Dregist hefur úr hömlu að koma þessu tölublaði Rafritsins í dreifingu. Sumt af efni blaðsins hefur þó verið tilbúið alllengi. Enn og aftur vil ég samt lýsa því yfir að í framtíðinni verður reynt að bæta úr þessu og ætlunin er að blaðið komi örar út á næstunni. Það verður svo kannski til þess að hvert blað verður minna að vöxtum, en við því er ekkert að gera.Greinarnar í þessu blaði eru því miður allt of fáar. Ég er með ýtarlega grein um ráðstefnur í smíðum, en tókst því miður ekki að finna tíma til að klára hana. Sárlega vantar greinar um öll nýju tækin sem farið er að nota á Netinu, en ég hef hvorki tækifæri né kunnáttu til að semja þær sjálfur, svo meðan engir höfundar bjóðast verður við svo búið að standa.
Eina nýjung hef ég ákveðið að bjóða upp á og hún er sú að þeir sem af einhverjum ástæðum vilja koma efni á framfæri í Netheimum í skjóli nafnleyndar geta fengið það birt í Rafritinu. Auðvitað þýðir það ekki að ég muni áreiðanlega birta hvað sem er, en undir engum kringumstæðum mun ég skýra frá nafni höfundar ef farið hefur verið fram á nafnleynd og hafni ég efni mun ég rökstyðja þá ákvörðun.
Hvers vegna skyldi fólk vilja birta nafnlaus skrif á Netinu? Í fljótu bragði detta mér einkum tvær ástæður í hug. Annars vegar kynni að vera að einhverjir mundu vilja birta skáldskaparfikt eftir sig, ljóð eða sögur t.d., án þess að láta uppi nafn sitt. Slíkt er velþekkt og oft gert. Í annan stað kynni að vera um einhver viðkvæm efni að ræða, sem t.d. tengdust vinnuveitanda eða yfirmanni viðkomandi, eða eitthvað í þeim dúr.
Málefni Internets hafa verið mikið í fréttum að undanförnu og er það vel. Umræðan hefur þó varla verið eins hagstæð Netinu og margir notendur þess hefðu óskað. Við því er þó ekki mikið að gera og ég vil benda þeim sem áhuga hafa á að kynna sér umræður um þetta mál á að skoða ráðstefnurnar ismennt.almenn og is.stjornmal. Ef menn hafa ekki aðgang að þessum ráðstefnum þá er hægt að nálgast mikið af þessu efni á http://www.rhi.hi.is/~jii er mér sagt.
Allra síðustu daga hafa síðan málefni Þjóðarbókhlöðunnar verið mjög umrædd á tölvuráðstefnum og ber öllum saman um að tilkoma hennar tákni þáttaskil í upplýsingamálum á Íslandi. Nú muni mikill fjöldi fólks kynnast kostum Internets af eigin raun og notendum þess fjölga jafnvel enn hraðar hér á landi en verið hefur. Reyndar eigum við Íslendingar nú þegar heimsmet í notkun á Interneti eins og svo mörgu öðru.
Því miður hefur mér ekki tekist að efna það loforð mitt frá því í síðasta blaði að segja frá rafrænum útgáfum á Íslandi, en ég mun reyna að hafa þá grein tilbúna fyrir næsta blað. Annað sem ég mundi gjarnan vilja gera er að birta skrá yfir þau BBS sem starfandi eru á landinu núna og einnig geta allra þeirra breytinga sem orðið hafa síðan ég birti ýtarlegan lista um BBS á Íslandi frá upphafi í 2. tbl. 1993. Allar upplýsingar um þetta efni eru vel þegnar.
Sæmundur Bjarnason
ALTÆK VÉL
Árið 1950 skrifaði enski stærðfræðingurinn Alan Turing (1912 - 1954) grein sem hann kallaði "Computing Machinery and Intelligence". Í þessari grein velti hann því fyrir sér hvort hægt sé að forrita tölvu þannig að hún fái mannsvit. Hann ræddi ýmis hugsanleg rök gegn hugmyndinni, hafnaði þeim öllum og stakk upp á aðferð til að skera úr um hvort tölva geti hugsað eins og maður. Aðferðin er í því fólgin að láta vélina gangast undir próf, þar sem hún er lokuð inni í einu herbergi og maður inni í öðru. Prófdómarar skrifast svo á við manninn og tölvuna. Þeir mega fitja upp á hvaða umræðuefni sem er. Takist þeim ævinlega að finna út hvort er maðurinn þá hefur tölvan fallið á prófinu. Takist prófdómurunum þetta ekki þá hefur tölvan staðist prófið og þá er, að áliti Turings, engin ástæða til að ætla henni minna vit, eða minni andlega hæfileika, en manninum.
Samband líkama og sálar er eitt af helstu viðfangsefnum heimspekinga á nýöld. Lengst af hefur tvíhyggja verið vinsælasta kenningin um þetta efni. Samkvæmt henni er hver maður samsettur úr tveim ólíkum hlutum, líkama og sál. Líkaminn er efnishlutur af ríki náttúrunnar en sálin hálf yfirnáttúruleg og ekki búin til úr efni af því tagi sem eðlis- og efnafræðingar rannsaka. Andstaða gegn tvíhyggju hefur helst komið frá efnishyggjumönnum sem álíta flestir að mannshugurinn sé ekkert annað en heilinn eða einhvers konar heilastarfsemi sem hægt er að útskýra með tilvísun til sömu lögmála og gilda um aðra efnishluti.
Hugmyndir Turings urðu kveikja að nýrri kenningu um samband líkama og sálar. Þessi kenning segir að vensl hugar og heila séu áþekk sambandi forrits og tölvu. Forrit eru auðvitað ekki yfirnáttúruleg á neinn hátt en þau eru heldur ekki efnishlutir. Þau eru munstur sem skýra má og skilja með stærðfræðilegum hugtökum fremur en náttúrufræðilegum lög- málum. Þótt forrit sé geymt á disklingi úr plasti þá er það sjálft ekki búið til úr plasti, neitt frekar en tónverk sem geymt er á vinýlplötu er búið til út vinýl.
