Þá er komið að því að senda 7. tölublað frá sér. Efnisöflun hefur gengið vel, en þó væri æskilegt að fá fleiri greinar. Ég geri ekki ráð fyrir að fá oft jafn ítarlegar og langar greinar og modemgreinina í þessu blaði.Ef áhugi er fyrir því mun Tryggvi R. Jónsson halda áfram að skrifa stuttar greinar um ýmislegt varðandi Unix í næstu blöð. Óski lesendur eftir að hann taki einhver sérstök atriði til meðferðar má hafa samband við blaðið eða beint við Tryggva.
Þetta tölublað er þegar orðið svo stórt að ég ætla að reyna að hafa þessa grein eins stutta og ég get.
Áskrifendum fjölgar hægt en fjölgar þó. Nýir áskrifendur síðan síðast eru
: arsig@ismennt.is Ármann Sigurðsson
einark@ismennt.is Einar Karlsson
gunnar.davidsson@nt.norut.no Gunnar Davíðsson
thor@os.is Sigfús Oddsson (Þór h/f)
Ég þakka greinahöfundum þeirra framlag og einnig öllum öðrum sem hafa lagt mér lið og sýnt útgáfunni áhuga.
Að endingu skora ég á lesendur blaðsins að láta í sér heyra. Ef aðsendum greinum og bréfum fjölgar gæti Rafritið vel orðið að vikublaði, en eins og nú er tekst ekki einu sinni að koma því út tvisvar í mánuði.
Sæmundur Bjarnason
UM EFAHYGGJU
Í nótt komu geimverur inn til þín og tóku úr þér heilann. Þær settu hann í krukku og fóru með um borð í geimskipið sitt. Þetta voru góðar geimverur og þær vildu ekki valda þér óþægindum. Þess vegna tengdu þær mænuna, sjóntaugarnar og alla aðra enda og spotta sem standa út úr heilanum við vélar og tæki sem sjá um að fóðra þig á svipuðum áreitum og þú hefðir orðið fyrir ef heilinn hefði verið kyrr inn í hauskúpunni og þú hefðir vaknað og farið á fætur hér á jörðu niðri eins og þú ert vanur. Tækni geimveranna er nógu fullkomin til þess að þú verður ekki var við neina breytingu á högum þínum þó skrokkurinn úr þér liggi dauður í rúminu og heilinn sé í krukku um borð í geimskipi á leið fram hjá tunglinu.
Nú finnst þér þessi saga sjálfsagt ótrúleg enda er hún það. En getur þú vitað að hún sé ósönn? Þú getur auðvitað reynt að horfa í kringum þig. Ef sagan er ósönn þá snýst hausinn á þér ofan á öxlunum og ljóseindir koma fyrst inn um augun úr þessari átt og svo úr hinni áttinni og einhver efnaferli í augunum þýða upplýsingarnar sem ljóseindirnar bera yfir í rafboð sem heilinn fær eftir sjóntauginni. Ef sagan er hins vegar sönn þá senda vélar geimveranna þér boð sem hafa sömu áhrif í heilanum eins og ef hausinn snerist og ljóseindir kæmu fyrst inn um augun úr þessari átt og svo úr hinni áttinni. Þú sérð engan mun. Eftir smá umhugsun ertu væntanlega sannfærður um að þú getur engan veginn gengið úr skugga um hvort þú ert enn á jörðu niðri eða á leið framhjá tunglinu. Niðurstaðan er óhjákvæmileg. Þú veist ekki neitt. Þú veist ekki einu sinni hvort þú ert á jörðinni eða úti í geimnum, hvort jörðin og fólkið sem þú umgengst er til í alvöru eða hvort þú hefur tvær hendur og tvo fætur eða bara spotta sem tengjast við einhverjar vélar. Flest það sem þú telur þig vita með fullkominni vissu gæti verið tóm blekking.
Þegar þú hefur komist að þessari niðurstöðu ertu orðinn efahyggjumaður og aðhyllist meira að segja mjög róttæka gerð heimspekilegrar efahyggju. Og hvað með það? Er ekki allt í lagi að sætta sig bara við að vita ekki neitt?
* Heimspekileg efahyggja á sér langa sögu. Sumir segja upphafsmann hennar vera Pyrrón frá Elís í Grikklandi. Aðrir rekja sögu hennar lengra aftur. Pyrrón frá Elís var uppi um 360 til 270 f.Kr. Um hann segir í _Íslensku_alfræðibókinni_ sem Örn og Örlygur gáfu út árið 1990:
...; talinn upphafsmaður efahyggjunnar; taldi að þar eð ekkert yrði vitað með vissu ættu menn ekki að halda neinu fram án fyrirvara heldur lifa í sátt við óvissuna og öðlast þannig sálarró.
Eins og Sókrates, sem uppi var einni öld fyrr, eignaðist Pyrrón lærisveina og fylgismenn en skrifaði aldrei neitt svo hugmyndir hans eru einungis þekktar af frásögnum annarra. Sagan segir að hann hafi ferðast alla leið til Indlands með herjum Alexanders mikla og kynnst 'nöktu heimspekingunum' þar. Að hve miklu leyti hann sótti efahyggju sína í smiðju þeirra vitum við ekki.
Efahyggja var öflug heimspekistefna allt frá dögum Pyrróns til loka fornaldar. Með hruni Vestrómverska ríkisins á fyrri hluta 5. aldar týndu Evrópumenn niður miklu af menningu sinni og þar á meðal efahyggjunni. Á endurreisnar- tímanum kynntust þeir henni aftur, lásu m.a. um Pyrrónisma í gömlum bókum eftir Sextus Empiricus, en hann var upp á sitt besta um 200 e.Kr.
Fáir nýaldarheimspekingar hafa lifað í sátt við óvissuna eins og Pyrrón gerði. Í staðinn hafa þeir keppst við að kveða Pyrrónismann niður og sanna að það sem þeir telja sig vita það viti þeir í raun og veru.
Sá heimspekingur seinni alda sem hvað frægastur hefur orðið af glímu sinni við vofu Pyrrónismans er frakkinn René Descartes sem uppi var á árunum 1596 til 1650. Hann reyndi að sýna fram á að þekking manna standi traustum fótum með því að sanna fyrst að til sé góður guð sem geti engan veginn látið það viðgangast að menn séu blekktir um alla hluti. Mér vitanlega hafa rök hans aldrei sannfært neinn sem ekki var fyrirfram ákveðinn í að láta sannfærast.
Þeir sem vilja kynna sér sönnun Descartes á tilveru guðs og rök hans gegn efahyggju geta lesið 4. kafla bókarinnar _Discours_de_la_méthode_ eftir Descartes. Íslensk þýðing Magnúsar G. Jónssonar á bókinni kallast _Orðræða_um_aðferð_ og kom út hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi árið 1991.
Þeir sem geta hvorki lifað í sátt við óvissuna né gert sér rök Descartes að góðu verða að finna einhver önnur rök til að sýna fram á að þekking sín hvíli á öruggri undirstöðu. Það væri góð byrjun að finna sannfærandi rök gegn því að telja sig vera heila í krukku.
Atli Harðarson
atli@ismennt.is
V-G-A PLANETS.
UM FJÖLMENNISLEIKINN VGA-PLANETS
Víða um heim er "multi-players" eða fjölmennisleikurinn VGA-planets mjög vinsæll um þessar mundir. Í þessari grein ætla ég að lýsa leiknum svolítið og einnig hvernig hann fer fram.
Leikurinn snýst um það að nema plánetur, vinna þar málma, smíða geimskip, stjórna landnámsmönnunum og í sumum tilvikum einnig innfæddum á plánetunum og á sama tíma að fylgjast með, verjast árásum frá, ráðast á, eða mynda bandalög við, 10 aðra hópa eða ættbálka sem allir eru hver öðrum ólíkir í ýmsu tilliti. Hver leikmaður stjórnar einum ættbálki.
Það er einmitt þetta atriði, að ættbálkarnir hafa að mörgu leyti ólíka eiginleika og ólíka tæknigetu til ýmissa hluta sem gerir þennan leik sérstakan. Möguleikarnir verða svo margir að óhugsandi er að reikna allt út. Ekki er heldur neitt einfalt mál að reikna út hvaða ættbálkur er sterkastur því það getur farið alveg eftir því hvernig leikurinn þróast.
Leikurinn er grafískur og öll stjórnum á honum afar vel skipulögð þannig að auðvelt er að fylgjast með því sem er að gerast. Hann er þó mjög margbrotinn og með fjölbreytta möguleika og nokkurn tíma tekur að ná góðri færni í leiknum. Vel má líkja leiknum við 11 manna skák þar sem allir tefla samtímis á einu skákborði.
Í upphafi leiks fer gjarnan fram nokkurs konar kapphlaup milli keppenda um að nema nægilega margar af þeim 500 plánetum sem í boði eru til að geta byggt geimskip og geimstöðvar, en auðvitað er einnig hægt að einbeita sér að því að tefja fyrir hinum og ef einn keppandinn virðist ætla að stinga hina keppendurna af er upplagt að gera bandalag gegn honum.
VGA-planets fer þannig fram að einn stjórnandi sem vel getur einnig tekið þátt í leiknum sendir leikmönnum litlar pakkaðar tölvuskrár sem þeir svo keyra á sínu eintaki af leiknum og ákveða hvað þeir ætla að gera (t.d. byggja geimskip, hækka eða lækka skatta á einstökum plánetum, ráðast á aðra ættbálka, senda geimskip í könnunarleiðangra eða árásarferðir, byggja verksmiðjur eða námur, skipuleggja varnir t.d með því að koma fyrir spregjuduflum í nágrenni mikilvægra pláneta eða smíða varnarflaugar o.s.frv. o.s.frv.
Þegar búið er að ákveða hvað gera skuli býr leikmaðurinn til litla skrá sem send er stjórnandanum. Þegar stjórnandinn er búinn að fá skrár frá öllum leikmönnunum keyrir hann "host"-forritið og nýjar skrár til að senda leikmönnunum verða til. Algengt er að leikið sé þrisvar í viku en ekkert er þó því til fyrirstöðu að leika oftar.
Upplagt er að senda þessar skrár í E-mail pósti eftir að þær hafa verið uuencodaðar en einnig má senda þær sem venjulegar skrár t.d. á BBS.
