HALLA

eftir Jón Trausta




1. kafli

Engin vera á jarðríki er eins hamingjusöm eins og ung stúlka, sem er hraust og fríð sýnum.

Og enga veru leggur óhamingjan eins í einelti. Þar vaka hinar grimmu nornir stöðugt yfir bráð sinni og eru alltaf og alls staðar nálægar. Það er næstum ótrúlegt, hve lítil atvik geta dregið ævilangt auðnuleysi á eftir sér - -.

Halla var fríð stúlka, þegar hún var á gjafvaxta aldri; um það var enginn skoðanamunur.

Hún var ekki stór vexti, en þéttvaxin og hraustleg, kvik og skarpleg í öllu fasi sínu og eldfjörug og kát. Andlitið var smáfrítt og svaraði sér allt vel, kinnarnar ávalar, jafnvel nokkuð bústnar, og skiptu vel litum, munnurinn nettur, nefið beint og formfagurt og yfirsvipurinn hreinn og bjartur - en glettnislegur. Og þótt augun væru dökk og fjörleg, greindarleg og stundum dálítið dreymandi, leyndu þau því ekki við nánari athugun, að þau höfðu tvennt til. Þau áttu blíðu og ástúð, en þau gátu líka sýnt þrjósku, hörku eða kalda fyrirlitningu.

Samt voru það ekki nema fáir þá, fremur en síðar, sem höfðu lag á að kynnast Höllu neitt nánar, og alltaf var öllum þorra manna það endalaus ráðgáta, hvað í henni byggi. Sjálf varðist hún allra frétta um það. Hún átti engan þann kunningja eða kunningjastúlku, sem hún segði innstu hugrenningar sínar.

Hún gat verið kát við þær og viðfelldin; en ef þær urðu henni of nærgöngular, eða ef þær gerðu beinlínis eða óbeinlínis tilraun til að skyggnast inn í hugarheim hennar, þá máttu þær eiga hana á fæti. Hún sá við þeim, þótt farið væri með mestu lagni; og annaðhvort beit hún þær frá sér með bituryrðum eða hún villti þeim sjónir með tvíræðum orðum og atvikum, sem þær misskildu og urðu sér svo á endanum til minnkunar.

Kunningjastúlkur Höllu komust því fljótt að raun um, að hún var ekkert barn. Hún var ekki þeirra meðfæri. Þær höfðu líka flestar ímugust á henni. Mönnum er svo gjarnt að gera því getsakir, sem þeir ekki þekkja og skilja. Og þær ályktuðu þannig, að fyrst Halla gæfi þeim svona lítið færi á að kynnast sér, þá hlyti hún að hafa eitthvað grunsamt að geyma, eitthvað, sem ekki væri hollt fyrir þær. Þær höfðu sjálfar hjartað á vörunum og gátu ekki skilið að neinn hefði það annars staðar.

Hvenær sem þær eignuðust nýja vinstúlku, jusu þær yfir hana öllu því, sem þær vissu um sjálfar sig og aðra, öllum sínum hjartans leyndarmálum, suðu eins og hverir, sem bulla öllu upp úr sér, en eru svo tómir á eftir, og urðu svo oftast furðufljótt steinþreyttar á málandanum hver í annarri.

En því fór fjarri, að Halla vildi þeim neitt illt. Hugsanir hennar fóru fram hjá þeim, eins og þær væru varla til.

Það jók heldur ekki vinsældir Höllu hjá stéttarsystrum hennar, að hún kom sér einstaklega vel, þar sem hún var í vistum, og alltaf var mikil eftirsókn eftir henni sem vinnukonu, og þar af leiðandi fékk hún snemma hæsta kaup, sem vinnukonum var goldið þar um sveitir.

Ekki kom þetta þó til af því, að samlífið væri innilegra milli hennar og húsbænda hennar. Því fór mjög fjarri. En kröfurnar, sem húsbændurnir gerðu til hennar, voru allt aðrar en þær, sem jafningjar hennar í lífinu gerðu, því þótt saga þessi gerist á afskekktum útskaga á afskekktu landi, var munurinn á húsbændum og hjúum þar jafnskýr sem annars staðar í heiminum; svo langt var heimsmenningunni komið, að minnsta kosti að því er húsbændurna snerti. Þeir litu að jafnaði niður á hjúin sín, og það oft af öllu hjarta, jafnvel þótt þeir neyddust til að vinna sömu verkin og þau og vinna þau með þeim. Húsbóndi og hjú voru tveir viðskiptamenn, þar sem annar skipaði, en hinn hlýddi, og ekkert meira. Þegar kröfum húsbóndans um dugnað og húsbóndahollustu var fullnægt, eftir því sem almennt gerðist, þá heimtaði hann ekki meira. Að öðru leyti máttu hjúin vera í friði fyrir honum.

Að vísu gat samlífið oft verið glaðlegt og innilegt, en aldrei nema að vissum mörkum. Og þau hjú, sem gerðu sér allt of dælt við húsbændur sína, voru blátt áfram illa liðin.

Halla uppfyllti prýðilega öll þessi skilyrði. Hún var dugleg og ósérhlífin, hvar sem hún gekk að verki, og stundaði vel hag húsbænda sinna, án þess að ætlast til meiri viðurkenningar af þeim en þeim var sjálfum geðfellt. Hún umgekkst þá eins og manneskjur, sem að vísu áttu að segja henni fyrir verkum, en sem henni að öðru leyti komu ekkert við. Húsbændurnir dáðust oft að verkum hennar, þrifnaði og hagsýni, og allt í kringum hana var hvíslað frá manni til manns: Hún Halla er efni í búkonu.

Og Halla var efni í búkonu. En það fer svo margur efniviðurinn öðruvísi en til er ætlast á þessu landi.

En þótt Halla væri svona dul í skapi, fór þó fjarri því, að hún væri fálát í umgengni eða frásneidd því að taka þátt í glaðværð. Og þar sem glaumur og galsi var á ferðum, var hún funandi af fjöri og kátínu og þá stundum smáglettin. Hláturinn hennar var hreinn og hjartanlegur og laus við allan tepruskap. Hún var náttúrubarn og hafði ekki alist upp undir agandi hendi í klaustri eða skóla, og hún hló líka eins og náttúrubarn, hvellt og innilega. Hún hló meira að segja að mörgu því, sem "fínu" kvendunum hefði þótt ósæmilegt að hlæja að - þótt þær aldrei nema hefði sárlangað til þess. Og hláturinn vakti ævinlega bergmál; það var sjaldan, að Halla hló ein til lengdar.

En hún gat gert mönnum fleira til skemmtunar en það, að hlæja. Hún var oft hnyttin í orðum og fjörug í viðræðum. Og margt langt vetrarkvöld var hún uppáhald alls heimafólksins, þegar hún las fyrir það sögur eða kvað rímur, ýmist á bók, eftir beiðni húsbændanna, eða upp úr sér, og lét þá rokkinn sinn suða undir.

Hún var líka hneigð fyrir að ganga þokkalega til fara, láta vinnuföt sín fara vel og vera hreinleg, og það studdi mikið að því að gera hana aðlaðandi.

Það voru því mörg augu, sem hvíldu á Höllu, hvar sem hún var, og margar hugsanir, sem sveimuðu í kringum hana. Hafi kunningjastúlkum hennar ekki staðið á sama um hana, þá stóð ungu karlmönnunum þaðan af síður á sama um hana. Og þeir voru margir, bæði karlar og konur, sem fegnir vildu frétta, hvað Halla hugsaði um sig.

En þess var enginn kostur.

Halla tók vel eftir öllu, lagði það saman og geymdi það í fersku minni. Hún hugsaði oft um það í einrúmi, sem fyrir hana bar, og hafði gaman af að draga af því ályktanir.

Það, að Halla var orðvör, kom ekki til af því, að henni byggi neitt það í skapi, sem ástæða væri til að leyna, og þótt henni væri í nöp við mælgina í stallsystrum sínum og hún hirti ekki um að taka of mikinn þátt í henni sjálf, þá var hún þó enn þá bjartsýn og leit vonglöðum augum á lífið.

Já, ungu karlmönnunum var annt um Höllu, - annara um hana en nokkra aðra unga stúlku þar í sveitinni. Þetta sáu stéttarsystur hennar, og þeim sárnaði það.

Hvers vegna gat þeim verið svona annt um Höllu? hugsuðu þær. Hún var þó ekki nema vinnukona, eins og þær. Ekki var það vegna ættgöfginnar; ættfærslan var meira að segja töluvert vafasöm. Og ekki var það fyrir það, að hún væri efnuð; hún átti ekkert, nema það, sem hún vann fyrir árlega, eins og þær, og þar að auki var hún alin upp á sveit. Og þótt hún væri lagleg - snoppufríð, eins og þær nefndu það - þá voru þær það allar, að minnsta kosti fleiri en hún. Nei, þeim gat ekki með nokkru móti skilist það. En þær voru líka neyddar til að líta á það með sínum eigin augum, en ekki piltanna.

Halla var af lágum stigum og bláfátæk, hafði misst foreldra sína þegar í barnæsku og alist upp á sveit. Hún hafði þó verið svo lánsöm að komast á gott heimili á uppvaxtarárunum, þar sem meiri rækt var lögð við uppeldi hennar en almennt var um sveitarbörn. En mest hafði henni þó farið fram, bæði andlega og líkamlega, síðan hún fór að vinna fyrir sér sjálf. Nú bar hún langt af flestum þeim stúlkum, sem alist höfðu upp við lík kjör, bæði að fegurð og atgervi.

Það var líka satt, að ýmislegt hafði verið hvíslað um faðerni hennar, en það var svo algengt þar í sveitinni, og þeir, sem gætnari voru og vandari að orðum sínum, höfðu ekki söguna eftir frekar en hvern annan þvætting. Hún hefði líka eflaust verið dauð og gleymd nú, hefði ekki öfundsýki stallsystra Höllu kennt þeim að snuðra hana uppi og reyna að halda henni á lofti, þegar hún fór að verða þeim erfiður keppinautur.

Halla sá það vel, að hún dró að sér athygli ógiftra karlmanna, og henni duldist heldur ekki hugarfar stallsystra sinna, og - henni þótti vænt um hvort tveggja.

Það er líka einmitt þetta, sem gerir margar manneskjur hamingjusamar: að vita sig elskaðar, dáðar og - öfundaðar. Þess vegna eru ungar, fríðar meyjar á gjafvaxta aldri einhverjar hamingjusömustu verur á jörðu. Það mundi þó ekki saka, þó ein vissan bættist við hinar fyrri: vissan um varanleik þessarar hamingju.

Og Halla var hamingjusöm. Þessi ár voru heiðríkjudagarnir í lífi hennar. Hún fann yl ástar og velvildar leggja á sig frá mörgum augum, og hún fann mótstöðukraftinn í sjálfri sér til að standast einstöku köld augnaskeyti. Hún fann, að hún var blómálfur, sem gat búið hjá því blóminu, sem best þótti og fríðast. Hún fann, að hún var fiðrildi, gætt nægilega sterkum vængjum til að lyfta sér hátt til að baða sig í sumarhitanum og sunnangolunni og ljóma í geislaglitinu. Hún fann, að hún var huldudrottning, lík þeim, sem hún þekkti úr ævintýrum sínum; hún átti marga stóra og bjarta heima, fulla af dýrð og unaði, sem enginn fékk að skyggnast inn í nema hún sjálf, og sem hún gat horfið inn í, þegar hún vildi gera sig ósýnilega, og komið fram úr, þegar hún vildi birtast, eins og hinar huldurnar. Og loks fann hún, að hún var leikdrottningin í gleðilegum æskuleik, þar sem hópar af biðlum sveimuðu í kringum hana, horfðu til hennar vonaraugum, veittu henni eftirtekt við hvert spor, sendu henni mjúkar broskveðjur og blíð tillit, já, tilbáðu hana. - Þessar björtu hugsanir fylgdu henni til vinnunnar, léttu henni störfin, sem hún vann oft sem í hálfgerðum draumi, ötul, ósérhlífin og með bros á vörunum, gerðu ganginn léttan og svífandi, hreyfingarnar fagrar, eðlilega látlausar og frjálslegar, svo flestum var ánægja, að því að sjá hana við verk sitt. - Já, Halla var hamingjusöm.

- En Halla trúlofaðist ekki.

Það mátti einu gilda, þótt meðal þeirra manna, sem leist vel á hana, væru margir mestu efnispiltar, meira að segja synir efnuðustu bændanna, sem að vísu hefðu ekki hlotið þakklæti foreldra sinna fyrir að taka þannig "niður fyrir sig", en hefðu þó ef til vill ekki horft í það, hefði þess verið kostur, menn, sem flestum mundi hafa fundist vandi frá að vísa.

En Halla hugði alls ekki svo mjög á giftingu. Hún hafði yndi af saklausum ástasamdrætti, þar sem hugir mættust og hálfkveðnar vísur skildust. Hún fann, að hún gat skipt um kóngssoninn í töfrahöllum vökudrauma sinna. Það var alltaf einhver af þeim, sem hún þekkti, en sjaldan sá sami til lengdar. Það gerði hvorki henni né öðrum neitt til, það voru aðeins leikföng, sem hún átti sjálf og átti ein.

Hún fann, að hún gat leikið þessa saklausu æskuleiki upp aftur og aftur enn um langan tíma, og hvers vegna átti hún þá að binda sig?

Hún fann, hve létt sér veitti að tendra hjá piltunum þessa einkennilegu, ósjálfráðu óró, sem er undanfari ástarinnar, og hún gat dregið þá nær og nær, meðan þeir voru í því ástandi, eins og segulhamrarnir í ævintýrunum drógu að sér skipin, þegar seglunum varð ekki við komið.

Hún fann það vel, að þessir menn voru bundnir við hana með ósýnilegum böndum og gátu aðeins flögrað svo langt frá henni sem bandið náði.

Hún vissi, að það var mest undir henni komið, henni einni, hvenær þeir segðu hið þýðingarmikla orð, sem játaði tilfinningar þeirra og krafðist eindregins og bindandi svars.

En svo langt komst það aldrei. Það varð samdráttur, ástarþokki, augnabendingar og unaðsdraumar - en ekkert meira.

Þegar Halla sá, að þeim var orðið of heitt um hjartaræturnar, svo heitt, að þeir hlutu að fara að láta skríða til skarar, þá hafði hún jafnan lag á að kæla þá. Þeir voru leiksoppar í hennar höndum, og hún hafði unun af leiknum.

En þessi leikur var stallsystrum hennar að mestu dulinn og með öllu óskiljanlegur.

Þær voru gæddar sömu tilhneigingunni og viðleitnin gekk í sömu átt, en árangurinn var annar. Þær skildu ekkert í muninum á framkomu piltanna gagnvart Höllu og sér. Þeir voru að vísu glettnir við þær, kunningjalegir og gáskafullir. Þeir voru meira að segja allt of glettnir, stundum óhæverskir. Það var eins og þeir hefðu mest gaman af að særa sakleysi þeirra, koma þeim til að æpa upp yfir sig og blóðroðna, segja það, sem þeim fannst ósæmilegt, klípa þær og kitla, eða stelast að þeim, leggja handlegginn utan um mittið á þeim og kyssa þær - í leyfisleysi, og slíta svo kannski frá þeim svunturnar eða svipta sundur treyjubarminum í tuskinu, sem af þessu leiddi, og skellihlæja að öllu saman. Var það ekki von, að þeim sárnaði! Auðvitað var þetta gáski, en hann var allt of nærgöngull, næstum ósvífinn. - Samt var þeim ekki um það, að hann legðist niður!

En þegar þeim þótti úr hófi keyra, var það venjulega síðasta úrræðið að sletta því til þeirra, að þeir létu ekki svona við hana Höllu.

Og það hafði alltaf furðumikinn mátt til að þagga niður í þeim. Því hvernig sem á því stóð, þá var þeim aldrei eins uppsigað við Höllu eins og hinar stúlkurnar. Þeir voru stilltari í návist hennar og leyfðu sér ekki margt af því þá, sem þeir annars höfðu í frammi. Hún var hinum stúlkunum til verndar. Hún stríddi auk heldur piltunum miklu meira en þeir henni, já, storkaði þeim, svo þeir hefðu aldrei getað fyrirgefið neinni af hinum stúlkunum það.

Þær skildu ekki, hvernig í þessu lá, og áttu bágt með að átta sig á því, þegar einhver reynd, gömul kona deplaði til þeirra augunum og sagði drýgindalega, að þetta kæmi til af því, að Halla væri sú útvalda.

Þær freyddu af gremju yfir því með sjálfum sér, en þær fengu enga aðra úrlausn.

En þó fór auðvitað löngum svo, að þeim, sem lengi voru búnir að vera vonbiðlar Höllu og höfðu kennt frá henni yls og kælu til skiptis, leiddist loks biðin og þeir létu sér þá nægja með einhverja aðra. Þannig týndist einn og einn úr hópnum árlega.

En sú hamingjusama, sem altarið og hjónasængin nú blasti við, leit sigri hrósandi til Höllu: þarna hafði hún náð frá henni pilti, - þeim allra, allra vænsta!

Halla skildi kveðju brúðarefnisins, en skeytti henni ekkert. Hún leit fram hjá henni og framan í bóndaefnið, kuldalega og harðlega, eins og hún vildi segja: Vertu sæll, hróið mitt, og ég óska til hamingju. Það var rétt af þér að taka hana, því ég kærði mig ekki um þig!

Það bættist líka von bráðar í biðlahópinn hjá Höllu, svo hann minnkaði ekki að mun.

En það var mikið talað um Höllu í sveitinni og margir og misjafnir dómarnir um hana, en fæstir réttir, því flestir misskildu hana meira eða minna. Sumir sögðu, að hún væri kaldlynd og tilfinningalaus, aðrir að hún væri ófyrirgefanlega hviklynd og léttúðug, og enn aðrir að hún væri óþolandi sökum ofdrambs og sjálfsálits.

En allt slíkt tal var eins og sveimandi eimur; enginn gekkst við því, þegar á reyndi, og allir urðu að kannast við það að lokum, að þeir reyndar þekktu Höllu alls ekki neitt. Út á siðferði hennar var ekkert að setja, og gamlar skrafskjóður, sem höfðu sér það til yndis og framfæris að ganga bæ frá bæ og útbreiða sitt af hverju um náungann, voru alveg ráðalausar með Höllu. Þeim hafði með allri sinni lagni og allri sinni kænsku ekki tekist að komast nær innsta eðli hennar en öðrum. Allar þær sögur, sem þær höfðu sett saman um hana, höfðu oltið um sjálfar sig. Þær voru hættar að spá henni giftingu, eða eigna henni karlmann, því það hafði svo oft mistekist. Halla hafði leikið á þær, en þær ekki á hana.

Aðeins ein af húsmæðrum Höllu gaf nákvæmar gætur að öllum Freyjukatta-brellum hennar. Hún þekkti töfraþræði þá, sem þeir spinna um hjörtu ungra karlmanna, og hún kenndi í brjósti um þá, sem voru frá sér af ást til Höllu og hún aðeins hafði fyrir leikfang. Hún hafði ekki orð á þessu við aðra en hana sjálfa, og sagði við hana í einrúmi, blítt, en þó með aðvarandi alvöru: "Varaðu þig, Halla mín, þú leikur þér að logandi eldi!"

Halla varð hljóð við þessi orð. Það var satt; í oftrausti á hamingju sína lék hún sér að logandi eldi.


2. kafli

Það var því engin furða, þótt Ólafi sauðamanni litist vel á Höllu. Hann væri sjúkur af ást til hennar, og honum varð að því leyti fleiri góðra manna dæmi.

Hitt var meiri furða, og í því skildi enginn, að hann skyldi geta látið sér detta önnur eins flónska í hug eins og sú, að hann nokkurn tíma gæti látið Höllu lítast vel á sig.

En þetta datt nú Ólafi samt í hug, og hann var meira að segja furðuvongóður. Vonin var nú orðin nokkurra ára gömul, en það voru þó enn engin ellimörk á henni. Hún hafði fremur styrkst en veikst með aldrinum. Og þessi von var Ólafi bæði til gagns og yndis.

Ólafur var ekki í næsta miklu áliti í sveitinni. Hann þótti verkmaður minni en í meðallagi til flestra algengra verka, lingerður, seinn í snúningum og seinráður og langt frá því að vera laus við sérhlífni.

Hann fékk margsinnis að heyra því fleygt sér í nasir, að hann væri ekki kvensterkur; og ekki nóg með það. Hinar og aðrar gáskafullar vinnukonur létu hann beinlínis sanna það sjálfan á tilfinnanlega niðrandi hátt, ekki einungis með því að taka takið, sem hann gekk frá, heldur blátt áfram með því að espa hann í votta viðurvist, gera hann bálvondan, takast svo á við hann í fúlli alvöru og skella honum. Þetta var gamall leikur alls staðar, þar sem Ólafur var, og enginn meðalkvenmaður hikaði við að fást við hann, að því er krafta snerti.

Það kom fyrir, að Halla tók þátt í þessum leik, viðstöddum til mikillar skemmtunar. Hún vissi, að ekkert var í hættunni. Ólafur var bráðlyndur, en ekki langrækinn, allra síst við hana.

Ólafur hafði því ekki meira en meðalkaup, þar sem hann var í vistum, og það var ekki nema um há-bjargræðistímann, sem honum var ætluð vinna með öðrum hjúum, því annars var honum alls staðar ætlað sérstakt verk, sem sé að gæta sauða.

En það verk var honum vel lagið. Hann var sem skapaður fyrir sauðagæslu, einkum úti við, og í sveitum, þar sem beitt er á haglendi því nær allan veturinn og jarðbönn eru sjaldgæf, er það vel metinn kostur.

Ólafur var hverjum manni fjárgleggri, þekkti hverja skepnu af svip og lit og gaf þeim öllum nöfn. Hann mundi og utan að hvert mark í sveitinni og vissi um kyn hverrar skepnu, sem hann hafði undir höndum, þótt hann hefði oft 3-4 hundruð fjár að gæta. Af þessu leiddi, að hann kynntist einnig skapferli og þoli hverrar kindar og umgekkst féð með stakri nærgætni, sigaði ekki ógætilega á það hundum, en vandi það á að hlýða sér, er hann hóaði eða lét hundinn gjamma, og lét það jafnan síga hægt í hagann og úr honum aftur.

Það var því ekki allra meðfæri að taka við fjárgeymslu, þar sem Ólafur hafði verið árið áður.

Þessi fjárgæsla átti einkar vel við skapferli Ólafs. Þarna var hann sjálfráður og gat farið í hægðum sínum eins og hann vildi. Þarna var hann engu húsbóndaeftirliti háður; frá því hann var tekinn við fjárgeymslunni á haustin og þar til hann skilaði henni af sér um fráfærur á vorin, var hann einvaldur yfir henni.

Hann spurði aldrei húsbóndann ráða, og flestum þeim húsbændum, sem hann var hjá, lærðist það líka fljótt, að skipta sér sem minnst af því, sem honum annars var falið. Fénu leið vel, og það var aðalatriðið.

Ólafi leið líka vel, og aldrei betur en þegar hann var einn hjá kindunum. Honum leiddist ekki; honum stóð nokkurn veginn á sama um hvernig veðrið var, því þótt hann hefði ekki miklum manni að má, var hann samt fyrir löngu orðinn þaulvanur vosi og veðrabrigðum og þoldi manna best útistöður.

Hann kom sjaldan heim, og oft og einatt aldrei allan daginn frá morgni til kvölds, og þegar hann kom heim, stóð hann stutt við í einu.

Komið gat það fyrir, að húsbændur hans hreyfðu því, hvort brýn þörf mundi vera á því að vera yfir fénu allan daginn, þegar vel viðraði, og kváðust sárþurfa á mannsliði að halda, þótt ekki væri nema stund úr deginum.

En Ólafur eyddi því með hægð. Hann sagði, að fénu veitti ekki af manninum með sér, ef vel ætti að fara, og þuldi upp langa skrá yfir hættur, sem væru á vegi þess, svo sem uppætur, keldur, pytti, ár og læki, hengjur og ótrygga ísa, og ekki að gleyma bannsettri tófunni eða hundunum af hinum bæjunum, svo þeim blöskraði og leist best á að láta hann ráða.

Aftur kom það ósjaldan fyrir, að Ólafur sá sér fært að bregða sér frá fénu heim á aðra bæi og slóra þar góða stund eftir bita eða sopa, og eins var það ekki svo fjarri að vera heima kafla úr sunnudögunum, því þá var helgi og þá komu stundum gestir með vasaglas, einkum nú, síðan hann varð fjármaður á prestssetrinu.

En hvað um það. Ólafur stundaði fjármennskuna af allri prýði; um það bar öllum húsbændum hans saman.

Hann fann líka vel, að einmitt í þessu voru yfirburðir hans fólgnir, og réð sig ævinlega með því skilyrði, að hafa fjárgeymsluna á hendi. Hann fann til þess með talsverðri velþóknun, að hann hafði þýðingarmikla sérstöðu á heimilinu, þar sem honum var fyrir miklu trúað og þar sem hann deildi ekki við neinn.

Hann sá það vel, að margir litu á hann smáum augum og drógu dár að honum; þess vegna var best að vera sem minnst á vegi þeirra. En í fjármennskunni gat hann boðið hverjum manni út, þótt hann væri ekki "kvensterkur" og þótt gárungarnir hefðu gaman af að erta hann og reita hann til reiði. Hann gat betur verið án þeirra en þeir án hans.

Þannig varð Ólafur smátt og smátt einrænn og sérlundaður.

Hann var í ágætu skapi, þegar hann stóð hjá fénu, og talaði þá oft upphátt við sjálfan sig eða taldi saman og reiknaði fyrir munni sér. Hversdagshugsanir hans, sem hann þá hafði sér til stundastyttingar, voru ekki margbrotnar eða víðtækar, en þær höfðu þó furðanlegt lag á því að skipta um búninga því nær daglega og koma aftur og aftur með einhverri ofur lítilli gervisbreytingu.

Kindurnar voru lengsta og erfiðasta viðfangsefnið þeirra; stundum einnig framtíðarvonirnar og framtíðarhorfurnar, og nú á síðustu árum Halla.

Já, Halla, - hún var honum mikið og erfitt umhugsunarefni, næstum eins mikið og erfitt eins og allar kindurnar til samans! En hún var líka gleðilegasta og kærasta umhugsunarefnið hans.

Ólafur duldi hugsanir sínar og tilfinningar vandlega fyrir þeim, sem hann umgekkst daglega. Reynslan hafði kennt honum að treysta varlega einlægni manna, og ekkert sárnaði honum meira en að heyra trúnaðarmál sín hent á lofti og höfð til ertinga og athlægis. Hann vissi vel, að þær hugsanir, sem glöddu hann í einrúmi, höfðu lítil skilyrði fyrir því að verða öðrum til yndis, og þá var best, að hann nyti þeirra einn. Hversu fátæklegar sem þær voru, þá voru þær þó börn hans eigin sálar.

Eigi að síður höfðu margir einhvern grun um það, að hann hugsaði æði mikið um Höllu, og gáfu honum það í skyn á ýmsan hátt, þótt gætilega færu, en leituðu jafnframt lags um að komast eftir meiru um hugarfar hans, með því að tala um hana við hann og gylla fyrir honum á ýmsar lundir, ef hægt væri að koma honum til að biðja hennar, því þá fyrst hefði þeim verið skemmt! En Ólafur sá við þessu. Honum þótti að vísu vænt um að heyra vel talað um Höllu, en hvað bónorðið snerti, gekk hann sínar eigin götur.

Ólafur var í raun og veru geðbesti maður, alltaf ánægður með lífið og sjálfan sig, og þótt hann sneiddi fremur hjá öðrum og firrtist fjölmenni, var það sjaldnast af fýlu eða kala, heldur miklu fremur til þess að forðast allt það, sem raskað gæti jafnvæginu í skapi hans.

Hann leitaði ekki á neinn að fyrra bragði og vildi líka vera laus við glettur og áleitni annarra. Hvers vegna mátti hann ekki vera í friði? Hvað kom það öðrum við, hvort hann var heimskur eða ekki "kvensterkur" eða ekki, eða hvort hann hugsaði um Höllu eða einhverja aðra, o.s.frv. Þessi afskiptasemi annarra af því, sem honum einum kom við, gerði honum svo gramt í geði, að hann sveifst einskis til þess að reyna að venja menn af því, en hitti þó aldrei á það ráðið, sem líklega hefði best gefist, að taka ertninni með þolinmæði og jafnaðargeði.

En einmitt það, að sjá Ólaf umhverfast, verða bálöskuvondan, líkari mannýgum tudda en manni - það var æðsta unun þeirra, sem stríddu honum. Þess vegna var tíminn milli fráfærna og gangna sannur píslartími fyrir hann, og á engjunum gekk leikurinn oft svo úr hófi, að húsbændurnir neyddust til að láta til sín taka.

Ytra útlit Ólafs átti drjúgan þátt í þessu. Hann var flestum mönnum óásjálegri. Hann var fremur lítill vexti og samsvaraði sér illa. Búkurinn var of langur í hlutfalli við aðra líkamshluta, bakið bogið og lendarnar hoknar. Handleggirnir voru langir, en linir og vöðvalitlir; höfðu aldrei við mikið erfiði fengist og sýndust best til þess fallnir að slettast aðgerðarlausir fram og aftur með síðunum eða krossleggjast á bakinu. Skrefið var stutt, en fæturnir stórir og bognir inn á við, og þegar þeir voru klæddir í stóra og stagbætta hrossleðursskó og skinnleista, sem reyrðir voru að leggnum fyrir neðan hné, en brettu út börmunum fyrir ofan bindinginn, svo þeir stóðu í allar áttir og voru jafnan glerharðir og skrjáfuðu við - og þannig voru þeir oftast til fara - þá varð það varla sagt, að fótabúnaðurinn væri tiltakanlega fríður eða fimlegur.

Þó voru þeir ekki margir, sem treystu sér til að skopast að vaxtarsvip Ólafs og búningi hans, því betur að gáð hafði það allmörg þjóðerniseinkenni og útlit þeirra, sem mannborlegri voru og betur limaðir, hneigðist allt of mjög í sömu áttina. Hann var að þessu leyti steyptur í gamalkunnu móti, og væri skopast að honum fyrir þetta, var hætt við, að fleirum yrði kinnroði gerður. Ólafur hefði því sloppið mun betur hjá hæðni manna, hefði andlitssvipurinn verið fríður og nær um að bæta nokkuð upp vaxtarlýtin.

En þessu var ekki þann veg farið. Ólafur var fremur ófríður ásýndum. Nefið var breitt og nokkuð flatt, munnurinn víður og hakan fremur lítil, ennið lágt og breitt og andlitið allt sviplítið. Hörundið var brúnt og veðurbitið og Ólafur var sjaldan hreinn í framan. Hár og skegg prýddu heldur ekki mikið; hárið var ljóst, en oftast ógreitt, og skeggið ekki annað en hýjungur.

Andlitið hefði þó samt sem áður ekki verið svo næsta óviðfelldið, hefði það ekki haft lýti, sem enn eru ótalin, en flestir tóku fyrr eftir en andlitsfallinu að öðru leyti, en það voru augun, eða réttara sagt augnaumgerðin, einkum augnalokin. Þau voru allt of stór og héngu eins og pokar, lin og læpuleg, niður á augun og skýldu þeim meira en til hálfs, svo ekki sá til augnanna sjálfra, nema í ofurlítilli rifu. Það var engu líkara en að Ólafur væri sísyfjaður, og upplitið var jafnan ódjarflegt og kindarlegt. Þetta var því meiri skaði fyrir hann, sem augun höfðu margt að geyma og mundu hafa dregið að sér eftirtekt margra, hefði nokkurn tíma séð í þau. Þetta gaf tilefni til ýmsra hrópyrða og uppnefna, sem Ólafi sárnaði. En ekkert af þeim festist þó við hann, því allir sáu, að honum voru þessi lýti ósjálfráð. Hann hélt því áfram að heita Ólafur sauðamaður eða Sauða-Láfi, og það tók hann sér aldrei nærri.

Sjálfur hafði hann mikla raun af þessum síðu augnalokum og gerði sér mikið far um að venja þau af því að hanga þannig niður á augun. En árangurinn varð aðeins sá, að brýnnar brettust upp og augnaumgerðin varð enn fáránlegri við áreynsluna. Og þegar Ólafur rölti kringum kindur sínar, álútur, með hendurnar á bakinu og tautaði fyrir munni sér, þá varð honum það sjaldan á að líta annað en niður á tærnar á sér, og þá höfðu augnalokin nægan frið til að liggja eins og þeim líkaði.

En að bregða Ólafi um það, að hann væri sísyfjaður í raun og veru, náði engri átt. Það hefði legið nær að segja, að hann væri aldrei syfjaður, enginn maður var árrisulli og svefnléttari; það var líkast því, sem ljósgráu augun með svarta dílnum í miðjunni, sem skotruðu undan síðu augnalokunum, væru raunar sívakandi og þyrftu ótrúlega lítið að sofa.

Ólafur var lítið meira en þrítugur að aldri, en leit þó út fyrir að vera nokkuð eldri. Margvísleg veður höfðu alla hans ævi haft næg tækifæri til að leika um andlit hans, og stormurinn og hríðin höfðu oft engum blíðutökum beitt. Það var ekki sjaldgæft á veturna að sjá hann koma heim með grímu af samanbörðum snjó og klaka fyrir því nær öllu andlitinu, sem skegghýjungurinn og hárið var frosið saman við, svo aðeins voru holur fyrir vitunum. En Ólafur brá sér hvergi við það. Það lá aldrei betur á honum en á meðan hann var að þíða og reyta af sér klakakleprana, án þess að slíta allt of mörg hár með, því þeir báru honum vitni um, að hann hefði staðið sig á við hina þann daginn.

Og næsta morgun á eftir, meðan allir steinsváfu og hrutu í baðstofunni, meðan kolsvarta myrkur var úti og inni og skeflt í öllum gluggum, þá klæddi Ólafur sig hljóðlega og fálmaði sig fram og út - út í hríðina, frostið og fannirnar, til að vitja kinda sinna.


Þau Ólafur og Halla höfðu verið nágrannar um nokkur ár og þannig haft tækifæri til að sjást og kynnast hvort öðru. Hann hafði einnig verið alltíður gestur á bænum, þar sem hún var seinast, án þess nokkur vissi aðra orsök til þess en þá, að honum yrði tíðreikað frá fénu, og til þess tók enginn. Engum hafði þá komið til hugar, að Ólafur "gengi á biðilsbýfum", nema ef til vill Höllu.

En þegar hér var komið sögunni, voru þau samtíða á prestssetrinu. Hún var þar vinnukona, og hann sauðamaður að vanda.

Hann hafði komist að því eitt vor, að hún var vistráðin þangað. Hann var þá enn ekki búinn að ráða sig til næsta árs; þess þótti sjaldan við þurfa fyrr en í síðustu lög, þegar húsbændur og hjú þóttust hvort í sínu lagi viss um, að engar breytingar væru í vændum. Ólafur notaði sér þessar haganlegu kringumstæður til að koma sér í vist hjá prestinum, sem tók því tveim höndum að fá annan eins fjármann. En gamla húsbóndanum kom þessi ráðabreytni nokkuð á óvart, þegar hann komst að henni nokkru fyrir krossmessuna.

Ólafur hélt, eins og fleiri, að saman mundi draga með sér og Höllu við daglega viðkynningu og samvist á heimilinu. Það var nú heldur ekki ólíklegt. En tvö ár voru þau nú samt búin að vera þarna saman, án þess sýnilegt væri að þau væru nokkra vitund nær því að verða hjón en þegar þau byrjuðu.

Ólafur hugsaði löngum um Höllu sína, þegar hann stóð yfir fénu uppi í högunum. Hann útmálaði fyrir sér með mörgum og ljósum litum þá hamingju, sem hann yrði aðnjótandi, ef hann fengi hennar. Hann vissi um marga af kostum hennar, þótt hann hefði ekki auga fyrir þeim öllum. Hann vissi, að hún var greind og glaðlynd og að hún kunni margt skemmtilegt og var fróð um margt. En einn var þó sá kostur hennar öðrum fremur, sem hann gat ekki hrundið úr huga sér, og hann var sá, hvílíkt búkonuefni hún væri.

Hann sá, eins og fleiri, að Halla hlífði sér ekki og var sívinnandi, að hún var hraustbyggð og hafði næstum karlmannskrafta, þótt hún væri smá vexti. Hann sá líka, að hún hafði lag á að ganga þriflega til fara, var sparsöm og nýtin og gerði sér furðanlega mikið úr litlu, og það þótti honum vænt um, því hann var sjálfur hneigður til sparnaðar.

Hann hafði að vísu ekki ljósa hugmynd um sínar eigin kröfur til kvenlegrar fegurðar, en hann heyrði öllum bera saman um það, að Halla væri lagleg stúlka. Og hann trúði því, að svo væri, án þess að gera sér frekari grein fyrir því. Hann hafði heldur engin lýti á henni séð; enda mundi honum síðast af öllum hafa komið til hugar að bera á móti, að hún væri fríð stúlka. Að öllu þessu athuguðu komst hann að sömu niðurstöðu og fleiri, að Halla væri ákjósanlegasta konuefni.

En jafnframt duldist Ólafi það ekki, að hann var ekki sá einasti, sem felldi hug til Höllu, og ekki heldur hitt, að hann stóð flestum eða öllum keppinautum sínum að baki í öllu því, er gengur í augun á ungum stúlkum. Hann var ekki fríður; hann þufti ekki annað en að líta ofan í lygnan leirpoll til að sjá það; og hann var ekki heldur sterkur, fimur eða mannborlegur á við hina, lítið reyndur að öðru en fjármennsku og ógjarn á að halda sér til eða láta bera mikið á sér í fjölmenni, og orðfár og sérlundaður, svo margir misskildu hann.

Hann treysti þó Höllu til að gera það ekki. En honum sárnaði þó enn þá meira, þegar honum var strítt að henni viðstaddri, og þó mest af öllu, þegar hún gerði það sjálf. En svo leit hún svo hýrt, svo innilega hýrt til hans skömmu á eftir, að honum var öllum lokið. Hann var þá ekki í neinum efa um það framar, að ertnin hennar var ekki af öðru en græskulausum gáska.

Eina ráðið, sem Ólafur fann til þess að komast fram úr keppinautum sínum og vinna hylli Höllu fremur en þeir, var það, að safna peningum. Hann vissi vel, að það gerðu fæstir hinna yngri manna, og því fór oft illa fyrir þeim þegar á hinum fyrstu búskaparárunum. Og Halla væri þá ekki eins skynsöm stúlka eins og bæði hann og fleiri höfðu ætlað, ef hún kynni ekki að meta fyrirhyggjuna.

Hann gerði sér því allt far um að komast yfir peninga og geyma þá. Hann heimtaði kaup sitt í peningum, að svo miklu leyti, sem unnt var að fá það þannig vegna nauðsynlegra fata og kindafóðra, og tók peninga í kaupstaðnum út á allt það, sem hann lagði inn. Hann seldi allt fyrir peninga, sem hann gat við sig losað, og safnaði öllu saman í kistuhandraðann sinn.

Þar lágu langar raðir af ríkisdölum og spesíum, einkum spesíum - því þetta var á efstu árum spesíumyntarinnar -. Þær risu þar á rönd og hölluðust hver að annarri, hlemmstórar og spegilfagrar, daglega taldar og daglega séðar með ást og ánægju, og daglega hagrætt í handraðanum, eins og brothættum eggjum.

Og það voru Ólafs kærustu og vonglöðustu stundir, þegar hann gat kallað á Höllu, svo lítið bæri á, fram í bæjardyraloft, þar sem kistan hans stóð, og sýnt henni ofan í handraðann. Ánægjan skein út úr honum, þegar hann heyrði hana dást að því, hvað hann væri sparsamur og iðinn að safna - og svo tillitið, sem hún sendi honum um leið! Nei, hann var ekki í efa um, að þessi aðferð var sú eina hyggilega, og svo hélt hann áfram.

En það komst þó aldrei svo langt, að hann bæði Höllu. Honum bjó það stöðugt í hug, hvenær sem þau voru ein saman, og það lá við stundum, að hann væri byrjaður á því. En það var eins og Halla sæi það á honum, og þá varð hún allt í einu önnur og svo kuldaleg, að honum féll allur ketill í eld, eða þá að hún mátti ómögulega tefja lengur, og fór þá frá honum.

Og þegar hann stóð úti í hríðum og frostum og hélt á sér hita með því að berja sér, þá hvarflaði hugurinn, sjúkur af afbrýði, heim í bæinn til Höllu. Ef til vill voru nú meðbiðlar hans að gera sér dælt við hana! Hláturinn hennar ómaði fyrir eyrum hans, eins og hann heyrði hann skammt frá sér! Þessar hugsanir voru honum til daglangrar kvalar, því hann þoldi ekki, að nokkur annar karlmaður gerðist henni of nærgöngull og hverfði ef til vill huga hennar frá sér og spesíunum. Og honum brann hugur í brjósti, þegar hann heyrði hana hlæja við einhverjum öðrum. En hann vissi þó, hve hætt var við þessu; og hann hefði glaður viljað gefa nokkrar spesíur fyrir að geta verið henni ósýnilega nálægur allan daginn.

Hann lagði margsinnis niður fyrir sér í huganum, hvað hann ætlaði sér að gera, ef Halla brygðist vonum hans og tæki einhvern af meðbiðlum hans. Hann ætlaði að grafa þessa ögn af peningum, sem hann ætti, niður í jörð, þar sem hann var viss um, að enginn fyndi þá, og svo ætlaði hann að reka féð upp í Beitihaga sama morguninn sem hún gifti sig, eins og ekkert væri um að vera, en - þar ætlaði hann að skera sig á háls!

En tilefnið til jafnsögulegs atburðar dróst þó, sem betur fór. - - -

En Höllu var innilega skemmt með allri þessari viðleitni Ólafs til að ná hylli hennar; hún furðaði sig að vísu á því, jafnvel meira en aðrir, að honum skyldi koma til hugar, að hún vildi líta við honum í fullri alvöru.

Þó gat ekki komið til nokkurra mála að segja honum það sjálfum eða láta hann verða þess áskynja að svo stöddu. Hún mundi sakna hans, ef hann hætti að draga sig eftir henni, og skarð hans í hóp þeirra manna, sem gerðu það sama, yrði seint fyllt. Þar að auki hafði Ólafur ekki annað en gott af því að safna peningum!


3. kafli

En einn vetur kom fyrir atburður á prestssetrinu, sem gerði þar mikla breytingu og hafði mikil áhrif á allt heimilisfólkið. Gamli presturinn, sem hafði þjónað þar í fjöldamörg ár, andaðist skömmu eftir nýárið.

Hann varð öllum harmdauður, bæði á heimilinu og í sveitinni. Hann hafði haft hvers manns hylli og haft flesta þá kosti til að bera, sem gera prest vel þokkaðan hjá söfnuði sínum. Þrátt fyrir langa sambúð við söfnuðinn var þó enginn þar, sem bar kala til hans.

Hann hafði aldrei verið eftirgangssamur með tekjurnar sínar, oft látið sér á sama standa, hvort hann fékk þær eða ekki, aldrei gert neina rellu út af landamerkjum kirkjunnar, rekanum hennar eða öðrum hlunnindum, og lofað öllu slíku að vera eins og það kom sér best. Hann bjó aðeins á prestssetrinu eins og meinleysis-bóndi, við heldur rýr efni, klakti upp börnum sínum, gerði þeim gott, sem að garði bar, og bar hluta af sveitarbyrðinni - eða réttara sagt, lét konuna sína gera þetta allt saman, nema prestsverkin.

Kennimaður hafði hann verið "svona eins og gerist", og hinar og aðrar klausur úr ræðunum hans gengu eins og skrýtlur um sveitina, og gárungarnir höfðu einstakt yndi af því í sinn hóp að tóna eftir honum.

En svo hafði hann verið prófastur um nokkur ár, og öll sveitin var honum þakklát fyrir þann heiður, sem hann þannig hafði veitt henni. Því þótt ekki sé meira en það, þá þykir það þó vegsauki fyrir hverja sveit sem er, að prestssetrið þar sé prófastssetur, því þá standa nágrannaprestssetrin skör lægra. En hann var þó hættur að vera það fyrir nokkrum árum, og prófastsvirðingin flutt til næstu sveitar.

Nú var hann "lagstur á bakið" fyrir fullt og allt. Andlátsfregn hans hafði snert allan söfnuðinn með viðkvæmni; það var þó gamall góðkunningi og gæðamaður, sem þarna var borinn til hinnar hinstu hvíldar. Syndir hans voru gleymdar og gæsku hans á lofti haldið, nafn hans var nefnt með lotningu og enginn dirfðist að tóna eftir honum né skopast að ræðunum hans. Fjöldi fólks fylgdi honum til grafar og stóð hljóður og höfði drepandi með dæmalausu þolgæði undir langri, langri lofræðu, sem prófasturinn hélt um kærleika hans og kristilegu og kennimannlegu dyggðir - og andaði létt, þegar hann loksins sagði amen. -

Ekkjan hélt búinu áfram, og nágrannaprestarnir messuðu við og við, svo allt gekk að því leyti sinn gamla gang, - og tilvera þjóðkirkjunnar á þessum hala veraldar gleymdist ekki alveg.

Vinnufólkið var allt vistráðið til næsta árs; þar á meðal þau Ólafur og Halla.


