tunglinu, sem óð í skýjum. Af hitanum, sem lagði upp af manninum, hafði torfið ögn þiðnað, svo að hann gat með nöglunum búið sér til þessa smugu til að horfa út um. Nefið á séra Sigvalda var einkennilegt mjög og auðþekkt, og þó holan væri ekki stór, gat þó Finnur glöggt séð, að það var nef húsbónda hans, er lék þar við holuna. Þar á ég úlfs von, sem ég eyrun sé, hugsaði Finnur, og dettur honum nú ekki framar í hug að efast um, að það sé húsbóndi hans, er þar var svo nauðulega staddur, lætur hann samt sem sér komi það mjög á óvart og segir:

Nú - það eruð þá þér, húsbóndi minn góður! Mér þykir verst, ég held ég hafi þúað yður áðan, mér datt það ekki í hug né hjarta, að það væruð þér; hvernig gat bölvuð geilin farið að detta svona ofan á blessaðan prestinn?

Skiptu þér ekki af því, Finnur, reyndu heldur til að rífa hérna til torfið, svo ég komist út úr geilarskömminni.

Það er allt svo gaddað og freðið, prestur minn, ég get það ekki, nema ég sæki stóra járnkarlinn og pjakki það. - Finnur hleypur nú á stað og kemur á vörmu spori aftur með járnkarlinn. - Húsbóndi minn, segir hann, hvar á ég nú að höggva gatið? Hérna, sem ég sé á nefið á yður, húsbóndi góður? Ég er svo hræddur um, að ég skaði yður í andlitið; ég held það væri betra, að þér leggizt niður í geilina á meðan.

Séra Sigvalda þótti þetta þjóðráð; tekur nú Finnur að höggva torfið, og tekst honum það heldur seint, en þó kemur svo um síðir, að hann hefur búið til hæfilega rauf; biður hann nú prest upp að standa, og gjörir hann það og skýtur nú höfði og herðum upp í gegnum gatið allt ofan til axla og vill freista að vega sig með handafli upp úr geilinni, en með því maðurinn var gamall og stirður og hitt annað, að hátt var til veggjar í tóftinni, verður það ógreitt; biður hann þá Finn að þrífa í herðar sér og toga að ofan - en ég mun, segir hann, lyfta mér upp að neðan. Finnur gjörir sem fyrir hann er lagt og þrífur báðum höndum í axlir prests; en jafnan, er prestur er kominn á hálfa leið, tók skuturinn svo að frýja skriðar, að hann sígur jafnharðan niður aftur í tóftina, og gengur svo þrisvar eða fjórum sinnum; tekur séra Sigvaldi mjög að dasast og segir Finnur, að nú séu tveir kostir fyrir höndum, sá er einn að sækja menn til að bjarga honum úr tóftinni, en sá er annar að hlaupa eftir reipum og bregða undir prest og reyna svo að draga hann úr tóftinni sem grip úr dýi. Ekki vill séra Sigvaldi þessi ráð hafa, og vill hann freista enn einu sinni; stekkur hann nú upp svo hátt sem hann má, en Finnur þrífur til herðanna og togar af öllu afli, brestur þá þekjan, sú sem eftir var uppi, sundur og ofan í geilina, og við það kemst prestur upp, en er þá heldur óásjálegur; tekur hann að rétta hatt sinn úr brenglum, en Finnur að dusta moldina af fötum hans; ganga þeir síðan til bæjar, og leggur prestur ríkt á við Finn, að hann segi ekki frá, hvar hann hafi verið, heitir hann honum vináttu sinni, ef hann þegi, en ella muni hann sæta afarkostum, og heitir Finnur því. Og er þeir koma í bæjardyr, er húsfreyja þar fyrir og ráðskona með ljós og eru í óða önnum að búa út tvo karlmenn að leita dauðaleit að presti. Verður þar nú mikill fagnaðarfundur, og segja þær honum frá, hversu hræddar þær hafi verið orðnar um hann, og spyrja hann, hvar hann hafi verið; prestur lætur fátt yfir, en segir þó, að í rökkrinu hafi hann gengið sér til skemmtunar, en með því veðrið hafi verið svo fagurt og bjart, hafi honum dottið í hug að ganga fram um hlíð og gæta þar til haga. Hjálmar tuddi sat þar í dyrunum við kvörnina, er prestur kom, og er prestur tekur að segja frá ferðum sínum, stendur Tuddi upp og tvístígur í kringum hann, sér hann þá, að moldarblettur nokkur er á kyrtilskautum prests, hleypur hann þá til og vill dusta það af, er moldugt var, og segir: Má ég ekki dusta moldarskarnið af dinglandanum? Prestur lítur heldur reiðulega til hans, en yrðir þó ekki á hann; gengur síðan til baðstofu, kastar von bráðar klæðum og gengur til hvílu og kvartar um, að að sér slægi nokkrum kuldahrolli eftir hitann og gönguna, og lætur húsfreyja flóa nýmjólk handa honum til að taka úr honum skjálftann.

Ekki höfum vér neinar sannar fregnir um það, hvernig farið hafi um áheit það, er séra Sigvaldi gjörði kirkjunni á Stað, ef hann kæmist lifandi úr tóftinni; þó getum vér ekki borið á móti því, að oss virðist það ei alllítið vafamál, hvað orðið hafi um efningu þess heits, en séð höfum vér vísitatíu herra .... biskups, og í henni er svo að orði komizt um kirkjuna á Stað:

"... ítem á kirkjan tvær söngkápur, tvo sloppa og eina brún óbrúkanlega, hvar fyrir pastor loci vildi hið allra bráðasta tilleggja kirkjunni eina nýja og sæmilega brún í stað hinnar fornu, sem nú ei lengur má anstendug heita og því ekki kirkjunni framar beþéna kann..." Nú er vísitatía þessi gjör 17.. eða ekki fullum 10 árum síðar en séra Sigvaldi sleppti staðnum að Stað, og þar eð kirkjan þá átti enga viðunandi brún, lítur að vísu svo út sem séra Sigvalda annaðhvort hafi gleymzt að efna heit sitt eða honum hafi ekki enzt aldur til að koma því fram, því ekki getum vér skilið í því, hefði hann gefið kirkjunni nýja altarisbrún, að hún hefði verið orðin svo útslitin á ekki lengri tíma.


9. kafli

Margur er kviks voðinn.
                  Málsháttur.

Vér höfum í seinasta kapítula hér að framan sagt frá svaðilförum Sigvalda klerks, er hann fór njósnarförina til sauðahússins. Hann hafði haft þar í tóftinni vos mikið, en ekki orðið að vísari um það, er hann vildi vita. Slíkt vos getur fyrir gamlan mann oft dregið illan dilk á eftir sér. Veður hafði verið kalt um kvöldið, og varð prestur innkulsa, er hann lá svo lengi undir freðnu torfi í tóftinni. Innkulsi fylgja oft illir förunautar, sem er hósti, höfuðverkur og beinverkir, köldusláttur og margir aðrir ótætis kvillar, er oft og tíðum snúast í skaðvæna sjúkdóma og leiða margan til bana. Eftir sauðahússförina hafði séra Sigvaldi ekki alllitla aðkenningu af sumum af þessum leiðinda kvillum í nokkra daga, en þó varð honum ekki þyngra af, sem betur fór, því hefði hann fengið banamein sitt þar í tóftinni, mundum vér hafa orðið að slá botninn í söguna, og þeir, sem þá hefðu viljað auka Safn til sögu Íslands með æviágripi um presta hér á landi, mundu þá ekki hafa getað sagt mikið annað um prest þenna en það, sem segir í stökunni um Teit heitinn og einnig verður sagt um marga embættismenn og innifalið er í þessum fáu og kjarngóðu orðum skáldsins:

Hann át og dreit sem eg og þú,
ekki veit eg meira.

En þetta fór ekki svo; séra Sigvalda varð lengra lífs auðið, og er því af honum gjör meiri saga en af Teiti. Séra Sigvaldi hresstist bráðlega, en daufur var hann og fátalaður nokkra daga eftir tóftarförina. Mörg eru manna mein, og ekki þarf ætíð mikið til að gjöra mann óglaðari en hann á að sér. Þess er fyrir skömmu getið, að séra Sigvaldi var óhraustur nokkra daga eftir vosið í tóftinni, og verið gat, að þetta hafi valdið ógleði hans, en þó var annað meira tilefni hans, og var það einkum það, að honum hafði svo hraparlega brugðizt von sú, er hann hafði um það að fá vissu sína um samdrátt þeirra Þórarins og Sigrúnar. Sumum kann að virðast sem slíkt væri ekki mikið ógleðiefni, en ekki getur oss svo virzt, því vér vitum þess mörg dæmi, að mönnum fellur oft þungt, ef þeim bregzt eitthvað, er þeir hafa sterklega vonað eftir, þó lítið sé í varið. Og til þess að sanna sögu vora, viljum vér geta eins manns, er vér höfum þekkt, þó langt sé síðan. Það var bóndi nokkur og bjargálnamaður; hann átti sauð einn mókollóttan, og hafði bóndi mestu mætur á honum. Eitt sinn kom Mókollur af fjalli og var þá þrévetur. Hann var félegur og bragðlegur að sjá og föngulegur á velli. Bónda leizt nú ofur vel á Koll, er hann kom af fjalli, og jafnan, er féð var heim rekið um haustið, skoðaði hann sauðinn í krók og kring, þreifaði á bringunni á honum og tók hann upp í fangi sér, og fannst honum þá ávallt, að aftari hluti sauðarins væri sýnu þyngri en hinn fremri. Skaði er að skera hann svona fallegan, sagði bóndi við sjálfan sig, en á ég að trúa því, að það verði ekki í honum góðir tveir fjórðungarnir af mör, ef ég sker hann. Hann gjörir í blóðið sitt, sá mókollótti, viss hálfur þriðji í honum, ef ekki þrír fjórðungar, Jón minn, sögðu allir, sem þreifuðu á sauðnum og tóku hann upp. Þá skar bóndi sauðinn. Nýrmör og garnmör og netjan var látið saman, og hverri ljósri ögn var haldið til mörsins, en þegar allt var vegið, vantaði réttar 20 merkur upp á tvo fjórðunga. Það var um Mikjálsmessuleytið, sem Mókollur var skorinn; en frá því og þangað til sunnudaginn fyrstan í aðventu heyrði enginn maður bónda tala eitt orð, hvorki við konuna eða nokkurn annan mann. En þenna sama sunnudag heyrðu menn hann tala fyrsta orðið, þá reis hann upp í rekkjunni, blés mæðilega og mælti: Æ, því lét ég fjandann koma mér til að skera þann mókollótta!

Af þessu getum vér vel skilið í því, þó prestur væri um nokkurn tíma hljóður og fátalaður við menn, er honum, eins og bónda, hafði brugðizt von sín. Enginn vissi þar á staðnum, hvað olli fáleikum prests, nema ef Finn litla hefur rofað eitthvað í það, og sízt skildi Hjálmar tuddi, hver umskipti orðin voru á hylli sinni hjá presti. Þegar prestur var fram í stofu, slæddist hann að venju frá kvörninni og tvísté fyrir framan stofudyrnar, hóstaði og hóstaði til þrautar, svo að prestur skyldi vita af sér, en prestur var aldrei viðlátinn að sinna honum, eins og Hjálmar væntist eftir, og væri stofan opin eða á hálfa gátt, hallaði prestur henni þegjandi aftur án þess að láta sem hann sæi Hjálmar. Kynlega þótti Tudda þessu við bregða, og batnaði ekki við það skapferli hans. Líða nú fram nokkrir dagar, en einn morgun var það, að Tuddi er rekinn úr baðstofu og fram til kvarnar, og skal hann sópa hana, því kvöldið áður hafði hann orðið seint fyrir að ljúka af ætlunarverki sínu, og er því loks var lokið, þóttist hann hafa haft ærið mikið erfiði um daginn og réði það þá af að láta sópinguna bíða næsta morguns, en nú var Tudda nauðugur einn kostur, því ráðskona hafði sagt honum, að hann mundi ekki fá matar, fyrr en hann hefði sópað kvörnina og fært henni mélið skilvíslega. Tuddi kjagaði því fram til kvarnar með stóra mélskál í hendi og býst til að sópa kvörnina. Hann var aldrei vanur að ganga svo að nokkru verki, að hann eigi áður athugaði allt vandlega og byggi sig sem bezt undir, eða hrapaði svo að nokkru, að hann hefði ekki hentisemi sína og hægindi, og svo var enn. Setur hann nú fyrst mélskálina á kvörnina og leggur í hana sporð þann, sem hann var vanur að hafa til þess að sópa með kvarnarstokkinn. Eftir það sezt hann í sæti sitt hjá kvörninni og snýtir sér vandlega og seilist til tóbaksíláts síns. Það var hrútskyllir einn mikill og vel eltur. Hjálmar var vanur að troða kyllinum fram á handlegg sér millum skyrtunnar og peysunnar og bera hann þar. Hann seilist nú til kyllisins og leysir frá honum, var bundið fyrir hann með snærisþætti og næsta vel um búið og ekki færri en fimm eða sex rembihnútar. Nú, hér er þá orðið lítið um suma hluti, sagði Tuddi við sjálfan sig og hvolfdi um leið því, sem var í pungnum, ofan á vinstra handarbakið, og þá verður að leita prestsins eftir gömlum vanda, en síðan lagði hann nefið ofan að hendinni og svo þétt, að vinstri nösin nam við handarbakið, og sogaði að sér með miklu kvasi og hvalablæstri og svo miklu afli, að allt tóbakið þyrlaðist saman og hvarf allt í einu í nasaholuna; lítur Tuddi á handarbakið og sér, að þar er ekki korn eftir, starir hann nú um stund á höndina og segir: Á, já, já, þetta var þá ekki nema í hana Mjónu - það var vinstri nösin - já, ekki má ég vera svo lengi að hafa ekkert í henni Alvíð, ég er frádæmdur að geta sópað kvörnina, fyrr en ég hef fengið eitthvað í hana; ég verð að reyna til að finna prestinn, þó hann sé nú ekki tagltækur. Þegar Tuddi hafði tautað við sjálfan sig, stendur hann upp og gengur að stofudyrum, sér hann, að lykill stendur í skránni, og veit þá, að prestur muni þar inni; ekki ber Tuddi að dyrum, en tekur að rjála við lykilinn, sem hann vilji upp lúka; prestur heyrir eitthvert hringl við dyrnar og lýkur þegar upp. Tuddi bíður þess ekki, að honum sé inn boðið, og áður prestur geti sagt nokkurt orð, tekur Tuddi svo til máls:

Já, nú held ég komi til yðar kasta, prestur góður, eftir gömlum vanda, hún er nú tóm hún litla okkar hérna, hún tóbakshít, ég verð að biðja yður, húsbóndi minn, eftir gömlum vanda að greiða svolegana lítið fyrir greyinu, sagði Tuddi og otaði um leið tóbakskyllinum að presti.

Ertu orðinn tóbakslaus núna? sagði prestur nokkuð þurrlega.

Já, vita bláberlega tóbakslaus, það er áreiðanlegur sannleiki; ég varð að hlaupa frá kvörninni ósópaðri til að finna yður upp á það, því ég gat ekki verið svona, að hafa ekkert að láta í hana Alvíð, því þegar hún er tóm, þá er ég dauður.

Það er ekki svo langt síðan ég fékk þér tóbak, og þú átt að hafa það til vikunnar, sem ég skammta þér, sagði prestur og byrsti sig.

Já, ég veit það, en það er líka meira en vika síðan; það var á föstudag, sem þér gáfuð mér í punginn, og nú er fimmtudagsmorgunn.

Þú verður að bíða þangað til á morgun, ég held það sé ekkert til skorið hjá kerlingunni, sagði prestur.

Nú, ég léti mér þá lynda, sagði Hjálmar og sté fram á fótinn, þangað til hún er búin að nugga eitthvað í sundur, ef ég gæti fengið eitthvað óskorið laufblað á meðan.

Tekurðu upp í þig líka? sagði prestur.

Ónei, en ég sting því þá heldur svona óskornu upp í slóna á mér, því þá hef ég heldur einhvern mannlegan frið.

Nú þótt ekki lægi sem allra glaðast á presti, gat hann samt ekki gjört að sér að brosa að Hjálmari. Hann gekk þá að skáp þeim, sem þar var í stofunni, og lýkur honum upp og tekur þar út rullustykki og leysir utan af því bréfið og myndar sig til að rekja ofan af því enda handa Hjálmari. Tuddi verður þess brátt var, að nokkuð glaðnar yfir presti; tvístígur hann nú þar á gólfinu, meðan prestur leysir utan af tóbaksbitanum. En af því annaðhvort, að Tuddi átti örðugt með að þegja lengi í einu, eða þá af hinu, að hann hugsaði, að tóbaksendi sá, sem séra Sigvaldi ætlaði að gefa honum, mundi heldur verða lengri en skemmri, ef sér tækist að minnast á eitthvað, er hann hélt, að prest mundi fýsa að heyra, þá tekur hann svo til máls:

Já, eins er það og fyrri, prestur góður, um dúfuna.

Hvað þá? sagði prestur þurrlega.

Á, já, dúfan flýgur út á kvöldin fyrir rökkrið og fuglinn á eftir, ájá, segir Tuddi og skríkir og hlær um leið mjög ámátlega.

Nú veit ég, við hvað þú átt, sagði prestur, en þú ert svo mikill bjáni, Hjálmar, að þér er ekki trúandi til neins.

Já, það verður nú hver að vera eins og hann er skapaður, held ég, sagði Hjálmar og ranghvolfdi í sér augunum og nuggaði saman lófunum, og var auðséð á manninum, að honum geðjaðist ekki alls kostar að því, sem prestur sagði, þó hann yrði að láta svo búið standa - en ekki er ég svo heimskur, að ég þekki ekki dúfuna.

Það var þó ekki satt, sem þú sagðir mér um daginn, að þau færu á daginn út í fjárhús, sagði prestur og rétti um leið að Hjálmari enda af tóbaki - það verður að duga þér, þangað til kerlingin er búin að skera.

Auðséð var á augnatilliti Hjálmars, að hann hefði gilt einu, þó nokkuð ríflegar hefði verið til tekið, og segir nokkuð hærra en í hálfum hljóðmm:

Já, það verður að gjöra það, þakka yður fyrir - en það held ég hafi þó verið satt, sem ég sagði yður. Nú brýndi Hjálmar allt í einu raustina og segir: Ef einhver hefur sagt yður annað um það, prestur minn, þá er það ósannindi; en ég sé það - við þessi orð varð Hjálmari litið á tóbaksendann, sem hann hélt á - að það leitast við hérna, hyskið, að rægja mig við yður; það vill allt ofan af mér skóinn á allar lundir, ég veit það, því þykir ég vera í vegi fyrir sér, og það heldur ég komi upp um það klækjunum; það væri fýsilegt að vita, hver hefur sagt yður, að ég hafi logið að yður.

Það hefur enginn sagt mér það, en ég hef rekið mig á það, að þú sagðir mér ekki satt, eða hefurðu séð það sjálfur? sagði séra Sigvaldi og leit um leið nokkuð alvarlega framan í Hjálmar. Hjálmar svaraði dræmt og sagði:

Raunar sá ég það ekki sjálfur, en því hefur þá verið logið að mér, og maður verður lygari, ef maður hefur nokkuð eftir því hérna; ég skal hugsa eftir honum í annað sinn.

Hverjum þá? sagði prestur byrstur, hver sagði þér það?

Já, það má ég ekki segja, sagði Tuddi.

Þá skalt þú segja mér það, sagði prestur reiðulega og greip annarri hendinni í öxl Tudda. Tuddi ranghvolfdi augunum að presti og sagði:

Æ, æ, ég skal segja það, hann Finnur sagði mér það.

Hann Finnur? sagði prestur dræmt - já, segðu mér það, sem þú sér sjálfur, en ekki það, sem aðrir segja þér, karl minn, og þá erum við góðir vinir, og þá trúi ég þér, sagði séra Sigvaldi og gekk um leið fram að stofudyrunum og lét Hjálmar sjá, að hann ætlaði út.

Ég verð að biðja yður, prestur góður, að staldra við dálítið, á meðan ég tala við yður nokkuð, sem mér ríður á, og það er um meinvættið hérna; ég verð nú að afsegja að mala lengur í henni, ef ekki er gjört við hana; hún ætlar nú að rífa og slíta mig kvikan í sundur lið fyrir lið og tægju fyrir tægju. Ég verð að mælast til, að þér skipið honum Jóni að gjöra við hana. Það verður hana alla gjörsamlega að forbetra og rampónera, hún er öll af göflunum gengin, ég vil ekki, að hún innporti mér það, að hún drepi mig. Ég hef nuddað, nöldrað og jamlað um það óaflátanlega og eilíflega í allan vetur, en hann er ekki farinn til þess enn samt og gjörir það ekki, fyrr en þér skipið honum það; en ekki verður malað, á meðan á því stendur, að verið er að gjöra við hana.

Ég skal láta hann gæta að því, sagði prestur og gekk fram úr stofunni, en Tuddi staulaðist á undan honum og að kvörninni og tekur nú að sópa hana, og er því var lokið, gengur hann til baðstofu og slórir þar að venju fram eftir deginum og er fremur styggur í skapi og lætur sína óþægðina skella á hverjum, sem á hann yrðir. Líður nú fram að miðdegi, og þarf Tuddi ofan og slamrar fram göngin, og er hann er kominn gagnvart búrdyrum, heyrir hann, að einhver kemur ofan loftsstigann, og lítur hann þá aftur og sér, að það er kvenmaður, og gætir hún hans ekki, en gengur að húsdyrum Þórarins og slær með fingrunum tvö högg lítil á hurðina og snýr svo fram til baðstofudyra. Tudda grunar, að þetta muni vera Sigrún, þó hann sæi ekki, hver hún var, og að höggin muni vera eitthvað merki; vill hann nú ekki verða á vegi fyrir Sigrúnu, og þó að Tuddi venjulega væri ekki kvikur á fæti, stekkur hann nú svo fljótt sem kólfi væri skotið inn í skuggann hjá búrdyrunum og lætur Sigrúnu ganga fram hjá sér, og verður hún ekki vör við Tudda. Hún gengur fram í dyrnar og nemur þar staðar við bæjarstafinn og lítur inn eftir göngunum, eins og hún vænti einhvers. Tuddi finnur, að búrdyrnar voru ólokaðar, og fellur hurðin ólæst að stafnum. Hann tekur nú það ráð, að hann smeygir sér inn á milli hurðarinnar og stafsins. Þar stóð baka til við hurðina kassi einn, og var reft fjölum yfir. Tuddi stígur upp á kassann og lætur hurðina falla að dyrustafnum og leggur andlitið við rifuna, er varð á millum hurðarinnar og dyratrésins að ofanverðu; má hann þaðan sjá eftir endilöngum göngunum og svo fram um anddyrið. En þá er Tuddi hefur þannig um búizt, sér hann, að Þórarinn kemur úr baðstofu og gengur fram göngin. Sigrún sneri baki inn í bæjaranddyrið og litast um út á hlaðið, og heyrir hún ekki, er Þórarinn kemur fram dyrnar, en er Þórarinn kemur gagnvart kvörninni, læðist hann og grípur allt í einu báðum höndum undir hendur Sigrúnu, svo hún hrekkur skyndilega við, og verður þá fangið að Þórarni, og sá Tuddi það, að Þórarinn sleppti ekki tökunum á Sigrúnu, þá er hún hrökk við, en kippir henni nær sér og kyssir hana; en það sá Hjálmar ekki glöggt, af því svo langt var til að sjá, hvort kossarnir voru fleiri en einn. Spýtur þær, er reft var yfir kassann, er Tuddi stóð á, voru þunnar og þoldu ekki mikið hnjask, og heyrir Hjálmar, að tekur að hrikta í þeim, og ætlar hann því að stökkva ofan af kassanum, áður en þær brotni. Maðurinn var ekki fimur eða liðugur í snúningum, missir hann jafnvægið og fellur öfugur aftur á bak. Ætlar hann þá að grípa annarri hendinni í hurðina og taka af sér fallið, en af því að hurðin var ólæst, lætur hún undan, og verður honum enginn stuðningur í henni. Fyrir innan kassann og baka til við Tudda stóð sýruker eitt mikið og grafið í jörðu upp að miðju. Kerið mundi hafa verið á að gizka tveggja tunnu ílát, og var hlemmur yfir. Fellur Tuddi öfugur á kerið og lendir á miðjum hlemmnum og svo hart, að furðu þótti gegna. Hlemmurinn var feyskinn, maðurinn þungur, en fallið mikið, og hrekkur hann þegar í sundur, hlemmurinn, en Tuddi fellur tvöfaldur ofan í kerið og allt til botns, svo að vatnaði sýrunni yfir bol og herðar, en hendur og fætur sátu við barma. Tuddi rak upp óp mikið, og það mundi hverjum öðrum hafa orðið fyrir, er svo hættulega hefði verið staddur. Sigrún og Þórarinn heyrðu hljóðið fram í dyrnar, en vissu ekki, hvað um var að vera, urðu þau mjög felmtruð og hlupu sitt í hvora sundrungina, Þórarinn út á hlað, en Sigrún inn í baðstofu, og sögðu þau síðar svo frá, að óp það, er þau heyrðu, hafi verið líkast því, er menn segja frá öskri í nauthveli eða ef menn orga sem mest verður niðri í tómri tunnu eða öðru íláti. Nú er að segja frá Tudda, þar sem hann liggur í kerinu, að hann brýzt um allt það, er hann má, og vill fyrir hvern mun upp komast, en þess var engi kostur. Kerið var ákaflega djúpt, en mjög þröngt, og lá Tuddi þar svo svínbeygður, að engu bolmagni varð við komið. Og þá er hann á marga vegu hafði freistað að komast brott úr kerinu, sér hann, að eigi má hann svo búið láta standa; tekur hann þá það ráð, er honum þótti líkast til nokkurra bjarga, að hann grenjar sem hann mest má og svo hátt, að vel mundi hafa heyrzt rastarlangt eður lengra í logni og vindstillu; enda mundi það og hafa dugað, ef forlögin hefðu ekki ætlað honum meiri mæðu. Þó að hljóðið væri mikið, heyrðist það ekki til baðstofu, og báru margar greinir til þess: það fyrst, að gluggi sá, er var á búrinu, stóð opinn, og leitaði hljóðið meira þar að, sem opið var fyrir: það annað, að búrhurðin var aftur, en baðstofudyrum hafði Sigrún skellt á eftir sér, er hún hljóp inn. Þó mundi þetta eigi hafa verið því til fyrirstöðu, að hljóð Tudda heyrðust til baðstofu, ef ógæfa hans hefði ekki verið svo rík, að rétt um sama leyti sem hann féll í kerið hóf einn af vinnumönnum að kveða rímur á baðstofulofti og kvað hátt og snjallt, en vinnukonur kváðu undir, og varð af glaumur mikill. Eru honum nú þessar bjargir bannaðar, enda sækir hann nú svo mikill kuldi, að vart má hann við þola, því að sýran var illköld mjög; tekur hann nú að skjálfa, og nötrar í honum hver tönn, og svo tekur af honum að draga, að hann fyrir engan mun má hreyfa sig eður hljóði upp koma. Ekki verður feigum forðað eða ófeigum í hel komið, segir málsháttur forn, og svo var enn. Svo leit út sem Tuddi hefði látizt þar í kerinu við lítinn orðstír, ef honum hefði ekki snarlega komið einhver óvænt bjargvættur. En með því honum var ætlað lengra líf, þá ber svo við, að prest sækir mikill þorsti, og fer Guðrún ráðskona fram í búr að sækja honum mjólk að drekka. Ekki var nema einn gluggi á búrinu, og þó hádagur væri, var þar aldrei vel bjart, en nú var farið að halla degi og skuggsýnt, svo aðeins mátti greina hvern hlut frá öðrum, en ekki sjá neitt grannt, þar sem skugga bar á. Ráðskona gekk innar eftir búrinu og að hillu einni, er var um þveran gafl, og gætir hvorki til hægri né vinstri. Á hillunni stóð stór skál með mjólk, gekk Guðrún þar að og tók að hella á könnu þá, er hún hélt á; heyrir hún þá blástur mikinn og más fram í búrinu og því líkast sem væri í ketti. Þar var á bænum steggur einn svartur, afar stór, það var allgóður músaköttur. Þegar músagangur var mikill á staðnum, var Kolur hvervetna boðinn og velkominn, en þess á millum var ráðskonu ekki um veru hans í búri, því Kolur hafði þá venju að gjöra sig þar heimakominn, og þótti honum sér heimilt að hafa það af mat, er honum líkaði, og var þá rjómatrogum ráðskonunnar jafnan ófriður búinn. Ráðskona hyggst nú að taka stegginn og láta hann út; setur hún könnuna á búrhilluna og tekur að svipast eftir Kol fram í búrinu, þar sem hún heyrði blásturinn, og kallar á kis kis; verður henni þá litið til kersins, þar sem Tuddi lá, og sér þar nokkur vegsummerki á orðin; glórir þá í glyrnur tvær við annan sábarminn, en hinum megin rísa upp býfur tvær og eigi litlar. Það vildi til, að Guðrún ráðskona var engin heimótt eða veimiltíta, ella mundi hún þegar hafa liðið út af í öngvit þar á gólfinu. Guðrún æpir upp yfir sig og hleypur með ys og ósköpum til baðstofu, og fer þá sú fregn eins og eldur í sinu um allan bæinn, að Hjálmar tuddi sé fundinn drukknaður og dauður í búrinu. Þýtur hver, sem komast má, og er allt í uppnámi, þyrpast menn nú að kerinu og skyggnast eftir, hvort Tuddi sé þar lífs eða liðinn, og sáu menn fljótt, að Hjálmar var enn ekki örendur, er hann lygndi augunum upp á fólkið og blés ákaflega, en talaði ekki, annaðhvort af því, að hann var orðinn svo dasaður, að hann mátti ekki mæla, eður hins vegar, að hann hafi hugsað, að fæst orð hefðu minnsta ábyrgð. Ráðskona skipaði nú að draga Hjálmar úr kerinu, og varð það með þeim hætti, að tveir vinnumenn gengu til, tók annar fætur Hjálmars, en annar gekk að höfðinu, greip utan um eyrun, og hófu hann svo upp á milli sín og fram á gólf. Reyndist það þá, að Hjálmar hvorki var svo máttfarinn, að hann mætti ekki uppréttur standa, eða hann að öllu hefði misst málið. Þegar Hjálmar kom úr kerinu, var hann heldur ófrýnn; þó gat engum komið til hugar að hlæja að honum, þar sem hann stóð þar á gólfinu nábleikur í framan með úthverf augun og nötraði í honum hver tönn. Ekki gátu griðkonur staðizt að sjá slíka sjón, og hlupu þær í ofboði til baðstofu, en létu karlmennina stumra yfir Hjálmari. Varð þeim það fyrst fyrir, að þeir færðu hann úr utanhafnarfötunum og sóttu síðan brekan og báru hann í upp á loft og lögðu hann í ból sitt. Sagði þá einhver vinnumannanna, að ekki mundi Hjálmar lifna við, nema tekið væri það ráð, er haft var við Gissur jarl, er hann gekk úr sýrukerinu forðum eftir Flugumýrarbrennu; en með því engin af griðkonum var þess fús að taka að sér starfa Þóru, var það afráðið að heita ofan í hann mjólk og búa um hann sem bezt. Næsta dag eftir var Tuddi orðinn vel málhress og gat vel matazt, en ekki vildi hann upp standa þann dag og ekki hinn næsta þar á eftir, en á fjórða degi reis Tuddi á fætur, og sögðu þeir, sem lögðu flest út á verra veg fyrir Hjálmari, að ekki hefði mátt fyrir sjá, hversu lengi hann hefði legið, hefði ekki svo við borið, að hinn sama dag, er hann reis úr rekkjunni, bar upp á þriðjudag og sprengikvöld að aftni, en öskudagur að morgni, en um þær mundir vonir góðra fengja, svo að betra væri að vera á faralds fæti en að halda kyrru fyrir, því sveltur sitjandi kráka, en fær fljúgandi. En sjaldan er ein bára stök. Undir eins og menn sáu, að Hjálmar tók að hressast, fóru menn betur að íhuga atburði þá, er orðið höfðu um slysfarir Tudda; þótti mönnum það ekki grunlaust, að Hjálmar hefði verið staddur í búrinu, þá er hann fékk áfallið, og kom þá upp sá pati þar á staðnum, að Hjálmar mundi hafa farið í búrið í þeim vændum að krækja þar í eitthvað matarkyns; en jafnan, er hann var fréttur um það, í hverjum erindagjörðum hann hefði verið, er hann féll í sáinn, svaraði hann ekki öðru en skætingi einum og kvaðst ætla, að það varðaði lítt, enda væri hann sjálfráður ferða sinna. Kom svo, að ráðskona tók að rannsaka málið, en Hjálmar veitti jafnan hin sömu svör og fór undan í flæmingi. Ekki vildi ráðskona láta svo búið standa, og bar hún sökina fyrir prest, kvað sér ekki grunlaust um, að Hjálmar gengi í búrið og stæli þar slátri og öðru, er hann hafa vildi, og sagði það til jarðteikna, að hann hefði verið staðinn í kerinu, og beiddi prest að láta líta eftir lásum, en gefa Hjálmari nokkra ráðningu. Prestur lét sér í fyrstu fátt um finnast, en svo kom loksins, að hann þóttist ekki mega sitja afskiptalaus af þessu máli. Stefnir hann nú Hjálmari eitt sinn fram í stofu, og segir prestur, hverjar sakargiftir ráðskona bar á hendur honum. Eigi vissu menn, hvað þeir töluðu, en það höfum vér þó fyrir satt, að Tuddi hafi sagt presti af hið sannasta, hverjir atburðir urðu til þess, að hann féll í sáinn, svo og frá því, hvað hann hafi séð þeim Þórarni og Sigrúnu fara á milli, áður en honum hlekktist á. Brá svo við eftir viðræður þeirra Tudda og prests, að búrstuldarmálinu var eytt, og er Hjálmar kom aftur úr stofunni frá presti, sáu menn það, að hann var hinn kátasti og lék alls oddi.


10. kafli

Ráðagjörð Sigvalda prests

Sigvaldi prestur tók nú ógleði mikla og áhyggjur stórar; vakti hann löngum um nætur í hvílu sinni og varð ekki svefns auðið, þá er aðrir menn sváfu. Ekki vissu menn gjörla, hverju það sætti, hugðu sumir, að hann hefði tekið krankleika nokkurn, en enginn þorði eftir að inna. Gekk svo fram um hríð, að prestur var fámáll og áhyggjufullur. En er fram liðu stundir, fór prestur smám saman að hressast; skipti þá mjög í tvö horn um lundarfar hans, að nú gjörðist hann hinn glaðasti og lék við hvern fingur sinn. En jafnan, síðan þeir Hjálmar áttust við, gætti hann svo til, að ekki gafst þeim Þórarni og Sigrúnu færi á að finnast eða talast við annað en það, sem hver mátti heyra.

Það var eitt skipti, nokkru eftir það, að prestur hafði tekið aftur gleði sína, að hann var staddur í stofu; sat hann þar við borðið og las bréf nokkurt; ekki voru fleiri þar í stofunni nema Guðrún ráðskona og fægði tindiska. En er prestur hafði lesið bréfið, brýtur hann það saman, tekur síðan Guðrúnu tali - og nú vil ég, segir hann, að þú lítir eftir nærfötum og klæðum Þórarins mágs míns og hafir þau hrein og á reiðum höndum, hvenær sem til þarf að taka.

Guðrún svarar, að svo skuli vera - en hverju sætir það, segir hún, að þér innið til um slíkt, og eruð þér ekki vanur, bróðir minn, að hlutast til um þess konar eða spyrja um þjónustubrögð karlmanna.

Prestur sannar það satt vera - en því aðeins hlutast ég nú til um þetta mál, segir hann, að mér þykir miklu varða, að allt verði greiðlegt um afgreiðslu fata Þórarins, því nú er það skjótast af að segja, að ekki mun vera hans héðan af verða hér til langframa um stund, og er burtför hans ráðin eftir fáa daga, eða mun ekki sá beztur, að hann leiti héðan um hríð?

Guðrún roðnaði við og segir: Svo er nú komið, að ég mun láta mig litlu varða, hvert á land hann fer, það er nú komið í það horf, en það held ég, að hér séu einhverjir á bænum, sem þurfa að halda eins mikið á tröfunum að strjúka á sér augun, og gilti einu, þó hann væri hérna fyrst til sumarmálanna, eða hefur Hlíðarheimasætan verið spurð til ráða um þessa fyrirætlan? Hvernig ætli henni geðjist að þessu? En sé það satt, þá er mér forvitni á að vita, hvert hann fer.

Hann fer suður til Borgarfjarðar, segir prestur, og er það af mínum toga spunnið; hann skal ekki ílengjast hér í héraði um hríð. Ég er búinn að komast að hinu sanna, systir, og tek nú til þess, sem ég hafði löngu hugsað, ef svo færi, sem ég hélt ekki yrði, að hugur Þórarins hneigðist í aðra átt en ég hafði ætlað, hum, hum, hum! - og þarf ég ekki að tala ljósara, því víst skilur þú, við hvað ég á. En með því fyrirætlan mín um hagi Þórarins hefur frá öndverðu verið öll önnur en að hann ætti þessa Hlíðarjungfrú, þá hef ég hugsað þetta mál vandlega, og gildir mig einu, þó hann fari héðan úr sveit um hríð; en sé svo, að nokkuð meira búi undir þessu flangsi þeirra Þórarins og Sigrúnar, þá mun hér um fara sem mælt er, að svo fyrnast ástir sem fundir, ef þau eru ekki saman; enda mun ég búa svo um hnútana, að annaðhvort skal Sigrún ekki verða hér í sveit að langdvölum, eða þó hitt heldur, að hún þurfi að giftast, þá skal ég styrkja hana til þess. Hér er í sveitinni góð völ á vinnumönnum og kotkörlunum, sem eru við hennar hæfi.

Þá gat Guðrún ekki að sér gjört að skjóta orði inn í ræðuna og segir: Og held ég, bróðir minn, þér segið satt, því ekki er nú slektið göfugra en svo. - En prestur hélt áfram og segir:

Og því verður annað tveggja, að Þórarinn kemur hér aldrei, eða hitt, að hann hlítir mínum ráðum og boðum sæmilegum, tekur hér við staðnum af mér og verður aðstoðarprestur minn og á þig; eru þetta allt mín ráð, og ritaði ég því til fornkunningja mínum og gömlum skólabróður. Hann er sýslumaður í Borgarfirði og heitir G...., vissi ég, að hann nú sem stendur er þénaralaus, og bað ég hann að taka Þórarin, og er nú hér komið bréf frá honum; tekur sýslumaður því máli vel, segist hann hafa góða afspurn af Þórarni, skuli hann hafa kaup gott og vera haldinn sæmilega að klæðum og fæði, en áskilur, að hann komi nú þegar; og biður mig að bregða skjótt við og fá honum hesta og mann til fylgdar, svo að hann verði kominn þangað suður fyrir sumarmál; eða hvernig lízt þér á þessa ráðagjörð?

Guðrún verður nokkuð svo sein til svara, en segir þó eftir litla þögn:

Fyrst þér spyrjið mig, bróðir minn, hvernig mér lítist á þessa ráðagjörð, skal ég segja eins og mér býr í brjósti, og sýnist mér hún allgóð; því þó mér segi svo hugur um, að það eigi ekki fyrir mér að liggja að verða Þórarins aðnjótandi, þá er mér samt svo varið, að ég hef ekki skaplyndi til að horfa lengur á það, að Hlíðartrippan trani sér framan í hann; og skuluð þér vita, að sumir hafa ekki ætíð verið með hýrri há eða heilir innanrifja, síðan hún var tekin hingað í vetur, sem aldrei skyldi verið hafa, og séð, hvaða dálæti sumir hafa haft á henni, þó sumir kannist ekki við það, en ekki veit ég, hvar sumir geta litið á hana til þess að sjá á henni fegurðina og kostina, sem ekki á að vera á sumum; en það er þá ekki þar fyrir, sumir geta þó þótzt of góðir fyrir suma, og ekki ætla ég mér að ganga með grasið í skónum eftir neinum, sem þykjast of góðir fyrir mig.

Tíminn og lagið vinnur það, en þolinmæðina verður að hafa.

Já, þér sögðuð svo um árið, þér munið, hvað þér lofuðuð mér, þegar ég fór til yðar, en hvernig fór það, og var þó lengra komið, sagði Guðrún, og ætli það fari ekki líkt enn? En hvað um það er, ég vil allt til vinna að horfa ekki upp á það lengur; - en eruð þér nú viss um, að Þórarinn vilji fara þangað suður, og hvað lengi á þessi drós að sitja hér?

Hún verður hér til krossmessunnar, segir prestur, eins og lofað var; ég verð að eiga vingott við þau Hlíðarhjón að svo stöddu; maður verður að hafa fleira en eitt járnið í eldinum; - en ég tala nú ekki meira um það að þessu sinni, það kemur fram síðar, ef ég lifi. - En svo ég svari hinu, sem þú spurðir um, þá er ég viss um, að Þórarni mínum mun þykja þetta ráð fýsilegt, sem honum er boðið; ég hef jafnan heyrt það á honum, að hann mundi taka þann kost, ef honum stæði til boða, að ganga í þjónustu göfugra manna, þar til hann hefur aldur til að taka við prestsvígslu, enda kemur honum það ekki óvart, þó hann héðan fari, því svo höfum við áður um talað, að hann skyldi vera sér úti um samastað og atvinnu að sumrinu, en hverfa hingað á vetrum, ef hann ætti ekki annars úrkosta; en þó að hann fari nú héðan nokkru fyrr en ætlað var, þá verður svo að vera, og vil ég; að það verði brátt, og því kvaddi ég þig til þess að sjá um, að allt, sem til ferðarinnar þarf, sé til, þegar til þarf að taka.

Guðrún sagði, að ekki skyldi standa á því, sem hún ætti fram að leggja, sagði sem var, að föt Þórarins væru í góðum þrifum og öll til reiðu, að sönnu væru nokkur nærföt í þvotti, en ekki mundi á löngu líða, áður þau yrðu þurr; tvennir nýir sokkar, er honum væru ætlaðir, væru enn óþæfðir, en einhver vinnumanna skyldi þegar að næsta kvöldi þæfa þá; þessu næst sagði prestur, hvernig hann ætlaði að haga ferðinni og hvað hann vildi til hennar leggja; sagði hann, að maður skyldi fara með Þórarni, svo skyldi og sjóða ein sauðarskammrif og nokkra magála, láta saltað smjör í dall og baka kökur og láta það allt ráðvíslega í malsekk einn; skyldi þetta vera nesti þeirra kompána. Kveðst ráðskona mundu sjá fyrir því eftir fyrirskipun prests, og að því skildu þau talið, og sást það á, að Guðrúnu líkaði þessi tilhögun allvel.

Næsta dag eftir kom prestur að máli við Þórarin og sagði honum fyrirætlun þessa, og tjáir honum frá bréfi sýslumanns og segir honum, hverju honum er heitið; sátu þeir lengi dags tveir á tali í stofu, en ekki segir af því, hvað þeir ræddust við um þetta mál, en hvort er þeir töluðu það lengur eða skemur, þá lauk svo, að brottför Þórarins var ráðin.


11. kafli

Brottför Þórarins og suðurferð

Ekki vitum vér gjörla, hvað prestur ræddi við Þórarin um brottför hans, en á þriðja degi eftir að þau prestur og Guðrún töluðust við, var hver hönd á lofti á Stað, ys og þys, hlaup og köll um allan bæinn; sitt iðjaði hver, og allir unnu nokkuð að brottbúningi Þórarins; ein griðkona drap smjöri í dall, önnur steikti kökur, þriðja varp skó fyrir Finn Bjarnason; húsfreyja saumaði stafi í skyrtur bróður síns. Sigrún sat í húsi hjá húsfreyju og þvengjaði skó Þórarins og skóf þvengina vandlega og smábleytti þá aftur með tárum sínum, er við og við hrundu ofan af kinnum hennar á þvengina og skóna, en enginn sá það, því enginn var í húsinu nema húsfreyja, er annaðhvort var svo önnum kafin við verk sitt, að hún gætti þess ekki, eður hitt, að hún lét sem hún sæi það ekki, þó hún hefði eitthvert veður af. Þórarinn var í herbergi sínu, og stóðu þar á gólfi koffort tvö ekki alllítil, er ætluð voru til ferðarinnar; raðaði Þórarinn niður í þau bókum sínum og klæðum, en Guðrún ráðskona bar jafnóðum fötin til hans, samanbrota sokka, keflaðar skyrtur, bleikt og strokið hálslín; lét hún sem sér væri annast um, að allt væri sem þrifalegast af hendi leyst, sem Þórarinn átti að hafa, og fékkst mikið um; ekki gaf Þórarinn því mikinn gaum, og var hann venju fremur svipdaufur og fámálugur. Á hlaði voru húskarlar prests í mestu óða önn að járna hesta og söðla þá, en prestur sat í stofu og ritaði langa rollu til sýslumanns G....

Þegar Þórarinn eftir áskorun prests hafði afráðið að taka þjónustu hjá sýslumanni G...., tjáði hann undir eins Sigrúnu frá fyrirætlun sinni, sagði og það með, að ekki vildi hann vera lengur þar að Stað á móti vilja mágs síns og í óþakklæti, en jafnframt tjáði hann henni, að það stæði við sama er þau hefðu talað sín á milli, þó hann fjarlægðist, og mundi hann ekki slíta tryggð sína við hana og ekki bindast einkamálum við nokkra aðra stúlku, meðan hann vissi hana á lífi eða ógefna. Sigrúnu hryggði mjög brottför Þórarins, þó hún sæi, að svo yrði að vera, og var hún jafnan sorgbitin, er leið að því, að Þórarinn skyldi fara. En þá er hér var komið sögunni og að því kom, að Þórarinn bjóst til brottfarar, var hún mjög döpur, en bar sig þó svo mikið sem hún mátti að láta ekki aðra menn sjá það, er henni í brjósti bjó; það var og eitt, er hún kveið mest fyrir, en það var, að Þórarinn kveddi hana svo, að nokkur væri nærstaddur, þóttist hún sjá það fyrir; að hún mundi ekki geta stillt sig um að gráta, og mundi það þá ekki geta dulizt þeim, er við væru, að hún hefði Þórarin kærari en augljóst var; og er hún hugsaði um þetta allt, táraðist hún ofan yfir skóna Þórarins. Þó réðist betur úr þessu en á horfðist í fyrstu. Þegar Sigrún hafði þvengjað skóna og snotrað þá sem henni líkaði, gengur hún til prestskonu og fær henni þá, þakkar húsfreyja henni fyrir og segir henni að færa Þórarni þá; verður henni þá um leið litið framan í Sigrúnu og sér, að hún er dapureyg mjög, og með því hún vissi nokkuð til um samdrátt þeirra Þórarins, skilur hún brátt, hver orsök muni til vera; strýkur hún þá hendinni um kinn Sigrúnar og segir, að það muni eitthvað ama að henni og sé ekki ólíklegt, að hið sama hryggi þær báðar - og það skaltu vita, að ekki eru þetta mín ráð, Sigrún mín, en huggaðu þig við það, að drottins vilji mun koma fram. - Sigrún þagði og grét, kyssti húsfreyju og gengur, sem henni var boðið, til Þórarins og færir honum skóna; hittist þá svo á, að enginn maður var þar hjá Þórarni; ætlar Sigrún þegar að snúa aftur úr herberginu, er hún hefur lokið erindi sínu, en er hún er komin gagnvart dyrum, snýr Þórarinn eftir henni og tekur í hönd henni og segir: Lofaðu mér að kveðja þig hér, Sigrún mín góð! Grípur hann hana þá og þrýstir henni í arma sína og kyssir hana og biður hana muna sig, en bréf skuli hún fá frá sér, jafnskjótt sem hann geti því við komið. Að því búnu skreppur Sigrún út og hleypur þegar úr bæ og upp á tún og gengur þar inn í hesthús eitt, er þar stóð á túninu, og felur sig þar, þar til Þórarinn er á brott riðinn, og grætur lengi fögrum tárum brottför Þórarins; en svo var mikill ys og þys á bænum að búa Þórarin á stað, að enginn saknaði Sigrúnar úr bænum. Eftir að þau Sigrún höfðu kvaðzt, býst Þórarinn mjög af skyndingu, og líður ekki á löngu, áður hann er búinn að stíga á hest, og þyrpist nú hvert mannsbarn, er var á staðnum, út á hlað til að kveðja hann, og gengur hann fyrir hvern mann og kveður allt fólkið með kossi; biðja hann allir heilan fara og glaðan aftur koma, því Þórarinn var svo vel þokkaður, að nálega unnu honum allir hugástum; Guðrún ráðskona var og á hlaði, og lítur hún nú yfir heimilisfólkið, er allt stóð í röð á bæjarstéttinni, og saknar hún brátt Sigrúnar, að hún er þar ekki hjá öðrum bæjarmönnum. Tekur þá Guðrún svo til orða og allkímilega, svo Þórarinn mátti vel heyra mál hennar, er hann stóð allnærri:

Er jungfrú Sigrún hér ekki? Líklegast vill þó Þórarinn kveðja hana eins og aðra.

Þórarinn hváaði við, sem hann hefði ekki heyrt, hvað Guðrún mælti; tekur hún þá aftur til orða:

Ég var að tala um, að þér munduð vilja kveðja hana jungfrú Sigrúnu, á ekki einhver að kalla á hana? - sagði Guðrún og leit framan í Þórarin, líklega í því skyni að vita, hvernig honum brygði, en Þórarinn sá þegar, hvað Guðrúnu var innanbrjósts, og lætur sem sér verði ekki bilt við, en svarar undir eins og glottir við:

Og ekki gjörist þess nú þörf, það er nóg, að þér berið henni kveðju mína, og munið þér þá eftir að segja, að ég biðji ástsamlega að heilsa henni.

Þegar Þórarinn hafði þetta sagt, kveður hann Guðrúnu og minnist við systur sína og mág sinn, og skiljast þau öll með hinni mestu blíðu; stígur Þórarinn á hest sinn, og er þá Finnur Bjarnason fylgdarmaður hans farinn skammt út í túntraðirnar, og í því Þórarinn keyrir hest sinn úr hlaði, tekur hann ofan svo sem til þess síðast að kasta kveðju á fólkið allt saman; raðar fólkið sér þá í þyrpingu á stéttinni, er það vissi áður eftir undirlagi prests, hvað fram skyldi fara. Tekur prestur ofan skotthúfu sína, er hann var vanur að hafa heima, og syngur Þórarin úr garði, og var það alltítt, er einhver flutti sig búferlum og mikið skyldi við hafa, og var þá til þess valið annaðhvort eitthvert sálmvers, er vel þótti við eiga, eða eitthvað, sem ort var í þann svipinn og ætlað var við slíkt tækifæri. Söng nú fólkið, það sem á stéttinni stóð, undir, en prestur hafði forsönginn, og hafði hann sjálfur ort brottfararstefið, og var það þannig:

Fylgi þér, mágur, farsæld nú,
fagnaðar kerin hljóttu,
þess óskum vér af ást og trú,
allt eins um dag sem nóttu;
gæfan þig jafnan geymi frá
      glötunar skerja boða
      og villu voða,
ört til sanns þar til augun fá
þig aftur dýrðlegan skoða.