Undanfarnar vikur hef ég ásamt fjórum öðrum prófað leikinn og hann hefur í stuttu máli sagt komið ákaflega vel út. Óhætt er að fullyrða að fyrir þá sem hafa gaman af tölvuleikjum með mörgum þátttakendum þá er þetta leikurinn, á því er enginn vafi.
Ég hef nú ákveðið að stuðla að því að þeir lesendur blaðsins sem áhuga hafa á, geti farið í þennan leik. Ég hef fengið Bjarna Sæmundsson til að stjórna leiknum en hann tekur nú þátt í alþjóðlegum leikjum af þessu tagi. Rafpóstfang hans er bjarnisa@ismennt.is og væntanlegir þátttakendur geta snúið sér til hans eða blaðsins til að fá nánari upplýsingar.
Bjarni mun ekki taka sjálfur þátt í leiknum og getur því fylgst með og aðstoðað þá sem ekki ná strax tökum á leiknum. Einnig getur hann leiðbeint með skráarflutninga og hvernig á að uuencoda og uudecoda.
Til að geta tekið þátt í leiknum þarf að byrja á því að verða sér úti um leikinn. Hægt er að sækja hann annað hvort á Stöð 2 BBS svæði nr. 20: LEIKIR 3, eða á ftp.fu-berlin.de í skráarsafni pub/pc/games/vga-planets (athugið að skrifa þarf ftp ftp.fu-berlin.de þegar ftp-að er því tölvan heitir ftp.fu-berlin.de) og sjálfsagt má einnig fá leikinn á ýmsum öðrum stöðum.
Á báðum stöðunum má einnig fá ýmiss konar hjálparforrit til notkunar með leiknum, stjörnukort og lýsingar á geimskipum o.fl.
Heil Usenet ráðstefna er helguð þessum leik og þar má fá heilmikla fræðslu um hann. Ráðstefna þessi heitir alt.games.vga-planets og því miður er hana ekki að finna á Íslenska Menntanetinu, en vandalaust er að nálgast hvaða Usenet ráðstefnu sem vera skal með gopher og er því nákvæmlega lýst í 5. tölublaði Rafritsins hvernig það er gert.
Leikurinn er "Shareware" þannig að ekki þarf að borga fyrir að prófa hann. Hinsvegar er ætlast til þess að ef menn fara að stunda leikinn þá sendi þeir höfundinum Tim Wisseman 15 dollara. Ef menn borga höfundinum fyrir leikinn (registera) fá þeir nýja útgáfu af forritinu og aukinn styrk í leiknum til ýmissa hluta, þannig að vinningslíkur þeirra aukast. Óskráðir og skráðir (registeraðir) þátttakendur geta verið saman í leik, en ef þeir sem eru með skráðan leik reyna að láta aðra fá sína útgáfu af leiknum þá kemst "host forritið" að því og hegnir mönnum fyrir með því að þeir verða fyrir tjóni í leiknum.
Aðalforritið er nokkuð stórt eða um 800 k þjappað og gera þarf ráð fyrir að það taki svona rúm 2 Mb á harða disknum. Nauðsynlegt er eins og nafnið bendir til að hafa VGA skjá á tölvunni sem leikið er á.
Nauðsynlegt er að kynna sér leikinn lítils háttar áður en byrjað er að spila. Hægt er að spila við tölvuna til að prófa hvernig hlutirnir ganga fyrir sig.
Sá leikur sem farið verður í núna á næstunni ef næg þátttaka fæst verður einkum fyrir byrjendur og ástæðulaust er að óttast að lenda í erfiðleikum því stjórnandinn mun geta hjálpað til ef með þarf.
Þeir sem vilja taka þátt í leiknum eru beðnir að skrifa til bjarnisa@ismennt.is eða saemund@ismennt.is eða hringja í mig og tilkynna þátttöku. Um leið þarf að nefna hvaða þremur ættbálkum viðkomandi vill helst stjórna.
Ekki eru fyrirfram sett ákveðin tímamörk en jafnskjótt og nægilega margir þátttakendur verða komnir mun leikurinn hefjast.
Hristið nú af ykkur slenið og takið þátt í skemmtilegum og spennandi leik. Munið líka að tölvuleikir fara ekki í manngreinarálit og aldursmunur er ekki til þar frekar en kynjamunur. Það er hin mesta vitleysa að það séu eingöngu unglingsstrákar sem geti og eigi að taka þátt í tölvuleikjum.
Sæmundur Bjarnason
MÓDEM - 9600 BPS OG ÁFRAM...
Vegna vaxandi áhuga fyrir módemum sem ráða við hærri hraða en 2400 bps er ekki úr vegi að upplýsa landann um hvað helst ber að hafa í huga við val og notkun á slíkum tækjum.
Raunar er komin fram tillaga á Irc um að þessi merkilegu tæki verði kölluð SNAFS (SNíðari/AFSníðari) en það væri réttasta þýðingin þar sem enska orðið módem er upprunnið úr orðunum MOdulator/DEModulator.
Gústav vill nota orð, sem hann hefur notað í 15 ár en það er orðið mótald sem er dregið af orðunum mótari/afmótari sem eru orð sem hann notar næstum því daglega í rafeindabransanum og eru mjög algeng hugtök þar. Þótt honum líki snafsinn yfirleitt :-) þá segir hann 'NEI TAKK' í þessu samhengi.
Björn vill kalla þessi tæki módem og finnst engin ástæða til að bera það öðruvísi fram en enska orðið. Tækið er komið frá útlöndum og því ekki orðið líka. Afhverju þurfum við að smíða ný orð í stað annarra sem aðlagast fullkomlega að íslensku? Afhverju heitir jógúrt þá ekki júgurð (júgur/afurð)?
Björn er sá sem fær að ráða í þetta skipti og þess vegna á lesandinn eftir að lesa orðið "módem" í hinum ýmsu samsetningum og beygingum, rúmlega 250 sinnum í þessari grein!
Drög að þessari grein samdi Björn upprunalega og átti hún að vera yfirlit yfir helstu breytingar sem merkjanlegar eru í módemsamskiptum, þegar skipt er úr 2.400 bps upp í 9.600 bps eða hærri hraða. Greinin hefur þó hlaðið utan á sig því að í ljós kom að þegar um jafnflókin tæki er að ræða er erfitt að gera grein fyrir þeim í stuttu máli, og margt þarf að athuga, þannig að hún er samin af Birni og Gústav í sameiningu.
Björn er "PC-náungi" sem hefur uppgötvað kosti PC fram yfir Makka, en Gústav hefur uppgötvað kosti Makka fram yfir PC og flutt sig frá PC yfir á Makka. Þarna eru því leiðbeiningar og ábendingar er varða bæði PC og Macintosh- vélar. Grein þessi er hins vegar ekki tæmandi um þetta efni, þó að víða sé komið við. Ekkert er t.d. farið inn á hvernig faxmodem virka í faxmóttöku eða - sendingu, ekki fjallað um mismunandi faxstaðla, og ekki er hægt að fara út í hvernig samskiptaforrit vinna, þar sem samskiptaforrit eru svo margvísleg að hægt er að skrifa eina grein um hvert. Þá er einnig sleppt umfjöllun fyrir PC um "Interrupt requests" eða IRQ-númer og árekstrum sem geta orðið á milli jaðar-tækja, þegar t.d. tvö raðtengi á PC eru í notkun og það þarf að bæta því þriðja við. Þessi vandamál eru raunar ekki fyrir hendi á Makkanum. Ekki er þó ólíklegt að það málefni verði fljótlega til umfjöllunar.
En ef þú hefur áhuga á að fá þér módem, 9.600 eða 14.400 bps er ekki úr vegi að lesa lengra. Jafnvel þó að þú hafir rétt endað við að kaupa þér eitt slíkt.
Fyrst skulum við líta á nokkrar mikið notaðar skammstafanir sem notaðar eru í sambandi við módem.
BPS = bitar á sekúndu. Á íslensku nefnt bás (Bitar Á Sekúndu) 2.400 bps módem flytur 2.400 bita á sekúndu.
CPS = stafir á sek. 2.400 módem flytur um 240 stafi á sekúndu. 1 stafur jafngildir startbita + 8 bitum (=bæti) + stoppbita = 10 bitar í staf.
MNP = Skammstöfun fyrir Microcom Networking Protocol. Microcom fyrirtækið þróaði staðal til villuleiðréttinga og gagnaþjöppunar sem nefndur hefur verið MNP og eru til af honum nokkrar útgáfur. Útgáfurnar MNP1-4 eru villuleiðréttingarstaðlar en MNP5 er bæði villuleiðréttingar- og þjöppunarstaðall. MNP5 er einungis hagnýtt við flutning á áður óþjöppuðum gögnum. Ef val stendur á milli MNP5 og V.42bis gagnaþjöppunar, skal nota V.42bis. Ástæðan fyrir því er sú, að V.42bis skynjar ef skrár eru pakkaðar fyrir og ekki er hægt að pakka þeim frekar og þá reynir módemið það ekki. En það fylgist stöðugt með gagnastraumnum og grípur strax inní ef hægt er að pakka. Jafnvel þótt skrár séu fyrirfram pakkaðar getur V.42bis oft pakkað þeim um 10-15 prósent í viðbót. MNP-5 tekur stóra 'blokk' af gögnum og pakkar henni og ber hana saman við upphaflegu gögnin. Ef pakkaða 'blokkin' er stærri en sú upphaflega er ekki hægt að pakka henni svo það sendir upphaflegu 'blokkina'. En það hættir ekki þar heldur tekur það næstu blokk og endurtekur vinnsluna. Þannig að það getur verið hægvirkara að flytja með MNP-5 heldur en ef engin gagnaþjöppun er notuð ef gögn eru pökkuð fyrir.V.42 = Villuleiðréttingastaðall CCITT. (CCITT er alþjóðlegt staðlaráð) Einnig þekktur sem LAPM (Link Access Procedure for módems).
V.42bis = Villuleiðréttingar og gagnaþjöppunarstaðall CCITT.
Bell 103= Samskiptastaðall AT&T Bell Labs fyrir sambönd á 300 bps (USA og Canada).
Bell 212= Samskiptastaðall AT&T Bell Labs fyrir sambönd á 1200 bps (USA og Canada).
V.21 = Samskiptastaðall CCITT fyrir sambönd á 300 bps.
V.22 = Samskiptastaðall CCITT fyrir sambönd á 1.200 bps.
