- - - - - - - - - - - - - - - - - -
1. kafli - Milli kauptíðanna
Það var dauflegt í búðinni hjá Þorgeiri Ólafssyni, eða réttara sagt í búð Peter Jespersens Efterfölger, búð gömlu, dönsku fastaverzlunarinnar á Vogabúðum.
Engin lifandi sál hafði komið inn í búðina allan seinni hluta dagsins.
Verzlunarstjórinn sat aleinn og steinþegjandi yfir reikningum sínum og höfuðbókum inni í skrifstofunni, sem var innar af búðinni; en bókarinn hafði farið hóstandi og blótandi heim til sín.
Hann var orðinn værugjarn, karlhrófið, og var ekki við skáborðið sitt í búðinni nema stund úr deginum - ef hann þá annars kom nokkurn tíma allan daginn. En þegar hann var þar, var hann stöðugt hóstandi og blótandi til skiftis, eða hvorttveggja í einu, eftir því, hve mikið honum lá á. Hann blótaði bæði í illu og góðu, ýmist búðarsveinunum eða viðskiftamönnunum; stundum öllu milli himins og jarðar. Og æfinlega, þegar hann blótaði, fékk hann hóstahviðu; því meiri, sem hann kvað ósleitilegar að. Hann var orðinn geðvondur og rétt að kalla kominn í rúmið. Eftir 40 ára dygga þjónustu við verzlunina var hann nú orðin hrein og bein plága bæði fyrir verzlunarmennina, verzlunarstjórann og viðskiftamennina. Enda átti hann auðsjáanlega lítið eftir annað en hósta upp úr sér síðustu golunni. - Bezt er því, að hann sé úr sögunni.
Veðrið var dæmalaust indælt þennan dag, logn og blíðviðri með daufu sólskini, og höfnin spegilslétt.
Fram undan ytri kaupstaðnum lá gufuskip, sem verið var að afferma. Þar úti var ys og annríki, áraglam, skrölt í járnkeðjum og eimvindum og hvæs í eimpípum, hróp og köll. Þar var líf í tuskunum. Skipið var farið að léttast og orðið hátt á sjónum að framan, svo breiður bekkur af rauðum botninum speglaði sig í vatninu.
Inni í innri kaupstaðnum var eitthvað dálítið daufara. Þar sást varla nokkur lifandi hræða á ferli. Alt líf var þar sem fallið í rot. Það mátti því heita lífgandi tilbrigði, ef út úr einhverju húsinu sást koma vinnukona með skólpfötu, til að hella úr henni, eða ef einhver kerlingin í torfkotunum, sem nóg var af í kaupstaðnum, rak sótugan hausinn út úr dyrunum og hrópaði á krakkana.
Það hleypti því óneitanlega miklu lífi í þessa steingervings-kaupstaðarkyrð, þegar gamli bókarinn - sem er úr sögunni - var að staulast heim til sín, hóstandi, svo undir tók í húsunum, og blótandi í hálfum hljóðum. Þar var þó líf, þótt ekki væri það burðugt.
Nærri má geta, hvernig þeim hafi liðið, þessum tveimur ungmennum, sem áttu að gæta búðarinnar og afgreiða þar, ef á því hefði þurft að halda.
Að þurfa, í slíku blessuðu veðri, að kúldast inni í búð, þar sem ekkert var að gera og enginn kom! Hamingjan góða, - það var auma lífið.
Meðan bókarinn - sem er úr sögunni - var í búðinni, var vistin þar þessum tveimur unglingum því nær óþolandi. Þá gengu aldrei af þeim illyrðin. Og þó ekkert væri að gera, reyndi hann að finna upp eitthvað handa þeim, þótt ekki væri nema til að stríða þeim með því. Því betra, sem það var óþrifalegra verk og ataði þá meira út. Í þetta skifti lét hann þá vega sundur hellulit og fleiri liti, svo það væri til í smábréfum, ef einhver vildi kaupa það, og gladdi sig innilega yfir því að sjá þá alla lituga um hendurnar og vita þá klína sig á litnum. Það var þeim mátulegt, bannsettum slæpingunum, sem ekkert nentu að gera!
En þegar bókarinn var farinn, var sundurvigt litarefnanna lokið. Og búðarsveinarnir sárbölvuðu bókaranum, meðan þeir voru að hreinsa af sér litinn.
Nú hefði verið alveg óhætt fyrir þá að loka búðinni, því engar minstu líkur voru til, að nokkur manneskja viltist þangað inn eftir þetta, ekki einu sinni til að slæpast þar. En hvað skyldi "sá gamli" segja, ef þeir styngju upp á öðru eins!
Nei - þarna urðu þeir að hanga hver yfir öðrum, leiðir og iðjulausir, þar til hinn venjulegi tími væri kominn til að láta hlerana fyrir gluggana og loka útidyrunum á búðinni.
Og þeir máttu ekki einu sinni skvetta sér neitt upp - takast á. Þeir máttu engan hávaða gera. Því þótt bókarinn væri farinn, þá var "sá gamli" þarna inni.
Slíkri athugasemd fylgdi jafnan aðvarandi augnabending til skrifstofuhurðarinnar.
Þeir gerðu því ekkert - nema slánuðust fram og aftur um búðina, eða lögðust "fram á lappir sínar" á búðarborðið og horfðu út um opnar búðardyrnar á gufuskipið frammi á höfninni og það, sem gerðist í kringum það.
Þangað til þeir fóru báðir að geispa.
En einmitt geispinn vakti þá. Og þegar sá eldri og stærri geispaði sem allra mest, fékk sá yngri og minni óviðráðanlega löngun til að skjóta upp í hann korktappa.
"Ertu svo djarfur -!" sagði sá eldri og skyrpti út úr sér korktappanum.
"Heyrðu, góði", sagði sá minni. "Ég var aðeins að minna þig á að halda hendinni fyrir munninn, þegar þú geispar".
Hann bjóst þó við, að málsbótin mundi lítið stoða. Hann flýði því út í horn, en hafði hendur á lofti til varnar sér.
Þess þurfti líka við, því sá stærri leitaði eftir. Svo hófst glíman. Nú gleymdu þeir alveg "þeim gamla" inni í skrifstofunni.
Sá yngri náði undirtökunum í góðri hryggspennu og gekk vel fram, þótt hinn væri lengri og dálítið sterkari. Barst leikurinn víða um búðina með talsverðu harki, og raskaðist margt lauslegt, sem fyrir varð. Eftir nokkrar sviftingar komu þeir að búðarborðinu. Bjóst þá sá eldri til að brjóta hinn á bak aftur við borðbrúnina.
En sá litli var mjúkur eins og fjöður; vatt hann sér undan með lagni, án þess að gefast upp. Á borðbrúninni varð leikurinn harðastur. Þar átti að skríða til skarar.
Þá vildi þeim það óhapp til, að 50 punda lóð, sem stóð á borðinu, varð fyrir vel úti látnu olnbogaskoti, svo það veltist fram af borðinu - og ofan í fullan kassa af lampaglösum, sem stóð opinn þar rétt innan við borðið.
Búðarsveinunum brá mjög við þetta óhapp. Og þótt leitt væri að hætta glímunni fyr en fullreynt væri, komu þeir sér orðalaust saman um það. Svo var nú komið fyrir þeim báðum, að þeim lá mest á því í bráðina að laga á sér fötin. Þau fóru illa eftir tuskið. Meðan þeir voru að því, svipuðust þeir um hálfvandræðalega og sáu þá, sér til mikillar skelfingar, að verzlunarstjórinn stóð í hálfopnum skrifstofudyrunum.
"Hvað gengur á?" spurði hann nokkuð byrstur.
"Það var ekkert", hraut fram úr þeim báðum í einu, án þess þeir hefðu nokkuð hugsað svarið. Svo lutu þeir niður að lampaglasakassanum til að sjá, hvað að væri orðið. Lóðið hafði leitað botnsins. Þar var alt eintóm rúst, ekki eitt einasta glas var heilt.
Búðarsveinarnir voru kafrjóðir í framan og ekki upplitsdjarfir. Þeir gátu því nærri, hvað á eftir mundi koma. Þorgeir verzlunarstjóri var myrkur á svipinn. Það hafði legið djöfullega á honum um daginn. Þetta varð naumast til að bæta honum í skapi. - En hver hafði sett þennan endemis lampaglasakassa frá sér þarna - og það um mitt sumarið, þegar fáir höfðu mikið með lampaglös að gera? Það var þeim óskiljanlegt. Bókarinn hlaut að hafa gert það í einhverju óráði - eða þá verzlunarstjórinn sjálfur.
"Þungu lóðin eiga ekki að standa uppi á borðinu", sagði Þorgeir með mestu hægð.
Búðarsveinarnir litu upp alveg forviða. Þeir höfðu búist við öðru og meira en þessu. En Þorgeiri var þyngra í skapi þessa dagana en svo, að hann gæti verið að gera rellu út af fáeinum lampaglösum.
Þó er ekki ólíklegt, að hann hefði sagt eitthvað meira en þetta, hefði ekki maður komið í búðardyrnar rétt í þessu.
Þorgeir verzlunarstjóri var tæplega meðalmaður á hæð og svaraði sér vel. Hann var fölleitur og skarpleitur, hafði verið fríður sýnum á yngri árum, og bar andlitið enn þess vott. Hann hafði þunt alskegg, sem hafði verið dökkjarpt og nú var orðið nokkuð hæruskotið. Klauf það sig lítið eitt undir miðri hökunni, en uppi á vöngunum var það naumast annað en hýjungur. Hann var orðinn sköllóttur framan í höfðinu, en hárið í kring var hrokkið og farið að grána. Andlitið var harðlegt, en þó þreytulegt. Hrukkurnar voru djúpar, en ekki margar, hörundið móleitt og veðurbitið. Augun lágu innarlega undir dökkum brúnum. Þau voru lítil, grá og harðleg, og tillitið hvast. Nefið var beint og nokkuð hátt, kinnbeinin farin að standa örlítið út og markaði greinilega fyrir augnatóftunum að neðanverðu. Varirnar voru þunnar, lágu fast saman og sáust vel í gegnum skeggið. Drættirnir kringum munninn voru djúpir og skarpir. Allur bar svipurinn vott um kjark og sterkan vilja; en nú á síðari árum brá þar oft fyrir þunga og þreytu, sem aldrei hafði sézt þar áður. En jafnframt virtist Þorgeir æ betur og betur fá vald yfir svipbreytingum sínum. Honum hafði jafnvel tekist að temja svo andlitsdrættina, að þeim brá hvergi við geðbrigði hans og gátu enda stundum sýnt alt annað hugarástand en það, sem inni fyrir ríkti. Þorgeir var orðinn dulari í skapi en áður að sögn þeirra, sem lengi höfðu þekt hann. Nú var erfitt að sjá það á honum, hvort honum líkaði betur eða ver.
Eitt var þó það í ásýnd Þorgeirs, sem hann átti erfitt með að temja. Það var æð, sem hlykkjaði sig úti undir skinninu á hægra gagnauganu. Þegar hann var í hversdagsskapi, bar lítið á henni; en henni var gjarnt að ýfast, þegar hann skifti skapi, jafnvel þótt hinar andlitsæðarnar létu lítið á sér bæra. En þeir voru fáir, sem tekið höfðu eftir þessu einkenni, og tókst því Þorgeiri að dylja skap sitt fyrir flestum, ef hann vildi það við hafa.
Þegar Þorgeir var að ritstörfum, hafði hann að jafnaði gullspangagleraugu, sem hann þó annars gekk ekki með. Þessi gleraugu rugluðu svip hans. Var líkast því, sem hann bæri hálfgagnsæja grímu fyrir nokkrum hluta andlitsins, þegar hann hafði þau. Svipurinn varð þá nokkuð annar og Þorgeir sýndist mýkri og vingjarnlegri. Þorgeir þekti sjálfur þessa gagnsemi gleraugna sinna og færði sér hana í nyt. Hann tók þau því af sér eða setti þau upp eftir því, sem honum þótti við þurfa. En væri um eitthvað alvarlegt að ræða, þar sem Þorgeir þurfti að beita sér, brást það ekki, að hann lagði frá sér gleraugun og horfði á þann, sem hann átti við, með berum augum. Og þeim atburðum fór fjölgandi nú síðari árin. -
Þorgeir hafði verið í illu skapi þennan dag allan, og þegar hann opnaði skrifstofudyrnar og leit fram í búðina, var hann svo skuggalegur ásýndum, að sveinunum hefði ekki komið það á óvart, þótt hann hefði rekið þá úr vistinni. Þeir skildu því ekkert í þessari stillingu, fyr en eftir á.
Maðurinn, sem kom inn í búðina í þessum svifum, var sjálfur hreppstjórinn, Sigurður Sveinsson í Vogabúðum, sjálfseignarbóndi og eigandi að lóðinni undir öllum kaupstaðarhúsunum, faðir bræðranna, sem verzluðu þar úti frá, einn af aðalmönnum Kaupfélagsins og máttarstoðum sveitarinnar, póstafgreiðslumaður, sýslunefndarmaður, beykir, smiður, og margt og margt fleira.
Sigurður var maður á efra aldri, en þó ekki ellin til baga ennþá; enda naut hann nú góðra daga og hlífði sér við þungri vinnu. Hann rakaði skegg sitt á Kristjáns IX. vísu og var nú farinn að hærast. Hafði hann mist hárið furðu snemma; en til þess að breiða yfir þessi höfuðlýti hafði hann fengið hárkollu hjá frönskum skipstjóra og gekk jafnan með hana síðan. Þessi hárkolla var gárungunum mikið og dýrmætt efni til kímni og fyndni, einkum vegna þess, að hún bar annan lit en hárið, sem fyrir var. Þar að auki var hún ekki nógu stór til að hylja það, svo dálítill hárkragi stóð niður undan henni að aftan. Þetta kom sér því ver, sem Sigurður var manna spéhræddastur. Leit hann til þeirra illum augum, sem voru svo djarfir að brosa að hárkollunni hans; var enda vís til að leggja fæð á menn fyrir ekki meiri sakir.
Það leyndi sér ekki, að Sigurður hreppstjóri var í ágætu skapi, þegar hann kom inn í búðina, og þaðan af síður hitt, að hann var "góðglaður", eða "töluvert í honum", eins og það er líka kallað; enda lagði af honum sterkan vínþef. Þegar hvorttveggja þetta fór saman, var Sigurður keskinn í orðum og ætíð tilbúinn í stælur, eða jafnvel hávaða.
Þorgeir verzlunarstjóri horfði á komumann gegnum gleraugun og þekti hann svo vel af langri viðkynningu, að hann sá þegar, hvernig á stóð fyrir honum. Hann fór þá einnig nærri um, hvað hann mundi vilja.
"Góðan og blessaðan daginn!" sagði Sigurður með drýgindabrosi.
"Komið þér sælir, Sigurður minn!" svaraði Þorgeir með kuldalegri kurteisi og opnaði fyrir honum hlerann í búðarborðinu.
Nú litu búðarsveinarnir upp frá kassanum og sáu, að þeir voru ekki einir í búðinni með verzlunarstjóranum. Þeir flýttu sér þó ekkert til móts við gestinn. Auðvitað kom Sigurður í Vogabúðum ekki til að kaupa þar nokkurn hrærandi hlut. Hann hafði ekkert keypt þar í búðinni síðustu þrjú árin.
"Ég kem nú sjálfur með bréfin yðar", sagði Sigurður, þegar hann var kominn inn fyrir búðarborðið, og rétti fáein bréf að verzlunarstjóranum. "Það var ekki hægt að fá avo mikið sem krakka þarna úti frá; - allir í vinnu! En svo eigið þér eitt ábyrgðarbréf eftir; ég nenti ekki að bera með mér bókina".
"Alt of mikið ómak. - En gerið þér svo vel", mælti Þorgeir þurlega og opnaði skrifstofudyrnar upp á gátt.
"Nú má ég ekkert tefja, því nú er annríki hjá okkur", sagði Sigurður, en fór þó með hægð inn í skrifstofuna. Þorgeir fór á eftir, en lét dyrnar standa opnar. Búðarsveinarnir urðu einir eftir frammi í búðinni, yfir kassanum með lampaglasarústinni. Þeir gerðu sér mikið far um að komast eftir, hve mörg lampaglösin hefðu verið, ef til þess kæmi, að þeir ættu að borga þau. En það voru litlar líkur til, að það mundi takast. Svo smátt voru þau komin.
"Það var naumast, að karlfjandinn sótti að okkur!" nöldraði annar þeirra. Hinn féllst á það. Þó vildu þeir ekki láta það heyrast inn í skrifstofuna.
"Fáment og góðment hjá ykkur", mælti Sigurður með íbygnisglotti, um leið og hann leit gegnum opnar skrifstofudyrnar út í mannlausa búðina. Sveinarnir sáust ekki innan úr skrifstofunni, svo búðin var meira en tómleg.
"Já, í bili", umlaði Þorgeir og fór að fitla við að opna bréfin og gæta að, frá hverjum þau væru.
"Það er eitthvað annað en úti frá hjá okkur. Þvílík læti!"
"Það er svo".
Verzlunarstjórinn hafði þegar rennt grun í, að hreppstjórinn mundi eiga eitthvert annað erindi til hans að þessu sinni en það eitt að færa honum bréfin. Nú var hann ekki lengur í efa um það, að hann hafði getið rétt. Sigurður var komin þangað til að storka honum.
Hann lét þó á engu bera. Sigurður gamli skyldi ekki hafa það sér til skemtunar að sjá hann bregða skapi út af gjálfri hans. Hann skyldi ekki koma með þá sögu út í nýja kaupstaðinn, að hann hefði gert verzlunarstjórann öskuvondan með því einu að segja honum frá, hvernig gengi þar úti frá.
Hann reyndi því að gera svipinn svo vingjarnlegan sem hann gat, eða þá að minsta kosti lausan við alla vonzku - og naut aðstoðar gleraugnanna til þess að nokkru leyti. Hann svaraði orðum Sigurðar hægt og dræmt, en með kuldabrosi, svo hægt var að skilja, að honum kom það ekkert við, sem hann var að segja frá.
En hefði Sigurður verið aðgætinn og þekt betur á verzlunarstjórann, þá hefði hann getað séð hlykkjótta æð á hægra gagnauganu þrútna upp og verða rauðbláa.
Sigurður hélt áfram:
"Maður lifandi! Ég er nú svo gamall sem á grönum má sjá og hefi aldrei séð jafnmikið af vörum flutt hér á land í einu".
"Sei-sei!"
"Hálfur farmurinn úr gufuskipinu!"
"Nema hvað -!"
"Til dæmis 160 tunnur af steinolíu".
"Hver þremillinn!"
"Og kornvaran - þessi ósköp af kornvöru! Fyrir utan allar aðrar vörur - alt, sem nöfnum tjáir að nefna! Já, því segi ég það: Hann er sannarleg blessun, þessi kaupfélagsskapur".
"Hvað annað -?"
Sigurður horfði hálfhissa á verzlunarstjórann. Hann hafði búist við því, að hann tæki þessum fréttum alt öðruvísi. Hann hafði gert sér von um að geta komið "þeim gamla" í dálitla stælu um verzlunarsakir. Sjálfur var hann vel við því búinn. Hver gat sagt, nema það ykist þá orð af orði, þangað til hann fengi tækifæri til að láta hann hafa sitt af hverju. Nóg var honum niðri fyrir. -
"Og svo verðið! - Ef mönnum bregður ekki við það".
"Ja, það er og", sagði Þorgeir og leit á hann í gegnum gleraugun eins og hann hefði ekki minstu hugmynd um vöruverðið í Kaupfélaginu.
Sigurður ruglaðist alveg við þetta tillit. Gat það skeð, að hann þekti ekki verðið? Það lá við, að hann væri byrjaður á að þylja upp verðskrána. En hann áttaði sig þó á því, að verzlunarstjórinn mundi ef til vill vera að draga dár að sér.
"Það var hepni, að við vorum búnir að koma upp geymsluhúsinu okkar", sagði hann eftir dálitla hvíld. "Annars veit ég ekki, hvar við hefðum átt að láta allar þessar vörur".
"Má ekki bjóða yður vindil?"
Aftur varð hreppstjórinn alveg hissa á þessari ró. Ekki einu sinni geymsluhúsbáknið, sem þeir höfðu bygt, gat raskað jafnvægi verzlunarstjórans.
"Geymsluhúsið er myndarlegt", sagði Þorgeir um leið og hann rétti vindlakassann. "Ég er góður með að kaupa það - á uppboðinu".
Þetta sagði hann með nístandi hæðni, en þó svo mikilli hægð, að hreppstjórinn vissi ekki um stund, hvaðan á sig stóð veðrið. En þegar hann skildi, hvað verzlunarstjórinn átti við, lá við að hann sprytti upp eins og stálfjöður.
Þorgeir varð þó fyrri til að hefja máls aftur:
"Svo þér eruð svona mikill húsasmiður, Sigurður minn. Þér hafið smíðað húsið, er ekki svo? - Ég vildi, að ég hefði vitað þetta hérna á árunum, meðan þér stundum leituðuð atvinnu hjá mér".
Nú varð Sigurði öllum lokið. Það hitti viðkvæman streng í honum, þegar talað var um smíðina á húsinu. Það var hans mesta stórvirki - af mörgum. Að minsta kosti í hans augum.
Þorgeir sá vel, hver áhrif þessi meinlausi gullhamar hafði.
Sigurður var aftur kominn í vandræði. Hann mátti þó ekki gefast upp við svo búið.
En þá mundi hann eftir einu, sem Þorgeiri hlaut að koma illa að frétta.
"Munið þér eftir Englendingnum, sem var hérna í fyrra að kaupa fé?" sagði hann með ósvífnu glotti.
"Já", svaraði Þorgeir án þess honum brygði hið minsta. Hann vissi vel, að þeim kaupfélagsmönnum var lítið betur við komu Englendingsins en honum.
"Hann kemur aftur í haust".
"Eitt bréfið, sem þér komuð með, er frá honum", sagði Þorgeir og sýndi honum umslagið.
"Hver déskotinn", hugsaði hreppstjórinn og tugði endann á vindlinum. "Þetta hrífur ekki heldur".
"Mér þykir vænt um, að hann kemur, því þá fæ ég peninga upp í skuldirnar mínar. Það er betra en ekki neitt".
Þeir hugsuðu nú hvor sitt um það, og hreppstjórinn vissi vel, að Þorgeir vildi heldur vörur upp í skuldirnar en peningana frá Englendingnum. En hvað um það. Það var sýnilega ómögulegt að hleypa honum upp að þessu sinni. Hann hafði nú ekki fleira við höndina til að ympra á. Honum fanst þó ekki eiga við að byrja á hreytingum svona upp úr þurru. Hann réð því af að fara. Lézt hann vakna til umhugsunar um, að hann hefði þurft að flýta sér, og sýndi á sér ferðasnið.
Þorgeir fylgdi honum fram í búðina. En þar rak hreppstjórinn augun í kassann með brotnu lampaglösunum.
"Þarna hefir þá eitthvað brotnað hjá ykkur", sagði hann með meinfýsisglotti.
Búðarsveinarnir urðu sneyptir.
"O-já, það var mér að kenna", sagði Þorgeir þurlega. Honum var illa við það, að hreppstjórinn skyldi taka eftir þessu ómerkilega óhappi. Hann vissi vel, hvernig hann mundi reyna að nota það.
Það var auðséð á hreppstjóranum, að hann langaði til að segja eitthvað meinfyndið um þetta; hann var að leita að því í huganum. En þegar hann sá, að verzlunarstjórinn sjálfur hélt uppi fyrir hann hleranum í búðarborðinu, kastaði hann kveðju á þá, sem inni voru, og fór út.
Þegar Sigurður var farinn, breyttist svipur verzlunarstjórans og fékk sama drungann og áður. Hann gekk nokkur skref fram og aftur um gólfið. Búðarsveinarnir skulfu á beinunum, því þeir áttu von á öllu illu.
Síðan tók hann upp úrið sitt, leit á það og sagði, að bezt væri að loka búðinni.
Sveinarnir létu ekki segja sér þetta tvisvar. Annar þeirra fór þegar út til að loka gluggahlerunum.
"Hafa nokkrir peningar komið inn í dag?" spurði Þorgeir þann sveininn, sem eftir var í búðinni.
"Ein króna og fimmtíu aurar".
Þorgeir stóð orðlaus. - Vikur höfðu liðið án þess losað hefði verið úr peningaskúffunni undir búðarborðinu. Það þótti ekki taka því.
"Þessi lampaglös er bezt að skrifa hjá mér."
Búðarsveinninn stóð og hváði, alveg steinhissa.
Þorgeir staðnæmdist því næst við gluggann og horfði á eftir Sigurði hreppstjóra, þar sem hann rambaði út eftir kaupstaðnum. Hann átti bágt með að stefna beint.
Verzlunarstjórinn varð járnharður á svipinn. Hann beit á jaxlinn, en fingurnir kreptust í vösunum. Hálfhátt mælti hann fyrir munni sér:
"Spyrjum að leikslokum - ".
Síðan gekk hann inn í skrifstofuna, en búðinni var lokað.
2. kafli - Kaupstaður og kaupstaðarlífVíst var það rangnefni að kalla Vogabúðir "kaupstað"; enda ekki gert í lagamálinu. En alþýða ráðfærir sig ekki ætíð við lögin í því efni, og þessi litla bygð, sem risin var upp fram með voginum, var í daglegu tali nefnd "kaupstaðurinn", en sjaldan verzlunarstaður og aldrei "kauptún", eins og lögin eru þó svo nærgætin að ætlast til. Og í sveitunum, sem næst lágu og ráku þar verzlun sína, var hún kölluð "kaupstaðurinn" eða "Vogurinn", oft ekkert annað, og aldrei á því vilzt; enda var langt til annara kaupstaða.
Vér höldum oss því að nafni alþýðunnar.
Föst verzlun hafði verið í Vogabúðum um margar aldir; enginn vissi, hve lengi. Staðurinn kom við fornar sögur. Skipalægi hafði verið þar síðan á landnámstíð.
Höfnin var dágóð; að vísu opin fyrir hafsjóum af einni átt, en ágætur akkerisbotn. Enginn mundi frá því að segja, að skip hefði hrakið þar á land, meðan festar héldu. Þó var höfnin hvergi bætt. Að undanteknum tveim bryggjum, sem náðu fáeina faðma út fyrir fjöruborðið, var hún eins og náttúran hafði gengið frá henni.
"Vogurinn" skarst inn í ströndina utarlega við allmikinn flóa. Utan við hann gekk klettótt nes fram í flóann og klettarif þar fram af, sem sjóinn braut á. Krikinn fyrir innan þessar varnir var nefndur "Vogurinn", þótt það raunar væri vík eða smáfjörður, en ekki vogur. En vér látum alþýðuna halda nafni sínu einnig á þessu. "Vogurinn" og "Vogabúðir" og önnur staðanöfn af sama stofni þar í grendinni voru orðin svo gömul, að enginn treysti sér til að raska við þeim.
Vogurinn var allstór um sig og kaupstaðurinn aðeins við lítinn hluta hans. Landið umhverfis var alt nokkuð hálent og fór smáhækkandi, með hjalla upp af hjalla, þar til hálsar og heiðar tóku við, með fjöllum hér og þar. Landið var alt heldur hrjóstrugt, með mörgum blásnum melkollum og leirrunnum brekkum. En á milli voru víði vaxnir móar með kjarngóðum dældum og mýrum; en víða voru fagrar hlíðar og hvammar. Býlin voru strjál, en flest reisuleg og fögur tilsýndar og landið ágætt sauðland. Áttu því flestir bændur margt og vænt sauðfé.
Ofurlítil á rann ofan í botninn á voginum og var nefnd Búðará. Hún kom beljandi og hvítfyssandi ofan úr hálsunum, hafði grafið sér djúpt gljúfur gegnum alla hjallana og stökk beint fram úr því rétt fyrir innan kaupstaðinn. Þar breiddi hún ofurlítið úr sér út um fjöruna, eins og hana langaði til að teygja sig dálítið eftir gljúfrakreppuna, og lék sér að því að velta fjöruhnöllungunum. Nú var hún búin að koma sér upp ofurlítilli eyri fram í voginn, en átti lítið efni í hana, því sjálf var hún oftast blátær, nema í leysingum á vorin.
Þessi litla á hefði verið nógu stór til þess að breiða ljós yfir þennan afkrika heimsins og gera hann bjartan og viðfeldinn, jafnvel í svartasta skammdegi, og ef til vill auðugan, ef menn hefðu haft vit og kjark til að hagnýta sér hana. En það var öðru nær. Öld eftir öld hafði hún hlaupið lausbeizluð framhjá kaupstaðnum og sóað afli sínu til einskis. Nú var farið að tala um að leggja við hana og láta hana vinna eitthvert þarft vik. En lengra var það ekki komið, sem varla var von. Það var ekki búið að tala um það nema í fimmtíu ár!
Hægra megin við ána var óbygt út með voginum. Þar tóku við sjávarhamrar, sem nefndir voru Básar, ekki næsta háir að vísu, en svartir og skuggalegir, því bæði slútti bergið víða fram yfir sig, og svo var það oftast vott af jarðvatni, sem vætlaði fram um sprungurnar. Undir berginu var breið malarfjara, ljósgrá tilsýndar, með dálitlum þarabrúkum. En hún náði ekki nema út undir Stapann, - en svo hét fremsti oddi nessins utan við voginn. Þar gekk bergið þverhnýpt niður í sjóinn.
Þetta var gagnvart kaupstaðnum.
Vinstra megin við árósinn byrjaði kaupstaðurinn. Húsin stóðu á ofurlitlu melholti, og var breið, sendin fjara fyrir neðan. Framan í holtinu var lágt melbarð með lausum sandskriðum. Stóðu húsin uppi á melnum. Þar sem bryggjurnar voru, var búið að jafna úr þessu melbarði og gera líðandi halla frá húsunum fram í fjöruna. En á milli þessara mannvirkja var barðið ennþá ósnortið af manna höndum.
Inst í kaupstaðnum eða næst árósnum voru verzlunarhús Jespersens-verzlunarinnar. Þar blasti við frá höfninni langt hús, einlyft, með fánastöng á öðrum endanum. Það var fornlegt að gerð, feikna mikill skrokkur, með lágum veggjum og afskaplegu þaki. Dálítið var það skakt og missigið, en hafði verið bygt úr úrvals viðum og var ennþá traust og stæðilegt. Eitt sinn hafði það verið grámálað, en málningunni illa haldið við. Nú var hún mestöll blásin af. Gluggahlerar voru grænmálaðir, og var þeim krækt upp að veggjunum á daginn. Hús þetta var sölubúð verzlunarinnar og jafnframt íbúðarhús verzlunarstjórans og skrifstofa hans. Skamt frá þessu húsi stóðu önnur smærri hús í þéttri þyrpingu, hvert öðru ólíkt að lit og lögun og misjöfn að aldri. Voru það geymsluhús verzlunarinnar. Nálægt þessari húsaþyrpingu stóðu fá hús, því verzlunin átti allstóra lóð umhverfis hús sín og á henni mikil mannvirki. Þau lutu öll, eða höfðu einhvern tíma lotið, að verzlunarrekstrinum. Voru það fiskreitir, slátrunarvöllur, kjötgálgar, fjárréttir o. fl., sem einu sinni hafði ekki veitt af, en nú var alt orðið óþarflega stórt og farið að ganga úr sér.
Örlitlum spöl utar byrjaði nýbygðin. Þar stóðu fáein timburhús, óreglulega sett, en sum allsnotur. Reisulegustu húsin áttu sýslumaðurinn og læknirinn, sitt hvor og bæði með útihúsum. Hin áttu flest þurrabúðarmenn, sem höfðu atvinnu við verzlanirnar eða stunduðu sjávarútveg.
En yzt í nýbygðinni var "nýi kaupstaðurinn" eða "ytri kaupstaðurinn", sem líka var nefndur "Bræðraverzlunin". Þar voru sameiginleg hús Kaupfélagsins og bræðranna Friðriks og Sveinbjarnar, sona Sigurðar, sem ráku þar verzlun. Þar stóð uppi á barðinu tvílyft hús, allmikið og frítt. Var þar búð þeirra bræðra niðri, en íbúð á efra lofti. Skamt frá því húsi stóð geysimikið geymsluhús, nýbygt og grátt fyrir járnum, og sneri endanum fram að höfninni. Var þannig um það búið, að grafið var fyrir grunninum inn í holtið, og hann síðan hlaðinn upp fyrir jafnsléttu, en kampurinn að framan var hár og rammger, hlaðinn úr höggnu grjóti og steinlímdur. Ofan á þennan grunn var húsið bygt, tvílyft með allháu risi. Gnæfði gaflinn hátt yfir fjöruna, svo menn urðu að keyra höfuð á bak aftur, eins og Þórr hjá Útgarða-Loka, ef menn vildu sjá upp á burstina. Framan á gaflinum voru þrennar dyr með vængjahlerum fyrir, hverjar upp af öðrum, en efst uppi stóð bjálki fram úr gaflinum. Var þar búið um rennihjól og sterka kaðla, en vinda á efsta lofti, svo allar vörur mátti draga upp á hvert loftið, sem vera skyldi. Fram undan húsinu og dálítið til hliðar við það var timburbryggja, sem þeir bræðurnir áttu.
Mannvirki þessi voru eign Kaupfélagsins og Bræðraverzlunarinnar í samlögum. Hafði Sigurður hreppstjóri staðið fyrir byggingu hússins og þótt það væri ekki alveg fullsmíðað enn, þótti öllum mikils um það vert, enda hafði það kostað ærið fé.
Þessi endi kaupstaðarins bar því langt af hinum að svip og stórlæti. Þó leyndi það sér ekki, að gamla, danska fastaverzlunin hafði hreiðrað sig þar, sem bezt var aðstöðu; enda var hún búin að sitja þar lengur að völdum og lengst af ein. Af því að Bræðraverzlunin var utar með voginum, voru mannvirkin þar í meiri hættu fyrir sjógangi og nær opnu hafi. Inni hjá Jespersens-bryggjunni kom sjaldan kvika.
Öll stóðu kaupstaðarhús þessi þannig, að hefði kviknað í ytri endanum á kaupstaðnum í stinnings-hafrænu, þá hefðu logarnir óefað sópað burtu öllum kaupstaðnum.
Í kringum þessi timburhús og jafnvel inni á milli þeirra stóð mesti sægur af kotum og torfkofum, með vindblásnum stöfnum, brotnum og skökkum gluggaborum og grasgrónum torfþekjum. Fæstir voru bæirnir reisulegir. Sumir voru grafnir ofan í hólana og síðan reft yfir. Voru það bústaðir fátækra daglaunamanna og sjómanna, og hét hver bær sínu nafni.
Kirkja var engin í kaupstaðnum. Hún var stutta bæjarleið í burtu þaðan, og enginn hafði ennþá hreyft því að flytja hana nær. Kaupstaðarbúum fanst þeir komast af án hennar, og sveitafólkið áleit, að þeir hefðu ekki mikið með kirkju að gera; enda fór ilt orð af kaupstaðarbúum fyrir gjálífi og guðleysi. En rígur við kaupstaðina er gamall og rótgróinn til sveita á Íslandi. Þó kvörtuðu kaupstaðarbúar ekki undan kirkjuleysinu. Þeim var það nóg, að prestarnir, hver fram af öðrum, höfðu jafnan verið í kaupstaðnum með annan fótinn, verið þar flesta virka daga vikunnar, og á mæturnar líka, þegar þeir voru svo fullir, að þeir komust ekki heim til sín.
Ofurlitlu barnaskólahúsi höfðu kaupstaðarbúar komið sér upp með tilstyrk hreppsbúa. Þörfin fyrir það var orðin svo mikil og knýjandi, að allir fundu til hennar á einhvern hátt. Barnaskólaþörfina fundu fæstir. En það vantaði þinghús, fundahús, leikhús, good-templarahús og hús til að dansa í. Þetta síðasta var sterkasta aflfjöðrin í fyrirtækinu, þótt fáir vildu kannast við það.
Á bak við allan kaupstaðinn og fyrir ofan hann var túnið á Vogabúðum, bæ Sigurðar hreppstjóra. Það var feiknastórt og vel hirt og hin mesta prýði fyrir kaupstaðinn. Þótti það fagurt frá höfninni, að sjá þyrpinguna af ljósmáluðum timburhúsum bera í grænt túnið. Því hallaði öllu hægt ofan að voginum, í stefnu á ytri kaupstaðinn, eins og það byði honum faðminn með innilegri velþóknun. Gamli kaupstaðurinn var heldur hliðhalt við það. Svo leit út, sem náttúran hefði hagað þessu þannig af spádómsanda og óskeikulli framsýni, er hún skóp þessa staði, því að nú var svo komið, að býlið átti kært kjöltubarn þar niðri á ströndinni. Bræðraverzlunin var hold af holdi þess og bein af beinum þess. Gamli kaupstaðurinn hafði aldrei verið annað en fósturbarn, illa innrætt og erfitt aðbúðar - og nú loksins algerlega afrækt.
Í miðju túninu stóð bær Sigurðar. Hann var rammíslenzkur hátt og lágt, svipfríður og reisulegur, með mörg stafnþil fram að hlaðinu. Þau sneru sama veg og hallinn á túninu. Öskuhaugur mikill og grasgróinn, margra alda gamall, stóð í varpanum og gerði heimsýnina þangað enn íslenzkari. Ekki hafði Sigurður enn lært að meta ágæti hans, og var hann þó búmaður mikill og hirðumaður. - Stafnþilin voru tjörguð, með hvítum gluggaumgerðum. Bæjarhúsin voru rammbygð, máttarviðir flestir úr óruddum rekatrjám og veggir prýðilega hlaðnir. Alt var þar traustlegt og sómasamlegt; því betra, sem nær því var gengið. Burstirnar gnæfðu hátt. Voru útflúraðir vindhanar á háum stöngum upp af hverri burst, og tístu þeir ámátlega, þegar þeir snerust um járnteina sína. - Einhver orðheppinn náungi hafði sagt, að bærinn líktist Sigurði hreppstjóra og minnti á mörg af lyndiseinkennum hans. Hinir traustu, óruddu innviðir mintu á sanníslenzka sómamennsku, öskuhaugurinn á þekkingarskort og skammsýni, en vindhanarnir á framhleypni hans og hégómaskap. Einkum fanst honum eitthvað broslega skylt með veðurvitunum útflúruðu og tísti þeirra og frönsku hárkollunni. Mörgum þótti líking þessi ekki fráleit, og lífseig var hún þar í nágrenninu.
-
Eins og áður er um getið, var verið að afferma gufuskip fram undan ytri kaupstaðnum. Hafði það komið með vörur til Bræðraverzlunarinnar og Kaupfélagsina í samlögum, allar birgðir þeirra til haustsins og vetrarins.
Sigurður gamli hafði rétt fyrir sér: þar var mikið að gera. Allir, sem vetlingi gátu valdið, voru teknir í vinnu. Enginn bátur fór til fiskjar þann dag, því að bæði formenn og hásetar höfðu fyrirfram lofað liðsinni sínu, þegar skipið kæmi. Heima í Vogabúðum lágu amboðin uppi á skemmuþekjunni og gisnuðu í sólskininu, því Sigurður hafði látið alt sitt vinnulið fara ofan eftir og hjálpa til við uppskipunina. Krakkar og liðléttingar söfnuðust þangað líka; ef ekki til að hjálpa til, þá að minsta kosti til að horfa á atganginn og þvælast fyrir.
Það var því bókstaflega satt, sem Sigurður sagði, að varla var auðið að fá krakka til sendiferða. Orsökin var þó ekki beinlínis sú, að á öllum þessum liðsafla þyrfti að halda, heldur hitt, að hér voru nýjungar á ferðum. Gufuskipakomur á voginn voru sjaldgæfar, en höfðu aukist til nokkurra muna síðan Kaupfélagið byrjaði og Bræðraverzlunin tók að færast í aukana. Strandferðaskipin komu þar sjaldan við; en auk þeirra komu fá önnur gufuskip en þau, sem færðu kaupfélagsmönnum vörur þeirra eða sóttu til þeirra vörur. Jespersens-verzlunin hafði aldrei notað annað en seglskip. Mönnum fanst því mikið um að sjá gufuskip svo nálægt sér, einkum yngra fólkinu og börnunum. Þar við bættist forvitnin eftir að sjá, hvaða vörur kæmu á land úr skipinu, að svo miklu leyti sem það var hægt. Og þar sem flest af þessu fólki átti einhvern vandamann í vinnunni, gat það komið á vettvang í skjóli hans, en var svo jafnan reiðubúið að gera þar eitthvað til þægðar, ef því varð við komið, til þess að verða síður rekið burtu.
Á bryggjunni, í kringum hana og alla leið fram að skipshliðinni var eirðarlaust annríki. Vörurnar voru drifnar á land í ofboðsflýti. Tveir stórir bátar voru notaðir og aðrir minni til að létta undir. Annar stórbáturinn lá jafnan við skipshliðina og var hlaðinn þar, meðan hinn var tæmdur við bryggjuna. Hróp og köll, áraglam, skrölt í járnfestum, skarkali í eimvindu, marr í hjólum og skellir í kössum - alt blandaðist þetta saman og varð að samfeldri suðu.
Úti við skipshliðina gekk alt með föstum, jöfnum tökum, því þar vann vélin erfiðu verkin. En á landi gekk það til á annan hátt. Þar urðu mannskraftar einir að glíma við erfiðleikana. Hin mikla aflæð, Búðaráin, niðaði ögrandi við eyru manna og ýfði harma þeirra, sem skraf hennar skildu. Með stunum og óhljóðum og miklum erfiðismunum var þungum kössum velt upp á bryggjuna og síðan upp bryggjuna að gafli geymsluhússins mikla. Tunnur og minni kassar skoppuðu á eftir í löngum lestum. Kornvörusekkjum var snarað upp á bryggjuna af tveimur knáum körlum. Þar tóku aðrir við þeim og lyftu á herðar þeim, er áttu að bera þá upp að geymsluhúsinu, eða snöruðu þeim upp á handbörur þeirra. Bryggjan svignaði milli stólpanna undan þunganum af vörum og mönnum og lék á reiðiskjálfi undir harðahlaupum. Litlu bátarnir lentu við sandinn, ef ekki varð að bryggjunni komist. Þar stóðu menn í mitti úti í sjónum við að losa þá. En rennihjólið í geymsluhússgaflinum og vindan þar uppi tístu og mörruðu hvort í kapp við annað, eins og gömul og orpin hesputré, þegar vörurnar voru dregnar upp á loftin.
Þannig hafði verið haldið áfram í 14 klukkustundir, hvíldarlaust að heita mátti. Ekkert hlé hafði verið gefið til máltíða. Verkamenn létu færa sér bita og sopa að heiman og gleyptu það í sig, sitjandi á kössum í fjörunni eða hallandi bakinu upp að vörusekkjunum, til þess að láta líða úr því þreytuna. Annars var haldið áfram, jafnt og þétt.
Útlendir skipstjórar eru oft herralegir í íslenzkum höfnum. Þeir hafa komist að því, að þeir geta leyft sér það hér, sem þeir komast ekki upp með annarstaðar. Landsmenn gera lítið til að venja þá af því. Þegar verið er að ferma eða afferma skip á höfnum, sem skipstjórinn af einhverjum ástæðum hefir ekki velþóknun á, gerir hann sig umsvifalaust að yfirmanni allrar vinnunnar og rekur hana áfram með hóflausri frekju. Að þessu sinni var skipstjórinn norskur, skapvondur ribbaldi. Þegar eftir komu skipsins var hann orðinn ölvaður og bætti jafnan á sig eftir það. Gerði hann það ýmist sem gestur þeirra kaupfélagsmanna á landi eða gestgjafi þeirra frammi á skipinu. Þess á milli stóð hann úti á þiljum eða uppi á stjórnpallinum, rak eftir vinnunni með harðri hendi, úthúðaði mönnum fyrir seinlæti og slóðaskap og hótaði að sigla burtu með vörurnar: Öllum þessum móðgunum tóku landsmenn með þögn og þolinmæði. Og í stað þess að taka durginn og kaffæra hann, svo í honum lækkaði rostinn, skulfu þeir af auðmýkt fyrir honum og hertu sig, ef þeir gátu. Samtökin vantaði. Enginn þorði að treysta á fylgi hinna og tala einarðlega í nafni allra.
Bræðurnir voru smeykir um, að skipstjóri mundi framkvæma hótanir sínar. Tóku þeir þá það ráð, sem lengi hefir tíðkast í kaupstaðarvinnu. Þeir fóru að gefa verkamönnunum í staupinu og herða þannig á þeim með góðu.
En þess hefði ekki þurft við. Þótt ætla mætti, að flestir væru fyrir löngu gugnaðir af þreytu, seigluðust þó allir enn. Menn voru því svo vanir að vinna yfir sig, þegar á lá, vinna stritvinnu alt að tuttugu stundum í sprettinum, að þeim ofbauð fátt. Þrátt fyrir þreytuna var glaðværðarbragur á hverju andliti. Þeir fundu til þess með sjálfum sér, að vel hafði verið gengið fram um daginn. Enn fuku gamanyrði á milli manna, ekki síður en um morguninn, þegar byrjað var. - - -
Nú var vinnunni lokið.
Síðasti vörubáturinn lá við bryggjuna og var verið að losa hann. Hinn var laus og verið að leggja honum við akkeri frammi á voginum.
Nú hefði mátt ætla, að gufuskipið ryki af stað. En það var öðru nær. Nú lá það sem fastast. Allur sá gauragangur, sem hafði verið þar úti um daginn, var dottinn í dúnalogn. Hinn mikli járnskrokkur ruggaði sér letilega á lognölduleiðingum, sem liðu inn eftir voginum. Eimflautan þagði, eins og hana vantaði alveg. Ofurlítill, hvítur gufuslitringur þaut suðandi upp úr öryggispípunni og klauf sig um reykháfinn. Nú var enginn asi á neinu. - Skipstjórinn var sofnaður út frá drykkjunni.
Flestir urðu fegnir hvíldinni. Til og frá sáust menn standa, styðja annari hendinni á bakið og varpa mæðilega öndinni. Nú, þegar stritið var hætt, stirðnuðu limirnir fljótt. Sumum fanst sem þeir tæplega mundu treysta sér til að ganga heim til sín.
Kaðallinn á rennihjólinu á geymsluhússgaflinum var dreginn upp og hlerunum þar uppi skelt aftur.
Þá kom maður upp bryggjuna, með hálftunnusekk af matbaunum á bakinu. Hann heyrði, að verið var að skella aftur hlerunum, og kallaði svo hátt sem hann gat, að ennbá væri einn sekkurinn eftir. En af því hann bar sekkinn á háhesti og laut mjög áfram, varð kallið kraftlítið og heyrðist ekki upp í geymsluhúsið. Hann fór þá að greikka sporið upp bryggjuna; en það kom fyrir ekki. Sekkurinn kom samt of seint.
Maður þessi var Einar Ásmundsson í Bælinu.
Einar setti niður af sér sekkinn við geymsluhússgaflinn, rétti þreytulega úr sér og stundi við. Hann tók ofan húfuna, sem öll var mjölug, og lét loftið leika um höfuð sitt. Hárið var rennvott af svita. Hann strauk stærstu dropana af enni sér með treyjuerminni.
"Þú kemur þá þarna með einn sekkinn ennþá, Einar minn", sagði Sveinbjörn, annar eigandi Bræðraverzlunarinnar. Hann bar þar að í þessu. "Þeir eru nú búnir að draga upp kaðalinn og loka hlerunum þarna uppi. En við skulum snara honum hérna inn í kjallarann og láta hann lúra þar til morguns".
Síðan tók hann í hornið á baunasekknum og hjálpaði Einari til að láta hann inn fyrir kjallaradyrnar. -
Einar var tæpur meðalmaður vexti, grannur og magur, fremur kraftalítill, en seigur eins og ól og þaulvanur illri meðferð. Hann hafði ekki legið á liði sínu um daginn, fremur en aðrir, en bar þó þreytuna mörgum betur.
Hann var fáklæddur og illa til fara. Skyrtugarmurinn hékk gauðrifinn utan um handleggi hans. Vestið var alt sundur tætt á bakinu, og sitt spennuslitrið lafði niður hvorum megin. Flestar tölur voru slitnar úr vesti og buxnahaldi, eftir stritið og stimpingarnar, en spottar komnir í þeirra stað til bráðabirgða.
Einar í Bælinu þekti hvert mannsbarn í kaupstaðnum. Hann var búinn að hokra þar í mörg ár í þurrabúð, stundum með sveitarstyrk, en oftast án hans. Hann var bláfátækur fjölskyldumaður og stundaði daglaunavinnu hvar sem hann gat fengið hana. Kot átti hann þar uppi með túnjaðrinum, sem hét Bæli. Það stóð þar, sem gamalt kvíaból hafði verið frá Vogabúðum. Var Einar við það kendur, að gömlum íslenzkum sið, og oftast nefndur Einar í Bælinu, stundum Bælis-Einar. Hitt datt engum í hug að bera Einari á brýn, að hann lægi "í bælinu" að óþörfu. Því auk þess, sem hann var sívinnandi og hverjum manni árrisulli, kom það iðulega fyrir, að hann kom alls ekki heim í Bælið sitt heilar nætur eða nóttum saman, þegar hann var drukkinn.
Þó var Einar fremur vel látinn, og flestir vildu víkja góðu að honum. Menn sáu basl hans og fátækt og létu hann njóta þægðar sinnar og vinnugefni. En sá hængur var á ráði hans, að fáir vildu eiga mikið undir honum. Hann var kunnur að ófrómleik. Að vísu hafði enginn haft neitt af því að segja nú um langan tíma. En fyrir nokkrum árum hafði hann komist undir manna hendur fyrir þær sakir og lent í hegningarhúsinu.
Nú var farið að fyrnast yfir þá sögu. Flestir töldu sér skylt að reyna að láta hana gleymast. Samt varð mönnum hún torgleymd.
"Haldið þér, Einar minn, að þér treystið yður til að vaka yfir vörunum í nótt?" mælti Sveinbjörn með þýðum rómi. "Ég veit, að þér eruð orðinn þreyttur; en það eru allir".
"O-já", svaraði Einar dræmt, en þó glaðnaði yfir honum við þetta. Hann treysti sér vel til að vaka, ofan á verk sitt um daginn. Hann vissi líka, að hann mundi fá gott kaup fyrir það - og jafnframt datt honum annað í hug, sem hýrgaði hann: Þeir mundu varla verða svo stakir, bræðurnir, að láta hann ekki hafa á eina "pöddu", fyrst hann átti að vaka.
Sveinbjörn þakkaði honum undirtektir hans og skundaði upp í búðina.
"Farðu heim, strákur, og segðu henni mömmu þinni, að ég komi ekki heim í kvöld; ég á að vaka yfir vörunum", sagði Einar við dálítinn drenghnokka, óhreinan í framan og illa til fara, sem stóð þar í fjörunni og horfði stórum augum á þá til skiftis, pabba sinn og "fína manninn", meðan þeir töluðust við. - "Og farðu svo að hátta", hrópaði Einar á eftir drengnum, í því hann tók viðbragð og hljóp af stað heim á leið.
Einar skygndist um þar í fjörunni. Þar var engu líkara en að rekaldi af skipbroti hefði verið bjargað undan sjó í mesta ofboði. Vörukassar og vörutunnur lágu til og frá um alla fjöruna. Einkum var þar heill fjöldi af steinolíutunnum, sem allar áttu að fara inn í kjallarann, en fæstar voru komnar lengra. Auk þess var geymsluhúsið sama sem opið, því ekki var enn búið að ganga svo frá kjallaradyrunum, að hægt væri að læsa þeim; en úr kjallaranum mátti ganga um alt húsið. Dyraumbúnaðurinn var líka í ólagi; hann hafði raskast um daginn, þegar nokkrum steinolíutunnum var velt þangað inn. Nóg var því að gera handa heilum mannsöfnuði einn daginn til, að koma vörunum í hús og gera það trygt. Nú voru allir búnir að fá nóg af deginum. Var því hvorttveggja vel skiljanlegt, bæði að verkið var látið bíða næsta dags og eins hitt, að vaka þyrfti yfir vörunum um nóttina.
Þetta var um fyrri hluta ágústmánaðar og farin að dimma nótt.
Einar hvíldi sig stundarkorn upp við kjallarakampinn, laut áfram og var hugsi. Ánægjubros lék um alt magra og veðurbitna andlitið. Honum fanst það bera vott um óvanalegt traust á sér, að Sveinbjörn hafði einmitt beðið hann að vaka. Hann ásetti sér að gera það trúlega; ef til vill yrði honum þá seinna trúað fyrir öðru eins og meira. Þorgeir verzlunarstjóri hafði reynt trúmensku hans á margan hátt, meðan hann að jafnaði stundaði vinnu hjá honum, og oft verið honum hlyntur. Honum var jafnan ánægja að minnast margs, sem þeim hafði farið á milli. Hjá bræðrunum var hann óreyndur; en nú voru þeir farnir að veita mörgum stöðuga atvinnu. Nú leit út fyrir, að honum gæfist einnig tækifæri til að vinna traust þeirra og hylli.
Hann hafði fengið ofurlítið bragð af flöskunni, sem borin hafði verið um á meðal verkamannanna síðari hluta dagsins. Það hafði aðeins æst upp í honum löngun í meira. Nú fanst honum, að hann mundi naumast geta haldið sér vakandi alla nóttina, ef hann hefði alls ekkert til að hressa sig á. Hann þóttist þekkja sjálfan sig vel í þeim sökum. Oft hafði hann drukkið sig fullan; því bar ekki að neita. En hann gat varast það, þegar hann vildi, og neytt víns "í hófi". Hvað gat verið því til fyrirstöðu, að hann fengi á "pöddu" til næturinnar? - Þessar hugsanir æstu löngun hans og gerðu hana brennandi sára. Hann lifnaði í öllum æðum af tilhlökkun og vatn kom fram í munninn á honum.
Þegar Einar hafði hvílt sig þarna stundarkorn, gekk hann upp í búðina.
Hún var opin ennþá. Var þar verið að afgreiða marga af þeim, sem verið höfðu í vinnunni um daginn. Friðrik kaupmaður var sjálfur í búðinni og hjálpaði til við afgreiðsluna. Framan við búðarborðið var þröng af mönnum, sem biðu afgreiðslu.
Einar komst inn að búðarborðinu, þar sem skáborð bókarans stóð. Þar var Friðrik staddur þá í svipinn. Laut hann yfir verzlunarbók og var að skrifa í hana. Einar talaði til hans gegnum rimlana, sem voru framan við skáborðið:
"Góði Friðrik minn, hjálpið þér mér nú um á eina "pöddu"!"
Friðrik leit upp og framan í hann og svaraði heldur hranalega:
"Við seljum ekkert brennivín í kvöld".
Síðan brá hann sér frá borðinu, og Einar gat ekki haldið bæninni áfram, fyr en hann kom þangað aftur.
"Góði, - gerið þér nú þetta fyrir mig!" bað Einar enn innilegar. "Ég á að vaka í nótt yfir vörunum".
"Átt þú að vaka í nótt yfir vörunum?" spurði Friðrik, ekki mýkri í máli en áður. "Hver hefir beðið þig um það?"
"Sveinbjörn".
"Hefir Sveinbjörn - -?"
Rétt í þessu kom Sveinbjörn fram í búðina úr skrifstofunni. Friðrik fór á móti honum.
"Hefir þú beðið Einar í Bælinu að vaka yfir vörunum í nótt?"
"Já, ég nefndi það við hann".
"Ertu - - ".
Meira heyrðist ekki, því bræðurnir töluðu í hljóði. En endirinn gátu allir kunnugir séð fyrir. Þegar þá greindi á, bræðurna, var það oftast Friðrik, sem réð.
Einar fylgdi þeim eftir með augunum. Hann las orðin á vörum Friðriks, þótt hann heyrði þau ekki. Þau smugu í gegnum hann nístandi sár, eins og þeim hefði verið hreytt beint í andlit honum: Af því að hann hafði verið í hegningarhúsinu, var honum ekki trúandi fyrir því að vaka yfir vörunum!
Öll barátta hans fyrir því að kynna sig sem vandaðan mann var árangurslaus. Enginn trúði honum!
Það sýndi sig brátt, að Einar hafði farið nærri um hljóðskraf þeirra bræðranna. Rétt á eftir kom Sveinbjörn að borðinu til hans og mælti ofurblíðlega:
"Við ætlum að láta hann Jóhann, vinnumanninn okkar, vaka í nótt. Þér eruð orðinn þreyttur, karltetur, svo það er gustuk að hlífa yður við því. Þér ættuð að fara heim og hvíla yður. Þér getið fengið vinnu hjá okkur á morgun, ef þér viljið".
Einar klóraði sér í hnakkanum, en svaraði engu. Hér voru öll orð óþörf. Það var ótvírætt, hvað þeir vildu.
Honum var svo þungt niðri fyrir, að orð voru ekki auðfundin yfir tilfinningar hans. Síðan sneri hann þegjandi út úr búðinni. Brennivíns-"pödduna" var auðvitað árangurslaust að nefna oftar.
Í búðardyrunum mætti hann Jóhanni vinnumanni þeirra bræðranna.
Hann var maður rúmlega tvítugur að aldri, mikill vexti og sterkur, rauður í andliti og varaþykkur. Heldur var hann einfeldnislegur á svip, en mesti galgopi.
"Dragnastu nú heim í Bælið þitt, Einar minn", sagði hann og sló gletnislega á öxlina á Einari.
Hefði Einar verið í góðu skapi, mundi hann hafa tekið þessu sem meinlausu gamanyrði. En eins og nú stóð á, var honum það ný móðgun, óbærilegur ábætir á hinar fyrri. Hann leit illum augum á piltinn og sárlangaði til að gefa honum ósvikinn löðrung. Til allrar hamingju áttaði hann sig þó í tíma. Jóhann var miklu meiri maður fyrir sér en hann. Einar reikaði því út úr búðinni, þegjandi, en í þungu skapi.
Vonbrigði, vantraust, gabb, háðglósur - þetta var hans hlutskifti. Það voru launin, sem hann hlaut að loknu dagsverki, eftir að hann hafði unnið og þrælkað meira en hann var maður til. Ómakleg tortrygni mætti honum hvarvetna, eins þar, sem hann átti hennar sízt von. Ennþá umgengust menn hann sem brennimerktan afbrotamann. Enginn tók eftir margra ára viðleitni hans að afmá þann vanvirðublett.
Það lá við, að hann féllist á máltækið gamla, að ilt væri að heita strákur og vera það ekki.
Alt þetta gagntók hann svo með gremju, að honum lá við gráti.
3. kafli - VerzlunarsagaEkki var það nýlunda, þótt Þorgeir verzlunarstjóri væri seint á ferli á kvöldin. Kunnugir vissu, að oft gekk honum illa að sofa á nóttunni, og svefnleysi hans ágerðist. Þeir, sem þektu skap hans, skildu það vel, að hann yndi því illa að liggja vakandi í rúmi sínu.
Venjulega fór hann inn í skrifstofu sína eftir kvöldverðinn og gaf sig ekkert að öðrum mönnum. Enginn vissi, hvað hann sýslaði eða hvenær hann háttaði. Hann svaf einn í húsinu niðri. Oft þóttust menn verða varir við umgang í þeim enda hússins, sem búðin var í og ætlaður var vörum, bæði uppi og niðri, löngu eftir háttamál eða jafnvel undir morgun. Enginn gerði sér þó órótt út af því. Allir þóttust vita, að það væri verzlunarstjórinn sjálfur.
En hvenær sem Þorgeir fór að hátta, var hann þó jafnan með þeim fyrstu á fætur á morgnana. Fyndist honum sig vanta svefn, bætti hann úr því með ofurlitlum miðdegisblundi.
Mest hafði kveðið að næturvökum Þorgeirs þetta sumar, og næturnar næstu á undan því, sem hér segir frá, hafði honum lítið orðið svefnsamt. Fáir voru svo seint á ferli, að ekki hefðu þeir getað séð ljósglætu leggja út um hjartamynduð göt á hlerunum fyrir skrifstofuglugga hans. Oft sáu menn og skímu bregða fyrir í öðrum gluggum í þeim enda hússins, sem sýndi það, að ljós var borið um herbergin. Þetta þótti mönnum því kynlegra, sem fáir notuðu ljós um þessar mundir, því seint skygði að á kvöldin og snemma birti á morgnana. Ljósþörfin stóð ekki yfir nema 3 - 4 klukkustundir úr nóttunni.
Nóttina á undan því, sem hér segir frá, hafði Þorgeir verið svo slysinn að brjóta glasið af lampa þeim, sem hann notaði á næturrjátli sínu. Hann tók þá fram kassa með lampaglösum til að ná sér í eitt. Það var sami lampaglasakassinn, sem varð fyrir svo ómildum örlögum við aðsókn hreppstjórans um kvöldið. - -
En áður en sögunni heldur áfram, er nauðsynlegt að litast um og kynnast atvikum og ástæðum.
Tæplega er unt að komast að réttum skilningi á menningarástandi neinnar þjóðar án þess að þekkja verzlunarsögu hennar. -
Verzlunarsaga héraðs þess, sem hin konunglega náð af vísdómi sínum og landsföðurlegri umhyggjusemi eitt sinn hafði rammtjóðrað við Vogabúðakaupstað og tók yfir heila sýslu og part úr annari, hafði verið beint og óbreytt framhald af sögu einokunarverzlunarinnar gömlu, löngu eftir að dagar hennar voru taldir - í orði kveðnu. Þegar verzlunin var gefin frjáls við alla þegna Danakonungs 1788, varð lítil breyting á henni. Danir sátu einir að hitunni, og Íslendingar meinuðu þeim það ekki. Sjálfir höfðu eigendur verzlunarinnar vit á því að koma svo ár sinni fyrir borð, að landar þeirra gerðu þeim ekki ónæði. Og fáum mun hafa þótt árennilegt að setjast þar að til samkepni. Þeir sátu því einir og óáreittir og þrifust vel. Tökin á landsmönnum kunnu þeir af langri reynslu, svo að ekki stafaði verzluninni hætta úr þeirri átt. Hún skifti við hvern mann út af fyrir sig og hagaði sér sem henni hentaði bezt við hvern einstakan. Verzlunarstjórarnir voru oftast danskir og vanir að láta hag sinn og verzlunarinnar ganga fyrir öllu öðru. Mörgum þeirra fanst þeir vera útlagar úr landi sínu, meðan þeir voru hér, og hugsuðu um það mest af öllu að eiga sem fyrst heimkvæmt með sem mestan auð og orðstír. Hjálenduhugsunin var þeim rík í blóði. Ísland var skapað til hlunninda fyrir þá og Danmörku. Þá guðsgjöf bar að nota sem arðvænlegast.
Eins og gengur, voru mennirnir misjafnir, sem hófust til þeirrar tignar að verða verzlunarstjórar í Vogabúðum. Sumir voru ofstopamenn og ófyrirleitnir, mentunarsnauðir ribbaldar; öðrum var betur farið. En allir komu þeir sér illa við landsmenn, fyr eða síðar, og enginn þeirra hafði borið gæfu til að breyta verzluninni neitt til batnaðar. En hvernig sem mennirnir voru, fengust jafnan nógir Íslendingar til að gerast skósveinar þeirra og styrkja vald þeirra og áhrif. Ennþá eldi mjög eftir af óheillaleifum fyrri alda kúgunarinnar. Þýlyndið var ríkt og rótgróið í eðli manna. Öll viðleitni til sjálfstæðis og sjálfsbjargar var ófædd eða í blábernsku. Tilhneigingin var mikil og almenn til að skríða að fótum alls þess, sem vald hafði og mátt. Ekkert stóð mönnum þá nær en verzlunin. Hún var auðug og voldug. Á henni þurftu allir að halda. Hún gat refsað mönnum eða umbunað, eftir því, sem þeir höfðu til unnið. Við náðaryl hennar var blessað að orna sér. Þó var þessi blessun sjaldan annað en bónþægni á vörulán, eða vægð í skuldheimtum, sem alt hnepti þá fastar og rammar í þrældóm verzlunarinnar með hverju ári. Margir fundu sárt til lægingar sinnar og magnleysis gagnvart verzluninni. Skuldaól hennar hringaðist hvínandi yfir höfðum þeirra. Þeir hötuðu hana í hugskoti sínu og báðu henni allra óbæna. En gegn henni þorðu þeir ekki að rísa og augnaþjónustan var henni kærari en engin þjónusta. Alt sótti því í gamla horfið. Og þegar tímar liðu fram, var ofurvald og eindæmi dönsku selstöðuverzlunarinnar í Vogabúðum orðið álíka óþolandi og á dögum Skúla Magnússonar.
En þá var háð snörp hríð um verzlunarmál Íslands, sem Vogabúðamenn höfðu lítið veður af og áttu enn minni þátt í. Hún var háð af einörðum mönnum, sem unnu föðurlandi sínu brennandi heitt, þektu þarfir þess og hikuðu ekki við að leggja Danahylli sína í sölurnar fyrir hagsmuni þess. Þeirri hríð lyktaði þannig, að verzlun Íslands var lýst frjáls við allar þjóðir 1854.
Nú hefði mátt ætla, að héraðsmenn tækju rögg á sig og færu að reyna að færa sér í nyt frelsi það og réttindi, sem aðrir höfðu aflað þeim til handa. Danska verzlunin skalf á beinunum af ótta og angist; hún tók eftir því, hverju fram fór í löggjöfinni. Nú fanst henni sem dagar sínir mundu vera taldir. Henni þótti því ráðlegra að draga ögn úr ofstopa sínum og ójöfnuði og koma sér vel við almenning. Nú mátti gera ráð fyrir samkepni þá og þegar, og betra að vera við henni búinn. - En Vogabúðamenn gáfu slíku lítinn gaum. Þeim var ekki viðbragðsgjarnt, þótt einhverjar nýjungar bærust þeim. Heila áratugi voru þeir að átta sig á þessari stórbreytingu á verzlunarlöggjöfinni. Loks virtust þeir hafa gleymt henni. Þeim var orðið svo tamt að bera klafann, að þótt hann væri nú fallinn, fanst þeim þeir bera hann enn og stóðu kyrrir. Að örfáum mönnum undanteknum, sem þráðu breytingu á verzluninni og fleiri viðskiftamenn, hirti fjöldinn ekkert um frelsi sitt. Engin tilraun var gerð til þess að útvega nýjan viðskiftamann. Enginn kom óboðinn. Ár eftir ár féll allur viðskiftastraumurinn jafnt og rótt í gamla farveginum og bar að ósi í móðurskauti hinnar dönsku fastaverzlunar.
Menn voru lítilþægir. Þeir fundu, að hún linaði á tökunum, og voru henni þakklátir. Það voru viðbrigði frá því, sem áður hafði verið. Hún var ekki eins bölvuð og af var látið. Þeir mundu eftir henni verri.
Verzlunarstjórnin danska sá, að bragðið ætlaði að blessast. Hún notaði þá tímann, meðan til vanst, til þess að búa í haginn fyrir sig og tryggja framtíð sína. Verðbréf verzlunarinnar höfðu fallið í verði, þegar lögin komu út. Nú hækkuðu þau aftur. Verzlunarskjölin gáfu góðar vonir.
-
Þannig stóðu sakir, þegar Þorgeir Ólafsson varð verzlunarstjóri.
Hann var þá ungur að aldri, aðeins 25 ára gamall. Það var óvanalegt að sjá jafnungan verzlunarstjóra við þá verzlun. Hann tók við stöðunni fullur trausts og vona og með kjark og vilja, sem sýndist óbilandi.
Þorgeir var kominn af bændafólki þar uppi í sveitunum. Hafði hann komið kornungur í þjónustu verzlunarinnar og unnið sér þar sjaldgæfa hylli. Verzlunarstjórnin styrkti hann til utanfarar og tók hann á skrifstofu sína í Kaupmannahöfn. Jafnframt stundaði hann nám á verzlunarskóla. Að því loknu var hann gerður að verzlunarstjóra.
Sú var tíðin, að varla var nokkur staða vegsamlegri og vandameiri hér á landi en verzlunarstjórastaðan við stórar fastaverzlanir, sem vegna gamallar venju drotnuðu einvaldar í héruðum sínum. Sýslumannsstaðan ein gat komið til greina til samanburðar. Þó varð oft og tíðum einnig lítið úr henni hjá valdi og ríki verzlunarstjórans. Verk það, sem sýslumönnum var falið, var smáræði að ábyrgð og umsvifum hjá því, er á verzlunarstjóranum hvíldi. Laununum og hlunnindunum varð hvergi nærri saman jafnað. Og þótt sýslumaðurinn hefði dómsvaldið með höndum, sem verzlunarstjórinn hlaut að lúta eins og aðrir, fór því fjarri, að það yrði verzlunarvaldinu til hnekkis að jafnaði. Oftast tókst með lagni að sætta þessi fjarskyldu völd til þolanlegrar samvinnu. Kóngsvaldinu hefir löngum fundist það álitlegast til góðs gengis að hafa auðvaldið til stuðnings á aðra hönd sér, en andlega valdið á hina. Öll lifa þessi völd á spekt og taumfýsi alþýðunnar og sjúga sveita hennar. Í Vogabúðum og þar í grendinni hafði þessu verið þannig farið um ómuna aldur. Og enn - eftir miðja 19. öld - fylktu þeir sér oftast undir eitt merki, verzlunarstjórinn og embættismennirnir. Aðrir atkvæðamenn héraðsins gerðust þá taglhnýtingar þeirra. Það var vænlegast til gengis og frama. Og í þessum flokki var verzlunarstjórinn líklegastur til forgöngu. Hann var þeirra voldugastur.
Þannig var þessu eitt sinn farið. En aldrei má treysta varanleik nokkurs hlutar í þessum blessuðum heimi. Efri ár 19. aldarinnar munu jafnan fá orð fyrir hraðstígar breytingar. Þau voru leysinga-ár. - -
Verzlunin hafði verið vel á vegi stödd áður en Þorgeir tók við henni; en eftir komu hans tók þó hagur hennar mjög að blómgast. Eftir nokkur ár hafði vörumagnið, bæði að innfluttri og útfluttri vöru, meira en tvöfaldast. Verzlunin varð að færa út kvíarnar, kaupa sér hafskip í viðbót og auka og bæta eignir sínar á landi, til þess að hafa við viðskiftaþörfinni. Þetta gerði verzlunarstjórnin ytra auðvitað með glöðu geði.
Þetta var þó ekki alt að þakka verzlunarhyggindum Þorgeirs, þótt mikið mætti þakka þeim, heldur góðæri og velgengni sveitanna í ýmsum greinum. Meðal annars hafði risið þar upp nýr atvinnuvegur, áður lítið stundaður; það var sjávarútvegurinn. Þar bættist verzluninni ný vara, sem hún hafði ekkert haft af að segja áður. Þorgeir var einn af fyrstu forgöngumönnunum í þeirri grein - sem og mörgu öðru, er til bóta horfði, bæði til lands og sjávar. Hvatti hann menn óspart til að hefjast handa og nota bjargræðisvegi sína, studdi þá til þess á margan hátt og lá ekki á liði sínu sjálfur. Önnur héraðsstórmenni fóru hér sem oftar að dæmi hans. Þessi framtakssemi manna og vaxandi velmegun varð öllum til góðs, og ekki sízt verzluninni.
Það studdi líka að vinsældum verzlunarinnar framan af, að Þorgeir var Íslendingur. Dönsku verzlunarstjórarnir höfðu verið landsmönnum fjarlægari í lund og fráhverfari en hann. Menn töldu sig í ætt við hann, beinlínis eða óbeinlínis, og voru upp með sér af honum. Þeim gekk greiðara að skilja hann en hina. Við þennan mann gátu þeir talað. Hann var uppalinn á meðal þeirra og skildi þarfir þeirra og ástæður út í yztu æsar. Enginn verzlunarstjóri þar hafði verið gæddur jafnvíðtækri þekkingu á þeim hlutum. Þeim var það nýtt, að litið væri íslenzkum og sanngjörnum augum á hagi þeirra úr þeirri átt. Þessi kunnugleiki Þorgeirs kom ekki síður þeim en honum sjálfum og verzluninni að góðu haldi.
Þorgeir hafði ásett sér að færa verzlunarlífið í nýtt horf, ekki með neinni snöggri breytingu, heldur smátt og smátt, með lagni og lempni. Hann vildi feginn létta af þessu miskunnarlausa verzlunarofríki, sem staðið hafði svo lengi, öllum til stórtjóns. Jafnframt vildi hann hreinsa hana - og íslenzku verzlunina yfirleitt - af því vansæmdarorði, sem af henni fór erlendis fyrir illar vörur og ill skil. Auðvitað taldi hann sér skylt að hlynna að fastaverzluninni, sem hann nú veitti forstöðu, og verja hana öllum áföllum og allri háskalegri samkepni.
Öllu þessu hugðist hann að geta fram komið með því fyrst og fremst að gera viðskifti landsmanna við verzlunina annars eðlis en þau höfðu áður verið. Þau áttu að hætta að vera nauðungarviðskifti og verzlunin átti að hætta að drotna yfir þeim. Skuldaverzlunina vildi hann afnema með öllu. Menn áttu að verða viðskifta-vinir verzlunarinnar, en ekki viðskifta-þrælar hennar. Þeir áttu að læra að meta kosti hennar og afsaka bresti hennar. Hún hafði oft hjálpað þeim og feðrum þeirra, þegar þeir voru að þrotum komnir. Margir þeirra áttu henni það að þakka, að þeir lifðu enn. Þess áttu þeir jafnan að láta hana njóta. Viðskiftin áttu að verða þeim ljúf, og trygð og samúð áttu að treysta sambandið milli kaupanda og seljanda og gera það æfilangt og arfgengt. En þetta gat þá fyrst komið til greina, er menn höfðu losað sig úr skuldaáþjáninni og skiftu við verzlunina eins og frjálsir og heiðarlegir menn, "efnalega sjálfstæðir", eins og hann komst þrásinnis að orði.
Þessar grundvallarreglur sínar prédikaði Þorgeir fyrir viðskiftamönnum sínum, hvenær sem hann gat því við komið. Hann sýndi þeim fram á, að viðskiftasjálfstæði þeirra væri grundvöllur alls annars sjálfstæðis. Það, að vera skuldlaus og skilvís í dagfari sínu, glæddi metnaðartilfinningu þeirra og gerði þá einarðari og upplitsdjarfari, við hvern sem þeir ættu. Auk þess hefðu þeir sjálfir beinan hagnað af því að verzla jafnan skuldlaust, því alt það skakkafall, sem verzlunin yrði fyrir vegna óskilsemi þeirra, lenti að lokum á þeim.
Um leið reyndi Þorgeir að gera þeim ljóst, að þeir ættu einnig sjálfsagðar kröfur á hendur verzluninni. Ætti hún drengskap og skilvísi að mæta, væri það ótvíræð skylda hennar að bjóða viðskiftamönnum sínum svo góð kjör, sem framast væri unt, án þess að henni væri þröngvað til þess af samkepni. Hún átti að láta sér nægja svo lítinn hagnað, sem hún frekast gat komist af með, en gera vini sína jafnan hluttakandi í þeim gróða, sem væri að þakka hagstæðum verzlunaratvikum. Hún átti að vaka yfir þörfum þeirra eins og góð húsmóðir og styðja allar sannar framfarir á meðal þeirra.
Að ýmsu leyti fylgdi Þorgeir þessum kenningum sínum fram í verkinu. Hann sjálfur og verzlun hans runnu saman í eitt fyrir honum, þegar um framkomuna út á við var að ræða. Úr því verzlunin var svift þeirri lagavernd, sem hún lengi hafði notið, var ekki annað fyrir en að hún staðfesti vald sitt og ríki sjálf með því að afla sér virðingar og vinsælda. Til þess átti hún að nota tímann dyggilega, meðan hún var ein og óáreitt. Hann var sannfærður um, að sér mundi takast að rótfesta kenningar sínar svo í meðvitund almennings, að allir skildu þær og féllust á þær. Þá var vel farið. Þá mátti gjarnan einhver keppinautur koma til sögunnar, því hann ynni þar ekkert á. Hjörðin þokaði sér aðeins þéttar saman, eins og við komu úlfsins. Andi samúðar og viðskiftatrygðar ríkti þá í héraðinu. Og sá andi væri andi hans sjálfs. Allir mundu þá þekkja og meta yfirburði hans og hlíta forsjá hans með fúsu geði. Honum var það drengskaparmál að bregðast ekki trausti þeirra. Þá væri vel fyrir séð hag hans og eftirmanna hans - ef þeir spiltu því ekki sjálfir.
Menn hlýddu á fortölur Þorgeirs og mótmæltu þeim ekki. Flestir létu þær eins og vind um eyrun þjóta. Margir hugsuðu sitt um ýms af þessum atriðum, þótt ekki þætti þeim vert að stæla um þau við verzlunarstjórann. Einnig fanst sumum kenningar hans fullheimtufrekar og ekki lausar við einveldishug og drotnunargirni. Þeir voru og efablandnir um, að þessi verzlunareindrægnisandi yrði jafnríkur, þegar á reyndi, eins og verzlunarstjórinn gerði sér von um. En hollara var að láta það ekki í ljós í návist hans, því Þorgeir var ákafamaður í skapi og trúmikill á mál sitt.
Árangurslaus varð viðleitni Þorgeirs þó ekki. Fyrstu árin minkuðu skuldir viðskiftamanna hans að drjúgum mun. Stöku menn tóku sér til íhugunar fortölur hans um "efnalegt sjálfstæði" og losuðu sig úr öllum skuldum. Voru þeir lengi í miklum kærleikum hjá Þorgeiri. Meðal þessara manna voru þeir bræður, Sveinbjörn í Seljatungu og Sigurður hreppstjóri í Vogabúðum; ennfremur umboðsmaðurinn á Klaustrinu og nokkrir fleiri, sem nú beittu hinu "efnalega sjálfstæði" sínu nokkuð á annan veg en Þorgeir hafði ætlast til í fyrstu.
Þetta voru blómaár Þorgeirs verzlunarstjóra, enda varð hann brátt slíkt stórmenni í héraðinu, að enginn var jafnoki hans. Jafnframt því, sem verzluninni óx fiskur um hrygg, græddist honum sjálfum drjúgum fé. Launin voru há og hlunnindin margvísleg. Þar að auki lagði hann stund á ýms gróðavænleg fyrirtæki, bæði til lands og sjávar. Verzlunarstjórnin ytra hafði hinar mestu mætur á honum, og mátti svo heita, að hann réði einn öllu um mál verzlunarinnar, bæði utan lands og innan.
Og vald þetta var ekki lagt í heiguls hendur. Þorgeir var því vaxinn og kunni vel með það að fara. Á framförum þeim, sem hann taldi sannar og staðgóðar, hafði hann mikinn áhuga og beitti sér jafnt fyrir hugsjónir annara sem sínar eigin, ef honum féllu þær í geð. Væri eitthvað nýtt á seyði í héraðinu, var ráða hans jafnan leitað. Í framfarasamtökum þeim, sem komist höfðu á, hafði hann sjaldnast forsætistignina á hendi; hana lét hann öðrum eftir, sem gengust fyrir vegsaukanum. En jafnan var hann með í ráðum og ekki skirðist hann við að taka í taumana um ráð eða framkvæmdir, ef honum sýndist svo.
Að rausn og stórmensku stóð hann öllum framar. Meiri háttar viðskiftamenn verzlunarinnar voru jafnan gestir hans, þegar þeir voru í kaupstaðnum. Allir heldri menn, sem til kaupstaðarins komu, voru sjálfsagðir í hús hans. Hann var íslenzkur í anda og gestrisinn að sið fornra stórmenna. Aldrei var hann glaðari en þegar svo margt var gesta við borð hans, að hann sjálfur og heimafólk hans komst ekki að.
En gestrisni hans náði lengra en til matar og húsaskjóls. Oft var setið að sumbli og glaðværð undir þaki Þorgeirs og margt bar þar nýtilegt á góma. Þar hittust menn úr ýmsum áttum, sem sjaldan höfðu tækifæri til samtals. Húsbóndinn sá um, að gestum hans leiddist ekki, og sjálfur var hann lífið og sálin í glaðværðinni. Mörg af framfaramálum héraðsins áttu þar upptök sín. Það var orðin venja meðal helztu manna héraðsins að hittast þar til mannfagnaðar og ræða áhugamál sín yfir góðum mat og gnótt af víni.
Á þeim árum var Þorgeir hverjum manni betur til höfðingja fallinn. Yfirleitt var hann stiltur vel, en þó nokkuð örgeðja við vín. Gleðimaður var hann í samsætum og gjarn á að halda ræður. Hann var tryggur vinur vina sinna, en hinum þungur í skauti, sem gerðu honum á móti. Einlægur var hann og hreinskilinn við hvern mann, en mörgum fanst hann frekur í orðum og harður í kröfum. Menn höfðu beyg af honum, en báru þó jafnframt lotningu fyrir honum.
-
Fyrstu 10 árin, sem Þorgeir var verzlunarstjóri, hafði hann ekkert af keppinautum að segja. Enginn treysti sér til að beita á hinn gamla einkarétt selstöðuverzlunarinnar. Að þeim tíma liðnum fór að bóla á keppinautum, þótt smáir væru.
Hinn fyrsti var danskur lausakaupmaður. Hann kom eina ferð á ári með allskonar vörur á skipi sínu, bæði nauðsynlegar og ónauðsynlegar, og seldi þær í lausakaupum á ýmsum höfnum, en þó mest á Voginum. Lagði hann skipi sínu við akkeri utarlega á voginum, þar fram undan, sem Bræðraverzlunin var nú. Þá var þar engin bygð. Innar mátti hann ekki vera á voginum, því þar var lægi Jespersens-skipanna. Tjaldaði hann yfir skipið milli siglutrjánna, sló saman krambúð í nokkrum hluta af farmrúminu og verzlaði bæði þar niðri og á þiljunum undir tjaldinu. Ekki fór hann fyr á haustin en vörur hans voru uppseldar, eða því sem næst, en kom svo með nýjar birgðir á vorin.
Ekki stóð lengi á því, að hann fengi viðskiftamenn á Voginum. Í fyrstu greiddi nýjungagirni manna götu hans; en síðan fleira. Það þótti að ýmsu leyti betra að skifta við hann en fastaverzlunina, og meðan hann lét aðeins hönd skifta hendi, gat hann selt sumt með betra verði en fastaverzlunin. Húsfreyjurnar í sveitunum biðu því með kaupstaðarferðir sínar - oft sér til stórbaga - þar til lausakaupmaðurinn var kominn. Þá fóru þær til hans með nokkuð af ullinni og tóku út á hana í lausakaupum. Þær urðu þá oft sjóveikar - því stundum var alda svo utarlega á voginum - og hraktar við lendinguna, því bryggja var engin; en þessi óþægindi létu þær ekki á sig fá.
Þorgeir fór að gefa þessum smáa keppinaut sínum auga og sá, að ekki mátti við svo búið standa. Samkepnin varð þó aldrei hörð, því leikslokin voru fyrirsjáanleg. Hann neitaði þeim um lán, sem nokkuð skiftu við lausakaupmanninn, og batt allar nýjar lánveitingar því skilyrði, að lánþeginn skifti við sig að öllu leyti. Þetta kom mönnum illa. Það lag var nú einu sinni komið á og orðið gamalt og landlægt, að enginn gat þrifist án þess að skulda í kaupstaðnum. Menn tóku út vörur á öllum tímum ársins gegn væntanlegum innlögum, þegar vörurnar væru til. Þegar svo vörurnar loks voru tilbúnar, gekk misjafnlega að láta þær hrökkva til borgunar á öllu því, sem út hafði verið tekið. Síðan þurfti að byrja á nýjum lánum. - Nú urðu þeir, sem ekki vildu hætta öllum viðskiftum við lausakaupmanninn, að taka alla ársúttekt sína hjá honum á sumrin í einu lagi, en komust í mestu þrot með allar nauðsynjar, áður en hann kom aftur. Þá fór einnig að bera á gamla verzlunarsjúkleikanum, sem fastaverzlunin hafði átt svo lengi við að búa, sem sé vanskilunum á skuldum þeim, sem þeir höfðu komist í við hann. Slík vanskil þoldi hann miklu síður en fastaverzlunin.
Aftur á móti mátti Þorgeir til að vera leiðitamari til lánveitinga við þá menn, sem hann hafði neytt til að hætta viðskiftum við lausakaupmanninn. Þeir hættu þó ekki viðskiftunum í raun og veru, en létu þau fara fram undir annara manna nöfnum. Afleiðingin af þessu öllu saman var sú, að vanskilin við fastaverzlunina fóru í vöxt. Úttekt manna var lík og áður; það hlaut að vekja grun hjá Þorgeiri, ef hún færi minkandi. En innlögin rýrnuðu, því að klipið var af þeim í laumi handa lausakaupmanninum. Skuldir viðskiftamanna Þorgeirs, sem farið höfðu minkandi um nokkur ár, fóru nú aftur vaxandi. Þar með varð ein af fegurstu verzlunarhugsjónum hans að láta undan síga.
En nú höfðu menn enn af nýju fengið að kenna á ráðríki fastaverzlunarinnar dönsku, aðhaldi hennar að viðskiftafrelsi þeirra og óvægni verzlunarstjórans. Þetta gróf um sig í skapi þeirra, þótt lítið bæri á.
Vanskilin við lausakaupmanninn fóru líka vaxandi. Hann lét í haf með minna og minna af vörum, en meira og meira af "föstum" - alt of föstum - eignum á landi, sem komu honum að litlu haldi á erlendum markaði. Loks leiddu vanskilin til þess, að hann varð að hætta ferðum sínum hingað til lands, en sendi skuldheimtumann í sinn stað til viðskiftamanna sinna.
Þar með var sá keppinauturinn úr sögunni. Þeir, sem höfðu haldið sér dauðahaldi í hann í verzlunarsökum, neyddust nú til að flýja á náðir Þorgeirs og sanna hið fornkveðna: "Sigraðir menn verða að sætta sig við allt". -
Næstu keppinautar Þorgeirs voru "borgarar". Það voru innlendir menn, sem settust að fyrir utan lóð verzlunarinnar. Keyptu þeir sér verzlunarleyfi, bygðu sér hreysi og tóku að verzla. Oftast keyptu þeir vöruafgang lausakaupmannsins á haustin og höfðu lítið annað til að verzla með. Enginn þorði að skifta við þá neitt til muna, því ef Þorgeir neitaði einhverjum um lán vegna þeirra viðskifta, voru þeir á flæðiskeri staddir; ekki gátu "borgararnir" fullnægt þörfum nokkurs manns. Þorgeir gerði ekki annað en skop að þessum keppinautum sínum. Lét hann þeim stundum í té vöruslatta frá sér með niðursettu verði, til að selja með ofurlitlum ágóða. Atvinnan hefir eflaust verið mögur, því á tíu árum höfðu þrír "borgarar" byrjað á slíkri verzlun og jafnmargir hætt.
Öll gerði þessi samkepni aðeins ilt verra. Þegar fastaverzlunin hafði gengið milli bols og höfuðs á keppinautum sínum, lét hún menn óspart kenna á almætti sínu. Þorgeir hugsaði nú um það mest af öllu að bæla niður alla viðleitni manna til þess að afla sér annara viðskiftavina og eyða gersamlega öllum uppreisnarhug úr ríki sínu, að dæmi gamalla einvaldsdrotna. - Aftur á móti höfðu menn nú fundið að því lítilsháttar bragð, hvað verzlunarsamkepni er, og þyrsti eftir meiru. Þessi þrá eftir breytingum á viðskiftalífinu fór vaxandi með ári hverju; en henni fylgdi óvild til fastaverzlunarinnar.
Ólagið festi dýpri og dýpri rætur og hafði mikil og ill áhrif á siðferðislíf manna og hugsunarhátt. Aftur neyddust menn til að gera sig kjassmálga við þá stofnun, sem þeir hötuðu. Aftur urðu þeir að nota grímu vináttuþels og undirgefni í viðskiftum sínum og bregða fyrir sig allskonar augnaþjónustu, til þess að verða ekki af allri verzlunarnáð og fá að verma sína köldu limi við ylgeisla lánveitinganna. Aftur stóðu menn frammi fyrir þessum volduga einvaldsdrotni, bognir í lendum, með skjálfandi kné og mórauða samvizku. Nýlega höfðu þeir reynst "vanþakklátir og ótrúir". Þetta ólukku aðskotadýr, lausakaupmaðurinn, hafði freistað þeirra. Þeir skyldu aldrei gera það oftar!
En hjá öllum þorra manna þroskaðist gremja og óvild til verzlunarinnar og baneitraði hugi manna í hennar garð. Margir álitu það syndlaust eða jafnvel sjálfsagt að pretta þessa illræmdu einokunarverzlun og reyna á allar lundir að leika á hana, án þess að ganga í berhögg við hana. Um þetta voru jafnvel leynileg samtök og menn hlökkuðu yfir því í sinn hóp, ef það hepnaðist. Vanskilin færðust mjög í vöxt; svik og orðbrigði urðu enn almennari en áður. Verzlunin galt líku líkt og tók ómjúkum höndum á mönnum fyrir óheilindi þeirra; fleiri urðu þar oft að gjalda en til höfðu unnið. Við það fjölgaði óvinum hennar. Óvildin breiddist út, frá yztu nesjum til instu dala. Yfirborðið var slétt og fágað; enginn þorði að láta það uppskátt, sem honum bjó niðri fyrir. En því þyngri var harmurinn í hugum manna. Verzlunarlífið var gerspilt og blés fúa og ólyfjan í aðrar greinar samlífsins manna á meðal.
Það jók líka mjög á óvinsældir verzlunarinnar, að hún var dönsk. Stjórnarbaráttan hin síðari stóð þá yfir og hugir manna voru gramir og æstir út af undirtektum dönsku stjórnarinnar undir ýms mál, sem nú voru orðin þeim áhugamál. Stjórnmálamenn og ritstjórar blésu mjög að þessum kolum. Fór þá sem oftar, að hófið var vandratað. Margir lögðu þá fæð á alt, sem danskt var, og ömuðust við því á ýmsar lundir. Fornir harmar, sem kendir voru sambúðinni við Dani og yfirgangi þeirra, voru óspart ýfðir upp. Þeir menn, sem erindi þeirra ráku hér á landi, voru nefndir "danskir Íslendingar", "danskir okrarar" og enn verri nöfnum, og þeim gerðar ýmsar búsifjar.
Því fór fjarri, að Þorgeir þekti ástandið eins og það var. Enginn hafði einurð og hreinlyndi til að segja honum það blátt áfram, sem dulið lá í skapi þorra manna. En hann sá þó meira en nóg til þess að ganga úr skugga um, að ekki var alt eins og það átti að vera og hann hafði óskað. Þetta vakti hjá honum kala og gerði hann stundum biturlyndan og óþjálan. Kurr manna hafði hann að engu, en fór sínu fram. Ekki hirti hann þá heldur um að draga dul á það, ef hann var þorra manna andstæður í almennum áhugamálum, þótt ekki aflaði það honum vinsælda. Urðu þá margir að þola honum hörð orð og sár. Eigi að síður var svo að sjá, sem ekki skorti hann hylli og vinfengi helztu manna héraðsins, og ennþá var hann þeirra mestur að rausn og ríkilæti.
-
Þá kom Kaupfélagið til sögunnar.
Kaupfélög voru byrjuð í öðrum bygðum landsins, en þó ekki fyrir löngu, þegar bændur í sveitunum kringum Vogabúðir tóku sig saman um að gera tilraun með þennan félagsskap.
Fögnuðurinn yfir þessu nýja undra- og óskabarni var þegar mikill meðal almennings. Þessi verzlun var í heiminn borin til þess að frelsa menn úr klóm fastaverzlunarinnar. Og hún var íslenzk - stóð og féll með dugnaði og samvinnu þeirra sjálfra. Allar kröfur hennar til lífsins voru þeim að vísu ekki ljósar; en þeir unnu henni og vildu mikið á sig leggja hennar vegna.
Það styrkti líka álit hennar og traust á meðal manna, að efnuðustu og atkvæðamestu mennirnir í hverri sveit gerðust forkólfar þessa félagsskapar og fulltingismenn hans. Þessi verzlun byrjaði því lífsferil sinn með alt öðrum hætti en bæði "borgararnir" og lausakaupmaðurinn. Þar höfðu efnamennirnir verið tregastir til viðskifta, svo nokkru næmi. Ef til vill hafði það mest orðið þessum litla vísi til samkepni að fjörlesti.
Auk þess kom kaupfélagsskapurinn með eitthvað nýtt og nýstárlegt. Vörurnar voru ekki alveg sömu tegundar og hjá fastaverzluninni, og yfirleitt bæði betri og ódýrari. En hitt var þó enn meiri nýjung, að þær hétu alt öðrum nöfnum. Dönsku nöfnin, sem orðin voru íslenzk í aðra röndina, dugðu nú ekki lengur. Nú höfðu menn önnur eins nýmæli í munni eins og overhead-mjöl, bisquits, creamcakes eða sunlight-soap o.fl. Slík nýyrði í daglega málinu keptust menn nú um að læra og kenna öðrum, og þóttust menn að meiri. Stórum, olíuprentuðum myndablöðum, með auglýsingum þvert yfir myndirnar, var sáð út um allar sveitir. Þau fylgdu vörunum og kostuðu ekkert; ekkert gler þurfti yfir þau og enga umgerð utan um þau. Þau urðu því fljótt híbýlaprýði heldri bænda, hvað þá kotunga. - Húsfreyjurnar voru óþreytandi að dásama hinar nýju vörur. Bændurnir glottu ánægjulega í kampinn; því þótt kaupfélags-munntóbakið væri "bölvaður ruddi", þá bætti brennivínið það upp - og hét whisky. Á öllu var einhver ókunnur, en aðlaðandi blær, sem menn fengu notalega vímu af. Hann var ekki íslenzkur; ekki danskur heldur. Hann var enskur.
Fordildin átti líka sinn þátt í því að koma fótunum undir Kaupfélagið. Nú fengu menn vörur sínar á gufuskipum; Jespersens-verzlunin hafði aldrei fengið gufuskip. Munurinn var aðallega sá, að skipið kom nær tilteknum tíma en seglskip geta gert, og ennfremur sá, að miklu meira var rekið eftir uppskipuninni en áður. En það var tilkomumikið að fá gufuskip; eitthvað, sem vert var að státa af. Um leið var það storkun fyrir fastaverzlunina. Þeirra skip báru af hennar. "Járnbarð" gufuskipsins var sýnilegt tákn framsóknar og festu í rásinni og "sýndist óvinnandi". - Engin var meiri gleðistund í sveitunum í grend við Vogabúðir en þegar menn sáu módökka reykjarhnökra leggja upp í loftið við flóamynnið og skip stefna að landi. Þá voru hestarnir sóttir, því þá þurfti húsbóndinn í kaupstaðinn. Niðri við Voginn ætlaði þá alt að ganga af göflunum.
Þó var alvarlega brýnt fyrir kaupfélagsmönnum að panta ekki meiri vörur en þeir væru vissir um að geta borgað árlega. Jafnframt voru þeir ámintir um að panta sér nóg til ársins, svo þeir kæmust af þar til vörur kæmu aftur, án þess að þurfa að leita til fastaverzlunarinnar.
Að því er snerti fyrri regluna, mundu menn hana furðanlega fyrsta og annað árið. Eftir það fóru menn að verða skeytingarminni um hana og óragari að panta. Óskirnar og þarfirnar voru margar og uppfyllingar þeirra lengi þráðar. Þá fór það að koma fyrir, að menn gátu ekki borgað úttekt sína árlega. Þeim gekk illa að lifa skuldlausum.
En til þess að fyrirbyggja hið síðara, stofnuðu menn innan Kaupfélagsins annan félagsskap. Það var hlutafélag, sem hafði það markmið að standast kostnaðinn, sem af því leiddi að geyma jafnan nokkrar birgðir af vörum Kaupfélagsins, ef félagsmenn skyldu komast í vistaþröng. Skyldi byggja hús við Voginn og hafa þar jafnan opna sölubúð, bæði fyrir félagsmenn og aðra. Öllum fanst þetta æskilegt, og flestir studdu það með hlutakaupum. Þetta varð fyrsti vísirinn til Bræðraverzlunarinnar í Vogabúðum. - -
Þorgeir verzlunarstjóri tók snemma eftir þessari nýju verzlunarhreyfingu og var búinn að frétta af henni út í yztu æsar, jafnvel áður en hún komst á laggirnar. En í stað þess að taka þá þegar fyrir kverkar henni, varð honum það á að líta á hana eins og nýja útgáfu af lausakaupmanninum og "borgurunum" og lét hana því afskiftalausa að mestu. Reynsla hans af hinum fyrri verzlunarhreyfingum varð til að halda hlífiskildi yfir hinu unga kaupfélagi.
Þorgeir trúði því ekki, að upp úr þeim jarðvegi, sem þar var fyrir pretti og verzlunaródrengskap, ósjálfstæði og innbyrðis tortrygni, gæti vaxið nokkur sá félagsskapur, sem hald væri í. Hann þekti hvern mann í samtökunum. Fáir voru þeir, sem hann þekti að því, að á þá væri mikið treystandi. Hann þóttist sjá fyrir forlög þessa nýja félags: Fyr eða síðar mundi það lenda í skuldum og ógöngum, vegna kæruleysis meðlima sinna, og fyrirgera trausti sínu. Að svo komnu var ekki víst, að þeir lentu í mildari höndum en hans. Viðskiftamenn þeirra erlendis þekti hann ekkert; en hann fann, að sér mundi sárna að sjá þá grátt leikna af útlendum fjárplógsmönnum. Ennþá hafði hann aldrei beitt þá hörðu, þótt stundum hefði hann hótað því. Nú gat hann þess til, að þeir tímar mundu koma, að þeir iðruðust eftir að hafa yfirgefið gamlan og reyndan viðskiftamann.
Hann tók þá forkólfa Kaupfélagsins fyrir, einn eða fleiri saman, eftir því sem hann náði í þá, og reyndi að telja þeim hughvarf. Hann sýndi þeim fram á, að verzlun þessa héraðs væri ekki til tvískifta. Tvær verzlanir gætu ekki þrifist í Vogabúðum. Þegar samkepni byrjaði í fullri alvöru, yrði önnurhvor verzlunin að gefast upp, og þá væri einokunin komin á aftur. Hann kvað því hyggilegra fyrir þá að hlíta sínum ráðum og hlynna að þeirri verzlun, sem hann veitti forstöðu. Hún væri gömul og reynd og í góðu áliti erlendis. Hann kvað það lengi hafa fyrir sér vakað að kveðja hina helztu menn héraðsins fyrir ráðunauta sína um mikilsverð verzlunarmál. Tillögur þeirra mundi hann síðan leggja fyrir verzlunarstjórnina. Á þennan hátt myndaðist ráðgefandi verzlunarþing í Vogabúðum, sem mikils mundi verða virt. Einnig kvaðst hann mundu geta komið því til leiðar, að þeim yrði gefinn kostur á að eignast hluti í verzluninni og atkvæði um mál hennar. Ef þeir legðu þá stund á að halda saman fé sínu og verða "efnalega sjálfstæðir", mundi þeim smátt og smátt takast að gera hana innlenda og græða á henni sjálfir.
Þessar kenningar studdi hann með mörgum fróðleik úr fenginni reynslu verzlunarinnar. En árangurinn af þeim varð samt sem áður rýr. Ekki höfðu menn trú á hagnaði af því að eiga fyrirtæki í samlögum við Dani. Þar að auki voru þeir nú komnir af stað með fyrirtæki sitt og fanst þeir ekki geta aftur snúið. Selstöðuverzluninni dönsku hugðust þeir ekki að hlífa, hvað sem öðru liði. Nú varð að bera eða bresta um hagi þeirra. Þeir þökkuðu því Þorgeiri heilræði hans og kvöddu hann hæversklega, en forðuðust að gefa honum færi á sér til frekara viðtals.
Þegar tímar liðu fram og Kaupfélagið tók að færast í aukana, hófst samkepni upp á líf og dauða.
Þorgeir hugðist að beita sömu tökunum og hann hafði áður beitt, á tíð lausakaupmannsins, sem sé að neita þeim um reikningslán, sem í Kaupfélaginu voru. En nú var það hætt að hrífa. Menn voru við bragðinu búnir. Nú hjálpuðu þeir hverjir öðrum og þokuðu sér því fastar saman sem meira svarf að þeim. En furðanlega komust þeir af án Þorgeirs og verzlunar hans.