Þegar burtfararversið var sungið og Þórarinn riðinn út fyrir tún, sneri prestur og heimilisfólk til baðstofu; um sama leyti gægist Sigrún út úr hesthúsinu, og sér hún þá, hvar hillir undir þá Finn á melunum suður frá túninu, starir hún lengi eftir þeim, en síðan tekur hún að þurrka tárin úr augum sér, er lengi höfðu flotið viðstöðulaust, og tekst henni það um síðir að hyggja svo af harmi sínum, að gráturinn hætti og tárin stöðvast; gengur hún bráðum til bæjar og upp á loft og settist þar á rúm sitt, og bar ekki á öðru en hún væri allkát, nema venju þótti bregða, hversu rauðeygð hún var og föl yfirlitum. Guðrún ráðskona var hin glaðasta, ekki bar hún Sigrúnu kveðju Þórarins, en það var eins og hún hefði einhvern grun á því, að ekki lægi sem bezt á Sigrúnu og að tilefnið mundi vera það, að henni þætti brottför Þórarins ekki alls kostar góð, enda notaði Guðrún sér það þann dag allan; var henni uppsigað að tala um Þórarin og hafa hann jafnan á vörunum, og rakti hún allan forlagaferil hans á Suðurlandi; þar mundi hann, sagði hún, komast í mikinn veg og gengi, og mundi það vart liggja fyrir honum að koma þar á slóðir aftur eða í Staðarhrepp; það væri sýnt, að hann mundi staðnæmast þar syðra; fyrst mundi hann verða skrifari nokkur ár hjá sýslumanni G.... og komast í kærleika við hann; þá kveðst hún hafa sannspurt, að sýslumaður ætti sér, eins og segir í þulunni, tvær dætur og tvær hvalsmjörstunnur, eða með öðrum orðum: tvær gjafvaxta dætur og auð mikinn til að gjöra þær vel úr garði; væri ekkert líkara en Þórarinn bæri sig að krækja í aðra hvora þeirra dætranna, enda væri það líklegt, að sýslumaður vildi unna honum þess kvonfangs, er maðurinn væri álitlegur og vel að sér í mörgu. Það má geta nærri, að slíkar ræður geðjuðust ekki Sigrúnu alls kostar, og jók það áhyggjur hennar og harma; og þó hún á annan bóginn gæti ekki trúað því um Þórarin, að hann mundi bregða heit sín við hana, þótti henni þó á hinn bóginn ekki ólíklegt, að þar að mundi draga, að svo færi sem Guðrún gat til, að Þórarni þætti fýsilegra að staðnæmast þar syðra en hverfa aftur til átthaga sinna, mundi það og að sönnu verða, að mikið reyndi á tryggð hans, þar sem líkindi væri til, að honum byðist góð kvonföng og álitlegar og auðugar stúlkur, en hún fátæk og lítils háttar. Allar þessar hugsanir vöktu fyrir henni og gjörðu hana harmþrungna og hugsjúka nótt og dag.

Af ferðum þeirra Þórarins og Finns segir ekki annað en þeir fá færð góða og veður hin beztu; tekst þeim svo greiðlega, að þeir koma á fimmta degi til sýslumanns G.... Er þeim þar vel fagnað. Bíður Finnur þar um kyrrt í tvo daga og hvílir hesta sína. Á meðan ritar Þórarinn mági sínum og systur og segir þeim frá suðurferð sinni og svo, hvernig sér hafi verið fagnað, er hann þar kom, og lætur vel yfir, að hann muni brátt una þar vel hag sínum. Þá skrifaði hann og Sigrúnu til og selur bréfið í hendur Finni vini sínum og biður hann gæta þess vandlega og segir honum að láta það ekki fara fleiri manna á milli en hans og Sigrúnar, og heitir Finnur honum því, en Þórarinn heitir vináttu sinni á móti. Síðan snýr Finnur aftur heimleiðis, og kemur hann að Stað og skilar þar bréfum þeim, er hann átti að flytja til prests og húsfreyju. Sigrúnu fékk hann bréf Þórarins svo, að enginn maður annar varð þess vís. Tekur Guðrún eftir því, að henni virtist yfirbragð Sigrúnar öllu hýrlegra en áður, eftir það Finnur kom að sunnan, og dregur hún þar af líkur til, að svo gæti verið, að hún hefði fengið bréf frá Þórarni, og vill fyrir hvern mun komast eftir, hvort nokkuð í væri; og einn morgun gjörir hún sig mjög vinalega við Finn Bjarnason og dregur hann með sér inn í búr, læsir síðan búrinu og setur þar fyrir hann súrsaða lundabagga og hrútskjamma mikinn og annan fagnað og biður hann að fá sér þar bita, sezt síðan á dall einn þar í búrinu og tekur að spyrja Finn ýmsra tíðinda af Suðurlandi, og þar kemur loks, að hún fréttir hann að, hvort Þórarinn hafi sent Sigrúnu nokkurt bréf, og neitar Finnur því; þá spyr hún hann, hvort hann hafi ekki átt að skila kveðju til hennar, og segir Finnur nei við því, hafi hann engum beðið að heilsa sérílagi nema þeim hjónum og svo Guðrúnu, og verður Guðrún harla glöð við það og innir hann oftlega að, hvort hann segi það nú satt, og kemur svo, að Finnur skammar sig, sver og sárt við leggur, að svo sé sem hann segi; ljúka þau svo talinu, að Guðrún trúir því, en Finnur þykist vel hafa veitt og óskar þess með sjálfum sér, að hann kæmi á hverjum degi af Suðurlandi.

Sigrún las bréf sitt og varð því forkunnar fegin; sagði Þórarinn henni þar frá suðurferð sinni, en einkum því, hversu mikið hann saknaði hennar og hversu heitt hann elskaði hana og að hann hugsaði oft um hana og dreymdi hana á hverri nóttu, hversu ófarsæll og ógæfumaður hann mundi verða, ef hann fengi ekki hennar að njóta, og allt annað, sem unnustar eru vanir að rita unnustum sínum; bréfinu fylgdu og vísur nokkrar, er Þórarinn hafði kveðið til Sigrúnar á suðurferðinni; lærði Sigrún þær skjótt og hafði þær upp fyrir munni sér kvöld og morgun sem Faðirvor og oft þess á milli; vísur þessar voru þannig:

Sé ég í fjarska fjöllin blá,
er fyrrum glaður sat ég hjá,
þar sem fasta tók ég tryggð
tinda við og sælu byggð.

Sé ég í fjarska fjöllin blá,
þau firrast mig og vilja ei sjá
sveininn þann, er enn þeim ann
öllu af hjarta bezt sem kann.

Þau hylja mína Hlíðar rós,
mitt hugumblíða augna ljós;
hrímdögg víst sú vökvuð er,
vinur hennar burt þá fer.

Veit ég, að þið tryggða tröll,
hin traustu og gömlu Íslands fjöll,
hlýið minni Hlíðar rós,
hún er minnar ævi ljós.


12. kafli

Í tali daglegu temdu þér list þá
(því lævís henni hann Lucifer kom á)
sem greiðast biblíugreinum sletta.
                  S. P.

Annar sunnudagur eftir páska, Markús í 17.- æ, hvað er ég að þvaðra? - Jóhannes í 9., sá góði hirðirinn; enginn kemur nú til kirkju í dag, það er ég viss um, sagði séra Sigvaldi og gekk um gólf í stofu sinni, klæddur á kjól og með hvítan kraga um hálsinn - samt mun betra til vonar og vara að taka eitthvað til, til að fara með á stólinn, ef rækallinn rekur það á mig. - Þegar séra Sigvaldi hafði sagt þetta við sjálfan sig, gengur hann að skáp einum, er stóð þar í stofunni. Skápurinn var litaður dökkgrænn með rauðum listum og læst hurð fyrir, en á hurðinni framanverðri stóðu tvær línur af höfðaletri: "Þenna skáp á Árni Einarsson með réttu", og ártalið, nær hann hafði verið smíðaður. Bæði bókstafirnir og tölustafirnir voru rauðir, og var auðráðið af nafninu, að þessi skápur væri erfðafé Sigvalda prests, því séra Sigvaldi var Árnason. Prestur tekur upp úr vasa sínum lyklakerfi, og var þar á einn lykill, er gekk að skápnum. Innan í skápnum voru sex rennihvolf, dregur prestur eitt af þeim út og gengur með það að stofuborði og setur það þar og sezt síðan niður við borðið. Í rennihvolfinu voru á að geta 10 eða 11 baggar eða bindini af skrifuðum kverum, og um sérhvern bagga var hnýtt annaðhvort hvítum eltiskinnsþvengjum eður svörtum reimartygli. Í bögglum þessum var sálarforði sóknarbarna Sigvalda prests, er hann var vanur að útbýta þeim á hverjum löghelgum degi, ef óveður eður önnur lögmæt forföll bönnuðu ekki. Ýmislega voru bindini þessi löguð að líkamlegum skapnaði, voru sum í átta blaða broti, sum voru áþekkust almanökum; þá voru sum löng og mjó og ekki ósvipuð markatöflum eða hústöflunni gömlu, sem prentuð var á Hólum. Þá er prestur var setztur við stofuborðið, tekur hann að blaða í ræðubögglum sínum, leysir bandið utan af hverjum fyrir sig og leitar í sérhverjum, bindur utan um þá aftur og leggur síðan hvern, sem búinn var, hjá sér á borðið og raulaði eitthvað erindi fyrir munni sér, eins og menn eru vanir að gjöra, er þeir dunda við eitthvað verk, er ekki þarf mikillar umhugsunar; en eftir því sem honum sóttist verkið og fækka tóku bögglarnir, þeir sem óskaddaðir voru, mátti sjá það á svip prests og öllum látum, að líkt fór fyrir honum og manninum forðum, þá er konungur veitti honum leyfi til að kjósa tréð, er hann skyldi hanga á, að hann fann það ekki svo bráðlega. Eru nú aðeins eftir tveir bögglar óskoðaðir. Lítur prestur þá ofan í rennihvolfið og segir: Hér er þá ekki um auðugan garð að gresja og ekki annað eftir en skræðurnar, sem ég fékk hjá honum séra Sveini heitnum, tröll hafi nú tóbakið, hum, hum! - Á ég engar skræður, sem þéna þessu guðspjalli? - Það verður þó að vera eitthvað hér, það átti að vera heill árgangur, ég gaf honum þrjú hundruð af þorskhöfðum, því hafa þeir gárungarnir - það heyrir enginn til - haft það nafn á þeim að kalla þær þorskhöfðapredikanir. - Í þessu tekur prestur annan baggann, sem eftir var í hvolfinu, leysir utan af honum og fer að leita, og er hann hefur um stund blaðað í bagganum, lítur hann á eitt heftið og segir: Það lá að, hér kemur hún - ræða á annan sunnudag eftir páska - óþarfa langt exordium - látum oss sjá, hvað leggjum við út af? sagði prestur og lét augun hlaupa yfir fremstu blaðsíðurnar af ræðunni og les síðan í hálfum hljóðum:

Vér viljum því, kærir bræður, á þessu litla stundarkorni í kortleika og eftir vorum brostfeldugu efnum yfirvega út af þessa dags evangelio: primo eða í fyrsta máta, að vér allir séum vankaðir - rétt er það, sagði prestur, og secundo eða fyrir það annað - já, þar hef ég nú ítem - að vér, rétt er það, etc., hum, hum - en hér er galli á gjöf Njarðar, vantar sumsé tvö eða þrjú blöð aftan af ræðunni, og svo mun ég hafa fengið hana - skaði er, hvernig allt fúnaði og skemmdist hjá honum sauðnum, hum, hum - og bænina, hum, hum, en úr því er nú betra að ráða - en hitt var verra - en látum samt sjá, hér getur verið amen eftir efninu, hum, hum.

Í þessum svifum var stofunni lokið upp, og kom Guðrún ráðskona inn, fer þá prestur að hraða sér að láta aftur niður í hvolfið bindinin, en stingur ræðunni í vasa sinn og varpar um leið orðum á Guðrúnu og segir:

Sést til nokkurs kirkjufólks, jungfrú Guðrún?

Einhverjar tvær karlmannshræður eru að koma hérna neðan túnið; mér sýndist annar þeirra líkur meðhjálparanum.

Já, hann er allténd að þessu rölti, karlhólkurinn, sagði prestur, þó enginn komi; og ekki nema einn með honum?

Nei, ekki sýndist mér það vera; það kemur varla margt í þessari færð, og nýafstaðnir páskarnir.

Það hefur nú fengið nokkuð af messum, held ég, og seinast á sunnudaginn að var. - Þú vísar honum hingað inn, meðhjálparanum, sagði prestur og stakk rennihvolfinu inn í skápinn og læsti.

Hann mun rata, vænti ég, sjálfur, vanur er hann því, sagði Guðrún ráðskona og gekk aftur út; en að lítilli stundu liðinni er stofunni lokið aftur upp, og kemur inn maður nokkur. Það var meðhjálparinn. Hann var meðalmaður á hæð, þéttvaxinn og þreklegur, rjóðleitur í andliti, kringluleitur og þó mikilleitur nokkuð og svo til svipsins sem hann hefði sjálfur fulla vissu um það, að hann væri spekingur að viti; hann hafði hár mikið og greitt aftur beggja megin við eyrun, og sást ennið allt, og var það ekki alllítið. Hann var svo klæddur, að hann var á blárri peysu silfurhnepptri, bol tvíhnepptum og svörtum hnébuxum, og var klauf á neðan og þar í þrír hnappar, á ljósbláum langsokkum brugðnum og mosaböndum. Hann bar hátt höfuðið og velti vöngum, gekk djarfmannlega, og var ljóst á öllu látbragði, að maðurinn þóttist eiga nokkuð undir sér. En er hann kom á mitt stofugólfið, kveður hann prest og segir:

Heilir ávallt, prestur góður; ég á að minnast þess, að konan mín óskar yður góðs.

Sælir og blessaðir, Grímur minn, sagði prestur, sjaldan látið þér standa á yður.

Mér ber, prestur góður, að minnast orða postulans: Hver embætti hefur, hann gæti þess. Það væri ekki alllítil minnkun, ef það stæði á meðhjálparamyndinni, sagði Grímur og velti vöngum.

Komuð þér einsamall, monsér Grímur?

Nei, nei, prestur góður, ég lét einn af drengjunum mínum ganga með mér, sagði meðhjálpari.

Viljið þér ekki setja yður niður, meðhjálpari minn, sagði prestur.

Þökk er mér á því, en með leyfi yðar, prestur góður, ætla ég að bregða mér fyrst út í kirkjuna og líta að altarispípunum, ef messað kynni að verða, og þeirra orsaka vegna verð ég að biðja um lykilinn.

Hann er að venju, Grímur minn, í glugganum, sagði prestur.

Grímur meðhjálpari gekk að glugga og tók þar lykilinn, spennti hann báðum höndum og vagaði fram gólfið og hélt honum svo á brjóstinu, og var auðséð, að honum þótti ekki vegur sinn minnka, er hann hafði í höndum skýrar jarðteiknir embættis síns og ágætis. Líður nú lítil stund, og kemur Grímur aftur; veltir hann enn vöngum og segir:

Nú vona ég, að allt sé tilbúið í kirkjunni, ef á þarf að halda, prestur góður; en ég held, prestur minn, að þér í dag megið segja um okkur sóknarbörnin yðar eins og spámaðurinn Jeremías til hinnar harðsnúnu kynslóðar Ísraelslýðs: Húsið Ísrael skeytir mér ekki líka svo sem sú kvinna, sem ekki sætir sínum unnusta lengur, sagði Grímur og velti vöngum - hér mun verða fátt um heyrendur orðsins í dag.

Já, ég vænti það verði fátt um kirkjufólk í dag, sagði prestur, ég hafði þó búizt við, að það hefði orðið messað - gjörið þér svo vel, meðhjálpari minn, að setja yður niður og fá yður dálítið tár í staupinu.

Um leið tók prestur silfurstaup, er stóð í glugganum, og flösku og hellti á staupið, tekur það og setur á munn sér og drekkur það ofan til hálfs, skenkir síðan á það aftur fullt og býður Grími; gengur hann að borðinu, hneigir sig, veltir vöngum og setur á munn sér og drekkur þó ei nema rúman þriðjung; prestur sér, að hann hefur drukkið lítið af, og segir:

Þér gjörið þessu harla lítinn kostnað, meðhjálpari minn.

Og er það þó eigi af því, prestur minn, að ég fyrirlíti gáfu drottins eður álíti það vanvirðu vín að smakka, því Salomon segir: Hóflega drukkið vín gleður mannsins hjarta. En hitt er það, prestur góður, ég lét konuna mína skenkja mér vænt staup, áður en ég fór að heiman; - en fyrst þér af örlæti yðar viljið svo vel gjöra, þá er mér þökk á, að ég mætti kalla á drenginn minn til að fá svo sem hálft staup.

Já, sjálfsagt, sagði prestur, það er ekki orða vert. Hver er sá, sem með yður er?

Það er sonur minn Egill, hann er kominn aftur til mín fyrir fám dögum; en eins og yður er kunnugt, hefur hann nokkur ár verið hjá móðurfrænda sínum Árna mínum á Völlum, sagði Grímur.

Og er hann kominn með yður? - mér þykir vænt um að sjá hann - ég hef heyrt þess getið, að hann væri kominn heim til yðar aftur. Þér áttuð, Grímur minn, að láta hann undir eins koma inn með yður; þér vitið það, meðhjálpari minn, að þér og allir yðar eru velkomnir í mínum húsum, sagði prestur. Grímur gekk fram eftir stofugólfinu; en er hann var kominn hér um bil fram á mitt gólfið, segir prestur í hálfum hljóðum, en þó svo hátt, að vel mundi Grímur hafa mátt heyra: Sómafólk allt það fólk. Grímur sneri sér við að presti og sagði: Hvað þóknast yður, prestur minn?

Og það var ekkert, sagði prestur dræmt, látið þér piltinn yðar koma inn.

Grímur lauk upp stofunni og stóð á þrepskildi, situr Egill þar í anddyrinu og talaði við einhvern af vinnumönnum. Egill var maður um tvítugsaldur, hár vexti og mundi skorta alllítið á þrjár álnir, hábeinn og herðalítill, toginleitur og grannleitur, ljóshærður, og féll hárið ofan um hálsinn og þverstýft að neðan; að framanverðu hékk það ofan á mitt ennið og var þar einna þykkast. Hann var að öllu eins klæddur eins og faðir hans nema það eina, að vesti hans og hálsklútur voru ljósleitari. Grímur stóð í stofudyrum, eins og áður er sagt, kallar hann á Egil og segir:

Egill litli, kondu! Prestinum þóknast að sjá þig - heilsaðu prestinum, drengur minn.

Egill gekk innar stofugólfið og þar að, sem séra Sigvaldi sat, tók í hönd honum, kyssti hann og hneigði sig. Prestur bað hann taka sæti þar við borðið hjá föður sínum og skenkti honum á staup; tók Egill það og saup í stað upp, tók í hönd presti og hneigði sig á þann hátt, sem kvenmenn hneigja sig nú á dögum, og settist síðan niður aftur; tók þá prestur til orða og snýr málinu til Gríms og segir:

Mér sýnist, meðhjálpari minn, að pilturinn sé farinn nokkuð að togna, þér verðið að fara að hætta að kalla hann lítinn.

Og ekki er hann stór, drengurinn, sagði meðhjálpari og velti vöngum, en hann er enginn afturkreistingur, heldur svona við sig á sínum aldri; hversu gamall ertu, sonur?

Ég, faðir minn? - ég var nítján vetra um jólin í vetur, sagði Egill.

Svo mun það vera, hann er frumburður sinnar móður, sagði meðhjálpari.

Allt mannvænlegt fólk, sem að honum stendur, sagði prestur, munu fáir hér um sveitir vera efnilegri á hans aldri, held ég.

Þetta er rengla enn þá, prestur minn, og óharðnað, sem von er til, sagði Grímur, það er heldur ekki allt komið undir styrkleikanum, því vizkan er betri en styrkleikinn, og einn vitur sonur gleður sinn föður, en fávís sonur er móður sinnar hryggð, segir Salomon; en svo er guði fyrir að þakka, að þau eru ekki heimsk, krakkarnir mínir.

Þau eiga heldur ekki neina heimskingja í ætt sinni, sagði prestur, allt skýrleiksfólk, hum, hum.

Ekki sæmir mér að miklast af vitinu, sagði Grímur og velti drjúgum vöngum, því hvað er það, maður, sem þú ekki hefur þegið; en það lítið, sem hann kann, drengurinn, til munnsins, þá er það honum Árna mínum á Völlum að þakka, og það veit ég, að hún móðir hans vill, að hann stæði ekki á baki annarra í þess konar. Meðal annarra orða, prestur minn, ég ætla að minnast á það, meðan ég man: Má ég láta drenginn sitja hjá mér í kórnum? - mér þykir það svo sem si svona hýrara, þar ég á að heita meðhjálparamynd. Þá gæti hann séð á Gradúalið hjá mér, hann hefur að minni hyggju ekki ólagleg hljóð, drengurinn, og ef hann vanaði söng, gæti hann einhvern tíma tekið undir vers.

Það er sjálfsagt, Grímur minn, að þér látið hann sitja hjá yður, sagði prestur, ekki er of mikið um söngmennina í kórnum.

Það var gáta mín, sagði Grímur, en má ég enn fremur leyfa mér að spyrja yður: Mundi yður mislíka, þó ég við og við léti hann taka í klukkustrenginn fyrir mig á helgum? - en á stórhátíðum öllum hringi ég sjálfur.

Þér gjörið sem yður þóknast með það, meðhjálpari minn, sagði prestur.

Í þetta mund kom einhver í stofu og sagði, að nú sæist til allmargs kirkjufólks; varð presti nokkuð bilt við þá fregn, en Grímur stóð upp, velti vöngum og sagði:

Látum oss þá ganga í kirkju og breiða á altarið, og kondu með, Egill litli, það er jafngott, þó þú lítir eftir, hvernig ég fer að breiða á altarið; hvar lét ég kirkjulykilinn?

Hann er hérna, faðir minn, segir Egill, á ég ekki að halda á honum út?

Hann ber ég sjálfur, drengur minn, þú ert of ungur og óráðinn að fara með þann hlut, sagði Grímur og tók um leið lykilinn, spennti hann greipum, hneigði sig fyrir presti og gengur til kirkju.

Ekki kom margt kirkjufólk þann dag, en þó taldist svo til, að messufært varð. Tíðagjörðin fór að venju reglulega fram. Prestur var ekki eins langorður eins og hann var vanur, og sögðu sumir á efiir, að ræðan hefði orðið nokkuð snubbótt í endanum og bænagjörð prests styttri en venja var til, en þó allhjartnæm. Önnur tíðindi höfðu menn ekki frá kirkjunni að segja nema það, að nýr maður hefði verið settur í kórinn þann dag, og það væri sonur meðhjálpara, hann hefði allra fallegustu dillandi hljóð og hefði sungið svo hátt, að það hefði verið allt eins og aðrir hefðu þagað í kirkjunni. Hann mundi með tímanum eiga að verða meðhjálpari eftir föður sinn, því meðhjálparinn hefði látið hann klykkja út í fyrsta sinni; en svo hafði illa til tekizt, að klukkustrengurinn hafði hrokkið sundur, svo að hætta varð að hringja í miðju kafi. Eftir messuna tók kirkjufólk smám saman að fara heim, en sumt staldraði við, þar til búið var að gjöra því nokkurn greiða. Meðal annarra, sem komið höfðu til kirkju, var Sigurður bóndi frá Hlíð; hafði hann ekki komið, fyrr en farið var að byrja stólsvers. Eftir messu gekk hann til stofu og kvaddi prest, og tók prestur kveðju hans blíðlega; ber Sigurður síðan upp erindi sín, að hann ætli að biðja þar næturgistingar, og tekur prestur því líklega og biður Sigurð að gjöra sig þar heimakominn; er prestur hinn kátasti. Eftir þetta gengur prestur til baðstofu og hittir prestskonu og Sigrúnu. Um þetta leyti höfðu þeir feðgar Grímur og Egill ærið að starfa: slökkva ljósin í kirkjunni, koma fyrir skrúða og láta hvern hlut á réttan stað. En er því var lokið, gengur Grímur til stofu og lætur Egil koma með sér; tekur Grímur í hönd presti, hneigir sig og segir:

Guðsást fyrir kenninguna, prestur góður!

Haldið þér til góða, meðhjálpari minn, segir prestur, og setjið þér yður niður, Grímur minn, ítem þér, ungi maður, Egill minn, tyllið þér yður niður, ég held kvenfólkið komi hér með volgan sopa fyrir okkur, hum, hum, sagði prestur, og varla var hann búinn að sleppa orðinu og þeir feðgar niður setztir, fyrr en stofunni er upp lokið og tveir kvenmenn koma inn; sú, sem á undan gekk, var húsfreyja og bar kaffibolla í hægri hendi, en sú, sem síðar gekk, var Sigrún frá Hlíð, og hélt hún á sínum bolla í hvorri hendi. Sigrún nemur staðar rétt fyrir innan dyrnar og stendur þar með bollana, en húsfreyja gengur innar og setur þann bollann, er hún heldur á, fyrir prest; presti verður ekki litið á Sigrúnu, þar sem hún stóð, og segir í hálfum hljóðum:

Kemur ekkert fyrir meðhjálparann?

Jú, hér er sopi fyrir þá feðgana, sagði prestskona og sneri sér við og tekur við bollunum af Sigrúnu og setur þá fyrir þá feðga og gengur út og segir við Sigrúnu um leið:

Bíddu hérna og komdu með bollana, þegar þeir eru búnir að drekka.

Sigrún varð því eftir og stóð í stofuhorninu, en prestur og meðhjálpari taka tal saman, og hnígur viðtal þeirra helzt að veðráttu og hvernig vora mundi. Egill lagði ekki til þeirra mála, en það sér prestur, að honum verður tíðara litið fram í stofuhornið en áður, og grunar prest, þó hann gamall sé, hvert tilefni þess var. Drekka þeir nú kaffið, og sér Sigrún það og gengur að borðinu og heimtar saman bollana; fer enn svo, að Agli verður nokkuð starsýnt á hana. Egill var maður ungur og óráðinn og lítt kunnugur því siðalögmáli, sem nokkrir kunna vel að halda. Hið fyrsta og æðsta boðorð í lögmáli þessu er þannig: Þú skalt ekki einblína fyrir augum allra á stúlku þá, sem þér lízt vel á og vilt ástir af fá, það er óráðlegt og henni óþægilegt, sættu heldur ráðvíslega lagi; lát sem þú takir ei eftir henni, meðan menn hafa augun á ykkur báðum, en skotra augum til hennar, þegar engan varir, vertu aftur fljótur að koma andliti þínu í sömu fellingar og stellingar og snar og sniðugur að snúa augunum í aðra átt, áður þeir líta við.

Þessa íþrótt kunni Egill ekki, því hann var sannkallað barn í lögum. Hann starði svo lengi og stöðugt á Sigrúnu eins og hann ætlaði að krækja hana að sér með augunum, og var hverjum heilskyggnum hægt að sjá og vita, hvað hann hugsaði, það er í fám orðum: Á þessa stúlku lízt mér vel, ég vildi ég ætti hana. Sigrúnu gat ekki dulizt, hvað Agli var innanbrjósts; hún roðnaði út undir eyru, flýtti sér að taka saman bollana á borðinu og skauzt út í skyndingu. Prestur leit eftir henni, gekk um gólf þegjandi um hríð og hummaði, eins og hann væri eitthvað að hugsa, en segir síðan:

Þekkið þér, Grímur minn, þessa stúlku, sem inn kom?

Ég er nú, prestur minn, farinn að gefa þeim minni gaum, ungu meyjunum, en þegar ég var í broddi lífsins, sagði Grímur, velti vöngum og brosti í kamp, var það ekki fósturdóttir hjónanna í Hlíð? - ekki man ég, hvað hún heitir.

Sigrún, svaraði prestur, ein fríðleiksstúlkan, hum, hum.

Ekki er á það að líta, fríð er kvensniftin, hún er, eins og Salomon að orði kemst, blóm í Saron og rós í dalnum.

Slíkt er nú ungra manna, sagði prestur og hálfbrosti og leit til Egils, að sjá, hvað þeim líður, þessum ungu og upprennandi konuefnum - ég verð eitthvað að gjöra mér til gamans við hann Egil minn, sagði prestur og kinkaði kolli framan í hann, hver veit, nema hann sé nú farinn að líta í kringum sig einhvers staðar; þetta veit enginn, fyrr en það kemur upp úr kafinu allt í einu fyrir þessum ungu og efnilegu mönnum, hum, hum.

Og ekki held ég það, sagði meðhjálpari og velti vöngum, ég býst við það sé eins fyrir honum drengnum enn þá og þar stendur: Sjá, ég leitaði um nóttina í sæng minni eftir henni, er sál mín elskar, og ég leitaði og fann ekki - þó getur hann betur sagt frá þessu sjálfur.

Ég held þér megið óhætt fullyrða það, babbi, sagði Egill.

Já, ég hugsaði svo mundi vera - þó er það satt, sem þér segið, prestur góður, slíkt er ungra manna, og ekki veit ég, hvort hann er öllu óefnilegri, drengurinn, þó ég eigi hann, en sumir, sem kvongast nú um stundir; það veit ég og, að hver, sem finnur eina eiginkonu, hann finnur góðan hlut og meðtekur velþóknun af drottni; en mér virðist, að sumir, sem taka sér eiginkonur, séu ekki allir færir um það.

Dagsanna er það, sagði prestur - en svo að við sleppum nú þessu gamni: þér eigið nú, Grímur minn, fjóra syni, alla efnilega og mannvænlega.

Svo er sem þér segið, sagði Grímur, fjóra á ég strákana, og sex eru heimasæturnar; ég má undir taka með Davíð og segja: Sá maður er sæll, sem guð gefur mikinn fjölda barna - og svo er fyrir þakkandi, að ég hef hingað til haft nægilegt fyrir þau að leggja, svo þau eru engir afturkreistingar, barnahróin; ég hef aldrei ríkur maður verið, enda hef ég aldrei eftir auði sótzt, heldur, eins og Agúr, beðið: Gef mér hvorki skort né auðæfi, en láttu mig hafa minn deildan verð.

Þér hafið, Grímur minn, sagði prestur, gjört það eins og annað með sóma að koma börnum yðar fram, það má segja, hum, hum.

Ekki mun ég hrósa mér sjálfur, því Salomon segir: Láttu aðra en þinn eigin munn hrósa þér, sagði Grímur og velti vöngum, en prestur hélt áfram og segir:

Já, það hrós eigið þér skilið, þér hafið verið fyrirmynd annarra að venja börn yðar til góðra siða, og ávöxturinn er sá, að nú sækjast allir eftir þeim.

Það getur verið, að þeir fengi dvöl, drengirnir; en þó þeir eigi hart hjá mér og hafi skort á mörgu, þá viljum við ekki, foreldramyndirnar, að þeir flækist frá okkur, til þess þeir fari í misjafna eða óvandaða samastaði, því á syndara samkomu brennur eldur, segir Sýrak; en byðist þeim góðar vistir, mundi ég ekki fyrirmuna þeim að fara frá mér, því ekki þarf ég þeirra allra með.

Hér ber þá vel í veiði, segir prestur, það er hér einn bóndi í sveitinni, sem hefur beðið mig að útvega sér vinnumann, ráðvandan og duglegan, og ég ber ekki á móti því, að hann hefur helzt tilgreint einhvern af sonum yðar - samastaðurinn er góður, það skal ég ábyrgjast, og bæjarbragurinn er hinn bezti, það ég frekast til veit, annars mundi ég ekki mæla fram með því; annað eigið þér að mér en að ég réði yður nokkuð Lokaráð - og svo ég ekki orðlengi þetta mál fremur, þá hafa þau Hlíðarhjón mælzt til þess, að ég útvegaði þeim vinnumann í vor; þau hafa fáa verkamenn, en kvikfénað mikinn. Sigurður minn er farinn að lýjast, hann vantar einkum verkstjóra, er hans missir við, því hann er ekki farinn að geta fylgt fólki sínu í misjöfnu veðri. Hvað segir þú, Egill minn, ætla að þú mundir vilja fara þangað eitt ár, ef faðir þinn vildi sleppa þér, hum, hum?

Egill verður ekki seinn til svara og mælti: Fyrir mitt leyti held ég það gæti lagazt, það kemur samt mest undir því, hvað faðir minn vill.

Það var auðséð á Grími, að honum þótti Egill svara þessu máli helzt til bráðlega; Grímur stóð þar á gólfinu skammt frá Agli, veltir vöngum, strýkur saman höndum og mælti mjög áminnilega:

Þann skortir vit, sem strax lofar, segir Salomon; fyrir því, son minn, viljir þú mína ræðu meðtaka og mínum boðorðum hjá þér halda, þá áttir þú að heyra orð föður þíns, áður en þú svaraðir nokkru hér um - þér fyrirgefið, prestur minn, þó ég siðsæmi son minn - en það er ekki fyrir það: sæmilegan stað álít ég það vera fyrir son minn að fara að Hlíð, þar er sæmdarkona, en konunnar vísdómur reisir húsið, segir Salomon. En heyra vil ég fyrst, hvað sæmileg boð Sigurður bóndi gjörir syni mínum, áður en ég heiti nokkru hér um eða sleppi honum úr mínum kofum, þó lakir séu.

Prestur sagði þá sem var, að þar sem hann hefði vakið máls á þessu efni og væri þess fýsandi, væri sér skylt að sjá svo fyrir, að Agli væri boðnir þeir kostir, er þeim feðgum báðum þætti sæmilegir og vel mættu þeir við una; væri það ekki oft, sem hann hefði hlutazt til um vistarráð manna, en þá sjaldan hann hefði það gjört, hefði það jafnan vel tekizt, mundi svo enn fara, enda segði sér svo hugur um, að Egill mundi þar af heill hljóta; kynni hann og ekki mann á velli að sjá, ef Egill yrði ekki gæfumaður mikill, og mundi þetta upphaf hamingju hans; talaði prestur hér um mörgum fögrum orðum. Fannst það brátt á Agli, að honum þótti þetta fýsilegt; Grímur lét sér í fyrstu fátt um finnast, en þó kom svo, að Sigurður í Hlíð skyldi koma til viðtals við þá feðga, og gekk prestur til baðstofu til fundar við hann, en á meðan töluðust þeir feðgar Grímur og Egill við í stofu, og tók Grímur þá svo til orða:

Ég þykist nú hafa orðið þess áskynja, sonur sæll, að þér sýnist það allfýsilegt að ráðast til Hlíðar, og má það vera, að það verði þér að gæfu, eins og prestur getur á, því spá er spaks geta, en það grunar mig nú, þó ég sé gamall og glapsýnn orðinn, að hér búi nokkuð meira undir af þinni hálfu, sonur sæll, en þú enn hefur mér sagt; datt mér áðan, er Sigrún Þorsteinsdóttir kom hér í stofuna, í hug orð hins vísa Sýraks, er þannig hljóða: Hafðu enga umgengni við söngkonuna, að þú verðir ekki fangaður af hennar brögðum, og skoðaðu ekki meyjuna, svo þú verðir ekki lokkaður af hennar yndisleik. Nú vil ég, sonur sæll, að þú segir mér, hvort svo er sem mig uggir, að þér lítist vel á mey þessa, og ef svo er, mun ég það ekki lasta, því svo getur hér verið sem Salomon segir: Þú rænir mig mínu hjarta, mín systir, með einu tilliti þíns auga - og ekki vil ég fyrirmuna þér þann ráðahag, því mér sýnist meyjan efnileg vera, og er ekki ólíklegt, að þau Hlíðarhjón gjöri hana vel úr garði, þar sem hún er fósturdóttir þeirra.

Ójá, faðir minn, sagði Egill mikið skrækhljóðaður, mér lízt dável á hana, og ætli henni lítist ekki líka á mig, ha?

Það er mér ókunnugt, en gjör þú, drengur minn, sem þitt hjarta lystir, en þó skal það vera í skilmálum milli okkar Sigurðar, sagði Grímur, að hann gifti þér meyjuna, ef það er hennar fús vilji og þér snýst ekki hugur, er þið kynnizt betur.

Egill þakkaði föður sínum fyrir tillögur hans og kvað sér þetta vel líka. Um sama mund kom prestur aftur í stofu, og var Sigurður í för með honum, býður hann Sigurði þar til sætis; taka þeir nú allir tal og ræða fyrst á víð og dreif um veðráttu og fjárhöld, en síðan víkur prestur talinu aftur að því, sem þeir Grímur höfðu haft að umtalsefni.

Hér er nú, segir hann, kominn Sigurður minn í Hlíð, og hef ég sagt honum frá umræðu þeirri, er við höfðum hér fyrir skömmu, meðhjálpari minn - sagði ég honum, að þér munduð ef til vill gjöra það fyrir mín orð og milligöngu að ljá honum son yðar Egil fyrir vinnumann eitt ár eða lengur, eftir því sem lagast og mönnum um semur; hér eru nú allir, sem hlut eiga að máli, viðstaddir, og er þá bezt, að hver segi sinn góðan og velbeþenktan vilja.

Mér er stærsta þökk á, sagði Sigurður, viljið þér, Grímur minn, ljá mér son yðar eitt ár? - ég veit það mun vera efnilegur maður, og vinnumann vantar mig; en hverjir eru skilmálar, sem þér setjið upp fyrir hans hönd?

Já, ég ætla að gjöra það, Sigurður sæll, fyrst presturinn minn hefur heldur talað að því, því svo segir postulinn: Hlýðið yðar kennifeðrum og látið að orðum þeirra - en ekki verður það skilmálalaust, því annt er mér um drenginn; hver sæmdaboð býður þú, Sigurður minn? sagði meðhjálpari og velti vöngum að venju.

Hvað sýnist yður, prestur minn? sagði Sigurður; ég sting upp á fimm vætta kaupi fyrst.

Það gjöri ég mig ánægðan með, þó það sé ekki mesta kaup, sem orðið getur, en meira lít ég á hitt, að hann hafi atlæti gott, því ég met það mikils, af því mér finnst það sannast oftast, sem predikarinn segir: Betri er einn hnefi með ró en báðar hendur fullar með sorg og armæðu - og það veit ég, að illa mundi hann kunna við það, drengurinn, ef hann væri settur undir tortuna á hinum vinnumönnunum, því svo þekki ég hann, að hann sver sig í þá ættina; og loksins áskil ég það, að fari svo, að sonur minn girnist á ærlegan hátt fósturdóttur þína, Sigurður minn, hana Sigrúnu, þá skalt þú, Sigurður sæll, gifta honum hana.

Sigurður þagði fyrst, en sagði síðan eftir litla þögn:

Ég á nú lítið með hana, en ekki skal ég vera meinsmaður þess, ef hún vill það sjálf.

Seinlega þykir mér þú, Sigurður sæll, taka því máli, eða veizt þú eigi, hvað Sýrak þar um segir: Hafir þú dætur, svo gæt þú að þeirra líkama, og ven þær engum óvanda - og enn fremur: Gift þína dóttur, svo hefur þú gjört mikið verk, og gift hana skynsömum manni - eða hyggur þú hana vangefna syni mínum?

Sigurður kvaðst að vísu hyggja, að það væri gott ráð, en hún mundi þó vilja mestu sjálf um ráða, enda væri hún nú hér, og væri bezt að bera það mál undir hana. Átti þá prestur hlut að máli, kvað hann það mundi þykja nokkuð brátt að undið að bera það mál þegar fyrir hana, væri og sumar konur svo dular í fyrstu um vilja sinn, að þær létust ekki vilja allbrátt játa því, sem í skyndingu væri borið fram, og væri hitt ráðlegra, að Egill réðist til Hlíðar og kynntust þau þar; mundi það þá brátt verða, ef Agli geðjaðist að Sigrúnu, að saman mundi draga með þeim, og gæti ekki hjá því farið, að Sigrún sæi sóma sinn, slíkur maður sem Egill var, mundi þá ekki þurfa það mál lengur að túlka, skyldi Sigurður aðeins heita því að eiga góðan hlut að þeim málum og, að svo miklu leyti hann gæti, stuðla til þess, að þau ráð tækist; þótti öllum prestur hafa vel mælt, og verður það, að þeir binda þetta allt fastmælum, eins og prestur hafði ráð til lagt; hummaði þá prestur lengi, gekk um gólf, brosti í kamp og var hinn glaðasti.


13. kafli

Skarphéðinn og postulinn Páll,
það eru mínir menn.
                  Máltak Ísleifs Einarssonar

Á meðan prestur og Grímur áttu þessa ræðu í stofu, var kirkjufólkið smátt og smátt að tínast á stað, og urðu nú engir eftir nema þeir, sem ætluðu að vera þar um nóttina. Einn af þeim var maður nokkur, er Bjarni hét og var Ásgrímsson, hann bjó á þeim bæ, sem Leiti heitir, það var yzti bær í sókninni. Bjarni þessi var ekkjumaður, og átti hann börn nokkur, og voru þau öll frá honum komin; var Finnur Bjarnason á Stað einn sona hans. Hann var að efnum talinn með hinum betri bændum þar í hrepp; átti hann jörð þá, er hann bjó á, og allmikið gangandi fé. Kona Bjarna var dáin fyrir fjórum árum, og bjó hann síðan með systur sinni, er Þórunn hét. Hann var búhöldur góður í betra lagi, og með því hann var ómagalaus maður, en hafði fjölskyldu litla, var það almanna rómur, að heimilisástæður hans væri svo góðar, að vel mætti honum græðast fé eða að minnsta kosti svo mikið sem svaraði því, er hann þurfti meiri mat en aðrir menn; en því tóku menn svo til orða, að menn vissu, að honum nægði ekki minni matur en tveimur eða þremur körlum, þeim er röskir voru, og hvar sem hann kom og menn þekktu hann, var aldrei settur fyrir hann minni matur en vant er að bera fyrir tvo eða þrjá; en eftir því sem hann var matmaður, eftir því var hann mikilvirkur til allra starfa. Hann var hár maður vexti og að því skapi þreklegur; allra manna var hann hraustastur; var það almæli, að aldrei hefði honum orðið aflfátt. Bjarni var ekki fríður maður yfirlitum, en þó ekki ókarlmannlegur, stórskorinn í andliti og brúnamikill, breiðleitur og nefstór. Hann var gæfur hversdagslega og óáleitinn, en reiddist illa, ef hann skipti skapi. Bjarni var fremur vel greindur í andlegum efnnm og ýmsu, er fyrir kemur í daglegu lífi, og bjó hann mest að því, er hann hafði numið í æsku; hann var og mjög fastheldinn við það, og ekki þótti honum varið í aðrar bækur eða fræði en þá, sem tíðkuð hafði verið, þegar hann ólst upp, og hafði því mestu andstyggð á öllum nýjum ritum og kallaði það hégiljur einar og trúarvillur, en þó var hann allra manna trúgjarnastur á allt það, er öðrum mönnum þótti ótrúlegast og mestum sætti fádæmum og hindurvitnum, einkum um aflraunir fornmanna; hafði hann jafnan yndi af því að heyra allt þess háttar og segja frá því aftur og stóðst ekki reiðari en ef einhver dró efa á frásagnir hans. Fyrir þessu þótti hann nokkuð kátlegur, og var ekki trútt um, að hinir yngri menn hentu gaman að auðtrúmennsku hans. Bjarni var daglega svo klæddur, að hann var í gráum stuttbrókum og hvítum sokkum, með rósabönd og á síðum bol bláum, tvíhnepptum með renndum beintölum; jafnan hafði hann riðtrefil um hálsinn, og yzt fata bar hann kufl gráan, er náði liðlega ofan fyrir mittið. Á helgidögum og mannfundum var hann svo klæddur, að hann var í blárri mussu silfurhnepptri og á röndóttum bol síðum og bláum prjónbuxum með klauf og þremur flötum silfurhnöppum í; sokkarnir voru ljósbláir, brugðnir. En hvort er hann var heima eður á mannfundum, hafði hann jafnan á höfði röndótta húfu, og þar yfir steypti hann stundum hatti miklum og barðastórum. Þetta skipti ætlaði Bjarni að fara frá kirkjunni á Stað í erindagjörðir nokkrar á bæ nokkurn, er var þar í sókninni ekki allskammt frá Stað, en með því nokkuð var farið að líða á dag, þegar messugjörð var úti, réði hann það af að biðja sér næturgistingar; var honum vísað til sætis í húsi þeirra hjóna, og sat hann á rúmi húsfreyju og krosslagði fæturna fram á loftið, tók ofan hattinn og setti á rúmið hjá sér, en sat með húfuna á höfðinu, því hann tók hana sjaldan ofan nema í kirkjunni. Ekki var þar annað manna í húsinu en hann og vinnumaður, er Þorsteinn hét, og svo einn aðkomumaður og ein griðkona, og ræddu þeir við hann, og var Þorsteinn þó meira fyrir svörum; var þetta eitt af ræðunni, að Bjarni tekur svo til máls:

Meðal annarra orða, Þorsteinn góður, hvað sagði þessi langferðamaður í fréttum, eða hvaðan kom hann?

Vestan af Vestfjörðum.

Af Vestfjörðum, aldrei hef ég á Vestfjörðu komið, en það hef ég sannfrétt, að þar eru ákaflega miklir galdramenn og sérlega máttugir; þar var Látínu-Bjarni eða Djöflabani, Þormóður í Gvöndareyjum, er bylinn gjörði að honum Oddi lögmanni; þar voru Baulhúsabræður, Hallur á Horni og fleiri, og þaðan var hún komin, skrattinn hún Hvítárvallaskotta. Er nokkuð að frétta þaðan?

Ekki nema að þar kvað hafa verið í vetur þau hörku grimmdar aftök, sem enginn man dæmi til annars eins, því þegar hann fór að vestan, var gengið af Horni langt fyrir framan alla fjörðu og beint á Látrabjarg, og þaðan var farið með lest undir Snæfellsjökul; þá var lagt allt sem augað eygði út á haf, og tveir menn gjörðu það að gamni sínu að ganga fram á skörina, og þeir sáu Grænland og sögðu, að ekki hefði verið nema ein lítil vök eftir órennd, sem þeir komust ei yfir.

Já, geysimikil frost hafa komið þar í vetur, og það vissi ég aldrei dæmi til þvílíkra frosta, en hitt vissi ég, því sannorður maður hefur sagt mér það, að árið 1694 eða 5 var svo mikill fannkomuvetur í Norðurlandi, að það voru átján tröppur ofan að burstinni á dómkirkjunni á Hólum, skaflinn, og þá var herra Steinn þar biskup heldur en Björn heitinn.

Þó eru það meiri fréttir um hvalinn, sem þeir fengu þar vestra í haust eð var.

Já, hvað er um þann hval? sagði Bjarni.

Hann kvað hafa verið svo stór, að menn þykjast aldrei hafa séð annmn eins fisk.

Hvað er til merkis um það?

Þeir fundu niðri í þessum hval annan hval heilan og óskertan, og sá hvalur var mældur og var áttatíu faðmar á milli skurða.

Voru það ekki álnir?

Nei, faðmar er mér fortalið.

Já, ákaflega stór hefur sú skepna verið, sem gat gleypt svo stóra skepnu í heilu líki, og aldrei hef ég heyrt getið um svo stóran hval, og satt er það, feikilegum vexti geta sumar skepnur í sjónum tekið; en það vissi ég, að á Suðurnesjum veiddist einu sinni, nokkrum árum áður en ég fór að róa í Grindavík, svo stór þorskur, að hann var hertur gildustu baggar upp á hest, en höfuðið var látið ofan á milli, og þá sligaðist hesturinn og var þó mesti úlfaldagripur, tveggja grjónatunnuhestur; en hvað ætli mennirnir hafi getað gjört við allan þenna hval, því furðu mikið spik hefur orðið af þvílíkum fiski, þeim hefur orðið helmingurinn af honum ónýtur?

Nei, þeim vildi það til, að þar kom um sama leyti einn Karkari, sem keypti af þeim allt spikið, en rengið hirtu þeir mestallt sjálfir, og sá Karkari var á svo stóru skipi, að þegar hann var búinn að taka við öllu spikinu, sást lítill eða enginn hleðslumunur á því.

Ojá, stórt hefur það verið nokkuð, en þó hefur það ekki verið svo geysilega stórt eins og sum skip kvað vera í útlöndum, og það kalla ég stórt skip, sem ég hef heyrt getið um, það voru á því átján þúsund átta hundruð áttatíu og átta menn.

Það hafa sjálfsagt verið átján hundruð menn, því svo stór skip eru til, sagði vinnumaður.

Og langt frá, barn, langt frá! Það kalla þeir kænur, sem 1800 eru á, það voru 18888; það voru þetta tvær og tvær fjölskyldur í hverju einasta hjóli í reiðanum og áttu þar heimili; en í körfunni var staður með og tvær annexíur með tilheyrandi kirkjusóknum, og fjögur hundruð áttu heima við stýrið; ég hef talað við mann, sem þekkti einn, sem hafði verið á þessu skipi, það var Indíafar og átti að sækja náttúrusteina til Kappadosiu.

Náttúrusteina, já, sagði vinnumaður.

Já, það eru margs konar steinar til í náttúrunni, barn, einkum í Blálandi, Serklandi og Grikklandi; það er til að mynda: lausnarsteinninn, hulinhjálmssteinninn og óskasteinninn; lausnarsteinarnir, þeir eru svartir, það á að leggja þá undir tunguræturnar á konum, og þá geta þær fætt; ég hef séð þess háttar stein, þegar ég var ungur, þeir eru í rauninni ekki steinar, en það eru augnasteinar úr villimönnunum á Blálandi; þeir kristnu slátra þessu svarta fólki eins og fé til þess að ná úr þeim augnasteinunum, hroðalega er nú að farið, he, he; síðan eru þeir þurrkaðir lengi og hertir og eru seldir dýrum dómum; hulinhjálmssteininn hef ég aldrei séð, hann kvað vera líkastur fékvörn, ekki heldur óskasteininn, en þann stein vildi ég þó eiga helzt af öllum steinum; því mikil er náttúra þess steins, og ekki þekki ég neinn, sem þann stein á hér nálægt.

Á, þekki þér engan?

Nei, ekki með vissu, sagði Bjarni, en rétt í því hann sagði þetta, kom Sigrún þar inn í húsið og bar í hendinni fisk einn mikinn og sex kökur og smjörkúpur allgjörvulegar og víkur sér að Bjarna og segir:

Húsmóðirin bað mig, Bjarni minn, að bjóða þér dálítið að borða; á ekki að setja það á borðið fyrir þig, eða viltu taka við því hérna, þar sem þú ert?

Og láttu það koma hérna, stúlkukind, ég get látið kúpuholuna vera hérna á milli fóta minna, á meðan ég gjöri mér gott af því, það var dásamlega gjört af húsmóðurinni að gefa mér að borða núna, því nú finn ég, að ég hef nokkurn veginn matarlyst, því ekki hef ég smakkað mat síðan snemma í morgun, og af því ég fór fyrr á fætur en ég er vanur, gat ég ekki borðað, eins og ég á að mér, ég greip tvo hryggjarliði og bringu af lambkettling, og hvaða matur er það allan daginn?

Eftir það tekur hann við kúpunum og setur þær í kné sér og leggur síðan fiskinn og kökurnar ofan í þær, tekur síðan ofan húfuna og signir sig og segir síðan:

Ég verð að hafa borðsálminn í styttra lagi í þetta sinn, og gefið þér mér í guðs friði!

Eftir það tók hann til matar, og var auðséð, að maðurinn var bæði fimur og fljótleikinn að því verki, tók hann fyrst kökurnar og lagði hverja tvöfalda saman og stýfði svo, og voru þær allar sex systur horfnar á svipstundu. Þar næst lagði hann að fiskinum, var það og ljóst, að hann var slíkum piltum vanur, enda leið ekki á löngu, áður hann hafði gjört honum lögskil, var þá og feitmetinu lokið; litlu áður kom Sigrún með leirskál, fulla af súru skyri hnausþykku og mjólk út á, urðu menn þess varir, að Bjarni leit allhýru auga til skálarinnar og hraðaði sér að setja frá sér kúpurnar. Skálin var átta marka ílát, og tók hann við henni tveim höndum og knésetti; varð þeirra aðgangur bæði harður og langur, en svo lauk, að hann hafði ágætan sigur, og til merkis um það þurrkaði Bjarni hana innan með sleikjufingri sínum, tók síðan roðin af fiskinum, sneri þau vandlega saman og stakk þeim ofan í smjörkúpurnar og lét þær síðan ofan í skálina og setti síðan skálina á kistil við rúmið og segir við Sigrúnu, er staðið hafði þar í húsinu hjá þeim Þorsteini, á meðan Bjarni var að mjaða ofan í sig skyrinu úr skálinni:

Hérna, stúlka góð, færðu húsmóðurinni það, og skilaðu þakklæti og segðu, að ég hafi fengið sæmilega nóg.

Sigrún tók skálina, og fór Bjarni þá að lesa borðsálminn og var nú sýnu lengur með þenna en hinn fyrri; signir sig síðan og setur upp húfuna og segir við vinnumann:

Já, ég inni til þess aftur, sem við vorum að tala um, Þorsteinn góður, um náttúrusteinana; enginn af þessum náttúrusteinum er eins þarflegur eins og óskasteinninn; þarna fær maður allt, sem maður óskar sér, ef maður hefur hann; langi mann til að mynda í kjöt, þá kemur kjöt, eða ef menn hefðu lyst á huppi eða bringukolli - og ekkert er eins ljúffengt af skepnunni eins og bringukollurinn - nú, þá þarf maður ekki annað en að óska sér hans, og þarna er hann undir eins kominn; - jú, ef ég ætti þann stein, þá held ég maður óskaði sér margs, og ég er raunar sæmilega saddur núna, en þó held ég mér yrði fyrst fyrir að óska mér einhvers ljúffengs bita að mýkja kverkarnar svona eftir á, til að mynda síðubita af holdgóðum fimm vetra gömlum dilksauð; en hér sést nú aldrei sauður, sem ætur biti er á, þetta eru allt rytjur, því hvaða fita er það á fjögra og fimm vetra gömlum sauðum hérna, þó þeir skerist með tveimur fjórðungum bezt og þetta tveggja og hæst þriggja fingra þykk himnan utan á rifbeinunum; en ættu menn sauði, sem hafa gengið í Ódáðahrauni - það eru molar, sem uppalast þar - þar eru sauðirnir eins og tveggja vetra stærri en stærstu vetrungskálfar á haustnóttum í byggðinni; hann sagði mér það hann maður, Þórólfur hét hann, ég þekkti hann suður í Grindavík, hann hafði verið í Ódáðahrauni þrjú ár, þrjá mánuði, þrjár vikur og þrjá daga: það þykir afstyrmis aflaki tvævetur og varla gjöra í blóðið, skili hann ekki hálfvættinni á tvo mörvana, en síðurnar af þeim eru gildasta þverhönd og þar yfir í sárið, soðnar, hangnar og beinharðar ofan úr eldhúsi, og svo bráðfeitar, að það makast af þeim hnífurinn köldum eins og af góðum, hálfkæstum bakhákalli - já, ekki má ég hugsa til hákallsins, það er einhver hinn ágætasti, gómsætasti, ljúffengasti og kjarnbezti átmatur, vel orðinn og nógu gamall.