V.22bis = Samskiptastaðall CCITT fyrir sambönd á 2.400 bps.
V.32 = Samskiptastaðall CCITT fyrir sambönd á 4.800/9.600 bps.
V.32bis = Samskiptastaðall CCITT fyrir sambönd á 7.200/12.000/14.400 bps
V.FAST = "Gælunafn" á staðli í þróun sem gerir ráð fyrir samböndum á allt að 28.800 bps en hærra er ekki talið að komist verði á símalínu.
...og ekki beint staðlar en þekkt hugtök:
HST = Samskiptastaðall U.S. Robotics sem notaður hefur verið í USR módemum til nokkurra ára, aðallega í Bandaríkjunum. Segir til um sambönd á 9.600 og 16.800 bps en er ósamhæfður V.32 þannig að módem með HST staðli nær ekki sambandi við V.32 eða V.32bis módem. Til eru módem sem merkt eru "HST Dual-Standard" sem geta það en þau geta þá venjulega ekki notað gagnaþjöppun eða villuleiðréttingar skv. MNP eða V.42 - V.42bis.
ZyXEL = Ekki skammstöfun heldur nafn á framleiðanda er notar sérhæfðan staðal fyrir 16.800 og 19.200 bps sambönd og einungis ZyXEL módem ná þessum hraða á milli sín en við V.32bis módem næst hraði allt að 14.400 bps, V.32 módem tengja á 9.600 bps en HST tengir á 2.400 bps.
Og nú í smá slökun fyrir módemhraðafríkin...
EKKI LÁTA PLATA ÞIG með auglýsingum sem halda því fram að þetta eða hitt módemið nái 38.400bps (V.32) eða 57.600bps (V.32bis). Þú munt aldrei sjá slík afköst við raunverulegar aðstæður með slíkum módemum. Hinsvegar getur þú "talað" við módemið á slíkum hraða, þ.e. hraðinn á milli tölvu og módems getur verið þessi. V.32 bis módem notar hinsvegar *aldrei* hærri hraða en 14.400 bps á símalínu. Málið er að módem getur þjappað gögnum (V.42bis þjappar allt niður í fjórðung upprunalegrar stærðar) áður en þau fara á símalínuna en ná *aldrei* í raun slíkum hraða. Hér er lítil tafla sem sýnir við hverju er hægt að búast þegar skrár eru fluttar á góðum símalínum. Með "venjulegt" er átt við hvort heldur fyrirfram þjappaða (með t.d. ZIP og ARJ (PC) eða SEA og CPT (Mac)) eða óþjappaða skrá en hvorki er notuð V.42bis eða MNP5 aðferðin. Rétt er að ítreka að tölurnar eiga við rétt stillt módem á BÁÐUM endum og að skilyrði til sendinga séu góð.
Gerð módems: 2.400 v.32 v.32bisAthugið þó að þarna er ekki um heilagar tölur að ræða. Dæmi eru til um að hægt hafi verið að flytja sem svarar rúmlega 53.000 bitum á V.42bis sambandi með 14400 bps módemi þegar flutt var skrá sem hafði ekki verið þjappað fyrirfram. Þetta er semsagt vissulega mögulegt ef rétt er farið að, en er algjör undantekning.
Stafir á sek. Venjulegt 234 940 1.310 (CPS) MNP5 (Pökkuð skrá) 200 900 1.200 V.42bis (Pökkuð skrá) 270 1.100 1.650 MNP5 (Ópökkuð skrá) 550 1.800 2.200 V.42bis (Ópökkuð skrá) 820 3.290 4.550 Bitar á sek. Venjulegt 2.340 9.400 13.100 (BPS) V.42bis (Pökkuð skrá) | 2.000 9.000 12.000 V.42bis (Pökkuð skrá) | 2.700 11.000 16.500 MNP5 (Ópökkuð skrá) | 5.500 18.000 22.000 V.42bis (Ópökkuð skrá) | 8.200 32.900 45.500...þannig að ef þú sérð auglýsingu um "57.600 bps" á gagnaflutningi þá má ekki taka það sem heilagan sannleika. Ef sölumenn fullyrða í ræðu eða riti að hægt sé að ná þessum hraða með módeminu þeirra þá er það sölumennskubull úr mönnum sem hafa ekkert vit á því sem þeir eru að selja! Ef einhver segir þér þetta yfir búðarborð skaltu biðja viðkomandi að sýna þér það í verki! Hins vegar er hægt að segja "allt að 38.400 bps" eða þá "allt að 56.700 bps" en það má ekki taka það SEM 38.400 bps eða SEM 57.600 bps, sá hraði næst aldrei alveg.
En til þess að nokkur möguleiki sé á að komast nálægt bestu afköstum verður eftirfarandi að vera til staðar:
* Einungis verði fluttur óþjappaður texti (ekki t.d. ZIP,SEA eða CPT) Þetta þýðir ekki að það borgi sig ekki að þjappa fyrirfram, það borgar sig en við erum að tala um annan hlut núna, sumsé að módemið þjappi.
* Þú tengir á milli módema sem BÆÐI eru sett upp með sama hraða milli tölvu og módems (helst 57.600).
* Skráin sem flytja á sé MJÖG þjappanleg, t.d. mikið af endurtekningum.
* Þú hringir um fullkomlega tæra símalínu án nokkurs suðs eða bergmáls.
* BÆÐI módemin séu með V.42bis þjöppunarbúnað virkan.
Stærsta ástæðan fyrir því að menn ná ekki tilætluðum hraða er sá að þeir nota ekki réttar aðferðir við gagnaflutninginn. T.d næst ótrúlega lítil nýtni út úr KERMIT skráarflutningi nema stærðirnar á 'gluggunum' sem Kermit sendir í einni gusu séu stilltar (sjálfgefin stærð er um 90 bitar, en hægt er að stækka í t.d. 4.096 bita eða 4K). Þá batnar nýtnin allnokkuð en er samt léleg. En hún batnar bara ef notuð er truflanalítil símalína. Ef truflanir eru í pakka þarf að senda allan gluggann aftur. Þannig að ef gluggarnir eru stórir og truflanir eru á línu verður gagnaflutningurinn hægvirkari en ef gluggarnir eru litlir, þar sem glugginn sem þarf að endur- senda er þá stærri. KERMIT skráarflutningur er MJÖG hægvirkur og menn ættu alls ekki að nota hann nema í neyð!!!! Það fer svo mikil tími í 'spjall' á milli módema.
Samskiptin þar eru einhvern veginn svona.** módem 1: Halló, ég ætla að fara að senda. Ertu tilbúið?
** módem 2: Ég er til.
** módem 1: Hvað viltu mikið í einu? (hversu stóra glugga)
** módem 2: Við skulum hafa stærðina 90 (er sjálfgefið í Kermit samskipta forritinu, en einverja hluta vegna setur ísmennt stærðina alltaf í 89 bita í hvern glugga...)
** módem 1: Er 89 í lagi?
** módem 2: Það er í lagi.
** módem 1: Má ég þá byrja?
** módem 2: Þú mátt byrja.
** módem 1: Bla bla bla bla.. (þetta eru gögnin) endir.
** módem 2: ég fékk 89 bita.
** módem 1: Vartölurnar fyrir gluggann eru xxxx, hvað fékkst þú?
** módem 2: Fékk það sama.
** módem 1: Hér er næsti gluggi. Má ég senda hann?
** módem 2: Þú mátt senda hann.
** módem 1: Bla bla bla bla.. (þetta eru gögnin) endir.
** módem 2: ég fékk 89 bita.
** .... og svo framvegis og svo framvegis.....
Hugsið ykkur ef það væri verið að senda nokkur Megabæti!!!!!Xmodem gagnaflutningur er hraðvirkari en Kermit, og Ymodem svipar til Xmodem í hraða. Ymodem hefur þann kost fram yfir Xmodem að nafnið á skránni flyst með henni (yfirleitt). En sá sem er með þeim öflugari og menn ættu að reyna að nota er Zmodem. Hann er fljótvirkur, hefur öfluga villuleiðréttingu, flytur nafn með skránni, getur flutt margar skrár í runu, hverja á eftir annari (batch) og getur ræst móttöku sjálfvirkt þegar hitt módemið vill hefja sendingu. Þó eru ekki öll samskiptaforrit sem nota sjálfvirka ræsingu og sum hafa ekki heldur 'batch' möguleikann.
Zmodem virkar þannig að forritið, sem er að senda skrá, ræsir (oftast) sjálfvirkt móttöku í samskiptaforriti móttökumódems og byrjar sendingu. Sendiforritið sendir skrána viðstöðulaust en skýtur inn í hana vartölum við og við ásamt stýribitum. Vartala er tala sem reiknuð er út frá þeim talnarunum sem eru í viðkomandi 'glugga'. Móttökumódemið athugar síðan hvort hún stemmir við 'gluggann' þegar gögnin koma til þess. Í byrjun sendingar er tiltölulega stutt á milli vartölusendinga en ef móttöku-samskiptaforritið kvartar ekki yfir villum þá lengist alltaf á milli þeirra (glugginn stækkar). Þannig að það sem fer á milli módemanna samanstendur nær eingöngu af gögnum, mjög lítið er um umframbita. Módemið sem er í móttöku athugar gögnin með tilliti til vartalnanna sem sendar eru með. Ef allt er í lagi þá "þegir" móttökumódemið. En ef að vartalan stemmir ekki lengur (það kom villa í sendinguna) þá ATHUGAR MÓTTÖKUFORRITIÐ HVORT ÞAÐ GETI EKKI GERT SJÁLFT VIÐ SKEMMDINA ÚT FRÁ VARTÖLUNUM!!!! Á meðan þetta fer fram er móttakan enn í fullum gangi. Ef móttökuforritið getur ekki gert við skemmdirnar þá reynir það að finna út hvar í glugganum skemmdin er. Ef það tekst þá biður móttökuforritið um endursendingu á skemmda hluta gluggans. Í versta tilfelli biður það um allan gluggann. Takið eftir að sending hefur aldrei stöðvast hún er enn í fullum gangi. Sendiforritið endursendir þá umbeðin hluta og heldur áfram þar sem frá var horfið án þess að að stöðva nokkurntímann sendinguna. Einnig minnkar það gluggann aftur (sliding windows) til að sjá fljótt hvort línan sé skyndilega orðin slæm eða hvort þetta hafi bara verið tilfallandi truflun. Komi enn truflanir er glugginn minnkaður meira en ef ástandið lagast og engar villur koma fram fer hann að stækka aftur. Móttökuforritið setur síðan endursenda hlutann á sinn stað og heldur áfram þar sem frá var horfið.
