1. kafli
Áratugurinn 1868 til 1878 er að mörgu leyti merkilegur í sögu Íslands. Þá verða meiri breytingar á fám árum en áður höfðu orðið á heilum öldum, og það einmitt breytingar, sem ná til hvers einasta manns í þjóðfélaginu. 1869 fær landið nýja hegningarlöggjöf, að ýmsu leyti mildari og mannúðlegri en þá, sem á undan var. Þrem árum seinna, 1872, er hreppstjóraeinveldinu yfir sveitunum lokið, og sveitirnar fá all-frjálslega sjálfsstjórn í öllum sínum eigin málum. Og tveim árum þar á eftir, 1874, fær landið allt sjálfstjórn og löggjafarvald.
Á sömu árunum verða stórstígar breytingar á verslun og viðskiptalífi. Ný peningamynt gengur í gildi, en hin gamla hverfur. Póstgöngur eru auknar með ári hverju, fjallvegir gerðir greiðfærari og byrjað á brúagerðum og vegabótum í sveitunum. Sigling til landsins og fram með ströndum þess fer óðum vaxandi og gufuskip hætta að vera nýlunda. Þá smádofnar yfir verslunareinokuninni, kaupstaðirnir vaxa og fara að verða birgari að vörum yfir veturinn og ofur lítið tekur að votta fyrir verslunarsamkeppni.
Allt þetta árabil eru umbrot mikil og hreyfingar í þjóðinni, sem snerta hugi allra fullorðinna manna og vekja marga nýta krafta til athafna. Þjóðin kennir lífs í sjálfri sér, sem hún hefir áður haft lítið af að segja. Fyrri hluta árabilsins er það stjórnarskrárbaráttan fyrri, sem mest hrífur með sér hugi manna. Ár hvert eru fundir haldnir í héruðunum og málið rætt og skýrt fyrir almenningi. Blöðum og ritlingum er dreift um landið og frelsissöngvar þjóðskáldanna berast á vængjum fagurra laga frá eyra til eyra og munni til munns um allt landið. Svo koma kosningar - fyrst til sveitarstjórna og héraðsstjórna, síðan til alþingis. Og kosningunum fylgja veðrabrigði, ekki stormar og stórviðri að vísu, en þó vekjandi, hressandi blær, og stundum stinningsvindur. Kosningarrétturinn er ódýrt, en dýrmætt nýnæmi, sem mörgum verður mikið um að fá. Og mörgum stendur ekki á sama, hvernig aðrir nota hann. Skyldurnar verða léttbærari, þegar réttindin fylgja. Mörgum fannst sem nú væri valdið komið í sínar hendur.
Og mitt í öllu þessu slær þúsund-ára-hátíðin rómantískan fagnaðarblæ á allt þjóðlífið. Aldrei hefir minningin um hina frægu fortíð Íslands blossað upp með meiri ljóma. Aldrei hafa vonirnar um viðreisn Íslands verið bjartari. Og þjóðhátíðin sjálf, með konungsheimsókn og herskipasendingar ýmsra þjóða, heyrir til glæsilegustu dögum Íslands.
Náttúran sjálf dubbaði þessi ár upp með óvenjulega tíðum stórviðburðum. Henni nægði ekki að láta þar skiptast á góðæri og harðæri, vetrarhörkur og sumarblíður, heldur skreytti hún hvern kapítula sögunnar með eldlegum upphafsstöfum. Árið 1872 kipptist allt Ísland við af fjörbrotum duldra jarðafla. Árið eftir (1873) sló bjarmanum um allt Norðurland af bálinu upp úr Sveinagjá. 1875 jusu Dyngjufjöll öskunni yfir allt Austurland með slíku afli, að drefjarnar bárust alla leið til Stokkhólms, og 1878 stóð eldstólpinn upp úr Krakatindi, við rætur Heklu gömlu.
Þannig er í fám dráttum hið sögulega baktjald þessarar sögu.
- - - - Þrjú ár eru liðin frá þeim atburðum, er síðast var sagt frá.En á þrem árum gerist margt. - Gamalmennin verða enn þá eldri og sum deyja, börn bætast við tölu mannanna og meyjar verða gjafvaxta:
Þetta hafði allt gerst í Dalasveit, sem Hvammur og Heiðarhvammur heyrðu til, - þetta og margt og margt fleira af því, sem að framan er talið. Allar breytingar áranna höfðu komið þar við og skilið spor eftir, svo djúp sum, að gömlu mennirnir, sem gamla laginu voru vanir, þóttust varla þekkja sveitina sína aftur.
Og fleiri en gömlu mennirnir voru hálfringlaðir í öllum nýjungunum.
Egill í Hvammi var að vísu hreppstjóri enn þá, en nú var ekki hreppstjóravaldið orðið annað en bliknaður svipur fyrri veru sinnar.
Nú var komin hreppsnefnd og hreppsnefndaroddviti, með langan lagabálk að bakhjalli.
Hún hafði losað Egil við allt það versta, sem hreppstjórastöðunni hafði fylgt, sem sé fátækramálin og millihreppaargið. En hún létti jafnframt af honum ástæðunni til að vera á ferðalagi um sveitina í tíma og ótíma.
Og nú var komin fjallskilareglugjörð og reglugjörð um eyðingu refa og annarra varga á heiðum uppi, sem fyrsta sýslunefndin hafði samið með mikilli fyrirhöfn og af miklu andríki. Henni var útbýtt prentaðri á hvert heimili ásamt markaskránni, sem enginn þurfti nú lengur að kunna utan bókar og enginn kunni utan bókar nema Ólafur í Heiðarhvammi. Gamla aðferðin við eyðingu refa fór dvínandi. Flesta brast nú karlmennsku til að liggja til þrauta á grenjunum, og fæstir vildu nú ala upp hunda, sem vel væru til þess fallnir að hlaupa uppi tófur. Þeir þóttu of grimmir og viðsjárverðir á heimilunum. Í reglugjörðinni um eyðingu refa var því mælt svo fyrir, að eitra mætti fyrir þá á heiðum og grenjum. Í því skyni var hreppsnefndinni fengið til varðveislu refaeitur, sem landsstjórnin útvegaði. Fjallskilin voru einnig eitt af því, sem áður hafði hvílt á hreppstjóranum. Nú var yfirumsjónin með öllu þessu komin í hendur hreppsnefndarinnar og falin framkvæmdastjóra hennar, hreppsnefndaroddvitanum.
Agli þótti að vísu hvíldin góð, en hálfsá þó eftir umsvifunum.
Borghildi þótti ekki nándarnærri eins vænt um þessa nýbreytni og kunnugir höfðu búist við. Henni fannst vald og ríki bónda síns rýrna svo mjög, að ekki væri við unandi. Áður hafði hann verið fremsti maður sveitarinnar og allt í öllu. Nú var hann ekkert annað en lögregluþjónn. Hún gat ekki heldur fellt sig við þetta marghöfðaða vald, sem kosningarrétturinn skapaði. Þar bar enginn af öðrum, þar var það einskis virði að vera af góðum ættum, vel upp alinn eða efnaður. Henni þótti það betra, sem verið hafði.
Það bætti þó dálítið úr skák í bráðina, að í hinni nýkosnu hreppsnefnd - hinni fyrstu, sem kosin hafði verið, - var Pétur á Kroppi, bróðir hennar, oddviti.
Vegsemdin var þó ættinni trú.
Breytingin, sem orðin var á heimilinu í Hvammi, var æðimikil, þó að þeir, sem voru þar að staðaldri, tækju varla eftir henni.
Ein aðalbreytingin var það, að Borga var orðin gjafvaxta. Hún var komin hátt á átjánda ár og búin að vera einn vetur að heiman til náms og frama.
Þá voru kvennaskólar fátíðir og húsmæðraskólar hvergi til. Hvergi var því menntunar að leita ungum stúlkum, nema á heimilum heldri manna í sveitum eða kaupstöðum. Heldri manna konur í kaupstöðum, - sem þá voru að jafnaði kallaðar "maddömur", - tóku oft að sér ungar og efnilegar sveitastúlkur, í því skyni að kenna þeim matreiðslu, húsmóðurstörf, listasaum, gítarspil og margt fleira, og létu þær vinna létta vinnu kauplaust á heimilum sínum á meðan.
Í slíkum skóla hafði Borga verið í Vogabúðum hjá Þorgeiri Ólafssyni verslunarstjóra, sem þá var mestur risnumaður í þeim héruðum. Þar kynntist hún stórmannlegu húshaldi og lærði að umgangast menntamenn, sem þar voru tíðir gestir. Kona Þorgeirs var dönsk, af efnuðu fólki komin, og mætavel að sér í öllum kvenlegum menntum. Borga var greind og námfús og tók skjótum framförum.
Eftir þetta nám, þótt ekki væri það meira, var almennt litið svo á í sveitinni, að Borga bæri mjög af öðrum stúlkum á hennar aldri, því að enn þá voru þær allar heimalningar. Og piltarnir í sveitinni þorðu varla að líta til hennar hýru auga, hversu gagnteknir sem þeir voru. Þeim fannst hún vera sér svo miklu fremri. Feður þeirra voru ekki jafnokar Egils að auðlegð eða metorðum, og þeir höfðu sjálfir ekkert úr föðurgarði farið.
Borga vissi ekkert af þessum mikilleik sínum sjálf, og ekkert lá henni fjær en mont og stærilæti. Hún var jafnvel ekki viss um það, hvort hún væri fríð sýnum. Hún heyrði alla segja það, en hélt að þeir væru að smjaðra. En það langaði hana þó til að vera.
Hún var nýútsprungin rós, - fíngerð og viðkvæm, þótt hún væri bráðþroska. Glaðværð sú og yndisþokki, sem jafnan hafði fylgt henni síðan á barnsaldri, var að breytast í þroskaða alúð og kvenlega blíðu. Fyrir nokkrum árum hafði hún verið hláturmild, full af barnslegri glettni og góðlátlegum hrekkjum; nú var hún brosmild, með stöðugt sólskin í svipnum, og öll tilhneiging til barnabreka horfin. Áður hafði hún verið skvettuleg, hlaupið og hoppað, þegar vel lá á henni, hlegið galsahlátra og skellt saman lófunum. Nú var hún hæverskan sjálf í fegurstu og fullkomnustu mynd sinni, prúð eins og prinsessa, ljós á heimilinu og öllum til yndis. Fegri og betri stúlku þóttist enginn hafa þekkt þar í sveitinni.
Hún hafði erft vaxtarlag móður sinnar og svip hennar að nokkru leyti. Þó var eins og náttúran hefði þar af forsjálni sinni og fegurðartilfinningu minnkað öll hlutföll. Skörungssvipurinn var ekki eins auðsær á henni eins og móður hennar, skaphörkusvipurinn ekki heldur og enginn þóttabragur á svipnum. Fasið var allt kvenlegra og hóglegra en það hafði nokkurn tíma verið á Borghildi. Borga var íturvaxin, hvannbein og fagurlega limuð, svanbrjóstuð og hörundsbjört. Hárið var dökkbrúnt og mikið og grúfði jafnan nokkuð fram yfir gagnaugun. Augun voru dökkblá, skær og greindarleg. Hún skipti vel litum og var ekki kinnamikil. Munnurinn var lítill, en varirnar þó nokkuð þykkari en á móður hennar. Hakan var nokkuð breið, þótt ekki væri það til lýta; það var ættareinkenni í ætt Borghildar. Aftur báru augabrýrnar og ennið fremur keim af ætt Egils. Þannig hafði svipur og eðli beggja foreldranna runnið saman í einni veru, sem virtist erfa það eitt úr báðum, sem æskilegast var.
Borghildur lagði mikið ástríki á dóttur sína og lét eftir henni í öllu. Kunnugum þótti það jafnvel undrum sæta, hversu mikið dálæti hún hafði á henni, því að öllum var það kunnugt, hve lítið Borghildur var hneigð til ástríkis. Þess var helst getið til, að hún teldi Borgu einkabarnið sitt. Þorsteinn hafði ekki komið heim öll þessi ár, og engar sættir voru á komnar milli hans og móður hans.
Oft var það, sem Borga gegndi húsmóðurstörfum fyrir móður sína, þegar hún var annars hugar eða fjarverandi, og fórst henni það jafnan prýðilega úr hendi. Voru það mikil viðbrigði fyrir heimafólkið, því að eins og það gat ekki hugsað sér öllu lakari húsmóður en Borghildi, eins gat það ekki hugsað sér betri húsmóður en Borgu. Það hlýddi henni af ást og virðingu, en ekki ótta; því fannst það eiga í henni hvert bein; hún hafði vaxið upp mitt á meðal þess, verið eftirlætið þess og það kallaði hana enn þá "Borgu sína", eins og það hafði gert á meðan hún var lítil, en aldrei fullu nafni. Og þetta var henni kærast.
Og eftir að Borga kom heim úr kaupstaðarvistinni, mátti heita að hún gegndi húsmóðurstörfunum að öllu leyti. Móðir hennar kom þar varla nærri.
Því var þannig farið, að Borghildur hafði breytst mjög í skapi síðustu árin. Hún var orðin enn þá stygglyndari en hún hafði verið, og jafnframt enn þá einrænni og tortryggari, svo að fárra manna meðfæri var að lynda við hana. Oft sat hún ein yfir hugsunum sínum, og stundum talaði hún upphátt við sjálfa sig setningar á stangli, sem enginn skildi. Það leyndi sér ekki, að hún hafði þá við eitthvað þungt að stríða í huga sínum.
Jafnframt afrækti hún heimilið meira og meira. Það, sem hafði verið líf hennar og yndi alla ævi, búskapurinn, komst nú ekki að í huga hennar. Nú var hún sinnulaus um allt það, sem fram fór á heimilinu, og trúði Borgu sinni fyrir því.
Í gamla daga hafði það verið Egill, sem sjaldan var heima. Nú var skipt um. Nú var það Borghildur, sem var á stöðugu ferðalagi um sveitina.
Fyrsta ferð hennar hafði verið upp að Heiðarhvammi til að sækja Jóhönnu sáluðu, sem fyrr er frá sagt. Eftir það fór hún að fara viðlíka ferðir út í sveitina. Og loks kom að því, að hún eirði varla heima degi lengur.
Áður hafði hún verið allt í öllu á heimilinu. Nú lét hún alla skapaða hluti til sín taka í sveitinni.
Til þess að eiga fleiri erindi út af heimilinu fór hún nú aftur að stunda ljósmóðurstörf sín, sem hún hafði ekki snert á í fjöldamörg ár, og einnig smáskammtalækningar.
Oft var hennar vitjað. En miklu oftar fór hún sjálfboðin og stefndi þangað, sem hún vissi af sjúklingum eða sængurkonum. Og ætíð tók hún með sér fylgdarmann af vinnumönnum Egils, hvernig sem á störfum stóð heima fyrir.
Jafnframt heimsótti hún húsfreyjurnar, skipti sér af einkamálum hjóna, þar sem hún vissi, að ósamlyndi var, gerði sér allt far um að koma lausu fólki í hjónaband, en - giftu fólki úr því; skoðaði vandlega öll nýfædd börn, þreifaði þau og þuklaði um höfuðbeinin, til þess að komast eftir, hverjum þau líktust, og hélt strangan rannsóknarrétt yfir öllum aðstandendum óskilgetinna barna.
En hún gaf og hjálpaði af mikilli rausn þeim, sem verðugir voru í hennar augum og bágt áttu.
Þó voru tveir bæir í sveitinni, sem Borghildur sneiddi jafnan hjá, er hún fór um sveitina. Annar þeirra var Heiðarhvammur. Þangað hafði hún ekki gert sér fleiri ferðir en áður er um getið. Hinn bærinn var Kroppur, þar sem Pétur bróðir hennar bjó. Þangað hafði hún aldrei komið.
Í fyrstu tóku margir þetta uppátæki Borghildar sem vott um aðdáanlegan skörungsskap, þóttust ekki geta lofað hana nóg og kölluðu hana "húsfreyjuna miklu". En þegar fram í sótti fóru mörgum að verða heimsóknir hennar hvimleiðar.
Þá fóru menn að skrafa margt um þessar ferðir og hvernig á þeim stæði.
Húsfreyjurnar vörðu þær lengi með oddi og egg, kváðu þær sprottnar af innilegum og kristilegum kærleika og heilagri vandlætingarsemi. Einkum til að vinna á móti "bölvuðu lauslætinu".
Og víst var um það, að Borghildur lét sér annt um velsæmið. Samt voru þeir margir, sem svöruðu þessari skýringu með þögn og glotti.
Sumir virtust helst hallast að þeirri skoðun, að Borghildur væri tæplega sjálfri sér ráðandi með köflum. Þó þótti of djarft að dæma hana vitskerta eða sinnisveika, því að ekkert, sem hún gerði, benti beinlínis á vitleysu.
Loks kom einhver upp með þá skýringu, að Borghildur væri að leita um alla sveitina að - börnum, sem Egill hennar ætti.
Þessi skýring barst víða, og var hlegið dátt að henni.
Litlar líkur eru til, að Borghildur hafi jafnan átt sama erindið í öllum ferðum sínum. En hvert sem erindið var, rak hún það með fádæma dugnaði og lét mikið að sér kveða.
Borghildur hafði ekki elst til muna þessi síðustu árin, en varð holdugri með hverju ári. Andlitið var dökkt á hörund og veðurbitið eftir miklar útiverur, og neðan undir augunum voru djúpir og skýrir bogar, sem bentu á, hvernig andlitsfallið hafði verið, áður en fitan og ýmsar áhyggjur breyttu því. Munnurinn var orðinn eins og dálitið, beint þverstrik milli nefs og höku, samanbitinn af stálhörðu viljamagni. Hnyklar voru þungir í brúnunum og neistar í augunum. Vartan á kinninni hafði haldið vexti, en hárin út úr henni lengst. Hendurnar höfðu orðið mýkri síðan hún hætti heimilisstörfum, og hringirnir voru nær sokknir í fitu, þannig var "húsfreyjan mikla" að útliti.
- Egill hafði mikla raun af þessum umsvifum konu sinnar. Þó fékkst hann ekki um og lét hana ráða. Sama gerði Borga.
Þau vissu það bæði, hvern árangur það mundi bera, ef þau færu að hlutast til um ráðabreytni húsfreyjunnar.
En þessi síðustu ár virtust hafa tekið hart á Agli. Hann hafði gránað mjög á hár og skegg og var farinn að verða hrumur fyrir ár fram.
Síðan hreppstjóraerillinn varð minni, var hann meira heima við og stundaði nú bú sitt af kappi. Heimilið var orðið honum friðsamara en áður hafði verið, því að þótt Borghildur væri heima, lést hún varla sjá hann.
Það var helst til tíðinda uppi í heiðarkotunum, að Halla í Heiðarhvammi þóttist þess fullviss, að loks hefði Settu í Bollagörðum tekist að breyta Finni sínum í ref.Hann þekktist varla lengur.
Áður hafði hún aldrei séð hann nema áhyggjufullan og kvíðandi, stundum grátandi. Nú sá hún hann miklu oftar en þá, og nú var hann jafnaðarlega glaðlegur í viðmóti, og stundum lék hann við hvern sinn fingur. Nú talaði hann ekki neitt um það heldur, að sér væri bannað að koma að Heiðarhvammi eða tala við Höllu. Nú kom hann þangað oft og þáði góðgerðir.
Það var engum efa bundið, að honum leið betur nú en áður. En - nú fyrst stóð Höllu alvarlegur stuggur af honum.
Hún vissi það af reynslu, að árangurslaust var að grennslast eftir hugarfari hans. Hann fór jafnan undan í flæmingi og léði einskis fangs á sér. Í þessari list var hann orðinn svo leikinn, að jafnvel hvorki svipur hans né augnaráð gaf grun um það, hvað inni fyrir byggi.
Hann hafði nú jafnan á takteinum eitthvert kuldaglott, einhverja væmna hæðnisviðleitni, sem honum var óeðlileg og fór honum illa. Það var eins og hann væri að apa þetta eftir einhverjum öðrum, Halla vissi ekki hverjum; væri að temja sér orð og látbragð, sem hvort tveggja var fjarstætt hinu sanna eðli hans.
Með þessa grímu gekk Finnur hvern dag og undir henni skýldi hann einhverju því, sem hver maður hlaut að hafa beyg af. - Áður hafði hann verið hneigður til einlægni og virtist þrá samhygð og hluttekningu mest af öllu. Nú var hann ekkert annað en óeinlægnin og neytti allra bragða til að fela sjálfan sig.
Þegar honum var orðið þannig farið, var það skiljanlegt, að Setta teldi óhætt að lofa honum að koma að Heiðarhvammi. Og sjálf kom hún þangað oft.
Enn þá hafði Halla aldrei komið að Bollagörðum, þrátt fyrir margítrekuð heimboð, - og ætlaði sér ekki að koma þangað.
Ólafur var líka fyrir löngu farinn að fækka komum sínum að Bollagörðum. Hann hafði líka ímugust á Bollagarðahjónaleysunum, og sá ímugustur fór stöðugt vaxandi. Nú kom hann þangað aldrei, nema hann ætti brýnt erindi.
Hann hafði orðið svo margs vís í kyrrþey, sem honum þótti undarlegt, og hann var farinn að verða fyrir megnum skapraunum og óþægindum af þjófnaðargrun þeim, sem á kotunum hvíldi og alltaf fór vaxandi.
Að vísu hafði Ólafur jafnan haft hug á að græða, - komast að góðum kaupum og ávaxta fé sitt sem best, en græða þó einungis á þann hátt, sem almennt var talinn heiðarlegur. Á þjófnaði hafði hann óbeit. Og þótt honum hefði einhvern tíma komið til hugar að reyna þá leiðina til gróða, þá hefði hann ekki þorað að koma upp með það við Höllu.
Nú var líka högum hans komið svo, að hann var hættur að hugsa um að græða, en hugsaði nú um það eitt, að halda efnum sínum við.
Annað og þriðja árið, sem hann var í Heiðarhvammi, höfðu eigur hans aukist nokkuð. Þá hafði hann nægan heyafla og gat komið skepnum sínum vel fram. En fjórða árið hafði heldur gengið af honum.
Vinnuþolið var farið að bila og ómegðin að aukast. Börnin voru nú orðin tvö; það yngra á fyrsta árinu og alltaf veikt, svo að mikið þurfti að hafa fyrir því.
Ofan á þetta bættist þjófnaðargrunurinn og þjófnaðarbrigslin, bein eða óbein, hvar sem hann kom, jafnvel hvar sem hann leit framan í mann. Þess vegna gerði hann ferðir sínar færri til annarra bæja, og þess vegna sneiddi hann hjá því eftir mætti að leita hjálpar hjá öðrum.
En einmitt við það dafnaði grunurinn á honum, og yfirleitt beindust grunsemdir manna miklu fremur að Heiðarhvammi en Bollagörðum. Settu og Finn þóttust allir þekkja; Finnur væri meinleysingur og ráðvendnisskinn; Setta væri að vísu hálfgerður laupur, ómerkileg til orðs og æðis, en enginn þóttist vita til þess, að hún væri ófróm. - En þessi Ólafur; hann var í augum flestra skapaður í óbrigðulli þjófsmynd. Þetta ódjarfa upplit og þessi kindarlegi heimóttarsvipur - hlutu að búa yfir einhverju illu. Og um Höllu hafði nú svo margt verið talað síðan hún kom að Heiðarhvammi, að menn trúðu henni til alls.
Þó vissi Ólafur, að einn maður að minnsta kosti var annarrar skoðunar. Það var Egill í Hvammi. Ólafur sagði honum jafnóðum allt það, er hann komst að um Bollagarðahyskið. En Egill fór dult með skoðun sína og rasaði ekki fyrir ráð fram.
Halla tók sér þennan þjófnaðargrun nokkru léttar en Ólafur, enda hafði hún minna af honum að segja. Hún gerði sér ekki margförult um sveitina, fremur en áður hafði verið. Hún óskaði þess einungis, að þjófnaðurinn kæmist upp, svo að það sæist, hver sekur væri.
Hún sá það á Ólafi, að hann var farinn að þreytast á að búa við þetta, og fann það sama á sjálfri sér.
Finnur var henni þó einna mest áhyggjuefni. Henni hafði jafnan verið hlýtt til hans, frá því hún kynntist honum fyrst. Nú sárnaði henni að sjá hann spillast ár frá ári og geta ekkert að gert. Og það því fremur sem hún þóttist vita, að innst inni væri hann hinn sami og hann hefði verið, þó að skelin væri orðin harðari og feluleikurinn betur æfður. Hún sat því um að reyna að veiða það upp, hvernig honum væri farið í raun og veru.
Og einn dag kom tækifærið eins og af sjálfu sér. Hún var að ganga fyrir kindur í móunum á milli bæjanna, og gekk þá af tilviljun fram á Finn. Hann sat þar á þúfu með hendurnar undir andlitinu.
Í þetta skipti bar hana svo brátt að, að honum fipaðist í uppgerðinni og kom hálfgert fát á hann.
Þegar Halla tók að spyrja hann, komst hún að því, að eitthvað óvanalegt hefði komið fyrir í Bollagörðum, því að Finnur hafði ekki komið heim þangað í tvo daga og engan mat fengið allan þann tíma.
Þó var ekki nærri því komandi, að hún fengi hann með sér heim að Heiðarhvammi.
Og við nánari spurningar tók hann það ráðið, sem hann greip jafnan til, þegar hann var ekki við svörunum búinn. Hann þagði, - þagði, og lést ekkert heyra og ekkert skilja.
Loks var Halla hætt að spyrja hann.
Þá reis Finnur upp, eftir langa þögn, og leit á hana augum, svo tryllingslega köldum og myrkum, að henni hraus hugur við. Um leið mælti hann með hásum, dimmum rómi:
"Halla, - ef ég skyldi hverfa skyndilega og ekki finnast, þá er það af manna völdum."
Svo hló hann hranalega, eins og til að snúa þessu upp í gaman, og stökk frá henni án þess að kveðja hana.
Halla stóð eftir alveg forviða. Fyrsta hugsun hennar var sú, að maðurinn væri ekki með öllu ráði.
Og sú hugsun loddi lengi við í huga hennar, þegar hún velti fyrir sér þessum atburði.
Þá varð það til tíðinda um haustið, viku fyrir göngur, að efnt var til veislu mikillar á Brekku. Þau hjónin, Sigvaldi og Margrét, ætluðu að gifta burtu dóttur sína.Sá var þá siður þar í sveitinni, að bjargálna bændur giftu ekki dætur sínar í neinu pukri. Við slík tækifæri kepptist hver við annan að halda sem ríkmannlegasta og rausnarlegasta veislu.
Og minna mátti það ekki vera en að bjóða rétt að kalla öllu fólki úr sveitinni, - tæma bæina gersamlega að öðru en farlama fólki og sveitarómögum, og seilast þar að auki dálítið inn í nágrannasveitirnar.
Þetta urðu þau Brekkuhjón að gera, ef veislan ætti ekki að verða þeim til vansæmdar. Sigvaldi nöldraði eitthvað um það í fyrstu, að þau hefðu ekki ráð á öllum þessum ósköpum. En Margrét var nú ekki á því. Og auðvitað hlaut Margrét að ráða.
Mikill hluti sumarsins hafði gengið í undirbúning, auðvitað í hjáverkum. Þó var sama sem ekkert undirbúið, þegar hinn mikli dagur nálgaðist.
Margrét hafði náð í Borghildi sína, blessunina, eitt sinn þegar hún var á ferðinni, og beðið hana að veita sér þá sæmd, að vera frammistöðukona í veislunni.
Borghildur hafði þagað um stund og horft fast á brúðarefnið, sem var þar viðstödd, - horft á hana rannsakandi ljósmóðuraugum, svo fast, að aumingja stúlkan blóðroðnaði og við lá, að hún færi að gráta. Og þegar Borghildur var gengin úr skugga um, að hún væri saklaus og óspillt og verðug aðstoðar hennar að öllu leyti, þá - játaði hún bóninni.
Upp frá því þurfti Margrét ekki miklar áhyggjur að hafa af veislunni. Borghildur hélt hana eftir sínu höfði á kostnað þeirra Brekkuhjóna.
Allan þann tíma hugsaði hún ekki um annað en veisluna. Hún var þá jafnan með annan fótinn á Brekku, en hinn heima hjá sér. Enginn komst að neinum undirbúningi, nema hún ein. Hún var þar allt í öllu og rak allt áfram með fádæma skörungsskap, - svo miklum, meira að segja, að Margréti fór að þykja nóg um.
Eitt af því fyrsta, sem hún lét gera, var að senda menn og hesta í kaupstaðinn eftir meiru af súkkulaði, kaffi, sykri, rúsínum og ýmsu öðru góðgæti, sem henni þótti Sigvaldi heldur hafa nurlað við neglurnar um sumarið.
Á báðum bæjunum var bakað og brasað í heila viku. Á báðum bæjunum lagði angandi kryddlykt um öll bæjarhúsin, og var hún þar sjaldgæfur gestur.
Á meðan var Sigvaldi á þönum um alla sveitina, til þess að bjóða til veislunnar. Hann átti erindi á hvern einasta bæ, úti við sjó og frammi til fjalla, nema einn. Það var Heiðarhvammur.
Margrét hafði orð á því, að hana langaði ekki til að bjóða þjófum í brúðkaupsveislu dóttur sinnar, og Borghildur sagði, að henni væri það síst láandi. Sama mátti Sigvaldi auðvitað til að segja.
Loks var sá hluti af veislukostinum, sem búinn var til í Hvammi, reiddur yfir hálsinn á mörgum hestum. Það voru kleinur og jólabrauð, tertur, smákökur, smjörkökur, sódakökur og vanillukökur, - að minnsta kosti einhverjar kökur, sem áhöld og kunnáttu skorti til að búa til á Brekku.
Egill var þeim mun ríkari en flestir aðrir bændur, að hann átti pott einn mikinn með fjórum spöðum í eyrna stað, sem ætlaður var fyrir ullarþvott og hvalsuðu. Þennan pott lét Borghildur hreinsa og fága með mikilli fyrirhöfn og flytja hann síðan að Brekku. Ætlaði hún hann til kaffihitunar, því að Brekkupottarnir væru þeim mun fyrirferðarminni, að ekki mundi veita af þeim undir súkkulaði.
Öll málnytan úr Hvamms-kúnum í þrjú mál var flutt að Brekku til uppbótar því, sem Brekkubúið sjálft gat lagt til. Samt þurfti að senda eftir rjómabyttum út í sveitina.
Áhöldum af öllu tagi var safnað saman af bæjunum í kring, því að auðvitað átti ekki Brekkubúið og Hvammsbúið að samanlögðu nægilegt af kaffikönnum, bollapörum, sykur- og rjóma-ílátum, kökudiskum, teskeiðum og púnsglösum til að nota við slíkt tækifæri. - Stórsegl af strönduðu skipi var fært heim að bænum og gert úr því feiknamikið tjald á hlaðinu. Stofan og skemman voru einnig ætlaðar veislugestum, og baðstofan átti að vera til taks handa kvenfólkinu sérstaklega, svo að það gæti lagt þar af sér ytri föt og búist skarti sínu.
Búist var við, að allt að því 300 manns mundu sækja veisluna.
Brúðarefnið, sem öll þessi ósköp voru gerð fyrir, var einkabarn þeirra Sigvalda og Margrétar, lítið eitt eldri en Borga og fermingarsystir hennar.
Hún var alin upp nákvæmlega samkvæmt 4. boðorðinu, og kunni fátt til hlítar annað en 4. boðorðið.
Steinunn hét hún. Hún var orðin meðalkvenmaður vexti og var hraustleg útlits, þykkleit og blóðdökk, en frámunalega heimóttarleg á svipinn, skaplaus og skerpulaus, alltaf við því búin að hlýða móður sinni og alltaf hrædd um, að hún kynni að reynast óhlýðin.
Hún hafði alist upp við hinn strangasta aga - enn þá strangari en Borga, og þótti þó móðir hennar full-siðavönd. Alla sína ævi hafði hún átt yfir höfði sér grýlur, loðinbarða, drauga, djöfla, guðs reiði og helvíti, - allar þær ógnanir á himni og jörðu og undir jörðu, sem komist gátu fyrir í ímyndunarríkri barnssál. Ein skelfingin hafði tekið við jafnóðum og önnur dofnaði fyrir vaxandi skynsemi; og nú var ekki hætt við, að hún yxi frá ógnunum trúarbragðanna. Ofan á þetta hafði bætst móðir hennar með vöndinn, - sí-hýðandi og lemjandi, sí-atyrðandi og jagandi. Auðvitað gerði hún það af móðurkærleika, til þess að leysa hana undan enn verri hegningu, t. d. Grýlu eða djöflinum! Dag og nótt hafði hin viðkvæma barnslega sál skolfið af angist og ótta fyrir andlegum og líkamlegum misþyrmingum. Allt það, sem henni datt sjálfri í hug, var synd, óhlýðni, heimska og þaðan af verra. Hún átti að hugsa um það, sem henni var sagt að hugsa um, elska það, sem henni var sagt að elska, læra það eitt, sem henni var sagt að læra, hvað mikið sem henni leiddist það. Þannig var hver snefill af persónulegu sjálfstæði hjá henni traðkaður niður, jafnóðum og hann skaut upp teinungi. Og nú, á gjafvaxta aldri, var fátt í henni, sem ekki bar ambáttareinkenni. Hún þorði varla að líta upp á nokkra manneskju, því að ekki var að vita, hvernig móður hennar geðjaðist að því. Alltaf var hún feimin, alltaf tortryggin og hrædd við alla, eins og heimurinn væri skapaður til að leiða hana til óhlýðni. Gáski og glettni voru forboðin epli, sem hún þorði ekki að snerta, og aldrei hafði hún svo mikið sem stolist til að renna hýru auga til karlmanns. Enginn efaðist því í alvöru um flekkleysi hennar, ekki einu sinni móðir hennar eða Borghildur. Það var eins og allt kvenlegt eðli væri lamið úr henni.
En þannig vildi móðir hennar hafa hana - og þannig vildi hún helst hafa allar manneskjur. Þeir voru ekki margir, sem elskuðu hana, virtu hana og hlýddu henni, þó að hún þættist sannarlega eiga það skilið. Þessi dóttir hennar skyldi þó að minnsta kosti gera það. Hún var skyldug til þess, eftir boðum guðs og manna. Það var líka henni sjálfri fyrir bestu, því að þá átti henni að vegna vel og hún að verða langlíf í landinu - samkvæmt 4. boðorðinu.
Þannig hafði Margrét sjálf verið alin upp - og fjöldi annarra kvenna. Undan vendinum var þeim loks varpað í hjónasængina - og blessað yfir! Í hjúskapnum fengu loks hinar margtröðkuðu tilhneigingar að þroskast, allar hnýttar og bæklaðar. Beiskja uppeldisáranna gerði þar hvern ávöxt ramman. Þýlyndið breyttist í ráðríki og hlýðnin í sjálfselsku og frekju. Loks guldu þær heiminum uppeldið í sömu mynt, með því að drottna með harðri hendi yfir bónda sínum, börnum og hjúum.
Hinn tilkomandi eiginmaður hét Ásmundur og var sonur föður síns - og ekkert annað. En faðir hans var kallaður Sveinn gufa, þangað til hann fór að komast í álnir, þá var hætt að gera það upphátt. Ásmundur var alinn upp á svipaðan hátt og Steinunn, þótt ekki hefði tekist að gera úr honum annað eins viðundur hlýðninnar og auðsveipninnar, enda var þar í fleiri horn að líta, því börn Sveins bónda voru sex. En það létti mjög uppeldið, að Ásmundur var "gufa", eins og faðir hans.
Varla höfðu þau sést á uppvaxtarárunum, hjónaefnin, og aldrei hugsað hlýlega hvort til annars. Þess þurfti ekki með, því að foreldrarnir sáu fyrir ráði þeirra.
Faðirinn kom syninum í skilning um það, hvað Steinunni mundi fylgja úr föðurgarði og hvað hún mundi eignast síðar. Sigvaldi á Brekku gekk næstur Agli í Hvammi að efnum af öllum bændum í sveitinni. En sá var munurinn, að auður Egils átti að skiptast milli tveggja barna, en þau ósköp lágu ekki fyrir Brekkubúinu. Þess vegna var ráðahagsins leitað við Steinunni, en ekki Borgu.
Þegar til þeirra Brekkuhjóna kom, var á það eitt litið, hvernig útlit væri fyrir, að Ásmundi mundi búnast. Faðirinn lét drýgindalega af búmannshæfileikum biðilsins, og ekki voru þau Brekkuhjón hrædd um, að Steinunn þeirra mundi sundurdreifa reytunum. Þegar málið var borið undir Steinunni, sagði hún já, af því hún þorði ekki að segja nei. Þá var allt klappað og klárt.
Slík hjónabönd mátti rekja alla leið aftur í gullöld Íslendinga. Þannig höfðu hinir frægu forfeður séð fyrir dætrum sínum. Dæmin stóðu lýsandi í fornsögunum, eins og annað, sem þar var til fyrirmyndar. Og fyrst svipuð dæmi fundust í biblíunni, þá hlaut þetta líka að vera guði þóknanlegt.
Samt voru allmargir í sveitinni, sem skopuðust að þessari háleitu ráðstöfun í sinn hóp. Þeir sáu jafnan í huganum þennan limalanga, mannlega gufumökk, sem lét föður sinn biðja stúlku til handa sér, - og svo brúðarefnið, sem stöðugt hékk í pilsunum á móður sinni. Þeir tóku eftir öllu, sem fram fór, og höfðu það í skimpingum. Við og við var hjónaefnunum lofað að heimsækja hvort annað. Foreldrarnir voru þá álengdar og gáfu því hornauga, hvernig þau semdu sig hvort að öðru. Því hafði verið stungið að þeim, hvoru í sínu lagi, að nú mættu þau kyssast og faðmast, fyrst þau væru trúlofuð. En það ætlaði varla að duga, - svo blóðfeimin voru þau hvort við annað.
Þetta skraf var þó ekki haft hátt, því að enginn vildi verða af veislunni þess vegna.
Vegna þessa fyrirmyndarhjónabands átti nú að halda þessa kostulegu veislu. Þau Brekkuhjón kostuðu hana ein. Hún var eins konar uppbót á heimanmundi brúðarinnar.
Það sýndi sig þegar á reyndi, að Borghildur hafði þó haft helst til mikið umstang veislunnar vegna. Ullarþvotta- og hvalsuðupotturinn mikli þótti alveg óhæfur til kaffihitunar, þegar búið var að hafa fyrir að koma honum yfir hálsinn. Honum var því hvolft fyrir utan bæjarvegg.
Það lá við sjálft, að vináttan milli húsfreyjanna ætlaði að fara út um þúfur, þegar Borghildur krafðist þess, að Brekkubærinn væri sópaður og fágaður hátt og lágt. Það fannst Margréti hrein og bein óþrifnaðaryfirlýsing. En Borghildur hafði þó sitt fram. - Einna lakast þótti að fást við eldhúsrjáfrið. Það hafði ekki verið sópað síðan það var byggt, og var þó meira en mannsaldur síðan. En Sigvaldi kvað hangiketið verða bragðbetra, ef nóg væri af sóti í eldhússrótinni.
Loks rann upp hinn mikli dagur.
Enginn maður á Brekkuheimilinu hafði sofið blund um nóttina vegna annríkis og eftirvæntingar. Sigvaldi hafði setið yfir því alla nóttina að sverfa skorur í botnlöggina á leirílátunum, sem lánuð voru á öðrum bæjum, svo að hægt yrði að greina þau í sundur, og sömuleiðis púnskollurnar og teskeiðarnar. - Margrét sló fast á lærið, þegar hún leit yfir búrið sitt um morguninn. Þar stóðu kleinukoffortin opin, og lagði ilminn af þeim. Uppi á búrbekknum stóðu háir hlaðar af pönnukökum, sem verið var að strá sykri á og vefja saman, og við hliðina á þeim stóð kúfað mjólkurtrog af brytjuðum hvítasykri. Önnur eins ósköp af sætindum og sælgæti hafði aldrei borið fyrir Margréti.
Í tjaldinu var aðalborðið dúkað með fannhvítu lérefti, nýkeyptu úr kaupstaðnum. Þar átti allur almenningur að sitja að samdrykkju. Báðum endum mannvirðingarinnar var markaður bás þar fyrir utan, aukvisunum í skemmunni, en höfðingjunum í stofunni. Auk þess átti að nota stofuna til að dansa í henni, þegar á veisluna liði.
Borga frá Hvammi hafði hlotið þann heiðursstarfa, að búa brúðina, bæði á kirkjustaðnum og eins þegar heim kæmi. Þegar því væri lokið, átti hún að ganga móður sinni til handa sem aðstoðar-frammistöðukona.
Dagurinn, sem valinn hafði verið til þessarar miklu hátíðar, var sunnudagur. Það hafði verið gert til þess, að sem fæstar stundirnar skyldu eyðast frá slættinum, sem enn þá stóð yfir hjá flestum.
Hin dularfullu völd veðráttunnar höfðu blessað daginn með góðu veðri. Þó rigndi dálítið á brúðhjónin fyrri hluta dagsins. Það boðaði, að hjónabandið ætti að verða auðsælt, að minnsta kosti - framan af.
- Um nónbilið riðu stórir skarar frá prestssetrinu heim að Brekku. Þar voru margir skapmenn og skaphestar, og var því metnaður um, hverjir fremstir yrðu. Brúðhjónin sjálf urðu aftarlega í höfuð-þvögunni, því að ekki þótti þeim sæmandi að þeysa hart á jafnhátíðlegum degi, enda var ekki Brekkubúið annálað fyrir gæðinga. Hver reiðgikkurinn eftir annan þeysti fram hjá þeim. Enda komu margir góðglaðir frá kirkjunni, - þó að synd væri að segja, að guðsorðið hefði svifið á þá.
Sólin hefir sjaldan skinið yfir flekkóttara fjölmenni en þennan dag var saman komið á Brekku. Það munaði þó minnstu, hvað fólkið sjálft var hvað öðru ólíkt, og ekki var það meira en við var að búast eftir kynferði og aldursmun. En - það, sem það hafði tínt utan á sig! Hér skal það eitt látið nægja, að þar voru sýnishorn alls þess í klæðaburði, sem vaxið hafði í blómagarði tískunnar tvær síðustu aldirnar. Gömlu og nýju var vandlega hrært saman, jafnvel á sömu manneskjunni. Þar birtust skrautklæði, sem legið höfðu í kistum og draghólfum mestan hluta ævi sinnar og gengið í arf frá einni kynslóð til annarrar, skrautklæði, sem báru vott um frábæran hagleik í útsaumi og silfursmíði, klútar og skrautgripir, sem einu sinni höfðu verið á heimsmarkaðinum, en voru nú horfnir þaðan fyrir löngu. Enginn endist til að lýsa því öllu; en meira en nóg hefði verið þar fyrir aðgætið auga til að skoða og dást að alla þá stund, er veislan stóð yfir. Svo auðugar eru íslenskar sveitir af fáséðu skrauti og fögrum minjagripum, sem ekki eru teknir fram í dagsbirtuna nema við hátíðlegustu tækifæri.
