HEIÐARBÝLIÐ II   -  (GRENJASKYTTAN)

eftir Jón Trausta




1. kafli

Suðvestan-hlákuvindur þyrlaði vatninu út eftir ísnum á Hvammsvatni og gerði djúpa blá við norðurlandið. Vatnsýrurnar ruku upp um hlaðvarpann í Hvammi og heim á bæinn, svo að þilin voru rennvot.

Túnið var mikið til autt og rindarnir í fjallsrótunum, en spegilgljáandi svell í öllum lautum. Kindurnar hnöppuðu sig á auðu blettunum, en treystu sér varla að leggja á svellin. Stormhviðurnar ýfðu á þeim ullina, svo að skein í beran bjórinn, og keyrðu þær saman í keng. - Jafnvel hundarnir áttu fullerfitt með að koma fyrir sig löppunum.

Þetta var seint á þorra og seint á degi, nýfarið að bregða birtu. Egil hreppstjóra stórfurðaði á því, að enginn var farinn að tína skepnurnar heim undir húsin og láta þær inn; þær voru nú búnar að viðra sig vel, en gerðu sér ekkert gagn úti í slíku hvassviðri.

Bærinn stóð á sléttum bala frammi við vatnið, en túnið fór hækkandi upp að fjallinu. Það var hólótt, en hvergi þýft. Nú voru hólarnir auðir hólmar á milli svellasundanna. Ofan til á túninu voru stórir staksteinar til og frá, sem einhvern tíma höfðu hrunið úr núpnum. Sumir voru hálfsokknir í jörð og grasi grónir að ofan.

Á einum hólnum uppi undir fjallinu, sniðhallt upp frá bænum, stóð fjárhús mikið með hlöðu bak við. Dyr voru úr hlöðunni gegnum fjárhússtafninn fram í garðann.

Í hlöðu þessari var geymd kúataða. Geil var komin inn með veggnum, en töðustálið stóð í miðri hlöðunni. Í geil þessari var maður að bögglast við að hengja sig.

Það var Þorbjörn "Króka-Refur."

Hrútur hafði verið afkróaður innst í annarri krónni frammi í fjárhúsinu. Það var gert með þeim hætti, að rengla var rekin út í vegginn og lögð um þvera króna, en bundin síðan við garðabandið. Undir renglunni var reist upp færikvíagrind og bundin við hana. Innst í þessari afkró var hrúturinn bundinn við stoð með sterkum fléttingi.

Þorbjörn hafði leyst rengluna og skutlað henni inn í hlöðuna. Grindina lét hann falla flata í króna. Því næst hafði hann lagt í það stórræði að leysa bandið af hrútnum. Það var meiri mannraun en fást við rengluna. Bekrar eru oft geðvondir um þetta leyti vetrar. Hnútarnir voru orðnir fast reyrðir, og Þorbjörn hafði orðið að neyta tannanna. Þó hafði þetta tekist að lokum, án þess að hrúturinn tæki það ómak af Þorbirni, sem hann hafði ætlað sjálfum sér. Hrútinn lét Þorbjörn lausan, en gekk með fléttinginn inn í hlöðuna.

Hann lagði nú rengluna yfir þvera geilina, hátt uppi. Lá annar endi hennar á vegglægjunni en hinn á stálinu, og var hún hart nær tveim mannhæðum frá gólfi. Um miðja rengluna brá hann hrútsbandinu og gerði snöru á þann endann, sem niður hékk. Þegar allt var tilbúið, þurfti hann ekki annað en klifra upp í snöruna. Það gerði hann með því að spyrna öðrum fæti í stálið, en hinum yfir í vegginn, neyta jafnframt handanna og fikra sig þannig upp eftir. Þetta gekk þó ekki greitt, því að hnén skulfu og hendurnar fálmuðu. Þó komst hann loks svo hátt, að hann gat stungið höfðinu í gegnum snöruna og látið hana renna að hálsinum. Þá sleppti hann sér og lét sig falla. -

- Í sama mund, sem Þorbjörn hafðist þetta að, gekk Egill frá bænum með tvo kláfa. Stefndi hann til fjárhússins og ætlaði að taka hey í kláfana handa kúnum.

Þótt Egill væri burðamaður og fastur á fótum, heyktist hann við það að komast áfram með kláfana, þótt tómir væru. Því að svo voru stormhviðurnar snarpar út með fjallinu, að illstætt var á auðri jörð, hvað þá á svellunum. Egill fór ekki geyst, fremur venju, en beitti sér þó fast gegn veðrinu. Leitaði hann lags til að komast yfir svellin, og hinkraði við, þar til um hægðist á milli hviðanna. Hann var því lengi á leiðinni upp að fjárhúsinu.

Þegar þangað kom, þótti honum undarlega við bregða, því að hurðin var tekin af hjörunum og lögð fyrir dyrnar innan veggja.

Dyr voru lágar á húsinu, ætlaðar kindum fremur en mönnum, og veggirnir þykkir.

Egill gekk álotinn inn í dyrnar og lét þar af sér kláfana. En þegar hann ætlaði að taka frá sér hurðina, sá hann grænmata í tvær glyrnur inni í myrkrinu, þar sem hann átti engrar skepnu von. Ekki var Egill hugblauður, en ónot fóru þó um hann við þetta, því að á hann störðu þessi grænu draugsaugu. Þó réð hann af að taka hurðina frá dyrunum; en varla hafði hann lagt hana frá sér, er hann fékk bylmingshögg á síðuna og hrökklaðist við það út í dyrnar. Þar urðu fyrir honum kláfarnir og ýttust undan honum út á við, en Egill féll flatur.

Í sama bili hljóp hrúturinn yfir hann endilangan og skeytti því ekki, hvar hann steig niður. Ein klaufin lenti á vanga hreppstjórans, og blæddi þar undan. Hrúturinn ruddi með sér kláfunum út úr dyrunum; þar tók stormurinn við þeim, en hrúturinn hljóp til fjalls að leita fjárins.

Egill stóð upp hægt og seint og strauk um meiðsli sín. Þótti honum þetta kynlegt og ekki einleikið. Hrútinn var ekki til neins fyrir hann að elta; og nú gat hann ekki tekið heyið handa kúnum, fyrst Kári hafði náð í kláfana.

En á meðan hann stóð tómhentur og hugsaði sig um, heyrði hann hlunk mikinn innan úr hlöðunni.

Einhverjar illar grunsemdir gripu Egil, án þess hann gæti gert sér grein fyrir þeim. Þó varð hann ekki hræddur. En forvitni var honum á að vita, hvað fram færi í hlöðunni, þar sem nú var engra manna von.

Hann flýtti sér því upp í garðann og inn í hlöðuna.

Glætu lagði um geilina úr gluggasmugu hátt uppi á stafninum, og Agli birri skjótt fyrir augum, svo hann gat greint hvað frá öðru, þegar hann kom inn í hlöðuna.

Þar fann hann Þorbjörn, ráðsmann sinn, liggjandi á gólfinu í dauðateygjunum, með snöruna um hálsinn, auðsjáanlega meðvitundarlausan. Beggja megin við hann lágu brotin af renglunni.

Egill flýtti sér að losa snöruna af Þorbirni og strauk á honum hálsinn. Fór þá smám saman að liðkast aftur um blóðrásina og andardráttinn og Þorbjörn vaknaði til þessa jarðneska lífs.

Eitt af fyrstu lífsmerkjunum hjá Þorbirni var öskur, sem kom fram um nefið. Því næst fékk hann ákafa hóstahviðu og hóstaði upp hálflifruðu blóði.

Þegar Egill hélt, að Þorbjörn væri kominn svo til meðvitundar, að hann mætti skilja mál hans, yrti hann á hann og var ekkert mjúkmáll:

"Hvaða bölvað uppátæki er þetta? - Ertu orðinn vitlaus? - Hvað gengur að þér, maður?"

Þorbjörn svaraði engu, en ræskti sig og spýtti enn þá nokkru blóði. Honum var þröngt um andardráttinn og enn korraði í honum.

Egill horfði á hann þegjandi og beið eftir svari. Það lá við, að hann langaði til að hlæja að honum, en þó kenndi hann raunar í brjósti um hann. Hefði þriðji maður verið við, hefði það eflaust verið undir honum komið, hvort Egill hefði hlegið eða viknað.

"Hver andskotinn gengur að þér, hrófið mitt?" sagði Egill nokkru mildari en áður. "Því fórstu að taka upp á þessum fjanda?"

Þorbjörn þagði enn um stund, og í stað þess að svara, fór hann að hágráta.

Þá var Agli öllum lokið.

Nú fann hann það fyrst, að það, sem hér var á ferðum, var ekki hlægilegt í raun og veru. Hann fór jafnvel að iðrast eftir því, hvað hann hefði ávarpað Þorbjörn hranalega.

Þorbjörn fór að reyna að stynja einhverju upp, en allt kafnaði það í grátekkanum. Einnig var eitthvað að talfærunum, sem gerði hljóðið óskýrt. Egill var lengi að skilja, hvað hann væri að segja.

Allir - - eru - mér - svo - vondir -! Allir eru - mér - - !"

"Hvaða bull er þetta! Hverjir eru þér vondir?"

"A-a-allir! - allir!"

Á eftir þessari áreynslu fékk Þorbjörn langa hviðu af ekka og andköfum og loks hósta. Þegar um hægðist fyrir honum, hélt hann áfram að stynja upp harmatölum sínum.

"Allir hata mig - -! Allir fyrirlíta mig - -! Allir hæðast að mér - -!"

"Þetta er eintóm vitleysa, Þorbjörn minn," sagði Egill hughreystandi. - "Hverjir hata þig? - Hverjir hæða þig? - Hverjir eru vondir við þig?"

"A-a-allir - -!"

"Allir - hverjir allir? - Er ég þá líka meðal þeirra?"

"Ne-e-ei! - ekki þú. - Allir aðrir!"

"Og Borghildur mín -?"

"Nei - hú-hún ekki he-heldur," snökti Þorbjörn. "En allir aðrir. Allir hafa horn í síðu minni. Allir hafa gaman af því að hæða mig og stríða mér. - Allir - - ."

"Svo -?"

"Já - þeir uppnefna mig, kalla mig Króka-Ref. - Þeir segja, að ég sé augnaþjónn og skriðkvikindi - gott ef ekki þjófur. - Heimilisfólkið hlær að mér upp í opið geðið á mér, þegar ég á að segja fyrir verkum, og - og - -!"

"Og út af þessu ferðu að hengja þig!"

"Ég vil ekki lifa. Ég hefi enga gleði af lífinu. Ég veit, að þetta er satt: ég er öllum til ama - öllum til ills, og alls staðar er mér ofaukið -!"

"Heldurðu, að eitthvað af þessu sama sé ekki sagt um fleiri en þig?" mælti Egill og hló við. "Hefirðu aldrei heyrt, hvað sagt er um mig? Hvað er það þó, sem ég fæ upp í eyrun, hjá hinu, sem ég fæ á bakið! Heldurðu ekki, að ég sé uppnefndur líka - kallaður Hvamms-Móri eða Hvammsdurgurinn! Hvenær er sagt, að ég geri nokkuð gott? Á ekki allt að vera illt, sem ég geri? Hverjum er ég til gleði? - Hvar er ég eiginlega velkominn? - Og heldurðu þó, að mér detti í hug að fara að hengja mig? Mikil yrði gleðin hjá sumum, ef Egill gamli í Hvammi fyndist einhvers staðar hengdur! - Hvað heldurðu? Nei, vertu viss - þann andskota geri ég þeim aldrei til eftirlætis! - Ég vildi, að þú hefðir ekki gert það heldur."

Þorbjörn sefaðist ofur lítið við þetta. Agli fór að glæðast von um að geta talað af honum þunglyndið.

"Hvað heldurðu nú, að þeir hefðu sagt, þessir, sem hafa verið þér vondir, eins og þú segir, hefði þér tekist þetta, sem þú varst að gera? Heldurðu, að þeir hefðu farið að harma þig? - eða aumka þig? Nei, þeir hefðu hlegið að þér af öllu hjarta. Þá hefðu þeir séð með fullri vissu, hve deigur og ragur þú varst. - Að þora ekki að standa uppi í hárinu á þeim! - Þola ekki masið úr þeim og glósurnar! - Flýja undan þeim - upp í snöruna! Mér er sem ég heyri alla þá hlátra, sem hefðu fylgt þér til grafar! - Það er lítilmennska að þora ekki að lifa, þótt eitthvað blási á móti manni - þora ekki að horfast í augu við sitt af hverju. - Nei, Þorbjörn minn, - orðsjúkir megum við ekki vera."

Þorbjörn hlustaði á þegjandi. Agli fannst sér vera farið að takast allvel upp og skildi ekki í öðru en að þetta hlyti að hrífa. Það datt því ofan yfir hann, þegar Þorbjörn fékk gráthviðu að nýju, enn þá þyngri en þá fyrri.

"Hvað gengur nú að þér?"

Þorbjörn stóð á öndinni af gráti og andþrengslum og gat engu svarað.

Egill klóraði sér vandræðalega í hnakkanum. Í mörgu illu hafði hann staðið um dagana; en þetta var sannarlega ekki það besta.

Það var nú ekki neinum blöðum um það að fletta, að eitthvað gekk að Þorbirni meira en það, sem hann hafði enn þá uppi látið. Egill lagði nú fast að honum að segja sér, hvað það væri, og gerði sig blíðari en hann átti vanda til.

Lengi var það árangurslaust. Þorbjörn grét og hóstaði í sífellu. Þó kom þar, að hann sefaðist ofur lítið og fór að reyna að stynja upp einhverju, sem Egill skildi ekki hvað var.

"Stúlka -? - Hvað segirðu?" mælti Egill. Honum heyrðist Þorbjörn tæpa á því orði.

"Já," kjökraði Þorbjörn.

"Stúlka -? - - Hvaða stúlka?"

"Stú-úlka - hérna á heimilinu -!"

"Viltu fara að gifta þig aftur -?"

"Lífið er svo einmanalegt."

"Nú því er þannig farið. Þú ert ástfanginn."

Þorbjörn þagði.

"Og þá tekurðu það fyrir að - hengja þig! Er það bónorðið - eða hvað? - Nei, Þorbjörn minn. Annaðhvort ertu nú að gera að gamni þínu eða - þú ert bandvitlaus!"

Þorbirni elnaði heldur gráturinn við þetta.

"Nú-jæja. Það er nú ekki það vitlausasta, sem þú getur gert, að gifta þig og fara að búa. Þér búnaðist sæmilega hér á árunum, - og margur hefir sett saman hokur með minna en þú átt núna. Nú, og ef konuefnið er búkona. - - En hver er hún þessi stúlka?"

"Jóhanna."

"Jóhanna? Hvað segirðu? - Jóhanna - hérna - ha? - Sjáum til! Þú gast valið lakar - og hún gæti valið miklu lakar. Jæja, Þorbjörn minn. Ekki skaltu setja þetta fyrir þig. Ef þér er alvara að fara að gifta þig, þá skal ég styðja eitthvað að því, að þú fáir kot - þótt þú viljir í vor. Þú hefir þó ekki farið að hengja þig út af þessu?"

"Hún - hún vill mig ekki!".

"Hún - hún Jóhanna, ha? - Nú, það var nú lakara! Hefirðu nefnt það við hana?"

"Já." - Þorbjörn fór aftur að hágráta.

"Og fengið hryggbrot! - Þarna er kvenfólkinu lifandi lýst!"

"Það vill engin stúlka mig. - Það vill engin manneskja kannast við mig sem vin sinn! Allir, - allir hafa horn í síðu minni!"

"Þú ert huglaus bjálfi, sem gefst upp, hvað lítið sem á þig reynir. - Ég vil heyra meira um þetta. Hvað bar hún fyrir?"

"Hún sagðist vera trúlofuð."

"Veistu nokkuð, hver það er?"

"Nei. - En - -."

"Þú hefir kannske grun um einhvern?"

"Ég veit ekki."

"Hver er það?"

"Maður á heimilinu."

"Steini minn -?"

"Getur verið."

Egill brosti í kampinn:

"Mig grunaði það. - Þeim líst vel á hann, stúlkunum!"

"Ég held, að ég megi fullyrða - ."

"Já, já, - ég trúi þér vel." mælti Egill og horfði fram undan sér, eins og hann væri farið að dreyma. "En það stoðar ekki. Hún á ekkert til, stúlkukindin, - og svo er þetta engin manneskja."

Þorbjörn rak upp stór augu.

Þá mundi Egill eftir því, að hann hafði nýlega mælt með henni sem konuefni hans, og sneri við blaðinu.

"En hún er snotur stúlka, skinnið það arna, og sjálfsagt góð stúlka. Og hún er vel upp alin."

Þetta líkaði Þorbirni. Þarna voru taldir þeir kostir Jóhönnu, sem hann hafði gengist fyrir. Enn þá var hann þess fullviss, að hún væri góð stúlka, þótt hún hefði neitað bónorði hans. Hún hafði jafnan verið frásneidd öllum bekkingum og ertni við hann, en það voru fáir aðrir á heimilinu. Og þegar hún hafði neitað ástamálum hans, hafði hún gert það blátt áfram, verið einlæg og tilgreint gilda ástæðu. Honum hafði þótt enn þá vænna um hana eftir en áður. Þess vegna hafði honum fallið svo þungt að sleppa allri von um hana.

Egill gerði nú nýja atrennu til þess að hughreysta Þorbjörn sinn. Hann kvaðst vona, að allt mundi þetta lagast. Jóhanna mundi sjá sig um hönd, þegar hún fengi tíma til að hugsa sig um. Þetta væri engin nýlunda, að stúlkur neituðu biðlum sínum í fyrsta skipti, en tækju þeim seinna. Jóhanna mundi sjá það sjálf, að ekkert vit væri fyrir hana, bláfátæka stúlku, sem farin væri að vinna sér fyrir kaupi fyrir einum 2-3 árum, að hafna slíkum ráðahag. Og ef hún sæi það ekki sjálf, mundi mega koma fyrir hana vitinu. Hitt væri vonlaus fjarstæða af henni, að vera að tylla sér á tá við Þorstein. Fyrst og fremst væri það ekki jafnræði; og svo væri Þorsteinn allt of ungur. Hann mætti varla hugsa til giftingar fyrr en eftir tíu ár.

Þessi tala Egils hafði heilsusamleg áhrif á Þorbjörn. Hann hætti kjökrinu smátt og smátt og fór að bera sig mannalegar.

Afleiðingarnar af hengingartilræðinu fóru líka smá-þverrandi og hann var hættur að hósta upp blóði. En nú fór hálsinn að þrútna að utan, og enn héldust eymsl og andþrengsli. Barkinn hafði lagst saman undan snörunni og var ekki búinn að ná sér aftur.

"Fyrst þú hefir nú hindrað mig frá því að deyja," mælti Þorbjörn, "þá verðurðu að hjálpa mér til að lifa."

"Það er svo sem sjálfsagt," mælti Egill.

"Þá verður þú að hjálpa mér til að fá Jóhönnu. Án hennar get ég ekki lifað."

"Það var nú öllu öðru verra," mælti Egill og klóraði sér í hnakkanum. "Illa hefi ég verið til þess fallinn að flytja mín eigin ástamál, þótt það hafi tekist vonum fremur; - hitt hefi ég aldrei fengist við, að flytja þau mál fyrir aðra. Nei, Þorbjörn minn. Í þessu máli verðurðu að komast af án minnar hjálpar."

Þeir þögðu báðir litla stund. Þá mælti Egill:

"En Borghildur mín. - Það kynni að mega trúa henni fyrir þessu máli. Hvernig líst þér á að nefna það við hana?"

"Ég kem mér ekki að því. Það er illt að tala um ástamál við konur."

"Nú-nú, þá verð ég að gera það fyrir þig. En svo skipti ég mér ekki frekar af þessu máli."

Þorbjörn varð svo feginn, að hann sárlangaði til að faðma Egil og kyssa hann.

"Þetta lagast, þetta lagast, Þorbjörn minn," mælti Egill og klappaði sjúklingnum á öxlina. "Vertu vongóður. Steini minn er skynsamur piltur. Hann er sjálfsagt ekki orðinn svo háður þessari stúlku, að ekki megi takast að stía þeim sundur."

"Það færi betur, að svo væri ekki," nöldraði Þorbjörn í barm sinn.

Egill stóð á fætur um leið og gaf því engan gaum, sem Þorbjörn mælti. "Við sjáum nú til, hvernig gengur," mælti hann. "En nú skulum við koma heim."

Áður en þeir fóru úr hlöðunni, bundu þeir það fastmælum að þegja um þetta leyndarmál, og eins hitt, að hrapa ekki að neinu. Þó skyldi Þorbjörn leita betur fyrir sér um hugarfar Jóhönnu og hafa glöggar gætur á þeim Þorsteini og henni.

Þegar þeir lögðu á stað heimleiðis, kom það í ljós, að Þorbjörn var illa göngufær vegna svima og óstyrks. Egill varð að ganga undir honum, og var það fullerfitt yfir svellin. Til allrar heppni var þá dálítið farið að kyrra.

Þegar heim kom í bæinn, lagðist Þorbjörn veikur af - "hálsbólgu."

- - Nú var komið myrkur. Féð var enn þá uppi um allt fjall og hrúturinn kominn þangað. Kláfarnir sáust hvergi.

Þeir voru auðvitað farnir veg allrar veraldar.

Í bæjardyrunum hitti Egill vinnupilt sinn, sem Sveinn hét.

Egill bað hann að fara upp í hlöðuna og taka niður hey handa kúnum. Hann yrði að láta það í poka og ætlast á um þyngdina, því að kláfarnir væru glataðir. Og hann yrði að hafa með sér ljósfæri, - en umfram allt yrði hann að fara gætilega með eldinn.

Sjálfur ætlaði Egill upp í fjall með vinnumönnunum til að tína saman féð.

Sveinn játti þessu fúslega, en horfði undrandi á húsbóndann, sem ýmist þerraði blóðvætl úr skeinu á vanganum eða strauk um síðuna.

"Nei, heyrðu, - bíddu við," mælti Egill, þegar Sveinn var að fara. Hann mundi þá eftir því, sem nýlega hafði gerst í hlöðunni. Gat ekki verið viðsjárvert að senda Svein þangað? Illt var líka að taka skipanir sínar aftur. "O-nei, það var ekkert. Þú mátt fara. En - mér þótti verst að missa kláfaskammirnar!"

Sveinn var léttfættur, þegar hann hljóp upp túnið skömmu síðar. Hann grunaði, að hlaðan byggi yfir einhverju.

Þegar hann kom þangað, lágu renglubrotin á gólfinu og sömuleiðis snaran, eins og Egill hafði smeygt henni af Þorbirni. Blóðhrákarnir úr Þorbirni voru þar líka.

Sveinn var galgopi og hafði reynst Þorbirni flestum glettnari. Þessar menjar um orsökina að "hálsbólgu" Þorbjarnar voru honum sannur happadráttur.

Innan skamms var búið að hvísla hengingarsögunni í hvert eyra á heimilinu. Þorbjörn heyrði það í rúm sitt, hvernig hláturinn ískraði í hverju skoti í bænum.

Ofan á þessa hugraun bættist það, að hálsinn bólgnaði mjög, svo að honum lá við köfnun. Illa hafði honum liðið fyrir hengingartilræðið, en ekki leið honum betur nú.

Þó langaði hann ekki til að reyna aftur.

Egill hélt líka við rúmið nokkra daga. Gikt settist að marinu eftir hrútshöggið.


2. kafli

Ástin er kynleg og engu lík nema sjálfri sér.

Því meiri rækt sem lögð er við hana, því meira sem dekrað er við hana og daðrað, - því fljótar gengur hún úr vistinni.

En sé hún ofsótt eins og rándýr, sé setið um hana og henni ráðin alls konar banaráð, - þá vex hún mönnum yfir höfuð.

Hún kemur ekki, þó kallað sé á hana. Hún gengur ekki í gildruna, þótt egnt sé fyrir hana. Foreldrar, ættingjar, prestar, valdsmenn og konungar kalla á hana barna sinna vegna, bjóða henni gull og græna skóga, lofa henni blessun drottins, - en fara allrar bænheyrslu á mis. Þá er hún boðsletta einhvers staðar annars staðar og traðkar öllum góðum venjum með því að setjast í hásætið.

Engum lögum hlýðir hún, engin meðul eiga við henni. Það er tilviljun líkast, ef hún er eins og flestir vilja hafa hana.

Trúlofun er opinberuð milli efnamannaerfingja í borg eða kaupstað. Skrautprentuð spjöld fljúga í allar áttir. Allir ætla að ganga af göflunum af fögnuði yfir þessum mikla sigri ástarinnar, sem fellur svo prýðilega við jafnræðishugmyndina. Hamingjuóskirnar dynja á elskendunum. Þau aka í blómskreyttum vagni úr einni veislunni í aðra. Alls staðar er þeim tekið með kostum og kynjum. Alls staðar eru þau himinsæl, faðmast og dekra hvort við annað, vinum sínum til óumræðilegrar gleði. Þau mega vera saman eins og þau vilja, lifa og láta eins og þau vilja. Þau eru borin á höndum, hvert strá tínt úr götu þeirra. Aðeins eru gætin augu með þeim, hvert sem þau fara, til að vaka yfir "velsæminu." En áður en nokkur veit af, áður en þau sjálf vita af, eru þau farin að jagast í vagninum sínum. Ástin er brunnin upp í tilhugalífinu. Svo giftast þau - og skilja.

Hin hjónaefnin, þar sem ástin er "boðsletta", fara allt öðruvísi að. Þar fer allt jafnræðistillit í tómum handaskolum. Þau gleyma öllum stéttaríg og efnamun, gleyma öllu nema því, að þau eru manneskjur og unnast. Þau lofast hvort öðru án þess að ráðfæra sig við nokkurn lifandi mann. Þau komast af án skrautmiðanna, hamingjuóskanna, heimboðanna og velsæmislögreglunnar. Enginn fær að horfa upp á sælu þeirra og ástaratlot, enginn fær að smjaðra fyrir þeim, leggja sig í líma að gera þeim greiða - og hlæja svo að þeim, þegar þau snúa við bakinu. Framan í fjöldanum eru þau hvort öðru ókunnug. Eldurinn liggur falinn. Hann blossar upp í augunum, þegar tækifærið býðst, og sendir geislann eins og leiftur þangað, sem hann á að fara. Aldrei missir hann marks, og sjaldan skeikar honum að fela sig í tíma.

Þau vita, að setið er um þau frá öllum hliðum. Allir eru þyrstir í leyndarmál þeirra, eins og úlfar í lambsblóð, sumir af nýjungagirni, sumir af öfund, sumir af enn þá verri hvötum. Allir, sem mæta þeim, eru viðsjálir vinir, ef ekki hreinir og beinir svikráðamenn. Engum er vert að trúa. Hættur og snörur liggja við hvert fótmál. - En ástin hvessir sjónina, skerpir hugvitið og eykur áræðið. Þeim lærist að stíga hiklaust og gætilega yfir allar torfærur. Ástin vex með hverjum sigri. Og brátt komast þau að þeim sannindum, að ekkert er sælla til en unnast leynilega.

Og svo - þegar þau eru búin að losa sig við alla, smogin öllum úr greipum, horfin öllum aðgætnu augunum, búin enn þá einu sinni að leika á alla, narra alla, og komin saman á stefnumót, þar sem enginn, enginn sér til þeirra - þá er stundin ekki notuð til þess að jagast.

Lengi hefir sú stund verið þráð. - Ó, hvað allar hinar stundirnar hafa verið lengi að dragnast áfram! Ó, hvað þau hafa brunnið af löngun eftir að ná saman til þess að faðmast og kyssast og kyssast og faðmast og faðmast aftur og kyssast! Þau hafa varla tíma til að tala nema orð og orð á stangli - svo dauðþyrst eru þau í ástaratlotin, svo lengi eru þau að slökkva mesta þorstann.

Og þessi stund er svo stutt - svo dæmalaust fljót að líða, alveg eins og örskot. En hún er sæl - og um að gera að nota hana vel. Guð má vita, hvenær þau ná saman næst.

Þá finna þau, að þau eiga hvort annað. Ástríðurnar vaxa þeim yfir höfuð. Ástin gengur að eign sinni skilyrðislaust.

Það er "bráðlæti", "fall", "synd" og eitthvað fleira, sem mönnum hefir komið saman um að kalla það; en presturinn er þá ekki viðlátinn fremur en aðrir, og lagabækurnar liggja í heimi þeim, sem þau hafa snúið baki við, en ekki í heimi kærleikans, sem þá horfir við þeim. - Þau eru í Paradís, og forboðnu eplin eru allt of nærri.

"Sá, sem er syndlaus," kasti á þau fyrsta steininum. - - Ást þeirra Þorsteins og Jóhönnu var fædd í kyrrþey og alin upp í kyrrþey við óblíðu og örðugleika. Hún var orðin sterk af því að stríða.

Jóhanna var frjáls. Hún var nýlega orðin gjafvaxta og átti engan að, sem rétt hefði til þess að hlutast til um gjaforð hennar.

Þorsteinn var ekki frjáls. Hann átti foreldra á lífi og stóð enn undir umsjá þeirra að lögum. Hann var ekki kominn til löglegs giftingaraldurs karlmanna og ekki nema hálfmyndugur enn þá.

Og þó hann væri stór og sterkur og vel viti borinn, var hann tæpast kominn yfir takmörk æsku og þroska.

Þorsteinn fann vel til þessa ómyndugleika síns sjálfur, og fyrsta barátta ástar hans fór fram inni fyrir í huga hans. Það var barátta ástarinnar við hlýðnis- og undirgefnistilfinninguna - við samviskubitið. Hann ákærði sjálfan sig fyrir það, að hafa ekki talað um þetta við foreldra sína, eða föður sinn að minnsta kosti, og spurt um, hvort hann mætti biðja þessarar stúlku, mætti elska hana.

En í þessari baráttu varð ástin algerlega yfirsterkari. Andmæli samviskunnar dofnuðu smátt og smátt og hurfu loks með öllu. Hann fann það, að hann gat ekki annað en elskað þessa stúlku; honum var það ósjálfrátt. Hvers vegna átti hann þá að spyrja, hvort hann mætti það?

Ofan á þetta bættist barnaleg fullvissa um það, að guð hefði valið þessa stúlku handa honum. Það stakk hlýðnistilfinningunni hið síðasta svefnþorn.

Nú stóð hann tilbúinn til að leggja út í þessa sömu baráttu - ef á þyrfti að halda - þegar mótstaðan kæmi utan að, - þegar hún kæmi fram í kröfum foreldranna eða ásökunum þeirra. Um skoðun allra annarra kærði hann sig kollóttan.

Fyrst kveið hann lengi fyrir þeirri hríð, eftir að hann var þó með fullráðnum huga. En ástin vann líka bug á kvíðanum. Hún braut allt á bak aftur.

Og loks fannst honum hann vera sæll við þá tilhugsun, að hafa við eitthvað að etja. Það hlyti að vera gaman að minnast þeirra daga síðar í lífinu, þegar hann hefði barist fyrir bestu tilfinningum sínum.

Jóhanna var bjarthærð stúlka, fríð sínum, hýr og góðleg. Hún var heldur minni en meðalkvenmaður á allan vöxt, en var fallega vaxin og bar sig vel. Fremur var hún veikluleg útlits, en hafði þó enga varanlega vanheilsu.

Öllum á heimilinu þótti vænt um hana, jafnvel Borghildi líka.

Jóhanna hafði misst foreldra sína ung og alist þar upp frá því hún var 9 ára, fyrstu árin með sveitarframlagi, en eftir ferminguna hafði hún verið vinnukona. Hin hjúin skoðuðu hana eiginlega sem fósturdóttur húsbændanna, og það lá við, að hún færðist smám saman í áttina til að vera það. Að minnsta kosti mátti segja, að hún stæði á milli húsbænda og hjúa - stæði á líkum stað kvenna megin, sem Þorbjörn stóð karlmanna megin.

Samdráttur þeirra Þorstein og Jóhönnu var orðinn svo gamall, að hann var farinn að kvisast meðal heimafólksins; enda voru þau ekki eins varkár nú orðið og þau höfðu verið fyrst.

Sumir höfðu vitað lengi um samdráttinn, en engum sagt frá honum. Nú var loks svo komið, að allir á heimilinu vissu um hann - nema Borghildur.

Egill hafði síðast fengið að vita um hann.

En það var eins og allt heimilisfólkið hefði tekið sig saman um það steinþegjandi að vera trúnaðarmenn þessara ungu elskenda. Það var meira að segja ótrúlega samtaka í því að ljúga og blekkja hvað annað og leiða athyglina afvega, ef við sjálft lá, að eitthvað kæmist upp. Nú síðast um haustið og veturinn hafði oft þurft að svara einhverju til um það, hvar Jóhanna væri.

Um Þorstein var miklu sjaldnar spurt. Menn voru því vanari, að hann færi einförum, og hann réð ferðum sínum sjálfur.

Og um eitt voru menn að minnsta kosti samtaka. Enginn vildi verða til þess að segja Borghildi húsfreyju frá þessu leyndarmáli. Það var eins og það væri sama sem að bera neista í púðurtunnuna. Menn bjuggust við einhverjum ósköpum.

Egill veigraði sér við því líka, þótt hann hefði nú lofað Þorbirni því. Það gerði ekkert til, þótt það drægist - að minnsta kosti þangað til Þorbirni væri bötnuð "hálsbólgan."

Þó duldist engum, að þessari hættulegu sprengingu yrði nú bráðum ekki frestað lengur. Bláir baugar undir augunum á Jóhönnu höfðu gefið það í skyn, og nú var farið að bera á fleiru, sem studdi gruninn.


Hlákustormurinn, sem var daginn sem Þorbjörn ráðsmaður "hengdi" sig endaði með krapaéli, en síðan blíðlygndi með örlitlu frosti. Svellin urðu stöm og gangfæri hið ákjósanlegasta.

Á laugardaginn næstan á eftir var allra indælasta veður allan daginn, frostlaust blíðviðri. Tungl var þá í fyllingu.

Borghildur húsfreyja var fasmikil þennan dag - sem oftar - og ekki allra meðfæri að eiga við hana. Vinnufólkið sneiddi því heldur hjá henni.

En þegar þannig lá á húsfreyjunni, varð það oftast hlutskipti Jóhönnu að vera næst henni. Hún þoldi best úr henni rausið og var henni eftirlátust.

Eitt af því, sem amaði að Borghildi, var það, hve illa henni gekk að láta eldinn loga í hlóðunum.

"Mikið bölvað stríð er að eiga við þennan eld! - að ég ekki segi meir!" sagði hún mæðilega og blés í hlóðirnar af öllum kröftum.

"Á ég að reyna -?" sagði Jóhanna, sem var þar hjá henni.

Allar hinar stúlkurnar höfðu hypjað sig burtu úr eldhúsinu, nema Borga litla, dóttir þeirra hjónanna.

"Þú -! Þú getur víst ekki lífgað hann betur en ég. - Borga, hlauptu út í smíðahús til hans Steina og sæktu höggspæni og hefilspæni, - og vertu nú fljót!"

Borga þaut eins og píla fram göngin og út.

Vilborg hét hún og var hálfvaxin telpa, rétt innan við fermingu, grannleit og rengluleg, með stór og greindarleg augu. Mesti galgopi, glettin og öllum kær á heimilinu.

Þorsteinn var einn í smíðahúsinu, en það var yst af þeim húsum, sem göflum sneru fram á hlaðið. Borga yrti ekki á hann, en fór í spónahrúguna. Hún var orðin því vön, að það var árangurslaust að yrða á Þorstein; hann svaraði ekki.

"Borga," sagði Þorsteinn í því hún ætlaði út.

Borga nam staðar og tók undir.

"Er nokkur þarna á hlaðinu?"

"Nei." - Nú vissi Borga, hvað hann vildi.

"Komdu þessu til skila, - þú veist -!"

Hann dró upp úr vestisvasa sínum samanbrotinn bréfmiða, sem ekkert var skrifað utan á, og fékk henni.

Það glaðnaði jafnan yfir Borgu, þegar hún fékk slíkt erindi. Hún hafði verið aðaltrúnaðarmaður þeirra lengi og borið bæði miða og skilaboð á milli þeirra. Hún var þeim trú eins og gull, en jafnframt lagin, svo einskis manns var að sjá við henni.

Hún tók við miðanum og fól hann í lófa sínum. Svo fór hún með fulla svuntu sína af spónum inn í eldhús.

"Aldrei kemstu úr sporunum!" sagði Borghildur og hrifsaði af henni spænina.

Á meðan hún var að vöðla þeim undir pottinn, stakk Borga miðanum að Jóhönnu og brosti framan í hana um leið.

Jóhanna braut hann sundur með mestu hægð fyrir aftan húsmóður sína og gætti þess vel, að ekki skrjáfaði í honum. Sólskin leið yfir svip hennar, þegar hún leit á hann.

Það var stutt kveðja, sem á miðanum stóð, ekki ólík símskeytum nútímans. Þótt hann hefði fundist einhvers staðar, er óvíst, að það, sem á honum var, hefði vakið nokkra athygli eða skilist. Það var aðeins rissað með tréblýanti:

"Álfakvíar níu."

Svo stakk Jóhanna miðanum í barm sinn.

Á meðan lá Borghildur á hnjánum og blés eins og hvalur í eldinn. Hann var ekki mikill, aðeins í röndinni á einum svarðarköggli, en var þó farinn að glæðast.

"Á ég ekki að reyna -?"

"Æ-æ-æ, andskotans stríð -- ég segi ekki nema það!" andvarpaði Borghildur og strauk augun. Það sveið undan svælunni úr hlóðunum. - "Jæja, það er best þú reynir."

Jóhanna kraup niður og fór að blása. Þá var verkið meira en hálfunnið. Brátt læsti eldurinn sig í hefilspænina og logann lagði upp um bæði hlóðarvikin. - - - Álfakvíar voru klettabásar rétt utan við túnið í Hvammi, við endann á núpnum. Þar var stefnumótið ákveðið klukkan níu um kvöldið.

Stundin var valin um það leyti, er Jóhanna væri búin að bera inn kvöldmatinn handa heimafólkinu. Orð lék á því, að hjúin í Hvammi yrðu mat sínum fegnust, ekki síður en Grettir í Reykhólavistinni. Og úr því að matarílátin voru komin í baðstofuna, var ástæða til að ætla, að menn hefðu öðru að sinna en taka eftir því, hvort allir væru viðstaddir.

Þegar menn höfðu matast, fóru þeir að hátta. Borghildur gekk stranglega eftir því, að góðri reglu væri fylgt á heimili hennar. Þá rak hún Borgu með harðri hendi inn í hjónaherbergið og keyrði hurðina í lás. Egill var þá oftast háttaður. Þá voru ljósin slökkt í miðbaðstofunni; þeir, sem lengur þurftu á ljósi að halda, urðu að sjá sér fyrir því sjálfir. Þó voru stúlkur oft lengur á fótum sökum annríkis. - Þorsteinn svaf einn í herbergi í hinum enda baðstofunnar; þar stóð einnig gestarúm. Hann var fyrir löngu vaxinn upp úr heimilisaga móður sinnar og réð því sjálfur, hvenær hann gekk til sængur.

Veðrið var hið bjartasta, sem von gat verið á um þetta leyti árs, kyrrt, frostlaust og tunglskin mikið. Slík veður laða til leynifunda.

Tunglið var ekki komið upp fyrir núpinn, og stóð bærinn í skugga fjallsins. Skugginn lá fram á ísinn á vatninu og dró þar upp skýrar myndir af hvössum brúnum og hamrahyrnum. Hinum megin í dalnum logaði allt af tunglsljósi, og úti í Álfakvíum skyggði fjallið ekki á tunglið.

Oft höfðu þau Þorsteinn og Jóhanna mælt sér þar mót meðan jörð var auð og kafgras undir klettunum. Þar var gott að leynast, og þar höfðu þau unað saman margar sælar stundir. Staðurinn var þeim báðum kær frá fyrri árum. Þar stóð enn þá tóft af húsi, sem Þorsteinn hafði byggt sér fyrir 10-12 árum. Gamlir feluleikir, skollaleikir, saltabrauðsleikir og hjónaleikir rifjuðust upp fyrir þeim í hvert sinn, er þau komu þangað. Og síðan hafði Jóhanna leikið þar margar stundir við Borgu litlu og sagt henni álfasögur og ævintýri.

Jóhanna brá á sig ullarþríhyrnu og laumaðist burtu frá bænum. Hún fylgdi skugga fjallsins út í kvíarnar. Þar var Þorsteinn fyrir.

"Hvers vegna varstu að narra mig hingað, hjartað mitt?" sagði hún glettnislega, eftir að þau höfðu heilsast svo innilega sem þeim líkaði.

"Hvar er betra að vera en einmitt hérna í svona góðu veðri? Ég hélt, að þér þætti vænt um kvíarnar."

"Já, en - nú er hér ekkert annað en snjór og klaki."

"Er þér kalt, elskan mín?"

"Nei, alls ekki." - Jóhanna smeygði höndunum inn undir þríhyrnuna og barðist við hrollinn.

"Jú, þér er víst kalt. Þú ert grá í gegn af kulda, blessað barn!" sagði Þorsteinn og tók um úlnliðina á henni.

"Ég er kulvísari núna - ."

"Þú býrð þig líka svo illa út, elsku hjartað mitt. Hvers vegna gerirðu það?"

"Ég fór huldu höfði að heiman, - náði ekki í neitt."

"Heyrðu, - farðu í treyjuna mína. Hún er volg - og hún er hlý."

"Nei - nei, góði!"

"Jú, víst! - Annars missi ég þig úr kulda. Svona, gegndu nú!"

Þorsteinn var kominn úr treyjunni og dreif hana í hana, hálfnauðuga.

"En, þú sjálfur - á skyrtunni -?"

"Ég er í tvennum vaðmálsskyrtum. Finndu, hvað mér er heitt. - Svona eru þið ungu stúlkurnar. Þið haldið, að allt sé undir búningnum komið. Þú varst hrædd um, að mér mundi ekki lítast á þig í treyjunni minni. Er ekki þetta satt?"

"Nei, það er vitleysa."

"Heldur vildirðu skjálfa af kulda!"

Jóhanna horfði brosandi framan í hann á meðan hann var að laga til á henni treyjuna.

"Svona. Nú ætla ég að kyssa þig - í treyjunni minni. Kyssa þig vel, verulega vel. Það er svo langt síðan ég hefi náð í þig til þess."

Hún var eins og laufléttur lopi í faðmi hans. Hann lyfti henni upp um leið og hann vafði hana að sér.

"Ó, Þorsteinn, Þorsteinn! Þú gerir út af við mig. Hvað hugsarðu, elskan mín, að kreista mig svona fast?"

"Fyrirgefðu mér! Ég ræð mér ekki af gleði yfir því að hafa þig nú aftur í faðminum."

"Þú ert alltaf svo harðleikinn -!"

"Ó, mér þykir svo vænt um þig. Heyrðu, lofaðu mér að líta fram í þig við tunglsljósið, - svona. En hvað þú ert föl, elsku vina mín! En mér þykir þú enn þá fallegri fyrir fölvann. Og varirnar á þér eru bláhvítar. Nú ætla ég að kyssa þær, - ofur varlega, aðeins til þess að þær roðni ofur lítið. Má ég það?"

Jáið drukknaði í kossinum.

"Og svo ótætis baugarnir hérna neðan undir augunum. Ég má til að kyssa þá líka."

"Hverjum eru þeir að kenna?"

"Guði. - Hverjum ættu þeir að vera að kenna öðrum? Ekki eru þeir mér að kenna! Þú ert ofur lítið flón, - en mér þykir svo undur, undur vænt um þig."

Þau þögðu um stund og horfðu hvort á annað, hálfdrukkin af ástarsælu. Hann brosti gletmislega og ýtti hárinu frá gagnaugum hennar, svo að ekkert skyldi skyggja á ennið. Hún þurfti að horfa hátt til að sjá framan í hann. Andlit hennar var hýrt og blíðlegt, eins og englaandlit málaranna, en fölt eins og andlit tunglsins.

Ástin hafði haft gagnstæð áhrif á þau. Þorstein hafði hún stælt; Jóhönnu hafði hún veiklað. Hún gat aldrei hrundið úr huga sínum óljósum ugg og kvíða fyrir því, að hún fengi aldrei að njóta Þorsteins meira en búið væri. Við þennan kvíða barðist hún í kyrrþey, og hann gerði hana hikandi og hrædda. Nú síðast var hún stundum farin að finna til óeðlilegrar þreytu og taugaveilinda. Svefninn var henni ótryggur og hana dreymdi endalaust rugl, sem hún hugsaði mikið um og reyndi að ráða. Aldrei gat hún hrist þennan ótta af sér, nema þegar hún var ein hjá Þorsteini.

En nú var það ekki einhlítt lengur. Mitt í því, er hún horfði framan í hann, glaðlega brosandi, breyttist svipur hennar og varð angurblíður. Henni flaug í hug, að ef til vill ætti hún að missa hann.

"Heyrðu, elskan mín," mælti hún blítt og hjúfraði sig að barmi hans. "Heldurðu, að við giftumst nokkurn tíma?"

"Hvað áttu við?"

"Ég á við það, hjartað mitt, hvort við munum nokkurn tíma bera gæfu til að verða hjón."

Þorsteinn brosti barnalega góðlega:

"Við erum hjón, elskan mín."

"Nei, við erum ekki hjón."

"Þann dag, sem við játuðum hvort öðru ást okkar, gaf guð okkur saman. Síðan hefir hann lagt blessun sína yfir okkur á hverjum fundi okkar. Er það ekki nóg?"

"Þú snýrð út úr fyrir mér. Það er ljótt af þér!"

Hann faðmaði hana að sér aftur:

"Ég á þig - og sleppi þér aldrei!"

"En presturinn þarf að gefa okkur saman."

