1. kafli
Byssuskot, sem ekki gerir meira tjón en það, að granda lífi einnar geldmjólka belju, getur varla með tíðindum talist.
En fyrir Heiðarhvamm var þetta byssuskot mikil tíðindi. Það endurómaði frá fjöllunum og buldi á bænum eins og þungt högg, því að það blés á ljós hinna síðustu vona um það, að þar væri hægt að halda áfram búskap lengur en til vorsins.
Skepnan, sem fyrir því varð, blés blóðlitaðri gufu fram úr nösunum, kiknaði í knjáliðunum og féll áfram, svo að granirnar rákust í frosna jörðina. Svo valt hún út af á hliðina og hreyfði hvorki legg né lið.
Þetta gerðist sunnan undir bæjarveggnum. Halla stóð heima á hlaðinu og lét veggjarkampinn skýla því fyrir sér, sem fram fór. Hún þoldi varla að horfa á eftirlætisskepnuna sína falla fyrir kúlunni.
En það var ekki lengi, sem hún mátti láta það eftir sér, að hlífa þannig tilfinningum sínum. Rétt á eftir varð hún að koma fram á vettvang og gera þann hluta sláturvinnunnar, sem kvenfólki var venjulega ætlaður.
Það var seint í október. Veturinn settist óvenju snemma að með kuldum og rosum. Fjöllin voru hvít niður í miðjar hlíðar og þekjurnar á kofunum í Heiðarhvammi gráar í rót og beingaddaðar, og það áður en nokkur mannshönd hafði getað dyttað að þeim.
Karlmennirnir, sem þarna voru viðstaddir, voru þrír. Tveir af þeim voru frá Hvammi, en hinn þriðji var Ólafur, húsbóndinn í Heiðarhvammi.
Mennirnir frá Hvammi voru þessir:
Finnur, sem eitt sinn hafði verið í Bollagörðum. og Pétur Pétursson, sonur Péturs heitins á Kroppi. Uppeldissonur þeirra Hvammshjóna nú síðari árin.
Pétur var unglingur á fermingaraldri, vasklegur og mannvænlegur, og nú þegar orðinn besta skytta.
Hann var líkur föður sínum að útliti, fríður sýnum og bráðþroska. En hann var ólíkur honum í lund, stilltur vel og glaðlyndur.
Þegar hann hafði lokið erindi sínu að þessu sinni, lagði hann byssuna á öxl sér, kvaddi og gekk út á heiðina í veiðihug.
Finnur varð eftir hjá Ólafi og hjálpaði honum til að flá kúna og lima hana sundur.
Hann var búinn að þola hegningu sína og orðinn vinnumaður hjá Agli í Hvammi. Nú var hann orðinn ólíkur því, sem hann hafði verið í sambúðinni við Settu. Nú var allur flóttasvipur og uppgerðarbragur horfinn af honum. Nú skein út úr honum glaðlyndið og góðmennskan og nú vildi hann öllum gera allt til þægðar. Egill í Hvammi hafði oft orð á því, að hann hefði aldrei haft annað eins hjú. Aðra eins trúmennsku, ósérhlífni og ósérplægni hefði hann aldrei þekkt.
Og nú leið Finni vel. Hann fann það á sér, að í Hvammi mundi hann verða eftir þetta til dauðadags.
Í hegningarhúsinu hafði skilið með þeim Settu og honum. Hún hafði verið þar eftir, þegar hann fór, og Þorbjörn bróðir hennar líka.
Ólafur var náfölur í framan og skalf af óstyrk. Hann hafði verið veikur mestallt árið og lítið sem ekkert getað heyjað um sumarið. Nú sá varla á honum, að hann væri sólbrenndur eða veðurtekinn, eins og hann hafði þó verið alla sína ævi til þessa. Og hann, sem þolað hafði kuldann öllum mönnum betur, var nú uppdubbaður með niðurbretta stormhúfu og margvafinn ullartrefil um hálsinn, en hendurnar bláar og loppnar, þó að veðrið væri nærri því frostlaust.
Undanfarið hafði hann legið rúmfastur, en skreiðst á fætur þennan dag, til þess að reyna að verða að einhverju liði við það verk, sem nú var verið að vinna.
Ólafur hafði að vísu aldrei haft miklum manni að má; en nú var honum þó gengið.
Seinna um daginn voru þau öll inni í baðstofu. Börnin voru þar líka og Salka. Hún hafði verið látin gæta kindanna um daginn skammt frá bænum. Halla hafði gefið henni auga og loks kallað á hana heim.
Ólafur lagðist undireins upp í rúm sitt. Köldum svita sló út um hann allan.
Eitt af aðalsjúkdómseinkennum hans var þreytan, - þreyta, sem aldrei skildi við hann, nótt né dag; máttleysi, svimi og látlaus bakverkur.
Þó að hann lægi dag eftir dag, kvartaði hann stöðugt um lúa, þreytuverk í öllum beinum sínum, lystarleysi og svefn, sem á sig sækti. Á nóttunni gat hann ekki sofið fyrir þreytuverkjum. - Að öðru leyti fann hann lítið til, og oft trúði hann því varla sjálfur, að hann væri neitt veikur.
Eða réttara sagt: Hann kallaði þetta ekki nein veikindi, - þetta máttleysi, þreytu og lystarleysi! "Ólukku slen" og ekkert annað. Þetta gekk að öllum mönnum. - Þetta í bakinu á honum var giktarótukt. Hvar sem hann leit á sjálfan sig, var hann heill; hvergi sá neitt á honum. Enginn af þeim sjúkdómum, sem hann þekkti nöfn á, gekk að honum. Stundum hafði hann reynt að hrista þessa þreytu af sér, manna sig upp og vinna eins og berserkur. Það hafði tekist um stund, einn dag eða svo. Þá var hann að því kominn að hníga niður. Þá varð hann að gefast upp og leggjast fyrir aftur, - "hvíla sig", eins og hann kallaði það.
Finnur sat á rúminu gagnvart Ólafi. Nú var það rúm barnanna og Höllu sjálfrar. Halla var að búa til kaffi við borðið á milli rúmanna.
"Þú verður að segja okkur eitthvað í fréttum, Finnur," mælti hún. "Það er svo langt síðan þú hefir komið til okkar. Ég held, að það séu orðnar einar þrjár vikur."
"Já, það eru líklega orðnar einar þrjár vikur," sagði Finnur glaðlega. "En það kalla ég nú ekki langt."
"Það er langt fyrir okkur heiðarbúana, sem varla sjáum nokkra manneskju á þessum dögum. Hér hefir varla komið maður síðan um göngur. Ég veit ekki, hvernig ég hefði farið að því að koma orðum ofan að Hvammi, hefði ég ekki getað kallað til hans Péturs litla, þegar hann gekk hérna hjá í gær. Stundum var ég að hugsa um að ganga ofan á hálsinn til að vita, hvort ég hitti þar engan við nýju beitarhúsin."
"Því gerðirðu það ekki?" mælti Finnur. "Við höfum verið þar alla dagana núna að undanförnu."
"Ég heyri, að Egill hafi látið byggja beitarhús niðri á hálsinum," mælti Ólafur, og var sem hann vaknaði. Enn þá voru eyru hans viðkvæm fyrir öllu því, sem að skepnuhirðingu laut.
"Já, stærðarhús, sem tekur allt fullorðna geldféð," mælti Finnur dálítið hreykinn. Hann hafði staðið fyrir byggingu beitarhússins að mestu leyti.
"Þetta hefði Egill minn átt að gera fyrri," sagði Ólafur. Hann lá með aftur augun, og það var sem hann talaði upp úr svefninum. "Ég hefi sagt honum það, að þessi langi rekstur á fénu, heiman frá bæ og upp á hálsa, í hvaða færð sem væri, dræpi dáð úr hverri skepnu. Og það er kjarngott kvistlendið á hálsinum; það þekki ég. Þangað hefi ég stundum farið með skepnurnar mínar, á meðan ég átti þær nokkrar og gat stundað þær. Þar verður líklega síðast haglaust í Hvammslandi."
"Þetta sagði ég Agli líka, - alveg þetta sama," mælti Finnur. "Og loksins lét hann til leiðast."
"Ég hefði haft gaman af því að rölta upp eftir og sjá þetta nývirki, ef ólukku þreytan í mér rénaði einhvern tíma."
"En hver verður nú fyrsti beitarhúsamaðurinn?" skaut Halla inn í, þó að hún vissi vel, hver átti að verða það.
Finnur leit niður fyrir sig eins og feiminn drengur.
"Ég trúi að ég eigi að verða það," mælti hann.
"Þá trúir Egill þér vel," mælti Ólafur, "því að ekki lætur hann sauðina sína í hendurnar á öðrum en þeim, sem hann trúir fyrir þeim. - Og það í beitarhúsi, þar sem hann getur ekki litið eftir þeim sjálfur."
Finnur þagði. En það var auðséð á andlitinu á honum, að honum þótti vænt um þessi orð.
"Þá skreppurðu heim til okkar við og við, þegar bærilega viðrar, og segir okkur fréttir úr sveitinni," mælti Halla.
"Það getur vel verið," mælti Finnur brosandi. "Einkum ef ég skyldi finna kaffi-ilminn upp á hálsana til mín."
"Þú verður að færa mér kaffið, jafnóðum og það þrýtur hér heima, því að ekki kemst ég í kaupstaðinn. Og mjólkurlaust verðurðu að gera þér það að góðu, því að nú eru ekki kýrnar í Heiðarhvammi."
Finnur tók þessu vel.
"Þarna hefirðu leikið á mig, Finnur minn," mælti Ólafur. "Oft hefi ég hugsað um það, að verða sauðamaður hjá Agli í Hvammi og fá að hafa Höllu í húsmennsku með krakkana. Nú held ég það ætli ekki að verða."
"Hver veit."
- Þó að samtalið gengi liðugt, leyndi það sér ekki, að einhver þungi bjó undir og stal öllum glaðværðarhreim úr orðunum. Það líktist söknuði eða kvíða - eða hvoru tveggja. Halla var svo lengi búin að ganga með þetta í huganum, að hún gat leynt því furðuvel. Þó var ekki laust við, að Finnur yrði þess var, og það greip hann líka, þó að hann vildi ekki láta á því bera. Hann kenndi í brjósti um þau Heiðarhvammshjón og kveið vetrinum þeirra vegna.
En Ólafur gat ekki dulið þessar ömurlegu tilfinningar."Ég þarf ekki beitarhús fyrir þessar fáu kindur mínar í vetur," mælti hann. "Þær eru ekki fleiri en svo, að þær komast fyrir í kofunum hjá mér."
"Inni í bænum -?" spurði Finnur hálfforviða.
"Já, og sumt af þeim hérna í baðstofunni hjá okkur."
Halla gaf Ólafi bendingu um það, að segja ekki of mikið. Finnur tók eftir þessu og hætti að spyrja. En hann leit forvitnislega um alla baðstofuna.
"Rúmið hennar - þú skilur - verður tekið burt og þar búin til jata handa ánum okkar," mælti Halla ofur lágt. "Við höfum sagt hreppsnefndinni til hennar. Hún getur ekki lifað hér í vetur, mjólkurlaus."
Halla stundi við, og tárin komu fram í augun á henni.
Salka sat á rúmi sínu, alveg sokkin ofan í sínar eigin hugsanir og beið eftir kaffibollanum sínum. Hún hafði enga hugmynd um, að verið væri að tala um hana. Börnin voru líka orðin óþreyjufull eftir því, að rennt væri í bollana þeirra.
Finnur skildi ofur vel, hvernig í öllu lá, en sagði ekkert. Enginn sagði neitt ofur litla stund.
Halla varð fyrst til að rjúfa þögnina.
"Mér þykir þú vera fréttalítill neðan úr mannabyggðum eftir allan þennan langa tíma," mælti hún við Finn. "Það er þó skylda gestanna að segja eitthvað í fréttum."
"Hvað er langt síðan þið hafið frétt að neðan?" spurði Finnur.
"Þrjár vikur, eins og ég sagði áðan. Það hefir enginn komið neðan yfir fjall síðan göngunum lauk."
"Hafið þið þá ekki frétt það, að Þorsteinn er kominn heim?"
"Þorsteinn kominn -?" tók Halla upp eftir honum, og það skvettist út úr bollanum, sem hún hélt á. Hún náði sér þó undireins aftur og gat leynt því, að henni hefði orðið hverft við.
"Hvenær kom hann?" spurði hún eftir stutta þögn.
"Ég held það séu nærri því þrjár vikur síðan," mælti Finnur.
"Svo-o langt!"
Samtalið slitnaði aftur í sundur, án þess þau vissu eiginlega af hverju.
"Varð það ekki mikill fagnaðarfundur?" spurði Halla eins og út í loftið.
Finnur hristi höfuðið, en sagði ekkert. Halla horfði fast á hann. Það leyndi sér ekki, að hann bjó yfir einhverju, sem hann hikaði við að segja.
"Jú, það hefir nú líklega verið fagnaðarfundur - í bráðina," mælti hann loks.
"Í bráðina -?"
"Já. Þegar frá leið, er ég hræddur um, að mikið hafi skort á fögnuðinn."
"Svo? Og hvers vegna?"
Finnur lækkaði róminn og leit flóttalega í kringum sig, eins og hann væri að segja það, sem hann mætti ekki segja. Svo mælti hann:
"Hann drekkur þau lifandi ósköp!"
"Hann Þorsteinn -?" sagði Halla undrandi.
"Já. Því er nú miður."
Enn varð þögn um stund. Það rifjaðist nú upp fyrir Höllu, að hún hafði heyrt einhverjar slarksögur fljúga fyrir um Þorstein, á meðan hann var á Seyðisfirði. Hún hafði ekki látist heyra þær þá og engan trúnað á þær lagt. Síðustu árin hafði hann verið utan lands og ekkert af honum frétst.
"Aumingja Egill gamli," mælti Finnur. "Ég vorkenni honum. Ég hefi aldrei séð hann eins mæddan og beygðan eins og síðan Þorsteinn hans kom heim. Ég get ekki sannara orð talað en það, að ég hefi séð hann gráta undan Þorsteini sínum - eða yfir honum, og það oftar en einu sinni."
"Hefir hann drukkið síðan hann kom heim?"
"Já-já-já," mælti Finnur og hristi höfuðið. "Og það sem lakast er: Hann er svo vondur við vín. Ég held, að hann viti varla, hvað hann gerir."
"Þetta er illa farið," mælti Ólafur, sem hlýtt hafði á samtalið hálfsofandi. "Því að Þorsteinn var góður piltur."
"Já," mælti Finnur og stundi við. "Þorsteinn var góður piltur."
"Hvaðan kemur hann nú? Hvar hefir hann verið?" spurði Halla.
"Það veit enginn. Hann segir engum frá því heima hjá sér."
"Eru nokkrar sættir komnar á milli hans og móður hans?" spurði Halla eftir ofur litla þögn.
"Nei, mikil ósköp. Það er öðru nær."
"Hefir hann ekki einu sinni heilsað upp á hana?"
"Nei. Mér hefir verið sagt, að hún hafi gert honum orð og beðið hann að koma inn til sín, en hann hafi ekki látist heyra það. Hann fór undireins í gamla loftherbergið sitt uppi yfir smíðahúsinu, þegar hann kom. Mér vitanlega hefir hann ekki fengist til þess enn þá, að stíga fæti sínum inn í bæinn.
En hérna um daginn varð hann drukkinn, sem oftar, og reiddist - ég veit ekki út af hverju. Og þau ósköp, sem á gengu! Ég hélt, að hann ætlaði að brjóta og bramla allt í kringum sig. Og í þessum ham ætlaði hann að ryðjast inn til móður sinnar. Þá tók Egill á móti honum í bæjardyrunum, og - guð minn góður, önnur eins læti! Feðgarnir lentu í áflogum. Ég hélt, að Þorsteinn mundi brjóta hvert bein í föður sínum. Lækninum tókst loks einhvern veginn að skilja þá og sefa Þorstein. - Eftir þessi læti var Þorsteinn mesti aumingi í marga daga, fór varla á fætur."
"En læknirinn -?" spurði Halla. "Kemur ekki Þorsteinn stundum til læknisins og systur sinnar?"
"Það held ég ekki. Hann er í smíðahúsinu og hvergi annars staðar - alveg eins og í fyrri daga. Þangað er honum fært allt, sem hann þarf með. Þar vinnur hann á daginn og þar sefur hann á nóttunni. Á milli þess, sem hann er drukkinn, vita menn varla af því, að hann sé til á heimilinu."
- Út frá talinu um Þorstein leiddist samtalið smátt og smátt að Pétri heitnum á Kroppi, frænda hans. Það var ýmislegt í lífi og eðli þeirra beggja, sem minnti hvað á annað. Það var eins og þessi ofsi og óhemjuskapur í öllum greinum væru álög á ætt Borghildar.
- Þegar Finnur var farinn, gat Halla ekki um annað hugsað en Þorstein.
Oft hafði hún hugsað um hann undanfarin ár, en þá var hann jafnan langt í burtu - í einhverri veröld, sem hugur hennar sjálfrar bjó honum. Þá var hann undur yndislegt leikfang fyrir hugsanir hennar.
Nú var hann allt í einu kominn allt of nálægt henni. Hann stóð rétt hjá henni, án þess hún hefði orðið hans vör fyrr en hann var kominn. Það eitt vakti hjá henni beyg og óhug.
Og hvílík mynd af honum, sem nú skapaðist í hug hennar af orðum Finns! Hvílík umskipti! Alltaf hafði hann verið þar sem bjarthærður, góðlegur unglingur, dulur í skapi og fáskiptinn, tilfinningaríkur og hreinlundaður. Nú stóð hann henni fyrir augum sem risavaxinn drykkjusvoli, sem öllum stóð ógn af, henni sjálfri líka.
Og ef hann kæmi nú einhvern daginn að vitja um bækurnar sínar, sem enn þá voru hjá henni!
Gott var það á meðan hún gat sneitt hjá að verða á vegi hans.
Hingað til hafði aðalathvarfið hennar verið heim að Hvammi, þegar henni lá mikið á. Nú var fokið í það skjólið.
Hún ásetti sér að stíga aldrei fæti heim að Hvammi á meðan Þorsteinn væri þar. Enginn skyldi geta sagt, að hún væri að leitast við að ná fundi hans.
Hún kveið fyrir að sjá hann, kveið fyrir að verða á vegi hans, og - hann varði henni bæinn í Hvammi.
2. kafliTíminn vinnur verk sitt með iðnum höndum, þótt ósýnilegar séu þær, og hann er verkadrjúgur, þó að hann fari hægt.
Hann hafði gert "undur og stórmerki" í sveitinni þessi síðustu árin. Hann hafði unnið á mörgum eldgömlum bábiljum og - skapað aðrar nýjar.
Síðan Aðalsteinn læknir byggði sér timburhús á hlaðinu í Hvammi, skildi Margrét á Brekku ekkert í því, hvernig hún hafði farið að lifa í moldarkofunum sínum til þessa dags.
Að hugsa sér þessi greni, sem fólkið nærri því skreið innan um. Að hugsa sér að þurfa að bjóða gestum inn í annað eins! Og hugsa sér svo timburhúsið læknisins til samanburðar!
Og nú var presturinn að láta byggja timburhús hjá sér. Þar átti að leggja gamla bæinn í rústir að mestu leyti.
Að hún Borghildur hennar blessunin skyldi geta unað sér í torfbænum rétt við hliðina á timburhúsinu! Það sá á, að nú var Borghildur orðin aumingi.
Það varð þó ekki timburhús, sem byggt var á Brekku, nema að nokkru leyti. Það var "langhús", sem sneri timburhlið fram á hlaðið. Það kom í staðinn fyrir bæjardyrnar og stofuna. Þau hús höfðu verið rifin niður, til þess að þetta kæmist fyrir, og sömuleiðis baðstofan.
Sigvalda hafði blöskrað kostnaðurinn við að byggja allt húsið úr timbri. Það var því með torfvegg á þeirri hliðinni, sem að bænum vissi, og torfveggjum upp að bitum við báða gafla. Þar fyrir ofan voru timburstafnar. Framhliðin var úr timbri og á henni stórir sex-rúðu- gluggar og einar dyr. Þekjan var úr torfi. Húsið var því hvorki torfhús né timburhús.
Við annan endann á því stóðu enn þá gömlu húsahrófin, sem snúið höfðu göflunum fram á hlaðið um ómunaaldur. Það voru skemmur tvær og smiðja. Þilin voru blásin og hvít, öll skökk og missigin, en þau báru þó virðulegan aldursblæ. Við hliðina á þessu nývirki urðu þau enn þá ellilegri, og jafnframt sneypulegri. Því að nú var þeim sýnd lítilsvirðing, sem þau áttu alls ekki skilið.
Aldrei hafði verið frítt heim að líta til Brekkubæjarins, en nú var það nærri því skoplegt. Þetta nýja hús gerði einhvern andkannalegan yfirlætissvip á bæinn, en svipti hann jafnframt því einfalda og traustlega, sem áður hafði verið þar ríkjandi. Bærinn varð hálfuppskafningslegur.
Dyrnar á þessu nýja húsi voru við þann endann, sem vissi að gömlu húsunum. Þar var afþiljaður gangur um þvert húsið inn í gamla bæinn. Úr honum lá stigi upp í baðstofuna, sem var uppi á lofti í húsinu. Niðri var stofa og innar af henni tvö gestaherbergi, bæði með rúmum. Á öðru þeirra hafði orðið að búa um gluggann í torfveggnum. Var skorið úr veggnum að innan fyrir glugghúsinu, svo að það fláði og gapti, eins og það ætlaði að gleypa þá, sem inn komu, með húð og hári.
Inni í þessu herbergi sat hin virðulega samkunda og vísa forsjón, sem nefnd var hreppsnefnd Dalasveitar.
Hún hafði hrökklast þangað inn, því að frammi í stofunni var bókstaflega óvært fyrir kulda. Hreppsnefnd er þó alls staðar trúandi til að sjá það, að heldur kann hún að geta yljað upp lítið herbergi með sjálfri sér og ljósinu en stóra stofu.
Borðið hafði verið dregið fram á gólfið og stól hnoðað inn fyrir það handa oddvitanum. Til hliðar við það sat maður á stóli og reyndi að klóra fundargerðina á laust blað með blýanti, því að botnfrosið var í blekbyttunni, - þeirri einu, sem til var á Brekku. Hinir tveir hreppsnefndarmennirnir sátu á rúminu, bældu sig þar niður í rúmfötin, hölluðust hvor upp að öðrum og sátu á höndunum.
Auðvitað voru þeir fimm, sem sæti áttu í hreppsnefndinni. Presturinn var fimmti maðurinn, en hann var ekki viðstaddur að þessu sinni.
Hreppsnefndarmennirnir, sem við voru staddir, voru þessir:
Jónar tveir, sem báðir voru Jónssynir. Raunar skrifaði annar þeirra nafnið sitt með stóru "A" á milli nafnanna, en samt var hann aldrei annað kallaður en Jón Jónsson. Það hafði því horft til vandræða, þegar aðgreina þurfti þessa tvo Jóna, einkum eftir að þeir voru báðir komnir í hreppsnefndina. Þó fann almenningur ráð við því. Annar þeirra bjó á Skeggjastöðum og var því kallaður Jón Skeggi, - þótt hann væri sjálfur skegglaus með öllu. Hinn var líka kenndur við bæ sinn. Hann bjó á Torfholti. Það þótti þó of langt að skeyta öllu bæjarnafninu við nafn hans. Hvort sem honum sjálfum líkaði betur eða verr, var hann aldrei kallaður annað en Jón Torfi.
Það var Jón Skeggi, sem það veglega hlutverk hafði hlotið að skrifa fundargerðina. Hann hafði raunar ekkert skrifað enn annað en það, að "Árið 18 .., sunnudaginn 3. nóvember, var fundur haldinn" - o. s. frv. Hreppsnefndin hafði ekkert gert enn þá, og Jón Skeggi nagaði blýantinn á milli þess sem hann blés í kaun.
Þriðji maðurinn var Sigvaldi, húsbóndinn á Brekku, og fjórði maðurinn Ásmundur á Kroppi, tengdasonur hans. Hann var oddviti nefndarinnar.
Honum hafði farið það fram síðan síðast var frá sagt, að hann hafði fengið ljóst alskegg, sítt og mikið. Það gerði andlitið karlmannlegra og dró úr heimóttarsvipnum.
Margrét hafði sem sé ekki linnt látum fyrr en bóndi hennar og tengdasonur voru báðir komnir í hreppsnefndina. Hún hafði nógu lengi orðið að una því, að Egill í Hvammi væri fremsti virðingarmaður sveitarinnar, næst sjálfum prestinum. Og nú, þegar kjósendur sveitarinnar réðu mestu um það, hver vegsemdina hlyti, lá hún ekki á liði sínu að hremma hana Sigvalda sínum til handa. Því að auðvitað mundi hann aldrei hafa atburði í sér til þess.
Margrét hafði því mikinn viðbúnað undir sveitarstjórnarkosninguna eitt vor. Hún fór þá víða um sveitina og átti hljóðskraf við húsfreyjurnar. Þær áttu síðan að hafa áhrif á bændur sína.
Flestir voru þá búnir að koma auga á vandann, sem þeirri vegsemd fylgdi, að vera í hreppsnefnd, og sóttust ekki eftir því. Margrét fékk því sínu máli framgengt.
Þó ekki að öllu leyti. Hún hafði ætlað Sigvalda sínum að verða oddvita nefndarinnar. En það þótti ótækt, þótt ekki væri það sagt hátt, að oddvitinn væri alls ekki sendibréfsfær. Þess vegna var Ásmundur kosinn.
Aumingja Sigvaldi fékk bágar viðtökur, þegar hann kom heim til Margrétar sinnar með þessi tíðindi. Það var þó bót í máli, að Ásmundur hafði orðið fyrir valinu.
En af því að húsakynni voru enn þá fremur léleg á Kroppi, flýtti Margrét fyrir því af alefli, að þetta nýja hús kæmist upp á Brekku, svo að hreppsnefndin gæti haldið þar fundi sína. Það skipti þá minnstu máli, hver oddvitinn var. Þau Brekkuhjón réðu þá mestu í sveitarmálunum, einkum ef presturinn var ekki við.
Margrét fyllti tölu hreppsnefndarmannanna að nokkru leyti. Fyrst skálmaði hún þar fram og aftur, ýmist inn í herbergið til þeirra, fram í stofuna, út úr henni, inn göngin eða upp í baðstofuna. En jafnan kom hún inn til nefndarinnar aftur. Loks lét hún hurðina aftur og settist niður inni hjá nefndinni.
Hún hafði þar ekki atkvæðisrétt að vísu. En hún bætti það upp með því að tala á við alla nefndarmennina til samans, og betur þó.
Margrét hafði ætíð verið "beinhoruð, skinin og löng", og ekki hafði þeim eiginleikum farið aftur síðari árin. Hún hafði orðið enn langleitari og enn beinaberari. Hún gekk að vísu allbein enn þá, en var orðin nokkuð gráhærð. Samt var eins og hún hefði fremur yngst en elst.
Og hún var orðin enn þá málugri en hún hafði verið. Þessar innsognu, þunnu kinnar voru á sífelldri hreyfingu, því að munnurinn gekk alltaf eins og saumavél.
Ef hún talaði ekki upphátt, suðaði hún eitthvað í hljóði. Þagað gat hún aldrei, meðan hún var vakandi.
Þetta kvöld lá óvenjulega vel á Margrétu. Hún lék við hvern sinn fingur.
Það var bréfið, sem hreppsnefndinni hafði borist frá þeim Heiðarhvammshjónum, sem hafði orðið henni að gleðiefni.
Þar var hreppsnefndinni gefið það til kynna í fám orðum, að sökum langvarandi lasleika Ólafs væru nú ástæður heimilisins þannig vaxnar, að þau hjón treystu sér ekki til að láta þessum sveitarómaga, sem hjá þeim væri, líða eins vel og þyrfti, og þó að þau tækju það mjög nærri sér, neyddust þau til að biðja hina háttvirtu hreppsnefnd að sjá Salgerði fyrir öruggari samastað, og það nú þegar.
Þetta var svo óvanalegt, að hreppsnefnd væri sagt til sveitarómaga á haustnóttum, að nefndin var í mestu vandræðum. Flestir létu þá líða með sér súrt og sætt yfir veturinn; skiluðu þeim heldur á vorin, máttlausum af megurð, ef ekki vildi betur til.
"Þetta sagði ég ykkur alltaf," gall í Margréti, "að Salka yrði aldrei mosavaxin í Heiðarhvammi. Það er stór furða, hvað hún hefir hangt þar lengi. Það hefði verið betra, að hún hefði verið hér kyrr, ræfilsskinnið það arna. Hér fór fullvel um hana. Nú getið þið reitt ykkur á, að enginn lifandi maður vill hafa hana. Halla er búin að spilla henni svo með bölvuðu eftirlætinu og kjassinu, að hún er ekkert orðin annað en heimtufrekjan og slæpingsskapurinn. Það var ekki eftirlætið, sem átti við hana Sölku, heldur vöndurinn - kláruskaftið liggur mér við að segja. Eina ráðið var að láta aldrei undan henni; láta hana hafa duglegan beyg af sér og líða henni aldrei að komast upp með neinar kenjar. Salka væri orðin meiri manneskja nú, hefði ég fengið að ala hana upp. Það var eins og annað í ráðsmennsku Egils í Hvammi, á meðan hann var einvaldur, þegar hann reif hana héðan. - Jæja. Hvað ætlið þið nú að gera við hana, villidýrið það arna? Ekki tek ég við henni; það þurfið þið ekki að láta ykkur detta í hug. Mér stendur á sama, hvað um hana verður, en inn í þennan bæ skal hún ekki koma framar. Ég held, að það væri nú best að flytja hana heim til Egils; hún gæti skemmt honum með orgunum úr sér og óhljóðunum, í þakklætisskyni fyrir það, að hann var að sletta sér fram í það, hvernig með hana var farið hér á árunum. - Kannske líka Halla fáist til að hafa hana kyrra, ef bætt er svo sem einu ómagameðlagi við meðgjöfina - -!"
Þannig lét Margrét dæluna ganga og meinfýsisgleðin skein út úr henni. Hreppsnefndin komst ekki að til að ráðstafa Sölku.
"Eitthvað megum við til að gera við hana," sagði Jón Skeggi einu sinni, þegar Margrét tók sér málhvíld til að anda.
"Já, eitthvað megum við til að gera við hana," át Jón Torfi eftir honum. Hann sagði eitthvað meira, en það heyrðist ekki, því að þá var Margrét byrjuð aftur.
"Við verðum að reyna að koma stelpunni einhvers staðar fyrir," mælti Sigvaldi, næst þegar Margrét tók sér málhvíld.
Oddvitinn studdi olnbogunum á borðið og höndunum undir andlitið. Það varð ekki séð í fljótu bragði, hvort hann svaf eða vakti.
"Fylgið þið nú mínum ráðum," sagði Margrét, "og látið þið stelpuskrattann vera kyrran í Heiðarhvammi. Þar vill hún vera, og hvergi annars staðar. Segið þið bara, eins og satt er, að það sé ólöglegt að segja til sveitarómaga í byrjun vetrar. Fyrst þau gátu ekki sagt til hennar fyrr, þá verða þau að sitja með hana til vors. Hver haldið þið sé við því búinn að bæta við sig manneskju undir veturinn? Og það öðrum eins átvargi."
"Ég held, að þetta væri nú það besta," sagði Sigvaldi. Hann andmælti aldrei konu sinni.
"Látið hana vera kyrra," sagði Margrét, áleitnari við það, að finna bilbug á nefndinni. "Þau eru ekki svo bjargarlaus, Heiðarhvammshjón, að þau geti ekki látið hana hjara til vorsins. Og þó að hún hrykki upp af -! Þetta er einhver búmennskuhnykkur af þeim Ólafi og Höllu."
"Nei, það held ég ekki," sagði Jón Skeggi alvarlega og stillilega. "Ég er hræddur um, að heimilisástæðurnar séu ekki glæsilegar. Ólafur hefir sama sem ekkert getað unnið í sumar. Og hann hefir fargað mestöllum skepnunum sínum í haust upp í skuldir."
"Hann liggur í leti, helvítis karlinn," sagði Margrét. "Hann er ekki veikur fremur en ég."
Á þeim árum féll það jafnan í góðan jarðveg þar í sveitinni, og jafnvel í hreppsnefndinni sjálfri, þegar sagt var, að einhver fátæklingurinn lægi í leti.
En í þetta skipti var þó ekki gleypt við því. Vel gat það verið, að Ólafur í Heiðarhvammi væri latur eða hefði einhvern tíma verið það. En það urðu þó allir að játa, jafnvel Margrét líka, að síðustu árin hafði hann unnið baki brotnu og ekki hlíft sér. Samt hafði öllum hans hag farið hnignandi. Og í göngunum um haustið hafði öll hreppsnefndin séð hann. Þá hafði hver einasti maður séð, að eitthvað hlaut að ganga að honum.
Upp frá þessu tók samtalið aðra stefnu. Nú hneigðist það að því, hvað gera ætti við Ólaf í Heiðarhvammi, ef hann lenti á sveitina.
Það kom heldur en ekki hik á hreppsnefndina við þessa tilhugsun. Heilsulaus maður með konu og tvö börn í ómegð á sveitina, - í viðbót við það, sem fyrir var. Það voru ljót tíðindi.
Raunar var ekki komið að því enn þá. En það hlaut að koma að því. Og hvað átti þá að gera?
"Er Ólafur hér sveitlægur?" spurði Jón Torfi og gaut augunum út undan sér til hinna. Hann hafði þagað lengst af til þessa. Nú fannst honum líka muna um það, sem hann segði.
Öll andlit hreppsnefndarmannanna ljómuðu upp af nýrri von. Það var ekki ónýt tilhugsun, ef hægt yrði að flytja Ólaf og fjölskyldu hans umsvifalaust á einhverja nágrannasveitina.
Það lá í augum uppi, að hann var ekki búinn að vera svo lengi í Heiðarhvammi, að hann gæti verið búinn að vinna sér sveitfesti. Til þess þurfti 10 ár. Hinu gat aldrei komið til mála að neita, að hann væri fæddur þar í sveitinni.
Nú var farið að rekja allan æviferil Ólafs. Víða lágu spor hans um nágrannasveitirnar, og sums staðar hafði hann verið allspakur. En - því miður. Hann hafði hvergi verið 10 ár samfleytt í sömu sveitinni.
Nefin á hreppsnefndarmönnunum smálengdust, eftir því sem gekk á rannsóknina.
Hreppsnefndin eyddi góðri stund í þessar hugleiðingar og lagði þær síðan frá sér með þeirri huggun, að enn þá lægi þetta ekki fyrir. Best væri að láta hverjum degi nægja sína þjáning.
Þá færðist um stund blessuð værð á nefndina.
Glugginn að baki oddvitans var fannhvítur af hélu, en í gegnum héluna glampaði tunglsljósið. Glugghúsið var líka allt hrímgað innan. Nú bar það þó vott um lítils háttar yl í herberginu, að hélan var farin að þiðna. Vatnið draup jafnt og þétt úr glugghúsinu ofan á gólfið.
Allir hreppsnefndarmennirnir vissu það af reynslu, að Margrét stóðst ekki reiðari en ef einhver dirfðist að segja, að húsið hennar væri kalt. - Þeir kusu því heldur að þola kuldann með þögn og þolinmæði en kvarta um hann.
En í slíkum húsakynnum og við slíkar ástæður getur jafnvel hreppsnefnd gleymt virðingu sinni.
Jón Skeggi kastaði blýantinum, hálftuggnum, ofan á gerðabókaruppkastið, rétti sig upp í sætinu og tók að berja sér. Margrét horfði á hann illum augum.
Þegar hann hafði barið sér nokkra stund og hleypt í sig hita, leit hann hvasst og glettnislega yfir borðið til nafna síns og mælti af munni fram:
- Signor Torfi, samanskroppinn,
- situr á lúkunum.
Sigvaldi og Ásmundur fóru að hlæja. Margrét horfði á þá alla til skiptis og botnaði ekkert í þessu.
Jón Torfi roðnaði upp í hársrætur við ávarpið. Hann skildi það, að honum var ætlað að botna stökuna. Í því og í stökunni sjálfri fann hann blóðuga móðgun. Hann var kallaður "signor", þó að guð og menn vissu, að hann væri það ekki og hefði aldrei verið það; það var auðvitað gert í rogaháði. Hann var kallaður "Torfi", það var uppnefni. Svo var sagt um hann, að hann væri "samanskroppinn" og "sæti á lúkunum". Auðvitað allt í svívirðingarskyni.
Við þessar hugsanir sótroðnaði hann í framan. Hann dró hendurnar fram í ljósbirtuna og leit á þær. Þær voru allar útmótaðar með rósum og rákum eftir ferginguna. Hann var að hugsa um að rétta nafna sínum ósvikinn löðrung yfir borðið, en hætti þó við það.
Og áður en hann vissi af því sjálfur, var hugur hans farinn að berjast við öll þau orð í málinu, sem rímast gátu móti "skroppinn" og "lúkunum". Þar komu "kroppinn", "loppinn", "toppinn", "skoppin", "sloppinn" og fleira af slíku tagi, og svo "kjúkunum", "hnjúkunum", "búkunum", "klúkunum" o. s. frv. Þar sem málið þraut, tóku málleysurnar við. Aðalvandinn var að finna eitthvað mergjað, sem einhver af þessum orðum féllu laglega inn í. Eitthvað, sem vendi Jón Skeggja af þessari ólukku glettni.
Jón Torfi var óvígur eftir þetta um kvöldið, eða réttara sagt, hreppsnefndin hafði engin not af honum. Vísuhelmingur nafna hans stóð frammi fyrir honum eins og steyttur hnefi, og síðari partur vísunnar var allur í vellandi graut í höfðinu á honum sjálfum. Engar aðrar hugsanir fengu inngöngu.
Þetta litla atvik var fyrir löngu farið fram hjá öllum hreppsnefndarmönnunum, nema Jóni Torfa, og hugur þeirra var aftur farinn að hneigjast að vandamálunum.
Oddvitinn hafði verið undarlega þögull fram að þessu, svo að hinir renndu engum grun í það, yfir hverju hann bjó. Hann hafði fátt lagt til málanna, þegar rætt var um Sölku og þau Heiðarhvammshjón. En þegar honum þótti tími til kominn, tók hann bréf, sem legið hafði á milli olnboganna á honum, og las það upp fyrir nefndinni.
Það var frá héraðslækninum, Aðalsteini í Hvammi.
Þetta óvænta bréf gerði hreppsnefndina höggdofa af undrun. Jafnvel Margrét "átti engin orð í eigu sinni".
Það var eins konar skýrsla, - eða hvað nú átti að kalla það; lýsing á heilbrigðisástandinu á meðal fátæklinganna í sveitinni og lögeggjan til hreppsnefndarinnar að taka í taumana.
Hann byrjaði á því að skýra frá, hversu ill og óholl kotin væru, sem liðið væri að hafa fyrir mannabústaði. Þau væru víða verri en þau húsakynni, sem skepnum væru ætluð. Í þessum kofum væri rótgróið pestnæmi; enda væri þar varla nokkur heilbrigð manneskja.
Svo taldi hann upp ýmsa sjúkdóma, sem væru landlægir í sveitinni, einkum í kotunum. Þar var taugaveikin efst á blaði. Hún væri alls staðar og enginn vissi hvar; hún gysi upp til og frá, þegar minnst varði, legði alla á bæjunum í rúmin og marga í gröfina. Stundum færi hún hægt og bítandi, versnaði lítið, en batnaði aldrei; tæki hvern af öðrum ofur vægt, en ynni verk sitt í kyrrþey. - Önnur plágan væri kirtlaveikin. Hún væri álíka algeng eins og kvefið; fólkið hálftryði því, að það mætti ekki án hennar vera. Alls staðar gengju börnin með útgrafna kirtlana, útsteypt af grænum hrúðrum um andlitin, hendurnar og hálsinn; sum einnig með geitur í höfðinu. - Kvillar eins og kláði, beinkröm, kýli, fingurmein og blóðsullir væru miklu tíðari en nokkur vissi. Gikt og taugaveiklun sagðist hann ekki ætla að nefna, ekki heldur hjartveiki og sinnisveiki í ýmsum myndum. Það tæki því varla að telja það; svo væri það algengt. Í þessum dimmu, köldu og rakasömu moldarkofum gengju brjóstveikir menn innan um heilbrigða, fullorðna og börn, hóstandi og hrækjandi, nærri því á hvað sem fyrir yrði. Sullaveikir menn, vatnssjúkir og menn með opin átumein væru látnir sofa hjá heilbrigðum heimamönnum og jafnvel gestum. Hundar og manneskjur ætu úr sömu ílátunum og jafnvel svæfu í sömu bólunum. Óþrifnaðurinn væri meiri en svo, að honum yrði lýst með nokkrum orðum.
Hann kvaðst nú ekki ætlast til, að hreppsnefndin gæti kippt þessu í lag öllu í einu. Það væri engra mennskra manna meðfæri. En hann vildi fá hana í lið með sér til að hefja baráttu fyrir umbótum. - Í þetta sinn ætlaði hann aðeins að vekja eftirtekt hennar á nokkrum mönnum og nokkrum heimilum, þar sem brýnust nauðsyn væri á, að hún léti til sín taka. Sumir þessara manna væru nú þegar á sveitinni; hinir yrðu innan skamms upp á sveitina komnir, ef ekkert væri að gert. Og þeir yrðu því þyngri ómagar, sem lengur drægist að hjálpa þeim. Margir gerðu það af einhverjum heimskulegum þráa að leita ekki til sveitarinnar fyrr en ekkert væri annað fyrir en opinn dauðinn. Hann kvaðst vona, að þetta stafaði af flónsku manna og þröngsýni, en ekki hinu, hve sveitarstjórnirnar væru orðnar illræmdar.
Ef þessir menn kæmust á heimili, þar sem betur færi um þá, húsakynnin væru bjartari og loftbetri, þrifnaðurinn meiri og viðurværið betra, þar sem hægt væri að hlífa þeim við vinnu og hlynna að þeim, mundi vel mega hressa þá við. Með því væri þeim og allri fjölskyldu þeirra bjargað frá sveitinni.
Sums staðar þyrfti auðvitað að taka allar fjölskyldurnar upp, - tæma kotin af öllu lifandi og helst af öllu leggja þau í eyði. En sums staðar þyrfti aftur á móti ekki annað en taka börnin frá foreldrunum, og kannske ekki nema um stuttan tíma.
Kafli í bréfinu hljóðaði svo:
"Einn af þessum mönnum er Ólafur í Heiðarhvammi. Hann kvað hafa verið orðlagður sauðamaður fyrr á árum og gat þá valið um vistir. Svo byrjar gamla sagan fyrir honum. Hann giftist ungri konu, hættir að vera sauðamaður hjá góðbændunum og reisir bú á heiðarkoti. Þar verður hann að leggja á sig meiri og verri vinnu en hann hefir vanist áður, standa í votum mýrum frá morgni til kvölds, bera rennandi blautt hey ýmist í fanginu eða á bakinu, vera dofinn af kulda allan daginn og yfirkominn af þreytu. Og fá svo loks ónóga hvíld í illum og óhollum húsakynnum, og illt fæði til viðurlífis. Nú er hann orðinn veikur. Ég veit ekki upp á víst, hvað að honum gengur; hefi ekki getað rannsakað það nægilega. Ég hefi komið við hjá honum stöku sinnum, en það, sem ég hefi reynt að gera, hefir orðið árangurslaust. Nú eru skottulæknarnir teknir við honum. - Mitt ráð væri auðvitað það, að flytja hann burt úr kotinu, koma honum fyrir á góðu heimili, láta hann hafa hæga daga og gott viðurværi. Þá er ég sannfærður um, að hann kæmi til heilsu á einu missiri.
Hér er tvöföld ástæða til að skerast í leikinn. Vesalings konan vinnur einsömul fyrir heimilinu. Hún vinnur miklu, miklu meira en hún er nokkur maður til. Ég gaf því auga í sumar, hvað gerðist í kotinu. Ég hefi séð hana vinna og strita ýmist úti við eða inni við, frá því snemma á morgnana þar til seint á kvöldin. Hún hefir verið að reyna að heyja fyrir þessum fáu skepnum og hirða um þær, auk þess að stunda sjúklinginn og tvö börn. Bráðum hlýtur hún að missa heilsuna líka, hversu hraustbyggð sem hún kann að vera. Verður þá léttara að veita þeim viðtöku? - Þau eru bæði samtaka í því, að vilja ekki leita til sveitarinnar; hvers vegna það er, veit ég ekki, en nærri því er ekki komandi. Annað mál er það, hvort þau kynnu ekki að taka því með þökkum, ef hreppsnefndin byði þeim hjálp sína."
Bréfið var langt. Það lýsti fleiri heimilum, þar sem líkt stóð á, og alls staðar kvað við sama kvöðin til hreppsnefndarinnar, að verða fyrri til að rétta fram höndina til hjálpar en hinir að biðja um það, - kynna sér ástandið, sjá óhöppin fyrir og afstýra þeim, eða þá að minnsta kosti bjarga því, sem bjargað yrði, meðan enn væri tími til. - Hreppsnefndarmennirnir hristu höfuðin yfir þessu dæmalausa bréfi.