Flestar merkilegar kenningar eiga sér forsögu sem rekja má eftir ótal þráðum langt aftur í aldir og svo er um kenningu Alans Turing. Hér ætla ég að taka upp einn stuttan þráðarspotta sem tengir hana bollaleggingum fyrri tíðar manna.
Um síðustu aldamót stóð þýski stærðfræðingurinn David Hilbert (1862 - 1943) fremstur í flokki þeirra sem veltu fyrir sér eðli og undirstöðum stærðfræðinnar. Hilbert áleit mögulegt að setja fram endanlegan fjölda frumsetninga sem hægt væri að leiða af öll stærðfræðileg sannindi með því einu að beita reglum sem tiltaka hvernig leiða má eina runu tákna af öðrum. Hann taldi líka að væri reglunum fylgt mundu menn aldrei leiða nein ósannindi af þessum frumsetningum. Þetta má orða svo að Hilbert hafi álitið mögulegt að setja fram frumsetningakerfi fyrir alla stærðfræði, svipað því sem Evklíð hafði búið til fyrir hluta af rúmfræðinni 2200 árum áður, og að slíkt frumsetningakerfi gæti verið í senn altækt og sjálfu sér samkvæmt. Hilbert áleit ennfremur mögulegt að finna endanlega og örugga aðferð til að skera úr um hvort hvaða stærðfræðisetning sem er sé sönn eða ósönn, og þar með að öll reiknisdæmi séu reiknanleg. Þetta má orða svo að hann hafi talið mögulegt að finna ákvörðunaraðferð fyrir alla stærðfræði.
Samkvæmt kenningum Hilberts er stærðfræði ekki fólgin í neinu öðru en því að möndla með tákn eftir formlegum reglum sem hægt er að beita vélrænt án þess að skeyta neitt um merkingu táknanna. Þessi kenning er stundum kölluð formal- ismi um stærðfræði. Hún hlaut þau óvenjulegu endalok að vera hrakin með pottþéttum rökum. Hluti hennar var sallaður niður árið 1931 af austurríska stærðfræðingnum Kurt Gödel (1906 - 1978) sem sannaði að ekkert frumsetningakerfi fyrir talna- fræði geti verið í senn altækt og sjálfu sér samkvæmt. Sönnun Gödels er glæsileg smíð og niðurstaða hans kom flestum á óvart. Hún felur það í sér að ómögulegt sé að finna safn af setningum sem leiða má af öll sannindi talnafræðinnar án þess að einhverjar mótsagnir og þar með ósannindi fylgi með. Öll sjálfu sér samkvæm frumsetningakerfi fyrir talnafræði hljóta því að vera takmörkuð, þannig að þau dugi aðeins til að leiða út hluta allra sanninda í greininni.
Eftir að niðurstaða Gödels varð kunn meðal stærðfræðinga tóku menn að velta fyrir sér því sem eftir stóð óhrakið af kenningu Hilberts, nefnilega þeirri skoðun að til sé ákvörðunaraðferð fyrir stærðfræði og öll dæmi séu reiknanleg. Um miðjan 4. áratuginn komust nokkrir stærðfræðingar að sömu niðurstöðu, sem er að Hilbert hafi líka skjátlast um þetta efni og það sé sama hvaða safn formlegra aðferða við höfum, það geti aldrei dugað til að skera úr um sanngildi allra stærðfræðilegra fullyrðinga. Einn þessara stærðfræðinga var Alan Turing.
Turing tók á viðfangsefninu með heimspekilegri hætti en aðrir sem um það fjölluðu. Hann hugsaði sem svo að eigi að sanna að engin formleg aðferð dugi til að skera úr um sanngildi hvaða stærðfræðisetningar sem vera skal þurfi að gera nákvæma grein fyrir því hvað átt er við með orðunum "formleg aðferð". Hann sýndi fram á það með ágætum rökum að allar formlegar aðferðir megi brjóta niður í grunnaðgerðir sem eru svo einfaldar að vél geti framkvæmt þær. Í framhaldi af þessu skilgreindi hann flokk ímyndaðra véla, sem við hann eru kenndar og kallaðar Turingvélar. Hver Turingvél getur reiknað eftir einni aðferð með því að framkvæma runu ein- faldra grunnaðgerða.
Turing notaði lýsingar sínar á þessum vélum til þess að skilgreina hugtakið formleg aðferð. Samkvæmt þessari skilgreiningu er formleg aðferð, eða reikniaðferð, það sama og aðferð sem hægt er að láta svona vél vinna eftir. Síðan sannaði hann með stærðfræðilegum hætti að til séu reiknisdæmi sem engin vél af þessu tagi getur reiknað. Hann sannaði að vísu ekki að skilgreining sín á formlegri aðferð fangi allt eðli reiknanleikans þannig að menn muni aldrei finna upp reikniaðferð sem Turingvél getur ekki hermt eftir. En síðar kom í ljós að kenningar nokkurra annarra stærðfræðinga um reiknanleika eru jafngildar skilgreiningu Turings og nú meira en hálfri öld síðar hefur hvorki tekist að benda á reikni- aðferð sem ekki fellur að skilgreiningunni né setja fram hugmyndir um hvernig slík aðferð gæti hugsanlega verið.
Flestir hefðu látið staðar numið hér í glímunni við kenningar Hilberts en það gerði Turing ekki. Hann benti á að sé lýsing á Turingvél gefin þá er hægt að orða formlega aðferð til að herma eftir henni eða reikna það sama og hún reiknar. Af þessu leiðir að það er hægt að búa til vél sem getur tekið við lýsingu á hvaða Turingvél sem er og hermt eftir henni. Slík vél er kölluð altæk Turingvél.