"Það gerir hann undireins og honum er boðin spesía."

"Já, en hvenær verður það?"

"Heldurðu, að við verðum sælli þá?"

"Já - ég,"

"Jæja, elskan mín. Það líður að því."

"Ó, ég er svo hrædd - "

"Þú ert alltaf hrædd, hjartað mitt. Ertu hrædd um, að ég yfirgefi þig - eins og nú er ástatt? Þorirðu ekki að treysta mér?"

"Jú, jú!"

"Kysstu mig þá því til staðfestu. - Svona! - Vertu svo ekki hrædd lengur."

"Heyrðu, - við getum ekki leynt þessu lengur. Allt vinnufólkið veit það, og mamma þín fer að komast að því."

Þorsteinn varð dálítið alvarlegur:

"Nú, jæja. Það var einmitt um þetta, sem ég ætlaði að tala við þig í þetta sinn. Vertu áhyggjulaus. Ég skal brjóta ísinn fyrir okkur báðum. Ég hefi öll beinin til þess."

Óttinn hvarf aftur úr svip Jóhönnu. Hún virti unnustann fyrir sér. Þennan herðabreiða, hraustlega ungling átti hún - og engin önnur. Var ekki syndsamlegt af henni að vantreysta honum?

Þorsteinn hélt áfram:

"Ég þarf að yfirvinna foreldra mína. - Pabbi verður mér varla mjög erfiður; hann er stundum sanngjarn, karlinn. Ég er miklu hræddari um mömmu. En veistu, hvað ég geri þá?"

"Nei, hvernig ætti ég - ."

"Nei, það er ekki von. - Þá giftist ég þér hvað sem mamma segir. - Pabba þykir aldrei eins vænt um mig eins og þegar ég kem heim af grenjunum á vorin. Þá er ég búinn að reka af honum ámælið, sem það bakaði honum að taka mig, 15 ára gamlan, fyrir grenjaskyttu. Þá gerir hann allt, sem ég bið hann. Þegar ég kem af grenjunum í vor, ætla ég að biðja hann að lofa mér að giftast þér. Svo læt ég hann fást við mömmu okkar vegna. Hann er þéttur fyrir, þó að hann fari hægt. Svo giftum við okkur fyrri hluta sumars. Er þetta ekki vel hugsað?"

"Jú, - en þetta er svo langur tími, elskan mín -."

Jóhanna gat ekki annað en hugsað með kvíða til þeirra þriggja mánaða, sem enn þyrftu að líða að minnsta kosti, þar til þau mættu kannast við ást sína fyrir öllum mönnum. Hverju átti hún að svara öllum þeim spurningum, sem að henni yrði beint allan þennan tíma? Hvernig átti hún að standast öll þau augu, sem á hana yrði litið, allt það skens, sem hún fengi að heyra? Allt mundi þetta verða hlutskipti hennar einnar. Og svo þegar brúðkaupsdagurinn loks kæmi, - mundi hún þá geta verið á fótum? En allt vildi hún þola hans vegna.

En við þessum áhyggjum vildi hún hlífa honum. Vissan um það, að hann ætlaði ekki að yfirgefa hana, hvað sem móðir hans segði, vó móti þessu öllu og gerði hana aftur himinglaða.

"Ég er ekki kominn til löglegs giftingaraldurs fyrr en seint í maí. Í næsta mánuði þar á eftir - júní - verðum við hjón. Hvernig líst þér á það?"

Jóhanna grúfði sig við barm hans: "Hjartans vinur minn!" sagði hún angurblítt.

Þorsteinn brosti og faðmaði hana að sér:

"Hefir þér dottið í hug, að ég mundi bregðast þér? - Ekki þótt allur heimurinn risi gegn okkur. - Vertu nú glöð og brostu framan í mig! - Líttu á mig! Heldurðu ekki, að ég sé maður til að vinna fyrir okkur báðum?"

"Fyrirgefðu mér, en - ég er svo hrædd -!"

"Við hvað ertu nú hrædd?"

"Þú ert svo stórhuga, elskan mín. Ég er svo veikbyggð og ístöðulítil. - Ég er hrædd um, að ég verði þér einskisverð kona."

"Ekki annað. - Þá fer ég svona með þig: tek þig upp í fangið og ber þig yfir allar torfærur - og kyssi þig svo! Er ég þá ekki góður?"

- - Sá "kringluleiti" hallaði heimspekilega á kjammann, þegar hann leit yfir Hvammsdalinn þetta kvöld og bar við brúnirnar á núpnum. Ekkert er jafnhátíðlega alvarlegt og andlit mánans, og engu fer alvaran jafnskoplega.

Hann tekur þó ekki til þess, þó að hlegið sé að honum. Hann fyrtist jafnlítið við athugasemdir mannanna og spangól hundanna; hann er yfir slíka smámuni hafinn. Margt hefir hann séð úr hæðum sínum, en þögull er hann; forvitur er hann, en ekki forvitinn. Yfir marga heimskuna hefir hamm skinið, en aldrei breytir hann svip sínum. Engar af geðshræringum mannanna hafa áhrif á hann. Þar er alltaf sama blessuð værðin. Nótt eftir nótt lýsir hann mannkyninu endurgjaldslaust, án þess að miklast af greiðvikninni. Nótt eftir nótt umturnar hann öllu á jörðunni frá því, sem það var í dagsbirtunni, gerir spémyndir úr öllu, án þess honum stökkvi bros. Nótt eftir nótt glepur hann mönnum sýn, gerir þeim skynvillur, eins og útsmoginn miðill, laðar þá, togar og töfrar, þar til þeir vita ekki sitt rjúkandi ráð; heillar þá í vökudrauma með sjónhverfingum sínum, veiklar taugar þeirra með villandi gliti, lamar viljann gegn ástríðunum og vekur öldur þrárinnar á djúpi hugans. Nótt eftir nótt svæfir hann kvíðann og efann í viðkvæmum sálum, gerir huganum glöp ekki síður en augunum, breytir fjarskyggninu inn í heim framtíðarinnar, slær silfurbjarma sínum á opnar vakir og hvíslar með mjúkleik höggormstungunnar lyginni í eyru hinna saklausu og trúgjörnu.

Máni, máni, þú ert stórsyndugur! Enginn veit, hve mikið af böli jarðarinnar er gerningum þínum að kenna.

Hann lét sér einkar annt um Hvammsdalinn þetta kvöld og var búinn að gera hann að undarlegu skrípi. Skugginn af núpnum var helblár. Silfurbökuð tröll stóðu á brúninni og rýndu ofan í sortann, hvort bærinn væri þar enn. Frammi á vatninu glitraði og ljómaði ísinn með þúsund villuljósum. Hinum megin dalsins var allt óþekkjanlegt. Þar var kominn nýr himinn og ný jörð - iðandi, glitrandi breiða. Stjörnur skinu gegnum hálsana; hnúkar blikuðu uppi á milli stjarnanna. Bæir og hús voru alls staðar og hvergi. Hvarvetna var eitthvað á ferð, - kindahópar, heyæki, kýr með kálfa, lestamenn, tryppastóð. Allt stóð það kyrrt, þegar á það var litið; allt fór það á kreik, ef því var gefið hornauga.

En út úr Álfakvíunum leiddust tvær verur. Tröllin á brúninni rýndu fast, því að jafnskrítið höfðu þau aldrei séð. Annað var karlmaður - á skyrtunni, eins og hann ætlaði að fara að slá. En hitt? Var það karlmaður í pilsi eða kvenmaður í karlmannstreyju? "Svei!" sögðu þau og grettu sig. Þau höfðu lært það af mönnunum - og hundunum - að dæma eftir búningum. -

Þau Þorsteinn og Jóhanna gengu langan krók út á ísinn á Hvammsvatni á leiðinni heim. Nú voru allar blár signar þar niður og ísinn stamur með hálum blettum.

Jóhanna var orðin létt í lund eins og barn. Hún hallaði sér fast á handlegg unnustans og renndi sér fótskrið við hlið hans, þar sem hálir blettir urðu fyrir. Stundum tyllti hún varla fótum á svellið, en leið áfram eins og dís. Hún hló að öllu, einkum því, hve skuggarnir þeirra voru langir og svartir. Langt var síðan hún hafði verið jafnglöð og áhyggjulaus.

Meðal annars sagði hún þá Þorsteini draum, sem hana hafði dreymt fyrir nokkrum nóttum síðan. Hún þóttist þá vera stödd uppi í Heiðarhvammi, vera komin í hvítan brúðarkyrtil og ætla þaðan til kirkjunnar.

Þorsteinn réð drauminn svo, að hann væri sanndreymi. Þannig mundi hún verða búin, þegar hún færi til kirkjunnar með honum. Heiðarhvammur væri draumvilla; þar ætti auðvitað að vera Hvammur.

Þegar þau komu heim á hlaðið, tók Þorsteinn aftur við treyju sinni og kyssti unnustuna að skilnaði. Þar skildu þau og urðu ekki samferða inn í bæinn.

Þá stóð maður með margvafinn ullartrefil um hálsinn við gluggann á skálaþilinu og beit á jaxlinn af gremju. Hann hafði tekið eftir því, hverja vantaði í baðstofuna, og þegar aðrir voru sofnaðir, bjó hann um "hálsbólguna" eftir bestu föngum og laumaðist á fætur.

Þar hafði hann staðið berfættur á köldu gólfinu langa hríð og beðið þeirrar hugraunar að sjá stúlku þá, sem hann unni, í faðmi annars manns.

Hann beið góða stund eftir að þau voru bæði komin inn í bæinn. Þegar hann þóttist viss um, að þau væru bæði sofnuð, læddist hann aftur til sængur sinnar.


3. kafli

Veturinn steig þungt til jarðar á kotunum fyrir ofan fjallgarðinn. Þar höfðu verið alger jarðbönn síðan snemma á jólaföstu. Blotarnir, sem bræddu saman þorra og góu niðri í dölunum, unnu þar ekkert á. Geislar góusólarinnar hrökkluðust máttlausir yfir samfellda hjarnbreiðuna. Hvergi sá á dökkan díl, nema klettabrúnirnar á fjöllunum

Heiðarhvammur var fenntur í kaf fyrir löngu. Hefðu ekki mannahendur varið hlaðið og gluggatóftirnar, þá hefðu húsin verið vandfundin. Skaflarnir lágu með líðandi halla út af húsamænunum og hurfu saman við snæbreiðuna án þess túnmarkanna yrði nokkurs staðar vart. Djúpar kvosir voru fram af bæjardyrunum og baðstofuglugganum. En þær fyllti á hverri nóttu, og stundum var orðið slétt af öllu á morgnana.

- En undir þessum mjalldyngjum hreyfðist lífið í ýmsum myndum. Viðarteinungarnir bældu sig niður undan þyngslunum, hringuðu sig og krækluðust saman. En þeir voru þíðir. Ekkert frost náði ofan til þeirra, en ofur litla bláleita glætu lagði gegnum snjóinn, þegar sólin skein á hann. Þar bjuggu þeir sig í kyrrþey undir komu vorsins. Þeir þurftu að vera við því búnir að geta tekið til óspilltra málanna undireins og sólin næði til þeirra. Sumarið var svo stutt. Þeir urðu vanskapaðir af þessari kreppu; en þeir voru harðgerðir að upplagi og þróttmiklir.

Grösin og blómin fóru að dæmi þeirra. Alls staðar voru hægfara efnabreytingar, hægfara vöxtur og hægfara starfsemi. En það vinnst mikið með hægðinni. Sólin átti í vændum að heilsa allt annarri jörð en hún hafði kvatt.

Einn þáttur lífsins barðist baráttu sinni og bjó sig undir komu vorsins undir sköflum þeim, er þöktu þekjurnar á Heiðarhvammi. Menn og dýr og jurtir eru skyldari og tengdari en mennirnir í yfirlæti sínu koma auga á oft og tíðum. Hin mikla móðir gerir þeirra ekki mikinn mun. Öll lætur hún þau kenna á óblíðu sinni, og öll lætur hún þau finna skjól við brjóst sitt. Og einmitt snjóþyngslin hlúðu að húsunum í Heiðarhvammi og hlífðu þeim, sem þar voru inni, fyrir grimmd frostsins, á sama hátt og þau hlífðu viðarteinungunum.

Samt var þar öllu nokkur hætta búin. Loftið spilltist hverja nótt, svo mönnum og skepnum lá við köfnun, og myrkrið gerði augun óeðlilega viðkvæm. Hörund mannanna varð bleikt og blóðlaust, og á sinnið lagðist einhver drungi - undarleg löngun til værðar, helst endalauss svefnmóks; skepnurnar urðu fjörlausar, hálflystarlausar og vildu helst hvergi vera nema í húsunum. Kýrin jóðlaði heyið sitt hálfdottandi, og mjólkin í henni fór minnkandi með hverju máli.

- Ólafur hafði aldrei búist við slíkum vetrarharðindum. Þó bar öllum saman um, að þessi vetur væri heldur mildari en í meðallagi.

Hann hafði aldrei trúað því, að allt það kvistlendi, sem var umhverfis Heiðarhvamm, gæti farið svo gersamlega í kaf, að hvergi sæist angi upp úr. Nú reyndist þó víða svo álnum skipti ofan á hæsta limið.

Eiginlega var öll fjármennska Ólafs í því falin að kunna að beita fé úti. Þegar það brást, var honum lokið. Að skepnuhirðingu inni við skaraði hann ekki fram úr neinum meðalmanni.

Hann hafði treyst á útibeitina í Heiðarhvammi. Og þegar snjónum kyngdi niður fyrri hluta vetrarins, vildi hann ekki láta það á sig ganga, að ekki væri hægt að beita fénu. Það verk, sem Ólafur vann þá, sá enginn og þekkti enginn; annars hefði það vakið almenna aðdáun. Hann tróð sjálfur fyrir fénu út í hagann og kenndi því að elta sig. Hundinn lét hann gæta þess, að ekkert yrði eftir af því. Þegar þangað var komið, mokaði hann ofan af móunum fyrir því, eða braut á skelinni á snjónum, ef hún var harðari en svo, að klaufir kindanna ynnu á henni. Kindurnar ruddust utan að honum, þar sem hann var að moka, því allar vildu þær verða fyrstar að ná til jarðarinnar. Þær duglegustu hjálpuðu honum til með því að krafsa út frá mokstrinum.

Í þessu striti stóð Ólafur mestan hluta dagsins. En þegar allt féð hafði náð til jarðar og var búið að seðja sig, gekk hann frá því til að kanna móana og leita að bletti, þar sem grynnstur væri gaddurinn og best undir, í því skyni að bera þar niður næsta dag.

Í myrkrinu á kvöldin byrjaði önnur baráttan, við að koma fénu heim að húsum. Þá var fennt í slóðina frá því um morguninn. Þá var einnig fennt í ullina á fénu, svo að sumt af því gat varla borið sig fyrir þyngslum og vildi ekkert annað en leggjast niður í fönnina. Hann varð því ýmist að vera á undan hópnum eða eftir honum, því að þá var seppa ekki treystandi. Veðrin hörðnuðu oftast með kvöldinu, og oft gekk Ólafi illa. En ekki æðraðist hann; hann var þessu öllu vanur frá fyrri árum og vissi, að þolinmæðin sigrar alla örðugleika. Þótt hann yrði fram undir morgun, vildi hann ekki gefast upp, fyrr en hann hefði komið öllu fénu í hús - eða liggja úti hjá því að öðrum kosti.

Eftir slík dagsverk er maður birgur að þreytu, en líka að ánægju, til næsta morguns. Og á meðan Ólafur beitti fénu, voru dagarnir fljótir að líða.

En þar kom, og það von bráðar, að engin tök voru á því. Ófærðin var orðin svo mikil, að ókleift var að koma fénu út í hagann. Og þótt það kæmist þangað, var snjórinn orðinn svo djúpur og barinn saman, að enginn vegur var að moka svo, að allar skepnurnar næðu til jarðar. Þá varð Ólafur að taka allan pening sinn á gjöf.

Ólafi duldist það ekki, að hann var langt frá því við því búinn að gefa fénu fram á vor. Enda trúði hann því ekki enn þá, að svo mundi fara. Nú var það aðeins eitt, sem hann beið eftir daglega, bað guð daglega um og var sannfærður um, að hlyti að koma. Það var hlákan.

Oft reis hann upp úr rúmi sínu á nóttunni og skyggndist eftir, hvort hlákan væri ekki komin. Hann gat markað það á hélunni á glugganum. Ef hlákan væri komin, þá hlaut hún að renna af.

Seint á þorranum kom hlákan. Eina nótt vaknaði Ólafur við það, að vatnið draup jafnt og þétt úr gluggakistunni ofan á borðið, en rann í læk út af því og ofan á gólfið. Hann sá ekki út, því að skafl var á glugganum, og í baðstofunni sást ekki handa skil. En hann gat ekki sofnað fyrir gleði það sem eftir var næturinnar.

Þetta var hlákan, sem áður var sagt frá.

Ólafur heyrði þungan hvin í loftinu, en vissi ekki fyrr en um morguninn, hvílík undur höfðu gengið á um nóttina. Húsin tóku ekki mikið á sig. Um morguninn var veðurhvinurinn hálfu minni, en veðrið þó svo mikið, að við lá að hann yrði að skríða á milli húsanna á túninu.

Umhverfis var orðin mikil breyting. Hengjurnar í fjöllunum, beggja megin bæjarins, höfðu brotnað fram og snjóflóðið runnið langt ofan í móa. Áin hafði rutt sig á löngum köflum og kastað hrönn af þykkum jökum upp á báðar skarirnar. Nú lét svo hátt í henni, að orgin heyrðust heim að bænum gegnum veðurhvininn. Snjórinn hafði sigið mikið, en þó sá hvergi á auða hnjóta nálægt bænum. Svell voru hvergi og hvergi pollar. En þar, sem Ólafur sökk dýpst í snjóinn, var krap undir.

Þessi hláka færði Ólafi ekki meiri gleði en búið var. Allan daginn var aðeins frostlaust hvassviðri, sem feykti skara og jafnvel heilum klakaflögum. Engri skepnu var etjandi á móti því; enda átti engin skepna erindi út, því að jörð kom engin upp.

Eftir þennan eina hlákudag fór aftur að frjósa. Þá varð snjórinn glerharður og snarpur eins og hvít hraunhella, svo að hvergi markaði fyrir spori.

Þá skildist Ólafi það til fulls, að annaðhvort yrði hann að skera niður féð til þess að létta á heyjunum, eða leita til nágrannanna um heyhjálp.

Hvorugt var gott.


Halla hafði sárkviðið fyrir vetrinum; en þegar hann kom, var hann henni ekki svipað því eins þungbær eins og hún hafði búist við.

Hverjum degi var upp skipt fyrir fram milli alls konar starfa. Allt inni við og margt heima við utan bæjar heyrði undir hennar verkahring. Haustannirnar náðu langt fram á veturinn.

Salka krafðist síns hluta af tímanum. Hún hafði ekki verið tekin til þess eins að éta og vinna svo mikið fyrir matnum sem hún gæti. Hún átti líka að læra - bæði til munns og handa. Og Halla hafði snemma komist að því, að engin frágangssök var að kenna henni.

Um jól var Salka búin að læra fræðin utan bókar og gat haft þau yfir nokkurn veginn skýrt. Einstök vers var hún líka búin að læra, og nú átti hún að fara að læra heila sálma og bænaljóð. Upp á þetta átti að ferma hana um vorið.

En hún var líka búin að læra að prjóna, og gerði það viðunanlega. Einnig hafði hún lært að bæta skóna sína og annast minni háttar aðgerðir á fötum sínum, þvo sér og hirða á sér hárið. Ekkert af þessu hafði hún kunnað, þegar hún kom frá Brekku.

Og það sem mest var um vert - hún hafði lært að hlýða - ekki af ótta, heldur af ást og virðingu. Hún vakti gaumgæfilega yfir hverri bendingu Höllu, jafnvel hverri hugsun hennar, til þess að vera til reiðu að gera henni þægð.

Lengi fram eftir hafði Halla verið hrædd um, að þessi gæði Sölku mundu ekki verða langvinn. Þau reyndust þó svo. Nú var hún úr öllum efa og treysti Sölku til fulls. Og nú var Salka orðin henni kærari en nokkru sinni áður.

Öðruvísi gekk með samkomulag þeirra Sölku og Ólafs. Salka hafði aldrei getað fengið neina ást á honum og leit eiginlega aldrei á hann sem húsbónda. Ólafur gaf sig líka lítið að henni.

Þó var það eitt sinn um sumarið, að Ólafur ætlaði að skipa Sölku eitthvert verk. Salka gegndi honum ekki, fór sínu fram og var önug við hann. Þá ætlaði Ólafur að sýna henni, hver væri húsbóndinn, og reka hana með harðri hendi að því, sem hún átti að gera. Salka varð því verri og tók á móti. Tókust þá með þeim sviptingar, og var Salka verri viðfangs en Ólaf hafði grunað.

Halla hafði heyrt orgin í Sölku og kom þangað til að skakka leikinn. Þá var Salka orðin svo hamslaus af reiði, að hún vissi ekkert, hvað hún gerði, og búin að bíta Ólaf, svo að blæddi úr honum.

Halla ætlaði að verða ráðalaus að sefa hana, en loks gat hún þó komið þeim skilningi inn hjá henni, að hún hefði gert rangt og þetta væri ljótt. Ólafur væri húsbóndi hennar og ynni fyrir henni, og hún ætti að vera honum góð og eftirlát, engu síður en Höllu sjálfri.

Í raun og veru féll Höllu þetta atvik þungt, því bæði kveið hún fyrir því, ef hún þyrfti stöðugt að standa á milli þeirra Ólafs og Sölku, og í öðru lagi sá hún fram á það, að þá varð hún að láta Sölku frá sér.

Salka fann til þess, hve Halla tók sér þetta nærri, og komst við af því. Hún bað þá Höllu fyrirgefningar á því og lofaði að gera það aldrei aftur. Og það efndi hún. En Ólafur var jafnan hálf-hræddur við hana síðan.

Um haustið og fram eftir vetrinum, á meðan Ólafur beitti fénu úti, voru þær Halla og Salka oftast einsamlar í bænum. Salka elti hana þá út og inn, alltaf eitthvað að hjálpa henni og alltaf eitthvað að masa við hana. Hún þurfti að spyrja um alla skapaða hluti milli himins og jarðar; hún var óseðjandi að forvitni og ótæmandi af spurningum. Spurningar hennar voru barnalegar og blátt áfram, en sjaldan heimskulegar. Oftast lét hún sér nægja svörin, þó að þau tækju ekki af öll tvímæli.

Allar þessar spurningar hafði hún byrgt inni á meðan hún var á Brekku. Þar leiddust öllum spurnigar hennar. Sumir svöruðu henni út úr, hlógu að henni og stríddu henni. Aðrir sneyptu hana fyrir spurningarnar. Þá hætti hún að spyrja og braut heilann sjálf yfir ráðgátum sínum.

Þegar þær voru setstar að inni, sagði Halla henni sögur eða kenndi henni vísur og kvæði. Salka sat þá oftast á kistli við rúmstokkinn hjá henni og starði á hana stórum, gráum augum löngum stundum saman, án þess að sinna verki því, sem hún hafði handa á milli. Það var sem sæi hún yfirnáttúrlega veru. Hugur hennar teygaði hvert orð, sem Halla sagði. Það, sem hún nam, rifjaði hún aftur upp fyrir sér í einrúmi, eða jafnvel á milli dúranna á nóttunni. Halla var meira en húsmóðir hennar í andlegum skilningi og meira en fóstra hennar; hún var móðir hennar. -

Þegar Ólafur var hættur að beita fénu úti, færðist smám saman einhver híðbjarnarbragur á heimilislífið, einhver hálfmóks höfgi, sem var í ætt við vetrarsvefninn. Þá var farið fyrr að hátta á kvöldin og mikið seinna farið á fætur á morgnana. Ólafur hafði þá engu öðru að sinna en gegningum. Hitt var varla með verkum teljandi, að moka frá bæjardyrunum og halda lindinni opinni, svo að hægt væri að ná í neysluvatn. Allar nauðsynjar voru dregnar saman í bænum, svo að lítið þurfti út að sækja.

En það var sem eitthvert farg hvíldi á glaðværð þeirra Höllu og Sölku, þegar Ólafur var við. Hann tók sjaldan þátt í samtali þeirra, en sat tímunum saman hálfdottandi, þó að hann hefði eitthvert verk með höndum að nafninu til. Hann virtist vera niðursokkinn í hugsanir sínar, og þeim fannst synd að trufla hann. En þegar ekki var skrafað við Sölku, fór hún að draga ýsur. Þá var það í raun og veru ekki nema Halla ein, sem vakti.

Það var því hrein og bein fagnaðarhátíð, þegar gestir komu.

Rúmið gagnvart hjónarúminu stóð jafnan til reiðu og beið næturgesta. Og ef þeir voru fleiri en svo í einu, að rúmið nægði, var þó gert allt, sem hægt var, til að kom þeim fyrir í baðstofunni.

En næturgestir voru sjaldgæfir.

Umferð um heiðina lagðist niður að mestu í skammdeginu. Hún var of löng skammdegisferð.

Helst voru það menn úr innstu dölunum, sem fóru fjallabaksleið út í kaupstaðinn. Hún var nokkru styttri en leiðin um byggð, og akfæri oftast betra um heiðarnar. Oftast voru þeir margir samferða í þeim leiðangri og gistu þá á heiðarkotunum, Bollagörðum og Heiðarhvammi; stundum þurftu þeir þá að sitja um kyrrt veðurtepptir. Þessar ferðir voru tíðastar fyrir jólin.

Þegar svo stóð á, var glaumur og gleði í Heiðarhvammi. Baðstofan var troðfull af gestum og Halla önnum kafin að gera þeim þann greiða, sem hún gat. Þá glaðvaknaði Ólafur; ekkert var honum betur að skapi en gestakomur. Gestirnir gerðu sér vistina svo þægilega sem kostur var á og voru ekki heimtufrekir. Glaðværðin er fylgikona margmennisins. Rímur voru kveðnar, sögur sagðar, gátur upp bornar og glettni höfð í frammi. Á þessu gekk alla kvöldvökuna. Sætu menn veðurtepptir, gekk gáskinn úr hófi fram; þá voru allar alvarlegar hugsanir reknar á dyr. Unglingarnir stríddu eldri mönnunum, þangað til þeim hálfsárnaði. Að reiðast var að gera illt verra; og áður en karlarnir vissu af, voru þeir farnir að kveða við rymjandi raust og skotra augunum íbyggilega, þeim yngri til óstöðvandi hláturs.

Halla gat tekið góðan þátt í þessari glaðværð, þegar hún gaf sér tóm til þess. Hún var vel heima í því, sem mest var haft til skemmtunar. Rímur og þulur kunni hún utanbókar og vílaði ekki fyrir sér að kveða þær fyrir gesti eða kveðast á við aðra. Það þótti lítill sæmdarauki í hóp gestanna að bíða ósigur fyrir henni; þó urðu flestir fyrir því, sem reyndu.

Fljótt lagðist það orð á, að miklu væri skemmtilegra að gista í Heiðarhvammi en Bollagörðum, þó að bæði kotin væru jafnfátæk.

Eftir að gestirnir voru farnir, varð kotið miklu dauflegra en áður. Kyrrðin varð hálfu ömurlegri, myrkrið hálfu helkaldara og fásinnið hálfu þungbærara. Gestaglaðværðin ómaði lengi í þögninni og tómleikanum, en færðist miskunnarlaust fjær og fjær. Þá kom bróðir dauðans, svefninn, sljóleikinn, og réðst á manneskjurnar með tærandi heljarafli.

Næturnar liðu milli svefns og vöku. Draumar voru miklir og erfitt að greina, hve mikið af þeim var dreymt í svefni. Hjörtun slógu hægt og slagæðarnar bærðust varla. Andardrátturinn var þungur eins og farg á brjóstunum. Hver taug, hver æð, hver vöðvi í líkamanum sendi hljóða bæn til skapara síns: Drottinn, sendu vorið, með sólskinið, útiloftið, vinnuna, þreytuna og hinn sæla, væra svefn; annars deyjum við.

Ólafi leiddist. Hann fór þá stundum ofan í sveit og var að heiman eina eða tvær nætur í einu.

Höllu leiddist ekki, því að hún hafði allajafnan nóg að starfa, og þegar Ólafur fór að heiman, bætti hún á sig verkum hans.

Manneskja, sem hraust er á sál og líkama og hefir endurunnið jafnvægi sitt efrir þunga baráttu, hefir gleðina fólgna í sjálfri sér. Henni er kyrrðin og einveran lengi kær, því að hugurinn hefir jafnan nóg að starfa. Og honum er bjart fyrir augum jafnvel í skammdegismyrkrinu.

Þannig var Höllu farið. Þegar hún sat ein uppi og þau Ólafur og Salka sváfu eða hálfsváfu, eða þegar hún lá andvaka og starði út í næturmyrkrið, tók ímyndunarafl hennar til starfa og gerði stundirnar furðufljótar að líða.

Ævintýri æskunnar rifjuðust upp fyrir henni. En nú voru þau meira en sagðar sögur, nú fengu þau svip veruleikans, líf og liti. Hún var með í leiknum og hinir leikendurnir brostu við henni, svo að henni hlýnaði um hjartaræturnar. Jörðin laukst upp og undirheimar skinu við henni. Dætur undirheimakóngsins voru sjúkar af ást til mennskra manna og vildu heldur vera vinnukonur á sveitabæ ofan jarðar en prinsessur í lýsigullshöllinni. - Fjöllin liðu burtu og fylgsni útilegumannanna sáust. Þar sátu mæddar mæður, sem borið höfðu útlegðina vegna ástarinnar, og kenndu sonum sínum uppkomnum að biðja til guðs og verða góðir menn. - Í helli hamratröllsins sat prestsdóttirin innilukt, orðin helblá, nema skírnarkrossinn á enninu, og þráði það eitt að heyra sungna Hallgrímssálma.

En skýrastar og ógleymanlegastar urðu henni þær myndir, sem rímnaskáldin höfðu kveðið inn í hug hennar. Svipmiklar sýnir brutust úr dróma ríms og stuðla. Kenningahjúpurinn féll af þeim eins og ryð af björtu stáli, og myndirnar liðu fram hjá henni, skýrar og hátignarlegar, með vopnabraki, hreystibrag og ástarsöngvum. Hún sjálf varð skjaldmær og leið inn í leikinn.

Hún sá Grím hinn prúða sækja Ólöfu sína á brúðarbekkinn í höll Ketils raums, bera hana í fanginu út á skip sín og sigla til Íslands. - Hún heyrði andvarp Ketilríðar fögru, þegar bóndi hennar datt á Gautavíkur-túni, en Víglundur gekk dulnefndur við hlið hans. - Hún stóð í örvadrífunni, þegar Jómsvíkingar börðust á Hjörungavogi, sá Hákon jarl blóta syni sínum, en Búa digra smeygja blæðandi handleggjastúfunum í gullkistuhringana, steypa sér fyrir borð og verða að ormi. - Hún sá Orminn langa síga fyrir áratogum fram hjá Svoldur og sambandsflotann róa út á móti honum. Hátt bar Ólaf Tryggvason í rauðum kyrtli. Að orustunni lokinni var skipið mikla dregið burt á hliðinni. - Hún stóð í þekjurofinu við hlið Gunnars á Hlíðarenda og sneri honum bogastreng úr hári sínu, þegar önnur neitaði; en bogastrengurinn kom of seint. - Hún var á skipum Úlfars sterka, þegar hann og Önundur fríði sigldu burt með Matthildi, en "Ægir starði eins og hann væri hissa" á fegurð hennar; enda hafði hún kostað 27000 manns og 12 kóngssyni(!). - Hún stóð við hvílu Svanhvítar drottningar, þegar Högni missti Andranaut ofan á brjóstið á henni; drottningin vafði að sér klæðum og leyndi sárinu. -------------------

Þegar hið nálæga er dimmt og dapurt, flýgur hugurinn til fjarlægra heima, þar sem hlýrra er og bjartara. Og vanti þá, verður honum ekki skotaskuld úr að skapa þá. Margt slíkra heima hafa hugir íslenskra alþýðumanna skapað á hljóðum skammdegisnóttum. Það er auður vor í fátæktinni.

Í þeim heimum reika mæðurnar með börn sín undir brjóstum. Inn í þá leiða þær syni sína og dætur, þegar þau komast á legg. Þeir ganga í arf frá kynslóð til kynslóðar.

Þegar á leið veturinn, varð dálítil breyting á heimilislífinu í Heiðarhvammi. Ólafur varð að fá stúlku lánaða um tíma til þess að annast húsmóðurstörfin, því að Halla lagðist á sæng og heiðarbýlishjónunum fæddist erfingi.

Heima í Hvammi gekk eins konar sinnisveiki. Flestir á heimilinu voru meira og minna sýktir. Þorbjörn var engan veginn þyngst haldinn.

Sjúkdómseinkennin voru fálæti og hljóðleiki, en þó einkum hljóðskraf. Menn voru hættir að skrafa hátt, hættir að "skvetta sér upp," hættir að skella á eftir sér hurðunum. Alls staðar var dauðakyrrð, eins og einhver lægi í andarslitrunum. Það var ótti og kvíði í augnaráði manna, angist í hvíslinu og fát á öllu fasi. Höfuðbólið stóð á barmi glötunarinnar.

Orsökin var sú, að neistinn var kominn í púðurtunnuna. - Borghildur var búin að fá að vita leyndarmál þeirra Þorsteins og Jóhönnu.

Hún hafði ekki sprungið, ekki funað upp, - því miður! Nú vissu allir, að hún bjó yfir einhverju.

Hún gekk um bæinn svipþung og fámælt, skammaði engan, jagaðist ekki við neinn, gaf aðeins stuttar og skýrar skipanir.

Þetta var miklu verra en að hún væri eins og hún var vön. Hjúin engdust saman fyrir augnatilliti hennar, og Egill var mjög sjaldan heima.

Þorbirni var bötnuð "hálsbólgan." Hann var eini maðurinn, sem þorði að yrða á húsfreyjuna.

Jóhanna sá, hvar komið var, og grét yfir því mörgum stundum. Borghildur lést hvergi sjá hana. Jóhanna tók sér þögn hennar og kulda mjög nærri.

Þar við bættist, að heimafólkið var farið að tala skýrar um ástæður hennar með hverjum degi. Hún fann að vísu hluttekningu þess, en henni voru spurningar þess ógeðfelldar.

Eini maðurinn á heimilinu, sem ekki lét raska ró sinni, var Þorsteinn. Hvort sem hann var að vinnu í smíðahúsinu eða hann gekk að heiman með byssu sína, var hann glaðlega brosandi, - þegjandi og brosandi, eins og hann var ætíð. Í brosinu var fólgið sjálfstraust og bjartsýni. Og þegar fundum hans og Jóhönnu bar saman, eyddi hann kvíða hennar með gælum og gamanyrðum og kyssti burt kvartanirnar af vörum hennar, - að minnsta kosti í bráðina.


4. kafli

Egill hafði sagt Borghildi konu sinni samtal þeirra Þorbjarnar í hlöðunni og það, sem hann vissi um leyndarmál sonar síns, en dauðsá þó eftir því, þegar hann sá, hve þungt henni féll það.

Ekki svo að skilja, að hann efaðist um, að hún mundi bráðum hafa frétt það úr annarri átt, heldur þótti honum það leitt, að hann skyldi hafa orðið til að segja henni það. Með því var hann orðinn meira við málið riðinn en hann vildi. Úr því að þau hjónin höfðu átt tal saman um þetta, vissi hann, að erfitt mundi sér veita að losna við það aftur; og þó gat orðið enn verra að fylgja því til lykta. Nú vissi Borghildur, að honum var þessi ráðahagur Þorsteins á móti skapi. Hefði henni verið ókunnugt um það, þá hefði hann kannske í lengstu lög getað hummað fram af sér öll afskipti af þessu máli. Nú mundi Borghildur óspart ota honum fram til framkvæmda, meðal annars til þess að koma þeim saman í hjónaband, Þorbirni og Jóhönnu.

Og það var einmitt þetta, sem hann kinokaði sér við. Gifting þeirra Þorbjarnar og Jóhönnu gat verið góð og blessuð, ef þau vildu það bæði. En nú gekk hann að því sjálfsögðu, að Jóhönnu væri það þvert um geð. Honum þótti illt að neyða hana eða nokkra manneskju aðra til annars eins, og það því fremur, sem Jóhanna var alin upp hjá honum og honum var hlýtt til hennar.

Egill bar gott skyn á það, hvílík óhamingja nauðungarhjónabönd eru, og eins hitt, hve illt verk það er að stía sundur elskendum, og hve illt af því getur hlotist. Þó varð líklega að gera það í þessu tilfelli.

Hann klóraði sér margsinnis í hnakkanum yfir þessu óheillamáli seinni part vetrarins og fram eftir vorinu. Þeim hafði komið saman um það, hjónunum, að fara að öllu gætilega. Að gera uppþot á heimilinu mundi litlu góðu fá til vegar komið. Og á meðan Þorsteinn væri heima við, mundi verða erfitt að fást við Jóhönnu. Þeim þótti því hyggilegast að láta þetta liggja í kyrrþey, þar til Þorsteinn færi á heiðina um vorið til að leita uppi greni og vinna þau.

Þá höfðu þau skipt þannig með sér verkum, að Egill skyldi tala við Þorstein í einrúmi, en Borghildur taka Jóhönnu að sér á meðan hann væri að heiman.


Einn dag seint um vorið gengu þeir að heiman frá Hvammi, Egill og Þorsteinn sonur hans, og stefndu upp á hálsinn. Sveinn vinnupiltur var farinn á undan þeim með nesti og fleira og átti að bíða Þorsteins í Heiðarhvammi.

Þykkviðri var á með kalsastormi og snjóhraglanda við og við.

Egill gekk álútur með hendurnar á bakinu og var hugsi. Hann var að velta því fyrir sér, hvernig hann ætti að koma orðum að þessu, sem hann þurfti að tala um við son sinn, og hvernig það mundi takast.

Þorsteinn gekk við hlið hans með tvíhleyptan aftanhlaðning á öxlinni og skothylkjabelti um mittið. Þessi byssa var hin fyrsta af því tagi, sem komið hafði þar í byggðarlagið, og þótti hin mesta gersemi. Lausakaupmaður, sem sigldi þar á hafnir, hafði keypt hana erlendis eftir beiðni Egils, en Egill gefið syni sínum hana í sumargjöf.

Þorsteinn gekk beinni en faðir hans, en þó lítið eitt lotinn. Hann var mjög dúðaður, búinn út til þess að þola vos og útilegur, svo að það fór engu minna fyrir honum en föður hans. Egill gaf honum hornauga við og við og dáðist að því með sjálfum sér, hve mannvænlegur hann væri.

Þegar þeir komu upp á hálsinn, fannst Agli rétt að komast að efninu umsvifalaust.

"Steini minn," mælti hann ofur föðurlega. "Mér fellur það miður, að þú skyldir nokkuð fara að skipta þér af þessari stúlkukind."

Það var eins og Þorsteinn vaknaði.

"Svo-o!" sagði hann eins og út í hött.

"Já, - þú veist, við hverja ég á."

"Ja, - ekki vel. Ég ræð þó líklega í það. Þú átt við Jóhönnu."

"Já, einmitt."

"Ég var búinn að hugsa mér að tala um þetta við þig, þegar ég kæmi aftur. En fyrst þú byrjar á því sjálfur - -. Nú, jæja. Við erum trúlofuð."

Egill hló við, en þó góðlega:

"Trúlofuð - ja, það er svo. Er það ekki eitthvað meira?"

Þorsteinn roðnaði við:

"Að hún er - vanfær - -?"

"Ég er ekki að áfella þig, drengur minn. Við erum allir breyskir og okkur ferst ekki að dæma hver annan. En ég hefði viljað mikið til þess vinna, að þetta hefði ekki komið fyrir."

Þorsteinn nam staðar og leit framan í föður sinn:

"En - ég ætla að eiga hana."

"Svo -? Einmitt það!" sagði Egill hálfhissa.

"Við ætlum að gifta okkur í sumar - áður en barnið fæðist."

"Nú-nú, - ekki öðruvísi!"

Egill var orðinn þungbrýnn. Eftir nokkra þögn bætti hann við: "Þú ætlar þá ekki að meta mikils vilja okkar foreldra þinna."

"Í þessu máli ætla ég að meta minn eiginn vilja mest. Ég á sjálfur mest á hættu."

Svarið var svo einbeitt og hiklaust, að Agli þótti vænt um það, þótt hann léti ekki á því bera.

"Já, auðvitað," mælti hann. "En blessun foreldranna, drengur minn -?"

"Ef hún fæst ekki með góðu, verður maður að bjargast án hennar."

"Jæja, svo þú lítur þannig á málið."

"Já, og ég hefi hugsað það svo vel sem guð hefir gefið mér vit á."

"Einmitt það. En einu hefirðu þó gleymt."

"Hverju?"

Egill horfði fast á hann:

"Því að þú ert barn enn þá."

Þorsteinn glotti:

"Ef ég er barn enn þá, þá verð ég það líklega héðan af. Ég vex ekki mikið héðan af, og vitkast líklega ekki mikið heldur. Þá veit ég ekki, eftir hverju ég á að bíða.

"Þú ert þó, vænti ég, ekki farinn að taka út í veisluna?" mælti Egill hæðnislega.

"Veislan er ekkert giftingarskilyrði. Þó að hana vantaði alveg - og foreldrablessunina líka, mundum við komast af."

Egill brosti í kampinn:

"En búskapurinn -? Hvernig heldurðu, að hann gangi?"

Þorsteinn var farinn að verða ákafur:

"Ég get unnið fyrir okkur báðum, - í vinnumennsku, ef búskapurinn skyldi ekki blessast. Einhver ráð verða meðan ég held heilsunni."

"Svo að þér er þetta allt saman bláalvara."

"Já, það geturðu reitt þig á!"

"Hvað heldurðu, að mamma þín segi?"

Þorsteinn nam aftur staðar og horfði framan í föður sinn; hann var kafrjóður og varirnar skulfu dálítið:

"Faðir minn! Ég hefi eiginlega alltaf treyst því að þú yrðir mér ekki andstæður í þessu máli. Ég ætlaði að biðja þig um blessun þína og aðstoð, þegar ég kæmi aftur úr heiðinni - þegar ég væri búinn að vinna okkur báðum til gagns og sæmdar, - en þú hefir nú gripið fram í fyrir mér. Mér fellur það illa, ef þú ert á móti mér. Ég finn, að mér mundi verða það þungbært; en þó mundi ég fara mínu fram. En ef þú ert með mér, þá kæri ég mig minna um, hvað mamma segir. Þú veist, að það hefir aldrei verið neitt kært með okkur mömmu."

Nú glaðnaði svo yfir Agli, að hann gat varla leynt því. Þessi ummæli líkuðu honum.

Þorsteinn hélt áfram í bænarrómi:

"Góði pabbi minn, hjálpaðu okkur Jóhönnu til þess að ná saman og reyndu að hafa áhrif á mömmu, svo að hún leyfi okkur það líka. Okkur þykir svo innilega vænt hvoru um annað, og eins og nú er komið, skil ég ekki við hana. Ég get það ekki og geri það aldrei. Pabbi minn, heyrirðu hvað ég segi. Aðra eins velgerð mundi ég aldrei fá fullþakkað þér."

Egill þagði um stund og hugsaði sig um:

"Veistu það, að þú átt meðbiðil?"

"Meðbiðil -! Áttu við Þorbjörn? Kallarðu hann meðbiðil? Heldurðu, að Jóhanna hafi ekki sagt mér frá honum? Nei, Þorbjörn tel ég ekki meðbiðil; annars væri ég líklega búinn að snúa af honum hausinn. - En ekkert væri það kynlegt, þó að ég ætti meðbiðla, - önnur eins stúlka og Jóhanna er."

"En ertu þá viss um, að Jóhanna hafi ekkert gefið Þorbirni undir fótinn?"

"Hún Jóhanna -! Ef ég vissi ekki, faðir minn, að þú segðir þetta til þess eins að reyna mig, þá - -. En hvernig dettur þér annað eins í hug?"

"Þær eru nú breyskar líka, stúlkurnar!"

Þorsteinn dökknaði í framan.

"Hefir Þorbjörn sagt - - -!"

"Þorbjörn -! Hann, sem var að hengja sig í vetur út af hryggbroti, sem hann hafði fengið hjá henni."

Þorsteinn horfði hálfforviða á föður sinn; svo fóru þeir báðir að hlæja. Þar með var allri alvöru lokið.

- Þegar þeir kvöddust á hálsinum, mælti Egill:

"Jæja, Steini minn. Þú heldur fast við þetta áform þitt, - er ekki svo? En eitt get ég sagt þér. Það verður bölvað viðfangs."

"O-o, nokkuð svo - ef þú hjálpar mér."

Egill hnyklaði brýrnar:

"Jú, drengur minn, það verður bölvað viðfangs, jafnvel þótt ég vildi reyna að hjálpa ykkur eitthvað. Hugsaðu þér, - Borghildur, Þorbjörn, Setta í Bollagörðum og auðvitað fjandinn með þeim. Það er ljót fylking! - Og mundu mig um eitt: Ef þér er annt um Jóhönnu, þá vertu ekki lengi að heiman í einu. Liggðu ekki nema á einu greni í einu á milli þess sem þú kemur heim. Þú veist, að ég er oft að heiman, og þá gerist fleira en mér líkar vel."

Þeir skildu og Þorsteinn hljóp og hoppaði ofan yfir skarðið að Heiðarhvammi. Hann var svo léttur á sér, að honum fannst hann geta flogið.

En Egill var súr á svipinn, þegar hann sneri aftur - ekki heimleiðis, heldur fram í sveitina. Þetta hafði endað allt öðruvísi en til var stofnað. Þorsteinn hafði snúið honum, en hann ekki Þorsteini. Hvað skyldi Borghildur segja, ef hún vissi það? Og enn klóraði hann sér í hnakkanum yfir þessu "vandræða máli."