Ekki svo að skilja, að þeim ofbyðu svo mjög lýsingarnar á ástandinu í kotunum og óhollustunni, sem af því leiddi. Þeir vissu vel, að sá sagði sannast af því, sem verst sagði. En þeim ofbauð sú dæmalausa ósvífni, að ætlast til, að hreppsnefndin færi að hlutast til um annað eins og þetta óbeðið! - færi að bjóða mönnum - hvað? - sveitarstyrk? - lán? - eða hvað?
Hreppsnefndin! Hvern fjandann kom henni við sóðaskapurinn og pestin í kotunum? Hún hafði sannarlega nóg að gera, að sinna rellunni úr þeim, sem leituðu til hennar. Hinir komu henni ekkert við. Það vantaði nú ekkert annað en hún færi að sletta sér fram í kjör allra kotunganna í sveitinni; - vera þar með nefið niður í hverri kirnu! Nei, það var best að láta lækninn um það, og tengdapabba hans, Egil gamla í Hvammi. Hann hafði lengi þefvís verið.
Og þetta, sem hann sagði um sjúkdómana; hvern fjandann varðaði þá um það? Það var hans, að lækna þessa sjúkdóma. Til hvers voru hálaunaðir læknar, ef menn þyrftu sjálfir að fást við kláða og geitur eftir sem áður?
Hreppsnefndin komst í mesta uppnám út af þessu. Þeir, sem töluðu, voru að vísu allir á sama máli, en þeir börðu í borðið hver frammi fyrir öðrum og töluðu allir í einu, því að allir vildu láta heyra til sín.
Lækninum var úthúðað á allar lundir fyrir bréfið. Hann hafði farið út fyrir verkahring sinn. Hann átti að senda skýrslur sínar til yfirvaldanna, en ekki hreppsnefndarinnar. Þetta bréf var slettirekuskapur og ekkert annað. Þeir skyldu sannarlega venja hann af að skrifa þeim fleiri slík bréf. Þeir skyldu sýna honum það, að hreppsnefndin þyrfti engin ráð til hans að sækja. Og þetta skyldu þeir segja honum upp í opið geðið, næst þegar þeir sæju hann.
Margrét var áköfust. Hún gall eins og bjalla í gegnum allt hreppsnefndarskvaldrið:
"Það vantaði nú ekkert annað en hreppsnefndin færi að taka Heiðarhvammshyskið allt saman, - Ólaf, Höllu, krakkana og Sölku, - upp á arma sína, óbeðið, - kannske nauðug - -!" Margrét skellti á lærið yfir öðrum eins ósköpum. Hún "átti ekkert orð í eigu sinni".
Þegar rostinn í hreppsnefndinni gekk sem hæst, tóku hundar að gelta inni í bæjargöngunum. Um leið heyrðu þau gengið inn í bæinn á gaddfreðnum skóm eða stígvélum. Fjalagólf var í ganginum, og buldi fast í því, þegar á það var stigið svo hörðum fótum.
Hreppsnefndin dró niður í sér og hlustaði.
Komumaðurinn barði með hnúfunum í stofuhurðina, opnaði hana síðan og gekk inn í stofuna. Gólfið marraði og brakaði undir fótum hans.
Þetta hlaut að vera einhver kunnugur, líklega presturinn, sem nú fyrst væri að koma á hreppsnefndarfundinn.
Margrét hratt opinni herbergishurðinni og lét ljósbirtuna leggja fram í stofu. Kalda stroku úr opnum útidyrunum lagði á móti henni. Birtan féll á fannbarinn mann, sem stóð á miðju gólfinu og sagði: "Gott kvöld!"
"Læknirinn," sagði öll hreppsnefndin einum munni.
Koma læknisins bældi garrann í hreppsnefndinni, eins og þegar olíu er slett á úfinn sjó. Nú mundi enginn hreppsnefndarmannanna, hvað hann hafði ætlað að segja við lækninn, þegar þeir sæju hann næst. Að minnsta kosti vildi enginn verða til að byrja.
Allir hreppsnefndarmennirnir sátu með totur á andlitunum, eins og drengir, sem staðnir eru að óknyttum.
"Afsakið, að ég geri ykkur ónæði. Ég vissi, að þið voruð hér á fundi," sagði læknirinn.
"Ekkert að afsaka," var svarað.
Margrét var staðin á fætur og fálmaði eftir stól handa lækninum frammi í myrkrinu í stofunni. Þegar hún kom með stólinn, kom það í ljós, að ekki komust fleiri sæti fyrir í herberginu. Læknirinn tók við stólnum, setti hann í miðjar dyrnar og settist þar á hann. Hann gáði þess alls ekki, að með þessu lokaði hann húsfreyjuna sjálfa úti frá herbergi sínu, hafði enga hugmynd um það, að Margrét stæði á bak við hann og mældi með augunum bilin beggja megin við hann, hvort hægt væri að smjúga þar. Hann hugsaði ekkert út í það, að hún kynni að eiga sæti í hreppsnefndinni.
Aðalsteinn læknir hafði breytst allmikið síðan hann varð embættismaður. Svipurinn var einbeittari og ákveðnari, andlitið veðurbarið og dálítið þreytulegt. Augun voru stingandi hvöss og harðleg, og jafnvel keimur af hæðni eða fyrirlitningu í augnaráðinu. Þó var svipurinn góðlegur og skapið hneigt til meðaumkunar. Það var eins og hann væri samansettur af ýmsum andstæðum. Öfgagirni og ofurkapp toguðust á við festu í lund og gætni. Glettni og ófyrirleitni við ljúfmennsku og hjartagæsku. Af þessu leiddi, að sumir unnu honum og virtu hann, sumir höfðu beyg af honum og sumir gátu varla tekið hann alvarlega. En dugnað hans og framgirni könnuðust allir við.
"Viljið þér ekki fara úr ytri fötunum?" spurði Margrét og reyndi að gera sig blíða.
"Nei," svaraði læknirinn nokkuð ómjúkt. "Ég dvel ekki svo lengi, og það kynni að slá að mér. Hér er kalt eins og í úthýsi. Hvernig getið þið setið á fundi í þessum bölvuðum kulda?"
Hreppsnefndarmennirnir þögðu, en Margrét varð á svipinn eins og hún ætlaði að bíta lækninn.
"Er húsið yðar hlýrra?" spurði Sigvaldi. Honum fannst hann þurfa að hjálpa Margrétu sinni.
"Já, auðvitað," svaraði læknirinn. "Annars gæti ég ekki búið í því. Ofnlaus timburhús eru ekki mannabústaðir."
Hreppsnefndarmennirnir heyrðu það á hreimnum, röddinni, að læknirinn var til alls búinn að þessu sinni. Þeim hraus hugur við að verða fyrir honum.
"Ætlið þér heim í kvöld?" spurði Margrét ofur mjúklega.
"Já," svaraði læknirinn. "Fylgdarmaðurinn bíður eftir mér úti."
"Það þarf að kalla á manninn inn í hlýjuna," mælti Sigvaldi.
Jón Skeggi hló ofan í bringu sína.
Margrét fór til dyranna, til þess að kalla á fylgdarmann læknisins "inn í hlýjuna".
Fylgdarmaðurinn neitaði að fara frá hestunum og kvað sér ekkert vera kalt. Margrét lét þá aftur dyrnar og kom inn í stofuna.
"Þið munuð hafa fengið bréfið mitt?" spurði læknirinn hreppsnefndarmennina.
"Já. Við vorum að ljúka við að lesa það, þegar þér komuð," var svarað.
"Og hvað ætlið þið nú að gera við þessa vesalinga, sem ég minntist á í bréfinu?"
Enginn svaraði.
Læknirinn beið dálitla stund og horfði á nefndarmennina til skiptis. En enginn svaraði.
"Mér kemur það ekki á óvart," mælti læknirinn, "þó að þið látið þá eiga sig, þangað til þeir skríða á náðir ykkar sjálfir."
"Ætli við megum ekki til með það," læddist fram úr oddvitanum. "Við höfum ekki af miklu að taka. Hreppurinn er fátækur og sveitarþyngslin mikil."
"Og ef sveitin ætti að taka alla þessa menn, sem þér nefnið, upp á arma sína, þá færi að verða þröngt fyrir dyrum á þessum svo kölluðu bjargálnaheimilum," mælti Sigvaldi og leit yfir lækninn framan í Margréti sína. Hann var að sýna henni, hvort hann þyrði ekki að segja það í hreppsnefndinni, sem honum bjó í brjósti, þó að læknirinn væri við.
"Til dæmis Ólafur í Heiðarhvammi," hélt hann áfram. "Ef sveitin á að taka hann að sér, þá yrðu þeir æðimargir, sem kröfu ættu til þess sama. Þá gætum við, hreppsnefndarmennirnir, líklega allir sagt okkur til sveitarinnar."
"Já, ég held það," bætti Margrét við.
Læknirinn horfði á hreppsnefndarmennina eins og hann væri að vega þá og meta, hvern í sínu lagi og alla til samans. Síðan mælti hann:
"Við erum kotungar, allir saman á þessu blessuðu landi, kotungar í anda með kotungahugsunarhætti og kotungabrennimerkin inngróin í hold og blóð. Við látumst hjálpa með góðu geði, þar sem neyð er, af því að við komumst ekki hjá því. Við þorum ekki að rísa gegn lagaskyldunni, kristindómsskyldunni og almenningsálitinu. En við viljum aldrei hreyfa hönd né fót til að afstýra því, að neyðin komi."
Hreppsnefndarmennirnir engdust saman í kúta, þegar læknirinn byrjaði að tala. Hann var óvanalega bituryrtur og augnaráðið óvanalega hvasst.
Læknirinn hélt áfram:
"Síðan ég komst til þroskaaldurs, og einkum síðan ég varð læknir, hefi ég varið mörgum stundum í kyrrþey til að hugsa um böl þjóðarinnar og orsakir þess. Og vitið þið hvað það er, sem oftast hefir orðið fyrir mér? - Það er kotabúskapurinn.
Ég þykist vita, hvernig þetta lætur í eyrum ykkar, en alvara er það samt. Kotabúskapurinn er eitt af aðalmeinum íslensku þjóðarinnar - og margra annarra þjóða, ef til vill hálfs mannkynsins. - Þetta eitt, að mönnum skuli vera leyft og liðið að hanga við búskap á niðurníddum kotum við engin efni, án alls eftirlits, kvelja sjálfa sig og allt skyldulið sitt, jafnvel drepa það úr hungri og illri aðbúð. Að nokkrum landeiganda skuli líðast að hafa slík kot til að okra á þeim, byggja þau efnalausum fjölskyldumönnum og sjúga út úr þeim síðustu lífsbjörgina í afgjald, - án þess að hafa nokkrar skyldur á herðum gagnvart þeim."
Læknirinn talaði hægt og ákefðarlaust, en það var sannfæringarmagn í orðunum. Hreppsnefndarmennirnir hlustuðu alvörugefnir. Þeir höfðu aldrei litið á málin frá þessari hlið.
"Síðan ég varð læknir, hefir margt borið fyrir mig, sem ég hélt á bjartsýnisdögum æskunnar, að væri ekki til. Ég hefi drepið á sumt af því í bréfinu þarna, en ekki nándarnærri allt. Ég hefi minnst þar á ýmsa sjúkdóma, en ekki sjúkdóm sjúkdómanna í þessum eymdarkotum, sem sé hungrið. Ég veit, að þið hafið séð það, ekki síður en ég; þið hafið ekki getað lokað augunum fyrir því. Á hverju einasta vori er allt að drepast úr hungri og harðrétti, menn og skepnur. Þegar menn nálgast kotin, liggja reisagemlingar á báðar hendur. Hrossbeinagrindur, sem varla geta staðið uppréttar, naga frosna grasrótina. Kýrin stendur steingeld á básnum og drynur aumkunarlega, þegar hún heyrir gengið um bæinn; hún fær ekki jórturtuggu nema annað málið. Hundarnir koma soltnir eins og úlfar út úr kofunum á móti manni. Á eftir hundunum koma krakkarnir, - magrir, fölir, blóðlausir og máttlausir, með andlitin útsteypt af kirtlaveikishrúðrum. Hvílík sjón! Loks kemur konan, blá í framan, skinhoruð, hölt af sinakreppu í hnésbótunum og með yngsta barnið við brjóstið. Bóndinn hefir farið sjálfur til góðbúanna og reynt að særa út heytuggu til þess að draga fram lífið í þessum vesalings skepnum sínum. Hann dregst áfram með heypokann á bakinu, skólítill, klæðlítill, hálfmáttvana, helblár af kulda, og skyrpir svörtu, spilltu blóðu úr skyrbjúgssveppunum á tanngarðinum. Ef maður spyr hann, hvers vegna hann leiti ekki til sveitarinnar, þá hristir hann höfuðið. Það er ekki til neins. Það væri óvíst, að hann fengi neina áheyrn. Og ef hann fær áheyrn, þá er hún á þann hátt, að hann er sviptur öllu sjálfstæði, öllu, sem hingað til hefir gert hann að manni. Fjölskyldan er skilin sundur, - allt tætt hvað frá öðru með hlífðarlausri harðýðgi. Allt er látið úti með illsku og eftirtölum, og allt er honum fært til reiknings með fullu verði. Hann er ómyndugur þaðan af, á sér engrar uppreisnar von, - varla börn hans heldur - ."
Læknirinn nam staðar í miðju kafi, og það var dauðaþögn dálitla stund. Margrét japlaði eitthvað fyrir munni sér, sem hana dauðlangaði til að segja upphátt.
"Ég held þér séuð nú farnir að kríta liðugt, læknir," mælti Jón Skeggi brosandi, en andvarpaði þó um leið.
Læknirinn lét sem hann heyrði það ekki.
"Annað aðalmeinið í kotabúskapnum," mælti hann, "er myrkrið. - Já, einmitt myrkrið. Ég vissi, að þið munduð hvá við því. Það er myrkrið. - Hafið þið ekki tekið eftir því, að hve miklu leyti híbýlin skapa manninn? Þar sem hátt er til loftsins og vítt til veggjanna, þar sem sólskinið nær inn í hvern krók og kima, - þar líður fólkinu öðruvísi en í dimmum og fúlum moldarkofum, bæði í líkamlegum og andlegum skilningi. Það er bjartara yfir hugsunum þess manns, sem býr í björtum og hreinum herbergjum en hins, sem á við myrkur og óþrifnað að búa. Hann metur meira sæmd sína, svipur hans verður bjartari, framkoma hans drengilegri. En hvernig verða kotungarnir? Manneskjunum fer eins og grösum, sem ekki njóta sólarinnar. Þær verða sjúkar. Þær verða að andlegum og líkamlegum náttuglum, - myrkursins börnum, ef þið skiljið það betur. Ofvöxtur hleypur í allt það, sem hvergi þrífst nema í myrkrinu. Hitt kyrkist og veslast upp, sem þarf dagsbirtunnar við. Ljósmetisleysið er einn af fylgifiskum kotabúskaparins, gluggaleysið og loftleysið sömuleiðis. Á daginn skímar ekki nema til hálfs í kofunum. Næturnar eru óþrjótandi, miklu lengri en nokkur maður getur sofið. Menn verða sjúkir af ofsvefni, sjúkir af loftleysi, sjúkir af myrkri. - Ávextirnir leyna sér ekki. Hugsið út í allt þetta trúarvingl, sem menn eru gagnteknir af, - alla þessa hjátrú og hræðslu, öll þessi reiðinnar ósköp af draugasögum, galdrasögum, draumarugli, fylgjum, hindurvitnum, hættum í alls konar myndum, sem fólkinu finnst vera á sveimi í kringum sig, og svo ótta við allar nýjungar, beyg, kvíða og tortryggni, sem engin skynsemi vinnur á. Þetta eru ekki fóstur heilbrigðs huga. Nei, það eru afkvæmi myrkursins. Það eru ekki allar kynjasögurnar lygasögur. Fólkið sér ofsjónir og heyrir ofheyrnir. Það getur varla greint draum frá vöku. Skilningarvitin "vaxa yfir sig", ef svo mætti að orði komast. Ég hefi talað við menn, sem hafa séð Þorgeirsbola, - séð hann eins og þeir sáu mig. Ég hefi líka talað við mann, sem hafði séð drauginn drjúpa niður úr þekjunni eins og logandi bik; skríða svo saman á gólfinu, fyrst í eldhnött, svo í mannslíki. - Það er ekki að því hlæjandi! - Þessi myrkurssýki á meiri þátt í vesalmennsku okkar og bjálfaskap en við hugsum út í. Hún hefir sett á okkur heimóttarsvipinn og ósjálfstæðiseinkennin, hún er móðir bölsýnisins og vonleysisins, kæruleysisins og áhugaleysisins á því að manna sig upp og bjarga sér sjálfur. Hún gerir sálirnar dimmar og kaldar. Hún er okkar mesta þjóðmein."
Hreppsnefndarmennirnir sátu eins og dauðadæmdir undir allri þessari prédikun.
Margrét var að ýmsu leyti ánægð með þessar myrkrahugleiðingar læknisins. Eitt af því, sem hún hafði notað, þegar hún var að nudda Sigvalda sínum til þess að byggja þetta nýja hús, var það, hve dimmt væri í bænum. Nú leit hún til sex-rúðu-glugganna á stofuþilinu. Aðrir eins gluggar voru á báðum stöfnum baðstofunnar. Svo björt var engin baðstofa í sveitinni. Enginn þurfti að sýkjast úr myrkri á Brekku.
Læknirinn stóð á fætur og bjóst til að fara. Honum fannst hann hafa haldið þessa ræðu yfir kindum, en ekki manneskjum. Hann sá þess engan vott, að nokkurt orð hefði hitt á réttan stað.
"Hvað álítið þér, að okkur beri að gera til að bæta úr þessu?" spurði oddvitinn, og kenndi hæðni í röddinni.
"Brenna kotin!" sagði læknirinn, og var sem leiftrum brygði fyrir í augum hans. "Brenna þau upp til agnar með öllu því pestnæmi, andlegu og líkamlegu, sem þau hafa að geyma. Brenna kotungs- vesalmennskuna og kotunga-hugsunarháttinn inni í bæli sínu. Brenna þá heimskulegu, skaðlegu hégilju, að betra sé að vera kotbóndi en hjú. Þegar svo kotin verða reist að nýju, skal ég gefa ykkur ráð og bendingar um það, hvernig mannabústaðir eigi að vera."
"Brenna kotin!" mælti oddvitinn, og feimnislegt háðbros færðist um andlitið á honum. "Jæja, kannske við mættum byrja á Heiðarhvammi?"
"Mín vegna."
"Tengdafaðir yðar á hann!"
"Því miður á ég hann ekki. Þá skyldi vera þar öðruvísi umhorfs."
Þegar Margrét sá, að læknirinn ætlaði að fara, flýtti hún sér að bjóða honum kaffi, sem hún sagðist ætla að fara að koma með.
"Ég þakka yður fyrir," mælti læknirinn. "Ég drekk aldrei kaffi á kvöldin."
Margrét skellti á lærið af undrun. Svo færði hún sig fast að lækninum og hvíslaði ofur lágt:
"Má þá ekki bjóða yður eitt staup -?"
Margrét þekkti það, hve erfitt var að verja brennivínsseytil fyrir hreppsnefndinni, þegar hann var til í bænum, einkum þegar hrollur var í henni, eins og einmitt í þetta sinn.
"Ég þakka yður fyrir," mælti læknirinn svo hátt, að allir heyrðu. Ég drekk aldrei brennivín áður en ég fer út í kulda."
"Það lá við, að Margrét nísti tönnum af gremju. Nú kom læknirinn því upp um hana, að hún ætti brennivín. Hún sá, hvernig Jón Torfi gaut votum augunum fram í stofuna til þeirra.
"Afsakið, að ég hefi tafið ykkur," kallaði læknirinn inn til nefndarmannanna. "Og verið þið sælir!"
Rétt á eftir snaraðist hann út úr bænum.
Kuldahlátrar hreppsnefndarmannanna glumdu á eftir honum.
"Brenna kotin -!" sögðu þeir einum munni. "Það má nú ekki minna vera!"
"Það mundi birta yfir sveitinni þeirri örnu, ef kveikt væri í öllum kotunum í einu," mælti Sigvaldi. "Svo eru þau mörg."
"Getur verið," mælti Jón Skeggi dálítið alvarlegur. "En það var nú samt margt satt í því, sem hann sagði, - allt of satt."
"Þetta er búið að eyða fyrir okkur löngum tíma," mælti oddvitinn og leit á úrið sitt. "Við áttum eftir að ráðstafa henni Sölku áðan. Hvað eigum við að gera við hana?"
"Láta hana vera kyrra," gall í Margréti.
Oddvitinn lét sem hann heyrði það ekki og beið eftir svari hreppsnefndarmannanna. Þegar það dróst, mælti hann:
"Viljið þið, að ég reyni að taka hana?"
"Já, já, já," kvað við úr öllum áttum í einu. Margrét var þessu samþykk líka. Hún treysti engum betur til að venja Sölku af kenjunum, sem hún hefði lært í Heiðarhvammi, en Steinku dóttur sinni.
Eftir litla stund var það afráðið, að Salka færi að Kroppi.
Meira var ekki gert á fundinum að sinni, því að Margrét kom með kaffið.
Allir hreppsnefndarmennirnir ætluðu að gista á Brekku um nóttina.
Jón Torfi var í vondu skapi. Hann var nú orðinn úrkula vonar um það, að hann mundi nokkurn tíma geta fengið vísubotninn til að tolla saman. Orðin, sem hann þurfti mest á að halda, stukku innan um höfuðið á honum eins og flær. Nú var hann að hugsa um, hvort hann ætti heldur að gefa nafna sínum vænan löðrung eða stefna honum.
Hinir hreppsnefndarmennirnir voru alvörugefnir, jafnvel hálfsneypulegir; ekki ósvipaðir drengjum, sem staðnir hafa verið að því að svíkjast um.
3. kafliSú blessunaröld, sem rann upp yfir heiðarbýlið við sætt þeirra Höllu og Borghildar, stóð ekki lengi.
Dálæti það, sem Borghildur lagði þá á Höllu, var þess eðlis, að hvorki Halla né aðrir bjuggust við, að það héldi lengi áfram. Gjafirnar og velgerðirnar, sem hún lét þá rigna yfir hana, voru meiri en svo, að þær tækju nokkru hófi. Nú var þetta allt um garð gengið fyrir löngu. Það heyrði til þægilegum endurminningum frá liðna tímanum.
Einu verulegu notin, sem heiðarbýlisbúið hafði af þessum góðgerða- fítonsanda Borghildar, var það, að eignast unga snemmbæru. Það sparaði Ólafi þá fyrirhöfn að ala sér upp kú. Auðvitað seldi hann gömlu kúna undireins sama haustið fyrir kindur, því að tvær mjólkandi kýr á heimili, þar sem ekki voru fleiri en fjórar manneskjur, var hlægileg fjarstæða. En þannig hafði þó Borghildur ætlast til, að það yrði.
Þegar gjafaákafinn í Borghildi fór að dvína, var sem höfuðbólið og hjáleigan færðust aftur hvort frá öðru og lifðu sínu gamla lífi áfram, hvort í sínu lagi.
Það vildi Halla líka langhelst. Hún hafði hálfgerða raun af þessu mikla dálæti Borghildar og varð fegin, þegar því létti.
Þó var upp frá þessu hið besta samkomulag á milli þessara tveggja býla, og samvinna, þegar henni varð við komið, sem þau Heiðarhvammshjón höfðu bæði ánægju og hagnað af. Og það vissi Halla, að hvenær sem hún þyrfti að leita einhvers athvarfs í Hvammi, þá stæði það til boða og væri velkomið.
En þau hlunnindi ætlaði hún að geyma sér í lengstu lög.
- Ólafur hafði orðið því fegnari en frá megi segja, þegar sættir komust á milli þeirra Höllu og Borghildar. Hann hafði tekið sér ófriðinn mjög nærri, þó að hann hefði ekki orð á því. Og alltaf hafði honum fundist hann eiga Borghildi yfir höfði sér eins og eins konar illfygli, - refsinorn, sem sæti um færi til að svala skapi sínu á honum. Eftir sættina lét Borghildur hann njóta velvildar sinnar við Höllu, og það í svo ríkum mæli, að heimafólk í Hvammi var farið að henda gaman að því. Þá mátti Ólafur hvergi sitja, þegar hann kom að Hvammi, annars staðar en inni við rúm Borghildar, eða jafnvel á rúmstokknum fyrir framan hana. Borghildur reyndi þá eftir mætti að halda uppi samtali við hann; það gekk oft slitrótt, því að enn þá voru talfæri hennar aflvana. Ólafur var óvanur slíkri náð hjá heldri konum, og varð oft dauðans vandræðalegur á svipinn, þegar Borghildur setti hann þannig hið næsta sér. Hann var jafnan feiminn í návist kvenna, ætíð hræddur um, að hann yrði á einhvern hátt til athlægis. Þarna var því hættara við þessu, þar sem hann þurfti að þéra Borghildi; enda gleymdist það oft, og vafðist þá Ólafi tunga um tönn. Loks var hann heldur farinn að sneiða hjá því að koma að Hvammi. En svo fór um þetta dálæti eins og annað í fari Borghildar: Það var ákafast fyrst, en fór smádvínandi upp frá því.
Egill var þeim Heiðarhvammshjónum alltaf hinn sami og hann hafði jafnan verið. Það sýndist engin áhrif hafa á framkomu hans gagnvart þeim, hvort þau voru í sátt eða ósátt við Borghildi hans. Enn þá gekk hann margar ferðir upp að Heiðarhvammi og þáði þar góðar viðtökur. Hann var nú orðinn fannhvítur af hærum og nokkuð hrumari en áður. Þó var hann ern og hress og fór allra ferða sinna; enda var hann hættur að ganga að þungri vinnu og átti nú betri daga en áður. - Það voru sannir sólskinsdagar, þegar hann kom að Heiðarhvammi. Aldrei kom þangað kærri gestur. Það var sem hvítu hærurnar lýstu baðstofukytruna upp og gerðu þar allt hátíðlegra og höfðinglegra. Svipur þessa öldurmennis, beiskur og raunalegur, en þó góðmannlegur, - var verndari heiðarbýlisins. Það var sem svipurinn væri þar jafnan, þó að Egill væri hvergi nærri. Nú var orðið svo margt fyrir hendi til að minnast á, bæði þegar Egill var þar staddur og þegar hann var þar ekki. Minningarnar frá liðnu árunum, sem tengdu hann ósýnilegum böndum við heiðarbýlið, voru orðnar svo margar. Alltaf var þar umhorfs eins og verið hafði fyrsta daginn. Egill sat jafnan í sama sætinu, Ólafur á rúmi sínu, gagnvart honum, en Halla stóð við borðið á milli þeirra, þar sem eiminn lagði upp af brennheitu kaffinu - og stundum öðru sterkara. Oft höfðu þá stundirnar flogið fljótar en varði. Oftast nær endaði heimsókn Egils á einn og sama hátt. Ólafur tók hann með sér fram í skála og lét hurðina vandlega aftur. Halla gaf aldrei um að grennslast eftir því, hvað þeim fór þar á milli; hún taldi það svo saklaust. En oft dvaldist þeim lengi þar inni, og oft var farið að líða á daginn, þegar Egill komst á stað. Á þessum fundum ræddu þeir margt saman, jafnvel fleira en þarft var. Ólafur, sem annars var dulur í skapi og þagmáll eins og gröfin, átti ekkert það leyndarmál til, sem hann trúði ekki Agli fyrir. Meira að segja fékk Egill fleira að vita um hagi Ólafs en Halla hafði nokkurn tíma fengið. Og þegar trúnaðurinn var innilegastur, dró Ólafur fullan vettling af spesíum upp úr kistuhorninu undan handraðanum og sýndi Agli hann. Spesíurnar í honum voru sextíu. Það var með breiðasta móti brosið á Ólafi, þegar hann var að telja þær. Þessu hafði honum tekist að leyna fyrir Höllu til þeirrar stundar. Hann hafði ekki almennilega komið sér að því að segja henni frá þessu lítilræði, því að þá þyrfti hann líka að segja henni frá, hvernig á því stæði. Var ekki nóg, að hún fyndi það, þegar hann væri dauður? Hann yrði nú úti í einhverri stórhríðinni. Þetta æti ekki mat á meðan það lægi þarna á kistubotninum, - og yrði ekki étið upp heldur. Lykilinn að kistunni bar hann alltaf á sér og lét Höllu aldrei fá hann í hendur. Enginn hafði nokkurn tíma opnað þessa kistu, annar en hann, nema þegar Borghildur lét brjóta hana upp; en hún hafði verið að leita að sauðasviðum, en ekki peningum, og henni því sést yfir spesíu-vettlinginn.
Að vísu sá Ólafur ævinlega eftir því eftir á, hve lausmáll hann hafði verið við Egil. Þó leiddi það aldrei til neinna vandkvæða. Egill var eldri en tvævetur og kunni vel með leyndarmál að fara. Hann var líka svo yfir alla hleypidóma hafinn, að það breytti í engu skoðun hans á þeim Heiðarhvammshjónum, sem hann komst að á þennan hátt.
Þeir, sem lesið hafa undanfarna þætti sögu þessarar, munu minnast þess, að hjónaband þeirra Ólafs og Höllu var stofnað af öðrum ástæðum en ást frá hennar hálfu. Atvik höfðu ráðið því, að hún kaus þetta hlutskipti heldur en annað þaðan af verra, - að því er henni fannst.Nú gat hún hugsað um öll atvik frá þeim tíma með ró og jafnaðargeði. Nú voru þau henni ekki til slíkrar skelfingar sem áður hafði verið. Nú fannst henni hún vel geta talað um það allt saman, jafnvel við hvern sem væri. Þannig hafði gróið yfir það þyngsta og beiskasta í lífi hennar.
En fyrst hún var orðin kona Ólafs á annað borð, hafði hún ásett sér að verða honum góð kona, láta hann ekki gjalda þess í neinu, að nauður hafði rekið hana til að taka bónorði hans.
Þetta tók hún sér að vísu allnærri í fyrstu, en vandist því og varð það léttbærara eftir því sem árin liðu.
Ólafur kynntist henni líka allt öðruvísi í hjónabandinu en áður hafði verið. Þegar hann var kominn úr flokki þeirra manna, sem höfðu haft hann að háði og skopi, var hann sem allur annar maður. Hún varð að játa það, að almenningsálitið á honum hafði leitt skoðun hennar sjálfrar allmikið afvega.
Auðvitað var hann ekki fríður eða mannborlegur. Þó vandist maður einnig útliti hans betur en við hefði mátt búast. Í því lá eitthvað, sem var í fullu samræmi við annað hjá honum og heyrði honum einum til, - eitthvað, sem mönnum hætti við að sjást yfir í fljótu bragði. Þeir, sem sagt höfðu í gamla daga, að Ólafi væri ekki alls varnað, höfðu haft rétt fyrir sér. Þeir höfðu þó minnst séð af hinu sanna eðli Ólafs, því að hann var dulur í skapi og tortrygginn. Fæstir höfðu þá fest auga á öðru en fjármennskukostum hans og stöku trúmennsku við þann starfa.
Þegar hann var farinn að eiga með sjálfan sig, komu brátt fleiri af kostum hans í ljós. Hann var sparneytinn og hirðusamur um eigur sínar, alltaf eitthvað um heimilið að hugsa og fyrir það að vinna, fáorður og geðgóður, og umfram allt gestrisinn. Gestakomur voru hans mesta - og ef til vill - eina yndi. Ævinlega var hann boðinn og búinn til að gera þeim allan þann greiða, sem hann gat, sem leituðu húsa hjá honum.
Halla sá vel þessa kosti Ólafs og hlynnti að þeim eftir megni. Hún sá það líka í einu og öllu, hve innilega vænt honum þótti um hana, hve hann virti hana, vildi gera henni allt til geðs og forðaðist að minna hana á harma hennar. Hún sá það vel, að hann beitti við sig allmikilli sjálfsafneitun til þess að þóknast henni. Hann vissi til dæmis, að henni var raun að því að hann drykki sig drukkinn; það hafði hent hann einu sinni, og hann gerði það aldrei oftar, þó að hann hefði iðulega vín um hönd. Hann vissi líka, að henni leiddist heima, ef hann var langdvölum burtu. Þess vegna gerði hann sér sem fæstar óþarfar ferðir ofan í sveitina. Og hann hafði látið það að hennar orðum, að sneiða sem mest hjá Bollagarðahyskinu. Nú sá hann hjá hve miklu óláni hann hafði komist með því að gera það í tíma.
Þegar einhver maður gerir sér þannig allt far um að gera öðrum til geðs, má hann vera meira en meðal-gallagripur, bæði til líkama og sálar, ef honum tekst ekki að vinna sér neina hylli.
Og þó að Halla gæti aldrei fengið ást á Ólafi, fékk hún velvild til hans. Í hjónabandi, sem óblessun ástaleysisins hvílir yfir frá byrjun, gat sambúðin ekki orðið þolanlegri og samhendnin í búskapnum meiri.
Raunar tignaði Halla alltaf guði sína í kyrrþey, - en þeir voru í himni sínum, langt, langt, langt burtu frá jörðunni. Hún skapaði sér í vökudraumum paradís hinnar sönnu ástarsælu. Þeir draumar voru henni jafnkærir fyrir því, þó að engin, alls engin von væri um, að þeir rættust nokkurn tíma. Þeir voru leikföng, sem hugur hennar bjó sér til og átti einn. Þeir glöddu hana við skyldustörf hennar og söfnuðust að huga hennar eins og sólskinsmóða, þegar hún var þreytt. Slíkan draumagróður eiga flestar manneskjur einhvers staðar djúpt í leynum hugans. Og Halla vissi sig hreina af öllum ótrúleik við Ólaf.
Samt vakti alltaf í huga hennar eitthvert andvarp yfir hjónabandi hennar, - einhver óljós þrá eftir einhverju, hún vissi ekki hverju. En ef til vill var það endir sambúðarinnar við Ólaf.
En hjá henni, sem skyldan var heilagri en allt annað, fékk slík hugsun aldrei að fæðast.
Eigi að síður var sem hjónin fjarlægðust stöðugt hvort annað. Halla var að vísu hin sama, en Ólafur breyttist.
Hann breyttist um leið og heilsan fór að bila. Fyrstu einkenni sjúkleika hans voru á sinninu.
Þegar hann sá, að hann fékk ekki rönd við reist harðindunum í þessu afskekkta heiðarkoti og árlega gekk af honum, þrátt fyrir orku hans og iðjusemi, þá stríddi á hann hugarvíl og þunglyndi.
Þá fannst honum allt vera sér svo andstætt og erfitt; allar tilraunir sínar misheppnast, allt hljóta að fara illa fyrir sér. Og þá fannst honum þetta allt fara að vonum. Hvað væri hann annað en ónytjungur, sem ekkert kynni og ekkert gæti annað en rölta kringum kindur í haganum? Hann hefði aldrei átt að gifta sig og reisa bú. Hann væri ófríður, ólánlegur, heimskingi og auli, sem allir hefðu í raun og veru andstyggð á. Þeir, sem mest hróp hefðu gert að honum í fyrri daga, hefðu sagt honum sannast. Hvernig hafði hann getað ætlast til þess, að nokkurri stúlku þætti vænt um hann? Konan hlaut að hafa eintóma hugraun af honum. Aðrir menn hlífðu honum við skapraunum af eintómri góðmennsku, eða þeir létu hann njóta Höllu - o. s. frv. Þegar þessi gáll var á honum, iðraðist hann eftir öllu, sem hann hafði tekið sér fyrir hendur, taldi allt líf sitt samanhangandi keðju af flónsku og afglöpum, var gersamlega vonlaus um allt framtíðargengi sitt og - vildi helst af öllu segja sig til sveitarinnar.
Þá sjaldan hann hafði orð á einhverju af þessu við Höllu, reyndi hún að telja kjark í hann. Hún sá, að þessi bölsýni var honum ekki sjálfráð.
Hann hætti þá að hafa orð á því, sem honum bjó í skapi. Ekki vegna þess, að fortölur Höllu hefðu sannfært hann, heldur af því, að ekki væri til neins að tala um þessar áhyggjur við hana; hún skildi þær ekki.
Í þessum hugsýkisköstum var Ólafur nær því en nokkur maður vissi, að leggja hönd á sjálfan sig.
Það gerði hann þó aldrei. En upp úr þeim fór hann stundum að vinna og spara, svo að hvort tveggja gekk æði næst.
Þá vann hann eins og jálkur, nærri því nætur og daga samfleytt, og unni sér engrar hlífðar. Jafnframt varð hann svo grútnískur, að hann tímdi varla að éta. Þá sá hann blóðugum augum eftir hverjum málsverði ofan í menn og skepnur, - jafnvel ofan í gesti. Var sínauðandi um það við sjálfan sig, hve allt væri dýrt og mikið eyddist, einkum hver ósköp krakkarnir þyrftu að éta. Halla varð þá nærri því að fara með matinn sinn og barnanna í felur, til að angra hann ekki.
Annars bitnuðu duttlungar hans sjaldan á Höllu, nema óbeinlínis. Hún sá það á honum, hve illa honum leið, og tók sér það nærri. Hún reyndi að umgangast hann með allri lempni og varast allt, er raskað gæti jafnvægi hans. En það þreytti hana. Þegar það bættist ofan á fátæktina og allt annað andstreymi, gerði það henni lífið lítt bærilegt.
En þegar hin líkamlegu einkenni á sjúkdómi Ólafs fóru að koma betur í ljós, tók að draga úr hinum andlegu. Og eftir því sem líkamlega vanheilsan magnaðist, fór hin andlega batnandi.
Þegar hann lá með köldusótt og köldum svita sló út um hann, þá lá vel á honum. Hann sagði, að þetta væri ekkert, sem að sér gengi. Það væri ofur lítill hrollur í sér.
Þegar hann fékk aðsvif af því einu að stíga á kalt gólfið fyrir framan rúmstokkinn, kenndi hann því um, að það sækti svo undarlega að sér. Einhver mundi koma bráðum, sem ætti slæma fylgju.
Svo kom bakverkurinn til sögunnar, - þessi látlausi bakverkur, sem aldrei lét hann í friði, nótt né dag. Hann bar hann með þolinmæði og gerði jafnvel gys að honum. Sagði, að réttast væri að flengja hann úr sér. Hann hefði auðvitað villst: hefði átt að fara í einhvern annan. Hann hefði ekkert til bakverkjar unnið, því að aldrei hefði hann "verið hryggbrotinn".
Og þegar hann var svo veikur, að hann hélt við rúmið, - þá komu fortölur Höllu, sem hann hafði heyrt í þunglyndisköstunum og engan gaum gefið þá, - fram í huga hans að nýju, og urðu þá að hans eigin fortölum. Í stað þess að hverfa huga hans undireins, höfðu þær setst þar fyrir og sigrað með hægðinni.
Og sumarið á undan því, sem hér segir frá, þegar Ólafur gat sama sem ekkert heyjað og engrar bjargar aflað heimilinu til vetrarins, og Halla hafði orð á því, að þetta liti ekki vænlega út, þá var alltaf viðkvæðið hjá Ólafi, að þau skyldu engu kvíða. Guð mundi leggja þeim eitthvað til.
Þessi hugsunarháttur var orðinn svo ríkjandi hjá honum, að Halla sá, að það var ekki til nokkurs hlutar að fara fram á það, að þau flyttu burt úr kotinu þá um haustið, eða bæðust hjálpar til að hjara þar yfir veturinn.
Það var varla, að hann fyndi ástæðu til að segja til Sölku.
Halla hafði því í raun og veru verið hjúkrunarkona síðustu missirin, og farist það vel, eins og annað, sem hún hafði fengist við. En það hafði hún fundið, að mikill munur var að hjúkra Ólafi líkamlega veikum eða andlega.
En nú þjáðist hún sjálf af hugsýki, þó að hún léti það ekki í ljós við neinn. Aldrei hafði hún kviðið neinum vetri eins og þeim, sem nú fór í hönd. Aldrei hafði hugur hennar verið jafnbeygður af langvarandi stríði að undanförnu og áhyggjum út af framtíðinni.
Hún var hrædd um, að það væri dauðinn, sem nú hefði lagt kalda hönd á Ólaf. Og þó að hún sæi þar nálgast lyktir hjónabandsins og heiðarbýlisvistarinnar, kveið hún ósegjanlega fyrir þeim tíma, sem þessi barátta lífsins og dauðans stæði yfir.
Hún impraði á því við Ólaf, hvort hann mundi ekki vera meira og hættulegar veikur en hann héldi sjálfur. Það vildi hann ekki heyra nefnt.
Hún fékk því þó til vegar komið, að læknirinn var beðinn að koma.
Hann kom, - kom nokkrum sinnum, skoðaði Ólaf nákvæmlega og - húsakynnin líka. En hann var fáorður.
Þó lét hann það í ljós við Höllu, að Ólafur þyrfti sem allra fyrst að komast burt úr Heiðarhvammi og fá betra viðurværi.
Svo lét hann Ólafi í té einhverjar inntökur og eitthvað til að bera á bakið.
Halla hafði fylgt lækninum með augunum, þegar hann var að skoða Ólaf og litast um í kofunum, og reynt að lesa út úr honum, hvað hann hugsaði. Og fyrst hann sagði ekki meira en þetta og gerði ekki alvarlegri ráðstafanir, þá fór hún að vona, að engin hætta væri á ferðum.
Þetta varð með öðru orsök til þess, að hún gerði ekki ítarlegri gangskör að því að drífa þau öll burtu frá Heiðarhvammi þá þegar um haustið.
Einn dag, skömmu fyrir byrjun jólaföstunnar, kom Ásmundur hreppsnefndaroddviti á Kroppi "í eigin háu persónu" upp að Heiðarhvammi til að sækja Sölku.Það var frostlítið bjartviðri þennan dag og rennihjarn yfir allt, svo að Ásmundur hafði tekið með sér skaflajárnaðan hest með söðli á. Nú átti Salka það í vændum, sem hún hafði aldrei haft af að segja hingað til, - að koma á hestbak.
Enn þá hafði Halla ekkert minnst á það við Sölku, að hún ætti að fara frá henni. Hún hafði jafnan kviðið fyrir því, að þurfa að segja henni það, og verið hrædd um það, að Salka mundi taka því með æðru og ofsa, og það því fremur, sem hún vissi það fyrr og hefði lengri tíma til að hugsa sig um.
En í kyrrþey hafði hún búið hana út til fararinnar. Margt kvöldið, eftir að aðrir voru háttaðir, hafði hún setið ein uppi, með ljóstýru við hlið sér, og saumað föt utan á Sölku, sumpart úr lítið slitnum fötum af sjálfri sér og sumpart úr nýju efni. Salka hafði komið til hennar blánakin. Nú var hún albirg af fötum, eftir því sem gerðist um niðursetninga, en enn þá fleira átti hún þó að eignast.
Nú var sú stund komin, að ekki var hægt að draga það lengur, að segja henni, hvað í ráði væri.
Ásmundur var setstur inn í baðstofu. Ólafur var á fótum, en mjög lasinn. Börnin voru bæði úti við. Halldór litli tolldi sjaldan inni, þegar veðrið var bærilegt, og nú hafði Bogga fengið að fara út með honum. Þau voru að renna sér á sleða fram af hlaðvarpanum.
Salka var frammi við, en var nú kölluð inn í baðstofu. Hún kom þegar inn og settist á rúm sitt, eins og hún var vön. Halla settist á meis við fætur hennar, tók um hönd hennar og mælti ofur blíðlega:
"Salka mín, - nú eigum við að skilja."
Meira gat hún ekki sagt í bráðina fyrir klökkvi. Hún vildi ekki láta Sölku sjá, hve nærri sér hún tæki þetta.
Salka horfði á hana stórum augum og skildi auðsjáanlega ekkert, hvað hún átti við.
Halla byrjaði aftur, og var þá rómurinn styrkari:
"Nú eigum við að skilja, Salka mín. Ásmundur á Kroppi er kominn með hest til að sækja þig. Hann ætlar að fara með þig heim til sín og vera þér ósköp góður, - miklu betri en við getum verið þér."
Salka horfði fast á Ásmund og Höllu til skiptis. Nú fór hún að skilja.
"Sérðu ekki, hvað hann Ólafur auminginn er veikur alltaf?" hélt Halla áfram í viðkvæmnisrómi. "Hann getur ekki unnið fyrir okkur lengur. Við getum ekki látið þér líða vel hjá okkur framvegis; þess vegna höfum við beðið hreppsnefndina að koma þér fyrir í góðum stað. Og oddvitinn ætlar sjálfur að taka þig til sín. - Við ætlum ekki að vera hér lengur en til vorsins, ef guð lofar okkur að lifa svo lengi. Við erum orðin svo fátæk, að við getum ekki búið hér lengur, og Ólafur er heilsulaus."
Það var sem ský drægi yfir svip krypplingsins. Hún leit niður fyrir sig, en sagði ekkert.
"Vertu nú góð, Salka mín. Hugsaðu út í þetta og reyndu að skilja það. Við viljum þér ekki annað en vel. Hugsaðu til þess, hvað við áttum bágt í vor sem leið. Við áttum ekki viðbit ofan á brauðið okkar og vorum mjólkurlaus, því að hún Skjalda okkar stóð geld. Manstu ekki eftir, hvað þú varst mögur og vesæl? Manstu ekki eftir því, sem þú fékkst innan í munninn, og verknum, sem þú fékkst í vinstri hnésbótina? Þetta kemur aldrei fyrir á Kroppi, því að þar er nóg mjólkin.