Nú gaf Bjarni nokkra málhvíld; þá segir vinnumaður:

Þú getur þá, Bjarni minn, sagt okkur eitthvað frá Ódáðahrauni, fyrst þú talaðir við mann, sem hafði verið þar meira en þrjú ár.

Hann var þar þrjú ár, þrjá mánuði, þrjár vikur og þrjá daga, þú átt að taka rétt eftir! - já, margt hef ég heyrt um Ódáðahraun, þar eru átta stórar sveitir og æði ribbungar, sem þar búa, láta þeir ekki allt fyrir brjósti brenna, enda eru það piltar, sem hafa eitthvað í kögglum, sem ekki er að furða, að lifa á jafnkjarngóðri fæðu; en ekki hef ég tíma til að segja þér frá öllu, sem ég hef heyrt þaðan, og engan veit ég fleiri sögur þaðan kunna en mig og Þuríði gömlu, sem nú er niðurseta í Hlíð - ég skal einhvern tíma láta hana segja mér seinna söguna, sem hún sagði mér einu sinni úr Ódáðahrauni; - en nú fer ég snemma á stað á morgun, og því ætla ég með leyfi þeirra, sem með eiga, að snara mér hér út af, þangað til farið er að skammta í kvöld, og talaðu nú ekki meira við mig, drengur!

Að því búnu lagði Bjarni sig endilangan aftur á bak í rúmið, en með því maðurinn var ákaflega langur, svo að óvíst var, hvort hann hefði getað legið allur í rúminu án þess að svínbeygjast, og það annað, að hann nennti ekki að leysa skó sína, þá lét hann fæturna liggja fram á loftið. Sofnaði hann skjótt og hraut ákaflega. Svaf Bjarni svo, þar til komið var að háttatíma, var hann þá vakinn og vísað til gestaherbergis þess, er var undir baðstofulofti og ætlað var fyrir hina óæðri gesti. Í herberginu voru tvö rúm, sitt fyrir hvorri hlið, en fyrir gafli stóð borð eitt allmikið og neglt niður í gólfið og sín kista hvorum megin við það til að sitja á. Var svo til ætlazt, að gestir þeir allir, er þá voru komnir að Stað og vér höfum áður um getið, skyldu taka kvöldverð í herbergi þessu og sofa þar um nóttina, og áttu sínir tveir að vera í hvorri hvílu. Þeir feðgar, Grímur og Egill, og Sigurður voru fyrir þar í herberginu, þegar Bjarni kom, og höfðu þeir tekið sér sæti á kistunum, en Bjarni settist á kistil, sem stóð hjá öðrum rúmgafli, og tóku þeir allir að ræða um ýmislegt, sem þá þótti mestum tíðindum sæta þar í héraðinu. Leið nú ekki á löngu, áður matur var á borð borinn. Það var saltkjötssúpa, og voru borin föt tvö allmikil. Annað fatið var tréfat, afar stórt og sýnu meira en hitt, er var af tini. Setti griðkona sitt fatið hvorum megin á borðið og lagði nautshyrninga tvo hjá hvoru fatinu. Spænirnir voru afar miklir og allvel gjörðir og höfðaletur skorið á sköftin. Síðan bar griðkona fram leirskál eina mikla og setti á mitt borðið, átti sá matur, er þar var í, að vera til vara, ef þrot bæri að höndum í annarri hvorri skálinni. Var svo til ætlazt, að sínir tveir gestanna skyldu vera um hvort fatið. En þegar framreiðslunni var lokið, vísaði griðkona gestum til sætis, og áttu þeir Bjarni og Grímur að borða úr tréfatinu, en Egill og Sigurður úr hinu; spurði griðkona þá félaga, hvort þeir ekki hefðu á sér hnífa, því ekki voru borðfæri önnur fram lögð en spænirnir, og játtu þeir því allir. Síðan settust þeir til borðs, eftir því sem þeim var til vísað. Gjörðist fátt til tíðinda hjá þeim Sigurði og Agli; en með þeim Grími og Bjarna varð það títt, að þegar þeir eru niður setztir, þrífur Bjarni nautshyrning einn annarri hendi, krossar sig í skyndingu og myndar sig þegar til að hafa ár á borði. Grímur lagði hendurnar í kross á brjóstið og bjóst til að lesa borðsálminn, en er hann lítur tilræði Bjarna, getur hann ekki gjört að sér að varpa orðum á hann, veltir nú vöngum og segir:

Ertu ekki vanur, Bjarni sæll, að meðtaka fæðu þína með þakkargjörð?

Ekki er ég vanur, sagði Bjarni, að lesa borðsálm, þó ég lepji súpusopa, en signa mig er ég vanur, það er fljótgjört, en bæn þú þig, Grímnr minn, bíða skal ég á meðan, svo að við göngum jafnsnemma að verkinu.

Grímur lét sér það að góðri kenningu verða, leggur aftur hendurnar í kross og les eitthvað í hljóði, og er því var lokið, krossar hann sig á brjóstið og tekur síðan hornspóninn, þann er þar lá hjá honum, í hönd sér og segir um leið:

Svo far þú og et þitt brauð með gleði, og drekk þitt vín með góðu geði, segir predikarinn.

Hvað varst þú að tala um predikunina í dag, Grímur bóndi? segir Bjarni, hún var allgóð fyrir þá, sem hefðu getað munað hana.

Ég var ekki að tala um ræðuna í dag, sagði Grímur og velti vöngum og brosti í kamp, heldur um predikara Salomonis.

Já, já, þú varst að minnast á Salomon, já, það var maður á sinni tíð, og geysilegur fjörmaður hefur það verið, því það hef ég sannfrétt, að hann átti 900 konur og þrjú þúsund frillur; en maðurinn hefur átt ærlega gott og var heldur ekki blásnauður, og þó þótti honum gaman að drottningunni frá Arabíu, þegar hún heimsótti hann; með henni átti hann tvo tvíbura, mestu þrekmenni, og af öðrum þeirra var Úlfar sterki kominn.

Á meðan Bjarni lét þessa dælu ganga, var hann ekki iðjulaus; ruddist hann fast um í skálinni með hornspæni sínum og veiddi upp hvern bitann eftir annan, og hurfu þeir á svipstundu, en ekki sinnti Bjarni súpunni. Tóku brátt að þynnast fylkingar kjötbitanna í fatinu, því svo drengilega framgöngu veitti hann, að ekki mátti við standa. Grímur hafði fyrst lagt að súpunni og fór að öllu stillt og ekki óðslega, en er hann sér, að slíkt aðgjörðaleysi mundi ekki hlíta, réðist hann að einum kjötbita, og var það hnúta mikil og torsótt, og varð honum ekki greitt að sigrast á henni, svo á meðan hafði Bjarni séð ráð fyrir 3 eða 4 rifjabitum og talaði þó jafnframt, og snýr hann nú allt í einu ræðunni frá Salomon kóngi til Gríms meðhjálpara og segir:

En Grímur sæll, þú verður að sjá svo fyrir, að þú hafir þinn skerf af matnum, því nú bíð ég ekki, ég er fljótur að taka fæðuna, á meðan hún er til, en súpuna er ég vanur að sötra á eftir.

Grími hafði ekki þótt aðfarir Bjarna með öllu góðar, þó hann í fyrstu léti kyrrt um, en þá er Bjarni hófst máls á, virðist honum, að hann yrði að svara; sleppir hann um stund hnútunni frá munni sér og segir síðan:

Ég fer að öllu sem hægast, Bjarni sæll, ég hef jafnan haft fyrir augum það, sem hinn vísi Sýrak segir: Vertu ekki óseðjanlegur af ljúfmeti, og ráðstu ekki gírugur til fæðunnar.

Það hefur verið seinlætismaður, þessi Sýrak, sem þú segir frá, því það hef ég staðreynt, að þeir, sem eru æði lengi að éta, eru þungir og daufir og slinnalegir, þegar þeir eiga að vinna, og svo hugsa ég þessi Sýrak hafi verið, sem þú talar um, hvaða mannskepna var það?

Talaðu virðulega um drottins útvalda, Bjarni góður, sagði Grímur.

Ég tala virðulega um manninn fyrir það, þó ég kalli hann skepnu, því allir menn eru skepnur, og þó ég haldi hann hafi verið seinlátur; en varla mun hann hafa verið meiri vitmaður en Grettir heitinn Ásmundsson, og vildi hann hafa mat sinn á Reykhólum, en engar refjar, sem von var, því maðurinn var ákaflega stór og eftir því hraustur, eins og sést af Grettistökunum á Miðfjarðarhálsi og víðar; ætli Sýrak hefði getað sett þá pilta á hlóðir í fangi sínu, sem þar standa? - Það var mikið, hvað sá maður orkaði, enda hefur sannfróður maður og sannorður sagt mér, að Grettir hafi verði þrjár álnir danskar og þrjú kvartil um herðarnar.

Sá einfaldi trúir öllu, en hygginn maður athugar sinn gang, segir Salomon; hver hefur sagt þér það, Bjarni sæll, að Grettir hafi verið þrjár álnir danskar um herðarnar og þrjú kvartil? Ég held það hafi einhver sagt þér það, sem hefur gaman af því að glettast við þig og gabba og skrökva að þér, af því þú ert sagður nokkuð trúgjarn, sonur sæll, sagði Grímur og velti vöngum.

Hugsar þú, Grímur góður, að telja mér trú um, að það sé lygi, sem sannorðir menn hafa sagt mér um Gretti Ásmundsson, að hann væri þrjár álnir og þrjú kvartil um herðarnar, og betur trúi ég því en þínum orðum; þú hefur aldrei maður verið og getur ekki ímyndað þér, að til hafi verið meiri maður en þú.

Það var nú ekki að furða, þó Grími þætti þessi orð heldur óviðfelldin; hann leggur spóninn frá sér á borðið og segir:

Hvar fyrir upphefur sig sú en arma jörð og aska?

Í þessum svifum grípur Bjarni tveim höndum fatið hið mikla og setur barminn á munn sér og svolgrar í tveimur teygum það, sem eftir var í því af súpu, kastar því síðan frá sér á borðið, stendur upp og er þá allreiður, en Grímur er þá kominn fram á gólf og segir:

Réttvís maður etur, svo hann seðst, en kviður óguðhræddra hefur aldrei nægju.

Bjarni er þá og kominn fram á gólfið, og er þá við sjálft búið, að hann muni ganga að Grími, en í því bili hleypur Sigurður og Egill milli þeirra, svo þeir ná ekki saman; hafði þá og hávaði nokkur heyrzt upp á loft, og kom prestur á vörmu spori ofan og vill vita, hvað í hafi skorizt, en er þeir sjá prest, sefast þeir nokkuð, en ekki skorti þó heitingar og frýjunaryrði af beggja hálfu, en svo lýkur, að þeir sefast, og setur hann grið á milli þeirra, meðan þeir eru þar á staðnum. Er Guðrún ráðskona þá komin í herbergi og ræðir um, að mál sé til hvílu að ganga, segir hún það með, að svo hafi verið til ætlazt, að þeir Bjarni og Grímur skyldu vera hvílunautar, en Egill og Sigurður lægi saman í hinu rúminu; en Grímur aftekur það með öllu að þeir Bjarni sofi saman, og kveðst heldur þegar á brott fara, og vildi hann ekkert samneyti hafa við Filisteann; varð svo að lyktum, að þeir feðgar Egill og Grímur sváfu saman, en Bjarni og Sigurður lágu í öðru rúmi. Voru þeir Bjarni og Grímur sáttir að kalla, en þó skorti ekki heitingar, ef þeir fyndust í góðu tómi; gjörði Grímur helzt ráð fyrir að kalla eld af himni og steypa honum yfir Bjarna; en Bjarna þótti ráðlegast að fá öxina Grimmugýgi og kljúfa Grím í herðar niður. Sváfu þeir nú allir af um nóttina, en um morguninn snemma fór Bjarni á stað, sem hann hafði ætlað, og var lengi kalt með þeim Grími og Bjarna eftir þetta, sem síðar mun sagt verða.


14. kafli

Sigrún fer heim að Hlíð - Kvonbæna umleitan Egils

Mánudaginn þriðja í sumri kom Sigrún aftur heim að Hlíð, og var henni þar allvel fagnað. Þórdís húsfreyja var hin kátasta um daginn og lék alls oddi og kyssti fóstru sína og klappaði henni allri utan og skoðaði hana í krók og í kring, eins og hún hefði ekki séð hana í mörg ár. Það, sem eftir var dagsins, og svo hinn næsta dag hafði húsfreyja nóg að gjöra að spyrja Sigrúnu frétta og segja henni aftur þau tíðindi, er gjörzt höfðu þar á heimilinu, síðan hún fór. Branda hafði borið rétt fyrir páskana og komizt í 18 merkur; hún hafði átt kvígukálf ofur félegan, svarthúfóttan, öldungis eins á litinn og hún Gullbrá heitin amma hennar. Þórdís hafði ekki tímt að láta skera hann, af því hann væri af því kyni, og ætlaði hún að ánafna Sigrúnu kvíguna og vita, hvað hún yrði farsæl. Skjalda væri orðin nærri því þurr, en Ljómalind hreytti enn að vonum. Lítið hefði orðið úr innivinnunni, eftir það hún fór; það hefði orðið æði skarð fyrir skildi, þegar hennar hefði misst við frá spunanum. Vel hafði rakizt hnyklakippan, sem Sigrún spann vikuna, áður en hún fór, og betur en þær höfðu gizkað á. Úr ljósbláu bandviðunum, sem hún hefði átt, hefði hún og Sigríður prjónað nærpeysu fyrir Sigurð, þó hefði það ekki dugað, og hefði hún því orðið að prjóna gráu framan við ermarnar. Sigrún hafði og ærið margt að segja fóstru sinni frá af högum sínum, á meðan hún hafði dvalið á prestsetrinu; sýndi hún henni eitt og annað, er hún hafði hannyrðað þar, og lét húsfreyja vel yfir, og þótti henni Sigrún framaför þangað farið hafa. En þótt margt bæri á góma millum þeirra fóstra, gat þó ekki Sigrún neitt um samdrátt þann eða kunningsskap, sem verið hafði á millum þeirra Þórarins og hennar, enda var sá orðrómur, sem lagzt hafði á þar á staðnum um það efni, ekki kominn svo langt, að húsfreyja hefði heyrt nokkuð hop á því.

Laugardaginn næsta eftir, að Sigrún var aftur heim komin að Hlíð, var skildagi Egils Grímssonar. Lét faðir hans Grímur ferja hann þangað og fylgdi honum sjálfur í vistina og var þar um nóttina, en daginn eftir bjóst hann til heimferðar; hafði hann áður falið þeim Hlíðarhjónum hann á hendur með mörgum fögrum orðum. Skildust þeir feðgar með miklum kærleikum fyrir utan tún, þar lagði Grímur hendur yfir son sinn og blessaði hann og bað, að fyrirætlun hans hefði gæfusamlegan framgang og farsællega endalykt - og ætla ég, segir hann, sonur góður, að skilnaði að kveðja þig með þessum orðum Salomonis: Son minn, hlýð þú aga föður þíns, og yfirgef ekki boð þinnar móður. - Eftir það skildu þeir feðgar.

Egill var einn vinnumanna heima í Hlíð um vorið. Aðrir húskarlar Sigurðar voru við sjóróðra; starfaði Egill með bónda að húsagjörðum og vallarvinnu og öðrum heimilisönnum, og var hann bónda allfylgisamur. En ekki hafði hann verið langa hríð í Hlíð, áður húsfreyja og griðkonur þóttust taka eftir því, að Agli þótti kærast jafnan að vera þar, sem Sigrún var, og í kringum hana. Ávallt, er Sigrún fór til útivinnu á túni, vildi hann ekki vera annars staðar að verkinu en sem næst Sigrúnu, og ef færi gafst á, gætti hann svo til, að þau sem oftast yrðu tvö saman út af fyrir sig; beiddi Sigrún hann að víkja hendi eða fæti fyrir sig til einhvers, var hann jafnan eins og á hjólum, en stigramur og sporlatur þótti hann hinum öðrum vinnukonum. Þegar hann hafði lítið að starfa og var heima við bæinn, mátti svo að orði kveða, að hann nálega elti Sigrúnu út og inn. Væri Sigrún inni við, sat hún jafnan inni í húsi hjá fóstru sinni á rúmi sínu og saumaði eða spann, var fleiri mönnum ekki ætlað þar sæti á dögum en þeim hjónum og henni. Egill átti rúm fram á baðstofulofti, en stæði svo á, að hann hefði ekki útivinnu, sat hann sjaldan í sæti sínu, tók hann þá upp á því í fyrstu, að hann gjörði sér upp ýms erindi til þeirra hjóna inn í húsið og sat þar, á meðan hann aflauk erindum sínum, og smátt og smátt tók hann að venja þangað komur sínar, þó ekki hefði hann erindi á reiðum höndum, og varð þetta bráðum að vana, að hverja stund, sem hann ekki þurfti að sinna útiverkum, tróð hann sér inn í herbergi þeirra hjóna og sat þar löngum, valdi hann sér þá jafnan sæti á pallkistli einum, er stóð við rúmstokk Sigrúnar, og krosslagði fæturna fram á loftið. Á hverjum sunnudagsmorgni, er hann var kominn á fætur, flýtti hann sér jafnan að kemba sér, þvo sig og ræsta allan frá hvirfli til ilja; skrýddist hann þá bezta spariskrúða sínum, það var mussa silfurhneppt, sortulituð, og féllu barmarnir mjög út á báða vegu, en vasar á hvorutveggju hlið; framan á ermunum voru uppslög ljósblá; mussan náði vel ofan fyrir mjaðmir og stigli á báðum megin; standkragi var á mussumi Egils, og var hann eins litur og uppslögin. Þá voru svartar stuttbuxur og sokkar svartir og rósabönd um í hnésbótum. Þá er Egill hafði skoðað sig vandlega og svo um búizt sem honum líkaði, var hann vanur að ganga til herbergis þeirra hjóna, bauð þeim góðan dag og settist síðan niður hjá rúmi Sigrúnar og sat þar og masaði eitt og annað, á meðan Sigrún var uppi, horfði á hana, á meðan hún greiddi hár sitt, og tók eftir öllu sem vendilegast. Allhvumleiðar þóttu Sigrúnu komur Egils þangað og setur hans, en þorði þó ekki um að ræða; var það hvorttveggja, að henni þótti maðurinn hvorki fagur álitum eða heldur viðræður hans skemmtilegar. Fór svo fram um hríð, að Egill hélt fram uppteknum hætti um komur sínar, og líkaði Sigrúnu því lakar sem lengur var, svaraði honum þó jafnan hógværlega, er hann ræddi við hana. Ekki líkaði Þórdísi heldur vel háttalag Egils, þótti henni Egill helzt til framur, en fann þó ekki að að sinni, og ekki hafði hún neinn grun um, hvað undir bjó af hans hálfu; gat hún þess helzt, að þar sem Egill var þar nýkominn og lítt kunnugur, mundi hann enn ekki samþýðast heimilisfólki og hefði því helzt afþreying og yndi af því að aðhyllast húsbændur sína og Sigrúnu, enda hefði hann þar til verið í foreldra húsum. Sigrún sá betur, hvar fiskur lá undir steini, og vildi hún fyrir hvern mun venja Egil af komum sínum þar í húsið og þaulsetum; hugsar hún nú upp það ráð, að jafnan, er hún var komin á fætur hvern morgun, tekur hún kistil þann, er Egill var vanur að sitja á, og setur hann upp í rúmið til fóta; eru Agli nú þau sund lokuð að sitja á kistlinum; sér hann þá, að eitthvað verður til bragðs að taka, og sezt hann nú jafnan á rúmbríkina hjá Sigrúnu, og þykir henni nú sýnu verr en áður, og færir hún nú aftur kistilinn á sama stað næsta morgun, enda sezt Egill þar.

Þegar Egill hafði verið nær því fjórar vikur í Hlíð, hittast þeir feðgar Grímur og Egill eitthvert skipti; spyr Grímur Egil, hvernig hann uni hag sínum þar í Hlíð. Egill segir sem var, að hann er þar allvel haldinn og að þau hjón séu vel til hans. Þessu næst innir Grímur eftir um kvonbænirnar og hvort honum sé jafnt hugleikið sem áður um ráðahaginn, og segir Egill, að honum er það nú öllu hugfastara en áður og lítist sér því betur á Sigrúnu sem hann kynnist henni betur.

Hefurðu þá, sonur, borið það mál upp fyrir meyjunni? segir Grímur.

Ekki enn nú, segir Egill, er það bæði, að ég hef sjaldan fengið færi á að mæla við hana í einrúmi, en þó ber hitt heldur til, að í hvert skipti, er við höfum verið tvö saman og ég hef ætlað að ráðast í að nefna það við hana, hvort hún vildi eiga mig, þá hefur mér aldrei dottið í hug, hvað ég ætti að segja eða hvernig ég skyldi hefja máls á því, og því meira sem ég hef hér um hugsað, því meira vefst það fyrir mér, hvernig ég skal til haga um bónorðið, því það bögglast fyrir mér, babbi, á hverju ég á að byrja, sagði Egill.

Það sannast á þér, drengur minn, sagði Grímur og velti vöngum, sem Sýrak segir: Fávíss manns hjarta er líka sem einn pottur, sá eð lekur og kann engum lærdómi að halda. Svo hélt ég, sonur sæll, þig uppfræddan vera í garði föður þíns, að þú þyrftir eigi að vera í vandræðum með að haga svo tungu þinni, að það gæti þér til auðnu orðið; en svo gjörast nú þeir hinir ungu menn, yður þykir allt fært, en kunnið þó ekki ráð til neins, ef á herðir.

Þér hafið nú aldrei sagt mér, faðir minn, svaraði Egill, hvernig ég, ha, ætti að fara að, ef ég beiddi mér stúlku, eða hvað, ha? - En hvernig fórst þú fyrst að, faðir minn, þegar þú beiddir hennar móður minnar, ha?

Það man ég ekki, drengur minn, það atvikaðist öðruvísi, að ég færði móður þína í hús föður míns, mælti Grímur og velti vöngum.

Viltu ekki segja mér, faðir minn, hvernig ég á að byrja, eða vilt þú ekki nefna það fyrir mig við hana? segir Egill.

Ekki mun ég það gjöra, sagði Grímur, að fara á fund Sigrúnar, en túlka skal ég mál þitt við fóstru hennar Þórdísi, þegar þú hefur komizt eftir vilja Sigrúnar sjálfrar; en nú, fyrst þú hefur mig þar til kvaddan að segja þér, hvernig þú skalt bera fram mál þitt við meyjuna, þá mun ég þér það að vísu segja: Still þú þá svo til, að þið séuð tvö saman; gakk þú svona, eins og ég gjöri - Grímur spennti greipum saman á brjóstinu og velti vöngum - gakktu stillilega og alvarlega framan að meyjunni, tak þú hönd hennar, og mæl þú síðan með alvörugefni: Þú hefur fangað mitt hjarta, mín systir, með þínu auga (Lofkvæði Salomons, 3. kapítula, sagði Grímur lágt), halla þér síðan að meyjunni, sem þú vildir kyssa hana, og seg: Hunangsseimur drýpur af þínum vörum, mín systir, hunang og mjólk er undir þinni tungu, og ilmur þinna klæða er Líbanons ilmur. Munt þú þá fljótt verða þess áskynja, hvort hugur meyjarinnar hneigist til þín eður ekki. Hugfest þú þessi orð, sonur minn, og lát mig síðan vita, hverju fram fer, mun ég og brátt koma að Hlíð og fullgjöra þetta mál við þau hjón.

Egill þakkaði föður sínum tillögur sínar góðar, og er Grímur hefur nokkrum sinnum haft fyrir syni sínum þenna formála og Egill hyggur sig fullnuma orðinn, snýr hann aftur heim til Hlíðar og hyggur nú vel til síns máls. Leið nú svo enn nokkra hríð, að ekki ræðst Egill að flytja bónorðið; ber tvennt til þess, það fyrst, að sjaldan ber svo undir, að hann fengi færi á að hitta Sigrúnu eina, því þó Egill héldi venju sinni um það að snaga inn í svefnherbergi þeirra hjóna og sitja þar, þegar hann ekki sætti utanbæjarstörfum, þá voru jafnan fleiri menn viðstaddir; og það annað, að honum þótti miklu varða, að hann gæti flutt erindi sitt með svo mikilli stilli, kunnáttu og kurteisi, er svo mikilvægu máli sómdi; var hann helzt áhyggjufullur um það, að sér mundi í nokkru skjátlast að bera fram þau ummæli, sem faðir hans hafði fyrir hann lagt og boðið honum við að hafa, þá er hann í fyrsta skipti birti Sigrúnu vilja sinn.

Það var einn dag um þessar mundir, að Egill átti að starfa nokkuð að moldarverkum, það var að hlaða fjárhúsvegg einn, er rifinn hafði verið um vorið; var hann þegar búinn að leggja undirstöður og hlaða eitt eða tvö hnausalög á ofan; lá verkefni það, er hafa þurfti til vegggjörðarinnar, þar hjá vegghliðinni utanverðri, var það bæði rof og kvíahnaus nýstunginn og garðtorf gamalt, er hann hafði til að binda vegginn með; þar stóð og moldarhrúga allmikil, og bar Egill þaðan moldina í trogi, jafnóðum og hann hlóð og moldaði vegginn. Egill gekk fast að verkinu á milli og nær því hamaðist, en er hann hafði gjört skorpu harða, hvíldist hann aftur langa hríð, settist á vegginn, brýndi ljá sinn, sat og hugsaði og var þá alláhyggjufullur. Þenna dag varð húsfreyju gengið til fjárhúsa, ætlaði hún að líta þar eftir sauðataðshlöðum nokkrum, er nýlega voru saman bornir af túni, og gæta að, hvort griðkonur hefðu þrifalega við skilizt. Fjárhúsin stóðu þrjú saman og hvert við hliðina á öðru, var Egill að verki við það húsið, sem first var bænum, en taðhlaðarnir stóðu undir hlið þess hússins, er að bænum vissi, og mátti ekki sjá þaðan þangað, sem Egill var, þó gengið væri frá bæ til húsanna, því fjárhúsin, þau sem uppi voru, báru af. Þórdís húsfreyja gekk til taðhraukanna og svipaðist þar um, en þá heyrir hún mannamál fyrir utan húsin, þar sem Egill var; hugsar hún, að einhver utanbæjarmaður sé kominn, því ekki vissi hún von neinna annarra manna hjá Agli, og vill hún skyggnast eftir, hver það sé; gengur hún út með húsgöflunum; en er hún kemur að því veggjarhorni, sem næst var því enu rifna húsinu, sér hún, að Egill er þar einn manna; þykir henni atferli hans nokkuð kynlegt. Egill sneri baki að henni og verður ekki var við hana, nemur hún nú staðar við húshornið og forvitnast um, hvað Egill aðhafist. Sér hún þá, að Egill stendur þar hjá moldarhrúgunni; hefur hann tekið reku eina mikla, er þar var hjá honum, og sett hana niður í moldarbinginn á þann hátt, að tindinum var stungið ofan í moldina, en skákarnar vissu upp. Egill stóð berhöfðaður fyrir framan rekuna og mælir síðan fyrir munni sér:

Nú ímynda ég mér, að þetta sé hún og að við séum tvö ein, hvað gjöri ég þá, ha? - Ég geng öldungis óhræddur, eins og hann faðir minn gekk, til hennar, gríp um höndina á henni og segi: Þú hefur fangað mitt hjarta, mín systir - já, nú fipast mér - með þínu auga, Lofkvæði Salomonis, 3. kapítula - svona var það. Síðan segi ég: Hunangsseimur drýpur af þínum vörum, mín systir, og ilmur klæða þinna er Líbanons ilmur - og nú myndaði Egill sig til, sem hann vildi faðma meyjuna, og sló út báðum höndum utan um rekuna, sem hann ætlaði að faðma hana að sér, en rekan stóð ekki vel föst í moldinni, og hraut hún út af við tilræðið, og lenti varið framan á hökunni á Agli, svo hann greip til hökunnar og bölvaði um leið. Þórdís gat þá ekki stillt sig um að hlæja ekki upp úr, en kreisti þó niður í sér hláturinn með hósta, en gekk síðan fram undan húshorninu til Egils og lætur sem hún hafi einkis orðið áskynja og segir:

Ég sæki þá ekki rétt vel að þér, Egill minn, hefurðu meitt þig?

Ónei, húsmóðir góð, sagði Egill, ég sló óvart rekutindinum framan í mig og hruflaði mig hérna á hökunni, það er ekkert.

Það fór betur, sagði Þórdís, komdu samt heim, ætli það sé ekki betra að leggja eitthvað við það?

Þess þarf ekki, sagði Egill og tók hnaus mikinn og gekk til tóftarinnar og fór að hlaða. Þórdís gekk þá heim.

Ekki sagði Þórdís öðrum mönnum frá nema Sigrúnu fóstru sinni; henni segir hún, hvers hún hafi vís orðið, og svo, hver ummæli Egill hafi haft, er hann stóð frammi fyrir rekunni, sé Egill þessi afkáralegur mjög, er hann stæði svona út á víðavangi og talaði við sjálfan sig; höfðu þær fóstrur þetta í skimpingi sín á milli og hentu þó mest gaman að því, sem Egill las yfir rekunni; segja þær, að Egill ætli nógu snemma að æfa sig í þeirri íþrótt að biðja sér stúlku og bera það mál flysjungslega upp; ekki létu þær fóstrur samt neinn heyra flimtan þessa, og vildi Þórdís fyrir hvern mun ekki, að Egill væri hafður að skopi þar á bæ, en það vissi hún mundi verða, ef saga þessi kæmist á loft.

Líður nú nokkur tími, að ekki vekur Egill til um bónorðið við Sigrúnu, en eftir því þóttist hún taka, að það var ekki einleikið, hversu fylgisamur hann var henni, hvort sem hún var úti eða inni; en ekki gat hún um það við Þórdísi fóstru sína, hverja ætlun hún hefði þar um.

Það var um vorið, að Sigurði bónda hafði lengi verið vant tveggja geldinga, er sloppið höfðu í ullu og urðu ekki rúnir; fundust þeir ekki, þó þeirra væri leitað, en einu sinni sem oftar hafði smali farið að leita geldinganna og fann þá í dalverpi einu litlu á Hlíðarhálsi, og hafði þeirra þó áður leitað verið um hálsinn, en jafnan gengizt yfir þá; rekur smali sauðina til Hlíðar og lætur þá inn í kví eina þar á túninu, gengur síðan til bæjar og segir bónda frá, að geldingarnir séu fundnir - og er nú ráð, segir hann, að láta þá ekki sleppa aftur í ullinni. Ekki voru þá aðrir menn við bæinn en þau Egill og Sigrún, og biður hann þau að ganga til kvíar og rýja sauðina. Þau Egill fara til kvíar, og rýir Sigrún sauðina, en Egill stendur í kvíadyrum og heldur í þá á meðan og stingur höfði milli fóta sér. Sigrún kastar ullinni upp á kvíavegginn, jafnóðum og hún rýir. Egill var hljóður, á meðan á verkinu stóð; en er þau hafa rófurakað geldingana, sleppir Egill þeim út úr kvínni, en Sigrún safnar saman ullinni, þeirri er lá á kvíaveggnum, og lætur í svuntu sína, og var henni eigi laus nema önnur höndin, er hún hélt svuntunni með hinni. Egill gengur þá til Sigrúnar, tekur um hönd hennar og segir:

Þú hefur fangað mitt hjarta, mín systir, með þínu auga, segir - en þá stendur nokkuð í honum.

Sigrúnu dettur þegar í hug ævintýri Egils og rekunnar, var það þá rétt komið á varir hennar að segja: segir Egill við reku, en hún stillti sig þó og brosti við framan í Egil. Egill fékk þá nýjan dug og djörfung og heldur áfram: Hunangsseimur drýpur af þínum vörum, og ilmur klæða þinna er Líbanons ilmur - og í sama vetfangi ætlar Egill að leggja hendur sínar um háls Sigrúnu, en hún sá þegar tilræðið; verður henni það þá fyrir, að hún hrindir Agli frá sér með þeirri hendinni, sem hún hafði lausa, og segir hlæjandi:

Hvað á þetta flangs við mig, Egill, og þessi biblíulestur, sem þú hefur? og hljóp þegar á leið heim til bæjarins.

Egill herðir nú upp hugann, hvetur sporið og gengur á svig við hana og segir:

Ég hef lengi ætlað að tala við þig, Sigrún mín.

Já, já, sagði Sigrún.

Lízt þér ekki á mig, ha?

Svona, hvorttveggja og bæði, sagði Sigrún.

Viltu þá ekki eiga mig, ha? sagði Egill.

Ænei, hróið mitt, svaraði Sigrún.

Fyrir hverju þá? sagði Egill og blíndi framan í Sigrúnu, eins og hann gæti með engu móti skilið í því, að svo mætti vera.

Fyrir hverju? át Sigrún upp eftir honum - fyrir hverju, sem það er.

Hann faðir minn ætlar þó að nefna það við hana fóstru þína, og húsbóndinn hefur lofað honum því, og af því fór ég hingað.

Það er rétt, segir Sigrún, nefndu það þá við þau, en hugsaðu þér það samt aldrei, hróið mitt, að ég eigi þig.

Þegar svo langt var komið talinu, voru þau Sigrún komin að baðstofuhorninu, og tók Sigrún þá sprett mikinn og hljóp sem fætur toguðu inn í bæ og upp á baðstofuloft og var þá kafrjóð í andliti. Af Agli er það að segja, að hann dundaði um stund fyrir ofan bæ og var í fyrstu harla óglaður og nagaði neglur; en síðan gekk hann burt og kom ekki í baðstofu fyrr en um háttatíma. Morguninn eftir reis hann snemma úr rekkju og var heldur fálátur þann dag, en þá er nokkuð frá leið, tók hann aftur kæti sína. Íhugaði hann mál sitt í einrúmi, og fannst honum nú sem hann hefði létt þungu bjargi frá brjósti sínu, þar sem hann hafði opinberað Sigrúnu huga sinn; raunar virtist honum sem svör Sigrúnar hefðu ekki verið sem hlýlegust, en á hinn bóginn gyllti hann það fyrir sér, að ekki væri með þessu öll von úti, hefði hann og heyrt þess getið, að oft yrði það í kvonbænum, að stúlkur tæki hvað mest af í fyrstu, en yrði þó síðar leiðitamari, enda félli ekki eik við fyrsta högg, og yrðu menn að vera stöðugir í bæninni og óþreytanlegir; ásetti hann sér því framvegis að leggja æ meira kapp á þetta mál en að undanförnu.

Þegar Sigrún kom í baðstofu eftir fundi þeirra Egils, tók Þórdís brátt eftir því, að fóstra hennar var ekki með öllu eins og hún átti að sér og að henni var í nokkru brugðið; innti hún þá Sigrúnu eftir, hvað til bæri. Sigrún lét fátt yfir í fyrstu; gekk Þórdís þá fastara eftir, og kom svo, að Sigrún sagði henni alla atburði og viðræður þeirra Egils svo og, hver svör hún hefði veitt því máli; fylgdi þar með, að Sigrún kvaðst hafa ráðið það af orðum Egils, að hún hefði verið honum heitin, þegar Egill vistaðist að Hlíð. Þórdís hlýddi frásögu Sigrúnar, en er hún hætti máli sínu, tekur Þórdís svo til orða:

Nú hefur þú gjört vel, fóstra mín, að segja mér hið sannasta af viðræðum ykkar Egils; skil ég nú eftir á, hvað undir hefur búið um það, er hann jafnan hefur vanið komur sínar hingað inn í húsið og setið hér löngum. Svör þín, fóstra mín, þykja mér og hæfileg verið hafa; líkar mér það bezt, er þú hefur með öllu veitt honum afsvar. Það er í öllum viðskiptum bezt að vera hreinn og einlægur, en einkum ríður á því í þess konar efnum að hafa hreinskilni, því bæði er það ábyrgðarhluti að draga nokkurn mann á tálar með tvíræðum orðum, og líka getur oft svo farið fyrir þeim, sem ætlar að gabba annan, að hann grefur þá gröf, er hann sjálfur í fellur. En það er þér skjótast af að segja um minn vilja í þessu máli, að aldrei hefði sá ráðahagur orðið mér geðfelldur, þó þú hefðir honum unað, og mundi sá einn hlutur hafa skilið vináttu okkar. Veit ég að sönnu ekkert óráðvant eða illt til Egils þessa, en undarlega kemur mér það, ef honum kippir ekki í kyn föðurfrænda sinna, hafa þeir allir verið menn mjúkmálir og miklir á lofti, en ýmsar sögur hafa farið af því, hversu þeir hafa heilráðir og vinfastir verið. En þar sem þú kveðst hafa ráðið það af orðum Egils, að það muni hafa verið gjört að ráði millum þeirra Gríms og Sigurðar bónda míns, að Egill skyldi þín fá, þá kemur mér það kynlega fyrir, ef bóndi minn hefur dulið mig þess, og verð ég að komast eftir því; en hefði ég vitað, að svo væri, skyldi Egill aldrei hafa komið hér til vistar að mínum vilja.

Að þessu búnu léttu þær fóstrur talinu, og bað Þórdís Sigrúnu að láta sem fæsta menn vita viðtal þeirra eða bónorðs umleitan Egils.


15. kafli

Fundið bréf Þórarins

Skömmu eftir þetta var það einn dag, að Finnur frá Stað kom að Hlíð; kvaðst hann vera sendur af presti á bæ einn þar í sveitinni, en komið þar við um leið, og hefði hann skilaboð til Sigrúnar frá griðkonu einni á staðnum og nefndi griðkonuna, gjörði hann boð fyrir Sigrúnu og bað hana út ganga. Sigrún gekk til fundar við Finn, og brá hann henni á einmæli, en raunar var það erindið að Finnur kvaðst fyrir skömmu hafa fengið bréf frá Þórarni vini sínum, og hefði þar innan í verið bréf til Sigrúnar, er Þórarinn hafi beðið sig að koma til hennar. Fékk Finnur Sigrúnu bréfið, og þakkar hún honum það, en felur bréfið í barmi sínum og biður Finn síðan inn ganga og þiggja greiða; gjörir Finnur svo, og er honum veittur beini. Hefur Sigrún það á orði við fóstru sína, að Sigríður Þorsteinsdóttir vinnukona hefði gjört sér boð um að láta sig fá nokkuð af tvinna og léreftsrenninga, þar hún ætti peysu enn ótilsetta og ætti ekkert fóður undir ermarnar. Litlu síðar fór Finnur, en þegar Sigrún sá sér færi á, gekk hún úr baðstofu og út til fjárhúsa, og er hún hafði vandlega njósnað um, að þar var enginn maður nærstaddur, gekk hún inn í eitthvert fjárhúsið, braut upp bréfið og las. Varð Sigrún harla glöð við að sjá, að Þórarinn mundi eftir henni, og svo þær fréttir, að hann yndi vel hag sínum þar syðra og mundi koma að finna hana, nær sem hann fengi færi á. Sigrún mundi hafa staðið þar í húsinu og lesið bréfið svo oft aftur og aftur, að hún hefði verið búin að læra það orðrétt, hefði hún ekki verið hrædd um, að sín yrði saknað úr bænum, ef hún væri mjög lengi burtu. Hún braut bréfið saman, stakk því í barm sinn og krækti svo peysunni vandlega að sér og gekk heim til bæjar; laumaði hún síðan bréfinu í pallkistil sinn og vafði það áður innan í hreint léreft; leið þó engi sá dagur, að hún læsi ekki bréf Þórarins, ef henni gafst næði til þess; sætti hún jafnan lagi, er enginn var uppi við; tók hún þá kistilinn og setti í hné sér í rúmi sínu, lauk honum upp og sneri honum þannig, að lokið og hjörurnar sneru fram, og lét lokið hallast að enni sér og lét það þannig skyggja á, á meðan hún las bréfið. Gjörði hún þetta til þess, að þó einhver kæmi fljótlega upp eða inn í herbergið, skyldi það ekki sjást, að hún hélt á bréfinu, og að hún gæti skellt kistlinum aftur, svo fljótt sem þurfa þætti. Einu sinni sem oftar var það, að Sigrún var ein í húsi, en fóstra hennar var ofan gengin til búverka eða matreiðslu. Tók Sigrún þá kistil sinn að venju og ætlar að skoða bréf Þórarins. Bregður henni þá ekki alllítið í brún, er hún finnur hvergi bréfið; leitar hún nú hvervetna í kistlinum og flettir sundur hverju knýti, er í honum var. Þessu næst leitar hún í rúminu og í kringum það, en finnur ekki að heldur. Þykir henni þetta kynlegt mjög, þar eð hana minnti fastlega, að hún hefði síðast látið það ofan í kistilinn; tekur hún nú það ráð, að hún kveikir ljós og leitar hvervetna, er henni kemur til hugar; lýsir hún umhverfis í húsinu og í rúmi fóstru sinnar og um loftið; síðan tekur hún að leita í rúmi sínu og tekur hvert fat upp úr rúminu. Lokarspænir voru undir fötum í rúminu, og rótar hún þeim við og gætir vandlega að öllu. Í þessu bili kemur húsfreyja inn. Sól skein í heiði, og bar geisla um allt húsið; verður Þórdísi starsýnt á fóstru sína og þykir kynlegt atferli hennar, er hún lýsir með logandi ljósi um hábjartan dag og hefur þegar bylt öllum sængurfötum úr rúmi sínu, og virðist henni Sigrún mjög áhyggjufull um leitina - og hefur þú glatað nokkru, Sigrún mín, segir hún, er þér þykir svo mikils um vert?

Sigrúnu verður það fyrir, að hún segir, að hún hafi misst nál eina smáa, er hún hafi miklar mætur á og prestskonan á Stað hafi gefið sér, segir slíka ekki vera til í hverju nálhúsi.

Þá furðar mig ekki, segir Þórdís, þó þú hafir ljós í leitinni, en seint hygg ég þér muni sækjast að kanna alla hefilspæni, þá er í eru rúminu, eftir einni saumnál.

Sigrún kvað það satt vera og tekur aftur að koma fyrir rúmfötum sínum, er hún þá mjög sorgbitin, svo að varla mátti hún halda tárum; gengur hún nú ofan til að slökkva ljósið og bera ofan lampann, en hitt var þó heldur, að hún vildi ekki, að fóstra hennar sæi, að hún tárfelldi. En er Sigrún var ofan gengin verður Þórdísi litið til rúms fóstru sinnar; sér hún þá, að hjá gaflbríkinni efri var rifa nokkur, og sá þar á sendibréf eitt. Þórdís tekur bréfið og lítur utan á, sér hún þá, að á bréfinu er kveðja og að það er til Sigrúnar Þorsteinsdóttur á Hlíð, og var kveðjan rituð fagurlega. Þórdís lýkur bréfinu upp í skyndi og vill gæta að, frá hverjum það sé, og lítur hún á nafnið undir bréfinu og les tvær síðustu línurnar og sér, að það er vísa, og er hún þannig:

Hvað, sem örlög ætla mér,
eikin frænings túna,
ævi langa ann ég þér,
yndislega Rúna.

Þórdís braut saman bréfið aftur, og stóðst það á, að Sigrún kom upp um loftsskarirnar og Þórdís brá bréfinu undir svuntu sína og læddi því ofan í pilsvasa sinn. Þórdís er hin kátasta og lætur sem ekkert hefði til borið; Sigrún var þá og allglöð að sjá, en þó fann Þórdís það brátt, að ekki var kæti hennar eins innileg og hún átti vanda til, og fékkst Þórdís ekki um það. Líður nú svo fram eftir deginum, og er líður undir þann tíma, að menn eru vanir að taka dagverð, gengur Þórdís fram; þar var stofuhús lítið fram í bænum, var það haft fyrir presta og heldri menn, er komu að Hlíð, og í borð eitt ekki allmikið og eitt rúm. Þangað gengur Þórdís og lokar dyrum eftir sér og tekur úr lykil. Tekur hún nú bréf Þórarins úr vasa sínum og les, var þetta bréfið:

B...., hinn 30. Maí 17..

Ástkæra unnusta!

Ég ætla nú hér eftir, Sigrún mín góð, að nefna þig þessu nafni, þegar ég skrifa þér, því ég veit það fyrir víst, að megi ég ekki kalla þig svo, elskan mín, þá eignast ég aldrei neina unnustu. Að sönnu er það satt, að ég ekki hef beðið þá, sem með eiga um þig, og hef því ekki rétt til opinberlega að kalla þig unnustu mína, en engu að síður ertu það samt í raun og veru, og sjálfur finn ég það því betur sem ég er þér fjarlægari. Síðan við skildum, sakna ég þín á hverri stundu og þrái þig eins og blindur maður birtuna eða einhver í sjávarháska þráir ströndina og landið, þar sem hann á lífs von; og þó stendur öðruvísi á fyrir mér en þeim, ég hef vissuna fyrir mér, sem mér er fyrir öllu og ætti að vera huggun mín í útlegðinni. Ég veit, að þú elskar mig eins heitt og nokkurri stúlku er unnt. Þegar við vorum saman, gafst þú mér hönd þína og hjarta. Kossinn, sem þú kysstir mig að skilnaði með tárin í augunum, vottaði það, að þú hvorki vilt né getur tekið þá gjöf aftur. Ó! vertu blessuð fyrir hana, svo lengi sem þú lifir! ... Ó, ég vildi, að ég væri nú kominn til þín, svo ég gæti sagt þér þúsund sinnum fleira en ég get skrifað og talað við hana fóstru þína, sem er þér svo góð og trygg eins og hún væri móðir þín; ég skyldi þá segja henni frá, hvernig á stæði fyrir okkur, og biðja hana að leggja blessun sína yfir okkur, biðja hana að fyrirgefa okkur það, að við höfum ekki sagt henni frá því, sem okkur í brjósti býr, og sannarlega iðrast ég nú þess, að ég fann hana ekki og verða að fara bak við hana, og þess vona ég verði ekki langt að bíða, því þér að segja, elskan mín, hefur sýslumaðurinn, sem ég er hjá, heitið mér því, að ég skuli fá að fara í haust að finna kunningja mína, undir eins og hann geti misst mig; ég er að hlakka til þess, og mig er löngu farið að dreyma fyrir því á hverri nóttu, hvað yndislegt það verður að finna þig og hana systur mína, enda eru þá allir upp taldir, sem ég hlakka til að finna, nema hún fóstra þín, en ég þekki hana því miður svo lítið, og samt virði ég hana og elska í huga mínum, af því ég veit, hvað hún hefur verið þér góð og ástúðleg. Ég vona þú hafir fengið frá mér bréfmiða með Finni, ég skammast mín fyrir, hvað hann var stuttur og ónýtur. Finnur lofaði mér að koma honum til þín, svo lítið bæri á, og ég veit, að hann hefur reynzt mér trúr. Af mínum högum hér syðra er allt gott að frétta, allir eru hér góðir og þægilegir við mig og sýslumaðurinn þó beztur, og reyni ég til að koma mér við hann; ég heyri suma kalla hann harðan og stórbokkalegan, en ekki hef ég af því að segja enn. Við erum nú nýlega komnir heim úr ferð, og svo ríðum við nú bráðum til alþingis, verðum við þá þrír með honum og fjórði sonur hans, sem ekki hefur fyrr riðið til alþingis. Við eigum að hafa 12 eða 14 hesta, og er einum ætlað að vera hestasveini; ég á að skrifa það, sem hann þarf, en hinn þriðji er þjónustusveinn þeirra feðganna, og á hann vandasamasta embættið af okkur öllum; hann á að standa berhöfðaður hjá hesti sýslumanns, er hann stígur á bak, og halda í ístaðið; hann dregur af honum stígvélin á kvöldin og strýkur þau á morgnana og brýtur fyrir hann sokkana, ber á borð fyrir hann og veitir honum alla þjónustu. Gott hygg ég til þessarar ferðar. Á alþingi koma öll stórmenni landsins og margir uppvaxandi menn og höfðingjaefni og skólabræður mínir, þykir mér þar ekkert skorta til fagnaðar nema það eitt, að ekki hef ég von um að sjá þig þar, enda er nú mjög farinn að leggjast niður sá siður, sem alltíður var á dögum forfeðra vorra, að konur og gjafvaxta meyjar ríði til þings með frændum sínum og prýði svo samkvæmið. Margt skyldi ég rita þér að gamni mínu og segja þér frá siðum og heimilisháttum hér syðra, ef ég hefði tíma til, en nú verð ég að flýta mér að enda miðann, svo ég nái í lestamanninn, sem á að bera hann áleiðis, og verð ég því að biðja þig að fyrirgefa, hvað hann er endasleppur. Ég hef beðið Finn að taka við seðli frá þér, elskan mín, því ég vona, að þú sendir mér einhvern tíma línu; það þarf ekki að vera langt, fáein orð frá þér eru nóg til að hugga mig og ræta af mér ólundina. Loksins kveð ég þig hér með einni bögu....

Þórdís las bréf Þórarins með athygli, en síðan braut hún það saman og stakk því aftur í vasa sinn; sat hún þar nokkra hríð og íhugaði mál þetta. Bréf þetta var svo ljóst orðað, að Þórdís gekk úr öllum skugga um það, hvernig á öllu stæði, og ekki datt henni heldur annað í hug en það, sem var, um það, frá hverjum bréf þetta væri; vissi hún og, að Sigrún ekki hafði haft kynni af öðrum manni með því nafni en Þórarni prestsmági; hugsar hún nú helzt um það, hvern upp skuli taka, að leggja bréfið á sama stað, þar sem hún hafði fundið það og láta sem hún hefði einkis áskynja orðið og bíða svo þess, að Sigrún segði henni frá um einkamál þeirra Þórarins. En er hún íhugaði það mál betur, þá virtist henni það ekki ráð, gæti þá vel svo farið, að bréfið flæktist og kæmi í hendur fleiri manna, en það vildi hún fyrir hvern mun ekki yrði; ræður hún það þá af, að hún kallar Sigrúnu fram í stofu, og þá er Sigrún er þar komin, læsir hún stofunni og tekur svo til máls:

Ég held, fóstra mín, að ég hafi orðið svo heppin að finna fyrir þig lítilræðið, sem þú varst að leita að í morgun - síðan tekur hún bréf Þórarins upp úr vasa sínum og réttir að Sigrúnu - eða var þetta raunar ekki það, sem þú varst að leita að, þó þú segðir mér nokkuð annað? En það fór þó betur, að ég varð heldur til að finna það en einhver annar.

Þórdís ætlaði að segja eitthvað meira, en fékk ekki ráðrúm til þess, því Sigrúnu varð það fyrir, að hún hleypur um hálsinn á fóstru sinni kjökrandi:

Æ, fyrirgefið þér mér, segir hún, fóstra mín góð!

Hvað þá, Sigrún mín? Ég var ekki farin að ávíta þig fyrir neitt, segir Þórdís.

Ó, ég veit það, fóstra mín, þú ert reið við mig, ég átti að segja þér frá því, en ég kom mér ekki að því, sagði Sigrún grátandi og kyssti fóstru sína.