Búningar karlmanna voru líkari hver öðrum en kvennabúningarnir. Þar munaði mestu á höfuðfötunum. Þau voru af öllu tagi. Því að svo voldug hefir tískan aldrei orðið til sveita á Íslandi, að hún hafi lagt undir sig höfuðföt karlmanna.
Fyrst eftir komuna voru menn á tvístringi úti um túnið, en þó fjölmennastir heima við bæinn. Enn þá voru menn að heilsast og talast við fáein orð um leið, undur hátíðlegir á svipinn. Veisluglaðværðin var ekki byrjuð, enda brúðurin ekki enn búin að búa sig eftir heimkomuna, en ósvinna að setjast við borðin á undan henni. - Sumir voru enn þá fyrir utan garð að ganga frá reiðtygjum sínum, hefta hesta sína eða þvo sér um hendurnar úr bæjarlæknum. En langflestir stóðu í hvirfingu á hlaðvarpanum.
Þá sáust þrír menn koma af hálsinum. Ráku þeir tvo hesta lausa og einn undir föggum, og bar þá fljótt að bænum.
Það leyndi sér ekki, að þetta voru langferðamenn, enda komu þeir götuna, sem lá að Hvammi og Heiðarhvammi, en þaðan var nú engra veislugesta von framar. Fyrst datt mönnum í hug enskur ferðalangur, sem væri að láta fylgja sér um landið. Fleiri voru getur manna. En loks kom einhver með þá skýringu, að þetta væri sýslumaðurinn. Hann mundi hafa verið að sækja son sinn til skips og væri nú á heimleið. Þriðji maðurinn væri auðvitað fylgdarmaður þeirra.
Við þessa skýring sló hátíðlegri þögn á hópinn. "Sýslumaðurinn!" mæltu sumir fyrir munni sér, og það var sem þeim fyndist, að hvíla mundi farg á allri glaðværð, ef slíkur höfðingi sæti veisluna. "Sýslumaðurinn -!"
Lausu hestarnir hlupu í hestaþvöguna við túngarðinn, og fylgdarmaðurinn fór að eltast við að skilja þá úr. En sýslumaðurinn og sonur hans riðu heim að garðshliðinu. Þar var nærstaddur einhver af veislugestunum og tók úr hliðinu fyrir þá. Síðan riðu þeir heim traðirnar og námu staðar skammt frá mannþrönginni á varpanum. Sýslumaður kastaði hæversklega kveðju á fólkið, og risu þá öldur á höfuðfatabreiðuna. Þar næst spurði hann, hvort Egill frá Hvammi væri þar.
2. kafli"Egill, Egill!" fóru menn að kalla og svipast um eftir hreppstjóranum. Margir hlupu á stað, sinn í hverja áttina, að leita hans.
Á meðan bað sýslumaðurinn að gefa sér að drekka.
Það horfði til vandræða inni í bænum, þegar sá boðskapur barst þangað inn, að sýslumaðurinn væri kominn og bæði að gefa sér að drekka. - Fyrst þurfti að ráða fram úr því, hvað ætti að bjóða honum, og síðan, hvernig ætti að færa honum það.
Margrét var búin að fylla könnu af sýrublöndu og setja drifhvítan disk undir hana, en varð að hella úr henni aftur, því að Borghildur kvað ekki koma til mála að bjóða þeim feðgum annað að drekka en nýmjólk.
Allar þjónustustúlkurnar - og þær voru margar á Brekku að þessu sinni - færðust undan því að færa þeim feðgum drykkinn. Og Borghildur herti ekki að þeim, því að hún þóttist vita, að þær mundu verða sér til skammar.
Í því kom Borga frá því að búa brúðina. Og hún tók að sér þessa sendiferð. Eftir að móðir hennar hafði litið eftir, að allt væri hreint og fágað og eins og það ætti að vera, lagði hún á stað með mjólkurkönnu á bakka og tvö glös hjá.
Þeir sýslumaðurinn og sonur hans sátu kyrrir á hestum sínum og gerðu sig ekki líklega til að hafa langa viðdvöl.
Sýslumaðurinn var roskinn maður, alvarlegur á svipinn, en þó góðmannlegur. Hann var meðalmaður á hæð, en gildur og saman rekinn, fölur í andliti með hæruskotið alskegg. Allur svipur hans bauð virðingu og þokka, og allir báru honum það orð, að þótt hann væri nokkuð þurrlegur við fyrstu kynningu, þá væri hann þó hvers manns hugljúfi og gleðimaður allmikill.
Að vísu lá þessi sveit í sýslu hans, en langt frá bústað hans og var ysta sveitin í sýslunni þeim megin. Sýslumaður sást þar sjaldan á ferð, nema þegar hann þingaði. Annars mátti heita, að koma hans heyrði til sjaldgæfra viðburða.
Aðalstein son hans höfðu fáir séð áður. Einhverju sinni fyrir mörgum árum hafði hann komið í þingferð með föður sínum, en þá hvergi komið nema á þingstaðinn. Og þá var hann drengur, sem fáir gáfu gaum. Nú var hann orðinn fulltíðamaður og að því kominn að taka embættispróf í læknisfræði.
Hann var elstur af mörgum börnum sýslumannsins. Námið stundaði hann við háskólann í Kaupmannahöfn. Þennan vetur ætlaði hann að vera heima og búa sig undir prófið, en sigla með vorinu.
Aðalsteinn var svipaðri móður sinni en föður sínum að útliti, fríður maður sýnum, bjarthærður, með dálítið, ljóst yfirskegg, með blá augu og góðmannlegan, stillilegan yfirsvip. Hann var þunnur á vangann og þreytulegur, eins og sjóferðin hefði gengið honum nærri, en annars hraustlegur að útliti. Allt látbragðið var yfirlætislaust, en bar þó keim hærri siðmenningar.
- Egill fannst berhöfðaður langt úti á túni, með brennivínsflösku í annarri hendinni, en staup í hinni. Þar var hann að elta uppi þá af gestunum, sem þangað höfðu leitað, bjóða þá velkomna í nafni húsbændanna og bera þeim fyrstu hressinguna. Að sama starfi voru þeir Sigvaldi bóndi og Sveinn faðir brúðgumans annars staðar á meðal gestanna.
Þegar Agli komu þau orð, að sýslumaðurinn væri kominn og vildi finna hann, brá hann við skjótt, fékk öðrum manni flöskuna og staupið, sem hann trúði fyrir því, og lagði fyrir hann að veita óspart; þurrkaði brennivínið af höndunum á sér á treyjufóðrinu og skundaði síðan til fundar við sýslumanninn.
Á leiðinni heim að bænum rakst hann á Sigvalda, þreif í öxlina á honum og sagði honum að koma með aðra Madeira-flöskuna, sem Þorgeir í Vogabúðum hafði sent brúðhjónunum að gjöf, ef svo færi, sem hann grunaði, að sýslumaðurinn fengist ekki til að sitja með þeim veisluna.
Þau komu jafnsnemma út í varpann til sýslumannsfeðganna, Egill og Borga dóttir hans með drykkinn. Sýslumaður sinnti fyrst mjólkinni, hellti fullt glasið sitt og slokaði úr því í einum teyg, hellti síðan í það aftur og drakk ofan í það mitt. Þá gaf hann sig á tal við Egil og hélt á glasinu í hendinni.
Þeir töluðu í hljóði, Egill og sýslumaðurinn, og gáfu ekki um, að aðrir heyrðu, hvað þeim færi á milli. Sýslumaður laut fram á makka hestsins, en Egill stóð við hlið hans með blaktandi hærurnar í golunni. Mannþröngin þokaði sér þegjandi ofur lítið fjær. Þar teygði hver álkuna upp fyrir annan, til þess að geta virt fyrir sér þessa sjaldgæfu gesti.
Borga stóð skammt frá hesti Aðalsteins og beið eftir glasinu. En það var ekki útlit fyrir, að sýslumaður mundi skila því í bráð, því að nú var hann sokkinn svo niður í hljóðskrafið við Egil, að hann gleymdi að drekka úr því. Aðalsteinn beið eftir því, að faðir hans lyki erindinu. Báðum var þeim farin að finnast biðin löng.
Aðalsteinn lét sem hann gæfi allan gaum að föður sínum og gestunum, sem fjær stóðu, en gaf Borgu þó hornauga. Hún stóð þar bein og hýrleg með bakkann í höndunum, og hann gat ekki annað skilið en að henni hlyti að vera farið að leiðast. Hann yrti því á hana:
"Hvað er hér um að vera í dag?"
Borga roðnaði ofur lítið við ávarpið.
"Það er verið að gifta - ," mælti hún hálfstamandi.
"Yður -?" mælti hann fljótlega.
Borga beit á vörina og barðist við hláturinn, en roðinn þaut fram í kinnarnar á henni.
"Nei, - það er ekki verið að gifta mig."
Aðalsteinn hló líka. Þetta hafði glappast út úr honum eins og hver önnur flónska. Hann hefði getað séð, að þessi stúlka var ekki búin brúðarskarti; enda litlar líkur til, að brúðurin væri látin færa gestum drykk á heiðursdegi sínum, þar sem jafnmargt var af þjónustusömum öndum.
En eftir þetta atvik voru þau orðin hvort öðru ofur lítið kunnari.
"Hvar hefi ég séð yður áður?" spurði Aðalsteinn eftir dálitla þögn.
"Hjá Þorgeiri verslunarstjóra," svaraði Borga djarfmannlega og leit framan í hann. "Þér komuð þar í fyrrahaust, þegar þér siglduð."
"Já, einmitt, nú man ég það," mælti Aðalsteinn. Honum leið betur, er hann sá, að hún var hvorki feimin eða reið við hann.
"Eigið þér hérna heima?"
"Nei, á næsta bæ."
"Og hvað heitið þér?"
"Vilborg."
"Það er fallegt nafn og þjóðlegt. Eiginlega hefðuð þér átt að heita Valborg, því það er enn þá íslenskara. Nú, jæja. Ég dýrka nú ekki fornöldina svo mjög. - Þér sögðust eiga heima á næsta bæ. Hvaða bær er það?"
"Hvammur."
"Er það bærinn, sem stendur undir skarðinu, þegar menn koma af heiðinni?"
"Nei, hann heitir Heiðarhvammur."
"Já, alveg rétt. Við komum þar við og spurðum til vegar ofan að Hvammi. En þá var okkur sagt, að enginn mundi vera þar heima, allt fólkið mundi vera hér. Einhver syfjaður náungi gekk með okkur upp fyrir skarðið og vísaði okkur á götuna hingað. Svo sáum við víst heim að Hvammi af einum hálsinum. Það er hár núpur fyrir ofan bæinn og vatn fyrir neðan hann. Er ekki svo? Það er fallegt þar. Svo þér eigið þar heima."
"Já, það er faðir minn, sem þarna stendur."
Aðalsteinn leit snöggvast til Egils og síðan aftur til Borgu og hélt samtalinu áfram. Egils í Hvammi hafði hann oft heyrt getið; enda var hann gamall vinur föður hans.
Sýslumaður hélt áfram hljóðskrafinu við Egil með vaxandi athygli og vaxandi áherslu-atburðum. Borga stóð eins og dæmd og beið eftir glasinu.
- Á meðan þessu fór fram, æddi Sigvaldi í mesta ofboði á milli gestanna, með Madeira-flöskuna í hendinni, og spurði hvern mann, sem hann hitti, hvort hann hefði ekki á sér - tappatogara.
- Loks var hljóðskrafi þeirra sýslumanns og Egils lokið. Sýslumaður rétti sig upp í hnakknum og lauk úr mjólkurglasinu, en - þáði í það einu sinni enn, svo að Borga losnaði ekki.
Egill bað hann þá í nafni þeirra Brekkuhjóna að gera þeim þá sæmd að sitja veisluna.
Sýslumaður þakkaði kurteislega fyrir boðið, en kvaðst vera á hraðri ferð og ekki hafa vitað af því fremur en dauða sínum, að þar væri brúðkaupsveisla. Hann kvaðst því mundu halda áfram.
Egill fór þá að líta í kringum sig, hvort hvergi bólaði á Sigvalda.
En það er af Sigvalda að segja, að honum höfðu nú komið nýjar hindranir. Þegar hann var búinn að ná tappanum úr flöskunni, búinn að ná í tvö staup og kominn með hvort tveggja út á hlað, þá rakst hann á Borghildi.
Borghildur þreif í öxlina á honum og spurði, hvort honum væri alvara, að ætla að vaða að sýslumanninum með flöskuna í krumlunum og staupin í greipunum. Hún bað hann að láta það vera. Hann yrði að láta setja flöskuna og staupin á bakka og láta einhverja "pena" manneskju færa þeim það.
Út í þetta hafði Sigvaldi alls ekki hugsað. Og hann þakkaði sínum sæla fyrir það, að það var Borghildur, en ekki Margrét hans, sem komið hafði auga á þessa yfirsjón.
Hann flýtti sér inn í bæinn til að koma þessu í lag.
En Borghildur nam staðar frammi á hlaðinu, studdi höndunum á mjaðmirnar og horfði á þau Aðalstein og Borgu sína, sem enn voru að tala saman.
Aldrei hafði hún séð Aðalstein fyrri. Og aldrei hafði neinn ungur maður komið henni jafnvel fyrir sjónir.
Og Borga hennar! Aldrei hafði henni fundist hún jafnyndisleg. Fleiri hlutu nú að taka eftir því en hún ein, hvernig hún bar af öllum stúlkum í veislunni eins og gull af eiri.
Sýslumanns-sonur! - - Prófasts-dóttur-dóttir!
Borghildur andvarpaði hægt.
Loks lauk sýslumaðurinn úr mjólkurglasinu og setti það á bakkann hjá Borgu, kvaddi Egil með handabandi, kastaði kveðju á aðra og reið á stað.
Aðalsteinn kvaddi Borgu með handabandi og þakkaði henni fyrir drykkinn, því að því hafði faðir hans gleymt. Um leið leit hann á höndina, hve mjúk hún var og nett og - enn þá óbundin.
Svo sneri hann hesti sínum og reið á eftir föður sínum.
Þá var bakki með Madeira-flösku og tveim staupum að sigla út um bæjardyrnar á Brekku.
Borga var fegin, að þeir fóru. Henni hafði verið það hrein og bein plága, að standa yfir slórinu úr þeim allan þennan tíma, framan í öllum veislugestunum.
En Borghildur gekk sem drukkin af sælli umhugsun um nýja vegsemd fyrir ættina.
Undir kvöldið, þegar veislufólkið var staðið upp frá borðum í fyrsta sinn og verið var að ryðja út úr stofunni til þess að hægt yrði að dansa í henni, hitti Borga Pétur á Kroppi, móðurbróður sinn, í mannþrönginni.Borga og Pétur ræktu frændsemi sína, þótt fátt væri með þeim móður hennar og honum, og Pétri þótti vænt um Borgu. Samt voru allir fundir þeirra eintómar glettur og ertni.
"Komstu ekki með fíólínið þitt, Pétur?" spurði Borga glaðlega.
Pétur skaut við grönum og glotti:
"Hvað varðar þig um það?"
"Nú, - þá hefirðu komið með það."
"Hvern skollann á fíólín að gera hingað? Það væri jafngott að fara með það í réttirnar."
"Komstu þá ekki með það?"
"Nei, - mér datt það ekki í hug."
"Pétur! Mikið dæmalaust óhræsi ertu, Pétur!"
"Nú, nú. Hvað hefi ég gert fyrir mér?"
"Að koma ekki með fíólínið."
"Ég kann ekkert að fara með það."
"Þú skrökvar því, - og þú ert vís til að skrökva því líka, að þú hafir ekki komið með fíólínið. Ég trúi því ekki fyrr en ég reyni það."
"Mikið erkiflón ertu!"
"Ég sé það á þér, að þú hefir komið með það," sagði Borga og hoppaði af kæti.
"Fíólínið er heima, Borga mín," sagði Pétur nokkuð alvarlegar en áður. "Það er heima og - verður heima."
"Pétur - ég trúi þér ekki enn."
"Þú kallaðir mig óhræsi áðan; - hvenær hefi ég verið annað en óhræsi?"
Borga gerði sig enn þá blíðari:
"Góði Pétur, segðu mér nú satt."
"Ég segi þér satt. Það hefir enginn beðið mig að koma hingað með fíólínið."
"Bíddu við," sagði Borga svo lágt, að varla heyrðist, og þaut burtu eins og örskot.
Á meðan þau Pétur og Borga voru að kýta um þetta, hafði yngra fólkið, bæði piltar og stúlkur, safnast utan um þau. Og þegar Borga var farin, byrjaði það og lagði að Pétri að sækja fíólínið.
Því að þótt fíólínsspil væri sjaldgæft þar í sveitinni, vissu nú flestir, hvílíka yfirburði þetta hljóðfæri hafði yfir harmónikuna, sem farin var að verða algeng.
Pétur á Kroppi var sá eini þar, sem nú lék á fíólín. Hann hafði leikið á það í allmörgum brúðkaupsveislum, svo að flestum hafði gefist færi á að heyra til hans. Nú voru þó nokkur ár síðan hann hafði leikið á þetta hljóðfæri á mannamótum.
Í þetta skipti hafði verið keypt ný harmónika, og átti Þorlákur sonur Ólafs þófara að leika á hana í veislunni. Þorlákur var þar nærstaddur, en enginn gaf því gaum, þótt verið væri að gefa list hans vantraustsyfirlýsingu með því að biðja um fíólínið.
Ungu stúlkurnar voru ákafastar. Þær ætluðu að koma til liðs við Borgu, en tóku ekki eftir því, að hún var farin. Þær slógu hring um Pétur, með gáska og glettni, og létu eins og þær ættu í honum hvert bein. "Gerðu það fyrir mig, gerðu það fyrir mig!" báðu þær hver í kapp við aðra.
Pétur stóð eins og bjarg og gnæfði yfir stúlknafansinn. Hann leit framan í hvert andlitið eftir annað. Öll voru þau rjóð og barnslega sakleysisleg, öll hýr og góðlega glettnisleg, þó að þau væru misjafnlega fríð. Og í öllum þessum skæru augum skein sami ásetningurinn: að fá hann til að láta undan.
Hann brosti og þagði og hristi höfuðið, enda vissi hann að ekkert mundi heyrast til hans fyrir kliði. Þó fór hann að reyna að bera sitthvað í vænginn: að fíólínið væri strengjalaust og allt í óstandi, myglað, eins og allt annað í baðstofunni hjá honum; að boginn væri hárlaus og hann ætti engan harpix; að hann væri farinn að stirðna í gómunum, hefði ekki snert hljóðfærið í mörg ár, væri ekki "upplagður" o. s. frv.
En ekkert stoðaði. Galsinn var orðinn svo mikill, að Pétur var farinn að berast til og frá í yngismeyjaþvögunni og hafði ekki við að svara. Stúlkurnar ætluðu að æra hann. Þær voru utan um hann og utan í honum eins og keipóttir krakkar og skvöldruðu hver í kapp við aðra: "Góði Pétur, væni Pétur, gerðu nú þetta fyrir okkur! Við skulum kyssa þig allar saman, kyssa þig upp til agnar"
Allt í einu datt allt í dúnalogn. Borga var komin aftur og leiddi - brúðina.
Hún ætlaði ekki að láta Pétur geta sagt það tvisvar, að enginn hefði beðið hann um að sækja fíólínið, sem það mál kom við.
Það hafði ætlað að ganga tregt að fá brúðina til þessa stórræðis, og ekki gerði hún það fyrr en hún hafði ráðfært sig við móður sína. En nú stóð hún frammi fyrir Pétri með skautafald og blaktandi brúðarslæðu og sagði undur feimnislega:
"Ég vona, að þú gerir þetta fyrir mig."
En við hliðina á henni stóð Borga og sagði með augunum: "Skák, Pétur!"
Stúlkurnar klöppuðu saman lófunum af kæti.
En Pétur klóraði sér í hnakkanum, og það var auðséð á honum, að honum var óljúft að gera þetta.
Rétt á eftir sást hann taka hnakk sinn og beisli á handlegginn og ganga þegjandi út fyrir garð, þangað sem hestur hans var.
Allra augu fylgdu honum eftir.
Guð hafði blessað séra Þorstein, hinn ógleymanlega prófast, sem einu sinni var á staðnum, með fjórum fallegum dætrum, en ekki gefið honum nema einn son.Og þessi sonur var þá þannig, að vesalings prófasturinn fann ástæðu til að stynja því upp, að guð mundi hafa gefið hann í reiði sinni.
Borghildur var elst af systrunum og mestur skörungur þeirra allra. En hvers vegna hún giftist síðast, og hvers vegna hún fékk ekki nema hreppstjóra, en hinar systurnar embættismenn - um það var margt talað í sveitinni í þá daga. Sumir kenndu vörtunni á kinninni um það, aðrir skaplyndi hennar, og enn aðrir gáfust alveg upp að kenna það nokkrum sköpuðum hlut, en sögðu aðeins, að þetta hefði sjálfsagt átt fyrir henni að liggja, og - Agli líka.
En Pétur var yngstur af öllum systkinunum. Hann fæddist ekki fyrri en sama árið og Borghildur fermdist.
Öll var ættin stórlynd, og Pétur var sannarlega ekki bestur.
Geðríkið kom snemma fram í honum, en nokkuð á annan hátt en bæði hjá systrum hans og föður þeirra. Hann var stríðinn, - meinstríðinn. Hann hafði ekki eins mikið yndi af neinu og því, að gera það, sem hann mátti ekki gera.
Það var eins og ættardrambið væri þar öfugt. Prófasturinn vildi helst vera konungur og systurnar dálitlar drottningar. En Pétur vildi umfram allt vera - svín.
Það sagði faðir hans að minnsta kosti.
Hann gat aldrei skilið þessa hágöfuglegu, hákristilegu og hárfínu aðgreining sæmdar og vansæmdar, sem faðir hans prédikaði, og hugtakið "synd" varð einhvern veginn undarlega óljóst og vanskapað hjá honum. Honum fannst svo margt synd, sem faðir hans gerði, að honum færist ekki að vanda um syndirnar við hann eða aðra. Og systur hans voru ekki hótinu betri en hann sjálfur, svo að þeim kom ekkert við, hvernig hann var eða hvað hann gerði.
Frá því hann komst á legg stóð látlaus orrahríð á milli hans og fjölskyldunnar. Pétur gerði systrum sínum allt til skapraunar, gerði það helst sem honum var bannað mest, gerði stöðugar uppreisnir gegn vandlætingum föður síns og lét það ekki einu sinni eftir þeim að hljóða, þótt hann væri laminn eða hýddur.
Þegar búið var að lemja inn í hann kverinu, var farið að lemja inn í hann latínunni. Því að embættismaður átti Pétur að verða, hvað sem tautaði.
Hinu tók enginn eftir, að Pétur var að stela kirkjulyklinum við og við og laumast út þangað, til þess að garga á orgelskrifli, er þar stóð. Þegar til hans heyrðist, var hann barinn, flengdur, húðskammaður fyrir óhlýðnina og kirkjulykillinn falinn fyrir honum.
En að láta þetta eftir honum, lofa þessari tilhneigingu hans að þroskast og njóta sín, - það datt aðstandendum hans ekki í hug. Það féll ekki við áætlanir þeirra um framtíð hans.
Og í stað þess, að systurnar þóttust hafa fengið ákaflega gott uppeldi og þóttust bera langt af öðrum manneskjum, meðfram vegna uppeldisins, þá var þetta þvert á móti að því er Pétur snerti. Hann fann engan góðan tilgang í þessu uppeldi, ekkert annað en hörkuna og drottnunargirnina. Hann hafði megnustu fyrirlitningu fyrir ættgöfgishrokanum, langaði ekkert í embætti og höfðingjahylli og ekkert til að geta þakkað guði fyrir, að hann væri öðruvísi en aðrir menn.
Eftir því sem hann stækkaði, varð honum kaldara í þeli til ættingja sinna. Gremjan og beiskjan settust fyrir í honum og gerðu hann kaldlyndan og einrænan, og því fór fjarri, að hann langaði til að gera þeim nokkuð til geðs.
Þegar kom í latínuskólann, hófust þar sömu vandræðin eins og heima. Kennararnir réðu ekkert við Pétur. Þeir kvörtuðu þó ekki um skort á námsgáfum hjá honum. Þeim þótti hann latur og baldinn og pöróttur. Hann margbraut skólareglugjörðina og hló að hverri nótu, sem hann fékk. Skólavistinni lauk með því, að Pétur sat eftir í fjórða bekk. Þá afsagði hann að vera lengur að þessu og fór úr skóla. Kennararnir urðu sárfegnir.
Þá hrundu allir loftkastalar um embættisvegsemd Péturs. Hann var þá orðinn stærri en svo, að faðir hans gæti flengt hann. Gamli prófasturinn fann því ekki annað ráð geði sínu til svölunar en loka sig inni og gráta.
Þá var Pétur sendur til Reykjavíkur að öðru sinni, og átti nú að læra járnsmíði.
Eitthvað lærði hann að berja járn. En jafnframt lærði hann að leika á fíólín.
Og áður en árið var liðið, strauk Pétur úr smiðjunni og réði sig á útlent hafskip.
Mörg ár var Pétur í förum, og vissi þá enginn af ættingjum hans, hvar hann var niður kominn.
En einn dag, þegar minnst varði, kom Pétur gangandi heim til föðurhúsanna með fíólínskistil undir hendinni.
Þá var hann orðinn fulltíða maður, hár og vel vaxinn, en nokkuð sjómannslegur í fasi og framgöngu og barst allmikið á.
Faðir hans tók honum fálega í fyrstu, og Pétur lét sem hann sæi það ekki. En þegar prófasturinn sá, að Pétur hafði fulla vasana af peningum og að hann hafði mikinn áhuga á því að laga sönginn í kirkjunni, þá fór hann heldur að blíðkast í skapi, svo að líkur voru til, að til fullra sátta mundi draga.
Pétur var þar um hríð og gerði lítið annað en leika á fíólín og gera að orgelgarminum í kirkjunni.
Peningana gaf hann og lánaði af miklum örleik og hélt ekki jafnnákvæma reikninga eins og faðir hans. Þetta líkaði prófastinum miður, en þó var allt vandræðalaust.
Þangað til þau ósköp komu fyrir, að Pétur felldi ástarhug til bláfátækrar stúlku þar í sveitinni, sem prófasturinn sagði, að ekkert hefði til síns ágætis annað en dáfallega söngrödd.
Og það gramdist prófastinum mest, að þó að leitað væri með logandi ljósi innan um alla ættingja hennar, þá fannst þar ekki svo mikið sem hreppstjóri.
Út af þessum ráðahag varð heljar-rimma á milli þeirra feðganna.
Þegar prófasturinn sá, að hann vann ekkert á með illu, fór hann að reyna að leiða Pétri sínum það fyrir sjónir með góðu, hvílík ráðleysa þetta væri.
Það ætlaði að hafa þveröfug áhrif, því að nærri lá, að Pétur sannfærði föður sinn.
Prófasturinn sá þó að sér í tíma. Það var óbærileg minnkun, að láta snúa sér þannig frá skoðun sinni.
Og enn þá sennuðu feðgarnir af mikilli ákefð um þetta mál. Prófasturinn bað og grátbændi Pétur sinn að hætta við að gera ættinni þessa háðung, hótaði honum óblessun og óhamingju, guðs reiði og öðru þaðan af verra.
En ekkert vann á Pétri.
Borghildur, sem þá var gift Agli fyrir allmörgum árum, kom þá til sögunnar og ætlaði að gera það, sem faðir hennar var genginn frá.
Pétur gerði ekkert annað en hlæja að henni og storka henni, - var meira að segja svo ósvífinn að minna hana á, að hún hefði sjálf gert ættinni sáralítinn sóma með giftingunni. Ekki þó svo að skilja, að hann væri að álasa henni fyrir giftinguna, því að það vissi guð, að Egill bæri langt af henni að öllum mannkostum.
Fáum dögum seinna gekk Pétur fyrir föður sinn og bað hann að gefa sig saman við heitmey sína.
Prófasturinn þverneitaði.
Pétur gekk þegjandi burtu, en hann var ekki af baki dottinn.
Hann fékk sér kot um vorið, flutti þangað með elskuna sína og fór að búa með henni.
Það kallaði prófasturinn að bíta höfuðið af skömminni. Og Borghildur var sömu skoðunar.
En Pétur kvað það sína skoðun, að einu mætti gilda um þessar "klausur og formúlur" kirkjunnar. Þegar karlmaður hefði beðið sér stúlku og hún sagt já, þá væri hún konan hans, hvað sem hver segði.
Að hæfilegum tíma liðnum var prófasturinn sóttur til að skíra.
- - Skammt frá bænum Brekku gekk þverdalur inn milli hálsa og fjalla. Efstu drög hans enduðu við skarðið upp af Bollagörðum. Úr miðjum dalnum var aðeins yfir lágan, brattan fjallshrygg að fara ofan á heiðina, skammt frá Bollagörðum.
En fremst í dalnum gekk einkennilegur hólahryggur úr hálsunum fram í dalinn og var kallaður Kroppur. Í krikanum fyrir innan hann stóð bærinn og bar sama nafn.
Þar bjó Pétur.
Kotið var heldur rýrt og niður nítt, en átti allmikið landrými fyrir ofan fjallið, sem lá samhliða því landi, sem Bollagörðum var eignað, og kom Kroppsbóndanum að litlum notum.
Búskapurinn gekk fremur höllum fæti fyrir Pétri, og börnin fjölguðu. Þau voru orðin tvö, þegar faðir hans dó, - saddur lífdaga.
Þá kom aldraður prestur að brauðinu. Hann var prófastur líka og fékk að halda tigninni. Eitt af fyrstu embættisverkum hans í nýja kallinu var að gefa Pétur og ráðskonu hans saman í hjónaband.
Þá var Borghildur eini ættinginn, sem Pétur átti í sveitinni, og með þeim var engin blíða.
Búskapur þeirra Egils og Borghildar blómgaðist ár frá ári, en Pétur sökk dýpra og dýpra ofan í fátæktina og bjálfaskapinn. Egill átti von á honum á sveitina á hverju ári.
Jafnmikið og á Borghildi bar vegna auðsins og mikillætisins, jafnlítið bar á Pétri í sveitinni. Framan af var eins og enginn myndi eftir honum, nema þegar einhver gleðskapur var á ferðinni, þar sem á honum þurfti að halda með fíólínið. Og eftir því sem minningin um gamla prófastinn dofnaði, færðist það í venju að kenna hann við systurina miklu og kalla hann Pétur Borghildarbróður.
Borghildur hafði sára raun af því.
Á mannamótum lést hún ekki sjá Pétur. Hann vissi, hvernig á því stóð, og tók sér það alls ekki nærri. Hann storkaði henni með því að bera jafnan höfuðið hátt.
Það gramdist Borghildi, og hún var búin að hugsa sér það, að þegar Pétur kæmi til Egils og bæði um sveitarstyrk, þá - skyldi hún taka á móti honum.
En það dróst, að Pétur kæmi.
Egill og Pétur voru kunningjar, og Egill kom stöku sinnum að Kroppi. En Pétur gerði sér engar óþarfa ferðir að Hvammi. Þá sjaldan að hann kom þangað, lét Borghildur ekki sjá sig.
Þannig liðu nokkur ár og Pétur leitaði ekki til sveitarinnar. Þegar konan dó, voru börnin orðin fimm. Eitt þeirra dó skömmu á eftir móður sinni; hin fjögur lifðu enn, öll á ómegðaraldri.
- - Pétur var stór maður vexti, limaður vel, herðabreiður og mittisgrannur, með stórar, hnúfaberar hendur. Hann var mikilleitur og svipmikill, með hátt enni og mikil brúnabein. Nefið var beint, varirnar þunnar og hakan nokkuð breið. Hann lét sér ekki vaxa skegg, en rakaði sig þó aldrei oftar en vikulega, svo að jafnaðarlegast voru þéttir skeggbroddar um allt skeggstæðið. Andlitið var magurt, með hörðum og þunglyndislegum dráttum, og hörundsliturinn öskugrár, eins og hann stæði í stöðugum smiðjureyk. Augun voru fremur lítil, grá og hvöss. Í öllum svipnum brá jafnan fyrir storkunar- og hæðnisglotti, sem mörgum stóð stuggur af. Fámáll var hann, en ýmsum þótti kenna kaldrar nepju í orðum hans, og fáir vildu standa í orðakasti við hann. Öll framkoma hans bar vott um megnustu fyrirlitningu fyrir tildri og mikillæti. Hann dró enga dul á það, að hann væri bláfátækur, og hreykti sér ekkert af höfðingjafrændseminni. Samt sem áður gaf hann það skýrt í skyn, að hann væri upp á engan kominn og liði engum að ganga á hluta sinn.
Nærri mátti geta, að þau Borghildur áttu ekki skap saman. Þó voru þau líkari en þau sýndust í fljótu bragði. Aðalmunurinn var sá, að hjá Borghildi ljómaði stórmennskan fyrir öllum umheimi, en hjá Pétri gekk hún dularklædd.
Borghildur vildi vera "húsfreyjan mikla", Pétur "vildi umfram allt vera svín", eins og faðir hans hafði sagt. Hann fékkst ekki um, þótt hann væri kallaður ræfill. Hitt þótti honum meira um vert, að eitthvert hald væri í ræflinum, ef í hann væri þrifið.
Það voru stórmenni sveitarinnar, presturinn og ríkustu bændurnir, sem helst urðu fyrir barðinu á Pétri. Honum var í nöp við allt það, sem tyllti sér á tá yfir fjöldann og þóttist skapað til að ráða og drottna, og lét Pétur fá tækifæri ónotuð til að gefa því olnbogaskot. Þessum mönnum var illa við Pétur. Þeim fannst grilla í eitthvert blýgrátt hyldýpi af ægilegum uppreistarskoðunum, jafnvel guðleysi, að baki orða hans og glotta. Frammi fyrir þessum einræna, undarlega manni var sem hrollur færi um ríki og kirkju og allt það, sem almennt var talið heilagt og réttmætt.
Þeir voru þó langtum fleiri að höfðatölunni, sem þótti vænt um Pétur. Það voru smælingjarnir, unglingarnir og börnin. Þeim lagði Pétur alltaf liðsyrði og handa þeim hafði hann alltaf bros og gamanyrði á reiðum höndum. Einkum var hann fádæma barngóður og lék sér við öll börn, sem hann hitti.
Mannfundir voru þá tíðir og mikið rætt bæði um landsmál og héraðsmál. Þá fundi sótti Pétur engu síður en aðrir og tók þátt í því, sem þar fór fram. En alleinkennileg var hluttaka hans. Hún var mest í því fólgin að hlæja máttinn úr hrokanum og belgingnum. Þegar hinir lærðu og vísu, sem fundu til þess með óblandinni ánægju, hve mjög þeir báru af allri alþýðu, komu fram á fundunum með aðdáanlegum spekingssvip og tóku að leiða fólkið í allan sannleika, þá gerði Pétur fáeinar athugasemdir. En þær athugasemdir rifu stórgloppur í hinn ljómandi listvefnað, og fleygðu honum loks í ruslið eins og hlægilegum hégóma. Þeir lærðu og vísu nístu tönnum af gremju og litu fyrirlitlega á "þennan ræfil". En þeir voru ráðalausir með hann, því að Pétur vissi flest, sem þeir vissu, og hafði víða farið og margt séð, sem þeir höfðu enga hugmynd um.
Þetta leiddi til þess, að Pétur fór að hafa allmikið fylgi hinna smærri bænda, og þegar kjósa skyldi í hina fyrstu hreppsnefnd þar í sveitinni, hlaut hann flest atkvæðin og varð oddviti nefndarinnar.
Þá fór Borghildi að þykja minni skömm að skyldleikanum við hann.
- - Kroppur þótti sann-nefndur bjánabær. Þar var engin manneskja talin með fullu viti, nema Pétur.
Margir hristu höfuðin yfir því, að annar eins myndarmaður skyldi una sambúð við þá bjálfa, sem hann hafði á heimilinu.
"Hjúin" voru þrjár manneskjur vandalausar, sem lítið báru hver af annarri. Það var ein vinnukona, einn matvinnungur og einn sveitarómagi. Vinnukonan var ráðskona um leið, gömul kona og fremur fákæn. Matvinnungurinn var karlaumingi, vikastirður og hálfsjónlaus, og sveitarómaginn dóttir hans á fermingaraldri, vesalingur bæði til sálar og líkama. Á þessu fólkshaldi hafði engin breyting orðið síðan kona Péturs dó.
Eina skýringin á þessu, sem mönnum hugkvæmdist, var sú, að Pétur ætti bágt með að gjalda góðum hjúum, og kysi þá heldur að hafa kaupleysingja, sem ekki væru beint til þyngsla.
En á Kroppi gekk allt í sukki og vanhirðu, og bærinn var fyrir löngu búinn að fá illt orð á sig fyrir óþrifnað.
Pétur og börn hans voru orðin því samdauna, sem bærinn bjó yfir, og enginn sá þess vott, að hann yndi sér þar illa.
Hann hafði lítið saman við heimafólk sitt að sælda, nema hvað hann skipaði því fyrir verkum og sá því fyrir lífsnauðsynjum. Annars fór hann sinna ferða og það sinna.
Hann hafði lengt baðstofuna um tvö stafgólf, og í þessum nýja enda svaf hann með börn sín. Þar hélt hann sig einnig frásneiddan hinu fólkinu, þegar hann var heima á daginn.
Hann hafði bætt á sig hlutverki móðurinnar, þegar hún dó, og annaðist börnin með stakri nákvæmni. Hverja stund, sem hann var heima, helgaði hann þeim. Hann sat með þau á hnjánum, eitt eða tvö í einu, og það eins þó að gestir væru hjá honum, þvoði þeim sjálfur og kembdi, háttaði þau sjálfur á kvöldin og klæddi þau á morgnana, sagði þeim sögur í rökkrinu eða lék fyrir þau á fíólínið og lét þau syngja undir. En þegar hann var ekki við látinn, varð elsta barnið, sem var stúlka, oftast nær að annast yngri systkinin.
Þegar Pétur fór að heiman, var oftast nær öllum heima hjá honum ókunnugt um, hvert hann ætlaði. Hann sagði sjaldan frá því. Stundum var hann daglangt í fjárleit, stundum á fundum, stundum í ýmsum erindagerðum úti í sveitinni, stundum fyrir ofan fjall, að veiða í Hvammskvísl. Oft fór hann ekki að heiman fyrr en eftir að börnin voru sofnuð á kvöldin og kom ekki heim fyrr en undir morgun.
Orð lék á því, að Pétur væri hvikull við erfiða vinnu, en kappsamur mjög með sprettum, og margir þóttust varla í því skilja, hvað honum búnaðist þrátt fyrir það. Seinustu árin virtist hann heldur rétta við efnalega, minnka skuldir og auka bústofn sinn. Og nú var hann farinn að taka kaupamann sumar eftir sumar, til þess að hjálpa sér við sláttinn.
Og þessi kaupamaður var Finnur í Bollagörðum.
Þegar leið undir kvöldið, var veislugleðin komin í algleyming.Í tjaldinu hélt samdrykkjan áfram. En nú voru flestir orðnir kaffinu og súkkulaðinu fráhverfir, eftir að púnsið fór að gægjast þangað inn. Og skál brúðhjónanna hafði verið drukkin með miklu fjöri.
Allur bærinn kvað við af hlátri og skvaldri.
Það var búið að fleygja út úr stofunni - ekki aðeins heldra fólkinu, heldur einnig stólum, borðum, kistum og hverju, sem hét og var, - öllu nema olíulampatýru, sem hékk dinglandi og rjúkandi í einu horninu, og stól, sem Pétur studdi fætinum á.
Pétur knúði strengina og stofan dunaði af dansi.
Borga var komin í dansinn, því að nú var farið að hægjast um frammistöðustörfin. Hún kunni betur að dansa en hinar stúlkurnar, því að hún hafði verið vetrarlangt í kaupstað, þar sem dans var mjög iðkaður. Hinar stúlkurnar höfðu orðið að æfa sig heima og kenna hver annarri, og brúðurin sjálf hafði aldrei dansað spor á ævi sinni.
Pétur hnipraði sig út í horn og spilaði utan bókar á hljóðfærið. Hann var þungur á svipinn og auðsjáanlega ekki í því skapi, að vert væri að glettast við hann. Borga gaf honum gætið auga.
En eitt sinn, þegar dansinn stóð sem hæst, kom drengur inn í stofuna. Hann reyndi að fikra sig inn með þilinu og verjast áföllum af þeim, sem dönsuðu, og linnti ekki fyrr en hann náði inn í horn til Péturs. Þar reyndi hann að segja eitthvað, sem ekki heyrðist fyrir hávaðanum.
Pétur hætti að spila og laut ofan að drengnum, til að heyra hvað hann segði.
"Þeir vilja finna þig út í hlöðu," sagði drengurinn.
"Hverjir?"
Drengnum varð orðfall í svip. Hann hafði alls ekki sett það á sig, hverjir höfðu sent hann. Eftir dálitla umhugsun rifjaðist það þó upp fyrir honum:
"Egill í Hvammi og Sigvaldi hérna og einhverjir fleiri."
"Hvað vilja þeir mér?"
"Það veit ég ekki."
"Hvað er þetta?" spurði Borga, másandi móð úr dansinum og nam staðar hjá þeim. "Ertu nú hættur að spila? Ertu nú orðinn uppgefinn?"
Úti á gólfinu stóðu piltar og stúlkur í faðmlögum og biðu þess að dansinn héldi áfram.
"Geymdu fíólínið mitt!" sagði Pétur alvarlegur á svipinn og rétti henni það.
Borga leit á hann stórum augum.
"Það er fundur um landsins gagn og nauðsynjar úti í hlöðu hjá Sigvalda," sagði Pétur lágt við Borgu, og hæðnin gægðist út úr alvörusvipnum. "Það er sjálfsagt um stjórnarskrána eða Danskinn eða fjárkláðann," bætti hann við, án þess honum stykki bros, og gekk síðan úr stofunni.