Hugmynd Turings um altæka vél markar upphaf nútíma tölvufræði, enda eru tölvur altækar í nákvæmlega sama skilningi og vélarnar sem Turing hugsaði sér. Altæk vél getur tekið við ótal mismunandi vélarlýsingum, eða forritum, og unnið með tölur, tákn, munstur og merki eftir hvaða reglu sem vera skal. Sé hægt að spjalla um alla heima og geima og standast prófið, sem Turing stakk upp á í gein sinni árið 1950, með því einu að lesa tákn (þ.e. orð) af blaði, vinna úr þeim og skrifa svör eftir formlegum reglum þá leiðir af því sem hér hefur verið rakið að hægt sé að forrita tölvu þannig að hún standist prófið.
Með starfi Turings urðu þáttaskil bæði í heimspekilegum bollaleggingum um samband sálar og líkama og í sálfræði og fleiri greinum sem fjalla um mannlega hegðun og hugarstarf. David Hilbert hefur líklega ekki dreymt um að rannsóknir á eðli og undirstöðum stærðfræðinnar ættu eftir að hafa áhrif á sálfræði og mannvísindi á seinni hluta aldarinnar. Þær leiðir sem Alan Turing fann milli ólíkra fræðigreina sá enginn fyrir.
Atli Harðarson
TÖLVUSAMSKIPTI - FLUTNINGSREGLUR
Eftirfarandi grein birtist fyrir nokkru í ET tölvublaðinu.
Að þessu sinni ætla ég aðeins að tæpa á flutningsreglum (e. protocols) sem þarf að huga að þegar skrár og forrit eru flutt á milli tölva um módem. Það er hvernig módem skiptast á tölvutæku efni í samanþjöppuðu formi þar sem flutt er viðstöðulaust á mill þar til allt efnið eða skráin er komin í gegn. Nokkrir staðlar eru í notkun og munar töluverðu á þeim. Allir hafa þeir sínar góðu og slæmu hliðar og þessvegna eru eldri staðlar eins og Xmodem, enn í boði til að flytja skrár.
Lítil þekking á samskiptareglum hefur staðið skráaflutningum fyrir þrifum, og notendur ruglast oft á reglum, þar sem nöfn þeirra eru mjög lík. Þannig er Ymodem alls ekki það sama og Ymodem-G og Xmodem 1K getur verið það sama og Ymodem. Ruglingslegt? Já, eiginlega. Þess vegna er ekki úr vegi að kynna sér þessi fræði örlítið betur.
Xmodem er flutningsregla sem Ward nokkur Christensen hannaði á einni nóttu, svo að hann gæti gert tilraunir með að skiptast á skrám við kunningja sína. Hann hannaði flutningsregluna einfaldlega vegna þess að hvergi lá á lausu flutningsregla sem brúkleg var í þessu skyni. Xmodem vinnur þannig að sendir eru 128 bætar í einu og strax á eftir er send einföld vartala.
Hver bæti er ákveðin tala á bilinu 0-255, sem stendur fyrir ákveðinn bókstaf, eða skipun í tölvuforriti. Vartala er tala sem reiknuð er út frá þeim tölum sem hún á að stemma við. Ef að vartala stemmir ekki þegar talnapakkinn, sneiðin eða glugginn, eins og ýmist er sagt, kemur á áfangastað, þá er villa í talnaröðinni. Flutningsreglan gerir ráð fyrir að ef vartala stemmir ekki, þá er hægt að senda skilaboð til baka til sendiforritsins um að endurtaka sendinguna, þar sem tölurnar komust ekki réttar til skila.
Xmodem vinnur á ákaflega frumstæðan hátt og gluggastærðin er mjög lítil, svo ekki sé meira sagt. Xmodem hefur þó þann ótvíræða kost að vera svo einföld flutningsregla að mjög auðvelt er að skrifa forrit sem notar hana. Vartalan er reiknuð á ákaflega einfaldan hátt og líkur á að villa komi upp og vartalan stemmi samt eru þó nokkrar. Stærsti kosturinn er hinsvegar að öll samskiptaforrit gera ráð fyrir Xmodem reglunni, en sumar vandaðri flutningsreglur eins og Zmodem, fylgja ekki öllum samskiptaforritum.
Til eru nokkur afbrigði af Xmodem reglunni, eins og Xmodem-CRC, en þar er notuð svokölluð CRC (e. Cyclic Redundancy Count) aðferð við að reikna út vartöluna og öryggi í flutningi eykst til muna, en gluggastærðin er sú sama. Þá er til Xmodem-1K en þarna tendur 1K fyrir eitt kílóbæti eða 1024 bita glugga og fer þá minni tími í að senda vartölur og kvittanir fyrir vartölum á milli. Xmodem-1K notar einnig CRC-vartöluprófun.
Xmodem-1K og eldri Xmodem útgáfur krefjast þess allar að áður en flutningur hefst, sé búið að ákveða nafnið á skránni, þar sem nafnið flyst ekki með gagnastraumnum. Það var einfaldlega ekki gert ráð fyrir því. Fyrir vikið verður notandi á BBS-i sem ætlar að taka til sín skrá með Xmodem-reglunni að segja samskiptaforritinu sínu hvað skráin sem er að fara að koma eftir línunni á að heita. Þetta þýðir jafnframt að ef fluttar eru fleiri en ein skrá þarf að stoppa á milli og gera grein fyrir því hvað næsta skrá á að heita. Þessvegna er ekki hægt að merkja margar skrár á BBS-borði til flutnings og ætla svo að sækja þær allar í einni bunu.