Íhlutun um veitingu brauða var á þeim árum ekki orðið hlutskipti safnaðanna. Hin hágöfuga kirkjustjórn, sem sat á rökstólum sínum suður í Reykjavík, áleit sig í sannleika einfæra um annað eins smáræði eins og það, að sjá fáeinum sauðmorauðum alþýðusálum í mögru útskagaprestakalli fyrir viðunanlegum hirði.

Menn voru heldur ekkert ólmir eftir þessum brauðbita, svo það var ekki úr mörgum að velja; fram yfir fardaga hafði alls enginn gefið sig fram. Þá var umsóknarfresturinn lengdur, en það kom fyrir ekki. Og ef til vill hefir þessi tregða prestanna á því að sækja verið aðalorsökin til þess, að nýbökuðum guðfræðingi frá prestaskólanum í Reykjavík var veitt brauðið.

Síra Halldór - sem nú átti að verða - var sonur góðkunnugs embættismanns til sveita, en hafði nú alið aldur sinn í Reykjavík um mörg ár, öll sín skólaár því nær óslitin, svo hann var orðinn sannur fóstursonur höfuðstaðarins; enda hafði kaupstaðarlífið óefað meira mótað líf hans og hugsunarhátt en sveitalífið.

Hann var myndarmaður ásýndum, og það var flestra kunnugra manna álit, að þótt skólavist hans væri nú orðin óþarflega löng, fyrst í lærðaskólanum og síðan í prestaskólanum, þá væri það ekki gáfnaskorti að kenna; enda er það engin nýjung í Reykjavík, og hefir aldrei verið, að glaðsinna unglingum sækist seint námið, svo ekki er vant að taka til þess. Þar við bættist, að menn vissu um ýmislegt, sem á daga hans hafði drifið og eðlilega hafði truflandi áhrif á lesturinn, þar á meðal óvanalega langætt ástarævintýr, sem hafði þann sjaldgæfa enda, að Halldór prestsefni staðfesti ráð sitt með hylli og samþykki vina og vandamanna beggja aðila, meðan enn þá var að minnsta kosti ár eftir af prestaskólavistinni.

En um þetta var auðvitað ekkert að segja; og hafi einhverjar frekari ástæður flýtt hjónabandinu en hin algenga þrá elskendanna til að vera saman og njótast og fá ást sína vígða og innsiglaða af kirkju og háyfirvöldum, - þá voru það þær ástæður, sem fáum komu við og ekki þótti sæmandi að spyrja um, allra síst upphátt.

Konan var barnung kaupmannsdóttir, að vísu ekki af efnuðu fólki komin, en þó viðunanlega á vegi stöddu og virðingarverðu í alla staði. Hún hélt að mestu leyti áfram að vera undir vernd og umsjá foreldra sinna, þrátt fyrir giftinguna; enda voru efni ungu hjónanna til búskapar auðvitað af skornum skammti, og aukaatvinna prestaskólanemenda þess eðlis, að litlar voru líkur til, að hún gæfi mikið af sér. Þar að auki átti Halldór erfitt með það, að minnsta kosti fyrst í stað, að una helgu og hófsömu hjúskaparlífi, einkum þar sem margt gamalkært og gamalkunnugt glapti og freistaði til nautnar.

Það var því mikil og óvænt heppni fyrir hann, og til mikillar gleði fyrir þá, sem báru hag hans fyrir brjósti, að hann þegar eftir prófið fékk prestakall, þótt rýrt væri og langt norður í landi. - - -

Þótt hjúskaparlíf Halldórs prestsefnis hefði ekki staðið lengi, var það langt frá því skuggalaust. Elín hans var að vísu góð og blíð kona, og hann var ekki í efa um, að henni þætti vænt um sig. En hún var kjarklítil og ósjálfstæð, og eins og öllum atvikum hagaði nú, var hún enn þá ekki annað en hlýðin dóttir foreldra sinna - enn þá barnslega auðmjúkari nú, vegna undangenginnar óhlýðni og óvarfærni í ástamálum sínum, sem ekki hafði verið gleymt að áminna fyrir. Þeirra vilji var hennar vilji og þeirra ráð hennar ráð. Þetta kom sér því verr, sem þeim Halldóri og tengdaforeldrum hans kom saman um fátt, og leyndi sér það ekki við mörg tækifæri, að þau voru ekki sem ánægðust með tengdasoninn, þótt við hann yrði nú að una, og ef til vill hafa þau ætlað dóttur sinni gjaforð úr sinni eigin stétt.

Þeim fannst því heyra til, að þau litu eftir öllu um hagi dóttur sinnar, meðan þau næðu til; og Elín hafði þá ekki meira traust á dugnaði og hagsýni manns síns en svo, að hún lét sér þetta einkar vel líka.

Halldóri fannst þetta líkara því, að hann væri giftur tengdaforeldrum sínum en dóttur þeirra, einkum þó tengdamóður sinni, geðríkri og fasmikilli kaupmannskonu af litlum ættum, sem mikið fannst til um núverandi frúarstöðu sína.

Þetta þyngdi því fremur skap hans, sem þessi göfuglynda tengdamóðir sparaði ekki að láta hann sjá það og finna við hvert tækifæri, hve innilega hún liti niður á hann og hve átakanlega dóttir sín þyrfti verndar sinnar við. Þennan hugsunarhátt reyndi hún líka af fremsta megni að innræta dóttur sinni, og tókst það vonum betur.

Þetta kældi til muna allan innileik milli ungu hjónanna; og þótt Halldór raunar vonaði, að konan sín mundi breytast og fá meira traust á sér, þegar hún væri komin undan beinum áhrifum móður sinnar, þá var honum það þó stöðugt kvíðaefni, að hún mundi líkjast móður sinni meira en hann óskaði, er hún eltist og harðnaði í skapi. -

Halldóri var veitt prestakallið frá síðastliðnum fardögum að telja, en hann gat ekki fengið prestsvígslu fyrr en seint í ágústmánuði.

Prestsvígslan var hátíðleg og áhrifamikil stund fyrir hann, því foreldrar hans komu til höfuðstaðarins og voru viðstödd, og tengdaforeldrar hans tóku athöfninni með miklum fögnuði á sína vísu, því þennan daginn var sem þeim fyndist hann þó vera "einn af ættinni", þótt þeim sjaldan skildist það endranær.

En glöðust af öllum var þó Elín hans litla, sem alveg gleymdi að gefa gaum að aðvarandi augnatilliti móður sinnar, en hljóp klökk af fögnuði upp um hálsinn á manninum sínum, sem nú var orðinn prestur!

Þótt á væri liðið sumarið, varð síra Halldór þegar að fara til embættis síns. En þá er til þess kom að afráða, hvort konan skyldi þá þegar fara með honum, aftóku foreldrar hennar það með öllu.

Samgöngur á sjó og landi voru þá ekki komnar í það horf, sem við, sem nú lifum, höfum átt að venjast nú um nokkur ár. Og þótt okkur finnist enn mörgu ábótavant í því efni, þá ber þó ekki að gleyma því, að það hefir verið verra.

Það var líka gild hindrun fyrir hina ungu prestskonu, að barn þeirra var enn þá ekki ársgamalt, og varhugavert að leggja með það í langferð.

Það varð því að ráði, að Elín yrði eftir hjá foreldrum sínum um veturinn, og að maður hennar sækti hana sumarið eftir og veldi til þess besta tíma ársins til allra ferðalaga, fyrri part sumarsins.

Halldór var borinn atkvæðum um þetta mál, eins og oftar. Hann óttaðist, að þessi langi fjarvistartími sinn yrði notaður bæði til þess að láta Elínu gjalda sín á ýmsan hátt, og þó enn þá fremur til að gera hana sem fráhverfasta sér. Hvort tveggja féll honum þungt. Elín leit aftur á móti svo á, að þannig hlyti þessu máli að vera best til lykta ráðið, úr því það væri samhuga vilji foreldra sinna, og samþykkti vilja þeirra að vanda. En sárt féll henni skilnaðurinn, þegar hún kvaddi mann sinn, og átti ekki að sjá hann aftur í næstum heilt ár.

Svo lagði Halldór af stað landveg og varð pósti samferða, og hafði það eitt með sér af eigum sínum, sem hann síst af öllu mátti án vera.

Þegar hann síðast sá höfuðstaðinn hverfa, var sem strengur brysti í brjósti hans. Skilnaðurinn við Reykjavík, með öllu því, sem hún bjó yfir, gömlu og nýju, var honum þyngri en allt annað. Hann klökknaði, og hefði einhver yrt á hann þá, hefði hann ekki getað svarað.


Síra Halldór þekkti engan mann í prestakalli sínu og hafði því ekki til margra að snúa sér, þegar hann kom þangað. Hann heimsótti að vísu helstu bændur í sókninni, og þótt þeir tækju honum með allri alúð, þá tóku þeir honum þó sem alókunnugum manni.

Honum leist þó hvergi svo á bæi þeirra, að hann færi fram á að fá þar veturvist. Hann hafði því ekki annars úrkosta en koma sér fyrir á prestssetrinu, þar til hann tæki þar sjálfur við búi og staðarforráðum.

Honum var að vísu veitt brauðið frá síðustu fardögum að telja, en nú voru dagar komnir að hausti, menn búnir að afla sér heyja og annars bjargræðis og sá tími ársins fyrir hendi, þegar fæstir hyggja á flutninga af einni jörð á aðra.

Það kom því ekki til mála, að prestsekkjan gamla flytti burtu af prestssetrinu fyrr en í næstu fardögum, og samdist svo með þeim, síra Halldóri og henni, að hún skyldi gjalda honum leigur og landsskuld af jörðinni fyrir þetta yfirstandandi fardagaár, en svo skyldi hann kaupa af henni fæði, húsnæði og þjónustu og búa á prestssetrinu sem einhleypur maður.

Eftir að þessi atriði voru leidd til samkomulags, höfðu þau, síra Halldór og prestsekkjan, ekki næsta mikið saman að sælda.

Hún hafði verið rausnarkona allan sinn búskap og farið mikið orð af henni sem dugnaðar- og sómakonu og góðri húsmóður, en ætíð hafði hún verið orðfá og ómannblendin og þurrleg í framgöngu; líkaði mörgum það miður og kenndu um stíflyndi og stórmennsku. Nú var hún orðin öldruð kona, og með aldrinum hafði fálæti hennar heldur farið vaxandi en minnkandi, einkum við ókunnuga menn.

Hún umgekkst því hinn nýja prest mjög kuldalega og fálega.

Átti það og nokkurn þátt í fáleika hennar, að hún sá nú fram á, að það var óhjákvæmilegt, að hún yrði að flytja burt af prestssetrinu, en þar hafði hún lifað blómaár ævi sinnar með manni sínum og börnum, og hafði margs að minnast, svo hver einasti blettur þar var orðinn henni kær, og kveið hún fyrir að þurfa að slíta sig frá því öllu.

Og þótt ekkert vit væri í því að kenna unga prestinum um þetta eða láta hann gjalda þess, þá fannst henni þó þessar raunalegu hugsanir sínar vekjast meira upp, er hún sá hann, eins og þær væru að meira eða minna leyti við hann tengdar. Þess vegna sneiddi hún hjá honum.

Það var líka vandalítið, þar sem ekkjan hélt sig mest inni í herbergi sínu í öðrum enda baðstofunnar, en prestinum var fengin stofan til íbúðar, sem lá frammi í bænum og sneri gaflinum fram á hlaðið, og honum fært þangað allt, sem hann þurfti með og hægt var í té að láta.

Gömlu prestsekkjunni var þó annt um, að allt það, sem henni bar að gera fyrir prestinn, færi sem best og sómasamlegast úr hendi, og fyrir því valdi hún þá af vinnukonum sínum, sem hún treysti best og sem röskust var og handlögnust, til þess að vera þjónustustúlka prestsins og sjá honum fyrir öllum beina, og skyldi það ganga fyrir öllum öðrum störfum hennar.

Og fyrir þessu vali varð Halla.


Eins og nærri má geta, varð uppi fótur og fit í sveitinni, þegar það fréttist, að nýr prestur væri kominn.

Hann hafði enn þá komið á mjög fáa bæi, og fáir höfðu haft tækifæri til að sjá hann.

En þeim mun meiri varð forvitni manna og því meiri þorstinn eftir að sjá hann og heyra eitthvað af honum. Og svo var ekki talað um annað en hann í allri sveitinni um langan tíma.

Hann var ungur maður, fríður sýnum, - það var ekki lengi að berast út. En svo komu fleiri atriði til greina, og flestir girntust að vita eitthvað meira um sálusorgara sinn.

Var hann góður kennimaður? Skyldi hann tóna vel? Var hann efnaður eða fátækur? Var hann líklegur til að verða búsýslumaður og góður bóndi og húsbóndi? Var hann giftur? eða trúlofaður? - eða gat einhver í sveitinni átt von á tengdum? - því "útsprungin rós var þar ekki svo fá". - Var hann gleðimaður og gestrisinn? Þótti honum gott í staupinu? o.s.frv.

Sín spurningin lá hverjum á hjarta. Svörin voru mörg og ósamhljóða, svo á þeim var lítið að græða. Tíminn svaraði þeim öllum smátt og smátt, hiklaust og ótvírætt; en tíminn er seinn til svars og lætur ekki vaða ofan í sig.

En skrafið hélt áfram um alla sveitina, og menn gerðu sér ferðir heim á prestssetrið í hinum ótrúlegustu erindum, til að reyna að verða einhvers vísari um prestinn.

Eldri bændur, sem eitthvað áttu undir sér, gerðu sig þá auðvitað heimakomna og gengu rakleitt inn í stofuna til hans, þótt lítið væri um erindi, til þess að heilsa upp á hann og spjalla við hann um stund.

En smábændur og vinnumenn urðu að láta sér nægja það af honum, sem þeir fengu að sjá inn um stofugluggana.

Áfjáðast var þó kvenfólkið, en jafnframt fengsælast. Það snuðraði upp hverja rifu og hvern þilbrest á stofunni - og þeir voru margir - til að geta lagt þar við augað og horft á prestinn án þess hann yrði þess var. Þótti þeim meira að segja til vinnandi að troða sér inn á milli þils og veggjar fyrir annað eins! - En heppnastar töldu þær sig þó, sem komu sér svo vel við Höllu, að þær fengu að koma inn í ganginn, sem lá bak við stofuna. Þar var raunar ekkert annað en stiginn upp á loftið uppi yfir stofunni, þar sem gamla prestskonan geymdi kaupstaðarvörur sínar og enginn gekk um, nema hún og Halla.

Á milli gangsins og stofunnar var einfalt þil úr fléttum og hefluðum rekavið, ekki plægt og nú orðið mjög gisið. Á þilinu var gluggi, eða réttara sagt ferstrent gat, svo birtu skyldi leggja úr stofunni fram á ganginn; auðvitað var ófært að gægjast í gegnum gatið, því þá sást andlitið innan úr stofunni. En rifurnar voru líka eins góðar; einkum þær sem mýsnar með frábærri elju höfðu víkkað út niður við gólfið.

Og vesalings presturinn vissi oftast lítið af því, þegar hann sat yfir bókum sínum og skriftum, að forvitin, ósýnileg augu hvíldu á honum úr hverri rifu, sem reyndu með fádæma græðgi að lesa út úr honum alls konar fróðleik um sjálfan hann og hagi hans og spá í svip hans um framtíð hans og forlög. - -

Þessi forvitni fólksins fékk þó ofurlitla svölun, þegar presturinn var "settur inn á brauðið", sem kallað er.

Þá vissu menn, að messa mundi ekki bregðast, og þá gat heldur ekki hjá því farið, að menn fengju að sjá nýja prestinn og heyra til hans. Og því var ráð að nota tækifærið.

Þar að auki var von á prófastinum í embættisnafni, svo fleira en eitt bar til þess, að vert var að vera viðstaddur þessa merkisathöfn.

Síðan kirkjan var byggð, hafði það aldrei komið fyrir, að hún hefði ekki rúm fyrir þá, sem þangað sóttu; en í þetta skipti reyndist hún þó allt of lítil, og urðu þó margir að verða eftir heima hjá sér, sem fegnir vildu fara.

Guðsþjónustan var aumkunarleg. - Það er ætíð aumkunarlegt að vita menn vera neydda til að gera það, embættisskyldu sinnar vegna, sem þeir alls ekki geta, og sem þeir fráleitt létu sér koma til hugar að gera, ef ekki væri um lífsatvinnu þeirra að tefla.

Þetta var í fyrsta sinni, sem síra Halldór þurfti að annast öll prestsverk fyrir altarinu, frammi fyrir fjölda ókunnugs fólks. Hann vissi það vel, að hann var enginn raddmaður, og bar svo mikið skyn á sönglist, að hann gat því nærri, hvernig sér mundi farast þetta hákristilega hlutverk úr hendi. En hjá því varð nú ekki komist.

Honum hafði oft komið í hug að hætta við að verða prestur, meðal annars vegna þessa andlega "sóló"-söngs, sem hann hafði svo innilega óbeit á. En þó varð ekki af því. Nú varð hann að "dansa á glóðarskónum"!

Hann svitnaði af angist, þegar hann byrjaði, og það batnaði ekki, er hann heyrði rödd sína, skjálfandi og hikandi, hálfkafna í þessu loftþunga kirkjuskrifli, sem ekkert bergmál, engan grunnhljóm átti til honum til stuðnings. Honum hefði ekki komið það á óvart, þótt allur söfnuðurinn hefði farið að skellihlæja! En það var ekki líkt því. Allir sátu hljóðir og hátíðlegir. Það er oft furða, hve hláturmildi manna, sem þó er svo óstýrilátur eiginleiki, lætur temja sig í kirkjunum.

Það var sem honum heldur ykist hugur við að heyra tekið undir við sig. Það var þó til lakari söngur en hans sjálfs!

Orgel voru þá óþekkt í flestum sveitakirkjum, og "forsöngvarinn og fólkið" önnuðust undirtektir við prestinn, eins og sönginn að öðru leyti, og mátti þar með sanni segja, að "hver syngi með sínu nefi"; enda voru menn því síður en óvanir, þó skortur væru á fegurð og samræmi. Sá var sjálfsagður forsöngvari, sem mesta hafði röddina og mest gat beljað, svo jafnan heyrðist til hans upp yfir aðra. Þótt hann sjaldan hefði lagið - eða þá enginn nema hann - það gerði minna til. Fegurðartilfinning safnaðarins þoldi meira en það!

En hvað um það. - Síra Halldór hélt áfram, stórhneykslislaust, í stöðugri baráttu við að springa ekki alveg á háu tónunum, og með besta vilja á að hafa hina sem minnst "falska" og láta þá skjálfa sem minnst; þannig emjaði hann sig með mestu þrautum fram úr öllu því, sem handbókin fyrirskipaði, fyrst bæninni, svo pistlinum og síðast guðspjallinu. Að því búnu gafst honum nokkur hvíld og tóm til að þurrka af sér svitann, því prófasturinn átti að stíga í stólinn á undan honum.

Uppi í prédikunarstólnum byrjaði annar þátturinn í þessum vesæla kirkjuleik. Prófasturinn var að vísu orðlagður sæmdarmaður, fjárgæslumaður mikill og hirðusamur, bæði um sitt eigið og það, sem honum var á hendur falið, og naut hvers manns virðingar. En ræðumaður var hann enginn, og mundi sjaldan eða aldrei hafa borið það við að halda ræður, ef ekki hefði embættið neytt hann til þess.

Og þarna stóð hann nú, blessaður, með langa, skrifaða ræðu fyrir framan sig, um alls ekki neitt. Honum hafði engan veginn getað hugkvæmst neitt, sem ætti við þetta tækifæri öðrum fremur, og svo hafði hann rutt saman heilum ókjörum af prestslegu orðagjálfri og algengu biblíu-fimbulfambi, sem hann kunni utan að og orðið var margþvælt og slitið. - Ofan á þetta andleysi bættist, að honum gekk illa að lesa ræðuna, svo hann hjó og stamaði og reyndi að breiða yfir brestina með óskýrum, hálfvæmnum prédikunarmálrómi, sem hann hafði tamið sér allan sinn prestsskap, og sem söng allar setningar nákvæmlega með sama laginu, svo þær byrjuðu með hávaða, fóru smálækkandi og enduðu með hvísli, seimi, eða jafnvel hryglu, sem líktist því, að "hans velæruverðugheit" væri að kveðja þennan synduga heim og berast á vængjum síns frjósama anda upp í föðurskaut Abrahams, til þess aldrei framar að miðla neinum jarðneskum söfnuði af ríkdómi sinnar djúpsæju kenningar.

Eftir að prófasturinn hafði barist baráttu sinni til enda, kom röðin aftur að síra Halldóri. Hann hafði góðan vilja á að láta þessa fyrstu ræðu sína, kveðju sína til safnaðarins, fara sér sæmilega úr hendi, og þótt hann raunar hefði ekki mikla trú á nytsemi þess, gerði hann einlæga bæn sína í hljóði um, að sér auðnaðist að vinna það upp á stólnum, sem hann hlyti að hafa tapað í áliti safnaðarins fyrir altarinu.

Hann lagði út af 12. versi í 4. kap. í bréfi Páls postula til Tímóteusar:

"Enginn fyrirlíti þig vegna æsku þinnar, en vertu trúaðra fyrirmynd í lærdómi, hegðun, elsku, trú og skírlífi."

Honum fannst þessi texti best til þess fallinn að leggja út af honum við byrjun embættis síns. Honum fannst sem orð postulans væru beinlínis til sín töluð, heilræði, sem honum veitti ekki af, og honum fannst útlistun þeirra best eiga við skoðun sína á hinni helgu stöðu kennimannsins, sem engu minna væri fólgin í líferni en leiðbeiningum með orðum og ræðum, og vildi láta skýringu sína koma söfnuðinum í skilning um það, hvernig hann vildi kappkosta að vera og hverjar væru grundvallarreglur sínar.

Hann hafði skrifað upp alla ræðuna fyrirfram; en þegar hann fór að flytja hana, fannst honum hún hvergi nærri taka nægilega fram það, sem hann vildi segja, og vék svo meira og meira frá hinu skrifaða, þar til hann sleppti því alveg og talaði utan blaða.

Fyrst framan af var ræðan óstyrk og hvikul í rásinni, eins og barn, sem er að hætta að ganga meðfram. En svo jókst henni styrkur, er fram í sótti. Hann leyfði hugsununum að hlaupa fram í skyndibúningi sínum, án þess að skyggnast eftir smálýtum og búningsbótum, og lét tilfinningarnar tala. Málið rann eins og straumur af vörum hans, tildurlaust, gjálfurlaust og ókryddað af fornum biblíuspakmælum, með hrynjandi hljóðfalli og sívaxandi anda og áhrifum.

Að lokum var ræðan orðin himinhrópandi loforð, dýr eiðstafur um að reyna af ýtrasta megni að fylgja fyrirmælum postulans um að vera "trúaðra fyrirmynd í lærdómi, hegðun, elsku, trú og skírlífi", sem endaði með brennandi bæn um náð og aðstoð í þessu göfuga áformi.

Hann hafði talað sig heitan og klökkan; aldrei áður hafði hann komist í slíkan guðmóð. -

Enginn, sem í kirkjunni var, hafði heyrt jafnsnjalla ræðu; enginn mundi aðra eins guðsþjónustugerð. Um alla kirkjuna höfðu menn setið hljóðir og alvarlegir, margir með klút fyrir augunum, en sumir höfðu grátið klútlaust, af því þeir gátu ekki slitið augun frá nýja prestinum.

Og í þetta skiptið var það ekki af gömlum vana eða fyrir siðasakir, að menn grétu. Ræðan hafði snortið tilfinningar margra manna, og það var eins og hver um sig sæi sjálfan sig vera að takast á hendur þessa þungu, heilögu ábyrgð með opnum augum fyrir vanmætti sínum og breyskleika.

Guðsþjónustan var að öðru leyti hvorki verri né betri en vant var. Menn höfðu alla sína ævi vanist lélegu tóni og lélegum söng, og lélegum ræðum í ofanálag, svo menn bjuggust aldrei við öðru, þegar þeir fóru til kirkju. Jafnvel fjöldi fólks var orðið svo spillt að smekk, að því þótti allt gott og blessað, sem fram fór í kirkjunni, hvernig sem það fór úr hendi.

Þessari guðsþjónustu hefði því eflaust verið skipað í röð með öðrum. En nú minntist enginn á tón eða söng; ræðan yfirljómaði það allt saman og gerði söfnuðinum þessa kirkjuathöfn ógleymanlega.

Nú höfðu menn fengið að sjá nýja prestinn og heyra til hans! Og þótt öllum spurningum viðvíkjandi honum væri enn ekki fullsvarað, var þó dómur hans þegar uppkveðinn, og söfnuðurinn prísaði forsjónina hástöfum fyrir að hafa sent sér annan eins prest!

En gömlu prestsekkjunni fannst fátt um alla þessa lofgjörð manna um nýja prestinn. Henni fannst þeir vera allt of fljótir að gleyma gamla prestinum sínum, manninum hennar, sem hafði þó verið svo góður prestur og góður maður og vægur í kröfum með tekjurnar. Hún skoðaði þetta mikla lof um nýja prestinn sem vanþakklæti við hann og minningu hans. Hún vissi líka sem gömul og reynd prestsekkja, að áhrif prestsins á söfnuð sinn eru ekki síður komin undir viðkynningu í langri sambúð en augnabliks-ræðuáhrifum. En hún hafði ekki orð á þessu við marga; síst af öllu vildi hún spilla fyrir nýja prestinum.

Prófasturinn, "velmetni" og "velæruverðugi", var heldur ekki orðmargur um ræðuna. Hann sagði, að góðar ræður væru góðar með öðru góðu, en - -. Hann sagði ekki meira. Þess þurfti ekki heldur, því allir vissu, hve mikla áherslu hann lagði á það, að skýrslurnar og staðarreikningarnir væru í góðu lagi.

Um messuna sat Halla á næsta bekk fyrir innan krókbekk. Hún var vön að vera ein á þeim bekk, en í þetta skipti hafði hún ekki frið til þess, því kirkjan troðfylltist, og meira en það.

Hún hafði stöðugt augun á prestinum, bæði meðan hann svitnaði svita ofraunarinnar fyrir altarinu og meðan orðin streymdu af vörum hans í stólnum. Ræðan hafði mikil áhrif á hana, eins og fleiri, og því meiri á hana, sem hún var mörgum öðrum móttækilegri fyrir þau.

Hún hafði oft undrast það, hve ræður þær, er hún heyrði í kirkjunni, voru bragðlausar og hver annarri líkar. Henni hafði tæpast getað skilist, að þær væru "guðsorð". Henni fannst það sjálfsagt, að það, sem talað væri fyrir guðs munn, bæri eitthvað af því jarðneska, væri stórfelldara, háfleygara, göfugra, eða eitthvað því um líkt, eitthvað í ætt við þann anda, sem drottnaði í Passíusálmunum eða Jónspostillu. Það tvennt var hið besta af því tagi, sem hún þekkti.

En hún hafði sjaldan getað til þess fundið. Ekkert af því, sem hún hafði heyrt flutt frá þessum prédikunarstóli, hafði náð að gagntaka hana. Hún hafði aldrei getað grátið undir því; ekki einu sinni viknað. Hún gat stundum varla eirt undir því til enda. Og þó voru það einmitt þessi sjaldgæfu, hátíðlegu áhrif, sem hún þráði, og þráði brennandi heitt.

Slík þrá hinnar óspilltu, viðkvæmu mannssálar er það, sem kirkjan og leikhúsin, skáldin og listamennirnir keppast um að svala og lifa af.

Nú heyrði hún í fyrsta sinni ræðu, sem snerti tilfinningar hennar, ræðu, sem gagntók hana, því meira, sem á hana leið. Tárin komu fram í augu hennar; en hún gat samt ekki litið þeim af prestinum, þótt hún sæi hann stundum ekki nema í móðu, gegnum tárin.

Hún hafði séð hann oftar en nokkur manneskja önnur þar og reynt að lesa í útliti hans, hvað í honum byggi; samt hafði hún ekki séð neitt af því, sem hún nú sá og heyrði - nú, þótt endilöng framkirkjan væri á milli þeirra.

Henni fannst hann vaxa við hverja setningu, sem hann sagði, vaxa að persónulegu gildi og prestslegum skörungsskap. Svipur hins unga, fríða og hraustlega karlmanns, sem með einurð og auðmýkt játaði breyskleika sinn og ófullkomleika til hinnar þungu, vandasömu kennimannsstöðu sinnar og leitaði guðlegrar aðstoðar með eldheitri bæn, brenndi sig dýpra og dýpra inn í meðvitund hennar. Slíkur maður var í hennar augum sjálfkjörinn til að bera hinn mikla boðskap!

Hún bar sjálfa sig saman við hann og fyrirvarð sig. Henni fannst hún óverðug að þjóna slíkum manni, - og þó langaði hana fremur til þess nú en nokkurn tíma áður. Og hún ásakaði sjálfa sig; henni fannst hún hafa gert sig seka í ótrúmennsku, þegar hún var að lofa kunningjastúlkum sínum að skríða inn með stiganum og horfa á hann í gegnum glufurnar. Hún hét að gera það aldrei framar!

Hann var orðinn dýrlingur í augum hennar. - -

En ungi presturinn sjálfur var fölur og óstyrkur eftir messuna, sem væri hann nývaknaður af drykkjudúr. Hann hafði ofreynt sig fyrir altarinu og - talað yfir sig í stólnum.


4. kafli

Síra Halldóri leið ekki vel á prestssetrinu.

Það var of snögg breyting fyrir hann, að koma úr höfuðstaðarlífinu, eftir að hafa vanist því í mörg ár, koma frá vinum og vandamönnum og setjast nú að á sveitabæ á útkjálka, þar sem hann engan einasta mann þekkti.

Það var heldur ekki meira en svo vistlegt fyrir unga prestinn á gamla prestssetrinu.

Hann fann það vel, að hann átti þar ekki heima enn sem komið var. Hann sá það líka, að gamla prestskonan sneiddi hjá honum og að vinir hennar og vandamenn fóru að dæmi hennar.

Vinnufólkið gat hann heldur ekki umgengist; það var ekki hans vinnufólk. Það var allan daginn að verkum sínum hér og þar, úti og inni, og þegar dagsverkinu var lokið, settist það að inni í baðstofu, en þangað lagði hann aldrei leið sína.

Hann stytti sér að vísu stöku stundir með því að gefa sig á tal við vinnumennina, ef þeir voru að vinnu heima við bæinn. En þá leið sjaldan á löngu, þangað til hann sá andlitinu á gömlu prestsekkjunni bregða fyrir, annaðhvort innan við glugga eða einhvers staðar í nánd, og líta alvarlega til þeirra. Hann skildi það svo, að hún héldi, að hann tefði vinnumennina, ef hann stæði allt of lengi á tali við þá. Og svo hætti hann því.

Hann fann það líka, að gestirnir, sem komu á heimilið, voru ekki hans gestir og komu sjaldnast að finna hann, og þess vegna gaf hann sig sjaldan að þeim að fyrra bragði. Honum þótti raunar vænt um, þegar einhverjir bændur úr nágrenninu komu inn til hans, og hann passaði sig með að eiga jafnan til ofur lítinn dropa af víni, til þess heldur að hæna þá að en hitt.

Þeir voru að vísu engir fyrirmyndarmenn að fasi og háttprýði, svo þeir væru aðlaðandi lagsbræður fyrir hann; en hann vissi, að þeir voru máttarstólpar sveitarinnar og safnaðarins og að með þeim átti hann að vinna ævistarf sitt framvegis; og honum fannst alla jafnan einhver ekki óviðfelldin sveitablær koma inn í stofuna með þeim, ekki alveg laus við heyilm og áburðarþef, en þó lyftandi og viðrandi í mollulofti því, er honum fannst umkringja sig daglega.

En svo kunnu þeir sér ekki hóf og sátu of lengi og drukku of mikið og þvogluðu honum til stórleiðinda, svo hann varð oftast dauðfeginn, þegar þeir loksins fóru. -

Húsnæðið, sem hann hafði, var líka fáum kostum gætt, þótt það ætti að heita besta herbergið á bænum.

Það var stofa með timburþili fram á hlaðið, með tveim gluggum á með hvítmáluðum gluggaumgjörðum, en torfveggjum á allar aðrar hliðar, nema hvað tvöfalt timburþil skildi hana frá bæjardyrunum, og á því voru dyrnar inn í stofuna; en til hliðar við þær voru dyrnar að stiganum upp á loftið, uppi yfir stofunni.

Bæjarhúsin, sem voru á bak við, höfðu ýtt á grindina í stofuhúsinu, svo þilið framan á henni bungaði fram á hlaðið og stofan var öll gengin úr skorðum og orðin skökk. Meðal annars var gólfið gengið upp úr miðjunni, og var þar allmikill hryggur um þvera stofuna; en svo lækkaði gólfið til beggja enda. Þetta var orsök til þess, að hurðin, sem gekk inn í stofuna, laukst aldrei upp nema vel til hálfs, og stóð þá föst á mishæðunum á gólfinu. Hafði hornið á henni á löngum tíma sorfið bogmyndað far í gólfið, og jafnframt slitnað af hurðinni. Nú gekk hurðin ekki lengra en farið náði, en marraði hátt og ónotalega, þegar hornið á henni straukst eftir gólfinu.

Öll var stofan þiljuð innan með breiðum borðum, sem flett hafði verið úr völdum rekavið, því timbur fluttist þá mjög lítið sem verslunarvara þar um slóðir. Hafði hún í upphafi vega sinna verið blámáluð, en málningin nú víða farin af, því stofan var orðin gömul, og vegna þess, hve skökk hún var orðin og missigin, voru víða komnar fram ómálaðar randir og skellur á borðunum, sem áður höfðu verið huldar undir máluðum listum og brúnaviðum; en rifur og glufur göptu hvarvetna, eins og áður er á minnst.

Yfir þvera stofuna gekk biti, sem hélt uppi loftinu; var það bjálki mikill, fóðraður utan með máluðum borðum. Var ekki hærra undir bitann en svo, að meðalmaður í hærra lagi þurfti að beygja höfuðið, ef hann vildi ekki reka sig upp undir hann; en presturinn komst þó hjá slíkum óþægindum, því svo var að sjá sem forsjónin hefði fyrir löngu ætlað honum þessa stofu og af umhyggju fyrir hinu dýrmæta höfði þessa þjóns síns skapað hann mátulega háan undir bitann.

Við afturvegginn á stofunni var rúm prestsins, en borð þar gagnvart, úti við gluggana, og stólar tveir hjá. Meðfram hinum veggjunum var raðað kistum og koffortum, sem heimafólkið átti; einnig stóð þar dragkista gömlu prestsekkjunnar - sem hún nú aldrei opnaði sjálf, síðan presturinn kom í stofuna - og skákborð prestsins sáluga. En á veggjunum hér og þar og einkum úti í hornunum héngu spariföt heimafólksins, bæði karla og kvenna, þau sem ekki voru of dýrmæt til að hanga uppi; því þau allra-allrabestu voru auðvitað vandlega samanbrotin niðri í hirslum. Mátti þar sjá fagra og fáránlega muni, sem ætlaðir voru til skjóls og prýðis hver sínum líkamshluta, svo sem milluboli, stutttreyjur, síðtreyjur með tin- eða látúnshnöppum, 50-60 ára kventreyjur, með rósasaum á börmum og ermum, rósavettlinga, svuntur, linda og alls konar kvenlegan höfuðbúnað - í stuttu máli sýnishorn af öllum búnaði, frá ystu klæðum og inn að bekkjaofnum nærpilsum, sem héngu við hliðina á hrosshárugu reiðpilsi með ísaumuðum rósabekk við skautið, sem prestsekkjan átti. Á einum stað á einum veggnum, þar sem fötin byrgðu ekki alveg, hékk mynd af Jóni Vídalín, sem presturinn sálugi hafði rifið upp úr Nýjum félagsritum og gengið frá í umgjörð utan af spegli. Önnur veggjaprýði var þar ekki.

Það hefði þó ekki verið frágangssök að una við allt þetta, hefði stofan verið betri í raun en útliti. En það var öðru nær. Lakast af öllu var það, að þegar hvasst var, þá súgaði um hana alla, og í úrkomum lak bæði inn með glugganum og niður um loftið, svo gólfið flóði í vatni. -

Það hefði verið synd að segja, að síra Halldór rækti ekki hvílu sína; enda var hún það eina, sem við var unandi í þessu hreysi, því þangað hafði prestsekkjan gamla látið flytja sín bestu rúmföt.

Hann fór að vísu ekki að hátta fyrr en á sama tíma og aðrir, og stundum nokkuð seinna, en reis miklu seinna úr rekkju. Var það kallaður kaupstaðasiður þar í héraðinu, og þó einkum eignaður Reykjavík.

Allar aðrar stundir hélt hann einnig lengst af til í stofunni, og notaði þetta eina borð, sem þar var, fyrir þvottaborð, matborð, skrifborð og lestrarborð, og var hann því oftast við það að hitta, eða hann gekk um gólf í stofunni.

Tvo kunningja eignaðist þó presturinn snemma þar á prestssetrinu.

Annar var svartflekkóttur hundur, sem orðinn var gamall í vistinni, hrumur og latur, lá oftast heima við og hafði það hlutverk að éta skánir og gelta að gestum. Hann var flaðrandi og vinalegur og þótti undur gott að láta klóra sér á kviðnum. Undireins og hann sá prestinn nálgast, fleygði hann sér upp í loft og prjónaði með löppunum, til þess að hann ætti hægra með að leika þennan leik við sig. Prestur skildi, hvað seppi vildi, og lét því sjaldan hjá líða að gleðja hann, og seppi vottaði honum þakklæti sitt með því að sleikja á honum hendina eða stökkva á fætur, þótt hann gamall væri og stirður, og flaðra upp um hann. Og aldrei fór prestur svo burtu frá bænum, að seppi skakklappaðist ekki með honum, eða þá að minnsta kosti fylgdi honum úr garði.

Hinn kunninginn var Ólafur sauðamaður. Prestur hafði einhvern veginn - hann vissi ekki hvernig - komist í nánari kynni við hann en aðra menn á heimilinu. Og þar sem Ólafur var þá ekki tekinn við sauðagæslunni fyrir fullt og allt, en var oft heima við, höfðu þeir mörg tækifæri til að hittast. Það var heldur ekki að sjá, að gamla prestsekkjan veitti því neina eftirtekt; það var sem hún byggist ekki við, að Ólafur gerði mikið þann tímann, sem hann ekki væri hjá fénu, og þá var ekkert því til fyrirstöðu, að hann hefði ofan af fyrir prestinum stund og stund, fyrst hann gat notað hann til þess.

Síra Halldór hafði líka hálfgaman af Ólafi og gat setið tímunum saman og hlustað á það, sem hann var að segja frá, þótt ekki væri það efnisríkt. Það var líka sem hann yrði aldrei þreyttur á að virða fyrir sér lagið á Ólafi og útgang hans og útlit, einkum þó þetta sísyfjaða andlit, sem varla gat vaknað, þótt maðurinn veltist um af hlátri. Hann hafði líka gaman af því, eins og fleiri, að draga dár að Ólafi á sína vísu og án þess að reita hann til reiði; þó var honum best skemmt, þegar Ólafur skildi það ekki.

Ólafur var að sínu leyti hjartanlega ánægður með kunningsskapinn og þótti hinn mesti frami að því að vera handgengnari nýja prestinum en aðrir á heimilinu, og sneiddi sig þá um leið meira hjá öðrum heimamönnum en hann hafði nokkurn tíma áður gert.

Hann varð þess að vísu var, að ekki var laust við, að presturinn henti gaman að honum; en það var á allt annan hátt en aðrir gerðu það, og hann fann líka, að hann gat umborið honum meira en nokkrum öðrum.

Hann fékk líka brátt hið besta traust á presti og ruglaði í hann öllum sínum hjartans áhugamálum, um kindurnar og peningasöfnunina og stúlku, sem hann ynni hugástum, en hefði ekki komið sér að biðja enn þá; en varaðist að nefna Höllu á nafn. Í öllum þessum málum leitaði hann ráða prestsins og ásjár.

Prestur lét sem sér líkaði þetta allt saman vel, stappaði í hann stálinu að halda uppteknum hætti og fullvissaði hann um, að engin skynsöm stúlka gæti staðist jafnefnilegan og myndarlegan mann, sem ætti heila hlaða af spesíum!

Annars fór honum nú að sýnast það ráðlegast að leyfa Ólafi ekki að gera sér dælla við sig en komið væri, og sinnti honum því minna, þegar dagar liðu fram.

En þegar göngurnar voru um garð gengnar, þurfti Ólafur að taka við fénu og var upp frá því sjaldnar heima.

En áður en hann tók við fénu, varð hann eftir skipun húsmóðurinnar að lóga Flekk gamla, svo að presturinn missti báða þessa kunningja sína í einu. - -

En langoftast sá hann Höllu af öllum heimamönnum. Hún var eina manneskjan, sem nokkuð gekk um stofuna að staðaldri, bæði þegar hún var að gera það, sem gera þurfti þar inni, og þegar hún sótti eitthvað þangað ofan í læstar hirslur, annaðhvort fyrir gömlu prestsekkjuna eða aðra heimilismenn, sem áttu geymslu þar inni og annaðhvort voru feimnir við prestinn eða að minnsta kosti létust vera það.

Halla gekk þar um oft á dag og ævinlega hiklaust og einarðlega, en þó hæversklega og aldrei nema hún ætti erindi, sem oftast nær var eitthvað í hans þágu. Hún færði honum þvottavatn á hverjum degi, bjó upp rúmið hans, bar á borð fyrir hann, tók allt til handargagns, sem hann átti, tók af honum óhrein föt til þvotta og aðgerðar, bauð honum góðan daginn á morgnana og góða nótt á kvöldin, spurði hann, hvort hann vantaði nokkuð - en talaði annars aldrei við hann meira en nauðsynlegt var.

Venjulega fór hann út úr stofunni, meðan hún var að taka þar til, til þess að vera henni ekki til óþæginda, og þó var ekki laust við, að hann langaði til að vera þar kyrr inni og sjá til hennar.

Hann þreyttist heldur ekki á að sjá hana vinna eitthvert verk; að sjá, hve allir tilburðir voru fimlegir og rösklegir, látbragðið eðlilegt og tildurslaust og vöxturinn og limalagið fagurt og samsvarandi.

Hann þreyttist ekki á að horfa á handleggina, holduga og þriflega, þegar hún bretti upp treyjuermunum, og hendurnar smáu og nettu, en þó knálegu, sem báru þess ótvíræð merki, að þeim hafði ekki verið hlíft. Eða þá andlitið, ofur lítið freknótt og útitekið undan sumrinu, nett og feitlagið með dálítið harðlegan svip og tindrandi augu, sem þó voru ekki laus við að vera dreymandi.

Og svo þegar hún varð vör við, að hann horfði á hana, og feimnissvipur færðist yfir andlitið, en ofur lítill roði kom fram í kinnarnar. En hvað henni fór það vel!

Hann tók líka eftir hárinu, sem var þykkt og ljósjarpt og hún fléttaði í tvær fléttur, sem héngu niður um herðarnar; en uppi á höfðinu bylgjaðist það til beggja hliða út frá hárskiptinu og slútti ofur lítið fram yfir ennið.

En mest fannst honum þó til um, hve allur klæðnaður fór henni vel. Þótt það væri ekki annað en hversdagsfötin, og þótt þau væru bætt og slitin, þá voru þau hreinleg og sýndu vöxt hennar, án þess þó að þrengja nokkurs staðar of mikið að henni. Einkum þótti honum vænt um treyjurnar hennar fyrir það, hve vel þær sýndu brjóstin, sem voru þroskuð og fagurlega löguð og gjörn á að hefja sig við andardráttinn, einkum þegar hún kepptist við einhverja vinnu.

Hann fann það að vísu, að það var ósæmilegt að horfa allt of stöðugt á hana, þegar hún var inni hjá honum að vinnu sinni; en hann gat þó ekki að því gert að gefa henni hornauga við og við, og þó einkum þá, er hún sneri þannig við honum, að hann sá á hliðina og vangann á henni. Þannig hefði hann helst óskað sér að eiga mynd af henni.

Og þegar hann sá henni bregða fyrir á hlaðinu fyrir utan gluggana, þar sem hún meira sveif en gekk, þá leit hann upp frá því, sem hann var að fást við, hve guðrækilegt sem það var, og horfði á eftir henni, meðan hann gat séð til hennar.

Hann hafði glöggt auga fyrir kvenfegurð, og hann fann til nautnar við að virða fyrir sér þessa snotru sveitasúlku, sem honum fannst fullnægja flestum kröfum fagurfræðinnar og helst líkjast listaverkum þeim eða listaverkaeftirmyndunum, sem hann hafði svo oft glatt sig við að skoða og hugsa um.

Og honum fannst eins og birta í stofunni, þótt hún óvistleg væri, þegar Halla kom þar inn, eins og sólargeislar hefðu komið inn með henni. -

En þetta var allt saman aðeins skin milli skugga í lífi síra Halldórs á prestssetrinu. Honum leiddist þar ákaflega og honum fundust dagarnir svo kuldalegir og tilbreytingarlausir, að það var eins og þeir ætluðu aldrei að líða.

Hann fann sárt til þess, hvað allt var óhugnæmt í kringum hann, allt ömurlegt, þögult og leiðinlegt, bæði úti og inni.