Ónei, elskan mín, ég er þér ekki reið fyrir það; vertu ekki að vola út af þessu, ég vil ekki sjá það; ég get ímyndað mér það og virt það til vorkunnar fyrir þér, þó að þú færir ekki að segja mér frá þessu meinleysi, sem komið hefur verið millum ykkar Þórarins, á meðan þið voruð saman, og fyrst það var þá ekki lengra komið en svona; en það getur verið, að mér hefði þótt það lakara, hefði ég heyrt það utan að mér, að þú værir farin að leggja lag þitt við einhvern strákinn, sem ekkert meinti með því; en mér þykir líklegt, og ég ætla að geta þess til, á meðan ég reyni ekki annað, að hann sé ekki af þess háttar mönnum, sem lízt vel á eina í dag og aðra á morgun, enda lítur svo út sem hann hafi einhverja tryggð í sér, því annars hefði hann ekki gefið um að hafa kunningsskap við þig, eftir að hann var kominn svo langt í burtu; þeir eru vanir, flagararnir, að sýna, hverjir þeir eru, þegar þeir komast frá augunum á þeim, sem þeir hafa glingrað hvað mest framan í, á meðan þeir voru nálægt þeim, enda mun brátt raun á verða um það, hvort nokkur æra er í honum eða ekki. En ekki lái ég þér það, þó svo hafi farið, að þér hafi orðið meinlaust við hann, því bæði er það, að maðurinn er allásjálegur, og svo mundi margur mæla það, að þú hlytir ekki af verri endanum um gjaforðið, ef slíkur maður ætti þig; enda mun þér ekki betri úrkosta von, munaðarleysingjanum, sem engan átt að; en hitt vil ég nú vita, fyrst við höfum minnzt á þetta mál, hvort Þórarinn hefur heitið þér eiginorði, og þar næst, hvort fleiri menn hafa orðið áskynja um samdrátt ykkar.

Sigrún segir nú fóstru sinni af hið ljósasta um það, er Þórdís spurði, segir hún svo, að Þórarinn hafi beðið hana að heitast engum öðrum manni og einnig hafi hann gjört það heit, að hann skyldi enga stúlku aðra eiga, meðan hann vissi hana á lífi og ógifta. Enginn maður segist Sigrún halda að hafi sannar sögur af viðræðum þeirra Þórarins og samdrætti, en svo hafi þó Þórarinn sér frá sagt, að mágur hans Sigvaldi prestur mundi nokkurn grun á hafa, og þar með, að hann mundi vera þeim málum mótfallinn og þar í illan hlut eiga, ef hann mætti því við koma. Þá sé og einn maður þar á staðnum, er nokkura njósn muni af hafa, en það sé Finnur Bjarnason, sá er flutt hafði henni bréf Þórarins, sé hann hinn mesti vinur Þórarins og honum trúr í alla staði. -- Huggast Sigrún nú brátt, er hún heyrir, hvernig fóstra hennar tekur þessu máli, og tala þær fóstrur nokkra stund um mál þetta, og kemur þeim allt vel ásamt; tekur Sigrún aftur við bréfi Þórarins, og segir Þórdís um leið brosandi:

Það er nú líklegt, fóstra, að þú geymir það betur eftir en áður; að öðru leyti held ég væri bezt meðferðin á þessum ástarbréfum að tortýna þeim, þegar búið er að lesa þau, þau geta slæðzt upp úr kistlunum, og hitt sýnist mér hætta að bera þau í barminum, þar sem svo er eldfimt fyrir; því hver veit, nær það kann að loga upp í þeim?

Sigrún brosti við, og skildu þær fóstrur talið að svo búnu.


16. kafli

Viðræður þeirra Hlíðarhjóna

Þess er áður getið, hver svör Egill Grímsson fékk, þá er hann hóf bónorðið við Sigrúnu, svo og þess, að hann um hríð tók ógleði nokkra, og var sú orsök, að honum virðist ógreiðara takast um kvonfangið en hann hafði hugsað; en það var líkt fyrir Agli um þetta mál sem Þór forðum, að honum óx ásmegin við þraut hverja; hugðist Egill ekki skyldu fyrr skiljast við fyrirætlun sína en úr væri allur gangur; gjörðust nú svo mikil brögð á um eltingar Egils við Sigrúnu, að þegar tóku menn í Hlíð að gjöra orð á, að ekki væri einleikið um setur hans og stöðu í herbergi þeirra hjóna. Það var einn dag, skömmu eftir það, að þær fóstrur höfðu átt tal saman um bréf Þórarins, að veður var illt, og þótti Sigurði bónda karlmönnum ekki starfandi útivinna, en með því að heyannir voru í nánd, lét Sigurður bóndi vinnumenn sína dytta að amboðum og öðrum áhöldum, þeim er til heyvinnu eru höfð, og sjálfur tindaði bóndi hrífu eina og sat í svefnherbergi þeirra hjóna. Agli var ætlað það verk, að hann skyldi staga að bandreipum nokkrum og binda á hagldir, og voru sum reipin vot og óþrifaleg. Egill gjörir sig nú að venju heimakominn, dregur hann alla reipadræsuna innar í hús þeirra hjóna, tekur kistil Sigrúnar og setur sig hjá rúmi hennar og tekur að sauma að reipunum og gasprar jafnframt við Sigrúnu. Í þessu bili kemur húsfreyja upp og sér, hvar Egill situr og leggur býfur á loft fram, og eru þær ekki allhreinar, en reipaflækjan liggur um loftið. Húsfreyja snýr þá máli til bónda síns og segir svo hátt, að allir heyrðu í húsinu:

Hefur þú vísað Agli til sætis innar í húsinu á daginn?

Ónei, sagði Sigurður nokkuð dræmt, ekki hef ég nú gjört það.

Þá hefur hann vísað sér það sjálfur - en það er nú þér að segja, Egill minn, að það hefur verið siður hér í Hlíð, að hver maður hefur átt sæti á rúmi sínu, þegar hann hefur verið í baðstofu, og er þitt rúm hér fram á loftinu; en það lítur svo út sem þú hafir ekki vitað þenna sið, en hér eftir skaltu vita, að þar er sæti þitt, en húskytruna þá arna höfum við hjónin ætlað fyrir okkur og hana Sigrúnu litlu, og viljum við ekki aðrar setur eða verur vinnufólks í því en sem nauðsynlegar eru og við leyfum sjálf.

Þegar húsfreyja hafði þetta mælt, tekur hún annarri hendi um reipaflækjuna og færir fram fyrir húsdyr. Egil setti dreyrrauðan, en þorði þó fátt um að tala annað en það, að hann hefði ekki þekkt þessar reglur, og dragnast hann síðan út úr húsinu, en Þórdís skellir húsinu í lás, svo sem til að sýna, að hún vilji, að þessum boðum sé hlýtt. Eftir það sezt húsfreyja á rúm sitt, en segir síðan við bónda:

Mér sýnist nú, að þetta hefði fremur verið þitt verk, bóndi minn, segir hún, en mitt, að hlutast til um annað eins á heimilinu eins og þetta, og hefði átt að vera löngu gjört; þú hefur þó séð það eins og ég; það er þó annaðhvort: maður er húsbóndi á heimilinu eða ekki.

Þegar Sigrún sá, að fóstra hennar var setzt á rúmið og tók að tala við Sigurð, gekk hún þegar út úr húsinu og ofan, var hún jafnan vön því, er hún hélt, að þeim hjónum mundi eitthvað á milli bera eða þau mundu tala eitthvað, sem þau vildu ekki, að fleiri menn heyrðu. Húsfreyja lét þá ræðuna ganga:

En hvernig á nokkur að halda reglu á heimili sínu, ef hann kinokar sér við að tala um nokkuð, upp á hverri óreglunni, sem hver tekur?

Ég hef ekki getað verið að því, sagði bóndi, að vísa honum á dyr, drengtetrinu, þó hann hafi setzt stundum þarna á kistilinn hjá henni Rúnu.

Og því trúi ég, sagði húsfreyja heldur stuttlega, það er verst, að hér eru ekki fleiri kistlar til, svo þeir gætu setið hér allir vinnumennirnir í kringum hana eða þá svo sem einn eða tveir hérna við hnén á mér; en það er sannast að segja um þá hina piltana, að þeir eru ekki eins framir og þessi nýkomni piltur; þarna hefur hann hlaupið óboðinn og ókallaður hér inn og rorrað við rúmstokkinn hennar og nærri því vafizt fyrir höndunum á henni allan daginn, þegar hann hefur ekki verið úti við; það væri öll von á því, að heimilisfólkið væri farið að taka til þess, og ekki veit ég, nema hann verði orðaður við hana, og er það þá gott til afspurnar; ekki þarf ætíð meira fyrir karl og konu að koma á óorðinu en óregluna á bæjunum.

Og ekki hefur mér dottið það í hug, Þórdís mín, að nokkur mundi gjöra það.

Ég segi ekki heldur, að nokkur gjöri það, enda mundi ég ekki fyrst verða látin heyra það, en hitt segi ég, að það væri öll von, þó það væri gjört orð á því, hvernig hann lætur við hana og hvernig hann eltir hana; skárri er það dilkurinn.

Það fortek ég ekki heldur, sagði Sigurður, að mér hafi sýnzt það, að hann væri að draga sig eftir henni, en ég held við getum ekki skipt okkur af því.

Það getur verið, að þú skiptir þér ekki af því, en ég gjöri það samt, og satt að segja líkar mér það stórilla, ef Egill er hér kominn í þess háttar erindagjörðum, eða heldur þú, Sigurður bóndi minn, að ég hafi látið Sigrúnu fóstru mína dveljast hingað til í húsum okkar, að hún skuli fá orð af slíkum ólánsslána, sem ég ætla Egil þenna vera, og verða honum að bráð? En þú veizt, Sigurður minn, að þegar ég tala, þá tala ég eins og mér býr í brjósti, og þar sem við erum hér nú tvö ein, þá ætla ég nú að spyrja þig, Sigurður bóndi minn, með hvaða skilmálum réðir þú Egil hingað?

Það man ég ekki svo gjörla, sagði Sigurður, og var auðséð á honum, að hann vildi koma sér hjá að segja af hið sanna.

Það munt þú víst muna, eða tókstu hann skilmálalaust? - Þér er þá ekki stór vandi á við hann, ef þú mátt sjálfur skapa kostina eftir á, eða var ekkert talað um, hvaða kaupgjald hann skyldi hafa?

Jú, jú, víst var talað um kaupgjaldið, si svona.

Hvað átti það þá að vera? frétti Þórdís.

Að honum væri goldið líkt og hinum vinnumönnunum okkar, það var talað um fjórar vættir, og það setti faðir hans upp, að hann hefði hlýlegt atlæti, og - nú hikaði Sigurður sér - si svona.

Er þá ekkert tilhæfi í því, sem ég hef heyrt, að þú hafir heitið Agli því, þegar hann vistaðist hingað, að gifta honum Sigrúnu fóstru okkar?

Og það er haugalygi, aldrei lofaði ég því, nei, því lofaði ég ekki, nema með svofelldu móti - nei, en ekki lofaði ég því.

Nema með svofelldu móti, segir þú?

Að - að - að, sagði Sigurður og stamaði, að hún vildi það sjálf, þá skyldi ég ekki spilla því.

Nú, þar kom það, það er þá eins og mér hefur verið sagt, og þetta kalla ég fullkomið loforð; það var auðvitað, þú gazt ekki heitið meiru, nema þú hefðir ætlað að þröngva henni til að eiga hann, hvort sem hún hefði viljað eða ekki; ég held það hefði verið eins ráðlegt fyrir þig, Sigurður minn, að láta mig vita þetta, áður en þú vistaðir Egil hér, eins og þú oftast hefur gjört, á meðan við höfum lafað við þetta búhokur, og hefur það sjaldan farnazt verr, þó ég hafi ráðið nokkru með um það, hvaða hjú vistuð hafa verið, og við höfum talað okkur saman um það, áður en það hefur verið fullgjört; en það er þér sannast af að segja, að aldrei mundi Egill með mínum vilja hafa hingað komið, ef ég hefði vitað, að þetta hefði búið undir og þeir hefðu haft það í skilmálum, sem nú kemur upp úr kafinu; það hefur hingað til lagazt svo búskapur okkar, að okkur hefur ekki vantað hjú, þó við höfum ekki gripið til þeirra úrræða að gylla fólk með loforðum, sem þó ekki koma fram, þegar til kemur. Veit ég það, að sumir húsbændur hafa þann sið að ginna til sín hjú á ýmsan hátt, en það er hvorttveggja, við höfum ekki átt dæturnar til að laða að okkur vinnumennina með, enda held ég, að ég hefði ekki haft þær fyrir agn, þó ég hefði átt þær, því það kalla ég fremur auðvirðileg úrræði, og þó Sigrún litla sé ekki mín dóttir, þá finnst mér einhvern veginn eins og mér sé eins langt til hennar hrósins, eins og þó hún væri mér skyldari, og ekki er það fyrir það, að ég viti ekki, að hún Sigrún vill ekki líta í þá áttina, sem hann Egill er, og að því leyti sé ég það, að þú í rauninni ert laus allra mála, en trú mér til, Sigurður minn, það mun samt verða sagt, að þú hafir tælt Egil hingað, lofað honum að gifta honum Sigrúnu og prettazt svo um allt á eftir; - svona leggur heimurinn það út, ef ég þekki rétt.

Á meðan Þórdís húsfreyja flutti þessa tölu, sat Sigurður bóndi og hlýddi þegjandi ræðu húsfreyju og hélt að sér höndum, og var auðséð á honum, að hann var slíku vanur og þorði ekki um að fást, þó húsfreyja talaði skorinort. En er húsfreyja hafði lokið máli sínu, segir bóndi með stillingu mikilli og hógværð eins og gott barn, sem hlýtt hefur áminning móður sinnar, biður um fyrirgefning og lofar bót og betrun:

Ég sé það nú, Þórdís mín, eftir á, að þú hefur rétt að mæla, ég hefði ekki átt að vista hann hingað, fyrr en ég var búinn að tala við þig, eins og ég er vanur, og vitað, hvort þér hefði litizt á það; en af því presturinn réði mér heldur til þess að taka hann og sagði hann væri einhver hinn efnilegasti maður, réðist ég þó í það, með því mér lá á manninum.

Baðstu prestinn að útvega þér vinnumann? sagði húsfreyja.

Ónei, ekki að sönnu, það var hvorttveggja og bæði; ég hafði sagt honum frá, að mig vantaði vinnumann, og þá vísaði hann mér á þenna, en sagði þó um leið, skepnan, að hann hefði raunar sjálfur ætlað að vista hann hjá sér, en af því ég væri í þröng, þá vildi hann ekki vera meinsmaður minn, en sagðist vista hann undir eins, ef ég gengi frá.

Það hefur átt að vera vináttubragð, sagði Þórdís og glotti við, mér þykir líklegt þú hafir þakkað prestinum fyrir.

Nú, hann gjörði það nú vel, góði maður, að láta mér hann eftir, sagði Sigurður, því hann tók orð húsfreyju eins og þau voru töluð - og meðfram, sagði hann, af því hann héldi, að Egill mundi verða góður búmaður og mér gæti orðið styrkur að honum, og þá sló hann því líka fram, að okkur væri réttast að fara að gifta hana Sigrúnu, svo ég gæti farið að minnka við mig búskapinn, þegar við færum að lýjast, ef ég sumsé fengi haganlegan og mér geðfelldan mann fyrir hana.

Það sagði prestur? - mælti húsfreyja og tók upp úr vasa sínum silfurdósir miklar og sló á lokið. - Já, það sagði hann góði maður! Mikill blessaður sauður ertu, Sigurður bóndi minn! Það sannast á þér, sem kveðið hefur verið:

Aðra heldur eins og sig,
sá aldrei gengur vélastig.

Þú ert eins hrekklaus eins og þú ert stór til, það væri last að kalla þig undirhyggjumann; þú heldur, að hver, sem talar fagurt við þig upp í eyrun, sé þér eins einlægur og þú ert öðrum. Ertu það barn að trúa því, að hann séra Sigvaldi hefði látið þitt gagn ganga fyrir sínu og látið þér eftir vænan vinnumann, hefði hann viljað nýta Egil ellegar líta við honum? Ertu þá búinn að gleyma því, hvernig hann fór með okkur, þegar hann þurfti vinnumanna við: ginnti frá okkur einhverja tvo beztu piltana okkar, sem við höfðum haldið í fjögur ár, svo við vorum í vandræðum á eftir; eða heldurðu, Sigurður minn, ef honum þætti svo mikill snúður í Agli þessum eins og þú segir, að hann hefði þá ekki krækt í hann fyrir hana Staða-Gunnu, sem hann hefur svo lengi haft á boðstólum og kemur aldrei út? Nei, þó ég sé ekki langsýn, þá er ég viss um, að hér býr eitthvað undir annað en eintóm vinátta við okkur; vanur er hann að sjá sér slag á borði, góði maður, og þeim mun verða hollust vinátta hans, sem eitthvað hefur hjá sér sjálfur, en lætur hann ekki hafa bæði töglin og hagldirnar.

Þá ber þú ekki mikið traust til hans, Þórdís mín, sagði bóndi, heyri ég.

Álíka og músin til kattarins, sagði húsfreyja, en það er ekki svo að skilja, að ég vilji, að þú eigir neitt misjafnt við prest okkar; það fer bezt á því, að viðskipti okkar við Staðarfólk sé hér eftir eins og þau hafa verið hingað til, fá og meinhæg, en ráðaneyti mitt skal séra Sigvaldi aldrei vera og sízt í þessu máli, sem giftingu Sigrúnar snertir, eða um hennar hagi.

Ég sé það er allt satt, sem þú segir, kona mín, sagði Sigurður, en ekki vil ég styggja hann karlinn, hann er mér þó í sumu vel og tekur mér allténd vel, þegar ég kem þar.

Ég ætla ekki til þess, segir Þórdís, enda má honum standa á sama líklega, hvort Agli heppnast sú fyrirætlun eða ekki, þú ert laus allra málanna, eins og ég áður hef sagt, þegar hún vill hann ekki sjálf.

Það sé ég nú, að þú segir satt, Þórdís mín, en hann segir ef til vill, að ég hafi fremur dregizt á það við hann og Grím, að ég skyldi vera því meðmæltur, eins og ég sagði þér áðan.

Ekki sagðir þú mér það, sagði Þórdís, en úr því svo er komið, að þú verður hvort sem heldur er að pretta þá um það, sem þeir munu herma upp á þig, þá sé ég eitt ráð við því, sem ég vona að dugi: Far þú að eins og Adam forðum, kenndu konunni um, ég verð þá að reyna að sitja fyrir svörum, ef til mín kemur, þó ég haldi nú ekki verði mikið fyrir, þegar meðhjálparinn kemur með Sýrak, Salomon og Lofkvæðið; - en nú skulum við ekki tala meira um þetta mál að sinni, og nú ætla ég að biðja þig, Sigurður minn, bónar, ætlarðu að gjöra hana?

Það er sjálfsagt, Þórdís mín, sagði Sigurður og varð glaður við, er hann sá, að húsfreyja gjörðist blíðlegri í bragði en í fyrstu hafði verið. Það er sjálfsagt; þú ert ekki vön að biðja mig annars en þess, sem ég er vanur að gjöra fyrir þig.

Jæja, þakka þér fyrir, góðurinn minn, sagði húsfreyja og kyssti á vangann á karli sínum; ég ætla þá að biðja þig að leyfa mér að koma henni Sigrúnu litlu fyrir í sumar um tíma eða hvað lengur verður, ef mér dettur það í hug, það getur verið, að ég geti fengið kvenmann um sláttinn í hennar stað.

Sigurði bónda datt helzt í hug, að Þórdís mundi ætla enn þá að setja Sigrúnu í einhvern hannyrðaskóla, og vissi hann, að ekki var til neins að letja húsfreyju þess, er hún vildi vel gjöra til Sigrúnar; endurtók hann því loforð sitt, spurði húsfreyju að, hvert hún nú ætlaði að koma Sigrúnu; Þórdís kveðst það ógjörla vita, en síðar skyldi hún segja honum frá því, kyssti síðan bónda sinn af nýju, og slitu þau síðan talið með sátt og samlyndi.


17. kafli

Kirkjuferð Egils

Oft er það í koti karls,
sem kóngs er ekki í ranni.

Það var föstudaginn í tólftu viku sumars, sem þau Hlíðarhjón áttu viðræður þær, er fyrir skömmu er um getið. Sunnudaginn næstan eftir voru menn snemma á ferli í Hlíð. Sól var nýrunnin, og var sólskinið smátt og smátt að færast um dalinn og ofan fyrir bæinn, en skuggarnir óðum að hverfa úr lautunum, döggin tindraði á hverju strái um allt túnið, sem var nær því óslegið og klætt í fegursta sumarskrauti; hlíðin fyrir ofan túnið brosti við, þegar morgunskuggann dró af henni, en sólarljómanum sló yfir brekkurnar og balana, var hún á að líta eins og fagurlega lagaður meyjarbarmur; allavega litar jurtir og blóm tindruðu þar í skini sólarinnar eins og fjörugir gimsteinar, er blika við skæru ljósi í dýrðlegum brjóstnistum ríkiskvenna. Himinninn var skafheiðríkur og veður svo kyrrt, að ekki bærðist hár manns á höfði, en reykurinn af búverkavatninu í Hlíð stóð eins og stöpull upp í loftið, jafnhátt dalbrúninni. Framarlega hillti undir fjárhóp, sem rann hægt og styggðarlaust heim fjárgöturnar, en efra og næstum upp undir brúninni liðu nokkrar kindur í langri halarófu hægt og hægt eftir hlíðarbrekkunum og í sömu átt sem fjárhópurinn. Þetta var kvíféð frá Hlíð, og var auðséð á því, að það hafði veður af smala einhvers staðar á eftir fram í dalnum, en þó ekki allnærri. Niðri á eyrunum hjá ánni voru hestarnir frá Hlíð. Það voru hross mörg og ekki færri en 10 eða 12; bitu sum þar á eyrunum, en sum lágu og flatmöguðu á móti sólinni. Öll voru hrossin sælleg og fögur álitum, en þó var þar einn hestur, sá er langt bar af öllum hrossunum; hann var rauður að lit og var kallaður Dreyri. Þann hest eignaði húsfreyja sér og unni honum mikið, reið hún honum jafnan, er hún fór til kirkju eða í kynnisferðir, en allsjaldan riðu aðrir menn honum. Dreyri var allra hesta bezt vakur og svo góður skeiðhestur, að fáir hestar voru þeir þar um sveitir, er færi svo fljótt á stökki sem hann fór á kostum. Hann var hlaupstyggur mjög og náðist sjaldan í haga, ef hann var ekki heftur, og var það löngum, að menn höfðu ekki af honum.

Þenna sama morgun kemur húsfreyja að máli við bónda sinn, segir hún honum frá fyrirætlun þeirra fóstra, að þær ætli að ríða til kirkju að Stað; hafi hún því svo til hagað, að búverkum og mjöltum yrði lokið í fyrra lagi - eða ætlar þú að ríða með oss, bóndi minn? segir hún. Sigurður kvaðst í þetta skipti mundi heima sitja - verða og nokkrir að gæta bús og bæjar heima, segir hann, en ég hygg, að þeir vinnumenn mínir muni sækja tíðir. - Lætur nú bóndi reka heim hesta marga, og er Dreyri þar með; eru hestar teknir þar á hlaði og beizlaðir nema Dreyri, eltast menn lengi við hann, og næst hann ekki að heldur, hverjar vígvélar sem við eru hafðar; er húsfreyju þá sagt til, og gengur hún út; stendur Dreyri þá þar í túninu, sem loðnast er grasið, og bítur, og eru allir frá gengnir, sem verið höfðu að eltingunni; en þá er húsfreyja er út komin, gengur hún fram í hlaðvarpann og kallar á Dreyra með nafni, lítur Dreyri þá upp og gengur síðan til húsfreyju, klappar hún honum og klórar undir eyrum, lætur hún sækja væna klípu af smjöri í búrið og stingur upp í hann og beizlar.

Búast menn nú til kirkjuferðar, og er lagt á Dreyra fyrir húsfreyju, en Sigrún skyldi ríða hryssu grárri. Það var og allgott hross og kvenhestur hinn bezti. Fyrir utan þær fóstrur réðust til ferðarinnar húskarlar tveir og griðkonur tvær og svo Egill Grímsson. Þær fóstrur riðu í kvensöðlum góðum. Söðull húsfreyju var allur lagður drifnu látúni, og voru á sveifinni myndaðar rósir, sem gengu eftir henni endilangri sem krákustígur; á söðulbríkinni fremri var fangamark Þórdísar og ártal, nær söðullinn hafði verið smíðaður, en á aftari bríkinni var myndaður hestur með öllum kvenreiðtygjum, og stóð hesturinn bundinn við tré eitt. Söðulreiði Þórdísar var einnig settur drifnum látúnsplötum, og voru þar á gjörðar ýmislegar rósir, og var reiðinn svo stór, að nálega huldi alla lend hestsins. Beizli hafði húsfreyja allgott, voru taumarnir úr leðri íslenzku og stangaðir og stór sigurhnútur eða riðhnútur á, þar sem þeir voru skeyttir saman; höfuðleðrið var sett koparhringjum og þríhyrnt ennislauf framan á. Báðar höfðu þær fóstrur glitáklæði yfir söðlum og flossessur miklar í. Allir riðu þeir vinnumennirnir í hnökkum íslenzkum. Og er menn voru albúnir, leiddi Sigurður húsfreyju til hests; stóð Dreyri þar undir reiðtygjunum, hringaði makkann og japlaði mélin og sparkaði með framfótunum, en stóð þó kyrr, meðan Sigurður setti konu sína í söðulinn. Sigrún bjó sig þá og til að stíga á bak, og ætlaði Egill að hlaupa til að setja hana á bak, en er Sigrún sá það, benti hún öðrum vinnumanni fóstra síns að láta sig á bak; greip hann Sigrúnu og snaraði henni í söðulinn, og varð Egill að hverfa aftur við svo búið.

Gatan lá upp frá bænum upp á hálsinn, og var það sneiðingar brattar, og fóru þau fót fyrir fót, allt til þess er komið var á hálsbrúnina, þá voru sléttir melar eftir hálsinum; létu þau nú hestana taka á rás, og var Dreyri jafnan langt á undan í hverjum spretti og tók svo skarpt til fótanna, að hann jós möl og skarni sem moldviðri á alla:, sem á eftir voru; þótti þeim fóstrum allmikil skemmtan að reiðinni. Ber nú ekkert til tíðinda, á meðan þau ríða yfir hálsinn, en er þau voru komin nær því yfir hálsinn og eru að fara ofan sneiðingarnar Staðar megin, sjá þau, að þar sem hálsinn mætist við jafnsléttuna og allskammt frá götunni er hestur á beit og dró beizlið slitið, en reiðverið var snarað út í aðra hliðina; þótti þeim það kynlegt, er ekki sást neinn maður, og hafði húsfreyja orð á að handsama hestinn og gæta eftir, hvort ekki væri neinn maður þar í grennd; en er þau voru allskammt frá hestinum, sjá þau, að þar rís upp maður nokkur á millum þúfna tveggja, og sjá þau hann muni ekki með öllu rétt gáður; glápir hann fyrst á kirkjufólkið allámátlega, en er hann sér það er komið nær því gagnvart honum, bröltir hann upp og þó nokkuð nauðulega, en síðan hleypur hann í veginn og rambar mjög og stendur síðan við og þvergirðir götuna. Maður þessi var svo á að líta, að hann var meðalmaður á hæð, á að gizka miðaldra maður; hafði hann einhvern tíma ekki verið ósnotur, en þó flysjungslegur á yfirbragð; flöktu nú frá honum fötin á brjóstinu, en hattur sá, er hann bar á höfðinu, hékk út í annan vangann, og var nær því bert hálft höfuðið. Fyrir neðan nefið var blóðstorka mikil, og dreyrði þó úr á stundum, og þerraði hann það við og við á ermi sinni. Egill reið fyrstur af kirkjufólkinu og svo hver á eftir öðrum, því gatan var þröng, og mátti ekki nema einn fara í senn. En er Egill kemur að, þar sem maðurinn stóð í götunni, vill hann snúa hesti sínum út úr götunni, en í því bili grípur hinn drukkni maður um taumana á hesti Egils annarri hendi og segir:

Stopp, þinn keltringur! Heilsar þú ekki skikkanlegu og ærlegu - dönnuðu ætlaði ég að segja, en ekki ærlegu - fólki, sem er á vegi þínum, lagsi? Þekkirðu mig ekki, greyið mitt? Ég heiti þó Hallvarður Hallsson, já, það er víst, já víst, þú segir mig ljúga það, þekkirðu mig ekki?

Ekki get ég nú komið þér fyrir mig, sagði Egill og barði hælunum í nárann á hestinum, sem hann vildi komast burt.

Nú, bíddu nú við, vertu ekki að berja stakkels bestíuna, þú getur þó snakkað svolítið við mig, ekki ætla ég neitt að mólinstera þig, greyið mitt, ónei, kunningi, ég er ekki þekktur fyrir það að kássast upp á neins manns jússu - og í þessu seilist hann með þeirri hendinni, sem hann hafði lausa, út á handlegg sér og dregur þar upp af erminni áttstrenda pelaflösku svarta. Flaskan var full af brennivíni upp til axla, tekur hann tappann úr flöskunni með tönnunum, setur á munn sér og réttir síðan Agli.

Þú skalt, bezti bróðir, hafa snás, já, gott snás, það er úr höfuðstaðnum og ekki úr lekabyttunum þeirra; skammi það tætið það frýs, fyrr en Elliðaárnar eru orðnar harðmannheldar, greyið mitt, súptu á, kunningi!

Egill tók við flöskunni og saup á og réttir honum aftur.

Er það ekki nógu gott? - Það er ekki úr Hafnarfirði og frýs seint, þar kemur an upp á, kunningi - sex fiska brennivín eftir taxtanum, það er víst - ég er annars alþekktur, ég heiti Hallvarður, já, það heiti ég.

Hvar áttu heima? sagði Egill.

Hvar á ég heima, sagði Hallvarður, ég á eiginlega heima, kunningi, þar sem ég á heima og vil eiga heima, skal ég segja oss; ég hef oftast verið á fabríkunni í Reykjavík og innréttingunni, sem þeir kalla það, en það prófíterar nú ekki svo mikið af sér á sumrin, og því ætla ég mér að púla hér upp á kúgras um sláttinn í sveitinni, það er víst, eins og ég gjörði í fyrra - en hver er konan, sem þarna ríður í söðlinum? - ég hef séð þig áður, það er víst.

Í þessu snýr hann sér við og rambar þar að, sem Þórdís situr á hestsbaki, en heldur þó allajafna í tauminn á hesti Egils og togar hann með sér út úr götunni:

Sælar, kona góð! Hvað heitið þér?

Þórdís heiti ég og á heima í Hlíð.

Já, Þórdís, Þórdís! já, ég vissi það; já, ég hef einhvern tíma verið nótt hjá yður. Þakka yður fyrir mig, blessuð konan - ég er ekki svo vitlaus, þó ég sé ofurlítið hýr - en hvað heitir dú, pige min! - já, nú tala ég dönsku, sagði Hallvarður og benti til Sigrúnar.

Sigrún svaraði ekki brátt, varð Egill fyrri til svara og segir:

Hún heitir Sigrún.

Þegiðu, segi ég! sagði Hallvarður, láttu stúlkuna segja það sjálfa, eða er það konan þín kannske, ha?

Nei, ekki er hún það, sagði Egill.

Nú, þá þarftu eiginlega ekki að segja mér það, sagði Hallvarður, ég get begribið það, að þú átt hana ekki, því ekki ertu nú fallegur, greyið mitt, og ætla ég ekki að blamera þig samt, en ekki þættir þú pen á innréttingunni, held ég.

Heldur tók að þykkna í Agli við þessar viðræður, tekur hann fast í taumana og ætlar að koma sér burtu og segir:

Slepptu taumunum, svo ég komist áfram! Hvað á þetta, ha?

Ætlarðu þá ekki að bíða, á meðan ég fer á bak, kunningi? Ég ætla að fylgjast með þér.

Slepptu taumunum! sagði Egill og var sýnu reiðuglegri en fyrr og reiðir upp svipuna.

Jæja, sagði Hallvarður, það skal ég gjöra, en fyrst þú vilt ekki bíða, þitt bakbesti, taktu þá eftir því, sem ég ætla að segja þér.

Já, já, sagði Egill.

Bíddu nú við, já, ég ætlaði að segja, að þú skyldir fara í bölvaða boru, greyið mitt, upp á íslenzku, það var nú ekki annað, sem ég vildi þér; ég kem á eftir, kunningi, það er víst - en lofaðu mér þó að kveðja og kyssa á kjaftinn á þér, bróðir minn góður!

Egill vildi allt til vinna að losast við Hallvarð; sleppir Hallvarður nú taumunum, en Egill hallar sér ofan að honum og ætlar að kyssa hann, en Hallvarður grípur um leið til hans og ætlar að halla honum að sér, svo hann geti sem alúðlegast og innvirðulegast kysst hann. Laust var reiðverið á hesti Egils, en efri líkami Egils langur og riðamikill, og missir hann jafnvægið, er reiðtygin snöruðust, og fellur hann af hestinum og í fang Hallvarði, og byltast þeir báðir til jarðar allskammt frá, þar sem húsfreyja sat á Dreyra. En er Dreyri sér ófarir þeirra félaga, þá verður honum svo bilt, að hann tekur undir sig stökk mikið og hendir sig fram hjá þeim kompánum, þar sem þeir liggja við götuna í faðmlögum, bregður síðan á skeið, og getur húsfreyja ekki stillt hann, fyrr en heim kemur að Stað; en er Sigrún sér, að fóstra hennar er riðin, keyrir hún Gránu á stað, og tóku þá hinir allir hestarnir rás á eftir Dreyra, og verða þeir þar eftir, Egill og Hallvarður; en um miðjan dag kom Sigurður bóndi í Hlíð út, og sér hann þá, að hestur Egils er þar kominn og er nú beizlislaus, en hnakkur undir kviði; en yfirklæði, sessu og svipu tíndi kirkjufólk upp sitt á hverjum stað á hálsinum um kvöldið, er það reið frá kirkju, og sagðist hafa grasað vel; en ekki var Egill við kirkju þann dag, og fór Grímur faðir hans á mis við aðstoð hans í það skipti og varð sjálfur að hringja allar hringingar. Ekki kom Egill heldur að Hlíð um kvöldið, og undraði menn, hverju það sætti; skipaði þá Sigurður bóndi, að ekki skyldi loka bæ þá nótt, ef Egil kynni að bera að húsum.

Nú víkur aftur sögunni til þeirra fóstra, hlýddu þær tíðum að Stað eins og ráð hafði verið fyrir gjört. Messugjörðin var snemma úti. En þegar eftir messugjörðina kallar Þórdís Sigrúnu á eintal og segir henni fyrirætlun sína - og mun ég nú ekki ríða beina leið heim aftur, þar ég gat ekki fundið mann hér við kirkjuna, er ég ætlaði að hitta, og mun ég láta Árna vinnumann ríða með mér á næsta bæ, en þið önnur farið sama veginn aftur. En það er þér af að segja, Rúna mín, um erindi mitt, að ég hef íhugað um mál það, er við töluðum um fyrir skemmstu; veit ég það, fóstra mín, þótt þú hafir fátt um rætt, að þér er hvumleitt að vera á bæ saman við Egil Grímsson og sitja svo fyrir ásókn hans og vandræðum, en nú má það á engan hátt sæma að vísa honum burt úr vistinni, en á hinn bóginn sé ég það, að vondir menn geta því uppljóstað, sem þér er til óvirðingar, ef þið eruð á bæ saman; getur þá svo farið, að sá orðrómur komi til eyrna Þórarni vini þínum, og mætti það vel verða, að hann þá legði nokkurn trúnað á það, þó engin væri tilhæfan; er það því ráð mitt, að við skiljum nú um stund, og má ekki í það sjá, þó mér verði ætíð sárt að sjá af þér; en ekki get ég nú að sinni gjört að því, þó vistin verði ekki á höfðingjagarði, en í vandaðra manna hendur vildi ég þó koma þér og til þeirra, sem gjöra vel við þig, ef svo tækist til sem ég hef ætlað.

Sigrún þakkar fóstru sinni fyrir umhyggju hennar fyrir sér og kveðst hennar ráðum í þessu sem öðru fylgja vilja; tárin hrundu um kinnar hennar, en ekki talaði hún neitt, en kyssti fóstru sína þegjandi, en sá koss var merki æsku, einlægrar ástar og þakklætis. Segir Þórdís henni þá, að hún muni biðja Bjarna á Leiti að taka við henni, sé hann kunningi sinn og fornvinur.

Að því búnu skilja þær fóstrur, og sezt Þórdís á Dreyra og ríður á veg til Leitis; var það tvær bæjarleiðir frá Stað. Reið Árni vinnumaður með henni, eins og ráð var fyrir gjört; segir ekki af ferðum þeirra, fyrr en þau koma að Leiti. Ekki hafði Þórdís áður komið að Leiti, og var henni ekki kunnugt þar um heimkynni. Kringum túnið á Leiti var garður mikill og rambyggilegur og allur gjörður af grjóti, axlarhár. Garður þessi var fornmannaverk, mátti það og sjá á honum, að þar höfðu hraustar hendur um fjallað; höfðu þar verið til færð björg svo stór, að ekki var það færi þeirra manna, er nú gjörast, að færa þau úr stað. Garðurinn hafði víða verið hruninn og brotin í hann skörð stór, þegar Bjarni kom að Leiti. Ekki var það raunar tízka á Íslandi um 18. öld að hlynna mjög að túngörðum eða vörzlugörðum þeim, er hinir fyrri Íslendingar höfðu reist. Bjarni var þá á hinu léttasta skeiði, er hann fór að búa á Leiti, hann var laginn mjög fyrir alls konar aflraunir, var það því öllu heldur af því, að hann vildi reyna afl sitt við fornmenn, að hann bætti aftur garðinn og hlóð í skörðin, en af því hann hygði á það, hvílík nauðsyn og gagn má verða að slíkum verkum. Nú er þau Þórdís komu til Leitis, sáu þau, að maður einn mikill vexti stóð á hlaði, var það Bjarni; hann var svo klæddur, að hann var á prjónskyrtu hvítri og bol yfir tvíhepptum, svörtum, og á renndar beintölur. Veður var heitt um daginn, og var Bjarni á nærbuxum einum; þær voru prjónaðar, hvítar að lit og á framan strenghnappur einn mikill af látúni, kúpuvaxinn og svo stór, að nema mundi spesíu stærð. Sokkar Bjarna voru sauðmórauðir. Öll voru föt Bjarna nærskorin, og mótaði fyrir vöðvum á fótum og handleggjum, og voru þeir allir þreklegir og vel lagaðir á að líta. Á höfði hafði Bjarni skotthúfu röndótta, eins og hann átti vanda til.

Þau Þórdís ríða með túngarði, unz þau koma að hliði einu; ekki sáu þau fleiri hlið á garðinum og hliðið ekki mikið og ekki meira en hestur klyfjaðir gat um gengið, og lá yfir hellusteinn mikill. Árni hleypur af baki og ætlar að taka steininn úr hliðinu, sér hann þá, að steinninn er ekki hans meðfæri, en ræðst þó til að færa hann brott, en fær hvergi bifað. Þetta sér Bjarni að menn eru komnir að hliðinu og fá ekki inn komizt, gengur hann þá út þangað og að hellunni og lyftir upp á örmum sér og leggur á garðkampinn og fór að öllu sem hægast, en segir um leið við Árna:

Gaztu ekki lagt frá þér hellublaðkinn, mannkind, meðan þú fórst inn um hliðið?

Bjarni heilsar Þórdísi og biður hana að vera þar velkomna - þú ert sjaldséður gestur hér, segir hann, eða hvað ætlarðu nú, Þórdís mín?

Þórdís kvaðst mundu segja þar frá - en það þykir mér vel fara, að ég hitti þig heilan á hófi, sé ég það nú, að lengi er eftir kraftur í kögglum hjá karli, og varð þér ekki mikið fyrir að lyfta steininum úr hliðinu áðan.

Nú, ég væri þá dauður, Þórdís mín, ef ég gæti það ekki, og kæmist ekki úr greninu; en þú skalt sjá mola, sem ég gat tekið upp, þegar ég var yngri, hann er skammt hérna frá, ég ætla að sýna þér hann að gamni mínu, áður en þú kemur heim.

Þórdís var nú stigin úr söðlinum, og ganga þau fram með garðinum, og fer Bjarni fyrir og þar til, er Þórdís sér, að í garðinn er hlaðið slétt þrep eða stallur mittishár; fyrir neðan stallinn lágu blágrýtissteinar þrír og voru allir miklir; var einn þeirra þó miklu mestur, og sýndist Þórdísi það einkis mennsks manns færi að hefja þann stein frá jörðu; tekur þá Bjarni til orða og segir:

Við þessa steina hafa þeir reynt sig, piltarnir, og kalla þeir þenna minnsta Aumingja, þenna, sem þar er í miðið, kalla þeir Miðlung, og er það meðalmanns verk að koma honum á stall; þessi, sem er frekastur, heitir Fullsterkur; hafa fáir komið hér, sem hafa sett hann upp, en ekki mundi Gretti eða fornmönnum hafa orðið mikið fyrir því; en Grettir Ásmundsson og Ormur Stórólfsson tæki hann upp í hnefa sínum. Það er rétt þú reynir þig við hann Miðlung, Árni!

Árni taldist undan í fyrstu, en er húsfreyja eggjaði hann, réðist Árni til, og gat hann aðeins látið renna vatn undir steininn; þá bað Bjarni hann taka Aumingja - og máttu ekki heita liðtækur, komir þú honum ekki á þrep, segir Bjarni. Árna virtist sá steinn ekki afar mikill, hann var hnöttóttur og af blágrýti. Ræður Árni að þessum steini og vegur hann upp á mitti og ætlar hann þá að snara honum upp á stallinn, en steinninn varð þyngri en hann varði, og má hann með engu móti koma honum lengra en upp að þrepbrúninni, og sé hann þar niður, en Árni blés stórum.

Þú ert óharðnaður enn, drengur minn, það er auðséð, segir Bjarni; það þarf, Þórdís mín, að gefa honum eitthvað, sem rennur í kögglana, til þess hann geti látið hann Miðlung upp - og þetta er nú tvítugur maður - en ekki ætla ég að reyna við hann Aumingja, því honum hef ég getað valdið til þessa, en nú held ég Fullsterkur sé orðinn ofurefli mitt, en einhvern tíma gat ég þó komið honum hérna á brúnina.

Síðan þrífur Bjarni til Fullsterks og veltir honum um hríð fyrir sér, en síðan vegur hann hann upp á kné sér og réttir sig síðan upp með steininn og snarar honum upp á stallinn og segir: Þarna geturðu setið til morguns - en síðan gengur hann heim á leið.

Mikið fannst Þórdísi til afls Bjarna. Leiðir Bjarni Þórdísi til bæjar, en Árni bindur hesta við hestastein einn mikinn, er var á hlaðinu, og var járnhringur í og steypt tini utan um kenginn. Bæjarhús á Leiti voru fá og ekki allstór, en skemma ein mikil á hlaði gagnvart bæjardyrum, og ófríkkaði hún mjög útsýnið. Síðan fylgir Bjarni þeim í baðstofu og voru göng löng og mjó sem rangali. Ekki var loft í baðstofu, og voru rúm á gólfi og sín lokhvíla í hvorum enda baðstofu, svaf Bjarni í annarri, en systir hans í hinni. Ekki var fjalagólf í baðstofu, en langsetis með veggjum var slegið þiljum baka til við rúmin. Allt virtist Þórdísi þrifalegt umhorfs og búshlutir sterkir og eigulegir, en síður sniðnir til fegurðar. Vísar Bjarni Þórdísi til sætis á rúmi einu, en sjálfur settist hann framan á lokhvílu sína. Ekki sá Þórdís þar fleiri menn en þau systkin, og voru griðkonur og smali einhvers staðar úti við. Taka þau Bjarni nú tal um ýmsa hluti á víð og dreif, og er þau höfðu litla stund setið, kallar Bjarni til systur sinnar og biður hana að bjóða Þórdísi einhvern bita, og er nú inn borið skerborð eitt mikið, það var af tré, voru þar á magálar hangnir, hangikjöt og kökusneiðar, og voru þær á að gizka þumlungs þykkar í sárið. Þórdís mataðist þar af, eins og henni sýndist; kallar þá Bjarni aftur til systur sinnar og segir:

Ætlarðu ekki að gefa henni eitthvað að væta sig á, hún getur ekki notað þetta, sem ekki er von, því þetta er ekki ætt fyrir megurð, og er það þó af þriggja vetra gelding; en ekki færðu kaffi hérna, Þórdís mín, það er ekki haft með það hérna, þó þeir séu farnir að flytja það, kompásarnir eða hvað þeir eru kallaðir, þessir dönsku kaupmenn.

Það gildir nú líka einu, sagði Þórdís, þú hefur þó smakkað það, Bjarni minn?

Já, smakkað hef ég það einu sinni eða tvisvar og þótti ekkert í varið, og enginn matur er í því; þetta er eitthvað mórautt skolp og étinn sykurmoli með; en samt kvað það vera selt dýrum dómum, segja þeir, skollinn sá arna; það kann að mega velgja sér á því, ef manni er hrollkalt innan, en ekki er það á við gott og sæmilega megnt hangikjötssoð; ég sýp mér stundum góða ausu af því, og þar finn ég, að er einhver kjarni í, en ekki í hinum skolunum; þetta er eins og smáar baunir; þeir hafa sagt mér, að það sé búið svona til í útlöndum, og hafa saman við það album grecum, ég kann að nefna það - þarna, vættu þig dálítið á skyrspæni, segir Bjarni, í því Þórunn setti tinfat eitt á kjöltuna á Þórdísi - ekki eru hér silfurskeiðarnar, en eitthvað verður til að grípa, fáðu henni, Þórunn mín, sleifina mína, ég stakk henni í morgun þarna í holuna hjá vegglægjunni.

Og ekki fæ ég henni hana, sagði Þórunn lágt.

Hér er þá annar gepill, segir Bjarni og rétti að Þórdísi hrútshyrning einn. Ber nú ekki til tíðinda, þar til Þórdís hafði matazt. Voru þau þá tvö inni, og tekur Þórdís svo til máls:

Nú mun vera mál til komið að bera fram erindið, Bjarni minn, mátt þú og nærri geta, að ekki hef ég farið hingað erindislaust.

Heyra má ég, hvað þú vilt, Þórdís mín, og skilið áttu það, að ég gjörði bón þína, ef ég gæti, sagði Bjarni.

Þér mun þykja kátleg bón mín, er þú heyrir hana, sagði Þórdís, en hún er sú, að ég ætla að biðja þig að taka af mér kvenmann til geymslu.

Nú ert þú að gjöra að gamni þínu, Þórdís mín, enda held ég, að ég tækist það ekki á hendur að passa kvenmann, því það er hlutur, sem er vandgeymdur og brothættur; og heldur held ég tæki það að mér að fara með nýklakning til skírnar í flugahálku og hálagleri, þó ég væri járnalaus, en að passa upp á kvenmann; en segðu mér nú í alvöru, Þórdís mín, hvað er það, sem þú átt við?

Ekki ætla ég, Bjarni minn, að bendla þig við nein vandræði, en svo ég tali nú spauglaust, þá er það erindið að biðja þig að lofa stúlku að vera hér í sumar hjá þér eða hvað sem lengra verður; það stendur svo á því, að ég vil ekki, að hún sé á mínu heimili, en sjálf vona ég hún fari sér ekki að voða, því ekki er hún skynskiptingur, og komin er hún af höndunum.

Og hver er það? - sagði Bjarni, eins og hann væri að glugga út í, hver það gæti verið.

Sigrún fóstra mín, sagði Þórdís.

Sigrún Þorsteinsdóttir, sagði Bjarni, já, vel lízt mér á þá stúlku og stillilega; en hvernig stendur á þessu öllu, Þórdís mín, ætlar þú að setja hana í skóla hér hjá mér til að fullkomnast í hannyrðunum, eftir það hún er búin að vera á prestsetrinu?

Ónei, ekki var það nú ætlun mín, en ekki er það þar fyrir, oft sannast það, sem málshátturinn segir: margt er það í koti karls, sem kóngs er ei í ranni; margt held ég svo vera, að það megi ekki síður nema á smábýlunum en á höfðingjasetrunum; en þessu víkur allt öðruvísi við en þú heldur, og vil ég nú segja af hið ljósasta, af því ég þekki þig svo, að þú ert ekki neinn flysjungi: Það stendur svo á í Hlíð, að þar á heimilinu er einn sá maður, er ég vil ekki, að hún sé saman við, og hann heitir Egill Grímsson.

Egill Grímsson, segir þú; já, þekki ég þann mann að sjón, ég tala hispurslaust, þegar ég tala, ég skil það, þú ert hrædd um, að hann vilji fífla hana, en það vilt þú ekki hafa, að hann gjöri.

Ekki er ég hrædd um það, að hún verði ginningarfífl Egils, en það get ég ímyndað mér, að öfundarmenn hennar, ef nokkrir eru, kynni að ljósta því upp, sem henni mætti verða til hneisu, ef hún er samtýnis þeim manni, sem allir vita, að hefur farið að Hlíð í þeim vændum að ná henni, en sá orðrómur vil ég ekki á komist, og eru fleiri orsakir til þess, er ég í þetta skipti vil ekki segja þér; þætti mér það nú vináttubragð, ef þú vildir verða við bæn minni um þetta; er það og vilji fóstru minnar sjálfrar að komast burt frá Hlíð um hríð, á meðan Egill er þar á bæ, en vart mun hennar verða leitað í þínar hendur, ef mig rétt grunar.

Bjarni hugsaði sig um nokkra stund og segir síðan:

Ég sé þér gengur stór nauðsyn til þessarar bænar, heillin góð, það er fyrsta bænin, sem þú biður mig - láttu stúlkuna koma, ekki skal ég henni illt gjöra, en láta verður hún sér lynda, þó kotungslegur verði viðurgjörningurinn, því svo verður að búa sem á bæ er títt, hér er gefin bóndafæða, og húsrúmið er ekki körugt, hún verður að kotra sér þarna niður í kómentunni hjá Þórunni systur minni, en ekki á ég þess von, að Egill troði mig oft um tær, því engir vinir erum við Grímur faðir hans.

Þórdís þakkaði Bjarna fyrir undirtekt sína, og gjöra þau nú svo ráð fyrir, að Sigrún skuli fara að Leiti í næstu viku og hafa með sér nauðsynlegasta fatnað sinn; býst Þórdís síðan til brottferðar, og leiðir Bjarni hana á götu út fyrir túngarð og segir henni á leiðinni ýmsar skringilegar sögur, er hann jafnan var vanur að segja vildarmönnum sínum og honum áður höfðu sagðar verið. Síðan skilja þau með mikilli vináttu, og ríður húsfreyja heim til Hlíðar og kemur þar, skömmu áður en sól gekk til viðar.


18. kafli

Sækjast sér um líkir,
saman níðingar skríða.

