FYRSTI ÞÁTTUR
1. SMALINN
"Þarna kemur smalinn," sögðu vinnumennirnir á Stóruborg hver við annan. Þeir stóðu þá og brýndu, því að túnið var sendið í rót, og beit þeim illa, þó að rekjuna vantaði ekki. "Þarna kemur smalinn. - Sá er víst þrifalega til fara núna! - Mikill fjandi held ég sé að sjá svínið! - Það má nærri geta, annar eins erkisóði og hann er."
Þeim tafðist við að brýna. Þeir stóðu með orfin uppi við handleggina og glampandi spíkurnar út í loftið og horfðu í áttina til smalans. Óhætt var að gefa sér ofurlítið tóm. Húsmóðirin var ekki komin á fætur, - líklega ekki einu sinni vöknuð.
Það var rigning með köldum rosastormi af hafi og miklu brimhljóði frá sjónum. Regnskýin beltuðu sig um fjöllin, og hjó í hamrabeltin milli skýjanna. Í hvilftinni utan við Raufarfell grillti í sjálfan jökulinn, sandrokinn og illa til fara. Hinn hvíti, glæsilegi faldur, sem aldrei er óhreinn, var hulinn langt uppi í skýjunum.
Sléttlendið fyrir ofan bæinn flóði í vatni eftir rigninguna. Á næstu bæjunum voru fyrstu reykirnir að fæðast.
Heim undir túngarðinn runnu kvíaærnar í dreifðum hóp. Þær voru blakkar og rytjulegar af rigningunni og höfðu auðsjáanlega vaðið djúpar leirkeldur. Hálslangar voru þær og hábeinóttar, því að ullin var ekki hálfvaxin á þeim eftir rúninguna.
Í kringum ærnar hentist smalinn á stöng, sem var helmingi lengri en hann sjálfur. Gulur hundur skoppaði gjammandi í kringum hann. En svo var að sjá sem ánum stæði nokkurn veginn á sama bæði um smalann og hundinn. Þær runnu í mestu hægð og spekt heim á kvíabólið.
Vinnumennirnir slógu eina brýnu og aðra til, á meðan Hjalti var að koma ánum í kvíarnar. En þeir stóðu við hverja brýningu og horfðu á hann. Og þegar hann henti sér á stönginni inn yfir túngarðinn, tók þar tilhlaup og henti sér í næsta stökki langt inn á túnið, - slógu þeir hvorki né brýndu.
Hjalti kom til þeirra, móður og másandi af hlaupunum og stökkunum, hundvotur af rigningunni, leirugur upp á haus úr keldunum, rifinn og tættur, svo að víða sá í hann beran, og með skóræflana flaksandi utan um fæturna. Vinnumennirnir studdust fram á orfin og hlógu að honum.
Hjalti horfði á þá ófeiminn og hló líka. Hann vissi vel, að hverju þeir voru að hlæja. Hvað gerði það til, þó að þeir hlægju að honum? Þeim fórst ekki að hlæja. Þeir voru ekki mikið betur til fara en hann. Því munaði helst, að þeir voru ekki leirugir, því að þeir höfðu ekkert farið nema út á túnið um morguninn. Hefðu þeir smalað, þá hefðu þeir líka verið leirugir. Ráðsmaðurinn var skást til fara; en það var ekki honum að þakka, heldur þjónustunni hans. Hann var ekkert meiri maður en hinir. Allir vissu, að ráðsmennskunni hans var lokið, þegar húsmóðirin kom á fætur. Það vildi valdi hans til gengis, að húsmóðirin var morgunsvæf og fór oft seint á fætur. Hjalti tók sér ekki nær að hann hlægi að honum en hinir.
"Komstu nú með allar ærnar, skinnið mitt?" spurði ráðsmaðurinn og reyndi að gera sig alvarlegan. Eins og honum kæmi það nokkuð við! Hefði vantað af ánum, þá var húsmóðirin vís til að skipa honum sjálfum á stað til að leita að þeim.
Þetta vissi Hjalti, og þess vegna gat hann svarað honum skætingi:
"Þær eru allar í kvíunum, sem ég kom með. Þú getur farið þangað og talið þær."
Hlátur hinna vinnumannanna óx um helming við þetta. Það var þeirra mesta yndi, þegar lítið var gert úr ráðsmanninum, sem þóttist vera yfir þeim.
Ráðsmaðurinn hló líka. En hann roðnaði dálítið uppi undir hársrótunum.
"Ég skal nú smíða handa þér nýja stöng úr seigum og góðum viði, með járnhólk á endanum, miklu betri en þessa til að stökkva á og miklu liprari og léttari," mælti Kári smiður, sem var einn af vinnumönnunum, við Hjalta, "ef þú vilt vinna dálítið til hennar."
"Þú ætlar að stela í hana efninu frá húsmóðurinni," mælti Hjalti með sömu ósvífninni og áður. Hann vissi, að sér væri óhætt. Enginn þeirra mundi líða öðrum að fara illa með hann.
"Það er ekki víst, að ég þurfi þess," mælti Kári. "Víðar er góður rekaviður en á Stóruborg."
"Hvað á ég að vinna til?" spurði Hjalti.
Kári setti sig í stellingar og reyndi að vera alvarlegur.
"Þú átt að fara - svona, eins og þú ert til reika núna, - beint inn í rúmið til húsmóðurinnar og leggjast út af hjá henni."
Vinnumennirnir veltust um af hlátri. Þeir sáu í huganum, hvernig húsmóðurinni mundi verða við, þegar Hjalti kæmi og hefði þetta fyrir stafni.
"Ertu vitlaus!" mælti Hjalti hálfókvæða. Í þetta skipti gekk fram af honum. Við annarri eins fíflsku og þetta var hafði hann ekki svör á reiðum höndum.
Vinnumennirnir hlógu enn ákafar, bæði af því að sjá Hjalta standa orðlausan, og svo datt þeim annað í hug. Þetta gæti orðið til þess að koma húsmóðurinni á fætur. En fyrr en hún kom á fætur, fékk enginn maður mat.
"Ég skal gefa þér tygilknífinn, sem ég fékk úti í Vestmannaeyjum í fyrra hjá þeim þýsku," mælti annar vinnumaður. "Hann er í glóandi fögrum látúnsbúnum skeiðum og með látúnsbúnu skafti, mesti dýrgripur. Þú hefir séð hann hjá mér og löngum haft ágirnd á honum. Ég skal gefa þér hann, ef þú gerir þetta."
Hjalti stóð tvíráður og horfði á þá til skiptis. Stöngin var góð, en hnífurinn var þó enn þá betri. Annan eins kjörgrip gat hann varla hugsað til að eignast nokkurn tíma.
"Haldið þið, að strákurinn ráðist í annað eins stórræði fyrir þetta smáræði?" sagði ráðsmaðurinn og ætlaði að springa af hlátri. "Þið verðið að taka á betur, ef duga skal." Hann var sannfærður um, að Hjalti yrði flengdur, og það svo, að um munaði, ef hann reyndi þetta, og til þess var eitthvað vinnandi. Hitt var alveg óhugsandi, að hann kæmi því fram.
"Ég skal gefa þér folaldið, sem hún Brúnka mín gengur með, og hjálpa þér til að ala það upp, ef þú gerir þetta. Það á ekki langt að sækja það, þó að það verði vænn hestur. Þú þekkir Brúnku!"
Augun í Hjalta loguðu. Folald, sem yxi upp og yrði hestur, - afbragðshestur! - Það var eins og sæll draumur.
"En þá verð ég að sjá þig í rúminu hjá henni," bætti ráðsmaðurinn við. Hann sá það á Hjalta, hvað hann var að hugsa.
"Þið heyrið, hverju hann lofar," mælti Hjalti, og glettnin skein út úr honum. Ráðsmanninum fór ekki að standa á sama.
"Það skal enginn svíkja þig," mælti Kári. "Við erum allir vitni að því, hverju hver okkar hefir lofað."
"Það skal enginn svíkja þig," mæltu hinir einum munni.
Hjalti brá undir sig stönginni og stökk margar lengdir sínar í einu. Í tveim - þrem stökkum náði hann heim að bænum og hvarf fyrir bæjarhornið.
Vinnumennirnir stóðu höggdofa. Þeim óaði við því, sem þeir höfðu gert. Hvað skyldi koma á eftir?
2. Í SVEFNLOFTI HÚSMÓÐURINNARHjalti læddist upp stigann að svefnlofti húsmóðurinnar og nam staðar við hurðina að herbergi hennar. Hann hélt niðri í sér andanum, og hjartað í honum barðist ákaft. Margt strákastrikið hafði hann haft í frammi, en þetta yfirgekk þau öll.
Hann andaði út mæðinni og hlustaði, en heyrði ekkert nema hjartsláttinn í sjálfum sér. Húsmóðirin svaf víst enn þá.
Aldrei hafði hann litið inn í þetta herbergi, aldrei hafði hann komist jafnnálægt því og nú. Enginn maður á heimilinu leit þar nokkurn tíma inn, nema þær af vinnukonunum, sem handgengnastar voru húsmóðurinni. Enginn annar átti þangað erindi, enginn þorði svo mikið sem líta þangað inn. Það var það allra helgasta í bænum - það var jómfrúbúrið.
Og það var engin kotastelpa, sem í þessu búri bjó. Það var hvorki meira né minna en ein af allra ættgöfgustu meyjum landsins, - Anna, dóttir Vigfúsar Erlendssonar hirðstjóra.
Og nú átti hann að fara inn til hennar og fleygja sér upp í rúmið hjá henni nakinni, og þar átti hann að liggja, þar til ráðsmaðurinn kæmi og sæi hann. Annars varð hann af folaldinu. Hann var ekki hræddur um, að hinir vinnumennirnir mundu ekki gjalda honum kaupið, ef hann aðeins hefði hug til að reyna þetta, en það mundi ráðsmaðurinn ekki gera. Hann hataði hann, vegna þess að hann hafði djörfung til að svara honum fullum hálsi. Og hann hataði hina vinnumennina og húsmóðurina líka, hataði alla, nema sjálfan sig. Það var ekki hætt við öðru en að hann reyndi einhver undanbrögð.
Og húsmóðirin? Hún hafði alltaf verið honum góð, aldrei talað til hans öðru vísi en vingjarnlega, aldrei verið hörð við hann, þó að vantað hefði af ánum hjá honum, og aldrei gefið því mikinn gaum, þó að aðrir hefðu klagað hann fyrir henni fyrir einhver strákapörin.
Og nú átti hann að fara að skaprauna henni.
Hvað mundi hún gera, ef hún yrði verulega reið við hann? Henni mundi ekki nægja að flengja hann hæls og hnakka á milli, hún mundi svelta hann, eða kannske reka hann alveg í burtu.
En hún mundi þó ekki drepa hann. Og væri þá ekki hitt allt saman á sig leggjandi fyrir þessa góðu gripi?
En ef þetta yrði nú tekið sem tilræði við sæmd húsmóðurinnar, tilraun til að flekka hana og spilla mannorði hennar? Hann hafði ekki ljósa hugmynd um, hvað það var. Þegar hann hafði heyrt um það talað, var jafnan talað á hálfgerðri huldu, svo að hann skildi það ekki til fulls, og ef hann spurði, var honum annaðhvort engu svarað eða út í hött. Það eitt vissi hann, að það var tekið óttalega illa upp, varðaði jafnvel lífláti. Og ef sýslumaðurinn á Hlíðarenda frétti þetta, hann, sem var bróðir húsmóðurinnar, mundi hann senda eftir honum og láta höggva af honum höfuðið.
Við allar þessar hugsanir svitnaði hann af angist og skalf á beinunum.
Hann jafnaði sig þó og herti upp hugann. Það hlaut að vera einhverjum örðugleikum bundið að reyna þetta, annars hefðu þeir ekki heitið honum svona miklum launum. Eitthvað varð hann að leggja í sölurnar. Eða hvort þeir mundu ekki hlæja að honum, ef hann sneri nú aftur við dyrnar.
Hann hleypti í sig kjarki og opnaði dyrnar undur hægt. Gægðist hann þá inn um gættina og leit um allt herbergið.
Úti við vegginn öðrum megin stóð himinhvíla húsmóðurinnar. Glitofinn ársalur úr fínum vefnaði hékk neðan í himninum fyrir allri hvílunni. Renndir hvalbeinshringir voru í brún hans að ofan og runnu á stríðstrengdu rósabandi. Til höfða og fóta voru þykk tjöld úr dýrindis vefnaði dregin saman í fagrar fellingar. Glergluggi var á stafninum, rétt hjá rúminu, og nú rofaði til fyrir sólinni, svo að hún skein inn um gluggann á alla þessa dýrð.
Hjalti hypjaði sig út úr gættinni og lét aftur dyrnar. Hjartað barðist svo ákaft í brjósti hans, að honum lá við að hníga niður.
"Skræfa," hugsaði hann með sjálfum sér. "Þér er ekki matur gefandi, hvað þá heilt folald, - nei, heill reiðhestur, því að ráðsmaðurinn hafði lofað að ala hann upp fyrir hann. Eftir nokkur ár gætirðu smalað á hesti, þínum eigin hesti, ef þú værir ekki skræfa. Í einu stökki gætirðu tekið gólfið og komist upp í himinhvíluna. Hún mundi bera þess merki á eftir, að þú hefðir verið þar. - Hvað ætlarðu að segja vinnumönnunum?"
En ef hann flækti sig nú í öllum þessum tjöldum og kæmist aldrei upp í hvíluna? Ekki yrði hlegið minna að því.
Hann leit inn fyrir aftur til að aðgæta tjöldin betur, og nú kom hann allur inn úr gættinni.
En hann brast enn kjark til að taka undir sig stökkið. Hann dró sig út fyrir og hélt niðri í sér andanum.
Í þriðja skiptið gerði hann atlögu, og nú var kjarkurinn það mestur, að hann læddist undur hægt inn á mitt gólf, inn undir rúmið.
Þá seildist hönd úr rúminu til hvílutjaldanna og dró þau ofurlítið til hliðar, og húsmóðir hans talaði til hans með venjulega þýðum rómi:
"Hvað er að þér, Hjalti minn?"
Hjalti hrökk í ofboði aftur á bak og áttaði sig ekki fyrr en hann var kominn fram að stiga. Þá heyrði hann húsmóðurina kalla á eftir sér.
"Hjalti!" kallaði hún, og röddin var myndugri en áður. Hann nam staðar, höggdofa af hræðslu.
"Hjalti, - komdu og talaðu við mig!"
Hjalti þorði ekki annað en hlýða og kom inn fyrir.
"Láttu aftur hurðina og talaðu við mig. Hvað er að þér, skinnið mitt? - Hvaða skelfing er að sjá útganginn á þér! Hefirðu verið að smala?"
"Já," sagði Hjalti svo lágt, að varla heyrðist.
"Er slæmt veður? - Ertu blautur og hrakinn?"
"Já." - Hjalti var farinn að gráta.
"Hvað er að þér, Hjalti minn? Hefir nokkur verið vondur við þig? - Hvað vildirðu hingað inn?"
"Ekkert," kjökraði Hjalti.
Húsmóðirin dró rúmtjöldin alveg til hliðar og reis til hálfs upp í rúminu. Hún varð myndugri en hún hafði verið. Hjalti þorði ekki einu sinni að líta á hana.
"Þú hefir staðið um stund hérna fyrir utan dyrnar, og þrisvar ertu búinn að koma inn fyrir. Ég hefi verið vakandi og séð og heyrt allt til þín gegnum rúmtjöldin. Þú skalt segja mér, hvað þú vildir hingað inn."
Hjalti stóð sem dauðadæmdur á gólfinu og skalf af gráti. Hann gat engu orði upp komið.
"Komdu hingað að rúmstokknum til mín og segðu mér allt eins og er. - Það hefir einhver sent þig."
Hjalti þagði.
"Það lá að. Og þú áttir að leggjast upp í hvíluna hjá mér. Er ekki svo?"
Hjalti þagði og grét enn ákafar.
"Og hvað áttirðu að fá fyrir vikið?"
Hún gekk nú svo fast að Hjalta, að hann varð að segja henni alla söguna.
Anna hallaði sér aftur á hægindið, er hún hafði heyrt söguna, beit á vörina og þagði um stund. Hjalti stalst til að líta á hana.
Svo reis hún aftur upp við olnboga.
"Tíndu af þér spjarirnar!" mælti hún.
"Nei," kjökraði Hjalti í angistarrómi.
"Tíndu af þér spjarirnar! - Ég skipa þér það."
Hjalti þorði ekki annað en hlýða. Skjálfandi og titrandi af hræðslu og gráti fór hann að færa sig úr leirugum görmunum.
Anna horfði fast á hann á meðan. Vöðvarnir, sem úr fötunum færðust, voru rýrir og óþroskaðir, varla svo sem vænta hefði mátt eftir aldri. Handleggir og fótleggir voru grannir og pípulegir. Og svo skalf allur kroppurinn af kulda og angist, eins og hann byggist við flengingu. Hvílíkt barn!
"Farðu úr skyrtunni líka."
"Nei." - Það var sár örvænting í rómnum. Nú bættist óljós blygðunarsemi ofan á allar aðrar hörmungar hans. Að standa allsnakinn frammi fyrir kvenmanni var sár svívirða.
"Jú, þú skalt. Ég skipa þér það!"
Hjalti varð að hlýða.
Þar stóð hann nakinn eins og myndastytta á gólfinu, grátandi og skjálfandi. Hörundið var rautt undan blautum fötunum. Hann hélt höndunum fyrir andlitinu og sneri sér undan. Vaxtarlagið var fagurt og vöðvarnir í herðunum stæltir. Allt var þar mitt á milli bernsku og þroska. Kippir fóru um hann allan af ekkanum, og tárin hrundu ofan á gólfið.
Anna svipti ofan af sér sænginni án minnstu feimni og færði sig um leið ofar í hvíluna.
"Komdu upp í rúmið, - hérna fyrir framan mig," bauð hún.
Hjalti hlýddi þegjandi og grátandi og lagði sig upp í hvíluna. Anna breiddi ofan á hann og hlúði að honum. Síðan seildist hún yfir hann til silfurbjöllu, sem stóð á borðinu, og hringdi henni í ákafa.
Eftir litla stund kom stúlka, sem heyrt hafði hringinguna. Hún rak upp stór augu, er hún sá, hvar Hjalti var, en hún þorði ekkert að segja.
"Sæktu vinnumennina - alla, - ráðsmanninn líka," bauð Anna. "Segðu þeim að koma hingað upp undireins."
Stúlkan hlýddi umyrðalaust.
Nú varð Hjalti rórri. Nú fór hann að skilja, hvað húsmóðir hans ætlaði sér. Hingað til hafði hann alltaf hálfgert búist við flengingu, eða þá að minnsta kosti einhverri sneypulegri meðferð. Nú sá hann, að það var ekki hann, heldur hinir, sem áttu að fá flenginguna, - eða það, sem ekki var betra.
Á meðan reis Anna upp við olnboga og horfði stöðugt á hann. Hún sá, hvernig svipur hans glaðnaði, og nú sá hún fyrst í augun á honum. Hún sá þau milli glitrandi tára, sem enn héngu í hvörmunum, - blá, djúp og greindarleg barnsaugu, glettnisleg og sakleysisleg.
Að lítilli stundu liðinni komu vinnumennirnir. Þeir tóku ofan pottlokin sín í dyrunum og hlóðust þar saman í hnapp. Enginn þeirra kom sér að því að fara lengra. Stúlkan, sem hafði sótt þá, stóð á bak við þá, iðandi af forvitni.
"Komið þið nær!" skipaði húsmóðirin.
Þeir færðu sig innar. Stórir pollar stóðu á gólfinu eftir skóna þeirra.
"Nú sjáið þið, hvar Hjalti er," mælti Anna með beiskri glettni. "Og sjáið þið til. Við erum bæði fáklædd. Og svo skuluð þið líka sjá, hvernig ég faðma hann að mér."
Tjöldin voru nú alveg frá dregin, svo að sá yfir alla sængina. Anna hallaði sér ofan að Hjalta, lagði báða handleggina um hálsinn á honum og kinnina upp að vanga hans og leit síðan framan í vinnumennina. Hún skeytti því ekkert, þó að hárið á Hjalta, úfið og blautt, strykist um ennið á henni og bera handleggina. Meira en það var til þess vinnandi að ganga fram af vinnumönnunum.
Og það mislánaðist henni ekki. Þeir stóðu höggdofa af undrun - og öfund, og mæltu ekki orð frá munni. Aldrei höfðu þeir séð húsmóður sína jafnfagra, aldrei jafnrjóða, hýra og glettnislega. Hún var eins og nýútsprungin rós. Það var sem hefði hún yngst um mörg ár.
Hjalti var svo sneyptur undir þessum atlotum, að honum lá við gráti að nýju. Hann þorði ekki einu sinni að líta upp.
Anna sleppti tökunum á Hjalta, reis upp við olnboga og horfði hvasst á vinnumennina.
"Ég hefi tekið að mér mál Hjalta," mælti hún. "Því, sem þið hafið lofað honum fyrir þá þraut að fara upp í hvíluna til mín, skuluð þið standa mér skil á. Og þið skuluð ekki komast undan því. Það getið þið reitt ykkur á."
Já, það gátu þeir reitt sig á. Svo kvað að Önnu á heimili hennar, og þótt lengra væri farið, að þetta gátu þeir reitt sig á. Það var ekkert undanfæri svo mikið sem hugsanlegt.
Hjalti togaði sængina upp að höku, og það ískraði í honum af hlátri, þó að augun stæðu enn þá full af tárum.
"Og þú, ráðsmaður," hélt Anna áfram og horfði á hann hörðum augum. "Folaldið er eign Hjalta, undireins og það er í heiminn borið. Það skal ganga undir mömmu sinni, og hún skal eiga gott, svo að hún fæði það vel. Svo tek ég við því og el það upp handa Hjalta, og geri það eins og mér líkar. En uppeldiskostnaður þess verður dreginn af kaupinu þínu á hverju ári. Ertu ánægður með þetta?"
Ráðsmaðurinn þorði ekki annað en játa. En þungur var hann á svipinn.
Húsmóðirin skerpti röddina:
"Snáfið þið nú út á tún til orfanna ykkar og skammist þið ykkar! Svikulir augnaþjónar eruð þið, þýlyndir og ótryggir, sem reynið að gera húsmóður ykkar skömm og skapraun, hvenær sem þið haldið, að þið komist hjá óþægindum fyrir það. Nú eigið þið mér að mæta, ef þið reynið að hefna ykkar á Hjalta."
Vinnumennirnir vörpuðu öndinni þungt og löbbuðu burt með þessa kveðju. Bleytan úr sporunum þeirra rann um allt gólfið.
Þegar þeir voru farnir, laut Anna ofan að Hjalta og horfði lengi framan í hann. Það var sem móðurleg viðkvæmni og lengi bæld ástarþrá rynnu saman í svipnum. Svo laut hún alveg ofan að honum og kyssti hann lengi og innilega.
"Liggðu nú kyrr og sofnaðu, en ég fer á fætur. Þú hefir aldrei komið í gott rúm fyrri. Klæddu þig ekki fyrr en ég kem með ný föt handa þér. - Þú skalt ekki smala á Stóruborg framar."
ANNAR ÞÁTTUR
1. ALDARFAR
Það er umbrota- og óróaöld hér á landi, þegar þessi saga gerist. Það er um siðaskiptin.
Gamla kirkjuvaldið er í fjörbrotunum. Það nýja er í reifunum.
Púkarnir, þessi óteljandi smápeð djöfulsins, sem pápisku prestarnir og munkarnir vöfðu um fingur sér og nörruðu á allar lundir, eru nú gengnir þeim úr greipum og hlaupnir í hjörðina eins og hundar. Og þó að þeir séu smáir, megna þeir að tvístra henni í allar áttir. - Seinna runnu þeir saman í einn höfuðdjöful, en - það kemur ekki þessu máli við.
Hreinsunareldurinn er alveg kulnaður út. Menn ganga um hann óbrenndum fótum beint inn í himnaríki.
Bannfæringin er orðin máttlaus. Nú ganga bannfærðir menn óhindrað um allar sveitir, og sér enginn bann á þeim. Sumir af mestu höfðingjum landsins eru bannfærðir og gera ekki annað en hlæja að því. Enginn firrtist samneyti við þá fyrir það. Nú langar jafnvel fleiri til að vera bannfærðir en fá það. - Nú er orðið verulega í það varið. Allir hlutir geta komist í tísku.
Verndardýrlingarnir eru farnir að missa máttinn. Nú er það komið upp, að ekki þarf að trúa þeim fyrir bænum sínum framar. Menn geta farið með þær beint til guðs.
Og það, sem lakast er af öllu: Menn eru hættir að skrifta fyrir hinum heilögu feðrum kirkjunnar, og það er heldra fólkið, sem þar gengur á undan. Nú vita prestarnir ekkert, hverjir syndga og hverjar syndirnar eru. Þar með eru þeir sviptir valdinu yfir sálum skriftabarnanna og lyklunum að hliðum himnaríkis kippt úr höndum þeirra. Þeir vita þó, að enn þá er syndgað - og það ekkert smáræði.
- Skírlífisbrot voru varla með syndum talin. Það fór þá mest eftir því, hver í hlut átti. Allir prestar lifðu að vísu ógiftir, að lögum kirkjunnar, en gátu börn með fylgikonum. Frillur mátti ekki kalla þær, því að þær voru sumar af bestu ættum. Eðlilegt, að leikmenn leyfðu sér þetta líka.
Laungetin börn höfðingja voru oft jafnmörg þeim skilgetnu.
Hart var að vísu gengið eftir því, að fjórmenningar giftust ekki eða þaðan af skyldari. En þótt einhver meiri háttar maður ætti tvær konur í einu, eða einhver meiri háttar kona tvo menn, var naumast verið að gera úr því rellu. Einn jarðarskækill til stólsins eða nokkrir dalir í lófa biskupsins, það hjálpaði. Og þó að fjórmennings-meinbugirnir kostuðu ærinn auð, oft aleigu stórefnaðra manna, gat það kostað smáræði eitt, þó að bróðir ætti sitt barnið með hvorri systra sinna. Sektin var undir því komin, hver í hlut átti. Biskupar og prestar lögðu einir verðið á vöruna.
Leiðara var við það að fást, hve höfðingjum var höndin laus. Enn báru menn vopn, og vígaferli voru ekki sjaldgæf. Bardagar í stórum stíl voru að vísu farnir að verða fágætir, en skeinur og meiðingar, áflog á þingum og róstur milli stórmenna, - þetta var allt í blóma sínum.
- Þegar saga þessi byrjar, sat Gissur biskup Einarsson að stóli í Skálholti. Ekki var það þá jafnkunnugt orðið og nú er, hvernig hann var að þeirri sæmd kominn. Hitt sáu allir, að þá mátti heita, að engin kristni væri í Skálholtsstifti. Gömlu prestarnir voru í raun og veru allir afsettir, nema þeir vildu flytja hinn nýja boðskap, sem þeir kunnu ekki sjálfir. Flestir þeirra kusu heldur að leggja niður embætti sín. Fengust þá engir til að taka þau upp. Bændur og liðléttingar voru vígðir, ef þeir aðeins voru bænabókarfærir, - gátu stafað sig fram úr Corwini-postillu prentaðri í kirkjunum. Lakast gekk að fá almenning til að sýna þessum nýgræðingum kirkjunnar sæmilega lotningu.
Klaustrin voru nú á kóngs valdi, og munkar og prestar áttu sér hvergi öruggt athvarf. Sumir munkarnir voru á flækingi. Samt áttu þessir gömlu latínusönglarar enn þá allmikil ítök í hugum manna, og helst voru það þeir, sem héldu þó enn í hemilinn í fólkinu - og skákuðu þeim gamla.
En í norðrinu dró upp dimmar blikur. Norðlingar voru enn þá gamla siðnum trúir, og þar sátu menn að völdum, sem ekki gáfu Sunnlendingum eftir í ójöfnuði og yfirgangi. Það dró til stórtíðinda, - stórtíðinda, sem einmitt dundu yfir á þeim árum, er saga þessi gerist.
2. FÓSTURSONURINNAnna var yfir þrítugt, en Hjalti fimmtán ára.
Það, sem til hafði verið stofnað af glettni og ertni við heimafólkið, var orðið að brennandi ást, - óslökkvandi eldi.
Þannig var það ætíð hjá þessari ætt. Hún gekk fram af öllum, bæði í gáskanum og alvörunni. Engu var þar stillt í meðalhófið.
Önnu nægði ekki að ganga fram af heimafólki sínu í eitt skipti, - einn einasta morgun. Hún varð að halda því áfram. Einhver meðfædd hvöt til þrjósku og lítilsvirðingar á almenningsálitinu knúði hana, einhver sjálfræðisfýsn og uppreistargirni.
Hún lét gera Hjalta hvílu í svefnloftinu hjá sjálfri sér.
Hún lét gera honum góð klæði, gefa honum það besta úr matnum, lét hann lifa og láta eins og hann vildi og vinna það eitt, sem honum sjálfum sýndist.
Og hún naut með ánægju þeirrar undrunar og gremju, sem þetta vakti hjá heimafólkinu.
Jafnframt varð henni Hjalti kærari með hverjum deginum, sem leið.
Hún kenndi honum að lesa og skrifa. Það kunni enginn á heimilinu nema hún sjálf. Hún kenndi honum allt, sem hún kunni, sagði honum allt, sem hún vissi, og dáðist hjartanlega að því, hve greindur og námfús hann var.
Hún elskaði hann með allri þeirri ákefðarástríðu, sem hún hafði tekið að erfðum frá ættmönnum sínum. Þar var enginn maður veill og hálfvolgur. Þar höfðu menn hatað og elskað svo að um munaði.
Annars hefði ekki ferill feðra hennar verið jafn stórverkum stráður.
Ættin hennar var ekkert smáræði. Hvergi var orðið "ríkur" algengara en þar. Það blakti yfir allri ættinni eins og gunnfáni. Það var aðalsmerki, sem enginn í ættinni hafði gefið sér sjálfur, heldur hafði almenningur fundið það upp. Og það táknaði ekki einungis auðæfi, heldur miklu fremur ríklyndi og höfðingsskap.
Loftur ríki á Möðruvöllum var forfaðir hennar. Þorvarður ríki, sonur hans, var langafi hennar. Ólöf ríka, kona Björns ríka Þorleifssonar, var langafasystir hennar. Torfi ríki í Klofa var náfrændi hennar. Erlendur afi hennar hafði að vísu ekki verið ríkur kallaður, og skorti hann þó ekki fé, eftir að hann hafði gengið að eiga Guðríði Þorvarðsdóttur. Faðir hennar var ekki heldur ríkur kallaður, og var hann þó ekki blásnauður um eitt skeið, er hann hafði verið hirðstjóri yfir öllu Íslandi og síðan lögmaður. En föðursystir hennar, Hólmfríður gamla í Stóra-Dal, hafði verið nefnd hin ríka, enda fór hún að lögmanninum, bróður sínum, við fjölmenni og barðist við hann neðan við túnið á Hlíðarenda.
Og Anna vildi helst sjálf vera "rík". Hólmfríði hafði hún þekkt best allra vandamanna sinna, og henni vildi hún líkjast. Nú var hún dáin fyrir fám árum, og Anna vildi sýna öllum, að hún hefði tekið ríklyndi hennar að erfðum.
En byrlega hafði ekki blásið fyrir henni framan af. Auknefnið "hin ríka" þurfti góða undirstöðu í verulegum auði, en hann var ekki fyrir hendi.
Faðir hennar hafði verið mikill vinur Ögmundar biskups Pálssonar, meðan hann enn var prestur á Breiðabólsstað, formaður á Skálholtsskútunni eða ábóti í Viðey, - fóstbróðir hans að kalla mátti. Hann hafði stutt hann og fylgt honum trúlega í öllum hans - stundum vafasömu - deilum og loks stutt að biskupskosningu hans af alefli, - haldið sáttmála þeirra að sínu leyti út í ystu æsar. Hann hafði orðið biskupi samferða, þegar hann fór utan til að taka biskupsvígslu; þá ætlaði hann að verða hirðstjóri öðru sinni. En hann lést í þeirri ferð. Og þegar Ögmundur biskup kom heim, kom hann með skuldakröfu á hann dauðan fyrir fé, sem hann átti að hafa lánað honum erlendis. Þegar það var greitt að fullu, lét hann presta sína dæma fjórmenningsmeinbugi á síðara hjónabandi þessa aldavinar síns, meinbugi, sem enginn hafði nefnt á nafn meðan hann lifði. Ögmundur biskup hafði þá hirðstjóravald jafnframt biskupsvaldinu, og tjáði ekki móti honum að mæla. Á þennan hátt sölsaði guðsmaðurinn undir sig mestallt fé föður hennar, og hefði líklega hirt það allt, hefði ekki Hólmfríður föðursystir hennar verið. Hún tók að sér fjárhald barna bróður síns og lét það ekki fyrir standa, þó að þau hefðu barist á meðan þau lifðu bæði, og hún lét sér ekki fyrir brjósti brenna að etja kappi við Ögmund biskup. Það var ekki laust, sem hún hélt um.
Nú var svo komið, að Ögmundur biskup hafði ekki mikla gleði haft af fénu. Hann var utan fluttur allslaus og dáinn þar í fjarlægðinni, en allt það fé, sem hann hafði kallað sitt, og mikið annað, var komið í konungs hendur.
Og ekki hafði Hólmfríður, föðursystir Önnu, varið því illa, sem hún hélt eftir af fénu. Fremur hafði það aukist en minnkað í höndum hennar. Páli, bróður Önnu, hafði hún komið til manns, og var hann nú orðinn "bóndi" - það er að segja: sýslumaður - á Hlíðarenda, höfuðbóli föður síns, og jafnframt að sjálfsögðu höfuð ættarinnar. Systur hennar hafði hún gift burtu, og Önnu hafði hún fengið Stóruborg til eignar og ábúðar, þegar hún varð myndug. Og það var ekki gömlu konunni að kenna, þótt Anna væri ógift enn þá. Hún hafði séð henni fyrir nægum biðlum. Og jafnan hafði hún haft mætur á Önnu og litið til með henni, meðan hennar naut við.
Síðan Anna fór að búa, hafði henni sjálfri græðst allvel fé, svo að nú átti hún miklu fleiri jarðir en Stóruborg.
En uppteknum hætti hafði hún haldið til þessa og hafnað öllum biðlum.
Mikillæti hennar hafði farið mjög vaxandi síðan fóstra hennar og föðursystir dó. Hún svaraði mikilsvirtum mönnum, sem leituðu ráðahags við hana, með meiri kulda og hæðni en áður. Það var sem væri henni ekki eins uppsigað við neitt sem það, er talið var, að stæði henni jafnfætis og væri henni samboðið.
Því var almennt trúað, að hún mundi aldrei giftast.
Anna Vigfúsdóttir var kona meðalhá vexti og fagurlega vaxin. Fríð sýnum var hún eiginlega ekki, en bauð þó hinn besta þokka. Hún var helst til lík feðrum sínum að andlitsfalli til þess að geta kallast fríð, en þeir voru stórgerðir og svipmiklir. Holdug var hún nokkuð, en þó björt yfirlitum, munnfríð og nokkuð varaþykk, með hátt enni og miklar augnabrýr. Augu hafði hún skarpleg og skýrleg. Svipurinn var í harðara lagi, markaður af einbeittum vilja og þrunginn af sterkum ástríðum. Samt gat þar einnig búið köld hæðni, beisk glettni eða blíðleg gamansemi. En sjálfstraust og fullan myndugleika skorti þar aldrei.
Ströng húsmóðir var hún og stýrði heimili sínu með harðri hendi. Illa fór fyrir þeim, sem risu á móti boðum hennar eða banni eða fóru í kringum hana og voru henni ótrúir. Þess hefndi hún svo, að menn rak minni til á eftir. En þeir, sem komu sér vel við hana, áttu hana jafnan að, og af þeim leit hún aldrei, ef í nauðir rak fyrir þeim. Og þeir voru fleiri en hinir. Öll hjúin virtu hana og flest elskuðu hana einnig meira en svo, að þau vildu gera henni á móti. En hvort sem þau elskuðu hana eða ekki, höfðu þau beyg af henni og hlýddu henni möglunarlaust.
Þannig hafði húsmóðirin á Stóruborg verið allt til þess, er hér segir frá. En eftir að hún tók Hjalta að sér, var sem nokkuð skipti um.
Það var sem hefði hún yngst um tíu ár. Það var kominn yfir hana einhver blíðleiki, einhver ungfreyju-yndisþokki, langtum meir en áður hafði verið. Hún var glaðlegri og góðlegri í viðmóti við alla og ekki eins ströng við hjúin og hún hafði verið. Þau þekktu hana varla fyrir sömu manneskju. Þeim leið betur undir stjórn hennar, og heimilisbragurinn varð hlýlegri. Það var sem gengi hún vakandi í sælum draumum og brosti að hugsunum sínum. Og stundum var hún, búkonan mikla, með hugann langt í burtu frá heimilisstörfunum.
- Hjalti baðaði sig í sólskini þeirrar náðar og velþóknunar, sem húsmóðirin hafði á honum. Hann blés í sundur að vexti og afli, því að nú var ekki við hann dreginn maturinn. Hann gekk langtum betur búinn en nokkur annar á heimilinu, og hann lék sér allan daginn og kunni sér ekki læti af gleði yfir lífinu.
Áður var hann orðinn hverjum manni fremri í því að stökkva á stöng. Nú eignaðist hann nýja stöng, miklu betri en hann hafði haft áður, og eftir því, sem hann varð þróttmeiri og vöðvastæltari, gerði hann lengri og fegurri stökk, svo mikil og aðdáanleg, að enginn vissi slíks dæmi.
En nú tók hann einnig að leggja stund á fleiri íþróttir. Hann stökk stangarlaust yfir hest á jafnsléttu, og hann hljóp yfir tvo hesta samsíða, ef mishæð var honum til stuðnings. Hann hóf tvævett tryppi á herðar sér og bar það á háhesti. Hann lagðist til sunds í hyljunum í ánum og æfði það svo, að hann varð allra manna best syndur. Og hann varð skjótur á fæti, svo að enginn hestur tók hann, og klettamaður með afbrigðum. Allt, sem hann langaði til, mátti hann iðka, og mest laut það að íþróttum og líkamsæfingum, enda varð hann brátt fríður og fagurlimaður, sterkur og stæltur og ofurhugi hinn mesti. Hann vílaði ekki fyrir sér að vaða beint út í brimið, þegar það var sem trylltast við sandana fram undan bænum, standa þar föstum fótum, óstuddur, og láta ölduhrönnina og útsogið belja um herðarnar á sér, og í fjöllunum kleif hann þar upp og ofan, sem öðrum þótti ófært.
Hvar sem hann fór og hvað sem hann hafðist að, hvíldu jafnan augu húsmóðurinnar á honum. Ætíð léku bros um andlit hennar, þegar hún sá hann gera eitthvað aðdáunarvert. Oft fölnaði hún upp, þegar hún sá hann hafa einhver glæfrabrögðin fyrir stafni, og ef hann var ekki heima við bæinn, var hún jafnan kvíðandi og áhyggjufull um hann. Stundum sendi hún þá mann frá verki til að sækja hann og segja honum að koma heim að bænum. Það eina, sem Hjalti hafði af ófrelsi að segja, var, að húsmóðir hans mátti aldrei til lengdar af honum sjá. Hún var hrædd um, að ofdirfska hans kynni að verða honum að voða.
En heimilisfólkinu varð þetta stóra eftirlætisbarn hrein og bein plága. Við taumlaust frelsi varð ofmetnaður hans einnig taumlaus. Alla daga gekk hann iðjulaus eins og logi yfir akur, og þakkarvert var það, þegar vinnandi fólk mátti hafa frið fyrir honum. En það var ekki því að heilsa. Einkum voru það vinnumennirnir, sem urðu fyrir barðinu á honum. Hann vildi fá þá til að glíma við sig, og ef þeir vildu það ekki, flaug hann á þá og stríddi þeim og storkaði á allar lundir, þar til þeir reiddust og jusu yfir hann skömmum eða fóru jafnvel illa með hann. Aldrei sagði hann Önnu eftir þeim eða kærði þá fyrir henni, og virtu þeir hann meira fyrir það. En kæmist hún samt að því, að Hjalti hefði verið hart leikinn, var henni jafnan að mæta. Miklu sjaldnar urðu vinnukonurnar fyrir áreitni hans. Hvort sem það var af umhyggju fyrir þeim eða honum, eða hvoru tveggja, þoldi húsmóðirin aldrei, að hann gerði sér dælt við þær.
Hjalti sá það vel, að hann var illa liðinn á heimilinu, bæði meðal kvenna og karla. Hann vissi vel, að öfund réð þar miklu. Hann vissi vel, að þetta fólk, sem vann baki brotnu frá morgni til kvölds, gat ekki unnað honum þess að leika sér og ganga iðjulaus. Hann heyrði það tala um, að dálætið á honum hefði blindað svo húsmóðurina, að hún sæi hvorki, hvað sómi hennar væri né honum fyrir bestu. Hann eldist upp til að verða landeyða og gott ef ekki landhlaupari og óknyttamaður. Hvað mundi úr honum verða, þegar hann nyti ekki Önnu að lengur?
Þessi ummæli og önnur því um lík sárnuðu Hjalta, og hefndi hann þeirra harðlega. Þó aldrei með því að bera þau til húsmóður sinnar, heldur með ertni og glettni, sem margsinnis gekk úr góðu hófi og illt þótti að hafa bótalausa.
Þannig liðu dagarnir, vikurnar og mánuðirnir fyrir Hjalta í ærslafullum æskuleik, taumlausri gleði og hóflausri nautn lífsins og æskunnar, þar til einn dag, að ofurlítið atvik kom fyrir.
Það var sumarið eftir að hann hafði ratað í þessa miklu hamingju.
Óþurrkasamt var það sumar, og gekk illa að hirða heyin. En svo kom einn af þessum yndislegu dögum, sem eru svo sjaldgæfir og dýrmætir á Suðurlandi. Norðankælan þokaði þessari eilífu plágu, skýjakafinu, ofurlítið suður á hafið, svo að jöklarnir stóðu bjartir í blárri heiðríkjunni og sjórinn fyrir söndunum blikaði eins og spegill.
Það var þurrkur, - langþráður, dýrmætur þurrkur. Fjöllin og láglendið ljómuðu af gleði yfir sólskininu.
Allir, sem vettlingi gátu valdið, voru önnum kafnir við að hirða töðuna á túninu á Stóruborg, sem búin var að hrekjast allt of lengi, allir - nema Hjalti.
Hann snerti ekki á nokkru viki fremur þennan dag en aðra. Enginn nefndi heldur við hann að hjálpa til. Húsmóðirin var ein inni í bænum og matreiddi sjálf handa verkafólkinu, svo að enga af vinnukonunum þyrfti að tefja frá vinnunni. Allir stóðu löðursveittir, fáklæddir, og hömuðust við heyið í bakandi sólskininu, en Hjalti hentist í kringum fólkið á stöng sinni. Túnið var harðlent, og nú var það svo þurrt og svo rúmt á því, eftir því sem heyið var tekið saman, að aldrei var það betur fallið fyrir þennan leik. Hjalti gerði aðdáanleg stökk og gaut augunum jafnt og þétt til fólksins, hvort enginn hrósaði sér.
En fólkið var um annað að hugsa. Það sá að vísu til hans, en enginn skipti sér af honum. Því gramdist að sjá þennan stóra slána hoppa og skoppa iðjulausan, er svo mikið lá á hverju mannsliði. Það gaut til hans illum augum í kyrrþey og hafði orð á þessu sín á milli, en á hann yrti enginn maður.
Hjalti sá, hvað það hugsaði. Þessi illu augnatillit kitluðu hann eins og spjótsoddar, og skap hans reis til mótþróa og beiskrar glettni. Hann langaði til að hefna sín, því að honum fannst fólkið gera sér rangt til með því að vilja ekki láta sig njóta þeirrar aðdáunar, sem hann ætti skilið.
Hann fór að stríða fólkinu með því að gera því ýmislegt til ills og tefja fyrir því. Hann stökk beint ofan í sáturnar, sem stóðu óbundnar á reipunum, nýsaxaðar upp, og dreifði þeim út um allt. Hann fór eins og hvirfilvindur um flekkina, sem verið var að raka saman, og dreifði þeim aftur. Hann henti sér ofan á hrífuhausana í höndunum á vinnukonunum og skildi þar engan tind eftir óbrotinn, og hann ramflækti reipin fyrir vinnumönnunum.
Allir umbáru honum þetta með þögn og þolinmæði, húsmóðurinnar vegna, - allir, nema ráðsmaðurinn. Hann gat ekki stillt sig.
"Nægir þér ekki, landeyðan þín," mælti hann, "að lifa eins og sníkjudýr á því brauði, sem þetta fólk þrælar fyrir með súrum sveita, nema þú gerir þér það að leik að tefja fyrir því og gera því margfalda fyrirhöfn?"
Hjalti roðnaði, en svaraði engu. Hann hvarflaði út yfir túnið og kom ekki aftur í bráð.
Fyrst varð hann sneyptur og fann, að þetta var satt, en svo sárnaði honum við ráðsmanninn og langaði til að gera honum einhverja lítils háttar glennu.
Þegar hann nálgaðist fólkið aftur, gekk maður á stað til heygarðsins með gríðarstóran töðubagga á háhesti sínum. Hjalti þóttist kenna þar ráðsmanninn. Hljóp hann þá rösklega til, hóf sig hátt í loft upp á stönginni og kom niður á heybaggann.
Maðurinn, sem undir bagganum var, missti jafnvægið og steyptist áfram og bagginn á hann ofan.
Lengi lá hann og braust um með baggann ofan á höfðinu, áður en hann fékk velt honum af sér. Hjalti stóð á meðan og hló að honum.
En þegar maðurinn var laus undan bagganum og reis upp, sá Hjalti, að það var ekki ráðsmaðurinn, heldur einn af landsetum húsmóðurinnar, sem Eyvindur hét. Hann var þar í vinnu um daginn. Það var gamall maður, stór vexti, hægur og hversdagsgæfur, en þungur á brúnina og illur, ef hann reiddist.
"Bíddu við, Hjalti minn!" mælti hann blár og þrútinn í framan, og röddin skalf af reiði. "Seinna koma sumir dagar, en koma þó. Hamingjan hossar þér hátt núna, en svo verður ekki alltaf. Einhvern tíma leggur guð hönd sína á þig. Þá kanntu að minnast þess, hvað það er að særa gamlan mann."
Meira fékk hann ekki sagt að sinni, því að hann fékk hóstahviðu og hóstaði upp blóði.
Hjalti stóð höggdofa og ráðalaus. Þessum manni hafði hann ekkert illt viljað gera. Hann færði sig hægt nær honum og langaði til að biðja hann fyrirgefningar.
"Farðu bölvaður!" æpti Eyvindur gamli af mikilli reiði og steytti að honum hnefann. Í því kom önnur blóðgusan fram úr honum.
Hann hneig niður, og fólkið þyrptist í kringum hann til að vita, hvað um væri að vera, og hjálpa honum. Enginn yrti á Hjalta, en augnatillitin, sem honum voru send, sögðu öll eitt og hið sama: Ólánsgreyið þitt! Guð hjálpi þér! Þar hefirðu orðið manni að bana. - Það var við öðru eins að búast.
Hjalti fleygði frá sér stönginni, gekk rakleitt heim í bæinn og sagði húsmóður sinni grátandi frá því, hvernig komið væri.
Hún strauk blítt um vanga hans, eins og góð móðir, og mælti:
"Þetta er bending til þín frá guði um að fara gætilega. Taktu þér hana til íhugunar. Hamingjan er svo fallvölt."
Þessi hógværu orð fengu meira á Hjalta en þó að hún hefði rekið honum utan undir.
"Þú hefir gott hjarta, vinur minn," bætti hún við. "Mundu eftir að gera ætíð öllum mönnum gott, hvenær sem þér veitist tækifæri til þess. Þá vegnar þér vel, hvað sem kann að mæta. Og þá eignastu fleiri vini en þú veist af sjálfur - og betri vini."
Aldrei hafði hann heyrt hana tala jafnblíðlega.
Anna lét bera Eyvind inn í baðstofu og sendi heim til hans til að segja tíðindin og það með, að hún skyldi hjúkra honum og sjá um hann, meðan hann þyrfti að liggja.
Faðir Önnu hafði verið talinn afbragðslæknir, og fólk trúði því fastlega, að hún væri það líka.
Eyvindur hresstist furðu fljótt, en þurfti þó að liggja lengi. Hann kenndi verkjar fyrir brjóstinu, og við og við hóstaði hann upp blóðdrefjum.
En allan þann tíma, sem hann lá, vék Hjalti varla frá hvílu hans. Hann stundaði hann með einstakri alúð og nákvæmni og vildi aldrei af honum líta.
Og hann bað hann margsinnis og hjartanlega að fyrirgefa sér.