Inni fannst honum líkjast því, að hann væri fangi í klefa, sem margar aldir hefðu erft hver eftir aðra og sem aðeins væri ætlaður ófrjálsum mönnum til aðseturs. Já, stofan var að mörgu leyti lakari en meðal-fangaklefar, og það eina, sem hún hafði fram yfir þá, var gott rúm og dyr, sem hann þó gat opnað þegar hann vildi, að minnsta kosti eins mikið og hurðin gekk, þangað til hún stóð föst í gólfinu.

Önnur hús bæjarins voru honum lítt kunn; hann sá aðeins inn í moldargöng, missigin, skökk og skæld, og oftast nær hálffull af móreyk úr eldhúsinu, sem lá þar einhvers staðar inni í bænum. - Hann fann aldrei til löngunar til að leggja í könnunarferð inn í það völundarhús, sem bærinn var í ímyndun hans.

Og úti var heldur ekki unandi til lengdar. Nú var farið að hausta og þokur og rigningar gengu dag eftir dag, með nístingskuldum, þótt ekki væru frost, eins og hafísinn væri fáar mílur í burtu.

Umhverfið var ekkert aðlaðandi. Hraunið á aðra hönd við bæinn var úfið og svipljótt, og þó það væri að mestu gróið upp og ætti sér margar fagrar og grasgefnar lautir og dældir, sem búendum þótti vænt um, en kindurnar kunnu þó best að meta, þá bar þó mest á brunahólunum og gjallhryggjunum, svörtum, brúnum eða dökkrauðum á litinn, eins og þeir væru úr ryðguðu járni. Og svo ásarnir uppi frá bænum, með leirflögum utan í hallanum, en breiðum, uppblásnum melum efst, og fjöllin á bak við þá: blásnir, kollóttir sandhólar, þar sem varla sást nokkur græn tó, ekkert nema sandskriður og aftur skriður, og þá ekki heldur því að heilsa, að þau hefðu fallega fjallalögun, með tignarsvip og hrikafegurð. Nei, þau voru kollótt og lágkúruleg, eins og þau fyriryrðu sig fyrir tilveru sína.

Skammt fyrir ofan túnið var heitur vatnshver, eða sjóðandi laug, sem var að vísu einstakur búbætir og allir prestar, sem þar höfðu verið, höfðu haft mestu mætur á, en síra Halldóri þótti ekkert skemmtilegur nágranni. Gráu gufustrókarnir upp úr honum prýddu lítið útsýnið, og stundum brá fyrir af honum brennisteinsfýlu alveg heim að bæ, þegar vindur stóð af þeirri átt.

Túnið var kargaþýft, með yfirgrónum hraunhólum hér og þar, og sums staðar stórum hraunklettum upp úr grassverðinum; en girðingarnar voru, eins og margt annað, í megnustu vanhirðu og lítið annað en aumkunarlegur vottur um bjálfaskap í búnaðinum.

Kirkjan var vindrifin timburkumbaldi, tjörguð utan, með fjórum hvítmáluðum gluggum á hlið og ofur litlu turntyppi á vesturburstinni. Kirkjugarðurinn var lélegur, með 2-3 minnismerkjum úr tré, mosavöxnum og grautfúnum, en engri annarri prýði, og trén, sem einu sinni höfðu verið umgerð um sáluhliðið, lágu flöt til hliðar við skarð það í girðingunni, sem þeim hafði verið ætlað að verja og prýða.

Þannig kom staðurinn hinum nýja húsbónda sínum fyrir sjónir. Honum hafði verið sagt, að jörðin væri afbragðskostajörð, og öllum prestum, sem þar höfðu verið, hefði græðst fé. Þetta gat nú vel verið satt. En hér var þó allt í niðurníðslu.

Það var sama hvert hann leit; hann fann hvergi neitt, sem honum þótti fagurt eða aðlaðandi.

Það fór hrollur um hann við þá hugsun, að þarna ætti hann að vera alla sína ævi, hvort sem honum félli það betur eða miður.

Og hann hugsaði til vesalings konunnar sinnar, þegar hún, sem var upp alin í Reykjavík og ekkert hafði séð annað en Reykjavík, ætti að fara að lifa lífi sínu á þessum ófagra og eyðilega stað.

Hann reyndi að friða huga sinn með því, að hér hefði hann mikið og göfugt skylduverk að vinna, að vera andlegur leiðtogi og huggari þessara lítið upplýstu útkjálkasálna, og láta líkamlega og andlega blessun af sér leiða.

En hann brosti að því sjálfur undireins á eftir.

Æðsta og sjálfsagðasta skylduverkið, sem á honum hvíldi, var þó það, að tryggja það, að sér og sínum liði sem best, meðan lífið entist.

Hann vissi vel, að um leið og hann lifði sjálfum sér til gagns, lifði hann mannfélaginu til gagns líka, og hann var ánægður með það. Þegar hann skoðaði og prófaði huga sinn fyrir sjálfum sér, fann hann í raun og veru enga löngun til að offra sér fyrir velferð annarra.

Og væri það ekki embættið, með þeim tekjum, sem því fylgdu, eða hann hefði vissu um eitthvert geðfelldara og álíka áreiðanlegt lífsstart, þá var hann ekki í augnabliks efa um, hvað hann ætti að gera. Hann var hvort sem er viss um, að á þessum stað mundi hann aldrei festa yndi.

Hann reyndi að hafa af sér leiðindin með því að sökkva sér niður í skriftir og lestur. En það var ekki nema stundar friður.

Þegar hann var háttaður á kvöldin, þegar niðamyrkur var úti og hann heyrði hvininn í storminum, þegar regnið dundi á rúðunum og vatnið spýttist inn með gluggaumgerðinni, en þungir dropar féllu með mismunandi millibili niður úr loftinu, svo að buldi í gólfinu, þegar hálfgert draugamyrkur var í allri stofunni og aðeins týrði á kertisskari, sem stóð á kistu við rúmið - þá komu þessar ömurlegu hugleiðingar aftur, komu til að kvelja hann og halda fyrir honum vöku, - gera honum lífið óbærilegt.

Hvers vegna var hann orðinn prestur? Hann hafði í raun og veru aldrei langað til að verða það, aldrei gert sér neinar glæsilegar vonir um það, - meira að segja, aldrei eiginlega trúað því, að hann mundi nokkurn tíma verða það, þó hann hefði verið að búa sig undir það nú um mörg ár, að hálfu leyti á móti vilja sínum.

Og nú var hann þó orðinn það samt og - búinn að fá brauð! - eitthvert leiðinlegasta útkjálkabrauðið á öllu landinu, og fluttur á það einsamall, - aleinn!

Var þetta í raun og veru annað en ljótur draumur? Var í raun og veru búið að svipta honum með slíku skyndi burt úr hópi glaðra æskuvina og kviksetja hann í þessu gleðisnauða prestsembætti, - hann, sem enn þá var ekki annað en unglingur, tæplega þrítugur?

En það var enginn draumur. Það var sorglegur veruleiki. Hann var orðinn prestur. Prófasturinn var búinn að setja hann inn í embættið. Og hann var sjálfur búinn að heilsa upp á söfnuðinn sinn af stólnum.

Já, ræðan. - Hann svitnaði við að hugsa til hennar.

Hann vissi um þá aðdáun, sem hún hafái vakið hjá söfnuðinum. En nú var honum orðið ljóst, að margfalt skárra var að pína sig til að tóna en að halda slíka ræðu. Þar sá fólkið, að hann var að vinna sér um megn, og hafði meðaumkun með honum.

En af stólnum hafði stóryrðunum rignt. Hvernig átti hann að fara að því að uppfylla öll þau feitu loforð, sem hann hafði látið til sín heyra? Var hann maður til þess? Gat hann látið þær fögru vonir rætast, sem hann hafði vakið í brjóstum safnaðarins?

Og ef hann gæti það nú ekki, - hvað þá?

Eða var hann fær um að halda slíkum ræðum áfram og halda öllum söfnuðinum föstum í þessu táli?

Eða var hann kannski fær um að lifa eftir öllu þessu, sem hann hafði sagt, og láta kenninguna í orði og verki fylgjast að?

Nei, nei. - Til þess þekkti hann sjálfan sig allt of vel!

Hann fann, að hann hafði tekið rösklega til flugsins og hafið sig hátt; nú lá fyrir honum að lækka - en hvað lengi?

Ef til vill þangað til hver einasta sál í söfnuðinum var búin að missa allt traust á honum og enginn fékkst til að sækja kirkjuna hans framar; eða þangað til orð hans máttu sín hvergi neins lengur og allir litu á hann sem algengan, hempuklæddan skjalara, sem ekkert væri að marka hvað segði; - eða þangað til vantraustið hefði klofið grundvöllinn milli hans og safnaðarins og úlfúð og ósamlyndi gerðu hverja tilraun til samvinnu árangurslausa?

Þessar og þvílíkar hugleiðingar settust að sálu hans eins og illfygli og gerðu honum framtíðarhorfurnar óbærilega svartar og vonlausar.

Þess vegna var sem hugur hans hrökklaðist aftur í tímann. Minningar frá liðnum dögum flykktust þá að honum; sumar brosandi og laðandi, sumar góðlega ásakandi, - en allar með einhverjum hálfóljósum, hálfþokukenndum blæ yfir sér, eins og vofur, sem stíga upp úr gröfum sínum.

En hvaða erindi áttu þær til hans nú? Hann hafði ekki gert boð eftir þeim. Honum var ami að þeim.

Til hvers var hann nú að minnast glaðra, bjartra stunda, þegar örlögin höfðu ýtt honum inn í skuggann og aldrei var von um, að birti framar? Til hvers var að minnast blárra blóma og bjartra rósa, þegar lífið rétti honum tómar feyskjur?

Nei, - minningarnar bættu aðeins á hugarstríð hans.

En þær komu samt.

Hann endurlifði í huganum sínar glöðustu og sælustu stundir, - endurlifði þær nú á miklu styttri tíma en þær höfðu tekið þá, því öllum óþörfum aukaatriðum var sleppt; allt færðist saman, eins og í sögu eða sjónleik.

Á þennan hátt rifjuðust upp fyrir honum stundirnar, sem hann hafði lifað með glöðum æskuvinum og skólabræðrum, - galsi, háværð, glaumur, samdrykkja og samvera í sorg og kæti, og jafnvel hin og önnur brek, sem annaðhvort höfðu haft óþægilegar afleiðingar eða þá að minnsta kosti gátu haft þær. Allt þetta var svo hjáleitt þeirri dauðakyrrð, því tilbreytingarleysi og lífleysi, sem nú umkringdi hann.

Hann minntist þess einnig, þegar hann var gestur efnaðra, menntaðra góðkunningja eða verndara, þar sem virðuleikablær húsbóndans og helgi heimilisfriðarins breiddu blæju sína yfir allt og gáfu öllu ilm og svip, um leið og þau steinþegjandi settu órjúfandi lög um það, hvað þar væri sæmilegt og hvað ekki. Hann minntist gólfábreiðanna mjúku, þar sem ekkert fótatak heyrðist, gljáskyggðra stofumuna úr völdum viði, blómanna, speglanna, skrautsins, og ekki síst hljóðfærisins, sem stóð þögult úti í horni og frúin ein dirfðist að snerta, þegar gestir voru nálægir, - þar sem gjafvaxta og hálfgjafvaxta dætur umgengust hann eins og bróður sinn, en aðgætin foreldraaugu hvíldu stöðugt á honum, síspyrjandi, sírannsakandi og sívegandi og metandi tengdasonarefnið, ef til kæmi.

Hann bar þetta saman við stofuna sína, eins og hún var nú. Skyldi þessu fólki vera mögulegt að trúa því, að hann gæti haldið lífi í öðru eins greni?

Hann minntist dansleikanna: fagurra kvenna í léttum viðhafnarbúningi; sumra í kjólum, sem flegnir voru niður á brjóst, og með bera handleggi, sumra í íslenskum búningi, með skautfald og bylgjandi slæðu, en sumra í nettum peysubúning - hvað innan um annað. En allar voru þær rjóðar í kinnum, heitar og móðar, en þó sífjörugar og óþreytandi, mjúkar í hreyfingum og svífandi léttar í dansinum.

Og svo - þegar danslagið svall um salinn, leikandi, þjótandi, æsandi - allt flaug af stað í lögleyfðum faðmlögum með handlegg yfir mitti og barm upp við barm - beran, barnslegan, róslitan kvenarm hvílandi á öxl honum. - Þegar heitur andardráttur af opnum, blóðrauðum vörum lék um hálsinn og hökuna, blandaður ilmi rósa og dýrra hörundssmyrsla, en íturvaxinn, léttklæddur líkami, iðandi af æsku og fjöri, fimur, laufléttur, sveif með honum eftir gólfinu. - Þegar jafnvel hin völdustu orð voru allt of grófgerð til samtals, þegar augun földu sig, en ofur viðkvæmar, næstum ósjálfráðar smáhreyfingar með hönd eða fæti - ef til vill aðeins einum fingri - var sú eina aðferð, sem trúað var til að bera boð og svar - saklausar símkveðjur - -! Allt þetta, sem rýkur í höfuðið á svo mörgum ungum mönnum.

Nei, hann mátti ekki hugsa til þess. Honum fannst það, sem áður hafði verið ein af sælustu nautnum hans, nú ætla að svipta sig vitinu.

Og svo minntist hann enn annarra unaðarstunda - ævintýranna sinna, atburða, sem enginn þekkti nema hann, og enginn mátti þekkja nema sá, sem hafði þar hlutverk á hendi; þar sem orðunum var ekki ofaukið, þótt lágt væri talað, og augun földu sig ekki.

Þau voru ekki mörg; en þeim mun kærri voru þau; hvert þeirra fyrir sig var ofur lítil, sjálfstæð saga, sem hafði byrjun - og endi - eins og aðrar sögur.

Og svo voru þessi ævintýri rík af sælum augnablikum, - sælum, brennandi sælum, og þó í svo mörgum og mismunandi myndum.

Nei, nei, hann mátti ekki heldur hugsa til þeirra. Nú var öllum ævintýrum lokið og hann orðinn prestur.

Og samt fannst honum þetta eins eðlilegt eins og lífið sjálft, eins nauðsynlegt eins og hreint loft og sólskin milli skugga og hreta. Hann hafði aldrei getað skilið, að það væri syndsamlegt, aldrei heldur síðan hann varð prestur; það var aðeins munaður eða nautn, saklaus leikur, og þó um leið auður, viðbót við safn hans kærustu minninga.

Hann vissi, að hann hafði afneitað því öllu, þegar hann tók prestsvígsluna; hann átti að berjast á móti því, nefna það freistingu, synd og svívirðingu og kenna djöflinum um það.

Honum fannst það bæði hlægilegt og sorglegt í einu!

Ó, þetta prestsembætti, - þetta þurra, strembna, gleðisnauða prestsembætti, sem var ekkert annað en menningarsteingervingur úr tvö þúsund ára gamalli heiðni! - hve innilega honum bauð við því!

En hann var öruggur. Forsjónin hafði séð vel fyrir honum, með því að flytja hann á þann stað, þar sem engin freisting varð á vegi hans, - langt, langt burtu frá hinum glaða, glepjandi höfuðstað, með öllu hans lokkandi táli, og þangað, sem innra og ytra ástandið passaði betur hvað fyrir annað, - umhverfið fyrir embættið.

Þetta ómilda, ömurlega landslag, sem hann hafði séð, hafði ekki margt að bjóða. Hér var allt hrjóstrugt, blásið og brunnið, alveg eins og eyðimörkin, afneitunarlandið, höfuðskeljastaðurinn, sem líf hans átti nú að liggja yfir.

Hér voru engin skrauthýsi, engir laðandi veitingastaðir, engir töfrandi danssalir, engir flegnir kjólar. - Og fólkið - ?

Hann renndi huganum yfir öll þau andlit, sem enn þá höfðu borið fyrir hann, og þar var ekkert, sem hann fann aðlaðandi; hann hafði séð því nær allan söfnuðinn saman kominn í kirkjunni og í kringum hana, og engin manneskja hafði að kalla mátti dregið að sér athygli hans, nema ein - Halla.

Honum fannst það undarlegt, hve oft svipur þessarar snotru þjónustustúlku gægðist fram í huga hans. Það hlaut að koma til af því, að hann umgekkst hana meira en aðrar manneskjur.

Hann reyndi að hrekja hana þaðan burtu; en hún kom jafnharðan aftur.

Honum fannst hún ekkert erindi eiga inn á meðal minninga sinna og fortíðardrauma; en hún var þó komin þangað án þess hann vissi nokkuð af.

Honum fannst það syndsamlegt af sér að vera að hugsa um hana; hvað kom hún honum eiginlega við? Hún var ekki annað en vinnukona gömlu prestsekkjunnar og hafði það verk á hendi að þjóna honum.

Honum fannst það enn fremur bera vott um veikleika hjá sér að geta ekki hrundið henni úr huga sínum, þegar hann vildi; eða þó að minnsta kosti skipað henni rúm, þar sem hún átti að vera. En það tókst ekki. -

En var það þá nokkuð syndsamlegt? Mátti hann þá ekki hugsa um hana líka við og við? Það var ekki af öðru en því, að hún hafði sérstaklega vakið eftirtekt hans, kannski mest eða aðeins vegna þess, hvar hann hafði séð hana; og honum þótti hún lagleg, já meira en það, falleg, þegar tillit var tekið til alls.

Hann bar hana í huganum saman við margar aðrar stúlkur, sem hann hafði séð og þekkt. Hún var ekki lík neinni þeirra, og þó bar engin þeirra af henni. Þessi látlausa æskuprýði, þessi fátæklegi en þó þokkalegi sveitabúningur, þessi óskeikulu, fimu handtök og allar hinar eðlilegu, óöguðu hreyfingar - allt þetta, sem klæddi Höllu svo vel; það hafði hann aldrei séð áður.

Hann gat ekki hugsað sér hana í flegnum kjól; varla einu sinni með skautafald; hann kunni best við hana eins og hann var farinn að venjast henni.

Hann bar hana meira að segja saman við konuna sína. En hvað þær voru ólíkar; hún hafði ætíð verið roðalaus í kinnunum, barnaleg og veikluleg, en ætíð vel búin, kát og ófeimin, þegar hann kynntist henni og fékk ást á henni. Hún hafði þá gengið honum á hönd með barnslegu trausti og lagt allt í sölurnar hans vegna, jafnvel hylli foreldra sinna; og hann fann, hve innilega hann var henni skuldbundinn, og hans dýrasta og hjartanlegasta heitstrenging, sem hann átti til í sálu sinni, var að bregðast aldrei trausti hennar.

En honum fannst hann ekki heldur gera það, þótt hann bæri hana, aðeins að ytra útliti, saman við þessa stúlku, sem var henni svo gagnólík.

Hann sá þær í huganum báðar í einu. Elín hans var enn þá fölari og veiklulegri en nokkurn tíma áður og leit á hann stórum, spyrjandi augum, sem kvíðinn gægðist fram í, ekki síður en vonin; en hún var með hringinn hans á hendinni og barnið hans á handleggnum. - Halla var sælleg, veðurbitin og hraustleg, orðfá og dul í skapi og - leit varla við honum. - -

Hann hafði henni ekkert að þakka, þekkti hana ekkert, hafði aldrei talað við hana, aldrei litið í augun á henni, - og hann vissi sig saklausan af að elska hana.

Og þó - þó fann hann alltaf betur og betur, að hún var hið eina, sem lýsti upp í kringum hann þar, sem hann nú var staddur.

Síra Halldór var ungur maður og lítt þroskaður og hafði enn þá ekki full tök á að hemja hugsanir sínar og ástríður. Hann var maður viðkvæmur og hjartagóður, en þreklítill og hviklyndur.

Honum varð því örðugt að fella sig við þá umbreytingu, sem svo snögglega varð á lífi hans og högum.

Hann hafði upprunalega haft tilhneigingu til alls annars en þess að verða kennimaður, þótt atvikin hefðu nú borið hann að þeirri stöðu; og þótt hann á endanum væri orðinn viðunanlega að sér í öllum þeim lærdómssetningum, sem að guðfræðiprófi lúta, hafði hann þó fráleitt gert sér grein fyrir þeim kröfum, sem prestsembættið hlaut að gera til hans.

Nú hafði hann tekið allan þennan þunga á herðar sér og sá ekki fram á annað en hann hlyti að vanmegnast; og þegar þar við bættist óyndi og ýmsar örðugar kringumstæður, fannst honum líf sitt líkast biluðu skipi milli brotsjóa.

Hann hafði verið gleðimaður og glæsimenni og hafði mikla löngun til að vera það áfram. Skólabræður hans höfðu sagt við hann í ertni, að hann mundi fljótt "forpokast", þegar hann væri orðinn sveitaprestur. Hann hafði hlegið að því þá; nú fannst honum það hafa verið bitur spádómur, sem væri að rætast. Hér þurfti enginn að halda á glaðværð hans og glæsimennsku; hér bjuggust menn aðeins við hinum alvarlega, siðavanda presti, sem væri strangur bæði við sjálfan sig og aðra. Honum fannst því, að hann væri að fylgja nokkrum hluta af sjálfum sér, ásamt glaðværð sinni, til grafarinnar.


Það leið lengra fram á haustið. Dagarnir styttust jafnt og þétt og urðu æ kaldari og skuggalegri, kvöldin urðu lengri og illviðrin tíðari.

En með öllu þessu jókst óyndi unga prestsins og hans eigin skuggalegu hugsanir urðu enn áleitnari við hann.

Hann gat minnst af deginum skrifað eða lesið úti við gluggann fyrir kulda eða myrkri, og eyddi þá mest tímanum, sem hann var á flakki, til að ganga um gólf í stofunni og reykja pípu sína eða vindil.

En það hjálpaði lítið. Óróin og óyndið var að verða honum samgróið og gat ekki við hann skilið.

Hans eigin ástríður, - þær ástríður, sem hann fann sér skyldast að halda í skefjum, kviknuðu eins og maurildi í myrkrinu og störðu á hann óttalegum augum.

Hann fann stundum hjá sér óstjórnlega löngun til að slíta af sér öll bönd, gefa þetta auma prestsembætti dauðanum og djöflinum og varpa sér aftur út í hringiðu sinna fyrri nautna, lifa áhyggjulaus, eins og fuglar himinsins, sem hvorki "sá né uppskera", - lifa í fátækt, en frelsi og gleði, teyga munaðarins blessaða bikar, hvenær sem í hann næðist og hvað sem á eftir kæmi.

En hann vissi, að hann hafði ekki þrek til þess. Allt þetta ætlaði að gera hann sturlaðan.

Hann greip þá stundum höndunum fyrir eyrun eða augun, eins og hann vildi hindra sinn eiginn anda frá því að heyra og sjá, og æddi fram og aftur um gólfið án þess að vita, hvað hann gerði.

Þegar svo stóð á, var það sannarlega lausnarstund fyrir hann, ef hann heyrði drepið hægt á dyrnar og heyrði marrið í hurðinni á eftir. Halla kom þá inn til hans til að afljúka einhverjum erindum.

Það kom ævinlega sólskin með henni inn í stofuna - eða, réttara sagt, inn í huga hans. - -

Og á eftir dögunum komu langar, dimmar andvökunætur. Sömu hugsanirnar komu aftur; sama eirðarleysið píndi hann þar, og sömu ástríðurnar réðust á hann þar með endurnýjuðu afli. Sama rekaldi af ógagnsæjum hreggflókum dreif þá yfir hugarhimin hans: skuggar framtíðar og samtíðar og skinblettir fortíðarinnar.

Og þegar svefninn gerði miskunnarverk sitt á honum, ófust allar þessar mislitu myndir saman við drauma hans.

Loks heyrði hann sagt: "Góðan daginn!" gegnum síðasta drauminn. Og þegar hann opnaði augun, sá hann dagsbirtuna um alla stofuna og Höllu, brosandi, ljómandi af æsku og óveikluðum lífsblóma, standa fyrir framan rúmið sitt með morgunkaffið sitt á bakka. -

Það kom ævinlega sólskin með henni inn i stofuna!"


5. kafli

Halla var hjartanlega ánægð með stöðu sína á heimilinu um þessar mundir.

Hún fann, að það bar vott um traust húsmóðurinnar á henni, að hún hafði falið henni þau störf, sem henni var annast um, að væru leyst sómasamlega af hendi.

Hún var líka ekki miður ánægð með það, þegar hún hugsaði til hins vinnufólksins, einkum stallsystra sinna; nú var hún minna með þeim að verki og hafði minna saman við þær að sælda, og það þótti henni vænt um.

Hún vissi vel, að þó oft væri glaumur og kæti þeirra á milli og þær umgengjust hana með skuggalausri glaðværð, að því er séð yrði, þá var þeim þó lítið hlýtt til hennar undir niðri. Hún vissi líka, að það hafði ekki batnað við þann frama, sem henni hafði hlotnast, og að þeim, sem alltaf var sagt fyrir verkum, þótti það óhæfilega mikill vegsauki fyrir hana að vera svo gott sem eigin húsmóðir, mega ganga þokkalega til fara, meðan þær gengu í mýrar- og moldarverk og voru blautar og óhreinar frá morgni til kvölds alla vikuna. Hún vissi, að þær hugsuðu þannig. Það kom ljóslega fram í augnaráði þeirra og glotti og stundum í beiskum gamanyrðum og spottglósum.

Og Halla hafði gaman af þessu. Hún hafði við ýmis tækifæri sýnt stallsystrum sínum, að hún hirti ekki um að líkjast þeim í neinu. Nú höfðu óhlutdrægar hendur tekið í taumana og sýnt þeim, að hún var meira metin en hver þeirra um sig.

Halla varð þess einnig vör, að karlmennirnir tóku eftir því trausti, sem gamla prestskonan hafði sýnt að hún bar til hennar, og að það hafði haft áhrif á þá. Hún fann, að þeir virtu sig meira eftir en áður - já, sumir sýndu henni næstum lotningu. Og hún lét þá skilja, að slíkur virðingarvottur væri sér velþóknanlegur.

Mest bar þó á gleði Ólafs sauðamanns yfir þessari veglegu stöðu, sem Halla hafði hlotið á heimilinu, og hann var ekki í rónni, fyrr en hann var búinn að segja frá því á hverjum einasta bæ í nágrenninu, og bætti því jafnan við, að sér þætti vænt um það, að fleiri sæju það en hann, hvílík afbragðsstúlka Halla væri.

Nú kom hann líka miklu oftar heim frá fénu en hann hafði áður gert, því nú var Halla alltaf heima við og átti ekki svo næsta annríkt, að hann gat oft haft tal af henni.

Aftur var Höllu lítið um það gefið, hve Ólafur gerði sér dælt við hana, og það var ekki laust við, að hún væri stundum önug við hann, svo það sat allt við það sama á milli þeirra; Ólafur hafði aldrei einurð á að stynja upp bónorðinu.

Halla stundaði verk sitt með stakri alúð. Henni fannst það helgasta skylda sín að vaka yfir því, að prestinn skorti ekki neitt af þeim þægindum, sem heimilið gat veitt honum og átti að veita honum. Og um það hugsaði hún mest af öllu.

Henni fannst stofan, þar sem presturinn bjó, hafa eitthvað dýrmætt að geyma, - eitthvað, sem allrar umönnunar þyrfti við til að vernda og hlúa að, og henni fannst það skylda sín að vera aldrei lengra frá henni en svo, að hún jafnan væri til taks, ef eitthvað vantaði; og hún var heldur ekki lengi að bregða við, ef það kom fyrir, að presturinn opnaði hurðina og kallaði á hana, til að biðja um eitthvað, sem hann vanhagaði um. Marrið í hurðinni, þegar hún var opnuð, var auk heldur nóg til að vekja skyldutilfinninguna hjá henni, svo hún hélt niðri í sér andanum og hlustaði, hvort nokkuð kæmi á eftir, sem henni bæri að gera.

Hún leit á hverjum morgni eftir fötum og plöggum prestsins, burstaði þau og þvoði þau með eigin höndum uppi við hverinn, löngu áður en hans var von á fætur á morgnana, og gerði sjálf við þau, ef eitthvað var að þeim. Hún hjálpaði húsmóðurinni til að matreiða handa honum - en við þá athöfn vildi gamla konan jafnan hafa hönd í bagga með, - en Halla bar á borð fyrir hann og af borðinu aftur, þegar hann hafði matast. Hún sá vel um, að hann fengi að hafa næði til að sofa fram eftir deginum, án þess allt of mikill hávaði væri í nánd við hann, og vakti hann síðan með morgunkaffinu, þegar henni fannst hann vera búinn að sofa hæfilega lengi, og annaðist um, að hann gæti jafnan verið kominn á fætur fyrir þann tíma dagsins, sem helst væri von á gestum, er kynnu að vilja finna hann. Hún steypti sjálf kertin, sem honum voru ætluð til ljósmetis - því olíulampar voru þá enn sjaldgæfir, - og hún reyndi eftir megni að bæta úr þeim óþægindum, sem lekinn og súgurinn í stofuskriflinu gerðu honum. - Í einu orði, hún annaðist hann eins vel og unnt var.

Hún fann líka sér til mikillar gleði, að hann var ánægður með verk hennar, og heyrði hann aldrei kvarta.

Hún reyndi líka að vera honum sem minnst til óþæginda sjálf og var því aldrei lengur inni í stofunni en hún nauðsynlega þurfti, ef hann var þar inni. Hún var líka hrædd um, að umgangur sinn kynni að trufla hann allt of mikið frá hugsunum hans og störfum, og fór því svo hljóðlega sem hún gat og forðaðist að yrða á hann, nema hún kæmist ekki hjá því.

Hún hafði verið vön að umgangast karlmenn alveg feimnislaust; en þótt hún væri ekki beinlínis feimin við prestinn, þá fannst henni þó ekki koma til mála, að hún gerði sér jafndælt við hann og aðra, sem hún var kunnugri og stóðu henni jafnar. Hún var ekki annað en þjónustustúlka hans, og hann stóð henni svo miklu, miklu ofar, ekki einungis að stöðu, heldur einnig að lærdómi og manngildi. Henni fannst djúp staðfest þar á milli.

Hún hafði verið óspör á að senda karlmönnum hýr tillit - það játaði hún fyrir sjálfri sér. - Og hún þekkti máttinn, sem þau höfðu. En það var ekkert annað en saklaus leikur.

Í umgengninni við prestinn var þó einnig honum ofaukið. Hún þorði varla að líta á hann. Aðrir máttu skilja tillit hennar eins og þeir vildu; aðeins ekki hann.

Hún reyndi því að hafa góðar gætur á augum sínum, þegar hún var í nánd við hann, og líta þeim á eitthvað annað, eða helst niður fyrir sig, svo þau segðu ekki neitt. sem tvírætt gæti verið.

Hún fann það líka, að henni var gjarnara að roðna, þegar presturinn leit á hana eða sagði eitthvað við hana, en ella. Hún var gröm við sjálfa sig yfir þessum veikleika, því hún vissi, að litbrigðin mátti líka þýða á ýmsa vegu. En hún gat ekki við þau ráðið.

Veslings Halla! - Hún vissi það ekki sjálf, að einmitt þannig, þegar öll glettni og allt yfirlæti var sem strokið burt af svip hennar, þegar hún líktist blómi, sem ekki þekkir fegurð sína og ilm, þegar alúð og skyldurækni fylltu huga hennar, samfara barnslegri gleði yfir því að njóta trausts og hylli vegna framkomu sinnar, - einnig þannig var hún fegurst og mest laðandi. - -

Höllu var að öðru leyti alls ókunnugt um hagi prestsins, ættir hans eða hvernig á honum stæði. Og þótt hana langaði til að vita um þetta, þá sá hún engan veg til þess, því þar var enginn maður í nágrenninu við hana, sem var nokkra vitund fróðari um þetta en hún sjálf.

Einu sinni herti hún upp hugann vg spurði húsmóður sína, gömlu prestskonuna, hvort presturinn væri giftur.

Gamla konan leit á hana stórum augum og glotti kuldalega, og hún hreytti um leið út úr sér, að hún vissi það ekki; en Höllu leist þá ekki á að spyrja hana um meira.

Hún sá, að hann hafði hring á hægri hendi, á sama fingri og algengt var að bera trúlofunarhringi á; en það var steinhringur, og gat því enga vissu gefið, því hún vissi þess engin dæmi, að steinhringir væru hafðir til slíkra hluta.

Hún sá hann skrifa mikið af bréfum og senda burtu, en hún sá aldrei, hvað utan á þeim stóð.

En eftir því sem leið á haustið, duldist henni það ekki, að prestinum leið ekki vel.

Hún tók eftir drungaskýjunum, sem hvíldu á svip hans, og hún hlustaði margsinnis á hann, þegar hann gekk um gólf í stofunni, æstur og órólegur. Hún heyrði hann hraða göngunni eða standa kyrran, eða jafnvel reika, og hún komst líka að því, að hann lá andvaka á nóttunni og gat ekki sofið. Hún hafði jafnvel heyrt hann andvarpa, og hún trúði því fastlega, að hann væri að biðjast fyrir.

Henni datt margsinnis í hug, hvort hann væri sjúkur.

Henni datt meira að segja í hug að spyrja hann að því. En hún var hrædd um, að það kynni að þykja of nærgöngult, kynni ef til vill að styggja hann, meðan hann kvartaði ekki sjálfur, og þess vegna hætti hún við það.

En eftir einu hafði hún tekið, og það var það, að presturinn gaf henni meiri gaum nú en áður. Hún fann það, þótt hún létist ekki sjá það og mætti ekki sjá það, að hann hætti að skrifa eða lesa og aðgætti hana nákvæmlega, þegar hún var eitthvað að gera inni í stofunni hjá honum. Hún sá það raunar, að hann vildi leyna því, að hann grúfði sig aftur yfir verk sitt, ef hann hélt, að hún hefði tekið eftir því, að hann gæfi gætur að henni. En það var ekki nema þangað til hún sneri sér við; þá fylgdu augu hans aftur hverri hreyfingu hennar.

Henni var ekki mikið um þetta gefið; og þessi vaxandi gaumur, sem presturinn gaf henni, var henni ærið umhugsunarefni, sem gerði hana órólega; - en samt fannst henni, sem hún mundi sakna þess, ef hann hætti því. - -


Svo var það eitt kvöld, skömmu fyrir veturnæturnar, að hún átti að fara inn til hans með nýtt, logandi kerti, sem hún ætlaði að færa honum.

Hún stansaði fyrir framan dyrnar ofurlitla stund og hlustaði. Hann gekk um gólf; það var ein af þeim stundum, sem hann háði sitt snarpa hugarstríð.

Hún heyrði það á fótatakinu, að hann var í einhverri baráttu við sjálfan sig, og hún kenndi í brjósti um hann, þótt hún skildi ekki, hvað það væri, sem honum bjó í brjósti. Einhver óró og kvíði greip hana, sem hún skildi ekkert í, og það var að því komið, að hún hætti við að fara inn til hans.

Samt drap hún hægt, en þó greinilega á dyrnar. Hún heyrði að hann stansaði; hann hafði þó heyrt, að einhver var að koma.

Hún opnaði og gekk inn.

Hann stóð hreyfingarlaus á gólfinu í hálfskugga, því kertið, sem hann hafði, var að slokkna út af niðri í stikunni.

Hún flýtti sér að ganga frá nýja kertinu í stikunni, en gat ekki leynt þeim áhrifum, sem aðkoman hafði haft á hana, svo handtökin voru óviss og brjóstin lyftu sér af þungum andardrætti.

Hún vissi, að hann horfði á hana á meðan. Það jók óró hennar, svo henni fipaðist og hún var rétt búin að missa niður kertið.

Í sömu svipan og án þess hún hefði heyrt til hans var hann kominn fast að henni eins og til að hjálpa henni.

Hún hjálpaði sér þó sjálf. En svo varð henni litið á hann.

Hann stóð kyrr sem fyrr og horfði á hana. Henni fannst sem hann mundi langa til að segja eitthvað við sig.

Aldrei hafði hún séð hann slíkan; og það var ekki laust við, að henni stæði hálfgerður beygur af honum.

Hún stóð kyrr og horfði á ljósið, sem hún var ekki búin að sleppa; hún var að bíða, hún vissi ekki sjálf eftir hverju.

Allt í einu hrökk hún við. Hún fann mjúka, hlýja hendina á honum strjúkast um kinn sér og staðnæmast undir hökunni.

Hún lyfti upp höfðinu og leit framan í hann.

Í fyrsta skipti mættust augu þeirra.

Aldrei hafði hún fyrr séð slík augu. Aldrei hafði hún getað hugsað sér annað eins djúp af viðkvæmni og sárri hugarraun, hjálparvon og bæn, eins og það, sem hún sá í þessum karlmannsaugum.

Hún stóð sem steini lostin af undrun og heyrði og sá eins og hálft í leiðslu. Hún fann, að mjúku fingurnir, sem hann hélt enn þá undir hökunni á henni, titruðu, og hún heyrði, að hann reyndi að segja eitthvað, sem hann varla gat gert skiljanlegt. Röddin var óstyrk og orðin hálfköfnuð á vörum hans. Loksins gat hann þó gert setninguna skiljanlega:

"Halla - ég á yður mikið að þakka. Þér komið ævinlega með ljós - með sólskin inn í stofuna til mín."

Lengri varð ekki samræðan. Það var sem Halla kæmi til sjálfrar sín við að heyra hann tala, þótt hún skildi ekki til fulls, fyrr en síðar, hvað hann sagði. Hún blóðroðnaði og leit niður fyrir sig.

Hún fann, að hann beygði sig niður eins og hann vildi kyssa hana; en hún beið ekki eftir því. Hún sagði: "Góða nótt" - og gekk út úr stofunni í skyndi.


Síra Halldór stóð eftir á gólfinu hreyfingarlaus og höggdofa.

Það var líkast því sem hann hefði verið að dreyma og hann hefði gert það, sem hann gerði, í leiðslu. En nú hrökk hann upp.

Hvað hafði hann gert? Hann hugsaði til þess með skelfingu, að hann hafði tapað valdinu yfir sjálfum sér, að hann hafði gert sig brotlegan við þær skyldur, sem á honum hvíldu sem vígðum manni - brotlegan við þann hjartans ásetning sinn, sem hann hafði innsiglað með dýru drengskaparheiti. Hann hafði ekki getað ímyndað sér þá, að í því heiti feldist sú krafa, sem sér væri um megn að halda. Og nú hafði hann brotið á móti henni.

Hann settist niður og fór að hugsa betur um þetta. Hann hafði verið í öngum sínum, eins og oftar, háð stríð við hugsanir sínar og tilfinningar. Hún hafði komið eins og frelsandi engill inn til hans og dreift skuggunum frá sálu hans. Hann sá hana enn þá fyrir sér eins og hún hafði staðið við borðið, þegar hún var að ganga frá kertinu. Hún var óstyrk, henni var þungt um andann, svo brjóstin gengu upp og niður, eins og öldur - ef til vill allt saman hans vegna; og hún var óvanalega feimin. Allt þetta fór henni svo eðlilega og gerði hana svo undur aðlaðandi, - já, töfrandi. Það var sem streymdi út frá henni dámagn, sem svipti hann sjálfræðinu.

Og hvað hafði hann þá gert? Hann hafði strokið um rjóðu kinnina og stutt fingrunum undir hökuna á henni, eins og hann væri að gera gælur við ófermdan krakka; og litið framan í hana um leið og hann stamaði fram meinlausri setningu. Þetta var allt og sumt!

Hann var ekki í efa um, hvernig sumar af þeim stúlkum sem hann hafði þekkt, mundu skilja þetta: aðeins sem meinlausan og marklausan leik, og ekkert meira.

En hvernig mundi hún skilja það? Hún, sem var saklaus og ósnortin og barnslega viðkvæm. Hún hafði litið undan og blóðroðnað og flýtt sér frá honum.

Hann hafði verið henni of nærgöngull; nú varð það ekki aftur tekið. Hafði hann móðgað hana?

Hvað mundi hún ætla að gera? Hætta að koma inn til hans? Afsegja að þjóna honum? Klaga hann fyrir húsmóðurinni, gömlu prestsekkjunni, ströngu og þurrlegu - ? Hver veit, hvað þessari viðkvæmu sveitastúlku kynni að detta í hug?

En þannig mátti þetta ævintýr ekki enda.

Eða mundi hún ekki láta neitt á neinu bera, gera sín verk - en umgangast hann steinþegjandi, með tvöfalt meiri kulda og tortryggni en hingað til? Átti að verða ísköld, helblá jökulsprunga á milli þeirra framvegis?

Nei, nei, við það gat hann ekki lifað. Nú var hún orðin honum dýrmætari en allt annað; nú gat hann ekki hugsað til að lifa án hennar á þessu prestssetri. Hann mátti til að tala við hana, hann mátti til, þó ekki væri til annars en biðja hana að fyrirgefa sér, - eða - eða.

Nei, hann hrökk við fyrir sinni eigin hugsun. En mátti til að tala við hana sem allra fyrst, og hann beið með óþreyju eftir tækifærinu.

Hann stóð á fætur og fór aftur að ganga um gólf. Honum var léttara um hjartað, þótt hann væri enn langt frá því að vera rólegur. Honum fannst sem hrokkið hefði utan af sér hlekkur - sá hlekkurinn, sem mest þjakaði honum. - Hann var aftur kominn inn í eitt af sínum gömlu ævintýrum; það var byrjun - og enn þá var ekki unnt að ráða í, hvernig framhaldið yrði.


Þessi atburður var líka ærið umhugsunarefni fyrir Höllu.

Hún fann, að hún hafði komist í geðshræringu, fann, að hún hafði roðnað, og var hrædd við, að hún ætti bágt með að leyna því, ef hitt fólkið sæi hana þá þegar. Hún gerði sér því hitt og annað til tímaeyðslu frammi í bænum fyrst um sinn, meðan hún væri að jafna sig.

Henni fannst enn þá förin eftir mjúku fingurna brenna sig undir hökunni; henni fannst hún enn þá horfa framan í andlitið, sem hún sá, þegar hún leit upp. Hún hafði aldrei séð eins vel framan í hann, og svipur hans hafði aldrei grafið sig eins djúpt í huga hennar og í þetta skipti.

Andlitið, augun, já, allur svipurinn var svo þrunginn af sorg og viðkvæmni, svo ákaflega huggunarsnauður og myrkur, að hún hafði aldrei getað ímyndað sér slíkt.

Og röddin! - Það var eins og hún kæmi úr lokuðum hraunhvelfingum; og þó hafði hún keim af hans vanalegu rödd, sem henni fannst svo þýð og hreimfögur.

Allt þetta var henni erfið gáta, sem hún skildi ekkert í.

Hún fann, að hann hafði enn þá ekkert verið búinn að segja af því, sem honum var niðri fyrir. Henni fannst hún hafa gert honum rangt til með því að fara frá honum. Ef til vill hafði hún sært hann svo, að hann héldi þessu samtali aldrei áfram. Og það vildi hún þó síst af öllu.

Hana hálflangaði til að fara aftur inn til hans og spyrja hann um, hvað hann hefði átt ótalað við hana; en hún hætti við það; það var ekki sæmilegt.

Það hlaut þó að vera eitthvað þýðingarmikið. Ætlaði hann að ávíta hana? Og fyrir hvað? Hún leit í huganum yfir allt, sem hún hafði gert í hans þágu; hún var ekki sek í neinni vanrækslu.

Hann hafði heldur ekki byrjað í ávítunarrómi. Það var öðru nær. Hann hafði sagt, að hann væri henni þakklátur, því hún kæmi ætíð með sólskin inn í stofuna til sín.

Hvað átti hann við?

Ráðningarnar gátu verið henni bæði til hryggðar og gleði. Þær gátu ekki verið nema á tvo vegu: Annaðhvort var þetta marklaust orðaflapur, sem enga þýðingu hafði, eða - hann elskaði hana.

Ef það væri einskisvert orðaflapur, - ef hann aldrei framar hirti um að halda þessu áfram, sem hann var byrjaður á að segja, eða ef hann léti það dragast og umgengist hana jafnókunnuglega og áður, - þá fannst henni hún ekki mundi geta séð hann framar; að hún mundi fá svo megna óbeit á honum, að hún yrði að fara burtu af heimilinu, hvað sem það kostaði.

En ef hann elskaði hana?

Nei, það var óhugsandi. Hún, bláfátæk sveitastúlka, og hann - presturinn! Hún mátti ekki hugsa annað eins. Hann gat ekki tekið svo langt niður fyrir sig.

En hún hvarf þó aftur og aftur að þeirri hugsun. Hún hafði oft hugsað um það áður, hve mikla eftirtekt hann veitti henni, stöðugt meiri og meiri. Hún hugsaði líka mikið um þá breytingu, sem orðin var á honum á seinni tímum. Hvað var það, sem að honum gekk? Var hann sjúkur? Sjúkur af ást - til hennar! Hún gat ekki annað en brosað að slíkum hégóma!

Hún reyndi að telja sér trú um, að hann væri bundinn einhverri annarri. Vildi hann aðeins hafa hana fyrir leikfang?

Nei, - öðru eins gat hún ekki trúað. Hann var of vænn maður til þess, of góður og einlægur. Eða vildi hann brjóta af sér einhver eldri bönd, til þess að geta tekið hana að sér? Var það það, sem að honum gekk? Því gat hún heldur ekki trúað.

Þannig vafðist hugur hennar milli vonar og ótta. Henni fannst óþolandi að bíða eftir ráðningunni á þessari gátu; hún hefði fegin viljað gefa það lítið, sem hún átti til, til að fá hana þá þegar.