Nú skal aftur taka upphaf á máli því, er fyrir skömmu er frá horfið, þar sem þeir Egill og Hallvarður lágu í faðmlögum á grænni grundu hjá götunni og fundum þeirra hafði fyrst saman borið, en Hlíðarfólk reið frá þeim til kirkju að Stað. Þegar snaraðist af hesti Egils og hann steyptist úr söðlinum í fang Hallvarði, þá var Hallvarður ekki svo fastur á fótum, að hann gæti tekið fallið af Agli, heldur féll hann öfugur út af götubakkanum, og stungust þeir báðir kollahnís út á jafnsléttuna; varð Hallvarður undir og sleppti þá tökum á Agli, og hraut Egill langa leið fram af honum; fauk hattur hans af höfðinu og ofan í leirpoll einn og sat þar millum tveggja þúfna, en svo óheppilega vildi til um Egil, að höfuð hans lenti á steini einum jarðföstum; kom höggið framan á ennið og varð svo mikið, að þegar í stað fellur Egill í öngvit og stendur eigi upp. Hallvarður bröltir fyrst á fjóra fætur og litast um, kemur hann auga á, hvar Egill liggur, kallar hann á hann og segir:

Á, þú liggur þá þarna, kunningi! - Egill andæpti ekki, og kallar Hallvarður enn:

Gegnir þú ekki skikkanlegum og ærlegum mönnum, gikkurinn þinn? Þú skalt vita, að ég skal læra þig til að vera artugri, kunningi! - Í þessu stekkur hann á fætur hart og títt og þangað sem Egill liggur og rekur fótinn í síðuna á honum, og hreyfist Egill ekki að heldur; verður honum þá litið framan í Egil og sér, að hann er náfölur, hallar hann sér þá ofan að honum og kallar: Ertu steindauður, lagsi? - Ekki svaraði Egill enn; sér nú Hallvarður, þó hann drukkinn væri, að þetta muni ekki allt vera með felldu; hugsar hann sig þá um nokkra hríð, en síðan seilist hann út á handlegg sér og tekur upp flösku sína, sýpur fyrst á henni og skvettir síðan framan í Egil vænum skvett og segir: Kannske þú lifnir við, ef þú færð eitt snás, kunningi? - En þegar kalt brennivínið kemur í andlit Agli, fer ómegið brátt að síga af honum; heyrist nú fyrst, að korrar nokkuð í honum, og litlu síðar lýkur hann upp augunum og sezt upp, er hann þá enn máttfarinn mjög og eftir sig. Egill hafði við höggið og ómegið fengið svo mikla ráðningu, að honum var runnin öll reiði; sá hann og, að þó svo illa hefði til tekizt, var það þó ekki í rauninni ásetningur Hallvarðs að vera skaðamaður hans, enda lét Hallvarður það í ljósi, að honum þætti illa hafa til tekizt, og gat þess, að það hefði ekki verið ætlun sín að kássast upp á hann - því ég kássast upp á einkis manns jússu, lagsi, segir hann. Segir nú Egill, að hann mundi fljótt hressast, ef hann næði að fá kalt vatn að drekka og væta höfuð sitt í því, og kvartar helzt um þyngsli og svima í höfðinu. Þar skammt frá var uppsprettulind ein, og taka þeir félagar það ráð, að Hallvarður reisir Egil á fætur, og staulast þeir þangað, og eys hann vatninu yfir höfuð sér, en Hallvarður leggst ofan að læknum og svolgrar stórum. Egill verður nú brátt heill heilsu, en á enni hans hafði hlaupið upp kúla stór, dregur Hallvarður um hana sjálfskeiðing sinn, og hjaðnar hún þó ekki að fullu. Rankar þá Egill við sér og man, að hann eitt sinn átti reiðskjóta og ætlaði að ríða honum til kirkju, en nú sér hann hvergi hross sitt, þykir honum það allillt og það verst, að hann veit ekki, í hverja átt hann skal leita þess; þykir honum tvennt til og þó jafnlíklegt, að annaðhvort hafi hesturinn elt kirkjufólkið, og sér hann þá, að ekki mundi hann af honum hafa fyrr en á Stað, og yrði hann þá að koma þangað fótgangandi, og mundi hann á þann hátt vart ná síðari blessuninni; eður þá hitt, að hann hefði hlaupið á leið til Hlíðar, þar sem hann var hagvanur. Fæst hann nokkuð um þetta, og þykir honum sín ferð óvirðuleg. Loks kemur þeim það ásamt, Hallvarði og Agli, að Egill skuli sleppa kirkjuferðinni, en fara með Hallvarði til Gils; þar var hann þá í kaupavinnu. Kvaðst hann mundi útvega Agli hest heim til Hlíðar. Síðan tekur Hallvarður hest sinn, rétta þeir við reiðverið, er áður var afsnarað, gyrða allar gjarðir sem fastast, og sezt Hallvarður síðan á bak, og reiðir hann Egil að baki sér, og gekk ferðin nokkuð skrykkjótt, en samt komust þeir heilir á hófi að Gili; er Egill þar fram eftir degi og allt til kvölds í góðu yfirlæti, og lýkur svo, að þeir Hallvarður og Egill gjörast hinir kærustu vinir, segir hvor öðrum trúnaðarmál sín, og setjast þeir nú út í túnið og drekka þar saman; átti Hallvarður brennivínskút einn í kofforti sínu; mundi kúturinn taka tvo eður þrjá potta, og skvampaði enn nokkuð á honum. Var kúturinn borinn út í tún, og settust þeir félagar þar að honum, sinn á hvora þúfu, og höfðu náungann á millum sín og dreyptu á sig til skipta og kölluðu hvor annan félaga og bróður. Sagði Hallvarður fyrst frá ferðum sínum, og hafði hann víða farið og verið með mörgum höfðingjum og alls staðar þótt hinn mesti afrekamaður; nú sem stæði kvaðst hann hafa forþénustu við þær nýju innréttingar í Reykjavík, við reipslagarafabrikuna, og að virðingum og öllu atlæti gengi hann næst yfirmanninum, er á hverjurn morgni byði sér gúmoren og segði ætíð Dí til sín um leið; nú í sumar stæði fabrikan þangað til í september vegna skorts á hampi, og hefði hann því tekið þetta ráð að fara upp til sveitar um sláttinn - og púla ég hér upp á kúgras, segir hann.

Þessu næst skyldi Egill segja ævisögu sína, var hinn fyrri hluti hennar fljótsagður, því maðurinn var ungur og hafði ekki staðið í mörgum stórræðum. Hið merkilegasta, sem fyrir hann hafði komið, var bónorðið við Sigrúnu; tjáir hann Hallvarði allt hið sannasta af því máli og svo, í hvert óefni var komið, að stúlkan vilji ekki þýðast hann og fóstra hennar Þórdís muni vera því mest mótstæðileg, að það ráð takist.

Hallvarður hlýddi vel sögu Egils; en er Egill þagnaði, tekur hann kútinn og réttir að Agli og segir: Súptu á, blessaður kunninginn! Egill tekur við sýpur á og fær Hallvarði aftur, þurrkar sér með hendinni um munninn, kyssir hann og segir: Guðsást, elsku vin!

Það er ekki að þakka það, kunningi, þetta skal vera eins og við eigum það báðir, segir Hallvarður og setur kútinn á þúfuna hjá sér. Já, heil slétt er það fyrir þig, bróðir, og linur þykir mér þú hafa verið í sóknum, kunningi, eða hvað lengi hefur þú verið á bæ saman við hana?

Það munu vera átta eða níu vikur, sagði Egill, síðan ég kom þangað.

Já, níu vikur, sagði Hallvarður og hristi höfuðið, og ert jafnnær; það segi ég þér satt, að ekki skyldi ég hafa verið svo vikuna saman við hana, að ég hefði ekki komið henni til við mig, hefði ég annars lagt vind upp á hana, því svo er það stundum, þar sem ég kem á bæ og er blánóttina, þá elta þær mig morguninn eftir ein eða tvær út fyrir tún til að spyrja mig, nær ég komi aftur - eða hvað hefur þú næst henni komizt, tókstu nokkurn tíma í höndina á henni?

Það hef ég gjört, sagði Egill, en það kom nú til lítils.

Þá hefur þú ekki vitað, hvað þénaði, kunningi - og settistu þá aldrei á rúmið hennar?

Oft og mörgum sinnum, sagði Egill, en til hvers var það?

Hefðirðu kunnað að bera þig rétt til, bróðir - ég held ég hefði lætt einhverju undir sængurhornið hennar, sagði Hallvarður.

Þú kannt þá eitthvað fyrir þér? sagði Egill.

Og ekki er ég göldróttur, en ég veit svona það, sem þénar við ýmsu, sagði Hallvarður og kinkaði, en súptu nú á, lagsi - og er það ekki mér að þakka eiginlega, en ég átti kunningja einu sinni, ég kynntist við hann á innréttingunni, hann var af Ströndum eða úr Arnarfirði eða einhvers staðar þaðan vestan að.

Og það var góður galdramaður, ha?

Hvað heldurðu! Hann faðir hans kunni frá sér, en hvað var hann hjá honum afa hans! Hann var brenndur á alþingi, og þessi fékk sumsé allar skræðurnar eftir þá báða, en ekki gjörði hann það fyrir slikk, ef hans var leitað; ég segi þér það í trúnaði, kunningi - þú dugar ekki til að fá þér í staupinu - ég á eina tilfæringu, sem ég veit, að er ótvílug, dugað hefur hún mér; ég held ég verði að sýna þér hana, greyið mitt, fyrst við erum orðnir hálfmálkunnugir, en þú verður að lofa mér upp á trú þína og æru, já, að þú segir engum frá því, já, upp á trú og æru!

Ha? sagði Egill, já, rækalli væri gaman að geta galdrað hana, en sem ég er lifandi maður skal ég ekki segja það nokkrum, því lofa ég; - ætlarðu að hjálpa mér til þess, ha?

Því lofa ég ekki, sagði Hallvarður, en í hitt ætla ég heldur að ráðast að sýna þér staf.

Í þessu þrífur Hallvarður til buxnavasa síns; var bundið fyrir ofan hann með bandtygli og margvafið; leysir hann það, og eru á margir hnútar, en síðan tekur hann upp úr vasanum bréfaveski eitt harla mikið; er bundið tygli nokkrum yfir, og leysir Hallvarður þann og lýkur upp veskinu, eru þar í hólf mörg og í hverju margir miðar og pappírsbindi. Leitar Hallvarður í veskinu og tekur þaðan miða einn gamlan og lúðan, flettir hann miðanum í sundur, en leggur áður veskið hjá sér og segir um leið við Egil:

Taktu nú ekki á tuðru minni - því ef þú gjörir það, þá vil ég ekki ábyrgjast þitt líf, því hér er, satan gali mig, ekki allt barna meðfæri, en þenna miða skal ég sýna þér, því hann er meinlaus.

Síðan fletti hann sundur miðanum og rétti hann að Agli, og var á hann rituð mynd af galdrastaf og þar undir:


Rist þenna staf á manns herðablað, og haf ístru af jungfrú í munninum, og lát undir stúlkufætur, og lát hana standa þar á, meðan hún talar við þig, eða lát hana sitja á honum.


Egill horfði á miða þenna með mestu undrun og las hann rækilega, en segir síðan:

Nei, sko, eru þetta klær, ha? Já, von er það sé kröftugt, mikill er stafurinn; en áttu það, sem til hans þarf, elsku vinur, ha?

Vera kann það, sagði Hallvarður, að ég eigi einhvers staðar flís af herðablaði, ég komst með hægu móti yfir hana; en sjáðu, Egill frændi, sagði Hallvarður og tók úr veski sínu knýti eitt lítið, þessi moli hefur kostað mig nokkra fiska, ég get ekki eiginlega sagt, hvað ég hef gefið fyrir hann, en þrefaldur líknábelgurinn er utan um hann.

Þetta mun vera ístran, ha? sagði Egill.

Já, þetta er hún.

Já, mikill er tilbúningurinn, ég er nú hissa, sagði Egill; það mundi nú ekki vera fáanlegt, að þú létir mig fá miðann, kunningi, ha? - tekur hann þá úr vasa sínum tvær spesíur og réttir að Hallvarði - þú lætur mig fá þetta, lagsi minn góður.

Hallvarður lítur á peningana og segir um leið:

Margt er fyrir vin sinn vel gjörandi, en ekki er það fyrir það, ég hefði haldið, að þetta mundi slá til, ef þú kæmir því laglega undir fæturna á henni; já, ég held ég verði að hjálpa þér um stafinn og beinið, en molann má ég ómögulega missa; ég skal segja þér það, þó hann sé ekki stór, þá fæst hann ekki alls staðar, það var rétt af stærstu heppni, að ég gat komizt yfir hann.

Þá verður mér það ónýtt, sagði Egill; eða á maður ekki að hafa hann upp í sér, á meðan maður talar við kvenmanninn?

Jú, sagði Hallvarður, vissulega, maður á að hafa hann hérna, kunningi, hægra megin út í gúlnum -- ég sé það, þú verður að fá molann, annars verður þér það ekki til neins, ég held ég verði þá heldur að ljá þér hann, en ekki sel ég þér hann, hvað sem þú býður mér, en þetta verð ég að gjöra, af því þú ert í mestu forleiginheitum, en ekki hefði ég gjört það fyrir alla.

Í þessu rétti hann að honum herðablaðkinn og ístrumolann, en stingur hjá sér peningunum. Egill stendur þá upp og kyssir Hallvarð, en Hallvarður segir:

Vertu ekki að þakka það, kunningi, fyrr en þú veizt, hvernig það reynist, en ég vona það verði þér að góðu, ef þú kannt með að fara.

Það verða nú vandræði fyrir mér, hvernig ég á að koma henni til að standa á herðablaðinu.

Ekki ætla ég að vorkenna þér það, kunningi, að finna upp eitthvað ráð til þess; ég hafði það svo, að ég saumaði beinið innan í vettlinginn minn, og svo lét ég hann detta niður, þar sem hún stóð, svo hún varð ekki vör við, og á meðan var ég að tala við hana, og svo sté hún óvart ofan á hann - og þarna vissi ég ekki fyrri til en hún fór að gefa mér auga, svona eins og þær gjöra, þegar þeim lízt á mann, og kafroðnaði í framan; þá vissi ég, hvað stúlkunni var, og þá þurfti ekki meira heldur.

Egill kvaðst hinu sama ráði fylgja vilja; sátu þeir nú um hríð og tæmdu kútinn, er þá og kominn dagur að kvöldi, og hugsar Egill til heimferðar; stingur hann nú miðanum, herðablaðinu og molanum í vasa sinn og býr um sem vandlegast. Útvegar hann sér nú hest á Gili, og er honum léður hann og sagt að skilja hann eftir á Hlíðarhálsi, mundi hann þá rata heim aftur; og er Egill er á bak setztur, gengur Hallvarður á veg með honum út fyrir tún; kveðjast þeir þar með kossum og blíðlátum og mæla til vináttu hvor við annan, en síðan ríður Egill á stað. Hallvarður gengur til bæjar, og er þeir eru skammt farnir, snýr Hallvarður við aftur og kallar eftir Agli og segir:

Blessaður, mundu mig um molann!

Upp á trú og æru! svaraði Egill.

Eftir það ríður Egill leið sína heim til Hlíðar, og er honum nú fremur létt í skapi, og þykir honum sín ferð vel hafa ráðizt, og er hann nú alla leiðina ýmist að hugsa um það, hvernig hann geti laglegast komið beininu undir fætur Sigrúnar eða í sæti hennar, eins og fyrir hann var lagt, og virðist honum það enginn hægðarleikur; þess á milli var hann að ímynda sér og gjöra ráð fyrir öllu, hvernig fara mundi, þegar hann væri búinn að töfra Sigrúnu og henni snúinn hugur, svo hún vildi fyrir hvern mun eiga hann. Hann kvaðst mundi verða drýldinn við hana í fyrstu og láta hana ganga eftir sér og stríða henni dálítið fyrst og launa henni svo lambið gráa, hvernig hún áður tók bónorði hans, en því meira mundi hún sækja á. Þórdísi gömlu skyldi hann storka með því, að hann væri ekki þurfandi fyrir að taka Sigrúnu upp af götu sinni, hún væri þó ekki annað en munaðarlaus og félaus vinnumannsdóttir, hún yrði þá að gefa henni alla sína fjármuni fasta og lausa eftir sig, og kerling mundi allt til vinna að Sigrún gengi ekki frá vitinu.

Slíkt og þvílíkt hugsaði Egill á leiðinni; hann lét hestinn lötra götuna fót fyrir fót og vildi, að vegurinn yrði sem lengstur og seinfarnastur, svo hann mætti sem lengst hafa skemmtun af hugsan sinni.

Loksins kemur hann þangað, sem honum var leyfður hesturinn, sté hann þá af baki og sleppti honum þar, en fór síðan á fæti það eftir var vegarins til Hlíðar; kom Egill þangað, er menn voru löngu háttaðir; finnur hann, að dyr eru ólokaðar, og fer hann til rúms síns, en getur þó ekki sofnað fyrr en undir sólaruppkomu fyrir umhugsun og tilhlökkun. Á mánudagsmorguninn, er menn vöknuðu í Hlíð, er skyggnzt eftir, hvort Egill sé heim kominn, og sjá menn þá, að heima er höfuð Egils, rak hann það undan klæðum, en þó þótti mönnum með nokkru missmíði á orðin, er þar kúla ein mikil og blá í miðju enni. Menn inntu hann að, hverju það sætti, en hann lét fátt yfir og kvað það þó ei af manna völdum; sagði hann og, að Hallvarður sá, er hann hafði hitt, væri drengur hinn bezti. Þann dag hafði Egill það að hjáverkum að rista rúnir á mannsherðablaðið; en um kvöldið fór Sigrún vistferlum frá Hlíð og að Leiti, eins og þau Þórdís og Bjarni höfðu ráð fyrir gjört.


19. kafli

Bjarmalandsför Egils

Brottför Sigrúnar frá Hlíð þótti mönnum allkynleg og bera brátt að, og töluðu menn allmisjafnt um, og lét Þórdís húsfreyja hvern tala þar um sem hann vildi. Ekki þótti Agli nú greiðast um sitt mál, og var nú fokið í flest skjól, er sá máttarstólpi vonar hans, er hann vænti sér mest trausts að, var fallinn, en það var töfrastafur Hallvarðar. Skömmu eftir það, að Sigrún fór að Leiti, fer Egill að hitta Grím föður sinn og tjáði honum, í hvert óefni komið var um kvonbænirnar; það fyrst, hversu þunglega Sigrún hafði tekið því máli; er hann bar það upp fyrir henni; það annað, að Sigrún væri brott farin frá Hlíð, og væri honum þar með öll björg bönnuð, en ekki örvænt um, að Sigrúnu kynni að hafa snúizt hugur síðar, hefði þau Egill kynnzt betur og mátt til lengdar saman vera. Grími þótti nú þunglega horfast til um mál Egils, sagði það ljóst, að brottför Sigrúnar hefði gjör verið til bekkni við þá feðga, og sagði, að ekki hefði allt verið brigðalaust af hendi þeirra Hlíðarhjóna, þar sem Sigurður hefði þó heitið því að vera flytjandi þessa máls. Báru þeir feðgar þetta fyrir séra Sigvalda og báðu hann nokkuð gott ráð leggja. Prestur réði þeim feðgum, að Egill skyldi ekki hætta við svo búið, skyldi hann smátt og smátt venja komur sínar að Leiti og freista, hvort hann gæti ekki náð fundi Sigrúnar og viðtali, mundi þá smám saman draga saman með þeim; færi svo oft, þó ólíklega áhorfðist í fyrstu, að konur léti um síðir tilleiðast, er þær sæju, að biðlar þreyttust eigi, en legðu því meira kapp á, þó þeim væri eitt sinn frá vísað. Grími líkaði allvel þessi ráðagjörð, sagði og, að Egill mætti vel fara að dæmum Móses og slá oftar en eitt skipti á helluna, þar til hann fengi af henni rennandi vatn. Egill kvaðst þeirra forsjá fylgja vilja, og eftir það tekur hann að venja komur sínar að Leiti. Biður hann nú Sigurð bónda eitt laugardagskvöld um orlof og kveðst ætla að hitta föður sinn, og leyfði bóndi honum það; tekur Egill þá gráan hest, er hann átti, og ríður til Leitis. Lætur hann hestinn eftir fyrir utan túngarð og gengur síðan til bæjar; hittist þá svo á, að Sigrún situr undir bæjarvegg og saumar; sezt Egill þegar hjá henni og hefst nú aftur máls á því, er hann áður hafði frá horfið um einkamálin, og gjörir sig sem blíðastan. Bjarni bóndi var við slátt á túni og piltur einn hjá honum; er honum brátt sagt, að Egill sé þar kominn og setztur á tal við Sigrúnu. Bjarni stingur þegar niður orfi sínu og gengur heim úr slægjunni, en talar þó áður nokkur orð hljóðlega við piltinn, er hjá honum var. Bjarni gengur þar að, sem Egill situr, og varpar kveðju á hann og spyr tíðinda og spyr þar næst, hverju gegni um ferðir hans. Egill lætur fátt yfir og kveðst fara sinna erinda. Í þessu bili sér Bjarni, að hundar margir standa í hesti Egils, og er hann á flugferð út frá túni, snýr hann þá að Agli og segir:

Ég held þér væri þarfara, Egill góður, að líta eftir reiðskjóta þínum en sitja hér, sé ég, að hundar vorir leika lausum hala við hann, enda muntu hafa það eina erindi, að þér sé hollast að dragnast brott, en éta skaltu fá áður, ef þú ert svangur, segir hann.

Egill kvaðst mundu ráða ferðum sínum, en stekkur þó upp og ætlar að taka hrossið, og er hann kemur að túngarði, er hesturinn hlaupinn út á mýri eina fyrir neðan túnið og á harða stökki, hleypur Egill eftir honum, en piltur sá, sem áður er um getið, stendur á túngarði og hefur hrossaskellu eina mikla í hendi og sigar hundunum sem hann má. Agli varð torsótt yfir mýrina, er þar voru fen mörg, og þá er hann er á miðri mýrinni, er Gráni kominn af henni og á mela slétta, og fylgja hundar honum jafnan við hæla, og dró hann skjótt undan Agli. Egill kemst við illan leik yfir mýrina, en svo hafði hann hlaupið geyst, að hann var nær því sprunginn af mæði, og nálega var enginn hnappur eftir á buxnastreng hans. Verður hann nú að stöðva hlaupið um stund og blása, og dregur Gráni enn undan, en fyrir hvern mun vill hann hafa hest sinn og dragnast í humóttina eftir honum, og er skjótt af að segja, að hann nær ekki hesti sínum fyrr en hjá túni; hafði hann staðnæmzt þar hjá hestum nokkrum; var þá beizli týnt og lendklæði, og leitar hann þess lengi, áður hann finnur það. Sér þá Egill ekki annað vænna ráð en hverfa aftur og ríða heim við svo búið.

Hinn næsta laugardag á eftir biður Egill enn um orlof og hefur enn hið sama á orði, að hann muni ríða og hitta föður sinn, hafði hann nú og frétt, að Bjarni mundi ekki heima vera. Kemur hann að Leiti, og er það litlu áður en menn gengi til kvöldverðar. Egill hyggst nú, að hann skuli betur sjá ráð fyrir hesti sínum en síðast; hefur hann nú með sér reip eitt, og tjóðrar hann hestinn í lág einni skammt frá túni, þar er ekki mátti sjá hann heiman að frá bænum, síðan gengur hann heim. Bjarni var úti staddur, og þekkir hann þegar manninn álengdar. Tekur hann nú í skyndi það ráð, að hann safnar saman öllu heimilisfólki sínu og rekur það inn til baðstofu. Þar næst tekur hann mykjukvísl eina mikla í hönd sér og sezt síðan á bæjarþrepskjöldinn, og fyllir hann þá nær því út dyrnar og heldur tveim höndum um kvíslarskaftið og er heldur ófrýnn. Egill gengur til bæjardyra og kastar kveðju á Bjarna, og tekur hann því aðeins, og ekki yrðir hann á Egil. Egill snuddaði um hríð fyrir dyrunum þegjandi, en er hann sér, að ekki verður af, að Bjarni bjóði sér inn, og honum heldur ekki virðist árennilegt til inngöngu hjá Bjarna, þá kastar hann orðum á Bjarna og segir:

Þú ert þá ekki svo góður heim að sækja, að þú bjóðir inn gestum þeim, er að garði koma, Bjarni sæll?

Ég hef lítil húsakynni til að bjóða inn slíkum höfðingjum sem þú ert, sagði Bjarni, en hafir þú nokkuð erindi við mig að mæla, þá get ég heyrt það hér, en sértu þyrstur og viljir drekka, þá skaltu fá það. Þórunn! Komdu með mjólk í kálfsdallinum, og láttu hann vera fullan.

Egill kveðst ekki eiga erindi við hann - en er Sigrún hér inni? segir hann.

Svo er víst, segir Bjarni, en hún er háttuð, eða áttu nokkuð vantalað við hana? Ég get skilað því.

Egill kvað hann það mundu litlu skipta, hvort hann talaði fleira eður færra við hana.

Við þetta tók að þykkna í Bjarna, og segir hann:

Þá skaltu vita, Egill sæll, að eigir þú ekkert annað erindi hingað, þá vil ég ráða þér að venja ekki komur þínar hingað til þeirra erindagjörða oftar, og vil ég ekki hafa á mínum bæ þess háttar daður eða dingl - en hérna er mjólkin, ef þú vilt drekka.

Egill kvaðst ekki mjólkur þurfi og slær fætinum í dallinn, svo hann hrekkur úr hendi Bjarna, og reiðist hann, og í því bili stekkur Bjarni upp hart og títt og tvíhendir kvíslina og ætlar að slá í höfuð Agli; sér Egill þann beztan að hörfa undan, og tekur hann þegar á rás, en Bjarni eltir hann. En er Egill er kominn að túngarði, stekkur hann þegar yfir, en Bjarni kemur þá að með reidda kvíslina og slangrar henni til Egils, í því hann steypist yfir garðinn, og ræður Bjarni það þar af, að Egill grípur hendinni aftur fyrir sig, hvar á hefði komið. Ekki veitti Bjarni honum lengra eftirför. Hleypur Egill þá til hests síns, leysir hann og stígur á bak, og skorti þá ekki stór orð og heitingar af hans hendi, kvaðst hann svo skyldu koma til Leitis hið þriðja skipti, að Bjarna mundi minni til reka. Ekki skeytti Bjarni heitingum þeim, og ríður nú Egill í brott og kemur til Gríms föður síns og segir honum sínar farir eigi sléttar, og er Egill þar um nóttina. Grímur verður ákaflega reiður við þessar fréttir, en stillti sig þó vel, og liðu honum af munni þessi orð predikara Salomonis: Leyf ekki þínum munni, að hann láti þitt hold syndga. En með því áður hafði verið kalt með þeim Grími og Bjarna, eins og áður er nokkuð frá sagt, þá verður það nú, að þeir leggja fullan fjandskap á Bjarna; gjöra þeir þá ráðagjörð fyrir sér, að þeir muni fara einhvern dag til Leitis og heimta bætur af Bjarna fyrir óvirðing þá, er hann hafði veitt Agli; en fari svo, að Bjarni svari ekki góðu um, skuli þeir gjöra honum ráðningu nokkra, og kemst Grímur að þeirri niðurstöðu við rannsak ritninganna, að hestinum hæfi svipan, asnanum beizli og Bjarna vöndur á bakið. Ekki lögðu þeir feðgar miklar dulur á fyrirætlun sína, og fær Þórdís í Hlíð pata nokkurn af ráðagjörðum þeirra; gjörir hún Bjarna þegar orð og biður hann að vera varan um sig og gefa þeim ekki færi á sér, hafi hún sannspurt, að þeir ætli að gjöra honum aðför.


20. kafli

Herför Gríms gegn Filisteanum

Nú líður fram sumarið, og verður ekki af atförinni við Bjarna á Leiti, og hyggja menn nú, að þeir Hjallafeðgar muni láta svo búið standa; en nokkru eftir réttir um haustið er það eitt skipti, að Grímur gjörir Agli orð að koma til fundar við sig. Egill bregður skjótt við og fer til Hjalla; er honum þar vel fagnað, og er hann þar um nóttina. Næsta dag var veður fagurt, og er Grímur snemma á ferli; gengur hann þangað, sem Egill sefur, og er hann ekki vaknaður; vekur Grímur hann og biður hann upp standa - og þykir mér þú ekki árrisull, frændi, segir hann, eður er þér úr minni liðið viðtal okkar það í gærna, að vér mundum fara að hitta Filisteann á Leiti og vita, hvort hann vill ekki bæta þér þá svívirðing, sem hann hefur þér gjörða; mun þessi dagur verða honum dagur grimmdarinnar, dagur hörmunga og eymdardagur storms og vinda, eins og spámaðurinn Sófonías að orði kemst; hef ég, sonur sæll, látið hross vor heim reka, því svo er til ætlazt, sonur, að ég dragnist með þér, þó þér kunni að verða það að litlu liði - en láttu vera til leppana mína, kona, þó ég kirkjubúi mig nú ekki í þessar ferðir, það er ekki svo sem ég ætli að setjast við altarishornið, setja upp gleraugun og syngja á Gradúalið og kyrja kredó eða intróítum.

Kona Gríms andæpti ekki, en mumlaði þó eitthvað í hálfum hljóðum um það, að hún héldi, að þessi för mundi vart verða til mikillar frægðar eða nytsemi; snýr Grímur þá málinu til hennar, veltir vöngum, gengur fram á mitt baðstofuloftið, spennir greipar og segir:

Hef ég ekki sagt þér það, kona, að venja þig af þessu nöldri; þú ert einn sífelldur leki, eins og Salomon segir um hina kífnu konu, eða þykir þér ekki nauðsyn bera til þessarar ferðar, eða hefur þú ekki heyrt Móabs brigzlyrði og spottanir Ammons barna, með hverjum þeir svívirtu mitt fólk?

Kona Gríms gekk þegjandi burt og svaraði engu, en kom bráðum aftur og lagði föt nokkur, er hann skyldi klæðast í, á rúm þeirra hjóna, og tekur Grímur þau og skrýðist. Egill klæðist og skjótt, eru þá hestar á hlað komnir. Egill reið Grána, en Grímur meðhjálpari reið hesti, og var sá fæddur brúnn að lit, en með því hann var gamall mjög og ekki yngri en Grímur sjálfur, er hann var tannfé hans, voru víða dottnir á hann blettir og skáldað af hár allt, var hann því tilsýndar að sjá sem hann væri skjóttur. Söðull Gríms var þannig, að setan í honum var úr bláu vaðmáli og gagnstönguð og úttroðin kálfshári; hliðarskinnin voru úr íslenzku leðri og öll jafnbreið aftan og framan og negld á með látúnsbólum mörgum, er stóðu í langri röð aftur og fram millum hnakkboganna; á hvorutveggja hnakkbogann, þann aftari og fremri, voru negldar bryggjur eða bríkur háar og líkar í lagi hálfkringlu. Framan í framboganum var látúnskúla mikil eða drýlmynduð strýta af látúni, er greypt var í hnakkbogann og gekk jafnsíðis makka hestsins. Ístaðaólar hafði Grímur allramgjörvar af leðri og fóðraðar beggja megin með járni, voru þær að ofan festar í hnakkinn með snærum, en að neðan léku í þeim ístöð mikil og sterkleg á sigurnöglum. Yfirklæði blátt var yfir hnakkinum; það var nær því ferskeytt að lögun, voru í því pokar stórir, sem hnakkbríkunum var smokkað ofan í; loksins var flossessa með fangamarki Gríms í miðju; bæði sessan og lendklæðið voru bundin ofan í hnakkinn með svörtum hollinda á þann hátt, að litlir látúnshringir voru í hliðartrjám hnakksins og snældugöt í lendklæðinu og lindanum svo brugðið í gegnum ofan í hringana. Þegar þeir feðgar eru á bak setztir og ríða út traðirnar, taka þeir hatta af höfðum og lesa ferðamannsbæn sína, og varð þá þögn langa hríð, nema hvað Grímur varð einu sinni að andæpa upp úr bænagjörðinni, er hestur hans hnaut um þúfu: Stattu á fótunum, fjandi, segir hann. Þegar bænunum var lokið, setur Grímur aftur upp, og bjóða þeir þá hvor öðrum góðar stundir, feðgarnir; síðan tekur Grímur til máls og veltir vöngum:

Þess vil ég óska, sonur, að óvinir vorir ífærist forsmáninni, og skömmina hafi þeir sem eina kápu, eins og guðsmaðurinn Davíð segir í sálminum 109da, að mig minnir.

Á leiðinni tala þeir margt saman um ferðir sínar; kemur þeim það ásamt, að þeir skuli bjóða Bjarna sættir, ef hann vilji bæta þeim svívirðing þá, er hann hafi gjört Agli, og vilji friðmælast, og þessu næst, að hann amist ekki við komum Egils að Leiti. En vilji Bjarni ekki taka þessum kostum, muni þeir tæla hann brott frá bænum og berja hann þar, og færir Grímur óræk rök til þess úr ritningunni, að slíkt sé rétt, og sjáist það þar, að drottinn hafi boðið Sál og Davíð að slá Filisteana og Ammoníta, og Malakías segi: Þér skuluð undirtroða þá óguðlegu, og þeir skulu vera aska undir yðar fótum. - Gjöra þeir nú ráð sín, hvernig þeir skuli haga atgöngunni, ef orusta tækist; kvað Grímur, að Egill skyldi ganga framan að Bjarna, en sjálfur mundi hann veita honum bakslettu nokkra, ef á þyrfti að halda, en sagði samt, að Bjarni væri afarmenni mikið, en þó mundi duga, ef þeir gengi báðir djarft fram. Egill gat þess, að hundar á Leiti væri grimmir mjög, og gæti þeim orðið það að óliði, ef þeim væri sigað á hesta þeirra, meðan þeir fengist við Bjarna; kom þeim það ásamt, að þeir skyldu fara að Stað og biðja séra Sigvalda um mann til farar með sér að gæta hestanna. Ríða þeir um á Stað og segja presti frá fyrirætlun sinni, að þeir muni gjöra atreið að Bjarna og biðja hann bóta, og sagði prestur: Maklegt, já, meir en maklegt, hum, hum - að óvirða slíka menn og sveitarprýði, hum, hum. Taldi hann og rétt, að Bjarni bætti þeim að nokkru fyrir illmæli sín og ofbeldi við Egil. Biðja þeir þá prest að ljá sér mann til fylgdar að gæta hesta, meðan þeir eigi tal við Bjarna. Prestur hafði þá ekki neina húskarla heima, fær hann þeim því Hjálmar til fylgdar, og segir prestur honum að veita þeim góða fylgd. Hjálmar býst þá til farar, og verður hann síðbúinn mjög, er hann þurfti að vefja sig snærum mörgum; hann var svo búinn, að hann hafði lambhúshúfu svarta á höfði og brækur mórendar, en kufl gráan og gyrtur hrosshársreiptagli digru.

Segir nú ekki af ferðum þeirra feðga, fyrr en þeir koma að Leiti; sjá þeir, hvar maður er allskammt frá túngarði og fæst við steina, kenna þeir, að þar er Bjarni bóndi, en Þórunn systir Bjarna er þar allskammt frá og þær föt úr læksytru, er rann hjá túngarði. Þeir Grímur stíga af hestum sínum og fá þá í hendur Hjálmari og biðja hann gæta þeirra vel, og heita þeir honum fullsælu tóbaks og matar, ef hann sé þeim trúr, en sitja skal hann hjá viðskiptum þeirra Bjarna, nema svo ólíklega kunni til að bera, að þeir gjöri honum vísbending eða sóknin verði ógreið. Þykir þeim feðgum nú vel í veiði bera, er þeir hitta Bjarna úti - því torsótt hafa öll afarmenni orðið inni, segir Grímur. Ganga þeir Grímur þangað, sem Bjarni er og tekur upp grjótið; segir Grímur við Egil:

Nú mun ég tala við Bjarna, því jafnan hæfir, að hinn eldri og reyndari haldi uppi svörum, en hinir yngri hlusti á, en hyggins manns kenning flýtur fram líka sem fljótandi vatn og lifandi uppspretta, segir Salomon eða predikarinn, og skalt þú, sonur sæll, ekki til leggja, nema ég segi þér.

Ekki lét Bjarni sem hann sæi til ferða þeirra, og er þeir koma allnærri Bjarna, kastar Grímur kveðju á Bjarna og segir:

Friður sé með þér, Bjarni sæll.

Og með þínum anda, Grímur góður, sagði Bjarni.

Grímur fór þá að velta vöngum og strjúka saman höndunum, en tekur síðan til orða:

Þú sérð, Bjarni sæll, að vér erum hingað komnir, feðgarnir, í nokkrum erindagjörðum.

Já, það sé ég, að þið eruð komnir, en erindagjörðirnar veit ég ekki.

Ég hef heyrt þá háðung, sagði Grímur, að þú hafir óvirt Egil son minn, er hér stendur og þú munt kenna; það er sonur minn og frumburður sinnar móður; hverju vilt þú svara mér til þess, Bjarni sæll?

Ég svara því, sem ég er spurður að, sagði Bjarni, því er ég vanur, Grímur góður!

Þá spyr ég þig, Bjarni, hverju þú vilt bæta Agli syni mínum fyrir þá óvirðingu, sem þú sýndir honum, og áverka við hann, sem er, eins og ég sagði, frumburður móður sinnar og sonur meðhjálparamyndarinnar? sagði Grímur.

Þá svara ég þér því, Grímur, ekki veit ég til, að ég hafi veitt frumburði þínum nokkra áverka, en það telur þú mér víst ekki til saka, að ég fylgdi honum hér út yfir túnið um daginn, er hann kom hingað í kvennasnari, og það getur verið, að ég hafi blakað til hans með spýtu, sem ég hafði í hendinni, en hvort hún kom á sitjandann á honum eða ekki, það veit ég ógjörla, og held ég hann hafi verið jafngóður fyrir því, og hitt sagði ég honum, að hann skyldi ekki koma hér oftar í þeim erindagjörðum.

Það var mál, sem þér ekki kom við, Bjarni sæll, þó drengurinn hvarflaði hingað að tala við meyjuna; en hitt er víst, að þú hefur sýnt syni mínum Agli óvirðing, og skaltu nú annaðhvort hafa gjörð okkar þar um og bæta honum það, sagði Grímur, eða þú skalt hafa ráðningu.

Það skal ég gjöra fyrir þín orð, segir Bjarni, að bæta honum til.

Ég sé þú þekkir ekki veg friðarins, og mun því fara fyrir þér eins og Móses segir: að þú verður sleginn með egypzkum kaunum og sárum á baka til með ólæknanlegum kláða og óþrifum, segir Grímur.

Ekki hræðist ég hótanir þínar, Grímur kúluvambi! sagði Bjarni.

Hann þekkir ekki veg friðarins, sagði Grímur, útréttu þinn armlegg, sonur, og látum oss slá Filisteann.

Í þessu hleypur Egill fram og er allreiður og ætlar að slá hnefanum fyrir brjóst Bjarna og segir um leið:

Smánarðu hann föður minn, ha?

Bjarni sér tilræðið og verður fyrri til og hrindir Agli svo hart frá sér, að hann fellur öfugur aftur á bak, en sprettur þó óðara upp aftur, og þá segir Grímur:

Sjö sinnum falla réttlátir og rísa upp aftur, en nú skaltu, sonur, slá Filisteann, því dagur reiðinnar er kominn.

Hlaupa þeir feðgar þá báðir af bræði mikilli að Bjarna og ætla að hafa hann undir; en ekki urðu þær sviptingar langar, áður Bjarni grípur annarri hendi til Egils í buxnastrenginn aftanverðan og hefur hann svo á loft og kastar honum flötum niður, setur síðan hnéð fvrir bringspalir honum og stendur á honum, en hinni hendinni verst hann Grími á meðan, og er Egill var fallinn, þrífur hann tveim höndum til Gríms og rekur hann niður á grúfu fyrir framan sig, og getur Grímur ekki komið neinu bolmagni við, og æpa þeir feðgar báðir þá hátt og biðja Hjálmar að duga sér og draga mannskratta þann ofan af sér. En þá er Hjálmar sér ófarir þeirra feðga, skellihlær hann, klappar saman lófunum og segir: Nei, sko, svona fór, sko bannað tröllið, he, he, he - en er hann heyrir, að þeir heita á sig til liðveizlu, sleppir hann hestunum, sér hann þá hellustein einn mikinn þar á holtinu og lýtur eftir honum og þrífur til hans, og hefur Tuddi svo frá sagt, að þann stein hefði hann ætlað að færa í höfuð Bjarna. Þórunn systir Bjarna var þar skammt frá, eins og áður er sagt, og þvó föt við lindina; stóð þar hjá henni fata ein full með keytuþvæli og þar í föt nokkur sem enn þá voru óþvegin. Og þá er hún sér, hvað Tuddi hefst að, og grunar, hvað hann ætli að gjöra, grípur hún í skyndi sokka eina, er lágu í fötunni og voru blautir mjög af þvælinu, hleypur síðan þar til, sem Tuddi er og réttir sig upp með steininn. Reiðir hún þá upp sokkana og slær Tudda mikið högg þvert um andlitið með þeim; en er Tuddi kennir þvælisins í vitin, grípur hann báðum höndum fyrir augun; fellur þá steinninn niður, en Tuddi rekur upp org mikið og öskrar sem naut og snýst í hring, og verður þá ekki af liðveizlu hans. En það er nú að segja af viðskiptum þeirra Bjarna og Gríms, að þegar Bjarni hefur rekið Grím niður, tekur hann að gjörast fjölþreifinn; seilist hann til buxnastrengs Gríms, og er hann hefur hneppt hnöppum þeim, er þar voru, en slitið suma, færir hann brókina niður, en skyrtu fram yfir höfuð. Grímur var, sem vonlegt var, fátalaður; þó segja menn hann mælti það síðast í hálfum hljóðum: Svala þú ekki sinni þínu, er þú vilt refsing á leggja, segir Sýrak - og heyrði Bjarni það, að hann nefndi Sýrak, og segir: Já, hvað segir Sýrak hér um? En svona hirti Grettir Ásmundarson Gísla, nema hér vantar hrísluna, og verð ég þá að klappa þér með lúkunum í þess stað, Grímur sæll, en vertu grafkyrr á meðan, ella verð ég þunghentari á þér. - Tekur hann þá berlega að sýna Grími, að tvisvar getur gamall maður orðið barn.

Þórunn systir Bjarna sér þá, hvar komið er, og með því að hún uggir, að bróðir sinn mundi verða, ef til vildi, helzt til þunghentur, hleypur hún þangað, sem þeir áttust við, og biður bróður sinn að hætta þessum leik; Bjarni segir, að svo skuli nú bráðum vera - en þó verð ég að hafa nokkrar menjar þess, að við höfum fundizt. Slítur hann þá tvo hnappa úr buxum Gríms og fylgdi þar með stykki stórt af strengnum. Síðan sleppir Bjarni þeim; er Egill dasaður mjög og svo þeir báðir. Gengur Bjarni til bæjar, en þeir feðgar standa upp, og verður ekki af, að þeir freisti oftar til atlögu við Bjarna, enda höfðu þeir þá nóg að starfa, og ekki sízt Grímur. Hittu þeir nú Tudda, og situr hann þar á millum tveggja þúfna grenjandi og þurrkar úr andliti sér með vettling sínum og er allófrýnn. Egill var þá og í illu skapi, og lætur hann reiði sína koma niður á Hjálmari, setur fótinn í hann allhart og segir:

Hafðu þetta, skömmin þín, fyrir það, sem þú sveikst okkur, eða því hjálpaðir þú okkur ekki við mannskrattann?

Tuddi stekkur upp hart, ranghvolfir augunum, blæs á Egil og segir:

Sparkarðu í mig, þrællinn! Það vildi ég, að það væri molað hvert bein í skrokknum á þér mélinu smærra eins og þú brýtur í sundur í mér beinin, illyrmið þitt, fyrir sakleysi, það var þá rétt, þó hann skelldi ykkur báða; eða hvernig átti ég að hræra mig, þegar bannsett skessan var búin að blinda mig á báðum augum? En það er ekki þar fyrir, það gilti einu, þó þú fengir fyrir ferðina.

Egill ætlaði þá að berja Hjálmar, en Tuddi tók til fótanna og rann undan Agli; Egill elti hann nokkra stund, en Tuddi var ólúraður, en Egill þjakaður mjög af viðskiptunum við Bjarna, og jafnan, er Tuddi sá, að hann var dreginn undan, stóð hann við og kastaði þá óþvegnum orðum á Egil. Egill elti hann um hríð, en loks snýr hann aftur, og er hann kemur þar, sem bardaginn hafði verið, finnur hann Grím föður sinn, og býr hann sig til að stíga á hest; er hann lerkaður mjög og vart einhlítur að komast á bak; þykir þeim þessi ferð hin háðulegasta orðið hafa, og ráða þeir það af að ríða heim við svo búið. En það er að segja af Hjálmari, að hann linnir ekki, fyrr en hann kemur að Stað; segir hann þá nálega hverjum manni, er hann sér, frá ferðum þeirra feðga; segir hann, að tröllið á Leiti hafi tekið þá báða og leyst ofan um meðhjálparann. En getur nokkur, prestur minn, setið í kór, sem hefur verið flengdur? sagði Tuddi.

Þegiðu, bjáninn þinn, svaraði prestur.

Þessi tíðindi urðu brátt héraðsfleyg, og hendu menn mikið gaman að, og verður Bjarni mjög frægur af þessu verki. En er prestur heyrir kals þetta, bregzt hann reiður við, segir það firn mikil að slíkt tíðkist meðal kristinna manna og nokkrum haldist það uppi óhegndum, að göfugir menn og ráðvandir séu meiddir og svívirtir; hótar hann að setja Bjarna frá sakramenti og segir, að hann væri þess maklegur, að búið væri til mál á hendur honum fyrir ofríki og ólögmætt frumhlaup að Grími.

Þegar Grímur er heim kominn, gengur hann til hvílu og lætur gnýja mjaðmir og mjóhrygg og smyrja úr samsuðu, og batnar honum svo við það, að nokkrum dögum eftir er hann ferðafær; fer hann þá brátt að hitta séra Sigvalda; sitja þeir lengi á tali. Verður það ráð þeirra, að Grímur skuli kveðja heimiliskviðar og stefna Bjarna um barsmíðarmálið og þeim Hlíðarhjónum um sáttmálarof, fjörráð við þá feðga, og telja þeir það víst, að ef málið komi í dóm, muni Bjarni verða alsekur skógarmaður, en Sigurður í Hlíð sæta útlátum; en með því Grímur þóttist ekki vanur að standa í þingdeildum, handsalar hann presti sökina að lögmáli fullu til gjörðar eða dóms og svo með að fara sem honum líki.

Um þessar mundir ræðst Egill frá Hlíð og fer þaðan með sumarkaup sitt, og hyggur hann nú ekki framar á ráðahag við Sigrúnu, og er svo sagt, að hann héti því á fundinum, að hann skyldi hugsa af því ráði, mætti hann lífi halda, svo nauðuglega sem hann þá þóttist staddur.


21. kafli

Sættir

Eins og áður er frá sagt, varð Bjarni á Leiti frægur mjög af þeirri vörn, er hann hafði sýnt, þá er þeir feðgar Grímur og Egill veittu honum atförina, en Grímur djákni var hrópaður mjög af gárungum, og kölluðu þeir hann í flimtingum ýmist Grím skelli eða skellidaus. En ekki er lengi að snúast veður í lofti, segja menn. Það fréttist nú brátt um öll héruð, að Grímur meðhjálpari hefði handselt Sigvalda presti Árnasyni á Stað sökina og ætlaði prestur á vorþingi að sækja Bjarna til fullra sekta um lögmætt frumhlaup að Grími; vissu menn, að Sigvaldi prestur var málafylgjumaður mikill og óvæginn, hafði hann og oft orðið þungur í skauti þeim, sem minna höfðu til gjört; en Bjarni hafði hvorki frændastyrk nægan eður traust höfðingja til að etja kappi við jafnágætan mann sem séra Sigvaldi var. Varð nú ekki annað fjölræddara í héraðinu en málið Bjarna, og þótti flestum óvænlega horfa. Töldu nokkrir það víst, að Bjarni yrði hýddur við staur og síðan látinn þrælka erlendis, það sem eftir væri ævinnar, í ánauð. Þá höfðu sumir það fyrir satt, að ekki yrði Bjarni af landi fluttur, heldur væri hitt líkara eftir Norskulögum, er þá voru í gildi hér á landi í sakamálum, að Bjarna yrði þröngvað í hærupoka og bundið fyrir opið og kastað í Öxará; allir töldu fé Bjarna sekt allt, hálft séra Sigvalda og hálft konungi eður þeim, er sektarfé áttu að taka eftir hann að lögum. En þó að alþýða manna talaði svo sem nú höfum vér frá sagt, þá voru samt nokkrir, sem drógu efa á, hvort sök Bjarna mætti varða svo miklu, að hann yrði dæmdur sekur skógarmaður; sögðu þeir, sem satt var, að margur hefði gefið öðrum í öskjurnar og samt ei orðið óæll og óferjandi og óráðandi öllum bjargráðum, og héldu, að slíkt mætti varða fébótum einum. Bjarni á Leiti talaði fátt um mál sitt, og ekki urðu menn þess varir, að hann færi í liðsbón, og furðaði menn stórlega, að hann leitaði ekki ráða eða trausts hjá landshöfðingjum, eins og þá var alltítt og enn er venja á landi voru; gátu nokkrir þess, að Bjarni mundi sitja um sinn að búi sínu og sjá, hverju fram færi, en ef hann sæi sitt óvænna, mundi hann þegar minnst varði leita brott og þá helzt ætla sér til athvarfs í Ódáðahrauni; væru þar og landskostir góðir og sauðir feitir, og mundi hann allvel una þar hag sínum.

Þórdís húsfreyja í Hlíð fregnar nú málatilbúning þenna allan svo og það, að prestur hefur tekið að sér sökina til sátta eða sekta; þykir henni það illt, ef Bjarni kæmist í vanda nokkurn og að það hlytist af trúmennsku hans við þær fóstrur. Kemur hún nú einhvern tíma um þessar mundir að máli við bónda sinn. Tjáir hún honum, hvað hún hafi spurt um fyrirætlun þeirra séra Sigvalda og Gríms og málatilbúninginn - og þykir mér, segir hún, það allillt, ef Bjarni hefur vandræði stór fyrir mínar sakir, en það má kalla, að svo sé, ef hann verður sektaður fyrir ráðningu þá, er hann gjörði Grími; vildi ég, að þú hlutaðist nokkuð til um mál Bjarna og færir að hitta prest og kæmist eftir, hverju hann ætlar fram að fara, og ef kostur væri á, að þú reyndir til að mýkja svo prest, að ekki væri ýfzt til við Bjarna um málssóknina; tel ég það og alllíklegt, sé prestur þinn vin svo mikill sem hann læzt vera, að hann gjöri það fyrir þín orð, að hann láti málið niður falla, enda er það ekki þess vert, að rekstur sé af gjörður, og sökinni svo varið, að Grímur getur litla virðingu af henni haft, þótt hann beri hærra hlut yfir Bjarna. En með engu móti vil ég samt, að þú gangir að nokkrum afarkostum, hvorki fyrir hönd Bjarna eða fyrir sjálfan þig, og sjá svo um, Sigurður bóndi minn, að þú látir ekki hið mjúka tungutak prests fleka þig.

Sigurður bóndi segir það skylt, að hann leggi fram allt, er hann má, til fulltingis Bjarna og að þessum málum verði miðlað. Eftir það ríður Sigurður til Staðar, og fagnar prestur honum vel; ber Sigurður upp erindi sitt fyrir presti og segir, að hann er þar kominn í sáttaumleitun fyrir hönd Bjarna. Prestur tekur þeim málum mjög þunglega í fyrstu, gengur um gólf og reykir og hummar nálega við hvert orð; segir hann, að fyrir sakir guðs og konungsins og embættis síns megi hann ekki láta svo ósvífinn syndara sleppa óhegndan; hafi hann hörmulega brotið gegn hinu fimmta boðorðinu og meitt hold náunga síns; sýnir hann það og sannar ýtarlega, að slíku ofríki eigi harðlega að hegna, og vitnar ýmist til Norskulaga, Jónsbókar eða ritningarinnar. Sigurður kveðst sjá það, að prestur hafi satt að mæla og miklar og þungar sektir liggi á Bjarna, en þó muni vera eins um brot Bjarna og aðrar yfirsjónir, að bætur séu til brots hvers; kemur þá loks svo fyrir bæn Sigurðar, að prestur lætur til leiðast og lofar að taka sættum fyrir hönd Gríms. Er nú sent eftir Bjarna, en hann kveðst ei viðlátinn, kveðst hann þá daga hafa ærið mikið strit við stein einn, er hann hyggi legstein yfir einhvern fornmann, og hafi hann aldrei áður sigrazt á þeim steini, nema ef nú verði, og kom sú orðsending frá honum, að ekki mundi hann koma til sáttafundar að Stað, enda vissi hann ekki annað en að þeir Grímur hefðu skilið svo síðast, að Grímur hefði verið að öllu ásáttur. Lítur enn nú ekki sáttavænlega út, en með því Sigurður fylgdi fast fram máli Bjarna, verður það, að þeir prestur semja það með sér að leggja málið í gjörð; en það tilskildi prestur, að Sigurður skyldi heita því að halda uppi fébótum, ef nokkrar yrðu gjörðar á hendur Bjarna, og kvaðst prestur ekki vilja rekast eftir þeim hjá Bjarna eða eiga nokkur viðskipti við hann, og hét Sigurður því.

Í þann tíma voru tveir hreppstjórar í Staðarhrepp, og hét hvorutveggi Ögmundur og voru báðir Jónssynir, en til aðgreiningar var annar kallaður Ögmundur hálfblindi, en annar Ögmundur alblindi. Ögmundur hálfblindi var maður greindur og stilltur vel, nokkuð læs og nokkuð skrifandi; hann hafði misst annað augað í bólunni, og var það því sannnefni, er hann var kallaður hinn hálfblindi. Þegar hér var komið sögunni, var hann orðinn maður gamall, tók honum nú að glapnast sýn á því auganu, sem heilt var, og hafði hann því jafnan gleraugu, ef hann þurfti eitthvað að lesa eða skrifa. Ögmundur hinn alblindi hafði bæði augu í höfði heil; sá hann og fullri sjón allt það, er vinna þurfti úti og inni, þó hann hefði átt að hæra sauðsvart vorullarþel á jólaföstn við skjáglugga; en sá var einn galli á sjón hans, að jafnan, er hann skyldi lesa nokkuð eða rita nafn sitt undir einhvern embættisgjörning þeirra hreppstjóranna, sló svo mikilli þoku fyrir augu honum, að hann mátti ekki sjá nein stafaskil nema eins og í móðu; var það því orðin venja, ef eitthvað skyldi lesa eður birta alþýðu, er snerti hreppstjórnina, að hann vék þeim málum frá sér og til nafna síns með þeim orðum: Lestu það, nafni, þú veizt það ég sé ekki orðið á bókina. Báðir voru þeir nafnar virðir vel, en meiri framkvæmdarmaður þótti Ögmundur alblindi vera en nafni hans.