Eins og gefur að skilja þá gengur þetta sjaldan alveg snurðulaust. Raðtengi tölvunnar, eða nánar tiltekið sá hluti þess sem sér um að túlka gögn til miðverksins frá raðtenginu heitir UART (Universal Asyncronous Receiver/Transmitter í PC vélum) eða SCC (Serial Communication Controller í Makka) Þessi rás, sem er sérstakur kubbur á raðtengispjaldinu (PC) eða móðurborðinu (Mac), verður náttúrulega að geta ráðið við 57.600 bps hraða stanslaust. Einnig verður hún að geta komið gögnunum frá sér á þessum hraða, þ.e. miðverk (CPU) tölvunnar verður að geta ráðið við að flytja gögnin á þessum hraða ásamt því að halda vinnslu samskiptaforritsins gangandi, sjá um skjáinn, halda utan um minnisnotkun, og flytja gögnin úr minninu á diska og sjá um þá og fleira og fleira. Einnig ef við segjum að við séum að taka gögnin af ísmennt tölvunni þá þarf sú tölva einnig að sinna öðrum notendum.
Allt þetta veldur því að 57.600 bps hraðinn næst aldrei alveg en með hraðvirkri tölvu, hröðu UART (sem heitir NS 16550 í PC í staðinn fyrir 16450, nánar um rásirnar sem sjá um raðtengið síðar) og litlu álagi á Ísmennt þá er hægt að ná hraða nær því að vera 'allt að 57.600 bps' eins og sölumennirnir segja. Þannig að það er ekki allt bull. (Þó veit maður ekki hvorir eru verri, sölumenn sem kríta liðugt vísvitandi eða, það sem að maður heldur að sé algengara, sölumenn sem vita ekki betur).
Einnig hefur Zmodem þann kost að ef sambandið rofnar í miðri sendingu eða móttöku þá getur þú hringt aftur og valið aftur sömu skrá og haldið áfram að taka til þín/senda skránna frá þeim stað þar sem rofnaði.
Takið samt eftir að Ísmennt fer í baklás þegar reynt er að senda upp stórar skrár með Zmodem en allt í lagi með litlar. Eftir því sem næst verður komist er það vegna þess að Zmodem uppsetningin á Ísmennt tekur ekki við stærri 'pökkum' á Zmodem en 1024 bita. Ef hægt er að takmarka pakkastærðina í samskiptaforritinu ykkar þá ættuð þið ekki að lenda í vandræðum. Ef pakkastærð er höfð á 'auto' vill Ísmennt ekki samþykkja það og kokar strax eða eftir nokkra stund, eða nánar tiltekið þegar sendiforritið byrjar að senda glugga sem eru stærri en 1024 bitar.
Vandamálið er ekki fyrir hendi þegar sótt eru gögn, vegna þess að þá er það sendiforritið (Ísmennt) sem stjórnar gluggastærðinni og Ísmennt fer einfaldlega ekki í stærri glugga en 1024 bita.
Sumir gætu misst út úr sér spurningu hér, eins og:
"Er hægt að nota Zmodem á Ísmennt??? Ekki hef ég séð það!"
En svarið er að það er hægt.
Til þess að sækja skrá með Zmodem þarftu að vera í skelinni og helst í því skráasvæði sem skráin sem þú vilt sækja er í. Þá slærðu inn:SZ {skrárnafn} {ENTER} eða
SZ {slóð að skráarsvæði}{skráarnafn} {Enter}
ef þú ert ekki í sama skráarsvæði
og ef forritið þitt fer ekki í sjálfvirka móttöku en þú sérð þess í stað: "_B00000000000" á skjánum þínum þá seturðu samskiptaforritið þitt í móttöku stöðu og velur af flutningsaðferðalistanum "Zmodem". Til að senda upp á Ísmennt ferðu í skel og notar cd-skipunina til að fara í það skráasvæði sem þú vilt að skráin lendi í. Ef þú vilt setja hana í heimasvæðið þitt og þú ert ekki þar er nóg að gera "CD {ENTER} eitt og sér til þess að komast þangað. Að þessu loknu slærðu inn:RZ {ENTER}
Og Ísmennt fer í móttökustöðu. Þú sendir skrána, en gætir þess að ef að forritið þitt notar stærri glugga en 1024 bita (1K) að stilla mestu gluggastærð á 1024 bita, því annars byrjar Ísmennt að koka og þú kemur skránni ekki á leiðarenda. Athugaðu líka að Zmodem túlkar ekki skrár um leið og er flutt á milli. Þessvegna gætirðu fengið, t.d. texta á ISO-8859/1 stafasettinu inn á t.d. PC- tölvuna þína og þar verða íslensku stafirnir ólæsilegir (raunar algjört bull).Þá þarftu að verða þér úti um forrit eins og t.d. THYDA.ZIP ef þú ert með PC. THYDA.ZIP er pakkað með PKZIP forritinu og þú opnar það með PKUNZIP THYDA {enter}. Nánari upplýsingar um notkun fylgja í pakkanum. Ef þú ert með makka þá geturðu notað forrit sem heitir Umskiptingur. Þetta forrit leitar að ákveðnum stöfum í textaskrám og setur aðra stafi í staðinn. Formúlan fyrir því hvaða stöfum á að skipta út er sett upp skrám sem eru textaskrár þannig að þú getur búið til þína eigin þýðendur. Eða búið til þitt eigið dulmál ef þú vilt. Nánari leiðbeiningar eru í pakkanum sem er sjálfafpakkandi og heitir í PC heiminum UMSKIPT.SEA. Þessi forrit eru bæði til á Snerpu BBS sími 94-4417 og Stöð 2 BBS sími 91- 673251
Það var með Zmodem sem ég (Gústav) náði loksins hraðanum 'allt að 57.600 bps'. Nánar tiltekið náði ég hraðanum 5.328 stafir á sek!! Það var EKKI á Ísmennt :-( Reyndar er þetta í eina skiptið sem ég hef komist yfir 4.800 stafi. Þetta eru þó algjör undantekningartilfelli. Þetta voru stórar textaskrár sem voru ópakkaðar með mikið af endurtekningum (töflur) og Makki í báða enda. Þannig að sölumennirnir ljúga ekki alltaf!!! (en oftast? :-( )
Önnur flutningsaðferð, sem raunar er ekki í boði á Ísmennt en getur jafnvel verið hraðvirkara en ZModem, og er í boði á flestum ef ekki öllum BBS-um á Íslandi er svokölluð Ymodem -G aðferð. Hún byggir á því að sambandið sé villuleiðrétt í vélbúnaði (V.42bis) og sendir því færri vartölur og með öðrum hætti. Þessa aðferð er gott að nota EF notað er V.42bis OG símalínur eru góðar. Ef símalínur eru slæmar og notast er við villuleiðrétt samband (V.42bis) þá getur komið fyrir að módemin ákveði að við svo komið verði ekki lengur búið og slíti sambandinu.
Þá hringir notandinn aftur og lendir kannski á betri línu. Málið er bara það að ef sambandið slitnar í miðri sendingu þá getur Ymodem ekki haldið áfram sendingu, þar sem frá var horfið, því að ekki er vitað hversu mikið aftan af síðustu sendingu er skemmt. Það verður því að byrja aftur á allri sendingunni. En ef línan er góð (innanbæjar t.d.) þá getur Ymodem -G verið hraðvirkari en ZModem.
ATHUGAÐU ÞETTA VANDLEGA! Ef flutningsaðferð er merkt "-G" þá þýðir það að hún er einungis nothæf á fyrirfram villuleiðréttu sambandi! Ef reynt er að nota slíka aðferð og sambandið er ekki villuleiðrétt, er næstum alveg öruggt að skráin kemur brengluð í gegn. Að auki er góður möguleiki á að frysta bæði samskiptaforritið þitt og einnig það sem er á hinum endanum.
Þetta gerir að verkum að ekki þýðir fyrir þig eða aðra að hringja aftur í bráð. Hinn endinn er nefnilega fastur í því að leysa úr klaufaskapnum og svarar þér ekki þar til það álítur að samskiptum sé örugglega lokið (sem getur þessvegna tekið 30 mín. eða meira og þá er tíminn, sem þér er úthlutað þar útrunninn þann daginn) eða að umsjónarmaður þess kerfis skakkar leikinn. Þetta er ein besta aðferðin við að koma sér í ónáð hjá umsjónarmönnum BBS-a. Notaðu hana því sparlega!
Snúum okkur aðeins að vélbúnaðinum sjálfum sem notaður er við samskiptin. UART rásin NS 16550 í PC ræður við allt að 230.000 bps á raðtenginu, og er með 16 bita biðminni, sk. FIFO (First In, First Out), þ.e. gögnin fara í "biðröð" ef miðverkið má ekki vera að því að sinna þeim, en er bara í SUMUM nýjum tölvum nema hún sé keypt sér. Í flestum PC vélum er UART sem heitir 16450 en hún ræður ekki við þann hraða sem þarf fyrir nútíma samskipti.
En Makkinn hefur alltaf (allavega frá Plus) notað SCC rás sem heitir 8530 sem er hliðstæð þeirri sem er í PC nema hún ræður við tvö raðtengi á 230.400 bps með innbyggðri klukku eða 920.000 bps með annarri klukku, svo hraðinn er ekki vandamál þar.
Rásin í makkanum er líka frábrugðin að því leyti að sendi og móttöku- línurnar eru 'fljótandi' (balanced). Það er kallað RS-422 tengi (í staðinn fyrir RS-232 tengi sem er á PC). Það hefur þann kost að línurnar eru miklu ónæmari fyrir utanaðkomandi truflunum s.s. frá raflínum og skjám.
Þessi kostur nýtist þó ekki að fullu vegna þess að flest módem nota RS232 staðalinn og því þarf að víra kapalinn þannig að tölvan taki 'unbalanced' línur. Það er þó ráðlegra að nota módemtengið (merkt með símtóli) á Makka því það hefur forgang yfir hitt.