Salka mín, heyrirðu hvað ég segi? Nei, - þú mátt ekki fara að gráta. Manstu ekki eftir henni Steinku á Brekku? Hún var lítil telpa, þegar þú varst á Brekku, yngri en þú. Manstu ekki eftir henni? Hún var alltaf góð við þig. Hún er gift þessum manni, sem þarna situr. Þau eiga tvö lítil börn, - enn þá minni en Boggu litlu. Þú átt að fá að passa börnin. Aumingja Steinku vantar góða stúlku til að passa litlu börnin sín. Viltu ekki gera þetta fyrir hana Steinku þína?"
Rauðir dílar komu fram í náfölar kinnarnar á Sölku. Varirnar skulfu og tárin hrundu niður kinnarnar. En hún gaf ekkert hljóð frá sér, ekki einu sinni andvarp. Þannig hafði hún lært að stilla skapsmuni sína.
Og þegar hún heyrði minnst á börnin á Kroppi, sem hún ætti að passa, - heyrði um það talað, að hún ætti að gera gagn og það væri þörf á góðri stúlku til að gera það, sem henni væri ætlað að gera, þá var eins og glampi af gleði brytist fram í gegnum tárin, - glampi, sem þó dó þegar út aftur.
Halla tók fötin, sem hún hafði verið að sauma, og breiddi úr þeim á kjöltu sinni.
"Líttu á," mælti hún. "Þetta hefi ég verið að sauma handa þér á kvöldin. Þetta ætlum við Ólafur að gefa þér að skilnaði. Líttu á treyjuna. Hún er sniðin upp úr gömlu treyjunni minni. Og þetta er pils úr vaðmálinu, sem ég spann í fyrravetur og Borghildur í Hvammi lét vefa fyrir mig. Manstu ekki eftir honum Ólafi þófara, þegar hann var hérna að þæfa það - og kvað rímur á meðan? Og hérna eru alveg ný nærföt og tvennir sokkar. Og hvað segirðu um þetta? Líttu á! Það eru tvennir skór, aðrir verptir, hinir bryddir. Eru ekki bryddu skórnir fallegir? - svartir, með hvítum eltiskinnsbryddingum! Þessa skó máttu aldrei setja upp nema á sunnudögum."
Að undanförnu hafði Salka tekist á loft af fögnuði, þegar henni var gefin einhver ný flík. Þá hafði hún hlaupið upp um hálsinn á Höllu og faðmað hana og kysst hana. Nú lá fyrir framan hana hrúga af fleiri og fallegri fötum en hún hafði nokkurn tíma eignast í einu. Og ofan á öllu lágu þessir nettu, bryddu skór. En nú leit hún ekki einu sinni við þessu. Hún leit ekki upp, heldur sat kyrr og barðist við grátinn.
Halla strauk undur blíðlega um kinn hennar og bað hana að gera það fyrir sig að hætta að gráta, og - þó lá henni við að gráta sjálfri.
Þeir Ásmundur og Ólafur sátu hljóðir og lögðu ekkert til málanna. Það var dauðakyrrð í baðstofunni, - en friður var þar þó ekki. Í sál krypplingsins var hörð barátta. Og dunurnar af henni lagði yfir til annarra, þó að allir þegðu. Það voru fleiri en Halla, sem tóku innilegan þátt í kjörum Sölku þessa stundina. Ólaf dauðlangaði til að aftaka það, að hún færi, og Ásmundur kenndi svo í brjósti um hana, að hann hefði verið fáanlegur til að gera sitt ýtrasta til að hún mætti vera kyrr. Halla ein var fullkomlega ákveðin í þessu máli, þó að hún tæki það nærri sér. Hún vissi, að ekki mátti horfa í það.
Snögglega var yfirborðsfriðurinn rofinn líka. Halldór litli hratt upp hurðinni og kom inn. Hann var rauður í framan, móður og másandi eins og smiðjubelgur, og gall upp yfir sig í baðstofudyrunum:
"Bogga valt eins og köggull ofan allan varpann!"
Þetta þóttu honum engin smáræðis-tíðindi. Hann ljómaði af fögnuði yfir því að hafa slíka sögu að segja.
Rétt á eftir kom Bogga inn í dyrnar, hálfskælandi. Hún var svo vafin í klútum og þríhyrnum, að hún stóð stíf eins og mosavettlingur, gat lítið hreyft annað en fæturna. Það þurfti að búa vel um kirtlaveikissárin, svo að ekki kæmi kuldi að þeim. Nú var hún öll snjóug upp á höfuð, og sárin höfðu komist við, svo að hana sveið í þau.
Allir litu til barnanna, Salka líka. Og nú var henni allri lokið. Þetta var það, sem henni féll þyngst að skilja við í Heiðarhvammi.
Hún stökk á fætur, og á augabragði var hún smogin fram úr dyrunum.
"Hún fæst líklega aldrei til að fara með góðu," mælti Ásmundur og stundi við."
"Það er ekki fullreynt enn þá," mælti Halla og fór fram á eftir henni.
Frammi í eldhúsinu hitti hún Sölku. Þar grúfði hún sig niður að kvarnarstokknum og grét.
Halla lofaði henni að gráta út, á meðan hún lífgaði við eldinn og setti upp kaffiketilinn. Síðan fór hún að tala við hana og telja um fyrir henni, og tókst það furðu greiðlega.
Hún sagði henni, að það væri miklu betra fólk á Kroppi en verið hefði á Brekku. Og eiginlega hefði enginn verið henni vondur á Brekku, nema Margrét. Hún sýndi henni fram á, hve miklu skemmtilegra væri að vera á fjölmennu heimili en fámennu. Og svo færi hún ríðandi í nýju vistina; - riði í söðli, eins og maddama.
Hvert orð, sem hún sagði, stakk hana sjálfa í hjartað, eins og hún væri að byrla þessum einfeldningi banvæna dropa. Hún hélt þó áfram, því að hún taldi það enn þá meiri ábyrgðarhluta að gefast upp. Nauðuga gat hún ekki slitið Sölku frá sér; ef hún fengist ekki til að fara með góðu, varð eitt yfir þær báðar að ganga.
En þess þurfti ekki við. Salka var sama barnið í lund sem hún hafði jafnan verið. Eftir fortölurnar brosti hún með augun full af tárum, eins og hún hlakkaði til að fara.
- Skömmu seinna lagði Salka á stað með Ásmundi.
Ólafur og Halla og börnin fylgdu henni út á hlað til að kveðja hana. Ásmundur lyfti henni upp í söðulinn og rétti henni fatapokann sinn, sem hún átti að reiða í fanginu. Börnin spurðu óaflátanlega, hvert hún færi og hvenær hún kæmi aftur, en fengu ekkert svar. Halla gat ekkert talað svo, að ekki bæri á grátinum, og Ólafur hélt trefilendanum fyrir munninn vegna kuldans.
Þegar Salka var farin, settist Halla inn í eldhús og grét. Nú fann hún það best, hvílíkur dauðadómur var upp kveðinn yfir heiðarbýlinu.
Ólafur tók sér þetta léttar. Hann tók undireins til starfa, þó að hann veikur væri, að afkróa baðstofuendann, þar sem rúm Sölku hafði staðið, og slá þar upp jötu handa kindum.
4. kafli"Það líður allt - einhvern veginn!" segja menn stundum, hálfþreytulegir á svipinn og þó hálffegnir, þegar einhverjir tímar, sem þeir hafa kviðið fyrir í kyrrþey, eru liðnir fyrr en þá varir. Þeim finnst þá, að þeir hafi komist furðanlega yfir þennan spöl ævinnar. Hann hafði þó ekki orðið þyngri en þeir hefðu gert ráð fyrir, og gott sé þó að vera kominn fram á þennan dag. Það, sem nú taki við, líði "einhvern veginn" - eins og hitt.
Skammdegið hafði liðið "einhvern veginn" í Heiðarhvammi, enginn vissi eiginlega hvernig.
Kofarnir höfðu oftast verið eins og luktar grafir, nærri því á kafi í fönnunum. Stundum sá þar varla mun dags og nætur. Þó leið aldrei svo heill dagur, að gröfin væri ekki rofin. Halla braust út í skaflana, hvernig sem viðraði. Stundum aðeins til að ná vatni handa mönnum og skepnum. Stundum til þess að lofa skepnunum, sem hýstar voru í bænum, að viðra sig úti, þó ekki væri nema stundarkorn í einu. Halldór litli fylgdi henni rösklega eftir nærri því í hvert einasta skipti. Það var honum mesta skemmtun, þegar hann stóð varla upp úr snjónum og sá ekkert frá sér fyrir kafaldi. Hann mundi hafa þotið miklu oftar út í stórhríðarnar, hefði Halla ekki bannað honum það.
Þau sjúklingarnir, Ólafur og Bogga, fóru miklu sjaldnar út. Ólafur dróst að vísu á fótum, en þoldi engan kulda. En Bogga litla var alltaf með kirtlaveikisútbrot. Ef eitt sárið greri, tók annað við.
Í bænum voru allar nauðsynjar dregnar saman handa mönnum og skepnum, svo að hægt væri að byrgja sig inni og láta húsin hlífa sér, þegar veðrin voru verst.
Þá lagðist einhver dauðadeyfð á allt, sem þar var innan dyra. Kindurnar lágu jórtrandi hver upp við aðra, með hálfaftur augun. Fjárhundurinn hringaði sig saman í einhverju skotinu og svaf nótt og dag, að kalla mátti. Börnin fóru stundum alls ekki í föt, heldur voru niðri í hlýju rúminu allan daginn og kisa hjá þeim. Og Ólafur, - Ólafur svaf eða mókti í rúmi sínu. Hann þurfti slík lifandi undur að sofa síðan hann varð veikur, að Höllu stóð stuggur af því. Hann hafði verið allra manna svefnléttastur, eins og títt er um góða fjármenn; varla þurft nema fuglsblund. Nú gat hann sofið nætur og daga í lotu, án þess að vakna svo, að vaka gæti kallast.
Bærinn var fullur af einhverju undarlegu svefnlofti, - súru, fúlu og innibyrgðu. Menn og skepnur önduðu því að sér og frá sér aftur, án þess eiginlega að finna, hve þungt og illt það var, án þess að finna til eitursins, sem í því lá og allt sýkti, með dæmalausri hægð. Sjúkdómurinn, sem það færði, var sljóleiki, kæringarleysi um allt og undarleg tilhneiging til að móka í einhverri svefnsælu, -"fljóta sofandi að feigðar ósi".
Halla ein hafði kjark og þrótt til að veita viðnám. Marga stund var það eiginlega hún ein, sem vakti í bænum, - vakti yfir öllu hinu, sem svaf þar eða hálfsvaf. Hún fann, að hún mátti til, að allir sofnuðu, var undanfari þess, að allir dæju.
Hún var alls staðar nálæg, frammi og inni, þar sem þörf var á henni. Og jafnan varð henni samfara ofur lítill lífsvottur, ofur lítil vökustund. Hvar sem hún kom, mændu upp á hana augu þeirra, sem væntu einhvers góðs af henni. Hundurinn leit upp og dinglaði skottinu, hvenær sem hún gekk fram hjá honum; kindurnar teygðu að henni snoppurnar og þefuðu, því að hún var vön að koma með heytugguna þeirra. Frammi í fjósinu gamla var hrútur bundinn, mesti geðvonskugripur, sem hafði það skapi sínu til svölunar, að ganga aftur á bak, svo langt sem bandið náði, og renna sér síðan af öllu afli á stoðina sína. En þegar hann sá húsmóður sína koma, hætti hann að berja stoðina og leit vinalega til hennar. Halla talaði við hann eins og barn, klappaði honum á snoppuna og klóraði honum á milli hornanna. Skammt frá honum voru fáein lömb afkróuð. Þau príluðu upp í grindurnar sínar með framfæturna, teygðu fram álkurnar og jörmuðu að henni. Þau voru "eftirlætisbörnin"; af öllum skepnum í bænum hafði Halla mest yndi af þeim. - Ærnar, sem allar voru í baðstofuendanum, voru ráðsettari og alvarlegri. Þær voru upp úr því vaxnar að skvetta sér upp og láta eins og - lömb. Forustu-Surtla var fyrir þeim öllum, harðleg, hnellin skepna, 6 vetra gömul, með dökk, tindrandi augu. Hinar ærnar litu til hennar með eins konar virðingu. Úti við fylgdu þær henni jafnan eftir; inni við var hún þeim til fyrirmyndar.
Þetta eitt var nú orðið eftir af hinum ágæta fjárstofni Ólafs. Ærnar voru lítið fleiri en kúgildið, sem hann átti að standa Agli skil á, þegar hann flytti úr kotinu.
Halla stundaði skepnurnar með álíka alúð eins og manneskjurnar. Tímanum var upp skipt til starfa frá morgni til kvölds. Hún hafði yndi af því að ganga þannig milli manna og skepna, koma alls staðar færandi hendi, sjá sér fagnað með atlotum og augnaráði, þó að orðin vantaði; vita það, að alls staðar var þörf á henni, að öll augu leituðu hennar með bón og þakklæti. Þetta hafði gert henni skammdegisstundirnar bærilegar.
Vinnan -! Enginn þekkir til fulls, hvílík blessun hún er. Hún er meðal gegn myrkrinu, kuldanum, tómleikanum, áhyggjunum og kvíðanum. Hún er vopn á sjálfan dauðann, - jafnvel eina vopnið, sem hann hopar fyrir.
Halla var alin upp í fátækt og hafði lært að vinna. Hún hafði unnið dyggilega í vistunum á meðan hún var vinnukona, og unnið sér með því hylli húsbænda sinna. Og hún hafði unnið og ekki hlíft sér eftir að hún varð sín eigin húsmóðir. En þessi síðustu missiri hafði hún unnið meira en nokkru sinni áður.
Og hún bar heiðursmerki vinnunnar. Nú var æskublóminn horfinn að mestu, andlitið orðið fölt og þreytulegt og farið að votta fyrir hrukkum. Hún hafði elst fyrir ár fram, því að enn þá var hún ekki nema um þrítugt. Nú var hún hætt að hugsa um það, hvort útlit hennar geðjaðist mönnum eða ekki. Öll krafa til unaðssemda lífsins var í raun og veru horfin úr huga hennar. Allir sælir vökudraumar orðnir að ævintýrum, sem aldrei höfðu skeð, og aldrei mundu ske.
Þegar hún leit á hendurnar á sér, sem voru orðnar harðar og blakkar af langvinnu erfiði, og þegar hún sá sig í spegli, - magra, föla og þreytulega, þá brosti hún yfir sjálfri sér og sagði í huganum: Ég er bráðum orðin kerling.
En hvað gerði það til? Eilífri æsku hafði henni aldrei verið lofað. Það var mest um vert að vera góð kerling, gera vel, vinna fyrir aðra og láta gott af sér leiða, - verja því, sem eftir væri ævinnar, þannig, að þakklæti annarra manna legði blóm á götu hennar - og gröf hennar.
Þannig hafði skammdegið þokast áfram, fet fyrir fet.Umferðin að fjallabaki á vetrum fór mjög þverrandi, svo að fáir komu að Heiðarhvammi eftir að veturinn var kominn fyrir alvöru.
Það voru því sannar fagnaðarstundir, þegar Finnur, beitarhúsamaður Egils í Hvammi, skrapp þangað heim með mjólkurflösku í barminum.
Það gerði Finnur ætíð, þegar honum leist svo á veðrið að morgni, að hann taldi sér mundu verða óhætt að skreppa frá fénu. Þá lét hann eldhússtúlkuna fylla flösku með nýmjólk, - stundum tvær, - og stakk þeim í barm sinn. Það þurfti ekki að bera þetta undir Borghildi; hún hafði mælt svo fyrir í eitt skipti fyrir öll.
Og hann gerði meira en þetta fyrir þau í Heiðarhvammi. Ef þau vantaði eitthvað úr kaupstaðnum, þá útvegaði hann þeim það á þann hátt, að menn Egils voru látnir taka það út, þegar þeir áttu ferð í kaupstaðinn, og flytja það heim að Hvammi. Þar tók Finnur við því og kom því upp að Heiðarhvammi.
Hann var eiginlega eina sambandið, sem heiðarbýlið hafði við byggðina. Allir virtust hafa gleymt Heiðarhvammi og þeim, sem þar bjuggu, nema hann. Og hann fékk ekki mörg tækifæri til að minna á heiðarbýlið heima í Hvammi, því að hann var ekki heima nema blánóttina.
Hann færði þeim í Heiðarhvammi fréttir af því helsta, sem við bar í sveitinni. Dálitla stund úr deginum sat hann og spjallaði og beið eftir góðgerðum.
Það var eins og hressandi blæ legði af honum inn í alla þessa deyfðarmollu, sem fyllti bæinn. Og við komu hans glaðvaknaði Ólafur ævinlega. Öll sauðahjörðin í Hvammi var þeim meira en nægilegt umtalsefni.
En Finnur kom ekki nema þegar gott var veður. Annars mátti hann ekki yfirgefa féð. Og því var miður, að það, sem af var vetrinum, höfðu góðviðrisdagarnir verið mun færri en hinir.
Einn sólskinsblettur var þó í öllu þessu skammdegismyrkri, - sami sólskinsbletturinn, sem jafnan er í skammdegismyrkrinu á hverju ári, eins í heiðarbýlunum og annars staðar.
Það voru jólin.
Á meðan þau voru í aðsigi, voru dagarnir taldir til þeirra. Tilhlökkunin fór vaxandi með hverjum degi. Börnin gátu ekki um annað hugsað, og Halla tók sjálf þátt í tilhlökkun þeirra. Hún hafði jafnan hlakkað til jólanna síðan hún var barn, og margar hlýjar endurminningar voru við þau tengdar. Nú vissi hún, að jólin gátu ekkert fært henni annað en það, að fá að sjá aðra glaða eina kvöldstund.
Ólafur hlakkaði til jólanna á sama hátt. Hann hafði sér einskis af þeim að vænta annars en endurminninganna um jól liðnu áranna. Vegna þeirra þótti honum vænt um jólin. Oft minntist hann á það, þegar verið var að tala um jólin, hvernig sér hefði liðið þessi eða þessi jólin að undanförnu. Oftast hafði hann staðið yfir kindum á aðfangadaginn og ekki komið heim fyrr en búið var að kveikja öll ljós og allir voru komnir í sparifötin. Þá stóð matardiskurinn hans uppi á hillu yfir rúminu hans, kúfaður af jólasælgæti, og há varða af laufakökum ofan á öllu saman. Auk matarins lágu tvö kerti á diskinum. Á þeim hafði hann stöku sinnum kveikt, þegar hann þurfti að bregða upp ljósi fyrir sjálfan sig, t. d. þegar hann langaði til að líta ofan í kistu sína. En ævinlega treindi hann þau til næstu jóla. - Þegar á leið kvöldið og búið var að lesa húslesturinn, fóru menn að skemmta sér. Stundum fóru menn að spila, en oftar fóru menn í jólaleiki. Oft hafði hann togast með inn í þessa glaðværð; það var hvort sem var enginn friður til að sofa. Margt skrítið hafði komið þar fyrir, sem hann gat ekki annað en brosað að nú. En ævinlega höfðu jólaleikirnir haft einn og sama endi fyrir honum. Þeim var ekki hætt fyrr en kominn var morgunn. Þá þurfti hann að fara til sauða sinna, þó að ekkert hefði hann sofið um nóttina. Allan jóladaginn varð hann að standa yfir fénu, eins og aðra daga. Aldrei á ævi sinni hafði hann verið við jóladagsmessu. Ef gott var veður, gat hann lagt sig út af í beitarhúsagarðann ofur litla stund. En í vondu veðri voru honum jólin daufleg. Samt langaði hann nú til einskis fremur en lifa slík jól upp aftur. - Það yrðu nú fyrstu jólin, af þeim, sem hann mundi eftir, að hann kæmi ekki undir bert loft, ef honum batnaði ekki.
Rúmri viku fyrir jólin byrjuðu jólasveinarnir að koma. Þeir voru níu, og kom einn á hverjum degi til jóla. Þeir komu ofan af fjöllunum eða einhvers staðar utan úr buskanum. Börnin sáu þá ekki, en vissu af þeim úti í dimmum skotunum. Þau voru eiginlega ekkert hrædd við þá, því að þetta voru meinleysisskinn, ef þeir voru ekkert styggðir. Þau máttu ekki tala ljótt eða vera vond börn, því að það voru þeir vísir til að nota sér. Halla kenndi þeim allar þulurnar, sem hún kunni um jólasveinana; Ólafur kunni þær líka.
Þegar allir jólasveinarnir voru komnir, komu jólin sjálf. Þau höfðu litla tilbreytingu að færa, en þó glaðningu.
Halla hafði saumað sína flíkina handa hvoru barnanna, sem þau vissu ekkert af fyrr en þau fengu það. Hefðu þau ekkert fengið nýtt til að fara í, þá hefðu þau "klætt jólaköttinn", og það var ljóta sneypan! Nú var því afstýrt. Ólafur fékk nýsaumaða milliskyrtu og gladdist yfir henni eins og barn. En Halla sjálf "klæddi jólaköttinn".
Loks hafði Halla steypt eitt kerti á mann á heimilinu. Meira mátti það ekki vera, því að tólgin var eina viðmetið og af skornum skammti. Einnig hafði hún gert fáeinar laufakökur úr sálduðu rúgmjöli og skorið þær út sjálf.
Í þessu voru öll hátíðabrigðin fólgin.
En þakksamlega voru þau meðtekin. Börnin réðu sér varla fyrir jólafögnuði. Litli kirtlaveiki vesalingurinn, sem varla gat klæðst um jólin, sat flötum beinum uppi í rúminu og horfði á ljósið sitt. Jólagleðin skein út úr andliti hennar og augun flutu í fagnaðartárum.
Dálitla stund var látið loga á öllum kertunum, og glaða birtu lagði um alla baðstofuna, út í hvern kima, þar sem aldrei féll birta á annars. Baðstofan varð hlýlegri og hátíðlegri en nokkurn tíma áður. Einhver sjaldgæfur helgibjarmi var þar á öllu, eitthvað, sem gagntók menn með fögnuði og lotningu. Halla las jólahúslesturinn upphátt og söng jólasálm. Halldór litli tók undir hann með henni, því að hann kunni sálminn.
- Jólin liðu hjá, - eins og sólskinsblettur. Lýsandi og brosandi liðu þau fjær og fjær, en litu við á hverjum degi og báðu að heilsa. Endurminningarnar um þau dofnuðu, og skuggarnir, sem þau höfðu dreift, sigu saman aftur.
Nýárið fylgdi þeim eftir álengdar, með ofur litlu endurskini jóladýrðarinnar. Það færðist líka fjær og - nú var kominn Þorri.
- "Þorradægur þykja löng,
- þegar hann blæs á norðan."
Þorri er gamall víkingur, ættaður norðan úr Hafsbotnum; hálfur tröll og hálfur maður.
Eitthvað á þessa leið hefir alþýðuskáldskapurinn gert honum gervi.
Hann er "hár eins og drangur og digur sem þjór", allur gaddaður utan, með sýlað svarðreipi reyrt um lendarnar. Skeggið er allt í klakaströnglum eins og frosinn foss. Fannahengjur eru í brúnabrúskunum og skuggalegt er að sjá til augnanna. Kaldir eldar brenna þar inni í sortanum.
Hamramur, harðlyndur og þungstígur þrammar hann um landið og leggur það undir sig. Þar er ekki miskunnar að vænta, sem hann fer; enginn blíðkar hann með bænum og ekki þiggur hann mútur. Öllum er hann jafnstrangur og gerir engan mannamun. Ekkert kemur það honum við, hvort menn eru við komu hans búnir eða ekki. Hann metur það jafnt, hvort stráin ýla undan honum eða mennirnir kveða um hann níð.
En hreinlyndur er hann, þó hann sé mislyndur, og engan svíkur hann í tryggðum. Hreinn er hann á svipinn eins og jöklarnir. Þegar hann situr á veldisstóli sínum, þögull og þungbrýnn, skelfur allt, sem líf hefir, inn að hjartarótum. Þá líða sólbros yfir enni hans. Það eru ekki blíðubros, heldur gleðibros yfir eigin einveldi. Og þegar hann er grimmur og geisar, hlýðir dauðinn sjálfur honum eins og auðsveipur þræll.
Tunglið, sem þá er á himninum, er tunglið hans, - auðmjúkur skósveinn hans, síhræddur gepill, sem hallar hundslega undir flatt og lygnir augunum upp á húsbónda sinn. Það hefir slæma samvisku. Það situr á svikráðum við karlinn, og þjónusta þess er eintóm augnaþjónusta, - eins og hjá höfðingjasleikjum jarðarinnar. Það hefir ríka tilhneigingu til að kjafta frá því, hvað Þorri hafi í hyggju að gera.
Menn höfðu sem sé komist upp á það, að tala eins konar bendingamál við þorratunglið.
Fyrst var nú það að marka, í hvaða átt það kviknaði. Því verra, sem það var norðar. Þar skiptist hringurinn frá hláku í suðri til hörku í norðri. - Ef það var lágt á lofti, vissi það á snjóa; ef það var hátt á lofti, vissi það á frost og heiðríkju. Ef rosabaugur var í kringum það, vissi það á langvarandi ótíð og ótíðindi. Ef það var rautt og stórt niður við sjóndeildarhringinn, þá vissi það á aftakasnjókomu. Ef mönnum sýndust þá neistar hrökkva af því, vissi það á mannskaða.
Þennan vetur hafði þorratunglið komið rúmri viku á undan Þorranum sjálfum. Og það spáði engu góðu; síður en svo. Þá sjaldan í það hjó fyrir dimmviðri, hrópaði það hrakspár til jarðarinnar. Allt gaf það í skyn, sem verst var: fannfergjur, frosthörkur og jafnvel mannskaða.
En það var fleira en þorratunglið, sem menn leituðu frétta hjá. Það gat skrökvað, eða því gat skjátlast. Þeim, sem eru húsbónda sínum ótrúir, treystir enginn maður. Og þorratunglið var ekki svo gáfulegt á svipinn, að ekki mætti efa óskeikulleika þess.
Messudagarnir gömlu, Pálsmessa (25. jan.) og kyndilmessa (2. febr.), voru miklu áreiðanlegri, enda voru það vígðir dagar. Ef þeim bar ekki saman við spádóma tunglsins, var sjálfsagt að trúa þeim heldur.
Trúin á spásagnaranda þessara merkisdaga var orðin svo rótföst, að enginn þekkti upptök hennar. Hún birtist í eldgömlum vísum, sem allir kunnu. Hver kynslóðin lærði þær af annarri, en enginn vissi, hver hafði ort þær.
Um Pálsmessuna var þetta kveðið:
- Ef heiðskírt er og himinn blár
- á helga Pálus messu,
- mun þá verða mjög gott ár;
- mark skal taka á þessu.
En þetta var kveðið um kyndilmessuna:
- Ef í heiði sólin sest
- á sjálfa kyndilmessu,
- snjóa vænta máttu mest,
- maður, upp frá þessu.
Sumir höfðu "sést" fyrir "sest" í fyrstu hendingunni, og þótti hvort tveggja ills viti. Þó tók það af tvímælin, ef hún settist í heiði.
Einnig þótti það ómaksins vert að taka vel eftir öskudeginum. Hann átti að eiga átján bræður, sína jafningja, á seinni hluta vetrarins.
Kvöldið fyrir Pálsmessu sat Halla ein uppi og spann eftir að aðrir voru háttaðir. Hún sat á rúminu fyrir framan börnin og sagði þeim sögur, en talaði mjög lágt, til þess að glepja ekki svefninn fyrir Ólafi.Hjónin voru fyrir löngu skilin að sæng og Halla flutt yfir í rúm barnanna, til þess að betur skyldi fara um Ólaf á meðan hann væri veikur.
Bæði börnin voru búin að fá kuldabólgu á hendur og fætur. Þann kvilla höfðu þau fengið á hverjum vetri, svo að þau voru farin að venjast honum. Halla þekkti það af reynslu, að eina ráðið til að verjast þessum kvilla var að spinna af kappi, hverja stund sem hún var inni.
Bogga litla var lingerð og grét oft undan kláðanum í frostbólgunni. Halldór litli var harðari. Honum þótt lítilmannlegt að kvarta undan öðru eins smáræði. Hann var hreykinn af bólgubungunum ofan á fingrunum á sér; þær voru miklu stærri en á Boggu. Og þegar hann klæjaði allt of mikið í þær, fékk hann sér klaka og hélt honum við þær, þar til fingurnir dofnuðu. Þá lækningu hafði hann fundið upp sjálfur.
Í þetta skipti hafði hann undarlega gaman af því, að sparka í systur sína undir dýnunni, svo að hún hrini upp, og þræta svo fyrir það á eftir.
"Halldór minn, ég flengi þig nú, hrófið mitt, ef þú sparkar oftar í hana systur þína," mælti Halla og var byrst.
"Ég var ekkert að sparka í hana," sagði Halldór undur sakleysislega. "Ég var að nudda mig á stóru tánni. Mig klæjar í frostbólguna mína. En það má ekkert koma við Boggu, svo að hún fari ekki að hljóða."
Halla lét þetta gott heita og hélt áfram sögunni, en þegar minnstum vonum varði, rak Bogga upp hljóð að nýju. Halldór litli hafði bitið hana í fótinn.
Halla brá við skjótt, svipti ofan af þeim fötunum og lamdi á fæturna á Halldóri.
"Ég var ekkert að sparka," sagði Halldór hálfskælandi af sársauka, - en hló svo storkunarhlátri upp úr öllu saman.
"Ætlarðu nú að vekja hann pabba þinn með hávaðanum?" spurði Halla byrst.
Halldór þagnaði, en Bogga litla var farin að gráta. Hún tók sér það alltaf nærri, ef Halldór fékk ráðningu fyrir að stríða henni.
Halla brosti með sjálfri sér. Henni þótti vænt um þau bæði, þrátt fyrir allar ertingarnar. Þau voru bæði góð börn að upplagi.
"Nú fáið þið það fyrir óþekktina, að ég hætti að segja ykkur söguna," mælti hún.
"Æ-i nei, góða mamma," bað Halldór ósköp innilega.
"Jú, það verður eins og ég hefi sagt."
Halldór litli vissi, að ekki tjáði að reyna til að þoka mömmu hans frá því, sem hún hafði sagt. Hann lá kyrr, hálfgramur yfir því, að missa af framhaldi sögunnar, og hálfsneyptur, og var að hugsa um, hvort hann ætti að reyna að hefna sín með því að sparka í Boggu.
"Nú eigið þið að fara að lesa bænirnar ykkar og svo að sofa", mælti Halla. Hún hafði séð það á Halldóri litla, hvað hann var að hugsa um.
"Ekki strax," mælti Halldór litli. "Ég er ekkert orðinn syfjaður."
Það þótti honum verst af öllu, þegar hann þurfti að fara að lesa bænirnar sínar. Honum fannst það undarlegt, að þurfa alltaf að vera að biðja guð um þetta sama. Var ekki nóg að gera það einu sinni á ári, til dæmis á jólunum?
En þetta gerði Bogga ævinlega með sömu þægðinni eins og annað.
Halla var ósveigjanleg. Hún byrjaði á bænunum, og börnin urðu að hafa þær upp eftir henni.
Bænirnar voru flestar í ljóðum, eða bænasálmar. Börnin kunnu þá svo vel, að Halla þurfti varla að minna þau á.
Þegar bænalestrinum var lokið, breiddi Halla ofan á börnin og skipaði þeim að fara að sofa.
Þau þorðu ekki annað en hlýða, og skömmu síðar voru þau sofnuð. - -
Þá sat Halla einsömul uppi við tóvinnu sína, eins og hún hafði gert svo margsinnis áður.
Djúp og ömurleg þögn var allt í kringum hana; en hún var einnig orðin henni vön. Hún tók rokkinn sinn í sundur og bar á hann, svo að enn þá minna skyldi heyrast til hans. Það gerði hún ekki af ótta fyrir því, að hann kynni að vekja þá, sem sváfu í kringum hana. Hún þoldi sjálf enga truflun á hinni helgu og hátíðlegu grafarkyrrð vetrarnæturinnar.
Uppi yfir henni var bálkaþekjan tindrandi af hrími. Glugghúsið við þekjugluggann var allt fannhvítt innan. Af stafnglugganum hafði klökknað dálítið um daginn og runnið fram úr gluggakistunni ofan á borðið. Nú var þetta allt hlaupið í svell aftur. Fönn lá upp á miðjan gluggann að utan; undir henni var hélan dálítið minni, en fyrir ofan hana var hélan margföld; hver rósavefnaðurinn ofan á öðrum. Á annarri efri rúðunni var gat á hélunni, sem börnin höfðu þítt með bólgnum fingrunum og andardrætti sínum. Nú hafði þykka hélu lagt yfir það að nýju.
Það var eins og veturinn gægðist alls staðar inn um baðstofuna, seildist með ísköldum, héluloðnum höndum inn um gluggana, inn um þekjuna eða upp um gólfið, til að ná í eitthvað af því, sem enn lifði þar, og orna sjálfum sér á síðasta hjartayl þess.
Lampinn logaði dauft með miklum reyk, sem breiddi sig um baðstofuna og gerði þunga, dökka móðu. Hvergi var bjart nema rétt hjá honum. Allt, sem fjær var, smáhvarf í sortann.
Halla var orðin þessu vön. Líkt þessu hafði hvert einasta vetrarkvöld verið, sem hún hafði lifað í Heiðarhvammi.
Hún þeytti rokkinn hægt og jafnt, svo að varla heyrðist til hans. Suðan í honum var mjúk og mild, eins og þytur af leðurblökuvængjum. Hún fyllti loftið af einhverju svæfandi þungu seiðmagni, einhverju vökudraumamóki, sem nálgaðist martröð.
Halla leit ekki upp frá spunanum, en hún hlustaði, - hlustaði með einhverri undarlegri angistarathygli, og hrökk saman, ef henni heyrðist eitthvað, sem hún átti ekki von á.
Svo voru taugar hennar viðkvæmar, að nærri lá, að hún heyrði hverja hreyfingu til hverrar skepnu, sem í bænum var.
Kindurnar frammi í baðstofuendanum lágu og jórtruðu, hálfsofandi. Frammi í bænum heyrðust þung högg við og við. Rétt framan við baðstofudyrnar heyrðist svefnsnökt í fjárhundinum.
Það var sem allt heiðarbýlið lægi milli svefns og vöku og styndi undir einhverjum blýþunga, einhverju heljarfargi, sem þar lá á öllu, úti og inni.
Ólafur hafði sofið undarlega mikið að undanförnu, alla nóttina og rétt að kalla allan daginn. Og enn svaf hann og lét hálfilla í svefninum. Halla hlustaði eftir því, sem hann var að tala upp úr svefninum. Það var samhengislaust rugl, en þó alltaf eitthvað um kindur.
Áður en hún vissi af var Ólafur vaknaður. Hann lá kyrr um stund og horfði út í húmið í baðstofunni. Síðan mælti hann:
"Er orðið framorðið?"
"Já," svaraði Halla. "Það er kominn háttatími."
"Ég hefi sofið lengi."
"Já, - svo lengi, að mér var farið að ógna. Ég hélt, að þú mundir ekki vakna aftur. Hvernig líður þér?"
"Vel. Ágætlega."
"Hvernig ertu í bakinu?"
"Ég finn aldrei mikið til, þegar ég ligg alveg kyrr. En nú fer mér að batna. Ég finn það á mér."
"Það færi betur, að svo yrði."
"Mér er alltaf svo undarlega kalt á fótunum. Og þeir eru svo þungir og stirðir, að ég get varla hreyft þá."
Halla tók á fótunum á honum og fann, að þeir voru ískaldir.
"Ég skal breiða betur ofan á fæturna á þér. Þykir þér of þungt að hafa ullarpokann minn ofan á fótunum, að minnsta kosti í nótt?"
"Þetta er ágætt. Þetta er fyrirtak. Nú hlýnar mér á fótunum, og svo fer mér að batna," mælti Ólafur. Eftir litla þögn bætti hann við. "Ég er viss um, að ég á eftir að verða fjármaður á einhverju stórbúi."
"Hvers vegna heldurðu það?"
"Mig dreymir svo oft kindur. Mig dreymir eiginlega aldrei annað en kindur, helst sauði."
"Kindur í draumum eru fyrir snjó og harðindum."
"Getur verið. - En mig dreymir svo mikið af kindum, heilar hjarðir. Og ævinlega er ég að beita þeim, stundum í blómlegum högum, stundum á gaddinum. Og alltaf þekki ég sömu kindurnar í draumunum, eða eitthvað af þeim. En þegar mig dreymir þannig, líður mér ævinlega vel í svefninum."
Halla gaf þessu lítinn gaum. Ólafur þagði nokkra stund og mælti síðan:
"Skyldi Finnur verða lengi sauðamaður hjá Agli í Hvammi? Þar er fé, sem gaman væri að hafa undir höndum, bæði margt og fallegt."
Augun á Ólafi sigu aftur, og Höllu virtist svefnmók færast á hann að nýju.
Allt í einu reis hann upp til hálfs, starði fram í baðstofuendann og mælti:
"Hvað er þetta, Halla?"
Höllu varð hálfhverft við. Hún gat ekki betur séð en hann væri glaðvakandi. Hún horfði ýmist á hann eða fram í baðstofuendann. Þar sá hún ekkert undarlegt.
"Þetta, þarna?" mælti Ólafur og benti. "Þetta hvíta."
"Hvað þá? Ég sé ekkert."
"O-o, - það er hún Salka skinnið."
Það var að heyra á orðum Ólafs, að hann myndi ekkert eftir því, að Salka væri farin af heimilinu. Hann lét fallast ofan á koddann og talaði ekki framar um þetta.
Halla þóttist viss um, að hann hefði verið vakandi, en þegar hún ætlaði að fara að inna hann frekar eftir því, hvað hann hefði séð, svaraði hann engu.
Halla fann ískaldan hroll líða um sig. Aldrei hafði hún kennt til myrkfælni fyrri. Hún bað guð fyrir sér í huganum við þá tilhugsun, að sú plága ætti nú að bætast ofan á allar aðrar.
Hún treysti sér ekki til að sitja lengur uppi. Undarlegur skjálfti gagntók hana og hjartað barðist ákaft. Hún háttaði og slökkti ljósið.
Bænirnar, sem hún var vön að mæla fyrir munni sér á hverju kvöldi, sefuðu ekki ókyrrð þá, sem gripið hafði huga hennar. Hún hrökk upp jafnóðum og svefn seig að henni, og þegar hún starði út í myrkrið, sýndust henni glóandi hringir, alla vega að lit og lögun, vera þar á iði og sveimi í loftinu.
Ótti og angist læddust að huga hennar í alls konar myndum. Stundum fannst henni, að Salka hlyti að vera dáin, fyrst Ólafur hefði séð hana þarna. Var hún að áklaga hana fyrir þá harðýðgi, að hún hefði látið hana fara frá sér? Eða kannske hún væri enn á lífi, en henni liði illa á einhvern hátt? - En var það nú víst, að þetta hefði verið Salka, sem Ólafur sá, en ekki einhver af þeim vofum, sem orð lék á, að héldu til í Heiðarhvammi? Eða var það svipur einhverrar manneskju, sem nú var að verða úti í nánd við bæinn? Eða feigðarvofa Ólafs sjálfs, sem vitjaði hans undir banadægrið?
Þannig velktist hugur hennar milli alls konar ímyndaðra hrellinga, sem gengu henni svo nærri, að svita sló út um hana. Eftir því sem lengur leið, urðu hugsanirnar draumkenndari og ósamstæðari, þar til þær liðu að lokum út í haf þess algleymis, sem kennt er við bróður dauðans.
5. kafliPálsmessan spáði engu góðu. Það var ekki "heiðskírt og himinn blár" þann dag. Aldrei hafði verið dimmara og drungalegra í lofti.
Himinninn var allur þakinn þungri, þykkri skýjakápu, sem nam niðri á fjöllunum. Framan af deginum var kyrrt dimmviðri með hægu frosti. Halla hafði hleypt kindunum út á hnjótana, sem upp úr stóðu kringum bæinn.
Þegar leið af hádegi, fór að snjóa í logni.
Kindurnar "vissu á illt". Þær vildu ekki halda sig að haganum, þó að veðrið væri gott, heldur leituðu heim að bænum og vildu komast inn. Forustu-Surtla var svo áleitin, að hún ruddi Halldóri litla úr dyrunum og tróð sér inn. Halldór hrökklaðist öfugur inn í bæjardyrnar og snjóug ullin straukst um andlitið á honum. Fjárhundurinn, sem verið hafði honum til aðstoðar við vörnina, lagði niður skottið og flúði lafhræddur inn í baðstofu undan hornunum á Surtlu; þar skreið hann inn undir rúm. Hinar kindurnar fylgdu Surtlu fast eftir. Inni í göngunum skiptu þær sér á sama hátt og þær voru vanar, ærnar fóru inn í baðstofuna, en lömbin í fjósið. Þó hafði borið ögn út af venjunni að þessu sinni. Eitt lambið hafði flónskast inn í baðstofu með ánum. Það fékk átakanlega áminningu fyrir heimskuna. Ærnar börðu það og hröktu á milli sín. Óvitinn litli flúði úr einu horninu í annað og vissi ekkert, hvað hann átti að gera af sér. Þá kom Halldór til sögunnar að nýju og var í illu skapi. Hann hafði ætlað að hefna sín á Surtlu, en nú snerist það upp í það að hjálpa lambinu. Hann tók um hornin á lambinu og ætlaði að toga það fram til hinna lambanna. En lambið var sterkara en hann. Halldór færðist í aukana, hálfskælandi af reiði. Þannig stóð á, þegar Halla kom að. Hún horfði á viðureignina örlitla stund og hafði gaman af. Síðan tók hún þennan litla, marghrakta vesaling, sem var léttur eins og ullarvindill, upp í fang sér og bar hann fram til hinna lambanna.
- Litlu seinna ætlaði hún að fara að loka bænum og búast um til næturinnar, eins og hún var vön.
Þá sá hún einhverja svarta þústu færast út með fjallinu og stefna á bæinn. Hún staldraði við og horfði á þetta, þar til það skýrðist fyrir henni. Það leyndi sér ekki, að gestir voru að koma.
Gestirnir færðust nær og nær, þó að seint sæktist þeim, og Halla sá illa til þeirra fyrir fjúkinu. Það voru tveir karlmenn og drógu sleða. Á sleðanum sat einhver hrúka, sem ekkert skapnaðarlag sást á.
Að loka bænum, þegar gestir eru að koma, er ósvinna, sem íslenska gestrisnin hefir rekið úr landi fyrir mörgum hundruðum ára. Þetta kom Höllu ekki til hugar að gera; henni þótti vænna um það en svo, að gestir skyldu leita húsa hjá henni. Nú voru ekki gestakomur tíðar.
Hún beið í dyrunum, þar til mennirnir drógu sleðann heim á hlaðið.
Hvorugan manninn gat hún þekkt að svo stöddu. Það sá varla í andlitin á þeim fyrir dúðum. Hátt og lágt voru þeir eins og snjókóngar, allir uppfenntir. Þeir heilsuðu, og Halla tók kveðjum þeirra.
"Við ætlum að biðja að lofa okkur að vera í nótt," sagði annar maðurinn.
"Það er guðvelkomið," mælti Halla. "En því miður er lítið að bjóða annað en húsaskjólið."
"Það nægir okkur," svaraði maðurinn. "Við erum allvel nestuð og vel út búin. Við erum þrjú í förinni, eins og þú sérð kannske."
Hrúkan á sleðanum fór að hreyfast ofur lítið, svo að sjá mátti að það var manneskja.
"Hverjir eru mennirnir?" spurði Halla.
"Ég heiti Jón Jónsson og er frá Skeggjastöðum," mælti annar maðurinn. "Hinn maðurinn er Gísli vinnumaður minn, og gamla konan á sleðanum er tengdamóðir mín. Hún heitir María Ragúelsdóttir og á heima niðri í Vogabúðakaupstað. Hún var hjá okkur um jólin, og nú erum við að koma henni heim til sín."
Halla kannaðist við Jón Skeggja, hreppsnefndarmanninn. Hún hafði líka heyrt Maríu gömlu Ragúelsdóttur að góðu getið. Það var hjá henni, sem Egill í Hvammi og menn hans gistu oftast, þegar þeir fóru í kaupstað. Ólafur hafði oft leitað sér þar húsaskjóls, þegar hann var þeim samferða.
Nú var farið að losa um Maríu á sleðanum. Fyrst voru loðnir skinnbjórar teknir, sem efstir lágu, og snjórinn hristur af þeim. Undir þeim var rúmábreiða og fiðursæng, og var þetta bundið að gömlu konunni undir höndunum. Þegar búið var að losa um þetta, gat hún staðið á fætur og heilsað Höllu.
"Er þér ekki orðið ósköp kalt?" spurði Halla um leið og hún tók undir handlegginn á gömlu konunni og hjálpaði henni af sleðanum.
"Nei, nei, nei," sagði María og togaði dúðana frá andlitinu á sér. Þar sá í ofur lítið, blóðrautt neftyppi, og hélaðar augnabrýr. "Það er svo um mig búið, að enginn kuldi kemst að mér. Ég væri bráðnuð upp til agnar, hefði ég átt að sitja með yngismeyjarhitann minn í þessum umbúðum." Og gamla María skríkti af kæti eins og barn; hlegið gat hún ekki fyrir munnherkjum.