Svo datt henni í hug að láta tilviljunina svara.

Að vísu var ekki mikið á því svari byggjandi; það kannaðist hún sjálf við. En hún hafði gaman af að reyna það samt.

Hún gekk inn í baðstofuna. Allir voru háttaðir og sofnaðir þar fyrir góðri stundu.

Tunglið var í fyllingu og hátt á himni og skein inn um þekjugluggann uppi yfir rúminu hennar í frambaðstofunni. Geislinn varpaði skýrri mynd af rúðunum og gluggaumgerðinni á mitt rúmið og gólfið fyrir framan það.

Halla seildist í spil, sem hún vissi, að voru á hillu yfir rúmi tveggja vinnumanna, sem stundum voru að spila í frístundum sínum. Hún tók ofurlítinn stokk ofan af spilabunkanum, án þess að vita, hve mörg þau voru, og fór að telja þau fram í tunglskinið á rúminu. Svarið var undir því komið, hvað seinasta spilið segði.

Hún kastaði einu og einu spili:

"Hann elskar mig. - Hann elskar mig ekki. - Hann elskar mig. - Hann elskar mig ekki. - Hann elskar mig."

"Hann elskar mig" kom á seinasta spilið, og hjartað kipptist við í brjóstinu á Höllu.

Þannig hafði tilviljunin svarað.

Hún lét spilin aftur upp á hilluna og fór að hátta.

En hún gat ekki sofnað. Hún var að hugsa um það, sem spilin höfðu sagt. Hún vildi ekki kannast við það fyrir sjálfri sér, að hún legði neinn trúnað á það, en ef þau hefðu nú logið, þá fann hún, að sér mundi verða illa við öll spil, sem hún sæi, alla sína ævi.

En ef þau hefðu nú sagt satt - ?

Hún ímyndaði sér, hvernig fólkinu mundi verða við þá sögu, ef það fréttist, að hún væri trúlofuð prestinum!

Hún sá í anda svipinn á kunningjastúlkum sínum, sem urðu að sætta sig við rétta og slétta bændasyni eða vinnumenn, - ef þær annars áttu nokkuð að fá, - en hún fengi prest!

Eða augun í piltunum, sem hafði litist vel á hana, þegar þeir sæju hana ganga frá altarinu með prestinum!

Og hún sá fyrir sér syfjaða andlitið á veslings Ólafi sauðamanni, þegar hann sæi áhrif - eða áhrifaleysi - allra spesíanna, sem hann hafði lagt svo mikið kapp á að safna!

Já, henni var sem hún sæi framan í húsmóður sína, gömlu prestsekkjuna, þegar hún færi að óska sér til hamingju. Hún vissi, að hún mundi ekki segja mikið; en hún gat nærri um hugrenningar hennar og tilfinningar, þegar hún vissi, að hún, vinnukonan hennar, ætti að taka við sæti hennar á heimilinu, undireins og það losnaði.

Halla var þröngsýn eins og barn í ástamálum og eftir því bjartsýn. Hún gat varla hugsað sér hjónaband án ástar, og þaðan af síður ástir án hjónabands. Ef presturinn elskaði hana, þá hlaut hann að geta gifst henni; annars elskaði hann hana ekki. -

Út frá þessum hugleiðingum sofnaði Halla loksins. En svefninn var léttur og óvær, og hugsanir héldu áfram á sína vísu í draumum hennar.

Af og til hrökk hún upp, vakti ofur litla stund og sofnaði svo aftur; en hver blundur færði henni nýjan og nýjan draum.

Hana dreymdi prestinn, þar sem hann stóð frammi fyrir henni, studdi fingrunum undir hökuna á henni og horfði framan í hana; en það var á allt öðrum stað en kvöldinu áður, miklu bjartara umhverfis þau, og hún hélt á blómi, en ekki kerti.

Hana dreymdi hann uppi í prédikunarstólnum, þar sem henni fannst hann stækka og fríkka og að lokum sveipast geislahring, - eins og allt það, sem menn sjá í gegnum tárin.

Og hana dreymdi, að hann kom inn að rúminu hennar, laut niður að henni til að kyssa hana og hvíslaði: "Halla, ég elska þig!" -

En undir morguninn skipti draumurinn um efni.

Hana dreymdi Guðrúnu gömlu fóstru sína.

Það var gömul kona, sem hún hafði kynnst þegar hún var munaðarlaust barn. Hún hafði verið látin sofa hjá henni og gamla konan tekið ástfóstri við hana, verið henni fádæma góð, frætt hana um margt og kennt henni margt fallegt, sem hún ávallt mundi, einkum sögur og ævintýri, gömul kvæði og heilræðavísur. Enga manneskju hafði Halla elskað eins mikið og hana til þessa. Nú var hún dáin fyrir mörgum árum.

Aldrei hafði Höllu dreymt hana fyrr en nú. Nú birtist hún henni, hún vissi ekki hvar. Hún sagði ekkert við hana; en hún var myrk og alvarleg á svipinn, og tillitið lýsti aumkun og aðvörun.

Eftir það gat Halla ekki sofnað. Þessi draumur um fóstru hennar gerði hana alvarlega um stund. Hvers vegna hafði hana aldrei dreymt hana áður, og hvers vegna birtist hún henni einmitt nú? Hví var hún svona alvarleg á svipinn og hvers vegna sagði hún ekkert við hana?

En bjartsýnið sigraði. Jafngóð manneskja og fóstra hennar hafði verið gat þó ekki komið til að boða henni neitt illt.

Svo fór hún að hugsa um hina draumana, sem voru henni geðfelldari og sem fljótt urðu henni að vökudraumum.


Allan daginn var Halla að hugsa um þetta og velta því fyrir sér á ýmsar lundir. Sömu vonirnar og sömu efasemdirnar hryggðu hana og glöddu til skiptis.

Hún vann verk sín eins og hún var vön; en það var auðvelt að sjá, að hún var öll annars hugar. Henni hafði aldrei fipast eins oft og aldrei hætt eins við að gleyma.

Hún gaf prestinum nánar gætur um daginn. Að vísu var hún sjaldan inni hjá honum, og ekki nema stutt í einu, og þeim fóru engin markverð orð á milli. En hún fann, að honum var enn hið sama niðri fyrir eins og kvöldinu áður; hann sat um tækifæri til að geta talað við hana og gaf nákvæmar gætur að hverju hennar spori. Hún var því ekki lengur í efa um, að hann ætti eitthvað ósagt.

Kvöldið kom án þess nokkuð bæri til tíðinda.

Allt heimilisfólkið var komið inn í baðstofu og setst um kyrrt. Flestir voru þreyttir og urðu hvíldinni fegnir. Enn þá var ekki farið að kveikja að jafnaði; og þetta kvöld var tunglskinið inn um baðstofugluggana látið nægja. Menn háttuðu að vanda, hver ofan í holu sína, og sofnuðu fljótt.

Halla gekk fram í bæjardyr og hlustaði við stofuþilið; presturinn gekk um gólf þar inni.

Síðan gekk hún út á hlaðið. Veðrið var undur fagurt - fegursta hauskvöldið, sem komið hafði um langan tíma. Hinn gamli trúnaðarvinur elskendanna, tunglið, skein í heiðríkju. Jörðin var auð og stirndi ofur lítið af hrími. Skuggarnir af bæjarhúsunum köstuðust skáhallt fram á hlaðið; aðeins undir þiljunum bar skugga á.

Henni var venju fremur órótt innan brjósts, hún var óstyrk og hjartað sló ákaft.

Hún gekk eins og utan við sig fram á hlaðið, beint fram undan stofugluggunum, og stóð þar kyrr um stund, án þess að gera sér grein fyrir, hvers vegna hún gerði það.

Hún leit inn í stofugluggana. Þar var ekkert ljós; presturinn gekk um gólf við tunglskímuna. Henni kom í hug að gera sér eitthvert erindi og ganga inn til hans. En henni hraus hugur við því; það var orðið svo framorðið.

Svo varð henni reikað vestur um hlaðið að skemmudyrunum. Þær stóðu opnar; en það var engin nýjung; það kom svo oft fyrir, að það var gleymt að loka þeim. Tunglið skein inn um dyrnar, og lagði breiða ljósrönd yfir dálítinn kafla af gólfinu, sem var auður. Allt í kringum hana var staflað reiðingum og ýmsum búsáhöldum.

Halla stansaði og horfði á þetta. Einhver ónotabeygur læsti sig um hana. Þarna var það, á þessum bletti, innar af dyrunum, sem tunglskinið nú breiddi sig yfir - þarna var það, að hún hafði legið meðvitundarlaus í blóði sínu, þegar hesturinn sló hana.

Hún var þá barn að aldri, og það var í fyrsta sinn, sem henni var lofað til kirkju. Hún var að leika sér á hlaðinu með öðrum börnum. En hestur, sem þar var bundinn við hestasteininn, sló hana, svo hún hraut inn á skemmugólfið og lá þar í óviti með blæðandi sár á höfðinu.

Hún greip með hendinni upp á höfuðið á sér; þar var örið enn þá.

Hún hafði daglega gengið um þennan stað ng aldrei dottið þetta í hug fyrr en nú. Nú stóð þessi atburður sem ljóslifandi fyrir henni. Og það fór um hana hrollur við þessa endurminningu.

En hún hafði ekki langan tíma til að hugsa um það. Hún hrökk saman. Hún heyrði marra í stofuhurðinni, sem boðaði henni, að dyrunum væri lokið upp. Presturinn var að koma.

Hún vissi ekki, hvað hún átti af sér að gera. Hún vildi ekki verða á vegi hans, - ekki núna. Hún kenndi sig ekki færa um það. Hún var svo óstyrk, svo óróleg og hjartað barðist svo óvanalega í brjósti hennar. Og eins og til að fela sig, gekk hún inn í skemmuna.

En það skipti engum tökum. Hann var kominn á eftir henni. Hún heyrði skrefin hans yfir hlaðið - inn í skemmuna. Hann fleygði aftur hurðinni, svo tunglsljósið náði aðeins inn til þeirra gegnum rifurnar. Fundum þeirra bar saman á sama blettinum sem hún áður hafði virt fyrir sér og hugsað um.

Hún vildi flýja - en hvert? Nú var öllum sundum lokað. Hún fann hann leggja handlegginn utan um mittið á sér; ekki titrandi og hikandi eins og fingur hans voru, sem hann hafði stutt undir hökuna á henni kvöldið áður, heldur fast og eindregið, eins og handleggurinn væri úr járni.

Hún reyndi að hljóða upp yfir sig; en hljóðið dó í hálsinum á henni. Hún reyndi að hreyfa handlegginn til að ýta honum frá sér; en það var sem viljinn væri lamaður; - engin fyrirskipun heilans kom til framkvæmda. Allt þetta flókna sigurverk, sem við í einu orði nefnum sál, var sem hætt að hreyfast.

Hún fann varir hans rétt við vangann á sér, heyrði hann anda inn í eyra sér orðunum, sem hún hafði bæði þráð og kviðið fyrir:

"Halla, ég elska þig, - elska þig!"

Hún heyrði hann endurtaka það með ástríðuákefð, eins og hann efaðist um, að hún heyrði það eða skildi; og hann þrýsti henni fastar að sér, eins og hann væri hræddur um að missa hana, þótt hún hefði ekki enn þá gert minnstu tilraun til að slíta sig af honum.

"Halla, ég elska þig!"

Hana svimaði. Það var líkast því, að hún væri að gleyma sjálfri sér. Allt hennar tilfinningalíf var á slíku reiki, að það líktist helst ólgandi sjó, sem enginn vindblær, enginn straumur beinir í stefnu, en þar sem öldurnar falla hver yfir aðra.

Loks var sem ein tilfinning brytist fram í gegnum allar aðrar. Brytist út frá hjartanu og sendi logandi heitan straum út í hverja æð og hverja taug, hverja lífsfrumlu í öllum líkama hennar. - Tilfinning ósegjanlegs unaðar. -

Halla, ég elska þig!"

Og Halla lagði höfuðið upp að brjóstum hans og rétti fram varirnar til þess að meðtaka heilt steypiflóá af brennandi kossum - frá "fyrirmynd trúaðra í lærdómi, hegðun, elsku, trú og skírlífi".


6. kafli

Höllu tókst snilldarlega að leyna því fyrir heimilisfólkinu, sem skeð var. Prestinum veitti það léttara; hann var meira einangraður og umgekkst lítið bæði heimamenn og utanbæjarmenn. Honum voru ævintýri af þessu tagi ekki heldur eins ný og henni. Auk þess þekktu hann fáir, en hana hugðust fleiri þekkja.

Hún var þó ekki söm og áður. Hún var hljóðari og gekk meira í þönkum, sneiddi fremur hjá glaum og glensi annarra heimamanna; og þegar hún hló, var hláturinn ekki eins skær og hjartanlegur eins og hann hafði áður verið.

Henni hafði alltaf verið lítið um það gefið, þegar hinar stúlkurnar gáfu henni glósur um stöðu hennar á heimilinu, eða ertu hana með prestinum. Nú var henni þvílíkt spaug alveg óþolandi, þótt hún neyddist til að láta lítið á því bera.

Breytingin, sem á henni var orðin, var því ekki svo mikil á yfirborðinu, að neinn renndi grun í það, hvað í efni væri. Þeir voru meira að segja til, sem þótti þessi litla breyting, sem sjáanleg var, fara henni afbragðsvel, gera hana hæglátari, alvarlegri og kvenlegri.

Halla reyndi meðal annars að dylja sig með því að sökkva sér enn þá meira niður í dagleg störf sín. Hún lét aldrei hjá líða frá morgni til kvölds að hafa jafnan eitthvað fyrir stafni, og þegar hitt fólkið naut frítímanna með því að hvíla sig, skemmta sér eða gaspra saman í baðstofunni, sat Halla að jafnaði með einhverja vinnu milli handanna og virtist vera með allan hugann við hana, svo að hún hefði litla sinnu á því, sem fram færi í kringum hana. Það var þá um leið afsökun gegn hinu fólkinu og áminning um, að því bæri að trufla hana sem minnst. Og verk vantaði Höllu aldrei.

En þó voru augu til á heimilinu, sem Halla fann, að erfitt var að villa sjónir.

Það voru augu húsmóðurinnar, gömlu prestsekkjunnar. Henni duldist það ekki, að Halla bjó yfir einhverju. Hún horfði oft á hana, spyrjandi og rannsakandi, og Halla vissi af því, þótt hún þyrði ekki að líta upp; henni fannst þessi gráu, stingandi hvössu augu gömlu konunnar borast í gegnum sig. Og þegar hún fann, að hún var undir rannsókninni, þá gat hún ekki varist því, að blóðið hlypi fram í kinnarnar á henni.

En gamla konan sagði aldrei neitt.

Þegar Halla var að vinna eitthvað með henni, þá var sem hún stæði á glóðum. Hún var hrædd um, að hún færi að spyrja sig, spyrja sig óþægilegum spurningum, sem það kynni að vefjast fyrir sér að svara. En gamla konan spurði aldrei neins.

En þó breytingin, sem orðin var á Höllu, sýndist lítil, var hún í raun og veru mikil. Hún þekkti ekki sjálfa sig sem sömu manneskju. Rósemi hennar var farin, sálarjafnvægi hennar var raskað. Von og kvíði, ást og ótti háðu þar stöðugt stríð, gerðu hana viðutan á daginn og hindruðu næturværð hennar.

Hún fann, að hún hafði misst fótfestu og dróst viljalaust og hjálparlaust að þessum manni, sem hún unni hugástum, unni eins og lífinu í sínu eigin hjarta, en sem hún þekkti alls ekkert og vissi alls ekkert, hvernig ástatt var fyrir. Hún fann, að hún gat ekki rifið sig út úr þessu ævintýri, gat ekki slitið sig af honum, þótt hún beitti sínu ýtrasta megni. Vilji hennar var bundinn af vilja hans, og hver sem tilgangur hans var, varð hann að ráða. Hún gat ekki annað en varpað allri sinni áhyggju upp á hann. Hann varð að ábyrgjast, hvað á eftir færi. Og hún treysti honum, því hún elskaði hann.

En svo komu efasemdirnar, pínandi sárar.

Var þetta traust á honum ekki oftraust? Var hann fær um að taka á sig þessa ábyrgð? Var hann fær um að leiða þetta vandamál til lykta á hamingjusamlegan hátt? Og hvernig þá? Með því að giftast henni? Hún brosti efablandin. Svo fagur draumur gat varla rætst.

Og því þá ekki? Hann hafði sagt, að hann elskaði hana. Hann hafði margsagt það, og með ákefð og tilfinningu. Og því þá ekki að giftast henni? Voru eldri bönd á honum, sem hann gat ekki af sér brotið? Það fór hrollur um hana við þá hugsun.

Nei, nei, hún mátti ekki byggja neinar vonir á svo sælum draumi. Hún var óverðug til að verða konan hans, óverðug til að taka við prestskonustöðunni og fylgja svo miklum og góðum manni gegnum allt lífið. Ef hann krefðist þess af henni, þá var það annað mál; en hún mátti ekki krefjast þess af honum.

En ef hann giftist henni ekki. Hvað þá?

Nei, hún mátti ekki hugsa til þess. Henni fannst það mundi gera sig örvita að sjá hann taka sér aðra konu. Nú vissi hún að, hann elskaði sig - og hann hlaut að halda áfram að elska hana. - Engin önnur gat orðið ástar hans aðnjótandi. Engin önnur mátti njóta hennar.

En hún efaðist heldur ekki um, að hann mundi reynast sér vel. Hann átti ekkert vantraust af henni skilið.

Og hvíldi þá ekki ábyrgð á henni líka? Hún var ekkert barn lengur, heldur fullorðin stúlka, sem átti að kunna fótum sínum forráð.

Hún hafði látið sér einkar annt um hann, allt frá því hann kom. Hún hafði hreina samvisku um, að það var aðeins af skyldurækni. En ef til vill hafði hann misskilið það.

Hún hafði tekið eftir eirðarleysi hans og hugarstríði og fundið hjá sér hluttekningu. Hafði hann orðið þeirrar tilfinningar var? Ef svo var, þá var það ekki með hennar vilja.

Hann hafði eitt kvöld - kvöldið áður en hann játaði henni ást sína - verið henni óþarflega nærgöngull. Því hafði hún þá ekki brugðist reið við? Því hafði hún ekki sýnt honum kulda og fyrirlitningu daginn eftir, svo hann aldrei framar leyfði sér annað eins?

Og svo kvöldið, sem fundum þeirra bar saman fyrir alvöru. Hafði hún þá ekki beinlínis verið á njósnum um, hvernig honum liði, og hvað hann hefðist að? Hafði hún ekki beinlínis lokkað hann, með því að ganga fram á hlaðið í tunglskininu og láta hann sjá, að hún væri þar ein? Og hafði hún ekki eins og stefnt honum á þennan afvikna stað, með því að fara einmitt þangað?

Og því hafði hún ekki hlaupið frá honum, hrundið honum frá sér, varið sig, hljóðað, æpt á hjálp, gert gauragang - ?

Nei, - öll þessi smáatvik höfðu gengið eins og þau væru lögð niður fyrirfram. Það gekk allt sem eftir órjúfanlegu boðorði. Hún gat ekki annað.

Það var sem rödd innra hjá henni segði henni að ganga hvert spor þannig og ekki öðruvísi, gera þetta og ekki annað. Hún vissi, að það var sinn eigin veikleiki og breyskleiki; hún átti að stjórna sjálfri sér. En það mátti einu gilda, hvað það var. Það var hennar sök, sem hún átti að taka afleiðingunum af. Hún var heldur ekki ábyrgðarlaus.

Nú hugsaði hún líka út í það, að það var eins og ótal smáatvik hefðu aðvarað hana. Hún mundi vel eftir augum húsmóðurinnar, þegar hún hafði spurt hana, hvort presturinn væri giftur. Í því tilliti hafði falist óbein bending um, að það væri mál, sem henni kæmi ekki við.

Hún mundi eftir draumnum, sem hana hafði dreymt seinustu nóttina á undan þessum atburði. Nú skildi hún, hverju fóstra sín hafði búið yfir.

Hún mundi líka eftir því, sem henni hafði dottið í hug, þegar hún leit inn á skemmugólfið, þar sem hún hafði legið, þegar hún meiddi sig. Hún mundi vel, hvað þessi gleymdi atburður hafði þá staðið sér skýr fyrir hugskotssjónum, eins og hrópandi aðvörun um, að hún væri í hættu stödd.

Því lengur sem Halla velti þessu öllu fyrir sér, því meiri varð grunur hennar eða beygur fyrir því, að þetta ævintýr leiddi til einhvers óláns.

Stundum gripu ásakanirnar, kvíðinn og allar þessar ömurlegu hugsanir hana slíkum afltökum, að hún varð klökk og gat varla tára bundist.

Ef hún þá var stödd hjá öðrum mönnum, herti hún sig upp, svo tárin komust aldrei lengra en fram í augun. En ef hún var ein, þar sem hún var viss um, að enginn heyrði sig eða sæi, gaf hún eftir fyrir tilfinningum sínum og grét eins og lítið barn.

En Halla hafði sterka forlagatrú, og allar íhuganir hennar enduðu að lokum með þeirri ályktun, að allt, sem skeði, væri eilífur og óbreytilegur vilji forsjónarinnar. Sköp hennar og allra manna voru í guðdómlegum höndum, og allt var fyrirfram ákveðið, bæði það blíða og stríða, - einnig þetta ævintýr hennar.

Hún fann stjórn og handleiðslu í öllum þessum smáatvikum, sem leiddu hvert af öðru og voru ofin saman. Hann, sem öllu stýrði, hlaut að hafa einhvern tilgang með því; einhvern góðan tilgang; en hans vegir voru órannsakanlegir.

Það var synd að reyna að rannsaka þá, synd að reyna að leita frétta af framtíðinni. Það var vantraust á hans guðdómlega vísdómsráði og föðurlegu forsjá.

Og hún beygði höfuðið eins og gott barn fyrir þessu valdi og sagði í auðmýkt: Verði þinn vilji! -

Og þegar Halla hafði grátið út eða hugsað sig þreytta tók hún aftur til vinnu sinnar, með endurfætt bros á vörunum, - sæl í trú sinni og sæl í ást sinni.


Umgengni þeirra Höllu og prestsins hafði líka tekið breytingum. Nú skildu þau hvort annað. Nú vissu þau hvort um sig, hvað hinu bjó í brjósti. Að vísu fór því fjarri, að þau þekktu enn þá hvort annað til hlítar; en þó svo mikið, að öll feimni var framvegis ónauðsynleg, og allt of mikil hæverska þeirra á milli hlaut að skiljast sem hlægileg uppgerð.

Auðvitað gerðu þau sér allt far um að umgangast jafnókunnuglega og áður, þegar aðrir sáu til. Hvorugu fipaðist þar í hlutverki sínu.

Það var aðeins í einrúmi, sem óhætt var að létta af sér grímunni, þegar áreiðanlegt var, að enginn sæi til þeirra. Og augnablikin, sem þau voru tvö ein, voru ekki færri nú en áður.

Halla stundaði verk sín með sömu alúð og nákvæmni og áður. Hún gekk álíka oft um stofuna, þegar hann var þar inni, eins og hún hafði áður gert.

En einu var þó við bætt, sem til umbóta horfði, þótt lítið væri; hún hafði oft gleymt að láta stofuhurðina aftur á eftir sér, þegar hún gekk þangað inn; en þegar hún stóð opin, mátti sjá úr bæjardyrunum og göngunum inn um alla stofuna. Nú gleymdi hún þessu aldrei.

Hún hafði líka fundið það algerlega óhæfilegt, að hægt væri að glápa af hlaðinu inn til prestsins, þegar hann sæti þar við vinnu sína; þess vegna fékk hún húsmóður sína til að leggja til hvít léreftstjöld, sem hengja mætti fyrir gluggana að innanverðu á kvöldin, þegar hann væri búinn að kveikja; gamla prestsekkjan lét þetta fúslega í té; en heimamönnum þótti þetta undarleg nýbreytni; þar höfðu fáir séð gluggatjöld áður. -

Það var líka erindisleysa ein fyrir þá, sem forvitnir voru, að laumast inn í stigaganginn bak við stofuna og gægjast þaðan inn um rifurnar. Halla hafði byrgt þær trúlega, allar saman. En það var auðvitað gert til að útiloka súginn!

En innan þessara þéttuðu veggja fóru hinar smáu, daglegu ástarjátningar fram. Ástarjátningar, sem voru að mestu fólgnar í blíðum, ástríkum tillitum, sem sögðu meira en mörg orð.

Þegar þannig var um búið, var óhætt fyrir þau að brosa hvort við öðru, eins og þær verur einar geta brosað, sem lifa í sælli samhygð.

Já, það var meira að segja óhætt fyrir Höllu að ganga alveg til prestsins, ef hann var önnum kafinn við eitthvað og leit ekki undireins upp, og vekja hann af hugsunum sínum með því að leggja handlegginn ofur blítt um hálsinn á honum og láta brennheita kinnina á sér snerta vanga hans. Jafnlítilfjörlegt bessaleyfi var ekki misvirt.

Nú skildi Halla, hvað hann hafði átt við með því, að hún kæmi með sólskin inn í stofuna til hans. Og nú gerði hún sér far um að koma með sem mest sólskin í einu í hvert skipti, er hún kom þangað. En hún gætti þess þó vel, að vera þar ekki lengi inni í einu, svo komur hennar þangað gætu engan grun vakið.

En þetta var aðeins hin daglega umgengni. Auk þess mæltu þau sér leynimót, eins og tíðkast meðal elskenda, til þess að njóta unaðar ástarinnar, til þess að faðmast og kyssast og hlýða á sætan ástar-fagurgala hvort af annars vörum, og - til þess að segja ekkert alvarlegt eða skynsamlegt orð hvort við annað eða renna huganum nokkurn tíma saman yfir lífið og kringumstæðurnar - og framtíðina.


Síra Halldóri var þetta mikið umhugsunarefni. Honum var það ljóst, að hann var kominn í mikinn vanda og að efasamt var, hvernig úr honum greiddist.

Þær svartsýnishugsanir, sem áður höfðu ásótt hann, höfðu orðið að reyk fyrir öðrum nýjum og miklu stórfelldari.

Hvað var það, að vera andlítill ræðumaður eða tóna óáheyrilega, hvað var það, að tala sér þvert um geð, þegar á lá - og hvað var það í einu orði, að vera pokaprestur, hjá því, ef það kæmi fram í dagsljósið, sem nú var skeð, svo söfnuðurinn fengi að vita alla söguna? Það fór um hann hrollur við slíka hugsun. Leikslokin lágu beint við. Honum var sem hann sæi sjálfan sig fyrir altarinu, þegar bændurnir ryddust að honum í hóp með hrindingum og ákefð, til að toga af honum hempuna.

Og þó fannst honum slíkur úrskurður svo hrópandi ranglátur.

Hann vissi, að hann var réttur að lögum og þeir menn höfðu verið til, og væru enn til, sem höfðu orðið að drekka þennan beiska bikar í botn.

Honum fannst athæfið sjálft og hugsunarhátturinn, sem það studdist við og var fram komið af, vera svo ómannúðlegt, svo gersneytt öllum menningarbrag, svo hráköld vofa eldgamals ruddaskapar, að hann átti bágt með að trúa, að slíkt væri til enn. En hann vissi þó, að svo var.

Hann vissi, að við slík tækifæri var öll skynsamleg yfirvegun fyrir borð borin, öll vörn brotin á bak aftur, hneykslið eitt stóð nakið fyrir mönnum, sektin og refsingin - allt saman fyrirfram vegið og ákveðið, rígbundið við sína verðlagsskrá, eins og vöruverðið á dögum einokunarveslunarinnar.

Og þó vissi enginn af dómurum hans, og gat ekki með nokkru móti vitað, hvað eiginlega hafði gerst.

Enginn gat vitað, hve nálægt hann var fullkominni örvilnun af óyndi og hugarstríði, þegar hann leiddist út í þetta ævintýr. Enginn gat vitað, hve skjót umskipti höfðu orðið þar, hvernig unaðartilfinningin hafði hreinsað huga hans í einum svip frá myrkraöndum þeim, er þar höfðu tekið sér bólfestu, og hvernig hvert einasta augnatillit þessarar góðu, fríðu, ástríku stúlku, sem nú unni honum, enn þá dreifði flókanum, eins og geisli sólarinnar á hádegi, endurfæddi vilja hans og starfsþol og lýsti upp alla tilveru hans, og þetta allt saman þrátt fyrir það, þótt ástin væri í meinum, og ef til vill fremur einmitt þess vegna.

Honum runnu í hug stökur Jóns Þorlákssonar, þar sem hinn göfuglyndi prestur verður að beita ofríki við sjálfan sig til þess að játa ekki fyrir öllum heiminum ást sína og hamingju, hvað sem hver segir, - stríðir móti úreltum, órökstuddum siðferðiskreddum og erfðakenningum steinrunninnar kirkjumenningar, en veit, að hann getur með einni hendingu snúið almenningsálitinu til vægðar og skynsamlegrar íhugunar, samhryggðar eða samhláturs að minnsta kosti - og kveður svo djarfmannlega, þótt undir rós sé, um þær gerðir sínar, sem hann telur sér til sóma, en ekki vansæmis.

Hann hafði kunnað þessar stökur síðan hann var barn, en aldrei skilið þær eins vel og nú, þegar honum fannst hann vera sjálfur líkt á vegi staddur og þjóðskáldið góða.

Hann minntist margra embættisbræðra þeirra, sem hann hafði spurn af, að líkt stóð á fyrir. Þeir höfðu ekkert kveðið; en hann skildi undur vel, hvers vegna þeir höfðu ekki gert það. Enginn fugl syngur, nema hann hafi rödd.

Hann óskaði, að hann væri skáld, svo hann gæti látið hugsanir sínar fljúga út á meðal mannanna á braglistarinnar léttu vængjum og tala máli sínu við hvert hjarta, hvernig sem allt færi að öðru leyti; - skýra hverri manneskju frá, að það, sem hann hefði gert, væri í alla staði eðlilegt og sjálfsagt og yrði sér um allan aldur kær og ógleymanleg minning.

Og þó varð hann að játa fyrir sjálfum sér, að það hefði verið betra að vera laus við þetta ævintýr. Hann fann, að hann hafði dregist út í það af veikleika, léttúð og eigingirni; hann fann, að það hefði verið karlmannlegra, og eflaust eftir á aukið sér siðgæðisþrek, hefði hann verið maður til að láta ekki bugast af sorgum sínum og ástríðum, heldur staðið eins og bjarg, þar til éljunum létti.

Hann hafði aðeins hugsað um sig - alls ekki um hana. Hann hafði anað fram í blindni, eins og vél, sem knúin er af blindu afli. Allt, sem nú færðist upp yfir sjóndeildarhringinn, hefði hann getað séð fyrir.

Nú gat hann ekki lengur hugsað um sig einan. Nú var hún honum kærari en svo, að hann vildi leiða neina ógæfu yfir hana. Hann hafði alls ekki hugsað út í, hver áhrif þetta hlyti að hafa á hana. Nú var hann búinn að raska sálarfriði hennar; nú var fyrir hendi að skapa þar aftur jafnvægi. Hann vissi vel, hve örðugt sér myndi veita það. Hún elskaði hann og hún hafði fest vonir sínar og traust á honum einum.

Ábyrgðin var svo þung, að honum fannst hann mundi vanmegnast undir henni.

Honum var jafnhugarhaldið að verja hana minnkun í augum annarra manna eins og sjálfan sig; niðurlæging hennar var niðurlæging hans um leið.

En fyrr eða síðar hlaut hann að bregðast trausti hennar. Hann hugsaði til þeirrar stundar með kvíðahrolli, þegar hann yrði að segja henni allt eins og væri um hagi sína, eða þegar hún frétti það af öðrum. En sú stund var óumflýjanleg. Það var hægt að fresta henni fram að vissu takmarki, en svo hlaut hún að koma. Þetta var stundar leikur, sem hlaut svo að hafa ákveðinn enda.

En hvað forlögin höfðu hagað þessu öllu óskynsamlega - klaufalega, lá honum við að hugsa. Það var allt gert í blindni, eins og vant var.

Hann bar þær saman í huganum, Höllu og þá konu, sem hann var tengdur. Hvílíkur munur!

Þessar tvær manneskjur voru jafnólíkar eins og lífskjörin voru ólík, sem þær höfðu átt við að búa, og eins og lífskjör hans voru ólík fyrr og nú. Konan hans var Reykjavíkurstúlka, föl og veikluleg, síþyrst í samkvæmisglaðværð og bæjarnýjungar og síhrædd við öll óþægindi og allt það, sem reyndi á ráðsnilld og framtakssemi.

Halla var sveitastúlka, ötul og hraustleg, alin upp við vinnu og baráttu fyrir lífinu, vonglöð og ótrauð og albúin þess að taka því, þótt eitthvað blési á móti.

Hún hefði ef til vill ekki sómt sér í höfðustaðnum á við hina - ekki fyrst í stað. - En nú höfðu forlögin rekið hann úr þeirri Paradís um aldur og ævi og skipað honum til rúms í hennar umhverfi. Hér átti hann að lifa og starfa framvegis og hér átti hún heima. Hér átti hún að vera konan hans.

Honum sárnaði það, hvað þessu var óheppilega komið. Og því lengur sem hann velti þessu fyrir sér, því sjálfsagðara fannst honum, að þannig hefði þetta átt að vera.

Hann var sannfærður um, að þetta hafði verið hugsun forsjónarinnar. Hér átti hún að bæta upp bresti hans, vinna þann hluta af störfum hans, sem hann sjálfur var ekki maður til að vinna. Hún átti ekki að trufla hann eða tefja með óþægilegum smá-áhyggjum og sífelldum kvörtunum; hún var fær um að leysa sitt verk af hendi án hans aðstoðar, vinna í sínum verkahring, vinna fyrir hann og með honum og elska hann.

Hann fann til þess, hve slík sambúð mundi lyfta sér og auka sér siðferðislegan þrótt, með því meðal annars að gefa sér meiri tóm til að rækja dyggilega embættisskyldur sínar, og hann fann það líka, hve mjög það mundi stuðla til að gera sig virtan og elskaðan í söfnuðinum, ef hann tæki að sér bláfátæka, en væna stúlku, sem væri hold af safnaðarins holdi og bein af hans beinum.

Hann var sannfærður um, að einmitt fyrir slíka stöðu væri Halla sköpuð. - Og þeir, sem best þekktu Höllu, mundu hafa samsinnt honum í því. -

En hin - ? Því fór fjarri, að hann vildi varpa rýrð á hana, ekki einu sinni í hugsunum sínum.

En hvað hafði hún með slíka stöðu að gera? Hún, sem aldrei hafði þekkt annað en Reykjavíkurheimili, sem að vísu var ekki efnað, en þar sem henni þó leið vel. Hún, sem alltaf hafði varpað allri sinni áhyggju upp á móður sína. Hvað átti hún að gera með húsfreyjustöðu á sveitaheimili?

Hann vissi, hve sárt hún kveið fyrir því að þurfa að fara burt úr Reykjavík, og hvílíka óbeit hún hafði á sveitabúskapnum. Hann sá hana í huga sér, enn þá fölari og veiklulegri en áður, með stóru, gráu augun síspyrjandi, alltaf vantreystandi, alltaf kvíðandi; og nettu, fríðu andlitsdrættina afmyndaða af óyndi og hugraun, sem hún þó reyndi af öllum kröftum að leyna, til þess að auka sem minnst á byrði hans.

Hann sá hana heimilisfasta í þessu bæjargreni, þar sem allt var missigið, skakkt og að falli komið, fullt af sagga og svælu, súg og ódaun; þar sem allir hlutu að verða henni til ama og leiðinda.

Hann sá hana bólgna um augun af gráti og áreynslu, sem hún var ekki fær um, og sá, hvernig allt heimilisfólkið mundi lítilsvirða hana, hlæja að henni í sinn hóp og tala um hana á öðrum bæjum, jafnvel þó það kenndi í brjósti um hana eða því lærðist að þykja vænt um hana.

Hann sá hana koma til sín, mannsins síns, til að stynja upp kvörtunum yfir raunum sínum - að vísu ekki nema ofur litlum hluta þeirra; en samt allt of miklu til þess, að hann gæti heyrt það með ró og jafnaðargeði.

Hann sá, að hún mundi tefja sig, trufla sig, auka á raunir sínar, í stað þess að létta þær, blanda líf sitt beiskju, án þess jafnframt að geta fært því nokkurn sætleik. - Allt þetta var hann fús á að leggja í sölurnar, ef það bæri nokkurn árangur.

En ekkert af því gat þó bjargað henni. Hann sá, að hún gæti ekki lifað hjá sér á þessum eyðilega stað. Hún hlyti að deyja, - og sér yrði um kennt, þegar lífi hennar væri lokið.

En hér varð engu um þokað. Hefðu þau aðeins verið trúlofuð, þá var enn þá tími til að bjarga þeim báðum. Eitt bréf var nóg. Það hefði sviðið í bráðina; en í það mátti ekki horfa. Tíminn hefði grætt það sár smátt og smátt og loks að fullu. En þau voru gift - reyrð saman ævilangt, dæmd til að sökkva hvort með öðru. - "Það, sem guð hafði samantengt, - - !" Mikil ósköp! Hann kunni þetta allt utan að!

Hann beit á jaxlinn. En hvað hann hataði þessa setningu, þetta kirkjuinnsigli á hjónabandinu, sem var lögverndað og órjúfanlegt.

Hann hafði oft hugsað um það, hvílíka óblessun það margsinnis leiðir af sér, - já, hvílíkt bölvunarband það er og hefir verið fyrir margar manneskjur. Nú skildist honum það betur en nokkurn tíma áður. - þegar búið var að trúa honum sjálfum fyrir þessu heilaga innsigli, til að setja það þar, sem það ef til vill væri enn verr komið en hér.

Allar þessar hugleiðingar gerðu hann hálfringlaðan. Hann kannaðist við, að hann hefði siðferðislegar og lagalegar skyldur eiginmanns á herðum sér. En hann hafði siðferðislegar skyldur gagnvart sjálfum sér og Höllu - því hann unni henni hugástum.

Þá kom það fyrir, að hann fylltist móði og ákefð til stórræða.

Hann vildi bjóða öllu byrginn, taka Höllu sér fyrir konu, hvað sem hver segði, gera algerða uppreist gegn öllu því, er þóttist hafa rétt til að hlutast til um sambúð þeirra, berjast, með hana við hlið sér, gegn öllu því ofurefli, sem kirkja og löggjöf mynduðu í sameiningu. Láta áminningarnar dynja á sér, láta þá refsa sér, taka af sér embættið, taka allt, sem hann ætti, upp í sektirnar. og reka sig blásnauðan út úr Paradís embættisvegsemdar og höfðingjahollustu. Byrja svo nýtt líf sem bóndi, með Höllu sem húsfreyju - - !

En móðurinn rann af honum von bráðar. Hann fór að hugsa skynsamlega um alla þá glötun, sem þetta leiddi yfir hann - einmitt nú, þegar svo langt var komið, að hann var búinn að heyja alla sína skólabaráttu með afarerfiði fyrir sig og afarkostnaði og fyrirhöfn fyrir föður sinn og vini hans. Hvað mundu menn hugsa? Hvaða kröfur áttu þeir á hendur honum? Og nú, þegar öllu þessu stríði var farsællega lokið og hann orðinn embættismaður hinnar umburðarlyndu íslensku þjóðkirkju - - nei, hann mátti ekki hugsa til þess.

Og hvað hafði hann með það að gera að vera bóndi? Var hann fær um það? Eða átti Halla að vinna fyrir honum? Eða hvað gat hann orðið annað? - Nei, hann mátti ekki heldur hugsa til þess.

Hann var ráðþrota, þreyttur af að hugsa, þreyttur af að lifa og yfirbugaður af sinni eigin ragmennsku. Hann byrgði andlitið í höndum sér og sá sjálfan sig reka með straumi atvika og tilviljana, einsog hjálparlaust skip. En - hvað átti hann að gera?

Þannig sat hann stundum, þegar Halla kom inn og leit brosandi, ástúðlega til hans. Þetta yndislega bros, fullt af trausti og innileik, var sólargeislinn, sem dreifði hverju skýi frá huga hans. Það andaði friði og blíðu inn í sálu hans og leið um hjarta hans eins og hlýr straumur. Hann var sæll, því hann vissi sig elskaðan.

Og þetta ástúðlega bros mátti hann ekki missa, hvað sem það gilti. Honum fannst hann mundi stirðna upp og deyja, ef hann missti það.

Raunar bærðist einhver strengur í sálu hans, sem sagði, að þessi himnesku gæði keypti hann fyrir eftirgerða mynt, og að verslunarsvikin mundu komast upp.

En önnur rödd, enn þá sterkari, mótmælti því. Þessi gæði voru gjöf frá guði sjálfum, sem gladdi hann með þeim, mitt í raunum hans, til að gera honum þær bærilegar.

Því annars gat þetta bros ekki á svipstundu gert hann svona sælan. Og hann fann, að hann mátti ekki án þess vera. Hann varð að njóta þess, njóta þess, meðan tími ynnist til. -

"Halla, ég elska þig".


7. kafli

Veturinn hélt áfram að telja af sér dagana. Einn og einn leið í einu, og löng, köld og koldimm nótt á milli.

En hver dagur, sem leið, hafði jafnan eitthvað til tíðinda, kom aldrei alveg fréttalaus, og fór aldrei án þess að skilja eitthvað eftir til umhugsunar eða umræðu. Íslensku veturnir eru svo duttlungasamir og hneigðir til brigða og breytinga.

Sumarfuglarnir voru farnir, en hinir búnir að flytja sig heim undir bæina.

Það var orðið hljótt úti í högunum; því þótt rjúpurnar, sem nú voru að skipta litum, væru flúnar ofan af heiðunum og setstar að í holtum og móum á milli bæjanna, þá liggur þeim ekki hátt rómur, eins og allir vita, svo þær trufla ekki mikið vetrarkyrrðina. Stöku sinnum sást fálkinn "hnita hringa marga" yfir högunum, og þótt hann þegði, var auðvelt að sjá, hvað honum bjó í hug.

Heima við bæina tístu snjótittlingarnir og flögruðu fram og aftur í stórum hópum, til þess að njóta þess eins og bræður, ef eitthvað félli til, sem ætilegt væri; engan mátti setja hjá.

Hrafnarnir voru búnir að þinga og skipta sér niður á bæina; hrafnatalan hafði ekki staðið á stöku það árið, svo þeir komust hjá því óþægilega ómaki að lóga einum af félögum sínum. Prestsseturs-hrafnarnir voru fjórir; því á prestssetrinu mátti búast við meiru en annars staðar; þeir áttu að vísu að passa upp á hjáleiguna líka, sem var þar skammt úti í hrauninu; en þaðan var ekki mikils að vænta, svo þeir voru oftast nær allir fjórir heima á staðnum - og auðvitað í stöðugu rifrildi við hundana, sem aldrei létu þá í friði. Raunar gerðu þeir sér ekki far um að lyfta sér mikið hærra frá jörðu en svo, að hundarnir næðu ekki upp til þeirra, og sendu þeim svo tóninn; en það var nóg til þess, að oftast var hægt að komast hjá beinum áflogum.

Tófan var líka farin að vera nærgöngulli, einkum þegar kvölda tók; og það var einungis að þakka aðgætnu augunum undir stóru augnalokunum á Ólafi sauðamanni, að hún fékk ekki oftar fylli sína en hún gerði.

Veðráttan var þó einna þrautseigust að finna upp nýtt og nýtt til tilbreytingar. Það er að jafnaði óþarfi að verða leiður á íslensku vetrarveðráttunni; hún er sjaldan lengi að breyta um búning.

En þennan vetur var hún þó óvenjulega lausheldin við upptekna háttu.

Allar veðurtegundir voru reyndar til skiptis. Það kom frost og bjartviðri, það kom frost og dimmviðri; það kom heiðríkja með sólskini og blíðu og alls engu frosti; það blandaðist líka saman frost og sólskin, dimmviðri og bjartviðri, svo himinninn var allur gráflekkóttur, og aðra stundina kenndi kulda, en hina hlýinda.

En þessi hálfvelgja fann ekki lengi velþóknun; eitthvað þurfti að koma, sem meira kvæði að. Þá kom él, skafningur, blindhríð, karksahríð, stórhríð, blind-stórhríð, og loks "ösku-þreifandi-grenjandi-blindviðris-hríð", með óstæðu ofsa-veðri og kafalds-fannburði, sem rak niður "fannfergju-gadd", slétti nákvæmlega af öllum dældum og hlóð sköflum í hverja brekku.

Þegar hún var búin að hamast sig uppgefna, skipti aftur um og birti upp með frosti, marrandi frosti -, stinningsfrosti, bruna- eða jafnvel "bruna-heiftar-heljar-nístandi- frosti" og norðan-næðingi í ofanálag, til þess að kuldaklærnar gengju sem allra næst beininu á mönnum og skepnum.

Næsta dag á eftir var svo ef til vill kominn sunnanvindur, alveg eins hlýr og sá, sem himinninn hafði sent til að þurrka heyrið í átjándu viku sumars. Eða það var landsunnanrigning með ofsahláku, svo allur snjórinn rann í sundur á fáum stundum, eins og kynt væri undir honum, og allt fór á bullandi sund í blám og krapatjörnum, eins og nýtt syndaflóð væri í aðsigi, svo það, sem lífi vildi halda, varð að láta sér nægja með hóla og hryggi og bíða eftir því að geta komist yfir á næsta hól, þangað til frysti og fært væri á ísum.