Þessa menn kusu þeir prestur og Sigurður fyrir gjörðarmenn, en þriðji gjörðarmaðurinn hét Erlendur. Hann bjó þar í Staðarhrepp; flestum mönnum var hann liðugri um mál, og var það siður hans, þá er hann ræddi við einhvern, að þegar sá, er við hann talaði, hafði lokið máli sínu, át hann það allt upp orðrétt og bætti svo við af eigin brjósti ýmsum smáorðum og setningum, er hann smeygði inn í, t.a.m.: Sannarlega, hvað segir þú - já, öldungis rétt segir þú - þetta ætlaði ég að segja - þetta var nærri því komið fram úr mér. Aldrei mælti hann móti nokkru því, sem aðrir sögðu, og sýndist honum jafnan það bezt, sem sá sagði, er seinast ræddi. Gárungar kölluðu hann ýmist Erlend ójá eða ójú, amen eða halelújá.

Lét nú prestur senda eftir þessum gjörðarmönnum öllum, og komu þeir eftir orðsending prests, og fagnaði hann þeim vel. Þiggja þeir nú beina, en síðan settust gjörðarmenn á ráðstefnu. Stendur þá prestur upp og lýsti sök á hendur Bjarna og hafði öll þau sömu orð í lýsingu sakar, sem hann áður hafði mælt við Sigurð; talaði hann langt erindi og snjallt - og er yður kunnugt, segir hann, um þann hinn mikla ofríkismann Bjarna á Leiti; hann hefur sýnt, hversu mikið hneyksli hann hefur gjört í söfnuðinum, lagt hendur á saklausa menn og meitt hold náungans og lederað ærlegan mann, Grím meðhjálpara, á þann hátt sem yður er allt kunnugra en frá megi segja, hum, hum. Nú höfðum vér raunar ætlað að sækja mann þenna til fullra sekta á vorþingi, en með því góðir menn og velforþéntir, hum, hum, hafa hlutazt um þetta mál, þá höfum vér, eftir að hafa vel beþenkt, látið til leiðast að gjöra þá miðlun á málum að láta málið koma í gjörð, og höfum vér þar til nefnt þessa alkunnu heiðursmenn, er nú eru hér, með því skilyrði, að verði fébætur gjörðar á hendur Bjarna, þá skal Sigurður minn, hvers bænir vér í þessu höfum estímerað, hum, hum, handsala það, að þær verði áfrýjulaust af hendi leystar.

Síðan settist prestur niður, og tóku gjörðarmenn að ræða málið með sér; kom þeim það öllum ásamt, að Bjarni hefði ratað í þann mesta glæp og vart mundi hann nú halda eignum og landsvist, ef málið kæmi til dóms, og segja þeir allir, að prestur hafi auðsýnt Sigurði vináttubragð mikið. Prestur tók fram í og segir: Og ekki má það heita vináttubragð, en satt er það, að við Sigurður minn erum málkunnugir, hum, hum - er hann hafi leyft að leggja málið í gjörð. En um hitt urðu gjörðarmenn í fyrstu ekki á eitt sáttir, hverjar sektir þeir skyldu gjöra á hönd Bjarna eða hve miklar. Vildi Ögmundur alblindi, að Bjarni yrði sektaður mikilli fjársekt, og tók hann helzt á 3 ám loðnum og lembdum og átta sauði gamla til Gríms, en 20 álnir til hrepps, en síðan skyldi öðrum til viðvörunar setja hann í gapastokk. Ekki var Ögmundur hálfblindi því samþykkur, raunar virðist mér, sagði hann, ekki fjárútlátin of mikil, en þætti sér óráð að þröngva Bjarna í gapastokk; kvaðst hann sjá það fyrir, að slíkt heljarmenni sem Bjarni var mundi fátt láta fyrir brjósti brenna; mundi einhver þeirra, sem nú þættist alldjarfur, eiga um sárt að binda, áður en hann væri þangað kominn og búið væri að leggja hespu að hálsi honum. Erlendur lagði fátt til málanna; sýndist honum jafnan það réttast, er sá sagði, er síðar mælti af þeim nöfnum.

Þegar Ögmundur alblindi réði til að setja Bjarna í gapastokkinn og hafði lokið máli sínu, sagði Erlendur það öldungis rétt vera og las upp hvert orð - já, ég sé ekki betur en það sé rétt, sem þú segir, Ögmundur minn yngri, já, svo sem guð er upp yfir mér, þá er það rétt.

Á sömu leið fór, þá er Ögmundur hálfblindi talaði og latti þess að láta Bjarna í gapastokkinn; þá stóð Erlendur upp og þuldi alla ræðu hans frá upphafi til enda og lauk svo máli sínu, að nú væri ekki annað í máli þessu. Horfðist þá til stórra vandræða, að ekki mundi saman ganga um gjörðina. Stakk þá Ögmundur hálfblindi upp á því að gjöra út um málið með því að skjóta því til prests, hve mikið skyldi gjöra á hendur Bjarna, sagði, að oft hefði þeir þegið af honum holl ráð, og væri nú ekki meira að neyta þeirra en endrarnær. Þetta líkaði öllum vel, og skoruðu þá gjörðarmenn á prest að segja, hvað honum virtist um það, hvernig þessu máli yrði bezt til lykta ráðið. Prestur tók pípu sína og glóðarker, en hummaði og sagði síðan sem var, að því hefðu þeir verið í gjörð teknir, að þeir ættu um að gjöra málið, en þó gæti hann sagt, hvað honum sýndist, og þyrftu þeir ekki að taka það til greina framar en þeim líkaði. Kvaðst hann vilja, þar eð vinur sinn Sigurður ætti hlut að máli, gjöra fjársektir litlar; skyldi Bjarni aðeins greiða fjóra sauði þrévetra og þrjá spesíudali, og skyldi þetta vera lokið til prests sem hins setta aðila málsins fyrir næsta vorþing. Til hrepps skyldi Bjarni gjalda tuttugu fiska í góðum og gildum landaurum - enn betali hann, segir prestur, tilbærilegan kost og tæringu þessum heiðarlegu gjörðarmönnum, hum, hum. Þá skyldi og Bjarni ekki mega sitja í kór, fyrr en hann opinberlega að ásjáandi söfnuðinum hefði beðið Grím fyrirgefningar á því, er hann hefði misbrotið við hann, er hann hefði skemmt buxur hans og bakhluta.

Allir lofuðu það mjög, hversu vel séra Sigvalda færist í þessu máli, og varð Erlendur þó einna fjölræddastur um það; urðu nú allir gjörðarmenn á það sáttir, að svo skyldi vera, og sögðu þeir nú upp svofellda gjörð í málinu.

Sigurði líkaði allvel þessar málalyktir, nema það þótti honum þyngst, er Bjarni skyldi ekki mega halda kórsetu, nema hann beiddi Grím fyrirgefningar; kvaðst hann það hyggja, að Bjarni yrði tregur mjög að uppfylla þetta skilyrði, og beiddi þess, að sú linkind mætti verða á gjörð, að Bjarna væri gjörð frekari útlát, en héldi sæti sínu í kirkju og kór sem hingað til. Ekki vildu gjörðarmenn eða prestur því sæta, og verður Sigurður að láta það sér líka. Reiddi hann þegar af hendi fé það, er Bjarni átti að láta, og lofar að láta færa presti sauðina næsta dag.

Eftir að þessari sættagjörð var lokið, lætur Sigvaldi prestur bera inn drykk styrkan, og setjast þeir allir við drykkju, og er prestur inn glaðasti, og er hann einkum blíður við Sigurð, talar mjög um, hve mikill gæfumaður hann sé að ráða þannig til lykta vandræðum þessum, er svo illa horfðu; segir hann og, að hann uni allvel þeim málalyktum, er á séu orðin, en friður og sættir séu í söfnuðinum; hafi og jafnan svo verið, síðan hann tók við geymslu hjarðar drottins, að menn lifðu í ástsemi og eindrægni andans hver við annan og ekki atzt við illdeilum; rumdi þá prestur mjög ríkmannlega og hummaði.

Þeir prestur og Sigurður drukku saman um kvöldið, og fór allt vel á með þeim. Hreppstjórar og Erlendur drukku saman þrímenning; bar þeim margt á góma, og valt á ýmsu fyrir þeim, er þeir hálsuðu hver annan og kysstust eða þeir hnakkrifust svo, að prestur varð að miðla í millum þeirra og mýkja málin. Erlendur var eins og bergmál þeirra beggja hreppstjóranna og át allt eftir, það sem talað var. Tóku þeir nú allir að verða ölvaðir, gestirnir, en prestur drekkur lítið; sáu menn þá, að hann hjalaði lengi hljóðlega við Sigurð, og vissu menn í fyrstu ekki, hvað það var, en er á leið kvöldið og Sigurður gjörðist ölvaður, kom það upp, að þeir töluðu um jarðakaup. Bar prestur það mál fyrir Sigurði, að sér hefði lengi leikið hugur á einni jörð þar í sókninni, og væri sú Hamar; tjáði hann það raunar ekki vera af ágirni fyrir sér eða af því hann sæktist svo mikið eftir að eiga fleiri jarðir en hann þegar ætti, heldur bæri það til þess, að Hamar hefði fyrrum verið eign langfeðra sinna og verið meir en 200 ár í þeirri ætt, þar til afi sinn hefði skipt henni fyrir tvö kot. Sagði hann Sigurði langa sögu af öllu þessu, er Sigurður aldrei hafði áður heyrt, svo og frá því, að einn af forfeðrum sínum, Gunnar, hefði búið þar allan sinn aldur, hýst þar reisulegan bæ, og hefði Hamar þá verið haldinn einhver hin bezta jörð þar í sveitinni. En eftir það hún hefði gengið úr ættinni, hefði henni ár frá ári hnignað, er hún fór að ganga kaupum og sölum, og verið skipt í sundur; - þar sem þau Hlíðarhjón ættu engin börn, mundi svo fara um Hamar eftir þeirra dag, að honun yrði skipt í alla staði millum útarfa, er væru margir, en af langri tryggð til jarðarinnar gæti hann ekki séð það, að svo færi um hana, þar sem forfeður hans hefðu blómgazt þar. Þá sagði hann, að þau hjón væru ekki skyldug til að láta útörfum sínum fremur eftir lönd en lausa aura. Sigurður bóndi tók í fyrstu því máli prests mjög fálega, en er prestur hélt drykknum meira að Sigurði og hann tók að gjörast ógáður og ölvaður, fór hann heldur að gefa nokkurn svig á um kaupin og segir, að svo geti farið, að hann selji honum jörðina, ef kona sín sé því ráði samþykk; en er prestur verður þess var, að Sigurður gjörist lausari fyrir, gengur hann að sem fastast og vill, að kaupunum sé lokið þegar um kvöldið; segir og, að hann þekki svo konu hans, að hún muni ekki brjóta það, sem hann gjörir; og með því að prestur gengur ríkt eftir, en Sigurður því nær óvita af öli, svo fer það fram, að prestur ritar kaupbréf fyrir jörðinni.

Þegar prestur nú hafði skrásett kaupgjörninginn, biður hann Sigurð að rita nafn sitt undir hann. Sigurður var þá orðinn svo ölvaður, að hann gætti sín ekki að neinu og kvaðst mundi rita undir hvað, sem prestur segði sér, og ekki skeytti hann um að heyra bréfið upp lesið, en lét sér nægja, að prestur segði honum ágrip af helztu atriðum; las þó prestur bréfið upp, og kinkaði þá Sigurður kollinum við hvert orð og drafaði: Eins og yður lízt, elsku faðirinn!

Þeir voru kaupvottarnir, Ögmundur hálfblindi og Erlendur, en prestur hafði þó raunar ætlazt til, að Ögmundur alblindi skyldi vera annar, svo að allt væri sem traustast og tveir hreppstjórar undir, en Ögmundur var þá úr sögunni; hafði hann litlu áður lukt augu sín aftur og lá með háblástrum og púi fram á borðið í fasta svefni, og varð hann ekki vakinn. En er að því kom, að Sigurður skyldi rita nafn sitt undir kaupbréfið, sáu menn, að hann var lítt til fær; er þá það ráð tekið, að prestur lætur hann taka um pennann og stýrir hendinni, á meðan nafnið var ritað; gekk það ekki greitt, því Sigurði skalf höndin, og varð langt strik út úr sumum stöfunum. Er bréfið þessu næst innsiglað, og geymir prestur það.

Skömmu eftir ganga menn til svefns, og sefur Sigurður af um nóttina, en er hann vaknar næsta morgun, rankar hann við sem í draumi, að nokkuð hafi verið talað kvöldið áður um jarðakaup af þeim presti og man þó ógjörla til, hvað verið hafi; innir hann þá Ögmund hreppstjóra hálfblinda eftir, hvað fram hafi farið, og segir Ögmundur honum sem var, að hann hafi selt presti Hamar og gjörningur sá sé innsiglaður - og undraði mig, segir hann, að þú vildir selja svo góða jörð fyrir hálfvirði eða minna, þó ég vildi ekki þá um tala, er mér kom ekki það mál við, enda er hver fjár síns ráðandi.

Sigurði brá heldur í brún, er hann heyrði þessi tíðindi, en sér fátt til úrræða annað en að hitta prest og biðja hann, að kaupin megi ganga aftur, er hann hefði ekki verið með öllu rétt gáður; mundi hann ekki hafa þann gjörning gjört, hefði hann verið með öllu ráði, enda muni konu sinni lítt um finnast.

Hjá presti urðu lík svör sem hjá embættisbræðrum hans á Gyðingalandi forðum, að hann sagði, að Sigurður skyldi sjálfur sjá þar fyrir, enda hefði hann ekki gjört neitt, er hann þyrfti að iðra. Fór Sigurður við það burt frá Stað, að hann fær ekki rétting þeirra mála, og unir hann því allilla, en nokkru eftir heimkomu sína segir hann konu sinni frá þeim tíðindum, er gjörzt hefði í ferð hans að Stað, og lætur hún hið versta yfir.


22. kafli

Þórarinn kemur í kynnisferð

Það var einn dag um haustið, skömmu eftir þetta og nokkru fyrir veturnætur, að Sigurður bóndi í Hlíð slátraði sauðum, og voru að þeim störfum vinnumenn hans, og griðkonur þvoðu innan úr og hrærðu í blóði. Sigrún var þá komin heim að Hlíð, og sitja þær fóstrur í túni, skammt frá blóðvelli, og ristu ristla og höfðu fyrir framan sig hrútshausa mikla og hnífa í höndum; var ristlunum brugðið um hornin á hausunum, og létu þar svo hausana halda í, á meðan þær rista. Sigrún var svo klædd, að hún var yzt fata í pilsi einu mjög slitnu og karbættu og á alla vega litar bætur, sumar ljósbláar og sumar sauðsvartar, en pilsið hafði verið í fyrstu dökkblátt, en var þó farið að upplitast fyrir elli sakir og orðið gráleitt. Sigrún var og í peysugarmi, heldur töturlegri, hafði hún kastað þessum tötrum yfir sig, á meðan hún var í sláturverkunum, svo að hún skyldi ekki saurga föt sín, en innan undir var hún í hversdagsklæðum sínum, peysu og pilsi; húfu hafði hún á höfði og brugðið hárinu upp undir í hnakkanum, og féll lykkjan ofan á herðarnar allfögur og huldi þar nær því allt. Sitja þær fóstrur svo um stund og tala á víð og dreif og eru allkátar; tekur þá Sigrún svo til orða:

Nú held ég fáir þekktu mig í þessum skrúða álengdar, sem ekki væru því nákunnugri hér eða ekki hefðu séð mig svona klædda áður.

Sá væri samt ekki mannglöggur, sem ekki þekkti þig, fóstra mín, sagði Þórdís, allténd er þó hárið á þér auðkennilegt, eða heldur þú hann Þórarinn þinn þekkti þig ekki í þessum tötrum?

Ekki held ég það, sagði Sigrún og roðnaði við.

Hver veit, nema hann komi samt í dag; mig er farið að óra fyrir því, að hann komi bráðum; mér þykir líklegt, að það líði ekki á löngu, ef hann á annað borð ætlar sér að koma hingað.

Það var eins og við manninn mælt; í þessu stendur einn af vinnumönnum upp, þar sem hann var að gjöra til einn af sauðunum, gengur með mörinn að troginu og leggur hann þar saman brotinn í blóðtrogið og dýfir fingrinum í það og gjörir kross á hann til auðkenningar; en er hann ætlar aftur til kindarinnar, sem hann var að gjöra til, verður honum litið til melanna fyrir utan túnið, kallar hann þá og segir:

Þarna koma þá tveir menn ríðandi og reka tvo hesta lausa og þeyta í loftinu, og er annar á kápu.

Standa nú allir upp og horfðu á komumenn, og bar þá að svo fljótt, að þegar eru þeir komnir inn um túngarð, og hleypa þeir hestunum engu minna en áður. En er þeir eru komnir heimarlega í traðirnar, kennir Sigrún, að þar er Þórarinn; verður henni þá bilt við, og segir hún í hálfum hljóðum við fóstru sína: Guð hjálpi mér, það er þá hann. - Svo voru þeir Þórarinn þá nær komnir bænum, að Sigrún sér ekkert ráðrúm til að skjótast inn í bæinn, en fyrir hvern mun vill hún ekki, að Þórarinn heilsi sér þar og sjái sig svo tötralega til fara; tekur hún það því til bragðs, að hún grúfir sig niður millum þúfnanna, en Þórdís húsfreyja gengur heim á hlaðið. Eru þeir Þórarinn þá stignir af hestum, og gengur Þórarinn til húsbónda og húsfreyju og heilsar þeim með kossi og kastar kveðju á hitt fólkið. Þórdís þekkti vel Þórarin, og voru þau málkunnug; tekur hún þá svo til orða:

Þér megið ekki taka til þess, Þórarinn minn, þó við séum hérna hálfsóðalega til fara; þeir geta ekki verið prúðbúnir, sem ganga í ýmsu, enda tekur enginn til þess, hvernig við erum, kerlingarnar.

Þórarinn kvaðst því alvanur að sjá fólk í hversdagsfötum; síðan bjóða þau hjón honum inn, og er hann látinn fara í stofu, og skýzt þá Sigrún til bæjar; kastar hún þá sem fljótast tötrunum og býst um, þvær sér og greiðir hár sitt; en á meðan taka þau hjón og Þórarinn tal í stofu og inna hann almæltra tíðinda svo og um það, hvernig hann kunni við sig á Suðurlandi, og spyr bóndi margs um búskaparhætti og aflabrögð og fleira þess háttar. Loks gengur húsfreyja úr stofu og lætur setja mat á borð fyrir Þórarin, og kemur þá Sigrún til stofu, og heilsar hann henni blíðlega. Er nú matur fram reiddur, og gengur bóndi út, meðan Þórarinn matast; hafði hann og ýmsu að sinna við slátursverkin, og verða þær fóstrur einar eftir í stofu. En er Sigurður er út genginn, gengur húsfreyja einnig úr stofu og lítur til Sigrúnar um leið, en Sigrún skildi það svo sem fóstra hennar segði: Nú fer ég út, Sigrún mín, en ekki þarft þú að hlaupa á dyr fyrir það; ef þið Þórarinn eigið eitthvað vantalað, þá er nú tími til þess að ræðast við. Sigrún varð því eftir í stofunni hjá Þórarni. Ekki vitum vér gjörla að segja frá því, er þau Þórarinn og Sigrún ræddu þar, og ekki höfum vér sanna frétt um það, hvort Þórarinn hafi heilsað Sigrúnu nokkuð rækilegar en hann gat áður í skyndingu við snúizt, en það eitt höfum vér af spurt af viðurtali þeirra, að Þórarinn sagði Sigrúnu frá fyrirætlun sinni og erindagjörðum, kvaðst hann vera þar kominn til þess að bera upp við þau fósturforeldra hennar það mál, er þau áður hefðu sjálf aftalað, og leita samþykkis þeirra þar til; segir hann, að þær hinar suðrænu meyjarnar ekki hafi gengið svo í augu sér, að honum sé snúinn hugur um ráðahag við hana, og sé það ásetningur sinn að bindast ekki einkamálum við neina stúlku nema Sigrúnu, og fer hann þar um mörgum fögrum orðum. Sigrún þakkar Þórarni tryggð hans og staðfesti að maklegleikum; segir hún honum nú, að þetta mál muni auðsótt við fósturforeldra hennar, og getur þess, að fóstra sín hafi grun á um samdrátt þeirra og hafi hún séð bréf það, er Þórarinn sendi henni; töluðu þau lengi og brugðu ekki talinu, fyrr en Sigurður bóndi kemur í stofu; stendur Þórarinn þá frá borðum og þakkar bónda fyrir beinann. Býst Þórarinn nú til brottferðar, og fylgja þau hjón honum út á hlað og svo Sigrún, og þótti henni kynlega við bregða, er Þórarinn sýnir á sér fararsnið, en hefur þó ekki talað við þau hjón um einkamálin; en er þau eru öll út komin, víkur Þórarinn til þeirra hjóna og kveðst hafa erindi við þau, svo fleiri menn séu ekki áheyrandi; ganga þau Sigurður og Þórdís með Þórarni þar upp á túnið og setjast, og tekur Þórarinn þá svo til máls:

Svo er mál með vexti, að hér í Hlíð er mær ein, sem Sigrún heitir; eru foreldrar hennar dánir, og ætla ég, að þið hjón séuð ráðamenn hennar, því að þið hafið alið hana upp og að öllu breytt við hana sem foreldrar; nú er því ekki að leyna, að mér leikur hugur á mey þessari, er ykkur það og kunnugt, að ég hef nokkurn kunnleika af henni haft, vorum við um stund á bæ saman, og er það skjótast af að segja, að ég hef heitið að eiga hana ella enga stúlku aðra, ef hún er því ekki mótfallin og ég fæ ykkar samþykki til; þykir mér miklu varða, hverju þið svarið til þessa máls.

Þegar Þórarinn lauk máli sínu, varð nokkur þögn á þinginu; litu þau hjón hvort framan í annað, eins og þau hugsuðu hvort fyrir sig: Tala þú fyrst, elskan mín - en er húsfreyja sér, að ekki verður af svarinu Sigurðar, segir hún:

Hverju ætlar þú að svara þar til, Sigurður bóndi minn?

Ég svara ekki öðru en þér sýnist, sagði Sigurður, eða hvað lízt þér?

Fyrst þú skýtur þessu máli til minna úrslita, Sigurður bóndi minn, sagði húsfreyja, þá mun ég segja það, sem mér býr í skapi, og er það þá fyrst, að það er að vísu satt, að ekki á Sigrún marga svaramenn, en þó er sá til, sem mest varðar um, en það er vilji hennar sjálfrar, eða hafið þér, Þórarinn minn, spurt hana til ráða?

Ekki veit ég það, heillin góð, sagði Þórarinn og roðnaði við, en gjörum ráð fyrir, að svo sé og að þessi ráðanautur sé því ekki fráhverfur.

Þetta mun svo vera, sagði Þórdís, þið eruð vanir að hafa það svo, karlmennirnir, að ráða fyrst að honum, áður en hinna er leitað, og það mun að vísu rétt, og án efa er það forsjálast, og þá er það ekki nema til málamyndar að spyrja aðra, sem hlut eiga að máli, að; þeim er þá einn kostur að segja amen til allra gjörninganna. En svo ég sleppi nú þessu, en svari yður, Þórarinn minn, þá er það af mér að segja, að ég er fullkomlega samþykk fyrirætlun ykkar; fyrst það er ljúfur vilji ykkar beggja, enda sæti það ekki á mér, sem lítið eða ekkert hef gjört Sigrúnu gott, að fyrirmuna henni það, sem ég sé, að er henni til sóma; það munu flestir mæla, ef þessi ráðahagur tekst, að Sigrún heldur seilist í skárri endann en að þér takið upp fyrir yður, og það er von, ef litið er til ástæðanna; hún er umkomulítil, ég ætla ekki að segja umkomulaus, en þér glæsilegur maður og líklegur til hamingju, ef guð gefur yður heilsu; en þó að Sigrún litla sé munaðarlaus, þá er mér svo langt til hennar, að ekki mundi mér falla það létt, ef hún yrði fyrir brigðmælgi, og segi ég það ekki af því, að ég haldi annað en þér séuð svo heiðvirður maður, að þér talið ekki annað en yður býr í brjósti.

Það þætti mér illa fara, sagði Þórarinn, ef nokkur hefði grun um, að ég hefði nokkur undirmál í þessu eða öðru.

Ég hef það ekki, sagði húsfreyja, en ég sagði þetta, af því mér sýnist þau séu nú farin að tíðkast, hin breiðu spjótin; það eru ekki allir, sem álíta það stórt ábyrgðarmál, þó þeir pretti stúlku, ef þeim býður svo við að horfa, og í annan stað datt mér í hug, að svo gæti verið fyrir yður eins og sumum öðrum, að þeir ráða ekki allténd við kringumstæðurnar.

Það er satt, sagði Þórarinn, dauða og líf geta menn ekki ráðið við.

Ekki á ég nú svo við það, sagði húsfreyja, dauðinn hefur aldrei brugðið nokkru heitorði karls og konu, en aðrar kringumstæður eru það, sem stundum slíta tryggðunum, til að mynda rógur og bakmælgi óvina, ráð og fortölur vina og vandamanna.

Þórarinn hugsaði sig um litla hríð og segir síðan:

Ég þykist nú skilja, hvar þér beinið að, þó ekki sé talað ljósara; þér haldið, að vinir mínir og frændur eða ef til vill tengdamenn muni verða því mótfallnir, að ég eigi Sigrúnu; en ég verð þá að segja yður, að ekki á ég nokkurn þann vin, að ég meti svo mikils, að ég fyrir hans sakir bregði trú minni; frændur á ég fáa, sem ég þekki eða hef nokkuð gott upp að unna, nema systur mína, og veit ég það, að hún er heldur fýsandi en letjandi þessa máls. Telja má ég að sönnu mág minn séra Sigvalda með vandamönnum mínum, en ógjörla veit ég, hvort ég á honum mikla velgjörninga að þakka; hann hefur að vísu komið mér til mennta, en ég ætla, að þar til hafi hann varið föðurarfi mínum; það veit ég að vísu, að vart mun hann hafa ætlað mér þetta kvonfang, en svo aðeins hef ég þetta upp tekið, að ég ætla mér ekki hans ráðum til þess að hlíta.

Þar mun þá fara sem guð vill, sagði Þórdís, og skal ekki draga yður lengur á þessu máli, og hafið þér fullkomið samþykki okkar til þess að ganga að eiga Sigrúnu, þegar þér sjáið yður geta því við komið, eða ertu því ekki samþykkur, Sigurður minn?

Jú, meir en og margfaldlega, sagði Sigurður, það er ekki að draga hann á því og það slíkan mann.

Við þetta skildu þau talið, og þakkaði Þórarinn þeim hjónum með hinni mestu blíðu; en síðan ganga þau öll til bæjar og í stofu, og er Sigrún þá sótt og spurt um vilja hennar, og var það mál auðsótt. Tala þau nú þetta mál betur, og er ákveðið, að það skyldi þó fara af hljóði og Sigrún sitja í festum, þar til Þórarinn fengi brauð; bjóða þau Hlíðarhjón Þórarni að vera þar um nóttina, en hann vill það ekki, kveðst hann verða að hafa hraða ferð, muni hann verða þrjár nætur að kynni hjá systur sinni, en fara síðan suður, og ætli hann þá að hafa náttstað í Hlíð, er hann ríði um.

Ríður nú Þórarinn til Staðar, og er honum þar allvel fagnað, situr hann þar í góðu yfirlæti, og er prestur hinn kátasti og segir honum mörg tíðindi, sem gjörzt höfðu þar í sveitinni, síðan hann fór frá Stað; getur hann þess og í óspurðum fréttum, hvernig farið hafði um vist Egils í Hlíð og að þau Hlíðarhjón hafi orðið að koma Sigrúnu þaðan brott, því sá orðrómur hafi þegar verið farinn að leggjast á, að fleiri kunnleikar hafi verið með þeim Agli og Sigrúnu en góðu hófi gegndi, og hefur það í dylgjum, að nokkur tilhæfa muni hafa á verið. Þórarinn eyðir því tali, en í annan stað spyr hann vin sinn Finn Bjarnason um þetta, og segir hann Þórarni af hið ljósasta og kveður það hina mestu lygð, að Sigrún hefði nokkurn tíma viljað líta í þá átt, sem Egill var; en satt væri það, að Egill hefði farið að Hlíð með þeirri fyrirætlun að fá Sigrúnar, en er þær fóstrur hefði orðið þess vísar, hefði Sigrún þegar verið látin brott fara.

Þá er Þórarinn hafði verið að kynni að Stað tvær nætur, kveðst hann mundi ríða næsta dag snemma, og lætur hann tjóðra hesta sína hjá túni. Sigvaldi lætur og sækja hest sinn, og segir hann Þórarni, að hann muni ríða á veg með honum og ætli hann að fylgja honum úr sókninni. Þórarinn telur það úr og segir þess enga þörf, en er hann verður þess vís, að prestur vill ekki láta þá ferð undir höfuð leggjast, sér hann, að svo muni verða að vera; veit hann þá og, að ef prestur ríður með honum, muni hann ekki geta komið við í Hlíð, eins og hann hafði heitið Sigrúnu, því ekki vildi hann, að prestur væri í för með sér, þá er hann þar kæmi; en fyrir hvern mun vill hann ekki fara svo brott, að hann efni ekki orð sín; tekur hann því það ráð, að hann talar við Finn, að hann muni ríða með sér til Hlíðar um nóttina, þegar menn séu gengnir til hvílu, og hafa hljótt yfir; lætur Finnur vel yfir því, og ganga menn nú að sofa á Stað, og sefur Þórarinn í svefnherbergi því, er hann var vanur, er hann var þar, og lagðist niður í fötunum. Finnur háttaði, sem hann var vanur, og lætur á engu bera; en þá er hann heyrir hvern mann í baðstofu hrjóta í sínu rúmi, stendur hann upp og klæðist hljóðlega; fer hann þá ofan stiga og lýkur upp herbergi Þórarins, og fer honum það svo kringt, að Þórarinn verður ekki var við fyrr en Finnur tekur um fót honum og biður hann upp standa. Tekur hann skó sína og bindur, læðast þeir félagar síðan út. Reiðtygi Þórarins voru í hjalli ólæstum, er stóð þar við bæinn; tekur Finnur þau og svo beizli tvö, en sjálfur hyggst hann að ríða berbakt. Niðamyrkur var á, og mátti ekki sjá handa skil. Ganga þeir félagar úr garði og ætla að taka hestana fyrir utan túnið, en er þeir koma upp fyrir bæjarhúsin, verður Finni litið til baðstofuveggjar, og sýnist honum þar vera flygsa ein mórauð og á hæð við meðalmann. Segir þá Finnur við Þórarin: Taktu nú við reiðtygjunum og beizlunum, félagi, og taktu hestana úr tjóðrinu og leggðu við þá, mér sýnist standa þarna einhver mannræfill, og ætla ég að forvitnast um, hver það er, og síðan kem ég aftur til þín.

Þórarinn tók við reiðtygjunum og hélt til hestanna. En það er af Finni að segja, að hann snýr aftur og þangað að, sem hann sá manninn, sér hann þá, að það er Hjálmar tuddi; kastar Finnur skjótum orðum á hann og segir:

Hvern skrattann ert þú að draugast hér, Tuddi?

Hvern skollann varðar þig um það, Finnur illskubein? En hver var þarna með þér? sagði Hjálmar, ég vil nú fá að vita það, hverjir eru að stelast út af bænum í blindöskunáttmyrkrinu.

Það skaltu aldrei fá að vita, afmánin þín, sagði Finnur og greip annarri hendinni til Tudda, en reiddi til höggs með hinni.

Ætlarðu að sálga mér, eins og þú ert vanur, og sýna mér svo banatilræði á eftir? - sagði Tuddi og fleygði sér flötum niður og setti fæturna upp í loftið eins og seppi, sem verið er að klóra á maganum.

Finnur stingur þá hendinni fyrir kverk honum og segir:

Hér skaltu láta þitt auma líf, nema þú segir mér, hvað þú ert að rölta hér úti um nætur, og segðu nú satt.

Æ, æ, æ, ég held þig varði ekki um það, eiturnaðran, mér var líka bannað að segja það, sagði Tuddi og öskraði hástöfum.

Hef ég ekki sagt þér að þegja, óhræsið þitt! sagði Finnur og þrýsti hendinni sýnu fastara að hálsi Hjálmars.

Á, á, þér er þá alvara að drepa mig? Ég skal heldur segja þér það; presturinn sagði mér að vaka í nótt og gæta að, hvort nokkur tæki hestana og færi burt af bænum.

Og þú ætlar að segja honum það?

Já, það gjöri ég.

Þá skal ég gefa þér sögubitann, hróið mitt, segir Finnur og grípur um leið stein einn hnefastóran og keyrir upp í munn Hjálmari. Steinninn var svo stór, að hann gekk nauðuglega inn um tanngarðinn, og slær Finnur á hann með hendinni, svo hann skreppur inn fyrir tennurnar, en síðan segir hann:

Hafðu það nú að mínum ráðum, greyið mitt, vertu nú ekki lengur að rjátla hér úti, ella verður það þinn bani, en leggstu heldur í bólið þitt, og hafðu engan hávaða.

Síðan sleppir Finnur honum og hleypur til Þórarins, og hefur hann nú lagt á hest sinn; innir hann Finn eftir, hvort hann hafi orðið manna var; lítið mark segir Finnur að því, að hann hafi mann hitt - en Hjálmar tudda fann ég í svip, og hef ég gjört svo ráð fyrir, að hann segi ekki af ferðum okkar að sinni.

En það er þessu næst af Tudda að segja, að þá er Finnur sleppir honum, stendur hann upp, og vill hann þá mæla nokkuð, en finnur, að honum er þess varnað; grípur hann þá til steinsins, þess er Finnur hafði keyrt í munn honum, en steinn sá var ekki laus fyrir, fyllti hann nálega út í allan munninn og var svo ósleitulega inn rekinn, að hann með engu móti mátti hann brott færa. Nú þó honum væri ekki gott í skapi til Finns, hugsar hann þó, hvað Finnur hafði síðast sagt við hann: að það skyldi verða hans bani, ef hann gjörði hávaða nokkurn; tekur hann því það ráð, að hann gengur til baðstofu og leggst þar niður í rúm sitt og stynur allþunglega og svo hátt, að nokkrir vöknuðu við í baðstofu og kölluðu til hans og fréttu að, hvað að honum gengi; en Tudda varð ekki greiðlegt um svar, og hirtu menn ekki um framar að grennslast eftir, hvort honum væri nokkuð meint, var hann og oft kunnur að greylegum látum. Liggur hann þar svo um hríð, unz hann sofnar.

Nú er að segja af þeim félögum, að þeir stíga á bak hestum sínum og ríða, allt hvað þeir mega, til Hlíðar. Myrkur var á og niðdimma, en samt runnu hestarnir veginn eins og albjartan dag. Steinarnir fuku úr götunni sem hagl undan hestafótunum, og eldglæringarnar tindruðu úr skeifunum. Reiðskjótarnir lögðust fast í taumana, þá er þeir fundu, að mennirnir, sem sátu á þeim, vildu áfram, og hentu sig yfir hvern skurð og torfæru, sem fyrir varð, en gripu svo aftur fimlega til skeiðsins, undir eins og sléttara varð undir fæti.

Upp hálsbrekkurnar megum við ekki ríða eins og gapar, því þá sprengjum við hestana, sagði Þórarinn.

Það skal vera, en varla mun þér þykja sú stundin of löng, sem þú kyssir Sigrúnu, sagði Finnur, þó við ríðum greitt, þar sem við getum - og í því heyrist hár smellur, og er Finnur horfinn út í myrkrið, og sér Þórarinn ekki eftir af honum fyrr en eftir litla stund, og hillir þá undir hann hæst uppi á hálsbrekkunni. Nú kemst Þórarinn upp hálsinn og hvetur þá hest sinn, og stendur sá sprettur heim á hlað í Hlíð; stekkur Þórarinn af baki og svo þeir báðir. Biður Þórarinn Finn, að hann gjöri vart við þá; eru Finni kunnug þar öll húsakynni, og guðar hann á glugga yfir rúmi Sigrúnar; klæðist hún skjótt og kveikir ljós og gengur til dyra, síðan vísar hún Þórarni í stofu; klæðast þau þá og hjónin Sigurður og Þórdís og fagna vel Þórarni; segir hann þeim, hvernig hagi til um ferðir sínar og að hann sé þar kominn að kveðja þau. Situr Þórarinn þar í miklu yfirlæti um nóttina, og fer vel á með þeim öllum; er það ráðgjört, að Sigrún skuli sitja í festum um sinn, þar til Þórarinn hafi fengið aldur, að hann megi vígslu taka og hann fái embætti, þá skuli hann vitja heitmeyjar sinnar. Það er aftalað, að Finnur skuli eftirleiðis koma bréfum milli Þórarins og þess Hlíðarfólks og Sigrún fá honum í hendur bréf sín til Þórarins, en Finnur síðan senda Þórarni; þótti með þessu betur girt fyrir það, að bréfin misfærust, en ef þau væru send á skotspónum og menn vissu, hvaðan þau væru, og ef til vill kæmust í hendur Staðarmanna, er þau grunuðu um gæzku. Þá skyldi og Þórarinn koma á hverju hausti kynnisferð að Hlíð, ef hann mætti því við koma. En þegar skammt lifði nætur, búast þeir Finnur aftur til heimferðar, og leiða þau Hlíðarhjón hann á götu og svo Sigrún, og kveðjast þau öll nálægt túngarði, og höfðu menn það fyrir satt, að þeim Þórarni og Sigrúnu þætti mikið fyrir að skilja.

Segir ekki af ferðum þeirra félaga, fyrr en þeir koma að Stað, tjóðra þeir aftur hesta sína og ganga til bæjar, og sést þá fyrst brún af degi. Fer Þórarinn til herbergis síns og leggst þar niður, en Finnur gengur til baðstofulofts og að bæli því, sem Tuddi lá í; styður hann þá hendi við Tudda, og vaknar hann með andfælum; grípur Finnur annarri hendi um kjálka Tudda og kreistir svo fast sem hann má, og glennist muður Tudda við það mjög í sundur; en með hinni hendinni smeygir hann tveim fingrum upp í Hjálmar og spennir greipum um steininn, er var upp í honum; tekur þá Tuddi að brjótast um fast, er hann kennir sársaukans, hnykkir þá Finnur að sér af alefli, og við það skreppur steinninn út fyrir tennurnar; og segir þá Finnur:

Nú mátt þú kjafta hvað, sem þú vilt, því nú segi ég þig ljúga það allt saman.

Tuddi var þrútinn mjög um kjálkana, því mjög hafði sollið að, meðan steinninn var upp í honum; þó losnar honum nú svo málbeinið, að hann tekur að blóta og ragna Finni sem ákafast; verður nú hávaði mikill, vakna menn við það í baðstofu, en skipta sér þó fátt af viðskiptum þeirra Finns; vissu menn og, að oft voru ertingar með þeim, og lauk svo því máli síðar, að Finnur sagði frásögu hans um steininn lygi tóma. Gat Tuddi ekki heldur sýnt neinar jarðteiknir þess, að hann hefði verið svo grátt leikinn, nema bólgu í kjálkum og þrota í munni, en það sögðu menn, að gæti af ýmsum orsökum að borið, töldu það og engan skaða vera.


23. kafli

Sama dag um dagmálabil reið Þórarinn frá Stað, og fylgdi prestur honum þangað, sem ætlað var; stigu þeir prestur og Þórarinn þar af baki, og sezt prestur í brekku eina og bendir Þórarni að koma; Þórarinn sezt þá og hjá presti í brekkuna, en fylgdarmaður gætir hesta þeirra. Prestur tekur þá úr vasa sínum brennivínsflösku og silfurbikar einn gylltan. Skenkir prestur fyrst á og drekkur Þórarni til og réttir að honum og segir:

Nú er þá komið að því, Þórarinn mágur, að við skiljumst að sinni, og óska ég þér fljótrar og góðrar farar heim til þín; en það er eitt, sem mér þykir vantalað við þig, og vil ég því minnast á það, áður en við skiljumst. Þú veizt, mágur, að mér hefur fremur verið annt um þig hingað til og ekki öllu síður en þó þú hefðir verið sonur minn; var það og skylt vegna mágsemda okkar. Þú komst til mín á ungdómsaldri, þú varst á ellefta árinu, þegar faðir þinn heitinn dó, svo það má kalla, að þú sért uppalinn í mínum húsum, og af því ég sá, að þú varst meira hneigður til bókarinnar en búskaparins, þá brauzt ég í að koma þér til læringar; sem vonlegt var, kostaði mig það nokkra fyrirhöfn og drjúga skildinga, en ég tel það ekki eftir, það kom að góðu, hum, hum; þú ert heiðarlegur dimissus, og að svo miklu leyti mætti virðast sem mitt ætlunarverk sé úti; en ég hef þó einhvern tíma hugsað nokkuð lengra fram í veginn um hagi þína, og ég hef ef til vill látið þig ráða í það, að sú litla umönnun, sem ég hef haft fyrir velfarnan þinni, væri ekki á enda, ef þú vildir hafa mín ráð og tilstyrk eins og hingað til; og því dettur mér nú í hug, bróðir góður, að spyrja þig: hvað hugsar þú nú fyrir þér framvegis?

Ég hef nú lítið hugsað fyrir því enn þá, sagði Þórarinn, en þó veit ég ekki betur en ég verði næsta ár þar, sem ég er, hvað sem lengra verður; að vísu hefur sýslumaður talað að því við mig, og ég ber ekki á móti því, að ég hafi lofað því að fara ekki burtu frá honum.

Ég er vel ánægður fyrir þína hönd, Þórarinn mágur, að þú sért þar næsta ár, sagði prestur, og vona ég, að mín ráð hafi ekki orðið þar til óhagræðis, þegar ég réði þig þangað; en á meðan maður er ungur og uppvaxandi og á ef til vill langt líf fyrir hendi, verður maður að hugsa lengur fyrir sér en eitt ár. Þú ert nú á fjórða árinu um tvítugt - þá fara bændasynirnir, sem eitthvað hugsa, að líta í kringum sig eftir konu og bújörð, prestaefnin, hvernig þeir geti fljótast komizt til embættis, og svo framvegis og þar að mun reka fyrir þér. Það eru fáir, sem þetta allt kemur svo að kalla sjálfkrafa upp í hendurnar á, jörðin, konan og embættið, og sízt er þess að vænta, að þeim bætist það fyrirhafnarlaust, sem fáa eiga að eins og þú, mágur, því ekki tel ég, að þú eigir aðra aðstoðarmennina en okkur systur þína eða hafir átt; en hvað um það er, ég fer nú að gjörast gamall og letjast við prestsverkin og búsumsvifin; ekki er það fyrir það, nógir eru til og þökkuðu mér, ef ég vildi taka þá inn í brauðið, en hver veit, nema þú verðir þó hlutskarpastur, eða hverju mundir þú svara, ef ég byði þér að verða kapelán hjá mér með þolanlegum kostum, hum, hum?

Ég mundi, sagði Þórarinn, svara því, að mér þætti vandi velboðnu að neita, en hverjr mundu þá kostirnir verða?

Viðunanlegir, sagði prestur, ekki er um annað að tala; sjálfsagt þriðjungur af öllum föstum tekjum, hálf extraverk og staðurinn hálfur, fyrst til ábúðar og líklegast allur bráðum með ofanálagi, sem okkur um semur, og þá ef til vill þess ekki langt að bíða, að ég segði af mér, ef ég sæi við hentugleika, að þú gætir fengið brauðið, því menn hafa nú oft haft það svo, þegar menn hafa viljað, að einhver fengi brauðið eftir sig, að segja af sér, þegar þeir sæju, að því yrði laglega við komið, að hann fengi það, eða maðnr hefur átt kunningja, sem heldur hefur getað stutt að því; kallarðu þetta ekki bærilega kosti, mágur? - Ég vona, að þú sjáir, að ég vil þér ekki úr hendi, hum, hum.

Þessa kosti kalla ég góða, sagði Þórarinn, ef ekki fylgja nein skilyrði önnur.

Sjálfsagt er skilyrðið að vera mér hlýðinn og eftirlátur, eða kallar þú það ókosti, þó - hum, hum! - þó ég léti konuna fyrir þig fylgja með - hum, hum? - sagði prestur.

Ekki mundi það mega teljast með ókostum, sagði Þórarinn, ef þér hefðuð þá fram að bjóða, sem ég gæti fellt mig við að eiga.

Ekki skal ég ráða þér til annars kvonfangs, mágur, en þess, sem ég álít þér vel sæmandi, sagði prestur, og er því ekki að leyna, að svo framarlega sem þú vilt mínum ráðum fylgja, þá hef ég ætlað þér Guðrúnu frændkonu; það tel ég hverjum manni hentuga konu, sem eitthvað hugsar til að geta bjargazt, áreiðanlegt konuefni, vön búsýslu, roskin og ráðin og efni nokkur; föðurarfur hennar er hjá mér, og honum svara ég út.

Er það þá skilyrðið, sagði Þórarinn, fyrir kapelánsdæminu, að ég eigi hana?

Að vísu, sagði prestur, það er skilmáli, en ég ætla, að hann sé því aðeins settur, að ég sé, að þér er það sjálfum bezt.

Ekki þarf þetta mál þá lengur að ræða, sagði Þórarinn og stóð upp allskyndilega, það er yður skjótt af að segja, að aldrei á ég Guðrúnu og vinn það ei til nokkurs hlutar að gjöra svo á móti skapi mínu, og meira að segja, þó þér ættuð ráð á Odda eða Grenjaðarstað og öllum hlutum góðum með og gæfuð mér það, þá á ég hana aldrei, og er það vel, að ég segi yður það nú einu sinni í alvöru, en ekki er svo sem ég viti ekki, að þetta hefur áður verið vilji yðar að binda mig þar við borð, þó þér ekki hafið talað það fyrr svo berlega.

Mikið tekur þú af, Þórarinn minn, sagði séra Sigvaldi og glotti við, seztu niður aftur, mágur, og tölum þetta betur; það er svo heitt í þér blóðið stundum, að þú gætir þín ekki, en þegar þú stillist og af er mesta hitan, þá ertu þó svo hygginn, að þú sérð, hvað er ráð og óráð, en óráð tel ég það að hafna sæmilegum boðum þeirra, sem vilja þér vel,

Þau boð eru banvæn, sagði Þórarinn, og ég geng aldrei að þeim, það er ekki til neins að tala um það við mig oftar.

Mundir þú þá heldur taka boðum mínum, sagði prestur og glotti við, ef ég byði þér Sigrúnu Þorsteinsdóttur fyrir hjákonu og það með, að við gjörðum upp reikninga okkar í góðu tómi?

Þórarinn var maður skapbráður og reiddist skjótt; en við þau orð, er prestur sagði, setti hann dreyrrauðan og segir síðan:

Ekki þurfið þér, mágur minn, að minna mig á Sigrúnu, allt er það meinalaust af minni hendi, og þar sem þér talið um reikninga okkar, þá er ég þess allfús, að þeir séu gjörðir sem glöggvastir, en vita skuluð þér það, að ég mun nokkra vitneskju af hafa, hvort þér hafið með öllu gefið mér uppeldi mitt, og engum sæti ég afarkostum fyrir þær sakir.

Til þess mun þá hætt verða, Þórarinn minn, að gjöra þá svo glöggva sem má, ef ekki skipast á aðra leið eins um þá og kvonfangsfyrirætlanirnar, sagði prestur og glotti enn við.

Ekki ræði ég nú meira um þetta, sagði Þórarinn, og fari viðskipti okkar hér eftir sem málavextir eru til - og verið þér nú sæll, mágur!

Gekk þá hvor þeirra mága til hests síns og skildust í styttingi; ríður séra Sigvaldi heim til Staðar og sezt í bú sitt, og sér enginn maður annað en að hann væri hinn kátasti.

Þórarinn ríður leiðar sinnar, og tekst honum vel og greiðlega, unz hann kemur að B..., en heldur er hann daufur og fámálugur um hríð, eftir að hann kemur úr kynnisför þessari.


24. kafli

Skömmu eftir það, að Þórarinn er suður riðinn, stendur Dreyri einn morgun á hlaði í Hlíð reiðtygjaður og tyggur mélin. Húsfreyja Þórdís er setzt í söðulinn og lagar til á sér fæturna á fótafjölinni, en Sigurður bóndi hagræðir fötunum og bregður sessubandinu utan yfir. Sigrún stendur á hlaði, húsfreyja lýtur fram úr söðlinum og kyssir hana og bónda sinn, blakar keyrinu á hestlendina, Dreyri hringar makkann og tekur til fótanna.

Hvert skal ríða, húsmóðir? sagði Árni.

Til Staðar er ferðinni heitið, svaraði húsfreyja, og ríddu greitt, þar sem þú getur.

Það skal vera, sagði Árni.

Þau Þórdís og Árni komu að Stað um hádegisbil; er prestur á gangi út á hlaði, og er hann sér þau koma í traðirnar, kennir hann þegar Þórdísi og segir við sjálfan sig: Hum, hum, nú mun vera ætlað til einhverra stórræða. Síðan gengur hann á móti Þórdísi og fagnar henni með hinni mestu blíðu, tekur hana úr söðlinum og kallar hana heillina góða í hverju orði, leiðir hana svo í stofu og biður hana þar velkomna vera. Þórdís er og hin kátasta, en hugsar samt með sér: Guð láti gott á vita, þess væri óskandi, að við séra Sigvaldi yrðum jafngóðir vinir, áður við skildum.

Situr Þórdís um hríð í stofu, og tala þau prestur hitt og þetta um það, sem tíðindum þótti sæta; segir þá Þórdís, að hún muni gjöra sig heimakomna og ganga til baðstofu og heilsa prestskonu, en síðan muni hún biðja prest að tala við sig og hafi hún lítilfjörlegt erindi við hann. Prestur segir henni það guðvelkomið, að hann hlýði á erindi hennar, hvenær sem hún vilji það flytja; leiðir hann nú Þórdísi á baðstofuloft til konu sinnar og segir, að þar sé komin sóma- og heiðurskonan Þórdís sín frá Hlíð - verður þú eitthvað að beina henni, gæzka, og láta henni ekki leiðast þá stundina, sem hún stendur hér við, segir hann, það er ekki svo oft, sem hún kemur misreitis, góða kona, hum, hum.

Þær Þórdís og prestskona voru, eins og áður er um getið, allgóðar vinkonur, og tekur prestskona henni vel. Er Þórdísi þar veittur beini góður, og tala þær konurnar lengi hljóðlega. Vissi Þórdís, að prestskona var í vitorði um einkamál þeirra Þórarins og Sigrúnar og að henni var allkært, að sá ráðahagur tækist, og segir hún henni því frá viðræðum þeirra Hlíðarhjóna, og lætur prestskona vel yfir, en segir aftur Þórdísi, hverja fyrirætlun prestur hafi um giftumál Guðrúnar frændkonu sinnar, en aldrei hafi sér verið það að skapi, að Þórarinn bróðir sinn ætti hana.

Býst Þórdís þessu næst til brottferðar, en kveðst þó verða að tala nokkuð við prest, áður hún fari; er henni sagt hann sé í stofu, og gengur hún þangað, og vísar prestur henni til sætis öðrum megin borðsins, en prestur lætur leika lausu við og gengur um gólf í stofunni og er hinn glaðasti. En er Þórdís er niður setzt, tekur hún svo til máls:

Undarlegar þóttu mér, prestur minn, verða málalyktirnar hjá ykkur hreppshöfðingjunum við karlinn hann Bjarna gamla á Leiti.

Þar voru orsakir til, heillin góð, sagði prestur, miklar orsakir, skaðræðismaður Bjarni, hum, hum.

Ég vænti ykkur hafi þótt það nægar orsakir, sagði Þórdís og brosti við, hafi hann leyst ofan um meðhjálparann, en margur hefur nú gefið öðrum í öskjurnar og er ekki vísað úr kór eða settur út af sakramentinu, og hafi hann þá átt hendur sínar að verja og honum verið veittar árásir að fyrra bragði, sem líklegt er, að verið hafi, því enginn veit annað um hann en hann sé spakur og óáleitinn, karlhróið, ef hann er ekki áreittur.

Það er hneykslið, heillin góð, í söfnuðinum, sem verður að vandlæta öðrum til viðvörunar; það segist ekki lítið á því að ráðast á saklausa menn og jarðvarpa og misþyrma þeim, hum, hum; það yrði fagurt afspurnar, ef það færi að tíðkast, og þeir, sem það gjörðu, slyppu vítalaust, sagði prestur með mikilli alvörugefni.