Í annarri kynslóð af þeim þremur flutningsreglum sem algengastar eru var þetta lagfært. Vandamálið var að vísu að þá var Xmodem reglan orðin svo vinsæl (enda sú eina), að nokkrum vandkvæðum var bundið að koma að nýjum aðferðum. Því var farið út í að reyna að endurbæta Xmodem í stað þess að breyta of miklu og árið 1984 ákvað Chuck Forsberg að reyna að koma að nýrri samskiptareglu sem bæri nafnið Ymodem. Hann hafði mikið reynt að fá fram endurbætur á Xmodem og sá nú lausn á því hvernig skyldi flytja skráanöfn á milli. Í Xmodem var fyrsti glugginn merktur sem nr. 1 og Forsberg bætti glugga framan á sendinguna sem var þá nr. 0 og innihélt nafn skrárinnar, stærð hennar og fleira. Gluggastærðin var áfram 1024 bæti. Það að nafnið fylgdi nú skránni gerði líka að verkum að hægt var að flytja viðstöðulaust margar skrár á milli í einu, hverja á fætur annarri. Raunar er víða til gömul útgáfa af Procomm-samskiptaforritinu fyrir DOS (útgáfa 1.1.), þar sem Xmodem 1K er ranglega nefnt Ymodem. Vegna þessa er hin upprunalega Ymodem útgáfa yfirleitt nefnd Ymodem Batch til aðgreiningar. Batch merkir runuvinnsla, en það er einmitt það sem einkennir Ymodem fram yfir Xmodem að hægt er að flytja margar skrár, hverja á fætur annarri, án þess að stoppa á milli til að gefa upp nafn viðkomandi skrár.
Bæði Xmodem og Ymodem hafa einn stóran ókost. Þær senda einungis einn glugga í einu og bíða síðan eftir að móttökuforritið kvitti fyrir rétta móttöku og leyfir þar með að næsti gluggi sé sendur. Því voru enn gerðar endurbætur og fram komu svokallaðar G útgáfur af bæði Xmodem-1K og Ymodem flutningsreglunum. Þær unnu þannig að sendiforritið bunaði frá sér sneiðunum án þess að athuga hvort móttökuforritið samþykkti þær, en ef villa kom fram þá var ekki hægt að endursenda og flutningurinn mistókst. Hinsvegar virka þessar flutningsreglur ákaflega vel þegar módemin sjá um að halda sambandinu truflanalausu. Módem eru flest hver búin sérstökum búnaði til að halda sambandi truflanafríu og eru þá stimpluð með einkenni staðlanna V.42 eða MNP. Á truflanalausu sambandi er Ymodem-G hraðvirkasta flutningsreglan, en ef ein einasta truflun kemur upp, þá er skráin sem flutt var, næstum örugglega ónothæf. Ef að þú veist að módemið þitt og módemið á BBS-inu hafa komið á truflanafríu villuleiðréttu sambandi og samskiptaforrit þitt styður Ymodem-G flutningsregluna er óhætt að nota hana. Ef þú ert ekki viss, skaltu ekki nota hana. Það þarf nefnilega yfirleitt að stilla módemin sérstaklega til að nota þessa villufríu tengingu. Skoðaðu kaflann um V.42 og V.42bis í módemhandbókinni til að fræðast nánar um þetta atriði, en skipanir sem gefa þarf módeminu eru jafnmismunandi og tegundirnar eru margar. Oft dugir þó að gefa skipunina AT&Q5 til að virkja þennan möguleika. Módemið svarar þá með OK.
Þá er komið að þriðju kynslóðinni. Zmodem. Chuck Forsberg höfundur Ymodem, hannaði hana með það að leiðarljósi að útloka allar takmarkanir, sem höfðu verið á fyrri aðferðum. Zmodem flutningsreglan er nokkuð flókin en ákaflega örugg aðferð og sérlega einföld í notkun. Það er því eindregið mælt með því að nota hana við skráaflutninga, sé þess nokkur kostur. Eini ókosturinn við Zmodem er sá að það eru alls ekki öll samskiptaforrit sem bjóða upp á hana. Það er sterkur leikur fyrir þá sem ekki eiga samskiptaforrit sem bjóða upp á Zmodem að nota þá eldri flutningsreglu til að sækja sér nýtt samskiptaforrit, en nokkur samskiptaforrit sem styðja Zmodem-regluna eru fáanleg á BBS-borðum hér á landi. Til að rugla málin svolítið meira þá heitir vinsælasta samskipta forritið sem þannig býðst, Qmodem. Ææ..Qmodem er semsagt ekki módem eða flutningsregla, heldur samskiptaforrit. p ..................
Lítum aðeins nánar á Zmodem flutningsregluna. Hún er þannig uppbyggð að hún bíður ekki eftir kvittunum fyrir vartölurnar á milli glugga, heldur tekur þær jafnóðum og þær berast, þó að nokkrir gluggar í viðbót séu farnir út á símalínuna. Ef að boð berast um að gluggi sem sendur var hafi ekki komist heilu og höldnu á leiðarenda, tekur forritið þann glugga sem skemmdur var og sendir hann aftur. Hver gluggi hefur sína raðtölu, þannig að móttökuforritið veit nákvæmlega hvar það á að setja endursenda gluggann þegar hann kemur á leiðarenda. Á meðan sendingarforritið var að hafa til skemmda gluggann hélt flutningurinn á skránni viðstöðulaust áfram og enginn tími fer til spillis. Skemmda glugganum var síðan skotið á milli tveggja annarra og móttökuforritið setur ann á sinn stað þegar hann berst til þess.
Einnig er Zmodem-reglan þannig úr garði gerð að ef engin boð berast um að gluggar séu skemmdir, byrja samskiptaforritin að stækka gluggana til að minni tími fari í villuprófun. Ef að truflanir fara að gera vart við sig minnka þau hinsvegar gluggana, þa ig að ekki þurfi að endursenda mjög stóra glugga. Haldi truflanirnar áfram, minnka gluggarnir enn, en hætti þær, fara gluggarnir að stækka aftur.