Eða þá hlákan var meira hægfara, t.d. austan-þoku-remba, sem hvorki var köld né heit, en alltaf jafnfýld, jafnsviplaus og leiðinleg, og þó allra veðra þrálátust - vís til að vera um kyrrt í marga daga, úr því hún einu sinni var komin; engum til verulegs gagns, en öllum, bæði mönnum og skepnum, til ills og skapraunar, og sýndist ekkert annað erindi eiga en að freista manna til að blóta sér, og hefna sín svo með því að láta þá villast.

En eins og til að setja kórónuna á verk sitt gaf veturinn líka stundir og sýningar, sem allur hinn sannmenntaði heimur mundi hafa viljað gefa ógrynni gulls og auðæfa til að mega sjá frá þessum stað, hefði hann þekkt það, og hefði hann getað notið þess án þess að leggja allt of mikið á sig.

Það voru kvöldstundirnar - þessar löngu, endalausu kvöldstundir, frá því um nónbil á daginn og þangað til um miðnætti, að allir voru háttaðir og sofnaðir - eða réttara sagt: það voru vetrarnæturnar, sem alls staðar á Íslandi eru óviðjafnanlegar, en hvergi þó eins og í þessu héraði.

Kvöldstundirnar, þegar norðurljósin sveifluðu silfurlitum, glitrandi blysavöndum yfir hjarninu, heiðunum og fjallakollunum; þegar þau röðuðu sér í löng, titrandi belti, bragandi og bylgjandi; greiddu sig í sundur eins og þunnar, ljósar slæður og hurfu; en voru jafnharðan komin aftur á öðrum stað, jafneldfjörug og áður. Eða þegar þau aðeins lögðu sig í langa rák þvert yfir himininn, hátt, hátt uppi í blámanum, og létust vera vetrarbrautin, lágu grafkyrr og létu tungl og stjörnur skína í gegnum sig, meðan þau voru að narra gamla, sérvitra bændaöldunga, sem þóttust þekkja vetrarbrautina, til að lesa í sér veðurspádóma fyrir allan veturinn, sem þeir svo trúðu og treystu á eftir. - Eða þegar þau að lokum brugðu fyrir sig fegursta leiknum sínum: undu sig saman og veifuðust til og frá, með frábærum snilldartilburðum og óviðjafnanlegu gliti -, eins og gagnsæ guðvefjarskikkja, sem yndisleg dansdís á leikhúspalli sveiflar og kastar af fádæma fimleik og afburðaíþrótt umhverfis hinn íturvaxna líkama sinn, meðan hún er að seiða og trylla veslings áhorfendurna, vinna sér sjálfri auð og aðdáun og leggja allan heiminn fyrir hina nettu, fimu fætur sína.

En menn voru allt of vanir norðurljósunum um þessar slóðir til þess að gefa þeim mikinn gaum eða tefja sig lengi á því að standa og glápa á þau. Og þegar þeim tókst langbest upp, þá létu menn sér nægja að tauta fyrir munni sér: "Já, já, nú ætlar hann að hvessa bráðum." Og svo fóru þeir að aka sér og þukla á sér hér og hvar, hvort þeir fyndu hvergi til giktar, sem væri spádómnum til stuðnings.

Þetta sama höfðu feður þeirra og langfeður gert og sagt, og langömmur og langalangömmur, svo það var þjóðlegt og innlent og mátti rekja ætt erfikenningarinnar upp til Egils Skallagrímssonar eða Ragnars loðbrókar.

Að öðru leyti var himindýrðinni ekki mikið skeytt. Tunglið var það eina, sem nokkur maður veitti eftirtekt, því bæði þurfti að hafa svo mikil not af því sem mögulegt var, til að sjá til út við, og svo var það gamall kunningi, sem ekki var svo létt að loka augunum fyrir, og koma þess veðurspádómur, sem sjaldan brást algerlega.

Hitt, sem skein og tindraði þar lengi uppi í dimmblámanum, reyndi árangurslaust að draga að sér eftirtekt manna. Sumir vissu raunar, að til var stjarna, sem hét Venus, og að hún var stundum kvöldstjarna; en enginn var þó viss um, að það væri hún, sem skein svo skært í dagsbrúninni. Enginn þekkti Síríus, enginn Blástjörnuna, enginn Pólstjörnuna, enginn Karlsvagninn. Órion sveiflaði kylfunni sinni og lét beltið glitra; en það var árangurslaust. Nautið hleypti sér í hnút, albúið til að stanga, og hið eldrauða auga þess, Aldibaran, glóði og tindraði; en það var líka árangurslaust; enginn þekkti himinbolann né gaf honum gaum. Þannig var því einnig farið með himinmerkin. Sjöstjarnan ein var undantekning; því það var eldgömul venja frá þeirri tíð, þegar klukkur voru alls engar, að þegar hún væri komin í nónstað, væri mál að hátta.

En veturinn gaf mönnum líka töluvert að hugsa um niðri á jörðunni og sá mörgum fyrir ósviknu handarviki. Þar tjáði ekki að loka fyrir honum augunum.

Hann gerði mörgum marga óþarfa skráveifu; ekki einungis í kotunum hér og þar í sveitinni, þar sem hann gerði sér hægt um vik og gróf allt í snjó, skefldi fram af öllu og fyllti allt, úti og inni, svo kotungarnir lágu í fönn á nóttunni og skriðu úr fönn á morgnana, - heldur eins, og engu síður, á sjálfu prestssetrinu.

Einkum virtist honum vera uppsigað við kirkjuna, sem var gömul og lasburða og varla fær um að standa af sér gletturnar. Það var sem hann hefði gaman af að láta storminn skaka hana til, svo hún hrikti, eða kippa úr henni einhverri rúðunni, ef ekki heilum glugga; blístra, syngja eða jafnvel tóna í rifum og glufum, álíka ámátlega eins og presturinn og söfnuðurinn á helgidögunum. Eða þá að lofa fjúkinu að smjúga inn um veggina, setja snjókerlingar í prestskonusætið og krókbekkinn, svo þær litu út eins og hvítar vofur og skytu staðarfólkinu skelk í bringu, ef það kom þangað í myrkrinu; leggja fannbryddingar á prédikunarstólinn og altarið, gráturnar og ljósahjálminn, þangað til allt var orðið svo fáránlegt útlits, að það var ekki lengur þekkjanlegt.

En hann gerði gagn með þessum leik, því kvenfólkið notaði kirkjuna fyrir þerrihjall, þegar hún var ekki til annars brúkuð; þvotturinn þornaði þar einstaklega vel, því nógur var súgurinn. Það tók enginn til þess, því venjan var gömul; og presturinn og prestskonan höfðu kynslóð eftir kynslóð ekkert haft við það að athuga; enda þurftu nærfötin þeirra að þorna þar líka.

Margir líta svo á, að ekkert sýni betur metnað og menningarþroska einhverrar þjóðar en kirkjur hennar eða musteri. - Íslensku sveitakirkjurnar eru flestar dágóðar skemmur og afbragðs-þerrihjallar, og eru á þann hátt til sannra þjóðþrifa. -

En svo hætti Kára við að kunna sér ekki hóf og verða of harðhentur við kirkjugarminn. Eitt ofsaveðrið braut trékrossinn ofan af turnklúkunni, svo "blessað guðshúsið" varð að standa þarna eins og hornbrotin rolla, í meira lagi sneypulegt, þar til það gæti fengið skaðann bættan með vorinu.

En veturinn tók líka ómjúkum höndum á bænum sjálfum. Það veitti stundum ekki af öllum liðsaflanum til að verja hann áföllum, einkum eldhússtrompana, sem voru gamlir tunnuskrokkar, botnalausir þó, sem stungið var niður í gegnum mæninn; og vindskeiðarnar og veðurhanana á bæjarburstunum, húsaþekjurnar og heygarðinn. Ekkert mátti hafa frið.

Svo hafði hann undarlega tilhneigingu til að skefla fullt hlaðið, þar til komin var líðandi skíðabrekka af burstunum og fram á varpa. En þegar gluggar og dyr voru þannig komin í kaf, þá þurfti auðvitað að fara að moka.

Svo stóðu vinnumennirnir í því löðursveittir í margar klukkustundir að moka geilar í skaflinn fram af öllum dyrum, og þá auðvitað fram af stofugluggunum líka. En á milli geilanna stóð skaflinn sem áður, meira en mannhæðar hár, og myndaði eggsléttan, prýðisfallegan vegg inn að bæjardyrunum.

Þangað til næsta bráðahláka kom. - Þá urðu skaflarnir von bráðar að vatni og runnu inn í bæjardyrnar, mynduðu þar eins stórt og djúpt stöðuvatn og rúm leyfði og héldu svo áfram inn göngin, ef ekkert var að gert. Þá þurfti að fara að ausa - ausa, með fötum og stömpum, og karlmenn og kvenfólk að hjálpast að. Jafnhvimleiðan gest þurfti að reka af höndum sér!

En þetta voru allt saman ekki annað en algeng óþægindi, sem enginn tók sér nærri.

En veturinn leið og taldi af sér dagana; engum leiddist hann til muna, því hann færði hverjum og einum nægar tilbreytingar. Dagarnir smástyttust, sólin lækkaði, síðast sást aðeins ofur lítil rönd af henni; svo hvarf hún líka, og prestssetrið var sólarlaust í nokkrar vikur.

Svo komu sólstöður, þá jól og nýár - allt hvað með sínar stundastyttingar og sínar þrautir og glaðningar; og loks kom þorrinn og sólin kom aftur, dagarnir lengdust og það glaðnaði yfir hverju andliti, því allir fundu, að þá hallaði aftur móti blessuðu vorinu.


En langmesta breytingin, sem veturinn leiddi yfir prestssetrið, var þó það, að presturinn var fluttur inn í baðstofu.

Það leyndist engum, að það var ólifandi í stofuskriflinu, sem var ofnlaust og að öðru leyti eins og áður er lýst, og seinast sá gamla prestsekkjan það líka. Henni var raunar ekkert vel við að leyfa nýja tímanum, sem fyrir henni birtist í veru unga prestsins, að flytja svo langt inn í einveldi sitt. En í það mátti þó ekki horfa, því það lá í augum uppi, að í stofunni var hvergi vært annars staðar en niðri í rúminu, og að presturinn var hindraður frá allri vinnu sinni, ef hann ætti að vera þar lengur.

Hann hafði að vísu alls ekki kvartað sjálfur, og Halla hafði lítið haft orð á því, hvernig stofuvistin væri í raun og veru. En þess þurfti ekki; gamla konan fór nærri um það.

Og einn dag ómakaði hún sig, "í eigin háu persónu", fram í stofu til prestsins til að spyrja hann að, hvort hann mundi geta gert sér að góðu að flytja inn í baðstofu til hins fólksins og reyna að búa við þau þægindi, sem hún gæti látið honum þar í té.

Það var ekki laust við, að prestinum óaði við að eiga að flytja inn í baðstofu. Hann hafði ekki sofið í baðstofu síðan hann var lítill drengur, og sú þekking, sem hann síðar hafði fengið á baðstofum og baðstofulífi, hafði vakið hjá honum svo mikla óbeit, að hann gat varla hugsað sér, að hann nokkurn tíma kynni við sig í baðstofu.

En nú voru aðeins tveir kostir fyrir hendi og hvorugur góður: Annar var sá, að flytja burtu af prestssetrinu og reyna að hola sér niður á einhverjum af bæjunum í grenndinni, - og þá var þeim stíað í sundur, Höllu og honum - eða þá að þiggja baðstofuvistina, því í stofunni gat hann ekki haldist við.

Og þegar gamla prestsekkjan, sem hann aðeins einu sinni áður hafði talað við og sem hann þekkti að stórlyndi og göfuglyndi, kom nú sjálf til að færa þetta í tal við hann, og hann vissi, að það mundi særa hana, ef hann tæki því illa, þá gat ekki komið til mála að hafna boðinu.

Baðstofunni var þannig háttað, að uppgangan úr göngunum var því nær á miðjum palli, og hurð þar yfir, sem sjálf skelltist að stöfum. Til beggja enda í baðstofunni voru afþiljuð herbergi; en miðbaðstofan, sem var stærðargímald, lá á milli þeirra, og stóðu þar rúm vinnufólksins.

Annað herbergið var eingöngu ætlað prestsekkjunni og hennar nánustu, og engum öðrum hleypt þangað inn til næturvistar.

Hitt herbergið var dálítið minna, en þó ekki næsta lítið. Það hafði verið afþiljað handa börnum prestsins sáluga, þegar þau fóru að komast upp; en nú voru þau öll farin að heiman, og hafði herbergið eftir það verið notað handa gestum, en jafnframt til geymslu á ýmsum þeim hlutum, sem gott var að hafa við hendina, en til þrengsla voru í baðstofunni.

Nú var það rutt og hreinsað og gerðar á því allra nauðsynlegustu umbætur, og reyndist það þá ekki óvistlegt.

Einfalt, þunnt skil skildi herbergið frá miðbaðstofunni og náði ekki nema upp að efri bitum; þar fyrir ofan var mænirinn óskiptur eftir endilangri baðstofunni.

Dyr voru úr miðbaðstofunni inn í herbergið, en hurðin í þeim var mjög þornuð og orpin og erfitt að fá hana til að falla að stöfum; af þessu leiddi, að hvert orð heyrðist á milli herbergjanna og að lítill var munur á lofti fyrir innan og framan. Glugginn var aftur nokkuð stærri þar inni en gluggarnir á miðbaðstofunni, og því þolanlega bjart, og borð allgott hafði verið látið þangað inn handa prestinum.

Umskiptin voru því að mörgu leyti til bóta. Þarna var honum þó hlýtt, og það hvorki lak ofan á hann né súgaði um hann. Auk þess átti hann eftir sem áður frjálsan aðgang að stofunni, sem nú var aðeins notuð handa gestum, og mátti geyma þar bækur og annað og vera þar í einrúmi, þegar honum þótti sér henta.

Það, sem hann átti erfiðast með að venja sig við inni í baðstofunni, var loftið. Það var alltaf þungt og innibyrgt og blandað með fjósþef, því fjósið var niðurgrafið undir miðbaðstofunni, en utangengt í það. Auk þess sárleiddist honum framan af skvaldrið í vinnufólkinu í miðbaðstofunni, sem hann var neyddur til að heyra, og hroturnar í vinnumönnunum héldu fyrir honum vöku á nóttunni.

En þetta hafði þó líka kosti sína. Þarna var hann nær mönnum og ekki eins einangraður eins og áður, heyrði mannamál, glaðværð og flágjalla griðkonuhlátra, ýmist inni í baðstofunni eða frammi í göngunum, og þótt til séu hlátrar sem ekki láta vel í eyrum allra, þá hafa þeir þó ætíð einhver fremur þægileg áhrif og draga að sér athyglina.

Hann hafði heldur aldrei kynnst baðstofulífi á sveitaheimili síðan hann óx upp, svo margt nýstárlegt var nú að sjá og heyra.

Og þó þetta baðstofuhjal að vísu truflaði hann nokkuð frá störfum hans, þá dreifði það um leið hugsununum hans, svo þær settust ekki að honum með slíkri áleitni sem áður.

Það lakasta var, að hann var ekki eins út af tyrir sig með Höllu þarna inni eins og frammi í stofunni; að vísu hélt hún áfram að annast hann, en umgekkst hann með stakri varúð, því þarna voru þau innan um annað fólk, og reið því á fyrir þau bæði að láta ekki við nokkurt tækifæri sjá neinn minnsta vott um nánari kunnugleik.

Halla var því hæg og alvarleg í hvert skipti, er hún gekk þar um; brosin og tillitin, sem hún hafði átt til, þegar hún kom til hans í stofunni, voru sem týnd og gleymd. Honum féll þetta þungt í fyrstu, þótt hann gæti sér til, af hverju það væri runnið, og hann saknaði fyrri framkomu hennar.

En þegar tækifærið gafst, komst hann sér til mikillar gleði að raun um, að þessi hnoss hans voru ekki týnd eða gleymd, heldur aðeins vandlega geymd.


En fyrir heimilisfólkið var þó flutningur prestsins inn í baðstofuna ennþá meiri tíðindi en fyrir hann sjálfan. Fæst af því hafði nokkur persónuleg kynni af honum til þessa, og nú lá það eins og farg á því að vita hann svo nálægt sér, eða réttara sagt mitt á meðal sín.

Það var eins og oddurinn væri brotinn af allri kátínu og gáska í miðbaðstofunni, síðan hann kom í herbergið, því margt af því, sem það hafði sagt og gert sér til gamans og hlegið dátt að í sinn hóp, var þess eðlis, að það hirti ekki um að láta ókunnuga heyra það, og allra síst prestinn.

Jag og orðahnippingar milli vinnufólksins var líka lamað til muna, því færi einhver að hreyta fúkyrðum í hálfkæringi, eins og oft hafði átt sér stað áður og sjaldan leitt af sér langvinna óvináttu, þá dró það til muna bæði úr orðunum og áherslunum, ef viðkomandi var minntur á, að hann skyldi nú láta prestinn heyra þetta!

Og þegar Sigga litla, niðursetningurinn, var að skæla af því, til dæmis, að henni þótti sér óþarflega mikið kembt um höfuðið eða þvegið of vandlega í framan, þá var það ráð, sem sjaldan brást, til að þagga niður í henni, að minna hana á, að presturinn heyrði til hennar. Því þó að vinnukonurnar mættu heyra Siggu orga og vera vonda, og jafnvel húsmóðirin líka, þá mátti presturinn ekkert hafa af jafnljótu að segja.

En þótt návist prestsins hefði þannig bætandi áhrif á baðstofulífið að nokkru leyti, þá lá þó við, að áhrifin ætluðu að verða of sterk.

Heimilisfólkinu fannst baðstofuvistin daufleg, þar sem það aldrei mátti "skvetta sér upp", eins og það komst að orði, og flúði þá í framhýsi til þess að gefa gáskanum lausan tauminn, þótt ekki væri nema um fá augnablik - eða þá til þess að gera upp sín á milli, ef eitthvað var óúttalað, og svala sér þá á þann hátt, er því þótti best við eiga, og skeytti því lítið, þótt einhver ofur lítill ómur af hávaðanum heyrðist inn í baðstofu og alla leið inn til prestsins.

En að jafnaði sátu menn eins og brúður, hver á sínu rúmi, með verk sitt alla kvöldvökuna, svo að lítið varð til tíðinda.

Það hafði áður verið venja á vetrarkvöldum að lesa upphátt sögur í baðstofunni eða kveða rímur, og hafði gamli presturinn sjálfur og kona hans stutt þann þjóðlega sið rækilega. Nú varð lítið úr því, vegna þess að enginn af heimamönnum fékkst til þess. Enginn treysti lestrarkunnáttu sinni svo, að hann teldi hana boðlega, þar sem ungur, ókunnugur prestur heyrði til, sem nýkominn var sunnan úr Reykjavík og slíkum lestri lítið vanur.

Enginn vissi heldur, hvernig rímnakveðskapurinn mundi láta í eyrum hans; menn gátu allt eins búist við, að honum mundi falla það svo illa og að það mundi trufla hann svo í störfum sínum og andlegum hugleiðingum, að hann neyddist til að koma fram í dyrnar og mælast til þess, að hætt yrði, og var þá verr farið en heima setið.

Halla hafði oft gert þetta hvort tveggja undanfarna vetur, en nú fékkst hún ekki til þess heldur.

Það leit jafnvel út fyrir það um tíma, að húslestrarnir mundu ætla að leggjast niður, sem voru þó ævagamall siður þar á heimilinu.

Raunar voru þeir menn til á heimilinu, og enginn vissi hve margir þeir voru, sem ekki hefðu séð eftir því, þótt svo hefði farið. Þessir hugvekjulestrar voru þeim ekki til annars en leiðinda. Þeir urðu að leggja frá sér allt verk, því enginn mátti vinna um lesturinn, og þeir urðu að taka ofan, þótt þeir hefðu setið með hatt eða húfu eða lambhúshettu allt kvöldið, og þeir urðu að vera hljóðir og alvarlegir og halda að sér höndum, máttu ekki blóta og - umfram allt ekki sofna.

Þetta var nú í raun og veru allt saman sjálfsagt; því hvað sem í þessum hugvekjum stóð og hvort sem nokkur skildi það eða ekki, þá var það þó "guðsorð".

Það lakasta var að mega ekki einu sinni brosa, hvað þá heldur hlæja, þegar svo illa tókst til, að allur lesturinn fór í handaskolum, eða hver setti annan út af laginu í sálminum, hvað eftir annað, eins og oft kom þó fyrir.

Og sumir áttu meira að segja bágt með að skilja í, hvaða gagn guð hefði af þessu húslestrarkáki, eða hvort hann mundi fyrirgefa einu einustu synd fremur vegna þess.

En gamla prestskonan var ekki alveg á því að láta þennan gamla, þjóðlega guðræknissið leggjast niður. Og þegar hún fékk engan af heimamönnum til að lesa hugvekjuna, þá las hún hana sjálf, og þegar enginn fékkst til að byrja sálminn, þá byrjaði hún sjálf og söng hann ein, ef enginn þorði að taka undir með henni, og þá fór hann alls ekki hlægilega úr hendi, því hún hafði haft lagleg hljóð í æsku, og söng enn þá hiklaust og lagvisst.

Höllu fannst þó sem heimilisfólkinu væri öllu minnkun ger með þessu, svo hún bauð gömlu konunni að lesa fyrir hana, og þá hún það, því Halla var afbragðsvel lesandi. -

Sá eini, sem lét sér það vel líka, að presturinn var fluttur inn í baðstofu, var Ólafur sauðamaður.

Rúmið hans var meðfram skilrúminu að herbergi prestsins, og hélt hann sig þar oftast, þegar hann var í baðstofunni, sem raunar var ekki nema seinni part vökunnar, eftir að hann kom heim frá fénu.

Návist prestsins var honum vörn gegn ertni heimamanna, því enginn vildi hleypa honum upp í hávaða eða fara illa með hann í orði eða verki inni í baðstofunni, svo presturinn heyrði til, svo Ólafur hafði nægan tíma til að hugsa hugsanir sínar í næði og ótruflaður.

Hann hafði líka kynnst prestinum meira en flestir aðrir heimamenn, og leyfði sér það, sem öðrum fannst óhæfa, en það var að víkja sér inn fyrir þilið til prestsins og fara að taka hann tali, án þess að eiga þangað nokkurt erindi. Þetta kom þó sjaldan fyrir, og ekki nema á sunnudagskvöldum, því þá kom það helst að Ólafi að þvo sér einhvern tíma dagsins, og jafnvel fara í skárri garmana, og þá fannst honum hann best til þess fallinn að ganga fyrir höfðingja.

Prestur tók honum ætíð vel, þegar hann kom, og varð enda feginn, að einhver kom inn til að tala við hann stöku sinnum, þótt ekki væri nema Ólafur, því fáir gerðu það annars. En þætti heimilisfólkinu, eða húsmóðurinni, Ólafur þaulsætnari þar inni en góðu hófi gegndi, var jafnan að lokum kallað á hann, undir því yfirskyni, að hann var beðinn að gera eitthvert handarvik til heimilisþarfa, og varð hann þá að slíta talinu að sinni.

Annars sat Ólafur lengstum á rúmi sínu, með uppbrotna vaðmálshúfu á höfðinu, en fór úr treyjunni og lagði hana á höfðalagið. Skinnleistana hafði hann oftast á fótunum fram að háttatíma, nema ef allt of mikinn ýlduþef lagði af þeim, svo ástæða var til að reka hann úr þeim með harðri hendi.

Oftast snerust hugsanirnar þá um Höllu og framtíðina í sambandi við hana. Hann hafði bætt við sig ekki svo fáum spesíum um haustið, fyrir fé, sem hann hafði selt, og hafði auðvitað sýnt Höllu viðbótina, og hún látið vel yfir. Hún var líka alveg hætt að erta hann við nokkurt tækifæri, og ómögulegt að koma henni til þess, þótt reynt væri til þess, eins og áður, og þótt þau væru ekki í baðstofunni eða annars staðar í návist prestsins.

Þetta fannst honum vera talandi vottur þess, að hugur hennar væri að snúast. Og fögnuður hans með sjálfum sér yfir því tók engu tali. Þó hafði hann ekki enn þá haft kjark til að stynja upp bónorðinu.

Oftast sat Ólafur auðum höndum, því ekki þótti annað sæma en að fjármaðurinn væri undanþeginn allri skylduvinnu inni við þá stund af vökunni, sem hann var heima. Þó kom það að honum, að hann bauðst til að taka sér verk í hönd, og þá helst að kemba fyrir Höllu.

Hann kembdi þá hverja kembu fyrir sig mjög vandlega, tók hana síðan úr kömbunum, brá henni upp við ljósið og leit í gegnum hana.

Það var gamalla manna mál, að eftir kembum ógiftra karlmanna ættu konur þeirra að fara. Kemban var spásögn; væri hún falleg, átti konan líka að verða falleg. En væri hún ljót, þá var ekki von á góðu.

Kembur Ólafs voru greiðar og snotrar útlits, svo hann var ekki í efa um, að þær gætu átt við Höllu; en þegar hann leit í gegnum þær, var jafnan svartur hnökri eða flóki einhvers staðar í kembunni, sem virtist spá því, að þótt konan yrði snotur, mundi þó hjúskaparhiminninn fráleitt verða flókalaus.


Um haustið og fram eftir vetrinum voru messur allfjölsóttar hjá síra Halldóri, þótt aldrei væri kirkjufyllir. Fólkið skiptist á um það á bæjunum að fara til kirkjunnar, sinn sunnudaginn hvað, svo enginn skyldi þurfa af því að missa að sjá nýja prestinn og heyra til hans. Á þennan hátt höfðu líka flest safnaðarbörnin hlotið blessunina einu sinni að minnsta kosti, og mörg oftar.

Fagnaðarvíma safnaðarins yfir fyrstu ræðunni hafði bráðlega rokið burtu aftur, og þeir, sem komu heim frá kirkjunni þar á eftir, þóttust engin sérleg tíðindi hafa að flytja. Margir voru þá þeir, sem ekki trúðu þeim, og fóru sjálfir í annað sinn, til að sannfærast, en komu aftur hálfsneyptir.

Orsökin var sú, að síra Halldór hafði eftir langa umhugsun komist að þeirri niðurstöðu, að hann hefði verið óþarflega stórmæltur í kveðju sinni til safnaðarins, og forðaðist það, að slíkur guðmóður gripi sig framar, en reyndi þar á móti að vanda ræður sínar sem mest og nota sem best sönnunargögn þau, sem ritningin lagði honum í hendur, en fylgdi svo handriti sínu, þegar í stólinn var komið. Ræðurnar voru því ekki nálægt því eins áheyrilega fluttar og ekki eins fullar af eldlegum áhuga eins og sú fyrsta.

Söfnuðurinn fann mismuninn, en gat ekki gert sér grein fyrir, hvernig á honum stóð; og þegar þar við bættist, að presturinn tónaði ekki meira en í meðallagi áheyrilega, þá komst söfnuðurinn smátt og smátt að þeirri niðurstöðu, að presturinn sinn nýi tæki ekki mikið fram þeim prestum, sem hann hafði áður þekkt. Svo dró smátt og smátt úr kirkjusókninni. Á sjálfan jóladaginn varð messufall, og eftir það um veturinn voru messur fremur sjaldgæfar.

Halldór prestur sá það vel, að það var rokin af honum mesta gyllingin í augum safnaðarins, en tók sér það ekki svo harla nærri. Hann var nú búinn að fá brauðið, svo það varð ekki af honum tekið, síst svona upp úr þurru. Hann vissi líka vel, að söfnuðurinn hafði í raun og veru ekkert út á sig að setja.

Hann þorði óragur að leggja ræðurnar, sem hann hafði haldið og geymdi skrifaðar, fram fyrir hvern guðfræðing sem væri. Þær voru forsvaranlegar, og meira en það. Hann áleit jafnvel söfnuðinn ekki hafa gott af kjarnmeiri kosti að jafnaði, og varhugavert, bæði fyrir hann sjálfan og stétt hans í heild sinni, að gera söfnuðinn of heimtufrekan.

Aftur á móti var hann ekki í efa um, að hann við tækifæri, eða þegar sér réði svo við að horfa, gæti tekið söfnuðinn líkum tökum og í fyrsta skiptið og sýnt honum þannig við og við, hvað hann ætti undir sér.

Hann var því ekki svo mjög kvíðandi fyrir því, að sér mundi ekki takast að gera sig þolanlega þokkaðan hjá söfnuðinum - ef ekkert annað kæmi fyrir.

En þetta "annað", sem hugsanlegt var, að komið gæti fyrir - það var einmitt það, sem gerði hann ókyrran og kvíðandi. Það bjó í honum sjálfum og gat ekki við hann skilið. Dag og nótt lá það á honum eins og mara og gerði honum svart fyrir sjónum.

Það var leyndarmálið milli hans og Höllu.

Fundir þeirra urðu sjaldgæfari, eftir að hann flutti inn í baðstofuna, og þau höfðu lengri tíma til þess að hugsa hvort sínar hugsanir á milli þeirra. Það var því ekki laust við, að þau fjarlægðust hvort annað, eftir því sem fram liðu stundir.

En þegar þau höfðu mælt sér mót eða þegar fundum þeirra bar þannig saman, að þau gátu látið hugsanir sínar og tilfinningar óhikað í ljós hvort við annað, þá fékk hann jafnan nýja staðfestingu á því, að hún elskaði hann - elskaði hann og treysti honum takmarkalaust.

En þessi ást og þetta traust var honum þungt áhyggjuefni. Hann var ekki í vafa um hvern enda það hlyti að hafa. Og hann kveið fyrir lyktunum. Hann kveið fyrir þeirri stund, þegar hann þyrfti að segja Höllu, hvernig í öllu lægi, að segja skilið við hana að eilífu, slíta sig úr faðmi hennar og horfa upp á, hvernig henni yrði við þetta allt saman.

En þessi stund hlaut þó að koma, og hver dagurinn, sem leið, færði þau bæði nær þessari skelfingu.

Þetta var sú hugsun, sem hann gat aldrei losað sig við og aldrei lét hann hafa frið. Fyrir henni urðu öll önnur óþægindi: prestsembættið, prestssetrið, fólkið, baðstofuvistin, fjósaþefurinn, "forpokunin" - allt, að þoka úr sæti.

Þessi sinnissjúkdómur elnaði þó fyrst fyrir alvöru, þegar hann seint um veturinn fékk bréf með landpósti að sunnan.

Annað var frá konunni hans. Það var fullt af blíðmælum og lýsingu á því, hve innilega hún þráði, að hann kæmi suður að vitja sín.

Hitt var frá móður hennar. Það var afdráttarlaus og skýlaus skipun um, að hann yrði að koma suður og sækja konu sína með vorinu, svo þau gætu valið besta tíma ársins til ferðarinnar. Hann var því ekki í efa um vilja hennar og myndugleika.

Honum fannst sem þessi bréf mundu ganga fram af sér. Að hann skyldi vera í þeim kringumstæðum, að slík bréf gætu borist honum, og það eins og nú var ástatt! Ef hann kveið fyrir því að skilja við Höllu, þá kveið hann nú ekki minna fyrir því að koma fyrir augu tengdamóður sinnar.

Hann fann það, þótt í fjarlægð væri, hvernig tillit hennar mundi bora sig eins og nafar gegnum sig, og hversu erfitt sér mundi veita að standast slíka rannsókn. En hjá henni var þó ekki hugsandi til að komast.

Og svo konan, sem hann átti að hafa heim með sér. Það fór hrollur um hann við að hugsa til þess. Hvernig mundi slík sambúð verða? Hvernig mundi honum takast að leyna sér fyrir henni, ekki um stundarsakir aðeins, heldur alla þeirra ævi?

Stöðugur flótti, stöðug undanbrögð, stöðug blekking, stöðug lygi og hræsni, - það var lífið, sem hann átti í vændum.

Það var eins og eitur í æðum hans. Hann fann, hvernig það hlyti að sýkja sig siðferðislega og kvelja lífið úr virðingu sinni fyrir sjálfum sér.

Og ef svo feluleikurinn einhvern tíma mistækist. Ef hún kæmist á snoðir um allt saman, aðeins hún ein, þótt enginn vissi það annar? Nei, hann mátti ekki hugsa til þess; það gerði honum of svart fyrir sjónum.

En dagarnir liðu, og skilnaðarstund þeirra Höllu var að minnsta kosti óhjákvæmileg.

"Ó, þið miskunnarlausu örlaganornir! Að þið skylduð geta spunnið alla þessa þræði utan um einn mann - -!"

Hugsanir Höllu lögðust ekki eins þungt á hana. Ástarsælan fyllti svo huga hennar, að henni var að jafnaði bjart fyrir innri augum.

Hún fann, að hann elskaði hana, og henni var það ómetanlegur unaður að vita, hvað hún var honum dýrmæt.

Hún þráði samfundi þeirra, og þegar hann bað hana að koma til móts við sig á einhverjum tilteknum stað, eða þegar hún gat laumað að honum bendingu um, að tækifæri byðist til leynifunda, þá hlakkaði hún til þess eins og barn, að sú stund rynni upp.

Hún leitaði aldrei frétta af honum um hagi hans; hún varpaði allri sinni áhyggju upp á hann.

Og þegar einhver efasemd vaknaði hjá henni, eða þegar einhverjar hvimleiðar hugleiðingar leituðu á sál hennar, braut hún þær á bak aftur með þeirri hugsun, að allt, sem fram færi, væru fyrirfram ákveðin forlög - vilji sjálfrar forsjónarinnar.

Hún sneiddi hjá að hugsa um, hvert þetta kynni að bera, eða jafnvel hlyti að bera á endanum; hún vandi sig við að berast áfram með atvikunum og gera aðeins sitt til, að allt færi vel fram og enginn yrði þess áskynja, hvað væri að gerast.

Hún naut leyndarmálsins og hamingjunnar, sem það færði henni, og forðaðist að krydda þann blessunarbikar með áhyggjum og efasemdum. Hún var - enn þá - sæl í ást sinni.

Draumsjónir hennar um það, að hún ætti eftir að verða prestskona, voru að vísu farnar að blikna. Henni fannst hún eiginlega engar kröfur gera til þeirrar tignar; það var sem henni stæði því nær á sama, hvort það yrði svo eða ekki. Hún vissi, að presturinn elskaði sig; það fyllti huga hennar. Hvort hann tæki sig fyrir eiginkonu eða hvað hann gerði af sér, það lagði hún á hans vald. Hún var reiðubúin til að þjóna honum - þótt það ætti að vera sem ambátt, ef hún aðeins aldrei þyrfti að skilja við hann.

Halla var friðsöm á heimilinu og sneiddi sig fremur hjá hinu fólkinu. Hún hafði alltaf gert það; en hún gerði það þó fremur en áður þennan vetur. Hún komst því oftast hjá orðahnippingum og ertni, sem var daglegt brauð meðal hins vinnufólksins. Og þegar amast var við henni og hreytt til hennar af öðrum, reyndi hún að eyða því án þess að hleypa því í hávaða.

Hinar vinnukonurnar gáfu Höllu illt auga. Þær ímynduðu sér, að hún miklaðist af sérstöðu sinni á heimilinu og þættist ekki jafningi þeirra lengur, og það sveið þeim, því þær litu svo á, sem hún hefði ekkert fram yfir þær að neinu leyti og að hver þeirra um sig hefði verið verki hennar eins vel vaxin eins og hún. Þetta biturlyndi þeirra kom fram við Höllu á ýmsan hátt, en þó einkum í glósum um hana og prestinn.

Höllu var að vísu lítið um þessar glósur gefið. En hún vandi sig þó á að taka þeim með stillingu, og veitti það því léttara, sem hún heyrði einmitt á þeim, að hinar stúlkurnar höfðu einskis orðið áskynja um ævintýr hennar. - -

Svo var það eitt kvöld seint um veturinn, að vinnukonurnar voru að störfum sínum hér og þar um frambæinn, og Halla líka. Varð henni þá eitthvað sundurorða við eina vinnukonuna, gleiðmynnta og orðfreka griðku, sem einskis sveifst, þegar svo bar undir.

Hún byrjaði þegar á venjulegum glósum um stöðu Höllu á heimilinu og hve mikið hún liti á sig og léti yfir sér, og sagði að lokum með gjallandi og allt annað en góðgjarnlegum rómi, að hún skyldi nú samt ekki láta sér detta í hug, að presturinn tæki hana að sér, því að hann væri giftur. Það hefði hún sannfrétt.

Og þessari síðustu athugasemd lét hún fylgja hvellan og bitran kuldahlátur, svo það glumdi í bænum.

Halla var stödd í göngunum, þegar hún heyrði þetta. Það vildi henni til heilla, að það var myrkur umhverfis hana, svo enginn sá, hvernig henni varð við. Hefði nokkur haft tækifæri til að veita því eftirtekt, er hætt við, að blæjan hefði lyfst af leyndarmálinu.

Hún fann, að hún náfölnaði, og hún reikaði, eins og hún ætlaði að líða í ómegin.

Þessi frétt hafði smogið í barm hennar eins og hnífur; það var líkast því, að hún fyndi kalt blaðið inn við hjarta sér.

Hún forðaði sér burt úr göngunum, burt af almannafæri til þess að leita einverunnar.

Hún skalf á beinunum og var sem altekin af sóttveiki.

Giftur -! Út í þetta hafði hún aldrei hugsað áður. Hún hafði ekki viljað hugsa um annað eins.

En gat þetta verið satt? Hvað hafði stelpan fyrir sér í þessu?

Átti hún að spyrja hana?

Nei, hún mátti engan spyrja, engum trúa fyrir þessu dýrmæta leyndarmáli. Að spyrja um þetta var hið sama sem að ljósta öllu upp.

En - þetta gat ekki verið satt.

Hann, sem elskaði hana eins heitt eins og hún ein vissi. Hann gat ekki verið giftur annarri.

Hún mátti ekki hugsa til þess, að hann væri giftur annarri, elskaði aðra en sig. Nei, það gat ekki verið satt. Stelpan hlaut að ljúga þessu til þess að reyna að særa hana.

Og þó - -! Henni fannst eins og hún hanga í flughömrum yfir djúpum gjám, þar sem hún gat enga björg sér veitt. Hana svimaði; hún gat ekki hugsað, ekki ályktað; allt blandaðist saman í huga hennar. Hún gat ekki annað en fleygt sér niður og grátið, grátið eins og barn, grátið langt fram á nóttina. - -

En eftir þetta var hún betur undir það búin að taka hverju því, sem að höndum bæri.

Hún vann brátt aftur svo mikið vald yfir sér, að hún gat látið sem ekkert væri að fremur en áður, bæði við prestinn og aðra.

Hún lagði samt engan trúnað á það, sem vinnukonan hafði sagt. En, samt - samt hringdi það alltaf fyrir eyrum hennar: Hann er giftur, giftur - og svo hlátur vinnukonunnar.


8. kafli

Kóngsbænadagurinn - hann er nú týndur úr tölu helgidaganna.

En fram á okkar daga, sem nú lifum og ekki erum orðnir gamlir menn, var hann einn af þeim dögum, sem allir þeir, er báru hita og þunga dagsins, hlökkuðu til að rynni upp.

Hann var einn af þeim dögum, sem gaf mönnum tækifæri til að hrista af sér okið að mestu eða öllu, þótt ekki væri nema einn dag eða dagshluta, fara úr hversdagsgörmunum í sjaldhafnarflíkurnar, þvo sér og greiða betur en vant var, glettast, hlæja og skemmta sér, fara á aðra bæi, eða sofa sér aukablund um hábjartan daginn, - í stuttu máli: vera sinn eiginn húsbóndi, hvíla sig eftir daglega stritið og safna kröftum undir komandi dagana, - halda auka-sunnudag í miðri vikunni.

Nú er þessi kóngsbænahelgi úr sögunni. Bændunum og öðrum vinnuveitendum var leyft að láta vinnulýð sinn vinna þá eins og endranær. Fjölmennustu stéttir þjóðarinnar fengu þar ekkert um að segja, vinnuveitendurnir settu þau lög sjálfir og einir. Og þeim er það helst til vorkunnar, að þeir vissu ekki hvað þeir gerðu.

Kóngsbænadagurinn er einn af þeim þýðingarmiklu dögum ársins, þegar vorið venjulega er farið að vinna sigur yfir vetrinum, hlýindin yfir hörkunni, lífið yfir dauðanum.

Sumarið er komið, en ekki nema að nafninu; það sefur enn þá, eins og ofur lítið barn í reifum sínum, aðeins 2-3 vikna gamalt.

Og þetta vor var það um kóngsbænadagsleytið, að fyrstu fjörtök þess fundust. Veturinn hafði verið harður og heyjafrekur, og á þorranum hafði rekið hafís upp að landinu, sem eftir það var í hrakningi fram yfir páska. Þá fór að skipta um veðráttuna og koma þíður við og við, með sunnanvindum, sem ráku burt hafísinn. En svo kom áfelli aftur með frosti og hríðum og menn urðu almennt skelkaðir við vorharðindin, sem menn þekktu af reyndinni, að eru skæðust og fæstir geta staðist, einkum á eftir allþungum vetri.

En svo kom batinn með sumarmálunum. Margir voru þó enn vantrúaðir á, að það væri nema skyndihláka. En það reyndist þó vera meira.

Dag eftir dag voru hlýir sunnanvindar og blíðviðri, og það leyndi sér ekki, að þeim vannst vel á.

Árnar ruddu sig með dunum og dynkjum, reistu klakaspangirnar á rönd og byltu þeim fram af fossunum, möluðu þær í sundur í hringiðunni og ruddu svo öllu saman fram í sjó.

Stöðuvötnin fóru með meiri hægð, en gerðu þá alveg það sama.

Smálækir færðust í aukana og minntu á tilveru sína, sem annars var hætt við að gleymdist, með því að verða ófærir, eða jafnvel með því að flóa langt út yfir bakka sína og gera óskunda.

Gilin í fjöllunum fylltust af vatni, sem henti sér organdi, þykkt af aur og leðju, fram af hverjum stallinum eftir annan, og ruddi með sér hverju, sem fyrir varð, grjóti sem öðru, og skriðurnar renndu sér, eins og æfðir skíðamenn, niður úr fjallabrúnunum, niður yfir fannirnar undir hömrunum og langt ofan í auðar hlíðar, en stór björg, sem höfðu orðið þeim samferða af stað og voru stórstígari, hentust áfram í loftköstum, rótuðu upp jörðinni í hverju spori, en höfðu langt á milli sporanna; skálmuðu þannig alla leið ofan í hagana, engjarnar eða jafnvel inn á eitthvert túnið, þar sem bændunum kom verst, lögðu sig þar til hvíldar eftir áreynsluna og fengust ekki til að hreyfa sig þaðan, hvorki með illu né góðu.

Hafísinn var horfinn úr landsýn, nema einstöku jakar, sem höfðu strandað á skerjum og flúðum og stóðu þar nú sem sneypulegur vottur um það, að meginflotinn hafði beðið ósigur og var lagður á flótta, og biðu eftir því, að þeir bráðnuðu.

Það var sem landið brytist úr klakafjötrunum; öll náttúran varpaði af sér vetrargervinu, og það með þeirri ákefð, að það var auðséð, að henni var full alvara. Vorið var, komið.

Hagarnir voru auðir að mestu, fannirnar, sem enn voru eftir, voru eins og flíkur af gamalli skyrtu, rifnar og óhreinar; en það gerði ekkert til, því nú var verið að færa sig úr þeim garmi.

Það var að byrja að koma grænn litur á túnin. Raunar var enn klaki í skorningunum á milli þúfnanna, og enn þá vottaði fyrir fönnum hér og þar í kringum bæina og stórum fönnum úti í högunum. En nýgræðingurinn skeytti því alls ekkert. Hann teygði sig, ofur smár og veikbyggður, upp úr rótinni, þar sem hún var orðin þíð, fyrst ljósgrænn, næstum gagnsær, og "pínu-pínu-lítill", en svo dökkgrænn og ilmsterkur, þegar hann þokaðist og mátti sín meira.

Viðargreinarnar úti í högunum fóru að þrútna og verða gljáandi á börkinn, og hér og þar vottaði fyrir ofur litlum nöbbum; en hver skyldi trúa, að í þeim byggju blöðin, sem áttu að laufga þær um sumarið, og frækorn í margar nýjar hríslur.

Farfuglarnir voru komnir aftur. Það voru nokkrir dagar síðan heyrst hafði til lóunnar, og spóinn "vall graut" alveg heima undir túngarði, en krían sendi kveðju sína úr háa lofti. Allt kvað við af kvaki, ástarumleitunum og annríki.

Það var aftur farið að lifna yfir högunum, því féð var ekki lengur hneppt í húsum inni, en var nú orðið frjálslegt í bragði og ljóst á lagðinn, eftir að vera búið að viðra sig í marga daga; ærnar voru bústnar og þungar á sér, vögguðu í gangi og drógu ullina, því nú voru þær komnar fast að burði.