"Þorlákur! Hvar er Þorlákur með harmónikuna?" var hrópað margraddað. "Þorlákur, þófara-bur!" tónuðu sumir, því að það stóð í hljóðstöfum og hendingum og var þar að auki edduborið. Aðrir kölluðu í ákafa: "Láki, Láki!"
En sonur þófarans elskulegur, á hverjum hann hafði velþóknan, var fýldur yfir því dálæti, sem Pétri var sýnt, og lét ganga dálítið eftir sér. En af því hann vissi, að hann átti að fá harmónikuna - sem var ný og hafði kostað fimm krónur, - að launum fyrir spilið, þá drattaðist hann loks inn að stólnum, þar sem Pétur hafði verið.
- - Dagur var enn á hálfu loftinu, þegar Pétur kom út, en orðið hálfdimmt, og skýin dökk á litinn. Hann sá því illa, hverjir saman voru komnir í hlöðunni. Þó glórði þar í andlit nokkurra bænda, sem taldir voru rosknir og ráðsettir, þar á meðal Egils og Sigvalda.
Vindauga mikið var á þekjunni á hlöðunni og stóð opið. Lagði þaðan sætan ornunarilm ásamt megnri hitasvækju. Hlaðan var full af töðu upp að vegglægjum. Þegar Pétur stökk inn úr vindauganu, var sem hann kæmi niður í mjúka dúnsæng. Þar sátu fundarmenn flötum beinum ofan á töðunni. Sumir lágu flatir eða upp við olnboga og sumir sátu á bita, sem var þar hálfur á kafi í töðunni.
"Nú er Pétur kominn," sögðu margir í einu, eins og þeim þætti mikils um návist hans vert.
Pétur settist á bitann utar frá öðrum og studdi olnbogunum fram á hnén.
"Gætið þið nú að, hvort enginn sé á hleri," mælti Egill.
Menn voru alvarlegir og hátíðlegir á svipinn, eins og þeir sætu undir Jónsbókar-lestri. Þessi byrjun var einhvern veginn svo leyndardómsfull.
Tveir menn teygðu sig út úr vindauganu og lituðust um. Þeir sáu ekkert, nema hundana úti á hlöðuveggnum, sem biðu eftir húsbændum sínum og urruðu hver að öðrum sér til skemmtunar á meðan.
Aðrir tveir könnuðu hlöðuna, skriðu út í koldimm skúmaskot undir þekjunni, en urðu engra manna varir.
Egill strauk ennið og sótti í sig veðrið. Síðan mælti hann:
"Það er ekkert fagnaðarerindi, sem ég ætla að leita ráða hjá ykkur um að þessu sinni. Það er það, að nú verður að gera alvöru úr því að leita þjófaleit á kotunum fyrir ofan fjallið."
Egill þagnaði, og það varð dauðaþögn í hlöðunni.
En mitt í þögninni heyrðist snöggur, bitur hlátur þaðan, sem Pétur sat, svo napur, að hann smaug mönnum gegnum merg og bein.
"Þetta er ekki hlátursefni," mælti Egill þunglega og stillilega. "Kindahvarfið í heiðinni er nú farið að ganga svo úr hófi, að ekki má lengur við svo búið standa. Fullorðið fé, sem allt sumarið gengur í högunum kringum kotin, hverfur undir göngurnar, og enginn sér af því hold né hár. Þetta er ekki einleikið. Og það er ekki tófan, sem veldur þessum ókjörum."
Egill tók sér málhvíld um stund, og enginn hinna lét neitt til sín heyra. Síðan hélt hann áfram:
"Ég hefi ráðfært mig um þetta við sýslumanninn, og hann kom hér við í dag til þess að tala nánar um það. Hann fellst ekki einungis á, að þetta sé óumflýjanlegt, heldur hefir hann beinlínis lagt fyrir mig að framkvæma það."
Enn þá varð þögn mikil. Egill leit spyrjandi augum í kringum sig. Aðrir litu ýmist til hans eða Péturs. Þeir voru helstu leiðtogar sveitarinnar, annar hreppstjóri, en hinn hreppsnefndaroddviti, og sjaldan alveg sammála á mannfundum. Það þótti því ekki hlýða að grípa fram í fyrir þeim í öðru eins vandamáli.
Pétur sat álútur og fitlaði við puntstrá, sem hann hélt milli fingranna. Af svip hans og látbragði varð ekkert ráðið.
Agli fór að leiðast eftir svari.
"Hvað segið þið um þetta, góðir menn?" mælti hann. "Hvað segir þú, Pétur? Eða þú, Sigvaldi?"
"Þetta er alveg sjálfsagt," vældi Sigvaldi. Hann hafði komist í það skap um daginn, að nú var hann til alls búinn.
En það var sem menn vildu ekki láta sér nægja álit Sigvalda eins. Allra augu hvíldu á Pétri.
Loks rauf Pétur þögnina, og það á þann hátt, að flestum hnykkti við; það var einhver undarlega sárkaldur holhljómur í röddinni, naprari en menn áttu að venjast, jafnvel hjá Pétri.
"Jarmaðu nú, Móri minn, hvar sem þú ert!" mælti hann.
Allir könnuðust við söguna, sem þetta var tekið úr, og öllum fannst þeim liggja í þessum orðum óbein þjófnaðaraðdróttun, - eins og ætlast væri til, að Móri jarmaði niðri í hverjum þeirra um sig.
"Þetta er alvörumál," mælti Egill og var styggur við.
"Já, ég er nú hræddur um það," mælti Pétur alvarlega. "En - við verðum að ganga á sokkaleistunum."
"Sokkaleistunum? - Hvers vegna?"
"Því að annars heyra þjófarnir til okkar, og þá eru þeir vísir til að flýja."
"Þú gerir tómt háð og narr að þessu - eins og vant er!"
"Finnst ykkur það? Mér er þó alvara. Þið vitið það, að þjófarnir hafa alltaf haft lag á að hverfa, þegar menn hafa verið á ferð uppi í heiðinni, og það hlýtur að vera af því, að menn hafa ekki farið nógu gætilega. Þjófarnir eru styggari en kindurnar, styggari en hreindýrin, meira að segja, því að þau sjást þó stundum með mennskum augum. En sneypulegt væri að fara að leita og finna engan þjóf."
"Það eru víst ekki aðrir þjófar í heiðinni en þeir, sem við höfum séð og þekkjum allir," mælti Egill, og var nú heldur farið að síga í hann.
"Nú, það er svo að skilja! Það eru landsetar hreppstjórans, sem hér er um að ræða. Gerum ráð fyrir, að hann þekki þá! - Nú, jæja. Ég kemst sjálfsagt ekki hjá því að fara með ykkur. En látið mig þá fást við Ólaf; ég treysti mér helst til við hann. Þú kannt tökin á kvenfólkinu, Egill, svo að það er best að þú ráðir á Höllu. Og þá er líklega óhætt að trúa Þorbirni þínum fyrir Sölku. Er ekki svo?"
"Ég hafði nú hugsað mér að bera niður á hinu kotinu," mælti Egill dræmt.
"Ha-ha-ha! Það var nú lakara. Þá afsegi ég að vera með. Setta er ramgöldrótt. Mig langar ekki til að láta umhverfa fyrir mér allri jörðinni, eða gera mig að urðarketti."
Egill var farinn að verða hræddur um, að Pétri mundi ætla að takast að hlæja niður þessa þjófaleitarhugmynd og gera hana að eintómum hégóma. Honum var því farið að sárna í skapi.
"Þér þóknast enn þá að skopast að þessu," mælti hann.
"Nei, þvert á móti," sagði Pétur mjög alvarlegur. "Ég er einmitt gagntekinn af þessum nýjasta votti um hreysti og hugprýði feðranna, sem nú er að endurlifna í landi voru. Herferð -! Já, svei mér er það herferð að nokkru leyti. Við verðum allir að hafa vopn undir klæðum og vera í vígahug. Hver veit nema kotungarnir finni upp á að verja þýfið. Ég á skaraxargarm - ."
Nú voru allir farnir að hlæja, og Pétur hætti í miðri setningu.
Egill taldi þjófaleitina dauða með öllu og hugsaði sér að láta það bíða fyrst um sinn, að hann færi að fitja upp á slíku stórræði. Því að í raun og veru var honum leitin mjög á móti skapi. Þó gramdist honum að láta skapa henni aldur á þennan hátt.
Lakast mundi verða að koma sýslumanninum í skilning um orsakir þessara málaloka.
Á eftir hlátrinum fór mönnum dálítið að liðkast um málbeinið.
Flestir voru þess heldur hvetjandi, að leitin væri framin. Ýmsa hafði vantað fé af fjalli síðustu árin, og það svo, að firnum þótti sæta. Þeir höfðu legið Agli þungt á hálsi fyrir það, að gera ekki gangskör að því að komast fyrir, hvort heiðarbúarnir væru frómir eða ekki. Nú þótti þeim lítilmannlegt að bregðast, þegar á skyldi herða.
Aðrir töldu leitina úr. Þeir könnuðust raunar við það, að fjárhvarfið í heiðinni færi langt fram úr því, sem ætla mætti venjulegum orsökum. En hins vegar töldu þeir þjófaleit svo blóðuga móðgun fyrir þær manneskjur, sem saklausar væru, að ekki mætti hrapa að slíku tiltæki. Best væri að komast fyrir það í kyrrþey, hverjir að fjárhvarfinu væru valdir, og leita síðan hjá þeim, en ekki öðrum.
Um þetta þráttuðu menn fram og aftur dálitla stund. Loks varð það ofan á, að framkvæma leitina og hafa hana í sambandi við fjallgöngurnar, því að þá söfnuðust menn saman á kotunum hvort sem var. En halda allri þessari ráðagerð vandlega leyndri til þess tíma.
Pétur hafði hlustað á og ekkert lagt til málanna. Hann sat sem áður með olnbogana fram á hnén og horfði í gaupnir sér. Nú var orðið svo dimmt, að varla sá í andlit honum. En þegar þessi ályktun var tekin, stóð hann upp og mælti:
"Jæja, piltar mínir, ég hlakka nú ekki til neins nema þess að sjá ykkur leita! Ég skal lána ykkur allt gangnaliðið, dálitla stund að minnsta kosti, því að eins og þið vitið, eruð þið mínir menn þá dagana, á meðan ég á að sjá um fjallskilin. - Og svo skal ég leita eins og berserkur - nei, eins og hundur, ætlaði ég að segja. En ég vona, að þið gleymið ekki stóru þjófunum vegna þeirra smáu!"
"Hverjir eru það?" spurði einhver.
"Það eru gjárnar í hraununum, sem víkka og dýpka við hvern jarðskjálfta, og það eru pyttirnir í mýrunum, klakabrýrnar á giljunum og holbakkarnir meðfram lækjunum. En þið ættuð annars sem minnst að fást við þessa þjófa, því að þeir eru vísir til að gleypa ykkur lifandi, eins og hina - sauðina. Það er hættuminna að snuðra í kotunum! - Ég mundi nú hafa byrjað leitina annars staðar, hefði ég mátt ráða. Ég mundi hafa byrjað á stórbýlunum, höfuðbólunum, hjá sýslumönnum, prestum og stórbændum. - Það væri fróðlegt að vita, hvernig ýmislegt væri fengið, sem þar er, og hvaðan það væri. Og heldur vildi ég vita einn kindarbjórinn minn lenda hjá vesalingunum fyrir ofan fjallið en sjá á eftir honum heim til prestsins. En gott og vel, piltar. Leitið þið uppi smáþjófana og seljið þá í hendur stórþjófunum, svo að þeir verði dæmdir hátíðlega og hirtir stranglega, guði til dýrðar og heiminum til lærdóms, - fyrir þá glópsku, að vera ekki nema smáþjófar!"
Að svo mæltu gekk Pétur úr hlöðunni.
Menn sátu hljóðir um stund. Sitt af hverju höfðu þeir heyrt Pétur segja um dagana, en sjaldan hafði hann verið jafnbeiskyrtur.
Hlöðufundinum var þá sjálfslitið.
- - - Inni í tjaldinu á hlaðinu blossaði og bálaði veislugleðin.
Þar var búið að raða kertaljósum á borðið, og þangað var hver súpuskálin borin á fætur annarri, full af sjóðandi vatni. Einhver af frammistöðumönnunum - en það voru helstu menn sveitarinnar - hellti úr hálfri rommflösku í hverja skál og hrærði svo í með eysli. Síðan báru þeir logandi eldspýtu að gufunni, og blár logi sveif yfir hverri skál eins og andinn yfir vötnunum. Að því búnu var púnsið tilbúið. - Heldri menn drukku það úr glerkollum, en almenningur úr kaffibollum.
Öll greining stétta og mannvirðinga var komin á ringulreið. Bæði þeir, sem í stofunni höfðu verið og hinir, sem skemman hafði verið ætluð, voru nú saman komnir í tjaldinu. Og allir skemmtu sér af öllu hjarta. Púnsið hafði lítillækkað suma og upphafið aðra, og bollunum og glösunum var hringt saman af miklum innileik.
Innst í tjaldinu sat Borghildur hjá prestinum, og létu þau svo vel hvort að öðru, að nærri gekk faðmlögum. Hinum megin við prestinn sat Setta í Bollagörðum, glampandi og gljáandi af kæti og sí-hneggjandi. Utar á bekknum drukku þau tvímenning Margrét húsfreyja og Finnur í Bollagörðum. Enn þá utar stóðu þeir utan bekkja með sinn púnsbollann hvor, Ólafur þófari og Þorbjörn í Hvammi - Þorbjörn langur og lotinn, Ólafur stuttur og gildur, svo að þeir líktust bókstöfunum "fi" - og sögðu hvor öðrum lygasögur.
Þangað vitjuðu þeir, sem í hlöðunni höfðu verið, og þar hittu þeir Pétur aftur.
Hann fyllti bollann sinn hvað eftir annað og hringdi á báðar hendur við hvern, sem fyrir honum varð.
Enginn þóttist hafa séð hann jafnundarlega öran og þetta kvöld. Ofsakæti var eðli hans fjarstæð; honum var hægfara glettni og storkunarkímni eiginlegri. En nú logaði hann af fjöri og gáska. Það var sem neistar hrykkju af honum, sem kveiktu líf og leik í hverjum manni.
Hann var rauðari og dekkri í framan en hann átti vanda til, og augun gljáðu eins og í hitasóttarsjúklingi. Þau voru þó ekki sljó og starandi, eins og drykkjumannsaugu, heldur stingandi hvöss og á stöðugu flögri. Einhver undarleg óró rak hann frá manni til manns um allt tjaldið. Hvergi nam hann lengi staðar og alltaf var eins og eitthvað væri á hælunum á honum, sem hann væri að flýja undan. - Þótt hann hefði haft það stórræði í hug, að brenna alla veislugestina inni, hefði hann varla getað verið ókyrrari og undarlegri.
Skömmu eftir að hlöðufundarmennirnir voru komnir í tjaldið, hvarf Pétur þaðan og fór inn í stofu.
Þar stóð svo á, að harmónikan var farin að gefa sig í höndunum á þófarasyninum, svo að hann þurfti á títuprjónum og lakki að halda henni til lækningar.
En unga fólkið var ekki á því að hætta dansinum á meðan. Það dansaði og söng danslögin sjálft.
Miklu fagnaðarópi laust upp, þegar Pétur kom, og Borga flaug á móti honum með fíólínið.
Pétur tók við því, stillti strengina og kallaði síðan hárri röddu:
"Dansið þið nú, eins og skollinn hafi lofað ykkur góðum hlutum. Ég spila ekki nema eitt lag, og svo fer ég heim."
Í sömu svipan smugu tónarnir um stofuna, mildir og þýðir, eins og vorsöngvar þrastanna. Piltar og stúlkur fleygðu sér í faðmlög og ruku á stað í harðri hringiðu. Stofan skalf eins og laufblað.
Sjálfsagt hefir danskunnáttunni í Dalasveit farið fram síðan, en jafnvíst er hitt, að ekki er hún þeim, sem hana stunda, til meiri gleði nú en þá var.
Það voru ekki allt fimleg fótatök, sem gólfið varð fyrir. Þar var stigið niður þungum stígvélabotnum og laufléttum selskinnsskóm, hvorum við annarra hlið. Flestir voru fæturnir vanari því að skálma um hraun og holurðir en dansa. Innan um trítluðu smávaxnir, fimir meyjafætur svo létt, að varla fannst sporaskil. Danshljóðið var því ekki jafnar, þungar dunur eftir fallanda lagsins, heldur þjótandi suða, eins og í straumvatni.
Glugginn á stofunni hafði verið opnaður, og lagði næturgustinn inn á lampann. Við það rauk enn meira úr honum og ljósið varð rauðara og daufara. Hálfrökkur var í stofunni og loftið fullt af heitri svækju, svo að allt hvarf þar í iðandi móðu.
Brátt fór að færast einhver æsingarbragur á lagið hjá Pétri. Strengirnir hrinu og kvökuðu, skófu innan á mönnum hlustirnar og hvísluðu að þeim til skiptis. Stundum hlógu þeir með ærslum og ofsa, stundum kveinuðu þeir eins og einhver væri að gefa upp andann.
Enginn þekkti lagið. Þó fannst sumum þeir kannast við búta til og frá í því, sem virtust vera sinn úr hverri áttinni. En samskeytin hurfu í flaum titrandi hljóma, og yfir öllu var einhver töfratrylling með þungum undirstraum, sem reif með sér hugi manna.
Úti á gólfinu lá við slysum. Þar var allt ein dansandi þvaga, sem snerist viðstöðulaust um sjálfa sig. Hvert parið rak sig á annað og hratt öðru. Stúlkurnar ýttust enn fastar inn í föngin á piltunum og bárust áfram - þær vissu ekki hvernig - í þessari eirðarlausu þröng. Olnbogaskot voru tíð og stundum stigu stígvélahælarnir ofan á fæturna í selskinnsskónum, svo að hold virtist ganga af beinum, en slíka smámuni lét enginn á sig fá. Stynjandi og másandi færðist hringiðan einhvern veginn innan um stofuna, bundin og leidd af töfrum lagsins.
Allt í einu hætti Pétur að spila og strauk af sér svitann með vasaklút.
Það var sem mannþröngin tæki andköf, og dansinn smákyrrðist. Menn námu staðar, þar sem þeir voru komnir, blárauðir í framan og löðrandi af svita, og svelgdu í sig gustinn úr opnum glugganum.
"Er hann ekki góður polkinn sá arni?" mælti Pétur og stillti strengina af nýju.
"Jú, jú," kvað við um alla stofuna.
"Viljið þið heyra hann aftur?"
"Já, já, já."
"Vitið þið, hvað hann heitir?"
"Nei."
"Hann heitir - Þjófaleit!"
Stöku hlátrar heyrðust, en flestum fannst þetta líkjast snoppungi. Þeir vissu ekki, hvaðan á sig stóð veðrið. "Þjófaleit, þjófaleit," mæltu þeir fyrir munni sér hálfforviða.
"Já, Þjófaleit," hélt Pétur áfram með gremjukenndri hæðni. "Heyrið þið ekki, hvernig menn læðast - á sokkaleistunum? En þjófarnir flýja. Svo kemur tuskið, - vopnabrakið, skotin og skrækirnir. Svo réttarhald og dómur. Og loks jarmar Móri þar sem hann er - !"
Menn fóru að hlæja, en hláturinn varð þó ekki almennur, því að enginn skildi, hvað Pétur átti við. Og nú langaði menn til að dansa, en ekki til að ráða gátur.
"Spilaðu hann aftur, spilaðu hann aftur, hvað sem hann heitir!" hrópuðu margir í einu og þrýstu því fastar upp að sér, sem forsjónin hafði valið þeim til föruneytis þessa stundina.
Strengirnir hvinu við og dansinn byrjaði aftur. Pétur spilaði með enn meiri ofsa en í fyrra skiptið og enn fleiri tilbreytingum í framburði lagsins. Það var eitthvert undraafl í hreimnum, sem enginn fékk staðist.
Allir, sem inni voru, tóku til fótanna, og það var nærri því eins og stofan dansaði með.
Þannig hefir líklega kirkjan í Hruna dansað með gestum sínum, undir það hún sökk.
En stofan á Brekku sökk ekki. Hafi það legið nærri, þá kom fyrir atvik, sem bjargaði henni.
Þegar lagið svall sem hæst, hrökk kvintinn á fíólíninu sundur og slóst framan í Pétur.
Hin dansandi mannþröng kastaðist sitt á hvað innan um stofuna, eins og alda, sem leitar jafnvægis. En Pétur stakk hljóðfærinu undir hönd sér og ruddist út.
Rétt á eftir var hans leitað, en þá fannst hann hvergi.
3. kafliÞá eldi enn eftir af þeim gamla og góðkunna sið, að halda ekki veislurnar til hálfs, heldur fulls, að halda því óspart að gestunum, sem til var, setja engan hjá og láta engan komast undan að þiggja. Ekkert þótti meiri sneypa fyrir veisluhaldarann en það, ef ekki sæi vín á nokkrum manni. Hitt þótti fremur bæta en spilla, ef fljótt og vel sveif á gestina og ekki skorti ölteiti.
Frammistöðufólkið á Brekku hafði staðið sómasamlega í stöðu sinni. Þar hafði ekki skort "áfengi og áhrif þess".
Bærinn var líkastur því, að ræningjaflokkur hefði látið þar til sín taka. Þar voru allar hurðir brotnar af hjörunum og sums staðar stoðir fallnar undan vegglægjum, því að alls staðar hafði verið flogist á, ýmist í góðu eða illu.
Þar, sem tjaldið hafði staðið, var nú flekkur af brotum úr bollum og glösum. Á silfurskeiðunum, sem lánaðar höfðu verið úti um alla sveitina, voru hinar verstu heimtur. Sumar fundust útflattar á gólfinu, en sumar fundust alls ekki.
Til og frá í kringum bæinn sáust menjar eftir þá, sem fengið höfðu "of mikið af því góða". Þar voru nú hundarnir að halda sér smáveislur.
Fáir voru til frásagnar um það, sem gerst hafði í hlé undir bæjarveggjunum í næturkyrrðinni. Einhverjir höfðu heyrt þaðan hvísl og kossa. Freistarinn hafði verið í veislunni, þótt enginn hefði beinlínis boðið honum, en enginn vissi, hvað honum hafði orðið ágengt.
Á öllum götum, sem lágu frá Brekku, var eitthvað til tíðinda um morguninn. Sums staðar voru hestar á beit með reiðverin undir kviðnum. Annars staðar voru tveir karlmenn að kyssast og gátu ekki fengið af sér að hætta o. s. frv. Slysfarir voru þó engar.
Þorbjörn í Hvammi kom með glóðarauga úr veislunni, því að þannig höfðu lygasögurnar endað. En það er af Ólafi þófara að segja, að hann hafði oltið út af sofandi frá því að leysa hestinn sinn úr haftinu. Hesturinn hafði rölt burtu með haftið á öðrum fætinum, en Þorlákur sat yfir föður sínum með harmónikuna undir hendinni og beið þess að hann vaknaði.
En langverst leið Sveini gufu, föður brúðgumans, eftir veisluna. Ofan á timburmennina bættust þar hugareymsli og heilabrot um það, hversu mikið af Brekkuauðnum mundi hafa "gufað upp" um nóttina.
- - Borghildur í Hvammi gekk sem í sælum svefni alla vikuna. Hún gat ekki um annað hugsað en sýslumannssoninn. Aldrei leið henni úr huga sú mikla stund, er hún hafði séð þau hvort hjá öðru, hann og dóttur sína.
Hún fór ekkert að heiman þessa viku, - ekki einu sinni á fund vinkonu sinnar á Brekku. Nú lét hún hana eina um veisluleifarnar, veisluminningarnar og tómleikann eftir burtför dótturinnar. Hún hafði blátt áfram gleymt henni.
Borghildi var nú orðið þannig farið, að hver ný hugsun, sem vaknaði hjá henni, gagntók hana með öllu, svo að varla komust aðrar hugsanir að. Þá var eins og allt hið mikla skap legðist í einn farveg með því afli, sem ekkert fékk stöðvað. Sjálf hlýddi hún hugsun sinni eins og blindri eðlishvöt, heillaðist af henni og lét leiðast til hinna undarlegustu ímyndana, leið fyrir þær hugraunir eða gladdi sig við þær eins og mikilúðugt barn.
Í þetta skipti var það sýslumannssonurinn - eða réttara sagt, endurreisn prófastsættarinnar með giftingu, sem slíkri ætt væri samboðin.
Löngum tímum saman sat hún með hendurnar krosslagðar á kjöltunni og horfði fram undan sér sem í draumi og var að hugsa um þetta. Ef einhver yrti á hana, svaraði hún annaðhvort ekki eða svaraði út í hött, og stundum heyrði hún alls ekki það, sem við hana var mælt.
En ef hún gat náð í einhvern til að tala við um sýslumanninn eða ætt hans, þá var hún óþreytandi.
Það lakasta var, að þar var enginn henni sjálfri fróðari. Sýslumaðurinn bjó svo langt burtu, að skrafskjóðurnar þar í sveitinni höfðu sjaldan haft hann að umtalsefni. Egill hafði stöku sinnum gert sér ferðir heim til hans, en það var ævinlega í hreppstjóraerindum, og hann var í raun og veru litlu fróðari en aðrir um hagi hans. Borghildur óskaði, að hún hefði einhvern tíma farið þessar hreppstjóraferðir. Hún hefði sjálfsagt komið auga á fleira, sem gott væri að vita um sýslumanninn, en Egill hafði gert. Þeir voru alltaf hálfblindir þessir karlmenn.
Agli leiddust spurningar hennar um sýslumanninn, fannst hana ekkert varða um hann og sneiddi hjá að svara henni. Hugsanir þeirra og áhugamál áttu ekki samleið fremur nú en endranær.
Borghildur varð því að velta þessu fyrir sér einsamalli.
Aðalvandamálið var að finna upp eitthvert ráð til að láta þau kynnast persónulega, Borgu og Aðalstein. Ef það tækist, var hún viss um sigurinn. En ofan á þetta ráð var ekki hlaupið. Stundum datt henni í hug að koma Borgu fyrir hjá sýslumannsfrúnni þá um veturinn til hannyrðanáms. Hún féll þó frá því aftur, því að ekki var að vita, hvern skilning almenningur legði í þá ráðabreytni. Þá datt henni einnig í hug að takast ferð á hendur um fjarlægar sveitir, hafa Borgu sína með sér og einn eða tvo fylgdarmenn, svo að allir mættu sjá, að hún væri engin kotkerling. Gista þá eina eða tvær nætur hjá sýslumanninum og sjá hvað skipaðist. Þessa ferð fór hún margsinnis í anda og lét þá mikið bera á vegsemd sinni, en líkamlega komst ferðin aldrei í framkvæmd. Sumri var farið að halla, veðrátta að spillast og ár að vaxa, svo að ekki var vænlegt að leggja í langferðir. Það lenti því við umþenkingar og ályktanir að þessu sinni.
Einnig sárlangaði hana til að vita um hugarfar Borgu í þessu efni, og eitt sinn er þær mæðgurnar voru tvær einar, mælti hún:
"Hvernig leist þér á sýslumannssoninn, Borga mín?"
"Hvaða sýslumannsson?" hreytti Borga úr sér hálfönug og roðnaði við.
"Aðalstein auðvitað. Hefirðu séð fleiri sýslumannssyni en hann?"
"Hvar hefi ég séð hann?" spurði Borga hálfvandræðalega.
"Láttu ekki svona ólíkindalega, barn. Manstu ekki eftir manninum, sem þú varst að tala við í hlaðvarpanum á Brekku, þegar þú færðir þeim að drekka feðgunum?"
"Var það sonur sýslumannsins?"
"Hver hélstu að það væri?"
"Ég hélt að það væri fylgdarmaðurinn."
Borga sneri sér snúðugt við og fór að sinna einhverju, sem hún var að gera. Móðir hennar horfði fast og íbyggilega á hana og glotti við. Hún þóttist ekki þurfa um fleira að spyrja.
Borga hafði engan gaum gefið þessu ómerkilega ævintýri á Brekkuhlaðvarpanum, og aldrei um það hugsað fyrr en nú. Nú fann hún það allt í einu, að mynd þessa unga manns var henni furðuskýr fyrir hugskotssjónum. Henni sárnaði að vera minnt á þetta atvik á þennan hátt, en sárnaði það þó enn meira, að vita sig veidda og allra leyndustu tilfinningum sínum komið upp. Aldrei hafði hún verið ert með karlmanni fyrr en nú. Kafrjóð og hálfsneypuleg gekk hún snúðugt burt frá móður sinni.
- - Egill hafði lagt ríkt á við menn um það, að ráðum þeim, sem ráðin voru í Brekkuhlöðunni, væri haldið vandlega leyndum. En ekki var komið langt fram í vikuna, þegar hann fór að gruna, að Þorbjörn mundi vera búinn að komast að þeim.
Það þótti honum verst af öllu, því að það var sama sem að bera alla ráðagerðina til Settu í Bollagörðum.
Framan af vikunni var Þorbjörn undarlega fálátur og flóttalegur, eins og hann kviði einhverju og eirði hvergi. Þegar á leið vikuna, tók hann þó aftur gleði sína.
Þá var hann aftur og aftur að smáala á því við Egil, hve hörmulegt kindahvarfið í heiðinni væri og ekki einleikið. Hann fór jafnan í kringum efnið, en dylgjur hans voru brýningar um, að ekki mundi veita af að leita vel í kringum - Heiðarhvamm.
Egill þekkti Þorbjörn sinn svo vel, að hann skildi vísur hans hálfkveðnar. Auðvitað hafði hann enga átyllu til að hugsa, að það fyndist í Heiðarhvammi, sem að væri leitað. En fyrst því varð ekki afstýrt, að leitað væri hjá Settu, fannst honum huggun í því, að Höllu væri líka gerð þessi skömm og skapraun.
Einn daginn í vikunni kom Setta í Bollagörðum að Heiðarhvammi, og var enn þá fleðulegri en hún var vön að vera. Hún hitti svo á, sem ekki var sjaldgæft, að Ólafur var ekki heima, og var hans ekki heim von fyrr en næsta dag."Nú á að fara að leita hjá okkur þjófaleit, heillin mín," mælti hún, þegar hún var setst inni í baðstofu. "Hvernig líst þér á það? Ég held, að það sé ráðlegast fyrir okkur að fara að koma þýfinu okkar undan. Það er víst ekki svo lítið! Hí-hí-hí-hí!"
Halla lét sér hvergi bregða. Hún var orðin masinu í Settu svo vön, og vissi auk þess ekki, hvort hún átti að taka þessu í gamni eða alvöru.
"Þjófaleit," mælti hún. "Hver ætlar að gera hana?"
"En hreppstjórinn, - blessaður hreppstjórinn. Hann gleymir okkur ekki, fátæklingunum, landsetunum sínum, hí-hí-hí! Og ekki leiðist honum gott að gera."
"En hvernig veist þú þetta?"
"O-o, vertu í eilífri náðinni! Ég veit margt. Ég er nú eldri en tvævetur og þarf ekki að láta segja mér alla hluti."
"Hann hefir kannske tilkynnt þér leitina."
"Ó-ekkí! Svo hreinlyndur var hann nú ekki, blessaður. En ég er nú búin að frétta það samt. Það ber margt á góma í blessuðum brúðkaupsveislunum, hí- hí-hí-hí! Það væri synd að segja, að þær væru til einskis! Lakast var, hvað þeir reyndust þunnir veggirnir á Brekkuhlöðunni!"
Halla heyrði það á dylgjum Settu, að hún hafði eitthvað fyrir sér í þessu. Og þegar hún innti betur eftir, kom það í ljós, að Setta vissi allt um fundinn í hlöðunni og það, sem þar hafði verið skrafað og ráðgert. Aðeins fékkst hún ekki til að segja, hver hefði sagt henni það.
"En hundur skal heita í hausinn á mér," sagði Setta og skríkti af gremjublandinni kæti, "ef hreppstjórinn skal ekki eiga þá komu að Bollagörðum þann daginn, sem hann rekur lengi minni til. Ó, ég er lengi búin að hugsa honum þegjandi þörfina, bölvuðum durginum. Það hefir nú engin áhrif á hann, þó að honum sé sendur tónninn. Hann þyrfti að fá að finna til í skrokk-skrattanum. Ó, ég vildi að þið létuð hann ekki fara erindisleysu hingað heldur. Ég hefði besta skap til að kveikja í kofaræflunum, á meðan hann væri að snuðra þar inni, og verja honum útgönguna á meðan ég gæti. Hann hefði gott af því að venjast ofur lítið svælu og hita; - hver veit hvar hann lendir, þegar hann hrekkur upp af, hí-hí-hí-hí! - Nú sérðu, heillin mín, hvort ég hefi ekki sagt þér satt. Allir eiga að vera þjófar í heiðarkotunum. Allir, sem upp í heiðina flytja, eiga að flytja þangað til þess að stela. - Ég segi aldrei annað en satt. - Ég er nú orðin þjófnaðarbrigslunum svo vön, að ég er hætt því fyrir löngu að láta þau á mig fá. Sárast er að eiga ekkert af þeim skilið. Það liggur við, að ég sjái eftir því, að hafa ekki krækt mér í kindarbjálfa við og við, því að þá hefði ég sjálfsagt verið kölluð fróm. Sérð þú ekki eftir því líka, heillin mín? Nei, þú ert svo miklu betri manneskja en ég; þú hugsar ekki svoleiðis. En það veit enginn nema guð, hve þungt það er að vera hafður fyrir rangri sök."
Setta komst svo við af því að tala um sakleysi sitt, að hún grét fögrum tárum.
Á eftir fór hún að segja Höllu ýmislegt úr veislunni og fór ekki á stað fyrr en komið var langt fram á kvöld.
- - Halla gat ekki sofnað nóttina á eftir fyrir umhugsun um það, sem Setta hafði sagt.
Svo var nú langt komið -!
Aldrei hafði hana grunað, að þjófnaðargrunurinn væri orðinn svona megn. Eiginlega hafði henni aldrei getað skilist, að nein alvara lægi að baki honum, - að hann væri annað en fleipur, sprottið af illgirni eða gremju í það og það skiptið. En nú átti að fara að gera þjófaleit heima hjá henni sjálfri.
Þjófaleit! - Þótt hún hefði átt von á mönnum til að setjast um bæinn og brenna hana inni, þá hefði henni fundist það léttbært hjá slíkri háðung. Hvað mundu allar manneskjur hugsa um hana á eftir? Það voru svo sem engar líkur til þess, að þjófnaðargrunurinn hyrfi við það, að ekkert fyndist. Nei, þá fyrst mundi hann vaxa. Menn mundu ekki álíta, að hún væri saklaus, heldur hitt, að hún feldi svo kænlega, að ekkert fyndist. - Þjófur átti hún að vera álitin alla sína daga upp frá þessu. Hvenær sem einhver þyrfti að hefna sín á henni, mundi þjófaleitinni verða kastað framan í hana eins og steini. Hún var innsigli fyrir því, hve þjófnaðargrunurinn á henni væri almennur. Og þegar börnin hennar kæmust á legg, ættu þau vísa sömu kveðjuna: "Þið ættuð að skammast ykkar. Það var gerð þjófaleit hjá mömmu ykkar."
Og vesalings Ólafur! Allt leið hann þetta hennar vegna. Hvað var eðlilegra en hann minntist þess í þessum raunum, að það voru hennar ráð, að flytja í þetta heiðarkot. Hann hlaut að finna til þess, þó að hann hlífðist við að hafa orð á því.
Yfir þessum hugsunum lá hún vakandi í næturmyrkrinu með sjúkt barnið við hlið sér, sem veinaði upp úr svefninum við og við. Hún grét ekki; nú var hún orðin grátinum svo vön, að henni var ekki eins hætt við honum og áður hafði verið. En henni fannst brjóstholið klemmast utan að hjartanu, svo að það mundi þá og þegar hætta að hreyfast.
Hún varð að játa, að nokkuð væri til í því, sem Setta hafði sagt. Það gat varla verið mikið þyngra að hafa þjófnað á samviskunni en bera þjófnaðarorð hvar sem hún væri, en vera þó saklaus.
Svo fór hún að ímynda sér, hvernig þessi þjófaleit mundi fara fram.
En þá datt henni allt í einu í hug krypplingurinn.
Salka mundi verða hemjulaus af reiði, ef hún skildi, hvað verið væri að gera. Og þá var hún vís til að rjúka á hvern, sem fyrir henni varð, og bíta til stórskemmda.
En það mátti ekki koma fyrir. Þau urðu öll að taka þessa móðgun eins og saklausum manneskjum sómdi.
Daginn eftir tók hún Sölku tali.
"Salka mín," mælti hún ofur blíðlega. "Þú verður að vera stillt og góð, þó að einhverjir komi hingað, sem þér finnst að ætli að gera okkur illt. Þú mátt ekki reiðast og ekkert illt gera þeim; mundu mig um það. Þeir geta ekkert illt gert okkur. Þeir halda, að við séum þjófar, - að við tökum það, sem við eigum ekki, og leynum því fyrir öðrum mönnum. En guð á himnum mun sanna sakleysi okkar - ef við erum þolinmóð og spillum ekki málstað okkar með illum verkum."
Salka horfði undrandi á hana, á meðan hún sagði þetta. En þegar hún hafði skilið til fulls, hvað Halla átti við, lofaði hún þessu upp á æru og trú. Og Halla efaðist ekki um, að hún mundi efna það.
- Þegar Ólafur kom heim og Halla sagði honum frá þessu, varð honum allt öðruvísi við en hún hafði búist við.
Það lá við, að honum þætti vænt um þetta.
"Það hlaut að koma að þessu," mælti hann með mestu hægð. "Mér hefir blöskrað, hvað þeir hafa verið þolinmóðir. Fullorðnar, vænar kindur, sem hafa gengið hérna í móunum allt sumarið, hafa horfið undir göngurnar og aldrei sést síðan. Ég hefi svo að segja horft á, hvað af þeim hefir orðið, þó að ég hafi engan staðið að verki. Og ég vildi einskis fremur óska en að það kæmist upp."
Halla varð rólegri við þetta.
"En eitt þykir mér undarlegt," bætti Ólafur við eftir dálitla umhugsun. "Ég er hræddur um, að einhverjir fleiri séu um þýfið en þau í Bollagörðum."
"Já, - Þorbjörn, auðvitað," greip Halla fram í.
"Ég tel hann nú með þeim. En það færi betur, að ekki væru enn þá fleiri við það riðnir."
"Hver eða hverjir gætu það verið?"
"Það veit ég ekki, - því er nú skollans verr. En það eru einhverjir, sem ekki eiga heima í Bollagörðum og - kannske ekki í sveitinni."
4. kafliÞað var orðið haustlegt um að litast, haustlegt í lofti og haustlegt til jarðar.
Hagablómin voru búin að fella blöðin og stönglarnir voru byrjaðir að visna.
Fjalldrapinn var farinn að gulna og berin á lynginu orðin að stórum, blóðrauðum dropum, því að þau höfðu frosið og þiðnað aftur.
Skýin voru orðin lágfleyg. Stórir bólstrar drógust áfram eins og drekkhlaðin skip. Þeir ráku kviðinn í fjallatindana og rifu úr sér innyflin. Og þau voru hvít. Alls staðar voru hvítar drefjar eftir þá, alls staðar var snjóhrafl í giljum og skorum.
Miklu hærra, langt uppi í lofthvolfinu, skein á skýjafannir, sem liðu áfram fyrir allt öðrum vindum en þeim, sem blésu niðri við jörðina. Þær svifu hægt og hægt ofan úr hæðunum, stefndu ýmist á Noreg eða Grænland, en höfðu Ísland beint fyrir neðan sig. Þær voru enn þá óráðnar í, hvar þær mundu leita sér hvíldar.
Nú voru mörg veður í lofti.
Neðan frá ströndunum heyrðust þungar dunur. Ægir var orðinn úfinn og skapvondur. Stórar, þungar haföldur, ættaðar norðan úr hafsbotnum, þar sem máttugustu tröll og óvættir íslenskra fornsagna hamast og tryllast, - voru nú á suðurleið og ráku sig á landið. Þær voru svipmiklar og úfrýnar á meðan þær voru látnar í friði; en þegar stormurinn ýtti við þeim, vaknaði í þeim jötuneðlið.
Það var hausthrollur í allri náttúrunni.
Jörðin var gljúp og meyr eftir rigningar og krapahríðir, sem gengið höfðu alla vikuna. Götur og stígar voru fullir af leirgulu vatni, og hestar gangnamannanna sukku í við hvert spor, svo að nærri lá, að þeir sætu fastir.
Það var eldgömul venja að byrja göngurnar á sunnudaginn í 22. viku sumars. Og hin venjan var álíka gömul þar í sveitinni, að safnast saman á heiðarkotunum seinni part sunnudagsins, gista þar um nóttina og byrja svo göngurnar í lýsingu á mánudagsmorguninn.
En í þetta skipti var eins og enginn kæmi sér að því að verða fyrstur heim að heiðarkotunum.
Menn söfnuðust saman á hálsinum, skammt niður undan Bollagarðaskarðinu, og biðu þar eftir Agli í Hvammi.
Því að nú var það á allra vitorði, hvað til stóð að gera fyrir ofan fjallgarðinn.
Menn voru hljóðir og heldur óglaðir. Veðráttan átti allmikinn þátt í því. Nú voru menn komnir í vetrardúðana í fyrsta sinni eftir sumarið. Flestir voru í skinnsokkum, með ullartreflana margvafða um hálsinn og stóra belgvettlinga á höndunum, stirðir í hreyfingum og hálfkvíðandi fyrir því, að eiga nú að mæta illviðrunum á heiðum uppi og fá ekki að hátta í rúm í 2- 3 nætur.
En þó átti þjófaleitin enn meiri þátt í því. Menn fundu til þess, þótt óljóst væri, að það var illt verk og óviðfelldið, að leggja hendur á menn og steypa þeim í beina glötun, jafnvel þó að eitthvað væri til saka. Það var nærri því tilvinnandi að missa nokkra kindabjálfa á ári, og komast hjá þessu. En nú var búið að knýja þjófaleitina fram með svo mörgum digurmælum og miklu sveitaskrafi, að ekki varð hjá henni komist.
Pétur á Kroppi var í þessum hóp og þeir Brekkumenn. Ólafur þófari var þar líka og Þorlákur sonur hans. Þeir voru báðir kóngsins lausamenn og kaupamenn annarra í göngunum.