Segjum svo að sambandið slitni alveg í miðju kafi. Ef þú notar Zmodem þá tekur móttökuforritið síðasta heila gluggann sem barst, splæsir honum við það sem komið var og hendir restinni. Búturinn sem er kominn er geymdur og hægt er að koma á sambandi upp nýtt og hefja flutning að nýju þar sem frá var horfið. Samskiptaforrit bjóða þannig stundum upp á val við þær aðstæður að skrá með sama nafni og á að fara að senda er fyrir á móttökuendamum. Valið snýst um að halda áfram og sleppa jafnmiklu framan af skr ni sem senda á og stærðinni á skránni sem er á hinum endanum eða að gefa skránni sem flytja á, nýtt nafn. Zmodem getur borið saman dagsetningar á skránum til að athuga hvort um sömu skrá er að ræða, eða tvær ólíkar með sama nafni. Einnig er skilgreint að é skrá með sama nafni fyrir á móttökuenda, þá skuli ekki senda nýja skrá með sama nafni.
Svo að tekið sé dæmi: Þú hefur til dæmis forritið PKUNZIP.EXE fyrir þar sem skrár lenda er þær koma inn á tölvuna. PKUNZIP er forrit sem notað er til að opna skráapakka sem hafa nafnaukann .ZIP en það eru samanpressaðar skrár. Nú ætlar þú að sækja þér n ri útgáfu með sama nafni, en þá verðurðu að gæta þess að fjarlægja fyrst eldri útgáfuna. Annars neitar Zmodem að flytja nýrri útgáfuna yfir, jafnvel þó að hún sé stærri en sú gamla.
Í nær öllum tilfellum þarf engar stillingar að gera þegar Zmodem-reglan er notuð og vegna þess hversu örugg hún er, nýtur hún mikilla vinsælda. Ég mæli eindregið með því að ef þess er nokkur kostur að menn noti Zmodem við skráaflutninga. Sum samskiptaf rit sem nota Zmodem (Qmodem er þar á meðal) bjóða upp á stillingu sem skynjar þegar Zmodem-regla er gangsett á hinum endanum og fer þá móttökuforritið sjálfkrafa strax í móttökustöðu. Venjulega gerast hlutirnir þannig að gangsetja þarf sendiforritið fyrs og síðan móttökuforritið, en með þessu er nægjanlegt að setja sendiforritið í gang.
Ég ætla þó að koma með eina ábendingu til þeirra notenda sem tengja sig við Menntanetið, eða aðrar tölvur sem keyra undir Unix, að forritið RZ, sem hægt er að gangsetja á fjarenda til að senda skrár frá þér með Zmodem-reglu (þ.e. af þinni tölvu), ræður kki við meiri gluggastærð en 1K. Ef samskiptaforritið þitt reynir að stækka glugga umfram það, hættir RZ að vinna og sendingin stöðvast. Til að koma í veg fyrir þetta er annaðhvort að stilla sendiforritið á tölvunni þinni, þannig að það reyni ekki að not stærri glugga en 1K, eða ef það er ekki hægt, að útvega sér annað forrit sem getur þetta eða þá að notar aldrei stærri glugga en 1K. Í flutningum til þín skiptir þetta hins vegar engu máli, því að það er sendiforritið sem stjórnar gluggastærðinni og glug nn fer einfaldlega aldrei uppfyrir 1K. Til að flytja til sín skrár með Zmodem-reglu af Unix-tölvu gangsetur maður forrit sem heitir SZ og þarf þá að hnýta skrárnafninu sem senda á aftan við SZ. RZ þarf hinsvegar ekkert nafn, þar sem nafnið kemur með sjál i skránni.
Til eru fleiri flutningsreglur eins og t.d. Kermit (já, hún heitir eftir froskinum). Upprunalegur höfundur er prófessor Joe R. Doupnik við Utah State University, en reglan hefur verið þróuð áfram af Columbia háskólanum í New York og fleirum. Kermit er utningsaðferð sem er ákaflega sveigjanleg en ræður þó ekki við að halda áfram þar sem frá var horfið ef samband slitnar. Hún ræður heldur ekki við að flytja nafn skrárinnar með henni sjálfri frekar en Xmodem. En vegna sveigjanleika er hún mjög vinsæl þar em ólík tölvukerfi tengjast, eins og t.d. á ýmsum Unix-tölvum. Það getur verið töluvert mál að stilla hana, en með rétt stillt sendi- og ekki síður móttökuforrit, geta afköstin orðið töluverð, auk þess sem boðið er upp á sjálfvirka stafatöfluþýðingu þegar textaskrár eru fluttar á milli. Þá gerir Kermit líka ráð fyrir mismunandi samskiptaaðferðum á milli tölva, eins og t.d. með fasttengisambandi, eða föstu gagnanetssambandi. Kermit getur verið heppilegt forrit við þær aðstæður er nefndar eru hér, en að öll jöfnu er best að notast við Zmodem-samskiptaregluna, verði því á annað borð við komið.
Björn Davíðsson
FJARKENNSLA Á NETINU
Haukur Ágústsson, kennslustjóri fjarkennslu við Verkmennta- skólann á Akureyri var svo vinsamlegur að senda mér eftirfarandi greinargerð um fjarkennslu þar að beiðni minni.
Ritstjóri.
Framboð í fjarkennslu og greinargerð
Í fjarkennslu Verkmenntaskólans á Akureyri í gegnum tölvur eru boðnar eftirfarandi greinar og áfangar á haustönn, 1994.
Bókfærsla BÓK 103
Danska DAN 102
Enska ENS 102, ENS 202, ENS 212, ENS 303
Íslenska ÍSL 102
Stærðfræði STÆ 102
Saga SAG 103
Sálfræði SÁL 103
Þýska ÞÝS 103
Allir þessir áfangar eru byrjunaráfangar, nema í ensku, þar sem framboð er komið í fjóra áfanga. Á síðustu önn voru kenndir tveir áfangar í ensku. Því er nú verið að byggja ofan á þá.