Vesalings kýrnar virtust einnig hafa veður af því í jarðhúsi sínu, hvaða tími væri kominn. Þær voru órólegar á básunum sínum og bauluðu aumkunarlega af þrá eftir sólskini, góðu lofti og grænum högum. En þær áttu enn þá eftir alllanga prísund. - Hestunum vegnaði betur; enda réðu þeir sér ekki fyrir fjöri og gáska, því nú voru þeir sínir eigin herrar, að minnsta kosti um nokkuð langan tíma. Þar voru kapphlaup og keppni um fallegan höfuð- og limaburð, en þess á milli bitist, bæði í illu og góðu. En hryssurnar drógu sig út úr slarkinu og baukuðu sér, með hausnettan, hábeinóttan "lalla", latan í spori og hissa á heiminum, sem þeim þótti samt vænt um, því það gat verið vænt hestefni, sem yrði mömmu sinni til sóma.

Alls staðar var endurfætt líf, gleði, kæti og starfsemi og byltingagirni. Allt kastaði ellibelgnum og yngdist upp, því það var komið vor. Manneskjurnar rifust með út í allan þennan æskuglaum, þessi ærsl, leiki og lífsgáska, og þrá eftir frelsi og fögnuði brann í hverju brjósti, hverju auga, meira og minna rík.

Á slíkum dögum er kóngsbænadagurinn, þ.e. einn helgidagur í viðbót, kærkominn gestur.

Engum datt að vísu í hug að leggjast á bæn fyrir blessuðum kónginum, eða yfir höfuð að leggjast á bæn. Nei, menn köstuðu frá sér störfum og áhyggjum daglega lífsins, til að gleðja sig, til að njóta yndis og yngjandi blíðu vorsins, njóta samlífsins við náttúruna, starfandi, elskandi og endurreisandi.

En hún hvatti til annars fremur en bæna. Hún hvatti til lofgerðar og aðdáunar; en þó öllu öðru fremur til framsóknar og drengilegra dáða.


Það var byrjuð útivinna á prestssetrinu fyrir nokkru síðan; en á kóngsbænadaginn var ekki unnið, og öll verkfæri fengu að liggja í friði.

Enginn kom til kirkjunnar, nema meðhjálparinn, og hann hefur líklega tæplega búist við því, að á sér þyrfti að halda, því hann kom sætkenndur, vesalings karlinn, og með brennivínsflösku í barminum, og settist með hana inni hjá prestinum. Hann hafði alls ekki getað stillt sig um að fá sér á flösku til bænadagsins, fyrst tíðin var svona góð og útlitið svo blessunarlegt. Og þó vissu allir, að hann var enginn drykkjumaður.

Flest heimafólkið hafði brugðið sér á bæina í kring. Það var heldur ekki undarlegt, því vinnuhjúaskildaginn var eftir fáa daga, og þá átti allt þetta fólk, sem verið hafði saman á prestssetrinu, að skiljast að og dreifast út um aðra bæi. Og þó samkomulagið hefði verið svona og svona með köflum, þá var þó eins og allir yrðu alvarlegir við tilhugsunina um að skiljast að. Nú voru flestir að finna húsbændurna tilvonandi og vita um leið, hvernig sér mundi lítast á sig í nýju vistinni.

Allir vissu, að prestsekkjan gamla ætlaði að bregða búi um vorið og selja lausafé sitt, en presturinn ætlaði að taka við jörðinni.

Enginn sá það á gömlu konunni, hvort henni féll þetta betur eða miður. Hún var ekki orðfærri og alvarlegri en hún var vön.

Hún var að vísu búin að venja sig við þá hugsun, að hún yrði að hrekjast burt af prestssetrinu, og þótt hún vissi vel, að ungi presturinn mundi orðalaust hafa lofað sér að vera þar í húsmennsku framvegis, þá hafði hún þó ekki skap til að biðja hann þeirrar bónar. Hún vildi heldur koma sér fyrir hjá gömlum og reyndum kunningjum, og nú var hún búin að því. Nú færðist jafnt og þétt nær því, að hún kveddi þennan kæra stað. Og hún var undirbúin.

En þegar fólkið var allt farið burtu á kóngsbænadagshelginni, fann hún til óþreyju og tómleika í kringum sig. Hún fór þá að lesa húslesturinn upphátt yfir sér og annarri gamalli konu til, sem var heima; en viðkvæmnin greip hana meira og meira, svo hún varð við og við að hætta að lesa fyrir gráti. - -

Presturinn var aftur fluttur fram í stofuna, þegar veðráttan fór að hlýna.

Áhyggjur hans urðu honum æ meira og meira óbærilegar. Hann fann vel, að því varð nú ekki frestað lengur, sem fram átti að koma, og það hljóp út um hann sviti, er hann hugsaði til þeirrar stundar, er hann þyrfti að skilja við Höllu.

Hann efaðist líka mikið um, að hann gæti skilið hana við sig svona í einni svipan.

Það var auðvitað það æskilegasta fyrir hann sjálfan. En gerði hún sér það að góðu? Og ef hún gerði það ekki, hvernig færi þá? Var hann búinn að spilla heiðri sínum og hamingju? Áttu allir að fá að vita hið sanna?

Þessar spurningar voru nú orðnar enn þá nærgöngulli en nokkurn tíma áður. Þær kröfðust svars. Og hann mátti til að bjarga sér út úr þessu vandræðaástandi.

Hann fann það vel, að hann hafði farið ógætilega og hrasað. Nú hefndist honum fyrir glópskuna með látlausum kvíða og hugarkvöl.

Hann fann líka, að öll hans farsæld hékk á veikum þræði. Hann var búinn að semja sig að þeirri hugsun fyrir löngu, að hann hlyti að skilja við Höllu, hvað sem öðru liði. En átti hann þá að missa allt, embætti, framtíðarhamingju, velvild og traust hvers manns, vegna þess, sem þeim hafði farið á milli?

Nei, það var of grimmúðleg hefnd. En þetta gat þó orðið. Og þótt hann fyndi vel, hvað Halla hefði verið fyrir sig þennan vetur og hvað mikið hann átti henni að þakka, þá gat það þó ekki komið til mála að skilja sig við öll önnur gæði hennar vegna. Hún var þó ekki annað en umkomulaus þjónustustúlka og hafði ekkert að bjóða honum, nema sjálfa sig.

Og úr því kringumstæðum hans var nú þannig hagað, að hann mátti ekki eiga hana, þá var ekki um annað að tala en reyna að skilja hana sem lempilegast við sig - áður en lengra væri komið. Nú var allt undir því komið, hvernig það tækist.

Það var eins og það biti á hann, að það mundi ekki takast vel, og hann fann vel, að það yrði sér hart aðgöngu, því þær tilfinningar bar hann þó í brjósti til Höllu. Hann fann, að hann þurfti að misþyrma sjálfum sér með skilnaði þeirra; en það var þó það eina, sem gat bjargað honum.

Og svo Halla? Hvernig mundi henni verða við? Hvað mundi hann hugsa um hana á eftir. - En það mátti einu gilda, hann gat ekki annað.

Hann hafði boðað Höllu til leynifundar við sig upp að lauginni fyrir ofan túnið, þegar aðrir voru sestir að um kvöldið. Þar átti að skríða til skarar.

Honum var meðhjálparinn hvimleiður gestur, meðan hann sat yfir honum um daginn og var að blaðra um alla skapaða hluti, sem honum komu ekkert við. Hann gat ekki hlustað á hann, og þegar hann svaraði honum einhverju, var einsog svarið kæmi utan af þekju. Hugur hans hafði meira og þyngra viðfangsefni en svo, að þetta hversdagsskraf gæti létt af honum byrðinni.

Hann var óstyrkur og fannst því gott að dreypa á flöskunni meðhjálparans við og við, því það styrkti hann og jók honum hita, um leið og það virtist brjóta sárasta broddinn af sálarplágum hans og gera honum rórra í skapi.

Hann drakk þó með gætni, því hann vildi ekki koma þessum manni upp á það að líta á sig sem drykkjubróður, og þegar degi fór að halla, ýtti hann karlinum á stað. Hann þurfti að fá að vera einn um stund, áður en hann talaði við Höllu. -

Halla hafði brugðið sér bæjarleið um daginn, eins og fleiri, en kom þó bráðlega aftur. Hún gerði það mest sér til afþreyingar, því hana grunaði, að þessi samfundur þeirra mundi ekki færa henni nein gleðitíðindi. En hún brann þó af óþreyju eftir að heyra, hvað það væri, sem hann vildi tala um við sig. Hún þóttist hafa séð það á honum, er hann mælti þeim mótið, að honum væri mikið niðri fyrir.

Halla hafði stöðugt orðið efablandnari og alvarlegri síðan um veturinn, að þeirri fregn var kastað svo hrottalega í andlit henni, að presturinn væri giftur. Henni fannst nú sjálfri eins og sinnisjafnvægi sitt og glaðlyndi um veturinn hefði í raun og veru stafað af þeirri vissu, að þau ættu aldrei að skilja, en mættu njótast ævilangt, og traust hennar á forlögin og handleiðslu æðri vilja var traustið á hin góðu öfl, sem ekki gætu ráðstafað þessu á annan veg. Þess vegna hafði hún gefið hinum bestu og innilegustu tilfinningum sínum vald yfir sér og breytt eins og auðtrúa flón.

Þessi ísköldu hreytiyrði vinnukonunnar höfðu vakið hana óþyrmilega af hinum góðu draumum, vakið efann og vantraustið, sem stöðugt píndi hana eftir það.

Hún lagði raunar engan trúnað á þessa hranalegu fregn. Hún vildi ekki trúa henni. En hvað stoðaði það? Hún gat þó verið sönn. Og ef svo væri, þá hlaut hún að leiða einbera óhamingju yfir hana.

Og ekki einungis yfir hana; henni fannst sér það vera mátulegt, og henni fannst hún hafa þrek til að bera það; - heldur líka yfir hann.

Ef til vill miklu meiri ógæfu hlaut þetta að leiða yfir hann, - hann, sem hún elskaði miklu meira en sjálfa sig. Það var henni þyngri tilhugsun en allt annað. Og orsökin fannst henni liggja hjá sér.

Þessar hugsanir héldu vöku fyrir henni margar nætur og voru orsakir til margra tára í einrúmi, þótt hún bæri sig vel, hvenær sem aðrir sáu til. Þessar áhyggjur gengu líka mjög nærri henni og höfðu þegar - auk annars - sett ótvíræð merki á útlit hennar. Hún var orðin ofur lítið fölari og magrari en hún átti að sér. Kinnarnar voru að vísu enn ávalar og skiptu vel litum, en voru ekki eins þykkar og áður. Hvarmarnir voru stundum rauðleitir og þrútnir eftir grát, og það vottaði fyrir bláleitum sveigum neðan við augun.

En Halla gat breitt bros yfir öll þessi veiklunarauðkenni, sem villti flestum sjónir. Og vinnufólkið hafði enn þá ekkert séð. Í hæsta lagi hafði það ef til vill grun um það stöku sinnum, að hún væri eitthvað lasin; en engum fannst það neitt eftirtektarvert. Það var engin nýlunda í sveitinni á þeim árum, þótt menn gengju með einhvern lasleika og kvörtuðu ekki fyrr en í fulla hnefana, því fram að þeim tíma hafði aldrei sést læknir þar um slóðir.

Halla var því örugg gagnvart vinnufólkinu. Öðru máli var að gegna um gömlu húsmóðurina.

Halla sá það enn sem fyrr, að fyrir henni átti hún bágt með að dyljast. Og hún skalf á beinunum og það bar enn þá meira á auðkennunum, þegar gamla konan horfði hvasst á hana.

Stundum sagði hún með vanalegri hægð: "Ósköp eru að sjá þig, Halla mín. Gengur nokkuð að þér?" En Halla neitaði, og þar með var úttalað um það mál að sinni. En Halla bjóst á hverri stundu við strangri yfirheyrslu og kveið fyrir henni.

Allt heimafólkið var komið heim fyrir venjulegan háttatíma. Það var ys og kliður í baðstofunni, eins og í fuglabjargi. Hver skvaldraði í kapp við annan, og þó heyrðist varla orðaskil. En á meðan tæmdu menn matarílátin sín, sem biðu þeirra uppi á hillunum, og fóru svo að klæða sig úr.

Það tók enginn eftir því, þótt Halla laumaðist út.

Veðrið var undur gott og milt, hafði að vísu verið stinningshvasst á sunnan um daginn, með mistri til heiðanna, en var nú orðið kyrrt og góðviðrisleg Maríutása yfir mestan hluta himinsins. Hún lét því nægja að kasta ullarþríhyrnu lauslega yfir herðar sér um leið og hún gekk út.

Hún gekk fyrir stofugluggana, svo presturinn skyldi sjá sig, og hljóp síðan léttilega upp túnið, þann veg, að hún yrði ekki séð úr baðstofugluggunum.

Laugin og hverinn voru skammt fyrir ofan túnið, og var ofur lítil hæð á milli, sem var klettótt þeim megin, er að lauginni vissi, og fagrir, grösugir hvammar neðan undir klettunum, sem nú voru farnir að gróa öðrum blettum fremur, vegna hitagufunnar úr hvernum, sem lagði oft þangað. Þegar Halla kom upp á hæðina, leit hún við og sá prestinn koma á eftir sér. Hún fór þá niður fyrir klettana og beið hans þar.

Meðan hún beið, hafði hún nóg að gera að virða hverinn fyrir sér. Á þessum dögum bættist svo mikið vatn í hann, bæði ofan jarðar og neðan, að hann hafði ekki við að spýta því frá sér. Og svo sauð hann og vall í ákafa, þeytti kristaltæru vatninu, sjóðandi heitu, fulla mannhæð upp í loftð, og lét þétta, hvíta gufubólstra stíga upp í vornætursvalann. Stundum dró niður í honum, eins og hann væri orðinn uppgefinn. En það var ekki nema augnablik. Þá byrjaði hann aftur með meira afli og meiri gný en áður. Vatnið bólgnaði og bungaði upp yfir jarðsprungunni, sem það kom upp úr, og sauð og krakkaði í sífellu, en rann síðan sjóðheitt fram í laugina, þar sem Halla svo margsinnis hafði kropið að fataþvotti. En út úr lauginni rann lækur ofan í hraunið.

Meðan hún var að virða þetta allt fyrir sér, kom presturinn til hennar.


Hann settist niður hjá henni og tók um hendina á henni. Þau köstuðu ekki einu sinni kveðju hvort á annað.

Það var dauðaþögn furðulengi. Halla horfði hálfforviða á hann. Hann var óstyrkur eins og sjúkur maður, og hendin, sem hélt um hönd hennar, titraði. Það var auðséð, að honum var mikið niðri fyrir. Hann leit ekki framan í hana, heldur niður fyrir sig, eins og hann væri að forðast augu hennar.

Halla sá það vel, að það var ekki laust við, að hann væri drukkinn, þótt ekki væri það mikið.

Allt þetta vakti einhvern ónotabeyg hjá henni. Svona alvarlegir höfðu fundir þeirra aldrei verið áður. Og slíkan hafði hún aldrei séð hann fyrri.

Hann byrjaði á samtalinu. En það sýndist ekki ætla að ganga vel í fyrstu. Hann stamaði og hjó eftir orðunum, eins og eitthvað stæði í kverkunum á honum, sem hindraði málið. En það var ekki nema fyrst. Svo fór það að verða liðugra. Halla leyfði honum að tala og hlustaði þegjandi á.

Hann byrjaði á því að þakka henni fyrir, að hún hefði komið til fundar við sig. Þessi fundur þeirra væri þýðingarmikill fyrir þau bæði og þótt hann væri alvarlegri en þeir, sem á undan væru gengnir, þá yrði hann þó ekki umflúinn.

Hann hefði ekki þurft að segja þetta. Halla hafði vel tekið eftir því, hve alvarlegur hann hafði verið nú síðustu dagana, og þó einkum, þegar hann boðaði hana til þessa leynifundar.

Þar næst lýsti hann því með mörgum og innilegum orðum, hvað hún hefði verið fyrir sig um undanfarinn tíma. Hún hafði verið stjarnan hans í því svartamyrkri áhyggju og óyndis, sem hér lukti um hann. Hún hafði sent ljós og yl inn í sálu hans og gert honum það bærilegt, sem hann annars hefði aldrei getað borið. Hún hafði verið heilladísin hans, sem studdi hann og styrkti, þegar honum lá hvað mest á, sem strauk með blíðu sinni og viðkvæmni sorgina burt af svip hans og kyssti angistina burtu úr sálu hans. Hann hafði fundið, að með henni yrði hann allur annar maður framvegis. Hún var sú kona, sem guð hafði skapað til að vinna með honum dagsverk lífsins, hún og engin önnur. Við hlið hennar hefði hann ef til vill orðið sá maður, sem væri erindi sínu vaxinn.

Það var enginn efi á, að hann sagði hvert af þessum orðum í einlægni. Hann hafði hugsað um þetta fram og aftur, hugsað um það hvað eftir annað, og aldrei komist að annarri niðurstöðu. Þetta var orðið honum trúaratriði.

Jafnframt sá hann það líka fyrir, að skilnaður þeirra mundi verða þeim báðum til hinnar mestu mæðu, ef til vill til hinnar mestu ógæfu. En hann sá þó engan veg til að komast hjá því. Hann hafði ekki hugsað út í neitt af þessu, að minnsta kosti ekki nægilega, þegar hann lét eftir ástríðum sínum og stofnaði nánari kunningsskap við þessa ungu stúlku, sem hann þá ekkert þekkti.

Hún hafði unnið í áliti hans við viðkynninguna. Nú leit hann hana öðrum augum en þá.

Hann iðraðist ekki eftir því, sem hann hafði gert. Það gaf honum ógleymanlegar, kærar minningar til fylgdar út í framtíðina. Hann kveið aðeins fyrir skilnaðinum, kveið því, að þetta skyldi enda svona fljótt, kveið tómleikanum, sem eftir mundi verða í lífi sínu, og - kveið fyrir því, að svo kynni að vera komið, að lyktir þessa ævintýris yrðu mun erfiðari viðfangs en byrjunin.

Halla sem horfði fram fyrir sig eins og í draumi og hlustaði á það, sem hann sagði, eins og það væri kært, gamalkunnugt lag, sem hún heyrði óma til sín úr fjarlægð. Hún hafði heyrt öll þessi fögru orð áður. Þau voru ekki annað en endurtekning á játningu hans um það, að hún hefði verið það fyrir hann, sem hún hafði viljað vera. Henni leiddist aldrei að heyra þau, því það voru indælustu orðin, sem hún nokkru sinni hafði heyrt.

Eftir þennan inngang hélt presturinn áfram. Hann kvað sér nauðugt að segja það, en þó yrði ekki hjá því komist.

Skilnaðarstund þeirra væri nú upp runnin. Hann þyrfti að leggja á stað í langferð eftir fáa daga, og eftir heimkomu hans yrði samfundum þeirra að vera lokið, enda yrði hún þá farin burtu af heimilinu.

Hann þagnaði og horfði framan í Höllu, en hún horfði fram fyrir sig eins og áður. Hann hafði búist við að sjá henni bregða meira við þessi tíðindi, en hann varð engrar breytingar var.

Halla hafði verið undir þessa frétt búin, síðan hún heyrði glósu vinnukonunnar. Þess vegna veitti henni nú léttara að láta hana lítið á sig fá. Þó fylltust augu hennar af tárum og röddin skalf, þegar hún spurði, hvort hann færi til að sækja konuna sína.

Honum kom þessi spurning á óvart. Hann hefði að vísu getað búist við, að hún væri búin að frétta af högum hans. En að hún gæti spurt um þetta atriði með slíkri stillingu, slíkri hógværð, án biturlyndis eða þykkju, því hefði hann ekki trúað. Hann horfði á hana, og hljómurinn í svarinu lýsti undrun, þegar hann sagði:

"Já. - En hvernig hefir þú frétt þetta?"

Halla leit ekki upp: "Það var rödd úr ríki myrkranna, sem sagði mér þetta", sagði hún. Eftir ofur litla þögn leit hún framan í hann og spurði: "Mátti ég ekki frétta það?"

Honum varð hverft við að sjá framan í hana og heyra spurninguna. Það var eins og kaldur gustur af ásökunum andaði á móti honum. Hann sá vel, hve mikið henni var niðri fyrir og hve aðdáunarleg tök hún hafði á því að bæla niður geðshræringar sínar.

"Ég hefði helst óskað að segja þér frá því sjálfur fyrstur manna", mælti hann.

"Það var rödd úr ríki myrkranna", mælti Halla. "Það var ein vinnukonan, sem hatar mig og öfundar mig, sem sagði það af illgirni, í því skyni að særa mig."

Presturinn hrökk saman: "Vissi hún -? Hafði hún komist að -?" stamaði hann.

"Hún vissi ekkert og hafði ekki komist að neinu", flýtti Halla sér að grípa fram í. "Annars hefði hún ekki sparað að nota það betur. Ég hef gert mér far um að komast eftir því, og ég er viss um, að enginn veit neitt um samdrátt okkar - enn þá."

Hann varð aftur rólegur, þótt þetta "enn þá" kæmi honum nokkuð undarlega fyrir.

"En það illa getur snúist til góðs", hélt Halla áfram. "Og ég gæti verið þessari illgjörnu stelpu þakklát fyrir það, að hún kastaði þessu í andlit mér. Það hefði komið sér verr að heyra það ekki fyrr en nú í kvöld."

Samtalið féll niður um stund. Þeim var báðum þungt um andardráttinn, og það var sem þau hvort um sig notuðu hvíldina til að sefa geðshræringar sínar og velja orðum sínum sem þýðastan búning.

Presturinn rauf þögnina: "Halla, þú veist ekki, hve óhamingjusamur ég er. En þú mátt ekki auka á óhamingju mína. Þú verður að fyrirgefa mér!"

Rómurinn bar vott um bæn og viðkvæmni.

"Hvað á ég að fyrirgefa þér?" spurði Halla, eins og út í loftið.

"Ég hef leynt þig þessu; ég hef leitt þig afvega, haldið þér við tálvonir og -."

Halla greip fram í fyrir honum: "Þetta er engu síður mér að kenna. Ég hefi ekki spurt þig neins; ég hefi einskis af þér krafist. Það var ógætilegt af mér og óskynsamlegt. En ég gat það ekki - ég elskaði þig svo mikið."

Hún hallaði höfðinu upp að brjósti hans, og tárin streymdu niður kinnarnar.

"Halla, Halla, - þú ert þá ekki reið við mig!"

Hann gat ekki dulið feginleik sinn. Það var sem bjargi væri létt af brjósti hans. Hann lagði handlegginn um hana og þrýsti henni hægt að sér. Ásökunum hennar hafði hann kviðið mest af öllu, kviðið því, að þau skildu óvinir og ást hennar á sér breyttist í hatur. Nú var hann utan þeirra skerja.

Halla hvíldi sig upp við barm hans eins og dauðþreytt barn. Orðin, sem hún sagði, voru sögð með hvíldum, ofur lágt, en þó stundum með gráthljóði.

"Ég hefi elskað þig - það hefir verið mér nóg. Þú hefir gert mér lífið að yndislegum draumi. Ég hefi verið alsæl í faðmi þínum og með þig einan í huga mínum. Ég hefði ekki getað orðið sælli, þótt allir prestar veraldarinnar hefðu blessað yfir ást okkar. Hver sem kjör mín verða, á ég þó dýrmætan grip í eigu minni. Það er minningin um viðkynning okkar. Hana getur enginn tekið frá mér. Þegar við erum skilin, verður hún eina ljósið mitt. Ég elska hana, af því ég elska þig til dauðans."

"Halla -!" Hann gat ekkert annað sagt. Það var klökkvi í röddinni.

"Ef ég hefði nokkra von um, að guð bænheyrði mig", hélt Halla áfram, "þá mundi ég biðja hann að lofa mér að deyja nú, þar sem ég er."

"Halla, þetta máttu ekki segja."

Aftur varð þögn. Halla reisti sig hægt upp frá barmi hans og horfði sem áður fram undan sér. Hann sá það glöggt, að enn þá var eitthvað ósagt.

"Hvers vegna berðu ekki giftingarhring?" spurði hún eins og út í bláinn.

Hann brosti við; spurningin kom honum svo barnalega fyrir.

Gat það verið þetta, sem þyngdi huga hennar? Hafði hringurinn blekkt hana? Hann flýtti sér að ná honum fram af fingrinum og sýna henni innan í hann. Þar voru grafnir tveir stafir. Hann var giftingarhringur, þótt hann væri steinhringur. Hann var það - því miður.

Halla leit ekki við hringnum.

Þá fór hann að segja henni frá, hve óhamingjusamur hann væri í hjúskap sínum. Hann hafði verið neyddur til að ganga að eiga þessa stúlku af vandamönnum hennar. Sjálfur hafði hann lítið þekkt hana. Sameiginlegar glaðværðarfýsnir höfðu dregið þau hvort að öðru. Hann hafði í fyrstunni orðið ástfanginn af því, hve vel hún dansaði. Hann vissi, að hún iðraðist eftir hjónabandinu, ef til vill engu minna en hann. Hann vissi, að hún bar ekkert traust til hans. Hingað til hafði hún treyst á foreldra sína og ekkert annað. Og þau höfðu ekki innrætt henni traust á honum. Hún hafði ekkert vitað, hvað hún gekk út í með hjúskapnum. Það, að eiga mann, hafði ef til vill verið henni eitt leikfang í viðbót. Hann kveið fyrir því, þegar þetta höfuðstaðarbarn ætti að fara að lifa lífi sínu í afskekktri sveit. Hann sá það fyrir, að sambúð þeirra gat aldrei orðið innileg. Þau höfðu bæði sömu ókostina. Hvorugt þeirra gat bætt hitt upp. Þau mundu reyna að dylja sorgir sínar hvort fyrir öðru og bæði andvarpa eftir frelsinu í kyrrþey, um leið og þau reyndu þó að umgangast friðsamlega og forðast að auka hvort á annars áhyggjur.

Þannig kom honum hjúskaparlíf sitt fyrir sjónir. En hann gleymdi því, að hann var að baktala manneskju, sem þó þráði hann og þótti vænt um hann, og að sumt af því, sem hann sagði, var sprottið af grun og kvíða hans sjálfs, en studdist ekki við næga reynslu.

En hann sagði þetta allt, eins og það hafði búið um sig í huga hans. Þetta var mildasta niðurstaðan, sem hann hafði komist að um þetta atriði. Og kæmi nú eitthvað fyrir, sem andaði á þetta hjúskaparhamingju-hrófatildur, þá duldist honum ekki, að það hlaut að fara enn þá verr.

Það var sem Halla heyrði ekkert af þessu, sem hann sagði. Henni fannst sig í raun og veru ekkert varða um þetta allt saman. Hún vissi, að hann unni ekki konu sinni, og hún vissi, að leiðir þeirra gátu samt ekki legið saman framvegis. Þetta hvort tveggja var henni nóg. Allar hamingjuvonir hennar sjálfrar voru lagstar til hinnar hinstu hvíldar, og með hvarfi þeirra virtist athyglin fyrir öllu öðru hafa kólnað og dofnað. Nú hugsaði hún mest um það, að hlífa honum, svo lengi sem unnt var, við því að heyra það, sem enn þá var ósagt.

En það var ekki unnt lengur. Á þessum fundi urðu þau að tala út um allt það, er þeim fór á milli. Síðar var það of seint. -

Lágnættið var komið.

Ennþá var að vísu ekki kominn sá tími ársins, að sólin væri hætt, eða því nær hætt, að ganga undir; en þó var nokkuð síðan, að dagur var hættur að hverfa af loftinu alla nóttina. Það var því hálfdimma ofur litla stund.

Veðrið var undur kyrrt og milt, og hátíðlegur friður allt í kringum þau.

Þunn kápa af dökkum vorskýjum lá yfir því nær allan himininn. Sums staðar grisjaði í hana, og sáust þá daufar stjörnur upp í hvelfingunni, en niður við sjóndeildarhringinn var dagur allt í kring.

Um lágnættið þéttust skýin og sigu niður undir jörðina, eins og þau væru forvitin og væru að hlusta og rýna eftir því, sem gerðist þar niðri í bládimmunni og næturkyrrðinni.

Sum tylltu sér þá á fjallakollana, löt og hvílrækin, vöfðu sig saman eins og kettir og fengu sér blund - meðan sólin léti þau í friði.

En litlu skýin, skýjabörnin, héldu sér svífandi. Þau voru hvorki forvitin né værukær, en þau leituðu hærra upp í loftið, til þess að vera viðbúin þegar sólin kæmi upp. Það væri þó gaman að vera komin í morgunkjólinn sinn á undan öllum öðrum, standa íklædd pelli og purpura. meðan hin skýin voru enn þá dökkgrá!

Prestinum fannst sem þessi leynifundur þeirra mundi nú vera á enda og ekki væri annað eftir en að kveðja Höllu hinni síðustu kveðju.

En það var eins og hún yrði vör við hugsun hans. Hún leit til hans og horfði fast á hann um stund; þótt skuggsýnt væri, gátu þau gjörla greint svip og útlit hvors annars. Og honum duldist ekki, að hana langaði til að segja eitthvað, sem hún þó hikaði við að koma fram með. Var það einhver bón, sem hana langaði til að biðja hann? Eða var það eitthvað annað? Hún horfði til hans eins og hún reyndi til að skyggnast inn í huga hans, og tillit hennar vakti beyg hjá honum.

Halla tók í hönd hans milli beggja sinna, eins og hún með því vildi milda þau tíðindi, sem hún hafði að segja. Eftir þennan undirbúning sagði hún einarðlega, en þó blíðlega:

"Elsku vinur minn. Okkur hefur fram að þessu tekist að halda vináttu okkar leyndri fyrir mönnum. En forsjóninni, sem hefir séð allar okkar athafnir og hugrenningar, hefir ekki þóknast að leyfa, að svo skyldi vera framvegis. - Leyndarmál okkar verður óumflýjanlega innan skamms á allra vitorði."

Honum varð hverft við. Hann renndi grun í, hvað hún átti við. En hann lét sem minnst á því bera og spurði eins og annars hugar: "Hvað áttu við?"

Höllu fannst það óþarfi af honum að neyða sig til að tala ljósara, og sagði því ofur lítið harðlegar en áður:

"Þú skilur vel, við hvað ég á."

Það varð dauðaþögn. Það var líkast því, sem ekkert orð væri í huga hvorugs þeirra, sem lægi beint við að segja. Þau horfðu hvort framan í annað. Halla ástúðleg, angurblíð og alvarleg, og hann - sviplaus. Það var um stund eins og hverri hugsun væri stolið úr huga hans. Hann var utan við sig, lamaður af þeirri frétt, sem hann mest af öllu hafði kviðið fyrir. En augu Höllu vöktu hann aftur til meðvitundarinnar. Þau horfðu beint inn í augu hans og kröfðust svars.

Það var snöggvast eins og leiftri brygði fyrir í huga hans. Eitt hið hæsta og göfugasta í karlmannseðlinu: föðurgleðin, gerði allra snöggvast ng óljóst vart við sig.

Hann var sæll, að vera faðir að því barni, sem þessi góða, göfuga stúlka var móðir að. Þessi stúlka, sem af fölskvalausri ást og blindu trausti hafði gengið honum á hönd, án þess svo mikið sem spyrja um, hver hann væri. Þessi stúlka, sem enn þá horfði framan í hann, full elsku og trausts og reyndi að segja honum þessa frétt með sem allra mestri hlífni og varúð - og það eftir að hann hafði neyðst til að segja henni, að hann hefði dregið hana á tálar og ætlaði að yfirgefa hana. Þessi stúlka, sem hafði fyrirgefið honum af hjarta allt, sem skeð var, og litið á það frá hans sjónarmiði, en ásakað sig. -

Það var eins og hljómþýð rödd hrópaði í sálu hans: Brjóttu af þér öll bönd, slíttu þig frá lyginni og heigulshættinum, taktu hana í faðm þér í augsýn alls heimsins og játaðu drengilega allt þitt athæfi, hvað sem hver segir; byrjaðu svo nýtt líf og vertu hamingjusamur í örbirgð þinni og stríði, því það blessast af ást góðrar konu.

En leiftrið hvarf, röddin þagnaði. Það var eins og suða fyrir eyrunum á honum. Hugsunin varð aftur óskýr, og hann var um augnablik sem heillaður í leiðslu.

Svo komu aðrar hugsanir. Þær gerðu fyrst vart við sig sem dimmir skuggaflekkir. En svo óðu þær að honum, hver eftir aðra og hver annarri ægilegri.

Það voru afleiðingarnar af því, sem skeð var, afleiðingarnar fyrir hann sem eiginmann og sem prest.

Og við komu þeirra hugsana vaknaði sú tilfinning, sem alla hans ævi hafði borið af öllum öðrum í brjósti hans: sjálfselskan - þessi meðfædda hvöt til eigin gengis og eigin varnar, sem er því ríkari sem siðferðisþroskinn er minni, og sem kyrkir svo marga drengilega hugsun í fæðingunni og gerir svo margan efnismann að skriðdýri. Nú lét hún til sín heyra.

Hann fann til vanmáttar síns og kjarkleysis; óttinn greip um hann sínum dökku, löngu, héluköldu örmum, óttinn fyrir fátækt, vanvirðu og útskúfun úr stétt sinni.

Og jafnhliða óttanum kom kvíðinn, napur og nístandi, og rann eins og kaldur hrollur um sálu hans, kvíðinn fyrir ábyrgðinni af verkum sínum og fyrir lífinu og framtíðinni.

Meðan þetta var að berjast um í huga hans hvíldu augu Höllu stöðugt á honum. Hún gat ekki ráðið í það, hvað honum bjó í hug. Hún sá snöggvast bregða fyrir gleði í svip hans. En svo myrkvaðist andlitið von bráðar og hélt áfram að skipta litum. Henni fannst þögnin óþolandi og tók því blíðlega til máls:

"Elsku vinur minn, ég er ekki óhamingjusöm. Ég sé það að vísu, að við megum til að skilja. Það er krafa heimsins og stöðu þinnar. En ég skal geyma trúlega minningu þína og aldrei, aldrei gleyma þér. Ég er viss um það, - ég finn það í sálu minni - að samlíf okkar hefir ekki verið syndsamlegt í augum hans, sem allt sér. Ég hafði engan til að ráðfæra mig við nema hann, hann sem býr þarna uppi og ræður kjörum mannanna. Til hans hugsaði ég á efasemda og áhyggjustundum mínum og lagði öll mín kjör í hans hönd. Látum mennina segja það, sem þeim þóknast. Þeir geta rifið þig frá mér, en þeir geta aldrei rifið frá mér hamingjuna, sem minningin um þig veitir mér. Og ef það, sem ég ber undir brjóstinu, fær að lifa og vaxa upp hjá mér, þá skal ég elska það, lifa fyrir það og verja öllum mínum lífskröftum því til blessunar, af því ég er móðir þess og þú faðir þess, og af því það er tryggðarpantur okkar, gefinn í faðmlögum algleymisástar og sælu, sem enginn sá eða vissi um nema guð, faðir okkar beggja. - Heyrðu, elsku vinur minn, má ég ekki láta það heita Halldór, ef það verður drengur - eða Halldóru, ef það verður stúlka, svo það beri líka nafn þitt - kærasta nafnið, sem ég kann að nefna?"

Veslings Halla. - Þetta var seinasta hamingjuvonin hennar - allt það, sem nú var eftir af draumum hennar. Það var lífsakkerið, sem hún nú byggði allt á. Hún hélt í einfeldni sinni, að þetta væri þó að minnsta kosti hættulaust, og ætlaði að gera sér það að góðu. Hún vissi ekki, hve veikt þetta hálmstrá var.

Presturinn var orðinn náfölur í framan. Varirnar voru bláhvítar og titruðu. Hann heyrði orð Höllu, eins og þau væru töluð álengdar, en heyrði þau þó.

Hann skildi það vel, að hún krafðist einarðlega réttar síns af honum. Það var ekkert undanfæri. Það var öll von úti.

Honum sortnaði fyrir augum. Það sem hafði barist um völdin í huga hans, hafði nú lokið taflinu. Sjálfselskan hafði sigrað. Skynsemin hafði orðið hugsjóninni yfirsterkari. Allar mótraddir voru þaggaðar niður.

Og ofboðið greip hann. Hann gleymdi sér í myrkviðri sinna eigin hugsana, og líkamskraftarnir brugðust honum líka í þessu sálarstríði. Hann titraði eins og laufblað, lét fallast með höfuðið ofan að barmi Höllu og stundi upp því eina, sem honum nú sem stóð gat hugkvæmst að segja:

"Halla, ég er glataður maður!"

Halla strauk hendinni mjúklega um hárið á honum. "Er það mér að kenna?" spurði hún svo lágt, að naumast heyrðist.

Það var enn þá bið eftir svarinu. Hann reisti sig upp aftur, og augu þeirra mættust. Hún hrökk saman. Hún hafði aldrei séð annað eins myrkur mannlegrar örvæntingar eins og í þessum augum.

Hann varð fyrri til að svara en hún að spyrja frekar:

"Já, það er þér að kenna - er það þér að kenna. Nú hefir þú forlög mín öll í hendi þinni. Ó, Halla, Halla, vertu ekki miskunnarlaus!"

"Miskunnarlaus!" hváði Halla. Henni kom þetta allt svo ókunnuglega fyrir.

"Halla, þú veist ekki, hvers þú krefst af mér. Það, sem þú ferð fram á, er ekki nokkur hluti hamingju minnar, heldur er það hún öll. Embættið, heiðurinn, hjúskaparfriðurinn, æran - þetta er allt tapað. Ég veit það vel, að ég er faðir að barni þínu. En ég má ekki heita faðir að því. Við því liggur allt mitt tímanlega gengi. Halla, ég bið þig, - reyndu að gera þér ljóst, hve takmarkalaus óhamingja mín er! Sviptu mig ekki öllu!"

Halla þagði og horfði á hann. Það var eins og henni skildist ekki enn, hvað um var að vera.

Hann hélt áfram með vaxandi ákefð. Röddin titraði af geðshræringu. Halla hafði séð hann líkan þessu einu sinni áður. Það var kvöldið, þegar hún færði honum kertið og sá í fyrsta sinn í augu hans.

"Ég skil vel ástæður þínar. Þú ert of hreinhjörtuð til þess að segja ósatt, of stórhuga til þess að vilja láta aðra bera af þér blak, og ímyndar þér aðra menn eins og sjálfa þig. Þér stendur ekki á sama, hver kallast faðir að barni þínu. Þú krefst þess, og það réttilega, að heimurinn viti það sanna. Ég vil ekki misbjóða þér. Það mundi varpa skugganum á þig, ef ég bjargaðist. Menn mundu ef til vill blekkjast, eða að minnsta kosti láta sem þeir létu blekkjast. En það er þýðingarlaust að tala um slíkt. Ég þekki engan mann þér samboðinn og ég á engan trúnaðarmann, sem ég get leitað til. Það er öllum sundum lokað. Sverð bölvunarinnar hangir yfir höfði mér. Ég hef drýgt glæp. Ég hefi leitt þig afvega. - Blíðmæli mín hafa verið blandin eitri. Kossar mínir hafa verið höggormsbit. - Nú kemur hefndin. - Allt þetta eitur brennir nú sjálfan mig. Því fer betur, að það er aðeins lítill hluti þess, sem nær að skaða þig. Það eru góð öfl, sem varðveita þig og barnið. Þið eruð bæði hrein og saklaus. - Guð og menn líta í mildi á ástæður ykkar. - Hefndin hittir þann einn, sem hún á að hitta."

"En hvers krefstu þá af mér?" mælti Halla. "Segðu mér, hvers þú krefst. Krefstu þess, að ég leyni faðerni barnsins míns, kenni það einhverjum, einhverjum saklausum manni, ljúgi frammi fyrir öllum heiminum, frammi fyrir prestinum, sem á að skíra það? Getur þú krafist annars eins af mér? - Geturðu ímyndað þér nokkurn mann svo lítilmótlegan, að hann léti fá sig til að gangast við því, sem hann hefir ekki gert, - kaupa sig til þess? Og ef hann kynni að finnast, þá á ég að játa á mig mök við slíkan ræfil! Barnið mitt á að kalla hann föður sinn! Geturðu krafist annars eins af mér?"

"Nei, ég get það ekki. Það er úti um allt!"

Hann sagði þetta svo lágt, að hún heyrði varla orðin. Hann heyrði það á undirtektunum, að þennan veg var ekki fært að fara. Og þá var fokið í öll skjól.

Halla hélt áfram: "Og hver mundi trúa slíkri sögu? Það vita allir, að ég hefi fremur sneitt hjá karlmönnum. Verið stygg eins og hind. Enginn af þeim mönnum, sem ég hefi umgengist, hefir verið góðkunningi minn, hvað þá heldur meira. Enginn maður veit til, að ég hafi staðið í neinu nánu sambandi við neinn mann, engan mann umgengist einslega, nema þig. Og þó ætlarðu, að menn mundu trúa því, sem þeim væri ætlað að trúa. - Nei, ég þekki fólkið í þessu byggðarlagi. Það mundi ekki segja mikið upphátt, en þeim mun fleira í hljóði. Sögur í ótal útgáfum mundu læðast um alla sveitina. Óvíst, hve langt þær gætu komist. Tortryggnin myndi lýsa sér í hverju andliti. Menn mundu leynt og ljóst endurgjalda það með nöpru háði og köldum, hlífðarlausum glósum, að við ætluðum þeim slíka einfeldni og trúgirni. Væri það betra fyrir þig en hitt? Fyrir mig væri það óbærilegt?"

Hann þagði og beit á vörina. Hann fann, hve margt var satt í þessu, sem hún sagði. Og tækist þannig til, var lítið betur farið en að það sanna kæmi í ljós. Samlíf hans og safnaðarins var þá gerspillt. Hver smaladrengur í sveitinni gat gert hann orðlausan. Hann fann, að staðan yrði sér óbærileg.

"Nei, elsku vinur minn", mælti Halla enn fremur, "þú getur ekki gert til mín slíka kröfu. Er ekkert annað til, sem getur bjargað þér?"

"Ekkert, ekkert!" Hann hristi höfuðið.

Það varð enn þá ofur lítil þögn. Halla strauk hendinni blíðlega um vanga hans: "Get ég þá ekki bætt þér upp neitt af því, sem þú missir vegna mín?"

Hann brosti, - en í brosinu lýsti sér angist hans og örvænting. "Það er embætti og æra, sem þú átt að bæta mér upp. Treystirðu þér til þess? Það eru allir vinir mínir, sem hafa stutt mig með ráði og dáð, síðan ég var barn; það er faðir minn, sem sjálfur er prestur og sem byggði svo miklar vonir á mér! Það er allur heimurinn, sem þú átt að bæta mér upp. Treystirðu þér til þess?"

Halla þagði.

"Ég veit, að þú gerðir allt, sem í þínu valdi stæði. En hvað stoðaði það? Við yrðum að heyja baráttu gegn öllum völdum, andlegum og veraldlegum. Við yrðum útskúfuð. Við yrðum vargar í véum. - Ég fengi ekki að ganga að eiga þig. Lögin kalla samlíf okkar hórdóm og frillulifnað og banna okkur að giftast. Börnin okkar yrðu réttlaus, því þau væru óskilgetin, og að lokum yrði okkur stíað sundur með valdi, eins og manneskjum, sem spilla öðrum með dæmi sínu. Þannig er siðferðislögmál okkar kristnu kirkju! Slík eru kjör þeirra, sem rísa gegn kirkjustjórn og landsstjórn! Og þótt menn leituðust við að sýna okkur einhverja vægð, - hvað stoðaði það? Af hverju ættum við að lifa? Ég kann ekkert, sem ég get unnið fyrir mér með, þegar búið er að taka af mér emhættið. Hver kærir sig um hempulausan hneykslisprest á skrifstofur eða til verslunarstarfa, þar sem nóg býðst af heiðarlegum mönnum? Nei, Halla mín. Ofan á allt annað bættist örbirgðin, sulturinn -."

Hann hætti upptalningunni í miðju kafi og stóð upp. Þessar skelfilegu hugsanir gengu svo nærri honum, að hann gat ekki haldist kyrr við. Honum var ósjálfrátt þörf á að hreyfa sig.

Halla stóð líka upp. Nú fór henni að skiljast, að hugarstríð hans var ekki að ástæðulausu. Hún hafði heyrt margt þessi síðustu augnablik, sem hún hafði aldrei hugsað út í áður. Ógæfan, sem yfir þeim vofði báðum, óx henni líka í augum.

Hún sá heldur engin úrræði. Fram undan þeim og allt í kringum þau breiddu sig torfærur, sem hún eygði ekki út yfir. Hún sá það vel, að það stoðaði ekki mikið, þótt hann tæki hana að sér. Hún megnaði lítið að bæta honum upp allt hitt. Samlíf þeirra yrði tómt stríð og barátta, sem ef til vill gerði þau bæði köld og biturlynd; - og þegar færi að kastast í kekkina, - hver veit nema hann kenndi henni þá um alla óhamingjuna. Ástin kólnar í stríðinu. Samlíf þeirra yrði kannski tómt böl, sem drægi ekki einungis hana í gröfina, heldur hann líka, - hann, sem hún elskaði. En - hana hryllti við eina úrræðinu, sem þeim hafði hugkvæmst til bjargar.

Hún var sokkin ofan í þessar hugleiðingar, þegar orð hans vöktu hana. Henni brá við. Hún þekkti naumast róminn. Það var eins og orðin kæmu einhvers staðar langt að. Í hverju orði lá svo þung sorg, svo ömurlegt vonleysi og járnkalt biturlyndi, að það smaug henni í gegnum merg og bein.