Ólafur þófari var lítill maður, þéttvaxinn, rauður í framan og alskeggjaður, með stóra og sterklega fætur. Aðalstarfi hans á veturna var sá, að ganga um sveitirnar og þæfa vaðmál undir fótunum, en á sumrin var hann til og frá í kaupavinnu. Hann hafði verið giftur, en var búinn að missa konuna fyrir mörgum árum. Þorlákur var einkasonur hans, og lét Ólafur hann jafnan fylgja sér eftir. Lét hann sér einkar annt um hann, þó að Þorlákur væri honum ekki vel að skapi; Ólafi þótti hann helst til líkur móður sinni.
Ólafur var allmikið hraustmenni, en þótti óþarflega grobbinn og sögur hans ekki sem sennilegastar.
- Menn settust niður í dálitlu brekkuhalli á meðan þeir biðu, og innan skamms fór ofur lítið að lifna yfir samtalinu.
Þá bar auðvitað þjófaleitina á góma.
"Enginn okkar hefir víst verið með í þjófaleit áður," sagði einhver í hópnum.
"Jú, Ólafur þófari," sagði Pétur á Kroppi og leit kímnislega til hinna.
Allir skildu tilgang Péturs með þessum orðum, nema Ólafur þófari. Hann rétti úr sér og bretti brýrnar. Andinn kom snögglega yfir hann.
"Já, piltar mínir, ég hefi verið með í þjófaleit," mælti hann drýgindalega.
"Ég átti von á því," sagði Pétur lágt og eins og við sjálfan sig.
En Þorlákur leit undrunar- og aðdáunaraugum á föður sinn. Margt vissi hann um frægð hans og frama, en þetta hafði hann aldrei heyrt áður.
"Ég var með, þegar leitin var gerð hjá Bólu-Hjálmari," mælti Ólafur með uppgerðar-yfirlætisleysi. Hann vildi ekki láta það sjást, að honum þætti frami í þessu.
Hláturinn ískraði niðri í gangnamönnunum og Ólafur fór að líta tortryggilega í kringum sig. Honum duldist það ekki, að enginn trúði sögunni.
"Sjáum til," mælti Pétur mjög alvarlegur á svipinn. "Sú þjófaleit er landfræg. Það hlýtur að hafa verið gaman að vera þar viðstaddur."
"Ég var þá strákur í Blönduhlíðinni, rúmlega fermdur," mælti Ólafur.
"Alltaf batnar!" tautuðu ýmsir fyrir munni sér. Flestum var það kunnugt, að Ólafur var alls ekki alinn upp í Blönduhlíðinni og hafði líklega aldrei komið þangað, að minnsta kosti ekki á þeim aldri.
"Við vorum 20 saman og hreppstjórinn í fararbroddi," bætti Ólafur við.
"Mikils hefir þótt við þurfa," mælti Pétur.
"Hvað hét hreppstjórinn?" spurði einhver.
Ólafur varð vandræðalegur. Gamla spakmælið var að sannast: til þess að gera eina lygi sennilega, þarf sjö aðrar. En Ólafur hafði ekki þessar "sjö" fyrirliggjandi.
"Hreppstjórinn," mælti Pétur mjög alvarlegur. "Það hefir auðvitað verið Silfrastaða-Siggi."
"Já, einmitt," gall úr Ólafi.
Nú gátu menn ekki haldið niðri í sér hlátrinum lengur.
"Hvað er við þetta að athuga? Af hverju eruð þið að hlæja?" spurði Pétur. "Við ættum að fagna því, að hafa mann á meðal okkar, sem vanur er þjófaleit og getur kennt okkur hinum, hvernig við eigum að haga okkur. Áfram með söguna, Ólafur minn."
Ólafur var orðinn sótrauður í framan.
En nú varð honum engrar undankomu auðið. Hann var hrakinn og hrjáður áfram í sögunni og varð að segja frá viðtökunum hjá Hjálmari, brennunni á Bólu og ummælum Bjarna amtmanns um þetta, - þótt hann vissi ekkert meira um þetta en aðrir. Á meðan var gert hróplegt háð að honum.
Einkum beindist gremja hans gegn Pétri. Hann hafði teymt hann út á þennan hála ís og gengið best fram í því að hrekja hann frá einni lyginni til annarrar. Þetta hugsaði hann sér að muna Pétri og hefna þess, ef hann gæti.
Loks var hann orðinn svo þreyttur á þessum leik, að hann stóð upp og bjóst til að fara.
En í því kom Egill og menn hans.
Og með honum kom alvaran aftur. Hún var skýrust í svip hreppstjórans, og greip aðra jafnframt, er þeir litu framan í hann.
Nú var stundin komin, - stundin til að horfa upp á máttvana gremju lítilmagnans gegn ofurvaldi réttvísinnar.
Menn gengu þegjandi til hesta sinna. Rétt á eftir reið allur hópurinn á stað ofan að Bollagörðum. Þá var liðið undir miðaftan.
Egill hafði ekki mörg umsvif. Þegar hann var búinn að koma af sér hesti sínum, gekk hann beint heim að bænum í Bollagörðum, kallaði Settu út og krafðist þess í nafni réttvísinnar að fá að leita í bænum.
Setta var óvanalega stimamjúk og óvanalega kát, en heiftin og gremjan logaði í augunum á henni.
"Ég held að þetta sé sjálfsagt," mælti hún og hneggjaði blíðlega. "Þú ert þó vonandi ekki hræddur um það enn þá, að við stelum? - hí-hí! En nú vona ég, að þú sannfærist svo rækilega, að þú verðir ekki hræddur um það lengur. Það er annars ekki ástæðulaust, því að svo oft erum við Finnur svöng. Við eigum ekki Hvammsauðinn - hí-hí-hí! - - Gerðu nú svo vel, blessaður hreppstjóri, og gakktu um alla kofana. Þá sérðu um leið, hve stæðilegir þeir eru! Við höfum sjaldan orðið fyrir þeim heiðri, að þú hafir litið inn til okkar, - allt of sjaldan! - - Ég ætla nú að kveikja ljóstýru og lýsa ykkur, því að það er gluggalítið sums staðar, eins og þig rámar kannske til. Annars getur vel farið svo, að þið rekið tærnar í eitthvað - til dæmis þýfið - og dettið og skaðið ykkur! En farið þið nú varlega í guðanna bænum! Ekki ábyrgist ég nema einhver kofinn hrynji ofan á ykkur!"
Egill nefndi sér votta að leitinni, þá Pétur á Kroppi og Sigvalda á Brekku. Svo bað hann Ólaf þófara að vera sér sérstaklega til aðstoðar við leitina.
Ólafur varð svo glaður við þetta, að hann gleymdi raunum þeim, sem hann hafði ratað í um daginn, og ásetti sér nú að ganga hraustlega fram við hlið hreppstjórans. Hann gaf Þorláki sínum bendingu um að fylgja sér fast eftir.
Pétur á Kroppi var hvass á brúnina og hæðnislegur. Hann dró enga dul á það, að hann væri ekki þessari þjófaleit hlynntari nú en hann hafði verið í Brekkuhlöðunni. Þó fylgdist hann með honum og eggjaði þá fast að leita nú vandlega.
Nokkrir aðrir fylgdust með af forvitni.
Setta kveikti ljós á pönnu og lýsti þeim um kofana. Hún fór því jafnan fyrir þeim, en Finnur í humátt á eftir.
Fyrst var búrið skoðað. Það var lágur og lélegur moldarkofi, með veggina gráhvíta af myglu, fullur af köldu, súru lofti og reykjareim úr eldhúsinu. Þar stóðu ýms matarílát, stór og smá, á bekkjum og hillum og undir þeim.
"Hérna er nú sjaldan þjófalaust," mælti Setta og hló dátt, "því að hér eiga mýsnar heima. - Já, mýsnar mínar, þær eru ljótu þjófarnir, hí-hí-hí. Þær verða líka að lifa á einhverju, skammirnar. Gerið þið svo vel og leitið nú í hverri kirnu. Þarna er nú blóð í fötu og slátur í bala, því að ég lét Finn minn afhausa tvo gemlingabjálfa í gærkveldi. Hausarnir eru til enn þá; ég skal sýna ykkur þá seinna. Það er ekki búið að marka þá marki Hólabiskupanna. - Og þarna er síað skyr í keraldsholu. Ég hafði nú enga skepnu í kvíum í sumar, svo að það er ekki undan mínum ám. En maðurinn er nú hérna viðstaddur, sem lét mig fá þetta fyrir viðvik, sem ég gerði fyrir hann. Það er enginn minni en blessaður hreppsnefndaroddvitinn sjálfur."
"Já, skyrið er frá mér," mælti Pétur, "og ég get svarið, að það hefir minnkað, en ekki vaxið, síðan ég lét það úti."
"Og þarna er ofur lítil smjörklípa í áttungsóhræsi, sem ég hefi verið að kría mér saman til og frá. Það efsta er frá Borghildi minni, blessuninni; - og þarna er eitt hundrað af þorskhöfðum, sem hann Finnur minn bar á bakinu neðan úr Sandvík, - og lá svo í tvo daga eftir áreynsluna. Þarna er kornlúka í hálftunnupoka, og sín skeffan af hverju, grjónum og baunum, og fáeinir hákarlsbitar. Svo held ég að allt sé nú upp talið, sem hér er ætilegt. Gerið þið nú svo vel, ef þið viljið fá ykkur bita. Matsár hefi ég aldrei verið. Þið megið éta það allt saman upp; guð leggur mér eitthvað til samt."
Það hljóp vatn í munninn á Ólafi þófara við það, að horfa á hákarlinn. Morkinn hákarl og rammsterkt hvannarótarbrennivín var það besta, sem hann bragðaði.
"Þetta getur nú allt verið stolið," sagði Pétur og leit háðslega til Egils, "nema skyrið frá mér."
Egill svaraði engu. Hann skimaði hátt og lágt um búrið og tók vel eftir öllu. Það, sem einkum vakti athygli hans, var það, hve lítið Setta hafði í búrinu. Það átti auðvitað að sýna fátækt hennar og frómleik.
Sigvaldi fylgdi dæmi hreppstjórans í því, að vera ekki margorður. En hann gætti vandlega undir bekkina, út í skotin og jafnvel undir ílátin. Hann var svo hjartanlega sannfærður um, að einhvers staðar væri hlemmur í gólfinu og jarðhús undir, og þar væri þýfið geymt.
Pétur gaf snuðri hans nákvæmar gætur og glotti við tönn. Sigvaldi var lasinn fyrir brjósti og bar sig illa undan reyknum í búrinu. Pétur skaut því að honum í kyrrþey, að þessi reykur væri grunsamlegur. Hann mundi vera gerður til þess að gera leitina verri viðfangs. Í eldhúsinu eða undir því hlyti eitthvað að leynast, sem fengur væri í að finna.
Eldhúsið var blindfullt af römmum svarðarreyk, svo þykkum, að varla sáust handaskil. Einhvers staðar langt inni í svælunni glórði í eldinn í hlóðunum. En ljóstýran í höndum á Settu sást aðeins í móðu.
Sigvaldi tók að hósta ákaft, þegar hann kom inn í eldhúsið.
Það fyrsta, sem fyrir leitarmönnunum varð, var kvarnarstokkurinn, með dálitlu af mjöli og dálitlu af sóti. Þar sem sá í bitana, hékk sótið niður í þéttum flygsum og blakti til í gustinum. Innan um það héngu hertir skinnbjórar.
"Svona er nú eldhúsið mitt, hreppstjóri góður," mælti Setta og var kát í bragði. "Í þessari svælu verð ég að standa sýknt og heilagt, ef ég kveiki upp eld. Á ég að trúa því, að fleiri en ég væru ekki orðnir rauðeygðir? - hí-hí-hí! Það er von, að hér sé reykur. Lítið þið á, hvað þetta er flatt og rislítið, nærri því eins og tófugreni. Það hrundi nú undan snjóþyngslunum hérna um veturinn, og Finnur minn hrófaði því upp aftur. Svo er það stromplaust, því að ekkert hefir frið uppi á bænum fyrir kindunum, sem alltaf ganga hér á túninu. - Gerðu nú svo vel, hreppstjóri góður. Leitaðu nú vel í eldhúsinu mínu. Í það hefir aldrei komið hreppstjóri fyrr en nú, síðan ég kom að Bollagörðum."
"Hér gæti ég nú hugsað, að eitthvað væri fólgið," mælti Pétur í eyrað á Sigvalda. "Hér skulum við leita vandlega."
Sigvaldi gat engu svarað. Hann hélt niðri í sér andanum og barðist við hóstann. Reykurinn ætlaði að kæfa hann.
"Hér þykir mér súrna í augum," mælti Ólafur þófari og tók andköf af svælunni.
Egill gaufaði sig þegjandi á eftir Settu hringinn í kring í eldhúsinu og þuklaði fyrir sér með höndum og fótum. Hann gerði sér enga minnstu von um það, að neitt fyndist í bænum. En taldi best að leita nú svo í votta viðurvist, að ekki tjáði um að kvarta, fyrst byrjað hafði verið á því.
"Við skulum fara héðan," heyrðist einhver tauta hálfkæfður niðri við gólfið. Rétt á eftir hentist Sigvaldi í dauðans ofboði fram í bæjardyr, svartblár í framan og hóstandi, eins og hann ætlaði að springa.
"Þetta er engin leit," mælti Pétur. Hann tók eftir því, að Egill laut niður undir gólfið, þar sem reykurinn var minni, til þess að draga andann. - "Við verðum að leita almennilega, leita uppi í rótinni og kanna gólfið. Þeir hlutir, sem við erum að leita að, eru ekki lagðir fyrir fæturna á okkur."
Ólafur þófari fór að stappa fótunum í gólfið, til þess að heyra, hvort hvergi væri holt undir.
"Varið þið ykkur nú," mælti Setta. "Ég er hrædd um, að kofaskömmin þoli ekki mikið hark. Þetta er svoddan grey."
Í sama bili fékk Ólafur þófari sótkökk beint framan í andlitið, svo að vitin fylltust. Hann sá ekki, hvaðan hann kom, en þótti ólíklegt, að hann hefði komið úr rjáfrinu.
"Eruð þið hættir að leita?" spurði Pétur, og rómurinn var sárnapur. "Varla trúi ég því, að ekki hafi verið leitað röggsamlegar hjá Bólu-Hjálmari en þetta."
Ólafur þófari svaraði engu, en skyrpti í sífellu.
Egill gekk þegjandi til dyra og hinir á eftir.
Þegar Ólafur þófari kom fram í dagsbirtuna, tóku þeir að hlæja ákaft, sem úti höfðu beðið. Jafnvel Sigvaldi, sem enn þá engdist saman af hóstanum, vaknaði svo til lífsins, að hann gat ekki varist hlátri. Ólafur var kolsvartur í framan, og glórði í hvít augun í miðri svertunni. Þorlákur sonur hans fór þegar að káfa framan úr honum mesta sótið.
"Nú er baðstofugrenið eftir," mælti Setta og iðaði öll af kæti.
"Já, baðstofan," mælti Pétur, "ekki má skilja hana eftir."
Egill lét sér hægt um baðstofuna og var á báðum áttum um stund. Þó lét hann til leiðast.
Baðstofan í Bollagörðum var betur byggð en í Heiðarhvammi, en eldri, þrengri og skuggalegri. Þar var lögð súð ofan á sperrurnar, svo að hvergi sást í torf eða tróð. En súðin bungaði inn undan þekjuþunganum og brestir voru farnir að koma í sperrurnar, svo að útlit var fyrir, að baðstofan legðist saman innan skamms. Tvö rúm stóðu þar sitt undir hvorri súð, en ekki voru rúmföt svo að teljandi væri nema í öðru þeirra.
"Gerðu svo vel, blessaður hreppstjóri," mælti Setta. "Hérna er nú inngangurinn í baðstofuna. Þú hefir ekki slitið skónum þangað síðari árin. - Ég held þú hafir ekki komið hingað, síðan þið gerðuð ykkur ómak, þú og prófasturinn sálugi, og þið ætluðuð að drífa okkur Finn til að giftast. - Þið haldið þó víst ekki enn þá, að við sofum saman, hí-hí-hí? Ja, ekki prófasturinn, auðvitað, því að hann er nú kominn til himnaríkis, eða - -, að minnsta kosti þangað, sem hann sér sannleikann. - En leitaðu nú vel, blessaður, til dæmis undir rúmunum, svo að þú þurfir ekki að ómaka þig í annað sinn."
Egill hafði litla viðdvöl í baðstofunni. Hann litaðist þar um, meira til að aðgæta kofann en af von um, að þar væri nokkru leynt.
Síðan voru útihúsin könnuð. Þau voru hvorki mörg né stór í Bollagörðum, svo að fljótlegt var að leita í þeim. Setta réð jafnan ferðinni og kveikti á pönnunni, þar sem þess þurfti við. Sigvalda var nú batnaður hóstinn svo, að hann gat tekið þátt í leitinni. Ólafur þófari og sonur hans fylgdu hreppstjóranum trúlega og Pétur smáýtti við leitarmönnunum með napuryrðum sínum.
Heystakkur stóð við eitt húsið. Egill gekk þegjandi í kringum hann og aðgætti hann vandlega. Hann þóttist mundu geta séð, ef heystakknum hefði verið rótað nýlega. En þess sáust engin merki. Pétur hafði orð á því, að rífa þyrfti heystakkinn niður og leita í honum. Ólafur þófari var á sama máli og bauðst til að byrja, en Egill taldi þess enga þörf.
Síðast komu þau að kofa, sem áfastur var við bæinn, en þó gengið í hann að utan.
"Þetta er nú hesthúskofinn minn, en er notaður fyrir skemmu í bráðina," mælti Setta. "Hérna eru nú hausarnir og skrokkarnir af þessum tveim bjálfum, sem Finnur minn slátraði, og gærurnar eru þar líka. Nú skal ég kveikja á pönnuskömminni og lýsa ykkur."
Það lá við, að enginn ætlaði að hirða um að fara þangað inn. Það, að hafa leitað utan bæjar og innan og ekkert fundið, hafði gert menn deiga og svipt menn öllum áhuga, - alla, nema Egil og Ólaf þófara. Pétur varð að brýna menn með hæðni sinni til að fara inn og skoða hausana. Sjálfum dvaldist honum í dyrunum við að binda skóþveng sinn.
Setta nam staðar rétt innan við dyrnar og hélt ljósinu hátt. Hún var illúðlegri á svipinn en hún hafði áður verið, og í þetta skipti fór hún ekki fremst, heldur hleypti öllum inn hjá sér.
Finnur var í hópnum, - náfölur og skjálfandi, eins og verið væri að leiða hann til gálgans. Það var sem hann léti stjórnast af augnaráði Settu.
Kofinn var hvorki stór né stæðilegur. Ekki stærri en svo, að hægt væri að koma þar inn tveim hestum. Mæniásinn lá á torfgöflunum, og voru steinflögur undir endunum. Raftarnir studdu endunum á torfveggina, en vegglægjur voru engar. Ásinn svignaði niður í miðjunni, og hafði þar verið rekin undir hann stoð til styrktar, og stóð hún í miðjum kofanum. Raftarnir voru gisnir og viðartróð lagt ofan á þá undir torfið. Grisjaði víða út í gegnum þekjuna.
Úti við annan hliðarvegginn hvolfdi trogberi. Voru á hann breiddar tvær gærur, og ofan á þeim lágu tveir kindakroppar. Fyrir innri gaflinum var jata, og í henni lágu hausar og fætur af tveimur kindum.
Egill fór gætilega að vanda og litaðist um í kofanum. Svo tók hann upp kindahausana og skoðaði mörkin vandlega. Hinir leitarmennirnir teygðu sig hver fram fyrir annan til að sjá mörkin. Engum blöðum var um það að fletta, að mark Settu var laukrétt á báðum hausunum.
En þegar hópurinn var að snúa sér við og ætlaði út, rak Finnur eins og af tilviljun bakið í stoðina. Hún losnaði undan mæniásnum, rambaði litla stund og féll síðan upp að veggnum. Í sama bili tók ásinn að svigna niður. Setta rak upp skelfingaróp og missti niður pönnuna. Í sömu svipan smaug hún öfug út úr dyrunum.
"Kofinn er að hrynja!" hrópaði Egill. Þeir, sem inni voru, leituðu dyranna í ofboði. Egill var innstur og sá það undir eins, að honum varð engrar undankomu auðið. Hann stóð því kyrr inni við gaflinn og beið átekta. Varla hafði hann sleppt orðinu, þegar ásinn brotnaði og þekjan reið niður.
Egill tók hraustlega á móti þeim hluta þekjunnar, sem á honum lenti, og gaflhlaðið veitti honum nokkra vörn. Samt fann hann, að hann mundi ekki standast þann þunga, sem á hann lagðist. En þá klofnaði þekjan og féll niður um hann beggja megin.
Egill stóð til mittis upp úr rofinu, rispaður til blóðs á höndum og andliti, eins og eftir ómjúka flengingu. Allt í kringum hann gusu upp þykkir moldarmekkir. Undan rofinu heyrðust óp og stunur. Hann þurfti að taka á kröftum til að rífa sig upp úr.
Þá sá hann umrót mikið í rofinu skammt frá sér. Torfinu var bylt til; sótugt andlit, alskeggjað, leit út um gatið og hrópaði:
"Hvar er Þorlákur?"
Í sama mund skreið Pétur á Kroppi endilangur út úr anddyrinu.
Gangnamennirnir þustu til og rifu þekjuna sundur í einni svipan, til að bjarga þeim, sem enn voru undir henni. Allir náðust lifandi og ómeiddir að mestu. Ólafur þófari tók son sinn við hönd sér og leiddi hann út að læknum, til þess að þvo af honum moldina og sjá, hvort hann væri meiddur.
Setta réð sér varla fyrir kæti, þó að hún gerði sér allt far um að vera alvarleg. Þetta hafði allt gengið að óskum. Fyrst þessi sneypulega þjófaleit, sem ekkert hafðist upp úr annað en háð og spott fyrir hreppstjórann og menn hans. Og svo "ráðningin"; - engan hafði hún drepið, engan meitt til neinna muna, en þó verið þannig, að þá, sem höfðu orðið fyrir henni, mundi lengi reka minni til hennar.
Hún sá í anda, hvernig sagan mundi fljúga út um alla sveitina með gangnamönnunum, aukin og ýkt, og verða mönnum að hlátursefni mánuðum eða jafnvel missirum saman. Og hún sá það vel á svip þeirra, sem hjá höfðu staðið hlutlausir, að þeir höfðu gaman af því, hvernig leitin hafði endað.
"Þetta fór illa," mælti hún, bólgin i framan af því að berjast við hláturinn. "Ég sagði ykkur þetta, blessaðir menn, að þið skylduð vara ykkur á kofaskröttunum. Ekki veldur sá, er varir. Mér þótti nú verst um skrokkana af gemlingagreyjunum mínum; nú eru þeir allir orðnir moldugir. - Hvað er að tala um klaufaskapinn í honum Finni! Jæja, guði sé lof, að enginn slasaðist! - Viltu nú ekki fá vatn hjá mér, blessaður hreppstjóri, til að þvo framan úr þér moldina?"
Egill skalf af reiði. Hann gekk beint framan að Settu og mælti ómjúkum rómi:
"Það var illt fyrir þig, að þér tókst ekki að drepa mig að þessu sinni. Héðan af skal ég ekki hlífa þér. Nú veit ég, að þú ert bölvaður þjófur!"
Setta varð hálfókvæða við þessa kveðju, en Egill brýndi röddina:
"Bölvaður þjófur, heyrirðu það! Ég veit fleira um þig, óhræsið þitt, en þú heldur. Og nú er ég byrjaður, en ekki hættur að leita hjá þér."
Þetta kom svo snöggt og óvænt, að Settu varð orðfall í bili. Þegar hún ætlaði að fara að ausa yfir Egil, var hann allur á burtu.
Egill reikaði einsamall fram og aftur um túnið í Bollagörðum á meðan dagur dvínaði á lofti, í veikri von um, að hann kynni að rekast á eitthvað, sem færði honum sannanir í hendur, en þó jafnframt til að friða skapsmuni sína.Einkum varð honum tíðreikað út fyrir túngarðinn, þeim megin sem að fjallinu vissi. Hann var að reyna að ráða fram úr því, hvar þau mundu hafa gengið, Heiðarhvammshjón, kvöldið, sem þau komu frá kirkjunni; hvar þau mundu hafa farið af götunni, hvaða stefnu þau mundu hafa haft yfir móinn og hvar þau mundu hafa komið að túngarðinum, þar sem Salka sá "ljósið niðri í jörðinni". Oft hafði hann velt þessu fyrir sér áður, en nú ætlaði hann næsta dag að fá þau Heiðarhvammshjón og Sölku með sér til þess að reyna að leita uppi staðinn.
Loks bjó hann um sig í skjóli við heystakkinn. Hann vildi ekki fara að Heiðarhvammi til gistingar að þessu sinni, vegna þess erindis, sem hann varð að reka þar að morgni. En vegna almannaróms þóttist hann ekki geta hjá því komist að leita þar líka, fyrst ekkert fannst í Bollagörðum. - En í kofum Settu vildi hann fyrir engan mun liggja um nóttina.
Hinir gangnamennirnir bjuggust um til og frá, sumir inni í bænum, sumir í útihúsum, og margir fóru að Heiðarhvammi til gistingar.
Þorbjörn hafði ekki orðið Agli og mönnum hans samferða heiman frá Hvammi, og kom ekki að Bollagörðum fyrr en leitinni var lokið. Það var glatt á hjalla í Bollagarðabaðstofunni, þegar verið var að segja honum alla þjófaleitarsöguna. Þó var sem broddur leyndist undir hlátrinum. Þegar Egill í Hvammi hótaði einhverju, þá var hann vanur að efna það.
- Undireins og lýsti af degi, vaknaði Egill og fór á fætur. Þá var heiðskírt veður og jörðin hvít af hrími, svo að hrollur mikill var í þeim, sem úti höfðu legið.
Hann tók hest sinn og reið einsamall út að Heiðarhvammi. Leitarvottana frá kvöldinu áður lét hann verða eftir, en hugsaði sér að nefna sér votta og aðstoðarmenn af þeim, sem nú voru næturgestir í Heiðarhvammi.
- - Ólafur og Halla höfðu ekki farið af fötum um nóttina. Þau höfðu lánað næturgestum rúmin í baðstofunni og vakað við það að þurrka föt þeirra og plögg og vinna þeim ýmsan beina. Auk þess var Ólafur að búa sig út í göngurnar.
Þau voru því bæði á fótum, þegar sást til hreppstjórans framan með fjallinu, og bæði úti stödd, þegar hann reið í hlaðið.
Þá kom annar maður þeysandi framan með fjallinu, sömu götuna og hreppstjórinn hafði komið. Hann fór geyst og dró fljótt saman með þeim.
Egill fór af baki á hlaðinu og heilsaði þeim hjónunum. Hann var óvanalega dapur í bragði og svipþungur. Hestinn batt hann á hlaðinu og ætlaði að fara að hefja máls á einhverju, þegar hinn maðurinn hleypti í hlaðið.
Það var Þorlákur sonur Ólafs þófara. Hann hafði riðið í einum spretti og hesturinn löðraði í svita. Sjálfum var honum svo mikið niðri fyrir, að hann ætlaði varla að koma upp orði.
"Þeir biðja þig að koma, - koma undireins, - fram að Bollagörðum," másaði hann fram úr sér.
"Hverjir?" spurði Egill og leit tortryggnislega á piltinn.
"Sigvaldi, - og pabbi - og fleiri."
Egill spurði einskis frekar. Það var eins og æskufjörið blossaði upp í honum að nýju. Eftir svipstund var hann kominn á bak og hleypti á harðaspretti fram með fjallinu. Þorlákur dróst langt aftur úr.
Halla stóð upp við bæjardyraþilið og horfði á eftir þeim meðan til þeirra sást. Þetta hafði komið svo óvænt, að hún áttaði sig ekki á því í bili, hvað það boðaði.
En smátt og smátt birti yfir svip hennar. Hún spennti greipar, og hægt fagnaðarandvarp leið henni af vörum:
"Hamingjunni sé lof!"
5. kafliÞað, sem gerst hafði í Bollagörðum eftir að Egill fór þaðan, var á þessa leið:
Ólafur þófari, Þorlákur sonur hans og þriðji maður til sátu austan undir túngarðinum. Þeir voru að fá sér morgunbita af nesti sínu, dreypa á kútholu og bíða eftir því, að sólin kæmi upp fyrir skarðið til að verma þeirra köldu limi, áður en þeir legðu á stað í göngurnar.
Rétt hjá þeim gekk hraunhryggur út undan túngarðinum og endaði þar úti í móunum. Hann var sprunginn að endilöngu, og hölluðust hraunhellurnar út frá honum til beggja handa, margsprungnar og missignar. Allar voru sprungurnar fullar af gróðri, og hryggurinn allur vaxinn grasi og lyngi, og sums staðar sokkinn í móana. Að engu var þessi hryggur frábrugðinn mörgum öðrum, sem voru í kringum Bollagarða.
Skömmu eftir að þeir voru setstir niður, kom Pétur á Kroppi út fyrir bæinn og kallaði á hund sinn. Hundurinn gegndi ekki, og Pétur kallaði hærra og hærra, um leið og hann færði sig út eftir túninu. Köllin endurómuðu frá fjallinu, en hundurinn gegndi ekki.
Þetta var svo algengt í fjallgöngunum, að þeir Ólafur gáfu því svo sem engan gaum. Þó þótti þeim það undarlegt, að á milli þess, sem Pétur kallaði, heyrðust einhver undarleg hljóð. Það gátu ekki verið bergmál úr fjöllunum. Þeir fóru að hlusta betur. Þessi hljóð líktust hundgá einhvers staðar langt í burtu. Og þó fannst þeim það vera rétt við eyrun á sér, en koma langt neðan úr jörðinni. Við það að halda niðri í sér andanum og hlusta betur virtist þeim sem allt hraunið undir móunum í kringum þá væri farið að gelta.
Þeir stóðu upp til að reyna að komast fyrir, hverju þetta sætti. Pétur stóð uppi á hól á miðju túninu og hélt áfram að kalla.
Þeir Ólafur gengu þangað, sem þeim fannst hljóðið vera skýrast, en það var á hraunhryggnum. Þar fundu þeir ofur litla smugu fast við túngarðinn. Hún var lítið stærri en víður grenismunni, nærri því á kafi í grasi og lá beint ofan í jörðina. Upp um hana kom hundgáin.
Betur að gáð var smugan stærri og garðurinn hlaðinn yfir hana að nokkru leyti.
Þeir félagar litu kynlega hver til annars, en enginn þeirra sagði neitt.
Ólafur þófari renndi sér ofan í gjótuna og kom brátt fyrir sig fótum. Þar niðri voru þrír hundar, sem geltu og ólmuðust hver í kapp við annan, en komust ekki upp. Einn þeirra átti Pétur á Kroppi. Ólafur lét þá upp á gjótubarminn. Síðan beið hann þess litla stund, að honum birti fyrir augum. En þegar hann hafði litast um litla stund, kallaði hann til félaga sinna og bauð þeim að koma og skoða.
Þeir þáðu boðið og renndu sér niður til hans.
Undir hraunhryggnum var hellir, mannhæðarhár í miðjunni og allmikill um sig. Við ljósglætu, sem lagði niður um glufur á hrauninu, sást, hvernig þar var umhorfs.
Þar niðri voru allálitlegar birgðir af kjöti og slátri, gærum, hausum og fótum af vænum kindum og ílátum undir það. Sumt var búið að salta niður í tunnur, en sumt var ekki svo langt á veg komið. Allt var þar við höndina, sem á þurfti að halda, meðal annars skurðarhnífur, kjötöxi og ljósfæri. Ekkert vantaði á ofur lítið, vel útbúið kjötbú - niðri í jörðinni.
Eftir að þeir höfðu litast þar um, leituðu þeir útgönguopsins. Tunnu hafði verið hvolft undir opinu, til að stíga á; henni höfðu hundarnir velt um koll og komust þess vegna ekki upp aftur. Þetta einfalda samgöngufæri milli mannheima og undirheima rétti nú Ólafur við aftur, til að létta þeim félögum útgönguna.
Þegar Ólafur kom út í gjótuopið, stóð Pétur á Kroppi þar á barminum.
"Hérna er nú það, sem við vorum að leita að í gær," sagði Ólafur hróðugur, um leið og hann vó sig á höndunum upp úr gjótunni.
Pétur þagði og færði sig nokkur skref aftur á bak.
Það þótti Ólafi undarlegast, er hann leit framan í Pétur, að hann sá þar allt annað en hann hafði búist við. Það var hvorki gleði né undrun, heldur eitthvað, sem helst líktist skelfingu.
"Funduð þið nokkuð merkilegt þarna?" spurði Pétur með mestu hægð og beit saman blóðlausum vörunum.
"O-jæja," mælti Ólafur drýgindalega. "Það lítur út fyrir að vera dálítið sel frá Bollagörðum."
Pétur lagðist flatur ofan að gjótumynninu og horfði ofan í myrkrið. Þegar hann stóð upp aftur, mælti hann ofur góðlega:
"Það er eitthvert lítilræði, sem þau geyma þarna, Bollagarðahjónaleysin."
"Þeir, sem kalla þetta lítilræði - -," mælti Ólafur, en hætti í miðri setningu, því að Pétur tók fram í fyrir honum.
"Það getur varla verið mikið, og þau eru bláfátæk. Er ekki hart að gera þau að tukthúslimum fyrir þetta, sem engan dregur um?
- - Eigum við ekki að lofa þeim að hafa þetta í friði, fyrst við urðum til að finna það? Eigum við ekki að halda okkur saman?"
Hann horfði hvasst og ísmeygilega á þá til skiptis, á meðan hann beið eftir svarinu. Það var eins og augnaráð hans læsti sig inn í þá með yfirbugandi afli.
Ólafur þófari stóð þegjandi og virti Pétur fyrir sér. Verið gat, að hann hefði satt að mæla og það væri illa gert að steypa þeim Settu og Finni í glötun. En undarlega komu honum þó tillögur Péturs fyrir.
Og þá minntist hann þess um leið, hvernig Pétur hafði dregið hann í sundur í háði daginn áður og hvernig hann hafði hætt þá og storkað þeim, sem voru að leita. Og hvaðan var sótkökkurinn kominn? - Nei, undir slíkum manni vildi hann ekki eiga annað eins leyndarmál og þetta.
Þetta reið baggamuninn. - Ólafur þófari varð steinharður á svipinn og mælti fast og einarðlega:
"Þið getið verið þjófsnautar, ef þið viljið, en ég verð það aldrei. - Þorlákur, hlauptu heim að bænum og segðu hinum gangnamönnunum að koma hingað."
Pétur leit heiftaraugum á Ólaf og virti hann fyrir sér, eins og hann langaði til að þrífa hann á loft og keyra hann á höfuðið ofan í gjótuna. Svo sneri hann sér á hæli og hló hátt og kuldalega, svo að glumdi í fjallinu. Það fór hrollur um þá félaga, því að þeim fannst hláturinn bera keim af æði.
Þorlákur hafði tekið undir sig stökk mikið og hljóp heim túnið, hrópandi og kallandi á gangnamennina.
Eftir svipstund var Pétur orðinn eins og ekkert hefði í skorist. Þeir Ólafur sannfærðust um, að framkoma hans fyrir andartaki síðan hefði ekkert verið annað en leikur. Það var honum líkt, að taka á sig mynd freistarans. Hann var engum manni skiljanlegur.
Pétur gekk heim túnið og mætti þá gangnamönnunum, sem komu hlaupandi frá bænum. Hann kallaði til þeirra og minnti þá á, að þeir ættu að vera komnir á afréttarmörk, þegar sól væri í hádegisstað. Þar skildi með þeim að sinni, því að Pétur lagði þegar á stað út í heiðina með þá af gangnamönnunum, sem honum vildu fylgja. Á meðal þeirra var Þorbjörn í Hvammi.
Gangnamennirnir þustu að hellismunnanum, en Ólafur þófari varði þeim niðurgöngu í hellinn að sinni. Hann kvað best, að allt væri þar með kyrrum kjörum, þangað til Egill kæmi. Á þetta féllust allir.
Svo var skotið á ráðstefnu og ályktað að senda undireins eftir Agli, sem þá var nýfarinn út að Heiðarhvammi. Ólafur þófari lagði til viljugan og sæmilega fljótan reiðhest. Þorlákur sonur hans valdist til fararinnar.
Á meðan gerðu þeir sig að höfðingjum yfir fylgsninu, Sigvaldi á Brekku og Ólafur þófari. - Gangnamennirnir biðu óþreyjufullir eftir framhaldinu á þessum fágætu atburðum.
Það kvað að Agli gamla, þegar hann kom aftur í hópinn. Enginn hafði séð hann jafnrösklega láta til sín taka. Í þetta skipti talaði hann eins og sá, sem vald hafði.
Hann harðbannaði nokkrum manni að fara þaðan, fyrr en útséð væri um, að ekki þyrfti á liðsinni hans að halda, hvað sem fjallskilunum liði. Þeir, sem óhlýðnuðust, mættu búast við sektum og rekistefnu.
Engum viðstöddum kom til hugar að óhlýðnast. Sumum fannst jafnvel, að það hlyti að vekja grun um hluttöku í þjófnaðinum.
Egill kvaddi sér tvo menn til fylgdar til að kanna fylgsnið. Þeir urðu að fara niður um sama opið og þeir Ólafur höfðu áður notað. Þegar opið var skoðað nánar, kom það í ljós, að það hafði verið víkkað af mannahöndum, meitlað úr hraunhellunum, sem að því lágu. Einnig hafði túngarðurinn verið færður utar á kafla, til þess að hann skyldi skýla munnanum.
Þeir fundu ljósfærin eftir tilvísun Ólafs, og er þeir höfðu kveikt ljós, gátu þeir fyrst litast um í hellinum, svo að gagn væri að.
Hellirinn var stærri en séð varð í fyrstu, en ekki manngengur nema á litlum kafla. Þaðan hallaði þekjunni út í hraunið til beggja handa. Hann var fullur af ísköldu, innibyrgðu saggalofti, og innan við þýfið sá í eldgamlar hjarnfannir. Snjórinn hafði komið inn um smáglufur í hrauninu og aldrei náð að bráðna.
Hraunhellan yfir hellinum var gljáandi svört, eins og hrufótt glerhúð væri á henni allri. Úr henni héngu niður hálfgagnsæir stönglar á stöku stað. Ljóstýran endurskein í þúsundum smáspegla, svo að draugalega glætu lagði um hellinn. Alls staðar var eins og glórði í neista í hálfkulnuðum kolum.
Í þessari einkennilegu jarðhvelfingu varð hver minnsti hávaði að dimmu, þjótandi hvísli, sem ómaði úr öllum áttum. Hvert orð varð loðið og óskýrt, eins og það bærist mönnum til eyrna á einhverjum kynlegum tungumálablendingi.
Þrátt fyrir áhuga sinn á þessum merkilega fundi, gat Egill ekki annað en staðið við um stund og virt hellinn fyrir sér. Það undraðist hann mest, að þetta einkennilega og fágæta náttúrusmíði skyldi hafa getað leynst í landareign hans fram á þennan dag. Síðan land byggðist, höfðu menn gengið um þessar stöðvar og aldrei vitað af þessu fylgsni, og síðan hann var barn, hafði hann verið hér iðulega á ferð, bæði í björtu og dimmu, og honum hafði farið eins og öðrum. Samt höfðu þeir fundið það, sem þurftu þess við til illra verka. Þannig var hin dularfulla stjórn heimsins.
Egill lét þó ekki hellinn glepja sig lengi. Nú stóð hann yfir þýfinu, sem hann hafði verið að leita að. Það var rétt við fæturna á honum, rétt við nefið á honum, - allt í kringum hann. Alls staðar voru kindaskrokkar, innyfli, hausar og fætur, blóð og mörvar. Hér hafði ekki verið lagt niður fé að kotungahætti, heldur stórmenna. Fyrsta hugsun Egils var sú, að ekki væri kyn, þó að kvartað hefði verið um illar heimtur undanfarandi haust, ef gripdeildirnar hefðu verið líkar þá og nú.
Á einum stað lágu gærurnar í stafla, hvítar, svartar, mórauðar, gráar og flekkóttar. Sýnishorn allra venjulegra kindalita voru þar til.
Hausana var mest um vert að skoða. Þeir voru stráheilir, með ull og hornum og laukréttum eyrnamörkum, hornamörkum og brennimörkum eigenda sinna.
Þegar farið var að skoða mörkin, kom það í ljós, að einungis höfðu verið teknar kindur frá fjárríkustu bændunum. Egill í Hvammi átti þar tvo hausa, Sigvaldi á Brekku aðra tvo, o. s. frv. En enginn haus var þar með marki neins af fátæklingum sveitarinnar.
Alls var þar kjöt og slátur af ellefu kindum.
Það leyndi sér ekki, að þetta fé hafði allt verið lagt að velli fyrir fám dögum síðan. Af því þóttust menn geta ráðið, að þjófarnir hefðu ekkert vitað um ráðstefnuna í Brekkuhlöðunni. Eins fannst þeim það liggja í augum uppi, að hér hlytu fleiri að eiga hlut í en þau Finnur og Setta.
Þegar skoðuninni var lokið að sinni, skipaði Egill tvo menn til að gæta fylgsnisins dag og nótt, þar til úr því yrði flutt.
Síðan fór hann með hóp manna heim að Bollagörðum.
Finnur var úti við og ráfaði fram og aftur eins og í sinnuleysi. Egill gekk til hans, lagði höndina á öxl honum og sagði honum, að hann yrði nú að gerast fangi og fylgjast með þeim heim að Hvammi.
Finnur svaraði engu og sýndi engan mótþróa. Á svip hans sáust engin merki æðru eða undrunar. Það var líkast því, að hann heyrði hvorki né skildi.
Þá kom að því, að færa Settu sama boðskapinn. Enginn bjóst við, að hún sýndi sömu þægð og Finnur.
Egill gekk fyrstur inn í bæinn og hinir á eftir. Inni við hlóðirnar í eldhúsinu sat Setta og var ófrýn á svipinn.
"Ekki hélt ég í gærkveldi, að svo yrði skammt milli funda sem nú er raun á orðin," mælti Egill hægt og þunglega. "En nú skaltu koma með mér heim að Hvammi, kindin, ef ekki með góðu, þá með illu."
"Láttu mig vera í friði, bölvaður durgurinn þinn! Annars skal ég -" öskraði Setta um leið og hún spratt upp og kippti hvítglóandi járnteini úr eldinum.