Á sama hátt er gert ráð fyrir því að byggja þegar á næstu önn ofan á þá áfanga, sem nú eru í boði, og einnig að bæta við fleiri greinum.
Námið fer allt fram í gegnum tölvu og ekki er gert ráð fyrir því, að nemandinn sendi nokkurn tímann nokkuð til skólans á annan hátt, nema lokaprófið (Sjá síðar). Í nokkrum greinum er þó hugsanlegt, að út af þessu verði brugðið. Verkefni í flestum greinum eru í svokölluðum "gopher", sem er skjalageymslusvæði á tölvunetinu. Þaðan sækja nemendur þau verkefni, sem þeim er sagt að ná í hverju sinni í leiðbeiningabréfi, sem fylgir hverri fyrirsetningu námsefnis. Verkefnin eru tekin inn í ritvinnslu nemandans. Þar vinnur hann verkefnin sem hvert annað ritvinnsluskjal. Þegar vinnu er lokið, eru verkefnin send unnin til skólans, þar sem farið er yfir þau, þau leiðrétt og aðrar athugasemdir og leiðbeiningar settar inn í skjal nemandans. Hann fær síðan skjalið til baka og hefur þá bæði sitt verk og kennarans í einu skjali. Nemandanum ber þá að fara yfir leiðrétt skjalið, eyða villum og tileinka sér það, sem á er bent. Þannig fær hver nemandi sína persónulegu yfirferð verkefna, þar sem hans villum og hans vanda er sinnt. Vinni nemandinn vel, er vafalítið að hann getur tekið skjótum framförum. Reynslan hefur reyndar þegar sýnt, að svo er.
Yfirferð í fjarkennslunni er tengd yfirferð í almennum deildum verkmenntaskólans. Því gengur tími hverrar greinar upp í vikufjölda almennrar annar í framhaldsskóla (þrettán vikur). Yfirleitt er námsgreinum skipt í tólf pakka. Pakki er sendur vikulega. Honum á að skila innan viku frá fyrirsetningu, en þó er gefinn hálfur mánuður hið mesta til að ljúka hverjum pakka. Þó skil dragist þennan tíma, er settur fyrir nýr pakki vikulega. Dragist skil meira en hálfan mánuð, á nemandinn það á hættu að strikast út af nemendalista sjálfkrafa. Einungis mjög góðar ástæður til frestunar skila koma í veg fyrir þetta. Þetta kerfi hefur gefist mjög vel. Til þessa hefur enginn strikast út vegna vanskila, en skilaskyldan hins vegar leitt af sér, að nemendur hafa ekki fallið frá námi, heldur lokið því á tilsettum tíma.
Próf eru tekin í skóla hið næsta nemandanum eða að minnsta kosti eins nærri honum og kostur er. Samið er við skólann um próftökuna. Hann tekur að sér að ábyrgjast eðlilegar kringumstæður. Prófið er sent til hans og nemandinn tekur það á venjulegan hátt á pappír. Prófið er síðan sent aftur til verkmenntaskólans, þar sem farið er yfir það og nemandanum tjáð niðurstaðan í tölvubréfi. Nemandinn fær síðan útskrift frá verkmenntaskólanum á sama hátt og aðrir nemendur hans, enda er litið svo á að nemendur í fjarkennslu séu að fullu í hliðstæðu námi við aðra nemendur. Efnisyfirferð þeirra er hin sama, próf þau sömu og lok því jafngild.
Ferill innritunar er:
(a) Nemandinn sækir um nám við Verkmenntaskólann á Akureyri og velur sér greinar.
(b) Skólinn sér um að útvega nemandanum "netfang" á Íslenska menntanetinu. Netfangið er pósthólf nemandans á netinu og hans eigið. Í það er hægt að komast allan sólarhringinn, en enginn kemst í póstinn nema sá, sem á hann, af því að hólfinu gengur svokallað "lykilorð", sem notandinn einn á að þekkja.
(c) Skólinn sendir nemandanum forritið, sem notað er til samskiptanna (kermit) og leiðbeiningar um notkunina. Nemandinn æfir sig í notkuninni og hefur síðan námið.
Nemendur geta haft samband við kennara á meðan á námi stendur með því að skrifa honum línu í gegnum tölvunetið. Þeir eru eindregið hvattir til þessa, en þó beðnir að misnota ekki möguleikann.
Gjöld eru þessi:
Notendagjald fyrir tengingu nemanda í fjarkennslu Verkmenntaskólans á Akureyri við Íslenska menntanetið eru kr. 748.- á mánuði. Almennt einstaklingsgjald menntanetsins er kr. 1.500,- á mánuði. Nemendum er gefinn um 60% afsláttur.Kennslugjald fyrir einn áfanga er kr. 9.000,-
Séu teknir tveir áfangar, er kennslugjaldið kr. 17.000,-
Séu teknir þrír áfangar, er kennslugjaldið kr. 24.000,-
Fjórði áfangi og þaðan af fleiri kosta kr. 5.000,- hver.
Kennslugjald á að greiða við upphaf námsins og er ekki afturkræft, þó að nemandinn hverfi frá námi.
Með kveðjum,
Haukur Ágústsson,
Kennslustjóri öldungadeildar og fjarkennslu.
AUKATEKJUR
Fyrir nokkru birtist á Island-list póstlistanum hugvekja um svokölluð Network Marketing kerfi. Þar var frá því sagt að með lítilli fyrirhöfn væri hægt að næla sér í 35 - 50 þúsund dollara á mánuði. (hringið í síma 1-800-807-9803) og var fyrirsögnin Aukatekjur.
Þetta leiddi svo til nokkurra skoðanaskipta og sýndist sitt hverjum. Bæði var það fordæmt að listinn skyldi vera notaður sem "auglýsingavettvangur fyrir keðjuverslun" og einkennum keðjuverslunar og pýramídaverslunar var lýst og varað við slíku. Aðrir skrifuðu og skömmuðu þá sem vildu ritskoða listann og sögðu að ekkert væri athugavert við að menn skrifuðu þar það sem þeim sýndist. Og þannig koll af kolli.