"Þú færð að sjá leikslokin, Halla. Þú verður meðal áhorfendanna. Það gengur allt saman eins og fyrirfram er ákveðið. Atburðirnir verða sögulegir. Atvikum og tildrögum verður ekki leynt. Sagan flýgur mann frá manni, byggð úr byggð, alla leið upp til háyfirvaldanna í Reykjavík - mannanna, sem þekktu mig á skólaárunum og þurftu þá að fyrirgefa mér svo margar yfirsjónir. Nú geta þeir það ekki lengur. Sómi þeirra og embætti er í veði, ef þeir hlífast við að gera skyldu sína. Svarið kemur. Það verður áheyrilegt; sannur vottur um árvekni hinna háu og strangleika þeirra um, að kirkjan sé ekki vanhelguð! Það kemur í blöðin. Menn verða fíknir í að lesa það. Hneykslissögurnar eru sælgæti fjöldans. Það verður hlakk og hlátur um allt land. Kirkjan hefur löngum verið mönnum ströng húsmóðir; nú benda þeir á blettinn: þannig er hún inni við beinið! Svona eru prestarnir! Faðir minn afneitar syni sínum; hann getur ekki annað. Allir, sem hafa hjálpað mér, stutt mig, þótt vænt um mig og byggt glæsilegar vonir á mér, - þeir formæla mér og snúa við mér bakinu með djúpri fyrirlitningu. - Konan mín neitar að yfirgefa mig í neyðinni. Ég get ekki neytt hana til þess. - Hún fylgir mér eftir - og minnir mig á fall mitt í hvert skipti, er ég lít framan í hana. - - Söfnuðurinn, sem ég heilsaði með stórum, fögrum orðum og loforðum, hann verður feginn að losna sem fyrst við mig! - - Það verður ekki messufall í kirkjunni þann sunnudaginn - þegar prófasturinn ómakar sig hingað í annað sinn mín vegna! Þið sitjið þar báðar, sem ég hefi dregið með mér í ógæfuna, - önnur í prestskonusætinu, hin framar. - Það verður mannkvæmt í kórnum, - þröng inni við altarið! Þann sunnudaginn vantar ekki útréttar hendur - til að færa mig úr hempunni - - á fyrsta embættisárinu mínu!"

Í enda þessarar tölu, sem hafði komið með hvíldum, var sem kraftar hans brystu. Síðustu setningarnar hálfköfnuðu í grátekka. Hann sneri sér snöggvast undan, til að reyna að leyna því, að hann gréti.

En áður en hann gæti byrjað aftur, fann hann mjúka handleggi vefjast um háls sér. Halla varpaði sér í fang hans og mælti skýrt og hiklaust, þótt röddin hefði hreim af gráti:

"Hættu, hættu!" Þetta skal aldrei verða! Ég skal heldur láta lífið en nokkuð af þessu fái að fara fram! Treystu mér, og reyndu að vera ókvíðinn. Enn þá veit enginn neitt - og það skal aldrei neinn fá neitt að vita um leyndarmál okkar. Ég lofa þér því - ég sver það! - Þorirðu ekki að treysta mér? - Heyrirðu það? - Ég skal heldur láta lífið."

Hann horfði framan í hana. Hún sneri sér gegn miðnæturbjarmanum í norðaustrinu. Tárin stóðu tindrandi björt á hvörmum hennar, og andlitið var ljómandi af ást og göfugleik.

Slíkur verður einungis svipur þeirrar manneskju, sem leggur alla sína velferð í sölurnar fyrir þann, sem hún elskar, - sem fórnar öllu því helgasta og kærasta, sem hún á, og lífinu með, ef þess þarf við. - Þvílík elska á einungis heima í óspilltum og ósjúkum sálum.

Hann trúði því naumast, að hann hefði heyrt rétt. Skapsmunir hans voru svo æstir, að hann heyrði og sá sem í óráðsórum, það sem fram fór.

En orð og atlot Höllu höstuðu á þennan úfna sjó hugsana hans. Það var sem meðvitundarlíf hans staðnaði og kólnaði upp, um leið og það sefaðist. Hann stóð sem dáleiddur og vissi hvorki í þennan heim né annan.

Og þetta einkennilega hugarástand birtist í svipnum. Andlitið var afmyndað af baráttunni við grátinn. Þessi nýju, óvæntu tíðindi færðu undrun og fögnuð, sem blönduðust hinu fyrra. Svipdrættirnir urðu hikandi, óvissir og stirðnuðu upp undir þeim áhrifum, svo andlitsútlitið líktist glotti manns, sem ekki er með öllum mjalla.

Hin ósjálfráða vitund manna er hög á svipbreytingar.

En Halla sá ekki útlit hans. Á þessari stundu sá hún hann aðeins, eins og hann kom henni fyrir sjónir, þegar hann hélt fyrstu ræðuna sína í kirkjunni. Þá var það fyrst, að hann hreif til sín allan huga hennar. Í þeirri mynd hugsaði hún jafnan um hann síðan, í þeirri mynd var hann orðinn henni samgróinn; þannig hafði hún elskað hann, og þannig fannst henni hann hverrar fórnar verður, hve stór sem hún var. - Þannig stóð hann henni einnig fyrir hugskotssjónum nú, en ekki eins og hann í raun og veru stóð hjá henni í næturhúminu, beygður af kvöl og hugarstríði. Það var því ekki af meðaumkun einni saman, að hún lagði rétt sinn og velferð í sölurnar, heldur af ást og aðdáun, sem nálgaðist tilbeiðslu.

Það stóð lengi á því, að hann gæti nokkru orði upp komið.

"Halla, - hvernig ætlarðu að fara að þessu?" hraut honum loks af vörum.

"Ég veit það ekki - ekki enn þá! En treystu mér! Ég er búin að lofa því, og ég stend við það. Ertu ekki ánægður með það? - Spurðu mig ekki frekar! - Lofaðu mér að verða hér eftir. - En - kysstu mig að skilnaði!"

Aftur var sem leiftrinu brygði fyrir í huga hans, og röddin utan úr geimnum talaði til hans og minnti hann á að manna sig upp. En nú var leiftrið eins og endurskin hins fyrra og röddin sem bergmál; innri vitund hans heyrði og sá gegnum svefnmókið.

Enda var það árangurslaust. Viljinn, skapið, sjálfstraustið, sómatilfinningin, ástin - allt, allt, sem gerði hann að manni, það var allt sem steinrotað. Ekkert vakti í brjósti hans, nema sjálfsbjargartilhneigingin, sem dýrum og mönnum er ásköpuð. Hún rak hann áfram á þessu þýðingarmikla augnabliki.

Ein hugarhræring varð honum að lokum sjálfráð; það var þakklætistilfinningin.

- "Kysstu mig að skilnaði!" endurtók Halla.

Hann hlýddi eins og barn. Varir þeirra mættust, og sálir þeirra runnu saman í innilegum kossi þakkar og kveðju.

Enn þá einu sinni fann hann hjartayl þessarar ástríku stúlku læsast um sig og gagntaka sig allan. - En nú var það í síðasta sinni.

Þannig stóðu þau, hvort í annars örmum, og gleymdu tímanum, gleymdu bölinu og hættunni - þótt ekki væri nema stutta stund. - En uppi í himinhvelfingunni greiddust skýin í sundur, og nokkrar daufar stjörnur gægðust niður um raufina. Þær skyggndust gaumgæfilega eftir því, sem gerðist í hálfskugga jarðarinnar, og depluðu augunum íbyggilega, eins og þær vildu segja: Við erum vitnin.


9. kafli

Þegar þau voru skilin og presturinn kominn aftur á heimleið, fóru skapsmunir hans að jafna sig eftir það, sem gerst hafði, og hann fór að geta hugsað um þetta með meiri ró og gætni.

Nóttin var svo kyrr, svo hljóð og svo hæfilega svöl, að honum fannst hressandi að vera lengur úti.

Hann settist á stein skammt fyrir ofan vallargarðinn og lofaði næturloftinu að anda um sig og þurrka burtu angistarsvitann, sem hafði komið fram á ennið á honum.

En því fór fjarri, að hann væri aftur búinn að ná sér, þótt því yrði ekki neitað, að hann væri með meira ráði en áður.

Þegar hann var setstur niður, færðist yfir hann einhver undarlegur sljóleiki, hálfgert andlegt ómegin. Það var sem eitthvert kuldalegt tóm umhverfis hann og innra hjá honum. Hugurinn fálmaði eftir hugsununum, minningunum og samhenginu í því, sem fram hafði farið.

Hann fann það að vísu, að embættisheiðrinum var borgið - að þessu var ef til vill öllu borgið á yfirborðinu. Halla hafði lofað því, svarið það, og sagt honum að treysta á sig.

Hún hafði sagt, að hún skyldi heldur láta lífið en að hamingju hans yrði spillt og heiður hans fótum troðinn. Hann vissi, að hún var reiðubúin til að halda orð sín; hann treysti henni.

Hann huggaði sig líka við það, að fráleitt mundi hún þurfa að taka til neinna óttalegra úrræða. Dæmin voru svo mörg, þar sem tekist hafði að breiða yfir leyndarmál, lík þessu, með sniðugum ósannindum. Það var algengasta aðferðin. Og hann efaðist ekki um, að hún mundi einnig verða reynd hér - og takast.

En hann hryllti við slíkum leikslokum. Hann hryllti við því að varpa allri ábyrgð og áhyggju yfir á herðar umkomulausrar, bláfátækrar stúlku, sem af göfuglyndi hafði tekið sökina á sig, til að bjarga honum. Hann hryllti við að mega ekki sjálfur gangast við faðerni barnsins síns, sjálfur annast það, uppala það og sjá það vaxa og þroskast ár frá ári. Hann hryllti við því að þurfa að skríða í skjól lyginnar til að dylja það, sem hann þó innst í sálu sinni taldi sér allra minnst til vansæmis.

Þótt hugsanirnar væru sljóar og hægfara, komu þær þó með slíkar myndir, að innan skamms breyttist hrollurinn í yl og ylurinn í vaxandi hita.

Hann hugsaði til Höllu, manneskjunnar, sem hafði fyrirgefið honum öll hans óheilindi og lagt allt í sölurnar fyrir hann, og sem nú sat og grét hinum megin við hæðina - grét yfir óhamingjunni, sem ást þeirra hafði leitt yfir hana. Hann viknaði, svo það lá við, að hann færi að gráta henni til samlætis, þar sem hann var.

Ástarkvalir þær, sem skáldin lýsa í ljóðum sínum, höfðu fram að þessu liðið fram hjá huga hans, eins og þær kæmu honum lítið við. Hann hafði aðeins kynnst munaði ástarinnar, en aldrei fyrr en nú sársauka hennar. Nú skildist honum, að þessi ljóð voru kveinstafir djúpra, óbærilegra tilfinninga, sem stundum leiddu til sturlunar og líftjóns. -

Hann var, eins og fleiri, skapaður með þeirri mannlegu tilhneigingu að velta sökinni af sér og yfir á eitthvað annað, dautt eða lifandi; kenna því um óhamingju sína og láta gremju sína bitna á því. Það er sagan um fyrstu foreldrana, sem þannig endurtekur sig daglega: maðurinn kenndi konunni, konan höggorminum.

Hann reyndi að leita orsaka allrar þessarar óhamingju. Og hann komst brátt að þeirri niðurstöðu, að þær væri helst að finna í ranglátum hugsunarhætti, menningar- og mannúðarsnauðum, og hjá kirkjustofnun þeirri, sem skapaði hann og varðveitti og lifði á honum.

Hann hafði aldrei kirkjuvinur verið, allra síst þjóðkirkjunnar; miklu fremur þvert á móti. En allar þær hugsanir og skoðanir, sem þessari eldgömlu stofnun voru miður vinveittar, hafði hann neyðst til að læsa vandlega inni, þegar hann fór að búa sig undir að ganga á mála hjá henni. Þær höfðu oft brotist um í klefum sínum á árum guðfræðinámsins, en þó ekki megnað að brjótast út. Hann var hræddur um, að kennarar sínir mundu samt hafa orðið varir við þær, eða að þeir hefðu haft einhvern grun um þær; en þeir höfðu ekkert orð á því. Ef til vill hafa þeir orðið áskynja um líkar hugsanir hjá fleirum og þekkt af reynslunni, hvernig oftast tekst að stinga þeim svefnþorn. - Að minnsta kosti höfðu þeir gert úr honum kennimann.

Hann hafði sjálfur um eitt skeið verið farinn að halda, að þær væru farnar að missa máttinn. En þær höfðu þó fylgt honum inn í prestsembættið.

En nú, - þegar hugur hans var á reiki og hugsanir hans á ruglingi, þegar allir sálarkraftar hans voru lamaðir af ofraun þeirri, er þeir nýlega höfðu ratað í, - nú komu þær aftur til sögunnar. Nú héldu þeim hvorki hurðir né lokur. Þær brutust fram, réðust á hann og lögðu hann allan undir sig í einni svipan.

Gremjan yfir kirkjuástandinu, eins og það oft hafði verið og eins og það var enn þá, gagntók hann eins og hitasótt. - -

Því lengur sem hann hugsaði um þetta, því æstari varð hann og ákafari í skapi.

Hann fann svo margt í fari kirkjuskipunar sinnar, sem hann var ekki ánægður með - æ fleira og fleira, sem honum fannst þurfa að laga og endurbæta. Þar á meðal voru afskipti kirkjunnar af einkamálum manna.

Hann áleit öll þau fyrirmæli, sem þar að lutu, lýsa svo miklum eintrjáningshætti og ónærgætni, að þau væru með öllu óþolandi.

Hann hugsaði til sjálfs sín. Brot hans var í raun og veru ekki mikið, - ef brot skyldi kalla. Og í samanburði við þá hegningu, sem við því lá, var það hverfandi.

Og afleiðingin var sú, að hann skreið í skjól ósannindanna, til að firra sig þeim ósköpum, bætti við nýju broti, sem var langtum andstyggilegri ósómi en hin fyrri yfirsjón. Og með slíkt mein í sálunni átti hann að halda áfram að vera prestur! En hann var rekinn áfram með ógnarlegum svipum. Hann gat ekki annað, hann þorði ekki annað.

Það fór hrollur um hann. Honum bauð við sjálfum sér.

Hann hugsaði til embættisbræðra sinna, bæði fyrr og síðar, sem hann hafði afspurn af, að líkt hefði staðið á fyrir, eða sem á einhvern hátt höfðu orðið að grípa til líkra óyndisúrræða til að skjóta sér undan hegnandi hendi þessarar miðaldalegu stofnunar.

Hann hugsaði til Jóns Þorlákssonar. Alltaf skildi hann hendingar hans betur og betur.

En þeir voru margir, og vissulega fleiri en nokkurn grunaði, sem eitthvað höfðu að dylja og samt neyddust til að halda áfram kennimennsku sinni og fordæma það í fari annarra, sem þeir sjálfir álitu ekki synd, en skjálfa sjálfir, hvenær sem þeir litu í augun á einhverjum þeim manni, sem yfirljómaði bresti sína með stórum kostum, í stað þess að klóra yfir þá með lygi.

Þannig kom honum allur þorri embættisbræðra sinna fyrir sjónir. Flestir þurftu meira eða minna á grímunni að halda. Hinir voru ef til vill aðeins undantekningar.

Honum bauð við þessu öllu saman. Honum bauð við þeim hálfleik, því andleysi og þeim óheilindum, sem þjóðkirkjan var full af, og öllum þeim leynigryfjum, öllum þeim mergfúa sem hún bjó yfir.

Nei, nei. Það mátti ekki við svo búið standa!

Engum stóð nær að hefjast handa en einum af þjóðkirkjunnar eigin prestum.

Hann vissi vel, að þótt kirkjan drottnaði enn þá yfir almenningsálitinu, eða réttara sagt, þótt flestir væru nógu þýlyndir til að þegja og ekki nema fáir þyrðu að ganga í berhögg við þessa voldugu stofnun, sem hafði ríkið að bakhjalli, - þá svaf þó innst í hugskoti flestra manna hugsjón um aðra kirkjuskipun, frjálslegri, göfugri og mannúðlegri, sem stæði á eigin fótum, gædd áhuga og trausti sem kirkjan á dögum postulanna, sem væri stríðandi og stæltist við hverja raun, en þyrfti ekki að kaupa sér neina valdhafavernd, - sem væri í einu orði samkvæmari aldarandanum og samboðnari guðdómshugmyndinni.

Og sá, sem vekti þá hugsjón og bæri hana fram til sigurs og öndvegis - - -!

Hann hugsaði ekki hugsunina til enda. Hann kipptist við og réttist upp í sæti sínu á steininum, eins og rafmagnsstraumur hefði verið leiddur um hann. Nýjar og nýjar hugsanir þutu fram í huga hans með einstakri viðkomu.

Ákafi skapsmuna hans hafði náð hámarki sínu. Hann sá, að það þurfti að gera uppreist móti öllu því, sem úrelt væri og einstrengingslegt í kirkju- og trúarlífinu, ráðast á það með odd og egg og láta það fara sömu förina og aflátssöluna, bannfæringarnar, galdrabrennurnar, stóradóm o. fl. o. fl., taka sér eldhúsdag og róta duglega til í þessari eldgömlu stofnun, róta henni um koll, ef því væri að skipta, en reisa á rústum hennar aðra stofnun, betri og fullkomnari, sem fær væri um að ganga í broddi hugmynda aldarinnar, en væri ekki á eftir í öllu.

Hann setti sig í stellingar eins og hann byggi sig til atlögu gegn þessu ofurefli. Hnefarnir krepptust og hnúarnir hvítnuðu. Hann sló út með hendinni, sem vildi hann gefa ósögðum orðum sannfærandi áherslu. - En steinninn, sem hann sat á, varð fyrir hendinni.

Hann stökk á fætur; hann hafði flumbrað sig á hendinni og kenndi töluvert til.

Sársaukinn truflaði hugsanir hans og hægði þær til muna. En þegar úr sviðanum dró, tók andi hans aftur til starfa, en þó ekki með slíkum ákafa sem áður.

Já, nýr Lúther - það var einmitt slíkur maður, sem þörf var á, til að kvista niður og uppræta það úr kirkjunni, sem Lúther hinn fyrri hafði skilið eftir.

Sá maður, sem gerði það, hlaut að launum ódauðlega frægð og óþrotlegt þakklæti.

Hann fór að taka saman í huganum eitthvað af þessum níutíu og fimm mótmælagreinum, sem þyrfti að festa upp, - og komst upp í þrettán.

- Eða þá sá maður, sem beita kynni vopnum listarinnar gegn kirkjunni, sem gæti sent henni hárbeitt skeyti í ljóðum, sýnt henni sjálfri sína aumkunarlegu mynd, hlegið máttinn úr hleypidómum hennar og kveðið þá niður að eilífu -! Fyrir slíkum manni mundi heimurinn beygja kné sem goði sínu og andlegum afburðamanni.

Hann rölti stundarkorn fram og aftur um holtið, meðan skapsmunir hans voru að jafna sig. Stundum datt honum í hug að fara upp að lauginni til Höllu og vita, hvernig henni liði. En hann hætti við það; þau höfðu kvaðst, og hún beðið hann að lofa sér að vera einni.

En mest hugsaði hann þó um það, hvílíkrar frægðar sá maður yrði aðnjótandi, sem fær væri um að vera Lúther II. - eða þó ekki væri nema Jón Þorláksson II.

Ó, ef hann væri skáld - - - -!

Síðan gekk hann í hægðum sínum heim yfir túnið, sem byrjað var að gróa.

Hugur hans sefaðist enn betur á leiðinni; hann fann of mikinn vanmátt hjá sér til að leggja út í stórræði, og þá var best að halda sér í skefjum og sætta sig við kjörin.

Hann fann ilminn af nýgræðingnum leggja á móti sér upp úr túninu; það var sem hressandi drykkur fyrir hann að anda honum að sér. Þetta gras spratt upp handa honum; þetta sumar átti hann að njóta örlætis náttúrunnar á þessu prestssetri.

Hann renndi augunum yfir túnið, um leið og hann gekk um það. Það var þýft, en það var grasgefið. Gamla prestsekkjan hafði heldur ekki sparað að bera vel á það; hún vildi skilja vel við allt á prestssetrinu. Það versta var, að óþarflega mikill áburður lá ónotaður undir húsveggjunum; en það skyldi nú leggjast niður!

Hann leit heim til bæjarins. Þar var mörgu ábótavant. En hann sá í anda, hvernig þar mundi líta út, þegar hann yrði búinn að byggja þar upp, fegra og prýða.

Það var þó ekki örvænt um heiður og hamingju í framtíðinni sem starfssamur bóndi, með prestsembættið að bakhjalli, sem fremsti maður sveitarinnar og safnaðarins, virtur í búri sem kór, og launaður með spesíum og lambafóðrum, sauðum og feitmeti - ef hann aðeins vildi vera eins og hinir.

Hann brosti sjálfur að þessum hugsunum, þegar hann bar saman við hinar fyrri. En það voru þó þær, sem réðu lífi hans að lokum.

Og þegar hann kom inn í stofuna, lá við, að hann gerði bæn sína og þakkargjörð til forsjónarinnar fyrir að sleppa svo dásamlega sem nú var útlit fyrir frá þeim voða, sem vofði yfir honum og embættisheiðri hans. Verndun hans var um leið verndun kirkjunnar. -

Það var farið að birta aftur, þegar hann fór að hátta.

Hann lá lengi vakandi og var að taka saman ræðuna til næsta sunnudags.

Hann átti að tala um sending heilags anda - ef einhver fengist til að hlusta á það.


10. kafli

Þegar Halla var orðin ein, setti að henni ákafan grát. Hún hafði stillt sig eins og hún gat, meðan hann var hjá henni, og jafnvel misboðið sjálfri sér með því að kefja tilfinningar sínar.

Nú var hún orðin ein eftir. Nú gat hún svalað sér með tárum sínum. Enginn heyrði kveinstafi hennar. Alls staðar umhverfis var dauðakyrrð. Ekkert heyrðist, nema sogið í hvernum, sem ýmist dró niðri í sér eða sauð og vall langt upp yfir barma sína.

Hún lá ýmist flöt í grasinu eða hún settist upp og reri fram á hendur sínar. Nýjar og nýjar gráthviður fengu vald yfir henni; bráðum varð hún þreytt af grátinum og tárin tóku að þverra; en geðshræringar hennar minnkuðu ekki fyrir það. Hún skalf eins og hrísla af þungum ekka.

Það leið góð stund þar til hún sefaðist svo, að hún gat nokkuð hugsað, og þótt hún reyndi það, voru hugsanirnar ruglaðar og sundurslitnar. Það var sem andlegir kraftar hennar væru lamaðir. Hún gat ekkert annað en gefið sig grátinum á vald að nýju.

Loks fór hún þó að geta hugsað með samhengi.

Hún byrjaði með því að rifja upp fyrir sér allt það, sem gerst hafði um nóttina. Hún mundi hvert einasta orð og atvik, sem þeim hafði á milli farið, hún mundi meira að segja hverja svipbreytingu, sem hún hafði séð á andliti hans, hvern drátt í þessum svipbreytingum, og hljóminn í hverju orði, sem hann hafði sagt.

Hún fann, að skilnaður þeirra að þessu sinni var skilnaður fyrir fullt og allt. Aldrei framar mundu þau hittast. Aldrei framar fengju þau tækifæri til að segja hvort öðru, hvað þeim byggi innan rifja. Með þessum fundi voru unaðsstundir þeirra innsiglaðar að eilífu. Hún fann, að hvort sem líf sitt entist lengur eða skemur, yrði þessi síðastliðni vetrartími þess fegursti og hlýjasti sólskinsblettur, þess dýrmætasta eign og endurminning - hverju sem síðar yfir þyrmdi. Hún þjáðist ekki af iðrun yfir því, sem hún hafði gert, heldur aðeins af söknuði horfinna heilla og kvíða fyrir því, sem koma ætti.

Hún mundi líka vel eftir, hverju hún hafði lofað honum. Hún hafði ekki gert það með yfirlögðu ráði. Hún hafði aldrei hugsað út í, að til þess mundi koma. Nú var það hennar að standa við heit sín.

Hann hafði tjáð sig vera glataðan mann. Nú var hann frelsaður, en hún - hún var glötuð stúlka.

Og honum var ekki borgið að heldur, nema hún bæri gæfu til að efna heit sitt. Hún hafði tekið alla sökina á sig, heitið honum að ábyrgjast allt saman, haft stór orð um, og jafnvel lagt við líf sitt. Hún vissi, að hann treysti á hana. Nú kom til efndanna.

Enn þá hafði henni ekki hugkvæmst neitt ráð.

Og ef þetta mistækist allt saman?

Það var svo hryllilegt til þess að hugsa, að hún gat varla fylgt því út í æsar. -

Hún gat því nærri, hvernig sveitafólkinu mundi smakkast önnur eins saga um prestinn sinn. Hún gat því nærri, hvernig þúsund munnar mundu leggjast á eitt til að auka hana og endurbæta og koma henni sem fljótast og víðast.

Og svo afleiðingarnar. - Allt það, sem hann hafði sagt um aðgerðir yfirvaldanna og aðferðir safnaðarins við afhelgun hans, rann fram fyrir hugskotsjónir hennar eins og straumur lifandi leiks. Þannig yrðu hans óumflýjanlegu forlög, sem hún hafði lofað að ábyrgjast.

Og hún sjálf. - Það færðist bros yfir andlitið, eins og hún horfði á eitthvað viðbjóðslegt. Hóra, skækja, frilla, hjónadjöfull og annað þvíumlíkt - það voru orðin, sem heimurinn mundi hafa á takteinum handa henni!

Það var sem hún sæi framan í sumt af fólkinu, þegar það hafði annað eins krydd í munninum!

Hún vissi að vísu, að margir mundu aumkast yfir sig og ef til vill hlífa sér við þessum háðungarnöfnum, ekki af því, að þeim fyndist hún ekki eiga þau skilið, heldur aðeins af því þeir af góðmennsku sinni vildu ekki berja hana með verstu gaddasvipunni.

En hvenær sem hún reyndi að sýna persónulegt sjálfstæði, hvenær sem þyrfti að brjóta hana á bak aftur eða hefna sín á henni, þá var hún ekki í efa um það, til hverra vopna yrði gripið. Hún þekkti hugsunarháttinn og - göfugmennskuna.

Hún hugsaði til stallsystra sinna, sem alltaf höfðu haft horn í síðu til hennar, alltaf öfundað hana og alltaf fundist hún skyggja á sig. Hvort þeim yrði ekki matur úr þessu! Það var sem hún heyrði í þeim pískrið, hláturinn, glósurnar, eða sæi hornaugun, sem þær gutu, bendingarnar, háðið, hefndargleðina! Þetta hafði hún af því að vera tekin fram yfir þær á heimilinu!

Eða þá piltarnir, sem hún þekkti. Piltarnir, sem höfðu verið hugfangnir af henni, að minnsta kosti annað kastið, og sem hún hafði kvalið með kulda og tvíræði, gefið undir fótinn og hrundið frá sér á víxl, sem hún hafði haft að leiksoppi, og það alveg að ósekju, sem hún hafði sært og jafnvel grætt, vegna góðra og göfugra tilfinninga fyrir heill hennar og hamingju.

Sumir af þeim voru vænir og efnilegir menn, sem hún vissi fyrirfram, að ekki mundu gleðjast yfir óförum hennar eða nota þær í hefndarskyni. Ef til vill mundu sumir þeirra aumka hana og leitast við að gera henni gott, aðrir mundu láta hana hlutlausa. En allir mundu þeir sneiða hjá henni með stakri fyrirlitningu.

Hún vissi, að ekkert á örðugra með að vinna sér uppreisn í augum ungra karlmanna en fallinn kvenmaður. -

Og húsmóðir hennar, gamla prestskonan! - Hún hugsaði einnig til hennar. Hún hafði trúað henni best allra hjúa sinna, og nú launaði hún henni með því að bregðast trausti hennar og gera heimili hennar hneisu, seinasta árið sem hún var húsmóðir. Hún gat því nærri, hve þungt henni mundi falla það.

Hún hugsaði til grunsemda þeirra, sem hún hafði orðið vör við hjá henni, hugsaði til augnanna, ströngu og spyrjandi, sem hún hafði litið hana. Hún vissi, að hún mundi ekki verða margmálug, ekki berja hana brigslum; en svipur hennar mundi verða þungur og ásakandi, og hún kveið meira fyrir því en nokkru öðru.

Af öllum þessum hugsunum setti grát að henni að nýju. Það fór hrollur um hana, hrollur angistar og örvilnunar.

Hún mátti til að umflýja allar þessar hörmungar, því hún gat ekki við þær lifað. Hún mátti til að villa heiminum sjónir - en hvernig átti hún að fara að því?

Hún sá engin sköpuð ráð.

Hún renndi huganum yfir alla þá karlmenn, sem hún þekkti og mundi eftir í svipinn, ef ske kynni, að hún fyndi einhvern, sem hún gæti beðið ásjár.

Hún vissi, að mörgum þeirra hafði litist vel á hana, en annað mál var það, hvað mikið þeir vildu leggja í sölurnar hennar vegna. Hún þekkti engan þeirra svo vel, að hún þyrði að trúa honum fyrir leyndarmáli sínu, og hún treysti engum þeirra svo vel, að hún léti við það lenda, þegar blekkingin kæmist upp, og þá yrði seinni villan argari hinni fyrri.

Eða átti hún kannski að ganga á röðina og leita fyrir sér meðal þeirra? Nei, aldrei! Til þess hafði hún ekki þrek. Hún fann það, að ef sá fyrsti neitaði sér um ásjá, þá hefði hún ekki geð til að biðja fleiri, hvað sem við lægi.

Auk þess var þá leyndarmálið komið á fleiri manna vitorð og óvíst, hvernig með það yrði farið. Hún hætti að hugsa um þann útveg, og þar með fannst henni fokið í það skjólið.

Henni datt í hug að þverneita að segja til faðernis barnsins og láta skíra það undir hvaða nafni sem verkast vildi. En hún sá það jafnframt, að sér mundi aldrei líðast það.

Og þótt henni liðist það, þá var það lítið betra en að segja satt frá, því þá tæki almenningur til þess að feðra og mundi eflaust fara nærri um þann rétta.

Henni datt í hug að fara eitthvað langt burtu, þangað sem enginn þekkti hana, og ala barnið þar. En hvert átti hún að fara? Hún hafði aldrei farið eitt fet út tyrir sveitina. Hún þekkti engan mann í öðrum sveitum. Enginn var þar til, sem gat komið henni á framfæri. Og atleiðingin yrði ef til vill sú, að hún yrði innan skamms send hreppaflutningi á sveit sína.

Allar þessar hugsanir voru fálm út í loftið eftir úrræði, sem ekki var til. - -

Meðan Halla var að velta þessu fyrir sér, var morgunninn að leggja undir sig allt loftið. Skýin beltuðu sig góðviðrislega í austrinu og voru öll með eldrauðum kögrum; aðeins ofur lítill kjarni í miðju skýinu var dimmur.

Sólin var komin upp, en enn þá hulin skýjum.

Morgunninn var undur fagur og mildur; en Halla gaf því engan gaum. Hún sat og leit til jarðar og braut heilann um óhamingju sína. Hún hélt áfram að pína fram nýjar og nýjar hugsanir, ný og ný úrræði, sem öll fóru sömu förina.

Hún fann sáran verk í höfðinu. Hún hafði ofreynt sig á að hugsa.

Hún fann ekkert nema vanmátt sinn og einstæðingshátt gagnvart þessum vonleysis-kringumstæðum. Hún gat ekkert annað en gefist upp og grátið.

Þegar svo er komið, er alger örvænting ekki langt frá. -

Allt í einu birti allt í kringum hana, eins og ljóma væri varpað af himni niður yfir blettinn, þar sem hún sat; yfir vorgræna lægðina á laugarbakkanum, þar sem úðinn úr hveragufunni hafði setst á hvert strá í svalri lágnættiskyrrðinni, og allt glitraði; og yfir klettana að baki hennar, þar sem ármenn hversins og laugarinnar, sem höfðu það hlutverk með höndum að vernda þá frá slysum, sem þar höfðust við, - bjuggu innan luktra steindyra.

Það var sólin, sem kom fram í rifu milli tveggja skýja í austrinu og varpaði skæru, rauðu morgunskini yfir þennan hluta sveitarinnar.

Allt, sem móti sólu vissi, varð blóðrautt og brosandi fagurt, eins og barn, sem rís upp í vöggu sinni eftir langan og væran dúr.

Hverinn varð líka rauður, og vatnshöglin, sem hann hreytti upp úr sér, urðu eins og neistaflug út frá vermandi arinloga.

Það var eins og náttúran gerði sér allt far um að birta Höllu velþóknan sína. En augu hennar voru svo haldin, að hún sá það ekki.

Hún hrökk við.

En það var ekki morgunkveðja sólarinnar, sem hafði þessi áhrif.

Ein hugsunin enn hafði flogið fyrir í örmagna huga hennar, eitt úrræði enn þá - það síðasta, það hryllilegasta: að farga barninu.

Aftur og aftur hafa kringumstæður líkar þessum rekið yfirgefna einstæðinga til þessa óttalega úrræðis, sem hverju mannshjarta býður við; og árlega gera þær það og munu gera, meðan hinn ríkjandi hugsunarháttur er jafnómannúðlegur.

Á öllum öldum, næstum árlega, hafa vesalings, yfirgefnar mæður reynt að grípa til þeirrar heimsku að fæða börn sín á laun og bera þau út.

Þess vegna er til jafnóttalegt örnefni eins og Drekkingarhylur.

En Halla lagði ekki út í að hugsa jafnviðbjóðslega hugsun. "Aldrei, aldrei", hljómaði í hug hennar, svo hátt og einbeitt, að það yfirgnæfði slíkar djöfuls raddir sem freistni til barnsmorðs.

Nei, - þá heldur að láta lífið með því. Þar með var endi bundinn á allt þetta stríð. Og henni hafði enn þá ekkert annað úrræði komið til hugar.

Örvæntingin var að koma með öllu sínu feigðarafli. - Halla varpaði sér á grúfu niður á jörðina, með hendurnar fyrir andlitinu, og hrópaði hástöfum með angist og skelfingu hina síðustu kveinstafi hinnar úrræðalausu mannssálar:

"Drottinn, guð almáttugur! Frelsaðu mig frá þessum ósköpum!"

Þannig lá hún fáein augnablik og endurtók þennan kveinstaf sinn hvað eftir annað, fyrst upphátt og síðan lægra og lægra, þar til hann að lokum dó á vörum hennar, og hún lá þegjandi og stundi, án þess að geta tárfellt lengur. - -

Þá jarmaði kind skammt frá henni, og í sömu svipan var hóað með hásum, mjóum karlmannsrómi, og rétt á eftir gjammaði rakki.

Halla leit upp.

Þessi gamalkunni hávaði og algengi í sveitunum vakti hana af hugsunum hennar. Hann rauf líka næturkyrrðina allt of tilfinnanlega, sem hafði ríkt svn lengi.

Hún reis upp og litaðist um. Ef til vill kynni einhver að ganga fram á hana þarna, og það var henni ekki um.

Fleiri kindajarmar heyrðust síðar og meiri hundgá.

Henni varð litið upp til ásanna, sem voru bládimmir þeim megin, sem að henni vissi. Fáeinar kindur gengu þar í röð hver á eftir annarri upp yfir gamla hjarnfönn. Neðan undir fönninni var annar hópurinn, sem einnig raðaði sér í halarófu, og uppi á ásbrúninni hillti undir þann þriðja, eins og kolsvarta díla, sem bar í loftið, logandi af morgunskininu. Betur að gáð var allur ásinn kvikur af fé, sem seig hægt og hægt og með miklum tvístringi upp eftir, og hvarf loks upp yfir brúnina.

Það var eins og birti yfir svip Höllu við þessa sjón. Varirnar bærðust, en orðið heyrðist varla. En það var nafn þess manns, sem nú kom fram í huga hennar:

"Ólafur sauðamaður!"

Hún hafði gleymt honum, þegar hún renndi huganum yfir þá karlmenn, sem hún þekkti og sem hugsandi var til að biðja ásjár. Nú kom hann fram í huga hennar eins og frelsandi engill.

Ólafur sauðamaður sem frelsandi engill -! Hver skyldi hafa trúað öðru eins?

En nú voru þeir tímar komnir, að jafnvel hið ótrúlegasta gat skeð.

Hún hafði eiginlega aldrei haft andstyggð á honum, eins og sumir aðrir höfðu. Í raun og veru hafði hún haft gaman af honum, og þess vegna hafði henni aldrei verið annt um það, að hann hætti að elta sig.

Hann var að vísu hvorki fríður né karlmannlegur - það hefði verið synd að segja það. - Hún vissi það líka, að hann var ekki greindur; en samt fannst henni alltaf sem eitthvað leyndist í honum. Og margt af því, sem hún þekkti til hans, meðal annars þolinmæði hans við að reyna að vinna ástir hennar, bar vott um, að hann væri ef til vill ekki allur, þar sem hann væri séður.

Og væru þá sumir hinna mikið betri, þegar öllu var á botninn hvolft? Þeir voru mannborlegri og meiri á velli, fríðari sýnum og meiri afkastamenn. En gat þá ekki verið vandséð líka, hvernig þeir reyndust?

Ólafur hafði eflaust fáa af kostum þeirra, en líka fáa af ókostum þeirra.

Og hann hafði líka kosti. Hann var lundbetri og dagfarshægari en þeir flestir; og hann var betri fjármaður en þeir allir að samanlögðu.

En samt rann henni sem kalt vatn milli skinns og hörunds við þessar hugsanir.

Að hugsa sér þennan ólánlega, ómannborlega vöxt, þessa limu, sem dingluðu og slettust áfram í ótal hlykkjum, og þetta sísyfjaða andlit, með augnalokin niður fyrir augun! - Að hugsa sér, að þetta ætti að verða maðurinn hennar!

En hvað um það? Það var efamál, hvort hún hefði nokkurn tíma átt valið, þegar á átti að herða; hvort hún nokkurn tíma hefði staðið í því áliti í augum ungra manna, að hún hefði getað kosið sér þann, sem henni geðjaðist best að öllu leyti. Því láni eiga fáar stúlkur að fagna.

Og þótt svo hefði einhvern tíma verið, þá var sá tími nú liðinn. Nú átti hún ekki valið. Það var að minnsta kosti víst.

Og eins og ástæður hennar voru nú, þá fannt henni Ólafur standa sér miklu ofar. Hann var heiðarlegur maður. Enginn hafði neitt að brigsla honum um. Hann gat litið öruggum augum framan í hvern mann og þurfti ekki fyrir neitt að fyrirverða sig.

En hún -?

Hún var ekki í efa um, hvernig almenningsálitið mundi dæma um samanburð þeirra, ef allir málavextir lægju ljósir fyrir. Henni fannst það meira að segja lýsa göfuglyndi hjá honum og sannri ást, ef hann tæki við henni, eins og nú stæði á.

Og hve ómetanlegan greiða hann gerði henni með því! Hún fann, að hún gat jafnvel unnað honum einungis fyrir það og mundi verða honum þakklát alla ævi.

Og hún efaðist ekki um, að hann mundi gera það. Hún vissi, að tilfinningar hans fyrir henni mundu verða ríkari, þegar á reyndi, en tilfinningin fyrir hans eigin metnaði. Og hún vissi, að á þann hátt var leyndarmálinu vel borgið. Ólafur mundi verða þögull eins og gröfin.

Og hann var líka eini maðurinn, sem hægt var að villa almenningi sjónir með. Allir vissu, að hann hafði sótt eftir henni lengi og gert sér dælla við hana en nokkur maður annar. Og allir vissu líka, að hún hafði aldrei hrundið honum frá sér.

Þannig var ákvörðun hennar þegar tekin. - -

Hún gekk heim, furðanlega létt í lundu, og gladdi sig yfir því að hafa fundið veg út úr þessum vandræðum, sem hún hafði tekið öll upp á sig. Nú var honum borgið, sem hún vildi leggja allt í sölurnar fyrir.

En við sál hennar loddi þó eitthvað, sem hún gat ekki losað sig við og sem blandaði sigurgleðina með beisku galli. Það var kvíðinn - fyrir því að þurfa að ganga að eiga Ólaf.

Næsta sunnudag á eftir átti hún langt eintal við Ólaf.

Hún gekk hreint til málsins. Sagði honum, að ef honum hefði nokkurn tíma leikið hugur á því að fá sig fyrir eiginkonu, þá væri það nú auðsótt - með einu skilyrði.

Hún tjáði honum hreinskilnislega alla málavöxtu og var blíð og elskuleg í viðmóti við hann. Hún sagði honum, að hann væri eini maðurinn, sem nú vissi þetta leyndarmál sitt. Nú væri það undir honum komið, hvort fleiri yrðu áskynja um það.

Ólafur gekk að skilyrðinu, en þó dræmt. Hann hafði hugsað sér þá stund allt öðruvísi en þetta, sem þau, hann og Halla, byndu lag sitt saman og festu tryggðarheit sín.

Allt þetta kom svo undarlega flatt upp á hann. Hann átti bágt með að botna í því öllu saman. Og þess vegna sat hann hljóður og hugsandi og leit í gaupnir sér, góða stund eftir að hann hafði sagt já.

En hann vissi, hvílíkt ágætiskonuefni Halla var. Það gat því ekki komið til mála fyrir hann að hrinda henni frá sér fyrir þessar sakir. Þess mundi hann lengi iðra.

Og hvar fékk hann annað eins konuefni?

Hann var fyrir löngu sannfærður um allt þetta, og hann hafði aldrei á ævi sinni fellt hug til neinnar stúlku, nema hennar einnar. Umhugsunin um hana var orðin rótgróin hjá honum á mörgum árum. Honum fannst hann ekki geta án hennar lifað.

Og þess vegna ætlaði hann að skera sig á háls, þegar séð væri fyrir endann á því, að hann fengi hana ekki. Nú var óþarfi að gera ráð fyrir því framar.

Auk þess runnu honum mjög til rifja bágindaástæður hennar, og eins jafnvel prestsins, sem hann var orðinn ofurlítið málkunnugur og farið að þykja vænt um.

"Nú koma spesíurnar þínar okkur að góðu liði, Ólafur minn!" sagði Halla brosandi. Henni hafði tekist ágætlega að dylja óbeit sína á öllu þessu, sem fram fór á milli þeirra. Nú, eins og oftar, gat hún stjórnað geði sínu.

"Já, koma þær að góðu liði", svaraði Ólafur, eins og út í hött, og leit ekki upp.

En við talið um spesíurnar breiddist einkennilegt, íbyggið bros yfir syfjaða andlitið, sem Halla tók ekki eftir.

Honum datt í hug, hvort ekki mundi mega takast að auka spesíuforðann til dálítilla muna við þetta tækifæri. Presturinn var vitanlega í slæmri klípu, og þótt hann oft hefði vikið kunnuglega að honum, þá var hann þó sannarlega ekki of góður til að þægja dálítið fyrir að sleppa svo fyrirhafnarlítið út úr henni. Það var líka syndlaust, því það var auðvitað, hvar hann mundi taka þá skildingana aftur.

En það varð að fara aðeins á milli þeirra tveggja. Hann þorði ekki fyrir sitt líf að láta Höllu komast að því.


11. kafli

Það varð uppi fótur og fit um alla sveitina, þegar sú saga var að berast út, að Halla væri trúlofuð Ólafi sauðamanni.

Það var einmitt um það leyti, sem allur fjöldi vinnufólks var að hafa vistaskipti, og það var sannarlega ekki amalegt að geta flutt inn í nýju vistina með slíka sögu!

En vistaflutningarnir hrukku ekki til. Þörfin á því að útbreiða söguna nógu fljótt var meiri en svo.

Samgöngur ukust til stórra muna um alla sveitina. Allir umrenningarnir léttu akkerum; því nú var erindi fyrir höndum og von um góðar viðtökur hjá hverri húsfreyju.

Bæjakærar vinnukonur ætluðu að springa af óþolinmæði eftir að geta fengið orlof til næsta bæjar með söguna, og fjármennirnir skutust heim á bæina til skiptis, sinn daginn á hvern bæ, ekki svo mjög mikið til að bera söguna, því þeir vissu, að það voru aðrir búnir að því fyrir löngu, heldur til að heyra, hvað um hana væri talað.

Útgáfurnar voru orðnar margar, en innihaldið var auðvitað ætíð hið sama, sem sé, að þau væru trúlofuð, Halla og Ólafur.

Það gerði ekkert til, hvað hissa menn stóðu eða hvað menn sögðu. Þau voru trúlofuð, opinberlega trúlofuð. Því urðu menn að trúa, hvernig sem það gekk.

Flestir höfðu auðvitað söguna aðeins frá heimilisfólkinu á prestssetrinu, eða öðrum, sem við eitthvað af því höfðu talað. En þeir voru líka til, sem höfðu hana eftir Höllu eða Ólafi, eða þeim báðum í sameiningu.

Þar að auki hafði Ólafur sjálfur skotist heim á ýmsa bæi frá sauðum sínum, sagt frá þessu og farið ekkert dult með.

"Fína fólkið" notar trúlofunarspjöld til að útbreiða þessa gleðilegu frétt; Ólafur hafði engin tök á því, en gerði það sama í eigin virðulegu persónu.

Mönnum varð að vísu tíðrætt um tildrög og afleiðingar þessara merkilegu tíðinda, því geturnar voru margar og spádómarnir margir og ólíkir.