Viðskiftin við fastaverzlunina minkuðu óðum. Viðskiftamennirnir fóru unnvörpum í Kaupfélagið, og það án þess að kveðja fyrri viðskiftamann sinn sæmilega. Hér þurfti því að taka til alvarlegra ráðstafana af hálfu fastaverzlunarinnar, ef duga skyldi.
Flestum bar saman um, að Þorgeir hefði tvöföld verzlunarhyggindi á við forstöðumenn Kaupfélagsins. Ekki er því ólíklegt, að honum hefði tekist að sliga Kaupfélagið og tvístra því með harðfengi sínu og hagsýni, ef hann hefði fengið að njóta sín. En þá komu önnur atvik Kaupfélaginu til hjálpar. Þorgeir varð ósammála yfirmönnum verzlunarinnar erlendis. Kraftar hennar skiftust; innbyrðis ósamlyndi hefti allar framkvæmdir hennar.
Þorgeir reyndi að sýna yfirmönnum sínum fram á, hvílíkur háski verzluninni stæði af því að fá slíkan keppinaut við hlið sér og missa fasta viðskiftamenn hér á landi, hvern eftir annan. Enn væri þó Kaupfélagið lítt þroskað og mundi drýgja margar æskusyndir. Yrði því nú fyrirkomið, væru slíkar hreyfingar niður kveðnar fyrst um sinn. Hann vildi því leggja alt kapp á samkepnina, hvað sem öllu öðru liði. Verzlunin mátti tapa árlega og lenda í skuldum, ef tapið aðeins leiddi til sigurs.
Oft hafði Þorgeir fylgt skoðun sinni kappsamlega fram, en aldrei eins og nú. Hann heimtaði nægar vörubirgðir og fjölbreyttari en áður; en það var þó það minsta. Hann vildi fá vald til þess að haga verði bæði á innlendri og útlendri vöru alveg eftir geðþótta sínum og vera einráður um allar gerðir sínar, meðan á þessu stríði stæði. Gegn þessu hét hann að ábyrgjast framtíðargengi verzlunarinnar og einveldi hennar enn um langan aldur og lagði við fé sitt og þegnskap.
Verzlunarstjórninni ytra hraus hugur við að fallast á kröfur Þorgeirs. Verzluninni hafði hnignað síðari árin og skuldir aukist. Hún var hrædd um, að kepni sú, sem Þorgeiri bjó í hug, mundi gera út af við fastaverzlunina sjálfa. Þeir þektu lítið til atvika hér á landi og skildu ekkert í þessari tryldu samkepni, sem Þorgeir talaði um.
Þorgeir lagði að þeim því fastara. Hann reyndi að fullvissa þá um, að þessi hríð yrði hörð, en stutt, þar til yfir lyki með þeim og kaupfélagsmönnum. Alda þessarar innlendu verzlunarhreyfingar hefði risið of hátt. Bráðum mundi hún springa. Þá riði á að nota tækifærið og bæla hana með öllu. En það mundi ganga úr greipum, ef illa væri í garðinn búið heima í Vogabúðum, en framkvæmdavaldið úti í Kaupmannahöfn.
Verzlunarstjórnin daufheyrðist við öllum þessum fortölum Þorgeirs og sat við sinn keip. Í stað þess að auka vald hans, var af því klipið. Hún vildi alls ekki reyna að breyta til um grundvallarreglur og fyrirkomulag verzlunarinnar. Allar breytingar voru henni á móti skapi. Með fyrirkomulagi því, sem nú var, hafði verzluninni vegnað vel um langan aldur. Þessi samkepnisháski gat ekki annað verið en grýla. Þorgeir var orðinn dutlungafullur, svo bezt var að fara varlega að ráðum hans. Og hvers vegna átti að láta stórfé liggja arðlaust í óseldum vörum úti á Íslandi? - Þorgeir fékk því ekki vörur þær, sem hann bað um. Tillögur hans voru að engu hafðar. Verzlunin færði saman kvíarnar. Stjórnendur hennar voru ekki gæddir áhuga Þorgeirs og ötulleik. Það varð Kaupfélaginu að liði.
Þorgeir háði því baráttu á tvær hendur og hlífði hvorugum. Baráttu hans innan lands sáu allir; af hinni vissu fáir. Fyrir hvorugum vildi hann af hólmi ganga. Hann sá nú varla fram á annað en að hann hlyti að lúta í lægra haldi í viðureign sinni við Kaupfélagið, ef nokkur dugur væri í því og ekkert óvænt óhapp bæri því að höndum. Þann ósigur kendi hann húsbændum sínum. Dró hann ekki dul á það í bréfum til þeirra og lamdi þá sporðdrekum fyrir heigulshátt þeirra og þröngsýni. En ekki bætti það samkomulagið.
Heima fyrir varð stríðið ákafara með ári hverju. Þorgeir hamaðist gegn Kaupfélaginu og gaf ekki grið. Nú var svo komið, að kaupfélagsmenn vildu flest annað fremur en falla í greipar hans af nýju, og gerðu því alt, sem þeir gátu, til að magna félagsskap sinn og Bræðraverzlunina. Enda veitti ekki af. Forkólfar þeirra vöktu vandlega yfir hverjum sauð í hjörð sinni, að hann sviki þá ekki eða gerði þeim ógreiða. Framkvæmdastjórn þeirra fékk ótakmarkað vald, en átti líka að sjá fyrir hag félagsins að öllu leyti og bæta úr öllum þörfum félagsmanna, svo ekki týndust þeir úr samtökunum.
Þetta var því erfiðara, sem félagsmönnum leið nú ver að mörgu leyti en áður, meðan þeir skiftu við fastaverzlunina. Nú komust þeir í þrot með nauðsynjar sínar á hverju ári og urðu að sætta sig við það, að þeim væri skömtuð hjálp úr hnefa. Vörur þeirra voru flokkaðar eftir gæðum, og lenti mestur hluti þeirra í versta flokkinum. Það fanst þeim óbærileg móðgun. En verst undu þeir þó eftirlitinu. Það lá á þeim eins og farg. Freistingin til afturhvarfs var mikil, því enn gufaði upp úr kjötkötlum fastaverzlunarinnar. En svo var þeim talin trú um, að nú væru þeir að bera sigur úr býtum í samkepninni og þá mundi hagur þeirra batna. Við það hættu þeir að mögla. Glímumóður og sigurvon fyltu hugi þeirra - og þetta hélzt ótrúlega lengi.
Þessi viðureign þeirra Þorgeirs og kaupfélagsmanna óx brátt upp úr því að vera verzlunarsamkepni á heilbrigðum grundvelli. Hún varð einkamál manna og skifti þeim í tvo flokka. Í héraði þessu, þar sem friður og eindrægni höfðu ríkt um ómuna aldur, þar sem verið hafði ein hjörð og einn hirðir, logaði nú alt í ófriði. Ennþá fylgdu margir Þorgeiri að málum og ilskuðust við kaupfélagsmenn. Gamlar væringar, sem aldrei höfðu þó orðið ósættisefni, voru nú vaktar upp og notaðar í glósum og brigzlum. Alstaðar voru háðar smáskærur. Úlfúð og tvídrægni var hvarvetna smeygt inn. Flokkarnir skapraunuðu hvor öðrum og hæddu hvor annan. Allskonar sögur voru bornar út. Hrakspár og getsakir voru á stöðugu sveimi milli flokkanna. Þessi verzlunarmál virtust ætla að gera út af við alt samkomulag þar í sveitunum.
Menn Þorgeirs voru færri og þeim fór árlega fækkandi. Í hinum daglegu orðasennum áttu þeir örðugri aðstöðu en hinir. Öllum hinum mörgu ávirðingum dönsku selstöðuverzlunarinnar, að fornu og nýju, var þeim stöðugt fleygt á nasir. Önnur eins undur af syndum hafði Kaupfélagið ekki drýgt. En þegar þeir fundu á sig ganga bardagann og flokkur þeirra þyntist jafnframt, var ekki trútt um, að á þá kæmi berserksgangur. Fór þá oft svo, að þeir gripu til þeirra vopnanna, er sízt skyldi, og gerðu málstað sínum ógagn eitt. Þorgeir og verzlun hans hlutu þá oft að gjalda þess, sem þau höfðu ekki til unnið.
Alla þessa baráttu tók Þorgeir sér mjög nærri, og meðan á henni stóð, breyttist hann mjög, bæði að skapi og útliti. Mest af öllu gramdist honum það þó að sjá menn, sem hann hafði margsinnis hjálpað og stutt til góðs gengis, menn, sem hann áleit óbrigðula vini sína, bregðast sér, hvern á fætur öðrum. Viðleitni hans til að tengja menn samhygðarböndum við verzlun hans var nú strönduð. Engir reyndust honum ver en þeir, sem hann hafði gert "efnalega sjálfstæða". Nú gengu þeir fram fyrir fylkingar römmustu mótstöðumanna hans og storkuðu honum.
Meðal þessara manna voru þeir Vogabúðafeðgar. Enginn maður hafði notið slíkra hlunninda af verzlun Þorgeirs sem Sigurður gamli í Vogabúðum. Engum manni hafði Þorgeir sýnt meiri vinsemd. Hann hafði veitt Sigurði atvinnu við beykisstörf. Að þeim mátti hann vinna eftir sínum eigin hentugleikum og fékk vinnuna vel borgaða. Hann átti Þorgeiri mikið að þakka efni þau, sem hann nú var kominn í; áður hafði hann verið eignalítill og ómagamargur. Þorgeir hafði hjálpað honum í hvívetna með ráði og dáð. Sonu hans tvo, þá Friðrik og Sveinbjörn, hafði hann tekið unga í búð til sín, alið þá upp til verzlunarstarfa og mannað þá, sem væru þeir hans eigin synir. Friðrik hafði hann stutt til utanfarar og mælt með honum á skrifstofu verzlunarinnar í Kaupmannahöfn. - Alt þetta launuðu þeir nú með því að gerast foringjar mótstöðumanna hans og auka á raunir hans á ýmsan hátt.
Líkt þessu var ástatt með fleiri.
Oft hugsaði Þorgeir um þetta í einrúmi. En þegar hann hugsaði um öll þau vonbrigði, allan þann misskilning og vanþakklæti, sem hann hafði orðið fyrir, og fann til vanmáttar síns gagnvart mótstöðumönnum sínum, þá varð honum sárt í skapi.
En allar mótgangsöldur brotnuðu að lokum á einhverju hörðu og hljómþungu í huga hans, sem drundi við eins og orustulúður: "Grátum ekki; munum heldur!"
Ennþá var honum ekki horfin öll von um, að honum mundi takast að yfirbuga þá kaupfélagsmenn. Byrðin á helztu mönnum þeirra hlaut að vera farin að þyngjast og þeir að lýjast. Einn og óstuddur skyldi hann koma þeim á kné. - En með þeim sigri mundi hann ríða yfirmenn sína utan lands úr söðli. Þá réði hann aftur einn öllu, og þá - þá væri réttast að láta kné fylgja kviði.
-
Þannig var yfirlit yfir verzlunarsögu Vogabúðakaupstaðar hin síðustu árin.
Nú var svo komið, að meðan kaupfélagsmenn ruddu á land vörunum úr gufuskipi sínu, var fastaverzlunin vörulaus að kalla. Hún hafði lítið af nýjum vörum fengið þetta ár. Vörukröfum verzlunarstjórans var ekki sint lengur, nema að hálfu leyti. Honum var fyrir lagt að selja upp hinar eldri birgðir og krefja inn skuldirnar.
Hljótt var og dauflegt kringum hús verzlunarinnar; fáir voru þar á ferli. Geymsluhúsin stóðu harðlokuð; sum voru sjaldan opnuð: Önnur mannvirki verzlunarinnar stóðu ónotuð. Öll þau kynstur, sem verzlunin átti af ýmsum þeim hlutum, sem að atvinnunni lutu, úti og inni við, lágu nú í stöflum og biðu síns vitjunartíma. Af öllu því verzlunarliði, sem eitt sinn var þar innan búðar, voru nú aðeins tveir unglingar eftir, sem "flugust á og brutu alla skapaða hluti", eins og sagt var meðal kaupfélagsmanna. Bókarann gamla taldi enginn; hann var "úr sögunni".
Hin mikla og fyrrum volduga stofnun kúrði sig niður og svaf eins og gamall, gigtveikur björn í bæli sínu. En þangað litu menn samt með ugg og ótta; á meðan hún dró andann, gat hún haft það til að rísa upp á skottleggina. Og þá vildu fáir verða fyrir henni.
En á hljóðum næturstundum reikaði verzlunarstjórinn um hálftóma búðina og búðarloftin - aleinn, svefnlaus, eirðarlaus og hugsaði hugsanir sínar. Hann hvarflaði frá einu til annars, án þess að vita til fulls, hvað hann gerði, þuklaði á hlutunum, leitaði - hann vissi ekki að hverju; hann taldi saman og reiknaði fyrir munni sér, raulaði vísustúf eða sálmvers með hásum rómi, án þess hugur fylgdi. Þess á milli sat hann yfir gömlum, hálffúnuðum verzlunarskræðum inni í skrifstofunni.
Hár hans gránaði, hann megraðist; og þótt hann gengi teinréttur, sást hann nú eldast furðu fljótt. Svipurinn varð harðlegri og andlitsrúnirnar rammbundnari en áður. Augun urðu myrk og kuldaleg, tortryggin og rannsakandi. Það var sem sálin í þeim færði sig innar í skuggann, en gægðist síðan fram úr fylgsni sínu. Alla æfi hafði hann fámæltur verið; nú talaði hann varla orð að fyrra bragði. Erfitt var að sjá það daglega, hvort honum þótti betur eða miður. Tilfinningarnar voru vandlega byrgðar inni.
En í þessum leifum af fyrri veru hans bjuggu ennþá allir þeir eiginleikar, sem höfðu einkent hann um æfina. Sumir höfðu að vísu magnast, aðrir dregið sig í hlé. Óskir hans og vonir og hinar lífseigu ástríður hans voru ef til vill meira drotnandi nú en nokkru sinni áður; en mannúð hans, tillit til annara manna og sanngirni í kröfum hafði lotið í lægra haldi í baráttu þessara síðustu ára; þykkjan hafði sezt í öndvegi í huga hans, búið þar um sig og vildi ekki víkja; oft nálgaðist hún harm og hatur.
Ekkert særir meira gamlan mann en að sjá lífsverk sitt troðið niður, stórmensku sína og höfðingsskap brotinn á bak aftur, hugsjónir sínar sigraðar og hæddar og velgerðir sínar vanþakkaðar. Ekkert er það, sem gamall maður heldur um slíkum heljartökum sem vald það og ríki, sem hann áður hefir haft. Þegar öll önnur gæði lífsins eru þrotin og ekkert jarðneskt gleður hann lengur, getur hann ekki af þessu síðasta séð. - Og hugur Þorgeirs hneigðist allur og með öllu því ástríðuafli, sem í honum bjó, að þessu tvennu: að endurreisa vald sitt og - hefna sín.
4. kafli - Kotungur í höfðingjaranniEinar fór ekki heim í Bælið þetta kvöld.
Margt var það, sem að honum amaði og gerði honum þungt í skapi, auk þess sem áður er sagt frá. Þótt hann væri dauðþreyttur eftir erfiðið um daginn, fann hann samt enga löngun til að fara heim til sín.
Hann hafði gert orð heim, að hann kæmi ekki; hann ætti að vaka um nóttina. Ef hann kæmi nú heim samt sem áður, var hann viss um, að hann fengi ekki að fara að hátta alveg orðalaust. Hann þekti Möngu sína of vel til þess. -
Heimilisástæður Einars voru ekki gleðilegar. Hann var giftur einni af þessum blessuðum manneskjum, sem sjaldan opna munninn til annars en þess að jagast. Það var orðið að vana hjá henni. Hann vissi vel, að nöldur hennar og orðagjálfur átti sér ekki djúpar rætur, að þrætugirnin var breyskleiki hennar og hún sá stundum eftir bituryrðum sínum. En hún lét þau samt fjúka; hún gat ekki stilt sig um það. Og þetta hafði sömu áhrifin á hann, hvort sem henni var alvara eða ekki. Það gerði honum heimilisvistina lítt bærilega. Hann var sjaldan heima; svo sjaldan sem hann gat. En hvenær sem hann kom heim, kvað við sami söngurinn: org og skælur í börnunum og jag húsfreyjunnar. Undir eins og hún sá hann, slepti hún börnunum og tók hann fyrir. Ef hann þá svaraði, var "fjandinn laus" í kotinu. Þá gat það endað með áflogum. Ef hann svaraði engu, þagnaði hún aldrei, fyr en hún sofnaði. Hún endurtók þá sífelt það sama, annaðhvort með sömu orðunum eða með nýjum orðum og nýjum áherzlum. Góðu gat hann auðvitað aldrei svarað henni, þegar hún var í þessum ham. Með því móti hefði samlíf hans við hana orðið endalaus fyrirgefningarbón - og tíminn þó ekki hrokkið til.
Þó kastaði tólfunum, þegar Einar kom fullur heim í Bælið. - Auðvitað var það altaf sami sónninn, sömu úrþvættisorðin, sem hann fékk að heyra þá og endranær. En þau voru borin fram með meiri frekju, því þá var um ótvíræða sök að tala. Og einmitt þá átti Einar langbágast með að þegja fyrir henni. Enda voru áflogin þá jafnan fyrirsjáanleg.
Þess vegna fór Einar sjaldan heim til sín, þegar hann var ölvaður. Hann lá heldur úti eða skreið í fjárhús. Auðvitað varð heimkoman ekki umflúin fyr eða síðar. En það var þó betra að koma heim ófullur.
Kotið var lítið, lélegt og óþrifalegt, og ekkert á að lifa, nema það, sem hann vann fyrir í kaupstaðnum, eða fékk lánað út á væntanlega vinnu, ef vinna var þá ekki til í bráðina. Börnin voru fjögur, öll í ómegð. Oft voru þau ein heima á daginn, þau eldri með þau yngri, því þá var konan líka einhverstaðar í vinnu. Og margan sumardag var kotið alveg tómt; börnin voru þá úti líka. Margrét var dugnaðarvargur að þeim verkum, sem hún gat gert og kunni að gera. Hún vann ekki síður en hann, vann baki brotnu, en samt lifðu þau við þröngan kost, og stundum höfðu þau orðið að leita til sveitarinnar. En það vildi hvorugt þeirra. Ef til vill var það hið eina, sem þeim kom saman um.
Margrét kom sér vel hjá þeim, sem hún vann verk fyrir. Geðvonzka hennar kom þar sjaldan til greina. Þar gat hún verið kát, þrátt fyrir alt baslið. Og þar talaði hún aldrei nema vel um "Einar sinn aumingjann". Það var töluvert hæft í því, sem Einar sagði stundum, þegar hann var fullur, að undir eins og hún kæmi heim í Bælið, hlypi fjandinn í hana.
Þeim, sem þektu Bælið og kjör Margrétar þar, hefði ef til vill getað skilist það. Til allrar hamingju voru þeir fáir. Þar var fátt til þess fallið að gleðja eða hressa. Naktir moldarveggir og raftar yfir - þetta var hreysið. Alt var hátt og lágt gráhvítt af myglu. Rúmfletin voru bálkar og tuskur yfir; rúmfötin óhrein og rifin. Það lítið af fiðri, sem einu sinni hafði verið í þeim, var mestalt smogið út um verin. Gólfið var hólótt óhreinkuskán, og ekkert annað. Og þegar vesalings konan kom heim frá vinnu sinni, dauðþreytt og svöng, héngu krakkarnir organdi utan í henni. Síðan var von á manninum heim frá vinnunni, ef til vill druknum. Þetta með öðru fleira hafði mætt hana og gert hana skapstirða. Nú var henni í raun og veru orðið sama um þetta alt. En meðan hún var að venjast því, hafði hinn slæmi eiginleiki hennar, jögunarsýkin, þroskast. Nú var hann orðinn annað eðli hennar, hvenær sem hún var heima; hún var hrein og bein plága fyrir vandamenn sína, sem hún þó annars hafði rækt til. Hún fann það stundum sjálf í einrúmi og einsetti sér þá meiri nærgætni í orðum; en hún gleymdi því jafnan aftur.
Ofan á alt þetta bættust margar raunalegar minningar frá liðnu samlífisárunum. Þar á meðal ólán það, sem Einar hafði ratað í og áður er minst á. Það var ekki hætt við, að það gleymdist. Það rifjaðist upp í hverri rifrildishviðu. En ekkert sveið Einari eins mikið og það.
Nú var líka svo komið, að fleiri vissu um ósamlyndið en þau tvö, því komið hafði það fyrir, að utanheimilismenn þurftu þangað heim til að skilja þau.
Um þetta var Einar að hugsa, meðan hann reikaði þar um á milli húsanna. Hann hafði marghugsað um það áður. Hann var búinn að semja í huganum stutt og glögt yfirlit yfir hjúskaparsögu þeirra, sem hann jafnan kunni og jafnan var reiðubúinn að skýra í einstökum atriðum. Þar var margt af lakara taginu. Það lá við, að það yfirgnæfði hitt. Samt sem áður var honum ekki illa við konu sína, og hann var viss um, að sig mundi taka það sárt að sjá henni líða illa eða missa hana. En hann kveið þó ætíð fyrir að hitta hana, - kveið fyrir að koma heim til sín.
Hann sá það fyrir, að ef hann færi nú heim, yrði ekki komist hjá jagi eða jafnvel rifrildi, sem ef til vill stæði yfir alla nóttina. Annaðhvort mundi hún jagast út af því, að honum hefði ekki verið trúað fyrir því að vaka, eða þá kasta honum því í nasir, að hann hefði aldrei verið beðinn um það. Hann hefði logið þessu, sem hann lét drenginn skila. Það var bágt að gizka á, hvað hún fyndi sér til að hafa fyrir "texta"; en ófriðurinn var handvís, eins og tveir og tveir voru fjórir.
Og hvað sem því leið heima, þá var bezt að hann vekti samt, - vekti í alla nótt. Það var bezt, að hann sýndi bræðrunum það, að hann gat vakað, ekki síður en vinnumaðurinn þeirra, sem þó var yngri. Hann gat vakað eina nótt, þótt hann væri kominn að niðurfalli af þreytu daginn áður. Hann gat gert þeim það til skapraunar að vaka, vaka yfir vinnumanninum þeirra, sem hafði verið svo gleiðgosalegur um kvöldið; segja svo bræðrunum frá því, hvar hann hefði verið á hverjum tíma næturinnar og hvenær hann hefði eiginlega litið nokkuð eftir því, sem hann átti að vaka yfir.
Skömmu eftir að vinnunni var hætt, var búðinni lokað og hver fór heim til sín. Það fór að skyggja. Þögn og friður næturinnar færðist yfir kaupstaðinn. - -
Einar var kominn að grindunum, sem voru í kringum ofurlítinn blómagarð utan við skrifstofuglugga Þorgeirs verzlunarstjóra. Þar staðnæmdist hann og studdi bakinu upp að grindunum. Hann fann sáran þreytuverk í spjaldhryggnum, sem nú var þó heldur að líða frá.
Meðan Einar stóð þar, kom Þorgeir út til að loka hlerunum fyrir skrifstofugluggum sínum.
Einar var í svo þungum hugsunum, að hann heyrði alls ekki marrið og skellina í hlerunum að baki sér. Hann var sokkinn niður í að hugsa um það, hvernig hann gæti náð sér niðri á bræðrunum, einkum Friðriki, fyrir þá tortrygni, sem þeir höfðu sýnt honum um kvöldið. Það eitt, að vaka alla nóttina, var ekki nóg. Það þurfti að vera eitthvað, sem þeim sviði dálítið. Þeir þurftu að finna að minsta kosti álíka mikið til eins og hann hafði fundið til undan meðferð þeirra. Um þetta var hann að brjóta heilann.
Þorgeir þekti Einar og sá þegar, að illa lá á honum. Hann gekk þá út að grindunum til hans og lagði höndina á öxlina á honum. Þá var eins og Einar vaknaði.
"Þér eruð þó víst ekki að sofna þarna upp við grindurnar mínar, Einar minn?" mælti Þorgeir kunningjalega.
Einar vissi ekki vel, hvað hann átti að segja. Þessi kveðja kom honum mjög á óvart. Hann þekti verzlunarstjórann svo vel, að hann bjóst varla við slíkri kveðju af honum. Auk þess átti hann alls ekki von á honum þarna og um þetta leyti. Hann sá það fyrst nú, að hann var einmitt upp við grindurnar hans. En við það að leita eftir einhverju svari varð hann þegar hikandi og viðutan.
"Þér hafið víst verið í uppskipunarvinnu hjá bræðrunum í dag", hélt Þorgeir áfram eftir ofurlitla þögn.
"Já", sagði Einar hálfhikandi. Gat það skeð, að Þorgeiri misfélli það? Hann vildi ekki styggja hann í neinu. Þeir höfðu haft svo margt saman að sælda í fyrri daga.
En þannig var Þorgeiri ekki farið. Hann vissi vel, að Einar þurfti að vinna, hvar sem hann gat fengið vinnu. Hann vissi líka, að hann var reiðubúinn til að vinna hjá sér, þegar hann hafði vinnu handa honum. Það var ekki af ótrygð eða vanþakklæti, sem hann flutti sig undir merki mótstöðumanna hans.
Einar var glaðlyndur að eðlisfari og tók vel gamanyrðum að jafnaði. Hann var þá hreinskilinn og innilegur. En þegar hann var í slæmu skapi eða bjó yfir einhverju leiðu, sem hann þó ekki vildi tala um, varð hann fljótt viðutan, þoldi illa gamanyrði og vildi ekki, að neinn yrti á sig. Hann vissi, að þá var auðvelt að slá sig út af laginu og koma sér í bobba. Honum var því ekkert vel við að hitta Þorgeir verzlunarstjóra einmitt núna.
Þorgeir sá þetta alt saman vel, en hafði gaman af að reyna að lesa út úr Einari, hvað honum byggi í hug.
"Þér eruð víst á leiðinni heim í "Bælið" yðar núna", sagði hann kíminn. Hann vildi vita vissu sína um það, hvernig lægi á Einari.
Það brást ekki heldur. Í stað þess að svara varð Einar ennþá niðurlútari. Hann þoldi ekki að heyra gletnisyrði um "Bælið" núna. Hann þoldi ekki einu sinni Þorgeiri jafnmeinlaust gaman. Hann viknaði, svo honum lá við gráti.
Nú var Þorgeir búinn að komast að nógu miklu að sinni. Eitthvað hlaut að hafa komið fyrir Einar þarna úti frá í vinnunni. Hann rendi þegar grun í hið rétta.
"Það liggur eitthvað illa á yður í kvöld, Einar minn", sagði hann mildari í máli en áður.
Einar leit upp og framan í Þorgeir. Honum fanst hann finna hluttekningu í málrómi hans.
"Bræðurnir hafa ekki viljað hjálpa yður um á "pödduna" - eftir alt stritið í allan dag", sagði Þorgeir ofur góðlátlega.
Einar sagði ekkert, en honum þótti vænt um, að Þorgeir var á réttri leið að geta hugsana hans, þótt hann hefði ekki hitt á aðalorsökina.
"Ég held, að það væri nú gustuk að gefa yður á ofurlítið glas. Mér sýnist þér sárþarfnast þess einmitt núna".
Nú fékk Einar málið:
"Guð blessi yður fyrir það. Ég man ekki eftir, að mig hafi nokkurn tíma langað eins í ofurlítið bragð eins og einmitt núna. Ég ætla að vaka í alla nótt".
"Vaka í nótt", sagði Þorgeir hálfhissa.
"Já, í alla nótt".
"Fyrir bræðurna?"
"Eða þá þeim til bölvunar, þó lítið sé".
"Svo -?"
Slík gremja var fólgin í þessum orðum Einars, að Þorgeir þóttist viss um, að eitthvað meira en þetta, sem hann gat upp á, hefði á milli borið.
Hann bauð nú Einari að koma inn í skrifstofuna með sér. Einar lifnaði í öllum æðum við þessar viðtökur. Vatn hljóp fram í munninn á honum við það að hugsa um "bragðið".
Þegar inn kom í skrifstofuna, settist Þorgeir í vanasæti sitt, fyrir miðju skrifborðinu, en vísaði Einari á stól við endann á því. Einar settist niður og hallaði bakinu upp að stólbakinu. Þar hvíldist það betur en áður upp við grindina.
Einari leið þó ekki allskostar vel þarna inni. Hann hafði sjaldan komið þar áður. Alt umhverfis hann var vandaðra og ríkmannlegra en hann var vanur. Þar var röndótt gólfábreiða á öllu gólfinu, en hreindýrsstaka breidd undir stól verzlunarstjórans framan við skrifborðið. Legubekkur stóð við þilið gagnvart honum, með æðardúnskodda á höfðalaginu og glitofinni flosábreiðu í bögli til fóta. Uppi yfir legubekknum var stór koparstungumynd í gyltri umgerð. Stóllinn, sem hann sat á, var klæddur skinni og dúnmjúkar stálfjaðrir undir setunni. Skrifborðið var alt spónlagt og spegilgljáandi, svo vel mátti sjá sig í því, þar sem ekki sá slit á því. Á því stóðu ýmsir fágætir smámunir, sem hann kunni ekki að nefna. Við hinn endann á skrifborðinu stóð stór skápur, fullur af verzlunarbókum, en í horninu, við höfðalag legubekksins, stóð rammger peningaskápur úr járni.
Einar fyrirvarð sig fyrir að sitja þarna inni. Hann fann það vel, að hann sjálfur og garmarnir, sem hann var í, áttu hér illa við. Hann leit ofan á fæturna á sér. Þeir lágu krosslagðir frammi á ábreiðunni. Skógarmarnir hans voru varpslitnir og snúnir næstum út af fótunum. Hann hafði oft vaðið í sjónum um daginn. Bleytan var nú farin að þorna, svo það lak ekki lengur úr plöggunum. En sokkarnir voru svartir af sandi og óhreinku og í göndli utan um öklana. Buxurnar voru sumstaðar bættar og sumstaðar rifnar, en alstaðar þannig útlítandi, að ekki var verandi í þeim í vandaðri stofu eða frammi fyrir stórmennum. Treyjuna hafði hann ennþá á handleggnum.
Hann fann því eitthvert ónota farg á sér og langaði til að komast sem fyrst út aftur. - Slík tilfinning er algeng, þar sem smámenni sitja í höfðingjahúsum í návist sjálfra húsbændanna. Ef til vill mætti nefna hana feimni, en það er þó ekki rétta nafnið. Menn bera sjálfa sig saman við alt hið ókenda, ríkmannlega, sem fyrir augun ber, og þó einkum saman við manninn, sem lifir þar og ríkir. Þá finst þeim verða svo undur lítið úr sjálfum sér. Ef til vill hjálpar þessi tilfinning mörgum höfðingjum í viðureign þeirra við alþýðumenn. Stofan þeirra talar máli þeirra og skýrir frá yfirburðum þeirra. Ístöðulitlir menn eru þar leiðitamari en heima hjá sér.
Einar fann óljóst til alls þessa, en gat ekki gert sér grein fyrir, hvað það væri, sem að honum gekk. Það jók líka óyndi hans, að Þorgeir sat þegjandi um stund, eftir að þeir voru seztir niður. Einar þorði varla að líta á hann. Hann þorði varla að hreyfa sig. Hann var hræddur um, að hvað eina, sem hann gerði þarna inni, kynni að fara sér einhvern veginn klaufalega úr hendi eða verða skilið öðruvísi en hann ætlaðist til.
Eftir örlitla stund kom þó tilbreyting. Þorgeir stóð upp, eins og hann hefði gleymt einhverju, gekk að ofurlitlum hornskáp, sem var við fótagaflinn á legubekknum og Einar hafði ekki tekið eftir áður. Þar tók hann út flösku og tvö væn staup. Í flöskunni var kristalstært aqua vitae, sem Þorgeir hafði til að gæða gestum sínum á. Nú fylti hann bæði staupin og bauð Einari annað. Sjálfum sér ætlaði hann hitt og hringdi glösum við Einar.
Það réttist úr Einari við þetta. Þannig hafði enginn heldri maður tekið honum áður. Svo lítillátur hafði enginn af höfðingjum kaupstaðarins verið, að hringja glösum við hann eins og jafningja sinn. Þetta hreif hann svo, að hann vissi varla, hvað hann átti að gera eða hugsa. Hann var gagntekinn af þakklætistilfinningu. Hann hikaði, eins og hann teldi sig óverðugan. Og þegar hann tók staupið, hristist höndin svo, að dropi heltist ofan á skrifborðið.
Þorgeir dreypti aðeins á sínu staupi, en Einar tæmdi sitt í einum sopa. Það "krassaði". Hann sveið í kverkarnar og augun fyltust af vatni. En á eftir leið brennandi straumur um hann allan. Þreytan dofnaði; honum skánaði í skapi. Það var sem Einar í Bælinu yngdist upp.
Þorgeir lét flöskuna inn í skápinn aftur.
Einar vissi ekki, hvernig hann ætti að þakka Þorgeiri þessa blessaða hressingu. Hún hafði verið bæði andleg og líkamleg, og jafnvel minna fólgin í staupinu sjálfu en hinu, hvernig það var að honum rétt. Hann ætlaði að gera sig ánægðan með þetta og hugsaði nú til að standa upp og fara. En Þorgeir settist niður aftur, og Einar sá það á honum, að hann vildi tala meira við hann, og sat því kyr.
Eftir þetta fór samtalið að ganga greiðar.
Þorgeir inti nánar eftir því, hvað þeim Einari og bræðrunum hefði á milli borið. Einar sagði frá því með barnslegri nákvæmni. Rómur hans skalf ofurlítið, þegar hann lýsti því, sem fram hafði farið í búðinni, og hvernig hann hefði skilið það. Eftir það varð ofurlítil þögn. Hana notaði Einar til að jafna sig. Hann hafði tekið nærri sér að segja frá þessu.
Þorgeir hlustaði á þessa sögu eins og hún kæmi honum ekkert við. Hann var annars hugar. Einar sá það, en furðaði sig ekkert á því. Þetta var einkamál hans og engin von til, að aðrir gætu tekið sér það nærri.
Síðan fór Þorgeir að spyrja um vörurnar, sem fluttar höfðu verið á land. Hann spurði um þetta með stakri ró og löngum hvíldum milli spurninganna.
Einar leysti úr öllum spurningunum eins vandlega og skýrlega og hann gat. Hann hafði verið í vinnunni allan daginn og altaf við sama starfann, að afferma bátana, þegar þeir komu að landi. Honum var því nokkuð kunnugt um mestan hlutann af vörunum. Ekkert, sem teljandi gat verið, gat hafa farið framhjá honum án þess hann tæki eftir því. Hann vissi tölu kornvörusekkjanna og steinolíutunnanna. Hann vissi líka, hve mörg föt voru af brauði, leirvöru og öðru þvílíku, og hve margir kassar voru af öðrum vörum, þótt ekki vissi hann, hvað í þeim var. Alt þetta taldi hann fram með góðri greind, svo hægt var eftir frásögn hans að fá furðu skýrt yfirlit yfir vörubirgðirnar.
Þorgeir hlustaði hljóður á frásögnina og skaut við og við inn í hana stuttum spurningum. Sumt lét hann Einar segja sér tvisvar eða þrisvar. Stundum mælti hann einsatkvæðisorð, sem virtust bera vott um kaldlyndi. "Ja, sei-sei!" og "O-jæja!" hraut honum oft af vörum. Hann hallaðist upp að bakinu á skrifborðsstóli sínum, með hökuna á bringunni, og leit stöðugt fram og niður fyrir sig. En eftir því tók Einar, að svipur hans þyngdist jafnt og þétt, og meðan Þorgeir leit ekki upp, hafði Einar ekki augun af honum. Óljós kvíði fór að gera vart við sig hjá honum.
Þorgeir sá í huganum allar vörubirgðir keppinauta sinna af frásögn Einars. Sízt var að furða, þótt hreppstjórinn gortaði, er hann kom þar um kvöldið! Líklega hafði hann rétt að mæla. Aldrei höfðu jafnmiklar vörur verið fluttar þar á land í einu. Ef þetta gengi alt út, var það sýnilegt, að héraðsbúar þurftu ekki meira. Hann þekti alla kaupfélagsmenn að fornu fari. Allir höfðu þeir verzlað hjá honum til skamms tíma. Hann, sem var gamall og reyndur verzlunarmaður, þekti vörumagn alls þess svæðis, sem sótti verzlun að Voginum. Hann var því ekki lengi að reikna saman lauslega í huganum fjárhæðir aðfluttu vörunnar og bera hana saman við það, sem héraðið gat framleitt af innlendum vörum. Einhverjir höfðu pantað ríflega! Auðséð var, að umhugsunin um gjalddagann var farin að dofna hjá æðimörgum þeirra. Það rak að því sama, sem áður hafði verið; skuldlausir gátu þeir ekki lifað. Væri ekki haldið í við þá, rifu þeir út miklu meira en þeir voru menn til að borga. Þeir kunnu sér ekkert hóf.
Og þessir menn höfðu gert uppreisn gegn honum, sem vildi þeim alt hið bezta! Þetta velgengnis-yfirskin sitt notuðu þeir til að storka honum og skaprauna! Þannig höfðu þeir skilið viðleitni hans um meira en mannsaldur til að gera þá efnalega frjálsa. Þannig þökkuðu þeir honum! Með slíkum þembingi spörkuðu þeir í hann og verzlun hans, sem hvað eftir annað hafði bjargað þeim frá hallæri og fjárfelli, þegar þeirra eigið fyrirhyggjuleysi kom þeim í koll! Hjá henni stóðu skuldir þeirra ógreiddar, svo þúsundum króna skifti, en nú kunnu þeir sér ekki læti yfir þessum vörubirgðum, er þeir nefndu "sínar"! Og þó gat hver maður séð, hvílíkt tildur þetta var og hve lítið þurfti út af að bera, til þess að alt hryndi ofan á þá.
Við þessar hugsanir magnaðist gremjan í huga Þorgeirs. Hún var þar jafnan fyrir; nú ýfðist hún upp. Frásagnir Einars báru eldsneyti á glóð þá, sem stöðugt lifði í huga hans.
Þegar Einar hafði skýrt frá vörunum svo nákvæmlega, að hann mundi ekki frá meiru að segja, féll samtalið niður um stund. Einar horfði óþolinmóður á verzlunarstjórann og loks hélt hann, að samtalið væri hætt og sér mundi vera óhætt að fara. En þá fékk hann nýtt verkefni.
Þorgeir spurði hann um, hvar hægt hefði verið að láta allar þessar vörur.
Nú byrjaði Einar aftur að þylja:
Það var nú þegar búið að koma þeim mestöllum undir þak. Aðeins nokkuð af steinolíufötunum, trjáviðnum og kolum í pokum lá ennþá úti í sandinum. Geymsluhúsið mikla hýsti það alt saman. Það var "helvíta-dómur", sem þar komst fyrir. Síðan fór hann að skýra frá, hvar hvað eina hafði verið látið. Það óvandaðasta hafði verið látið í kjallarann. Þar var tjara, trjáviður og steinlím, og þangað átti að láta alla steinolíuna; nokkuð af henni var nú þegar komið þangað inn. Á næsta loft var einnig látinn trjáviður, einkum hefluð borð, sem þurfti að fara vel um, og þangað voru kassar látnir, sem ekki máttu blotna. Loftið þar yfir var aðallega ætlað kornvörum af öllu tagi; en á efsta lofti, undir sperrunum, var geymd ull og fleira, og þar uppi voru skotfærabirgðirnar geymdar, því þangað var sjaldnast farið með ljós. Einar skýrði frá þessu öllu með stökustu nákvæmni. Það var auðheyrt, að hann hafði gengið þarna um nýlega og haft augun með sér.
Þorgeir heyrði örlítið af allri þessari upptalningu. Hann var niðursokkinn í hugsanir sínar og tók ekki eftir. Hann heyrði þó, að Einar mintist eitthvað á tjöru og steinolíu og seinna á púður. Við þetta flaug honum eitthvað nýtt í hug.
Undarlega blendið bros smáfærðist um alt andlit hans. Ef eitthvert smáóhapp kæmi nú fyrir þarna úti frá! Hann vildi engum manni ills óska, en hann hafði þó oft óskað þess í kyrþey, að eitthvað það kæmi fyrir, sem gerði skjótan og góðan endi á þessu "horbrölti" þeirra. Það þurfti ekki að vera mikið til þess að velta öllu hrófinu um koll. Og hann var sannfærður um, að þótt þeim þætti það slæmt í bráðina, þá hefðu þeir gott af því, þegar frá liði. Slys gat ætíð að höndum borið, hvar sem var. Þeir höfðu víst minst af öllu búist við því. Gleði þeirra yfir lánstrausti sínu og vörubirgðum var meiri en svo, að þeir hefðu hugsað út í hverfulleik beggja þessara hluta. Þó gat þetta komið fyrir - og það ætti að koma fyrir! Hann óskaði, að það kæmi fyrir, svo þeir sæju sjálfir, hvar þeir væru staddir.
Einar var þagnaður og horfði undrandi á verzlunarstjórann. Það var ekki trútt um, að beygur sá, sem hann hafði af honum, færi vaxandi.
"Hvað sögðuð þér, að væri geymt í kjallaranum?" sagði Þorgeir loks án þess að líta upp.
Einar flýtti sér að telja það upp aftur. Nú mundi hann eftir fleiru, sem var þar inni. Þar á meðal hefilbekk, sem lauslega hafði verið slegið upp í einu horninu, og hefilspónum, sem voru á gólfinu. Þeir höfðu bókstaflega vaðið í hefilspónum, þegar þeir voru að koma steinolíutunnunum inn í kjallarann.
Þorgeir hélt áfram hugsunum sínum sem áður. Olía - tjara - hefilspænir! - Ekki þurfti nú mikið til, að alt stæði í ljósum loga. Einn neisti í slíkt tundur yrði að óslökkvandi báli á svipstundu. Ef forlögin væru honum nú velviljuð -! Hann sá það fyrir, hverjar afleiðingarnar hlytu að verða. Kaupfélagsmenn mundu ekki bíða næsta mikið beint tjón. Húsið var vel vátrygt og vörurnar líka að mestu leyti. En áhugi þeirra og oftraust á sjálfum sér mundi líða skipbrot. Hann sá þá koma til sín sem iðrandi syndara til að biðja sig ásjár og gera alt, sem þeir gætu, til að endurnýja lánstraust sitt. Fyrst komu þeir smærri, sem höfðu verið leiddir út í þetta af hinum; síðan þeir, sem máttu sín meira, þegar öll viðleitni til viðreisnar reyndist árangurslaus og þeir loks gugnuðu. Þá mundi reka minni til alls þessa fyrst um sinn. Í tíð þessarar kynslóðar mundu menn leiða hjá sér slík stórræði og láta aðra um áhættuna og ágóðann. Þar með var fastaverzluninni borgið, að minsta kosti um hans daga.
Meðan hann hugsaði um þetta, tók hann sem í leiðslu eina eldspýtu úr stokk, sem stóð á skrifborðinu, fitlaði við hana litla stund, braut hana síðan sundur og fleygði báðum bútunum í hrákadallinn.
Ein eldspýta var meira en nóg!
Einar horfði stöðugt á hann og beið eftir því, að hann segði eitthvað. Hann sá það á honum, að eitthvað var að brjótast um þar inni fyrir. Hann stóð á öndinni. Þessi kvíðafulla bið var honum óþolandi.
Loks leit Þorgeir upp og framan í Einar. Gleraugun lágu á borðinu, svo ekkert dró úr tillitinu. Einar hrökk saman. Hin hvössu, harðlegu augu smugu gegnum hann. Hann fann, að þetta tillit gat hann ekki staðist. Honum fanst hann engjast saman og verða ofurlítill drengur á stólnum gagnvart verzlunarstjóranum.
"Hvernig skyldi þeim verða við, ef helvítis kofinn brynni með öllu saman?" mælti Þorgeir og hló kuldalega.
Þetta kom sem úr gjótu eða hraunhelli. Hás holhljómur var í röddinni, sem gekk í gegnum Einar. Hvað var maðurinn að hugsa?
Þögn varð ofurlitla stund. Einar vissi ekkert, hvaðan á sig stóð veðrið. "Þar er margt eldfimt", sagði hann, til að segja þó eitthvað og reyna að láta sem minst á því bera, hve bilt honum hafði orðið við orð Þorgeirs. "Það þyrfti ekki mikið út af að bera".
"Þeir hefðu gott af því, blessaðir mennirnir!" sagði Þorgeir. Röddin var dálítið öðruvísi en næst á undan, en í henni lá þó svo mikil gremja, að Einar fann, að hugur fylgdi máli. "Það væri ekki annað en óhapp, sem ætíð getur fyrir komið. En það kynni að lækka í þeim rostann. Skaðinn gerir menn hygna, en ekki ríka".
Einar þorði varla að líta á hann. Ef til vill hafði hann rétt fyrir sér. En hann óaði við að hugsa til annars eins.
Þorgeir hélt áfram: "Í raun og veru mundu þeir ekki tapa miklu. Þeir fengju meiri hluta skaðans bættan. En það gerbreytti öllu ástandinu hér. Hver veit nema þeir hittu þá aftur afrækta vini".
Rómurinn var mildari en áður og þar brá fyrir raunablæ. Einar fékk snöggvast innilega samhygð með honum. Og nú dirfðist hann að líta á hann. Þorgeir horfði nú ekki á Einar, heldur fram fyrir sig. Hann þagði. Svipurinn breyttist stöðugt, þótt lítið væri. Eitthvað barðist í huganum.
Einar gat ekki ráðið í, hvað það mundi vera. Hann var allur á nálum og hefði feginn viljað komast burtu, áður en verzlunarstjórinn segði meira. Honum leið altaf ver og ver í návist hans, og hann hafði óljósan grun um, að eitthvað geigvænlegt væri í aðsigi.
Þorgeir horfði fram undan sér sem áður og glotti í kampinn. Einar hafði ekki augun af honum. Glottið var ekki góðmannlegt. Það var sem bjarma haturs og hefndarfýsi brygði þar fyrir. Þetta glott var um stund sem á reiki. Síðan harðnaði svipurinn og varð fastur og ákveðinn. Allar andlitstaugar urðu stríðar og óbifanlegar, en svipdrættirnir sem sorfnir í stein eða stál. Snögglega leit hann upp og mætti augum Einars. Tillitið var ennþá hvassara nú en áður. Hann sagði ekkert. En Einar þorði ekki að horfast á við hann. Hann leit því undan, en gat þó ekki gert að því að líta til hans við og við.
"Það væri nú ekki nema mannsbragð að hjálpa þeim til þess að verða skjótlega af með þessar miklu vörubirgðir sínar", sagði Þorgeir loks ofurstillilega.
Nú skildi Einar loks til fulls, hvert hann stefndi. Þetta voru óbein tilmæli til hans. Hann var maðurinn, sem átti að "hjálpa þeim til" - o. s. frv. Þarna kom það, sem hann hafði órað fyrir.
Þorgeir hélt áfram með sömu hógværðinni:
"Við erum smámenni í öllum greinum, ættlerar forfeðra okkar bæði í góðu og illu, ónýtir til alls. Það þarf kjark til stórræða, hver sem þau eru. Ef við höfum ekki aðra að óttast, þá óttumst við sjálfa okkur. Þeir, sem hofin brendu fyrir höfðingjunum, þeir, sem ekki hikuðu við að egna á sig reiði goða og stórmenna, þeim hefði ekki orðið mikið fyrir að - - hm! Þessi bannsettur hjallur, fullur af steinolíu og hefilspónum, öllu vátrygðu, en tómur af mönnum! Hann mætti víst fara. - - Ein eldspýta væri meira en nóg".
Einar var ekki ennþá fullkomlega viss um, hvort alt þetta væri gaman eða alvara. Rétt nýlega skildi hann það sem alvöru. Nú fanst honum hreimurinn í rómi verzlunarstjórans bera það með sér, að alt þetta væri ekki annað en gaman. En hvort sem var, - það var skelfilegt. Þessi óvissa gerði Einar veikari fyrir og ístöðuminni.
Þorgeir sá, að hann var orðinn náfölur.
Alt í einu var eins og Þorgeir ýtti öllum þessum kynlegu hugleiðingum frá sér. Hann rétti sig upp í stólnum, varð allur annar á svipinn og fór að taka ýmislegt til á skrifborðinu sínu, eins og hugur hans væri nú aftur kominn að hversdagsstörfunum. Einari fór að létta um hjartað. Hann þóttist sjá, að engin alvara hefði fylgt öllu þessu tali og bráðum væri sér óhætt að standa upp og fara.
"En, meðal annars", sagði Þorgeir, eins og hann nú rankaði við sér alt í einu. "Þér skuldið altaf ofurlítið hérna, Einar minn".
Nú leizt Einari ekki á blikuna. Hér rak hver plágan aðra.
"Látum okkur sjá, hvað það er mikið", mælti Þorgeir og tók eina af verzlunarbókunum út úr skápnum. Hann fletti henni, þar til hann fann reikning Einars.
Einar fór að skjálfa á beinunum.
"Herra minn trúr! Það eru yfir 200 krónur. Og þér hafið ekkert borgað nú í tvö ár. - Alls ekkert!"
Þorgeir leit af bókinni og framan í Einar. Veslings Einar ætlaði að verða að engu á stólnum við skrifborðsendann.
"Ég hefi ekkert getað borgað. Það veit sá, sem alt veit, að ég hefi ekki getað það".
Röddin titraði í Einari og var vesaldarleg í meira lagi.
"Já - en skuldina verðið þér að borga; það vitið þér sjálfur", sagði Þorgeir nokkuð harðlega. "Enginn heiðarlegur maður tekur lán án þess að ætla að borga það. Er ekki svo?"
Einar gat ekki annað en fallist á það.
"Nú er fyrir mig lagt að ganga hart eftir öllum skuldum. Hver veit nema verzlunin hætti, fyrst svona gengur. Þá verða skuldirnar krafðar inn vægðarlaust. Þér megið til að borga þessa skuld nú í haust - að minsta kosti eitthvað af henni. Það tjáir ekki að færast undan því".
Nú var Einar ekki í efa um, að Þorgeiri væri full alvara. Þetta fékk svo á hann, að hann gat varla varist gráti.
"Getið þér ekki reynt að vinna hana af yður?"
Einar þorði ekki að líta upp. Hann fann, að Þorgeir horfði hvast á hann og beið eftir svari. En hann gat engu svarað. Alt fanst honum hringsnúast í kringum sig. Honum datt alt í hug í sömu svifum: heimilið bjargarlaust - börnin svöng og nakin - Margrét ein að stríða fyrir þeim - hann sjálfur í kauplausri þrælkunarvinnu! - Nei, svo miskunnarlaus gat Þorgeir varla verið. En hvað um það. Við kröfur Þorgeirs varð hann að sætta sig. Þar var ekkert undanfæri.
"Jæja, um það tjáir ekki að fást. Þér borgið ekki skuldina í kvöld hvort sem er", mælti Þorgeir. Hann smelti aftur bókinni og lét hana inn í skápinn. Síðan stóð hann á fætur og fór að ganga um gólf.
Einar stundi þungan. Hann þóttist nú sjá, að þessi hrelling væri yfir gengin að þessu sinni. Nú fór hann að vona, að ekki kæmu fleiri.
Hann fór nú enn að hugsa um að hypja sig á brott. - En þá staðnæmdist Þorgeir á gólfinu, stóð kyr um stund og mælti eins og út í bláinn:
"Hann vakir þó líklega trúlega, þessi vinnumaður þeirra -!"
Nú kom hann að þessu aftur; Einari fór ekki að verða um sel.
"Hvað annað -?" sagði hann hálffyrirlitlega. Hann hafði séð vökumanninn ganga heim til móður sinnar, rétt áður en þeir Þorgeir hittust. Hún bjó þar í einu kotinu. En frá því vildi hann ekki segja hér. Hann vildi ekki lengja samtal þeirra um þetta efni.
Það varð ekki heldur lengra. Þorgeir þagnaði og hélt áfram að ganga hugsandi og þungbúinn fram og aftur um skrifstofugólfið.
Þegar Þorgeir sá enn af nýju ferðasnið á Einari, stanzaði hann snögglega og mælti:
"Já, það var alveg satt. Ég var búinn að lofa að hjálpa yður um á "pödduna" yðar. Hafið þér nokkurt ílát?"
"Nei".
Nú glaðnaði yfir Einari. Altaf hafði hann munað eftir "pöddunni", en ekki þorað að minna Þorgeir á hana. Auk þess fanst honum þetta boða það, að nú gæti hann farið að fara.
Þorgeir brá sér fram í búðina og Einar heyrði hann láta renna í flösku úr tunnu þar frammi. Einar stóð upp á meðan til þess að vera búinn til brottferðar.
Þorgeir kom aftur með flösku, fulla af brennivíni.
"Gerið þér svo vel, Einar minn. Ég bæti þessu ekki á reikninginn yðar. Það fer aðeins okkar í milli".
Einar varð himinlifandi. Hann vissi, að þessi ummæli þýddu það, að flaskan væri gjöf. Hann leit framan í Þorgeir og ætlaði að fara að stama fram þakklæti.
En þá mætti hann augnaráði, sem hann hafði aldrei orðið fyrir áður. Eiginlega var það ekki strangt, en fast og ísmeygilegt. Svipur Þorgeirs var svo kynlegur, að Einari féll allur ketill í eld við að sjá hann.
Þorgeir brosti vinalega; en bak við brosið lá djúp af innibyrgðri gremju og langvinnu hugarstríði - af hatri og hamslausum ástríðum, sem nú voru öllum öðrum sálarkröftum hans yfirsterkari. Augun voru hvöss að vanda og brýrnar skuggalegar. En í gegnum litla díla í miðjum augunum var sem í biksorta sæi. Þessir örlitlu dílar voru ægilegir. Eitthvað geigvænlegt bjó þar inni í dimmunni þessa stundina. Brosið var ekki annað en lausleg gríma, sem engan gat blekt, ekki Einar heldur. Þorgeiri var eitthvað beiskara en bros í hug.
Svo var að sjá sem Þorgeir gerði sér far um að kefja eitthvað eða leyna einhverju í svip sínum, en tækist það illa. Brosið fór honum illa; það var ekki nema á vörunum. Alt andlitið var að öðru leyti steinhart, skipandi og ákveðið, sem búið til blóðugrar atlögu. Uppi á gagnauganu hlykkjaðist æðin, blá og þrútin. Varirnar lágu fast saman, en munnvikin skulfu. - Var sem tvær andstæðar skipanir mættust í andlitsdráttunum, önnur um þögn, hin um mál - bæn eða skipun í einhverri mynd, sem léti það í ljós, sem í huganum var ríkast, og léti þess freistað til fulls, hvernig því yrði tekið.
Hrollur fór um Einar frá hvirfli til ilja við þetta tillit. Varla hafði hann þorað að líta í augu Þorgeirs alla þá stund, sem hann hafði verið þar inni; nú gat hann ekki litið undan; og þó fanst honum þessi augu ætla að gera sig lémagna. Aldrei hafði honum komið nokkur maður jafnundarlega fyrir sjónir. Hann varð þó ekki hræddur. Þorgeir gat ekki verið reiður við hann eða viljað honum neitt ilt. En honum leið einhvern veginn illa í návist hans.
Örlitla stund stóðu þeir og horfðust í augu. Einar með þakkir sínar á vörunum, sem aldrei komust lengra. Þorgeir með ofurmagn rauna sinna í huganum og þrá eftir að sjá harma sinna hefnt og óvini sína að velli lagða - en jafnframt stóð honum ógn af því að eiga þátt í öðru eins ódæði sjálfur og því, sem hann nú hugsaði um. Þetta barðist í huga hans með slíkri ákefð, að hann var tæplega sjálfráður gerða sinna.
Stundin var ekki löng, en mikilsverð var hún. Hvorugum þeirra var það ljóst, að einmitt nú streymdi á milli þeirra eitthvað, sem engin tunga á hæfilegt nafn á. Augu þeirra gátu ekki skilið; en í augnaráðinu töluðust sálir þeirra við. Það var sem viljamagn hins sterkari tæki hinn veikari töfratökum, drægi hann að sér með ómótstæðilegu afli, sameinaðist honum og neyddi hann til að segja já og amen við kröfum sínum. Áform voru uppi látin; fyrirskipanir, sem munnlegar eða skriflegar hefðu eflaust mætt eindreginni mótspyrnu, voru nú gefnar með óskeikulum myndugleik - gefnar ósjálfrátt, meðteknar á sama hátt. Ekkert orð, ekkert hljóð, engin hreyfing fylgdi þeim úr garði.
Alt varð þetta með skjótri svipan, að heita mátti. Þó varð stundin Einari helzt til löng. Hann fann til ónota um sig allan. Hálfkaldir straumar liðu ofan eftir bakinu á honum. Honum fanst hann vera að dofna upp og hann ætla að hníga niður. Hann var í þann veginn að gleyma sér - þegar eitthvað hart kom við bringspalirnar á honum. Það var eldspýtustokkurinn, sem legið hafði á skrifborðinu. Þorgeir stakk honum ofan í vestisvasa hans.
Við þetta raknaði Einar úr töfrunum og rankaði við sér. Þó varð aldrei af því, að hann þakkaði Þorgeiri fyrir brennivínsflöskuna. Honum varð það fyrst fyrir að leita dyranna.
"Munið þér nú eftir skuldinni yðar, Einar minn", mælti Þorgeir og klappaði góðlátlega á öxlina á Einari, um leið og hann lauk upp fyrir honum skrifstofudyrunum.
5. kafli - LágnættiðEftir að Einar var farinn, gekk Þorgeir nokkra stund um gólf í skrifstofu sinni. Skapsmunir hans höfðu verið óvenju æstir, meðan Einar var inni hjá honum. Nú sefuðust þeir smám saman, en jafnframt færðist á hann hálfgerður sljóleiki.
Lítið hugsaði hann um það, sem þeim Einari hafði á milli farið. Honum fanst það varla þess vert. Þó rifjaði hann það lauslega upp fyrir sér.
Einar hafði fátt getað sagt honum, sem hann vissi ekki áður. Hann vissi varla, hvers vegna hann hafði kallað á hann inn til sín - nema ef það hefði verið til þess að fá hann til að koma við hjá sér framvegis, þegar hann kæmi úr vinnu í ytri kaupstaðnum, ef ske kynni, að hann hefði einhvern tíma eitthvað nýtilegt að segja. Vel gat það komið fyrir, að hann yrði einhvern tíma áskynja einhvers þess, sem Þorgeiri kæmi vel að frétta í tíma.
Og þótt Einar hefði komist að því, að illa lá á honum venju fremur, þá gerði það ekkert til. Einar var ekki lausmáll að eðlisfari, og fáir gáfu sig að honum. Ekki var því mikil hætta á, að það bærist út á meðal almennings. Þeir höfðu þekt hvor annan lengi, og Þorgeir þorði vel að trúa Einari fyrir smáræði. Oft hafði hann gert það áður. Hann gat að vísu fengið Einar til að segja sér allt, sem hann vissi; en Einar gat vel þagað fyrir öðrum. Hann vissi líka, að Einari þótti mikils um það vert að halda hylli hans. Hann átti ekki marga að í bágindum sínum.
Það, sem hann hafði talað um, að mátulegast væri, að alt brynni upp fyrir þeim kaupfélagsmönnum, og jafnvel væri vert að stuðla að því á einhvern hátt, gerði hann ekki ráð fyrir, að Einar hefði tekið í fullri alvöru. Hann vissi, að Einar var ekki heimskur, og eldri var hann en tvævetur. Og þetta síðasta, að hann lét eldspýtustokk í vasa hans, mundi hann skilja sem meinlaust gaman. Og ef hann skildi það öðruvísi, til dæmis þannig, að í því hefði falist bón til hans um að kveikja í húsinu, eða skipun um það, þá mundi Einar hugsa sig tvisvar um, áður en hann gerði slíkt hermdarverk. En við umhugsun hlaut sú fyrirætlun að vera úr sögunni. Einar var hugdeigur og lítil líkindi til, að hann færi að stofna sér í annan eins vanda. Nei. Sjálfsagt var óhætt að treysta því, að þetta mál þeirra hefði engin alvarleg eftirköst.
Samt sem áður gat hann ekki neitað því, að hann hefði óskað þess innilega með sjálfum sér, að þetta, eða eitthvert álíka óhapp, henti þá kaupfélagsmenn; að hann hefði látið Einar skilja þessa ósk sína og hann hefði langað - sárlangað - til að biðja hann að kveikja í vöruhúsinu, einkum þegar hann fékk honum flöskuna. Að minsta kosti hafði hann langað til að sjá, hvernig Einari yrði við slíka málaleitun. En til allrar hamingju hafði hann þó ekki gert það. Hvað sem Einar hefðist nú að, gat hann hvorki hermt upp á hann bón né boð.
Samt var honum ekki rótt. - Skapsmunir hans höfðu verið undarlega ókyrrir. Hann mundi ekki eftir, að gremja sín og hefndargirni hefði nokkurn tíma fengið annað eins vald yfir sér eins og þetta kvöld. Þetta var honum nýtt áhyggjuefni. Þótt Einar hefði hlotið að sjá, að hann var í þungu skapi, þá hafði hann þó auðvitað minst séð af hugarhræringum hans. Í þetta skifti hafði honum þó gengið illa að stjórna geði sínu.
En hvernig stóð á því? Var honum að fara aftur með það, að hafa hemil á sjálfum sér? Voru taugar hans að bila? Og ef svo var, - hvar mundi það lenda? Hvað átti hann til bragðs að taka?
Nei. - Nú var hann aftur kominn í hversdagsskap sitt. Raunaþunginn var að vísu ekki horfinn úr huga hans. Hann hvarf aldrei. En hann réð þó við hann. Hann hafði getað stjórnað skapi sínu fyr um kvöldið, þegar hreppstjórinn var inni hjá honum. Hann gat það enn, hvenær sem hann vildi. Þessi veiklun, sem nýlega hafði komið yfir hann, gerði lítið til. Enginn hafði orðið hennar áskynja nema Einar. Varla fór hann að misnota slíka dutlunga.
Ef hann mætti ekki treysta því, fanst honum það helzt vera skylda sín að fara út á eftir honum, leita hann uppi og biðja hann að taka alt tal þeirra áður um kvöldið sem markleysu. Og ef hann fyndi hann ekki, þá að vera á varðbergi fyrir honum - vaka yfir vörum mótstöðumanna sinna! Hann gat ekki að sér gert nema brosa að því.
En þess þurfti ekki. Einar hafði vit fyrir sér. Og þótt hann hefði sjálfur fyrir augnabliki síðan óskað óvinum sínum allrar óblessunar og feginn viljað, að Einar væri verkfæri í hendi sinni til að brenna alt upp fyrir þeim, þá fór því fjarri, að hann óskaði þess nú. - -
Hann hratt síðan öllum þessum hugsunum frá sér og kveikti í pípunni sinni. En það gerði hann aldrei, þegar verst lá á honum. Hugur hans hafði daglega erfiðari viðfangsefni en honum fanst þetta vera. Samt eimdi eftir í honum af einhverjum ónota beyg eða kvíða, sem kom aftur og aftur. Hann var óljós og á reiki. En altaf leiddi hann til þeirrar hugsunar, hvað Einar í Bælinu mundi nú vera að hafast að. Líklega var hann nú orðinn fullur og lagstur fyrir. Það var eina úrlausnin.
Hljótt var orðið í húsinu fyrir góðri stundu. Allir voru háttaðir. Úti fyrir var orðið aldimt, og öll umferð var þar hætt. Kaupstaðarbúar, sem flestir voru búnir að fá nóg af "hita og þunga dagsins", voru sofnaðir og sváfu fast.
Um þetta leyti kvöldsins var það að vanda, að Þorgeir hóf reik sitt um húsakynni verzlunarinnar.
Hann hefði nú eflaust þegar verið lagður af stað í þann leiðangur, hefði Einar ekki tafið hann. Nú datt honum í hug að hætta við það að þessu sinni. En hann fann það á sér, að hann mundi ekki geta sofnað fyrst um sinn, þótt hann háttaði. Og þótt einveran væri ömurleg, meðan hann var á fótum, var hún þó verri, er hann lá andvaka í rúmi sínu. Hann tók því lampann í hönd sér, eins og rekinn af rótgrónum vana, og reikaði - ekki út í búðina né upp á búðarloftin, heldur - inn í íbúðarhúsið.
Þorgeir var sá eini, sem svaf niðri í húsinu. Alt þjónustufólk hans svaf uppi.
Sá hluti hússins, sem ætlaður var til bústaðar verzlunarstjóranum, var allstór geimur. Næst skrifstofunni og við sömu hlið hússins voru tvö herbergi, hvort inn af öðru. Þau herbergi voru nú notuð. Annað þeirra, það sem nær var skrifstofunni, var svefnherbergi Þorgeirs. Hitt var rétt við eldhúsið og var nú notað fyrir borðstofu. Öll hin herbergin niðri stóðu nú að mestu ónotuð. Eitt eða tvö herbergi hinum megin eldhússins voru stundum notuð handa gestum.
Við hina hlið hússins, framhlið þess, er að sjónum vissi, voru tvö afarstór herbergi og vel búin að vönduðum húsgögnum. Þau herbergi voru nú lítið notuð og sjaldan komið inn í þau.
Þorgeir gekk gegnum svefnherbergi sitt, borðstofuna og eldhúsið og þaðan inn í stóru herbergin. Hann fór hljóðlega að vanda og lagði hurðirnar hægt að stöfum, svo enginn hávaði skyldi heyrast upp þangað, sem ráðskona hans og þjónustufólk hans svaf.
Hann reikaði fyrst fram og aftur um báðar stofurnar og litaðist um. Lampinn, sem hann hélt á, megnaði lítið að uppljóma slík herbergi. Það var því hálfrökkur í kringum hann. Ekkert skóhljóð heyrðist, því dúnmjúkar gólfábreiður, ofnar úr grófu, íslenzku ullarbandi og nú fullar af ryki, lágu á báðum gólfunum. Loks setti hann frá sér ljósið á borð í þeirri stofunni, er hann fyrst kom inn í.
Þessi stofa, sem var nær eldhúsinu, hafði á umliðnum árum verið borðstofan. Hin stofan var nær aðalinngangi íbúðarhússins og var gestastofa, eða "skrautstofa", eins og almenningur nefndi hana.
Á blóma- og einveldisárum Þorgeirs höfðu þessar stofur sjaldan staðið mannlausar. Oftar hafði það komið fyrir, að ekki veitti af stærð þeirra. Nú var öldin önnur. Nú var varla haft svo mikið við þær að opna þær við og við, til að strjúka rykið af stofumununum. Ráðskonan skildi ekkert í, að ryk gæti safnast þar, sem jafnlítið var gengið um. Þess vegna þrifaði hún þar til í eitt skifti fyrir mörg, setti þá alt á sinn stað, strauk alt og fágaði og - lét svo þar við sitja svo mörgum mánuðum skifti.
Borðstofan var stærri en hin. Þar stóð á miðju gólfi stórt eikarborð, sporöskjulagað, og mátti draga það sundur til endanna og bæta í miðjuna lausum fjölum eftir þörfum. Umhverfis það stóðu eikarstólar með útskornum bökum og gegnstungnum setum. Úti í hornunum voru smærri borð, og í einu horninu stóð borðskápur geysimikill úr vandaðri eik, sem geymdi borðbúnað og ætlaður var jafnframt til að setja þar frá sér til bráðabirgða það, sem síðan átti að framreiða, eins og títt er í heimkynnum efnamanna. Að öðru leyti var stofan lítt prýdd. Hún var ekki til annars ætluð en að matast þar. Ein stór koparstungumynd, gerð eftir málverki Marstrands af sýningu úr einu af leikritum Holbergs, hékk þar á einum veggnum í svartri umgerð, lagðri gljálakki. Beint á móti hékk þúsund-ára-minningarblað Benedikts Gröndals í umgerð af sama tagi. Þetta tvent var látið nægja til prýði á veggjunum.
Meðan verzlunarþjónar voru margir hjá Þorgeiri og gestir voru þar tíðir, veitti oftast ekki af þessu stóra borði. Oft þurfti þá að stækka það eins og unt var; komust þá að því yfir 20 manns, án þess að þröngt væri. Nú hafði ekki þurft á því að halda um nokkur ár. Verzlunarþjónunum, sem voru þar á framfæri, fór stöðugt fækkandi. Gestir urðu fátíðari, og loks hafði Þorgeir mælt svo fyrir, að taka skyldi minna herbergi fyrir borðstofu. Nú mötuðust ekki aðrir honum til samlætis daglega en þeir tveir búðarsveinar, sem áður er getið um; þeir bjuggu þar einnig í húsinu. Kæmi það fyrir, að gestir mötuðust með þeim, voru þeir aldrei fleiri en svo, að litla herbergið nægði. Áður hafði oftast verið fjör og fyndni við borð Þorgeirs. Nú var þar varla talað orð, meðan matast var. Þorgeir gaf sig sjaldan í óþarfa viðræður við þjónustusveina sína, og þeim leizt vanalega svo á hann við borðið, að betra væri að hafa þar hljótt og gæta allrar hæversku. Enda var ekki setið að borðum lengur en nauðsynlegt var.
Hin stofan var að vísu nokkru minni, en sýndist þó minni en hún var, sökum hinna mörgu og ágætu muna, sem voru þar inni og of langt yrði að telja hér alla. Þykk og mikil dyratjöld, bekkjaofin, með rósum og skúfum á jöðrunum, voru fyrir dyrunum á milli stofanna. Voru þau dregin saman í fagrar fellingar til beggja hliða, en hurð var þar engin. Í einu horni stofunnar stóð hljóðfæri, "fortepiano", með þeirri gerð, sem algeng var erlendis á hinum fyrri keisaraárum Napoleons III. Hafði kona Þorgeirs fengið það að brúðargáfu, leikið á það, meðan henni entist aldur og heilsa til og stytt þar bæði sjálfri sér og öðrum marga stund. Meðal annara merkismuna þar inni var skatthol eitt mikið úr vallenzkum hnotvið, gljáskygt og hin mesta gersemi. Geymdi Þorgeir þar þá hluti, sem honum var annast um, og gekk enginn um það annar. Þá sjaldan hann gekk um þessar stofur nú orðið, vitjaði hann jafnan þangað. Í einu horninu stóð brjóstmynd af Thorvaldsen úr hvítum marmara, gerð eftir mynd þeirri, er hann gerði af sér sjálfur og Kaupmannahafnarbúar gáfu Íslandi afsteypu af á 1000-ára-hátíðinni. Var þessi mynd hinn dýrasti og sjaldgæfasti gripur, sem Þorgeir átti, og hafði hann fengið hana að gjöf hjá verzlunarstjórninni í Kaupmannahöfn, á þeim árum, þegar vegur verzlunarinnar var sem mestur. Bókaskápur allstór stóð einnig þar inni. Var í hann raðað mörgum ágætum bókum, bæði innlendum og útlendum. Sneru logagyltir bókakilirnir fram, en glerhurð var fyrir. Meðal mynda þeirra, er prýddu veggina, var eitt olíumálverk af Krónborg við Eyrarsund. Sást kastalinn þar álengdar með turnum sínum; þá sást sundið með mörgum skipum, en fjarst á myndinni strönd Svíþjóðar. Annað olíumálverk var þar einnig af seglskipi. sem verzlunin hafði lengi átt og haft í förum milli Íslands og Kaupmannahafnar. Hafði Þorgeir oft farið út og utan með því og haft á því miklar mætur. Myndina hafði skipstjórinn látið mála og gefið honum. Geisaði gnoðin þar fram milli grænna holskefla, voðirnar hvelfdust af vindinum, en hvít brimhrönn svall um brjóstin og aftur með síðunni. Aðrir innanstokksmunir þar voru allir hinir ríkmannlegustu, en flestir með þeirri gerð, sem nú þótti gömul orðin og var farin að leggjast niður.
Þorgeir skildi lampann eftir frammi í borðstofunni, en gekk ljóslaus inn í hina stofuna. Ekki var aldimt inni, því ljósbirtu lagði inn milli dyratjaldanna. Lenti geislinn þar á stórum stofuspegli, sem dreifði aftur skininu frá sér út um stofuna, svo vel sást þar aðgreining allra stærri hluta. Þorgeir settist á legubekk með mjúkum stálfjöðrum undir setunni og tók að hugsa.
Þessa stundina var það ekki þykkja og beisklyndi, sem fylti huga hans, heldur söknuður.
Hann fann til óbærilegs tómleika innra hjá sér og umhverfis sig. Öll þau auðæfi, sem hér voru í kringum hann, juku þá tilfinning. Allir þessir dýru, fögru munir voru honum til ama, og einskis annars. Nú var hann hér einn, aleinn. Enginn var til að njóta alls þessa með honum. Það var svipaðast því, að heimurinn væri eyddur að mannlegum verum, og hann einn eftir. Það stóð á sama, hvort hann var hinn síðasti maður og einkaerfingi að fjárhlutum alls mannkynsins, eða aðeins eigandi þess, sem þarna var inni. Hann gat ekkert yndi af því haft. Enginn var til að gleðjast af því, enginn til að dást að því, enginn til að njóta þægindanna, sem það gat veitt.
Hann var sem kominn inn í borg einhverrar gamallar þjóðhöfðingjaættar, sem nú var útdauð. Þar stóð alt með sínum gömlu ummerkjum, hljótt, stirðnað og steindautt. Hásætið stóð autt, sængurnar uppbúnar, kolarústin köld á arninum, leifarnar af síðustu réttunum harðnaðar í ílátunum, taflið hálfteflt á gullrendu borði. Þannig hafði það staðið um mörg hundruð ár. Borgin var ekki annað en minnisvarði. En kyrð og friður grafarinnar bjó þar inni og gagntók þá, sem inn komu af forvitni. -
Þannig var því einnig farið hér. Þessi herbergi voru grafstúkur blómaára hans og heimilishamingju. Þau voru heilagt musteri minninga hans frá löngu liðnum dögum. Þess vegna átti kyrðin ein að ríkja þar. Hann leitaði þangað sjaldan sjálfur, nema þegar hann fann hjá sér þrá eftir nýju samneyti við hið framhjá farna. Það kom helzt að honum að nýafstöðnu, hörðu hugarstríði.
Nú hvarflaði hugur hans yfir liðnu árin.
Hann mintist þess, þegar hann fyrst bjó um sig í þessum stofum, árið sem hann tók við verzluninni, þá rúmlega hálf-þrítugur. Hann mintist föður síns og móður sinnar, þegar þau komu í kaupstaðinn næst á eftir og komu inn til hans. Þvílíkur fögnuður, þvílík sigurgleði, von og ánægja, sem skein út úr svip þeirra yfir velgengni sonar þeirra. Og hann mintist þess einnig, þegar helztu bændur og atkvæðamenn héraðsins komu inn til hans í fyrsta sinni og óskuðu honum til hamingju. Þeir gerðu það innilega. Þeir óskuðu ekki einungis honum til hamingju, heldur einnig sjálfum sér með það að hafa nú hlotið innlendan verzlunarstjóra.
Svo mintist hann smávaxinnar, ljósklæddrar veru, sem leið hljótt og léttilega um herbergin eins og geisli. Það var konan hans sáluga. Hún var dönsk og komin af efnaðri kaupmannsætt. En hún samdi sig fljótt að siðum landsins og tungu þess, sigraði alla með alúð sinni og góðmensku og varð brátt allra uppáhald. Vinsældir þær, sem heimili hans átti að fagna á þeim árum, voru ekki síður henni að þakka en honum. Það var sem veggirnir geymdu ennþá óminn af söng hennar og hljóðfæralist. Ennþá stóð í stofunni ofurlítið saumaborð, prýtt dýrri steintiglaleggingu, sem hún hafði átt, og ruggustóllinn hennar, hvorttveggja ágætis munir.
Hann mintist margra kvölda, þegar troðfult var inni hjá honum af gestum. Þegar bláar reykjarslæður úr góðum vindlum beltuðu sig um alla stofuna, drógust einkum saman í kringum hengilampann mikla, sem líktist ljósahjálmi í kirkju, rifnuðu sundur af loftstraumnum upp frá ljósunum, en komu jafnharðan aftur. - Þegar vínið tindraði í glösunum, valið í þeim tilgangi að gefa hvorttveggja í einu, góða matarlyst og gott skap. Hann mundi, hvar hver einstakur hafði setið í hvert skifti. - Menn voru ekki lengi að verða hreyfir og glaðværir. Orð og hlátra mundi hann einnig og mörg af þeim augnabliks-svipbrigðum, sem þar höfðu fyrir hann borið. Þar voru allir jafnir, bændur og embættismenn, prestar og skipstjórar. Bændurnir gleymdu feilni sinni og kunnáttuskorti á heldri manna siðum, lögðu frá sér alla óframfærni og voru sem heima hjá sér, upplitsdjarfir, fróðir, fyndnir og skynugir í viðræðum. Þannig vildi hann sjá þá! Stundirnar flugu; enginn vissi, hvernig þær liðu. Enginn tók heldur eftir glamrinu og ysinum inni í hinni stofunni, eða matarilminum, sem fór að berast þaðan. Enginn átti neins von, þegar frúin dró dyratjöldin frá, birtist sjálf í dyrunum, ástúðlega brosandi, og bað menn á sinni bjöguðu íslenzku að "gjöre svo vel at spise!"
Svo byrjuðu raunaárin. - Þegar tímar liðu fram, fór hann að taka eftir því, að þessi góða kona var ekki söm og áður. Hún þagði lengi og þrætti fyrir, að nokkuð gengi að sér. En hann sá það samt. Hún var orðin óstyrk, hendurnar skulfu og hún þoldi ekki lengur að leika á hljóðfærið sitt, eða hafði ekkert yndi af því. Þeim hafði orðið tveggja barna auðið. Annað var dáið, og hún tók sér missi þess mjög nærri. Eftir það fór að bera meira á sjúkleika hennar, svo honum varð ekki leynt lengur. Honum var það mikið áhyggjuefni. Hann hugsaði oft um það, bæði þá og síðan, hvort þessi vanheilsa hennar væri ekki honum að kenna. Hafði hann ekki lagt henni á herðar alt of þungt heimilisstarf? Hin mikla gestanauð og hin mikla rausn hlaut að hafa bakað henni afarerfiði. Hann var sjálfur óbilandi eljumaður og hafði ekki hugsað út í það, að ekki voru allir gæddir sama þreki og hann. Hún hafði aldrei haft miklum manni að má. En nú voru allar umbætur um seinan. Læknirinn gat ekkert að gert og vildi ekkert láta uppi um sjúkdóm hennar. Hún var þá því nær orðin rúmföst. Ekki var því um annað að gera en að hún færi utan, upp á von og óvon, til að leita sér lækninga. - Hann leit upp á myndina af skipinu á veggnum; hún sást dauft við bjarmann úr speglinum. Það var með því skipi, að hún fór utan. Í hinni þröngu lyftingu þess háði hún dauðastríð sitt. Þegar skipið sigldi fram hjá Krónborg, inn um sundið, sem sást á hinni myndinni, blakti fáni þess í hálfa stöng. Þá var hún dáin. Hún var jörðuð í grafreit ættingja sinna í Kaupmannahöfn. Hann gat ekki fylgt henni til grafar, en hafði síðar komið að leiði hennar og látið reisa þar snotran marmarastein.
Eftir að hún var horfin af heimilinu, beindist athygli hans að öðrum kvenmanni, sem nú óx þar upp og dafnaði ár frá ári og útlit var fyrir, að ekki mundi gefa móður sinni eftir að fegurð. Það var einkadóttir þeirra. Hún varð brátt eftirlætisgoð föður síns. Nú lagði hann alla sína ást á hana og reyndi sem mest að vanda uppeldi hennar. Hún var talsvert lík móður sinni í andliti; en lengra náði ættarmótið heldur ekki. Hún var bráðþroska, stór og tápmikil og ólík móður sinni í lund, því hún var harðlynd og lítt mannblendin. Hún tók snemma við störfum móður sinnar á heimilinu; en þau létu henni aldrei eins vel. - Nú vildi Þorgeir sem minst um hana hugsa. Hún var töpuð honum - töpuð honum að fullu og öllu - og þó ennþá á lífi. Hann taldi sig enga dóttur eiga framar.
Við allar þessar hugsanir fyltist hann angurblíðum tilfinningum. Hann þurfti að beita hörðu við sig, svo hann ekki klöknaði. Nú var heimilisánægjan þrotin, gestirnir farnir, vald hans og mikillæti orðið til spotts og athlægis. Einn - aleinn sat hann á rústum ríkis síns og taldi sér raunatölur. Hann mintist orða Egils Skallagrímssonar:
- "Alþjóðu
- fyr augum verður
- gamals þegns
- gengisleysi".
Þessi vísuorð hafði hann kunnað síðan hann var drengur. Nú fanst honum þau eiga við sig. Það var einmitt þetta "gamals þegns gengisleysi", sem sárast amaði honum.
Hann fór að leita að orsökum alls þessa. Oft hafði hann gert það áður, ef til vill daglega nú á seinni árum. En ályktanir hans voru misjafnar og reyndust lítt varanlegar. Nú gerði hann það ennþá einu sinni.
Þyngstur allra harma hans var sá, að gamlir vinir höfðu snúið við honum bakinu. Allar aðrar raunir hans voru réttar honum af hinni alvöldu hönd, sem skiftir kjörum mannanna. En vinaótrygðin gat ekki verið þaðan runnin. Slíkan manngildis- og drenglyndisskort gat hinn alvaldi ekki tekið í þjónustu sína til að reyna nokkurn mann.
Hvers vegna höfðu þeir gert þetta?
Hann lét hugann hvarfla yfir alla viðskiftasögu hans, og þeirra, leitandi og spyrjandi. - Hafði hann verið of strangur við þá? Var til of mikils ætlast, að þeir stæðu við töluð orð, stæðu í skilum og umgengjust hann eins og frjálsir og heiðarlegir viðskiftavinir? Eða hafði hann misboðið þeim með því að benda þeim á þjóðarlöst þann, sem þeim var orðinn svo inngróinn, löst, sem hann svo oft hafði orðið að þola önn og ákúrur fyrir þeirra vegna? Vildu þeir ekkert af honum læra? Ekki heldur, þótt hann gengi á undan þeim sjálfur? Gerðu þeir þetta af eintómri mikilmensku?
Eða hafði hann verið of harðsvíraður við þá, þegar þeim lá á liðsinni hans? Hafði hann ekki verið nógu stimamjúkur, eða ekki skilið þarfir þeirra og ástæður til fulls? Oft hafði hann þó, margoft, greitt úr vandræðum þeirra. Gömlu skuldirnar höfðu þeir látið standa og bætt nýjum við, gefið loforð og gleymt þeim jafnharðan, og samt fengið úrlausn, hvenær sem þeir komu.
Eða hafði hann verið þeim of ráðríkur í sambúð og umgengni? Hafði hann ofmetnast af valdi sínu og velgengni og ekki kunnað sér hóf? Hafði hann leikið þá of hart, þegar hann komst að því fyrst, að þeir tóku fegins hendi við öðrum viðskiftamönnum? Hafði hann farið ómannúðlega með þá, eða áhugamál þeirra, og brugðist því trausti, sem þeir höfðu á honum? Var hann orðinn hataður á meðal þeirra, sem böðull og óþjóðlegur einokunarharðstjóri?
Hann hristi höfuðið yfir öllum þessum spurningum. Enga sök gat hann hjá sér fundið - enga verulega, að minsta kosti enga svo stóra, að harmar þeir, sem menn nú bökuðu honum, væru honum makleg refsing. Oft hafði hann meira að segja orðið fyrir ámæli yfirmanna sinna fyrir það, að hann gengi of vægt eftir kröfum verzlunarinnar. Auðvitað var það nú notað vegna ósamkomulags, en satt var það samt. Hann hafði aldrei haft hörku til að beita rétti sínum til hins ýtrasta, þótt margir hefðu átt það meira en skilið. Árlega yfirgáfu menn hann án þess að greiða skuldir sínar. Flesta þeirra gat hann svift eignum, hvenær sem hann vildi. En með því gat hann ekki gert þeim mönnum skráveifu, sem hann helzt vildi og helzt þurfti að yfirbuga. Þeir höfðu séð vel fyrir sjálfum sér að þessu leyti. Og þeir voru foringjarnir; hinir voru ekki annað en óbreyttir liðsmenn.
En hví hafði verzlunarstjórnin ytra neitað honum um liðsinni sitt? Einu sinni hafði hann verið látinn ráða öllu, sem hann vildi. Þá hafði alt farið vel og hann hlotið stórþakkir. Hann leit á Thorvaldsens-myndina, sem sást óljóst í hálfskugganum. Ennþá hefði alt getað farið vel, ef ekki hefði verið kipt vopnunum úr höndum hans, þegar verst gegndi. Þessi aðferð verzlunarstjórnarinnar var honum með öllu óskiljanleg. Ástæður þær, sem uppi voru látnar, gátu naumast annað verið en fyrirsláttur. Þeir trúðu honum ekki. Hvað kom til? Var hann rægður við yfirmenn sína? Og hver gerði það? - Nei, hann trúði því ekki. En hver gat það verið, sem lagði þeim slík Lokaráð?
Ef til vill vildu þeir nú helzt losna við hann, en vantaði ástæðu til að segja honum upp stöðunni. Eða þeir biðu þess, að hann þreyttist svo, að hann bæðist sjálfur lausnar. Að því skyldi þeim aldrei verða. En fyrir mótstöðu þeirra var sigurvonin í brjósti hans farin að missa máttinn. Það gerði harma hans enn sárari.
"Alþjóðu fyr augum verður gamals þegns gengisleysi!"
Hann hafði orðin upp fyrir sér aftur og aftar og stundi við.
Honum fanst ástæður sínar líkastar því, að hann stæði á meinlekri fúafleytu, sem eitt sinn hefði verið gott skip, - stæði þar og jysi upp á líf og dauða, en hefði ekki við og fyndi nú kraftana fara þverrandi. Fleytan seig stöðugt í sjóinn og hlaut að færast í kaf, ef engin hjálp kæmi. En á báðum löndum stóð múgur og margmenni, með ópi og illkvitnishlátrum. Menn gerðu gys að árangurslausri ákefð hans og skemtu sér við að sjá örvæntingu hans. En þeir, sem hjálpin stóð næst, höfðust ekkert að.
Hann reisti sig í sætinu og harkaði af sér.
Ennþá var ekki öll von úti. Ef til vill var alt þetta flan kaupfélagsmanna sprottið af nýjungagirni, breytingagirni. en alls engum dýpri rótum. Stöku hugsjónir verða að tízku í landinu, eru það um nokkurn tíma, en missa svo mátt sinn og lognast út af. Ef til vill var þessi kaupfélagshugmynd ein af þeim. Ef til vill sáu öldungar þeirra fyr en varði, að þessi félagsskapur, sem þeir börðust fyrir og báru á höndum sér, var ótímabær burður. Ef til vill féllust þeir á alt það, sem hann hafði reynt að gera þeim skiljanlegt, og sáu þá, þótt seint væri, að þeim hafði skjátlast, en hann séð gleggra og lengra. - Og þá komu þeir til hans aftur.
Yrðu leikslokin slík, gat hann fagnað sælli elli.
Hann starði fram undan sér út í herbergið, án þess að festa augu á neinu, sérstöku.
Aftur glaðnaði yfir hugsunum hans.
Hann sá óglögt suma stofumunina, þótt hann horfði ekki á þá. Hann kannaðist við þá. Þeir voru allir gamlir kunningjar, - gamlir vinir, var óhætt að segja. Nú fanst honum hann ekki vera annar eins einstæðingur og áður. Minningar hans voru hjá honum, sumar beiskar, sumar sælar, og húsgögnin hans voru í kringum hann. Þau steinþögðu að vísu. Þau gátu úr engri af spurningum hans leyst. En honum fanst samt sem líf færðist í þau. Honum fanst þau vera gædd augum og horfa broshýr til hans. Loks fanst honum þau hneigja sig íbyggilega í áttina til hans, eins og þau vildu segja við hann: "Bíddu við, húsbóndi góður, við eigum eftir að þjóna þér ennþá!"
Alt í einu birti til muna í stofunni. Allar myndir í kringum hann urðu skýrari, sem kæmu þær fram úr rökkri sínu. En það var ekki nema svipstund.
Hann tók eftir þessu, en gaf því lítinn gaum. Annaðhvort stafaði það frá lampanum frammi í hinni stofunni, - ljósið hafði blossað meira upp en vant var, - eða leiftri hafði brugðið fyrir úti - ef það var ekki tómur hugarburður.
Vökudraumar hans héldu áfram þrátt fyrir þessa litlu truflun. Stofan var orðin troðfull af gestum. Þeir sátu á stólunum við borðið, á legubekknum hjá honum, alstaðar, hvar sem setið varð. Þeir voru hljóðir, en glaðlegir í bragði. Hann þekti þá aftur, hvern einn og einasta. Það voru hinir gömlu vinir hans og tíðu gestir. Þarna voru þeir komnir aftur. Þeir voru dálítið ellilegri en áður, dálítið meira gráhærðir, og sumir einnig dálítið lotnari. Hann vissi þetta. Þeir hlutu að koma. Þeir gátu ekki án hans verið, fremur en hann án þeirra. Nú voru þeir komnir að raun um það. Nú var allur misskilningur milli þeirra upprættur. Orðalausar fyrirgefningarbænir og orðalaus bænheyrsla höfðu jafnað alt hið undanfarna. Nú var ekkert til framar, sem þyngdi skapsmunina.
Hann sá bláleitan reyk úr beztu vindlunum, sem hann þekti, hnykla sig, teygja úr sér og sveima í fáránlegum hringjum kringum hengilampann. Allir kristalstrendingarnir, sem héngu eins og kögur utan í honum, tindruðu og glitruðu með öllum litum regnbogans. Á borðinu freyddi kampavínið í grunnum, fagurskygðum kristalsbikurum, en flöskurnar stóðu hjá, eins og æruverðar "matrónur" með skrautsvuntur og skrautdúka um hálsinn, og biðu eftir því að gera skyldu sína af nýju og aftur af nýju.
En þó varð honum starsýnast á hvíta, breiða bringu, sem lá makindalega í ruggustólnum. Vestið var mjög flegið og neðan undir hvíta líninu glampaði á gullkeðju með stóru steinnisti; en kviðurinn bungaði fram á við, og var honum vel í skinn komið. Hann vissi vel, að þetta var hvítur hekludúkur, sem breiddur var yfir bakið á ruggustólnum; en þarna þóttist hann þó kenna umboðsmanninn frá Klaustrinu, ríkasta og jafnframt feitasta bóndann í uppsveitunum, glæsimann mikinn í klæðaburði. - Þarna var hann nú kominn aftur, eftir langa útivist, og gerði sér hægt í ruggustólnum!
En úti við bókaskápinn fanst honum hann koma auga á tvö andlit, sem rökuð voru á Kristjáns IX. vísu. Þau voru svo lík, að varla urðu þau aðgreind á öðru en því, að uppi yfir öðru þeirra grúfði frönsk hárkolla, en yfir hinu skein æruverður skalli. Þar voru þeir komnir bræðurnir Sigurður í Vogabúðum, hreppstjóri, póstafgreiðslumaður o. fl o. fl., og Sveinbjörn í Seljatungu. Mikið hlutu þeir að hafa þurft að brjóta á bak aftur í skapi sínu, áður þeir voru þar komnir. Margt hlutu samvizkuhrófin að hafa haft til að hvísla að hvorum þeirra fyrir sig. En nú var því öllu af vegi rutt. Þeir brostu líka.
Og þarna var Jón á Fitjum, Árni á Fífumýri og Bjarni á Fossalæk. Það vantaði ekki marga í gamla hópinn. Og þeirra var líklega von bráðum. - - -
En nú birti aftur í stofunni, miklu meira en hið fyrra skiftið. Allir hlutir urðu enn skýrari. Bjartur, flöktandi bjarmi hríslaðist um skattholið mikla, um spegilinn og Thorvaldsens-myndina, - sem virtist brosa við honum, - og málverkin á veggnum. Hann brotnaði á gljáskygðum húsgögnunum, myndaumgerðunum og kristalstrendingunum utan í lampanum. Hver ljósaldan rak aðra um herbergið.
Þorgeir glaðvaknaði af draumum sínum. Þetta var ekki einleikið. Hvaðan kom þessi kynlegi bjarmi?
Honum varð fyrst fyrir að líta fram í stofuna. Þar logaði jafnt og rótt á lampanum. Alt í kringum hann og yfir honum var ekkert grunsamt að sjá. Engan reykjarþef var heldur að finna. Þessi bjarmi kom ekki þaðan úr húsinu.
En hvaðan kom hann þá?
Nú jókst hann fremur en minkaði. Þorgeir stóð spyrjandi og höggdofa á miðju gólfinu og litaðist um. En fljótt fékk hann gátuna ráðna og varð hverft við.
Þessi bjarmi kom - inn um gluggana.
-
Það er af Einari að segja, að þegar hann kom út frá Þorgeiri, var hann viðutan og hálfringlaður. Veran þar inni hafði haft undarleg áhrif á hann, sem hann alls ekki hafði þekt áður. Honum fanst hann vera líkt á sig kominn og væri hann vaknaður af þungum svefni og hefði sofnað ofurlítið kendur. Hann hafði þó ekki "timburmenn", en ónota-vímu. Ekki gat það verið víni að kenna í þetta sinn. Hann hafði sáralítið bragðað allan þennan dag, og í þetta skifti ekki nema eitt staup. Engum verður flökurt af því.
Koldimt var orðið úti. Lítillar dagsrandar, sem ennþá var á norðvesturloftinu, gætti alls ekki. Himininn var mjög skýjaður, en heiðar glufur hér og þar og sá til stjarna. Hvergi var ljós að sjá í öllum kaupstaðnum. Alstaðar voru menn háttaðir og sofnaðir. Tilsýndar í myrkrinu voru húsin sem stórir steinar. Alt var þar grafkyrt og steinþegjandi. Ekkert lifandi sást á ferli - ekki einu sinni vökumaður þeirra bræðranna.
Einar hrestist fljótt í hreinum nætursvalanum. Hann vissi fyrst ekki, hvert halda skyldi. Honum stóð raunar á sama, hvert hann fór - annað en heim til sín. Þangað vildi hann fyrir engan mun halda. Nú var bezt, að hún Manga hans fengi að sofa í friði með krakkana.
Honum varð þá reikað upp fyrir verzlunarhús Þorgeirs og að lokum fram á gilbarminn að baki þeirra. Hann fór niður fyrir brúnina og settist þar á ofurlitla grastó. Skamt fyrir neðan hann beljaði áin í klettaþrengslum. Þar losaði hann um tappann í flösku sinni og dreypti ofurlítið á sig. Treyjuna hafði hann til þessa borið á handleggnum. Nú fann hann til kulda og fór því í hana.
Þegar Einar var búinn að hagræða sér þannig, fór hann að hugsa um það, sem fyrir hann hafði komið um kvöldið.
Fyrst voru hugsanirnar óskýrar og fálmandi. Honum veitti erfitt að fá þær til samhengis. Alt blandaðist saman, kom öfugt og sundurslitið, svo hann réð ekkert við það. Hann var lengi að rifja upp fyrir sér orð og atvik, tína það saman og fá yfirlit yfir það í heild sinni. Honum var undarlega háttað að þessu sinni. Hann þekti naumast sjálfan sig. Hann hafði jafnan getað treyst minni sínu, jafnan munað skýrt og rétt alt, sem hann vildi muna. Nú fanst honum þessi sálargáfa einnig bregðast sér. Loks hafði hann þó rakið sig fram úr öllu því, sem hann að þessu sinni vildi taka til umhugsunar.
Áður hafði gremjan yfir framkomu bræðranna við hann verið ríkust í huga hans. Nú var það Þorgeir. Hann var honum meira en óskiljanlegur þetta kvöld; hann var ægilegur. Honum stóð stuggur af honum jafnvel nú, þótt hann væri sloppinn út frá honum. Aldrei hafði hann hitt á hann slíkan. Hrollur fór um hann við þá mynd af honum, sem nú geymdist í huga hans. Aldrei hafði hann séð neinn mann í slíkum ham.
Hann rifjaði upp fyrir sér alt það, sem þeim hafði á milli farið, frá því Þorgeir hitti hann við grindurnar og þar til hann loks kvaddi hann. Aldrei á æfi sinni hafði honum liðið jafnilla eins og þessa stund. Og þó var Þorgeir ljúfur og góður við hann. Ekki einu sinni þegar hann talaði um skuldina, var hann harður. Hann hafði oft séð hann strangari, byrstari og reiðari. En hann hafði aldrei séð hann jafnkynlegan og aldrei jafnraunalegan.
Einkum voru honum augu Þorgeirs minnisstæð. Það var sem hann horfðist enn á við þau og vildi líta undan, en gæti ekki. Aldrei hafði hann séð slík augu. Aldrei höfðu nein mannsaugu smogið eins í gegnum hann. Ennþá var sem úr honum drægi alt afl við það eitt að hugsa um þau.
Hann mundi einnig glögt þessar setningar, sem Þorgeir hafði sagt við hann. Þær voru hvorki margar né langar. Þagnir voru á milli þeirra, sem ekki höfðu fengið minna á hann en orðin sjálf. En hver setning var eins og þungt högg, hver spurning eins og hárbeittum hnífi væri otað fram. Þó var þetta alt í sjálfu sér undur meinlaust og hversdagslegt. En að baki því öllu lá eitthvað, sem gaf því magn og kyngi. Hvað var það? Hvað var það, sem Þorgeiri bjó í huga þetta kvöld? Hann hafði spurt og spurt í huganum, meðan hann var þar inni. Hann gerði það enn. Það hlaut að vera eitthvað óvanalega ægilegt. Svipurinn, rómurinn, látbragðið - alt benti á, að svo væri. Vonandi var þó verzlunarstjórinn með öllum mjalla. Eða var það hann sjálfur, sem var ekki með sjálfum sér? Var hann farinn að sjá ofsjónir? Urðu menn öðruvísi í augum hans en þeir voru? Eða voru þeir báðir eitthvað geggjaðir, hvor á sinn hátt? Hann hló með sjálfum sér, og var honum þó ekki hlátur í hug.
Síðan tók hann hverja setningu, sem Þorgeir hafði sagt, og hugsaði um hana út af fyrir sig, ef ske kynni, að hann gæti ráðið gátur sínar á þann hátt.
Þegar er hann rendi huganum yfir fyrri hluta samtalsins, fann hann það, að Þorgeiri hafði ekki verið mikið í mun að fá fréttir af vöruforða þeirra kaupfélagsmanna. Hann hafði varla gefið því gaum, sem Einar sagði um það. Nokkru meiri gaum hafði hann gefið því, hvernig umhorfs væri þar ytra.
"Hvernig skyldi þeim verða við, ef helvítis kofinn brynni með öllu saman?"
Þetta var fyrsta setningin, sem Einari hafði komið óþægilega, bæði spurningin sjálf og svo það, hvernig hún var fram borin. Hún hafði varpað nýju ljósi yfir fund þeirra og samræðu.
"Þeir hefðu gott af því" o. s. frv. kom rétt á eftir.
Síðan virtist honum hver setningin eftir aðra benda til þess, að hann óskaði þess af alhug, að alt brynni upp til kaldra kola þar ytra, og hann aðeins vantaði mann til að framkvæma það fyrir sig, - ef tilviljunin vildi ekki vera honum hjálpleg.
Einar kímdi drýgindalega: Nei, Þorgeir minn góður! Margan greiða hefi ég gert þér, - og þú mér ennþá fleiri á móti. En þessi væri of stór!
Sama hugsunin hafði gert vart við sig hjá honum inni í skrifstofunni, sem sé, að hann væri sá, er þetta vik væri ætlað. Þá hafði hún skotið honum skelk í bringu. Nú fanst honum hann geta hlegið að henni.
En svo hafði Þorgeir alt í einu vikið öllum þessum hugleiðingum á bug og farið að tala við hann um skuldina hans. Hvers vegna gerði hann það? Hvers vegna gat hann gert það mitt upp úr hinu? Það virtist sýna, að þetta hefði þó ekki verið fast í huga hans. Var ekki alt þetta gaman frá hans hálfu? Var hann ekki aðeins að reyna hann með því, - sjá, hvernig honum yrði við? Ef það var gaman, þá fanst Einari það grátt gaman.