Gamli maðurinn gerði það með tárin í augunum og bað guð þess að láta ekki óbænir sínar hrína á honum. En hann var hræddur um, að þær bænir yrðu ekki heyrðar nema að nokkru leyti. Forlög Hjalta væru þegar skráð á hærri stöðum. Þó sagði honum svo hugur um, að ekki mundi Hjalti verða öllum heillum horfinn.
Margir blíðviðrisdagar komu meðan Eyvindur lá, en Hjalti sinnti þeim ekkert. Hann kaus heldur að vera inni honum til skemmtunar. Það var sem hann efaðist enn þá um það, að hann væri búinn að fá fyrirgefningu hans að fullu.
Hann skrafaði við hann um alla heima og geima. En á meðan skar hann út traföskjulok handa húsmóður sinni.
Á því var rósahringur með hvössum þyrnum.
En innan í hringnum var kringlóttur reitur. Þar var mynd af riddara, sem hleypti fram á harðastökki. En slanga reis upp af jörðunni og vafði sig um fæturna á hestinum, svo að hann hlaut að steypast.
3. HALLUR GRÁMUNKUREitt kvöld á þorra sat Anna einsömul í svefnlofti sínu.
Hún sat þar oft einsömul um þær mundir, og enginn vissi, hvað hún hafðist að. Hún bannaði stúlkunum að koma til sín, nema hún kallaði á þær. Enginn mátti ganga þar út og inn, nema Hjalti. Hann þurfti aldrei leyfis að spyrja.
Þetta kvöld var hann ekki við. Anna sat einsömul og saumaði - einhverjar undur litlar og undarlega sniðnar flíkur. Hún var í besta skapi og síbrosandi yfir saumunum.
Þá var hurðinni hrundið hranalega upp, og maður kom inn í loftið óboðinn.
"Friður sé með þér!" sagði maðurinn og hóf hendurnar til hálfs, eins og til blessunar.
Það var sem kaldan gust legði af kveðjunni.
Anna fleygði saumunum upp í hvíluna og tók kveðjunni glaðlega.
"Pater Hallur!" mælti hún. "Hvaðan ber þig að?"
Maðurinn stóð þegjandi og starði á hana hvössum, myrkum augum.
Hallur var flökkumunkur af Grámunkareglu, sem hann hafði gengið í í Danmörku. Meðan klaustrin stóðu, mátti hann jafnan leita þar athvarfs. Nú var fokið í þau skjólin. Nú lifði hann í þeirri trú, að hann væri skriftafaðir á ýmsum heldri heimilum, sem enn héldu við gamla siðinn, og fyrir það fékk hann mat. Nú vissi hann ofurvel, að pápiska hans var fyrirboðin, og fór hann því hálfgert huldu höfði.
Hann var í dökkgrárri munkakápu úr grófu vaðmáli. Hettan á kápunni var einasta höfuðfat hans, og hana hafði hann látið falla niður á bakið, um leið og hann kom inn úr dyrunum. Höfuðið var nauðrakað að ofan, en út úr vöngunum stóð strítt hý, eins og svínsbroddar. Kápan var reyrð saman um mittið með ullarbandsreipi. Við það hékk þríþætt svipa, með harða hnúta á öllum endunum. Hana notaði hann til hirtingar á sjálfan sig. Bænaband var um hálsinn, og hékk við það kross með Kristsmynd. Berir voru fæturnir í skónum og blóðrauðir af kulda. Eins voru hendurnar.
"Ég er minnstur minni bræðranna,"
(Fratres minores (=minni bræðurnir) var kenniorð grámunka.)
mælti Hallur. "En ég flyt þó enn þá erindi guðs og hins heilaga Franciskusar. Gerið iðrun, því að guðs ríki er nálægt! Þetta eru hinir síðustu og verstu tímar."
"Heldurðu það?" mælti Anna glettnislega.
Það var sem logaði upp í munkinum. Hann stóð með opinn munninn, sem bæði var stór og ófríður, og eldblæ sló á fölar, magrar kinnarnar.
"Guðníðingurinn í Skálholti -!" mælti hann. "Veistu, hvað hann hefir gert? Hann hefir riðið í Kallaðarnes á sjálfa kyndilmessu og rifið niður krossinn heilaga, sem guð hafði gefið mátt til að gera kraftaverk á sjúkum og særðum. Heilagan dóm hefir hann dirfst að snerta með sínum saurugu höndum. Vei, vei! Bölvun guðs er yfir honum!"
"Sei-sei! Vertu ekki svona æstur, heilagi pater. Engar formælingar inni hjá mér að minnsta kosti."
Munkurinn sefaðist ögn við þetta.
"Ó, ég vildi, að guð hefði gert mig að biskupi! Ég skyldi hafa bannfært þá, bannfært þá, alla saman, þessa guðníðinga, - bannfært þá alla saman, konunginn líka. Bannfært þá, þangað til jörðin hefði opnað sig og gleypt þá lifandi!"
Anna horfði stöðugt á hann með góðlegri kímni.
"Skelfing liggur illa á þér í dag, pater," mælti hún.
"Hirðirinn er sleginn og hjörðin tvístruð," mælti munkurinn með "heilagri" gremju. "Helgidómar eru saurgaðir og helgir menn svívirtir. Klaustrin eru lögð undir kóng, og guðs fólk hrekst vegalaust á hjarninu, eigandi hvergi höfði sínu að að halla."
"Það er satt. Þið eruð illa staddir núna, vesalings munkarnir. Viltu nú ekki vera hjá mér í vetur, pater, og kemba ull?"
Munkurinn lét sem hann heyrði ekki þetta. Hann kreppti hnefana og hóf þá til himna um leið og hann mælti:
"En guð reisir aftur við ríki sitt! Þetta er aðeins reynslutími. Heilagir kerúbar koma með logasverð og sveifla þeim yfir fylkingum fjandmannanna. Enn eru margir guði trúir. - Og enn lifir Jón biskup Arason á Hólum."
Munkurinn stóð um stund og horfði til himins, eins og spámannleg andagift væri yfir honum. Svo lét hann fallast á kné við kistil, sem stóð frammi undir dyrunum, og bað hátt fyrir munni sér með hálfsyngjandi rómi:
"Maria, regina, mater misericordiae, virgo prudentissima! Ora pro nobis!"
(María, drottning, móðir miskunnseminnar, jómfrúin alvísa, bið þú fyrir oss.)
"Þú ert svangur og þyrstur, pater, þú ert kaldur og þreyttur. Settu þig nú inn til piltanna og láttu þér hlýna. Mat skaltu fá nógan."
Munkurinn ansaði engu, en tautaði eitthvað fyrir munni sér.
"Eða kannske þú viljir heldur setjast inn til stúlknanna? Ég skal biðja þær að vera góðar við þig og misbjóða í engu heilagleik þínum."
Anna vissi það vel, að ekkert kom Halli verr að heyra nefnt á nafn en kvenmann.
Munkurinn lét enn sem hann heyrði ekki.
En hann stóð á fætur og augu hans brunnu enn draugslegar en áður.
"Þú hefir ekki skriftað langalengi," sagði hann fast og dimmt.
"Ertu viss um það?" sagði Anna og hló við.
"Þú hefir ekki skriftað, - ekki fyrir mér, sem er hinn eini sanni þjónn guðs. Sú fyrirgefning syndanna, sem þú kannt að hafa fengið hjá villutrúarmönnum, er einskis virði."
"Svo? Heldurðu það?"
Anna hló enn, en svipur hennar var þó nokkuð farinn að harðna.
"Hvað er það, sem liggur á borðinu hjá þér?"
Munkurinn benti á samanvafinn skinnstranga. Þvengir voru dregnir í gegnum hann, og héngu á þeim nokkur vaxinnsigli.
"Það er jarðakaupabréf," mælti Anna.
"Ha-ha! Þú kaupir jarðir og safnar að þér auði. En þú kaupir ekki sálu þína frá hreinsunareldinum með jarðakaupum. Hvað varstu að sauma, þegar ég kom inn?"
"Má ég ekki sauma hvað sem ég vil?" mælti Anna, og ertnin skein út úr henni.
"Þú fleygðir því upp í rúm, þegar ég kom. Ég átti ekki að fá að sjá það. - Skriftaðu fyrir mér!"
Anna stóð á fætur. Það var gáski og glettni í svip hennar, en þó höfðingleg alvara og mikillæti á bak við.
"Finnst þér nokkur þörf á, að ég skrifti?" mælti hún.
Hún lét kápuna falla frá sér að framan, og skýldi henni þá ekkert nema kyrtillinn.
Beltið náði ekki nándar nærri utan um hana.
"Omnes santci monachi et eremitae!"
(Allir heilagir munkar og einbúar.)
sagði munkurinn og krossaði sig.
Anna stóð kyrr og hafði skemmtun af því ofboði, sem kom á munkinn.
"Sparaðu latínuna," mælti hún hlæjandi. "Segðu heldur eitthvað, sem ég skil."
Munkurinn stóð lengi orðlaus. Loks stundi hann upp:
"Einnig þú ert fallin! - Einnig þú hefir brugðist mér."
"Svo-o?"
Munkurinn brýndi röddina.
"Hver er það, sem þú hefir leitt til syndar? - Hver er það, sem fallið hefir með þér?"
"Maðurinn minn!" mælti Anna með mestu hógværð. "Maðurinn minn, sem ég hefi valið mér sjálf. Rúmið þarna er rúmið hans."
Munkurinn stóð steinhissa. Aðra eins óskammfeilni hafði hann aldrei vitað.
En Anna hélt áfram:
"Hvernig við erum gift, - ja, um það ætla ég að kljást við vandamenn mína á sínum tíma. Það kemur ekki þér við, pater. Þú átt að leggja blessun þína yfir okkur. Hún er góð, - það sem hún nær."
"Aldrei, aldrei! - Þú syndarinnar ambátt, sem lifir í holdsins girndum og fýsnum! - Ekki er furða, þó að þú hafir hliðrað þér hjá því að skrifta!"
Meiri alvara var farin að færast á svip Önnu.
"Einn maður og ein kona, - það eru guðs lög," mælti hún. "Þau hefi ég ekki brotið. - Líttu á, hérna er Nýja testamentið, - prentað. Ég hefi lesið það allt spjaldanna á milli. Þar stendur ekki eitt orð um það, að guði sé nunnulífið þóknanlegt. Um þetta hafið þið þagað, latínumunkarnir, eða ekki vitað það. Páll postuli hvetur okkur konurnar meira að segja til að giftast og elska mennina okkar."
Munkurinn sortnaði í framan upp á miðja krúnu.
"Trúarvillu-drós!" hrópaði hann. "Þú ert þá einnig farin að lesa bækurnar, sem guðníðingarnir í Skálholti gefa út. - Og þarna er fyrsti ávöxturinn."
Hann benti framan á hana. Anna hló storkunarhlátur.
"Daðurkvendi!" æpti hann. "Bölvun guðs er yfir þér! Himinninn er þér lokaður, hreinsunareldurinn er þér slökktur. Ekkert stendur þér opið nema helvíti!"
Anna greip kálfskinnsstrangann af borðinu og gaf munkinum utan undir með honum, - fyrst hægra megin, svo vinstra megin, svo aftur hægra og vinstra megin. Hörð innsiglin dönsuðu um vangana á honum.
"Snertu mig ekki! Snertu mig ekki!" æpti munkurinn yfirkominn af reiði og sársauka. "Snertu mig ekki! Þú ert óhrein!"
En Anna lét höggin dynja á honum, þar til hann flúði úr loftinu.
- - Daginn eftir lét Anna söðla sér hest og reið á glærum ísum upp að Hrútafelli. Hallur grámunkur hafði þar húsaskjól um þessar mundir.
Hún fór ekki af baki, en kallaði munkinn út til sín.
"Það er best þú eigir ólina, sem ég lamdi þig með í gærkveldi," mælti hún. "Vertu skriftafaðir minn framvegis, ef þú vilt. Hér er ekki um marga að velja. En ef okkur kemur illa saman, þá veistu, hvað þú færð."
Síðan henti hún í hann kálfskinnsstranga með innsiglum og reið á stað.
Munkurinn varð heldur glaður, þegar hann rakti sundur strangann. Það var gjafabréf fyrir sex hundruðum í jörð.
ÞRIÐJI ÞÁTTUR
1. FRIÐUR OG GLEÐI
Árum saman hafði Ísland allt skolfið af hrolli og kvíða. Árum saman hafði ófriður og úlfúð geisað um land allt. Aldrei hafði verið jafnstyrjaldasamt síðan á Sturlungaöld.
Og allt hafði endað með skelfingu.
Mestu og bestu menn landsins, Jón biskup Arason og synir hans, voru lagðir á höggstokkinn í Skálholti. Danskir leigudátar stóðu vopnaðir á alþingi árið eftir og skipuðu málum manna.
Fólkið kveið grimmd og grályndi konungsvaldsins, og það engan veginn að ástæðulausu. En þó var annað, sem margir kviðu enn meira. Það var stjórnleysið og agaleysið í landinu.
Það var fullur fjandskapur milli Norðlendinga og Sunnlendinga, og að hinu leytinu var fullur fjandskapur milli páfatrúarmanna og Lútherstrúarmanna. Leynistraumar haturs og hefnigirni læddust um allt þjóðlífið. Enginn vissi, hvenær þeir kynnu að brjótast upp á yfirborðið og lita landið blóði.
Suður á nesjum voru orðin mikil tíðindi. Norðlenskir vermenn höfðu farið að umboðsmanni konungsvaldsins og drepið hann.
Fleiri víg voru unnin, og öll stefndu þau að því að hefna Jóns biskups og sona hans.
Sunnanlands var fólk gripið af ótta og skelfingu. Það var sagt og því trúað, að norðlenskir flugumenn væru dreifðir um allt Suðurland og sætu um hvern mann, sem verið hefði í sökum við Jón biskup eða ráðum við aftöku hans. Enginn vissi, hvar þeir voru. Enginn vissi, hvar næsta vígið yrði unnið.
Sögur gengu um það, að grunsamir menn, sem enginn vissi nein deili á, hefðu verið á sveimi kringum Hlíðarenda, þar sem Páll Vigfússon sýslumaður, bróðir Önnu, bjó. Hann hafði verið einn af skæðustu andstæðingum Jóns biskups, og margir héldu, að Jón biskup hefði átt við hann, er hann talaði hæðilega um hálfan annan kotungsson; hann hefði verið heili kotungssonurinn, en Daði i Snóksdal sá hálfi. Og hann hafði verið kvaddur til ráða í Skálholt, er þeir feðgar sátu þar í haldi. Að ráðum hans hefði ekki verið fylgt, vissu Norðlendingar auðvitað ekkert um. Ekki var því ástæðulaust að halda, að um hann væri setið, ekki síður en aðra. Og sýslumaður var mjög var um sig.
Hvort sem þessi umsát hefir verið ímyndun ein eða ekki, var hún honum hið mesta áhyggjuefni og gerði hann lengi sinnulausan um margt það, sem honum bar að hafa auga á.
- En allar þessar öldur harma og hrellinga brotnuðu fyrir bæ utan á Stóruborg. Þar bjó friður og gleði, - friður og gleði ástarinnar.
Tvö yndisleg sveinbörn prýddu og glöddu heimilið. Annar sveinninn var farinn að ganga. Hinn var enn þá í reifum.
Sambúð þeirra Hjalta og Önnu var fyrir löngu hætt að hneyksla nokkurn mann á heimilinu.
Allir skildu það vel, að Anna gat ekki fengið samþykki Páls bróður síns til að giftast pilti eins og Hjalta, - svo langt fyrir neðan hana að auði og ættgöfgi. Henni kom ekki til hugar að leita slíks samþykkis. En án þess gat hún ekki fengið nokkurn prest á landinu til þess að gefa sig og Hjalta saman í hjónaband. Slíkt hjónaband var ólöglegt, og þá eins gott að vera alveg án þess.
En djarflegt var tiltæki hennar, það játuðu allir, og henni einni líkt. Ekki var heldur verið að fara með þetta í neina launkofa.
Heimilislífið hafði stórbatnað. Húsmóðirin var síglöð og ánægð og góð við alla. Hjúin og landsetarnir virtu hana og elskuðu miklu meira en áður.
Ástin gerði hana glaða og sæla, og síðan börnin fæddust, var sífellt sólskin og yndi í kringum hana.
Hjalti var líka orðinn allur annar maður.
Hann hafði vaxið og þroskast svo fljótt, að nærri því sætti undrum. Hann var enn ekki nema um tvítugt, en samt leit út fyrir, að hann hefði náð fullum líkamsþroska. Og í dagfari var hann þroskaður langt yfir aldur fram.
Nú voru þeir dagar löngu liðnir, að hann hefði yndi af að storka heimilisfólkinu eða hreykja sér af dálæti húsmóðurinnar. Nú var hann ljós á heimilinu. Hann hélt að vísu við íþróttum sínum, en lagði jafnframt stund á aðrar nýjar.
Hann var orðinn manna best skrifandi og skrifaði upp gamlar bækur, sumar á kálfskinn, eins og gert hafði verið í gamla daga, en sumar á pappír, sem nú var óðum að ryðja sér til rúms. Hann dró upphafsstafi framan í kapítula handritanna með frábærum smekk og hugvitssemi, og allur frágangur á handritum hans var hinn prýðilegasti.
Flestar þessar bækur voru hetjusögur fornaldarinnar. Þær urðu honum sá heimur, sem hugur hans reikaði langoftast í. Þar fann hann þá menn, sem hann feginn vildi líkjast. Og þar fann hann konur, sem Önnu svipaði mikið til, - konur, sem elskuðu fram í dauðann, konur, sem ríktu eins og drottningar, konur, sem ekki létu hlut sinn fyrir neinum.
Jafnframt lagði hann stund á hagleik. Anna lét gera honum smíðahús við bæinn, þar sem hann gat stundað smíðar, þegar honum sýndist. Þar smíðaði hann marga fagra og fáséna gripi, bæði fyrir hennar bú og annarra. Búið á Stóruborg smáyngdist upp í höndunum á honum.
En margsinnis tók hann kærustu smíðisgripina sína inn með sér á kvöldin og sat með þá í svefnlofti Önnu.
Því að skurðarhagleikurinn var það, sem hann langaði mest til að iðka, og í þeirri hagleiksgrein tók hann brátt öllum öðrum fram.
Hann var ætíð glaður og góður, einlægur og áhyggjulaus, - hreinn og hlýr, eins og vorhiminn. Hann elskaði Önnu og elskaði börnin af öllu hjarta sínu, og fyrir hana og þau vildi hann allt vinna. Og hann treysti Önnu og varpaði öllum áhyggjum sínum á hana.
Anna var líka sæl í ást sinni, en hún var þó ekki eins sæl. Hún gleymdi sér ekki í sælunni á sama hátt og Hjalti. Ætíð stóð á bak við gleði hennar eitthvað kalt og hart, eitthvað ógnandi og glottandi, sem starði á hana. Það var hugsunin um bróðurinn. Einhvern tíma yrði hún að standa fyrir máli sínu við hann. Frestað gæti því orðið, en ekki hjá því komist.
Slíkum áhyggjum vildi hún ekki hlaða á Hjalta, meðan hjá því yrði komist.
- Eitt kvöld sat Hjalti í svefnloftinu hjá henni og skar út rúmfjöl úr harðri og valinni rauðeik.
Börnin sváfu bæði, en Anna sat enn þá undir yngra barninu.
"Lofaðu mér að sjá, hvernig þér gengur," mælti Anna. "Ertu kominn langt?"
Hjalti færði sig með fjölina til hennar og settist þar á kistil.
"Mér gengur ósköp seint," sagði hann.
"Kærðu þig ekkert um að flýta þér. Það er mest um vert, að verkið verði fallegt."
"Já, það er satt. Ég er líka alltaf að hugsa um þetta dag og nótt og velta því fyrir mér, hvernig það eigi að vera."
"Og hvernig hefirðu hugsað þér það?"
"Það er svo skammt á veg komið enn þá, að ég er hræddur um, að ég geti ekki gert þér það skiljanlegt."
"Reyndu."
"Með báðum brúnunum eiga að liggja strengir með bandaletri. En ég veit ekkert, hvað ég á að setja í þá. Það verða að vera einhver falleg vers. Þú verður að hjálpa mér til að velja þau."
Anna brosti.
"Þú verður að yrkja þau sjálfur."
Hjalti leit á hana stórum augum.
"Það get ég ekki. Ég hefi aldrei reynt að yrkja."
"Reyndu það. Ég trúi því illa, að augun þín fögru séu ekki skáldaugu. Og mér þætti helmingi vænna um fjölina, ef versin á henni væru eftir sjálfan þig. Og þá geturðu líka haft þau mátulega löng."
Hjalti roðnaði ofurlítið:
"Ég sker í kringum böndin og læt þau svo bíða fyrst um sinn."
"Já, gerðu það."
"Svo verða þrír reitir með rósasveigum umhverfis. Í miðreitnum verður María með barnið. Sko, hann er það eina, sem dálítið lag er komið á hjá mér."
"Já, það þekkist vel. Ég er María, og barnið er Mangi litli."
"Nei, Anna," mælti Hjalti og blóðroðnaði.
Anna tók um höfuð hans og hallaði því upp að sér og barninu.
"Vertu ekki feiminn, elskan mín. Mörg hundruð Maríumyndir eru til, og engin þeirra líkist annarri. Það er ekki von, því að hver þeirra um sig líkist þeirri stúlku, sem listamaðurinn hefir haft í huga, þegar hann gerði myndina. Og ég veit, að engin stúlka er í þínum huga, nema ég. Það sýnir líka myndin."
Hjalti varð rórri við þetta, eins og barn, sem eitthvert leyndarmál hefir komist upp fyrir, en fær blíðuatlot í staðinn fyrir ávíturnar eða hláturinn, sem það átti von á.
"Haltu áfram, vinur minn. Hvað á að verða í hinum reitunum?"
"Í reitinn vinstra megin hafði ég hugsað mér að setja eirorminn, sem hengdur var upp á eyðimörkinni."
"Það líkar mér vel. Eirormurinn er tákn vonarinnar, tákn fyrirheitisins. "Konunnar sæði skal sundurmola höggormsins höfuð." Svoleiðis minnir mig fyrirheitið hljóði. En konunnar hlutdeild í lífinu og arfur hennar til næstu kynslóðar er kærleikurinn. Og það er kærleikurinn, sem á endanum sundurmolar höggormsins höfuð. - En hvað á að vera í þriðja reitnum?"
"Ég veit það ekki enn þá."
"Má ég nú ekki kjósa mér mynd í þriðja reitinn?"
"Jú, elskan mín. Kjóstu þér mynd."
"Ég kýs mér þá Símeon í musterinu, þar sem hann heldur á Jesúbarninu og María stendur hjá honum."
"Hvers vegna kýstu það?"
"Hann segir við Maríu: Sverð mun sál þína gegnum þrengjast."
Þau þögnuðu bæði. Anna horfði á sofandi barnið í fangi sínu, og tárin komu fram í augun á henni. Svo bætti hún við:
"Kærleikurinn sigrar ekki heiminn, nema brjósti því, sem hann ól, blæði til ólífis."
Hjalti lagði frá sér fjölina, kraup niður við hlið Önnu og faðmaði hana að sér.
"Það gengur eitthvað að þér, elskan mín!"
Anna tók vel blíðu hans og svaraði glaðlega:
"Nei, það gengur ekkert að mér. Við lifum í gleði og friði, - kannske helst til mikilli gleði og miklum friði. En seinna koma stormarnir og harðviðrin. Ég er sterk og hraust; ég er fær um að þola dálítið. Og ég sleppi þér ekki, því að ég elska þig svo heitt."
2. HEIMSÓKN BRÓÐURINSAuðvitað hafði það borist Páli sýslumanni á Hlíðarenda til eyrna, hvað gerðist á Stóruborg.
Hann gaf sig lítið að fréttinni í fyrstu. Þetta mál var ekki háskalegt. Um þær mundir var annað, sem hafði tekið hug hans miklu fastari tökum. Það var umsát Norðlendinga.
Hann gat vel unnt systur sinni þess að smakka ofurlítið á þessum forboðnu eplum. Hann treysti því, að hún hefði vit fyrir sér.
Það var engin dæmalaus nýlunda á þeirri öld og þar á undan, að ógiftar stúlkur af ríkum og mikilsvirtum ættum ættu börn, stundum heima í föðurgarði. Það var breitt yfir það, eftir því sem hægt var. Börnin voru send langar leiðir í burtu og alin þar upp, eða vinnukonan látin leggjast á sæng og kallast móðirin. Barnsföðurnum var skákað eitthvað út á landshorn. Svo fyrntist yfir þetta, og hinar ríku heimasætur voru giftar burtu sem "hreinar meyjar".
Fall Önnu sakaði ekki mikið. Mest var um það vert, að því væri haldið í stórmennastíl. Ef hún væri eftir sem áður útgengileg til gjaforðs meðal þeirra manna, sem hann vildi kjósa sér að mágum, var henni þessi synd vel fyrirgefandi.
En Anna hélt ekki fallinu í stórmennastíl. Hún sendi ekki barnið frá sér og ekki barnsföðurinn heldur. Hún ól barnið upp sjálf og bjó með barnsföðurnum. Það var dæmalaust hneyksli meðal fólks af hennar tagi.
Og þegar börnin voru orðin tvö og farið að hvísla um, að það þriðja kynni að vera á leiðinni, þóttist sýslumaðurinn á Hlíðarenda ekki geta setið hjá lengur.
Hann varð að tala alvarlega yfir höfðamótunum á systur sinni.
- - Anna hélt njósnum fyrir um ferðir hans og var vel við komu hans búin.
Hún faldi Hjalta í brimhelli niður við sjóinn. Henni fannst tæplega á það hættandi að hafa hann í bænum.
Sjálf bjó hún sig besta skarti sínu og bar mikið kvensilfur. Börnin voru einnig prýðilega búin.
Í svefnlofti hennar töluðust þau systkinin við, en sveinar sýslumanns biðu í skálanum.
Sýslumaður var styggur í máli og þungbrýnn. Anna var glöð og brosandi og fitlaði við agnus dei, sem hún bar í silfurfesti um hálsinn. Svipur hennar bar vott um kalda þverúð og einbeittan vilja, en leyndi því þó ekki, að hún var dálítið óróleg.
"Hver á þessi börn?" spurði sýslumaðurinn þóttalega.
"Ég á þau."
Svarið var svo hógvært og ósvífið, að sýslumanni hnykkti við. "Og hver er faðir þeirra?"
"Hann heitir Hjalti."
"Það er svo. Og hann á þá víst líka - - -?" Hann hikaði og þagnaði.
"Já, - hvað heldurðu? Ég girnist engin mannaskipti."
Sýslumaður hvessti á hana augun.
"Og þú skammast þín ekki!"
"Fyrir hvað? - Fyrir börnin? Þau eru falleg og yndisleg. Ég get ekki óskað mér efnilegri barna."
"Veistu, hvað þetta er kallað á máli heiðvirðra manna?"
Anna hló kuldalega. Svo opnaði hún dyrnar og kallaði á vinnukonu til að taka við börnunum. Hún vildi ekki láta þau heyra meira af þessu samtali, jafnvel þó að þau skildu ekkert í því. Enginn vissi, hver orð kynnu að falla, og illt þá, að þau féllu yfir höfðum saklausra barna.
"Það er kallaður frillulifnaður," mælti sýslumaðurinn harðlega.
Anna rétti úr sér og strauk hárið frá gagnaugunum. Hún var holdug, en þó föl í andliti og svo svipmikil og sköruleg, að bróður hennar stóð geigur af henni.
"Ég veit, hvað þið karlmenn eruð vanir að kalla það. Þið gangið ekki strangt í reikning við sjálfa ykkur, þó að þið eigið fáeina krakka á undan hjónabandinu, - og svo fáeina í hórdómi eftir það. Við, vesalings konurnar, erum grýttar fyrir sömu syndirnar, sem þið stærið ykkur af. - Ég væri gift Hjalta fyrir löngu, ef ég væri sjálfráð að giftingu minni."
"Svo -?"
"Já. Heiðvirð kona giftist þeim manni einum, sem hún elskar. Fái hún ekki að giftast honum, tekur hún hann í faðm sér, hvað sem hver segir, og sleppir honum ekki. Hitt eru skækjurnar, sem láta selja sig - fyrir auð og metorð, eða fyrir hagsmuni ættingja sinna."
Sýslumaðurinn horfði á hana um stund. Svo mælti hann, og röddin titraði af þungri sorg:
"Hvers vegna gerðirðu þetta, Anna?"
Anna sefaðist nokkuð við þetta og leit niður fyrir sig.
"Hvers vegna mátti ég ekki gera það? Hvers vegna má ég ekki lifa samkvæmt mínum eigin tilfinningum og tilhneigingum? Hvers vegna þurfum við, systurnar, að vera háðar vilja ykkar, bræðra okkar, í öllum greinum?" -
"Þú varst laukur ættarinnar, Anna. Mér þótti vænna um þig en hinar systurnar. Ég hélt þú værir mest manneskjan af okkur öllum, systkinunum. Hvers vegna hefirðu gert þetta?"
"Mig langaði til að giftast. Það er boð eðlisins."
"Þér buðust nægir biðlar, - efnaðir menn af góðum ættum. Þú gast valið um bestu biðla landsins."
"Mér buðust nægir biðlar," mælti Anna og leit hvasst á hann. "En hvernig voru þeir biðlar? Þeir voru ríkir; það er hverju orði sannara. Þeir gátu lagt til búsins tvo þriðjunga á móti mér, og sumir miklu meira. Þeir voru af þessum svokölluðu góðu ættum, sumir meira að segja frændur mínir. En hvernig voru þeir að öðru leyti? Enginn þeirra var óspilltur maður. Enginn þeirra hafði neitt að bjóða mér, sem hann hafði ekki gefið mörgum öðrum stúlkum áður. Enginn þeirra átti blíðuorð til að hvísla í eyrað á mér, sem hann hafði ekki áður eytt í eyrað á annarri stúlku, kannske einhverri sótugri eldabusku. Þessa slitnu og máðu skrautgripi átti ég að hirða!"
"Þú hafðir skyldur gagnvart ætt þinni. Þú varst skyldug til að hefja sóma hennar, vald hennar og vegsemd með giftingunni og halda við auði hennar...."
"Það er að segja, því sem eftir var af honum," greip Anna fram í og hló við. - "Þarna kom það, sem ég beið eftir að fá að heyra! Ég átti að láta versla mér burt fyrir silfur og gull og nokkur hundruð í jörðum! Ég átti að styrkja vald þitt og afl á alþingi, með því að útvega þér einn mág! Ég átti með mágsemdinni að styrkja þig, bróður minn, sýslumanninn á Hlíðarenda, svo að þú gætir því öruggari dregið undir þig fé með réttu og röngu, farið með ránum, vígaferlum, jafnvel níðingsverkum, eins og feður okkar hafa gert í marga liði - ha-ha-ha-ha-hæ! Vegleg staða að vera systir sýslumannsins á Hlíðarenda!"
Páll var dökkur í framan af reiði, en stillti sig.
"Láttu feður okkar liggja ósvívirta í gröfum sínum."
"Ég hefi einurð á að segja satt um feður mína."
"Þeir mundu bylta sér í gröfum sínum, ef þeir vissu um frillulifnað þinn."
"Látum þá bylta sér! Þeir sjá þá ekki nema það, að einn kvenmaður í ættinni hefir dug til að drýgja syndir þeirra sjálfra. - En víkjum aftur að mægðunum, sem ég átti að afla þér. Hvernig hefði farið, hefði ég tekið einhverjum af þessum fagurbúnu, hálfútlifuðu ræflum, sem þér þóknaðist að senda heim til mín með bónorð? Þú þekkir skapið mitt, Páll...."
"Hann hefði tamið þig."
"Nei, Páll. Til þess er ég of skyld Hólmfríði ríku í Dal. Það hefði enginn karlmaður orðið öfundsverður af því að temja mig. Og ertu þá viss um, nema ég hefði aflað þér óvinar með mágsemdinni? Það gengur ekki ætíð þrætulaust að skilja hjón á þessu landi. Ertu viss um, nema ég hefði orðið þér þung í skut, hefðir þú færst undan að sinna málum mínum? - Þakka máttu guði, að ég ræð mér sjálf til þessa dags."
"Og það kannske líka, að þú ert orðin skammarflekkur á ætt minni!"
Anna beit á vörina.
"Það er þér að kenna, ef svo er. Leyfðu mér að giftast Hjalta og gera börnin arfgeng. Þá er allt gott!"
"Aldrei, aldrei að eilífu!"
"Hjalti hefir alla kosti umfram þessa menn, sem þú hefir boðið mér fyrir biðla. Hann er fegri en þeir, hraustari og karlmannlegri, gáfaðri og tryggari. Í einu orði sagt: Hann er betur af guði gefinn bæði til sálar og líkama. Og hann er óspilltur. Hann hefir alla kosti fram yfir þá - nema einn. Hann vantar fé, - fé, þetta auðvirðilega safn af alls konar munum, dauðum og lifandi, sem ekki má án vera að vísu, en engan mann gerir sælan. Og þessa auradyngju ætla ég að leggja félagsbúi okkar til. Annars hefir hann alla - alla kosti, sem mann mega prýða, fram yfir ykkur, höfðingjana og höfðingjasynina."
"Ættgöfgina - auðvitað - líka!"
"Ættgöfgina, ha-ha-ha! Ættgöfgina, ja, ég held það geti vel verið. Hver veit, hvar öll börn höfðingjanna eru niður komin? Hjalti gæti vel verið sonur hirðstjóra, biskups, lögmanns eða stórbónda. Hann gæti verið prins. - Ég veit ekkert hverrar ættar hann er. Hann er ekki fæddur í hjónabandi. Faðir hans, sem kallaður var, drukknaði við Vestmannaeyjar sama árið og hann fæddist. Móðir hans varð úti frá Eyvindarhólum. Ertu nokkru nær um ættina? Ég er það ekki. Ég veit það eitt, að oft fæða hraustar og fríðar almúgastúlkur höfðingjunum fegri og efnilegri börn en konur þeirra geta fætt, - stúlkur, sem lagðar eru í sæng þeirra á yfirreiðum - mér liggur við að segja: ránsferðum - þeirra, - saklausar, óspilltar stúlkur, teknar grátandi, oft nauðugar, en gefa svo afkvæminu líf sitt og blóma, leysa það með heilsu sinni frá eymd og spillingu föðurins, næra og glæða það góða, sem það kann að hafa erft, og verja öllu lífi sínu í fátækt og fyrirlitningu til að halda þessu verki áfram. Hver veit nema Hjalti sé þannig til kominn? Hann er ekki fæddur af höfðingja-konu, svo mikið er víst. Hann er ekki fæddur af útslitinni móður af gremju og hugarstríði yfir svívirðingum mannsins síns, útpíndri, útþrælkaðri, kannske barinni og sparkaðri, - móður, sem kannske hefir horft upp á það og hlustað á það alla ævi, fyrst í föðurgarði, síðan í húsfreyjustöðunni, sem hverju kveneðli er ofboðið með. - Nei, Hjalti er af betri ættum en þið, sem þykist meiri menn en hann."
Páll sýslumaður þagði. Þetta tal gekk alveg fram af honum.
Anna hélt áfram með vaxandi ákefð:
"Líttu á þessa rúmfjöl! Hún er ný, líttu á! Hvert hnífsbragð á henni er skínandi hreint. Hver af biðlunum, sem þú sendir mér, hefði getað unnið þetta snilldarverk? Hefðir þú getað það sjálfur? Gulli og silfri hefðu þeir getað hlaðið utan á mig, en slíkan grip hefði enginn þeirra getað gefið mér frá eigin hendi. Þessi gripur verður til, þegar við erum öll dauð og gleymd og niðjar okkar þurfa að lesa langar ættartölur til að finna okkur. Þessi gripur verður til aðdáunar um margar aldir. Lestu versin, sem eru utan með myndunum! Þau eru til mín. Nafnið mitt er bundið í þeim báðum. Líttu á madonnu-myndina! Kannastu við svipinn? Madonna, madonna! Ég er madonnan hans! Þetta er dýrasti pantur ástar karlmanns á kvenmanni, sem til er á Íslandi. - Hjalti, vesalings Hjalti! Elsku Hjalti! - Ég tók hann að mér sem umkomulausan og vanhirtan smaladreng. Ég er faðir hans og móðir hans. Allt á hann mér að þakka. Og nú er ég konan hans."
Sýslumaðurinn spratt á fætur.
"Hvar er Hjalti?" spurði hann.
"Hvað viltu honum?" Anna fölnaði upp sem snöggvast.
"Hvar er Hjalti? Ég vil fá að sjá hann."
"Þegar þú hefir gefið mér leyfi til að giftast honum, skaltu fá að sjá hann."
"Hvar er Hjalti? Segðu mér það."
"Ég hefi falið hann. Ef þú heitir honum griðum að viðlögðum drengskap þínum og handsalar mér þau að viðstöddum vottum, skaltu fá að sjá hann."
"Það geri ég ekki."
"Þá færðu ekki að sjá hann í þetta skipti. Það er ekki til neins fyrir þig að leita. Þú finnur hann ekki."
Páll horfði á Önnu um stund og spurði síðan:
"Elskarðu Hjalta í raun og veru svona mikið?"
"Já, ég elska hann af öllu hjarta mínu. Og ég þakka guði fyrir, að hann hefir gefið mér þrek til að elska svo heitt. Ég er þá ekki úrkynjuð með öllu."
"Hvar er Hjalti? Ég vil fá að sjá hann!"
"Þú sást börnin hans áðan. Þau líkjast honum."
Sýslumaðurinn brýndi röddina:
"Hvar er Hjalti? Ég skipa þér að sækja hann!"
"Hvað ætlarðu að gera með hann?"
"Ég ætla að drepa hann fyrir augunum á þér. Það er eina lækningin, sem dugar."
Anna hló storkunarhlátur.
"Það gerir þú ekki að þessu sinni."
Sýslumaður brá sverðinu og sýndi henni það nakið.
"Þetta er sverð Erlends lögmanns Þorvarðssonar . . . ."
"Sem hann drap mág sinn með í karldyrunum í Viðey," greip Anna fram í.
Það kom dálítið hik á sýslumann.
"Þess betur er það til þess fallið að sníða svívirðu af ættinni. Sverðið krefst uppreistar. - - - Ég sver við þetta sverð...."
"Níðingssverð -!"
"Ég sver við þetta sverð að drepa Hjalta, hvar sem ég næ honum."
"Og ég sver við allt, sem mér er heilagt, ég sver við guð á himnum, að verja Hjalta fyrir þér. Og getir þú drepið hann, þá skal ég hefna hans. Mundu eftir því, að ég er ekki einungis systir þín, heldur einnig bróðurdóttir Hólmfríðar í Dal. Systkinadeilurnar eru ekki horfnar úr ættinni. Stórhögg þótti pabba hún stundum, en ekki mun ég höggva smærra, ef til kemur."
Sýslumaður horfði á hana með hálfgerðu ofboði. Síðan gekk hann fram á loftskörina og kallaði hátt:
"Leitið þið, sveinar, um allan bæinn að Hjalta Magnússyni og færið hann hingað!"
Anna kallaði líka:
"Leitið þið, leitið þið, sporhunda-grey! Hjalta skuluð þið aldrei finna! - Og ef þið finnið hann; skuluð þið verða strádrepnir niður."
FJÓRÐI ÞÁTTUR
1. DÓMURINN
Málið var hið versta viðfangs.
Gæðingar sýslumannsins, þessir sex útvöldu, sem dæmdu með honum alla dóma í héraði, voru í mestu vandræðum með það.
Auðvitað varð eitthvað að gera.
Til voru gömul og góð lagaákvæði um það, hvað við því lá, ef maður flekaði mey af góðum ættum til óskírlífis og spillti þannig sóma hennar. "Dándismanna"-dæturnar voru þar talsvert rétthærri en aðrar meyjar.
En það var eitthvað fámælt um það í lögunum, hvað við því lægi, ef slík tiginborin mey flekaði ungan pilt til hins sama. Löggjafarnir höfðu helst til lítið gert ráð fyrir því, að þær kynnu að eiga upptök slíkra hluta.
En nú stóð einmitt svo á. Vesalings dómararnir voru allir sannfærðir um, að Hjalti væri í raun og veru saklaus í þessu máli. Anna bæri alla sökina.
En hvernig áttu þeir að fara að dæma hana? Systur sýslumannsins!
Nei, auðvitað urðu þeir að dæma Hjalta. Hann var þó að minnsta kosti sekur líka. Dæma af honum allt fé, - hann átti ekkert. - Dæma hann fjórðungsrækan, dæma hann landrækan, dæma hann til húðláts eða limlestinga, kannske dæma hann af lífi. Það fór allt eftir því, hvað sýslumaðurinn gerði sig ánægðan með. Án hans samþykkis var dómurinn enginn dómur.
Hjalta var stefnt hátíðlega fram fyrir þennan dómstól, til að standa fyrir máli sínu. En hann fannst hvergi, þegar birta átti honum stefnuna. Önnu var stefnt líka, en hvorugt þeirra kom.
Nú, þeir urðu þá að dæma dóminn eins og sýslumanninum þóknaðist að hafa hann. Hann var hvort sem er ekkert annað en handaþvottur, svo að einu mátti gilda, hvernig hann hljóðaði.
Líklega mundi sýslumaður hugsa sig tvisvar um, áður en hann færi með slíkan dóm til lögréttunnar og legði hann undir úrskurð þeirra Odds Gottskálkssonar og Eggerts Hannessonar, lögmannanna, og allra lögréttumannanna. Búast mætti við brosi á þinginu því.
Auk þess hafði hann ýmsum öðrum hnöppum að hneppa í viðskiptunum við þessa háu herra. Þar var ekki allt sem sléttast og felldast.
En þó að honum kynni nú fremur að standa beygur af lögmönnunum og lögréttunni, vissu þeir vel, að honum stóð enn þá meiri beygur af Önnu systur sinni.
Svo dæmdu þeir eins og hann vildi.
Á þriggja hreppa þingi, sem haldið var í Steinahelli undir Austur-Eyjafjöllum, var dómurinn birtur almenningi.
Menn höfðu frétt, hvað til stæði, og fjölmenntu þangað.
Málið var nú orðið almenningseign fyrir löngu, og almenningur var búinn að fella sinn dóm í því.
Anna var orðin hálfgerð gyðja í augum alþýðunnar. Hún hafði stigið niður úr hæðum auðs og vegsemdar og tekið sér mann úr hennar flokki. Hún hafði þeytt af sér öllu þessu drambi og glysi og lifði eins og manneskja eftir sínum eigin tilhneigingum. Fyrirlitning sú, sem hún sýndi mikillæti bróðurins, var sem gripin út úr hjarta alþýðunnar.
Nú voru það ekki einungis heimamenn hennar og landsetar, sem elskuðu hana og virtu, heldur öll sveitin. Hugir allra og heillaóskir fylgdu henni í baráttunni fyrir ást hennar.
Hellirinn var þéttskipaður mönnum, sem stóðu í líðandi brekku, sem var á hellisgólfinu. Sýslumaður stóð við borð frammi við dyrnar og las upp dóminn.
Hann var klæddur riddarabúningi sínum með pansara undir kápunni. Sverðið hafði hann lagt á borðið hjá sér.
Hjalti var gerður útlægur úr héraðinu. Hver, sem hitti hann, var skyldaður til að grípa hann og færa hann sýslumanni. Hver, sem vanrækti þetta eða veitti Hjalta nokkrar bjargir, var fallinn í sömu sektina og hann sjálfur.
Sýslumaður leit yfir hópinn, sem stóð jafnhækkandi í hellinum fyrir innan hann. Öll andlitin sneru á móti birtunni, en birtan fór smádvínandi, eftir því sem innar kom, og innst var nærri því myrkur.
Hann sá það vel, að hver einasti maður hélt niðri í sér hlátrinum. Hann heyrði meira að segja ískrið í sumum. Hann sá olnbogaskotin, sem menn gáfu hverjir öðrum, og heyrði suðuna af hljóðskrafinu.
Hann dökknaði í framan af reiði. En hvað gat hann gert?
Ekki meira að þessu sinni. Hann sleit þinginu og gekk snúðugt út úr hellinum. Sporarnir hans glömruðu reiðulega.
Á eftir honum kom allur hópurinn. Hann dreifðist í allar áttir, skellihlæjandi.
Anna var ekki í hellinum. En hún frétti samdægurs, hvað þar hafði gerst.
Hún tók fréttinni rólega. Hún vissi, að við þetta mundi nú sitja að sinni.
Og svo varð.
Ár liðu án þess nokkuð bæri til tíðinda. Hjalti var var um sig, en þó að jafnaði heima á Stóruborg.
En nálægt því, sem Anna ól fjórða barnið, varð Páll bróðir hennar lögmaður sunnan- og austanlands.
Þá vissi hún, að ofsóknirnar mundu byrja fyrir alvöru.
2. VIÐBÚNAÐUREinn dag um sumar reið Anna að heiman með einn vinnumann til fylgdar. Engum sagði hún heima, hvert ferðinni væri heitið eða hvert erindið væri.
Hún reið beint sem leið liggur út að Hvammi. Sá bær er undir Útfjöllunum, sem kallað er. Þar er núpur geysihár yfir bænum. Eru klettar hið efra, en brattar hlíðar og grösugar ofan að bænum. Hvammurinn er opinn gegn suðri, og er bæjarstæði þar hið fegursta.
Við túngarðinn hitti Anna húsbóndann sjálfan. Hann var þar með vinnumönnum sínum og hlóð upp kvíavegginn.
Hann hét Sigvaldi, og nágrannarnir kölluðu hann í góðlátu skopi Sigvalda blíðalogn. Kyrrðin og rósemin, sem ætíð var yfir honum, hafði orðið orsök til þessa auknefnis. Hann heyrði þetta nafn oft, en gerði ekki annað en brosa að því.
Sigvaldi var mikill maður vexti og ramur að afli. Ljós var hann á hár og skegg og bjartur yfirlitum, þykkleitur og allsvipmikill, þrátt fyrir allt "blíðalognið". Fáskiptinn var hann með afbrigðum og lítið við héraðsmál riðinn. Aldrei hafði hann í deilum staðið, og engan átti hann sér óvin. Hann var efnaður maður, sjálfbjarga og sjálfstæður, upp á engan kominn, og líf hans rann áfram í eins konar blessuðu friðsemisblíðalogni, mitt í ólgu og ókyrrð aldarinnar.
Þennan mann taldi Anna vera þann eina mann í sveitinni, sem hún gæti treyst að fullu.
Hún reið til Sigvalda, þar sem hann var að verki sínu, og heilsaði honum kunnuglega. Sigvaldi tók varla undir kveðju hennar, en leit við henni brosandi, hálfeinfaldlega.
Anna fór að spyrja sjálfa sig, hvort hún hefði nú gert rétt, að fara til þessa manns, og hvort hún ætti að halda erindinu áfram. Henni sýndist hann svo sauðarlegur, - miklu sauðarlegri en hún hafði séð hann nokkurn tíma áður.
Hún sat kyrr á hestinum og hugsaði um þetta, þar til Sigvaldi gekk til hennar og spurði, hvert ferð hennar væri heitið.
"Hingað," mælti hún glaðlega.
"Þá má ég vonandi hjálpa þér af baki."
"Ég þakka fyrir," mælti Anna og þáði hjálpina.
"Og hvert er erindið?"
"Kaupa af þér Hvamm," mælti Anna brosandi.
"Ekki er það lengi gert," mælti Sigvaldi með uppgerðaralvöru.
"Ég hafði þarna kaupvott með mér, ef ganga skyldi saman með okkur. Hinn kaupvottinn átt þú auðvitað að leggja til."
"Einhver ráð verða með það."
Fylgdarmaður Önnu og vinnumenn Sigvalda litu hvorir á aðra. Þeir trúðu þessu.
"Er þá ekki best, að við komum inn í bæinn til að koma okkur saman um jarðakaupin?" mælti Sigvaldi með sömu blessaðri hægðinni og áður.
"Ekki inn í bæ. En á einmæli vildi ég gjarnan fá þig."
"Jæja, þá skulum við koma hérna upp að brekkurótunum. Gerir það nokkuð til, þó að hamrabúarnir heyri til okkar?"
"Nei, tröllin eru trygg og okkur vinveitt, nábúum sínum."
"Ojæja, stundum."
Uppi við brekkuræturnar settust þau niður.
"Það er vandamál og trúnaðarmál, sem ég hefi að tala um við þig," mælti Anna.
"Mig grunaði, að svo væri."
Anna horfði fast á hann. Henni fannst sauðarsvipurinn hverfa alltaf meira og meira, en undir "blíðalogninu" birtast djúp spaklegrar hugsunar og öruggrar einlægni.
"Ég þarf að leita ráða og ásjár til þín."
"Það er mér óvæntur heiður. Það gera ekki margir, sem betur fer. Þeir treysta ekki "blíðalogninu"! Hætt er líka við, að ráðin mundu fljótt þrjóta og ásjáin verða lítils virði, ef margir þyrftu á slíku að halda."
"Því betur, sem færri leggja sporin heim til þín í slíkum erindum. Þú veist, að ég hirði ekki um troðna vegi."
Sigvaldi þagði um stund og hugsaði.
"Það er um Hjalta, sem þú vilt tala við mig," mælti hann.