Þú getur stillt módemið þitt þannig að það segi "CONNECT 38400" eða "CONNECT 57600", en ekki trúa því sem þú sérð. Þetta er ekki tengihraðinn á milli módema eins og áður segir heldur frá módemi til tölvu. Almennt er mælt með því að nota raunverulegan "CARRIER" sem hraða til að forðast rugling þegar erfiðlega gengur að ná sambandi. Annars gætirðu t.d. lent í því ef símalína er slæm, að fá CARRIER - þ.e. módem - módem tengingu upp á 2400 bps en módemið tilkynnir t.d. 38.400 bps! Að öllu jöfnu væri best að leggja á og reyna aftur, en þar sem engin tilkynning berst um raunverulegan hraða á símalínu, þá kemstu ekki að því fyrr en kemur að því að flytja stóru skrána sem á að vera 5 mín í flutningi en tekur síðan hálftíma!
Í sumum tilfellum getur verið nauðsynlegt að 'plata' samskiptaforritin með því að láta módemið tilkynna hraðann á milli módems og tölvu (DCE-DTE speed). Það er vegna þess að sum samskiptaforrit nota þessa tölu til að stilla hraðann á raðtenginu. Þetta er algengara en menn halda en vandamálið er það að menn sjá þetta ekki gerast, þeir eru búnir að stilla á mesta hraða sem samskiptaforritið og tölvan ræður við áður en þeir hringja. Samskiptin fara fram á þeim hraða þangað til 'CONNECT' tilkynningin kemur frá módeminu. Þá stillir samskiptaforritið raðtengið á þann hraða án þess að menn geri sér ekki grein fyrir því!!! Nema að þeir sjá að nýtnin er ekki eins og hún ætti að vera.
Tökum dæmi.
Módem með V.42bis virkt nær sambandi á 9.600 bps við annað módem sem einnig hefur V.42bis virkt. Þegar samband kemst á birtist 'CONNECT 9600' á skjánum. Samskiptaforritið sér þessa tölu og stillir raðtengið niður á 9600 bps. Og er það ekki í lagi, samskiptin eru hvort sem er á 9.600 bps? NEI, það er sko aldeilis ekki í lagi. Segjum að við séum að sækja skrá. módemið sendir hana frá sér á 9.600 bps og hún kemur náttúrulega á 9.600 bps til viðtakanda. EN VIÐ ERUM MEÐ V.42bis GAGNAÞJÖPPUN VIRKA þannig að skráin er allt að 4 sinnum minni í flutningi yfir símalínu en hún er í raun og veru.Þannig að þegar módemið afpakkar skránni þá stækkar hún allt að fjórfalt. Semsagt þegar 1.000 bitar koma inn á módem eftir símalínunni þá þurfa 4.000 bitar að fara út af módemi inn á tölvuna. Semsagt það þarf 4*9.600=38.400 bps hraða á milli módems og tölvu til að módem hafi undan. En samskipta- forritið er búið að stilla raðtengið á 9.600 þannig að það eina sem módemið getur gert þegar minnið í því fyllist er að biðja sendimódemið að stöðva sendingu á meðan móttökumódemið tæmir minnið til tölvunnar á 9.600 bps.
Þannig að aukinn flutningshraði gagnaþjöppunar tapast og jafnvel gott betur. Þessvegna getur verið nauðsynlegt að 'plata' samskiptaforritið með því að tilkynna hærri samskiptahraða heldur en er í raun og veru á símalínu. Einnig er hægt í sumum samskiptaforritum sem taka mark á 'CONNECT' tilkynningunni að velja að samskiptahraði á milli módems og tölvu sé alltaf sá sami þ.e. ekki sé tekið mark á 'CONNECT' tilkynningu. (fixed eða lock DTE-DCE speed eða communications rate)
Jæja, eða til að "hafa stutta sögu langa", þá þýðir V.32 um 60.000 bæti á mínútu en V.32bis þýðir um 100.000 bæti á mínútu. Miðað við fyrirfram þjappaðar skrár. Og hananú. Eins megabæta pökkuð skrá er þá 10 mínútur í flutningi á V.32bis. Óþjappaðar skrár eiga að ná að meðaltali 2.5-3.5 sinnum hærri hraða.
Jæja, aftur í staðladótið... Þegar menn kaupa sér 1.200 eða 2.400 bps módem er nokkuð öruggt að tenging næst á sama hraða við önnur módem sem segjast styðja sama hraða. Málið vandast hinsvegar þegar kemur á 9.600 bps hvað þá ef að hærra er farið í t.d. 14.400 bps. Hvers vegna?
Málið er að til skamms tíma var það dýrt að framleiða módem samkvæmt stöðlunum V.32 og V.32bis að framleiðendur módema ákváðu hver um sig að þeirra aðferð væri best og hundsuðu þessa staðla, notendum til mikillar gremju. Málið var nefnilega að erfiðlega gekk að nota hærri hraða en 2.400 bps nema módemin sem tengd voru, væru bæði frá sama framleiðanda!
Þetta hefur sem betur fer breyst í kjölfar þess að rásaframleiðendur ("chipset-manufacturers") eins og Rockwell komu með á markaðinn stýriflögur með stöðlunum innbyggðum og það sem meira var, þeir splæstu faxmöguleikum í kubbinn í leiðinni! Að vísu átti Rockwell við nokkra byrjunarörðugleika að stríða vegna þess m.a. að búið var að dreifa töluverðu magni af fyrstu útgáfum kubbsins þegar í ljós komu gallar sem trufluðu óeðlilega mikið starfrækslu viðkomandi módems. Kubburinn var hinsvegar í sökkli í flestum tilvika og Rockwell bjargaði ærunni með því að útvega eigendum nýja kubba á spottprís, sem hægt var að smella í sökkulinn.
Segja má að öll módem sem ráða við meiri hraða en 2400 bps sem á markaði eru í dag séu annaðhvort V.32 eða V.32bis-samhæfð. Meira að segja ZyXEL ræður við þessa staðla þó að ZyXEL sé með sína eigin staðla að auki (16.800 og 19.200bps). Enn eru þó á markaði HST-módemin (aðallega í bandarískum póstlistum) en eindregið er mönnum ráðlagt að forðast þau þar sem þau ganga ekki saman við þau módem sem BBS og aðrar tölvuþjónustur hér á landi nota. Slík módem nýtast aldrei á hærri hraða en 2.400 bps jafnvel þó að þau séu stimpluð 9.600 í bak og fyrir. Þá er einnig rétt að vara sig á 2.400 bps (fax)módemum sem eru með stórt 9.600 utan á kassanum. Ameríkaninn stundar það nefnilega að merkja 2.400 bps faxmódem svona og neðst með litlu, lítið áberandi letri stendur "9.600bps fax Send/Receive" sem þýðir nákvæmlega að það er faxsendihraðinn sem er 9.600 bps, gagnahraði módemsins gæti þessvegna verið 2.400 bps!
Auðvelt er að mæla með ZyXEL módemum því að þau styðja bæði V.32 og V.32bis og að auki eru þetta einmitt módemin (ZyXEL U-1496E) sem Ísmennt notar. Þannig næst 16.800 bps tenging við Ísmennt. Þessi módem eru þó í dýrari kantinum.
Heilræði handa þeim sem hugsa sér að panta módem úr póstlista.
Fáðu fyrst að vita hvað sendingin kostar *með* burðargjaldi, og varaðu þig á, ef þú ert ekki að kaupa spjaldmódem, að þú getir fengið 220 V spennugjafa og að þú hafir pantað hann!!! En ekki sagt bara 'ég ætla að fá svona'. Í Ameríku og í Japan nota þeir nefnilega 110 V og í Evrópu eru menn nú oft ekki klárir á hvort Ísland sé ekki á öðrum hvorum staðnum!!!
Hér er nýtt dæmi um sendingarkostnað á módemapöntun frá Bandaríkjunum. Í því tilfelli er sendingarkostnaður og tryggingar $90 fyrir eitt módem og $20 fyrir hvert módem um fram það. Einnig má ekki gleyma 24.5% vaski þegar heim er komið ofan á verð og flutningskostnað. Ekkert vandamál hjá þeim framleiðanda að fá 220 V spennugjafa með módemunum. Þegar athugað var hjá póstlistaverslunum í Bandaríkjunum fyrir um 2 árum síðan þá var hægt að fá 220 V útgáfu hjá um 50% þeirra. Þó var það dálítið misjafnt eftir gerð módemanna. Ef módemin eru keypt beint frá stóru framleiðendunum á þetta ekki að vera neitt mál.
Einnig ættirðu að athuga hvernig UART er á raðtenginu þínu, sértu með PC. Ef þú ert með eldri og algengari gerðina af UART, þá sem heitir 8250 eða 16450, skaltu panta þér nýtt raðtengispjald í leiðinni (með NS 16550 AFS - UART samskiptarás). Það kostar um 20-25 dollara og er vel fjárfestingarinnar virði. Þessar nýju UART-rásir eru undantekningalítið þegar í nýjum spjaldmódemum.
Síðan er spurningin: Spjaldmódem eða sjálfstætt módem? Og þá kemur spurning til baka: Ertu með Makka eða PC (eða jafnvel eitthvað annað?)
Ef svarið er Makki þá þrengist valið á spjaldmódemum verulega en flestar gerðir af módemum er hægt að fá á PC spjaldi. Á spjaldmódem þarf hvorki spennugjafa né kapal þannig að þá eru þau vandamál leyst. Ekki er heldur hús utan um þau. Þau eru því hlutfallslega ódýrari. Einnig lendirðu ekki í hraðavandamálum með gamlan UART. Og það tekur ekki upp borðpláss hjá þér. En sjálfstæð módem hafa einnig sína kosti. Hægt er að nota þau á öllum vélagerðum ef þær hafa raðtengi og þú ert með rétta kapla/millistykki til að tengja þetta saman. Auðvelt er að ferðast með þau á milli staða og þú getur notað það við tölvuna hjá 'Óla á Hóli' án þess að þurfa að fá leyfi hjá honum til að rífa vélina hans í sundur. Það er ekki víst að hann yrði hrifinn af því ef hann þekkir þig ekki vel (eða hann væri ekki hrifinn, ÞVÍ hann þekkir þig vel :-).)