En skuldin var honum áreiðanlega áhugamál. Hann hafði varla minst á hana um mörg ár. Ef Einar hafði beðið hann einhverrar hjálpar, þá hafði hann stundum minst á hana, stundum ekki. En aldrei hafði hann talað um hana með slíkum áhyggjusvip sem nú, aldrei ámint hann um að borga hana með jafnþungri alvöru og nú. Eitthvað ískyggilegt hlaut að búa þar undir.
Hann hefði getað komist hjá þessu ómaki, blessaður karlinn, því Einar mundi vel eftir skuldinni. Hann var ekki orðinn jafnleikinn í þeirri list, sem margir honum efnaðri iðkuðu þar um slóðir, að smeygja sér undan borguninni með mjúkum loforðum, sem ekki átti að halda, og teygja þann veg tímann. Hann vildi feginn borga, en gat það ekki. Og í hvert skifti, sem hann hafði bætt við þessa skuld, hafði hann gert það með hrópandi samvizku um það, hvenær hann gæti borgað hana. Neyðin ein hafði gert hann skuldugan. En aldrei hafði þó þessi skuldabyrði verið honum jafnblýþung eins og að þessu sinni. Það var rétt eins og honum fyndist, að alt hið myrka í svip Þorgeirs hlyti að vera áhyggjur út af henni einni. Og því, sem honum hafði flogið í hug um kauplausa þrælkunarvinnu, sá hann engin ráð til að komast hjá. Hryggilegt var það, en þó sjálfsagt. Honum hafði verið hjálpað af góðum hug og ef til vill með öruggu trausti. Afleiðingunum af því varð hann að taka með þolinmæði. En hann skalf af kvíða við þá tilhugsun.
Því lengur sem hann velti þessu fyrir sér, því óskiljanlegra varð honum það í heild sinni. Áhyggjur út af einum 200 kr. gátu varla átt mikinn þátt í því, hvernig Þorgeir hafði verið þetta kvöld. Eitthvað hlaut það að vera meira sem að honum svarf. Aldrei á æfi sinni hafði hann komið nálægt manni, sem haft hafði jafnkynleg áhrif á hann. Hann kendi í brjósti um Þorgeir, og honum fanst hann vera sér miklu nákomnari nú en nokkru sinni áður. Hann hafði sýnt honum trúnað á vissan hátt. Að vísu ekki sagt honum, hvað honum bjó í brjósti, en þó gefið honum í skyn, að það væri eitthvað hryggilegt. Fyrir þennan trúnað, þótt ekki væri hann meiri, var hann honum innilega þakklátur. Þeir voru ekki margir, sem trúðu Einari gamla í Bælinu fyrir áhyggjum sínum. En hefði einhver gert það, hefði hann eflaust hitt þar fyrir trúan og einlægan vin. Ekkert styrkir meira beztu eiginleika manna en traust annara manna. Enda er það gömul þjóðardygð hjá Íslendingum að vera raungóðir. Hefir hún ekki síður gengið í arf til kotunga en stórmenna. Einar hafði löngum þráð það, að á hana reyndi hjá sér.
En trúnaðarmál Þorgeirs var þó ekki í hans höndum. Hann varð að geta sér þess til, fálma eftir því í öllu því myrkri, sem hann þóttist finna fyrir sér í hálfsögðum orðum hans. Eftir langa leit þóttist hann þó að lokum hafa fundið fyrir sér fastan botn. Samtalið um skuldina hafði leitt hann á rétta götu. - Verzlunin, sem Þorgeir veitti forstöðu, hlaut að vera að fara á höfuðið og hann sjálfur að verða öreigi, alt vegna óskilsemi annara. Eina vonin fyrir hann væri nú sú, að keppinautum hans kæmi einhver ófyrirséður hnekkir.
Einari hraus hugur við þessu, Ef þessi ályktun hans væri rétt, þá var sorglega farið. Og rétt hlaut hún að vera. Hann vissi það, að öllu hafði hnignað Þorgeirs megin hin síðari árin. Meðal annars vissi hann það af því, að Þorgeir gat ekki veitt jafnmörgum mönnum stöðuga vinnu nú sem áður. En að það væri svo langt komið -! Góði guð! - Hann mátti varla til þess hugsa.
Og nú stóð honum aftur fyrir hugskotsaugum augnaráð Þorgeirs, þegar hann rétti honum flöskuna, - þetta undarlega tillit, sem hafði þau áhrif á hann, að honum fanst sér ætla að verða ilt. Hvað bjó í þessu tilliti? Var það laðandi bæn eða ógnandi skipun? Var það örvænting eða hefndartrylling? Hann vissi það ekki. En það var að minsta kosti eitthvað, sem gætt var sjaldgæfu ofurmagni, því það hafði gengið í gegnum merg hans og bein. Og á hann hafði því verið stefnt.
"Gleymið þér ekki skuldinni yðar, Einar minn", hafði hann sagt. Var það ekki sama sem hann segði: munið þér eftir mér? Nú var hann og skuldin orðin óaðskiljanleg í huga Einars. Ef hann var að verða öreigi, þá átti Einar sinn þátt í því.
Einar komst svo við af þessum hugsunum, að hann fór að gráta.
Hann hugsaði nú til alls þess, sem Þorgeir hafði vel til hans gert. Það var orðið margt, því árin voru orðin mörg, sem hann hafði þurft til hans að leita, Hann hafði aldrei hrundið honum frá sér með kulda og hranaskap, en altaf hlustað ljúfmannlega á kveinstafi hans og oftast bætt úr þörfum hans eða óskum á einhvern hátt. Hann hafði aldrei látið hann gjalda hinna fyrri synda eða mint hann á ávirðingar sínar. Ef til vill var hann eini maðurinn, sem sá kosti hans gegnum fátæktina og bjálfaskapinn. Nú kom þessi maður til hans og leitaði ásjár, þótt óbeinlínis væri. Hvernig átti Einar nú að verða við?
Og hvað mundi nú verða úr honum sjálfum, ef Þorgeir hyrfi úr sögunni? Hvert ætti hann þá að leita, þegar honum lægi á? Nei, þá var fokið í öll skjól fyrir honum. Hann hafði séð dálítið sýnishorn af framkomu bræðranna gagnvart honum áður um kvöldið. Hann efaðist ekki um, að þannig mundi einnig framhaldið verða. Og þótt annar þeirra tryði honum og vildi honum vel, þá var aldrei að treysta því, að þeir yrðu sammála. Eftir þetta litla atvik um kvöldið fanst honum hann jafnan mundi hafa ógeð á að biðja þá nokkurs hlutar. Hann vissi raunar, að þeir mundu verða fegnir að þiggja vinnu sína, þegar þeim lægi á mannafla, eins og til dæmis þá um daginn. Í þörfinni var þrællinn þekkur. En þeir mundu fráleitt láta hann sitja fyrir öðrum með vinnu, eins og Þorgeir hafði margoft gert. Á hann hafði hann jafnan mátt treysta, en á þá gat hann aldrei treyst.
Við þessar hugleiðingar vaknaði gremja Einars til bræðranna að nýju í huga hans og brauzt þar til öndvegis með svipuðu magni og áður um kvöldið, eftir að hann var nýskilinn við þá.
Slíkan harm og slíka gremju stóðst Einar ekki án þess að fá meðul við því. "Paddan" var við höndina, og ennþá var hún full upp í stút. Nú fékk hann sér vænan sopa, svo það lækkaði í henni niður fyrir axlirnar. Svo stóð nann á fætur, urðaði flöskuna þar í gilbrúninni og fór að rölta sér til hita og afþreyingar.
Honum fanst ylur færast um sig allan, og skapsmunir hans komust í betra jafnvægi. Á göngunni hélt hann áfram að bera þá saman í huganum, Þorgeir og bræðurna, einkum Friðrik, og komst stöðugt að sömu niðurstöðu um það, hvern þeirra væri meiri skaði fyrir sig að missa. Yrði Þorgeir undir í þessum viðskiftum, þá var líka úti um hann sjálfan.
Hann fór þá aftur að rifja upp fyrir sér fund þeirra Þorgeirs um kvöldið. Nú komu orð Þorgeirs á stangli fram í huga hans, en urðu jafnframt smátt og smátt að hans eigin orðum. Við það, að hugsa lengur um þau hvert í sínu lagi, félst hann á þau að lokum. Þorgeir hefði haft rétt fyrir sér í hverju orði.
"Þeir hefðu gott af því - - " "Það kynni að lækka í þeim rostann". - Alveg rétt. - "Skaðinn gerir menn hygna, en ekki ríka". - "Það væri ekki nema mannsbragð að hjálpa þeim til að verða af með - - -". "Ein eldspýta væri nóg".
Átti hann að gera það?
Hann hugsaði til þess með glott á vörum, sem væri hann að rifja upp fyrir sér eitthvert grálegt æfintýri, þar sem sitt af hverju hefði verið á ferðum. Hann var áhorfandi og ekkert við sjálft æfintýrið riðinn. En hann hafði yndi af að sjá það og fylgdi aðalsöguhetjunni með athygli.
"Við erum smámenni í öllum greinum, ættlerar forfeðra okkar bæði í góðu og illu, ónýtir til alls. - Það þarf kjark til stórræða, hver sem þau eru", - hafði Þorgeir sagt.
Nú rifjuðust upp fyrir honum sögur um ýmsa fornmenn, sem ekki höfðu svifist þess að hefna harma sinna með því að brenna upp eigur mótstöðumanna sinna, og þá sjálfa með, ef þeim réð svo við að horfa. Þeir höfðu lagt eld í hofin, hið helgasta, sem til var, og brent upp öll þau auðæfi, sem þar voru, - hvað þá annað. Skyldu þeir lengi hafa hugsað sig um að brenna upp þennan húskofa, til þess að bjarga með því vini sínum frá bersýnilegri glötun?
Svo kom honum í hug nýtt æfintýri, sem hann hvorki hafði lesið né heyrt. Hann sá mann, fátæklega til fara, dálítið boginn í herðum, magran og veðurtekinn, með gisinn skegghýjung á höku og vöngum og mjöluga húfu á höfði, læðast hljóðlega út eftir fjörunni í Vogabúðakaupstað og láta holtbarðið skýla sér. Fór sá hægt og mjúklega, sem köttur á veiðum, þar til hann kom að kjallaradyrum vöruskálans mikla. Þar vék hann sér gætilega inn og kveikti á einni eldspýtu í hefilspónahrúgunni framan við tjörukaggann og steinolíutunnurnar. Tæplega var farið að loga, þegar hann var aftur út kominn. Hann hélt þá ferð sinni áfram og smaug undir bryggjuna, hélt síðan eftir fjörunni og var kominn út fyrir kaupstaðarbygðina, áður nokkurs yrði vart. Sá hafði hefnt harma sinna, og ef til vill líka hjálpað vini sínum. Nú sáu þeir, bræðurnir, hversu trúlega maður sá hafði staðið á verði, sem tekinn var fram yfir Einar gamla í Bælinu og hafði hæðileg orð við hann í búðardyrunum um kvöldið, þegar hann gekk þaðan út, smáður og hryggur í huga. Síðan, þegar menn þustu saman til að slökkva eldinn, mundi mjölhúfumaðurinn verða kominn í hóp hinna, svo lítið bæri á, og hjálpa til að hemja eldinn.
Einar mintist þó þess, að rétt nýlega hefði honum þótt slík hefnd sem þessi allgeigvænleg, og að enginn maður ætti annað eins skilið. Nú var hann harður í skapi og hugrakkur. Þorgeir hafði sagt, að þeir hefðu ekki annað en gott af því. Hann hafði sagt það svo íbyggilega, að eitthvað hlaut að vera til í því.
Einhvern tíma hafði Einar heyrt talað um eldsvoðaábyrgð og um rík félög í öðrum löndum, sem tækju að sér, fyrir ákveðna þóknun árlega, að bæta mönnum brunaskaða, ef fyrir kæmi. Og þótt ekki væri hann fróður um þessa hluti, þá hafði hann þó heyrt, að allir kaupstaðarbúar, sem timburhús áttu, hefðu keypt sér slíka ábyrgð. Bræðurnir fengju því skaðann bættan. Þetta yrði ekki nema stundartjón fyrir þá. Eflaust mundu þeir rétta við aftur; en á meðan ynnist Þorgeiri tími til að rétta við líka. Þá stóð alt við það gamla.
Meðan Einar var að hugsa um þetta, gekk hann í hægðum sínum, en gætti lítið að, hvert hann fór. Þegar hann rankaði við sér, var hann aftur kominn ofan að grindunum hjá blómagarði Þorgeirs, þar sem þeir höfðu hizt áður um kvöldið. Hann leit upp í skrifstofugluggann; þar var ekkert ljós og ekki heldur í svefnherbergisglugganum.
Dálitla stund stóð hann kyr og studdi bakinu upp að grindunum.
"Hann vakir þó líklega trúlega, þessi vinnumaður þeirra", hafði Þorgeir sagt. Það var eins og hann efaðist um trúleik þessara yngri manna.
Hann hélt niðri í sér andanum og hlustaði. Ekkert heyrðist, nema niðurinn í ánni. Alt annað var grafkyrt og hljótt.
Hik og kvíði greip Einar. Hvernig færi nú, ef hann legði út í þetta og það mishepnaðist?
Hann sá forlög sín fyrir, ef hann yrði staðinn að slíku verki. Hann átti þá í vændum húsaskjól fyrst um sinn. -
En var það þá svo næsta ilt?
Ofurlitla reynslu hafði hann fengið af því áður, hvernig það var að vera í hegningarhúsinu. Oft hafði honum liðið ver en meðan hann var þar. Þar fékk hann viðunanlegan mat á reglubundnum tímum, og vinnan var ekki verri þar en sú, sem hann stundaði daglega. Heldur betri, meira að segja, því ekkert vos fylgdi henni. Bælið hans þar hafði ekki verið lakara en heima í Bælinu; þar gat hann sofið fyrir skælum og jagi, þar var hann laus við allar áhyggjur og kvíða fyrir morgundeginum. Og það, sem mest var um vert: þar höfðu allir þeir fáu menn, sem hann sá daglega, verið þýðir og þægilegir í viðmóti við hann. Einn og ótruflaður hafði hann verið mestallan daginn, og því undi hann vel. Hvorki fangavörðurinn né þeir menn, sem voru þar við sömu kjör og hann, höfðu hreytt að honum ónotum eða mint hann á bresti sína og yfirsjónir. Engum tortrygnisaugum var þar á hann litið. -- Öll þau augu, sem fyr og síðar höfðu kvalið hann daglega, voru þar langt frá honum og þykkur múrveggur á milli. Þangað kveið hann ekkert fyrir að fara aftur.
En frá hverju hafði hann að hverfa hér?
Skuldum - örbirgð - áhyggjum - tortrygni og hæðni manna - hvíldarlausu og árangurslitlu striti, sem engan endi tók. Og þar að auki frá konu, sem jagaðist við hann sýknt og heilagt, konu, sem ekkert annað virtist sjá í fari hans en bresti hans og lánleysi; sem aldrei lét hann heyra vingjarnlegt orð, en ætíð var reiðubúin að lemja hann með sárustu svipunum, sem hún hafði til, Heimili - ef heimili skyldi kalla - þar sem engin glaðværð átti heima; þar sem eymd og fátækt dvaldi langdvölum, en óþrifnaðurinn sat í hásæti. Og loks frá börnum, sem hann tók innilega sárt til að vísu, en voru honum til sorgar og ama vegna þess uppeldis, sem þau fengu. Ef til vill voru þau miklu betur komin á sveitarframfærinu. Hugsanlegt var, að þau hittu fyrir þolanlega staði. - Auk þess var hann ekki hræddur um, að Þorgeir mundi ekki eitthvað hugsa um þau og láta þau njóta sín að í kyrþey, ef hann yrði sviftur frelsi fyrir þetta verk.
En ef það lánaðist nú vel og ekkert yrði uppvíst -?
Öðruvísi mundi svipurinn þá verða á Þorgeiri, þegar hann sæi hann næst. Hann hugsaði til þess með tilhlökkun. Fyrir slíkt tillit var mikið vinnandi! Þá hafði dálítið á móti komið öllu því, sem Þorgeir hafði vel til hans gert um mörg ár, ekki einungis með gjöfum og lánum, heldur einnig með viðmóti sínu og hversdagsalúð. - Og skuldin? Hann brosti við að hugsa til hennar. Á blaðsíðuna þá mundi verða bætt stóru striki og "borgað". Þar með væri hún úr sögunni um aldur og æfi. En varla mundi Þorgeir láta þar við lenda. Höfðingslund hans þekti hann. Leyndarmálið mundi tengja þá saman, á meðan þeir lifðu báðir. Þar átti hann jafnan athvarfs að leita, sem Þorgeir var fyrir. Svo var það mikils virði, að eitthvað var leggjandi í hættu fyrir það.
Hvers vegna var hann þá deigur og hikandi?
Aftur leit hann upp í gluggana. Þar var niðamyrkur. Átti hann að fara að vekja Þorgeir upp og spyrja hann, hvort honum hefði verið alvara? Nei, það var ekki vert. Það gat orðið til þess, að einhver annar yrði var við hann. Þess þurfti ekki heldur; hann hafði ekki misskilið hann, að minsta kosti ekki tillitið hans síðast. Altaf hafði það staðið honum fyrir innri augum, meðan hann var að velta þessu fyrir sér, og ennþá var sem þessi hvössu, undarlegu augu hvíldu á honum og segðu honum ótvíræðan vilja verzlunarstjórans.
Koldimt var og svalt, en kyrt veður. Hvergi sást votta fyrir lífi í húsum kaupstaðarins né í kringum þau. Enn lá gufuskipið grafkyrt frammi á voginum, með eitt skriðljós yfir framþiljum. Bar skipið í Stapann, og var erfitt að greina það frá honum.
Einar var óstyrkur og beygur í honum, sem hann gat ekki harkað af sér. Stórræði stóð fyrir dyrum. Drykkjuvíman, sem hann hafði nýlega fundið ofurlítið til, var að mestu horfin aftur og honum fundust hugsanir sínar skýrar og fastar í rásinni.
Ákvörðun hans var nú tekin.
Enn stóð hann augnablik og hlustaði. Alt var hljótt, nema áin og ofurlítil landalda, sem gnauðaði við fjörusandinn. Til vökumannsins heyrðist hvergi.
Einar brá þá við og læddist hljóðlega, en skyndilega ofan í fjöruna. Hann gekk hálfboginn og gætti þess vel, að ekki heyrðist fótatak. Fór hann út með holtbarðinu og beygði sig svo mikið, að hann væri viss um, að höfuðið sæist ekki upp fyrir barðið, ofan frá húsunum. Við og við nam hann staðar, hélt niðri í sér andanum og hlustaði. Enn heyrðist ekkert grunsamlegt. Nokkrir æðarfuglar, sem setið höfðu uppi í fjörunni, syntu frá landi, en höfðu þó ekki stygst mikið. Grár köttur mætti honum undir barðinu og starði á hann með uppspertum, gulgrænum glirnum, sem lýstu í myrkrinu; - þó hélt hann kjafti. En Einar sárkveið fyrir því, að hvert minsta hljóð, hver minsti hávaði gæti orðið til að glepja sig, benda á sig og eyða áformi sínu eða koma upp um sig.
Loksins var hann kominn alla leið út að geymsluhúsgaflinum. Þar rétti hann sig upp um stund og dró þungt andann. Hann þrýsti með vinstri hendinni á brjóst sér, eins og vildi hann reyna að sefa hjartað, því það sló ákaft. Allur titraði hann sem strá í vindi og honum fanst knjáliðir sínir hvað eftir annað ætla að gugna.
Á meðan hann hvíldi sig ögn og kastaði mæðinni, litaðist hann um. Í fjörunni fram undan húsinu lá alt með kyrrum kjörum eins og við það hafði verið skilið um kvöldið. Yfir alt saman gnæfði hinn mikli húsgafl, hár eins og tröll, með bjálkann í burstinni eins og skögultönn fram úr trjónunni. Rétt þar hjá var búð og íbúðarhús þeirra bræðranna. Allir voru þar í fastasvefni. Hvergi sást vökumaðurinn og hvergi heyrðist til hans.
Þegar Einar hafði hvílt sig augnablik og engra mannaferða orðið var, læddist hann að kjallaradyrunum og tók í þann hurðarvænginn, sem utar lá. Hann lá þó fastari í grópinu en hann hafði búist við. Loks kipti Einar honum þó opnum; en um leið marraði allhátt í hurðarumbúnaðinum. Annað eins lítilræði hefði Einar ekki tekið sér nærri, hefði öðruvísi staðið á; nú fanst honum þetta endemis marr smjúga gegnum höfuð sitt og ætla að trylla sig.
Ekki opnaði Einar dyrnar meira en hann þurfti; smeygði sér síðan inn um gættina og lét hurðina aftur á eftir sér. En þegar hann hafði slept hurðinni, hrasaði hann um eitthvað, sem lá þar á gólfinu. Hann hafði þó hendur fyrir sér og fann þegar, hvað þetta var. Það var baunasekkurinn, sem hann hafði borið upp bryggjuna um kvöldið og fleygt hafði verið þangað inn.
Við þetta vaknaði ástríða í sál Einars, sem lengi, lengi hafði verið bæld niður og sofið vært að lokum. Það var óheillafreistingin hans gamla. Hvers vegna átti þessi baunasekkur að brenna þarna inni? Hann gat þó orðið honum og fjölskyldu hans að margri góðri saðningu. Líklega mundi fara svo, að fáir gætu um það borið, hvort hann hefði brunnið þar eða ekki. Þar mundi svo margt farast, að enginn hugsaði um einn baunasekk. Heima gat hann sagt, að hann hefði fengið hann upp í kaupið sitt hjá bræðrunum.
En hann gaf sér engan tíma til að hugsa um þetta. Hann fálmaði sig lengra inn eftir kjallaranum. Hefilspænir voru í hrúgum á gólfinu. - Brátt hitti hann eitthvað fyrir sér og þuklaði um það, þar til hann fann, hvað það var. Það var tjörukagginn. Í botni hans, þeim er fram sneri, var stór trétappi. Utan um hann var vöðlað striga, sem nú var allur orðinn þvalur af tjöru. Rétt innan við hann voru steinolíutunnurnar. Einar hafði sjálfur hjálpað til að koma þeim þangað. Þær lágu í röð inn með veggnum og sneru botnum fram. Tvær raðir lágu þar, önnur ofan á hinni.
Einari fanst kjarkurinn ætla að bila og hann flýtti sér í mesta ofboði að koma fyrirætlun sinni í verk. Angistarhrollur, sem hann fékk ekki við ráðið, læsti sig um hverja taug hans, og kaldur sviti þaut út um ennið. Með skjálfandi höndum vöðlaði hann saman nokkru af hefilspónunum; síðan kipti hann tappanum úr tjörukagganum og lagði hann í hefilspónabinginn. Þar næst tók hann eldspýtnastokkinn upp úr vasa sínum. Margar eldspýtur hrundu niður, þegar hann opnaði hann. Því skeytti hann ekkert, en kveikti á einni. "Ein eldspýta væri meira en nóg", hafði Þorgeir sagt. Hann hrökk saman við að heyra kveikingarbrestinn í eldspýtunni og sjá ljósið. Tjaran var farin að síga fram um tappagatið á kagganum ofan í hefilspænina; steinolíutunnan, sem næst var, var skorðuð upp við kaggann. - Hönd Einars hristist svo, að varla ætlaði hann að geta hitt tjöruleppinn í hefilspónabingnum. En þegar það loks tókst, var vel fyrir öllu greitt. Rauður hinn ungi var nú að stalli leiddur og var líklegur til skjótra þrifa; enda skorti hann ekki fóður. -
Einar flýtti sér frá loganum og forðaðist að líta þangað framar. Nú sá hann vel til um allan kjallarann, en leit ekki við neinu nema baunasekknum. Þótt hann óstyrkur væri, veitti honum létt að færast undir hann og standa upp með hann. Þegar hann opnaði dyrnar, heyrði hann snark í loganum að baki sér; skin lagði úr dyrunum fram í fjöruna. Hann lagði dyrnar aftur og hélt af stað, - ekki út eftir fjörunni, eins og hann hafði hugsað sér, heldur inn eftir henni, heim á leið.
Nú var honum ekki eins létt um sporið og áður, vegna byrðarinnar, og gat ekki farið jafnhljótt og hann hafði komið. Hann þrammaði þungt og fæturnir sukku í fjörusandinn, sem skrjáfaði ömurlega við hvert spor.
En ekki var hann kominn nema inn í miðja fjöruna, þegar maður kom fram á holtbarðið og kallaði til hans.
"Hó, hó, lagsmaður! Talaðu við mig!"
Það var sem köldu stáli væri rent í brjóst Einari. Honum fanst hann ætla að hníga niður. Hann skjögraði þó áfram sem ekkert væri, en anzaði engu.
Jóhann hljóp ofan af barðinu og náði honum samstundis. Hann kipti niður af honum sekknum og þekti hann þegar.
"Einar!" sagði hann hissa. "Hvers vegna ert þú ekki heima í Bælinu, lagsmaður? Hvað ertu að fara með þennan baunapoka?"
Einari varð orðfátt í fyrstu; hann hélt í pokahornið og horfði illum augum á Jóhann. Eflaust hefði hann þá þegar ráðið á hann, hefði hann treyst sér til að bera af honum hærra hlut.
"Ég á þessar baunir", sagði hann loks. "Ég fékk þær fyrir vinnuna mína í gær",
"Það getur meira en verið", mælti Jóhann. "En fyrst þú fórst ekki heim með þær í gærkvöldi, þá verða þær að bíða til morguns. Ég læt engan hlut bera héðan í nótt".
"Það kemur þér ekkert við", mælti Einar, og röddin skalf. "Ég er frjáls að því að bera eign mína heim, hvenær sem mér sýnist".
"Við skulum sjá", mælti Jóhann og vildi ekki sleppa pokahorninu.
Stundarkorn toguðust þeir þannig á um baunasekkinn, og deilan harðnaði. En þegar þetta var í bezta gengi, heyrðist snarpur hvinur að baki þeirra, sem blástur í stórhveli. Rauðleitum bjarma sló um þá og skuggarnir af þeim og baunasekknum teygðu sig langt inn eftir fjörunni.
Þeim varð báðum litið til vöruhússins. Báðir hurðarvængirnir í kjallaradyrunum höfðu hrokkið upp á gátt, og stór, blaktandi logatunga teygðist út um dyrnar. Hún dróst þó inn aftur; en hnausþykkur reykjarmökkur haugaðist út úr kjallaranum. Innan skamms brauzt loginn út af nýju og var þá meiri en áður.
6. kafli - BrennifórninÞegar Jóhann vökumaður áttaði sig til fulls á því, hvað að var orðið í vöruhúsinu, slepti hann Einari og baunapokanum, en vissi þó ekki, hvað til bragðs skyldi taka. Hann hljóp út að eldinum. Fyrst datt honum í hug að slökkva hann einn, eða þá með aðstoð Einars, og láta ekki á neinu bera, ef unt væri. En brátt komst hann að raun um, að ekki var til þess hugsandi. Hann hlaut því, þótt ekki væri honum það geðfelt, að vekja menn og segja frá því, hve trúlega hann hafði gætt vöruhússins. Þá kom honum til hugar að ná tökum á Einari og jafna duglega á honum til að svala skapi sínu. En Einar var þá allur á brott, og lá baunapokinn eftir. Meðan hann var að ráða af, hvað gera skyldi, magnaðist óðum eldurinn. Eitt sinn, er hann var nærstaddur og varði minst, heyrðist dynkur mikill úr kjallaranum og afskaplegan eldblossa lagði alla leið yfir þvera fjöruna fram á sjó. Varð honum svo felmt við þetta, að hann féll endilangur í fjöruna, og lagði á hann mikinn hita. En þegar hann hafði bjargað sér á fætur og brölt fjær, heyrði hann glugga vera opnaðan á efra lofti íveruhússins. Friðrik kaupmaður stóð þar fáklæddur við gluggann og kallaði, hvað um væri að vera. Jóhann sá þá þann kost vænstan að fara að baki vöruhússins til fundar við hann.
Nú varð alt með skjótum atburðum. Þeir, sem í húsinu bjuggu, voru vaktir upp af værum blundi, því engum duldist, að hætta var þar á ferðum. Þegar Jóhann hafði náð fundi Friðriks, fékk hann ekki hörð orð að heyra, sem hann þó hafði búist við, heldur eindregna og skjóta skipun um að vekja kaupstaðarbúa skyndilega og heita á þá til hjálpar. Jóhann lét ekki segja sér þetta tvisvar, en hljóp þegar af stað.
Hann hljóp nú frá hverju húsi til annars og orgaði af öllum kröftum inn um gluggana, að kviknað væri í húsi í kaupstaðnum. Gerði hann þetta af miklum ákafa og fór sér óðslega. Hann gætti þá ekki alstaðar götu sinnar og var honum byltuhætt og áreksturs. Meðal annars hafði hann rekið sig á glugga á húsi læknisins, sem stóð opinn um nóttina, og brotið þar rúðu. Höfðu glerbrotin hrunið um andlit hans og skorið hann til blóðs, einkum á nefið, en kúla hafði hlaupið upp á augabrún hans eftir höggið. Hvorugt var þetta til fríðleiksauka, en annars var að því lítill bagi. Sagði hann svo frá síðar, að bálið hefði kastað ofbirtu í augu sér, er hann rakst á gluggann. Var þá einhver svo vorkunnsamur að segja, að honum hefði verið það skrattans mátulegt.
Ekki voru menn lögskyldir að hlýða brunakalli þar í kaupstaðnum, því engin var þar slökkvisamþykt og ekki slökkvilið né slökkviáhöld. Eigi að síður var brugðið skjótlega við kall Jóhanns, og voru menn fljótir á fætur. Enginn þurfti þar að tygjast einkennisbúningi né leita í öllum eigum sínum að rauðmálaðri járnþynnu, sem segði til um einkunnartölu hans og metorð í slökkvisveitinni. Greiddi þetta götu margra, svo þeir komust fyr á vettvang en ella.
Fyrst vakti Jóhann menn í timburhúsunum. Þegar því var lokið, gekk hann á milli torfkofanna og kotanna og fékk þar engu ógreiðari svör. - En lengst og rækilegast kallaði hann á gluggann á fjósi sýslumannsins, því þar varð bið eftir svarinu. Kýrnar lágu á básum sínum og jórtruðu, en skildu ekki, hvað hávaði þessi hafði að þýða. Voru þessi mistök afsakanleg, því varla var við því að búast, að manni, sem lítt var kunnugur í kaupstaðnum - hafði fluzt þangað með móður sinni þá um vorið -, kæmi það til hugar, að hús þetta, sem var með reisulegu þaki og 6-rúðu-glugga á stafni og bar langt af sumum bústöðum mannanna þar, væri fjós.
Meðan þessu fór fram, magnaðist eldurinn með ofsalegum flýti. Var atgangur hans mikill og ógurlegur. Hver steinolíutunnan eftir aðra sprakk inni í kjallaranum með gný og svo miklu sprengiafli, að húsið skalf og gnötraði. Hefði það eflaust lyfzt upp af grunninum og þyrlast út á holtið eða ofan í fjöruna, ef ekki hefði vöruþunginn á loftunum haldið því niðri. Í þess stað brauzt eldurinn með kynjum og fádæmum fram úr opnum kjallaradyrunum og út um skörð þau á þeim enda hússins, sem þegar voru brunnin eða brotin. Lagði þær eldstrokur langt út á sjó. Kolsvartir mekkir stigu upp af eldinum. Vöfðust þeir í þétta hnykla, sem stækkuðu og dreifðust, er þeir komu hærra í loft upp, og bárust undan hægum næturblæ skáhalt inn og yfir um voginn. Var þessi mikli reykjarmökkur álíka ægilegur og bálið sjálft. Víða sá í logandi eld uppi í reyknum; var sem hinir miklu, svörtu kekkir hefðu eldkjarna inst, sem fyrst varð sýnilegur, er úr þeim dreifðist. Logandi eldskíðum rigndi jafnt og þétt úr mekkinum. Fór mest af því í sjóinn, sem brátt var þakinn svörtu mori.
Enginn af þeim, sem nú lifðu í Vogabúðakaupstað, hafði séð húsbruna áður. Gaf þeim nú á að líta, er slík undur gengu á. Lagði birtu mikla og hita af bálinu um allan kaupstaðinn. Húsin voru björt sem í glaða sólskini á þeim hliðum, er að eldinum vissu. Aftur á móti voru skuggahliðar þeirra óvenju myrkar og skuggarnir langir og kolsvartir. Varð sumum ekki síður starsýnt á slík ljósbrigði en bálið sjálft. Úti á voginum glampaði á gufuskipið, sem lá þar enn, þrátt fyrir eftirrekstur skipstjóra um daginn. Sá nú merki þess, að menn voru þar á fótum; enda kom brátt bátur þaðan til hjálpar, alskipaður mönnum. Handan við voginn varpaði bálið rauðleitu skini á Básabjörgin. Enginn hafði áður séð þau slík sem þau sýndust nú. Héngu "þar skuggar á hroðaklettum", eins og skáldið kveður, og þar sem bjarminn féll á blágrýtisklettana, vota af jarðvatni, var sem á blóð sæi. En nokkur hluti klettanna huldist undir reykjarmekkinum, sem lagði þangað.
Steinolíutunnurnar sprungu nú hver á fætur annari, án þess húsið hryndi við vábrestina. Rann beljandi móða af brennandi steinolíu og bráðinni tjöru fram undan húsinu ofan í fjöruna, alt í sjó fram. Breiddist olían þar út á landöldunni, fram með fjörunni, og logaði hún öll. Lengra fram á sjónum sáust bláleitir logar blakta yfir olíu þeirri, er dreifðist um þar úti. En þar var sjórinn eldinum yfirsterkari. Nokkuð af vörum þeim, sem í fjörunni lágu, var nú þegar farið að brenna. Þó var eldur enn ekki kominn að steinolíutunnunum þar. En þær voru fleiri en hinar, sem inn höfðu verið komnar; enda lágu þær nokkuð til hliðar við eldstrauminn.
Allir kaupstaðarbúar, sem vetlingi gátu valdið, voru nú komnir utan að bálinu, ekki síður konur en karlmenn. Stóðu þar flestir höggdofa og horfðu hugstola á hamfarir Rauðs, sem nú var kominn í almætti sitt. Þótti mönnum hann nú harla ólíkur því, sem hann er daglega í þjónustu mannanna, á þröngum arni við lítinn kost, eða bældur undir felhellunni næturlangt. Flestir stóðu bæði undrandi og óttaslegnir, en suma greip slík skelfing, að þeir æðruðust og gerðu ýmist að hrína eða æpa. Enginn hafði ennþá komið til að segja mönnum fyrir verkum. Og þótt ekki vantaði vilja og áræði, jafnvel - og ekki sízt - hjá þeim, sem höfðu unnið baki brotnu við að koma vörum þeim á land, sem nú urðu logunum að bráð, og höfðu verið vaktir óþyrmilega af föstum svefni, sem þeir þó sárþörfnuðust, - þá hafði engum ennþá komið neitt það bjargráð í hug, sem nokkuð kvað að, og stóð allur flokkurinn sem höfuðlaus her, hjálparfús, en ráðalaus.
Mikill hluti af þessu fólki stóð niðri í fjörunni; enda sást bálið bezt þaðan. En þegar minst varði, heyrði þessi mannsöfnuður kallað með hásri, fremur mjórri, en þó sterkri, karlmannsrödd, sem smaug í gegnum allan hávaða og brak bálsins:
"Veltið steinolíutunnunum í sjóinn, piltar!"
Allir litu við og sáu þá, hvar Þorgeir verzlunarstjóri stóð á holtbarðinu. Endurtók hann skipunina og bætti því við, að menn skyldu reyna að velta þeim vörukössum frá eldinum, sem ennþá voru óbrunnir, ef til þeirra yrði náð, og draga burtu trjávið þann, sem einnig lá þar í fjörunni.
Við skipun þessa var sem stífla brotnaði úr straumharðri á. Nú voru hin bundnu öfl leyst úr læðingi. Allir, sem þar stóðu, höfðu einhvern tíma hlýtt Þorgeiri og sumir daglega. Nú fanst mönnum ráð hans hyggilegt og voru ekki lengi að skilja það. Undir eins var mörgum hraustum og vinnuvönum höndum gripið til starfa, og hver tunnan eftir aðra kútveltist úr bæli sínu í sandinum og fór á flot. Var þar svo rækilega fylgt á eftir, að busl og boðaföll voru fyrir fjörunni á löngum kafla, en menn óðu upp undir hendur og ýttu tunnunum á undan sér. Gekk kvenfólk ekki síður að þessu en karlmenn og hlífði sér hvergi. Þó gekk þetta ekki að öllu leyti eins og til var ætlast, því svo slysalega hafði til tekist í flýtinum, að tveimur tunnum fullum af steinlími og einum kassa fullum af höggnum hvítasykri var einnig rutt í sjóinn. Þótti mönnum á eftir þær vörur lítið betur komnar í sjónum en eldinum.
Ekki stóð lengi á því, að fjaran væri rudd að því er til náðist fyrir eldinum. Flutu nú steinolíutunnurnar, og bar straumurinn þær undan landi inn og yfir á voginn. Miklu af öðrum vörum, sem nálægt lágu eldinum, var einnig bjargað. Sýndu þar margir frábæra karlmensku, því heitt var að ganga í berhögg við Rauð, og engu slepti hann með góðu af bersýnilegri bráð sinni. -
Heima í Vogabúðum hafði eldsins orðið vart furðu snemma. Ekki hafði Jóhann farið þangað heim, og var þar þó mannmargt heimili. Sigurður hreppstjóri var ekki lengi á fætur, er hann frétti af eldinum, og hét hann á vinnulið sitt að duga nú vel. Sjálfum var honum annara um hús það, sem nú var að brenna, en nokkurn hlut í eigu sinni. Þótti honum því ekkert jafnsárt og það, að þetta hús, sem stærst var og vandaðast af öllum geymsluhúsum kaupstaðarins, og átti ekki heldur sinn líka í öðrum kaupstöðum þar í grend, alt járnvarið, eftir fyrirmynd höfuðstaðarins, og hafði kostað bæði sonu hans og Kaupfélagið ógrynni fjár, skyldi nú brenna til kaldra kola. Lá nærri, að hann týndi taumhaldi á tilfinningum sínum og æðraðist við slíka tilhugsun. Þegar hann var fullklæddur, beið hann ekki manna sinna, en hljóp þegar af stað. Hann fór þá ekki algengustu leið ofan að ytri kaupstaðnum, sem var krókóttur götuslóði, heldur stefndi hann beint af augum. Gat hann þá varla haft augun af brennunni, en gætti þess minna, hvar hann fór, og hljóp sem drengur væri. Þá tókst svo illa til, að hann lenti í þeim fáu þúfum, sem hann átti enn ósléttaðar á túninu. Þar varð honum fótaskortur; þó hafði hann hendur fyrir sér, svo ekki varð byltan honum að meini, nema ef telja skyldi það, að hann misti af sér húfuna; en innan í henni loddi "sú franska", eða hárkollan skipstjóranautur. Þetta hvorttveggja þótti Sigurði ilt að missa, og svipaðist hann um eftir því þar í þýfinu, en fann ekki. Hætti hann þá leitinni, en hljóp alt hvað af tók ofan túnið. Þegar hann nálgaðist eldinn, hægði hann á sér og blés mæðinni. Var sjón sú, er fyrir hann bar, bæði stófeld og hryggileg. Húsið logaði nú svo mjög, að ekki var til að hugsa að bjarga því, né neinu úr því, Birtu mikla lagði af bálinu, og komu Sigurði menn þeir, sem nær stóðu loganum, svo fyrir sjónir sem væru þeir biksvartir árar. Við alt þetta félst Sigurði svo hugur, að hann hikaði við nær að ganga. Einnig mundi hann nú eftir því, að hann var hárkollulaus, en þarna var fjölmenni fyrir, og stóð hann því álengdar um stund. Hefði það verið ærið efni til gamans handa þeim, sem hætti við að brosa að Sigurði, að sjá hann þarna með nauðbert höfuðið, því bálið speglaði sig í nöktum skallanum. En nú var engum kímni í hug; enda var stundin ekki löng, sem Sigurður stóð þannig, því vinnumenn hans komu hlaupandi á eftir honum. Þeir höfðu farið sömu vegleysurnar yfir túnið og gengið fram á höfuðfat Sigurðar og hárkolluna og komu með það. Setti nú Sigurður hvorttveggja upp og gat þá gengið á vettvang með þeirri stillingu og þeim virðuleik, sem greindum og reyndum hreppstjóra hæfði.
Einn af hinum fyrstu mönnum, sem Sigurður hitti þar fyrir, var Þorgeir verzlunarstjóri. En eitthvað virtist honum búa mikið í hug, því varla tók hann kveðju hreppstjórans, en gekk snúðugt framhjá honum.
Allar sprengingar voru nú um garð gengnar í kjallaranum. Sprengiefni þau, sem verið höfðu í steinolíutunnunum, voru þotin út í geiminn með hraða hugarins. En steinolíuelfan rann sem áður brennandi til sjávar. Húsið var orðið alelda, gluggar fyrir löngu sprungnir á öllum loftum, og veltist út um þá hnausþykt reykjarkaf. Var reykurinn sumstaðar sótsvartur, en sumstaðar gráblár eða ljósleitur, eftir því, hvert eldsneytið var. Blandaðist þetta saman og hringaðist eða hnyklaðist hvað um annað, svo líkast var því, að þéttum flókum af mislitri ull væri troðið út um gluggana. Þó stóð það ekki lengi, því brátt leituðu logarnir sjálfir útgöngu. Stóðu þá blossatungur út úr hverjum glugga og hverri smugu, teygðu úr sér og sleiktu gráðuglega alt, sem þær fengu til náð; en inn um þessi eldgjósandi op mátti sjá, að alt húsið logaði inni. Endinn, sem fram að sjónum vissi, var nú mjög brunninn, og brutust þar logarnir alstaðar út. Gliðnuðu járnþynnurnar hver frá annari, vöfðust saman hvítglóandi og blöktu til í eldgustinum eins og léreftsrýjur, meðan enn héldu þeim naglar; síðan hrundu þær niður hver á eftir annari jafnframt því, sem tréð brann innifyrir. Þótti þá mörgum svakalegt að horfa í skörð þau, sem áður höfðu þær skýlt, og var atgangur loganna óhemjulegur, þegar náttblæinn lagði óhindraðan í fang þeim.
Um þessar mundir rann fram skriða mikil. Átti hún upptök sín á efsta lofti í íbúðarhúsi þeirra bræðranna, en tók með sér alt það, sem lauslegt var í húsinu, og flutti það út á jafnsléttu, svo langt frá eldinum, að óhætt væri því fyrir honum. Það þótti sem sé liggja í augum uppi, að það hús mundi brenna líka, því skamt var á milli húsanna, sem áður er sagt. Var þá tekið það ráð, sem algengast er, þegar svo stendur á, að bjarga úr húsinu öllu því, sem hafa mátti á brott þaðan. Margir voru þar fúsir til liðsinnis, svo ekki var hörgull á mannafla. Brakaði húsið af atganginum, og var þá sem oftar, þegar eins stendur á, að meira var unnið af kappi en forsjá. Var sumt af því, sem út var borið, þannig á sig komið eftir flutninginn, að litlu meiri hefði skaðinn orðið, þótt það hefði brunnið. Gat þar að líta fótbrotin borð og gliðsa stóla, sliguð rúmstæði og skekta skápa, en dragkistur klofnar eða marðar til stórskemda. Margir munir voru þar í molum einum, sem áður höfðu verið eigulegir. Jafnframt íveruhúsinu var rutt út úr búðinni, því innangengt var í hana úr húsinu. Var alt þetta borið út um bakdyr hússins, því að framhliðinni varð ekki komist vegna hita. Bræðurnir, Friðrik og Sveinbjörn, voru með öðrum að þessu verki, ásamt systur þeirra, sem stýrt hafði búi fyrir þá, því hvorugur þeirra var kvæntur. Gekk hún með stillingu að verkinu og bað menn fara gætilega með munina. Sárnaði henni að sjá muni þeirra skemda á þennan hátt; en ekki varð að gert, því líkara var því, að blindir náttúrukraftar ynnu en sjáandi menn. Friðrik bar sig einnig karlmannlega og skipaði fyrir verkum með festu og stillingu; en fölur var hann sem nár og varirnar bláar. Aftur á móti bar Sveinbjörn sig aumlega og varð að litlu liði. Sneri hann sér frá öðrum mönnum, þegar hann fékk því við komið, og skalf af harmi.
Þannig stóð á, þegar Sigurður hreppstjóri kom. Stóð hann fyrst sem steini lostinn skamt ofan við húsin og litaðist um eftir sonum sínum. Sá hann - sem fleiri - ekki fram á annað en að allar eigur þeirra hlytu að brenna upp til agnar. Fanst honum þá, sem vonlegt var, að ekki mundi þeim veita af föðurlegum ráðum og hughreystingarorðum. En meðan hann stóð og hugsaði um þetta, heyrði hann rödd Þorgeirs skamt frá sér. Smaug hún gegnum ysinn og eldgnýinn og bar Sigurði og mörgum fleirum þann boðskap, sem þeir sízt af öllu áttu von á.
"Það má bjarga íveruhúsinu", kallaði Þorgeir svo hátt, að flestir, sem þar stóðu, heyrðu orð hans. "Viljið þið hjálpa mér til þess, piltar? Reyna má það að minsta kosti".
Menn þutu nú þegar þangað, sem Þorgeir var, til að heyra fyrirskipanir hans. Voru þær skjótar og skýrar að vanda, enda var þeim tafarlaust hlýtt.
Hann sendi þegar nokkuð af liðinu inn eftir til sín, til að sækja barkarlituð stórsegl, sem verzlunin átti og notuð voru til að breiða yfir fiskhlaða. Sendi hann utanbúðarmann sinn, sem einnig var þar staddur, með þeim, til að opna húsin og láta seglin úti. Jafnframt skyldu menn koma með allar þær skjólur, sem voru í búð hans og búi, og safna þeim saman, hvar sem þeir gætu fengið þær annarstaðar. Hvatti sýslumaður, sem einnig var þar nærstaddur, menn mjög til að fylgja fyrirmælum Þorgeirs og duga nú vel. En engan þurfti þó að brýna. Á meðn seglin voru sótt, lét Þorgeir klambra saman tveimur stigum og leggja þá upp á þakið á þeirri hliðinni, sem vissi undan eldinum. En þegar er seglin komu, lét hann nokkuð af liðinu raða sér frá húsinu og alla leið ofan í fjöru. Skyldi þar hönd rétta hendi fullar skjólur og tómar til skiftis. Skyldu nokkrar skjólur, fullar af sjó, vera við höndina, þegar búið væri að ganga frá seglunum, og síðan skyldi sjóausturinn aldrei þrjóta, meðan á þyrfti að halda. Urðu mönnum brátt ljósar fyrirætlanir hans, þótt enginn hefði séð þetta fyrri gert, og greiddi skilningur manna mjög fyrir framkvæmdunum. Var þá sem oftar að þessu verki, að konur gengu ekki síður fram en karlmenn.
Þorgeir hjálpaði sjálfur til að færa seglin upp á þakið og koma þeim þar haganlega fyrir. Voru þau borin upp á mæni í stórum ströngum og fest þar, en strangarnir látnir velta og rekja úr sér ofan þekjuna og fram af upsinni þeim megin, sem að eldinum vissi. Náðu þá flest seglin niður að jörð. Síðan var skvett á þau vatni alt hvað af tók, svo brátt steyptust fossar niður eftir þeim. Áttu menn þó fult í fangi með að halda þeim votum, og þornuðu þau fljótt og tóku að sviðna, ef hlé varð á vatnsaustrinum.
Þorgeir sat um stund uppi á mæninum og vann að því að festa seglin. Brá hann sér hvergi, þótt ákafan hita legði á hann, svo yngri menn, þótt hraustir væru, kveinkuðu sér við að vera þar uppi. Var þá tekið að loga upp úr mæninum á vöruhúsinu, en neðar var það alt í einu báli. Bjartir logar stóðu út um hvern glugga og hverjar dyr, sem á voru komnar, en mikil neistadrífa fylgdi reyknum. Brauzt nú eldurinn alstaðar út undan upsinni, með slíku afli, að blossarnir náðu því nær á milli húsanna. En uppi á þekjunni var sem í stjörnur sæi; voru þar rifur eða göt að koma á járnið, og sá í eldinn inni fyrir. En sumar stjörnurnar voru bláar og skærar, líkar skrautstjörnum í flugeldum, og komu þær af brennandi málmblendingum eða húð á járninu. Var bálið nú bæði fagurt og ægilegt.
En brátt varð hitinn Þorgeiri of megn uppi á mæninum, og hugði hann þá á að komast ofan. Hann lét sig þá síga niður af mæninum og fikraði sig gætilega eftir kaðli, sem lá á þekjunni, til að ná stiganum.
En ekki var hann kominn nema skamt ofan á þekjuna, þegar vábrestur mikill heyrðist frá vöruhúsinu. Eldstrókur þeyttist hátt í loft upp úr mæni hússins, með miklum gný, en hátt uppi í loftinu sást öskugrár mökkur brjótast fram og færast út til allra hliða. Voru það skotfærabirgðir þeirra kaupfélagsmanna, sem þar fóru veg allrar veraldar. Hrukku menn óttaslegnir frá eldinum við atburð þennan, og var það vel farið, því ekki leið á löngu, þar til logandi bröndum og ýmsum ófögnuði rigndi úr loftinu niður yfir bálið og í kringum það. Bjálki allmikill, sem slöngvast hafði í loft upp við sprenginguna, kom þá niður á mæni íveruhússins; hitti hann einmitt á sama stað og Þorgeir hafði setið á fyrir augnabliki síðan. Hrukku úr honum neistar um þá, er þar voru uppi, svo við lá, að þeir brynnu til skemda. Síðan féll hann með braki miklu út af þekjunni, niður á milli húsanna, og varð ekki meira að. Hrósuðu menn mjög happi yfir því, að Þorgeir var kominn burtu af mæninum, áður en þessi sending kom.
En Þorgeir varð hljóður við. Hafði hann fengið ofurlítið brunasár á ennið af neistunum, en ekki sakað annað. En ærið umhugsunarefni var honum atburður þessi, bæði nú þegar og síðar meir. -
Við hornið á læknishúsinu, það er að eldinum vissi, var einnig gengið allrösklega fram. Stýrði sýslumaður þar vörninni og hafði fáa menn, en ötula. Það hús var næst bálinu þeim megin. Hafði einnig þótt ráðlegra að bera út úr því mestalt lauslegt, en ekki hafði þó verið ruðst þar um eins fast og í húsi bræðranna. Enginn lét þar eins óðslega og læknirinn sjálfur; enda sögðu margir, að annað væri honum betur gefið en stilling og karlmenska, þótt flestir létu hjá líða að segja það svo hann heyrði. Stamaði hann þá svo mikið, að varla skildist nokkurt orð af því, sem hann ætlaði að segja. Var það vandi hans, þegar hann var ölvaður eða þegar honum var mikið niðri fyrir. Þó sefaðist hann nokkuð, er sýslumaður kom og tók þar vígstöð. - Segl frá Þorgeiri komu þar einnig að góðu haldi, en liðfátt var til að halda þeim votum. Hafði Þorgeir séð til þeirra ofan af mæninum og var nú á leiðinni til liðs við þá.
En þegar hann kom fyrir gaflinn á húsi bræðranna og sá til bálsins, sá hann, að mænir vöruhússins var tekinn að síga mjög í miðjunni og húsið orðið söðulbakað. Gat þá ekki hjá því farið, að það væri að hruni komið. Hann staðnæmdist þar og horfði á bálið. En í því bili var kastað á hann kveðju. Það var Sigurður hreppstjóri. Hafði hann aldrei komist lengra en á þennan blett, en tvístigið þar og horft á hamfarir eldsins og varnir manna. Víst hafði hann vilja á að láta til sín taka, þótt enn hefði hann ekki fundið, á hverju bezt væri að byrja.
Þorgeir tók þurlega kveðju hans og leit varla við honum. Færði þá Sigurður sig nær honum og mælti með klökkum rómi:
"Mikið eigum við yður að þakka, Þorgeir minn. Guð blessi yður fyrir hjálpina!"
Þorgeir var seinn til svars og horfði á bálið. Loks svaraði hann :
"Nú er því bráðum lokið. Húsið fer að hrynja".
Að svo mæltu gekk hann frá hreppstjóranum. Skömmu síðar fór hann heim til sín og lokaði sig inni, það sem eftir var næturinnar.
"Spá er spaks geta", sagði Sigurður örlítilli stundu eftir að Þorgeir var farinn. Þá fóru að heyrast háir brestir í bálinu. Mestur hluti hússins hrundi ofan í tóftina. Logarnir gusu þá hátt, með ódæma neistadrífu, en lækkuðu undir eins á eftir.
Þó stóð efri gaflinn ennþá og var ekki nægilega brunninn til að hrynja, En af honum stóð báðum nágrannahúsunum mest hættan.
Í þessu beindist athygli flestra þeirra, sem nær voru staddir, að manni einum, miklum vexti og karlmannlegum, með breiðar herðar, dálítið lotnar, ljóst hár og þunt, ljóst skegg á kjálkum og efrivör. Var hann kinnaþykkur og brúnamikill, en þó góðmannlegur og stiltur vel. Þennan mann þektu allir kaupstaðarbúar. Hét hann Jón og var kallaður kaupi. Var hann jafnan fylgdarmaður Þorgeirs á ferðum hans um sveitir og heiðar og oft í þjónustu hans, en þess á milli í kaupavinnu til og frá þar í sveitunum. Þó var hann einna hagspakastur í Vogabúðakaupstað. Margar sögur fóru af afli hans og hreysti, og sumar næsta ótrúlegar. Nú bættist ein við og varð ekki rengd, því margir voru þar sjónarvottar. Þegar húsið var mestalt hrunið, en efra gaflhlaðið stóð uppi logandi, hljóp Jón kaupi fram og tók stein einn mikinn, hóf hann upp yfir höfuð sér, gekk með hann fram að eldinum og færði hann af öllu afli á gafihlaðið. Braut steinninn stoð, sem fyrir varð, en ekki hrundi gaflhlaðið að heldur. Reif hann þá upp fleiri og meiri steina, og vanst honum misjafnlega á. Horfðu menn hugfangnir á þennan atgang og þótti Jón varla einhamur. Vildi svo heppilega til, að nóg grjót var fyrir hendi, því afgangur lá þar af grjóti því, sem notað var í kjallarann; enda var skamt högga á milli hjá Jóni. Enginn hafði verið eldinum jafnnærgöngull og hann var nú, og hraus mörgum hugur við að sjá hann ganga í gin eldsins, að kalla mátti. Loks mun Jóni hafa verið farið að leiðast þóf þetta. Þreif hann þá upp stein, sem haft var fyrir satt, að hefði verið fullkomið tveggja manna tak. Bar hann hann á bringunni fram að bálinu, og hnykluðust þá handleggja- og herðavöðvarnir allrisalega. Síðan dengdi hann steininum þar á, er honum fanst vera mundi seigast fyrir, en hrökk síðan frá Stóðst gaflhlaðið ekki högg þetta, en hrundi ofan í glóðina með braki og neistaflugi. Þeir, sem á horfðu, æptu siguróp, en Jón kaupi strauk lófana og leit drýgindalega til bálsins. Þóttist hann vel hafa unnið, sem von var.
Þegar vöruhúsið var hrunið til fulls, var hinum húsunum borgið, sem í hættu höfðu verið. Mátti það og ekki seinna vera, því segl þau, sem hlífðu íbúðarhúsi þeirra bræðranna, voru tekin mjög að brenna, og hrökk vatnsstraumurinn ofan af mæninum varla til að slökkva í þeim; enda dró úr honum smátt og smátt, því fáir þoldu hitann þar uppi til lengdar. Þó sakaði það hús ekki af eldinum, nema hvað nokkrar rúður höfðu sprungið af hitanum, áður en seglin hlífðu. En hart var það leikið eftir björgunina. - Nú var mestallur eldurinn hruninn ofan í kjallarann, og héldu steinveggir utan að honum öllum megin, svo kalla mátti eldinn yfirunninn. Gekk nú alt liðið að því að slökkva í bröndum þeim, er lágu í kringum kjallarann, og þrengja þannig að Rauð, þar til hella mætti vatni í sjálfan kjallarann og kæfa í rústunum.
Þess var áður getið, að Norðmenn hefðu komið til hjálpar frá gufuskipinu. Lentu þeir utan við bryggjuna og brýndu bát sínum í fjörunni. Sáu þeir þá, að eldur var að færast í bryggjuna og var hún tekin að loga; sneru þeir þegar á móti honum, en hirtu ekki um annað. Þeir höfðu lítil áhöld, en þó nokkur; en þeir, sem ekkert höfðu í höndum, jusu sjó með höfuðfötum sínum. Voru þeir háværir mjög, og líktist framkoma þeirra meira gáska en alvöru. Þó kom það fyrir, að gamanið gránaði, og lenti þá í áflogum; þurftu þá hinir að gefa sig alla við því að skilja, en létu eldinn einan um bryggjuna á meðan. Þó komu þeir von bráðar að björguninni aftur og fylgdust þá að sem ekkert hefði í skorist - nema hvað þeir jusu sjó hver á annan við og við. Tókst þeim að halda við bryggjunni lítið skemdri, meðan húsið brann. Alla þá stund, sem þessu fór fram, stóð skipstjóri, sótrauður og þrútinn, utar í fjörunni, skamt frá bátnum, og bölvaði í sífellu. Tvinnaði hann saman flesta þá mergjuðustu svardaga, sem finnast á tungu Norðmanna, og hrukku þeir varla til. Kallaði hann oft til manna sinna til að sefa þá; en svo var hann hás, að ekki heyrðist nægilega til hans, og því ver sem hann vildi hafa hærra. Þetta gramdist honum mjög, og var hann ófrýnn. Þess á milli gat hann varla varist því að hlæja að þeim. En aldrei ómakaði hann sig til þeirra, til að skakka leikinn né rétta þeim hjálparhönd. Þegar eldurinn fór að minka svo, að bryggjunni var óhætt, gat hann þó loks látið menn sína heyra til sín; þá rak hann þá með harðri hendi út í bát sinn, og reru þeir frá landi. Skömmu síðar sigldi gufuskipið af stað.
-
Meðan húsið brann, færðist dagsbrúnin óðum upp á loftið, og þegar brunanum var lokið, var orðið albjart, að kalla mátti. Var þá hvergi eldur nema í kjallaranum. Þar lá feikimikil glóð, og blöktu yfir henni bláir logar, sem ekkert eldsneyti fundu. Sumstaðar gusu logar við og við upp úr stórum eimyrjubingjum; voru það kornvöruhaugar og ýmsar slíkar vörutegundir, sem seinar voru að brenna. Annarstaðar gusu upp marglitir málmeldar, en hvítglóandi járnmunir, alla vega úr lagi gengnir, stóðu upp úr glóðinni til og frá. Járnhlífar þær, sem skýlt höfðu húsinu utan, lágu í eimyrjunni og kringum hana, allar orpnar og undnar saman, svo þær líktust helzt steiktum roðum. Yfir allri rústinni sveif blágrár eimur, svo erfitt var að sjá ofan í glóðina. Grjót var alt glóandi heitt og svæluhita lagði upp úr kjallaratóftinni. Umhverfis lágu sviðnir brandar, sem slökt hafði verið í, og niðri í fjörunni stóðu hálfbrunnir vörukassar, sem of seint hafði tekist að bjarga frá eldinum. Þar, sem steinolían og tjaran höfðu flóð brennandi yfir fjöruna, var hún svört eftir, og allstór skörð höfðu brunnið í bryggjuna. Flaut nú marglit steinolíubrá um allan voginn; en sót úr reyknum lá þar í svörtum röstum, sem sýndu straumstefnuna. Tunnur þær, sem velt hafði verið í sjóinn, voru þar á reki fram og aftur og möruðu í hálfu kafi. En auðgert var að finna þær og færa að landi.
Mikil umskifti voru nú orðin á þessum stöðvum frá því kvöldið áður, og var þar ömurlegt yfir að líta; enda hljóðnuðu flestir við, er gáfu sér tóm til þess. Báru menn nú í hægðum sínum vatn í glóðina í kjallaranum, og hófu sig þaðan gráir gufumekkir. Flest annað, sem gera þurfti, var látið bíða betri tíma, því margir voru þrekaðir orðnir.
Sól skein í heiði skömmu eftir uppkomu hennar, en var þó rauð sem blóð. Hafði reykurinn af eldinum þá jafnast um loftið og beltaði sig sem móða fyrir sólinni. Höfðu menn séð hin sömu fyrirbrigði eftir minni háttar eldgos í óbygðum, nema hvað móðan var að þessu sinni móleit, en ekki blá. - Höfðu margir kaupstaðarbúar orð á því um morguninn, að sér mundi verða þessi nótt lengi minnisstæð. Jafnsviplega og hrikalega tortímingu hafði enginn þeirra séð. - -
En inni í miðri fjörunni, milli bryggjanna, kúrði gamall kunningi - baunasekkurinn. Var hann hið eina af öllum kornvöruforða Kaupfélagsins og Bræðraverzlunarinnar í sameiningu, sem komist hafði undan eldinum.
7. kafli - EldraunirMorguninn eftir brennuna var þegar farið að grenslast eftir upptökum eldsins. Lá þá beinast við að yfirheyra Jóhann vökumann fyrstan manna, enda var svo gert. Var Jóhanni stefnt inn í skrifstofu sýslumannsins; en þar voru þeir fyrir, auk sýslumannsins, Friðrik og Sveinbjörn, kaupmennirnir, og Sigurður hreppstjóri, faðir þeirra.
Ekki var það með fúsu geði, að Jóhann gekk á fund þeirra; en hjá því varð ekki komist. Var hann reikandi í göngulagi og ekki upplitsdjarfur á leiðinni þangað. Bæði bjóst hann við hörðu ámæli fyrir vanrækslu sína á vökunni og þóttist mundi fáu geta svarað, og einnig þóttist hann illa undir það búinn að ganga fyrir stórmenni. Auk skemda þeirra, er hann hafði fengið á andlitið um nóttina, höfðu föt hans orðið illa úti við björgunina og voru nú svo rifin og brunnin, að sumstaðar sá í hann beran; en ekkert tóm hafði honum gefist til fataskifta. Það dró þó úr kvíða hans, að eins og föt hans voru útlítandi, mæltu þau honum nokkra málsbót. Með einstökum ötulleik hafði hann gengið fram, eftir að hann kom að björguninni aftur. Var hann einn þeirra, er efstir stóðu á þaki íbúðarhússins og heltu vatni á seglin. Hafði hann þolað hitann manna bezt, og voru allir frá gengnir á undan honum, en þar höfðu föt hans sviðnað af neistafluginu úr bálinu. Þetta sefaði samvizku hans að nokkru, þótt samt væri sök hans mikil.
Inni í skrifstofu sýslumannsins fékk Jóhann engin hörð orð að heyra. Alvara og hæverska ríktu þar, þótt þungir væru svipir manna. Spurningar þær, sem fyrir hann voru lagðar, voru ljósar og einfaldar; leysti hann úr þeim á þann hátt, sem við átti, og dró ekki undan. Tók hann eftir því, að þeir, sem við voru staddir, litu stórum augum hver til annars, þegar hann skýrði frá viðureign þeirra Einars í Bælinu. Leyndi það sér ekki, að þar þóttust þeir fundið hafa upphafsmanninn að slysi þessu, þótt enn væri eigi auðsætt, með hverjum atburðum það hefði orðið.
Þegar Jóhann hafði sagt það, er hann vissi, var hann látinn fara frá réttarhaldinu. Skömmu síðar komu þeir bræður út og hittu hann úti við. Var þá auðséð á Sveinbirni, að hann sárlangaði til að ausa harmyrðum yfir Jóhann fyrir vanrækslu hans á skyldu sinni. Friðrik var myrkur á svip, en stilti sig þó vel. Hann varð fyrri til máls og sagði, að fyrst Jóhann hefði þó getað gert þeim þann greiða að ljósta upp um sökudólginn, þá væri ekki vert að tala fleira um sök hans sjálfs; enda væri nú svo komið, að engu yrði breytt til bóta með mörgum orðum og beiskum. Þessi stillingarorð féllu Jóhanni engu léttara en þótt Sveinbjörn hefði komist að með illyrði sín. -
En sýslumaðurinn og Sigurður gamli fóru að leita Einars. Tóku þeir þá það ráðið, sem sjálfsagðast var, og fóru rakleitt heim í Bælið, því ekkert þótti þeim líklegra en að Einar hefði leitað heimahúsanna, eftir annað eins þrekvirki.
Þangað hafði Einar ekki komið um nóttina. Þeir hittu Margrétu hans heima við og spurðu hana ýtarlega eftir bónda hennar. Hún horfði undrandi á stórmenni þessi, sem hún þekti að vísu, en aldrei höfðu áður verið gestir í Bælinu. Grunaði hana þegar, að eitthvað ekki gæfulegt byggi undir komu þeirra. Hún leysti greiðlega og einarðlega úr spurningum þeirra, þótt henni þættu þær undarlegar og harla nærgöngular. Bauð hún þeim inn í kofana, ef þeir vildu svipast um eftir Einari, og sagði þeim alt af létta af því, sem þar hafði gerst um nóttina. Hafði hún um það fleiri orð en þá fýsti að heyra. - Einhver hafði grenjað þar inn um gluggaboruna um miðja nótt, að hús væri að brenna í kaupstaðnum. Þá hafði Einar hennar, auminginn, ekki verið kominn heim, sem ekki hefði verið von, því hann hefði gert orð heim um kvöldið með honum Ásmundi litla, að hann ætti að vaka; hún hefði því ekki undrast um hann. En þegar hún heyrði um brennuna, varð henni svo undur og skelfing bilt við, - þeir gátu ekki trúað því, hvernig henni hafði orðið við! Þá hafði hún klætt sig til að komast eftir, hvað um væri að vera, og vita eitthvað um Einar sinn, aumingjann. Bæði eldri börnin hefðu vaknað líka og farið á fætur. Síðan hefðu þau öll þrjú farið ofan í kaupstaðinn og hjálpað til við björgunina. Þau hefðu gert það lítið, sem þau gátu - og var langt mál að skýra frá því. Ekki höfðu þau komið heim í Bælið aftur, fyr en orðið var albjart. Einar hennar, aumingjann, höfðu þau hvergi séð. Guð hlaut að vita, hvað orðið væri af honum. Yngri börnin tvö höfðu þau skilið eftir sofandi í bælunum. Það gat vel verið, að þau hefðu vaknað og orgað úr sér öll hljóð, meðan þau voru burtu. En engin merki sáust þess, að Einar hefði komið heim á meðan. Þarna stóð matarögnin hans ósnert. Hún hafði sett það þarna á borðið um kvöldið, til þess að hann fyndi það, ef hann kynni að koma heim um nóttina. Flatkakan lá ofan á diskinum, alveg eins og hún hafði lagt hana um kvöldið. Undir henni voru þrjú stykki af signum bútungi og ofurlítill bræðingsbiti. Grautarskálin hans stóð þar hjá; það var sama skálin, sem hann eitt sinn hafði fundið brotna niðri í fjöru, henni hafði verið fleygt út úr einhverju "fína" húsinu. Einar hennar, auminginn, hafði setið allan föstudaginn langa við að spengja hana. Nú stóð hún þarna, barmafull af óbættum vatnsgraut með rúgmjöli út í. Skánin var heil og órofin, þykk eins og hrossleður. Þeir gátu séð það sjálfir, hvort hún hefði verið snert. - Nei, þeir máttu reiða sig á það, að Einar hennar, auminginn, hefði ekki komið þangað heim um nóttina. Hann hefði víst ekki látið matinn sinn ósnertan. Hann hlaut þó að vera orðinn þurfandi fyrir mat. - Guð vissi, hvað af honum var orðið. -
Þeir sýslumaður og Sigurður hreppstjóri voru fyrir löngu orðnir sannfærðir um það, að Einar hefði ekki komið heim í Bælið, en biðu eftir málhvíld hjá Margrétu, til þess að geta kvatt og farið. Fyrsta tækifærið, sem þeir fengu, notuðu þeir og höfðu sig á brott þaðan.
Margrét horfði spyrjandi augum á eftir þeim. Hinar verstu grunsemdir gripu hana, og skömmu seinna eirði hún ekki í kofunum. Fór hún þá ofan í kaupstaðinn, til þess að spyrjast fyrir um Einar sinn og þessa sjaldgæfu heimsókn, - og þær fréttir urðu henni auðfengnar.
Þegar þeir sýslumaður og Sigurður voru orðnir einir, fóru þeir að geta gátum sínum um það, hvað af Einari væri orðið. Gufuskipið hafði farið um nóttina, og sýslumanni þótti ekki ólíklegt, að Einar hefði komist út í það og væri nú genginn þeim úr greipum. Sigurður gat ekki fallist á þetta. Honum þótti jafndjarflegt tiltæki fremur ólíkt Einari og trúði því ekki að svo stöddu, að Einar væri kominn langt burtu. Þegar hann hafði unnið afbrot sitt áður, hafði hann enga minstu tilraun gert til að komast undan manna höndum. Ótrúlegt var, að honum hefði aukist svo mjög áræði síðan.
Um þetta voru þeir að kýta á leiðinni ofan í kaupstaðinn. En þegar þangað kom, voru menn fengnir til að leita Einars um kaupstaðinn og nágrennið.
Einars var leitað og á hann kallað; en það kom fyrir ekki. Enginn hafði séð hann eftir brennuna. Hvergi hafði hann til manna komið og hvergi sáust merki um för hans. Um hádegið komu leitarmenn aftur svo búnir. Þá var sent út um sveitir og haldið spurnum fyrir um alla þjóðvegi. Loks átti að fara að semja nákvæma lýsingu á strokumanninum og senda til næstu hreppstjóra, en síðan til næstu sýslumanna. Sýslumaðurinn og Sigurður í Vogabúðum sátu þá báðir í þungum þönkum inni í skrifstofu sýslumannsins og rifjuðu upp fyrir sér, hvor í sínu lagi, hvernig Einar hefði verið ásýndum. - -
En það er af Einari að segja, að þegar hann sá, í hvert óefni komið var, félst honum allur hugur. Þegar hann var laus við Jóhann og baunapokann, gekk hann sem í leiðslu upp fyrir húsin og að árgilinu, þar sem hann hafði urðað "pödduna", og fékk sér nú vænan sopa. Hann tæmdi hana þó ekki og urðaði hana aftur með því, sem eftir var. Hanm fann til þreytu og sljóleika, en ekki til mikilla geðshræringa. Hann vissi, að nú var hann orðinn uppvís að nýjum glæp og rétt að kalla kominn undir manna hendur. Hann hafði hugsað út í þetta áður og hálfvegis búist við því, svo honum kom það ekki á óvart. Flótti datt honum sízt af öllu í hug. Hann sá raunar ekkert eftir þessu, sem hann hafði gert, hann kveið ekki fyrir neinu og honum leið ekkert illa. Sjálfsagt yrði ekkert farið illa með hann, meðan hann afplánaði syndir sínar. Hann yrði ekki barinn eða sparkað í hann, og ef til vill yrði honum sýnd meiri vorkunn og hluttekning í orðum en hann átti að venjast í hversdags bágindum sínum. Hann fann ekki til neinnar löngunar eftir neinu, nema helzt eftir því að sjá einu sinni framan í Þorgeir. Hann treysti sér til að sjá það þegar í fyrsta tilliti, hvort hann væri sér þakklátur eða ekki. Ef hann væri honum þakklátur, þá hefði hann þó að minsta kosti eina gleði að heiman með sér og eina von fyrir veslings börnin sín, Eitthvað mundi Þorgeir hugsa til þeirra. Manga hans mundi bjarga sér sjálf.
En hann hugsaði lítið um þetta líka; hann gat ekki hugsað um neitt. Nú fanst honum þreytan gagntaka sig aftur, eins sár og um kvöldið, eftir að hann hafði kastað af sér síðasta vörusekknum. Hann verkjaði í bakið og höfuðið var blýþungt. Hann ráfaði í hægðum sínum upp með ánni; honum var sama, hvert hann fór - ef hann aðeins lenti ekki af tilviljun heima hjá sér.
Ekki hafði hann litið við eldinum, síðan hann fór frá honum, og vissi ekkert um, hvað nú var að gerast. Neðan úr gilinu hefði hann getað séð eldbjarmann um alt loftið. En hann leit aldrei upp, heldur staulaðist hann áfram hljóður og niðurlútur.
Það var sem eitthvað væri laust og dengdist til innan í höfðinu á honum. Hann heyrði suðu, lága, þunga dynki eins og fótatak í fjarska. Voru þeir að koma á eftir honum, til að taka hann höndum? Hann flýtti sér ekkert til að komast undan þeim. Hann gekk niðri í gljúfrinu, studdi sig við klettana og klöngraðist yfir stórgrýtið. Áin beljaði rétt við fæturna á honum. Nú heyrði hann til þeirra aftur, greinilegar en áður, Þeir máttu koma! Hvers vegna máttu þeir ekki koma! Hann var alls ekki að flýja! - Það var annars bezt, að hann settist niður og biði eftir þeim. Þá hlutu þeir að sjá, að hann forðaðist þá ekki. Ofurlítil grastó, milli tveggja stórra steina, varð fyrir honum. Þar kastaði hann sér niður og - steinsofnaði samstundis, yfirkominn af andlegri og líkamlegri þreytu.
Hann svaf eins og steinn langt fram yfir hádegi. Þá vaknaði hann sjálfkrafa, þreyttur, hungraður, stirður og með þungt, veikt höfuð. Hálfringlaður ráfaði hann aftur ofan í kaupstaðinn og lét færa sig til sýslumanns.
-
Einar meðgekk það umsvifalaust, að hann hefði stolið baunasekknum, eða ætlað að stela honum. En hann þverneitaði því, að hann hefði kveikt í húsinu, sízt af ásettu ráði.
Hann kannaðist raunar við, að hann hefði kveikt á eldspýtu inni í kjallaranum til að lýsa fyrir sér og hann hefði kastað þeirri eldspýtu frá sér, þegar hann var búinn að finna það, sem hann leitaði að. Hann kvaðst hafa flýtt sér út með baunasekkinn, en ekki tekið eftir neinum nýbrigðum í kjallaranum, þegar hann fór. Hann hefði heldur ekkert litið eftir þeim.
Sýslumanni þótti þessi saga ekki ósennileg. Hún kom ekki heldur í bág við neitt það, sem menn vissu áður. Öllum, sem yfirheyrðir höfðu verið, bar saman um, að kjallarinn hefði verið fullur af eldfimum hlutum og vörum. Meðal annars mundu menn eftir hefilspónunum framan til á gólfinu kringum hefilbekkinn. Þetta, að kasta ógætilega logandi eldspýtu, var því meira en nægileg orsök til eldsins.
Flestum, sem þektu Einar, þótti einnig saga hans trúleg. Allir vissu, að hann hafði ófrómleikaástríðu og hafði áður látið hana ná valdi yfir sér. En enginn þekti hann að illkvitni né strákskap. Enginn gat trúað því á hann, að hann hefði farið að kveikja í húsinu af illvilja eða hefndarhug. Enginn vissi heldur til þess, að Einar bæri slíkan hug í brjósti til þeirra kaupfélagsmanna.
Menn létu sér því sögu hans lynda, fyrst um sinn að minsta kosti.
En sök hans var ærin samt. Þetta var ekki fyrsti þjófnaðurinn hans, og hann hlaut því að eiga þyngri hegningu skilið en ella. Auk þess hafði hann af glæpsamlegu gáleysi orðið valdur að stórtjóni, en stofnað jafnframt lífi margra manna í hættu. Það var ekki honum að þakka, að ekki varð meira að. Þetta átti líka sína hegningu skilið.
Sýslumaður lét við þessa yfirheyrslu sitja að sinni. En nú kom að því, að ráða þyrfti fram úr því, hvað gera skyldi af Einari meðan hann biði dóms. Fangahús var ekkert þar í kaupstaðnum, og sýslumaður átti bágt með að geyma sakamann í húsi sínu.
Sigurður hreppstjóri réð fram úr þessum vandræðum. Hann bauðst til að taka Einar heim á bæ sinn og ábyrgjast hann. Hann var ofurlítið upp með sér af því, að sín skoðun á Einari hefði verið rétt, þegar þeir sýslumaður kýttu um það um morguninn, hvort Einar væri genginn þeim úr greipum. Nú langaði hann til að minna sýslumann á ósigur hans, en þó með lagni. Ekkert átti þá betur við en nýr vottur um traust hans á Einari. Hann kvaðst vera þess handviss, að ef Einar lofaði að leggja ekki til undankomu, þá mundi hann enda það dyggilega. Það væri því öldungis hættulaust að hafa hann heima í Vogabúðum við það eftirlit, sem Sigurður gat í té látið. Einar hafði setið hljóður og niðurlútur, meðan um þetta var ráðgast, og látið sem hann heyrði það ekki. En þegar að því kom, að hann var spurður að því, hvort hann vildi lofa því skilyrðislaust og leggja við drengskap sinn að vera Sigurði hreppstjóra þægur í gæzlunni og leita ekki á brott, meðan á rannsókn málsins og dómi stæði, svaraði hann hiklaust játandi, og það með slíkri einlægni og hreinskilni, að allur efi hvarf úr hugum þeirra.
Síðan fór Einar heim með Sigurði.
-
Einari var stranglega bannað að fara nokkurt fet ofan í kaupstaðinn eða í neitt af húsunum eða kotunum þar í grendinni, og ekki heldur heim í Bælið. Honum var vísað til rúms úti í skemmulofti hjá tveimur vinnumönnum, sem Sigurður lét sofa þar um sumarið, til þess að rýma til í baðstofunni. Þeim var jafnframt falið að hafa strangar gætur á honum á nóttunni og sjá um, að hann færi að hátta á hæfilegum tíma á kvöldin. En allan daginn mátti hann vera hvar sem hann vildi í bænum eða heima við hann. Sigurður lofaði að láta hann hafa verk sér til afþreyingar og bauð að gefa honum vel að éta, svo hann þyrfti ekki að kvarta undan vistinni. Það var því engu líkara en Sigurður hefði tekið einn vinnumann í viðbót.
En þótt Sigurði væri ant um, að Einari liði vel hjá sér, var honum þungt í skapi við hann, og ekki vildi hann skifta við hann fleiri orðum en nauðsynlegt var. Óhamingja sú, sem af Einari stafaði, var honum enn svo rík í minni, að hann átti bágt með að dylja harma sína. Hann vissi líka, að þessi sama gremja bjó í brjóstum fleiri, bæði þar og niðri í kaupstaðnum, og þótti því ástæða til að taka það skýrt fram, bæði við heimafólk sitt og aðra, að enginn mætti gera Einari neitt mein í orði eða verki, því hann væri í hans vernd. Sjálfan hafði hann helzt langað til að rjúka á hann og berja hann til skemda, þegar hann sá hann fyrst. En nú var sú löngun yfirstigin í eitt skifti fyrir öll og gerði ekki framar vart við sig.
Það jók líka á skapþunga Sigurðar, að honum fanst sýslumaður hafa gengið slælega að yfirheyrslunni. Raunar var saga Einars ekki ólíkleg, en samt leyndist í honum einhver grunur um, að hér væri ekki alt með feldu. Var sem hann tryði því naumast, að jafnóverulegar orsakir gætu leitt til eins skjótrar og hrikalegrar eyðingar sem hér var um að ræða. Baunasekkurinn lá frammi við dyr, að því er sagt var, en steinolían var inni í miðjum kjallara. Samt var Einar ekki kominn nema inn í miðja fjöruna með lítilli töf, þegar fyrsta tunnan sprakk og eldinum laust út úr dyrunum. Það hlaut að hafa kviknað í henni eða í nánd við hana. - Það gat vel verið, að þetta væru tómar grillur. En honum fanst, að sýslumaður hefði átt að yfirheyra Einar lengur og þrautspyrja hann betur, en geyma það ekki.
Nú einsetti hann sér að grípa fram í fyrir sýslumanni, hvernig sem því yrði tekið síðar, og gera það sjálfur, sem hann hefði vanrækt. Og skömmu fyrir háttatíma fyrsta kvöldið byrjaði önnur yfirheyrsla yfir Einari.
Sigurður settist á eintal við hann úti í skemmu, lokaði að þeim dyrunum og tók síðan að spyrja Einar af nýju. Hann varð þess fljótt var, að Einari var lítið gefið um þessa nýju rannsókn, og sótti því fastara á.
Einar endurtók alt það, sem hann hafði áður sagt sýslumanni. Kvaðst hann engu hafa við það að bæta og fór í flæmingi undan frekari svörum.
"Því fórstu ekki heim í Bælið þitt, þegar þú fórst út úr búðinni?" spurði Sigurður alleinbeittur.
"Ég vildi ekki fara heim", svaraði Einar niðurlútur.
"Hvers vegna vildirðu ekki fara heim?"
"Ég hafði gert orð heim, að ég ætlaði að vaka um nóttina", svaraði Einar dræmt. Því næst tók hann að skýra Sigurði frá heimilishögum sínum og hvernig sér mundi hafa verið tekið, hefði hann komið heim um kvöldið, þrátt fyrir orðsendinguna.
Það varð þögn. Sigurður hugsaði um þetta stundarkorn. Hann hafði heyrt ýmislegt af heimilislífi Einars. Þetta gat vel verið ástæða. Og svo hefði hann ætlað að milda skap Möngu sinnar með baunasekknum. Honum skildist þetta vel. Það hafði komið fyrir hann sjálfan um æfina, að þurfa að milda kvenskap.
"En þú varst drukkinn, þegar Jóhann hitti þig", mælti hann og hvesti augun á Einar. "Hvar náðirðu í vín?"
"Hjá Þorgeiri".
"Hjá Þorgeiri?" sagði Sigurður undrandi. "Var Þorgeir ekki búinn að loka búð þá?"
"Hann var nýbúinn að loka búðinni, en ég hitti hann sjálfan þar úti".
"Og fórstu þá að biðja hann um vín?" spurði Sigurður, enn meira forviða.
"Já - eiginlega - - -", sagði Einar hikandi.
"Eiginlega hvað?"
"Já - ég bað hann að hjálpa mér um á eina "pöddu", sagði Einar dræmt og án þess að líta upp. Hann var farinn að verða óstyrkur.
"Nú lýgurðu einhverju", sagði Sigurður og byrsti sig.
Einar hrökk saman. Samtalið féll niður stundarkorn. Hver grunsemdin annari verri vaknaði í huga Sigurðar.
"Bauð Þorgeir þér inn til sín?" spurði hann skyndilega.
"Já", sagði Einar. Honum þótti ofurlítill frami í því að kannast við, að Þorgeir hefði tekið sér eins og kunningja.
"Varstu lengi inni hjá honum?"
"Nei".
"Bauð hann þér sæti?"
"Nei". -
Nú fór Einari ekki að lítast á blikuna.
Sigurður brýndi röddina og hvesti augun á Einar, því það, sem honum nú datt í hug, var annað en gaman.
"Þorgeir hefir fengið þig til að kveikja í húsinu okkar".
"Nei", svaraði Einar hátt og hiklaust. Og nú leit hann upp og framan í hreppstjórann.
Þeir horfðust í augu um stund. Þessi augu gat Einar vel staðist. Það var annað en tillit Þorgeirs áður. Nú stóð honum það skýrt fyrir hugskotssjónum til samanburðar. Hreppstjóra-augun voru hvöss og reyndu að ógna honum. En að baki þeirra lá hik og efi, sem dró úr magni þeirra. Einar endurtók neitun sína og var gjallharður.
"Kannastu við það, því ég veit, að það er satt", hélt Sigurður áfram. Hann var enn ekki af baki dottinn.
En Einar lét engan bilbug á sér finna. Hann sagði ekki meira en hann var búinn að segja. Þorgeir hafði hjálpað honum um vín á "pödduna", en ekkert talað við hann frekar og einskis beðið hann.
Sigurður þæfði lengi um þetta við Einar. Hann reyndi að lokka það upp úr honum með góðu, sem hann vildi fá hann til að segja, og hann reyndi líka að veiða hann með orðum og hártogunum. En Einar lét sér hvergi bregða. Eftir að hann hafði staðið af sér fyrsta áhlaup hreppstjórans, fann hann, að meira og meira dró úr mætti trúarinnar hjá honum. En við það jókst Einari hugur.
Þegar Sigurður var að lokum orðinn uppgefinn, sneri hann við blaðinu og ógnaði honum með því, að hann skyldi sjá um, að sýslumaður spyrði hann duglega um þetta atriði. Að svo mæltu gekk hann burt frá honum.
Einar sat hugsandi eftir. Hann gladdist af því með sjálfum sér að hafa brotið þessa árás á leyndarmál þeirra Þorgeirs á bak aftur. En hann kveið fyrir þeirri næstu. Þótt hann hefði getað staðið Sigurð af sér, var ekki víst, að eins gengi, þegar sýslumaður kæmi.
Undir eins á eftir þessu samtali fór Sigurður ofan í kaupstaðinn og heim til sýslumanns. Lét hann skila til hans, að sér væri áríðandi að fá að tala við hann. Sýslumaður var hálfháttaður, þótt með fyrra móti væri, því lítið hafði orðið um svefn nóttina á undan; þó veitti hann hreppstjóranum áheyrn í dagstofu sinni. Kom hann þangað til fundar við hann á skyrtunni og vestislaus, því hann ugði, að eitthvað alvarlegt byggi undir, og gaf sér ekki tíma til að klæða sig aftur í föt þau, sem hann var kominn úr.
Sigurði var mikið niðri fyrir. Hann komst þó að efninu, vífilengjulítið, og kvaðst nú vera þess sannfærður orðinn, að hin eiginlegu upptök brennunnar væru hjá Þorgeiri verzlunarstjóra. Hefði Einari alls ekki orðið það óviljandi að kveikja í húsinu, og væri Þorgeir í vitorði með honum. Var hreppstjóranum þetta svo fast í hug, að helzt var á honum að skilja, að réttast teldi hann að handtaka Þorgeir nú þegar, setja hann í járn og varpa honum í varðhald, en kúga þá báða til játningar, félagana, hann og Einar.
Sýslumaður horfði alveg forviða á hreppstjórann; þegar hann loks komst að til að segja eitthvað, spurði hann stillilega; hvað Sigurður hefði fyrir sér í þessu.
Sigurður skýrði nú greinilega og rétt frá samtali þeirra Einars. Sagði hann sem var, að Einar hefði játað það fyrir honum, að hann hefði hitt Þorgeir um kvöldið fyrir brennuna og fengið hjá honum brennivín. Öllum öðrum sökum hefði hann neitað harðlega. Samt kvaðst hann ekki vera í efa um, að þessu væri þannig farið sem hann grunaði, og mundi auðvelt að fá játninguna upp úr Einari, ef hart, en þó kænlega, væri eftir gengið. En Þorgeir væri réttast að yfirheyra sem skjótast, áður en honum gæfist tóm til að hugsa upp vafninga og undanbrögð. Kvað hann grátlegt til þess að hugsa, ef menn slyppu óhegndir fyrir jafn illmannlegt verk.
Sýslumaður glotti góðmannlega, þegar hann heyrði ástæður Sigurðar, en gat ekki verið honum samdóma um, að neitt væri á þeim byggjandi. Þótt Einar hefði hitt Þorgeir um kvöldið og fengið hjá honum á flöskuna sína, gæti það ekki saknæmt talist, og ekkert sannaði það eitt um glæp Einars og vitorð Þorgeirs. - Færu þeir að byrja sakamálsrannsókn á hendur Þorgeiri út af jafnórökstuddum grun, mundu allir menn hlæja að þeim. Og þótt svo væri sem Sigurð grunaði, að Einar hefði kveikt í húsinu viljandi, fyrir bón eða skipun Þorgeirs - sem þó væru litlar líkur til, því þá hefði Einar varla farið að stela baunasekknum, - mundi torvelt reynast að fá slík rök fyrir þeirri sök, að dómur yrði á þeim bygður. Ef til vill mundi Einar segja þetta; en Þorgeir mundi segja hann ljúga því öllu, og yrði að taka hans orð trúanlegri en Einars, að öðru jöfnu. Yrði þá síðari villan argari hinni fyrri. Þorgeir mundi þá framvegis standa með pálma í höndum gagnvart þeim mönnum, sem gert höfðu annað eins frumhlaup á æru hans og mannorð, en almenningur gera sér mikið gaman að fljótfærni þeirra og flónsku. Þó kvaðst hann mundu yfirheyra Einar betur síðar, en bað Sigurð þess lengst orða að dylja þennan grun sinn, að minsta kosti meðan hann hefði ekki við meira að styðjast.
Sigurður varð hljóður og hálfsneyptur við þetta. Þóttist hann nú helzt til fljótráður verið hafa, og mundi hyggilegra að hafa hljótt um þetta, eins og sýslumaður vildi. Enda hafði nú trú hans á vissu sína og ófeilni í þessu máli mist máttinn. Bað hann sýslumann afsökunar á ónæði því, sem hann hafði gert honum. Kvaddi hann síðan og fór heim til sín. - -
Meðan þessu fór fram, hafði sýslumannsfrúin hafst við í stofu innar af þeirri, sem sýslumaðurinn og hreppstjórinn töluðust við í. Voru þar opnar dyr á milli, en dyratjöld fyrir. Hafði hún hljótt um sig, því forvitni var henni á að heyra, hvaða fréttir hreppstjórinn hefði að segja, er honum var svo mikið fyrir brjósti, og heyrði hún hvert orð þeirra. - Mundi hún þá um leið eftir því, að hún átti erindi við læknisfrúna, og þótt nú væri orðið áliðið, tjáði ekki að fresta því til morguns. Og fyrst hún enn var í öllum fötum; afréð hún að gera þessari vinkonu sinni heimsókn þá þegar. -
Læknisfrúin var háttuð, þegar henni komu þau boð, að sýslumannsfrúin bæði hana viðtals. En ekki mátti slíkri konu frá vísa og tók hún því á móti vinkonu sinni í línklæðum einum. Bað hún hana þrásinnis afsökunar á slíkri viðtöku; kvað hún alt vera í óreiðu í húsi sínu, eftir atganginn um nóttina, enda bar dagstofan þess ljósan vott, því þar stóðu öll stofugögnin í hvirfingu á miðju gólfinu. Sjálf skalf læknisfrúin af kulda, því á þessari stofu var glugginn, sem Jóhann vökumaður hafði rekið krúnuna í og brotið. Hún bar sig þó hetjulega og hlýddi á mál gestsins.
Erindi sýslumannsfrúarinnar var ekki meira en það, að það var fljótt afgreitt. Aftur á móti varð sýslumannsfrúnni skrafdrjúgt um hinar nýjustu nýjungar í brennumálinu. Sagði hún þar skýrt og greinilega, en þó í hálfum hljóðum, frá viðtali þeirra bónda síns og hreppstjórans. Síðan lagði hún út af því frá eigin brjósti, og teygðist furðanlega úr þeirri tölu. Kvað hún skelfilegt til þess að hugsa, ef þetta skyldi satt vera, sem Sigurð hreppstjóra hefði grunað; raunar hefði maðurinn sinn eytt því, og sjálf tryði hún því varla. Þó mætti hamingjan vita, hvað satt væri í því, enda hefði sér aldrei getist að brúnasvip Þorgeirs; hann hefði áreiðanlega tvær kápur til. Fór hún um þetta mörgum orðum og hjartnæmum, svo þær viknuðu báðar, frúrnar, yfir syndum og spillingu mannanna. Ekki mátti mun sjá á dygðarást þeirra og hjartagæzku að þessu sinni fyrir það, þótt önnur væri kafklædd, en hin fáklædd og þyrfti að bíta saman tönnunum, svo ekki glamraði í þeim. - Loks sá sýslumannsfrúin, að vinkona hennar var orðin gráblá í andliti af kulda. Þá fór hún að hypja sig til heimferðar. Kveðjan tók að vísu alllangan tíma, því enn var margt ósagt, sem aðeins þurfti að drepa á. Þó fór svo að lokum, að þær urðu að skilja - og gátu afborið skilnaðinn.
Læknisfrúin trítlaði skjálfandi inn í rekkju sína, sem stóð við hliðina á rekkju læknisins. Var hann háttaður, því honum hafði orðið síðasti dagur fulllangur, sem fleirum. Ekki var hún fyr komin ofan undir yfirsængina og búin að hlúa að sér en hún tók að segja bónda sínum sögu sýslumannsfrúarinnar og skoðun hennar á þessu máli. Hlýddi hann á sögu hennar með mikilli athygli, og urðu umræður um hana á eftir í hálfum hljóðum á milli þeirra hjónanna. Var læknirinn ekki samdóma sýslumanninum um það, að þetta mál væri lítils virði, og þótti grunur hreppstjórans sennilegur. Kvaðst hann mundu reyna að komast að því sanna í þessu efni, með því að beita skarpskygni sinni og sálfræðiþekkingu. Varla mundu þeir fuglar, Einar og Þorgeir, leyna hugsunum sínum fyrir honum, þótt þeir fegnir vildu. Hann skyldi - "Fa-fa-fa-n'en gaga-ga-ga-gale mig -!" lesa þá ofan í kjölinn.
Síðan sofnuðu þau. - En tvo daga næst á eftir lá læknisfrúin rúmföst í þungu kvefi, sem læknirinn kendi innkulsi.
-
Þorgeiri verzlunarstjóra varð ekki svefnsamt fyrstu nóttina eftir brennuna. Nú var húsið brunnið og vörurnar með, og Einar kominn í hendur mótstöðumanna hans. - Ærnar höfðu áhyggjur hans áður verið. Nú bættust nýjar við, og þær þyngri og skuggalegri en hinar fyrri. Oft hafði honum verið órótt innan rifja, en nú tók út yfir.
Eftir að hann gekk frá brennunni, lokaði hann sig inni í skrifstofu sinni og gekk þar um gólf, það sem eftir var næturinnar.
Fyrri part dagsins, meðan Einar vantaði og hans var leitað, beið hann allra tíðinda með hinum sárasta kvíða. Hann hafði þegar um nóttina frétt, með hverjum atburðum komist hefði upp um Einar, og var sárgramur yfir slysni hans og bjálfaskap. Hafði hann alstaðar svipast um eftir honum í margmenninu við eldinn, en hvergi séð honum bregða fyrir. Nú frétti hann, að Einars væri leitað með dunum og dynkjum og fyndist hann hvergi. Hefði honum nú verið það kærast af öllu, að Einar fyndist ekki framar, eða að minsta kosti ekki af þeim, sem leituðu hans. Ekki þorði hann að láta leita hans sjálfur og engan vildi hann láta verða þess varan, að hann hefði áhuga á því, hver kjör Einars yrðu. En með mikilli eftirvæntingu beið hann þess, að leitarmenn kæmu aftur. Ekki hafði hann sent menn út til njósna og fréttaleita, en þó stóð ekki á því, að honum bærust tíðindin jafnóðum og þau gerðust.
Þegar leið fram yfir hádegið og Einar var enn ekki fundinn, fór Þorgeiri að glæðast von um undankomu hans. En skammlíf varð sú von. Hann sá út um skrifstofuglugga sinn, hvar Einar kom rambandi ofan með gilbarminum. En áður en hann gæti til hans náð eða gefið honum bendingu um að leyna sér, voru aðrir menn orðnir hans varir, og rétt á eftir var farið með hann á fund sýslumanns.
Þorgeir frétti líka gerla af réttarhaldinu og hverju Einar hefði svarað þar. Þótti honum þá enn ekki illa horfast og var ekki örvænt um, að Einar gæti gert aukasök sína að aðalsök og vilt þeim þann veg sjónir. En þegar hann frétti, hvar Einari væri búinn staður, á meðan sök hans væri reynd og dómur upp kveðinn, þótti honum vandast málið af nýju. Þekti hann ístöðuleysi Einars og ugði, að þeir Vogabúðafeðgar mundu geta veitt upp úr honum leyndarmál það, sem hann bjó yfir. Þetta jók honum meir áhyggjur en alt annað.
Þorgeiri var það ljóst, að ef Einar skýrði satt og rétt frá öllu því, sem þeim hafði á milli farið kvöldið á undan brennunni, mundi engum skynbærum manni blandast hugur um, að hann væri við málið riðinn og ætti upptökin. Þeir mundu þó trauðla treysta sér til að höfða sakamálsrannsókn gegn honum með skýrslu Einars fyrir sakargagn og ekkert annað; enda var það ekki það lakasta. En hvað sem rannsókn liði, var mannorði hans svo hnekt, að það átti sér engrar viðreisnar von framar í augum almennings. Hann stóð þá fyrir allra manna augum sem upphafsmaður að svívirðilegum glæp, margþættum, því brennan ein, með öllu því tjóni og hrellingum, sem hún hafði valdið, var ekki nema nokkur hluti verksins. Hitt mundi ekki vægar dæmt, að hafa leitt bláfátækan barnamann, drykkfeldan og kjarklítinn, til slíkrar óhæfu, og láta hann síðan bera sökina einan, - láta taka hann frá fyrirvinnulausu heimili í eymd og örbirgð til hegningarvinnu svo árum skifti, en skjóta sjálfum sér undan sínum hluta hegningarinnar.
Hárin risu á höfði Þorgeirs við þessa hngsun. Fram að þessu hafði hann verið heiðarlegur maður. Óvinir hans og óvildarmenn höfðu engan höggstað á honum fundið. Hann hafði verið harður og óþjáll stundum - það gat vel verið; en hreinlyndari hafði hann verið hverjum manni og haft sál sína og samvizku óflekkaða af öllu því, sem nokkur drengilega hugsandi maður gat haft andstygð á. En nú var þannig komið!
Hann hugsaði sér alla þá illkvitnisgleði, sem fylla mundi hreysi og herbúðir andstæðinga sinna, er þeir hefðu slíka sögu til meðferðar. Þótt sögumaðurinn væri ekki annar en Einar í Bælinu, sem þeir annars mundu hika við að trúa, mundi þeim að þessu sinni verða sælgæti úr sögu hans. Ef til vill mundu þeir á allar lundir reyna að koma í veg fyrir það, að sakamálsrannsóknunum yrði beint gegn honum. Hver veit nema það yki á unað þeirra að geta talið sér og öðrum trú um það, að þeir sýndu honum náð og þyrmdu honum við opinberri smán.
Eða mundu þeir gera þvert á móti og róa að því öllum árum, að hann yrði settur í varðhald og yfirheyrður stranglega? Þeir kynnu ef til vill að hafa enn meira yndi af því að sjá framan í hann fyrir réttinum. Þeir mundu safna hinum glöggskygnustu mönnum sínum saman í réttarsalinn; því allir gætu þeir ekki komist þar fyrir. Með hamslausri óþolinmæði mundu þeir bíða fréttanna úti fyrir, sem ekki kæmust inn. Ýtarleg lýsing mundi verða gerð af hverjum drætti í andliti hans á þeirri stundu, er hann synjaði fyrir sökina.
Nei, - ef til vill ættu þeir ekki undir því. Ekkert gæti verið þeim verri snoppungur en það, ef hann kynni að játa, - og yrði síðan færður burtu frá þeim, svo þeim gæfist ekki kostur á að skaprauna honum. Þeir mundu sjá eftir því að fá ekki sjálfir að njóta hefndargleðinnar. Heldur mundu þeir velja hina aðferðina og láta sér nægja sögu Einars. -
Á eftir þessum hugleiðingum fór Þorgeir að halda rannsókn og dóm yfir sjálfum sér. Hann rifjaði þá enn af nýju upp fyrir sér alt það, sem þeim Einari hafði á milli farið um kvöldið. Fór hann yfir það í huganum aftur og aftur, til þess að vera viss um, að honum skytist ekki yfir neitt, sem til greina gæti komið.
Var þetta óhapp honum að kenna? Var hann hinn sanni upphafsmaður að brennunni? Hvernig vék því við?
Hann mundi glögt hvert orð, sem hann hafði sagt við Einar. Þau voru ekki heldur svo mörg. Hann hafði hugsað um þau öll sama kvöldið, eftir að Einar var farinn. Þá hafði hann afsakað sig og talið sér trú um, að Einar hefði ekki getað tekið þetta eins og bláalvöru. Hann hlyti að skilja það sem geðvonzkugaspur, sem menn létu inn um annað eyrað og út um hitt. Hann hafði þá gert sig ánægðan með þessar afsakanir sínar og ekki farið út á eftir Einari, til þess að hindra framkvæmdir hans. Nú lá það í augum uppi, hvernig Einar hafði skilið samtal þeirra. En var þá ekki sökin hjá Einari einum?