Halla sleppti ekki handleggnum á henni, heldur leiddi hana með sér inn í baðstofu.
"Gott kvöld, Ólafur minn. Sæll og blessaður! Guð blessi börnin!" mælti María, þegar hún kom inn í baðstofuna. "Er hér fleira fólk, - nokkur, sem ég á eftir að heilsa? Mér er svo dimmt fyrir augum, að ég sé varla skil á neinu. Ert þú veikur, Ólafur minn? Sæki ég svona illa að þér í fyrsta skipti, sem ég kem að Heiðarhvammi? - Nei, hvað sé ég! Kindur í baðstofunni! Þetta hefi ég aldrei séð áður. En hvað það hlýtur að vera gaman fyrir ykkur að hafa kindur inni hjá ykkur. Blessaðar skepnur! Ég vildi, að ég hefði brauðbita til að stinga upp í ykkur."
Halla hjálpaði Maríu úr ystu fötunum. Síðan fór hún fram í bæjardyr til að fylgja hinum gestunum inn.
"Dragið þið sleðann ykkar inn í bæjardyrnar," kallaði hún út á hlaðið til Jóns Skeggja. "Annars fennir hann í kaf í nótt."
"Það sakar nú ekkert, þó að hann fenni í kaf," svaraði Jón Skeggi.
Samt fóru þeir að ráðum Höllu og drógu sleðann inn í bæjardyrnar.
Á meðan þeir voru að þessu, var allt í einu sem skrugga skylli á bænum. Það brakaði í hverju tré og bæjardyrnar fylltust af hvítu moldviðri. Jafnframt dimmdi snögglega, eins og dagsbirtan dæi út með öllu.
Það var brostið á slíkt veður, að enginn mundi dæmi annars eins. Stormurinn lagðist á bæinn með slíku heljarafli, að það var sem mundi hann sliga niður frosnar þekjurnar. Bæjarhúsin, sem þó voru á kafi í hjarninu, léku á reiðiskjálfi. Jafnvel frosin jörðin virtist kippast við. Þungur, ofsalegur veðurgnýr fyllti loftið, eins og stormurinn sjálfur tæki andköf af ákafanum, og ferlegar dunur heyrðust frá fjöllunum fyrir ofan bæinn.
"Við vorum mátulega komnir í húsaskjólið," mælti Jón Skeggi við förunaut sinn. "Hvernig hefði farið, hefðum við reynt að halda áfram? - Guð hjálpi þeim, sem eru úti staddir í slíku veðri."
Um kvöldið bar ekki margt til tíðinda.Gestirnir voru þreyttir af ferðinni og áhyggjufullir út af þessu voðaveðri, sem skollið var á. Veðurdunurnar heyrðust inn í baðstofuna og átök stormsins fundust á bænum eins og allt ætlaði að liðast sundur. Við slíkar hamfarir náttúrunnar leitar á menn ótti og skelfing. Menn geta ekki varist því að hugsa til þeirra, sem nú eru utan dyra. Þeirra, sem hrökklast blindandi um bert, vegalaust hjarnið, ráða sér ekki fyrir ofviðrinu, ná ekki andanum fyrir mjallrokinu, - brjótast áfram í dauðans angistaræði, þar til þeir hníga niður og lífið slokknar út. Þá grefur Þorri gamli þá í snjónum og syngur yfir þeim sjálfur.
Slík hefðu kjör gestanna, sem nú voru í Heiðarhvammi, orðið, hefðu þeir verið fimmtán mínútum síðar á ferð eða ráðið það af að halda áfram fram hjá Heiðarhvammi.
Orð og orð á stangli voru töluð, en ekkert fjör gat færst í samtalið. Menn hlustuðu á lætin í veðrinu, hlustuðu eins og þeir ættu von á hálfkæfðu neyðarkalli innan um veðurdunurnar - eða heyra fótatak einhvers, sem gengi yfir bæjarhúsin án þess að verða þeirra var, hnigi kannske örmagna niður í hlaðskaflinum og yrði þar úti, án þess að vita, hvar hann væri. Slíkt hafði oft komið fyrir.
Illar fylgjur feigðar og feikna settust að hugum manna í heiðarbýlinu þetta kvöld.
Halla var önnun kafin að gera gestunum beina. - Ólafur lifnaði í öllum æðum við gestakomuna. Hann reis upp úr rúmi sínu og reyndi að sýna gestunum, að hann væri ekki mjög veikur. Hann vildi fyrir hvern mun lána gestunum rúmið sitt, en sofa sjálfur á heyi frammi í bænum, og hefði gert það, hefðu gestirnir ekki aftekið það sjálfir.
Gestirnir mötuðust af nesti sínu um kvöldið og lögðust síðan til svefns, Jón Skeggi og vinnumaður hans á heybing frammi í bænum, en María gamla í rúmi Höllu og barnanna. Um börnin hafði verið búið á flatsæng fyrir aftan rúmið.
Þegar Halla var að breiða ofan á börnin um kvöldið, laut hún ofan að þeim og hvíslaði:
"Ég flengi ykkur bæði, ef þið sníkið mat út úr gestunum, þegar þeir eru að borða. Ég tók eftir því, hvernig þið störðuð á hvern bita hjá þeim í kvöld. Við eigum að láta okkur nægja það, sem við höfum, og biðja guð að blessa það, og við eigum að gera gestunum gott með því, en aldrei þiggja neitt af þeim í staðinn. Munið þið þetta."
Auðvitað leyndi Halla börnin því, hve þungt henni féll að gefa þeim þessa áminningu. Hún gat ekki annað en borið það saman, sem til var í hennar búi, og það, sem gestirnir höfðu til að gæða sér á. Hún var ekki matarlaus að vísu, en fjölbreytt var það ekki, sem hún hafði undir höndum. En ofraun var henni að hugsa til þess, ef börnin hennar fengju orð á sig fyrir sníkjugirni.
Lengi var Halla á flakki eftir að aðrir voru sofnaðir. Föt gestanna og plögg þeirra voru vot af bráðnuðum snjó. Hún þurrkaði þau við eld um nóttina. Heilsa gestanna og jafnvel líf þeirra gat verið undir því komið, að fötin væru þurr. Ef menn fóru í votum fötum út í hörkufrost, frusu fötin og hindruðu menn að halda áfram. Fyrir það hafði menn stundum kalið til skemmda og sumir höfðu týnt lífi. Og ein vökunótt er minnst af þeirri umhyggju, sem íslenskar húsfreyjur veita gestum sínum.
- - Daginn eftir var koldimmur bylur, sem ekkert viðlit var fyrir gestina að leggja út í. Daginn eftir var sama veður, - og svo framvegis vikuna út.
Engan af þessum dögum var fært að halda ferð sinni áfram. Allar skepnur urðu því fegnastar, að hafa þak yfir höfði sér.
Höllu voru þessir dagar léttari en vant var, að því leyti, að nú voru margar hendur fram réttar henni til hjálpar við dagleg störf. Jón Skeggi og vinnumaður hans brutust út í kafaldið fyrir hana, sóttu vatnið og sópuðu snjónum af gluggunum. Þeir eirðu því aldrei til lengdar hvort sem var, að koma ekki út og gá til veðurs. Og María gamla bað Höllu stöðugt að lána sér eitthvert verk til að vinna sér til skemmtunar.
- Gestrisnin íslenska sést ekki fyrir. Í henni lifa orð Guðmundar ríka á Möðruvöllum: "Heldur skal leysa út nautin ór fjósinu" - en hestar gestanna fái ekki húsaskjól.
Heldur skal upp skipta síðasta bitanum en gestir fái ekki mat. Heldur skal heimafólkið liggja á gólfinu en gestir fái ekki rúm. Heldur skal svelta í kyrrþey en mögla og víla svo að gestir heyri, því að ekki skal þeim verða matur sinn að harmabrauði.
Þegar dögunum fjölgaði, sem þau María Ragúelsdóttir og föruneyti hennar sátu hríðteppt í Heiðarhvammi, gekk nesti þeirra brátt til þurrðar. Þá urðu þau auðvitað að taka framfæri hjá þeim Höllu og Ólafi.
Þetta var Ólafi hið mesta fagnaðarefni. Ekkert var honum fjær skapi en það, að kvarta um matarleysi svo gestir heyrðu, eða láta það heyrast á nokkurn hátt, að ekki væri allt hjartanlega velkomið, jafnvel þó drepa þyrfti niður hverja skepnu, sem í bænum væri.
En illa var Heiðarhvammsbúið undir það búið að bæta á sig þrem fullorðnum manneskjum í heila viku eða lengur. Það var Höllu kunnugast um.
Hún vissi það líka, að sárt mundi Ólafi falla það, að þurfa að taka eitt af þessum fáu lömbum, sem hann hafði sett á veturinn, og slátra því handa gestunum. Þessi lömb voru af úrvalsfjárkyni, sem Ólafur hafði miklar mætur á. Nú varð þó ekki hjá því komist að leggja eitt þeirra á altari gestrisninnar. Það var gert eitt kvöldið, eftir að gestirnir voru gengnir til hvíldar; annars var hætt við, að þeir aftækju það. Ólafur píndi sjálfan sig á fótum til að gera bæði þetta og annað, sem stuðlað gæti að því, að gestunum liði vel.
Halla átti ekki svefnmiklar nætur. Það kom á hana eina að þjóna sjö manns til borðs og sængur, auk annars, sem hún hafði á hendi. Auðvitað voru allir reiðubúnir til að létta henni starfið, ef hún vildi þiggja það. En hún hafði meiri gleði af annríki sínu en svo, að hún vildi af því missa.
En fyrir öllum öðrum, og þó einkum börnunum, var líkast því, að jólin væru komin aftur.
Það var helmingi bjartara í baðstofunni en vant var, því að ljósum var bætt við vegna gestanna, og helmingi hlýrra, svo að hélan rann af gluggunum. Frá morgni til kvölds var þar glaumur og gleði. Fyrstu dagana voru gestirnir að vísu leiðir yfir því með sjálfum sér, að geta ekki komið ferð sinni fram. Þeir gátu því nærri, hvað fólkið heima hjá þeim mundi hugsa um þá, þar sem bylurinn hafði skollið á jafnsviplega og ekkert fréttist til þeirra. Og á þriðja degi lét Jón Skeggi vinnumann sinn brjótast lausan upp á hálsana, til þess að ná tali af beitarhúsmanninum í Hvammi og segja honum frá, hvar þau væru niður komin. Hann átti síðan að koma fréttinni heim að Skeggjastöðum, þegar fært væri.
Eftir því sem dagarnir fjölguðu, vöndust gestirnir kjörum sínum betur og létu sér þau lynda, fyrst ekki var annars kostur. Þá varð öll gleði innilegri, og viðleitnin til að vekja hana ríkari.
Spilaræflar, sem börnin áttu, voru látin ganga sig til húðarinnar. Refskák var rissuð upp á bakið á brauðhlemminum, glerbrot notuð fyrir "lömb", en svört tala fyrir "tófu". Gestaþraut, sem Ólafur átti og kunni einn að leysa, gekk milli gestanna og þótti ill viðfangs. Rímur voru kveðnar við raust, og tók einn við, er annar þreyttist. Stundum var lesið upphátt í bókum Þorsteins í Hvammi, sem enn voru í vörslum Höllu. Á meðan var ekki setið auðum höndum. Horn, sem börnin höfðu haft fyrir leikföng, voru tekin og beygð saman í hagldir. Birkibálkarnir, sem stóðu inn úr þekjunni, voru brotnir niður og tálguð úr þeim ný leikföng handa börnunum: fuglar, fiskar og ferfætlingar í ýmsum myndum. Börnin kunnu sér ekki læti af gleði; aldrei fyrri höfðu þau séð venjulega viðarbálka verða að fuglum, hundum og hestum. - Og loks var gripið til þeirrar skemmtunar, sem best hefir blómgast í heiðarbýlunum á hríðarteppudögum, og í verbúðunum, þegar brimið lokaði lendingum, þeirrar þjóðlegu, íslensku skemmtunar að segja sögur.
Þorraveðrin hömuðust á þekjunum daga og nætur. Þau ögruðu mönnum að koma út og fást við sig; en fyrst þeir höfðu vit á að láta það ekki á sig fá, náðu þau ekki til þeirra. Bærinn var á kafi í gaddinum, og svelli lagðir mænarnir, sem upp úr stóðu, voru afsleppir, jafnvel fyrir hrammana á Þorra gamla. Þeir, sem í víginu voru, sátu öruggir við glaum og gleði.
Ólafur hafði mikið yndi af gestum sínum. Hann svaf minna um þessar mundir en að undanförnu; hann gat það ekki fyrir háværð og glaðværð allt í kringum hann. Sjúkleika sínum reyndi hann að leyna eftir megni, svo að hann drægi ekki úr gleði annarra. Oftast lá hann klæddur uppi í rúmi sínu, með augun aftur og bros um allt andlitið. Þá hlustaði hann á skraf annarra og lagði orð í belg við og við.
Halla var að jafnaði sama sem útlæg frá baðstofunni sökum annríkis. En þegar hún gat verið við, jókst glaðværðin um helming. Enginn hafði betra lag á að koma mönnum til að hlæja en hún, enginn kunni meira af skrítlum, sögum og gamankviðlingum. Öll hluttaka hennar í baðstofufagnaðinum var látlaus og háværðarlaus, en sólskin og blíða komu jafnan með henni.
Hún fann til þess sjálf, þó óljóst væri, að hún var sem önnur manneskja þessa dagana. Það var sem eitthvað væri endurlifnað í henni, sem lengi hafði verið dáið. Það var það, sem á fyrri dögum hafði dregið að henni ástsæld allra manna. Nú féll af því rykið eins og skírum málmi, undireins og við það var komið. - Nei, hún var engin "kerling" orðin. Enn þá gat hún kastað af sér öllum þeim þunga, sem raunir liðnu áranna höfðu lagt á hana. Enn þá hafði hún yndi af fjöri og fjölmenni.
En skemmtilegastir voru börnunum þessir dagar. Aldrei höfðu þau öðru kynnst en deyfð og fásinni. Nú var þeim hver dagur leikur frá morgni til kvölds. Gestirnir voru við þau eins og þeir ættu þau sjálfir.
Og þegar Halla var frammi við á kvöldin, en allir aðrir háttaðir, sat María gamla Ragúelsdóttir hjá börnunum og sagði þeim sögur. Henni lét enn þá betur að segja sögur en mömmu þeirra, að því er þeim fannst. Hún kunni sögur, sem mamma þeirra hafði aldrei sagt þeim. Hún gat sagt þeim sögur af kóngasonum og kóngadætrum í álögum, af kotungabörnum, sem lentu í fjölda af ævintýrum, yfirunnu allar þrautir og urðu konungar og drottningar að lokum; af illum og góðum galdrakindum, sem ýmist greiddu götur manna eða lögðu fyrir þá alls konar þrautir og hindranir, og loks af tröllum, dvergum, huldufólki og útilegumönnum. Börnin sátu eins og brúður og steinþögðu. Þessi gamla, góða kona sýndi þeim inn í heila heima, fulla af alls konar nýjungum. Andlit hennar ljómaði af gleði og alúð, eins og hún væri barn sjálf, aðeins ofur lítið stærra og eldra en hin börnin. Allar sögurnar enduðu með stórri brúðkaupsveislu, sem stóð í þrjár vikur eða lengur. Og María gamla var í veislunni. "Smjörið hennar rann, roðið hennar brann" o. s. frv. Og börnin sofnuðu frá veisluglauminum og kræsingailminum í dýrðlegum konungahöllum.
Einn dag sátu þær saman frammi í eldhúsi, Halla og María. Þær voru þá farnar að kynnast svo mikið, að þær höfðu yndi af því að fjarlægja sig frá öðrum mönnum og tala saman einar sér stund og stund í einu.Þær sátu fyrir framan hlóðirnar, sín hvorum megin, og höfðu ekkert ljós hjá sér. Rauðan bjarma af eldinum lagði á þær báðar.
Innan úr baðstofunni heyrðist veikt rímnaraul. En uppi á þekjunni heyrðist annar rómsterkari kveða. María hlustaði áhyggjufull á þytinn í veðrinu, og samtalið féll niður við og við.
"Að þú skulir geta unað lífinu í þessu heiðarkoti, heillin mín," mælti María.
Halla þagði nokkra stund og svaraði síðan:
"Ég vil sem fæst um það tala, María mín, hvernig ég uni lífinu. En það er margt annað hægra en skipta."
"Hvernig stóð á því, að þið fóruð að flytja hingað, - langt frá öllum mannabyggðum?"
Halla brosti raunalega. Henni hvarflaði í hug að segja Maríu allt eins og var. Henni fannst það mundi létta margra ára fargi af huga sínum. Þó hætti hún við það og svaraði eins og út í hött:
"Hér voru góðir landkostir fyrir sauðfé og - ég kaus helst einveruna."
María horfði fast á hana og las það út úr svip hennar, að hún sagði henni einungis undan og ofan af, en ekki allan sannleikann. Halla lét hana njóta hugsana sinna. Henni lá það í léttu rúmi, þó að hún kynni að renna grun í einhverjar aðrar orsakir.
"Einsömul í þessu afskekkta heiðarbýli, - einsömul, vetur og sumar! Drottinn minn! Ég mundi verða vitlaus á einu ári."
"Ég er aldrei einsömul," mælti Halla.
"Þú átt við, að guð sé jafnan hjá þér."
"Það vona ég," mælti Halla og brosti. "Samt átti ég nú ekki við það. Ég hefi aldrei verið einsömul í þessu koti - og allra síst í vetur."
"Já, auðvitað hefirðu börnin þín hjá þér og Ólaf - "
"- og fleira," greip Halla fram í. "Enginn er einsamall, sem hefir skepnur hjá sér. Mér hefir aldrei leiðst hér vegna einveru, aldrei fundist ég vera einmana eða vinalaus, þó að ég hafi þagað allan daginn, ef skepnurnar mínar hafa verið hjá mér."
"Skepnurnar!" sagði María undrandi.
"Hefi ég ekki sýnt þér inn í fjósið mitt? Ég kalla það "fjós" enn þá, þó að nú sé það kindakofi. Þar stóð kýrin mín þangað til í haust. Þú hefðir átt að sjá hana, þegar hún var í blóma lífsins, - rauðskjöldótt kreppilhyrna! Þú hefðir átt að sjá augun, sem hún leit til mín, þegar ég kom inn í fjósið til hennar, og heyra, hve vinalega hún drundi fram í nefið. Þú hefðir átt að sjá hana, þegar ég var að kemba henni og strjúka henni. Henni þótti vænt um að vera falleg. Og þú hefðir átt að sjá til hennar á meðan ég var að mjólka hana. Vinalætin voru svo mikil, að mér þótti nóg um. Hún skildi mig, þegar ég talaði við hana, hún kom heim úr haganum á sumrin, þegar ég kallaði til hennar. - Á meðan hún gat mjólkað, leið okkur öllum vel."
María starði forviða á Höllu. Það var einhver svo mildur, innilegur saknaðarblær á öllu, sem hún sagði, að hún trúði því varla, að hún væri að tala um skepnu. Hún trúði því varla, að til gæti verið jafnnáið og innilegt vináttusamband milli manna og dýra, sem manneskjurnar gætu haft gleði af.
"Ég sveik hana í tryggðum á banadægri," bætti Halla við. "Hún fékkst með engu móti til að fara út af básnum sínum í síðasta sinni, fyrr en ég kom. Var það ekki undarlegt? Hún vissi, að það átti að gera sér eitthvað illt, en treysti mér til að gera það ekki.
"Ég var hrædd um, að mér mundi leiðast í vetur, en það hefir ekki orðið. Ég hefi aldrei hirt um kindur fyrr en í vetur. Nú veit ég, að maður getur haft gleði af því líka. Ég held, að allar skepnur geti orðið manni til ánægju, meiri og varanlegri ánægju en margt annað, sem menn sækjast fremur eftir."
"En ertu þá aldrei myrkfælin?" spurði María.
Halla hristi höfuðið.
"Ég veit varla hvað myrkfælni er," mælti hún. "Mér er það alltaf minnisstætt, sem gamla prestskonan, sem ég var einu sinni hjá, sagði við mig: Ef þú hefir skepnur hjá þér, þarftu ekkert að óttast. Þær hafa langtum næmari skilningarvit en þú, og ef eitthvað óhreint skyldi vera á slangri, þá verða þær varar við það á undan þér. - Hún var dálítið hjátrúarfull, en myrkfælin var hún ekki."
Samtalið féll niður, og stundarkorn sátu þær báðar þegjandi. María laut áfram og rétti hendurnar fram að eldinum til að orna sér. Það var eins og hana væri farið að dreyma.
"Það er ólukku myrkfælnin, sem mér hefir verið mest til baga á ævinni," mælti hún. "ólukku myrkfælnin! Sælir eru þeir, sem ekkert hafa af henni að segja. Hugsaðu þér það, heillin mín, - að geta hvergi verið ein eftir að birtu fer að bregða, það er annað en gaman. Mér er sama, hver mér láir það; ég get ekki að því gert. Það hefir beygt meiri manneskjur en mig. Á ég að segja þér nokkuð, Halla mín? Þú hlærð nú kannske að því. Mér er ómögulegt að festa blund, fyrr en þú ert komin inn til mín á kvöldin. Ég sit heldur uppi og segi börnunum sögur, þó að þau séu sofnuð fyrir löngu. Og geturðu ímyndað þér, hvað ég er hrædd við? Nei, það er ekki von; það er svo heimskulegt. Mér finnst alltaf liggja lík í rúminu beint á móti mér."
Halla hrökk saman og leit á hana stórum augum. María varð þess ekki vör og hélt áfram:
"Ólafur liggur oftast nær á bakinu, með hendurnar krosslagðar á brjóstinu, - alveg eins og lík, sem búið er að leggja til."
María þagnaði og varpaði öndinni, eins og þungar endurminningar vöknuðu hjá henni. Síðan mælti hún:
"Lík, - já. Ég hefi einu sinni vakað yfir líkum í þrjár nætur samfleytt. Þá fann ég ekkert til myrkfælninnar. Alltaf áður og alltaf síðan hefir hún þjáð mig."
"Hefirðu misst einhvern náinn vandamann?" spurði Halla með varúð.
"Manninn minn og einkason minn," mælti María án þess að líta upp. "Báða í sjóinn."
"Aumingja María, guð hjálpi þér!" mælti Halla.
"Hann hefir hjálpað mér, blessaður. Allt hefir snúist mér til góðs."
"Er langt síðan þetta skeði?"
"O-já. Það er nú orðið langt síðan. Yfir tuttugu ár."
"Svo langt!"
Það rifjaðist nú upp fyrir Höllu, að hún hafði heyrt getið um þetta slys, þegar hún var ung.
"Ég stóð á mölinni með báðar stúlkurnar hjá mér, aðra í fanginu, hina við höndina, og horfði upp á þetta."
"Var það við lendingu?"
"Já, brimlendinguna á Framnesi. Þar hafa fleiri farist. Hann var einn á bátkænu með drenginn, átta ára gamlan, - elsta barnið okkar."
María þagnaði, og Halla sá tárin hrynja ofan kinnar hennar. Hún þurrkaði þau af sér, og þegar hún tók aftur til máls, heyrðist það alls ekki á málrómi hennar, að hún hefði grátið.
"Hann bað svo látlaust um að lofa sér á sjóinn með pabba sínum, blessað barnið. - Það var feigðin, sem kallaði á hann."
"Mér er það enn í fersku minni, eins og það hefði skeð í gær. Ég reyndi að benda honum að bíða, þar til mannhjálp kæmi. Ég veit ekki, hvort hann hefir séð það eða skilið það. Hann beið lags dálitla stund, en ekki nógu lengi. Hann sat undir árum sjálfur, en drengurinn aftur á. Það lá svo vel á honum, blessuðu barninu. Ég sá það á honum, að hann hafði gaman af briminu. Það hafði verið gott veður um morguninn, en um hádegið var komið foráttubrim. Svo lögðu þeir í brimgarðinn. Ó, guð minn góður! Hvílík sjón! Aldan lyfti bátnum hátt upp, brast undir honum, steypti honum, - margvelti honum undir sér upp í fjöruna. Svo sogaði hún allt saman út með sér aftur. Næst þegar báturinn sást úti í briminu, marði hann í kafi og var tómur."
"Vesalings María! Þetta hefir þú orðið að horfa upp á!"
María brosti með augun full af tárum.
"Við þessu eða öðru eins mega allar konur búast, sem eiga börnin sín og mennina sína á sjónum," mælti hún. "Ég fann eiginlega ekkert til sorgarinnar, meðan á þessu stóð. Ég hrópaði og æddi um mölina í einhverju angistar-ráðaleysi. Ég lét barnið úr fanginu á mér ofan í grjótið og lofaði því að orga lyst sína. Ég held, að ég hefði ætt út í brimið, hefðu menn ekki komið að og komið fyrir mig vitinu."
"Fundust líkin?" spurði Halla.
"Já, þau rak upp sama kvöldið. Og ég sat yfir þeim einsömul fyrstu næturnar. Ég tók það alls ekki nærri mér og mér leið ekki illa á meðan. Mér fannst ég varla trúa því, að ég væri búin að missa þá fyrir fullt og allt; mér fannst þeir sofa og hljóta að vakna, þegar minnstum vonum varði. - En hve dauðinn og svefninn eru undarlega líkir!"
Halla starði á Maríu gömlu, eins og hún hefði fljótlega misst sjónar af þeirri Maríu, sem hún var farin að kynnast og henni farið að þykja vænt um, og sæi nú fyrir sér aðra nýja. Hingað til hafði hún í raun og veru alltaf séð hana eins og hún sá hana fyrst, - hlæjandi og blaðrandi með rautt nefið fram úr dúðunum. Nú var hún ekki lengur kulsæll kerlingaraumingi, full af kæti og barnagælum. Nú var hún hetja, sem hafði unnið sinn mikla og glæsilega sigur yfir sorgum og mannraunum lífsins; hetja, sem vert var að líta til með lotningu. Raunir hennar sjálfrar voru smáræði hjá því, sem yfir Maríu hafði dunið.
"Þegar búið var að grafa feðgana," hélt María áfram, "festi ég ekki yndi á Framnesi lengur. Það voru þungir dagar, Halla mín. Þá kom fyrst sorgin fyrir alvöru, svo fátæktin og loks - myrkfælnin. Þú trúir því auðvitað ekki, en hún var mér ekki léttari en sorgin sjálf; enda héldust þær í hendur. Ég þorði varla um þveran pall eftir að dimma tók. Ég lá grafkyrr fram eftir allri nóttu, böðuð í svita, gat ekki sofnað, ekki vakað heldur, og eiginlega alls ekki hreyft mig. Ég heyrði öll ósköp, en sá ekkert; ég heyrði alls konar ofheyrnir, alls konar heimsku. Mér heyrðist maðurinn minn sálugi ganga um allan bæinn. Ég þekkti fótatakið hans, þekkti það, hvernig hann lagði aftur hurðirnar. Ég heyrði, hvar hann var í bænum og hvaða hluti hann var að rjála við. En ég heyrði aldrei til hans í sama húsi og ég var sjálf í. Var það ekki undarlegt? - Ég hefði sjálfsagt misst vitið, hefði ég lagt út í það að vera í bænum um veturinn."
"Mér þótti heldur snemmt að verða vitlaus," bætti María gamla við nokkuð drýgindaleg. "Menn segja, að enginn verði það, sem spyrnir duglega á móti því. Ég hleypti í mig kjarki og hugsaði mér að reyna að bjarga mér. Ég var ekki lengi að velta því fyrir mér, sem ég gerði; enda fékk ég að heyra það, að það væri eintóm vitleysa. Ég losaði mig við yngri telpuna, kom henni fyrir um tíma. En með þá eldri fór ég inn í Vogabúðakaupstað.
Ég bað Sigurð gamla í Vogabúðum að selja mér blett undir kofahreysi yfir höfuðið á mér. Hann starði á mig alveg hissa, karlanginn. En hann gaf mér blettinn, gaf mér hann skilyrðislaust og bjó svo um gjöfina, að ég gæti sannað hana hvenær sem væri. - Þá tók ég til starfa."
"Þú sjálf -?"
"Já, ég hafði ekki öðrum á að skipa. Ég gróf sjálf fyrir öllum tóftum og risti sjálf ofan af blettinum, sem ég ætlaði að hafa fyrir kálgarð. Það horfði á mig út um gluggana, blessað kaupstaðarkvenfólkið, þegar ég var að hamast í þessu, blaut og moldug með flaksandi hárið. Ég held því hafi ekki þótt ég vera "fín".
Einu sinni, þegar ég var að pæla, kom maður til mín með reku á öxlinni og bauð mér að hjálpa mér. Það var Einar, sem nú er í Bælinu. Hann var þá piltur um tvítugt, vinnumaður þar í kaupstaðnum, og hafði oft lítið að gera. Hann var sá fyrsti, sem hjálpaði mér, hlóð fyrir mig alla veggi. Aldrei hefi ég getað launað honum það. - Síðan kom hver af öðrum og bauð mér hjálp. Þorgeir verslunarstjóri var ekkert smátækur þá, fremur en endranær. Hann gaf mér allt timbur, sem ég þurfti með, - sagði mér að fá mér smið og láta hann velja það, sem hann vildi. Á þennan hátt varð kofinn bæði ódýr og vandaður."
Það færðist sólskin yfir svipinn á Maríu, og það var sem hún yngdist upp, þegar hún var að tala um kofann sinn.
"Þú getur því nærri, hvort ég var ekki upp með mér, þegar hann var kominn upp að öllu leyti," mælti hún. "Aldrei hafði ég hugsað mér hann jafnmyndarlegan eins og hann varð á endanum. Og enn er hann ekkert farinn að hrörna.
Blessaður bærinn minn! Enn þá þykir mér vænt um hann. Alltaf hefir mér liðið þar vel. Alltaf hefir fylgt honum heill og hamingja, síðan hann var byggður. Ég hefi aldrei sjálf þurft að nota nema baðstofuna uppi í stærri kofanum og eldhúsið í minni kofanum. Þar hefi ég alið upp dætur mínar, og þær hafa orðið góðar og gæfusamar stúlkur. Í stofunni hefi ég getað skotið skjólshúsi yfir vini mína nótt og nótt í einu eða svo. Þar hefir Egill minn í Hvammi jafnan leitað sér hælis með menn sína, - þó að fátæklegt hafi verið. - Ég hefi líka getað líknað sjúkum og bágstöddum, sem hafa þurft að vera undir læknishöndum. Þeim hefir öllum batnað; enginn dáið. Blessun hefir fylgt öllu, sem ég hefi tekið mér þar fyrir hendur."
María skýrði nú Höllu nánar frá högum sínum. Dætur hennar voru báðar vel giftar. Önnur var gift beyki, sem lengi hafði verið í Vogabúðum, en nú var fluttur í annað kauptún. Hin var gift Jóni Skeggja. Báðar voru þær að bjóða henni að flytja til sín, og nú stóð eiginlega ekki á öðru en því, að hún gæti selt bæinn sinn. Ef hún gæti það, ætlaði hún að flytja að Skeggjastöðum. En henni stóð ekki á sama í hvers höndum kofinn lenti. Hún vildi ekki selja hann öðrum en þeim, sem væri að hennar skapi. Heldur vildi hún búa í honum til dauðadags en vita hann verða að einhverju illræmdu bæli; svo annt var henni um hann.
Bærinn hét Maríugerði.
- - Halla sat einsömul yfir frásögn Maríu og svip hennar, löngu eftir að hún var farin frá henni. Hún rifjaði upp fyrir sér í huganum allt, sem hún hafði sagt, og hvernig hún hafði komið henni fyrir sjónir á meðan.
Aldrei hafði hún komist í kynni við annað eins bjartsýni, annað eins glaðlyndi og annað eins traust á því góða í lífinu. Ævisaga Maríu lét í eyrum eins og hljómandi sigursöngur, og gleði hennar var sigurgleði yfir andstreymi lífsins.
Og hverju var þetta að þakka?
Fjölmenninu? - Hún endurtók það fyrir sér eins og einhverja undarlega fjarstæðu, hratt því úr huganum, en kom þó að því hvað eftir annað.
Það var upphaf gæfu Maríu, að menn komu auga á viðleitni hennar til að bjarga sér sjálf, komu auga á það margir í einu, töluðu um það sín á milli, og undireins voru margar hendur fram réttar henni til hjálpar.
Síðan hafði stöðug hluttekning annarra manna létt henni hvert spor. Þakklæti og velvild hafði breitt blessun á götu hennar.
Þessi manneskja fannst henni gnæfa yfir sig jafnt að göfgi sem gengi.
Hún bar sjálfa sig saman við hana. Þar var mikill giftumunur.
Hún hafði flúið úr mannabyggðum með sorg sína, grafið sig í þessu heiðarkoti, þvert á móti ráðum allra vina sinna. Hér voru engir gluggar umhverfis hana, þar sem andlit við andlit horfðu á strit hennar og baráttu. Hér hugsuðu menn illt eitt um hana. Tortryggnin læddist umhverfis hana í alls konar myndum. Hún hafði vantreyst mönnunum, og þeir guldu henni með því að vantreysta henni.
Í fyrsta sinni efaðist hún um það fyrir alvöru, að það hefði verið rétt af henni að flytja að Heiðarhvammi. Í fyrsta sinn fann hún til sárrar löngunar eftir því, að komast þaðan aftur.
María hafði leyst hana úr álögum.
Í Heiðarhvammi voru allir búnir að gleyma kyndilmessunni, þegar hún kom. En löng var þeim farin að þykja þorrahríðin, sem setið höfðu alla vikuna veðurtepptir.Einn morgun snemma kom Jón Skeggi inn og vakti Maríu. Þá var komið besta veður, og þá átti ekki að sitja sig úr færi að halda áfram.
Halla flýtti sér einnig á fætur til að greiða fyrir gestunum áður en þeir færu á stað.
Allt var vel undirbúið, svo að ekkert varð til tafar. Jón var meira að segja búinn að skrifa það upp í vasabókina sína, sem þeim Heiðarhvammshjónum lá mest á að fá úr kaupstaðnum. Hann ætlaði að færa þeim það, ef hann færi sömu leið heim, en annars átti að skilja það eftir í Hvammi.
María gamla kvaddi Höllu með mörgum kossum og bað hana að láta sér ekki bregðast það, að hún kæmi til sín, ef hún kæmi í Vogabúðakaupstað.
Halla lagði síðustu hönd á það að búa um hana á sleðanum. Svo var henni ekið á stað.
Ólafur hafði sofið á meðan gestirnir voru að fara, og vaknaði ekki fyrr en þeir voru farnir.
Þennan dag var bærinn opnaður fyrir hverri skepnu. Veður var kyrrt og heiðskírt með allmiklu frosti. Fannkyngið á jörðinni var ódæmamikið.
Enginn varð því fegnari að sjá fangelsið opið en Halldór litli. Hann þurfti ekki heldur nema rétt út fyrir bæjardyrnar til að grafa sér snjóhús. Þar voru skaflarnir svo háir, að hann náði varla upp á brún á þeim með rekunni.
Um hádegisbilið kom maður gangandi ofan skarðsbrekkuna og stefndi á bæinn. Það var Finnur sauðamaður í Hvammi.
"Nú sýnist mér maðurinn bera eitthvað í barmi sínum," mælti Halla. Þar mótaði skýrt fyrir tveim flöskum.
"O-jæja," mælti Finnur. "Það kom nú höfðingsskaparflog yfir eldabuskuna í morgun. Hún lét rjóma á aðra flöskuna. Það er nú orðið svo langt síðan að þú hefir fengið mjólk í kaffið þitt að ekki má minna vera en hún sé góð, þegar hún kemur loksins. Ég vona, að ekki hafi frosið í flöskuskömmunum í barmi mínum."
"En hvað er að sjá þig í framan maður?" spurði Halla. "Hefirðu verið að stangast við hrútana hans Egils?"
"O-nei," mælti Finnur. "Ég var að stangast við Pálsmessubylinn. Hafi hann ekki gert meira tjón en þetta, þá hefir hann verið meinlaus."
"Eru þetta kalsár?" spurði Halla og varð alvarleg á svipinn.
"Þetta er ekkert," mælti Finnur og hló við. "Hefði nefið kalið af mér -! Þó hefði ég heldur viljað missa það en hendurnar eða fæturna. Þetta grær áður en ég gifti mig - aftur. En mér þótti hálfbölvað að sitja þrjú dægur matarlaus í beitarhúsunum og komast ekki heim. Egill var kominn á stað með marga menn til að leita að mér. Hann hélt auðvitað, að ég væri dauður og allir sauðirnir líka. Mér sýndist heldur glaðna yfir karli, þegar hann sá mig og frétti að hver kind væri vís."
Það lá vel á Finni. Hann var þétthreykinn yfir þrekvirki því, sem hann hafði unnið í Pálsmessuhríðinni, - einu af ótal þrekvirkjum, sem íslensku sauðamennirnir vinna í vetrarbyljunum. Það hafði ekki gengið stríðlaust að koma öllu fénu í hús, og sárt hafði bylurinn bitið; það sýndi andlitið á Finni. En nú var gaman að minnast á það.
Halla fylgdi Finni inn í baðstofu. Þá var Ólafur vaknaður, og varð hann feginn komu Finns. Á meðan Halla hitaði kaffið höfðu þeir sauðamennirnir nóg að skrafa um. Ólafur innti Finn nákvæmlega eftir því, hvernig hver einstök kind hefði borið sig í veðrinu, hverjar sótt hefðu fastast móti bylnum og hverjar hefðu viljað leggjast niður og láta skefla yfir sig. Finnur lýsti mörgum kindum að lit og hornalagi, og Ólafur kannaðist við þær allar.
Þegar Halla kom inn með kaffið, hneigðist samtalið að ýmsu öðru.
"Nú ætlar tíðin að fara að batna," sagði Halla eitt sinn eins og út í loftið.
"Getur verið," mælti Finnur, "en ekki spáir samt kyndilmessan neinu góðu um það."
"Kyndilmessan," mælti Halla og var eins og hún vaknaði. "Er kyndilmessan í dag?"
"Já, og heiðskírra en nokkurn tíma á vetrinum. Hvernig líst þér á það? Það boðar illt, ef sólin sést á kyndilmessu. Hvað þá meira."
"Nei, hún á að setjast í heiði, ef það á að vera nokkuð að marka."
Um þetta varð fjörug þræta milli Finns og Höllu, og loks veðjuðu þau. Finnur rjómaflösku og Halla einhverju álíka verðmætu. Veturinn átti að skera sjálfur úr þrætunni.
En nú varð Finnur að dvelja fram yfir sólsetrið.
Á meðan þau töluðu um þetta, lagði glitrið af þorrasólskininu inn um héluna á stafnglugganum. Hélan hafði runnið dálítið við gufuna upp af heitu kaffinu, og var nú orðin að glæru, votu svelli, sem braut geislana eins og mörg brennigler og stráði þeim um alla baðstofuna.
"Ég er hræddur um, að langafastan verði hörð," mælti Ólafur, og kenndi dálítils kvíða í rómnum. "Jólafastan var hörð, og þeim svipar oft hvorri til annarrar."
"Þetta er hjátrú og vitleysa, sem ekki er að marka," mælti Halla.
Oft höfðu lík orð verið höfð um veðurspádómana, og sjaldan var þeim andmælt. Samt hnekktu þau ekki trúnni á þá nokkra vitund. Þeir, sem létu sér þau um munn fara, trúðu þeim ekki sjálfir.
Þegar leið að sólsetrinu, fóru þau öll út á hlað. Ólafur hafði klætt sig og kom líka.
Þau námu staðar í kvosinni fram af bæjardyrunum, milli hárra skafla. Þaðan blasti sólsetrið við þeim.
Sólin var gengin fast ofan að heiðunum í suðvestrinu og var sem stór, rauð kringla. Í kringum hana sá hvergi votta fyrir skýjum.
"Mamma, mamma, líttu á, hvar ég er," var kallað með ofur veikri barnsrödd rétt við fæturna á Höllu. Þar sat Bogga í ofur litlu snjóhúsi með kisu í fanginu.
"Ég hefi búið þetta snjóhús til handa Boggu," hrópaði Halldór litli úr öðru snjóhúsi hinum megin við kvosina. Hann var hræddur um, að Boggu kynni að verða eignuð sæmdin. "Við erum tröll sitt í hvorum helli."
Svo lagði hann sig út af og "hraut, svo jörðin skalf", eins og tröll átti að gera, en Bogga reri sönglandi við það að svæfa köttinn.
Þeir fullorðnu gáfu börnunum lítinn gaum. Nú bar annað fyrir augun, sem meira var um vert.
Sólin var að setjast.
Renningskófið vestur á heiðunum var orðið að eldi.
Heiðabungurnar, sem bar í sólina, voru bryddar fjúkandi, rjúkandi eldhafi. Öll lægðin milli þeirra og bæjarins var sokkin í helbláan kvöldskuggann. Lausamjöllin á heiðabungunum logaði í deyjandi sólskininu. Þar sem vesturhiminninn snart jörðina, stóð allt í björtu báli. Eldstrókarnir teygðu sig langt upp á loftið, hvirfluðust til og frá, stigu léttan dans, hneigðu sig, röðuðu sér í fagrar fylkingar, geystust áfram og hurfu loks ofan kvöldskuggann. Að baki þeirra sá í kambana á nýjum eldöldum, eins og óskaplegur gígur væri að gjósa á bak við bungurnar, - gríðarmikil uppspretta af reykjarlausum, sindrandi ísköldum eldi.
Sólin gekk undir og eldarnir á heiðinni dofnuðu. En þá færðust þeir á hnjúkana, sem lengra voru burtu. Þar háðu þeir kapphlaup upp brattar fjallabrekkur, er að sól vissu; runnu í óslitnum eldstraum yfir tindana og fram af þeim hinum megin. Þar hringuðu eldstraumarnir sig fram yfir bláar hamrabrúnir og blöktu út í loftið eins og risavaxnar strútsfjaðrir. Undir þessari eldlegu bryddingu stóðu fellin í lifrauðum og silfurbláum glitskikkjum.
Þessi mikla sólsetursdýrð stóð ekki lengi. Mjallrokið vestur á heiðunum varð svart og illilegt, undireins og sólskinið leið af því. Hjálmabrúskar fellanna loguðu lengst. Svo urðu þeir svartir líka og bar ömurlega ógnandi við rauðan kvöldhimininn. Það leyndi sér ekki, að þurr, kaldur stormur geisaði vestur á heiðunum, þó að logn væri í Heiðarhvammi.
Þorri hafði sýnt mönnunum dýrð sína um stund og látið blika á tygin. Slíkt er konunga siður.
Og þetta var kyndilmessu-kvöld. Voðaspádómar um harðindi og bágindi ljómuðu í þessum köldu eldrúnum.
Þau höfðu staðið hljóð og horft á sólsetrið. En svo varð Höllu reikað fram á hlaðið, svo að hún sá upp til skarðsins.
"Líttu á þessa, Finnur!" mælti hún brosandi.
Það var mjallhvít þoka, þykk og seig eins og ullarbreiða, sem ýttist hægt og hægt yfir skarðið.
"Hamingjan hjálpi mér!" andvarpaði Finnur. "Féð er allt á beit niðri á hálsunum."
Síðan kvaddi hann í skyndi, kallaði á hund sinn og hljóp á stað. Halla horfði á eftir honum upp skarðsbrekkuna, þar til þokan náði í hann og gleypti hann með húð og hári.
Þegar hún sneri aftur heim til dyranna, varð henni hverft við. Ólafur var hniginn upp að dyrustafnum og starði hálfslokknuðum augum á staðinn, þar sem sólin hafði sest.
Hann skalf eins og espilauf og gat ekki staðið uppréttur. Halla varð að leiða hann inn í baðstofuna.
6. kafliDaga og nætur ruddi niður snjó í logni. Svo hvessti í alla ysjuna, svo að ekki sá út úr dyrum fyrir moldviðri.
Bærinn í Heiðarhvammi var lokaður, stundum allan daginn. Það var ekki ómaksins vert að reyna að sópa snjóinn af gluggunum; þá fennti fljótar í kaf en hægt var að sópa af þeim. Myrkur var í öllum bænum, jafnvel um hádaginn.
Samt var ekki friður inni fyrir veðrinu, sem úti var. Snjókornin leituðu alls staðar inn, svo að við lá, að bærinn fylltist af fönn. Aldrei lögðust skaflarnir svo fast að honum, að ekki fyndi stormurinn jafnan einhverjar smugur til að þyrla hársmárri mjöllinni inn um. Bærinn var fullur af ísköldu ryki, sem lagði á mann í myrkrinu.
Inn um hverja rifu á bæjardyraþilinu stóðu hvít sverð, sem sálduðu niður fönnunum jafnt og þétt. Í hinum kofunum voru að vaxa upp ægilega stórar snjókerlingar, sem glottu eins og vofur, þegar einhverja skímu lagði á þær. Baðstofan sjálf var engan veginn laus við þessi óþægindi. Alls staðar leituðu þorraveðrin inn.
Á slíkum dögum er ekki gesta von. Menn og skepnur eru kviksettar í kofunum, verða að lifa þar eða deyja eins og best gengur. -
Aldrei hafði Halla lifað aðra eins daga.