Á spjaldmódemi þarf að finna út úr uppsetningunni á spjaldinu fyrir hverja vél og hverja útfærslu á vél og síðan að slást við uppsetningu á forritinu. Þú ert þó laus við það fyrrnefnda á sjálfstæðum módemum. Sjálfstæð módem hafa einnig sinn eigin spennugjafa þannig að þeim sem er í tölvunni er ekki íþyngt með því. Einnig getur verið gott að sjá á ljósum eða skjáglugga á módemi hvað er að gerast. En þetta fer náttúrulega eftir hvernig þú ætlar að nota módemið og á hvernig vél og verður hver að dæma fyrir sig. Einnig er rétt að huga að því að ef sjálfstætt módem tengist ekki rétt, þ.e. er með einhverja stæla, þá má prófa að færa það til með tilliti til skjásins, hátalarans á stereógræjunum eða þvílíku. Sum módem þola illa rafsegulgeislun frá slíkum tækjum og virka þá ekki sem skyldi.
Kapallinn fylgir yfirleitt ekki með sjálfstæðum módemum (Fylgir þó alltaf með fyrir Makka ef þú kaupir saman módem og hugbúnaðarpakka fyrir Makka). Hann þarftu að fá sérstaklega ef þú átt ekki eldri kapal. Þá er einnig að því að hyggja að kapallinn ráði við CTS/RTS-merki. Margir kaplar virka fínt á 2.400 bps og svo kemur klandur við 9.600 vegna þess að í þá vantar víra. Ef þú ert ekki viss um að kapallinn sé réttur geturðu talið vírana í honum. Það ættu að vera a.m.k níu vírar í allt með skerminum (sem er vírinn sem ofinn er utan um hina) í kapli fyrir PC en sex í Makkakapli. Annars er að útvega sér nýjan kapal. Aftast í þessari grein eru töflur þar sem sýndar eru tengingar á köplum fyrir bæði PC og Makka. Með þessum upplýsingum, lóðbolta og smá-handlagni má búa sér til kapal.
Það er mögulegt að nota kapla sem hafa ekki CTS/RTS (Clear To Send/Request To Send) á 9.600 á Makka og það er mögulegt að nota 14.400 á þannig kapli í neyð EN ÞAÐ ER ALLS EKKI MÆLT MEÐ ÞVÍ, það eru vægast sagt ótrygg samskipti. Með þannig kapli er ALLS EKKI hægt að nota gagnaþjöppun. Einnig er eiginlega ómögulegt að nota Zmodem, Ymodem og Xmodem gagnaflutning á svoleiðis kapli. Ef þér tekst að nota þannig kapal með gagnaþjöppun án þess að allt fari í klessu þá ertu líklega á 300 baud og fæddur undir heillastjörnu ;-)
Áfram með smjörið.. (snafsinn)..
Eftir því sem samskiptahraðinn eykst, þess meira fer að bera á truflunum ef símalínan er ekki alveg "kristaltær", þ.e. laus við allt suð og smelli. jafnvel á 2.400 bps færðu stundum "rusl" á skjáinn vegna slíkra truflana. Þar sem meiri hraði þýðir meiri truflanir er ekki eingöngu nauðsynlegt að hafa innbyggða villuvörn eins og V.42 heldur verður einnig að virkja hana. Flest módem sem eru með V.42 nota það ekki nema sérstaklega sé stillt á það.
Þá komum við að öðru vandamáli. Skipanasettinu. Flest (háhraða)módem ráða við skipunina AT&Q5 til að virkja V.42 og V.42bis en önnur þurfa t.d. AT\N3 eða álíka. Það er mikið vandamál enn að skipanasettið á módemum er alls ekki staðlað, þannig að tryggt sé að skipanaruna sem virkar á einu módemi virki á öllum. Þetta er vegna þess að það er enginn staðall til yfir skipanir á módemum. Nánar um það hér á eftir.
Það að módem er sagt "Hayes compatible" er enn eitt sem ruglar notendur.
"Hayes" er vörumerki módemframleiðanda sem varð á sínum tíma leiðandi í framleiðslu 2.400 bps módema. Þá og raunar líka í síðustu kynslóð 1.200 bps módema var farið að tíðkast að láta t.d. módemin sjálf velja númer en áður þurfti að hringja fyrir módemin með símtóli og ýta á hnapp er píbbið heyrðist hinu megin frá. Hayes samdi til þess skipanasett fyrir módem er hét "Hayes 2400 SmartModem". Aðrir framleiðendur sáu kosti þessa skipanasetts og tóku það í notkun. Ef módem skilur allar skipanir í þessum grunni er það kallað "Hayes-compatible".
Málið er bara að fyrir utan grunninn er aragrúi aukaskipana sem hin ýmsu módem hafa til að virkja t.d. V.42bis svo dæmi sé tekið. Meira að segja skipanir í módem frá Hayes sem eru t.d. 9.600 bps passa ekki við annað 9600 bps módem sem sagt er vera "Hayes-compatible". Meira að segja Hayes er ekki með sama skipanasett í módemum sem þeir smíða þótt báðar gerðirnar séu fyrir sama hraða. Þetta er nú meira torfið! Málið er semsagt að ekkert er að treysta á í þeim efnum og eins gott að vera klár í enskum tölvuorðum og lesa handbókina sem fylgir módeminu vandlega.
Semsagt það sem 'Hayes compatible' þýðir er EKKI endilega að módemið noti sama skipanasett og Hayes módem því þau nota ekki einu sinni öll sama settið. Það sem það þýðir er að það svari meðal annars sömu skipunum og "Hayes 2400 SmartModem". Vandamálið er bara það að það módem kom á markaðinn löngu áður en öll þessu fína villuleiðréttinga- og gagnaþjöppunarstaðlar urðu til, að ekki sé talað um módem með faxi og símsvörun og fl. Sem betur fer 'ættleiddu' þó flestir módemframleiðendur þennan 'staðal' þannig að grunnskipanirnar, eins og hvernig á að hringja og leggja á, eru eins. Vandamálið er þó það að eftir ættleiðinguna þá hefur hver framleiðandi alið krógann upp á mismunandi vegu, þannig að þegar hann stækkaði þá varð hann ekki eins hjá þeim.
Hayes 'staðall' er ekki raunverulegur staðall, hann hefur aldrei verið samþykktur og útgefinn af staðalráðum og nefndum. Þó hafa módemframleiðendur 'samvinnu' að því leyti að þegar þeim dettur eitthvað nýtt til hugar sem módem geta gert þá tilkynna þeir til staðlaráðs CCITT hvaða skipanir þarf að gefa módeminu til að framkvæma aðgerðina. Staðlaráð CCITT heldur síðan utan um þennan lista, þannig að aðrir módemframleiðendur geta nálgast hann og notað sömu skipanir á sínum módemum til að gera það sama.
Vandamálið er bara það að framleiðendur tilkynna CCITT þetta náttúrulega ekki fyrr en þeir eru búnir að setja þetta í módemin sín, til þess að samkeppnisaðilar viti ekki að hverju þeir eru að vinna. En eins og dæmin sanna þá eru þeir oftast að vinna að sama hlut. Og síðan senda báðir inn sína útfærslu af skipununum til CCITT þar sem misræmið verður fyrst ljóst. Síðan fá framleiðendur þennan lista og ákveða hver fyrir sig hvorum framleiðandanum þeir ætla að fylgja með skipanasettin sín. Reyndar þurfa þeir ekki að fylgja einum eða neinum, þeim er það í sjálfsvald sett hvað þeir gera þar sem þetta er ekki opinber staðall. Á endanum verður yfirleitt ein skipun ofaná hjá flestum framleiðendum, en það getur tekið mörg ár og á meðan sitjum við notendurnir og veltum fyrir okkur hvernig á að láta helv... módemið vinna eins og það á að gera. Hvers vegna fæ ég bara 'ERROR' á skjáinn hjá mér þegar ég sendi þessa skipun til módemsins? Þetta virkar fínt hjá Nonna og Palla sem eru með miklu ómerkilegra módem en ég.
Hér er lykillinn að virkja V.42 og V.42bis ef það er fyrir hendi...
Sjálfvirk villuleiðrétting er *algjörlega* nauðsynleg. Gagnaþjöppun er það ekki en er góður plús sem getur aukið afköst töluvert. Ekki kaupa módem sem er ekki með villuleiðréttingarbúnaði, annaðhvort V.42 eða MNP1-4, en V.42 er raunar með MNP4 staðalinn innbyggðan og notar hann ef ekki er v.42 á hinum endanum á sambandinu, en hinsvegar MNP-staðall.
Splæsið í fax þar sem verðmunurinn er sáralítill...
Faxið getur verið þægilegt og gott að grípa til þess. 14.400 bps faxmódem eru til á allt undir 200 dollara. Björn á Zoom VFP faxmódem (spjald) og hefur notað það á BBS-ið hjá sér vandræðalaust til að taka á móti bæði BBS-hringingum og faxi. Að vísu er einn ZyXEL-notandi sem lent hefur í vandræðum með að tengjast af og til og engar skýringar fundist á, (ZyXEL U-1496E) en nær sambandi á milli, en annar ZyXEL-notandi í viðbót sem Björn veit af með U-1496E módemið á ekki í nokkrum vandkvæðum með að tengja sig.
Gústav á SupraFaxmódem V.32bis (sjálfstætt) og hefur notað það sem módem og fax innanlands og utan án vandræða. Að vísu hefur hefur Gústav bara látið módemið svara faxsendingum en ekki gagnasendingum nema þegar Stöð 2 BBS var með það í láni. Og fyrir dyrum stendur breyting á því módemi þannig að það virki líka sem símsvari.
Mörg háhraðamódem (V.32bis +V.42bis) í ódýrari kantinum eru með stýriflögu frá Rockwell. Þessi módem má yfirleitt stilla öll á sama hátt.
Til að fá besta samband á þeim, gerðu þá eftirfarandi: * Notaðu 57.600 bps á milli módems og tölvu ef mögulegt er. Þá geturðu náð mestu út úr gagnaþjöppun V.42bis (Þú verður að hafa tölvu eða spjaldmódem með nýjum UART). Sumar PC tölvur eða samskiptaforrit ráða þó alls ekki við þennan hraða en Makkinn ræður vel við hann jafnvel Mac Plus. Ef vélin þín á í erfiðleikum með þennan hraða þá getur jafnvel verið hægvirkara að nota 57.600 en 38.400. Þú ert líka ágætlega settur með 38.400 því 57.600 nýtist bara á auðpakkanlegum skjölum (texta og sumum myndum) sem eru sjaldgæf. 19.200 er líka nægilegt, ef allt sem þú ert að sækja er pakkað hvort sem er. Takið þó eftir makkaeigendur að flest forrit fyrir makka á Internet eru svokölluð BINHEX skjöl (yfirleitt merkt með HQX). Þetta eru í raun forrit sem búið er að búa til texta úr og geta því pakkast mjög mikið. Náttúrulega þarf að hafa góðan SKERMAÐAN kapal með CTS/RTS.