Hann hafði alls ekki beðið Einar að kveikja í vöruhúsinu. Engum launum hafði hann heitið honum fyrir það, hvorki beinlínis né óbeinlínis. Að þessu gat hann unnið eið fyrir rétti, hvenær sem á þyrfti að halda. Ef Einar segði ekkert annað en það, sem satt væri, hlyti hann að verða sýknaður með dómi.
En þó fanst honum hann ekki vera saklaus. Tvímælalaust hafði hann gefið Einari það í skyn, að það væri þetta, sem hann óskaði. Einmitt þetta atvik vantaði til að rétta við hag hans. Það væri syndlaust að hjálpa því til að koma; meira að segja mannlegt og afsakanlegt. Hann hafði vitnað til álíka athæfis í hinni frægu fornöld og talið manninum trú um, að þeim kaupfélagsmönnum væri þetta maklegt; þeim væri það holt og þeir hefðu ekki annað en gott af því. Skaðinn gerði menn hygna. Auk þess yrði tjónið ekki nema um stundarsakir; alt væri vátrygt. Að þessu hafði hann vikið við mann, sem litla eða enga hugmynd hafði um vátryggingu. Aftur á móti kostaði þetta ekki nema eina eldspýtu. Voru ekki þetta fullljósar bendingar?
Svo hafði hann vikið að öðru samtalsefni í miðju kafi. Það var skuld Einars við verzlunina. Hvað gat mýkt hann meira en samtal um það efni? Skuldin var meiri en tölur þær, sem í bókinni stóðu, og það fann Einar líka. Skuldaskráin í bókinni var sýnilegur vottur þess, hve oft og lengi Þorgeir hafði hjálpað honum og hve mikið hann hafði umborið honum. Siðferðislega skuldin var meiri en hin bókfærða. Gamlar þakkartilfinningar hlutu að vakna í brjósti þessa fátæklings, þegar hreyft var við þessu efni. Skyldutilfinning hans hlaut að vaxa honum í augum, og það því meira, sem yfirlitið var fljótlegra. Nú átti hann að borga þessa skuld; það var komið að skuldadögunum. Ekkert var fyrir hendi til að borga með. Hugsunin til skuldalúkningarinnar hlaut að verða honum ægileg. Nú gat hann ef til vill greitt hana alla með augnabliks viki, - hættulegu og ógeðfeldu að vísu, en sem þó var ekki ómögulegt að koma fram án þess á því bæri.
En hvers vegna ympraði hann á þessu? Ekki gerði hann sér þó minstu von um, að Einar greiddi þessa skuld nokkurn tíma. Var það þá ekki gert blátt áfram í því skyni að knýja hann til að framkvæma það, sem honum var svo ríkt í hug? Var ekki skuldakrafan grímuklædd skipun? - Hann gat ekki neitað því. Í því skyni hafði hún verið reynd, að sjá, hvaða áhrif hún hefði. Nú reyndi hann að telja sér trú um einhvern annan tilgang, en gat það ekki.
En hvernig var honum sjálfum farið þetta kvöld? Hvernig stóð á því, að hann fór nokkuð að skifta sér af þessum mannbjálfa, þegar hann átti ekkert erindi við hann? Hvernig stóð á því, að hann fór að gefa honum þessar óskir sínar í skyn? Hvað varðaði ókunnugan mann um áhyggjur hans og hugsanir? - Og að sleppa fram úr sér öðrum eins fjarstæðum við óbreyttan almúgamann og gera hann að trúnaðarmanni sínum -! Þetta var alt saman svo harla ólíkt honum, sem var hverjum manni dulari í skapi, að hann furðaði sig á því. Og þá kom gamla spurningin fram í huga hans: Var hann með fullu ráði? Eða misti hann stjórnar á sjálfum sér með köflum.
Hrollur fór um hann við þessa hugsun. Honum fanst sem ráðning allrar gátunnar fælist í hinu sanna svari upp á þessa geigvænlegu spurningu. Hann mintist þess, að þau augnablik komu fyrir, að harmar hans urðu honum of magnaðir. Þeir vöknuðu þá svo skyndilega og jafnframt með slíku heljarafli í huga hans, að ekkert ráðrúm vanst til skynsamlegrar yfirvegunar. Jafnan hafði hann geðríkur verið, en jafnan barist við skap sitt og oftast með ágætum árangri. Voru lyndiseiginleikar hans að breytast? Var sál hans að sýkjast af raunum og áhyggjum? Eða var mótvægið á móti ástríðum hans að bila og falla úr sögunni? Átti hann aðeins fá spor ófarin til algerðrar brjálsemi?
Hann studdi olnbogunum fram á skrifborðsbrúnina og greip báðum höndum um höfuðið. Kaldur sviti kom fram á enni hans við að hugsa til slíkrar skelfingar. Marga þungbæra stund hafði hann lifað þessi síðustu missiri. Enginn þekti þær, sem betur fór. Í einrúmi háði hann stríð sálar sinnar; engum var þá hent að vera í návist hans. Hann gekk þá sem í leiðslu og hafðist það að, sem meðvitundin vissi ekkert um. Þannig höfðu nætur og næturpartar liðið. - En að lokum unnu þó betri eiginleikar hans sigur yfir hinum lakari. Við vögguljóð mildrar samvizku hafði hann að lokum sofnað hverja nótt, og við bros nýfæddra vona hafði hann vaknað hvern morgun - vona, sem fæddar voru til að deyja barnadauða.
En nú hafði út af þessu borið. Eina slíka stund, þegar hugarstríð hans geisaði, hafði maður verið hjá honum, ístöðulítill og kjarklítill maður, sem ekki hafði af slíkum hamförum harma og hugarstríðs að segja og vissi ekki, hvað geðríki var. Hann hafði horft á hann við logandi ljós, meðan hugur hans barðist. Ef til vill hafði hann þá séð meira en hann átti að sjá. Eitthvað hlaut að hafa skotið honum skelk í bringu. Orðin ein, sem hann hafði fengið að heyra, voru meinlaus út af fyrir sig, dul og tvíræð, svo þau gátu verið gaman, í stað alvöru. Eitthvað annað athugaverðara hlaut að hafa borið fyrir hann.
Eða var hugsýki sóttnæm? Gátu hugrenningar manna borist mann frá manni öðruvísi en með orðunum, eða án allrar aðstoðar þeirra? Hafði hann verið slíkur ásýndum þetta kvöld, að ekki þyrfti orða við?
Hann mundi eftir því, hve Einar hafði fölnað, þegar hann leit síðast í augu hans. Hafði þá tillit hans haft þann seiðmátt, að fullorðinn maður gæti ekki staðist það? - Og þegar hann lét eldspýtnastokkinn í vasa Einars. Var hann þá í engum efa um, hvað hann vildi?
Og svo gat hann ekki stilt sig um að framkvæma það! Fullorðinn maður, roskinn og ráðinn, hleypur til að gera aðra eins vitleysu af misskilningi á orðum og augnaráði annars manns! Og ekki þar með búið. Hann asnast til að stela baunasekk um leið og lætur svo handtaka sig. -
Alt var þetta Þorgeiri óþrotlegt umhugsunar- og áhyggjuefni. Hann velti því fyrir sér hvað eftir annað, og gerði ýmist að afsaka sig eða ásaka. Hann þráði það nú mest af öllu að geta náð í Einar, til þess að spyrja hann að, hvers vegna hann hefði farið að gera þetta axarskaft. En um það var lítil von. Einar var vandlega geymdur heima í Vogabúðum, og guð vissi, hvað hann nú þegar væri búinn að segja þar. Það var ekki heldur laust við, að hann kviði fyrir því að heyra Einar sjálfan skýra frá ástæðum sínum. Sú skýrsla hlaut að skera úr því tvímælalaust, hvort hann væri sekur eða ekki. Dómur hans lá á vörum Einars.
Ennþá hafði hann þó eina hugsun eða eina veika von til að styðja sig við. Ef til vill hafði Einar sagt satt fyrir réttinum. Hugsanlegt var, að hann hefði kveikt í húsinu óviljandi, við það að lýsa eftir baunasekknum. En lítinn trúnað lagði Þorgeir á það.
En þá var aftur á móti eitt, sem mjög þyngdi hugarbyrði hans.
Þótt ekki væri hann trúmaður í almennum skilningi, hugsaði hann oft um dularfull og yfirnáttúrleg öfl og samband þeirra við kjör mannanna og forlög þeirra. Hinn mikli dularheimur, sem mannleg augu sjá ekki og mannleg skynjan nær ekki til, hafði alla hans æfi gefið ímyndunargáfu hans mikið viðfangsefni. Hinar djúpu gátur mannlífsins urðu á vegi hans sem annara, og hann fékst við þær á sinn hátt, án þess að hirða um skoðun annara á þeim efnum eða bera sig saman við þá. Í vöku og svefni hafði hann þózt verða var fyrirbrigða og bendinga, sem honum fanst vera gefnar í því skyni að aðvara hann eða áminna, gleðja eða hrella, launa honum eða hegna. Honum virtist sem einhver ósýnileg vera eða verur byggju þar, sem ætíð væru honum nálægar, tækju innilegan þátt í kjörum hans og létu honum í ljós velþóknun sína eða vanþóknun.
Og þegar Þorgeir fann vængi hugar síns þreytast á leit hans eftir sannleikanum í þessu efni, þá hvarflaði hann yfir í veldi hins ókunna og dularfulla og leitaði þess þar, sem þessi heimur gat ekki gefið honum vissu um að svo stöddu.
Við þetta tækifæri fanst honum hann einnig hafa orðið var návistar hinnar ósýnilegu fylgju sinnar - dísar eða engils, eða hvað hann átti að kalla það. Þegar skotfærabirgðirnar sprungu í loft upp, hafði logandi eldskíði verið stefnt beint á hann. Ef til vill hafði enginn annar skilið þá kveðju, en hann skildi hana. Þá var dómur hans feldur í heimi alvizkunnar og réttlætisins. Skíðið var birtingin. - Hann þreifaði um ennið. Þar varð fyrir fingrum hans ofurlítil brunaskorpa. Hann var brennimerktur; - brennuvargur, brennimerktur af eigin eldi sínum!
Eða var þetta alt misskilningur og hrellandi heilaspuni? Var Einar saklaus af brennunni? Hafði kviknað í af einhverjum orsökum, sem enn voru ókunnar? Höfðu vinveitt dularöfl hjálpað honum? Og hvernig? - Hann hristi höfuðið. - - -
Þannig kastaðist hugur Þorgeirs hvíldarlaust milli vonanna og óttans. Öll önnur áhyggjuefni hurfu úr huga hans; þau komust þar ekki að. Efinn var nístandi, óvissan banvæn. Hann mátti til að fá vissu, hversu skelfileg sem hún yrði. - En þá vissu mátti enginn ná í, nema hann.
Hann mátti til að ná Einari frá þeim Vogabúðafeðgum, - og láta þá aldrei ná í hann framar.
8. kafli - GestirMorguninn eftir brennuna rendi ofurlítil, tvísigld skúta, með norskum fána, inn í voginn og varpaði akkerum fram undan bryggju Jespersens-verzlunarinnar. Það var norskur timbursali. Hann kom af annari höfn, þar sem hann hafði selt varning sinn, en kom þarna við til að skjóta á land tiltelgdri kirkjugrind og timbri í nýja kirkju, sem þangað átti að fara. Þorgeir afgreiddi skipið. Skipstjóri hafði komið þar áður og var voginum svo kunnugur, að hann sigldi þar út og inn án hafnsögumanns. -
En hætt var nú að kalla það tíðindi, þótt lagleg seglskip kæmu við í voginum. Þeim höfðu menn lengi vanist.
Hitt þótti meiri tíðindum sæta, að tveim dögum eftir brennuna var von á strandferðaskipi frá Reykjavík, á ferð sinni umhverfis landið. - -
Þótt bagi væri að ritsímaleysinu þá - og sé enn víða, - kom það fyrir, að tíðindi, sem miklu þóttu skifta, bárust furðu fljótt milli landshorna. Oft mátti heita, að þau bærust sem á vængjum vindanna. Þannig hafði nú borist til kaupstaðarins kvis um það, að á þessu skipi, sem væntanlegt var, væru á ferð nokkrir embættismenn úr Reykjavík, kunnir að nafni. Væru þeir á hringferð kringum landið, "eftirlitsferð", að því er sumir nefndu, og á meðal þeirra væri landshöfðinginn sjálfur.
Þessu var hvíslað frá eyra til eyra um allan kaupstaðinn. Alstaðar vakti fréttin undarlega eftirvænting, sem stórhátíð væri í aðsigi. Engin lifandi sál í þessum litla kaupstað hafði séð jafnsjaldgæfa sjón sem landshöfðingja. Hann hafði aldrei komið þangað, síðan hamingjan hóf hann til slíkrar tignar. Það hlaut að vera sögulegt og mikið til frásagnar að hafa séð annað eins stórmenni. - Allir, sem vetlingi gátu valdið, voru því á stúfum sínum þennan dag, börn og konur ekki síður en daglaunamenn og góðir borgarar. Hver mátti sjálfum sér um kenna, ef slíkt augnayndi gengi honum úr greipum. Helztu bændur úr nærsveitunum voru einnig staddir í kaupstaðnum. Þeir áttu mörg erindi að vanda, en höfðu hagað ferð sinni eftir áætlun skipsins. Þeir vildu líka fegnir verða þeirrar blessunar aðnjótandi að fá að sjá landshöfðingja.
Langmest umstang vakti þó fréttin í húsi sýslumannsins. Bæði var það tilhlökkunar- og kvíðaefni að eiga von á slíkum gesti. Þegar höfðingi, sem lengi hefir ríkt eins og óháður, á alt í einu von á yfirhöfðingja sínum, er ekki furða, þótt einhver tilfinning líði um huga hans, sem ekki er hversdagsleg. Þannig var því farið með sýslumanninn. Hann hafði ekki séð landshöfðingja síðan hann tók við embætti sínu, og þá heima í embættisskrifstofu hans. Síðan hafði þeim lítið annað á milli farið en embættisbréfin. En í hús hans var nú landshöfðinginn sjálfsagður gestur. Og ef nokkuð væri að marka þennan orðasveim um eftirlitsferð, þá gat slíkt eftirlit ekki náð til neinna annara en hans. Hann fann það, að hann átti nú að standa augliti til auglitis við yfirmann sinn. Óvíst var, hve strangur hann yrði. Hann hlaut þó að vilja sjá embættisbækur þær, sem hann hafði undir hendi, og ef til vill fleira.
Sýslumaður rendi því huganum yfir alt, sem embættisrekstri hans við kom, til að reyna að finna eitthvað, sem óþægilega kæmi sér, að landshöfðinginn ræki augun í á undan honum sjálfum. Hann mundi eftir ýmsu athugaverðu, en engu þó, sem honum fanst ekki vera afsakanlegt, væri sannsýni beitt. Eigi að síður var honum innanbrjósts ekki ósvipað og dreng, sem á að mæta fyrir prestinum sínum við húsvitjun, en hefir það á samvizkunni, að hafa hlaðið snjókerlingar, í stað þess að læra kverið.
Í húsinu var ys og annríki. Alt var sópað og fágað hátt og lágt. Allir hlutir voru færðir úr stað til að reyna, hvort þeir færu ekki betur öðruvísi. Aldrei var nógu vel frá neinu gengið, hvorki í skrifstofunni né stofunum. Sýslumannsfrúin sjálf var á stöðugum þönum um alt húsið. Mest kvað þó að annríkinu í eldhúsinu. Þar stóðu þrjár vinnukonur, sín við hvert ílátið, og hrærðu - ein í kjötsoppunni, önnur í mjölsoppunni, þriðja í eggjasoppunni. Allar hrærðu þær - hrærðu - hrærðu - hrærðu, svo svitinn streymdi af þeim. Sú fjórða kraup á gólfinu og sandþvoði það af öllum kröftum. Hún var rauð og þrútin í framan og gaut upp bálhvítum augunum, þegar frúin kom með svo miklu fasi, að hún ætlaði að ryðja henni um koll. - Þetta var ekki heldur tilefnislaust. Ef skipið lægi til kvöldsins, ætlaði sýslumaðurinn að reyna að milda skap hins "hávelborna" gests síns með notalegum kvöldverði og bjóða nokkrum velvirðum borgurum honum til mötuneytis. - -
Önnur undrin gengu á í húsi læknisins. Vel gat það verið, að landlæknirinn hefði slegist í för með landshöfðingjanum, þótt ekki hefði það frézt. Þá vissi læknirinn, á hverju hann átti von.
Þar var þó enginn kvöldverður í undirbúningi.
Auðvitað mundi sýslumaðurinn telja sér það sóma að bjóða landlækninum líka, og hefði verið synd að svifta hann þeirri ánægju. Þar var því ekki annað að gera en að fága húsið sem vandlegast og raða öllu, smáu og stóru, sem smekkvíslegast. Lyfjabúð læknisins var í einu herbergi hússins. Þar hamaðist hann, ásamt einni vinnukonu, sem hafði þann starfa að strjúka rykið af glösum og krukkum. Sjálfur leit læknirinn í mesta flýti eftir lyfjabirgðum sínum og bar þær saman við skrána yfir það, sem hann átti að hafa við höndina. Við og við hljóp hann inn í húsið til að líta eftir einhverju þar og hlusta á það, sem kona hans vildi vera láta. Hún lá í rúminu þennan dag, með ullardúksstrút upp undir augu. Var hún svo hás, að illa heyrðist til hennar, en ókyr var hún mjög, bylti sér án afláts og eirði illa legunni. En læknirinn skipaði henni með harðri hendi að liggja kyrri. Ekki var læknirinn ölkendur þennan dag, en þó stamaði hann í meira lagi, því margt og mikið var honum í skapi. Var samtalið milli hans og konunnar ógreitt og slitrótt, þar sem illa heyrðist hvað hún sagði, en honum svo stamgjarnt. Þó mátti skilja það, að bæði voru þau óvenju bráðlynd. Höfðu þau önugyrði á vörum, meðan þau gátu hvort til annars náð, og oft þurfti frúin að senda eftir bónda sínum, til að segja við hann eitthvað, sem enn var ósagt. En við slíkar tafir varð læknirinn mjög úrillur.
Þegar leið af hádegi, sást til skipsins. Frá kaupstaðnum sást það ekki, fyr en það sveigði fyrir Stapann og átti þá skamt ófarið inn í voginn. Það var eitt af hinum glæsilegu fleyjum Sameinaða gufuskipafélagsins danska, tvísiglt með hvítar hábyggingar á miðjum þiljum. Reykháfur, svartur að lit, með breiðri gjörð, rauðri, stóð lítið eitt aftar en mitt á milli siglanna og hallaðist aftur á við, eins og þær. Lagði þaðan reykjar- og eimlopa, sem teygði sig langt aftur af skipinu. Skrið var mikið á skeiðinni, þegar hún kom fram undan Stapanum, eg freyddi brimhvítur froðuskalf um rauð brjóstin. Fyrst sá á hliðina á skipinu frá kaupstaðnum. En eftir sveigjuna sneri það stafni á land, og dró þá úr hraðanum. Eftir skamma stund seig það hægt og hátignarlega inn í voginn, staðnæmdist þar alveg og lét akkeri falla. Bátum, sem biðu þess á floti, að skipið legðist, var þá þegar róið að því.
Undir eins og til skipsins sást, flaug dannebrogsfáni upp að húni á fánastöng Bræðraverzlunarinnar, og rétt á eftir var kominn samlitur fáni á stöng Þorgeirs. Ekki höfðu fleiri af kaupstaðarbúum þann umbúnað. Margt manna var á ferli milli húsanna og flýtir var á mörgum; en þeim, sem við vinnu voru úti við, varð tíðlitið upp. Því nú var hin mikla stund komin.
Um það leyti er skipið sveigði inn í voginn, gekk "mikill maður" frá bænum í Vogabúðum. Sveigði hann fyrir öskuhauginn mikla í hlaðvarpanum og þræddi götuslóðann ofan í ytri kaupstaðinn. Var hann klæddur síðum lafafrakka. nokkuð slitnum og klíndum á börmum og ermum, en heillegum þó. Sögðu sumir, að hann hefði verið keyptur á uppboði eftir dauðan prest. - Flakti frakkinn frá manninum og skein þar í hvítt lín uppi við hálsinn, með dálítilli þríhyrnu niður á bringuna. Maðurinn gekk við stuttan göngustaf, silfursleginn. Gekk hann allbeinn, en hægt, og var hinn fyrirmannlegasti. Skeggið var nýrakað á Kristjáns IX. vísu. Ánægjubros lék um varir hans og spaklegur var hann á svip. Á höfði bar hann barðamikinn hatt, svartan, er sumir nefndu brennivínshatt. En í skugganum undir hinum miklu hattbörðum sá í útæsarnar á nýgreiddri, franskri hárkollu. Mátti sjá, að nú var maðurinn í essinu sínu. -
Sigurður hreppstjóri afgreiddi oftast póstinn í húsi sona sinna, einkum á sumrin, þegar hann kom sjóleiðis. Nú var hann á leiðinni þangað. - Hann bað þó Sveinbjörn son sinn að afgreiða fyrir sig póstinn að þessu sinni, því sjálfur kvaðst hann þurfa að vera á faralds fæti. Kvaðst hann þó mundu koma þangað við og við, og jafnan mætti ná til sín, ef einhver vandræði bæri að höndum.
Um tíma hafði það bitið á Sigurð, að honum mundi standa einhver heill af þessum degi. Var sá grunur að minsta kosti jafngamall vitneskjunni um það, að landshöfðinginn kæmi. Hafði Sigurður lengi þráð þann fund. Hlakkaði hann nú til þess, að sýslumaður nafngreindi hann fyrir landshöfðingjanum, að höfðingja sið. Þá fanst honum tími til kominn fyrir sig að taka í hönd honum, fast og innilega, en fyr ekki. Trúði hann ekki öðru en að landshöfðingi mundi kannast við sig af afspurn. Lengi hafði hann vænzt þess að fá sjaldgæfa, en maklega, kveðju úr þeirri átt, sem hann var, og löngum verið hissa á því, hve lengi það dróst. Var það hans sælasti draumur og hafði lyft undir margar framkvæmdir hans að jarðabótum, húsabyggingum og héraðsmálum, og verið huggun hans í hreppstjóravandræðunum. Er sárt fyrir slíkan sómamann að ganga með óprýdda neslu, fyrir sjónleysi og athugaleysi annara manna. En nú vænti hann fastlega, að úr því mundi greiðast. -
Á báti þeim, sem flutti póstinn til lands, kom landshöfðinginn. Sýslumaður fagnaði honum á bryggjunni og fylgdi honum heim til húss síns. Allir, sem til náðu, teygðu fram álkurnar og hvestu sjónina. Var þetta landshöfðinginn? - Menn voru auðsjáanlega sneyptir og þóttust sárnarraðir, því að landshöfðinginn var að sjá sem hver annar maður. - Nokkrir fleiri gestir komu með næstu bátum. En þungri torfu létti af brjósti læknisins, því landlæknirinn kom ekki.
-
Á meðan þeir sýslumaður og landshöfðingi ræddu einkamál sín, brá læknirinn sér heim til Þorgeirs.
Hann hitti á Þorgeir sofandi á legubekknum í skrifstofunni. Hann hafði helzt gert sér von um næði á meðan gestirnir af skipinu voru að koma í land. Sú var tíðin, að hann svaf ekki, þegar afgreiða þurfti strandferðaskipin. Nú var sá starfi búinn að hafa vistaskifti, eins og svo margt annað.
Gluggi stóð opinn á skrifstofunni. Á skrifborði Þorgeirs lágu bækur og blöð, sem þörfnuðust þess sárlega að vera tekin betur til handargagns. En ofan á öllu öðru, sem á borðinu var, lá stór og fornlegur skipstjórakíkir.
Þorgeir hrökk upp við komu læknisins. Hann var rauðeygður af svefnskorti og fremur úrillur, en tók þó lækninum kurteislega. Ekki fór hann þó á fætur, en vísaði lækninum til sætis á stól við skrifborðið.
Læknirinn stamaði fram langri og innantómri afsökunarbón á því, að hann hefði gert verzlunarstjóranum ónæði. Þorgeir kvað það ekki saka, en sagðist stundum eiga bágt með að sofa á nóttunni og því fleygja sér út af einhvern tíma dagsins. Bað hann lækninn að taka ekki til þess, þótt hann geispaði. Enda gerði hann það og dró ekki af, þrátt fyrir návist hans.
Læknirinn sá það vel, að hann var Þorgeiri ekkert velkominn gestur, ef ekki blátt áfram hvimleiður. En við það brá hann sér hvergi. Hann var vanur því að hitta Þorgeir fálátan, og þeir voru ekki lakari kunningjar fyrir það. Nú var hann hvort sem er kominn til að stríða honum.
Fyrst var samtalið um daginn og veðrið, skipkomuna og gestina með því. Læknirinn sagði frá og stamaði dálítið við og við. Þorgeir nöldraði tóm eins atkvæðis orð, en sofnaði þó ekki.
Svo snerist samtalið að brennunni.
Læknirinn horfði stöðugt framan í Þorgeir, til að reyna að ráða í, hvernig honum líkaði þetta samtalsefni. Þorgeir leit þreytulega fram fyrir sig, eins og áður. Hann hafði auðsjáanlega ekki meiri áhuga á brennutíðindunum en veðrinu og farþegunum með skipinu. En læknirinn lét dæluna ganga.
"Mikið a-a-a-a-a-andskoti gekstu vel fram við eldinn, Þo-þo-þo-þorgeir! Svei mér, ef ég dá-dá-dá-dáist ekki að þér! Jafn-ga-gamall ma-ma-ma-maður - - -!"
"Enga gullhamra", sagði Þorgeir og brosti kuldalega.
"Gu-gu-gu-gu-gullhamra -! Það eru "s'gu" engir gull hamrar. Þa-þa-það er bl-bl-bl-bláber alvara. Það hefði "s'gu" a-a-a-a-alt brunnið þarna úti frá, mi-mi-mi-mi-mitt hús líka - hefðirðu ekki ko-ko-ko-komið".
"Það brann nóg samt".
Skjallið hafði auðsjáanlega engin áhrif á Þorgeir. Hann var jafnsyfjaður eftir sem áður. Læknirinn var jafnfróður um hugsanir hans í sambandi við brennuna eins og þegar hann kom. Þá var að reyna að fletta við blaðinu.
"Veiztu hva'?", sagði hann eftir ofurlitla þögn. "Helvítis ka-ka-ka-karlinn er að slúðra um það, að þ-þ-þ-þú hafir fengið sig til að kveikja í hú-hú-hú-húsinu".
"Ha-ha-ha! Sjáum til!"
Þorgeiri rann sem kalt vatn milli skinns og hörunds við þessa frétt. En af því hann hafði hugsað um hana áður og jafnvel búist við henni, gat hann stilt sig og ekki látið á neinu bera.
Læknirinn horfði hvast á Þorgeir og beitti öllum sínum skarpleik. En svipur Þorgeirs breyttist ekki minstu vitund. Enginn dráttur bifaðist í andliti hans. Það var jafnharðlegt, jafnþreytulegt og jafnsyfjað eftir sem áður. Það var sem læknirinn væri að tala um hluti, sem honum kæmu ekkert við.
En hefði læknirinn verið gætinn, mátti sjá hlykkjótta æð þrútna á hægra gagnauganu, rétt framan við hársræturnar. Hún hefði, ef til vill, getað sagt lækninum eitthvað af því, sem hann vildi vita. En hann sá hana ekki.
"Ha-hann er "s'gu" vi-vi-vi-vi-vitlaus, karlskrattinn. Þa-það væri gu-gu-gu-gu--gu-gustuk að gefa honum læ-læ-læknisvottorð".
Þorgeir spurði þá með mesta alvörublæ, hvort læknirinn áliti, að hægt væri að gefa Bælis-Einari vottorð um, að hann væri ekki með öllum mjalla.
Lækninum flaug í hug, að nú væri hann vel á veg kominn með það að veiða verzlunarstjórann. Ef Þorgeir væri meðsekur Einari, var ekki ólíklegt, að honum væri ant um, að Einar slyppi hjá hegningu, og þó einkum um hitt, að Einar yrði dæmdur ómerkur og ábyrgðarlaus. Mundi Þorgeir þakka það vel og muna það lengi, ef læknirinn gæti komið þessu til vegar. Fyrir Einar karlinn væri það góðverk. Hann tók því undir þetta mál, sem gætnum og reyndum lækni sómdi. Kvaðst hann að vísu ekki hafa rannsakað Einar að þessu sinni, en vel kvaðst hann þekkja hann. Hefði Einar svo veiklaðar taugar, að efamál væri, hvort það væri verjandi að leggja á hann hegningu fyrir verk hans. Heimilislíf hans væri áreiðanlega búið að gera hann ruglaðan. Því næst tók hann að skýra Þorgeiri frá því, hve vandþrædd væru takmörkin milli vits og óvits hjá ístöðulitlum og taugaveikluðum afbrotamönnum. Sagði hann, að ekki væri það annara meðfæri en lækna að skera úr því í hvert skifti, hvort glæpamenn væru heilir heilsu eða ekki, einkum þó ef þeir væru drykkfeldir. Væri oft farið ógætilega og ómannúðlega með sakamenn, því mörg afbrot væru framin í geðveikiskasti. En nú hefðu læknar um allan heim hafið baráttu á móti öðru eins framferði. Loks kom hann að efninu aftur og kvað það grun sinn, að Einar hefði framið afbrot sín að þessu sinni í geðveikiskasti og kanske ofurlítið kendur. Þetta taldi hann víst, að hægt mundi vera að sanna með rannsókn á manninum sjálfum, og bæri þá að fara með hann sem sjúkling, en ekki sakamann.
Þetta var langt mál og ýtarlegt hjá lækninum og kryddað með mörgum hálærðum orðum og útlendum munneiðum. Framan af tafði stamið hann dálítið, en þegar fram í sótti, liðkaðist honum svo um máltólin, að þess gætti lítið, og að lokum bunaði úr honum ræðan.
Þorgeiri var innilega skemt með þessari fróðlegu tölu. Og á meðan læknirinn lét dæluna ganga, seig af honum svefnhöfginn. Þegar læknirinn loks þagnaði, hló hann svo hátt og kuldalega, að læknirinn hrökk saman.
"Nei, Einar er ekki vitlaus, það þori ég að bölva mér upp á. Ef hann er vitlaus, þá erum við allir vitlausir".
Þetta kom lækninum svo á óvart, að honum fipaðist alveg, og gat hann ekkert sagt. Nú var hann kominn í gildruna sjálfur.
"Einar hitti mig um kvöldið á undan brennunni og fékk sér á flösku-"pöddu". Hann var hvorki vitlaus né fullur þá".
Þessi játning Þorgeirs kom svo hispurslaust og blátt áfram, að lækninum hvarf þá í svipinn allur grunur um sekt Þorgeirs.
Þorgeir horfði hvast á lækninn:
"Hefir þú talað við Einar?"
Læknirinn varð enn sneyptari. Hann var viss um, að Þorgeir sæi það á sér, að hann hafði verið að ljúga, og þorði ekki að líta upp.
"Nei, "gu-gu-gu-gu-gu'bevar's"! Ha-ha-hann er "s'gu" fa-fa-fa-fa-fangi. E-enginn má ta-ta-tala við hann, ne-nema yfirvö-vö-vö-völdin".
Þorgeir glotti í kampinn; lækninum hafði versnað stamið.
Samtalið féll niður um stund. Þorgeir strauk sér um ennið og geispaði. Læknirinn var kindarlegur á svipinm.
"Heyrðu, læknir, - gerðu mér nú greiða".
Læknirinn varð feginn og vonaði, að nú kæmi eitthvað nýtt.
"Ég nenni ekki á fætur. Taktu lyklana mína, þeir standa í skrifborðsskránni, og opnaðu hornskápinn þarna. Þú ert þá klaufi, ef þú finnur ekki eitthvað gott handa okkur til að dreypa á!"
Þetta lét læknirinn ekki segja sér oftar, en fór þegar að fást við skápinn.
"Po-po-po-portvín - ha?"
"Já, portvín, það er gott, - og rauðvínsglös!"
Læknirinn fékk nú að leika húsbóndann. Hann helti í glösin, færði Þorgeiri annað þeirra á legubekkinn og hringdi við hann.
"Svo drekkum við skál Einars gamla í Bælinu", sagði Þorgeir gletnislega. "Það er maður, sem hefir hugsun á að bjarga sér!"
"Es le-lebe ho-o-o-o-hoch der - - -!" Þegar læknirinn fór út frá Þorgeiri, var honum einhvern veginn kynlegt innan rifja. Erindið hafði mishepnast; hann var engu fróðari um aðstöðu Þorgeirs í brennumálinu en áður. Þó hallaðist hann nú heldur að því, að hann væri saklaus; annars hefði hann hlotið að sjá honum bregða. - Hitt var miklu lakara, að honum fanst hann hafa flett ofan af sjálfum sér, einkum með vottorðsskrafinu.
En læknirinn var léttlyndur og hristi þetta brátt af sér. Hann þekti Þorgeir svo mikið, að hann vissi, að hann hafði ekki úr háum söðli að detta í áliti hans. Einhvern tíma hafði Þorgeir sagt við hann, að hann væri "bæði kjöftugur og lyginn". Það hafði verið í gamni, en hann þó boðist til að standa við það. Og í þetta skifti -? Nú, jæja. Hann hafði þó fengið vænt glas af portvíni, svo ferðin var ekki árangurslaus.
Nú átti hann Einar eftir. - -
Þegar læknirinn var farinn, dimdi aftur yfir svip Þorgeirs. Hin jökulkalda glaðværðargríma hvarf og áhyggjudrunginn kom í staðinn. Hann reis á fætur, tók kíkinn af skrifborðinu og beindi honum á Vogabúðabæinn.
Líklega var alt um seinan.
-
Þegar landshöfðinginn var búinn að "rífa innan úr" sýslumanninum, fóru þeir aftur út í góða veðrið.
Ekki leið á löngu, áður en Sigurður gamli í Vogabúðum yrði á vegi þeirra. Hann hafði verið á vakki úti við, síðan landshöfðinginn kom í land, og haldið sig í nánd við sýslumannshúsið, Nú fékk hann langþráða ósk sína uppfylta, og var nafngreindur fyrir landshöfðingjanum "að heldri manna sið". Það fór líka að vonum, að landshöfðinginn kannaðist við nafn hans, og heilsaði hann honum alúðlega. Eftir það slóst Sigurður í för með þeim sýslumanni og var hinn kátasti.
Nokkra fleiri nafnkunna gesti af skipinu hittu þeir þar úti, einkum í kringum brennurústina. Slógust þeir einnig í förina, svo þeir urðu að lokum nokkrir saman. Þeir sýslumaður og Sigurður hreppstjóri gerðust þá fylgdarmenn þeirra um kaupstaðinn. Var þeim verkið ljúft, og töldu þeir sig fylgja góðum gestum.
En þegar þeir voru komnir í eldri hluta kaupstaðarins, stakk einhver í hópnum upp á því, að þeir heilsuðu upp á Þorgeir verzlunarstjóra. Allir könnuðust þeir við nafn hans, en sumir þeirra höfðu meiri kynni af honum. Þar á meðal sá, er gestanna var fremstur, landshöfðinginn. Stafaði sú kynning frá umliðnum árum. - Uppástungan fékk því góðan byr, og engum þótti það sæma að ganga framhjá dyrum hins gamla höfðingja, þótt annar væri nú hagur hans en áður. Sigurður hreppstjóri klóraði í hnakkann á "þeirri frönsku", en ekki vildi hann við vini sína skiljast. Lítið var honum um Þorgeir, en þó gat hann umgengist hann í margmenni. - Síðan stefndi allur hópurinn á dyr Þorgeirs,
Þorgeiri kom njósn í tíma framan úr búðinni, svo að hann gat tekið á móti gestunum við aðaldyr íbúðarherbergja sinna. Leiddi hann þá til skrautstofu sinnar og bauð þeim sæti. Hann kvað það vel til fallið í sumarhitanum að bergja á svalandi veig. Bað hann þá, sem bindindismenn væru, að segja til sín og geta þess um leið, hvers þeir óskuðu í stað kampavíns. Sjálfsagt hefir enginn bindindismaður verið í hópnum, því enginn gaf sig fram. Þorgeir dró sjálfur tappana úr flöskunum, og var það ekki erfiðislaust, því vel var um búið. Síðan helti hann í glösin og hringdi við gesti sína. Bauð hann síðan góða vindla, en bað menn jafnframt að afsaka, að ekki hefði hann fleira að bjóða, því nú væri heimilishögum sínum svo farið, að heita mætti, að hann væri bæði bóndinn og húsfreyjan.
"Það vona ég, að taki nú bráðum enda", mælti einn af gestunum. "Mig minnir ekki betur en að ég sæi dóttur yðar á skipinu".
Þorgeir varð hálfhvumsa við þessa frétt, en áttaði sig þó brátt.
"Já, það mun rétt vera, hún ætlaði sér að koma með þessu skipi. En hún er ekki komin heim ennþá. Hún hefir líklega verið sjóveik og því sein á fætur, þótt á höfn væri komið".
Undir eins á eftir snerist samtalið að öðru. Var stundin vel notuð, kampavíninu gerð hin beztu skil og glatt á hjalla. Var Þorgeir kátur og innilegur við gesti sína. Sjálfum var honum stundin kær. Var á þessu stutta augnabliki sem fyrir brygði endurskini frá löngu horfnum dögum.
Stundin var fljót að líða. En þegar gestunum þótti nógu lengi setið og þeir bjuggu sig til brottfarar, tók sýslumaður Þorgeir afsíðis og bað hann að sýna sér þann sóma að sitja hjá sér að kvöldverði ásamt nokkrum gestum, og nefndi þar fyrstan landshöfðingjann. Þorgeir þakkaði ljúfmannlega fyrir boðið, en kvaðst, því miður, sjálfsagt ekki geta komið því við að koma, og bað sýslumann að afsaka það. -
Hinir gestir Þorgeirs höfðu stytt sér augnablikið, meðan þeir töluðust við, með því að dást að marmaramynd Thorvaldsens og málverkunum þar í stofunni.
Síðan fylgdi Þorgeir þeim til dyra.
En þegar út var komið og allir höfðu kvatt Þorgeir með hlýlegu handabandi, bað hann Sigurð hreppstjóra að tala við sig eitt orð. Hinir biðu Sigurðar þar frammi á strætinu, því menn þóttust vita, að ekki mundi biðin verða löng.
"Þér hafið líklega ekki hugsað yður að láta vinnumennina yðar róa í kvöld?" spurði Þorgeir hreppstjórann.
Sigurður var seinn til svars. Hann hafði nú ekki nema tvo karlmenn heima við. Hinir lágu í tjaldi við heyskap frammi á heiði.
"Mér datt í hug að biðja yður um að lofa manni frá mér að róa með, ef þér skylduð láta róa. Mig er nú farið að langa til að bragða nýjan fisk. Nú lítur út fyrir ágætt sjóveður í nótt. Mér þykir ótrúlegt, að "sá grái" bíti ekki á góða beitu um aftureldinguna. En nú er til bæði síld og silungur".
Þannig höfðu þeir oft lagt saman á fyrri árum, Sigurður og Þorgeir. Nú var langt síðan þeir gerðu það síðast.
Sigurður varð hálfvandræðalegur. Þessi bón kom flatt upp á hann. En verzlunarstjórinn var mjúkur í máli. Þar að auki var Sigurður hálfsneyptur í návist Þorgeirs einmitt nú. Nýlega hafði hann ætlað honum ilt verk, ef til vill alveg að tilefnislausu, og viljað láta hefja gegn honum sakamálsrannsókn. Samvizkan var því ekki góð nú, þegar Þorgeir sýndi honum slíka alúð. Bragðið af kampavíni verzlunarstjórans kom upp í hálsinn á honum með löngum ropa. - Hann hafði ætlað vinnumönnum sínum annað verk. Nú fór þó svo, að hann breytti fyrirætlun sinni og hét að láta þá róa undir eins um kvöldið, en taka mann frá Þorgeiri á bátinn til hlutar. Þetta var bundið fastmælum í skjótri svipan. Þegar hreppstjórinn kom aftur í hóp förunauta sinna, sendu þeir Þorgeiri síðustu kveðju með því að lyfta höfuðfötum sínum og héldu af stað.
Þorgeir horfði á eftir þeim með íbyggilegu brosi, Síðan lokaði hann þessum dyrum vandlega og gekk aftur inn í skrifstofu sína.
-
Rétt var það, sem gesturinn skýrði frá inni í stofu Þorgeirs. Hann hafði séð dóttur hans á skipinu. Hún kom með þessu sama skipi, þótt Þorgeir ætti hennar ekki von. Hún fór ekki heldur heim til hans. Lét hún flytja sig í land nokkru seinna en aðrir gestir, til þess að minna bæri á ferð sinni. Farangur sinn lét hún flytja heim í hús læknisins, og þar settist hún að, fyrst um sinn.
Áður hefir verið á það drepið, að missætti hafi verið milli Þorgeirs og dóttur hans. Nú skal skýrt frá því nokkru nánar.
Þorgeir hafði unnað dóttur sinni mjög. Þegar kona hans var dáin, var hún eina gleðin hans á heimilinu. Hann lagði því alla þá rækt og alla þá alúð við uppeldi hennar, sem honum hugkvæmdist. Lét hann kenna henni alt það, sem heldri manna dætur eru vanar að læra í flestum siðuðum löndum, og sparaði hvorki fé né fyrirhöfn hennar vegna. En utan lærdómsins mátti hún vera sjálfráð og frjáls. Hann unni henni meira en svo, að hann gæti þröngvað henni til nokkurs þess, sem henni væri ógeðfelt. Það jók líka ástríki hans, að hann þóttist endurkenna hjá henni marga af þeim eiginleikum, sem bjuggu í honum sjálfum og mótuðu líf hans og lundarfar. Þótt hún væri dul í skapi, þóttist hann hafa séð það rétt, að hún mundi verða vinum sínum trygg; en ekki allra meðfæri að etja við hana kappi,
Um það leyti sem Ragna varð gjafvaxta, var Friðrik sonur Sigurðar hreppstjóra búðarsveinn hjá Þorgeiri. Ekki leyndi það sér, þegar fram liðu stundir, að hugir þeirra hneigðust saman. Föðuraugun þykja skygn á slíka hluti, og tók Þorgeir snemma eftir þessu. Líkaði honum það miður, en þó ekki stórilla. Reyndi hann með lempni að telja dóttur sinni hughvarf. Honum tókst það líka að því leyti, að Ragna vildi ekki gera honum það á móti skapi að halda þeirri vináttu áfram. Þó féll henni þungt að skilja við ástvin sinn og æskuvin. Hefði Þorgeir ef til vill þá þegar getað lesið það í svip hennar, að þessa harma mundi hún muna, og eins hitt, að litla hamingju mundi leiða af íhlutun hans um þessi einkamál hennar.
Nokkrum árum síðar byrjaði Kaupfélagið og Bræðraverzlunin. Friðrik var þá fyrir nokkru farinn úr þjónustu Jespersens-verzlunarinnar. Mætti hann nú Þorgeiri á hösluðum velli sem sjálfstæður og óvæginn keppinautur. Vissu allir, að hann var sá maðurinn í þeim fyrirtækjum, sem mest hvíldi á. Hann hafði mesta verzlunarþekkingu þeirra kaupfélagsmanna allra, var fastur í lund, stiltur vel og rasaði ekki fyrir ráð fram. Þetta gramdist Þorgeiri því meira, sem hann vissi það, að hann hafði margt vel til Friðriks gert, þótt ekki vildi hann gera hann að tengdasyni sínum. Þá verzlunarþekkingu, sem hann hafði umfram aðra, hafði hann útvegað honum. Hann hafði greitt götu hans á erlendum verzlunarskóla og komið honum vel á framfæri. Þessari þekkingu beitti nú Friðrik gegn honum. Auk þess varð hann nú stöðugt álitlegra mannsefni; en nú var Þorgeiri fjær skapi en nokkru sinni áður að gefa honum dóttur sína.
Skömmu eftir að Friðrik fór úr þjónustu Þorgeirs, fékk Þorgeir danskan verzlunarþjón, sem Sörensen hét. Var það maður fríður sýnum og efnilegur, en bláfátækur. Ekki hafði hann verið þar lengi, áður hann og Ragna feldu hugi saman. Þetta líkaði Þorgeiri miklu ver en þótt hún hefði fengið að eiga Friðrik. Reyndi hann á allan hátt að hindra samdrátt þeirra og gaf dóttur sinni þungar áminningar. Komst hann þá að raun um, að of seint hafði hann tekið í taumana til að hindra æskufrjálsræði hennar. Þurfti hann nú að beita hörku til að yfirbuga vilja hennar, og gekk fullilla samt. Af þessu leiddi það, að samlyndi þeirra kólnaði til muna, og fóru fáleikar þeirra dagvaxandi. Þorgeir lét Sörensen fara frá sér, og fór hann aftur til útlanda. Þóttist hann þá hafa stíað þeim svo í sundur, dóttur sinni og honum, að ekki mundu þau hittast framar, en vonaði, að Ragna mundi brátt gleyma þessum æskuástum sínum og skilja tilgang föður síns, við nánari yfirvegun.
Þá bar það til eitt sumar, þegar fulltrúi verzlunarstjórnarinnar í Kaupmannahöfn, Petersen að nafni, danskur maður, var þar staddur í kaupstaðnum og dvaldi hjá Þorgeiri, að hann feldi ástarhug til dóttur hans. Var þessi maður æðsti trúnaðarmaður verzlunarfélagsins um þessar mundir og réð þar mestu. Brá hann sér stundum hingað til lands á sumrin og dvaldi um tíma hjá Þorgeiri. Þorgeiri þótti þessi ráðahagur góður fyrir dóttur sína. Petersen var glæsimenni mikið í framgöngu og klæðaburði og gekk jafnan með gullspangagleraugu. En ekki var útlit hans hraustmannlegt, og fljótt lagðist það orð á hann í kaupstaðnum, að ekki væri ungu kvenfólki hent að verða á vegi hans. Slíkur breyskleiki óx Þorgeiri þó ekki í augum. Trúði hann því fastlega, að Petersen mundi leggja niður ungdómsbrek sín, verða afbragðs eiginmaður og dóttur hans góður. Það stuðlaði líka að því, að hann studdi bónorð Petersens, að þá var til muna farið að bera á skoðanamun milli hans og verzlunarstjórnarinnar ytra. Sá hann það vel, að Petersen var maður sá, er hann vantaði til að ríða þar baggamuninn og hjálpa málstað hans til sigurs. Var þá ríki hans á góðum vegi til endurreisnar. Ef hann næði aftur hinu fyrra einræði yfir verzluninni bæði utan lands og innan, var hann ekki í efa um, að sér mundi veita létt að brjóta keppinauta sína á bak aftur og launa þeim lambið gráa. Hann vildi því mikið til slíkra tengda vinna.
En þegar þetta mál var borið undir Rögnu, kvað hún þvert nei við því að ganga að eiga Petersen. Bar hún margt fyrir, en þó einkum það, sem nægilegt mætti virðast, að hún elskaði hann ekki og mundi aldrei elska hann. Kvaðst hún nú tvívegis hafa misþyrmt tilfinningum sínum, að vilja föður síns, en í þriðja skifti mundi hún ekki gera það. Úr þessu mundi hún vilja ráða gjaforði sínu sjálf. Unnu bænir og fortölur Þorgeirs lítið á. Hann greip þá til þess, sem sízt skyldi, og beitti hörku. Kvað hann það vera vilja sinn og rétt að ráða gjaforði einkadóttur sinnar. Þennan mann hefði hann valið henni og engan annan. Hann skyldi hún eiga, eða afneita föður sínum og dótturrétti ella. Kom þá svo að lokum, að Ragna lét undan síga, Hét það svo, að hún væri föstnuð Petersen. En í raun og veru hafði hún aldrei lofað öðru en því, að hugsa sig betur um og kynnast manni þessum betur.
Petersen fór utan um sumarið og þóttist nú eiga sigurinn vísan í þessu máli. Ragna fór einnig utan um haustið, en varð honum þó ekki samferða, og dvaldi hjá skyldfólki móður sinnar í Kaupmannahöfn.
En þótt þau væru nú bæði í Kaupmannahöfn, fór fjarri því, að saman drægi með þeim. Heldur var það þvert á móti. Þau skrifuðu Þorgeiri bæði og kvörtuðu hvort yfir öðru. Ragna kvaðst hafa komist að því, að Petersen væri óregluseggur og lifði dýrslegu bílífi. Mundi hann vera sjúkur af óvirðandi kvillum og eyða fé sínu allóhyggilega, og væri hann henni því viðbjóðslegri sem hún kyntist honum lengur. Petersen kvartaði um, að Ragna væri köld og stygg í viðmóti við sig, vildi ekkert af sér þiggja og aldrei með sér vera. Leizt honum því óvænlega á hjúskapinn, en vildi, að Þorgeir skærist í leikinn enn af nýju. Heimtaði hann af honum, að hann héldi heit við sig. Þorgeir skrifaði dóttur sinni hvert bréfið öðru harðara, en fékk hvert bréfið öðru óvægilegra á móti. Lét nú Ragna engan bilbug á sér finna. Varð því engu um þokað, og gekk í þessu stappi um nokkur missiri. En þá tók skyndilega fyrir öll bréfaskifti. Ragna svaraði ekki bréfum föður síns. En úr bréfum Petersens frétti hann það, að Ragna hefði fyrir hitt Sörensen verzlunarþjón í Kaupmannahöfn og endurnýjað kunningsskap sinn við hann, og væri hún nú búin að yfirgefa skyldmenni sín í Kaupmannahöfn. Skrifaði þá Þorgeir dóttur sinni hreint og beint bannfæringarbréf og bannaði henni að koma framar fyrir augu sín. Síðan höfðu engin bréf farið á milli þeirra; lítið hafði Þorgeir af henni frétt - og sízt það, sem honum væri gleði að.
En eftir þetta var verzlunarstjórnin ytra Þorgeiri enn öndverðari, og var honum ekki grunlaust um, að Petersen léti hann gjalda dóttur hans og legði fast á móti honum í kyrþey. Fyrir þetta komst hann þó aldrei til fulls.
Aftur á móti gat Friðrik kaupmaður aldrei gleymt ástmey sinni; sem eitt sinn hafði verið. Hélt hann stöðugt spurnum fyrir um hagi hennar og bréf fóru á milli þeirra við og við, einkum eftir að bréfasambandinu milli Rögnu og föður hennar var slitið, því stöðugt hugsaði hún heim til átthaganna og vildi frétta þaðan. Friðriki var því stöðugt kunnugt um, hvernig henni leið, þótt fáar yrðu fréttirnar honum að gleðiefni.
Þannig var stutt yfirlit yfir hina raunalegu ástasögu þeirrar meyjar, sem vænst þótti og álitlegust til kvonfangs allra þeirra kvenna, sem fæðst höfðu og upp alist í Vogabúðakaupstað. Nú var hún komin þangað aftur. - En ekki til föðurhúsanna. - - - -
Þegar Þorgeir var aftur kominn inn í skrifstofu sína, tók hann kíkinn, sem lá á skrifborðinu, og horfði í gegnum hann upp eftir Vogabúðatúninu og heim að bænum. Alt blasti það beint við skrifstofugluggunum. Svo var langt heim að bænum, að varla var unt að þekkja mann þar heima með berum augum neðan úr kaupstaðnum, en í meðal-sjónauka mátti þekkja hvern mann, sem þar var úti við.
Þegar hann hafði horft um stund - sem veiðifálki, er skygnist um eftir bráð sinni, - var drepið á dyrnar milli búðarinnar og skrifstofunnar. Þorgeir kallaði "kom!" svo hátt, að heyrast mátti út fyrir. Hurðin var opnuð og - Ragna kom inn fyrir. Hún lét hurðina aftur að baki sér, en staðnæmdist frammi við dyrnar.
Þorgeir leit snöggvast við þeim, er inn kom. Engin svipbrigði sá á andliti hans, önnur en þau, að æðin þrútnaði uppi á gagnauganu. Hann hélt áfram að horfa upp eftir, en lét kíkinn hvima, sem væri hann að leita einhvers eða reyna sjónaukann. Enginn, ekki dóttir hans heldur, mátti komast að því, á hvað hann stefndi kíki sínum.
"Góðan daginn!" sagði Ragna svo lágt, að varla heyrðist, og horfði á föður sinn.
Þorgeir svaraði engu, en hélt áfram að kíkja, eins og enginn truflaði hann. Loks hreytti hann kuldalega úr sér, án þess að líta við:
"Hvað vilt þú?"
"Ég vil sjá þig - eins og hinir gestirnir", svaraði Ragna, nokkuð djarfari og dálítið gletnisleg.
Svo varð löng þögn.
Lengi var Ragna búin að hugsa um þá stund, þegar hún kæmi aftur heim til föður síns. Hún hafði þá jafnan talið sér skyldast að brjóta oddinn af oflæti sínu; hún var hin synduga, hin óhlýðna dóttir, sem gengið hafði gæfusnauða vegi og bakað skyldmennum sínum sorg og vanvirðu, að því er alment mundi álitið verða. Enn eimdi og eftir af þessum gömlu og almennu siðferðis-grundvallarreglum í henni sjálfri, þótt við og við fyndust henni þær úreltar og óeðlilegar, og mjög hafði hún nú brotið bág við þær. Þó átti hún erfitt með að hugsa sér sanna hamingju án þess, að hún hyrfi að þeim aftur og sættist við föður sinn, eða gerði sitt til að sættast við hann. Hún hafði því hugsað sér fund þeirra svo, að hún fleygði sér á kné frammi fyrir föður sínum og bæði hann fyrirgefningar. Ætlaði hún þá að segja honum hreinskilnislega frá öllu því, sem á daga hennar hafði drifið, skýra frá ástæðum sínum og málsbótum og biðja hann að lokum að leggja föðurblessun sína yfir hin nýju áform hennar.
Þannig hafði hún hugsað sér fund þeirra. En er hún fann kulda þann og fyrirlitningu, sem hann sýndi henni með gaumleysi sínu, og einkum þó, er hún heyrði kveðju hans, hverfðist henni hugur. Ylur sá og auðmýkt, sem hún hafði borið þangað í huga sínum, breyttist í ískalda þrjózku. Iðrunin breyttist í gremju, því sökin var hjá honum, en ekki henni. Hrösun hennar og gæfuleysi var afleiðing af hlutleysi hans og skammsýni, eða eigingirni hans. Hann átti að biðja hana fyrirgefningar, því honum hafði illa farist. Samt hafði hún nú stigið spor til sátta og stóð með framrétta hönd. En þá tók hann henni þannig: - anzaði ekki kveðju hennar, leit ekki við henni. Slík móðgun stælti skap hennar, en mýkti það ekki. Fyrir þessum járnkalda, hjartalausa manni gat hún ekki beygt kné, þótt hann væri faðir hennar. Það var ofraun fyrir sóma hennar og manngildi. Henni mundi bjóða við sjálfri sér á eftir.
Ragna var meðalkona að vexti og beinvaxin, fríð sýnum, kurteis og stillileg. Hún var dökkeyg með dökkar augnabrýr og augnahár, slétt enni, beint nef og ávalar, fremur fölar kinnar. Varirnar voru þunnar og roðalitlar, hakan stóð nokkuð fram, en þó ekki til lýta, og andlitið samsvaraði sér vel. Svipur hennar var alvarlegur, dálítið þóttalegur, en þó ekki laus við raunablæ, og þrátt fyrir stillinguna bar hann vott um stórlyndi og sterkan vilja. Hún var klædd að útlendri tízku, hafði ljósa sumarkápu yzta klæða, aðskorna um bakið, en með háum öxlum. Hatt hafði hún á höfði, prýddan ljósum silkireflum og tilbúnum blómum. Var hárið vafið saman í hnakkanum og heft með mörgum hárnálum. Smáger netblæja, hvít að lit, með þéttum hnökrum til og frá, var bundin upp um hattbörðin og ofan undir hökuna; jók hún fölva andlitsins, svo það sýndist mjallhvítt tilsýndar og truflaði sýn manna á svip hennar.
Við þessa köldu viðtöku, sem Ragna mætti hjá föður sínum, réttist úr henni, svo hún stóð keik og djarfmannleg. Hnyklar færðust í brýrnar og munnvikin kipruðust ögn. Hún stóð kyr, studdi annari handinni á sólhlífarskaftið og beið frekari orðaskifta. Barmurinn lyftist við djúp andartog og höndin, sem hvíldi á sólhlífarhúninum, skalf ofurlítið. Nú var henni engin barnsleg auðmýkt í skapi, og tilbúin var hún að svara ávörpum föður síns, hvernig sem þau yrðu. En fegin hefði hún nú viljað, að þau hefðu ekki fundist að þessu sinni.
"Hvar er Sörensen þinn?" spurði Þorgeir, jafnkuldalega og áður, og leit ekki við.
"Hann er dáinn".
"Svo-o -?"
"Hann datt út af eimferjunni á Stóra-Belti".
"Fullur -?"
"Það veit ég ekki. Ég var ekki með honum á skipinu. Það var í stormi og náttmyrkri. Maður, sem við þekkjum bæði, var á skipinu. Hann virtist hafa ánægju af að segja mér tíðindin".
"Hver var það?"
"Petersen þinn!"
Þorgeir leit við og horfði hálfforviða á Rögnu. Hann vildi sjá, hvort henni væri það alvara að drótta öðru eins að Petersen. En þegar hann sá, að hún leit einbeitt á móti, fór hann aftur að horfa í kíki sinn.
"Nú-nú, - og -"
"Og barnið, - hefirðu ætlað að segja".
Þorgeir leit við aftur.
"Barnið - -? Nú - já, - einmitt það!"
"Það lifir og því líður vel".
Ragna sagði þetta skýrt og hiklaust, svo hún væri viss um, að faðir sinn skildi það.
Nú varð löng þögn. Þetta gekk svo fram af Þorgeiri, að það vafðist fyrir honum, hvað hann ætti að segja. Loks mælti hann stuttlega:
"Og til hvers ertu komin hingað?"
"Til að giftast".
"Giftast -? Friðriki?"
Ragna drap höfði til samþykkis.
"Gott fyrir þig að fá að njóta þeirra beggja elskhuga þinna, hvors eftir annan?" mælti Þorgeir og hló kuldalega. Það er furðu vel svamlað í land af slíku skipbroti".
"Einmitt, - þess vegna kom ég að vitja þess, sem þér ber að leggja til", mælti Ragna háðslega.
Það dróst stundarkorn, að Þorgeir svaraði. Rétt í þessu sá hann í kíki sínum, hvar maður gekk frá bænum í Vogabúðum með rekuspaða í hendinni. Stefndi hann út yfir þvert túnið, í áttina til árgilsins. Þorgeir lét kíkisopið fylgja för hans og kendi manninn.
"Og hvað er það?" hreytti hann til Rögnu.
"Það er - föðurblessunin".
Þorgeir leit á hana, og orð hans höfðu fremur hreim af harmi en kulda.
"Þú hefir komist af án hennar nú um tíma. Friðrik hefir ekki heldur þurft að sækja blessun til mín. Er ekki nóg, að Sigurður gamli í Vogabúðum leggi blessun sína yfir ykkur?"
Ragna beit á vörina og þagði. Þetta síðasta, sem faðir hennar sagði, hafði verið svo þrungið af raunum, en þó um leið svo napurt, að það gekk í gegnum hana. Hún stilti sig um að svara nokkru, því hún var hrædd um, að grátstafur heyrðist í rödd sinni. Hún opnaði því hurðina frá stöfum og ætlaði að fara.
Þorgeir hafði nú séð, hvert maðurinn á Vogabúðatúninu ætlaði. Þegar hann heyrði hriktið í hurðarlásnum, ýtti hann saman kíkinum og lagði hann frá sér, en sagði lágt og skýrt:
"Þú gleymir því ekki, telpa mín, að þið eigið að spila upp á ykkar eigin spýtur. Þegar ég fell frá, verður hér ekkert til, sem ykkur verður ætlað".
Ragna svaraði og röddin titraði af gremju:
"Njóttu sjálfur peninganna þinna! Enginn veit betur en þú, hvernig þeir eru fengnir. - Þú hefir grætt, - en verzlunin tapað!"
Hún sá þó þegar eftir þessum orðum, því enginn vissi það betur en hún, að þótt þessu væri þannig farið, þá voru viðskifti föður hennar og verzlunarinnar hrein og heiðarleg.
Henni datt þá í hug að biðjast undir eins fyrirgefningar á þeim. En augnatillit það, sem faðir hennar sendi henni, frysti slíka veilni í fæðingunni. Þorgeir hló hranalega og svo hátt, að glumdi í skrifstofunni:
"Gott hjá þér! - Gamli maðurinn þjófur!"
Lengri varð samræðan ekki. Ragna hraðaði sér út og heim í loftherbergi sitt í húsi læknisins, til þess að svala skapi sínu með gráti.
Niðurlagið á samtali þeirra heyrðist gegnum hálfopnar dyrnar fram í búðina. Þar var þá - móti vanda - slæðingur af mönnum, sem litu glottandi hver til annars.
-
Þegar Ragna var farin, tók Þorgeir hatt sinn og staf, læsti skrifstofunni og gekk út. Lagði hann leið sína upp með árgilinu. Þar hafði hann oft gengið sér til skemtunar áður, svo engum þótti það nýjung að sjá hann þar. Margir vissu líka, að lengi hafði hann haft það í huga að búa um einhverjar vinnuvélar í ánni.
Honum var venju fremur létt í skapi. Honum fanst það hressing fyrir hina áköfu og einrænu lund sína að fá eitthvað það til að fást við, sem meira væri en hjómið tómt og veitti viðnám. Hingað til hafði hún mest barist við sjálfa sig. Þeir, sem hann átti við daglega, gengu sjaldan í berhögg við hann. Nú hafði hann þó mætt mótspyrnu utan að; það var tilbreyting. Fengi hann að reyna þannig afl við andstæðinga sína sem oftast, var ekki að vita, nema ýmislegt lagaðist með tímanum. Að minsta kosti gæfist honum þá minna tóm til þess að sökkva sér í hugarvíl sitt.
Ragna hans var þétt fyrir ennþá. Því fór fjarri, að raunir hennar hefðu gengið fram af henni. Táp hennar og þrek var ólamað og virtist eiga langt líf fyrir höndum. Og það, að hún gekk að eiga Friðrik, var vottur um það, að hún horfði meira fram í tímann en aftur fyrir sig.
Nú þóttist hann sjá og skilja alla ástarsögu þeirra og gat ekki annað en dáðst að Friðriki fyrir trygð hans og festu. Ef til vill hafði það kostað hann fyrirhöfn að fá Rögnu til að fallast á tilboð hans. Það var líkt skapi hennar, að fela sig fyrir honum, öðrum mönnum fremur, eins og högum hennar var þá farið. En úr því hún tók þessa stefnu, var henni fátt fjarstæðara en að víkja úr götu fyrir afleiðingunum.
Og þetta eitt út af fyrir sig, að koma heim aftur, - ganga beint fyrir augu föður síns og segja honum kjör sín og áform, storka honum með því að setjast að í næsta húsi, þrátt fyrir ónáð hans, - storka öllum með návist sinni, standa uppi í hárinu á almenningsálitinu, fyrirlíta erfikreddur hinnar almennu siðspeki, biðja engan vægðar og efast aldrei um sigur sinn, - þetta var engum líkara en honum sjálfum.
Hann hugsaði til Rögnu sinnar með bros á vörum. En honum hraus hugur við þá tilhugsun að sjá hana næst í fararbroddi andstæðinga sinna.
Þegar hann kom upp á móts við Vogabúðatúnið, var Einar í Bælinu þar rétt fyrir innan túngarðinn og mokaði kvíarnar. Þorgeir hafði þekt hann rétt í kíki sínum.
Þorgeir laut inn yfir kvíavegginn og mælti í hálfum hljóðum:
"Komdu ofan eftir, þegar orðið er nokkuð dimt í kvöld. - Þú hittir mig í skrifstofunni, - dyrnar verða opnar. - Sigurður verður ekki heima, - vinnumennirnir á sjó".
Síðan hélt hann áfram göngu sinni.
Einar leit upp og horfði á eftir honum, glaður í bragði. Hann hafði heyrt hvert orð.
9. kafli - FlóttinnKvöldið seig yfir kyrt og blítt. Annríkinu létti. Flest færðist til hvíldar eftir þunga og þreytu dagsins. Búðum var lokað. Verkamenn gengu hljóðir og þreytulegir heim til kota sinna. Veður var kyrt og vogurinn spegilsléttur. Strandferðaskipið sneri stafni í strauminn og hreyfðist ekki.
Lokið hafði verið við að afferma norsku timburskútuna, og bjó hún sig til brottferðar. Seglin héngu hálflosuð á ránum, en skipið var róið yfir um voginn, til að taka vatn og seglfestu við læk hinum megin, undir Básunum.
Í sýslumannshúsinu var alt á ferð og flugi. Nú var þar búist við gestum og vel fyrir öllu séð. Sýslumaður hafði viljað tryggja sér það, að strandferðaskipið gerði engin veizluspjöll, og hafði því boðið skipstjóranum til kvöldverðarins. Eitt rúm var þar autt við borðið, fyrst Þorgeir kom ekki. - Undir eins og rökkva tók, voru ljós kveikt í öllum herbergjum og gestir fóru að tínast að. -
Sigurður gamli í Vogabúðum hafði skroppið heim til sín síðla um daginn, til þess að fara í "betri buxurnar". Veitti nú ekki af að tjalda því, sem til var. Var nú hárkollan franska greidd af nýju og strokin vandlega. Sló þá á hana silfurgrárri slikju, og þótti Sigurði hún allprýðileg. Mikið hafði hann að hugsa þetta kvöld og átti erfitt með að gá sín, svo vel væri. Hann var því afundinn í svörum og viðutan. Hafði hann orð á því heima, að sýslumaður hefði beðið sig að mæla fyrir minni Íslands. Sjálfur ætlaði sýslumaður að minnast heiðursgestsins, en læknirinn átti að minnast héraðsins. Var nú Sigurður að hugsa um ræðuna á milli þess sem hann þurfti við ýmsu öðru að snúast.
Heimilisráðstafanir sínar gerði hann með skyndi og myndugleik. Voru þær skýrar og ákveðnar, svo ekki var um að villast, hvað hann vildi vera láta. Vinnumenn hana litu á hann stórum augum, er þeim var skipað á sjó, ásamt einum manni frá Þorgeiri, og það undir eins um kvöldið. Var það óvanalegt, að menn færu úr landi að kvöldi dags, eftir að nótt var farið að dimma svo mjög. En Sigurður vildi engin andmæli heyra. Hann kvað "þann gráa" mundu bíta bezt á krókinn, þegar aftur færi að elda, en það kæmi að litlu haldi, ef menn væru þá fyrst að "setja fram" bátinn. Þó lét hann þess ógetið, hvaðan honum kom þessi vizka. Varð svo að vera sem hann vildi. - Einar sakamann rak hann í rúmið úti í skemmunni. Harðbannaði hann honum að fara á fætur eða út og kvaðst treysta á drengskap hans, að leggja ekki til brotthlaups, þótt enginn væri að gæta hans. Lofaði Einar öllu fögru. - Að þessu búnu var veizlutíminn kominn, og Sigurður hraðaði sér á höfðingjastefnuna. - - -
Það dimdi óðum. Himininn var þungbúinn, en heið rifa yfir hafinu, sem náði nokkuð upp á loftið. Skuggsýnt varð snemma til jarðar. Ljóstýra sást í stöku glugga í kaupstaðnum, en fáum þó, því ekki voru menn alment farnir að kveikja á kvöldum.
Ein slík týra var í glugga á loftherbergi í húsi læknisins, Var glugginn tjaldalaus, og sá bregða fyrir kvenmanni þar inni, klæddri að útlendri tízku. Gekk hún fram og aftur um gólfið og var henni órótt í skapi.
Sýslumannshúsið var alt uppljómað. Voru þar tjöld breidd fyrir alla glugga, en margir þeirra stóðu opnir, svo hressandi kvöldkæla fengi að leika um herbergin. Barst þaðan glaumur og háværð, húrrahróp og skálaskvaldur. Nokkrar forvitnar kaupstaðarhræður stóðu hljóðar og hlustandi fyrir utan og hniptu hver í aðra, þegar þær heyrðu eitthvað það, sem þeim fanst matur í.
Kveikt hafði verið á skriðljósum skipanna á höfninni. Auk þeirra sá ljós í mörgum af gluggum þeim, sem voru í röð undir öldustokk strandferðaskipsins. Spegluðu ljós þessi sig í voginum og urðu þar að löngum ljóssprotum, sem náðu næstum upp í fjöruna, en brotnuðu á stöku stað, þar sem bylgjugárar bærðust. Klettarnir handan við voginn spegluðu sig einnig í sléttum marfletinum. Varð tæplega séð aðgreining lands og sjávar þar í skugganum undir Básunum, því klettarnir og myndir þeirra runnu saman. Stjarna sást þar skær í miðjum skugganum og speglaðist með fögrum geislastaf. Var það skriðljós timburfarsins norska; en skipið varð ekki frá öðru greint. Úr heiðríkjurifunni yfir hafinu bar daufa skímu um fell og ása á landi, því enn var rönd af degi með öllum sjóndeildarhringnum.
Þá var báti róið úr landi frá bryggju Þorgeirs. Stefndi hann út úr voginum og fram til fiskimiða. Brutu gárarnir út frá kjölfari hans skuggamyndirnar í spegli vogsins, glitruðu þar smáar og langar öldurákir og var sem á blikandi sverðablöð sæi. -
Um sama leyti rak maður höfuðið upp yfir gilbrúnina ofan við hús Þorgeirs og litaðist um gætilega. Það var Einar frá Bælinu. Hafði hann leynst frá bænum Vogabúðum og leitað gilsins, en farið eftir því ofan í kaupstaðinn. Engan mann var að sjá. Ljós sást vel í hjartamynduðu gati á hleranum fyrir skrifstofuglugga Þorgeirs. En vel var breitt fyrir gluggann að innan. Einar skundaði að dyrunum, sem að garðinum vissu, og fann þær ólæstar.
Þorgeir gekk um gólf þar inni og beið Einars. Kveðjur urðu stuttar með þeim. Þegar Einar var inn kominn, lokaði Þorgeir dyrunum vandlega. Að því búnu staðnæmdist hann beint frammi fyrir Einari, horfði hvast á hann og mælti af þungum móði:
"Hvað hafið þér sagt þeim Vogabúðafeðgum?"
Einar hrökk saman og fölnaði við slíka spurningu, en svaraði þó skjótt og skýrt og leit hiklaust á verzlunarstjórann á meðan:
"Ekkert. - Ég hefi alls ekkert sagt þeim - eða neinum öðrum - annað en það, að ég hafi fengið á "pödduna" mína hjá yður um kvöldið, á undan brennunni".
Þorgeir sá það á einlægnissvip Einars og einurð hans, að svo mundi vera sem hann sagði, en vildi þó reyna hann betur:
"Þér segið ósatt. Þér hafið sagt, að ég hafi fengið yður til að kveikja í húsinu, og þér hafið gert það viljandi. -- Er ekki svo?"
Einar leit ennþá einarðlegar framan í hann en áður.
"Það veit guð minn almáttugur, að þetta hefi ég aldrei sagt, - ekkert af þessu. Ég hefi ekkert annað sagt en það, sem ég kannaðist við áðan".
"Þá er betur en ég hugði", sagði Þorgeir. Hann þóttist nú úr öllum skugga genginn um, að Einar segði satt. Hann fór þá að ganga um gólf, og var honum rórra í skapi.
Einar hóf þá máls og skýrði frá öllum orðaviðskiftum þeirra Sigurðar. Þorgeir hlustaði á það hljóður og spurði einskis. Þegar Einar hafði lokið frásögn sinni, varð þögn um stund.
Þorgeir hélt áfram að ganga um gólf. Loks stanzaði hann og spurði Einar í lágum rómi:
"Kveiktuð þér í húsinu - viljandi?"
Einar varð niðurlútur við spurninguna og svaraði svo lágt, að varla heyrðist:
"Já".
Aftur varð þögn. Þorgeir gekk um gólf sem áður, en Einar stóð kyr úti við vegginn og horfði niður fyrir fætur sér.
"Hvers vegna gerðuð þér þetta?"
Einar leit upp stórum, spyrjandi augum, en leit aftur niður fyrir sig, áður en hann svaraði.
"Ég veit það ekki. - Ég hefi verið að hugsa um það síðan, en er litlu nær. Ég held næstum, að ég hafi ekki verið með sjálfum mér. Eftir að þér höfðuð talað við mig, fanst mér sem eitthvað óskiljanlegt væri sezt að í mér, sem knúði mig áfram. Mér hefir stundum dottið í hug að líkja sjálfum mér þá nótt við sigurverk, sem dregið er upp af manna höndum og gengur síðan, án þess að vita sjálft af, hvað það gerir. Ég hugsaði um þetta fram og aftur, áður en ég gerði það, en allar hugsanir mínar hneigðust í sömu áttina. Eitthvað ýtti mér áfram, fet fyrir fet, þar til þetta var framkvæmt. Ég hélt - ég skildi - - ég veit ekki vel, hvernig mér var farið, en ég gat ekki annað".
Þorgeiri var þetta fullnægjandi. Hann langaði ekki til að heyra það skýrara. Nú var upplýst um þau vafaatriði, sem áður höfðu pínt huga hans. Nú fanst honum ekki verða um það deilt, hver væri upphafsmaður að eldinum.
"Það er nóg. - Þér verðið að fara".
"Fara -?" mælti Einar og leit upp steinhissa.
"Þér verðið að fara úr landi. Þess vegna hefi ég lagt alt kapp á að ná yður hingað í kvöld. Það er betra fyrir yður en að fara í hegningarhúsið. Ég vil ekki vita yður lengur hjá Sigurði gamla á Vogabúðum. Þér verðið að hlýða mér og fara".
Þetta kom yfir Einar svo óviðbúinn, að hann vissi ekki, hvort hann átti að hryggjast eða gleðjast. En hvað sem öðru leið, kom honum ekki annað til hugar en að láta Þorgeir sjá fyrir ráði sínu.
Þorgeir hélt áfram: "Yfir undir Básunum hinum megin við voginn liggur norsk timburskúta. Hún fer í nótt eða með morgunsárinu. Að minsta kosti verður hún farin, áður en löggæzlumennirnir okkar verða búnir að sofa úr sér veizluvímuna. Nú eru Norðmennirnir í landi til að taka vatn og seglfestu til ferðarinnar. Þér getið náð þeim; áður en þeir verða búnir að því, ef þér hlaupið inn fyrir voginn. En þér megið hvergi koma við - allra sízt heima hjá yður. Þér verðið að flýta yður eins og þér getið, annars verðið þér kannske of seinn".
"En - " stamaði Einar.
"En kerlingin yðar og krakkarnir, hafið þér ætlað að segja. Ég skal eitthvað hugsa til þeirra í kyrþey. Hafið þér engar áhyggjur af þeim. Þau verða að vera án yðar hvort sem er. - Þér megið ekki eyða tímanum til ónýtis. Ég ætla að senda skipstjóranum skeyti með yður. Það mun duga til þess, að hann taki yður til flutnings. Hann fer beint til Noregs. Þér skiljið svo mikið í málinu, að yður er vorkunnarlaust að koma yður þar áfram. Þar getið þér byrjað nýtt líf".
Að svo mæltu skrifaði Þorgeir nokkur orð á nafnspjald sitt og lagði það í umslag. Því næst gekk hann fram í búðina. Fór hann hljóðlega og gætilega að öllu, sem væri hann að fremja ódæði. Þó var það auðséð á öllum merkjum og atvikum, að ráðin voru hugsuð fyrirfram. Dró hann þá út peningahólfið, sem var undir borðinu, hvolfdi úr því á borðið, en sópaði síðan öllu í lúkur sínar, án þess að telja það. Þessa peninga fékk Þorgeir Einari, en hann lét þá í buxnavasa sína. Þorgeir var þó hræddur um, að þetta mundi vera meira að vöxtum en gæðum, sem í hólfinu hafði verið. Tók hann því út úr skáp sínum nokkra peningaseðla og stakk þeim, ásamt bréfinu með nafnspjaldinu, ofan í brjóstvasann á vesti Einars. Áminti hann Einar rækilega um að týna þessu ekki. Að því búnu brá hann sér aftur fram í búðina og sótti flösku með skrautlegum miða og logagyltri hettu yfir tappanum. Kvað hann Einar skyldu hafa hana í veganesti, en brýndi rækilega fyrir honum að opna hana ekki fyr en hann væri á skipsfjöl kominn. Ekki mundi það heldur spilla að gefa shipstjóranum að dreypa á henni. Væri í henni konjak af beztu tegund, og mundi þeim báðum vera nýnæmi á slíkum drykk.
Einar tók við flöskunni og lét hana í barm sinn undir treyjuna, en hnepti fyrir neðan. Fór hann að öllu eftir fyrirmælum Þorgeirs og lofaði að gera svo framvegis.
Þegar þessu var lokið og Einar búinn til brottferðar, mælti Þorgeir:
"Ef þér skylduð koma of seint út þangað, sem skipið liggur, skuluð þér kalla til skipverja, en með gætni þó, svo ekki heyrist það hingað yfir um. Þér munuð þá verða sóttur. - Fylgi yður nú guð og gæfan. Skuluð þér nú reyna að láta það, sem eftir er æfi yðar, bæta upp hitt, sem af er. Ég hefi þekt yður að mörgu góðu og mun jafnan minnast yðar með hlýjum hug. Ég veit, að þér eruð skrifandi; skuluð þér senda mér línur við tækifæri og láta mig vita, hvernig yður líður. Ekki skuluð þér minnast með einu orði á leyndarmál okkar, eða neitt af því, sem okkur hefir nú á milli farið. Vera má, að bréfin lendi í annara manna höndum, eða hitti mig örendan, og gæti þá illa farið. Skuld yðar hér er úr sögunni; en þó skuluð þér gera hana að aðalefni bréfa yðar og látast vera að smáborga hana. Ekki skuluð þér verða uppvægur, þótt yður berist einhverjar kynlegar fréttir héðan. Ef til vill verð ég að beita brögðum til að villa óvinum okkar sjónir. Má vera, að eitthvað aukist á sakir yðar; en ekki verður samvizku yðar það að byrði. Legg ég nú ríkast á við yður, að þér hafið allan hug á því að komast undan. Ef þeir næðu yður nú, yrði seinni villan argari hinni fyrri. - Týnið ekki peningum yðar og hagnýtið yður þá ráðvíslega. - Ég mun bíða hér heima við húsið og horfa á eftir yður. - Farið þér nú, og hamingjan fylgi yður".
Einar langaði til að stama fram þakklæti, en gat engu orði upp komið fyrir klökkva. Hann var náfölur og óstyrkur. Hafði hann nú mestan hug á því að nema ráð Þorgeirs og festa sér þau í minni. Þorgeir opnaði dyrnar og ýtti honum út á undan sér.
Nú var orðið því nær aldimt, en þó lýsti heiðríkjurifan lítið eitt ennþá. Hvergi sást maður á ferli. Frá húsi sýslumannsins heyrðist ennþá glaumur og háreysti, og enn lagði þaðan skin úr hverjum glugga. Drukku nú gestirnir fast, en voru þó að dreggjunum komnir. - Í loftsglugganum á húsi læknisins sást ennþá ljóstýra, en enginn sást þar á fótum inni fyrir. Á skipunum var fá ljós að sjá, fyrir utan skriðljósin í reiðanum. Yfir um voginn barst mannaskvaldur og grjótglamur, og ljós, sem var þar á hreyfingu um fjöruna undir Básunum, benti á, hvar Norðmennirnir væru að taka seglfestu sína. Því verki var ennþá ekki lokið.
Þorgeir fylgdi Einari á leið inn fyrir verzlunarhúsin og skildi þar við hann. Kysti Einar hönd hans að skilnaði, og fann Þorgeir heit tár drjúpa á handarbak sér. Því næst hljóp Einar af stað. Var hann léttstígur á trébrúnni yfir ána, svo varla heyrðist til hans. Hljóp hann síðan út brúnirnar fyrir botni vogsins. - Þorgeir horfði á eftir honum, meðan hann gat til hans séð. Þóttist hann nú viss um, að Einar mundi ná skipinu í tæka tíð, svo ekkert væri að óttast framar. Byr mundi renna á seinni part nætur, og mundi skipstjóri þá láta í haf. Ef til vill mundi hann heldur hraða för sinni vegna Einars. - Sneri Þorgeir ekki heim, fyr en hann sá ekki lengur til Einars.
Þegar Þorgeir kom inn í skrifstofu sína, læsti hann vandlega útidyrunum. Síðan gekk hann fram í búðina og lét aftur hurðina á milli, svo enga ljósbirtu legði þangað fram. Undarlega var honum nú í skapi, svo varla þekti hann sjálfan sig; en ekki var hann óstyrkur og ekki fipuðust honum handtök sín. Tók hann þá rofjárn (kúbein) undan hillu í búðinni, gekk að öðrum glugganum, er að sjónum sneri, og braut allar rúðurnar í honum öðrum megin, ásamt þverrimlunum á milli þeirra. Hrundu rúðubrotin niður, en þó ekki með miklu harki. Því næst setti hann járnið i sjálfheldu milli hlerans og gluggaumgerðarinnar og braut hlerann frá með einum snöggum hnykk. Klofnuðu spelkar úr hleranum út frá hespum þeim, sem héldu honum föstum, og féll hann ofan á götuna með nokkrum hávaða. Stóð nú glugginn opinn, og var rofið nægilega stórt til þess, að fullorðinn maður gat komist þar út og inn. Rofjárnið lét Þorgeir aftur þar, sem það hafði áður verið. Síðan gekk hann inn í skrifstofu sína, tók lampann, sem stóð þar, og gekk með hann í hendinni yfir í skrautstofuna. Þar lagðist hann í öllum fötunum á legubekkinn, en lét ljósið loga á borði skamt frá sér. Þessa nótt sofnaðist honum venju fremur vel.
-
Einar fór hið efra um brúnirnar, því þar var greiðfærara en niðri í fjörunni undir björgunum. Hljóp hann alt hvað af tók og skilaði því vel áfram. Inn fyrir voginn og út með honum hinum megin, þangað sem timburskútan lá, var æðispölur, á við meðal bæjarleið.
Einar létti ekki hlaupunum fyr en hann var orðinn svo móður, að honum lá við niðurfalli; enda var brjóst hans ekki hraust. Hann var þá kominn um tvo þriðju hluta vegarins, en settist þar niður stundarkorn og blés mæðinni.
Við hlaupin hafði blóð hans fengið örari rás og meiri hita. Hugsanir hans urðu þá skýrari og tilfinningar hans ekki jafnsljóar og áður. Hann fór þá að hugsa um ástæður sínar og hina síðustu atburði, einkum fund og skilnað þeirra Þorgeirs. Alt hafði þetta borið honum að höndum með svo skjótum atvikum, að honum hafði ekki veizt ráðrúm til að átta sig á því, sem fram fór, og að lokum höfðu óljósar tilfinningar gert honum deigt í skapi. Nú gat hann hugsað um þetta með meiri ró, rifjað það upp fyrir sér og athugað það hvað í sínu lagi - þótt ekki væri nema augnablik, á meðan hann kastaði þyngstu mæðinni.
Ekki var laust við, að hann sæi eftir því að hafa brugðist því trausti, er Sigurður hreppstjóri hafði sýnt honum með því að láta hann vera lausan og án gæzlu. Hann hafði lofað honum, að hann skyldi vera kyr, og lagt við drengskap sinn. Þetta hafði hreppstjórinn látið sér nægja. Nú hlaut þessi góðmenska Sigurðar og auðtrygni að koma honum í koll, hver veit hve mikið eða á hvern hátt. Hann vissi ekki, hvað við því lá að lögum að sleppa sakamanni, en honum fanst sem þetta drengskaparheitrof mundi fylgja sér út yfir hafið, eða hvert sem hann færi, og jafnan þyngja samvizku sína. - Þó fanst honum jafnframt, að það vera sér afsökun, að hann hafði ekki farið frá Vogabúðum í þeim tilgangi að fara af landi burt. Þetta voru ráð Þorgeirs, og hann hlaut að bera ábyrgð á þessu framferði hans.
En samtal þeirra Þorgeirs var honum mikið umhugsunarefni. Af því, hvernig það byrjaði, þóttist hann geta ráðið, að meira hefði borist Þorgeiri til eyrna en satt væri. Þó þóttist hann þess nú fullviss, að Þorgeir hefði trúað orðum hans, og hefði honum eflaust komið vel að fá hið sanna að heyra.
Síðan hafði Þorgeir talað meira við hann og sýnt honum meiri innileik en nokkru sinni áður. Réð Einar af því, að Þorgeiri væri annara um hann nú en áður. Hlaut það að vera vegna þess, að hann teldi sig vera samsekan honum, eða sekari, en jafnframt meiri mann til að bera sektina. Þóttist Einar finna þakklætisvott í þeirri umhyggju, sem Þorgeir nú sýndi honum. Oft hafði honum áður þótt vænt um Þorgeir, en aldrei eins og nú. Nú fanst honum hann sjá mest eftir því af öllu að skilja við hann. Óskaði hann þess nú heitt, að hann hefði mátt vera lengur í nágrenni við Þorgeir, aðstoða hann eftir mætti í raunum hans og gera alt, sem í sínu valdi stæði, til þess að létta þær eða afstýra þeim. Fanst honum þá, að hann væri jafnvel reiðubúinn til að láta líf sitt fyrir jafnveglyndan mann, ef það gæti orðið honum til velfarnaðar.
Þessar hugleiðingar fengu svo mikið á Einar, að hann fór að gráta. Runnu tárin, stór og þung, af hvörmum hans ofan á kinnarnar, en þar þurkaði hann þau jafnóðum burt með berri hendinni eða treyjuerminni. Oft hafði sorfið að Einari gamla í Bælinu, en sjaldan mintist hann þess, að hafa grátið í bágindum sínum. En atburðir þessara síðustu daga höfðu stundum gert honum svo mikinn ama, að hann gat ekki tára bundist.
Mitt í þessu hvarflaði hugur hans heim í Bælið. Þar lágu þau nú í fasta svefni, Margrét hans og börnin fjögur, og höfðu ekki grun um það, sem hann hafðist að. Þangað hafði Þorgeir stranglega bannað honum að koma; enda var hann nú kominn langt burt frá kofunum, þótt lengra væri ferðinni heitið. En þangað langaði hann nú mest af öllu til að koma. Hugsaði hann nú hlýlega til Margrétar sinnar, afsakaði skapbresti hennar og mintist þeirra daga, þegar hún var honum kærari en alt á jörðu og fylti huga hans vonum og unaði. Að vísu höfðu vonir þessar brugðist og unaðurinn ekki orðið langvinnur, en að svo hafði farið, var að miklu leyti honum að kenna. Margir mæðudagar höfðu orðið á samleið þeirra. Nú fanst honum hann eiga henni ennþá vanþakkaða þessa fáu góðu daga, og víst var hún þess makleg að vera kvödd nú, er fullur skilnaður var fyrir höndum. - Og nú mintist hann einnig blárra barnaaugna, sem oft höfðu upp á hann litið, stundum hlæjandi, en oftar grátandi, - og lítilla munna, sem sagt höfðu "pabbi" við hann. Nú voru augu þessi lokuð i værum svefni og litlu munnarnir þögðu. Ef til vill hafði síðasta orðið þeirra í vökunni verið það, að þau væru svöng, eða um pabba þeirra. Nú sárlangaði hann heim til sín, þótt ekki væri til annars en þess, að læðast hljóðlega inn í kofana og kyssa litlu munnana í svefninum. En til slíks mátti hann ekki hugsa. Nú mátti hann engum tíma eyða. Hann var sekur skógarmaður, útlagi, sem varð að fara huldu höfði, forðast ástvini sína, forðast allar manneskjur, en flýja úr föðurlandi sínu. - Við þessar hugsanir jókst honum svo gráturinn, að hann fékk ákafan ekka.
Þegar hann hafði grátið þannig stundarkorn, sefaðist hann nokkuð og þerði af sér tárin. En óstyrkur var hann, svo honum fanst þess lítil von, að hann mundi geta haldið lengra, eða jafnvel staðið upp. Óskaði hann þess nú einna helzt, að dagar sínir væru þrotnir og honum mætti auðnast að halla sér þar út af til hinnar hinztu hvíldar. En þótt hann þreyttur væri og lémagna á sál og líkama, vöktu ráð Þorgeirs og fyrirmæli skýr í huga hans og unnu honum engrar hvíldar.
Hann varð að halda áfram; enn þegar hann ætlaði að standa á fætur, fann hann til allmikils þunga í buxnavösum sínum. Vissi hann, að mestmegnis mundu það vera koparpeningar, en þó nokkuð af silfurmynt innan um. Enginn tími hafði verið til að telja það eða skoða, og enn var hvorki tími til þess né birta. Sjaldan hafði hann kent til þunga af peningum áður, því annað hafði hann oftar borið um dagana en peninga. Þó var það minst af peningum hans, sem var honum til þyngsla. Hitt var meira, sem Þorgeir hafði stungið í brjóstvasann á vesti hans ásamt bréfinu. Við þessar hugsanir varð Einari litið ofan í barm sér. Gægðist þar fram undan treyjunni gullbúinn flöskustútur.
Einar fann til brennandi þorsta eftir hlaupin og mæðina. Ekki hafði hann heldur minkað við gráthviðu hans. Þó þorði hann ekki fyrir líf sitt að súpa á flöskunni; enda vissi hann, að hún mundi ekki hafa venjulegan svaladrykk að geyma. Þó var honum yndi að því að taka hana fram úr barmi sínum og skoða hana í næturdimmunni. Jafnfallega "pöddu" hafði hann aldrei séð. Var sem lýsti af hinum logagylta stút og miðanum, en sjálf var flaskan svört sem bik. Heyrði Einar, að ofurlítið gutlaði í henni, þegar hann hristi hana. Hún var ekki alveg full upp í tappa. Tennur hans flutu í vatni við tilhugsunina um það, hvað í flöskunni væri. En ekki leizt honum, að auðhlaupið mundi vera í slíka flösku sem þessa. Mundi vera lakk yfir tappanum og vel um búið. Losaði hann þá svolítið um pappírshettuna gyltu yfir stútnum, fann að hún var laus og smeygði henni fram af. Sá hann þá, sér til mikillar undrunar, að ekkert lakk var á stútnum, heldur stóð korktappinn hálfur upp úr.
Þá vann þorstinn og freistingin algerðan sigur á Einari. Hann gleymdi öllum áminningum Þorgeirs um að hreyfa ekki við flöskunni, fyr en hann væri kominn út á skipið. Réðst hann nú á tappann með úlfsgræðgi og beitti ekki síður tönnum en fingrum. Lauk því svo, að hann vann á honum fullan sigur. Setti hann nú stútinn á munn sér og fékk sér vænan sopa. Drykkurinn var svalur og óvanalega bragðgóður. Hafði hann aldrei bragðað jafnljúffengt vín. Fann hann að vísu, að nokkuð var það sterkt, en laust var það við alla þá brennandi beiskju, sem hann áður var vanur við. Fékk hann sér nú vænan teyg að nýju og slökti mesta þorstann. Síðan stakk hann tappanum í flöskuna og stökk á fætur. Fann hann nú endurvakið afl færast um sig allan og hélt af stað, en fór þó ekki eins óðslega og áður.
Hann var nú kominn svo langt, að skipið, sem hann stefndi að, var komið fram úr klettaskugganum og bar við opinn voginn. Voru menn ennþá með bát uppi í fjörunni, og heyrðist þaðan mannamál sem áður. Strandferðaskipið lá sem svört flygsa fram undan kaupstaðnum, með skriðljós sitt í reiðanum. Mátti nú sjá bát, með skriðljós í stafni, halda til lands. Hinn ákveðni tími til að sækja veizlugesti sýslumannsins var kominn.
Einari varð léttara í lund eftir grátinn, og gekk hann hvatlega, þótt ekki hlypi hann. Fann hann vel, að á hann sveif nokkuð, og hafði hann að þessu sinni drukkið sterkari drykk en hann var vanur. Hugsanir hans urðu líka léttari. Nú rifjuðust upp fyrir honum heilræði þau, er Þorgeir hafði lagt honum að skilnaði. Fann hann það nú betur og betur, að fyrir honum var nýtt líf að byrja. Var sem hann væri nú með undarlegum atburðum skilinn við fortíð sína, en legði út í hið nýja, ókunna, með mikinn auð af dýrkeyptri reynslu frá fyrri árunum. Hugsaði hann sér nú að láta hin fyrri víti sín sér að varnaði verða. Hann fann hjá sér þrek og þrótt til að mæta því ókomna og reisa sig við til heiðurs og álits í nýjum heimi. Var þar sú bót í máli, að enginn vissi um það, sem á daga hans hafði drifið. Engar hæðnisglósur mundu þar blanda honum beiskju í skap. Engin tortrygnisaugnaráð mundu þar stinga hann sem eitraðar örvar. Allur sá ófögnuður var eftir skilinn. Ef til vill gæti hann innan skamms skrifað Þorgeiri glæsilegar fréttir af velgengni sinni og vottað honum þakklæti sitt. Gat hann þá farið mörgum orðum um skuldina um leið. Hann brosti að slíkri hugsun, en fór þó að taka saman í huganum kafla í fyrsta bréfið.
Jafnvel það, að vera útlagi, skógarmaður, og vera að flýja úr landi, fékk nú annan litblæ í huga hans en áður. Það var sögulegt og ekki trútt um, að hann væri hreykinn af því. "Þess verður þó getið, er gert er", hafði Grettir sagt. Hann var líka sakamaður og útlagi. Eflaust mundi nafn Einars frá Bælinu lengi verða nefnt í Vogabúðakaupstað, og ef til vill væri gaman að koma þar að nokkrum árum liðnum, þegar farið væri að fyrnast yfir brennumálið.
Jafnframt þessu fór hann að taka það saman í huganum, sem hann ætlaði að segja við Norðmennina, þegar hann hitti þá í fjörunni. Ef til vill gengi honum illa að gera sig skiljanlegan, ef hann kæmi þangað óviðbúinn. Dönskukunnáttan var talsvert í molum. Hafði hann nú gaman af því að tína saman ýmsar setningar, sem hann kunni, og æfa sig í þeim hálfhátt. Stytti þetta honum stundir, svo hann fór að labba í hægðum sínum; enda var auðsætt, að hann mundi ná skipinu, svo ekkert lá á.
En vínið steig honum meira og meira til höfuðsins. Hann fann það, en kærði sig kollóttan. Hvern þremilinn gerði það til, þótt Norðmennirnir sæju, að hann hefði ofurlítið í kollinum? Þeir voru sjálfir engir bindindismenn; síður en svo. Ef til vill mundu þeir þiggja að bragða á "pöddunni" hjá honum - og sleikja út um. Þó þeir tæmdu hana þá -! Bréfið frá Þorgeiri var nóg handa skipstjóranum. Hann vissi, á hverju hann mátti eiga von hjá Þorgeiri, þegar hann kæmi næst á voginn.
Við þessar hugleiðingar komst Einar smátt og smátt í svo gott skap, að hann fór að syngja, þótt ekki væri hátt.
Einar var nú þar á brúnunum, sem Básarnir voru hæstir. Oft hafði hann gengið þar um áður og þekti þar svo að kalla hvern stein. Hafði hann jafnan verið lofthræddur eða svimagjarn, er hann gekk um þessar brúnir. Oft hafði honum þótt minkun að því, en ekki gat hann þó við það ráðið. Nú fann hann ekkert til þessarar veilni sinnar og þótti undarlega við bregða. Átti myrkrið eflaust nokkurn þátt í því, með því að dylja hæðarmuninn, en vínið þó meiri, því skynjan hans var nú sljórri en vant var. Langaði hann nú til að freista þess, hvort þessi gamla veilni kæmi yfir sig aftur, ef hann færði sig nær brúninni. Hann gerði það, en hann fann ekki til neinnar hræðslu eða svima. Einu sinni hafði hann þó getað yfirunnið þessa heimskulegu hræðslu. Nú langaði hann til að storka sjálfum sér og hæða sitt eigið hugleysi með því að ganga sem tæpast frammi á brúnunum. Það voru hvort sem var allar líkur til, að hann gengi þar nú í síðasta sinni.
Hann var kominn þangað, sem brúnunum tók ögn að halla ofan að lækjargilinu, þar sem Norðmenn tóku vatnið og grjótið; átti hann ekki nema lítinn spöl eftir þangað, sem hann ætlaði sér ofan í fjöruna. Hann stiklaði fimlega fremst frammi á brúnunum og var léttur í lund og léttur á fæti. Sumstaðar voru snasir fram úr brúninni, en annarstaðar skörð upp í hana. Stökk hann víða yfir skörðin og henti sér á milli snasanna. Hafði hann yndi af fimleik sínum og fótvísi. Smásteinar hrundu undan fótum hans, skullu í bergið við og við, en hentust að lokum með fallköstum lengst fram í fjöru. Einnig losaði hann með vilja um nokkra steina og velti þeim fram af. Það var gaman að heyra í þeim dynkina og sjá neistaflugið, þegar þeir skullu ofan í fjöruna.
En eitt sinn, er hann ætlaði að stökkva yfir dálitla skoru á milli tveggja snasa, kom hik á hann. Hann fann, að höfuðið var þungt og sjónin ekki skýr, en hugurinn var ótrauður. Flöt hella lá á brúninni hinum megin við skoruna, og hugðist hann að fóta sig á henni. Hann hljóp því til og stökk yfir bergskoruna. Kom hann niður á helluna, eins og hann hafði ætlað sér. En hún var lausari en hann bjóst við. Valt hún til á smáhnullungum, sem undir henni lágu, og reis á rönd undan mannsþunganum. Einar tók bakfall og baðaði út höndunum til að leita jafnvægis, æpti skelfingarópi og hröklaðist fram af brúninni. - Tvítugt bjarg var fyrir neðan og fjaran undir.
10. kafli - VilligöturHeldri mennirnir í Vogabúðakaupstað voru þungsvæfir um morguninn eftir atburði þá, sem síðast var frá skýrt. Langt fram á morgun var óvanalegur svefndrungi yfir kaupstaðnum, og bar fleira en eitt til þess. Margir höfðu gengið seint til sængur kvöldinu áður, fleiri en þeir, sem voru í veizlu sýslumannsins. Blítt og fagurt kvöld í ágústmánuði laðar til útivistar og ástafunda. - Annað var það, að strandferðaskipið hafði gert mönnum svefnglöp um miðja nótt með brottlögublæstri sínum. Eftir þau höfðu þó flestir sofnað aftur, en laust og óvært, og voru mörgum draumar hvimleiðir. Samt voru þeir margir, sem lengur sváfu en þeir höfðu ásett sér.
Um aftureldinguna hafði runnið á vindur af landi. Þá hafði timburskútan norska létt akkerum og siglt af stað og var hún horfin úr augsýn fyrir venjulegan fótaferðartíma. Strandferðaskipið var einnig horfið, og með því landshöfðinginn og allir hinir "góðu gestir". - Skömmu fyrir dagmál kom bátur inn voginn. Voru það menn þeirra Sigurðar í Vogabúðum og Þorgeirs verzlunarstjóra. Þeir höfðu fengið þéttabarning alla leið í land, en lítið aflað, og létu hið versta af ferð sinni.
Um fótaferðartíma sáu menn spellvirki þau, sem gerð höfðu verið á búð Þorgeirs um nóttina. Og þegar búðin var opnuð, fanst peningahólfið tómt og á hvolfi uppi á búðarborðinu. Var þá farið að leita Þorgeirs; hann var ekki í rúmi sínu, en fanst sofandi í öllum fötum á legubekknum í stofu sinni, og logaði þar enn ljós hjá honum. Engum þótti þetta þó kynlegt, því komið hafði það fyrir áður, að Þorgeir hafði lagst til svefns inni í þessari stofu, þegar svefnleysi stríddi á hann, og hafði þó aldrei orðið neitt til tíðinda, fyr en nú. Töluðu búðarmennirnir um það sín á milli, að svo liti út, sem innbrotsþjófnum hefði verið kunnugt um háttu Þorgeirs, og einnig um það, hvar hann var staddur þetta kvöld, eða ráðið það af ljósinu, því ekki var árennilegt að brjótast inn í búðina, þegar Þorgeir svaf í svefnherbergi sínu, innar af skrifstofunni, án þess hann yrði innbrotsins var. Aftur á móti kom þeim saman um, að mikið mætti ganga á í þeim enda hússins án þess það heyrðist yfir í hinn, en þar svaf alt heimilisfólkið.