"Já, það er um Hjalta."
"Mig grunaði það undireins."
"Sérðu nokkur sköpuð ráð?"
Sigvaldi þagði lengi og var hugsi.
"Ég veit ekki," mælti hann loks. "Ég hefi lítið um þetta hugsað."
"En þó ofurlítið?" Anna fór að verða forvitin.
"Já, ofurlítið. Ég vissi, að þú mundir koma."
"Hvernig vissirðu það?"
"Ég veit það ekki. Það var eins og mér væri sagt það."
Anna horfði á hann hálfforviða. Enginn dráttur hreyfðist í svip hans. Það var sama lognið sem ætíð. En undir þessu logni bjó eitthvað meira en hún vissi.
"Þú treystir þér ekki til að halda hann heima."
"Bróðir minn er orðinn mér of voldugur."
"Já, auðvitað."
"Getur þú tekið við honum og geymt hann fyrir mig?"
Sigvaldi hristi höfuðið.
"Nei, því er nú miður. Það get ég ekki. Bær minn liggur í þjóðbraut. Hjá mér gæti hann ekki leynst. Og mig skortir ríki til að halda hann fyrir bróður þínum, ef hann leitar eftir."
"Það er satt," mælti Anna og stundi við. "En þá er erindi mínu lokið."
Hún ætlaði að standa upp, en Sigvaldi sat kyrr og hugsaði. Hún sá það á honum, að hann átti eitthvað eftir ósagt.
"Þetta getur enginn undir Eyjafjöllum," mælti hann. "Og heima hjá sjálfri þér er honum ekki óhætt heldur. Ég er ekki í minnsta efa um, að hvert mannsbarn í sveitinni mundi vilja leggja þér lið til að verja hann fyrir lögmanni, hver sem eftirköstin yrðu. En sveitin er víðlend, og mönnum verður ekki saman smalað í hendingskasti, þegar til þarf að taka."
Þau þögðu bæði um stund. Anna fann, að hann hafði satt að mæla.
"Ég þekki engan mann á öllu Suðurlandi, sem fær væri um að halda hann fyrir lögmanni," hélt Sigvaldi áfram. "Og norður eða vestur, í umdæmi Eggerts Hannessonar, viltu auðvitað ekki senda hann."
"Nei, það vil ég ekki."
"Einmitt það. Það vissi ég líka."
Aftur varð þögn. Sigvaldi hugsaði sig um.
"Hjalti verður að leggjast út," mælti hann og leit brosandi til Önnu.
Anna hrökk saman. Hún fann, að einhver neisti af alvöru var fólginn í þessu.
"Hvað áttu við?" spurði hún.
Sigvaldi svaraði með sömu hægðinni og áður.
"Ég á við það, að hægra væri kannske að leyna honum einhvers staðar annars staðar en í bæjunum. Hann þarf að vera í byggðinni, en svo um hann búið, að hann geti sama sem horfið í jörðina á einu augnabliki, ef bráðan voða ber að höndum. Hann þarf að vera mitt á meðal okkar daglega, en þó svo, að hann finnist ekki, hvernig sem leitað er í bæjunum. Fólkið þarf að geta svarið með góðri samvisku, að það viti ekkert um hann, þótt það sjái honum bregða fyrir daglega. - Þetta eru nú mín ráð."
"Hvernig má þetta verða?" spurði Anna forviða.
"Viltu koma með mér til næsta bæjar?"
"Já, það vil ég. Hvern ætlarðu að hitta?"
Sigvaldi brosti drýgindalega.
"Púka í mannsmynd ætla ég að hitta. Þér veitir ekki af að herða upp hugann. En í svona máli ber ekki að hafna því liðsinni, sem púkar geta veitt. Er ekki sama, hvaðan gott kemur? Og þessi púki heimtar ekki veð í sálinni, - þó að hann kunni að vilja hafa eitthvað fyrir snúð sinn."
"Við skulum hitta hann," mælti Anna og hló við.
3. HELLIRINNAnna gat ekki áttað sig á því í fyrstunni, hver það væri, sem Sigvaldi ætti við og nefndi púka. En þegar þau voru komin á leiðina og hún sá, hvert ferðinni mundi vera heitið, datt henni einnig maðurinn í hug.
"Er óhætt að treysta honum?" mælti hún.
"Honum Steini á Fit!" mælti Sigvaldi og brosti drýgindalega. "Já, Steini á Fit þori ég vel að treysta. Hann kann að svíkja aðra, en hann svíkur mig ekki."
Þau riðu nokkra stund þegjandi, og Sigvaldi sá það á Önnu, að henni var ekki allur ótti horfinn við það að eiga trúnaðarmál sitt undir þessum manni.
"Steinn á Fit," mælti hann, "er einn þeirra manna, sem fáir þekkja. Hann er vanastur því, að menn hati hann og fyrirlíti, hæði hann og uppnefni, en fáir virða hann viðlits í því skyni að eiga nokkuð undir honum. Allir menn verða illir og argir á því að mæta aldrei öðru en tortryggni. Ég hefi kynnst karlinum dálítið, síðan ég kom hér í nágrennið við hann, og ég hefi reynt hann að ýmsu. Ég veit, að hann getur verið trúr og dyggur eins og gull, þegar vel er farið að honum, - og hann veit, að til einhvers er að vinna."
"En hvers vegna datt þér hann öðrum fremur í hug einmitt nú?" spurði Anna.
"Já, nú kemur leyndarmálið. Þú veist, að Steinn á Fit er að ýmsu öðru vísi en aðrir menn. Hann er öðru vísi skapaður, öðru vísi lyndur og hefir gaman að ýmsu, sem öðrum þykir lítið út í varið. Jafnframt nurlaraeðlinu er í honum einhver vitund af kattareðli. Hann klifrar eins og köttur um öll björgin hér fyrir ofan okkur. Hvergi er honum ófært. Hann klifrar fram og aftur um hamrana, aleinsamall. Skollinn má vita, hvað hann er að gera. Mér hefir aldrei tekist að hafa það upp úr honum. Oft hefir mér dottið í hug, að hann væri að leita að einhverju fémætu í fjallinu. En á einni af þessum snuðurferðum fann hann helli upp í berginu."
"Helli -?" mælti Anna.
"Já, einn af þessum óteljandi skútum, sem hér eru til og frá undir Eyjafjöllum, en þó þann skútann, sem ber af þeim öllum. Hann sagði mér undireins frá þessum merkilega fundi, því að ef Steinn segir nokkrum manni nokkuð af leyndarmálum sínum, þá hygg ég, að ég sitji þar fyrir öllum. Hann sýndi mér hellinn í tómi, og ég réð honum til að halda fundinum leyndum, því að vel gæti farið svo, að þessi hellir yrði honum engu minna virði en öll jörðin, ef þagnarinnar væri nógu vandlega gætt. Og ég hefi ekki orðið var við, að hann hafi sagt fleirum frá þessu."
"En að hverju leyti er þá þessi hellir svo dýrmætur?" spurði Anna og var enn nokkuð áhyggjufull.
"Að því leyti fyrst og fremst, að mjög lítið ber á honum neðan af jafnsléttu. Engan mann getur grunað, að þar sé neitt óvanalegt. Í öðru lagi af því, að þar er vígi svo gott, að vaskur maður getur varist þar hundrað manns, eða svo mörgum, sem verkast vill, og aldrei orðið unninn. Og í þriðja lagi er þetta rétt við bæinn, auðvelt að búast þar um og auðvelt að hafa þaðan samgöngur við aðra menn."
Anna þagði og hugsaði sig um. Væri þetta allt saman satt, sem hún raunar efaðist ekki um, þá var þessi hellir eins og skapaður handa Hjalta, svo framarlega sem til þess kæmi, að hann þyrfti til slíkra ráða að grípa.
Þegar þau komu heim á Fit, var Steinn bóndi tekinn á einmæli.
Steinn var bróðir Halls grámunks, þótt lítið ræktu þeir frændsemi sína. Enda voru þeir nokkuð ólíkir. Ekki var Hallur fagur ásýndum, en þó var Steinn hálfu ljótari. Hann var lítið meira en dvergur að vexti, og gekk höfuðið ofan á milli axlanna. Skrefstuttur var hann og innskeifur, en þó manna skjótastur á fæti. Munnstór var hann, engu síður en Hallur, en af líkamslýtum hans voru höfuðbeinin nokkuð úr lagi gengin, svo að augun lágu skáhöll og kinnbeinin voru gengin út. Tanngarðurinn lá nokkuð hátt. Skeggið var hýjungur einn, en andlitið þó loðið upp undir augu. Allt gaf þetta andlitinu eitthvert hálfgert rándýrsútlit.
"Viltu taka að þér sakamann?" spurði Sigvaldi hálfglettnislega.
Steinn glápti á hann.
"Sakamann -!" át hann eftir. "Hvað ætti ég að gera við sakamann?"
"Þú ættir að geyma hann, vernda hann, leyna honum og halda hann fyrir ofríki þeirra, sem eftir leituðu."
Steinn hló út að eyrum.
"Sakamann -! Ég að halda sakamann! Ha-ha-ha-ha! Ég hélt, að enginn sakamaður væri til hér undir Fjöllunum sem stendur."
"Þetta er alvara, Steinn minn," mælti Sigvaldi. "Það er satt, að hér er enginn sakamaður undir Fjöllunum sem stendur, enginn sakamaður í þeim skilningi, sem við erum vanir við. Sakamaðurinn, sem ég á við, er Hjalti Magnússon. Þú veist, að lögmaðurinn hefir gert hann útlægan, og þú veist, af hvaða sökum það er. Nú hefi ég sagt þessari hefðarkonu frá hellinum þínum. Viltu heita okkur trúmennsku?"
Anna hélt sér utan við samtalið og lét Sigvalda einan um að færa málið við þennan mann. Hún horfði á þá til skiptis. Dýrbítssvipurinn hafði horfið ofurlitla stund af andlitinu á Steini, en nú var hann að koma aftur. Svipur Sigvalda tók einnig nokkrum breytingum. Hann varð alvarlegri og myndugri, nærri því yfirgangslegur. Hér talaði Sigvaldi með valdi, meira og öruggara valdi en hún hafði haldið, að hann ætti til.
"Ég sagði þér það einu sinni," mælti Sigvaldi, "að vel gæti komið sér fyrir þig að eiga hellinn svo nálægt bænum, ef þú aðeins kynnir að þegja yfir honum. Og það hefirðu vonandi gert?"
"Já, það veit enginn lifandi maður um hann, nema við þrjú, sem hérna stöndum."
"Jæja, gott er það. Þú þarft ekkert að óttast. Engan lifandi mann getur grunað það, að nokkur maður biðji þig fyrir sakamann, ef mönnum er ókunnugt um hellinn. Og þó að svo skyldi fara, að þetta kæmist upp fyrir einhvern klaufaskap, þá máttu treysta því, að þú stendur ekki einn uppi. Allir Eyfellingar standa með þér. Fegnir viljum við komast hjá ófriði, en verði ekki hjá því komist, og eigi nokkur okkar að sæta afarkostum, þá geturðu reitt þig á, að hér standa menn ekki skiptir. Og þarna stendur höfðingi okkar Eyfellinganna."
Anna brosti. En Steinn tvísté í kringum þau og gaf Önnu fremur óhýrt auga.
Sigvaldi hélt áfram:
"Ekki verður heimtað meira af þér en þú ert maður til að uppfylla. Þú átt að annast Hjalta í hellinum, færa honum mat, bera honum boð og bera boð frá honum, annast hestinn hans og hafa hann til reiðu, hvenær sem til þarf að taka; gefa honum merki, þegar einhver hætta er á ferðum, og svo framvegis, eftir því sem nánar verður fyrir þig lagt. Þetta er nú allt saman smáræði. En þú átt að vera heill og óskiptur í þjónustu Hjalta. Lygin og lymskan eru þínir höfuðkostir. Nú áttu að beita þeim sjálfum þér og öðrum til góðs. Þú átt að villa sendimönnum lögmanns sýn, vefjast fyrir þeim, ljúga þá fulla og leiða þá á glapstigu. Þú átt að beita brögðum þínum við lögmanninn sjálfan, ef svo ber undir. Vitgrannur ertu að vísu, en hrekkjavit hefirðu á við hvern mann annan. Ef þú leggur það ekki fram, er hellirinn þér einskis virði."
Steinn var ljótur í framan, meðan hann hlustaði á þessa tölu. En Sigvaldi mælti þetta allt með slíkri hógværð og festu, að hvert orð hitti. Hann hvessti augun á Stein og hélt svo áfram:
"Og ekki skaltu hugsa til að svíkja okkur í tryggðum. Ég þekki þrælslundina í þér. Ég er nágranni þinn, og ég verð þér nánari en nokkurn tíma áður núna fyrst um sinn. Aldrei skal ég af þér líta svo lengi, að þú getir komið nokkrum svikum fram. Daglega skulu augu mín horfa þvert í gegnum þig, daglega skal ég lesa allar þínar leyndustu hugrenningar. Þú þekkir mig, Steinn. Þú veist, hvað búið getur undir "blíðalogninu"! Komist ég að svikum hjá þér, - þá hverfur þú úr sögunni, áður en þú færð komið þeim fram. Hefir þú skilið mig?"
Þögn varð dálitla stund. Steinn stiklaði í kringum Sigvalda, eins og hann væri að leita lags til að bíta hann. Loks kom hann honum fáein skref burtu frá Önnu. Þá teygði hann sig upp að honum og hálfhvíslaði:
"Hvað fæ ég fyrir þetta, ef ég geri það?"
Sigvaldi deplaði augum til Önnu og mælti svo hátt, að hún heyrði:
"Anna hefir gefið Halli bróður þínum hálfa jörð. Ber þér ekki að vera þakklátum fyrir hans hönd?"
Steinn svaraði gremjulega:
"Nei. Hallur bróðir minn getur þakkað fyrir sig sjálfur. Mér er engin þægð í, að honum sé gefin jörð."
Sigvaldi brosti.
"En ef þú skyldir nú eignast hálfa jörðina á móti honum - ?"
Steinn varð grimmari en áður.
"Ég afsegi að eiga jarðarpart á móti Halli bróður mínum."
Sigvaldi og Anna kímdu hvort framan í annað, en Steinn var í versta skapi.
"Áttu jörðina sjálfur, sem þú býrð á, Steinn minn?" mælti Anna.
Steinn varð seinn til svara og glápti á hana hálfhissa.
"Hann á hana hálfa," mælti Sigvaldi. "Hinn helminginn á ég."
"Langar þig ekki til að eignast hana alla?"
"Jú, ég held nú það," mælti Steinn og varð gleiðmynntur í meira lagi. "Mig langar ekki eins mikið til nokkurs skapaðs hlutar."
"Jæja. Sigvaldi selur mér nú sinn part handa þér, ef þetta gengur allt saman vel."
"Ekki lofa ég því að svo stöddu," mælti Sigvaldi glettnislega. En Steinn var orðinn svo glaður, að hann heyrði það ekki.
"Sýndu okkur nú hellinn!" mælti Sigvaldi.
"Já, já. - Það er víst réttara að hafa með sér reipi?"
"Já, auðvitað. Ekki klifrar konan upp í hellinn, án þess að halda sér í eitthvað."
"Auðvitað, auðvitað!" sagði Steinn og trítlaði heim að bænum. Göngulagið var svipaðast gyltu, sem komin er að burði.
"Heldurðu, að óhætt sé að treysta honum?" spurði Anna.
"Já, það þori ég að ábyrgjast," mælti Sigvaldi.
Eftir andartak kom Steinn heiman frá bænum með nýtt hrosshársreipi.
"Það kemur sér illa, ef sakamaðurinn ykkar þarf að nota reipi daglega," mælti hann, og gleðin skein út úr ófríðu andlitinu, "því að ef festin þarf að hanga framan á berginu, getur hún hæglega komið upp um hann."
"Ekki skaltu hafa áhyggjur af því," mælti Sigvaldi. "Hjalti kemst það, sem þú kemst."
Steinn fór nú á undan þeim til hellisins. Þegar hann var kominn að hömrunum, vafði hann reipinu í hönk um herðar sér og tók að klifra beint upp bergið.
Anna horfði á eftir honum. Hún sá í fyrstu engin merki þess, að þarna væri neitt fylgsni. Allra neðst slútti bergið dálítið fram, en rúma mannhæð frá jörðu fór það að hallast að sér. Ótal nibbur stóðu fram úr berginu; tyllti Steinn á þær gómum og tám og las sig þannig hægt upp bergið, þar til hann allt í einu smaug inn í það eins og ánamaðkur.
Rétt á eftir heyrðist rödd hans úr berginu:
"Nú fer vel um mig! - Á ég að kasta til ykkar reipinu?"
"Já," svaraði Sigvaldi, og í sömu svipan féll reipið ofan eftir berginu.
"Hann er ekki fær um að halda við festina," mælti Sigvaldi. "Er ekki best að ég fari upp á undan þér?"
"Mér er alveg sama," mælti Anna. "Ég er ekkert hrædd."
Sigvaldi las sig þá einnig upp bergið, og þegar hann var kominn upp í hellinn, kallaði hann til Önnu.
Anna studdi sig þá við handfestina og las sig upp til þeirra.
Hún stóð lengi hljóð af undrun og litaðist um. Hér var henni allt svo undarlega nýtt, að hún þurfti tíma til að átta sig á því. Það lá við, að hana svimaði að lita yfir sléttlendið úr þessari hæð, en fögur var útsýnin suður yfir engjar og sanda, fjörur og ósa, út á sjóinn og Vestmannaeyjar. Mikill og fagur sólskinssvipur var yfir þessari miklu víðáttu.
Hellirinn var ekki stór um sig, tveir eða þrír faðmar á vídd, og ekki hærri en svo, að seilast mátti upp í hvelfinguna. En hann var dásamlegt náttúrusmíði. Blágrýtisveggirnir voru sem höggnir af manna höndum. Gólfið var hált og slétt, og hallaði því ofurlítið fram. Á því voru upphleyptar rósir, sem náttúran hafði af blindri hlýðni við einhverja duttlunga sína grafið þar. Innst í hellinum öðrum megin var skot, sem ágætlega var fallið fyrir svefnklefa.
(Fitjarhellir, sem nú er nefndur Paradísarhellir, er uppi í berginu skammt frá Fit, líklega um 70-80 m yfir sjó. Líklega hefir þar einhvern tíma runnið á fram úr berginu (slíkar ár renna á nokkrum stöðum fram úr bergi undir Eyjafjöllum), en vatnsæðin stíflast við jarðrask og vatnið náð framrás annars staðar. Hellisgólfið virðist fágað af rennandi vatni, sem seinna hefir unnið þar á nokkrum eitlum í hellunni, svo að þeir eru nú sem upphleyptar rósir. Úr berginu neðan undir hefir fossinn sópað öllu lausagrjóti, svo að þar er hver nibba föst. Urðin undir berginu er gróin upp fyrir löngu.)
Ekki var mörgum blöðum um það að fletta, hversu gott vígi væri þarna. En Anna var jafnframt að hugsa um annað. Hvernig gæti best farið um Hjalta í þessu fylgsni? Hvernig yrði hann varinn kulda og á hvern hátt yrði honum gerð vistin þægilegust?
Það leyndi sér ekki, að tjalda mátti með vaðmálum um þveran hellinn. Mátti þá hafa ljós innan við tjaldið, svo að ekki sæist það neðan af veginum. Og húðfatið mátti gera svo hlýtt, að engan sakaði kuldinn.
Að öllu þessu íhuguðu gat hún ekki kosið Hjalta betra fylgsni.
4. ÚTVÖRÐURÞegar þau Sigvaldi og Anna riðu frá Fit, mæltist Anna til, að hann riði enn með sér bæjarleið.
"Langt er nú síðan ég hefi hitt Eyjólf frænda minn í Dal," mælti hún. "Ég mun ekki dvelja þar lengi, en nauðsyn er mér á góðum liðsmanni vestan undir fjöllunum."
Sigvaldi lét hana ráða.
Anna reið geyst, og það sá Sigvaldi á henni, að hún var í þungu skapi. Hann skildi það svo, sem hún mundi taka sér það nærri að hrekja Hjalta frá sér í fjallafylgsni. Hann reið þegjandi við hlið hennar og lét hana eina njóta hugsana sinna; en það sá hann oftar en einu sinni, að tár hrutu af augum hennar. En aldrei hafði hann séð hana fegri og mikilúðlegri en einmitt nú. Keik og tignarleg sat hún á hesti sínum, mikillát eins og valkyrja, göfugleg eins og drottning, og bar harm sinn í hljóði. Enga konu hafði hann séð slíka.
Sigvaldi gat rétt til. Anna hugsaði um harma sína. Það var hart að þurfa að deila við ættingja sína um ást sína. Það var hart að þurfa að spyrja nokkurn mann að því, hvern hún tæki sér fyrir eiginmann. Það var hart að mega ekki giftast og lifa í friði við mannfélagið, nema samþykki vandamanna hennar kæmi þar til. Og allt var þetta af því einu, að hún var kvenmaður. Karlmenn gátu engir vandamenn þeirra hindrað frá að eiga þá stúlku, sem þeir elskuðu. Þeir gátu illskast við þá, hótað þeim öllu illu, gert þá arflausa og svo framvegis, en þeir gátu ekki komið í veg fyrir, að þeir fengju prestlega blessun og löggildingu á hjónabandi sínu. Og hvað sakaði það karlmann, þó að einhver hængur væri á hjónabandi hans? Ef vandamenn konunnar gerðu þeim engar búsifjar, þá gerðu ekki aðrir það. Það mesta, sem andleg og veraldleg völd heimtuðu af þeim manneskjum, sem bjuggu í ólöglegri sambúð, var, að þau giftust, - krafa, sem öllum elskendum ætti að vera kært að uppfylla. Þessi rangláti munur, sem gerður var með lögum og venjum á kynjunum, bæði í þessu efni og öðru, hafði oft verið henni hryggðarefni og var það enn. Hvers vegna var réttur systranna í öllu minni en bræðranna? Hvers vegna voru systurnar fæddar til ófrelsis og eignaleysis, en bræðrum þeirra fengin öll forráð þeirra í hendur? Mörg vissi hún dæmin til þess, hve hróplega bræðurnir höfðu misbeitt þessu valdi. Marga vissi hún þá konu, sem aldrei á æfi sinni leit glaðan dag fyrir ráðstafanir bræðra sinna. Margar auðugar og gáfaðar konur tærðust upp í vansælu hjónabandi, sem þær höfðu verið reknar í nauðugar vegna hagsmuna bræðra sinna. Að hún var ekki sjálf orðin ein af slíkum konum, var sannarlega ekki nærgætni bróður hennar að þakka, heldur skaphörku og kjarki hennar sjálfrar. Þess vegna gerði hann henni nú allt það illt, sem hann megnaði.
Hún brann af löngun eftir að geta svipt þessum fjötrum bæði af sjálfri sér og kyni sínu. En hún fann hjá sér vanmáttinn og getuleysið gagnvart öðru eins ofurefli. Það gerði henni þungt í skapi. Hún gat ekki gert sig frjálsa, ekki neytt bróður sinn til að sleppa því valdi yfir einkamáhum hennar, sem lögin heimiluðu honum. Það eina, sem hún gat gert, var að láta hann ekki kúga sig til neins, sem hún vildi ekki sjálf, láta aldrei undan honum á því sviði, sem hún gat boðið honum byrginn á. Þess vegna var hún nú að tryggja sig gegn yfirgangi hans.
En hart var það fyrir skapferli hennar að þurfa í liðsbón til frænda og vina. Einnig þess vegna hrundu henni nú tár. Til hvers mundu þeir, sem nú gerðu henni greiða, ætlast af henni seinna, þegar þeim lægi á liðsinni?
Og henni hraus hugur við að láta Hjalta í hellinn.
Aldrei hafði neitt mótdrægt mætt honum, síðan hann var á barnsaldri. Í ástúð og eftirlæti hafði hann vaxið og þroskast hjá henni. Fyrir öllu aðkasti heimsins hafði hún varið hann dyggilega. Fæst af því, sem um þau var sagt í sveitinni og á heimilinu, hafði náð honum til eyrna. Engar áhyggjur, engar ofsóknir, ekkert af því, sem gerði framtíðina ótrygga og skuggalega, hafði nokkurn tíma náð til hans. Þegar hún hafði barist fyrir ást þeirra við valdið og hleypidómana, hafði hún jafnan séð fyrir því, að hann væri hvergi nærstaddur. Vandlega hafði hún vafið hann í faðm sinn og varið hann fyrir öllum öldum andstreymisins. Ekkert hafði hann fundið nema yl og blíðu og kvíðaleysi. Nú gat hún þetta ekki lengur. Nú hlaut hann að komast að því, hver hætta vofði yfir þeim báðum. Hvernig mundi hann taka þeirri nýjung? Hingað til hafði hann treyst henni. Nú mundi honum finnast hún bregðast sér. Mundi hann ekki hætta að elska hana? Mundi hann ekki fara að hata hana og fyrirlíta, saka hana um, að hún hefði árum saman vaggað honum í lygum og táli og vekti hann svo upp við þessi voðatíðindi? Mundi hann ekki brigsla henni um, að allt væri þetta henni að kenna, hún hefði vel mátt láta sig, saklausan drenginn, í friði? Hverju átti hún þá að svara? Og þó að hann hlífði henni við slíkum ásökunum, mundi hún gera sér þær sjálf. Hún mundi lesa þær á vörum bæði hans og annarra; í hverju auga, sem á hana væri litið, mundu þær mæta henni. Það yrðu margar þungar stundir, er þetta bættist ofan á allt annað. - Líklega mundi Hjalti taka hættunni karlmannlega, er hann fengi að vita um hana til fulls. Ef til vill mundi hættan stæla hann og vekja í honum hetjuhug. Stigamannslífið, með öllum þeim ævintýrum, sem það gat leitt til, mundi freista hans. Í eðli hans lá tilhneiging til ofstopa og óstýrilætis. Það hafði hann sýnt þegar í æsku. Mundi nú ekki vakna í honum brennandi þrá eftir því að mæta ofsóknunum með brugðnum brandi og verja rétt sinn og hennar, meðan honum ynnist afl til, að dæmi fornra kappa? Mundi ekki vakna í honum hamslaus hefndarþorsti, - óviðráðanleg löngun til að reka harma sinna og hennar á bróður hennar, eða jafnvel á öllu mannfélaginu, sem hélt hendi sinni yfir slíku ranglæti? Mundi ekki hatrið og stórræðaþráin vaxa og dafna í helliseinverunni, vaxa og dafna bæði honum sjálfum og henni yfir höfuð? - Mundi ekki Hjalti verða að reglulegum stigamanni?
Yfir þessum hugsunum hrutu henni einnig tár.
En hún þeysti áfram, eins og hesturinn komst, knúin af járnmagni vilja síns, til að framkvæma það erindi, sem hún hafði eitt sinn sett sér. Henni fannst því líkast sem hún þeysti gegn örlögum sínum. -
Þegar sást til ferða hennar frá Dal, gekk Eyjólfur bóndi á móti henni og bauð hana velkomna.
Anna stöðvaði hestinn, sem var sveittur og móður af hlaupunum, en fór ekki af baki.
"Sæll vertu, frændi!" mælti hún. "Erindi á ég við þig og vildi helst mega ljúka því hér."
"Þú ert í þungu skapi, frænka," mælti Eyjólfur. "Viltu ekki hvíla þig?"
Anna lét sem hún heyrði það ekki.
"Ég þarf að biðja þig bónar, frændi."
"Feginn vil ég gera hverja bón þína sem er, - að einni undanskilinni."
Anna brosti raunalega.
"Þeirri að taka við Hjalta og halda hann fyrir lögmanni?"
"Já, þú hefir getið rétt. Ég vil ekki eiga í illdeilum við lögmann."
Anna hló biturt.
"Ég vissi þetta áður en þú sagðir mér það. Skörungskápa Hólmfríðar móður þinnar hefir ekki fallið yfir þig!"
Eyjólfur svaraði fast og stillilega:
"Nei, hún hefir fallið yfir þig, - en brestir móður minnar hafa fylgt henni."
Önnu líkaði svarið vel.
"Það sakar minnst," mælti hún. "Ég kýs mér ekki það hlutskipti að vera syndlaus manneskja. Mest er um vert, að miklum syndum fylgi miklir kostir, svo að eitthvað sé til að leggja í skálina á móti. En sleppum nú syndaskránni. Ég ætla ekki að ofþyngja samvisku þína með því, að þú takir við Hjalta. Þann heiður ætla ég sjálfri mér, að verja hann fyrir eftirsókn bróður míns. Bón mín er einungis sú, að þú hafir gát á ferðum bróður míns héðan að heiman og sendir mér orð, ef þér sýnist ástæða til."
"Þetta skal ég gera," mælti Eyjólfur. "Héðan sést beint yfir að Hlíðarenda, og ég sé til allra mannaferða austur yfir aurana. Auk þess fæ ég daglega fréttir handan úr Fljótshlíð, en auðvelt er héðan að skjótast þvert yfir heiðar, framan við jökulinn, að Stóruborg. Lögmaður skal ekki koma þér á óvart með flokk manna. Því máttu treysta."
"Það er gott. Þá er erindi mínu lokið. Heilsaðu Helgu konu þinni. Hún er dóttir Jóns biskups Arasonar og veit, hvað þungir harmar eru. Hún skilur skap mitt betur en þú. Vertu sæll!"
Anna sneri hestinum og reið heim á leið og Sigvaldi með henni. Eyjólfur stóð eftir á götubakkanum og horfði undrandi á eftir þeim.
Sól var gengin lágt, þegar þau riðu heimleiðis, og fossarnir vestan í Seljalandsmúla stóðu í regnbogaskrúða.
FIMMTI ÞÁTTUR
1. STIGAMANNSLÍF
Vestan frá Drífanda og austur fyrir Hvamm er samfelld hamragirðing. Hvöss á brúnina starir hún ótal skuggalegum augum suður á sandana og hafið.
Köld og stirð og steindauð er sú ásýnd. Þess vegna óttast hana enginn, þrátt fyrir hrikasvip hennar. Köld og stirð og steindauð hamrabelti, hvert upp af öðru, ófrýn og ægileg, með ótal kolsvörtum skútum, sem enginn maður veit, hvað hafa að geyma. Sólskinið líður í svip yfir þessa tröllslegu ásýnd og gerir hana vinalegri; en þá verða jafnframt skuggarnir í skútunum svartari, - augun hvassari. Svo dregur flóka fyrir sólina, og myndin verður öll jafngrett og úfin. Loks sest flókinn í sjálfa hamrana og byrgir þá eins og grár höttur. Þá er belgur dreginn á höfuð tröllinu. Bleytan sígur niður blakt andlitið eins og þessi grimma vættur gráti.
Úr einum af þessum biksvörtu bergaugum störðu nú mannsaugu suður á sandana og hafið. Hjalti var setstur að í hellinum.
Ekki var þar stigamannslegt umhorfs. Sauðgrátt vaðmál og samlitt berginu var hengt um þveran hellinn og féll allt niður á hellisgólfið. Það var strengt á kengi, sem reknir voru í glufurnar uppi í berginu. Innan við það var hvílan, mjúk og hlý, og í henni húðfat úr gæruskinnum. Við hvíluna reis atgeir með heinþynntar eggjar upp við bergið, en framan við tjaldið lá stökkstöng Hjalta um þvert hellisgólfið, og var þar járnbroddur mikill í endanum. Hún var honum kærust af öllum æskuleikföngum hans, og þess vegna hafði hann nú tekið hana með sér í útlegðina. En hún var helst til stór til að fá rúm við hvílu hans. Þess vegna lá hún utan við tjaldið.
Margar hljóðar nætur hafði verið að því unnið að búa um Hjalta í hellinum. Anna hafði gengið að því sjálf og Sigvaldi í Hvammi hjálpað henni til þess og sömuleiðis Steinn á Fit. Enginn maður heima á Stóruborg vissi þetta leyndarmál, og Hjalti vissi ekkert um hellinn fyrr en hann var tilbúinn.
Loks hafði Anna sagt honum það með einstakri blíðu og nærgætni, að hún vissi hann ekki óhultan heima hjá sér og neyddist því til að koma honum í burtu af bænum og þá um leið sagt honum, hverjar ráðstafanir hún hafði gert honum til bjargar.
Hjalti lá andvaka næstu nótt. Hann gat ekki sofið fyrir þungum hugsunum. Nú fyrst varð honum það ljóst, að hann var í hættu staddur. Nú fyrst renndi hann grun í það, hverri baráttu Anna hlaut að hafa barist hans vegna, án þess hann hefði lagt henni nokkurt lið. Nú sá hann fyrst, hvernig þessi elskuríka kona hafði vafið hann að sér og hlíft honum við öllum áhyggjum. Aldrei unni hann henni heitara en nú, er hann vissi, að þau áttu að skilja samvistum.
"Mér og börnunum er óhætt hér heima," hafði Anna sagt við hann. "Páll bróðir minn er ekki illmenni. Hann gerir mér og börnunum ekkert. Það ert aðeins þú, sem hann sækist eftir, - ekki til að drepa þig, þó að hann hóti því í reiði sinni, heldur til að stía okkur sundur og hreinsa með því þennan svonefnda "blett" af ættinni, og ef til vill í veikri von um, að hann geti fengið mig til að gleyma þér og giftast öðrum. En vertu óhræddur, vinur minn! Honum tekst ekkert af þessu."
En Hjalta lá þó við að efast um það.
Hann fylltist hatri og bræði til þessa lögmanns, - þessa járnklædda og járnkalda valdsmanns, sem nú tróð sér fram á milli þeirra. Hann vissi, að lögmaður var ekki maður á móti honum í neinu, hann var enginn atgervismaður, þó að hann bæri pansara og gylltan hjálm. Ef þeir ættu tveir saman, mundi hann geta ráðið niðurlögum hans á svipstundu. En hann hafði valdið yfir mönnunum. Þeir skulfu af ótta fyrir þessum köldu, gráu augum. Við eitt orð hans reis upp her manns og skaut um hann skjaldborg, reiðubúinn til að ganga í dauðann fyrir hann. Við slíkt ofurefli var engum fært að etja. Aldrei hafði hann hugsað út í þetta fyrri. Aldrei hafði hann gert sér það ljóst, hvað vald eiginlega væri, fyrri en nú, að það reis allt í einu frammi fyrir honum eins og ókleifur hamraveggur og skyggði á hamingju hans. Nú sá hann það, og nú stóð honum ógn af því.
Næstu nótt fylgdi Anna honum sjálf í hellinn.
Þar sá hann nýjan vott um elsku hennar og umhyggju. Hann stóð hugfanginn og starði á allan þennan útbúnað. Svo hafði aldrei verið fyrr um nokkurn stigamann búið, hugsaði hann með sjálfum sér og brosti við. Svo mikil ást og umhyggja hafði engum manni fylgt í útlegð og hellisvist.
Og þegar Anna kvaddi hann, faðmaði hún hann að sér, svo að hinir sáu, kyssti hann og hvíslaði að honum að gera sér eitthvað til stundastyttingar í einverunni og láta sér ekki leiðast, og muna það að vera góður maður, hafa jafnan guð sinn í huganum og gera hverjum manni, hverjum smælingja gott, hvenær sem hann fengi því við komið. Þá mundi honum allt snúast til góðs. - Steinn á Fit mundi gefa honum merki með því að breiða voð á baðstofuþekjuna heima hjá sér, þegar honum væri óhætt að koma heim að Stóruborg. Annað merki gæfi Steinn honum, þegar einhver hætta væri á ferðum, svo að hann mætti ekki hreyfa sig úr hellinum. Daglega yrði honum færður matur og mjólk að berginu undir hellinum, auk þeirra birgða, sem nú þegar væru bornar þangað, og smátt og smátt yrði komið til hans með allri leynd. "Vertu hughraustur, vinur minn!" mælti hún að skilnaði. "Ég skal vaka yfir hag þínum, biðja guð fyrir þér og vera þér trú. Og ég skal berjast fyrir hamingju og frelsi okkar beggja og barnanna okkar og vinna sigur að lokum, ef þú spillir ekki málstað okkar með neinni óvarkárni. Mundu mig um það að vera ætíð góður maður!"
Og þegar hún renndi sér ofan bergið, sá hann tárin blika í augum hennar.
Nú voru margir dagar síðan. Nú sat hann einsamall og rifjaði þetta allt upp fyrir sér í huganum.
Enn þá var hann léttlyndur eins og barn. Skuggarnir, sem lagst höfðu á huga hans við skilnaðinn, voru viðraðir burtu fyrir löngu. Nú gladdi hann sig yfir því skáldlega, einkennilega og óvanalega, sem stigamannslífið bar í skauti sínu. Hann rifjaði upp fyrir sér eldgamlar útlagasögur og lifði þær upp í huganum. Grettir Ásmundsson og Gísli Súrsson urðu hans menn, - menn, sem eltir höfðu verið eins og villidýr landshornanna á milli og ekkert friðland áttu annað en skútann, sem þeir fundu af tilviljun í hvert skiptið, eins og hann hefði þá verið skapaður í skyndi handa þeim, - menn, sem ást og velvild og aðdáun fylgdi hvar sem þeir flæktust, og heil þjóð hóf til hásætis í sögum og söngvum, eftir að þeir höfðu liðið eins konar píslarvættisdauða fyrir ranglæti og ójöfnuð mannanna.
Hjalti sat framan við tjaldið og sólin skein inn til hans. Við hlið hans lá "stundastyttingin"; það var að þessu sinni hliðarfjöl í kistil, sem hann var að skera út. Tréspænirnir lágu á hnjánum á honum og allt í kringum hann, en hann varð að varast að láta þá hrynja fram af berginu, svo að þeir vektu ekki athygli manna. Merkið um hættu var á bænum í Fit. Hjalti hafði lagt frá sér verkið og starði hugsandi fram fyrir sig.
Skuggar skýjanna liðu yfir flatneskjuna fyrir neðan hann, og suður við sandana reis brimið eins og fannhvít jökulskör. Markarfljót rann um þessar mundir austur með fjöllunum, alla leið austur undir Hvamm, og fram hjá hellinum rann það rétt fyrir neðan brekkuræturnar. Þar niðaði það þungt á eyrunum og velti fram leirgulum öldunum. Á eyrunum handan við fljótið voru hjarðir, eins og lambahópar væru þar þétt setnir, en við og við flugu "lambahóparnir" upp og settust aftur, því að það voru ekki lömb, heldur veiðibjöllur.
Á fitjunum niður við fljótið var Brúnn hans á beit, - hesturinn, sem skapað hafði hamingju hans og síðan útlegð hans, sama árið sem hann var í heiminn borinn, og nú beið hans eins og trúr þjónn, hvenær sem á honum þyrfti að halda. Nú var látið heita svo sem Steinn á Fit ætti hann, hefði fengið hann í hestakaupum við Hjalta. Fyrstu dagana hafði klárinn leitað jafnt og þétt austur eftir, en þó aldrei strokið. Nú var hann orðinn hagspakur. Það var sem fyndi hann á sér, að eigandinn væri ekki langt frá honum.
Alls konar fénaður var á víð og dreif um fitjarnar og brekkurnar, alla leið upp að berginu. Það var líkast því, að hann sæti yfir öllum þessum fénaði og hefði gát á hverri skepnu. Kindurnar voru nærgöngulastar; þær hurfu inn undir bergskörina fyrir neðan hann. Smaladagarnir komu aftur til hans í einverunni með gleymdar gleðistundir. Tveir hrafnar liðu í loftinu langt fyrir neðan hann. Fjaðrirnar þutu og svört bökin gljáðu. Í sömu svipan þaut gráhvítur fálki eins og kólfi væri skotið fyrir hellismunnann. Hann og feður hans höfðu átt þetta berg um óteljandi aldir. Nú virtist sá grái, sem óðalið átti, hafa eitthvert veður af því, að einhver þremillinn væri setstur að í berginu hans, sem honum var ekki um. Þess vegna var gustur af honum.
Flokkur ferðamanna kom vestan grundirnar sunnan við fljótið. Þeir riðu geyst, svo að stór moldarský ruku upp úr götunum og liðu út í loftið, er þeir voru farnir fram hjá. Þeir riðu yfir fljótið beint niður af hellinum. Það var djúpt. Hestarnir hurfu í vatnið, svo að varla stóð upp úr nema makkinn. Þegar upp úr fljótinu kom, fóru mennirnir af baki og áðu. Skyldi nokkur þeirra hafa minnsta grun um, að nú væru augu uppi í berginu, sem fylgdu hverri minnstu hreyfingu þeirra? Nei, auðvitað ekki. Bergið var þögult, og enginn hugsaði um, að bak við "augu" þess byggi nokkurs staðar mannleg sál. Mennirnir stigu á bak og riðu á hvarf austur með fjöllunum.
En Hjalti var hættur að sjá ferðamenn og fénað. Hann starði enn fram fyrir sig, en sá nú allt annað en hann hafði áður séð. Flokkur manna kom utan með fjöllunum, - ekki yfir fljótið fram undan hellinum, heldur í skjóli við brekkurnar svo lengi sem þess var kostur. Í brekkunni niður af hellinum stigu menn af baki. Allir voru vopnaðir. Sverð og kesjur blikuðu undir berginu. Flokkurinn stóð við um stund undir bergskörinni, mæltist hljótt við og bar saman ráð sín. Þeir, sem næstir stóðu berginu, hurfu inn undir það, eins og kindurnar áður. Svo var ráðið til uppgöngu. Fílefldir fullhugar tóku að klífa upp bergið. Tveir hinir öruggustu klifu samsíða, hinir fylgdu þeim fast í hæla. Hjalti stóð búinn til varnar á hellisskörinni. Þegar þeir komu í návígi, lagði hann atgeirnum fyrir brjóst annars þeirra, sem fremstir voru. Hann var í pansara undir klæðum, og rann lagið út undir höndina. Hjalti kippti að sér atgeirnum og lagði að nýju, og nú á háls manninum fyrir ofan brynjuna. Maðurinn reigðist aftur á bak. Blóðboginn stóð úr hálsinum á honum. Hann greip báðum höndum um atgeirinn dauðahaldi, en þá missti hann fótfesti. Hjalti kippti af honum atgeirnum. Hann fótaði sig aftur sem snöggvast og fálmaði í ofboði um bergið eftir handfesti, meðan blóðið bunaði úr honum og litaði bergið. Svo tók hann bakfall og féll ofan á þá, sem fyrir neðan hann voru. Enginn þeirra stóðst slíkt áfall. Öll skriðan hrundi ofan bergið, og í stórgrýtinu neðan undir hlóðst upp lifandi dyngja af særðum mönnum og limlestum.
Maðurinn, sem hafði verið hinum samsíða, hékk einn eftir í berginu við fætur Hjalta og reyndi að leggja til hans með kesju. Hjalti stóð ber fyrir laginu á meðan hann var að hrinda hinum niður, en í sömu svipan og það var gert, bar hann af sér lagið. Varð manninum þá laus kesjan, og hrundi hún niður fyrir bergið. Hjalti lagði þá atgeir sínum einnig fyrir brjóst þessum manni. Hann var ekki í verjum. Hann stóð svo tæpt, að hann þurfti að halda sér með höndunum, og þegar hann sá lagið, blánaði hann í framan af skelfingu og bað sér vægðar. Hjalti vildi ekki vinna á honum vopnlausum og svo nauðulega stöddum. Hann fylgdi því ekki laginu eftir og gaf manninum tóm til að skreiðast ofan aftur, en hló storkunarhlátur að vesaldarskap hans.
Í því réðu nokkrir að neðan til uppgöngu enn að nýju. En Hjalti reif grjót úr berginu og lét dynja á þeim, svo að þeir urðu fegnir að hörfa ofan aftur.
Hópurinn stóð ráðþrota neðan undir berginu, en Hjalti uppi á hellisskörinni og ögraði þeim að sækja að sér. Vein og stunur særðra og limlestra manna stigu upp til hans.
Í hópnum kenndi Hjalti Pál lögmann Vigfússon. Tók hann þá lausan stein úr berginu og slöngvaði að lögmanni. Kom steinninn fyrir brjóst honum, svo að hann féll við og valt nokkuð í brekkunni. Þegar hann stóð upp aftur, rann blóð af munni hans og nösum, en pansarinn hafði beyglast undir steininum.
Nokkra stund stóðu menn við og báru saman ráð sín. Svo báru þeir hina særðu burtu og hörfuðu frá - allir saman, 30 eða 40 manns.
Það var sem Hjalti vaknaði við það, að sólin gekk undir bergbríkina hægra megin við hann. Það fór hryllingur um hann við það, sem hann hafði verið að hugsa um.
Það, sem hann hafði séð í huganum, gat komið fyrir, eða hlaut jafnvel að koma fyrir. Hann treysti sér til að fleygja hundruðum manna fram af berginu, jafnótt og þeir reyndu að klífa upp til hans, ef þeir aðeins kæmu að honum viðbúnum, og hann óttaðist ekki mjög spjót eða bogaskot. Til þess að sjá hann í hellismunnanum, þurftu menn að standa talsvert frá berginu, niðri í snarbrattri brekkunni. Þá var færið orðið langt og flestum óhægt að skjóta beint upp fyrir sig. Aðalhættan var, að menn kynnu að koma að honum sofandi og komast upp til hans fyrr en hann vaknaði.
- - Nokkrum sinnum, þegar dimmt var orðið, varð fólk undir fjöllunum vart við mann, sem reið brúnum hesti, hinum mesta gæðingi. Hann fór enga manna vegu, en hleypti beint yfir tún og girðingar. Þegar hann kom austur fyrir Holtslón, stefndi hann beint yfir allar engjar og fór árnar hvar sem hann kom að þeim. Einhverjir þóttust hafa séð hann ríða beint heim að Stóruborg.
Hjalti var þá horfinn úr sveitinni, og var margt um hvarf hans talað. Sumir héldu, að þetta væri hann. Aðrir héldu því fast fram, að hann væri dauður, og kunnu ýmsar sögur um ævilok hans. En þeim þótti sennilegast, að þetta væri afturgangan hans.
Hallur grámunkur styrkti menn öfluglega í þeirri trú.
2. EFTIRLEITIRLögmaður hafði ekki gleymt sakamanni sínum.
Hann fór þó ekki óðslega að neinu og lét annað sitja í fyrirrúmi, sem hann þurfti að gera, er hann hafði tekið við lögmannsdæminu. Hjalta þóttist hann alltaf hafa í hendi sér. Það dróst því um stund, að hann gerði alvöru af því að leita eftir honum. En einn dag reið hann við tólfta mann á Stóruborg, til að gera þar næturrannsókn.
Hann reið að heiman seint á degi og kom að Stóruborg um miðnætti, þegar allir voru nýgengnir til hvíldar. Og það var einmitt það, sem hann ætlaði sér.
En hann kom samt ekki að Önnu óviðbúinni. Tvöföld njósn hafði henni borist. Önnur frá Dal. Þar var fólkið prýðilega inni í fyrirætlunum lögmanns, einnig þeim, sem leynt áttu að fara. Þaðan fékk Anna njósnina tveim dögum áður en bróðir hennar kom.
Hina fékk hún frá Fit. Boðberinn frá Dal hafði verið látinn fara um hjá Steini í heimleiðinni og vara hann við. Og Steinn var vel vakandi, þegar flokkurinn kom. Þá var mjög tekið að rökkva, og Steinn gekk á móti flokknum út undir vaðið á fljótinu, til þess að vera viss um, hverjir þar færu. Hann lötraði í hægðum sínum og lét hund fylgja sér, eins og hann væri að gá að fénaði. Hann stóð á götubakkanum, þegar sveitin reið fram hjá, taldi mennina og aðgætti hvern mann vandlega. Hann sá vel, að þeir voru allir talsvert ölvaðir. Lögmaður og sveinar hans litu fyrirlitlega á þetta kotungskvikindi, sem glápti eins og álfur á dýrð þeirra, og þá blóðlangaði til að láta keyrisólarnar sveiflast um hausinn á honum, til þess að festa honum betur í minni höfðingjareiðina. Steinn var dæmalaust auðmjúkur, meðan þeir riðu fram hjá, en glotti svo kindarlega á eftir þeim. Og þegar þeir voru riðnir á hvarf austur með fjöllunum, henti hann sér á Brún Hjalta og reið aðra leið, þar til hann var kominn fram hjá þeim, án þess þeir yrðu hans varir. Hann kom góðri stundu á undan þeim að Stóruborg og mætti þeim aftur, þegar hann reið til baka. Þá lét hann þá tefja sig á því að elta sig út í mýrar og vegleysur, og loks fram á svarta sjávarsandana, og tapa sér þar út í myrkrið. Hann vissi, að það var óhætt; hann mátti treysta Brún. En sumir af fylgdarmönnum lögmanns voru að brölta í keldum og síkjum alla nóttina og draga hesta sína upp úr.