Og svo er það, anzaði Þórdís, ef það færi þá ekki svo fyrir ykkur blessuðum um hneykslanirnar og vandlætið, að þið síuðuð mýfluguna og svelgduð úlfaldann stundum, höfðingjarnir.

Þú segir allténd eitthvað, Þórdís mín, hum, hum, og ég bar mig að því að miðla málum, eins og ég hafði vit á, að hvorutveggja væri sem vanvirðuminnst, og þetta lagaðist allt á endanum, karlinn fær nú sakramentið, þegar hann vill, og maðurinn yðar gjörði gott úr öllu og borgaði þessa skildinga fyrir hann.

Það skyldi nú aldrei verið hafa, hefði ég mátt ráða, að hann hefði borgað nokkurn skilding fyrir hann, sagði Þórdís, en það er nú komið sem komið er og líklegast, að hver hafi það, sem hann hefur hlotið: Grímur skellinn og skildingana, Bjarni útlátin og ánægjuna og piltarnir gamanið, og þar með sé þessum málum lokið. - En ekki var það raunar það, sem ég ætlaði við yður að tala, prestur minn, heldur hitt: Sigurður bóndi minn beiddi mig að taka hjá yður blaðsneypu, sem óvart hefði orðið eftir hjá yður, þegar hann kom hér síðast, það er ekki vert það flækist víða.

Hvernig stendur á því, heillin góð? sagði prestur, ég held hann misminni það, að hann hafi skilið hér eftir nokkuð bréf nema það, sem við vissum til báðir, kaupbréfið okkar fyrir kotinu, hann á víst ekki við það.

Það getur verið þér kallið það kaupbréf, sagði Þórdís.

Ég skal segja yður, heillin góð - þér vitið það ef til vill ekki eins og það er, sagði prestur ofur ísmeygilega - það er reglulegt kaupbréf með nafni Sigurðar míns undir og innsigli, ítem tveggja viðverandi kaupvotta; hann gjörði það frjáls og óneyddur að selja mér kotið.

Ekki veit ég það, hvort það er undirskrifað af mörgum eða fáum, en hvort sem nú heldur er, þá er það nú þetta bréf, sem við ætlum, hjónin, að biðja yður, prestur minn, að skila aftur, við höfum svo lengi átt Hamar, að við ætlum ekki að farga honum, meðan við þurfum þess ekki með.

Og verið þér að gamna yður, Þórdís mín, sagði prestur hálfhlæjandi, ég get ekki verið að gjöra það ónýtt, sem búið er að gjöra vottanlegt og skriflegt; ég held líka, Þórdís mín, að þér þurfið ekki að iðrast eftir þeim kaupum, þetta er ekki sem höfuðbólið sé, hann Hamar, það er túnskikinn þar, sem teljandi er, kotið niður nítt og úr sér gengið á allar lundir - og eins og ég sagði honum Sigurði mínum, þetta var ekki til neins fyrir ykkur gömul hjón að vera að halda í þetta kot, eftirgjaldið til lítilla muna, og því haldið þið, meðan þið lifið, en kostnaðurinn að rétta það við, þegar það losnar; það er orðið til lítils annars en byrðar og andstreymis að eiga þessar jarðir í misjafnri ábúð, hum, hum.

Ef jarðarskinnið er svo ónýtt og einkisvert sem þér segið, prestur minn, sagði Þórdís stillilega, þá er heldur ekki eftir miklu að slægjast.

Annað mál er það, þó mér kynni að verða eitthvað úr kotinu, því ég hef ef til vill þau ráð, sem Sigurður minn ekki hefur, að koma á það viðunanlegri byggingu, þegar fram líða stundir; en bæði er það, að Sigurður minn er enginn eftirgangsmaður, og svo eru þeir skilmálar milli þeirra Þóris, sem hann á bágt með að raska, en að öðru leyti veit ég ekki, hvað ég kynni að gjöra fyrir vild og vináttu, ef þið sæjuð svo mikið eftir koti þessu; hver veit nema ég selji ykkur það aftur fyrir það verð, sem okkur um semur og ég sæi mig vera skaðlausan af.

Mér þykir þér, prestur minn, bjóða góða kosti, þar sem þér segizt ætla að selja okkur það, sem við eigum sjálf og þér eigið ekkert með, ef við ekki verðum rænd rétti okkar, og fyrst ég nú á annað borð er farin að segja það, sem mér býr í brjósti, þá skuluð þér vita, prestur minn, að ég álít það enga sölu, þó þér hafið tælt Sigurð bónda minn til þess að setja eða láta setja nafn sitt undir þetta skjal, sem þér kallið kaupbréf; þér vitið sjálfur bezt, hvernig það atvikaðist, og þarf ég ekki að hafa það upp, svo ég gjöri hvorugum ykkar vanvirðu; en það segi ég yður fullt og fast, að blaðsneypuna vil ég fá til að rífa hana sundur, þá er þessu máli þar með eytt, og þarf þá hvorugur ykkar að hafa vansæmi af, bóndi minn að láta gjöra sig að óvita, og þér, prestur minn, ekki af því að hafa auðgað yður af annarra fávizku.

Presti þótti að sönnu Þórdís taka að gjörast harla djarfmælt, þó virtist Þórdísi honum ekki bregða öðru en því, að í kinnar hans færðist svo sem gómstór blettur af roða og hann fór nokkuð örara en áður að sjúga pípu sína og að humma tíðara en hann var vanur og spýta oftar, en ekki heyrðist á mæli hans, að honum þætti fyrir, og segir hann nú af mestu stillingu:

Ekki er ég maður orðsjúkur, og mun ég láta hvern ræða hér um sem honum líkar; fjarri er því, að ég kalli Sigurð minn í Hlíð óvita, enda hygg ég flestir muni halda það, að hann sé fjár síns ráðandi, og sízt munuð þér verða til þess, heillin góð, að bera á móti því; en hafi hann ekki verið rétt gáður hérna um kvöldið, þegar hann seldi mér kotið, þá átti ég ekki að sjá fyrir því; og það er yður í stuttu máli að segja, Þórdís mín, að ekki læt ég kaupbréfið fyrir Hamri af hendi, en lofi guð mér að lifa, ber ég mig að dragnast suður að sumri og þinglýsa þar kaupinu fyrir kotinu á alþingi, hum, hum, eins og fyrir öðrum parti, sem ég eignaðist um daginn, en alla skilmála mun ég og mínir erfingjar halda, svo sem að láta heiðurlegan og hans standi samboðinn stein á leiði Sigurðar míns og borga yður og erfingjunum það, sem áskilið er.

Þórdís stóð upp skjótlega frá borðinu, og var auðséð, að henni var þungt í skapi, og segir hún, í því hún krækir að sér hempu sinni:

Það mun þá fara um viðskipti okkar, prestur minn, sem drottni þóknast; það getur verið, að yður takist það með prettum og ofríki að koma fram rangindum yðar og svæla út af okkur þessa einu jarðarþúfu, sem við eigum, eins og þér ætlið yður, og segi ég það nú, svo mátulega margir heyra til: Það er líkast til, að fleiri verði yðar fylgismenn, þó illt mál sé, en okkar, sem engan eigum að, þó ég viti, að guð hafi oft gjört það að rétta upp öngla hinna illgjörnu, hversu veiðilegir sem þeir voru, og látið hina ágjörnu draga upp þöngul fyrir þorsk; en fari svo, að þér berið sigur úr þessum málum og vélið af okkur jörðina, þá bið ég yður að njóta eins og þér hafið aflað, en óheimildarmann lýsi ég yður fyrr og síðar að hverri þúfu í Hamars landi, sem þér eignið yður, og það segi ég yður, að kaupbréfið, sem þér svo kallið, tek ég, hvenær sem ég næ því og hvernig sem ég get, þegar ég fæ færi á, og með hvaða brögðum sem ég get.

Því trúi ég dável, sagði prestur og glotti við, ef það lægi á glámbekk, eftir því sem yður hafa farizt orð, Þórdís mín, en það er líklegt, að það vilji svo til, að það verði geymt.

Það er líklegt, sagði Þórdís, þeir þurfa að fela, sem stela.

Við þessi orð gekk Þórdís út úr stofunni mjög skyndilega, og gætti hún þess ekki, að hún hafði skilið eftir hanzka sína og keyri á stofuborði, fyrr en hún kom í bæjardyr, og gat hún þá ekki fengið sér geð til að biðja prest um að lúka upp stofunni, svo að hún gæti tekið þá, og skilur hún þá því eftir viljandi; og er hún kemur út á hlað, sér hún, að Árni vinnumaður stendur þar á hlaðinu, og kallar hún á hann og biður hann að koma með hest sinn þar að stéttinni. Prestur fylgdi Þórdísi út, og sá ekki á honum annað en ekkert hefði milli borið; leiðir þá Árni Dreyra að stéttinni, og segir prestur:

Ég ætla nú, heillin góð, að hjálpa yður á bak, og gengur hann að hestinum. Þórdís anzar því engu, en í sama bili grípur hún annarri hendi um söðulbríkina og setur annan fótinn á fótafjölina og kippir sér svo upp í söðulinn, og kastar þá prestur kveðju á hana og segir:

Farið þér alla tíma vel, Þórdís mín; ég óska yður góðs og manninum yðar.

Í þessu tekur Dreyri til fótanna, en prestur heyrir, að Þórdís svarar upp á kveðju hans, í því hún fór á stað:

Ég óska yður einkis, ég óska yður hvorki góðs né ills.

Eftir brottför Þórdísar gengur prestur aftur til stofu sinnar, og verður honum það fyrst fyrir, er hann þangað kemur, að hann tekur upp úr vasa sínum lykla sína að skápnum mikla, er áður er nokkuð frá sagt. Þar geymdi hann í ræður sínar, en eitt draghólfið í skápnum var ætlað fyrir eignarskjöl prests og önnur áríðandi bréf hans og peninga; sannaðist það því á þessum skáp, sem er þó sjaldgæft, að hann þjónaði jafnt guði og mammoni. Prestur lýkur upp maurahólfinu og tekur þar nokkur eignarskjöl sín og þar á meðal kaupbréfið fyrir Hamri; flettir hann því sundur og les það vandlega og leggur svo niður aftur og brosir í kamp og hummar. Það vitum vér ógjörla, hvað honum hefur þá dottið í hug, hvort það hefur heldur verið sú hugsun, að hann þar hefði safnað sér fjársjóð, sem mölur og ryð gæti ekki grandað, eða hitt, að honum fórst eins og mörgum, sem hafa einhvern þann hlut undir höndum, sem þeir eru miðlungi vel að komnir, að þeir nálega aldrei eru óhræddir um hann, nema þeir alltaf horfi á hann, og hann nú gleddist af því að sjá kaupbréf sitt vel og vandlega geymt.

En af Þórdísi er það að segja, að hún ríður heim til Hlíðar, og var hún allfátöluð á leiðinni og yrti lítið á fylgdarmann sinn. Fyrst, þegar hún skildi við prest, var hún reið mjög, en er nokkuð frá leið, tók hún að hugsa mál sitt, og virtist henni allþunglega horfa, og gjörðist hún heldur ókát; og svo hefur Árni fylgdarmaður hennar frá sagt, að honum sýndist stundum sem hvítt hagl hrjóta af augum hennar, og var hún þá stundum föl sem nár, en stundum setti hana dreyrrauða. Þau Þórdís komu að Hlíð á áliðnum degi, og lætur húsfreyja þá ekki bera á ógleði neinni; segir hún síðar bónda sínum frá viðtali þeirra prests, og kvað hann sér ekki koma það óvart, að svo hefði farið sem hann grunaði. Ekki gjöra þau hjón ráð fyrir málatilbúningi, vissu og ógjörla, hvernig með skyldi fara, en oft hafði húsfreyja um þessar mundir áhyggjur stórar.


25. kafli

Sigurður leggst veikur og andast

Sigvaldi prestur situr nú í búi sínu um hríð eftir samtal þeirra Þórdísar og er hinn glaðasti. En það er nú að segja frá Sigurði í Hlíð, að nokkrum tíma eftir að húsfreyja kemur aftur, tekur hann sótt og þó hæga í fyrstu, og er hann á fótum nokkra daga, svo hann þjáist ekki mjög, en þó kemur svo um síðir, að hann má ekki fylgja fötum, og leggst hann með fullu sjúkur, og elnar honum sóttin dag frá degi. Í þann tíma voru fáir menn á Íslandi, þeir er lærðir voru til læknismenntar eða þá sýslu hefði af konungs hendi að lækna sjúka menn, en margir voru þeir klerkar og leikir menn á landi hér, er fengust við lækningar; höfðu sumir numið þá íþrótt af bókum, en sumir af öðrum mönnum; var það sannast að segja um lækna þessa, sem oft kann verða, að misjafnir sauðir finnast í mörgu fé, voru sumir að nokkru nýtir, en sumir blendu læknisdóma sína ýmsum hindurvitnum og galdrakukli; var það og alltítt um sjúkdóma þá er ekki voru algengir og menn skildu ei orsakir til, að þeir voru kenndir göldrum og gjörningum, sendingum, ættarfylgjum; en við þær meinsemdir, er menn héldu berlega af þeirra völdum, þóttu aðrar tilraunir ekki tækilegri en leita þeirra manna, er líklegir voru til að geta rekið þá fjendur af höndum sér. Draugarnir voru þá annaðhvort settir niður í eitthvert holt eða hraun, gil eða gjótu, og þótti þar jafnan vera reimt síðan, eða menn sendu þá aftur til þess, er í fyrstu hafði beðið þá upp að standa, en sá var oft hinum jafnsnjallur í kunnáttunni, og bar þá svo tíðum til, að þeir sendust svona á draugum, líkt og góðir kunuingjar nú á dögum láta hlaupa bréfmiða millum sín, er þeir geta eigi fundizt. Ekki leitaði Þórdís húsfreyja bónda sínum lækninga, enda voru engir læknar þar í nágrenni, en hún stundaði hann með þeirri kostgæfni og alúð, sem henni var unnt; var húsfreyja margfróð og hafði tekið vel eftir ýmsu, er lækningar snerti, en aldrei hafði hún lagt mikla trú á hindurvitni eða hégóma í þeim efnum; reyndi hún nú og það, er henni þótti líklegast og hún hafði séð við haft í eins háttuðum sjúkdómum sem henni virtist sótt bónda síns. Leið svo fram nokkra daga, að ekki skiptist til batnaðar um heilsufar Sigurðar, en eftir það tók sjúkleiki hans að snúast á undarlegan hátt, mátti hann nú nálega enga værð fá, en þá sjaldan hann fékk svefnhöfga nokkurn, hafði hann drauma illa og vaknaði þá með ráðleysi og órum, fylgdi þar með hræðsla mikil, ofsjónir og ofboð, svo að varla mátti hann haldast í sænginni. Þórdís húsfreyja vakti yfir bónda sínum nætur og daga; bjó hún sér til flatsæng eina fyrir framan rúmstokk bónda og lá þar, svo hún ætti hægra með að gæta til hans, er hann vekti eða þyrfti einhverrar hjúkrunar við. En þegar hana sigraði svefn eða þreyta, að hún gat ekki lengur vakað, tók Sigrún við af henni, og vöktu þær fóstrur þannig til skipta öllum dægrum.

Það var eina nótt um það leyti, sem menn voru flestir gengnir til sængur í Hlíð, að Þórdísi sigraði svefn; tók hún þá nokkur sængurföt og lagði niður í rúm eitt, sem var þar fram á loftinu og jafnan var autt; hugði hún, að hún gæti betur sofnað þar en inn í svefnherbergi þeirra hjóna, og segir hún Sigrúnu að kalla til sín, ef nokkuð beri það til, er hún geti ekki úr ráðið. Og er húsfreyja ætlar niður að leggjast, heyrir hún, að Þuríður kerling vakir; svaf hún þar í næsta rúmi sem fyrri, um þveran gafl, og gjörðist nú gömul mjög, var hún þá hálfáttræð að aldri; hlustar húsfreyja, hvort hún heyri hana mæla nokkuð fyrir munni sér, sem hún jafnan var vön, er hún vakti. Verður hún þess þá vör, að Þuríður les nokkuð fyrir munni sér, og er hún hlerar betur, heyrir hún öll orðaskil og að þetta er kvöldbæn kerlingar, er hún þylur, og var þetta eitt þar af:

Ó, Jerúsalem, upp til þín
       önd langar mín,
þú, sem í gullinu glóir og skín
       með guðvefs lín,
þar muntu birtast börnum þín
   með berjaskrín,
   gleymd er öll pín,
   gleður þau vín,
   já, vín, já, feiti og vín.

Þessu næst býst hún til að leggjast út af, en síðan les hún:

Guðs engil til höfða og fóta
   hef ég mér til unaðsbóta,
Pétur og Páll á miðri mér!
   en marghataður Lussifer
   flæmist aftur fyrir skut,
   já, skut.

Þórdís vill ekki, að Þuríður verði vör við komu sína, og læðist hún ofur hægt og leggur sig í fötunum út af í rúminu, þar sem hún hafði ætlað, og í þann enda rúmsins, sem nær var rúmi kerlingar, svo að ekki var nema brík ein millum þeirra. En þá er kerling hefur lesið þulur sínar, þegir hún um hríð, og verður Þórdís þess vís, að kerling getur eigi sofnað; tekur hún þá að tauta við sjálfa sig í hálfum hljóðum, og heyrir húsfreyja, að það er því líkast sem hún ræði við einhvern og tveir tali saman, og spyr annar, en hinn svarar, og eru í hrókaræðu; og þó að kerling talaði lágt, heyrir hún þó hvert orð, og tekur kerling þá svo til máls:

Hvernig ætla húsbóndanum hérna líði núna?

Og það er allt við það sama, óráðið og ósköpin aðra stundina, hörmungarnar, hrellingarnar og harmkvælin þess á millum.

Er honum leitað nokkurra ráða?

Og það læzt vera að leita honum ráða, já, ráða - en hver eru þá ráðin? Já, það eru ráðin, að þær sitja þarna og rorra uppi yfir honum, en ekki verður því að vegi að reyna til að koma af sér béaðri ei þó sendingunni - fyrirgefðu mér, að ég blóta.

En það mun sumsé ekki eiga að vera sending?

Ónei, ekki vill það heyra það, og þó er það sending; hún gengur hérna eins og grár köttur á hverju kvöldi og lítur öldungis eins út og hún Hamars-Skotta, sem fylgdi Hvammsfólkinu í mínu ungdæmi; já, mikið var þá um draugagang hér í sveitinni, drottinn minn, þá voru þeir hér: hann Móri og hann Goggur og fjandinn hún Hamars-Skotta og liðið, sem henni fylgdi; hún drap einu sinni þar á Lundi fjórar skástu ærnar í húsinu á einni nóttu og sligaði bleikmóalóttan kapal, mesta úlfaldagrip, braut baðstofuhurðina, stal ketinu af ránum úr eldhúsinu og sleikti ofan af trogunum og fór ofan í dallana - kröftugur er hann satan, sá béaður týranni, í börnum vantrúarinnar - fyrirgefðu mér, að ég blóta - þangað til hann Þorvarður heitinn kom henni fyrir og setti hana niður í honum Skrattahvammi; væri hann kominn hér eða annar eins maður, þá væri hann ekki lengi að sjá fyrir þessari sneypu; - og þá var hann Móri fallegur, hann drap nú sumsé kúna á básnum þar á Leiti, nýborna og bráðfeita, en hann setti hann nú niður líka, hann var maður, sem kunni fyrir sér.

En hver ætli nú hafi sent þenna skratta hingað?

Hver nema hann Grímur, hann hefur fengið einhvern til þess.

Þórdísi leiddist að heyra þetta rugl Þuríðar og segir því hátt við Þuríði:

Þú heldur fyrir mér vöku með ruglinu í þér, Þuríður gamla, enda held ég það sé ekki þarflegt hjal, sem þú ert að tauta við sjálfa þig.

Þá segir Þuríður: Þú hefur þá lagt þig þarna, Þórdís mín, ég var ekki að tauta neitt nema bænirnar mínar, eins og ég er vön, kelli mín, og nú fer ég að sofa.

Síðan þagnar kerling, en er hún hafði þagað litla hríð, heyrir Þórdís, að hún tautar enn nokkuð, og segir Þuríður:

Nú les ég seinast bænina um þau sjö Jesú nöfn: Fyrsta Domino, annað Meus, þriðja Messías, fjórða Rabbuni, fimmta Emanuel, sjötta Lávarður, sjöunda Benidictus, öll þessi sjö nöfn set ég yfir mér og undir og allt um kring og milli mín og allra minna óvina og djöfulsins erindsreka; amen.

Að svo búnu sofnaði Þuríður, en ekki varð húsfreyju svefnsamt, og getur hún ekki sofnað og það mest af þeim orsökum, að henni flugu í huga ýmsar hugsanir. Að sönnu lagði Þórdís engan trúnað á ræðu kerlingar og virti það sem óvita hjal og hégilju, en samt gjörði það svo mikið að verkum, að hjá henni vaknaði umhugsun um sjúkdóma bónda síns, og gjörði það henni því meiri óróa, að hún nú var í einrúmi og hún nú setti sér fyrir sjónir, hver endalok veikindi hans kynnu að hafa, og fannst henni þá sem hana óraði fyrir því, að þessi sótt mundi leiða hann til bana. Hún ímyndaði sér sorg sína eftir hann og hver bágindi hún mundi komast í, þegar hún yrði einstæðingur og ætti að berjast við ýmsar þrautir í ekkjustandi. Þá datt henni og í hug, hversu óforsjálega þau hjón höfðu breytt, að þau höfðu ekki neina ráðstöfun fyrir fjármunum sínum, ef annars hvors missti við. Það sárnaði henni og mest að vita, að svo leit út sem meginhluti hinna litlu fjármuna, er yrðu eftir bónda sinn, mundu falla í hendur séra Sigvalda, en þó unni hún honum sízt allra manna nokkurn pening af þeim að hafa, og gramdist henni það, að svo skyldi fara, að hann bæri sigur úr málum þeirra, en beitt slægsmunum einum og prettum. Sigrúnu unni hún mest allra lifandi manna og vildi gjarnan, að hún yrði þess aðnjótandi, sem þau áttu, en til þess sá hún engin ráð, væri og Sigurður bóndi hennar horfinn allri rænu, svo að ekki mætti slíkt við hann ræða. Þessar og þvílíkar hugsanir héldu vöku fyrir Þórdísi alla nóttina, og var hún heldur angurvær. En þegar skammt lifði nætur, sofnar Þórdís, og vaknar hún við það, að stutt var hendi á vanga hennar; er Sigrún þar komin, fóstra hennar, og er þá orðið bjart af degi. Segir Sigrún þá, að Sigurður fóstri hennar sé vaknaður og hafi hann sofið nokkurn veginn vært mestalla nóttina, sé hann nú með ráði og vilji tala við húsfreyju. Þórdís gengur til svefnherbergis þeirra hjóna, situr Sigurður þá upp við herðadýnu, heilsar hann konu sinni, og sezt hún á rúmstokkinn; tekur Sigurður bóndi þá svo til orða:

Guð hefur gefið mér það, að ég hef getað haft góða værð í nótt, ég hef sofið þangað til áðan, litlu áður en þú komst, og hef nú fulla rænu sem stendur, en drottinn má ráða, hvað það verður lengi. En bústu við því, elskan mín, að við eigum nú skamma hríð eftir að vera saman, því svo segir mér hugur, að ég eigi nú ekki langt ólifað; ég hef aldrei lagzt fyrri veikur, og mun þetta verða mín fyrsta og síðasta lega, og þykir mér gott til að hugsa til minnar heimferðar, og dey ég í drottni og er sáttur við heiminn; ég vona, að guð leiði þig og styðji, það sem þú átt enn ólifað.

Þórdís tárfelldi og laut ofan að manni sínum og kyssti hann þegjandi, en Sigurður hélt áfram tölu sinni með ró og stilli og segir:

Það vildi ég, elskan mín, að þú nytir þess litla, sem eftir mig verður, það er ekki til tvískipta, en það gæti þó orðið þér til uppeldis, ef það væri ódeilt, þú getur gjört við það eftir því, sem þér lízt.

Ætlarðu þá ekki til, að það haldist, sem presturinn hermir upp á þig um jarðakaupin?

Ekki vil ég það haldist, því þann gjörning gjörði ég ekki með fullri skynsemi, og það á ekki að standa, sagði Sigurður.

Það skal þá heldur aldrei verða, að hann fái nokkurt hundrað, ef ég má ráða - en þú verður, Sigurður minn, að gá að því, að þú átt ættingja, sem að réttu á að taka arf eftir þig, og þó mér sé svo varið, að ég hefði helzt óskað, að þessar reytur, sem við eigum, færi allar í einn stað - í því varð henni litið til Sigrúnar, er sat þar á rúmi sínu - þá er það þó rétt, sem rétt er, og uni ég því betur, að réttir erfingjar þínir fái það, sem þeir eiga, heldur en þeir, sem ekkert tilkall eiga til fjármuna þinna, en vilja ná þeim með svikum og falsi.

Ég á engan erfingja mér vitanlega annan en hann Þórð bróður minn, og er ég viss um, að hann gjörir ekki tilkall til arfs eftir mig, ef hann veit, að ég hef ánafnað öðrum eigur mínar, áður en ég dey; hann er velmegandi maður, og dregur hann lítið um þessar reytur, sem eftir mig kunna að verða, og svo veizt þú, Þórdís mín, að við einhvern tíma veittum honum litla aðstoð, þó langt sé síðan, og á ég ekki von á, að honum farist svo ómannlega að seilast eftir þessu smáræði.

Þórdís þagði um hríð, eins og hún hugsaði sig nokkuð um, en síðan segir hún:

Mér þykir það nú ekki allólíklegt, sem þú segir, elskan mín, eftir þeirri kynningu, sem ég hef af bróður þínum; en þó þetta sé nú svona talað af okkur, þá þekki ég svo veröldina, að nógir munu verða til þess að segja, eftir það þú ert dáinn, að ég hafi diktað þetta allt upp, ef ekki vita fleiri menn af vilja þínum, og með því þetta er þó þinn vilji, að ég verði njótandi þess litla, sem hér er - guð veit, hvað lengi ég þarf að halda á því - þá er það mitt ráð, að þetta sé gjört skriflegt og vottanlegt, og ef guð sparar þig svo lengi, að bróðir þinn Þórður komi hingað, getur hann þá sjálfur sagt sinn vilja, hvort hann ætlar að kalla til arfs eða ekki.

Það vil ég þá, sagði Sigurður, sem þér sýnist, elskan mín. En ekki er víst, að ég eigi lengi ólifað, og vil ég ekki, að því sé frestað.

Eftir þetta samtal brá Þórdís við, lét hún skjóta hesti undir vinnumann einn og bað hann ríða sem hvatast og hitta Þórð bróður Sigurðar og færa honum þá orðsending, að Sigurður biðji hann að koma til Hlíðar samdægurs; í annan stað sendi húsfreyja boð til næstu bæja við Hlíð og gjörði bændum þeim, er þar bjuggu, orð að koma til fundar við sig. Þórður bróðir Sigurðar bjó að þeim bæ, sem heitir að Holti, það var í næsta hrepp við Staðarsókn og þó ekki mjög langt frá Hlíð. Þórður var nokkru yngstur þeirra bræðra, hafði hann í fyrstu verið félítill, en Sigurður var þá orðinn efnaður vel, og efldi hann bróður sinn mjög til bús; en með því Þórður var framkvæmdamaður góður og búsýslumaður, græddist honum brátt fé, og var hann nú talinn með gildustu bændum þar um sveitir. Þórður brá skjótt við, er hann fékk orðsending bróður síns, og ríður hann til Hlíðar; eru þá og þar komnir bændur þeir, er Þórdís hafði orð til sent. Sigurður var þá enn með fullu ráði. Segir húsfreyja Þórði erindið, og talast þeir bræður síðan við, og fer allt vel á með þeim; segir Þórður sem var, að hann mundi ekki fé skorta, þó hann sleppti öllu arfstilkalli eftir Sigurð, enda mundi ekki sá arfur nema svo miklu, að hann mætti ekki vel af sjá. Kemur þeim það þá öllum ásamt að gjöra skuli bréf þar um; en með því vottarnir þóttust eigi svo ritfærir, að þeir treystu sér til að skrásetja gjörninginn, þá varð húsfreyja sjálf að rita hann og stíla; var hann þess efnis, að Sigurður bóndi gefur konu sinni eftir sinn dag allar eigur sínar, fastar og lausar, og skuli enginn maður annar hafa tilkall til arfs eftir hann, og skuli öll þau gjafabréf, hverju nafni sem nefnist, er þessu væri gagnstæð, ógild og marklaus. Er síðan gjörningurinn upp lesinn fyrir Sigurði, og lætur hann setja innsigli sitt undir hann. Þessu næst ritaði Þórður nafn sitt. undir með þeim formála, að hann fyrir sitt leyti afsalaði sér öllu arfstilkalli eftir Sigurð fyrir sig og sína erfingja, og síðan innsiglaði hann það; en er vottarnir skyldu undirskrifa, þá vottaðist það, að hvorugur þeirra hafði numið svo mikið í leturgjörð, að þeir mættu rita nöfn sín; var þá Sigrún til fengin að skrásetja nöfnin, og handsöluðu þeir þau. Eftir það riðu vottarnir á brott, en Þórðnr dvaldist þar eftir í Hlíð og vildi vita, hver endir yrði á um sjúkleika Sigurðar. Var Sigurður enn málhress það eftir var dagsins, en að aftni tók honum aftur að þyngja, svaf lítið og óvært um nóttina og andaðist næsta dag eftir. Harmaði kona hans mjög lát hans, en bar þó harm sinn með stillingu mikilli.





SEINNI HLUTI




1. kafli

Tilkall prests til Hamars

Skömmu eftir það, að Sigurður var andaður, var maður sendur frá Hlíð til Staðar að segja presti frá, hver tíðindi þar höfðu gjörzt um andlát Sigurðar bónda, og flutti hann presti þau orð frá Þórði bróður Sigurðar, að hann mundi standa fyrir útför bróður síns, og bað hann prest tiltaka greftrunardaginn. Séra Sigvaldi sat í stofu, er honum bárust þessi tíðindi, og urðu honum þau orð af munni, að hann sagði, að guð skyldi vera lofaður fyrir hans lausn, og hummaði við, sagði síðan sendimanni greftrunardaginn og rétti um leið nýjan áttskilding úr vasa sínum að sendimanni með þeim ummælum, að hann skyldi hafa það fyrir ómak sitt og ættu hjú Sigurðar síns heitins jafnan gott skilið. Fjórum dögum eftir það var Sigurður jarðsettur að Stað, og stóð Þórður fyrir útförinni, og fór hún vel fram og erfi drukkið að Stað; komu til þess margir hinir heldri bændur úr sveitinni, en Bjarni á Leiti var einn líkmanna. Sigrún Þorsteinsdóttir stóð fyrir beina með Þórði, en ekki kom Þórdís húsfreyja þangað, og lögðu sumir menn henni það til ámælis, því venja var til, að jafnt fylgdu konur sem karlar ættingjum sínum og venzlamönnum til greftrunar, en Þórdís lét sem hún heyrði það ekki, hvað menn töluðu þar um, og sat heima. Þegar við erfidrykkjuna minntist prestur á við Þórð, hvort honum væri eigi kunnugt um kaup þeirra Sigurðar heitins á Hamri og að sú jörð mundi því ekki koma til virðingar eður arfaskipta eftir Sigurð. Þórður eyddi því umtali og kvað nógan tíma til að tala um það síðar, og sleppti prestur þeirri umræðu að sinni, enda sýndist honum það ráð að ýfast ei til við Þórð, að minnsta kosti áður hann hefði greitt líksöngseyrinn, fékk prestur hann og með góðum skilum og allríflegan. Ríður nú hver heim til sín eftir erfið. Líður nú svo fram um hríð, að prestur situr í búi sínu, og gjörist ekkert til tíðinda.

En er rúmur hálfur mánuður var liðinn frá jarðarför Sigurðar, býst prestur að heiman og hefur með sér tvo landseta sína þar af næstu bæjum. Ríður hann fyrst til Hamars og hittir þar Þóri bónda úti og segir honum:

Svo er, Þórir bóndi, sem þú munt heyrt hafa, að ég er orðinn eigandi að Hamri; nú vil ég segja þér, að skilmálar ykkar Sigurðar um ábúð þína og upphæð jarðarafgjalds vil ég, að haldist. Landskuldina borgar þú mér, Þórir minn, í fardögum í vor, og gjöri ég ekki aðra breytingu á henni en þá, að ég vil hún sé öll í fríðu, í stað þess þú galzt Sigurði heitnum sextíu álnir í ótilteknu og þrjátíu pör af lesi, smjörið er sjálfsagt að venju tíu fjórðungar eftir fimm kúgildi jarðarinnar, velverkaðir til mín reiddir fyrir næstkomandi Mikaelismessu.

Þórir kveðst ekkert til vita um það, að Sigurður hefði selt presti Hamar, og svo mundi hann að venju flytja leigur og landskuld að Hlíð, nema ekkjan segði sér annað við að gjöra.

Prestur spurði Þóri, hvort hann rengdi það, sem hann segði, að hann væri orðinn eigandi Hamars. Þórir kvaðst hvorugt gjöra, en álíta mundi hann Þórdísi í Hlíð landsdrottin sinn, þar til hún segði, að hún væri búin að selja Hamar. Prestur sagði, að hann réði gjörðum sínum um það - en því lýsi ég yfir, segir hann, svo að þessir menn heyra, sem hér eru við staddir, að greiðir þú mér ekki landskuldina í fardögum, ítem sýnir þig ekki hlýðinn og auðsveipinn, eins og einum góðum, ærlegum landseta byrjar og hæfir við sinn landsdrottin, þá óheimila ég þér jörðina Hamar, liggjandi í Staðar sókn, til allra nota og afnytja.

Þórir kvað sig litlu varða, hver orð prestur hefði hér um, og gekk inn, en prestur sté á bak hesti sínum, og varð fátt um kveðjur þeirra Þóris.

Biður prestur fylgdarmenn sína ríða til Hlíðar, og gjöra þeir svo. Ekki var manna úti í Hlíð, og skipar prestur fylgdarmönnunum að berja dyra. Kom vinnukona ein til dyra, og biður prestur hana segja húsfreyju, að hann sé þar kominn og vilji finna hana; gengur Þórdís húsfreyja út og heilsar presti og vísar honum til stofu og svo þeim fylgdarmönnum hans; situr prestur þar um hríð, og lætur Þórdís Sigrúnu veita þeim beina, en sjálf situr hún í stofu og ræðir við gesti. Er prestur allblíður á mann við Þórdísi, kveðst hann vera þar kominn til að vita, hvernig hún berist af eftir þann mikla mannskaða, er hún hafi orðið fyrir í láti bónda hennar, og fer hann þar um mörgum fögrum orðum, hve mikil eftirsjá sér og öðrum hreppsmönnum sé að svo ágætum manni sem Sigurður hafi verið. Þórdís játti því, sem prestur sagði, en auðséð var þó á henni, að ekki fannst henni mikið til fagurgala prests. Snýr prestur þessu næst ræðu sinni í þá átt, að hann spyr húsfreyju um fyrirætlun hennar og hvort hún hafi í hyggju að halda áfram búskap eða segja Hlíð lausri og svo um það, hvern hún hafi í hyggju að taka sér til ráðuneytis eða lögráðanda, og lét prestur á sér heyra, að hann mundi ekki ófús til þess starfa, ef hún æskti þess. Þórdís svaraði presti hægt og stillilega, kvaðst hún litla fyrirhyggju hafa um hagi sína að svo stöddu; þó mundi það helzt verða, að hún reyndi til að hokra eitt ár enn þá og ekki segja Hlíð lausri hið næsta árið; en þar sem prestur léti á sér heyra, að hann mundi gjörast lögráðandi hennar, þá kveðst hún kunna honum þakkir fyrir tilboð sitt, og væri gott að eiga þess von síðar, ef hún leitaði þess. Þegar prestur hafði staðið nokkra stund við í Hlíð og notið beina þess, er framborinn var, fer hann að sýna á sér ferðasnið, tekur til hatt sinn og vettlinga og lætur sem hann ætli nú þegar á brott. Húsfreyja var í stofu, og vindur prestur sér þá að henni og segir:

Eftir á að hyggja og að að gá, ég var nærri því búinn að gleyma nokkru af erindinu; ég kom hérna, Þórdís mín, með það, sem þér eigið hjá mér, það mun vera kominn tími til að losa sig við það.

Þórdísi setti dreyrrauða út undir eyru, og var sem hana undir eins óraði fyrir, í hverjum erindagjörðum séra Sigvaldi væri þar kominn. Hún lét samt sem sér yrði ekki bilt við og segir:

Þér eruð eitthvað að gjöra að gamni yðar, prestur minn, núna, ekki skil ég í, hvað það getur verið, sem ég á hjá yður. Það mun heldur vera svo, þegar öllu er á botninn hvolft, að þér eigið eitthvað hjá mér; það kemur ætíð einhvern tíma að skuldadögunum fyrir þá, sem eiga að gjalda öllum stéttum, og þér munuð, sem von er, vilja, að ég sýni einhvern lit á að gjalda yður, eins og vant hefur verið, um það vorar.

Já, tölum ekki um það, Þórdís mín, það hefur allt verið með heiðri hingað til, en ég heyri þér skiljið mig ekki, ég kom hérna með skildingana, sem þér áttuð hjá mér.

Margur er ríkari en hann hyggur, sagði Þórdís og hló við kuldahlátur, ekki hugsaði ég það, að við hjónin hefðum átt peninga í geymslu hjá yður, prestur minn.

Það eru peningarnir fyrir partinn, ég á við Hamarinn, sem hann Sigurður minn sálugi seldi mér og ég fór að rænast eftir að kaupa í haust; það er, eins og þér vitið, sextíu ríkisdalir, og ég ætla að losa mig við þá, áður en ég eyði þeim, hum, hum.

Ekki tel ég til neinnar skuldar, prestur minn, fyrir Hamar, sagði Þórdís, njótið þér peninga yðar, ekki mun ég ágirnast þá, en hitt hef ég einhvern tíma sagt yðar áður, að Hamar munduð þér aldrei eignast, meðan ég tóri, að minnsta kosti ekki með réttu.

Það hefur nú hvort okkar sína meiningu um það, Þórdís mín, hum, hum, en þér vitið þó, að ég hef í höndum afsalsbréf mannsins yðar sáluga fyrir kotinu, hum, hum, og ætla ég mér muni duga við yður og Þórð minn í Holti, hum, hum, sagði prestur.

Ekki þurfið þér að minna mig, séra Sigvaldi, á einstæðingsskap minn, veit ég það, að ég er ekkja og á engan að; samt vantreysti ég því ekki, að guð geti ekki vakið einhvern upp til þess að veita mér liðsinni, hefur það og verið sagt, að illa sezt oft ofsinn, sagði Þórdís, og sáu menn þá tár hrutu af augum hennar, líkast sem högl væri.

Það sáu menn, að presti brá heldur en ekki við þessi orð, af því að þá tók hann að velta tuggunni hraðara í munni sér en hann var vanur; svaraði hann þó af mestu stillingu og segir:

Ekki tek ég þessi orð til mín, Þórdís mín, annað mál er það, þó ég vilji, að orð og gjörðir haldist og Sigurður minn sé ekki gjörður ómyndugur í gröfinni, eins og hann hefði ekki verið fjár síns ráðandi, meðan hann lifði; og kemur þetta víst til af því, að þér þekkið ekki rétt, hvernig á stendur og hvernig kaupbréfið er lagað, enda skuluð þér nú fá að heyra það, því ég hef hér afskrift af því í vasa mínum.

Þórdís kvað sér standa á sama, hvort hann læsi það eður ekki; dró þá prestur úr vasa sínum skjal nokkuð og las, og var það þannig:


Anno Domini 17.. framfór og fullgjörðist að Stað svolátandi sala á jörðinni Hamri, að ég undirskrifaður gjöri kunnugt öllum, sem þetta mitt bréf heyra og lesa, að ég sel hér með frá mér og mínum erfingjum eignar- og óðalsjörð mína og konu minnar, Hamar, liggjandi í S....hreppi, 30 hundruð að dýrleika, með 5 ásauðar kúgildum og eins hundraðs og tuttugu álna landskuld, samt öllu, sem téðri jörð fylgir og fylgja ber, og þeim landamerkjum, sem að fornu verið hafa og vera eiga, heiðurlegum prestinum séra Sigvalda Árnasyni til Staðar fyrir 120 ríkisdali, er skulu af honum betalaðir verða að mér afgengnum upp á þann máta, að einn fjórðapart eður þrjátíu ríkisdali lúki hann til nafna míns Sigurþórs, sem er sonur áður umgetins séra Sigvalda, hverjir honum af mér eftir minn dag gefnir eru sem ein órjúfanleg testamentisgjöf; öðrum fjórðapart eður þrjátíu ríkisdölum andvirðisins beheldur velnefndur séra Sigvaldi fyrir sig, en skuldbindur og obligerar sig og sína erfingja til eina heiðurlega grafskrift eftir mig að láta foranstalta og hana síðan í gylltum römmum í kirkjuna hér á staðnum láta upphengja. Loks borgi hann sextíu ríkisdali til konu minnar og annarra minna löglegra erfingja. Meðan ég lifi, áskil ég mér að hafa öll umráð téðrar jarðar, ágóða og prófit, án alls tilkalls af kaupanda. Segi ég svo velnefndan séra Sigvalda héðan af réttan eiganda að jörðunni Hamri, riftalaust af mér og mínum erfingjum. Hér á mót lofa ég, séra Sigvaldi Árnason pastor loci, fyrir mig og mína erfingja alla framanskrifaða skilmála í öllum þeirra puncter og clausulis að uppfylla.

Setjum við svo þessu okkar kaupbréfi til staðfestingar nöfn okkar og hjáþrykkt signeti að nærverandi þeim dándismönnum, heiðurlegum hreppstjóra Ögmundi Jónssyni og heiðurlegum bónda Erlendi Bjarnasyni.

actum ut supra.

Sigurður Jónsson
(L.S.)
Sigvaldi Árnason
(L. S.)
Ögmundur Jónsson hreppstjóri
(L.S.)
Erlendur Bjarnason
(L. S.)


Bréf þetta las prestur stillt og hægt, en Þórdís húsfreyja hlustaði á, og sáu menn henni ekki bregða. En er prestur hafði lesið, réttir hann bréfið að Þórdísi og segir hálfglottandi:

Viljið þér ekki lesa það sjálf, heillin góð, en ábyrgjast skal ég, að rétt sé eftirritið, og órigínalinn hef ég hjá mér heima vel geymdan, hum, hum; haldið þér, að það sé svo illa um búið, að því verði hnekkt, eða hvað virðist ykkur, vinir? segir hann við fylgdarmenn sína, og sögðu þeir, að sér sýndist sem presti, að ekki mundi hægt að vefengja það. Tekur þá prestur í annað skipti að þreifa til kjólvasa síns, og dregur hann þar upp sjóð ekki alllítinn og setur á borðið, leysir frá, en segir síðan:

Hér er þá ekki annað eftir en telja yður peningana, Þórdís mín, en þessa heiðursmenn, sem hér eru nærstaddir, hef ég beðið að vera við og sjá, að ég afhendi yður þá - og hellti síðan peningunum á borðfð og ætlaði að fara að telja. Þá stóð húsfreyja upp, gengur fram á mitt stofugólfið og segir til fylgdarmanna prests:

Þar sem sóknarpresturinn hefur tekið ykkur hingað til að vera vitni sín við afhendingu peninga, þá er það sjálfsagt, að þið vitnið um það, sem þið sjáið og heyrið, og lýsi ég því þá yfir í ykkar áheyrn, að ég ekki tek við nokkrum skildingi af honum í því skyni, að það sé andvirði fyrir Hamar; og svo megið þið hafa það eftir mér, að ég lýsi séra Sigvalda óheimildarmann að hverri þúfu í Hamars landareign; en þóknist yður, prestur minn, að vera hér í stofunni og yfirlíta fjársjóði yðar um stund, þá er yður það heimilt, en ekki stend ég lengur hér, þar eð ég hygg, að þér hafið aflokið brýnasta erindinu, fyrst að hugga mig, eins og yðar embætti heyrði til, eftir lát mannsins míns, og þar næst að sýna mér lítil deili þess, hvað þér eruð óeigingjarn og hvers ég má vænta í mínum einstæðingsskap; en ég fer nú að kasta bót á peysuna mína, sem ég hætti við, þegar þér komuð, og það ætla ég mér þarfara.

Þegar húsfreyja hafði sagt þetta, gekk hún úr stofunni, en læsti henni ekki eftir sér.

Meðan húsfreyja lét dæluna ganga, stóð prestur sem agndofa, og varð honum orðfall, en er hann sá Þórdísi ganga úr stofunni, kallaði hann eftir henni, en hún var þá þegar burtu. Prestur hugsaði nú líklega, að húsfreyja mundi vonum bráðara koma aftur og fékkst ekki um, raðar hann peningunum á borðið og telur þá vandlega; eftir það gengur hann um hríð um gólf í stofunni, en er honum tók að lengjast um afturkomu húsfreyju, ræðir hann til við annan fylgdarmann sinn, að hann gangi til baðstofu og kalli á hana. Sá fór, er sendur var, og kemur hann að lítilli stundu liðinni og segir, að Þórdís finnist ekki og ekki viti heimilismenn, hvað af henni hafi orðið. Er hennar nú leitað úti og inni, og fannst hún ekki að heldur. Meðan á leitinni stóð, gekk séra Sigvaldi fram og aftur um gólf í stofunni og var heldur þungt í skapi; tuggði hann nú svo ákaft tóbakið í munni sér, að undrum gegndi, og spýtti um tönn sér svo ótt, að stórir straumar af tóbakslegi kvísluðust um allt gólfið eins og ár í leysingu yfir sléttar eyrar, en tuggurnar, sem hann kastaði jafnóðum út úr sér á gólfið hálfnotuðum, lágu þar eins og stóreflis jakar, þegar stórstraumsflóð hefur brotið axlarháan móð á vordag og kastað honum upp á sjávargrundir, en sjórinn síðan fallið aftur út undan.

Loks komu fylgdarmenn prests aftur í stofuna og sögðu þess enga von, að Þórdís fyndist, mundi hún vera hlaupin til næstu bæja. Þegar prestur heyrir þessar fréttir, seilist hann með hendinni ofan í vestisvasa sinn og dregur þar upp enda nokkurn af rullutóbaki og stýfir af honum góðan þumlung og veltir í munni sér, gengur síðan að borðinu og sveiflar í skyndi peningunum saman og hirðir, en segir síðan við fylgdarmenn sína:

Þið hafið þá verið vitni til þess, að ég hef framboðið Þórdísi peningana - þeir kváðu já við því - og svo, að hún hefur neitað að taka á móti þeim að þessu skipti; tek ég þá því aftur, en grunur minn er sá, að ég svo aðeins frambjóði þá næsta sinn, að hún sjái sér sæmra að veita þeim viðtöku, ella hafa ekkert.

Síðan tekur prestur hatt sinn og vettlinga og kveður fylgdarmenn sína til brottferðar, og ríða þeir svo heim til Staðar við svo búið.


2. kafli

Ráðagjörð þeirra fóstra

Ekki var svo sem fylgdarmenn prests hugðu að Þórdís húsfreyja hefði stokkið á aðra bæi, þó hún fyndist ekki, er hennar var leitað. Þar í Hlíð var gangaloft eitt lítið, sem haft var til þess að geyma í ýmislegt. Þangað hafði húsfreyja farið, á meðan á leitinni stóð. Sigrún vissi gjörla, hvar fóstra hennar var, en vildi ekki segja til hennar. En er þeir prestur voru fyrir stundu burt riðnir, gengur Sigrún til loftsins að vitja fóstru sinnar; situr Þórdís þá á kistu, sem var þar í loftinu, og styður hönd undir kinn, og sér Sigrún, að hún grætur; gengur hún þá til hennar og ávarpar hana blíðlega og segir:

Æ, það liggur þá eitthvað illa á yður, fóstra mín góð, og klappar um leið á kinnina á fóstru sinni.

Æi, nei, nei, sagði Þórdís og strauk um leið tárin úr augunum á sér, það er ekkert, elskan mín, ég hristi það fram af mér, en maður getur ekki allténd að því gjört, þó það hvarfli eitthvað að manni í einrúmi; mig gildir einu, hvað þú heyrir og sér, fóstra mín, en ekki er það eftir skapi mínu að lofa heiminum að hafa tárin mín að leikfangi, og þó er ég ekki það harðgerðari en allir aðrir, að ég geti ekki grátið. Reynslan hefur kennt mér að það er lítið lið í því að vola framan í veröldina: hún hæðir þann, sem hefur einhverja tilfinningu, en heiðrar þann, sem er tilfinningarlaus. Þegar ég var á þínum aldri, fóstra mín, þá grét ég af öllu, hvað lítið sem á bjátaði, allt eins og grösin, sem digna upp, undir eins og dregur fyrir sólina; nú er ég eins og steinarnir, sem verða aðeins þvalir á næturnar; þegar ég er í einrúmi eða leggst út af og get ekki sofið, þá verður mér það, að ég hugsa um hagi mína og einstæðingsskap, og þá get ég grátið, þegar guð sér það, en ekki mennirnir.

Um leið og Þórdís sagði þetta, strauk hún aftur með svuntuhorninu um augun á sér, og allt í einu var eins og hún væri orðin annar maður; segir hún þá, eins og hún vildi eyða þessu umtali, blátt áfram við Sigrúnu:

Þeir munu vera farnir, presturinn og fylgdarmenn hans?

Já, sagði Sigrún, þeir eru komnir á stað fyrir góðri stundu; þeir voru lengi að leita að yður, en ég sagðist ekki vita, hvar þér væruð, af því mig grunaði, að yður gilti það einu.

Það var rétt gjört, Sigrún mín, ég þóttist vera búin að tala við hann það, sem ég ætlaði; en ég þarf að segja þér, hvað hann var að erinda, góði maður; hann kom sumsé hingað með peninga fyrir Hamarinn, sem hann ætlaði að troða upp á mig: svo það er auðséð, að honum er alvara, blessuðum, að krækja í kotið, og það er líklegast, að honum takist það; það sér á, að ég er kvenvæfla og á engan að og sízt nokkurn þann, sem hefur vit og kjark til að rétta hluta minn, en svo er mér varið, Sigrún mín að heldur vildi ég vita það, að verðið hans Hamars gengi í málskostnaðinn, en að hann séra Sigvaldi eignaðist nokkurn tíma eina þúfu í honum, því hann hefur farið að þessu öllu með ágirni og prettum.

Það er von þú segir það, fóstra mín góð, sagði Sigrún, æ, mér er svo illa við béaðan karlinn, að hann skuli vera að þessu við yður, ég vildi hann væri dauður, karlskrunkan.

Óskaðu þess ekki, elskan mín, sagði Þórdís, biddu heldur þess, að hann væri orðinn guðs barn, það væri honum þarfara.

Tókstu við peningunum af honum? sagði Sigrún.

Nei, nei, ekki er ég farin til þess enn þá, Sigrún mín, og ég mun varla, fara til þess fyrst um sinn; það skal verða annaðhvort um það, að hann aldrei fái Hamar, ellegar þá, eins og honum er kærast, að hann njóti hans fyrir ekkert; það var raunar vilji minn, ef allt fer eins og áformað er fyrir þér, fóstra mín, að einhver annar en séra Sigvaldi yrði aðnjótandi Hamars, en það lítur svo út sem það uppfyllist ekki, þó ég hafi eitthvað hugsað.

Sigrúnu rofaði í, hvað fóstra hennar átti við, og segir:

Viljið þér ekki, fóstra mín, skrifa honum til og láta hann vita um þetta; ég er viss um, að hann vill styrkja yður, svo sem hann getur.

Hverjum, áttu við, Sigrún mín?

Ég átti við þú skrifaðir honum Þórarni til, sagði Sigrún og blóðroðnaði út undir eyru.

Já, sagði Þórdís, hann er nú langt í burtu, og svo er hann bundinn í báða skó, sem maður segir, þar sem mágur hans á í hlut; en ekki er það þar fyrir, skyldastan held ég hann vera til þess að styrkja mig, því ekki er það annars vegna, að mig langar til að halda í jarðartetrið, en að þið gætuð notið hennar, og svo lízt mér á Þórarin, og þekki ég hann lítið, sem hann muni ekki láta hluta sinn fyrir öllum, ef hann annars tekur það í sig; en hvernig á ég að koma bréfi til hans, Sigrún mín?

Ég held það væri bezt, sagði Sigrún, rétt að senda til hans eður þá að biðja einhvern, sem fer héðan úr sveitinni til útróðra, fyrir það.