Síðan var Þorgeir vakinn og honum sögð tíðindin. Spurði hann þegar eftir því, hvort skrifstofa sín hefði verið brotin upp og hvort bækur sínar og járnskápur væru enn á sínum stöðum. Þegar honum var sagt, að svo væri, virtist honum verða hugrórra. Þó mælti hann svo fyrir, að þegar skyldi senda til sýslumanns og tilkynna honum, hvað að væri orðið. Sjálfur fór hann þá á fætur og skoðaði innbrots-verksummerkin mjög vandlega, og grenslaðist eftir því um leið, hvort nokkuð verðmætt hefði horfið úr búðinni, annað en peningarnir. Þóttust menn einskis sakna; en þó voru konjaksflöskurnar ekki taldar.
Sýslumaður varð þungbrýnn við ónæðið, því hann var syfjaður eftir næturvökuna; þó brá hann undir eins við. En áður en hann komst af stað að heiman, bar þar að lækninn. Kom hann, að því er hann sagði, til þess að þakka sýslumanni fyrir síðast og gera honum "ko-ko-ko-kokompliment" fyrir veizluna. Leit hann þá um leið hýru hornauga til "bitter"-flösku sýslumannsins og strauk hendinni um kvið sér. Svo skýr kenniteikn hefði hann þó ekki þurft að nota til þess að sýslumaður skildi hann; enda fór svo, að nokkrir "styrkjandi dropar" hrukku ofan í lækninn, áður en hann fór út þaðan. - Ekki hafði læknirinn fengið fréttir af innbrotinu fyr en þá, en sló nú í för með sýslumanni þangað.
Þeir hittu Þorgeir úti fyrir gluggarofinu. Skýrði hann þeim stuttlega frá því, er menn vissu um þennan atburð, en gekk síðan inn í búðina og lét þá þar eina eftir. Hugðu þeir nú vandlega að öllu, sýslumaðurinn og læknirinn, og leið svo nokkur stund, að hvorugur þeirra mælti orð frá munni. Loks mælti læknirinn:
"Það hefir "s'gu" verið bro-ro-ro-rotist inn!"
"Heldurðu það?" svaraði sýslumaður og glotti.
Læknirinn varð hálfhvumsa við þetta svar; hann var ekki viss um, hvernig hann ætti að skilja það. Eitthvað suðaði í honum, en ekki svo hátt, að það heyrðist.
Aftur á móti var sýslumanni nær að halda, að hér hefði verið brotist út, en ekki inn. Það vakti eftirtekt hans, að öll glerbrotin úr rúðunum lágu fyrir utan gluggann, en ekkert inni á búðargólfinu. Hitt þótti honum þó ennþá kynlegra, að förin eftir rofjárnið, bæði á hleranum og gluggaumgerðinni, báru það með sér, að tekið hafði verið á því að innan verðu. Auk þess sást ryð á trénu eftir járnið; verkfæri þau, sem notuð eru daglega, eru sjaldan slegin lausaryði, en það eru verkfæri þau, sem í búðum liggja, mjög oft.
Ekki hirti sýslumaður þó um að leita verkfærisins í búðinni. En þar lá rofjárnið undir neðstu hillunni í einum skápnum, hjá fleiri verkfærum. Málning og trétætlur voru á endanum á því, sem sýndu, að nýlega hafði það verið notað. Vitnisburður þess í þessu máli kom þó hvergi til greina; öllum sást yfir það.
Læknirinn horfði undrandi á sýslumann. Honum duldist það ekki, að sýslumanni bjó eitthvað kynlegt í hug, en einskis þorði hann að spyrja; hann var hræddur um, að hann fengi önugyrði og útúrsnúninga, því sýslumaður var í illu skapi.
En sýslumaður þorði ekki fyrir nokkurn mun að láta lækninn komast að grun sínum um innbrotið; hann þekti lausmælgi hans.
Síðan gengu þeir báðir frá glugganum og út eftir kaupstaðnum. Þar skildu þeir, og gekk hvor heim til sín. Um innbrotið hugsuðu þeir hvor sitt.
-
Skömmu fyrir hádegið kom frétt um það, að lík Einars í Bælinu væri fundið í fjörunni undir Básunum. Maður, sem var á leiðinni í kaupstaðinn og hafði gengið neðan undir hömrunum, hafði gengið fram á það. Hann sagði fréttina, þar sem hann fyrst kom til manna, en það var í búðinni hjá Þorgeiri.
Þorgeir brá þegar við og fór á fund sýslumanns. Bauð hann honum að láta menn frá sér sækja líkið, og þektist sýslumaður það, úr því hann hafði ekki menn við höndina sjálfur. Síðan sendi Þorgeir fjóra menn, sem voru í vinnu hjá honum, með strigabörur til að sækja líkið, en lagði ríkt á við þá um það, að hreyfa ekki við neinu, sem kynni að vera í vösum þess.
Þorgeiri var órótt í brjósti, meðan mennirnir voru burtu. Kvíði og angist tók hann slíkum tökum, að hann hafði engan frið. Honum var erfitt um andardráttinn, og var sem eitthvað blýþungt lægi á brjósti hans. Kaldur sviti kom við og við á enni hans, og hann þurfti að beita allri orku til þess að láta ekki aðra menn verða neins vara.
Þegar mennirnir komu með líkið, tók Þorgeir á móti þeim og lét bera það inn í beykisbúð verzlunarinnar, sem að þessu sinni stóð ónotuð. Þar var það, til bráðabirgða, lagt á fjalir, sem lagðar voru ofan á tunnubotna. Þorgeir skipaði mönnunum aftur til vinnu sinnar, en sendi einn þeirra út eftir til sýslumannsins. Á meðan stóð hann sjálfur á verði yfir líkinu.
Það var mjög skaddað og limlest. Auðséð var á öllu, að Einar hafði hrapað beint ofan í fjörugrjótið, án þess að koma nokkurstaðar við bergið, og dáið þegar. Líkið hafði tekið loftköst eftir að það kom niður, og blóðslettur voru víðar en í einum stað. Verst var höfuðið útleikið og sömuleiðis vinstri handleggurinn og brjóstið þeim megin. Það var alt brotið og höggvið í sundur. Auk þess hafði sjór flætt upp að líkinu um morgunflóðið, en þó ekki svo mikið, að það gæti tekið út. Frá öllu þessu skýrðu burðarmennirnir. Nú lá segldúkur, sem burðarmennirnir höfðu haft með sér, yfir líkinu og huldi það alt.
Þegar Þorgeir var orðinn einn eftir hjá líkinu, gekk hann hægt að því. Hann var óstyrkur og kvíðandi og átti erfitt með að yfirvinna þessa veilni sína nú, er enginn sá til hans. Hann lyfti segldúknum ofan af höfðinu, en hrökk aftur á bak fram undir dyr fyrir skelfingarsjón þeirri, er fyrir hann bar.
Höfuðið var hroðalegt á að líta. Gagnaugabeinið var brotið inn í heilann. Ofar á höfðinu var hold og svörður fleginn af hauskúpunni og hékk í flygsum, en nakið beinið eftir. Sjór hafði leikið um sárið og skolað af því mesta blóðið. Andlitið var þó enn ver útleikið. Vanginn var allur marinn og beinin þar brotin, en augað hékk blóðstokkið fram úr tóftinni.
Nákaldur hrollur læsti sig um Þorgeir frá hvirfli til ilja við slíka sjón. Feginn hefði hann viljað flýja; en nú varð engrar undankomu auðið. Þessi hryggilega mynd dauðans bjó yfir sakargagni á hendur honum; yfir það varð hann að komast, þótt ekki væri fýsilegt að ganga nær jafnógeðfeldri sjón og sækja það í vörzlur hennar. En lægi þetta sönnunargagn kyrt þar sem það var nú, var hann glataður maður. Nafnspjaldið hans og seðlarnir mundu bera honum órækt mótvitni. Hann mátti til að ná því hvorutveggja. Heigulsháttur var að hverfa frá, úr því tækifærið gekk honum þannig í greipar.
Hann herti því upp hugann og þokaði sér aftur nær líkinu. Hægt og hægt mjakaði hann sér að því og beitti allri orku til að yfirvinna viðbjóð sinn. Honum var innanbrjósts sem bæri hann ólyfjan að vitum sínum og væri dæmdur til að drekka. Aldrei hafði hann þurft að beita jafnhörðu við sjálfan sig. Hann gat ekki haft augun af hinu skaddaða andliti, af auganu, sem hékk blóðstokkið fram úr tóftinni, og höfuðsárinu, sem flakti sundur. Þessi blóðuga mynd hélt sjón hans fanginni og andaði honum óhug í barm. Honum fanst sér mundi verða bumbult; hann svimaði og fæturnir voru óstyrkir. Það var sem dimm tómahljóðsrödd dryndi við í huga hans: Þennan mann hefir þú drepið! Líttu á, hvernig hann lítur út eftir þig! Líkræningi! Snertu hann ekki framar! Hann býr yfir sönnunargagni sakleysis síns. Rændu því, ef þú þorir! Hefndin, - blóðhefndin kemur samt yfir þig. Veslingur! Blóð þessa manns er yfir þér!
Við sjálft lá, að Þorgeir gugnaði við þetta. Nú var hann þó kominn fast að líkinu aftur og farinn að venjast þessu nauðljóta höfði. En þá tók ekki betra við. Hann lyfti segldúknum ofan af brjósti líksins; þar birtist önnur skelfingarsýnin. Handleggurinn og vinstri hlið brjóstsins höfðu tekið við högginu, næst á eftir höfðinu eða jafnhliða því. Handleggurinn lá kreptur yfir brjóstið, var tvíbrotinn og hafði stirðnað í þessari stellingu. Flaskan hafði mölbrotnað í barminum og brotin stungist gegnum fötin og inn í holdið. Alt var þar höggvið og marið sundur; glerbrot og beinabrot stóðu út um fötin, hvort við annars hlið. Sjóvæta, lituð af dauðu blóði, draup úr fötunum, flóði um fjalirnar undir líkinu og lak ofan á gólfið.
Þorgeiri óaði við að snerta á þessu. Enn varð honum litið framan í líkið, og enn fanst honum sem úr sér ætlaði að draga alt magn. Annari hendi greip hann um fjalarbrúnina undir líkinu; hin fálmaði skjálfandi og hikandi eftir vestisvasanum, sem bréfið og seðlarnir lágu í. -
Til þess að ná til vasans, þurfti Þorgeir að lyfta handlegg Einars og hneppa upp treyjunni. Þorgeir herti upp hugann og gerði þetta með furðu miklum skjótleik. Barmurinn undir treyjuboðangnum var fullur af blóðlifrum, sem hrundu niður við rótið. - Bréfið og seðlarnir stóðu upp úr vasanum. Þorgeir kipti í það hvorttveggja, en það var fastara fyrir en hann varði; flöskubrot hafði stungist í gegnum böggulinn. Þó lét hann undan - og sönnunargagnið, sem Þorgeir hafði lagt svo mikið á sig fyrir, var komið í hans hendur.
Þorgeir leit snöggvast framan í líkið, eins og hann vildi biðja hinn dauða fyrirgefningar. Því næst hnepti hann treyjunni, lagði hinn brotna handlegg þar, sem hann áður var, og breiddi ofan á líkið.
Nú var þessu þrekvirki lokið. Þorgeir hafði aldrei á æfi sinni þurft að rjála við lík og aldrei séð lík jafnhryggilega skaddað; enda hafði honum verið þetta verk því nær um megn. Að verkinu loknu reikaði hann aftur fram að dyrunum og studdi sig við það, sem fyrir varð, eins og dauðsjúkur maður. Hann skalf og kaldur sviti þaut út um andlit hans. Hann studdi sig upp við dyrastafinn og lét loftið að utan leika um sig. Því, sem hann hafði sótt í vasa Einars, stakk hann í vasa sinn. Því næst þerraði hann blóðblettina af höndum sér, þerraði af sér angistarsvitann og reyndi að jafna sig, meðan hann fengi að vera einn. Þegar sýslumaður kom, var hann búinn að ná sér svo, að ekkert bar á honum.
Sýslumaður spurði þegar, hvort nokkur hefði leitað á líkinu. Þorgeir kvaðst hafa bannað mönnum sínum það stranglega, en síðan þeir hefðu komið með það, hefði hann sjálfur staðið á verði yfir því. Sýslumaður leit til hans ómjúkum augum. Þorgeiri fanst tillit hans smjúga í gegnum sig, en horfði þó hvast á móti og lét engan bilbug á sér finna. Því næst bað sýslumaður hann að lána sér menn til að hjálpa til að rannsaka líkið. Þorgeir kallaði aftur á verkamenn sína, því sjálfur vildi hann ekki sjá það afhjúpað öðru sinni. Þegar þeir voru komnir og hann búinn að biðja þá um að vera sýslumanni til aðstoðar, gekk hann aftur inn í búð sína og inn í skrifstofuna.
Þar lokaði hann vandlega að sér og þurkaði í skyndi blóðið af höndum sér. Hann hafði reynt að verjast því, að sýslumaður sæi þær, og vonaði, að sér hefði tekist það. En þegar minstum vonum varði, var kominn nýr blóðblettur á aðra höndina, og rétt á eftir á hina. Angistin greip hann aftur. Hvaðan komu þessir blóðblettir? Ætlaði þessi ófögnuður aldrei að skilja við hann? Hann fór að gæta betur að og fann þá, að jaðarinn á treyjubarmi hans hafði komið við líkið og var blóðugur. Þetta hafði hann ekki hugsað út í. Guð almáttugur -! Ef til vill hafði sýslumaður rekið augun í þetta!
Hann flýtti sér þá í dauðans ofboði að hreinsa af sér þessa bletti líka; var hann nýbúinn að því og seztur niður við skrifborð sitt, þegar sýslumaður kom inn í skrifstofuna með peninga þá, er fundist höfðu á líkinu. Taldi hann þá fram á skrifborðið hjá Þorgeiri og spurði hann, hvort hann hefði mist meira en þetta.
Þorgeir kvaðst ekki vita, hve mikið hefði verið í peningahólfinu, en kvað það engu skifta. Notaði hann þá tækifærið til þess að horfa hvast og rannsakandi á sýslumann og reyna að sjá það á honum, hvort hann hefði orðið nokkurs þess var, sem vakið hefði hjá honum grunsemdir.
Sýslumaður skeytti ekkert tilliti hans, en spurði stuttlega, hvort hann óskaði frekari rannsókna út af þessu innbroti, en sjálfur áliti hann þess enga þörf. Þegar Þorgeir kvað nei við því, kvaddi sýslumaður með kuldalegri valdsmannshæversku og fór heim til sín. Þorgeir horfði á eftir honum spyrjandi augum. Aldrei höfðu fundir þeirra verið jafnendasleppir.
Sýslumaður hafði gert lækninum orð, hvort hann vildi koma með sér og líta á líkið. Læknirinn hafði gert þau orð á móti, að hann hefði ekkert þangað að gera. Maðurinn væri "jo da-da-da-da-dauður", og ekki gæti hann lífgað hann aftur. Læknirinn var gramur við sýslumann fyrir fálæti hans um morguninn. Auk þess átti læknirinn í baráttu við þann meðfædda veikleika, sem kemur sér illa fyrir lækna, að hann var hverjum manni líkblauðari.
-
Sigurður gamli í Vogabúðum hafði gengið beint til rekkju sinnar, þegar hann kom heim úr veizlunni um nóttina, en ekkert munað eftir að koma við í skemmunni og vita um, hvort Einar svæfi þar. En þótt hann hefði háttað seint, var hann snemma á ferli um morguninn, að vanda, og lét þá ekki hjá líða að skygnast um í skemmunni. Varð honum hverft við, er hann sá, að Einar var allur á burtu. Hann vildi þó ekki tilkynna sýslumanni það að svo stöddu, og helzt komast hjá því, ef unt væri. Trúði hann því ekki, að Einar hefði farið að strjúka, heldur þótti honum líklegt, að hann hefði ranglað eitthvað burtu frá bænum um háttatímann og sofnað síðan úti á víðavangi, eins og fyrri daginn. Karlmenn hafði Sigurður enga heima við, en vakti upp vinnukonur sínar og lét þær fara að leita, ásamt sjálfum sér. Tók hann þeim vara fyrir að kalla hátt, svo ekki heyrðust köllin ofan í kaupstaðinn, en leita vel í lautum og dældum í kringum bæinn og túnið. Gekk þessi leit nokkuð fram á daginn, en þá barst upp að Vogabúðum fregnin um innbrot hjá Þorgeiri um nóttina. Sigurður fór þá að hugsa margt um hvarf Einars og þótti hyggilegra að finna sýslumann. En þegar hann var á leiðinni þangað ofan eftir, mætti honum maður á túninu og sagði honum þær fréttir, að Einar væri fundinn og með hverjum atburðum.
Þegar Sigurður var aftur orðinn einn, settist hann á götubakkann, þar sem hann var staddur, og fór ekki lengra að sinni. Tók hann nú að hugsa ráð sitt og þótti það óvænlegt. Í full tuttugu ár hafði hann nú verið hreppstjóri og aldrei hafði hreppstjóraheiður hans liðið slíkan hnekki sem nú. Hann vissi vel, hvað við lá fyrir mann í hans stöðu að sleppa sakamanni, sem honum hafði verið á hendur falinn til geymslu. Málsbætur voru að vísu nokkrar, en óvíst, hve mikið tillit yrði til þeirra tekið. Rifjuðust nú upp fyrir honum öll atvik, sem að þessu lutu, meðal annars koma landshöfðingjans og veizlan, en einnig heimsóknin hjá Þorgeiri daginn áður. Hann þóttist nú skilja, hvernig Þorgeir hafði vafið honum um fingur sér, er hann narraði hann til að láta vinnumennina róa um kvöldið, og nú var Sigurður ekki lengur í efa um, að samband hefði verið á milli þeirra Einars og Þorgeirs, eins og hann hafði lengi grunað. Þó ásetti hann sér nú að fara gætilegar með grun sinn en síðast. En gremja til Þorgeirs brann í brjósti hans.
Þrátt fyrir málsbætur þær, sem hann hafði, gat hann þó ekki afsakað skammsýni sína og auðtrygni svo, að hann væri viss um það, hvort hann væri þess verður að gegna hreppstjórastörfum framvegis. Um það vildi hann fá fulla vissu. Þá vissu gat sýslumaður einn veitt honum.
Sigurður sat á götubakkanum fram undir miðmunda nóns og miðaftans um daginn og hugsaði ráð sitt fram og aftur. Strauk hann þá oft hönd um enni, svo hárkollan var að lokum farin að ólagast, en Sigurður gaf henni engan gaum, því sorgir hans voru þungar. - Loks herti hann upp hugann og fór á fund sýslumanns, eins og hann hafði ætlað sér í fyrstunni.
Hann hitti á sýslumann í illu skapi, en fékk þó að tala við hann. Dró hann þá ekki dul á, hve nærri sér hann tæki það, að svo óheppilega hefði til tekist sem nú var raun á orðin, og fór um það mörgum átakanlegum orðum. Sýslumaður svaraði fáu um það, gaf honum að vísu ekki áminningu, en afsakaði hann ekki heldur. Loks stundi Sigurður því upp, sem átti að hrífa hann út úr óvissunni um hugarfar sýslumanns, og bað hann um lausn frá hreppstjórastöðunni.
Sýslumaður var annars hugar og skildi ekki í svipinn, hvað hreppstjórinn fór. Tók hann orð hans fyrir alvöru og hét honum því stuttlega, að hann skyldi fá ósk sína uppfylta.
Þungt hafði Sigurði verið um hjartað, þegar hann gekk þangað inn, en þyngra var honum þó nú, er hann kom þaðan út. Hann hafði gert sér vissa von um, að sýslumaður mundi ekki vilja heyra það nefnt, að hann hætti að vera hreppstjóri og aðstoðarmaður hans. Hann gerði ráð fyrir, að sýslumaður mundi ganga á eftir sér, neyða sig - aldrei láta sig í friði, fyr en hann tæki lausnarbeiðni sína aftur. Það átti að færa honum heim sanninn um það, hvort sýslumaður sakaði hann um hvarf Einars eða ekki. Það átti að verða honum gleðileg uppreisn fyrir vansæmd þá, sem hreppstjóraheiður hans hafði orðið fyrir, verða honum kær endurminning á komandi árum og efni til ánægjulegra frásagna. Það átti að sannfæra bæði hann sjálfan og aðra um það, hve ómetanlegur hreppstjóri hann væri.
Og nú hafði sýslumaður brugðist þannig við beiðninni. Hann hafði ekki talið það úr með einu orði, að hann hætti að vera hreppstjóri. Hvílíkt vanþakklæti! Eitt óhappaatvik gat kollvarpað þeirri sæmd með öllu, sem 20 ára heiðarleg þjónusta hafði aflað honum! Nú var hann úrþvætti, að engu nýtur! Sýslumaður komst af án hans. Einhver eða einhver yrði tekinn í stað hans, sá sem fyrst yrði fyrir hendi. - Og þá var auðvitað, hvernig færi með dannebrogskrossinn. Enginn gat farið að hengja heiðursmerki guðs og konungsins á "afdankaðan" hreppstjóra, sem skilið hafði með vansæmd við stöðu sína.
Nú bitnaði gremja hans á öllu því, sem verið hafði þessari óhamingju valdandi, á strandferðaskipinu, landshöfðingjanum, veizlunni, vinnumönnunum, - en mest af öllu á Þorgeiri.
Sigurður fann hörmum sínum engin orð. Hljóður og niðurlútur gekk hann heim túnið, hægt og með hvíldum, eins og hann bæri þunga byrði. Ekki grét hann, en honum "súrnaði í augum".
-
Þorgeir duldi vel geðshræringar sínar allan daginn. Hann var ekki fálátari en vandi hans var, en sat þó lengst af inni í skrifstofu sinni. Þeir, sem komu að hitta hann þennan dag, urðu einskis áskynja um, að neitt óvanalegt hefði fyrir hann komið, og þjónustufólk hans sá heldur enga breytingu á honum. Margir gerðu sér þó far um að vita, hvort þetta innbrot hefði eigi haft einhver ónotaleg áhrif á hann, og horfðu á hann aðgætnum augum, meðan þeir voru í færi við hann, en gáfust upp að lokum. Þorgeir var alvarlegur sem jafnan, en þó jafnvel viðfeldnari en stundum áður, og svipur hans og viðmót bar ekki vott um neitt það, sem þeir höfðu búist við að sjá.
Þorgeiri var mikil hugraun að því að þurfa að umgangast aðra menn þennan dag. Hann sá það vel á tilliti manna, að þeir njósnuðu um hugrenningar hans. Hann þurfti að hafa sig allan við að villa þeim sjónir, og beitti hörðu við sjálfan sig til þess að kefja hugsanir sínar og tilfinningar, um leið og hann beitti þýðleika við þá. Honum tókst þetta þó vel og fipaðist hvergi, og hann gat gert lítið úr þessu innbroti, gert það broslegt og einskisvert. En lengi fanst honum dagurinn vera að líða. Aldrei hafði hann þráð einveruna jafnmikið og nú.
Loksins leið þó dagurinn til enda. En þegar búið var að loka búðinni, lokaði Þorgeir sig inni í skrifstofu sinni og gekk vel frá öllum dyrum og eins glugganum. Nú skyldi enginn trufla hann framar.
Þegar hann hafði búið þannig um sig, fór hann að ganga um gólf. Honum fanst það jafnan eiga bezt við hugsanir sínar að hreyfa sig eitthvað á meðan hann hugsaði. Þess vegna sat hann sjaldan kyr, þegar hann fékst við þung umhugsunarefni. Þetta kvöld gekk hann eirðarlaus fram og aftur, eins og rándýr í búri sínu. Við og við staðnæmdist hann, þar sem hann þá var staddur, stóð grafkyr stundarkorn og gekk svo aftur af stað.
Nú, þegar hann var orðinn einn, hafði hann ekki framar hemil á hugsunum sínum. Nú hvíldu engin spurul augu annara manna á honum, sem hann þurfti að dyljast fyrir. Allir þeir myrku andar, sem leyndust í hugskoti hans spruttu nú upp og kröfðust áheyrnar. Nú var til lítils að hasta á þá. Nú urðu þeir ekki reknir inn í skúmaskot sín. Nú varð hann að mæta þeim á hösluðum velli og heyja við þá baráttuna. Undan þeim varð ekki komist, því þeir bjuggu í honum sjálfum. Oft höfðu þeir verið honum hvimleiðir hin síðustu árin, en nú voru þeir fleiri og magnaðri en nokkru sinni áður.
Atburðir hinna síðustu daga runnu framhjá hugaraugum hans, hver á eftir öðrum. Brennan kastaði ægiskini á fylkinguna, og andlit Einars heitins í Bælinu, nábleikt, brotið og blóðmarið, með augað hangandi fram úr tóftinni, rak lestina. Hrylling fór um hann allan, eins og hann stæði enn yfir þessu hörmulega útleikna líki úti í beykisbúðinni. Hann vildi láta hugann hvarfla frá því, en gat það ekki. Alt hitt leið lauslega fyrir, kom og fór, eins og hann vildi. Aðeins þessi eina, ferlega mynd stóð föst og starði á hann, skýr og ómáð. Hún gat ekki úr huga hans horfið. Stundum fanst honum hún fá líf, ygla sig og ógna honum, eða glotta og hæðast að hugarkvölum hans. Þá greip hann slík skelfing, að hann átti bágt með að stjórna sjálfum sér. Var vitfirringin að koma yfir hann? - Honum fanst þessi hryllilega, blóðuga mynd ætla að ráðast á sig, taka eitthvað af sér eða bíta sig. Hann vildi hljóða upp, en gat það ekki. Það var sem haldið væri um hálsinn á honum. En frá vörum hins nábleika andlits barst stöðugt sama ákæran, ýmist hrópandi eða hvíslandi, ógnandi eða hæðandi: þennan mann hefir þú drepið.
Eins og til að flýja þessar hugsanir, eða dreifa þeim, þreif hann ofan í vasa sinn og dró þaðan upp böggul þann, sem hann hafði tekið úr vasa Einars, og fletti honum sundur. Þegar hann stakk þessu í vasa Einars, hafði hann verið að flýta sér og lítinn gaum gefið því, hvernig hann gekk frá því. Nú sá hann, hvernig um það var búið. Inst lá umslagið með nafnspjaldinu, utan um það voru peningaseðlarnir brotnir saman, en utan um alt saman hafði hann lauslega sveipað pappírsblaði. Alt var þetta gagndrepa af sjó og dálítið blettað af blóði. Flöskubrot hafði stungist gegnum böggulinn og nælt hann við fötin; hafði rifnað dálítið skarð í seðlana út frá því, þegar hann kipti böglinum upp úr vasa líksins. Seðlarnir þoldu vætuna, og hafði þá ekki sakað. Hann strauk af þeim blóðblettina og varpaði þeim síðan inn í járnskápinn. Hitt fór hann að reyna að brenna eða svíða uppi yfir lampaglasinu; gekk það seint, því bréfin voru vot, en nafnspjaldið úr þykkum pappír; óeldfimum. Hann hætti þó ekki fyr en það var alt brunnið og hann gat mulið fölskvann ofan í hrákadallinn. Þá var það sönnunargagn gegn honum með öllu úr sögunni. Síðan fór hann að ganga um gólf að nýju.
Alt í einu nam hann staðar og leit á báðar hendurnar á sér, hann færði þær nær ljósinu og skoðaði þær vandlega. Ennþá vottaði þar fyrir blóðlit. - Og treyjubarmurinn! Þar voru blettir af harðnaðri blóðskorpu. Hann sneri um vasanum, þar sem böggullinn hafði legið. Þar sá hann líka blóðbletti - og fingraför? Já, það var satt. Hann hafði þerrað af fingrunum á sér niðri í vösunum. Blóð, blóð, dauðablóð - alstaðar var það! Það var sem blóðbjarma brygði fyrir augu honum. Hið skelfilega andlit stóð honum að nýju fyrir hugskotssjónum, hæðilega glottandi, eins og það vildi segja: ennþá er nóg af óbrunnum sakargögnum!
Og með þennan blóðstokkna ham varð hann að dragast daglega héðan af, meðan hann toldi saman. Þetta voru hversdagsföt hans og lítið slitin. Það mundi þykja undarlegt, ef hann legði þau niður eða léti brenna þau. Hann þorði engum að trúa fyrir því, að ná úr þeim blettunum. Engum þorði hann að gefa þau heldur; ef til vill tæki hinn nýi eigandi eftir blettunum, - eða hann kynni að dreyma undarlega, meðan hann ætti þau. - Nei, hann gat ekki losnað við þau, og þó fanst honum sem þau mundu brenna sig í hvert skifti, sem hann færi í þau.
En framan í honum - voru þar ekki blóðblettir? Hann hafði þurkað af sér svitann úti í beykisbúðinni. Hann leit í spegil, en gat þar engan blóðblett fundið, - en "brennimarkið" var þar ennþá.
Og var það nú víst, að sýslumanninn hefði ekkert grunað? Undarlega hafði hann verið stuttur í spuna. Gat það skeð, að hann hefði tekið eftir þessum blóðblettum, ekki meiri brögð en þó voru að þeim? - Og ef sýslumaður hefði nú séð þetta, hvað mundi hann þá hugsa um það? Hvað gat fremur vakið illar grunsemdir en það, að hann hefði verið að rjála við blóðugt líkið, á meðan hann stóð yfir því? - Átti hann nú að lokum alt undir þögn og hlífni sýslumannsins? Var það á valdi þessa gamla kunningja hans og nágranna, hvort hann fékk að halda heiðri sínum og frelsi? Nei, nei, nei, - til annars eins mátti hann ekki hugsa. Ef til vill þætti sýslumanni öll þessi atvik undarleg, eins og fleirum. En engar líkur voru til þess, að hann gæti rakið hið rétta samhengi þeirra. Feginn hefði hann þó viljað leggja mikið í sölurnar til að vita hugsanir sýslumanns um þetta efni. Ef svo væri, að sýslumaður hefði hann grunaðan um hlutdeild í þessum illverkum, þá vildi hann heldur játa á sig glæpina - játa miklu meira en hann var sekur um - játa það á sig, að hann hefði fengið Einar heitinn til að kveikja í húsinu, náð honum úr gæzlunni í Vogabúðum, brotið upp búðina í blóra við hann og að lokum hrundið honum fram af Básunum. - Alt þetta fanst honum hann heldur vilja játa á sig en þiggja sæmd sína og frelsi sem náðargjöf af sýslumanninum.
En hann sá engan veg til þess að komast fyrir þetta.
Þessi tilhugsun píndi hann nokkra stund. Loks þokaði hún um set fyrir öðru umhugsunarefni, sem honum varð nú aftur ríkast í huga. Það voru hin hryggilegu afdrif Einars. Hvernig hafði þetta atvikast?
Hann mintist Einars heitins með söknuði og bar andlit hans í huganum saman við hinar hryggilegu leifar þess, sem nú stóðu honum fyrir hugskotssjónum. Ýmislegt af því, sem þeim hafði á milli farið á liðnum tímum, þaut nú fram í huga hans. Oft hafði hann séð þetta andlit stúrið og mætt yfir bágindum sínum, og oftast hafði honum þá tekist að gera það glaðlegt. Einar hafði verið barnslegur í lund, tryggur og hreinskilinn og gat glaðst og hrygst af litlu. Nú fann Þorgeir, að í raun og veru hefði sér þótt vænt um hann, eins og lítilsigldan bróður. Og nú stóð svipur þessa manns yfir honum, ógnandi og ákærandi, og krafði hann reikningsskapar.
Hvers vegna hafði hann ekki lofað honum að vera kyrrum í Vogabúðum? Þar leið honum vel. Og hvers vegna hafði hann ekki látið hann taka út hegninguna? Þvættingur læknisins hafði átt nokkurn þátt í því. Læknirinn hafði gert hann hræddan um, að Einar væri búinn að segja meira en hann mætti heima í Vogabúðum, eða yrði narraður til þess. En umhyggjan fyrir Einari hafði þó mestu ráðið. Hann vildi gera honum gott, með því að frelsa hann frá hegningarvinnunni, skilja hann frá heimilinu, sem var honum til svo mikils ama, og gera honum kost á að njóta þess, sem enn kynni að vera eftir í honum af mannrænu, og byrja nýtt líf í ókunnu landi. Hann hafði vonað, að léttara væri fyrir Einar að rétta við nú en að endaðri langri hegningarvinnu. Peninga hafði hann fengið honum næga til þess að bæta úr bráðustu nauðsyn, hvar sem hann væri staddur, og séð honum fyrir fari. Þannig var sjaldan í haginn búið fyrir flóttamenn.
En því hafði hann slept honum þannig frá sér? Því hafði hann ekki gengið með honum út fyrir voginn og fullvissað sig um, að hann næði í skipið? Hann hafði þó haft tíma til þess. - Eða tekið kænu við bryggjuna hjá sér og róið með hann yfir voginn? Annað eins hafði hann oft lagt á sig, og ekki hefði það verið annað en holl hreyfing i logninu og svölu næturloftinu. - Nei, honum hafði ekki getað hugkvæmst annað en Einar kæmist slysalaust út að skipinu. Ekki var þó svo dimt, að myrkur gæti orðið nokkrum manni að meini. Hann hafði séð til Einars nokkra stund, eftir að þeir skildu. Þá hafði ekki verið að sjá, að myrkrið bagaði hann. Hann gat því varla hafa gengið fram af björgunum vegna myrkurs. En hvað hafði þá getað orðið honum að voða?
Flaskan, - konjaksflaskan? Gat það verið? Víst var áfengi voði í höndum sumra manna, en aldrei hafði hann talið Einar á meðal þeirra. Honum hafði þótt gott í staupinu, hann hafði þolað lítið og stundum verið "á túr" nokkra daga. Það var alt og sumt. Þess á milli hafði hann unnið vel og stilt sig alveg um að drekka. Gat það skeð, að hann hefði sezt að flöskunni, undir eins og hann var kominn í hvarf, og drukkið sig svo "blekblindan", að hann hefði álpast fram af Básunum? Þorgeir hristi höfuðið. Hann, sem jafnan hafði verið hófsmaður í vínnautn, gat ekki trúað því, að nokkur maður gæti nokkurn tíma verið svo sólginn í áfengi, að hann gæti ekki borið flösku í barmi sínum hálfrar klukkustundar spöl án þess að hvolfa í sig úr henni.
Eftir því, sem Þorgeir velti þessu lengur fyrir sér, varð honum það óskiljanlegra. Honum fanst sem atburðirnir væru flæktir saman í ramma bendu, sem mannlegri skynjan væri um megn að greiða úr. Hver var tilgangur hinna huldu örlagavalda með þessu undarlega tafli lífs og dauða?
Loks hneigðist hugur Þorgeirs helzt að því, að hér gæti varla verið um slys að ræða, heldur - sjálfsmorð.
Hafði hann verið of harður í kröfum við Einar? Var til of mikils ætlast af honum, að hann gæti rifið sig frá öllum ástæðum sínum hér og reynt að byrja nýtt líf annarstaðar, þó að alt væri lagt upp í hendurnar á honum? Hafði hann ekki haft kjark til að framkvæma það, og þá tekið til þeirra óyndis úrræða að stytta sér heldur aldur - og það með þessum voðalega hætti?
Það rifjaðist upp fyrir honum, hverju Einar hafði svarað, þegar hann hafði spurt hann um, hvers vegna hann hefði kveikt í húsinu. "Ég gat ekki annað", hafði hann sagt. Þannig var því eflaust farið. Hann gat ekki annað en fylgt ráðum hans og bendingum, meðan hann var undir beinum áhrifum hans. Þegar hann var kominn frá honum, tók hann til sinna ráða að nokkru eða öllu leyti. Við brennuna stal hann baunasekk og lét handtaka sig, en í staðinn fyrir að hlaupa brott, þá, - - já, hvað hafði hann nú gert?
Það var sem vilji hans hefði verið að hálfu leyti frjáls og að hálfu leyti bundinn. Ef til vill hafði slíkur tvíveðrungur nú leitt hann til sjálfsmorðs.
Hann mintist hans, þar sem hann stóð frammi við dyrnar, þegar hann var að búa hann af stað, stappa í hann stálinu og stinga á hann peningunum. Hann hafði ekkert orð sagt. Þorgeir hafði lítinn gaum gefið honum þá. Hann hafði trúað svo fast á ágæti ráða sinna og heilræða, að hann hafði ekki getað skilið í, að Einar gerði það ekki líka. Nú stóð mynd Einars honum skýr fyrir huga. Hann hafði þagað. En hvað var það, sem þessa stundina hafði barist um völdin í sál þessa mædda og hugdeiga manns? Var það sjálfsmorðshugsunin? Var hún búin að sigra, þegar þeir kvöddust utan við húsin augnabliki síðar og grátstafurinn titraði í rödd hans? Var það slík voðaákvörðun, sem gerði hann léttan í spori eins og mófugl, þegar hann hljóp af stað, svo varla heyrðist til hans á brúnni?
Þorgeir settist á stól sinn við skrifborðið, studdi olnbogunum á borðbrúnina, en höndunum undir brennheita hvarma sína og enni. Hann stundi þungan, en gráts var honum varnað, eins nú sem oftar. Hingað til hafði alt hans líf verið heiðarlegt, með sannleika og göfugmensku í merki sínu, en rausn og metnað í stafni. Þrátt fyrir þungar raunir hafði það þó verið farsælt, því það hélt innra hreinleika sínum og drenglyndi, sem var uppspretta hamingju og hamingjuvona. Ávalt hafði hann gert það, sem hann áleit bezt og réttast, stefnt beint á takmark sitt, verið fylginn sér, en undirferlislaus. Ekkert slysalegt eða ósæmilegt þyngdi hugann, fyr en nú. Þessar raunir voru hans þyngstu raunir.
Og samt var hann ennþá í efa um, hvort hann væri í raun og veru sekur um nokkuð það, sem hann hefði getað ráðið við eða afstýrt. Efinn - hinn miskunnarlausi efi - lamdi sál hans með gaddasvipum sínum, ásakaði hann og afsakaði til skiftis og gaf honum engin grið. Þegar hann horfði í ljósið á borðinu, fanst honum sér hægjast um hugann. En þegar hann þreyttist á því og lokaði augunum eða byrgði þau í höndum sér, varð fyrir þeim sem blóði litað rökkur, og í því miðju sýndist honum hann sjá stórt, blóðstokkið auga, sem starði á hann. - Við þá sýn hrökk hann upp.
Hann fann, að hann mátti ekki sitja um kyrt og sökkva sér niður í hugsanir sínar án þess að hafast eitthvað að. Hann leit því ráðþrota í kringum sig, eins og til að leita að einhverju starfi.
Skrifborðið vakti þegar eftirtekt hans.
Þar lágu bækur og blöð, hvað ofan á öðru. Reikningsblöðum, sendibréfum og dagblöðum, verzlunarbókum og öðrum bókum ægði þar saman. Hálfgert í leiðslu og hálfgert til að reyna að dreifa hugsunum sínum, fór hann að raða þessu eða taka það til handargagns.
Meðal annars varð þar fyrir honum bók með skrautgyltum kili og gylt í sniðum. Það var ein af uppáhaldsbókum hans. Einhvern tíma ekki alls fyrir löngu hafði hann tekið hana með sér út úr bókaskáp sínum í stofunni og farið að lesa í henni sér til afþreyingar. Síðan hafði hún legið innan um aðrar bækur á skrifborðinu og varð nú fyrir honum. Bókin var "The Poetical Works of Lord Byron".
Hann opnaði bókina af handahófi; en hún opnaðist þar, sem hún var mest lesin. Það var í ljóðleiknum "Manfred". Hann leit í opnuna, og varð þar undir eins fyrir honum kafli, sem hann kannaðist við, eða kunni að nokkru leyti. Hann fór að lesa, fyrst utan við sig og athugalítið. En eftir nokkrar línur vaknaði athygli hans. Hann byrjaði aftur á þessum kafla og las hann nokkrum sinnum, hvað eftir annað. Hendingar þær, sem helzt vöktu athygli hans, hljóða þannig í hinni íslenzku þýðingu séra Matthíasar:
- "Sjóðheitur gnauðar inst í reginauðnum
- stormurinn Samum, einn og ömurlegur.
- Þar hamast hann og þyrlar þurrum öldum,
- en má ei grasi granda; alt er sandur.
- Hann leitar einskis, ekkert leitar hans;
- en á hans vegi' að verða er bráður bani".
Honum fanst hann sjá sig í spegli í bókinni. Gat það verið, að hann væri líkur eða skyldur hinum tröllaukna skáldanda, sem hamast og ber sjálfan sig saman við hin hrikalegustu öfl náttúrunnar? Var hugur hans sjálfs einn slíkur Samum, sem "hamaðist" "inst í reginauðnum", lítill að vísu, en þó gæddur tortímingarmagninu?
Hann rak minni til margra einverustunda, þar sem hugsanir hans og ástríður höfðu hamast við sjálfar sig og tortímt sjálfum sér, um leið og þær færðu hann sjálfan, sem bar þær í brjósti, tortímingunni nær og nær. En á slíkum stundum var hann einn. Hann leitaði einskis og enginn leitaði hans. - En eitt sinn hafði þó út af þessu borið. Og þá hafði hugur hans blásið banvænum gusti í brjóst annars manns. Hann hafði gert Einar heitinn að trúnaðarmanni sínum að nokkru leyti. Ef til vill hafði sá litli hluti af áhyggjum hans, sem hann hafði hlaðið á herðar þessum manni, orðið honum um megn. Fyrst höfðu þær knúið hann til ódæðis - og síðan til sjálfsmorðs - eða - -? Það mátti einu gilda, hvort hér var um sjálfsmorð eða slys að ræða. Tillit hans hafði drepið hann. Orð, sem ekki voru töluð, heldur aðeins hugsuð, höfðu riðið honum að fullu, fyrst siðferðislega og svo - á einhvern dularfullan hátt - einnig líkamlega.
Hann var sem örvilnaður yfir þessum hugsunum. En þetta var hin skelfilega ráðning gátunnar. Hann var sekur. Hann var sekur um það, að hafa ekki stjórnað geði sínu og byrgt harma sína inni. Nú datt honum í hug spakmælið gamla: Sá, sem stjórnar geði sínu, er meiri þeim, sem yfirvinnur borgir. Röddin í brjósti hans talaði satt: þennan mann hafði hann drepið.
Hann kastaði bókinni frá sér. Hún hafði rétt honum lykilinn að gátunni. Nú þurfti hann hennar ekki við framar. En honum fanst sem hulin hönd hefði bent sér á hana á þessari stundu - ef til vill sama höndin, sem sent hafði honum eldskíðið úr brennunni.
Hann stóð upp og gekk eða reikaði fram og aftur um gólfið, ráðþrota, yfirkominn af þreytu og hugarstríði.
En svo fór hann að hugsa um það, hvers vegna hann væri orðinn slíkur. Slíkt þunglyndi og slík ákefð í skapi var honum ekki meðfædd. - Nei, hún var verk hinna seinni áranna. Hún var fram komin við þungar raunir, við margendurtekin svik, óheilindi, vonbrigði og vanþakklæti; við misskilning á manngildi hans og hæðilega meðferð á hugsjónum hans. - Þeir - þeir, sem höfðu gert þetta alt saman, áttu sök á því, hvernig hugarástandi hans var nú komið.
Og innan skamms breyttist æðra hans í brennandi gremju, brennandi hatur til mótstöðumanna hans. Hingað til hafði hann gert þeim gott, - nú skyldi hann gera þeim ilt. Hann skyldi hefna sín. - -
Þegar Þorgeir slökti ljósið og gekk inn í svefnherbergi sitt, breiddi dagskíman úr glugganum sig yfir rúmið. Hann háttaði án þess að kveikja og ætlaði að reyna að sofna undir eins. - Þegar hann var í þann veginn að festa blund, hrökk hann upp með andfælum. En um leið og hann vaknaði, sýndist honum nábleik ásýnd, hryllilega sködduð, með blóðstokkið auga fram úr tóftinni, - svífa í lausu lofti yfir sænginni.
Eftir þessa sýn - eða draum - fékk hann ákafan hjartatitring; sem aldrei ætlaði að sefast aftur. Eftir nokkra stund fór hann á fætur með veikum burðum, náði í portvínsflösku frammi í hornskápnum í skrifstofunni og hafði hana með sér inn í svefnherbergið.
Loksins, um það leyti sem sólin kom upp, gerði vínguðinn það miskunnarverk að vagga honum til værðar og gleymsku við barm sinn.
11. kafli - RáðstefnurSveitarstjórnin annaðist útför Einars. Hún fór fram nokkrum dögum eftir atburði þá, sem síðast var frá sagt, og var ekki mikið við haft. Fáir af þeim, sem unnið höfðu með honum daglega, fylgdu honum til grafar. Margrét hans fylgdi honum með börnin öll fjögur, og nokkrar konur úr hinum kotunum fóru með. Eldri börnin grétu sárt yfir kistu föður síns, en hin yngri horfðu undrandi upp á fullorðna fólkið og skildu lítið í því, sem fram fór. Margrét grét stillilega; þó var það auðséð, að harmur hennar var meiri en hún hirti um að láta hann sýnast. Margar raunir ýfðust upp við þetta tækifæri, og margt hafði þeim hjónunum á milli farið, sem betra hefði verið að komast hjá. Var því sárara að sjá þetta nú, sem það var um seinan. - Einnig var henni nú dimt fyrir sjónum, er hún leit fram á veginn, með fjögur börn við hlið sér.
Líkið var ekki borið inn í kirkjuna og engin ræða yfir því haldin. Enginn hafði beðið um hana og enginn var til að borga hana. Hreppsnefndinni þótti nógur kostnaðurinn samt. Presturinn jós hann mold með venjulegum ummælum um það, að af jörðunni væri hann skapaður, að jörðu skyldi hann aftur verða, og af jörðunni skyldi hann aftur upp rísa. Grafararnir tóku ofan höfuðföt sín og studdust fram á spaða sína rétt á meðan; annars var ekki tafist að óþörfu. Á eftir tók presturinn í hönd Margrétu og mælti til hennar fáein hughreystingarorð.
-
Daginn eftir jarðarför Einars héldu þeir kaupfélagsmenn fjölmennan fund í barnaskólahúsi Vogabúðakaupstaðar í tilefni af tjóni því, sem félagið hafði nýlega orðið fyrir. Fundarboð hafði verið borið bæ frá bæ um allar sveitirnar, og allir, sem að heiman gátu komist, sóttu fundinn. Barnaskólahúsið var troðfult. Á bekkjunum, sem raðað var fram með veggjunum, sat hver ofan á öðrum, að heita mátti. Skólaborðin voru einnig notuð fyrir sæti, og fullskipað á þau. Samt urðu margir að standa, og þjöppuðu þeir sér saman frammi við dyrnar.
Sveinbjörn í Seljatungu, bróðir Sigurðar í Vogabúðum, var formaður félagsins og stýrði fundinum. Við hlið hans sat maður, sem vel var í skinn komið, höfðinglega búinn, með mikla glæsibringu. Það var umboðsmaðurinn á Klaustrinu. Hann var ritari félagsins og grúfði nú lengst af yfir bókum sínum og blöðum. Á vinstri hönd formanni sat hreppstjórinn í Vogabúðum, því hann var gjaldkeri félagsins. Var hann nú svipþungur og horfði í gaupnir sér. Friðrik og Sveinbjörn, synir Sigurðar, voru þar einnig innarlega, þótt ekki sætu þeir við háborð stjórnarinnar. Friðrik hafði lítið borð fyrir framan sig og var í fundarbyrjun sokkinn niður í skjöl, sem á því lágu. Utar frá þessum mönnum þrengdu aðrir fundarmenn sér saman á báða bekki.
Sveinbjörn í Seljatungu var talinn bænda fremstur þar um slóðir, greindur maður og gætinn, en framkvæmdasamur, þótt hann færi hægt. Hann var svipaður Sigurði bróður sínum að útliti og rakaði skegg sitt á sama hátt og hann. Hárkollu bar hann enga, heldur virðulegan, íslenzkan bændaskalla og hæruskotinn hárkraga umhverfis. Svipur hans var stillilegur og góðmannlegur, en bar þó vott um festu og framgjarnan vilja, og þegar hann sat í formannssæti kaupfélagsmanna á fjölmennum fundi, naut hann sín vel og var hinn skörulegasti.
Sveinbjörn setti fundinn og mæltist til þess um leið, að félagsmenn hefðu það hugfast að vera fáorðir um gerðir þessa fundar við utanfélagsmenn, því undir því væri mikið komið fyrir hag félagsins. Þetta varð til þess, að menn urðu þegar í byrjun fundarins hljóðir og alvarlegir og allur ys hætti, því öllum fanst sem eitthvað mikilsvert og hátíðlegt væri á seyði. Einnig varð það til þess, að dyrnar voru hafðar læstar og vel varðaðar, svo enginn kæmi inn á fundinn að óvörum.
Að því búnu hélt Sveinbjörn ræðustúf frá formannssæti. Skýrði hann þar frá tilefni fundarins og fór nokkrum orðum um hið mikla óhapp, sem félagið hafði hent. Því næst lýsti hann því yfir, að Friðrik kaupmaður, frændi sinn, mundi skýra nánar frá því tjóni, sem félagið hefði orðið fyrir, og gera grein fyrir því með fám orðum, hvernig hagur félagsins stæði og horfur þess væru.
Formaður settist síðan niður, en Friðrik tók til máls. Hann var þungbúinn á svip og heldur málstirður, einkum framan af. Þuldi hann upp skrár yfir alt það helzta, sem brunnið hafði, og gaf mönnum stutt og glögt yfirlit yfir brunaskaðann með tölum. Námu þær fjárhæðir að samanlögðu mörgum tugum þúsunda. Menn hlýddu á þetta steinhljóðir, svo heyra hefði mátt flugu anda. Tóku hár sumra félagsmanna að rísa á höfðum þeirra við allar þessar þúsundir króna. Aftur sat stjórnin bjargföst á stólum sínum, svo hvorki datt af henni né draup; var það mönnum til hugarhægðar, því þangað stefndu allra augu. Á meðan stjórnin ekki æðraðist, gat engin hætta verið á ferðum.
Enda reyndist það svo, því þegar Friðrik var búinn að þylja upp allar skaðafjárhæðirnar, fór hann að tína það til, sem á móti átti að koma. Hið nýja vöruhús hafði verið nýlega vátrygt og búið að ganga svo frá vátrygging þess, að engin hætta væri á því, að hún yrði gerð ógild. Þeir höfðu því vissu um að fá þann skaða bættan. Við þessa fregn vörpuðu margir bændur léttilega öndinni, því betri var hálfur skaði en allur. Prísuðu þá margir forsjálni og fyrirhyggju stjórnarinnar svo hátt, að bæði umboðsmaðurinn á Klaustrinu og hreppstjórinn í Vogabúðum fóru að líta upp. - Þannig átti það að vera!
Að því er vörurnar snerti var hljóðið í Friðriki nokkru daufara. Um þær gilti gamla vátryggingin. Þeir höfðu jafnan haft vörur sínar vátrygðar síðan félagsskapurinn og verzlunin hófst. Fyrir tveim árum höfðu þeir hækkað vátrygginguna ríflega, en samt var hún nú of lág; svo mjög höfðu pantanir manna og vörubirgðir aukist. Þessi vátrygging náði yfir allar þær vörur, sem geymdar voru í húsum þeirra bræðranna og Kaupfélagsins að samanlögðu, eins yfir þær vörur, sem bændur áttu þar ósóttar, svo skaðinn legðist jafnt á alla. Sagði hann, að stjórn félagsins hefði fundið slíka ábyrgð tryggilegasta, þótt hún væri dýrari, og henni væri það nú að þakka, að ekki stæðu margir menn uppi bjargarlausir og vonlausir um björg. - Svo urðu margir glaðir við þessi tíðindi, að þeir lyftust upp í sætum sínum. Voru þá baukar og dósir á lofti um allan salinn, því margir höfðu þá lyst á tóbaki. Allir litu til stjórnarinnar; en hún sat jafnóbifanleg og áður. Hvorki hrygðar- né gleðiefni höfðu áhrif á hana.
Friðrik hélt áfram. Hann skýrði nú frá því, að þótt nokkur skaði væri að vörubrunanum, vegna lágrar vátryggingar, þá væri það bót í máli, að húsið hefði verið hærra virt og hærra vátrygt en það í raun og veru hefði kostað félagið. Þar kæmi því dálítill ágóði til jafnaðar á móti tjóninu af vörunum. Þó jafnaði þetta sig ekki að fullu, og væri ennþá talsverður skaði, sem lenda hlyti á félagsmönnum. Hann var að vísu ekki nema lauslega reiknaður ennþá, en þó höfðu þeir komist það næst því sanna, að hallinn mundi nema um 5 þúsundum króna. Þessum skaða hefði stjórnin hugsað sér að skifta í tvo helminga, og leggja annan þeirra á hlutafélag það, er húsin ætti og verzlunina, en hinn á Kaupfélagið í heild sinni. Hlyti það að koma allhart niður á þeim, sem ættu marga hluti í félaginu; enda væru það þeir mennirnir, sem mest væru færir um að bera; en hinn partinn bæru allir félagsmenn jafnt. Þó væri þetta ekki annað en uppástunga, og lagt á fundarins vald, hvað hann gerði í þessu efni.
Með þessu lauk Friðrik máli sínu, og var gerður að því góður rómur. Varð nú ys og ókyrð í salnum, því hver um sig vildi láta eitthvert álit í ljós, þótt ekki væri nema við sessunaut sinn. Fjárhæð þessi óx mönnum ekki svo mjög í augum. Þeir höfðu búist við meiru. Það var líka hugfró fyrir hina efnalitlu, - en þeir voru í miklum meiri hluta, - að ósvikinn skamtur af skaðanum lenti á hinum efnuðu, er betur voru við honum búnir. Aftur hætti þeim við að láta brýr síga, sem mörg áttu hlutabréfin heima í kistu sinni.
Formaður stóð nú upp úr sæti sínu, las upp skriflega tillögu stjórnarinnar um þetta atriði og spurði um, hvort menn vildu ekki ræða hana. Ysinn og hvískrið hélt áfram um allan salinn, því nú voru allir að reikna saman, hve mikið kæmi á þá hvern um sig, en enginn tók til máls. Loks heimtaði formaður hljóð og bar tillöguna undir atkvæði. Hún var samþykt með öllum greiddum atkvæðum.
Næsta mál á dagskrá var það, að útvega félagsmönnum nauðsynjavörur til vetrarins. Formaður gat þess, að þetta væri það, sem nú riði mest á, og þyrfti að vinda að því bráðan bug; annars væri sýnileg neyð fyrir dyrum. Úr þessu þyrfti nú fundurinn að ráða, og það skjótt og skýrt, því sumri væri þegar tekið að halla og hver stundin dýrmæt. Þetta fanst öllum satt vera. Urðu nú margir hljóðir við, því hér bar alvarlegt mál að höndum. Hætti þá alt hljóðskraf, en mörgum hætti við að klóra sér á bak við eyrað og aka sér vandræðalega, því mikið var undir því komið, hvernig þessu máli lyki. Flestir horfðu til stjórnarinnar, sem sæju þeir þar upphaf allrar vizku og góðra ráða í félaginu. En hún sat blýföst á rökstólum sínum, óbifanleg að vanda, svo enginn gat rent grun í, yfir hverja hún byggi. Það var því steinhljóð nokkra stund.
Loks stóð formaðurinn upp að nýju og kvaddi sér hljóðs. Kvað hann félagsstjórninni hafa borist erindi frá Þorgeiri verzlunarstjóra þar á staðnum og las upp nokkuð af bréfi hans, sem ritað var á stóra örk og lagt hafði verið inn í stórt, gult umslag. Fór Þorgeir þar hlýjum orðum um innilega hluttekning sína í raunum þeim, sem félagið hafði hent, og vilja sinn á því að rétta því hjálparhönd til viðreisnar á einhvern hátt, ef ekki sem verzlunarstjóri, þá þó að minsta kosti sem maður og samborgari. Kvað hann félagsstjórninni velkomið að leita til sín um eitthvað, ef henni hugkvæmdist, að hann gæti orðið henni að liði. Skyldi það verða sér gleði að verða við óskum hennar, ef sér væri það unt. Því næst skýrði hann félagsstjórninni frá því, að hann ætti von á seglskipi þá um haustið, hlöðnu nauðsynjavörum til vetrarins. Þennan skipsfarm gæti hann eftirlátið félaginu, allan eða nokkuð af honum, til bráðabirgða, ef því lægi á. Kvaðst hann að vísu taka þennan greiða upp á sig, því ekki hefði hann getað náð til yfirmanna sinna, en boð sitt skyldi standa, hvað sem öðru liði. Gæti félagið, eftir samkomulagi við sig, endurgreitt vörurnar með sömu vörum, þegar það fengi þær, með íslenzkum vörum eða peningum. Ef það greiddi peninga fyrir vörurnar, skyldi hann láta þær með útlendu innkaupsverði, að viðbættum þeim kostnaði, sem leiddi af flutningi þeirra. Sagðist hann gera þetta til að afstýra yfirvofandi neyð meðal félagsmanna, og vildi hann sýna með því, að ekki bæri hann kala til félagsins, þrátt fyrir samkepni þá, sem á undan væri gengin. Eftir viðreisn þess gæti hann og Kaupfélagið búið hvort að sínu, eins og hingað til. -
Lengra las Sveinbjörn ekki að sinni.
Þessi tíðindi voru óvænt í félaginu. Meðan formaður las bréfið, einblíndu flestir á hann, en skotruðu þó augum hver til annars við og við. Hvað kom að Þorgeiri?
Þegar Sveinbjörn hafði hætt lestrinum, varð hljótt í salnum. Menn litu að vanda til stjórnarinnar og biðu goðasvarsins þaðan. Nokkrir fóru þá að stinga saman nefjum um, að vel væri þetta boðið, og ekki vofði neyð yfir félaginu, meðan slíkt boð stæði. Út frá þessu leiddist samtalið manna á milli að brennunni. Þar hafði Þorgeir gengið drengilega fram og jafnvel lagt sjálfan sig í hættu. Honum áttu kaupfélagsmenn það að þakka, að skaðinn af eldinum varð ekki hálfu meiri. Nú þóttust margir sjá nýjan vott um sanna velvild hans til félagsins. Enginn gat ímyndað sér, að hann fengi þakkir hjá yfirmönnum sínum fyrir slíkar tiltektir. Boðið hlaut því að vera gert af hjálpfýsi hans sjálfs. Um þetta voru menn að hvískra nokkra stund, og lágu öllum heldur hlýlega orð til Þorgeirs.
Nokkrir stóðu upp og tóku til máls, en töluðu stutt, því þeir vissu ekki, hvað þeir áttu að segja. Ráð þeirra var alt á reiki gagnvart þessa tilboði. Þó var auðheyrt á orðum þeirra, að þeir aðhyltust það og vildu fegnir taka því. Enginn þorði þó að segja það berum orðum eða gera neina ákveðna tillögu, því enginn vissi, hvernig stjórnin mundi taka í þetta mál. Það kom flatt upp á alla aðra, en hún hlaut að hafa hugsað það. Enn fór því svo, að allra augu litu innar eftir salnum til hinnar vísu þrenningar.
En stjórnin var spök í sætum sínum. Formaðurinn hallaði sér makindalega aftur að stólbakinu og lék sér að blýantinum sínum. Umboðsmaðurinn á Klaustrinu dró ýsur yfir fundarbókinni, en Sigurður í Vogabúðum nagaði neglur sínar og var furðu iðinn að því. Synir hans sátu líka steinþegjandi, og Sveinbjörn meira að segja smágeispandi. Þannig leið dálítil stund; en þá þótti stjórninni loks kominn tími til að leysa menn úr þessum álögum.
Formaður skygndist þá um til beggja handa, til að sjá, hvort nokkur væri að biðja um orðið. Þegar svo var ekki, stóð hann upp, hægt og seint. Sagðist hann ekki hafa verið búinn að lesa bréf Þorgeirs til enda. Hefði hann frestað síðara parti þess vegna þess, að það kæmi ekki þessu máli við, en heyrði í raun og veru undir annan lið dagskrárinnar. En úr því menn væru svo daufir að ræða tilboðið, væri réttast, að þeir fengju að heyra alt bréfið.
Síðan las hann upp seinni hluta bréfsins. Þar skýrði Þorgeir frá því, að nú byðust sér daglega til kaups hlutabréf í aðalfyrirtæki félagsins og eignum þess. Væru það einkum hinir fátækari félagsmenn, sem nú mundu hafa dignað við óhappið og vildu fegnir losa sig við þessi verðbréf sín. Kvaðst hann nú þegar hafa keypt nokkur hlutabréf og mundi eflaust kaupa fleiri, ef samkomulag næðist við stjórn félagsins. Kvaðst hann hafa svo örugga trú á viðreisn félagsins og framtíðargengi þess, að hann teldi það ekki vera að hætta fé sínu, að leggja það í starfsemi þess. Þó sagðist hann að sjálfsögðu ekki mundu kaupa fleiri, nema hann fengi fulla vissu um, að félagið vildi unna sér jafnréttis við aðra hluthafa. Kvaðst hann hafa lesið lög þess, þau er giltu fyrir hlutafélagið, og vitnaði í 8. gr. þeirra, 3. lið, því til stuðnings, að handhafi hlutabréfs hefði atkvæðisrétt í félaginu um þau mál, er þá starfsemi þess varðaði. Væri þetta líka í fullu samræmi við það, sem hlutabréfin bæru með sér sjálf. Af þessu tilefni hefði hann í hyggju að koma á fundinn til viðtals við félagsmenn, þegar hann frétti eða héldi, að þeir væru búnir að ræða önnur félagsmál sín. Mættu félagsmenn vera þess fullvissir, að hann kæmi þá til þeirra sem vinur og stuðningsmaður og vildi þeim gott eitt.
Mikið hafði mönnum fundist til um fyrri hluta bréfsins, en ekki hafði síðari hlutinn síður dregið að sér athygli þeirra. -
Þegar lestrinum var lokið, sátu menn sem steini lostnir. Hefði undrun þeirra varla getað meiri orðið, þótt þekjan hefði horfið af húsinu, hljótt og hávaðalaust, þeir séð himnana opnast og engla svífa ofan til þeirra og upp að föðurskauti Abrahams til skiftis. En með gleði endaði þessi undrun ekki, þegar menn fóru að átta sig á því, sem þeir höfðu heyrt. Nú þóttust allir sjá, að hér lægi fiskur undir steini. Annaðhvort var bréf þetta veiðibrella og fjörráð við félagið, eða það var háð og storkun frá upphafi til enda.
Horfðu menn nú hver til annars með miklum áhyggjusvip, en töluðu lítið, því enginn þóttist viss um, að sín skoðun fengi fylgi í slíku vandamáli sem þessu. Sveinbjörn formaður var seztur niður og stjórnin lét enn ekkert á sér bæra. Margir fóru nú að líta í lög félagsins, einkum 8. gr., 3. lið. Stóð þar svart á hvítu, að hlutabréfin væru stíluð upp á handhafa og skyldu atkvæði talin eftir hlutabréfum, en ekki mönnum. Fanst þá engum efi geta á því leikið, að fyrst Þorgeir væri orðinn eigandi hlutabréfa, þá ætti hann heimtingu á því að fá að koma á fundinn, þegar þessi mál félagsins væru rædd, og hafa þar sömu réttindi og aðrir fundarmenn. Mörgum var þá þegar sem sæju þeir hann mitt á meðal sín; enda mundi það tæplega dragast lengi úr þessu. Vakti slík tilhugsun ókyrð á bekkjunum og ímugust í brjóstum manna; því til voru þeir í félaginu, og kannske fleiri en nokkur hugði, sem heldur hefðu þolað að sjá sjálfan fjandann inni á fundum sínum en Þorgeir verzlunarstjóra. Voru það einkum þeir, er sízt vildu rifja upp sögu viðskifta sinna við hann og sneiddu því hjá honum, hvenær sem þeir gátu.
Stjórnin sat óbifanleg sem áður. Ekkert af því, sem á fundinum gerðist, kom henni algerlega á óvart. Þó var ef til vill engum órórra innanbrjósts en þeim mönnum. Þótt þeir þyrðu sjálfir að horfast á við Þorgeir, var ekki trútt um, að þá óraði fyrir því, að ekki mundi færri augum, verða horft þangað, sem hann var fyrir, en til þeirra, ef hann kæmi þangað og ílengdist. Ennþá mundi mörgum standa geigur af honum, þótt tekinn væri hann að eldast, og seint mundi hann algerlega fylgi skorta, meðan hann gæti uppi staðið og merki haldið. Og væri hann þar nú, er slík vandamál voru til meðferðar, var þeim ekki ugglaust um, að friður og eindrægni mundu fara út um þúfur. En slíkar heillafylgjur höfðu jafnan fylgt félagsskap þeirra og greitt götu hans. Enda voru þeir tæplega ánægðir með minna af því tagi en svo, að allir félagsmenn horfðu til stjórnar sinnar og biðu þess með dæmalausri þrautseigju, að henni þóknaðist að segja eitthvað, svo þeir gætu verið henni sammála.
Við slíka þögn mátti þó ekki lengi una. Sigurður í Vogabúðum leit upp og hætti að naga neglur sínar. Þegar hann sá, að enn sátu allir hljóðir, sagði hann hátt og djarflega:
"Má ég biðja um orðið!"
Gustur var af hreppstjóranum, þegar hann stóð upp. Hann strauk hendinni yfir ennið og frambörðin á hárkollunni frönsku, meðan hann sótti í sig veðrið. Síðan byrjaði hann:
"Ég vona, að þeir séu fáir meðal félagsmanna, sem eru svo blindir, svo skammsýnir, að þeir sjái ekki, hvað hér er að gerast. Það er verið að storka félagi okkar í raunum þess. (Margir: heyr! heyr!). Það er verið að smána það með tilboðum, sem allir vita, að því dettur ekki í hug að þiggja. (Eitt eða tvö: heyr!). Og það er verið að hóta okkur að brjótast inn á fundi okkar og rugla þar friði og samvinnu. (Alment: heyr!). Þessi maður, sem þetta bréf hefir ritað, er ekki einungis keppinautur félagsins, heldur svarinn óvinur þess og vill alt til vinna að koma því á kné (heyr!). Nú kemur hann í sauðargæru - aldrei þessu vant, - og þykist vera vinur okkar, býður kostaboð og vill komast inn til okkar. En varið þið ykkur. Í þessari gæru er ekki sauður, heldur úlfur (heyr!), eða réttara sagt refur (heyr, heyr, heyr!). Þann dag, sem félagið þiggur nokkuð af honum, þann dag, sem það gleypir agn hans og opnar honum dyr sínar, þann dag er lífi þess lokið; þann dag stígur það með annan fótinn ofan í gröf sína (heyr!). Látið ekki ginnast af fagurgala þessa manns, því hann er lævi blandinn. Frá honum hefir félagi voru ekkert gott komið og mun aldrei koma (heyr, heyr!). - Ég legg því eindregið til - og hygg, að ég geri það að samhuga vilja allrar stjórnarinnar, - að tilboði Þorgeirs sé hafnað (heyr, heyr! - margir í einu) og honum verði aldrei hleypt hingað inn" (heyr, heyr!).
Þegar Sigurður hafði lokið ræðunni, settist hann niður aftur, strauk svitann af enninu og gætti þess vandlega að raska ekki "þeirri frönsku", því nú horfðu allir á hann. Hann var keikur í sæti og fann vel til þess fylgis, sem orð hans höfðu hlotið.
Menn gerðu yfirleitt hinn bezta róm að ræðu Sigurðar, þótt sumum þætti hann nokkuð æstur og allharðorður í garð Þorgeirs. En nú hafði einn af mönnunum í stjórninni talað, svo menn óðu ekki framar reyk um afstöðu hennar í þessu máli. Brátt fóru menn að tala fjörugt saman í sætum sínum um málið, og leizt þó flestum eitt.
Þá heyrðist mjó rödd og veikluleg gegnum skvaldrið. Hún kom úr Jóni á Fitjum, bónda, heldur efnuðum töldum, þar uppi í sveitunum. Hann sat þar frammi á öðrum hliðarbekknum og hvarf næstum milli tveggja stórra manna, er þar sátu hjá honum, en Jón var lítill maður vexti og ærið grannur og horaður, svo ekki fór mikið fyrir honum. Hann var þunnleitur og kinnfiskasoginn, ætíð rauður á kinnbeinunum, en stundum blár í kinnum og á vörum og hvorki karlmannlegur né fríður. Þó lýtti það andlitið mest, hve heimóttarlegt það var og óupplitsdjarft. Sögðu gárungarnir, að Jón væri altaf grátandi, eða að minsta kosti kjökrandi, og var ekki fjarri því, að svo sýndist í fljótu bragði. Það bætti heldur ekki úr, að röddin var veik og væluleg. Eigi að síður var Jóni ætíð mál að tala á hverjum mannfundi. Hann hafði setið "kjökrandi" frá því fundurinn hófst. Nú þoldi hann ekki mátið lengur.
Undir eins og Jón byrjaði að tala, fóru fundarmenn að smákíma, bæði af því, að Jón lagði mikla áherzlu á orð sín og vældi þá átakanlega, svo grátur og ekki kvað við í hverju orði, en þó ekki síður af hinu, að það, sem hann flutti var ekkert annað en ræða hreppstjórans öfug, því Jón byrjaði þar, sem hreppstjórinn hætti, og fikraði sig svo fram eftir ræðunni að hinum endanum:
"Ég er alveg sammála þeim, sem síðast talaði", sagði hann. "Ég styð það, að tilboði Þorgeirs sé hafnað og honum verði aldrei hleypt hingað inn. Frá honum hefir ekkert gott komið til handa þessu félagi og mun aldrei koma (hlátur). Þið hlæið að mér, - en látið ekki fagurgala þessa manns blekkja ykkur, því hann er lævi blandinn. Þann dag, sem hann kemur, er lífi félagsins lokið, þá stígur það ofan í gröf sína. - Ég segi fyrir mig - (hlátur). Ég gleypi aldrei agn hans - - ".
Hláturinn var orðinn svo hávær og almennur í fundarsalnum, að Jón varð að hætta, áður en hann væri kominn að byrjuninni á ræðu Sigurðar.
Flestum félagsmönnum var það kunnugt, hvers vegna Jón á Fitjum vildi sem sjaldnast verða á vegi Þorgeirs. Engum hefði líklega verið ver við að horfa framan í Þorgeir þar inni.
Eftir þessa "andríku" ræðu settist Jón niður og hélt áfram að "kjökra", en ræðan hafði ýtt við mönnum, svo nú var háreysti mikil í salnum. Talaði þá hver í kapp við annan og dró ekki úr rómnum. Það, sem mönnum var tíðræddast um, var það, hvernig þeir gætu að því farið að koma Þorgeiri af sér, ef hann kæmi. Voru allir þeirrar skoðunar, að eftir lögunum hefði hann rétt til að koma á fundinn. Þetta væri að vísu háskaleg gloppa í lögin, en þó yrði að fara eftir þeim eins og þau væru. Um þetta skröfuðu menn og voru mjög óðamála, - þegar tekið var óþyrmilega í hurðarlásinn og síðan barið á hurðina.
"Sem blákaldur gustur um bekkina fór", segir skáldið, og ekkert lýsir betur ástandinu í salnum við það, sem heyrðist. "Hann kemur, hann kemur!" þaut frá eyra til eyra. Öllum hávaða sló í dúnalogn, sumir náfölnuðu í framan, en aðrir fengu snert af glímuskjálfta. Þó þorði enginn að opna, og var barið aftur fastara en áður. Þá stóð formaður upp og bað verðina að grenslast eftir, hver þar væri.
Verðirnir opnuðu hurðina í hálfa gátt. Gægðist þá rautt og æðabert andlit, með þétt, jarpt alskegg og stór augu, rauð og blóðstokkinn, inn um gættina og spurði, hvern andsk... þeir væru að loka sig úti!
Allir fundarmenn ráku upp skellihlátur, því þar var kominn Árni á Fífumýri, "fullur" eins og vant var, leirugur, hrossamóðugur, sveittur, þrútinn í andliti, æðaber og rauðeygður, eins og vant var, - jú, þeir könnuðust við hann!
Árni var svolamenni og mikill fyrir sér. Beið hann þess ekki, að betur væri opnað, en ruddi upp hurðinni og þeim frá, sem fyrir henni stóðu, og kom allur inn fyrir.
Margir munnar keptust nú um það að koma Árna í skilning um þær ógöngur, er þeir væru staddir í. Og þótt Árni væri dálítið kendur, tókst þetta furðu fljótt, en þegar honum fór að leiðast vaðallinn í hinum, kallaði hann hranalega til formannsins og bað um orðið.
"Mér hefir verið sagt", mælti hann, "að Þorgeir verzlunarstjóri hafi komist yfir hlutabréf í verzlunarfélagi voru og krafist hluthafaréttinda samkvæmt lögum vorum. En það fellur mér illa sem fleirum. Nú er eins og mig minni, að sú ákvörðun væri tekin á aðalfundi í fyrra, að stjórnin skyldi hafa forkaupsrétt fyrir félagsins hönd að öllum þeim hlutabréfum, sem félagsmenn vildu selja. Má ég nú spyrja: er þetta misminni mitt, eða hefir félagsstjórnin afsalað sér forkaupsrétti að þessum hlutabréfum, sem Þorgeir hefir keypt? Ef svo er ekki, er salan ólögleg".
Nú var sem allir vöknuðu. Þá minti þetta líka. Þessi fundarsamþykt hafði verið gerð í því skyni að fyrirbyggja það, að menn kæmust í félagið, sem því væru óvinveittir. En hvar var fundarbókin frá þeim aðalfundi? Hún hlaut að geta skorið úr þessu. Nú var farið að leita - leitað með dunum og dynkjum á borðunum, á gólfinu og í öllum plöggum stjórnarinnar. Miklu fleiri leituðu en að gátu komist; en langa stund árangurslaust. Loks var hún dregin glóðvolg undan endanum á umboðsmanninum frá Klaustrinu. Hafði hann lagt hana frá sér á stólinn og síðan sezt ofan á hana. - Hún leiddi sannleikann í ljós, svo ekki varð á móti mælt. Fundarmenn æptu fagnaðar- og siguróp. Margir föðmuðu þá Árna á Fífumýri að sér og kváðu hann komið hafa á sannri heillastundu.
Ysinn var nú aftur orðinn svo mikill í fundarsalnum, að formanni þótti ástæða til að taka til sinna ráða. Hann þurfti þó að kalla allsnarplega til fundarmanna áður en hljótt yrði. Minti hann menn á, að hér væri alvarlegt mál til meðferðar, sem ekki væri vert að útkljá með léttúð og kæruleysi. Það væri framtíðargengi félagsins og verzlunarvelferð allra sveita í þessu héraði, sem hvíldi á ákvörðunum þessa fundar. Enginn þeirra mundi óska þess, að hinn innlendi verzlunarvísir færi forgörðum, en útlend einokun kæmist aftur til valda. Nú lægju fyrir tvær tillögur. Önnur væri sú, að hafna tilboði Þorgeirs verzlunarstjóra. Hin væri sú, að fela stjórninni að útvega félaginu nýjar vörur til vetrarins, í stað þeirra, sem brunnu. Hann lýsti því yfir, að það væri heimska og óráð að hafna boði Þorgeirs, nema því aðeins, að það væri eindreginn vilji allra félagsmanna að komast af án hans. Með þessari ákvörðun bryti félagið brýrnar að baki sér, svo aldrei væri því afturhvarfs auðið. Af hverjum hvötum sem tilboð Þorgeirs væri gert, væri það að kasta hanzkanum til hólmgöngu að forsmá það. Á eftir mætti búast við samkomulaginu, eins og það gæti verst orðið. - Eins væri það óvinnandi verk fyrir stjórnina að útvega félaginu nýjar vörur og ábyrgjast hvern mann fyrir nauðsynjaskorti, nema hún hefði örugt, traust og óskift fylgi hvers einasta manns að bakhjalli. Nú riði á, að alt félagið stæði sem einn maður. Allir yrðu að gera skyldu sína, og meira til, ef þeir gætu. Menn yrðu að sýna félaginu drengskap og orðheldni; annars væri því glötunin vís.
Friðrik kaupmaður talaði þá líka nokkur orð. Hann kvaðst ekki skilja í þessum tilboðum Þorgeirs; en hvort sem þau væru fram komin af gamni eða alvöru, mundi Þorgeir standa við þau, ef á reyndi. Ef til vill vildi Þorgeir gera Kaupfélagið skuldbundið sér með þessu, siðferðislega, ef ekki efnalega, eða hvorttveggja. Vel gæti það einnig verið, að hann sæi nú fram á endalok verzlunar sinnar, og væri þá ekki fráhverfur því að leggja fé sitt og krafta í starfsemi Kaupfélagsins. Ekkert vildi hann leggja til, en benti félagsmönnum á það, að ef tilboði þessu yrði hafnað, þá væri aldrei framar um samkomulag við Þorgeir að ræða, og - ef til vill væri það báðum fyrir beztu.
Nú dundi hver ræðan eftir aðra. Allar fóru þær hver í annarar kjölfar og lögðu út af ræðu formannsins. Allar voru þær særingar og brýningar á dáð manna og drengskap, að duga nú vel á tímum reynslunnar, - himinhrópandi eiðstafir um fylgi og samvinnu og herskáar yfirlýsingar um snjalla og ótrauða baráttu gegn dönsku einokuninni. - Fylti þá guðmóður hvert brjóst; hetjusvipur var á ennum og hugrekki í augum. Meira að segja: Jón á Fitjum hætti að "kjökra" og leit upp furðu djarflega. Þó tók hann ekki til máls aftur. Árni á Fífumýri varð ennþá æðaberari í framan; spýtti hann stórum, mórauðum gusum af tóbakslegi á fundarsalsgólfið og ristar fundarmanna. En Bjarni á Fossalæk, sálmaskáld þeirra Dalamannanna, hrópaði "heyr!" í sífellu, hver sem talaði. - Aldrei höfðu kaupfélagsmenn verið jafngagnteknir af einum anda sem nú. - Tillögurnar voru samþyktar í einu hljóði. Allir greiddu atkvæði, - allir vildu "kasta hanzkanum", helzt á nasir Þorgeiri. Og allir lýstu yfir bezta trausti á stjórninni.
Umboðsmaðurinn á Klaustrinu hafði glaðvaknað við allan þennan áhuga, og þegar hlé varð eftir atkvæðagreiðsluna, stóð hann upp af ritarastólnum, með miklum erfiðismunum, og fór að halda ræðu. En um sama leyti og hann byrjaði, fór að koma los á fundarmenn. Þeir sáu, að nú var í raun og veru ekki meira að gera, og fóru því að tínast út. Það laðaði þá ekki heldur til lengri kyrsetu, að umboðsmaðurinn var farinn að halda ræðu. Var það flestra manna mál, að þar hefði náttúran betur lagt til kviðnum en höfðinu, sem hann var. Eigi að síður beið þó allur þorri fundarmanna eftir því að heyra eitthvað af því, sem hann segði.
Umboðsmaðurinn lagði út af sögninni "að borga". - Hann var gormæltur og mjög óskýrmæltur, einkum á r-inu, og var þó maðurinn íslenzkur. - Sagði hann, að ekki vægi nóg að panta og panta; menn ygðu líka að boðga. Menn hefðu "staðið sig skítt með að boðga". Það vægi ekki nóg að hafa stóg ogð og feit ogð; menn ygðu líka að boðga. Menn ygðu að standa sig með að boðga". Það mætti búast við, að alt fægi til fjandans einn góðan veðugdag, af því að menn higtu ekki um að boðga - -!
Þetta þótti fundarmönnum engin nýlunda. Þessa tölu höfðu þeir heyrt umboðsmanninn halda á hverjum fundi félagsins, oftast undir fundarlokin. Eins og allir vissu það ekki, að sjálfsagt væri "að boðga"! Þeim fanst hann vel geta sparað sér allan þennan "boðgunar"-gorgraut. - Flestum var líka meinilla við áminninguna um það, þótt lítið bæri á.
Menn runnu á dyr, hver á eftir öðrum, og fundarsalurinn tæmdist óðum. Það stoðaði ekkert, þótt formaður kallaði til fundarmanna og bæði þá að vera þolinmóða. Þeir ruddust út; - en á eftir þeim hljómaði: "boðga - boðga - boðga - boðga!" með linu, hálfdönsku kokhljóði.
Sumir höfðu nú búist við að mæta Þorgeiri á leið til fundarhússins. En ekki varð af því. Þorgeir var aldrei spakari í skrifstofu sinni en þennan dag.
-
Seinna um daginn komu stjórnendur Kaupfélagsins saman í skrifstofu Friðriks. Fóru þeir þá enn að grenslast eftir um hag og horfur félagsins og bera saman ráð sín. Kom þeim þegar saman um það, að ekki mundi annað hlíta en senda mann utan hið allra bráðasta, til að útvega félaginu vörur til vetrarins. Höfðu þeir einkum augastað á Friðriki Sigurðssyni til slíkrar farar; hann tók því þunglega, en þó ekki fjarri.
Eftir að þeir höfðu rætt um þetta stundarkorn, fóru þeir að líta eftir því í bókunum, hvernig viðskiftareikningum einstakra manna væri farið. Kom þá brátt í ljós, að ræðu umboðsmannsins hafði ekki verið ofaukið. Menn voru farnir að verða allkærulausir um að greiða skuldir sínar við félagið. Margir voru auk heldur á góðum vegi til að sökkva ofan í sömu skuldasúpuna við Kaupfélagið sem þeir höfðu áður verið í við fastaverzlunina og enn stóð ógreidd að mestu. Vanskilin fóru stöðugt vaxandi og úttektin líka. Á síðustu kauptíðinni hafði innlenda varan orðið töluvert minni en við var búist; en pantanir höfðu aldrei verið eins miklar og þetta sumar. Nú stóð félagið í skuld erlendis um allar þær vörur, sem það hafði fengið síðast, og skuld hafði verið fyrir, sem heldur hafði farið smávaxandi en minkað undanfarin ár. Það var því hæpið, að félagið hefði svo mikið lánstraust þar, að það fengi nýjar vörubirgðir. Og ef skuldir þess greiddust illa nú með haustinu, þá var því beinn voði búinn.
Þeir gengu að því vísu, að þeir fengju allar vátryggingar-fjárhæðir sínar útreiddar, en þó tæplega nógu fljótt til þess, að þeir gætu keypt vörur fyrir það fé að þessu sinni. Ekki var því annað á að treysta en lánstraust félagsins, og þótt þeir hefðu fá orð um það, voru vonir þeirra daufar.
Aftur á móti kom þeim saman um það, að tjón það af eldinum, sem lagðist á félagið sjálft, væri ekki tilfinnanlegt; það mundi engan drepa. Væri ekki við vanskilin að stríða og hinsvegar við óhug manna og þrautseigjuleysi, mundi félagið ganga með góðum sigri frá öllum þessum raunum og vaxa af sigrinum.
Að þessu athuguðu fóru þeir að rannsaka betur skjöl sín og bækur. Kom þá ýmislegt í ljós, sem var þar í vanhirðu, og var sitt hverjum um að kenna. Þessi hafði gleymt þessu og hinn hinu. Svörin voru þau sömu hjá þeim öllum: að það gerði ekki mikið til, það mætti bæta úr því. Það voru svörin, sem fylgt höfðu allri viðskiftasögu þeirra, frá barnæsku og - inn í kaupfélagsstjórnina. Alstaðar gægðust þau fram eins og rauður þráður í viðskiftavoðinni. Oftast hafði verið látið við þau sitja. Þeir höfðu aldrei verið harðir í kröfum við félagsmenn, því altaf höfðu þeir verið hræddir um, að þeir kynnu að missa þá. En vægastir höfðu þeir þó jafnan verið hver við annan, stjórnendurnir. Af því stafaði ýms óregla. Aldrei hafði það þó orðið að verulegum skaða - ennþá.
Friðrik var ekki í stjórn félagsins, en þótti þó sjálfsagður ráðunautur hennar í öllum vandamálum. Hann þekti vel, hversu mikilsverð orðheldni og reglusemi eru í viðskiftalífinu, og var þungbrýnn yfir mörgu því, sem hann nú komst að. Alt í einu spurði hann:
"Hefir iðgjaldið fyrir vátrygginguna á vörunum verið greitt fyrir þetta ár?"
Vöflur komu á stjórnendurna við þessa spurningu. Þeir horfðu hver framan í annan, en enginn vildi svara neinu ákveðnu. Sveinbjörn í Seljatungu hafði loks þrek til að kannast við, að hann væri hræddur um, að þetta hefði - gleymst.
Þeir fóru að leita að kvittuninni innan um hin skjölin, en fundu hana hvergi.
Alla setti þá hljóða við þessi tíðindi. Þetta hafði óskilvísin lengst komist. Hálfur annar mánuður var liðinn fram yfir gjalddagann, og iðgjaldið var enn ekki greitt.
Friðrik stóð upp, náfölur af geðshræringu.
"Þetta hefir ykkur bezt tekist af mörgu góðu!" mælti hann, og röddin skalf. "Þessar 30,000 krónur, sem vörurnar okkar voru vátrygðar fyrir, eru tapaðar!"
"O-o - fari það kvolað!"
-
Í ljósaskiftunum þetta sama kvöld sátu nokkrir af þessum sömu mönnum á ráðstefnu heima í stofunni í Vogabúðum. Umboðsmaðurinn var þar þó ekki, því það var ættar-einkamál Vogabúðafólksins, sem verið var að þinga um þar. En í stað hans höfðu tvær manneskjur bæzt í hópinn. Það var Sveinbjörn yngri og kona Sigurðar, Anna að nafni, sem ekki hefir borið fyrir oss áður í þessum frásögnum.
Anna var hæglát kona og alvarleg í framgöngu. Hún var ennþá fríð sýnum, þótt ellimörk mætti þar sjá og hárið væri tekið að grána. Sjaldan fór hún út úr bænum; enda var hún nú orðin feitlagin mjög og þungt um vikið. Meira ættarmót sást með henni og Friðrik en öðrum börnum hennar, og hafði hún mesta ást á honum. Nú sat hún á stóli úti við gluggann í stofunni og lagði fátt til málanna að vanda.
Vel mátti sjá það þegar í byrjun, að Friðrik var í hálfgerðri ónáð föður síns og þeirra, sem honum fylgdu að máli. Þó lagði Sveinbjörn í Seljatungu fátt til, en nafni hans fylgdi föður sínum því fastara að málum. Ekki voru fleiri af börnum Sigurðar þar við látin. Hurðin var höfð læst, svo enginn truflaði þau, meðan þessu máli væri ráðið til lykta.
Sigurður hafði orð fyrir þeim félögum. Hann kvaðst nú fara að gerast gamall og börn sín væru flest upp komin og sum orðin vel að manni, sem aldrei yrði útskafið, að þau ættu honum að þakka. En þau virtust þó gleyma því. Nú væri hann að engu hafður og ekki spurður ráða, þegar um hin þýðingarmestu mál barna sinna væri að ræða.
Friðrik skildi vel, við hvað hann átti, og leit snöggvast til móður sinnar. Augu þeirra mættust, og þau skildu hvort annað. Það var Friðriki nóg.
Sigurður hélt áfram og gekk beint að efninu. Hann spurði son sinn, hvort það væri satt, sem hann hefði heyrt, að hann ætlaði að ganga að eiga stúlku, sem héti Ragna Þorgeirsdóttir, eða "fröken Ólafsson", eins og sumir vildu heldur nefna hana.
Friðrik kvað já við.
Það kom hik á Sigurð við þetta ótvíræða og einbeitta svar. En hann hélt þó áfram og spurði, hvort honum væri þá kunnugt um fortíð þessarar stúlku.
Friðrik kvað já við því. Hún hafði sagt honum sjálf frá fortíð sinni.
- Og ekkert undan dregið - ?
- Nei, ekkert undan dregið. Það var aðeins lítið, sem hún þurfti að segja honum. Hitt þekti hann sjálfur.
- Og hann hefði samt skap til að eiga hana?
- Já, því hann elskaði hana. - Enga aðra stúlku hefði hann nokkurn tíma litið ástarauga. Engin önnur skyldi verða konan hans.
Við þessar spurningar og svörin var þegar farið að þykna nokkuð í þeim feðgunum.
"En að þú skyldir ekki heldur taka einhverja - fallna stúlku íslenzka þér fyrir konu?" sagði Sigurður með beisku glotti. "Þær eru þó til".
Friðrik hvítnaði í framan, en svaraði þó stillilega:
"Ragna er íslenzk".
"Ekki sér það á henni", mælti Sigurður. "Hún afneitar þjóð sinni í háttum og klæðaburði; enda er hún dönsk í aðra ættina.
Sigurður reyndi nú aftur að tala þykkjulaust og með skynsamlegum rökum. Hann hélt áfram að telja upp allskonar mótmæli gegn því, að Ragna væri æskileg kona handa Friðriki. Meðal annars það, að hún hefði þótt of góð handa honum fyrir nokkrum árum. Nú þætti vera jafnræði með þeim, þegar hún væri flæmd burtu frá föður sínum, ætti enga arfsvon og hefði blett á heiðri sínum. Og svo væri Friðrik slík skóþurka, að láta sér sæma slíkt!
Friðrik svaraði þessu einnig með mestu stillingu. - Hún hafði aldrei þózt of góð handa honum. Hún hafði aðeins látið að vilja föður síns. Viðskifti hennar og föður hennar sýndu ekkert annað en það, hvert ólán stafaði af því, þegar feður færu að sletta sér fram í einkamál barna sinna. Í sínum augum hefði Ragna alls engan blett á heiðri sínum. Hún hefði tekið að sér mann, sem hún unni hugástum, en fékk ekki að eiga. Hann kvaðst skoða hana sem ekkju, og sér væri bæði gleði og sæmd að því að reynast barni hennar góður stjúpfaðir.
Það var auðséð á svip Sigurðar, að hann þóttist heldur fara halloka fyrir syni sínum í þessum viðskiftum. Það dró því nokkuð niður í honum um stund og hann leit vandræðalega í kringum sig til að skygnast eftir, hvort sér kæmi hvergi liðsinni að. Til konu sinnar þorði hann þó sízt að líta.
En liðsinnið kom. Sveinbjörn ungi tók til máls. Nú ætlaði hann að fara að sannfæra bróður sinn um það, að það væri óráð fyrir hann, og jafnvel háskalegt fyrir verzlun þeirra, að hann giftist dóttur Þorgeirs. Hann ætlaði að segja miklu meira, því nægar fundust konum vera röksemdirnar fyrir hendi. En Friðrik greip fram í fyrir honum.
"Ef þú ert hræddur um verzlun okkar fyrir þessu, þá skulum við nú þegar segja í sundur félagsskapnum. Ég kemst af án þín".
Nú ætlaði Sveinbjörn að þjóta upp og ausa úr sér yfir Friðrik. En þá varð honum litið framan í móður sína. Hún leit bæði reiðulega og háðslega til hans, svo það kom hik á hann. Þá rann honum það einnig í hug, að Friðrik væri vís til að gera alvöru úr skilnaðinum. En hann varð að kannast við það með sjálfum sér, að hann ætti bágt með að komast af án Friðriks. Auk þess skildi hann tillit móður sinnar þannig, að það sæti illa á yngra bróður að hlutast til um einkamál hins eldra. Hann réð því það af að setjast niður og halda sér saman.
Sveinbjörn í Seljatungu talaði með allri gætni um málið. Hann kvaðst vera þess fullviss, að Ragna hefði marga góða kosti og Friðriki þætti vænt um hana. Það væri því illa gert og árangurslaust að reyna að hindra sameining þeirra. Hann kvaðst þó heldur hefði kosið, að frændi sinn hefði gifzt einhverri efnaðri og vel uppalinni íslenzkri heimasætu af bændafólki, sem margar væru þar uppi í sveitunum. Hann kvað sér jafnan vera í nöp við þessar "fínu frökenar", sem gengju á "dönskum" búningum. Þær væru engar fyrirmyndardrósir í íslenzku þjóðlífi. En konan væri mikilsverð fyrir heimilislífið og uppeldi barnanna. Fór hann um þetta nokkrum orðum, en þó skynsamlegum og stillilegum, og talaði einkum frá sjónarmiði þjóðernisins. - Hann kvaðst lítið þekkja Rögnu; en komið hefði hún sér þannig fyrir sjónir, að ekki hefði hún farið arflaus úr föðurgarði, hvað sem auðnum liði. Skap föður síns mundi hún hafa erft. Hefði það að vísu marga góða kosti, en ekki mundi það vera aldæla í sambúð. En mest ætti Friðrik á hættu um þetta sjálfur, og ekki væri vert að hindra eða tefja framgang þess, sem hann vildi vera láta.
Nú var samtalið komið á þann rekspöl, að Sigurði þótti tími til kominn að slá út aðal-"trompi" sínu. Hann varð að kannast við það með sjálfum sér, að í raun og veru setti hann sig ekki á móti þessum ráðahag vegna Rögnu, eða vegna þess, að honum þætti Friðrik sinn svo mjög vangiftur af henni. Þessi blettur á heiðri hennar, sem hann talaði um áður, óx honum ekki heldur svo mjög í augum. Það var hatrið til Þorgeirs, sem mestu réð um afskifti hans af málinu.
Hann setti sig því vel í stellingar, svo orð hans skyldu einskis í missa af því sannfæringarafli, sem átti að fylgja þeim. Svipurinn varð meira en hreppstjóralegur. Hann varð dómaralegur, og hárkollan franska jók honum virðuleik að vanda, að því er honum fanst.
"Veiztu nú, sonur minn, hvaða manni þú ert að tengjast?" sagði hann með miklum þunga á orðunum.
"Já, - Þorgeiri verzlunarstjóra", sagði Friðrik kuldalega. "Gömlum vini föður míns - og velgerðamanni hans í mörgu tilliti", bætti hann við.
"Nei, þú veizt ekki, hverjum þú ert að tengjast", sagði Sigurður og brýndi röddina. "Við skulum sleppa gömlu vináttunni. Allir menn geta látið blekkjast um eitt skeið. En svo opnast augun. Hefir Þorgeir verið vinur minn nú seinni árin? Hefir þú orðið var við vináttu frá hans hendi, síðan við fórum að reyna að verða sjálfbjarga menn og ekkert upp á hann komnir? Hver hefir verið okkur andstæðari og erfiðari en hann? Hver hefir storkað okkur meir en hann og reynt að gera félagsskap okkar meira ógagn? Seinast í dag. - Ef þú ætlar að verða tengdasonur þessa manns, þá getum við kaupfélagsmenn ekki skoðað þig framar hollvin okkar. Í þeirri baráttu, sem við heyjum, getur þú ekki staðið hlutlaus. Um sættir milli okkar og hans verður aldrei að tala".
"Verzlunarrígurinn á ekki djúpar rætur", mælti Friðrik, "og komast mun ég af, þótt þið kaupfélagsmenn úthýsið mér að því leyti, sem þið getið. Auk þess hefi ég ekki beðið Þorgeir um blessun hans til ráðahagsins, og mun ekki gera það".
"Þú skalt fá að heyra allan sannleikann, fyrst annað tjáir ekki", mælti Sigurður, enn ákafari en áður. "Þorgeir er varmenni, sem allir góðir menn hljóta að hafa beyg af og vilja ekkert sælda saman við. Nú skaltu heyra, hvað ég veit, því þú ert barn og þekkir ekki þennan mann. Þorgeir hefir brent upp húsið okkar og vörurnar. Hann fékk Einar til glæpsins. Hann náði Einari úr gæzlunni héðan. Ég trúði þá orðum hans - í síðasta skifti. Honum á ég - faðir þinn - það að þakka að vera sneyptur frá hreppstjórastöðunni. - Og nú er Einar kominn í gröfina. Veizt þú, hvernig æfi hans hefir lokið?"
Allir, sem við voru staddir, horfðu forviða á Sigurð. Steinþögn varð dálitla stund. Loks stóð Friðrik upp og mælti:
"Þakka máttu guði þínum fyrir, að ekki hafa fleiri heyrt til þín en vandamenn þínir. En nú ætla ég að fara, svo þú freistist ekki til að tala fleiri vitleysur mín vegna. En þó Þorgeir væri sjálfur andskotinn, eins og þú vilt telja mér trú um, þá skal Ragna verða konan mín. Vertu nú sæll, faðir minn. Innan skamms býð ég þér í veizluna. Þá verðurðu búinn að átta þig á þessu".
Friðrik ætlaði að snarast út, en þá talaði móðir hans til hans og spurði hann, hvort hún ætti ekki að fá að óska honum til hamingju.
Friðrik gekk til hennar, tók hönd hennar, kraup niður og kysti hana. "Þyngst af öllu hefði mér fallið það, hefðir þú sett þig á móti vilja mínum í þessu efni, elsku mamma mín", mælti hann í barnslega blíðum rómi.
Gamla konan klappaði honum á kinnina og mælti, að einu sinni hefði það verið hjartans ósk sín, að hann næði því láni að verða tengdasonur Þorgeirs. Sú ósk væri óbreytt enn, þrátt fyrir það, sem á milli hefði borið. Margs væri að minnast, bæði góðs og ills; en í bræði sinni hætti mönnum við að gleyma kostum annara manna og tala ógætilega í garð þeirra.
Síðan bað hún Friðrik að leiða sig út, um leið og hann færi. Þeir Sveinbirnirnir fóru þá einnig, svo Sigurður varð einn eftir.
Sigurður sat niðurlútur á kistu sinni í stofunni. Einu sinni ennþá hafði hann hent það, að fara lengra en hóflegt var. Bannsett fljótfærnin varð honum enn að fótakefli. Ekki einu sinni nánustu vandamenn hans höfðu lagt trúnað á sögu hans. En það var satt, sem Friðrik hafði sagt. Hann mátti þakka skaparanum fyrir, að ekki heyrðu fleiri til hans. Þessi orð hefðu getað orðið honum dýr.
Út af þessu öllu var honum gramt í geði. -
En þá hafði hann fundinn um daginn til að hugga sig við. Þar hafði hann komið fram sér til frægðar. "Heyr! Heyr! Heyr!" - hljómaði ennþá fyrir eyrunum á honum.
12. kafli - ViðsjárÞar, sem eldur brýzt um í jörðu niðri, heyrast dunur í fjöllum, lönd skjálfa, laugar taka að sjóða og hverir að gjósa. Eim og ódaun leggur upp af jörðunni, bláfunar blossa upp um glufur og gjótur, koma og hverfa, svo varla festir auga á. Enginn veit, hvar eða hvenær þeirra er von. Flestum finst þá sem standi þeir á ólgandi eldkviku með næfurþunna skán undir fótum sér. Ótti og geigur grípur hverja sál, enginn veit, hve mikil hættan er, hversu lengi hún muni standa eða hvernig henni muni lykta. Þykir þá sumum karlmannlegra að harka af sér, gera lítið úr voðanum og bera sig að hlæja að hugleysi annara. En kaldur er oft hláturinn og kinnarnar fölar. Aðrir sitja hljóðir yfir ugg sínum, tala fátt um, en bíða átekta. Hinir þriðju æðrast, gugna, gráta, flýja eða falla í ómegin, eftir því, sem eðli þeirra er, hvers um sig. Og loks eru þeir, sem fálma eftir himninum, þegar þeir finna móður sína, jörðina, bregðast sér. Þeim kvað vera skást farið í slíkum raunum. - Þó er öllum það sönn lausnarstund, þegar fjallið gýs. Hinn ferlegi spádómur er þá fram kominn og vilji hinna dularfullu jarðmagna opinberaður. Eldbrestir og öskufall, hraunmóður og himingnæfandi fjallalogar, með ógnum, feigð og eyðingu, sem þar eru í för með, eru léttari en hin skelfilega óvissa, tvíræð og tortryggileg. Geigur og grunur, kvíði og angist eru helvítiskvalir jarðlífsins, þótt sá, er þær ber í barmi, baði í rósum að ytra áliti.