Þegar lögmaður kom heim á Stóruborg með það, sem eftir var af liðinu, skipaði hann vopnuðum mönnum fyrir allar dyr á bænum, að dæmi Sturlunga, og bauð þeim að láta engan sleppa út. Sjálfur gekk hann að aðaldyrunum með þrjá menn. Skipaði hann þá hraustum manni, sem með honum var, að hlaupa á hurðina og brjóta hana upp. Maðurinn hljóp knálega á hurðina, og var hún þá lausari fyrir en hann varði. Hrökk hún opin, og steyptist hann inn í göngin. Þar lá hann í roti, þegar lögmaður og félagar hans komu að, hruflaður til stórskemmda á höfðinu af steinum í veggnum.
Lögmaður hafði veitt mönnum sínum vel heima um daginn, og á leiðinni hafði einnig verið fast drukkið, svo að ekki voru honum það nein undur, þótt eitthvað kynni að takast ófimlega. Þetta var þó allt öllu lakari byrjun en hann hafði búist við, og þótti honum það fremur ills viti.
Nú voru ljós kveikt, fólkið rifið upp úr rúmunum og tekið að yfirheyra það. Fólkið fékk varla tíma til að klæða sig. Hálfnakið og skjálfandi af hræðslu var það dregið fram fyrir lögmanninn og menn hans, alvopnaða, og spurt og spurt í þaula, til þess að reyna að flækja það og veiða. Griðkonur fengu varla svarað fyrir gráti og ekka. Húskarlar voru lítið eitt djarfari. En það, sem upp úr fólkinu hafðist, var sáralítils virði. Hjalti hafði horfið af heimilinu í tólftu viku sumars, sumir sögðu tíundu, en það var að minnsta kosti í sömu vikunni og lúðumóðirin var róin í land í Miðbælisvörum, einni eða tveimur vikum áður en hann Siggi á Sitjanda gifti sig, - ja, það hafði nú eiginlega engin gifting verið, því að þau höfðu látið katólskan flökkumunksræfil gefa sig saman, lögmaðurinn hlaut nú að vita það best, hvort það væri lögmæt gifting. Svo í næstu viku þar á eftir hafði hann Egill gamli í Eyvindarhólum misst kúna sína. Hún hafði legið dauð í haganum, bráðsnemmbær kýr, alveg dæmalaus mjólkurkýr. Það var varla einleikið. Og einmitt í sömu vikunni hafði rekið marflóétinn sel austur á Skógasandi; sumir sögðu raunar, að það hefði verið maður; enginn hafði eiginlega þorað að snerta við skrokknum, og svo hafði hann tekið út aftur...
Lögmaður hlustaði með dæmalausri þolinmæði á langan vaðal af þessu tagi, í von um, að eitthvað kynni að synda þar innan um, sem gefið gæti upplýsingar um það, sem hann var að grafast eftir. Hann spurði og spurði fram í það, sem fólkið sagði frá, en eftir allar spurningarnar var hann jafnnær um það, hvenær Hjalti hefði horfið af heimilinu. Sinn miðaði það við hvern atburðinn, sem hann mundi þá best í svipinn, en helst mátti ráða af svörunum, að hann hefði horfið einhvern tíma fyrir mitt sumar.
En hafði þá aldrei orðið vart við hann á Stóruborg eftir að hann hvarf? - Nei, aldrei, aldrei nokkurn tíma. Þó að jörðin hefði gleypt hann, gat hann ekki verið ósýnilegri. Þar var meira að segja varla nokkur skapaður hlutur, sem á hann minnti, fremur en hann hefði aldrei verið til. Smíðahúsið hans stóð alltaf lokað. Smíðahúsið hans? Hvar var það? Utan undir bænum, næsta hús við bænahúsið. Lögmaður sendi undireins menn til að brjóta það upp og leita í því. Þeir komu aftur svo búnir. - Spurningunum hélt áfram. Hvað héldu menn, að orðið hefði af Hjalta? Nú, það var nú vandi á það að giska. Flestir héldu, að hann væri dauður. Hann hafði svo oft leikið sér að alls konar hættum; ekkert var sennilegra en að hann hefði einhvern tíma farið sér að voða. Guð vissi einn, hvar legstaður hans væri. Og húsmóðirin væri oft ósköp dauf, eins og hún bæri harm í hljóði. Sumir héldu, að hann hefði komist í enska duggu; þær voru þar iðulega fram undan söndunum, og stundum fóru duggararnir í land og stálu fé; það var annars gott, að lögmaðurinn vissi það, svo að hann gæti kært þá fyrir kónginum eða látið bara hengja þá. Það voru bölvaðir fantar á þessum duggum. Höfðu þeir ekki einhvern tíma drepið mann vestur í Rifi? Lögmann meira að segja, eða hirðstjóra, eða eitthvað því um líkt? Víst voru það bölvaðir fantar. - Nú, það gat vel verið, að þeir hefðu tekið Hjalta vel og farið með hann heim til sín; það gat líka meira en verið, að þeir hefðu bara haft hann í beitu. Sumir héldu, að Hjalti hefði lagst út; hann hefði verið svo hræddur við lögmanninn. Ekki þyrfti þá að spyrja að heimtunum í haust, ef hann lægi í heiðinni og legðist á féð. Illur var dýrbíturinn, en verri voru þessir ólukku útilegumenn. - Nei, Hjalti var vafalaust dauður, annars hefði ekki húsmóðirin blessuð selt eftirlætishestinn hans. Eftirlætishestinn? Hafði hann átt reiðhest? Já, þó það væri nú, - hann Brún, undan Brúnku ráðsmannsins. Var hann brúnn? Nei, ekki alveg. Hann var dálítið sokkóttur á framfótunum, - nei, hvaða vitleysa, hann var albrúnn, aðeins með ofurlítinn hvítan lokk í taglinu. Nei, í faxinu, og stjörnu í enninu. Og hver hafði keypt hann? Einhver maður undir Útfjöllunum. Björn á Seljalandi, - nei, Jón á Brúnum eða Eyjólfur í Dal. Enginn mundi það almennilega.
Lögmaður horfði hvasst á fólkið og hristi höfuðið. Annaðhvort var það allt tómir bjánar eða það gerði sig vitlausara en það var.
Hann stóð upp snúðugt og skipaði að vísa sér í svefnloftið til systur sinnar.
Ljós brann á borðinu við rúm Önnu, og nú kom bróðir hennar með annað ljós í loftið, svo að glaðbjart varð í öllu herberginu. Tjöldin voru dregin frá himinhvílunni, og Anna lá upp við koddann, glaðvakandi. Hún var föl af geðshræringu, en stillti sig þó og gerði sig glaðlega. Í rúminu á móti henni sváfu þrjú af börnunum, en hið yngsta svaf í rúminu hjá henni sjálfri.
Tveir af mönnum lögmannsins fylgdu honum eftir í loftið.
"Þú heimsækir mig á hentugum tíma, bróðir minn góður, eða hitt þó heldur!" mælti Anna með napurri hæðni. "Mætti ég nú ekki ætlast til svo mikillar nærgætni af þér, að þú létir ekki þessa háprúðmannlegu fylgdarmenn þín glápa á mig liggjandi í rúminu?"
Lögmaður vék fylgdarmönnunum orðalaust út fyrir og lét aftur hurðina. Hann var rauður í andliti, og Anna sá það vel, að hann var talsvert drukkinn.
"Þú hefir ekki einu sinni fyrir því að klæða þig," mælti hann.
"O-nei. Mér finnst heimsóknin ekki svo mikils virði. Mér fannst ég greiða nægilega götu ykkar með því að hafa bæinn ólokaðan."
"Hvað? Vissirðu um komu okkar?"
Anna hló.
"Mig dreymir svo margt fyrir daglátum. Sáuð þið ekki mann á svörtum hesti ríða hér einhvers staðar úti í myrkrinu? Það er draummaðurinn minn."
Lögmaðurinn horfði á hana með undrun og hálfgerðri skelfingu. Illu heilli höfðu þeir séð þennan skuggariddara og farið að elta hann.
"Hefirðu gert samning við djöfulinn?"
"Gerði nokkuð til, þó að svo væri? Væri það nokkur flekkur á ættinni?
Lögmaður þagði og hló við. Svo hélt hann áfram að lýsa innan um herbergið.
"Hvar er Hjalti þinn?" hreytti hann út úr sér.
"Hvað er þetta? Hefirðu ekki fundið hann enn þá?"
"Nei. Hvar hefirðu falið hann?"
"Hefir heimilsfólkið engar upplýsingar getað gefið þér?"
"Heimilisfólkið - ! Það, sem ekki gat einu sinni komið sér saman um, hvernig hesturinn hans hefði verið litur!"
"Aumingja maður! Skelfing áttu bágt!"
"Þessi hestur er kóngsfé. Hvern hefirðu látið fá hann? Ég tek hann, hvar sem ég sé hann."
"Já, Auðvitað. En - manstu hvernig hann var litur?"
"Hverjum seldirðu hann?"
"Seldi ég? Ég sel aldrei hesta."
"Eða gafst hann þá. Hver á hann núna?"
"Var það ekki Hjalti, sem þú varst að leita að? Eða var það aðeins þessi hestur - handa kónginum?"
"Þú ert sek um bjargráð við Hjalta, síðan hann var gerður útlægur. Það er sannað, að hann hefir verið hér fram undir mitt sumar."
"Það er ég sjálfsagt. - Það er ekki vandfarið með annað eins mál. Þú ákærir, og - þú dæmir líka!"
Þessi ósvífna hæðnisrósemi gekk lögmanni gegnum merg og bein. Hann þagði og lýsti enn um herbergið. Svo kom hann að rúminu, þar sem börnin sváfu, dró tjöldin til hliðar og lýsti yfir allt rúmið.
Tvö börnin sváfu uppi til, en eitt til fóta. Þau sváfu fast og rumskuðu ekki, þó að ljósbirtan félli framan í þau. Rjóð voru þau í kinnum, svipfríð og sakleysisleg, en þó hraustleg og hvert öðru efnilegra.
Lögmaður horfði furðu lengi á börnin, og svipur hans mýktist dálítið á meðan.
"Þættist þú ekki ríkur, ef þú ættir svona fríðan hóp?" mælti Anna.
Lögmaður breiddi tjöldin aftur fyrir rúmið, en ansaði engu. Hann átti ekkert barn.
"Þú veist, hvar Hjalti er," mælti hann, eins og hann rankaði aftur við erindi sínu.
"Hefirðu nokkurn tíma efast um það?"
"Segðu mér, hvar ha...." Hann hætti við setninguna í miðju kafi. Hann vissi, að ekki var til neins að segja hana.
"Hvað er í þessari kistu?" mælti hann og sparkaði í stóra kistu, sem stóð hjá rúmi Önnu.
"Það eru fötin barnanna minna."
Lögmaður virti kistuna fyrir sér. Hún var nægilega stór til þess, að þar mætti leyna manni.
"Opnaðu kistuna! Ég vil fá að sjá ofan í hana."
"Nei, það geri ég ekki. Þér er óhætt að trúa orðum mínum."
"Opnaðu kistuna, segi ég!"
"Nei."
"Fáðu mér þá lykilinn!"
"Lyklunum mínum sleppi ég aldrei við nokkurn mann."
Lögmaður stóð um stund þegjandi og horfði á kistuna.
Þá heyrðist óp og háreysti frammi í bænum. Skelfingaróp kvenna skáru gegnum háreystina.
"Er það með þínum vilja, bróðir, að menn þínir geri óspektir í bænum?" spurði Anna.
Lögmaður opnaði hurðina og kallaði fram í bæinn með voldugri röddu til manna sinna.
Það hafði gerst frammi í bænum, að menn lögmanns söfnuðust að skálanum, þar sem allt heimilisfólkið var saman í einum hnapp, og kvenfólkið fáklætt, engu síður en karlmennirnir. Allir menn lögmanns voru komnir þangað, þeir líka, sem dyranna áttu að gæta. Og þeir, sem verið höfðu að elta manninn á svarta hestinum, voru nú að tínast að líka. Þessi vopnaði, hálfdrukkni hópur fór nú að þrífa djarft til kvennanna, en karlmennirnir vörðu þær. Drógu þá hinir sverðin úr skeiðum og ógnuðu þeim.
En þegar þeir heyrðu rödd lögmanns, urðu þeir lungamjúkir. Enda var ekki röddin mild.
"Komið þið hingað, þrælbein, erkibófar, pútusynir! Komið þið hingað, og standið hér fyrir neðan stigann, allir saman. Hver, sem vogar að óhlýðnast mér, skal fá sverðið mitt í gegnum skrokkskrattann á sér."
Lögmaður lét aftur hurðina og starði á kistuna miklu enn um stund, svo opnaði hann hurðina og kallaði út fyrir:
"Komið þið með smíðatól, - meitil eða fleyg og hamar eða öxi. Þau hljóta að finnast í smíðahúsinu."
Svo lét hann hurðina aftur og mælti við Önnu:
"Ég skal sýna þér, hvort ég skal ekki opna kistuna, hvort sem þú vilt eða ekki."
Anna hló með sömu storkuninni og áður.
Smíðatólin voru rétt inn fyrir, og lögmaður fór að fást við kistuna.
Hún var sterk og gaf sig ekki með góðu. Hann þrútnaði og blánaði í framan af áreynslunni, og það var sem æðarnar í andlitinu á honum ætluðu að springa. Höggin og slögin heyrðust um allan bæinn.
"Þú vekur börnin mín með þessum látum," mælti Anna storkandi.
Lögmaður svaraði engu. Hann strauk af sér svitann og hamaðist svo á kistunni, þar til loks að hann gat sprengt hana upp.
Þar lágu samanbrotin barnaföt og ekkert annað, - eins og Anna hafði sagt.
Lögmaður stóð og starði ofan í opna kistuna. Það hringdi við eyrun á honum af þungum æðaslögum, og gegnum þessa hringingu heyrði hann storkunarhláturinn í systur sinni. En kistan gapti beint upp á hann, eins og hún hlægi líka allt hvað af tæki.
"Líttu nú ofan í vatnstunnuna, um leið og þú gengur um," mælti Anna hlæjandi, "og lýstu fyrir þér um leið. Þá færðu að sjá það, sem aðrir sjá."
"Sjá hvað -?" mælti lögmaður önugur og hálfutan við sig.
Anna reis upp til hálfs í rúminu og hálfhvíslaði til hans:
"Þá færðu að sjá - fífl!"
Ölvíman hafði runnið af lögmanni við allt þetta. Hann var blár í framan af reiði og sneypu, en mælti ekkert. Svo gekk hann snúðugt úr loftinu, kallaði á menn sína og reið á stað.
- Daginn eftir var mikil kjöthátíð á Stóruborg. Anna hélt öllum hjúum sínum veislu.
3. YFIRHEYRSLURÞrem dögum síðar stefndi lögmaður almenningi saman til fundar á Steinum. Fundurinn var ekki haldinn í hellinum, því að veður var hið fegursta, heldur undir beru lofti uppi í túninu. Lögmaður stóð upp við stein mikinn, sem einhvern tíma hafði hrapað úr fjallinu, og talaði þaðan við mannfjöldann, sem gagnvart honum stóð. Sveinar hans stóðu þar í hnapp hið næsta honum. Einn þeirra, sá stærsti og sterkasti, hafði bundið um höfuðið.
"Það er yður nú kunnugt, góðir menn," mælti lögmaður, "að vor allra hábornasti og allra náðugasti herra, konungurinn, hefir af mikilli mildi sinni skipað mig lögmann yfir Suður- og Austurlandið. Mér ber nú að dæma hverjum manni rétt og skil og halda öðrum dómendum, sem undir mig eru gefnir, til hins sama."
Hann þagnaði um stund og leit yfir hópinn.
Halldór á Núpi varð fyrir svörunum af hálfu bændanna.
Hann tók ofan og hneigði sig djúpt fyrir lögmanni um leið og hann mælti:
"Það er okkur mikil gleði og mikill sómi, að yfirvald okkar og maður, sem meðal okkar er fæddur og upp alinn, skuli hafa hlotið annan eins frama. Við óskum þér allir til hamingju. Heill sé lögmanni vorum!"
"Heill sé lögmanni vorum!" hrópaði almenningur og veifaði höfuðfötum sínum.
"Hafi nokkur mál fyrir mér að kæra," mælti lögmaður, er hann hafði þakkað fyrir hollustuna, "þá komi hann með það fram fyrir mig. Ég er ætíð reiðubúinn að nefna menn í dóma til að jafna sakir manna, eða sætta þá og eyða þar með þrætum og ósamlyndi í héraðinu."
Allt þetta höfðu menn margheyrt áður. Þetta sama, eða eitthvað þessu líkt, var endurtekið árlega og jafnvel oftar á öllum þingum og nálega öllum mannamótum. Menn tóku þessu með þögn og góðmennsku. Enginn hafði neitt að kæra. Það, sem menn höfðu helzt undan að kvarta, var einmitt yfirgangur valdsmannanna sjálfra og ásælni konungsvaldsins. En nú var búið svo oft að kvarta undan því, og hver hafði árangurinn orðið? Að stynja þeim kveinstöfum upp við lögmanninn, umboðsmann konungsvaldsins sjálfs, var talið vera til lítils; varla ómaksins vert.
En nú biðu menn líka með óþreyju eftir einhverju, sem þeim fannst liggja í loftinu. Tíðindin frá Stóruborg höfðu flogið um alla sveitina.
Lögmaður horfði þegjandi út yfir hópinn og beið þess, að einhver tæki til máls. Þegar ekki varð af því, hélt hann máli sínu áfram:
"En heyrið þið, góðir menn! Jafnframt því, sem ég er skipaður til þess að láta hvern mann ná rétti sínum, er mér einnig skylt að sjá um, að ekki séu brotin lög guðs og manna, og þeim, sem þau brjóta, verði hegnt svo sem vera ber. Vörður laganna er jafnframt vörður réttvísinnar, og sé lögunum ekki í heiðri haldið, vex brátt upp illgresi ólöghlýðninnar. Í þessu ber hverjum heiðvirðum manni og konungi sínum hollum að vera valdsmanni sínum samtaka."
Nú fóru menn að hlusta með athygli.
"Svo er mál með vexti," mælti lögmaður og varð nokkuð myndugri, "að fyrir fám árum var maður nokkur, Hjalti Magnússon að nafni, dæmdur útlægur úr þessu héraði...."
Menn gutu augum hver til annars, en þögðu. Lögmaður sá það, en lét það ekkert á sér festa.
"Nú er mér orðið það kunnugt, að hann hefir dvalið hér á einu heimili í sveitinni lengi eftir að hann var dæmdur útlægur, og það sama óhapp, sem hann var dæmdur héraðsrækur fyrir, hefir enn hlotist af honum...."
Fjöldi þingmanna hló fram í nefið. Aðeins fáeinir menn gátu haldið tilhlýðilegum alvörusvip. Lögmaður sá þetta, og setti hann dreyrrauðan.
"Enginn ykkar, sem þetta hefir verið kunnugt, hefir gert mér aðvart um þetta. Þið eruð því allir fallnir í þá sekt, sem leiðir af bjargráðum við brotamenn og útlaga og yfirhylmingum með slíkum mönnum."
"Sætt sameiginlegt skipbrot!" tautaði Egill gamli í Eyvindarhólum við mann, sem hjá honum stóð.
"Fé ykkar og frelsi, góðir menn, er nú í mínum höndum, og mér er í sjálfsvald sett, hvenær ég geng eftir því. En ef þið bætið nú ráð ykkar, þó að seint sé, verður hér ef til vill ekki sem strangast eftir gengið."
"Hvað má okkur til líknar verða, herra lögmaður?" spurði Halldór á Núpi með hæðnisauðmýkt.
Lögmaður leit á hann, en svaraði honum engu.
"Nú krefst ég þess af ykkur," mælti hann yfir allan hópinn, "að þið segið mér undandráttarlaust og umsvifalaust, hvar Hjalti Magnússon er niður kominn, og hjálpið mér til að ná honum á mitt vald."
Steinhljóð. - Lögmaður þagði líka og horfði hvössum augum út yfir hópinn. Hann horfði framan í hvert andlitið af öðru, en þar var hvergi ótta né æðru að sjá. Aðeins var auðséð, að margir héldu niðri í sér hlátrinum.
"Ég krefst þess enn af ykkur, að þið segið mér, hvað þið vitið um Hjalta Magnússon," mælti lögmaður sýnu byrstari en áður.
Ekkert svar.
"Svari enginn, neyðist ég til að taka hvern einstakan mann fyrir og krefja hann sagna. Allir hinir verða þá að bíða á meðan."
"Er ekki Hjalti dauður?" mælti Egill gamli í Eyvindarhólum með ofurmikilli hægð og saug upp í nefið um leið.
"Ef hann er genginn aftur, hefir hann líklega orðið að deyja fyrst," gall í einhverjum.
"Já, maðurinn á svarta hestinum..." mælti annar.
"Hvað er um þennan mann á svarta hestinum?" spurði lögmaður.
"Hefir ekki lögmaðurinn orðið var við hann sjálfur?" spurði einhver, sem vel vissi um næturferðina.
"Hvað sem um það er," mælti lögmaður. "Hver er þessi maður á svarta hestinum? Er það Hjalti?"
Það vissi enginn.
"Hann hefir sést ríða heim undir Stóruborg," mælti einhver.
"Hann hefir sést ríða beint í sjóinn," mælti Egill gamli.
"Og hann kvað hafa sést ríða þvert yfir Holtsósinn," skaut einhver fram í, "og það vita menn ekki til, að nokkur lifandi maður hafi gert."
Lögmaður leit til sveina sinna. Þeim hafði öllum komið saman um, að ekki væri einleikið um þennan mann á svarta hestinum, sem þeir höfðu verið að elta um nóttina.
"Þetta er hjátrú og vitleysa," mælti hann. "Ég er ekki kominn hingað til að hlusta á draugasögurnar ykkar. Segið mér afdráttarlaust, hvað þið vitið um Hjalta."
Nú höfðu menn fengið málið. Allir skvöldruðu í einu, en sinn sagði hvað. Einn þóttist hafa heyrt, að Hjalti væri úti í Vestmannaeyjum. Annar, að hann hefði siglt til að frama sig í tréskurði og silfursmíði. Þriðji, að hann hefði dottið af Brún og hálsbrotnað, og Brúnn hefði hálsbrotnað líka; þess vegna væru nú báðir gengnir aftur. Fjórði, að hann væri lagstur út og lagstur á fé í heiðinni, og svo framvegis. En langflestir voru þeirrar skoðunar, að hann væri dauður.
"Þetta er tómur þvættingur, sem enginn botnar neitt í," kallaði lögmaður. "Það má ekki nema einn tala í einu."
"Ég hefi heyrt, að lögmaðurinn hafi skorað Hjalta á hólm og fellt hann," kallaði einhver.
Lögmaður leit reiðulega til þess, sem kallað hafði, en gat ekki glöggvað sig á, hver það hefði verið, og í sömu svipan gall í ófyrirleitnum strák á tvítugsaldri, skólastrák úr Þykkvabæjarklaustri:
"Ég hefi heyrt, að lögmaðurinn hafi tekið hann til sín vegna mágsemdanna og láti hann afskrifa eitthvað, sem heitir Corpus juris, - eitthvert lagavit, sem honum veitir víst ekki af."
"Takið hann!" kallaði lögmaður, afar reiður.
Nokkrir af sveinum lögmanns hlupu til með brugðnum atgeirum og ætluðu að grípa manninn, en hann tók á rás beint upp fjallið, og höfðu þeir hans ekki.
Þetta atvik kom þinginu á talsverða ringulreið. En brátt söfnuðust menn þó aftur að lögmanni.
Þá mælti Halldór frá Núpi, og var nokkur móður í rómnum:
"Hingað til höfum við vanist því, kotungar undir Eyjafjöllum, að hafa málfrelsi á þingum og mannfundum, þar sem fullkomin grið eru sett. Og skömm er okkur það, ef enginn þorir að láta það uppi í eyru lögmannsins, sem okkur býr í brjósti. Má ég tala, herra lögmaður?"
"Talaðu," mælti lögmaður þungbúinn mjög. "En sjálfur ber þú ábyrgð orða þinna."
"Það geri ég auðvitað," mælti Halldór. "Ég hygg, að enginn maður, sem hér er staddur, viti neitt um Hjalta, hvort hann er lifandi eða dauður, eða hvar hann er niður kominn. Þá fræðslu ber að sækja til þeirra, sem kunnugri eru. - En það finnst okkur, Eyfellingum, að þetta mál komi okkur harla lítið við. Hér er einungis um ættardeilur að ræða, sem engan ættu að snerta utan ættarinnar."
"Hér er um dóm að ræða, sem fullnægja verður," greip lögmaður fram í.
"Dómar þínir, lögmaður, eru ekki guðs dómar, fremur en dómar annarra manna, síst þegar um einkamál ættingja þinna er að ræða og þar sem þú ert sjálfur sakaraðili. Eftir okkar gömlu lögum er þess aðeins krafist af manneskjum þeim, sem í óvígðum ástum lifa, að þær giftist. Vilji þær ekki giftast og ekki skilja heldur, kemur það fyrst til greina að dæma þeim hegningu. Nú er þér, lögmaður, manna best kunnugt um, hvers vegna þau Hjalti og Anna eru ekki gift. - Og verði farið að rekast í því að taka fé af mönnum hér fyrir það eitt, að þeir hafi ekki sagt til Hjalta á Stóruborg, er hætt við, að einhvers staðar verði þröng fyrir dyrum."
Margraddað "heyr!" og dunandi lófaklapp gall um allan flokkinn.
"Hótanir ykkar, Eyfellinga, skelfa ekki Pál Vigfússon lögmann. Það skuluð þið fá að sjá!" hrópaði lögmaður upp yfir ysinn og var hinn reiðasti.
"Vara þig, lögmaður," hrópaði Halldór á móti, "að ekki þyki hirðstjóra slælegar eftir öðru gengið, sem þér er falið að gæta að og meira mun þykja um vert í kóngsgarði en þetta Hjaltamál. Um þessar mundir er sitt hvað sagt úr Vestmannaeyjum."
Lögmaður sleit þinginu og skundaði burt í hinu versta skapi. Sveinar hans fylgdu honum.
4. AÐ HVAMMI OG FITLögmaður reið eins og leið lá út að Hvammi og ætlaði heim um kvöldið. Hann var svo reiður; að enginn mátti orðum við hann koma.
Hjá Hvammi áði hann. Sigvaldi bóndi var heima og gekk út fyrir tún til lögmanns og bauð honum heim til að þiggja einhverja hressingu. Lögmaður þáði það. Voru þá sveinar hans leiddir til skála og þeim veitt vel, en Sigvaldi fylgdi lögmanni til stofu sinnar og lét bera þeim vín.
Sigvaldi hafði ekki verið á þinginu og vissi ekkert, hvað þar hafði gerst.
Lengi var lögmaður þögull og þungbúinn, en Sigvaldi var eins og hann var vanur; - þar var sama blessað blíðalognið sem ætíð endranær, þessi sæla lognró, sem fór gulbleiku hárinu og björtu, þykkleitu andlitinu svo einkar vel. Þessi rósemi virtist smáfærast yfir á lögmann sjálfan. Þessar kurteislegu viðtökur og þetta góða vín milduðu svip hans og jöfnuðu ofurlítið geðsmuni hans.
Brátt fór að lifna ofurlítið yfir samtalinu. Lögmaður sagði Sigvalda af þinginu, að vísu ekki allt, en þó svo mikið, að Sigvaldi skildi, að eitthvað hafði honum gengið þar á móti og hann var reiður við þá Austurfjöllunga og hugði á að launa þeim lambið gráa við betri hentugleika.
Allt í einu leit lögmaður fast á Sigvalda; tillit hans var orðið dálítið þokukennt.
"Getur þú ekki sagt mér, hvar Hjalti er niður kominn?" mælti hann.
Sigvaldi hristi höfuðið.
"Nei, það get ég því miður ekki."
Eftir litla þögn bætti hann við:
"Og þó ég gæti það, mundi ég ekki gera það."
Lögmaður hvessti á hann augun.
"Hvers vegna ekki?"
Sigvaldi svaraði með sömu róseminni og áður:
"Ég er hræddur um, að það yrði þér fyrir verstu, ef þú gætir náð honum á þitt vald. Ég er hræddur um, að þú ynnir þá eitthvert það verk, sem þú iðraðist eftir alla ævi og margar aldir mundi sverta minningu þína."
"Ég var ekki að leita ráða til þín."
"Nei, að vísu ekki. En ég gef oft meira en ég er beðinn um. Og ráð mín eru gefin í einlægni og alvöru, svo að ég er viss um, að þau móðga þig ekki. Meira að segja: Konungar hafa til þessa ekki þótst yfir það hafnir að hlýða á ráð trúrra og einlægra þegna sinna. Þú ræður sjálfur, hve mikið tillit þú tekur til orða minna."
"Láttu mig heyra ráð þín. Þau spilla engu," mælti lögmaður hálfhæðnislega.
Sigvaldi hélt áfram:
"Hjalti er afbragð annarra manna að atgervi og hæfileikum, en hann er lítillar ættar og félaus. Ef þú nú samþykktir ráðahag hans og Önnu, gerðir hann að mági þínum og efldir hann að fé, mundi þér verða meiri styrkur að honum en nokkrum öðrum manni, og þá ynnirðu líka það verk, sem lengi mundi bera lof þitt meðal komandi kynslóða."
Lögmaður hló gremjulega.
"Já, ég ynni það verk að láta lýðinn kúga mig og uppskera svo fyrirlitningu hans að launum!"
"Að æsa fjöldann gegn sér er að blása mót bálviðri. Þegar fjöldinn rís upp og fylgist að, hefir hann fleygt meiri mönnum úr söðli en þú ert. Hjalti er barn fjöldans, og nú er hann orðinn óskabarn hans. Að mægjast við Hjalta er að tengjast fjöldanum blóðböndum."
Lögmaður stóð upp og bjó sig til brottferðar.
"Ég þakka þér fyrir ráð þín. Ég efast ekki um, að þau séu gefin af einlægum hug. En nú skuluð þið hérna undir fjöllunum sjá annan dans bráðum. Páll Vigfússon lögmaður er þeirrar ættar, sem stælist við andbyrinn. Þið viljið ekki segja mér, hvar Hjalti er. Nú jæja, ég skal finna hann sjálfur. Hingað til er blóð ættar minnar óblandað þrælablóði, og svo skal enn verða. Ef augað hneykslar þig, þá sting það út; það boðorð er eldra en við báðir. - Ég þakka þér fyrir góðar viðtökur og veitingar. Þetta er skilnaðarskálin; hana drekkum við í botn."
"Ég ætla að ríða með þér vestur yfir fljótið, því að það er vont núna. Sólbráð hefir verið til fjallanna þessa dagana."
Lögmaður þáði það með þökkum.
En Sigvalda gekk annað til, þótt hann léti það ekki uppi. Hann vildi sjá um lögmann út fyrir Stein á Fit. Hann vildi vera nærstaddur, ef Steinn yrði á leið lögmanns og lögmaður tæki að spyrja hann sömu spurningunum, sem hann spurði aðra um þessar mundir.
Sigvaldi lét sækja sér hest og reið á stað með lögmanni. Þegar þeir komu út að Fit, riðu þeir einmitt fram á Stein, sem var þá eitthvað á rölti þar neðan við bæinn.
"Þetta er skrítin skepna," mælti lögmaður og hafði ekki augun af Steini.
"Það er fátækur kotungsbjálfi, allur hálfvanskapaður," mælti Sigvaldi. Honum fór að verða hálfórótt.
Steinn gekk á snið við þá glottandi og gaut augunum upp á stórmennin.
"Hann er dvergur," mælti lögmaður. "Dvergar eru oft margvísir. Það væri nógu gaman að tala við hann."
Lögmaður steig af baki og menn hans, Sigvaldi líka.
"Komdu hingað, karl minn," mælti hann, "og sestu niður hjá okkur og segðu okkur eitthvað í fréttum."
Þeir settust allir niður og Steinn hjá þeim.
"Það er allt of mikil æra fyrir mig að sitja hjá slíkum mönnum," mælti hann undur auðmjúkur.
Þessi orð komu með svo kindarlegum málrómi og skringilegum svipbrigðum, að sveinar lögmanns veltust um af hlátri. Steinn lét það ekki á sig fá, en glotti sem áður. Sigvaldi sá það á honum, að hann var við þessari heimsókn búinn.
"Æran er ekki mikil," mælti lögmaður. "Við erum menn allir saman, þó að guð kunni að hafa gert einhvern ofurlítinn mun á okkur. En þú hlýtur að vera fjölfróður, eins og aðrir dvergar. Geturðu ekki sagt mér, hvar Hjalti Magnússon er?"
Sigvaldi horfði hvasst á Stein, til að vita, hvernig honum yrði við þessa spurningu. En Steinn brá ekki svip sínum hið allra minnsta. Hann hugsaði sig um svarið dálitla stund.
"Hjalti Magnússon," mælti hann. "Er hann ekki dauður?"
Andlitið varð allt að totu á orðinu: dauður.
"Ég veit það ekki," mælti lögmaður. "Þess vegna spyr ég."
"Þaðan af síður veit ég það," mælti Steinn.
"Ég skal launa þér það vel og muna þér það lengi," mælti lögmaður, "ef þú getur nú gefið mér þær upplýsingar, sem að haldi koma, eða sem aðeins leiða mig á réttan veg."
"Ég verð að verða af svo góðum hlutum," mælti Steinn. "Ég get því miður engar upplýsingar gefið."
Svo þagði hann um stund og hugsaði sig um.
"En ég kynni að geta bent á mann, sem ef til vill gæti gefið upplýsingar."
Sigvaldi leit reiðulega til hans, en furðaði sig þó á því, hve Steinn var öruggur.
"Hver er það?" spurði lögmaður.
"Það er Hallur bróðir minn."
"Hallur grámunkur!" gullu sveinarnir við.
Það skein í tennurnar á Steini, og glottið á honum var eins og á grimmum skógarapa.
"Hvers vegna heldurðu, að hann geti gefið upplýsingar?" spurði lögmaður.
"Hann er skriftafaðir Önnu systur þinnar."
"Skriftafaðir!" át lögmaður eftir. "Hefir hún enn þá pápiskan skriftaföður?"
"Hann segir það sjálfur."
"Nú, jæja. En hvar er Hallur bróðir þinn?"
"Hann var í Rútshelli síðast þegar ég vissi til."
"Hann er þar enn," gall einhver við.
Nú var runnið upp ljós fyrir Sigvalda. Hann sá það á Steini, að hann gat ekki neitað sér um þá ánægju að hleypa lögmanninum á Hall bróður sinn, - og um leið narra lögmanninn alla leið austur í Rútshelli. Þetta var allt svo snilldarlega hugsað, að Sigvalda langaði til að faðma "púkann" að sér.
"Við snúum við og ríðum þangað," mælti lögmaður eftir litla umhugsun. "Við ríðum þangað undireins í nótt eða snemma í fyrramálið."
"Ég skal ríða með ykkur," mælti Sigvaldi. Hann langaði til að sjá lyktirnar á leiknum.
Lögmaður þakkaði honum. Svo tóku þeir hestana og riðu á stað. Steinn stóð á götubakkanum með húfuna sína í hendinni og glotti á eftir þeim, og Hjalti horfði á allan leikinn ofan úr hellinum.
5. "DAGUR REIÐINNAR"Snemma morguns komu þeir að Rútshelli.
Aðalhellirinn er hár og víður og var nú tómur. En í hliðarhellinum vinstra megin heyrðu þeir söng í munkinum.
Þrep lá upp að hliðarhellinum, og var hann allur minni um sig en aðalhellirinn. Hann nær út úr berginu vinstra megin, og er þar gluggi á hellinum. Nú var hlaðið upp í þennan glugga til hálfs, en þó ekki svo, að næga skímu lagði um hellinn.
Skammt frá glugganum var hlaðinn dálítill stallur úr grjóti. Upp á hann var tildrað helgra manna myndum, sem fleygt hafði verið út úr kirkjunum fyrir skemmstu. Voru sumar þeirra brotnar og skemmdar, og allar báru þær vott kæringarlausrar meðferðar.
Á miðjum stallinum stóð Maríu-líkneski. Framan við það kraup Hallur grámunkur og söng Maríutíðir sínar.
Lögmaður og sveinar hans gengu nú í afhellinn að baki munksins og köstuðu á hann kveðju. Munkurinn lét sem hann yrði þeirra ekki var og hélt áfram að syngja:
"Svararðu ekki kveðjum höfðingja, páfavilluhundur?" mælti lögmaður og ýtti við munknum með atgeirsskaftinu.
- "....Mater divinae gratiae!
- Mater purissima,
- mater castissima,
- mater inviolata,
- mater intemerata,
- mater amabilis,
- mater admirabilis
- .........."
- Móðir guðlegrar náðar.
- Móðirin hreinlífasta,
- móðirin siðprúðasta,
- móðirin ósnortna,
- móðirin óflekkaða,
- móðirin elskulega,
- móðirin dásamlega.
Munkurinn lét það ekki trufla sig, en hélt áfram:
- "....virgo potens,
- virgo clemens,
- virgo fidelis,
- speculum justitiae
- .........."
- Jómfrúin máttuga,
- jómfrúin gæskuríka,
- jómfrúin trygga,
- spegill réttlætisins.
"Segðu mér, hvar Hjalti Magnússon er!"
Munkuririn hélt áfram:
- "...vas spirituale,
- vas honorabile,
- rosa mystica,
- turris Davidica
- ...."
- Kerið andlega,
- kerið virðulega,
- rósin leyndardómsfulla,
- turn Davíðs.
"Hættu, latínuþjarkur, og svaraðu mér!" mælti lögmaður og rak atgeirsskaftið svo fast milli herða munksins, að hann hraut fram á altarið.
Munkurinn reisti sig við og hélt áfram, eins og ekkert hefði í skorist:
- "dona mihi virtutem
- contra hostes tuos!"
- Gefðu mér mátt
- gegn óvinum þínum.
Nú var þolinmæði lögmanns alveg þrotin. Hann sneri geirnum við í hendi sinni og rak oddinn í Maríu-myndina, svo að hún steyptist aftur á bak. Síðan sópaði hann hinum dýrlingamyndunum út af altarinu.
"Ég skal kenna þér, latínudjöfull, að hætta þessari afguðadýrkun og svara siðuðu fólki kurteislega," mælti hann.
Munkurinn þaut upp eins og naðra og það með slíkri ákefð, að lögmaður hopaði ósjálfrátt á hæl fyrir honum.
"Guðníðingur! - Illmenni!" æpti hann, og augu hans loguðu af heift. "Bölvun guðs er yfir þér! Þessir heilögu menn, sem þú hefir hrakið og svívirt, hefna sín. Enginn dýrlingur guðs flytur bænir þínar fram fyrir hásæti þess hæsta. Enginn dýrlingur guðs heldur hendi sinni yfir ferðum þínum á jörðinni! - Þú ert vesalingur mitt í völdum og velgengni, flæktur í táli og augnaþjónustu viðsjálla vina og óheilla sníkjudýra, sem á þér lifa, hreykjandi þér í drambi og mikilmennsku af hlutum, sem enginn þekkir og viðurkennir nema þú sjálfur -!"
"Hættu illyrðum þínum!" æpti lögmaður á móti með steyttan atgeirinn, "og segðu mér, hvar Hjalti Magnússon er!"
Munkurinn stóð fyrir altari sínu, blár í framan af reiði, og tók svo fast á orðunum, að munnvatnið ýrðist út úr honum.
"Ég veit, hvar Hjalti Magnússon er!" æpti hann beint upp í andlitið á lögmanni. "En þú veist það ekki, lögmannsfífl, sem hugsar, að þú getir brotið allt á bak aftur með ógnum og ofstopa. Þú veist hvorki það né annað!"
Lögmaður lagði geirnum fyrir brjóst honum. Tveir af sveinum hans gerðu það sama. Þrír hárbeittir geirsoddar stóðu á brjósti munksins í einu.
"Vita skaltu," mælti hann, "að við feðgar þorum að sjá mannsblóð. Segðu mér undireins, hvar Hjalti er!"
Munkurinn stóð fastur fyrir, og brá honum hvergi. Hann breiddi út faðminn og hóf hendurnar sem til blessunar, um leið og hann hallaði sér fram á atgeirsoddana og hvæsti fram úr sér orðunum:
"Þú hræðir ekki Franciscusarmunk! - Líttu á þessa beru, bólgnu fætur! Síðan ég vék af vegi synda minna og helgaði líf mitt guði, hefi ég gengið berfættur, hversu kalt sem verið hefir og hvernig sem verið hefir undir fæti. Allar ár hefi ég vaðið og synt sumar. Stormar og steypiregn hafa á mér dunið og margsinnis hefi ég teflt við sjálfan dauðann á eyðisöndum, eyðiheiðum eða uppi á reginfjöllum. Hataður og forsmáður hefi ég hrakist milli mannanna og hvergi átt athvarf. - Nei, þú hræðir ekki Franciscusarmunk! - Aldrei hefi ég borið annan klæðnað en ég ber nú. Hver þraut og raun, sem ég hefi liðið, hefir afplánað eina af syndum mínum. Hvert kalsár, sem ég hefi þolað, hver brennandi sviði, sem ég hefi afborið, hefir flutt mig feti nær hinni himnesku paradís og stytt um eina stund veru mína í hreinsunareldinum. Ég hefi beðið hinn heilaga Franciscus að gefa mér kórónu píslarvættisins. Ég hefi beðið guðs móður og alla heilaga menn þess sama...."
"Segðu mér, kjaftaskúmur, hvar Hjalti er!"
"Nei, ég segi þér það ekki. Dreptu mig, ef þú hefir hug og dug til! - Ef nokkur dropi er eftir í þér af blóði þeirra feðra, sem þú varst nýlega að stæra þig af! - Dreptu mig, dreptu mig! - Heilagir kerúbar standa yfir mér á þessu augnabliki, reiðubúnir til að bera sál mína inn í dýrðina til drottins og allra heilagra. Einbúar og píslarvottar standa umhverfis mig og syngja misericordia fyrir sálu minni. Ég heyri óminn af söngnum! - Dreptu mig, ef þú þorir! Blóð mitt skal koma yfir þig! - Ódáðaverkið skal fylgja þér meðan þú lifir. Það skal hrella og skelfa samvisku þína. Það skal ráðast á þig eins og naðra í dauðanum, og það skal fylgja þér fram fyrir dómstól guðs. Þar hittumst við næst. - Dreptu mig! En meðan ég get tunguna hreyft, skal ég mæla þau orð, sem þér verða lengi minnisstæð. - Bölvun skal ég mæla yfir þig og menn þína, bölvun deyjandi vesalings, sem helgað hefir guði líf sitt!"
"Hættu þessum þvættingi og segðu mér, hvar Hjalti er!" mælti lögmaður byrstur.
Í stað þess að svara tók munkurinn með hásri og heiftarfullri röddu að belja beint framan í lögmanninn hinn mikla dómsdagsóð grámunkanna:
- Dies irae, dies illa
- solvet saeclum in favilla,
- teste David cum Sibylla.
- Quantus tremor est futurus,
- guando judex est venturus
- cuncta stricte discussurus.
- Tuba mirum spargens sonum
- per sepulchra regionum
- coget omnes ante thronum.
- ........
- Dagur reiði, dagur bræði
- drekkir jörð með logaflæði,
- votta heilög Völufræði.
- Dauðans ógn! er drottinn alda
- dóm í skýjum fer að halda,
- öllum makleg gjöld að gjalda!
- Hátt mun lúður ljóssins gjalla,
- lifendur og dauða kalla
- fyrir dóminn drottins alla.
Sálmur þessi er talinn vera eftir Franciscusar-munkinn Tómas af Celano (d. 1255) og hefir á síðari öldum mjög verið notaður á allrasálnamessu í katólskum löndum. - Þýðingin er eftir Matthías Jochumsson.
Lögmaður dró að sér atgeirinn, og sama gerðu menn hans. Hann kannaðist að vísu við þetta, sem munkurinn fór með, þó ekki skildi hann það til fulls; en það var einhver máttur í því sem hann gat ekki staðist. Það var sem verið væri að birta honum stefnu fyrir dómstól guðs á hinu gamla móðurmáli kirkjunnar. Það var sem verið væri að kalla eld af himni yfir hann og útskúfa honum frá öllu samneyti við allt, sem heilagt væri, héðan í frá og um alla eilífð.
Hann lét atgeirinn síga og gaf mönnum sínum bendingu um að fjarlægja sig. Þeir voru líka búnir að fá nóg af því, sem þeir höfðu heyrt, og hypjuðu sig fram í aðalhellinn - til þess að hrista úr sér hrollinn og reyna að hlæja að öllu saman.
En lögmaður varð eftir hjá munkinum.
Þegar munkurinn sá, að öll hætta var afstaðin, fór ofsi hans dvínandi eins og eldur, sem smákulnar út. Hann linaðist upp eftir geðshræringuna og fór að skjálfa eins og laufblað. Loks fleygði hann sér á kné við altarið, reisti við Maríumyndina, grúfði sig ofan að fótum hennar og grét.
Lögmaður lét hann gráta stundarkorn og jafna sig. Hann var ekki vonlaus um það enn, að sín för yrði góð.
"Ég ætlaði ekkert mein að vinna þér, munkur," mælti hann undur mildur. "Þú mátt hafa trú þína og guðsdýrkun í friði fyrir mér. Hvort hún er rétt eða röng, kemur mér ekki við. Ég ætlaði aðeins að fá fréttir af þér um það, sem mér ríður á að vita."
Munkurinn stóð upp og var nú allur annar.
Lögmaður leysti frá pyngju þeirri, sem jafnan hékk við belti hans, tók upp úr henni tvo spegilfagra Joachims-dali og rétti munkinum.
"Eigðu þetta fyrir móðgunina," mælti hann, "og biddu svo ofurlítið betur fyrir mér en þú hefir gert."
Andlitið á munkinum varð allt að einu brosi, er hann sá silfrið blika í lófa sínum, og lögmaður efaðist ekki um sigur sinn.
"Guðs þakkir!" mælti hann. "Það, sem mér er gefið, er guði gefið."
Lögmaður færði sig nær honum og mælti lágt og ísmeygilega:
"Segðu mér nú, hvar Hjalti er."
Munkurinn varð undur blíður á svipinn.
"Hjalti er í Paradís," mælti hann.
"Í Paradís -?" át lögmaður eftir. "Hvernig veistu það?"
"Hann er í Paradís. - Hann var sanntrúaður maður. - Ég syng Reguiem aeternam fyrir sálu hans tvisvar í viku, og Anna mín borgar það vel."
Lögmaður stóð og hugsaði sig um. Það var ekki í fyrsta skipti, sem hann heyrði það, að Hjalti væri dauður. Honum lá nú við að fara að trúa því. Gat það verið, að hann hefði ráðið sér bana af ótta við ofsóknir lögmanns? Ekki var það óhugsandi.
En þegar hann leit á munkinn, sem velti fyrir sér silfurdölunum og brosti af ánægju, las hann út úr honum lymskuna.
"Þú lýgur þessu, trúarvilluhundurinn þinn!" mælti hann og rak munkinum rokna löðrung. "Hjalti er ekki dauður."
"Hérna er hin kinnin," mælti munkurinn ofurrólega og sneri sér við.
En lögmaður sneri sér snúðugt frá honum, stökk fram í aðalhellinn og skundaði út.
- Sigvaldi hafði ekki litið af lögmanni og munkinum meðan þeir voru tveir einir í afhellinum. Nú réð hann sér varla fyrir ánægju.
Hann þorði þó ekki að segja nokkurt orð við munkinn að þessu sinni, en sögu skyldi hann segja þeim Önnu á Stóruborg og Steini á Fit, er hann sæi þau næst. Og einhvern tíma kynni Hallur grámunkur að verða á vegi hans seinna.
Hann fylgdist með mönnum lögmanns út úr hellinum. Þegar þeir voru að fara á bak, heyrðu þeir latínusönginn í munkinum inni í hellinum.
- Þegar þeir höfðu riðið vestur fyrir fellið, steig lögmaður af baki og settist niður, mjög þungbúinn. Eftir nokkra stund mælti hann:
"Haldið þið áfram og bíðið mín á Seljalandi, allir, nema tveir. Ég ætla að verða hér eftir. - Þökk fyrir fylgdina, Sigvaldi. Þegar ég fer vestur um, kem ég kannske við hjá þér og þigg fylgd þína yfir fljótið."
6. ERFIÐLEIKAR LÖGMANNSINSLögmaður sat langa stund þegjandi og hugsandi, eftir að menn hans voru riðnir frá honum. Þessir tveir menn, sem hann hafði valið sér til fylgdar, sátu skammt frá honum og biðu, en létu hann ótruflaðan.
Honum fannst sem allt það, sem honum hafði mætt þessa síðustu daga, mundi gera sig vitskertan. Aldrei hefði hann trúað því, þótt einhver hefði sagt honum það fyrir, að svo lítið gæti orðið úr valdi og ríki nokkurs manns. Aldrei hefði hann trúað því, að jafnmikil fyrirlitning fyrir valdinu væri til meðal alþýðunnar. Meðan hann hafði aðeins sýsluna eina til umráða, hafði hann aldrei haft jafntilfinnanlega af þessu að segja og nú, síðan hann varð lögmaður.