Já, ég ætla að ráða það af að skrifa honum, sagði Þórdís og hugsaði sig um dálitla stund, já, ég ætla að ráða það af, til hvers sem það verður; ég ætla að senda það með honum Gísla á Grundum, ég veit hann tekur af mér miða, þegar hann fer suður, og hann er trúr og ráðvandur.

Þær fóstrur töluðu nú þetta mál, og varð það ráð þeirra að rita Þórarni og segja honum, hvar komið sé; skrifaði Þórdís sjálf bréfið; segir hún honum fyrst frá láti Sigurðar bónda síns og hver harmur sér hafi verið í missi hans. Síðan tjáir hún honum frá kaupmála þeirra Sigurðar heitins og prests og hvernig það hafi atvikazt og að prestur telji nú Hamar orðinn sína eign; biður hún Þórarin ásjár um sitt mál, og að lyktum lætur hún Þórarin ráða í, að það sé ætlun sín, að hann verði aðnjótandi þeirra efna, er hún eigi, ef hann eigi Sigrúnu, eins og ráð sé fyrir gjört, og ræður hún honum að koma norður um vorið og taka við búi í Hlíð, þar til honum verði veitt brauð. Sigrún ritaði og Þórarni bréf eigi allstutt, en ekki er þess getið, hvert efnið var. Líður nú fram veturinn, og gjöra þær Hlíðarfóstrur Gísla á Grundum orð að finna sig, áður hann fari suður til róðranna, og heitir hann því að fara ekki svo suður, að hann finni þær ekki áður.


3. kafli

Eftir viðskipti þeirra Þórdísar sat séra Sigvaldi í búi sínu og söng messur, sem venja hans var til; og líður nú fram til jóla, svo að ekki ber til tíðinda annað en það, að í Staðarhrepp kom upp orðasveimur nokkur og fór þó í fyrstu allhljótt. Var það nú sagt um Sigrúnu í Hlíð, að hún væri ekki óhindruð eða færi ekki kona ein saman. Þóttu þetta ekki alllítil tíðindi, því Sigrún var talin einhver hin fríðasta og efnilegasta stúlka í sveitinni. Fregn þessi fór bæ frá bæ hraðara en hersaga, og fylgdi þar með sá kvittur, að Egill sonur Gríms meðhjálpara mundi vera þar viðriðinn, þó að allólíklega hefði látið verið af því Hlíðarfólki. Enginn vissi, hvaðan þessi orðasveimur var í fyrstu kominn; sögðu nokkrir, að þeir hefðu frétt það fyrst á staðnum, en aðrir þóttust hafa heyrt það af heimilisfólki í Hlíð. Enginn maður heyrði séra Sigvalda nokkurn tíma segja frá þessu, en jafnan, er einhverjir utanbæjarmenn komu að Stað, spurði hann þá meðal annarra frétta á þá leið: Ætli það sé satt, ótætis kvisið, sem menn eru að fleygja hérna í sveitinni, að það sé fjölgunar von þar í Hlíð? Ef nú svo bar undir, að gestur kvaðst hafa heyrt eitthvert hop á um það, kvað prestur jafnan svo að orði, að þetta mundi ekki vera annað en mas og tilhæfulaus þvættingur, og hélt langa og fagra ræðu um það, að varlega væri trúandi öllu, sem sagt væri, en á endanum var þó sú niðurstaðan, að hann sagðist ekki vita, hverjum hann ætti að trúa, þar eð svo margir sannorðir menn, sem hefðu séð Sigrúnu, fullyrtu það, að hún væri ekki einsömul. Aftur á móti, ef gestur þóttist ekki hafa heyrt neitt um þenna orðasveim, sagði prestur: Nú, það var líklegra, að það væri ekki nein tilhæfa í því, sem fólkið er að slaðra, fyrst þú hefur ekki heyrt það, ég trúði því heldur ekki, góðurinn minn, en því er verr og miður, altalað er það. Engir, sem komu að Stað, fóru því að öllu jafnnærir um þenna orðasveim; þeir, sem höfðu heyrt áður einhvern ávæning af honum, staðfestust í trúnni á því, að hann mundi ekki með öllu orsakalaus; hinir, sem ekkert höfðu áður um þetta heyrt, fengu nægilegt nesti til næsta bæjar. Fór nú þessi fregn um sveitina, en eins og tíðum verður, þegar einhver tilhæfulaus þvættingur er borinn bæja á milli, voru það sumir, sem lögðu trúnað á hann, en aðrir báru það til baka eða létu sér á litlu standa, hvort sannara væri. Það var hvorttveggja, að þær Hlíðarfóstrur ekki komu á marga mannfundi þá um veturinn eða áttu mikið tal við utanbæjarmenn, enda barst þetta ekki fyrir eyru þeirra.

Á jóladaginn var messað að Stað, og fór Sigrún þá til kirkju ásamt nokkru af heimilisfólki frá Hlíð. Frost var mikið um daginn, og sló kulda að Sigrúnu í kirkjunni, og var hún allóbragðleg í andliti, eftir því sem hún átti að sér að vera. Eftir messuna fór hún bráðlega á stað, en sumt af kirkjufólki fór í baðstofu og drollaði eftir. Var Guðrún ráðskona allskrafhreifin við kvenþjóðina, og kom ræðan mest niður á Sigrúnu. Spurði hún að, hvort enginn hefði tekið eftir, hvernig Sigrún frá Hlíð hefði litið út í dag; það væri ekki að marka, sem sér sýndist, en svo hefði hún komið fyrir sínar sjónir, að annaðhvort hefði hún verið veik eða öllu væri ekki logið, sem um hana væri sagt. Flestar, sem við voru, glottu við og sögðu, að það mundi ekki hafa verið hún ein, sem hefði tekið eftir því, hvernig Sigrún leit út. Séra Sigvaldi gekk um gólf á baðstofulofti, þegar Guðrún hóf umræðuna, og reykti; hann lagði ekki í fyrstu til málanna, en glotti við og hummaði í hljóði, en segir síðan við Guðrúnu:

Þú áttir, systir góð, ekki að hafa þetta hjal, það er ekki vert að trúa þessum þvættingi; maður má ekki trúa helmingnum af því, sem sagt er; þið áttuð ekki, systur, að hneyksla stúlkuna fyrir það, að hún er föl, hum, hum, þar til geta verið margar orsakir; satt var það, undarlega bragðlaus var hún í dag, hum, hum. - Eftir þetta gekk prestur í burtu.

Líður nú svo fram yfir nýjár, og býst Gísli á Grundum til suðurferðarinnar. Kemur hann að Hlíð og segir Þórdísi, að nú muni hann taka við bréfi því, er hún hafi beðið hann að bera suður, því ferðinni sé heitið hvern dag, sem veður leyfi. Ekki var Gísli svo kunnandi, að hann gæti lesið kveðju á bréfi; samt sem áður þótti hann manna skilsamastur með allt, er sent var með honum, og var oft í sendiferðum með bréf og peninga, og fórst honum það jafnan vel og liðmannlega; hafði hann þó oft 20 eður 30 bréf undir höndum. Það var venja hans, ef einhver beiddi hann fyrir bréf, spurði hann þann, sem sendi það, hvert það ætti að fara og til hvers; síðan skoðaði hann bréfið í krók og kring, gáði að, hvað það var stórt, hvernig lakkið væri fyrir því, lagði það síðan niður í skjóðu sína og sagði: Það skal koma til skila. Enda brást það aldrei, að ætti hann einhvers staðar að skila bréfi, leysti hann frá skjóðu sinni og skoðaði hvert bréf og tók jafnan það bréfið, sem hann átti að skila, leit utan á það og rétti að þeim, sem við átti að taka, og sagði síðan: Þetta var ég beðinn að fá þér - eða: Þetta bréf á hingað að fara - og stóð það þá heima. Héldu því allir, sem ekki voru Gísla því nákunnugri, að hann væri fljótskarpur og fluglæs, en allir nákunnugir vissu, að það var ekki, heldur hitt, að Gísli var svo glöggur á kveðjur sem sauðglöggvasti smali á kindur, sem undir eins þekkir kindina af sauðbragðinu og svipnum, þó hann sjái ekki eyrun eða markið.

Þórdís gjörir nú Gísla góðan beina, en síðan fær hún honum bréfið og segir:

Hérna er nú bréfið, sem ég ætla að biðja þig fyrir, Gísli minn, og ég ætla að biðja þig að láta fara vel um það, það er raunar ekkert í því, sem allir mega ekki vita, en það er svo samt, að ég vildi, að það kæmist áfram með skilum, Gísli minn, og því ætlaði ég ekki að senda það með öðrum en þér, því ég veit, að það má biðja þig fyrir lítilræði.

Og jæja, Þórdís mín, það skal verða eitthvað til um það, en hvert á það nú sumsé að fara?

Það á að fara til hans Þórarins prestsmágs, hann beiddi mig um lítilræði í haust, þegar hann kom hér; þú kemur þar víst við?

Og það hef ég ásett, Þórdís mín, það er rétt í leiðinni, og svo þekki ég hann dálítið, síðan hann var hérna í sveitinni.

Þú fær honum þá bréfið, sagði Þórdís, og heilsaðu honum um leið frá mér og þar með, að mig langi til einhvern tíma að fá seðil frá honum aftur.

Ég skal segja honum það, sagði Gísli og skoðaði bréfið í krók og kring og stakk því á sig, þú munt frétta einhvern tíma, hvort það kemur ekki fram.

Við þetta slitu þau Þórdís og Gísli talinu; fór Gísli heim að Grundum um kvöldið. Séra Sigvaldi á Stað hafði einnig gjört Gísla boð, að hann færi ekki svo suður, að hann tæki ekki af sér bréf, og hét Gísli því; bjó hann sig nú að heiman, daginn eftir að hann fór að Hlíð; ætlar hann þá svo til, að hann komist um kvöldið að Stað, af því það var í leiðinni, taka þar bréfin og halda svo á stað. Hann hemur að Stað og hittir séra Sigvalda, og er honum þar vel fagnað; biður prestur hann að vera þar um nóttina, segist prestur ekki hafa vænt hans svo snemma, og sé hann ekki búinn að rita það, er hann ætlaði. Er prestur hinn blíðasti við Gísla og vísar honum til stofu; ræðir hann nú við hann um hitt og þetta og spyr hann meðal annars, hvort hann muni ekki koma að B... og hitta Þórarin mág sinn, ætli hann einnig að biðja hann fyrir bréf til hans. Gísli kveðst þar mundi koma, því hann hafi bréf til hans, sem hann hafi verið beðinn fyrir.

Frá Hlíð, vænti ég, sagði prestur og hummaði við.

Já, það er þar af bæjunum, sagði Gísli.

Já, hún gat þess við mig, hún Þórdís mín, um daginn, að hún þyrfti að skrifa honum Þórarni mínum til, og var búin að biðja mig að klóra það fyrir sig og láta sig vita, ef ferð yrði suður; ég þori ekki annað en gjöra henni orð í fyrramálið, þú staldrar þá við svo lengi, Gísli minn, fyrir mig?

Ég held þess þurfi ekki, sagði Gísli, ég kom þar í gær.

Og hún vissi af, að þú ætlaðir suður? sagði prestur.

Meir en og margfaldlega, því ég kom þar í gær og sagði henni, að ég færi suður.

Það er þá gott, sagði prestur, og hún hefur líklega beðið þig fyrir bréfið?

Já, það á að vera einhvers staðar bréfmiði hjá mér frá henni, sem ég lofaði að koma áfram, ef ég verð ekki svikari fyrir það.

Prestur lézt verða harla glaður, að svo væri, svo að hann þyrfti ekki að senda til Þórdísar, mundi hún hafa fengið einhvern annan til að skrifa fyrir sig. Spurði hann nú Gísla frétta úr Hlíð og hvernig Þórdís sín mætti; kveðst Gísli ekki hafa orðið áskynja annars en hún væri heilbrigð, og lýsti prestur því yfir, að sér væri stór gleði að heyra það. Þá spurði prestur, hvort Gísli hefði séð Sigrúnu fósturdóttur Þórdísar. Ekki kvaðst Gísli hana séð hafa. Prestur hummaði við og sagði:

Hún mun ekki láta sjá sig, stúlkan, mikið, þegar utanbæjarmenn koma þar, ef það er satt, sem farið er að kvisa um, eða hefur þú ekki heyrt það eins og aðrir, Gísli minn, að hún eigi ekki að vera ósjúk?

Gísli kveðst ekki bera á móti því, að hann hefði heyrt því fleygt, en aftur hefðu þó sumir borið á móti því, og héldi hann það orðum aukið; áttu þeir nú tal um þetta um hríð, en svo lauk þó samtali þeirra, að Gísli var orðinn þess fulltrúa, að svo mundi vera sem prestur sagði og altalað var. Áréttaði séra Sigvaldi með því, að hann sagði:

Ekki er það fyrir það, Gísli minn, að ég vilji koma því á loft, mér þætti vænna um, að það væri ósatt um hana, stúlkutetrið, en því mun nú vera verr og miður, hum, hum. En nú ætla ég bezt fyrir mig að fara að skrifa það, sem ég ætla, þú munt vilja komast á stað tímanlega á morgun, og viltu þá ekki setja þig inn í baðstofuna til kvenfólksins - en hafir þú eitthvað meðferðis, þá er þér bezt að láta það vera hér í nótt, ég læsi hér stofunni, og hér hefur enginn umgöngur.

Og ég hef nú ekki neitt meðferðis nema pokasnigilinn minn, prestur minn, og er ekki annað í honum en skjóða með nokkrum bréfum og svo nestisbiti, því ég fer aldrei svo af heimilinu í þessar langferðir, að ég hafi ekki ögn með mér, því ef maður fer snemma á stað, þá er það ekki alls staðar, að fólk hafi greiða tilbúinn; en þar sem ég er ókenndur á bæ, þá hef ég þann sið, hafi ég eitthvað meðferðis, þá ber ég það með mér og sting því undir höfðalagið hjá mér, því margur getur verið misjafnlega vandaður.

Þú vilt þá taka hann með þér, Gísli minn, hum, hum, sagði prestur og varð heldur svo sem styggur við.

Og ekki hérna, prestur minn, hér þekki ég fólk - þegar þér lofið honum að liggja hérna einhvers staðar; ég ætla þá að láta hann hérna í skotið hjá kistunni, sagði Gísli, og ítrekaði prestur það að þar skyldi enginn við honum hreyfa, fylgdi síðan Gísla til baðstofu, og er hann þar um nóttina í góðu yfirlæti, en prestur skrifar um kvöldið í stofu, og tekur Gísli við bréfunum um morguninn og heldur á stað.


4. kafli

Frá Þórarni

Færðir voru góðar, og gekk Gísla greitt ferðin; segir ekki af honum, fyrr en hann eitt kvöld kemur að B..., og hyggur hann að hafa þar náttstað. Kom hann í það mund, sem fjósamaður gengur til fjóss, og hittir Gísli hann þar á túninu; heilsast þeir, og spyr heimamaður hann almæltra tíðinda, en Gísli segir af það, er hann vissi. Aftur frétti Gísli heimamann, hvort þar á heimilinu sé ekki maður, er Þórarinn heiti Jónsson, því hann hafi bréf til hans að norðan og svo til sýslumanns, sem hann hafi tekið á leiðinni; kveðst hann og ætla að biðja þar gistingar um nóttina. Heimamaður sagði, að um gistingu mundi honum ekki verða neitað, það sé ekki vani að úthýsa ferðamönnum - en sýslumann getur þú ekki fundið, hann er vanur að leggja sig út af í rökkrunum, og má þá ekki vekja hann, og ekki má hann heyra neinn hávaða; en Þórarin held ég þú getir fundið, mér sýndist hann vera búinn að kveikja hjá sér í húsinu, ég skal fylgja þér til hans, sagði heimamaður.

Þökk er mér á því, sagði Gísli.

Heimamaður fylgdi síðan Gísla til bæjar og innar á baðstofugólf; þar var í öðrum enda baðstofunnar hús undir lofti, og sat Þórarinn þar í rökkrinu og las og skrifaði, því aðrar stundir hafði hann ekki til þess. Heimamaður lauk upp húsinu og segir Þórarni, að þar sé kominn maður að norðan og hafi meðferðis bréf til hans. Þórarinn stóð upp og segir heimamanni að láta hann koma inn til sín, og gjörði hann það. Þórarinn þekkti brátt Gísla og tók honum vinsamlega og bauð honum að sitja þar - eða ertu með nokkur bréf til mín, Gísli minn, og hvernig líður þar nyrðra?

Allþolanlega, sagði Gísli; ef þau eru ekki týnd, þá áttuð þér að eiga einhvers staðar hjá mér tvö bréf, og til sýslumannsins eru tvö, en annað tók ég á leiðinni, hitt er frá honum mági yðar.

Gísli tók nú að leysa frá poka sínum, og varð honum það ógreitt, því bundið var með snæri og allmikið fjötraður, en frost hafði verið um daginn, og voru hnútar harðir og óþjálgir, og varð Gísli bæði að neyta handa og tanna að leysa þá. En er því var lokið, dregur hann úr öðrum enda pokans skjóðu eigi allstóra; var hún og vel um búin, og stóð enn nokkra stund á að opna hana, enda fannst Þórarni hver stund, er hann beið eftir bréfunum, tvöfalt lengri en hún var í rauninni, svo hlakkaði hann til að fá fréttir og bréf úr átthögum sínum. Loks var Gísli búinn að rýmka um skjóðuopið, hellir hann þá bréfunum á kné sér og fer að kanna þau, eins og þegar smali ætlar að taka frá einhverja aðkomukind. Þórarinn stóð þar nærri og ætlar að hafa hönd á með Gísla, en er Gísli varð þess var, segir hann:

Ég skal fá yður þau, lofið þér mér að leita, hver er sínum hnútum kunnugastur, segir hann meistari Jón; ég vil ætíð vita, elskulegur. hvað ég afhendi - hérna, sjáið þér, það er bréfið, sem ég tók á leiðinni til sýslumannsins, það er auðþekkt, því það er á engu bréfi, sem ég hef, eins stórt lakk; ég ætla að biðja yður, Þórarinn minn, að fá honum það, þegar hann vaknar, eða er hann ekki sofandi, góði maður? - og svo eru hér tvö bréf frá honum séra Sigvalda mínum, annað til yðar og annað til sýslumannsins; ég batt rauðum spotta - hvar eru þau nú? - utan um þau.

Þarna er eitthvað, sem bundið er utan um rauður endi, sagði Þórarinn.

Jæja, takið þér þau, það er ekki um að villast, og hérna er bréfmiði til yðar, hann tók ég á leiðinni, en ekki er það mér að kenna, þó hann sé svona útlítandi og kvolaður, hann var svona, þegar mér var fenginn hann, og sást varla á honum kveðjan; og nú eigið þér að eiga eitt eftir hjá mér, hvar sem það er nú; - það er þarna, sagði Gísli og greip upp sendibréfskorn eitt, sem lá í bréfabunkanum, og horfði lakkið upp - það er það, rétt er það, með svörtu lakki - í þessu velti hann bréfinu við og leit á kveðjuna og segir: Það er þó ekki þetta, kveðjan hallaðist meir upp á við en á þessu.

Þórarinn leit utan á bréfið og sá það var til sín og segir: Þetta er þó til mín.

Nú, já, það er rétt, það mun vera til yðar, hvar hef ég tekið það? - það er þó ekki bréfið, sem ég tók af henni Þórdísi minni í Hlíð til yðar, nei, ekki er það; þetta hef ég þá tekið einhvers staðar á leiðinni, þó ég muni ekki eftir því, og þá ættuð þér að eiga hér enn þá bréf.

Síðan leitaði Gísli af nýju í öllum bréfunum, en hvergi fann hann neitt bréf með svörtu lakki og hallri utanáskrift; verður honum nokkuð bilt við og segir við Þórarin:

Leitið þér nú sjálfur í bréfunum, Þórarinn minn, ég get ekki fundið fleiri bréf til yðar.

Þórarinn gjörði það og fann ekki heldur en Gísli; segir þá Gísli, að það verði þá að vera þetta bréf, sem hann hafi tekið í Hlíð, þó hann kannist ekki við það, hvernig á því standi, að hvorki sé kveðjan í því höll eða blekklessa á neðra horninu á því, eins og sig minni að hafi átt að vera á því, sem hann tók í Hlíð, og sé þetta bréf þaðan, þá muni það vera misminni sitt. Þórarinn kveðst brátt skuli gjöra enda á allri þrætu og sjá, hvaðan bréfið sé; opnar hann það og sér undir eins, að það er frá Þórdísi í Hlíð; segir hann þá Gísla, og lætur hann sér það lynda. Þórarinn lýkar upp litlu skáborði, sem þar var í herbergi hans, og leggur bréf sín þar niður; síðan spyr hann Gísla frétta og biður hann síðan koma með sér í baðstofuloft, og segir hann vinnukonum að taka við Gísla og annast skóföt hans.

Eftir það gengur Þórarinn aftur til herbergis síns og fer að lesa bréfin. Bréf séra Sigvalda var allþægilegt; getur prestur þess í því, að þó að þeir mágar hefðu skilið í styttingi, er þeir fundust, og sitt hefði sýnzt hvorum, vildi hann ekki fyrir sitt leyti erfa það, eða mágsemdir þeirra væru ekki jafngóðar eftir sem áður. Hitt og þetta var til tínt í fréttum, eins og venja er til í bréfum, er fara kunningja á milli. Það var einn kafli í bréfi prests:


Umskipti urðu hér í Hlíð. Sigurður bóndi lagðist, skömmu eftir að þú varst farinn suður í haust, lá ekki lengi og er fyrir tímanlegan dauða burt kallaður þremur dögum fyrir Marteinsmessu. Margur má með réttu hans sakna; hann var ætíð friðsemdarmaður og stóð mörgum fremur í skilum við prest og kirkju. Ekkja hans Þórdís heldur víst áfram búskap, og sagt er, að þangað fari í vor aftur Egill Grímsson, líklega sem hennar fyrirvinna etc.; læt svo hér um úttalað.


Þórarni þóttu þetta allkynlegar fréttir, en hugðist mundi fá allt greinilegra um þetta í bréfum þeirra fóstra í Hlíð. Undarlegt hafði Þórarni þótt, er hann lauk upp bréfi Þórdísar, að þar var ekki innan í lagt neitt bréf frá Sigrúnu til hans, en enn þá meira brá honum, er hann las bréfið; sá hann af því, hvernig ráða mátti dylgjur þær, sem voru í bréfi Sigvalda prests mágs hans. Bréfið var ritað með viðvaningshönd og heldur illa, og var það á þessa leið:


Hlíð, 30. Dec. 17..

Velæðla herra studiosus!

Innilega er ég yður þakkandi fyrir vinsemi yðar á seinustu samfundum í haust, sömuleiðis fyrir yðar mikið þægilega tilskrif, skrifað litlu eftir að þér voruð aftur heim til yðar kominn; þar næst vil ég láta yður vita, sem þér þó máske hafið fengið undirrétting um af milliferðamönnum, að litlu eftir að þér fóruð héðan, þóknaðist drottni mínum að kalla burt manninn minn úr þessum táradal til betra lífs. Hvílíkur krossburður það hafi verið mér að missa hann, ætla ég nú ekki að tala um, mín eina huggun er sú að eiga þess von innan skamms einnig að losast úr baráttu þessarar mæðusömu hérveru: Æ, hvað mig leysast langar.

Í annan máta verð ég að láta yður vita það, þó mér finnist ég ekki eiga hægt með það, að hér á heimili hefur orðið sú breyting, sem ég ekki ímyndaði mér, þegar við sáumst seinast, að mundi upp koma; en svo mikið vil ég segja yður og álít skyldu mína, að láta yður vita, þar ég einu sinni varð áskynja um fyrirætlun yðar með Sigrúnu Þorsteinsdóttur, sem hjá okkur hefur verið, að ég býst ekki við, að hún hafi gæfu til þess, sem einu sinni var af ykkur umtalað. Kringumstæðurnar hafa lagað það svoleiðis, og það er orðið augljóst, sem ég vissi ekki þá. Hún er ólánssamari en svo, hróið; ég ætla ekki að tala frekar um það við yður en þetta. Líklegast verður hún hjá mér næsta ár, því ekki get ég fengið af mér að vísa henni svona út á klakann, þar hún hefur svo lengi dvalizt hjá mér, og í ráðagjörð er það, að Egill Grímsson, sem hér var í sumar eð var og aldrei skyldi verið hafa, komi hingað aftur. Þetta vildi ég ekki láta bíða að segja yður allt saman, svo að þér vissuð það í tíma, því ég vil ekki draga prett að nokkrum. Ég vona þér takið ekki illa upp einlægni mína og fyrirgefið mér þessar fáu og stirðu línur. Lifið þér ætíð farsæll, vil ég svo mega finnast með beztu óskum

yðar skuldbundin
vinkona
Þórdís Bjarnadóttir.


Þess er áður getið, að Þórarinn unni Sigrúnu heitt og alúðlega. Hann hafði áður á hverri einverustund sinni hugsað um heitmey sína, sem hann unni jafnt öndinni í brjósti sínu. Hvert sinn, sem hann vaknaði af værum blundi, hvarflaði hugurinn til hennar. Þó hann væri að lesa eða skrifa og hann ætlaði að líma huga sinn við það, sem hann var að gjöra, var hann óðara horfinn til hennar eins og ótaminn fugl, sem elskar sjálfræði, flýgur út í loftið óðara en sleppt er af honum hendinni; hjá henni lék hann sér stundum saman, þar til Þórarinn eins og með valdi neyddi hann til að hugsa um vinnu sína. Á kvöldum var seinasta hugsunin, sem hann sofnaði út frá, um hana; í svefninum hafði hann hugsað um hana og vakandi dreymt um þá ánægjustund, er hann fengi bréf frá henni; svo það mátti svo að orði kveða, að hann margfaldlega var búinn að njóta þeirrar gleði í huga sínum, sem nú varð að engu. Það getur því hver, sem hefur tilfinning, ímyndað sér, hvernig Þórarni nú muni hafa brugðið við að fá þetta bréf. Það var tvennt, er varnaði Þórarni við örvæntingu; það fyrst, að hann var maður stilltur og hafði tamið sér að stjórna geði sínu, ef honum bárust snögglega gleðifréttir eða sorgartíðindi, og þar næst unni hann Sigrúnu svo mikið, að hann gat ekki trúað því um hana, sem miður mátti vera eða hún hefði reynzt sér ótrú, þar sem hann aldrei hefði getað fundið annað í fari hennar en hreinskilni og einlæga ást til sín. Hann velti þessu fyrir sér, og þá barðist hjarta hans um hríð ýmist við oftraust eða kvíða um það, hverju hann ætti að trúa. Þó varð sú hugsun yfirsterkari hjá honum, að svo mundi vera, að Sigrún hefði brugðið trúnaði við sig. Hann gat ekki ímyndað sér, er hann fór betur að gæta að, að Þórdís fóstra Sigrúnar hefði farið að skrifa honum þetta, nema það væri satt: Til hins sama sá hann og, að var bent í bréfi séra Sigvalda, og mundi mági hans ekki hafa verið það óljúft að geta orðið fyrstur til að segja honum frá þessu, þar eð hann jafnan hefði róið að því öllum árum, að þau mættu ekki njótast.

Þegar Þórarinn var að berjast við þessar hugsanir, kemur sýslumaður í herbergið og færði honum bréf, er hann átti að skrifa, og töluðust þeir við um hríð. Fór Þórarinn síðan að rita það, er sýslumaður hafði fyrir hann lagt, en ekki gekk honum það greitt, því þrisvar sinnum um kvöldið varð Þórarinn að rita bréfið upp, áður sýslumaður sagði, að nú mætti það vera. Virtist sýslumanni þetta kynlegt, því Þórarinn var skrifari hinn bezti og ritaði bæði sett og fagurt; ekki fékkst hann samt um þetta annað en hann sagði:

Ég held, Þórarinn minn, að það logi illa hjá þér ljósið í kvöld, það er þó ekki vant að ganga svona stirt fyrir okkur, eða er þér nokkuð leitt?

Þórarinn roðnaði við því og gekk út; fór síðan venju fremur snemma að hátta, en ekki varð honum svefnsælt þá nótt, því ætíð, er hann ætlaði að sofna, hvörfluðu hinar sömu hugsanir í huga hans, hvort það væri nokkur tilhæfa í því, er hann hefði séð og lesið í bréfi Þórdísar, eður eigi; þó hafði sú hugsun jafnan yfirhöndina, að það mundi satt vera. Þá datt honum ýmislegt í hug, stundum ásetti hann sér undir eins að fara norður og vita vissu sína um hagi Sigrúnar, og ef það reyndist nú satt, sem honum var frá hermt, var hann að efast um, hvað hann ætti að gjöra; fannst honum þá ýmist, að sér væri orðið svo illa við hana, að hann vel gæti nú gjört henni allt til stríðs og skapraunar og nærri vildi hann ganga að eiga Guðrúnu ráðskonu, ef hann héldi, að Sigrúnu væri nokkur mótgjörð í því, af því hann vissi, að þeim var ekki neitt vel til vina áður; væri og Sigrún þess ekki verð, að hann ætti hana. Aðra stundina fannst honum sem ást hans til Sigrúnar hefði aldrei verið meiri en nú, virtist honum þá sem hann mundi geta fyrirgefið henni allt; grét hann þá fögrum tárum yfir forlögum sínum og aumkaði ólán hennar, ef það ætti fyrir henni að liggja að eiga Egil Grímsson, en fóstra hennar sleppti hendi af henni, eins og hún líkast til mundi gjöra, eftir því sem henni færust orð í bréfinu.

Þannig lá hann alla nóttina og gat ekki notið svefns fyrr en rétt um dægramótin, að nokkur blundur rann á hann. Hann vaknaði fyrir hálfbirtu morguninn eftir; klæddist hann þá skjótt og gengur út; voru heimamenn þá ekki upp staðnir nema þeir, er sinntu útistörfum. Gísli var og kominn á fætur; hafði honum heldur ekki orðið svefnsamt um nóttina, var hann lengi að hugsa um það, hvernig á því gæti staðið, að hann hefði ekki séð blekklessuna, sem átti að vera á horninu á bréfi því, er hann tók í Hlíð, en ekki var á því, er hann fékk Þórarni; hann gekk nú og litaðist um kring þar hjá bænum, en er hann sér, að Þórarinn er kominn á fætur, gengur hann til hans og býður honum góðan dag. Tóku þeir nú tal saman, og fréttir Þórarinn um tíðindi úr Staðarhrepp. Þórarni var kunnugt um fólk á hverjum bæ, og þykir Gísla það engin furða, þó hann spyrði allýtarlega, þar sem hann var grandkunnugur. Spyr Þórarinn fyrst á víð og dreif, og leysir Gísli úr af létta. Þar kemur loks, að Þórarinn víkur ræðunni til Hlíðarfólks; spyr hann Gísla að, hvort hann hafi komið að Hlíð, áður en hann fór suður, og játar Gísli því; þá spyr hann hann, hvort hann hafi séð þær fóstrur, og segir Gísli sem var, að hann hafi hitt Þórdísi og hún hafi beðið sig fyrir bréfið, en ekki hafi hann séð Sigrúnu. Hyggur þá Þórarinn, að hann muni segja sér í óspurðum fréttum eitthvað af henni, þar eð hann minntist á hana; en það varð þó ekki, annaðhvort af því Gísli var raunar ekki laginn á það að bera út óhróður af mönnum, eða hins vegna, að hann hefur haft einhverja vitneskju af því, að þeim Þórarni og Sigrúnu hefði einhvern tíma verið vel saman. Þórarinn þagði litla hríð og eins og beið eftir því, að Gísli segði sér eitthvað meira, en er hann sá, að það mundi ekki verða, hófst hann sjálfur máls á því, er hann vildi vita, og segir:

Segðu mér, lagsmaður, er nokkuð hæft í því, sem mér hefur verið skrifað, að Egill Grímsson fari aftur að Hlíð, er þaðan fór í haust eð var, og að Sigrún Þorsteinsdóttir muni ekki vera óhindruð með honum, mér er sagt það fortakslaust.

Og ekki veit ég það, sagði Gísli, hvaða hæfa er til í því, en yður í einlægni að segja, fyrst þér spyrjið mig að því, þá hef ég heyrt því fleygt af fleiri en einum, en eins og ég sagði, fullyrði ég ekki neitt þar um, en þetta er skrafað, og ekki veit ég nema það berist til baka, og þá vil ég ekki láta hafa það eftir mér.

Svo þú hefur heyrt það talað? sagði Þórarinn.

Já, meir en, sagði Gísli.

Það hefur þá dregið saman með þeim, sagði Þórarinn og glotti við, þó það Hlíðarfólk þættist ekki ætla að gefa honum hana í sumar.

Svo hefur það orðið að vera, sagði Gísli, því líka var það sagt í sumar, að þeim hjónunum í Hlíð væri ekkert um, að hann drægi sig eftir henni.

Lengra gat ekki samtal þeirra Gísla og Þórarins orðið um þetta efni, því í þessu bili komu heimamenn þar að, sem þeir töluðu, og kallaði annar á Gísla og sagði, að sýslumaður vildi finna hann, áður hann færi á stað; gengu þeir þá báðir inn, og fór Þórarinn til herbergis síns; en er Gísli nokkru síðar ætlaði á stað og vildi kveðja Þórarin, fannst hann hvergi, og fór það svo, að þeir kvöddust ekki að því sinni.


5. kafli

Þórarinn fer utan

Ef saga sú, er hér er rituð, hefði gjörzt suður á Vallandi eður einhvers staðar í hinum suðrænu löndum, þar sem blóðið í mönnum er mörgum mælistigum heitara en í Íslendingum, mundi án efa efnið í þessum kapítula annaðhvort orðið það að segja frá því, að Þórarinn prestsmágur hefði þotið norður í land og boðið Agli Grímssyni til einvígis; þeir hefðu þá, eftir margar vífilengjur og vafninga, annaðhvort sætzt heilum sáttum ellegar annar hvor fellt hinn á hólmi, en síðan, er hið sanna kom upp, iðrazt verksins og ráðið sjálfum sér bana og Sigrún notið hvorugs, en setið eftir með sárt enni eða þá gengið sömu götuna á eftir og haldið til heljar. Ástin hjá Íslendingum er ekki svo ofsabráð, hún sígur heldur svona á og seiglast, eins og þeim ef til vill er eðlilegra í flestum efnum, og fáum mun hún hafa sálgað síðan á dögum þeirra Skáld-Hrafns og Gunnlaugs ormstungu, er deildu um Helgu hina fögru; enda mundi oss ekki farast það kringilega, er vart höfum séð nokkra grélu, að yrkja af þeim ævintýrum, þar sem kutinn ætíð er látinn vera á lofti, ef út af orðinu bregður. Góðu heilli gefur heldur ekki saga vor tilefni til þess, og viljum vér því segja satt frá og byrja þar aftur, sem þeir Gísli og Þórarinn skildu og ekki varð af kveðjum þeirra. Af hinu stutta viðtali þeirra þóttist Þórarinn orðinn þess vís, er hann vildi; virtist honum engi efi vera á því, að það væri satt, sem Þórdís hefði látið hann ráða í um hagi Sigrúnar. Nokkru síðar en Gísli var brott farinn, komu að B.... tveir útróðramenn norðan úr Staðarsveit; hafði Þórarinn einnig tal af þeim, og sögðu þeir hið sama um það, hvað rætt væri um Sigrúnu; þetta staðfesti Þórarin algjörlega í trúnni, og tók hann nú fáleika mikla um þessar mundir, og gat það ekki dulizt fyrir húsbónda hans og heimilisfólki að B...., og vissi enginn, hvað valda mundi. Sýslumaður var vel til hans sem áður, en þótti þó kynlegt um, að Þórarinn svo að segja aldrei var með hýrri há, en hafði þó áður verið hinn glaðasti. Samt leysti Þórarinn jafnan vel af hendi ritstörf þau, er sýslumaður ætlaði honum. Líður nú svo fram um veturinn, að sýslumaður fæst ekki um, þó hann sjái Þórarin dapran löngum.

Það var eitt skipti, að sýslumaður sat einn saman hjá konu sinni og lá allvel á honum, og ræddu þau um hitt og þetta. Spyr þá sýslumaður hana, hvað hún hyggi bera til þess, að Þórarinn hafi tekið svo miklum stakkaskiptum; hafi hann áður leikið alls oddi, en nú hafi hann um stund verið ofantekinn og daufur, sem hann byggi yfir einhverri sorg, er hann vildi dylja. Kona sýslumanns lézt ekki vita, hvað til þessa bæri, en kvaðst þó hafa tekið eftir því, að honum væri að nokkru brugðið; gat hún þess fyrst, að Þórarinn mundi ekki kunna þar við sig og langa til átthaga sinna þar nyrðra; ekki kvað sýslumaður það mundi vera tilefni ógleði Þórarins. Kona sýslumann gat enn annars til, og þótti sýslumanni það ekkert að líkindum; þá þagnaði húsfreyja við um hríð, leggur á vangann og segir:

Mér getur þá ekki hugsazt neitt, heillin mín, hvað hann kynni að setja fyrir sig, nema ef það skyldi vera eitthvað heilaslangur í honum um hana Ingibjörgu okkar og ímyndaði sér, að það gengi ekki.

Og þetta getur verið, eða hefurðu séð nokkur deili þess? sagði sýslumaður.

Ónei, sagði húsfreyja, ég sé það er gott og þægilegt á millum þeirra, en ekkert, sem sé orð á gjörandi; en mér hefur nú ætíð fundizt á Imbu minni, að hún heldur, að hún kæmi ekki hátt niður, þó hún fengi einhvern fátækan, óvalinn stúdent; hún hefur það af einhverjum sínum, krakkinn, sagði hún og hreykti sér dálítið upp í sætinu, og get ég ekki láð henni það, því vel er hún af guði gjörð, og svo munu sumir segja, að hún standi til að eignast nokkuð.

Sýslumaður stanzaði dálítið við, strauk dósir sínar og svarar síðan:

Svo mun það kallað; en það er ekki fyrir það, Þórarin held ég vera gott mannsefni, mér hefur líkað ágætlega við hann, síðan hann hingað kom, og veit ekki, hvort mér væri það svo mikið á móti skapi, ef hún vildi það.

Já, en trú þú mér til, sagði húsfreyja, hún mundi varla eiga hann; tiltökumál væri það, ef hann hefði siglt og eitthvað gæti orðið úr honum.

Við þetta felldu þau talið, en ekki er þess getið, hvort það var þessi umræða eða annað, sem var orsök til þess, að nokkrum dögum síðar kom sýslumaður eitt skipti að máli við Þórarin og er nú allblíður í viðmóti; spyr hann þá Þórarin, hvað valdi ógleði hans. Þórarinn er í fyrstu alltregur að segja honum það og lætur sem lítið sé til hæfu um það; en er sýslumaður skorar fastara á hann um þetta mál, þá verður það, að Þórarinn þagnar um hríð, en síðan segir hann:

Þér hafið, herra sýslumaður minn, jafnan sýnt mér svo mikla einlægni og ástsemi, síðan ég kom til yðar, sem ég hefði verið uppeldissonur yðar, og sæmir mér ekki að dylja yður þess, sem þér spyrjið mig, og er yður þá satt frá að segja, að síðan ég var barn að aldri og man til mín, hefur sú löngun ætíð verið föst hjá mér, að mig hefur langað til að fara utan. Þessi löngun hefur nú orðið ríkari og ríkari hjá mér og er nú orðin svo föst í huga mínum, að ég get ekki lengur við hana strítt. Að sönnu sé ég nú lítið eða ekkert ráð í þessu, er ég lít á efnahaginn, en yður að segja hef ég þó fastráðið það, ef yður er það ekki móti skapi, og fellur mér það þó á aðra hliðina þungt að slíta mig úr svo góðra foreldra höndum sem ég hef hér í verið, ef þér á annað borð hefðuð viljað halda mig lengur.

Sýslumaður sagði, að raunar hefði hann óskað að hafa Þórarin í sinni þjónustu, því vel hefði sér við hann fallið í alla staði, en ekki vildi hann letja Þórarin fararinnar; mundi það og reynast, að hvar sem Þórarinn kæmi, mundi hann kallaður góður drengur, enda væri það ungra manna að framast erlendis, og fannst það á, að sýslumaður fýsti hann í öllu; hét hann Þórarni að greiða honum árskaup hans og þar að auki styrkja hann nokkuð með fararefni. Þórarinn átti og eftir af föðurarfi sínum nokkur hundruð í jörðu. Þenna jarðarpart veðsetti hann manni þar syðra, og var það gjört með ráði sýslumanns; sýndi og sýslumaður, að hann vildi styrkja Þórarin, og hefur þess því verið til getið, að hann hafi ætlað, ef utanferð hans tækist vel, að gefa honum Ingibjörgu dóttur sína, og er það ekki ólíklegt, er hann sá, að hann var hinn efnilegasti maður og líklegur til frama; en svo var hann séður, að hvorki vildi hann láta Þórarin ráða neitt í þessa fyrirætlan sína fyrst um sinn eða binda það neinum fastmælum, enda fór Þórarinn ekki þess á nokkurn hátt á leit. En svo sagði hann frá síðar, eftir að hann var aftur kominn hér til lands, að hefði Ingibjörg þá verið ógefin, er hann kom úr siglingu, mundi hann hafa leitað þar ráðahags, því næst Sigrúnu hafi Ingibjörg verið hin fegursta íslenzk stúlka, er hann hafi séð, og um marga hluti hinn bezti kvenkostur.

Um haustið áður hafði skip eitt, sem átti að fara til Kaupmannahafnar, orðið afturreka, og lá það um veturinn á Búðum; átti það nú, undir eins og ísa leysti, að sigla til Danmerkur. Með skipi þessu tók Þórarinn sér far og átti að vera kominn til skips í seinustu viku einmánaðar, en þangað til dvaldi hann hjá sýslumanni; var hann nú allglaður, það er menn gátu séð, en bar harm sinn í hljóði. Engu að síður gat hann ekki gleymt Sigrúnu sinni, og fannst honum svo jafnan, er hann var í einrúmi, sem hann aldrei þaðan af mundi geta fellt ástarhug til neinnar annarrar konu. Lá hann oft vakandi um nætur í rúmi sínu og gat ekki fest svefn fyrir þeirri umhugsun; en því hafði hann tekið þetta ráð að fara utan, að honum fannst, að hann mundi aldrei yndi nema hér á landi, úr því að Sigrún hafði brugðizt honum, en á hina hliðina var hann hugsjúkur um það, hver forlög mundi vænta sín í útlendu landi, þar sem hann ekki átti neitt athvarf, en átti lítinn farareyri. Eina nótt, nokkru áður en hann ætlaði heiman, lá hann sem oftar vakandi og var að hugsa um hagi sína og Sigrúnu; datt honum það í hug, að áður hann færi af landi burt, skyldi hann rita Sigrúnu og láta hana að minnsta kosti vita, hvaða harm hún hefði búið honum með ótrúleik hennar; hugsaði hann sér bréfsefnið um nóttina. - - -


6. kafli

Þórarinn var nú farinn af landi. Þá er hinn salti sær hafði hulið fósturjörðu hans sýnum fyrir honum og vaggað honum um hríð, þar sem hann lá í rúmi stýrimanns, yfir sig komnum af söknuði unnustu og ástvina, tók Svefninn hann loks í arma, en lét son sinn Drauminn bía honum vel og lengi, en Draumurinn er, eins og allir vita, gjarn og fús á að fara með sofandi fólk á gandreiðir út um alla heima og geima og sýna því alls konar firn og fádæmi. Þetta gjörði hinn gáskafulli Draumur einnig Þórarni. Hann flaug með hann yfir láð og lög, sýndi honum fagrar og dýrðlegar borgir og bæi, skrautlegar hallir og hús, stóra turna og stræti með margvíslegum dýrum og mannkindum. - - -





EFNISÁGRIP SÖGULOKANNA



Saman tekið af Þórði Grímssyni samkvæmt frásögn Jóns Thoroddsens

Þórarinn stúdent sigldi um vorið með Búðaskipi til Kaupmannahafnar, kemst þar á háskólann og lærir guðfræði, útskrifast síðan með góðum vitnisburði og dvelur þar eftir í Kaupmannahöfn nokkur ár. Ekki skrifaði hann Sigrúnu, áður héðan færi, og fékk engar sannari fregnir um hagi hennar en áður er sagt í bréfum séra Sigvalda og Þórdísar. Egill Grímsson fór burt frá Hlíð um haustið, sem áður er sagt, en Sigrún var nú með fóstru sinni. Allt var það lygi, er kvisazt hafði um hana, að hún væri vanfær, og enginn þóttist vita, hvar sú fregn hefði upp komið, en þeir, sem bezt voru að sér í þeirri ættfræði, mundu eftir því, að séra Sigvaldi hafði sagt þeim þessar nýjungar fyrstur manna og haft þær eftir öðrum. Þær fóstrur fréttu nú utanferð Þórarins og orsakir hennar, og þóttust þær hafa allt illt hlotið af komu Egils að Hlíð, er þær urðu vísari alls hins sanna. Um sumarið ríður séra Sigvaldi til alþingis og lét þar lýsa kaupi sínu á Hamri; gat Þórdís þar öngva leiðréttingu á fengið; lét hún því höfða mál móti presti, en tapaði málinu, því prestur flækti það fyrir dómendum, bæði með kænsku og fé; hafði Þórdís ekki efni til að fylgja fram málinu til hlítar; líka brugðust henni góðir svaramenn, er þeir sáu þurrnun á eignum hennar. Ekki borgaði prestur henni heldur peninga þá fyrir Hamar, er fyrr var um getið, enda gekk hún aldrei eftir þeim. Prestur lét um haustið leggja blágrýtisklett yfir leiði Sigurðar bónda sem minnismark og lét þar klappa á nafn hans; kvað prestur stein þenna mundu geta enzt aldur og ævi, ef eigi sykki hann í jörð niður, en sig hefði hann kostað ærna peninga, ómak og fyrirhöfn, enda hefði Sigurður sinn heitinn átt þetta skilið, því hann hefði borgað sér þetta heiðarlega í lifanda lífi; þóttist hann nú vel kominn að kaupi sínu á Hamri. Þrengdi nú svo að kosti Þórdísar, að hún varð að selja allt lausafé sitt til skuldalúkninga og hætta við búskap; prestur lét og byggja henni út af Hlíð um veturinn, og sá hún þá engan veg til að vera þar lengur, enda var hún þá búin að reyna svo margt í Hlíð, að hana fysti nú að fara þaðan og hætta öllu bústangi og fyrirhyggju. Réðust þær fóstrur þá frá Hlíð um vorið til bónda eins í næstu sveit; sá hóndi hét Helgi; voru þær í húsmennsku hjá honum; hét bærinn Skarð. Helgi var ungur maður og kvæntur fyrir skömmu; hann var hinn vænsti maður og hafði almennings hylli. Hreppstjóri var hann í sveit sinni og var í því sem öðru vel metinn. Þegar þær fóstrur höfðu dvalið þar eitt ár, andaðist kona Helga; fékk hann þá Sigrúnu til að vera fyrir framan á búi sínu næsta ár. Nú með því maðurinn var vænn, álitlegur og vel efnaður, en þær fóstrur félausar og Þórdís hnigin að aldri, þá gjörist það með þeim, að Helgi fær Sigrúnar, og giftust þau að ári liðnu. Gjörði Sigrún það að áeggjan fóstru sinnar og til þess að geta annazt hana í elli hennar. En undir niðri hélt hún þó vel tryggð sína við Þórarin, þó hún léti lítið á bera, enda hugði hún þau mundi ekki oftar sjást. Helgi unni Sigrúnu mjög, og voru samfarir þeirra enar beztu; eignuðust þau eina dóttur, var hún nefnd Þórdís Þórarna. Ekki varð þetta hjónaband Sigrúnar langgætt, því er þau höfðu búið saman tvö ár, leggst bóndi í sótt og liggur lengi, unz hann andaðist úr sótt þessari; hafði hann þá ráðstafað eigum sínum svo, að Sigrún fékk að halda búinu óskertu eftir hans dag. Sigrúnu þótti enn mesti skaði um fráfall manns hennar, en bar þó harm sinn með stillingu mikilli; bjó hún nú á Skarði eftir mann sinn og hafði gott bú og þótti en mesta sæmdarkona; urðu margir til að biðja hennar, en hún neitaði þeim öllum.

Egill Grímsson var með föður sínum, eftir að hann fór frá Hlíð, og kærði jafnan fyrir honum, hve prestur hefði gabbað sig á Sigrúnu. Bar Grímur þetta mál undir prest og bað hann ráða bót á. Prestur hugsaði þá lengi um þetta, og kom honum þá Guðrún ráðskona í hug og að eigi mundi tjá að láta hana bíða eftir Þórarni, enda mundi hann eigi skeyta um hana, er hann frétti öll brögð prests, þó hann kæmi aftur, hvað mjög var óvíst. Guðrún ámálgaði oft við prest, að hann efndi loforð sín með giftingu hennar; tók prestur það til bragðs, er svo var komið, að hann gefur þau Egil og Guðrúnu í hjónaband; þótti mönnum fljótt að því undið, en prestur fann nægar ástæður til að flýta öllu og kom því fram, er hann vildi. Þau Egill og Guðrún fóru að búa í Hlíð, er þá var laus, og var sagt, að prestur hefði ætlað Guðrúnu þá jörð í ráðskonukaup. Ekki gekk búskapur þeirra vel og samfarir því miður; áttu þeir fullt í fangi, Grímur og prestur, að tala niður milli þeirra, og komu stundum til opinberar forlíkanir, var mikið orð um ósamlyndi þeirra hjóna og sættaumleitun prests.

Séra Sigvaldi eldist nú, og tekur hann sér kapelán; förlaðist honum mest sýn; ekki urðu kapelánar langgæðir hjá honum, því kaup þeirra var ei meira en meðal-vinnumannskaup, og sagði prestur, að þeir ynni ekki fyrir meiru. Skipti hann árlega í þrjú ár um kapelána, en úr því fékk hann engan; sagði hann þá af sér prestskap; voru þá sjö ár liðin frá því Þórarinn sigldi, og kom hann það vor út hingað með skipi frá Reykjavík. Þórarinn frétti nú, að Staðurinn er laus, og þar eð hann var þá atvinnulaus, þá sækir hann um Stað og fær brauðið; tekur hann þá vígslu í Reykjavík og leigir sér síðan hesta norður. Er það um krossmessuleyti, er hann byrjaði ferð sína norður, og segir ekki um ferðir hans, fyrr en hann kemur að Skarði; þar bjó Sigrún nú. Helgi hafði búið þar, áður Þórarinn sigldi, og voru þeir málkunnugir; ætlar Þórarinn að hafa þar náttstað og fregna úr héraði sínu hjá Helga, en hafði enn ekkert frétt úr þeim sveitum. Kemur hann síðla að Skarði og sér ekki manna úti utan stúlkubarn í bæjardyrum, mjög efnilegt, hér um bil 4-5 ára gamalt; Þórarinn kastar kveðju á barnið, og í því kemur kona út í dyrnar; var það Sigrún; heilsar hann henni, en ekki þekktust þau í fyrstu; spyr Þórarinn þá um Helga bónda, en hún segir honum sem var; biður hann þó gistingar og fékk hana; kemur þá svo tali þeirra, að þau þekkja hvort annað og segja nú hvort öðru frá, hvað drifið hafi á daga sína, síðan þau skildu; verða þá mestu fagnaðarfundir með þeim. Þórdís gamla fagnar og vel Þórarni; dvelur hann þar nokkra daga og heyrir nú allt um brögð og hrekki séra Sigvalda og finnst mikið um. Þar frétti hann og lát systur sinnar, konu séra Sigvalda, og harmaði hann hana mjög. Þórarinn gjörir nú ráð sín þar á Skarði, og er það fyrst, að hann sendir mann til séra Sigvalda með bréf, í hverju hinn nýi prestur á Stað biður gamla klerkinn að flytja alfarið burt frá Stað. Séra Sigvalda verður hverft við, er hann sér, hversu nú er komið, og mundi hann nú engan síður hafa kosið til eftirmanns síns en Þórarin; bjóst hann við engu góðu af honum eða hans komu, fær sér nú þegar kot eitt þar skammt frá og flytur þangað allt, sem hann getur. Þessu næst stefnir Þórarinn séra Sigvalda um öll undanfarin hrekkjabrögð við sig og þær fóstrur; fylgdi hann því máli svo fast, að séra Sigvaldi guggnaði nú fyrir alvöru, einkum er þau Þórdís og hann höfðu talazt við fyrir rétti. Í þetta mál komust flestir þeir, er fyrr var getið í sögunni, og stóð það lengi yfir. Varð prestur fyrir fésektum stórum.

Þórarinn prestur flutti bú Sigrúnar að Stað með samþykki hennar, og giftust þau um haustið og unnust vel, og lýkur þar með sögunni.




Netútgáfan - apríl 1999