Þar, sem skuggalegt leyndarmál liggur dulið í sveitum, er líkast því sem eldur brjótist um í jarðarfylgsnum. Stríð er þar háð, sem enginn þekkir, ekki einu sinni þeir, sem gangast að og glíma sem fastast.
Sá, er leyndarmálsins hefir að gæta, á þá ekki sjö daga sæla. Ótti hans og angist gefur engin grið. Aldrei má hann öruggur vera. Af öllu getur hætta stafað. Hvarvetna getur hún legið og leynst, ekki sízt í honum sjálfum. Enginn er honum vinur svo reyndur og tryggur, að hann trúi honum. Jafnvel svefninn er honum ekki öruggur.
Allir leita, því enginn veit, hver felur. Á öllum er leitað, því í leitinni rekur hver sig á annan. Spyrjandi og tortrygnir horfa menn hverjir á aðra; hver er við annan hræddur. Hugi manna hungrar og þyrstir eftir ráðningum á gátum sínum, - ráðningum, sem þeir þó jafnframt kvíða fyrir.
En þá kemur hinn guðdómlegi eiginleiki, sem náttúran hefir gefið mannsandanum, - hverjum og einum, þótt misjafnlega þyki honum skift, - fram á leikvöllinn. Það er skáldskapargáfan. Menn taka að yrkja í eyðurnar, þar sem þekkinguna þrýtur. Menn byrja á þeim atriðum, sem þeir þekkja, og halda áfram í þá átt, sem þeim finst þau benda. Þeir leggja þá með léttu móti brýr yfir regindjúp óvissunnar, tengja orsakasamband milli þeirra atburða, sem gerst hafa, fullkomna söguna, gera hana sennilega, eru ekki fjarri því að trúa henni sjálfir, og veitir að minsta kosti venjulega létt að fá einhvern til að trúa henni.
Slík sagnaskáld, sem þó er svo mikið af, eru þeim erfiðust og hættulegust, sem vaka yfir leyndarmálum sínum. Því sögur þeirra geta ratað á sannleikann, þótt bundið sé fyrir augun á höfundunum.
Alþýðu manna í Vogabúðum og þar í grannasveitunum fanst eitthvað dularfult í atvikunum að brennu vöruhússins og afdrifum Einars í Bælinu. Þessi tilfinning manna jókst og skýrðist að vanda við það, að menn töluðu um atburðina sín á milli og báru saman getur sínar. Þeir, sem alls ekkert höfðu um þetta hugsað, fóru nú að gefa því gaum. Enginn talaði hátt um það, varla upphátt við kunningja sinn. En um allan kaupstaðinn, alla sveitina og allar nærsveitir var - hvíslað.
Hljóðskrafið gekk eins og næm sýki. Í eldhúsunum var hvíslað, engu síður en inni í stofunum eða uppi í svefnherbergjunum. Við hlóðarsteinana í kotunum var hvíslast á, meðan mjölgrauturinn sauð og þorði að hafa eins hátt og hann gat. Úti í túnjöðrunum á sveitabæjunum sátu tvær og tvær manneskjur og hvísluðust á. Önnur var gestkomandi, hin af heimilinu og hafði fylgt gestinum úr garði. Úti á engjunum var hvíslast á og úti á sjónum var líka hvíslast á. Tvíræðum orðum var kastað með lágum, dimmum rómi milli skuts og barka á fiskibátunum. Hálfsagðar sögur og hálfkveðnar vísur bárust frá skára til skára á heiðarengjunum. Enginn þorði að tala hátt, því það var verið að tala ljótt. Enginn vildi láta hafa neitt eftir sér, því hann vissi ekkert. En öllum var geigur í barmi og grunur í hug. Eitthvað skelfilegt, óvanalegt, hafði komið fyrir. En það lá dulið, enginn vissi hvar. Ef til vill gaus það upp þegar minstum vonum varði - ef til vill opinberaðist sannleikurinn með einhverjum furðanlegum atburðum. Guð var vís til að gera kraftaverk til að leiða hann í ljós. Honum var ekkert ómáttugt. Þó hraus mönnum hugur við þessum sannleika, þegar hann kæmi, og ekki síður við því, hver fyrir honum yrði. En þó þráðu menn hann af öllu hjarta, og meðan þeir fengu hann ekki sjálfan, tóku þeir fegins hendi við hverju því, sem tók á sig gervi hans.
Ótal sögur voru á gangi. Enginn vissi, hvaðan þær komu eða hvað af þeim varð að lokum. Fæstar urðu þær langlífar, því allar voru þær fæddar með einhverjum þeim meingalla, sem stóð þeim fyrir þrifum og eyddi loks úr þeim golunni. En þá komu aðrar nýjar í þeirra stað. Framleiðslan var seig.
Flestar sögurnar byrjuðu á því, að Einar hefði alls eigi kveikt í húsinu í ógáti, eins og hann hefði sagt fyrir réttinum, heldur viljandi, að undirlagi einhvers annars manns. Þá lá beinast við að nefna Þorgeir. Og flestar enduðu þær á því, að hann hefði verið gerður ölvaður, tældur þarna út á brúnirnar og hrundið þar fram af hömrunum. Það þóttust menn skilja, að gert hefði verið af þeim, eða að undirlagi þess manns, sem hefði tælt hann til ódáðaverksins, til þess að ekki stæði honum hætta af lausmælgi hans.
Allflestar höfðu sögurnar Þorgeir fyrir aðalsöguhetju. Honum hafði blætt í augum uppgangur Kaupfélagsins og Bræðraverzlunarinnar. Þess vegna hafði hann gripið til þessa mannvonzkubragðs, sem öllum stóð ógn af. Seinni glæpurinn hafði síðan verið afleiðing af hinum fyrri.
En svo komu gallarnir í ljós. Þótt Þorgeir hefði nú beðið Einar að kveikja í húsinu, þá hefði hann samt ekki beðið hann um að stela baunasekk. Og hvað átti Einari að ganga til þess? Hann hlaut þó að vita, að hann mundi fá vikið borgað, ef það hepnaðist. Þá var engin ástæða fyrir hann til að stela. Ekki hafði hann þó stolið þessum baunum handa Þorgeiri. - Hvers vegna hafði Einar brotið upp hús hjá Þorgeiri og stolið þar peningum? Benti það ekki á, að hann hefði haft í hyggju að komast undan?
Höfundum þessara sagna hafði skotist yfir furðu margt, þar á meðal skipið, sem lá yfir undir Básunum kvöldið sem Einar fórst. Og hefði Þorgeir verið í vitorði með Einari, hvers vegna þurfti Einar þá að brjóta upp hjá honum? Eða var ekki Þorgeir fær um að fá honum næg fararefni, án þess hann þyrfti að stela þeim? Og þessi flöskubrot í barmi Einars. Þau virtust benda á, að Einar hefði framið þetta alt í ölæði. Menn, sem eru ölvaðir, gera allskonar flónsku; það vissu Vogabúðamenn, engu síður en aðrir. En hvar hafði Einar náð í þessa flösku? Ólíklegt var, að hann hefði farið að gaufa eftir flösku í búðinni um miðja nótt. Hana hlaut hann að hafa fengið áður. Einhver hlaut að vera í vitorði með honum - en það gat ekki verið Þorgeir.
Svo var spunnin upp saga um heilt þjófafélag í Vogabúðakaupstað, sem bryti upp hús og brendi - og dræpi menn líka, þegar svo bæri undir. Enginn gat vitað, hve miklu hafði verið stolið af vörum úr húsinu, sem brann. Það hafði aðeins orðið uppvíst um einn baunasekk. Einar einn hafði náðst, en hinir þá orðið hræddir um sig og tekið það ráð að fyrirkoma honum, áður en hann gæti sagt til þeirra. - Og vökumaður bræðranna? Annaðhvort var hann einn í félaginu eða hann hafði verið tældur burtu og passaður, meðan hinir mötuðu krókinn. En hverjir ættu þá að vera í þessu félagi? Þá vandaðist málið. Því þótt ýmsu smávegis hefði verið stolið í Vogabúðum við og við, þá treysti enginn sér til að benda þar á neinn þjóf, nema Einar. En það var ekki nóg til að halda lífi í sögunni.
Þá var ein sagan um það, að hvorki Þorgeir né þjófafélagið hefði framið þennan glæp, heldur bræðurnir eða kaupfélagsmenn sjálfir. Þeir höfðu gert það til þess að komast úr skuldaógöngunum og hafa hagnað af brennunni. Margir höfðu séð þá stinga saman nefjum inni í búðinni, eftir að búið var að biðja Einar að vaka. Svo var hætt við að láta hann vaka, en vinnumaðurinn þeirra tekinn í staðinn. Ef til vill höfðu þeir svo legið í leyni og orðið varir við það, þegar Einar stal baunasekknum. Þá bar vel í veiði, að kveikja í um sama leyti og kenna honum um eldinn. Undarlega fljótt hafði eldsins orðið vart heima í Vogabúðum, sem virtist benda á, að menn hefðu ekki sofið fast þar; þó hefði þess verið gætt að koma ekki of snemma. - Síðan hefði "gamli maðurinn" verið undir það búinn að gera Einari fært að komast burtu. Þetta hafði engin gæzla verið; ekkert annað en málamyndakák. En hvers vegna hafði hann þá farið að brjótast inn í búð Þorgeirs, og hvers vegna lá hann þarna niður undir Básunum um morguninn? Allir vissu, að bræðurnir og faðir þeirra sátu að veizlu á meðan. Og hvað átti bræðrunum að ganga til að fara að kveikja í húsinu, úr því þeir höfðu skaða af brennunni, sem nú var sannfrétt eftir fundinn? Þeir voru engin flón. Þeir hlutu að hafa reiknað það saman fyrirfram.
Ein sagan var um það, að sýslumaðurinn og læknirinn hefðu verið eitthvað við þetta riðnir. Hún studdist við það, að sýslumaðurinn hefði efnt til veizlu sama kvöldið sem Einar hvarf frá Vogabúðum. Hann hlaut að hafa gert það til þess að láta Sigurð gamla hafa eitthvað annað að gera en gæta Einars það kvöldið. Eins þótti mönnum sýslumaður hafa gengið furðu slælega fram í því að rannsaka þetta mál. En þessi saga var alt of lausleg til að geta lifað ein út af fyrir sig. Það urðu því forlög hennar, að henni var slengt saman við söguna um þjófafélagið, sem þá tók á sig nýja mynd. Með henni sveimaði hún um sveitina, og með henni lognaðist hún út af að lokum.
Þá var enn getið upp á því, að ekkert samband væri á milli brennunnar og dauðdaga Einars. Einar hefði að vísu ætlað sér að strjúka og brotist inn hjá Þorgeiri til þess að afla sér skotsilfurs. Þorgeir hefði þá orðið var við hann og veitt honum eftirför. Á Básabrúnunum hefði fundum þeirra borið saman og Einar hröklast fram af við sviftingarnar. Þá hefði Þorgeir séð þann kost vænstan að þegja um fund þeirra og láta gátuna standa óráðna. -
Heldra fólkið, sem svo var nefnt, í Vogabúðakaupstað og þar í grendinni smíðaði sér einnig hugmyndir um þessa hluti. Um trú eða sannfæring Sigurðar hreppstjóra í þessu máli er áður getið. Hún bygði á tvennu, að Einar hefði hitt Þorgeir að máli um kvöldið á undan brennunni, og ekki síður hinu, að Þorgeir hefði fengið hreppstjórann til að láta vinnumenn sína róa, í stað þess að gæta Einars, kvöldið sem hann sjálfur var í landshöfðingjaveizlunni. Sigurði þótti að vísu hyggilegra nú orðið að fara ekki með fullyrðingar um neitt. En ekki gat hann þó á sér setið að bera þessa skoðun sína undir kunningja sína og vandamenn í kaupstaðnum. Sveinbjörn sonur hans félst þegar á skoðun föður síns, en Friðrik andmælti henni, þótti hún hafa við lítið að styðjast og vera alt annað en góðgjarnleg í garð Þorgeirs. Læknirinn var lengi á báðum áttum. Hann treysti svo vel skarpskygni sinni, að hann gat ekki trúað því, að Þorgeir bæri sök í leyni í þessu máli. Þó hallaðist hann heldur á þá sveifina, að eitthvað væri óhreint í öllu þessu, og þá hafði hann helzt ímugust á Þorgeiri.
Kvenfólkið í kaupstaðnum tók þessari sögu með opnum örmum - og öllum þeim sögum um þetta mál, sem því bárust: Skoðanir þess breyttust daglega, eins og veðrið í loftinu. En hver sem skoðunin var, sem þær aðhyltust að öðru leyti, hafði hún jafnan ægilegan grun að bakhjalli um það, að eitthvað óttalegt væri enn ófundið í þessu máli. Bezt gengu þær fram í þessu vinkonurnar, læknisfrúin og sýslumannsfrúin, og var það þeirra kærasta og síðasta stundastytting um þessar mundir að hlýða á skoðanir manna um þetta mál, bera þær saman og leggja á þær dóma sína. Þessir dómar voru mikils metnir, er þeir komu út aftur til alþýðunnar, því flestum fanst sér skylt að líta upp til þessara kvenna og virða orð þeirra og álit mikils. Að lokum myndaðist nokkurskonar miðstöð fyrir allar sögurnar og alt þetta skraf hjá þessum ofannefndu hefðarkonum.
Fáir þorðu að minnast á þetta mál við sýslumanninn sjálfan eða grenslast eftir skoðun hans á því. En þeir fáu, sem það gerðu, urðu ekki miklu fróðari. Sýslumaður eyddi öllu samtali um það mál og vildi enga skoðun uppi láta.
Eigi að síður leiddi allur þessi þvættingur til þess, að heldra fólkið í Vogabúðakaupstað og grendinni lagði hinn megnasta óþokka á Þorgeir. Oft hafði áður verið "grunt á því góða" milli hans og þess, þótt alt hefði verið kyrt á yfirborðinu og dagleg umgengni hin sæmilegasta. Nú þóttist það aftur á móti hafa hinar mestu og beztu ástæður til að sýna honum fjandskap og fyrirlitningu og sneiða hjá honum í umgengni. Um leið var þá tækifæri til að láta alla sjá og skilja hina næmu réttarmeðvitund og dygðaást þess sjálfs, þar sem það vildi alls ekkert samneyti hafa við þann mann, sem megn og almennur grunur hvíldi á, að við væri riðinn svívirðileg glæpaverk. Og ekki gat það nú minst á slík óhöpp öðruvísi en með hryllingu, að þennan mann hefði það umgengist árum saman sem vin sinn og jafningja. Nú fanst því skuggi hans hvíla sem blettur á hreinleika sínum og fingraför hans spilla öllu því, sem það hingað til hafði unnið saman. Þó var það bót í máli, að það var aldrei nema mannlegt að láta blekkjast, og þá ekki síður hitt, að þótt það hefði látið blekkjast, þá vissi trúa þess, að því hafði aldrei litist á brýrnar á Þorgeiri; þær hefðu fleira en eitt að geyma. - Um þetta var það innilega samdóma, hvar sem það hittist, og á þessum dögum voru fundir þess tíðir.
Nú taldi það einnig líklegt, ef ekki sjálfsagt, að þessar sögur um þjófafélag í kaupstaðnum, um hlutdeild kaupfélagsmanna í brennunni, eða jafnvel embættismannanna, hlytu að stafa frá Þorgeiri. Enginn annar hefði þorað að hugsa annað eins. Þeim sögum hefði Þorgeir logið upp, til þess að rugla menn og leiða gruninn af sér. Var það ekki óguðlegt!
Frúrnar blánuðu í framan af göfugri gremju, er þær mintust á þessa hluti, og hárin risu á höfðum karlmannanna. Einhverjir höfðu það einnig fyrir satt, að hárkolla Sigurðar gamla í Vogabúðum hefði jafnan verið úfin um þessar mundir, og kendu það sömu orsökum.
Ekki fór Ragna, dóttir Þorgeirs, algerlega varhluta af öllu þessu umtali um föður hennar. Þó fór því fjarri, að ekki væri hún ein út af fyrir sig nægilegt umtalsefni. En þegar minst var á hana í sambandi við þessi mál, var það snilliyrði haft eftir sýslumannsfrúnni, að varla væri von á henni betri, því aldrei hefði dúfa komið úr hrafnseggi. Þó var henni heldur hlíft við illu umtali eftir að Friðrik hafði sýnt, að honum var það bláköld alvara að giftast henni. Þá þóttust menn vita, að honum væri að mæta, ef á hana væri hallað. En það var liðinu ofraun að eiga fleiri andstæðinga en Þorgeir í einu. - -
Þorgeir lagði fúslega eyru við öllu umtali manna um þessi mál, en spurði þó aldrei neins eða lét á sér heyra, að honum kæmu þau neitt við. Það heyrði hann á sögunum og getgátunum, að menn voru hvergi nærri fróðir um það sanna. Allir óðu sama reykinn og enginn hafði neitt fast undir fótum í þessu efni. Eigi að síður sá hann það vel, að flestir skotruðu til hans illum augum.
Hversu þungt sem Þorgeiri féll þetta, hikaði hann þó ekki við að virða hinn almenna grun að vettugi, storka mönnum upp í opið geðið fyrir hann, brjóta hann á bak aftur og kvelja úr honum líftóruna. Hann vissi þó, að þessi ófögnuður mundi verða furðu lífseigur; hann mundi læðast í kringum hann, en forðast augu hans. Svo voru ástæður manna veikar, að ekki var hætt við, að þeir þyrðu að ganga í berhögg við hann. En að vita af slíku alstaðar umhverfis sig fanst honum líkast því að ganga um mörk, sem kvik væri af eitruðum snákum. Þeir vildu altaf læðast að honum og bíta hann, ef hann sá þá ekki, en hrukku fyrir augum hans og hurfu þá ofan í jörðina. Svipaða snáka fanst honum hann sjá í hverju mannsauga, sem nú leit á hann. Þeir hrukku undan; en þeir voru lífseigir og komu jafnharðan aftur. Þetta jók honum hugsýki. Ef til vill kynnu þessir yrmlingar að þreyta hann og vinna á honum að lokum, því margt hafði hann annað við að stríða. Þó lét hann ekki deigan á síga, því ekkert var honum fjær skapi en hopa. Með köldu glotti og kurteisu viðmóti umgekst hann hvern mann og dró sig í hlé. Með því espaði hann gremju þá og óbeit, sem nóg var af í skapi manna. Hann fann það, en fanst það jafnvel stundastytting. Bezt af öllu hefði honum líkað það, að einhver hefði haft hug til að ganga beint framan að honum með steyttan hnefa og augun tindrandi af heift og kasta honum sökinni beint á nasir - ausa yfir hann öllu því, sem hann hefði til. Þá sá hann, hve mikið það var. Þá gat verið um glímu að ræða, sem óvíst var, hvernig ljúka mundi. En til þess var gremja manna of vopnlaus og vanmáttug.
Hann stóð á eldkvikunni með næfurþunna skán undir iljum. Hið efra drotnaði nístandi kuldi, en undir niðri ólgaði eldur og eimyrja. -
Margt undarlegt bar mönnum fyrir augu í Vogabúðakaupstað á þessum dögum, en einna skoplegust voru þó viðskifti Þorgeirs og sýslumannsfrúarinnar. Þorgeir hafði jafnan haft þann sið að heilsa henni hæversklega, þegar þau hittust úti við, en það var daglega og stundum oft á dag. Nú tók frúin þann hátt upp að svara ekki kveðjum hans. Þegar hún gekk framhjá honum, reigði hún höfuðið á bak aftur, stefndi nefinu hátt, gerði á sig undirhöku og - leit ekki við honum. Þorgeir steinhætti þá að heilsa henni, en lét sem hann sæi hana ekki, hversu bjart sem var. Þetta gramdist frúnni mjög. Bitnaði þá skapvonzka hennar einkum á vinnukonunum, svo tvær þeirra sáu sér ekki við vært, en gengu úr vistinni. En Þorgeir bar frúin út fyrir dónaskap og ókurteisi og valdi honum hin verstu orð. Þetta frétti Þorgeir og breytti nú til. Tók hann þá svo djúpt ofan fyrir sýslumannsfrúnni, hvar sem hann kom auga á hana úti við, að ekki var um að villast, að hann var að skaprauna henni og draga dár að henni. Út af þessu ætlaði frúin að ganga af göflunum af bræði. Hún kærði Þorgeir um ósvífni fyrir manni sínum, en fékk þar daufa áheyrn. Loks kom að því, að hún þorði ekki að fara fet út úr húsinu, ef hún gat átt minstu von á því að mæta Þorgeiri. Þetta kom sér því ver fyrir sýslumannsfrúna, sem læknirinn hafði ráðlagt henni að vera mikið úti.
Með þessu og fleiru slíku espaði Þorgeir óvild manna og illan hug til sín sem mest hann mátti. Þeir fáu, sem fram að þessu höfðu stöku sinnum komið til hans í kunningsskaparskyni, hættu því nú með öllu. Sýslumaðurinn byrjaði; læknirinn varð síðastur. Lengi hafði "dropinn" togað hann; en þegar við því var búið, að hann bryti af sér hylli hinna höfðingjanna Þorgeirs vegna, þá hætti hann að koma til hans. Og nú var hreppstjórinn í Vogabúðum hættur að gera sér ómak með póstbréfin til Þorgeirs. Ef hann hafði hvorki vinnukonu né krakka til að senda, lét hann þau liggja ósend. - -
Í slíkri sambúð við nágranna sína eyddi Þorgeir dögunum. En á eftir þeim komu nætur - langar, geigvænar nætur, sem hann kveið fyrir. Þá vaknaði naðran, sem bjó í brjósti hans sjálfs, og gaf ekki grið. Hún var skæðari en þúsundir af yrmlingum í augum annara manna.
Þorgeir fann það æ betur og betur, að hann hafði ofboðið taugum sínum þá stund, sem hann hafði ráðið að líki Einars heitins og tekið af því bréfið og peningana. Sú ógnarsjón, sem hann hafði séð, hafði brent sig inn í meðvitund hans. Og þegar dimdi, eða þegar hann leitaði hvíldarinnar, yfirkominn af þreytu eftir starf og stríð daganna, fanst honum þessi hryllilega mynd sveima yfir sér og alt í kringum sig, þótt hún ekki beint ásækti hann. Auðvitað var þetta hugarburður; en hann kom af einhverri veiklun. Enginn heilbrigður maður sá ofsjónir. En hvort sem mikil eða lítil brögð voru að þessum veikleika, varð hann einn að stríða við hann. Hann gat engan spurt ráða, engum trúað fyrir leyndarmáli sínu. Og hvað stoðaði það nú, þótt hagur hans rétti við, ef hann var orðinn andlegur örkumlamaður, sem hamingjan væri hefndargjöf ein?
Þessi skelfilega hugsun var myrkust og ferlegust allra rauna hans. Hún gróf um sig sem eitrað blóðmein og sýkti hann allan. Og þegar hann leit storkandi framan í andstæðinga sína og hvesti augun móti hatri manna og fyrirlitningu, gerði hann það meðfram til þess að reyna krafta sína og sjá, ef unt væri, hvað liði viðnámsmagni sínu og hve langt hinni vísu tortímingu væri komið.
Svefnsins þarfnaðist hann mest af öllu; en svefnsins var honum varnað. Þeim atburðum fjölgaði óðum, að hann hrykki upp við illa drauma og ofsjónir. Stundum kom þetta oft fyrir sömu nóttina.
Hann tók þá til þeirra ráða sér til bjargar, sem svo margir hafa flúið til á undan honum: að kaupa sér stundarfrið við óminnisbrunn Bakkusar konungs.
Brátt lagðist það orð á, að Þorgeir væri farinn að drekka til muna.
-
Undir mánaðamótin kom upp kynlegur kvilli í kaupstaðnum. Kunnugir fullyrtu, að hann ætti upptök sín í húsi læknisins; frúin hefði fengið hann upp úr kvefinu sæla, sem leitt hafði af heimsókn sýslumannsfrúarinnar kvöldið eftir brennuna. Þaðan hafði hann svo breiðst út meðal heldra kvenfólksins.
Kvilli af þessu tagi var sjaldgæfur í Vogabúðakaupstað, og ekki hafði haun komið þar í manna minnum, fyr en nú. Hann kvað vera alltíður í öðrum landsálfum og öðrum löndum, þar sem margt er um svo nefnt "heldra" fólk. Er það eitt af aðaleinkennum hans, hversu áleitinn hann er við frúr og "frökenar" og annað það fólk, sem daglega lifir í allsnægtum, þarf lítið fyrir lífinu að hafa, leiðist aðgerðaleysið og tekur þakksamlega öllum tilbreytingum frá því hversdagslega.
Meinhægur er hann að jafnaði, kvillagreyið, og stundum leiðir ofurlítið gott af honum; en hann getur orðið hrein og bein plága öllum hugsandi og starfandi mönnum. - Skiftar eru skoðanir manna um það, í hvaða líffæri hann búi. Sumir halda, að hann búi í hjartanu; en þeir eru fáir. Færri eru þeir þó, sem ætla, að hann sé í maganum. Í útlimum kvað hann ekki vera. Þá halda enn aðrir því fram, að hann sé aftan í höfðinu. Bera þeir sálarfræðinga fyrir því, að þar búi fordild og mont, og því hætti hégómahetjunum svo mjög við að ganga hnakkakertum. Benda þeir þá einkum á litla heilann; hann kvað vera lítið kunnur og óvíst, hvað hann hefir að geyma. Þykjast menn geta ráðið nokkuð af því, að þeir, sem þennan kvilla fá, þykja oft smátækir á eigin framlög, en þeim mun kröfumeiri í garð annara. - Þá eru menn hvergi nærri á eitt sáttir um það, hvert nafn ætti bezt við á þessum kvilla. Vilja sumir kalla hann sníkjusótt, aðrir samskotakveisu, þriðju góðgerðakvef, manngæzkusvima, samvizkuinnantök eða eitthvað þess háttar. Eitt vita menn með vissu um eðli hans, og það er það, að sjaldan verður hann langvarandi, - eða "krónískur", eins og það heitir á tungu lærðra manna. - Aldrei hefir það heyrst heldur, að nein blessuð frúin hafi sálast úr honum.
En þeir, sem segjast vilja vera sanngjarnir, segja, að kvilli þessi sé kynlegur getnaður sannrar hjartagæzku og fáfengilegs hégómaskapar, samruni eins af því göfugasta og eins af því ógöfugasta í manneðlinu, og því sé starfsemi sú, sem af honum leiðir, efasöm að góðu gildi. - -
En nóg um alt þetta.
Einn góðan veðurdag fann læknisfrúin innilega sárt til þess, hve aumlega Margrét í Bælinu, ekkja Einars heitins, hlyti að vera stödd. Henni var sem sæi hún sjálfa sig mitt í öllum þeim raunum, sem yfir hana höfðu dunið. Fyrst var ólán það, sem Einar heitinn hafði lent í, með því, auk þjófnaðarins, að vera valdur að stórtjóni. Ofan á þetta bættust hin sorglegu og dularfullu afdrif hans. Nú stóð hún ein uppi með barnahópinn og þessar þungu sorgir, svo nærri mátti geta, að ástæður hennar væru bágar. - Frúnni hugkvæmdist því, hvort ekki mundi það vera rétt og fallega gert að stofna til samskota handa henni.
Fyrst bar hún þessa hugsun undir manninn sinn og fór um hana mörgum og átakanlegum orðum. Læknirinn hvatti konu sína heldur en latti, en minti hana þó á það, að ekki gætu þau sjálf látið mikið af hendi rakna, því hún þekti efnahag þeirra. Frúin félst á það, - mikil ósköp! Hún hafði aldrei átt við það! Aðeins eitthvert lítilræði til að byrja með! - En það gladdi frúna hjartanlega að heyra manninn sinn einu sinni tala í sparnaðaráttina. Það var sjaldgæft, því læknirinn var örlyndur og þótti lítið kunna með fé að fara. Hitt var henni þó enn meira gleðiefni, að læknirinn hafði einu sinni fallist á uppástungu hennar. Hún gat því ekki stilt sig um að leggja handleggi um háls manni sínum og reka að honum rembingskoss.
Síðan fór læknisfrúin af stað til sýslumannsfrúarinnar og tjáði henni þetta erindi. Þar hitti uppástunga hennar á mildan jarðveg; synd hefði verið að segja annað! Sýslumannsfrúin hossaðist í sæti sínu; svo varð hún hrifin af þessari tillögu vinkonu sinnar. Henni fanst öll sú mikla hjartagæzka, sem í henni bjó, kippast til við komu læknisfrúarinnar, færast í aukana og setjast að völdum í sálinni. Og hún gat ekki annað en dáðst að læknisfrúnni. Að henni skyldi geta dottið þetta í hug! Ja, það var ekki að spyrja að gáfunum hennar! Vonandi hafði þó læknirinn ekki hjálpað henni? Nei, hún átti hugmyndina sjálf. Það lá að! En hvað sýslumannsfrúin öfundaði hana! Að slíkri hugsun hefði hún viljað vera móðir. Það var þó satt um læknisfrúna, að hún mátti ekkert aumt sjá!
Læknisfrúin sat í svimandi sælu undir aðdáunarorðum sýslumannsfrúarinnar. Báðar voru frúrnar svo hrifnar af hugsjón sinni, að þær sátu hljóðar nokkra stund og máttu ekki orð mæla. En skyldar voru hugsanir þeirra og hljóðir reikuðu hugir þeirra saman út í framtíðina. Sáu þær í anda þann fögnuð, sem verða mundi í Bælinu, er þær kæmu þangað með samskotaféð. Ekkjan mundi gráta gleðitárum, börnin mundu klappa saman lófunum af fögnuði. Ó, hvað það var sælt að hafa unnið til slíkra tára! Það var sem eitt af hinum fegurstu æfintýrum H. C. Andersens væri að rætast á þeim, þar sem himneskar perlur hreinna gleðitára koma að launum fyrir höfðinglega hjálp af óeigingjörnu og kærleiksríku hjarta.
Raunar var það, sem togað hafði tár þessi fram á hvarmana, tínt upp úr vösum náunganna. En hvað gerði það til? Ekki hafði það farið þaðan sjálft! Þær höfðu þó mest fyrir því haft, - þær frúrnar! Og svo færðu þær henni það sjálfar! Slík heimsókn mundi seint fyrnast í Bælinu!
Eða þá umtalið manna á meðal! Enginn mundi geta dásamað slíkt guðsþakkaverk sem vert væri. Alla mundi þrjóta orð. - Svo kæmi þakkarávarp í Þjóðólfi eða Ísafold, langt og skáldlegt, með þungan klepp af bænum og blessunarorðum í aftari hlutanum, stílað af presti, undirskrifað af Margrétu í Bælinu, - líklega handsalað. Og þetta yrði lesið á hverjum bæ um alt landið. -
"Já, það er sælt að geta gert gott!" andvarpaði læknisfrúin.
"Það er himneskt!"
"Kannske við ættum að heimsækja hana nú undir eins og vita, hvernig henni líður, aumingjanum", mælti læknisfrúin. "Ef til vill vanhagar hana um eitthvað nú í bráðina, sem við gætum bætt úr með léttu móti".
Sýslumannsfrúin ygldi sig, eins og eitthvað ógeðslegt bæri fyrir hana.
"Þú ræður því. En mér finst, að við höfum ekkert þangað að gera að þessu sinni. Mig langar ekkert til að koma þangað oftar en ég þarf. - En það má senda vinnukonu".
"Já, það er líka alveg satt; það er meira en nóg!" mælti læknisfrúin og flýtti sér að falla frá hinni uppástungunni, fyrst sýslumannsfrúnni hafði ekki getist að henni. Hún fann það nú vel, að þessi gullfagra hugsjón, sem hún var hin sæla móðir að, var orðin fósturbarn sýslumannsfrúarinnar. Þá var henni hollast að sleppa af henni hendinni því sýslumannsfrúin þoldi því aðeins ráðunauta, að þeir væru henni samdóma.
Það fórst þó fyrir að sinni, að vinnukonan væri send. Nú lá meira á öðru.
Eftir fáar klukkustundir var forstöðunefnd samskotanna fullskipuð. Auk þeirra frúnna var elzta dóttir Sigurðar gamla í Vogabúðum í henni, sú er búi stýrði fyrir þá bræður sína, og einnig Ragna Þorgeirsdóttir og ein kona til. Færri en fimm máttu þær ekki vera. Hyggilega þótti það ráðið að hafa Rögnu í nefndinni, vegna föður hennar. Sýslumannsfrúin hafði raunar grett sig yfir þeirri uppástungu í fyrstunni, en félst þó á hana. Það gat verið tilvinnandi.
Læknirinn var fenginn til að semja hjartnæmt og fagurlega orðað ávarp. Sýslumannsskrifarinn var látinn hreinskrifa það og fyrir honum brýnt að taka nú á "sparihöndunum". Enda þótti mönnum skriftin á ávarpinu hið mesta snildarverk.
Undir þetta ávarp rituðu allar nefndarkonurnar nöfn sín með eigin hendi. Ragna gerði það nauðug að vera með, en lét þó til leiðast. Því næst var farið að skrifa upphæðirnar. Allar nefndarkonurnar skrifuðu 2 krónur, hver fyrir sig. Sýslumaðurinn skrifaði 5 kr., læknirinn aðrar 5; Friðrik kaupmaður 10, Sveinbjörn 5 og Sigurður í Vogabúðum 5. Þetta þótti frúnum bærileg byrjun. En nú gat ekki komið til mála að sýna fleirum ávarpið, fyr en Þorgeir væri búinn að sjá það. Þar hlutu að bætast á það minst einar 50 krónur.
Þegar til kom, hafði engin af nefndarkonunum geð á að fara með samskotaávarpið til Þorgeirs. Það var því tekið til ráðs að láta dóttur sýslumannsins, telpu á níunda ári, fara með blaðið.
Stúlkan hitti Þorgeir í skrifstofu sinni, fékk honum blaðið og beið frammi við dyr á meðan hann afgreiddi það.
Þorgeir tók við skjalinu og las það glottandi, en þagði að vanda. Því næst tók hann penna sinn, skrifaði nafn sitt neðan við hin nöfnin og - tvær krónur út undan því. Síðan braut hann blaðið saman með mestu hægð, lét það í umslagið og fékk barninu það aftur, ásamt peningunum. -
Sýslumannsfrúin ætlaði að rifna af gremju yfir gjafaskránni, þegar hún sá hana aftur. Tvær krónur! - Það var smánargjöf! - Það var bersýnilegt, að Þorgeir var að hæða þær. Að bjóða þeim 2 krónur! Það var miklu verra en ef hann hefði alls ekkert gefið. - Tvær krónur! - Og fyrir þessar aumu tvær krónur höfðu þær unnið það til að taka stúlku í nefndina, sem - -! Nei, það var ekki vert að þiggja þær. Langréttast var að senda honum þær aftur, en draga rautt strik yfir nafnið hans á samskotaskránni, og láta hana síðan ganga á milli manna honum til svívirðingar. Það var það vægasta, sem hann átti skilið.
Þetta hefði sýslumannsfrúin eflaust framkvæmt, hefði ekki sýslumanninn borið að í þessu. Hann hafði heyrt hávaðann í konu sinni út í skrifstofu sína og kom til að vita, hvað um væri að vera. Hann aftók slíka ósvinnu með öllu og kvað það ekki sæmandi að fyrirlíta gjöf Þorgeirs, þótt ekki væri hún meiri. Það væri tekið fram í ávarpinu, að hverjar fjárhæðir sem væru, stórar eða smáar, yrðu þakklátlega þegnar. Við það yrði að standa. Þær hefðu sjálfar ekki gefið meira en tvær krónur hver um sig.
Við þetta sefaðist frúin.
En nú voru samskotin orðin þeim frúnum hrygðar- og áhyggjuefni. Þeim hafði komið saman um, að þær gætu ekki kynt sig að því að færa ekkjunni minni fjárhæð en 200 kr. Nærri mátti geta, hve fljótt mundi sækjast að ná slíkri fjárhæð saman hjá bændum og verkamönnum, sem ekki gæfu nema 25 aura og alt að krónu! En að Þorgeir skyldi geta - -! En þær skyldu safna fénu samt, - þótt þær yrðu mörg ár að því!
Svo bitu þær á jaxlana - og byrjuðu á vinnukonunum sínum.
-
Þegar barnið var farið með samskotaskrána og peningana, skoðaði Þorgeir í veski sitt og bætti nokkru í það úr járnskápnum. Síðan tók hann hatt sinn og staf og gekk beina leið út í Bælið.
Ekki voru þau vistleg erfiðismannakotin í kringum kaupstaðinn, en Bælið var þó lakast af þeim öllum. Enda hafði það orð á sér fyrir að vera bæði eymdar- og óþrifabæli.
Þegar Þorgeir bar þar að, lá kofahurðin flöt fyrir utan dyrnar. Hún hafði verið reist upp á rönd út úr dyrunum golumegin, til þess að greiða reyknum úr eldhúsinu leið út úr bænum. En svo höfðu börnin skelt henni flatri og ekki hirt um að reisa hana við aftur.
Dálítill drenghnokki stóð á hurðinni og hamaðist þar á einni fjöl, sem skrölti laus og vó salt á okanum. Það var gaman, því hátt lét í hurðinni, þegar strákur stökk til á henni. Þorgeir heilsaði upp á drenginn og spurði, hvort mamma hans væri heima. Drengurinn hætti að stökkva, en stakk fingrinum upp í munnvikið, - ekki hreinni en lúkan var þó, - glápti á gestinn, en sagði ekkert.
Í sama bili gægðist stúlka, á að gizka 10-12 ára, fyrir kampinn á kofaveggnum. Hún hafði verið að breiða sokkaræfla til þerris á hvalbein, sem þar lá á þekjunni, til að halda torfinu niðri. Hún var með ógreitt hár, óhrein í framan, illa til fara og nú berfætt. Hafði hún nýlega verið send eitthvað og vaðið í fæturna, en var nú að þurka sokkana sína í sólskininu. Kjólgarmurinn, sem hún var í, var allur blautur og leirugur að neðan, og slettist hann um bera kálfana. Þeir voru hraustlegir og vel vaxnir eftir aldri; en hreinir voru þeir ekki. - Hún hafði heyrt kveðju Þorgeirs og kom nú fram á hlaðið, til að vita, hver kominn væri.
"Já, mamma er heima", sagði hún skýrt og feimnislaust. "Nú skal ég segja henni til". Að svo mæltu þaut hún inn í kofana. Á miðri leið kallaði hún hátt á mömmu sína. Margrét svaraði inni í baðstofunni.
Þorgeir fór á eftir telpunni inn í kofana. Hann þurfti að ganga boginn til þess að reka ekki höfuðið upp undir. Megna reykjarsvælu af mó og þara lagði á móti honum. Hún kom úr eldhúskríli, sem lá beint á móti kofadyrunum. Alls voru kofarnir þrír. Einn þeirra var baðstofunefnan. Inn í hana var beygt til hægri handar, skömmu eftir að inn kom úr útidyrunum.
Þorgeir fylgdi stúlkunni eftir. Margrét mætti þeim í baðstofudyrunum, en þokaði sér inn aftur, þegar hún sá, hver kominn var.
Þorgeir fylgdi þeim mæðgunum eftir inn í baðstofuna, en komst þó ekki hjá því að reka sig upp undir í dyrunum. Þær voru bæði þröngar og lágar og skellihurð fyrir þeim að innan. Reykjareimur var þar inni, en þó ekki mikill; aftur bar þar meira á myglu- og óþrifadaun.
Þorgeir tók kurteislega ofan hatt sinn, þótt í kotungshúsum væri, og settist á annað rúmfletið af tveimur, sem stóðu þar inni. Margrét settist á hitt, gagnvart honum, og hélt áfram að bæta skóræfil, sem hún hafði verið með, þegar hann kom.
Oft hafði Þorgeir komið heim að Bælinu áður, en aldrei komið þar inn fyrri. Ljótt var kotið utan, en ekki tók betra við, þegar inn kom. Ekki var fjalagólf í baðstofunni og ekki var hún þiljuð innan, nema á bak við rúmin. Á milli langbandanna voru flatir raftar og torfþekjan þar utan á. Tægjur úr torfinu héngu inn á milli raftanna, og alt var hjúpað hvítri myglu og ormavefum. Í rúmfletunum var lítið um rúmföt, og þau, sem þar voru, voru slitin og óhrein.
Þorgeir lagði hatt sinn frá sér á borðkríli, sem stóð undir stafnglugganum á milli rúmanna. Ekki gat hann setið nema á rúmstokknum, því innan við hann var alldjúpt ofan að sængurfötunum.
Í þessu greni var að vísu lifandi á sumrin, þegar hlýtt var í veðri og sama hvort maður var úti eða inni. En nærri mátti geta, hvernig vistin væri þar á vetrum í frostum og stormum, þegar alt væri orðið gaddað og sýlað og kotið komið á kaf í snjó! Þorgeir óaði við að hugsa til slíks mannabústaðar. Hann ímyndaði sér, hvernig sér mundi líða þar eina nótt, hvað þá heilan vetur.
"Ég gekk hingað inn af forvitni. Mig langaði til að vita, hvernig yður liði", mælti Þorgeir. "Ég þekti manninn yðar sáluga og hann vann oft hjá mér. Mér féll altaf vel við hann".
Margrét svaraði þessu heldur stuttlega. Hún vissi ekki, hvaðan á sig stóð veðrið:
"Þakka yður fyrir. Mér líður eftir öllum vonum. Það versta er, að ég er að drepast úr ólukku tannpínu núna sem stendur".
Þorgeir hefði getað séð þetta á kinn hennar, því hún var dálítið bólgin út frá tönninni. Hún bar líka vott um það, að Margrét hafði nýlega stutt hendinni á bólguna, eins og mörgum hættir við, þar sem verkur er undir, en gleymt því í svipinn, að hún var að óhreinlegu verki. Fingraförin sáust á kinninni.
"Eigið þér ekki ofboð bágt?" spurði Þorgeir.
"Ég er nú orðin vön því. Þó hefir það ekki batnað við það, að hans misti við".
Þorgeir sá, að Margrét forðaðist það, að líta framan í hann, og honum sýndist augu hennar fyllast af tárum. En hún herti sig með skóbætinginn, eins og enginn væri þar ókunnugur. Þvenginn bleytti hún í munnvatni sínu, en stakk nálinni í gegnum bæturnar við rúmbríkina, þegar hún gekk illa í.
"Hafið þér samt ekki altaf nóg að gera, sem þér fáið borgun fyrir?"
Þorgeir spurði ekki um þetta vegna þess, að hann vissi ekki ofur vel, að þótt Margrét ynni eins og kraftar hennar framast leyfðu, voru engar minstu líkur til, að hún gæti haft ofan af fyrir sér og öllum börnunum. Hann spurði um það til þess að segja þó eitthvað, meðan hann dvaldi þar inni, og meðfram til þess að villa henni sjónir og leyna fyrirætlun sinni.
"Ég hefi meira að gera en ég kemst yfir", mælti Margrét. "Það verður oft fegið að leita til mín, blessað kaupstaðarfólkið, með einhver vik, sem vinnufólkið þess þykist of gott til að gera. Og það þægir mér eitthvað fyrir vikin; ekki vantar það. Anna mín í Vogabúðum sendi mér nú í gær öll mýraplöggin af vinnumönnunum sínum, til að þvo þau og bæta. Þeir komu heim úr heiðinni í gærkvöldi og ætla aftur af stað á morgun. Ég hefi lítið sofið í nótt; en nú er ég að ljúka við þau. Ég er að bæta síðustu skóræflana. - Þetta verður einhver að gera. Og ég yrði fegin, ef hún gæfi mér við einni köku fyrir það. Krakkagreyin geta ekki altaf etið þurt; ég á bágt með það líka. - En verst er ólukku tannpínan. Ég var að hugsa um að fara til læknisins í dag og vita, hvort hann gæti nokkuð liðsint mér. Þessar stöðugu kvalir drepa úr mér alla dáð. - En hann vill líklega eitthvað fá fyrir það, blessaður!"
Þorgeir horfði framan í Margrétu og virti hana fyrir sér, á meðan hún stundi upp þessum kvörtunum. Aldrei hafði hann séð hana eins raunamædda og nú.
Margrét var ekki gömul, aðeins rúmlega fertug. En í fljótu bragði leit hún út fyrir að vera nokkru eldri. Hún var föl og mögur í andliti, en þó ekki óhraustleg. Andlitið var vel skapað og fjarri því að vera einfeldnislegt. En það var þreytulegt. Átakanlegur örvæntingarsvipur var búinn og taka sér þar fast aðsetur. Gremja og amalyndi höfðu togað alla andlitsdrætti úr lagi. Við nánari athugun líktist hún meira margmæddri manneskju en skapsvarki. Þó var auðséð, að ekki var ennþá allri dáð hennar drepið niður og hug mundi hún hafa á að hjálpa sér sjálf til viðreisnar, ef henni væru vonir vaktar. - Þorgeir hugsaði um það með sjálfum sér, hve langt mundi vera síðan hjartanlegt gleðibros hefði leikið síðast um þetta andlit. Hann mundi eftir henni, þegar hún var ung. Þá hafði hún þótt fremur lagleg stúlka, og enn bar hún ofurlítinn vott um þann fríðleik. Þá hafði Einar heitinn líka verið fremur myndarlegur maður.
Þorgeir rendi snöggvast huganum yfir alt það, sem hlaut að hafa drifið á daga þessarar vesalings konu á hjúskaparárum hennar. Mörg og mikil mundu vonbrigði hennar hafa verið, frá því hún byrjaði búskapinn, rjóð í kinnum, fjörug og upplitsdjörf, og þar til nú, að hún sat svefnlaus, kinnfiskasogin, dauðþreytt og dapureyg yfir því að staga skóræfla, gladdi sig við að hugsa til smjörklípu, sem hún mundi fá að launum, en gat ekki leitað læknisins, til þess að lina sárustu þjáningar sínar, fyrir efnaskorti. Hann þóttist þess fullviss, að það væri ekki viðmetið eitt, sem hana vantaði. Engan málsverð mundi hún eiga heima í kofunum, ekkert til að lifa á annað en það, sem menn vikju henni daglega fyrir verk hennar eða af brjóstgæðum. Hann komst við af því að horfa upp á alla þessa fátækt og eymd.
"Koma ekki stundum menn til yðar, til að víkja yður einhverju góðu?" spurði Þorgeir.
"Það er lítið um það. - Jú, ekki skal það vanþakkað. Fólkið hérna uppi á bæjunum hefir boðið mér að víkja mér einhverju, ef ég gæti látið ná því. En ég á nú bágt með það líka. Gunna mín er alveg skólaus, og berfætt getur hún ekki farið upp á bæi. Sjálf má ég ekki vera að því. Ég sendi hana nú samt upp á bæi í dag og lét hana setja upp eina skóna, sem ég var að bæta, - ég vona, að mér verði það ekki til syndar reiknað. Ég ætlaði varla að fá hana til að setja þá upp, því þeir voru alt of stórir. Hún hljóp þvert yfir engjarnar, svo enginn skyldi mæta sér. En svo kom hún aftur með fötukrílið þarna fult af skyri".
Margrét benti á ofurlitla fötu með loki yfir, sem stóð þar á gólfinu. Þorgeir skildi nú, hvers vegna Gunna var berfætt og kjóllinn hennar leirugur. Hann fór að virða börnin betur fyrir sér. Þau höfðu bæði hniprað sig út undir súðina, aftan við gaflinn á rúminu, sem Margrét sat á. Sveinn litli sat þar á kistli og lamdi fótastokkinn með leirugum hælunum. Leit hann ýmist á skyrfötuna eða Þorgeir og var hvergi feiminn. Gunna stóð innar í skotinu og leyndi leirblautum kjólnum og berum bífunum á bak við rúmgaflinn. Hún var freknótt í andliti, með ofurlitla spékoppa í kinnunum, hýr á svip og augun stór og skær. Hárið var rauðleitt og hrundi í lausum lokkum niður með vöngunum. Einn lokkurinn var óþægur; vildi hvergi vera nema fyrir augunum. Við hann var Gunna að glíma; en ekki lét hann sneypa sig burt nema stund og stund í einu. Hún leit feimnislega niður fyrir sig, en gat þó ekki að sér gert að brosa barnalega, þegar mamma hennar var að segja frá henni með stóru skóna á fótunum.
"Hafa þær ekki heimsótt yður, frúrnar?"
"Frúrnar -!" át Margrét eftir.
"Já, ég á við embættismannakonurnar niðri í kaupstaðnum. Þær kvað vera svo einkar hjartagóðar".
"Nei, þær hafa ekki komið", sagði Margrét hálfgremjulega. "Krakkaormarnir þeirra gera samt vart við sig! Þeir leyfa sér margt á kotunum fátæklinganna. Þau vita það, embættismannabörnin, hvað þau mega bjóða sér! Hér er aldrei friður fyrir djöflaganginum í þeim. Þau gera okkur alt til ills og skapraunar, sem þau geta upp fundið. Nú eru þeir, strákarnir læknisins og sýslumannsins, alveg búnir að eyðileggja strompgarminn á eldhúskofanum mínum, svo nú ætla ég að kafna í reyk, hvenær sem ég kveiki upp eld. Þeir lágu lengi á því lúalagi að hvolfa bala ofan yfir strompinn; það hefir víst átt að bæta mér í augum eftir tárin og næturvökurnar! Og svo ætla þeir að drepa krakkagreyin mín, hvar sem þeir ná í þau. - Nei, mæður þeirra koma ekki hingað; ég vildi, að þær kæmu! Þær skyldu, svei mér, fá í nefið!"
Margrét fór að gráta við það að minnast á þennan ábæti á raunir sínar, sem var að kenna ærslum og agaleysi barna höfðingjanna.
Þorgeir fór nú aftur að virða fyrir sér börnin. Gunna litla stóð sem áður svo langt inni í skotinu sem hún komst og strauk hárlokkinn frá augunum. En Sveinn litli barði fótastokkinn enn tíðar en áður. Honum var farið að leiðast og hann langaði í skyrið. Hann var líkur föður sínum í andliti, en dálítið snerpulegri. Augun voru ljósgrá og kollurinn hrokkinn og ljósgulur; en ekki var snáðinn hreinn í framan.
"Eru þau ekki fjögur, börnin yðar?" spurði Þorgeir.
"Jú", sagði Margrét. "Ásmundur litli og Bogga eru einhverstaðar úti í sjálfsmensku sinni. Líklega eru þau niðri við brennurústina; þaðan er varla hægt að þoka þeim. Þau tína saman allskonar rusl, sem þau finna í öskunni. - Oft koma þau ekki heim allan guðslangan daginn, nema þegar þau eru svöng - eða búin að meiða sig. Þá koma þau organdi. Þá er ekki annað að flýja en heim til mömmugarmsins".
Þorgeir horfði á drenginn og gat varla haft af honum augun, en drengurinn horfði fast og feimnislaust á móti. Þetta magra og óhreina, en þó skýra barnsandlit minti Þorgeir á andlit Einars heitins, eins og það hafði verið, þegar hann fyrst mundi eftir honum. Mörgum breytingum hafði það að vísu tekið síðan, en til dauðans hafði þó jafnan eitthvað verið eftir af æskusvipnum. Raunir og auðnuleysi höfðu aldrei máð hann alveg burtu. Og til þessa æskumóts í svipnum svaraði ef til vill það í lífi Einars, sem stöðugt háði baráttu fyrir viðreisn hans og glæddi honum vonir um sæla og heiðarlega daga. Öll mæðu- og mótlætiskjör hans höfðu aldrei megnað algerlega að uppræta þessa manndómshugsjón hans. Stöðugt hafði hún lifað í honum og verið honum til raunaléttis. Ef til vill hafði hún beðið ósigur, eða lítil lífsmörk fundist með henni, seinasta kvöldið sem hann lifði, og lífið þá orðið honum óbærilegt -? En nú var hún endurborin í börnum hans, einkum þessum drenghnokka, sem erft hafði andlitssvip föður síns.
Þorgeir viknaði við að hugsa til þess, ef þessi góði eiginleiki væri aðeins fæddur til þess að dragast upp og deyja, vegna uppeldisskorts og ræktarleysis.
Hann mintist drengsins eins og hann hafði fyrst borið fyrir hann. Það var úti fyrir dyrunum, þar sem hann var að leika sér á hurðinni. Það, sem hann hafðist þá að, þótt lítið væri, sýndi ljóslega, að snáðinn kendi krafta í sjálfum sér og hafði fullan vilja á að beita þeim til einhvers. Í þetta skifti hafði þeim verið beitt til ills: til að brjóta hurðarræfilinn. En þeir áttu fyrir sér að vaxa og þroskast, og til hvers yrði þeim þá beitt? Mundu þeir verða notaðir honum sjálfum til góðs, eða aðeins öðrum til hagsmuna, eins og kraftar dýranna? Eða mundi þeim verða slitið upp í blessunarsnauðu striti fyrir daglega lífinu, striti, sem lúði andann, kældi tilfinningarnar og blandaði lundina beiskju? Eða mundu þeir tærast upp af eigin ástríðum og verða erfðum breyskleika og innrættri spillingu að bráð? - Átti auðsveip, þekkingarsnauð hundssál, sem þáði molana þakksamlega og flaðraði upp um gefandann, að vaxa upp með líkama þessa vesalings drengs, í stað sjálfstæðrar mannssálar, sem fann til skyldu sinnar og ábyrgðar og þekti gildi sitt og réttindi í lífinu? Hvert mundi hlutskifti þessa umkomulausa barns verða?
Það lá við, að Þorgeiri dimdi fyrir augum, er hann hugsaði til þeirra vesalinga, sem hann hafði hitt fyrir um æfi sína, - sem alist höfðu upp í eymd og volæði, eða við náðarbrauð íslenzku hreppanna, margeftirtalið, og báru jafnan menjar uppeldisins, - manna, sem veslast höfðu upp með árunum, í stað þess að þroskast, glötuðu sjálfleik sínum þegar í æsku og fengu aldrei færi á að njóta sín. Oft hafði hann hugsað með hrolli til slíkrar sóunar á beztu gáfum manneðlisins. Nú fanst honum hann standa við upptök slíkrar tortímingar og sjá hina hryggilegu rás atburðanna fyrir. -
Hann horfði fast á drenginn og hugsaði um forlög hans. - En alt í einu fanst honum andlit sveinsins breytast eða bregða litum, eða sem gagnsærri grímu væri brugðið yfir það, - grímu með flakandi höfuðsár og blóðstokkið auga fram úr tóftinni. Það var sem horfði hann á bæði andlitin í einu, drengsins í gegnum hitt.
Við þessi fyrirbrigði brá Þorgeiri svo, að hann hrökk upp af hugleiðingum sínum; fanst honum þá allan mátt draga úr sér, sem væri hann að fá aðsvif. Margrét horfði undrandi á hann; hún sá, að hann fölnaði í framan.
"Er yður að verða ilt?" spurði hún.
"Nei", sagði Þorgeir um leið og hann strauk hendinni um enni sér og fann, að það var stamt af köldum svita.
Síðan spratt hann á fætur, þreif veski sitt upp úr brjóst vasanum, tók úr því tvo íslenzka 50-krónaseðla og lagði þá á borðið.
"Þetta eigið þér að hafa til að bæta úr bráðustu þörfum yðar og barnanna. Komið þér svo til mín, áður en þér farið til annara, ef yður liggur eitthvað á. Ég skal reyna að greiða eitthvað fyrir yður, meðan við lifum bæði. En munið þér mig um eitt: þér megið engum segja frá þessu".
Áður en Margrét gat áttað sig á þessu og þakkað fyrir sig, hafði Þorgeir tekið hatt sinn og staf, kastað kveðju á hana og börnin og var horfinn eins og svipur út úr baðstofunni.
Margrét sat orðlaus og hissa með seðlana á milli fingranna. Aldrei hafði hún séð jafnmikla peninga. - Hundrað krónur! - Tvennir 50 voru hundrað! - Þessir litlu pappírsmiðar voru hundrað króna virði! Loksins streymdu gleðitárin af kinnum hennar ofan á skóræfilinn, sem ennþá lá í kjöltu hennar.
Börnin hlupu til hennar bæði í einu. Þeim var forvitni á að sjá, hvað það væri, sem gesturinn hafði skilið eftir. Sveinn litli skar upp úr. Hann bað mömmu sína ákaft um að gefa sér þessi fallegu myndabréf. Gunna mátti gjarnan fá annað, ef hann fengi hitt. Hann kannaðist við Fjallkonmnyndina á bakinu á seðlunum. Hann hafði séð hana á bréfum utan af kaffibæti.
-
Þorgeir hafði alls eigi tekið eftir því, að póstskip var komið á voginn, er hann gekk upp að Bælinu. Nú, er hann kom inn í skrifstofu sína, lágu þar bréf til hans.
Hann braut upp stærsta bréfið. Það var frá verzlunarstjórninni. Þar var honum skýrt frá, að nú væri seglskipið lagt af stað með haustvörurnar til hans. Kvaðst verzlunarstjórnin hafa sent þær vörur einar, sem vissa væri fyrir, að seldust um veturinn.
Jafnframt var honum skýrt frá því, að verzlunarstjórnin hefði nú ákveðið að hætta verzlun í Vogabúðum. Væri það af ástæðum, sem honum væru vel kunnar. Nú var lagt ríkt á við hann að krefja inn skuldir verzlunarinnar, með illu eða góðu, og ljúka öllum hennar reikningum.
Að lokum stóð þar, að maður væri með skipinu, sem honum væri sendur til aðstoðar við innheimtu skuldanna og það, að koma eignum verzlunarinnar í viðunanlegt verð. Var óskað og vænst eftir góðri samvinnu þeirra í milli og góðum árangri. -
Þar kom að því!
Þorgeir sat hljóður og hugsandi yfir bréfinu. Það kom honum alls ekki á óvart. Lengi hafði hann grunað það, að bréf væri í aðsigi með slíku innihaldi. Nú var ekki annað fyrir en verða mannslega við.
Með þessu bréfi voru síðustu hugsjónir hans um endurreisn verzlunarinnar dæmdar til dauða. Nú hafði hann beðið algerðan ósigur. Honum fanst nú síðasta akkeri sínu létt úr botni. Hina sökkvandi fleytu var nú tekið að reka í áttima til skerjanna, sem lengi höfðu eftir henni beðið.
En ekki gat hann við það ráðið, að honum þyngdist í skapi til þeirra manna, sem nú áttu sigri að hrósa. Þó var sem honum hlægi hugur við því, að seinasta atlagan var ennþá eftir: -innheimta skuldanna.
Þegar Þorgeir var búinn að lesa önnur bréf sín og sat þungbrýnn yfir efni þeirra, tók hann eftir ofurlitlu bréfi, ófrímerktu, sem lá þar einnig á borðinu. Hann braut það upp. Það var skrifað með nettri kvenhönd, sem hann kannaðist við að fornu fari, og hljóðaði þannig:
Kæri pabbi,
Það er í ráði, að við Friðrik giftum okkur annað kvöld kl. 8 á heimili Friðriks. Leyfisbréfið er komið. Gestir verða fáir; en okkur væri mikil ánægja að sjá þig á meðal þeirra.
Dóttir þín,
Ragna.
Þorgeir las bréfið aftur og aftur, eins og hann tryði ekki eigin augum sínum. Loks henti hann því á borðið og rak upp gremjulegan hæðnishlátur.
"Tylliboð -!"
Síðan hugsaði hann sig um stundarkorn, tók bréfið, las það ennþá einu sinni og mælti háðslega og hálfhátt fyrir munni sér:
"Bíddu við, telpa mín! Hver veit nema ég komi!"
13. kafli - BrúðhjónakvöldMikið var um að vera í húsi þeirra bræðranna kvöldið, er brúðkaupið átti fram að fara. Systir þeirra, sem ráðskonustörfin hafði á hendi, gerði sér alt far um að láta sér farast alt sem bezt, því að þessu dagsverki loknu gerði hún ráð fyrir, að sér mundi verða ofaukið þar í húsinu. Móðir hennar hafði rólað ofan eftir til hennar um daginn, þótt þungt væri henni um sporið, til að hjálpa henni til eins og hún bezt gæti. Vinnukonur sínar, þær sem hún gat mist að heiman, hafði hún einnig lánað þangað ofan eftir þann dag og hinn næsta á undan. Henni var ant um, að ekkert vantaði á, að brúðkaup Friðriks síns væri hátíðlegt og áhrifamikið og kona hans gæti séð, að við komu hennar hefði verið búist eftir beztu föngum.
Öll íbúðarherbergin höfðu verið þvegin hátt og lágt. Allir innanstokksmunir höfðu verið hreinsaðir og fágaðir, sópaðir og viðraðir, og voru nú aftur komnir hver á sinn stað. Búsáhöld bræðranna voru hvorki mörg né vönduð. Þar hafði til þessa verið búið að því einu, sem unt var að komast af með. Til skrauts eða munaðar var litlu kostað. Þar að auki höfðu innanstokksmunirnir orðið fyrir miklum áföllum, þegar þeim var bjargað út úr húsinu undan eldinum, sem áður er um getið. Flestir báru þeir einhverjar menjar þeirrar stundar. Mátti því heita, að Friðrik ætti engan hlut ógallaðan, er að því kom að taka á móti konunni. Ekki var það þó vegna þess, að hann skorti vilja eða efni til að eignast prýðilegri muni og vandaðri, heldur var því einu um að kenna, að ekki var hægt að fá þá þar. Húsgagnasmiðir voru þar fáir, og húsgagnaverzlun engin. Alt slíkt þurfti að panta frá öðrum löndum, ef sæmilegt átti að vera. Nú hafði ekki verið tími til þess, er ráðahaginn bar svo bráðan að. Hann hafði því orðið að láta það nægja að gera við gömlu munina sem bezt var auðið og bjargast við þá í bráðina.
Hvorki átti veizlan að vera fjölmenn né margbrotin. En ant létu þó allir sér um það, sem hlut áttu að máli, að hún færi fram með sæmilegri rausn og viðhöfn. Gerðar voru ráðstafanir til þess, að allir veizlugestir settust að sameiginlegu borðhaldi ásamt brúðhjónunum. Ekki skorti heldur góð vín, en margar tegundir voru þó ekki til teknar. Þó skyldi drekka skál brúðhjónanna í kampavíni. Ekki var hægt að dúka borðið, fyr en að hjónavígslunni lokinni. Stærsta stofan var til hvorstveggja ætluð.
Boðsfólkið var skyldulið brúðgumans bæði frá Vogabúðum og Seljatungu. Lækninum og frú hans var einnig boðið og fáeinum kaupstaðarbúum öðrum. Sýslumanninum og frú hans hafði ekki verið boðið. Sigurður gamli í Vogabúðum hafði aftekið að koma í veizluna, ef hans væri von þangað. Hann gat ekki fyrirgefið honum þann misskilning, að hann skyldi taka lausnarbeiðni hans frá hreppstjórastarfinu fyrir "góða vöru", og leit svo á, sem sýslumaður hefði í raun og veru vísað sér frá stöðunni, þótt óbeinlínis væri. Fyrir þetta lagði hann fæð á sýslumann og hafði aldrei heilsað upp á hann síðan þeir töluðust við um þetta efni, sem áður er sagt. Nú lá Sigurði lítið betur orð til hans en Þorgeirs.
Enginn af skyldmennum brúðarinnar var boðinn, nema Þorgeir, og enginn gerði ráð fyrir, að hann þægi það boð. Hún var alein síns liðs. Læknisfrúin annaðist hana sem væri hún dóttir hennar eða yngri systir. Hún hjálpaði henni til að búa sig, útvegaði henni það, sem hana vanhagaði um, lánaði henni frá sjálfri sér og hjálpaði henni á allar lundir með einstakri alúð. Sveinbjörn í Seljatungu átti að vera svaramaður hennar, því enginn þorði að nefna annað eins við föður hennar. Hann átti að sækja hana heim í hús læknisins, þegar presturinn væri kominn og hjónavígslan ætti að byrja.
Reynt hafði sýslumannsfrúin að telja læknisfrúna af því að þiggja boð þetta, og unnist nokkuð á um tíma. Kvað hún það illa sæma fólki, sem ynni dygð og skírlífi, að sitja að boði með öðrum eins kvenmanni og Rögnu. Runnu þá tvær grímur á læknisfrúna, en þegar hún bar þetta undir mann sinn, vildi hann ekki heyra slíkar kreddur, sagði að "það ma-ma-ma-ma-manglaði s'gu ba-bara!" - og var þá læknisfrúnni allur hugur horfinn. Enda hafði hún aldrei skilið til fulls þessar háu sæmdarkröfur hinnar göfugu vinkonu sinnar.
Veður hafði verið fagurt um daginn, og enn var sólskin og heiðríkja. Við skin hinnar lækkandi kvöldsólar átti vígslan að fara fram. Að henni lokinni stóðu lampar tilbúnir, því enginn gerði ráð fyrir svo skammvinnum brúðkaupsfagnaði, að dagsbirtan hrykki til.
Klukkan 8 komu boðsgestirnir. Friðrik tók á móti hverjum þeirra um sig og bauð þá velkomna. Sveinbjörn hjálpaði honum með að bjóða bráðabirgðahressingu. - Sigurður í Vogabúðum kom með þeim fyrstu og leiddi konu sína. Nú var hann hinn kátasti og sá ekki á, að hann hefði nýlega barist með oddi og egg gegn þessum ráðahag sonar síns. Nú var líka "sú franska" nýgreidd, svo á hana gljáði sem dökkgráan otursbelg. Læknirinn og kona hans urðu aftur á móti fremur síðbúin, þótt ekki yrði það til óþæginda. En því glæsilegri voru þau líka, þegar þau komu: læknirinn í svörtum kjól, mjög flegnum, með gullfesti út úr vestisvasanum og gildan steinhring á vísifingri vinstri handar, en læknisfrúin í skrjáfandi silkikjól, með sniði og prýði, sem of langt yrði upp að telja, og með margskonar kvenskraut annað. Var það auðséð á svip og fasi læknisins, að hann fann vel til þess, hve mjög þau hjónin báru af öllu boðsfólkinu. Þó var hann ljúfur og ástúðlegur við hvern mann, er hann heilsaði, og stamaði óvanalega lítið - framan af kvöldinu.
Þegar allir aðrir boðsmenn voru komnir, sem von var á, vantaði prestinn; en ekki þótti hlýða að sækja brúðina, fyr en hann væri kominn. Á meðan gekk læknirinn manna bezt fram í því að glæða glaðværð meðal gestanna, og varð vel ágengt. Samtalið varð brátt hávært, fyndið og blandið hljómandi hlátrum. Ekki dró heldur neitt til muna úr þessari glaðværð, þegar presturinn kom. Hann gekk snöggvast gegnum herbergið, með hnakktöskuna sína á handleggnum, og kastaði kveðju á boðsfólkið. Síðan fór hann inn í annað herbergi til að hempuskrýðast.
En þegar presturinn kom aftur fram, skrýddur, hvarf Sveinbjörn í Seljatungu úr hópnum. Allir vissu, hvernig á því stóð.
Presturinn fór að leita uppi sálmana í sálmabókinni, en aðrir héldu glaðværð sinni áfram. Brúðguminn var einnig þar inni. Þá kom ein vinnukonan inn með miklu írafári og sagði Friðriki, að Þorgeir væri að koma.
Steinhljótt varð í sömu svipan, eins og dánarfregn einhvers stórmennis, eða brúðarinnar sjálfrar, hefði verið kastað inn í hópinn. Spyrjandi og vandræðalega litu menn hver til annars. Sigurður í Vogabúðum fölnaði í framan og varð óstyrkur í hnjánum. Friðrik varð hljóður við, en áttaði sig þó fljótt. Hann reif opna hurðina, tók á móti tengdaföður sínum í stiganum og bauð hann velkominn. Hjálpaði hann Þorgeiri til að losa við sig hatt sinn, staf og yfirhöfn, og leiddi hann við hönd sér inn til hinna boðsgestanna.
Þorgeir heilsaði mönnum alúðlega, en kveðjum hans var stuttlega tekið. Allri glaðværð var sem drepið niður við komu hans. Læknirinn vissi varla, hvað hann átti af sér að gera. Hann horfði framan í Þorgeir og alla aðra til skiftis og botnaði ekkert í þessu. Þó réð hann það af að víkja kunnuglega að verzlunarstjóranum og fara að tala við hann.
Sigurður í Vogabúðum hafði þokað sér út í horn og stóð þar að baki annara, fýldur á svipinn. Langaði hann þá mest af öllu til að fara heim. Hafði hann ekki haft hugmynd um, að þau hefðu boðið Þorgeiri, og þaðan af síður gat honum dottið það í hug, að Þorgeir mundi þiggja boðið. En nú var svona komið! Það var hvorttveggja, að hann hafði greitt "þá frönsku" óvanalega vel, enda vissi það á gott! - -
Skömmu eftir að Þorgeir var kominn, kom Sveinbjörn í Seljatungu með brúðina. Hún var klædd hvítum kyrtli, með myrtusveig um ennið. Mikil, hvít brúðarslæða huldi hana nær alla. Blakti hún fagurlega aftur af henni, er hún gekk, og nam við gólfið. Menn þokuðu sér úr vegi, svo ekki væri of þröngur gangur hennar gegnum herbergið, og heilsuðu henni hæversklega.
Eitt sinn hafði stúlka þessi verið talin allra kvenna efnuðust þar um slóðir. Nú kom hún allslaus og bláfátæk til brúðguma síns og studdist við armlegg á vandalausum manni. Minst af því skarti, sem hún bar á giftingardegi sínum, var hennar eign. Tvö lítil koffort stóðu enn í loftherbergi því, sem hún hafði leigt í húsi læknisins. Þar var aleiga hennar.
Auðséð var á Rögnu, að grátið hafði hún nýlega. Var hún nú hljóð og alvarleg; en misskift var roðanum um kinnar hennar. Hvarmarnir voru ofurlítið rauðir, en augun skær og dálítið feimnisleg. Þessir yfirlitir fóru henni vel; þeir báru vott um kvenlega viðkvæmni og blíða lund, sem raunir og mótlæti höfðu ekki unnið bug á, þótt annað skap hefði hún einnig til. Hún svaraði kveðjum gestanna með hlýlegu brosi um leið og hún gekk framhjá. En þegar hún kom auga á föður sinn, brá hún litum og fölnaði. Augu þeirra mættust varla; en upp frá því harðnaði svipur brúðarinnar.
Hún hélt áfram við hlið svaramanns síns, framhjá öllum gestunum og inn í stofuna, þar sem vígslan átti að fara fram. Þar beið brúðarskörin, klædd íslenzkri glitábreiðu.
Við komu brúðarinnar byrjuðu orgeltónar að heyrast frá einu horni stofunnar, sem gefa átti hjónin saman í. Sveinbjörn, bróðir brúðgumans, lék þar á ofurlítið stofuorgel. Lék hann fyrst brúðgöngulag; en smám saman breyttist blærinn á laginu og rann að lokum saman við forleik hjónavígslusálmsins. - Þegar brúðurin var komin inn í stofuna, kom Sigurður gamli í Vogabúðum fram úr skotinu; tók hann um handlegg syni sínum og leiddi hann inn að hlið brúðarinnar. - Boðsgestirnir færðu sig þá einnig inn í þá stofu og fóru að blaða í sálmabókum sínum eftir hjónavígslusálminum. Síðan byrjaði hin hátíðlega athöfn.
-
Að hjónavígslunni lokinni gengu gestirnir til brúðhjónanna og óskuðu þeim til hamingju með handabandi. Þorgeir gerði það eins og aðrir. Allir viðstaddir horfðu á það, sem byggjust þeir við miklum tíðindum. Fæstir bjuggust við, að hann og brúðhjónin mundu hafa skap til að taka höndum saman. Svo fór þó ekki. Handaband þeirra Friðriks og Þorgeirs var fálegt, en þó sæmilegt; Ragna og faðir hennar tyltu höndum saman, en litu hvorugt í annars augu. Þorgeir fór að með allri hæversku og lét augu boðsgestanna ekkert á sig fá; en Rögnu var þetta ofraun. Sneri hún sér þegar frá öðrum mönnum, er hendur þeirra voru skildar, svo ekki skyldu menn sjá í andlit henni, meðan hún barðist við tilfinningar sínar. Að augnabliki liðnu gat hún þó aftur umgengist gestina með sæmilegri alúð, eins og ekkert hefði í skorist; en litverp var hún jafnan um kvöldið.
Að þessu búnu rýmdu gestirnir þessa stofu og skiftu sér niður í hin minni herbergin. Vín og vindlar var borið karlmönnum, en kvenfólki ýmisleg sætindi. Á meðan voru borð dúkuð í stofunni, og haft hraðan við. Einnig var breitt þar fyrir gluggana og ljós kveikt, þótt enn væri bjart, svo ekki skyldi sú athöfn ónáða menn, eftir að sezt væri að borðum.
Ekki tókst að endurreisa glaðværðina meðal gestanna. Læknirinn gerði lengi vel sitt ýtrasta til, en loks gafst hann upp að sinni. Þorgeir var þegjandi og þungbúinn á svipinn og sneiddi hjá öðrum mönnum.
Aldrei hafði Þorgeir komið í þetta hús áður. Notaði hann nú líðandi stund til að litast þar um. Flest herbergi stóðu opin, svo aldrei var betra tækifæri en nú til þess að sjá híbýlin og það, sem þar var inni. Þorgeir leit á það aðgætnum augum, enda var það hvorki mikið né ríkmannlegt. Reikaði hann um stund fram og aftur, en staðnæmdist loks við glugga á framhlið hússins, sem opinn stóð og ekki var breitt fyrir, og horfði út um hann.
Veður var blítt og fagurt og útsýn úr þessum glugga afbragðs fögur. Sá þaðan yfir Vogabúðatúnið, alt heim að bænum. Þá sá yfir allan innri hluta kaupstaðarins, fjöruna alla og spegilsléttan voginn. Kvöldroða lagði á Básana, og var sem blóð lagaði ofan eftir björgunum - eins og brennunóttina; en fagurlega spegluðust þau í lygnum sjónum.
En beint neðan undir glugganum sá ofan í brennurústina. Nú hafði verið rótað til öskunni og henni mokað í bingi til og frá í kjallaratóftinni. Smákrakkar úr kaupstaðnum voru enn að krafla í öskunni og leita sér að leikföngum. - Nú stóð fyrir dyrum að ryðja tóftina og fara að búa hana undir nýja byggingu.
Þorgeir stóð hljóður yfir þessari sýn, og hvarflaði honum þá margt í hug. Mintist hann nú þess, er hann sat uppi á mæninum á þessu húsi og horfði á bálið. Sú sýn var honum minnisstæð. Bjart hafði honum þá verið í augum og steikjandi hita hafði lagt á andlit honum. - Nú var bál þetta sloknað og askan orðin köld. En inni fyrir í honum sjálfum hélt áfram að brenna; það hafði aðeins flutt sig. Síðan það brann þarna, var hann annar maður. - Þótt hann horfði enn ofan í öskurústina, var hann búinn að missa sjónar af henni. Nýlega liðna atburði bar fyrir augu hans. - Í leiðslu strauk hann hönd yfir ennið. Þar var það ennþá, brennimarkið. Skorpan var dottin af, en örið eftir.
Hinir boðsgestirnir stóðu í hóp við næsta glugga og horfðu á það sama og Þorgeir. Töluðu þeir saman orð og orð á stangli, en ekki nema hálfhátt. Þeir voru einnig að rifja upp fyrir sér atvikin við brennuna. Sumir skotruðu þá augum um öxl sér til Þorgeirs. Þorgeir tók eftir því, en lét þó sem hann sæi það ekki.
Sigurður í Vogabúðum hafði togað Sveinbjörn bróður sinn út í horn; þar ræddu þeir kaupfélagsmál í hálfum hljóðum. Læknirinn gekk með gullspangagleraugu þetta kvöld. Var hann ýmist hjá öðrum mönnum eða hann reikaði einn sér. Hætti honum þá við að strjúka hendinni um kviðinn og geispa í laumi. Loks hvarf hann inn í herbergi það, er kvenfólkið sat í, því þaðan var skvaldur að heyra.
Brúðguminn gekk á milli gesta sinna og reyndi að glæða gott skap og glaðværð, en varð lítið ágengt. Hann sá þá ekki annað ráð en ýta á eftir kvenfólkinu með matinn, í þeirri von, að eitthvað kynni að rætast úr veizlufagnaðinum, er menn væru seztir að borði.
Loks var maturinn tilbúinn, og menn röðuðu sér að borðinu.
Borðið var í laginu eins og bókstafurinn T. Fyrir miðju háborðinu var brúðhjónunum búið sæti, og stóð blómaskál á borðinu fyrir framan þau. Næst Friðriki sat faðir hans og móðir, en systkini hans þar utar frá til sömu handar. Hinum megin brúðarinnar sat Sveinbjörn í Seljatungu, svaramaður hennar, þá kona hans og síðan Þorgeir. Aðrir boðsgestir settust þar að borðinu, sem þeim sjálfum sýndist.
Fyrst eftir að sezt var að borðinu var sama þögnin og áður. En nú tók Þorgeir til að reyna að lífga við glaðværðina. Þeir læknirinn og Sveinbjörn í Seljatungu voru honum innilega samtaka í því.
Þorgeir hafði verið hinn mesti gleðimaður í samsætum á blómaárum sínum og allra manna bezt til þess fallinn að létta af mönnum fargi þagnar og þurlyndis. - Að þessu sinni varð hann að taka á sér nauðugum til að segja glaðlegt orð við nokkurn mann. Þó tókst honum furðanlega upp þegar í byrjun, og síðan altaf betur og betur. Það var sem afl, sem lengi hefði bundið verið, leystist smám saman úr læðingi og kæmi til notkunar. Þetta afl var hið forna samkvæmisfjör hans. Eftir að hreyft var við því, gekk það eins og gamalt sigurverk í kirkjuturni. Fyrstu tökin voru stirð að vísu, og var sem hrikti í ryðguðum járnum; en brátt varð málmhljóðið skýrt og hreint. Gamlar samsætis-smáskrítlur endurfæddust í huga hans. Allskonar orð og atvik, sem lífgað geta glaðværð og góða lyst við borð, hlaðið góðum vistum, urðu honum brátt á reiðum höndum. Voru þau honum töm frá fyrri árum og höfðu löngum að haldi komið. - Lét hann að öllu sem væri hann heima hjá sér og væri sjálfur húsbóndinn.
Þetta fór að vísu fram án þess að óskiftur hugur fylgdi. Honum var þetta óljúft, næstum bauð við því. Enda vantaði þessa glaðværð líf og anda. Tómahljóð var í hverju orði, og líkast var því, sem afturganga talaði upp úr gröf sinni, en ekki maður sá, er þarna sæti. Læknirinn og Sveinbjörn reyndu samt að blása upp eld úr þessum glaðværðarglæðum. En alt kom fyrir ekki. Gamanyrði Þorgeirs vöktu uppgerðarleg bros hér og þar, stundum kuldalegan hlátur, en hin sanna glaðværð var köld og stirð og hrökk ekki við. Þorgeir fann þetta og átti þá ennþá bágara með að leika hlutverk sitt. Hluttaka meðleikenda hans var engin. Orð hans sjálfs létu honum í eyrum sem hljómur sprunginnar klukku; hlátrarnir eins og kuldadynkir svellanna.
En hann hló samt. Kuldi og þrjózka vöknuðu í huga hans. Fyrst menn vildu ekki þýðast glaðværðina, skyldu menn fá að kenna á stríðni og storkun.
Fyndni hans var hógvær og ljúfmannleg sem áður; en að baki hennar kendi hrolls og hugarbeiskju, svo hin mjúku orð urðu sár viðkomu. Hvert sem hann leit, flúðu augu boðsgestanna undan tilliti hans, en hvenær sem hann leit af mönnum aftur, fann hann augu þeirra hvíla á sér. Það var sami leikurinn inni sem úti. Yrmlingur bjó í auga hverju, sem faldi sig, þegar á hann var litið. Slíkum yrmlingum var augnaráð hans ógnunargeisli, sem hann sveiflaði yfir borðið við og við. En "hógvær fylgdu orð" slíku hirtingarvopni.
Brúðhjónin lögðu fátt til þess, sem skrafað var. Bæði sáu þau gleðibrest manna. Friðrik sat lengst af hljóður og hæverskur, en hafði nánar gætur á öllu, en einkum þó á föður sínum. Hann sá hreppstjórann drekka fast af borðvínunum og kveið því einu, að hann mundi espast svo við drykkinn, að honum yrði ekki í skefjum haldið. Fengi hann að taka til máls, var úti um alt. Hann mundi þá ausa úr sér yfir Þorgeir, og þar með væri samsætisfriðnum lokið. Þessi svikna glaðværð eða glaðværðaryfirskin, sem Þorgeiri hafði tekist að lífga, var þó skárra en rifrildi eða hrein og bein áflog. - Ragna var náföl í framan, leit varla nokkurn tíma upp, en titraði af kvíða. Hún laut áfram í sætinu. Hárið grúfði yfir vöngum hennar og hrundi í lausum lokkum ofan um axlir og herðar. Yfir því lá brúðarblæjan sem héla. Svipurinn var harðlegur, og svo var að sjá, sem ekki væri það í fyrsta sinni í kvöld, að hún ætti mótlæti að mæta. Matinn bragðaði hún varla. - Sigurður í Vogabúðum var farinn að hálfdrafa; en við og við gall í lækninum eins og borðbjöllu. Nú var hann tekinn til að stama sem mest hann mátti, en bar þó hraðan á, svo hann gat sagt furðu mikið á stuttum tíma. Sumt af því, sem hann stamaði, var skoplegt og fyndið, en fáir hlógu þó að því.
Loks kom tilbreyting, sem öllum var kærkominn léttir, eins og nú stóð á. Læknirinn barði með gafflinum í glas sitt og kvaddi sér hljóðs. Stóð hann síðan upp og mælti fyrir minni brúðhjónanna. Raunar ætlaði það aldrei að komast fram úr honum; en góð voru áhrifin eigi að síður, því flestra athygli beindist að honum á meðan. Húrrahrópið, sem á eftir fór, var reikult í rásinni og gestirnir hjáróma.
Nú rak hver ræðan aðra. Presturinn, sem annars kvað lítið að í veizlunni, talaði fyrir minni Íslands. Friðrik þakkaði með fáum orðum fyrir brúðhjónanna hönd. Sveinbjörn í Seljatungu mælti fyrir minni héraðsins og Sigurður í Vogabúðum vildi endilega fara að halda ræðu um eitthvað, en gerði það þó fyrir Friðrik að sitja kyr og halda sér saman.
Eftir þessar ræður varð ofurlítið meira líf við borðið en áður. Kjarnfæðan var nú upp etin, en smekkbætirinn eða léttmetið fram borið. Var þar meðal annars kaka mikil, fögur og girnileg. Var borið með henni freyðandi rjómalöður; en ofan á sjálfri kökunni var nafnið "Ragna" dregið með rauðri jarðberjakvoðu. Var þetta nefnd brúðarkaka, og litu margir til hennar hýru auga.
En þegar búið var að skifta kökunni upp á milli manna, barði Þorgeir í glas sitt og stóð upp.
Það var sem allflestu boðsfólkinu væri rekinn rokna löðrungur af nýju, er Þorgeir bjóst til að halda ræðu. Þessi litli vottur um glaðværð, sem farið var að bera á hin síðustu augnablikin, kulnaði út eins og frjóangi í vorfrosti, og óánægjusvipur kom aftur á hvert andlit. Það var ekki nóg að sitja að borði með manni, sem megn glæpagrunur hvíldi á, manni, sem svo var óskammfeilinn, að hann kom þangað í storkunarskyni við einkadóttur sína, heldur áttu þeir nú að fá það í ábæti að heyra hann halda ræðu! Þvílíka frekju var mönnum tæplega unt að þola!
Þorgeir fór nærri um hugsanir manna, er hann leit yfir öll andlitin, en svaraði þeim að vanda með tvíræðu storkunarglotti, ástúðlegu að vísu, en ísköldu. En innifyrir í sjálfum sér fanst honum eitthvað bæra á sér, sem mótmælti athæfi hans og kipti úr honum kjarki. Hann var hikandi og hálffeiminn. Þessa veilni sína vildi hann líka yfirvinna. Hann harkaði því af sér og byrjaði:
"Heiðruðu konur og menn!"
Lengra komst hann ekki að sinni, því í sömu svipan barst hávaði frá hjónaborðinu. Sigurður í Vogabúðum lamdi hnefanum af öllu afli í borðið, svo alt, sem þar stóð í nánd, tókst á loft og dansaði á dúknum. Tvö vínglös, sem hjá honum stóðu, brotnuðu og hreppstjórinn hruflaði sig á hendinni á brotunum. Spánskt vín og heiðarlegt, íslenzkt hreppstjórablóð rann þar saman um borðdúkinn. En Sigurður ætlaði ekki að láta við þetta sitja. Hann brýndi röddina og hrópaði svo hátt og skýrt sem hann gat:
"Brennu - - -!"
Seinni hluti orðsins kafnaði í hvimleiðum vínropa, sem samtímis krafðist útgöngu. Þó hefði Sigurður eflaust lokið við orðið, hefði Friðrik ekki tekið óþyrmilega í öxl honum, en kona hans litið til hans ómjúkum augum frá hinni hliðinni. Við þetta sljákkaði í hreppstjóranum.
Ragna varð nábleik i framan.
Þorgeir þagnaði, meðan þessu fór fram. Þegar aftur var kominn friður og kyrð, hélt hann áfram:
"Heiðruðu konur og menn!
Oft hefir móðir vor allra, náttúran, vakið eftirtekt mína. Ekki einasta með fegurð sinni og yndisleik, eða harðýðgi sinni og hrikaleik, heldur einnig, og ekki hvað sízt, með dutlungum sínum - skammsýni sinni og óvarfærni, liggur mér við að segja, eða þá eyðslusemi sinni og hófleysi".
Gestirinir litu hver til annars. Enginn skildi neitt í þessari byrjun. Svo stálust þeir til að horfa á Þorgeir, þegar hann horfði ekki á þá, en vildu ekki fyrir neinn mun láta hann sjá, að þeir gæfu orðum hans nokkurn gaum.
Læknirinn var þó undantekning. Hann glápti á Þorgeir og hafði ekki af honum augun; hann var þá líka hættur að sjá skýrt. Honum fanst Þorgeir byrja skáldlega.
"Einkanlega hefir mér orðið starsýnt á margt, sem fyrir mig hefir borið á vorin", hélt Þorgeir áfram. "Oft hefi ég furðað mig á, hve ógætilega náttúran fer með vorkomuna, eins og hún er þó blessuð og góð og öllum kærkomin. Hún lætur ekki tíðina batna hægt og hægt, heldur byrjar batinn stundum, jafnvel oftast, of snemma hjá henni, fyr en hún er fær um að halda honum áfram. Hlýindi og blessaðar blíður koma - fyrir tímann. Nýgræðingurinn treystir á góðviðrið og þýtur upp úr rótinni, veikur og smár, eins og ótímabær burður. Bóndinn treystir því líka og sleppir skepnunum sínum, sumum hálfrúnum og meira en hálfnöktum. Svo kemur afturkippur í allan batann. Voráfellin koma með frost og hríðar. Nýgræðingurinn deyr, féð króknar. Bóndinn missir bústofn sinn og náttúran er fram eftir öllu sumri að ná sér aftur, rétta við og bæta skaðann. Vegna þessarar ótímabæru vorkomu fer alt í handaskolum í hinu mikla stórbúi náttúrunnar alt sumarið. Þetta endar svo, að haustið tekur við af vorinu þetta árið. Sumarsins verða öll hennar blessuð börn að bíða til næsta árs, - ef þá fer ekki á sömu leið - -!"
Gestirnir litu forviða hver til annars. Allir stóðu á öndinni og bjuggust við einhverju - jafnvel síður en þægilegu - framhaldi. Þorgeir dreypti á glasi sínu og hélt svo áfram.
"Eins hefir mig oft furðað á því, og oft sárnað það, hversu lítt náttúran kann sér hóf í daglegri umsýslu sinni. Ég þarf að segja frá ofurlitlum atburði til að skýra mál mitt. Eitt sinn var ég staddur hér uppi í Dölunum. Það var að vordegi. Leysingar og rigningar gengu þá daglega, fannirnar hurfu með mesta skyndi og grasið þaut upp á túnunum. En einn daginn gekk leysingin úr öllu hófi. Illfært var bæja á milli vegna úrkomu. Áin bólgnaði upp, flóði yfir eyrar og hólma og gerði skemdir á báðum löndum. Um hádegisbilið heyrðust ógurlegar dunur í fjallinu beint á móti bænum, þar sem ég sat veðurteptur. Þar féll skriða. Hún tók sig upp hæst uppi í brúninni, sópaði með sér öllu því, sem fyrir henni varð, rann langt ofan á engjar og gerði geysimikinn jarðusla. Þegar þessu var lokið, fór veðrið að hægja á sér; en þegar áin minkaði, sást, að hún hafði skolað alveg burtu ofurlitlum hólma, grösugum og fríðum, þar sem fáeinar endur kúrðu á eggjum sínum. Eintóm leirug eyri var eftir. Bóndinn harmaði þennan missi mjög; en mér varð ekkert annað að orði en það, að ekki væri hann hagsýnn, sá er stjórnaði þessum miklu og góðu öflum. Hyggilegra hefði það verið að láta heldur rigna með hægð og gætni einum deginum lengur heldur en að regnið gengi þannig fram af sér og gerði skemdir, sem heilar aldir hrykkju ekki til að bæta úr".
Nú fór boðsgestunum ekki að lítast á blikuna. Þetta var hreint og beint guðlast! - Hvað ætlaði að verða úr þessu?
Þorgeir sá vel, hver áhrif ræða hans hafði. Enginn vildi gefa henni gaum. Hvert sem hann leit, flúðu augu manna tillit hans, en hvenær, sem hann leit af þeim, hvíldu þau á honum. Honum fanst þessi tillit manna vera spjótsoddar; er stæðu á sér úr öllum áttum. Þeir stungu ekki fast; en þeir kitluðu. Þessi kitlun þreytti hann. Honum fanst þessi ytri óþægindi, sem hann þó hafði fyrirlitið og gert sér alt far um að hrista af sér, ná höndum saman við það, sem hann vildi kefja í innra manni sínum, og magna það svo, að engin bönd mundu halda því. Meðan hann talaði, kom svitinn stöðugt fram á enni hans. Honum fanst sem kraftur sinn og kjarkur mundi þá og þegar þrjóta, hann fara að skjálfa eða riða og ef til vill hníga niður. Blýþungur kökkur fanst honum setjast neðan til í hálsinn, sem dautt blóð sigi þar saman. Það gerði honum þungt um andardráttinn og þurt í kverkum.
Hann hafði hugsað sér að draga líkingar af þessum náttúrulýsingum sínum og nota þær til að lýsa samtíðinni og aldarandanum. Það, sem fram fór í ríki náttúrunnar, gerðist einnig í lífi mannanna. Þegar vetri tók að létta, kom vorið of snemma. Menn biðu þess ekki, að það gamla, sem svo lengi hafði setið að völdum, breyttist, upprættist eða samþýddist hinu nýja. Breytingagirnin fór með þá í gönur, og því fór margt illa. Allskonar burðir, sem í eðli sínu voru góðir, komu fyrir tímann og urðu óburðir. Þeir dóu, og með þeim kulnuðu út vonir, sem áttu að rætast og gátu ræzt, hefði spaklega verið að öllu farið. - Einn slíkur óburður var kaupfélagsskapur þessa héraðs. Hann var fæddur á undan þeim hugsunarhætti og viðskiftaþroska, er hann átti að byggjast á, og því var honum dauðinn vís, að hans skoðun. Þetta ætlaði hann þó ekki að segja, heldur einungis láta það skiljast.
Í annan stað gengu menn fram af sér af blindri ákefð til að koma í verk hinum nýju umbótum, alveg eins og vorrigningin hafði gert, sem spilti dalnum að óþörfu, um leið og hún bætti hann. Vegna fárra fanna, sem eftir voru, var rutt burtu blómlegum hólma og skriðu rent yfir ágæt engjalönd. Menn gátu komið sínu fram, þótt þeir færu ekki svo geyst. Betra var, að alt stæði óbrjálað og framfarirnar kæmust árinu síðar á. Honum var illa við þessar bráðu leysingar. Hann vildi láta vorið koma með sígandi hægð, en engum ofhraða og engum afturkipp. Slíku vori til liðs hafði hann varið lífi sínu, og slíkar hægfara leysingar voru honum að skapi. Þannig voru ekki allir sinnaðir: Þess vegna var alt kapp lagt á að skola honum burt, ásamt síðustu leifum hinnar gömlu, illræmdu einokunarverzlunar, - eins og gömlu fönnunum uppi í brekkunum. Og til þess að fjarlægja þessar fannir sem fyrst, var ekki horft í að láta skriður hlaupa og hólma sópast burtu! Eins og þær hefðu ekki horfið án þess svo mikið væri fyrir haft! - Svo kom frostið, þegar minst varði, og blés helgusti í nýgræðinginn, sem þær höfðu skýlt. Kalskellur í brekkunum báru menjar þess alt sumarið. - -
En nú var honum svo komið, að honum var ekki unt að halda áfram með ræðuna. Hann kendi sig ekki mann til að rekja efnið til enda. Að tala yfir stokkum og steinum úti á víðavangi reynir á þolinmæðina; en þó er það liðleskjuverk hjá því að tala fyrir eyrum, sem ekki vilja heyra. - Þorgeir réð það því af að sleppa úr ræðunni öllum miðkafla hennar, en koma með endann þá þegar. Hann hélt því áfram:
"Það er vor yfir öllu landi um þessar mundir. Leysingar ganga yfir þjóðlíf vort. Margt gamalt leysist upp og hverfur og margt nýtt, áður óþekt í sögu þessa lands, er að ryðja sér til rúms. Margt ber einnig furðulegt fyrir menn á þessum árum. Mannlífinu svipar til náttúrunnar, sem elur það og fóstrar.
Það er líka vor yfir Vogabúðakaupstað og nágrenni hans. Vorið hefir aldrei algerlega farið hér framhjá. Þegar það kemur til annara, verður þess einnig vart hér. Leysingar ganga í högum og kjörum mannanna, því margt þarf umbóta og endurnýjunar, en í leysingunum býr vorið - með kostum sínum og yfirsjónum. Kaupstaðurinn okkar er hjartastöð þessa héraðs. Hann er mér kær, því hér hefi ég alið aldur minn í meira en mannsaldur, og oft hefir mér liðið hér vel. Því vil ég óska honum þess, að vor hinnar upprennandi aldar verði honum að góðu, að kostir þess komi honum að fullum notum og syndir þess bitni svo lítið á honum sem auðið er. Vogabúðakaupstaður blómgist og blessist!"
Í fyrstu leit ekki út fyrir, að neinn ætlaði að taka undir. Menn sátu sem steini lostnir, því við slíku niðurlagi hafði enginn búist. Læknirinn varð fyrstur til að spretta úr sæti sínu, með glasið í hendinni, og hrópa "húrra!" Brúðguminn fylgdi dæmi hans, þá presturinn, Sveinbjörn í Seljatungu og síðan hver af öðrum. Sigurður hreppstjóri varð síðastur til að standa upp. Hann var því ekki kominn nema á miðja leið, þegar aðrir voru að setjast niður. Þá kom hik á hann. Hann riðaði, ýtti undan sér stólnum og settist á gólfið. Varð af því hlunkur allmikill. Brúðguminn tók alt annað en mjúkum höndum á föður sínum, þegar hann hjálpaði honum á fætur.
Eftir þessa ræðu var Þorgeir sem annar maður. Nú sat hann hljóður, yrti ekki á neinn mann, þráþurkaði af sér svitann, en flýði augnaráð manna. Í fyrsta skifti, svo hann ræki minni til, hafði hann gugnað og hopað frá áformi sínu. Það skifti minstu, þótt ræðan væri hvorki heil né hálf; honum fanst hún hvorki sundurlausari né vitlausari en samsætisræður eru vanar að vera. Hitt var meira um vert, að hann hafði beðið ósigur. Hingað hafði hann komið til að mæta andstæðingum sínum á hösluðum velli. Nú héldu þeir vellinum. En hann - -? Nú fanst honum, meira að segja, Sigurður gamli í Vogabúðum bera langt af sér. Hann varð sér þó ekki til minkunar að þessu sinni fyrir annað en ofdrykkjuna.
Skömmu eftir ræðu Þorgeirs var staðið upp frá borðum. Flestir gengu þá til brúðhjónanna og óskuðu þeim matblessunar; en Þorgeir lét það farast fyrir. Í annað skifti vildi hann ekki taka í hönd Rögnu sinnar þetta kvöld.
Gestirnir skiftu sér í smáhópa, eins og á undan borðhaldinu, og var mönnum borið vín og ýmislegt góðgæti þangað sem þeir voru. Innan skamms lagði um herbergin blágráa reykjarmóðu úr vindlum karlmannanna. Nokkru seinna blandaðist ilmandi eimur af heitri vínblöndu saman við reykinn. Gestirnir urðu smám saman háværari og glaðværari, en Þorgeir dró sig mjög í hlé.
Ragna hafði orðið að beita hörðu við sig til þess að sitja kyr, meðan setið var að borði. Á eftir tók hún alúðlega matblessunaróskum gestanna, þótt hún tæki það nærri sér. En undir eins og hún sá sér færi til undankomu, án þess alt of mikið bæri á, laumaðist hún inn í svefnherbergi Friðriks og læsti að sér dyrunum. Þar var ljóslaust, því engir höfðu gengið þar inn um kvöldið. Stóðu þar tvær sængur upp búnar; önnur þeirra átti framvegis að verða hvíla hennar. Hún gekk að annari þeirra, kraup niður við rekkjustokkinn og gróf andlitið í sængurfötunum, svo síður skyldi heyrast til hennar. Þar gaf hún tárum þeim framrás, sem hún hafði alt of lengi barist á móti.
Eftir að hún hafði svalað sér með gráti nokkra stund, lagaði hún sængurfötin, svo engin missmíði sæjust, greiddi lokkana frá andlitinu, lagaði hrukkurnar á brúðarblæjunni, þerraði af sér tárin og gekk aftur fram til gestanna.
Þá var faðir hennar farinn og margir aðrir voru að búa sig af stað, þar á meðal læknirinn. Konu hans leizt ekki á, að hann sæti lengur yfir vínblöndunni.
En Sigurð í Vogabúðum var búið að bera upp á háaloft og leggja hann þar til hvíldar í rúm vinnumannsins. Þar hraut hreppstjórinn; en "sú franska" hafði strokist út af höfðinu og kúrði eins og gælugefin kisa á höfðalaginu hjá honum.
-
Þegar Þorgeir kom heim til sín, var hann utan við sig og vissi varla, hvað hann gerði. Hann kveikti á lampa sínum og gekk síðan með hann í hendinni gegnum svefnherbergið, eldhúsið og inn í borðstofuna. Þar skildi hann lampann eftir, en gekk inn í hina stofuna og lagðist á legubekkinn, eins og hann hafði oft gert áður.
Aldrei hafði honum verið jafnundarlega farið. Hann svimaði og hugsanir hans voru allar á ruglingi. Hann hafði þó ekki drukkið mjög mikið. En það var engu líkara en að hann hefði drukkið ólyfjan.
Hann heyrði nú og sá, líkt og álengdar, alt það, sem fram hafði farið um kvöldið. Hann sá brúðhjónin, náföl í framan. Hann sá "yrmlingana" í augum boðsgestanna og heyrði til þeirra hvískrið. Hann heyrði holhljóminn í rödd sjálfs sín, og hnefahögg hreppstjórans í borðið buldi enn í hlustum hans. Þetta fanst honum ætla að trylla sig. Var hann að verða veikur?
Hann hafði andað að sér spiltu lofti, - lofti, sem ætlað var óvinum hans, en ekki honum. Það hafði eitrast við komu hans; orðið þeim óholt, og honum líka. - Þessi blýþungi kökkur sat enn í hálsinum á honum, - dauðablóðið! Nei, það var ekki dauðablóð, - það var ógleði, - spilt gleði, - spilt veizlugleði! - Brennuvargur! Veizluníðingur!
Hoj! - Honum bauð við sjálfum sér.
Svo var hann nú orðinn andstyggilegur, að menn töpuðu matarlyst, ef þeir sáu hann við borð sitt -!