Síðan gestirnir fóru, var heimilið enn þá bjargarlausara en það hafði verið. Öll kornvara var rétt á þrotum, ljósmeti og eldiviður sömuleiðis. Viðmetið var gersamlega þrotið og kaffið líka, - eina nautn fátæklinganna. Með sumt af þessu átti Jón Skeggi að koma úr kaupstaðnum, en í slíkum veðraham gat hvorki hann né aðrir farið ferða sinna.
Allt, sem til var í bænum matarkyns, var saltað, súrt, hangið eða hart - og þurrt. Það gat að vísu bjargað frá hungurdauða, en frá hungrinu gat það ekki bjargað. Börnin báðu stöðugt um annað en til var, og Halla varð að beita ýmist hörku eða einskisverðum loforðum til að þagga niður í þeim.
Ofan á allt þetta bættist, að Ólafur lá fyrir dauðanum í lungnabólgu.
Halla nefndi það svo í huga sínum að minnsta kosti, því að hún vissi ekki með vissu, hvað að honum gekk. Hann var aldrei svo við rænu, að hann gæti sagt til þess sjálfur.
Kölduflogið, sem hann fékk á kyndilmessu, hafði snúist upp í ákafa hitasótt. Hann braust um og bylti sér í rúminu og ruglaði alls konar vitleysu. Samt varð ekki séð, hvort hann svaf eða vakti.
Jafnframt mögnuðust hin eldri sjúkdómseinkenni hans til mikilla muna.
Halla hjúkraði honum eins og hún hafði best vit á, þó að það væri illt verk og henni um megn. Sárast af öllu var að geta ekki náð til mannabyggða eftir lækni eða einhverri annarri hjálp. Aldrei hafði hún fundið sárar til bölvunar einbýlisbúskaparins en nú.
Dauðinn. - Enn þá einu sinni var hann kominn í bæinn til hennar. Ef til vill tæki hann Ólaf fyrst, síðan börnin og loks hana sjálfa.
Hvar sem hún gekk um bæinn, fannst henni hann anda framan í sig sárköldum grafargusti. Einhver nístandi beygur gagntók hana, svo þungur og þreytandi, að hún gat varla verið á flakki.
Það eina, sem hún hafði verulega vakandi áhuga á, var að hlynna að börnunum. Ef hún félli frá, gat svo farið, að þau lifðu það lengur, að þeim kæmi einhver hjálp.
Allt annað, sem hún hafðist að, fannst henni aðeins vonlaus, máttvana vörn gegn dauðanum í henni sjálfri og í kringum hana.
Beygð af angist og kvíða og sífelldum hugsunum um bágindi sín, reikaði hún innan um þessa snævi þöktu gröf sína og gerði skylduverk sín - af vana.
Gleðin, sem hún hafði haft af skepnunum sínum, var líka þrotin. María gamla Ragúelsdóttir hafði haft hana burt með sér.
Nú nægði henni ekki lengur samhygð skynlausra skepna og þau vonar- og vinaaugu, sem þær renndu til hennar. Nú þráði hún samhygð mannanna og hjálp þeirra.
Ó, að manneskjurnar gætu séð gegnum holt og hæðir! Skyldi nokkur mannleg vera geta trúað því, sem drifið hafði á daga hennar í þessu heiðarkoti? Skyldi nokkur maður nokkurn tíma fá skilið það?
- Eitt kvöld sem oftar sat hún yfir börnum sínum í rúminu og Ólafi á sóttarsæng sinni.
Ólafur hafði legið kyrr lengst af um daginn og verið þungt haldinn. Nú fór hann að bylta sér og tala óráð.
"- otaðu hornunum í veðrið, svona. - Áfram með ykkur, áfram, áfram! - Ekki slíta í sundur. Það má ekki fenna í slóðina. - Troddu fyrir, Móri. - Móri, Móri, Móri! - Forustu-Móri, helvítið þitt! - - Áfram, ekki að leggjast ofan í fönnina! - Geltu, Týrus, geltu, geltu betur. - A-r-r-r-r! Ekki bíta! - Áfram, áfram - -."
Orðin komu á slitringi og sum köfnuðu í hósta. En svo var því líkt, að Ólafur væri vakandi, að Halla lýsti framan í hann til að sjá, hvort svo væri ekki. Ólafur brá sér hvergi, þó að birtan félli framan í hann. Hann var blárauður og þrútinn í framan og lá með aftur augun. Allur svipurinn bar vott um mikla áreynslu.
Halla titraði af ótta og kvíða. Nú rann henni það í hug, sem María hafði sagt um líkið í rúminu; nú var þess ekki langt að bíða, að það yrði að ömurlegum veruleik. Ólafur lá eins og hann væri búinn að leggja sig til sjálfur og dró þungt andann með miklum erfiðismunum. En það var ekki dauðinn á sóttarsænginni, sem hann barðist við, heldur dauðinn í grenjandi, geisandi blindbyl úti á víðavangi. Hann var að koma stórri hjörð heim að húsum á móti veðrinu. Það gekk seigt og fast, eins og það hafði oft gert áður. Þó var enga æðru að sjá í svip hans, ekkert annað en þrautseigju og þolinmæði og trúmennsku til dauðans. Einn af hinum miklu og glæsilegu sigurvinningum hans á ævinni, sigurvinningum, sem engir voru vitni að, vitjaði hans nú, er einhver góð hönd hafði lokað meðvitund hans fyrir hrellingum vökunnar.
Halla horfði stöðugt á hann. Hún hélt niðri í sér andanum og hlustaði á óráðsóra hans, ef ske kynni, að eitthvert orð væri þar af fullu ráði.
En Ólafur kom ekki framar í heiðarbýlið. Hann braust um í ófærðinni og kafaldinu, sparkaði í skepnurnar, sem ætluðu að leggjast niður undir fannbrynjunni, tróð sundur fyrir þær skaflana, eggjaði, sigaði, hóaði, arraði og dreif allt áfram með orku og seigju. Andköfin, sem hann tók, voru af því að bylurinn tók fyrir vitin á honum. Stirðleiki limanna og þrengslin um brjóstið voru af því, að fötin voru frosin. Týrus var alltaf í kringum hann, stökk gjammandi frá hverri kindinni til annarrar, kaffærðist í botnlausri lausamjöllinni, en þreyttist aldrei. Forustu-Móri var svo ákafur, að varla varð við hann ráðið; hætt við, að hann færi á undan með duglegustu kindurnar, en skildi allt hitt féð eftir forustulaust. Það mátti hann ekki. Öll hjörðin átti að teygja úr sér í langan lopa, sem hvergi slitnaði sundur, sem træði eina slóð í ófærðinni og sigi áfram, jafnt og þétt heim að húsunum - - - - - - - - -.
- Skrafið smádrukknaði í máttvana hryglu, og að afhallandi miðnætti var Ólafur dáinn.
Halla veitti honum nábjargir og breiddi síðan upp yfir höfuð á líkinu.
Eftir það greip hana undarleg viðkvæmni, eins og vant er að vera þegar ofþandar taugar sljóvgast aftur. Skelfingin, sem fylgir návist dauðans, heltók hana, ásamt tilhugsuninni um það, hve lengi hún yrði að sitja einsömul yfir líkinu, innilokuð af grimmdarveðrum. - En þó var um leið eins og einhverjum heljarþunga væri létt af henni. Þessi hluti stríðsins var þó á enda.
Ákafan grát setti að henni.
Börnin sváfu og höfðu einskis orðið vör. Halla háttaði og lagðist út af hjá þeim. Hún ætlaði að láta ljósið loga um nóttina, en lampinn var þurr og ljósið dó. Innan skamms sofnaði hún og vaknaði ekki fyrr en dagsskímuna lagði gegnum skaflana á glugganum.
Þennan dag var veðrið skaplegra en það hafði verið undanfarna daga. Hörkufrost var að vísu, en kyrrt og heiðskírt. Þó var ekki logn, og renndi snjó með jörðunni.Halla átti fastlega von á, að Finnur kæmi þennan dag.
En þegar komið var fram yfir sólsetur og Finnur hafði ekki komið, hætti hún að vonast eftir honum og sá, að svo búið mátti ekki standa. Hún réð þá af að reyna að ná tali af honum við beitarhúsin á hálsinum og biðja hann að segja frá því heima í Hvammi, hvernig hún væri stödd.
Ef þetta misheppnaðist, mátti hún auðvitað til að fara sjálf ofan að Hvammi eða hinum bæjunum til að leita sér hjálpar.
Hún bjó sig út eftir bestu föngum, og þegar hún var ferðbúin, gekk hún að rúmi barnanna til að kveðja þau.
Hún hafði ekkert látið þau klæða sig um daginn. Þeim var hlýrra niðri í rúminu en á flakki. Halldór litli hafði flutt sig upp í höfðalagsendann til systur sinnar og lá þar, sem mamma hans hafði legið. Það þótti honum betra en ekki neitt, fyrst hann fékk ekki að fara á fætur.
"Vertu nú ósköp góður við hana systur þína, á meðan ég er í burtu," mælti Halla og laut ofan að honum. "Ósköp góður, mundu það. Þið megið engan hávaða hafa. Vesalingurinn hann pabbi ykkar sefur svo vært. Honum hefir gengið illa að sofa undanfarið. Þið megið með engu móti vekja hann."
Hún þorði ekki að segja börnunum, að pabbi þeirra væri dáinn. Henni fannst engin von til þess, að börn á þessum aldri fengjust til að vera einsömul hjá líki. Aftur á móti voru þau orðin því vön, að Ólafur svæfi dægrum saman, svo að minni áhætta var að segja þeim það.
"Ég ætla ofan að beitarhúsunum til hans Finns," hélt Halla áfram. "Það er skammt, og gott að ganga núna. Ég verð líklega ekki lengi. Mundu nú að vera góður á meðan."
Halldór litli teygði upp frostbólgnar hendurnar til þess að leggja þær um hálsinn á mömmu sinni.
"Ég skal vera góður, mamma, ósköp góður," mælti hann. "En - gefðu mér þá sykurmola."
"Ég á engan sykurmola til, barnið mitt," mælti Halla.
"Má ég leita?"
Í sömu svipan var litla höndin komin á kaf ofan í pilsvasa Höllu. En þar var enginn sykurmoli.
"Ég ætla að biðja hann Finn að færa mér sykur og brauð og kaffi heiman frá Hvammi," mælti Halla. "Og bráðum kemur Jón á Skeggjastöðum úr kaupstaðnum, og hann kemur með nóg af sykri og alls konar góðgæti. - Það raknar bráðum fram úr öllum bágindum okkar. Mundu nú eftir því að vera góður. Mundu það, að guð sér til þín, þó að ég sjái ekki til þín. - Og ef ég verð lengi, þá eigið þið bæði að lesa bænirnar ykkar og lúra ykkur svo niður, eins og þið eruð vön, þá sendir guð englana sína til að vera hjá ykkur."
Síðan kvaddi hún bæði börnin með kossi. Henni fannst sjálfri sem vel gæti verið, að hún væri að kveðja þau í síðasta sinni.
Þegar hún fór, batt hún bæjardyrahurðina aftur með snæri að utanverðu. Fjárhundinn lét hún fylgja sér.
Það var farið að dimma allmikið af kvöldi, þegar Halla lagði á stað, og jafnframt var veðrið farið að harðna. Renningsskriðið með jörðinni hafði aukist mjög, en bjart var yfir.
Færðin var hin versta. Halla var skíðalaus með kollótt prik til að styðja sig við.
Upp skarðsbrekkuna sóttist henni seint, miklu seinna en hún hafði gert ráð fyrir. Hvað eftir annað þurfti hún að standa við til að blása mæðinni. Áður hafði hún oft hlaupið upp á skarðið í einum spretti. Nú fannst henni hún aldrei ætla að komast það. Þetta var varla einleikið.
Á skarðinu sjálfu var harðfenni, en rokhvasst, svo að hún réð sér varla. Þaðan sá hún snöggvast til beitarhúsanna niðri á hálsinum. Þau stóðu hátt og hjó í þau eins og svarta huldufólkshamra gegnum rennimjöllina.
Þegar hún kom ofan af skarðinu aftur, var sem hún gengi inn í bláhvítan vegg. Þar kýfði snjónum af fjöllunum niður í lægðina, og mjöllin var svo laus, að varla fannst fast undir spori. Hún braust áfram í ófærðinni, án þess að sjá svo mikið sem spönn frá sér. Mjallrokið var svo þétt, að hún náði varla andanum. Þessi sallasmáa, margmalaða fokmjöll leitaði alls staðar inn á hana bera, jafnvel í gegnum fötin. Hún fann snjóinn frjósa saman í hárinu, sem stóð fram undan skýlunni, og lemjast við ennið á sér. Frá heitum kinnunum skeljaði snjóinn, og féll hann niður í stórum flygsum. En áfram, áfram braust hún og hélt stefnunni, sem hún hafði tekið, þegar hún sá frá sér síðast. Hundurinn kom til hennar við og við, eins og til að minna hana á, að hann væri ekki búinn að yfirgefa hana. Þess á milli hvarf hann út í renningskófið.
Halla vissi ekki, hve lengi hún var að komast yfir þessa kvos milli skarðsins og hálsanna; henni fannst það aldrei ætla að þrjóta. Hún tók ekki eftir því heldur, að mjallrokið í kringum hana varð alltaf blárra og blárra og loks blásvart, - eins og hörundslitur Heljar. Dagsbirtan fór dvínandi og stjörnurnar tindruðu yfir gjósandi lausamjöllinni.
Þegar hún nálgaðist beitarhúsin, fór henni að ganga greiðara. Þar, uppi á hálsinum, voru fannirnar harðbarðari og færðin betri. Þar gekk líka mjallrokið lægra. En jafnframt varð stormurinn, sem þar stóð utan Hvammsdalinn, meiri á móti henni. Skömmu fyrir dagsetur náði hún að beitarhúsunum.
Þar var svo um búið, að Finnur var auðsjáanlega farinn heim. Hurðin var vandlega látin aftur og lokurnar reknar fyrir. Utan með allri hurðinni var klesst harðhnoðuðum snjó, svo að ekki skyldi fenna inn. Engin slóð sást liggja frá húsunum. Það var fennt yfir hana fyrir löngu.
Halla nam staðar í skjóli við húsin og hugsaði ráð sitt. Henni kom til hugar að fara inn í húsin til kindanna og láta þar fyrir berast til næsta morguns, að Finnur kæmi þangað. En henni fannst svo vel um hurðina búið, að synd væri að róta henni. Auk þess hafði hún aldrei hugsað sér að vera að heiman til næsta morguns. Hún réð það því af að brjótast heim að Hvammi.
Á meðan hún stóð við hjá húsunum, heyrðist henni hún heyra undarleg hljóð einhvers staðar ekki langt frá sér. Það var sem hundurinn hefði heyrt þetta líka, því að hann stökk út í myrkrið og gelti. Þó kom hann undireins aftur, settist hjá henni og hlustaði. Hann skalf eins og hrísla, annaðhvort af kulda eða kvíða. Hún hlustaði sjálf um stund, en þegar hún heyrði ekkert framar, hætti hún því. Líklega hafði þetta verið garg í fugli eða tíst í ýlustrái. Samt vakti þetta undarlegan óhug hjá henni.
Þegar hún var nýlögð á stað frá beitarhúsunum, heyrði hún sama hljóðið aftur. Hún nam staðar og hlustaði. En nú stóð hún á bersvæði. Stormurinn næddi gegnum hverja spjör, sem hún hafði á sér, og frostið nísti hana inn að beini. Hún þoldi ekki við að standa kyrr og hlusta, hún mátti til að halda áfram; annars frysi hún í hel á lítilli stundu.
Og áfram, áfram tróð hún ófærðina, móti storminum og mjallrokinu, - eitthvað í áttina heim að Hvammi. Það hallaði undan fæti ofan í dalinn, en undireins og hæðunum sleppti, varð mjallrokið þéttara og ófærðin dýpri. Frá beitarhúsunum hafði hún getað greint brúnirnar á Hvammsnúpnum upp yfir renningskófið í dalnum. Nú voru þær horfnar, og hún vissi ekkert, hvert hún stefndi. Langan, langan tíma hélt hún þannig áfram með stakri þrautseigju. Áður en hún vissi af, var hún komin út á einhverja flatneskju, þar sem ófærðin var alltaf jöfn og mjallrokið nærri því ókljúfandi.
Hvernig sem hún braust áfram, fannst henni hún alltaf standa kyrr og troða ófærðina á sama blettinum. Það var sem bundið fyrir augun á henni. Hún sá ekkert frá sér, ekkert, sem hún gæti séð færast fram hjá sér, nálgast fram undan og fjarlægjast að baki, ekkert, sem benti á áframhald. Hún fann þreytuna gagntaka sig meira og meira; bráðum hlaut að koma að því, að hún hnigi niður og gæti ekki staðið upp aftur. Varla gat hún dregist áfram tíu spor í einu án þess að standa við og hvíla sig. Hingað til hafði hún getað haldið á sér hita; nú var kuldinn að heltaka hana.
Og nú var hún farin að sjá ofsjónir og heyra ofheyrnir. Skilningarvitin voru orðin of þreytt af langvarandi áreynslu. Hvenær sem hún stóð við, heyrðist henni mannamál einhvers staðar nálægt sér, stundum voru það alls konar óhljóð, köll og skvaldur. Þegar hún sótti áfram og veðrið lamdi hana sárast í andlitið, sá hún regnbogalitaða hringi fram undan sér. En það þótti henni undarlegast, að henni fannst jafnan hún sjá í hnakkann og herðarnar á manni gegnum þessa hringi, - hávöxnum; axlabreiðum karlmanni, sem jafnan gengi á undan henni og styngi höfðinu í veðrið. Ef hún skyggndist þá betur eftir, sá hún auðvitað ekkert annað en blágrátt snjómyrkrið.
Nú fann hún ekki til hræðslu eða skelfingar; nú stóð henni eiginlega á sama um allt. En þegar hún stóð við til að hvíla sig, sótti á hana ákafur svefn, miklu meiri en hún hafði nokkurn tíma fundið til áður. Ekkert var henni kærara en að mega leggjast niður í fannirnar og fá sér blund. En hún hafði heyrt menn segja frá því, sem hætt höfðu verið komnir í hríðum, að svefninn væri skæðasti og áleitnasti óvinurinn; ef menn sofnuðu úti í slíkum veðrum, gætu menn ekki vaknað aftur. Nú vakti þetta í meðvitund hennar og var henni sverð það, er sjálft hjó gegn svefninum.
En einu sinni, þegar hún stóð við og studdist fram á prikið sitt, gat hún þó ekki algerlega varist þessum lævísa "bróður dauðans". Í kringum hana var allt í einu komin þröng af gömlum kunningjum. Þar brá fyrir Agli gamla í Hvammi og Borghildi, gömlu prestskonunni, sem nú var dáin fyrir löngu, Jóhönnu sáluðu frá Hvammi og mörgum fleirum. Allir birtust henni rétt í svip og allir vildu vera henni dæmalaust góðir. Og Salka kom eins og fljúgandi, lagði hendurnar upp um hálsinn á henni og var að þakka henni fyrir bryddu skóna. Aldrei hafði legið jafnvel á henni.
Hún vaknaði við ýlfur í hundinum, sem sat rétt hjá henni og hélt uppi löppunum til skiptis. Þá sá hún, hve hætt hún hafði verið stödd.
En nú var hún svo köld og stirð, að hún gat varla hreyft sig. Samt hélt hún á stað.
Um leið og hún lagði á stað, sá hún glampa eins og eldglæringar úti í fjúkinu. Það var eins og þessar eldglæringar stækkuðu og kæmu fjúkandi á móti henni og yfir hana. Hún stóð í eldhríð.
Galdraveður! - Óljósar sagnir um galdraveður úr sögum og rímum gægðust fram í meðvitund hennar, eins og þær hefðu viðleitni til að skemmta henni mitt í þessum dauðans dansi. Galdraveður voru frosthríðar með eldi. Þegar eldfjúk sást í stórhríðum, var ætíð verið að gera gjörninga að einhverjum til að drepa hann úti á víðavangi. - Hver mundi eyða galdraveðri á jafnaumt líf og hennar var!
Hugsanir hennar voru sljóar og tilfinningar hennar smádofnuðu með hverju augnabliki. Hægt og hægt staulaðist hún áfram, án þess að hugsa um það framar, hvað við tæki eða hver náttstaðurinn yrði.
Nú kom eldurinn aftur, - meiri en áður, og nú sá hún, hvernig á honum stóð. Tveir ljósgeislar teygðu út armana á móti henni. Fram undan henni sá í tvo uppljómaða sex-rúðu-glugga eins og breiðleit andlit. Til hliðar við þá sást dauft ljós í fjögra-rúðu-glugga.
Ósegjanleg gleði greip hana. Þetta var bærinn i Hvammi.
Ljósið í sex-rúðu-gluggunum var í húsi læknisins, hitt í gamla bænum. Flatneskjan, sem hún sjálf var stödd á, var ísinn á vatninu.
"Fögur er sjóhröktum fold," segir máltækið. Jafnframt lifir sú sögn um sjóhrakta menn, að úr þeim dragi allan mátt, þegar landinu sé náð.Eitthvað líkt þessu sannaðist á Höllu. Þegar hún kom heim á hlaðið í Hvammi, var hún svo þreytt og máttfarin, að hún treysti sér ekki til að kafa skaflana kringum bæinn, til að leita að baðstofugluggunum. En það var góðra manna siður að gera vart við sig með því að guða á glugga, eftir að komið var dagsetur.
Það var með veikum burðum, að hún gat barið þrjú högg í þilið á húsinu, þar sem ljósið var. Það var smíðahús þeirra feðganna.
Hurðin var opnuð og maður kom út í dyrnar. Höllu varð hálfundarlega við. Þessar breiðu axlir, sem bar nú við ljósbirtuna inni í húsinu, voru þær sömu, sem henni höfðu sýnst gegnum regnbogabrotin á leiðinni. Eða voru þessar karlmannlegu axlir svo samgrónar hugsunum hennar og minningum, að þær liðu henni ósjálfrátt fyrir augu, þegar hana varði minnst?
"Hver er þarna?" var spurt með hásri, óblíðri röddu.
Höllu varð orðfall í bili. Þannig átti fundum þeirra að bera saman aftur!
"Hver er þarna?" spurði Þorsteinn aftur.
"Gott kvöld!" stamaði Halla.
"Gott kvöld!" svaraði Þorsteinn og rýndi fastar út í fjúkið. "Hver er þetta?"
"Ég heiti Halla."
"Halla? - Halla í Heiðarhvammi? Það getur ekki verið. - Í þessu veðri, - 16 stiga frosti -."
"Ég þarf að tala við föður þinn," mælti Halla. "Ég er bágstödd. Ólafur er dáinn og börnin eru einsömul hjá líkinu."
"Guð minn almáttugur!" andvarpaði Þorsteinn fyrir munni sér. Síðan stökk hann út í snjóinn og heim að bæjardyrunum, reif þær opnar og hrópaði inn í göngin: "Gunna, - eða Sigga. - Komið þið með ljós, fljótt! Og segið honum pabba, að kona sé komin, sem vilji finna hann."
Halla fylgdist með honum inn í bæjardyrnar. Þorsteinn beið þar hjá henni þar til Egill kom fram. Þá hvarf hann aftur til smíðahússins.
Það flaug á svipstundu um allan bæinn, að Halla væri komin og hvernig ástatt væri fyrir henni. Allir, sem gátu, þyrptust fram í bæjardyr. Þar stóð Halla í miðjum hópnum, fannbarin hátt og lágt eins og snjókerling, og hafði ekki við að svara spurningum manna.
Bæjarhurðin hafði verið keyrð aftur, til þess að ljósið gæti lifað. Stormurinn réðst á hurðina, hvínandi og gólandi eins og reiður hundur, út af því að vera lokaður þannig úti. Inn með allri hurðinni stóð mjallrokið eins og hvítir geislar.
Halla vildi fyrir hvern mun leggja á stað upp að Heiðarhvammi aftur, ef einhver fengist til að fylgja henni. Hún var hrædd um, að börnin misstu vitið af hræðslu, ef þau ættu að vera einsömul í bænum alla nóttina.
Egill aftók það með öllu, að Halla færi eitt fet um kvöldið, hvað sem öðru liði. Fyrst hún hefði náð til húsa hans, fengi hún ekki að fara. Nú væri ekki kvennaveður. Auk þess mundi henni ekki veita af hvíldinni.
Halla varð að kannast við, að þetta væri satt. En það var sárt að hugsa til barnanna einsamalla heima. Hvað mundi af því hljótast, ef þau kæmust að því, að faðir þeirra væri dáinn og mamma þeirra ef til vill orðin úti?
"Víst er illt að vita blessuð börnin einsömul í kotinu," mælti Egill um leið og hann opnaði hurðina og starði hvasst út í snjórokið og náttmyrkrið. "Ég skipa engum að fara, því að ég tel veðrið illfært. En ef einhver vill fara, þá banna ég honum það ekki."
Húskarlar Egils voru allir þar í bæjardyrunum, en enginn gaf sig fram til fararinnar. Menn ræddu það upphátt sín á milli, hvort tiltækilegt mundi vera að hitta Heiðarhvamm í slíku dimmviðri, og komust að þeirri niðurstöðu, að það væri allt of hæpið, fyrr en birta tæki af degi.
Halla leit spyrjandi og biðjandi augum frá hverjum manni til annars. Var þetta ragmennska eða skortur á hjálpsemi? Eða var veðrið, sem hún hafði nýlega verið úti í, ófært í raun og veru? Á meðal þeirra, sem hún sá í kringum sig, var Finnur. Hann var hinum samdóma.
"Ég er nú orðinn svo gamall og mæðinn, að ég er ekki fær um að leggja út í vond veður og vonda færð," mælti Egill um leið og hann lét aftur hurðina. "En finna skyldi ég Heiðarhvamm, hversu svart sem væri, þó að ég þyrfti að skríða."
Karlmennirnir smáhurfu úr bæjardyrunum, eins og þeir vildu láta sem minnst á sér bera. Egill sagði Höllu, að undireins morguninn eftir mundi hann senda menn með sleða upp eftir, til að sækja börnin og líkið. Ef hún vildi ekki bíða eftir þeim, skyldi hann láta Finn fylgja henni um leið og hann færi til beitarhúsanna. Hann legði á stað í dögun.
Við þetta varð Halla að sætta sig. Hún lofaði vinnukonunum að draga af sér snjófötin og bjóst til gistingar. Hún treysti sér ekki út í veðrið að nýju. Það varð að fara um börnin eins og guð vildi.
En áður en hún færi inn í baðstofuna, kom Þorsteinn inn í bæjardyrnar að nýju og heimtaði vettlingana sína af vinnukonunum. Í þetta skipti var hann útbúinn til að mæta harðviðri. Enginn spurði hann, hvert hann ætlaði, og engum sagði hann það óspurt. Þess þurfti ekki við. Allir sáu, að hann ætlaði upp að Heiðarhvammi og vera hjá börnunum um nóttina.
7. kafliSkíman, sem enn var í baðstofunni í Heiðarhvammi, þegar Halla lagði á stað, fór smádvínandi. En börnin notuðu hana á meðan nokkuð var eftir af henni.
Þau sátu bæði uppi við höfðalagið og léku sér að gullunum sínum. Það hafði bætst allmikið við þau á meðan gestirnir sátu þar veðurtepptir.
Völurnar, sem þau áttu, voru kindur; stóru völurnar fullorðnar kindur, en litlu völurnar lömb. Þær voru ekki margar að vísu, en þó nokkru fleiri en kindur þær, sem nú voru í Heiðarhvammi. Kindarleggur, sem litaður hafði verið ljósblár, var fjármaðurinn. Hundurinn og tófan voru tálguð úr birkilurkum, og sömuleiðis nokkrir fuglar. Einn þeirra hét Krummi. Hann var raunar hvítur enn þá, en hann mátti samt alls ekki vanta. Stórgripsvala var kýrin. Misfellurnar ofan á brekáninu voru hæðir og dalir. Svo gat Halldór litli búið til afar hátt fjall með því að "reisa borðstóla" upp undir sængina.
Í þessum einfalda leik var heill búskapur fólginn. Við huganum skinu grænir og gróðursælir hagar með fögrum fjallahlíðum. Þar var fagurt um að litast og gott að vera bæði mönnum og skepnum. Þar voru kindurnar spakar og smalinn átti hæga daga. Fegurstu blettirnir, sem Halldór litli hafði séð meðfram fjallgarðinum sumarið áður, voru honum nú í huga, og fjallið, sem hann bjó til úr rúmfötunum, var ofur lítil mynd af fjallinu fyrir ofan bæinn.
Halldór litli var "ósköp góður" við systur sína, eins og hann hafði lofað mömmu sinni. Þó fannst honum sjálfsagt að setja ofan í við hana, ef hún gerði einhverja vitleysu í bústjórninni.
"Ætlarðu að láta "kýrina" upp á fjallið, flónið þitt?"
"Hvar á hún að vera?" spurði Bogga undur sakleysislega.
"Auðvitað niðri í mýri eða heima hjá túngarði," sagði Halldór önugur og grýtti "kýrinni" burtu frá hinni hjörðinni.
"Aumingja kýrin mín!" sagði Bogga og lagði stórgripsvöluna undir vanga sinn.
En nú var öllu fyrir komið eins og Halldór litli vildi. Í fjallsrótunum voru allar kindurnar á beit. Hvert sem þær stefndu, var Forustu-Surtla jafnan fremst. Það var svört sauðarvala. Uppi á háhnúknum húkti Krummi eins og hvít nátthúfa, en tófan lá í leyni niðri í einni fellingunni á brekáninu. Fjármaðurinn ljósblái lallaði letilega í kringum kindurnar og hundurinn með honum. En af því að hvorugur þeirra var almennilega sjálfbjarga, hafði Halldór nóg við báðar hendurnar að gera. Svo áttu kindurnar að smáfærast upp eftir fjallahlíðunum; það gekk illa, þær ultu um sjálfar sig í brattanum. Allt í einu stökk tófan upp úr leyningi sínum og ætlaði að stökkva á eina kindina. Sá ljósblái lagðist makindalega upp við fjallið á meðan, en sendi hundinn á stað. Tófan lagði á flótta, og hundurinn elti hana í kringum fjallið. Loks smaug hún inn í greni. -
Þá var Halldór orðinn þreyttur í "borðstólunum". Fjallið hrundi á svipstundu, svo að þar varð laut eftir. Allar kindurnar ultu saman í hrúgu, og fjármaðurinn varð undir henni. Ofan til í hrúgunni sá á hvítan kviðinn á Krumma. Svo lét Bogga kúna falla úr háalofti ofan á allt saman og hló að fyndninni. Er Halldór litli velti allri leikfangahrúgunni ofan til fóta, þangað sem kisa kúrði.
Dagsbirtan þraut. En í huga Halldórs litla hélt sami leikurinn áfram. Þar var sumar með sólskin á fjöllum og heiðum, þó að dimmt og kalt væri í kringum hann.
"Ég hefi komið fram að Bollagörðum," mælti hann hróðugur. Annar eins frami hafði Boggu aldrei hlotnast.
"Mamma ætlar einhvern tíma að lofa mér að koma fram að Bollagörðum," mælti Bogga.
"Þú ert svo lítil, að þú kemst þangað ekki. Þú dyttir ofan í gjóturnar og kæmist ekki upp úr þeim aftur. Þar eru svo margar gjótur. Mamma sýndi mér gjótuna ofan í hellinn, þar sem þjófarnir földu það, sem þeir stálu."
Halldór sagði svo margt frá Bollagörðum og hvernig þar væri umhorfs, að Bogga brann af óþolinmæði eftir því að verða stór, svo að hún gæti séð jafnsöguríkan stað.
Halldór litli þagnaði. Samviskan beit hann ofur lítið. Að vísu var hann mikill maður í samanburði við Boggu, en helminginn af því, sem hann sagði frá Bollagörðum, hafði hann ekki séð. Sumt af því hafði mamma hans sagt honum, hitt hafði ímyndunarafl hans sjálfs skapað. Og þjófahellinn hafði hann aldrei séð.
"Ég hefi líka komið - nærri því upp á skarðið," mælti Halldór. Í þetta skipti ætlaði hann ekki að segja of mikið.
"Er ég líka of lítil til að komast upp á skarðið?" spurði Bogga.
"Mamma segir, að ef ég lifi næsta ár, muni mega senda mig heim að Hvammi," sagði Halldór, eins og til að minna Boggu enn á yfirburði sína fram yfir hana.
Bogga gafst upp. Hún gat ekki hugsað sér þá framtíð nálæga, að hún fengi að fara heim að Hvammi.
Halldór var nú líka búinn með það, sem hann þekkti af heiminum. Lengra en þetta hafði hann ekki farið að heiman.
Þar sem hinn þekkti heimur þrýtur, tekur hinn ímyndaði við. Og börnin leiddust eins og systkinum sæmir inn á lönd þeirra ævintýra, sem mamma þeirra og María Ragúelsdóttir höfðu sagt þeim frá. Halldór mundi betur og sagði sögurnar. Bogga hlustaði á og kannaðist við efnið. Þó að frásögnin væri slitrótt, nutu þau hennar í innilegri sameiningu og lifðu upp ævintýrin saman.
Þau voru kóngsbörn, sem misst höfðu móður sína og eignast illa stjúpu. Hún vildi fyrirkoma þeim og lokkaði þau með sér ofan að sjó. Þar stóð stór steinn í flæðarmálinu. Hún gekk að steininum og sagði: "Opnaðu þig". - Þá laukst steinninn upp eins og stór kista. Hún bauð börnunum að horfa ofan í steininn. Þar lýsti af gulli og gersemum. En þegar minnst varði, steypti hún þeim báðum á höfuðið ofan í steininn og lokaði honum. Síðan fundu þau, að steinninn var kominn á flot. Lengi barst hann um öldurnar, þau vissu ekki hvert. Loks stóð hann fastur. Þá sagði Halldór litli: "Opnaðu þig", og steinninn laukst undireins upp, svo að þau komust út. Þá voru þau komin í ókunnugt land. Halldór gekk upp á land til að vita, hvers hann yrði vísari, en Bogga varð eftir hjá steininum. Halldór kom að skála einum, miklum og ljótum. Fór hann þá upp á eldhússtrompinn og gægðist inn. Þar sat tröllskessa framan við hlóðir. Það var nú ljóta kerlingin. Hún skaraði í eldinn með nefinu og raulaði fyrir munni sér:
- Bíta mig lýs,
- hata mig menn,
- og ekki koma kóngsbörnin enn.
Þegar Halldór litli kom til systur sinnar, sagði hann henni, hvað hann hefði séð. Þá varð hún forvitin og vildi endilega fara með honum og sjá kerlinguna. Hún fékk það með því skilyrði, að hún mætti engan hávaða gera. Kerlingin væri blind; en ef hún yrði vör við þau, þá næði hún þeim. Þau gægðust nú bæði inn um eldhússtrompinn. Þá var kerlingin svo afkáraleg, að Bogga gat ekki stillt sig um að hlæja. - Hún skellihló við það eitt að hugsa til hennar. "Hana nú, þar eru kóngsbörnin komin," sagði kerlingin. "Það lá að, að dóttir mín mundi ekki gleyma mér." Svo stökk hún á fætur og út. Börnin hlupu sitt í hvora áttina; Bogga kjökraði, en Halldór beit á jaxlinn. Kerlingin náði þeim samt og lét þau inn til hafranna sinna. Hún gaf þeim góðan mat, því að þau áttu að fitna og verða enn þá meira sælgæti. Daglega skipaði hún þeim að rétta litla fingurinn út um rifu á hurðinni, svo að hún gæti bitið í hann og fundið, hve mikið þau fitnuðu. En Halldór hafði ráð undir hverju rifi og lét hana bíta í spýtu; hún hafði ekkert vit á því, en gaf börnunum því betur að borða, því að henni þótti þau fitna seint. Loks slátraði Halldór litli tveim höfrum, og fóru þau systkinin í belgina af þeim. Á þann hátt komust þau út með hinum höfrunum. En þegar þau voru sloppin, fór Bogga að hlæja. "Óhræsin ykkar, nú hafið þið leikið á mig!" sagði kerlingin og fór að elta þau. Bogga var svo lítil, að hún fálmaði alltaf yfir hana, en Halldór smaug alltaf út um greiparnar á henni. Þau létu hana elta sig fram á sjávarhamra, og af því að kerlingarskömmin var blind, steyptist hún fram af hömrunum og þar brotnaði í henni hvert bein. Þau systkinin könnuðu nú hreysi kerlingar og fundu þar gnægðir gulls og gersema. Svo fékk Halldór sér skip og menn. Hann sigldi land úr landi, hafði sigur í hverri raun og var hinn mesti kappi. Bogga fylgdi honum jafnan. Loks komu þau heim til föður síns og sögðu honum, hverrar ættar drottningin væri og hvílíkur ódráttur hún væri. Þá var hún búin að éta hálfa hirðina. Þegar hún sá kóngsbörnin, varð henni svo hverft við, að hún gleymdi að leyna tröllseðli sínu. Þá var hún tekin, belgur dreginn yfir höfuðið á henni og hún brennd á báli. Halldór varð konungur eftir föður sinn og giftist forkunnarfríðri kóngsdóttur, sem hann hafði frelsað úr tröllahöndum. Um sama leyti kom ríkur kóngssonur, afbragð annarra manna, og bað Boggu. Þau héldu brúðkaupsveisluna saman, og hún stóð í 18 daga. Svo unnust þau vel og lengi og áttu börn og buru -.
Þeim, sem guð gerir afskipta af auðlegð heimsins, gefur hann oft auðlegð andans - ímyndunargáfuna - í því ríkara mæli. Það er raunaléttir að eiga sterka, breiða vængi, geta hafið sig til flugs frá eymd sinni og örbirgð, flogið til þeirra landa, sem ekkert auga hefir séð, og notið þar allra gæða lífsins í dægurlöngum draumum. Slíkir undravængir fást ekki, þó að fé sé í boði. Allir hagleiksmenn heimsins gætu ekki smíðað þá, þó að þeir legðu saman. Þeir eru gjafir frá þeim, sem ekki fer að mannvirðingum.
"Nú áttu að fara að lesa bænirnar þínar og svo að sofa," mælti Halldór, þegar hann var orðinn þreyttur á því að segja systur sinni sögur.
Bogga hlýddi undireins, alveg eins og hún var vön að gera, þegar mamma hennar sat hjá henni og lét hana lesa. Hún byrjaði að lesa upphátt, með barnslegum, veikum rómi og var ofur smámælt:
- Vak þú, minn Jesús, vak þú í mér,
- vaka láttu mig eins í þér.
Hún byrjaði á hverju versinu eftir öðru og las þau með lotningu og stillingu, eins og mamma hennar hafði vanið hana á að gera.
Eftir fáein augnablik voru allar ævintýramyndirnar horfnar úr huga hennar. Hún vissi, að þær voru ekki annað en saklaust og einskisvert glingur, sem ekki mátti trufla hugann frá því háleita og alvarlega. Í þeirra stað voru komnir englar, sem guð sendi sjálfur til að breiða verndarvængi sína yfir rúmið hennar. Og stundum hugsaði hún sér Jesús vera kominn sjálfan, bjartan yfirlitum, blíðan og góðlegan, til að hlusta á bænirnar hennar. Hún vissi, að honum þótti vænt um öll góð börn. Hún bað hann um að halda vernd sinni yfir sér og bróður sínum, yfir pabba þeirra, sem - svaf í hinu rúminu, og mömmu þeirra, sem var einsömul úti í vonda veðrinu.
Halldór litli notaði sér það miklu fremur, að mamma hans hlustaði ekki á bænalesturinn. Honum þótti þó viðsjárvert að sleppa versunum með öllu, en fljótlega fór hann yfir þau. Og á meðan hann þuldi þau fyrir munni sér í hálfum hljóðum, renndi hugur hans sér eins og fálki úr hverju ævintýrinu í annað. Hann var kóngssonurinn í öllum ævintýrunum, sem hann mundi eftir. Stundum var hann í álögum sem hundurinn Hringur eða Skrímslið, sem með skörunum skreið. En þegar hann komst úr álögunum, varð hann aftur kóngssonur. Stundum var hann aðeins kotungssonur, en fóstbróðir kóngssonarins, honum fremri í öllu og vann fyrir hann allar þrautir. Og það voru engin smáræðisþrekvirki, sem hann vann. Hann fékkst við blámenn og berserki, flugdreka, sem spjóu eldi og eitri, tröll og galdrakindur í alls konar myndum. - Þess á milli var hann íslenskur fjármaður á bæ, þar sem fjármaðurinn hvarf hverja jólanótt. Alla hátíðarnóttina fékkst hann við óvætt, sem á hann réðst í hríðinni og náttmyrkrinu. Á jóladagsmorguninn kom hann heim, þreyttur og þjakaður, en flagðsins varð ekki vart framar. - Hann villtist inn í byggðir útilegumanna, þær er Skuggavaldur skýldi, fékkst við útilegumennina, bar af þeim og batt síðan við þá órjúfanlega vináttu. - Hann fylgdi Unu álfkonu til undirheima, sat þar dýrlega jólaveislu og tók með sér feitt sauðarrif til sannindamerkis - - -.
Versin, sem hann kunni, voru þrotin fyrir löngu, en ævintýrin ekki. Þau voru úþrjótandi uppspretta frægðar og framaverka, því að þau gátu skipt lögun eins og skýin í loftinu.
Börnin gátu ekki sofnað. Þau lágu þegjandi og hnipruðu sig hvort upp að öðru. Þau störðu ýmist út í myrkrið eða lokuðu augunum og reyndu að sofna; það gilti einu, hvort þau gerðu heldur, því að kolsvarta myrkur var í baðstofunni.
Þegar svo fer um sjónina, er meira lagt á heyrnina en ella. Og systkinin hlustuðu eftir hverju minnsta hljóði, sem truflaði þessa grafarþögn.
"Hvað er þetta?" spurði Bogga óttaslegin. Hún hafði heyrt þung högg einhvers staðar í bænum.
"Það er hann hrútsi að stanga stoðina sína," svaraði Halldór, hálfergilegur yfir hræðslunni í systur sinni. "Þú átt að þegja eftir að þú ert búin að lesa bænirnar þínar."
Bogga kannaðist við, að þetta væri alveg satt. Bænirnar urðu ónýtar, ef menn töluðu á eftir þeim. Hún hafði gleymt þessu rétt í bili. Til þess að bæta úr þessu, fór hún að lesa ofur hljótt fyrir munni sér:
- Svæfillinn minn og sængin mín
- sé önnur mjúka höndin,
- en aðra breið þú ofan á mig -
Það var Jesús, sem hún átti við. Hann átti að leggja aðra höndina undir höfuðið á henni og litla kirtlaveika kroppinn, en hina ofan á hana. Þá var henni óhætt.
En höggin heyrðust hvað eftir annað, sum langt í burtu, en sum nálægt. Það voru frostdynkir. Gaddfreðin jörðin var að springa í sundur í kringum bæinn og undir honum. - Halldór litli reyndi að telja sér trú um, að þessi hávaði kæmi frá kindunum. En það gat líka verið Þorgeirsboli, sem nú væri að rótast um einhvers staðar nálægt. Hann hafði heyrt svo margar og kynlegar sögur af honum. Að hugsa sér, ef hann færi nú að drynja undir rúminu hans!
Þungur frostdynkur reif sundur frosnar þekjurnar með slíku afli, að bærinn kipptist við.
Halldór litli lá steinþegjandi og hlustandi, baðaður í angistarsvita. Nú var hinu djarflega flugi hans yfir ógöngur ævintýranna lokið með öllu. Hugurinn flögraði undan hættunum eins og dauðsærður smáfugl. Nú var það ótti og skelfing, sem fylltu sál hans. Hann var ekki orðinn nógu stór enn þá til að vinna stórvirkin, sem hann langaði til að vinna. Hvað yrði úr honum til að verja sig og systur sína, ef eitthvað bæri að höndum? - Ef til vill var fullt í kringum hann af einhverju illu og óskiljanlegu, sem hann sá ekki fyrir myrkrinu. Ef til vill kæmu kaldar, loðnar, ósýnilegar hendur og tækju hann upp úr hlýju rúminu - - .
Hvað var þetta?
Þungar dunur heyrðust með jöfnu millibili eins og gengið væri uppi á bænum. Svo var pjakkað með einhverju ofan í baðstofuþekjuna. Hvert högg smaug börnunum gegnum merg og bein. Bogga breiddi upp yfir höfuð sér og las bænir í hljóði. Hún þorði einskis að spyrja og ekkert að láta til sín heyra. En Halldór litli var farinn að kjökra: "Mamma, mamma!"
Aftur heyrðist gengið uppi á bænum. Það marraði í snjónum uppi á þekjunum. Þetta gat ekki verið mamma þeirra. Það voru ekki mannafætur, sem stigu svona þungt til jarðar. Það hlaut að vera óvættur út úr fjöllunum, sem ætlaði að taka þau. Ef til vill var hún búin að taka mömmu þeirra. - Eða voru það menn, sem orðið höfðu úti í veðrunum, og nú - -.
Snjórinn var krafsaður frá stafnglugganum. Einhver lagðist ofan að honum og hrópaði inn í baðstofuna:
"Hér sé guð!"
Halldór litli hélt niðri í sér grátinum og skalf af hræðslu. Að vísu var það skárra en ekki, að þetta, sem var á glugganum, nefndi guð. Samt þorði hann ekki að taka undir.