Þegar búið var að skrifa mörg bréf og sum löng um þetta mál og mörgum farið að leiðast þessi söngur birtist eftirfarandi bréf frá Andra Haraldssyni og fljótlega upp úr því lognaðist þessi umræða útaf.
---
Góðan dag.
Í saklausri einfeldni þá hef ég nú um skamma hríð lesið brennheitan póst um sölustarfsemi einkaaðila í hinum vestræna heimi. Það má segja að ég taki andköf af gleði hvern morgun þegar ég opna pósthólfið og sé að menn eru enn að takast á um hversu margar krónur og aura hafa megi af saklausum einfeldningum eins og mér.
Raunar má segja að nýr kafli hafi byrjað í lífi mínu. Núna vakna ég hvern morgun og bíð þess að lesa enn einn kafla í reyfaranum glæsta sem segir af pýramídum og beinsölukerfum, málleysum og staðleysum; og ekki síst hinu mannlega drama sem fléttast eins og þræðir Urðar, Verðandi og Skuldar um sérhvern nýjan kapítula. Raunar hef ég opnað sérstakt leynihólf (sem enginn veit hvað heitir - ekki einu sinni ég) inni á netfangi mínu til þess að geyma þessar perlur íslenskra tjáskipta.
Mér verður öðru hverju hugsað til þess hversu fullnægjandi það er nú þegar við, listamenn millinetsins, höfum loks náð því alsæla ástandi sem hlýtur að hafa umlukið landa okkar í kónsins Kaupinhafn á liðnum öldum. Hér sitjum við námsmenn, eins og námsmenn þá, feitir og pattaralegir yrkjandi ambögur við hvert fótmál dreypandi af miði Heiðrúnar uns óminnishegrar sveima fyrir sjónum. Mikið er ég glaður að enn er nóg til af einföldum sálum sem lána mér fyrir að læra að féfletta sig. Og hugsa sér, ef einhver maður skyldi efast um að ég væri kapitalisti (já, og nú þarf ekki einu sinni kapítal).
Nei, því meðan drýpur af hússins upsum erlent regn, við sitjum ekki við skrum og við skál, í skotsilfri bruðlandi hjarta vors auði, því þótt við töpum, það gerir ekkert til, því það er nefnilega vitlaust gefið.
Það er því líklega best að láta mannasiði lönd og leið hér á þessum óhefta tjámiðli, ekki förum við að trampla á skítugum rússa-bomsunum yfir fyrstu viðbótina við stjórnarskrá þessa mikla lands. Við skulum öll sitja sveitt við "delete"-hnappinn tilbúin að verja málfrelsið.
En um leið og við, eins og Voltaire, deyjum fyrir réttindi annarra til að hafa skoðanir sem við erum mótfallin, þá skulum við líka deyja án þess að nokkur hafi komist að því hverjar okkar skoðanir eru á einhverju því sem ekki getur talist hégómi og þrætubókarhjal:
Ritum lærðar greinar um notkun hinna ýmsu tákna fyrir íslensku sérstafina og tuðum kannski svolítið yfir því hvernig kaninn gerir hlutina flóknari en hið upplýsta eilífðarþjóðfélag sem við kröpp kjör gat ritað mestar bókmenntir í Vesturálfu, þjóðfélag sem bara við tilheyrum. Umfram allt forðumst að tala um menningu, listir, vísindi eða annað sem gæti með einhverjum hætti spillt æskunni og leitt til óarðbærs hjals um unaðssemdir þess að eyða og spenna.
Það þykir mér til dæmis afar ólíklegt að þær örfáu sálir sem lesa þennan lista, gætu haft eitthvað sameiginlegt í rannsóknarstarfi eða áhugamálum. Enn nú ólíklegra er að þetta fólk gæti aðstoðað hvert annað í atvinnuleit, skólaumsóknir, styrkveitingar eða annað þess háttar. Enda hreint óeðli að ætla fólki að fara að nota sér jafn fjarlæg tengsl og geta myndast um þennan lista.
Við skulum halda áfram á sömu braut ástkæru landar og ekki ætla ég að breyta þar neinu um;
Því það mæli ég móður/
að ég skuli rífast/
ragnast og skammast/
standa upp með stefnu/
vega og meta aðra/
halda svo til heiða/
skjóta hagli á rjúpu.
En ljótt er að enda langloku á leirburði. fær því hér að fljóta með stutt samsuða, hverrar bragsnilld deila má um. Grímur Thomsen á þetta:
...
Á Glæsivöllum aldrei
með ýtum er fátt,
allt er kátt og dátt.
En bróðernið er flátt mjög og gamanið er grátt
í góðsemi vegur þar hver annan.
..
Megi svo list listans og listamannanna fylla fleiri hólf en texti gullgerðarmannanna. Húrra! fyrir kökugerðarmanninum.
Október í Carrboro, Norður Karólínu
Andri Haraldsson
NOKKUR FERSK FÓTMÆLI
Hj lp! nhv r st l ll m s rhlj ð n m f l kl b rð n m n .
Modemið mitt er lasið, ég held að tölvan sé smitberi.
NIÐUR MEÐ UPPHRÓPUNARMERKIN !!!!!!!
Ég egt évlritða 300 roð á mnítún.u
Pabbi, hvað þýðir 'Formatting Drive C:'?
Skyldu steggirnir á tjörninni eiga erfitt með andardráttinn?
Ætli formælendur bölvi mikið?
Geislavirkur köttur hefur 18 helmingunar-líf.
Gott fótmæli sannar ekki neitt.
Að leika er listin að láta áhorfendur hætta að hósta.