Og vesalings Ragna hans! Að vísu hafði hún verið honum erfið; en aldrei mundi hún hafa búist við annari eins hefnd. Nægur hefði harmur hennar verið, að sjá föður sinn ekki að þessu boði. En hvernig mundi henni nú vera í brjósti? Hvílíkt giftingarkvöld!
Og tengdasonur hans -? Aldrei hafði hann eiginlega kynst Friðriki, fyr en nú. Hann gat ekki gleymt honum, þar sem hann hafði setið við hlið brúðarinnar, hljóður og alvörugefinn, fölur í kinnum með hnykla í brúnum, og vakað yfir því með gætnum augum, að ekki yrðu veizluspjöll. Hvílík stilling! Enginn hafði séð það á honum, hve þungt honum hafði verið í skapi; en augu hans voru það, sem höfðu hemil á skapi boðsmanna. Betur en þetta hefði Þorgeir sjálfur ekki treyst sér til að gera, - ekki á beztu árum sínum. Og þessum manni hafði hann farið til að skaprauna!
Við þessar hugsanir greip hann viðkvæmni. Hann reyndi að harka af sér, en klökkvinn gagntók hann meira og meira. Loks fór hann að gráta. Hann fyrirvarð sig fyrir það, þótt enginn sæi til hans. Sjaldan höfðu sorgir hans orðið svo beiskar, að honum hefði um hvarma vöknað. Þá fórn hafði ástvinamissirinn einn þegið fram að þessu.
Nú reyndi hann að kefja grátinn með hörku, en tókst það ekki. Hann kendi titrings í kringum augun og tárin hrutu niður eins og hvarmarnir hristu þau af sér. Hvert tárið eftir annað hrökk eins og hagl ofan á hægindi legubekksins. Að síðustu gafst hann upp og lét grátinn ná valdi yfir sér.
Þetta kvöld drakk hann sig ekki í svefn, heldur grét sig í svefn. Hann sofnaði á legubekknum, í öllum veizlufötum sínum, með kinnarnar tárum stokknar, - eins og ofurlítill drengur, sem fengið hefir harðar ávítur fyrir brek sín.
14. kafli - Drungi á fjöllum - gnýr í loftiUm fótaferðartíma morguninn eftir veizluna brakaði í hverju tré í húsi Þorgeirs verzlunarstjóra. Skjálftar og skruðningar vöktu þar hvert mannsbarn. Þótti mönnum sem dunurnar kæmu frá viðhafnarstofu verzlunarstjórans; enda var það svo. Þar voru inni fjórir fílefldir karlmenn, vanir því að taka til höndunum, en Þorgeir stóð sjálfur yfir þeim og skipaði fyrir verkum. Voru stofugögnin dregin vægðarlaust frá veggjunum, þar sem þau höfðu staðið áratugum saman, færð fram á gólfið, síðan út um aðaldyrnar, - sem í því skyni stóðu opnar upp á gátt, - og upp á handvagn. Á honum var þeim ekið alla leið út til Friðriks kaupmanns. Þar var umstangið engu minna við að koma þeim upp stigann, eða að minsta kosti einhverstaðar inn í húsið, til bráðabirgða.
Eftir að Þorgeir hafði fengið bréf það frá verzlunarstjórninni erlendis, sem áður er um getið, þess efnis, að leggja ætti niður verzlunina og selja eignir hennar, sá hann fram á það, að dagar sínir í þessu húsi væru þegar taldir. Ekki lá þá annað fyrir húsgögnum hans en seljast á uppboði. Engar líkur voru til þess, að hann hefði svo mikið um sig þar á eftir, að hann þyrfti þeirra við. Þetta þótti honum sárt, því húsgögn hans voru vönduð, og leitt að sjá það dreifast í allar áttir, sem hann hafði búið við og haft yndi af um langa æfi. Einnig litlar líkur til þess að í þau yrði boðið eftir verðmæti. En fyrst hann þáði boð dóttur sinnar og sótti brúðkaupsveizluna, var hann, samkvæmt landsvenju, skyldur að gefa brúðargjöf. Um kvöldið hafði hann fengið tækifæri til að litast um í herbergjum Friðriks og séð þá, að fátt mundi koma þeim betur, ungu hjónunum, en að eignast samstæðu af vönduðum húsgögnum í eina stofu. Tók hann þá það ráð að láta af hendi beztu húsgögn sín nú þegar. Hann gerði ráð fyrir, að hann mundi geta komist af án þeirra þennan eina vetur, sem hann bjóst við að vera þar.
Hver dýrindismunurinn eftir annan var nú fluttur út eftir til Friðriks. Fyrst fór stofuborðið, svo stólarnir, þá legubekkurinn, spegillinn, saumaborðið, málverkin bæði, lampinn með kristalstrendingunum, stór og vönduð dragkista og borðskápurinn mikli úr borðstofunni, með öllu því, sem í honum var. Þegar alt þetta var komið út eftir, var ennþá einn hlutur eftir. Það var marmaramyndin af Thorvaldsen. Hana lét Þorgeir ekki leggja á vagn, heldur bera hana á mannahöndum alla leið, en fylgdi henni sjálfur á leið, til að fullvissa sig um, að hún kæmist til skila óskemd.
Verkamennirnir spurðu Þorgeir, hvort nú væri alt flutt, sem flytja ætti. Þeim var farið að þykja nóg um.
Þorgeir kvað nei við. Skattholið var ennþá eftir.
Þorgeir lét mennina bíða fyrir dyrum úti á meðan hann losaði skattholið mikla og fagra og bjó það til brottflutnings; það átti að reka lestina. Það söng við sem eldgamall fiðlubolur, þegar það var hreyft fram úr sæmdarsæti sínu í stofunni, sem það hafði svo lengi skipað, og borið út á vagninn. Þegar það var farið, var fátt annað eftir í stofunni en bókaskápurinn og hljóðfærið. Þorgeir gerði ráð fyrir, að dóttur sinni mundi þykja hljóðfærið ellilegt að sniði og lítil stofuprýði, svo bezt væri, að það stæði þar eftir. Enda mundi Friðrik brátt sjá henni fyrir nýju hljóðfæri. En bækur sínar vildi Þorgeir ekki við sig skilja, meðan hann gæti haft þeirra not.
Þorgeir bar meiri umhyggju fyrir flutningi skattholsins en hinna munanna. Fylgdi hann því eftir alla leið heim að dyrum Friðriks, beið á meðan því var komið upp stigann og sendi þá upp lyklana að því. - Hefðu flutningsmennirnir getað séð gegnum tréð á þeirri hirzlu, mundi þeim ekki hafa fundist umönnun Þorgeirs svo næsta kynleg. Skattholið var vandlega læst; en undir loki þess voru mörg smáhólf. Í skráargatinu á einu þeirra stóð lítill lykill, - eins og til að benda á hólfið. Það hólf var ekki tómt; í því lá bréf til hjónanna, og hjá því dálítill, hvítur segldúkspoki, sem vandlega var bundið fyrir. Í honum voru átján hundruð krónur í enskri gullmynt.
Vinnukonurnar í heldri húsunum, sem einar voru komnar á fætur þar um þessar mundir, gláptu forviða á allar þessar aðfarir. Síðan báru þær þá kynlegu sögu inn í rúmið til húsbænda sinna, að Þorgeir væri að flytja sig heim til Friðriks. -
Þegar ungu hjónin komu á fætur, gengu þau saman heim til Þorgeirs til að þakka honum þessa rausnargjöf.
En þegar þau komu þangað, var Þorgeir allur á burtu. Hann hafði látið færa sér hesta og var riðinn burtu með Jón kaupa fyrir fylgdarmenn. Hafði hann verið búinn sem í langferð. Enginn vissi, hvert hann ætlaði.
-
Þorgeir stefndi til fjalla. Þeim Jóni kaupa og honum voru allar leiðir kunnar, og klárarnir voru vanir vegleysum. Ekki léttu þeir ferð sinni fyr en þeir komu upp í svo nefndar Skálar. Það voru dalbotnar hátt uppi í fjöllunum, með hömróttum og hrikalegum tindum umhverfis. Bygðamenn fóru sjaldan þangað, því hagar voru þar litlir, en ilt yfirferðar upp þangað.
Þorgeir var sjálfum sér gramur fyrir þann heigulshátt, sem hann hafði kent hjá sér kvöldinu áður, fyrst í veizlunni, er hann brast kjark til að tala máli því til fullnustu, er hann byrjaði á, en einkum þó eftir að heim kom. Það var sneypulegt fyrir mann í hans stöðu og með hans fortíð að baki sér að leggjast upp á legubekk og skæla sem máttvana og ráðþrota kerling! Hepni var, að enginn hafði komið að honum á meðan.
Slíkt hlaut að koma af einhverri bilun eða veilni, sem hann gat ekki skilið í. Annað eins deiglyndi hafði ekki verið eðli hans, og gat ekki verið eðli nokkurs karlmanns á þroskaskeiði hans.
Sízt gat hann þó trúað því, að sér væri farið að förlast svo andlega og líkamlega, að hann væri aftur að verða að barni. Nei, annað eins var flónska. Ennþá var hann heill að heilsu og kröftum, og á meðan gátu sálarkraftar hans varla verið farnir að lamast mjög mikið.
Þess vegna leitaði hann nú þangað, sem karlmannlegra væri að koma en að vistum hlöðnu brúðkaupsborði.
Í stundarsambúð við hina köldu og hrikalegu fjallanáttúru vonaði hann, að magn sitt mundi stælast, en skap sitt hressast og harðna. Ferðin átti að verða honum til andlegrar heilsubótar, hreinsunar og hughreystingar. Hver vissi nema þeir tímar væru í aðsigi, að hann þyrfti á sér heilum að halda.
Til slíkrar heimsóknar fanst honum Skálarnar bezt valdar. Þar lágu fannir í skriðunum alt sumarið. Björg hrundu þar iðulega úr brúnum með gný og grjóteldi. Ískaldir lækin spruttu þar upp í grænum mosadýjum og beljuðu ofan brekkurnar; runnu þar saman og urðu að á, sem henti sér hvítfyssandi ofan eftir gljúfrum og giljum. - Snjóský sátu þar daglega á tindunum og snarpir kastvindar ruddust fram úr skörðunum, dönsuðu yfir botnana, þyrluðu upp leirflögunum, skófu sand og grjót eftir skriðunum og létu smáfossana á klettabeltunum blakta út í loftið, eins og hvíta fjaðraskúfa á viðhafnarhjálmum ríkilátra riddara. Margar raddir heyrðust þar, þótt engin þeirra væri úr lifandi barka. Stormur kvein þunglega í fjöllunum með rammelfdri básúnurödd. En niðri í botnunum breytti hann um rödd. Þar drundi hann ýmist sem rómdigur boli eða tísti sem dauðvona smáfugl. Niður lækjanna var einnig auðugur af raddabreytingum. Silfurhreim höfðu strengir þeirra sumstaðar, annarstaðar var þjótandi niður eða trumbuhreimur, og loks slokhljóð, þar sem vatnið brauzt um í gjótum og skútum eða streymdi um íshvelfingar undir jökulfönnum og snjóbrúm. -
Neðst í Skálunum var harðgert mógresi. Þar skildi Þorgeir hesta sína eftir, en lét Jón kaupa halda á nestinu lengra upp í fjallaauðnina. Jón munaði ekki mikið um pinkilinn.
Kalt var og hryssingslegt þar uppi í fjöllunum. Veður fór versnandi og skýjafar var mikið á lofti. Stórir, gráir hríðarflókar komu brunandi í loftinu sem gráðugir gammar. Settust þeir á fjallahyrnurnar, grúfðu sig ofan yfir dalinn, teygðu fram álkurnar, skóku vængina, ýfðu kambana og létu fjaðrirnar fjúka. Hver um sig hafði þar langa viðdvöl. Aðrir komu á þá ofan, runnu saman við þá eða tættu þá í sundur og tóku af þeim fjallið. Við og við hreinsaði stormurinn til á tindunum, sópaði gammahömunum burtu, þyrlaði slitrunum úr þeim til og frá, sleit þá loks af hnúkunum, þótt þeir tækju þar dauðataki, og ruddi þeim út á loftið yfir bygðunum. Þar urðu þeir að sveima sneypulegir langan veg yfir dölum og sveitum, fjörðum og nesjum, unz þeir gætu tylt sér á næsta fjallgarð, hinum megin við alt héraðið.
Það hvesti óðum og snjóél hreyttust úr flókunum á fjöllunum. Stormurinn þyrlaði snjóhöglunum um hjarnfannirnar, sem voru mórauðar og moldroknar undan sumrinu, og skýrði upp hinn frumlega, mjallhvíta lit þeirra. Á auðri jörð gætti þessara snækorna ekkert ennþá; en fast dundu þau á andlitum þeirra Þorgeirs og Jóns, svo undan þeim sveið.
Þeir héldu upp í efstu skálina. Þar létu þeir staðar numið í gróðurlausri urð hjá gamalli hjarnfönn og völdu sér steina fyrir sæti. Síðan fóru þeir að losa um nestið. Það var bæði "fast og fljótandi", eins og þeir komust að orði og ekki valið af lakari endanum.
Þorgeir var orðfár að vanda meðan þeir mötuðust. Og eftir að þeir höfðu etið lyst sína, meðan Jón var aftur að koma nestinu fyrir - öllu nema flöskunum -, sat hann áhyggjufullur og horfði fram fyrir sig. Loks spurði hann:
"Varst þú á fundinum?"
Jón leit upp og vissi fyrst ekki, hvað hann átti við, en áttaði sig þó fljótt og svaraði:
"Nei. Ég er einn af "svörtu sauðunum", mér er ekki hleypt inn á slíka fundi. Þeir eru varir um sig, kaupfélagsmenn!" Þessu síðasta bætti hann við glottandi.
"Þeir kvað vera það. Öllum er stranglega bannað að bera út fréttir af fundunum".
"Ég hefi nú frétt ýmislegt þaðan samt", sagði Jón drýgindalega.
"Ég líka. En segðu samt frá. Ég hefi gaman af að vita, hvort sögunum ber saman".
Þeir voru orðnir svo kunnir á ferðalögunum, Þorgeir og Jón, og höfðu háð svo marga hildi saman, að Þorgeir leyfði honum að þúast við sig. Það var handhægara, þegar kallast þurfti á uppi á heiðum í hverju veðri sem var. Fáir aðrir leyfðu sér að þúa Þorgeir.
Jón fór nú að segja frá fundinum. Kom það þá í ljós, að hann var furðu fróður um það, sem þar hafði gerst. Hann rakti gerðir fundarins frá byrjun til enda, og gat meira að segja flutt allýtarlegt ágrip af ræðum þeim, sem þar höfðu haldnar verið. Þorgeir skaut inn í orði og orði, en þagði þó lengst af og hlustaði á. Þegar Jón hafði lokið máli sínu, sat Þorgeir enn hljóður um stund og glotti hæðnislega, þar til hann sagði:
"Og Jón á Fitjum var að rífa upp ginið! Honum ferst það! Ætli hann hafi ekki skælt á meðan?"
"Ekki rétt á meðan, var mér sagt. En bæði á undan og eftir".
Að þessu hlógu þeir dálítið.
"Hver veit nema hann skæli dálítið betur, áður en lýkur, og það ekki að tilefnislausu, greyið! Við eigum eftir að finnast innan skamms".
Þorgeir þagnaði og varð hugsi.
Hugir manna eru fljótir í förum, og á þessari stundu var hugur Þorgeirs horfinn úr fjallaauðninni heim í skrifstofu hans. Þar sat hann í skrifborðsstól húsbónda síns, en verzlunarbókin, sem merkt var með bókstafnum H og þetta augnablik var læst inni í járnskáp, lá þar opin á borðinu fyrir honum. - Þorgeir kunni utan bókar reikninga þeirra kaupfélagsmanna; svo oft hafði hann litið í þá síðari árin. Hann mundi vel, hvað stóð í hverri línu í reikningi Jóns á Fitjum. Mest var það nauðsynjavara, því Jón var hverjum manni nízkari og tók lítið af munaðarvöru. Eigi að síður var hann í mikilli skuld. Ekkert hafði verið skrifað í viðbót við reikninginn síðustu fjögur árin, og lítil hafði úttektin verið tvö hin næstu þar á undan. Skuldin stóð óbreytt. Þorgeir vissi vel, að þessa skuld ætlaði Jón á Fitjum í raun og veru aldrei að borga. Hann ætlaði sér hana sem uppbót fyrir það, sem hann trúði fastlega, að Þorgeir hefði "snuðað" sig um. Þó þorði hann ekki að láta slíka fyrirætlun í ljós; en hvenær sem Þorgeir hitti hann, var hann mjúkur sem silkiflos og lofaði öllu fögru um borgunina, - lofaði þá grátklökkur að borga eitthvað af henni á næstu kauptíð. Þorgeir var nú hættur að leggja trúnað á þessi loforð, en hafði þó ekki skap til að ganga hart að manninum, sem bar sig svo aumlega. Eitt sinn hafði hann þó verið svo forsjáll að láta Jón lofa sér þessu skriflega og í votta viðurvist. Jón mat loforð sitt einskis eigi að síður. Fundum þeirra bar ekki heldur oft saman, svo Þorgeir gæti mint hann á skuldina, því Jón forðaðist hann sem óvin sálnanna; enda lét Þorgeir aldrei neitt tækifæri hjá líða að kvelja hann með kröfum, sem meira var þó gaman en alvara. Þorgeir þóttist hafa ráð hans alt í hendi sér, hvenær sem hann vildi, því Jón gat borgað. Nú skyldi hann þó gera enda á þessum leik þá um haustið.
"En hver var það, sem þú sagðir, að hefði komið þeirri vizku inn í höfuðið á þeim, að sala hlutabréfanna, sem ég keypti, væri ólögleg?"
"Árni á Fífumýri".
"O-o, spekingurinn! Hann hefir víst verið æðaber í framan þá og rauðeygður! Geta má nærri, þegar annar eins vísdómur hljóp úr höfðinu á honum".
"Er þá þessi hlutabréfasala ekki ólögleg?" spurði Jón í mestu einlægni.
"Við fáum að sjá, hvað gerist", mælti Þorgeir. "Ég hefi keypt af þeim nokkur bréf síðan. Þeir vilja fegnir við þau losna. Trúin á framtíð félagsins er ekki meiri en það. Geti félagið sjálft ekki keypt þau, er hætt við, að það verði að láta af hendi tryggingu þá, sem fyrir þeim er. Þeim þykir líklega lítið vænt um að vita þessa snepla sína í mínum höndum. En hver veit nema ég eignist fleiri í haust. Ef þeir hafa ekkert annað að láta upp í skuldir sínar, þá tek ég þau heldur en ekki neitt".
Nú varð stundarþögn. Þeir dreyptu á flöskunum og Þorgeir leit kímnislega til Jóns:
"Árni á Fífumýri! Sjáum til! Þetta átti hann eftir að gera til "gagns" í heiminum!"
Hugur hans var aftur kominn heim á skrifstofuna. Nú lá bókin opin þar, sem reikningur Árna var á annari blaðsíðunni. Þar stóð kaffi, sykur, tóbak og brennivín í hverri einustu línu. Því var alla vega raðað, og misjafnt var það að vöxtum, sem tekið hafði verið í einu. Stundum kom fjögra-potta-kúturinn, en þó oftar átta-potta-"holan". Flaska af rommi eða messuvíni var stundum til uppbótar. Stundum hafði hann tekið 5 pd. "rullu" af munntóbaki, í önnur skifti ekki nema 2 pd. Á stöku stað var einhverju af matvörutagi skotið inn í, því ekki gátu krakkarnir hans lifað á kaffi, sykri, tóbaki og brennivíni, og á einum stað, seint í reikningnum, stóð svarðarspaði. Guð veit, hvað Árni hefir ætlað að gera við hann! Aldrei fór hann í mógrafir! Líklega hefir hann tekið hann handa konunni. - Sá var munurinn á Árna á Fífumýri og Jóni á Fitjum, að Árni reyndi við og við að borga ofurlítið af skuldum sínum, þótt hann stæði ekki líkt því í skilum. Hann gerði það til að halda við lánstrausti sínu, ef auðið væri. Aftur var hann hverjum manni orðverri og ósvífnari, og gat verið meinyrtur. Þorgeiri þótti því einna lakast við hann að fást af öllum kaupfélagsmönnum.
"En Bjarni minn á Fossalæk, - hvað sagði hann á fundinum?"
"Hann sagði ekkert annað en "heyr!" En hann sagði það oft".
"Hver sem talaði?"
"Já, hver sem talaði. Það átti alstaðar við, því allir sögðu það sama. En svo fór hann út, þegar sá seinasti byrjaði að tala".
Hann hefir þurft að fara að yrkja sálm. Andinn hefir komið skjótlega yfir hann og þess vegna hefir hann farið".
Að þessari athugasemd hló Jón kaupi dátt. Bjarni á Fossalæk var sem sé talinn hagmæltur og orti helzt sálma og andleg kvæði. Hann taldi sjálfsagða skyldu sína að verja þessari góðu gáfu guði til dýrðar.
Enn varð þögn. Þorgeir lét huga sinn dvelja langdvölum heima í skrifstofunni og blaða í höfuðbókum verzlunarinnar. Alstaðar var fult af skuldum. Af öllum kaupfélagsmönnum, sem voru á annað hundrað, voru einir tíu - segi og skrifa tíu - sem heiðarlega höfðu skilið við verzlun hans og ekkert skulduðu honum. Þeir einir voru honum óháðir. Á þeim gat hann engar hendur haft.
"En umboðsmaðurinn á Klaustrinu minti þá á að borga", mælti Þorgeir loks upp úr þögninni.
"Hann gerði það meira að segja oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. En þá fóru þeir út".
"Þetta hefir hann lært af mér, blessaður. Jæja. Verði honum að góðu. Honum veitir líklega ekki af að nefna það við þá, að borga, einu sinni til - þótt einhver kunni að hjálpa þeim til að skilja, hvað átt er við með því, áður langt um líður".
Ein langa þögnin sleit samtalið í sundur. Þorgeir horfði fram fyrir sig með háðslegu, beisku glotti, en sagði ekki neitt. Jón horfði á hann hálfundrandi og reyndi að lesa í svip hans, um hvað hann væri að hugsa. Eftir ofurlitla stund lét Þorgeir flöskuna ganga á milli þeirra og mælti:
"Nú væri gaman að vera skáld, Jón minn".
"Já, nú væri gaman að yrkja. Nú er efni til í fyndna ferskeytlu", sagði Jón og hló hátt. "En þú ert líka hagmæltur, þótt þú farir dult með það", bætti hann við og skaut augunum í skjálg til Þorgeirs.
"Nei, ég er ekki hagmæltur. Þú ert það".
"O-nei, blessaður vertu. Því er nú miður", mælti Jón og stundi við.
"Nú, jæja. Ætli við getum þá ekki bætt hvor annan upp. Ég skal byrja, ef þú vilt botna".
Það hvein í Jóni af hlátri. Þorgeir gat varla að því gert að hlæja líka, þó ekki væri að öðru en því, að sjá Jón og heyra til hans.
Síðan fóru þeir að kveðast á. Þorgeir byrjaði, en Jón botnaði. Skáldskapurinn gekk nú hálfskrykkjótt; en gaman höfðu þeir af honum og Jón iðaði allur af kæti og fjöri. Flaskan gekk á milli þeirra á meðan. Vísupartar Þorgeirs voru meira en í meðallagi bágbornir. Um rímið þurfti hann ekkert að hugsa; Jón átti að annast það, þegar hann botnaði. Hann hafði líka nóg með hitt. Með bragarháttinn gekk allþolanlega. Þorgeir hafði furðu næmt eyra fyrir hljóðfalli og áherzlum. Orðin féllu í hendingar harmkvælalítið. Öllu lakar gekk með stuðlana. Þeir voru óþægir við verzlunarstjórann og honum hætti við að skjótast yfir þá. - Enda kom varla nokkur hending rétt stuðluð. En hvernig sem hendingar Þorgeirs voru, stóð aldrei á Jóni að botna. Hin skringilegustu orðskrípi hrutu honum þá af munni. Hortittir og lokleysur ráku hvað annað, ásamt flestu því sælgæti, er einkennir íslenzkan dalaskáldskap af leirkendasta tagi. En alt stóð þar í hljóðstöfum og hendingum. Þó kom þeim jafnan saman um, er þeir fóru að rifja upp hina nýfæddu stöku, að seinni helmingurinn væri magrari.
Þorgeiri var dável skemt með þessum leik um stund og Jón veltist um sjálfan sig af hlátri. Einkum voru vísupartar Þorgeirs honum hlátursefni. Margar kynlegar myndir gægðust þar fram. Þar brá fyrir hreppstjóra með franska hárkollu, músgráa að lit. Þar stóðu geislar af hvítri höfuðkrúnu fundarstjóra. Þar stóð upp svartur uxi, digur um miðju með mikla glæsibringu og áminti menn sína um "að boðga" skuldir sínar, því sumir hefðu gleymt því, - einnig eftir verzlunar-endurfæðinguna. Þar heyrðist grátkjökurs-holtaþokuvæl koma úr mögru, rauðkinnbeinóttu eltiskinnsandliti og hvetja til fylgis og framsóknar. Andliti brá þar einnig fyrir, sem rautt var og æðabert, rauðeygt og úteygt, og gaf mönnum goðasvör. Loks brá þar einnig fyrir sálmaskáldi, sem sat niðursokkinn í það, að yrkja hergöngusálminn, og orti ýmist undir laginu "Óvinnanleg borg er vor guð" eða "Aldrei skal ég eiga flösku". Hvorugt gekk vel; enda truflaðist andinn jafnt og stöðugt við það að gægjast út um gluggana og gá til veðurs í heimi spakmælanna og kjarnyrðanna, en "kommandera" síðan raddargáttinni til að hrópa "heyr"!
Alt var þetta látið fjúka í kviðlingum, ásamt mörgu fleiru, og alt skemti það Jóni, svo hann ætlaði að rifna af hlátri, en hafði varla við að botna.
Stökurnar fuku sem skæðadrífa, fæddust fullorðnar að mestu, glöddu og kættu, meðan þeim vanst aldur til, en voru jafnfljótar að hverfa sem koma. Eftir örlitla stund var hver þeirra um sig gleymd með öllu. Og þannig fóru þær allar að lokum. Engin þeirra lifði þann frama, að vera hvíslað í eyra góðkunningja feðra sinna niðri í mannabygðum.
Loks sá Jón, að Þorgeir var farinn að þreytast á þessari skemtun og hættur að hafa gaman af kveðskapnum. Hann var farinn að hljóðna og þunga dró á svip hans. Jón hætti þá að ýta undir hann með framhaldið, en lét hann njóta hugsana sinna.
Veðrið harðnaði stöðugt. Það hvesti og kólnaði og élin urðu meiri og tíðari. Fannirnar voru nú orðnar alrendar nýju föli, en í auðri urðinni hvarf snjórinn að mestu ofan á milli steinanna. Aðeins melar urðu gráir. Veðurhvinur var mikill í tindunum, og hviðurnar, sem náðu ofan til þeirra, voru svo snarpar, að þeim veitti ekki af að "strita við að sitja" á steinum sínum, ef þeir áttu ekki að fjúka upp.
Jón hafði séð rétt. Hugur Þorgeirs var horfinn frá kveðskapnum og farinn að snúa sér að öðrum alvarlegri viðfangsefnum.
Þorgeir vissi það, að nú var reikningsskapar- og uppskerutími fyrir höndum. Hann átti að skila af sér, og honum hafði jafnan verið ant um að gera það með sóma. Hann varð að kannast við það, að hann hefði í raun og veru verið alt of linur við skuldunauta sína. Verzlunin hafði liðið baga af því. Hann hafði gert það vegna þess, að sú von hafði aldrei dáið í brjósti hans, að þeir ættu eftir að verða hans menn að nýju. Þess vegna hafði hann ekki viljað ganga miskunnarlaust að þeim og gera þá öreiga. Nú var útséð um það. Og þetta haust varð að skríða til skarar með þeim og honum.
Hann vissi, að hann hafði ráð þeirra flestra í hendi sér, sem höfðu yfirgefið hann á svo ódrengilegan hátt. Allar þær skuldir, sem í verzlunarbókunum stóðu, gátu þeir ekki komist hjá að borga. Engin yfirvöld gátu skorast undan að úrskurða svo, hversu mikið sem þau vildu draga taum þeirra eða hlífa þeim. Hann vissi vel, hvert svar þeir mundu gefa: að þeir gætu ekki borgað, sízt alt í einu. En hann var einráðinn í því að ganga að þeim með öllum þeim strangleik, sem lög framast leyfðu. Það mundi kosta kveinstafi og harmatölur. Tár kvenna og barna mundu væta braut hans. En ekki mátti í það horfa. Lífs og liðinn mundi hann fá ámæli fyrir slíka hörku. Hann kærði sig ekkert um það. Nú var hann hættur að hugsa um orðstír sinn á meðal þeirra. Hin siðferðilega skuld, er þeir stóðu í við hann, varð hvort sem er aldrei greidd. Hann hafði hjálpað þeim, hverjum og einum, þegar þeim lá á. Þeir höfðu svikið hann í staðinn. Hann hafði sýnt þeim vorkunn, þegar þeir gátu ekki staðið í skilum, og látið við svikin sitja. Þeir höfðu storkað honum og skapraunað í staðinn. Hann hafði reynt að styðja þá með ráði og dáð um meira en mannsaldurs skeið og beitt sér af alefli fyrir framfarafyrirtækjum þeirra. Þeir höfðu launað honum með því að ljúga á hann lýtum og skömmum, jafnvel glæpum, gera honum getsakir og sýna honum fyrirlitningu sína leynt og ljóst. Nei, þessi skifti urðu aldrei jöfnuð. En hin skyldu jafnast. Hann skyldi ekki ljúka reikningum sínum sem ódyggur þjónn, ranglátur ráðsmaður, - þeirra vegna. Þeir voru engrar hlífðar maklegir. Skuldirnar skyldu "undan þeirra blóðugu nöglum ganga".
Og Kaupfélagið -? Viðskifti hans og þess nálguðust ní einnig lyktir sínar. Hingað til hafði hann mest átt við forkólfa þess. Allar skapraunir þær, sem hann hafði af þeim þolað, höfðu ekki getað komið honum til þess að höggva í lið þeirra. Þó vissi hann það, að þessar eigur, sem menn þeirra voru nefndir eigendur að, voru sá sandur, sem öll þeirra vesala verzlunarfélagsbygging stóð á. Hann hafði skirst við að blása þessum grunni undan, og þó var honum það í lófa lagið. Nú voru þeir sjálfir hættir að hafa trú á þessum félagsskap. En þó hann gerði ráð fyrir svo mikilli mannslund hjá þeim, að þeir mundu hjálpa hver öðrum í kröggunum, þoka sér saman og standa sem einn maður gagnvart honum, - sem ekki mundi þó koma fyrir, - þá kom það fyrir ekki. Nú hafði hann þeirra eigin háspil á hendinni. Ástæður þeirra voru erfiðar, meðfram vegna brennunnar, en mest vegna óskilsemi og kæruleysis. - Þeir höfðu lagt verzlun hans að velli og hrósuðu sigri nú um stund. Það skyldi ekki verða lengi. Félagið þeirra skyldi fara sömu förina, og ekki betri.
Og einn skyldi hann gera þetta alt saman. Maður sá, sem verzlunarstjórinn hafði verið svo vænn að senda honum til aðstoðar, skyldi eiga náðuga daga þetta haustið. Einn hafði hann háð baráttu sína til þessa, aleinn, - og einn skyldi hann leiða hana til lykta.
Hörð mundi rimman verða. Það mundi verða atgangur í bygðunum þetta haust og fram eftir vetrinum. Hver dagur mundi færa ný tíðindi. Atburðirnir mundu spyrjast víða. Margir menn mundu fá atvinnu við það, að hreinsa til á bæjum bændanna, reka burtu fénaðinn og taka það nýtilegasta af búshlutunum. Málaflutningsmann hafði hann þegar trygt sér bréflega, til að vera sér til aðstoðar og leiðbeiningar. Svo kæmu stór uppboð - og fleira og fleira skemtilegt!
En gat hann þá treyst á sjálfan sig? Var hann sjálfur nógu sterkur til að framkvæma þetta alt? Leyndist ekki eitthvað í honum, sem dró úr honum kjarkinn? Var hann fær um að horfa beint í augu þeirra manna, sem hann var að svifta öllu því, sem þeir höfðu hingað til kallað sitt?
Hann mintist ósjálfrátt veizlunnar. Þar hafði augnaráð manna haft undarleg ónotaáhrif á hann. Þar hafði hann gugnað fyrir því að lokum.
Ef til vill var það aðeins vegna þess, hvernig þar stóð á. Það var dóttir hans, hans eigið hold og blóð, sem hann þar hafði skapraunað mest allra manna. Hún varð ekki framar á vegi hans til að draga úr honum kjark. Nú urðu engir fyrir honum aðrir en þeir, sem hann þurfti að reka harma sinna á.
Og þessi veilni hans í veizlunni hafði orðið honum til góðs. Vegna hennar hafði hann farið þessa ferð upp í reginfjöll. Hann hafði farið hana til að kæla sig og stæla í skapi. Náttúran studdi þetta áform hans, með því að senda honum fjallaveður af bezta tagi. Nú skyldi hann njóta þess. Hugur hans skyldi viðrast. Margar ömurlegar myndir, sem bjuggu þar og þjáðu hann dag og nótt, skyldu viðrast þaðan burtu, - viðrast vel burtu, svo þær kæmu honum aldrei í opna skjöldu, þegar verst gegndi. -
Nú var orðið svo dimt af fjúki, að varla glórði í hestana niðri í Skálinni. Stormur hafði aukist og hamraeggjarnar drundu af þungum veðurhvini.
En þegar Jón kaupi stóð upp, allur fannbarinn, og fór að berja sér, til að hleypa í sig kjarki, og Þorgeir var sjálfur orðinn svo loppinn, að hann gat ekki komið tappanum í flöskuna, - þá fanst honum setið meðan sætt var, og stóð upp.
Þeir bjuggust nú til heimferðar. En áður en Þorgeir legði af stað, stóð hann þegjandi um stund, með hnyklaðar brýr, og horfði út í hríðina.
Langt var síðan hann hafði verið jafnhress og léttur í skapi og þennan dag. Nú var hann styrkur, fullur hreysti og hugrekkis. Hann sá leikinn fyrir og líkaði hann vel.
Þegar Kaupfélagið væri fallið, væri hefndinni fram komið fyrir sorgir hans og skapraunir. Hin gamla fastaverzlun var þá líka í köldum kolum. Hún mátti fara. Alt þetta verzlunarástand var ormétið inni við beinið, óheilnæmt, spillandi, drepandi fyrir þroska þjóðarinnar, - eitur í andlegu og siðferðislegu lífi hennar. Framtíðarkynslóðirnar mundu verða honum þakklátar fyrir að hafa borið af því banaorð. Eftir eyðingu þess mundi annað betra upp rísa, líkt því, sem lengi hafði fyrir honum vakað.
En hvað sem þessu liði: - það skyldi verða seinasta og gildasta verk hans á æfinni að velta öllu þessu hrófatildri um koll, róta því sundur, "plægja það og herfa" og láta þar ekki stein yfir steini standa; dansa síðan yfir rof þess eins og hvirfilbylur, eins og stormurinn Samum "inst í reginauðnum", - dansa feigðardansinn hlæjandi á daunillum val hinnar gerspiltu samtíðarverzlunar, og dansa sjálfan sig inn í veldi ódauðlegs orðstírs. - -
Stirðir af kulda, en léttir í lund, stauluðust þeir Þorgeir og Jón kaupi ofan úr fjöllunum og tóku hesta sína. Klárarnir voru fóthvatir og heimfúsir; þeir voru líka búnir að fá nóg af fjallaveðráttunni.
En þennan dag sáu bygðamenn drunga á fjöllum og gnýr var í lofti.
Illviðri var í aðsigi.
15. kafli - Dansinn kringum gullkálfinnFraman af septembermánuði var hlé á markverðum atburðum í Vogabúðakaupstað. En það hlé var líkast lognmollu á milli bylja. Þótt kyrt væri á yfirborðinu og lítið bæri til tíðinda daglega, var unnið í kyrþey. Haustkauptíðin var í nánd.
Þorgeir sendi umburðarbréf út um allar sveitir. Skoraði hann þar fast á menn að greiða allar skuldir sínar til Jespersens-verzlunarinnar. Jafnframt lét hann menn vita, að hann mundi nú sem að undanförnu veita sauðfé viðtöku upp í skuldirnar, bæði á markaði, þar sem fé væri selt á fæti, og eins á blóðvelli þar í kaupstaðnum. - Auk þess skrifaði hann hverjum einstökum skuldunaut sínum og sendi honum reikning yfir síðustu viðskifti hans við verzlunina. Gaf hann í skyn í sumum af þeim bréfum, að líklegt væri, að danska fastaverzlunin þar legðist niður. Þó fullyrti hann ekkert um það, en kvað fyrir sig lagt að ganga stranglega eftir skuldunum. Mundi það og verða gert og ekki hlífst við að beita málsókn, ef þess þyrfti við.
Í öðru lagi skrifaði kaupfélagsstjórnin bréf til allra sinna viðskiftamanna. Brýndi hún alvarlega fyrir þeim að borga á þessu hausti bæði vörupöntun sína þá um sumarið og eldri skuldir. Minti hún félagsmenn á það, að oft væri þörf, en nú væri nauðsyn, að menn stæðu vel í skilum við félagið. Bar hún einkum fyrir sig áfall það; er félagið hefði orðið fyrir, en kvað það lítið mundu saka, ef menn greiddu skuldir sínar. Þá mundi félagið fá nýtt vörulán til bráðabirgða, sem síðan yrði borgað með vátryggingarfénu, þegar það kæmi. Aftur á móti taldi félagsstjórnin hæpið, að lán fengist erlendis, ef eins gengi og hingað til með greiðslur félagsins. Lét hún menn vita, að Friðrik kaupmaður væri utan farinn til að reka erindi félagsins. Vörur hefðu verið fengnar að láni til bráðabirgða hjá nágrannakaupfélagi. Hefðu þær verið sendar á þilskipi milli hafnanna og væru nú komnar á Voginn. Yrði þeim skift á milli félagsmanna, og mættu þeir vitja þeirra þangað. - Einnig væri von á gufuskipi til að sækja lifandi sauðfé, eins og að undanförnu. Voru menn að lokum beðnir um að reka fé það til Hvanndalaréttar ákveðinn dag, er þeir hefðu lofað félaginu; þar yrði því veitt viðtaka. Þá mætti ekki heldur gleyma því að senda einungis vænt fé, svo ekki legðist ilt orð á vöru félagsins erlendis. - Var þetta langt mál og ýtarlegt, félagsmenn mintir á loforð sín og samþyktir á Vogabúðafundinum þá um haustið og óspart ýtt við göfugum þjóðræknis- og metnaðartilfinningum.
Til þess að vera viss um, að félagsmenn yrðu allrar þessarar hugvekju aðnjótandi, en svikjust ekki um að lesa hana, sendi kaupfélagsstjórnin einn mann ríðandi um hverja sveit og lét hann lesa yfir mönnum erindið. Voru til slíkra ferða valdir ungir gagnfræðingar eða búfræðingar, sem nóg var til af í sveitunum. Fáir söknuðu þeirra frá slættinum; en vel þóttu þeir máli farnir og vel voru þeir lesandi.
Í þriðja lagi sendi Englendingurinn, sem verið hafði þar haustið áður, "kveðju guðs og sína" út um allar nærliggjandi sveitir. Sparaði hann langan inngang, en kvaðst mundu kaupa sauði á fæti við Hvanndalarétt laugardaginn hinn 28. september og greiða peninga fyrir. En þess lét hann getið, að ekki vildi hann annað en væna sauði, og mundi hann gefa fyrir þá eftir vigt.
Sama daginn ákváðu þeir til kaupstefnunnar, Þorgeir og kaupfélagsmenn.
-
Það er af Þorgeiri að segja, að ekki höfðu hinar myrku, ömurlegu hugsanir "viðrast" burtu úr huga hans við fjallaförina, þótt honum fyndist svo í bili. Þegar frá leið, kendi hann aftur á kvalræði þeirra. Þá risu þessir svartálfar upp í huga hans og gerðu honum erfiða daga og andvökunætur, birtust honum í draumum hans og glöptu hann við vinnu hans. Það voru hinar sömu hugsanir upp aftur og aftur: brennan, Einar og alt, sem stóð í sambandi við það mál, bæði í honum sjálfum og í kringum hann. Það kom í ýmsum myndum og með ýmsum breytingum. En ein minning loddi honum þó einna fastast í hug; það var það, sem fyrir hann hafði borið í Bælinu. Slíkri eymd og örbirgð gat hann ekki gleymt.
Um mörg ár hafði það verið aðalhugsun Þorgeirs að reisa við verzlun sína og rétta aftur hlut sinn. Þá hafði hann haft bjargfasta trú á máli sínu og aldrei látið sér skiljast, að þetta gæti farið öðruvísi. Hefði þá eitthvað komið fyrir, sem kipt hefði fótum undan þessari sannfæringu hans, mundi honum hafa fallið það afarþungt, svo varla mundi hann hafa getað afborið það.
Nú hafði þessi insta og stærsta hugsun hans, sem slegið hafði skímu á líf hans, þokað úr öndvegi sínu fyrir annari nýrri, dimmri og ægilegri. Það var sektarmeðvitund hans út af brennumálinu. Og þegar bréf það kom, sem slökti hjá honum hinn síðasta neista af von um viðreisn verzlunarinnar, tók hann fréttinni eins og hann hefði lengi við henni búist og varð ekki mikið um.
En fyrst ekki hafði tekist að "viðra" burtu úr huganum sorgirnar og efasemdirnar, ásetti hann sér að ryðja þeim burtu með starfinu, eða draga úr þeim að minsta kosti. Hann sökti sér því niður í vinnu sína sem mest hann mátti og vann af miklu kappi að undirbúningi haustmálanna, - vann tveggja manna verk og vann nótt og dag, að kalla mátti. Að nokkru leyti hepnaðist honum áform sitt. Með miklum erfiðismunum gat hann fest hugann við vinnuna, að minsta kosti stundum saman.
Eitt hafði fjallaförin kent honum: nú var hann sannfærður um, að aldrei liði sér betur en þegar hann ætti við illviðri og ytri erfiðleika að etja. Þá kendi hann mótstöðumagnsins í sjálfum sér og fanst sér aukast bæði hugur og dugur. Hann vonaði því, að ferðalögin um haustið mundu hressa sig og herða í skapi, svo hann yrði verki sínu vaxinn, því enn leyndist í honum beygurinn fyrir því, að hann mundi gugna, þegar á reyndi.
Þessar síðustu vikur hafði útlit Þorgeirs breyzt nokkuð. Hár hans og skegg hafði gránað mikið. Svipurinn var enn þreytulegri en við byrjun sögunnar, og enn gremjulegri. Andlitið bar merki svefnskorts og víndrykkju, og augun voru enn skuggalegri en áður. Þau báru vott um annað hugarástand. Hugsjón sú, sem gert hafði þau djörf og tindrandi, var dáin; hugarmyrkur og hefndarfýsi var komið í staðinn, og efi og eigin sekt kipti magni úr tillitinu og gerði það hikandi og hálfflóttalegt.
Margt var um það talað, hve mjög Þorgeiri væri að fara aftur. Sjálfur furðaði hann sig á því, hve fljótt hann eltist; en þó fanst honum hann geta skilið það. Síðan hann hafði fengið bréfið, sem dæmdi verzlun hans til dauða, var hann meiður slitinn af rót sinni; hann stóð aðeins meðan hann visnaði.
-
Mannkvæmt var við Hvanndalarétt laugardaginn hinn 28. september, en þó einkum sauð-kvæmt, ef svo mætti að orði komast. Engin var það nýlunda að sjá margt manna og margt sauðfjár, því héraðið var sauðmargt. Einnig létu héraðsmenn mjög af því, hve vænt fé sitt væri. Fullyrtu þeir, að hvergi á landinu væri fé jafnvænt. Það gera menn í öllum héruðum Íslands, svo fáir taka mark á því.
Hvanndalarétt lá vel við aðrekstri, í miðju héraði, og var að jafnaði fjárflesta réttin þar um slóðir og bygð fyrir fjölda fjár. Nú ráku menn fé þangað úr öllum sveitum héraðsins, vegna kaupstefnunnar, því ekki var um fleiri að gera í þessu héraði.
Frá þeim degi, er þeir Þorgeir og Jón kaupi fóru fjallaför sína, höfðu gengið votviðri og kalsar í bygð með snjókomu á fjöllum. Víða höfðu hey hrakist hjá bændum, svo útlit var fyrir, að sum yrðu ónýt. Þetta gerði marga áhyggjufulla um ásetning kvikfjár, og varð, ásamt fleiru, orsök til þess, að menn ásettu sér að lóga óvanalega miklu af fé sínu um haustið.
Fyrstu fjallgöngur voru nú um garð gengnar, og höfðu gangnamenn fengið hin verstu veður. Þó hafði smalast allvel, því flest fullorðið fé var runnið úr heiðunum ofan í búfjárhaga undan snjónum.
Daginn, sem kaupstefnan átti að vera, var einnig votviðri. Þegar um morguninn var loftið alskýjað með rigningar-slitringi, og jókst úrkoman heldur, þegar fram á daginn leið. Veður var kyrt, en varð stöðugt ískyggilegra.
Jörðin var orðin gljúp af langvarandi votviðrum og allar götur stóðu fullar af leirvatni, svo færð var hin versta. Féð var blakt og blautt á lagðinn, og sumt þreytt eftir langan rekstur. Það var spakt og þægt og laust við gáska þann, sem geldfé hefir oft til á haustin, eftir afrétta-frjálsræðið á sumrin.
Undir eins og lýsti af degi, var féð rekið að réttinni. Ekki gekk það með þögn og þembingi, og heyrðist kliðurinn þaðan bæjarleiðir í burtu. Var þar kallast á með hvellum drengjaröddum og drynjandi karlaröddum. Þess á milli var hóað, sigað, argað, hneggjað, jarmað, gjammað og gólað, - alt í einu. Við slíkan hávaða bregður ekki réttamönnum.
Sá var munurinn á þessum réttum og venjulegum haustréttum, að nú var féð rekið í dilkana, en ekki almenninginn. Hafði þá hver af hinum fjárríkari bændum dilk út af fyrir sig, en hinir fátækari voru tveir eða fleiri saman um einn dilk. Var féð rekið inn í dilkana í smáhópum og þess vandlega gætt, að það færi ekki saman. Tveir stærstu dilkarnir voru látnir standa tómir og ætlaðir kaupendunum, og eins almenningurinn. Þorgeir tók annan dilkinn handa sínu fé og kaupfélagsmenn hinn, en almenningurinn lenti í hlutskifti Englendingsins.
Margt er vikið ilt og óhreinlegt, sem íslenzkir sveitamenn verða að vinna, en ekki eru réttaverk á haustin þeirra bezt, einkum þegar illa viðrar. - Í þetta skifti var réttin mjög blaut af regnvatni, svo féð stóð í for upp fyrir lagklaufir. Réttarmenn voru klæddir lökustu vinnugörmum sínum, því ekki var það þrifaverk að troðast innan um blautt og forugt féð og vaða bleytuna í réttinni. Þó voru menn kátir og létu ekki óþægindin á sig fá; flestir voru þeir vosinu vanir.
Ekki lét Englendingurinn sig vanta á vettvang. Tók hann sér bækistöð í almenningnum og lét færa sér þangað varninginn. Var hann þannig búinn, að hann var í rosabullum miklum, hafði gljáandi strokleðurskápu lausa á öxlunum og sjóhatt á höfði. Stóð hann lengst af í sömu sporunum og tottaði pípu sína, sem oftast var þó dautt í. Orðfár var hann um daginn; en oft sáu menn hann hrista höfuðið yfir kindum þeim, sem honum voru boðnar. Þuklaði hann sumar þeirra á baki og bringu, en lét þó sjaldan verða langan drátt á skýru svari. "I do not like it!" hraut honum þá alloft af munni. Við það urðu seljendurnir súrir á svipinn, því ekki lá þá annað nær en hypja sig burtu með rolluna. En oftar sagði hann þó "very well!" og benti inn í almenninginn. Var þá skepnunni brugðið á vigt og síðan slept lausri í almenninginn. Englendingurinn reit upp í vasabók sína nafn seljandans og þunga hverrar kindar, og lét túlk sinn gera það sama.
Starsýnt varð mörgum á Englendinginn, sem sæju þeir fágæta rollu. Hann var að ýmsu leyti ólíkur þeim sjálfum og þeim mönnum, sem þeir þektu. Búningur hans var með öðru sniði en þeirra; yfirbragð hans, látbragð og kækir var alt annað en þeir höfðu vanist, og mál hans skildu þeir ekki. Alt þetta gerði hann að undri á meðal þeirra. Margir höfðu séð hann haustið áður, selt honum þá fé og reynt hann að góðum viðskiftum. Nú var enn fleirum í mun að verða viðskifta hans aðnjótandi. Var því þröng um hann um daginn; keptust menn um að bjóða honum fé sitt, og fast hvíldu augu seljendanna á honum. Einkum var þeim ant um að reyna að lesa það út úr svip hans, meðan hann hugsaði sig um, hvort hann ætlaði að segja: I do not like it, eða eitthvað í hina áttina; en sárast af öllu þótti þeim það, að geta ekki talað við hann, - sýnt honum fram á kosti kindanna sinna, talið honum t. d. trú um, að sauðirnir gætu verið "innanfeitir", þótt þeir væru magrir á bakið, eða sannfært hann um, að geld ær væri sama sem sauður; eða þó að minsta kosti trúað honum fyrir því, að hann væri sjálfur "bölvaður sauður".
En flestir voru þeir fáfróðir í enskunni. Og þegar þetta kuldalega: I do not like it, þaut um eyru þeim, var ekki um annað að gera en taka um hornið á kindinni, strita henni burt frá augliti Englendingsins, og - láta hina fá hana.
Þó varð mönnum ennþá starsýnna á túlkinn. Hann var ungur maður þaðan úr héraðinu og nefndi sig "realstúdent". Var hann allur á iði, sítvístígandi kringum húsbónda sinn og síkrunkandi, ýmist ensku eða íslenzku. Hafði hann þar tvö hlutverk á hendi, hvort öðru harla ólíkt, og skifti um með einstakri leikni. Fyrst og fremst þurfti hann að sýna húsbóndanum alla trú sína og hollustu. Það þóttist hann bezt geta gert með því að vera nógu skjótur til svara og stimamjúkur, ef hann þurfti hans við. Hafði hann því vakandi gætur á augum og vörum Englendingsins, beygði sig auðmjúklega við hverja bendingu hans og vaggaði í öllum liðamótum af undirgefnis-ákefð. Ekki þótti mönnum honum farast þjónslætin fimlega og fanst minna mætti duga. Einnig tóku margir eftir því, að Englendingurinn gaf auðmýktartilburðum mannsins lítinn gaum og leit varla við honum, og þótt þeir skildu minst af því, sem þeim fór á milli á máli því, sem þeir töluðu, þóttust þeir hafa komist að því, að Englendingurinn mat tillögur hans einskis. Aftur á móti var maður þessi allreigingslegur við bændur og búalið. Þó var hann ekki illyrtur né önugur í svörum, heldur miklu fremur ljúfmannlegur á höfðingja vísu; en það lét hann þá skilja, að ekki teldi hann sig þeirra jafningja.
Fleiri áttu brýnt erindi á kaupstefnuna en Englendingurinn, einkum kaupfélagsforkólfarnir og Þorgeir.
Af hálfu kaupfélagsstjórnarinnar voru þeir komnir þar umboðsmaðurinn á Klaustrinu og Sigurður í Vogabúðum. Sveinbjörn í Seljatungu hafði ekki treyst sér að heiman vegna lasleika. Hinir tveir fyrnefndu urðu því að annast innheimtuna fyrir Kaupfélagsins hönd og veita viðtöku fé því, sem því var ætlað. Voru þeir ekki við neinn vissan stað bundnir, en gengu á milli kaupfélagsmanna og tóku þá tali, annaðhvort báðir saman eða þeir skiftu með sér verkum. Þungbrýnir voru þeir um daginn og gáfu þrönginni kringum Englendinginn óhýrt auga.
Þorgeir var svo búinn um daginn, að hann var í háum reiðstígvélum, sem nú voru orðin mjög leirslettótt. Yzt fata hafði hann síðan olíustakk, og var hann girtur að mittinu með breiðu leðurbelti. Sjóhatt bar hann á höfði og hnýtti böndin saman undir hökunni. Var Þorgeir allvígamannlegur í slíkum tygjum. Jón kaupi var fylgdarmaður hans að vanda og gætti hesta þeirra og reiðtygja. Aðra menn hafði Þorgeir til að vigta fé sitt, en lítið höfðu þeir að gera að jafnaði.
Þorgeir var stöðugt á faraldsfæti um daginn á milli skuldunauta sinna, og þótti mönnum hann ófrýnn og ægilegur á brún. Hátt lét í olíustakknum, þegar hann gekk, og þungt steig hann til jarðar í reið-"bullunum". Skegg hans var úfið og draup vatn af því; en undir sjóhattsbarðinu var sem glórði í tvo hálfkulnaða kolaneista.
Víða lágu spor Þorgeirs um réttina og umhverfis hana. Var það auðséð, að menn höfðu glöggar gætur á ferðum hans og sneiddu hjá honum. Víða þokuðu menn sér saman í smáhópa, þar sem hann stefndi á, því menn gerðu ráð fyrir, að betur væri sér borgið í fjölmenni en fámenni eða einum saman, því heldur mundi Þorgeir skirrast við að kalla á þá út úr hópnum til að krefja þá og trufla þannig tal þeirra. Einkum þótti mönnum gott vígi kringum Englendinginn, því að þar var fjölmennast.
Við og við sást Þorgeir hverfa frá réttunum, og höfðu menn það fyrir satt, að þá væri hann að vitja Jóns kaupa og reiðtygja sinna. Vonuðu þá margir, að hann mundi vera farinn að hugsa til brottfarar, og var þeim það mikill hugarléttir. Sú von varð þó aldrei langlíf; en jafnan þegar Þorgeir kom aftur, lagði af honum sterkan vínþef.
Þorgeiri varð lítið ágengt um daginn, og var hann í hinu versta skapi. Þó hafði hann hitt marga af þeim, sem hann þurfti að finna, en suma alls ekki. Undirtektirnar undir erindi hans voru líka misjafnar. Fæstir höfðu farið að heiman með þeim ásetningi að hitta hann eða gera honum skil. Hjá sumum fékk hann þó nokkrar kindur upp í skuldir þeirra; hjá öðrum vöflur og vífilengjur, en loforð hjá nokkrum, sem hann þó mat einskis og treysti ekkert á. Enginn af þeim, sem hann hafði hitt, hafði gert honum full skil, og oftast hafði samtalið endað með því, að skuldunautarnir máttu ekki vera að því að tala lengur við Þorgeir að því sinni, vegna einhvers, sem að þeim kallaði, en lofuðu að hitta hann síðar um daginn. Þessu loforði "gleymdu" þó flestir og forðuðust að verða aftur á vegi Þorgeirs.
Fé það, sem hann hafði fengið, var honum líka til mikillar skapraunar. Það var, að kalla mátti, úrgangurinn úr öllu því, sem þangað hafði verið rekið. Í dilk hans gat að líta geldar ær, kvíaær, dilkamæður og lungnaveikar skepnur, veturgamalt fé, lömb og hrúta. Enginn dilkurinn var jafnlélega skipaður að fé. Örfáir sauðir höfðu lent þar, og báru þeir svo af hópnum, að hitt sýndist enn rýrara við hlið þeirra. Mest gramdist þó Þorgeiri, er hann bar þessa hjörð sína saman við það, sem safnaðist í almenning Englendingsins. Þó varð hann að taka við því, sem að honum var rétt. Hann vissi það vel, að ef hann neitaði að taka við kindum upp í skuldirnar, þótt þær væru rýrar, spilti hann málstað sínum og gerði skuldunautunum léttara að þverskallast við að borga. Auk þess var rýr rolla betri en ekkert.
Flestir þeirra, sem Þorgeir átti tal við um daginn, svöruðu nokkuð líkt og Bjarni á Fossalæk. Þorgeir talaði við hann um stund í góðu næði þar undir réttarveggnum. Bjarni hafði lengi forðast hann og ekki gefið honum færi á sér. En er Þorgeir náði í hann að lokum, sá hann sér ekki annað hlíta en taka kveðju hans og málaleitun hæversklega. Fimm ár voru þá liðin, síðan þeir höfðu átt tal saman um gömul viðskifti sín. Allan þann tíma hafði skuld Bjarna staðið óhreyfð. Þorgeir krafðist þess af honum, að hann greiddi hana alla. á þessu hausti; hjá því gæti hann ekki komist. Það, sem hann hefði vanrækt á undanförnum árum, yrði hann nú að bæta upp á síðustu stundu, hversu erfitt sem honum félli það.
Bjarni tók þessu dauflega. Hann kannaðist við það að vísu, að krafa Þorgeirs væri rétt, en of hörð væri hún og jafnvel ómannúðleg. Það, að hann hefði ekkert borgað af skuldinni að undanförnu, stafaði af örðugum ástæðum og sívaxandi kröfum og þörfum. Hann kvaðst ekki heldur hafa getað staðið í skilum við Kaupfélagið. Nú gengi það álíka hart að sér eins og Þorgeir.
Þegar Þorgeir spurði hann að, hverjar þessar "sívaxandi kröfur og þarfir" væru, sem alltaf ættu að ganga fyrir skuldunum, svaraði Bjarni hispurslaust og í mestu einlægni, að það væri menning barnanna sinna. Þau væru honum kostnaðarmeiri nú en á meðan þau hefðu verið í ómegð. Nú sagði hann, að einn sonur sinn væri kominn í latínuskólann; vist hans í Reykjavík kostaði ærið fé. Annar sonur sinn væri í gagnfræðaskóla, þriðji í búnaðarskóla. Þeir gætu ekki heldur lifað á skólaloftinu einu saman. Nú vildu dæturnar eitthvað mannast líka. Hann hefði nú haldið í við þær svo lengi sem hann gæti. Nú héldu þeim engin bönd framar. Að minsta kosti yrði sú eldri nú að fara í kvennaskóla. Ekki gæti hún farið þangað tómhent. Á þessu hausti þyrfti hann að lóga meiru af bústofni sínum en nokkru sinni áður. Alt það vænsta úr fénu léti hann til Englendingsins, til þess að afla sér peninga. Hitt gengi alt upp í skuldirnar.
Þorgeir hlustaði á þessa þulu með mestu þolinmæði. Þegar Bjarni þagnaði, mælti hann:
"Þeir eiga víst að verða miklir menn, synir yðar?"
Bjarni leit spyrjandi framan í Þorgeir. Hann var ekki viss um, hvort þetta væri háð eða einlægni.
"Þeir eru allir efnispiltar", mælti hann, "og það væri synd, himinhrópandi synd, ef þeir gætu ekki notið sín vegna mentunarleysis. Það mundu þeir aldrei geta fyrirgefið pabba-greyinu sínu".
"En haldið þér, að það mundi nú skifta um dætur yðar, t. d. þá eldri, þótt hún biði eitt árið til eftir kvennaskólanáminu, en þér losuðuð yður við eina skuldina á meðan?" mælti Þorgeir ofur stillilega. "Það, sem þér skuldið mér, er ekki meira fé en það, sem hún þarf til skólanámsins í vetur. Meiri gleði hljótið þér þó að hafa af skólamentun hennar, ef þér vitið, að hún er keypt fyrir yðar eigið fé, en ekki annara. Er ekki svo?"
Bjarni klóraði sér í hnakkanum við þessa athugasemd og mælti eftir ofurlitla þögn:
"Þetta getur vel verið. En ég hefi engan frið til þess. Þetta eru kröfur nútímans; að þrjóskast við þeim er að spyrna á móti broddunum. Aðrir gera þetta; ég verð að gera það líka. Uppeldi barnanna minna, heiður þeirra og velgengni er mér fyrir öllu. Ég hefi sjálfur engrar skólamentunar notið; en ég sé, að án hennar er orðið erfitt að komast áfram nú á dögum. Og þegar nágrannar mínir senda syni sína og dætur að heiman til að framast og mannast, þá þykir mér hart að láta mín börn sitja heima. Og þótt ég vildi það, og vildi láta einhverja skuldina, - sem nóg er til af, - ganga fyrir, þá fengi ég það ekki. Ég er borinn atkvæðum og ráðin tekin af mér. Það er "gengið í skrokk" á mér, þangað til ég má til. Þér þekkið það ekki, Þorgeir minn, það er ekki von. En í haust á ég bágt með að borga yður nokkuð; ef til vill hefi ég aldrei átt bágara með það".
Þorgeir sá það á öllu, að Bjarni sagði satt, og það lá við, að hann vorkendi honum. En jafnframt fanst honum þó, að rangt væri að vægja honum ár eftir ár fyrir þessar sakir, og því svaraði hann honum alvarlega og áminnandi:
"Hafið þér þá ekki hugsað út í það, Bjarni minn, hvílíkt ógagn þér eruð að vinna börnum yðar með þessu? Einhvern tíma kemur að skuldadögunum. Haldið þér, að börnunum yðar falli þá léttara að hætta við hálfnað námið en þeim mundi falla það nú að byrja dálítið seinna á því? Eða er betra að geyma skuldirnar og selja börnunum þær í arf, þegar allar eigurnar eru þrotnar fyrir skólanámið þeirra? Haldið þér, að nokkur börn blessi minningu þess föður, sem þannig hefir séð fyrir ráði þeirra? Ég játa það, að skólamentun er góð og gagnleg, jafnvel þeim, sem ætla að verða bændur. En því aðeins er hún fær vegur til frama, að foreldrar hafi efni á að veita börnum sínum hana. Sá, sem þarf að láta skuldir sínar standa óborgaðar hennar vegna, hefir ekki efni á því. Hann kaupir börnum sínum þessa svonefndu mentun fyrir mannorð sjálfs sín. Oftast er þessi "mentun" leikur og kák, því engin alvara fylgir; en sleppum því. Hitt er verra, að hún nýtur sín lítið í daglega lífinu. Þekking þeirra manna, sem enginn virðir og enginn treystir, sem eru einurðarlausir og eiga lítið undir sér, kemur fáum að notum. - Léttúð föðursins í viðskiftum bitnar á syninum, beinlínis eða óbeinlínis. Enginn löstur er jafnhættulega arfgengur og sviksemi í kaupum og sölum og ódrengilegar efndir loforða sinna. Hann gerir föðuraugun flóttaleg og bakar syninum blygðun, sem hann hefir ekki unnið til. Efnalegt sjálfstæði er það bjarg, sem manngildið þarf að standa á og hafa að bakhjalli, ef það á að geta notið sín". -
Þorgeir þagnaði. Honum fanst sjálfum vera farinn að verða prédikunarkeimur að orðum sínum. Bjarni sat hljóður og hugsandi.
Eftir litla þögn byrjaði Þorgeir aftur:
"Ég vil ekki tefja tíma okkar beggja með óþarfamælgi. Ég átti ekki annað erindi við yður en krefja yður borgunar á því, sem þér skuldið mér. Það verðið þér að greiða nú í haust".
"Alla skuldina -?"
"Já, alla skuldina".
"Það er mér ómögulegt".
"Það varðar mig ekkert um. Þér áttuð að vera búinn að borga hana fyrir löngu. Hefðuð þér smáborgað af henni hin árin, þá hefði yður veitt létt að ljúka henni nú. Þér gjaldið yðar eigin synda, - yðar eigin svika".
"Ég vil reyna að borga eitthvað af henni".
"Alla, - ekkert undanfæri! Ég veit, hvað þér eigið við: Þér ætlið mér það af kindunum yðar, sem hvorki Englendingurinn né Kaupfélagið kærir sig um. En komið þér með það samt. Loforðin yðar met ég einskis. Það, sem þér borgið ekki í dag, sæki ég heim til yðar eftir nokkra daga. - Börnin yðar verða ef til vill farin af stað í skólana. Það er skaði, því þau hefðu gott af því að sjá, hvað námið þeirra kostar".
Að svo mæltu skildi Þorgeir við hann.
Bjarni sat hljóður um stund og andvarpaði. En þegar hann stóð upp, reikaði hann eins og sjúkur maður. - -
Skömmu eftir að Þorgeir skildi við Bjarna, gekk hann fram á Jón á Fitjum, þar sem hann var að eta af nesti sínu í sundi milli tveggja dilka. Jón sat með blóðmörskepp í höndunum og munninn fullan af blóðmör, þegar Þorgeir bar þar að. Sonur hans og hundur sátu þar hjá honum.
Svo leit út um stund sem Jón mundi fá stjarfa; slíkt fát kom á hann, þegar hann kom auga á verzlunarstjórann. Fyrst sperti hann upp skjáina og glápti á Þorgeir með opinn munninn. Þá datt honum í hug, að hann þyrfti að kingja niður blóðmörnum, áður en hann gæti komið fyrir sig orði. Þetta gerði hann með slíkri áfergju, að augun ætluðu út úr höfðinu, en kinnbeinin blánuðu af áreynslunni. Að þeirri raun afstaðinni var Jón voteygður mjög og sýndist gráta beisklega. Síðan ætlaði hann að leggja frá sér matinn, en standa upp og fagna gestinum. Þau umsvif höfðu þá óheillaafleiðingu, að blóðmörskeppurinn valt fram af hnjánum á honum. Hundurinn, sem mænt hafði á hann glorsoltinn, hélt að sér væri ætlaður slíkur ágætis-biti og var ekki seinn að hremma keppinn. Drengurinn sá tilræði hundsins og þaut æpandi á fætur til að bjarga kepnum. Um hann voru þeir að glíma, seppi og strákur, þegar Jón hafði kingt svo, að hann mætti mæla. Enn var hann þó sem hálfhengdur, en gat þó vælt með ámátlegum innileik:
"Komið þér blessaðir og sælir!"
Þorgeir hafði varla getað að sér gert að brosa að áhrifum þeim, sem koma hans hafði á þessum stað. Hann stilti sig þó, því ekki vildi hann særa Jón með því að hlæja að honum. Tók hann því kveðju hans þurlega, en mælti síðan:
"Þér munuð hafa fengið bréf frá mér nýlega. Er ekki svo?"
"Jú, Þorgeir minn. En það veit sá, sem alt veit, að nú á ég bágt. Alt fólkið mitt sefur úti í hlöðu. Ég er búinn að rífa ofan af baðstofunaustinu; henni var orðið mál á því. Nú er ég að byggja baðstofu. En að hausti, - nei, vori - í haust, - í vor, ætlaði ég að segja - - - -!"
Þorgeir lét sem hann heyrði ekki málandann í Jóni.
"Eruð þér hérna með fé handa mér upp í skuldina yðar?"
"Nei, því er nú miður, ekki núna", mælti Jón með klökkum rómi. "Ég bjóst alls ekki við að sjá yður hérna. En það var alveg satt, þér skrifuðuð mér. Hamingjan hjálpi mér, hvernig minninu mínu er farið að förlast. En - -!"
"Þér munið víst eftir bréfsneplinum, sem þér skrifuðuð einu sinni undir heima hjá mér?"
"Já, en - hamingjan hjálpi mér! Ég skal - ég get ekki - -!"
"Ég eyði engum orðum við yður. En skuldina skuluð þér borga í haust. Nú skal þessi loforðaleikur yðar á enda. - Þér ættuð að flýta yður að koma upp baðstofunni yðar. Hver veit nema ég neyðist til að heimsækja yður innan skamms, - með menn með mér. Verið þér sælir!"
Þorgeir gekk snúðugt leið sína. Jón var nokkra stund að ná sér aftur eftir fund þeirra.
Það varð jafnsnemma, að Þorgeir kvaddi og drengurinn bar hærra hlut af hundinum og náði af honum blóðmörskepnum. En svo var þá keppurinn orðinn kámugur og tannaður, að hvorugum þeirra feðga þótti hann girnilegur. Og þótt Jóni sárnaði það mjög, varð svo að vera, að seppi fengi keppinn aftur.
Þorgeir reikaði sem áður fram með réttarveggjunum. En þegar hann varði minst, heyrði hann kindarjarm að baki sér. Var að heyra á jarminum, að skepnan þættist eitthvað nauðulega stödd. Þorgeir leit um öxl. Á eftir honum kom Árni á Fífumýri, með flekkóttan haustgelding í skrefinu.
Hik kom á Árna, er hann sá, fram á hvern hann hafði gengið. - Fjögur augu litu samtímis á Þorgeir; augun í sauðnum voru mógul og hjálpar væntandi, því hann þóttist illa staddur með hálsinn á milli fóta eiganda síns; en augun í Árna sjálfum voru rauð og þrútin að vanda og áttu heima í æðaberu andliti. Var sem þau vildu segja: "Hver andsk - -!"
"Þér munuð hafa ætlað mér þennan gemling, Árni minn?" mælti Þorgeir ofur stillilega.
"Nei, fari ég þá í logandi, steikjandi -!"
Þorgeir gekk nær og tók um hornið á sauðnum.
"Hann er vænn, gemlingsgreyið. Góð bakhold. - Eigum við að bregða honum á vigt?"
Þetta kom alt að Árna svo óviðbúnum, að honum varð bæði orðfátt og ráðfátt. Hann starði á Þorgeir eins og hann ætlaði að gleypa hann með augunum, en fann engin stóryrði nógu ill til að ryðja yfir hann. Þó steig hann af baki sauðnum og leyfði Þorgeiri að skoða hann.
"Hann hrekkur nú auðvitað lítið upp í skuldina yðar; en þér hafið ef til vill fleiri? Nú, ekki það. Þá komið þér með hina seinna, - eða ég sæki þá heim til yðar; það verður dálítið dýrara, en þér viljið máske vinna það til? Jæja, þetta að þessu sinni, meira næst. Takið þér nú um hitt hornið á þeim móflekkótta. Svo breytum við ofurlítið stefnunni!"
Árni sá, að ekki mundi verða hjá því komist, að Þorgeir fengi sauðinn. Hann bölvaði í hljóði, en hlýddi þó. Þeir teymdu sauðinn á milli sín, þangað sem fé Þorgeirs var vigtað. Hann reyndist þungur á metum. Síðan var honum hleypt inn í dilk Þorgeirs.
Sá móflekkótti hristi hausinn og varð feginn því að fá að ganga laus; en sneypulegur varð hann á svipinn, þegar hann sá bjálfa þá, sem honum var nú vísað í hóp með.
Þorgeir glotti ertnislega, meðan hann skrifaði hjá sér nafn Árna og þunga sauðsins. En Árni nísti tönnum af skapvonzku; þessi forlög hafði hann ekki ætlað þeim móflekkótta sínum, það vissi hamingjan! Hann hafði verið á leiðinni til Englendingsins.
-
Dagur var að kvöldi kominn. Öllu fénu var upp skift milli kaupendanna. Sumir voru farnir, þar á meðal Englendingurinn og túlkur hans. Aðrir voru að tygja sig til brottfarar, taka saman dót sitt og leggja á hesta sína.
Veðrið hafði heldur farið versnandi; úrkoman aukist og nú var farið að hvessa.
Þreytublær var á öllu í réttinni og í kringum hana. Hestarnir voru hættir að bíta, en stóðu í hópum kringum réttina og sneru lendinni í veðrið. Hundarnir voru hættir að fljúgast á, en lágu bitnir og blóðugir uppi á réttarveggjunum og sleiktu á sér lappirnar.
Kindurnar stóðu í þéttum hnöppum undir veggjunum, jafnvel þótt nógu rúmt væri um þær. Flest var að höfðatölunni í dilk þeirra kaupfélagsmanna, en fríðastur var hópurinn í almenning Englendingsins.
Enn stóðu menn í hópum til og frá við réttina og töluðu saman, þótt flestir hygðu nú til heimferðar. -
Þorgeir lét einnig taka hesta sína og leggja á þá. En áður en hann stigi á bak, brá hann sér þangað, sem fjölmennast var fyrir, en það var utan við dilk þeirra kaupfélagsmanna. Gekk hann rakleitt að hópnum, steig upp á réttarvegginn og mælti hátt og skýrt:
"Má ég biðja þá, sem hér eru viðstaddir, að hlýða á orð mín!"
Rödd hans smaug að vanda gegnum alt skvaldur. Menn litu við; þessi kveðja kom þeim mjög á óvart, því margir héldu Þorgeir farinn.
Það flaug sem eldur í sinu um alla réttina, að Þorgeir verzlunarstjóri væri kominn upp á réttarvegginn og farinn að halda ræðu. Þeir, sem ekki voru þar fyrir, þustu að; hinir þokuðu sér nær, því allir vildu heyra, hvað Þorgeir segði. Alls stóðu þar í hvirfingu nokkuð yfir hundrað manns.
Þorgeir beið, á meðan menn voru að tínast saman, en þegar ekki var von á fleirum, hélt hann áfram:
"Í þessu héraði höfum við ekki fréttablöð til að bera orðsendingar okkar út á meðal manna, þegar okkur liggur á að gera eitthvað heyrinkunnugt. Þess vegna hefi ég tekið það ráð að kunngera það hér fyrir margmenni, sem ég vil láta berast út. Treysti ég öllum góðum mönnum til að bera skilaboð mín rétt til þeirra manna, sem ekki eru hér viðstaddir".
Menn gutu augum hver til annars, en þögðu þó og biðu eftir meiru.
"Ég hefi skrifað umburðarbréf út um sveitirnar og einnig skrifað til einstakra manna. Ég vona, að menn hafi fengið þessi bréf?"
"Jú, jú", heyrðist til og frá í hópnum.
"En þau hafa borið lítinn árangur".
"Hm, hm, - hver þremillinn!" sögðu einhverjir glottandi; fleiri hlógu, en enginn þó hátt.
Þorgeir tók vel eftir háttum manna. Oft hafði æðin á gagnauga hans verið úfin um daginn; nú sást hún óglögt uppi undir sjóhattsbarðinu og var rauðblá sem ánamaðkur. En Þorgeir stilti vel skap sitt og hélt áfram:
"Nú vil ég biðja menn um að bera þá orðsendingu út um allar sveitir, - og festa sér hana einnig vel í minni sjálfir, - að allar þær skuldir, sem ekki eru greiddar mér fyrir næstkomandi laugardag, eða samið við mig um fyrir þann tíma, þær verða heimtar inn með lögsókn.
Nú fór að aukast illur kur í mannþrönginni.
"Ef menn hafa ekki heyrt orð mín eða skilið þau, þá skal ég hafa þau upp aftur: Allar þær skuldir, sem ekki eru greiddar mér að fullu fyrir næstkomandi laugardag, eða samið við mig um fyrir þann tíma, þær verða krafðar inn með lögsókn, - vægðarlaust! Nú hafið þið vonandi heyrt það! Munið það líka, að allur kostnaðurinn við innheimtuna legst á gjaldanda".
"Komið þér, komið þér, ef þér þorið!" rumdi í einhverjum hálffullum úti í hópnum. Fleiri létu skilja á sér gremju.
"Ennfremur vil ég láta þess getið, að öreiga menn, sem ekki geta borgað, geta fengið hjá mér daglaunavinnu um tíma í haust og fram eftir vetrinum, ef þeir vilja vinna af sér skuldirnar og verða aftur - frjálsir menn".
Kuldalegt, gremjulegt ískur heyrðist til og frá í hópnum. "Heyr á endemi!" hrópaði einhver.
"Þetta tilboð nær aðeins til öreiga manna. Það nær ekki til ykkar, fyr en þið eruð orðnir eignalausir. Ég ætla að láta þessa menn vinna fyrir mig, en borga sjálfur skuldir þeirra við verzlunina. Þeir, sem verðmætar eignir eiga, láta þær fyrst af hendi. Ef þær hrökkva ekki, þá sjáum við til!"
Þorgeir sagði þetta síðasta með storkunarglotti, enda brugðust ekki áhrifin. Það leyndi sér ekki, að farið var að síga í áheyrendurna.
"Hvað fæ ég fyrir að kveikja í húsi?" var kallað utan til í hópnum. Ekki var það kallað hátt, og drafaði röddin; þó heyrðu flestir það. Nokkrir hrópuðu "bravó!" fyrir því, en flestum þótti það alt of ósvífið og illgjarnt til að sýna því meðhald.
Þorgeir hafði heyrt, hvað kallað var, og leit þangað, sem kallið kom frá. Þar sá hann æðabert andlit, rauðeygt og úteygt, skjótast í skjól bak við herðar þess, sem framar stóð.
Þorgeiri brá mjög við þessi orð; fyrst fölnaði hann í framan, en varð síðan sótrauður. Æðin á gagnauganu blés upp og varð úfrýn; en uppi á enninu sást ofurlítill, blárauður blettur, sem áður hafði borið lítið á. Það var örið eftir brunasárið, "brennimarkið", sem hann eitt sinn hafði kallað.
Hann stóð þó keikur og lét ekki á neinu bera. En svo kreptist höndin fast að svipuskaftinu, sem hann hélt á, að hnúarnir hvítnuðu. Þegar hann byrjaði aftur að tala, var röddin hás og mjó að vanda, en hvöss, eins og henni væri ætlað að kljúfa kletta.
"Hér er um meira að gera, piltar mínir, en það, að krefja inn þessar skuldir. Það er verið að reyna að uppræta eldgamlan, illkynjaðan þjóðarlöst, óskilsemina. Hún stendur öllum viðskiftaframförum þessa héraðs fyrir þrifum. Gegn þessum þjóðarlesti hefi ég varið lífi mínu. Við þann ófögnuð hefi ég barist í meira en mannsaldur, oftast með góðu, en lítið unnist á. Nú skal til skarar skríða í elli minni. Viðskiftum okkar skal lokið eins og til hefir verið stofnað frá ykkar hálfu. Í haust neyðist ég til að gefa ýmsum af skuldaþrjótum þessa héraðs þá ráðningu, sem ekki mun gleymast börnum þeirra og barnabörnum í marga liðu".
"Heyrið snuðarann! Heyrið okrarann!" gall við á stöku stað í hópnum. Aðrir ussuðu, sveiuðu eða blístruðu að Þorgeiri.
Hrópin espuðu skap Þorgeirs. Rödd hans varð enn hvassari en áður.
"Hrópið þið, svikarar! Æpið þið, ódrengir! Með ópunum útbreiðið þið vanmátt ykkar og vesalmensku. Hrópin ykkar líkjast röddunum í stagkálfunum ykkar; þeir finna til, greyin, þegar þeir baula, svo baulið verður að veini. - Nú skuluð þið heyra sannleikann, þótt beiskur sé hann. Alt verzlunaróstand þessa héraðs er fyrst og fremst ykkur að kenna. Það varðar minstu, hver við ykkur skiftir; hitt skiftir mestu, hverjir þið eruð. Þið eruð blygðunarlausir svikarar; við svik eruð þið upp aldir og svik hafið þið sjálfir iðkað. Feðrum ykkar þótti það frami að vera skuldseigir; sjálfir leitið þið allra undanbragða frá því að verða við réttum kröfum. Sómi ykkar og drengskapur í daglegum viðskiftum er fyrir löngu dauður. Allir þeir, sem treysta ykkur, bera óblessun eina úr býtum. Allur félagsskapur ykkar sjálfra úldnar lifandi vegna svika og síngirni, undirhyggju og fyrirhyggjuleysis. Þannig fer einnig kaupfélagsskapurinn ykkar".
"Niður með okrarann! Niður með danska einokunarsnuðarann! Niður með hann! Niður með hann!" - var hrópað til og frá í hópnum. Hrópin skutust upp, eins og menn hikuðu við að láta þau heyrast. Nokkrir hnefar voru steyttir; en öllum var þeim haldið hæfilega langt burtu frá verzlunarstjóranum.
Þorgeir var nú orðinn svo æstur, að hann gætti sín varla.
"Æpið þið, æpið þið, lyddur! vesalmenni! Þið þorið ekki að líta upp. Augu ykkar flýja í felur nú, eins og jafnan, þegar á reynir. Allir hafið þið litið framan í mig - biðjandi; allir, sumir oft á ári. Bænaraugun eru orðin eðli ykkar, greyin! Þau eiga við undirlægju- og ómenskusvipinn, - gamla þrælkunar- og amlóðaskaparættarmótið, svika- og sæmdarleysiseinkennið. Þessi einkenni hefi ég viljað nema burt af andlitum ykkar, svo þau gengju ekki í arf til fleiri kynslóða. En það þarf að brenna þau burtu, brenna þau burtu með tárum og kvöl. Ef til vill eru þetta álög á ykkur; úr þeim álögum hefi ég viljað leysa ykkur, en þið hafið ekki viljað það sjálfir!"
"Niður með hann! Niður með hann!"
"Æpið þið, æpið þið! Þið skuluð samt - -!"
Ef til vill hefði rimman harðnað enn, því Þorgeir var kominn í algleyming, en hinir farnir að herða sig að hrópa að honum. En þá gerði óvænt atvik skjótan enda á þessum leik. Veggurinn, sem Þorgeir stóð á, bilaði. Hröklaðist hann þá inn í dilk þeirra kaupfélagsmanna og lenti ofan á kindunum. Hann greip þó fyrir sér í ullina og kom fyrir sig fótum, áður en hann dytti flatur.
Látlaus hæðnishróp kváðu við fyrir utan. Nú hrópuðu allir.
Þorgeir rétti sig við, seint og hægt, og tróð sér fram að dilksdyrunum. Ekki hugsaði hann til að stíga upp á vegginn og segja fleira; nóg var komið, og ef til vill heldur mikið. Hann tók þá grindina úr hliðinu, gekk út fyrir, lét hana í aftur og fór að engu óðslega; þó titraði hann enn af geðshræringu.
Þegar menn sáu, að Þorgeir ætlaði að fara, þokuðu þeir sér frá til beggja handa, svo hópurinn klofnaði. Engum stökk bros á meðan hann gekk framhjá; enn vildu fáir gera sig bera að hæðni við hann. Þó urðu þeir fegnir, að hann fór. Eitthvað leyndist í þeim flestum, sem skalf, ef hann var of nálægt.
Þorgeir gekk hvatlega til hesta sinna. Þar beið Jón kaupi hans. Þeir stigu á bak og riðu burt. Kuldahlátrar réttarmanna gullu á eftir þeim.
-
Ekki voru þeir mikið ánægðari en Þorgeir, kaupfélagsfulltrúarnir. Smölunin hafði gengið þeim tregt um daginn. Það sá á, að þá vantaði á kaupstefnuna, Friðrik kaupmann og Sveinbjörn í Seljatungu. Þótt menn álitu þá sæmdarmenn, Sigurð í Vogabúðum og umboðsmanninn á Klaustrinu, þá gerðu menn sér þó dælla við þá í viðskiftum en hina. Þennan dag hafði umboðsmaðurinn ekki legið á liði sínu. Hafði hann gengið á milli manna við réttina og brýnt rækilega fyrir þeim "að boðga". Aftur hafði það mest lent á Sigurði að veita fénu viðtöku.
En þegar kaupstefnan var úti, kom þeim saman um, að aldrei hefði hlutur þeirra orðið rýrari en nú. Ákveðna höfðatölu höfðu þeir þó fengið hjá flestum, en skepnurnar voru fáar meira en í meðallagi, en yfirleitt í lélegasta lagi. Englendingurinn hafði fengið alt það vænsta úr fénu.
Það lá því í augum uppi, að ekki mundi þetta fé hrökkva til að borga sumarpöntunina, hvað þá nokkuð af eldri skuldum.
Þó voru þeir ekki vonlausir um, að félagsmenn mundu borga það, sem á vantaði, með peningum. Margir þeirra hlutu að hafa komist yfir óvenjumikið af gulli og silfri. Nú reið á að finna þá sem fyrst.
-
Þorgeiri fanst sér létta ögn í skapi við það, sem hann hafði ausið yfir sveitamenn frá réttarveggnum. Þetta, sem hann hafði sagt, var í raun og veru ekkert annað en endurtekning á því, sem hann hafði þrásinnis sagt við þá hvern í sínu lagi. Í þetta skifti var það sagt með meiri stóryrðum, það var alt og sumt. En þessi stóryrðadrífa var í rauninni nauðsynlegur inngangur að því, sem fram átti að fara innan skamms. Nú sáu þeir, að honum var alvara. - Sjálfir höfðu þeir egnt hann til reiði, það gerði gífuryrðin afsakanleg. En hann sá ekkert eftir að hafa látið þau fjúka. Þau höfðu sýnt honum það, sem hann hafði ekki verið viss um áður, sem sé, að þeir voru skelkaðir við hann. Hlátrarnir þeirra særðu hann ekki; það var holhljómur í þeim, því nær var hugur þeirra gráti en hlátri. Bezt höfðu þeir hlegið og hæst höfðu þeir hrópað, þegar hann hröklaðist inn af réttarveggnum. Meðan hann sá ekki framan í þá, gátu þeir hrópað og hlegið, - eins og ódælir skóladrengir, þegar kennarinn snýr við þeim bakinu. Þegar hann kom út, hættu þeir að hlæja og byrjuðu ekki aftur, fyr en hann var riðinn af stað. Ef til vill hlógu þeir nú kuldahláturinn hver í kapp við annan, meðan þeir voru saman. En þegar heim kæmi, var hann viss um, að þeir færu að biðja fyrir sér, meðan þeir voru saman. En þegar heim kæmi, var hann viss um, að þeir færu að biðja fyrir sér. -
Í svartamyrkri um kvöldið og hinu versta hrakviðri riðu þeir Þorgeir og Jón kaupi heim að Seljatungu til gistingar. Á leiðinni þangað höfðu þeir komið við á nokkrum bæjum og voru nú seint á ferð. Sveinbjörn var hinn eini af kaupfélagsmönnum, sem Þorgeir hafði aldrei slitið við gistivináttu, þrátt fyrir andstæðar verzlunarskoðanir. - Hann gisti jafnan í Seljatungu, er hann var á ferð þeim megin heiðarinnar, og fór ætíð vel á með þeim Sveinbirni.
Bær var ágætlega hýstur í Seljatungu; enda var jörðin góð og búið stórt. Sveinbjörn var einn af mestu rausnarbændum héraðsins og svo gestrisinn, að hann átti fáa líka sína. Til þess að eiga hægra með að veita gestum sínum viðunandi viðtökur, hafði hann látið gera tvær stofur á bæ sínum, sem báðar voru því nær eingöngu ætlaðar gestum. Voru þær aðgreindar með nöfnum og kallaðar Suðurstofa og Norðurstofa. Báðar voru þær sæmilega búnar og í báðum stóðu uppbúin gestarúm.
Þegar þeir riðu heim í túnið, tóku lausu hestarnir, sem þeir ráku á undan sér, upp á því að stökkva út úr götunni og hlaupa út á túnið. Þeir voru orðnir svangir og létu sér nú liggja meira á að ná sér í gómsætt túngresi en hlaupa heim í hlaðið og láta losa sig við beizlin og föggurnar. Jón reið þegar fyrir hestana, en Þorgeir hélt heim götuna, þótt hestur hans frýsaði og hneggjaði og teygði hausinn á eftir hinum.
Þegar Þorgeir kom heim í hlaðið, sá hann ljós í gluggum Norðurstofunnar og menn þar inni, því engin voru gluggatjöld. Hann fór þá af baki á hlaðinu, en stóð kyr og studdi sig við hestinn. Klárinn nuddaði hausnum vinalega upp við hann, svo að skrjáfaði í olíustakknum; hausinn var rennblautur af regnvatni, og skinnið klæjaði undan höfuðleðrunum sínum. Þorgeir klóraði klárnum við eyrun, en horfði á það, sem fram fór í stofunni.
Englendingurinn sat þar inni og stofan var hálffull af bændum. Hann var að greiða þeim andvirði sauða þeirra, sem hann hafði keypt af þeim um daginn. Hafði hann stefnt allmörgum þeirra þangað heim, sumum um kvöldið, en sumum morguninn eftir.
Englendingurinn sat við endann á drifhvítu, en ómáluðu tréborði, sem stóð á milli glugganna. Við hinn borðsendann sat túlkur hans. Sveitamenn stóðu í þéttri þyrpingu frammi við dyrnar; og gufaði bleytan upp af vaðmálsfötum þeirra.
Englendingurinn hafði opna vasabók hjá sér á borðinu og taldi fram féð úr litlum strigapokum, sem hjá honum lágu, hver fyrir sína mynt. Hann leit í bókina og las þar upp eitthvert nafn, sem Þorgeir hefði haft gaman af að heyra framburðinn á: En það skildist þó. Sá, sem nafnið átti, gekk þá fram úr hópnum, en stóð álengdar, á meðan fé hans var fram talið.
Fyrst skoppuðu nokkur ensk "pund", glóandi rauð, fram á borðið. Rendu þau sér léttilega í hálfhringi, eins og galsi væri í þeim eftir pokavistina. Þó fóru þau ekki of langt, en lögðust á hliðina og biðu átekta. Næst á eftir þeim komu búlduleitir, danskir tveggjakróna-hlunkar. Þeir voru ekkert galsagefnir, heldur lögðu sig alvarlega og virðulega á annanhvorn flötinn, undir eins og þeim var slept; en við fallið buldi í borðinu. Þá komu léttstígar og dálítið skvettulegar krónur; en á eftir þeim hoppuðu spegilfagrir og laufléttir 25-eyringar og 10-eyringar. Tóku þeir loftköst og létu mikið yfir sér, sem vildu þeir segja: Við erum líka "pund". Einn eða tveir dökkbrúnir eirsponsar ráku lestina.
Þegar alt var fram talið, gaf Englendingurinn eigandanum bendingu um að hreinsa borðið, en hallaði sér makindalega upp að stólbakinu og tottaði pípu sína á meðan.
Sá vaðmálsklæddi dró þá slitna skinnbuddu upp úr vasa sínum, leysti utan af henni þvenginn og brá fyrir sig tönnunum, ef það gekk ógreitt. Því næst komu siggharðir klumbufingur, undnir og hnýttir af þungu striti, stirðir og óhreinir, með sprungnar og misvaxnar neglur, fram á borðið, til að smala saman aurunum. Maðurinn var boginn í mjöðmum og höndin titraði, er hún fálmaði eftir gullinu og tíndi það í buddu sína. Fyrst voru "pundin" hirt, eins og eigandinn væri hálfsmeykur um, að þau kynnu að strjúka. Litlu 10-eyringarnir voru óþægastir, því sumir þeirra höfðu lent ofan í rifu, sem var eftir endilöngu borðinu, en fingurnir ekki næmir að ná þeim upp þaðan. Þeir höfðu við annað fengist um dagana en að tína saman skildinga. Ef til vill hafði eigandi þeirra aldrei komist yfir jafnmikla peninga í einu. Það sá líka á. Margir voru innilega hátíðlegir, jafnvel feimnir, þegar þeir voru að taka við andvirði kindanna sinna.
Þorgeiri fanst hendurnar vera mönnum þessum til heiðurs; þær báru það með sér, að þeim hafði ekki verið hlíft. Búningurinn var þeim ekki heldur til neinnar vansæmdar. En feginn hefði hann viljað sjá þá frjálsmannlegri og upplitsdjarfari í návist útlendingsins. Það var sem eitthvað stingi þá, þegar þeir gómuðu gullið. Var það samvizkuhrófið?
Flestir tóku þeir í hönd Englendingsins og þökkuðu honum fyrir viðskiftin, - næstum eins og hann væri að gefa þeim. Þorgeir var sannfærður um, að þá langaði til að kyssa hann. Englendingurinn tylti fingrunum að gómum þeirra - og lét það nægja.
Það fór hrollur um Þorgeir, er hann horfði á landa sína, kunningja og gamla viðskiftamenn standa fyrir altari þessa hins nýja gullkálfs og stíga þar dansinn honum til vegsemdar. Nú skildi hann eina aðalástæðuna fyrir því, að þeir létu sér skuldirnar í léttu rúmi liggja. Hún bar vott um litla framsýni eða víðsýni og lítinn menningarþroska; en ofureðlileg var hún þó. Þessum viðskiftum, þar sem hönd seldi hendi, voru þessir menn harla óvanir. Vegna þeirra fórnuðu þeir öllu öðru: viðskiftatrygð, félagshagsæld og jafnvel góðu mannorði. Þennan Englending urðu þeir fyrir hvern mun að hæna að sér með góðum viðskiftum. Hroka hans urðu þeir að umbera og láta hann hafa sjálfdæmi í viðskiftum þeirra, því hann hafði það í fórum sínum, sem þeir höfðu lítið haft af að segja fram að þessu: - gullið.
Þorgeir vorkendi þeim, jafnframt því, sem hann þoldi önn fyrir þá, er hann sá kuldasvip og lítilsvirðingar-látbragð Englendingsins, þegar þeir voru að - þakka honum fyrir!
Eitt sinn hafði það verið ein af sælustu vonum Þorgeirs að geta búið mönnum gleði af þessu tagi, en hollari og varanlegri en þessi mundi reynast. Þegar allar skuldir væru greiddar, áttu viðskiftamenn hans að fá gull og silfur fyrir vörur þær, sem umfram væru úttektina. Þá peninga áttu þeir með öllum rétti. En þetta fór, eins og margt fleira, alt aðra leið en hann vildi. -
Ekki hafði Þorgeir skap til að gera vart við sig á bænum, meðan þessir menn voru þar inni. Hann vildi ekki troða sér gegnum hóp þeirra til hvílu sinnar, og hann vildi ekki heldur spilla þessum augnabliksfögnuði þeirra með því að láta þá sjá sig, - ekki að þessu sinni. En nú var eftir að vita, hvað af þessum peningum yrði.
Þegar Jón kaupi kom heim í hlaðið, eftir langan eltingaleik við hestana, mælti Þorgeir við hann:
"Treystirðu þér til að fylgja mér yfir heiðina í nótt?"
Jón varð hvumsa við, en játaði þó.
"Hér er alt fult af gestum", bætti Þorgeir við og benti inn um gluggann.
Jón beit á vörina, en svaraði engu.
"Þá skulum við fara af stað", mælti Þorgeir og steig á bak.
Jón keyrði hestana úr hlaðinu út á götu þá, sem lá til heiðarinnar. Þorgeir leit enn einu sinni inn um gluggann, á gull-"pundin", sem rendu sér þar fram á borðið, og mennina, sem biðu þeirra hoknir og hátíðlegir. Hann glotti í kampinn og tautaði við sjálfan sig:
"Verið þið sælir, piltar! Ég kem aftur!"
16. kafli - SvartamyrkurÞeir Þorgeir og Jón kaupi héldu nú eins og leið lá upp eftir dal þeim, sem lá að heiðinni þeim megin.
Neðan til var dalurinn allvíður, en þrengdist, er innar dró. Há fjöll voru á báðar hendur, en fyrir dalbotninum tók heiðin við. Seljatunga stóð á dalamótum; dró bærinn nafn af tungu þeirri, er myndaðist, þar sem Seljadalsá rann út í jökulelfina. Helmingur dalsins heyrði til Seljatungu; dró dalurinn nafn af þremur seljum, sem stóðu í honum og hétu Tungusel, Miðsel og Fremstasel. Tvö hin fyrnefndu voru bygð um þessar mundir og voru hjáleigur frá Seljatungu, en Fremstasel var í eyði. Stóðu þar beitarhús frá Seljatungu og voru ónotuð um þetta leyti ársins.
Fyrst lá leið þeirra eftir móum og melum neðan til í dalnum, og sóttist þeim þá ferðin fremur greiðlega. Hestarnir þræddu götuna, þótt svartamyrkur væri og ómögulegt fyrir manna augu að sjá hana af hestbaki. Á sumum stöðum varð þó ekki farið nema hægt, því göturnar voru blautar og skreift í spori. En melar voru á milli, sem regnið gat ekki bleytt upp. Á þeim unnust upp tafirnar, svo kalla mátti, að þeim farnaðist skaplega. Þannig gekk, þar til komið var fram hjá Miðseli, en þá fóru torfærurnar að aukast.
Veðrið var hið versta og beint á móti þeim. Úrkoman var mikil og varla nokkurt hlé á henni, en stormurinn kom með hviðum svo snörpum, að varla var sætt á hestbaki; en kyrt var á milli. Þegar slíkar hviður brutust um í fjallaþrengslunum, var sem úrkoman ykist um helming, því þá lamdi stormurinn regnvatninu fast um alt, sem fyrir varð. Mátti þá heita ókleift móti veðrinu. Hvinur var mikill í fjöllunum; aurskriður runnu ofan úr hlíðunum, beggja megin dalsins, með harki og skruðningum, en áin beljaði organdi ofan eftir dalnum. - Náttúran lék hrikalegt haustlag á hið mikla fjallaorgel.
Þótt Þorgeir væri allvel útbúinn, hafði hann ekki getað algerlega varið sig vætu um daginn. En í slíku veðri sem nú var komið hrukku engar hlífar til. Olíustakkur hans féll ekki svo vel að hálsinum, að ekki kæmist vatn niður með kraganum. Hálsklútur hans var nú orðinn rennvotur og vatnið farið að streyma niður bakið og bringuna. Reiðbuxur hans voru nokkuð slitnar og stóðust eigi við þeim vatnsaustri, sem nú dundi á þeim. Varð hann því fljótt gagndrepa alstaðar þar, sem stakkinn bar af honum. Rann bleytan af lærunum ofan í stígvélin, svo jafnan var honum kalt á fótunum. Vetlingar hans voru einnig rennvotir, svo hendurnar voru hálfdofnar af kulda.
Þorgeir hafði verið lasinn af kvefi nokkra daga næst á undan, en engan gaum gefið því. Meðan hann hafði verið á rjátli við réttina um daginn, hafði honum verið vel heitt. Nú kólnaði honum mjög, svo hann fór að hugsa um, hvort það hefði ekki verið ofurkapp af sér að leggja á heiðina. Hann harkaði þó allar slíkar efasemdir af sér. Oft hafði hann áður haldið áfram ferð sinni í ekki betra veðri en þessu, og enn þótti honum lítilmannlegt að láta vos og kulda snúa sér aftur.
En þegar þeir voru komnir fram fyrir Miðsel, fór Þorgeir að finna til óþæginda, sem hann átti ekki vanda til. Hann fann kuldahroll læsast um sig allan, með skjálfta og ónotum, og honum hætti við að súpa hveljur og svelgja í sig næturloftið, eins og hann fengi aldrei nóg af því. En það lakasta var þó, að hann tók að kenna stings undir hægra herðablaðinu, sem gerði honum andardráttinn erfiðan.
Fyrst gaf Þorgeir þessum óþægindum engan gaum og hélt áfram sem ekkert væri að. Þó kom þar að lokum, að hann kallaði til Jóns kaupa og bað hann að ríða ekki svo geyst.
Eftir það riðu þeir aðeins fót fyrir fót. Torfærurnar fóru stöðugt vaxandi, því fremri hluti dalsins var veglaus og illur yfirferðar. Mest fóru þeir um eyrar með ánni, og þurftu þá víða að fara yfir kvíslar af henni. Oftast voru kvíslar þessar ekki dýpri en í hné; en nú hafði áin aukist af regnvatninu og beljaði fram kolmórauð, svo kvíslarnar voru í kvið á hestunum og þaðan af dýpri, enda varð ekki þrætt hið færasta fyrir náttmyrkrinu. Þar varð því enn erfiðara að verja sig vosi. Þorgeiri kólnaði nú líka enn meira, eftir að þeir fóru að fara hægt; brokkið í klárnum hafði aukið honum hita, á meðan hann þoldi það. Lasleiki hans fór nú vaxandi með hverju augnabliki.
Loks voru þeir komnir að Fremstaseli. Eyðibýlið stóð skamt frá götutroðningunum, og hafði túnið annan lit en jörðin í kring, svo það sást, þótt dimt væri. Í því miðju glórði í beitarhúsin sem kolsvartar þústur. Lausu hestarnir komu fljótt auga á þessi verksummerki eftir mannlega starfsemi og hlupu heim að selinu, án þess að bíða eftir bendingum Jóns kaupa. Þorgeir sagði þá, að bezt mundi vera að fara af baki við beitarhúsin og hvíla þar stundarkorn.
Þorgeir reið heim að beitarhúsinu, en Jón hleypti fyrir hestana. Ekki hafði Þorgeir fyr fest fætur á jörð en honum sortnaði fyrir augum og hann svimaði svo, að hann gat ekki staðið. Hann hneig þá upp að beitarhússveggnum og stundi þunglega.