Þó hafði honum aldrei þótt eins vænt um Steina sinn og nú.


"Mikið var, að maður fékk að sjá þig!"

Það var Finnur í Bollagörðum, sem fékk þessa kveðju frá Höllu í Heiðarhvammi. Hann hafði hitt Ólaf úti í högum við kindur og gengið með honum heim að bænum.

Hann studdi sig þreytulega upp við skálastafninn, þegar Halla kom út. Honum varð bilt við kveðjuna og vissi fyrst ekki, hvað hann átti af sér að gera. Þó tók hann kveðjunni glaðlega.

"Það er nú bráðum heilt ár síðan þú hefir komið hingað. Naumast er að nágrönnunum komi saman!" - Hvað finnst þér? En nú verðurðu að koma inn og þiggja kaffisopa."

"Ég má með engu móti vera að því," mælti Finnur og sýndi á sér burtfararsnið.

"Hvaða endemisvitleysa! Þú verður að koma inn; ekki að nefna annað. Það væri skárra, ef þú mættir ekki koma inn hjá okkur einu sinni á ári!"

Finnur stóðst ekki þessa brýningu og lét undan, þótt honum væri það ógeðfellt.

Halla fylgdi honum inn í baðstofu. Þar sat Salka með ungbarnið.

Það var sveinbarn og enn þá í reifum. Sveinninn var stór og hraustlegur; en það fyrsta, sem Finnur tók eftir, var það, hve augnasvipurinn var ólíkur á honum og hinu barninu, sem dáið hafði ári áður.

"Skoðum til, - Salka er þá orðin barnfóstra!" sagði Finnur um leið og hann settist á gestarúmið.

"Já, - ég hefi engan frið fyrir henni. Hún vill alltaf vera með barnið. Og drengurinn þegir hjá henni - jafnvel betur en hjá mér. Hann þegir, hvernig sem hún fer með hann."

Salka var send fram að skerpa á katlinum. Á meðan sátu þau Halla og Finnur ein inni, því að Ólafur hafði ekki komið inn með þeim.

"Eg held, að við höfum ekki sést síðan í fyrravor," mælti Halla, "að ég hitti þig hérna uppi í fjallinu."

"Nei, það er víst ekki."

"Mér eru þeir dagar minnisstæðir," mælti Halla og stundi við. "En ég get ekki gleymt því heldur, hvernig ég sótti þá að þér."

Finnur reyndi að brosa:

"Nú, - ég var hálflasinn - ekki búinn að ná mér eftir stinginn. Og þegar ég er lasinn, þá sækir stundum að mér amalyndi."

"Það getur verið, að þú segir þetta satt. En það gekk eitthvað að þér þá, að minnsta kosti. En hvernig hefir þér liðið í vetur?"

"Ég veit ekki, hvað ég á að segja um það," svaraði Finnur raunalega. "Ég hefi oftar verið einn í kotinu í vetur en áður; - og þá leiðist mér miklu síður."

"Miklu síður - ?" tók Halla upp. En kannaðist þó við, að þetta gæti verið satt. Þannig geta ástæður verið.

"Mér leiðist aldrei, þegar ég er einn," bætti Finnur við. "Ég er einn í kotinu núna - ef kot skyldi kalla. Eldhúskofinn hrundi nú undan snjóþyngslunum í vetur, og hitt er allt að falla niður. Einhvern tíma kemur baðstofan og drepur þá, sem þar eru inni. - Jæja, það væri þá ekki það lakasta."

"Hvar er Setta?"

"Hún er niðri í sveit. Hún er búin að vera að heiman í hálfan mánuð."

"En hvers vegna kemurðu þá ekki til okkar við og við, þegar þú ert aleinn og hefir lítið fyrir stafni? Ekki er þó svo langt á milli bæjanna."

"Nei, ég fer lítið að heiman - síst hingað."

"Hvers vegna ekki? Geturðu ekki ímyndað þér, að við hérna hefðum gaman af því, að þú kæmir stöku sinnum? Hér er líka einmanalegt."

Finnur þagði. Halla virti hann fyrir sér á meðan. Hann var líkastur líki, sem legið hefir nokkrar vikur í gröf sinni. Þreytan var honum engin uppgerð. Halla var sannfærð um, að hann væri ekki með fullum kröftum.

"Síst hingað, - sagðirðu áðan. Hvers vegna máttu ekki koma hingað?"

Finnur leit ekki upp, en svaraði dræmt:

"Ég veit það ekki."

"Þú sagðir í fyrra, að Setta hefði bannað þér það. Hvað hefi ég gert henni? Hvers vegna mátt þú ekki tala við mig? Er hún hrædd um þig fyrir mér?"

"Ég veit það ekki. - Hún er hrædd við þig - eða henni er illa við þig. Ég veit ekki, hvort heldur er. En hún hefir bannað mér að koma hingað - bannað mér að tala við þig nokkurt orð, - ekki úti heldur!"

"En þú mátt tala við Ólaf?"

"Já."

"Og þér dettur í hug að hlýða þessu?"

"Ég má til."

"Ég held þú gætir komið hingað að gamni þínu, þegar þú vildir, þótt hún aldrei nema banni það."

"Nei, ég get það ekki."

"Hvers vegna? Þarf hún nokkuð að vita af því?"

"Hún veit af því samt."

"Hvernig þá -?"

"Ég veit það ekki, - ég held andskotinn segi henni það. - Hún veit allt, sem ég geri úti og inni, - hvort sem hana dreymir það á nóttunni eða ekki; það skal ég láta ósagt. En þess vegna hefir hún alltaf vakandi auga á mér og trúir mér aldrei. Mér finnst eiginlega alltaf hún standa uppi yfir mér. Ég er viss um, að hún ber það upp á mig, þegar hún kemur heim, að ég hafi komið hingað þennan dag."

Halla horfði á Finn og gat varla komið upp orði fyrir undrun. Þau þögðu bæði stundarkorn.

"Heyrðu, Finnur, - segðu mér eitt; - - en segðu mér satt."

Finnur leit upp hálfóttasleginn:

"Hvað er það?"

"Þykir þér vænt um Settu?"

Svarið var dræmt, en þó: nei.

"En þér hefir kannske einhvern tíma þótt vænt um hana?"

"Ég veit ekki. - Menn geta leiðst út í svo margt."

"Tók hún þig ekki frá annarri konu?"

Finnur þagði.

"Lifa ekki börnin þín? Langar þig aldrei til þess að sjá þau? - Eða færðu aldrei að sjá þau?"

"Mig er hætt að langa til þess."

"Hætt að langa til að sjá börnin þín? Er þér sjálfrátt?"

"Ég veit það ekki."

"En hvers vegna drífurðu þig ekki frá kerlingar - mér liggur við að segja - fjandanum, fyrst þið eruð þó ekki gift?"

"Ég get það ekki. Ég hefi oft hugsað um það. En ég get það ekki."

"En ef þér yrði hjálpað til þess?"

Tárin voru farin að renna ofan eftir kinnunum á Finni. En hann harkaði af sér, horfði á Höllu og sagði fast og innilega.

"Það eru til bönd, sem eru enn þá sterkari en hjónabandið."

"Hver eru þau bönd?"

"Það get ég ekki sagt þér."

Halla færði sig nær honum og sagði lágt og blíðlega:

"Manstu, hvað ég sagði við þig í fyrra: "Þyngstar eru þær sorgir, sem við dyljum fyrir öllum." - Líttu á mig. Þér er óhætt að treysta mér, og segðu mér svo leyndarmál þitt."

"Það get ég ekki."

"Þá verð ég að grafa það upp sjálf. Það liggur eitthvað dulið í sambúð ykkar Settu, sem heldur ykkur saman. - Og það er eitthvað illt."

Finnur þagði.

"Hafið þið nokkurt barn átt?"

Það var eins og glaðnaði yfir Finni. Hann rétti úr sér og sagði skýrt og hiklaust nei.

"Þá er það eitthvað annað - lítið betra. Einhverjar sakir eru það, - líklega glæpir."

"Hvers vegna heldurðu það?" mælti Finnur lágt og horfði aftur í gaupnir sér.

Halla varð harðmæltari en áður:

"Setta er þjófur og þú ert þjófsnautur - er ekki svo? - Segðu mér eins og er. Ég skal ekki koma þér undir manna hendur - en ég skal reyna að hjálpa þér."

"Nei - nei!"

"Þú ert ósjálfstæður og lítilsigldur og verður að verkfæri í höndum hennar. Aumingja Finnur! Guð almáttugur hjálpi þér. Yfir þessu ertu að gráta, þegar þú ert einn. - Er nú ekki þetta satt?"

"Nei - nei - nei !"

Finnur var farinn að gráta, svo að varla heyrðist, hvað hann sagði.

- - Þá heyrðist mannamál á hlaðinu. Ólafur kom með gest. Það var Sveinn í Hvammi.

Finnur herti sig upp og þurrkaði af sér tárin.

"Sveinn í Hvammi kominn!" mælti hann. "Þá er líka afglapinn aðeins ókominn. Þeir ætla auðvitað að fara að leita að grenjum."

"Hver er "afglapinn"? - Er það Þorsteinn?"

"Já, - sumir kalla hann það."

"Gerir nokkur það nema Setta?"

Í því komu þeir inn Ólafur og Sveinn.

"Þarna er þá Finnur í Bollagörðum," mælti Sveinn. "Það bar vel í veiði. Hann getur vísað okkur á greni í heiðinni."

Finnur reyndi að gera sig glaðan í bragði.

"Ég hefi nú skammt farið. - En ég hefi þó rekist á eitt, - skammt frá Bollagörðum."

"Það var bærilegt."

"Það er þar í barminum á lautarbolla, í móunum suður frá Þrívörðuholtinu. - En í guðs bænum - segið þið ekki, að ég hafi vísað ykkur á það. Ég held það sé grenið hennar Settu."

- - - Þegar allir gestir voru farnir og þau voru ein, Heiðarhvammshjónin, mælti Halla við Ólaf, og var blíðari en hún átti vanda til:

"Ef þú vilt gera nokkuð fyrir mig, Ólafur, þá hafðu sem allra minnstan kunningsskap við þau í Bollagörðum. - Ég vildi helst, að þú kæmir þangað aldrei."

Ólafi varð nokkuð kynlega við.

"Hvers vegna ekki?"

"Það er þjófabæli."

"Hvernig veist þú það?"

"Ég veit það, - þó að enginn hafi sagt mér það. Ég veit það með vissu. Það er þjófabæli."

"Hvaða endemisvitleysa! Blessuð láttu engan lifandi mann heyra þetta!"

"Það er þjófabæli."


" - - - - Sá ek einn ungan mann inn í durum, ok dró þar á sik vöttu sína, en annarr gekk á milli fjóss ok haugs, ok mun ek hvárigan þeira hræðask," sagði Grettir Ásmundsson um Glaumbæinga.

Hvað skyldi honum verða að orði, ef hann sæi kulvísi sumra vor, sem komist höfum að skárri kjörum í lífsbaráttunni en margir aðrir?

Aftur er ekki ósennilegt, að heldur muni hýrna yfir honum, ef hann stæði yfir þeim, sem beita öngul sinn á djúpmiðum í vetrarhörkunum, eða þeim, sem standa yfir fé sínu í þorrahríðunum, og ef til vill ekki síst yfir þeim, sem liggja á grenjum í áfellunum á vorin.

- - Þeir Þorsteinn og Sveinn fundu grenið eftir tilvísun Finns. Það var nýlegt og lítið farið að gróa upp í kringum það, svo að Þorsteinn þóttist af því geta ráðið, að ekki hefði tófa legið þar nema 3-4 ár. En aldrei hafði hann fundið það greni áður, og vegna staðhátta var það vandfundið.

Nokkrir mófuglavængir voru utan við grenið og einn lambsbjálfi. Beinin voru vandlega nöguð. Af aldursmerkjum þessara leifa mátti ráða það, að tófan væri ekki nýlögst. Hvolparnir hlutu að vera orðnir sjáandi.

Þeir bjuggust um við grenið og gerðu ráð fyrir að þurfa að liggja þar nokkra daga. Rifu þeir mosa upp í holtinu til að hlúa að sér með, en hlóðu ofur lítinn skotgarð fyrir ofan grenið. Á bak við hann lágu þeir og beindu byssuhlaupinu yfir stærsta grenismunnann.

Þorsteinn taldi hyggilegast, að þeir væru sem minnst á ferli. Ekki væri að vita, hvernig "húsbændunum" gætist að því að sjá oft menn á gangi kringum býli sitt og finna þar nýjar slóðir að jafnaði. Þeir urðu því að halda sem mest kyrru fyrir og hafa hægt um sig, til þess að sem allra minnst bæri á veru þeirra þar.

Fyrstu nóttina voru þeir sigursælir. Þá um aftureldinguna bólaði á módökku trýni í grenismunnanum, sem var þar kyrrt um stund og þefaði. Síðan kom hausinn út og litaðist um, en skrokkurinn var lengi að dragast út úr gjótunni. Var hann langur og mjóstrokinn og ekki fagur á hárbragðið. Lágfóta hristi af sér moldina og tók að þefa upp úr sporum þeirra Þorsteins kringum grenismunnann frá því daginn áður. Varð hún ekki mannanna sjálfra vör. Þorsteinn þorði ekki að sleppa henni að heiman, þó að víst mætti telja, að hún leitaði bráðlega heim aftur til hvolpa sinna, og eitt sinn, þegar honum þótti hún horfa vel við, reið skotið. Tófan tókst á loft og veltist um hrygg. Þegar hún stóð upp aftur, dró hún afturhlutann máttvana. Hún reyndi þó með veikum kröftum að skríða aftur inn í grenið til hvolpa sinna. En þá var Sveinn kominn á kreik úr skjóli sínu og greip um skottið á henni í því að það var að hverfa inn í grenið. Þegar hann fékk dregið tófuna út, var hún dauð.

Næsta þrautin var að ná hvolpunum út úr greninu. Þorsteinn þóttist viss um, að þeir væru orðnir svo stálpaðir, að hægt yrði að ginna þá út; en tækist það ekki, yrði að svæla þá inni.

Allan daginn og fram á næstu nótt voru þeir að reyna að ginna hvolpana. Sveinn hafði það sér til ágætis að geta hermt eftir hverju kvikindi, þar á meðal tófunni. Það var illt verk og ógeðslegt, að leggjast niður á blauta jörðina við grenismunnann og fá grenisfýluna beint í vitin. Sveinn lét þetta þó ekki á sig fá, en var þrautseigur við það að tala máli tófunnar inn í grenið. Hann gargaði með móðurlegum myndugleik í rómnum og hann reyndi einnig móðurlega blíðu, en allt kom fyrir ekki. Óvitarnir inni fyrir létu ekki blekkjast; þeir voru því óvanir, að mamma þeirra kallaði þá út í kuldann.

Seint um kvöldið, þegar þeir Þorsteinn og Sveinn voru aftur komnir í fylgsni sitt og orðnir úrkula vona um að geta náð hvolpunum að sinni, komu þeir af tilviljun auga á dökka hnoðra, sem iðuðu ofan hallann frá grenismunnanum, eins og mórauðir ullarlagðar veltust fyrir vindi. Þeir brugðu við skjótt og fundu þá fjóra hvolpa skriðna út úr greninu.

Þeim var lítið fyrir að handsama þessa yrðlinga, sem varla gátu skriðið. Þó var varasamt að taka á þeim með berum höndum. Tennurnar á þeim voru hvassar eins og nálaroddar, og þeir gerðu kyni sínu sæmd með vörninni.

Nú var eftir að hafa hendur í hári "húsbóndans" sjálfs.

Hvolparnir voru bundnir á streng fyrir utan grenismunnann. Þar máttu þeir skrækja og ólmast eftir vild sinni. Með því átti að narra refinn til að ganga nær.

Nóttin leið, og dagurinn líka og fram á næstu nótt, án þess að refurinn léti sjá sig. Hvolparnir vældu ámátlega og þótti ævi sín ill; enda höfðu þeir þá soltið síðan þeir misstu móður sína.

Kalsaveður hafði haldist síðan þeir komu á grenið. Nú kólnaði þó að mun og fór að snjóa. Jörðin var að mestu auð undir og sums staðar orðin klakalaus. Drífuflygsurnar settust á stráin og lyngið og urðu að krapi, sem draup ofan í rótina í stórum, þungum dropum. Þegar leið fram á nóttina, jókst snjókoman og jörðin varð alhvít. Þykkt lag af mjöll lagði yfir þá félaga, og vætan úr jörðinni seig saman í bæli þeirra. En nú reið á að hafa hægt um sig. Þorsteinn þóttist viss um, að refurinn væri að læðast þar einhvers staðar í nánd.

"Reyndu nú að sofa, Sveinn minn. Ég þarf sjálfsagt að biðja þig að vaka seinni partinn í nótt, ef helvískur vargurinn skyldi þá ekki verða kominn. Þetta er sjálfsagt útþvældur dýrbítur með vonda samvisku, fyrst hann er svona varkár."

"Mér er skolli kalt," sagði Sveinn og gat varla stamað því fram úr sér fyrir munnherkjum. "Ég held, lagsmaður, að ég liggi hreint og beint niðri í polli."

"Því trúi ég vel. Það geri ég líka. En nú er að duga eða drepast, lagsmaður, - hleypa í sig illsku, þá hitnar manni. Rebbi kemur bráðum að vitja um hvolpana sína; hann heyrir til þeirra. Það væri hálfsnubbótt að koma heim reflaus."

"Já, víst er svo. - En mér er andskoti kalt. Ég held, að ég drepist í nótt."

"Drepist - í frostlausu veðrinu! Láttu engan lifandi mann heyra til þín! Heyrðu, dragðu úlpuna mína alla ofan á þig og hlúðu að þér með henni. En láttu ekki snjóinn detta af henni - gættu vel að því! Þetta snjóföl var blessuð sending; það leynir okkur betur en nokkuð annað. - Svona, - haltu nú kjafti og farðu að sofa! Finndu hvað mér er heitt. Það er af því að ég bít á jaxlinn og bölva í hljóði. Þú mátt ekki láta tennurnar glamra svona í skoltunum á þér; þú fælir refinn með því. Kúrðu þig nú niður!" Sveinn skalf eins og hrísla, en sofnaði þó.

Þorsteinn vakti og skimaði hvasst út í húmið og hríðina. Hvolparnir ýlfruðu í hálfsvefni niðri á greninu. Þeir voru hættir að skrækja hátt, hættir að toga í strenginn sinn eða reyna að naga hann í sundur. Þeir hringuðu sig saman í snjónum og skulfu af kulda.

Þorsteini leið ekki illa. Hann brosti yfir hugsunum sínum nú eins og oftar. Þótt hann gætti vandlega í kringum sig, var hugurinn heima í Hvammi - hjá bjarthærðri, grannleitri stúlku, sem nú hvíldi þar í fasta svefni. Hann sá höfuð hennar á hvítum koddanum. Ótti og kvíði var í svipnum og andvörp liðu af vörum hennar í svefninum. Andlitið var nærri því eins hvítt og koddinn. Hann laut ofan að henni og kyssti hana.

Hann minntist þess, sem faðir hans hafði sagt, að hann skyldi ekki vera lengi að heiman í einu. Nú var hann búinn að vera að heiman þrjá sólarhringa. Var það ekki allt of lengi?

En faðir hans! Það glaðnaði yfir honum við það eitt að hugsa til hans. Aldrei hafði hann fundið það betur en nú, hve góðan föður hann átti.

- Þegar leið á nóttina, vakti hann Svein og kvaðst nú ætla að fá sér blund sjálfur.

Sveinn reis upp við olnboga og tennurnar í honum skelltust saman af skjálfta. Þorsteini var nú farið að kólna allmikið líka, síðan hann missti úlpuna.

"Gerðu mér undireins aðvart, ef þú sérð höfðingjann koma."

"Já-á-á-já. En viltu ekki ú-ú-úlpuna?"

"Nei, nei, hafðu hana, en hreyfðu þig sem allra, allra minnst."

- Þorsteinn sofnaði fljótt. En þegar hann var nýsofnaður, ýtti Sveinn við honum.

"Nú kemur he-he-helvítið!" hrökklaðist út á milli tannanna á honum.

"Hvar? Hvar er hann?" spurði Þorsteinn, í því hann hrökk upp og strauk stírurnar úr augunum.

"Þarna!" stamaði Sveinn og benti út í móinn fyrir neðan grenið.

Þorsteinn var glaðvaknaður á svipstundu. Hann greip til byssunnar og horfði þangað, sem Sveinn benti honum. Þar var refurinn að nálgast og dró dauðan mófugl.

"Hann verður að koma nær, skinnið, ef hann á að geta fengið kveðju. Nú leggur hann frá sér fuglinn. Skyldi honum ekki ætla að þóknast að fara lengra? Nú hallar hann undir flatt. En hvað hann er líkur honum Þorbirni í framan!"

Gleðin skein úr augum Sveins gegnum kuldatárin. Nú efaðist hann ekki um sigurinn.

Refurinn lagði niður fuglinn við og við, stóð kyrr, teygði upp hausinn og horfði tortryggnislega upp til grenisins. Það leyndi sér ekki, að hann átti þaðan ills von. Þess á milli tók hann upp fuglinn og lámaðist áfram með lafandi skottið nokkur skref.

Hvolparnir vældu í svefninum.

Þorsteinn miðaði á refinn og fylgdi hreyfingum hans með byssuhlaupinu. Enn þá var hann varla kominn í færi. En næst þegar rebbi lagði frá sér fuglinn og teygði upp hausinn, fékk hann skotið gegnum bógana og steyptist niður steindauður.

Nú var ekki þörf á að liggja lengur í blautum mosanum. Þeir félagar urðu fegnir hreyfingunni, því að þeir voru orðnir stirðir af kuldanum. Sveinn sótti refinn, en Þorsteinn bjó vandlega um lásinn á byssunni.

"Leystu nú hvolpaskammirnar," mælti Þorsteinn við Svein, þegar hann kom með refinn.

"Ég held að ég geti það ekki, - ég er svo andskoti loppinn."

"Jæja, þá skal ég gera það. Náðu í nestispokann, - láttu nestið innan í úlpuna mína. - Við skulum láta hvolpana í pokann og fara með þá lifandi heim. Hver veit nema "spekúlantinn" vilji kaupa þá."

Svo héldu þeir heim á leið og gengu rösklega til að reka úr sér hrollinn. Þeir hugðu einnig gott til morgunkaffisins í Heiðarhvammi.


5. kafli

Nú víkur sögunni heim að Hvammi.

Það var á miðvikudag, sem þeir Þorsteinn lögðu á stað að heiman. Egill fór þá um leið í hreppstjóraleiðangur og kom ekki heim það sem eftir var vikunnar.

Á sunnudaginn næsta á eftir var kyrrt veður og blítt með dimmum éljum, en sólskin á milli. Vorhret það, sem gengið hafði í vikunni, var þá á enda.

Vinnumennirnir frá Hvammi fóru gangandi til kirkju þennan dag, allir nema Þorbjörn. Vinnukonurnar voru heima.

Þorbjörn hafði verið eins og annar maður síðan um veturinn, að hann gerði tilræði það til að stytta sér aldur, sem áður er skýrt frá. Nú langaði hann ekkert til þess að deyja. Nú hneigðist allur hugur hans að nýjum búskap og hjónabandsunaði.

Hann vissi það enn að vísu, að Jóhanna vildi hvorki heyra hann né sjá, að hún unni öðrum manni og var þunguð af hans völdum. En Borghildur hafði heitið honum því, að hún skyldi flytja mál hans, og jafnvel lofað að ábyrgjast honum stúlkuna - gegn vissum skilyrðum. Hann reiddi sig á þetta heit og hafðist því ekkert að sjálfur.

Raunar þótti Þorbirni ekki nándarnærri eins vænt um Jóhönnu nú og áður, þegar hann bað hennar. Nú voru það fleiri tilfinningar en ástin ein, sem ýttu honum áfram. Honum þótti það illt til frásagnar, að umkomulaus stúlka eins og Jóhanna skyldi þora að hafna honum. Eins og hann væri henni ekki meira en samboðinn! - Í annan stað var hagsýni fólgin í því að taka Jóhönnu að sér eins og nú stóð á. Það var hvorki meira né minna en að ná yfirtökum á Hvammsfólkinu öllu saman - Borghildi líka - og gera það skuldbundið sér um aldur og ævi. - Þar að auki gerði hann Jóhönnu skuldbundna sér, að því er honum skildist. Auðvitað var vonlaust um hjónaband Þorsteins og hennar; það mundi Borghildur sjá um. Og þegar allar vonir svikju Jóhönnu, væri það hann, sem gripi hana í fallinu. Var það ekki kærleiksverk?

- Það er almennt talinn glæpur, ef karlmaður beitir ofbeldi við kvenmann, þótt aðeins sé um stundarsakir; en hitt er enginn glæpur talinn, að þröngva kvenmanni til hjónabands við þann karlmann, sem hún ann ekki og hefur óbeit á. Þúsundir hjónabanda eru til orðin á þann hátt. - Þannig misþyrma feður dætrum sínum, bræður systrum sínum og fjárráðamenn skjólstæðingum sínum. Yfir það ofbeldi leggur presturinn blessun sína og ríkið verndarhendi sína.

Í þessu "siðgæði" var Þorbjörn upp alinn, eins og aðrir. Augu hans voru svo haldin af venjunni, að hann sá ekkert við þetta að athuga. Aldrei hefði honum komið til hugar að neyta aflsmunar við Jóhönnu; það hefði samvisku hans verið ofraun. En að þiggja það, að henni væri þröngvað til að ganga að eiga hann - eða gera það sjálfur - það fannst honum ekki nema sjálfsagt og eðlilegt; - ekki síst þegar húsmóðir hennar og fósturmóðir að nokkru leyti taldi henni það fyrir bestu.


Eftir að búverkum var lokið á sunnudaginn, var Jóhanna kölluð fram í stofu. Þar voru þau fyrir Borghildur húsfreyja og Þorbjörn.

Undireins og Jóhanna var kominn inn í stofuna, gekk Borghildur að hurðinni og tvílæsti.

Jóhanna sá nú, hvað verða vildi, og náfölnaði í framan. Borghildur vísaði henni til sætis á stóli úti við gluggann, við endann á borðinu. Sjálf stóð hún við borðið, en Þorbjörn tyllti sér á kistu þar skammt frá.

Jóhanna var í sunnudagafötum sínum, með brydda skó á fótum, en húfulaus og hárið aðeins greitt til bráðabirgða. Hún var mögur í andliti og tekin til augnanna. Fötunum var öllum hleypt sundur um haldið, en voru þó í þrengsta lagi.

Borghildur var líka betur búin en hún var vön. Hún var mikil fyrirferðar og mikil í fasi, svipurinn einbeittur og hnyklar í brúnunum. Vartan á kinninni var í ófrýnna lagi. Hún beit saman vörunum, svo að þær blánuðu, og drættirnir kringum munninn báru það með sér, að hún ætlaði að láta það fram ganga, sem henni bjó í skapi.

"Jóhanna mín," mælti hún undur blíðlega. "Mér hefir verið sagt, að Þorbjörn hafi leitað ráðahags við þig í vetur, en þú hafir neitað honum. Er þetta satt?"

"Já," sagði Jóhanna svo lágt, að varla heyrðist.

"Hvers vegna gerðirðu þetta, Jóhanna mín?"

"Ég gat ekki annað."

"Finnst þér ekki Þorbjörn vera samboðinn þér?"

"Jú - en - - það má einu gilda. Ég elska hann ekki."

"Ég ætlaði ekki að trúa þessu, þegar ég heyrði það. Ég gat ekki trúað því, Jóhanna mín, að þú værir svona. - Þetta er þó maður, sem þú þekkir; maður sem þú veist, að hefir reynst okkur, húsbændum þínum allra manna best. Hvernig getur þér dottið í hug, að þú fáir betri mann? Hann er vel við efni, vel verki farinn ráðdeildarmaður - og gæðamaður."

"En ég elska hann ekki."

"Þú átt að láta skynsemina stjórna þér, hrófið mitt. Ég er alveg viss um, að þú færð ást á honum, og hana því meiri, sem stundir líða. Er nokkurt vit í því fyrir þig að hafna öðrum eins manni? Hugsaðu um sjálfa þig. Hver heldurðu, að vilji taka þig að sér - blá-skínandi fátæka og fremur heilsulitla? Finnst þér það ekki lýsa sannri ást hjá manni eins og Þorbirni, að vilja það? Geturðu ekki virt við hann aðra eins tilfinningu? Ekkert gengur honum til annað, því álitlegra kvonfang hefði hann getað fengið. Hvað heldurðu, að verði úr þér, aumingja vesalingurinn þinn, ef þú slærð hendi móti slíku boði? Nei - Þú gerir það ekki. Þú ert svo vitiborin stúlka."

"Ég get ekki annað - ég elska hann ekki. Ég elska annan mann."

Borghildur dökknaði í framan, en stillti sig þó.

"Komdu ekki með þetta bull aftur! Þú átt að læra að elska þennan mann - sem elskar þig. Hann vill taka þig að sér og verða þér góður eiginmaður; því hefir hann lofað mér, og hann efnir það; annars á hann mig á fæti. - En þess þarf ekki við. Hann gengur að þessu með ráðnum huga, og þú mátt reiða þig á það, að hann lætur þér líða vel."

Nú þoldi Jóhanna ekki mátið lengur. Hún grúfði sig ofan að borðröndinni með handleggina undir enninu og fór að gráta.

Borghildur gerði sig enn blíðari en áður.

"Treystu mér, Jóhanna mín. Þú veist, að ég vil ekki annað en það, sem þér er fyrir bestu. Heldurðu, að ég sé að leggja þér ill ráð? - Ég hefi svo að segja alið þig upp og þú hefir verið hér nærri því eins og dóttir mín. Er það ekki satt? Þú hefir verið gott og eftirlátt barn og mér hefir þótt vænt um þig. Hefi ég kannske verið þér vond? - Ojá, stundum hörð við þig, en það er nú skap mitt. Ég hefi þó gert það í góðum tilgangi. Þú verður að fyrirgefa það. Hugsaðu um allt það, sem ég hefi þó reynt að gera fyrir þig, - allt það, sem ég hefi gefið þér og reynt að gleðja þig og hlynna að þér! - Heldurðu nú, að mér standi alveg á sama um þig? - Jóhanna mín! Ég vil þér ekki nema vel. Og nú bið ég þig - bið þig eins og dóttur mína að taka þessum manni."

Hún studdi fingrunum mjúklega á handlegginn á Jóhönnu til þess að vekja eftirtekt hennar og gefa orðum sínum áherslu.

Jóhanna þaut á fætur eins og naðra hefði bitið hana. Hún stóð upp við stólinn eins og búin til varnar og hvessti augun á Borghildi. Orðunum jós hún fram úr sér með funandi ákefð.

"Þú veist ekki, hvað þú ert að biðja mig um. Ég get ekki gifst þessum manni, því ég elska hann ekki. Ég hefi sagt honum þetta sjálfum. Ég elska annan mann, og honum er ég trúlofuð. Ó, ef hann væri hér nú! - Þá stæði ég hér ekki ein og varnarlaus."

Borghildur hnyklaði brýrnar, varirnar blánuðu og hárin á vörtunni risu. En hún stillti sig þó. Jóhanna hélt áfram: " - Þú veist ekki, hvað þú ert að gera. Þú ætlar að neyða mig til þess að eiga mann, sem ég elska ekki, - hefi óbeit á, nærri því hata. Er þetta móður-umhyggjan!"

"Gættu að, hvað þú segir, stúlka!" sagði Borghildur og brýndi röddina.

"Ég geri það aldrei, ég geri það aldrei!" Jóhanna kreppti hnefann.

"Skárri eru það nú ósköpin! Láttu ekki svona, stúlka. Þú ætlar þó ekki að ráðast á mig!"

Borghildur sagði þetta með slíkri hæðnisró, að Jóhönnu var allri lokið. Hún lét fallast ofan að borðsbrúninni, í sömu stellingum og áður, og andvarpaði:

"Guð minn góður hjálpi mér!"

Grátekkinn, sem hún fékk nú, var enn þá ákafari en í fyrra skiptið.

Borghildur lagðist fram á borðið rétt hjá henni, með handleggina í kross undir bringspölunum, en snerti hana þó ekki.

"Ég hefi móðurmyndugleikann yfir þér, telpa mín, en ég ætla mér ekki að nota hann. Ég vona, að þess þurfi ekki við. En hlustaðu nú á það, sem ég segi. Heyrirðu til mín?"

Jóhanna gat engu svarað fyrir gráti. Hún skalf öll og hristist af ekkanum.

"Þú veist, hvernig stendur á fyrir þér, kindin mín. Ég ætla ekki að fara að heimta af þér að segja mér neitt um það, hvernig á því stendur. En ég ætla að leiða athygli þína að einu. Hvað ætlarðu fyrir þér með barnið, ef það lifir? Hvernig ætlarðu að ala önn fyrir því? Hefirðu hugsað út í það? Hver sem faðir þess er, þá verður þú að standa því reikningsskap og ábyrgjast líf þess. - Þorbjörn ætlar nú að taka þetta barn að sér ásamt þér. Hann hefir lofað mér því. Þú ert honum auðvitað ekki þakklát fyrir það heldur?"

Borghildur beið um stund eftir svari, en Jóhanna gat ekkert annað en stunið og grátið.

"Þú hefir verið höfð að leikfangi, skinnið mitt, eins og hver annar hálfgerður óviti. Nú sérðu afleiðingarnar. Þú ert ginnt og tæld, - svo þegar á reynir, stendurðu ein uppi með óskilgetið barn. Þú ert ekki sú fyrsta, sem þannig hefir verið farið með. Því er miður. En það eru ekki margar stúlkur í þínum sporum, sem eiga jafngreiða göngu út úr vandræðunum! Hugsaðu nú um þetta. Elskarðu ekki þann mann, sem elskar þig svo mikið, að hann býðst til að taka þig að sér, spillta og svívirta, og vera barninu þínu faðir?"

"Þorsteinn - Þorsteinn - Þorsteinn!" stundi Jóhanna upp úr ekkanum. "Ó, guð - guð - hjálpi - mér!"

Gráturinn settist fyrir í hálsinum á henni eins og kökkur og bringspalirnar engdust saman. Hún gat naumast náð andanum.

Þorbjörn hafði setið hljóður alla þessa stund og horft í gaupnir sér, en ekkert lagt til málanna. Nú stóð hann hægt á fætur og gekk til Borghildar. Í svip hans sást votta fyrir meðaumkvun.

"Hættu - hættu þessu," sagði hann lágt.

Borghildur bandaði hendinni á móti honum. Það var bending um, að hann ætti að halda sér saman. Sjálf fór hún hægt að öllu og talaði hvert orð með hinni mestu stillingu. Það var jafnvel einstakt umburðarlyndi í málrómi hennar.

"Ef það er Þorsteinn minn, sem þú ert að tala um, þá ertu illa komin, vesalingurinn! Hann verður aldrei maðurinn þinn! - Hefirðu verið það flón að hugsa þér annað eins! Nei, Jóhanna mín, nú trúi ég þér ekki. Hann verður ekki einu sinni barnsfaðir þinn, það geturðu reitt þig á. Hann hefir mannorð sitt óflekkað af þér, - og hann þarf á því að halda. Því honum er annar og veglegri ráðahagur ætlaður. Því ætlum við, foreldrar hans, að koma til leiðar, áður en við sleppum af honum hendinni. Þú færð ekki að spilla því."

Jóhönnu fannst hjartað í sér ætla að springa.

"Hættu, hættu," hvíslaði Þorbjörn. "Hún vill mig ekki, - og þá skulum við ekki vera að þessu."

"Heyrirðu, Jóhanna mín! Hann þolir ekki að heyra þig gráta. Þú trúir því ekki samt, að honum þyki vænt um þig! - Hann vill heldur leggja tilfinningar sínar í sölurnar en þér líði illa. Slíkur maður er það, sem ég vil að þú eigir. Þessi maður hefir þig ekki fyrir leikfang."

"Þorsteinn - Þorsteinn. - - Ó, guð minn!"

Jóhanna var orðin mállaus af ekkanum.

Borghildur beið stundarkorn og lofaði grátinum að buga hana enn þá betur. Því næst lagði hún höndina ofur blíðlega á öxlina á henni.

"Taktu nú sönsum, Jóhanna mín!"

- Um líkami manna og dýra liggja hársmáir þræðir, sem vér nefnum taugar. Nokkuð vitum vér um eðli þeirra, meira grunar oss, og mest er oss líklega dulið.

- Á meðan Borghildur studdi hendinni á öxl Jóhönnu, var eins og eitthvað læsti sig um hana og gagntæki hana alla. Hún gat ekki veitt viðnám, ekki harkað það af sér, ekki hreyft sig. Það var þungt eins og blý, og hægt og hægt vætlaði það um æðar og taugar eins og ólyfjan. Jafnframt voru síðustu leifarnar af sjálfstæði hennar og viðnámsmagni að dofna upp og deyja.

Hvorug þeirra vissi, hvað var að gerast. Þó hélt verkið áfram hægt og hiklaust, fet fyrir fet. Og það var eins og Borghildur ætlaðist á það af blindri eðlisgáfu, hvenær tími væri kominn fyrir hana að leggja smiðshöggið á verk sitt.

"Taktu nú sönsum, Jóhanna mín! Þú veist, að ég vil þér vel."

Jóhanna svaraði ekki, en stundi, eins og hún berðist við dauðann.

Borghildur gerði sig enn þá mýkri:

"Gerðu nú það, sem ég bið þig, barnið mitt. Hafnaðu ekki hamingju þinni.Taktu nú bónorði Þorbjarnar."

"Já," heyrðist innan um stunurnar, undur lágt.

"Sagirðu já? Það var rétt af þér. Þú ætlar þá að giftast honum?"

"Já. - Ó, guð minn!"

Borghildur lagði saman hendur þeirra.

"Jóhanna mín, gerirðu nú ekki þetta nauðug?" spurði Þorbjörn blíðlega.

Borghildur leit reiðulega framan í hann, en þó með sigurglotti, eins og hún vildi segja: Sigurinn er nú unninn samt, þótt þú hafir gert þitt til að spilla honum, glópurinn þinn.

Jóhanna svaraði engu, en lét fallast í fang hans, viljalaus. Þorbjörn lyfti hægt undir hökuna á henni og leit framan í tárvott andlitið. En hann kyssti hana ekki; - hann þorði það ekki.

"Svona. Láttu hana nú vera eina um stund og jafna sig," mælti Borghildur. Síðan opnaði hún dyrnar og hleypti Þorbirni út.

Jóhanna grúfði sig aftur ofan að borðinu og hélt áfram að gráta.

Þegar Borghildur kom aftur fram að glugganum, sá hún, að verið hafði dimmt él. Hlaðið var hvítt af snjó. Nú var þó élið að stytta upp og sólin farin að skína gegnum fjúkið.

En fram út drífunni komu tveir menn. Enginn hafði séð til þeirra, ekki einu sinni hundarnir, fyrr en nú, að þeir voru komnir heim í hlaðvarpa.

Borghildi varð hverft við, en hún lét þó ekki á neinu bera. Þessir menn, sem komu, voru þeir Þorsteinn og Sveinn.


Enginn hafði búist við þeim Þorsteini svona snemma. Nú þaut sú frétt um bæinn á svipstundu, að þeir væru komnir heim með fjóra lifandi tófuhvolpa.

Borga hentist í loftköstum fram göngin og út á hlað til að sjá þessa nýlundu.

Sveinn lofaði henni að líta ofan í pokann, sem hvolparnir voru í. Grenjafýlu lagði upp úr honum; en á botninum lágu hvolparnir í einum böggli, vafðir hver um annan. Kolsvört augu tindruðu upp til hennar; en þegar hún seildist ofan til þeirra og ætlaði að klappa þeim, fór að skína á örlitlar, bláhvítar vígtennur, og litlu hnoðrarnir fóru að bera sig að urra.

"En hvað þeir eru fallegir!" sagði Borga hrifin.

- Þorsteinn ætlaði með byssu sína inn í stofuna. Þar var hann vanur að geyma hana, því að þar gengu fæstir um. En framan við stofudyrnar mætti hann móður sinni.

Borghildur var óvanalega blíðmál:

"Komdu sæll, elskan mín! En hvað ykkur hefir gengið vel!"

Þorsteinn þagði við kveðjunni. Honum kom hún einhvern veginn kynlega fyrir.

"Láttu mig nú taka við byssunni þinni. Ég skal láta hana inn í stofuna. En flýttu þér inn í baðstofu til þess að klæða þig úr bleytunni. Ég held þér sé mál á því! Var ekki ósköp kalt?"

"Ég vil ganga frá byssunni minni sjálfur," mælti Þorsteinn þurrlega. "Það eru tvö skot í henni."

Borghildur stóð fyrir honum.

"Það gerir ekkert til. Ég skal fara varlega með hana."

Þorsteinn horfði hissa á móður sína:

"Hvað á þetta að þýða?"

"Þorsteinn, Þorsteinn, - hjálpaðu mér!" var hrópað með örvæntingarákefð inni í stofunni og lamið um leið í stofuhurðina. Jóhanna hafði þekkt málróm elskhuga síns.

"Hvað er þetta - hvað er þetta?" sagði Þorsteinn og brá litum.

Borghildur hafði líka skipt um svip. Blíðan var horfin, en hörkulegt meinfýsisglott komið í staðinn.

"Nú-nú, það er best að þú fáir að sjá hana, - alla útskælda!" sagði hún og hratt upp hurðinni.

Jóhanna þaut í fangið á Þorsteini.

"Hvað hefir komið hér fyrir?" spurði Þorsteinn byrstur og leit ýmist á Jóhönnu eða móður sína.

"Hvað varðar þig um það? Hvað varðar þig um þessa stúlku?"

Það leyndi sér ekki á svip mæðginanna, að þau ætluðu sér ekki að vægja hvort öðru.

"Ég vil fá að vita það! Hvað hefir Jóhönnu verið gert?"

"Henni hefir alls ekkert verið gert - annað en gott."

"Jóhanna, hvað hefir þér verið gert?"

Jóhanna gat engu svarað fyrir gráti.

"Hvað hefirðu gert Jóhönnu, mamma? Ég vil fá að vita það."

"Þig varðar ekkert um það!" hvæsti Borghildur framan í hann.

Þorsteinn lét frá sér byssuna, lagði höndina á öxl Jóhönnu og horfði hvasst á móður sína:

"Hér er mér að mæta, mamma. Þessi stúlka er unnusta mín."

Borghildur hló svo hátt, að glumdi í stofunni:

"Ha-ha-ha, unnusta þín! - Unnusta þín, ha-ha-ha-hæ! - Jæja, hún er nú samt trúlofuð Þorbirni."

Þorsteinn stóð sem þrumu lostinn. Jóhanna vék sér hægt undan hendi hans.

"Það er satt," stundi hún upp. "Móðir þín gekk svo hart að mér."

"Það er markleysa," mælti Þorsteinn stillilega. "Eldri eiðar ganga fyrir. Hvar er Þorbjörn?"

"Hvað viltu honum?" hreytti Borghildur út úr sér.

Þorsteinn brýndi röddina: "Hvar er Þorbjörn?"

"Heldurðu, að þú fáir hann til að gefa þér hana eftir! Nei, Steini minn. - Þá er mér að mæta."

"Mér er sama, hvort ég mæti þér eða honum. En Jóhönnu skuluð þið ekki ná frá mér. Hún er mín. Lengi hefir hún verið trúlofuð mér, og það er mitt barn, sem hún ber undir brjóstinu."

Borghildur hló aftur, engu minna en áður; en hláturinn var enn þá beiskari:

"Ertu nú viss um það?"

Það kom hik á Þorstein örlitla stund. "Hvað áttu við?" spurði hann.

"Ertu nú viss um, að það sé þitt barn, - en ekki Þorbjarnar eða - föður þíns? Hvers má ekki vænta af - svona kvendi!"

Hún sagði þetta með nístandi napurleik og benti um leið á Jóhönnu.

Það var eins og hnífur væri rekinn í Jóhönnu; hún hljóðaði upp yfir sig, riðaði á fótunum og mundi hafa hnigið niður, ef Þorsteinn hefði ekki gripið til hennar og stutt hana.

"Mamma!" var það eina, sem Þorsteinn gat sagt.

"Eins og allir viti það ekki, að hún hefir daðrað við Þorbjörn í allan vetur, á milli þess sem hún hefir verið að finna þig. Unnustan þín, ha-ha-hæ!"

"Þetta er ósatt! - þetta er lygi!" hrópaði Jóhanna af veikum kröftum og stappaði fætinum framan í Borghildi. "Ó, Þorsteinn, Þorsteinn, - trúðu henni ekki."

Þorsteinn stóð höggdofa og var á báðum áttum. Fyrst horfði hann á móður sína. Gat það verið, að nokkur manneskja berði fram blákalda lygi með slíkri frekju? Svo leit hann á Jóhönnu. Aldrei hafði hann séð hana eins beygða af gráti og hugarkvöl. Öllum þeim sælu stundum, sem þau höfðu unað saman, brá fyrir eins og leiftrum í huga hans. Aðeins einu sinni hafði hún grátið hjá honum; það var þegar hún glataði sakleysi sínu í faðmi hans. Hann heyrði enn þá bænir hennar, angist og kvíða, áður en hún lét undan. Nú stóð þetta atvik skýrt fyrir honum og bar ást hennar vitni, - nú, þegar ofurþungi yfirsjónar þeirra beggja hvíldi á henni einni.

"Þorsteinn, Þorsteinn, trúðu henni ekki!" - hljómaði enn þá í eyrunum á honum, eins og gegnum draum. Nei, nei, hann trúði ekki móður sinni. Það, sem hún sagði, var lygi og rógur. Blóðið streymdi honum til höfuðsins. Með steyttan hnefann gekk hann beint framan að móður sinni og æpti:

"Þetta er lygi!"