Fjárinn hafi þessa forfeður, þeir hafa stolið bestu hugmyndunum okkar.
"I don't drink water. Fish fuck in it" - W. C. Fields -
"I see!", said the blind carpenter, as he picked up his hammer and saw.
"I'm a lawyer." "Honest?" "No, the usual kind."
Ég er svo kaldur að það er hægt að geyma í mér kjöt. Ef það er ekki bilað, þá skaltu ekki gera við það.
"Ef skórnir passa skaltu kaupa þá." Imelda Marcos.
"Is that seat saved?" "No, but we're praying for it."
"More hay, Trigger?" "No thanks, Roy, I'm stuffed!"
"Only small minds are impressed by large numbers." -- Arthur C. Clark.
"Please return stewardess to original upright position."
"Sjálfsmorðslínan...bíðið andartak."
"Maturinn hérna er hræðilegur." "Og þar að auki litlir skammtar."
9 af hverjum 10 rotweiler hundum vilja helst Vitni Jehóva.
[Unix] is not necessarily evil, like OS/2. - Peter Norton.
f u cn rd ths, u cn gt a gd jb n cmptr prgrmmng.
Bankastjóri lánar þér bara ef þú getur sannað að þig vanti ekki peninga.
Naflinn er til að hafa undir salt, ef þú færð þér sellerí í rúminu.
Ein villa í forriti er á við tvær í leiðarvísi.
A celebrity is a person who is known for his well-knownness.
Hundraðfætla er margfætla sem hefur tekið upp metrakerfið.
Tölvuforrit gerir það sem því er sagt, en ekki það sem vonast er til.
Tölvufræðingur er maður sem gerir við það sem ekki er bilað.
Niðurstaða er bara staður þar sem einhver varð þreyttur á að hugsa.
Diplómat hugsar sig um tvisar, áður en hann segir ekkert.
A dirty book is rarely dusty.
Teiknibóla er Smarties sem stendur.
Örlög verri en dauðinn: að vera giftur lifandi.
Í frjálsu samfélagi er óhætt að vera óvinsæll.
Sannur vinur er sá sem þekkir þig vel og þykir samt vænt um þig.
Harpa er nakið píanó.
Stærðfræðingur er tæki til að breyta kaffi í kenningar.
Gangandi maður keyrði á mig og fór undir bílinn minn.
Svartsýnismaðurinn verður aldrei fyrir vonbrigðum.
Sadisti er sá sem er góður við masókista.
Sköflungur er tæki til að finna húsgögn með í myrkri.
Fullkomin húsmóðir skrælir alltaf kartöflurnar tvisvar.
Ferdinand erkihertogi fannst á lífi - Fyrri heimsstyrjöldin var mistök.
ASCII to ASCII, DOS to DOS.
Ability is a good thing but stability is even better.
Mig minnir að ég muni það ekki.
Samkvæmt útreikningum mínum er vandamálið ekki til.
Þegar allt er sagt og gert, hefur mun meira verið sagt en gert.
Alkohólisti: Einhver sem þér er illa við og drekkur jafnmikið og þú.
Allar tölvur vinna á sama hraða .. .. í rafmagnsleysi.
Það ætti að taka alla öfgamenn og skjóta þá.
Allar alhæfingar eru rangar, líka þessi.
All power corrupts, but we need electricity.
Það er búið að leysa öll auðveldu vandamálin.
Þú þarft ekki að þekkja neitt nema notendaviðmótið.
Þó tunglið sé minna en jörðin, þá er það lengra í burtu.
Best er að fá lán hjá svartsýnismanni, hann býst ekki við að fá borgað.
Fyrirgefðu óvinum þínum - þeim er ekki eins illa við neitt.
Skrifaðu allt hjá þér - þá er eins og þú sért að gera eitthvað.
Mundu að þú ert einstakur - alveg eins og allir hinir.
Með Alzheimersveiki eignast maður nýja vini daglega.
Metnaðargirnd er léleg afsökun fyrir að hafa ekki vit á að vera latur.
Metnaðargirnd er síðasta afsökun þess misheppnaða.
Skemmtun er hamingja þeirra sem geta ekki hugsað.
Fíll = Mús byggð eftir útboðslýsingu Innkaupastofnunar.
Algrím þarf að sjá svo því sé trúað.
Góð aðferð til að eiga við rándýr er að vera bragðvondur.
Og byrjaðu aldrei setningar á samtengingu.
And on the seventh day, He exited from append mode.
Pirrandi: Fólk sem þagnar ekki þegar þú grípur fram í.
Allir geta viðað að sér upplýsingum, en það er list að hafa skoðun.
Allir geta málað mynd, en það þarf hæfileika til að geta selt hana.
Þeir menn sem sjá í gegnum konur, eru að missa af miklu.
Sú heimspeki sem hægt er að setja í hnotskurn, á að vera þar kyrr.
Þegar allt lítur vel út, hefur þér yfirsést eitthvað.
Allir geta unnið, nema þátttakendur séu fleiri.
Anyone who makes an absolute statement is a fool.
Stærðfræði er að geta talið upp að 20 án þess að fara úr skónum.
Artificial intelligence usually beats real stupidity.
Ass, n.: The masculine of "lass".
Assassins do it from behind.
Stuðningsaðili í íþróttum = pungbindi.
Atlee er mjög lítillátur maður. Og hefur ástæðu til. - Winston Churchill.
Forðastu ruslpóst, fáðu þér óskráð póstnúmer.
Oft má saltkjöt liggja.
Bill Clinton: the EDLIN of presidents.
Binary, adj.: Possessing the ability to have friends of both sexes.
Svarthol urðu til þegar Guð deildi í Alheiminn með núlli.
Ef þú ert í vafa skaltu muldra.
Heili: Tæki sem við höldum að við hugsum með.
Bulldozer: One who can sleep through a campaign speech...
Bus error (Passengers dumped)
Sæmundur Bjarnason