Öll barátta hans fyrir rétti sínum og valdi og sæmd ættar sinnar líktist því, að hann væri að berjast við skuggann sinn. Hvert högg var sem höggvið út í loftið. Það hitti hvergi. Ekkert af því, sem honum var andstæðast, var hægt að handsama. Það var umhverfis hann á allar hliðar, en gekk honum úr greipum og glotti að honum, þegar hann hamaðist hvað mest til að hafa hendur á því; - það var almenningsálitið.
Tvisvar eða þrisvar hafði hann heyrt sig nefndan fífl þessa síðustu daga. Hvað eftir annað hafði hann orðið að hlýða á móðgandi dylgjur, meðal annars um það, að hann væri ragmenni, sem ekki þyrði að skora þann mann á hólm, sem hann taldi gera sér smán. Fólkið laug að honum upp í opið geðið á honum og gerði sig að flónum framan í honum, svo að ekkert væri að marka það, sem það segði. Þeir, sem opinskárri voru, hótuðu honum að reisa flokk á móti honum og reka hann af höndum sér með valdi, ef hann gerði annað en þeir vildu. Þeir, sem voru gætnari og honum vinveittari - að hann hélt -, vöruðu hann við og leyfðu sér að leggja honum ráð. Hver óvalinn almúgamaður vogaði að standa uppi í hárinu á honum og hafa í hótunum við hann. Hvert sem hann sneri sér, var ekki annað að fá en skapraun á skapraun ofan. Allir voru á móti honum. Hvað átti hann að gera? Hefna sín, hefna sín! - Þó að hann hefði ekkert gert annað þessa þrjá eða fjóra síðustu dagana en drepa menn, þá hefði hann ekki komist yfir nándar nærri alla, sem höfðu móðgað hann, og þaðan af síður grafið fyrir ræturnar á allri óvildinni. Hann gat að vísu rekið harma sinna á einum og einum manni, þeim, sem mest höfðu gengið í berhögg við hann, og drepið þá, til dæmis munkinn, en við það var lítið unnið. Það mundi ekki skjóta hinum þann skelk í bringu, sem hann vildi og þyrfti á að halda. En það mundi hleypa óvildinni gegn honum í bál og brand, og þá fengi hann líka háyfirvöldin í landinu til að kljást við.
Það lá við, að þessar hugsanir mundu verða honum þyngri en svo, að hann gæti borið þær. Skömmin og fyrirlitningin, sem hann hafði mætt, svall honum í skapi. En gremja hans var máttvana. Hann var sem bundinn á höndum og fótum og gat ekki hreyft sig til hefndarinnar.
Eftir nokkra umhugsun ákvað hann að reyna eina að ferðina enn til að ná takmarki sínu.
Hann kvaddi mennina til fylgdar við sig og reið fram að Stóruborg.
Anna tók honum vingjarnlega, eins og hún væri búin að steingleyma því, hverja heimsókn hann hefði veitt henni nýlega. Hún gerði mönnum hans beina og gekk með honum sjálfum á eintal í svefnloft sitt.
"Ég er orðinn þreyttur á þessu stríði," mælti lögmaður, er hann var setstur niður, og strauk hendinni þunglyndislega um ennið. "Allir rísa á móti mér; allir, hver einasti maður, gera sér að skyldu að storka mér og skaprauna. Það er eins og ég standi í ormagarði, þar sem allir yrmlingarnir bera sig að teygja sig til mín og bíta mig og spýta á mig eitri. Það er lítil mannraun að kreista hvern einstakan yrmling í sundur, en þeir eru svo margir, og bitið hinna brennir mig á meðan. Ég er orðinn þreyttur á að berjast við fjöldann. Allir eru á móti mér!"
"Það er af því, að þú hefir illan málstað," mælti Anna blíðlega. Ofdramb og hroki sigra aldrei. Rangt mál, sem sótt er með valdi og ofurkappi, vekur hvern óspilltan mann til andstöðu, og fyrr eða síðar vex sú andstaða ofbeldismanninum yfir höfuð. Þú mátt þakka guði fyrir það, að almenningur hefir látið þig sjá merki óvildar sinnar svo snemma, að enn er tími til afturhvarfsins, áður en til meiri vandræða er stofnað."
"Getur vel verið. Ég hefi heyrt mörg beisk orð þessa dagana. Ég skil ekki í, að ég eigi þau öll skilið."
"Ég veit ekki, hver orð þú hefir heyrt, eða hvað fyrir þig hefir borið. Ég veit það eitt, að almenningur er undir sömu syndina seldur og við hin. Honum hættir við öfgunum. Það verða menn að afsaka. Og þú hefir til ómildra dóma unnið; það veistu sjálfur."
"Ég kem ekki hingað sem neinn iðrandi syndari," mælti lögmaður. "En ég vildi þó feginn fá enda bundinn á þetta mál og sættast við þig, ef þess væri nokkur kostur."
"Það þykir mér vænt um að heyra," mælti Anna, en það var auðheyrt á málrómi hennar, að hún bjóst ekki við þeim sáttaboðum frá bróður sínum, að saman mundi ganga. "Þú hefðir betur farið þessa leiðina í fyrstu en þá að sýna mér nakið sverðið. Þá hefði kannske eitthvað af þessari armæðu sparast þér. Segðu upp sáttaskilmálana af þinni hendi!"
"Þú verður að láta Hjalta fara af landi burt."
Anna brosti góðlega, eins og hún væri að tala við stórt barn.
"Og fara með honum," mælti hún. "Heldurðu, að okkur mundi búnast þar betur?"
"Nei, yfirgefa hann að fullu og öllu - og giftast öðrum manni."
"Svo-o!"
"Enn get ég útvegað þér gott gjaforð, ef þú vilt mínum ráðum fylgja."
Anna brosti.
"Það er að segja ríkt gjaforð!"
"Ónei. En ég skal leggja honum til þau efni, að hann hafi á við þig og geti gefið þér sæmilega morgungjöf."
"Mikið viltu til vinna!"
"Og ég skal útbúa Hjalta með sæmilegum farareyri og greiða fyrir honum erlendis. En hann verður að lofa því að koma hingað aldrei aftur."
"Og þú sérð enga fleiri agnúa á hjónabandinu en þessa?"
"Ég skal taka tvö af börnunum þínum og sjá þeim fyrir uppeldi á minn kostnað. Hvað get ég þá gert meira til samkomulags?"
"Nei, það geturðu sjálfsagt ekki. En hvað er allt þetta betra en lofa okkur Hjalta að giftast?"
"Ég vil ekki blanda ætt okkar smalablóði."
Anna hló.
"Solveig ríka Þorleifsdóttir tók Sigmund prest í sæng sína að manni sínum lifandi. Veistu nema hann hafi verið af smalablóði? Sonur þeirra var Jón lögmaður. - Solveig Björnsdóttir, frænka okkar, bjó um mörg ár í Bolungarvík með Jóni Þorlákssyni, sem hún fékk ekki að eiga vegna fátæktar hans. Þau áttu fjögur börn saman. Hann var mestur listaskrifari, sem sögur fara af hér á landi. Hann skrifaði eftir andlátið orðin: "gratia plena, dominus tecum", því að fingurnir, sem hann hafði skrifað svo margt fagurt með, gátu ekki stirðnað. Hvort er nú meira um vert: börnin, sem hún átti með honum, eða börnin, sem hún átti með manninum, sem hún var gift, að honum látnum? - Ólöf ríka, frænka okkar, sem ættinni hefir hingað til þótt sómi að, tók einn af sveinum föður síns til fylgilags við sig. Afkomandi þeirra var Gissur biskup. Verður hærra komist í tigninni hér á landi?"
"Já, Gissur biskup! - Þar komu fram gjöld syndarinnar. Þar komst smalablóðið til valda!"
"Séu allar yfirsjónir höfðingja á þessari öld smalablóði að kenna, þá kemur það æði víða fram. Menn fara þá að efast helst til mikið um dyggðir mæðra okkar. - Nei, látum hina dánu liggja ódæmda. Nú skulum við halda okkur við efnið. Þú ætlar að gifta mig burt sem ekkju. Er ekki svo?"
"Sem jómfrú verðurðu varla gefin héðan af."
"Sennilega ekki," mælti Anna með beiskri glettni. "En þú hefir mann á takteinum, sem gerir sér þetta að góðu?"
"Mann af góðum ættum...."
"...sem aðeins vantar fé til að geta notið sín," greip Anna fram í. "Ég kann þetta utan bókar. Hann ætlar að vinna þetta til fjárins, að taka mig að sér! ha-ha-hæ! Og þetta ætlast þú til, að ég geri mér að góðu!"
"Þú leggur allt út á versta veg."
"Guðrún Gottskálksdóttir neitaði að giftast eftir fall sitt. Hún hafnaði því, að festarmaður hennar, biskupinn, tæki hana í sátt við sig. Hún vildi ekki byrja hjúskap sinn með auðmýkt og fyrirgefningarbón. Heldurðu, að ég sé skapminni en hún?"
Lögmaður þagði nokkra stund. Þegar hann hóf máls aftur, var sem bænarkveinstaf brygði fyrir í rómnum:
"Ég er barnlaus, Anna mín," mælti hann, "og líklega dey ég barnlaus. Þá eiga börn ykkar, systra minna, að erfa mig að lögum. Ég hefi brotist upp úr fátæktinni og sjálfur komið mér fram að mestu, og nú er ég lögmaður yfir hálfu landinu. Það, sem ég á til, hefi ég dregið saman með súrum sveita og þungum áhyggjum. Heldurðu, að mér standi á sama, hvað um það verður eftir minn dag? Nei, það á að ganga til þeirra, sem halda minningu minni í heiðri og færir eru um að hefja ættina okkar til nýrrar vegsemdar."
"Börn Hjalta eru vel til þess fallin."
"Smalabörnin þín fá engan eyri af mínum eigum," mælti lögmaður nokkuð harðlega. Síðan bætti hann við í mildum bænarrómi: "Það er í fyrsta - og skal verða í síðasta - skiptið, sem ég bið þig vel; gerðu nú þetta að vilja mínum. Skildu við þennan Hjalta og taktu þeim manni, sem ég vil, að þú eigir."
"Við skulum ekki tala fleira um þetta," mælti Anna. "Það, sem þú ferð fram á, nær ekki nokkurri átt."
"Hvers vegna nær það engri átt?"
"Hjalta einum hefi ég gefið ást mína. Ég á enga ást til handa neinum öðrum, - ekki svo mikið sem neista af ást."
"Maður, sem elskar þig, vinnur ást þína smátt og smátt, ef þú aðeins þiggur ást hans."
"Hvers vegna ertu að ala á þessu lengur? Sérðu ekki, að það er óhugsandi? - Sérðu þá engin ný tormerki á, að það geti tekist?"
Lögmaður horfði á hana hvasst og hálfspyrjandi. Svo var sem eitthvert ofboð kæmi yfir hann. Hann spratt á fætur, tók um báða handleggina á Önnu og kreisti þá, eins og hann ætlaði að nísta hold frá beini. Anna leit framan í hann og sá tárin brjótast fram í augun á honum. Hún sá það á honum, að hann gat ekkert orð sagt. Hann hafði varla vald á sjálfum sér. Hann þrútnaði af geðshræringu, eins og hann ætlaði að springa. Svo sleppti hann henni, lét fallast ofan að borðinu með hendurnar fyrir andlitinu og grét.
"Taktu þér ekki þetta svona nærri, bróðir!" mælti Anna og lagði höndina hægt á öxlina á honum. "Gerðu heldur það eina, sem hægt er að gera til að bæta úr því. Lofaðu okkur Hjalta að giftast."
Lögmaður spratt upp eins og eldur hefði snert hann. Hann stríddi af alefli við grátinn og reyndi að tala með styrkri rödd:
"Þú skalt hætta þessum frjósama frillulifnaði þínum. Hingað til hefi ég hlífst við að beina hefndinni gegn sjálfri þér. Nú skal ég ekki gera það lengur. Og Hjalta skal ég drepa, hvar sem ég næ honum. Þótt allir menn og allir djöflar rísi gegn mér, skal ég þvo þessa smán af ætt minni, - þvo hana burt með blóði, því að öðru vísi gengur hún ekki af úr þessu."
Að þessu mæltu gekk hann úr loftinu án þess að kasta kveðju á systur sína. Anna stóð fyrst langa stund sem höggdofa, föl sem nár af geðshræringu. Svo setti að henni ákafan grát.
SJÖTTI ÞÁTTUR
1. OFSÓTTAR ÁSTIR
Það var dæmalaust stríð, sem yfirvöld kirkjunnar og landsins áttu í þessi árin. Það var stríðið við ástina.
Lengi hafði hún verið kúguð og þrælkuð undir harðstjórn katólska kirkjuvaldsins. Hún hafði brotist undan því, þegar það var í andarslitrunum, eins og svo margt annað, og brotist undan öllum lögum guðs og manna um leið.
Og þetta hafði fengið að ganga óáreitt, meðan stóð á stímabraki siðaskiptanna. Þá gátu menn ekki sinnt því í svipinn.
En nú voru þeir skörungar sestir á báða biskupsstólana, herra Ólafur Hjaltason á Hólum og herra Gísli Jónsson í Skálholti, sem gerðu það vegna "guðs dýrðar" að taka almennilega í taumana.
Og meðan kóngsvaldið á Bessastöðum reytti blóðfjaðrirnar af klaustrunum og biskupsstólunum, börðust biskuparnir við ástina og kölluðu hástöfum til konungsins um hjálp.
Þeir könnuðust að vísu við það, að ástin væri góð í sjálfu sér og nauðsynleg mannkyninu til viðhalds og þessu myrka mannlífi til gleði, líklega fremur gjöf frá guði en djöflinum. Hún veitti frjóvgun og blessun yfir eyðimerkur mannlífsins, eins og dögg af himni.
En nú var hlaupinn ofvöxtur í ástina um allt land. Hún flóði yfir alla bakka, eins og á í vorleysingum. Og hún var ekki eins hrein og tær og hún átti að vera. Hún var allt of víða orðin að átakanlegasta ástarsiðleysi.
Í þessu ástarsiðleysis-syndaflóði óðu nú blessaðir biskuparnir ásamt prestum, lögmönnum og lögréttumönnum, til þess að reyna að stífla það og hemja og leiða það í réttan farveg. Kóngsvaldið sendi þeim kveðju guðs og sína þeim til styrkingar og uppörvunar og bar gogginn í bestu jarðirnar, meðan þeir voru vandast við látnir.
Helmingadómar veraldlegra og andlegra gæðinga voru settir bæði syðra og nyrðra til að ráða fram úr ósköpunum. Andar biskupanna hvíldu yfir þeim. Og það voru ekki lítil ósköp, sem fyrir þá bar af spillingu!
Menn gengu að eiga konur, sem lengi höfðu verið hjákonur þeirra, meðan þeir enn voru giftir fyrri konum sínum. Menn voru steinhættir að virða nokkurs hinar ströngu reglur fyrri tímanna um frændsemismágsemdir, en giftust nú frænkum sínum. Menn föstnuðu sér konur að morgni, giftust þeim að kvöldi og gengu í sæng með þeim næstu nótt. Ófyrirgefanlegt bráðlæti! - Hitt var þó verst af öllu, að menn giftust fyrir sunnan og áttu aðra konu fyrir norðan eða austan. Sumir áttu konu í hverjum landsfjórðungi og heyrðu undir lögsagnarumdæmi beggja biskupanna. Og ofan á þetta bættust allir þeir, sem létu gersamlega vera að gifta sig, heldur létu ávöxt ástarinnar spretta upp og sýna sig á sínum tíma. Þeir, sem það gerðu, voru eins og landafjandar um allt og ógerningur að hafa hendur á þeim.
Dómsmennirnir sveittust blóðinu af heilagri vandlætingarsemi og hristu höfuðin yfir þessu djöfulsins vélaneti, spillingu kynslóðarinnar. En þeir vöruðust það mest af öllu að líta ógætilega hver framan í annan. Þeir þurftu að leggja andlitin í "frómar" fellingar, áður en þeir litu upp, því að annars gat augnaráðið skilist alla vega. Fleiri en einn af þeim höfðu flækt sig í netinu, - eða þá nánustu vandamenn þeirra.
Það var ekki allt sauðsvartur almúgi, sem djöflinum tókst að leiða afvega. Hann virtist leggja sig langmest eftir stórmennum, og það var alveg ótrúlegt, hvað honum vannst þar á. Einmitt "góðu" mennirnir, "guðs vinir," stoðir og styttur "guðs ríkis", voru veikastir fyrir.
Dæmin voru mörg og átakanleg. Það var ekki vert að hafa hátt um sum þeirra.
Þó gerði enginn það, sem Anna á Stóruborg gerði, að geyma manninn sinn einhvers staðar uppi í fjallafylgsnum og eiga með honum hvert barnið eftir annað, án kirkjulegrar blessunar.
Þetta tilfelli var svo einstakt og sjaldgæft, að þeir voru ráðalausir með það, blessaðir. Enda lá það ekki beinlínis fyrir þeim. Hneyksli var það - auðvitað - og illt til eftirdæmis. Hvernig færi, ef fleiri færu að taka upp á þessu, að gifta sig þannig sjálfir, hvað sem hver segði, og geta af sér hópa af börnum, sem ekki væru réttborin? Hvað yrði úr myndugleik foreldra yfir börnum sínum og bræðra yfir systrum sínum, ef slíkt væri liðið?
En þó að þetta væri hneyksli, heyrði það hvorki undir hórdóm né fjölkvæni, ekki heldur undir frændsemismeinbugi, og ekki undir lauslæti heldur. Anna átti öll börn sín með sama manninum. Allir vissu, hvernig á því stóð, að hún giftist ekki Hjalta. Og eina ráðið til að gera gott úr því öllu væri að brjóta stíflyndi lögmannsins á bak aftur og láta þau giftast, hvað sem hann segði.
Þetta var ættarmál, langtum fremur en almenningsmál. Þess vegna var best að leiða það hjá sér, svo lengi sem hægt væri, og láta þau fást um það sín á milli, systkinin. Nóg var samt til að bera niður á, og það af öllu verra tagi.
Lögmaðurinn var æfur yfir því með sjálfum sér að finna hvergi samúð þeirra, sem hann studdi þó að því að vinna bug á löstunum annars staðar á landinu. Fáir höfðu hreinlyndi til þess að segja honum það berlega, að þetta væri honum einum að kenna. Hann hefði undireins átt að lofa systur sinni að eiga þann mann, sem hún sjálf hefði valið sér; hann hefði mátt þekkja skap hennar svo, að ekki tjáði að setja sig gegn því, sem hún tæki fyrir. Og lyktirnar yrðu þær, að hann yrði að samþykkja hjónaband Hjalta og hennar, hvort sem honum væri það ljúft eða leitt, því að öll von væri úti um það, að hún yrði öðrum manni gefin, en þau héldu áfram að lifa hjúskaparlífi og börn þeirra fjölguðu óðum. Þetta sögðu fæstir, en hann fann, að það lá þeim á vörum, þó að þeir hefðu ekki hug á að segja það upp í opið geðið á honum. Að minnsta kosti hliðruðu þeir sér hjá því að skipta sér nokkuð af þessu máli. Þeim fannst honum standa næst að jafna það.
Þetta kalda afskiptaleysi gerði lögmanninn hálfu gramari. Hér var, eins og annars staðar, ekkert til að hafa hendur á, ekkert til að andmæla, ekkert til að reka öfugt ofan í menn, ekkert nema kalt kæruleysisglott, hæðnisglott, sem smaug í hann eins og kalt stál. Hann varð að bera þetta eins og hvert annað böl; hann gat því ekki af sér hrundið nema með því einu að gera einhvern enda á þessu athæfi systur sinnar. En það var hægara sagt en gert, því að þar var mótstaðan.
Hann gerði allt, sem hann gat upp hugsað, til þess að fá systur sína til þess, með illu eða góðu, að hætta við Hjalta. En allt kom það fyrir ekki. Hún tók honum ætíð vel og sýndi honum systurlega alúð í öllu viðmóti, en þegar talið barst að Hjalta, endaði allt með skelfingu. Venjulegast kvöddust þau í vonsku, en næst þegar þau sáust, heilsuðust þau sem systkini. Þau sáust að vísu hvergi nema heima á Stóruborg, því að Anna heimsótti hann aldrei, en tók honum ætíð sómasamlega, er hann kom til hennar. En hvenær sem hann kom, þó að hann kæmi að náttarþeli og væri sannfærður um, að hann kæmi öllum að óvörum, hitti hann þar aldrei svo á, að Hjalti væri þar. Hann sá hann aldrei, fremur en hann væri enginn til; hann sá aldrei annað en börnin hans.
Hann fékk prófastinn í Holti, séra Snorra Hjálmsson, til þess að tala um fyrir systur sinni. Séra Snorri fékk bestu viðtökur. Hann fékk ekki utan undir með kálfskinnsstranga, eins og Hallur grámunkur hafði fengið, er hann kom í sömu erindum; en hann fékk ekki heldur neina jörð. Hann fékk aðeins nýja "missíón" að rækja - að tala um fyrir bróðurnum!
Allt var til einskis. Lögmaðurinn stóð örmagna og ráðþrota frammi fyrir þessari "óvinnandi borg", - hann, annar voldugasti maður landsins, varð að gera sér að góðu að kyngja í sig gremjunni og heyra hláturinn ískra í öllum mönnum að máttleysi hans. Svo framarlega sem hann átti ekki að grípa til einhverra óyndisúrræða gagnvart systur sinni, sem hver maður mundi leggja honum út til svívirðingar, - svo framarlega sem hann ætti ekki að drýgja systurmorð eða eitthvað, sem lítið væri betra, var hann alveg uppgefinn. Að gefa það eftir, sem hann hafði svarið við sverð sitt og riddaralegan drengskap, og láta þau giftast, kom honum síst af öllu til hugar. Það stóð jafnan fyrir honum sem hin mesta af öllum fjarstæðum.
Það eina, sem hann gat hugsað til, var að ná Hjalta á vald sitt, og það var hann aldrei vonlaus um. Hann gat ekki trúað því, að nokkur maður gæti leynst svo til lengdar, og það í nágrenni við hann sjálfan, að ekkert spyrðist til hans og lögleg yfirvöld næðu honum aldrei. Slíkt fannst honum svo gersamlega óhugsandi, að hann afréð að láta allar alvarlegar tiltektir bíða.
Margsinnis krafðist hann Hjalta af Önnu, heimtaði, að hún lofaði honum að sjá hann; hann gæti þó varla gefið systur sína manni, sem hann fengi aldrei að sjá, - vissi varla, hvort væri jarðneskur maður eða andi og yfirnáttúrleg vera. En hann fékkst aldrei til að gefa systur sinni skýlaust og eindregið loforð um full grið honum til handa. Hann var ekki viss um, að hann gæti stillt sig um að taka Hjalta fastan, ef hann kæmist í færi við hann. En gæfi hann honum griðaloforð, þótt ekki væri nema munnlegt við systur sína, taldi hann sig bundinn því. Orð sitt vildi hann ekki fremur brjóta en eiða sína. Enda mundi ekki systir hans hlífa honum, ef hann gerðist griðníðingur.
En of oft hafði hann hótað að drepa Hjalta til þess, að Anna treysti því að láta hann koma honum fyrir augu, án þess að honum væri heitið fullum griðum.
Og ásetningur hans var að drepa Hjalta, ef hann næði honum ekki lifandi á vald sitt og gæti komið honum utan eða rutt honum úr vegi sínum á einhvern annan hátt. Hann hataði þennan huldumann af öllu hjarta sínu, - þennan mann, sem var honum loft og eimur, hvenær sem hann hjó til hans, sem alltaf stóð yfir honum, gerði honum skömm og skapraun og hló að öllum hamagangi hans. Að eiga óvin og sjá hann aldrei, gat gert meðalmann vitlausan. Að vera lögmaður og sýslumaður, gæddur valdi yfir lífi og dauða, og vita mann í sýslunni hjá sjálfum sér, - mann, ekki upplogna söguhetju, mann, sem ef til vill horfði á hann daglega, þegar hann var á ferð um sýslu sína, horfði á hann úr einhverju fylgsni og gaf honum langt nef, mann, sem allt gerði honum til ills, upphaf allra skaprauna hans og allrar þeirrar hæðni og lítilsvirðingar, sem honum var sýnd, hvar sem hann var staddur, - vita þennan mann alltaf yfir sér og geta aldrei svalað skapi sínu á honum, aldrei svo mikið sem séð hann, aldrei svo mikið sem spurt hann uppi!
Það komu köst að honum, svo að hann var viðþolslaus af óþreyju eftir því að ná í Hjalta. Hann steypti sér eins og gammur yfir Stóruborg á náttarþeli og lét rannsaka þar hvert hús, en Hjalta fann hann þar aldrei. Hann spurði eftir honum á hverju manntalsþingi, sem hann hélt undir fjöllunum, en fékk aldrei neitt svar. Hann sendi njósnarmenn heiman frá sjálfum sér til þess að komast að því, hvar Hjalti væri. Þeir voru narraðir og það var logið í þá, og þeir komu til hans jafnnær eða verra en það. Hann fór að gruna þá sjálfa um það, að þeir væru sér ekki sem trúastir. Hann lofaði þeim allálitlegri fúlgu, sem gæti fært sér Hjalta lifandi. En enginn varð til. Það var sem öll sýslan stæði í kringum hann og gæfi honum langt nef í laumi, ásamt Hjalta sjálfum.
Þannig liðu árin.
Lögmaður tók sér þetta svo nærri, að honum fannst mörgum stundum, þegar hann hugsaði um það, sem það mundi gera sig geðveikan. Hann vildi ekki setja fé til höfuðs Hjalta, sem þó kynni að verða það, sem helst hrifi. Hann treysti sér ekki til að taka morðingja undir vernd sína og efaðist um, að hann gæti fengið nokkurn mann til að dæma hann sýknan. Hjalti var ekki lífssekur nema við hann einan. Hann einn hafði málsbætur, ef hann tæki hann af lífi, en þær málsbætur hafði enginn annar. Hjalti varð að lifa, þar til fundum þeirra bæri saman, hvenær sem það yrði. En meðan hann lifði, lá hann á honum eins og mara, - eini maðurinn á landinu, sem varpaði skugga á alla gleði hans og hamingju, eini maðurinn á landinu, sem vald hans virtist engin áhrif hafa á, eini maðurinn á landinu, sem hann hataði og vildi feginn feigan.
Annars var Páll lögmaður fremur spakur maður og friðsamur og kom hvarvetna fram til sátta og málamiðlunar. Hann bar gæfu til þess, ásamt fleiri góðum mönnum, að koma sættum á í Vatnsfjarðarmálunum, sem staðið höfðu yfir hátt upp í 80 ár. Verslun Íslendinga var þá mestöll í höndum Hansastaðakaupmanna, sem héldu Danakonungum í járngreipum vegna skulda og létu þá gefa sér réttindi umfram aðra kaupmenn í löndum sínum. En aftur voru stöðug illindi milli Dana og Englendinga og hvarvetna reynt að bola Englendingum frá verslun hér við land; enda stöðugar skærur milli þeirra og Hansastaðamanna. Lögmaður sá það vel, hve hróplegt ranglæti þetta var og íslenskri alþýðu til helbers tjóns, að lofa mönnum ekki að keppa frjálsum um verslunargengið. Hann studdi því verslun Englendinga, hvar sem hann fékk því við komið, og stóð þar öndverður öllum öðrum umboðsmönnum konungsvaldsins. Fyrir þetta hlaut hann mikla vináttu Englendinga og mikla óvináttu Þjóðverja, sem voru voldugri og -áttu konungsvaldið að bakjarli. Þetta, með öðru fleira, varð til þess, að hann hafði fleira að hugsa um en Hjalta og fleiru að sinna en elta hann og reka harma sinna á honum. - - -
En undir fjöllunum var viðureign þeirra Hjalta og lögmanns löngum kært umtalsefni.
Alls konar kynjasögur sköpuðust um viðureign þeirra, sem aldrei höfðu við borið.
Hjalti, sem enginn maður hafði séð um mörg ár, var orðinn ævintýrahetja sveitarinnar. Allir vissu nú, að hann var maðurinn á svarta hestinum, sem reið um þvera byggðina við og við, einmitt þegar menn áttu hans síst von, aldrei nema í náttmyrkri, og einmitt helst, þegar veður var illt eða ískyggilegt. Margir höfðu séð hann ríða heim að Stóruborg. Þar kom ætíð skuggi í mannsmynd fram undan bæjarveggnum og hirti Brún, teymdi hann inn í hesthús, þar sem ætíð stóð auður bás og fullur stallur handa honum. En Hjalti hvarf inn í vegginn, þar sem enginn vissi dyra von.
En þó að margir hefðu séð hann ríða heim að Stóruborg, hafði enginn séð, hvaðan hann kom eða hvert hann fór. Hann kom eitthvað utan með fjöllunum, - en hvaðan? Hvað langt utan með fjöllunum? Það vissi enginn. Menn höfðu orðið hans varir vestur undir Núp, en enginn hafði neitt af honum að segja þar fyrir vestan. Hann reið aldrei, þegar vel var sporrækt, og hann reið sjaldnast götuna; en slóðir er illt að rekja á grundunum undir Eyjafjöllum. Brúnn hans var í Fit, en það voru engar minnstu líkur til, að Hjalti væri þar líka, því að menn höfðu það fyrir satt, að hús hefðu verið margkönnuð hjá Steini og margreynt að spyrja hann og veiða. En Steinn kvaðst eiga Brún, og allir vissu, að hann léði engum manni hesta og gerði yfirleitt engum manni neinn greiða. Menn voru helst þeirrar trúar, að Hjalti væri alls ekki á Brún sínum, er hann reið um sveitina. Brúnn hans væri aðeins látinn villa mönnum sjónir. Sigvaldi blíðalogn var einn af helstu talsmönnum þeirrar skoðunar.
Margir voru þeirrar skoðunar, að Hjalti væri geymdur í Dal hjá Eyjólfi, sem gerði það vegna frændsemi við Önnu. Heimafólk í Dal hafði þó aldrei orðið vart við hann þar. En oft voru menn sendir á milli þeirra Önnu og Eyjólfs með svo undarleg skilaboð, að enginn maður skildi þau, og lagt ríkt á við boðberann að skila boðunum orðrétt.
Enn voru þeir, sem fullyrtu, að Hjalti væri inni á Þórsmörk, og sú saga komst í slík hámæli, að njósnarmenn lögmanns höfðu hana heim með sér eins og óyggjandi vissu, og lögmaður gerði út menn inn á mörkina til að leita Hjalta uppi og færa sér hann. Mennirnir lentu í mestu hrakningum í þveránum, sem um Þórsmörk renna, og leituðu um mörkina heilan sólarhring. Þeir fundu þar villifé í þrem eða fjórum reyfum og ómarkað fé, sem enginn maður taldi til tíundar. Þeir fundu þar beinagrindur af fé, sem fallið hafði í vetrarharðindunum, og leifar af fénaði eftir varginn. - En Hjalta fundu þeir ekki og ekki minnsta vott um veru hans þar.
Þegar spurt var um Hjalta, var hann alls staðar. Hann var austur á Skógaheiði og hélt þar til í skógi vöxnum hólma í Skógaá. Hann var í djúpum helli undir Guðnasteini uppi í miðjum Eyjafjallajökli; þar var jarðhiti svo mikill, að gufa sást út úr hellinum, og þar höfðu tröll búið í fyrndinni. Hann var undir fossi í Ásólfsskálaheiðinni; þar lék hann sér að því að veiða silunga í ánni og fugla uppi á heiðinni. Hann var í brimhelli frammi við sjóinn; þeir, sem komu seint að landi á kvöldin, sáu ljós í hellinum hjá honum. Og hann var í jarðhúsi undir bænum á Stóruborg, þrátt fyrir allar leitir lögmannsins. Allar þessar sögur fengu njósnarmenn lögmannsins og færðu honum.
Og ekki nóg með þetta. Hjalti var alltaf að mæta lögmanninum sjálfum og mönnum hans, alltaf að þvælast fyrir þeim. Margar kynjasögur voru til um það, að þeir hefðu mætt honum um hábjartan dag og ekki þekkt hann; hann hefði heilsað þeim kurteislega, talað við þá og sagt þeim einhverja söguna um það, hvar Hjalta væri að finna. Þeir höfðu líka oftar en einu sinni séð hann í myrkri og elt hann og misst hans, og þeir höfðu séð mann á dökkum hesti, sem þeir höfðu verið sannfærðir um, að væri Hjalti, og elt hann og elt, þar til þeir loksins náðu honum og færðu lögmanni hann. Þá var það allt annar maður. Og loks var til saga um það, að Hjalti hefði eitt sinn riðið í flasið á þeim tólf saman. Hann hefði þá ekki linnt á sprettinum, en riðið beint á þá með atgeirinn fram undan sér, riðið tvo af þeim af baki og þotið gegnum fylking þeirra eins og hvirfilvindur. Þegar þeir hefðu farið að elta hann, hefði brátt dregið í sundur, og loks hefði hann horfið þeim.
Hjalti var orðinn eins konar fósturbarn sveitarinnar, gælubarn, sem var alls staðar og hvergi, og ímyndun manna óf um hann undarlegan töfrabúning, nokkurs konar huliðshjálm. Hann var sveitinni til metnaðar, því að engin af nágrannasveitunum átti annan eins kjörson. Eiginlega voru það aðeins Fljótshlíðingar, sem eftir honum sóttu, og þá skyldi hundur mega heita í höfuð Eyfellinga, ef þeir reyndu ekki til þess ýtrasta að halda manni fyrir Fljótshlíðingum. Að vísu voru til menn undir fjöllunum, sem vinátta og verðlaun lögmanns freistuðu, en fyrst og fremst var það ekkert smáræðis handarvik að ná Hjalta lifandi og færa hann til lögmanns, en hitt var þó engu síður ísjárvert, að baka sér óþokka allra sveitunga sinna og hefnd Önnu á Stóruborg, því að hana átti hver maður vísa, sem sviki Hjalta og segði til hans.
Og þó að allur almenningur væði í villu og svíma um það, hvar Hjalti væri, voru til menn undir fjöllunum, sem ekki voru svo skyni skroppnir að skilja það ekki, að Hjalti hlaut að vera einhvers staðar í nánd við Fit, úr því að Steinn geymdi hestinn hans. Því að þeir lögðu ekki minnsta trúnað á það, að Steinn ætti þennan hest og Hjalti væri á allt öðrum hesti, þegar hann væri á ferð. En þeir þögðu um skoðun sína og héldu öðrum í villunni. Þeir vissu, hvað við lá, ef Hjalti fyndist, og langaði ekki til að eiga neinn þátt í því. Þessi þögn varð að eins konar orðvana samkomulagi milli bestu manna sveitarinnar, - eins konar héraðssamþykkt, með atkvæðum allra bestu manna. Hjalti var undir öruggri vernd þessarar almennu þagmælsku.
Anna sá þetta vel og var sveitungum sínum þakklátari fyrir það en hún mætti orðum að koma.
En nóg var samt, sem þjáði hana öll þessi ár. Þó að þessi samhygð manna væri hlý og blíð, var engin trygging fyrir því, að ekki væru til undantekningar frá henni, en ekki þurfti nema einn mann til að spilla velvild og viðleitni allra hinna í þessu efni, - einn mann, einn einasta mann, einhvern ódreng, sem keypti sér með því hylli lögmannsins eða fyrirgefningu hans á einhverri yfirsjón. Hver vissi, hvar sá maður væri eða hvenær hann kæmi fram? Hver vissi, hverjir kynnu að vera búnir að komast að því sanna um dvalarstað Hjalta og háttalag hans allan þennan langa tíma? Henni stóð geigur af hverjum þeim manni, sem hún þekkti ekki að fullu og gat treyst. Ef einhver gerði eitthvað á hluta hennar, þorði hún ekki að hefna sín á honum af ótta fyrir því, að hann kynni að vita eitthvað meira en hana grunaði og ljósta því upp í hefndarskyni. Hún var orðin það, sem hún síst vildi verða, hrædd við alla menn. Ef einhver maður vissi um angist hennar og ótta, gæti hann hæglega notað sér það til að beygja hana enn betur og fá hana til einhvers, sem hún síst vildi. Hún, sem verið hafði skaphörð og augnhvöss eins og örn, farið sínu fram við hvern, sem hún átti við, og haft yndi af að stæla menn til mótþróa gegn sér, til þess að vinna því meiri sigur á þeim, var nú orðin mild eins og dúfa, ætíð á undanhaldi undan áleitni annarra og ætíð reiðubúin til að leggja sig í líma til að fyrirbyggja þrætur og missætti. Vel vissi hún það, að þannig var hún vinsælli og alþýðunni betur að skapi, en hún saknaði skörungsskapar síns og var síóánægð með sjálfa sig. Þessa Önnu, sem hér stóð, hræddist ekki nokkur maður. Kvíðinn og umhyggjan um hinn leynda föður barna hennar hafði bitið úr henni allan bakfisk. Að vísu geymdi hún sér afl sitt og skap til þeirrar stundar, að ekkert undanfæri væri frá því að ganga fram fyrir skjöldu og berjast opinberlega um Hjalta við bróður sinn, - berjast í eiginlegum skilningi með vopn í höndum, eins og Hólmfríður föðursystir hennar hafði barist við föður hennar, berjast upp á líf og dauða. Einu sinni hafði hún hugsað um það eins og skemmtilegasta kjarnann í leiknum, eins og kórónuna á þessu öllu saman. Nú hugsaði hún til þess með skelfingu, ef að slíku þyrfti að reka. Hvað mundi verða úr henni? Vel gæti verið, að hennar gamla hetjuskap blossaði upp við hættuna ofurlitla stund, vel gæti verið, að hún gæti haldið þeim anda við lífið, þegar mest reyndi á, að láta heldur drepa sig en láta undan. En hvað margir mundu fylgja henni? Um það hafði hún ekki verið að spyrja í gamla daga, en nú gat hún ekki hjá þeirri spurningu komist. Hvað náði þessi velvild langt, sem leyndarmáli hennar og Hjalta var sýnd? Náði hún út í dauðann? Mundu eggjanir hennar verða nokkurs virðar, er hún brytist fram með brugðnu sverði gegn lögmanninum, bróður sínum? Nei, hún yrði ofurliði borin. Þeir, sem hún hafði treyst, svikju hana á síðustu stundu, eins og Borgfirðingar höfðu svikið Jón biskup Arason. Þeir fáu trúu féllu í ónáðina með henni og yrðu látnir gjalda hennar grimmilega, án þess hún gæti nokkuð liðsinnt þeim. Mótstaða hennar hefði æst reiði bróðurins til stjórnlausrar grimmdar. Hjalti yrði kvalinn í hel fyrir augunum á henni. Vitfirrtur af píslum mundi hann bölva henni á banastundinni og beita síðustu kröftunum til að reyna að hrækja framan í hana. En uppi yfir henni stæði lögmaðurinn með köldu, miskunnarlausu sigurglotti. Nú hafði hann efnt stóryrði sín, nú kæmi til hennar kasta að efna sín.
Hún skalf af ótta, er hún hugsaði um þetta, en hún grét ekki yfir því. Áður hafði hún oft grátið yfir hugsunum sínum í kyrrþey, nú voru táralindir hennar farnar að verða tregari; hún hafði grátið meira en nokkur vissi. Hún talaði ekki heldur um sorgir sínar og áhyggjur við neinn. Hún, búforkurinn mikli, sem verið hafði, sinnti nú búi sínu lítið og trúði öðrum fyrir því að mestu. Efni hennar fóru ekki vaxandi að sama skapi og þau höfðu áður gert. Þau gerðu nú varla betur en haldast við. Hún sama sem lokaði sig inni hjá börnum sínum og varði öllum kröftum sínum fyrir þau með móðurlegri alúð. Þar var sólskinið hennar. Þar var friðurinn og gleðin og þar var hvíldin fyrir hugann mitt í annríkinu. Þessi hópur var nú orðinn svo stór, að hann þurfti á henni heilli að halda.
Hún var orðin þreytuleg og hrukkur farnar að koma á andlit hennar, og hún var orðin óstyrk og amalynd af langvinnum kvíða og áhyggjum. Hún hafði orðið að þola bróður sínum svo marga skapraun, sem hún hafði tekið sér nærri, þótt ekki léti hún á því bera, og það hafði tært kröftum hennar að kúga þannig skap sitt og sýna honum annað í viðmóti en inni fyrir bjó. Hún kveið því sem dauða sínum, næst þegar ráðist yrði á bæinn að næturþeli og leitað í honum. Og af óttanum við það þorði hún sjaldnar og sjaldnar að hafa Hjalta heima hjá sér.
En sárast af öllu böli hennar var það, að grunur sá, sem henni hafði mest ógn staðið af, er hún lét Hjalta í hellinn, var að rætast. Hjalti var að vaxa henni yfir höfuð. Hann var að spillast og verða að reglulegum stigamanni.
2. HELLISBÚINNHjalti var orðinn svo breyttur, að hann var varla þekkjanlegur. Þótt ekki væri hann nema um þrítugt, virtist hann vera kominn hátt á sextugsaldur; svo mjög hafði hann elst fyrir ár fram.
Hann var magur og dökkur í andliti, með djúpa drætti kringum munninn og augun og djúpa skor milli augabrúnanna. Hárið og skeggið hafði vaxið óhirt, svo að andlitið var í umgjörð af flóknu og stríðu strýi. Það var kominn á hann einhver villimannsbragur.
Varirnar voru samanbitnar af langri þögn, sem oft hafði ekki verið rofin vikum og mánuðum saman. Það var sem hefði hann misst mælið, - týnt niður að tala. Hugsanirnar fæddust orðvana inni í huganum og hurfu aftur að upphafi sínu, án þess að hann opnaði varirnar. Allt, sem hann talaði, talaði hann við sjálfan sig í huganum, og virtist ekkert skilja í því, að aðrir heyrðu það ekki, þá sjaldan einhver manneskja var nærstödd. Honum var það varla ljóst lengur, hvenær hann talaði við sjálfan sig og hvenær hann talaði upphátt; hann var orðinn þögninni svo vanur. Og honum leiddist aldrei þögnin.
Hann hafði verið allra manna fegurst eygður og var það enn. En augu hans voru harla ólík því, sem þau höfðu verið. Þau höfðu verið blá og djúp og tindrandi, björt og sakleyisleg. Nú var setst að í þeim einhver dimma, einhver hellissorti, - eitthvert tortryggnismyrkur, þar sem beiskjan og kuldinn tindruðu innst inni eins og hvassir hnífsoddar. Nú voru augu hans full af flótta og undirhyggju, hatri og fyrirlitningu, sístarandi eftir hættunni - og hefndinni.
Meðan hann iðkaði íþróttir sínar sem mest, var hann spengilega vaxinn og fagurlimaður. Nú var sem væri hann að verða að bognum og lotnum aumingja af langvarandi setum og legum í hellinum. Hinir miklu vöðvar voru orðnir mjúkir og stælingarlausir af langvinnri kyrrð og notkunarleysi. Hann hafði ekki í vatn komið árum saman, aldrei komið í glímu, aldrei tekið áratog, aldrei látið upp bagga. Aldrei gert neitt, sem nein áreynsla var í. Hann mátti aldrei hreyfa sig úr hellinum, nema þá helst í svartasta náttmyrkrinu. Á daginn mátti hann ekki ganga örna sinna niður fyrir bergið, nema skima fyrst nákvæmlega út og suður, hvort enginn væri í nánd. Í náttmyrkrinu hafði hann litla löngun til að hreyfa sig úti, þegar hann sá varla faðm frá sér, enda gat margt leynst í myrkrinu. Og svo komu björtu næturnar. Þá mátti hann alls ekkert úr hellinum hreyfa sig, aldrei koma heim að Stóruborg, aldrei láta sjá sig úti. Hann var orðinn eins konar myrkranna barn. Sólin fékk aldrei að skína á hann nema inn um hellismunnann. Kröftum hans og fjöri fór smátt og smátt hnignandi. Hann varð gráhvítur á hörund, blóðlaus og síþreyttur. Einhver dvalakenndur sljóleiki færðist á hann meira og meira. Hann hafði alltaf nóg til viðurværis, en vantaði lystina. Hellirinn var hálffullur af góðum og kröftugum mat, sem til hans var borinn á laun jafnt og þétt. Þar var feitt hangikjöt, skyr, smjör, riklingur, brauð og alls konar góðgæti, og nýmjólk var honum færð daglega frá Fit. Heilir dagar liðu stundum án þess hann snerti þetta. Aðra daga reif hann í sig eins og dýr. öll mannleg hæverska var þá fyrir borð borin. Þar var enginn, sem hann þurfti að vera feiminn við, og hann var sem fallinn úr mannheimum ofan í ríki dýranna, og féll það alltaf dýpra og dýpra.
Þannig leið líkamanum. En ekki var sálin stórum betur stödd. Hjalti, sem verið hafði lifandi léttlyndi, var orðinn þunglyndur og leiður á lífinu. Allt það skáldlega og sjaldgæfa við hellisvistina, sem dregið hafði hug hans að sér í fyrstu, var horfið fyrir löngu. Hundrað sinnum og aftur hundrað sinnum hafði hann starað fram úr hellismunnanum og séð jafnan það sama, - fénað á beit, menn á ferð, fugla á flögri, skip á siglingu úti fyrir, alltaf það sama, aðeins með ofurlítið mismunandi blæ, eftir því hvernig veðrið var. Hann var hættur fyrir löngu að hafa nokkurt yndi af því, og stundum var honum það hreint og beint til ama.
Það, sem hann hafði haft yndi af að vinna að, fyrst eftir að hann kom í hellinn, var nú orðið honum dauft og dautt og einskis vert. Þessir ramflóknu drekahnútar, sem hann hafði skorið út með frábærum hagleik, þessar bandaleturslínur, sem hann hafði sjálfur ort versin í, öll þessi smámeistaraverk, sem hann hafði hugsað um dag og nótt og aldrei þreytst á að hugsa um og velta fyrir sér, þar til þau stóðu honum svo skýr fyrir hugskotssjónum, að hann gat dregið þau á fjölina á einni svipstundu og síðan grafið þau svo, að hvergi þurfti við neinu að hagga. - Nú var hann búinn að fleygja þessu öllu saman frá sér og gat ekki snert á því framar. Hann heyrði aldrei neitt aðdáunarorð, sem glæddi hjá honum löngunina til að gera meira. Listagáfa hans skein út í kaldan, dauðan og auðan geiminn, eins og viti á fjallstindi, fann aldrei neina samhygð, fékk aldrei neina nýja næringu, brann upp til agnar, án þess að sjá mynd sína nokkurs staðar. Og þegar hann hafði enga gleði af verkum sínum sjálfur, hætti hann við þau.
Eins fór með bækurnar, sem hann hafði haft með sér í hellinn. Hann mátti fá hvaða bækur með sér frá Stóruborg, sem hann vildi, af þeim, sem þar voru til eða hægt var að komast yfir að láni. Sumar þeirra hafði hann skrifað sjálfur, meðan hann var þar heima í mesta genginu, og þá drukkið þær í sig með ósegjanlegum þorsta. Nú var hann búinn að þrautlesa þær, hverja um sig, og nú var eldurinn í þeim brunninn út fyrir löngu. Hann kunni sumar þeirra nærri því orð fyrir orð og gat þulið þær upp í huganum. Hetjulíf það, sem þær lýstu, var ólíkt þessu orkuvana iðjuleysislífi, sem hann lifði. Ekkert af ævintýrunum, sem hann hafði lesið þar og marglifað upp í huganum, varð að sögu hans sjálfs. Það var öðru nær. Hið skáldlega og fagra, sem sagt var frá í sögunum, varð ekki að lífi framar.
Hann reyndi líka að yrkja, - yrkja voldugan slag um eitthvert stórfellt efni. Það hitaði honum um hjartaræturnar í bili. Hann átti erfitt með að skorða hugsanir í bundnu máli, færa þær í þessar spennitreyjur ríms og stuðla, sem nauðsynlegar voru til þess, að þær yrðu lærðar og sungnar. Þær urðu sem stokkfreðnar í slíkum umbúðum, þar sem allt stóð þeim á beini, allt limlesti þær og hindraði þær í öllum hreyfingum. Hann reyndi að raula það upphátt, sem hann kom saman, í því skyni að fá líf í það. En það tókst ekki. Þessi dimma hellisgjóta, með mat á rám uppi í berginu og vaðmálstjald fyrir hvílunni hans, apaði eftir honum orðin með loðnum, afmynduðum hreim, sem varla hafði keim af bergmáli. Það var sem dauður maður settist upp í gröf sinni og færi að yrkja og kveða. Hann gafst upp og hætti.
Líf hans varð allt að einhverri vonleysisstunu, sem dó út í þessari ömurlegu helliskyrrð. Hvert, sem hann leitaði, var sem veggur fyrir. Hann var fangi og vafalaust dæmdur til fangavistarinnar ævilangt. Og það, sem lakast var af öllu: Hann hafði ekkert til hennar unnið. Það var líkast því, að verið væri að leika sér að honum, leika sér að því að fela hann og leita að honum. Hann vissi vel, að mörg augu voru að leita að honum; hann vissi ekki, hve mörg. En hann vissi, að enn þá fleiri augu vöktu yfir honum og bægðu hættunni frá honum. Þau augu voru alls staðar og ætíð sívakandi. Anna á Stóruborg sá um það.