"Rektu í mig skörunginn, ef þú þorir! Það bætir ekki málstað þinn," mælti Egill og færði sig nær henni hægt og hægt.
En Settu var full alvara.
"Hann skal í helv.... skrokkinn á þér," æpti Setta og nísti tönnunum af heift. Í sama bili óð hún að Agli með skörunginn.
Egill hopaði á hæl, en komst ekkert fyrir mannþrönginni. Gló andi járnteinninn gerði eldrák í loftinu rétt við andlitið á honum.
"Setta, Setta, - gættu þín, í guðs bænum!" var hrópað með skelfingarrómi frammi í hópnum að baki Egils. Finnur hafði gengið inn í bæinn á eftir hinum.
Það kom hik á Settu sem snöggvast.
"Finnur, - bölvuð lyddan þín - -!" hrópaði hún, en gat ekki lokið við setninguna.
Ólafur þófari seildist fram fyrir Egil og sló með koparbúnu svipuskafti á handlegginn á henni. Allt afl dró úr henni og skörungurinn féll á gólfið. Þar sveið hann og brenndi allt í kringum sig. Í sama bili þreif Egill um báða handleggina á Settu og togaði hana með sér út úr bænum.
Setta orgaði og blótaði og streittist við eins og hún gat.
"Farðu ekki illa með hana," sögðu margir í einu. Þeim virtist Egill vera helst til harðhentur.
Þegar út á hlaðið kom, sneri Setta við blaðinu. Hún hætti að sýna mótþróa, en hló hátt og gremjulega og reyndi að gera háð og narr að þessu öllu saman.
"Verið þið óhræddir, blessaðir piltar. Hreppstjórinn meiðir mig ekki; hann kann að fara höndum um kvenfólkið. - Ég held, að það sé ekki í kot vísað að eiga að fara heim að Hvammi. - Þar er þó að minnsta kosti ein góð manneskja, hún Borghildur mín, blessunin. - - Það er nú sagt, að hreppstjórinn sé ekki alveg eins sperrtur þar heima eins og hérna á kotunum hjá okkur fátæklingunum. - Hí-hí-hí!"
Hún reyndi að hlæja Agli til storkunar, þó að hún reyndar gréti af ráðþrota gremju og heift.
Egill lét sig það engu skipta, hvað Setta sagði og hvernig hún lét. Hann hótaði að láta binda hana, ef hún sýndi nokkra óþægð. Svo fór hann að gera ráðstafanir til burtferðar frá Bollagörðum.
Gangnamennirnir horfðu hljóðir og undrandi á það, sem fram fór, og var ekki laust við, að þeim rynnu til rifja kjör Settu, þótt hún ill væri. Einn þeirra sýndi þetta í verkinu með því að lauma að henni gangnapelanum sínum. Hann hafði ekki betra að bjóða.
Setta tók þakksamlega við pelanum og saup duglega á honum. Brennivínið lagði eins og logandi straum út í hverja æð og taug, hressandi skapið, sem annars var að þrotum komið, og vekjandi vonirnar, sem heldur voru farnar að dofna.
Að aflíðandi dagmálum var lagt á stað heim að Hvammi. Egill fylgdi föngunum eftir við fjórða mann.
Finnur sat þegjandi á hesti sínum og datt hvorki af honum né draup.
Setta var líkust hálfhlæjandi og hálfgrátandi skrípi. Hún sat á þófahesti, með hárið úfið og fötin í ólagi eftir stimpingarnar. Hún var sí-masandi, þó að enginn ansaði henni. Augun voru vot og dálítið starandi og svipurinn á stöðugu flakki milli storkandi gremjuhláturs og örvilnunar.
Þannig yfirgaf Setta Bollagarða, sem verið höfðu skýli hennar í nokkur ár. Þar hafði eðli hennar skýrst og þroskast smám saman í myrkrinu undir vetrargaddinum, og breitt út blöð sín að lokum. Nú átti kotið að leggjast í eyði.
- En Pétur á Kroppi var óvanalega fámennur í göngunum að þessu sinni.
Heima í Hvammi varð allt í uppnámi, þegar Egill kom með fangana.
Auðvitað lenti það mest á Borgu að taka á móti þeim, því að móðir hennar lét hana annast húsmóðurstörfin. Og fangarnir þurftu bæði mat og rúm.
Egill hafði öðru að sinna. Hann lét það verða sitt fyrsta verk að búa mann á stað á fund sýslumanns. Átti hann að segja honum tíðindin og biðja hann að koma undireins, ef hann gæti.
Það næsta, sem fyrir lá, var að flytja þýfið úr fylgsninu til byggða, svo að forði sá, sem þar væri, kæmist til réttra eigenda, ef unnt væri, eða yrði þó að minnsta kosti einhverjum að notum.
Einnig þurfti hann nú að flytja reytur þeirra Finns og Settu burt úr kotinu og halda hendi sinni yfir þeim. Seinna um haustið ætlaði hann að láta rífa kotið.
- Það var eins og Borghildur hrykki upp af daglegum hugleiðingum við allt þetta stímabrak. Fyrst hlustaði hún á tíðindin með mikilli athygli. Svo sótti hún í sig veðrið og byrjaði að ausa út gremju sinni yfir þessu guðlausa athæfi, en hætti í miðju kafi; þagði dálitla stund og hló fyrirlitlega. Síðan mælti hún:
"Þetta sagði ég alltaf! - Ó, helvítis heiðarkotin þín, Egill! - Það var við þessu að búast; - og er þó líklega minnst fundið enn."
Um þetta, sem enn kynni að vera ófundið, fór hún nú að hugsa.
Setta ætlaði að víkja kunnuglega að henni eins og hún hafði jafnan gert, og heilsa henni með kossi.
Borghildur leit á hana með andstyggð og ýtti henni frá sér. Nú hafði hún ekki lyst á kossi hennar.
Setta horfði á hana steinhissa ofur litla stund. Hún sá djúpið, sem opnast hafði milli þeirra, en datt ekki í hug að skríða yfir það að fótum "húsfreyjunnar miklu". Hún rétti úr sér á bakkanum sín megin og glotti napurt, - svo napurt, að ónot fóru um Borghildi.
- Setta fékkst ekki til þess með nokkru móti að láta búa um sig í baðstofunni innan um heimilisfólkið. Hún kvað það of góð húsakynni handa sér, hún væri ekki slíkri prýði vön. Auk þess hefðu aðrar manneskjur ekkert annað en skömm og skapraun af henni. - Nei, í fjósinu vildi hún vera, hjá blessuðum kúnum. Það kvað hún sér best hæfa og þar kynni hún best við sig. Kýrnar færu ekki í manngreinarálit, og þær fyrirlitu hana ekki. Af þessu uppátæki varð hún ekki skekin.
En Finnur gerði sér að góðu að sofa hjá einum vinnumanninum í frambaðstofunni.
Það var látið eftir Settu að búa um hana í fjósinu. Þar var einn básinn auður, sá ysti í röðinni. Egill lét tjalda með seglum allt í kringum hann, svo að hann líktist afþiljuðum klefa. Þangað voru síðan borin rúmföt og annað, sem til þess þurfti, að sæmilega gæti farið um Settu.
Egil grunaði, að Setta sæti um að komast burtu. Lét hann því hafa á henni strangar gætur, og hverja nótt lét hann karlmann vaka með ljós í frambænum.
Fréttin barst ekki fyrir alvöru út um sveitina fyrr en göngunum var lokið og gangnamennirnir komu heim til sín.Þeir, sem heima höfðu verið og sagan kom á óvart, stóðu orðlausir af undrun og gleyptu í sig nýjungarnar. Önnur eins ódæmi höfðu aldrei borist þeim til eyrna. Hin söguríka Dalasveit hafði aldrei haft af öðrum eins atburði að segja, síðan vopnabrak og vígabrennur gengu þar úr venju.
Þar hafði aldrei komist upp um nokkurn þjóf í minni þeirra manna, sem enn lifðu.
Og þó sá hver maður, að enn þá var minnst frétt af þessu máli. Þetta var ekkert annað en byrjunin.
Þegar frá leið, fóru menn að hafa rænu á að spyrja um einstök atriði. Þau voru mörg og margar spurningarnar, sem ekki var unnt að svara.
En alltaf og alls staðar kom ein spurning fram, sem krafðist svars. Það var eins og hún lægi í loftinu:
Hvers vegna var ekki leitað í Heiðarhvammi?
Mönnum fannst alveg sjálfsagt að leita nú af sér allan grun, úr því byrjað var á því. Og tilætlunin hafði verið að leita á báðum kotunum. Hvers vegna hafði það ekki verið gert? Hvers vegna hafði verið hætt við leitina, þó að þýfið fyndist á öðrum staðnum?
Þeir, sem vildu þeim Heiðarhvammshjónum illa, spöruðu ekki að gefa þessari spurningu byr í seglin. Sumum fannst jafnvel Setta og Finnur líða eins konar píslarvætti fyrir þjófnaðinn í heiðinni, sem fleiri hlytu þó að vera sekir í. Þeir blésu líka að þessari spurningu.
En þessari spurningu gat enginn svarað nema Egill í Hvammi. Hann einn réð leitinni, og hann heyrði spurninguna eins og aðrir, en þagði við henni.
- Einn daginn rétt eftir göngurnar var gestkvæmt í Hvammi. Það voru menn af næstu bæjunum, beggja megin við Hvammsháls. Þeir voru að skilja sundur fé sitt, sem runnið hafði saman í búfjárhögum, og notuðu til þess hina miklu heimarétt Egils hreppstjóra. Um leið var þeim öllum boðið til stofu að þiggja kaffi.
Á meðal þessara manna var Pétur á Kroppi.
Egill var í stofunni og Borghildur líka. Hún stóð þar upp við höfðalag gestarúmsins, og fór mikið fyrir henni. Hún hélt uppi skrafi við gestina. Egill var jafnan orðfár, en þó einkum, þegar Borghildur var nærri. Hann sneiddi hjá því að masa í kapp við hana.
Pétur sat á kistu við annað hliðarþilið og laut fram á hnén. Þá sjaldan að hann var staddur undir þaki systur sinnar, var hann jafnan sem viðutan og eins og hann kynni illa við sig. Þetta hafði ekkert breytst við þá miklu náð, sem Borghildur sýndi honum með því að koma sjálf í stofuna, þótt hann væri þar. Hann var þvert á móti þögulli en nokkurn tíma áður.
Umtalsefnið var auðvitað þjófaleitin í Bollagörðum.
Og áður en varði var gamla spurningin komin á dagskrá: Hvers vegna var ekki leitað í Heiðarhvammi?
Enginn vissi eiginlega, hver komið hafði með hana. En nú var maðurinn við, sem gat svarað. Allra augu hvíldu á Agli.
Egill var seinn til svarsins að vanda. Loks nöldraði hann þó eitthvað um það, að hann hefði verið í þann veginn að byrja leit í Heiðarhvammi, þegar honum hefði borist fréttin af fylgsninu í Bollagörðum. Eftir það hefði hann ekki getað sinnt því, - enda enga ástæðu séð til þess.
"Svei!" sagði Borghildur og yggldi sig. "Eins og þetta sé nokkur afsökun. Nei, þetta er trassaskapur, og ekkert annað, meira að segja skammarleg vanræksla, sem enginn sýslumaður ætti að líða neinum hreppstjóra. Skyldirðu ekki öllu heldur hafa gert það af hlífð við Heiðarhvammshyskið? Það hefir alltaf verið uppáhaldið þitt."
Egill svaraði engu.
Nokkrir af þeim, sem við voru, létu það í ljós, að réttast hefði verið að leita í Heiðarhvammi líka, fyrst leitað var í Bollagörðum.
"Það er víst þessi snoppufríða drós hans Ólafs, sem ekki má móðga," sagði Borghildur og glotti meinfýsislega.
Egill lét sem hann heyrði ekki.
"Það hlýtur að mega leita enn þá," mælti einn af þeim, sem við voru.
Samtalið hneigðist nú að því, hvort ekki bæri að hefja þjófaleitina af nýju og leita í Heiðarhvammi.
Um þetta voru menn þó ekki sammála. Flestum fannst réttast að bíða og sjá, hvað upp kæmi við réttarprófin. Illt væri að gera þjófaleit að nauðsynjalausu.
Borghildur sótti það fast, að sjálfsagt væri að leita þjófaleit í Heiðarhvammi, og það helst áður en sýslumaðurinn kæmi. Þeim fór fækkandi, sem samsinntu henni, og maðurinn, sem fyrstur hreyfði þessu, var fallinn frá því aftur. En því ákafari varð Borghildur.
Pétur sat hljóður og laut áfram. Hann var dökkur á svipinn og smáglotti, en ekkert lagði hann til málanna.
Borghildur var orðin úrkula vonar um málstað sinn og skimaði um stofuna eftir hjálp. Þá tók hún eftir Pétri bróður sínum.
"Hvað segir þú um þetta, Pétur oddviti?" spurði hún rösklega.
"Mér finnst alveg sjálfsagt að leita í Heiðarhvammi," sagði Pétur án þess að líta upp.
"Heyr! Þetta líkar mér," sagði Borghildur mjög fegin. Í þetta skipti þótti henni vænt um Pétur. "Sjálfsagt að leita, alveg sjálfsagt. Hitt væri hneyksli. - Egill, á ég að trúa því, að þú sért sú bölvuð skræfa að þora ekki að leita í Heiðarhvammi?"
"Ég sé enga ástæðu til þess," mælti Egill með hægð. "Þjófarnir eru fundnir og þýfið líka. - Þjófaleit er enginn leikur."
"Þá skal ég gera það."
"Því ræður þú. En þú gerir það ekki í nafni réttvísinnar."
"Jú, einmitt í nafni réttvísinnar. - Ég tek hreppstjórnartaumana í mínar hendur og framkvæmi það, sem bóndi minn hefir vanrækt. Og ég er viss um, að sýslumaðurinn þakkar mér fyrir það."
Nú var frekja húsfreyjunnar farin að ganga fram af gestunum. Þeim fannst ekki annað sýnilegt en hjónin færu að rífast að þeim viðstöddum.
"Hver ykkar vill verða til að leita með mér?" spurði Borghildur.
Allir þögðu. Hún leit framan í mann eftir mann, og allir litu undan.
"Bölvaðar heybrækur eruð þið allir saman!" mælti hún og hló gremjulega. "Pétur, illa væri þér í ætt skotið, ef þú þyrðir ekki heldur að líta framan í þessi Heiðarhvammshjón. - Þorir þú ekki heldur að koma með mér?"
Pétur hafði setið þegjandi og glottandi, eins og honum væri skemmt með öllu þessu skrafi. Og nú, þegar á hann var yrt að öðru sinni, svaraði hann eins og í hálfgerðu gamni:
"Jú, - þó það væri nú. Ég tel það meira að segja skyldu mína. Það var að miklu leyti mér að kenna, að ekki var leitað lengur. Ég heimtaði mennina með mér í göngurnar."
Þetta líkaði Borghildi. Úr því að hún gat ekki fengið hreppstjórann með sér í þessa ferð, þá gat hún engan betri fengið en hreppsnefndaroddvitann.
"Jæja," sagði hún, "ég sendi þér orð, þegar mér þykir tíminn hentugur. Verðurðu ekki heima næstu dagana?"
"Ekki veit ég annað."
Gestirnir kímdu í laumi hver til annars. Það var eins og þeim fyndist léttir í því, að rifrildi milli hjónanna væri afstýrt. En hins vegar þóttust þeir sjá það á svipnum á Pétri, að ekkert mundi verða úr þessari nýju þjófaleit.
En Egill stundi þungan um leið og hann stóð á fætur og fylgdi gestunum út.
Borghildur var ein eftir í stofunni, þegar allir voru farnir. Hún studdi bakinu upp að þilinu og hendinni á rúmstuðulinn og stóð kyrr, eins og hana væri farið að dreyma.
Nú, - já, nú skyldi hún rétta hluta sinn á Höllu í Heiðarhvammi!
6. kafliSkemmtilegust allra frétta, sem bárust út um sveitina þessa dagana, þótti sú, að Þorbjörn Króka-Refur og Hvammsráðsmaður væri lagstur út í kofunum í Bollagörðum.
Hann hafði blátt áfram týnst í göngunum, enginn vissi hvar eða hvernig. Hestur hans kom til byggða, hnakklaus og beislislaus.
Á meðan verið var að flytja úr fylgsninu, varð enginn var við hann. En rétt á eftir var hann kominn í kofana. Þar var enn þá eftir einhver matarforði úr búi Settu.
Ýmsar sögur gengu af því, á hvern hátt orðið hefði vart við hann. Vinnumaður frá einum bænum í sveitinni, sem litið hafði inn í kotið af forvitni, hafði hitt Þorbjörn þar. Hafði Þorbjörn beðið hann í guðanna bænum að segja ekki til sín. Nokkru seinna hafði bóndi úr sveitinni komið að kotinu og ætlað þangað inn til að standa af sér rigningarskúr. Þá hafði Þorbjörn vaðið að honum með nakinn ljá og hótað að drepa hann, ef hann snautaði ekki burtu og héldi sér saman. Mannauminginn þóttist eiga fótum sínum fjör að launa.
Um þetta var margt skrafað og mikið að því hlegið. Sögurnar voru að smálagast í meðferðinni, þar til þær voru orðnar á þá leið, að Þorbjörn hefði komið að tómum kofunum og farið þar inn, fundið hrútsband og hengt sig í því, en gengið samstundis aftur. Nú væri því draugur í Bollagarðabænum, og hann ekki góður viðfangs. Bráðum mundi Borghildur mega eiga von á honum heim í Hvammsbúrið, því að allir þeir draugar, sem gengju aftur hálfkvikir, þyrftu mannamat. Þar mundi Þorbjörn sitja klofveg á búrbitanum einhvern morguninn, með hrútsbandið um hálsinn, og reyta mold úr rjáfrinu ofan í matarílátin af gremju yfir því, að gleymst hefði að skammta honum.
Svo var búið að gera þessar draugasögur af Þorbirni magnaðar, að vinnukonurnar á sumum bæjunum komust varla á milli búrs og eldhúss fyrir hræðslu.
- Egill frétti til Þorbjarnar og hló að fréttinni eins og aðrir.
Hann vildi ekkert að heiman fara þessa dagana, bæði vegna fanganna og eins vegna þess, að von var á sýslumanninum.
Hann sendi því Svein vinnumann sinn með bréf til Þorbjarnar. Hann vissi, að Sveinn var ekki smeykur við hann. Þó lagði hann fyrir Svein að fara varlega.
Bréfið var þess efnis, að með þessari flónsku leiddi Þorbjörn þann almenna grun á sig, að hann væri samsekur systur sinni, og hann yrði sóttur með mannsöfnuði, ef hann kæmi ekki með góðu. Egill kvaðst vona, að svo væri ekki; en hvort sem væri, gæti hann ekki annað gert vitlausara en fela sig í eyðikoti uppi í heiði og þora ekki að koma heim.
Þegar Sveinn kom að Bollagörðum, var bæjarhurðinni lokað að innan, og réði hann af því, að Þorbjörn væri þar inni. Ekki leist honum ráðlegt að leggja til inngöngu í dimma ranghalana, ef vera kynni, að Þorbjörn sæti þar fyrir honum með nakinn ljá í höndunum. Úti var lítil mannraun að fást við Þorbjörn; inni í þrengslunum og myrkrinu gat það verið erfiðara.
Sveinn kallaði og hrópaði inn um hverja smugu á Bollagarðabænum, en Þorbjörn svaraði engu. Hann reyndi að særa Þorbjörn út með storkunaryrðum, hrópaði á hann með öllum hans uppnefnum, tónaði alla hengingarsöguna úr Hvammshlöðunni inn um baðstofugluggann og bar kæra kveðju frá Sölku í Heiðarhvammi. En allt kom fyrir ekki. Loks vafði hann bréf Egils saman í stranga og lét það detta inn um baðstofustrompinn.
Nóttina eftir kom Þorbjörn heim að Hvammi.
- - - Sýslumaðurinn kom og réttarprófin byrjuðu.
Borghildur tók sýslumanninum með dæmalausum kostum og kynjum. Sjálf sat hún á skrafi við hann, ef Egill var ekki við látinn, og jafnan lét hún dúka borð handa þremur og mataðist sjálf honum og bónda sínum til samneytis. Þá gat hún því betur sýnt sýslumanninum, hve fimlega dóttur hennar færist framreiðslan.
Sýslumaðurinn kom einn síns liðs og lét skrifara sinn annast skrifstofustörfin heima fyrir.
Borghildi sárlangaði til að vera við yfirheyrslu þjófanna, en sýslumaður lét hana skilja það ótvírætt, að hann ætlaðist ekki til, að neinn væri viðstaddur prófin, sem ekki þyrfti nauðsynlega að vera þar. Henni þótti það hart aðgöngu, að vera gerð þannig jöfn vinnukonum sínum. En hyggilegast var þó að fást ekki um það við - sýslumanninn.
Fyrst var Setta kölluð fyrir réttinn.
Þegar hún kom í stofuna, byrjaði hún á löngu málæði um þann heiður, sem sér veittist, óverðugri kotakind, að vera leidd í stofu til sýslumannsins. Aldrei hefði hana dreymt fyrir því, að hún ætti annað eins ólifað. - Lengi hafði hún þráð að sjá hann, blessaðan höfðingjann, skjól og skjöld réttlætisins, sem allir elskuðu og allir blessuðu. - Nú treysti hún því, að hann liti með sannsýni og mildi á þá skammarlegu meðferð, sem hún hefði orðið fyrir, alsaklaus. Hann sem væri af guði settur til að vernda rétt lítilmagnans - - .
Þegar sýslumanni fór að leiðast masið úr Settu, skipaði hann henni byrstur að halda sér saman, svara því einu, sem hún yrði spurð um, og svara því afdráttarlaust.
Setta japlaði vörunum og þagnaði. Fleðuskapurinn hvarf úr svip hennar og köld storkunarþrjóska kom í staðinn.
Sýslumaður tók að spyrja hana um, hverja hlutdeild hún ætti í þjófnaði þeim, sem framinn hefði verið í nánd við Bollagarða, og hvað henni væri kunnugt um hann að öðru leyti.
Setta gerði á sig undrunarsvip:
Þjófnaði - -? Það vissi guð, að henni var ekki kunnugt um neinn þjófnað í nánd við Bollagarða. Ef hann hefði verið framinn, þá hefði það verið gert að öllu leyti á bak við hana. Hún hefði aldrei orðið vör við neitt slíkt athæfi alla þá tíð, sem hún hefði verið þar. Og að hún ætti hlutdeild í öðru eins! - Guð átti að fyrirgefa þeim, sem létu sér annað eins um munn fara. Það vissi skaparinn sjálfur, og það vissu líka allir, sem þekktu hana, að hún væri ekki ófróm manneskja.
Settu fipaðist ekki vitund, þó að sýslumaður horfði fast á hana og læsi út úr henni lygina og hræsnina - og sektina.
Hún var spurð, hvort hún hefði þá ekki vitað af fylgsninu.
Hvaða fylgsni? - Hún hafði enga hugmynd um neitt fylgsni. Hún hefði heyrt talað um eitthvert jarðfylgsni, sem fundist hefði einhvers staðar, hún vissi ekki hvar, - heyrt ávæning af því út undan sér núna síðustu dagana. Enginn hefði talað um það við hana; nei, menn væru ekki svo hreinlyndir. Hún vissi ekki enn þá, fyrir hvað það var, sem hún varð fyrir allri þessari meðferð.
"Hvað eiga allar þessar vífilengjur að þýða?" spurði sýslumaður nokkuð byrstur. "Þér bætið ekki málstað yðar nokkra vitund með því að þræta. Ég veit, að þér eruð sekar, og þér gerðuð réttast að meðganga það undireins. Það verður reynt að hafa hegningu yðar svo væga sem unnt er. En ef þér beitið óþægð og vafningum - - "
Setta lét hart mæta hörðu og byrsti sig líka:
"Hvern fjandann á ég að meðganga? Ég hefi ekkert að meðganga. Þér ætlist þó víst ekki til, að ég fari að ljúga á mig glæpum, til þess að þér getið svalað augum yðar á því að sjá mig hýdda, - nú, það kvað nú vera komið úr lögum, - eða eitthvað annað gert við mig, sem ekki er betra. - Ég veit ekkert um þetta endemis fylgsni, sem þér eruð að spyrja mig um. Það getur alls staðar verið fyrir mér. - Ætli hreppstjóranum sé ekki kunnugast um það sjálfum. Einhvers staðar verður hann að geyma það, sem hann reytir af fátæklingunum. Hafið þér komið þangað sjálfur, sýslumaður? Það eru þó aldrei þinggjöld og ógreiddar tíundir? Þér ættuð að þekkja það af lyktinni. - Nei, herra sýslumaður. Það hefir enginn gott af því að þjófkenna mig. Ég á þann að, sem meiri er en allir hreppstjórar og allir sýslumenn."
Setta bar svo ótt á, að sýslumaður komst ekki að með spurningar sínar. Hann fór líka hægt að öllu, og það var ekki laust við, að honum þætti gaman að virða Settu fyrir sér á meðan hún rausaði, þótt hann héldi alvörusvip sínum.
"En hvers vegna ætluðuð þér að drepa hreppstjórann með glóandi eldhússkörungi?" spurði hann, þegar hann var búinn að hripa upp ágrip af því, sem Setta hafði sagt síðast. "Því stoðar ekki að neita, því að margir menn horfðu á það."
"Drepa, ha-hæ! - Drepa hreppstjórann! Mér hefir aldrei dottið það í hug. Ég ætlaði að stríða karlskrattanum ofur lítið, - fyrir bölvað snuðrið í kofunum mínum. Ætli hann hefði ekki drepist, þó að ég hefði sviðið á honum skeggbroddana! Eða megum við fátæklingarnir aldrei bera hönd fyrir höfuð okkar, hvaða háðung sem okkur er gerð? Ég fór með góðu burt frá kofunum mínum og skildi allar reytur mínar eftir í greinarleysi. Ef Egill segir annað, þá lýgur hann. En það er víst ekki saknæmt að misþyrma saklausu fólki, ef það er fátækt og á engan að sér til varnar. Viljið þér vera svo náðugur, herra sýslumaður, að líta á handleggina á mér? Þessi "bláus" er eftir svipuskaftið hans Ólafs þófara, en þessi, þessi, þessi og þessi eftir krumlurnar á hreppstjóranum. Þeir halda víst, þessir herrar, að við, aumingjarnir, séum tilfinningarlausir."
"Hreppstjórinn ber upp á yður, að þér hafið fellt hús ofan á leitarmennina," sagði sýslumaður með mestu hægð. "Er það satt?"
Setta gerði á sig kjökurviprur og renndi augunum til himins:
"Það er himinhrópandi lygi. Ég horfði á það með mínum eigin augum, þegar klaufabárðurinn hann Þorlákur sonur hans Ólafs þófara rak bakið í stoðina og setti hana undan."
"Uppi í Bollagörðum sagðirðu, að Finnur hefði gert það," skaut Egill fram í.
Settu fipaðist snöggvast, en hún áttaði sig þó fljótt: "Það er misskilningur. Ég sagði eitthvað á þá leið, að hvað væri að tala um klaufaskapinn í honum Finni. Ég átti auðvitað við það, hvað hann hefði gengið illa frá stoðinni. - Eins og guð er uppi yfir mér, þá var það hann Þorlákur. - Ég margvaraði hreppstjórann og leitarmennina við því, að kofarnir kynnu að hrynja. Og þetta eru þakkirnar, sem ég fæ!"
Setta strauk svuntuhorninu um augun og þurrkaði af sér tárin. En út undan svuntuhorninu leit hún með storkunarglotti til Egils.
Sýslumaður sá, að það var að eyða tímanum til einskis, að fást meira við Settu að sinni, og skipaði að láta hana víkja frá réttinum.
En Setta var ekki nærri því búin að segja allt, sem hún vildi segja. Hún byrjaði aftur og brýndi röddina:
"Því er verr og miður, sýslumaður góður, að ég notaði ekki veruna mína í Bollagörðum til að stela, - stela svo að um munaði. Þá hefði ég orðið rík. En það eru ríku þjófarnir, sem hafðir eru í heiðri og sleiktir upp, ekki síst af höfðingjunum. Það eru þeir - - - - "
Setta fékk ekki að ljúka máli sínu, því að Egill tók í handlegginn á henni og togaði hana út úr stofunni.
Það varð hlé á réttarhaldinu stundarkorn, á meðan sýslumaður var að ljúka við að skrifa í bók sína. Egill stóð hugsandi á meðan um það síðasta, sem Setta hafði sagt. Það var eins og Pétur á Kroppi talaði þar með málrómi Settu.
- - Næst á eftir Settu var Finnur kallaður fyrir réttinn.
Hann gat fyrst engu orði upp komið fyrir gráti. Og sá grátur var engin uppgerð. Hann reyndi að leyna honum eftir megni, en hvarmarnir voru rauðir og bólgnir og rómurinn veikur af langvinnum ekka. En eftir fyrstu játninguna létti honum svo, að hann gat talað skýrt.
Hann játaði yfirsjónir sínar viðstöðulaust og skýrði frá öllu athæfi þeirra Settu í Bollagörðum. Frá því að þau komu þangað, höfðu þau alltaf tekið kindur í heiðinni, og ætíð á sama tíma á hverju hausti, rétt fyrir göngurnar. Fyrst hafði þetta verið lítið, en farið stöðugt vaxandi, einkum eftir að fylgsnið fannst í hrauninu.
Frá byrjun hefði Þorbjörn bróðir Settu verið í verki og vitorði með þeim. Síðan hefði Tómas bróðir þeirra gengið í félagsskapinn. Hann hefði aldrei tekið beinan þátt í kindatökunni, en hjálpaði til að koma afurðunum í verð og fengið sinn hlut fyrir það. Hann hefði jafnan heimsótt Settu einu sinni á ári og þá farið byggðir, en þegar hann var að sækja "vörurnar", fór hann fjöll og var ekki á ferð nema á nóttunni.
Loks hefði fimmti maðurinn bætst í félagið, og það maður, sem þeim hinum hefði þótt meira en lítill fengur í.
Það var - Pétur á Kroppi.
Egill og sýslumaðurinn ætluðu varla að trúa eigin eyrum sínum. Þetta hafði Agli aldrei getað komið til hugar um mág sinn, og enn gat hann ekki trúað því, þótt hann heyrði Finn segja það. Sýslumaðurinn þekkti ekki Pétur nema lítið eitt persónulega, en hann gat ekki trúað þessu heldur.
En Finnur hélt fast við framburð sinn. Pétur á Kroppi hafði verið félagi þeirra 4-5 árin síðustu, og eftir það hafði kindatakan stórum aukist.
Félagsskapur þeirra hafði byrjað á þann hátt, að eitt kvöld, er þau Setta og Finnur voru að kindastuldi, hafði Pétur komið að þeim. Hann hafði komið neðan frá Hvammskvísl með veiðarfæri á öxlinni og nokkra silunga í kippu í hendinni. Þeim Settu og Finni varð heldur en ekki hverft við, og slepptu þau kindinni, sem þau voru með. En Pétur varð fyrri til að rjúfa þögnina. "Verið þið óhrædd," hafði hann sagt. "Ég er í sömu erindagjörðum."
Þetta kvöld hjálpaði Pétur þeim til, og alltaf upp frá því. Hann hjálpaði þeim til að víkka gjótuna ofan í fylgsnið, og hann stakk upp á því, að færa túngarðinn út að gjótunni, til að fela hana betur. Aldrei fór nein kindataka fram, án þess hann væri við. Það var að hans tillögum, að aðeins var tekið frá fjárríkustu bændunum. Hann hélt eins konar skrá yfir "veiðina" og annaðist öll skipti.
Hann var lífið og sálin í félagi þeirra; maður, sem þau treystu öll og fundu, að var þeim fremri. Hann var sjálfkjörinn formaður þeirra.
Hann hafði sagt þeim tíðindin af fundinum í Brekkuhlöðunni og ráðið þeim til að láta hann ekkert á sig fá, heldur viða að sér engu síður en að undanförnu.
Til þess að grímuklæða kunningsskapinn við þau í Bollagörðum, hafði Pétur haft þau iðulega í vinnu hjá sér, Settu og Finn, stundum annað þeirra, en stundum bæði. Síðan hafði ýmislegt, sem heyrði til búsáhöldum, verið flutt frá Kroppi upp að Bollagörðum undir því yfirskini, að það væru vinnulaun þeirra, en í raun og veru áttu þeir hlutir að vera til sameiginlegrar notkunar í fylgsninu. Þessi flutningur hafði verið fluttur á daginn fyrir allra augum, en heimleiðis hafði Pétur aldrei farið fyrr en á nóttunni, og þá oftast haft annað meðferðis.
Rétt áður en leitin fór fram, hafði verið ráðgast um það í Bollagörðum, að gera leitarmönnum einhverja glennu, sem gerði þeim leitina minnisstæða. Varð það að ráði, að ginna þá inn í hesthúskofann og fella hann ofan á þá, - láta það ráðast, hvort það yrði að slysi eða ekki.
Sýslumaður bókaði skýrslu Finns jafnóðum, en Egill og hinn réttarvotturinn hlustuðu á hana hljóðir og undrandi. Það undruðust þeir einna mest, hve afdráttarlaust Finnur skýrði frá, og hve lítið þurfti fyrir skýrslu hans að hafa.
Eftir nokkra þögn spurði sýslumaður Finn, hvort honum hefði verið ljúft að eiga þátt í þessum verkum.
Finnur þagði stundarkorn og augu hans fylltust af tárum. Svo harkaði hann af sér og mælti:
"Ég veit ekki, hverju svara skal. Framan af tók ég það afar nærri mér, en síðustu árin var mér farið að standa á sama - bæði um það og annað. Ég veit ekki, hvað til kom, að ég leiddist út í þetta, því að þar til ég kynntist Settu hafði ég óbeit á því að stela."
Finnur þagnaði, og það leyndi sér ekki, að hann átti í miklu stríði við sjálfan sig. Hann langaði til að segja hug sinn allan fyrir réttinum og fannst það mundi verða sér til léttis, en hikaði þó við það. Þegar hann byrjaði aftur, sat svitinn í stórum dropum um allt andlitið á honum.
"Ég get ekki með orðum lýst þeim samviskukvölum, sem ég leið fyrstu árin. Þær gengu svo hart að mér, að ég gat ekki leynt þeim. Ein manneskja komst að þeim að minnsta kosti og gat hins rétta til, og vera má, að fleiri hafi rennt grun í það sama. Ég reyndi að þræta, en fann þó, hve árangurslaust það var. Þetta vissi Setta og hafði vakandi auga á mér, hvar sem ég var. Þess vegna voru vissir staðir, sem mér var bannað að koma á, og vissar manneskjur, sem ég mátti aldrei tala við. Og sannarlega lá það margsinnis nærri, að ég segði frá öllu. - En það dró úr þessu eftir því sem árin liðu."
"Gátuð þér ekki drifið yður frá Settu?" spurði sýslumaður.
"Nú gripuð þér þar á, sem viðkvæmast er," sagði Finnur raunalega. "Ég hefi hugsað um þetta og velt því fyrir mér í tómstundum mínum. Um ekkert hefi ég hugsað jafnmikið. En þegar til framkvæmdanna hefir átt að koma, þá hefi ég ekki reynst fær um það. Ég get ekki gert sjálfum mér grein fyrir, hvernig á því stendur, og því síður öðrum. Ég veit, að þið trúið mér ekki, en þó segi ég satt. Setta hefir náð einhverju undarlegu valdi yfir mér, sem ég get ekki lýst. Ég hefi verið henni háðari en nokkur þræll getur verið. Í hvert skipti, er hún leit framan í mig, las hún leynilegustu hugrenningar mínar. Hún sá það á mér, ef ég var að hugsa um að yfirgefa hana. Hún sá það líka á mér, ef ég hafði gert annað en henni var þóknanlegt, og lét mig játa það. Engu gat ég leynt hana. Hún sá það líka á mér, þegar ég fór að taka mér sökina léttar, og fór þá að trúa mér betur. Ég komst að því, að hún reyndi að spyrja mig sofandi. Ég veit ekki, hvað henni hefir orðið ágengt á þann hátt, en hitt er víst, að hún spurði mig vakandi álíka ósjálfbjarga eins og ég væri sofandi. Mér fannst augnaráð hennar sjúga úr mér hverja ögn af sjálfstæði. Og þetta tærandi, ískalda tortryggnisaugnaráð hvíldi á mér alltaf og alls staðar, þó að Setta væri hvergi nálægt, og gerði mig hálf - lémagna."
Sýslumaðurinn horfði fast og undrandi á Finn og var að reyna að lesa út úr honum, hvað satt gæti verið í því, sem hann sagði, og á hvern hátt það yrði skiljanlegt. Einlægnin skein út úr andlitinu á Finni, svo að ekki þurfti að efa það, að hann talaði af bestu vitund. Samt þótti sýslumanni ótrúlegt, að nokkur manneskja gæti orðið annarri jafnundirgefin.
Sýslumaður spurði Finn nú frekar út í það, sem þeim Settu hafði á milli farið. Finnur skýrði afdráttarlaust frá því, hvernig hún hefði tælt hann frá konu og börnum, lifað með honum í ólöglegri sambúð, flækt hann í hverri sökinni á fætur annarri og loks gert hann að viljalausu verkfæri, sem hún gat stjórnað með augunum.
"En eruð þér þá ekki hræddur við Settu nú?" spurði sýslumaður. "Hvernig stendur á því, að þér þorið að segja okkur allt þetta?"
Finnur brosti gegnum tárin og svaraði með sömu einlægninni og áður:
"Síðan við komumst bæði undir manna hendur, finnst mér vald Settu hafa raknað af mér eins og álög. Réttvísin gerir það, sem ég megnaði ekki, að skilja okkur Settu. Ég tek glaður á móti mínum hluta hegningarinnar. Ef ég lifi hana af, byrjar nýtt líf fyrir mér."
Egill hafði ekki augun af Finni á meðan hann talaði. Hann hafði treyst því sjálfur, að hann væri talsverður mannþekkjari, en nú fannst honum hann ekki þekkja Finn. Hann hafði þekkt hann í fjöldamörg ár og aldrei haft grun um, að það leyndist í honum, sem hann sá nú koma fram. Hann hafði litið á Finn sem meinleysisrolu og einfeldning, alltaf þögulan og alltaf flóttalegan. Nú fannst honum hann langtum skýrari í svörum og djúphugulli en hann hafði búist við, og jafnframt barnslegri í lund og einlægari. Nú sá hann, að þennan mann hafði ekkert vantað annað en góðan félagsskap til að verða góður og virðingarverður maður. Nú stóð hann sem glæpamaður fyrir réttinum, en samt var Agli hlýrra í hug til hans en nokkru sinni áður. Og hann ásetti sér að missa ekki sjónar af honum, en reyna að verða honum að liði síðar, ef hann gæti.
Að endingu var Finnur spurður að því, hvort hann hefði aldrei orðið var við sams konar athæfi í Heiðarhvammi.
Finnur var fljótur til svars, og var sem honum þætti vænt um að mega svara þessari spurningu:
"Aldrei, aldrei. - Guði sé lof, að þar búa vandaðri manneskjur en búið hafa í Bollagörðum."
- - Þó að réttarhöldin ættu að fara leynt, læddist það ótrúlega fljótt um Hvammsbæinn, hvað Finnur hafði sagt fyrir réttinum. Þegar um kvöldið var farið að skrafa um það í hálfum hljóðum.
Pétur á Kroppi var stórþjófur! - Það kom yfir hvern mann eins og þruma úr heiðríkju.
Enginn þorði að segja Borghildi önnur eins tíðindi, og enginn vildi heldur verða til þess að hryggja Borgu með þeim.
Egill vílaði það fyrir sér eins og aðrir, að segja þeim mæðgum, hvað gerst hafði fyrir réttinum, þótt hann vissi, að ekki yrði hjá því komist.
En Borghildur hafði annað að hugsa en taka eftir því, þó að vinnufólkið væri að stinga saman nefjum um eitthvað. Hún var að hugsa um það, hvernig andlitið mundi verða á sýslumanninum, þegar hún, kvenskörungurinn, opnaði fyrir honum nýtt þjófafylgsni, - breiddi úr því á borðinu fyrir framan hann. Hún var ekki í neinum efa um, að slíkt fylgsni væri til í Heiðarhvammi. Í vöku og svefni hafði hugur hennar leitað að því, og eitt sinn hafði honum opnast djúp gryfja undir einu rúminu í baðstofunni, svo djúp, að hún sá þar engan botn. Að vísu var það ekki annað en draumur, en draumar voru dularfullar vitranir.
Og sama kvöldið, sem Finnur játaði fyrir réttinum, sendi hún ungling á laun til Péturs bróður síns og bað hann að mæta sér á hálsinum um dagmál morguninn eftir.
7. kafliPétur á Kroppi hafði gengið að því vísu, að þessi fyrirætlun systur hans, að leita þjófaleit í Heiðarhvammi, mundi aldrei koma til framkvæmda, móðurinn mundi renna af henni, þegar frá liði, og ef til vill hefðu öll þessi hreystiyrði verið mælt til þess eins að skaprauna Agli og gera lítið úr honum í áheyrn gestanna. Hann varð því hálfhissa, þegar honum komu skilaboð um að mæta henni á hálsinum morguninn eftir. Þó ætlaði hann að fara, meðfram til þess að vita, hvort hann gæti ekki snúið henni aftur. Tækist það ekki, ætlaði hann að standa við orð sín og leita með henni - og draga ekki af.
- Halla hafði frétt það, sem skrafað hafði verið í Hvammsstofunni, svo að hún bjóst við Borghildi á hverri stundu. Hún hafði beðið Ólaf að vera heima við, svo að hún yrði ekki einsömul, þegar hún þyrfti að taka á móti þessari undarlegu heimsókn, og Ólafur hafði lofað því. En einmitt nú, þegar verið var að hemja féð í heimahögunum, rétt eftir göngurnar, gat Ólafur sjaldan verið heima til lengdar. Og þegar þau bar að garði, Borghildi og Pétur, hittist einmitt svo á, að Ólafur var ekki heima, og Salka ekki heldur. Halla var einsömul í bænum með bæði börnin.
Halldór litli var nú kominn svo á legg, að hann gat verið úti eða inni eftir vild sinni. En yngra barnið, stúlka rúmlega ársgömul, var enn þá á höndunum. Hún hafði aldrei verið fullkomlega heilbrigð frá því hún fæddist, en eftir því sem hún eltist, ágerðist lasleikinn og breytti sér um leið. Allir kirtlar á hálsinum og höfðinu voru bólgnir og sárir viðkomu og farið að grafa í sumum þeirra.