"Hér sé guð!" var kallað aftur inn um gluggann.
Nú gat Halldór litli ekki kreist niður í sér grátinn lengur. "Mamma, mamma!" æpti hann hástöfum og tók andköf af ekka. - "Pabbi, pabbi, pabbi!" hrópaði hann því næst. Þegar það varð árangurslaust, stökk hann fram úr rúminu til að vekja pabba sinn.
Gólfið var undur kalt og fæturnir á honum bólgnir og sárir af kulda. Hann skeytti því ekkert, en fálmaði sig yfir að rúmi pabba síns. "Pabbi, pabbi," hrópaði hann í sífellu, en enginn svaraði. Hann þreifaði fyrir sér um rúmið. Eitthvað ískalt varð fyrir hendinni á honum. Það voru fæturnir á líkinu.
Skelfing var pabba hans kalt á fótunum!
Hann gafst þó ekki upp að svo stöddu. "Pabbi, pabbi," hrópaði hann grátandi hærra og hærra og ýtti í líkið af öllum kröftum. Þegar það varð árangurslaust, stóð hann kyrr, ráðþrota og yfirkominn af örvæntingu. Hræðilegar grunsemdir læddust fram í huga hans. Svona fast svaf enginn maður.
"Mamma, mamma!" kveinaði hann og dró niður í sér hljóðin. Kuldann úr gólfinu lagði um hann allan. Hann skalf eins og hrísla og var rétt að því kominn að hníga niður.
Þá heyrði hann, að þetta, sem verið hafði á glugganum, var að troða sér inn í bæjardyrnar. Í einhverju ofboði stökk hann inn í króna til kindanna, eins og hann byggist við, að Forustu-Surtla mundi verja sig. Þar hnipraði hann sig niður í einu horninu.
Bogga litla var ekki eins hrædd og bróðir hennar. Hún var sannfærð um, að Jesús væri hjá sér, af því að hún hafði beðið hann um það og lesið versin sín. Og enn hélt hún áfram að lesa það sama upp aftur, því að hún var búin með allt, sem hún kunni.
Baðstofuhurðin var opnuð og menn komu inn á gólfið. Þeir endurtóku sömu kveðjuna og kölluð hafði verið inn um gluggann, en enginn svaraði.
"Skyldi enginn vera heima? - Hefirðu ekki eldspýtur Þorlákur?"
Þorlákur hafði eldspýtur. Eftir litla stund var hann búinn að ná í þær, og skinið af logandi eldspýtu lagði um baðstofuna.
Halldór litli sá við ljósið af eldspýtunni tvo menn standa uppfennta á miðju gólfinu og skima í kringum sig. Annar þeirra hafði alskegg, og var skeggið allt klökugt. Hinn maðurinn var skegglaus, rauður mjög í framan, og rann hálfbráðinn snjór í straumum niður um andlitið á honum.
Þessir menn voru Ásmundur á Kroppi og Þorlákur sonur Ólafs þófara. Hann var vetrarmaður hjá Ásmundi að þessu sinni.
Þorlákur kveikti á annarri eldspýtu til, en Ásmundur fór að sinna Halldóri litla, sem nú kom grátandi fram úr kindakrónni. Þorlákur kom auga á lampann og reyndi að kveikja á honum. Það tókst ekki. En þá reis Bogga upp í rúmi sínu og rétti fram ofur lítinn kertisstúf. Það var það, sem eftir var af jólakertinu hennar. Hún hafði geymt það á lausholtinu við rúmið sitt og ætlaði að kveikja á því á afmælinu sínu. Nú var myrkrið í baðstofunni yfirunnið í bráðina.
"Hefir Salka komið hingað?" spurði Ásmundur um leið og hann reytti klakann úr skegginu á sér. "Hún strauk frá okkur í dag."
"Nei," stamaði Halldór litli gegnum ekkann.
"Þá er hún orðin úti," sagði Ásmundur lágt og leit framan í Þorlák.
Halldór litli var aftur kominn upp í rúm sitt. Hann horfði stórum, útgrátnum augum á gestina og hlustaði á, hvað þeir sögðu. Nú skildist honum, hvernig stóð á komu þeirra. Salka var orðin úti, - dáin.
"Hvar er mamma ykkar?" spurði Ásmundur.
Halldór litli fór aftur að gráta. "Mamma er búin að vera svo ósköp lengi burtu," kveinaði hann. Honum fannst sjálfsagt, að hún hlyti að vera orðin úti, eins og Salka.
Síðan skýrði hann gestunum frá, hvert mamma hans hefði ætlað.
Ásmundur gekk að líkinu og lyfti því gætilega upp, sem breitt hafði verið ofan á það.
"Dauður -?" spurði Þorlákur ofur lágt.
Ásmundur kinkaði kollinum þegjandi og breiddi um leið ofan á líkið.
Halldór stillti sig um að gráta, eftir fremsta megni. Honum var það nú ljóst, að hann var búinn að missa föður sinn og - líklega móður sína líka.
Bogga grét minna. Hún skildi það ekki enn, sem gerst hafði eða var að gerast.
"Hvað eigum við nú að gera?" spurði Þorlákur.
"Láta hér fyrir berast í nótt og þakka okkar sæla fyrir, að við fundum kofana," mælti Ásmundur. "Það er hvort sem er ekki til neins að leita í nótt."
Síðan fóru þeir að verka af sér snjóinn og búast um til næturinnar.
- Skömmu síðar kom Þorsteinn frá Hvammi. Hann gat fært börnunum þau gleðitíðindi, að móðir þeirra hefði komist heim að Hvammi. Hún kæmi morguninn eftir og menn með henni, sem flyttu allt lifandi úr heiðarbýlinu heim að Hvammi. Á meðan ætlaði hann að vera hjá þeim.
Nú voru þessar raunir bráðum á enda.
8. kafliHalla gat lítils yndis notið kvöldið, sem hún var í Hvammi, fyrir ofþreytu og áhyggjum.
Allt heimilisfólkið kepptist um að vera henni svo gott sem það gat. Allir vildu gera henni eitthvað til þægðar, gleðja hana með einhverju eða sýna henni hluttekningu sína á einhvern hátt. En það bar lítinn árangur.
Þegar búið var að færa hana úr snjófötunum og bera henni beina, var henni fylgt inn í herbergið til Borghildar. Borghildur hafði mælt svo fyrir.
Því fór fjarri, að Borghildur hefði náð sér til fulls eftir heilablóðfallið, þó að henni hefði batnað til mikilla muna. Enn þá heyrðist það mjög á mæli hennar, að aflleysi var í talfærunum. Enn þá var vinstri handleggurinn aflvana að mestu og vinstri fóturinn langt frá því jafngóður. Ekki gat hún gengið nema hún væri leidd, og oftast sat hún klædd framan á rúmi sínu eða uppi í því.
En á geðsmunum sínum hafði hún fengið mikinn bata við þetta áfall. Nú var hún glaðlyndið sjálft og góðlyndið, talaði ekki styggðaryrði til nokkurs manns, möglaði aldrei yfir kjörum sínum og vildi vera öllum góð.
Útlit hennar hafði breytst nokkuð. Nú var hún orðin holdugri en hún hafði nokkurn tíma verið áður, en þó ekki eins bryðjuleg og fyrr á árum. Fitan var lausari og hvapakenndari og hörundsliturinn allur annar, jafnvel unglegri. Andlitið var ekki eins dökkt og veðurbitið og það hafði verið, heldur ljósleitt með ofur lítið rósrauðum blæ. Öll harka og allur þótti var horfið úr svipnum, hrukkurnar orðnar færri, andlitsfallið sléttara, og það var sem allt bæri birtu af góðlyndi og glaðlyndi.
Borghildur tók Höllu eins og hún ætti í henni hvert bein. Hún lét hana setjast við rúmstokkinn hjá sér, tók að spyrja hana um hagi hennar og lét henni í ljós innilega hluttekningu. Halla heyrði það eins og í draumi, sem hún sagði við hana, og ekkert fjör gat færst í samtal þeirra. Hugur hennar var oftast hjá börnunum. En jafnframt varð hún stundum gagntekin af kvíða fyrir því, að Þorsteinn næði ekki upp að Heiðarhvammi og ekkert leiddi annað en slys af för hans.
Kliðurinn framan úr baðstofunni hafði óþægileg áhrif á hana. Hún var orðin þögninni og kyrrðinni svo vön, að nærri lá, að hún þyldi ekki mannaskvaldur með hlátrum og hávaða, síst eins og nú stóð á.
Allt leiddi þetta til þess, að hún fékk tæplega varist gráti, og loks bað hún um að lofa sér að hátta, þó að ekki væri nema hálfliðin vakan.
Henni var vísað til rúms í herbergi, sem var afþiljað til hálfs í hinum enda baðstofunnar og ætlað var gestum. Þar var hún afskekkt að vísu, en heyrði þó hvert orð, sem sagt var í frambaðstofunni.
Þegar hún var háttuð, fann hún fyrst til þess fyrir alvöru, hve dauðþreytt hún var bæði á sál og líkama. En hún þorði ekki að kvarta um það vegna þess, að ef fólkið vissi það, mundi það ekki leyfa henni að fara á stað morguninn eftir. Hún sofnaði undireins, en þreytuverkirnir vöktu hana hvað eftir annað. Gegnum svefnrofin heyrði hún rímur kveðnar. Rímnaómurinn og rímnaefnið rann saman við drauma hennar. Hún var þá einsömul úti í ófærðinni og harðviðrinu. - Nei, ekki einsömul, því að hún sá jafnan í breiðar axlir rétt á undan sér. Næst þegar hún vaknaði, heyrði hún, að fólkið var að matast og tala hátt saman um hana sjálfa á meðan, - hvernig í ósköpunum hún hefði náð til bæja í slíku veðri, og hvað nú mundi taka við fyrir henni. Skömmu síðar heyrði hún óm af sálmasöng. Fastan var nýbyrjuð og farið að syngja Passíusálmana. Og næst, þegar hún vaknaði enn þá, var orðið koldimmt og steinhljótt, - eins og heima í Heiðarhvammi.
En um það leyti sem dagur rann var hún vakin. Það gerði vinnukona, sem komin var á fætur. Hún skilaði því til hennar frá Finni, að henni væri velkomið að verða honum samferða, ef hún vildi. Nú væri komið besta veður.
Halla brá skjótt við og klæddi sig. Hún lét ekki á því bera, hve bágt hún átti með það. Vinnukonan færði henni öll ytriföt hennar þurr og hlý, nýbökuð við eldinn, og bauð henni að lána henni önnur betri, ef hún vildi. Halla fór hljóðlega að öllu, því að enn þá voru menn í fasta svefni í baðstofunni. Þegar hún kom fram í bæjardyr, beið Finnur þar eftir henni og var ferðbúinn.
Það var mikið kyrrara en verið hafði kvöldinu áður, og renningur sama sem enginn. Veður var hið fegursta, heiðskírt og alstirndur himinn. Tunglið var nú hátt á lofti og dálítið farið að lýsa af degi.
Þau gengu yfir ísinn á vatninu. Þar sáust nýlegir harðsporar, sem mjöllin hafði fokið frá öllum megin og nú stóðu hátt upp úr fönnunum í kring. Það var undarlega stutt milli sporanna, og þóttist Halla þar kenna sína eigin slóð frá síðasta kvöldi. Skammt frá henni brá fyrir annarri slóð. Hún var eftir mann, sem lagt hafði undir sig landið í stærri skrefum. Yfir báðar slóðirnar var víða lagt harðfenni, sem nú var orðið svo saman barið, að það hélt mönnum uppi.
Þau Finnur og Halla mæltust fátt við á leiðinni upp eftir. Hún átti bágt með að fylgja honum eftir fyrst í stað, vegna þreytu og stirðleika, og varð að leggja hart á sig til þess að geta haldið áfram. En eftir því sem hún gekk lengur, varð henni gangurinn léttari.
Finnur fylgdi henni alla leið á skarðsbrúnina fyrir ofan bæinn. Þar skildi hann við hana og fór til beitarhúsanna. Halla gekk heim að bænum.
Bæjardyrahurðin stóð opin og fannirnar lágu inn eftir öllum göngum. Það leyndi sér ekki á sporunum, sem þar voru, að fleiri höfðu gengið um bæinn um nóttina en Þorsteinn einn.
Þegar hún kom inn í baðstofuna, sat Þorsteinn þar yfir báðum börnunum sofandi. Kertisstúfur Boggu litlu var brunninn út fyrir löngu, en nú var ofur lítið farið að skíma í baðstofunni.
Aftur var nú sú stund komin, að þau Halla og Þorsteinn sátu saman í baðstofu heiðarbýlisins, eins og eftir fráfall Jóhönnu. Þau sátu hvort gagnvart öðru, Þorsteinn á rúmstokknum fyrir framan börnin, en Halla á kofforti við rúm Ólafs. Öðrum megin við þau lágu börnin sofandi, hinum megin líkið.Þorsteinn hafði sagt Höllu frá því, hverjir höfðu verið þar um nóttina aðrir en hann, og hvert erindi þeirra hefði verið. Um morguninn snemma höfðu þeir Kroppverjar farið til að halda áfram leitinni, og ætlað fyrst um sinn inn með fjallgarðinum.
Svo féll samtal þeirra niður um hríð.
Með þessari frétt bar Höllu ný sorg að höndum. Salka var henni engu síður kær en börnin hennar. Hún gat ekki annað en hugsað til þeirrar stundar, þegar hún hafði verið að lokka þennan vesaling frá sér með alls konar gyllingum. Hún vissi, í hve góðum tilgangi hún hafði gert það; samt hafði það nú orðið henni að bana. Og undarlegt fannst henni það, að þetta skyldi koma fyrir sama kvöldið, sem hún sjálf hafði verið svo hætt stödd. Undarlegt var það, að Ólafur hafði séð Sölku í óráði fyrr um veturinn og talað um hana alhvíta, og hana sjálfa dreymt hana hálfvakandi úti í mjallrokinu kannske einmitt sömu stundina, sem Salka hafði verið að deyja. Í öllu þessu fannst henni liggja þung ásökun. Og ef til vill hafði guð verið að sýna henni, hvað Salka hefði liðið undir dauðann, með því að láta hana vera úti í sama veðrinu. - Að hinu leytinu var hún þó sannfærð um það, að nú liði Sölku vel og þetta hefði henni verið fyrir bestu; hún hefði engrar gleði getað vænst af lífinu. Nú væri hún glöð og kát, eins og hún hafði séð hana í drauminum.
Hún var svo niðursokkin í þessar sorglegu hugsanir, að hún tók ekki eftir því, hvernig morgunstundin leið og birtan smáóx í baðstofunni. Hún hrökk upp af hugsunum sínum við það, að henni heyrðist ekki betur en Þorsteinn vera að - gráta.
Hún leit upp og framan í hann. Hann sat álútur, studdi olnbogunum á hnén og þagði. Tár hrundu við og við af augum hans og varirnar skulfu.
Þetta gekk svo fram af Höllu, að hún trúði varla augum sínum.
Og annað var enn þá undarlegra. Henni fannst hún hreint ekki þekkja manninn. Svo ólíkur var Þorsteinn orðinn því, sem hann hafði verið.
Andlitið var rautt og þrútið, nærri því bólgið, og svo ellilegt og áhyggjulegt, að hefði ekki hárið borið enn þá lit æskunnar, hefði mátt ætla, að maðurinn væri kominn á hnignunaraldur. Stórt ör var á hægra gagnauganu og hvarf upp í hársræturnar. Yfir vinstri augabrúninni var annað ör, sem þó bar minna á, en var sem dæld inn í ennið. - Einhver raunalegur þreytublær var á öllum svipnum, og þessi grátur bar vott um óeðlilegt deiglyndi.
"Halla," mælti hann og reyndi að leyna grátinum. "Áttu enn þá bréfið, sem ég skrifaði þér? Ég á við síðara bréfið."
"Já, ég á það enn þá."
"Hefur nokkur maður séð það hjá þér?"
"Enginn, alls enginn."
"Það er gott. Viltu gera bón mína? Viltu láta mig fá þetta bréf til að eyðileggja það?"
Halla horfði á hann spyrjandi og undrandi.
"Það er velkomið," mælti hún eftir nokkra þögn. Síðan tók hún bók upp úr koffortinu, sem hún sat á, tók bréfið innan úr henni og fékk honum.
"Þakka þér fyrir," mælti hann. Eftir langa þögn bætti hann við: "Halla, - geturðu fyrirgefið mér þetta bréf?"
"Já, hjartanlega," mælti Halla.
Það var sem Þorsteini létti ofur lítið við að segja þessi síðustu orð og heyra svarið. Hann rétti sig upp í sætinu og rétti Höllu höndina.
"Ég þakka þér fyrir," mælti hann. "Þetta bréf hefir lengi brennt mig. Nú ætla ég að brenna það."
"Hvers vegna?" spurði Halla eins og út í loftið. "Bréfið er meinlaust gamanbréf."
"Bréfið er fyrsti - og líklega versti - ávöxtur spillingar minnar. Þegar ég skrifaði það, var ég að byrja á bölvuðu slarkinu."
Þorsteini var þungt niðri fyrir, og hann varð að berjast við sjálfan sig til að gefa sig ekki grátinum á vald. Halla kenndi sárt í brjósti um hann.
"Það er ekki til neins að segja þér frá því, sem drifið hefir á daga mína," mælti hann raunalega. "Þú mundir ekki skilja það, ekki trúa því, - jafnvel halda, að ég væri að ljúga upp sögum. Þetta bréf er það eina, sem náð hefir heim til átthaganna, - og svo einhver máttvana þvættingur. Þegar ég fór að drekka með Norðmönnunum, var úti um allt. Þú veist, hvernig ég verð, þegar ég sleppi mér; þú þekkir bæði mig og ættingja mína. - En gott er það, að enginn veit neitt hér heima. Ykkur mundi hrylla við að hafa mig nálægt ykkur. - Hérna er eitt innsiglið."
Þorsteinn tók höndina á Höllu og færði hana upp í hárið á sér. Örið á gagnauganu náði upp undir hvirfil.
"Guð minn góður!" andvarpaði hún og kippti að sér hendinni. "Hefir þér verið sýnt banatilræði?"
"Já, oft," sagði Þorsteinn og brosti raunalega. "Hérna er annað," mælti hann og benti á augabrúnina. "Það er eftir járnhnúfa. Og þetta er eftir handjárn," sagði hann og sýndi henni hringi á úlnliðunum á sér.
"Góða Halla, spurðu mig einskis," mælti hann enn fremur. "Ég hefi sagt þér og sýnt þér meira en nokkurri manneskju annarri, og þó minnst af þeim merkjum, sem ég ber, bæði á sál og líkama. Brennandi óró hefir rekið mig úr einu ævintýrinu út í annað, brennandi þorsti eftir nautnum og munaði, - einkum þeim, sem forboðinn er og ólöglegur. - - Þegar ég er staddur hérna, þar sem allt minnir mig á hreina ást og sáran söknuð, þá finn ég best, hvílíkt lifandi hræ ég er. - Sárast er þó að hafa seilst hingað með óhreinum fingrum - -.
Þorsteinn þagnaði. Halla fór nú að skilja erindi hans heim til átthaganna. Hann þráði að sættast þar við allt og alla, vinna það til að biðjast fyrirgefningar og játa yfirsjónir sínar. Byrja síðan nýtt líf, sem væri framhald af æsku hans. En hann skorti þrek til þess, þegar á reyndi. Yfir þessari eymd var hann að gráta.
"Hefirðu talað við móður þína?" spurði hún, eins og Þorsteinn hefði þegar játað, að skoðun hennar væri rétt.
Þorsteinn hristi höfuðið.
"Það væri ekki til neins," mælti hann. "Ég þyrfti að segja henni það sama og þér - og miklu, miklu meira. Það yrði henni til eintómrar sorgar."
"Móðurhjartað fyrirgefur allt."
"Allt hefir takmörk. Ég hefi setið lengur í hegningarhúsinu en Finnur. Enginn veit það hér á landi. Mamma mundi ekki geta borið það."
"Mamma þín hefir breytst mikið."
"Getur verið. En við eigum aldrei samleið framar."
Í þessum orðum fannst Höllu liggja djúp og sár örvænting.
"Má ég ekki tala við hana þín vegna?" mælti hún.
"Nei, nei, nei," mælti Þorsteinn með ákafa. "Það eru leyndarmál mín, sem ég hefi sagt þér, og þér einni. Þú mátt ekki bregðast trausti mínu. En það er mér léttir, ef þú fyrirgefur mér."
Þessi dagur var einn af dýrðardögum íslenska þorrans.Nú fékk sólin að sýna mönnunum, hvað henni hefði unnist áfram síðan síðast hún sást, hvar hún kæmi upp, hve hátt hún kæmist og hvar hún gengi niður.
Það var logn og "blíða", - þorrablíða. Mönnum finnst 12 stiga frost í kyrru veðri "blíða", þegar sama frost og talsvert meira hefir verið í marga daga samfara afspyrnuroki og skafbyl.
Í slíkum veðrum finnst mönnum blessuð sólin verma, þó að meira sé það trú en reynsla. En það birtir yfir huganum og gerir menn öruggari, þegar hún skín, þó að lítið vinni geislar hennar á vetrarhörkunni.
Undir hádegið komu sex menn með tvo sleða heiman frá Hvammi.
Þeir höfðu þær fréttir að færa, að lík Sölku væri fundið niðri á hálsinum, skammt frá skarðinu. Þar hafði Þorlákur staðið yfir því, en Ásmundur verið farinn heim til sín að sækja sleða.
Mennirnir voru að vísu ekki allir frá Hvammi, en allur útbúnaður til fararinnar þaðan. Annar sleðinn var heyjasleði mikill, sem Egill átti, og áttu fjórir menn að draga hann. Hinn sleðinn var léttari og aðeins ætlaður tveim mönnum. Hestum þótti ekki fært að beita fyrir sleðana vegna ófærðar.
Á minni sleðanum var búið um börnin og hlúð að þeim með rúmfötum. Kisa var saumuð inn í sokkbol, svo að ekkert stóð út úr nema hausinn og stýrið, og henni holað niður á milli barnanna. Það lá illa á kisu yfir annarri eins meðferð, hún stakk klónum alls staðar út gegnum sokkinn, og augun í henni voru meira en meðalgul, þegar hún kom út í sólskinið.
Á þennan sleða átti Halla einnig að setjast hjá börnunum, ef hún vildi hvíla sig.
Á hinum sleðanum var búið um lík Ólafs, og á hann var einnig látið það af búshlutum, sem einna síst mátti eftir vera í Heiðarhvammi.
Þorsteinn tók að sér að reka kindurnar ofan á hálsinn til Finns. Lengra var þeim ekki treyst til að ganga í einum áfanga. Finnur átti að sjá um þær í nokkrar nætur og reka þær síðan heim að Hvammi.
Forustu-Surtla hnykkti höfðinu spekingslega og rann á undan hinum kindunum upp til skarðsins. Raunar skildi hún ekki baun í því, hvern þremilinn hún ætti að gera upp á skarð núna, þegar hvergi sá á dökkan díl. Henni leið miklu betur inni við jötuna sína. En fyrst hún skildi það ekki, þá varð hún að látast skilja það og bera sig drottningarlega. - Hinar kindurnar stauluðust á eftir henni, hálfblindar af ofbirtu.
Halla þáði ekki að setjast á sleðann upp skarðsbrekkuna, enda var það erfiðasti áfanginn fyrir þá, sem drógu sleðana. Þeim, sem drógu minni sleðann, gekk þó furðufljótt að komast upp á skarðsbrúnina. En þá var hinn sleðinn niðri í miðri brekkunni, og fóru mennirnir á móti honum til hjálpar.
Á meðan stóð Halla einsömul á skarðsbrúninni hjá minni sleðanum. Mesta áhugamál hennar var það, hvort börnunum væri ekki kalt. Nei, þeim var vel heitt. Þau voru svo dúðuð, að enginn kuldi komst að þeim. Það var aðeins örlítið op fyrir nefi og augum. Hitt var allt á kafi í rúmfötum.
Vegna þeirra mátti hún vera áhyggjulaus.
Hún notaði stundina til að litast um. Aldrei hafði hún séð slíka vetrarfegurð.
Suðurhiminninn var allur í einu geislabáli, sveipaður glitrandi gylliniskýjum.
Sólin var "í úlfakreppu", en "úlfarnir" svo fagrir, að þeir lýstu eins og sólir með undur þýðum, regnbogalitum blæ. Hærra uppi á himinhvelinu greiddust gylliniskýin sundur í smáa, gyllta klósiga, sem lágu eins og skrautfjaðrir á blágrænu himinklæðinu.
Það var gamalla manna mál, að sjaldan væru gyllini fyrir góðu. Alltaf þóttu þau vita á hörkur og ótíð. En fögur voru þau.
Sólskinið var dauft, og var sem gullmistur fyrir sólinni af örsmáum ísögnum, sem fylltu loftið hátt og lágt. Til jarðarinnar var allt samfelld reginhvíta, svo langt sem augu eygðu, bláhvít þar sem skuggana bar á; glitrandi, blindandi hvít þar sem geislarnir hrökkluðust eftir henni.
Snjórinn var barinn saman í harða skafla, allavega lagaða, eins og þorrastormarnir hefðu verið að dunda við að móta þá sér til skemmtunar, eftir að þeir voru búnir að blása sig uppgefna. Sumir voru beygðir fram yfir sig í hring, eins og skautafaldar, aðrir stroknir upp í hvassa hryggi eins og hrannir í hafróti. Öll snæbreiðan var eins og úfið marmarahaf, með meitilför meistarans nýhöggvin á hverri báru.
Stundum var eins og stórar breiður af þessari dauðans hvítu fengju líf og hreyfingu. Hægt renningsskrið leið eins og iðandi straumur yfir allar ójöfnur. Sárkaldur andvari fylgdi því eftir.
Í þessu hvíta hafi lá nú Heiðarhvammur eins og skip, sem búið er að yfirgefa og er að fylla og sökkva. Enginn mundi nú framar ónáða snjóinn, sem lagðist þar að gluggum og gættum og leita inn. Eftir næstu stórhríð mundi enginn komast inn í bæinn fyrir snjó.
Saknaðartilfinningar gripu Höllu, þegar hún leit yfir hvamminn í síðasta sinn og hugsaði út í allt það, sem þar hafði drifið á daga hennar. Þetta heiðarkot var með kostum sínum og göllum orðið svo samgróið henni, að það var ekki sársaukalaust að slíta sig frá því. Í því hafði hún barist þeirri þyngstu baráttu, sem hún gat hugsað sér, að nokkur íslensk kona gæti barist, - við yfirgang og ójöfnuð, tortryggni, fátækt og skort. Þar hafði hún fellt mörg tár sjálf, og þó séð aðra fella þau enn þá fleiri. Og þar hafði hún komist í náin kynni við dauðann sjálfan.
Hinum megin við skarðið bar aðra sýn fyrir augu. Þar sá út á sjóinn á tveim stöðum, beggja megin við Hvammsnúpinn. Sjórinn var dökkblár, en blikandi hvítur garður fyrir öllu hafinu. Það var hafísinn. Hann hafði komið undir land í síðustu veðrunum. Stöku jakar voru á sveimi inni undir landi, en meginísinn hillti upp eins og himingnæfandi jökulhamra úti fyrir.
Þegar þau lögðu aftur á stað ofan af skarðinu, þáði Halla að setjast á sleðann hjá börnunum.
Rétt fyrir neðan skarðið mættu þau Kroppsmönnum með lík Sölku á sleða.
Menn námu staðar og töluðust við litla stund.
Halla sat kyrr á sleða sínum. Hún vildi helst komast hjá því að sjá lík Sölku.
Hún hugsaði til sjálfrar sín, þegar hún hafði verið að fara yfir þessa lægð kvöldinu áður. Líklega hafði Salka þá ekki verið langt frá henni. Líklega höfðu það verið hljóð úr henni, sem hún heyrði við beitarhúsin.
"Hún hefir verið þæg hjá okkur, telpuskinnið," mælti Ásmundur við förunauta Höllu. "Hún hefir aðeins beðið um það látlaust, að lofa sér upp að Heiðarhvammi snögga ferð. Það ætluðum við að gera, hefði einhvern tíma batnað veðrið til nokkurra muna. Auðvitað átti þá að fylgja henni. En henni hefir leiðst eftir góða veðrinu og hún haldið, að við ætluðum að svíkja sig."
Þegar þau kvöddust og fóru sína leiðina hvort, varð Höllu litið á sleðann hjá þeim Kroppsmönnum. Þar lá einhver frosin og klökug flygsa, sem ekkert skapnaðarlag sást á. Þó kom hún auga á fót, lítið stærri en á 10 vetra barni. Á honum var svartur, bryddur skór, sem hún þekkti.
- - Þegar heim kom að Hvammi, kom allt fólkið út á hlað til að taka á móti Höllu og börnunum.
Í kvos milli tveggja skafla, sem voru jafnháir bæjarveggjunum, nam sleðinn staðar, og Halla stóð á fætur úr sæti sínu. Á meðan hún var að heilsa heimafólkinu, var losað um börnin á sleðanum.
Áður en hún vissi af, var Bogga litla horfin af sleðanum. Rétt á eftir sá hún á höfuðið á henni upp yfir öxlina á konu, sem bar hana í fanginu inn í læknishúsið.
Halla þekkti baksvip konunnar, þekkti flétturnar, miklu og fríðu, sem féllu lausar niður um herðarnar og mittið. Það var Vilborg Egilsdóttir, kona læknisins. Óhætt var að treysta því, að ekki færi illa um Boggu hjá henni.
En Halldór litli fylgdi mömmu sinni inn í bæinn og bar kisu í fanginu.
9. kafliMorguninn eftir hittust þeir feðgarnir Egill og Þorsteinn úti í smíðahúsinu.
Þá var orðið hálfbjart af degi og veður hið fegursta. Smíðahúsið stóð opið, og lagði ljósbirtuna út á skaflana á hlaðinu.
Egill var ferðbúinn, með stóran ullartrefil um hálsinn og tvenna vettlinga. Hann kom inn í smíðahúsið til að leita sér að skíðum.
Ekki voru þeir feðgarnir vanir að skiptast á mörgum orðum, þó að þeir hittust þar í smíðahúsinu. Venjulega gengu þeir þegjandi hvor fram hjá öðrum.
Í þetta skipti bar þó út af þessu. Þorsteinn yrti á föður sinn:
"Hvert ert þú að fara, pabbi?"
Egill leit á hann stórum augum, en svaraði seinlega:
"Ég ætla að finna hreppsnefndaroddvitann."
"Hvað viltu honum?" spurði Þorsteinn heldur styggilega.
"Eitthvað verður að sjá fyrir þessu fólki," mælti Egill og blés mæðilega. "Ekki lifir það á blágaddinum."
"Á oddvitinn að ráðstafa því?"
"Hver annar? Hreppstjórinn hefir ekkert með þau mál að gera lengur."
Það var Agli mest yndi, þegar hann gat minnt þessa nýtísku stofnun, hreppsnefndina, á skyldu hennar og komið henni í einhvern vanda.
Þorsteinn hló háðslega.
"Hvað hefirðu við þetta að athuga?" spurði Egill.
"Hefir Halla leitað sveitarstyrks?"
Það kom hik á Egil. Hann henti vettlingunum sínum á hefilbekkinn, en svaraði engu.
"Ef hún hefir ekki gert það, þá finnst mér gripið fram fyrir hendurnar á henni."
"Hvað annað á hún að gera af sér?"
"Kannske þú ætlir að neyða hana til þess?" mælti Þorsteinn og hvessti röddina.
Agli gamla þyngdi heldur í skapi. Þó svaraði hann stillilega:
"Ég hefi heldur bjargað mönnum frá að lenda á sveitinni en neytt menn til þess."
"Þá ferðu líklega ekki að breyta út af venjunni á gamals aldri," mælti Þorsteinn dálítið blíðari en áður. "Læknirinn hefir nú tekið yngra barnið."
"Hefir læknirinn gert það?"
"Sástu ekki þegar Borga sótti barnið út á sleðann í gær? Heldurðu, að hún ætli að skila því aftur? - Nei, pabbi, þá þekkirðu dóttur þína illa. Enda sagði Borga mér það undireins í gærkveldi, að hún ætlaði sér ekki að láta barnið frá sér aftur."
"Það er annað mál."
"Og Halla er fær um að sjá fyrir sér og drengnum; það skal ég ábyrgjast. Ef hún verður þér til þyngsla til vorsins, þá skal ég borga það."
"Og útför Ólafs -?" nöldraði Egill.
"Ólafur heitinn hefir átt fyrir útförinni sinni; varla trúi ég öðru. Og vonandi ferðu ekki að láta sveitina hola landsetum þínum ofan í jörðina, ef eftirlifendur þeirra geta komist af án annarrar hjálpar."
Egill þagði og var hálffýldur. Raunar fannst honum allt satt, sem Þorsteinn sagði. En það gramdist honum í kyrrþey, að hafa þurft að láta segja sér þetta allt saman.
Hann vinglaðist innan um smíðahúsið í hálfgerðu ráðaleysi. Hann var nú hættur að leita að skíðunum, því að hann var hættur við að fara til hreppsnefndaroddvitans. En hann var ekki búinn að finna, hvað hann ætti að gera í þess stað. Hann tók ekkert eftir því heldur, hvað Þorsteinn var að gera.
"Geturðu lánað mér sleðakríli, pabbi?" spurði Þorsteinn.
"Ha, sleða, sleðakríli?" mælti Egill eins og hann hrykki upp. "Hvað ætlarðu að gera með sleða?"
"Ég ætla að láta verkfærakoffortin mín á hann."
"Hvað? Þú ert að raða niður öllum verkfærunum þínum. Hvert ætlarðu?"
"Út að Vogabúðum. Þorgeir er búinn að ráða mig til sín fyrir löngu til að byggja geymsluhús."
"Það veit ég. En - ég hélt, að þú færir ekki svona fljótt."
"Undireins í dag," svaraði Þorsteinn án þess að líta upp. "Ég hefi ekkert að gera hér og mér er ekkert að vanbúnaði. Ég fer á stað um dagmál."
Egill horfði þegjandi og undrandi á son sinn nokkra stund og mælti síðan: "Þú ert undarlegur maður, Þorsteinn."
"Getur vel verið," svaraði Þorsteinn með hægð og leit hvasst á föður sinn. "Manstu, hvað það var, sem rak mig héðan að heiman. Það var kjaftaþvættingur um okkur Höllu, sem þú varst svo vænn að bera mér til eyrna. Ég var það barn þá, að taka mér annað eins nærri. - Ef við Halla værum nú saman á heimili, mundi draugurinn fljótt verða vakinn upp. Og hún þarf að vera hér, en ég ekki."
Samtal þeirra feðganna varð ekki lengra að þessu sinni. Egill vissi, að stælur um það, sem Þorsteinn hafði tekið fyrir, voru árangurslausar.
Nú var hann líka búinn að finna það, hvað fyrir lægi að gera. Hann fór að líta eftir í viðarbirgðum sínum, hvað hann mundi nú eiga til í kistu utan um Ólaf.
Hús læknisins lá ofur lítið afskekkt frá gamla bænum. Það var sjaldgæfur kostagripur í samanburði við þær byggingar, sem þá voru til þar í sveitinni, allt byggt úr timbri, með reykháf, hlaðinn upp úr höggnu grjóti og steinlímdan, sem náði neðan úr kjallara og upp úr mæni. Um einn tíma hafði ekki verið meira talað um neitt í sveitinni en þennan dæmalausa reykháf!Út úr byggingu þessa húss var hálfköld tengdaástin á milli þeirra Egils og læknisins. Agli þótti það óþarfi af lækninum að byggja svo stórt og vandað hús. Þótti það bera vott um eyðslusemi og yfirlæti og taldi gömlu torfbæina bæði hlýrri og betri og fullboðlega lærðum mönnum sem öðrum. Læknirinn fór þó sínu fram, hvað sem Egill sagði, og afleiðingin varð engin önnur en sú, að Egill steig aldrei fæti inn fyrir dyr í húsi læknisins.
Í húsi þessu voru þrjú herbergi á neðra lofti auk anddyris og eldhúss. Þau voru íbúðarherbergi læknisins sjálfs, konu hans og barna. Helmingurinn af þekjuherbergjunum var ætlaður vinnufólki hans, en hinn helmingurinn sjúklingum hans.
Aðalsteinn læknir hafði sem sé tekið upp þann sið, sem fágætur var meðal héraðslækna svo langt sem til spurðist, að láta flytja þá sjúklinga heim í hús sitt, sem ekki máttu án daglegrar læknishjálpar vera. Á þennan hátt hafði honum tekist að græða margar meinsemdir, sem torgræddar hefðu orðið í heimahúsum sjúklinganna. Læknirinn lét þá vinnufólk sitt stunda sjúklingana og vaka yfir þeim, ef þess þurfti við, og var það farið að venjast þessu starfi. Konan hans hjálpaði honum til við skurðlækningar og fleira og var honum mjög samhent í öllu. Að vísu voru þeir sjúklingar ekki margir, sem læknirinn hafði þannig tekið heim til sín, en gleðilegan árangur hafði það borið, því að hverjum einasta hafði batnað.
Aðalsteinn læknir var að ýmsu leyti ekki maður við alþýðu skap, þótti sérlundaður og hranalegur í tali og eiginlega einskis manns meðfæri. Samt gerði hjálpsemi hans við sjúklinga hann einkar ástsælan. Það var ekki nóg, að hann hafði tekið menn heim til sín og læknað þá, heldur hafði hann gefið þeim hálfan eða allan kostnaðinn, sem bágt áttu með að borga.
Þetta var eitt af því, sem Agli líkaði illa í ráðlagi læknisins, þó að hann teldi það til lítils að fást um það. Alla sína löngu hreppstjóratíð hafði hann gert skyldu sína út í ystu æsar, en talið óþarft að gera meira en "instrúxið" krafðist. Og hann blés mæðilega, þegar hann sagði við kunningja sína, að Aðalsteinn læknir kynni ekki með fé að fara.
Daginn sem Halla og börn hennar voru flutt heim að Hvammi, var Aðalsteinn læknir á ferðalagi úti í sveitinni og kom ekki heim fyrr en seint um kvöldið. Hann fór því með seinna móti á fætur um morguninn. En þegar hann kom fram í dagstofuna til konu sinnar, sá hann, að Borghildur litla dóttir hans hafði fengið leiksystur, sem honum varð starsýnt á.
Börnin sátu á gólfinu hvort gagnvart öðru, og lágu leikföngin á milli þeirra. Þau sinntu þeim lítið, en horfðu hálfforviða hvort á annað.
Bogga var fullum tveim árum eldri en dóttir læknisins, en þó öll minni og rýrari. Borghildur horfði stórum augum á þetta nýja leikfang, sem búið var að færa henni, og galaði upp til mömmu sinnar eitthvað, sem hana langaði til að segja um það, en enginn skildi. Hún var feit og hörundsbjört með stórar kinnar og stóra undirhöku, - nærri því eins og nafna hennar inni í bænum.
Það var eins og Bogga litla fyndi til þess, hve mikill vesalingur hún var í samanburði við þetta stóra, hrausta barn, sem þó var ekki nema á öðru árinu. Hún gat ekki leikið sér, en spurði alltaf hálfkjökrandi eftir mömmu sinni.
Borga kraup á gólfinu hjá börnunum og hélt á yngra barninu í fanginu, dreng, sem enn þá var í reifum. Þegar læknirinn kom inn, stóð hún brosandi upp á móti honum og lagði barnið í vögguna.
"Þér finnst víst hafa fjölgað undarlega fljótt," mælti hún brosandi.
Læknirinn var dálítið stúrinn á svipinn og þreytulegur. En svipurinn breyttist undireins og varð blíður og góðlegur. Þannig var jafnan eins og hvert áhyggjuský liði af honum, þegar hann kom inn til konunnar og barnanna.
Og þó var heimilið fátæklegt. Þessi eina stofa, sem var aðalgriðastaður heimilisánægjunnar, var fáskrúðug af góðum munum, enda eini staðurinn, þar sem börnin máttu leika sér.
Borga lagði handleggina upp um háls læknisins og mælti blíðlega:
"Þegar við vorum nýtrúlofuð, hét ég á Höllu í Heiðarhvammi okkur til heilla."
"Þú hefir sagt mér það áður, hjartað mitt."
"Nú er Halla bágstödd, og - ég sótti þennan kirtlaveika aumingja út á sleðann í gær."
"Þú þarft ekki að segja meira, góða mín. Blessað barnið étur okkur varla út á gaddinn."
Svo var úttalað um það mál. Samtalið endaði í löngum kossi.
Læknirinn kannaðist fúslega við það, að hann væri enginn búmaður og honum lítið kunnugt um efnalegar ástæður heimilisins. Borga bjó fyrir þau bæði, utan húss og innan. Oft hafði hann bundið heimilinu þungar byrðar með sjúklingatöku sinni, og aldrei hafði hún fengist um það. En þetta var fyrsta kvöðin, sem hún lagði á búið. Og hann var viss um, að fyrst hún gerði það, mundi búið þola það.
"Lofaðu mér að sjá þig, barnið mitt," mælti hann við Boggu og settist úti við gluggann.
Bogga litla stóð á fætur og kom út að glugganum til hans. Hún skalf af kvíða fyrir því, að nú ætti að fara að róta við kirtlaveikissárunum, en grét þó ekki.
En læknirinn horfði minnst á sárin. Augun í barninu vöktu miklu meiri athygli hjá honum. Þau voru blá og skær, greindarleg og sakleysisleg.
"Heldurðu ekki, að hægt sé að lækna hana?" spurði Borga áhyggjufull.
"Jú, það vona ég að takist með tímanum," sagði læknirinn, eins og það væri aukaatriði. "Fyrst þarf að hressa hana við. Eins og hún er nú, þolir hún engar lækningatilraunir."
Bogga litla fór aftur til leiksystur sinnar.
"Að hugsa sér annað eins," mælti læknirinn. "Heilar fjölskyldur gleymast, - gleymast í heiðarkotunum inni í miðjum vetrargaddinum. Enginn spyr eftir þeim, enginn hefir neina hugmynd um, hvernig þeim líður. Eiginlega verða allir fegnir að hafa frið fyrir þeim. Hvernig á þetta öðruvísi að vera, þar sem engar samgöngur eru? Samgönguleysið og einangrunin er bölvunin yfir öllum búskap okkar. - Ég hefi séð börn lakar útleikin en þetta. Ég hefi sagt frá því, en menn hafa ekki trúað mér. Ég hefi reynt að vekja athygli manna á því, hvernig kjör kotunganna væru. Menn hlusta á mig að vísu, af því að þeir hika við að skipa mér að þegja. En þeir hrista höfuðið, og þar við situr. Svo þegar þeir sjá það af tilviljun, sem ég sé daglega, þá blöskrar þeim. Þá kemur það líka fyrir, að þeir skammast sín."
"Hvað gekk að Ólafi sáluga?" spurði Borga.
Læknirinn leit framan í hana og svaraði hálfspyrjandi:
"Skyrbjúgur? - Hann er útbreiddari hér í sveitunum en nokkur maður veit. Og þeir, sem fá hann, eru lengi að rétta við. Hreppsnefndirnar kalla hann og eftirstöðvar hans leti; það er handhæg skýring á öllu fjörleysi og þróttleysi fátæklinganna. Í fyrra vetur voru þau í Heiðarhvammi mjólkurlaus seinni hluta vetrarins. Þar var búskapurinn auðvitað eins og annars staðar: aldrei nýmeti nema á haustin. Ólafur hafði þá skyrbjúg, niðursetningurinn líka, - ef til vill allir á heimilinu. Auðvitað hefir honum aldrei batnað í sumar, en versnað svo með vetrinum. Þannig gengur það víðar. - Sinakreppur í bakinu og hnésbótunum, blóðsullir við nýrun, bláir rotnunarblettir um líkamann til og frá, eilífar umkvartanir um þreytu, máttleysi, svima, ofsvefn og óráð. Þetta er inngöngusálmur dauðans í heiðarkotunum. Svo koma blóðkoppamenn og grasaseyðissullarar og greiða kvillunum götu. Loks kemur lungnabólga, gula, taugaveiki eða eitthvað því um líkt og leggur smiðshöggið á verkið - -.
Ég sé það á þér, elskan mín, að þér hrýs hugur við því, sem ég segi. Ég er upp úr því vaxinn, að láta mér bregða. Ég verð að horfa upp á marga menn smáþokast út í eymdina og dauðann, sem vel mætti bjarga, ef það væri gert í tíma. Ef allir sæju það, sem við læknarnir sjáum! - Nei, það tjáir ekki að fást um það. En sælir eru þeir, sem borið geta gæfu til að opna augu skýja-glópanna fyrir - þó ekki væri nema einhverju af því böli, sem læðist með jörðinni. Ég hefi reynt það, - en nú veit ég ekki, hvaða leið ég á að reyna næst.
"En þetta blessað barn skal aldrei komast í hendurnar á hreppsnefndinni á meðan ég lifi. Ég skal nú einu sinni sýna mönnum, hvaða manneskjur geta orðið úr börnum kotunganna, ef sama rækt er lögð við uppeldi þeirra og annarra barna."
Aðalsteinn læknir tók konu sína á kné sér og lét vel að henni. Við faðmlög og ástaratlot nutu þau saman þess fagnaðar, sem fylgir því að gera gott verk.