* Notaðu CTS/RTS flæðistýringu ("handshaking") (ekki XON/XOFF).
* Notaðu flutningsaðferðirnar Ymodem-G eða Zmodem. Ymodem-G má aðeins nota á truflanafríum (þ.e. leiðréttum) samböndum og er þá ágæt aðferð en ef sending rofnar eða misferst verður að byrja alla sendinguna upp á nýtt. Þó er til Ymodem flutningur sem getur byrjað þar sem frá var horfið. Zmodem hefur þann kost að hægt er að byrja aftur þar sem frá var horfið hefur öfluga villuleiðréttingu og þessvegna mælum við með Zmodem. Ekki nota Xmodem eða Kermit! Báðar aðferðirnar eru úreltar og raunar afkastar Kermit svipað og 1.200 bps módem nema sérstaklega sé krukkað í það!
* Þegar þú setur módemið í gang í fyrsta skipti og ert búin(n) að fá OK við AT-skipuninni þá skaltu gera eftirfarandi:
ATZ [ENTER] (endurstilling)
AT&F
[ENTER] (endurstilla í verksmiðjustillingu) Athugaðu í handbókinni þinni hvort módemið þitt hafi ekki fleiri en eina verksmiðjustillingu. Ef módemið þitt hefur bara &F0 (eða &F) þá notarðu hana og heldur áfram með leiðbeiningarnar. &F tekur oftast af villuvörn og gagnaþjöppun. &F1 stillir módemið þitt fyrir Makka með villuvörn og gagnaþjöppun og þá geturðu sleppt því sem á eftir kemur í leiðbeiningunum, nema &W skipuninni. &F2 stillir módemið þitt fyrir PC með villuvörn og gagnaþjöppun og þá geturðu sleppt því sem á eftir kemur í leiðbeiningunum nema &W skipuninni. &F1 og &F2 skipanirnar setja líka samskiptahraðann á milli tölvu og módems á 57.600 bps sem er nauðsynlegur svo gagnaþjöppun nýtist að fullu þannig að ef vélin þín ræður ekki við það eða samskiptaforritið þitt 'heimtar' að nota lægri hraða eða vill stilla hraðann eftir 'CONNECT' tilkynningunni (og tekur þar með aukinn samskiptahraða sem hlýst af gagnaþjöppun í burtu og stundum gott betur) eða ekki er hægt að nota &F1 og &F2 skipanirnar á þínu módemi þá skaltu halda áfram eftir leiðbeiningunum. &F3 Sum módem nota &F3 skipunina til að endurstilla með villuvörn og gagnaþjöppun á. Þessi stilling er alls ekki á öllum módemum.Hér fyrir neðan höfum við bil á milli skipananna í línunni til að hún verði læsilegri en sum módem vilja ekki hafa þau. Þá verðið þið bara að taka út bilin og þá gæti það gengið.
Stillingar fyrir PC:
AT &C1 &D2 S95=3 S38=20 S11=60 S37=11 &W [ENTER]Og fyrir Makka:
AT &C0 &D0 S95=3 S38=20 S11=60 S37=0 &W [Return]
Hér er hvað þetta þýðir hjá okkur. EKKI ER 100% VÍST AÐ ÞAÐ SÉ ÞAÐ SAMA HJÁ YKKUR.AT Segir módemi að það sem á eftir kemur séu módemsskipanir (ATtention code)
PC &C1 DCD pinninn í tenginu á módeminu segir til um Mac &C0 hvort burðarbylgja (carrier) sé á símalínu. Ef þú ert með Mac settu þá &C0. Þetta er óþarft merki fyrir makkann
PC &D2 Ef DTR pinni í raðtengi fer í OFF stöðu slíttu þá Mac &D0 sambandið (leggja á) og vertu viðbúið að fá módemsskipanir. Ef DTR er OFF ekki svara símanum þótt hann hringi. Fyrir mörg PC samskiptaforrit er þetta eina leiðin til leggja á. Makkinn notar sárasjaldan þetta merki þannig að þú skalt setja &D0 ef þú ert með makka.
S95=3 Gera virkt að módem tilkynni hraða á símalínu og bæti /ARQ aftan við tilkynninguna ef sambandið notar villuleiðréttingu (og gagnaþjöppun). En ef samskiptaforritið þitt notar 'CONNECT' tilkynninguna til að stilla hraðann á samskiptum við módemið þá skal EKKI að setja S95=3 hér, en nota þá frekar S95=2. Þá tilkynnir módem alltaf 'CONNECT 57600' (eða þann hraða sem þú settir samskiptaforritið á) þannig að flutningur með gagnaþjöppun gefur besta nýtni. En þá sérð þú aldrei á hvaða hraða þú ert í raun og veru.
Ein leið til þess að sjá samt hraðann á línu er að athuga ljósin/skjáinn á módeminu þínu ef það er ekki innbyggt eða setja S95=6. Þá tilkynnir módemið
CONNECT 57600/ARQ
CARRIER 14400 <-hér sést raunverulegur hraðiÞó getur verið að þetta leysi ekki vandamálið því sum samskiptaforrit athuga ekki hvað stendur fyrir framan töluna heldur nota síðustu töluna í tilkynningunni til að stilla hraðann en það er ekki það sem við viljum. Ef samskiptaforritið þitt breytir ekki samskiptahraða á milli módems og tölvu eftir tilkynningunni þá getur þú prófað að setja S95=41 en ef það breytir eftir tilkynningunni en er sátt við S95=6 þá geturðu prófað S95=40. Þá tilkynnir módemið hvaða villuleiðrétting og hvaða gagnaþjöppun er í gangi. Sum samskiptaforrit vita þó ekki hvað á að gera við þessa löngu tilkynningu og sýna kannski bara hluta af henni eða ruglast alveg. Margar fleiri uppsetningar eru til á S95 (frá 0-64 þó ekki allar tölur þar á milli) Skoðið handbókina ykkar ef ekkert gengur þarna.
S38=20 Hve lengi módem heldur sambandinu, ef það hefur ekki lokið við að senda allt úr minninu, eftir að það hefur fengið skipun um að leggja á (fær H skipunina eða að DTR fer í off stöðu). Ef tíminn er of stuttur getur það valdið því að módemið nái ekki að klára að senda allt úr minninu og jafnvel að módemið á hinum endanum nái ekki að módemið þitt ætli að leggja á og það módem haldi línunni eftir að þitt módem lagði á.
S11=60 Stillir hvað tónarnir eru langir þegar hringt er með tónvali. Gamla símstöðin sem Gústav er á ræður ekki við stutta tóna, þá hringir hún í vitlaust númer. Hann verður að nota S11=95 sem er einmitt verksmiðjustilling þannig að hann sleppir þessari skipun.
S37=11 Setur hvað mesti hraðinn er sem módemið reynir að S37=0 nota. S37=11 setur hann sem 14400. En með S37=0 skynjar módemið sjálft á hvaða hraða AT skipanirnar koma frá tölvunni og reynir aldrei að tengjast á meiri hraða en það. Þetta er stillingin sem hentar best á sjálfstæðum módemum sem eru ekki alltaf tengd við sömu tölvuna né nota sama samskipta- forritið og þau ráða kannski við mismunandi hraða og með því að hafa þetta sjálfvirkt þá þarf ekki að breyta stillingunni í hvert skipti.
&W Geymir allar breytingarnar sem þú hefur gert þannig að þegar næst er kveikt á módeminu þá verða allar stillingar eins og þú settir þær.
ATH. MJÖG MIKILVÆGT. !!!!!!!!!
Nokkuð sem framleiðendur láta þig yfirleitt ekki vita um:Alls ekki setja &W skipunina í strenginn sem sendur er til módemsins í hvert sinn sem samskiptaforritið er ræst, eða það sem er enn verra, í strenginn sem er sendur til módemsins í hvert sinn sem er hringt. Ástæðan er sú að minnið (NV-RAM) í módeminu sem geymir uppsetninguna, þótt slökkt sé á módeminu, þolir aðeins ákveðinn fjölda innskrifta. Þegar þeim fjölda er náð þá 'deyr' minnið og þar með módemið og þið verðið að senda módemið í viðgerð.
Við venjulega notkun á &W skipuninni skiptir þetta ekki máli. Þú notar hana aldrei svo oft. Jafnvel þótt að handbókin með módeminu eða samskiptaforritinu segi þér að setja þessa skipun í strenginn skaltu ekki gera það. Það mætti halda að sumir framleiðendur væru að tryggja að módemið þitt bili til þess að þeir geti selt þér nýtt eða allavega plokkað af þér nokkra seðla fyrir viðgerð á módeminu
* og ef þér er illa við píbb og hávaða meðan módemin tengjast þá: ATM0&W [ENTER]
(Frá Gústav: Þetta sem kemur hér á eftir er samkvæmt bókinni hjá Birni. Jafnvel þótt módemið hjá mér taki við þessari skipun og segi OK þá finn ég ekkert um \E1 skipunina í neinni bók yfir módem sem ég hef aðgang að. Ég hef ekki prófað hvort þetta virkar í raun og veru hjá mér)
Næst þarftu að stilla módemið saman við símalínuna. Þetta þarf einungis að gera einu sinni (nema þú flytjir). Skiptu xxxxxxx út fyrir módemsímanúmerið sem þú ætlar að hringja í og veist að styður V.32bis staðalinn.
AT%E1\E1 [ENTER] ATDTxxxxxxx [ENTER]
Þú færð líklega eitthvað skrýtna tengingu fyrst. Módemið mælir endurvarp (bergmál) og sjálfspan símalínunnar og símstöðvarinnar og samhæfir sig við hana (notaðu helst innanbæjarsímtal því truflanamikil lína getur ruglað alveg þessa mælingu). Það getur verið að módemið nái ekki að tengjast í fyrstu atrennu og verður þú þá að reyna aftur. Eftir að "CONNECT" skilaboðin birtast geturðu slitið og síðan gert: ATZ [ENTER]
Og hvað þýðir þetta svo? Við skulum reyna að skýra það.