"Svo -?" sagði Borghildur glottandi og reyndi að láta sér hvergi bregða.

Þorsteinn þrútnaði í framan af bræði, varirnar skulfu, hnúarnir hvítnuðu á krepptum hnefanum.

"Það er lygi, himinhrópandi lygi - úr þér, úr Þorbirni eða úr Settu í Bollagörðum. Ég veit ekki, hvert ykkar er mestur djöfull!"

Borghildur hopaði undan honum út að þilinu. Þar nam hún staðar og hvessti á hann augum.

Á meðan hik var á Þorsteini, hafði henni farið að glæðast von um, að orð hennar mundu vinna svig á honum. Nú, þegar það brást og hann trúði Jóhönnu, en ekki henni, stóð henni ógn af honum. Aldrei hafði hún séð hann reiðan fyrri. Aldrei hafði hana grunað, að hann, hæglætismaðurinn, ætti slíkt skap til. Hún horfði yfir hnefann, sem var fast við nasirnar á henni, og framan í son sinn. Hún fölnaðu í framan, en svipurinn harðnaði.

"Sláðu! Hvers vegna gefurðu mér ekki löðrunginn?"

Þorsteinn dró að sér hnefann:

"Ég mundi mola á þér höfuðið - ."

"Djöfull, sagðirðu. Svo að móðir þín er þá djöfull!"

Þorsteinn réð sér varla fyrir ofsa:

"Ég veit ekki, hvað ég á að kalla þig. Aldrei hefði ég trúað, að ég ætti slíka móður! Þannig átti að nota stundina, sem ég var að heiman. Þú vissir, að væri ég heima, væri mér að mæta. Huglaus eruð þið líka, samfara illskunni. Og Þorbjörn -! Hann er þó líklega gull hjá þér!"

"En þér dettur ekki í hug móðurumhyggjan fyrir velferð þinni-!"

"Móðurumhyggjan, ha-ha! Ef hún hefir nokkurn tíma verið til, þá hefir það verið fyrir mitt minni. Síðan ég komst á legg, hefi ég ekkert haft af henni að segja. Einn hefi ég farið ferða minna, og nú þarf ég engrar móðurumhyggju við. Nú fer ég mínu fram. Föður minn hefirðu beygt og þrælkað að ýmsu leyti og gert honum heimilið að kvalastað. Mig ferðu ekki eins með. Skilurðu það?"

"Þorsteinn, Þorsteinn, gáðu að, hvað þú gerir!" mælti Jóhanna og lagði skjálfandi höndina á handlegg honum. Henni ógnaði ofsinn.

"Berðu mig, ef þú þorir! Berðu hana móður þína!"

"Ó, þú ættir það skilið, - þú, sem tekur fyrir unnustuna mína, á meðan þú veist ekki annað en ég liggi kaldur og hrakinn uppi á heiðum, og neyðir hana - kvelur hana til þess að lofast öðrum manni. Er meiri þrælmennska til? - Og þegar bragðið tekst að fullu, þá grípurðu til þess örþrifaráðs að reyna að ljúga af henni æruna! Henni og - föður mínum, ha-ha-ha! - Slíka móður á ég!"

Þorsteinn reikaði fram og aftur um gólfið og sefaðist ögn við það. Æðarnar slógu ótt og títt á gagnaugum hans, eins og þær ætluðu að springa. Borghildur stóð enn upp við þilið og titraði af geðshræringu. Tár hrutu af augum hennar við og við, en enn þá bar svipurinn vott ósveigjanlegrar hörku.

Allt í einu tók hún viðbragð og þreif óþyrmilega um handlegginn á Jóhönnu, eins og hún ætlaði að nísta hold frá beini:

"Þú hefir svikið mig á vistráðunum í vor, rýjan mín! Þú leyndir því þá, hvernig á stóð fyrir þér. Ég hefi ekkert með slík hjú að gera, sem ekki geta unnið verkin sín. Burt með þig! Burt úr vistinni, burt af heimilinu - farðu til helvítis! - Burt!"

"Snertu hana ekki!" hrópaði Þorsteinn um leið og hann tók um úlnliðinn á móður sinni svo fast, að allan mátt dró úr hendinni. Borghildur sleppti takinu og hrökklaðist út í horn.

"Hún fer burt héðan hvort sem er. Ég mun sjá henni fyrir stað, en hér verður henni ekki misþyrmt lengur!"

"Burt, burt með hana!" grenjaði Borghildur helblá af reiði.

"Komdu, Jóhanna!" sagði Þorsteinn, tók hana við hönd sér og leiddi hana út.

- - Það var eins og höfuðbólið ætlaði niður, þegar Borghildur var að finna einhvern til að fleygja öllu út úr bænum, sem Jóhanna átti.

Vinnukonurnar höfðu haft eitthvert blessað lag á að hverfa.

Hún varð því að gera þetta sjálf.

En þegar hún bar fram yfirsæng Jóhönnu, hitti hún Borgu litlu í bæjardyrunum. Hún stóð þar enn yfir tófuhvolpunum, sem nú var búið að láta ofan í tóma tunnu.

"Borga, hjálpaðu mér til. Tíndu saman allt það, sem stelpuskrattinn hún Jóhanna á, og berðu það út á hlað."

"Ekki ég, mamma," sagði Borga og færðist undan.

"Ekkert nöldur! Gegndu undireins - og flýttu þér!"

Borga þorði ekki annað en hlýða. Með tárin í augunum bar hún föt Jóhönnu vinstúlku sinnar út úr bænum og fram á varpann. Koffortið hennar báru þær mæðgurnar á milli sín. Rúmstæðið hennar í baðstofunni var tæmt að öðru en hefilspónunum. Fatakrókurinn hennar í stofuhorninu var skilinn auður eftir.

Borghildur elti dóttur sína út og inn með illyrðum og eftirrekstri á meðan hún var að þessu.

Krapagrautur var um allt hlaðið eftir síðustu drífuna og hlaðið eitt forar- kviksyndi. Borga valdi þurrustu blettina undir það, sem hún lagði frá sér, og sumt lét hún á hestasteininn.

Þegar ekki fannst fleira í bænum, sem Jóhanna átti, kom Borghildur út á hlað til þess að líta yfir verkið.

"Ég held, að það sé óþarfi að vanda þessu bölvaða dóti staðinn!" sagði hún og sparkaði öllu fram af varpanum.

Sængurfötin fóru fyrst; sængurnar ultu í böggli ofan varpann, þar sem bæjarskólpinu var hellt. Koffortið hrökk opið á leiðinni og allt úr því; þar á meðal ósniðin léreft, sem ætluð voru í barnsföt. Spariföt Jóhönnu lágu á hestasteininum. Þau fóru fyrst ofan í forina, og eftir nokkurn þvæling fram af varpanum - og Borghildur hrækti á eftir öllu saman.

- Á meðan þessu fór fram, ráfuðu þau Þorsteinn og Jóhanna burtu frá bænum, án þess að vita hvert stefna skyldi. Úti á túninu mættu þau Agli, sem þá var að koma heim.

Egill sá þegar, hvar komið var. Hann vék sér að Þorsteini um leið og hann gekk fram hjá, og hvíslaði að honum:

"Farðu með hana upp að Heiðarhvammi."


6. kafli

Þorsteinn og Jóhanna gengu eins og leið lá inn eftir dalnum, inn fyrir vatnsbotninn, þangað sem götur skiptust. Þar settust þau snöggvast niður á steina.

Þá var glaða sólskin og sólin í hádegisstað. Snjóflygsurnar úr síðasta élinu voru orðnar að stórum, tærum vatnsdropum, sem sátu á lynginu. Alls staðar glitraði á vatnsdropa og snjóhrafl, hvað innan um annað, eins og guðvefjarslæða, alsett gimsteinum, lægi á jörðinni. Þúsundir af ljósbrotum stungu augun, svo að varla var lítandi upp, og regnbogalitir glitruðu bæði niðri við jörðina og uppi á skýjunum, þar sem élin voru að þokast fjær. Náttúran brosti ástúðlega gegnum tárin.

Þau höfðu enga sinnu á að taka eftir þessu og enga gleði af þessu undurfagra vorbrosi. Jóhanna grét enn þá, en grét stillilega. Hún var búin að gráta svo mikið, að hún gat ekki meira. Gráturinn var henni ekki þungur nú orðið, en það var dregið svo af henni, að við lá, að hún gæti ekki gengið lengra. Þessi viðstaða var gerð henni til hvíldar.

Þorsteinn hafði reiðst yfir sig. Frá því hann var barn að aldri, hafði hann aldrei skipt skapi jafnmikilfenglega og nú. Þessi miklu skapbrigði gerðu hann hálfsjúkan eftir á. Jafnvægi það, sem árum saman hafði ríkt í sálu hans, hafði raskast svo gersamlega og svo sviplega, að hann sá ekki út yfir, hvenær hann mundi bíða þess bætur. Varla hefði hann fundið meiri sársauka eftir beinbrot, en hann fann nú í sálu sinni. Heiftin logaði þar enn ofsinn var aðeins lítið eitt farinn að lægjast, en jafnframt skaut upp í huganum ásökunum, samviskubiti og einhverjum kynlegum kvíða, sem hann hafði aldrei haft af að segja áður. Þessi sinnisóró ætlaði að gera út af við hann. - Hann grét ekki, en hann titraði eins og hrísla.

"Er ekki ósköp að sjá mig?" stundi Jóhanna upp, eftir að hafa setið þegjandi nokkra stund.

Þorsteinn leit upp heldur seinlega, og það var eins og hann vaknaði. Andlit Jóhönnu var bólgið af gráti og augun rauð og þrútin. Hárið hékk í flygsum niður með vöngunum, og hún var að reyna að koma einhverju lagi á það með fingrunum.

"Jú, hjartað mitt. Það er ósköp að sjá þig."

"Það gerir ekkert til; - núna gerir það ekkert til."

"Nei, það er satt. Mér þykir eins vænt um þig fyrir því, - jafnvel enn vænna en nokkurn tíma áður. Komdu! Lofaðu mér að kyssa þig."

"Nei - ekki núna."

"Hvers vegna ekki núna? - Jú, einmitt núna. Má ég ekki kyssa af þér tárin? Má ég ekki strjúka grátinn af andlitinu á þér? Komdu! Sestu hérna á hnéð á mér."

Jóhanna lét undan. Hann tók hana í fang sér og faðmaði hana upp að sér eins og barn, sem verið er að hugga.

Eftir dálitla stund spurði Jóhanna:

"Hvert eigum við nú að fara?"

"Upp að Heiðarhvammi."

"Hvað segirðu? Upp að Heiðarhvammi?" mælti Jóhanna hálfforviða og horfði framan í hann.

Hún hafði ekki tekið eftir því, að þau mættu Agli, og ekki heyrt, hvað hann sagði við Þorstein. Svo hafði hún verið viðutan, er þau gengu að heiman.

"Það er ekki langt," mælti Þorsteinn.

"Nei, en - - þessi Halla?"

"Hefirðu nokkurn tíma séð hana?"

"Nei, en - - það hafa svo margir ímugust á henni. Hvers vegna á ég endilega að fara þangað? Þar er svo afskekkt og einmanalegt."

"Við skulum fylgja ráðum föður míns."

"Föður þíns? - Hefir hann - -?"

Það brá fyrir glampa á bak við tárin í augum Jóhönnu.

"Það var það, sem hann skaut í eyrað á mér áðan."

"Áðan -?" - Það var eins og eitthvað rifjaðist upp fyrir Jóhönnu, sem hún hefði þó séð eins og í móðu. Hún horfði framan í unnusta sinn, og smátt og smátt birti yfir svip hennar.

"Heyrðu, - segðu mér eitt. - Er hann pabbi þinn með okkur?"

Þorsteinn brosti. Öldurnar í sál hans höfðu lækkað síðan Jóhanna kom í fangið á honum, svo að nú gat hann brosað við henni.

"Já, pabbi minn er með okkur."

- Þegar þau gengu á stað upp hálsinn, var skap Jóhönnu orðið svipað veðrinu. Þar var glatt sólskin með bros að baki tára, en élin færðust lengra og lengra burtu.

Hún vissi það, að þótt Borghildi hefði tekist fyrir löngu að gera Agli heimavistina óþolandi, þá náðu áhrif hennar á hann ekki lengra. Hún fékk hann ekki til neins, sem Egill vildi ekki sjálfur, og hann fór sínu fram, einkum utan heimilis, hvernig sem hún lét.

Og eftir þessa frétt lifnaði vonin að nýju í brjósti hennar, - vonin, sem ljómar upp lífið og örvar æðaslögin.

Þá gat hún sagt Þorsteini nákvæmlega frá öllu því, sem gerst hafði áður en hann kom, og beðið hann fyrirgefningar á veikleika sínum.


Egill hafði gengið inn í bæinn og lofað Borghildi að ausa yfir sig.

Hann settist á rúmið sitt í baðstofunni, tók matinn, sem honum hafði verið skammtaður um morguninn - því von var á honum heim -, setti diskinn milli hnjánna og brytjaði ofan í sig með sjálfskeiðungnum sínum. Hann svaraði þó Borghildi orði til orðs - til þess að halda henni við efnið.

Borghildur rigsaði um baðstofugólfið fram og aftur og gat hvergi fundið beinum sínum ró, meðan hún jós yfir Egil af gnægð bræði sinnar. - Hún kvað Þorstein hafa bölvaðan þráann úr föður sínum og bölvaða stífnina og heimskuna líka, að hún nefndi ekki fleira! Í öllu líktist hann honum, en henni í engu. - Jóhanna væri úrþvætti. Hún launaði uppeldið og umönnunina eins og hún væri manneskja til. Allt væri þetta henni að kenna. Hún hefði fengið að halda sér til og ganga uppstrokin, í stað þess að hún hefði átt að standa við kvörnina eins og ambátt. Nú sæjust afleiðingarnar! - Þorbjörn væri helvítis rola, huglaus og skilningslaus, ekkert annað en fólska og illmennska. Honum væri ekki við hjálpandi. Til allrar bölvunar hefði honum mistekist að hengja sig; helst hefði verið gustuk að hjálpa honum til þess. - - Þannig lét hún dæluna ganga.

Auk þeirra hjóna var enginn í baðstofunni nema Sveinn litli, sem lá þar í rúmi sínu. Hann átti að sofa eftir grenjavökurnar, en varð ekki svefnsamt. Hann breiddi þó upp yfir sig og lét ekkert á sér bæra.

"Mér finnst nú þetta vera á við meðalhúslestur," sagði Egill háðslega einu sinni, þegar ofur lítið hlé varð á rausi húsfreyjunnar.

Borghildur skildi sneiðina. Hún hafði sem sé steingleymt húslestrinum í öllum þessum ósköpum. En að líða Agli að minna sig á það, og það á þennan hátt, það var henni síst að skapi. - Hún bólgnaði því upp af nýrri bræði og byrjaði á nýjum lestri.

- - En vinnukonurnar notuðu þessa stund vel. Borga litla hafði gengist fyrir því.

Þær fóru allar úr bænum, gamlar og ungar, niður fyrir varpann, þar sem eigur Jóhönnu lágu á tvístringi, og tíndu þær saman með stakri umhyggju.

Hver spjör var skafin og hreinsuð eins og unnt var. Með sumt þurfti að fara ofan í vatnið til þess að þvo það. Síðan var allt brotið vandlega saman og látið í poka. Það, sem farið hafði úr koffortinu, var sett ofan í það aftur, og frá öllu var gengið sem best.

Ef Borghildur kæmi að þeim á meðan, voru þær búnar að taka sig saman um að minna hana á, að þær réðu verkum sínum sjálfar um messutímann á sunnudögum. - Þó þótti þeim vissara að hafa njósn inni í göngunum. En fréttin, sem þær fengu, var alltaf ein, Borghildur var ekki nærri búin með "húslesturinn".

- Þótt Sveinn hefði ekkert getað sofið um daginn, lagði hann á stað um kvöldið með bagga á bakinu, sem var meiri fyrirferðar en hann sjálfur. Það voru föt og rúmföt Jóhönnu og koffortið, allt bundið saman. - Egill gat sagt honum í laumi, hvert hann skyldi fara.

- Þorbjörn hafði ekki sést allan daginn, síðan Þorsteinn kom heim.


Mikið stóð til í Heiðarhvammi þennan dag. Þau Ólafur og Halla ætluðu að láta skíra barn sitt. Prófasturinn hafði lofað að skreppa þangað seinni hluta dagsins, að aflokinni messu.

Halla vildi ekki eiga það á hættu að fara með barnið til kirkjunnar. Til þess voru henni atburðirnir frá árinu áður of minnisstæðir.

Finnur í Bollagörðum hafði verið beðinn um að vera skírnarvottur, og til þess að hann fengi að koma, höfðu þau Heiðarhvammshjón unnið það til að bjóða Settu með honum. Hún gat þá sungið undir með prestinum skírnarsálmana, því annars voru fáir til þess.

Halla hafði fært sveininn í skírnarkjól, sem náði honum langt niður fyrir fætur, og sat með hann í fanginu, þegar þau komu inn, Þorsteinn og Jóhanna, og Ólafur með þeim. Sjálf var Halla búin bestu fötum sínum, og Salka var svo "fín", að henni fannst hún hvergi mega koma við og ekkert snerta, svo að hún flekkaði sig ekki. Sveinninn var í besta skapi og hjalaði við fingurna á sér.

Bærinn var allur hreinn og fágaður. Jafnvel í viðartróðinu í þekjunni sá hvergi votta fyrir ormavefum. Ólafur hafði brotið bálkana, sem lengst stóðu inn úr þekjunni, svo að nú skein víða í hvít sárin. Rúðurnar í gluggunum voru heilar og hreinar, og sólin skein inn um alla baðstofuna. Vandlega var breitt yfir rúmin, og gólfið á milli þeirra var þvegið svo, að hver æð sást í trénu.

Um allan bæinn lagði ilm af nýbökuðum kleinum og pönnukökum, og kaffiketillinn suðaði yfir eldinum.

Ólafur lék við hvern sinn fingur af kæti, en Halla var fremur fálát, eins og henni kæmi gestakoman ekki sem best. Þorstein kannaðist hún við, því að hann hafði oft komið að Heiðarhvammi, en Jóhönnu hafði hún aldrei séð áður. Hún hafði aldrei komið þangað fyrr í hennar tíð, og Halla aldrei ofan að Hvammi. Það var því einkum hún, sem Halla virti vandlega fyrir sér. Henni duldist ekki, að hér voru einhver vandkvæði.

Jóhanna leit feimnislega undan augnaráði Höllu, og það lá við, að grát setti að henni aftur.

Þorsteinn hafði orð fyrir þeim báðum:

"Við eigum erindi við ykkur hjónin, sem mér er annt um að verði vel tekið. Það er að biðja ykkur að taka við Jóhönnu og lofa henni að vera hér ofur lítinn tíma. Ég get ekki sagt, hve lengi þarf á því að halda."

Ólafur leit til Höllu, og þau þögðu bæði. Þorsteinn beið andartak eftir svari og hélt svo áfram:

"Hún er unnusta mín, og - þið sjáið, hvernig ástatt er. Heima í Hvammi hefir hún engan frið á sér fyrir móður minni. Þess vegna verð ég að koma henni burtu."

Aftur varð þögn. Ólafur beið þess enn, að Halla svaraði. "Það, sem hún verður ykkur til þyngsla," mælti Þorsteinn, "skal ég borga. Ég skal sjá um, að þið verðið skaðlaus af þessum greiða."

"Það er sjálfsagt, að við reynum þetta," mælti Ólafur. Honum þótti ófært að þegja lengur við þessari bón.

Ólafi var ljúft að verða við bónum manna, ef hann gat. Sonur hreppstjórans í Hvammi þurfti ekki að eiga hlut að máli til þess að svo væri.

Þorsteinn þakkaði Ólafi undirtektir hans. En það var sem honum fyndist þær tæplega nægja. Hann hélt áfram og beindi einkum máli sínu til Höllu:

"Hér eru enn fleiri vandkvæði á. Á meðan ég var að heiman, hefir móðir mín neytt Jóhönnu til þess að lofast Þorbirni ráðsmanni. Hann hefir sótst eftir henni áður, en hún neitað honum. Auðvitað er slíkt loforð markleysa; en verið getur þó, að Þorbjörn gangi eftir efndum þess, - eða móðir mín fyrir hans hönd."

Jóhanna var farin að gráta.

Halla sat hugsandi og tók varla eftir því síðasta, sem sagt var. - Hún var að hugsa um stúlku, sem átt hafði heima á prestssetri fyrir nokkrum missirum. Hún hafði stigið óheillaspor og glatað gæfu sinni. Hún hafði engan Þorstein við hlið sér, þegar á reyndi; hún stóð þá ein og yfirgefin. Þess vegna hafði hún orðið að taka kostum, sem ekki voru henni léttari en Jóhönnu mundi nú að giftast Þorbirni ráðsmanni. Hún vissi, hversu þetta hafði gerspillt hamingju þessarar stúlku. Nú var sagan að koma út í nýrri útgáfu - einni af hundrað. Og nú var liðsinnis hennar leitað til að afstýra því. Hún bað guð í hljóði að gefa sér styrk til þess.

"Faðir minn réð okkur til að leita hingað," bætti Þorsteinn við.

"Hér þarf ekki fleiri orða við," mælti Halla. "Ólafur er búinn að játa þessu, og það færi illa á því, að hjón spilltu hvort annars loforðum. Jóhönnu er velkomið það litla, sem við getum í té látið. Húsrýmið er lítið, eins og þið sjáið. Hún verður að gera sér að góðu rúmið þarna, sem þið sitjið á. Líklega verða fáir næturgestir þann tímann, sem hún verður hér, og líklega ferst það fyrir, að minnsta kosti fram eftir sumrinu, að hér verði bætt við fólki."

"Hún á sjálf rúmföt," mælti Þorsteinn.

"Það er gott. Þá er hægt að gera næturgestum flatsæng. - Að öðru leyti skal eitt yfir okkur öll ganga. Þorbjörn mun naumast troða okkur oft um tær. Og þótt móðir þín leggi á mig fæð, mun ég ekki taka mér það nærri. Ég hefi þar ekki úr háum söðli að detta, að því sem mér er sagt. - Jæja, Jóhanna mín. Vertu velkomin hingað! Það er fátæklegra hér en heima á höfuðbólinu, en hér skal þér ekki verða misboðið, á meðan ég get við nokkuð ráðið."

Jóhanna leit upp með tárin í augunum. Hún þagði, en þakklætið skein af svip hennar. Nú hafði hún séð Höllu í Heiðarhvammi. Fyrir klukkustund hafði hún kviðið fyrir að sjá hana; nú óskaði hún með sjálfri sér, að hún þyrfti aldrei að missa sjónar af henni.

Þorsteinn þakkaði Höllu undirtektirnar með mörgum fögrum orðum, og Ólafur ljómaði af gleði yfir þeim viðtökum, sem loforð hans hafði fengið. Svo fór samtal þeirra brátt að hneigjast að öðrum efnum.

- Þegar leið á daginn, kom Setta í Bollagörðum, en ekki Finnur.

Setta var í skástu flíkunum sínum og iðaði öll af kæti og fleðuskap. Hana rak í rogastans, þegar hún sá þau Þorstein og Jóhönnu, en lét þó ekki á undrun sinni bera.

"En hvað það var gaman að hitta hérna fólk frá Hvammi, - hí-hí-hí! Þorsteinn, ég var búin að hugsa þér þegjandi þörfina, þegar ég sæi þig, hí-hí-hí-hí! Ekki nema það þó! Þú hefir fundið grenið mitt, - drepið tófukvikindisgreyið mitt og hirt hvolpana. Dæmalaus maður ertu, hí-hí-hí! Veistu ekki, að ég á allar tófur í heiðinni - þessar fáu, sem eftir eru - og öll greni eru grenin mín. Ég á heldur ekkert annað! Aumingja tófan mín! Ég grét, þegar ég frétti látið hennar! Mér þótti vænst um hana af öllum kvikindum. Ó, hún var svo skynug! - hí-hí-hí! Ertu nú viss um, að hún hafi ekki verið kóngsdóttir í álögum? Ertu nú viss um, að það hafi ekki verið mannsaugu, sem hún leit upp á þig, þegar hún var að deyja? hí-hí-hí! Ég held, að þetta geti verið. - Heyrðu, heldurðu, að þú skytir mig, ef þú mættir mér í tófulíki? Já, það gerðirðu auðvitað - og þættist gera landhreinsun, hí-hí-hí! Jæja, Þorsteinn minn, ég er nú stundum í tófulíki. Þú skalt vara þig á mér, því að ég er ramgöldrótt! Þó get ég aldrei brugðið Finni mínum í refslíki, hí-hí-hí! En ef þú skyldir skjóta mig einhvern tíma, þá blessaður hirtu af mér skottið. Það er dýrgripur, því að því hefir aldrei verið dinglað framan í höfðingjana, hí-hí-hí-hí-hí! - - Og Jóhanna mín, skelfing er langt síðan ég hefi séð þig! Aldrei lætur þú svo lítið að koma að Bollagörðum, þó að þú komir upp fyrir fjallið. - Þú ættir að verða kaupakona hjá mér í sumar, hí- hí-hí! - - - En meðal annars, - hann Finnur minn bað að heilsa ykkur hjónunum. Hann þurfti nú endilega ofan í sveit í dag. Ég held, að það hafi verið einn ólukku-dynturinn í honum. Hann er svo mislyndur, hann Finnur - - !"

Setta var ekki nærri búinn að masa lyst sína, þegar prófasturinn kom.

Skírnin fór fram á venjulegan hátt.

Setta leit illum augum til Jóhönnu, því að Halla hafði beðið hana að halda sveininum undir skírn. Þetta fannst Settu vera blóðug móðgun, þar sem hún var boðin, en Jóhanna kom af tilviljun. Og til þess að gera þó eitthvað til bölvunar, setti hún prófastinn út af laginu í miðjum síðari sálminum, svo að til vandræða horfði um stund.

Sveinninn var skírður Halldór.

Ólafi hafði verið illa við nafnið fyrst í stað. Hann setti fyrir sig þá bábilju, að ef menn létu heita í höfuðið á dauðu barni, þá yrði það barn líka skammlíft. Þó lét hann Höllu ráða.

Eftir skírnarathöfnina settust þau öll að kaffi og sætabrauði, prófasturinn með hinum. Þá liðkaðist aftur um málbeinið á Settu.

Mistökin á sálminum voru henni nóg umtalsefni fyrst í stað. Það var sem hún mundi aldrei geta komið prófastinum í skilning um það, hvað nærri sér hún tæki það, að hafa sett hann út af laginu, og hvað hún skammaðist sín, - og svo hneggjaði hún, svo að kaffið gekk í gusum fram um nefið á henni.

En þegar masið stóð sem hæst, sáu þau út um gluggann, hvar Sveinn í Hvammi kom heim á hlaðið með flutning Jóhönnu á bakinu.

Setta steinþagnaði í miðri setningu og gapti af undrun.

Hún fór síðan að hugsa með sér, hvort ekki mundi vera vænlegt til fróðleiks að koma heim að Hvammi um þessar mundir.


Þorsteinn kom ekki heim að Hvammi fyrr en langt var liðið fram á nótt. Þá tók hann rúmföt sín úr herberginu í baðstofuendanum og bar þau út á loft í smíðahúsinu.

Hann hafði stundum sofið þar áður á sumrin, til þess að forðast hitasvækjuna í baðstofunni. Nú gerði hann það til þess að verða ekki á vegi móður sinnar og heyra ekki til hennar. Framvegis ætlaði hann að hafast við í smíðahúsinu, meðan hann ætti heima í Hvammi, láta færa sér þangað mat sinn og lifa þar einlífi. Aldrei ætlaði hann að stíga fæti sínum inn í baðstofuna framar.

- Daginn eftir sá einhver af heimamönnum Settu í Bollagörðum læðast heim að bænum. Rétt á eftir var búið að leggja strokkinn upp að búrhurðinni að innanverðu, og heyrðist þar hljóðskraf inni.

Borghildur hafði búist við því, að Þorsteinn færi með Jóhönnu að Brekku eða á einhvern bæinn þar í grenndinni, þar sem gamlir kunningjar bjuggu, en aldrei dottið í hug, að hann færi með hana upp að Heiðarhvammi. Helst hefði hún viljað vita hana á Brekku, því að þá mundi Margrét segja henni allt um hagi hennar, meðal annars hvort Þorsteinn heimsækti hana og hvort aðrir kæmu að finna hana.

En þegar hún frétti, að Jóhanna væri komin upp að Heiðarhvammi, varð hún hamslaus af reiði. Hvergi vildi hún síður vita Jóhönnu en þar. - Allt það illt, sem hún hafði hugsað um Heiðarhvammshjónin, rifjaðist þá upp í huga hennar. Alltaf var "þetta bölvað heiðarkot" að gera henni órótt í skapi. Það var eins og hreppstjórinn hefði þar útvígi og skákaði þaðan bæði henni og vinum hennar. - Og þessi Halla, sem enginn þekkti og enginn vissi, yfir hverju bjó! Aldrei hafði hún séð hana; samt tók hún fram fyrir hendurnar á henni hvað eftir annað, fyrst með því að fá Heiðarhvamm, svo með því að hæna að sér hreppstjórann, taka Sölku frá vinkonu hennar og nú loks Jóhönnu. Þessi manneskja sat öllum dulin, eins og seiðkona undir hjalli sínum, og léði einskis fangs á sér. Guð mátti vita, hvað illt hún þegar væri búin að gera henni og hvað illt hún mundi eiga eftir að gera henni. Hún hataði hana, - og þó hafði hún einhvern óljósan beyg af henni.

Um kvöldið slógu þau hjónin dálitla brýnu í herbergi sínu, fyrir lokuðum dyrum. Borghildur var hávær að vanda, og heyrðist hvert orð til hennar fram í miðbaðstofuna. Egill nöldraði í hálfum hljóðum við og við, en lofaði henni annars að rausa.

"Hefirðu Heiðarhvamm fyrir skýli handa flækingum, sem hlaupa úr vistinni?" spurði Borghildur.

"Nei, - þar eru engir aðrir en hjónin, sem fengið hafa byggingu fyrir kotinu, og hreppsómaginn, sem þau hafa tekið."

"Nú, það er svo! - Er ekki Jóhanna komin þangað líka?"

"Það veit ég ekki."

"Ekki það? Þá veit ég það. - Og ætli það sé ekki að undirlagi þínu? Það væri ekki nema þér líkast."

"Hvers vegna heldurðu það?"

"Þið hafið kannske hreiðrað þar niður fleiri - lausakonum, feðgarnir, þó að ég hafi ekki frétt það. Það er hægurinn hjá að heimsækja þær þar; það er ekki langt að heiman! Svo er það afskekkt, - uppi í heiði, svo að það fara ekki margar sögur af því, sem þar gerist!"

Þessi ásökun var svo nöpur, að vinnufólkinu hraus hugur við henni. Egill þagði; hann var orðinn slíkum góðgirnisaðdróttunum svo vanur af konu sinni, og vissi vel, að gegn slíku er hver maður varnarlaus.

"En hvað sem þessu líður," mælti Borghildur af miklum móði, "þá heimta ég nú Jóhönnu heim aftur. Heyrirðu það? Ég heimta, að hún komi heim aftur!"

"Nú, - hefirðu ekki rekið hana burtu?"

"Það er bölvuð lygi -!"

Egill hló við:

"Mér heyrðist svona rétt aðeins á þér um hádegisbilið í gær - -!"

"Það væri skárra, ef ekkert mætti segja við þessar stelpur, - þessar daðurdrósir ykkar - svo að þær hlypu ekki undireins burtu út af því! - Og þó að ég hefði skipað henni burtu, - ég held, að hún hefði getað verið kyrr fyrir því! Hún hefir gert mér meira á móti skapi. Það getur vel verið, að ég hafi skipað henni að fara til -vítis; en þá átti hún samt ekkert með að fara upp að Heiðarhvammi."

"Já, það er gamla sagan: - Þú rekur hjúin burtu annan daginn, en kallar þau heim aftur hinn daginn!"

Það mátti heyra á rostanum í húsfreyjunni, að henni þótti sjálfri málstaður sinn hæpinn að þessu sinni. Þó var hún ekki á því að láta undan síga.

"Jæja, - þú verður nú að sækja Jóhönnu upp að Heiðarhvammi," mælti hún.

"Hver þá? - Ég?"

"-Eða Þorsteinn."

"Já nefndu það við Steina minn -!"

"Ég held, að það standi þér næst, húsbóndaræflinum, að sjá um, að hjúin haldist í vistinni."

Um þetta þráttuðu þau góða stund. En þar kom, að Egill hét því sér til friðar að fara upp að Heiðarhvammi og freista að fá Jóhönnu heim með sér.

Það lét Borghildur sér lynda.

- Skömmu síðar rölti Egill upp að Heiðarhvammi.

Ekki til þess að fá Jóhönnu heim með sér, heldur til þess að biðja þau Ólaf og Höllu að sleppa henni ekki heim að Hvammi, hvernig sem Borghildur léti.

Þegar hann kom heim, blés hann þunglega yfir erindislokunum í Heiðarhvammi. Jóhanna vildi ekki flytjast heim með góðu, og það væri ekki fyrir fjandann að sæka hana í hendurnar á Höllu með illu. Hann treysti sér ekki til þess að minnsta kosti; hún réði því, hvort hún reyndi!

Borghildur beit á vörina og þagði.


7. kafli

Ekki hafði Jóhanna verið lengi í Heiðarhvammi, þegar orðið var svo kært með Höllu og henni, að nálega mátti hvorug af annarri sjá.

Halla komst fljótt að því, hve veiklynd Jóhanna var og kjarklítil. Þess vegna lagði hún alla stund á að búa svo að henni, að veran í Heiðarhvammi yrði henni til svo mikillar styrkingar og hughreystingar sem framast væri unnt.

Þetta var Höllu því ljúfara sem hún þóttist endurfinna í Jóhönnu margt af því, sem hún unni mest í sjálfri sér. Ástríkið og tilfinningablíðan hafði eitt sinn einnig verið eign hennar. Æskubjartsýnið og æskuléttúðina, sakleysið og traustið á mönnunum kannaðist hún einnig við. Það skildi þær, að Halla var tápmeiri, harðlyndari og herskárri, lét raunirnar herða sig, og hafði lengi haft hug á því að vera jafnan við því búin að geta stjakað frá sér. Hún hafði lært það af vonbrigðunum að treysta á sjálfa sig. Veran í Heiðarhvammi hafði gert hana beiskari í skapi gagnvart nágrönnum sínum neðan fjalls. Það var því síður en svo, að hún sæi eftir því tækifæri til að skipta sér af því, sem þeim kom við. Af öllu þessu tók hún Jóhönnu með opnum faðmi.

Að hittast uppi á heiðum er líkast því að hittast úti á hafi, norður á heimskautaís eða langt úti í fjarlægum löndum. Allir átthagar eru fjarlægir og manneskjurnar eins og í útlegð. Menn heilsast og finna til þess um leið, hve skyldir þeir eru. Kyrrðin og auðnin þokar því fastar saman, sem saman á. Fjallanáttúran máttuga og mikilfríða greiðir vináttunni götu án þess menn verði þess varir. Þar lifir enn þá vísdómsorðið: "Það er ekki gott, að maðurinn sé einn -." Blundandi þörf fyrir gleði samúðarinnar vaknar og verður ráðrík. Við rætur fjallanna verður lítið úr hverri einstakri manneskju; hinir ræktuðu blettir verða smáir, þegar litið er jafnframt yfir heiðargeiminn. Hugurinn skelfur fyrir hinni ægilegu hátignarró, sem alls staðar mætir auganu. Samt finna menn móðurfaðm lykja um sig. Þeir eru börn á brjóstum hinnar miklu náttúru, börn, sem hún lítur ekki við, en hlynnir samt að, börn - og systkini.

Þá finna menn hjá sér tilhneigingu til þess að leiðast eins og systkini, faðmast eins og systkini, gleðjast og hryggjast hvort með öðru eins og góð börn. - Enginn er þar til að brosa að barnaskapnum.

Framan af háði Jóhanna þungt hugarstríð í kyrrþey og grét oft, þegar hún var einsömul. Þær efasemdir, sem áður höfðu sótt að henni, komu enn þá. Og mikið hafði nú bætst við það, sem að henni amaði. Atburðirnir, sem gerðust daginn sem hún fór frá Hvammi, voru henni lítið léttari í endurminningunni en þeir höfðu verið sjálfir. Enn var henni mörgum stundum sem Borghildur stæði yfir henni með steytta hnefana, bæri á hana æruleysissakir og hrópaði að henni: "Svona kvendi!" Hvað var líklegra en Þorsteinn festi trúnað á þessum áburði, þó að hann þrætti fyrir það? Hvað var líklegra en Borghildi tækist að læða því út á meðal mannanna, svo að hann frétti það úr ýmsum áttum, þangað til hann gæti ekki komist hjá að trúa því? Ó, hún mátti ekki hugsa til þess! - Og svo var annað: Átti ekki Þorbjörn einn tilkall til hennar nú? Hafði hún ekki sagt Þorsteini upp í raun og veru, þegar hún lofaðist Þorbirni? Gat hún með nokkru móti losað sig við það loforð, sem Þorbjörn gat sannað upp á hana með vitni? Hvernig átti hún að fara að þessu? Hverju átti hún að svara honum, ef hann kæmi og gengi eftir heiti hennar, en Þorsteinn væri hvergi nálægur? Og ef Þorsteinn væri við, mundi hann þá ekki misþyrma Þorbirni eða drepa hann, og var hún ekki orsök í því?

Þessu var hún að velta fyrir sér og gráta yfir því, þar til Höllu tókst að komast fyrir, um hvað hún var að hugsa. Höllu veitti létt að hughreysta hana og sýna henni fram á, hvílík heimska væri að setja þetta fyrir sig. Eftir það vakti Halla vandlega yfir öllum geðshræringum hennar, - hverjum skugga, sem leið yfir svip hennar, hverju lítilræði, sem vott bar um áhyggjur og innra ósamræmi. Henni lærðist þá brátt að ráða í hugsanir hennar, áður en þær bjuggust búningi orðanna, og geta sér til um það, sem Jóhanna vildi dylja hana.

Fyrir slíka alúð var Jóhanna henni svo þakklát, að henni lærðist brátt að treysta henni að fullu og dylja hana einskis um hug sinn. Hún fann, að Halla var henni styrkari og gat miðlað henni styrk, og jafnframt dróst hún að henni af ósjálfráðu afli, eins og vafningsrós að bjarkarstofni. Hún fann, að hún mátti ekki án hennar vera.

Höllu varð Jóhanna með hverjum degi hjartfólgnari. Hún var í hennar augum gott barn, sem lét huggast, ef því var klappað á kinnina. Hún gladdist af litlu og hryggðist af litlu. Því meiri fannst henni ábyrgð sín vera á þessu "barni," sem henni hafði verið trúað fyrir.

Nú var heimilislíf í Hvamminum sannara og innilegra en Halla hafði hugsað, að til væri. Þorsteinn kom þar oft, því að enn hélt hann áfram grenjaleit í heiðinni og vann þau nokkur til. En þegar hann kom, var eins og eitt "barnið" bættist við, - mest að vexti, en ekki að þroska; ódælt og mikið fyrir sér, ef því var að skipta, en gætt hreinum og sterkum tilfinningum. Honum var allt þetta leikur, sem var að gerast; hætturnar sá hann hvergi og hló að öllum aðvörunum. Hann hafði gaman af því að bjóða móður sinni byrginn, - gaman af að sýna öllum, hve heitt hann ynni Jóhönnu sinni og hve hjartanlega hann fyrirliti almenningsálitið. Og þegar þessi maður, sem orðlagður var fyrir þögn sína og hæglæti, kom að Heiðarhvammi um þessar mundir, lék hann sér eins og drengur og gagntók alla með gáska sínum og fjöri. Engum tókst nema honum að reka allan kvíða burt úr huga Jóhönnu, svo að hún gæfi sig glaðværðinni á vald eins og barn.

Þessi spor ævinnar leiddust þau þrjú eins og systkini, Jóhanna, Þorsteinn og Halla. Halla var þeirra elst og reyndust, og hin litu til hennar með trausti og virðingu. Gjarnan fólu þau sig forsjá hennar og fylgdu ráðum hennar. Halla fann, hversu þetta barnslega traust þeirra beggja vermdi hana, og óskaði þess heitast af öllu með sjálfri sér, að henni gæfist tækifæri til að sýna þeim, að hún væri þess verðug. Aldrei hafði henni liðið jafnvel. Aldrei hafði Hvammurinn verið henni jafnbjartur og brosandi og þessa vordaga.

Salka varð þeim öllum kær. Hún varð þeim eins og sjaldgæft leikfang, skrípaðist kringum þau og fyrir þau og leitaðist við að gera þeim allt til kæti og allt til þægðar. Nú líkaði henni lífið, og af því, hve allir voru nú góðir við hana, fór hún að hallast að þeirri skoðun, að ef til vill væru allar manneskjur góðar - nema Margrét á Brekku.

Ólafur var eins konar aukafélagi í þessu nýja félagi. Hann var húsbóndinn, sem alltaf var sjálfsagt að taka tillit til. Nú var sú tíð um liðin, þegar hann var hafður að skotspæni fyrir gáska og glettni. Sjálfur var hann ekki fyrir gáskann gefinn, en fann til sætleika heimilisföðurgleðinnar, þegar hann sá glaðværðina allt í kringum sig.

Þorsteinn lagði minni alúð við grenjaleitirnar þetta vor en áður hafði verið. Hann gat varla slitið sig frá Heiðarhvammi. Hann fann, að þar var hann þráður gestur. Hvenær sem hann kom, var honum heilsað með fögnuði, og við burtför hans sló allri glaðværð í dúnalogn. Augu störðu á eftir honum út á heiðina, þar til hann hvarf, og alltaf var horft út í heiðarauðnina, hvort ekki sæist honum bregða fyrir. Þessi augu drógu hann að sér. Í Heiðarhvammi var allur hugur hans, þar til hann komst þangað sjálfur. Þá blossaði glaðværðin upp að nýju. Og margt blítt vorkvöld hljómuðu hjartanlegir hlátrar út í fjallakyrrðina.

- - En svört, loðin jötunkrumla seildist upp fyrir fjallið, miðaði á bæinn í Heiðarhvammi og bjóst til að kreista þar allt í hel.

Þá krumlu átti almenningsálitið, - hið volduga veldi, sem steypt hefir konungum af stólum og guðum úr himni sínum, sem neglt hefir saman kross handa Kristi og kveikt upp bál handa Brúnó, - almenningsálitið, blint eins og náttúruöflin, tilfinningalaust eins og dauðinn.

Það stóð á föstum siðferðisgrundvelli - frá dögum Móse. "Heiðra skaltu föður þinn og móður" - hvernig sem þau eru, hvað sem þau hafast að. Uppreist gegn foreldrunum var höfuðsynd, boðorðabrot.

Í boðorðunum tíu, sem allir kunnu utan bókar, var ekkert um rétt ástarinnar, ekkert um rétt manngildisins, ekkert um ábyrgð foreldranna. Það var boðorðabrot að bregðast konu sinni, en ekki að bregðast unnustu sinni. Enginn gat þröngvað skjólstæðingi sínum til hórdóms, en allir máttu neyða þá til giftingar gegn vilja þeirra.

Með þessa tíu forngripi gengu menn í höfðinu og þóttust vísir og vel siðaðir.

Um þessar mundir var um ekkert eins mikið talað í sveitinni og "hneykslið" í Hvammi. Húsfreyjurnar tútnuðu út af heilagri vandlætingarsemi, brýndu röddina og gættu þess vandlega, að athugasemdir þeirra hittu börnin þeirra í hjartað. Þetta hafðist af óhlýðni barnanna!

Svo kvað við annan tón á milli: Auminginn hún Borghildur í Hvammi! - Auminginn hún Borghildur! - Það var ekki ein báran stök fyrir henni! Þetta, - ofan á allt hjónabandsstríðið hennar! En hvert átti barninu að bregða, nema beint til ættar? Egill - ja, það var best að minnast ekki á hann bölvaðan durginn; enda fylgdi það sögunni, að hann tæki sér þetta ekki nærri; gott ef hann hjálpaði ekki syninum gegn móðurinni!

Jóhanna var kölluð gála, flenna og öllum illum nöfnum. Það var sagt, að hún hefði sótst eftir Þorsteini, elt hann á röndum og ekki hætt fyrr en hún gat tælt hann, - drenginn. Jafnframt hefði hún dregið Þorbjörn á sér og - gott ef hún væri saklaus af fleirum. Þannig launaði hún Borghildi uppeldið; eins og Borghildur hefði þó verið henni góð! En hvers er ekki að vænta af þessu þurfalingahyski, þegar það skreið upp úr óþverranum.

Giftast -? Láta þau giftast? - Það væri nú fyrst að bíta höfuðið af skömminni! Nei, það gat þó enginn maður láð Borghildi! Giftast! Fyrr mátti nú Þorsteinn taka niður fyrir sig! Giftast dóttur hans Páls heitins, sem hafði króknað á Hvammshálsi - frá sjö til átta krógum, sem flestir væru enn þá á sveitinni.

Og nú væri Jóhanna uppi í Heiðarhvammi. Þar væri Þorsteinn auðvitað hjá henni, þó að hann þættist vera að leita uppi greni í heiðinni. Þau væru þar eins og hjón í húsmennsku hjá Ólafi. - Fallegur væri nú heimilisbragurinn! Og samneytið eftir öðru! - Ólafur sísofandi, Halla, sem enginn þekkti, og Salka krypplingur! Svo létu þau öll eins og fífl, svo að hlátrarnir úr þeim heyrðust upp á fjall!