Það var orðið meira en hálfbjart í baðstofunni í Hvammi. Allt vinnufólkið, sem svaf í miðbaðstofunni, var komið á fætur og fram í bæinn eða út úr honum til ýmislegra starfa. Dyrnar að herbergi Borghildar voru lokaðar, og langa stund hafði enginn gengið um þær.
Halla lá enn þá í rúmi sínu í gestaherberginu og Halldór litli fyrir ofan hana. Þau voru að vísu vöknuð bæði fyrir góðri stundu og búin að þiggja morgunkaffið. En Halla var svo yfirkomin af þreytu eftir atburði síðustu daganna, að hún varð því fegin að þurfa ekki snemma á fætur.
Dyrnar á herberginu stóðu opnar, og sá hún gegnum þær um mestan hluta miðbaðstofunnar, meðal annars til dyranna, sem lágu úr göngunum inn í baðstofuna.
Hún gat ekki sofið lengur, því að nú var komið langt fram yfir þann tíma, sem hún var vön að fara á fætur, og þó gat hún eiginlega ekki vakað heldur. Vilji hennar var allur lamaður og þreytumörk á öllum hugsunum hennar. Ein hugsun var henni þó fullkomlega ljós: Hún var heimilislaus, og í bráðina var allt hennar ráð undir öðrum mönnum komið.
En jafnframt kom önnur hugsun fram í huga hennar hvað eftir annað. Það var Þorsteinn.
Hún gat ekki gleymt honum eins og hún hafði séð hann í Heiðarhvammi og öllu því, sem hann hafði sagt þar. Bágt átti hún sjálf, en enn þá bágra átti hann.
En nú vissi hún það þó, að þrátt fyrir alla þá spillingu, sem þessi vesalings maður var sokkinn ofan í, var innsti kjarni hans enn þá sannur og óspilltur. Hann fann til eymdar sinnar og grét yfir henni, en fann sig ekki mann til að rétta við af eigin ramleik.
Hvaða ráð voru honum til bjargar?
Á meðan hún var að velta þessu fyrir sér, heyrði hún hægt fótatak frammi í göngunum. Hurðinni var lokið upp, og maðurinn, sem kom inn í gættina, var Þorsteinn. Hann skyggndist gætilega inn í baðstofuna og gáði að, hvort nokkur manneskja væri þar. Svo kom hann allur inn fyrir hurðina.
Halla sá það á honum, að hann vildi ekki, að neinn sæi til sín, og lést sofa.
Þorsteinn stóð kyrr um stund og litaðist um, síðan gekk hann hægt inn að dyrum móður sinnar. Þar stóð hann kyrr og hlustaði.
Á meðan hann stóð þar, gat Halla ekki séð til hans frá höfðalagi sínu. En hún vildi ekki rísa upp, svo að hann yrði þess ekki var, að hún vekti.
Halldór litli var ekki eins varkár. Hann teygði sig upp fyrir mömmu sína og horfði forvitnislega á þessar aðfarir. Halla meinaði honum það ekki. Henni fannst það bera enn betur vott um það, að hún svæfi.
Þorsteinn stóð grafkyrr við dyrnar, og það var dauðaþögn í baðstofunni. Halla heyrði það á andardrætti hans, að hann átti í þungu stríði við sjálfan sig.
Hún var nú ekki í efa um, hvað honum bjó í skapi.
Mörg voru nú árin orðin síðan hann hafði komið inn í þessa baðstofu. Nú hafði þráin eftir sátt og fyrirgefningu, þráin eftir útbreiddum móðurfaðminum rekið hann þangað inn.
En á tæpustu stundu mætti þessi löngun mótspyrnu, sem hún vann ekki á. Það var stórlyndið og skapharkan. Nú stóð sú barátta svo hörð, að ekki mátti á milli sjá.
Þá heyrðist hávaði frammi í göngunum, eins og einhver væri að koma.
Þorsteinn hrökk saman. Það kom fát á hann, eins og mann, sem staðinn er að ódáðaverki. Um stund var sem hann leitaði að einhverju, sem hann ætlaði sér að gera. Svo gekk hann rösklega inn í herbergið til Höllu, stakk einhverju í lófann á drengnum og snaraðist fram úr baðstofunni í sömu svipan. Þegar Halla leit upp, var hann horfinn.
"Hvað er þetta, mamma?" spurði Halldór litli. Hann hafði aldrei séð það fyrri.
Fimm tíu-krónu-gullpeningar lágu í lófa hans. Hálir og fagrir eins og fljótandi eldur runnu þeir hver yfir annan, þegar hann hreyfði höndina.
Þegar Halla kom á fætur, ætlaði hún að hitta Þorstein og þakka honum fyrir barn sitt. En þá var henni sagt, að hann væri farinn að heiman og mundi ekki koma heim um langan tíma. Kannske aldrei.
SÖGULOK
1. ÍsasumarHið fornkveðna rættist. Þorraísinn reyndist þrár. Hann lá við landið fram eftir öllu sumri.
Hann varð þó aldrei að fastri, samanfrosinni breiðu, sem hvergi sæi út fyrir, heldur var hann á stöðugum hrakningi fyrir vindum og straumum.
Stundum lónaði hann svo í sundur, að skip komust ferða sinna, og þess á milli ýttist hann saman með slíkri áfergju, að ekki einungis skipin sátu föst í honum, heldur einnig hvalir og hnísur. Þessar skepnur krepptust inni í þröngum vökum. Þar sóttu menn að þeim og unnu á þeim.
Ísinn hafði því fært mönnum svo óvanalega björg í búið, að margir blessuðu komu hans, - ef hann aðeins vildi nú gera svo vel og fara aftur. En það vildi ísinn ekki.
Veðráttan var köld og umhleypingasöm. Stundum rann á hlýr vindur af landi, sem ýtti ísbreiðunum dálítið út á hafið, en var þó ekki nógu hlýr til að bræða gaddinn af jörðinni til neinna muna. Og þegar minnst varði brustu á sviptibyljir af hafi með fannburði og grimmdarfrosti, sem þjöppuðu ísnum aftur upp að landinu, svo að allar víkur blindfylltust á einum degi.
Tíðastar voru þokubrælur með hægum andvara, svo sárköldum, að það var sem brenndi hann bert hörund. Á milli komu nokkrir dagar í röð með stillum og sólskini. Sólin vermdi á meðan hún náði til að skína, og fannirnar runnu sundur fyrir geislum hennar, en jafnóðum og forsælan færðist yfir, hljóp allt í svell.
Fram eftir öllu sumri var allt láglendi þakið hörðu hjarni, og á fjöllum og heiðum sáust þess engin merki, að sumarið hefði komið þar við. Aðeins á litlu svæði upp frá sjónum var jörðin orðin módröfnótt, eins og rjúpa, sem er að skipta litum, þegar fimm vikur voru af sumri.
Þessir dökku blettir voru hagarnir, sem allur búpeningur varð að ganga á, því að nú voru hey flestra upp gefin. Þeir, sem áttu heytuggu, sem ekki þurfti beinlínis að ætla kúnum, treindu hana handa ánum, rétt á meðan þær væru að bera.
Barátta sólarinnar gegn þessari voðahörku var þó ekki árangurslaus. Daglega fóru auðu blettirnir stækkandi, og daglega varð rýmra um skepnurnar, sem úti gengu. Grænir teinungar teygðu sig upp úr hálf- frosinni rótinni. Undireins og þeir sáust, var bitið ofan af þeim. Svo kól út frá bitsárinu, en þeir hækkuðu samt. Hærra og hærra veifuðu þeir kalgulum broddinum, og fleiri urðu þeir með hverjum degi.
Hvítasunnuhátíðin var í hvítasta lagi, sem elstu menn mundu. Ofbirta var yfir öllu landinu, og hvergi sást dökkvi til hafsins. Ísbreiðan á sjó og landi fleygði af sér geislunum út í loftið. Hvítir, titrandi geislar flugu yfir láði og legi og stungu menn í augun eins og hárbeittar örvar.
Allir væntu batans með Jónsmessunni. Þá voru sumarsólhvörf, og þá áttu allir straumar að breyta sér. Þá átti sunnanstraumurinn að sigra á sjónum og sunnanvindurinn á landi. Þá yrði gaman að sjá þann hvíta sigla á stað heimleiðis.
Jónsmessan kom, sólin náði hæstu merkjum, en batinn kom ekki. Sunnanvindurinn sigraði, en ekki til fulls. Hafísinn var á hrakningi um sjóinn, og klakinn var alls staðar undir grasrótinni á landi.
"Hann batnar ekki fyrr en með hundadögum," sögðu menn. "Og ef hann batnar þá ekki, þá batnar hann ekki fyrr en um höfuðdag."
2. Halla fer í kaupstaðHalla hafði lengst af verið í Hvammi, síðan hún var flutt þangað um veturinn. Þau Egill og Borghildur höfðu bæði saman og sitt í hvoru lagi margboðið henni að vera þar með drenginn, þar til úr greiddist fyrir henni. Borghildur hafði lagt svo mikla áherslu á þetta, að Halla vissi, að henni mundi mislíka, ef það væri ekki þegið.
Aðrar húsfreyjur í sveitinni höfðu einnig boðið Höllu til sín tíma og tíma í einu, annað hvort með drenginn eða án hans. Nú var sem allir vildu hjálpa henni.
Halla hafði þegið sum af þessum heimboðum að nokkru leyti. Hún hafði farið þangað, sem hún vissi, að þörf var fyrir vinnu hennar, en aldrei verið langdvölum burtu frá Hvammi í einu. Þar var nóg við vinnu hennar að gera, einkum þegar fór að vora.
Af Boggu litlu þurfti hún engar áhyggjur að hafa. Hún mátti heimsækja hana svo oft sem hún vildi. Hún sá hana taka bráðum bata og bráðum þroska og verða fjörugt og fallegt barn óðar en hún vissi af.
- Í sumarkauptíðinni réðst Halla í það stórræði að fara í kaupstað. Halldór litli átti að fá að fara með henni.
Halla hafði ekki farið í kaupstað öll þau ár, sem hún var í Heiðarhvammi. Halldór litli hafði aldrei á ævi sinni séð kaupstað.
Mikil var tilhlökkunin. Aldrei hafði Halldór litli hlakkað meira til jólanna en hann hlakkaði nú til að fara í kaupstaðinn. Hann vissi, að mamma hans var að sauma honum ný föt, úr vaðmáli, sem honum hafði verið gefið. Þau átti hann að vígja í kaupstaðarferðinni. Alltaf var hann að spyrja um kaupstaðinn, ekki einungis mömmu sína, heldur hverja manneskju á heimilinu. Marga stund stóð hann yfir Agli gamla úti í smíðahúsi og spurði hann í einum þaula um kaupstaðinn. Egill var oft seinn til svara. Þó hafði hann gaman af sumum spurningunum og leysti úr þeim við hæfi drengsins. Næst Agli varð Finnur fyrir spurningunum. Hann var þrautseigur að svara. Um það, sem Halldór fékk að vita um kaupstaðinn á daginn, var hann að hugsa á kvöldin, þangað til hann sofnaði, og oft dreymdi hann um kaupstaðinn á nóttunni. Svo taldi hann saman í huganum öll þau lifandi ósköp, sem hann ætlaði að kaupa fyrir reyfið af einni veturgamalli kind, sem honum var eignuð.
Halla hugsaði einnig mikið um kaupstaðarferðina, þó að ekki teldi hún dagana með annarri eins óþreyju og Halldór litli. Erindi hennar í kaupstaðinn voru fleiri en eitt.
Það erindið, sem hún lét uppi sem aðalerindið, stafaði af þessum undarlega og óvænta fundi, sem fundist hafði í dánarbúi Ólafs.
Oft hafði Ólafur lokið upp fyrir henni kistunni miklu, á meðan hann var að fá hana til að trúlofast sér, en aldrei eftir það. Hún vissi þá, að kistan geymdi talsverða fúlgu af spesíum, þó að ekki hefði hún gefið því gaum, hve margar þær voru. En að enn væri þar eftir úttroðinn vettlingur af spesíum, - því hefði hún ekki trúað, þó að einhver hefði sagt henni það.
Aldrei hafði hún hirt um að hnýsast í þetta eina fylgsni, sem Ólafur átti, á meðan þau bjuggu saman. Hún hafði gert ráð fyrir, að ekki væri geymt þar annað, sem teljandi væri, en spariföt hans, sem hann fór sjaldan í, eitthvert bókarusl, sem hann leit aldrei í, og svo brennivínskúturinn hans. Nú kom það upp, að dálítið var þar af peningum í handraðanum, auk þess, sem undir honum lá.
Það lakasta var, að spesíur og ríkisdalir voru gengnir úr gildi fyrir löngu, en krónur og aurar komið í staðinn. Líklega hafði Ólafur heitinn alls ekki tekið eftir þessari breytingu, annars var óskiljanlegt, að hann hefði geymt þetta svona lengi.
Halla sat agndofa af undrun yfir þessum sjóði. Hvernig gat á honum staðið? Margt flaug henni í hug, en ekkert, sem henni þótti trúlegt. Engin ástæða var til að ætla, að hann væri illa fenginn. Hún hafði aldrei þekkt Ólaf að öðru en ráðvendni. Og ef hann væri geymdur fyrir einhvern, mundi eigandinn vera búinn að gefa sig fram. En hvers vegna hafði Ólafur haldið þessu alveg sérstöku? Og hvers vegna hafði hann aldrei minnst á þetta?
Egill þagði. Hann var nú eini maðurinn, sem vissi, hvernig á þessu stóð, og kunni með það að fara. Ekki var því treystandi, að Halla vildi nýta þetta fé, ef hún vissi, hvaðan það væri. Best var, að hún væri engu nær um það. Það var vel fengið, - þó meira hefði verið, og nú kom það henni að góðu liði.
Hann kenndi Höllu það ráð, að fara sjálf með spesíurnar á fund Þorgeirs verslunarstjóra og freista, hve mikið hún gæti fengið fyrir þær í gjaldgengri mynt.
Halla féllst á þetta.
Hitt aðalerindið, sem Halla átti í kaupstaðinn, sagði hún engum.
Það var að vita með vissu, hvernig Þorsteini liði, og reyna að ná honum heim að Hvammi aftur.
Þær fréttir, sem af honum bárust heim að Hvammi, voru allt annað en gleðilegar. Það var ekki talað um þær upphátt í bænum, en því meira í hljóði. Og hún sá sorgina á svip Egils og Borghildar, hvenær sem eitthvað fréttist.
Hún vissi, að Egill hélt stöðugum spurnum fyrir um son sinn, og nærri því vikulega var maður sendur í kaupstaðinn. Egill vildi ná honum heim fyrir hvern mun, en fékk við ekkert ráðið.
Höllu var engu síður annt um Þorstein en foreldrum hans, og ef hún gæti haft einhver áhrif á hann til góðs, vildi hún ekki láta þess ófreistað.
Þriðja erindi Höllu var að heimsækja Maríu gömlu Ragúelsdóttur. Og fjórða erindið að vita, hvernig henni litist á að reyna að hafa ofan af fyrir sér og Halldóri litla í kaupstað, því að enn hafði hún ekkert afráðið um framtíð sína.
Loks rann hinn langþráði dagur upp. Ullarlest frá Hvammi lagði á stað í kaupstaðinn. Egill var sjálfur í förinni við fjórða mann. Halla og Halldór litli urðu lestinni samferða.
3. Svona lítur kaupstaður út!Halldór litli sat á þófablaði milli tveggja ullarpoka og var bundinn við klyfberabogann. Til enn frekari tryggingar var honum sagt að halda sér í miðklakkinn.
Hesturinn, sem trúað var fyrir honum, var enginn gapi, það var gamall veraldarvanur húðarjálkur, sem marga kaupstaðarferðina hafði farið og margt borið, bæði í kaupstaðinn og úr honum. Hann var óskeikull í spori og fór gætilega.
Úr þessu hvika hásæti sá Halldór litli veröldina stækka og víkka smátt og smátt. Hann sá fjöllin, sem verið höfðu blá, tapa blámanum og verða grjótgrá, eins og fjöllin kringum Heiðarhvamm. Önnur fjöll komu í ljós, sem voru enn þá blárri en hin höfðu verið. Hann sá ár og læki, miklu stærri en hann hafði séð áður; hestarnir óðu sterklega yfir þá, og það var svo gaman, að hann óskaði, að lækirnir og árnar væru helmingi fleiri. Hann sá dimm og draugaleg gil í fjöllunum, sem honum stóð stuggur af. Þar bjuggu líklega tröllin langt inni í skugganum. Hver vissi nema stór, loðin hönd kæmi fram úr gljúfrunum og seildist í lestina. Hann skalf af hræðslu, þegar farið var fram með hamrabeltunum; þar dundi svo undarlega undir hestunum, eins og hófadynurinn kæmi innan úr hömrunum, þar sem huldufólkið bjó. Þannig hefir það verið, þegar "Ólafur reið með björgum fram".
Loks fór heiðum að halla og kaupstaðurinn að nálgast.
"Hvað er þetta, mamma?"
"Hvað þá?"
"Þetta stóra, bláa, sem nær langt upp á loftið?"
"Þetta er sjórinn, flónið þitt. Hann nær ekki upp á loftið; hann er sléttur og ber við loftið."
Halldór þagnaði og hætti að spyrja, en hann skildi ekki nema til hálfs. Sjórinn? - Allt þetta? Lifandi ósköp var hann stór! Nú sá hann líka, að sum af bláu fjöllunum, sem hann hafði lengi séð, stóðu upp úr sjónum eða voru hinum megin við hann. Allar bernskuhugmyndir hans um sjóinn hurfu í einni svipan og þessi mikla mynd kom í staðinn. - En þetta hvíta? Voru það skipin?
Egill varð fyrir svörunum að þessu sinni:
"Ónei, drengur minn, það eru hafísjakar."
"Til hvers er hafísinn?" - Enginn svaraði.
Fagurt var að ríða ofan heiðina í slíku veðri, en kuldaleg var útsýn til hafsins. Langt úti á flóanum voru stórar íshrannir á reki. Innar voru stórir jakar á stangli, og fjöllin hinum megin við flóann voru meira hvít en blá.
Skipasiglur komu fram undan hæð einni og bar í sjóinn. Þær voru fleiri en nokkurn tíma höfðu sést áður ofan af heiðinni og voru til að sjá sem þéttur, blaðlaus runnur. Þær hurfu aftur og voru lengi á hvarfi, meðan farið var yfir breiða lægð. Næst þegar þær sáust, voru þær komnar miklu nær. Þá sáust þverrár og gafflar, brandar og beitiásar, og heill kóngulóarvefur af strengjum og stögum utan um allt saman.
Loks sáust skipaskrokkarnir sjálfir í faðmi hafnarinnar og kaupstaðurinn sjálfur við eitt hornið á henni.
Svona lítur kaupstaður út!
Halldór litli starði þegjandi á öll þessi undur, sem bar fyrir augun, - húsin, skipin, höfnina, klettana umhverfis hana, flöggin á húsunum og skipunum, alla kaðalflækjuna í reiðunum og bláa, gula, græna og hvíta borðstokkana. Innan um allt þetta voru hafísjakar á sveimi.
Svona lítur kaupstaður út!
"Mamma, mamma!" æpti hann upp, eins og höggormur hefði bitið hann. Hann sá ofan í djúpt gljúfur og beljandi hvítfyssandi vatnsfall. Og hann sá ekki betur en hesturinn væri í lausu lofti beint uppi yfir fossandanum og væri að steypast ofan í hann. Hann sá ekki brúna undir fótunum á hestinum.
En klárinn lét sér ekki bregða, þó að Halldór hljóðaði. Hann teygði fram hausinn, þefaði fyrir sér og stildraði svo gætilega yfir brúna.
Þegar Halldór var kominn yfir um, sá hann þetta nýja undur, brúna. Mamma hans og fleiri voru þá að fara yfir hana. Ár hafði hann oft séð, en aldrei brú fyrri.
Rétt framan við brúna rann áin út í fjöruna. Þar breiddi hún úr sér og bjó til breiða straumsvuntu yfir malargrjótið út í sjóinn. Þar hrundu strengirnir öldunum aftur á bak og gerðu straumgára langt út í voginn, þangað sem skipin lágu. Búðará var í vexti og óvenjusterk.
Til og frá um alla fjöruna stóðu ísjakar á grunni. Sumir stóðu alveg á þurru, aðrir marga faðma frá landi. Þar gaf að líta hin undarlegustu uppátæki í byggingarlist náttúrunnar. Flestir voru jakarnir eins og stærðarhús og eitthvað áþekkir húsum í laginu. Þökin voru fannhvít, sum toppmynduð, sum flöt, en sum risu á rönd. Þakskeggin stóðu langt út fyrir veggina og voru alsett klakakögrum. Undir þeim sá í blágræna veggina, hála og glæra, hlaðna úr mislitum og misþykkum lögum, grafna sundur af hellum, gjótum, gluggum og hvelfingum með súlum og bogum á milli. Undir allri þessari byggingu var jakafóturinn, helblár og eitilharður, með beittum röðum, sem líktust axaeggjum. Á þessum harðjöxlum var náttúran að mæða dag og nótt. Sólin bræddi þá og sjórinn molaði þá niður. Brestirnir voru þungir eins og fallbyssuskot, þegar stoðirnar biluðu og þekjan skall ofan í sjóinn eða fjöruna. Efst í fjörunni lá hrönn af bláglærum hnullungum, niðurmuldum hafís.
Jakarnir, sem á floti voru, létu lítið á sér bera. Þar var undirbyggingin í kafi og flaut á þekjunni. Þeir læddust áfram undur meinleysislegir, en langt niðri í djúpinu sá í bláhvít börðin, og þar sem þeir strukust upp við skipin, tóku þeir málninguna með sér og táðu plankana eins og ull. Ef akkerisfestarnar urðu fyrir þeim, voru þeir vísir að klippa þær í sundur.
Höfnin var þéttskipaðri skipum en nokkurn tíma hafði verið, svo langt sem menn mundu. Veiðiskip ýmissa þjóða höfðu flúið þangað inn undan ísnum. Þrjú af skipunum voru kaupskip, eitt til Þorgeirs verslunarstjóra, eitt lausakaupmannaskip og eitt til nágrannahafnar.
Ísinn hélt höfninni í herkvíum. Stórir, flatir flekar voru á varðbergi úti fyrir og hátypptur jökull hafði strandað til hliðar við vogsmynnið. Þar stóð hann fastur á 16 faðma dýpi.
Lestin nam staðar við verslunarhús Þorgeirs. Þar voru ullarklyfjarnar teknar ofan, og þar var Halldór litli tekinn af baki. Nú var hann kominn í kaupstaðinn. Nú gat hann vappað um svæðið eftir vild og svalað augum sínum á öllum nýjungunum.
Þetta var á blómaárum Þorgeirs verslunarstjóra, nokkrum árum áður en þeir atburðir gerðust, sem lýst er í "Leysing". Fegursta skipið á höfninni var kennt við hann í daglegu tali. Það var rennileg skonnorta, gljáandi svört á búkinn, með hvíta borðstokka og hvíta rönd eftir síðunum.
"Nú skulum við koma heim í Maríugerði," sagði mamma Halldórs og tók um handlegginn á honum.
Halldór litli var ekki almennilega á því. Hann var ekki búinn að skoða sig nándarnærri saddan. "Hvað er þetta hvíta fyrir gluggunum að innanverðu?" mælti hann. "Hvaða fuglar eru þetta með rauðar blöðkur á höfðinu? Því eru ekki stóru skipin dregin upp í fjöruna eins og litlu skipin?" - o. s. frv.
"Þú færð að vita þetta allt og miklu meira, þegar við komum út aftur. Komdu nú," sagði Halla og togaði hann með sér.
4. HryggðarmyndMaría Ragúelsdóttir tók Höllu tveim höndum, sýndi henni húsakynni sín og bauð henni athvarf hjá sér á meðan hún dveldi í kaupstaðnum.
Hún var í mestu önnum, því að nú voru margir vinir hennar í kaupstað. Þeir komu til hennar færandi hendi, fluttu henni kveðjur frá húsfreyjunum, sem annaðhvort höfðu nýlega verið á ferðinni eða ætluðu bráðum að koma, og þáðu hjá henni beina. Og nú var Egill kominn í kaupstaðinn. Sjaldan kom hann tómhentur heim til hennar.
María var öll á flugi af kæti og fjöri og sinnti gestum sínum af stakri alúð. Samt hafði hún tíma til að skjóta því í eyra Höllu, hvernig Þorsteini liði og hvar hann væri að hitta.
Ekki var hún margorð. En það, sem hún sagði, voru ekki glæsilegar fréttir.
Eftir að hafa dvalið dálitla stund hjá Maríu, gekk Halla aftur út í kaupstaðinn og leiddi Halldór litla með sér. Þau voru þá bæði komin úr ferðafötunum, búin að þvo af sér ferðarykið og greiða sér. Halldór litli var sæmilega upp með sér af nýju fötunum, sem hann var í, og þóttist kaupstaðnum samboðinn.
Ferðinni var heitið á fund Þorgeirs verslunarstjóra.
Á leiðinni heim að búð hans gengu þau fram hjá húsgrind, sem verið var að timbra saman. Bjálkarnir voru lagðir í ferhyrning, eins stóran og eins lagaðan og húsið átti að vera. Undir öll horn og samskeyti voru steinar lagðir, svo að grindin lægi lárétt. Yfir þessa grind voru bitarnir lagðir lauslega.
Á einum bitanum sat maður og var að höggva í hann spor fyrir stoð. Halla kenndi þar Þorstein og sá, að hann var mikið drukkinn.
Hún ætlaði þá að ganga fram hjá án þess að hann yrði hennar var. En Þorsteinn leit upp og kom auga á hana. Eftir það varð henni ekki undankomu auðið.
Þorsteinn starði á hana drykkjusljóum augum. Svo lagði hann frá sér sporjárnið og hnallinn og mælti með linum, drafandi málrómi:
"Halla, ætlarðu ekki að heilsa mér, - þó að ég sé fullur?"
Halla komst svo við, að hún gat engu orði upp komið. Hún gekk þegjandi til hans og rétti honum höndina.
Þorsteinn tók um hönd hennar, kreisti hana fast og sleppti henni ekki aftur.
"Nú er ég fullur, Halla," mælti hann og reri á bitanum, hálfmáttlaus. "Nú er ég alltaf fullur."
"Guð hjálpi þér, aumingja Þorsteinn," mælti Halla lágt, og kenndi grátstafs í rómnum.
Nú fyrst gat hún virt Þorstein fyrir sér og séð til fulls, hversu hryggilega hann var útleikinn. Munnvikin kipptust til af drykkjuviprum. Andlitið var allt rautt og þrútið og annað augað var hálfsokkið í bláa bólgu. Hann hafði höggvið sig og marið á höndunum við vinnu sína - eða eitthvað annað, og stóðu blóðrisa skurfurnar opnar og óhirtar, og það var auðséð, að hann hafði ekki farið úr fötum síðustu næturnar, líklega legið úti.
"Guð hjálpi þér, aumingja Þorsteinn!" var það eina, sem Halla gat sagt, og hún sagði það hvað eftir annað.
Þorsteinn virtist ekki heyra það. Hann hélt enn þá um hönd hennar og mælti eins og við sjálfan sig:
"Þarna kemurðu loksins, - með drenginn, en ekki í fanginu. Nei, nú er hann orðinn svo stór, að hann getur gengið. Jæja, þú komst þó á endanum. - Heyrðu. Skilurðu hvað ég segi? Ég er svo andskoti fullur. Nú ætla ég að drekka, þangað til ég velt út af, Halla mín. Skilurðu það? Þangað til ég velt út af - dauður."
Halla sá, að ekki var til neins að þakka honum fyrir það, sem hann hafði gert henni gott, á meðan hann væri þannig á sig kominn. Hún vildi komast sem fyrst burtu frá honum, en Þorsteinn hélt um hönd hennar.
Hann þagði um hríð og var myrkur og alvarlegur á svipinn. Það var sem einhverjar gamlar minningar væru að reyna að brjótast fram úr hugsanaþokunni. Loks fóru tárin að renna ofan kinnarnar á honum.
Hann harkaði þó af sér, sleppti hönd Höllu og þurrkaði af sér tárin með treyjuerminni. Síðan seildist hann undir bitann, sem hann sat á, fálmaði þar uppi brennivínsflösku, sem full var til axla, og var nærri því dottinn á höfuðið ofan á milli bitanna við þá áreynslu.
Með miklum erfiðismunum rétti hann sig upp og saup á flöskunni. Það var sem fjör hans funaði upp við sopann.
"Viltu brennivín, Halla?" drafaði hann fyrir munni sér. Þó rétti hann ekki að henni flöskuna.
Halla þagði og hristi höfuðið.
"Nei, þú vilt ekki brennivín, og ekki blessað barnið heldur. En - hvert eruð þið að fara?"
"Ég ætla að hitta Þorgeir verslunarstjóra," mælti Halla.
"Já, Þorgeir, Þorgeir. Það er maður, sem vert er um að tala.
Í sama bili kom flokkur af hálfdrukknum Norðmönnum af einu skipinu fram hjá. Þeir námu staðar hjá húsgrindinni og hlógu storkunarlega.
"Se der er han, den islandske Bandit fra igaar, han med Brændevinskrampen í Kjæften!" gall í einum þeirra.
Þorsteinn leit upp, en svaraði engu.
"Nu har han faa't sin bedre Halvdel og Ungen med," sagði annar.
"Og et blaat Öje kan han da i al Fald prale af," sagði sá fyrsti aftur.
"Kom og slaas, dit Bæst," sagði enn einn og smeygði ermunum upp fyrir olnboga.
"Lad ham i Fred," sögðu hinir, margir í einu, og slangruðu áfram.
Þorsteinn horfði á eftir hópnum með beisku glotti. Halla sá það á honum, að hann setti vandlega á sig, hverjir það voru.
Rétt á eftir kvaddi Halla hann. Hún þoldi varla lengur að horfa á þessa hryggðarmynd.
En henni ógnaði að hugsa til þess, ef fundi hans og Norðmannanna bæri saman aftur.
5. "Maður, sem vert er um að tala"Halla reikaði nokkra stund úti fyrir búðinni, með drenginn við hönd sér. Hún þurfti að ná sér aftur eftir fund þeirra Þorsteins; svo mjög hafði hann fengið á hana. Hún vildi ekki láta sjá tár á sér, þegar hún kæmi inn í búðina, þar sem margmenni væri fyrir.
Síðan gekk hún inn í búðina og bað um að mega tala við Þorgeir.
Henni var boðið inn fyrir búðarborðið og hún beðin að bíða litla stund. Þorgeir væri vant við látinn sem stæði, hreppstjórinn frá Hvammi væri að tala við hann.
Halla notaði stundina til að líta á ýmsan varning, sem lagður var til sýnis á hillurnar í búðinni.
Halldór litli notaði hana þó enn þá dyggilegar. Aldrei hafði hann komið í búð fyrri, og aldrei hafði hann svo mikið sem dreymt um aðra eins dýrð. Öll þessi undur af leikföngum, sem lágu á hillunum eða héngu í kippum niður úr loftinu! Hver skyldi njóta þeirra allra? Þar voru heilir kassar fullir af munnhörpum og kippur af lúðrum. Allavega litir leikhnettir héngu í rauðu neti. Rétt hjá þeim var fjöldi af barnaúrum með keðjum, og þessi undur af alls konar myndum, svo ljómandi fallegum. Og svo margt og margt fleira. Allt laðaði þetta huga hans, ginnti hann og glapti með tælandi ljóma. Búðin var full af einkennilegum ilm. Hann lagði af varningnum á hillunum, upp úr sætindaskúffunum, af áfengisílátunum og tóbakinu; allt blandaðist saman og varð að undarlega notalegri vímu. Ös og skvaldur var um alla búðina; hann skildi ekki helminginn af því, sem sagt var. Heillaður í hálfgerðan draum fylgdist hann með mömmu sinni um búðina og hélt um höndina á henni.
Stundin var ekki löng. Halla tók eftir því, að Egill var kominn fram í búðina. Rétt á eftir kom ungur maður stillilegur til hennar og sagði henni, að nú gæti hún fengið að tala við verslunarstjórann.
Þessi maður var Friðrik sonur Sigurðar bónda í Vogabúðum. Hann var þá verslunarþjónn hjá Þorgeiri.
Hann fylgdi Höllu og Halldóri litla inn í skrifstofuna til Þorgeirs, skildi þar við þau og lét aftur hurðina.
Þorgeir sat við skrifborð sitt og laut yfir stóra bók. Hann leit ekki upp, þó að gengið væri um hurðina, og Halla heyrði ekki, hvort hann tók undir kveðju hennar. Hún nam staðar frammi við dyr og virti þennan volduga mann fyrir sér. Margt hafði hún heyrt frá honum sagt, en aldrei hafði hún séð hann fyrri.
"Gerið svo vel að fá yður sæti," mælti Þorgeir án þess að líta upp. Það var eins og hljóðið kæmi út úr skrifborðinu.
Höllu fannst þetta ávarp svo kuldalegt, að henni var skapi næst að fara út úr skrifstofunni og koma þangað aldrei framar. Hún þáði þó boðið og settist á stól utar frá skrifborðinu.
Halldór litli var að hugsa um allt annað. Hann skildi ekkert í því, að ekkert af þeim "herlegheitum", sem búðin var full af, skyldi vera inni hjá verslunarstjóranum. Þar var engin hljóðpípa, engin rúsínuskúffa, engir skrauttreflar, speglar eða myndir. Ef hann væri verslunarstjóri - - -.
Þorgeir rétti sig upp í sæti sínu, tók af sér gleraugun, lagði þau ofan á bókina og strauk augun eins og til að skýra sjónina. Svipur hans var áhyggjufullur og þreytulegur.
"Hvað er yður á höndum, kona góð?" spurði hann.
Halla skýrði honum frá erindinu, svo greinilega sem hún gat með fám orðum. Þorgeir hlýddi þegjandi á orð hennar.
"Þér eruð ekkja Ólafs heitins í Heiðarhvammi," mælti hann án þess að svara nokkru málaleitun hennar. "Ég þekkti hann ofur lítið. Hann skipti við mig og stóð prýðilega í skilum."
Eftir litla þögn bætti hann við:
"Það voruð þér, sem brutust einar til byggða í þorraveðrunum í vetur og skilduð börnin eftir hjá líkinu. Það var rösklega gert af yður. Það er líklega töluvert táp í yður."
Nú fyrst leit hann á Höllu og virti hana fyrir sér.
Halla þagði við lofsyrðum hans. En henni fannst augnaráð hans smjúga í gegnum sig.
"Þér hljótið að hafa átt illa ævi í heiðarkotinu í vetur," mælti Þorgeir. "Fyrst yfir manninum veikum og síðan yfir líki hans. Ill eru hlutskipti fátæklinganna víða, en verri en þetta eru þau líklega ekki."
"Guð hefir hjálpað mér fram úr því öllu saman," mælti Halla án þess að líta upp.
"Guð hlýtur að ætla sér eitthvað með því," mælti Þorgeir og brosti við. "Hann gerir ekki slík kraftaverk út í bláinn."
Samtalið féll niður um stund. Þorgeir hallaði sér aftur að stólbakinu, og það var sem væri hann að reikna í huganum. Loks mælti hann:
"Er það mikið af spesíum, sem þér þurfið að fá skipt?"
Halla rétti honum sjóðinn þegjandi. Spesíurnar voru í dálitlum poka úr sterku lérefti, sem hún hafði haldið undir sjalinu sínu.
Þorgeir tók við og brosti, er hann fann, hve þungur pokinn var. Síðan hvolfdi hann úr honum á skrifborðið. Það buldi þunglega í borðinu, þegar þessir silfurhlunkar skullu á því.
"Hann hefir verið furðugeyminn á þessa hluti, blessaður karlinn," mælti Þorgeir, þegar hann hafði talið spesíurnar og raðað þeim í stafla. "Hann hefir geymt þessar spesíur helst til lengi. Nú hafa þær ekki annað en silfurverðið."
Halla hafði búist við þessum dómi, svo að hann kom henni ekki á óvart.
"Hvað ætlið þér nú fyrir yður, - ef ég má spyrja?" mælti Þorgeir eftir langa þögn.
"Ég veit það ekki," svaraði Halla.
"Mér kemur það auðvitað ekki við. Ég spurði af forvitni. Ég geri ráð fyrir, að yður sé ógeðfellt að fara í vinnumennsku aftur. Það er öllum ógeðfellt, sem einu sinni hafa verið sínir eigin húsbændur, hvernig sem þeim hefur liðið í búskapnum. - Auk þess er hæpið, að þér gætuð hitt á góðar vistir, þar sem þér fengjuð að hafa drenginn yðar hjá yður, en illt að ala börn upp á hrakningi vist úr vist."
"Ég hefi lítið hugsað út í þetta enn þá," mælti Halla.
"Þér segið mér það. Auðvitað hafið þér hugsað út í þetta, en eruð kannske ekki komnar að neinni fastri niðurstöðu. Ég heyri sagt, að læknirinn hafi tekið af yður yngra barnið."
Halla kvað já við því.
"Hann kemur hér við, þegar hann er á ferð, og hann hefir sagt mér dálítið frá yður. Egill gamli hefir líka minnst á yður, svo að ég er yður ekki ókunnugur með öllu. Má ég leggja yður ráð?"
Halla kvað já við því, þó að henni væri lítið um ráð hans gefið. En nú skildi hún, hvernig á því stóð, að hann talaði svo kunnuglega um kjör hennar í Heiðarhvammi.
"Gott og vel," mælti Þorgeir. "Ég skal ekki verða margorður. Nú hafið þér reynt lífið til fjalla. Hvernig líst yður nú á að reyna það hér niðri á sjávarbakkanum? María gamla Ragúelsdóttir vill selja bæinn sinn og flytja til dóttur sinnar. Hann yrði ekki mikið dýrari en svo, að þessir peningar hrykkju fyrir hann. Þar gætuð þér eignast fast aðsetur og búið leigulaust. Þar gætuð þér ráðið verkum yðar sjálfar og sjálfsagt valið úr verkum, þegar fram í sækti. - María kom þangað bláfátæk ekkja. Hún hefir komist þar vel af og alið börn sín vel upp. Hún hefir aldrei átt bágt og aldrei þurft að leggja á sig vonda vinnu."
Halla sat hugsandi og hlustaði varla á það, sem Þorgeir sagði. En það þótti henni undarlegast, að það voru einmitt hugsanir hennar sjálfrar, hugsanir, sem hún hafði velt fyrir sér í kyrrþey og ekki látið uppi við nokkurn mann, - sem Þorgeir sagði nú upphátt.
"Ég er hrædd um, að ég yndi ekki í kaupstaðnum," mælti hún eins og út í loftið.
"Jæja, þér eruð hræddar um það. Þér þekkið auðvitað sjálfa yður best; en ég er sannfærður um það gagnstæða. En ef þér skylduð taka þetta ráð, þá getið þér vitjað verka hjá mér, sem eru við yðar hæfi, þegar þér viljið eða þegar þér hafið ekki annað að gera. Drengurinn yðar getur líka fengið að vinna sér inn aura jafnóðum og hann stækkar. Hér eru þúsund vik að vinna, sem krefjast samviskusemi og trúmennsku fremur en krafta."
Þorgeir þagnaði og horfði þegjandi fram undan sér, eins og hann væri enn að vega og meta spesíuhraukana á borðinu. Síðan mælti hann:
"Ólafur heitinn átti hér ofur litla ögn inni um nýár. Viljið þér fá það greitt í vörum eða peningum, eða viljið þér láta það standa kyrrt? Því skal verða hagað alveg eins og yður þóknast. Og nú skal ég afgreiða erindi yðar."
Síðan taldi hann Höllu út í peningum nafnvirði allra spesíanna, eins og þær væru enn í fullu gildi.
"Afsakið," mælti hann að lokum, "að ég hefi verið að tala um mál, sem yður koma einni við, og forvitnast um fyrirætlanir yðar. Ég vona, að þér gerið mér þá ánægju að leita til mín, ef yður liggur á greiða, - hvort sem þér þiggið ráð mín eða ekki."
Höllu var nokkru léttara í skapi, þegar hún fór út úr skrifstofu Þorgeirs, en þegar hún kom inn þangað. Erindislok hennar höfðu orðið góð, og álit hennar á Þorgeiri hafði breytst nokkuð. Að vísu var hann undarlegur maður og seintekinn, en það rættist úr honum. Líklega var það satt, sem Þorsteinn og fleiri sögðu, að hann væri maður, sem vert væri um að tala.
6. KaupstaðarkvöldSeint um kvöldið sátu þær María og Halla saman í "baðstofunni" í Maríugerði. Svo kallaði María loftrýmið í bæ sínum, og mjög líktist það baðstofu á sveitabæ.
Ekki var þar ríkmannlegt umhorfs, en þó þrifalegt og viðfelldið. Hæðin undir sperrukverk var ekki meiri en svo, að fullorðinn maður gat vel gengið þar uppréttur. Skarsúð var lögð ofan á sperrurnar, úr hefluðum borðum, eins og títt var í baðstofum. Borðin voru farin að verða elliblökk, en fúin voru þau hvergi.
Tveir voru gluggar á baðstofunni, sinn á hvorum stafni. Sneri annar heim að Vogabúðabænum, en hinn fram að kaupstaðnum. Við þann gluggann, sem að Vogabúðum sneri, stóð lítið borð, og sitt rúmið hvorum megin við það úti undir súðunum. Í öðru þeirra lá Halldór litli og var steinsofnaður. Hitt stóð uppbúið handa þeim Höllu og Maríu.
Við hinn gluggann, sem að kaupstaðnum sneri, var ofur lítið aukaeldhús, ef svo mætti kalla það, því að aðaleldhúsið var í hinum kofanum, beint inn af bæjardyrunum. Í þessum enda baðstofunnar stóð lítill járnofn, með hringjum yfir eldstæðinu, og gekk ofnpípan út um þekjuna. Gagnvart þessum ofni var uppgangan í baðstofuna, og lá brattur stigi ofan í göngin.
Undir þessari baðstofu var dálítil stofa. Var gengið inn í hana úr göngunum, til hliðar við baðstofustigann. Sex-rúðu-gluggi var á stofunni og sneri fram að kaupstaðnum. Innar af stofunni var lítið svefnherbergi, og sneri glugginn á því heim að Vogabúðum.
Í þessu svefnherbergi svaf Egill hreppstjóri þessa nótt, en menn hans höfðu búið um sig á gólfinu í stofunni.
Þær Halla og María sátu upp í baðstofunni við gluggann, sem vissi að kaupstaðnum. Þær höfðu opnað gluggann, til þess að njóta því betur veðurblíðunnar, sem úti var, og útsýnisins um kaupstaðinn.
Sól var gengin ofan undir hafsbrún. Ljósrauðar skýjaslæður lágu um allan norðurhimininn, og hæðirnar kringum kaupstaðinn voru sveipaðar rauðleitum skuggablæjum. Það var logn, og skipin á höfninni hreyfðust ekki. Úr glugganum sá á siglutoppana og ofan eftir reiðunum upp yfir húsin, en í skörðunum milli húsanna sá í skipin sjálf, og jafnframt sá á bláhvíta snækolla, sem liðu hægt fram með skipahliðunum.
Öll útivinna var hætt og kyrrð yfir kaupstaðnum. Enginn hávaði heyrðist, nema niðurinn í ánni, og fáir sáust á ferli úti við. Í Maríugerði voru allir sofnaðir nema þær tvær. Þær höfðu svo margt að skrafa saman.
Samtal þeirra hafði lengi hneigst að Þorsteini. Það voru ekki glæsilegar sögur, sem María hafði af honum að segja. Síðan hann kom í kaupstaðinn, hefði hann lítið gert annað en drekka. Hann hefði drukkið rétt að kalla daga og nætur samfleytt og legið í rúminu þess á milli. Fyrst núna væri hann að höggva saman grindina í húsið, sem hann hefði átt að byggja fyrir Þorgeir. Að vísu mundi hann vera búinn að vinna eitthvað að smíðinu inni við, en lítið mundi það vera, því að það væri ekki hálft verk, sem hann ynni. Þorgeir fyrirgæfi honum allt og léti hann halda áfram, hvernig sem hann drykki. Á eftir drykkjutúrunum yrði hann veikur, - eða réttara sagt: Hann drykki þangað til hann væri orðinn svo veikur, að hann gæti ekki meira. Þá kæmi sinnisveikin. - Því miður kvaðst María verða að segja það eins og það væri. Á eftir drykkjuskapnum fylgdi alltaf drykkjumannageðveikin. Þá iðraðist hann slík ósköp eftir því, hvernig hann hefði hagað sér. Þá væri hann ekkert annað en grátur og eymd, gæti ekki sofið og sækti jafnvel á að fyrirfara sér. Undireins og hann kæmist á fætur, byrjaði sama sagan aftur. - Nú væri hann búinn að halda áfram í rúma viku, alltaf drukkinn á hverjum degi. Og ekki nóg með það, að hann drykki. Hann væri illur og svaðafenginn við vín. Nú, síðan lestaferðirnar hófust, og þó einkum síðan þessi mörgu skip komu á höfnina, hefði hann daglega verið í áflogum og margir komist frá honum hart leiknir.