En tíðræddast varð mönnum þó um sjálfan atburðinn, en þó einkanlega um það, að Halla skyldi taka Ólafi. Annað eins hafði engum manni komið til hugar.

Allir báru Höllu það orð, að hún væri afbragðsstúlka, og öllum kom líka saman um það, að hún væri einkar snotur stúlka; sumum þótti hún auk heldur hreint og beint falleg. En allir höfðu líka skilið hana á þann veg að hún vissi vel um þessa kosti sína og væri ekki laus við að miklast af þeim. Þess vegna höfðu allir búist við því, að hún veldi sér veglegra gjaforð en nú varð raun á.

Og nú lagðist ekki meira fyrir hana en þetta!

Enginn var Höllu svo misviljaður, að hann áliti þetta jafnræði fyrir hana; að minnsta kosti þorði enginn að koma upp með aðra eins fjarstæðu. Flestir aumkuðu Höllu fyrir þetta gjaforð; en til voru þeir einnig, sem sögðu, að henni væri þetta mátulegt; hún hefði lengi verið nógu hnakkakert.

Sumir töluðu vel um og sögðu, að vel gæti orðið úr þessu farsælt hjónaband, því Ólafur yrði eflaust góður við Höllu; aftur sögðu aðrir, að Halla væri ekki mannvönd, þar sem hún gæti tekið Ólaf fram yfir alla aðra, sem leikið hefði hugur á henni.

Ummælin voru því nær eins mörg og mennirnir, og hvert hafði sitt einkenni að einhverju leyti.

En yfirleitt lagðist í menn einhver ónotagrunur um það, að hér væru duttlungafullar örlaganornir að vefa einhvern sjaldgæfan óheillavef, og að þetta hjónaband mundi naumast vel fara. -

Heima á prestssetrinu var undrunin einna mest í svipinn. Þar þekkti hvert mannsbarn þau bæði, og enginn ætlaði að geta trúað augum sínum og eyrum til þess, að þau væru orðin hjónaefni.

Það var fyrst í stað eins og öllu heimilisfólkinu hefði verið rekinn rokna löðrungur. - þess konar löðrungar eru að vísu ekki allsjaldgæfir; en það þykir samt slæmt að fá þá, þegar ekki er við þeim búist.

En svo áttaði fólkið sig á þessu. Og án þess nokkur talaði um það við aðra, var þó eins og það væri samþykkt í einu hljóði, hvernig með málið skyldi fara.

Nú mundi hver einasta manneskja eftir ótal atvikum, sem bentu á það, að þau Halla og Ólafur hefðu verið lengi, lengi leynilega trúlofuð!

Allir gátu sagt, hver fyrir sig: Ég var húinn að komast að þessu fyrir lifandi löngu!

Sumir voru jafnvel svo skarpskyggnir, að hafa tekið eftir þessu löngu fyrir jól um veturinn!

Að vísu var hyggilegra að bjóða utanbæjarmönnum þetta en heimilismönnum sjálfum.

En þar féll það líka sannarlega í mildan akur. Þeir voru ekki svo fáir, sem komust að þeirri niðurstöðu, að það væri ekki á allra meðfæri að fara í kringum það, fólkið á prestssetrinu.

Úrræðið ætlaði að heppnast ágætlega. Halla heyrði allt skvaldrið út undan sér og studdi blessað fólkið í þessari blekkingu, meðal annars með því að gefa í skyn, að það hefði rétt fyrir sér, því þau Ólafur væru búin að leyna þessu lengi.

Að öðru leyti vatt hún af sér með lagni öllum frekari spurningum manna og var fáorð um hagi sína og fyrirætlanir, eins og hún hafði áður verið.

Gömlu prestsekkjunni fór eins og öðrum. Það tókst líka að glepja hennar gömlu, gætnu augum sýn. Hún var eina manneskjan, sem hafði rennt grun í það rétta seinni part vetrarins; en nú tók hún að efast um, að sér hefði sýnst rétt.

Hún hafði ekki haft orð á því við neinn; það var líka betur farið, úr því henni hafði skjátlast.

Hana var líka farið að gruna það nú þegar, á undan öllum öðrum, að nauður ræki Höllu til að opinbera þetta, þótt ekki yrði það enn þá beinlínis ráðið af útliti hennar. Nú þóttist hún skilja, að einnig það væri af Ólafs völdum.

Og þegar hún óskaði Höllu til hamingju, gerði hún það með miklum innileik og lét orð falla um það um leið, að þótt hún hefði að vísu viljað unna henni betra gjaforðs, þá hefði hún þó verið hrædd um hana fyrir enn þá meiri ógæfu en þeirri, að eiga hann. En hún lofaði guð fyrir, að það hefði aðeins verið ástæðulaus ótti.

Halla spurði einskis. Hún skildi vel, við hvað hún átti. Og hún varð þessum ummælum innilega fegin, því án þeirra hefði hún verið í efa um hugsanir gömlu konunnar. Nú heyrði hún, að hún hafði líka látið blekkjast. Hvað þá aðrir.

Allt þetta skraf fór ekki svo, að presturinn heyrði það ekki eins og aðrir. Sumir, sem farnir voru að verða honum málkunnugir, höfðu líka gaman af að segja honum frá því, að fyrir honum lægi innan skamms að gefa saman brúðhjón.

Hann þyrsti eftir því að heyra meira og meira af því, sem um þennan atburð var talað, og honum var sönn nautn að því að sjá og heyra, hvernig tekist hafði að leika á fólkið.

Hann fann skýin dreifast frá sínu eigin höfði. Almenningsálitið var leitt inn á þær villigötur, að það þurfti hrapallega slysni til, að það hitti nokkurn tíma á þá réttu.

Nei, var honum borgið. En hann gat ekki nógsamlega dáðst að því, hvert afbragð Halla var og hve snilldarlega hún hafði efnt heit sitt.

Hann sárlangaði til að ná fundi hennar einu sinni enn þá, þakka henni fyrir frelsun sína og hrósa henni fyrir kænskuna.

En þess var enginn kostur. Nú sneiddi Halla hjá honum eins og bráðókunnugum manni, eða jafnvel eins og fjandmanni sínum, þá fáu daga, sem þau áttu eftir að umgangast hvort annað.


Halla var óvistuð um krossmessuna; það hafði hún aldrei verið áður. En svo stóð á því, að hún vildi ekki yfirgefa húsmóður sína, prestsekkjuna, meðan hún enn þá þyrfti sín við. En hún hafði jörðina fram að fardögum. Þangað til þurfti hún á vinnufólki að halda, og sumt af hennar gamla vinnufólki var hjá henni, en annars skiptust nágrannar og gamlir vinir á um að lána henni mannhjálp. Þeim fannst það vera síðasti greiðinn, sem þeir mundu fá tækifæri til að gera henni, því eftir þetta voru litlar líkur til, að hún hefði mikið um sig.

Ólafur var vistráðinn á öðrum bæ þar í sveitinni og fékk nú því til vegar komið, að Halla fengi að vera þar í húsmennsku hjá sér, þegar hún færi frá prestssetrinu. Hann vissi vel, að ástæða var til að hlífa henni við allt of þungri útvinnu þetta sumar, og því var sjálfsagt, að hún væri sjálfrar sín.

Umtalið um trúlofun þeirra Höllu og Ólafs hjaðnaði niður smátt og smátt. Menn þreyttust á að tala um það til lengdar og reyndu að vinna sér mestan mat úr ýmsum öðrum umtalsefnum.

Halla sá vel, hverju fram fór, og var ánægð með það. Nú voru þau utan skerja með leyndarmál sitt, hún og presturinn; nú var lítil eða alls engin hætta á því framar, að það yrði almenningi til gamans og þeim til vanheiðurs.

En þegar hættan, sem yfir þeim hafði vofað, var þannig afstaðin, fór Halla að hafa betri tíma til að hugsa um kringumstæður sínar og hvað hún hefði lagt í sölurnar. Nú fyrst varð henni óhamingja sín ljós til fulls.

Hún hugsaði mikið um það og grét oft yfir því í einrúmi, en á dagfari hennar sást lítil breyting. Hún herti sig upp eins og hún gat til að dylja harm sinn.

Hún hafði áður um ævina fengið talsverða æfingu í því að leyna tilfinningum sínum og koma fram önnur en hún var. Nú kom sú æfing henni að góðu haldi, því undir þessari list var framtíð leyndarmálsins komin.

En þetta gervi hennar færðist fljótt í áttina til að verða hennar annað eðli. Það óx og þroskaðist og varð henni svo tamt, að hún notaði það án þess að hún vissi af því. Gríman varð holdgróin og var það þaðan af.

En innan undir þessu ískalda gervi færðist hin eiginlega Halla meira og meira saman utan um helgidóm sinn, sem geymdi dánar vonir og kærar minningar ástar og unaðar og sárra harma.

Allt þetta var nú vandlega grafið, gröfin innsigluð og trúlega yfir henni vakað.

Þau Ólafur og Halla fundust næstum daglega eftir að hann fór burtu af prestssetrinu. Honum þótti innilega vænt um hana, vildi gera henni til geðs og mátti helst aldrei af henni líta.

Hún var glöð og góð við hann aftur á móti. Henni féll það fremur erfitt í fyrstu, en henni tamdist það eins og svo margt annað. Hún var búin að sannfæra veslings Ólaf um það, að henni þætti í raun og veru vænt um hann.

Þau töluðu oft um framtíð sína, og Ólafur leitaði ráða til hennar um flest, sem hann tók sér fyrir hendur. Einna tíðræddast varð þeim þó um framtíðarbústað sinn, því nú var það auðsætt, að þau þurftu að sjá sér fyrir búi og jarðnæði.

Halla stakk upp á því, að Ólafur reyndi að fá byggingu fyrir Heiðarhvammi, sem var kot þar frammi með fjallgarðinum og í eyði um þessar mundir, en þó stóð þar eitthvað af bæjarhúsum. Ólafur átti að fá orlof um haustið, til að hressa þar við, og svo áttu þau að flytja þangað næsta vor, þegar vistráðum hans væri lokið.

Heiðarhvammur var dágott kot, mikill og góður heyskapur og landkostir ágætir, meðan til jarðar náði; en vetrarþungt mjög. Það mælti líka með kotinu, að það lá handan við ána, sem aðskildi hreppana, og tilheyrði því Dölunum. En það var framfærslusveit Ólafs.

Ólafi leist vel á þetta. Hann sá ekkert annað í svipinn heldur en það, hvað féð yrði vænt á afréttarbýlunum, og hugsaði með ánægjubrosi til kindanna sinna. Honum fannst þetta líka bera nýjan vott um það, hvílíkt búkonuefni Halla væri.

En Höllu gekk allt annað til að flytja fram í Heiði en umhyggja fyrir kindunum.

Hún vildi vera ein og afskekkt. Hún vildi leita uppi einhvern þann stað, þar sem hún gæti að mestu grafið sjálfa sig og harma sína, svo enginn fyndi það. Henni var umgengnin við aðrar manneskjur meira og meira ógeðfelld, og það var sem hún gengi með stöðugum kvíða fyrir því, að sér tækist ekki að leyna leyndarmálum sínum, að sér fipaðist í einhverju, eða eitthvert nýtt ólán kæmi fyrir, sem stafaði frá mönnunum, sem hún þyrfti að umgangast.

Sól hamingju hennar var gengin undir. Hún varð með hverjum degi kaldari, tortryggnari og skeytingarlausari um allt og alla. Og nú þráði hún einveruna mest af öllu - einveruna frammi í óbyggðum, langt frá öllum algengum mannavegum.


Síra Halldór fékk ekki tækifæri til að tala um sending heilags anda á sunnudaginn eftir kóngsbænadag. Það kom svo fátt til kirkjunnar, að ekki var messufært.

Meðhjálparinn kom og hélt langa ræðu í hlaðvarpanum um hnignandi guðsótta og kirkjurækni, yfir prestinum og tveimur-þremur sálum öðrum. Hann var nú maður um sextugt og hafði haldið sömu ræðuna í minnst 30 ár.

Þegar liðið var langt fram á messutímann, kom forsöngvarinn, blindfullur og allur leirugur, hafði farið ríðandi að heiman um morguninn, en dottið af baki og að lokum týnt klárnum og kom nú gangandi.

Hann var í illu skapi yfir því, að hafa gert sér allt þetta ómak, og svo yrði engin messa, og svo rauk hann af stað sótbölvandi og kallaði heim til prestsins og þeirra, sem á hlaðinu stóðu, að það mætti sjálfur andskotinn vera forsöngvari í sinn stað framvegis.

En presturinn lét það berast út með fólkinu, að eftir næstu helgi þyrfti hann að fara í langferð, og mæltist óbeinlínis til, að menn sæktu þá kirkjuna til að hlusta á kveðju sína og heyra ráðstafanir sínar. Þær fáu sálir, sem komið höfðu til kirkjunnar, voru auðvitað fúsar til að útbreiða þennan boðskap.

Alla vikuna var presturinn lítið heima. Hann hafði í svo mörgu að snúast um þessar mundir. Hann þurfti að finna nábúaprestana og biðja þá að þjóna fyrir sig í fjarveru sinni, og hann þurfti að fá menn til að taka við staðnum fyrir sína hönd og margt og margt fleira, því hann gerði ekki ráð fyrir afturkomu sinni fyrr en komið væri fram á sumarið.

Sunnudaginn eftir varð messufært, svo presturinn fékk þó tækifæri til að kveðja söfnuðinn.

Engan sérlegan söknuð var á mönnum að finna. Það var nú þegar svo komið, að flestum stóð á sama um þennan prest sinn.

En þó kom einn maður til kirkjunnar, sem ekki stóð algerlega á sama um hann að þessu sinni, og það var Ólafur sauðamaður.

Ólafur þorði þó ekki að ganga í berhögg við prestinn heima á heimilinu, eða biðja hann um eintal, einkum vegna Höllu. Hann var hræddur um, að hana kynni að gruna eitthvað um erindið. En það vildi hann fyrir hvern mun varast.

En hann hafði komist að því, að prestur þurfti að heiman seinna um daginn, og gerði sér allt til tímatafar, þar til allir gestir voru farnir og prestur ferðbúinn, og fór þá af stað rétt á undan honum og í sömu áttina.

Prestur var ríðandi, en Ólafur gangandi, og dró því fljótt saman með þeim.

Þegar þeir voru komnir vel í hvarf frá prestssetrinu, heið Ólafur eftir presti og sagði honum með mestu hæversku, að hann ætti einslegt erindi við hann, og spurði, hvort hann gilti ekki einu, þótt þeir ræddu um það þar.

Prestur varð hljóður við. Hann grunaði hvert erindið mundi vera.

Hann fór þó af baki, en nöldraði eitthvað um það, að hann þyrfti að hraða sér. Svo settust þeir niður í ofur litla brekku, sem nýfarin var að grænka.

Ólafur fór í sakirnar með mestu hægð og hafði langan inngang um mannlegan breyskleika, ólán og mæðu og þar fram eftir götunum, sem hann skildi ekki annað en prestinum hlyti að vera þóknanlegur, þar sem það var allt brotagull úr gömlum stólræðum.

Loks komst hann að efninu.

Hann sagði, að Halla hefði tjáð sér öll sín vandræði og beðið sig ásjár, og hann hefði kennt í brjósti um hana, því sér hefði lengi þótt vænt um hana; það hefði verið hún, sem hann hefði svo oft minnst á við prestinn fyrr um veturinn. Hann hafði því ekki gefið henni afsvar, en ekkert væri enn þá bundið neinum fastmælum. Nú væri það undir honum komið, hvern enda þetta tæki.

Hann lýsti því með mörgum og fögrum orðum, að nú lægi fyrir þeim að reisa bú, en þau væru bæði bláfátæk.

Þar á móti ætti nú presturinn að taka við ágætisbújörð og tekjumiklu prestakalli og mundi innan skamms verða efnaður maður.

Það var því aðalerindið að spyrja hann, hvort honum fyndist það ekki vel til fallið, og hvort honum væri það ekki ljúft, eins og nú stæði á, að blessa efni þeirra með dálítilli viðbót. Það þyrfti ekki að vera mikið til að þeim drægi það.

Ólafur sagði þetta allt með miklum auðmýktarblæ, bæði í fasi og málróm. En það hefði ekki þurft glöggt auga til að sjá, að á bak við þessa auðmýktargrímu bjó glott öryggis og sjálfstrausts hins sterka.

Presturinn fann þetta líka vel, þótt hann liti meira niður fyrir sig en framan í Ólaf.

Það fór hrollur um hann við þá hugsun, að nú væri leyndarmál hans komið í hendur þessum manni, sem honum þótti jafnvel líkur til, að mundi nota það fyrir keyri á sig alla ævi. Aldrei hafði honum boðið eins við Ólafi sauðamanni eins og nú.

En jafnframt var hann hræddur við hann. Það lá við, að hann léti gremju sína í huganum bitna á Höllu, fyrir að hafa valið einmitt þennan mann.

En Ólafur hélt áfram með sama kattarmjúkleikanum og áður.

Hann sagði, að þótt sér þætti vænt um Höllu og hann vildi margt fyrir hana og til hennar vinna, þá hefði hann þó aldrei gert þetta, ef einhver annar hefði átt hlut að máli. Ef hann tæki þetta á sig, þá gerði hann það engu síður hans vegna. Þeir væru nú orðnir ofur lítið málkunnugir, og sér væri farið að þykja dálítið vænt um hann. Hann hefði verið sá eini af öllum heldri mönnum, sem hefði sýnt sér það lítillæti að tala við sig, og aldrei dregið dár að sér, litið á sig smáum augum eða skapraunað sér. Þess vegna væri sér nú ljúft að firra hann vandræðum, ef þess væri kostur.

"Ég skal gefa með barninu fulla meðgjöf í kyrrþey, ef það lifir, eða meðan það lifir. Er það ekki nóg?" sagði prestur stuttur í spuna.

"Haldið þér að það sé hyggilegt?" mælti Ólafur með ofur litlu hiki, sem ekki kom þó af því, að hann væri ekki búinn að hugsa svarið fyrir löngu, heldur af uppgerðarhæversku. "Ég er hræddur um, að einmitt á þann hátt komist leyndarmálið upp. Menn veita því eftirtekt, ef okkur fara árlega einhver slík skipti á milli. Þar að auki verður þá ómögulegt að fara á bak við Höllu með það. En það vildi ég þó einmitt gera. Hún er skapstór, og ég þekki hana svo vel, að hún vill alls enga meðgjöf af yður þiggja, hvað mikið sem hún þarfnaðist hennar. - Nei, ég hafði hugsað mér, að hyggilegra væri, að þér laumuðuð einhverju ofur litlu að mér í kyrrþey í eitt skipti fyrir öll, og við létum svo þar við sitja."

Presturinn fann það vel, í hverri klípu hann var staddur. Það gerði minnst til, hvað hann sagði, því hann var algerlega á valdi Ólafs. Það, sem hann fór fram á, varð hann að uppfylla, hvað sem það væri.

"Hvað mikið viljið þér fá?" hreytti hann út úr sér.

"Sextíu spesíur", svaraði Ólafur. Stuttleiki prestsins hafði heldur eytt auðmýktinni, svo rómurinn var nú talsvert ákveðnari og einbeittari.

Presturinn hristi höfuðið. Hvar átti hann að taka sextíu spesíur?

"Það er ekki nema dálítill hluti af framfæri barnsins til fermingaraldurs. En við það verður þó að sitja", mælti Ólafur, þegar hann sá, að prestur tók þessu dræmt.

Prestur horfði framan í Ólaf dálitla stund. Hann var að reyna að lesa út úr honum, hvaða eftirköst það mundi hafa, ef hann segði þvert nei.

Andlitið á Ólafi var eins og það var vant, syfjað og sviplítið, en þráalegt eins og sauðarandlit.

Það fóru ónot um prestinn við að horfa á það til lengdar. Það var heldur ekkert undanfæri, og best að gera enda á þetta sem fyrst og losna frá þessari mannfýlu.

"Er þá úttalað um þetta mál, ef ég geng að þessu?"

"Já, úttalað um það að eilífu", mælti Ólafur, mýkri í máli við það að finna bilbug á prestinum.

"Og má ég þá treysta yður?"

"Hér er hönd mín."

"Og drengskapur -!" mælti prestur og bætti við í hálfum hljóðum: "ef um nokkuð slíkt er að ræða."

"Og drengskapur", endurtók Ólafur, og svo tóku þeir höndum saman.

"Þér skuluð fá þessar sextíu spesíur annaðhvort áður en ég fer eða strax og ég kem aftur, - þótt ég þurfi að flá mig inn að skyrtunni til að komast yfir þær. Verið þér sælir upp á það."

Hann stökk á bak og reið hvatlega leið sína. Ólafur stóð á götubakkanum og leit glottandi á eftir honum.

Svo sigu augnalokin niður yfir augun; Ólafur lagði hendurnar á hrygginn og rölti á stað til sauða sinna, - reiknandi í huganum kindaverð og spesíur.


Þegar presturinn var farinn af stað í langferðina, fór gamla prestsekkjan að búa sig undir brottför sína af prestssetrinu.

Það var allstórt bú sem þurfti að koma í verð. Hún hafði allan veturinn og vorið verið að selja lifandi fénað eftir hendinni. Nú varð að selja það á uppboði, sem eftir var, ásamt miklu af búshlutum og lausafjármunum.

Uppboðið stóð í fulla tvo daga og var mjög fjölsótt. Veður voru ágæt þá dagana, eins og fleiri um vorið, og þessi góða vortíð hleypti í menn hugmóði til að bjóða ríflega, auk þess sem gamlir vinir gerðu sér allt far um að koma mununum í sem best verð.

Gamla konan sýslaði stöðugt sjálf um þetta með óþreytandi elju og umhyggjusemi. Hún var hljóð og alvarleg eins og hún átti að sér. Hún var fyrir löngu búin að venja sig við þá hugsun, að hún ætti að sjá allar þessar eigur, sem hún hafði varið allri ævinni til að safna og hirða um, fara á víð og dreif.

Hún hafði kviðið fyrir því lengi; en nú þegar að því var komið, tók hún sér það ekki eins nærri og hún hafði haldið.

Það dró líka úr sorg hennar að sjá vináttuþel og hjálpsemi, hvert sem hún leit, og eins hitt, að munirnir komust í viðunanlegt verð. Það fannst henni vottur um það, að þeir væru í viðunanlegu standi, og það þótti henni vænt um.

Halla var hennar önnur hönd í öllu þessu umstangi. Gamla konan fann það alltaf betur og betur, hve ómissandi hún var henni. Þeim líkaði nú orðið svo vel hvorri við aðra, að þær kviðu hvor fyrir sig mest af öllu fyrir því að þurfa innan skamms að skilja.

Halla var líka orðin hljóðari og alvarlegri nú og meir að skapi gömlu konunnar. Það var eins og hún hefði elst mjög á örstuttum tíma, þrátt fyrir æskulitinn, sem enn þá var á andlitinu.

Þegar leið að fardögunum, var allt selt og burtu flutt, nema það litla, sem gamla konan ætlaði að hafa með sér í elli sinni. Ofanálagið, sem hún þurfti að greiða var mjög lítið.

Svo flutti fólk prestsins inn í bæinn, en hennar út, og hún sjálf að lokum til bæjar þess, er hún hafði valið sér til samastaðar, það sem eftir var ævinnar.

Halla fylgdi henni alla leið heim að bænum, þar sem hún ætlaði að vera, og hjálpaði henni að lokum til að koma sér þar fyrir og búa sem best um sig. En þegar Halla fór af stað, gekk gamla konan með henni út fyrir túnið. Hún vildi kveðja hana í einrúmi.

Þegar þær voru komnar þangað, settust þær niður.

Þær voru báðar hljóðar og alvarlegar, og gamla konan horfði þegjandi á Höllu um stund og virti hana fyrir sér. En Halla leit niður fyrir sig og fitlaði við nýútsprungna blásóley, sem hún hafði slitið upp.

Gamla konan rauf þögnina.

"Halla mín", sagði hún. "Þú leynir mig einhverju - einhverju, sem liggur þungt á þér; viltu nú ekki trúa mér fyrir því, hvað það er? Hver veit nema ég geti eitthvað hjálpað þér. Mig tekur sárt til þín, Halla mín, segðu mér satt, hefirðu ekki ratað í einhverja óhamingju?"

Hún lagði hendina innilega á öxlina á Höllu og horfði á vangann á henni á meðan hún beið eftir svarinu.

"Nei", stundi Halla upp, svo varla heyrðist.

En hún iðraðist samstundis eftir svarinu. Hana sárlangaði til að trúa þessari gömlu, trygglyndu manneskju fyrir öllu leyndarmáli sínu. Hana langaði til að kasta sér um hálsinn á henni og biðja hana fyrirgefningar og ásjár. Hún fann, að hún verðskuldaði fullt traust, og hún fyrirvarð sig fyrir að segja slíkri manneskju ósatt.

En hún hafði engan tíma til að leiðrétta það.

Það setti að henni grát, svo hún gat engu orði upp komið, en hristist af ekka, eins og hún ætlaði að springa.

"Nú, þá er öllu vel farið", mælti gamla konan og tók aftur til sín höndina. "Ég skal ekki vera of nærgöngul við þig, barnið mitt. Ég hef engan rétt til þess. Mér missýnist eflaust. - En það er kannski af því, að augun eiga nú bráðum að bresta."

Hún var ekki eins innileg í málrómnmum. Það leyndi sér ekki, að hún var ekki laus við allan efa. Og við seinustu orðin skalf rómurinn.

Hún flýtti sér að standa á fætur til að kveðja. Hún þoldi ekki að horfa á Höllu gráta. Og eftir að hafa talað til hennar nokkrum hughreystingarorðum, bað hún guð innilega fyrir henni og kvaddi hana með kossi.

Halla vafði höndunum utan um hálsinn á henni, eins og hún vildi orðalaust biðja hana fyrirgefningar. Kossinn var fastur og innilegur, og tárin streymdu niður um bæði andlitin.

Það var seinasti vináttukossinn, sem Halla fékk um langa - langa ævi. Og hann var blandinn óeinlægni frá hennar hálfu.

Gamla konan gekk heim til sín, sköruleg og réttvaxin, þrátt fyrir ellina; en Halla gekk áfram götu sína grátin og lotin undir ofurþunga ósannindanna.

En þegar frá leið, sá hún ekki eftir að hafa leynt leyndarmáli sínu, einnig við þetta tækifæri. Það var ekki að vita, hvað gamla konan hefði tekið fyrir, hefði hún vitað alla söguna. Eflaust hefði hún þá farið sínu fram. Nú fannst henni, að allt væri best komið í því horfi, sem það var.


12. kafli

Það var komið fram á túnaslátt, þegar presturinn kom aftur að sunnan með konu sína. Og þá var það eitt af því fyrsta, sem fyrir lá, að koma þeim Höllu og Ólafi í hjónaband.

Það barst allt jafnsnemma út um sveitina, að presturinn væri kominn heim og kona hans með honum og að næsta sunnudag ætti að lýsa með Ólafi og Höllu. Það var því ekki hætt við messufalli sunnudaginn þann.

Það var þó ekki svo næsta mikið vegna lýsinganna, að menn hópuðust til kirkjunnar, og heldur ekki til að sjá prestinn heimkominn úr langferð sinni eða heyra til hans; því fyrir þessu hvoru tveggja hefði giftingin vel getað dregist svo mánuðum skipti.

Nei, nú var það vegna prestskonunnar, að menn sóttu kirkjuna. Nú var fólkið álíka sólgið í að sjá hana eins og það hafði verið í að sjá prestinn sjálfan fyrir tæpu ári síðan. Þess vegna var kirkjan óvanalega vel sótt þrjá sunnudaga í röð.

Prestinum hafði gengið ferðin vel.

Hann hafði að vísu kviðið fyrir því á allri suðurleiðinni að koma suður, eins og hann ætti þar von á einhverjum óþægindum. Honum var eins og eitthvað fylgdist stöðugt með honum, sem gerði hann kvíðandi og órólegan.

Það var sem hann væri hræddur um, að sér skytist yfir að geta dulið þessa óró, þegar suður kæmi og hann ætti að standa fyrir ströngu tilliti vandamanna sinna og velgerðamanna og gera grein fyrir orðum sínum og gjörðum og ef til vill leyndustu hugsunum í fjarverunni. Hver veit nema þessi veiklun hans leiddi til grunsemdar, sem honum kæmi óþægilega.

En þessi fundur varð ekki umflúinn, hvað feginn sem hann hefði kosið, að svo gæti orðið.

Það var því ekki annað að gera en herða upp hugann og reyna að yfirvinna alla veilni, en vera annars við öllu búinn, sem mæta kynni.

En þetta fór allt á annan veg, þegar suður kom. Þeir, sem hann hafði kviðið fyrir að hitta, tóku honum eins og langþráðum ástvini. Þar gætti engrar tortryggni, engra nærgöngulla rannsókna, hvorki með orðum né augnaráði, einskis nema fagnaðarins yfir að sjá hann aftur.

Þetta hafði unnist við fjarlægðina. Það ámælisverða í fari hans hafði fallið í fyrnsku, en vonin um framtíð hans og heiður þann og gleði, sem af honum stafaði, hafði styrkst ótrúlega mikið í fjarveru hans sjálfs og unnið yfirhönd yfir öllu öðru.

Jafnvel tengdamóðir hans var talsvert öðruvísi en hann hafði átt von á henni. Nú var hún stimamjúk og gerði sér far um að gera honum allt til geðs, og var óþreytandi í því að tala um, hvað hann hefði breytst til hins betra í þessari löngu fjarveru sinni, hvað hann væri stillilegri og embættismannslegri og hraustlegri og karlmannlegri í öllu yfirbragði.

En mest fagnaði þó Elín hans yfir því að sjá hann aftur. Hún var líka dálítið breytt. Hún var holdugri og hraustlegri í útliti heldur en þegar hann hafði kvatt hana, sem ef til vill hefir stafað af meiri heimavist og hollara og rólegra lífi, og hún var orðin talsvert fullorðinslegri.

Og þegar hún heyrði, hve vandamenni hennar tóku honum vel og voru ánægð með hann eins og hann var nú, þá hvarf algerlega úr svip hennar þetta vantraust, þessi leiði efi og vonleysi, sem hann hafði mest af öllu kviðið fyrir.

Barnið þeirra hafði stálpast vel. Nú var það farið að ganga um allt, úti og inni, og orðið töluvert talandi, svo það gat heilsað upp á pabba sinn með nafni.

Síra Halldóri fannst hann verða annar maður við þessar mótttökur. Nú fann hann til þess í fyrsta sinni, að hann var heimilisfaðir og að forlögin höfðu gefið honum gjafir, sem hann aldrei fyrr en nú hafði fengið að sjá til fulls.

Og nú fann hann betur en nokkurn tíma áður, að í raun og veru átti hann ekkert af þessum gæðum skilið. Þau voru varla lengur hans. Hann var þeirra óverðugur. Þess vegna gat þessi ylur, sem af þeim lagði, aldrei vermt hann upp allan. Innst inni var jafnan eitthvað fyrir, kalt og hart, sem veitti honum mótstöðu. Það var endurminningin um ævintýri hans um veturinn heima á prestssetri sínu.

Og þegar best var látið að honum, brást það ekki, að mynd Höllu gægðist fram í huga hans. Hann gat ekki að því gert. Hún kom óboðin og þrátt fyrir mótspyrnu hans, eins og hún hafði gert stundum áður í fyrsta þætti sögu þeirra.

En nú var hún skýrari en þá. Hún birtist með alls konar svipbrigðum, brosandi eða grátandi, laðandi eða ásakandi, eins og hann hafði kynnst henni.

Þess vegna voru honum blíðuatlot konu sinnar og barns allt annað en kærkomin, og þótt hann yrði að taka þeim vel, þá lá við, að hann styndi þungan, og aldrei gat hann leitað eftir þeim að fyrra bragði.

En honum tókst meistaralega að dylja þennan fáleik sinn, svo Elín yrði einskis vör, og svo komst það upp í vana eins og margt annað. Og hann fann það, að sér mundi takast að búa friðsamlega saman við hana, þótt hann ynni henni ekki lengur - ef ekkert nýtt og óvænt bæri að höndum.

Þegar þau lögðu af stað, var greiddur út dálítill heimanmundur af foreldrum hennar, og þau skildu öll með hinu besta vinfengi. Hún tók sér að vísu skilnaðinn dálítið nærri í fyrstu, en það var ekki nema rétt í bráðina. Hún hafði lengi búist við honum, og þess vegna var hann minna sár en ella, og svo gaf ferðalífið henni nóg annað til að hugsa um daglega. - -

Þegar heim á prestssetrið var komið, fór fjarri því, að á því bæri, að hin unga prestskona yndi þar illa lífinu.

Hún var miklu upplitsdjarfari og frjálsmannlegri en hann hafði nokkurn tíma gert sér von um, og hann gat ekki séð á henni leiðindi eða óyndi. Hún kvartaði ekkert um torfbæinn, gekk um hann inn og fram og virtist sætta sig við hann furðanlega.

Þarna var henni allt nýtt, og hún virtist hafa gaman af að gegna sjálf húsfreyjuskyldum sínum og setja sig sjálf inn í sem flest af því, sem heimilishaldinu við kom. Hún lærði að mjólka kýrnar, lærði að skammta og lærði að segja fyrir verkum, og komst í stuttu máli upp á allt, sem húsmóðir á sveitaheimili þarf að kunna, og það ótrúlega fljótt.

Hún var laus við allan tepruskap og umgekkst vinnufólkið eins og jafningja sína og vann því fljótt hylli þess.

Það kom raunar oft fyrir, að henni fórst eitthvað ófimlega, en þá voru ótal hendur á lofti til að bæta úr því, og enginn hló meira að mistökunum en hún sjálf.

Þannig hafði hún skemmtun og afþreyingu frá morgni til kvölds, gekk þreytt til hvíldar og svaf vel á hverri nóttu - þótt í moldarbæ væri.

Það átti líka við hina barnalegu hégómadýrkun hennar, sem enn þá eldi eftir af, að geta gengið betur búin en aðrir, mega sitja í prestskonusætinu um messuna, geta skipað öðrum fyrir verkum, þurfa ekki að gera annað en það, sem henni sjálfri sýndist, og mega taka rausnarlega og alúðlega á móti gestum. Það var því fjarri því, að húsfreyjustaðan væri henni til byrði fyrst framan af, heldur miklu fremur leikur.

Stöku sinnum skrapp hún fram í stofuna til þess að leggja hendurnar upp um hálsinn á manninum sínum.

Prestinum þótti vænt um að sjá konuna sína glaða og hraustlega, en annars gaf hann sig lítið að henni. Hann eyddi mestum hluta tímans í stofunni, þar sem svo margar leynilegar minningar voru við tengdar, og þar sem hann gat notið þeirra upp aftur í huganum, og því lét hann sem minnst trufla sig frá sínum "andlegu hugleiðingum".

Ræðurnar, sem hann flutti eftir heimkonu sína, voru hvorki betri né verri en þær, sem hann hafði áður flutt. Hann varði minnstum tíma vikunnar til að hugsa um þær, þótt hann væri lengst af einn og gæfi sig lítið að öðrum mönnum.

Embættisframkoma hans var sami andlausi nauðungarleikurinn sem hún hafði verið um veturinn, og útlit var fyrir, að hún mundi framvegis verða svo, hvenær sem á þyrfti að halda.

Fyrst eftir heimkomu sína kveið hann fyrir að gera skylduverk sín í kirkjunni, en sá kvíði rénaði strax eftir fyrstu messuna, og úr því varð hann meira og meira kaldur fyrir öllu, og jafnframt stöðugt öruggari um, að sér mundi ekki fipast í hlutverki sínu.

Það var aðeins eitt, sem hann kveið enn þá fyrir, og það var að gefa þau saman Höllu og Ólaf. En sú stund færðist nú óðum nær.

Það var eftir messu sama sunnudaginn og þriðju lýsingunni var lýst, að þau Halla og Ólafur voru gefin saman.

Kirkjufólkið beið því flest til þess að vera við hjónavígsluna. Og það hafði verið með flesta móti við kirkjuna þann dag.

Hjónavígslurnar þóttu þar, eins og víðar, einna skemmtilegastar af þessum hégómlegu sýningum, sem kirkjan hefir ráð á að bjóða mönnum til, og þess vegna vantaði sjaldan kirkjugesti við það tækifæri.

Þau Ólafur og Halla höfðu komið sér saman um að hafa sem minnst umsvif og sama sem alls enga brúðkaupsveislu. Halla hafði stungið upp á því, og Ólafur fundið það hollast fyrir spesíuforðann.

Halla hefði helst af öllu kosið, að giftingin hefði farið sem hljóðlegast fram, að engar lýsingar hefðu átt sér stað og kirkjan hefði alls eigi verið notuð til hjónavígslunnar. En þess var enginn kostur; þau lög, sem heimila þetta hvort tveggja nú, voru ekki til þá.

Það var því óumflýjanlegt ofanálag á aðrar raunir hennar að heyra þessari ógeðfelldu hjónabandsfyrirætlun lýst sunnudag eftir sunnudag frá stólnum fyrir öllum söfnuðinum, og það af honum. Og svo að lokum að láta marga tugi karla og kvenna horfa á sig gráðugum forvitnisaugum, meðan hún steig hin þyngstu spor, sem hún gat ímyndað sér, að fyrir nokkurn kvenmann gæti komið að stíga - horfa á sig, glápa á sig, og ef til vill gleðjast yfir því í illgirni sinni, hvernig hún leit út eða hvernig hún bar sig.

Hún kveið því fyrir hjónavígslunni, eins og hún ætti að ganga til opinberrar háðungar fyrir yfirsjónir sínar. Grimmilegri refsingu gat hún varla hugsað sér.

Prestskonan unga hafði aldrei fyrr séð giftingu í sveit og hlakkaði til þess eins og einhverra hátíðlegra og sjaldgæfra fyrirbrigða.

Hún lét sér einkar annt um brúðina og leitaðist við að kynnast henni og gera henni alla hluti til þægðar. Hún bauð að lána henni faldbúning, sem hún átti, eða þó að minnsta kosti fallega silkisvuntu. Hún bauð henni að búa sig inni í herberginu sínu í baðstofunni, og bauðst til að hjálpa henni þar. Hún bauð henni meira að segja að hafa veisluna þar heima á prestssetrinu og nota stofuna handa þessum fáu boðsgestum, og hún mætti fá þá aðstoð hjá heimilisfólkinu, sem hún vildi eða þyrfti með.

Og hún varð alveg forviða, þegar Halla þverneitaði að þiggja nokkuð af þessu.

Höllu var mikill ami að þessum nærgöngulu boðum prestskonunnar. Hún sá að vísu, að hún gerði þetta allt í besta tilgangi, en af þessari konu gat hún síst af öllu nokkuð þegið.

En hún átti bágt með að dylja geðshræringar sínar, þegar hún neitaði. Það var eina huggunin, að samfundir þeirra áttu ekki lengi að standa yfir; eftir þennan dag mundu þær sjaldan sjást og aldrei talast við; það var hún viss um.

En hún gat ekki neitað því með sjálfri sér, að þessa manneskju hataði hún umfram allar aðrar, þótt hún hefði ekkert til þess unnið.

Hún kom að mestu leyti svo búin að heiman sem hún ætlaði að vera fyrir altarinu. Það sem á vantaði, gerði hún í skemmunni frammi á hlaðinu, sem áður er um getið. Henni fannst hún fullvel til þess fallin. Og þaðan gekk hún í kirkjuna.

Það var talsvert stungið saman nefjum um það í kirkjunni, að Halla væri dauf í bragði. Menn lögðu það út á ýmsa vegu, en enginn á þann rétta.

Þeir, sem voru henni miður góðgjarnir, sögðu, að nú væri einn bannsettur dynturinn í henni; svona væri lundin hennar.

Aðrir sögðu, að svona væru allar konur á giftingardegi sínum; þær væru alvarlegar, eða jafnvel útgrátnar, án þess nokkur vissi til, að þeim bæri nokkur hlutur til ama; það væri ekki annað en meðfætt kjarkleysi, sem ævinlega kæmi í ljós, þegar á ætti að herða.

En þeir, sem skarpskyggnastir voru og dýpst lögðust, gátu þess til með miklum íbyggnissvip, að Halla mundi nú farin að sjá eftir því að hafa tekið Ólafi, þótt of seint væri aftur að snúa, og af því stafaði hljóðleiki hennar.

Með eitthvað af þessu létu flestir sér lynda.

Eitt einasta orð, sem benti í áttina til hinna réttu orsaka, mundi hafa svipt skýlunni frá allra augum. En það orð var ekki talað, ef til vill ekki einu sinni hugsað.

Það var sem hulin völd héldu verndarhendi sinni yfir þessu leyndarmáli. Það átti að vera geymt og innsiglað. Það, sem Halla gerði upp við hverinn um nóttina, var of heilagt og háleitt til þess, að því skyldi kasta út meðal fjöldans til að láta hann misskilja það og afskræma.

Presturinn var óvanalega fölur og óstyrkur, þegar hann byrjaði hjónavígsluna. En einmitt það fór honum vel. Föla andlitið var enn þá hvítara og unglingslegra við svarta hempuna, og augun voru stór og skær. Flestir höfðu því augun miklu meira á honum en brúðhjónunum, sem sneru bakinu fram til safnaðarins, eftir að þau voru komin fyrir altarið, og konan hans, sem sat í prestskonusætinu, - þar sem snjókerlingarnar höfðu setið um veturinn - horfði stöðugt á hann. Hún var óvanalega ástfangin af honum eins og hann "tók sig nú út", og mjög upp með sér af því, að þetta væri maðurinn sinn.

Hann notaði tímann til að stilla sig og sækja í sig veðrið, meðan verið var að kyrja fyrri hjónavígslusálminn.

Hann leit um alla kirkjuna, framan í hvert andlit, inn í hvers manns augu, en hvergi var neitt athugavert að sjá. Alls staðar var hátíðleiki og helgifriður. Þeir, sem ekki sungu með, héldu niðri í sér andanum og hlustuðu.

Hann leit líka framan í konuna sína. Hann sá, að hún horfði stöðugt á hann frá prestskonusætinu með ánægju og trausti í svipnum. - Hvergi var neitt að óttast.

Þessi ótti bjó aðeins í honum sjálfum. Hann var ekki annað en heimska. Það var vel fyrir öllu séð, og hann gat öruggur og ókvíðinn haldið áfram hlutverki sínu og leikið síðasta þáttinn til enda. Það voru litlar líkur til, að neitt það gæti komið fyrir, sem raskað gæti jafnvægi hans og fipað hann.

Það voru aðeins fjögur augu til í kirkjunni, sem ekki var hollt að horfast á við á þessari stundu. En af þeim stafaði engin hætta. Tvö þeirra áttu heima í sísyfjuðu andliti og voru byrgð undir síðum augnalokum. Hin tvö voru byrgð í bládröfnóttum vasaklút og flóðu í tárum.

Og ef eitthvert auga væri til enn þá,sem sæi allt eins og það væri, þá var hann sannfærður um, að það hefði þegar fyrir löngu vegið og metið allar ástæður og liti nú til sín í meðaumkun. -

Hjónavígsluræðan var óvanalega hjartnæm, og menn heyrðu rödd prestsins skjálfa við og við og sáu hann þráþurrka af sér svitann. En lengra komst það ekki.

En söfnuðurinn fékk enn þá einu sinni þann sannleika staðfestan, hvílíkur ágætisræðumaður presturinn sinn væri, - þegar hann tæki á því.

Það leyndi sér ekki á útliti Höllu, þegar hún gekk við hlið Ólafs fram kirkjugólfið, að hún hafði grátið inni við altarið. Hvarmarnir voru ofur lítið þrútnir, og tárin tindruðu í augnahárunum.

En enginn tók til þess. Það var engin nýlunda að sjá brúði gráta á giftingardegi sínum. Sumum féll auk þess heldur illa, ef hún gerði það ekki, þótti það bera vott um kaldsinni og ókvenlegt tilfinningaleysi. Tárin voru dýrustu perlurnar í skarti brúðarinnar; hjá þeim fölnaði allt annað, sem hún bar.

En að baki þessara tára í hvörmum Höllu og dýpra inni í augunum, glitraði eitthvað, sem enginn tók eftir og enginn átti von á, en sem mörgum hefði orðið starsýnt á, hefðu þeir séð það - eitthvað, sem gægðist fram, hvasst og biturt eins og hnífsoddur.

Það var hatrið - hatrið til alls þess, sem hafði neytt hana til þess að ganga þessi óljúfu spor, hatrið, sem enn þá var ungt og varla henni meðvitandi, en átti fyrir sér að vaxa og þroskast.


Þannig skildu þau, Halla og presturinn, til þess hvort fyrir sig að eyða ævi sinni í bannfæringu ástarvana hjónabands.

Þau gengu hvort sinn ákveðna veg.

Hún til kvenlegrar stórmennsku í þrautum og mannraunum, fátækt og fyrirlitningu, - sem er hlutskipti svo margra alþýðumanna á Íslandi.

Hann til kennimannlegrar lítilmennsku, - til yfirskins og augnaþjónustu, bæði upp á við og niður á við í embættisstarfi sínu - til lífs, sem var stöðugt leit eftir nautnum og munaði, til að reyna að fylla upp hið innra tóm, og jafnframt stöðug undanbrögð, stöðugur flótti undan ábyrgð og óþægindum.




Netútgáfan - janúar 1998