Það voru skegglausar - eða skegglitlar - mjúkar varir, sem kváðu að öllum þessum orðum. Karlmennirnir komust ekki að með athugasemdir sínar - nema þeir einir, sem ekki sögðu annað en já og amen. Hinir hristu höfuðin og þögðu.

Systkini Jóhönnu, sem voru á framfæri til og frá í sveitinni, heyrðu skrafið eins og aðrir og grétu yfir því í kyrrþey, hvílíkur ólánsræfill og viðsjármanneskja systir þeirra væri.

Utan úr sveitinni barst orðastraumurinn aftur heim að Hvammi. Til var nóg af manneskjum, sem sáu um það. Það þótti til vinnandi að færa Borghildi ummæli einhverrar af hinum nafnkunnu "sæmdar"-konum um þetta mál. - Þessi ummæli stæltu Borghildi í þeirri trú, að hún hefði gert það eina rétta, enn sem komið var, og enn væri það eina rétta að láta duglega til sín taka.

- - Þorbjörn átti tíðar ferðir upp að Bollagörðum um þessar mundir, en kom aldrei við í Heiðarhvammi. Þó fór hann alltaf um Hvammsskarð, en gekk jafnan uppi í fjalli fram hjá bænum og leit löngunaraugum þangað heim.

Setta var ein heima í Bollagörðum um þessar mundir, því Finnur var að veggjahleðslu niðri í sveit. Hún hafði fjárgæsluna á hendi og hagaði henni svo til, að hún hafði jafnan féð milli bæjanna. Oft þurfti hún þá heim undir Heiðarhvamm til þess að komast fyrir það, og oft var það komið saman við fé Ólafs, svo hún þurfti á aðstoð hans að halda til að skilja það í sundur. Á þennan hátt hélt hún stöðugum njósnum um það, sem gerðist í Hvamminum, án þess að fara þangað heim, og sá til allra mannaferða þangað og þaðan. Það, sem hana vantaði til fullrar vitneskju, hafði hún upp úr Ólafi, þegar hún hitti hann í högunum. Þorbjörn fór því aldrei algerlega fréttalaus frá Bollagörðum.

Ekki þótti hjúunum í Hvammi húsfreyjan fara batnandi viðbúðar. Oft hafði hún verið stygg í skapi, en aldrei eins og nú. - Þau voru jafnvel farin að stinga upp á því sín á milli að ganga úr vistinni öll í einum hóp.

- Einn sunnudag, þegar margt af heimafólkinu í Hvammi ætlaði til kirkju, - þar á meðal Þorsteinn, sem þá var heima, og Egill faðir hans -, lét Borghildur halda þrem hestum heima handa sér. Lést hún ætla til kirkjunnar, en ekki geta lagt á stað fyrr en síðar. Ein vinnukonan átti að verða henni samferða. Svein litla lét hún einnig bíða.

Þegar leið að hádegi og kirkjufólkið var lagt á stað fyrir góðri stundu, lét Borghildur leggja söðla á tvo hestana, en hnakk á einn. Því næst kvaddi hún Svein til fylgdar með sér og lét hann teyma annan söðulhestinn lausan; sjálf reið hún hinum og réð ferðinni.

Þau riðu upp að Heiðarhvammi.


Þær Halla og Jóhanna sátu í baðstofunni, þegar Borghildur reið í hlaðið. Þær voru þá einar heima við af fullorðnu fólki. Ólafur var ekki heima og Salka utan bæjar.

Jóhönnu féll allur ketill í eld, þegar hún sá út um gluggann, hver komin var. Hún bað Höllu í guðanna bænum að svara fyrir sína hönd. Eitt mætti hún fullvissa Borghildi um, sem sé það, að hún flytti aldrei að Hvammi aftur.

Síðan flýtti hún sér fram í framhýsin og faldi sig.

Halla gekk til dyra með barn sitt á handleggnum og bauð hinni mikillátu húsfreyju inn.

Lengi hafði hún óskað með sjálfri sér að fá að mæta Borghildi í Hvammi og sýna henni það, að hún hefði allan hug á að sveigja ekki til fyrir henni. Nú var tækifærið komið, en nú fannst henni sem kjarkurinn mundi bila. Hún fann til taugaóstyrks og átti fullt í fangi með að hafa hemil á sjálfri sér. Og þegar hún mælti við Borghildi, vafðist henni tunga um tönn.

Borghildur leit hvasst á Höllu og virti hana fyrir sér. Það varð ekki mikið úr þessari fölu og grannleitu konu í hennar augum, henni fannst hún þegar hafa allt ráð hennar í hendi sér.

Borghildur þakkaði henni þurrlega fyrir boðið og fylgdi henni inn. Það var sem henni væri forvitni á að vita, hvernig þessi húsakynni litu út að innan, fyrst hún var komin þeim svo nærri.

Sveinn batt hestana og fór inn á eftir þeim.

Borghildur hafði átt von á Jóhönnu í baðstofunni. Það leyndi sér ekki á svip hennar, að hún þóttist grípa í tómt. Ekki beið hún þess, að henni væri boðið sæti, en settist á hjónarúmið. Halla fékk sér sæti á rúminu gagnvart henni og hafði barnið við brjóst sér. Sveinn settist á rúm Sölku.

Reiðfötin, sem Borghildur var í, voru frá þeim árum, er hún var minni að holdum. Nú voru þau henni allt of þröng. Henni var mjög ómótt í þeim, og náði aldrei andanum nema vel til hálfs. Orðin, sem hún mælti, voru því slitin sundur af tíðum andartogum.

"Er Jóhanna mín hérna?" hreytti Borghildur úr sér.

"Jóhanna Pálsdóttir er hérna," svaraði Halla hægt og feimnislaust, en ofur lítils skjálfta kenndi í röddinni.

"Get ég fengið að tala við hana?"

"Nei - hún vill ekki tala við yður."

Borghildur horfði á hana steinþegjandi stundarkorn, eins og henni hefði misheyrst. - Eða hafði sjónin svikið hana svona hrapalega, þegar hún aðgætti þessa konu.

"Hvað á það að þýða?"

"Hún hefir beðið mig að svara fyrir sig."

"Yður - ha! - Ég hefi ekkert við yður að tala. Ég vil fá að finna hana. Hvar er hún? - Sveinn, leitaðu hana uppi!"

"Það er ekki til neins. Þú finnur hana ekki."

Borghildur hafði komið þeirri venju á, að allt alþýðufólk í sveitinni þéraði hana. Engar konur voru þéraðar nema hún og prófastsfrúin. Sjálf fylgdi hún þessu stranglega í ávörpum sínum á aðra. Halla lét þetta eftir henni með mestu ánægju.

"Leitaðu hana uppi!" mælti Borghildur og skerpti röddina.

Sveinn þorði ekki annað en búast til að hlýða.

"Sittu kyrr, Sveinn," mælti Halla skipandi. "Ég líð hvorki þér né húsfreyjunni sjálfri að leita í húsum mínum."

Borghildur dökknaði í framan. Vartan á kinninni þrútnaði. Hún stillti sig þó og þagði um stund.

"Hvað viljið þér henni?" spurði Halla.

"Kannske þér viljið bera til hennar erindið? Segið henni þá, að hér á hlaðinu standi söðlaður hestur handa henni. Hún eigi að búa sig í skyndi og koma með okkur heim að Hvammi."

"Þetta erindi flyt ég henni ekki."

"Hvers vegna?"

"Hún vissi það fyrir og bað mig að svara því. Hún sá til ykkar út um gluggann - ."

"Og þá flúði hún í felur. - - Ha-ha. Er það nú hugrekki!"

Halla herti röddina dálítið:

"Þér ættuð ekki að eyða storkunaryrðunum til einskis. Hún heyrir þau ekki."

"Hvar er hún?"

"Það skiptir minnstu. En hún fer ekki með yður heim að Hvammi - í þetta sinn."

"Svo-o!"

"Já - það get ég fullvissað yður um."

"Ha-ha! - Hvernig getið þér fullvissað mig um það?"

"Af því að ég ræð því!"

"Jæja - svo þér ráðið því? Alltaf heyrir maður þó eitthvað nýtt!"

"Já - ég ræð því. Og hún fer ekki héðan fyrr en henni þóknast sjálfri. Með yður fer hún ekki - og heim að Hvammi fer hún ekki."

Borghildur hélt á lítilli svipu, silfurbúinni. Til þess að auka orðum sínum áherslu, trumbaði hún með henni á borðið, svo að buldi í því.

"Ætlið þér að gerast svo djarfar að halda fyrir mér vinnukonunni minni, þegar ég kem sjálf að sækja hana?"

"Jóhanna er ekki vinnukona yðar."

"Nú - ekki það?"

"Þér hafið rekið hana burtu."

"Lygi! - Ég hefi aldrei rekið hana burtu! - En hvað sem því líður - - ."

"Nú er hún vinnukonan mín!"

"Sjáum til. - Þér beitið lagakrókum, ha-hæ!"

"Og hún fer ekki eitt fet með yður - nema ég vilji."

"Hvað eiga allar þessar vífilengjur að þýða? Hvers vegna má Jóhanna ekki koma heim til mín?" mælti Borghildur byrstari en áður.

"Ég hefi verið beðin fyrir hana, og ég sleppi henni ekki."

"Hver hefir gert það? - Hreppstjórinn?"

Halla þagði.

Borghildur glotti beisklega:

"Nú lýgurðu - þótt þú gerir það með þögninni! Svo tvöfaldur er Egill ekki. En segðu mér afdráttarlaust. Hefir hann - -? Nei, ég trúi því ekki."

Þessi frétt var Borghildi á við meðal-löðrung og gerði hana dálítið hikandi.

"Hvað sem því líður," mælti Halla. "Annar maður hefir beðið mig fyrir hana."

"Þorsteinn, - auðvitað! Og svo er yður lofað borgun fyrir greiðviknina. Sómasamleg atvinna! Ekki er furða þó að þér séuð hnakkakertar!"

Halla brá litum, en náði sér þó fljótlega aftur.

Sveinn sat grafkyrr, með hendurnar fyrir andlitinu. Það var eins og hann svæfi fram á hnén.

Borghildur lamdi svipuskaftinu í borðið, um leið og hún stóð á fætur. Halla spratt upp samtímis og hélt á barninu sem áður. Borghildur virti hana fyrir sér hátt og lágt. Henni fannst sem hún hefði stækkað síðan hún sá hana fyrst.

"Við yður eyði ég engum orðum," mælti hún fyrirlitlega. "Yður, - sem látið kaupa yður til að gera það, sem illt er, - sem spanið börn upp á móti foreldrum sínum og - - guð veit, hvað þér gerið fleira. Nei, yður virði ég ekki viðtals! Þessi hús, sem þér kallið yðar hús, eru mín hús. Ég gæti sparkað þeim saman í moldarhaug yfir hausinn á yður - ha-ha-ha! En hvar er Jóhanna?"

"Sparkið þér kofunum niður - eða rífið þá með hávaða. Mér stendur á sama, hvort þér gerið. Aðrar eins gersemar eru víðar til. En enn þá ræð ég þeim - og Jóhanna verður hér kyrr. Það hefi ég sagt yður og segi enn."

"Hvar er Jóhanna?" hvæsti Borghildur þrútin af bræði og reiddi upp svipuna.

Nú var allur óstyrkur farinn af Höllu. Hún horfði hiklaust framan í Borghildi og talaði skýrt og stillilega. Ógnanir Borghildar bitu ekkert á hana. Hún fann til þess, þótt óljóst væri, að hér var það hún sjálf, sem mátti sín meira.

"Er það ég eða barnið mitt, sem yður langar til að berja?" mælti hún með mestu hægð.

Það sljákkaði dálítið í Borghildi. Ef til vill hafði hún farið helst til geyst. Enn var hún að vega Höllu og meta í huga sínum. Mundi ekki slægð hafa gefist betur? Mundi ekki þessi manneskja gangast fyrir fögrum orðum og góðum gjöfum? Svipuna lét hún síga, og þótt hún titraði af gremju, mælti hún mjúklegar en áður:

"Ég ætla engan að berja. - En þér munuð skilja það, sem sjálf eruð móðir, að ég hefi þá móðurumhyggju fyrir syni mínum, að ég vil ekki, að hann sé að heimsækja þessa - þessa drós hér í Heiðarhvammi -."

"Jóhanna er góð stúlka og Þorsteini fyllilega samboðin," greip Halla fram í.

Borghildur skerpti röddina:

"Ég þarf ekki að sækja ráð til yðar. Ég þekki Jóhönnu betur en þér; ég hefi alið hana upp. - Það er skylda mín að vaka yfir velferð barnsins míns, fyrst það kann ekki fótum sínum forrráð. Hann ber ekki skyn á, hvílíku hneyksli komur hans hingað valda allri sveitinni. Allar húsfreyjur, allar mæður styðja mig að þessu, nema þér. Hér er það, sem lausungin og - skömmin á griðland. Þess vegna skal Jóhanna heim að Hvammi - til mannsins, sem hún er trúlofuð, mannsins, sem elskar hana og ætlar að bera af henni vansæmið. Heyrið þér það! Hún skal, með illu eða góðu."

Nú var Höllu nóg boðið. Blóðið streymdi ört fram í kinnarnar á henni. Hvernig sem leikar færu, skyldi Borghildur ekki fara erindisleysu.

"Þér nefnduð móðurumhyggju áðan. Þér villið mér ekki sjónir með fögrum lygum. Á yðar vörum er þetta fagra orð viðbjóðslegt."

Þetta kom svo óvænt, að Borghildi varð orðfall. Halla gaf henni engan tíma til umhugsunar:

"Móðurumhyggjan yðar er í því fólgin að misþyrma syni yðar. Hann á ekki að fá að njóta þeirrar stúlku, sem hann elskar. Hann á að giftast þeirri stúlku, sem hyggindi yðar og hagsýni velja handa honum - þó að hann hafi andstyggð á henni sjálfur. Þannig er móðurumhyggjan yðar! Það er ekki af ást til hans, sem þér gerið þetta. Það er af ást til sjálfrar yðar, - sjálfselsku, ættarhroka, drottnunargirni. Þetta kallið þér móðurumhyggju!"

"Ég vil ekki hlusta á þvaðrið úr yður. Sveinn, leitaðu Jóhönnu uppi í bænum og segðu henni - ."

"Sittu kyrr, Sveinn. Hér er ég húsmóðir!"

"Haldið yður saman! - Sveinn, heyrirðu!"

Sveinn iðaði í skinninu. Hann vildi ógjarnan missa af framhaldinu, en þorði ekki að óhlýðnast. "Ég er ókunnugur í bænum," nöldraði hann.

"Sittu kyrr, hrófið mitt. Kannske húsmóðir þín þurfi að halda á vitni að því, sem ég segi."

"Haldið þér yður saman -!"

"Ég þegi ekki, þó að þér skipið mér það. - Þér hafið gott af því að heyra sannleikann - þó að ekki sé nema einu sinni. Og nú skuluð þér heyra hann. Það er ættardrambið, ættarhrokinn, sem gert hefir yður að illkvendi. Þér eruð prófastsdóttir - því gleymið þér aldrei. Þess vegna þykist þér bera af öllum konum sveitarinnar - vera drottning frá fæðingu, sem allar konur aðrar eigi að beygja kné sín fyrir. Yður finnst lítið leggjast fyrir afkvæmi slíks höfðingjablóðs að giftast bláfátækri almúgastúlku! Þetta er satt, sem ég segi. Þér hafið ekkert út á Jóhönnu sjálfa að setja. Þér hafið tekið hana fram yfir allar stúlkur, sem hjá yður hafa verið. Ef til vill hafið þér litið á hana sem þæga ambátt, en samt hefir yður þótt vænt um hana, - þar til nú. Nú lítið þér alls ekki á hana, heldur ættina hennar, systkinin hennar, sem eru á sveitinni, föður hennar, sem dó úti á víðavangi af klæðleysi og skorti. Það eru ekki tengdirnar, heldur mægðirnar, sem yður finnst yður gerð svívirðing með. Efnaleysi Jóhönnu sjálfrar er minna um vert. Það er mikilmennsku yðar ofraun að seilast úr ættgöfgishæðunum svo langt niður fyrir yður eftir tengdadóttur! - Þorsteinn hefir ekki snefil af þessari brjálsemi. Hann elskar Jóhönnu vegna sjálfrar hennar og sér ekki annað en þau séu jafningjar. Og hann sleppir henni ekki. Eitt hefir hann fengið í arf frá yður. Það er geðríkið. Hann lætur ekki undan yður."

Halla gerði sér far um að beita orðunum svo, að þau hittu. Hún var orðin áköf og lét allt dynja á Borghildi, sem henni datt í hug. Orðin streymdu af vörum hennar, líkast því, að hún væri að þylja eitthvað, sem hún kynni utan bókar. Lengi hafði hún hugsað um þennan fund og búið sig undir hann í kyrrþey. Allt það, sem hún vissi með sannindum um Borghildi, kom henni nú að góðu haldi.

Borghildur stóð eins og negld við gólfið. Reiðin og undrunin börðust um hug hennar. Aldrei hafði hún staðið gagnvart slíkri ósvífni. Fyrirlitningarhreimurinn í orðum þessarar manneskju gekk gegnum hana eins og nepja.

"Jóhanna, Jóhanna!" hrópaði hún svo hátt sem hún gat, en hrópin hálfköfnuðu í hæsi.

"Hlustið á mig - ef þér hafið hug til," mælti Halla og brýndi röddina. "Þér þekkið ekki sjálfa yður, þér vitið ekki, að hverjum ódrætti hrokinn og sjálfselskan hafa gert yður. Ég þekki yður - þó að ég hafi ekki séð yður fyrr en nú; það hafa "vinir" yðar séð um. Þér kvartið um, að Egill sé yður tvöfaldur; þér eruð hræddar um, að hann sé yður ótrúr. Ég lái yður það ekki. Hann elskaði yður eitt sinn, en þér hafið hrundið honum frá yður með kulda og frekju, því að þér elskið ekki neitt nema sjálfa yður. Þér þóttust of góð handa honum, þér þóttust hafa tekið niður fyrir yður. Nú hafið þér glatað honum fyrir löngu. Hann hefir ekki átt heima hjá yður svo árum skiptir, heldur flakkað um sveitina heimilislaus. - Börnunum yðar hafið þér glatað á sama hátt. Þau hafa átt harða húsmóður, en aldrei móður. Þau fundu, að þau áttu að vera til yðar vegna, en ekki sjálfra sín; þess vegna hefir nú Þorsteinn farið sínar eigin leiðir - og Borga hjálpað honum. Nú eruð þér sonarlaus! - Hjúin yðar eru augnaþjónar, sem hata yður og fara í kringum yður á allan hátt. - Allur hópurinn, sem smjaðrar fyrir yður, skjallar og skríður til þess að hafa not af yður, níðir yður á bakið, hlær að yður og hæðir yður, - kitlar eigingirni yðar og sjálfsálit og hlær svo að yður álengdar eins og dansandi skrípi. - Allir, allir eru yður ótrúir, - nema sá einn, sem bendir yður á brestina.

Borghildur gekk upp og niður, eins og henni lægi við köfnun. Hún bólgnaði af bræði, svo að reiðfötin ætluðu að rifna. Hún reyndi að hlæja, Höllu til storkunar, en hláturinn þekktist varla frá kjökri. Hún reyndi að hrópa yfir hana ókvæðisorðum, bölva henni að minnsta kosti, en það var sem haldið væri um hálsinn á henni. Af einhverri þrjósku stóð hún kyrr.

Halla hélt áfram:

"Ef þér hefðuð tekið Jóhönnu að yður sem tengdadóttur og hjálpað henni til að öðlast það, sem hana vantaði til þess að vera yður fullkomlega að skapi, - þá hefðuð þér gert það verk, sem veitt hefði yður sanna gleði; þá hefðu húsfreyjurnar í sveitinni ekki þurft að verja gerðir yðar með oddi og egg; þá hefðu margir fengið virðingu fyrir yður, sem nú hafa glatað henni. - Í stað þess reynið þér að ráðstafa stúlkunni, - fleygja henni í fangið á - þræl, sem þér vitið, að er hennar óverðugur. Hefðuð þér gleði af því verki? - Eru slík verk lindir friðar og hamingju? - Og þessu verki til réttlætingar stóðuð þér ljúgandi frammi fyrir syni yðar. Tilgangurinn helgar meðalið! Síðan gangið þér berserksgang til þess að knýja yðar vilja fram. En allar hendur á heimili yðar vinna ósýnilega á móti yður. Hafið þér tekið eftir því?"

Borghildur gekk þegjandi til dyra og Sveinn á eftir henni. Henni var svo þungt í skapi, að hún mátti ekki orði upp koma. Halla fylgdi henni út á hlað, með barn sitt í fanginu.

Á meðan Sveinn var að leysa hestana, bað Halla Borghildi glettnislega afsökunar á því, að hún hefði ekkert gott getað gert henni. Borghildur sneri sér frá henni og þagði. Þegar Halla sá í andlit hennar næst, var sem högl hrytu niður kinnarnar.

"Við skiljum nú, Halla," mælti Borghildur með hásum grátstafsrómi, um leið og hún steig á bak. "En skyldum við sjást aftur, þá minnist þér þess, að þér eigið hjá mér."

"Verið velkomnar að Heiðarhvammi í annað sinn - með betra erindi!" kallaði Halla storkandi á eftir henni í því hún reið á stað.

Sveinn brosti þakklátlega til Höllu um leið og hann reið á eftir og teymdi lausan söðulhestinn.

Þegar Halla gekk inn í bæinn, kom Jóhanna út úr skálanum, með augun full af þakklætistárum, og féll um háls henni. Hún vissi ekkert, hvað fram hafði farið í baðstofunni, en leikslokin hafði hún séð út um gluggasmuguna á skálastafninum.


Niðri á hálsinum riðu þau Borghildur fram á Þorbjörn. Hann sat þar í brekkuhalli rétt við götuna og beið þeirra. Borghildur sló í klárinn og þeysti fram hjá honum. Sveinn rétti honum langt nef um leið og hann reið fram hjá.

- Þegar heim kom að Hvammi, gekk Borghildur inn í stofu og tvílæsti að sér. Þar heyrðu menn hana ganga um gólf, eirðarlausa, eins og ljón í búri sínu.

Það var hljóðlátt í Hvammsbænum þetta kvöld, en kyrrðin var óhugnæm, eins og allir stæðu á öndinni. Þó var það ekki sorg, sem hafði gagntekið heimilisfólkið, heldur blátt áfram forvitni. En hún gerir ekki að gamni sínu, heldur en annað, þegar hún kemst í algleyming.

Ekkert orð var talað upphátt, en því meira í hljóði.

Sveinn gerði það líka af ólukku stríðni að verjast allra frétta um það, sem gerst hafði uppi í Heiðarhvammi um daginn. Hann kvaðst hafa legið úti á hlaðvarpa og ekkert heyrt og ekkert séð. En jafnframt lét hann skilja á sér, að hann væri að ljúga því. Fólkið sá það á honum, að hann bjó yfir einhverju, sem bragð væri að. Því sárari var gremja þess yfir þagmælsku hans.

Allir fóru þó að hátta nema Þorbjörn. Hann gerði sér ýmislegt til dundurs frammi í bænum eða úti á hlaði - ef ske kynni að hann næði í húsfreyjuna. Hann vissi, að ekki var til neins fyrir hann að spyrja Svein. Loks eftir miðnættið fór hann að hátta.

Enginn svaf vært þessa nótt nema hreppstjórinn. Hann hraut svo að firnum þótti sæta. Svefninn var honum værari vegna þess, hve óvanalega rúmt var um hann.

- En frammi í stofunni gekk Borghildur um gólf og barðist, - barðist við skapsmuni sína og barðist við orðin, sem Halla hafði látið dynja á henni. Þau sóttu að henni eins og mývargur, komu aftur og aftur og létu hana enga ró hafa.

- Mörgum verður mikið um efnalegt gjaldþrot - þegar grundvöllurinn, sem þeir hafa byggt á allt viðskiptatraust sitt, alla efnalega farsæld sína, hrynur eins og loft, sem stoðirnar eru brunnar undan.

En hvað er það hjá siðferðislegu gjaldþroti, - þegar grundvöllur sá, sem menn hafa byggt allt sitt líf á, alla trú sína, ást sína, von sína og alla hugsun sína og breytni, reynist ótryggur? Hann hrynur ekki með braki og brestum, heldur sígur niður - sígur hægt og hægt, dýpra og dýpra. - Guð veit, hvar hann á að nema staðar, eða hvort hann nemur nokkurn tíma staðar. Hann heldur áfram niður fyrir þá, sem næst manni hafa staðið, niður fyrir hina, sem enn þá neðar stóðu - niður fyrir alla að lokum. Menn finna sigið, en geta ekkert viðnám veitt. Allir eru flúnir frá manni, svo þeirra grundvöllur dragist ekki með. Enginn svarar angistarkveinstöfunum með öðru en fyrirlitningu.

Tilfinningar Borghildar og hugsanir hennar voru líkastar þessu.

Hún kvaddi fram í huga sínum hverja einstaka ásökun, sem Halla hafði hellt yfir hana, og barðist við hana, uns hún beið fyrir henni ósigur. Við hvern ósigur fann hún siðferðisgrundvöll sinn síga og síga án afláts.

Sjálfselska og sjálfsþótti höfðu spillt lífi hennar. Eiginmanni sínum hafði hún hrundið frá sér, börnunum sínum hafði hún glatað. Allra manna velvild hafði hún brotið af sér - allt var henni að kenna. Nú hafði enginn virðingu fyrir henni. Allir hötuðu hana - allir - allir hötuðu hana.

Enginn hafði haft hreinlyndi til þess að segja henni neitt af þessu áður. Nú varð ókunnug kona til að demba því yfir hana öllu í einu, - kona, sem hún hafði varla virt viðtals. En hvaðan hafði hún þetta? Hvaðan kom henni allur þessi kunnugleiki um hagi hennar? - Auðvitað frá öllum þeim skara af mönnum, sem voru henni "ótrúir".

Og valdið -! Aldrei hafði henni riðið meira á að neyta þess en nú, þegar hugsjónir hennar um framtíð barnsins hennar voru í veði. En nú - einmitt nú - reyndist það hégómi. Vald hennar var alls ekki til.

Það var sem heyrði hún hlátur allrar sveitarinnar út af þessari hæðilegu Heiðarhvammsferð. Það var sem sæi hún sigurbros Höllu næst, þegar þær hittust!

Þannig var komið drottningartigninni!

Hún beit saman jöxlunum og barðist við grátinn, sem ásótti hana. Nú fann hún til þess fyrir alvöru, að hún hataði - ekki einungis Höllu, heldur alla - alla, sem höfðu verið henni "ótrúir", allar manneskjur, Egil og börnin sín líka, - jafnvel sjálfa sig.

Nú skyldi það eiga hana á fæti, þetta bölvað hyski, sem gerði henni allt til ills. Nú skyldi hún hefna sín! Þótt enginn elskaði hana, skyldu þó einhverjir óttast hana. Það veitti líka vald. Og ef allir hötuðu hana - því skyldi hún þá ekki hata á móti?

Meðan hún var að hugsa um þetta, leið björt vornóttin hjá. Afturelding var komin og sólarroðann lagði um brúnirnar á núpnum.

"Mamma!" var sagt með kjökrandi barnsrödd við stofuhurðina.

Borghildur hlustaði. Það var Borga litla dóttir hennar.

Borga hafði ekki sofnað blund alla nóttina af umhugsun um móður sína. Nú hafði hún læðst á fætur og fram að dyrunum til hennar.

"Mamma! - Mamma mín!"

Borghildur opnaði hurðina hranalega. Þar stóð Borga á nærklæðunum.

"Hvað ert þú að fara, stelpa? Því ertu ekki kyrr í bólinu þínu?"

Borga leit á hana stórum augum, fullum af tárum, og stamaði fram, að hún hefði viljað vita, hvernig henni liði. Hún gæti ekki sofið.

Það var eins og strengur brysti í hjarta Borghildar. Hún hrökk saman. Hún hafði verið reiðubúin með löðrunginn handa Borgu. Nú hætti hún við að láta hann úti.

"Mamma, - vertu ekki vond við mig! - góða mamma!"

Borghildur strauk hendinni um tárvota kinn barnsins og mælti blíðlegar en hún var vön:

"Farðu inn í rúmið þitt aftur, kindin mín! Mér líður ekkert illa. En ég má til að fá að vera ein."

Borga hlýddi undireins, og Borghildur læsti hurðinni aftur.

Það var eins og ylur brytist um hana alla.

Það var þá ekki satt, sem Halla hafði sagt henni, að allir hötuðu hana. Þetta barn elskaði hana að minnsta kosti.

Ef til vill hafði hún ýkt fleira.

Borgu þótti vænt um hana, - Borgu, sem hún hafði þó svo oft verið hörð við, Borgu, sem hún hafði rekið til þess grátandi að fleygja fötum Jóhönnu út í forina.

Nú fann hún til klökkva - og það var henni nýjung.

- Þegar fyrsta skóhljóð vinnufólksins heyrðist inni í bænum, sat Borghildur á stól við borðsendann - þar sem Jóhanna hafði áður setið, - og grét fram á hendur sínar.

Svo fór hún aftur að ganga um gólf til þess að jafna sig undir heimilisstörfin. Enginn mátti sjá það á henni, að hún hefði grátið.

- - - Dagana á eftir var Borghildur stutt í spuna og fálát við heimafólk sitt, en þó ekki stórill við neinn. Gestir fengu varla að sjá hana.

Þau hjónin sáust sjaldan tala orð saman - og þau Þorsteinn og móðir hans aldrei. Þó var Þorsteinn nú heima við dag eftir dag.

Þorbjörn sat um Borghildi til þess að fá fréttir af henni. Þó hikaði hann við að spyrja hana; honum fannst hún ekki árennileg.

Eitt sinn komst hann í færi við hana á hlaðinu. Engir voru þar fleiri. Þá herti hann upp hugann og yrti á hana.

"Hvað er að frétta úr Heiðarhvammi?"

Borghildur sneri sér snöggt við honum og mælti harðlega:

"Skammastu þín ekki fyrir það, að ganga í karlmannsbrókum og láta kvenmannsvæflu, sem oftast er ein heima í afskekktu koti, halda fyrir þér heitstúlku þinni! - Það sér ekki á, að þér sé annt um hana."

Þorbjörn snautaði burt þegjandi.

Borghildur sneri sér við og leit á eftir honum. Hún var að hugsa um að kalla til hans og ráða honum frá því að gera frekara tilkall til Jóhönnu, en hætti við það og lét hann fara - - með blóðeggjanina á bakinu.


8. kafli

Það áraði vel og grassprettan var í besta lagi. Skömmu eftir fráfærurnar fóru sumir bændur að slá túnin sín.

Egill í Hvammi var jafnan einn af þeim allra fyrstu, sem byrjuðu sláttinn. Hann þurfti mikinn heyafla, svo að ekki veitti af sumrinu. Og túnið í Hvammi var grasgefnara en annars staðar, enda komið í bestu rækt.

Það var búið að slá kraga kringum allan bæinn. Út frá honum voru slegnir geirar út í túnið, þar sem best var sprottið. Hitt var látið bíða og spretta betur.

Í þessum geirum stóðu karlmennirnir að slætti frá því snemma á morgnana þar til seint á kvöldin. En kvenfólk rakaði úr múgunum jafnóðum.

Egill gekk sjálfur að slættinum með vinnumönnum sínum og sömuleiðis Þorsteinn sonur hans. Aðeins einn karlmaður var ekki við sláttinn að jafnaði. Það var Þorbjörn ráðsmaður. Hann skyldi gera ýmislegt annað, er gera þurfti fyrir heimilið. Meðal annars hafa yfirumsjón með því, að búfé og stórgripir væru jafnan vísir. Þess vegna var hann oft að heiman, án þess spurt væri um ferðir hans.

Þó voru nokkrir bændur, sem ekki höfðu enn þá lokið kaupstaðarferðum sínum, en voru nú að því. Meðal þeirra var Ólafur í Heiðarhvammi.

Hann hafði orðið samferða Finni í Bollagörðum í kaupstaðarferð, og maður frá Hvammi verið sendur með þeim eftir einhverju lítilræði, sem enn þá vantaði. Það var nóg til þess, að Hvammsmönnum var kunnugt um, að hann var ekki heima.

Þennan dag kvaðst Þorbjörn þurfa að fara í hrossaleit.


Jóhanna sat einsömul á rúmi sínu í baðstofunni í Heiðarhvammi og saumaði barnsföt. Ofan á rúminu umhverfis hana lágu fötin, sum saumuð, en sum aðeins sniðin. Í rúminu beint á móti henni svaf barn Höllu.

Veður var hið fegursta, glaða sólskin og mikill hiti. Til þess að greiða þessu góða veðri leið inn í baðstofuna höfðu þær tekið eitt rúðubrotið úr stafnglugganum og létu gatið, sem það skýldi annars, standa opið. Á veggnum þar fyrir utan flatmagaði fjárhundurinn og sleikti sólskinið.

"Salka mín!" kallaði Halla fram í bænum. "Farðu nú með þessi plögg ofan að lindinni og þvoðu úr þeim fyrir mig, og breiddu þau á þúfurnar, svo að þau þorni í sólskininu. Og taktu vatnsföturnar með og vatnsberann, og komdu með vatn í þeim, þegar þú ert búin. Þá ertu væn. - Gerðu nú þetta, Salka mín."

Salka hlýddi. En Halla kom inn í baðstofuna og settist á koffort við rúm Jóhönnu.

"Nú, nú - hvernig gengur þér?" spurði hún brosandi.

"Svona. - Ég er búin með þessa skyrtu. Líttu á - er hún ekki indæl?"

Jóhanna breiddi úr skyrtunni á kjöltu sinni. Hún var skrítin í laginu, því bolurinn bar ermarnar langsamlega ofurliða; þær voru eins og spenar út frá öxlunum og dreglar í þeim að framan.

Þær gerðu gælur við skyrtuna, eins og þær sæju í huganum þennan litla, skinnveika búk, sem ætlað var að færast í hana.

Það lá óvenjulega vel á Jóhönnu. Hún hafði allan hugann á því, sem hún var að gera, en sá eins og í draumi fram í tímann , þegar þessir hlutir kæmu til notkunar. Hún gerði sér tæpitungu við hverja spjör, strauk hana og handlék eins og til þess að finna, hvort hún væri eins mjúk og hún ætti að vera. Útlistaði fyrir Höllu, hvernig hún hefði hugsað sér hvað eina, og leitaði ráða til hennar.

Halla tók innilegan þátt í þessari barnslegu gleði, þessari móðurlegu umhyggju fyrir gestinum, sem innan skamms var von á. Hún hugsaði til drengsins síns, sem nú svaf svefni hinna réttlátu ofan á rúminu beint á móti þeim. Hann hafði erft hálfbróður sinn, auk þess, sem honum hafði verið ætlað sjálfum. Þó var hann ekki nærri eins ríkur og þessi ókomni - hann eða hún.

Þorsteinn hafði lagt Jóhönnu svo mikið efni í hendur sem hún sjálf óskaði. Og hún var nú þegar búin að stytta sér marga stund við þetta verk og umhugsunina um það, þótt ekki væri sýnilegt, að bráðlægi á því.

Henni fannst jafnan eins og einhver góður engill, - ofur lítið, vængjað himnabarn, - vera á flögri í kringum sig, þegar hún hafði þetta með höndum.

Halla sá, hversu vel þessar hugsanir áttu við Jóhönnu, og hlynnti að þeim eftir mætti.

En áður en varði var Jóhanna hætt að gera tæpitungu yfir barnafötunum og starði fram undan sér eins og í leiðslu.

Halla gaf henni auga og sá, að nú voru hugsanir hennar að myrkvast.

"Jóhanna mín," mælti hún. "Nú sækja að þér einhverjar amahugsanir."

"Nei, nei, - ég er einmitt svo glöð og sæl," mælti Jóhanna og harkaði af sér.

Halla horfði fast á hana. Hún vissi, að hún sagði ekki satt.

Jóhanna stóðst ekki augnaráð hennar og fór að gráta.

"Ég er svo hrædd," mælti hún.

Halla strauk um vanga hennar:

"Ég veit, við hvað þú ert hrædd."

"Ég hefi einu sinni heyrt til konu, sem - . Guð minn góður, ef ég á að taka annað eins út!"

"Þú þarft ekki að vera hrædd. Þú ert ung, og - þetta verður þér létt: - En þú hugsar allt of mikið um þetta, góða mín. Það máttu ekki. Þú ert svo veikluð af gráti og stríði, að þú þolir ekki að hugsa um þetta. Reyndu að hrinda því frá þér."

"Ég veit, að það er tóm heimska," mælti Jóhanna og þerraði af sér tárin. "En ég get ekki að því gert. Amalyndið kemur yfir mig, án þess ég viti af því."

"Aumingja Jóhanna! Get ég þá ekki lengur verið þér til neinnar gleði, - neinnar huggunar?"

"Jú, jú," mælti Jóhanna og lagði hendurnar um hálsinn á Höllu. "Ég veit, að þú yfirgefur mig ekki. En - guð minn góður! Ef ég missti þig -."

Hún sleppti takinu og sat þegjandi ofur litla stund. Tárin komu aftur fram í augun á henni.

"Er það sama hræðslan?" spurði Halla.

Jóhanna leit ekki upp, en svaraði dræmt:

"Mig dreymir svo - undarlega."

"Þú situr allt of mikið um kyrrt. Komdu nú út í góða veðrið. - Hafðu barnsfötin með þér. Sólskinið og sumarblærinn hrekja burt amalyndið."

Jóhanna ætlaði að fylgja ráðum hennar.

Í sama bili spratt hundurinn upp á veggnum úti fyrir glugganum og fór að geyja.

Þær litu báðar út um gluggann. Frammi á hlaðinu stóð karlmaður.

"Þorbjörn!" sögðu þær báðar í einu.

"Ég skal fara fram og taka á móti honum," mælti Halla. "Vertu óhrædd. Hann skal ekki koma inn."

Jóhanna var orðin náföl.

"Í guðs bænum - varaðu þig á honum! Hann er - hann er - -!"

Áður en hún gat lokið við setninguna, var Halla horfin fram úr baðstofunni.


Þegar Halla kom út í bæjardyrnar, sá hún ríðandi mann koma af heiðinni, hinum megin árinnar. Hann teymdi lausan hest við hlið sér, og skilaði honum vel áfram.

Þorbjörn stóð frammi á hlaðinu og heilsaði seinlega; það var eins og hann væri að hugsa um að láta það ógert. Höllu stóð stuggur af honum. Aldrei hafði hún séð hann jafnkindarlegan.

Á meðan þau þögðu bæði, virti hún hann fyrir sér. Henni duldist það ekki, að hann átti alls kostar við hana, að því er burði snerti, og líklega mundi ekki þurfa að efast um fólskuna. Hitt fannst henni þó jafnframt líklegt, að hann mundi vera hugblauður og ekki mundi þurfa mikið til að skjóta honum skelk í bringu. Hún leit þá aftur til ferðamannsins á heiðinni. Hann hlaut að koma þar við eða fara mjög nálægt bænum. Ef hún gæti tafið tiltektir Þorbjarnar þar til hann bæri þar að, mundi ekki meira verða til tíðinda að þessu sinni.

"Er Jóhanna heima?" spurði Þorbjörn.

"Hún er farin héðan," mælti Halla dálítið glettnislega.

"Farin -?" át Þorbjörn eftir.

"Já, hún fór héðan í gær."

"Hvert fór hún?"

"Það veit skollinn. Hún hafði hér engan frið fyrir heimsóknum."

Þorbjörn stóð þegjandi og var á báðum áttum. "Þú ert að skrökva þessu að mér," mælti hann loks.

"Hvers vegna heldurðu það?"

"Má ég leita í bænum?"

Halla færði sig fyrir dyrnar:

"Ég gat þess við hana húsmóður þína, þegar hún gerði mér þá sæmd að heimsækja mig á dögunum, að ég léti ekki leita í kofunum á meðan ég réði þeim. Ég vona, að hún hafi skilið það, blessuð. Þú ætlast þó líklega ekki til að þér sé gert hærra undir höfði en henni."

Það fór að þykkna í Þorbirni.

"Nú veit ég, að Jóhanna er í bænum," mælti hann með allmiklum þjósti. "Hvers vegna ertu að ljúga að mér?"

"Má þig ekki einu gilda, hvort það er satt eða ósatt? Hvað varðar þig um, hvar Jóhanna er?"

"Hvers vegna ertu að ljúga að mér?"

"Það var saklaus skreytni, og betur að hún hefði komið að haldi," mælti Halla storkandi. "En ég hefi einu sinni skrökvað þín vegna; manstu eftir því? - Það skal ég aldrei gera oftar."

Þorbjörn hló gremjulega:

"Ha-ha-ha! Ég held, að þú sért leikin í listinni, - og þið bæði, hjónin!"

"Gott, ef svo er. Það er sú listin, sem flestir iðka og best kemur sér."

"En hvers vegna má ég ekki fá að tala við Jóhönnu?"

"Hvað viltu henni?"

"Það skiptir þig engu."

"Get ég ekki gengið á milli með erindið?"

"Nei. Ég vil tala við hana sjálfa. Er hún ekki á fótum? Hvers vegna fæ ég ekki að tala við hana?"

"Hvað viltu henni? - spyr ég. Hvað viltu henni?"

"Ég hefi skilaboð til hennar."

"Skilaboð? Ha-hæ! - Skilaboð heiman frá Hvammi?"

"Veistu nokkuð frá hverjum -?"

"Húsfreyjunni, auðvitað. Hverjum öðrum?"

"Það er ekki víst."

"Heldurðu, úrþvættið þitt, að þú getir talið mér trú um, að þú sért með skilaboð frá Þorsteini! Ha-ha-hæ! En láttu mig heyra þessi skilaboð. Ég skal koma þeim til skila."

Þorbirni varð orðfall í bráð. Hann var að ráða við sig, hvort hann ætti að halda þessu áfram eða hætta við það. Honum var nú ljóst, að aldrei mundi hann hafa sitt fram öðruvísi en með ofbeldi. Það var honum óljúft. Aftur fannst honum hann sjá svipinn á Borghildi og heyra í henni hláturinn, ef hann kæmi úr fýluferð, - hefði ekki einu sinni fengið að tala við Jóhönnu. Aðra eins sneypu mundi hann ekki fá borið.

Höllu jókst hugur við hikið, sem hún sá á Þorbirni, og var nú einráðin í því að sveigja ekki til fyrir honum.

"Hvers vegna má ég ekki tala við Jóhönnu? Því stendurðu í dyrunum fyrir mér?"

"Það eru dyrnar að mínu hreysi, sem ég stend í. Og þær ætla ég að verja á meðan ég get."

Þorbjörn hló illúðlega:

"Ertu vitlaus! Heldurðu að þú verjir mér dyrnar, ef ég vil komast inn! - Þú -! Nei, heyrðu nú, Halla mín. Kvensterkur er ég; það eru ekki allir karlmenn, - að því er sagt er, en ég er það."

Halla brá litum.

"Því er miður, að illmenni eru oft gædd meira afli en góðmenni. En fyrir hótunum einum og háðsglósum fer ég ekki héðan, það geturðu reitt þig á."

Þorbjörn var orðinn sótrauður í framan:

"Mér þykir svívirðing að því að snerta þig, af því að þú ert kvenmannsrola, annars -."

"Þó hafðirðu vit á að velja þann tíma til heimsóknarinnar, sem þú vissir, að Ólafur var ekki heima. Níðingur! Að þú skulir ekki skammast þín fyrir að ganga uppréttur!"

"Ég vil fá að tala við Jóhönnu!" orgaði Þorbjörn og barði saman hnefunum.

Halla brýndi röddina:

"Þú átt ekkert erindi við Jóhönnu, og hún vill ekkert við þig tala. Ertu það vesalmenni að ætla að ganga eftir loforði, sem Borghildur hefir kvalið hana til að gefa þér? Nei, það nauðungarloforð dettur Jóhönnu ekki í hug að halda. Og hugsaðu þér, að Þorsteinn væri hér -! Hjá honum sneiðirðu, ragmennið, en ræðst á varnarlaust kvenfólk! - Snáfaðu nú heim og vertu það, sem þú ert vanur að vera, - búrhundur húsfreyjunnar."

"Farðu úr dyrunum!" hrópaði Þorbjörn og skalf á beinunum."Annars fleygi ég þér úr þeim."

"Ég fer ekki fet!"

Þorbjörn lækkaði róminn, en nísti tönnum af heift:

"Oftar en í þetta sinn hefirðu staðið í vegi fyrir mér, Halla. Þennan Hvamm áttum við að fá - eða systir mín - þegar þið fenguð hann. Því mun ég seint gleyma. Nú stendurðu á milli mín og unnustu minnar. En nú skal þig reka minni til þess, að þú hafir orðið fyrir mér. - Burt með þig úr dyrunum!"

Halla greip reku, sem reis upp við bæjarþilið, og reiddi hana til varnar.

"Ef þú hættir þér nær, skal rekan í hausinn á þér!"

Um leið leit hún fram hjá Þorbirni til ferðamannsins. Nú var hann að fara yfir kvíslina.

Þorbjörn hikaði í fyrstu. Svo tók hann stökk undir sig og þreif um rekuskaftið fyrir framan hendurnar á Höllu.

Nú urðu sviptingar um rekuna og færðust fram á hlaðið. Halla hélt fastar en Þorbjörn hafði grunað. Þó lauk svo, að hann tók af henni rekuna.

Halla hljóp aftur fyrir dyrnar. Þorbjörn gekk að henni og ógnaði henni með reiddri rekunni.

"Burt úr dyrunum!" öskraði hann. "Nú er þetta vopn í mínum höndum!"