Þegar Jón kom þangað, sem Þorgeir var, varð honum hverft við. Þorgeir hallaðist upp að húsveggnum, skalf eins og espilauf og kveinkaði sér við hvert andartog. Þótt niðamyrkur væri, gat Jón þó séð, að hann var náfölur í framan. Laut hann ofan að honum um stund, en varð orðfátt. Þorgeir varð fyrri til máls:
"Ég er hræddur um, að ég verði að láta hér fyrir berast í nótt".
Jóni þótti ástæður þeirra illar. Nú voru þeir komnir upp í óbygðir í hinu versta hrakviðri, hestarnir orðnir uppgefnir, þeir sjálfir hraktir og Þorgeir veikur. Hann fékst þó fátt um, en lét það ganga fyrir öllu öðru að hlynna að Þorgeiri og koma honum inn í húsið.
Beitarhúsinu var svo háttað, að það var sauðahús allstórt, með garða í miðju húsinu eftir endilöngu, innan frá stafni og fram undir dyr. Hlaða var á bak við húsið og nú full af heyi. Voru dyr gegnum húsgaflinn úr hlöðunni fram í garðann, og var heyinu troðið upp í þær.
Jón gekk undir Þorgeiri og fálmaði sig inn eftir húsinu. Ekki gátu þeir brugðið upp ljósi, því eldspýtnastokkur, sem Þorgeir hafði í vasanum, var ónýttur af bleytu. Þegar þeir voru komnir inn að gafli, hjálpaði hann Þorgeiri uppí garðann og tók að búa þar um þá. Reif hann niður hey úr hlöðudyrunum og lét fram í garðann; síðan færði hann Þorgeir úr olíustakknum og reiðstígvélunum, losaði um föt hans við háls og úlfliði, hlúði að honum með heyinu og breiddi olíustakkinn ofan á hann.
Ekki var vistin góð í beitarhúsinu, þótt betri væri hún en úti. Dragsúgur var þar mikill, en þekjan ekki vatnsheld, svo vatn draup niður til og frá í húsinu.
Þegar Jón hafði búið um Þorgeir sem bezt hann gat, fór hann að sinna hestum þeirra og ferðabúnaði, koma því inn í húsið, sem ilt var að rigndi úti, og ná sér í matarbita af nesti þeirra. Þegar þessu var lokið, vatt hann mestu vætuna úr fötum sínum og lagðist síðan niður í garðann hjá Þorgeiri.
Þorgeir var þá enn vakandi og skalf mjög, svo tennur hans glömruðu. Kvartaði hann um ákafa köldusótt og sting undir hægra herðablaðinu. Andardráttur hans var stuttur og mjög tíður, og var sem gripið væri fyrir að öndunina á miðri leið.
Lengi fram eftir nóttinni hafði Þorgeir köldu, en þó fór hún minkandi. Svaf hann eða mókti, yfirkominn af þreytu, og kveinkaði sér við og við. Þegar leið fram á nóttina, hvarf kaldan með öllu, en hitasótt, jafnáköf og kaldan hafði áður verið, gagntók hann.
Ekki þorði Jón að sofna, en bágt átti hann með að halda sér vakandi. Koldimt var í húsinu, svo ekki sá handa skil, en hljótt var þar ekki. Veðrið hamaðist á húsinu með gný miklum; hvinurinn í fjöllunum og orgin í ánni heyrðust þangað inn. En inni í húsinu heyrðust stórir, þungir dropar falla jafnt og þétt niður frá þekjunni. Skullu sumir ofan í vatnspolla í krónum, sumir lentu á garðabandinu og ýrðust þaðan í allar áttir, en sumir buldu á olíustakki Þorgeirs. Jón reyndi að stytta sér vökuna með því að hlusta á allar þessar kynlegu og tryldu náttúruraddir, sem hann heyrði úti og inni, og samsöng þann, er þær mynduðu. Úti fyrir var lagið þungt og þjótandi, eins og kveldriður kvæðu galdra með hvæsi, ískri og ekkablandinni heiftarrödd. Dropahljóðið inni var sem snert væri við ýmsum strengjum við og við, til að leiðbeina aðalröddunum. En innan um alt þetta heyrði hann sjúkdómsstunur Þorgeirs.
Lagið var ömurlegt, og Jóni fanst það þrungið af einhverju undarlegu seiðmagni, sem gagntók hann allan. Honum varð undarlega órótt; beygur og kvíði, sem hann skildi ekkert í, stríddu á hann, ásamt svefninum. Loks var hann í þann veginn að sofna. En þá reis Þorgeir upp til hálfs, fálmaði í kringum sig og kallaði:
"Jón, Jón!"
Jón glaðvaknaði og svaraði þegar:
"Já, ég er hérna".
Þorgeir virtist ekki verða hans var, en hélt áfram að kalla og fálma, þar til hann hafði gripið um handlegg Jóns og hélt honum fast.
"Jón, sérðu þetta? Þekkirðu þetta?"
Jón hvesti augun út í myrkrið, en sá ekkert.
"Hvað áttu við?"
"Augað. Sérðu það ekki? Rauða augað þarna. Blóðstokkna augað, - sérðu það ekki?"
Jóni fór að þykja þetta undarlegt.
"Ég sé ekkert auga".
Þorgeir hélt áfram, eins og hann heyrði ekki vitund, hvað Jón sagði:
"Höfuðbeinin brotin, - húðin flegin af og hangir í flygsum! - Hryllilegt!"
Nú hætti Jóni að standa á sama.
"Það kemur! Jón, - æ, æ! -"
Hljóðið hálfkafnaði í hálsinum á Þorgeiri og hann kastaðist aftur á bak. Andartak lá hann sem lémagna, en síðan fékk hann ákafan hjartslátt með titring um allan kroppinn. Af þessu réð Jón, að hann hefði orðið ákaflega hræddur.
Jón hafði ekkert séð, en þó varð honum bilt við þetta. Þegar Þorgeir fór að sefast ögn, spurði hann:
"Hvað var þetta, sem þú sást?"
Þorgeir svaraði engu. Hann lá kyr og dró andann ótt og títt með þungum stunum. Jón var engu nær um það, hvort hann svæfi eða vekti.
Þótt Jón kaupi væri karlmenni, var hann ekki laus við myrkfælni. Margar kynlegar sögur hafði hann heyrt um drauga og afturgöngur, galdramenn og sendingar. Ekki lagði hann mikinn trúnað á þær sögur, en þó gat hann ekki gleymt þeim.
Nú hugsaði hann mikið um það, hvað borið hefði fyrir Þorgeir. Rifjaðist það þá upp fyrir honum, að ilt orð færi af þessum beitarhúsum fyrir reimleika. Væri það síðan seinasti bóndinn, sem bjó á Fremstaseli, hefði orðið úti þar við túnfótinn. Ef til vill hafði kotið lagst í eyði vegna þess.
Þessar hugsanir gerðu Jón skelkaðan. Þó datt honum það sízt af öllu í hug að yfirgefa Þorgeir, hvað sem á dyndi. Sögur hafði hann líka heyrt um það, að stiltir kraftamenn höfðu borið af draugum í átökum.
Eftir nokkra stund reis Þorgeir upp, fleygði ofan af sér olíustakknum og mælti:
"Nú skulum við fara, Jón minn!"
"Fara -!" át Jón eftir.
"Já, sérðu ekki, að það er kominn bjartur dagur. Ég er búinn að hvíla mig nóg; nú er mér batnað. Komdu, nú skulum við fara af stað!"
Jón reyndi að telja Þorgeir ofan af þessu og koma fyrir hann vitinu, en það gekk illa. Þorgeir sat við sinn keip, en heyrði það hvorki né skildi, sem Jón sagði. Jón sá þá, að hvernig sem Þorgeiri væri farið, þá yrði hann nú að hafa vit fyrir honum. Hann tók því utan um Þorgeir, lagði hann út af eins og barn og breiddi ofan á hann. Hann hafði þó búist við meiri aflraun, en Þorgeir streittist ekkert á móti.
Eftir þessa hreyfingu kveinkaði Þorgeir sér meira en áður og lá nú langa stund stynjandi. Jón reyndi að tala við hann og spyrja, hvernig honum liði, en Þorgeir svaraði engu.
Þetta háttalag Þorgeirs, og þó einkum þögn hans, var hin mesta kvöl fyrir Jón. Aldrei hafði það komið fyrir hann áður að vera aleinn langt frá mannabygðum, í náttmyrkri og illviðri, hjá manni, sem eins stóð á fyrir og Þorgeiri. Sárast fanst honum að geta ekki talað við hann. Hann vissi, að hann var veikur, en ekki, hvað að honum gekk eða hversu mikil brögð voru að sjúkleika hans. Og það sem verra var: hann var sannfærður um, að eitthvað óhreint sækti að honum. Eitthvað ilt var þar á slæðingi, sem réðst á sjúklinginn, en var ekki nógu magnað til að fást við heilbrigða menn. En hver veit, hvað það gæti gert ilt. Ef til vill gat það verið búið að trylla þá báða áður en dagur rynni.
Þorgeir lá grafkyr og stundi, en Jón sat flötum beinum við hlið hans og barðist gegn svefni og þreytu; hver hugsunin annari skelfilegri brauzt fram í huga hans. Bersýnilega var þessum fjanda stefnt á Þorgeir. Hvert augnablik bjóst hann við, að tekið væri um fætur verzlunarstjóranum og hann dreginn ofan úr garðanum. Þar yrði hann laminn í sundur við grjótveggina og honum fleygt innan um húsið. Þannig sögðu sögurnar frá æfilokum þeirra manna, sem draugar ásóttu. Gegn slíkum ósköpum var mannleg hjálp máttlaus.
Jón kaupi fann því ekkert ráð snjallara en að fara að lesa bænir; en það gerði hann sjaldan.
Þannig leið stundarkorn. Jóni hægðist heldur um huga við bænalesturinn, en Þorgeir lá grafkyr, svo Jón hélt, að hann svæfi.
Alt í einu mælti Þorgeir, svo lágt, að varla heyrðist:
"Jón!"
"Já".
"Það er blóð á höndunum á mér!"
"Hvernig stendur á því?"
Jóni datt í hug, að ef til vill væru Þorgeiri farnar að blæða nasir, eða sár væri einhverstaðar á honum, sem blæddi. En hvernig gat Þorgeir séð þetta blóð?
" - og á treyjubarminum mínum".
Jón strauk hendinni um treyjubarm hans og fann, að hann var votur.
"Blóð, blóð, - dauðablóð! - Alstaðar er það! Sérðu það ekki?"
Jón botnaði ekkert í þessu og hafði engin ráð til að komast fyrir það sanna um þetta blóð. Hann þreifaði á fötum Þorgeirs. Alstaðar varð vætan fyrir honum, - volg væta! Hver vissi, hve mikið af þessari vætu væri blóð? Ef til vill var Þorgeiri að blæða til ólífis við hlið honum. Ef til vill var hann sjálfur allur orðinn ataður í blóði, eða lá niðri í blóðpollum! Hrylling fór um hann við þessa hugsun, svo honum fanst sér ætla að verða óglatt.
Þorgeir þagnaði og mintist ekki á þetta blóð framar.
Jón reyndi hvað eftir annað að fá fréttir af Þorgeiri um líðan hans, en fékk ekkert svar, sem vit væri í. Aftur á móti stundi Þorgeir upp allskonar höfuðórum, sem Jón fann ekkert samhengi í. Ruglaði hann þá margt um húsbruna, með neistaflugi og logandi eldskíðum, um rúðubrot, sem hrundu niður, brennimark á enninu á sér, mann, sem var að steypast fram af Básunum, og strák á hurðarskrifli. Þess á milli var sem hann stæði enn á réttarveggnum og væri að munnhöggvast við skuldunauta sína. Og loks var sem hann sæi glóandi gull-"pund" vera að hoppa og skoppa einhverstaðar.
Jón var nú kominn á þá skoðun, að alt tal Þorgeirs væri eintómt óráð. Kveið hann því þá mest af öllu, að Þorgeir andaðist þar í höndum hans, áður en hann gæti náð til mannabygða eftir hjálp. Var hann viss um, að sá atburður mundi svo mjög á sig fá, að hann biði þess aldrei bætur.
Þegar leið undir morguninn, sofnaði Þorgeir værar og hætti þá að tala óráð.
Við fyrstu skímu fór Jón á fætur. Veðrið var þá farið að skána, en hestarnir stóðu ennþá í höm undir húsveggnum. Tók hann tvo þá beztu þeirra, lagði á annan, en hafði hinn til hvíldar, og reið "eins og gjarðirnar þoldu" ofan að Miðseli. Þar vakti hann upp og sendi mann ofan að Seljatungu til þess að segja tíðindin og biðjast hjálpar. Síðan reið hann upp eftir aftur, til að vera hjá sjúklingnum, þar til menn kæmu til liðsinnis.
Sveinbjörn brá við skjótt, er honum kom orðsendingin. Svo vildi vel til, að auk heimamanna voru þar margir næturgestir, svo hann hafði liðstyrk nægan. Sendi hann þá þegar eftir héraðslækni þeirra Dalamanna, en fór sjálfur með menn og hesta og allan nauðsynlegan útbúnað fram að Fremstaseli. Lét hann búa vandlega um Þorgeir á kviktrjám og flytja hann heim að Seljatungu til hjúkrunar.
Jóni kaupa varð þessi nótt minnisstæð, en fáorður var hann jafnan um það, hvernig sér hefði liðið, er hann sat í myrkrinu yfir Þorgeiri sjúkum. Það höfðu menn fyrir satt, að hár hans hefði gránað nokkuð um nóttina. En heldur kvaðst hann vilja liggja úti en gista oftar í beitarhúsunum á Fremstaseli.
17. kafli - ManngjöldÞað var hlegið dátt á mörgum bæjum á laugardagskvöldið og sunnudagsmorguninn eftir kaupstefnuna við Hvanndalarétt. Þeir, sem þar höfðu verið, voru óþreytandi að segja frá atburðunum, hinir að hlýða á, nema sögurnar og segja þær öðrum, að forníslenzkum sögumanna sið. Útgáfurnar voru margar þegar frá fyrstu hendi, en urðu brátt fleiri, því tæpast var um annað talað.
Menn hlógu þó ekki svo mjög að framkomu Þorgeirs, þótt mest væri um hana talað. Hún hafði komið flestum á óvart, en skiftar voru skoðanir manna um hana. Sumum fanst hún hlægileg, öðrum fanst hún afsakanleg. Þetta, sem Þorgeir hefði sagt, væri alt of satt. Og víst væri það vorkunn, þótt jafngeðríkum manni sem Þorgeir væri hitnaði í skapi út af óskilvísi manna. Auk þess höfðu flestir það fyrir satt, að Þorgeir hefði verið ör af víni. Það, sem fæstir gátu stilt sig um að brosa að, var að sjá Þorgeir, í miðri ræðunni, hrapa inn í dilk þeirra kaupfélagsmanna.
En bak við allan hláturinn og alt talið um framkomu Þorgeirs leyndist kvíði fyrir framhaldi skuldheimtunnar. Nú efaðist enginn um, að Þorgeiri væri alvara, en lögsóknum voru menn óvanir þar í héraðinu.
Hitt varð mönnum þó miklu orðfleira um, hvernig ýmsum mönnum, sem þeir þektu og ekki voru þá viðstaddir í svipinn, hefði orðið við ræðu Þorgeirs, - hvernig þeim hefði liðið undir lestrinum! Flestir gátu þeir unnað náunganum slíkrar ádrepu, þótt þeir þættust ekki eiga hana skilið sjálfir. Var að heyra á þeim sögum, að furðu vel höfðu þeir tekið hver eftir öðrum, og furðu nærri fóru þeir hver um annars hugsanir.
En þegar skraf þetta stóð sem hæst, þaut sú fregn eins og eldur í sinu út um sveitirnar og kom öllum réttarsögunum í opna skjöldu, að Þorgeir verzlunarstjóri hefði verið fluttur á kviktrjám frá Fremstaseli ofan að Seljatungu og lægi þar fyrir dauðanum í lungnabólgu.
Heimildirnar voru áreiðanlegar. Læknirinn hafði verið sóttur í mesta skyndi og beðinn að vera um kyrt í Seljatungu, þar til um skifti. Fréttin barst fljótt, því auk þeirra næturgesta, sem verið höfðu í Seljatungu um nóttina, komu margir þangað á sunnudagsmorguninn til að hitta Englendinginn. Það fylgdi einnig sögunni, að Þorgeir hefði eitt sinn áður fengið lungnabólgu, á einni af utanlandsferðurn sínum, og þá verið hætt kominn.
Þessi frétt færði mönnum nýtt umtalsefni, ólíkt hinu fyrra. Lungnabólga var svo alkunnur og illræmdur sjúkleiki, að allir vissu, hvílík lífshætta fylgdi honum. Flestir sögðu því frá tíðindunum með alvörublæ og hátíðleik, eins og þeir hefðu nú þegar andlátsfregn að færa.
Þar sem þessi frétt spurðist, var kaupstefnusögunum drepið niður að mestu. Engum fanst það eiga við að baktala þann mann eða hafa nafn hans í flimtingi, sem nú lægi líklega á banabeði sínum, ef hann þá ekki væri látinn. Mannalát, slys og þung veikindi þóttu þar jafnan mikil tíðindi í sveitunum og vöktu almenna hluttekningu. Hvað sem sönnum tilfinningum manna leið, var þetta gamall og góður þjóðsiður, sem fáir vildu brjóta í bág við. Hvað þá þegar annar eins héraðshöfðingi og Þorgeir verzlunarstjóri átti hlut að máli.
Enginn var sá í öllum nærsveitunum, ef kominn var af barnsaldri, að ekki hefði hann einhvern tíma átt eitthvað við Þorgeir að skifta, sumir meira, aðrir minna. Flestir voru þeir einnig, sem eitthvað gott höfðu af honum að segja, misjafnlega mikið; en sumir eitthvað annað en gott líka. Öllum þorra manna hafði hann einhvern tíma hjálpað, þegar á lá, mörgum hvað eftir annað, þótt þeir gætu sízt við hjálp af honum búist. Um langan aldur hafði hann verið aðalbjargvættur héraðsins gegn hungri og harðæri, og jafnalúðlegur hafði hann verið við ríka og fátæka. Öllum var því í raun og veru fremur hlýtt til hans, ef ekki sjálfra sín vegna, þá vegna vina sinna og vandamanna, sem hann hafði gott gert. Þessara tilfinninga manna í garð Þorgeirs hafði að vísu lítið gætt hin síðustu árin. Þá hafði sjaldan verið á hann minst öðruvísi en sem óvæginn keppinaut "innlendu" verzlunarinnar og ramman erindreka hinnar illræmdu, dönsku einokunar. Þó höfðu þær aldrei dáið í brjóstum manna, og af trausti á veglyndi hans og mannúð var það í raun og veru, hve dælt menn gerðu sér við hann í viðskiftum. Nú vöktu kjör hans almenna hluttekningu. Þegar það fréttist, að honum liði illa og lífi hans væri hætta búin, rifjuðust upp gamlar minningar í hugum fjölda manna, sem við Þorgeir voru tengdar. Sögur, sem lengi höfðu legið í þagnargildi, komu nú aftur á kreik og bárust mann frá manni. Allir töluðu virðulega og flestir hlýlega um hinn gamla verzlunarhöfðingja. Óvild gegn honum stóð grunt yfirleitt.
Þó var sem menn önduðu léttara við þá hugsun, að skuldheimta Þorgeirs drægist eða færist fyrir. Eftir framkomu hans við Hvanndalarétt að dæma, bjuggust menn við hörðu af honum. Að vísu voru menn ekki hörðum orðum óvanir; en þó hafði enginn séð hann jafnreiðan. Enginn gat vitað, hversu hart hann mundi nú ganga að mönnum og krefja þá skila. Menn vonuðu enn, að mannúð hans mundi bera hærra hlut, þegar á reyndi, en menn kviðu þó komu hans.
Menn biðu því fréttanna frá Seljatungu með hinni mestu óþreyju. Hver dagurinn, sem nú rann upp, gat fært mikil tíðindi. Þegar gestir komu á bæina, var það oftast fyrsta spurningin:
"Hvernig líður Þorgeiri?"
-
Þorgeir var látinn liggja í Suðurstofunni í Seljatungu. Var þar búið um hann eftir beztu föngum og vakað yfir honum dag og nótt. Alt var gert, sem unt var, til að lina þjáningar hans og lækna hann. Sveinbjörn gerði alt, sem í hans valdi stóð, og vildi einskis láta ófreistað í þessu skyni. Þó var hann sjaldan sjálfur inni hjá Þorgeiri. Hann var hræddur um, að Þorgeiri væri ami að því að sjá hann, vegna ýmislegs, sem þeim kaupfélagsmönnum og honum hafði á milli farið. Í veikindum verða menn oft amalyndari en þeir eru annars.
Héraðslæknir þeirra Dalamanna var ungur maður og harla ólíkur embættisbróður sínum í Vogabúðakaupstað. Hafði hann hið bezta orð á sér fyrir hjálpfýsi og nærgætni. Gerði hann það umyrðalaust fyrir orð Sveinbjarnar að dvelja í Seljatungu, meðan tvísýnt væri um, hvernig sjúkleiki Þorgeirs mundi enda, og lét aðra menn vitja sín þangað. Stundaði hann Þorgeir með einstakri alúð, en ekkert vildi hann uppi láta um sjúkdóm hans annað en það, að það, sem að honum gengi, væri lungnabólga.
Allan sunnudaginn, eftir að Þorgeir var heim fluttur að Seljatungu, svaf hann eða mókti lengst af með stöðugum óráðsórum. Þó hafði hann ráð og rænu stöku sinnum og kvartaði þá um stinginn undir herðablaðinu, mikil brjóstþyngsli og ákafan þorsta. Hósti var lítill; enda þoldi sjúklingurinn ekki að hósta. En andardrátturinn var tíður og sótthitinn mikill.
Meðan Þorgeir vakti, talaði hann mjög lítið, en auðséð var það á svip hans, að ekki var honum rótt í skapi. Í svefnmókinu talaði hann tóma höfuðóra, sem enginn botnaði í. Var hann þá óvær og bylti sér mjög í rúminu. Við og við reis hann þá upp, horfði æðislega kringum sig og barði frá sér út í loftið. Altaf var sem eitthvað sækti að honum. Einnig kom það fyrir, að hann þóttist vera orðinn heilbrigður og vildi endilega fara á fætur, svo læknirinn réð varla við hann. Þessi ókyrð Þorgeirs var lækninum mikið áhyggjuefni.
Seinni part nætur á mánudagsnóttina sofnaði Þorgeir vært og svaf nokkuð fram á daginn. Eftir þann svefn vaknaði hann með fullu ráði og nokkuð rólegri en áður. Þá reyndi læknirinn hann nákvæmlega og hlustaði brjóst hans. Hægra lungað var þá loftlaust að kalla og lá eins og dauð þjótta undir rifjunum. Nú var bólgan einnig farin að færast í hitt lungað og hjartað orðið mjög máttfarið.
Þorgeir horfði framan í lækninn, þegar rannsókninni var lokið. Hvorugur þeirra mælti orð frá vörum, en læknirinn forðaðist augu Þorgeirs og var alvarlegur. Þorgeir spurði einskis; hann las svarið í svip læknisins og vissi, að spurningar sínar mundu ekki gera annað en toga út úr honum einhver bragðlaus hughreystingarorð. Hann vissi sjálfur, að hann var í hættu staddur. Hversu mikil hún var eða hversu lengi hún stæði, lét hann sig litlu skifta, og það jafnvel líka, hvernig henni lyktaði. Dauðanum kveið hann ekki; en honum var það næst skapi að óska, að hann léti sig ekki lengi þjást á sóttarsænginni.
Læknirinn bauð stúlkunni, sem sat yfir Þorgeiri, að gera sér þegar við vart, ef honum þyngdi. Síðan fór hann yfir í Norðurstofuna; því hún var ætluð honum til íbúðar meðan hann þyrfti að dvelja þar.
Þorgeir lá steinþegjandi á meðan hann vakti. Andlit hans var með ljósrauðum sjúkdómsblæ og ennisæðarnar stórar og bláar, eins og þær ætluðu að springa. Augun voru þrútin og gljáandi og sjáaldrið stærra en vant var. Brjóstið var blýþungt og lyftist varla við aðöndunina. Við og við sótti á hann hósti, en gat þó aldrei annað orðið en kjöltur; en við slíkar hviður kveinkaði hann sér sárt og stóð stundum á öndinni. Þess á milli lá hann kyr og starði út í bláinn; óró og angist lýsti sér á svip hans, og stundum brá þar fyrir örvæntingu.
Hugsanir hans voru sljóar í fyrstu. Það var sem sál hans hefði einnig vanmegnast undir sinni byrði og nú stæði honum á sama um alt. En eftir því sem hann naut lengur vökunnar, skýrðust hugsanir hans betur. Alt hugarstríð hans um sumarið, eða þessa síðustu tvo mánuði, vaknaði þá aftur. Sorgir og skuggalegar minningar tvinnuðust þar saman. Það var sem langar og ömurlegar andvökunætur, með öllum þeim hrellingum, sem þær höfðu borið í skauti sínu, yrðu að köldum vofum, sem nú stóðu yfir honum og störðu á hann með óttalegum augum, færðu sig nær honum, lutu ofan að honum og hvísluðu hárbeittum napuryrðum að honum. Sjálfsásakanir hans lömdu hann með sporðdrekum sínum. Nú var heldur engin vinna við höndina til að dreifa hugsununum með, engin góð bók til að leita sér fróunar við, ekki einu sinni dropi af góðu víni til að dreypa á brennandi varirnar eða örva með aflvana hjartað. Ekkert var annað fyrir höndum en liggja og þjást - þjást á sál og líkama, sötra hina banvænu veig hægt og hægt, þar til dauðinn eða svefnmókið kæmi honum til líknar.
Þessar hugarhrellingar voru honum óbærilegar. Nú hafði hann ekki mátt til að létta þeim af sér, en þráði það þó brennandi sárt. Angist og kvíði píndu hann vægðarlaust, - og þó vissi hann ekki gerla, fyrir hverju hann kveið.
En nú fór að gera vart við sig hjá honum undarleg löngun, sem hann hafði ekki kent hjá sér áður, - löngun eftir því að segja einhverjum frá því, sem píndi huga hans svo sárt, tala um sekt sína við einhvern þann mann, sem hann tryði vel, bera sig saman við hann um instu leyndarmál sín og vita, hvort það gæti ekki orðið sér til hugarléttis.
Átti hann að láta sækja prestinn?
Við þá hugsun glotti hann fyrirlitlega. Hvað hafði hann með prest að gera? Án presta hafði hann komist af fram að þessu. Og þótt hann hefði lifað í friði við þá alla æfi sína, þá fór því fjarri, að hann aðhyltist allar kenningar þeirra. Hann hafði ógeð á öllum þessum ytri táknum og lögboðnu kirkjuathöfnum; taldi þær alt of oft eintóman hégóma og yfirskin. Meðal þeirra var syndalausnar-athöfnin.
Nei, - það var ekki prestur, sem hann þurfti á að halda, heldur maður, sem væri honum líkur að skapferli og trúr og einlægur vinur. - Það var heldur engin syndajátning í venjulegum skilningi, sem hann ætlaði að gera. Hann fann eiginlega ekki til neinnar iðrunar, - eins og þeirrar, sem prestarnir kröfðust, - heldur miklu fremur til undarlega sárs þorsta eftir að bæta úr því, sem hann hafði misgert eða ilt hafði af honum leitt. Fyrirgefning kærði hann sig í raun og veru ekkert um; hún hlaut að verða orðin tóm, á meðan sakir voru ekki jafnaðar á annan hátt. Og fyrirgefning af náð eða meðaumkun var jafnfjarstæð skapi hans og aðrar ölmusugjafir. Á meðan hann fann til sektar hjá sér sjálfur, fanst honum allar fyrirgefningar-yfirlýsingar guðs og manna mundu ekki geta fært sér frið.
En þessi vinur, sem hann þráði svo innilega, var ekki til. Flestir stóðu honum öndverðir í lífsbaráttunni. Ekki var næsta langt síðan hann hafði orðið var við "vináttu" þeirra manna, sem skríða að fótum valdhafans, ef þeir hyggja sér hagsmuna von að því. En sanna vináttu hafði hann ekki hitt fyrir sér svo mörgum árum skifti. Meðan hann gat uppréttur staðið, fanst honum ekki bagi að vinaleysinu. En nú, - nú fanst honum hann vera svo undur einmana.
En engin vinarhönd var honum fram rétt, og einskis manns meðaumkun vildi hann þiggja, hvorki í orði né verki. Einn hlaut hann að súpa til botns hinn beiska kaleik, sem gáleysi hans eða breyskleiki höfðu byrlað honum.
En hann vildi bæta úr því á einhvern hátt, sem að var orðið, bæta rausnarlega úr því, margbæta það, ef hann gæti. Hann hafði hugsað sér það áður og verið byrjaður á því, þótt lítið væri.
En þá komu honum hindranir.
Áður en hann vissi af, var þessi hugsun orðin svo rík í huga hans, að hann gat ekki um neitt annað hugsað. Einar í Bælinu var dauður af hans völdum; það varð ekki aftur tekið. En hann lá - óbættur.
Meðan Þorgeir vakti, braut hann heilann um það, hverja leið hann skyldi velja til að koma hugsun sinni í framkvæmd, en hún varð ekki auðfundin.
En þær hugsanir gerðu hann þó rórri en hann hafðt áður verið.
Nú þjáðu engar verzlunaráhyggjur huga hans. Hann þráði það ekkert að komast á fætur aftur og jafna á þeim, sem höfðu reynst honum illa. Hann hafði gert það, sem hann gat, meðan hann gat uppi staðið, og verið búinn að gera allar ráðstafanir til frekari framkvæmda. Þeim, sem nú átti að halda áfram skylduverki hans, var alt í hendur búið. - Og gott var það ef til vill, að æðri völd höfðu tekið í taumana. Hver veit nema hann hefði orðið einhverjum af skuldunautum sínum of þunghentur. - -
Þorgeiri þyngdi aftur, þegar á leið daginn, og þá byrjuðu höfuðórar hans af nýju. Þó var hann rólegri en daginn áður; enda var nú meira af honum dregið. Læknirinn sat yfir honum fram á nótt, þar til hann sofnaði værara.
-
Daginn eftir vaknaði Þorgeir enn með fullu ráði. Þó var honum þyngra um andardráttinn en nokkru sinni áður. Læknirinn skoðaði hann og komst að því, að bólgan í lungunum hafði aukist nokkuð, svo lítil von var um bata. Þorgeir sá það á lækninum, hvernig honum mundi hugur segja um sjúkleika hans, en tók dauðadómi sínum með stillingu.
Þegar læknirinn hafði gert það, sem gera þurfti í bráðina, fór hann aftur yfir í stofu sína, en stúlka sat yfir Þorgeiri.
Þorgeiri var léttara í skapi en daginn áður. Hann hafði nú fundið það, sem hugur hans hafði leitað svo mjög að, síðast er hann vakti. Það var sem því hefði verið hvíslað að honum í draumi, rétt áður en hann vaknaði.
Dálítilli stundu eftir að læknirinn fór, mælti Þorgeir við stúlkuna:
"Biðjið þér Sveinbjörn að finna mig - og lækninn líka".
Stúlkan gerði það, en kom ekki aftur, á meðan þeir voru þar inni.
Sveinbjörn kom fyr. Gekk hann að rúmi Þorgeirs, bauð honum góðan daginn og spurði, hvernig honum liði.
Þorgeir svaraði því varla.
Sveinbjörn komst við af því að sjá Þorgeir svo illa haldinn. Hann sneri sér því frá honum út að glugganum og mælti með klökkum rómi:
"Illa fór það, að ég skyldi ekki geta rekist út um kvöldið, þegar þér stóðuð við hérna á hlaðinu. Þá hefðuð þér ekki fengið að leggja á heiðina".
Í þessu kom læknirinn í stofuna.
"Ég ætla að biðja yður að skrifa ofurlítið fyrir mig", mælti Þorgeir við Sveinbjörn. "Og ég vildi, að læknirinn væri við á meðan".
Sveinbjörn tók pappír og skriffæri og settist við að skrifa. Þorgeir las honum fyrir með hvíldum, það sem hann vildi láta skrifa, og stílaði það sjálfur.
Það var gjafabréf.
Efni þess var í stuttu máli það, að Þorgeir gaf hreppi þeim, sem Vogabúðir liggja í, 20000 - tuttugu þúsund - krónur af eigum sínum, með nokkrum formála. Með þessu fé skyldi stofna uppeldissjóð fyrir munaðarlaus börn í hreppnum. Höfuðstólinn skyldi aldrei skerða, en setja hann á vöxtu og auka hann árlega með 1%. Að öðru leyti skyldi verja vöxtunum árlega til framfærslu fjórum munaðarlausum börnum, en ekki fleirum fyrst um sinn. Síðar mætti fjölga þeim, þegar efni sjóðsins leyfðu. Þessum börnum skyldi sveitarstjórnin sjá fyrir svo góðu uppeldi sem framast væri kostur á. Styrkinn skyldu þau fá ár eftir ár, úr því þau hefðu eitt sinn fengið hann, þar til þau væru fullra 15 ára, - og lengur, alt að 25 ára aldri, ef þau vildu nema eitthvað, bóklegt eða verklegt, sem þau væru hneigð fyrir og þættu hafa hæfileika til. Þó skyldi því aðeins styrkja þau til náms, að námið miðaði að undirbúningi undir ákveðin lífsstörf. Hættu styrkþegarnir námi sínu eða fengju atvinnu, skyldi hætta að styrkja þá, en bæta jafnframt nýjum styrkþegum við. Öll snauð börn og munaðarlaus gátu orðið styrksins aðnjótandi. - Yfir höfuð skyldi það vera markmið sjóðsins að ala upp börn þau, sem fædd væru til fátæktar og ræktarleysis, og gera þau að nýtum manneskjum. Skyldi leggja mikla áherzlu á að þroska þau siðgæðislega, glæða hjá þeim sannan metnað og innræta þeim virðingu bæði fyrir sjálfum sér og öðrum, en vinna af alefli á móti tilhneigingu þeirra til óeinlægni, hégómadýrkunar og ónytjungsháttar. - Á þessum grundvelli skyldi semja skipulagsskrá fyrir sjóðinn og konungur staðfesta hana, en framkvæmdastjórn sjóðsins skyldi jafnan vera heima í hreppnum og hafa eftirlit með uppeldi styrkþeganna.
Þeir læknirinn og Sveinbjörn gátu ekki bundist þess að láta í ljós undrun sína og aðdáun yfir þessari stórmannlegu gjöf. Þorgeir gaf því engan gaum, en hélt áfram. Enn var eitt skilyrðið fyrir gjöfinni óritað.
Fyrstu börnin, sem nytu uppeldisstyrks af þessum sjóði, skyldu vera börn Einars heitins í Bælinu.
Þeir Sveinbjörn og læknirinn litu snöggvast hvor framan í annan, en þögðu. Þorgeir tók eftir því og lét sér vel líka. Það skildist, sem hann vildi láta skiljast.
Sveinbjörn las upp bréfið fyrir Þorgeiri, og kvað hann það rétt ritað. Síðan var honum fært blaðið í rúmið, ásamt bók til að leggja undir það, og skrifaði hann nafn sitt undir það með skjálfandi hendi. Pennadrættirnir í eiginhandar nafni hans voru dálítið hlykkjóttir að þessu sinni, en annars voru þeir flestum gamalkunnir.
Þeir rituðu undir sem vitundarvottar.
Auk þess ritaði læknirinn vottorð neðan á bréfið um heilbrigðisástand Þorgeirs, þegar það væri ritað. Skýrði hann þar frá rannsókn sinni á sjúklingnum tæpri hálfri stundu áður, tilgreindi líkamshita og fjölda æðaslaga á mínútu m. m., og tók það loks fram, að ekki hefði verið hægt að skynja annað en að sjúklingurinn væri þá með óskertu ráði.
Að lokum var blaðið brotið saman, látið í umslag og lagt á borð, sem stóð skamt frá höfðalagi Þorgeirs. Hann vildi hafa það hjá sér fyrst um sinn.
-
Eftir að þeir Sveinbjörn og læknirinn voru farnir, lá Þorgeir grafkyr og þegjandi. Hann fann ekki mikið til, en var dauðþreyttur og lémagna. Honum fanst allir limir sínir vera svo þungir, að hann gæti hvorki hreyft legg né lið, jafnvel varla haldið opnum augunum. En honum leið vel. Hann hvíldist og naut þess friðar, sem sjúkdómur hans unni honum. Nú var honum létt í skapi. Þrátt fyrir veikindablæinn á andliti hans brá þar fyrir fagnaðarbjarma.
Þannig var því bezt fyrir komið.
Nú var játning hans gefin, sekt hans afhjúpuð - en ekki nema til hálfs. Nú gátu menn hugsað um þetta það, sem þeim sjálfum sýndist, getið gátunum og ort í eyðurnar. Þá varðaði ekki um meira en þetta. Óvissan var betri handa þeim en sannleikurinn og miklu óttalegri en hann. Þeir mundu eigi trúa því sanna, þótt þeir fengju að heyra það, og ekki skilja það. Þeim mundi finnast sagan bragðlaus og búa sér til aðra hvort sem væri. Þessi aðferð gaf grun um eitthvað ferlegt í þessu máli, sem dulið lægi og grafið og aldrei yrði uppvíst.
Engan hafði hann vægðar beðið og engan fyrirgefningar. Menn máttu álíta hann illmenni, morðingja, brennuvarg og hvað sem þeir vildu. Þeir máttu formæla minningu hans, ef þeir hefðu hug til. Alla æfi sína hafði hann staðið öndverður gegn almenningsáliti því, sem drotnaði í svipinn, ef honum þóknaðist það ekki. Og ennþá, mitt í dauðanum, var honum hugfró í því að leiða það afvega, hæða það, storka því og egna á sig óvild þess. Sjálfir höfðu þeir, andstæðingar hans, gert honum þessar getsakir. Fyrir þær höfðu þeir dómfelt hann og framfylgt dómnum í verkinu eins og þeir bezt gátu, með því að leggja óþokka á hann. Þeir spurðu þá ekki um sannanir. Nú gerði hann þeim þann grikk að játa á sig getsakir þeirra, - játa þær á sig skriflega, með gríðarstóru spurningarmerki á eftir játningunni! Það skyldi verða brestandi augum hans til skemtunar að sjá, hvernig þeim yrði við.
Ekki var hann hræddur við að láta góðverk það, sem hann nú hafði gert, og ódæðisverk þau, sem menn ætluðu honum, leiðast fram fyrir dómstól óborinna kynslóða.
Langt var síðan honum hafði verið jafnhægt um huga og nú. Hinar illu vofur, sem pínt höfðu huga hans, voru nú viknar þaðan burtu. Og mest gladdi það hann, að ekki hafði þessi myrkraher verið burt rekinn með fulltingi annara manna; ekki hafði hann verið særður burt með bænum og helgidómum. Hugsjón sú, sem varð böli hans yfirsterkari, hafði vaxið upp í honum sjálfum. Hún átti rætur sínar í djúpi hans eigin sálar og bar móðurmerki hennar. Ef til vill hafði hún lengi legið óþroskuð í undirvitund hans, en kom nú í fyllingu tímans.
Hann fór að reyna að rifja upp, hvernig þetta hefði komið í huga sinn. Það hafði verið þar, þegar hann vaknaði; það hlaut að hafa komið á meðan hann svaf. Hvað hafði hann dreymt? - Honum gekk illa að rifja upp draum sinn, en eitthvað hafði hann verið um það, sem fyrir hann hafði borið í Bælinu.
Blóðstokkna augað -! Nú ógnaði það honum ekki framar. Nú lá Einar í Bælinu ekki lengur óbættur. Enginn var sá hlutur, að ekki mætti meta hann til einhvers andvirðis; mannslífið líka. Einar var lítilsigldur að vísu, en þó hafði hann hlutverk á hendi í lífinu. Mannskaði var að honum, en ekki óbætanlegur. Manngjöldin voru nú greidd og fengin í hendur mannkyninu, sem er hinn síðasti og sanni arftaki allra manna. Enginn vissi, hverra niðjar mundu njóta þeirra. Ef til vill var enginn maður á Íslandi bættur öðrum eins manngjöldum og Einar í Bælinu.
Þorgeir lokaði augunum, en hugur hans horfði út í ómælisdjúp ókominna alda. Svo langt sem augu hans eygðu sá hann blessun breiðast út frá gjöf sinni og þakklæti í orði og verki fylgja henni. Hann sá hana vaxa, eftir því sem fram liðu stundir, og verða stöðugt færari um meira verk. En "fátæka hafið þér jafnan hjá yður", hafði spekingurinn framsýni sagt. - Að vísu mundi nokkuð af þeirri hjálp, sem sjóður hans veitti, lenda hjá þeim, sem ekki væru maklegir, og verða til einskis eða verra en einskis. Hjá því varð aldrei komist. Allur fjöldinn af styrkþegunum mundi þó verða meðalmenn, ef til vill í betra lagi. En einhvern tíma mundi styrkveitingin hitta á hinn rétta mann, þann mann, sem gefandanum væri til sæmdar og gleði að hafa alið upp. Mann, sem án þessarar hjálpar hefði veslast upp í örbirgð og ræktarleysi og aldrei getað notið sín, en vegna hennar fékk það uppeldi, sem hæfileikum hans var samboðið. - Mann, sem bæri höfuð og herðar yfir fjöldann og aflaði þjóð sinni ódauðlegs orðstírs. Með einum slíkum manni væri Einar í Bælinu að fullu bættur; alt hitt væri þar umfram.
Þessar hugsanir voru honum til innilegrar gleði. Hann gleymdi ástæðum sínum, veikindunum, - sjálfum dauðanum, sem þó var líklega að nálgast, og naut þess lífs, sem hann átti fyrir hendi í verkum sínum og hugsjónum um aldur og æfi. Innilega rór í huga gat hann nú hallað sér til hvíldar í friðarfaðm hins ókenda og dularfulla, sem tekur við þar, sem mannleg hugsun hættir. Nú var hann sáttur við sjálfan sig og sáttur við allan heiminn.
Hann var viss um, að ef einhverjar góðar verur væru til, sem enginn sæi, þá væru þær honum nú nálægar. Ef til vill stóðu þær yfir sæng hans með útbreidda arma og biðu þess, að honum skýrðist svo sýn, að hann mætti sjá þær. Ef til vill var það einhver slík vera, sem ýtt hafði þessari hugsjón fram í vitund hans á réttum tíma, til þess að létta honum dauðastríðið. Oft fanst honum áður hann hafa haft hugboð um slíka ósýnilega návist. -
Hann leit upp. Sýndist honum þá hvítklæddur kvenmaður standa við rúmið. Bar hún myrtusveig um hárið, en gagnsæ slæða huldi hana nær alla. Hann ætlaði að virða hana betur fyrir sér, en - þá var hún horfin.
"Ragna -!"
Hann þekti hana undir eins á eftir. Þannig hafði hún verið búin, þegar hann sá hana síðast - á giftingardegi hennar.
Nú gat hann ekki hugsað um annað en hana.
Hann hafði dregið sjálfan sig á tálar. Hann var ekki sáttur við allan heiminn á meðan hana vantaði. Hvernig hafði hann getað gleymt henni? Henni hafði hann þó verið verstur.
Þessar hugsanir gerðu hann aftur óværan.
Þegar á leið daginn, óx sótthiti hans og höfuðórarnir byrjuðu aftur. En nú ruglaði hann ekki um það sama og áður, heldur andvarpaði hann við og við:
"Ragna! - Ragna mín!"
18. kafli - SólseturJón kaupi fór heim yfir heiðina með hestana þegar á sunnudaginn og flutti tíðindin til Vogabúða. Ragna brá þegar við og bjóst að fara á fund föður síns.
Hún gat þó ekki lagt af stað fyr en á þriðjudagsmorgun. Jón kaupa hafði hún fyrir fylgdarmann. Ekki var nema ein dagleið frá Vogabúðum að Seljatungu, og sóttist þeim ferðin allgreiðlega.
Fengu þau kalsaveður á heiðinni með nokkurri úrkomu, en ekki var þó veðrið til farartálma. Í rökkurbyrjun um kvöldið komu þau að Seljatungu.
Ekki var að því að spyrja, að vel var við þeim tekið. Sveinbjörn kom sjálfur út á hlað og bauð Rögnu velkomna. Ekki kvartaði hann um þrengsli í húsakynnum sínum, þótt nú væru þar tveir menn fyrir, sem haft var meira við en almenning. Þó hafði hann orð á því, að hann hefði feginn viljað sjá frúna á heillavænlegri degi.
Þegar Ragna kom inn í bæjardyrnar, kom læknirinn út úr stofunni, þar sem Þorgeir lá. Hún spurði hann þegar eftir líðan hans. Hann lét lítið yfir henni.
Ragna spurði hann þá einbeitt, hvort hann hefði nokkra von um bata.
Læknirinn hristi höfuðið, en svaraði engu í fyrstu. Eftir nokkra þögn sagði hann, að sér væri ómögulegt að fullyrða neitt um það. En litlar væru líkurnar.
Ragna hafði búist við slíku svari, svo það kom henni ekki á óvart. Hún beit á vörina og þagði. Hún hafði verið hrædd um, að sér mundi aldrei auðnast að bjarga lífi hans eða sjá því bjargað. En henni var mikið í mun að ná fundi hans, áður en það væri um seinan.
"Vakir hann núna?" spurði hún lágt.
"Nei, hann mókir og hefir óráð", svaraði læknirinn. "Þér getið fengið að sjá hann, en þér megið ekki dvelja lengi hjá honum að svo komnu. Hann má einskis næðis missa. Ef honum þyngir eða ef hann vaknar með ráði, skal ég þegar láta gera yður aðvart".
Síðan fylgdi hann Rögnu inn í stofuna. Ekki var nema lítið eitt farið að bregða birtu. Ragna staðnæmdist innan við dyrnar og horfði á föður sinn. Hún þurfti að taka á allri orku til að láta ekki á geðshræringum sínum bera. En óskýr varð henni sjónin, því augun fyltust af tárum.
Þorgeir lá með hálfopin augun. Andlitið var alt með veikindalegum blæ og ennisæðarnar stórar og blárauðar. Andardrátturinn var mjög stuttur og tíður, og það, sem til hans heyrðist í svefninum, kom með stunum, slitrótt og ósamstætt.
"Ragna! - Ragna mín!"
Nú var Rögnu nóg boðið. Hún hélt, að hann hefði komið auga á sig og þekt sig. Hún gekk nær og sagði hálfhátt:
"Ég er hérna, faðir minn".
"Þetta megið þér ekki", sagði læknirinn.
Það var sem hinn sjúki maður hefði haft eitthvert veður af því gegnum óra sína, að við hann væri talað. Hann sneri höfðinu ofurlítið við, opnaði augun alveg og starði út í stofuna, en ekki á Rögnu.
"Ég er hérna, faðir minn", mælti Ragna aftur og færði sig alveg að rúminu.
"Jú, brúðarblæjan - myrtusveigurinn! Það ert þú - það - -".
"Hann sér mig ekki, hann þekkir mig ekki", mælti Ragna með klökkum rómi.
"Þér heyrið það sjálfar, frú, að hann hefir óráð. Hann má ekki heldur þekkja yður nú, ekki fyr en hann fær ráðið aftur", mælti læknirinn.
"Ef það þá verður framar", mælti Ragna efablandin og hlýddi lækninum. Því næst fór hún úr stofunni og þáði beina. Hún var þreytt eftir ferðina um daginn, og henni sofnaðist vel um nóttina. Hún var ekki vakin með neinum nýjum tíðindum.
Þorgeir svaf óvanalega lengi fram eftir deginum og óvanalega vært, svo að jafnvel læknirinn vissi ekki, hverju það sætti. Ragna kom stöku sinnum inn til hans, en var þar þó ekki að staðaldri.
Loks undir sólsetrið vaknaði Þorgeir og var þá með fullu ráði. Læknirinn skoðaði hann ennþá einu sinni og sá, að hann hlyti að vera að dauða kominn. Hann hafði þó ekki orð á því fremur en vandi hans var, en sagði Þorgeiri frá því, að dóttir hans væri þar á bænum og hana langaði til að sjá hann. Þorgeir leyfði það þegar.
Þegar Ragna kom í stofuna, fóru aðrir út þaðan, svo þeim gæfist næði til viðtals.
Þau horfðu fyrst þegjandi hvort á annað stundarkorn. Það lá við, að Ragna hikaði við að koma nær honum, þegar hún sá, að hann þekti hana. Það var líka sem henni félli allur ketill í eld, er hún sá, hve máttfarinn og langt leiddur hann var.
Hún gekk þó að rúminu, kraup niður við rúmstokkinn og tók um hönd föður síns, sem lá ofan á sænginni. Höndin var dúnmjúk, heit og máttvana, en þó ekki sveitt. Æðarnar á handarbakinu voru sem útblásnir belgir. Slagæðin fanst varla hreyfast.
"Faðir minn", mælti hún með blíðri og angurværri röddu. "Manstu, hvað ég sagði við þig seinast, þegar við töluðumst við. Það var í skrifstofunni þinni. Ég sagði, að þú hefðir grætt, en verzlunin tapað. Það var skammarleg aðdróttun, sem aldrei hefir látið mig í ró síðan. Nú kem ég til að biðja þig að fyrirgefa mér þetta".
Þorgeir var seinn til svars, en svaraði loks með veikri röddu:
"Og - ekkert annað?"
Ragna horfði framan í hann. Svipur hennar harðnaði dálítið:
"Nei - ekkert annað", mælti hún einbeitt.
Þorgeir varð aftur seinn til svarsins. Hann horfði mildum augum á dóttur sína. Síðan lyfti hann upp hendinni, strauk henni blítt um kinn hennar og mælti:
"Það er rétt, telpa mín, hitt er alt mér að kenna. Ég veit það, - ég var of harður við þig. - Ég hugsaði of mikið um mig -".
Ragna komst innilega við.
"Faðir minn - elsku faðir minn! Ég gat ekki annað. Það er alveg satt. Þú varst of harður við mig. En ég er ekki reið við þig. Ég hefi aldrei verið það. En ég gat ekki annað. Þegar ég kom til Kaupmannahafnar og þessi maður, sem ég hafði svo innilega óbeit á, gekk jafnhart eftir mér, þá fanst mér ég vera að missa fótfestu og hrapa ofan í eitthvert volæðis-hyldýpi. Mig svimaði hvar sem ég gekk. Ég var óttalega einmana og hjálparþrota; ég held ég hefði orðið veik. Þá hitti ég hann. Hann kom eins og frelsandi engill til mín í þessum raunum. Hann var eini maðurinn í öllum þessum hundrað þúsundum, sem ég gat borið traust til. Ég tók mér í hann dauðataki. Ég vafði mig upp að honum, eins og veik grein að sterkum stofni. Ég gaf honum sjálfa mig, alla og óskifta, til þess að missa hann ekki frá mér. Því ég elskaði hann. Ég gat ekki lifað án hans. Geturðu ekki vorkent mér þetta?"
Þorgeir strauk aftur um kinn hennar:
"Ég veit þú segir satt, barnið mitt. - Við skulum ekki tala meira um þetta. - Og nú - nú ertu hamingjusöm?"
"Já, - ef þú ert mér ekki reiður".
"Ég reyndi að sýna, að svo væri ekki. - Var það ekki nóg?"
"Jú, hjartans pabbi. - Ég þakka þér fyrir sendinguna. Við ætluðum bæði heim til þín morguninn eftir, en þá varstu farinn. Ég skildi það svo, að þú vildir ekki láta þakka þér".
"Þú þekkir lundina mína, Ragna mín".
Nú varð hlé á samtalinu dálitla stund. Þorgeir tók mjög nærri sér að tala og gat það ekki nema ofurlágt og með löngum hvíldum; á meðan skiftust augu þeirra kveðjum á og Ragna þrýsti hönd föður síns að kinn sér.
Þorgeir byrjaði aftur:
"Manstu, Ragna mín, hvað ég sagði við þig síðast: Þið verðið að spila upp á ykkar eigin spýtur; þegar ég dey, verður ekkert til, sem ykkur verði ætlað".
"Já, ég man það. Ég hafði búist við þeim ummælum. Oft hefi ég hugsað um þau síðan og jafnan þótt vænt um þau. Arfur auðæfa er minni blessun en margur hyggur. Enginn kann jafnvel fé að meta og sá, er sjálfur aflar þess, segir gamalt spakmæli. Mér hefir fundist ég vera frjálsari og sjálfstæðari, síðan ég misti arfsvonina. Friðrik er dugnaðarmaður, og þeim mönnum verður sjaldan fjárvant. Ástæður mínar vissi hann, svo ekki hefir hann tekið mig að sér arfsins vegna".
"Líttu á þetta".
Þorgeir benti með veikum mætti á gjafabréfið, sem lá á borðinu.
Ragna stóð upp. Hún áttaði sig ekki á því í fyrstu, hvað það var, sem faðir hennar benti á. En brátt kom hún auga á bréfið, tók það úr umslaginu og fór að lesa.
Bæjarþilin í Seljatungu sneru í vestur, og var víðsýnt frá bænum gegn vestri.
Sól var nú gengin ofan að vesturfjöllunum og komið fast að sólsetri. Skein sólin glatt í rifu milli rosabólstra, og var skinið með rauðleitum kvöldbjarma. Roði var mikill á öllum skýjum á vesturloftinu og sólsetrið undurfagurt.
Sólin skein beint inn um gluggana og gerði stofuna ljómandi bjarta. Rúðurnar voru votar utan og innan, og jók það geislunum glit og fegurð. Úr hvorum glugganum um sig teygði sig geislaarmur um þvera stofuna, svo mikill fyrirferðar sem gluggaumgerðirnar leyfðu. Máluðu þeir skýrar og skínandi myndir af gluggunum á veggina og gólfið, hoppuðu kistu af kistu og stól af stól, og reyndu að reka burtu skuggana, en þeir skriðu í skjól bak við spariföt heimafólksins, sem héngu úti í hornunum. Mynd af Jóni Sigurðssyni, sem hékk á einum veggnum í logagyltri umgerð, virtist brosa við sólarljómanum; hvergi naut geislinn sín betur en þar, eins og hitti hann þar gamlan og trúan hollvin. Nokkur hluti geislans úr öðrum glugganum hríslaðist um uppdrátt Íslands, sem einnig hékk þar á einu þilinu. En flekróttur var geislinn þar, því dropar á glerinu gerðu hann óskýran. Skiftust þar á bjartir blettir og hálfbjartir um alt landið, það sem geislinn náði; var skinið hraflkent mjög og alt á flökti. Vogabúða-héraðið lá í útjaðri geislans, svo erfitt var að sjá, hvort meira mætti þar, skinið eða skugginn.
Skinið lagði beint á rúm Þorgeirs og þilið á bak við það. Var sem meginstraum ljósflóðsins væri veitt þangað. En skugga gluggagrindarinnar flutti geislinn með sér. Breiður skuggakross lá ofan á sænginni, og annar stóð á þilinu yfir rúminu og skifti skininu í fjóra hluta.
Ragna stóð í miðjum öðrum geislanum og sneri sér frá glugganum, á meðan hún las bréfið. Lagði skinið á öxl hennar og lék fagurlega um hárið og fram með vanganum, en andlitið var í skugga. Á fötum hennar blandaðist ljós og skuggi listavel saman, og fóru þessi ljósbrigði henni einkarvel. Hefði Rembrandt hinn hollenzki varla getað valið henni heppilegri stað eða fegurra ljósskrúð til að mála eftir henni eina af hinum heimsfrægu myndum sínum.
Þorgeir færði höfuðið til á koddanum, svo skuggann af borðinu bæri yfir augu honum, og horfði hugfanginn á dóttur sína. Hún var fögur sem draumsýn, ung og þróttmikil, en bar þó merki alvöru og lífsreynslu. Í henni þóttist hann sjá beztu hæfileika sína endurborna; þar áttu þeir að halda áfram lífi sínu.
En mest var honum þó hugarhaldið um að sjá það á svip Rögnu, hver áhrif bréfið hefði á hana. Þegar hann lét skrifa það, hafði hann alls ekkert um það hugsað, hvernig henni mundi líka það. En fyrst hún var nú komin til hans og þau voru sátt, þá fanst honum það miklu skifta, hvernig hún liti á þetta mál. Nú fanst honum sem vanþóknun hennar mundi spilla fyrir honum gleðinni af gjöfinni.
Ragna gaf kvöldgeisladýrðinni engan gaum og vissi ekkert af, hvernig þeir skreyttu hana sjálfa. Hún las bréfið með mestu athygli, og eftir því, sem á það leið, glaðnaði svipur hennar. Það var sem hún sæi annað kvöldskin, enn fegurra og fágætara en það, sem skein um stofuna. Geisla lagði af blaðinu á andlit hennar og inn í sál hennar, - geisla af eldi þeim, er Prometheus rændi frá guðunum og gaf mönnunum. Það voru kvöldgeislar aðfram kominnar sálar, sem hún sá, en jafnframt morgungeislar nýrrar skoðunar á manngildi hinna snauðu og viðleitni til að vernda það, sem bezt var í börnum þeirra, frá glötun. Þegar hún var búinn að lesa bréfið til enda, byrjaði hún á því aftur.
Þorgeir fylgdi svipbreytingum Rögnu með athygli. Af þeim sá hann hugarhræringar hennar, og þær voru honum mikið gleðiefni.
Þegar Ragna braut saman bréfið og lagði það frá sér, tindruðu tár í augum hennar. Kraup hún þá niður við rúmið og kysti hönd föður síns með mikilli geðshræringu.
"Faðir minn! - Elsku hjartans faðir minn!" mælti hún. "Ég kem engu orði upp fyrir fögnuði, - fyrir undrun og aðdáun! Betur en þetta gaztu ekki varið auði þínum. Þegar fé er varið á þennan hátt, er það til sannrar blessunar".
"Þessum krónum hefi ég varið mér til gleði, Ragna mín, og mér þykir innilega vænt um, að þú ant mér þess af heilum hug. Eitthvað mun vera eftir handa ykkur samt. Njótið þess vel, en - gleymið ekki að gera gott. Auðurinn er engin hamingja, heldur aðeins meðal til hamingju".
"Ég skyldi hjartans fegin bæta við gjöf þína, en ég veit, að þú vilt gefa hana einn, - elsku faðir minn!"
Ragna hjúfraði andlitið niður við hlið hans. Þorgeir lyfti upp hinni hendinni með miklum erfiðismunum og lagði hana blíðlega á höfuð henni.
"Ég þakka þér fyrir ummæli þín. Ég veit, að þau eru undirhyggjulaus. - Annars værir þú ekki lík mér. Berðu manni þínum kveðju mína. Nú ann ég honum alls góðs. - Nú ann ég öllum alls góðs -!"
Það síðasta, sem Þorgeir sagði, skildist varla. Bæði var honum erfitt um málið sjúkdómsins vegna, og nú komst hann svo við, að hann kom varla upp orði.
Stundarkorn leið með orðvana sælu.
Þorgeir vildi segja fleira, en tilfinningar hans urðu honum of ríkar. Jafnsæla stund hafði hann aldrei gert sér von um að eiga eftir ólifaða.
Nú fann hann ekki kala hjá sér til nokkurs manns, enga löngun til að hefna sín á neinum eða storka neinum. Honum fanst sem eitthvað ískalt og gaddhart klökna og renna í sundur í sjálfum sér. Hann var að verða barn í lund.
Og nú kendi hann hjá sér tilfinningar, sem hann hafði ekkert haft af að segja í mörg, mörg ár, tilfinningar, sem vermdi hann allan upp. Hann elskaði - elskaði dóttur sína, sem komin var nú til hans aftur, eftir mæðu og mótlæti, sem skilnaður þeirra hafði valdið, - og elskaði hugsjón þá, sem nú tengdi þau saman.
Til hvers hafði alt stríð hans og strit verið? Þetta var þó að lokum það eina, sem veitti lífinu gleði og gildi, það var sátt og samúðargleði að stóru starfi fyrir velgengni annara manna.
Áður hafði honum fundist það öllum gæðum meira að mega halla sér til hvíldar í faðm dauðans. Nú fann hann alt í einu til löngunar til að lifa, - lifa og elska, njóta sælu samúðargleðinnar hjá dóttur sinni, - lifa ennþá nokkur ár í friðsælli elli.
Klökkvinn gagntók Þnrgeir meira og meira, þar til tár streymdu niður kinnar hans, - tár sælu og barnslegs unaðar.
Eftir örlitla stund datt Rögnu spurning í hug, sem hún vildi leggja fyrir föður sinn. Hún var um það, hvers vegna hann hefði tilnefnt börn Einars í Bælinu.
En það leit út fyrir, að þeirri spurningu ætti aldrei að verða svars auðið. Þegar Ragna leit framan í föður sinn, brá henni svo við, að hún hætti við að spyrja.
Þorgeiri höfðu orðið þessar síðustu hreyfingar um megn. Hann hafði talað of mikið og komist í of miklar geðshræringar. Nú fékk hann áköf hóstaandköf, en var of magnþrota til að geta hóstað. Andþrengslin ætluðu að gera sviplegan endi á lífi hans. Hann blánaði í framan og augun þrútnuðu, eins og þau ætluðu að springa. Krampaskjálfti fór um allan líkamann. Hann reis upp til hálfs, en féll aftur ofan á koddann.
Ragna stökk á fætur, reif opna hurðina og hrópaði á lækninn í mesta ofboði.
Þá var síðasti sólargeislinn að deyja út á þilinu. Rósrauðum bjarma brá um alla stofuna. Sólin var að hverfa bak við fjöllin. Rosamikill haustdagur var það, sem nú var að enda. Vesturhimininn var allur í einum ljóma. Þungbrýnir, ferlegir bólstrajötnar, hrikalegir á vöxt og hrímgráir á belginn, ruddust fram að sólsetursstöðvunum. Þar leystust þeir úr álögunum og urðu að svífandi geislamyndum yfir rekkjustokki kvöldsólarinnar. Þursahamina rak brennandi burtu fyrir haustvindinum.
Læknirinn kom þegar og sá, hvað um var að vera. Með frábæru snarræði tókst honum að liðka til um andardráttinn að því sinni.
Þetta var síðasta árás lífsins á dauðann í brjósti Þorgeirs. Hjartað, sem hvílt hafði máttvana og varla fundist bærast, tók nú að hamast, eins og það vildi bjóða dauðanum byrginn. En nú var svo að því þrengt, að slög þess voru ekki annað en krampakendir kippir. Andardrátturinn varð máttvana hrygla og Þorgeir misti meðvitundina.
Ragna þoldi ekki að horfa á dauðastríð föður síns, og setti grát að henni. Árum saman hafði hún verið föðurlaus og var farin að venjast því. Nú hafði hún aftur fundið það heitt og innilega, að hún átti föður. En á sömu stundu var hún að missa hann. Þetta tók hún sér svo nærri, að henni fanst sem hjarta sitt mundi bresta um leið og hans.
Eftir sólsetrið dimdi og kólnaði í stofunni, en rosinn jókst úti. Skýin á vesturloftinu urðu sótsvört, og við og við dundi regnið á stofugluggunum.
Læknirinn sat við ljós yfir sjúklingnum, en gat ekkert að gert. Ragna sat úti við borðið hjá gluggunum, með klút sinn fyrir andlitinu, og skalf af ekka. Hún var hætt að vona, en óskaði, að þetta tæki enda sem fyrst.
Það dróst þó fram undir miðnætti, að hinn gustkaldi gestur "með sigðina" heimsækti þau þar í stofunni.
19. kafli - SögulokFréttin um lát Þorgeirs vakti hluttekningu manna á meðal, eins og fréttin um veikindi hans hafði áður vakið. Margir þóttust eiga þar stórmenni á bak að sjá, einum af mestu atkvæðamönnum héraðsins.
Rétt á eftir andlátsfregninni þaut ný fregn út um allar sveitir. Hún var um hina stórmannlegu gjöf Þorgeirs. Sú fregn vakti bæði undrun og aðdáun. Slíkum stórgjöfum voru menn óvanir.
Fyr og síðar hafði það heyrst um ríka menn, að þeir hefðu grafið niður fé sitt í jörð, þegar þeir fundu dauðann nálgast. Slík meðferð á fé var forn og þjóðleg og bar ætternismerki Ketilbjarnar gamla, Egils Skallagrímssonar og annara stórmenna hinnar frægu og söguríku "gullaldar". Enginn varð að vísu til þess að mæla með því, að siðurinn yrði almennur af nýju. En lægi grunur á einhverjum fyrir að hafa gert það, þótti mönnum það heldur frami en hitt að telja sig í ætt við hann, því fáir voru of fornir í skapi.
Það höfðu menn líka heyrt, að auðugir Íslendingar hefðu gefið háum höfðingjum, einkum útlendum, reytur sínar, eins og Guðmundur í Brokey, en fengið að launum frama og fagurmæli. Þeir voru tímar, að vel þótti fé varið á þann hátt, því oft hefir höfðingjahyllin verið í háu verði á Íslandi. - Þó fóru þeir einir svo með fé sitt, sem ekki hittu á það heillaráð að fara með það suður til Danmerkur, að dæmi selstöðukaupmannanna, og gefa það þar með sér til æfiloka.
Ekki var mönnum það heldur úr minni liðið, að margir fjársælir menn höfðu mýkst svo í anda fyrir andlátið, að þeir höfðu gefið auð sinn til kirkjunnar eða hinna "heilögu" þjóna hennar, - sem seint þykja fá of mikið -. Þorðu þeir ekki að eiga það á hættu, hvernig færi eftir dauðann, því allir vissu, hversu auðvelt úlfaldanum mundi verða að ganga í gegnum nálaraugað. En um sáluhjálp þeirra, sem sálargjafirnar gáfu, efaðist enginn.
En þetta - þetta kannaðist enginn við, að maður hefði gefið auð fjár til þess að gera nýtar manneskjur úr börnum öryrkja. Hefði maðurinn gefið þetta fé til þess að kosta öryrkjana og alla barnaþvögu þeirra til Ameríku, það hefðu þeir getað skilið, því það höfðu hreppsfélögin gert um allmörg ár, og það með góðum árangri: þaðan kom "hyskið" aldrei aftur! Það hafði sem sé þótt efasamt fram að þessu, hvort til væri vinnandi að ala upp þessa þurfamanna-"króga", til þess að gera þá að viðunandi vinnudýrum, - hvað þá manneskjum!
En hvað sem þessu leið, var þó gleðin yfir þessari rausnarlegu gjöf almenn og innileg, einkum í hreppnum, sem orðið hafði fyrir þessu mikla happi. Menn í hinum hreppunum gátu ekki annað en látið í ljós samfögnuð sinn, - þótt hamingjan vissi, að þeim blæddi í augum, þar sem þeir sátu nú sjálfir með sveitarþyngsli sín.
Margt var um Þorgeir talað, fjær og nær, um þessar mundir. Var það almennast, að menn hrósuðu mjög veglyndi hans og höfðingsskap og sögðu af því ýmsar sögur, - sumar, sem enginn hafði heyrt áður. Var sem mönnum væri því ljúfara að tala um þessa hluti í fari Þorgeirs nú, sem þeir höfðu lengur um þá þagað. Nú voru sögurnar farnar að fá á sig einhvern viðfeldinn aldursljóma og jafnvel skáldlegan blæ. Í sambandi við gjöfina og margar minningar frá liðnum árum varð Þorgeir nokkurskonar dýrlingur almenningsálitsins og uppáhalds-umtalsefni manna. Um mörg ár hafði það verið tízka að tala illa um hann. Nú var skift um; nú keptust menn um að tala vel um hann.
Og þegar svo var komið, þótti það hinn mesti vegsauki að hafa verið góðkunningi hans, einkum í gamla daga. þegar ríki hans var sem mest. Var það kært umtalsefni margra heldri bænda að segja sögur af sér og honum. Þá var sem nokkuð af frægðarskini hans legði á þá, og fanst þeim fífill sinn fegri, er þeir sáu sjálfa sig í þeirri birtu. Að minsta kosti var það vottur um það, að þeir hefðu einhvern tíma staðið í skilum við hann og gert sig hylli hans maklega.
Nærri mátti því geta, að menn yndu því illa, að annað eins uppáhaldsgoð sem Þorgeir nú var orðinn þeim, bæri bletti og flekki. En nú vildi einmitt svo óheppilega til, að niðurlagið á gjafabréfinu ýfði upp sögur þær, sem verið höfðu á sveimi fyrir rúmum mánuði. Nú duldist engum, að eitthvað hlyti að hafa verið hæft í þeim. Lá þá beinast við að ætla, að bæði hefði Þorgeir verið valdur að brennu vöruhússins og afdrifum Einars.
Þó vildi enginn verða til þess að endurvekja þvætting þann, sem gengið hafði um sumarið. Enginn treysti sér til þess hvort sem var að komast sannleikanum nær en þá. Og eitt þóttust menn vissir um, að hvernig sem leyndarmáli þessu væri farið, hefði Þorgeir eflaust haft mikla hugraun af því og viljað bæta úr því. Ef til vill hefði hlutdeild hans verið gerð í geðveikiskasti. Og hvernig sem í þessu lægi, væri betra, að málið lægi í leyni og bætur hans kæmu þeim að notum, sem þær væru ætlaðar, en að það hefði uppvíst orðið og hegning fram komið, sem enginn hefði neitt gott af.
Með þetta létu hinir gætnari menn sér lynda. En margir depluðu augunum íbyggilega, þegar minst var á söguna, og voru drjúgir yfir því, að getur þeirra um sumarið hefðu þó stefnt í rétta átt.
-
Lík Þorgeirs var flutt ofan í Vogabúðakaupstað, og átti að jarða það við sóknarkirkju hans. Var kistan látin standa í stofu þeirri, er áður hafði verið viðhafnarstofa hans. Voru húsgögnin nú mátulega komin burtu, því annars hefði kistan ekki komist þar fyrir. Af þessu myndaðist sú þjóðsaga, að Þorgeir hefði vitað fyrir dauða sinn.
Daginn eftir lát Þorgeirs kom seglskip verzlunar hans á voginn. Á því var maður sá, er verzlunarstjórnin ytra hafði sent honum til aðstoðar. Það var ungur maður, danskur, og öllum ókunnur þar um slóðir. Hann flutti þær fréttir, að Petersen sá, er verið hafði þar í verzlunarerindum og áður er minst á, hefði fundist dauður úti í Charlottenlund, með kúlugat á höfðinu. Skammbyssa hefði legið þar hjá honum. Hafði hann verið farinn úr þjónustu Jespersens-verzlunarinnar fyrir nokkru, lifað í mesta sukki og verið kominn í miklar skuldir. Að honum látnum hafði ýmislegt misjafnt komist upp um hagi hans.
Þessi danski maður tók þegar við forstöðu verzlunarinnar. Fyrsta verkið, sem fyrir honum lá að gera, var að annast um útför Þorgeirs.
Viðbúnaður var mikill undir jarðarförina, bæði af hendi verzlunarinnar og Rögnu. Aðrir kaupstaðarbúar gerðu líka mikið til að gera hana virðulega, og sveitamenn ætluðu mjög að fjölmenna.
Hátíðlegur alvörublær var á hinum litla kaupstað daginn, sem jarðarförin fór fram. Báðum sölubúðunum var lokað og fánar dregnir í hálfa stöng bæði á landi og úti á skipinu. Fáir mundu annað eins fjölmenni í kaupstaðnum.
Stundu fyrir hádegi streymdi mannfjöldinn að húsum Jespersens-verzlunarinnar og inn í íbúðarherbergin. Mátti þar sjá marga tilbreytni, bæði í klæðaburði og öðru, því ekki voru neinir sorgarsiðir í klæðaburði almennir í Vogabúðum; menn fóru þar í sömu sjaldhafnarflíkunum til brullaups og jarðarfara. Þennan dag voru þeir báðir með silkihatta, læknirinn og sýslumaðurinn; Sveinbjörn í Seljatungu var með gráan kaupfélags(stjórnar)hatt, en Sigurður bróðir hans með "brennivínshatt" og "þá frönsku" undir. Meðal kvenna bar mest á þeim Rögnu og læknisfrúnni. Voru þær báðar svartklæddar og Ragna með þétta, svarta slæðu fyrir andlitinu. Sýslumannsfrúin var þar ekki, því að enn var henni þungt í skapi til Þorgeirs, og ekki mundi sýslumaðurinn hafa verið þar heldur, hefði hún mátt ráða.
Mannfjöldinn þokaði sér hægt og hljóðlega inn í stofurnar. Ýttu menn sér því fastar saman sem meira fjölgaði, svo furðu margir komust þar fyrir inni, en þó stóðu margir úti. Kistan var þakin sveigum úr íslenzkum blómum, - því svo langt var heimsmenningunni ekki komið í Vogabúðakaupstað, að tilbúin blóm væru þar á boðstólum.
Héraðsprófasturinn hélt húskveðjuna og talaði langt mál um kristilegar dygðir og guðsótta Þorgeirs, trú hans og auðmýkt í anda. Áheyrendurnir geispuðu á meðan, en höfðu þó hatta sína eða klúta fyrir andlitinu, svo vel gæti það sýnst svo, að þeir væru að gráta af því, hve hjartnæm ræðan væri. - Einn áheyrandinn komst svo að orði um ræðuna á eftir, að hún hefði verið moðvolg guðsorðasætsúpa, sem blessaður prófasturinn hefði helt í hlustir manna. Ekkert hefði verið að henni annað en það, að rúsínurnar hefðu verið fáar, en sveskja engin.
Læknirinn hafði gengist fyrir því, að kaupstaðarbúar sýndu Þorgeiri virðingu með því að bera kistu hans á höndum sér til kirkjunnar. Ekki var nema stutt bæjarleið þangað, og lá leiðin eftir sléttum melum. Þessu var alment vel tekið. Þó þyngdi ekki kistan á handleggjum læknisins eða hans líka til grafarinnar. Sinasterkir erfiðismenn, sem stælt höfðu löngum handleggi sína í vinnu hjá Þorgeiri, skiftust nú á um að bera kistu hans.
Þegar kistan var borin gegnum kaupstaðinn, tóku margir eftir hóstandi andliti innan við glugga á litlu húsi, sem farið var framhjá. Það var maður, sem "var úr sögunni", eins og lesarinn kannske man. Hann var þó ekki dauður ennþá, en ekki hafði hann komið í búðina síðan á hann var minst seinast. Nú stóð hann á nærklæðum einum við gluggann og horfði á líkfylgdina. Skalf hann af vanstyrk og ætlaði að rifna af hósta. Andlit hans var magurt og rauðblátt og afmyndaðist mjög af hóstanum, en tárin hrutu af kinnunum við hverja hóstahviðu. Allir, sem sáu hann, kendu í brjósti um hann, jafnvel búðarsveinarnir, sem hann hafði þó oft verið erfiður. Fjörutíu ára samvinnu hans og Þorgeirs var nú lokið, og útlit var fyrir, að ekki yrði þess langt að bíða, að hann yrði borinn sömu leiðina.
Í kirkjunni hélt sóknarpresturinn líkræðuna. Rakti hann æfiferil Þorgeirs og markaði glögt og greinilega afstöðu hans gagnvart samtíð sinni. Einkum var hann fjölorður um þýðingu þá, sem líf Þorgeirs og starf hefði haft fyrir menningu þessara sveita, og nefndi margar framfarir, sem hann hafði átt góðan þátt í. Um þetta talaði hann látlaust og hóglega. En þó var honum skrafdrýgst um hina miklu gjöf hans og hugsjón þá, sem í henni var opinberuð.
Mörgum þótti presti mælast skörulega, og við tölu hans skýrðust mjög skoðanir manna á Þorgeiri og urðu ákveðnari. En sammála voru menn þó ekki um hana. Mörgum þótti hún of lítið "andleg", - of lík skálaræðu eða þingræðu, en of lítið í henni af biblíuspakmælum og náðarboðskap. Einkum var það kvenfólkið, sem þessa skoðun aðhyltist. Það vildi heldur "sætsúpuna" prófastsins.
Að ræðunni lokinni stóð sýslumaður upp og gaf heldri mönnum bendingu um að bera út með sér kistuna í virðingarskyni við hinn látna. Röðuðu þeir sér þannig að kistunni, að öðrum megin var sýslumaður fremstur, þá Sigurður í Vogabúðum, en Sveinbjörn kaupmaður aftastur. Hinum megin var umboðsmaðurinn á Klaustrinu, þá Sveinbjörn í Seljatungu, en læknirinn aftastur. - Vel þótti fararbroddurinn skipaður, þar sem þeir voru sýslumaðurinn og umboðsmaðurinn, því báðir voru þeir glæsimenni. Einnig sómdu þeir sér allvel nafnarnir, Sveinbjörn í Seljatungu og frændi hans kaupmaður, þótt mikill væri aldursmunur þeirra. Sama hefði verið að segja um hreppstjórann í Vogabúðum, hefði "sú franska" ekki verið honum til mæðu að vanda. Hafði hún rekist í kvist á blómsveig, þegar hreppstjórinn laut ofan að kistuhankanum, og hallaðist eftir það. Lá því við sjálft, að af henni leiddi glöp á þeirri alvöru, sem sjálfsögð var við þessa athöfn. - Læknirinn ætlaði að leka niður undir sínu horni á kistunni. Hann dróst þó með alla leið út úr kirkjunni, þótt ekki bæri hann sig karlmannlega. Þegar hann slepti kistunni, veifaði hann uppgefnum handleggnum og tautaði fyrir munni sér, að "a-a-a-a-andskoti væri karlinn þ-þ-þ-þ-þungur!"
Síðasta atriði útfararinnar fór fram með moldarahættinum gamla og alkunna.
Gröf Þorgeirs var norðvestur undan kirkjuhorninu í nývígðum garðsauka. Þar var aðeins eitt leiði fyrir, nokkrum föðmum austar, - leiði Einars frá Bælinu.
Við það leiði sást kona, fátæklega en þó snyrtilega búin, með fjögur börn við hönd sér; krjúpa niður og gera bæn sína, þegar menn voru að dreifast frá leiði Þorgeirs. Menn horfðu á hana steinhissa. Gat það verið, að þetta væri Margrét í Bælinu?
Margrét leit út sem önnur manneskja. Hún heiðraði útför velgerðarmanns síns með því að sýna það á sjálfri sér og börnunum, hvernig hún hefði varið gjöf hans.
Ýmsar konur, sem voru við jarðarför Þorgeirs, komu nú við hjá leiði Einars og gerðu krossmark yfir leiðið, með miklum guðræknissvip, en heilsuðu hlýlega upp á Margrétu um leið. Engin af þeim hafði látist sjá hana í raunum hennar eða fylgt manni hennar til grafar; en vinunum fjölgar, þegar vel gengur. Nú var mörgum forvitni á að sjá börn þau, sem önnur eins hamingja hafði fallið í skaut.
Þessi tvö nýorpnu leiði í nýja garðsaukanum litu út tilsýndar sem tvö innsigli á stóru bréfi. Undir þessum innsiglum dauðans og grafanna lá nú saga þeirra Þorgeirs og Einars í Bælinu geymd, en ekki gleymd.
En "innsiglin" bunguðu upp á við, eins og tveir sterkir stofnar, sem rætur tvinnuðu niðri í moldinni, brytust þar upp og langaði einnig til að flétta greinum saman.
Því enn var það spádómur og ráðgáta, hvað leiða mundi af atvikunum við andlát þeirra beggja.
* * * Það, sem fór í gröfina um leið og Þorgeir, var ekki verzlun sú, sem hann hafði veitt forstöðu, eins og bæði hann sjálfur og aðrir höfðu búist við, heldur - Kaupfélagið.
Brennunni var þó ekki um það að kenna, sízt beinlínis. Tjónið, sem kaupfélagsmenn höfðu beðið af henni, reyndist auk heldur nokkuð minna en skýrt hafði verið frá á fundi þeirra um sumarið.
Vátryggingarféð fengu þeir alt greitt möglunarlaust. Var það fyrir einstaka velvild og hjálpsemi umboðsmanns vátryggingarfélagsins hér á landi, að svo fór um vöruábyrgðina. Hann var efnaður kaupmaður og kaupfélagsstjóri í öðru kauptúni. Hafði hann gert þeim kaupfélagsmönnum í Vogabúðum þann ómetanlega greiða að senda iðgjald þeirra frá sjálfum sér, þegar að því kom, að hann þurfti að standa vátryggingarfélaginu skil á því, svo skjöl félagsins báru það með sér, að vátrygging á þessum vörum, sem brunnu, var endurnýjuð. Hann hafði gengið að því vísu, að þeir kaupfélagsmenn mundu vilja halda áfram vátryggingunni, þótt það drægist, að þeir sendu iðgjaldið. Þennan sama greiða hafði hann neyðst til að gera ýmsum öðrum. Fáir stóðu í skilum.
En þótt brennan yrði ekki félaginu að fótakefli beinlínis, þá flýtti hún falli þess. Allar sakir þess voru komnar í slíkt hirðuleysi, að engar líkur voru til, að það gæti haldið áfram lífi sínu til lengdar. Þetta var ekki síður að kenna stjórnendum þess en öðrum meðlimum. Enginn þeirra var verki sínu vaxinn, hvorki að þekkingu né hæfileikum. Sá maðurinn, sem mesta verzlunarþekkingu hafði og bezta hæfileika af öllum í þeim félagsskap, var ekki í stjórninni og gerðum hennar lítið kunnugur.
Þegar Friðrik kom til útlanda og ætlaði að fara að útvega félaginu vörur hjá gömlum viðskiftamönnum þess, komst hann að raun um það fyrir alvöru, hvernig áliti þess og lánstrausti var komið. Þrátt fyrir vissuna um vátryggingarféð, var erindi hans þannig svarað, að bezt væri að bíða og sjá, hvernig skuldir félagsins yrðu greiddar þá um haustið. Hingað til höfðu greiðslur verið verri með hverju ári, og ef eins færi þetta haust, vildu þeir ekkert við félagið skifta, fyr en allar skuldir þess væru greiddar. Friðrik varð því að sætta sig við að bíða, þar til skipið kæmi frá Íslandi með fé Kaupfélagsins. En þegar það kom, var öll von um nýtt vörulán úti. Aldrei hafði ver goldist og aldrei hafði féð frá Kaupfélaginu verið jafnrýrt. - Friðrik gafst þá upp við að reka erindi Kaupfélagsins. Fékk hann sér vöruslatta fyrir eiginn reikning, handa verzlun þeirra bræðranna, og kom heim með standferðaskipi seint um haustið.
Heima fyrir gekk ekki betur, meðan Friðrik var erlendis. Það virtist svo, sem það lítið, sem eftir var meðal félagsmanna af trú á þetta Kaupfélag, hefði kulnað út með síðustu eimyrjunni í brennurústinni.
Eins og oft vill verða, dróst það nokkuð, að félagið fengi vátryggingar-fjárhæðir sínar greiddar, þótt ekki væri þeim mótmælt. Var það bæði að kenna tregum samgöngum og algengum skrifstofuvafningum. En fyrst félagið gat ekki fengið vörulán, þar til það fengi féð, gat það ekki efnt loforð sín við félagsmenn. Þessi vöruslatti, sem það hafði fengið að láni hjá nágranna-kaupfélagi, hrökk lítið, og nú gat félagið ekki borgað hann heldur með vörum af sama tagi, eins og um var samið, svo við sjálft lá, að það drægi það félag í glötunina með sér.
Ekki þurfti svo mikils með til þess að nokkrir félagsmenn færu að "tigna aðra guði". Nú freistaði Jespersens-verzlunin þeirra mjög, einkum þar sem hún hafði nú fengið nýjan húsbónda og nokkuð af vörum. Eftir því, sem þrengdist í búi hjá þeim kaupfélagsmönnum, fjölgaði launblótum. Kur manna var illur, og voru nú margar sögur á sveimi um hag félagsins og frammistöðu stjórnarinnar, sumar meira en ískyggilegar. En þegar Friðrik kom tómhentur, fór alt samkomulag út um þúfur.
Á fundi, sem haldinn var í Vogabúðakaupstað snemma á jólaföstu, liðaðist alt Kaupfélagið í sundur með miklum gný. Samræmi það og samkomulag, sem drotnað hafði á fundinum um sumarið, var nú orðið að hinni mestu sundrung og óánægju. Guðmóðurinn, sem þá hafði verið í öllum, var nú orðinn að megnri tortrygni og úlfúð. Árni á Fífumýri var nú aðalmálsvari félagsmanna gegn stjórninni, og ekki mjúkyrtur. Jón á Fitjum og Bjarni á Fossalæk fylgdu honum fast að málum. Þeir sögðu, að stjórnin hefði svikið sig og dregið á tálar. Hún hefði haft stór orð um að geta bætt úr þessu öllu og gefið hinar glæsilegustu vonir. Hvar væru nú efndirnar? Nú liti ekki út fyrir annað en harðæri og bjargarskort, sem væri að kenna óstjórn þeirra og lappaskap. Stjórnin kvað aftur á móti alt þetta ólag eiga rætur sínar í óorðheldni og vanskilum félagsmanna sjálfra og fór um það ómjúkum orðum. Þessi deila harðnaði, og kom þá ýmislegt fram í umræðum, sem áður hafði legið í þagnargildi og þótti ófagurt. Var það sýnilegt, að stjórnin var í hinni verstu klípu og sjálf ekki sammála. Friðrik kaupmaður, sem þar var á fundinum, ámælti einnig stjórninni mjög þunglega fyrir fyrirhyggjuleysi og amlóðaskap. Kvað hann það henni að kenna, að skuldir félagsmanna hefðu vaxið og félagið lent í ógöngum. Þetta varð olía í ófriðareldinn. Endaði fundurinn loks með því, að mikill þorri félagsmanna, með Árna á Fífumýri í broddi fylkingar, úteygðan og æðaberan fremur venju - því maðurinn var reiður - gekk af fundi og hafði þau ummæli um, að þeir gæfu þetta kaupfélag dauðanum og djöflinum og verzluðu hvar sem þeim sýndist.
Eftir það var Kaupfélagið ekkert annað en dánarbú, með tekjur af eldsvoðaábyrgð, útgjöld í Englandi og skuldir heima á hverjum bæ í umdæmi sínu. Nokkrir menn úr því, þeir öflugustu og sjálfstæðustu, fylktu sér nú utan um Bræðraverzlunina til þess að magna hana svo, að hún þyldi hverja þá samkepni, sem þar væri hugsanleg.
Hinn nýi yfirmaður Jespersens-verzlunarinnar skrifaði verzlunarstjórninni jafnóðum það, sem gerðist þar í verzlunarsökum. Heimtaði hann þá meiri vörur fyrir hvern mun og kvað þörf á að afstýra hallæri. En jafnframt væri nú hið bezta tækifæri, sem nokkurn tíma mundi gefast, til að reisa verzlunina við. Verzlunarstjórninni í Kaupmannahöfn gekst svo hugur við þessar óvæntu fregnir og fortölur, að hún réð af að halda verzluninni áfram. Og nú kom það fyrir, sem aldrei hafði heyrst áður í verzlunarsögu Vogabúðakaupstaðar, að danska fastaverzlunin fékk seglskip, hlaðið allskonar vörum, - rétt fyrir jólin.
En þótt þessi tilraun til innlendra verzlunarsamtaka í Vogabúðum hefði ekki orðið giftudrjúgari eða langlífari, var síður en svo, að hún hefði til einskis komið. Hún hafði brotið hinn gamla hlekk dönsku einokunarinnar um þvert. Hann var óbætanlegur, og einokun, af hverju tagi sem var, var þar framvegis óhugsandi. Ófarir Kaupfélagsins voru beiskar á bragðið; en heilnæmar voru þær samt. Flak þess sýndi bezt, hvar skerið leyndist. - Það fyrsta, sem hin íslenzka og danska fastaverzlun í Vogabúðum komu sér saman um, var að reyna að útrýma skuldaverzluninni. Það gekk illa í fyrstu. En altaf urðu þeir fleiri og fleiri, sem sáu sér hag í því og fundu jafnframt gleði af því að borga upp alla úttekt sína, að minsta kosti tvisvar á ári. En bezt fengu þeir kaupin og mest voru þeir virtir af báðum keppinautum, sem jafnan létu hönd selja hendi. Þeir voru upp á engan komnir og fundu vel til þess.
Og það, sem meira var, - furðu fljótt og furðu alment fundu menn það og skildu, að það var einmitt þetta, sem Þorgeir hafði byrjað á og barist fyrir alla sína æfi, þótt ekki hefði hann borið gæfu til að leiða það til sigurs. Að honum nýlátnum var tími þessarar hugsjónar að renna upp. Nú fjölgaði þeim árlega, sem skildu, hvað hann hefði átt við með prédikunum sínum um "efnalegt sjálfstæði", sem væri grundvöllur alls annars sjálfstæðis. - Og lengi loddi mönnum í minni sumt af því, sem hann hafði sagt á réttarveggnum við Hvanndalarétt.
-
Samskotunum, sem frúrnar höfðu efnt til handa Margrétu í Bælinu, varð lítið ágengt. Og þegar fyrirmæli Þorgeirs í niðurlaginu á gjafabréfinu spurðust, var samskotunum auðvitað lokið. Voru þá komnar á samskotaskrána rúmar 50 kr. og frúrnar orðnar steinuppgefnar. Sýslumannsfrúin boðaði þá til fundar í nefndinni, en engin kom. Þá boðaði hún aftur til fundar, og kom ein af nefndarkonunum, - sú fimta. Hinar máttu ekki vera að því. Sýslumannsfrúin lét þá bera skriflega tillögu á milli nefndarkvennanna, þess efnis, að verja skyldi krónunum fyrir ljósahjálm í sóknarkirkjuna, og féllust þær allar á þá uppástungu.
Annars var nú farin að kólna vináttan á milli sýslumannsfrúarinnar og læknisfrúarinnar. Sýslumannsfrúin gat aldrei fyrirgefið læknisfrúnni það, að hún sótti brúðkaupsboð Rögnu, og varð það þeim til sundurlyndis. Nú voru þær með öllu hættar að heimsækja hvor aðra. - Aftur varð nú með hverjum degi kærara með þeim Rögnu og læknisfrúnni.
Ekki var það erfitt að fá góða samastaði handa börnum Einars í Bælinu, því nú keptust menn um að fá að taka þau. Sveitarstjórnin kom þeim þó aðeins fyrir á úrvalsheimilum. Börnin voru hraust og fremur myndarleg, svo enginn efaðist um, að þeim mundi fara vel fram. Margrét fékk að vera á sama bæ og yngsta barnið, en Bælið var lagt í eyði. - -
Einn dag um haustið, skömmu eftir að póstur var kominn, gekk sýslumaður heim að Vogabúðum. Það gerði hann sjaldan, svo nærri mátti geta, að hann átti erindi.
Sigurður var að moldarverki með mönnum sínum þennan dag. Var hann að láta rjúfa öskuhauginn mikla í hlaðvarpanum. Búfræðingur hafði verið þar á ferð nýlega, og hafði hann leitt athygli hreppstjórans að því, hvílíkan auð hann ætti ónotaðan í þessum gamla sorphaugi. Kvað hann slíka hauga vera vana að geyma mikinn forða af fúnuðum leifum jurta og dýra, sem ágætar væru saman við áburð. Um þetta hélt hann ræðustúf á haugnum sjálfum, og sýndi sú ræða bæði mælsku og lærdóm. Taldi hann þar upp allskonar nytsöm efni og efnasambönd, sem fyndust í slíkum haugum, svo sem kolsýru, saltpétursýru, brint, kalí, fosfor, ammoniak o. fl. o. fl., svo hreppstjórann snarsvimaði. - Oft höfðu ólærðir menn sagt Sigurði, að haugurinn mundi vera góður til að drýgja með honum áburð, en hann gefið því lítinn gaum. Nú lét hann ekki segja sér það oftar. - Var nú haugrofinu svo langt komið, að Sigurður og menn hans voru horfnir í geilina; sáu þeir því ekki til mannaferða heim í hlaðið.
Sigurði var sagt frá komu sýslumanns. Var hann þá svo búinn, að hann var í indigólitaðri millifatapeysu undir vestinu; hlýja stormhúfu hafði hann á höfðinu, en ekki "þá frönsku" að þessu sinni. Ekkert tóm gafst Sigurði til að skifta um klæði, og varð hann að ganga á fund sýslumanns eins og hann var búinn.
Sýslumaður hélt tölustúf. Kvað hann það vera allranáðarsamlegastan vilja hans hátignar konungsins að sæma sinn elskulega Sigurð hreppstjóra í Vogabúðum heiðursmerki dannebrogsmanna fyrir einstakan dugnað í jarðabótum og sveitamálum og langt og vel rækt hreppstjórastarf.
Sigurður færðist undan því, að krossinn væri festur á hversdagsföt hans. En það vildi sýslumaður ekki heyra. Í slíkum búningi kvað hann Sigurð hafa unnið þjóð sinni mest gagn og stétt sinni mestan sóma. Síðar gæti hann hengt hann á spariflíkurnar, ef hann vildi. - Kraup Sigurður niður, meðan sýslumaður festi á hann krossinn. Grét hann af gleði og bað guð fyrir konunginum, landshöfðingjanum, sýslumanninum og öllu því, sem honum datt í hug þá í svipinn, en kvað sig ómaklegan slíkrar sæmdar.
Sýslumaður beið á meðan geðshræringar Sigurðar voru að jafna sig. Því næst mæltist hann til, að Sigurður héldi áfram að vera hreppstjóri, og treysti honum til að gera það fyrir sín orð. Var það mál auðsótt, og skildu þeir hreppstjórinn og sýslumaðurinn miklir vinir.
En úr því að Sigurður hafði ekki "þá frönsku" við þetta hátíðlega tækifæri, leit hann svo á, að komast mætti af án hennar við önnur minni háttar, og setti hana því ekki upp framar.
Um sama leyti varð Sveinbjörn í Seljatungu dannebrogsmaður.
-
Láts Þorgeirs var getið í flestum fréttablöðum. Var hans alstaðar minst hlýlega og gjafasjóðs hans getið með þakklæti.
Ári síðar stóð svolátandi kafli í fréttabréfi frá Vogabúðum, sem út kom í einu af Reykjavíkurblöðunum:
- - - - - - - - - - - - - - - - - -
"Þann 5. þ. m. var reistur hér í kirkjugarði sóknarkirkjunnar legsteinn yfir Þorgeir Ólafsson verzlunarstjóra. Verzlun sú, er hann veitti forstöðu, hefir gefið hann. Steinninn er úr forngrýti (granit) og á framhlið hans er höggvið:
THORGER OLAVSON
FACTORog fæðingar- og dánardagur neðan undir.
Það sér á, hverjar hendur hafa fjallað um stein þennan. Fáir aðrir en Danir hefðu getað hnoðað saman 5 - fimm - vitleysum í eitt íslenzkt mannsnafn. Enda er nafnið á stöðu hans á dönsku. Líklega hefir blessaður danskurinn vilzt á "hjálendum" sínum rétt einu sinni og mint, að steinninn ætti að fara til Grænlands.
Steinninn er sýnilegur minnisvarði þess, hvað Þorgeir var í margra augum meðan hann lifði: Danskur þjónn, danskur erindreki og jafnvel danskur Íslendingur.
Þessi skoðun á honum mun nú vera úr sögunni, og víst er um það, að flestum mun finnast hann eiga íslenzkari bautastein skilið. Þessi steinn er til hneykslis á gröf hans, þótt þeir, sem hann reistu, hafi auðvitað sízt til þess ætlast. En varanlegastan bautastein hefir hann reist sér sjálfur, með stórgjöf þeirri, er þetta blað hefir áður getið um. Hún ber beztan vott um það, hvort hann hefir talið sig íslenzkan eða danskan sjálfur.
Ættum vér marga Íslendinga, sem væru jafnokar Þorgeirs, mundi okkur bráðum vel vegna. Það gerði þá minna til, í hvers þjónustu þeir væru, þótt bezt væri, að þeir ættu með sig sjálfir. Hitt er þó jafnan mest um vert, að þeir kannist við þjóð sína og hafi ríkan hug á einhverju því, sem henni má til farsældar og frama verða.
Annars er líf Þorgeirs eftirtektarvert. Vel væri það þess vert, að æfisaga hans væri rituð og gefin út fyrir almenning ásamt því, sem til næðist af bréfum hans. Mér er altaf í grun, að allur þorri manna hafi misskilið þann mann, meðan hann lifði, og ef til vill hefir sá misskilningur fallið honum þunglega. Enda þótti hann einrænn og þunglyndur hin síðustu æfiár sín.
Þorgeir lifði á tíð tveggja kynslóða. Hann var eftir öllum atvikum sjálfkjörinn formaður hinnar fyrri. Aftur á móti lenti honum saman við þá síðari og fór fremur halloka fyrir henni. Að minni skoðun stóð hann í þeirri baráttu þeim megin, sem síður skyldi. Síðustu ár hans voru mæðusöm hnignunarár fyrir það fyrirtæki, sem hann vildi reynast trúr og samvizkusamur umboðsmaður. Enginn veit, hve þungt sú hnignun hefir fallið honum, og aldrei þótti mönnum hann jafnundarlegur eins og síðasta sumarið. - Sumir héldu, að sinnisveiki stríddi á hann.
Æfiár Þorgeirs eða starfsár hans voru sannkölluð byltinga- og breytingaöld. Það mun ekki fjarri lagi, sem hann gerði eitt sinn í samsætisræðu, að líkja þeim við leysingu - vorleysingu, þegar alt er að færast úr klakadrómanum og endurfæðast. Gamlir verzlunarhlekkir, sem um ómuna aldur höfðu þjakað alþýðu hér, voru að leysast sundur á dögum hans, en jafnframt þeim leystist margt annað sundur, bæði í mönnum sjálfum og samlífi þeirra. Menn fundu til kraftanna í sjálfum sér og toguðu og slitu æðislega af sér fjötrana, - ef til vill of æðislega. Þeir voru eins og vorleysingin, þeir kunnu sér ekki hóf. Þeir voru ekki lausir við alt það gamla, þótt þeim fyndust hlekkirnir hrynja glamrandi til jarðar. Endurfæðingar heilla þjóða eru hægfara. Frelsi er tvíeggjað sverð og þeim til óblessunar einnar, sem ekki eru því vaxnir að bera það og beita því. - Þorgeir var hér síðasti lyklavörður þessa hataða hlekkjavalds, en jafnframt leyfi ég mér að segja, að hann hafi verið fyrsti hlekkjabrjóturinn. Í honum sjálfum byrjaði leysingin, sem beljaði um herðar hans í ellinni og bylti honum að lokum".
Bréfkafli þessi var lesinn með mestu athygli í Vogabúðum og sveitunum þar í grend. Nokkur eintök, sem þangað bárust af blaðinu, voru lánuð bæ frá bæ og mann frá manni, þar til þeim var því nær uppslitið. Sjaldan voru pistlar í blöðunum úr þessu héraði, og umtalsefni blaðanna snertu sjaldan menn og málefni þessara sveita sérstaklega. Því meiri var þorsti manna eftir að lesa þennan bréfkafla.
En misjafnir voru dómar manna um bréfkaflann og mjög á reiki. Sumum fanst hann bera oflof á Þorgeir. Öðrum þótti hann of óákveðinn og voru í efa um, hvar bréfritarinn vildi leggja áherzluna. Þeim þótti sagan ekki nema hálfsögð og vildu láta rekja hana til róta, úr því farið var að minnast á hana.
Margar voru einnig getur manna um það, hver skrifað hefði bréfkafla þennan. Getið var upp á Sveinbirni í Seljatungu, umboðsmanninum á Klaustrinu og þeim Vogabúðabræðrum, einkum Sveinbirni. Þessir menn þóttu allir sæmilega ritfærir. Sumir gátu jafnvel upp á Rögnu. En enginn gat upp á lækninum; það var sem menn myndu ekki eftir því, að hann gat vel stílað bréf liðlega, þótt hann stamaði!
Þegar Sveinbjörn í Seljatungu hafði lesið bréfkafla þennan, lét hann blaðið síga ofan á hné sér og sat hugsi um stund. Loks mælti hann seint og stillilega:
"Við erum skammsýnir, mennirnir, og skiljum ekki hverjir aðra. Þess vegna kemur okkur illa saman við og við. Þorgeir höfum við ef til vill lagt í gröfina fyrir aldur fram. En þó mun minning hans lengur uppi vera en okkar hinna. Of seint lærðum við að þekkja hann til fulls. Það hefir löngum valdið hinum þungu örlögum í sögum Íslendinga".
Þessi ummæli Sveinbjarnar spurðust víða.