Barnið var svo veikt þessa dagana, að Halla hugði því varla líf. Dag og nótt hafði hún orðið að sitja með það í fanginu og hlúa að því, svo að hún hafði varla getað notið svefns né gegnt venjulegum heimilisstörfum. Dag og nótt grét þessi litli vesalingur og kveinkaði sér. Nú þrengdi kirtlabólgan svo að kokinu, að barnið gat nærri því engu rennt niður.
Halla var orðin mörgu stríðinu vön og möglaði ekki undan þeirri byrði, sem veikindi barnsins bættu henni á herðar. Hún kveið fyrir því einu, að hún ætti nú að missa það líka. En að eiga að taka á móti óvelkomnum gestum á meðan svona stæði á, það fannst henni sér mundi verða ofraun.
Hún sat á rúmi sínu með barnið í fanginu og hálfskalf af kulda. Hauststormurinn stóð beint upp á stafngluggann og næddi inn.
Halldór litli var úti, þegar sást til Borghildar og liðsmanna hennar í skarðsbrekkunni. Hljóp hann þá inn og sagði mömmu sinni, að nú kæmu gestir. Halla þekkti gestina út um gluggann og lét drenginn vera kyrran inni hjá sér.
Borghildur hafði að vanda tekið einn af vinnumönnum bónda síns með sér, svo að hún var við þriðja mann.
Þegar þau börðu að dyrum í Heiðarhvammi, kom enginn til dyra. Halla gat tæpast farið frá barninu, - og gaf ekki um það heldur.
Borghildur lét berja aftur og hálfu fastara. Síðan réð hún til inngöngu í bæinn og Pétur með henni.
Halla heyrði másið og stunurnar í húsfreyjunni meðan hún var að fálma sig inn göngin.
"Það skyldi nú enginn vera heima í kotinu," másaði Borghildur.
"Það væri nú ekki það lakasta," mælti Pétur að baki hennar, og beiskrar hæðni kenndi í rómnum.
Í því tróð húsfreyjan sér inn um baðstofudyrnar.
"Jú-jú, þarna situr drósin! - Þér flýtið yður ekki til dyranna, þó að barið sé. Þessi annálaða gestrisni yðar er kannske ekki við látin!"
Þetta var kveðjan, og Halla svaraði henni engu.
"Ég fann þetta á mér, þegar ég fór héðan síðast," mælti Borghildur, "að ég mundi eiga eftir að koma hingað aftur. - Ég ætla að framkvæma ofur lítið viðvik, sem bóndi minn vanrækti um daginn. Nú vona ég, að þér meinið mér ekki að leita í bænum.
Borghildur hreytti úr sér orðunum með sárasta storkunarrómi og glotti við. Halla lét sér hvergi bregða:
"Gerið þér svo vel. Allar dyr standa yður opnar. Nú er ekkert í bænum, sem mér er annt um að skýla fyrir yður."
Borghildur hló kuldahlátur:
"Ha-ha-hæ! - Kannske það sé utan bæjar, eins og í Bollagörðum."
"Við leitum auðvitað utan bæjar líka," skaut Pétur fram í. Hann var kominn hálfur inn úr baðstofudyrunum og nam þar staðar.
"Yður þóknast víst ekki að vísa okkur leið um kofana," mælti Borghildur. En í sömu svipan varð henni litið framan í Pétur, og skildi hún augnaráð hans svo, að ekki væri vert, að Halla færi með þeim. Hún flýtti sér því að bæta við: "Ónei, sitjið þér kyrrar með kirtlaveikiskrakkann yðar. Við getum bjargað okkur sjálf. Við þurfum engan með okkur - til að villa okkur sjónir." Og í því hún sneri aftur til dyranna, mælti hún: "Fylgsnið yðar skulum við finna, hvort sem það er utan bæjar eða innan."
Síðan hurfu þau systkinin fram úr baðstofunni. Halla heyrði þruskið til þeirra frammi í bænum.
Kofarnir í Heiðarhvammi voru hvorki margir né stórir, svo að ekki hefði átt að vera langrar stundar verk að leita í þeim. Þó tók það alllangan tíma, því að leitin hjá Borghildi var ekkert kák. Pétur sparaði ekki heldur að brýna hana.
Í eldhúsinu var eldiviðarhlaðinn rifinn niður og leitað í honum og undir honum. Þegar ekkert fannst þar, kom Pétur Borghildi til þess að láta vinnumanninn rífa upp stéttina, sem hlóðirnar stóðu á, og leita undir henni. Svo var allt rofið skilið eftir í hrúgu á gólfinu. Borghildur hélt, að Halla væri ekki of góð til að hlaða því upp aftur.
Í búrinu voru matarílátin dregin fram á mitt gólfið og skilin þar eftir, og ekki var verið að fást um það, þótt eitthvað spilltist við leitina.
Þá var ekki annað eftir en skálinn. Þar var ekkert, sem tafið gæti leitina, nema stór kista, sem Ólafur átti.
Dálitla stund voru þau að ráðgast um það, systkinin, hvort þau ættu að leita í kistunni eða ekki. Borghildi fannst hálfólíklegt, að þess þyrfti við, en Pétur kvað kistuna vel geta verið fulla af stolnum kindahausum.
Borghildur sendi þá inn til Höllu og heimtaði af henni lykil að kistunni. Halla kvað Ólaf bera hann í vasa sínum. Borghildur sendi aftur, sagði Höllu ljúga þessu, og kvað þau mundu brjóta upp kistuna, ef lykillinn kæmi ekki. Halla sagði, að hún skyldi ráða. Borghildur skipaði þá að brjóta kistuna upp, og var það gert. Þar var ekkert að sjá annað en sjaldhafnarföt þeirra hjónanna, sem lágu þar saman brotin, og voru þau ekki meiri en svo, að vel mátti ná til botnsins. Borghildur varð hálfsneypuleg á svipinn, þegar hún lagði aftur brotna kistuna.
Þá fóru þau að leita utan bæjar.
Fjárhús Ólafs voru fljótkönnuð. Engin hlaða var við þau, en heystakkur stóð við eitt þeirra.
Pétur stóð glottandi með hendurnar í vösunum á meðan þau Borghildur og vinnumaðurinn voru að grafa sig inn í heystakkinn til og frá. Borghildi sárnaði það, hve sérhlífinn bróðir hennar var. Þó kunni hún ekki við að skipa honum fyrir verkum, eins og vinnumanni sínum, og hamaðist því meira sjálf.
Samt þótti henni helst til mikið í ráðist að rífa niður allan heystakkinn, og lét hætta við hann. En þá var hann orðinn lítið betur út leikinn en þó að hann hefði verið rifinn niður.
Eftir þetta reikaði Borghildur umhverfis bæinn og út um túnið, meðfram til að blása mæðinni.
En af því að Borghildur vissi, að jarðfylgsni eru ekki auðfundin, þó að gengið sé yfir þau, kom Pétur henni til að láta vinnumanninn taka járnkarl, sem Ólafur átti, og kanna með honum hólana í kringum bæinn, til að vita, hvort nokkurs staðar væri holt undir.
Þau vissu það, Hvamms-hjúin, á hverju þau áttu von, ef þau hlýddu ekki fyrirskipunum Borghildar umyrðalaust. Og vinnumaðurinn pjakkaði í hólana með stakri samviskusemi, þó að hann ætti bágt með að verjast hlátrinum.
Loks virtist Borghildur vera orðin uppgefin á leitinni og vonlaus um að finna nokkuð.
"Nú er baðstofan eftir," mælti Pétur. "Á ekki að leita þar? Það var þó gert í Bollagörðum."
"Baðstofan!" sagði Borghildur. Það var eins og hún kinokaði sér við að fara aftur inn í baðstofuna til Höllu.
En þá datt henni í hug draumurinn. - Í baðstofunni hlaut fylgsnið að vera, líklega undir einhverju rúminu, - alveg eins og hana hafði dreymt.
Og án þess að hafa fleiri orð um stefndi hún liði sínu aftur til baðstofunnar.
Halla sat þar enn á rúmi sínu með barnið í fanginu. Halldór litli stóð við rúmstokkinn fyrir innan hana.
Borghildur byrjaði undireins að hreyta ónotum og storkunaryrðum yfir Höllu. Halla stillti sig og lét sem hún heyrði ekki.
"Hún læst nú vera mállaus, sómakvendið!" mælti Borghildur. "Jæja, við skulum lofa henni að þegja; masið úr henni greiðir ekkert fyrir okkur. Nú skulum við leita undir rúmunum."
Vinnumaðurinn kraup á gólfið og rýndi inn í myrkrið undir rúmunum.
Rúmin voru fastir fjalabálkar, negldir í þilin, og höfðu þau staðið þannig síðan baðstofan var byggð.
Borghildur átti bágt með að beygja sig svo, að hún sæi inn undir rúmin.
"Þetta er engin leit," sagði Pétur, sem stóð glottandi á bak við Borghildi.
"Kippið þið helvískum bælunum burtu, svo að hægt sé að leita almennilega," skipaði Borghildur.
Í þetta skipti náði fyrirskipunin til Péturs líka. En Pétur stóð aðgerðalaus sem áður.
Vinnumaðurinn hikaði við að gera þetta, eins og hann efaðist um, að Borghildi væri alvara. Svo réð hann á gestarúmið, svipti rúmfötunum úr því fram á gólfið, sömuleiðis mygluðu heyi, sem var undir sængunum, og loks rúmstæðinu sjálfu. Það tísti ömurlega í þilinu, þegar ryðgaðir naglarnir voru dregnir út úr því. En vinnumaðurinn var sterkur; rúmið skalf eins og laufblað í höndunum á honum. Eftir nokkrar sviptingar var hann búinn að fleygja því fram undir dyr í baðstofunni. Þá rétti hann úr sér og strauk af sér svitann með handarbakinu.
Þar, sem rúmið hafði staðið, var ekkert að sjá annað en rusl og ryk, sem ekki hafði náðst til að sópa. Gólfið var auðvitað heilt.
En á gólfinu var að sjá eins og hvítleitar rósir, líkastar því, að eitthvað fljótandi hefði myglað þar og síðan þornað upp.
"Hvað er nú þetta?" mælti Borghildur og hleypti í brýrnar yfir þessum einkennilega uppdrætti. "Sér er nú hver endemis óþverrinn!"
Halla var staðin á fætur og horfði líka á þennan blett.
Allt í einu var eins og vopn félli niður í hendur hennar, - vopn á Borghildi. Og hún gat ekki stillt sig um að reyna það.
"Þetta er gamalt blóð," sagði hún hiklaust og þunglega og án þess að velta því fyrir sér, hvort nokkrar líkur væru til, að svo væri.
"Blóð," át Borghildur eftir forviða.
"Já, blóð," mælti Halla, nokkru hvassara en áður. "Í þessu rúmi hefir manneskju blætt til ólífis - af yðar völdum. Hér hefir allt staðið óhreyft síðan, og þessi uppþornaði blóðpollur hefir beðið eftir yður."
Borghildi setti hljóða og það fór hrollur um hana. Skyldi þetta vera fylgsnið, sem draumurinn átti við?
Halla var náföl af geðshræringu. Borghildur vék á hæl fyrir augnatilliti hennar.
"Þetta er í annað skipti, sem þér vaðið með ofstopa inn í hreysi mitt, til þess að gera mér skapraun og háðung. Þér hlífist ekki við því, þó að ég sé með barnið mitt dauðvona í fanginu. Þjófnaðarbrigslin yðar verðið þér fegnar að éta ofan í yður innan skamms. - En þarna liggur það, sem yður var ætlað að finna. Hann lætur ekki að sér hæða, sem hefir leitt yður hingað. - Þessi blóðblettur hefir hrópað til himinsins, og nú blasir hann við yður eins og útbreidd stefna. Þér eigið að mæta fyrir hinum mikla dómara."
Borghildur stóð orðlaus og höggdofa. Það fór sem oftar, að þegar ákafar geðshræringar gripu hana, brást henni röddin. Þegar hún ætlaði að fara að ausa yfir Höllu, fékk hún sára kippi í kverkarnar, munnurinn þornaði og hún kom engu orði upp.
"Á ekki að leita undir hinu rúminu?" spurði Pétur, og beisk glettni skein út úr honum.
Borghildur leit framan í hann. Nú fór henni að skiljast öll framkoma hans.
En hún fékk engan tíma til umhugsunar, því að Halla hélt áfram með sívaxandi ákefð:
"Gerið þið svo vel, rífið þið alla kofana niður, ef þið viljið. - En hérna er einn hlutur, sem ég hefi geymt og ætlað yður. Það er rekkjuvoðin úr rúmi Jóhönnu sáluðu. Mér hefir ekki tekist að hreinsa hana til fulls. Þarna er hún."
Halla seildist langt ofan í rúmið undir höfðalagi sínu, dró þar upp samanbrotna rekkjuvoð og sveiflaði henni í sundur með annarri hendinni. Þar mótaði skýrt fyrir gömlum, hálfúrþvegnum blóðflekkjum. Og áður en Borghildi varði, kom rekkjuvoðin í stórum bylgjum ofan yfir höfuðið á henni.
Borghildur hljóðaði upp, eins og ólyfjan hefði verið steypt yfir hana, og þeytti af sér rekkjuvoðinni. Hún var orðin svo hamstola af reiði, að hún ætlaði að rjúka á Höllu og berja hana.
Pétur sá tilræði systur sinnar og gekk á milli þeirra.
"Er nú ekki nóg komið, systir?" mælti hann. "Þú hefir sýnt hér dæmalausan skörungsskap!"
Borghildur var óð af reiði. Hún barði allt í kringum sig og skeytti því ekki, þó að höggin lentu mest á Pétri.
"Þið eruð öll á móti mér," hvæsti hún, helblá í framan. "Þið eggið mig, spanið mig upp og hæðist svo að mér. - Og þú líka, Pétur bróðir minn -!"
Að svo mæltu leitaði hún dyranna í einhverju ofboði. Gremjuhlátrar Höllu hljómuðu á eftir henni fram í göngin.
Í bæjardyrunum rakst hún á Ólaf. Hann hafði verið á leiðinni inn í baðstofuna, en hörfaði undan henni fram úr göngunum. Skemmdirnar frammi og úti við voru þegar orðnar honum kunnar.
"Þetta verður Agli mínum í Hvammi dýr heimsókn," mælti hann, kindarlega íbygginn á svipinn.
Borghildur svaraði honum engu, en ruddist fram hjá honum og út.
Vinnumaður hennar og Pétur fylgdu henni eftir út úr bænum. En þar skildi með þeim systkinum, og varð stutt um kveðjur. Pétur fór Bollagarðagötuna heim á leið.
- Inni í baðstofunni stóð Halla með barnið í fanginu og hélt um höndina á Halldóri litla, sem enn var að gráta af hræðslu. Fyrir framan hana var hrúgan úr rúminu og baðstofan var full af ryki. Það voru smámunir. Hitt fannst henni meira um vert, að ekki hafði þessi koma Borghildar að Heiðarhvammi orðið betri en hin fyrri. Nú lá við, að hún aumkaði hana.
Borghildur reið hægt á heimleiðinni og var í þungum hugsunum.
Það var margt, sem að henni amaði. Hún hafði verið viss um það, að leit hennar í Heiðarhvammi leiddi til einhvers glæsilegs sigurs, - sigurs, sem opnaði augu sýslumannsins til fulls fyrir skörungsskap hennar. Nú var þessi vissa að engu orðin, og hugann sveið eftir vonbrigðin.
Allur árangurinn af leitinni voru þessir blóðflekkir - eða hvað það nú var, - sem Halla hafði bent henni á og brigslað henni með. Þeir vöktu upp illar og óhugnæmar endurminningar, sem eins og spruttu upp úr gröfum sínum og gláptu á hana gráðugum draugaaugum, storkandi og lamandi, einmitt þegar henni kom verst. Oft hafði hún harkað þessar sakir af sér í einrúmi, en nú réðust þær á hana óviðbúna og hefndu sín. Þessir "blóðflekkir" svifu henni enn fyrir hugskotssjónum sem óttaleg myndablöð.
En sárastar af öllu voru glósur Péturs bróður hennar um "skörungsskapinn", - að finna það allt í einu, að hún væri yfirgefin af öllum, hefði ekki óskipt fylgi eins einasta manns, ekki einu sinni bróður síns, - vita orð Höllu verða að sannleika fyrir augunum á henni sjálfri, þau orð, að "allir væru henni ótrúir", að hún væri "dansandi skrípi, sem menn hlægju að álengdar."
Í þetta skipti hafði henni tekist upp að dansa, og loks hafði hún dansað út á glóandi rist, eins og drottningarnar í ævintýrunum. - Nærri mátti geta, hvort Halla hefði ekki sögu handa gestum sínum.
Allt settist þetta að henni í einu, og allt nagaði það hana eins og ormar. - Við það bættist meðvitundin um líkamlegt vanmætti til að fylgja fram skapinu. Það var sárt að missa rómsins, þegar mest reið á að láta heyra til sín, og sárt að hafa ekki harða hnefa til að taka við, þegar áhrif orðanna þrutu.
- Heima á hlaðinu í Hvammi tók Egill á móti henni.
Hann var þungur á brúnina og auðséð, að honum var mikið niðri fyrir.
"Mikið hefði ég viljað gefa til, að þú hefðir aldrei farið þessa ferð," mælti hann.
"Ég líka," mælti Borghildur og ætlaði að snarast fram hjá honum inn í bæinn.
En Egill hindraði hana. Hann vildi tala fleira við hana.
"Ég ætlaði að ná í þig í morgun og aftra því, að þú færir, en varð of seinn. - Ég ætlaði að segja þér, hvað fram hefir komið fyrir réttinum. Þá hefðirðu hugsað þig betur um Heiðarhvammsþjófaleitina."
"Hvað hefir komið fram fyrir réttinum?" spurði Borghildur stygglega.
"Það er þungt áfall fyrir þig og vandamenn þína, sem ég treysti þér þó til að bera með stillingu. - Pétur bróðir þinn er stórþjófur og verður tekinn fastur í fyrramálið."
Borghildur opnaði munninn eins og til að mótmæla, en orðin dóu á vörum hennar. Hún fölnaði upp af skelfingu og greip til dyrustafsins til að styðja sig.
Egill fylgdi henni inn í herbergi þeirra hjóna í baðstofunni. Þar skýrði hann henni nánar frá öllum málavöxtum.
Borghildur hlustaði þegjandi á söguna, spurði einskis og mótmælti engu. Þegar henni var lokið, vildi hún fá að vera einsömul.
Aldrei hafði hún fundið til þess jafnskýrt og nú, að Pétur á Kroppi væri bróðir hennar.
Borghildur sat ekki til borðs með sýslumanninum þetta kvöld. Hún hafðist við í herbergi sínu það sem eftir var dagsins og lokaði að sér. Þar gekk hún um gólf og unni sér engrar hvíldar. Á þann hátt fannst henni léttast að berjast við hugsanir sínar.Enginn kom þangað inn til hennar nema þau Egill og Borga. Hún sinnti þeim ekkert og svaraði ekki, þó að þau yrtu á hana.
Stöku sinnum settist hún niður og andvarpaði svo sárt og hátt, að það líktist hljóðum. Innan skamms spratt hún á fætur og hélt áfram að ganga um gólf.
Nokkru eftir að aðrir voru háttaðir, ætlaði hún einnig að fara að hátta, en fann það áður en hún fór upp í rúmið, að hún mátti með engu móti halda kyrru fyrir. Þá mundu geðshræringarnar verða henni of ríkar.
Og löngu eftir að orðið var koldimmt, hvarflaði Borghildur, hálfklædd og húfulaus, fram og aftur um herbergið.
Og alltaf var það sama hugsunin, sem hún barðist við, og sama tilfinningin, sem píndi hana: skömmin.
Skömmin, sem Pétur leiddi yfir hana og alla ættina. Skömmin af því, að hafa flanað út í þjófaleit hjá saklausu fólki, með þjóf fyrir aðstoðarmann.
Allt það, sem hún hafði liðið um daginn, voru smámunir einir hjá því, sem hún leið nú. Hvað var þjófaleitin og allt það, sem stóð í sambandi við hana, hefði Pétur verið heiðarlegur maður? Hjartanlega fegin hefði hún viljað fyrirgefa Pétri gletturnar í Heiðarhvammi og allt hans undanfarna líf, hefði hún með því getað keypt þennan flekk af ættinni.
Orð Höllu og minningarnar, sem þau höfðu vakið upp, lutu einnig í lægra haldi. Þó að fráfall Jóhönnu hefði átt rætur sínar að rekja til hennar að einhverju leyti, þá var það leyndarmál, sem fáir höfðu af að segja, og hún hélt allri virðingu sinni fyrir því. En þetta hneyksli blasti við öllum lifandi mönnum.
Þetta var svo mikið og skelfilegt umhugsunarefni, að ekkert annað komst að í huga hennar. Og raunar komst það ekki fyrir heldur allt í einu. Alltaf birtust á því nýjar og nýjar hliðar, og ótal atvik, smá og stór, uxu út úr því.
Hún gat ekki grátið yfir því, ekki kveinað eða kvartað og ekki talað um það við nokkurn mann. En henni fannst sem það hlyti að gera sig vitskerta.
En við og við kom þó sú spurning fram í huga hennar, hvort þetta gæti í raun og veru verið satt.
Í fyrstunni fékk hún enga áheyrn, en henni óx afl eftir því sem hún kom oftar. Auðvitað hafði Finnur sagt þetta allt fyrir réttinum. En það gat verið ósatt fyrir því, eða Finnur gat verið orðinn geðveikur.
Hún sá eftir því að hafa ekki spurt Finn sjálf. Nú var hann háttaður og sofnaður í frambaðstofunni og ekki hægt að vekja hann án þess að á því bæri. En Settu gat hún spurt í einrúmi.
Eftir nokkra umhugsun réð hún það af, að spyrja Settu. Hún læddist þá fram úr baðstofunni, kveikti síðan ljós og gekk með það í hendinni inn í fjósið til Settu.
Setta vaknaði og reis upp til hálfs, þegar ljósbirtuna lagði framan í hana. Hún skyggði yfir augun með hendinni og gretti sig. Svo setti hún upp blíðusvipinn og mælti:
"Nei, eruð það þér, - blessuð manneskjan! Sælar og blessaðar, - og velkomnar!"
Setta var í ófrýnna lagi, svefngrett og rauðeygð. Skyrtugarmurinn flakti frá henni, og sá þar í sinaberan háls og blakka bringu. Augnaráð hennar var fullt heiftar og hugsýki, þó að hún mælti blíðlega. - Borghildur stóð þegjandi stundarkorn og horfði á hana. Henni fannst hún vera að vekja upp norn, sem lengi hefði dauð verið, og leita af henni frétta.
Þessi ókind hafði talið sig bestu vinkonu hennar um mörg undanfarin ár, hún hafði legið við eyrun á henni, hvíslað að henni alls konar illum sögum, sönnum og lognum, spúð í hana eitri og blandað allt með smjaðri og fagurgala. - Nú hryllti hana við henni.
"En sú vitleysa, sem mann getur dreymt!" mælti Setta og hneggjaði við. "Vitið þér, hvað mig var að dreyma rétt áður en ég leit upp? - Nei, það er ekki von. Mig var að dreyma hana Jóhönnu sáluðu fósturdóttur yðar, - eins og ég er lifandi manneskja, er þetta satt. Hún stóð þarna í sömu sporunum og þér núna. - Hún Jóhanna sálaða, sem þér voruð svo dæmalaust góðar, - þó að hún launaði yður illa. Ég er viss um, að hún er eitthvað að hugsa til yðar núna."
Borghildur ræskti sig og ætlaði að fara að taka til máls, en Setta varð fyrri til:
"Þeir kölluðu mig fyrir réttinn í dag, - en þeir höfðu nú ekki mikið gott af því. Ó, ég vildi að þér hefðuð heyrt allt það, sem ég ruddi úr mér yfir sýslumanninn. Það var ófagur kapítuli! - Hann var að lesa upp einhvern þvætting úr Finni. Ég hækkaði róminn - og hann líka. Ég var svo ósvífin sem ég gat, hí-hí-hí! - Svei mér þá alla daga, ef hann heyrði til sjálfs sín fyrir mér. Og ég lét hann hafa sitt af hverju, blessunin mín! - Og loks var sýslumaðurinn orðinn svo reiður, að hann lamdi í borðið og skipaði mér að halda kjafti. - Hafið þér heyrt, hvað ég gerði þá? Ég hélt kjafti. - Fjandinn hafi það orðið, sem hann gat togað úr mér eftir það."
Loks varð svo mikið hlé á málandanum í Settu, að Borghildur komst að.
Hún hrökk saman við það að heyra til sjálfrar sín; svo óstyrk var röddin, dimm og hás, eins og hún kæmi neðan úr jörðinni.
"Er þetta satt?" mælti hún.
"Já, eins og guð er yfir mér," greip Setta fram í. "Ég skammaði þá báða eins og ég þoldi, - Egil líka."
"Er þetta satt, - sem Finnur segir?"
Setta var ekki lengi að skipta um svip og róm.
"Nei, blessuð elskan mín," mælti hún hálfkjökrandi. "Finnur lýgur öllu, sem hann segir. Ó, hann Finnur, bölvuð dulan! Að ég skyldi ekki hafa mannrænu til að sálga honum einhvers staðar uppi í heiði! Nú stendur hann fyrir réttinum dag eftir dag og lýgur því upp á mig, sem ég er alsaklaus af. - - Vitið þér, hvað ég var að hugsa um í gærkveldi, elskan mín. Ég var að hugsa um, að ekki væri það nú neitt illvirki að laumast inn í baðstofuna og bíta hann Finn á barkann, kvikindið það arna. Lakast hefði það verið að fara kannske mannavillt í ólukku myrkrinu, hí-hí-hí! - En svo las ég bænirnar mínar, eins og ég er vön, og þá verndar guð mann frá öllu illu. Og svo kúrði ég mig niður og sofnaði."
"Svarið þér mér umsvifalaust," mælti Borghildur með mikilli alvöru. "Er það satt, að Pétur bróðir minn hafi verið meðsekur ykkur í þjófnaðinum?"
Setta horfði þegjandi á Borghildi. Nú skildi hún til fulls, hvers vegna hún hafði komið. Hún sá út úr henni sorgina, gremjuna og - andstyggðina. Nú var staður og stund til að þakka henni fyrir viðtökurnar síðast.
"Hann Pétur á Kroppi!" mælti hún og hneggjaði meinfýsilega. - "Hann - prófastssonurinn, hreppsnefndaroddvitinn og - guð veit hvað! Ekki nema það þó! - - Þér trúið því um okkur, heillin mín, - okkur vesalingana, ræflana, að við séum þjófar. En þér trúið því ekki um annan eins mann og Pétur á Kroppi, - hí-hí-hí! Nei, höfðingjablóðið er vandlátt að virðingu sinni, - það er víst óhætt að treysta því! Ekki taka blessaðir höfðingjasynirnir hvinnskuna í arf. - Já, heillin mín, Pétur á Kroppi er maður, sem vert er um að tala, gáfaður, lærður, listfengur, sigldur og mikils metinn, - ættgöfgina tala ég nú ekki um! - Ég vildi, að hann Finnur minn hefði verið hans ígildi. - Ó, hefði ég verið ögn yngri, - þá hefði ég líklega orðið mágkona yðar, elskan mín! - Við verðum líklega flengd á þingi, við Finnur, saklaus, auðvitað. Reynið þér þá að sjá um það, blessunin mín, að Pétur á Kroppi verði látinn gera það - - - ."
Borghildi ofbauð. Hún gekk þegjandi út úr fjósinu og heyrði ekki nema óminn af því síðasta, sem Setta sagði.
Hún ráfaði stundarkorn fram og aftur um göngin með ljósið í hendinni, á meðan hún var að jafna sig eftir fund þeirra Settu. Svo stakk hún pönnunni í vegginn og gekk í myrkrinu inn í baðstofu. Þar ýtti hún við vinnumanninum, sem verið hafði með henni um daginn, skipaði honum að klæða sig í skyndi og hafa ekki hátt um sig; síðan ætti hann að sækja tvo hesta og leggja á þá.
Sjálf fór hún inn í herbergi sitt og klæddi sig að fullu án þess að skipta orðum við nokkurn mann. Svo beið hún ferðbúin frammi í bæjardyrum, þar til maðurinn kom með hestana.
Vökumaður Egils sat á kláf í bæjardyrunum, með ljóstýru við hlið sér, og raulaði rímur fyrir munni sér, hálfsofandi. Hann glaðvaknaði við þessar aðfarir og leit spyrjandi augum ýmist á Borghildi eða vinnumanninn, en hvorugt þeirra sagði honum, hvert ferðinni væri heitið.
Og þegar allt var tilbúið, hurfu þau bæði út í náttmyrkrið.
8. kafliHaustnóttin er - makt myrkranna.
Aldrei er skammdegismyrkrið svartara en þá. Aldrei eru himinn og jörð svipdekkri og þungbrýnni en þá.
Þá er ekki snjórinn á jörðinni til að lýsa upp svartnættið og leggja fjöllin glerbláma. Þá eru ekki norðurljósin farin að leika sér um himinhvelfinguna. Loftið er þrungið af vætu, sem enn hefir ekki dregist saman í ský, og kafið skýjum, sem enn hefir ekki rignt niður. Stjörnurnar eru fáar og tindra mjög; tunglið bleikt og birtulítið og kringum það margfaldur rosabaugur.
Jörðin er biksvört, vot og gljúp af bleytu, með móana þakta blaðlausum kvistum, og djúpar rákir eftir nýrunnar skriður í fjöllunum. Hauststormarnir brjótast um í böndum; langt burtu heyrast veðradrunur. Loftið kippist við, skelfur og tekur andköf, eins og gríðarmikil gufuvél. Kolsvartir flókaveggir ryðjast áfram, skella yfir, byrgja himininn og misþyrma jörðinni.
- Út í slíkt svartnætti lögðu þau, Borghildur og vinnumaður hennar.
Rosi var mikill og skýjafar, og svo dimmt, að varla sá aðgreining himins og jarðar. Við og við hjó fyrir örlítilli mön af tunglinu; en glæta þess hneig máttlaus í sortahafið mikla, sem var með allri jörðinni. Hún megnaði það eitt, að bregða daufri birtu á brúnir skýjanna, til að sýna, hve hrikaleg þau væru.
Annað slagið dembdi yfir köldum krapaskúrum, sem stormurinn þyrlaði um fjöllin með dimmum, hásum veðurhvin og lamdi utan menn og hesta.
Aldrei hafði Borghildur komið út í jafnsvarta og ferlega haustnótt. Aldrei hafði hún haft hugboð um það, að slíkt rosamyrkur væri til. Hún gat varla hugsað sér, að nokkurn tíma hefði komið önnur eins nótt og þetta. Sælir voru þeir, sem gátu sofið af sér slíkar nætur og ekkert höfðu af þeim að segja. Skyldi það ekki einmitt vera um slíkar nætur, sem manneskjurnar dreymdi voðalega drauma?
Fylgdarmaðurinn reið spölkorn á undan. Hestarnir lögðu kollhúfur, hölluðu höfðinu upp í veðrið og stildruðu gætilega í blautum og sleipum götunum. Borghildur varð smám saman gagndrepa á bakinu og olnbogunum af regninu, sem stöðugt dundi á henni.
"Siggi, Siggi!" kallaði hún til fylgdarmannsins. "Þér megið ekki ríða svona langt á undan mér. Ég kem bannsettum klárnum ekkert úr sporunum."
Siggi hægði á sér og beið eftir henni.
"Ég held, að þér hafið lagt á einhverja bölvaða bikkju handa mér."
"Þekkið þér nú ekki Rauð yðar lengur?"
"Er þetta hann Rauður minn? Mér sýnist skepnan vera brún. - Eða er allt að verða svart fyrir augunum á mér? - - Rauður minn, það er ólund í þér út af því, að vera á ferð í þessu veðri, og það um miðja nótt. Vesalings Rauður minn, er það ekki von? Ég hefði líka fegin viljað vera kyrr heima."
Það var eins og Rauður skildi, að verið væri að tala vingjarnlega við hann. Hann greikkaði sporið og teygði fram hausinn til að sjá betur, hvar hann ætti að stíga niður.
Þannig fikruðu þau sig áfram nokkra stund.
"Siggi, Siggi!" kallaði Borghildur aftur. "Förum við rétt? Erum við ekki að villast?"
"Við erum á götunni."
"Hvar er núpurinn?"
"Þarna."
Það mátti einu gilda, hvert Siggi benti. Borghildur sá hann aðeins sem svarta þústu, en sá ekkert skapnaðarlag á honum.
"En hvar er Hvammsskarð?"
Siggi þurfti að hrópa af öllum kröftum á móti veðrinu, til þess að hún heyrði til hans:
"Við erum ekki komin svo langt enn þá, að það geti sést."
"Erum við ekki komin upp á hálsinn?"
"Nei, biðjið þér fyrir yður."
"Skelfing finnst mér þetta langt."
Borghildur sagði þetta allt án þess að hugsa nokkuð út í, hvað hún sagði, eða án þess að vita fyllilega af því, að hún væri að tala. Allt þetta, sem hún var að tala um, myrkrið, illviðrið, latir hestar og vondur vegur, var ekkert annað en smávegis og hversdagsleg óþægindi í samanburði við það, sem fyllti huga hennar. Þessar hugsanir um veginn og veðrið voru eins og lauslegt skýjarek yfir myrkri því, er hugur hennar bjó yfir.
Eins og svartir svipir þokuðust þau áfram hægt og hægt gegnum illviðrið og náttmyrkrið og töluðu ekki orð saman. Borghildi fannst hún síga öll saman á hestbakinu, lúpast ofan í söðulinn, eins og ekkert væri að verða úr henni. Fyrst eftir að þau fóru á stað, hafði hugurinn borið hana hálfa leið. Nú fannst henni undarleg þreyta gagntaka sig. Það var eins og myrkrið og bleytan hefðu einhver lamandi, sljóvgandi áhrif á hana og gerðu hana gegnkalda og tilfinningarlausa. Langan tíma mælti hún ekki orð, og hugsanir hennar smádofnuðu líka. Það var einhver blýþungi fyrir brjóstinu á henni, sem beygði hana saman í keng. Viljalaus og hálfrænulaus lét hún berast áfram á eftir vinnumanni sínum.
- "Hvað er þetta, Siggi?" hrópaði hún allt í einu. Hún hafði hrokkið upp sem af dvala við eitthvert bláhvítt glit, sem brá fyrir allt í einu.
"Það er hrævareldur."
"Hrævareldur!" - Borghildur hafði heyrt hann nefndan, en aldrei séð hann fyrr. "Er hann ekki hættulegur?"
"Nei, það held ég ekki. Hann er kaldur. - En þeir vita á illt, þegar mikið er af þeim."
Eitt krapaélið var að skella yfir og allt logaði í hrævareldum umhverfis þau. Þeir flögruðu fram og aftur, kviknuðu og kulnuðu þar sem minnst varði, hvörfluðu í ýmsar áttir, eirðarlausir og stefnulausir, eins og flóttaandar úr ríki fordæmingarinnar.
Borghildi hraus hugur við þeim. Það var auðséð á þeim, að þeir vissu á illt. Skyldi geta komið meira illt yfir hana en komið var?
"Siggi, haldið þér ekki, að veðrið sé skárra hinum megin við hálsinn?"
"Nei, þvert á móti; ég held, að úrkoman sé meiri þar."
"Hvers vegna haldið þér það?"
"Það er svo nærri fjöllunum."
Samtalið varð að hætta, því að élið var skollið á með svo mikilli úrkomu og svo miklum veðurhvin, að ómögulegt var að tala saman.
Borghildur var farin að sáriðrast eftir að hafa lagt út í þetta veður, þó að hún léti ekki á því bera. Nú hlaut líka að vera farið að líða á leiðina.
Hún blakaði lendina á Rauð með svipuólinni, og klárinn svaraði með því að dingla taglinu. Hún fann, hve fimlega hann stiklaði í grýttri götunni, en þó var eins og allt stæði kyrrt; ekkert sást færast fram hjá. Á allar hliðar var náttmyrkrið, - fullt af ógnunum og illum táknum.
Þegar élinu létti, komu þau að túngarðinum á Brekku. Þá reif ofur lítið frá tunglinu, svo að sjá mátti heim að bæjarhúsunum.
Þannig litu bústaðir mannanna út, þegar ofurveldi næturmyrkursins grúfði yfir þeim, hugsaði Borghildur og horfði hvasst í áttina til bæjarins. Fyrir nokkrum dögum hafði þessi bær dunað af veislukæti, með ljós í hverju skoti. Nú mátti enginn sjá, hvort þar stóðu hús eða eyðitóftir. Undir þessum svörtu þústum hvíldu manneskjurnar eins og lík í gröfum. Skyldi Margréti nokkuð óra um það í svefninum, hverjir væru nú á ferð fram hjá bæ hennar?
Það var eins og skýin opnuðust beint yfir bænum og stjarna hrapaði. Hún dró eftir sér langa ljósrák ofan í sortann; þar hvarf hún og ljósrákin á eftir.
"Einhver er feigur á Brekku," mælti Siggi.
"Flónska, sem ekkert er að marka!" sagði Borghildur önug. Hún vildi minna vinnumanninn á að vera ekki að yrða á hana að fyrra bragði.
Frá Brekku að Kroppi gekk ferðin greiðar, því að þar var vegurinn betri en á hálsinum. Um óttubil voru þau loks komin á hlaðið á Kroppi.
Borghildur sendi fylgdarmanninn upp á baðstofugluggann til að gera vart við komu þeirra. Lagði hún fyrir hann að reyna að vekja ekki aðra en Pétur.Sjálf beið hún frammi á hlaðinu og virti bæjarhúsin fyrir sér, þó að dimmt væri. Þau voru ekki miklum mun reisulegri en húsin í Heiðarhvammi. Fjögur hús sneru göflunum fram á hlaðið. Tvö þeirra voru með timburgöflum, en tvö með torfgöflum. Timburgaflarnir voru á bæjardyrum og skemmu, en gestastofa var þar engin. Þessi tvö hús voru stærri og stæðilegri en Heiðarhvammshúsin, en forn voru þau og farin að skekkjast. Á Kroppi voru flestöll bæjarhúsin frá tíð fyrri ábúenda. Pétur hafði ekkert byggt þar, annað en þann enda baðstofunnar, sem hann svaf í með börn sín.
Borghildur horfði hálfviðutan á þessa skuggalegu húsahrauka og tók ekkert eftir því, að Siggi kom aftur og fór að sinna hestum þeirra. Eftir litla stund sá hún bjartar rákir upp og ofan bæjardyraþilið; það var ljósbirta, sem lagði út um rifurnar. Rétt á eftir var lokunum kippt frá bæjarhurðinni, hún opnuð og Pétur kom út í gættina.
Pétur var í nærklæðunum einum saman og hafði brugðið skóm upp á bera fæturna. Kertisstúf með logandi ljósi, sem hann hafði haft með sér, hafði hann skilið eftir innar í bæjardyrunum, svo að ekki skyldi slokkna á honum af gustinum að utan. Þegar hann sá, hver úti var, opnaði hann dyrnar á gátt og vék sér úr vegi, svo að Borghildur kæmist inn.
Kveðjur þeirra systkinanna voru stuttar að vanda, og fylgdi þeim enginn blíðskapur. Pétur horfði undrandi á systur sína, og þrjóskuglotti brá fyrir í svip hans. Það var rétt komið fram á varir honum, að eitthvað bæri nýrra við, fyrst hann fengi jafnsjaldgæfa heimsókn. Hann hætti þó við að segja það, því að honum ógnaði að sjá framan í systur sína.
"Ég þarf að tala við þig - einan," mælti Borghildur lágt, og kenndi hrolls í rómnum.
"Gerðu svo vel. Viltu ekki koma inn í baðstofu?" mælti Pétur. Hann var nú búinn að yfirvinna undrunina og hafði algert vald á sjálfum sér.
"Nei," sagði Borghildur. "Getum við ekki talað saman einhvers staðar hérna frammi?"
Innangengt var úr bæjardyrunum í skemmuna. Pétur tók ljósið og gekk þegjandi þangað inn, og Borghildur á eftir.
Pétur benti Borghildi á sæti á kistu þar í skemmunni. Sjálfur settist hann á reiðingastafla, sat þar álútuc og hélt kertinu fram undan sér. Flöktandi birtu lagði um andlit hans, því að ljósið blakti fyrir súg úr opnum glugga á skemmuþilinu.
Borghildur sat fyrst þegjandi um stund og virti bróður sinn fyrir sér.
Hún var illa til reika eftir næturferðina. Ystu fötin voru rennandi blaut og eins og þanin utan um hana af miklu afli, svo að andardrátturinn var henni örðugur vegna þrengslanna. Andlitið var blárautt af veðurbarningnum, og vatnið úr hárinu draup niður um það. Hún skalf af kulda, og allur svipur hennar bar merki hryggðar og ofþreytu.
Viljamagn hennar var sem dofnað og stirðnað og skapharkan brotin á bak aftur. Allt það, sem hún hafði hugsað sér að láta dynja á Pétri, um það leyti sem hún fór að heiman, var horfið úr hug hennar. Það hafði orðið úti á hálsinum um nóttina. Nú var þar lítið eftir annað en sorgin - sorgin yfir þeirri miskunnarlausu fullvissu, að allt væri eins og henni hafði verið sagt. Hún sá það á Pétri, las það út úr hverjum drætti í andlitinu á honum; enda reyndi hann ekkert að leyna því. Hún spurði því eins og til málamynda:
"Er þetta satt, sem Finnur hefir sagt fyrir réttinum?"
Pétur sat kyrr og einblíndi fram undan sér. Honum brá ekkert við spurninguna.
"Það er það sjálfsagt," mælti hann ofur rólega.
"Guð hjálpi þér!" mælti Borghildur með grátstaf.
"Ég veit raunar ekkert um, hvað Finnur hefir sagt fyrir réttinum," mælti Pétur. "En ég tel víst, að hann hafi ekki sagt annað en satt."
Borghildi blöskraði kæruleysi hans og gramdist það jafnframt.
"Og samt ferðu með mér upp að Heiðarhvammi!" mælti hún með nöprustu fyrirlitningu.