Halla fölnaði af ótta. Þótt enn veitti hún viðnám, duldist henni ekki, að öll vörn hennar var þrotin. Hvernig mundi Jóhönnu verða við, þegar hann væði inn til hennar í þessum ham! - Nei, það mátti ekki koma fyrir. Fyrr skyldi hún láta hann misþyrma sér - drepa sig.

"Burt úr dyrunum!"

- Í sama bili heyrðist ámátlegt óhljóð frammi á hlaðinu. Vatnsberi kom loftförum í hnakkann á Þorbirni svo fast, að honum sortnaði fyrir augum og lá við falli. Halla slapp einnig með naumindum hjá þessari voðasendingu.

Næst kom full vatnsfata úr sömu áttinni, og önnur á eftir, og loks - Salka.

Hvorugt þeirra hafði tekið eftir henni, þegar hún kom upp á varpann. Þar hafði hún staðið um stund og horft á viðureign þeirra, þar til henni skildist, að Halla væri nauðulega stödd.

Salka var orðin villidýr í einni svipan. Andlitið afskræmdist af grimmdaræði, svo að skein í tanngarðinn. Hljóðin í henni voru ægileg.

Þorbjörn var illa við þessari árás búinn. Áður en hann varði, hafði Salka læst nöglunum í gagnaugað á honum og klórað niður vangann.

Þorbjörn reyndi að hrinda henni af sér, en Salka sótti fast á hann og gaf ekki grið. Leikurinn barst út með skálastafninum.

"Salka, Salka!" hrópaði Halla. Henni ofbauð æði krypplingsins.

En Salka var ekki á því að láta sefast. Og þegar Halla kom til þeirra, hljóðaði Þorbjörn aumlega og gat lítilli vörn komið við. Salka var þá búin að bíta sig fasta í handlegginn á honum og hékk þar. Blóðið streymdi niður með munnvikjunum á henni.

"Salka, Salka mín! Hættu þessum ósköpum! Slepptu, slepptu, barn!"

Salka sefaðist nokkuð og sleppti. En í sama bili fékk hún spark fyrir bringspalirnar og valt eins og hnykill fram á varpann.

Þegar hún stóð upp aftur, greip hana sama grimmdaræðið. Halla stóð fyrir henni og varnaði henni að komast til Þorbjarnar.

Þá tók Halla eftir undarlegu hljóði, líkt og veini, sem virtist koma innan úr bænum.

"Jóhanna! - Guð hjálpi mér!" mælti hún og flýtti sér inn í bæinn.

En Þorbjörn varðist Sölku enn um stund með fótunum.

Þegar Halla kom inn í baðstofuna, sá hún þá sjón, sem meira fékk á hana en allt það, sem á undan var gengið.

Jóhanna lá flöt á gólfinu og barði höndunum út í rúmstokkana beggja megin. Hún var blá í framan, með froðu um vitin og hafði ákafar taugateygjur. Lækur af blóði rann undan fötum hennar.


9. kafli

Jóhanna hafði heyrt óminn af samtali þeirra Höllu og Þorbjarnar inn í baðstofuna, einkum eftir að þau urðu háværari. Hún hafði einnig fært sig út að glugganum til þess að sjá, hvað fram færi, án þess þó að verða séð að utan. Úr glugganum gat hún séð yfir mestallt hlaðið nema það, sem næst var bæjardyrunum og skálastafninum; á það skyggði veggjarkampurinn.

Ótti hennar og kvíði hafði farið vaxandi eftir því sem deilan harðnaði úti á hlaðinu. Hún hafði séð Þorbjörn færa sig nær Höllu af mikilli reiði og steyta að henni hnefana. Síðan brá þeim fyrir, er þau sviptust á um rekuna, og hún sá Þorbjörn taka hana af Höllu. Þá þoldi hún ekki að horfa á leikinn lengur og færði sig frá glugganum. Þó sá hún enn í svip, hvar Þorbjörn óð að Höllu með reidda rekuna. Eftir það þorði hún ekki að líta út í gluggann, en studdi sig við rúmstuðulinn og titraði eins og hrísla. En þegar óhljóðin úr Sölku bárust inn í baðstofuna, hélt hún, að það væri Halla, sem æpti svo undan misþyrmingum Þorbjarnar. Þá varð skelfingin henni um megn. Hún glataði allri stjórn á ímyndunarafli sínu. Hugur hennar sá Höllu sundurflakandi í sárum eftir rekuvarið. Blóðið fossaði úr gínandi holund á brjóstinu. Hún fann undarlega sáran titring í hnakkanum og niður hrygginn. Allt varð blóðrautt fyrir augunum á henni, svo sótrautt, svart. - Hún hneig niður og missti meðvitundina.

Þannig lá hún, þegar Halla kom inn.

Höllu fannst í bili sem kjarkurinn mundi bresta hana, og það lá við, að hún hörfaði aftur fram úr baðstofudyrunum af ofboði. En sú veilni stóð ekki lengi. Nú mátti hún ekki láta bugast. Aldrei hafði Jóhönnu legið á liði hennar, ef ekki nú. Nú var engin hjálp nálæg nema hennar einnar. Nú var sem allt hrópaði til hennar og krefðist skjótra og snjallra úrræða.

Kona, sem horft hefir upp á dauðateygjur barnsins síns, þolir mikið á eftir. Hjá slíkum ógnum eru allar aðrar léttbærar.

Halla tók Jóhönnu upp í fang sér og lagði hana upp í rúmið. Jóhanna var ekki þung, en stirð og köld eins og lík. Illt var að ná tökum á henni vegna floganna, og vandfarið með hana vegna blóðrásarinnar.

Þegar Halla hafði komið Jóhönnu upp í rúmið, tókust með þeim stimpingar, sem voru Höllu meiri aflraun en hún hafði nokkurn tíma komist í áður. Jóhanna var meðvitundarlaus og barðist um ósjálfrátt; Halla reyndi af ýtrasta megni að hindra það, að hún skaðaði sig. Mestar voru teygjurnar í handleggjunum og andlitinu. Halla varð að reyna að halda handleggjunum, einkum vegna bálkaþekjunnar, sem var yfir rúminu. Jafnframt reyndi hún af alefli að sporna við því, að sjúklingurinn biti sig í tunguna, einkum með því að halda spónskafti á milli tannanna, en gat það ekki svo að einhlítt væri. Þegar ögn dró úr teygjunum, reyndi hún að losa um fötin á henni og færa hana úr þeim.

Þessi mikla áreynsla yfirgnæfði með öllu hugarhræringar Höllu. Nú fann hún ekkert til ótta - og jafnvel ekkert til meðaumkunar; hún gaf sér ekkert tóm til að hugsa, en gerði eins og utan við sig það, sem hún gat gert Jóhönnu til bjargar. Og ef hún renndi huganum til sjálfrar sín, þá var það til að spyrja, hvaðan henni kæmi þessi stálkjarkur. Jafnvel afl sitt fannst henni tvöfaldast. Og þótt svitinn rynni af henni, fann hún ekkert til þreytu. - Nei, hún var viss um að geta þolað þetta lengi enn þá, - ef til vill þangað til henni kæmi einhver hjálp.

Eftir dálitla stund dvínuðu taugateygjurnar og ómegin seig á Jóhönnu. Halla settist þá á stokkinn hjá henni og hélt um handleggina ofan á brjósti hennar, því enn þá voru snarpir kippir í þeim.

Að utan heyrði hún vitfirringshlátra krypplingsins. Af þeim þóttist hún geta ráðið, að Þorbjörn væri lagður á flótta og Salka réði sér ekki fyrir sigurgleði. Skömmu seinna varð hún þess vör, að Salka tíndi saman föturnar og vatnsberann á hlaðinu og fór með það ofan að lindinni.

Ef til vill hafði Þorbjörn komið auga á ferðamanninn, sem nú hlaut að vera kominn heim undir bæinn, og þess vegna ekki þorað að jafna á Sölku.

En - ferðamaðurinn! Gat hún ekki náð í hann sér til einhverrar hjálpar?

Jóhanna lauk upp augunum. Flogið var farið úr þeim að mestu, og Halla sá, að hún hafði rænu.

"Þorsteinn - Þorsteinn -!" stundi hún svo lágt, að varla skildist.

Höllu heyrðist hún segja "þorstinn" og bauð henni að drekka. Jóhanna þáði það ekki, en endurtók nafn unnusta síns.

"Þorsteinn - Þorsteinn!"

"Hvernig líður þér? Hefirðu ekki fundið ósköp til?"

"Ekkert - ekkert fundið til. - Ég hefi sofið. - Get ekkert hreyft mig. Ó, ég hefi kvalir í hnakkanum - annars ekkert - ekkert."

"Guð sé lof, ef þú hefir ekkert vitað af þessu."

"Þorsteinn! - Hvar er Þorsteinn? Ég má til að tala við Þorstein - áður en ég dey."

Í þessu voru barin þrjú högg á bæjardyraþilið.

Jóhanna hrökk saman við höggin og fékk þá nýtt flog, þó ekki eins mikið og áður. Halla varð að halda henni og gat því ekki farið til dyra.

Aftur var barið og í þriðja sinn. Þá var gengið inn í bæinn.

Halla heyrði fótatak komumanns, fyrst inn í eldhúsið, því að það lá beinast fyrir; síðan inn í baðstofugöngin. Hann fór hægt og fálmaði fyrir sér.

Tveir hestar frýsuðu frammi á hlaðvarpanum.

Baðstofuhurðinni var lokið hægt upp, þar til hún nam staðar á gaflinum á rúmi Sölku. Maðurinn, sem færðist hálfboginn inn úr gættinni, var - séra Halldór.

Halla sleppti handleggjum Jóhönnu og spratt á fætur eins og hún hefði séð draug.

Dálitla stund stóðu þau andspænis hvort öðru og horfðust í augu án þess að segja nokkurt orð.

Halla studdi bakinu upp að borðinu á milli rúmanna og horfði á fornvin sinn eins og hann væri ræningi - miklu hættulegri en Þorbjörn hafði verið. Það var sem logum brygði fyrir í augum hennar.

Hvað var hann að fara? Hvers vegna hafði hann rekist þangað? Hann var auðvitað á leið til prófastsins. En hvers vegna fór hann þessa leið, fyrst önnur styttri og beinni var til? Eða var hann að villast, í glaða sólskininu! - Nei, það var hennar vegna að hann kom. Hvað vildi hann henni? Hvers vegna mátti hún ekki hafa frið fyrir honum? Ekkert hafði hún þó flúið eins og hann. Var hann það lítilmenni - það ómenni - að ætla nú að fara að raska rósemi hennar af nýju?

Hún leit á rúmið, þar sem Jóhanna lá. Hún lá í hálfgerðu móki og nefndi nafn Þorsteins í hálfum hljóðum. Handleggirnir titruðu ofan á sænginni.

Naumast var það, að þessi sjaldgæfi gestur sótti að henni!

Halla var svo æst í skapi, að áður en hana sjálfa varði, var ákvörðun hennar tekin. Hún varð fyrri til máls en presturinn.

"Þér komið eins og sendur af himni," mælti hún með nístandi hæðni. "Þér eruð boðberi kærleikans og miskunnseminnar. Þér eruð guðsmaður! Þér getið verið hjá þessari stúlku, meðan ég skýst til næsta bæjar."

Presturinn stóð sem steini lostinn. Við slíkri kveðju hafði hann síst af öllu búist, - og ekki við slíkri aðkomu heldur.

"Hvað er hér um að vera?" spurði hann.

"Ekkert annað en það, sem algengt er í híbýlum mannanna: stríð við sjúkdóma, stríð við dauðann. Það hefir aðeins ofur lítið annan blæ í hreysum okkar kotunganna, - útlaganna - heiðarbúanna, en í fjölmenninu, sem þér eruð vanur."

"Hvað gengur að þessari stúlku?"

"Hún fékk flog - og er komin að falli. Lítið þér á hana. - Það eru mennirnir, sem hér hafa að unnið - eins og oftar! Sáuð þér ekki mann fara héðan, þegar þér komuð?"

"Jú - en," nöldraði presturinn og klóraði sér í hnakkanum. "Ég er á hraðri ferð -!"

"Vitaskuld. - Við erum öll á hraðri ferð. Þér eruð auðvitað á embættisferð. Hvað stendur embættinu nær en þetta?"

"Verðið þér lengi?"

"Svo sem hálfa aðra klukkustund í mesta lagi."

"Svo lengi."

"Ég verð svo fljót sem ég get. - Þér þurfið að sitja hjá henni og varna því, að hún skaði sig, ef hún fær flog. Hún verður að liggja kyrr, svo sem unnt er, og allar geðshræringar eru henni voði. Það gengur fleira að henni en þér sjáið í fljótu bragði. Ef til vill ber fæðinguna að von bráðar."

Það fór hrollur um prestinn.

"Á ég ekki heldur að ríða til bæja -?"

"Nei - það geri ég sjálf. Aðeins einn maður má vita, hvernig komið er, fyrst í stað. Þá ræður hann, hvað hann gerir. Þér þekkið ekki þann mann. Þér verðið hér - og gerið miskunnarverkið."

"En stúlkan - sem ég sá hérna við lindina?"

"Hún er fáviti. Hún verður yður til þeirrar aðstoðar, sem hún getur."

Presturinn færði sig að rúmi Jóhönnu, en Halla bjó sig í snatri.

"En viljið þér þá ekki taka annan hestinn minn -?"

"Nei. Ég verð eins fljót að hlaupa þennan spöl," mælti Halla um leið og hún hnýtti á sig skýluklútinn. Hún vildi láta prestinn skilja, að hún vildi ekkert af honum þiggja sjálfri sér til handa.

"Og þarna er ungbarn í rúminu!"

"Já, það er mitt barn. - Salka annast um það, ef það vaknar. Hún er orðin vön því."

Presturinn leit á Höllu eins og hann vildi spyrja einhvers frekar. Hún gaf því engan gaum.

Í þessu kom Salka í dyrnar. Hún hafði aftur náð jafnvægi sínu að mestu og byrjaði nú á langri romsu um föturnar og vatnssóknina.

"Þú átt að annast - drenginn, ef hann vaknar. Jóhanna er veik. Ég ætla ofan að Hvammi.

Hún var vön að nefna drenginn "Dóra litla," en hætti við það í þetta sinn. Salka glápti á hana og hún skildi ekkert í þessu.

En Halla hafði engin frekari umsvif og fór á stað.


Halla hljóp allt hvað af tók. Niðri á hálsinum hljóp hún fram á Þorbjörn. Hann sat þar við lækjarsprænu og var að þvo framan úr sér blóðið.

Þorbjörn leit upp sem snöggvast um leið og hún þaut fram hjá honum.

Þegar hún kom heim að Hvammi, gekk hún rakleitt til Þorsteins, þar sem hann stóð að slættinum, og sagði honum í fám orðum, hvernig nú væri komið.

Aðra heimamenn lést hún ekki sjá.

Þorsteinn brá við skjótt, lagði frá sér orfið, tók treyjuna sína, sem lá þar á þúfu, og lagði á stað. Halla varð honum samferða. Fólkið horfði undrunaraugum á eftir þeim.

Neðan til í hálsinum mættu þau Þorbirni. Skrámurnar á andlitinu voru hættar að blæða. Á hægri handleggnum var stór hnútur undir erminni; hann hafði bundið vasaklút utan um bitsárið.

Hann vék úr götunni fyrir þeim, en Þorsteinn gekk til móts við hann og þreif annarri hendinni í hálsmálið á skyrtu hans.

"Níðingur! - Þú hefir drepið hana!" hvæsti hann framan í hann.

"Þorsteinn, Þorsteinn, - gættu þín í öllum bænum!" sagði Halla og lagði höndina á handlegginn á honum.

Þorbjörn rambaði, en var þó fastari fyrir en Þorsteinn hafði hugsað. Þorsteinn herti þá á takinu, sneri upp á hálsmálið og setti hnúfana inn í barkann. Þorbjörn þrútnaði í framan, svo vætla fór úr skeinunum, og augun ranghvolfdust. Hann streittist þó við, þar til knjáliðirnir guggnuðu. Þorsteinn hélt honum uppi eins og lepp og þeytti honum síðan út í þúfurnar.

"Mamma hefir auðvitað sent þig," mælti hann fyrirlitlega um leið og Þorbjörn var að brölta á fætur.

- Eftir þetta hljóp Þorsteinn svo hart, að Halla gat ekki fylgt honum og dróst langt aftur úr. Í skarðinu beið hann eftir henni, svo að þau urðu samferða heim að Heiðarhvammi.

Presturinn sat enn við rúm Jóhönnu, en stóð á fætur þegar þau komu inn. Salka sat á kofforti við hitt rúmið, með barnið í fanginu og var að reyna að þagga niður í því.

Jóhanna lá í dvala. Enn voru kippir í andliti hennar og taugarnar í handleggjunum skulfu eins og brostnir fiðlustrengir. Annars var eins og hún svæfi.

Þorsteinn kraup niður við rúmstokkinn og tók um hönd hennar: "Jóhanna mín, - elsku Jóhanna mín!" sagði hann lágt og blíðlega, eins og hann vildi forðast að vekja hana.

"Hefir hún fengið flog síðan?" spurði Halla lágt.

"Ofur lítið, við og við," svaraði presturinn. "En hún hefir alltaf smáspurt eftir Þorsteini."

"Jóhanna, elskan mín, - nú er ég kominn til þín. Sefurðu, hjartað mitt?" mælti Þorsteinn.

Jóhanna lauk upp augunum. Þau voru sljó og augnaráðið óeðlilegt. Smám saman kom hún að fullu til sjálfrar sín. Hún reyndi að hreyfa hendina til þess að strjúka vanga elskhuga síns, en hreyfingin varð að tómu fálmi. Hún reyndi að tala, en tungan var sár og bólgin og talfærin aflvana. Það skildist tæplega, sem hún sagði:

"Þorsteinn, elskan mín, - nú á ég að deyja. En - ég hefi verið þér trú."

"Jóhanna, talaðu ekki um þetta, hjartað mitt. Þú veist, að ég - - "

" - Ég hefi verið þér trú. Mamma þín sagði ósatt, - en hún vissi ekki, hvað hún sagði, fyrir reiði. Fyrirgefðu henni, - gerðu það vegna mín. En trúðu mér, elsku vinur minn, ég hefi verið þér trú."

Hún þoldi ekki áreynsluna og geðshræringuna. Taugakippirnir fóru að byrja aftur og tóku fyrir það í bráð, að hún gæti sagt meira.

Þorsteinn gat engu orði upp komið fyrir klökkva. Tár hans hrundu ofan á hönd Jóhönnu, sem hann hélt upp að vörum sér.

- Halla fylgdi prestinum til dyra. Hann var sneypulegur eins og drengur, sem fengið hefir ráðningu.

Skapsmunir Höllu voru í slíku uppnámi, að hún hafði varla hemil á því, sem hún sagði eða gerði. Þennan mann hafði hún kviðið mest af öllu fyrir að sjá og verið farin að vona, að hún þyrfti aldrei að sjá hann framar. Þessi maður, sem stolið hafði meyjarást hennar, leikið að velferð hennar og þegið af henni þá þyngstu fórn, sem nokkur manneskja getur fært, embættisheiðri sínum til bjargar, - þessi maður var nú svo léttúðugur, svo kaldur og kærulaus, að heimsækja hana, leita hana uppi í fylgsni því, sem hún hafði valið sér í afskekktum heiðarhögum - eins og ekkert hefði verið þeirra á milli annað en lauslegur kunningsskapur. Hvað vildi hann henni? Engar gamlar tilfinningar komust að í huga hennar fyrir gremju, og eins og ástæður voru nú, amaði svo margt annað að henni, sem gerði hana harða og óþjála.

"Hvernig líður - þér?" spurði séra Halldór kunnuglega, þegar þau voru orðin tvö ein.

"Vel, ágætlega!" svaraði Halla storkandi. "Sjáið þér ekki, hvernig svitinn drýpur af mér? Ég hefi lagt meira á mig í dag en nokkurn tíma áður, ég hefi staðið í ströngu og gert það, sem ég hefi getað. Þá líður manni vel. Stúlkan þarna inni er orðin mér systir; nú missi ég hana að líkindum, en það léttir mér missirinn, að ég hefi gert fyrir hana það, sem ég hefi getað. Annars er ég nú farin að venjast sínu af hverju."

Presturinn horfði á hana þegjandi um stund. Aldrei hafði hún komið honum fyrir sjónir undarlegri - og jafnframt yndislegri, funandi af ákefð, harðleg og þóttaleg, með kinnarnar blossarauðar og lokkana fasta í svitanum á gagnaugunum. Það sá ekki á henni, að hún væri tveggja barna móðir - jú, ofur lítið var hún grannleitari en áður, ofur lítið vottaði fyrir merkjum reynslu og þreytu. - Annars var hún líkust fermingartelpu, sem kemur úr knattleik, hlaupamóð og vond í skapi. Það var ekki hin draumlynda, hégómagjarna stúlka, sem hann hafði þekkt, er nú stóð frammi fyrir honum, heldur kona, sem vaxin var upp úr öllum algengum þrautum lífsins, fann til ánægju í baráttunni, lét sér fátt fyrir brjósti brenna og - hélt þó yndisleik æskunnar að mestu.

Þannig var sú kona, sem hann hugði glataða.

Af Höllu leit hann á kotið og hugsaði til þess, sem var að gerast þar inni. "Þetta eru þó ekki glæsilegar ástæður!" mælti hann og hristi höfuðið.

"Þetta er lífið," gegndi Halla rösklega. "Þegar hætturnar geisa og raunirnar skella á mönnum eins og brimrót, þegar hver taug er þanin til hins ýtrasta, hver vöðvi í látlausri áreynslu, hver æð full af streymandi eldi, - þá finna menn, hvers virði lífið er. Þið finnið ekki til þess, sem berist fyrir blíðvindi lífsins frá einni embættistigninni til annarrar. Þið finnið ekki gleðina, sem það veitir að taka þann lítilsiglda og útskúfaða í fang sér og berjast undir merki mannúðarinnar og sannleikans gegn heimskunni og ranglætinu - þó að baráttan sé vonlaus. Þið, sem tildrið utan á ykkur hégómlegu heiðursskini, sem venjan hefir helgað og mennirnir viðra sig upp við, finnið það aldrei, sem gerir lífið að lífi."

Séra Halldór þagði. Hann heyrði raddir óma úr djúpi sálar sinnar, sem nú höfðu þagað um tíma, en einu sinni verið sterkar. Þær voru frá þeim árum, þegar uppreistarbragur var á skoðunum hans, þegar hann mat meira harðfengi og drengskap en hylli stórmenna. Ef til vill kenndi bergmáls frá honum sjálfum í því, sem hann heyrði nú.

Halla færði sig nær honum og sagði lágt og biturt:

"Haldið þér, að þér gleymið henni fyrst um sinn? Hún hefir syndgað, - drýgt eina af þessum ófriðhelgu syndum, sem engrar fyrirgefningar von er fyrir. Laun syndarinnar er dauðinn, segið þið prestarnir, dauðinn, - stundum í einum teyg, eins og þarna inni, en miklu oftar í dropatali - í bragðlausum, banvænum dropum, sem deyfa og tæra hægt og hægt. Hugsið þér um hana. Hún var sköpuð til þess að gera manni sínum lífið bjart og elskuríkt, - barnung er hún, veikbyggð og viðkvæm. Gott var það, að þér fenguð að sjá hana. Það tíðkast enn þá að draga manneskjur út fyrir borgarhliðið og grýta þær."

Presturinn hopaði á hæl fyrir augnaráði hennar. "Hvað ég vildi segja -," mælti hann eins og til þess að víkja sér undan þessari samræðu.

"Ég veit, hvað þér hafið ætlað að segja. Þér hafið ætlað að spyrja til vegar að prófastssetrinu. Þar verður yður koman öðruvísi en að Heiðarhvammi! Þér eigið senn að taka við af gamla prófastinum. Er ekki svo? Þér hafið farið óþarfa krók; göturnar skiptast á heiðinni, og til slíkrar vegsemdar er best að fara sem beinast. Göturnar skiptast aftur hinum megin við skarðið. Þér eigið að fara þá götuna, sem liggur fram með fjallinu til hægri handar; annars villist þér ofan að Hvammi. Húsfreyjan er prófastsdóttir og guðhrædd - á landsvísu! Næst komist þér vonandi hjá þessum krók. Það er ekki að vita, hvernig á kann að standa í Heiðarhvammi!"

Hvert orð var hárbeitt skeyti. Séra Halldóri fannst eitthvað engjast og teygjast í sjálfum sér. Hann, sem byggt hafði upp staðinn sinn, byggt nýjan turn á kirkjuna sína - allt á fyrsta ári -, hlotið að launum velþóknun stiftsyfirvaldanna og átti nú að verða prófastur, - hann stóð nú hjá afskekktu heiðarkoti, sem byrgði inni sorg og dauða, hjá kvenmanni, sem hann hafði ætlað að gleðja með velgengni sinni - og skammaðist sín.

Hann kvaddi þurrlega og hélt á stað.

Halla horfði á eftir honum. Hún sá, hve nærri sér hann hafði tekið orð hennar, og iðraðist undireins eftir því, hve harðlynd og beiskyrt hún hafði verið. Hvað var það, sem hann átti enn þá ósagt? Hvað var það, sem hann hafði barist við í sjálfum sér á meðan hann þagði? Þetta gæti hún aldrei fengið að vita. Hann hafði verið svo beygður og raunalegur, þrátt fyrir velgengnina. Hvernig hafði hún getað stillt sig um að fleygja sér um hálsinn á honum í stað þess að særa hann?

Hún studdist við bæjarvegginn og horfði á eftir honum upp skarðsbrekkuna. Hann gekk niðurlútur og teymdi báða hestana.

Nú voru allar brýr á milli þeirra brotnar niður. Henni fannst hún hafa slitið eitthvað út úr hjarta sínu, sem var hálfdautt að vísu,- en átti þó seigar rætur. Hún skalf eftir sársaukann, og henni lá við gráti.

Nú unni hún engum manni - eða öllum jafnt, sem á hjálp hennar þurftu að halda. Nú var hún ekki framar til vegna sjálfrar sín, heldur annarra. Hún var hjúkrunarkona, ambátt eða eitthvað því um líkt; sjálfsafneitunin var hennar hlutskipti. Skyldan var henni fyrir öllu.

En nú var ekki tóm fyrir harma og hugarvíl. Innan úr bænum bárust sár hljóð. Jóhanna hafði tekið léttasótt.


10. kafli

Egill lagði á stað á eftir þeim Höllu og Þorsteini og ætlaði upp að Heiðarhvammi, til þess að forvitnast um, hvað þar væri um að vera. Halla hafði komið honum þannig fyrir sjónir, að eitthvað sjaldgæft og óvænt hlyti að hafa að borið.

Hann fór þó hægt að vanda, og dró fljótt í sundur með þeim. En neðan undir hálsinum mætti hann Þorbirni.

Agli varð venju fremur starsýnt á Þorbjörn sinn að þessu sinni. Það var ekki einungis vegna þess, að hann var klóraður í framan, heldur einnig vegna hins, að hann var grátandi.

"Hvaðan kemur þú?" spurði Egill heldur stygglega.

Þorbjörn settist á götubakkann og svaraði engu.

"Eru það hestarnir, sem þú þóttist þurfa að leita að, sem hafa farið svona með þig?"

Ekkert svar.

"Ertu klumsa? Því svararðu ekki? Hvers vegna ertu svona dýrrifinn? Hver hefir farið svona með þig?"

"Sa-a-lka," snökti Þorbjörn.

"Salka, ha? Nú, þá hefirðu farið heim að Heiðarhvammi. Þér er þá andskotans mátulegt -. En hvers vegna gerði Salka þetta?"

Þorbjörn þagði og barðist við grátinn.

"Hvað varstu að gera heim að Heiðarhvammi?"

"Ég ætlaði ekki að gera neitt - illt."

"Heldur - hvað?"

- Egill gekk nú svo hart að Þorbirni, að hann varð að segja honum frá öllu, sem gerst hafði í Heiðarhvammi.

Þorbjörn afsakaði sig jafnt og þétt með því, að hann hefði ekkert illt haft í huga, er hann kom að Heiðarhvammi. Hann hefði aðeins ætlað að hafa tal af Jóhönnu. En Halla hefði tekið honum svo illa, að honum hefði runnið í skap. Þó hefði hann ekkert gert Höllu. Hann hefði hreytt í hana ónotum, - en þó ekki meiri en hún hefði hreytt í hann. Þau hefðu ógnað hvort öðru með rekunni; en það vissi guð, að hann hefði ekki ætlað að berja hana. Þá hefði Salka rokið á hann eins og illfygli og rifið hann og bitið. Halla hefði ekkert ráðið við hana heldur, - þennan krypplingsdjöful. Og þau öskur -! Nú væri hann hræddur um, að eitthvað illt hefði leitt af komu sinni. Jóhanna hefði líklega orðið hrædd. Hann hefði séð til Höllu ofan eftir og síðan mætt þeim Þorsteini.

Egill hikaði við að leggja trúnað á sögu Þorbjarnar. Þó þótti honum líklegt, að hann segði satt í aðalatriðunum, en mundi heldur bera í bætifláka fyrir sjálfum sér.

"Og nú segir Þorsteinn, að ég hafi drepið hana," mælti Þorbjörn og kjökraði meira en áður.

"Er hún dáin?" spurði Egill.

"Ég veit það ekki. Guð veit það! En Þorsteinn gerir út af við mig."

Þorbjörn bar sig svo aumlega, að Egill hálfkenndi í brjósti um hann.

"Hvers vegna heldurðu, að Þorsteinn drepi þig?"

"Hann ætlaði að gera það áðan, hefði ekki Halla - -. Æ-ææ, guð hjálpi mér!"

"Þig langar þá ekki til þess að deyja núna," mælti Egill og glotti.

Þorbjörn harðnaði ofur lítið í skapi við þessa glettni.

"Mig langar að minnsta kosti ekki til að láta misþyrma mér. - Ó, ég hefi hugsað svo margt fallegt um lífið og framtíðina síðustu vikurnar - síðan Jóhanna fékkst til að lofa mér eiginorði. Ég hefi verið sæll í þeirri von að fá þó að njóta hennar. Nú er úti um það allt. - Ó, þessi helv . . . Halla, sem alls staðar er til bölvunar! Hefði ég fengið að tala við Jóhönnu, gat vel farið svo, að allt hefði lagast, - eða við þá skilið í góðri vinsemd. En var það ekki von, að mér gremdist, þegar mér voru varin húsin eins og ræningja?"

"Jæja, Þorbjörn minn. Það færi betur, ef úr þessu rættist. Það getur vel verið, að þú hafir ekkert illt viljað gera. En hvað sem skeð er og hver sem eftirköstin verða, þá er þó sökin hjá þér. Hvers vegna í dauðanum ertu að draga þig eftir þessari stúlku, þegar þú veist, að hún vill þig ekki? Ertu það vesalmenni að ætla að ganga eftir loforði, sem Borghildur hefir neytt út úr henni? Nei, það vona ég, að þú sért ekki. - Svona, nú er best fyrir þig að halda heim."

"Heim -! Svona, eins og ég er í framan!"

"Heldur hvert?"

"Heim að Hvammi, - allur klóraður, bitinn, rifinn, marinn! Það á nú að bætast ofan á annað að verða fyrir háði og spotti alls heimafólksins! - Nei, heim fer ég ekki."

"Nú-nú, en hvert ætlarðu þá?"

"Ég veit það ekki."

"Kannske þú ætlir að leggjast út?"

Þorbjörn var aftur farinn að gráta:

"Og Þorsteinn, - Þorsteinn drepur mig, ef hann nær í mig!"

Egill stóð uppi ráðþrota. Þorbjörn var lítið betri viðfangs nú en hann hafði verið eftir hengingartilræðið.

"En uppi í Bollagörðum - hjá Settu systur þinni, - geturðu ekki verið þar?"

"Hann drepur mig þar líka!"

"Ósköp ertu orðinn lífhræddur!" mælti Egill og klóraði sér í hnakkanum.

Þeir þögðu um stund, og Þorbjörn grét með hendurnar fyrir andlitinu.

"Þú vilt ekki fara heim og ekki upp að Bollagörðum. Hvern þremilinn á ég þá að gera við þig?"

"Ég veit það ekki. - Guð veit það!"

"Á ég að fara að ráðstafa þér eins og sveitarlimi?"

Þorbjörn þagði.

"En því í ósköpunum drífurðu þig þá ekki í heimsókn til Tómasar bróður þíns og verður þar fyrst um sinn?"

Tómas, hálfbróðir þeirra Settu og Þorbjarnar, bjó heldur góðu búi á afskekktu koti í næstu sveit. Þorbjörn fór þangað kynnisferðir að minnsta kosti annað hvert ár, en Setta miklu oftar.

Þorbjörn glápti upp á Egil.

"Mér er þetta full alvara," mælti Egill. "Þú getur fengið bikkju til að sitja á."

Þorbjörn féllst á þetta. Hjá Tómasi bróður sínum gat hann dvalið í kyrrþey, þar til skrámurnar eftir Sölku væru grónar.

"Farðu þá heim og búðu þig í snatri," mælti Egill.

"Heim! - Nei, aldrei!"

"Nú, jæja. Liggðu þá þarna þangað til í nótt, að allir eru sofnaðir: Heldurðu, að þú hafir þá hug til að koma heim?"

Þetta varð að ráði.

Síðan fór Egill upp að Heiðarhvammi og hafði snöggvast tal af Höllu, til að frétta, hvernig komið væri. Hann kom þó ekki inn og bað hana að geta ekki komu sinnar við Þorstein.

Þegar hann kom aftur, beið Þorbjörn enn á sama stað. Hann sá það á brúninni á Agli, að það voru engar góðar fréttir, sem hann hafði að færa.

"Eiginlega ættirðu að fara í svartholið, helvítið þitt!" mælti Egill og var ekki mjúkmáll. "Þú notar þér það, að enginn karlmaður er heima, til þess að hræða ístöðulítið kvenfólk svo, að það bíði ef til vill dauðann af því."

Þorbjörn lúpaði sig niður við kveðjuna eins og lúbarinn rakki. Og á meðan Egill sagði honum frá, hvernig á stæði í Heiðarhvammi, engdist hann sundur og saman eins og verið væri að draga hann til gálgans.

Síðan sátu þeir þegjandi og biðu næturinnar. Agli var þungt niðri fyrir. En Þorbjörn bar sig svo aumlega, að Egill vildi ekki skilja við hann að svo stöddu. Hann vissi ekki, hvað hann kynni að taka fyrir, ef hann væri einsamall.

Um miðnættið gengu þeir heim að bænum og tóku með sér áburðarbikkju, sem var þar við túngarðinn.

Egill vakti upp eina vinnukonuna til að gefa Þorbirni mat og búa hann á stað. Sjálfur tók hann á sig þann vanda að útvega búrlykilinn hjá Borghildi sinni, og sagði henni þá um leið það helsta af fréttunum.

Þorbjörn fékkst með engu móti að koma inn í baðstofuna, en hafði fataskipti úti í skemmu og glefsaði í matinn á meðan. Egill lagði á bikkjuna fyrir hann og bjó um nestispokann fyrir aftan hann.

"Má ég nú treysta því," mælti hann um leið og Þorbjörn fór á bak, "að þú farir beint þangað, sem þú segist ætla,en takir enga bölvaða vitleysu fyrir?"

Þorbjörn sór það og sárt við lagði. Síðan lagði hann á stað, étandi úr hnefa sínum og berjandi hælunum í hliðarnar á bikkjunni. Egill horfði á eftir honum og hristi höfuðið.

En þó að þetta væri um miðja nótt, var nógu bjart til þess, að vinnukonan sæi, hvernig Þorbjörn var í framan.


Upp í Heiðarhammi hélt tíðindunum áfram.

Jóhanna ól barn sitt, ekki fullaldra. Það lifði nokkrar klukkustundir og dó síðan.

Nú stóð barnslík uppi í skálanum að öðru sinni.

Reynt var að leyna móðurina því í lengstu lög, hvernig komið væri. En þegar það tókst ekki lengur og henni var sagt lát barnsins, fékk hún flog af nýju, og við það jókst vanheilsa sú, sem verið hafði orsök hinnar ótímabæru fæðingar, svo að Halla hélt þá, að lífi hennar mundi vera lokið.

Það varð þó ekki að því sinni. Jóhanna fékk aftur ráð og rænu, en var þó mjög máttfarin.

Þorsteinn fyrirbauð með öllu að leita nokkurra ráða eða hjálpar til móður sinnar. En undireins og Ólafur kom heim, var hann sendur til gamla prófastsins, til að leita hjá honum ráða og ásjár. Læknir var þá enginn til í því byggðarlagi.

Á meðan lá Jóhanna milli heims og helju. Hún svaf mikið, en hafði jafnan rænu, er hún vakti. Þjáningalítil var hún og kvartaði aldrei um annað en þorsta.

Hún virtist hafa sætt sig við kjör sín, sætt sig við sjálfan dauðann, og var með öllu róleg. Hún vissi, að hún mundi deyja, og tjáði ekkert að reyna að telja henni trú um annað. Hún talaði um dauðann með angurblíðri rósemi, eins og vin, sem nú ætti að koma bráðum og taka hana í faðm sinn. Hann ætti að bera hana burt frá öllum þessum hörmungum, inn í heimkynni sælu og friðar. Þangað væri barnið hennar farið á undan henni. Nú beið hún þess með stillingu, að hennar stund kæmi.

Þorsteinn gerði sér einkum far um að telja henni trú um sigur lífsins. Hann þoldi ekki að heyra hana tala um dauðann, enda treysti hann því sjálfur, að henni mundi batna. Hún hlustaði þegjandi á hughreystingarorð hans og brosti raunalega. Þau bifuðu ekki sannfæringu hennar. Hún kvaðst hafa vitað þetta fyrir og minnti hann á drauminn, sem hún hafði sagt honum um veturinn. Nú kvaðst hún skilja hann og nú væri hann að rætast. Heiðarhvammur væri engin draumvilla. Héðan færi hún til kirkjunnar í hvítum klæðum, en brúðkaup þeirra yrði ekki fyrr en í hinu lífinu. Þar biði hún eftir honum, og þar fengju þau loks að njótast.

Þorsteinn vann ekkert á þessari sannfæringu. Hún var orðin samgróin svo barnslegri trú á annað líf og himneska stjórn viðburðanna, að hún varð ekki frá henni skilin. Samt kom Þorsteini þetta undarlega fyrir, og það lá við, að hann þekkti ekki Jóhönnu sína. Hingað til hafði hún blakt eins og strá fyrir hverjum andblæ. En nú - mitt í vanmættinum - var hún styrkari en nokkru sinni áður. Trúin bjargföst og bjart fyrir sjónum, er hún leit til hins ókomna.

Þetta hafði lífið aldrei getað fært henni. En nú var það komið allt í einu - til þess að létta henni þessar stundir.

- Kvöldið, sem von var á Ólafi heim frá prófastinum, sátu þau bæði yfir henni, Þorsteinn og Halla. Salka var háttuð og sofnuð, og barn Höllu svaf í hjónarúminu. Á gólfinu aftan við rúm Jóhönnu, milli þess og baðstofudyranna, var Þorsteini búin flatsæng til að leggja sig á, þegar hann þreyttist að vaka.

Jóhanna lá í hálfmóki, talaði við og við, en svo lágt, að varla skildist. Oftast voru það fyrirbænir, sem til hennar heyrðust. Þess á milli bað hún að gefa sér að drekka.

Hún var nábleik í framan, með gulmóleita flekki um ennið og varirnar bláhvítar. Hið fríða unglega andlit var stamt af köldum svita; í kinnunum vottaði örlítið fyrir roða, sem nú virtist þó vera að hverfa. Hárið var nýgreitt, en ekki fléttað, og liðaðist niður um axlirnar og brjóstið. Handleggirnir lágu máttlausir niður með síðunum; brjóstin hreyfðust undur lítið við andardráttinn, og hjartað sló svo hægt, að slög þess fundust varla.

Kvöldbjarma lagði inn um gluggann yfir hana og rúmið.

"Halla mín," mælti hún lágt. Halla laut ofan að henni.

"Nú er komið að því. Ég finn - -. Ó, mig syfjar svo undarlega. Ég hefi beðið guð að láta mig deyja í svefni. Nú - er - komið - að því."

Hún talaði með löngum hvíldum á milli orðanna og gat þó ekki nema hvíslað.

Þorsteinn hafði setið við höfðalagið, en stóð nú upp, svo að Halla kæmist nær Jóhönnu.

"Ég ætla að kveðja þig. Guð launi ykkur öllum fyrir mig! Heilsaðu Halldóri litla; - hann á að eiga fötin, - litlu fötin. Hryllir þig við að kyssa mig? - Guð almáttugur launi þér -."

Halla viknaði svo, að hún gat varla tára bundist. Hún kyssti Jóhönnu, strauk mjúklega um vanga hennar og reyndi að hughreysta hana.

"Ég er róleg, mér líður vel," mælti Jóhanna. "En Þorsteinn - - ."

"Hvað viltu, hjartans vina mín?" mælti Þorsteinn, er hann heyrði hana hvísla nafni hans, og kraup niður við höfðalagið. Halla stóð upp með tárin í augunum og settist á rúmstokkinn til fóta.

"Kveðja þig, elskan mín. Nú skiljumst við í bráð. - Hann er að koma."

"Kveðja, - nei, nei, nei. Það er vitleysa. - Við erum ekki að skilja. Nú fer þér bráðum að batna. Sofnaðu nú, hjartað mitt. Ég verð hérna hjá þér; - ég fer ekki fet frá þér, fyrr en þú ert úr allri hættu."

"Kveðja þig, elskan mín," mælti Jóhanna, eins og hún hefði ekkert heyrt af því, sem hann sagði. "Þú hefir ekki brugðist mér; - aldrei get ég þakkað þér. Fyrirgefðu mér - hvað ég hefi verið veik og kjarklítil. - Ó, ég hefi elskað þig svo heitt. Ég veit, að þú gleymir mér ekki. - Fyrirgefðu móður þinni líka - gerðu það mín vegna. - Henni þykir vænt um þig - og það var ekki von, að hún vildi mig fyrir tengdadóttur. Heilsaðu öllum í Hvammi, öllum, sem hafa verið mér góðir. - Gerðu Þorbirni ekkert illt. - - Kysstu mig svo að skilnaði!"

Þorsteinn þagði og horfði á hana. Hún hafði talað meira en hún var vön og reynt mjög á sig. Tungan vafðist þurr og máttvana í munninum á henni. Um leið og hún hætti að tala, komu kippir í andlit hennar, eins og hún kenndi sárra verkja. Þeir liðu þó frá aftur, og værð færðist aftur á svip hennar.

"Kysstu mig að skilnaði," mælti hún og lokaði augunum. Síðasta koss elskhuga síns þáði hún í sælum draumi.

Það varð dauðaþögn. Jóhanna blundaði, og þau héldu niðri í sér andanum og hlustuðu eftir andardrætti hennar. Stöku sinnum heyrðust þungir dropar drjúpa niður úr rúmbotninum og falla á gólfið.

Halla kipptist við, þegar hún heyrði til þeirra, en Þorsteinn gaf þeim engan gaum.

Allt í einu opnaði Jóhanna augun, deplaði þeim nokkrum sinnum, eins og til að skýra sjónina, og starði síðan út í baðstofuna, án þess að horfa á eitt öðru fremur. Draumkennt bros leið um andlit hennar.

"Jesús - Jesús - guðs - son!" mælti hún fyrir munni sér, og augun hnigu aftur.

Skömmu seinna fóru hræringar um allan líkama hennar, eins og hann byggist til að rísa á fætur. Þær enduðu með hægum skjálfta. Andardrátturinn varð að veikri hryglu, hjartað tók nokkra snögga kippi og hætti svo að slá. Jóhanna leið út af eins og ljós.

Rétt á eftir bar Halla spegil að vitunum á henni, en engin dögg kom á glerið.

"Guði sé lof, að hún er leyst frá þessu stríði!" mælti Halla með grátstaf í röddinni, um leið og hún lagði frá sér spegilinn.

"Dáin -?" mælti Þorsteinn eins og upp úr svefni. - "Dáin? Nei, það getur ekki verið."

Hann hélt um höndina á líkinu og starði á það, - starði hvíldarlaust á það, hreyfingarlaust, eins og hann svæfi með opin augun.

Höllu stóð ógn af honum. Hún hélt, að hann væri að missa vitið.

Á meðan stirðnaði líkið og litla höndin smákólnaði í lófa hans.

Loks brutust tilfinningar hans fram með slíku afli, að það var eins og stífla spryngi fyrir straumþunga. Hann grúfði sig niður að hendinni, sem hann hélt um, og grét með slíkri ákefð, að það gekk æði næst.

Halla lét hann gráta í friði um stund. Hún þekkti nú orðið, hve skapríkur hann var og hve allar tilfinningar hans og geðshræringar voru mikilfenglegar. En hún þekkti það líka, hvílíkur léttir er að tárunum, og vonaði, að þegar frá liði, mundi sorgin verða honum léttbær.

Sjálf gat hún stillt sig um að gráta, en tilfinningar hennar voru angurblíðar. Ekkert var fram komið annað en það, sem hún hafði búist við, og það var eins og henni væri fróun að því að vita það um garð gengið. Og þótt henni fyndist hún eiga hvert bein í Jóhönnu heitinni og saknaði hennar eins og systur, þá fagnaði hún yfir því, hve sæl og róleg hún hefði verið undir það síðasta og hve andlátið hefði orðið henni hægt.

Nú dróst athygli hennar meir og meir að þessum þrekvaxna, hraustlega unglingi, sem skalf af ofsagráti við hlið hennar.

Þorsteinn náði varla andanum fyrir ekka, og Höllu var farinn að ofbjóða grátur hans. Aldrei hafði hún séð nokkurn mann bera sig jafnilla.

"Þorsteinn minn," mælti hún og studdi á öxlina á honum. "Reyndu að bera sorgina með stillingu. Gráttu ekki svona mikið."