María lýsti því síðan fyrir Höllu, hver sorg þetta væri hjá foreldrum Þorsteins. Henni var kunnugast um það. Hjá henni hafði fréttastöðin verið allan seinni hluta vetrarins. Öll ráð til að ná honum heim að Hvammi, eða burt úr kaupstaðnum að minnsta kosti, höfðu verið borin undir hana. Öll höfðu þau orðið gersamlega árangurslaus. Meira að segja hafði móðir hans skrifað honum bréf eitt sinn um vorið. Þorsteinn hafði hlegið fyrirlitlega að bréfinu og fleygt því í ofninn, ólesnu.
Halla hlustaði þegjandi á frásagnir Maríu. Hún þekkti Þorstein svo vel, að hún vissi, að því miður mundi þetta allt vera satt. En þær ráðstafanir, sem þegar höfðu verið gerðar til að ná Þorsteini burt úr kaupstaðnum, gátu varla orðið til annars en espa hann. Á þennan hátt tækist það aldrei.
Hún bjó sjálf yfir ráði, sem henni hafði hugkvæmst, en sá enga leið til að framkvæma það, og á meðan taldi hún ekki til neins að láta það í ljós við neinn. Það var ekki til neins, þó að móðir hans skrifaði honum. Hún varð að tala við hann. Þau urðu að tala saman og sættast. Hún varð að sækja hann í kaupstaðinn og koma einmitt á hinni réttu stundu. Þetta var eina ráðið, - og líka hið síðasta. En hvernig yrði því komið í framkvæmd? Og hvenær var hin rétta stund?
Samtalið leiddist smátt og smátt að öðrum efnum.
"Er ekki voðalega slarksamt hér í kaupstaðnum?" spurði Halla. "Er nokkurs staðar friður fyrir drykkjuskap og svalli?"
"Víst er hér slarksamt," mælti María. "En hitt held ég fari mest eftir því, hvernig menn búa í haginn fyrir sig. Ég hefi átt hér heima yfir 20 ár, og aldrei hefir slark eða drykkjusvall orðið mér eða mínum að meini. Aldrei hefir heimilisfriði mínum verið raskað, aldrei hefir verið brotið neitt eða skemmt hjá mér. Ég hefi enga greiðasölu. Hingað koma ekki aðrir en vinir mínir. Svallarar hafa ekkert hingað að gera. Þeir vita líka, hvert þeir eiga að fara, síðan veitingahúsið var byggt. Mér er ánægja að komu góðra gesta; ég veit að þú kannast við það frá Heiðarhvammi. En ég hefi óbeit á slarki og svalli, og það sneiðir líka hjá mér."
Halla hlustaði ekki nema til hálfs á það, sem María sagði, þó að hún svaraði henni eða spyrði hana við og við. Hún gat ekki um annað hugsað en Þorstein. Eftir að hún hafði séð hann um daginn og eftir allt það, sem hún hafði heyrt af honum, var henni enn þá annara um hann en áður. Nú vissi hún, í hvílíkum voða hann var staddur.
Hún þóttist þess fullviss, að hún þekkti hann betur en nokkur manneskja önnur, betur en foreldrar hans. Hún hafði séð dýpra inn í hug hans en nokkur annar. Hún hafði séð hann sitja grátandi yfir líki unnustu sinnar, og hún hafði séð hann standa eins og þjóf við dyr móður sinnar. Þetta hafði enginn séð nema hún. Ef til vill vissi hún ein til fulls, hve góðan mann hann hafði að geyma og hve vandfarið var með hann.
En hún vissi jafnframt, að hún átti ekkert rúm í hjarta hans. Það átti enginn nema móðir hans, - sem hann þó hataði á yfirborðinu og gerði allt til ills.
Hún varð því að fara krókaleiðir, ef hún vildi nokkru fram koma.
Allt í einu heyrðust hróp og hávaði utan úr kaupstaðnum.
Halla hrökk saman. "Það er hann," mælti hún hálfhátt fyrir munni sér.
"Hvaða vitleysa!" mælti María og leit á hana stórum augum.
"Ég er viss um það," mælti Halla með meiri hægð en áður. Hún fann, að hún hafði komið upp um sig. Jafnframt hugsaði hún til Norðmannanna frá því um daginn.
Þær litu báðar út um gluggann.
Niðri á svæðinu milli húsanna sást maður verja sig með bjálka fyrir mörgum mönnum, sem að honum sóttu.
Það var Þorsteinn.
Halla brá við undireins og hljóp út. María vakti Egil og menn hans í stofunni og kom svo á eftir henni.
Þorsteinn hafði setið fyrir Norðmönnunum, sem gert höfðu hróp að honum um daginn, þegar þeir komu út úr veitingahúsinu. Á bryggjunni veitti hann þeim snarpa og óvænta atlögu og sópaði þeim öllum í sjóinn.
Þá komu fleiri af félögum þeirra til liðs við þá. Þorsteinn hörfaði undan upp að húsgrindinni, sem hann var að timbra saman. Þar tók hann einn bjálkann og barði honum í kringum sig.
Nú streymdu menn að úr öllum áttum. Þó var það engin nýlunda lengur að sjá Þorstein berjast einn gegn mörgum.
"Ta' Bjælken fra ham! Ta' ham og bind ham, det Bæst!" öskraði einn Norðmaðurinn, stærðarrumur, og eggjaði landa sína fast. Sjálfur óð hann fram á völlinn, en fékk þá högg af bjálkanum, svo að fótum kastaði fram yfir höfuð. Þar lá hann og var óvígur.
"Hent Politiet! - Hent Sysselmanden!" grenjuðu margir í einu. Sumt af því voru Íslendingar, er tóku undir með Norðmönnunum. En enginn þeirra hætti sér undir bjálka Þorsteins.
Í því bili komu þær að, Halla og María.
"Þorsteinn, stilltu þig í guðs bænum!" hrópaði Halla til hans. "Gerðu það fyrir mig að hætta þessu!"
Þorsteinn leit til hennar. Síðan henti hann frá sér bjálkanum og ætlaði að ganga frá leiknum.
En varla hafði hann fyrr sleppt bjálkanum en Norðmennirnir réðust á hann í einni þvögu.
Þorsteinn varðist hraustlega, barði þá vægðarlaust með hnefunum og fleygði þeim niður hverjum um annan þveran.
Norðmennirnir beittu sömu bardagaaðferðinni, sem þeir voru vanir að beita sín á milli. Þeir börðust með brugðnum rýtingum, en héldu fingrunum fram undir oddi. Tilgangurinn var sá, að reka ekki rýtinginn á kaf, heldur pikka og rispa með honum.
Þorsteinn kannaðist við brögð þeirra og varðist þeim fimlega. Samt komu þeir á hann stöku lögum.
Nú ætluðu Íslendingar, sem að voru komnir, að fara að stilla til friðar. Norðmennirnir hörfuðu þegar undan; enda voru þeir búnir að fá nóg af leiknum.
En Þorsteinn eirði engu. Það var kominn á hann berserksgangur. Honum hafði sárnað það, að landar hans stóðu svo lengi hlutlausir hjá jafnójöfnum leik. Nú lamdi hann hvern þann niður, er hætti sér undir högg hans, hvaða erindi sem hann átti.
Halla kallaði aftur til hans og bað hann að stilla sig. Hann gaf því engan gaum.
Loks hlupu margir menn á hann í einu, svo fljótt og samtaka, að hann kom engum höggum við. Hann stóð þó enn um stund og hlóð mönnum niður í kringum sig, en brátt var hann ofurliði borinn. Hann féll, og mannaþvagan lagðist ofan á hann.
"Farið ekki illa með hann, farið ekki illa með hann!" hrópuðu þær Halla og María, og tóku margir undir það með þeim. Alltaf hafði bætst við áhorfendurna, þar á meðal kvenfólk.
En nú létu þeir kné fylgja kviði, sem Þorsteinn hafði leikið harðast í síðustu viðskiptunum. Þeir settu knén fyrir bringspalirnar á honum og hnúfana í hálsinn á honum og hrópuðu í sífellu: "Viltu vera góður, lagsmaður?"
Þorsteinn gafst ekki upp. Hann gat lítið hreyft sig og varla náð andanum. Hann braust þó um og játaði því ekki, að vera góður.
Þeir þjörmuðu honum því fastara.
Það smádró af honum og umbrotin urðu aflminni.
"Veltið honum á grúfu og berið hann þannig!" sagði langur kaupstaðarsláni, sem stóð utan við áflogin og hélt höndunum í vösunum. "Þá getur hann ekkert, áflogaseppinn sá arni."
Þetta fannst hinum mesta þjóðráð. Eftir nokkrar stimpingar voru þeir búnir að koma Þorsteini á grúfu. Þannig tóku þeir hann upp, svo margir sem að honum komust, og báru hann áleiðis heim að svefnlofti hans, sem var uppi yfir beykisbúð Þorgeirs.
"Blóð!" hrópaði einhver upp, sem horfði á þessar aðfarir. "Það rennur mikið blóð úr manninum."
Þeir, sem báru Þorstein, skeyttu því ekkert og héldu áfram. En blóðferillinn lá eftir, þar sem þeir fóru.
"Sleppið honum!" var hrópað með þrumandi grimmdarröddu. Egill gamli í Hvammi var kominn til sögunnar. Hann kom hlaupandi, stökkvandi, eins og tvítugur piltur, með steytta hnefana. Skyrtan flakti frá berri bringunni, og hvítar hærurnar blöktu í kvöldgolunni.
Þrír karlmenn voru rétt á eftir honum.
Egill stökk umsvifalaust á hópinn kringum Þorstein og barði á báðar hendur. Hnúfarnir á honum þóttu ekkert mjúkir, og menn gripu um blettina, þar sem höggin höfðu á komið.
Þessi óvænta atlaga tvístraði hópnum í allar áttir. Menn létu Þorstein lausan og hrukku nokkur skref frá honum. Þar námu þeir staðar og hugsuðu sig um. Þeim leist ekki á að byrja leikinn að nýju við Egil og húskarla hans, - einkum ef Þorsteinn skyldi standa upp aftur.
Egill stóð við um stund og beið, ef einhver skyldi vilja fást meira við hann. Það var sem eldur brynni úr augum hans.
Hinir struku óbætt eymslin og snautuðu burt.
Halla og María voru komnar Þorsteini til hjálpar. Hann var mjög blóðugur og hóstaði upp miklu blóði.
"Hjálpið honum heim til mín," mælti María.
Egill tók því þakksamlega, og Þorsteinn var studdur heim að Maríugerði. Hann var svo máttfarinn, að hann gat ekki gengið einsamall.
Í annan stað voru Norðmennirnir að stumra yfir þeim, sem orðið hafði fyrir bjálkanum. Hann hafði fengið bláan og blóðugan kjamma, var viðbeinsbrotinn og enn þá í hálfgerðu roti.
Allir aðrir voru rólfærir heim til sín.
7. Barátta milli lífs og dauðaÞorsteinn var lagður í rekkju þá, sem Egill hafði staðið upp úr.
Læknis kaupstaðarins var vitjað. Hann gat lítið að gert annað en gefa ráð og meðul, sem áttu að stemma blóðrásina. Hann kvað æðar hafa slitnað í hálsinum og taldi auðsjáanlega litla von um bata.
Eftir að Þorsteinn hafði tekið inn meðalið, seig á hann eins konar ómegin. Hann hóstaði sjaldnar, og blóðið, sem hann hóstaði upp, var hlaupið í lifrar. En andþrengslin voru svo mikil, að honum lá við köfnun. Lungnapípurnar voru hálfstíflaðar af blóði og hálsinn bólginn eftir misþyrmingarnar.
Þær vöktu báðar yfir honum um nóttina, Halla og María.
Egill lagðist niður frammi í stofunni hjá mönnum sínum, en sofnaði ekki blund um nóttina. Hann var eftir sig eftir þær geðshræringar, sem hann hafði komist í, og hugsanir hans um Þorstein héldu honum vakandi.
Þegar leið á nóttina, sofnaði Þorsteinn. Blóðhóstinn var þá hættur, en andþrengslin eins.
Allan daginn eftir lá hann milli heims og helju. Halla og María sátu þá hjá honum til skiptis og hjúkruðu honum eftir föngum. Þann dag var Egill að ljúka erindum sínum í kaupstaðnum og sendi lestina heim á leið um kvöldið. Sjálfur varð hann eftir um nóttina, til að vita, hverju fram færi um heilsu Þorsteins.
Læknirinn kom aftur til Þorsteins undir kvöldið og gaf þá betri vonir um bata en áður. Þó taldi hann sjúklinginn langt frá úr allri hættu.
Þegar Egill bjóst til heimferðar morguninn eftir, mælti hann við Höllu, að sér þætti undur vænt um, ef hún vildi vera þar eftir og hjálpa Maríu til að stunda Þorstein, á meðan hann væri svo þungt haldinn. Þann greiða skyldi hann muna henni lengi.
Halla játti því undireins. Henni hafði að vísu ekki komið til hugar að fara frá Þorsteini, fyrr en hann væri úr allri hættu. Þó þótti henni vænt um, að Egill taldi sér þægð í því.
8. Halla hugsar ráð sittBati Þorsteins fór hægt. Nokkra daga var hann rænulítill. Og þegar hann fékk rænuna aftur, byrjaði angur og hugarstríð svo sárt og átakanlegt, að það var þyngra en líkamlega vanheilsan. Þá sá hann með ógn og skelfingu hve nærri hafði legið, að hann yrði manni að bana.
Hann gat ekki um annað hugsað eða talað en það eitt. Hann taldi það guðs vernd einni að þakka, að hann hafði frelsast frá annarri eins ógæfu.
Af Norðmanninum gat hann engar fréttir fengið. Daginn eftir áflogin hafði skipið, sem hann var á, létt akkerum og siglt eitthvað út í ísinn. Þá hafði læknirinn að vísu verið búinn að binda um hann, en þó verið tvísýnt um, hvort hann lifði.
Þessar fréttir sefuðu Þorstein lítið. Það var sem hann tryði því ekki með nokkru móti, að maðurinn væri lifandi, nema hann fengi að sjá hann og sættast við hann. Líklega væri hann orðinn manndrápari.
Þessar hugsanir kvöldu hann dag og nótt.
Læknirinn kom daglega til hans, og Þorgeir leit inn til hans við og við. - Þó að hann sæi Höllu þar, minntist hann ekki með einu orði á það, sem þau höfðu talast við.
Þorsteinn tók öllum heimsóknum þurrlega og talaði sama sem ekkert við þá, sem til hans komu. Honum var ami að gestum.
Halla sat oftast nær í stofunni fyrir framan herbergi hans með handavinnu, sem hún hafði aflað sér. Hún talaði ekki við hann, nema þegar hann kallaði til hennar. Hún sá það á honum, að honum var það kærast. Hún vissi líka, að honum var á móti skapi, að hún eða nokkur manneskja önnur sæti inni hjá honum. Hann vildi vera einsamall.
Hann þagði mestallan daginn og kallaði sjaldan til hennar. Hún sat einnig hljóð - og hlustaði.
Hún hlustaði eftir hverju andvarpi, hverri stunu, sem leið frá brjósti hans, hverri bæn, sem bærði varir hans, - hverri geðshræringu hans.
Og hún hlustaði ekki árangurslaust. Á þennan hátt komst hún að hugsunum hans og baráttu þeirri, sem hann átti í við sjálfan sig.
Betur og betur komst hún að því, að honum var hörmungaástand sitt fullljóst, en hann gat ekki bætt úr því. Eitthvað, sem bjó í honum sjálfum, rak hann áfram miskunnarlaust, rak hann áfram með sporðdrekum, eins og grimm refsinorn.
Lengi hafði hann reynt að sökkva sorgum sínum í nógu sterkum drykkjum. Það tókst ævinlega um stund. En þegar þær risu aftur upp úr lauginni, voru þær magnaðri en áður og höfðu þá ævinlega eignast eina systur í viðbót.
Oft hafði hann ætlað að drekka sig í hel, en ekki tekist það. Náttúran hafði gætt hann lífsmagni, sem ekkert vann á til fulls. Hann gat ekki einu sinni drukkið sig í varanlegt geymslumók, svo að hann hefði frið fyrir minningum sínum. Hann gat aðeins drukkið sig veikan - og sekan.
Í örvilnun sinni ákallaði hann einhverja yfirnáttúrlega hjálp og huggun. Hann brann af þorsta eftir einhverju, sem gæti tekið hann í faðm sér og huggað hann eins og barn.
Hugur hans vafðist í einhverri kynlegri sturlun milli brennandi bænar og sárustu örvæntingar. Halla heyrði hann þylja bænir í sífellu, en þess á milli bylta sér og andvarpa óþolinmóðlega út af bænheyrsluleysinu.
Allt þetta sannfærði Höllu betur og betur um það, að hún hefði hitt á rétta ráðið. Hann þurfti að komast til móður sinnar aftur.
Hann þurfti að njóta manneskju að, sem væri miklu viljasterkari en hann sjálfur og gæti miðlað honum styrk á meðan hann væri að rétta við. Þetta gat enginn nema móðir hans.
Hann þyrfti að hníga í faðm hennar eins og hjálparlaust barn og uppeldi hans að byrja að nýju.
- Á meðan Halla sat yfir Þorsteini sjúkum, hugsaði hún einnig ráð fyrir sínum eigin högum.
Síðan María gamla hafði gist hjá henni, og þó einkum síðan Þorgeir talaði við hana, hafði hún hugsað mikið um Maríugerði.
Þorgeir hafði sagt satt. Hún mundi kunna því illa að verða vinnukona að nýju, enda efasamt, að hún yrði nú eins góð vinnukona og hún hafði verið fyrir 10 árum. Það fór hrollur um hana við það eitt, að hugsa til blautu mýranna, sem vinnukonur í sveitunum yrðu að standa í frá morgni til kvölds.
Og ótækt var að ala Halldór litla upp á flækingi úr einum staðnum í annan.
Nú hafði hún skoðað Maríugerði í krók og kring og litist vel á það. Húsin þar voru miklu betri og stæðilegri en þau, sem hún hafði búið við í Heiðarhvammi. Og allstór kálgarður fylgdi eigninni.
Þar gat hún átt viðfelldinn samastað og þó átt heimangengt. Þar gat hún veitt þeim viðtökur og gert þeim greiða, sem reynst höfðu henni vel í bágindum hennar. Og þar gat hún ef til vill aflað Halldóri litla meiri menntunar og þægilegri vinnu en í sveitinni. Þá liði ekki á löngu, þar til hann gæti farið að vinna fyrir henni.
Samt var hún hikandi. Hún var hrædd um, að hún yndi sér illa í margmenninu eftir að hafa verið svo lengi til fjalla. Og hún var hrædd við sollinn og drykkjuskapinn.
Loks lagði hún úrlausn þessarar spurningar á vald ófyrirsjáanlegra atvika.
Hún hét á sjálfa sig. Ef henni tækist að sætta þau Þorstein og móður hans og koma honum heim að Hvammi, - þá ætlaði hún að kaupa Maríugerði.
9. "Síðustu daga heilagir"Egill í Hvammi kom aukaferð í kaupstaðinn nokkrum dögum eftir að hann fór heim, til þess eins að vita, hvernig Þorsteini sínum liði.
Hann kom inn að rekkju Þorsteins, heilsaði honum föðurlega og spurði, hvernig honum liði, en fékk ekkert svar.
Þorsteinn hafði þá tekið það fyrir að sinna engum, þiggja ekki neitt af neinum og svelta sig í hel. Það var síðasta heimskan, sem hin sjúka sál hafði fætt af sér.
Egill talaði til hans hvað eftir annað. Halla reyndi það sama, en það varð ekki til neins. Þorsteinn vakti, en það var sem væri hann heyrnarlaus og tilfinningarlaus.
Egill reyndi langan tíma og ætlaði ekki að gefast upp. Loks sneri hann frá honum aftur, yfirkominn af sorg og hugraun, vonlaus og ráðalaus.
Halla fylgdi honum út í anddyrið, lét stofuna aftur og mælti við hann hljóðlega:
"Móðir hans þarf að koma."
Egill þagði lengi og hristi höfuðið.
"Það er ekki til nokkurs hlutar," mælti hann loks.
Halla sagði honum þá, á hverju hún byggði þessa skoðun, og spurði hann, hvort ekki mundi mega takast að koma Borghildi í kaupstaðinn.
Egill fór að hugsa sig betur um.
"Ég held nú, að hún gæti setið á hesti, ef vel væri búið um hana og hægt væri farið," mælti hann. "Og tveir hestar mundu bera hana til skiptis. - Að minnsta kosti er vert að reyna það."
Það glaðnaði yfir gamla manninum við nýja von.
Halla fór aftur inn í stofuna til sjúklingsins, en Egill reið á stað heimleiðis.
- - Um það leyti sem Egill reið úr kaupstaðnum, stóðu kaupstaðarbúar úti og horfðu á nýstárlega sjón. Gufuskip var að koma inn á voginn.
Það var strandferðaskipið, gamall þrísigldur eikarsleði, sem gufuvél hafði verið sett í. Það hafði orðið að snúa aftur við næsta nes vegna hafíss og hleypti nú til hafnar.
Skipið lagðist við akkeri og menn af því komu í land.
Halla gaf þessu engan gaum. Hún sat við vinnu sína og leit út um gluggann við og við.
Ys og þys var um allan kaupstaðinn. Margir sveitamenn voru þar enn í kaupstaðarferðum, og nú bættust við gestir af skipinu. Veður var kyrrt, og voru margir úti.
Allt í einu heyrir Halla söng og hljóðfæraleik úti á svæðinu milli Maríugerðis og verslunarhúsa Þorgeirs. Hún leit út og sá mikinn hóp manna standa þar umhverfis nokkra menn, sem spiluðu og sungu.
Rétt á eftir kom Halldór litli másandi og blásandi af ákafa inn í stofuna og hrópaði:
"Maðurinn spilar á fíólín, eins og það sem ég á, - sem þú geymir fyrir mig. Komdu út og sjáðu. Komdu, komdu!"
Halla ætlaði engan gaum að gefa kvabbi drengsins, en þá kom María gamla ofan af lofti. Hún hafði séð þetta sama, og vildi hún fá Höllu út með sér til að sjá það betur.
Halla leit inn til Þorsteins og gat ekki betur séð en að hann svæfi. Hún lét þá til leiðast og fór út með þeim Maríu og Halldóri.
Í miðjum hópnum stóð útlendur maður, berhöfðaður, með ýms einkenni á fötunum, sem áttu að sýna, hvers sendimaður hann væri. Hann lék á fíólín og söng sálma á rambjagaðri íslensku. Þess á milli hélt hann ræður á útlendu máli.
Við hlið hans stóð annar maður, íslenskur, með lík einkenni á fötunum. Hann söng með honum sálmana og þýddi fyrir hann ræðurnar.
Hjá þessum mönnum stóðu fáeinar hræður í þéttum hnapp. Þær báru sig að öllu eins og foringjarnir, sungu eða réttara sagt vældu undir, þegar þeir sungu, en spenntu greipar og settu upp dæmalausan guðræknissvip, þegar þeir voru að prédika eða biðja.
Á meðal þessara manna voru þau Setta frá Bollagörðum og Þorbjörn bróðir hennar.
Þessu var þannig farið, að þegar þau systkinin komu úr hegningarhúsinu, höfðu þau dvalið í Reykjavík, búið þar saman og unnið fyrir sér á ýmsan hátt. Þau höfðu sparað allt hvað þau gátu og þeim tekist að reyta saman dálitla fjárupphæð.
Í Reykjavík höfðu þau komist í kynni við þessa trúboða. Þau höfðu séð sér hag í því í bráðina að aðhyllast kenningar þeirra, og því látið "frelsast"; nú var hópurinn á leið til Ameríku.
Útlendi trúboðinn var hár maður, fríður sýnum, en undarlega þunglyndislegur á svipinn. Það var auðséð á honum, að hann mundi tvennar tíðir. Hinn íslenski félagi hans var af öðru sauðahúsi og bar lítið af þeim Þorbirni og Settu.
Setta var ljómandi af ánægju og hélt sér alltaf fast við hliðina á foringjanum, eins og hún væri hrædd um, að einhver tæki hann frá sér. Þorbjörn stóð álútur, dæmalaust iðrandi á svipinn og gerði totu á munninn, þegar hinir voru að biðja upphátt.
Á eftir einum sálmasöngnum tók Setta til máls. Hún var ekki feimin, talaði hátt og hló við og gaut í kringum sig módökkum augunum eins og flírinn hundur.
Hún lýsti því yfir, að nú væri hún frelsuð af öllum syndum sínum, þvegin hrein í blóði lambsins. Hún svæfi með guð sinn í faðminum á hverri nóttu og væri svo sæl, - ó, svo ósegjanlega sæl, því að nú væri hún frelsuð og heilög og flekklaus. Hún lýsti því með mörgum og átakanlegum orðum, hvað hún hefði verið syndug, - lét þess þó ógetið, að hún hefði verið sauðaþjófur, en svört af syndum hefði hún verið, en nú væri hún orðin hvít eins og snjór eftir blóðþvottinn. Guð hennar hefði vitjað hennar í dýflissunni, eins og Péturs - eða Páls, hún mundi ekki hvor þeirra það var, - og lokið upp fyrir henni og vísað henni á veg sáluhjálparinnar og leitt hana inn í Laugar til að skírast. Allir, sem ekki gengju hennar veg, væru eilíflega glataðir. En nú gætu allir frelsast, fyrst hún hafði getað frelsast. -
Ræðan var löng hjá Settu, - og hún grét á meðan hún talaði, ýmist af gleði yfir frelsun sinni, eða sorg yfir fyrirsjáanlegri glötun annarra. Hún hallaði höfðinu á ská, og munnvikin toguðust ýmist upp eða niður. Andlitið var allt á hreyfingu af málandaákefðinni. Foringinn fór að hnippa í hana, þegar honum þótti nóg komið, en Setta var ekki á því að hætta. Loks byrjaði hann sálminn án þess hún væri þögnuð.
Næst átti Þorbjörn að taka til máls.
Það var engin ræða, sem hann hélt, heldur einhver þula, sem tuggin hafði verið í hann utan bókar. Hún var um frelsunina frá syndunum, þvottinn í blóði lambsins og endurfæðinguna og helgunina o. s. frv. Hann jóðlaði hana ofan í bringu sína og var búinn með hana fyrr en nokkurn varði.
- Halla stóð álengdar og á bak við Maríu, svo að Setta skyldi síður koma á hana auga.
Hinum megin í mannhringnum stóð Þorgeir verslunarstjóri og - séra Halldór á ...stað.
Prófasturinn kímdi fyrirlitlega að þessari "guðsdýrkun". Þó var einhver beiskja í glottinu, eins og hjá manni, sem horfir á skrípamynd af sjálfum sér.
En hann talaði ekki um það. Hann stóð við hliðina á mesta höfðingja kaupstaðarins og bar höfuðið hátt, því að hann var sjálfur álíka höfðingi. Guðsdýrkunaraðferð hans var studd af lögum og venjum; enginn hneykslaðist á henni. Það var allt lærðara og leiknara, - hræsnin líka.
Ein perla var þó í öllu þessu safni. Það var fíólínsleikur foringjans. Tónarnir voru hreinir og mildir og báru af söngnum, sem fylgdi þeim, eins og gull af blýi. Hann strauk strengina mjúkt og hiklaust, og það var einhver þunglyndisklökkvi í hreimnum. Í þessu var hann að minnsta kosti einlægur. En hverjar sorgir söng hljóðfærið? Og hvers vegna var þessi maður í þessum félagsskap?
Ef til vill tók enginn betur eftir þessu en Halldór litli. Hann sá og heyrði ekkert annað en fíólínið. Tónarnir drupu eins og eldregn á sál hans, brenndu sig inn í meðvitund hans og vöktu hjá honum óslökkvandi þorsta eftir því, að geta laðað fram aðra eins tóna á hljóðfæri það, er hann átti sjálfur og var eins og þetta.
Þegar þær Halla og María sneru heim aftur, sáu þær Þorstein standa við opinn stofugluggann.
Hann hafði heyrt óminn af sálmasöngnum inn í rúm sitt. Hann hafði látið honum í eyrum eins og herskarar hinnar yfirnáttúrlegu huggunar, sem hann þráði, væru að nálgast.
En þegar hann sá, hverjir það voru, sem fagnaðarerindið fluttu, þá fór viðbjóðshrollur um hann. Hversu fögur sem orðin voru, urðu þau að vellulegasta skvaldri við það, að koma út um munninn á Settu frá Bollagörðum. Og bænirnar, sem fluttar voru með þessum andstyggilega leikaraskap, voru honum andlegt pestnæmi. - Og nú minntist hann þess, að eitthvað áþekk þessu var í raun og veru meðferðin á öllu þessu svonefnda guðsorði, sem hann hafði heyrt. Alls staðar fylgdu því einhver skrípalæti, eitthvert gjálfur og vaðalsskvaldur, og alls staðar gat það verið handhæg ábreiða yfir flónsku og fúlmennsku.
Hann fór aftur til rúms síns, beygðari og örvæntingarfyllri en áður, eins og maður, sem beðið hefir um brauð, en fengið stein.
10. Móðir og sonurHalla taldi stundirnar með óþreyju, þar til von gat verið á Agli til baka og Borghildi með honum, ef hún treysti sér til fararinnar.
Eitt kvöld sat hún þegjandi við vinnu sína og leit út um gluggann við og við. Hún var búin að sjá til mannaferða ofan í kaupstaðinn, og þóttist þekkja, hverjir það væru.
Þá kom Halldór litli inn og hrópaði með miklum ákafa í dyrunum:
"Egill -!"
Meira fékk hann ekki að segja, því að Halla þaggaði niður í honum. Þorsteinn varð einskis annars var en að faðir hans mundi vera að koma.
Halla fór þá út til að taka á móti Agli og Borghildi.
- Þorsteinn reis upp í rekkju sinni og starði forviða á þetta holdahlass, sem verið var að styðja inn úr stofudyrunum. Dálitla stund var sem æði mundi grípa hann. Svo lét hann fallast á koddann og lá kyrr sem áður.
"Þorsteinn minn," stamaði Borghildur undur blíðlega, með hálfafllausum talfærunum. "Þorsteinn minn. Má ég koma til þín?"
Þorsteinn lá kyrr og svaraði engu.
"Þorsteinn minn! Elsku drengurinn minn! Þekkirðu nú ekki móður þína? Sérðu ekki, hvílíkur aumingi ég er orðin?"
Borghildur staulaðist hægt og hægt inn eftir stofugólfinu. Með annarri hendi studdi hún sig á hækju sína, en hinni á handlegg Höllu.
Þegar hún var komin fast inn að dyrunum á herberginu, leit Þorsteinn upp sem snöggvast. Það var auðséð á svip hans, að hann ætlaði að hrópa: "Burt með þig!" en hætti við það, þegar hann sá, hvílíkur vesalingur móðir hans var. Hann lagði aftur augun og þagði sem áður.
"Þorsteinn minn! Elsku Þorsteinn minn!" mælti Borghildur og röddin titraði. "Fyrirgefðu henni móður þinni, sem nú er orðin farlama aumingi, krossberi. Líttu upp, elsku barnið mitt, líttu á mig. Það er varla von, að þú þekkir mig."
Ekkert svar.
Í dyrunum sleppti Borghildur hendi Höllu og staulaðist einsömul inn að rúminu. Hækjuna reisti hún upp við rúmstokkinn, þó að hún gæti varla staðið án hennar, og rétti hægt fram báðar hendurnar yfir brjósti Þorsteins.
"Þorsteinn minn! Þorsteinn minn! Fyrirgefðu mér gamlar sakir og vertu góður við mig," mælti hún grátandi.
Þorsteinn svaraði engu, en tárin glitruðu í augnahárum hans.
Borghildur lét þá fallast ofan að brjósti hans. Þorsteinn vafði handleggjunum utan um hana og faðmaði hana að sér með slíkri ákefð, að hún náði vart andanum.
Þau Halla og Egill stóðu frammi í stofunni. Höllu lá við að gráta af gleði.
Egill þagði lengi, eins og hann tryði ekki eigin augum. Svo strauk hann tár af kinn sér með handarbakinu og mælti:
"Guð blessi þig, Halla mín! Þetta er þér að þakka."
11. Fátt um kveðjurNokkrar nætur dvaldi Borghildur í Maríugerði hjá syni sínum, á meðan hann var að hressast betur og sætt þeirra mæðginanna að fá meiri festu.
Egill fór heim á meðan og hafði allan viðbúnað til að flytja Þorstein sinn heim. Nú þurfti ekki að efast um, að það væri auðsótt.
Búið var um Borghildi í stofunni, þar sem Halla hafði setið. En hún flutti upp á loft til Maríu gömlu. Nú var hvorug þeirra í stofunni að staðaldri; þær komu þangað aðeins, þegar á þeim þurfti að halda.
Gleði þeirra Þorsteins og Borghildar var mikil yfir sættinni. Bæði höfðu þau þráð hana, hvort í sínu lagi. Nú nutu þau þessa fagnaðar í fullum mæli. Og Þorsteinn vildi helst ekki, að nokkur manneskja kæmi nálægt honum önnur en móðir hans.
Hann gerði allt fyrir hana, sem hún bað hann um, eins og þægt og eftirlátt barn. Aldrei spurði hann eftir Höllu, Maríu eða neinum, sem áður höfðu komið til hans. Nú var móðir hans honum allt í öllu. Hann virtist gleyma öllum öðrum.
Borghildur var á fótum á hverjum degi og staulaðist milli stofunnar og herbergisins. Oftast sat hún hjá rúmi Þorsteins og hélt um hönd hans. Þá mæltust þau margt við í hljóði, sem engum var ætlað að heyra.
Þorsteinn fór einnig að klæða sig. Dag frá degi hresstist hann.
- Egill kom með menn og hesta á tilteknum degi. Þau Þorsteinn og Borghildur voru þá búin til heimferðar.
Þorsteinn var fölur og máttfarinn. Þó gekk hann óstuddur út að hesti sínum.
Halla og María og Halldór litli voru úti stödd til að kveðja þau.
Það tók tíma og umsvif að koma Borghildi á bak. En þegar það var búið, kvaddi hún Maríu með miklum þökkum, en hvorki Höllu né Halldór litla.
Sama gerði Þorsteinn. Þau voru bæði sannfærð um, að Halla og Halldór yrðu þeim samferða heimleiðis.
Síðan héldu þau á stað, og fylgdarmennirnir með þeim.
María gekk inn í bæ sinn, en Halla stóð úti og horfði á eftir hópnum. Hún var frá sér numin af fögnuði, en þó glitruðu tár í augum hennar.
Agli dvaldist eftir. Hann gekk þá til Höllu og mælti:
"Ég kom með hesta handa ykkur Halldóri litla. Verðið þið okkur ekki samferða?"
Halla brosti glaðlega.
"Ég ætla að verða hér eftir fyrst um sinn," mælti hún. "Ég hefi keypt þennan bæ af Maríu gömlu Ragúelsdóttur. Mér er forvitni á að vita, hvernig ég kann við mig í honum, þegar allir kunningjar eru farnir."
Egill glápti á hana orðlaus af undrun.
"Keypt -?" sagði hann. "Gastu það? Vantar þig ekki peninga?"
"Nei," mælti Halla. "Ég hefi meira að segja von um að eiga ofur lítinn afgang."
Egill virti hana fyrir sér hátt og lágt. Aldrei hafði hann séð hana tápmeiri og ótrauðari en nú. Það var sem hefði hún yngst um mörg ár. Oft hafði hann dáðst að henni, en aldrei meira en nú. Undanfarnar raunir og þrautir höfðu lítil merki sett á útlit hennar og engin á hetjuhug hennar. Nú var hún að leggja út í nýtt líf, og kveið því ekkert. Henni voru allir vegir færir.
"Og Borghildur mín og Þorsteinn kvöddu þig ekki einu sinni" mælti hann og horfði ýmist á Höllu eða á eftir hópnum.
"Það var ekki von," mælti Halla. "Þau vissu ekkert um þetta ráðabrugg. Ég bið hjartanlega að heilsa þeim. Ég kem bráðum heim að Hvammi til að sækja dótið mitt."
Það talaðist nú svo til, að hún skyldi hafa hestana hjá sér og nota þá, þegar henni þóknaðist. Svo bauð Egill henni aðstoð sína, bæði nú og síðar, þegar hún þyrfti á að halda.
"Guð blessi þig, Halla mín," mælti Egill að skilnaði og rétti fram harða og hnúfabera höndina. "Ég þakka þér í nafni okkar allra fyrir það, sem þú hefir gert fyrir okkur, og óska þér hjartanlega til hamingju!"
12. Heiðarbýlið að skilnaðiHeiðarhvammur stóð í eyði.
Göngin féllu niður undan snjóþyngslunum og kofarnir sjálfir sliguðust.
Þilið fauk framan af bæjardyrunum. Langan tíma ginu þær við vegfarendum, sem af heiðinni komu, eins og opinn hvalskrokkur, þar sem skinin rifin halda uppi skorpnum þvestunum.
Egill lét þá vinnumenn sína draga raftana undan rofi þeirra húsa, sem fallin voru, og flytja þá heim í eldinn.
Hitt var látið hanga uppi og fúna, þar til það drafnaði niður.
Baðstofan stóð lengst. Glugginn, þar sem Jósep gamli hafði brennt kertum sínum til að lýsa mönnum af heiðinni, starði nú út á heiðina eins og dimmt, brostið auga.
Það varð að samkomulagi milli Egils og sýslunefndarinnar, að halda skyldi baðstofunni við, til þess menn gætu leitað sér þar skýlis í lífsnauðsyn. Hún var sæluhús um nokkur ár og geymdi í sér glerharðan klaka fram undir haust. Loks féll hún líka og gras greri yfir tóftirnar í Heiðarhvammi.
Árin liðu. Tóftirnar sigu saman og jöfnuðust við jörðina. Heiðarbýlið varð að ofur litlum þúfnaklasa, - ofur litlum kirkjugarði dáinna vona og dapurlegra minninga. Ofur litlum, haglega dregnum upphafsstaf að einum kapítula í byggingarsögu Íslands, sem ristur var í jarðveginn. - - -
- - En einn morgun voru menn þar á ferð sem oftar.
Formaður þeirra var Kjartan, yngsti bróðir Aðalsteins læknis í Hvammi. Hann var orðinn mannvirkjafræðingur, hafði farið víða um lönd og var nú í þjónustu landsstjórnarinnar að skoða vegastæði á heiðum og brúarstæði á ám. Hinir voru fylgdarmenn hans.
Þeir höfðu tjaldað í Heiðarhvammi og ætluðu að mæla brúarstæði á kvíslinni.
Þennan morgun stóðu þeir allir þrír uppi á fjallinu fyrir ofan Heiðarhvamm og litu yfir landið. Mannvirkjafræðingurinn brá sjónauka sínum fyrir augun við og við og horfði vestur á heiðina. Hann var að leita að heppilegri vegarstefnu.
Hinir mennirnir horfðu líka vestur á heiðina. Enginn þeirra mælti orð frá vörum.
Heiðin lá í brosandi morgundýrð. Vötnin voru í vexti og áin valt fram hvítfyssandi. Allt var baðað í brennandi sólskini.
Fjalldrapinn var orðinn laufgaður og engin græn. Hestarnir þeirra voru nærri því á kafi í grasinu, þar sem þeir stóðu á beit í höftum sínum.
Á bökkunum við ána dönsuðu stóðhrossin á afturfótunum eins og tamdir birnir.
Geldféð dreifði sér um tætturnar í Heiðarhvammi, fast hjá tjaldinu. Við og við heyrðist sár jarmur í lambi, sem ekki var búið að gleyma móðurspenanum.
Kjartan gaf þessari sumarfegurð lítinn gaum. Hann lét sjónaukann síga og starði berum augum út á heiðina.
Hann sá meira en förunautar hans og meira en hann gat séð í sjónauka sínum.
Hann sá sýnir.
Úti um alla heiðina sá hann mannabústaði. Þeir voru þéttastir kringum vötnin og meðfram ánum. Stórir, grænir sáðlendisgeirar voru vaxnir út í holtin og móana.
Þar skein á rauð þök og hvíta veggi. Þéttir, bláir reykir liðu í loft upp.
Langt, langt vestur á heiðinni var eitthvað á ferð. Það sást stöku sinnum og hvarf á milli. Glamparnir, sem það kastaði af sér, stungu hann í augun.
Það var líkast langri röð af stórum kössum með glerhliðum, sem blikuðu í sólskininu.
Þessi lest liðaði sig kringum hæðirnar eins og fagurskeljaður höggormur, fór ekki hart, en iðaði áfram, alltaf jafnt.
Við kvíslina, þar sem byggðin var þéttust, nam hún staðar, eins og til að fá sér að drekka. Þar beljaði áin á hverri stíflunni við aðra.
Þegar "höggormurinn" hafði svalað sér, skreið hann á stað aftur yfir steinboga á ánni og stefndi til fjallsins.
Fram undan lestinni var blaktandi, ljósgræn loðna á allri jörðinni, sem náði upp undir brúnir á fjöllunum. Það var nýgræddur skógur, fárra ára gamall.
Lestin óð hann eins og grænan reykjareim með jörðinni. Hún var prúð í framgöngu, hátignarleg eins og drottning, en lét þó ekki mikið yfir sér. Reykjarlaus og spegilgljáandi leið hún áfram hljótt og skarkalalaust. Bláir neistar hrutu undan hjólunum.
Andlit var við andlit í hverjum glugga.
Á móts við Heiðarhvamm gerði hún sveiflu á leið sína og renndi sér síðan skáhallt á fjallið.
Í skarðsbrúninni hvarf hún í djúpa skoru, eins og sjófugl, sem dýfir sér gegnum öldubrún. Áður en varði var hún komin út á hálsana.
Hann horfði brosandi á eftir henni. Hann vissi, hvernig á henni stóð.
Landsmálajötunn, sem ekki lét sér allt fyrir brjósti brenna, hafði lamið þetta fyrirtæki fram með flokksfylgi, þrátt fyrir óp og ýlfur mótstöðumanna sinna. Þeir rægðu hann frá völdum fyrir það - og héldu svo áfram verki hans.
Þegar Kjartan leit aftur yfir heiðina, var þar enn þá meira að sjá.
Býlunum hafði fjölgað og grænu geirarnir vaxið. Bylgjur risu á skógarbreiðunum, þegar blærinn leið yfir þær. Jafnvel grjótholtin voru að skrýðast.
Heiðin var að verða morandi kvik af bústöðum starfandi, hugsandi manna. Þeir þutu upp eins og álfabýli, urðu til í blárri, bragandi móðunni niðri við jörðina, léttir, gagnsæir eins og heimar, sem eru að skapast.
Hann sá út í endalausa framtíðina. - -
"Þegar járnbraut liggur hérna um heiðina, þá vildi ég eiga hvamminn þann arna," mælti hann við förunauta sína.
"Það verður aldrei," sögðu þeir báðir í einu með sama örvæntingar- höfuðhristingnum, sem jafnan fylgir þessu svari á Íslandi.
"Að ég eignist hvamminn, - nei. Þá verður hann orðinn mér of dýr."
"Hér kemur aldrei járnbraut."
Kjartan horfði hvasst á þá:
"Það verður ekki hægt að hindra það. Að öðrum kosti byggjast þessar heiðar aldrei upp."
"Þær byggjast aldrei upp. Hér er ólíft fyrir harðindum á veturna."
"Þegar Norðmenn komu hingað á níundu öld, náðu þessar heiðar til sjávar," mælti Kjartan. "Þær eru kostameiri en það land, sem nú er byggt og ræktað, en þær hafa farið varhluta af samgöngunum; þess vegna eru þær ónumdar enn þá. - Þegar samgöngubrautirnar flytjast hingað, verða hér undur og stórmerki, sem engan hefir enn dreymt fyrir. - - Hugsið ykkur móana þarna, þegar búið er að fletta þeim í sundur með plógi, bera í þá grasfræ og áburð og gera þá að túnum. Hugsið ykkur engin þarna, full af margföldum sinuþófa. Það er gras, sem vaxið hefir sjálfkrafa og kalið úti ár eftir ár. Það er illa varið auðæfum. Með lítils háttar umhyggju getur þetta gras orðið helmingi hærra og þéttara. - Lítið á ána þarna. Hún er féleg og knáleg ótemja. Hvað haldið þið hún mundi geta gert, ef hún væri haganlega beisluð? - Lítið þið þarna vestur á heiðarnar. Þetta, sem blikar á, eru heilsubrunnar; hugsið ykkur alla þá, sem sækja þangað styrk og hressingu á komandi öldum. - Og lítið á loftið, hve hreint og tært það er. Þið trúið því auðvitað ekki, að mesti fjöldi manna í heiminum lifir á loftinu, - lifir á því, að veita þeim viðtöku og selja þeim nauðsynjar sínar, sem leita hreina loftsins. - - Ef Íslendingar hafa ekki mannrænu í sér til að nema þessi heiðarlönd sjálfir, þá gera aðrir það. Þau eru miklu betri en mörg lönd, sem nú eru byggð og ræktuð, miklu betri en holtin og hörgarnir við sjóinn, sem nú er verið að græða upp."
Mennirnir hlustuðu þegjandi á þetta eins og hverja aðra fagra fjarstæðu. Þeir brostu að þessum framtíðarsjónum eins og meinleysisgreyjum, sem ekki tæki að mótmæla.
"Brautin kemur bráðum," hélt Kjartan áfram, "og þá rís hér upp blómlegt hérað að fjallabaki, - á rústum heiðarbýlanna."