Pétur glotti kuldalega:
"Já, auðvitað. Hvers vegna hefði ég ekki átt að gera það, úr því að enginn annar fékkst til þess? Er það ekki yndi þitt og ánægja að fálma uppi yfirsjónir annarra? - Ávirðingar og óhamingja annarra manna eru mörgum sannur andlegur veislukostur. Ég vissi það vel, að þú þurftir að svala þér á Höllu. Ég gekk að því vísu, að þér mundi verða það ógleymanleg unun að leita þjófaleit í Heiðarhvammi. Nautnin hefði orðið tvöföld, hefðirðu fundið eitthvað. Ég hafði nú auðvitað enga von um það. En til þess að þú færir þó ekki á mis við alla ánægjuna, fór ég með þér, - og iðrast ekkert eftir því."
Borghildur beit saman bláum vörum. Við ýmsu hafði hún búist af Pétri, en fráleitt annarri eins ósvífni.
"Iðrastu eftur nokkru, sem þú hefir gert?"
"Það er lítið um það."
"Þú biður þá víst ekki guð að fyrirgefa þér."
Pétur leit upp sem snöggvast.
"Reyndu ekki að telja mér trú um, að þú komir hingað sem postuli guðs. Ég þekki allt of marga af sjálfboðaliðum hans hér á jörðunni. Og ef hann er nokkuð líkur því, sem þeir lýsa honum, þá - er hann ekki þess verður, að hann sé beðinn fyrirgefningar."
Borghildi varð orðfall, og samtalið féll niður um stund.
"Vesalings faðir okkar, sem var heiðvirður og siðavandur maður og ekki vildi vamm sitt vita í neinu," mælti Borghildur, og rómurinn skalf af gráti. "Sæll er hann, að hafa ekki lifað annað eins og þetta!"
"Mér hefði legið það í léttu rúmi, þó að faðir minn hefði lifað. Það var aldrei neitt kært með okkur."
"Nei, þú fórst ekki að hans ráðum, og því er nú komið eins og komið er fyrir þér."
"Hann barði mig frá sér eins og hundana. En það var ofur lítill munur á mér og rakkaskinnunum, sem honum sást yfir, blessuðum. Þeir skriðu til hans aftur á kviðnum, og það líkaði honum. En það gerði ég ekki."
"Ó, þú ættir að skammast þín!" sagði Borghildur gremjulega, og tárin hrutu af augum hennar. Hún sá þó eftir því, að hafa verið svo beiskyrt. Verið gat, að Pétur hefði þyngri byrði að bera en hann vildi láta sýnast.
Pétur sat þungbrýnn og þegjandi, og gremjan yfir rólyndi hans fór aftur að brjótast fram í huga Borghildar.
"Hvað ætlarðu nú að taka til bragðs?" mælti hún fyrirlitlega. "Flýja -?"
"Flýja," hafði Pétur upp eins og í draumi.
Borghildur hló gremjulega:
"Flýja, - strjúka! - - Er það ekki það karlmannlegasta?"
"Flýja, strjúka. Það gæti vel verið happaráð," mælti Pétur ofur kuldalega.
"Ég átti von á því! Þú ert kunnugur erlendis og kannt tungumálin. Þar eru þér allar leiðir færar. Þú ættir að bregða við undireins, því að mér er kunnugt um það, að þú verður sóttur í fyrramálið. - Hestarnir mínir standa til taks á hlaðinu."
"Ég þakka þér fyrir systurleg ráð, - en þeirra vegna hefðirðu getað lúrt heima hjá bónda þínum í nótt."
Enn þá einu sinni fannst Borghildi sem öllum vopnum væri blásið úr höndum sér. Hún þagði langa stund og horfði á Pétur. Loks mælti hún innilegar en áður:
"Ég er þó systir þín, þrátt fyrir allt. Segðu mér nú í einlægni, hvað kom þér til að hafast þetta að. Hvers vegna gerðirðu þetta?"
"Þú mundir ekki skilja það."
"Jú, ég skal að minnsta kosti reyna að skilja það," mælti Borghildur. Í þetta skipti fann hún, að orð hennar höfðu hitt fyrir lifandi tilfinningar hjá Pétri.
Pétur rétti sig hægt upp í sætinu, myrkur og alvarlegur á svipinn.
"Þá verðurðu að koma með mér," mælti hann. "Ég þarf að sýna þér ofur lítið, sem þú hefir ekki séð áður."
"Hvert á ég að koma?"
"Inn í baðstofu."
"Nei, þangað fer ég ekki."
"Þá geturðu farið á stað undireins, því að þá hefirðu komið erindisleysu. - Nei, komdu heldur með mér."
"Það má enginn vita, að ég hafi komið hingað," mælti Borghildur.
En Pétur sinnti því ekkert. Hann tók um höndina á henni og leiddi hana inn í göngin, hálfnauðuga. Hönd hans var vöðvamikil og brennheit; hennar mjúk og köld, og Borghildur fann þennan hitamun leggja sér til hjarta. Hann gekk á undan henni og hélt á ljósinu; henni fannst hún mundi kikna undir skugganum hans, sem á hana lagði, svo stór var hann og ferlegur. Og framvegis mundi skuggi þessa hávaxna og herðabreiða ógæfumanns hvíla á henni eins og bjarg.
Leið þeirra lá í gegnum frambaðstofuna, þar sem vinnuhjú Péturs lágu í bólum sínum. Syfjuð andlit litu snöggvast upp úr rúmfataræflunum og augun opnuðust til hálfs. En þau sigu fljótlega saman aftur. Heimafólk Péturs var orðið vant við næturheimsóknir.
Pétur leiddi systur sína inn í herbergi sitt og lét hurðina vandlega aftur. Síðan fór hann með hana að rúminu, sem fjær stóð borði hans, og sýndi henni hvað þar var.
Þar lágu þrjú börn sofandi, tvö uppi til og eitt til fóta.
Frammi við stokkinn höfðalagsmegin var lítil, bjarthærð stúlka, á að giska 10 ára gömul, rjóð í kinnum, undur fríð og góðleg. Hún svaf fast og rumskaði ekki, þó að ljósbirtuna legði beint framan í hana. Hárið liðaðist ógreitt út um koddann, og hendurnar litlu hvíldu ofan á sænginni. Þær voru blakkar á hörund og þrútnar af þreytu og saxa. Hún lá á bakinu, með aftur munninn, og dró andann djúpt og rólega. Þegar birtuna lagði á hana, varð hún enn blíðari á svipinn og glaðlegri, eins og hana dreymdi góða drauma.
Fyrir ofan hana, uppi í horni, sá á ljósgulan hnakka. Andlitið var á kafi í koddanum, og heyrðist þaðan þungur andardráttur með dálitlu snökti. Pétur lyfti barninu gætilega upp og lagaði koddann undir höfðu þess. Það var drengur, 6-7 ára gamall.
Annar drengur lá til fóta, dálítið stærri, hér um bil 8-9 ára. Hann hafði sparkað ofan af sér öllum fötunum og lá ber, nærri því þversum í rúminu, með höfuðið fyrir neðan koddann. Iljarnar á systur hans voru fast við nefið á honum. Hann var mikill vexti eftir aldri og svipmikill. Á nefinu var dálítil, hálfgróin flumbra og rispur á handarbakinu eftir kisu. Dálitlir hnyklar í brúnunum bentu á, að snáðinn hefði eitthvað fyrir stafni í svefninum.
"Þú ert eitthvað ódæll núna, vinur," mælti Pétur um leið og hann lagaði um drenginn í rúminu og breiddi ofan á hann. "Þú ert annað hvort að rétta hlut þinn á steðjanum í smiðjunni eða fást við kisu."
Drengurinn teygði sterklega úr öllum öngum og sparkaði frá sér. Síðan lá hann kyrr og svaf vært.
Borghildur stóð þegjandi og horfði á börnin. Augu hennar hvörfluðu frá hverju andlitinu til annars, eins og börnin toguðust á um þau.
"Var það þetta, sem þú ætlaðir að sýna mér?" mælti hún þurrlega.
"Já, það var þetta," mælti Pétur.
"Heldurðu að ég hafi aldrei séð börn fyrri?"
"Nei, það held ég ekki," mælti Pétur nokkuð harðlega. "En þessi börn hefirðu aldrei látið svo lítið að líta á fyrr en nú. Þér hefir ekki nægt Hvammshöfuðbólið síðari árin. Þú hefir verið á þönum um alla sveitina og víða látið til þín taka. Margar sængurkonur hefirðu heimsótt og mörg munaðarlaus börn hefirðu litið á - "í náð", vona ég. En þessi börn hefirðu aldrei séð fyrri. Þér hefir ekki þótt ómaksins vert að komast eftir, hverjum þau líktust. - Ég les það á vörunum á þér, hvað þig langar til að segja: "Frillubörn", - já, einmitt það! Tvö þeirra eru fædd á undan hjónabandinu. En ég sé ekki annan mun á þeim og hinum en aldursmuninn. - - Hérna, í þessari herbergisholu, hefir ríki mitt komist fyrir. Allt annað hefir legið mér í léttu rúmi. - Síðan þessir vesalingar misstu móður sína, hafa þau engan átt að nema mig. Ég hefi hugsað um þau og hirt um þau að mestu leyti. Það er fyrst núna, að Rúna mín er farin að geta létt á mér, með því að hafa ofan af fyrir yngri börnunum. En hún leggur allt of mikið á sig, auminginn litli. Líttu á, hve þreytt hún hefir verið í gærkveldi. Líttu á litlu hendurnar, hvað þær eru lúalegar. - Það verður einhvern tíma táp í þessum drengjahnokkum, ef þeir fá að lifa. Heldurðu ekki það? - En ég á fleira en þetta til að sýna þér."
Borghildur fylgdist með yfir að rúmi Péturs. Þar lá ofur lítið stúlkubarn steinsofandi. Hún var yngst af öllum börnunum, bjarthærð, eins og systkini hennar, með undur blíðlegt, lítið og kringluleitt andlit og nettan munn.
"Þessi jómfrú sefur nú hjá pabba sínum enn þá," mælti Pétur með raunalegum gælurómi. "Hún er of lítil til að þola sparkið úr systkinum sínum, og þess vegna vermir hún holuna mína."
Borghildur tók eftir því, að Pétur klökknaði snöggvast, en sá það jafnframt, að hann harkaði af sér.
"Sestu nú niður," mælti hann. "Nú skal ég svara því, sem þú spurðir mig að frammi í skemmunni. - Þegar ekki voru nema tveir vegir fyrir höndum, annar heim til hreppstjórans til að biðja um sveitarstyrk, og hinn upp í heiðina, - þá valdi ég þann síðarnefnda."
Borghildur horfði þegjandi framan í hann og beið þess, að hann héldi áfram.
"Þessir vesalingar þurftu að lifa, og ég entist ekki til að vinna fyrir þeim. Til einhvers varð að grípa."
"Og þetta voru úrræðin!"
"Já, einmitt, þetta voru úrræðin. - Þér finnst það undarlegt, að ég skyldi ekki heldur koma til hreppstjórans."
"O-nei, mér finnst það ekki undarlegra en annað í þínu lífi."
Pétur glotti storkunarlega.
"Í hvert skipti, sem ég var að hugsa um að fara þangað, fann ég til þess betur en ella, að ég var - prófastssonur."
Borghildur kreisti upp einhverju, sem átti að vera hæðnishlátur.
"Hefir þér nokkurn tíma komið til hugar, að það mundi geta komið fyrir, að þú þyrftir að leita til sveitarinnar? Nei, auðvitað ekki. Þér hefir aldrei dottið í hug að stela heldur. Þú þekkir ekki annað en auð og allsnægtir. - En mér var alltaf sem ég sæi framan í systur mína, þegar hún frétti erindið. Hvílík gleði! Hvílík hefnd fyrir það, hve lengi ég gekk uppréttur og fór mínar eigin leiðir. Þetta var Pétri á Kroppi fjandans mátulegt!"
"Nú gerðirðu mér illar getsakir. Þetta hefði ég aldrei - -."
"- sagt, nei, það veit ég vel," greip Pétur fram í og hló við. "Náðarfaðmurinn hefði líklega staðið útbreiddur við hinum glataða prófastssyni!"
"Já, það veit guð!"
"Þetta segirðu nú, þegar þú veist, hvað ég hefi gert. Þá hefði þér ekki dottið þetta í hug. Þá hefðirðu ekki þekkt neina niðurlægingu meiri en þá, að þurfa að leita sveitarinnar. Nú finnst þér það sómi hjá því að fara í hegningarhúsið."
"Ég skil samt ekki -."
"Það sér ekki á börnum þjófanna, systir góð. Þau þrífast eins og önnur börn, og kannske betur, komast til valda og metorða og verða stólpar mannfélagsins. Enginn veit, hver þau eru eða hvar þau eru. - Ég lagði í hátt hættuspil; þar var allt að vinna eða öllu að tapa. Vinningurinn var sá, að fleyta þessum glókollum mínum yfir ómegðaraldurinn. Ef það tækist, mundi enginn spyrja, hvernig ég hefði farið að því. Ef það tækist ekki, þá var það ekki nema ég sjálfur sem glataðist. Börnin voru þá upp á aðra komin hvort sem var."
"Börn, sem áttu ærulausan föður!"
"Æruleysi mitt verður þeim ekki lengi að farartálma. Þjófsmerkin úrættast fljótt. En það er annað til, sem ekki úrættist. Það eru þurfalingsmerkin. Þeir, sem á sveitinni liggja, sökkva niður fyrir það í almenningsálitinu, að vera manneskjur. Þeir eru með hundum taldir, sem guðsþakkaverk sé að kasta beini í. Börnin alast upp með hundasálum, alltaf horfandi upp á manneskjurnar eins og æðri verur, alltaf sníkjandi og snapandi eftir náð og góðmennsku. Þau fá sjaldan annað að heyra en að þau séu til þyngsla, éti stolið brauð, lifi á annarra sveita og eiginlega sé þeim ofaukið í mannfélaginu. Þegar þau þroskast, loka menn augunum fyrir öllu nema því, að þau séu alin upp á sveit. Hvenær sem þau gera kröfu til jafnréttis við aðrar manneskjur, er það látið klingja. - Manstu eftir niðursetningunum, sem ólust upp hjá föður okkar? Þeir "áttu gott" - sem kallað var - á sama hátt og skepnurnar. En hvenær var þeim gert jafnt undir höfði og okkur, prófastsbörnunum? Aldrei. Til þess hefði þurft meira en meðal prófasts-göfugmennsku. Þau fengu flot eða bræðing með brauðinu sínu, en við fengum smjör. Þau voru flengd fyrir það, sem við áttum skilið að flengjast fyrir. Enginn sá tár þeirra, enginn heyrði kveinstafi þeirra. Allir dásömuðu það, hvað þau hefðu lent á góðu heimili! - Ég sé, að þú ert búin að gleyma þessu, eða þú hefir aldrei tekið eftir því. En þú manst eftir Jóhönnu heitinni. Hvað hafði hún annað til saka en það, að vera alin upp á sveit? - Nei, þurfalingabörnin eru vinnudýr með mannsviti. Þau eiga að vinna svo mikið sem þau geta, fyrir það minnsta sem þau geta komist af með, - vinna af sér uppeldisskuldina, vera þrælar þrælanna, menntunarsnauð og vanhirt. Úr þeim verða nýir þurfamenn. Út af þeim lifna mörg þurfamannaefni, heilar þurfamannakynslóðir, sem bera einkenni þrælkunarinnar, ósjálfstæðisins og vesalmennskunnar frá vöggu til grafar, bera það í blóðinu og láta það öðrum í arf. - Frá þessu vildi ég frelsa börn mín. Nú hefir það mistekist, og hamingjan verður að ráða."
Pétur talaði lágt og lagði þungar áherslur á orðin. Borghildur horfði stöðugt á hann. Hún gaf því að vísu lítinn gaum, sem hann sagði; henni fannst það vera fjarstæður. Hún var að hugsa um augun í honum. Þau voru lítil, dökk og harðleg, eins og í birni. Þannig hafði hún aldrei ímyndað sér þjófsaugu. Þannig voru ekki augun í Settu í Bollagörðum, eða Finni eða Þorbirni. Þessi augu voru ættareinkenni hennar sjálfrar.
"En þjófarnir, - hvað geturðu sagt mér um þá?" mælti hún háðslega. "Þú ert hvort sem er farinn að láta vaða á súðum."
"Þjófarnir," mælti Pétur og glotti. "Þeir eru margir og þrífast ágætlega. Fáeinir eru óheppnir og lenda undir manna höndum, eins og við Setta. Þeir eru settir í svartholið, brennimerktir í almenningsálitinu og látnir vinna þrælkunarvinnu. Þá standa hinir álengdar, berja sér á brjóst og segja: Guð, ég þakka þér - - -! Það er til þjófnaður í margs konar myndum. Í engri grein hefir mannlegt hugvit verið frjósamara. - Hér í sveitinni hefir ein tegund þjófnaðarins blómgast og blessast. Það eru tíundarsvikin. Menn hafa horft á þau með opnum augum hver hjá öðrum og - þagað. Allir hafa verið samsekir. - Egill bóndi þinn á fyllilega 600 fjár, en tíundar ekki nema 500. Það er vel "gert fyrir vanhöldum"! Hvað heldurðu að það nemi miklu í allri sveitinni? - eða á öllu landinu? Þetta er þó ekki nema eitt atriði. Við þekkjum fæst af leyndarmálum þeirra, sem verða efnaðir - "með dugnaði og ráðdeild", eins og sagt er í eftirmælunum. - Mannkynið er fullt af þjófum, útsmognum í alls konar þjófnaðarbrögðum, þjófum, sem varla vita af því lengur, hvenær þeir stela. - Við Setta höfum ekki gert annað en lagt dálítinn skatt á þjófnað hinna þjófanna!"
Borghildur spratt á fætur. Ósvífni Péturs og kaldlyndi gekk svo fram af henni, að hún gat engin orð fundið. Hún hafði átt von á að hitta iðrandi glæpamann á Kroppi. - En þessum manni, sem stóð hnakkakerrtur og storkaði henni í hverju orði, sem bar þjófnað upp á heiðarlega menn og þóttist ekkert sekari en aðrir, - honum gat hún ekki fyrirgefið.
"Hvað hefirðu nú hugsað fyrir þeim þarna í rúmunum?" hreytti hún úr sér um leið og hún togaði upp á sig blautan vettlinginn.
"Þau missa mín við," gegndi Pétur raunalega. "En menn sýna oft munaðarlausum glæpamannabörnum meiri hluttekningu en þurfamannabörnum. Það kemur líklega til af því, að þau eru færri."
Síðan fylgdi hann Borghildi til dyra.
Fylgdarmaðurinn hafði beðið frammi í bæjardyrum á meðan þau voru inni. Nú sótti hann hestana út á túnið og hjálpaði húsfreyjunni á bak.
"Vertu nú sæl, systir mín," mælti Pétur, þegar hann kvaddi hana. "Og gleymdu því ekki í bráð, að þú hafir þó einu sinni komið að Kroppi."
Borghildur svaraði honum engu, en reið á stað.
Þegar Borghildur fór á stað frá Kroppi, var farið að birta nokkuð af degi. Veðrið hafði lægt og úrkoman var minni. Loftið var allt grátt, svo að hvergi lagði roða gegnum skýjakafið.Fyrst var hún fálát og utan við sig, eins og beygð af líkamlegri og andlegri ofþreytu. Það var sem napran gust hefði lagt af hverju orði Péturs og heltekið hana alla.
Slíkur maður var hann orðinn!
Svo langt var hann kominn frá þeim vegi dyggðar og sæmdar, sem faðir hans hafði prédikað, að henni fannst það ganga mannorðsspilling næst, að hafa verið inni hjá honum. Eitthvað óhreint og viðbjóðslegt loddi við hana út þaðan.
Henni datt í hug að biðja guð fyrir honum, en hún hætti við það. Það hlaut að vera móðgun við guð, að fela honum annan eins mann á hendur; mann, sem hann var sýnilega búinn að sleppa hendi sinni af.
- Hún reið hægt og átti bágt með að hafa hemil á hugsunum sínum. Þær komu í graut, komu eins og svipvindar hver yfir aðra og hrærðu saman öllum myndum. Það suðaði fyrir eyrunum á henni, og rekald af því, sem hún hafði séð og heyrt síðustu dægrin, rauk fram hjá hugaraugum hennar eins og í óráðsórum. Stöku mynd tók sig út úr og varð skýr, rétt í svip. Hún sá Heiðarhvamm, eins og hún hafði skilið við hann; Settu, þar sem hún reis upp við olnboga í bæli sínu í fjósinu og talaði um að verða mágkona hennar; svartnættið með skýjadrifi, hrævareldum, stjörnuhröpum og dauðalegum bæjarrústum; hálfsofandi andlit í fúlum fletjagörmum og glóhærð, engilfríð barnahöfuð. En alltaf og alls staðar brá bróður hennar fyrir.
Allt í einu rak hún upp hlátur, sem hálfkafnaði í kverkunum á henni. Hún kippti í taumana, svo að hesturinn nam staðar, og ofur litla stund leit svo út, sem henni væri ekki sjálfrátt. Hálfhátt mælti hún fyrir munni sér:
"Eins og hann vilji líta við systurdóttur þjófsins!"
Tengdirnar við sýslumanninn höfðu verið sælasti vökudraumur hennar fyrir fám dögum. Sú hugsun hafði smáþokað um set fyrir öðrum hugsunum síðustu dagana, og loks horfið á bak við annað, sem fyllti hugann. Nú kom hún aftur, mitt í fárviðri hinna myrkustu hugsana, kom eins og stjarna, til þess eins að hrapa, - draga eftir sér langa ljósrák ofan í biksorta hörmunganna og örvæntingarinnar og deyja þar.
Rétt á eftir setti beiskan grát að Borghildi.
Eftir að hún hafði grátið litla stund með þungum ekka, kallaði hún til fylgdarmannsins. Þá var rómur hennar skýr og skjálftalaus, eins og ekkert hefði í skorist:
"Siggi, við hljótum að mæta Agli, ef við förum þessa leið heim. Hann sækir Pétur um fótaferðartíma. - Ég vil ekki mæta honum. Hann varðar ekkert um mínar ferðir."
"Það er engin önnur leið til, nema fara upp fyrir fjallið og ofan skarðið hjá Heiðarhvammi," mælti Siggi.
Borghildur nam staðar og litaðist um.
"Upp fyrir fjallið. Nú, jæja, þá skulum við fara það. Liggur þá ekki leiðin fram hjá Bollagörðum? - Kannske ég geti þá fengið að sjá þetta fræga fylgsni?"
Siggi breytti stefnunni umyrðalaust og fór á undan til fjallsins.
9. kafliPétur klæddi sig eftir að Borghildur var farin og var á flakki eftir það.
Hann var búinn að hugsa ráð sitt fyrir löngu. Hljóður og hiklaus gekk hann út í það, sem koma átti.
Heimafólk hans hafði enga hugmynd um það, hvernig komið var. Það fór til verka sinna þennan morgun eins og vant var.
En Pétur fór að skrifa inni í herbergi sínu. Þar sat hann og skrifaði, þegar honum var sagt, að Egill í Hvammi væri kominn og maður með honum.
Pétur bauð að bjóða þeim inn, en fór ekki fram sjálfur.
Egill kom einsamall inn í baðstofuna, en fylgdarmaður hans beið úti. Hann kastaði kveðju á Pétur, en Pétur lét sem hann heyrði ekki og leit ekki upp. Egill settist þá á rúm í frambaðstofunni og beið þess, að Pétur lyki við að skrifa. Þaðan sá hann um hálft herbergið gegnum opnar dyrnar.
Rúna litla var að klæða bræður sína hinum megin í herberginu, og hélt niðri í þeim ærslunum með því að segja þeim frá því í hljóði, að Egill í Hvammi væri kominn. Egill hafði svo oft komið að Kroppi, að drengirnir könnuðust við hann. Þeir voru ekki eiginlega hræddir við hann, en fannst hann þó svo svipmikill og alvarlegur, að þeim fannst réttast að vera hljóðir, ef hann var nálægur. Þeir gátu þó ekki að sér gert nema gægjast fyrir dyrustafinn og líta framan í hreppstjórann.
En Egill var ekki í því skapi nú, að hann gæfi drengjunum gaum. Oft höfðu leiðir hans í hreppstjóraerindum verið fremur á fótinn, en þyngri spor en heim að Kroppi að þessu sinni hafði hann þó aldrei gengið.
Svo margt höfðu þeir starfað saman, bæði að sveitarmálum og öðru, hann og Pétur, og svo oft hafði Egill leitað til hans ráða og fulltingis, að ekki þurfti mægðirnar til þess, að meinlaust væri með þeim.
Og nú sat hann þarna fyrir honum með handjárn í vasanum og hafði mann við höndina, ef beita þyrfti við hann ofbeldi.
Hann vissi vel, að Pétur renndi grun í, til hvers hann væri kominn. Ef til vill var hann að keppast við að skrifa eitthvað, sem hann þyrfti að ljúka við, áður en hann skilaði af sér oddvitastörfunum.
Á meðan virti hann Pétur vandlega fyrir sér. Hann sat á rúmi sínu skáhallt fyrir glugganum, og grúfði sig yfir skriftirnar. Breiðara, karlmannlegra bak höfðu fáir; en nú var það bogið, eins og bjarg hvíldi á því. Andlitið var með fölara móti, grátt á hörund og magurt, með bogadregnar hrukkur í kinnunum út frá munnvikjunum og varirnar þunnar og samanbitnar. Þrátt fyrir þögnina og hörkuna bar svipurinn einhvern þjáningablæ, og það stirndi á svitann á enninu.
Inni hjá honum var allt í óreiðu. Rúmin stóðu óyfirbreidd, með sængur og rekkjuvoðir í bögglum. Uppi yfir rúmi Péturs var nokkuð af bókum á hillu, hver annarri lélegri útlits. Stórum dagblaðaströngum var stungið undir sperrurnar til og frá. Á fjölinni, sem skildi rúm hans og barnanna, stóð fíólínsstokkur og ofan á honum einhver rifrildi af landshagsskýrslum og stjórnartíðindum. Innan um það sá á kjölinn á gerðabók hreppsnefndarinnar.
Þegar Pétur hafði skrifað nokkra stund, braut hann blaðið saman og stakk því í brjóstvasa sinn. Þar var mikið fyrir af öðrum blöðum og bréfum.
Síðan dró hann kistil fram undan rúminu, settist með hann á rúmið og opnaði hann með lykli. Hann lét kistillokið hvíla á höfðinu á sér meðan hann rótaði þar til og leitaði að einhverju. Egill sá ekki, hvað það var; en þegar það var fundið, læsti Pétur kistlinum og stakk honum aftur inn undir rúmið.
Það var einhver undarleg óró yfir Pétri, sem jafnvel líktist fáti. En þegar hann stóð upp, var sem þetta hryndi af honum. Þá stóð hann beinn og keikur, léttur í limaburði og stálmjúkur, eins og hann ætlaði í dans.
Hann gekk yfir um þvert herbergið og hvarf þá Agli dálitla stund. Hann var þá að kveðja börnin, sem voru þeim megin. Þegar hann kom aftur fram þangað, sem hann hafði áður verið, sýndist Agli tárin hrynja niður kinnarnar á honum. Hann hafði þó ekki langan tíma til að glöggva sig á því, því að Pétur sneri sér snöggt við og sneri að honum bakinu. Það var eins og hann væri að hugsa um, hvort víst væri, að hann gleymdi nú engu.
Í sama bili settist yngsta barnið upp í rúmi Péturs; það hafði sofið til þessa. Kinnarnar voru heitar og rjóðar, og litlir feitir fingur káfuðu stírurnar úr augunum.
Það fóru kippir um Pétur, þegar hann sá barnið. Svo grúfði hann sig ofan að því, vafði það upp að sér og margkyssti það.
Egill klökknaði við að horfa á þennan vott föðurlegrar blíðu og óskaði með sjálfum sér, að þetta endemis þjófafylgsni hefði aldrei fundist.
Þegar Pétur sneri sér við, svo að Egill sá framan í hann, sáust þar engin merki gráts eða æðru, heldur aðeins djúp alvara og vald yfir öllum tilfinningum.
Hægt og rólega kom hann fram úr herberginu, eins og ekkert væri um að vera, og mælti ofur lágt: "Nú er ég tilbúinn."
Egill þagði; en vænt þótti honum um að hafa ekki einu sinni þurft að segja erindi sitt. Þyngst af öllu hefði það verið að þurfa að beita hörðu við Pétur.
Síðan fylgdust þeir að fram göngin og út úr bænum, þangað sem fylgdarmaður Egils beið með hestana. Þar var einnig hestur handa Pétri.
Þeir riðu langan veg þegjandi. En í hlíðarhalla skammt frá bænum á Brekku fóru þeir af baki og lofuðu hestunum að grípa niður.
Á meðan brá Pétur sér á hvarf fyrir holtið. Hinum kom ekki til hugar að meina honum það eða veita honum eftirför. Enda engar líkur til, að Pétri hugkvæmdist að komast frá þeim á þann hátt.
En þegar þá fór að lengja eftir honum, gengu þeir á stað til að forvitnast um, hvað af honum hefði orðið.
Þá bar fyrir þá aðra sjón og ægilegri en þeir höfðu búist við. Pétur lá flatur á regnblautri jörðinni og engdist sundur og saman af áköfum flogum.
Hann beit saman munninum af stálhörku, til að halda niðri í sér hljóðunum. En þegar hann sá mennina uppi yfir sér, gat hann ekki stillt sig lengur. Þó fór hann ekki að æpa, heldur hlæja, - hlæja vitfirringslegan feigðarhlátur.
Það leyndi sér ekki, að hann hafði tekið inn eitur.
Allir vissu, að hann hafði kransaugnaeitur (strychnin) undir höndum, sem nota átti við eyðingu refa. Það hlaut hann að hafa haft með sér að heiman og tekið það inn á þessum stað - og eflaust nógu mikið.
Egill sendi fylgdarmanninn undireins heim að Brekku, til að leita þangað hjálpar. Hann átti að biðja um spenvolga kúamjólk, til að reyna að slökkva með eiturbrunann, og einnig um menn og brekán til að bera Pétur í heim þangað.
Sjálfur var Egill hjá sjúklingnum á meðan. Hann reyndi að losa um fötin á honum og verja hann meiðslum af sjálfs hans völdum í flogunum, eftir því sem hann gat.
Þegar komið var með mjólkina heiman frá Brekku, voru taugateygjur sjúklingsins orðnar svo miklar, að ekkert viðlit var að koma henni ofan í hann. Þá var hann einnig búinn að missa alla rænu.
Rétt á eftir komu menn með brekán og báru Pétur heim að Brekku. Þar var hann lagður í rúm til hjúkrunar og afklæddur.
Þá var farið að draga úr flogunum og líkaminn allur að dofna upp. Öll von um það, að Pétri yrði bjargað, var þrotin.
Egill vildi ekki frá honum víkja fyrr en yfir væri lokið. Í fyrstu hafði hann tekið sér það nærri að þurfa að vera nálægt honum, en yfirunnið það von bráðar. Og nú var hann yfir honum sem deyjandi vini, í von um, að hann kynni að fá ráðið aftur, þó ekki væri nema sem snöggvast, og gæti sagt eitthvað.
En Pétur fékk ekki rænuna aftur. Þetta auma, meðvitundarlausa líf treindist að vísu fram eftir deginum, en smáslokknaði út. Flogin voru hætt, líkaminn kólnaði upp hægt og hægt og varð helblár um leið.
Egill sat á rúmstokknum fyrir framan hann og beið þess, að hann skildi við. Á meðan fór hann að blaða í bréfum þeim, sem verið höfðu í vasa Péturs.
Þar fann hann meðal annars bréfið, sem hann hafði verið að skrifa um morguninn. Það var skrifað á stóra pappírsörk, en ekki lagt í umslag. Rithönd Péturs var skýr og læsileg, og hvergi hafði höndin skolfið. Bréfið var auðsjáanlega ætlað þeim, sem fyndi það. Það byrjaði svo:
"Mér bregður ekkert við að taka inn eitur. Síðustu árin hefir margur bitinn verið eitraður, sem ég hefi kyngt niður. Þeir hafa brennt mig í kverkarnar og seytlað eins og eldur um æðar mínar. Gott er það, að enginn af þeim, sem mötuneyti hafa haft við mig, hefir fundið það sama.
Heimafólk mitt er allt saklaust. Enginn heima hjá mér hefir haft minnsta grun um ferðir mínar og athæfi."
Þar næst kom nákvæm og ítarleg skýrsla um þjófnaðinn í Bollagörðum frá þeim degi, er Pétur var fyrst við hann riðinn. Bar henni í öllu verulegu saman við það, sem Finnur hafði sagt fyrir réttinum.
Aftast í skýrslunni var skrá yfir allar þær kindur, sem teknar höfðu verið, með lýsing á eyrnamarki og hornamarki hverrar kindar, lit hennar og öllum einkennum. Þar kom það sama í ljós og áður í fylgsninu, að aðeins hafði verið tekið frá fjárríkustu bændunum.
Í niðurlagi bréfsins var komist svo að orði:
"Þetta eitur er ætlað sauðaþjófum, - ferfættum sauðaþjófum að vísu, en síðan ég fékk það undir hendur, hefi ég ætlað sjálfum mér það, þegar önnur sund væru lokuð. Þetta er ekki gert í fljótfærni. - Berið mig ekki heim til barnanna minna á meðan áhrif eitursins eru sýnileg. Nógu þungur mun þeim samt verða föðurmissirinn.
Öruggur og rólegur geng ég gegn örlögum mínum, og dauðinn vekur mér hvorki hroll né beyg. Lífið - ef líf skyldi kalla, þetta beiska, innibyrgða glæpalíf, - er ekki eftirsjónar vert. Ég trúi hvorki á sælu né útskúfun í hinu lífinu, og efast um að það sé til. En sé til dómstóll þeim megin dauðans, er hann eflaust hátt yfir þá jarðnesku hafinn.
Flytjið börnum mínum kveðju deyjandi föður. Nú eru þau falin á hendur góðvild og göfugmennsku vandalausra manna. Ég treysti því vel, að þau verði ekki látin gjalda þess, sem ég hefi gert. Og ef einhver hugsar hlýlega til mín, þá vona ég, að þau fái að njóta þess.
Forðist glæpi mína. Þeir eru of mikil áhætta og - of þung byrði."
Þannig endaði bréfið. Og á meðan Egill var að lesa það, kólnaði Pétur upp til fulls og síðustu lífsmörkin hurfu.
Þegar Egill sá, að hann var andaður, stóð hann á fætur, reikaði fram og aftur um baðstofugólfið og strauk af sér kaldan svita, sem stöðugt spratt fram á enninu á honum.
Þessar stundir höfðu verið einar meðal þeirra þyngstu, sem hann mundi eftir, og hann þurfti að taka á sér öllum til að stjórna geðshræringum sínum.
Hann var einn í baðstofunni hjá líkinu, og það var dauðakyrrð þar inni.
En þegar minnst varði, var sendimanni frá Hvammi vísað þangað inn. Hann átti að segja Agli þau tíðindi, að Borghildur hefði fengið aðsvif uppi í heiði og lægi þar.
Egill stóð um stund sem þrumu lostinn. Í rúminu að baki hans lá lík, og ef til vill lá nú annað uppi í heiði. Tvö systkini sama daginn, og það jafnsviplega, - það fannst honum líkara ævintýri en veruleika.Lengi hafði sambúðin við Borghildi verið honum sú byrði, sem honum lá við að vanmegnast undir. En nú, þegar helst leit út fyrir, að þessari byrði væri af honum létt, fann hann engan létti, en ekki til sorgar heldur. Skyldutilfinningin varð öllum öðrum tilfinningum ríkari; enda hafði mest á hana reynt um dagana.
Hér þurfti að hafast eitthvað að, og það undireins.
Menn voru þegar sendir á næstu bæi til að fá mannhjálp. Sendimaðurinn var aftur sendur heim að Hvammi, til þess að gera þar þær ráðstafanir, sem þyrfti, en Egill stefndi sjálfur til fjalla með þá menn, sem hann gat náð til í svipinn.
Eftir tilvísun sendimannsins frá Hvammi hafði þetta atvik borið að höndum einhvers staðar rétt hjá Bollagörðum, sem nú stóðu í eyði. Þangað hélt Egill. Þar fann hann konu sína liggjandi meðvitundarlausa á blautri jörðinni, rétt við túngarðinn. Þeir Ólafur í Heiðarhvammi og Siggi, fylgdarmaður hennar, sátu þar hjá henni, og höfðu lítið annað getað aðhafst en breiða ofan á hana og skýla henni fyrir regninu.
Fylgdarmaðurinn skýrði frá því í snatri, hvert þau hefðu farið um nóttina, og því, sem hann vissi um fund þeirra Péturs. Síðan hélt hann sögunni áfram.
Hann kvað Borghildi hafa verið óvenjulega sorgbitna, þegar hún fór frá Kroppi um morguninn; hann hefði aldrei séð manneskju nær komna algerðri sturlun. Á leiðinni hefði sett að henni ákafan grát hvað eftir annað. Samt hefði hún harkað af sér og viljað endilega sjá fylgsnið.
Hún hefði smogið ofan í hellinn og skoðað hann lengi innan án þess að mæla nokkurt orð. Þau hefðu kveikt á mörgum eldspýtum þar niðri.
Svo hefði hún farið á undan honum út. Og þótt gjótan væri þröng, hefði henni ekki gengið sérlega illa að komast út.
En rétt eftir að hún var komin út, hefði hún rekið upp lágt hljóð og hnigið niður.
Hann hefði þá verið að komast út úr hellinum og orðið of seinn til að grípa hana í fallinu. Þó gæti hann hvergi séð, að hún hefði meitt sig.
Þar hefði hann staðið ráðþrota litla stund og beðið þess, að hún raknaði við. Þegar það hefði ekki orðið, hefði hann búið um hana eftir bestu föngum og hlaupið síðan eins og fætur toguðu heim að Heiðarhvammi.
Þau Heiðarhvammshjón kvað hann hafa brugðið skjótlega við til hjálpar. Halla hefði falið Sölku börnin á hendur og hlaupið sjálf ofan að Hvammi til að segja tíðindin. En Ólafur hefði komið með honum. Þeir hefðu ætlað að koma Borghildi undir þak í Bollagarðakofunum, en orðið að hætta við það; hún hefði verið þyngri en svo, að þeir gætu farið nógu varlega með hana. Þeir hefðu heldur kosið að bíða fleiri manna.
- Það fyrsta, sem Egill lét gera, var að bera Borghildi heim í Bollagarðabaðstofuna, leggja hana í flet Settu og færa hana úr rennblautum reiðfötunum.
Borghildi hægðist um andardráttinn við það, að losna úr reiðfötunum. Hún var hvergi sár eða beinbrotin, aðeins svaf hún fast, óeðlilega fast.
Eftir nokkra stund komu fleiri menn með hesta og annan útbúnað. Kviktré voru búin út og lagt á stað með Borghildi á þeim heimleiðis. Allmargir menn voru með til aðstoðar og allt var gert til að verja sjúklinginn of miklum hristingi. Í rökkrinu um kvöldið kom hópurinn heim að Hvammi.
- Þetta kvöld var mikið um að vera í Hvammi. Fréttirnar frá Kroppi og Brekku fengu þar varla áheyrn fyrir áhuganum á því, hvernig húsfreyjunni liði, hvort hún væri lífs eða liðin og hvort nokkuð væri hægt að gera henni til bjargar.
En verulega, djúpa sorg vakti þessi atburður ekki hjá neinum, nema Borgu. Hún hafði alltaf unnað móður sinni og tók sér sjúkleika hennar mjög nærri. Ofan á það bættist missir móðurbróður hennar á svo sviplegan og átakanlegan hátt.
Hún gaf sér þó ekki tíma til að sinna sorg sinni. Annirnar margskiptu henni á milli sín. Bærinn var fullur af gestum, og einn þeirra var sýslumaðurinn; enginn gestur mátti fara beinalaus frá Hvammi. Föngunum þurfti einnig að sinna, vinnufólkið kvabbaði til hinnar ungu "húsmóður" og faðir hennar líka. En inni í rúminu lá sjúklingurinn, sem enginn vissi nema gæfi upp öndina þá og þegar.
Borga varð á lítilli stundu verki sínu vaxin. Það var eins og henni legðist það til, þegar á reyndi, sem hana hafði vantað til að geta færst jafnmikið í fang. Nú stóð hún í fyrsta skipti gagnvart hinni mikli alvöru lífsins: sorginni, ástvinamissinum og andstreyminu. Í fyrsta skipti varð hún að leggja fram alla krafta sína, andlega og líkamlega, og þeir reyndust meiri en hún sjálf hafði haldið. Skynsamlega og stillilega notaði hún alla krafta þjónustufólksins sér til aðstoðar. Þetta kvöld var höfuðbólið í fyrsta skipti falið forsjá hennar einnar, og hún stýrði því vel úr vandanum.
- Sýslumaðurinn gekk einsamall um gólf í stofunni og var í illu skapi. Hann þoldi varla við fyrir kulda, því að stormurinn stóð upp á gluggann hjá honum. Ekkert réttarhald hafði hann getað haldið um daginn, því að Egill var ekki heima. Seinni part dagsins hafði hann ekki séð heimafólkið nema á harðahlaupum. Það var liðið langt fram yfir þann tíma, sem hann var vanur að fá kvöldmatinn, og hann var farinn að hugsa um að hátta matarlaus.
Það bætti ekki úr sultinum, að hann vissi af brennivínsflösku, sem Egill átti, í lokuðum skápgarmi þar í stofunni. Um þetta leyti kvölds var Egill vanur að sitja inni hjá honum og klingja við hann staupum. Nú kom hann ekki, og sýslumaðurinn fór líka á mis við þessa blessaða hressingu. Raunar hefði hann ekki þurft nema einn fingur til að kippa opnum skápnum og ná í flöskuna og staupið, en hann gerði það þó ekki.
Loks kom Borga inn til að dúka borðið. Hún var þrútin í framan af gráti, stamaði fram einhverri afsökunarbón og gekk rösklega að verki sínu.
Rétt á eftir henni kom Egill, þungur á svip og þreytulegur. Hann settist á kistu í stofunni, bögglaði húfuna sína milli handanna og blés mæðilega.
"Hvernig líður húsfreyjunni?" spurði sýslumaður hálfhranalega.
"Minnist þér ekki á það," mælti Egill og hristi höfuðið. "Bagi er að læknisleysinu nú eins og oftar."