Þorsteinn stóð á fætur, heldur seinlega, og þurrkaði af sér tárin. Andlitið var rautt og þrútið eftir grátinn og hver svipdráttur titraði. En í meðvitund hans kom fram óljós ásökun um það, að hann hefði sleppt allri stjórn á sjálfum sér.

Það var þó ekki nema andartak. Þá fengu tilfinningarnar aftur vald yfir honum. Hann hneig ofan að rúmstokknum og lagði höfuðið upp að barmi Höllu, eins og hún væri móðir hans. Þar hjúfraði hann sig eins og ofur lítill drengur og fór aftur að gráta.

Höllu varð hverft við í fyrstu; þó sat hún kyrr og tók höfuð hans í fang sér. Hún sá, að hann vissi ekkert, hvað hann gerði. Sorgin hafði gert hann að ósjálfbjarga barni.

Við barm hennar grét hann út - og þar sofnaði hann.

- - - - - En konuhjartað þarf minna en þetta til að fjölga slögunum.

Halla fann eitthvað læsast um allar æðar sínar, sem hún gat ekki gert sér grein fyrir, og þaðan af síður ráðið við. En fyrsta tilfinningin, sem varð henni fullkomlega ljós, var blygðunarsemi.

Hvernig mundi henni verða við, ef einhver kæmi nú að henni, - til dæmis Ólafur? Mundi hann skilja afsökun hennar? - Og Jóhanna, sem hafði elskað hana og nú lá lík fyrir ofan hana í rúminu. Nú var hún henni ótrú, henni, nýdáinni! Ef hún sæi nú til hennar -!

Eina huggunin var henni það, að ekkert auga sæi hana. Sjálfsagt mundi Þorsteinn ekkert muna eftir því, þegar hann vaknaði, hvar og hvernig hann hefði sofnað. Þá átti hún þessa minningu einsömul.

Samt varð þessi sinnisóró henni svo rík, að hún afréð að vekja Þorstein og koma honum í rúm, enda var hún orðin þreytt að sitja undir honum. Þó tók hún það nærri sér. Hann svaf svo vært og hafði lagt á sig svo miklar vökur undanfarnar nætur.

Þorsteinn vaknaði ekki nema til hálfs. Halla studdi hann eins og dauðadrukkinn mann yfir í hjónarúmið og lagði hann þar út af fyrir framan barnið. Lengra var ekki að hugsa til að koma honum.

Þegar Ólafur kom heim, varð hann að gera sér að góðu flatsængina, sem Þorsteini hafði verið ætluð, enda var þá farið að líða á nóttina, en Halla sat vakandi yfir líkinu til morguns.


11. kafli

Það var komið langt fram á dag, þegar Þorsteinn vaknaði. Enginn var þá í baðstofunni nema Halla. Hún sat á kofforti við rúmið og hélt barni sínu upp að beru brjóstinu.

Hann stökk fram úr rúminu og leit spyrjandi allt í kringum sig, eins og eitthvað kæmi honum ókunnulega fyrir.

Í rúminu beint á móti lá líkið, sveipað hreinni rekkjuvoð.

Rúmfötin voru tekin burtu og líkið lá á heydýnu með lítinn svæfil undir höfðinu. Allt var hreint, bæði undir því og í kringum það. Allt þetta velkta og blóðflekkaða, sem hann kveið fyrir að sjá, var horfið.

Halla sinnti barni sínu og virtist engan gaum gefa honum.

Stundarkorn stóð hann kyrr, eins og eitthvað væri að brjótast um í honum. Svo herti hann upp hugann og laut ofan að líkinu. Svitadúknum lyfti hann hægt frá andliti þess og leit framan í það. Allt var óbreytt frá því um kvöldið. Í fljótu bragði var sem Jóhanna létist sofa og reyndi að leyna brosi sínu. En betur að gáð var brosið stirðnað og steinhart, augun sigin inn í tóftir sínar og andlitið bleikt eins og vax. Hrollur fór um hann. Hann breiddi aftur yfir andlitið og gekk þegjandi fram úr baðstofunni.

Hann gekk út fyrir bæinn og lagðist niður í angandi grasið. Veðrið var eins og daginn áður, sólskin og blíða, og loftið tært og svalt. Hann fann til undarlegs þunga í höfðinu og var fyrst viðutan. En hugsanirnar smáskýrðust, og með hugsununum kom sorgin og tárin.

Allt var svo tómlegt og einmanalegt. Söknuðurinn var svo þungur, vonirnar svo margar, sem voru horfnar og dánar með Jóhönnu. Nú hlaut að verða einhver stórbreyting á lífi hans - ef það ætti að halda áfram. En hvernig mundi sú breyting verða? Hvað mundi taka við? Ó, að hann mætti deyja og leggjast í sömu gröfina og unnusta hans!

Nú fann hann, hve satt það var, sem faðir hans hafði sagt. Hann var barn enn þá. Allt hafði verið honum leikur til þessa. Nú stóð hann gagnvart hinni miklu alvöru lífsins, ástvinamissi, sorg og dauða, og fann það sjálfur, hvernig hann vanmegnaðist undir ofurþunga byrði sinnar.

"Ó, Jóhanna, Jóhanna!" andvarpaði hann. Alltaf hafði hún orðið honum kærari, eftir því sem hann barðist meira fyrir henni. Hún hafði fyllt líf hans af hugsjónum, gert það bjart og ríkt, logandi af kappi og drengilegum heitstrengingum. Með henni missti hann þetta allt saman. Nú átti hann ekkert, sem hann unni, ekkert, sem hann lifði fyrir.

Hann rifjaði upp fyrir sér í huganum hvert orð og atvik frá kvöldinu áður og grét yfir því.

Eitt sinn varð honum litið upp, og sá hann þá, hvar Halla sat með barn sitt í fanginu undir bæjarveggnum, skammt frá honum.

Hann skildi þetta svo, að henni hefði þótt dauflegt inni í baðstofunni hjá líkinu, og hún þess vegna komið út í góða veðrið með barnið.

Um leið sá hann tvo menn koma ofan skarðsbrekkuna. Hann þekkti þá báða. Það voru þeir Egill faðir hans og Ólafur. Ólafur hafði farið ofan að Hvammi um morguninn.

Hann gaf þessu engan frekari gaum, en sökkti sér aftur ofan í hugsanir sínar. Honum varð það til fróunar að vita Höllu svo nálægt sér, þó að þau töluðust ekkert við. Hann fann augu hennar hvíla stöðugt á sér, ástúðleg og hluttekningarrík. Sorg hans var einnig sorg hennar. Enginn hafði unnað Jóhönnu meira en hún, enginn reynst henni betur en hún. Nú var hún eina manneskjan, sem skildi sorg hans og las hugsanir hans.

- Egill kom til að taka mál af líkinu og gera aðrar ráðstafanir, sem gera þurfti, viðvíkjandi útförinni. Halla fór með þeim inn í bæinn og hjálpaði til að bera líkið fram í skálann, þar sem barnslíkið stóð uppi. Að því búnu fór Egill út til sonar síns.


Lát Jóhönnu kom öllu sveitarskrafinu í opna skjöldu. Menn setti hljóða.

Enginn vissi til fulls, hvað höfuðbólinu og hjáleigunni hafði farið á milli um vorið, en það hlaut þó að hafa verið eitthvað alvarlegt, því að nú hafði það kostað tvær manneskjur lífið.

Menn voru vanir þungum atburðum úr sögum og hetjuljóðum. Það kitlaði notalega að lesa eða heyra lesið um blóðuga bardaga, mannvíg og níðingsverk einhvers staðar langt úti í húmi fornaldarinnar. Það var jafnan eitthvað sögulegt við það, er konur sprungu af harmi yfir elskhugum sínum dauðum. Auðvitað heyrðu menn þar álengdar hið þunga fótatak örlaganornarinnar; en ekki lágu þau spor til þeirra. En þegar sorgarsagan gerðist rétt hjá þeim, mitt á meðal þeirra, og þeir þekktu sögumennina eins og sjálfa sig, - þá fór af gamanið.

Þá fannst þeim hverjum í sínu lagi ásökunin standa í gervi grimmúðgrar konu og horfa á sig. Allir tóku að berja sér á brjóst og segja: Saklaus er ég -!

Ekki er það mér að kenna, ekki er það mér að kenna, var andvarpað um alla sveitina. En sökin hvarf ekki samt. Einhverjum var þetta að kenna. Einhverjar orsakir lágu að þessu, sem skeð var.

Enginn þorði að kenna Borghildi í Hvammi um það. Enginn þorði að segja það upphátt, að hún væri "bölvaður vargur". En húsfreyjurnar voru hættar að dást að röggsemi hennar í þessu máli.

Menn biðu milli vonar og ótta eftir því, að fréttirnar skýrðust. Einu sinni fundu menn þó til ábyrgðar orða sinna.

Eftir nokkra daga reis voðaleg holskefla upp úr djúpi þessarar blýgráu óvissu og skall yfir - Þorbjörn.

Þorbjörn, - þetta mannkvikindi, þessi erkióláns-hengilmæna, þessi rola! Öllum var hann til ills og alls staðar stóð ólán af honum! Hvers vegna hafði "sá gamli" ekki sótt hann, þegar hann hengdi sig um veturinn? Það var varla hægt að úthúða honum nógu mikið.

Það lá í augum uppi, hvernig þessu öllu var farið. Þorbjörn hafði farið heiman frá Hvammi án þess nokkur vissi, hvert hann ætlaði. Honum hafði verið kunnugt um fjarvist Ólafs, og þá hafði hann tekið hús á konunum í Heiðarhvammi. Það var honum líkast, fólinu því arna! Enginn vissi, hvað þar hefði gengið á. Þar var nóg verkefni fyrir ímyndunaraflið, og ýmsar bardagasögur komust á kreik. Eitt var víst, að Jóhanna var dáin. Sumir töluðu - ósköp hljótt - um áverka á líkinu, en enginn hafði séð það sjálfur. Og nú var Þorbjörn strokinn. Enginn vissi, hvað af honum var orðið. Egill hafði auðvitað hjálpað honum til undankomu. Nú vissi enginn, hvar hann var niður kominn. Hann hafði farið yfir sveitina að næturþeli, eins og glæpamönnum er títt. Verið gæti, að hann væri nú hjá Tómasi bróður sínum og ætlaði að koma aftur. En best fannst mönnum, að hann sæist þar aldrei framar.

Húsfreyjunum létti mjög fyrir brjósti við þessa stefnu í málinu. Hún bar ámælið af Borghildi.

Setta í Bollagörðum var daglegur gestur niðri á bæjunum þessa dagana. Hún var ekki lengi að þefa uppi skoðanir manna og átta sig á, hvernig hyggilegast væri að snúast við þeim.

Auðvitað væri þetta allt Þorbirni að kenna - sagði hún - og engum lifandi manni öðrum. Hann hefði verið trylltur út af þessari "stelpugæs", svo að engin manneskja hefði tjónkað við hann. Nokkrum sinnum hefði hún reynt að leiða honum fyrir sjónir, hvílík fásinna þetta væri, og beðið hann að hætta við það, en það hefði ekkert stoðað. Hann hefði verið svo blindaður, aumingja maðurinn. - Sjálfsagt hefði hann þó ekki ætlað að gera neitt illt í Heiðarhvammi, en komið þar fram eins og fól og flón, eins og hans væri von og vísa. Þess vegna hefði illt leitt af komu hans.

Hún vissi, að Þorbjörn hafði ekki mikið að missa í almenningsálitinu. Öðru máli var að gegna um Borghildi.

- - Heima í Hvammi riðu fregnirnar að mönnum hver eftir aðra eins og skruggur. Þegar Halla kom í túnið og sótti Þorstein, sáu menn það á henni, að eitthvað meira en lítið var um að vera. Nóttina eftir hvarf Þorbjörn, en Þorsteinn kom ekki heim aftur. Allir sáu á Agli, og jafnvel Borghildi líka, að þau voru orðin einhvers vísari. En engir aðrir fengu að vita neitt. Menn biðu með kvíða og óþreyju og gátu varla notið svefns né matar fyrir ugg og illum grunsemdum. Þar til einn morgun, að Ólafur kom með dánarfregnina.

Úr því veitti vinnufólkinu létt að komast efrir því, sem gerst hafði í Heiðarhvammi, og geta í vonirnar um hin sönnu tildrög. Skraf það, sem gekk um sveitina, villti því ekki sjónir. Það vissi vel, að Þorbjörn gerði ekkert í þessu máli nema með ráði Borghildar. Og þótt gremja þess yfir Þorbirni væri mikil, var hún þó enn þá meiri í garð Borghildar. Lengi hafði því verið illa við hana; nú hataði það hana.

Þó vildi það ekki tala um hlutdeild hennar í þessum atburðum við utanbæjarmenn. Það gekk að því vísu, að hún mundi frétta það í ýmislega löguðum útgáfum. En heppinn var Þorbjörn, að vera ekki heima um þessar mundir.

Sorgin og söknuðurinn gagntóku fólkið, og sameiginlegar tilfinningar þokuðu því fastar saman en áður hafði verið. Allar smámisklíðir gleymdust, og það var sem það léti stjórnast af einum anda í því að sýna Agli hollustu sína og þakklæti fyrir afskipti hans af þessu máli, en láta Borghildi í ljós þögula vanþóknun.

Þorsteinn kom ekki heim þessa dagana, en Borga litla var óhuggandi; svo nærri sér tók hún missi vinstúlku sinnar. -

Setta í Bollagörðum gerði sér engar ferðir að Hvammi um þessar mundir. Hana langaði ekkert til að verða fyrir vinnufólkinu. Það var ekki heldur lakara, að Borghildur frétti það á skotspónum, sem hún segði um þetta mál á öðrum bæjum.

- Borghildi varð bilt við í fyrstu, er hún frétti lát Jóhönnu. Aldrei hafði hún hugsað út í, að þessar gætu orðið afleiðingarnar.

Henni fannst, ekki síður en öðrum, sökin horfa á sig ísköldum augum. Ónot fóru um hana við það augnaráð; en hún hleypti í sig hörku og horfði hvasst á móti.

Hún sá það vel, að allt heimafólk hennar var henni andstætt. Hvað gerði það til? Í hennar augum var það ekkert annað en búpeningur. Eins og það mætti ekki hata! Það þorði þó samt ekki annað en hlýða henni!

Eigi að síður var hún hljóð og hlustaði - hlustaði eftir því, hvað sagt væri í sveitinni.

Heimilið var henni fráhverft. Þar stóð hún ein uppi og beitti valdi sínu. Nú var það orðstír hennar og álit utan heimilis, sem hún hélt í dauðahaldi. Þar kom hún engum myndugleik við. Þess vegna stóð henni ekki á sama, hvað sagt var í nágrenninu.

Einn daginn sendi hún mann upp að Heiðarhvammi á laun við Egil og lét hann skila því, að hún vildi fá líkið flutt heim að Hvammi og annast sjálf um útförina.

Maðurinn kom aftur með þau skilaboð, að útförin ætti að fara fram frá Heiðarhvammi. Svo hefði Þorsteinn mælt fyrir og Egill fallist á það. Annars kæmi henni þessi jarðarför ekkert við.

Þá sendi hún stúlku upp að Heiðarhvammi með efni í líkföt, og var fyrir hana lagt að vera þar og sauma þau. Stúlkan kom aftur með léreftið og þau skilaboð frá Þorsteini, að ekkert þyrfti að sækja til hennar, hvorki léreft né annað. Henni hafði raunar verið sagt að fleygja léreftinu í Borghildi, en það þorði hún ekki, er á reyndi.

Borghildur tók við léreftinu og beit á vörina. Þetta hafði hvort tveggja verið gert vegna sveitarinnar. Hún hafði hugsað margt um það, hvlík áhrif það mundi hafa út í frá, ef hún sýndi af sér rögg og rausn við útför Jóhönnu. Nú hafði það mistekist.


Jarðarför Jóhönnu var ákveðin á sunnudag.

Það var gamall og góður siður að láta líkkistuna standa á kirkjugólfi meðan messa fór fram, ef því varð við komið, svo að hinn láti yrði blessunarinnar aðnjótandi ásamt hinum lifandi.

Þegar búið var að ákveða daginn, var mikill viðbúnaður meðal vinnufólksins í Hvammi. Allt vildi það fylgja Jóhönnu til grafar.

Egill hafði beðið vinnumenn sína að vera líkmenn, og var það auðsótt; en vinnukonurnar urðu að biðja sér fararleyfis.

Hver þeirra um sig hafði orð á því, að hún færi, hvað sem húsmóðirin segði. Þó fannst þeim öllum réttara að spyrja um leyfi. Þær, sem fyrst komu, fengu leyfið eftirtölulaust. Hinar, sem á eftir komu, fengu fleiri orð að heyra. Þó fengu þær allar fararleyfið að lokum, með því skilyrði, að þær yrðu að vera komnar aftur til búverka. Borghildur sá sér ekki annað fært. Það mundi mælast illa fyrir utan bæjar að neita um slíkt.

Loks var allt heimafólkið búið að ákveða sig til fararinnar, nema hölt kerling, sem ekki treysti sér svo langt að heiman, - og Borga.

En á sunnudaginn, þegar hjúin voru að búa sig á stað, kom Borga til móður sinnar, lét vel að henni og bað hana að lofa sér að fara til kirkjunnar.

Borghildur horfði fast á hana um stund, til að ganga úr skugga um, hvort henni væri þetta alvara. Hún vissi, að heimafólkið gerði henni það til ögrunar að fara allt úr bænum. Halta kerlingin hefði farið líka, ef hún hefði komist. Og nú kom barnið hennar, - eina barnið hennar, að henni fannst nú orðið! Halla sagði satt: Allir voru henni ótrúir.

Borga endurtók bæn sína með enn meiri innileik, og stóru, skæru augun flutu í tárum.

"Langar þig svona mikið til kirkjunnar, barnið mitt?"

"Já", sagði Borga, og einlægnin skein út úr svip hennar. "Langar þig ekki meira til þess að vera heima hjá mömmu þinni, þegar hún er sama sem einsömul í bænum?"

"Nei, mig langar miklu meira til kirkjunnar."

"Þótti þér svo vænt um Jóhönnu sáluðu?"

"Já, svo undur - undur vænt!"

"En þú hefir ekkert á fæturna, krakki. Þú veist, að allir fara gangandi."

"Ég veit það," svaraði Borga rösklega. "Hún Sigga ætlar að lána mér bryddu skóna sína."

"Á hverju ætlar þá Sigga að ganga?"

"Á verptu skónum, auðvitað."

"Þú forar þig út, upp á mið pils. Nú, jæja. Það er best að þú sneypist með hinu hyskinu. Þú hangir í því hvort sem er. Þú ert óhræsi, eins og það allt saman."

Borga varð leyfinu fegin, þó að það væri ekki veitt með mikilli blíðu, og tók þegar að búa sig.

Innan stundar lagði hópurinn á stað. Egill og sumir vinnumennirnir voru farnir á undan upp að Heiðarhvammi.

Borghildur varpaði þunglega öndinni. Aldrei hafði henni fundist hún vera jafn einmana og yfirgefin.

Skömmu eftir að fólkið var farið, fór hún að lesa Jónsbókarlestur yfir sjálfri sér og kerlingunni. Hún hljóp yfir "exordium", en samt sofnaði kerlingin áður en hún var komin fram í miðjan lesturinn.

Þegar Borghildur sá það, hætti hún að lesa, tók af sér gleraugun, lagði þau á opna bókina og strauk augun.

Allt var steinhljótt, eins og höfuðbólið stæði í eyði. Ekki einu sinni hundkvikindi var heima. Sólin skein inn á auð rúmin, bæld niður eftir þá, sem síðast höfðu setið þar, og inn á kerlinguna, sem svaf fram á hendur sínar.

Þungar hugsanir gripu húsfreyjuna, svo að hún klökknaði. Eitthvað svipað bæn kom fram í huga hennar: Drottinn, hafi ég gert rangt, þá láttu mig gjalda þess.


Á hálsinum fyrir neðan Hvammsskarð hafði fólkið frá Hvammi mælt sér mót við þá, sem fylgdu líkinu frá Heiðarhvammi. Það þurfti ekki að bíða lengi, þar til líkfylgdin kom.

Allir fylgdu úr Heiðarhvammi, nema Halldór litli. Stúlka hafði verið fengin að láni til að vera þar þennan dag og hafa af fyrir honum.

Barnslíkið hafði verið lagt í kistuna hjá móður sinni. Kistan var reidd um þvert bak á stórum, sterkum áburðarklár, sem Egill átti. Tveir menn gengu sinn hvorum megin hestsins og höfðu bönd á kistunni, til þess að halda henni í jafnvægi.

Þegar líkfylgdin fór fram hjá Bollagarðaskarðinu, slóst Setta í förina. Hún hafði beðið þar góða stund eftir líkfylgdinni.

Henni var að vísu ekkert um að verða á vegi Hvammsfólksins um þessar mundir, en hún gat þó ekki skilið, að neinn færi að amast við henni við þetta tækifæri.

Þó þótti henni fyrst um sinn hyggilegast að vera fámælt og sýna á sér sorgarsvip. Hún hafði þekkt Jóhönnu heitna og mátti heiðra útför hennar eins og aðrir. Það visssi sá, sem allt vissi, að henni hafði þótt vænt um hana! - Þessar upplýsingar hafði hún á reiðum höndum, ef einhver skyldi yrða á hana.

En Hvammsfólkið yrti ekki á hana. Það forðaðist hana, sneiddi jafnvel hjá að ganga nálægt henni.

Setta sá það vel, að menn lögðu óþokka á hana, og ekki leið á löngu, þar til hana fór að langa til að vita, hvernig því yrði tekið, ef hún segði eitthvað.

"Nú er enginn heima í Bollagörðum," sagði hún og hneggjaði við. "Finnur minn er nú í kaupavinnu."

Enginn svaraði. Hún skotraði augunum til hægri og vinstri, en enginn leit við henni.

"Gott og vel. Það verður þá ekki stolið á meðan," mælti hún svo hátt, að Egill mætti heyra. "Ekki stela tómir kofarnir - kofarnir hreppstjórans! Ef þeir hrynja þá ekki sjálfkrafa á meðan ég er að heiman, hí-hí!"

Egill svaraði engu.

Setta þagnaði um stund, en bjóst til að segja fleira, til að erta Hvammsfólkið:

"Borghildur mín, blessunin, er auðvitað á eftir. Hvers vegna varð hún ekki samferða?"

"Hún bíður eftir manni," sagði Sveinn og gerði sig hátíðlegan á svipinn. Hann gekk þá í bili næstur Settu.

"Hver er það?" spurði Setta.

Sveinn hallaði sér að henni og hvíslaði hátt:

"Þorbjörn bróðir þinn!"

Skeytið hitti, og Setta þagnaði.

- - Þegar líkfylgdin fór fram hjá túngarðinum á Brekku, kom Margrét húsfreyja út í dyrnar. Hún skyggði fyrir augun með hendinni og horfði á hópinn um stund. Einkum varð henni starsýnt á eitthvað, sem brá fyrir á milli mannanna. Það líktist helst mislitri kind. Loks sá hún, hvað það var.

"Nei, vitið þið nú hvað!" æpti hún upp og sló á lærið. Salka! - Salka að fara til kirkju! - Hún, - úrþvættið, -" hundheiðin, - ha-hæ! - Nú held ég, að prófastinum gefist á að líta!"

Margrét hafði svo hátt, að glaumurinn heyrðist út fyrir garð.

- Um hádegið náði líkfylgdin til kirkjunnar.

Þangað var kominn fjöldi fólks, því að spurst hafði út um sveitina, að jarðarförin ætti að fara fram á eftir. Sumum af systkinum Jóhönnu hafði verið lofað til kirkjunnar.

Öllum var mest forvitni á að sjá, hvernig Þorsteinn bærist af og hvernig hann hagaði sér við jarðarförina. Víða hafði verið um það þráttað dagana á undan, hvort það "ætti við," að hann kæmi fram sem syrgjandi við jarðarförina. Flestum fannst það hreint og beint ósæmilegt.

Þorsteinn vissi það, að athygli allra beindist að honum, og þekkti hinar algengu hugmyndir um það, hvað "ætti við". Hann dró engan dul á sorg sína, en grét þó stillilega. Og þegar kistan var borin út úr kirkjunni, fylgdi hann henni eftir eins og nánasti vandamaður. Faðir hans gekk við hlið honum, þá systkini Jóhönnu - sveitarómagarnir - og loks Hvammsfólkið, ásamt Settu í Bollagörðum.

Kirkjufólkið stóð kyrrt á milli sætanna, þar til líkfylgdin var komin fram hjá.

Hneykslið, sem menn höfðu búist við, að framkoma Þorsteins mundi valda, hjaðnaði eins og hégómi. Það gagntók menn með undrun og aðdáun að sjá hinn kornunga "ekkjumann", þrunginn af harmi, sem þó bar höfuðið hátt og hikaði ekki við að sýna öllum, hve kær honum hafði verið þessi stúlka. Það vakti samhygð. Egill sýndi það með nærveru sinni, að hann hafði verið ráði sonar síns samþykkur.

Setta var eins og hálfringluð. Það bar svo margt fyrir hana, sem hún gat ekki almennilega áttað sig á. Enn þá var tvísýnt, hvað best ætti við að segja um þessa einkennilegu jarðarför.


Eftir jarðarförina var það einkum Salka, sem dró að sér athygli manna. Allir höfðu heyrt hennar getið, og mest að illu, en fæstir höfðu séð hana fyrr en nú.

Nú skoðuðu menn hana eins og kóngsgersemi og ætluðu aldrei að þreytast á að horfa á hana. Þetta var hinn illræmdi niðursetningur, sem enginn vildi hafa, hugsuðu sumir. Þetta var barnið, sem aflagast hafði undan blótsyrðum móður sinnar, hugsuðu aðrir. Þessi litla kroppinbaka var það, sem Margrét á Brekku - kona Sigvalda í bóndabeygjunni - hafði ekkert ráðið við. Gat það verið, að þessi litli, ramhnýtti vesalingur væri slíkur skapvargur?

Sumir horfðu á hana aumkunaraugum, eins og krossbera. Aðrir horfðu á hana rannsóknaraugum, eins og þá langaði til að grennslast eftir, á hvern hátt hún væri vansköpuð. Og enn voru aðrir, sem horfðu á hana glottandi, eins og þá sárlangaði til að sparka í hana og vita, hvort hún gæti ekki reiðst. Ef hún væri eins og af væri látið, hlyti að vera gaman að sjá hana alvarlega vonda.

Salka var sæmileg til fara. Halla hafði saumað henni ný föt, sniðin eftir vexti hennar og þörfum. Erfiðast var að láta þau fara vel um mittið. Bringspalirnar voru gengnar inn, og var þar eins og skora inn í líkamann. En á bakinu urðu ekki föt felld saman fyrr en neðan undir kryppunni. Handleggirnir voru allt of langir hlutfallslega og fæturnir mjög stórir. Til allra þessara líkamslýta varð að taka tillit, þegar föt hennar voru sniðin. Meðal annars varð að sníða úr pilsunum að framan, svo að hún stigi ekki á þau.

Þetta var í fyrsta sinni á ævinni, að Salka var á mannamótum. Hún var hæglát í framgöngu og datt hvorki af henni né draup. Hún tók eftir því, hve mjög menn horfðu á hana, og gerði það hana feimna og hálfhrædda. En þegar hún fór að venjast fjölmenninu og enginn gerði henni neitt, óx henni svo hugur, að hún stalst til að líta upp á aðrar manneskjur. Þó hélt hún sér jafnan í nánd við Höllu.

Faríseinn í dæmisögunni þakkaði guði fyrir, að hann væri ekki eins og aðrir menn. Margir hafa síðan tekið undir þakklæti hans, en þó einungis einmitt þeir, sem ekki hafa verið öðruvísi en aðrir menn. Hinir, sem skaparinn hefir gert öðruvísi en aðra menn og ekki eiga leiðréttingar von, eru honum lítið þakklátir fyrir afbrigðin.

Og veslings Salka fann sárar til þess nú en nokkru sinni áður, að hún var ekki eins og aðrir menn. Halla hafði komið því inn hjá henni, að það væri ekki hennar sök, heldur hefði guð gert hana þannig til þess að sýna mönnunum almætti sitt. Þetta hafði hún látið sér lynda; en þennan dag fannst henni þó þetta undarlegt uppátæki af guði, að sýna almætti sitt einmitt á henni.

Hún fann það vel, að manneskjurnar, sem gengu uppréttar, litu á hana eins og dýr, og það lá við, að hún væri þeim þakklát fyrir það eitt, að þær gerðu henni ekkert illt.

- En um það leyti sem menn fóru að tínast burtu, hvarf Salka úr hóp kirkjufólksins og Halla með henni. Þær voru báðar kallaðar inn í herbergi prófastsins í baðstofunni. Halla hafði mælst til þess, að prófasturinn yfirheyrði hana.

Fyrst í stað gekk illa að fá Sölku til að svara. Þó tókst prófastinum það með góðum atlotum. Á meðan hún var á Brekku, hafði honum aldrei tekist að toga út úr henni annað en skæting. Það, sem hann fann nú mestan mun á, var einkum tvennt: Salka var skýrmæltari en hún hafði verið og miklu kurteisari í svörum.

"Talfæri hennar hafa styrkst, síðan hún kom til yðar," mælti prófasturinn við Höllu. "Áður skildi ég varla nokkurt orð, sem hún sagði, en nú skil ég rétt að kalla hvert orð."

"Ég er hrædd um, að það hafi verið vanrækt að kenna henni að tala," mælti Halla. "Það þarf að leggja meiri alúð við hana en önnur börn."

Nú tók prófasturinn að þaulspyrja Sölku um trúarmálefni. Þá kom það í ljós, að hún kunni Faðirvor og mest öll fræðin reiprennandi og auk þess nokkuð af sálmum og bænum, og skildi þetta framar öllum vonum.

Prófasturinn taldi óhætt að ferma hana þá um haustið upp á þessa fræðslu.

"Þér hafið ekki verið henni ónýtar í vetur," mælti hann og leit ánægjulega til Höllu.

"Það er margt erfiðara en kenna henni," mælti Halla og lét Sölku njóta lofsins.

Salka var mjög upp með sér af frammistöðunni. En þá tók samtalið aðra stefnu, sem ekki var eins ánægjuleg fyrir hana.

"Svo er eitt, sem ég hét henni, að ég skyldi segja prófastinum," mælti Halla.

Salka varð sneypuleg. Hún vissi, hvað á eftir mundi koma.

"Hvað er það?" spurði prófasturinn.

"Hún gerir stundum það, sem ljótt er. Hún bítur menn, ef hún reiðist. Ég hefi áminnt hana fyrir það, og hún hefir lofað mér að gera það aldrei oftar, en gert það samt. Hún hefir þó nóg vit til að geta lagt það niður."

Salka fór að gráta.

Prófasturinn klappaði blíðlega á kinn hennar og mælti alvarlega:

"Þetta máttu aldrei gera oftar. Þetta er það ljótasta, sem nokkur manneskja gerir. Að bíta, - svei! Bíta, eins og hundarnir! Mundu það, að þú ert manneskja, þó að þú sért fötluð. Það eru ekki nema dýr, sem bíta. Langar þig ekki til að verða kristin manneskja? En ég get ekki fermt þig fyrr en ég frétti, að þú hafir lagt þennan ósóma niður."

Salka lofaði þessu kjökrandi og horfði í gaupnir sér. Prófasturinn leit brosandi til Höllu.

Svo talaðist til milli þeirra Höllu og prófastsins, að Sölku skyldi ferma á kirkjugólfi sunnudaginn í tuttugustu og fyrstu viku sumars, - ef hún yrði þá búin að leggja niður að bíta, bætti hann við og deplaði augunum.

- Á heimleiðinni gat Salka ekki um annað hugsað en prófastinn, hvað hann væri góður, og um þá vegsemd, sem hún ætti í vændum með haustinu, að geta orðið kristin manneskja, - ef hún gæti aðeins lagt niður að bíta.


12. kafli

Ágústmánuður var kominn. Næturnar farnar að dökkna á brún og brá og stjörnurnar farnar að depla augunum framan í Íslendinga.

Vinnumennirnir í Hvammi voru búnir að herða svo handleggjavöðvana, að þeir fundu ekki framar til eymsla undan orfunum. Vinnukonurnar voru allar orðnar útiteknar í framan; öllum þótti þeim það óprýða sig, en engin þeirra vildi kannast við, að hún væri að hugsa um það. Allar voru þær búnar að slíta í sundur belgvettlingunum sínum á hrífusköftunum, bæta þá og slíta sundur bótinni, fá blöðrur í lófana og blöðrurnar orðnar að siggi.

Því að nú var ekki slegið slöku við heyskapinn. -

Egill var fluttur með allt heyskaparlið sitt upp að Heiðarhvammi.

Þar var hann vanur að heyja annað hvert ár. Nógar voru engjarnar handa Heiðarhvammsbóndanum samt.

Borghildur var einsömul að kalla heima fyrir, með "þá höltu" til aðstoðar, en fékk stúlku heim á kvöldin til búverka og mjalta; smalinn var ekki heima nema blánóttina. Borga var póstur milli höfuðbólsins og "útvígisins" og kom stundum ekki heim á kvöldin. Allt hitt fólkið var fyrir ofan fjall.

Egill og Þorsteinn sonur hans gengu báðir að heyskapnum með vinnufólkinu.

Í túnjaðrinum í Heiðarhvammi var tjöldum slegið. Þaðan lagði á daginn ilminn af brenndum fjalldrapa, og þaðan bárust hvell vinnukonuhljóð á matmálstímum. Það var eins og fjallið að baki hennar hefði gaman af að herma eftir henni, þegar hún var að kalla á fólkið til að matast.

Heiman úr Hvamminum líktist fólkið niðri á engjunum dálitlum, mislitum fuglum. Karlmennirnir klæddu sig úr ytri fötunum ofan að beltisstað, og kvenfólkið var í ljósum treyjum með ljósleitar skýlur fram yfir ennin. Engjarnar í kringum fólkið skiptu litum frá dökkgrænum fjaðragrasflákum að hörgulum startjörnum. - Brýnsluhljóðið barst heim í Hvamminn, þegar kyrrt var, og endurómaði frá fjöllunum, eins og pottar væru skafnir þar inni.

- Í Heiðarhvammi gekk heyskapurinn langtum betur en árið áður. Ólafur hafði fengið karlmann og kvenmann að láni um nokkrar vikur, og unnu þau á engjunum með honum. Engjar Ólafs lágu vel aðgeindar frá Hvammsengjunum og voru engu lakari en þær.

Salka var hjá þeim á engjunum, að minnsta kosti þegar vel viðraði. Hún átti að hjálpa til eins og hún gæti, vera í sendiferðum, kringum búsmalann eða jafnvel heima að bænum, og hirða hey, sem komið væri á þurrt.

Halla var þá einsömul heima með barn sitt allan daginn. Hún hafði þann starfa á hendi að þjóna engjafólkinu og matbúa handa því, jafnframt því að hún gætti barnsins. Það voru náðugir dagar í samanburði við þá, sem hún hafði áður átt um sláttinn.

Tíðin var góð og heyskapurinn gekk vel, og lá því almennt vel á mönnum um þessar mundir. Annríkið var mikið og menn voru uppgefnir á kvöldin. Samt voru þeir ekki fyrr búnir að leggja frá sér verkfærin en glaðværðin byrjaði, og oft ómuðu léttir gáskahlátrar út í kvöldkyrrðina.

Á eftir slíkum dögum koma góðar nætur með væran svefn og þráða hvíld. Draumar voru léttir og fjarlægir daglega stritinu að efni. Því þegar svefninn er vær, birtist það eitt í draumi, sem gleymt er fyrir löngu í vökunni.

Næturloftið á heiðum uppi er hreint og svalt. Engan drepur það með eitri, engan veiklar það með sóttkveikjum; en lífsþróttinn glæðir það eins og súgurinn logann.

Vinnumennirnir frá Hvammi höfðu orð á því, að þeir hvíldust miklu betur og miklu fljótar í heybælunum sínum í tjaldinu en heima í rúmunum sínum í Hvammsbaðstofunni. Það þökkuðu þeir því, að rýmra væri um þá. Hitt fundu þeir ekki nema fyrst, að þegar tjaldið blakti yfir þeim, strauk mjúk, ósýnileg hönd um vanga þeirra. Hún þerraði af þeim svitann eftir erfiði dagsins, strauk þreytuna úr vöðvunum, bar burtu hverja ögn af spilltu lofti og gerði blóðið í æðum þeirra "rautt og létt". Þessa hollu vinarhönd átti fjallablærinn.


Þorsteinn átti að ganga að heyvinnunni með hinu fólkinu, en engum kom það mjög á óvart, þótt hann yrði stopull við verkið. Það hafði hann jafnan verið.

Enginn vildi hafa orð á því. Allir vissu, að þó að Egill léti sér annt um, að menn hans héldu sig að vinnu, og væri jafnvel talinn nokkuð vinnuharður, þá lét hann Þorstein sinn ráða sér sjálfan. Honum stóð nokkurn veginn á sama, hvort hann gerði nokkuð eða ekki neitt.

Þorsteinn hafði jafnan verið einrænn og ómannblendinn, oftast varla talað orð við nokkurn mann og oft farið einförum. Nú tók þó út yfir.

Fólkið gaf honum auga og kenndi mjög í brjósti um hann. Hann var breyttur, mjög breyttur. Glaðværðarsvipurinn, sem aldrei hafði horfið af andliti hans, þrátt fyrir þögnina, var nú sem viðraður burtu, en sorgar- og áhyggjusvipur kominn í staðinn. Brosin voru dáin af vörum hans, en oft brá fyrir grátviprum kringum munnvikin.

Stundum hamaðist hann eins og berserkur við orfið og sló þá í áhlaupinu hátt upp í meðaldagsverk. Þess á milli stóð hann hugsandi og gleymdi sér með öllu, eða hann hélt áfram að brýna ljáinn á meðan aðrir slógu tvær- þrjár brýnur. Enginn yrti á hann og hann á engan. Samtal hins fólksins virtist hann ekki heyra, og hlátrar þess snertu ekki við meðvitund hans.

Stundum lagði hann frá sér orfið og gekk á stað burtu frá fólkinu, - ofan að kvíslinni eða upp í fjall. Þar var hann vís að rangla í sinnuleysi fram og aftur eða sitja um kyrrt mestan hluta dagsins.

Fólkið var hrætt um, að hann væri orðinn sinnisveikur, og faðir hans var ekki ugglaus um það heldur. Þó lét það hann fara ferða sinna í friði, en leit eftir honum.

En hvert sem Þorsteinn ranglaði, þegar þunglyndið stríddi á hann, enduðu allar götur hans heima í Heiðarhvammi. Þaðan kom hann aldrei fyrr en undir kvöld, og þá var honum mun hughægra.

Í fyrstunni var það eingöngu söknuðurinn eftir Jóhönnu og umhugsunin um hana,sem gerðu hann ekki mönnum sinnandi, og minningarnar um hana voru það, sem framan af drógu hann með óhemjandi afli heim að Heiðarhvammi. En mitt í sorginni, mitt í minningunum og hinum ömurlega einstæðingsskap var eitthvað að vaxa upp í honum, sem bæði truflaði hugsanir hans og svipti hann allri rósemi.

Hann hafði engu gleymt af því, sem gerst hafði í Heiðarhvammi á meðan Jóhanna lá og eftir að hún dó. Hvert einasta atvik stóð honum ómáanlega skýrt fyrir hugskotssjónum. Margsinnis var hann búinn að lifa það allt upp aftur.

En þegar hann var að hugsa um þetta, kom jafnan fram ein mynd öðrum fremur í meðvitund hans. Það var ekki Jóhanna, - hún var þar að blikna upp og deyja, - heldur Halla.

Snemma hafði hann glatað ástinni á móður sinni, og aldrei hafði hann, svo að hann myndi eftir, komið til hennar, þegar illa lá á honum, og grátið út harma sína við barm hennar. Heldur hafði hann grátið úti í Álfakvíum eða einhvers staðar annars staðar, þar sem enginn sá til hans. Þetta hafði gert hann dulan í skapi og einrænan. Eiginlega hafði enginn móðurfaðmur staðið honum opinn. Móðir hans hafði haft annað að gera en sinna skælunum úr honum. Hann hafði því vanist á það að komast af móðurlaus.

En þegar honum lá sem allra mest á, þegar sorgin og skelfingin höfðu gert hann að barni aftur, - þá stóð honum móðurfaðmurinn opinn.

Það var konan, sem stundað hafði unnustu hans á banasænginni með svo móðurlegri nákvæmni og miðlað honum sjálfum styrk og hughreystingu, sem hann hafði flúið til í sorg sinni.

Þá hafði hann ekki gert sér grein fyrir því, hvað hann gerði, heldur hlýtt einhverri blindri þörf. Síðan hafði hann hugsað því meira um það og mundi það allt.

Hann hafði fundið hjartaslögin undir vanga sínum. Mjúkir handleggir höfðu vafist að höfði hans og ýtt því fastar að þessu sláandi hjarta.

Þar hafði hann grátið út og sofnað.

Aldrei hafði hann, svo að hann myndi eftir, verið jafnþurfandi fyrir svefninn. Og aldrei hafði hann sofið værar en þessa nótt. Og aldrei hafði honum þótt vænna um að hafa getað sofið.

Og umhyggjan, sem honum hafði verið sýnd í smáu og stóru á meðan sorg hans var sárust! Hvílíkt verk hafði verið unnið um nóttina á meðan hann svaf, til þess að ekkert ljótt eða hryllilegt, sem dauðanum fylgdi, skyldi bera fyrir hann. Hann hafði ekki verið truflaður í sorg sinni, en vakandi auga haft á honum, hvar sem hann var, og allt hugsanlegt gert honum til þægðar. Allt var fátæklegt og yfirlætislaust, en svo innilegt og bar vott um svo góðan hug, að það varð honum til styrktar og hughreystingar og bætti honum upp móðurorð og móðuratlot.

Þegar Þorsteinn fór að hugsa um þetta, fannst honum það mundi gera sig örvita, svo þungt féll honum það. Það var jafnvel sárara en sorgin og söknuðurinn, sem fyrir var í huga hans.

Þá fann hann engan frið í sálu sinni, gat engu verki sinnt, þoldi ekki návist annarra manna og leitaði því einverunnar.

Þessi kona var ekki móðir hans og gat ekki verið það. Hún var kornung, - lítið eldri en hann sjálfur, ljós og litfögur, gift öðrum manni og hafði ungbarn við brjóstið.

Hann hafði misnotað ástúð hennar og umhyggju, móðgað hana og gert sig hylli hennar ómaklegan með vanstilling sinni og barnaskap. Hún hlaut að vera honum gröm.

Þrátt fyrir ástarævintýri þeirra Jóhönnu var Þorsteinn saklaus í hugsunum sínum og hvötum eins og barn. Ekkert var honum fjarstæðara en snerta konu annars manns í girndarhug.

Nú fannst honum hann vera sekur, eða hljóta að álítast svo að minnsta kosti. Honum fannst það skylda sín að biðja Höllu fyrirgefningar - og helst Ólaf líka.

Beygður af þessum barnalegu áhyggjum gekk hann heim að Heiðarhvammi.

En þegar þangað kom, - þegar Halla heilsaði honum ástúðlega brosandi, eins og hún ætti í honum hvert bein, þá var honum ómögulegt að byrja á þessu hvimleiða erindi.

Þá gripu hann angurblíðar tilfinningar, og minningar um Jóhönnu streymdu fram í huga hans. Hann sat þegjandi inni við eða lagðist niður úti við, en alltaf var Halla einhvers staðar nálægt honum, og alltaf þannig, að ekki gat verið, að hún væri honum reið.

Þunglyndir menn eiga bágt með að tala um það, sem þjáir hug þeirra. Því kærara er þeim það, að vita sér veitta athygli í kyrrþey, vita hugsanir sínar og tilfinningar lesnar álengdar, án þess að vera spurðir og þurfa að svara. Hugur þeirra er viðkvæmari en svo, að hann þoli orð. Hin dularfullu, léttu áhrif á allra smágerðustu færi skynjunarinnar, sem sálin finnur eins og í draumi, lækna þá best.

Þess vegna varð Þorsteini hughægra í Heiðarhvammi en annars staðar, - í nánd við þá einu manneskju, sem honum fannst skilja sorg sína til fulls og kunna að umgangast hana. Þess vegna festi hann hvergi yndi nema þar, - og þess vegna fór hann ætíð þangað heim, er harmur hans ætlaði að verða honum of þungur.


Halla var lengi að leita fyrir sér, hvernig best mundi henta að umgangast Þorstein. Það var enginn hægðarleikur. Til þess þurfti hún að vita hug hans allan.

Fyrst hélt hún, að það væru minningarnar um Jóhönnu, sem drægju hann heim þangað. En brátt komst hún að því, að eitthvað annað væri að brjótast um í huga hans. Hún fór að geta og gat brátt upp á því rétta.

En um það mátti hann ekki fyrir nokkurn mun fara að tala. Því varð hún að afstýra. Hún vildi geyma þá minningu óspillta af orðum og afsökunum eins og helgidóm huga síns. Best væri að hann gæti gleymt þessu. Þá gæti hún það ein.

Þess vegna gerði hún allt til að gefa honum í skyn, að því færi fjarri, að hún væri honum reið.

Eftir því sem hann kom oftar, tókst henni betur að finna eitthvert umtalsefni, sem hún gæti fengið hann til að dvelja við stund og stund.

Það gerði honum komurnar að Heiðarhvammi enn þá kærari.

- Halla var ekki blind fyrir þeim afleiðingum, sem komur Þorsteins kynnu að hafa eða jafnvel hlytu að hafa fyrir mannorð þeirra beggja í augum almennings. Hún tók sér það ekki nærri að því er hana sjálfa snerti, en henni féll það illa vegna Þorsteins. Hún sá það vel, að hann hugsaði ekkert út í þessa hættu.