Hættan -! Sú var tíðin, að hann hafði hlegið að henni og verið montinn af henni. Nú lá hún eins og farg á sál hans. Þessi hætta, sem hann fékk aldrei að sjá, aldrei að reyna sig við, en vissi þó að var til, spann ósýnilega, seiga, slímmjúka þræði utan um allar hugsanir hans. Þetta var allt eins og illur draumur, sem hann gat þó aldrei vaknað af. Í hvert skipti, sem einhver mennsk manneskja sagði eitthvert orð við hann, var það aðvörun um að fara varlega, því að alls staðar væri um hann setið. Og það fyrsta og síðasta, sem Anna sagði við hann, var að vera var um sig, muna hana um það umfram allt, að vera varan um sig. Og hvenær sem hann frétti eitthvað úr mannabyggðum, voru það oftast nær einhverjar ráðstafanir til að ná honum, eða einhverjar ráðstafanir til að verja hann. Alls staðar, jafnvel úr berginu að baki sér, fannst honum ósýnileg augu stara á sig, sitja um sig, vaka yfir hverri hreyfingu sinni, - augu með eitthvert eitrað og yfirnáttúrlegt sogafl, sem kitlaði hann undarlega, eins og hann fyndi, að þar væri miðað á sig hárbeittum örvum. Hann hafði ekki ró í beinum sínum, þegar hann hugsaði til þessara ósýnilegu augna. Hvar voru þau? Hvar átti hann að leita þeirra? Gat hann ekki rekið atgeirinn sinn á kaf í þau og gert þau blind, að minnsta kosti eitthvað af þeim? Nei, það var árangurslaust. Þau voru alls staðar og hvergi. Það var sem allir hlutir, lifandi og dauðir, hefðu þessi augu. Það var sem læðst væri í kringum hann með hljóðlausum kattarskrefum, þótt hvergi sæist kroppurinn. Hann hlustaði og horfði, nærri því bæði í vöku og svefni, hlustaði og horfði, þar til augu hans og eyru voru búin að fá einhvern yfirnáttúrlegan næmleik og hann heyrði blóðið streyma í sínum eigin æðum og sá það, sem fæddist í huga hans sjálfs.
Hvað eftir annað hrökk hann upp við það, að honum fannst hellirinn vera orðinn fullur af mönnum. Stundum gat hann ekki vaknað til fulls fyrir ótta og angist, en beið þess í svitabaði í húðfati sínu að sjá atgeirsodd koma blikandi gegnum vaðmálstjaldið og hverfa inn í síðuna á sér. Stundum þaut hann upp, greip atgeir sinn og ruddist fram fyrir tjaldið. Þar gaus kaldur næturstormurinn á móti honum, svo bitur, að hann sveið í augun. Hann sá þá út yfir hrímhvítar grundir og íslögð vötn, allt dauflegt og þögult, og tunglið í rosabaugum yfir því.
Ef hann mætti hafa hund hjá sér, sér til skemmtunar! - Þá gæti hann þó að minnsta kosti sofið nótt og nótt áhyggjulaus. Oft hafði hann hugsað um þennan hund. Oft hafði hann kjassað hann í huganum, klappað honum um hausinn, strokið honum um mjúkan belginn, gefið honum annan hvern bita á móti sjálfum sér og látið hann sofa hjá sér á nóttunni. Hann hafði talað við hann í huganum og hundurinn skilið furðu margt af því, sem hann sagði. En þegar koma átti hugmyndinni í framkvæmd, mættu henni hindranir. Það var allt of mikil áhætta að hafa hund í hellnum hjá honum. Hundur var þó aldrei nema hundur, hve skynsamur sem hann kynni að vera, og að hugsa til þess, ef hann stykki einhvern tíma fram á hellisskörina og færi að gelta að þeim, sem um veginn færu! Hann þurfti ekki að gera það nema einu sinni. Það var nægilegt til að koma upp leyndarmálinu um verustað hans. - Nei, hann var dæmdur til allrar bölvunar einverunnar og þagnarinnar. Hann mátti ekki einu sinni hafa hund hjá sér.
Oft stytti hann sér stundir með því að rifja upp fyrir sér endurminningar liðins tíma, þegar hann hafði verið sæll og áhyggjulaus í ást sinni, - barnaást sinni, mátti nærri því kalla það, því að hann var varla af barnsaldri, þegar ástin logaði upp í honum. Hann minntist þeirra daga, - þessara svimandi sæludaga! Þeir vermdu hann enn margan kaldan dag um hjartaræturnar, hvenær sem hann minntist þeirra. Hann minntist þessara innilegu, heitu og áköfu faðmlaga. Honum hafði fundist hann vera eins og drengveslingur í faðmi Önnu; það var sem hefði hún tvöfalt afl á við hann, þegar hún vafði hann að sér. Hann mundi, hvar hún hafði vafið handleggjunum um hann. Þessir heitu, mjúku handleggir vermdu hann enn þá. Kossar hennar brunnu á andliti hans, og það var sem andardráttur hennar væri þrunginn af einhverjum ilm og sætleik, sem gerði hann hálförvita, drukkinn af sælu. Það var ilmur og sætleikur frá hjarta, sem logaði af ást til hans. Ó, hvílíkar stundir, hvílík algleymis-augnablik! Hvernig hafði hann getað búist við því, að slík sæla yrði varanleg? Hvenær er nokkur hlutur varanlegur í þessum heimi, sem manni þykir vænt um? Menn vakna úr vímunni við það, að höggormurinn er í Paradísinni. - Hann var hrapaður úr þessari Paradís fyrir löngu. Þegar hann hafði komið þangað síðan, reikaði þar jafnan einhver skuggi, einhver stór, kaldur skuggi, sem andaði kulda dauðans á alla gleði. Anna var að vísu heit eins og áður. Hún elskaði hann og þráði hann og vafði hann að sér, þegar hún náði til hans. En hann var ekki sá sami og áður. Hann gleymdi ekki skilnaðarstundinni, sem stóð og beið við dyrnar. Hann gleymdi ekki hellinum, sem forlögin fleygðu honum í, þegar um faðmlögin losnaði. Hann gleymdi ekki ósýnilegu augunum, sem alltaf störðu á hann, einnig þar. Hann elskaði Önnu enn þá, en ást hans var sem lömuð af sorginni yfir því að fá ekki að njóta návistar hennar til fulls og sambúðarinnar við hana. Og nú elskaði hann fleira á Stóruborg en hana eina. Nú átti hann blessuð börnin sín þar líka, - þessa litlu, glaðlegu glókolla, sem kepptust hver við annan um að stækka og voru hrædd við pabba sinn, þá sjaldan þau sáu hann.
Löngum gekk hann svo langt fram á snasirnar við hellismunnann, sem hann gat komist, studdi sig við bergið og starði austur með fjöllunum í áttina til Stóruborgar. Það, sem á það vantaði, að hann sæi þangað heim, bar hugurinn hann. Stóraborg dró að sér allan huga hans, alla löngun hans, allar vonir hans. Hvergi gat hann hugsað sér hamingju sína og ánægju annars staðar en þar. Hann þekkti hverja laut og hvern hól allt í kringum bæinn, og sá það allt saman í huganum, þó að ekki sæi hann þangað heim. Hann vissi upp á hár, hvað langt var frá bænum fram að sjónum, þar sem fjörusandurinn rauk upp eins og ský í sunnanstormunum og æddi upp á grundirnar suður af bænum, síeyðileggjandi, sínagandi og sígrafandi allan grassvörð í söltum, dökkum sandi. Einhvern tíma mundi sandhrönnin ná alla leið heim að bænum, leggja hann í eyði og halda síðan áfram að leggja undir sig landið. Nú, það hlaut þó að verða nokkuð langt þangað til, því að enn var meira en meðal skeiðsprettur eftir sléttum, grasi vöxinum grundum fram að sandinum. Og utan við sandinn glitraði brimið í sólskininu. Ofan við bæinn fléttuðu árnar sig um sléttlendið, og þar stóð bær við bæ, svo að túnin náðu nærri því saman. Helmingurinn af þessari bæjahvirfingu var hjáleigur frá Stóruborg. Hún var sjálf á fegursta blettinum, höfuðból í besta skilningi, "stóraborg", sem bar nafn sitt með rentu. Þetta höfuðból átti Anna, og hann átti það með henni. Hún hafði gefið honum það allt saman með sér, og marggefið honum það með sér í algleymi ástar þeirra og hamingju. En gjöfina vantaði enn þá fullkomið gildi. Það var ekki Önnu að kenna. Hún gat ekki við það ráðið. Hún stóð við gjöf sína. Það var ekki henni að kenna, að hann varð að flýja eign sína og leyna sér í helli. Henni leið ekki betur en honum, þó að hún væri þar enn þá.
Þær stundir komu, að löngunin heim að Stóruborg greip hann eins og hálfgert ósjálfræði. Hann mátti ekki fara, nema Anna gerði honum orð, að honum væri óhætt að koma, eða Steinn á Fit gæfi honum merki um, að nú væri engin hætta á ferðum. Anna vissi það ein, hvenær honum var óhætt. Hún hélt öllum þráðum í hendi sinni, sem lagðir voru út honum til varnar. Njósnarmenn hennar voru í öllum áttum og gerðu henni aðvart. Hún hafði spunnið einhvern töfravef utan um bróður sinn og varð þess vör, hvað lítið sem hann hreyfði sig vestur á Hlíðarenda, jafnvel hvað hann hugsaði. Hún var forsjónin þeirra beggja. - Hún var forsjónin þeirra beggja! Hann beit á vörina og hálfskammaðist sín fyrir að vera karlmaður, er hann hugsaði um þetta. En þó var þetta svo. Hún var forsjónin þeirra beggja! Hann var enn þá sami drengurinn, sem hún hafði tekið að sér og fengið ofurást á. Það hafði hvorki dregið sundur né saman með þeim með árunum. Hann leit enn upp til hennar og treysti henni. Hún hafði tvöfaldan skapstyrk á við hann. Tvöföld hyggindi og tvöfalda stillingu. Hún var meiri manneskja en hann í öllu, öllu. Og hún drottnaði yfir honum, meira að segja í hellinum. En hún tók líka ábyrgð á honum, ef hann aðeins léti hana ráða.
Blóðið sauð og svall í æðum hans við allar þessar hugsanir. Þetta líf var óbærilegt. Hvert sem hann sneri huganum, var harðstjórn og kúgun og hætta og ofsóknir og ógnanir. Var þetta líf þess vert, að jafnmikið væri lagt í sölurnar til að verja það? - Það kom yfir hann hamslaus, óviðráðanleg þrá eftir því að slíta af sér öll bönd, ganga í berhögg við hættuna og verja sig meðan hann fengi uppi staðið; falla þá með hreysti og sýna heiminum, að hann væri enginn aukvisi og ónytjungur, sem þyrfti að láta vaka yfir sér og verja sig með kvenslægð. Hvað var þetta mannfélag annað en hópur hræddra þýja, sem dæmdi ranga dóma og hélt við ranglátum lögum og hafði heimskan og ranglátan hrokasegg fyrir lögmann sinn og æðsta ráð? Hvers vegna skyldi hann ekki brenna nafn sitt á bakið á þessum vesalmennum áður en hann hyrfi úr heiminum? - Augu hans brunnu af hatri og hefndarþrá. Allt of lengi hafði hann liðið saklaus. Allt of lengi hafði hann látið krafta sína tærast upp og tilfinningar sínar dofna í þessari köldu og dimmu gjótu, þar sem vatnið vætlaði fram úr berginu eins og dauðablóð úr fúnu ólífissári. Hann fann sem eldstraum renna í æðum sínum. Einnig Anna skyldi einhvern tíma frétta það, að hann hefði hug til að hefna sín, og meira að segja hug til að virða áminningar hennar einskis. Hann vildi vera frjáls maður, fara sínu fram, hvað sem hver segði, og svara sjálfur til gerða sinna.
Niðri á fitjunum við fljótið var lest að iða fram hjá. Fullorðinn maður og drengur riðu fremst og teymdu langa trossu af klyfjahestum. Lestin óð út í fljótið, þræddi eyrarnar og grynnstu brotin á milli þeirra og fór undur hægt. Rósemin og öryggin var sýnileg við hvert spor. Þessir menn áttu sér einskis ótta von. Fet fyrir fet færðust þeir áfram og virtust aðeins gleðja sig við þá hugsun, að hvert spor færði þá nær heimilinu, þar sem hvíldin beið þeirra eftir ferðaþreytuna. - En ef hann kæmi nú yfir þá, kæmi eins og ránfugl í einni svipan og tæki allt saman af þeim! Þá kvæði þarna við annan tón! Maðurinn legði á flótta í dauðans ofboði. Hann elti hann og næði honum undireins, fletti hann klæðum og leitaði í þeim að einhverju fémætu. Svo byndi hann manninn og léti hann liggja keflaðan. Drengurinn stæði organdi og skjálfandi af skelfingu og þyrði ekki einu sinni að flýja. Hann skeytti honum ekkert. Hann tæki klyfjarnar af hestunum, tætti þær allar sundur og þeytti þeim út um allt. Það væri ekkert, sem hann hefði neitt við að gera, en honum væri svölun í því að skemma það og eyðileggja. Þegar hann væri búinn að leika sér lyst sína, hlægi hann hátt og tryllingslega og hyrfi aftur á svipstundu inn í bergið. Þá þyrfti ekki lengi að bíða eftir Rama-hrópi í sveitinni. Það væri ræningi í berginu hjá Fit! Stigamaður! Og stigamaðurinn væri Hjalti Magnússon! Þá kæmu þeir! Þá kæmu þeir eins og gapandi og gólandi úlfar, með lögmanninn í broddi fylkingar. Þá stæði slagurinn, þar til yfir lyki - -!
Lestin fetaði fram hjá, og hann stóð kyrr, eins og hann væri gróinn fastur við bergið, - steinstytta með ræningjaaugum!
Þegar lestin var komin á hvarf, kom Steinn á Fit heiman frá bænum og læddist upp í hellinn til hans. Hann vissi, hvað hann vildi. Hann var með skilaboð frá Önnu. Já, það stóð heima. Honum var óhætt að koma um næstu helgi. Um næstu helgi! Ekki fyrri. Hann leit fyrirlitlega til Steins og ansaði honum engu, glotti aðeins gremjulega. Steinn sá, að hann var í illu skapi, og hafði sig burtu sem bráðast. Hjalti horfði á eftir honum. Þetta var hundurinn, sem hann fékk sér til skemmtunar og aðstoðar. Trúrra og tryggara dýr gat enginn maður fengið. Hundslegri umhyggja og árvekni var ekki til í nokkrum manni. Hann iðraðist eftir því að hafa ekki tekið Steini vel, eins og hann hafði oft gert áður. Honum var fyrir löngu farið að þykja vænt um hann. Nú hafði hann sneypt hann frá sér eins og hund. Iðrunin varð að nýju gremjugalli í skapi hans. Allar manneskjur voru honum í raun og veru vondar. Ef til vill var Önnu líka farið að standa á sama um hann. Hvers vegna mátti hann ekki koma fyrr en um helgi, fyrst engin hætta var á ferðum? Gat hún þá ekki getið því nærri, hvað hver dagur, hver stund væri honum óbærilega löng, sem hann þyrfti að bíða eftir fundi hennar? Hvers vegna var hún að kvelja hann með fleiri dögum en nauðsynlegt var?
Undarlegri og óttalegri hugsun skaut upp í huga hans. Hún var ekki ný. Hún hafði komið áður stöku sinnum, þegar illa lá á honum. Það var sem grett og illgjarnt andlit stæði glottandi frammi fyrir honum og hvæsti framan í hann: Anna elskar þig ekki. - Lygi! var svarað langt innan úr hugskoti hans sjálfs. - Anna er þér ótrú! - Lygi, lygi, lygi! æpti innan í honum. Lygi, lygi! - Samt var sem blóðið storknaði í æðum hans. - Lygi! - Hann þekkti augun sín í öllum börnunum. Þau voru ekki einungis hold af hans holdi og bein af hans beinum, heldur einnig sál af hans sál. Samt fékk hann óviðráðanlega löngun til að koma einhvern tíma að Önnu óviðbúinni. - -
Hann stóð kyrr, þar til orðið var meira en hálfdimmt. Þá kom að nýju yfir hann löngunin til að hrista af sér þennan híðbjarnardoða, rétta sig upp úr aðgerðaleysinu og reyna eitthvað á mátt sinn og megin. Hann greip stöngina sína, sem ætíð lá í hellinum hjá honum, og renndi sér ofan bergið. Áður en hann kom alla leið niður, brá hann fyrir sig stönginni, hóf sig á loft og henti sér langt ofan í brekkuna. Hann kom fyrir sig fótum, en það brast og brakaði í honum öllum, eins og allur líkami hans væri að gliðna sundur. Hann hafði ekki stokkið á stöng um langan tíma, og aldrei á ævi sinni hafði hann gert annað eins stökk. Hann stakk aftur fyrir sig stönginni og stökk yfir urðir og jarðföst björg enn þá lengra ofan í brekkuna. - Eftir tvö-þrjú stökk var hann kominn ofan á jafnsléttu. Hann hélt áfram að stökkva, og það var sem vöðvar hans lifnuðu við af löngum dvala.
Næstu nótt og næstu daga var hann allur lurkum laminn og hafði ekki viðþol fyrir harðsperrum í öllum kroppnum. Hann hafði tekið fyrstu hreyfingarnar of geyst eftir svo langa kyrrð og æfingarleysi. Það mundi jafna sig. En nú var ísinn brotinn. Héðan af skyldi engin lifandi sál megna að halda honum í hellinum til lengdar. Komi það, sem koma vildi, yfir hann! Honum stóð á sama. Hann gekk á hólm við örlög sín. Hann kastaði hanskanum í andlit alls heimsins með því að sýna mönnum, hvar hann væri, og stefna þeim á sig.
Hann fann til trylldrar gleði yfir því að brjóta þannig af sér öll bönd, eins konar stigamennskugleði.
Dag eftir dag fór hann úr hellinum, áður en dimmt var orðið, og æfði sig og fór ekkert varlega.
Einn daginn henti hann sér beint í fasið á ríðandi manni, sem hann sá ekki fyrr en hann var kominn rétt að honum.
Þar hitti hanskinn, þar sem hann átti að hitta.
Maðurinn nam staðar og beið sem steini lostinn. Hjalti stóð beint frammi fyrir honum, tvíhendi stöngina og hló kuldalega. Hann langaði til að stökkva á manninn og reka broddlausa stöngina í gegnum hann, en stillti sig; svo tók hann á rás beint upp í bergið.
Hvort skyldi nú þessi náungi segja lögmanninum eða Önnu tíðindin?
3. "SANCTE CHRISTOPHORUS"Það var hljótt í bænum á Stóruborg eins og í dauðra manna gröfum. Allir voru þar í fasta svefni, nema húsmóðirin sjálf og "gesturinn" hennar - ef gest skyldi kalla - því að gesturinn var Hjalti Magnússon.
Þetta var þriðja nóttin, sem hann var þar, og þessa nótt átti hann að halda heim í helli sinn.
Öll þessi dægur hafði Anna gengið ein um svefnloft sitt og ekkert af þjónustufólki sínu látið koma þar inn. Það var vandi hennar, þegar Hjalti var þar, og fólkið vissi vel, hvernig á því stóð. Það vissi líka um leynidyrnar, sem lágu inn í svefnloftið og enginn maður gekk um nema Hjalti.
Langt var síðan hann hafði verið þar síðast, og lengra mundi þó að líkindum verða, þar til hann kæmi næst, því að nú fóru björtu næturnar í hönd. Það var komið að vori.
Börnin sváfu nú inni í bænum hjá fólkinu, nema þau yngstu. Þau sváfu enn þá í loftinu hjá móður sinni. Elstu börnin, sem voru orðin stálpuð og viti borin, höfðu fengið að koma í loftið til pabba síns á daginn og vera þar honum til skemmtunar. Hjalti hafði leikið sér við þau, eins og hann væri sjálfur orðinn barn að nýju. Hann hafði sama sem ekkert við þau talað, verið í leiknum líkastur mállausum manni, sem logaði af gleði og fjöri og var síhlæjandi, en mundi sjaldnast eftir að segja neitt. En stundum hafði Anna neyðst til að hasta á gleðina og ærslaganginn, því að þá gekk svo úr hófi, að hávaðinn hlaut að heyrast um allan bæinn.
Kvöldið fyrir þessa nótt hafði Hjalti kvatt eldri börnin, faðmað þau að sér og grátið yfir skilnaðinum. Rétt eftir miðnætti varð hann að leggja á stað, ef hann ætti að hafa myrkur heim í helli sinn.
Hjalti var alklæddur og að mestu leyti búinn til brottferðar. Hann sat á rúmi Önnu og hallaði sér upp að höfðalaginu, með hönd undir kinn. Rúmtjöldin voru alveg dregin frá, og féll birtan framan í hann frá kertisljósi, sem stóð á borðinu.
Anna var að leggja frá sér yngsta barnið, sem hún hafði svæft við bert brjóstið. Hún lagði það í vöggu, sem stóð skammt frá rúminu, og breiddi ofan á það. Svo sveipaði hún kyrtlinum að brjósti sér, en festi hann ekki, dró kistil að rúminu og settist hjá Hjalta.
Á andliti hennar sáust nokkur merki þess, að hún var farin að verða roskin, þótt ekki væri það enn til lýta. - Hrukkurnar voru grunnar, þó að víða vottaði fyrir þeim, og hvítar hærur sáust með aðgæslu innan um dökkt hárið. Andlitið var bjart á hörund, enn þá feitlagið, en allur blómi æskunnar horfinn af því. Hálsinn og brjóstið var hvort tveggja hvítt eins og mjöll, og sáust bláar æðarnar liðast og greinast undir húðinni, þar til þær hurfu í hvítuna. Svipurinn bar vott um þreytu af langvinnum áhyggjum og kvíða og var orðinn talsvert veiklulegri en hann hafði verið. Þessi mikla tápkona var orðin talsvert beygð af raunum sínum, þótt enn vantaði mikið, mikið á, að hún væri algerðri uppgjöf nærri. Skapið og kjarkurinn var ekki nema skuggi af því, sem það hafði áður verið, og hin tryllda mótþróalöngun heyrði mestöll fortíðinni til. Það var sem allur hugur hennar stefndi að því að sættast á mál sín, sættast, jafnvel þó að hún þyrfti að vinna eitthvað talsvert til sættanna, sættast, til þess að fá frið og rósemi og mega njóta lífsins í gleði og gengi það, sem eftir var ævinnar, með Hjalta og börnum sínum, - því að án Hjalta var enga sætt að nefna.
Þau þögðu bæði. Anna strauk hárið blíðlega frá enninu á Hjalta og leit í augu honum, - þessi augu, sem orðið höfðu örlagastjörnur þeirra beggja, þessi augu, sem kveikt höfðu í henni óslökkvandi bál í fyrsta sinn, er hún sá þau, og ætíð síðan glæddu sama eldinn. Aldrei þreyttist hún á að horfa í þessi augu, og aldrei þreyttist hún á að hugsa um þau. Og það var mesta gleðin hennar, að augu allra barnanna líktust þeim. Nú átti hún enn þá einu sinni kost á að sjá þau. Enn þá einu sinni mátti hún stara í þennan dimma, djúpa bláma, stara í hann dýpra og dýpra, nærri því sökkva sjálfri sér í hann, og alltaf voru þau henni sama gátan, alltaf sama reginhafdýpið, sem bjó yfir perlum sínum. Alltaf sama laðandi, ósigrandi aðdráttaraflið, nema hvað þau voru enn þá máttugri nú, er þunglyndið í þeim var meira og áhyggjurnar og einveran höfðu gert þau myrkari.
Hjalti starði fram fyrir sig eins og í draumi. Hann sá hvorki Önnu né neitt annað. Það var sem sæi hann gegnum holt og hæðir, sæi sýnir, sem engin manneskja gæti séð nema hann, sæi eitthvað inn í hulda heima. Hann fann heita, mjúka höndina á Önnu líða yfir ennið á sér. Það gerði hugsanir hans hlýrri og mildari. Það var sem þessi hlýja, mjúka og móðurlega hönd, sem strauk hárið frá enni hans, stryki jafnframt skýin frá sálu hans.
"Ósköp er hárið á þér úfið, elskan mín!" mælti Anna. "Má ég ekki greiða það ofurlítið og slétta það?"
Hjalti hristi höfuðið, en svaraði engu. Anna skildi, hvað hann langaði til að segja.
"Má ég þá ekki klippa það heldur?" spurði hún brosandi.
Hjalti hristi aftur höfuðið, en svarið kom ekki fyrr en eftir stundarkorn, eins og hann væri að hugsa sig um, hvort hann þyrfti að segja það.
"Ég ætla ekki að láta skerða hár mitt eða skegg, fyrr en ég get flutt mig úr hellinum alfarinn."
"Það fer nú að líða að því."
Hjalti þagði. Anna sá það, að hann tók ekkert mark á því, sem hún sagði, og bætti við, eins og til að sannfæra hann:
"Hamingjan er hverful - lögmönnum eins og öðrum. Það er ekki víst, hvað Páll bróðir minn verður lengi við völd úr þessu. Þá kemur nýr lögmaður, og þá...."
"Þá hvað?"
"Kannske líka bróðir minn sjái að sér, - sjái loksins, að þetta sé ekki til neins."
Hjalti þagði og brosti gremjulega. Anna fann líka sjálf holhljóminn í orðum sínum. Hún trúði ekki sjálf á neitt af þessu, sem hún sagði. Hún sá engar líkur til þess, að bróðir hennar hætti að vera lögmaður, nema þá að hann félli frá, og til þess voru heldur ekki miklar líkur, þar sem hann var ekki nema vel miðaldra maður. Og hún sá engar líkur til þess, þó að hann léti af lögmannsstarfinu, að sá lögmaður, sem við tæki, gerði þvert á móti vilja hans í þessu efni. Og enn voru minnstar líkurnar til þess, að bróður hennar mundi hverfast svo hugur, að hann leyfði það, sem hann hafði áður bannað.
Hún hafði eiginlega enga von, nema eitthvað algerlega óvænt kæmi fyrir, - guð gerði eitthvert kraftaverk. Og í þá ósk og von greip hún stundum dauðahaldi, eins og drukknandi manneskja í hálmstrá.
Hjalti leit á hana og starði stundarkorn á hana þegjandi. Það lá við, að hún engdist saman fyrir augnaráði hans. Hún las hugsun hans og fann, hvað hann ætlaði að segja.
"Ég get ekki verið í hellinum lengur," mælti hann loks.
Þar kom það. Það var einmitt þetta, sem hún vissi, að hann mundi segja.
"Hvers vegna ekki?" mælti hún.
Hann þagði. En hún las svarið í augum hans: Ég verð að ræningja, kannske manndrápara, ef ég verð þar lengur.
Hún reyndi að slá þessu upp í gaman.
"Veistu, hvaða nafn hellirinn þinn hefir fengið? - Hann heitir Paradís. - Paradís, heyrirðu það? Hallur grámunkur gaf honum nafnið, þegar lögmaðurinn krafði hann sagna. Síðan höfum við, vinir þínir í byggðinni, aldrei nefnt hann annað okkar í millum en Paradís. - Viltu ekki vera í Paradís?"
Hjalti þagði og horfði á hana raunalega. Hvers vegna var hún að hafa þetta í gamanmálum?
"Og víst á hellirinn nafnið skilið, meðan þú ert þar," bætti Anna við. "Í Paradís má ekkert búa, nema það, sem gott er. - Sá eini, sem var óánægður með Paradísarvistina, fékk ekki að vera þar. Honum var fleygt ofan í hin ystu myrkur. Allir, sem saurga Paradís sína með vondum verkum, eða aðeins með vondum hugsunum, glata henni og fylgja honum eftir. Það má ekki henda þig, elsku vinur minn!"
Hjalti gat engu gamni tekið. Hann var jafnmyrkur og alvarlegur á svipinn og hann hafði verið. Önnu lá við að fara að gráta. Henni fannst hún standa vopnlaus og ráðalaus frammi fyrir þessu myrkri og vonleysi. Í fyrsta skipti fann hún, að hún var búin að missa valdið yfir Hjalta. Ótal óhöpp, sem af því gætu leitt, þutu fram í huga hennar. Hún vissi vel, að hann var farinn að fara úr hellinum, án hennar vitundar, og gefa því engan gaum, hverjir sæju hann. Hún vissi, að ekki yrði unnt til lengdar að halda honum í hellinum. Til hvers átti þá að grípa? Henni lá við æðru og örvilnun, er hún hugsaði um þetta allt saman. En henni var það líka ljóst, að ef hún bilaði nú, væri úti um allt.
"Ég veit það, elsku vinur minn, að hellirinn þinn er þér ekki Paradís," mælti hún með grátklökkri rödd og lét blítt að honum. "En þú mátt til að þola þessa útlegð enn um stund. - Enn um stund, heyrirðu það? Nú er fyrir þreyttan að þola. Ég er viss um, að guð gerir einhvern góðan enda á þessu öllu saman, ef við erum góðar manneskjur og styggjum hann ekki. Ég hefi svo þrásinnis beðið hann um það. Ef til vill höfum við styggt hann með bráðlæti ástar okkar, og hann leggur þetta á okkur í staðinn. Ef til vill er hann að leyfa öðrum manni að fylla mæli synda sinna, áður en hann auðmýkir hann á einhvern hátt. Við skiljum ekki hans vegi. Okkur ber það eitt, að gera aldrei annað en það, sem gott er. Þá snúast okkur allir hlutir til góðs. - Mundu eftir því að fara aldrei úr hellinum, nema þú getir gert eitthvað gott með því, eitthvert kærleiksverk. Sittu þig aldrei úr færi, ef þú getur hjálpað einhverjum, sem bágt á, eða komið einhverju fram til góðs, svo að hljóðlátar þakkargjörðir séu sendar guði í kyrrþey fyrir það, sem þú hefir gert - þó að það verði til þess, að menn viti, hvar þú dvelur. Þá verða fleiri þér til liðs en þú veist nokkurn tíma af. Því að á endanum er það kærleikurinn, sem sigrar heiminn."
Hjalti hlýddi á þetta eins og hann heyrði ekki nokkurt orð af því. En hann heyrði það samt. Það beit sig meira að segja undarlega fast í huga hans. Hann hafði oft heyrt hana tala eitthvað líkt þessu, en aldrei með annarri eins ákefð, öðrum eins hita og í þetta skipti.
"Ég ætla að segja þér ofurlitla sögu," mælti Anna og reyndi aftur að gera sig glaðlega. "Einu sinni var riddari. Hann var ákaflega mikill maður og hraustur. Hann hafði strengt þess heit að þjóna einum höfðingja, sem öllum væri meiri og engan hræddist. Hann flakkaði víða um veröldina, og alltaf hitti hann einn öðrum meiri, svo að alltaf var hann að hafa vistaskipti. Loks réðst hann hjá einum höfðingja, sem enginn maður hafði nokkurn tíma yfirunnið og ekki var við nokkurn mann hræddur. En eitt sinn sá hann þennan nýja húsbónda signa sig. Riddarinn spurði, hvers vegna hann gerði það. Höfðinginn sagðist gera það til varnar gegn óvini sálnanna. Ertu þá hræddur við hann? spurði riddarinn. Hans vald stenst enginn mannlegur máttur, mælti höfðinginn. Þá vil ég honum þjóna, mælti riddarinn, og skildu þeir við það. Riddarinn reið þá út á þjóðveginn, til að leita uppi hinn nýja húsbónda sinn. Ekki hafði hann riðið lengi, áður riddari kom til hans og sagðist vera sá, sem hann leitaði að. Riddarinn lét sér það vel líka og réð sig þegar í þjónustu hans. Ekki höfðu þeir lengi farið, er þeir komu að vegamótum. Krosstré stóð á vegamótunum, og þegar kölski sér það, hrekkur hann úr vegi. Riddarinn spyr, hvers vegna hann geri þetta. Hvort hann sé hræddur við spýturnar þær arna. Ekki er ég það, segir kölski, en á svona krosstré var versti óvinur minn líflátinn. Ertu hræddur við þann óvin? spurði riddarinn. Ekki er ég það, mælti kölski, en ekki er mér um hann, og tennurnar í honum glömruðu af skjálfta. Þá vil ég honum þjóna, mælti riddarinn og skildi þegar við kölska. Lengi fór hann um og spurði alla, sem hann hitti, hvernig hann mætti þjóna Kristi hinum krossfesta. Enginn gat sagt honum það, fyrr en hann hitti einsetumann langt frá mannabyggðum. Hann sagði honum, að hann skyldi setjast að við fljótið, sem rynni þar skammt frá, og bera fótgangandi menn yfir það. Með því þjónaði hann Kristi hinum krossfesta. Riddarinn gaf hest sinn og reiðtygi, brynju sína, sverð og burtstöng, allt til guðsþakka, og byggði sér kofa frammi við fljótið. Hann bar gangandi menn yfir fljótið, og gerði það með því meiri ljúfleik, sem þeir voru fátækari og vesalli, og hann fann, að það átti vel við krafta hans og hreysti að fást við strangt og ískalt fljótið. Aldrei tók hann nein laun fyrir starfa sinn og lifði af ölmusum góðra manna. Einn dag hafði hann borið óvenju marga menn yfir fljótið og var yfirkominn af þreytu. Veður var hið versta og fljótið í vexti. En þegar hann var lagstur til hvíldar, heyrir hann kallað til sín með veikri barnsrödd. Hann fer út, en sér engan. Fer því inn aftur og leggur sig til hvíldar, en þegar hann ætlar að fara að sofna, er kallað aftur. Hann fer út, gengur fram og aftur með fljótinu, en sér engan. Fer svo inn aftur. Í þriðja skipti er kallað, og þegar hann kemur út, sér hann lítið barn standa á bakkanum hinum megin fljótsins. Hann tekur göngustaf sinn, veður yfir um og sækir barnið. En þegar hann kemur aftur út í fljótið, tekur það að vaxa og verður hálfu straumþyngra en vanalega. Jafnframt verður barnið svo þungt á herðum hans, að hann þykist aldrei hafa borið jafnþunga manneskju. Honum finnst sem muni hann örmagnast og ekki ná landi. Nú kom hið mikla afl honum að góðu haldi, og þó fékk hann sig nú fullreyndan. Loks er hann komst yfir um, setur hann barnið á bakkann og segir við það: Ósköp varst þú þungur, drengur minn. Mér finnst sem ég hafi borið himin og jörð á bakinu yfir fljótið. Sveinninn brosti og leit framan í hann skærum og blíðum augum. Það er von, mælti hann, því að þú hefir borið himins og jarðar skapara. Og áður en hann fékk áttað sig, var barnið horfið. En hann varð heilagur maður, varði öllu lífi sínu guði til dýrðar og fékk nafnið sancte Christophorus, það þýðir þann, sem ferjað hefir Krist...."
"Við búum við beljandi fljót, vinur minn, og erum að vinna þrautir okkur til frelsis. Ef til vill eru það syndir ofmetnaðarins og ofstopans, sem við gjöldum, eins og sancte Christophorus, en við megum umfram allt ekki missa þolinmæðina. Enn eigum við eftir þyngstu þrautina, sjálft kærleiksverkið, - aðalkærleiksverkið, sem kórónar allt og blessar allt líf okkar."
- - - Skömmu seinna reið "maðurinn á svarta hestinum" vestur um byggðina. En í þetta skipti fór hann ekki einsamall. Sancte Christophorus var með honum.
Hann gat ekki hrundið úr huga sínum þessu ævintýri, sem Anna hafði sagt honum. Það var svo ólíkt öllu því, sem hann hafði heyrt og lesið til þessa. Að riddari, mikill maður og hraustur, riddari, sem hvergi hitti sinn jafningja, skyldi gefa hest sinn og tygi til guðsþakka og gerast ferjumaður, - nei, ekki einu sinni ferjumaður, heldur aðeins burðarmaður fátæklinga og förumanna yfir straumharða á, og finna þar loksins þá hamingju, sem hann þráði.
Hann settist að í helli sínum, og dagarnir urðu aftur hverjir öðrum líkir.
Og þó var tilbreyting, sem hann tók varla eftir.
Sólin hækkaði á braut sinni. Skuggakafli næturinnar varð styttri og dagarnir lengri og mildari. Grundirnar undir fjöllunum dökknuðu og sandarnir urðu svartari. Markarfljót var búið að sópa af sér öllum ísnum, og það var talsverður móður í því.
Hann fór að heyra raddir, sem hann hafði saknað í langan tíma. Farfuglarnir voru að koma aftur. Og nú óx umferð um héraðið. Fólk var að flytja sig vistferlum. Það var kominn vinnuhjúaskildagi.
Þá var það einn dag, að einkennilegt atvik kom fyrir hann.
Hann sat uppi í helli sínum, framan við vaðmálstjaldið, eins og hann var vanur, og starði suður á grundirnar og fljótið, sem svall á eyrum rétt undir brekkunum.
Þá kom kvenmaður ríðandi vestan að fljótinu, með barn í fanginu og fataböggul bundinn við söðulsveifina. Hún reið undur hægt, fót fyrir fót. Hesturinn virtist vera latur, en traustur.
Þegar hún kom að fljótinu, reið hún hiklaust út í það. Hún þræddi brotin eftir straumlaginu og var auðsjáanlega vön vötnunum. Hesturinn óð hægt og knálega. Fljótið var svo djúpt í sumum álunum, að vatnið beljaði upp í fótaskörina. Þegar hún nálgaðist austurlandið, óð hesturinn um stund á grynningum fyrir ofan eina eyrina. Þá var ekki eftir nema síðasti állinn, en hann var líka dýpstur.
En allt í einu sökk hesturinn í sandbleytu.
Hann braust um nokkra stund, þar til stúlkan hvarf og söðullinn með. Gjarðirnar höfðu slitnað.
Eftir örlitla stund var hún komin upp á eyrina með barnið í fanginu, og söðullinn einnig rekinn upp á eyrina. En hesturinn reif sig fram úr sandbleytunni og óð austur yfir.
Stúlkan stóð á eyrinni og kallaði um hjálp í ákafa. En það voru litlar líkur til, að það heyrðist heim að Fit, sem var næsti bærinn.
Hjalti brá við skjótt, greip stöng sína og hentist í fáeinum loftköstum ofan að fljótinu og óð út í eyrina til stúlkunnar. Állinn var honum undir hendur.
Hann tók móðurina og barnið í einni ferð, móðurina á bakið og barnið á handlegginn, og óð með þau austur yfir. Svo óð hann til baka og sótti söðulinn.
Stúlkan vatt bleytuna úr fötum sínum og barnsins á meðan Hjalti náði hestinum, gerði við gjarðirnar og lagði á. Hún skalf enn þá eins og laufblað af hræðslunni, og tárin titruðu í augnahárum hennar. En barnið hló út undir eyru að öllu ævintýrinu.
"Guð launi þér fyrir hjálpina!" mælti stúlkan með grátklökkri rödd, þegar hún var setst á bak og Hjalti rétti henni barnið. "Hverjum á ég að þakka þessa miklu hjálp?"
Hjalti svaraði engu. Hann leit framan í stúlkuna og virti hana fyrir sér. Hún var ung og góðleg, og barnið hennar var yndislega fagurt og hraustlegt, svo sem ársgamalt. Það var svo sem auðséð, að hún var bláfátæk og barnið líklega óskilgetið. Enginn maður lætur konu sína ríða þannig vötn fylgdarlausa; annað mál er það, hvað menn bjóða barnsmæðrum sínum. Líklega var hún að fara í vist eitthvað austur undir fjöllin, þar sem hún mátti hafa barnið á kaupinu sínu.
"Hvað heitir þú og hvar áttu heima?" spurði stúlkan og horfði hálfhrædd á þennan sterklega villimann, sem hafði bjargað henni, en ekkert orð við hana talað. Hún hafði ekki virt hann fyrir sér fyrr en nú. Nú varð henni starsýnt á hann.
Hjalti svaraði engu. Hann rétti henni tauminn, myrkur, en þó mildur á svipinn. Svo tók hann stöng sína, gekk í hægðum sínum ofan með fljótinu og lagðist þar niður. Stúlkan reið á stað, en leit við og gaf honum auga á meðan hún gat séð til hans.
- Næstu nótt gat Hjalti ekki sofið í helli sínum. Hann var alltaf að hugsa um þetta ævintýri. Þetta tárvota augnatillit stúlkunnar, fullt af þakklæti og þó um leið af undrun og ótta og spurningum, hvarf aldrei frá innri augum hans.
Tár, - þakklætistár! Það var sjaldgæfur ylur, sem um hann lagði, er hann hugsaði til þeirra. Það lagði bjarta og heita geisla af þessum tárum um alla sál hans. Þessu gat enginn maður rænt. Það var hægt að fá að launum, en ekki öðru vísi.
Nú fór hann að skilja hugarfar hins heilaga Kristófórusar.
En hvað var það að bera barnið hjá því að bera móður þess líka? Auðvitað var það ekki guðs móðir, sem hann hafði borið, en það var fátæk móðir, sem engan átti að og ekkert til að launa með. Og hvaða munur var á því, að bera guðs móður og einhverja aðra umkomulausa stúlku, Jesús eða eitthvert annað barn? Enginn vissi um þann mun fyrr en eftir á.
Og dag eftir dag starði hann út yfir fljótið eftir nýju ævintýri, nýju tækifæri til að gera góðverk og fá að bjarga einhverjum úr háska. En það kom ekki. Menn fóru daglega yfir fljótið og oft á dag, en engum barst þar á. Það voru allt vanir vatnamenn, sem sáu hverja hættu og sáu undireins úr landi, hvar fært var og hvar ekki fært. - Fljótið var þeim ekkert annað en ofurlítil þraut, sem gaman var að yfirstíga.
SJÖUNDI ÞÁTTUR
1. STÓRIDÓMUR
Alþingið við Öxará 1564 var mislitt og misviturt. Það eru öll þing.
Mislitt var það að minnsta kosti, því að aldrei hefir tískan í klæðaburði haldið meira upp á það mislita en einmitt þá. Og til voru menn hér á landi einnig þá, sem tolldu í tískunni og fylgdu apalátum hennar erlendis.
Pípukragarnir voru þá óðum að ryðja sér til rúms, og útskorin litklæði voru í blóma sínum.
Útskorin litklæði -! Nú eru liðin meira en 300 ár síðan þau prýddu - eða óprýddu - mannlega líkami. Látum oss segja: prýddu, því að prýðileg þóttu þau á þeirri öld, þó að nú mundu þau þykja fíflabúningur.
Útskornu litklæðin voru gerð á þann hátt, að í ytra borð fatanna voru skornar langar rifur, ýmislega lagaðar, og þær látnar gapa svo í sundur, að innra borðið sæist í gegnum þær. Brúnirnar á þessum prýðilegu langrifum voru svo bryddar með drifhvítum loðskinnum, og stundum útsaumaðar rósir með gullvír í kringum þær. En innra borðið, sem sást í gegnum rifurnar og stundum bungaði út í þær eins og poki, var úr rauðu, bláu, gulu eða grænu silki. Þess vegna kölluðu andstæðingar tískunnar þessa útskornu "prýði" á fötunum loga helvítis.
Þessir fallegu "logar" voru helst á börmunum, handleggjunum og lærunum og voru í röðum hver við annars hlið, eins og logatungur. Ofan og neðan við þær voru fötin dregin saman í fagrar fellingar, svo að á handleggjum og lærleggjum skiptust á gildir hnúðar, alsettir "logum", og mjó mitti. Minntu þá limirnir helst á rennda borðfætur. Um læri og lendar belgdust fötin mest út og var þar ekki til efnis sparað, hvorki í "logana" né höftin milli þeirra. Þótti það vaxtarprýði á þeim tímum að vera mikill um mjaðmir, enda var það ekki dæmalaust, að í einar buxur, sem þó náðu ekki nema niður að hnjám, færu 300 álnir af silki. Fróðir menn hafa auk heldur fundið dæmi upp á 6-800 álnir.
Yfir þessa prýði var steypt kápu, sem náði í mesta lagi niður á lendar, en oftast þó ekki nema niður á mitt bak. Var hún krækt saman um hálsmálið, en hvergi annars staðar. Ermalaus var hún ætíð, en stundum göt gegnum hana fyrir handleggjunum, og voru brúnirnar á þeim bryddar dýraskinnum. Oft var kápan öll fóðruð slíkum skinnum.
Á höfðum báru menn húfur úr fögru silkiflosi. Þeim var oftast hallað út í hægri vangann, en í hinum vanganum dinglaði stór og mikil strútsfjöður. Enginn var þá svo hár í tigninni, að hann bæri gullborða á húfu sinni.
Neðan við hnén tóku við tiglóttir sokkar, svo aðskornir, að þeir voru sem steyptir utan um kálfana. Skór voru þunnir og léttir og náðu aðeins upp á ristina, bundnir um ökklana með silfurofnum silkiþvengjum. Var því sem búkurinn, sem oft var fyrirferðarmikill vegna "loga" og "hnúða" og "fellinga", gengi á tveim grönnum trumbustokkum.
Belti báru flestir um mittið, og hékk við það sverð í fagurbúnum skeiðum, stundum einnig pyngja eða sjóður, því að vasar voru oftast engir á þessum fagurbúnu fötum.
Þannig voru mestu skartmennin á alþingi búnir, með höfuðsmanninn og sveina hans og leiguhermenn í broddi fylkingar. Stöku Íslendingar öpuðu þennan sið eftir að nokkru eða öllu leyti, eftir því sem þeir höfðu efni á og smekkvísi til. Þannig dró smátt og smátt úr klæðaskartinu alla leið ofan að bændum, sem gengu í kyrtlum og kápum úr vaðmáli, ýmislega litum, en þó helst dökkum, heilum í bak og fyrir, með víða höfuðsmátt, - líkum búning að lit og sniði því, sem verið hafði á Sturlungaöld.
Meðal þessara mislitu manna gengu prestar í skósíðum skrúða, dökkum og íburðarlausum, og pípukraga um hálsinn, - líkum búningi þeim, sem seinna átti að verða að lögboðnum helgiskrúða þeirra og standast allt hverflyndi tískunnar um margar aldir.
Engir báru hjálma og herklæði á þinginu nema "stríðsmenn" höfuðsmannsins, - þessir kóngs-leigudátar, sem höfuðsmönnunum höfðu verið sendir árlega þau 14 ár, sem liðin voru frá siðaskiptunum, til þess að halda hinum uppreistargjörnu Íslendingum í skák og sjá um, að höfuðsmaðurinn kæmi því fram, sem hann vildi. En allir konunglegir lénsmenn og valdsmenn báru vopn við hlið sér, sem meira var þó til skrauts en nytja.
Þannig var hópur sá, er Þingvöll við Öxará traðkaði að þessu sinni. Kvenfólk sást þar varla. Nú var ekki Þingvöllur lengur gleðistaður, samkomustaður allrar æsku og fegurðar landsins. Nú komu þar varla aðrir árlega af landslýð en þeir, sem til þess voru neyddir að viðlögðum þingvítum og miklum fébótum. Hinir, sem þingið sóttu, voru fylgismenn og áhangendur höfðingjanna, vinir þeirra og sveinar, útlendir kaupmenn, sem þangað komu fyrir forvitnis sakir, og útlendir og innlendir ævintýramenn, oflátungar og slæpingjar. Nú þótti varla tryggilegt að sýna þar fríðan kvenmann fyrir siðleysi hermanna og höfðingja - eða fagurbúinna flökkumanna.
Tjöldin stóðu dreifð um völlinn allt í kringum lónið í ánni, en þó einkum niður með ánni að vestanverðu, gagnvart prestssetrinu, og í hólmunum. Lögréttan var á sléttunni norðan við lónið og tjald höfuðsmannsins skammt burtu þaðan, en tjald Skálholtsbiskups í stærsta hólmanum. Tjöld lögmannanna beggja voru vestan við ána. Flökkulýður og prangarar söfnuðust að tjöldunum og ráfuðu á milli þeirra leitandi að einhverju æti. Það voru menn klæddir slitnum görmum, síbetlandi, kvartandi, syngjandi, þvættandi og jafnvel stelandi. Fílhraustir erfiðismenn óðu berfættir, með buxurnar brotnar upp fyrir hné, fram og aftur yfir kvíslarnar í ánni og báru menn á bakinu.