Sýslumaðurinn nam staðar á miðju gólfinu og mælti:
"Hvers vegna sækið þið ekki hann Steina minn? Hann á ekki nema eitt ár eftir til að taka embættispróf í læknisfræði. Hann ætti að geta gert eitthvað, sem vit væri í."
Borga hrökk saman, þegar hún heyrði hann nefndan. Síðan móðir hennar hafði ert hana á þessum manni, fannst henni hún ekki geta séð hann.
"Nei, pabbi minn. Til hvers væri að ómaka hann hingað - -?" mælti hún ofur lágt.
"Ómaka!" sagði sýslumaðurinn og hló við. "Ég held að ég telji ekki eftir honum annað eins ómak. Hann hefir gott af því að venjast ofur lítið landferðum að haustlagi, venjast vondum vegum og vondum ám og náttmyrkri og illviðrum. Ég læt það vera! Þetta verð ég að leggja á mig, maður á efra aldri. Þetta verður hann að gera, þegar hann er orðinn læknir, ef nokkur dugur á að verða í honum. Ef hann venur sig ekki við það ungur, þá gerir hann það aldrei."
Agli leist vel á þetta ráð og var sýslumanninum þakklátur fyrir það. Hann taldi sig ekki gera skyldu sína út í æsar, nema þetta væri einnig reynt.
Borga sá, að ekki tjáði að telja það úr, og þagði. Hún hugsaði einungis til þess, hvernig ætti að fara að koma fleiri slíkum gestum fyrir í bænum, svo að sæmilega færi um þá.
- Undireins um nóttina var maður sendur á stað með marga hesta til að sækja Aðalstein.
10. kafliBorghildur vaknaði aftur til jarðneska lífsins, en hún vaknaði ekki til þess lífs, sem hún hafði áður lifað.
Hún vaknaði ekki til mikillætis og mikilla umsvifa. Nú lá hún eins og brotin eik.
Hið ytra voru sjúkdómseinkennin þau, að hún var að mestu leyti máttvana öðrum megin. Vinstri handleggurinn og vinstri fóturinn voru afllausir, og andlitið vinstra megin sömuleiðis, svo að hún gat sama sem ekkert talað.
Hið innra, á sinninu, voru þó sjúkdómseinkennin miklu meiri. Þar lifði lítið af þeirri Borghildi, sem áður hafði verið.
Hún hafði fulla rænu, svo að henni var ljóst, hvernig ástatt var fyrir henni, og skynjan hennar skýrðist eftir hvern blund. En jafnframt jókst hin andlega vanheilsa.
Borghildur, sem varla nokkur maður hafði séð tárfella alla hennar ævi, sat nú upp við herðadýnu í rúmi sínu og grét og grét, hverja stund sem hún var vakandi.
Hún reyndi ekki að leyna því. Hún grét, hver sem inn kom og hve margir sem í kringum hana voru. Allar hugsanir hennar urðu henni að gráti og ama.
Það var eins og grátur heillar mannsævi, sem safnast hefði fyrir, brytist nú fram allur í einu.
Enginn vissi, af hverju hún grét, því að hún gat ekki talað. Og framan af varð ekkert ráðið af bendingum hennar, sem neitt vit var í. Þær líktust órakenndu angistarfálmi.
En þótt hún gæti ekki talað, gat hún sungið eða sönglað, ýmist með hálf- aflvana tungunni eða fram í nefið. Þetta gekk henni betur og betur með hverjum degi.
Um leið og Borghildur grét, var hún alltaf syngjandi, og söng alltaf sálmalög. Og svo mikið tæpti hún á orðum, að oftast mátti heyra, hvaða sálma hún var að syngja.
Það voru iðrunar- og angistarsálmar, sálmar um guðs reiði, dómsdag og ógnanir útskúfunarinnar, - rímaðir reiðilestrar.
Það voru sálmarnir, sem hún hafði sunguð kvöld eftir kvöld og sunnudag eftir sunnudag alla sína ævi, - sungið af guðræknisuppgerð, til að tolla í tískunni, látið inn um annað eyrað og út um hitt. Nú var þeim "slegið inn", eins og vant var að komast að orði um rauðu hundana. Það, sem henni hafði þótt mergjaðast í sálmunum, hafði setst að í henni án þess hún vissi verulega af því. Og það var allt um reiðiógnanir guðs, allt það, sem ásýnd Jehóva gamla, Gyðingaguðsins, birtist í.
Nú settust þessir sálmar að henni sjúkri eins og nagandi nöðrur og unntu henni einskis friðar. Þessi sundurlausi hendingahringlandi varð að kveinstöfum hennar undan sjúkdóminum, vanmættinum, sorginni og skömminni. Allar eymdarhugsanir hennar fæddust sönglandi.
- Síðan skurðgoðin hurfu úr sögunni, eru hugmyndir manna um guðdóminn jafnan nokkuð á reiki. Áður var svipur guðsins skorinn í tré eða meitlaður í stein. Þar stóð hann fastur, ótvíræður og óbreytilegur og brenndi sig inn í meðvitundina. Það gat aldrei munað miklu, hvernig menn skildu hann.
Aftur verður æðimörgum skotaskuld úr því að ríma saman þessa ellefu eða tólf eiginleika, sem kenndir eru í kverinu, og gera úr þeim einn guð, jafnvel þó að hann mætti vera þrískiptur.
Og víst er um það, að Borghildur hafði í raun og veru aldrei náð í nema einn af þessum eiginleikum: hið hegnandi réttlæti.
Sá guð, sem meistari Jón minntist svo víða á, einmitt þar sem honum tókst upp, - hann var hennar guð.
Hann var vinur vina sinna; en hann lét ekki að sér hæða. Reiði hans brann ofan til neðsta helvítis; hann lét jörðina gleypa andstæðinga sína lifandi, og afbrýðisamur var hann; enginn mátti aðra guði hafa.
Við slíkan stórguð hafði hún viljað halda vináttu. Hann átti að vernda hana og hennar fyrir því, sem henni þótti illt, styðja vilja hennar til sigurs og jafna á óvinum hennar. Hún hafði lagt inn hjá honum bænir og sálma, hugvekjur og postillulestra, sótt kirkjuna fullkomlega eins og aðrir og lagt siðalögmáli hans á jörðinni margt liðsyrði. Og þar að auki var hún prófastsdóttir.
Samt lá hún fallin fyrir reiði hans.
Því að ekki var hugsanlegt, að allt þetta dyndi yfir hana án hans vilja. - Nei, reiðarslag hans hafði hitt hana. Eitthvað hlaut hún að hafa gert honum á móti skapi, eitthvað meira en lítið. Eða var hann aðeins að sýna henni, hver hún væri, og jafnframt hver hann væri? Slíkri grimmd gat hún ekki á hann trúað, og þá hlaut þetta að vera hegning fyrir syndir hennar.
Og "húsfreyjan mikla" engdist eins og ánamaðkur af kvölum brennandi iðrunar.
Nú sá hún með hverri stundinni betur og betur, að allt hennar líf hafði verið spillt af synd og illsku, af drambi og sjálfselsku. Guði hafði hún selt svikna vöru með allri guðræknisuppgerðinni; hún hafði aldrei náð til hjartans og aldrei borið aðra ávexti en vaxandi sjálfselsku. Bónda sínum og börnum hafði hún verið grimmur harðstjóri, bróður sínum köld systir, og tortryggin og heiftrækin við alla aðra. Hvert beiskyrði, sem Halla í Heiðarhvammi hafði sagt við hana, var satt, en flestar aðrar manneskjur höfðu vafið sig upp að henni með flærð og fagurgala. - Nú voru syndagjöldin komin. Og hinn mikli "drottinn herskaranna" var þannig skapi farinn, að hægra var að styggja hann en blíðka.
Yfir þessum hugsunum grét Borghildur og kveinaði. Hver sálmahendingin kom fram í huga hennar eftir aðra, og allar héldu þær fyrir henni í speglum ásýnd hins reiða refsiguðs, - ásýnd, sem hún hefði fegin viljað byrgja andlit sitt fyrir.
Allt það, sem hún hafði lifað fyrir að undanförnu, var henni fjarlægt og ókunnugt, og ef hún minntist þess, var það aðeins til að gráta yfir því. Ekkert huggunaryrði fékk áheyrn hjá henni, og þegar henni voru sögð afdrif Péturs bróður hennar, hafði það engin áhrif á hana.
Samviskan var eins og annað í eðli hennar: hún var ráðrík. Lengi hafði hún verið látin þegja; en þegar hún tók nú loksins til máls, talaði hún hátt og skýrt og var ekki mjúkorð. Nú lét hún ekki hugvekjuhilluna, sem svignaði yfir rúmi húsfreyjunnar, góðverkayfirdrepsskapinn og ætternismetnaðinn þagga niður í sér. Hún hafði tekið sér dómsvald og birtist henni í gervi guðs.
- Borga sat hjá móður sinni öllum stundum, er hún fékk því við komið. Hún reyndi að hughreysta hana og telja um fyrir henni, þó að það bæri lítinn árangur.
Aðalsteinn læknisefni stundaði Borghildi með mestu alúð og vitjaði hennar oft á hverjum degi.
Egill hafði flutt sig úr baðstofunni, til þess að betur skyldi fara um sjúklinginn, og svaf úti á skemmulofti í rúmi Þorsteins síns.
Einn dag kom hann að máli við Aðalstein og spurði hann eftir sjúklingnum.
Aðalsteinn lét lítið yfir líðan Borghildar.
"Hafið þér von um nokkurn bata?"
"Já, - en ekki fullan bata. Ef ekki koma ný áföll, heldur batinn áfram, þó hægt fari. Og Borghildur er heilsuhraust að öðru leyti."
Egill starði hugsandi fram undan sér. Ekki mundi það gera byrðar hans léttari í bráð, ef kona hans yrði lengi jafnerfiður sjúklingur og hún var.
"Hvað haldið þér um orsakirnar?"
"Orsakirnar," sagði Aðalsteinn og hristi höfuðið. "Æðar geta sprungið í holdugum manneskjum á gamals aldri án þess óvenjulegra orsaka þurfi við. Geðshræringar eru meira en nóg."
"Það var líka voðalegt illviðri um nóttina."
"Illviðrið hefir orðið Borghildi til bjargar," mælti Aðalsteinn og brosti við. "Líklega hefði blætt meira inn í heilann, hefði ekki kuldinn og bleytan haft áhrif á blóðrásina. Og það, sem ég geri nú með köldum bökstrum og því líku, er ekkert annað en framhald af því, sem illviðrið gerði undireins."
Egill starði undrandi á eftir honum, þegar þeir slitu talinu. Margt nýstárlegt hafði hann heyrt um dagana, en alltaf bættist við. Undarlegir menn voru þessir læknar; aldrei urðu skoðanir þeirra annarra skoðunum samferða. Fyrst hafði þessi maður byrjað með því að leggja bakstrana hægra megin á höfuð sjúklingsins, þó að allir lifandi menn sæju, að aflleysið var vinstra megin. Blóðtöku vildi hann ekki heyra nefnda, sem áður hafði þó verið eina lækningin við þessum sjúkdómi, og loks þakkaði hann það illviðrinu, að Borghildur væri ekki dauð.
Frammi í bænum heyrðist líka grátur og harmasöngur. Hann kom úr fjósinu. Setta bar sig aumlega.
En sá grátur var ekki þrunginn iðrun og sjálfsásökun, heldur kvörtunum yfir því böli, sem hún yrði að bera, og þeim ójöfnuði, sem henni væri sýndur, - alsaklausri!
Þegar hún heyrði til einhvers við fjóshurðina, tók hún að gráta og kveina, þylja bænir og ákalla hefnd guðs yfir sýslumanninn og Egil - og helst alla veröldina.
Þorbjörn og Tómas, bræður hennar, voru báðir búnir að játa á sig glæpi sína. Við það bættist skýrsla Péturs á Kroppi. Setta var sjálf orðin svo ramflækt í missögnum, að hún kom engu orði við fyrir réttinum. En hún þrætti samt.
Hún efaðist ekki um, að hún yrði dæmd og henni hegnt, hvað sem hún segði. Og þó að hún gæti engrar vægðar aflað sér hjá sýslumanninum eða Agli með látum sínum, þá gat hún þó kannske blekkt vinnufólkið, og það var betra en ekki neitt.
En vinnufólkið lét ekki blekkjast heldur, og Setta hafði ekkert annað en skapraun að krókódílatárum sínum.
- Sýslumaður hélt réttarhöldunum áfram. Hann vildi komast eftir, hvort ekki væru meiri sakir en þegar voru komnar í ljós.
Honum fannst þetta líkjast því, að hann væri að skera illkynjað átumein af sýslunni, og hann vildi vera viss um að ná fyrir alla anga.
Allir þeir menn voru kallaðir fyrir réttinn, sem nokkrar líkur voru til, að komist hefðu að athæfinu í Bollagörðum. Þar á meðal þau Heiðarhvammshjón, Ólafur og Halla.
Ólafur var einna fróðastur. En það, sem hann vissi, hafði hann sagt Agli jafnóðum. Það var allt of sundurlaust til þess, að á því yrði byggð kæra.
Nú hafði blessað fólkið í sveitinni nóg til að tala um í bráðina. Annað eins og þetta hafði það lengi vantað.Það var líkt öðrum börnum Adams og Evu í því, að það hafði ríka tilhneigingu til að hugsa lítið, en tala mikið.
Frá Hvammi bárust fréttirnar daglega út um sveitina. Margir gerðu sér ferðir þangað heim, þó að lítið væri erindið, og reyndu um leið að ná í framhald af sögunni. Og það var setið um smalamanninn frá Hvammi, hvar sem hann var í landareigninni, til að fá af honum fréttir.
Þessi almenna viðleitni bar þann árangur, að alltaf bárust nokkurn veginn ljósar fregnir af öllu, sem gerðist í Hvammi, heim á hvern bæ í sveitinni.
Og öll sveitin var búin að dæma í þjófnaðarmálinu löngu á undan sýslumanninum. Það var gert jafnóðum.
- Sárast af öllu því, sem út spurðist, þótti mönnum fráfall Péturs á Kroppi.
Engum var svo mikið í nöp við hann, að þeir vildu óska honum þeirra óheilla, sem hann hafði ratað í, og þessara æviloka. Jafnvel þeir, sem hann hafði oftast ert og gert grama, könnuðust allir við hæfileika hans og töldu að honum mikinn mannskaða.
Mjög var tekið að dofna yfir þeim sið, að vista þá alla hjá kölska, sem lögðu hönd á sjálfa sig. Samt stóð mönnum ónotastuggur af sjálfsmorði; enda hafði það ekki komið fyrir þar í sveitinni í manna minnum.
Og nú mundu menn eftir einhverju eldgömlu kirkjulagaákvæði um það, að ekki mætti grafa þá menn í vígðri mold, sem styttu sér sjálfir aldur, og ekki mætti hafa yfir þeim líkræður né yfirsöngva.
En það var hverju mannsbarni í sveitinni ofraun að hugsa til þess, að Pétur frá Kroppi yrði urðaður utan garðs yfirsöngvalaust, eins og rakki.
Hér var úr vöndu að ráða. Því að ekki voru menn aðeins búnir að frétta það, á hvern hátt hann hefði dáið, heldur einnig öll smáatvik við fráfall hans.
Ráðið kom þó, og enginn vissi, hvernig það kom. Það var sama ráðið, sem alls staðar er notað, þar sem lögin eru vitlaus og ranglát að áliti almennings: Menn loka fyrir þeim augunum.
Hvar var sönnun fyrir því, að Pétur hefði tekið inn eitur? Hver hafði séð hann gera það? Hver var viðstaddur dauða hans, sem hafði vit á þessu?
Pétri hafði orðið snögglega illt á milli bæja, og úr þeirri veiki hafði hann dáið samdægurs. Þetta eitt var hægt að sanna.
Bréfið, sem hann hafði skrifað á dánardægri, var í höndum Egils og einskis annars. Það hafði verið ætlað honum, öllum öðrum fremur, og hann geymdi það sem minjagrip. Afrit af sjálfri skýrslunni um þjófnaðinn var notað í réttinum; þar þurfti ekki á meiru að halda.
Presturinn sá, hve óvinsælt það mundi verða að neita Pétri um legstað í kristinna manna reit. Hann þvoði hendur sínar framan í kirkjuvöldunum bæði á himni og jörðu og sagði í hjarta sínu: Mig vantar sannanir.
Þegar búið var að dáleiða sannleikann nógu rækilega, var Pétur grafinn, að viðstöddu miklu fjölmenni, við hliðina á leiði föður síns, skammt frá kirkjudyrunum.
Svo brostu menn að því í kyrrþey, að Pétur hefði stigið yfir lögin - bæði lífs og liðinn!
- Það, sem næst lá fyrir og ekki mátti fresta, var að ráðsfafa heimilisfólki Péturs. Það veittist léttar en nokkurn mann hafði grunað. Fleiri sóttust um að taka börnin til fósturs en gátu fengið þau. Og þegar börn voru tekin til fósturs í Dalasveit, þá þurfti enginn að óttast, að þeim væru ætluð kjör niðursetninganna.
Eldri systkinin tvö fóru heim að Hvammi. Egill hélt, að þau mundu varla éta sig út á húsganginn, þangað til þau kæmust úr ómegð. Presturinn tók yngri drenginn að sér. En Margrét á Brekku skipaði Steinunni dóttur sinni að taka yngsta barnið og reynast því almennilega. Hún ætti að muna hvernig Pétur heitinn hefði skemmt gestunum í veislunni hennar. - Sjálf hafði þó Margrét það meira fyrir augum, hvað Borghildi mundi þóknast best. Hún þekkti þá vinkonu sína illa, ef hún yndi því vel, að bróðurbörn hennar væru á sveitinni.
"Hjúum" Péturs varð erfiðara að koma fyrir. Þar þurfti að leita til sveitarinnar.
- Þeir tengdafeðurnir nýorðnu, Sigvaldi á Brekku og Sveinn "gufa", tóku þegar að semja um kaup á Kroppi handa Ásmundi.
En heima í Hvammi gerðust önnur ævintýri þessa dagana, sem ekki bárust út um sveitina.Þau gerðust við rúm Borghildar.
Yfir þessu aðalbóli eymdarinnar og angistarinnar lék lífið einn af glettnisleikjum sínum.
Og leikendurnir voru: "sýslumannssonur og prófastsdótturdóttir".
Borga hafði kviðið fyrir komu Aðalsteins á heimilið, og eftir að hann var kominn sneiddi hún hjá honum eins og hún framast gat.
Þau sáust sjaldan annars staðar en við rúm Borghildar, en þar sáust þau oft. Annars staðar en þar töluðu þau varla stakt orð saman. Og ef Borga sá sér færi, smeygði hún sér burtu, þegar hann kom inn í herbergið til móður hennar.
Það tókst henni þó ekki nærri því alltaf, og ekki varð hjá því komist, að þau töluðust við. Þó var synd að segja, að saman drægi með þeim.
Hann kom því oftar, sem sjúklingnum skánaði betur. Hann gekk kunnuglega út og inn um bæinn, eins og hann væri þar upp alinn, og var orðinn málkunnugur öllum á heimilinu - nema Borgu.
Hvar sem hann sá hana, úti eða inni, yrti hann glaðlega og kunnuglega á hana, og lét það ekki á sig fá, þó að hún tæki því þurrlega.
Borga tók sér þetta svo nærri, að hún fékk sárustu óbeit á honum. Henni fannst hún sjá í hverju orði hans snörur, sem hann væri að leggja fyrir hana.
Enginn hafði séð hana jafndapra og alvarlega eins og þessa daga.
Hún barðist við stöðuga óró í sjálfri sér, stöðugan kvíða og ótta, sem hún gat þó ekki gert sér grein fyrir. Og þetta æstist í hvert sinn, sem hún sá Aðalstein.
- Aðalsteinn var ekki eins ósnortinn af örvum Kúpídós og Borga.
Mesti ungæðishátturinn á ástamálum hans hafði blossað upp á skólaárunum, og þær skýjadísir, sem hann hafði þá tilbeðið í innstu fylgsnum hugrenninga sinna, voru fyrir löngu orðnar að lofti.
Síðan hafði hann vaxið upp úr öllum ástargrillum eins og fermingarfötunum sínum og stundaði námið af miklum dugnaði.
Nú þegar hann sá fyrir endann á náminu, fór hann að hugsa um að kvongast.
Hann gerði fastlega ráð fyrir því, að það ætti fyrir sér að liggja að verða héraðslæknir til sveita á Íslandi. Ekkert var því hyggilegra fyrir hann en að líta vel í kringum sig meðal sveitastúlknanna. Og þetta gerði hann rækilega á ferðum sínum um sveitirnar.
Síðan hann sá Borgu í hlaðvarpanum á Brekku, var mynd hennar meðal fleiri yndislegra andlita, sem hann hafði í huganum. Þau kepptu öll um hæstu verðlaunin, og var meira en vafasamt, hvernig sá leikur lyktaði.
Yfir þessum broshýru, blómlegu andlitum sat hann í næði, eftir að faðir hans var farinn að heiman. Hann var að reyna að lesa út úr þeim það, sem hann vildi vita og þurfti að vita um konuefnið sitt.
Þá var sent eftir honum frá Hvammi.
Hugurinn bar hann hálfa leið, því að nú ásetti hann sér að kynnast Borgu.
Kynni hans af henni leiddu fljótt til fastrar fullvissu um það, að hún væri sá kvenkostur, að fáir gæfust betri. Ætt hennar og efnahagur gat ekki heldur verið því til fyrirstöðu, að ráðahagurinn tækist.
Framkoma hennar gagnvart honum vakti hjá honum tvennt í einu: ást og virðingu. Hann skildi það vel, að kuldinn var vörn hennar, eins og vafurlogarnir um skemmu Brynhildar. Þeim mun hlýrri væri faðmurinn, þegar þrautin væri unnin. Eftir fáa daga var hann orðinn fastur í ásetningi sínum.
Hann dró þó að láta til skarar skríða þar til undir það síðasta, - svo viss var hann um sigurinn.
- Honum leiddist sakamálsstaglið í stofunni hjá föður sínum, en þar var honum þó eiginlega ætlað að vera. Oft var hann þá úti við og skoðaði sig um á höfuðbólinu, eða gekk upp á núpinn og leit yfir landið. En alltaf dró hugurinn hann heim í baðstofuna til sjúklingsins - og Borgu.
Og eitt sinn, þegar hann var að hjálpa Borgu til að hagræða sjúklingnum, hvíslaði hann að henni, að hann bæði hana að finna sig seinna um daginn úti við.
Borga játti því í hugsunarleysi.
Borghildur varð einskis vör um það, sem þeim fór á milli. Hún sönglaði fyrir munni sér um "svipu lögmálsins", sem "lamdi líf og sál heldur frekt", og "hnút kvalanna", sem "kramdi".
- Allan daginn var Borga að hugsa um að svíkjast um þetta.
Þó kom hún til stefnumótsins og gekk með Aðalsteini dálítinn spöl burtu frá bænum.
Það var engum erfiðleikum bundið fyrir þau að skilja hvort annað. Borga gekk við hlið hans sem í sælli leiðslu og hlustaði á bónorð hans. Hún tók ekkert eftir því, hvert þau gengu, og skeytti ekkert um það, þó að hún vissi, að til þeirra sæist frá bænum.
Í rökkrinu um kvöldið komu þau aftur heim að bænum og voru þá trúlofuð.
- Þeir Egill og sýslumaðurinn voru þá búnir að kveikja ljós í stofunni. Þar sátu þeir yfir staupum sínum og ræddu áhugamál sín.
Í þetta skipti var áhugamálið það, hvar heppilegast mundi vera að hafa lækninn búsettan í hinu nýja læknishéraði, sem alþingi hafði verið svo náðugt að stofna þar í sveitunum.
Sýslumaðurinn hélt því fram, að hann væri best settur einmitt í Dalasveit.
Egill taldi tormerki á því, að hægt yrði að útvega honum jarðnæði þar í sveitinni. Þar væru flestar skástu jarðirnar bændaeignir. Og af þeim jörðum, sem ekki væru það, mundi verða erfitt að fá ábúendurna til að standa upp.
- Aðalsteinn og Borga námu staðar frammi á hlaðinu og horfðu á feður sína inn um gluggana.
"Nú skulum við koma inn í stofu til gömlu mannanna," mælti Aðalsteinn brosandi.
"Nei, ekki núna," mælti Borga og færðist undan.
"Jú, einmitt núna. Við pabbi förum kannske héðan á morgun eða hinn daginn."
Borga leit framan í unnusta sinn og sá, að honum var full alvara. - Nú skildi hún ekki, hvernig hún hafði getað hugsað það um þennan mann, að hann væri léttúðugur veiðimaður, sem legði snörur fyrir saklausar stúlkur.
Hún rétti honum höndina, og ást og traust lýsti sér í brosi hennar.
- Augun í sýslumanninum urðu kringlótt, þegar hann sá þau Aðalstein og Borgu haldast í hendur á gólfinu fyrir framan sig.
Aðalsteinn var glettnislegur á svipinn, - viss um síðasta sigurinn. Borga var kafrjóð og þorði varla að líta upp.
Sýslumaður stóð upp og mælti til Egils:
"Þetta sagði ég undireins, að hann hlyti að geta gert eitthvað, sem vit væri í! Hvernig líst yður á? Eigum við ekki að óska þeim til hamingju?"
Egill kom engu orði upp. Það lá við, að hann gréti af fögnuði.
"Þeirra skál drekkum við! - Við drekkum hana seinna í einhverju ljúffengara. - Haldið þér, að við verðum ráðalausir með jarðnæði handa lækninum, ef Aðalsteinn skyldi fá héraðið? - Eigum við annars ekki að hætta að þérast, - við karlarnir, - fyrst krakkarnir okkar hafa tekið upp á þessu? Skál, Egill minn! Komdu blessaður og sæll."
Gleðinni brá snöggvast fyrir eins og leiftri í augum Borghildar, þegar þau Aðalsteinn og Borga komu til hennar og báðu um blessun hennar.En það var ekki nema snöggvast. Gleðin kulnaði út, svipurinn myrkvaðist og Borghildur hvarf aftur til táradala sinna.
Þessi atburður kom of seint til að veita sál hennar frið og svölun. Nú var það allt annað, sem hún þráði.
Borga stóð ráðþrota hjá henni, eftir að Aðalsteinn var farinn. Hún hafði búist við, að móðir hennar fagnaði þessum tíðindum, og varð nú fyrir beiskum vonbrigðum.
Lengi var Borghildur að reyna að stama einhverju fram, sem hún vildi koma dóttur sinni í skilning um, en gat það ekki fyrir gráti.
Loks skildi þó Borga hvað það var:
"Biddu Höllu í Heiðarhvammi að finna mig."
11. kafliFagrir haustdagar hafa á sér mildan alvörublæ. Það er ekki fuglasöngur og blómailmur, sem einkennir þá, ekki von og glaðværð, heldur þögn og visnun.
Móarnir eru orðnir dökkir, grundirnar gular og engin sinugrá. Á hverjum polli er glær skán eftir nóttina. Fjöllin kemba hvíta lokka og himinninn er þungbrýnn og loðbrýnn.
En himinennið er bjart og mikið, þótt brúnasvipurinn sé þungur. Aldrei hefir himinninn fleiri og fegurri litabreytingar en þá. Aldrei er hann blágrænni, aldrei fagurgulari, aldrei með jafnyndislegum eldblæ niðri við sjóndeildarhringinn; aldrei eru skýin jafnfagurlega glófext og aldrei eru sólsetrin dýrðlegri.
Það er góður öldungur, sumarið, sem þar er að ganga frá völdum. Og veturinn er oft mildur og þokkasæll, á meðan hann er á ómyndugsaldri.
- - Það var einn slíkan haustdag, sem Halla í Heiðarhvammi fékk þau orð frá Borgu í Hvammi, að hún bæði hana að finna sig.
Borga lét orðsendinguna hljóða svo. Hún var hrædd um, að Halla mundi ekki fást til að koma, ef henni kæmu orð frá móður hennar. Þess vegna bað hún hana að finna sig.
Halla brá við undireins og fór gangandi ofan að Hvammi.
Borga tók henni forkunnarvel, mælti við hana einmæli um stund og sagði henni í trúnaði frá einkamálum sínum.
"Nú ætla ég að heita á þig mér til heilla," sagði hún og brosti af hjartanlegri ánægju. "Ef Aðalsteinn fær þetta læknishérað og sest að í Hvammi, þá skal ég lengi láta þig njóta þess."
Halla þakkaði fyrir þessi ummæli, en beið þess með óþreyju, að Borga segði henni, hvers vegna hún hefði beðið hana að finna sig.
Loks sagði Borga henni erindið og bað hana að gera það fyrir sín orð, að tala við móður sína.
Halla tók því þunglega og sá eftir því, að hún hafði að heiman farið. Þó var hún hrædd um, að illa mundi það mælast fyrir, ef hún neitaði að koma til Borghildar í eymd hennar.
Borga fylgdi henni inn í húsbændaherbergið í baðstofunni. Þar sat Borghildur upp við herðadýnu í rúmi sínu og bar handlegginn í fatla.
Halla nam staðar frammi við dyrnar og horfði hvasst á Borghildi. Hana sárlangaði til að ganga beint að henni og hrækja framan í hana.
Borghildur starði á hana sljóum augum og þagði langa stund. Hún hafði megrast mikið í andliti og svipdrættirnir voru hálfmáðir út. Hárið hafði gránað mjög og hvarmarnir voru rauðir af langvinnum gráti. Vinstra megin héngu allir andlitsvöðvarnir aflvana niður og hörundið hafði einkennilegan roðablæ.
Síðan fundum þeirra Höllu og Borghildar bar síðast saman, hafði Halla hatað hana, - hatað hana meira en nokkuð annað, og hugsað um það eitt, að hefna sín á henni einhvern tíma og á einhvern hátt. Þá hafði hún ekki getað um annað hugsað en það, hve harðýðgislega og illyrmislega þessi kona hafði móðgað hana hvað eftir annað í fátækt hennar og einstæðingsskap. Og þegar hún lagði á sig ómak hennar vegna, fyrir fám dögum, var það ekki af því, að henni stæði ekki á sama, hver kjör Borghildar urðu, heldur til að fullnægja almennri siðferðiskröfu.
En nú, er hún stóð frammi fyrir henni og gat virt hana fyrir sér, eins og hún var nú á sig komin, þá laut hatrið í lægra haldi fyrir öðrum göfugri tilfinningum.
Hún gat ekki annað en hugsað út í það, hver undur þessi manneskja hefði hlotið að líða, áður en hún var orðin þannig. - Þessi Borghildur, sem hún horfði nú á, var ekki annað en lítilfjörlegar leifar þeirrar Borghildar, sem nýlega hafði heimsótt Heiðarhvamm. Hún hafði brunnið upp í eldi harma sinna.
Aldrei hafði Höllu komið það til hugar, að hún mundi sjá Borghildi svo aumlega stadda.
Borghildur benti með heilbrigðu hendinni á máttvana handlegginn og reyndi að segja eitthvað. Tárin streymdu niður kinnarnar á henni.
"Hún er að sýna þér, hvílíkur aumingi hún sé orðin," mælti Borga. "Hún er að reyna að segja, að þannig hafi hönd drottins hitt sig."
Halla komst svo við, að augu hennar fylltust af tárum.
Borghildur rétti fram höndina og kvakaði eins og fugl.
"Hún er að biðja þig að fyrirgefa sér, það sem hún hefir gert á hluta þinn. - Líttu á! Hún er að biðja þig fyrirgefningar."
"Já, já," kvakaði Borghildur og tárin streymdu örar.
Höllu var allri lokið. Hún tók um hönd Borghildar og kraup niður við rúmstokkinn hjá henni.
Borghildur vafði handleggnum utan um hana, þrýsti henni upp að sér eins og kærri dóttur og endurtók hvað eftir annað, með veikum og skjálfandi rómi og nærri því óskiljanlegum orðum:
"Fyrirgefðu mér, fyrirgefðu mér!"
"Já, ég fyrirgef þér," mælti Halla með klökkum rómi.
Hún fann það á öllu, að bæn Borghildar kom frá hjartanu og leitaði hjartans.
Borghildur fann það einnig, að Halla var henni ekki reið lengur. Í fyrsta sinn um langan tíma fann hún til friðar í sálu sinni.
Í fyrsta skipti fannst henni rofa til fyrir hærri veröld, - ofan við reiðisvipi erfikenninganna, ofan við myrkviðri hótananna.
Þar var útbreiddur faðmur hans, sem sagði: "Komið til mín allir þér, sem erfiðið og þunga eruð hlaðnir -." Allir, - enginn undan skilinn.
Þetta hafði hún ekki skilið fyrr en nú.
Allslaus, auðmjúk og iðrandi átti hún að koma, sátt við alla, sem hún hafði misgert við, jöfn aumustu vesalingunum, sem hún þekkti. Blessunarbænir þurftu að fylgja henni frá jörðunni, og tár þeirra, sem söknuðu hennar, þurftu að lýsa henni leiðina. Annars var engin von um aðgang.
Kröfur kærleikans voru strangar, en himneskar voru þær í eðli sínu. Ekkert var þeim andstæðara en sjálfselska og oflæti.
- Borghildur hélt Höllu lengi uppi við barm sinn, eins og hún væri hrædd um að missa af fyrirgefningu hennar, ef hún sleppti henni.
Meðan Halla dvaldi hjá Borghildi var hún rólegri en hún hafði nokkurn tíma verið, síðan hún veiktist. Hún minntist á Þorstein sinn, sem nú væri kominn til annarra landa, og þakkaði Höllu fyrir það, hvernig hún hafði reynst honum. Og hún minntist á það grátandi, hve illa hún hafði reynst Jóhönnu sáluðu. - Borga skýrði það fyrir Höllu jafnóðum, sem móðir hennar sagði; hún var farin að venjast máli hennar:
Þegar Halla fór, skildu þær bestu vinkonur, og Borghildur leysti hana út með gjöfum.
Borga gekk með henni frá bænum og mælti við hana, þegar þær kvöddust:
"Ég vissi ekki, hvað mamma vildi þér; þegar hún bað mig að senda eftir þér, en nú sé ég ekki eftir því, að hafa gert það. Vertu viss um það, að mamma gleymir ekki þessari stundu, ef hún kemur til heilsu aftur. Og ef hún fellur frá, þá veit ég, hvaða hugarþel til þín hún lætur mér í arf. Mundu mig um það, að leita fyrst til okkar, ef þér liggur á."
- Á leiðinni upp yfir hálsinn gat Halla ekki um annað hugsað en þennan óvænta og einkennilega fund þeirra Borghildar.
Þessu hefði hún aldrei getað trúað, - ekki þó að rödd af himni hefði sagt henni það fyrir.
Að hún gæti einhvern tíma hefnt sín á Borghildi, bakað henni álíka skapraun og hún hafði þolað af hennar völdum, það skildist henni, að fyrir hefði getað komið. Hún hefði auk heldur getað verið búin að því, hefði hún viljað hafa sig til einhvers illvirkis.
En þetta, að Borghildur bæði hana fyrirgefningar, var langt yfir alla hefnd hafið.
Á einum stað á hálsinum settist hún niður og naut veðurblíðunnar.
Yfir henni hvelfdist hausthiminninn, hár og hátignarlegur, með hverja blikuna annarri litfríðari. Allt í kringum hana var hljóðleiki og rósemi, - sátt og friður í ríki náttúrunnar eftir storma og hamfarir undangenginna daga.
Friður og rósemi gagntók huga hennar, meiri og innilegri rósemi en hún hafði nokkurn tíma fundið til áður. Hún hafði unnið mikinn sigur yfir sjálfri sér, upprætt hatrið, gremjuna og hefndarþrána úr hjarta sínu, vaxið upp úr algengum, mannlegum breyskleika og nálgast til muna fyrirmynd allrar sannrar göfgi.
Hún hafði fyrirgefið.
Egill lét tvo menn vera í Heiðarhvammi nokkra daga og hressa það við, sem Borghildur hafði fært úr lagi. Jafnframt áttu þeir að dytta þar að húsakynnum.Borghildur lét teyma unga kú, snemmbæra, upp að Heiðarhvammi, sem hún sendi Höllu að gjöf. Hún lét þá orðsending fylgja, að af því að ekki mundi hafa verið við þessum vetrargesti búist, ætlaði hún að senda fáeina hesta af töðu seinna. Allir vissu, að með því var átt við kýrfóðrið milli grænna grasa.
Bú þeirra Ólafs og Höllu komst nú varla fyrir í Heiðarhvammi.
- Einn dag, skömmu eftir fund þeirra Borghildar, þurfti Halla ofan að Brekku með Halldór litla son sinn. Þar var börnum stefnt saman til bólusetningar.
Það var búið um drenginn í söðli á hestbaki, en Halla gekk og teymdi undir honum.
Á Brekku voru margar fleiri konur aðkomandi með börn sín.
Það hafði flogið eins og eldur í sinu út um alla sveitina, að Borghildur í Hvammi hefði sent eftir Höllu og beðið hana fyrirgefningar. Og nú var henni tekið öðruvísi en þegar hún kom til kirkjunnar í fyrsta skipti.
Allar höfðu húsfreyjurnar hugsað það sama um hana og Borghildur, - og allar skömmuðust þær sín nú fyrir það í kyrrþey.
Nú sinntu þær engu eins mikið og henni, töluðu við hana og vottuðu henni vináttu sína og samhygð. Þær voru í raun og veru allar að biðja hana fyrirgefningar, - Margrét ekki síst.
Það helsta, sem var að frétta frá Hvammi, var, að sýslumaðurinn ætlaði heimleiðis daginn eftir. Það fylgdi þeirri sögu, að hann ætlaði að hafa þau systkinin, Þorbjörn og Settu, heim með sér til gæslu, en Egill ætlaði að hafa Tómas og Finn um sinn.
Trúlofun þeirra Aðalsteins og Borgu var enn þá leyndarmál.
Af Borghildi var það að frétta, að henni færi batnandi dag frá degi, að henni væri skaprórra og að hún talaði nú varla um annað en Þorstein sinn.
- - Þennan sama dag undir kvöldið átti að vera uppboð á eftirlátnum reytum Péturs á Kroppi. Halla gerði ráð fyrir að hitta Ólaf þar, og fór því þá leiðina frá Brekku.
Þegar hún kom að Kroppi, skildi hún hestinn eftir utan garðs og leiddi drenginn við hönd sér heim að bænum.
Þar stóðu menn í þéttum hóp á hlaðinu. Egill stóð uppi á kassa við bæjardyrnar og bauð þá muni upp, sem honum voru réttir út.
Halla nam staðar utan við hópinn og hélt um höndina á sveininum.
Á meðal þeirra manna, sem hún kom auga á, var Ólafur þófari og Þorlákur sonur hans.
Ólafur þófari var rauður og þrútinn um augun, og stóð brennivínsflaska upp úr vasa hans. Ekki stóð hann lengi kyrr í einu, en kallaði hvern eftir annan með sér á hvarf út fyrir bæjarvegginn.
Þorlákur var líka rauður í framan og stareygður; hann hafði fengið sinn skerf úr flöskunni. Hann stóð í sömu sporunum og einblíndi fram undan sér, eins og hann hálfsvæfi.
Eitt sinn, er Ólafur þófari var utan við vegginn, var rétt út til uppboðs fíólín Péturs heitins.
Þorlákur vaknaði. Hann minntist þess, hvernig snúið hafði verið á hann með þessu undrahljóðfæri í Brekkuveislunni.
Egill hélt fíólíninu hátt, svo að allir gætu séð það. Það var í sama ástandi eins og þegar Pétur fór með það úr Brekkustofunni, einn strengurinn var slitinn.
"50 aurar boðnir," hrópaði Þorlákur.
Menn litu til Þorláks, og sumir höfðu orð á því, hvað hann hefði að gera með þetta hljóðfæri. Enginn bauð á móti honum og hann dauðlangaði til að taka aftur boðið.
Honum var slegið fíólínið og rétt það með þeim ummælum, að nú gæti hann spilað á tvö hljóðfærin í einu.
Þorlákur tók við hljóðfærinu, leit á það í krók og kring og brosti einfeldnislega.
Í því kom faðir hans aftur fram á hlaðið.
"Hefirðu keypt þennan fjanda, Þorlákur? - Hvað ætlarðu að gera við þetta? Þú átt harmóniku, drengur. Fleygðu þessu, hrófið mitt, og kauptu þér heldur góða harmóniku. Ég skal borga fyrir þig boðið."
Þorlákur stóð orðlaus og var á báðum áttum.
Ólafur þófari færði sig nær honum og mælti:
"Þetta hljóðfæri varð Pétri heitnum á Kroppi til lítillar gæfu. Fleygðu því - eða gefðu krakkanum þarna það til að leika sér að því."
Þetta síðasta lét Þorlákur sér að kenningu verða og rétti Halldóri litla fíólínið að gjöf.
Drengurinn tók um "hálsinn" á fíólíninu og reiddi það til höggs eins og barefli. Strengirnir skulfu og bolurinn stundi við eins og af ekka.
"Þetta fylgir víst fíólíninu," var kallað frá dyrunum og bogi og stokkur rétt út. Þorlákur lét einnig rétta Halldóri litla það sem viðbót við "leikföngin".
Drengurinn stóð hissa og ráðalaus yfir öllum þessum gjöfum. Þetta var honum helst til mikið í einu.
"Fáðu mér nú hljóðfærið þitt, drengur minn," mælti Halla, "ég ætla að geyma það þangað til þú verður stór. Kannske það geti þá orðið þér að notum."
En Halldór litli vildi síst af öllu sleppa "bareflinu" sínu. Halla varð að taka það af honum.
Fíólínið var illa til reika. En hvað lítið, sem við það kom, söng í því með hljómþýðum, stynjandi hreim.
Það söng árangurslaust á þessu þingi. Enginn veitti söng þess áheyrn. Og nú kærði enginn sig um að minnast þess, hvernig það hefði sungið í höndunum á Pétri heitnum.
Hér var harmónikan talin betri!
Enginn af þeim, sem þarna voru viðstaddir, þekkti undramagn það, sem fólgið lá í þessu litla, yfirlætislausa hljóðfæri. Hinn dásamlegi drottinn sönglistarinnar hefir svo sjaldan litið í náð sinni til Íslands. Enginn þekkti þá voldugu anda, sem fylgdu þessum fjórum strengjum; enginn þekkti áragarðinn og englaríkið, sem blundaði þar hvort við annars hlið; enginn þekkti það hyldýpi sorgar og kveinstafa, eða þann himin sælu og blíðu, sem það gat lokið upp. - Enginn þekkti þá veröld, sem komist gat fyrir í þessu litla fylgsni.