Það gat ekki hjá því farið, að fólkið á engjunum undraðist um hinar tíðu fjarverur hans. Og ef það vissi ekki, hvar hann væri, hlaut vinnukonan, sem oft var heima við tjöld þeirra Hvammsmanna og sá jafnan til hans, að geta sagt því það.

En lakast féll henni það, að fjallið á bak við þau hafði augu, - og þau ekkert góðgjarnleg. Það voru augu Settu í Bollagörðum.

Hún var ein heima í kotinu um þessar mundir, og hvern dag, þegar vel viðraði, fór hún upp í fjallið og settist í skútana undir klettunum. Þaðan sá hún yfir Hvamminn og engjarnar.

Og eftir að hún komst að því, að Þorsteini varð tíðreikað heim að Heiðarhvammi, þegar Halla var ein heima, lét hún ekki úr falla með njósnirnar. Hún vissi því oftast, hvenær hann kom og hvenær hann fór.

Halla sá stundum til hennar, þegar hún var að fara í fylgsni sitt.

Halla gat ekki fengið af sér að vara Þorstein við þessu. Komur hans voru svo saklausar og hugsanir hans svo barnslegar, að hún vissi, að það mundi særa hann að vita sig tortryggðan. Enda hlaut að fara að líða að því, að Hvammsfólkið tæki upp tjöld sín og flytti sig heim. Þá færi hann með því. Hún fann, að hún mundi sakna hans, þegar komur hans yrðu sjaldgæfari eða hættu alveg.

Hún gekk að því vísu, að Setta mundi gera þeim allt til ills. Meðal annars væri hún vís til að ná tali af Ólafi niðri á engjunum og segja honum frá komum Þorsteins, í því skyni að kveikja í honum tortryggni. Að vísu kveið hún ekki fyrir að skipta orðum við Ólaf, en þó mundi henni falla það illa, ef hann brygði henni um ótrú við sig. Því að alltaf er hægra að láta brigslin úti en bera þau af sér. Á hverju kvöldi, þegar Ólafur kom heim, aðgætti hún hann nákvæmlega, til að komast eftir, hvort hann hefði frétt nokkuð þann dag. Hún þóttist geta lesið það út úr honum, ef hann hugsaði eitthvað illt.

En Ólafur hugsaði ekkert illt. Hann hugsaði ekki um neitt annað en heyskapinn og hve ágætlega hann gekk. Nú mundi hann ekki þurfa að leita hjálpar til nágranna sinna næsta vetur. Á hverju kvöldi ljómaði hann af ánægju, og á hverri nóttu svaf hann eins og steinn.

Halla gerði sér allt far um að glæða þessa búmannsgleði hans og stuðla að því,að hann nyti hennar sem best.


Loks kom að því, að heyafla Egils var lokið á Heiðarhvammsengjunum. Eitt laugardagskvöld voru tjöldin tekin upp og lagt á stað heimleiðis.

Þeir feðgarnir, Egill og Þorsteinn, gengu spölkorn á eftir lestinni og báru amboðin sín á öxlunum. Báðir gengu þeir þegjandi að vanda, þar til loks að Egill mælti:

"Veistu það, Steini minn, að fólk er farið að stinga saman nefjum um það, hvað oft þú farir heim að Heiðarhvammi."

"Láttu það kjafta! Ég held það megi kjafta!" mælti Þorsteinn hálfönugur.

Egill sneri sér að honum og leit framan í hann.

"Hefirðu hugsað út í það, að það er ekki sæmd þín ein, sem hér er í hættu, heldur konunnar?"

Þorsteinn nam staðar og horfði á föður sinn. Eftir litla stund setti hann dreyrrauðan."Ég veit, að þú ert saklaus eins og barn af því, sem fólk hugsar um ykkur," mælti Egill. "En samt finnst mér, að þú ættir að draga úr komum þínum þangað."

Þorsteinn gekk niðurlútur og gat engu svarað. Enn þá einu sinni var hann minntur á það, hvílíkt barn hann væri.

Þeir gengu spölkorn þegjandi. Þá mætli Egill aftur:

"Manstu það, Steini minn, að ég stakk einu sinni upp á því við þig, að þú færir langt í burt um tíma, - til þess að mannast og kanna ókunna stigu. Ég var nýlega farinn að halda, að það mundi ætla að farast algerlega fyrir. Nú er ekkert til, sem bindur þig við átthagana. Hvernig líst þér á að taka þetta nú til íhugunar?"

Þorsteinn leit upp, kafrjóður í framan, og var skjótur til svars:

"Vel. Ég vil fara eitthvað langt í burtu."

"Til Jóhannesar gamla, til dæmis?"

"Já, þangað eða eitthvað annað. Mér er sama, hvert ég fer. Hér get ég ekki verið lengur."

Eftir litla umhugsun bætti hann við, og augu hans flutu í tárum:

"Heyrðu, pabbi minn, lofaðu mér að fara á stað undireins á morgun."

"Á morgun? Undireins á morgun?" sagði Egill undrandi. "Þú ert ekki lengi að ráða þetta við þig."

"Nei, undireins á morgun. Ég vil ekkert vera heima. Þú veist, pabbi, - við mamma - -."

"Já, en - þarftu ekki að taka þig til?"

"Mér er ekkert að vanbúnaði. Þú færð mér auðvitað fararefni, og þá get ég keypt allt, sem mig vanhagar um."

"Jú, jú. - En þetta ber svo bráðan að," mælti Egill vandræðalegur á svipinn. "Mér kemur hálfilla að geta ekki náð í kaupstað áður."

Þorsteinn sótti þetta svo fast, að Egill lét að lokum undan síga, þótt honum yxi það í augum að taka mann frá slættinum og senda hann í langferð með syni sínum, einkum nú, er Þorbjörn var ekki heima.

En Þorsteinn hélt ósveigjanlega fast við kröfu sína:

"Á morgun. - Snemma í fyrramálið!"


13. kafli

Um þessar mundir var runnin upp ný stjarna í austri og skein yfir allt Ísland. Það var stjarna Seyðisfjarðar.

Í öðrum landsfjórðungum höfðu menn ekki heyrt hans að neinu getið fyrr en nú. Nú var nafn hans á allra vörum. Hvergi þótti nú björgulegra en þar, og enginn staður virtist eiga glæsilegri framtíð fyrir sér. Þangað drifu menn úr öllum áttum.

Þangað var nú ferð Þorsteins Egilssonar heitið.

Jóhannes gamli, sem Egill hafði minnst á, var trésmiður og hafði unnið hjá Agli, þegar hann var að byggja upp bæ sinn. Síðan hafði haldist með þeim vinátta og bréfaskipti við og við. Nú var hann setstur að á Seyðisfirði fyrir nokkrum árum, hafði nóg að gera við húsabyggingar og græddi fé. Oft hafði hann boðið Agli að láta Þorstein koma til sín til að fullnema trésmíði.

Þorsteinn vakti mestalla nóttina við það að búa sig undir ferðina og gera það, sem gera þurfti áður en hann færi. Meðal annars það, að skrifa Höllu fáeinar línur og skýra henni frá burtför sinni.

Á sunnudagsmorguninn var uppi fótur og fit í Hvammi. Hestar voru reknir heim og járnaðir. Öllum var orðið kunnugt, að Þorsteinn væri að leggja á stað í langferð og maður með honum til fylgdar. Enginn vissi, hvenær hann mundi koma aftur.

Þetta kom öllum svo á óvart, að menn áttu bágt með að trúa því. En menn voru farnir að venjast óvæntu tíðindunum í Hvammi þetta sumar, svo menn trúðu jafnvel því ótrúlegasta.

En einhver skilnaðarviðkvæmni greip menn, og allir kepptust um að gera Þorsteini alla þá þægð, sem þeir gátu.

Þó vantaði einn af heimamönnum í það þjónustusama lið. Það var Borghildur húsfreyja. Hún lét sem hún sæi ekki, hvað fram fór. Hún var ekki blíð í máli, þegar hún var að sækja vinnukonurnar út á hlað eða út í smíðahús og reka þær inn í bæinn til þess að gegna daglegum störfum.

Þorsteinn var önnum kafinn og hugsaði ekki um neitt annað en að komast á stað sem fyrst. Undarleg óró rak hann áfram. Deyfðin var horfin af svip hans og augun loguðu af fjöri. En fjörið var líkast óeðlilegum æsingi og gljáinn á augunum eins og af sótthita.

Hann náði í Borgu litlu systur sína og bað hana fyrir bréfið til Höllu. Þá var það komið í góðar hendur. Síðan mælti hann einslega við Svein og fól honum til geymslu lykilinn að svefnlofti sínu í smíðahúsinu. Þangað var nú byssan hans komin og annað það, sem hann átti, en gat ekki haft með sér. Sveinn átti einn að ganga þar um framvegis.

Borghildur kom út á hlað, þegar Þorsteinn var að gyrða á hesti sínum frammi á varpanum, rétt áður en hann fór á bak. Þá voru allir heimamenn úti staddir til að kveðja Þorstein.

Þorsteinn lést ekki sjá móður sína, en ósjálfrátt tók hann svo fast á gjörðinni, að hún slitnaði.

Borghildur stóð dálitla stund álengdar og horfði á son sinn. Hún var að hugsa um að ganga til hans og spyrja, hvort hann ætlaði ekki einu sinni að kveðja móður sína. En slíkt var skapi hennar ofraun. Hún beið ekki einu sinni eftir því, að Þorsteinn færi að kveðja aðra, en gekk þegjandi inn í bæinn. Náföl var hún í framan, en svipurinn stálharður.

Þegar hún var farin inn, kvaddi Þorsteinn alla á hlaðinu og síðast föður sinn. Hvorugur þeirra gat tára bundist við skilnaðinn.

Svo riðu þeir á stað, Þorsteinn og fylgdarmaðurinn. Fólkið stóð kyrrt og horfði á eftir þeim út úr túninu. En þegar þeir voru að hverfa fyrir fjallstána, mælti Egill og strauk af sér tárin með handarbakinu:

"Hver verður nú grenjaskytta hjá mér næsta ár?"


Daginn eftir að Þorsteinn fór frá Hvammi, kom Setta í Bollagörðum að Heiðarhvammi. Hún hafði ekki komið þangað heim síðan Halldór litli var skírður. Halla bauð henni kaffi, og þáði hún það.

Setta var í góðu skapi og mjög mjúkmælt:

"Þykir þér ekki dauflegt í Hvamminum, heillin mín, síðan Hvammsfólkið fór heim?"

Halla gegndi því litlu.

"Það lífgar menn upp að hafa margmennið nálægt sér. Ekki vantar í það kætina - hundakætina, lá mér við að segja - Hvamms-hyskið! Það hefir líka munninn fyrir neðan nefið, ekki síður en annað fólk, - hí-hí-hí!"

"Ég þekki það lítið, blessað fólkið," mælti Halla þurrlega og reyndi að eyða þessu.

"Það hefir kannske verið ólund í því í sumar út af því að missa Jóhönnu sáluðu úr hópnum. En það batnar; það verður ekki lengi að gleyma henni. Hún þótti nú geta skvett sér upp, stúlkan, að því er sagt var, hí-hí-hí-hí! Ó, blessuð vertu, hún var dæmalaus gála, - þó að ég ætti ekki að vera að tala illa um hana dauða. En því fór nú eins og fór - hí-hí-hí!"

"Ég líð það ekki, að illa sé talað um Jóhönnu í mín eyru," sagði Halla alvarlega.

"Nei-nei-nei. Ég skal þegja - hí-hí-hí!"

Setta þagnaði og þagði dálitla stund. Þá tók hún aftur til máls:

"Nú er Þorbjörn bróðir minn kominn heim til sín."

"Sjáum til! Mikið var, að hann kom til skila!"

"Já, er ekki von að þú segir það, blessunin mín. Jú-jú, hann var nú hjá mér í nótt og drattaðist svo í morgun ofan yfir fjallið. Ég held, að honum hafi nú ekki þótt koman góð til mín að þessu sinni, hí-hí-hí-hí!"

"Ja, það er svo."

"Ég tók honum svei mér tak, skal ég segja þér. Ó, þú hefðir átt að heyra það allt, sem ég las yfir honum!"

"Ég efast ekki um það!"

"Það varð nú ekkert úr honum, grey-skammar-tuskunni. Ég held, að hann hefði farið að skæla, hefði ég haldið áfram. Hann þrástagaðist á því, að hann hefði ekkert ætlað að gera illt, hvorki þér né henni."

Halla svaraði þessu engu, en kallaði fram til Sölku og skipaði henni að skerpa á katlinum. Hún vildi ekki halda Settu hjá sér lengur en hún þyrfti.

"Og nú er Þorsteinn farinn," mælti Setta.

"Farinn -?" greip Halla fram í. "Hvert?"

"Hefirðu ekki heyrt það, blessunin mín?" mælti Setta og aðgætti Höllu vandlega. "Hann lagði á stað í gærmorgun alla leið til Seyðisfjarðar og fylgdarmaður með honum. Farinn, já, ég held það. Hann kemur ekki aftur í bráð."

Halla fann það sjálf, að hún brá litum, en gat ekki við það ráðið. Hann var farinn, - án þess svo mikið sem kveðja hana.

Setta horfði á hana kringlóttum áfergisaugum og glotti meinfýsilega.

"Það er von, að þú verðir forviða, heillin mín. Þetta gengur fram af öllum lifandi mönnum. En farinn er hann. Annars hefði Þorbjörn ekki haft hug til að fara heim að Hvammi. Hann, skræfan sú! Hann frétti þetta í gær. - - Jæja, ég held, að Þorsteinn megi missast. Kannske nú verði maður úr honum hjá vandalausum. Hér var hann ekkert annað en landeyða."

Í þessu sá Halla út um gluggann, hvar Borga litla í Hvammi kom hoppandi heim á hlaðið. Halla flýtti sér fram til að taka á móti henni.

Setta sá það líka, að Borga var komin, og undraðist það mjög. Auðvitað hefði Borghildur ekki sent hana, og þá lá næst að halda, að hún kæmi með orðsendingu frá Þorsteini. Hún brann í skinninu af forvitni, en sá engan veg til að komast að neinu að þessu sinni.

- Borga gat varla talað fyrir mási og mæði.

"Fyrirgefðu," mælti hún. "Það lá svo illa á mömmu í gær, að ég þorði ekki að biðja hana að lofa mér að fara - í berjamó. En í dag fékk ég það með ónotum. Ó, ég er búin að fá svo mikinn hlaupasting!"

"Viltu ekki koma inn?" spurði Halla í því hún stakk bréfinu frá Þorsteini í barm sinn. "Ég hefi kaffið tilbúið."

"Nei-nei-nei, mikil ósköp! Berin bíða mín niðri á hálsinum, - slík ósköp, sem eru af berjum! Ég hefi ekki snert eitt einasta enn þá. Nú verð ég að vera skolli dugleg að tína, svo að ekki beri á því að ég hafi farið hingað. Er nokkur kominn hjá þér? - Setta! Hvert í logandi! - Ætli hún hafi séð mig? Ó, þú verður að skrökva einhverju í hana. Vertu sæl!"

Í sömu svipan hljóp hún á stað.

- "Hvað vildi Borga?" spurði Setta, þegar Halla kom inn í baðstofuna.

"Hún var send frá pabba sínum og átti að finna Ólaf."

Setta glotti, en lét sér lynda svarið.

"En hvað þið eigið gott hérna í Heiðarhvammi, hingað koma svo margir gestir. Það er eitthvað annað í Bollagörðum. Kom ekki ókunnugur prestur hingað í sumar? Ja, ekki ókunnugur, - það var víst gamli sóknarpresturinn ykkar. Og rétt áður kom prófasturinn til að skíra. Tveir prestar á sama sumrinu! Hí-hí-hí! Ég er viss um, að ungi presturinn hefir komið vegna þín, hí-hí-hí-hí! - Hann hefir verið skotinn í þér hér áður og viljað sjá þig aftur. Ég vona, að þú farir ekki að roðna, heillin mín, hí-hí-hí-! Ég held, að ég kannist við þessa karla!"

- Setta klappaði Höllu allri utan, þegar hún fylgdi henni til dyra. Nú var hún komin í essið sitt. Enda þóttist hún hafa verið veiðin þennan daginn.

Þegar hún var farin, braut Halla upp bréf Þorsteins og las það. Það hljóðaði svo:


"Halla mín!

Burtför mína ber svo bráðan að, að ég get ekki kvatt þig. Ég vona, að þú fyrirgefir mér það. Ástarþakkir fyrir Jóhönnu sáluðu og sjálfan mig. Sveinn á að færa þér bækurnar mínar til geymslu og skemmtunar. Jónasar-kvæðabók áttu að eiga til minningar um mig. Aldrei fæ ég þakkað þér eins og vert er, og þegar hugur minn reikar heim til átthaganna, mun hann hvergi koma við oftar en hjá þér."


Halla las bréfið hvað eftir annað, og tárin komu fram í augun á henni. Nú fann hún það fyrst og skildi, hve innilega henni þótti vænt um Þorstein.

- En Setta hélt ekki kyrru fyrir næstu dagana á eftir. Nú þurfti hún mörgu kynlegu að hvísla að vinkonum sínum neðan fjalls.


Salka var fermd á kirkjugólfinu þann sunnudag, sem áður var ákveðinn. Fátt fólk var við kirkju. En þær voru þar báðar, Margrét á Brekku og Borghildur í Hvammi. Þær trúðu því ekki, að Salka væri fermingarfær, nema þær sæju það og heyrðu sjálfar.

En prófasturinn gamli gerði þeim illan grikk. Hann lýsti því yfir, að hann ætlaði sér að bregða út af venju og spyrja ekki þetta barn í áheyrn safnaðarins, vegna þess, hve blest hún væri á máli; menn mundu eiga erfitt með að skilja, hvað hún segði. En hann kvaðst hafa fullvissað sig um það nýlega, að hún hefði fengið þá fræðslu, sem heimtuð væri, þegar eins stæði á, svo að óhætt væri að taka hana inn í kristinn söfnuð. Þar næst vék hann nokkrum þakkarorðum til Höllu fyrir einstaka alúð, sem hann kvað hana hafa lagt við þennan vesaling.

Borghildur og Margrét hnipptu hvor í aðra. Naumast var það - -!

Bændurnir í kórnum vörpuðu öndinni léttilega. Þessi lærdómur Sölku var orðinn sveitinni dýr, ekki meiri en hann var þó. Nú hlaut að mega færa niður meðlagið með henni.

- Finnur í Bollagörðum var við kirkjuna. Halla vék að honum eftir messuna og bauð honum að verða þeim samferða. Finnur kvað nei við því. Hann kvað kaupavinnu sinni ekki lokið enn, þótt óvanalega seint væri, og skildi ekkert í því, að Setta hefði ekki kvatt hann heim.

Annars var Finnur glaðari í bragði og frjálslegri en hann hafði áður verið.

- Þau urðu seint fyrir á heimleiðinni, Heiðarhvammshjónin og Salka, og lentu í myrkri um kvöldið. Þau fóru þá aðra leið en vant var, gegnum Bollagarðaskarðið og þeim megin út með fjallinu. Ólafur ætlaði að líta eftir kindum sínum um leið og hann gengi heim.

Þá lá leið þeirra rétt hjá bænum í Bollagörðum.

Þegar þau komu ofan úr skarðinu heiðarmegin, var orðið koldimmt. Jörð var auð og svartsýni mikið til jarðarinnar, svo erfitt var að greina hvað frá öðru.

Þau héldu götuslóða, sem lá heim að Bollagörðum. Móar voru miklir og lautóttir kringum bæinn, en gamalt hraun undir. Stóðu hraunhryggir sums staðar upp úr móunum. Var því leiðin ill og ógreiðfær. Spölkorn frá fjallinu sáu þau blett einn ljósleitari en landið umhverfis og svartar þústur á honum miðjum. Það var Bollagarðabærinn. Hvergi sá þar ljós í glugga. Kofarnir þekktust varla frá steinum og taðhraukum.

Þegar þau áttu skammt heim að bænum, komu þau auga á eitthvað, sem stóð skammt frá götunni. Þegar þau komu að því, brá þeim kynlega við. Þetta voru tvær tunnur, bundnar í klyfjar, og dálítill poki með salti í. Svo leit út sem verið væri að færa Settu þetta heim í búið. Skammt frá var hestur á beit, og á honum reiðingur.

"Komdu, við skulum ekki tefja okkur við þetta," mælti Halla og hélt áfram. Henni var orðið órótt vegna barnsins. Stúlka hafði að vísu verið fengin að láni til að vera með það um daginn, en hún var þó hrædd um, að því kynni að líða eitthvað illa.

En Ólafur vildi grennslast eftir, hvort hann þekkti hestinn.

Heima undir túngarðinum náði Ólafur þeim aftur. Þá yfirgáfu þau götuslóðann og tóku stefnu þvert yfir móinn á milli fjallsins og túngarðsins.

Salka var orðin lúin og farin að dragast aftur úr.

"Hvað er þarna undir garðinum?" sagði Ólafur og rýndi út í myrkrið. "Karlmaður með kindahóp. Er það ekki?"

"Mér sýnist það líka," mælti Halla. "Nú hefir Finnur skrökvað að mér."

"Þetta er ekki Finnur," mælti Ólafur.

Þau réðu það af að ganga heim undir garðinn og forvitnast um þetta. Maðurinn varð þeirra ekki var. Hann hélt kindunum í kreppu við garðinn, þar til allt í einu, að hann stökk á hópinn og hremmdi eina kindina. Kom þá mikil styggð að hinum kindunum, svo að þær stukku í allar áttir, sumar upp á garðinn og hröpuðu ofan af honum aftur með heila skriðu af grjóti og torfi. Maðurinn hélt báðum höndum í ullina á kindinni, sem hann hafði náð, og veltust þau hvort um annað undir garðinum. Kindin hamaðist og reyndi að losna, en maðurinn hélt fast. Loks hafði hann náð um hornin á kindinni og hafði hana nú á valdi sínu. Stóð hann þá upp og blés mæðinni. Í sama bili kom Ólafur að honum og sá sér til mikillar undrunar, að maðurinn var - Þorbjörn.

"Sæll vertu, Þorbjörn minn!" sagði Ólafur dálítið kerknislega. Halla stóð álengdar og heilsaði ekki. Salka notaði stundina til að tylla sér niður og hvíla lúin bein.

Það kom fát á Þorbjörn. Hann sleppti kindinni og vissi ekki, hvað hann átti af sér að gera.

Það var þrevetur sauður í góðum sumarholdum, sem Þorbjörn hafði handsamað. Hann var orðinn dasaður af viðureigninni og stóð kyrr um stund til að átta sig. Svo hristi hann hausinn, jarmaði aumkunarlega og labbaði til hinna kindanna.

"Ég hafði gaman af að vita, hver ætti þennan sauðarskratta" sagði Þorbjörn vandræðalegur. "Hann flækist uppi á bænum hjá Settu á hverri nóttu og vill hvergi annars staðar vera."

"Einmitt það," mælti Ólafur. "En hver á hann þá?"

"Ég veit það ekki. Ég kannaðist ekki almennilega við markið á honum."

"Ekki það," mælti Ólafur ertnislegar en áður. Hann vissi vel, að Þorbjörn hafði alls ekki snert eyrun á sauðnum. "Þá held ég, að ég geti sagt þér, hver á hann. Ég þekki hann, skinnið það arna, því að hann hefir gengið hérna í högunum bæði í sumar og fyrrasumar. Hann húsbóndi þinn á hann."

"Egill, ha? - Nei, það getur ekki verið?"

"Ég held þú sért ekki fjárglöggur, Þorbjörn minn. Ég þekki hverja kind á svipnum. Ég veit, að Egill hefir mætur á þessum sauð; hann er af góðu kyni. Hann er sammæðra við hrútinn, sem hann átti í vetur. Þú manst þó eftir honum?"

Þorbjörn þagði.

Þetta var kærasta umtalsefni Ólafs og sú grein, sem hann bar af öðrum mönnum í. Þar að auki hafði hann yndi af að stríða Þorbirni. Hann langaði því til að tala lengur um sauðinn og hrútinn, en Halla togaði hann á stað.

"En hver á hestinn þarna niður með garðinum?" kallaði hann til Þorbjarnar í því hann var að fara.

"Hestinn?" ansaði Þorbjörn úrillur. "Hvaða helvítis hest? Ég veit ekki um neinn hest."

"Nú, það hlýtur þá að vera einhver gestur hjá systur þinni."

"Það getur vel verið. Ég hefi ekki komið heim í bæinn."

Ólafur vissi, að hann var að ljúga, og langaði til að spyrja hann betur, en gerði það þó fyrir Höllu að halda áfram.

Þegar þau voru komin spölkom frá Þorbirni, mælti Halla:

"Trúirðu því nú, að Bollagarðar séu þjófabæli?"

"Ég fer nú að hugsa margt," sagði Ólafur og dró svarið.

Þau gengu þegjandi um stund. Þá mælti Ólafur aftur:

"Ég er alltaf að hugsa um þennan hest. Ég hefi aldrei séð hann fyrri. Hann er ekki frá Hvammi og ekki frá næstu bæjunum. En - bér eru einhverjir fleiri í leiknum."

Eftir að þau höfðu enn gengið nokkra stund þegjandi, mælti Halla:

"Getum við ekki flutt frá Heiðarhvammi og fengið eitthvert annað kot?"

"Það er ekki hlaupið ofan á jafngott kot," mælti Ólafur seinlega. "Útbeitin er ágæt á meðan til jarðar næst og engjarnar óþrjótandi. Þér hefir líka alltaf þótt fallegt þar."

"Já, þetta er satt. En nábýlið -?"

"Já, að vísu. En svo eigum við einnig gott nábýlisfólk. Egill er okkur mjög vinveittur, og það verður vandfundinn betri landsdrottinn. Og þetta skiptir meira fyrir okkur en þótt nábúarnir hnupli sér kindarbjálfa undir veturinn."

Halla þagnaði. Hún sá fram á það, að þau mundu ekki verða sammála um þetta, og þá var best að hætta að tala um það í tíma. Ólafur mundi einnig jafnan hafa það svar á reiðum höndum, að það hefði verið eftir hennar áeggjan, að þau tóku Heiðarhvamm. Hún hugsaði sér að minnast ekki oftar á þetta.

Salka hafði fylgt þeim eftir steinþegjandi, frá því þau fóru frá Bollagörðum. Nú varð hún til að rjúfa þögnina:

"Til hvers er ljós niðri í jörðunni?"

"Ljós niðri í jörðunni -!" sögðu þau bæði forviða. -

"Hvar sástu það?"

"Hjá Bollagörðum."

"Hvaða vitleysa!"

"Það er alveg satt."

Þau fóru að rengja Sölku og spyrja hana betur, en hún stóð á því fastar en fótunum, að hún hefði séð ljós niðri í jörðinni hjá garðinum í Bollagörðum. Hún hefði sett sig niður á meðan Ólafur talaði við Þorbjörn, og þá hefði hún séð ljósið. Það hefði komið upp um smugu og verið á stærð við stóra stjörnu. Hún sagðist hafa farið að hugsa um huldufólk og orðið hrædd. En undireins og heyrst hefði til þeirra Ólafs og Þorbjarnar, hefði ljósið horfið.

Hvernig sem þau spurðu Sölku, sagði hún alltaf það sama. Samt þorðu þau ekki vel að leggja trúnað á það, sem hún sagði.

Það sem eftir var af leiðinni heim að Heiðarhvammi, gengu þau öll þegjandi. Þau voru hvert í sínu lagi að hugsa um það, sem Bollagarðar og nágrennið kynni að búa yfir.


14. kafli

Sveinn kom bókunum til skila, eins og fyrir hann hafði verið lagt.

Um mörg ár hafði Egill í Hvammi keypt nálega allt, sem út kom á íslensku. Þó hneigðist hugur hans með aldrinum einkum að lestri þeirra bóka og ritgerða, sem snertu landsmál, hagfræði og réttarfar. Allar aðrar bækur gaf hann konu sinni og börnum. Borghildur fékk allar hugvekjur, postillur, sálmabækur og bænakver. Henni var það ómissandi sönnunargagn fyrir því, hve guðhrædd og trúrækin hún væri, en það var í flestra augum hin eina uppspretta dyggðar og gæsku. Allar aðrar bækur hataði hún og kallaði þær verkaþjófa. Þorsteinn hafði lengi setið einn að öllum skemmtibókum, þar til Borga komst það á legg, að hún fór að krefjast síns hluta. Þá átti hann allmikið safn, og var því vel við haldið eins og öðru, sem Þorsteinn átti.

Nú var þetta safn komið upp að Heiðarhvammi.

Höllu fannst Þorsteinn hefði ekki getað sýnt henni meiri vináttuvott en þann, að lána henni bækurnar. Bækur voru henni ljós.

Innan í einni bókinni lá úrklippa úr dagblaði, lúin og velkt, en þó auðsjáanlega geymd með mestu umhyggju. Upphaf og framhald vantaði, en það, sem á blaðinu stóð, hljóðaði þannig:


" - - - Ástin er eina réttmæta sambandið milli karlmanns og konu. Þar sem hún er, eru öll önnur bönd óþörf. En þar sem hana vantar, eru öll önnur bönd til ills eins. Afskipti annarra af einkamálum manna geta haft háskalegar afleiðingar. En ástin kemst af án allrar verndar og allra valda, bæði himneskra og jarðneskra. Það er meira að segja sterk ást, sem þolir vígslur og yfirsöngva án þess að lamast. Hver fullaldra manneskja á að vera alfrjáls í ástamálum sínum; að skerða það frelsi er verri glæpur en stela, ljúga eða sverja meinsæri; það gengur morði næst. Og ástarvana sambúðir, sem hanga uppi vegna ytra aðhalds, eru skaðlegasta spilling þjóðanna ---------- .


Halla las það hvað eftir annað, sem á miðanum stóð. Hún sá það á öllu, að Þorsteinn hafði haft mætur á því, og nú fannst henni það talað til sín. En það var svo herskátt og hárbeitt, að henni hraus hálfpartinn hugur við því. Þó fannst henni það allt satt.

Oft hugsaði hún seinna um þennan miða og hvílík áhrif hann kynni að hafa haft á hug Þorsteins og líf hans. Ef þau ættu eftir að sjást aftur, mundi þessi miði eflaust verða þeim umtalsefni.


Skömmu eftir göngurnar rak Egill hreppstjóri þrjár kindur fullorðnar upp að Heiðarhvammi og afhenti Ólafi. Hann kvað það vera þóknun fyrir það, sem þau hjónin hefðu haft fyrir Jóhönnu heitinni um sumarið.

Ólafur gat engu orði upp komið fyrir undrun. Enga borgun hafði hann sett upp; en nú kom þreföld borgun við það, sem hann hafði hugsað sér.

Egill tók þakklæti Ólafs fálega, eins og hann kærði sig ekki um það. Margt þóttist hann hafa vel gert áður, en litlar þakkir fengið. Nú fannst honum sér vera ofþakkað.

Ólafur hafði jafnan gætt þess vandlega að eiga til "dropa" til að hýrga hreppstjórann á. Og nú að nýafstöðnum göngunum bjó Ólafur vel að þessu leyti.

Þeir töluðu margt saman um daginn. Meðal annars sagði Ólafur Agli frá því, hvað fyrir þau Heiðarhvammshjón hefði borið hjá Bollagörðum og skoðun þeirra á því.

Egill gerði lítið úr þessu. Hann kvaðst að vísu lengi hafa haft grun um það, að Setta væri ófróm, en ekki tryði hann því á Þorbjörn, þó að þau væru mjög samrýnd, systkinin. Aftur á móti væri Þorbjörn oft undarlega snuðrinn, og vel gæti verið, að hann hefði aðeins ætlað að gæta að, hver sauðinn ætti, en orðið þó felmt við, er komið var að honum, og verið hræddur um, að verk sitt yrði misskilið. Um flutninginn væri það að segja, að Setta tæki allan þremilinn upp í vinnu þeirra Finns og léti ýmsa færa sér það. Eftir lýsingunni á hestinum að dæma, ætti Pétur á Kroppi - bróðir Borghildar - hann, og Finnur væri um þessar mundir í kaupavinnu hjá honum. Ljósið í jörðinni hlyti að vera einhver vitleysa úr Sölku. Hann hefði gengið mörg spor um móana kringum Bollagarða, síðan hann var drengur, og hlyti að hafa rekist á fylgsni þar, ef það væri til.

Eftir þessa skýringu fór Ólafur mjög að efast um gildi ályktunar þeirra hjónanna.

Þó bað Egill Ólaf að hafa góðar gætur á því, sem fram færi í Bollagörðum, að svo miklu leyti sem hann gæti. Oft hefði verið kvartað um undarlegt kindahvarf í heiðinni og ævinlega bent á heiðarbýlin, en aldrei neitt komist upp, sem styddi gruninn.

- Nóttina á eftir lágu þeir báðir úti, hreppstjórinn og Ólafur, Egill á hálsinum fyrir neðan skarðið, en Ólafur í móunum milli Heiðarhvamms og Bollagarða.

Egill var vanur því að sofa úti á víðavangi og koma ekki heim til sín fyrr en alveg væri runnið af honum.

Ólafi farnaðist miklu verr. Aldrei á ævi sinni hafði hann orðið jafndrukkinn. Hann mundi það síðast eftir sér, að hann hafði hitt Settu í Bollagörðum við kindur og masað við hana stundarkorn - hann mundi ekki um hvað. Hún hafði verið óvanalega mjúkmál við hann. Nú bættist það ofan á timburmennina og samviskubitið, að hann var logandi hræddur um, að Setta hefði veitt upp úr honum eitthvað, sem hann vildi ekki segja henni. Nú var þess enginn kostur að komast fyrir það. En Ólafur hét því í gremju sinni, "að þennan andskota" skyldi hann ekki láta sig henda oftar.


Seinna um haustið fékk Halla bréf frá Þorsteini.

Það var mest allt ferðasaga og lýsing á Seyðisfirði. Þorsteinn átti heima á Vestdalseyrinni og lýsti firðinum þaðan. Honum varð skrafdrjúgt um tindana miklu, sem gnæfðu sinn hvoru megin fjarðarbotnsins, með hvert klettaþrepið upp af öðru, eins og skrúfnaglar á höfði. Á bak við annan þeirra væri Skógaskarð í hamraegginni. Í gegnum það liti sólin síðast, er hún kveddi fjörðinn, og þaðan liti hún fyrst framan í hann hálfu auga eftir fjórtán til sextán vikna hvarf. - Til austurs sæi út úr firðinum, út á opið hafið. Fjallaraðirnar ögruðu hvor annarri og ystu tangarnir beygðust hvor að öðrum eins og búnir til atlögu. Fjörðurinn væri oftast spegilsléttur, dökkur af fjallaskuggunum. En þegar sviptibyljirnir kæmu, yrði hann hvítur eins og rjúkandi mél. - Þá væri gaman að sjá hann! Og skipin, gufuskipin! Til Seyðisfjarðar kæmu mörg gufuskip. Hún hafði auðvitað aldrei séð gufuskip. Þau væru öll úr járni, með háum járnstrompi, rauðmáluð að neðan. Stefnin á þeim væru hvöss eins og saumhögg. Þau plægðu upp sjóinn beint á móti storminum, jysu honum freyðandi aftur með sér og ösluðu áfram. Ó, hún ætti að vera komin þangað til að sjá það! Þegar þau blístruðu, hvini lengi í fjöllunum á eftir; þegar þau hleyptu úr fallbyssu, væri eins og allt ætlaði að hrynja. - Þá lýsti hann húsunum, fólkinu og mörgu, mörgu fleiru, svo að bréfið var margar þéttskrifaðar arkir.

Meiri gleði hafði Höllu aldrei fallið í skaut en þetta bréf færði henni. Það var svo fullt af barnslegri alúð og einlægni, að hún viknaði, er hún hugsaði til þess. Annað eins bréf mundi hann ekki skrifa neinum nema henni. Handa henni einni voru allar þessar lýsingar gerðar. Þær voru teknar saman á hljóðum tómstundum og margsagðar henni í huganum, áður en þær komust á pappírinn.

Nú fann hún, að hún átti hug hans allan.

Hefði Jóhanna lifað, mundi hann hafa helgað henni þessar hugsanir. Að henni látinni var það hún, sem erft hafði innileik hans. Þessi skoðun varð enn fastari hjá henni við að frétta það, að Þorsteinn hefði skrifað föður sínum og öðrum stutt bréf og móður sinni alls ekkert, ekki einu sinni sent henni kveðju.

- Veturinn, sem nú fór í hönd, var Höllu hlýrri og sólskinsríkari en nokkur vetur hafði áður verið. Nú hafði hún bækur til að lesa, nú átti hún minningar frá sumrinu til að hugsa um, og nú átti hún vin - í fjarska.

Flestar manneskjur eiga sér eitthvert goð, einhvern Baldur hinn góða, sem hugur þeirra elskar og tignar, færir fórnir sínar og leitar sér yndis hjá. Oftast er honum gerður himinn, hátt yfir táradölum jarðarinnar, - Valhöll eða Paradís. En líka má gera honum hallir úr morgunbjarmanum á tindi Ólymps, úr skýjabólstrunum um risaaxlir Himalaja-jöklanna, eða - úr hamraborgunum kringum Seyðisfjörð.

Það er sælt að gera skyldu sína út í æsar, en eiga þar að auki eitthvað hjartfólgið, - eitthvað, sem enginn á með manni og enginn getur tekið frá manni.

- Halla sá vin sinn í huga í umgerð mynda þeirra, er bréf hans brá upp fyrir henni. Nú leið hún burt úr kotkreppunni í vökudraumum sínum, - leið um óravegu á svipstundu, yfir snævi þakta fjallgarða í bláu skammdegismyrkrinu, yfir breiðar bunguheiðar, sem hún hafði heyrt nefndar, en aldrei séð, - þar til bjarmann lagði upp úr Seyðisfirði. Þar sá hún aðgreining allra hluta, því að sólin leit "hálfu auga" yfir skarðsbrúnina. Og þar sá hún hann, - þrekvaxinn, herðabreiðan, bjarthærðan, rjóðan og skinnbjartan eins og mikilleita jómfrú. Þar gekk hann að vinnu sinni, hjóður og hugsandi, alltaf með hugann langt burtu frá sjálfum sér, ef til vill heima í átthögunum, ef til vill hjá henni. Þetta bjarhærða höfuð hafði hallað sér upp að hjarta hennar, þegar honum lá mest á hvíldinni. Nú var hún honum nálægari en hann vissi af. Á nóttunni tók hún höfuð hans upp af koddanum og lagði við barm sinn, þar sem hjartaslögin fundust best. Ó, að hún mætti vera draumadísin hans!

- Halla hafði lært dálítið að skrifa í æsku, en lítið iðkað það síðan. Nú var hún sér úti um skriffæri og tók að stunda þessa nytsömu list af kappi. En henni blöskraði, hvað stafirnir hennar voru ljótir.

Oft byrjaði hún á bréfi til Þorsteins, en jafnoft hætti hún við það. Stundum fannst henni skriftin ekki boðleg, stundum fannst henni það svo lítilfjörlegt, sem hún hefði til að skrifa, og stundum datt henni í hug að reyna að hafa bréfið í ljóðum. En allar tilraunir strönduðu, og allan fyrri part vetrarins var hún að skrifa bréf, sem öll fóru sömu leiðina: í eldinn.


Eftir hátíðarnar fékk Halla annað bréf frá Þorsteini:

"- - - Hvernig stóð á því, að ég fékk ekkert bréf frá þér með hinum bréfunum að heiman? Það var þó eina bréfið, sem ég þráði.

Ég hefi aldrei fundið til óþreyju fyrr en hér. Mér leiðist, - og þó langar mig ekki vitund heim. Ég skil varla, hvernig mér er varið.

Hér er allt fullt af útlendingum, einkum Norðmönnum, sem alltaf eru drukknir og alltaf í áflogum. Stundum berjast þeir með hnífum. Þeir draga Íslendinga út í slarkið með sér, svo að hér er í meira lagi sukksamt.

Félagar mínir eru oft með þeim. Þá er ég einsamall. En ég þoli einveruna miklu lakar hér en heima.

Þá hugsa ég til þín. Eiginlega ert þú eina manneskjan í átthögunum, sem ég hugsa til.

Þú ert eina vandalausa manneskjan, sem ég hefi fundið, að ekki stendur á sama um mig. Ég veit, að þú hugsar ekki minna um mig en ég um þig.

Þú trúir því ekki, hve sárt mig tekur það, að vita þig í illu og eyðilegu koti uppi í reginheiði, í nábýli við bannsett Bollagarðahyskið, og gifta manni, sem ekki er þín verður.

Ó, þessi hjónabönd!

Þú verður að fyrirgefa mér, Halla mín, hvað ég er opinskár. En ég er viss um, að þú elskar ekki Ólaf og hefir aldrei elskað hann.

Þegar ég sit uppi á bitunum í húsinu, sem við erum að smíða, horfi ég við og við upp á Vestdalsheiðina eða inn á Háubakkana, hvort ég sjái þig ekki koma með barnið þitt í fanginu. Ég er viss um, að ég þekkti þig í mílu fjarlægð. Og þegar illa liggur á mér, lít ég ósjálfrátt í kringum mig við og við, eins og ég eigi von á að sjá þig standa álengdar og lesa hugsanir mínar, - eins og fyrir skömmu. Á kvöldin, þegar ég er að sofna, finnst mér stundum hjarta slá undir vanga mínum. Ég veit, að þetta er allt saman barnaskapur, en ég get ekki að því gert. En hugsaðu þér, að þú værir komin til mín. Mundi okkur ekki líða vel hér langt frá átthögunum? Halla, ó, ég vildi, að þú værir komin til mín! Nú finnst mér ég ekki geta lifað án þín-------------"


Til allrar hamingju var Halla ein, þegar hún las þetta bréf. Hún mundi hafa átt bágt með að leyna geðshræringum sínum.

Fyrst lá henni við svima. Bréfið hneig hálflesið ofan á kjöltu hennar, og hún vissi varla af sér um stund.

Svo fór hún að gráta.

En gráturinn varð henni léttur. Hún vissi varla sjálf, hvort tárin hrundu af sorg eða sælu.

Þegar hún var búin að lesa bréfið svo oft, að hún hálfkunni það, kyssti hún það með tárin í augunum, braut það saman og lagði það innan í það allra kærasta, sem hún átti, ljóðabók Jónasar Hallgrímssonar, sem hann hafði gefið henni.

- Aldrei hafði hún gengið að störfum sínum í þyngri hugsunum en hún gerði nú.

Orsökin var, að henni fannst "Baldur hinn góði" vera orðinn óvær í Breiðabliki sínu. Nú var hann farinn að tilbiðja. Það var niðurlæging.

Hún brosti að þessu, en bak við gamanið lá alvaran.

Hvert orð í bréfinu fannst henni titra af undarlegri óþreyju, - æsingi, sem reynt væri að dylja með hálfkveðnum hendingum, ástarjátningum, sem tóku á sig gervi algengrar vináttu, gamanyrðum, sem gátu verið alvara. Allt var þetta einhvern veginn svo ólíkt Þorsteini, og líkast því, að það væri skrifað í sjaldgæfu sinnisástandi.

Og þó þótti henni svo innilega vænt um bréfið.

En aðra eins heimsku mátti hann aldrei skrifa oftar. Það varð hún að koma í veg fyrir. Hún mátti ekki hugsa til þess, að slíkt bréf lenti í annarra manna höndum.

- - Veturinn hamaðist með frostum og fannkyngi, og Setta sat "veðurteppt" á bæjunum niðri í sveitinni til skiptis og þuldi kynlegar grunsemdir í eyru húsfreyjanna um Höllu í Heiðarhvammi og Þorstein, vináttu Egils við þau hjónin og ókunnuga prestinn; um síðustu daga Jóhönnu heitinnar og krypplinginn, sem Halla hefði til að siga á gesti sína og láta hann bíta þá og klóra til stórskemmda.

Slíkt sæði fann góðan jarðveg í sveitinni. Ekkert þreifst þar betur en illt umtal. Og ímugustur manna á Heiðarhvammi fór dagvaxandi.

Halla varð baknagsins alls ekki vör. Hún sat flestar stundir innifennt í heiðarbýli sínu, afskekkt frá öllum og með hugann fjarlægan heimilislífi sínu.

Hún gat varla um annað hugsað en vininn sinn á Seyðisfirði, "barnið fullorðna", eins og hún nefndi hann í hljóði. Ó, hve vænt henni þótti um hann!

En þennan eld, sem brann í bréfi hans, mátti hún ekki æsa. Það gengi glæpi næst. Hún, sem var eldri og reyndari manneskja, varð að hafa vit fyrir þeim báðum.

Það var þungt, og hún grét stundum yfir því, en það var skylda hennar. Og meðvitundin um að geta gert það, gerði hana sæla.

En átti hún ekki að skrifa honum? Og hvernig átti bréfið að vera?

Átti hún að látast vera honum reið? Hann mundi sjá bros hennar gegnum reiðigrímuna.

Átti hún að gera skop að honum fyrir þá riddaralegu uppástungu, að hún kæmi gangandi á fund hans með barnið sitt í fanginu.

Nei, það mundi særa hann. Hann var svo barnslega viðkvæmur.

Hvort tveggja þetta hafði hún leikið á fyrri árum, en nú fannst henni langt síðan. Nú fannst henni hún vera upp úr slíkri glettni vaxin. Og gegn honum mátti hún síst af öllu beita henni.

Eða átti hún að skrifa honum móðurleg alvörubréf og leiða honum fyrir sjónir, hvílíkur barnaskapur þetta væri?

Átti hún yfir höfuð að skrifa honum? - Var ekki réttast, að hún léti það farast fyrir?




Netútgáfan - ágúst 1998