Og drykkjuskapurinn -! Drykkjuskapurinn var eitt af höfuðeinkennum þessarar háu samkundu. Það var ekki lengur hin milda víma af öli og léttum þrúguvínum, sem verið hafði í gamla daga. Nei, nú var brennivínið komið til sögunnar. Nú gátu menn drukkið sig blindfulla á fám augnablikum í þessu ramma, tæra aqua vitae. Og um þetta var ekki svikist á þinginu við Öxará. Hver dagur endaði með veislu, hver veisla með samdrykkju, hver samdrykkja með uppsölum og áflogum. Það var dyggð að drekka sig ærlega fullan. Það var móðgun við húsbóndann að láta hann ekki sjá, að maður hefði þegið vínið hans. Það var gaman til frásagnar og jók samdrykkjugleðina, ef menn komust ekki út úr tjaldinu til að "afferma". Það var gaman að geta sigað einhverjum bráðlyndum náungum saman í áflog, svo að dálítið blóð drypi. Blóð var ómissandi krydd í vínflóðið. Drykkjuháreystin barst um hinar björtu nætur út yfir hljótt og alvarlegt hraunið og endurkvað frá hinum gömlu gjáveggjum, sem svo margt og margt hafa bergmálað um ævina. Það var rifist og bölvað og skammast og svarið á eins konar babýlonískum hrærigraut úr íslensku, norsku, dönsku, ensku, lágþýsku og latínu. Útlendir og innlendir oflátungar og uppskafningar föðmuðust og flugust á til skiptis. Að lokum voru sumir bornir sofandi heim í tjald sitt. Aðrir lágu eins og hráviði til og frá úti í hrauni, gulir, rauðir, grænir og bláir á belginn, eins og sveiptir í pjötluábreiður, og gulir, rauðir og grænir í framan eftir áflogin og uppsölurnar og brennivínskrampann. Þó þótti sá maðurinn mestur, sem búinn var að drekka sig fullan að nýju fyrir hádegi næsta dag.
Þetta og annað þaðan af verra urðu gömlu fjöllin, sem standa kringum Þingvallasveitina, að horfa á, - fjöllin, sem staðið höfðu þar á gullöldinni, söguöldinni, Sturlungaöldinni og öld biskupavaldsins. Margt höfðu þau misjafnt séð að undanförnu, satt var það; en nú fór þó stöðugt versnandi, því að nú fóru gallarnir í vöxt, en færra og færra var til að bæta þá upp.
En því fer betur, að hér að framan er þó ekki alþingi öllu lýst. Innan í þessum flökkulýð, sem klæddur var görmum ýmist úr silki eða vaðmáli og gaf alþingi svip við fyrstu sýn, - var kjarninn. Og kjarninn á alþingi voru íslensku bændurnir. Þeir voru flestir yfirlætislausir, fámálgir, þéttir á velli og þéttir í lund. Oflátungarnir hæddu þá og fyrirlitu, en fram hjá þeim komust þeir ekki. Á meðan þeir stóðu uppi, réð þó ekki þessi drukkni aðskotalýður einsamall lögum og lofum. Sumir þeirra höfðu sýslur að léni og ofurlítið kóngsvald heima í héraði sínu, sem þeir allir vildu fremur auka en upp gefa, og allir höfðu þeir það valdið, sem meira var um vert: valdið á sjálfum sér. Þeir voru að vísu ekki syndlausir af sukki aldarinnar, og sumir þeirra störðu kannske helst til heilluðum augum á höfðingjatískuna og drógu meiri dám af henni en hollt var. Það kom af því, að margir þeirra voru framgjarnir og hugsuðu sér sjálfir hátt, voru af höfðingjum komnir og vildu vera höfðingjar, einnig á alþingi. Og þó að eitthvað slettist upp á fyrir þeim, gáfu þeir ekki upp persónueinkenni sín: hæglæti, drýgindi og fulla einurð, skap til sannrar vináttu og sannrar óvináttu og tilhneiginguna til að vera meiri menn en þeir sýndust.
Meðal þessara manna voru 1564 menn, sem skrifað hafa nöfn sín ómáanlega í annála Íslands, svo sem Árni Gíslason, síðar sýslumaður á Hlíðarenda, og Gunnar bróðir hans, Skagfirðingasýslumaður; Þorlákur Einarsson á Núpi í Dýrafirði, bróðir Gissurar biskups, og Halldór Einarsson, bróðir hans; Snæbjörn Halldórsson Rangæingasýslumaður; Björn Þorleifsson á Keldum, sonur Þorleifs lögmanns Pálssonar; Jón Ólafsson á Svarfhóli; Brandur Einarsson, bróðir Gleraugna-Péturs og Marteins biskups; Þórður Guðmundsson, síðar lögmaður; Gísli Sveinsson á Miðfelli; Hallur Ólafsson í Hjörsey; Guðmundur Jónsson á Hvoli, systursonur Ögmundar biskups, og Magnús Jónsson, sem síðar var nefndur hinn prúði. Og margir, margir fleiri.
Allur þorri hinna smærri bænda, nefndarmanna og lögréttumanna, héldu sig frá drykkjuglaumi stórmennanna og höfðu sig lítt frammi, þegar ekki voru dómar og önnur þingstörf, sem þeir voru til kvaddir. Þeir fundu það vel, að litið var á þá smám augum, og kærðu sig ekkert um að baka sig í sólskini höfðingjahyllinnar. Þeir voru ekki einu sinni nefndir bændur; það var of veglegt nafn handa þeim; heldur búendur eða kotungar, eða blátt áfram almúgamenn. Þeir héldu sig í tjöldum sínum og nærðu sig á kjarngóðum sveitamat, sem þeir höfðu reitt með sér að heiman, en tóku hvorki þátt í ofdrykkjunni né áflogunum og uppsölunum. Þeir voru engir tískumenn, engin glæsimenni að þeirrar aldar skilningi, engir höfðingjar né höfðingjaefni, og hefðu fegnir viljað sitja heima og stunda bú sín, hefðu þeir fengið frið til þess. Þeir þóttu vera til skammar á þinginu og fengu óspart að heyra það við ýms tækifæri, - en voru þar til sóma, - hinn heiðarlegi, hrausti, ósvikni og óspillti þjóðernisstofn. Prestarnir töldust flestir helst til þessa flokks.
En á öllu þinginu hvíldu fálkaaugu Páls Stígssonar höfuðsmanns, þessi hvössu, gráu, harðlegu og aðgætnu augu, sem flestum stóð geigur af. Það var sem væru þau stöðugt að leita að einhverjum þyrnum, sem kóngsvaldið gætu stungið, eða að einhverri feitri bráð handa því. Hann veitti stórmannlega, en sjálfur drakk hann ekki svo, að honum sljóvgaðist sýn. Mitt í drykkjuháreystinni stóð hann með bláhvítar, samanbitnar varir og steinharðan svip og horfði og hlustaði. Ekkert orð fór fram hjá eyrum hans, enga minnstu hreyfingu sást honum yfir.
- Einn maður var að minnsta kosti á þessu þingi, sem ekki var glaður að jafnaði, og það var Páll Vigfússon lögmaður.
Honum hafði gengið margt mótdrægt hin síðari árin. Hann hafði verið rægður og affluttur, nærri því ofsóttur opinberlega. Það hafði tekið þungt á skap hans fyrir fám árum að þurfa að smala saman eiðmönnum með sér, að boði höfuðsmannsins, og sverja tylftareið fyrir meira en tuttugu ára gamalt morðmál. Honum hafði verið gefið það að sök, að hann hefði, þegar hann var sveinn Ögmundar biskups, riðið á spjótskaft Eyjólfs Kolgrímssonar, sem líka var biskupssveinn, og orðið honum að bana. Þegar Páll hafði hreinsað sig af þessu með eiði, játaði prestur nokkur að hafa logið upp sögunni. Páll vissi vel, að hann hafði gert þetta að undirlagi óvina hans og öfundarmanna, og hann vissi líka, að þeir voru ekki af baki dottnir, þrátt fyrir þennan átakanlega ósigur. Þeir mundu fitja upp á nýjum rógi.
Stöðu sinnar vegna varð hann að stíga drykkjudansinn með hinum stórmennunum kringum höfuðsmanninn og hinn lögmanninn. Hann varð auk heldur að hafa boð inni sjálfur og bjóða til sín mönnum, sem hann hataði og fyrirleit, og veita þeim ríkulega; það verða allir höfðingjar að gera. Hann varð að horfa upp á allt skottadinglið og fleðulætin og Júdasarkossana og standa mitt í róginum og baknaginu, svikráðunum og hrekkjabrugginu. Hann varð í einu orði sagt að lifa lífi, sem hann hafði andstyggð á, vegna þess að hann var lögmaður sunnan- og austanlands og vildi ekki af því láta að svo komnu. Hann varð að heiðra skálkana, svo að þeir skemmdu hann ekki, vitandi það, að þeir skemmdu hann samt. Hann varð að þola dylgjur og slettur með þögn og þolinmæði og sitja á skapi sínu eins og hann framast gat. Hann vissi vel, að hann var svarti sauðurinn í þessum stórmennahóp og að ekki mátti mikið út af bera til að steypa honum í ónáð og óvirðingu.
Ofan á þetta bættist sú sorg og raun, sem hann hafði af Önnu systur sinni og gat ekki talað um við neinn mann á þessu þingi. Það var ekki sparað að nota dylgjurnar um framferði hennar fyrir keyri á hann. Menn vissu, að undan þeim svipuhöggunum sveið honum mest. Nú var nýmæli mikið fyrir á þinginu. Nú átti svo sem almennilega að ganga milli bols og höfuðs á siðleysinu og lauslætinu í landinu. Nú átti að skríða til skara. Höfuðsmaður hafði nefnt tuttugu og fjóra menn í dóm til að dæma um siðferðisbrot og einkum blóðsifjar, og fengið dómsmönnum í hendur frumvarp, sem samið kvað vera úti í Danmörku og síðan snarað á íslensku. Höfuðsmaður þóttist gera þetta eftir allra hæstu undirlagi konungsins. Fjölda manna á þinginu stóð ógn og skelfing af þessum dómi, en framgangur málsins var fyrirfram tryggður með skipun dómsmannanna.
Páll lögmaður var einn þeirra manna, sem þótti dómurinn óþarflega harður, og leist svo á hann, að hann mundi fremur verða til ills en góðs. En hann fann, að hann mundi ekki fá hnekkt honum; hann yrði að skrifa undir það, sem lögréttan dæmdi, eða fyrirgera lögmannsembættinu þá þegar á þinginu. Auðvitað var hann maðurinn, sem rísa átti gegn dóminum og taka að sér forystu þeirra, sem það sama vildu gera. En hann var hræddur um, að það yrði árangurslaust. Biskuparnir fylgdu höfuðsmanninum í þessu, vegna "kristilegrar" vandlætingasemi, og prestarnir fylgdu biskupunum í fáfræði og einfeldni, og allur þessi skari studdi lögréttuna, sem skipuð var leikmönnum. Hann mundi megna það eitt að steypa sjálfum sér í glötun, en dómurinn gengi fram eftir sem áður. Þess vegna fór hann hægt í sakirnar og leiddi málið hjá sér svo lengi sem hann gat.
Páll lögmaður var orðinn allmjög hneigður til drykkju og farinn að verða veiklaður af drykkju og ýmsum mótgangi. Hann hafði aldrei mikill þrekmaður verið, og nú var þó kjarkur hans minni en verið hafði. Margt, sem hann hafði vel gert um ævina, hafði honum verið vanþakkað og launað með illu einu. Hann var orðinn vantrúaður á vinafylgið, og gremja og hatur og hefnigirni orðið ríkara í huga hans en verið hafði.
- Eitt kvöld snemma á þinginu var boð í tjaldi lögmanns, sem eins og vant var endaði með samdrykkju langt fram á nótt. Þar voru ýmsir kunningjar hans, bæði úr flokki æðri og lægri þingmanna, og þar stóð undir það síðasta áköf þræta um dóminn, sem dæma átti í lögréttunni daginn eftir. Það var kominn hiti í umræðurnar, því að fylgismenn dómsins voru hinir áköfustu - eins og þeir væru að verja dóminn gegn hrópandi samviskum sjálfra sín.
Lögmaður sat hjá og lagði ekkert til málanna.
"Hvað segir þú um þetta mál, lögmaður?" mælti einn af andstæðingum dómsins og vænti sér styrks og fulltingis af svari lögmanns.
Allur kliður þagnaði. Allir vildu heyra ummæli lögmannsins.
En þau lágu ekki laus fyrir. Páll lögmaður þagði. Hann sat kyrr með samanbitnar varir, nokkuð rauður í andliti af drykknum, og var sem hann svæfi með opin augun. Hann svaraði engu.
"Hvað ætli hann segi um þetta!" gall við einhver af fylgismönnum dómsins. "Hann, sem heldur hendi sinni yfir hneykslanlegasta frillulifnaði heima í sinni eigin sýslu."
"Hvað skyldi Hjalti Magnússon segja um dóminn!" gall annar við og hló sjálfur að fyndninni úr sér.
Lögmann setti dreyrrauðan, en hann svaraði engu. Hann var farinn að venjast því að taka slíkum dylgjum með stillingu. En þetta höfðu þær þó verið honum nærgöngulastar.
En nú var hinum nóg boðið. Enginn tók upp þrætuna að nýju. Menn tíndust burt úr tjaldinu, hver á eftir öðrum; menn skömmuðust sín fyrir að vera þar inni, eftir slíka móðgun við húsbóndann, einkum þeir, sem ekkert voru í móðguninni sekir.
Loks voru allir farnir, nema einn af lögréttumönnunum, góðkunningi lögmanns. Hann var þar einsamall eftir.
Lögmaður var farinn að jafna sig eftir geðshræringuna.
"Ég er hissa á þér, lögmaður," mælti lögréttumaðurinn, "að þú skulir ekki láta þetta mál til þín taka, - jafngott mál og þetta er."
Lögmaður leit framan í hann og svaraði með langtum meiri stillingu og hógværð en lögréttumaðurinn hafði búist við:
"Þetta er ekki gott mál - og þess vegna hugsa ég mig vel um."
Lögréttumaðurinn þrútnaði af ákefð og undrun.
"Ekki gott mál -! Hvað er þá gott mál, ef ekki það, að uppræta aðra eins smán úr þjóðfélaginu og blóðsifjar eru? Hvað er gott mál, ef ekki að sníða burtu þann lim af þjóðfélaginu, sem er sýktur og spilltur, svo að hann eitri ekki út frá sér? Siðleysið er sýking. Stjórnleysið í ástamálum er orðið bölvun þessarar þjóðar. Hvað er gott mál...?"
"Það er ómögulegt að koma orðum við ykkur, fylgismenn þessa óheilladóms, fyrir ofsa," mælti lögmaður svo stillilega, að lögréttumaðurinn sneyptist og sefaðist ofurlítið. "Og eins er dómurinn ykkar. Aðalgallar hans eru öfgar og fjarskafengni. Er nú nokkurt hóf í því, ef til dæmis ung systkini falla í þá ógæfu að eiga barn saman, að taka þau bæði af lífi vægðarlaust? Auðvitað er slíkt á móti boðum guðs og lögmáli náttúrunnar, en vægari hegning gæti komið að jafnmiklu haldi. Eða ef maður fellur í þá freistni að eiga barn með stjúpdóttur sinni? Hann skal hálshöggva og henni skal drekkja eftir dóminum! Mundu nú ekki nægja fébætur og einhverjar vægari og skynsamlegri ráðstafanir til að fyrirbyggja, að slíkt kæmi fyrir aftur, og sjá um, að vítið yrði til varnaðar? Ég er alveg viss um, að þið lögréttumennirnir, margir af ykkur, dæmið þetta og annað eins með hrópandi samvisku. - Eða hamagangurinn móti systkinabörnum og þremenningum og fjórmenningum? Ég er alveg viss um, að næsta kynslóð brennimerkir okkur sem blinda ofstækismenn fyrir önnur eins dómsákvæði. Ég er viss um, að fjórmenningum verður innan skamms leyft að giftast og þremenningum skömmu síðar. Hvað ætti að vera því til fyrirstöðu? - Ég gæti best trúað, að sú kæmi tíðin, að systkinabörnum yrði leyft að giftast. - Þú hristir höfuðið. Nú finnst þér ég vera kominn út í öfgar. Getur líka verið, að svo sé. En ég segi ykkur það satt, að dómurinn ykkar er of strangur. - "Hann skal hálshöggva. Henni skal drekkja!" Manstu, hve oft þessi orð - eða hugsun þeirra - koma fyrir í dóminum? Þau eru blóðdropar, þar sem þau standa. Og þau standa í annarri eða þriðju hverri línu. Dómurinn er blóðdómur! Hugsaðu þér allt það blóð, sem úthellt verður eftir þessum dómi, ef hann nær lagagildi og honum verður stranglega beitt, - allt það ungt og hraust blóð, sem fljóta verður látið yfir landið í straumum, blóð, sem kannske hefir mikið til málsbóta, - að minnsta kosti æsku og örlyndi! Gömlu, siðavöndu biskuparnir okkar, eins og til dæmis Ögmundur biskup, gátu fyrirgefið blóðsifjar og rétt föllnum manneskjum hjálparhönd til viðreisnar. Þeir settu þeim strangar skriftir og þungar fébætur, en það er sitt hvað eða taka af þeim höfuðin eða drekkja þeim. Búist þið við betra siðferði en var á þeirra dögum? - Og hver þörf er eiginlega á þessum þunga dómi? Eru frændsemisspjöllin svo mörg og algeng, að grípa þurfi til slíkra óyndisúrræða? Er hér eiginlega um nokkra sýking að tala í þessu efni? - Og eruð þið nú vissir um, að þið sýkið menn ekki einmitt með dóminum? Of ströng lög hafa oft gagnstæðar verkanir við það, sem þau eiga að hafa."
"En guðs lög?" mælti lögréttumaðurinn. "Meturðu þau að nokkru?"
"Já, guðs lög met ég meira en lög mannanna," mælti lögmaður. "En þetta eru ekki guðs lög. Ykkur er talin trú um það, sem eruð fáfróðir. Ég hefi lesið biblíuna spjaldanna á milli. Það hefir þú ekki gert, sem ekki er von, því að hún er ekki til á íslensku enn þá. Þar eru mörg atvik, sem heyra undir dóminn ykkar. Þar er Lot gamli, bróðir Abrahams, til að hálshöggva og dætur hans tvær til að láta í poka og drekkja. Þar er systkinabörnum leyft að giftast, og meira að segja sótst eftir giftingum innan sömu ættkvíslarinnar meðal Ísraelsmanna. Og þar er leyft fjölkvæni. Í bréfum postulanna er þetta aftekið, en það er ekki lögð jafnheimskuleg hegning við því og þið leggið. Þar er hógvær og kristileg áminning látin nægja. - Nei, þið ættuð að tala sem fæst um guðs vilja í þessu efni. En það er vilji annars, sem þið metið mest og farið eftir. Það er vilji konungsins í Danmörku. Grimmum og fégjörnum konungum er þægð í því, að hegning við afbrotum sé nógu miskunnarlaus. Því betra útlit er fyrir, að eitthvað kunni að fénast hinni botnlausu konungsféhirslu. Það er konunglegt að geta drepið menn að lögum fyrir litlar sakir og tekið fé þeirra hvar sem það stendur! Slíkt vinnur með tímanum upp á móti einni sigursælli herferð og er minni áhætta!"
"Þannig hélt ég ekki, að ég mundi heyra nokkurn lögmann mæla," mælti lögréttumaðurinn.
Lögmaður hló gremjulega.
"Eins og ég viti ekki, að dóminum er í raun og veru þröngvað upp á okkur af þessu kaldrifjaða konungsvaldi. Hvað ættu annars allir þessir hermenn að gera? - Nú dæma Danir á þingi okkar Íslendinga. Við gerum ekkert annað en segja já og amen."
Hann þagði um stund og hélt síðan áfram:
"Leitt, að njósnarmenn nafna míns Stígssonar skuli hvergi vera nærstaddir. Þetta hefði verið matur fyrir þá að heyra. - Treystir þú þér til að færa höfuðsmanni fréttirnar og standa við þær? Sá fengi ómak sitt sæmilega borgað, sem slík orð gæti sannað upp á Pál Vigfússon lögmann!"
Lögréttumaðurinn hristi höfuðið, hálfmóðgaður af því, að lögmaður skyldi mæla slíkt, þótt ekki væri nema í gamni.
"Misvitur ertu, lögmaður," mælti hann alvarlega. "Þú berst gegn því á alþingi, þó að í kyrrþey sé, að dómur sé dæmdur gegn hinni verstu spillingu, sem til er, blóðsifjum og frændsemisspjöllum, og reynt að uppræta þau með fyrirmælum, sem hljóta að skjóta mönnum skelk í bringu. En heima í héraði þínu gengurðu berserksgang til að fá slitið sambúð, sem stofnað er til af frjálsri ást og er réttmæt og heiðarleg í alla staði og meira að segja lögleg að öllu, nema hvað þitt samþykki fæst ekki."
Lögmann setti aftur dreyrrauðan, - nei, svartbláan, mætti fremur segja, því að æðarnar á enni hans þrútnuðu, eins og þær ætluðu að springa.
Það var ekki í fyrsta sinn, að hverju vopni var blásið úr höndum hans með því að minna hann á þetta eina mál. Það var satt. Hann hafði allt of lítinn skörungsskap sýnt í því að stía þeim sundur, Hjalta og Önnu systur sinni. Þannig skildi hann öll þessi brigsl og allar þessar dylgjur.
Þetta varð að taka einhvern enda. Þessi sök ætlaði að ganga af honum dauðum. Hún réðst alls staðar á hann og lét hann engan minnsta frið hafa.
"Lögleg," hafði lögréttumaðurinn sagt. Sambúð þeirra Önnu og Hjalta var lögleg að öllu nema samþykki hans, sem þau svo virtu að engu. Þetta var að vissu leyti satt. Ákvæði eldri laga um ólöggilta sambúð karls og konu voru svo væg og að ýmsu leyti svo óskýr, að hann hafði ekki séð sér fært að beita þeim.
En þetta varð að taka einhvern enda. Honum fannst hann ekki geta lifað lengur við þessa svívirðu.
Hann tók afskrift af uppkasti dómsins, - "blóðdómsins", sem hann hafði nýlega nefnt hann, - sem lá á borðinu, og las í því nokkra stund. Lögréttumaðurinn horfði stöðugt á hann á meðan.
Síðasta grein dómsins var um frillulifnað. Lögmaður las hana mjög vandlega, tók síðan laust blað og skrifaði þessa grein upp að nýju með allmiklum breytingum.
Hann rétti lögréttumanninum það, sem hann hafði skrifað, og mælti:
"Ef þið samþykkið þessa breytingu á dóminum, mun ég undirskrifa hann með ykkur."
Lögréttumaðurinn brosti. Hann sá, að þarna var einmitt vöndurinn, sem lögmanninn sjálfan vantaði, en þó ekki eins miskunnarlaus og aðrir vildu hafa hann.
"Ég held, að þeim þyki þetta bærilegur fengur," mælti hann.
- Þegar til lögréttunnar kom, gerði hún nokkrar breytingar á því, sem lögmaðurinn hafði skrifað, og samþykkti það síðan. Og "föstudaginn næstan fyrir visitatio Mariae" hljóp Stóridómur af stokkunum.
ÁTTUNDI ÞÁTTUR
1. ANNAR "STÓRIDÓMUR"
Stóridómur var búinn að fá konungsstaðfestingu og lagagildi fyrir ári síðan eða meira. En það hafði orðið í undandrætti fyrir Páli lögmanni að beita honum gagnvart Hjalta og systur sinni. Margt bar til þess. Meðal annars höfuðsmannaskipti. Páll Stígsson var dauður og Henrik Krag tekinn við.
En nú skyldi svipa dómsins ríða þeim að eyrum.
Það var nú líka mál til komið, því að sannarlega höfðu þau fyllt mæli synda sinna. Börnin þeirra voru nú orðin átta. Þrjú höfðu bætst við síðan dómurinn var samþykktur á alþingi.
Það var nú orðið "leyndarmál", sem allir vissu, hvar Hjalti leyndist og hafði leynst öll þessi ár. Hann var hættur því að mestu að fara varlega. Hann hafði hellinn fyrir vígi og hélt þar til enn þá, hélt sig þar oftast í nánd til að geta flúið í hellinn og varist þaðan, ef bráðan voða bæri að höndum. Annars fór hann nú ferða sinna um byggðina um hábjarta daga og var þá venjulega á Brún sínum, sem nú var að vísu orðinn gamall, en bar þó enn af flestum hestum.
Og þegar fljótið var illt yfirferðar og menn áttu bágt með að komast yfir það, vissu þeir oft ekki fyrr til en "maðurinn á svarta hestinum", sem eitt sinn hafði verið svo margtalað um í sveitinni, var kominn til þeirra og slóst í för með þeim. Hann talaði sjaldnast orð við þá, en hann þræddi fyrir þá fljótið, reið við hlið þeirra, sem svimaði í straumvatninu eða höfðu duglitla hesta, og bjargaði þeim, sem losnuðu við hestana. Það virtist vera mesta yndi hans að svamla í fljótinu. Honum og Brún var þar ekkert ófært. En alltaf, þegar hann var búinn að koma mönnum upp úr fljótinu, hvarf hann frá þeim án þess að kveðja eða hirða um neinar þakkir. Menn sáu þá, hvar hann skildi við Brún í haganum, gekk upp brekkuna og hvarf inn í bergið. Enginn maður var nú í vafa um það lengur, að þetta var Hjalti.
En hann kom mönnum þó ekki ætíð til hjálpar á Brún. Oft var hann fótgangandi og hentist þá áfram á stórri stöng. Stökk hans á þessari stöng vöktu aðdáun hvers manns. Hann var stæltur og mjúkur eins og stálfjöður. Það var yndi að sjá hann koma niður af háu og löngu stökki og henda sér í sömu svipan á nýtt stökk. Flestum bar saman um, að hann væri enn þá fljótari að leggja undir sig landið á stönginni en á Brún. Og hann hikaði ekki við að leggja í Markarfljót, þó að hann væri hestlaus, og vaða fyrir hestum manna.
Af þessu varð hann hverjum manni ástsælli undir fjöllunum. Hann varð eins konar áheitagoð allra þeirra, sem komast þurftu yfir Markarfljót. Og orðstír hans barst um allar sveitir, - þá auðvitað líka til eyrna lögmanni.
Engum af mönnum lögmanns hafði þó tekist enn að ná Hjalta á vald sitt. Það þótti ekki árennilegt við fámenni að sækja hann í hellinn.
Lögmaður lét sér hægt. Nú vissi hann, hvar Hjalti var, og nú átti hann hann vísan, - þurfti ekki annað en rétta út höndina til að ná honum.
Og nú var hann lagður á stað við tólfta mann, vel búinn að vopnum og tygjum, til að "rétta út höndina" og taka hann.
Það, sem hann heyrði sagt af vinsældum Hjalta og hjálpsemi við ferðamenn, blíðkaði hann ekki vitund. Dómurinn var þegar felldur. Anna átti að greiða sektina fyrir þau bæði, þótt það ætti að kosta allt fé hennar. Hjalti átti að láta húðina og rekast í annan landsfjórðung eða af landi burt. Börnin áttu að vera frilluborin og arflaus, dæmd til ævilangrar fátæktar og fyrirlitningar, útskúfuð úr stórmennaættinni, ásamt móður sinni.
Vægara var ekki hægt að dæma, ef hann ætti að "hreinsa heiður sinn", en þyngra mætti dæma og þó standa við dóminn, hvert sem hann færi.
Páll lögmaður var harður og myrkur á svipinn, er hann reið austur um aurana frá Hlíðarenda. Hann þagði, og mönnum hans þótti ráðlegast að yrða sem minnst á hann. Þeir höfðu líka nóg að skrafa um í hálfum hljóðum sín á milli. Allir vissu þeir, hvað til stóð, og það var ekki laust við hólmgönguhroll í sumum þeirra. Fráleitt mundi Hjalti gefast upp að óreyndu í slíku afbragðsvígi og hellir hans var. Einhver þeirra mundi snýta rauðu áður en leiknum væri lokið. En hver mundi verða fyrir því?
Þverá var tæplega í kvið og tær að mestu. Álarnir voru góðir yfirferðar og eins Affallið. Allt jökulvatnið beljaði suður með fjöllunum og beygði fyrir Seljalandsmúla austur með þeim - fram hjá helli Hjalta.
Veður var hið versta, landsunnan rok og hellirigning við og við. Jökullinn var allur byrgður í skýjum og veðurhvinurinn í fjallabrúnunum ægilegur. Fossarnir í hamrabeltunum sveifluðust til og frá af ofviðrinu.
Lögmaður lét ekki veðrið letja sig. Slíkt veður átti einmitt vel við skap það, er hann nú var í. Hann var á ólmum hesti og ötulum, og bar hann undan mönnum sínum. Hann var klæddur í leðurhosur miklar, sem náðu langt upp á lærin, en hafði pansara ofan að mitti undir kápunni. Flókahatt bar hann á höfði með stórri, svartri fjöður, sem blakti fyrir storminum. Sverð sitt bar hann við hlið sér, og voru friðböndin leyst, svo að fljótlega yrði til þess gripið.
Fram undan helli Hjalta lá alfaravegurinn yfir fljótið. Þegar lögmaður kom þangað, nam hann staðar, litaðist um og beið þess, að menn hans nálguðust. Markarfljóti var hann orðinn svo vanur, að honum stóð enginn geigur af því; honum sýndist það ekki meira né ægilegra nú en hann hafði oft séð það áður. Og Hjalta sá hann hvergi.
Og áður en menn hans náðu honum, lagði hann út í fljótið.
Hesturinn frýsaði og gekk út í fljótið hálfnauðugur. Það var sem segði honum hugur um, að þetta væri ekki ráðlegt. En hann fékk sporana inn í síðurnar á sér fyrir varasemina. Slíka frýjun stóðst hann ekki og óð hiklaust áfram.
Framan af gekk allt vel. Lögmaður reið kvísl eftir kvísl, og engin þeirra var mjög djúp. En í landkvíslinni að austan lá allt vatnsmagnið.
Hann reið út í hana að lokum, en þótti hún djúp. Hann var ekki kominn nema tvo-þrjá faðma frá landi, þegar yfir skall hjá honum. Hann saup hveljur, er kalt jökulvatnið rann ofan í leðurhosurnar hans, og hugsaði til að snúa aftur. En í sama bili tók hesturinn sundtökin. Þá var ekki um annað að gera en láta hann ráða ferðinni.
Lögmaður sat nú í köldu, beljandi jökulvatni upp að belti og starði á landið fram undan sér. Augu hans döggvuðust, og hann sá ekki skýrt. Þó sá hann eitthvað uppi á eyrinni hinum megin, sem líktist undarlegum fugli, stórum og fluglágum gammi, sem hóf sig upp af jörðunni og flaug ofurlítinn boga í hvert skipti, en kom jafnan niður á milli. Mitt í hættunni og angistinni gat hann ekki annað en horft stundarkorn á þennan "fugl", sem virtist vilja komast í veg fyrir hann og verja honum landtökuna. En brátt gat hann hvorki glöggvað hann né annað. Allt skalf fyrir augunum á honum, og það var sem allt fast land flyti burtu. Hesturinn var að linast á sundinu. Hann sökk dýpra og dýpra í jökulvatnið, og það hækkaði og bólgnaði upp undir vitin á honum. Svo losnaði hann við hestinn og seig ofan í kalda, leirgula móðuna. Pansarinn dró hann niður á höfuðið. Hann svalg í sig andann, lokaði munninum og færðist í kaf. En um leið hentist eitthvað dökkt og þungt ofan í vatnið rétt hjá honum. Hann sá skuggann af því og heyrði skvettinn. - - -
Meira vissi lögmaður ekki af sjálfum sér að segja, fyrr en hann var kominn upp á þurrt land.
Hann hafði sama sem ekkert drukkið. Hann sat flötum beinum á eyrinni og skyrpti út úr sér í sífellu jökulbragði og dálitlu af sandi. Hattinn sinn hafði hann misst í fljótið, og sverðið hafði runnið úr skeiðunum og orðið eftir þar úti í kvíslinni.
Nú, þetta gat allt saman hafa farið verr.
Svo fór hann að líta í kringum sig eftir mönnum sínum. Undarlegt mátti það vera, ef þeir hefðu ekki fengið kaffæringu líka.
En hann sá ekki nema einn mann hjá sér. Og það var enginn af hans mönnum. Það var maður með óræktað hár og skegg, sem nú draup af vætu, undarlegur maður, steinþegjandi, með samanbitnar varir, - reglulegur villimaður. Hann þekkti hann ekki.
Menn hans voru sorglega dreifðir. Sumir voru á sundi úti í kvíslinni, í þann veginn að ná landi. Aðra hrakti undan straumnum, fram á grynningar, sem neðar voru. Sumir voru enn úti á eyrinni, treystu sér ekki út í kvíslina á þessum stað og fóru að leita fyrir sér annars staðar. Ókunni maðurinn benti þeim og benti, en kallaði aldrei til þeirra. Það leið góð stund, þar til þeir komust allir yfir kvíslina.
"Hver ert þú?" spurði lögmaður ókunna manninn. Orðin hálfköfnuðu í kverkunum á honum.
Hjalti svaraði engu. Honum var það fyrst nú ljóst, að það mundi vera lögmaðurinn sjálfur, sem hann hafði bjargað.
Og þegar menn lögmanns voru komnir á land, tók hann til fótanna og elti stöngina sína, sem flaut fram eftir öllu fljóti.
"Hver var þessi maður, sem bjargaði mér?" spurði lögmaður og litaðist um í hópi manna sinna, sem nú voru allir komnir upp úr fljótinu og stóðu í kringum hann rennvotir.
Lögmaður þagði og leit spyrjandi framan í hvern þeirra, en enginn svaraði.
En þegar hann var orðinn úrkula vonar um að fá nokkurt svar, gall í einum þeirra:
"Það var Hjalti mágur þinn!"
Það var dálítill gleiðgosalegur hæðniskeimur í skjálfandi og vesældarlegri röddinni.
Lögmaður leit framan í piltinn. Hann var blár í framan af kulda og angist og var þó að reyna að bera sig mannalega. Svo tók lögmaður vettling sinn, rennvotan, og henti honum framan í piltinn og mælti:
"Þagað gast þú, óhræsið þitt! Þeir þögðu, sem betri voru."
Lögmaður hafði fyrir löngu fyrirboðið mönnum sínum að nefna Hjalta á nafn í sín eyru. Og það forboð stóð enn.
Hann sat lengi þegjandi og hugsandi og starði fram fyrir sig. Menn hans biðu og héldu í taumana á hestunum. Enginn spurði, hvert nú skyldi halda. Enginn bjóst við, að nú yrði haldið til hellisins, eins og ráð hafði verið fyrir gert, enginn spurði heldur, hvort elta skyldi Hjalta og taka hann. Allir biðu þegjandi eftir ákvörðun lögmanns sjálfs. En hann sat langa stund þegjandi, þar til hann mælti hálfhátt fyrir munni sér:
"Þetta er dómur drottins!"
Svo staulaðist hann á fætur, stirður og þrekaður, lét styðja sig á hestbak og mælti:
"Austur að Stóruborg!"
Og þangað reið hópurinn um kvöldið.
2. GRIÐ SETTLögmaður var ekki valdsmannslegur, þegar hann kom að Stóruborg, rennvotur og hrakinn, skjálfandi af kulda og með kápuna sína fyrir höfuðfat.
Hann tók sjálfur gistingu hjá systur sinni, eins og vandi hans var, og nokkrir af mönnum hans með honum. Hinir dreifðu sér á bæina í kring til gistingar.
Á Stóruborg stóð ætíð uppbúið rúm í góðu herbergi, sem heldri gestum var ætlað. Þangað var nú lögmanni fylgt. Oft hafði hann hvílt þar áður, en ekki minntist hann þess, að hafa orðið rúminu fegnari í annan tíma en nú.
Systir hans þjónaði honum sjálf til sængur, með sömu alúðinni og nærgætninni og ætíð endranær, og henni því meiri, sem hann var nú meiri hjúkrunarþurfi en nokkru sinni áður. Hún dró af honum vosklæðin, neri á honum fæturna, sem voru ískaldir, með þurru, hlýju vaðmáli, og færði honum að lokum hitað rauðvín til að drekka.
En hún talaði sama sem ekkert við hann.
Þegar lögmaður hafði svolgrað í sig rjúkandi heitt rauðvínið, byrgði hann sig niður. Fór þá brátt að minnka í honum skjálftinn, og eftir litla stund var hann sofnaður.
Þegar hann vaknaði daginn eftir, var komið besta veður, og sólin skein inn í herbergið til hans. Hann geispaði og teygði sig og fann, að hann var að mestu leyti heill heilsu og í besta skapi. Þó fann hann óþægilegan þela fyrir brjóstinu og dálítinn höfuðverk, svo að hann ásetti sér að liggja um daginn og yfirvinna að fullu afleiðingar bleytunnar og kuldans. Og þegar Anna kom inn til hans, bað hann hana að nýju um heitt rauðvín, til að hafa úr sér hæsina.
Þegar hann hafði fengið það, leið honum prýðilega. Einkum fannst honum fæturnir á sér vera sem endurbornir. Hann hafði riðið í fullum skinnhosunum alla leið frá fljótinu austur að Stóruborg og ekki viljað heyra það nefnt að hella úr þeim. Hann hafði heyrt það löngum, að það væri illt og óhollt að standa í blautu. Ef maður blotnaði í fæturna, ætti hann undireins að rífa sig úr bleytunni og fara í þurrt. Nú fluttu fæturnir á honum aðra kenningu. Þeir voru mýkri og hlýrri en þeir höfðu nokkurn tíma áður verið. Það var sem hefðu þeir nú fyrst fengið það, sem þá alltaf hafði vantað. En vellíðan fótanna á ótrúlega mikinn þátt í vellíðan alls líkamans og sálarinnar með.
Svo fór hann í ró og næði að rifja það upp fyrir sér, hvernig þetta hefði allt til gengið. Hann mundi það atvik fyrir atvik, allt nema þessa litlu stund, sem hann hafði verið í kafi í vatninu. Og hún gat ekki hafa verið löng, fyrst hann gat haldið niðri í sér andanum á meðan. Því að hefði hann sleppt andanum, hlaut vatnið að sogast ofan í lungun á honum.
Hvernig hafði maðurinn getað komið svona mátulega honum til bjargar? Það var honum óskiljanlegt. Hann hlaut að hafa séð allt fyrir, hvernig fara mundi, séð það undireins og hann lagði út í fljótið. En þó að hann gerði ráð fyrir því, var honum þetta samt óskiljanlegt. Það stóð fyrir honum sem kraftaverk, - atburður, sem yfirgengur allan mannlegan skilning.
Það eitt var víst, að þessi maður hafði bjargað honum, tekið hann drukknandi í kafi úti í jökulvatninu og dregið hann upp á þurrt land, - bjargað lífi hans, og það á nærri því undarlegan og óskiljanlegan hátt.
Bjargað lífi hans? - Var það nú víst, að hann mundi hafa drukknað þarna, hefði honum ekki verið bjargað? Var það nú víst, að hann hefði ekki getað bjargað sér sjálfur?
Þegar hann hafði verið í þessum kringumstæðum daginn áður, hafði hann ekkert getað hugsað. Hann hafði eiginlega ekkert orðið hræddur, - engan tíma haft til þess. Nú gat hann hugsað um þetta með ró og spekt inni í rúmi sínu, og nú sá hann fyrst fyrir alvöru, hve skelfilega hann hafði verið staddur. Nú greip hræðslan hann.
Hann hefði aldrei komist upp á yfirborðið framar, úr því að hann var eitt sinn kominn í kaf, vegna pansarans og sverðsins. Hann var ekki syndur, og þó að hann hefði verið það, mundi hann ekki hafa haft mátt til þess. Og að losa þetta við sig í vatninu var ekki til að hugsa. Og hefði hann náð að sökkva til botns, mundi enginn maður hafa getað fundið hann. Fljótið mundi hafa velt honum eftir botninum eitthvað og eitthvað þangað, sem engum manni datt í hug að leita. Og menn hans hefðu ekki getað veitt honum hina minnstu hjálp. Það gat enginn, nema sá, sem alltaf hafði augun á honum, - maður, sem sá, hvernig fara mundi, og bjó sig undir hjálpina, maður, sem beið tilbúinn þess, sem hlaut að koma, og var syndur og ósmeykur við vatnið, einráðinn í því, hvað hann ætti að gera, og karlmenni til að framkvæma það. Ekkert af þessu var neinn af hans eigin mönnum fær um.
Það var ekki tveim blöðum um það að fletta, að Hjalti Magnússon hafði bjargað lífi hans.
En hvernig í fjandanum átti hann nú að fara að þessu? Þetta var einmitt maðurinn, sem hann hafði ofsótt í fimmtán - sextán ár, maðurinn, sem allri hamingju hans hafði spillt og honum fannst alls staðar hafa verið sér til ama og óheilla og óvirðingar, maðurinn, sem hann ætlaði nú loksins að ná sér niðri á og gat nú loksins náð sér niðri á, - eða réttara sagt hefði getað, hefði ekki þetta komið fyrir.
Hvað átti hann nú að gera? Hann hafði látið Hjalta ganga sér úr greipum á eyrunum við fljótið, þar sem honum var innan handar að láta taka hann. Væri nú ekki réttast, að hann léti hann í friði og skipti sér ekkert af honum framar? Þættist hafa átt eitthvert annað erindi austur yfir fljótið og færi svo búinn til baka aftur? Það var óhugsandi. Allir menn hans vissu um erindið. Þeir mundu hlæja að honum, svo að hann heyrði, og segja hverjum manni frá erindinu og erindislokunum, hvernig sem hann fyrirbyði þeim það. Hann gat ekki stolist þannig frá erindi sínu.
Eða átti hann að láta taka Hjalta og dæma hann, eins og hann hafði ætlað sér? - Látast ekkert vita um, að það væri hann, sem hefði bjargað lífi hans. Það var kannske það eina rétta. Hann gæti þá launað honum lífgjöfina á einhvern hátt í kyrrþey, þegar hann hefði hann á valdi sínu. En honum hraus hugur við slíkri aðferð, - slíkri lítilmennsku, slíku æruleysi. Honum þótti vænt um, þegar hann hugsaði betur um það og sá, að það var ógerningur. Honum hafði verið sagt það undireins, að maðurinn, sem bjargaði honum, væri Hjalti, sagt það, svo að fjöldi vitna heyrði. Og þeir, sem ekkert sögðu, sögðu honum það hvað skýrast einmitt með þögninni.
Lögmaðurinn bylti sér í sænginni og hugsaði um þetta fram og aftur. Honum kom ýmislegt til hugar, en aldrei það eina sjálfsagða. Augu hans voru svo haldin af gömlum hleypidómum og ættardrambi, að hann sá það ekki. Það þurfti að koma utan að, eins og sólargeislinn inn í herbergið hans, sem var dimmt fyrir.
Og það kom utan að, - beint inn um dyrnar, á sama hátt og sólargeislinn inn um gluggann.
Dyrnar opnuðust, og Anna kom inn með tvö ung börn, sitt á hvorum handlegg, og hin sex á eftir sér. Hún var prúðbúin, hlaðin gripum úr gulli og silfri, prýddum fögru víravirkisskrauti og dýrum steinum. Hún var sköruleg nú, engu síður en meðan hún var yngri, - sköruleg, þótt hún væri nokkuð föl og mögur og hefði elst fyrir ár fram. Honum var engin vansæmd að slíkri systur, hvar sem hún kæmi fram á meðal manna. Hún var enginn ættleri.
Börnin voru líka prúðbúin og hvert öðru fegurra og efnilegra. Það elsta var drengur, bjartur á hár og fagureygður. Hann hafði oft séð hann, meðan hann var yngri, og jafnan litist vel á hann. Nú var hann orðinn svo stór, að hann gnæfði yfir móður sína. Næst honum var annar drengur, ári yngri og lítið eitt minni. Svo var hvert barnið öðru yngra og það yngsta í reifum.
Það var sem stofan fylltist af nýju sólskini frá öllum þessum björtu kollum og brosandi augum, sem öll skinu á lögmanninn í rúminu.
En allt þetta sólskin æsku og fegurðar og glæsilegra vona hafði gagnstæð áhrif á lögmanninn við það, sem til var ætlast. Hann varð þungbrýnn og roðnaði mjög. Gamla gremjan, sem hafði verið nýlega rétt í andarslitrunum, vaknaði til lífs að nýju. Margra ára hatur og harðneskja blossaði upp, án þess hann fengi við það ráðið. Þarna stóð frammi fyrir honum margra ára móðgun, margra ára árangurslaus barátta. Hvert af þessum glóhærðu barnahöfðum minnti hann á nýjan ósigur, nýja lægingu og lítilsvirðingu á valdi hans. Honum gramdist það við Önnu systur sína, að hún skyldi sí og æ vera að sýna honum þessa syndakrakka sína, sí og æ að minna hann á, hve djúpt hún væri fallin. Fann hún þá ekkert til minnkunar sinnar? Þótti henni sómi að þessu? Honum þótti það eðlilegast, að hún reyndi að leyna þessum börnum og fela þau, að hún gerði sér allt far um að láta engan sjá, hve mörg þau væru, síst af öllum hann. Þessi ofdirfska og ósvífni gekk alveg fram af honum.
"Menn þínir hafa sagt mér frá því, hvað gerðist við Markarfljót í gær," mælti Anna ofurblíðlega. "Nú komum við hér öll í hóp til að ítreka við þig, sem við höfum margsinnis beðið þig áður. Nú vona ég, að við þurfum ekki lengi að biðja."
Lögmaður leit sem snöggvast yfir barnahópinn, leit svo niður fyrir sig og steinþagði. Það var sem steinn sæti fyrir brjóstinu á honum, - ískaldur, harður og þungur steinn, sem þessi bænaraugu unnu ekkert á. Hann gat ekki étið ofan í sig orð sín og eiða, - öll þessi miklu stóryrði, sem hann hafði mælt. Hann gat ekki leyft það, sem hann hafði margsinnis og margsinnis svarið, að aldrei skyldi verða. Hann gat í mesta lagi gengið frá eiði sínum um að drepa Hjalta, hvar sem hann kæmist í færi við hann, með það fyrir afsökun, að Hjalti hefði bjargað lífi hans. En hitt, að gefa samþykki sitt til ráðahags þeirra Önnu og hans, gera öll þessi óskilgetnu börn lögleg og arfgeng, - það var ómögulegt, - óhugsandi, - ekki nærri því komandi.
Anna las hugsanir hans. En hún hafði ásett sér, að nú skyldi skríða til skara þeirra á milli, með illu eða góðu. Hún rétti eldri börnunum yngstu börnin, sem hún bar í fanginu, settist við rúm bróður síns og tók um hönd hans. Svipur hennar var mildur og alvörugefinn og rómur hennar dálítið klökkur. Hún sá það, að fyrirstaðan var miklu, miklu meiri en hún hafði búist við.
"Bróðir minn," mælti hún. "Menn þínir hafa líka sagt mér, hvað þér varð að orði, er þú sast við fljótið og vissir, að það hafði verið Hjalti, sem hafði bjargað þér. Þetta er dómur drottins, mæltir þú. Ertu búinn að gleyma því? Í það skipti talaðirðu frá hjarta þínu og talaðir satt. Þú fannst, hver það var, sem lagt hafði hönd sína á þig í það skipti. Þú fannst, að hann var þér máttugri og að þú varst eins og fis í hans höndum. Þú auðmýktir þig í bili. Nú ætlarðu að reyna að afneita þessum dómi og rísa gegn honum, neita því, að þú hafir nokkurn tíma auðmýkt þig, neita því, að þú hafir skilið þessa átakanlegu ráðningu og bendingu. En hann, sem slíkan dóm dæmir, lætur ekki að sér hæða. Þú getur reynt að komast hjá hendi hans, en þú kemst það ekki. Fyrr eða síðar hittir hann þig. Fyrr eða síðar heimtar hann af þér reikningsskil fyrir fullnægingu dómsins og dæmir þig að nýju."
Lögmaður þagði. Nú blasti nýtt við honum, sem hann hafði ekki hugsað út í áður. Menn hans sögðu andstæðingum hans allt, sem þeir vildu vita um hagi hans, smátt og stórt. Já, auðvitað! Menn hans voru aðskotadýr úr öllum áttum, sníkjudýr, eins og munkurinn hafði sagt, augnaþjónar, sem aðeins höfðu matarást á honum. Þannig voru sveinar allra höfðingja, - sníkjudýr, sem á þeim lifðu. Þar var ekki einn meðal hverra tíu, sem treysta mátti að fullu.
Anna hélt áfram, blíðlegar en áður:
"Ég veit, að þér hefir oft liðið illa síðari árin, bróðir minn. Þrátt fyrir völdin og auðinn og þrátt fyrir það, þó að þú hafir gert margt vel, margt þér til ógleymanlegs sóma, hefirðu ekki verið sæll. Ég á kannske ofurlítinn þátt í því, en ég get ekki að því gert. Ég veit, að þér hefir liðið verst vegna þess, að þú hafðir rangan og vondan málstað gagnvart mér. Þú fannst það ekki sjálfur og vildir ekki við það kannast, og þegar aðrir bentu þér á það, reiddistu og hamaðist og gerðir þig að athlægi í augum manna, svo að menn hættu að virða þig, en raunir þínar margfölduðust. Þú fannst ætíð einhvern óeðlilegan kulda innra hjá þér. Hann stafaði af hatri og óvild til saklausra manna, hann stafaði af því einu, að ættardrambi þínu og metnaðarþorsta var ekki fullnægt, að ekki voru allar manneskjur gæddar nægilega miklu þýlyndi til að látast virða vilja þinn í öllu. Og þetta hatur hefir spillt þér og gert þig að manni, sem þér mundi standa skelfing af, ef þú sæir hann frammi fyrir þér. Manstu, hver ásetningur þinn var, er þú fórst að heiman í þessa ferð? - Líttu á börnin þarna. Gerðu það fyrir mig. Þessum saklausu börnum ætlaðirðu að steypa í glötun, gera þau félaus og föðurlaus, - systurbörnin þín! Guði almáttugum ofbauð það, sem þú hafðir í hyggju. Hann lagði atvikin fyrir þig eins og snöru til að hindra þig frá öðru eins verki. Ég veit nú, að þú ert hættur við sumt af því, sem þú ætlaðir þér að gera. En þú átt eftir að setja kórónuna á verkið. Þú átt eftir að fyrirgefa að fullu og öllu. Þú átt eftir að fyrirgefa eins og guð sjálfur fyrirgefur. Það er sú eina fyrirgefning, sem veitir mönnunum fulla sælu."
Lögmaður heyrði það eins og gegnum svefn, sem Anna sagði. Hann var að hugsa um annað á meðan, hlusta á annað jafnframt. Allt rifjaðist upp fyrir honum, sem honum hafði mætt árum saman í sambandi við þetta mál. Það var sem stofan fylltist af mönnum, sem eitthvað höfðu gefið honum í skyn um sitt álit á því. Langflestir störðu á hann með beisku hæðnisglotti og hreyttu í hann dylgjum, jafnvel hótunum, særðu hann með napurri fyrirlitningu. Sumir gáfu honum vingjarnlegar bendingar, án þess að hann bæði þá um það. Sumir stóðu uppi í hárinu á honum með ofsa og ósvífni, aðrir smeygðu sér í kringum hann með fláttskap og óheilindum, og meðal þeirra hans eigin þjónustumenn. Hann leit í huganum framan í hópinn og þekkti hvert andlit. Þar var Sigvaldi í Hvammi, Halldór á Núpi, Hallur grámunkur og Steinn bróðir hans, lögréttumaðurinn á alþingi, pilturinn við Markarfljót og margir, margir fleiri. Þeir létu skap sitt í ljós sinn á hvern háttinn og við hvert tækifærið. Hafi nokkur maður nokkurn tíma staðið einsamall uppi, þá hafði hann staðið það í þessu máli. Var þá ekki von, að hann yrði kaldur og harður? Slíkt samúðarleysi allra manna hlaut að gera hvern mann að steini. Og hann hafði það gert að steini. En nú stóð hópurinn samt uppi yfir honum og ætlaði að kremja hann með augnaráði sínu. Hann bað ekki, eins og Anna. Hann skipaði.
Anna beið nokkra stund eftir svari. Síðan hélt hún áfram:
"Þú hefir svarið að drepa Hjalta. En við hvað hefirðu svarið það? Manstu það? Þú hefir svarið það við sverð feðra þinna. Hvað er nú orðið af því sverði. Þú komst í gærkveldi með skeiðarnar fullar af vatni úr Markarfljóti! - Finnst þér nú forsjónin hafa getað sýnt eiði þínum meiri fyrirlitningu en þetta? Skilurðu enn ekki leiðslu hulinnar handar á öllu þessu?"
Anna beið enn eftir svari, en lögmaður þagði sem áður. Þá hélt hún áfram og var nú nokkru harðorðari en fyrr: -
"Hvaða dómur heldurðu, að verði felldur yfir þér í áliti almennings, ef þú heldur nú enn áfram að ofsækja mann, sem bjargað hefir lífi þínu? - Varist að gera Páli lögmanni gott, munu menn segja, því að hann launar það með illu, því meiru illu, sem honum er gert meira gott. Varist að bjarga lífi hans, ef hann kemst í háska, því að þá drepur hann ykkur. Honum nægir ekki að traðka helgustu tilfinningum vandamanna sinna, ofsækja saklaus börn og hæða allar tillögur vina sinna. Hann heimtar hefnd, hefnd, ekkert annað en hefnd, blóðhefnd og dauða! Hann er fullur af illsku og hatri, fullur af djöflinum. Hann getur engum manni fyrirgefið, - ekki einu sinni systur sinni, - ekki einu sinni manni, sem bjargað hefir lífi hans! Lengi mun annars eins manns verða minnst á Íslandi, því að það hefir ekki nema einn lifað slíkur!"
Anna klökknaði svo, að rödd hennar skalf og tárin komu fram í augun á henni. Hún spratt á fætur. Hún hafði ekki skap til að tala lengur við bróður sinn steinþegjandi.
Lögmaður leit upp og framan í hana og mælti:
"Ég vil fá að sjá Hjalta."
"Þú sást hann í gær, þegar hann bjargaði þér, - sem mér liggur við að segja, að aldrei skyldi verið hafa."
Lögmaður brosti.
"Ég get varla sagt, að ég sæi hann þá. Ég vil fá að sjá hann betur."
"Viltu heita honum fullum griðum, ef hann kemur til þín hingað?"
"Já, það vil ég."
Nú fann Anna í fyrsta skipti lát á bróður sínum, og það var sem hún logaði af röggsemi.
"Sæktu tvo menn til að vera votta, Mangi!" mælti hún við elsta drenginn sinn. Hann hlýddi undireins.
"Trúirðu mér ekki nema vottar séu við?" spurði lögmaður dálítið kíminn.
"Nei," mælti Anna hvatlega. "Ég hefi reynt svo margt illt af þér síðari árin, og ég hefi heyrt til þín svo óttaleg orð. Ég treysti þér ekki."
Vottarnir komu, og Anna mælti hátt og skýrt, svo að allir mættu heyra:
"Þið eigið að vera vottar að því, að Páll lögmaður Vigfússon heitir Hjalta Magnússyni, sakamanni sínum, fullum griðum, ef hann komi hingað til viðtals við hann. Hann skal hafa full grið á leiðinni hingað, meðan hann dvelur hér og þar til hann er aftur kominn í vígi sitt. Er ekki þetta rétt hermt?"
"Jú," mælti lögmaður og hafði gaman af formálanum.
- Rétt á eftir var maður sendur á stað með tvo gæðinga til reiðar að sækja Hjalta.
3. SÁTT OG FÖGNUÐURLögmaður lá einn í herbergi sínu mestallan daginn, drakk heitt rauðvín og barðist við sjálfan sig. Hann var því búinn að taka ákvörðun sína, áður en Hjalti kom, og var undir komu hans búinn.
Hjalti kom seint um daginn, og fylgdi Anna honum undireins inn til lögmanns og lét aftur hurðina að baki þeim. Engir voru viðstaddir aðrir en þau þrjú.
Kveðjurnar voru ekki vingjarnlegar. Hvorugur þeirra yrti á annan. Hjalti gekk þegjandi fáein skref inn á gólfið og nam þar staðar. Lögmaður mældi hann og vó með augunum og var ekki blíður á svipinn.
Anna stóð frammi við dyrnar. Henni var ekki rótt í brjósti. Henni fannst sem eldur og tundur væru að nálgast hvort annað. Öðrum megin var þetta steinharða valdsmannsandlit, sem leyndi því stranglega, hvað hann hafði í huga, og var til alls búið. Hinum megin þessi frjálsi, ólmi, ókúgaði útilegumaður, veðurbitinn og vöðvastæltur, með tinnuhörku í augunum og varirnar svo samanbitnar, að munnurinn varð að dálitlu, bláhvítu striki innan í úfnu skegginu. Þessi maður gat engrar miskunnar beðið.
Hún fann það á sér, að hún hafði alls ekkert vald yfir Hjalta þessa stundina. Henni stóð meiri ógn af honum en bróður sínum. Hún bjóst við því hvert andartak, að hatrið milli þessara fjandmanna blossaði upp með óviðráðanlegu afli, - svo magnað og tryllt, að engin minnsta von væri um sætt framar. Þá fyndi ekki hefnigirnin og illskan minnstu svölun, fyrr en annar hvor þessara manna lægi dauður. Þá var allt stríð hennar orðið árangurslaust, takmarkið, sem hún hafði verið nærri komin að, horfið inn í eilífðina, eina vonin hennar dáin, - og þá mundi hún ekki annað geta en dáið með henni.
Lögmaður varð fyrstur til að rjúfa þögnina. Rómur hans var dimmur og harður, eins og hann kæmi úr undirdjúpunum.
"Ert þú Hjalti Magnússon?" spurði hann.
"Já," mælti Hjalti, og það var engin auðmýkt í rómnum.
"Bjargaðir þú manni úr Markarfljóti í gær?"
"Já."
"Hvernig fórstu að því?"
"Ofur einfaldlega. Það var ekkert þrekvirki. Ég henti mér af stöng út í kvíslina, greip manninn um leið og hann var að sökkva og synti með hann til lands."
Þögn.
"Vissirðu, hver þessi maður var?" mælti lögmaður.
"Ég renndi grun í það á eftir."
"En þú bjargaðir honum ekki hans vegna?"
"Nei," mælti Hjalti harðlega. "Ég hefi bjargað fleirum úr Markarfljóti og ekki spurt um það, hverjir fyrir því hafa orðið."
Þögn. Lögmaður starði fast á Hjalta og virti hann fyrir sér hátt og lágt. Loks mælti hann:
"Veistu það, að hvað sem sagt kann að vera um lögmanninn á Hlíðarenda, hefir hann fullan vilja á því að launa þeim sæmilega, sem orðið hefir til að bjarga lífi hans?"
"Ég bjarga ekki lífi manna í launa skyni."
Lögmann setti hljóðan. Þessi kalda, stórmannlega rósemi gerði hann ráðþrota.
"Biddu mig einhverrar bónar," mælti hann mildari en áður. "Ef ég er þess megnugur, skal ég veita þér hana."
Hjalti horfði á hann og svipur hans breyttist ekki vitund.
"Anna og börnin mín hafa beðið þig fyrir mína hönd," mælti hann. "Ég hefi þar engu við að bæta."
Lögmanni líkaði svarið vel. Hann hafði kviðið fyrir því í hljóði að heyra hann endurtaka sömu bónina.
"Sú bæn er veitt," mælti lögmaður. "Hefirðu enga aðra bón?"
Anna hljóðaði lágt upp yfir sig af fögnuði.
"Nei, enga aðra bón," mælti Hjalti. Hann stóð kyrr, og það var sem hann væri að bráðna. Tárin komu fram í augun á honum. Loks stóðst hann ekki mátið, heldur kraup niður við rúm lögmanns og mælti:
"Jú, ég hefi einu við að bæta. Taktu mig í sátt við þig, svo að ég geti flutt úr hellinum og orðið aftur frjáls maður."
"Auðvitað!" mælti lögmaður. "Nú verðurðu mágur minn að guðs og manna lögum. Heldurðu, að ég láti mág minn búa í helli? Það geri ég ekki meðan ég er annars megnugur."
Hjalti stóð á fætur aftur og þurrkaði af sér tárin. Geðshræring hans var svo mikil, að hann fékk engu orði upp komið.
Í sama bili fleygði Anna sér í faðm bróður síns og grét af gleði við brjóst hans.
"Þakka þér fyrir, þakka þér fyrir!" mælti hún og gat ekkert annað sagt.
Lögmaður strauk um vanga hennar og vafði hana að sér.
"Ef ég hefi verið of strangur og harður við þig að undanförnu," mælti hann, "þá máttu ekki gleyma því, að það er af því, að ég hefi elskað þig svo heitt. Ég hefi alltaf séð, að þú varst mest manneskjan af okkur systkinunum, og þess vegna gat ég ekki hugsað mér annað gjaforð þér samboðið en það allra ríkasta og göfugasta. Ég hefði fyrir löngu verið búinn að leyfa systrum þínum að eiga almúgamann, hefðu þær viljað. En ég gat ekki borið það að sjá þig rata í fátækt og ólán. - Nú, ólánið er nú ekki eins mikið og ég hélt. Börnin þín eru hvert öðru efnilegra. Og þér hefði verið óhætt að lofa mér að sjá Hjalta þinn fyrri, þó að ég fengist ekki til að heita honum griðum. Það er ekki víst, að ég hefði drepið hann. Ég hataði hann í blindni, af því að ég fékk aldrei að sjá hann. Þú átt líka ofurlitla sök á því, hve lengi þessi stund hefir dregist. Hvorugt okkar hefir trúað hinu. Af því hefir ógæfan stafað."
Anna stóð á fætur, lagði hendurnar um hálsinn á Hjalta og faðmaði hann að sér. Gleði þeirra allra þriggja var svo óvænt og innileg, að ekkert þeirra gat dulið hana. Lögmaður var líka barnslega glaður, engu síður en þau. Hann fann, að hann var nú orðinn aðalsöguhetjan í þessari skemmtilegu sögu.
"Það er ekki allt búið enn," mælti hann. "Þið eruð brotleg - eftir dóminum frá 1564 að minnsta kosti. Þið verðið að fá kvittun biskups og samþykki hirðstjórans til að mega giftast."
Hjalti og Anna horfðu á hann, eins og þau vildu spyrja, hvort nokkur fyrirstaða væri að fá slíkt - úr þessu, hvort það kostaði annað en nokkur jarðarhundruð.
"O-nei," mælti lögmaður. Hann hafði skilið spurningu þeirra ósagða. "Farið þið til biskupsins; ég skal búa allt út í hendurnar á ykkur. Svo er best að ég bítist við höfuðsmanninn."
"Hjalti," mælti lögmaður eftir dálitla stund og leit hvasst á mág sinn. "Á meðal okkar, sem teljum okkur stórmenni og rekjum ættir okkar til riddara og konunglegra lénsmanna, er það siður að gefa konunni morgungjöf. Hvað ætlar þú að gefa systur minni í morgungjöf?"
Hjalti þagði, og Anna flýtti sér að svara fyrir hann:
"Hjalti þarf enga morgungjöf að gefa mér. Hann er búinn að því. Hann hefir gefið mér svo marga ómetanlega gripi, - og hann hefir gefið mér ást sína, sem mest er um vert."
Lögmaður lét sem hann heyrði þetta ekki.
"Viltu ekki gefa henni Teig í Fljótshlíð?" mælti hann. "Það er miklu betra höfuðból en Stóraborg, þar sem allt er að fara í sand. Og fyrst við erum nú sáttir, ættum við að geta komið okkur saman í nágrenninu."
Lögmaður horfði á þau til skiptis og gladdi sig eins og barn við að sjá þessa miklu undrun, sem smám saman breyttist í ósegjanlegan fögnuð.
NÍUNDI ÞÁTTUR
1. BRÚÐKAUPIÐ
Brúðkaup þeirra Önnu og Hjalta var haldið heima á Stóruborg og var ekki margmennt. Önnu fannst réttast að láta fara sem allra minnst fyrir því. Þetta brúðkaup var svo óvanalegt og mundi líta svo undarlega út fyrir almenningssjónum, þar sem brúðurin var hátt á fimmtugsaldri, brúðguminn mitt á fertugsaldri og börnin orðin átta.
Lögmaðurinn sat þó brúðkaupið, en auk hans var boðsfólkið nokkuð undarlega valið. Dalshjónin voru þar ekki og fæstir af ættmennum brúðarinnar. En Halldór á Núpi var þar og prófasturinn í Holti. Þar var líka Sigvaldi í Hvammi og Steinn á Fit og Hallur grámunkur.
Steinn hafði reynst Önnu trúr og dyggur öll þau ár, sem Hjalti hafði orðið að nota hellinn, enda hafði Anna ekki prettað hann um endurgjaldið. Skömmu fyrir brúðkaupið hafði hún keypt jarðarpartinn af Sigvalda og gefið honum hann. En hún hafði ekki látið það nægja, heldur gefið honum svo af lifandi fé, að bú hans hafði aukist nær um helming. Þetta kom sér vel, því að Steinn var fátækur ómagamaður - eitt af því, sem Hallur bróðir hans gat ekki með nokkru móti fyrirgefið honum, - og átti fremur erfitt uppdráttar.
Steinn var því glaður, þegar hann kom í brúðkaupið, en ekki minnkaði gleði hans, er þangað kom, því að þá var honum skipað til sætis hið næsta lögmanninum, milli hans og Sigvalda í Hvammi.
"Ég hafði nú einu sinni ásett mér að láta hengja þig, lagsmaður, fyrir bjargráðin við Hjalta," mælti lögmaður um leið og hann laut niður að Steini, sem var eins og krakki við hliðina á honum, og klappaði á herðarnar á honum. "En nú skulum við drekka sáttabikarinn."
Steinn skríkti eins og fugl af kæti og neri saman höndunum. Svo hvolfdi hann í sig úr "sáttabikarnum", án þess að hafa sinnu á því að hringja við lögmanninn.
Lögmaður hló dátt að kunnáttuleysi hans í veislusiðunum, en var honum góður og sá honum fyrir nægum og góðum drykkjuföngum.
Þegar búið var að drekka minni heilagrar þrenningar með miklum hátíðleik og söngvum fyrir og eftir, var drukkið minni brúðhjónanna. Prófasturinn mælti fyrir því. Hélt hann snjalla ræðu og minntist hinnar löngu og einkennilegu baráttu þeirra fyrir ást sinni, sem nú hafði fengið svo sigursælar lyktir. Minntist hann þess nú, er hann hafði fyrir mörgum árum reynt að bera sáttaorð milli systkinanna og koma fyrir þau vitinu hvort í sínu lagi, en orðið að gefast upp. Lauk hann máli sínu með nokkrum vel völdum erindum undir dýrum og fögrum hætti, sem hann söng einn með þýðum og vel æfðum rómi. Að ræðunni lokinni áttu allir boðsgestir að drekka þeim til og kasta á þau kveðju í ljóðum um leið. Voru þau erindi ýmist gamlar "amorsvísur", viðlög gamalla hetjukvæða, ljúflingaljóð eða blátt áfram rímnaerindi, en öll voru þau kveðin við raust. Tókst mörgum þetta ófimlega, og varð af hin besta skemmtun.
Hallur grámunkur kom nokkuð seint til veislunnar og kom þangað eins klæddur og hann var vanur, í gráum kufli og með munkahettuna yfir höfðinu, berfættur með ilskó eina á fótunum.
"Gratia et pax domini vobiscum!"
Náð og friður drottins sé með yður.
mælti hann hátíðlega, er hann kom í dyrnar á veisluskálanum, og hóf hendurnar til hálfs. Svo nam hann staðar og leit undrandi um allan skálann. Þar voru veggir allir tjaldaðir og prýddir margvíslega, og þar skiptust á á borðunum gömul dýrahorn silfurbúin, silfurbikarar og rúbínlituð glös sunnan úr Feneyjum. En þegar munkurinn kom auga á Stein bróður sinn mitt í allri þessari dýrð, æpti hann upp yfir sig af ofboði, gerði krossmark fyrir sér og hentist öfugur út úr dyrunum.
Anna stóð á fætur og gekk út fyrir á eftir munkinum. Hún náði honum um leið og hann var að hlaupa burtu frá bænum.
"Þú mátt ekki skilja svona við okkur, Hallur minn," mælti hún. "Þú verður að gleðja þig með okkur í dag. Þessi dagur kemur ekki yfir okkur nema einu sinni."
"Ég sit ekki veislu með Steini bróður mínum," mælti munkurinn gremjulega.
"Hvers vegna ekki? Hatarðu bróður þinn svo mikið? - Þú verður þó að vera með honum í himnaríki!"
"Steinn fer ekki til himnaríkis, - ekki svona, eins og hann er, að minnsta kosti. - Ef eitthvað skyldi verða eftir af honum úr hreinsunareldinum - - - ."
Anna brosti góðlega.
"Hér er fullt inni af gömlum andstæðingum," mælti hún. "Bróðir minn situr hér mitt á meðal manna, sem hafa óhlýðnast honum um mörg ár og farið í kringum hann á allar lundir. En nú eru allir sáttir og njóta gleðinnar hver með öðrum. Þú mátt ekki gera mér þá skapraun að forsmá boð mitt. Þú átt þó líka þinn þátt í því, hve vel þessu hefir öllu lyktað."
"Ég fer ekki inn í veisluskálann aftur," mælti munkurinn.
"Nú, jæja. Ég skal láta færa þér allan veislukostinn út í kirkju. Ertu ánægður með það?"
"Kirkjan er saurguð."
"Nú-nú! Þá er það. En svefnloftið mitt?"
"Þar er allt, sem minnir á synd og vellystingar holdsins," mælti munkurinn og hristi höfuðið.
Anna brosti.
"Vertu nú ekki að þessum firrum. Komdu nú með mér í svefnloftið. Ég skal láta tvo elstu drengina mína vera hjá þér, þér til skemmtunar, og svo skuluð þið fá verulega góð, gömul þrúguvín. Gerðu þetta nú fyrir mig!`
Munkurinn lét undan og þó nauðugur.
Anna lét breiða á borð í svefnloftinu fyrir munkinn og drengina og bera þangað hið besta vín, sem til var. Svo áminnti hún munkinn góðlega um að hafa nú góðar og "kristilega uppbyggilegar" borðræður fyrir ungmennunum.
Þegar Anna fór úr loftinu, sat munkurinn hátíðlegur og heimspekilegur á svipinn, en drengirnir eins og brúður, hálffýldir yfir því að vera nú dæmdir til að hlusta á vandlætingar þessa "heilaga" manns, í stað þess að fá að vera í veislusalnum, þar sem samtalið var skemmtilegra - og syndugra.
Þegar Anna nálgaðist veislusalinn, hljómaði veisluglaumurinn á móti henni. Ráðsmaðurinn hennar, sem nú var orðinn aldraður maður, gekk sjálfur um kring með stórt ker fullt af rjúkandi vínblöndu og var svo drukkinn, að hann slagaði milli bekkjanna. Steinn á Fit var orðinn rauður í framan eins og soðinn krabbi, en lögmaðurinn frekar blár en rauður. Andlitið á Sigvalda í Hvammi skein eins og sól í lognmóðu.
En í "brúðgumakróknum" við háborðið sat Hjalti. Hár hans hafði verið klippt og skegg hans rakað fyrir brúðkaupið, svo að nú naut andlitsfegurð hans sín að fullu. Hann var ekki drukkinn, en ljómaði af gleði. Aldrei hafði Anna séð hann fegri og karlmannlegri. Henni hitnaði um hjartaræturnar, eins og hún væri nú fyrst að fá ást á honum, og henni þótti sómi að honum sem brúðguma. Hún átti sæti í "brúðarkróknum", sem var við háborðið hinum megin. En þar undi hún sér ekki. Hún fór til Hjalta, settist hjá honum og tók um hönd hans.
Vínið var farið að svífa á menn, og gerðust þeir þá háværir. Veisluskálinn ætlaði að rifna af rímnakveðskap, römmum þulum og mergjuðum kappakvæðum. Sungu menn nú fyrir til skiptis, en aðrir tóku undir. Flaut þá margt með, sem ekki var sem best að kröfum hins nýja siðar, því að flest, sem menn kunnu, var úr katólskum sið og mengað af trú og lífsskoðun þeirrar tíðar. En í brúðkaupsveislu var enginn að rekast í slíku. Ekki leið heldur yfir neinn, þótt sumt væri í klúrara lagi og fullnærgöngult því, sem sæmandi þætti að kveða í kvennaeyru. Hitt var miklu lakara, ef forsöngvararnir fengu ekki frið til að syngja fyrir öðrum, sem líka vildu syngja. Reyndi þá fast á það, hvor hærra gæti haft, og stundum þurfti að standa á milli söngmannanna, svo að ekki færu þeir að fljúgast á.
Anna dróst smátt og smátt meira og meira inn í veislugleðina, uns hún gleymdi þeim, sem glöddu sig í svefnloftinu hennar.
En þá fór að heyrast atgangur ekki lítill úr svefnloftinu. Fór hann vaxandi, þar til svo var að heyra sem loftið mundi brotna niður.
Anna gekk þá úr veislusalnum til að grennslast eftir, hvað á gengi í svefnloftinu.
Þegar hún kom í svefnloftið, brá henni mjög í brún, því að munkurinn var þar í áflogum við báða drengina hennar. Bárust þeir um gólfið, og veitti ýmsum betur. Fyrst datt henni í hug, að þetta væri í illu, en brátt sá hún, að svo var ekki. Munkurinn var orðinn þetta litla glaður í skapi, að hann réð sér ekki fyrir kæti og ærslaðist við drengina, eins og hann væri aftur kominn á þeirra aldur. Munkavirðingunni og meinlætalífinu hafði hann gleymt með öllu þessa stundina og gefið sig þeim eldi á vald, sem góða og gamla vínið kveikti í honum. Þetta hafði orðið úr hinum "kristilega uppbyggilegu borðræðum".
Það, sem gerst hafði í loftinu, var í stuttu máli á þessa leið:
Munkurinn var gamla siðnum trúr, ekki síður í gleðinni en sorginni. Og fyrsta fullið helgaði hann Maríu sinni með því að syngja við raust þetta erindi:
Heimtaði hann af drengjunum, að þeir syngju með sér, og gerðu þeir það, þótt ekki kynnu þeir erindið. Næst skenkti hann á full Péturs postula, síðan st. Páls, st. Nikulásar, st. Franciskusar, st. Þorláks, st. Ólafs o.s.frv., og söng vers fyrir hverju minni, ýmist á íslensku eða latínu. En loks gerði hann þá einkennilegu uppgötvun, að drengirnir sungu með honum einungis á þann hátt, að þeir hermdu eftir honum. Hann reiddist þó ekki, en tók drengina í faðm sér og steig við þá dans um gólfið eftir hrynjanda háttanna og var hinn kátasti. Út úr dansinum spunnust smám saman áflogin.
- Drottning æðsta, dýr af ættum,
- drottins móðir, meyjan góða.
- María skærust, dyggða dýrust,
- dáðaprýddust, full af náðum.
- Veittu mér, að ég verða mætti
- vonarmaður, sem allir aðrir,
- þína mjúku miskunn leika,
- mætust brúður himna sætis.
- Jón Pálsson Maríuskáld (d. 1471)
Anna brosti að ólátunum, lét síðan aftur hurðina og gekk ofan. Þegar hún kom aftur í veislusalinn, bað hún Stein á Fit að finna sig, svo að lítið bæri á.
Þegar þau vorn orðin einsömul, spurði hún Stein, hvað þeim bræðrunum bæri eða hefði borið svo til missættis, að þeir mættu ekki sjá hvor annan.
"Ekkert," mælti Steinn. "Ekki nokkur skapaður hlutur. Hallur lætur svona af því, að ég hefi ekki viljað verja lífi mínu á sama hátt og hann. Ég var ekki gefinn fyrir þennan munkalifnað, - að ganga berfættur og fasta þurrt fjórðapart af árinu. Ég hefi alla ævi mína verið mesti matmaður. Og svo vildi ég giftast, - fyrst ég gat fengið konu til að taka mér. Og svo hefi ég, satt að segja, ekki getað stillt mig um að henda gaman að ræflaskapnum hans. Hann hefir þótst standa mér langtum ofar, vera lærður maður og "heilagur" maður, og ausið yfir mig latínu og guð veit hverju, en viljað þó fá að éta hjá mér, þegar hann hefir ekkert annað haft. Ég hefi sagt honum að lifa á latínunni. Og þegar siðaskiptin komu, flýtti ég mér að verða lúterskur, til þess að losast því fremur við ágengnina í honum. Og það hefir hrifið. Síðan hefir Hallur ekki troðið mig um tær."
"En ertu þá ófáanlegur til að gera það fyrir mín orð að sættast við hann, ef hann skyldi vinnast til sættanna?" spurði Anna.
"Nei-nei-nei-nei, mikil ósköp! Hvers vegna skyldi ég ekki sættast við hann? Ég er í raun og veru ekkert ósáttur við hann."
Anna tók þá Stein í svefnloftið með sér.
Ofsakætin í loftinu sljákkaði nokkuð við það, að Anna kom með Stein. Munkurinn og drengirnir hlupu sínir í hvert hornið, lafmóðir af ærslunum, og bjuggust við hörðum ávítum.
En svo kom munkurinn auga á Stein. Hárin ýfðust á höfðinu á honum - þessi fáu, sem þar voru, - af illsku, og honum fannst sem hann væri svikinn í tryggðum. Ofan á þetta bættist meðvitundin um það, að hafa verið staðinn að jafnsyndsamlegri gleði og hann hafði nú gert sig sekan í, og verst þó af öllu að hafa látið Stein verða þess vísan. - Feginn hefði hann viljað troða sér út um heilan vegginn, hefði þess verið kostur.
Anna tók til máls:
"Allir, sem eru í brúðkaupinu mínu, eru sáttir og sammála, þó að margt hafi á milli borið, nema þið bræðurnir. Nú vona ég, að þið gerið það fyrir mig á brúðkaupsdeginum mínum að sættast heilum sáttum. Steinn hefir lofað mér því að sættast við þig og gera aldrei neitt á hluta þinn framar. Nú kemur til þinna kasta. Ég vona, að þú, sem helgað hefir líf þitt guði og kærleikanum, verðir ekki ófúsari til sátta en bróðir þinn."
Hallur lét brýr síga og urraði við sem grimmur garmur, en Steinn glotti, svo að tanngarðurinn skein í eldrauðu andlitinu.
"Látið ekki þá minnkun berast út af ykkur lengur," mælti Anna, "að þið, bræðurnir, hatist út af einhverjum lítilfjörlegum skoðanamun í trúmálum. Hvorugur ykkar hefir gert hinum neitt, sem sé þess vert að hatast út af því ævilangt. - Svona. Gerið þið það nú fyrir mín orð að sættast."
"Ég vil sættast," mælti Steinn.
"Auðvitað. Bróðir þinn vill það líka. Þetta missætti er ykkur báðum til ama og leiðinda. Takið þið nú höndum saman og kyssist þið svo. Svo skal ég fylla sáttabikarana af verulega góðu víni."
"Ég hefi nú drukkið sáttabikar í dag við sjálfan lögmanninn og...," mælti Steinn, hreykinn af slíkri sæmd.
Þetta var nú nærri því orðið til þess, að sættin færi út um þúfur. Halli fannst sem sér væri gerð skapraun með því að minna á lögmanninn í þessu sambandi. Eins og hann, sem var þjónn guðs, væri minni maður en lögmaðurinn, sem ekki var nema þjónn konungsins!
En áður en hann fengi nokkru svarað, greip Anna fram í:
"Ef Hallur er ekki búinn að drekka sáttabikar við bróður minn, þá á hann það eftir; það skal ég sjá um. Það má síst vera, að tveir mestu höfðingjarnir í veislunni minni séu ósáttir."
Þetta hjálpaði. Hallur fann að vísu, að Anna sagði þetta í gamni, en honum fannst þó nokkur alvara fylgja því. Hann gerði að vísu ekki kröfu til að vera talinn lögmanninum jafnsnjall að höfðingsskap - í veraldlegum skilningi, en hann vildi ekki láta telja sig minni höfðingja en prófastinn í Holti. Með það var hann ánægður.
Anna lagði höndina á öxlina á Steini og færði hann nær bróður sínum. Hallur stóðst þá ekki lengur og tók við framréttri hönd hans. Rétt á eftir kysstust þeir fast og innilega, eins og þeir væru að bítast.
Drengirnir héldu niðri í sér hlátrinum af öllum mætti. Svo smeygðu þeir sér út á bak við mömmu sína, til þess að hlæja lyst sína.
Anna fór þá aftur ofan í veislusalinn til að sækja vínið, sem hún hafði lofað bræðrunum.
Þegar hún kom þangað, stóð svo á, að bróðir hennar var að halda ræðu. Hann var að svara fyrir skál, sem til hans hafði verið drukkin.
Anna nam staðar og hlustaði á ræðuna. Hún ætlaði að ná tali af bróður sínum á eftir.
" - - Það er meira sólskin undir Eyjafjöllum í dag," mælti lögmaður, "en ég hefi nokkurn tíma séð fyrri. Oft hefir mér fundist næða köldu á móti mér, þegar ég hefi verið hér á ferð. Venjulegast hefi ég ekki annað séð en kaldan og ískyggilegan þrjóskusvip á öllu - og öllum. Hvert sem ég hefi litið, hefir ekki annað mætt augum mínum en þoka og drungi og skynvillur. Hvergi skír svipur, hvergi hreinleiki og einlægni og vingjarnlegt viðmót. Mér fannst allt hér undir fjöllunum hata mig, bæði náttúran og mennirnir. Mér fannst himinn og jörð vera á hverri stundu til þess búin að leggjast saman og kremja mig á milli sín. Ég var farinn að þrá sólskin - bjarta fjallatinda og blikandi sjó, - sjóinn hérna fyrir framan, sem oft kastar af sér svo miklu sólskini, að maður fær verki í augun, - fjöllin hérna fyrir ofan, sem gætu lýst heilum heimi, þegar vel liggur á þeim. En alltaf varð svartara yfir, eftir því sem ég kom oftar. Loksins skildist mér það, þó að seint væri, að maður getur ekki tekið sólskinið með valdi. Yfir því ræður ekkert lögmannsvald, ekkert jarðneskt konungsvald. En þegar eitthvað hefir verið vel gert, opnast himinninn og sólskinið steypist yfir mann í stórum fossum. Og nú finn ég, að ég hefi loksins hitt á að gera það, sem Eyfellingar óskuðu, því að nú streymir sólskinið á móti mér úr hverju auga. Og ég fer að halda, að ég hafi líka borið gæfu til að geðjast himinbúunum, því að aldrei hefir sólin skinið glaðara á mig en í þessari ferð - - -."
Að þessari ræðu lögmanns var gerður mikill rómur.
Anna náði í bróður sinn að ræðunni lokinni, sagði honum frá sætt þeirra bræðranna, og bað hann að gera það fyrir sig að gleðja þá með því að koma í loftið til þeirra og hringja glösum við þá.
Lögmaður gerði þetta með mestu ánægju. Mesta gleði hans á þessum degi var að sýna sem flestum almúgamönnum lítillæti.
Sigvaldi í Hvammi fór með þeim í loftið. Anna gat ekki fengið af sér að láta hann verða af þeirri ánægju að sjá bræðurna faðmast.
- Rétt á eftir töluðu þau ein saman nokkur orð, Anna og bróðir hennar.
"Ég hefi aldrei lifað glaðari dag en þennan," mælti lögmaður. "Nú veit ég loksins, að það er sælla að fyrirgefa en hefna. Þetta hefir verið prédikað fyrir mér á ýmsan hátt alla mína ævi, og ég hefi aldrei trúað því. Nú er ég innan um fjölda manns, sem allir hafa verið í sökum við mig, og nú eru þeir svo glaðir yfir því að hafa mig mitt á meðal sín, að ég held, að þeir gengju út í eld og vatn mín vegna."
"Já, það geturðu reitt þig á, að þeir mundu gera. Ég sá þetta fyrir, og þess vegna valdi ég þá eina úr, sem mest höfðu gert á hluta þinn að undanförnu í þessu máli. Nógu margir munu óvinir þínar vera samt, þó að þessir gangi frá."
Það var sem ský drægi yfir svip lögmanns.
"Já, nógu margir eru óvinir mínir samt," mælti hann. "Nú er búið að grafa svo sundur allan grunn undir fótum mér, að engin von er til, að ég fái staðist lengi úr þessu. Alls staðar er búið að rægja mig og óvirða. Allt í kringum mig er búið að leggja net af sakargiftum, sumum sönnum, flestum lognum, net, sem ómögulegt er að slíta, net, sem herða því fastar að sem fastar er á þeim tekið. Innan fárra ára hlýt ég að verða dæmdur frá embætti og kannske einhverju af eignum mínum líka. Ef til vill á ég nú enga vini til, nema þá, sem ég hefi unnið mér hér undir fjöllunum þessa dagana. En það eru líka góðir vinir, sem ég má treysta, hvað sem annars gengur á. Og þó að ég viti, að skýin dragast saman allt í kringum mig, á meðan ég baðast í sólskininu hjá ykkur, gef ég því engan gaum og nýt hinnar líðandi stundar. Það var engin uppgerð, sem ég sagði í ræðunni minni áðan. Hér er sólskin og gleði, sem vermir mig inn að hjartarótum, og ef til vill bý ég lengi að þessu sólskini, þegar allt er orðið kalt í kringum mig. Ef til vill vermir þessi dagur mig til dauðans."
Systkinin gengu aftur inn í veisluglauminn, en uppi í svefnloftinu föðmuðust bræðurnir og kysstust og drukku hvern sáttabikarinn eftir annan, þar til báðir sofnuðu á gólfinu.
2. NÝTT LÍFDaginn eftir brúðkaupið var messað í hálfkirkjunni á Stóruborg og þar vígður nýr prédikunarstóll, sem Hjalti hafði skorið út á tíma þeim, sem liðinn var frá því sættir tókust með systkinunum og fram að brúðkaupinu, og gefið kirkjunni í guðsþakkaskyni. Kirkjan var troðfull af fólki; við hlið altarisins að sunnanverðu sat lögmaður og Hjalti hjá honum. Anna og börn hennar sátu í sæti því, er næst var prédikunarstólnum, en frammi í krókbekk sátu bræðurnir Steinn og Hallur. Það var í fyrsta skipti sem Hallur hafði fengist til að koma inn í "saurgaða" kirkju, og hafði það ekki gengið stríðlaust, en vegna þess, að ekki var laust við, að það "hamraði í höfðinu á honum" eftir veislugleðina daginn áður, hafði hann unnist.
- Að lokinni messu dreifðist mannsöfnuðurinn í allar áttir, og undir kvöldið var loks orðið gestalaust á Stóruborg.
Fólkið var orðið þreytt á gestnauðinni og veislumönnunum og gekk snemma til værðar um kvöldið. Rósemin og friðurinn á heimilinu stakk mjög í stúf við það, sem verið hafði næstu daga á undan.
Um kvöldið sátu þau Anna og Hjalti í svefnlofti sínu. Börnin, sem þar sváfu, voru sofnuð og allt orðið hljótt umhverfis þau. En þetta friðsæla kvöld var svo fullt af blíðu og yndi, að það var sem þau gætu varla slitið sig frá því að vera á fótum og njóta þess.
Þau sátu bæði þegjandi og horfðu út um gluggann. Úti fyrir var allt svo hátíðlegt, kyrrt og blítt, að það greip hug þeirra með lotningu.
Grundirnar suður af bænum lágu í mildum, blágrænum kvöldskugga, því að sólin var fyrir góðri stundu gengin bak við Eyjafjallajökul. Þessi blágræni litur dökknaði frammi við sjóinn, þar sem sandarnir tóku við. Framan við sandana reis landaldan, hægt og letilega, en hélt þó áfram að rísa, þar til hún var orðin svo há, að hún gnæfði yfir sandana, og svo hvöss, að hún var glær að ofan. Þá steyptist hún yfir sjálfa sig og valt í fannhvítri, freyðandi hrönn upp á sandinn. Utan við hana liðu stórar, þungar ölduleiðingar, hver á eftir annarri. Allar stefndu þær upp að sandinum og allar tóku þær upp sama verkið, sem fyrri systur þeirra höfðu sprungið á: Allar reyndu þær að skola burtu sandinum. Og allar slitu þær jötunafli sínu til furðu lítils á þessari seigu, mjúku dyngju, sem lá á endilangri ströndinni.
Lengra úti var hafið slétt og bjart, eins og þunnur, glær ís lægi yfir því öllu.
Langt, langt suður á hafinu var þokubakki, sem geislar hinnar lækkandi sólar bak við Eyjafjallajökul léku sér nú að að skrýða pelli og purpura. Ó, hvílík dýrð! Það var sem myndir af heilum löndum væru dregnar upp á himininn með hinum dásamlegustu litum. Það var sem suðurhiminninn speglaði, ekki einungis allt Ísland, heldur ótal undralönd að baki þess langt úti í regin-norðri, norður í hafsbotnum, ævintýralönd, sem ekkert dauðlegt auga hafði litið. Þar risu himinhá fjöll með meitilhvössum tindum, þar gnæfðu skínandi jökulbungur, þar stóðu dásamlegir eldstólpar og undu sig upp í himininn. Neðri hluti skýjafjallanna rann saman í mjúkri, blárri móðu. Á hana voru svo undirfjöllin dregin. Þau voru ekki aðrir eins jötnar og hin, sem hærra gnæfðu, en þau voru fegurri og yndislegri í yfirlætisleysi sínu. Þar voru allir svipdrættir svo mjúkir og mildir, engar skerandi hvassar raðir, engir hrikasvipir skins og skugga hver við annars hlið. Þar var allt sem strokið og fágað af hlýrri, vingjarnlegri hönd. Sólin var horfin af þeim. Þau voru hætt að brenna eins og fjallaeldar, þau létu sér nægja með endurskinið af björtu kvöldloftinu fyrir ofan sig og björtu hafinu undir sér og dóu smátt og smátt út í dökkvann yfir hafsbrúninni.
Hjalti og Anna sátu langa stund hljóð, eins og þau yndu hvort við sína vökudrauma og hvorugt vildi trufla annað. Á borðinu á milli þeirra lágu nokkur skjöl útbreidd, hvert ofan á öðru að nokkru leyti. Það var kvittunarbréf biskupsins í Skálholti, að þau væru laus af öllum ásökunum heilagrar kirkju; leyfisbréf hirðstjórans um, að þau mættu giftast; vottorð lögmannsins um, að þau systkinin væru sátt að fullu, og gjafabréf hans fyrir Teigi í Fljótshlíð.
"Nú byrjar nýtt líf fyrir okkur, elskan mín," mælti Anna og strauk blíðlega um vangann á Hjalta. Það var ofurlítill keimur af angurblíðu í róm hennar. "Nú byrjar nýtt líf fyrir okkur. Þykir þér ekki vænt um, að allt þetta stríð er um garð gengið?"
"Jú, auðvitað þykir mér vænt um það," mælti Hjalti og dró svarið dálítið. "En þó er eins og ég sakni einhvers," bætti hann við og brosti. "Ég var farinn að kunna vel við mig í hellinum, síðan ég lærði glímutökin á fljótinu. Það var orðið mér góður nágranni til daglegrar stundastyttingar og afþreyingar. Mér fannst í hvert sinn, er ég skildi við það, eins og því vera hálfgert í nöp við mig, en næsta dag var það orðið eins og góðlega glettinn lagsbróðir, sem býður í "eina bröndótta" við tækifæri, þó að hann hafi alltaf legið flatur. Undarlegt, hvað dauðir hlutir verða manni sem lifandi í einverunni."
"Það var nú von, að það reiddist við þig, þegar þú tókst lögmanninn úr klónum á því," mælti Anna og brosti. "Það mundi fleirum hafa þótt hart, að hafa náð í lögmann og fá ekki að halda honum."
Hjalti þagði og tók vel blíðuatlotum hennar.
"Mér finnst líka ég sakna einhvers, þó að óskastundin langþráða sé nú loksins runnin upp," mælti Anna angurblítt. "En ég veit ekki, hvað það er. Ég á ekkert Markarfljót, sem orðið hefir mér eins konar leikbróðir. En hugur minn er fullur af endurminningum, sumum ljúfum, en langflestum sárum. Ég gæti ekki hugsað til þess að eiga að lifa það allt upp aftur, sem ég hefi lifað og liðið síðustu árin. Ég hefði ekki þrek til þess. Ég er orðin breytt og líklega við bæði, síðan ég tók þig fyrst í faðm minn. Ég vissi ekki, hvað ég gerði þá. Ég lét undan einhverri óviðráðanlegri ástríðu. Þó að einhver hefði staðið yfir mér þá og sagt mér fyrir allt, sem af því mundi leiða, þá hefði ég ekki svo mikið sem hikað. Ég hefði hlegið að því öllu saman. Ég var þá svo huguð, að ég hafði ekki vit á að hræðast neitt. Mér fannst ég geta egnt allan heiminn upp á móti mér. Nú finn ég, að þetta bráðlæti hefir kostað mig líf mitt, - dropa fyrir dropa. Það er ekki þín gamla, elskandi Anna, sem nú situr hjá þér, brennandi af ást og þrá eftir þér, það er ekkert annað en skugginn hennar. Ég elska þig enn þá, en nú get ég ekki elskað með slíku ástríðuafli sem fyrrum. Ég hefi brunnið upp í raununum og nautnunum. Þú veist minnst um það, elskan mín, hvað ég hefi liðið öll þessi ár, liðið við að vita sveininn minn bergtekinn, eins og í tröllahöndum, liðið við að vita þig í sífelldri hættu, liðið af angist yfir því, að varnarráðstafanir mínar væru ekki fullnægjandi og þér yrði einhvern tíma náð, án þess ég vissi af því fyrr en á eftir, eða þú sjálfur færir eitthvað ógætilega. Og liðið af hugsuninni um það, hvað Páll bróðir minn leið mín vegna, og hvað margar manneskjur hneyksluðust á samlífi okkar. En svo þegar þú komst til mín, þótti mér svo vænt um, að ég gleymdi þessu öllu saman. Allir betrunarásetningar hurfu eins og dögg fyrir sólu, og ég fleygði mér aftur í straum minna fyrri nautna, hálfmeðvitundarlaus af fögnuði. Það má hver lá mér, sem vill, en ég gat ekki annað. Ég gat ekki við það ráðið. Og þegar ég fann, að von var á nýjum ávexti af ást okkar, fannst mér stundum sem guð væri að hegna mér. En brátt varð þó móðurgleðin yfirsterkari. - Ekkert af þessari sælu og ekkert af þessum sára kvíða og leyndu sorg kemur nokkurn tíma aftur, - sem betur fer, því að ég væri ekki fær um að bera það. Þegar maður hefir ástvin sinn hjá sér, jafnast gleðin niður á dagana, vikurnar og mánuðina; hver tíminn fær sinn part. En þegar slík gleði kemur yfir mann fyrir langan tíma, kannske marga mánuði, í einu, þá er hún lamandi, nærri því deyðandi. Þegar margra daga óskir, margra einverustunda þrá fær svölun allt í einu, þá flytur slík sæla mann mörgum skrefum nær gröfinni. - Og svo stendur hugsunin um forboðið og hættuna yfir manni eins og járni klæddur jötunn og segir: Þið verðið að skilja.
Nei, vinur minn! Nú er hinn mikli sigur loksins, loksins unninn. Nú byrjar nýtt líf fyrir okkur. Nú hætta mennirnir að hugsa um okkur og tala um okkur sín á milli; nú er ekkert lengur af okkur að frétta. Og nú hættir lögmaðurinn á Hlíðarenda að hafa skapraun af okkur. Nú flýtur líf okkar áfram í kyrrð og rósemi og tilbreytingarleysi, sælli samvinnu og sameiginlegri ást til barnanna okkar. Ef okkur finnst tómlegt, þá er það eingönga fyrir það, að takmarkinu, sem við höfum keppt að, er náð, að saga lífs okkar, sem hefir verið svo fágæt og viðburðarík, er senn á enda.
En þannig má ekki saga okkar enda, elskan mín. Nú eigum við að setja okkur nýtt takmark til að keppa að. Nú eigum við að láta aðrar manneskjur njóta þess, hvað hamingjan hefir verið okkur fylgisöm. Nú eigum við að hjálpa öllum, sem við náum til og bágt eiga. Nú eigum við að reyna að vernda aðra frá því ranglæti, sem við höfum sjálf stunið undir svo mörg ár, og nú eigum við að sýna guði og mönnum það með ástúð og samúð og eindreginni samvinnu, að við höfum átt það skilið að fá að giftast, og mundum hafa átt það skilið, þó fyrr hefði verið. Er ekki þetta dálítið verkefni fyrir nýja lífið, sem nú er að byrja?"
Hún tók höfuð Hjalta í faðm sinn og sat lengi þegjandi, meðan kvöldgeislarnir fóru dvínandi á skýjunum í suðrinu.
Höfuðatburðir sögu þessarar er sögulega sannir, gerðust á 16. öld, um og eftir siðaskiptin. Páll Vigfússon er fæddur um 1511. Hann var lögmaður sunnan og austan 1556 - 1569. Var hann þá sviptur lögmannsdæmi og dó litlu síðar. Um fæðingar- og dánarár Önnu er ókunnugt og sömuleiðis Hjalta. Vigfús Erlendsson hirðstjóri og síðar lögmaður, faðir þeirra Páls og Önnu, dó utanlands 1521. Ættin er frá Erlendi á Kolbeinsstöðum og Lofti ríka á Möðruvöllum.
Árið 1571 var dæmdur dómur á alþingi um arf eftir Önnu og Pál lögmann. Sótti það mál Árni Gíslason á Hlíðarenda, vegna konu sinnar, Guðrúnar Sæmundsdóttur, sem var systurdóttir Páls og Önnu og vildi gera börn Önnu óarfgeng. En Magnús, elsti sonur Hjalta og Önnu, varði málið og vann það, því að næg skilríki voru fyrir því, að þau systkini hefðu sætst að lokum og Páll leyft Önnu að eiga Hjalta og gert börn þeirra réttborin (sbr. Alþ.bókina 1571). Nokkrir fleiri menn og atburðir í sögunni eru "historiskir", en þó ekki nærri allir.
Munnmælasögur eru til um þau Hjalta (Barna-Hjalta) og Önnu, og eru þær bestu prentaðar í "Þjóðs. og munnmælum" dr. Jóns Þorkelssonar, bls. 84-89.