%E1 setur svokallað auto-retrain á. Það þýðir að módemið fylgist með gæðum símalínunnar og reynir að koma sambandi aftur á þegar hitt módemið skilur það ekki og halda áfram sambandinu þótt miklar truflanir séu á línunni.\E1 Setur módemið þannig að upp að við næstu samskipti þá reynir það að stilla sig þannig að það passi sem best fyrir símalínuna
Nú er módemið tilbúið til notkunar. Eftir þetta þarftu einungis að gera ATDT til að velja númer. Það er samt ekkert ólíklegt að þú fáir "ERROR" skilaboð á skjáinn þegar þú slærð þetta inn. Ef svo er þá gengur þessi skipanaruna ekki og þá er bara að prófa sig áfram. Taka út eina skipun í einu þar til módemið segir ekki lengur ERROR og finna út hvað sú skipun á að gera eftir okkar lýsingu. Finna samsvarandi skipun í handbókinni þinni og setur hana í staðinn.
Svo einfalt er það nú.
Eða er það? Gangi þér vel, ekki veitir af... :-)
Að lokum er hér töflur yfir hvernig kapallinn á að vera sem er á milli módems og tölvu
-- Fyrir MAKKA
Til að hægt sé að nota V.42bis og fax á Macintosh tölvu, þá verður kapallinn á milli Makkans og módemsins að vera skermaður, með víraða flæðistýringu (nefnt hardware flow control eða handshaking), 25 pinna kall tengi á öðrum enda og 8 pinna Mini-DIN fyrir Makka á hinum endanum. Athugaðu sérstaklega að pinni 4 og 20 í 25 pinna tenginu séu báðir tengdir í pinna 1 á 8 pinna Makkatengli. Kapallinn á að vera tengdur nákvæmlega eins og taflan sýnir.
Mac Módem
Mini-DIN 25-pinna kall
Pinni 1 tengist í Pinna 4 og 20
Pinni 2 --//-- Pinna 5
Pinni 3 --//-- Pinna 2
Pinni 4 og 8 --//-- Pinna 7
Pinni 5 --//-- Pinna 3
Pinni 6 ótengdur
Pinni 7 ótengdur
Hús skermur Hús
PC Módem
9 pinna kerling 25 pinna kall
Pinni 1 tengist í Pinna 8
Pinni 2 --//-- Pinna 3
Pinni 3 --//-- Pinna 2
Pinni 4 --//-- Pinna 20
Pinni 5 --//-- Pinna 7
Pinni 6 --//-- Pinna 6
Pinni 7 --//-- Pinna 4
Pinni 8 --//-- Pinna 5
Pinni 9 --//-- Pinna 22
Hús skermur Hús
Notaðu skermaðan kapal. Skermurinn er vírinn sem er ofinn utan um alla hina vírana í kaplinum.
- - - - - - - - - P.S. frá Gústav: :-) Þessi grein er búin að fara nokkrar umferðir á símalínum milli Reykjavíkur og Ísafjarðar, og fram og til baka í gegnum textaþýðingu á milli PC og Makkastafasetts í hvert sinn. Þannig að ef eitthvað vantar, eða rangt er farið með þá er það ekki okkur Birni að kenna, VIÐ gleymdum því ekki, það var hérna í greininni en það hefur tapast á símalínunum (skammið P&S, ekki okkur), eða þá misfarist í þýðingu (skammið bara einhvern annan en okkur) :-) :-) :-) :-)
Nei, svo ég sleppum öllu gríni, látið heyra í ykkur ef við förum rangt með. Hver veit nema við komum þá með leiðréttingu ef vel er að okkur farið. :-) [Æ ég ætlaði víst að sleppa öllu gríni :-(]
P.S. frá Birni: Og ef þið hafið (vel rökstuddar) leiðréttingar fram að færa, skal senda þær til annarshvors okkar (þið ráðið). Sé einhver fótur fyrir þeim verða þær birtar í Rafritinu eða póstaðar á póstlistann "rafritid".
Björn Davíðsson snerpa@ismennt.is
Gústav K Gústavsson gustav@ismennt.is Rafeindavirki
UM SAMSKIPTAFORRITIÐ TELIX
og tengingar við menntanetið.
Ég hef verið mikill aðdáandi TELIX samskiptaforritsins. Það hefur þann kost að vera bæði mjög einfalt í allri notkun en einnig mjög öflugt. Það sem gerir það svona öflugt er innbyggt forritunarmál sem þeir Telix-menn kalla SALT (Script Application Language for Telix). Því svipar nokkuð til C forritunarmálsins, þ.e. þeir sem forrita í C eru á heimavelli.
Þegar ég byrjaði að nota Íslenska menntanetið í sumar komst ég fljótt að því að mikil ásókn er að komast í samband við UNU, sem mun vera staðsett í Kennaraháskólanum. Þar eru aðeins átta módem og því oft á tali þegar maður reynir að hringja inn. Eftir að skólar tóku til starfa í september jókst vandinn enn til muna. Um þessar mundir er verið að bæta við símalínum og módemum þannig að fljótlega mun rætast úr.
Ég er með 14400 baud módem og vil þess vegna helst ná sambandi við þau módem. Undanfarið hafa þau bara verið tvö og ef þau eru á tali þá sætti ég mig við að reyna við 2400 baud módemin.
Því datt mér í hug að búa til forrit í Telix, sem sæi um það fyrir mig að hringja fyrst í hraðvirku módemin tvö og síðan í númerið fyrir 2400 baud módemið ef hin bæði væru á tali. Ef öll eru á tali þá reynir Telix fimm sinnum við hvert númer en gefst þá upp. Ég get stillt þennan tilraunafjölda upp í hærri tölu eða sett á töluna núll, sem þýðir að Telix hættir ekki fyrr en tenging næst við eitthvert númeranna.
Fyrsta sem maður gerir er að keyra upp Telix, og ýta á Alt-D sem opnar DIAL valmyndina. Þar þarf maður að setja upp upplýsingar um símanúmerin, skjáhermi og hvaða forrit á að keyra þegar tenging er komin á. Hjá mér heitir það forrit einfaldlega "mennt" og síðan er ég með önnur forrit sem hjálpa mér að tengjast sjálfvirkt inn hin ýmsu BBS kerfi sem ég hringi reglulega í. Meira um það síðar.
MENNT.SLT er textaskrá sem inniheldur þær skipanir sem ég vill að Telix framkvæmi fyrir mig þegar tenging er komin á. Tvö ská- strik þýða að allt sem á eftir kemur er hjálpartexti (comment) sem ekkert kemur keyrslunni við. Bara til að skýra forritið:
MENNT.SLT - Forrit sem tengir mig inná UNUFyrstu tvær stillingarnar (_asc) eru fyrir ELM. Þegar maður sendir upp tilbúna textaskrá inn í Emacs ritþórinn þá koma alltaf auðar línur á milli ef þetta er ekki stillt svona. Eftir þessa stillingu þá hreinsar Telix öll LineFeed úr textanum og það á vel við Unix. Þetta á við um þegar maður sendir textann upp með ASCII-Upload.
main() { int post_stat; int t1,t2; int stat; _asc_sexpand = 1; //Ef auðar línur þá setja space _asc_slftrans = 1; //Hreinsa linefeed aftan af línum transtab("inn.tab", 0); //Setja af stað stafaþýðingu 0=inn transtab("ut.tab", 1); //Setja af stað stafaþýðingu 1=út waitfor("IMnet>", 30); //Bíða eftir fyrstu viðbrögðum UNU cputs("rvik"); //tilgreina hvaða vél "rvik"=UNA cputc(13); //Senda ENTER waitfor("login: ", 30); //Bíða eftir strengnum "login: " cputs("einark"); //Senda notendanafn þitt cputc(13); //Senda ENTER waitfor("Password:", 30); //Bíða eftir spurningu um aðgangsorð cputs("xyx"); //Setja rétt aðgangsorð inn cputc(13); //Senda ENTER t1=track("Þú átt póst!",0); // Fyrri leitarstrengurinn:er póstur? t2=track("M/P/A/KP)",0); //Spuringin um vélargerðina. post_stat = 0; //Gefum okkur að það sé enginn póstur. while ( 1 ) //LOOPa á meðan true (1=true) þar til break { terminal(); //kalla í terminal fallið sem leyfir Telix //að skoða allt sem kemur inn stat = track_hit(0); if (stat == t1) post_stat = 1; //Það er póstur, við setjum rofann á TRUE if (stat == t2) //Athugum hvort spurt er um vélargerð { cputs("p"); //Segjum að við séum með PC vél cputc(13); //og sendum síðan ENTER break; //og hættum í While lúppunni. } }if (post_stat == 1) //Ef póstur þá förum við beint í ELM { //og látum tölvuna slá inn nauðsynlegar cputs("p"); //skipanir. cputc(13); cputs("p"); cputc(13); cputs("e"); cputc(13); } }
Hér endar MENNT.SLT forritiðNæst kemur skipun um að setja af stað þýðingu í báðar áttir þannig að íslenskir stafir varpast eðlilega á milli minnar tölvu og UNU sem eins og aðrar Unix tölvur hefur annað stafróf en PC vélarnar. Maður getur búið til þýðinguna í Telix með því að ýta á Alt-W og setja upp eina töflu fyrir það sem kemur inn til okkar (Unix->PC) og aðra töflu sem fer frá okkur til UNU (PC->Unix). Þeir sem ekki hafa þessa töflu geta sent mér póst (einark@ismennt.is) og ég mun senda þeim töflurnar annað hvort "uuencoded" eða sem textatöflu sem menn verða þá að slá inn sjálfir. Látið vita hvort þið viljið.
Í næstu línum notum við WAITFOR fallið til að bíða eftir tilteknum strengjum og svara viðkomandi spurningum. Ekki er hægt að nota WAITFOR fallið þegar spurt er um póst því það myndi klikka ef enginn póstur væri til okkar! Þar með notum við TRACK fallið sem athugar fyrst hvort "Þú átt póst!" og stillir post_stat breytuna á 1 (true). Hvort sem við fáum póst eður ei þá athugar TRACK næst hvort kominn er spuringin um vélartegund. Við svörum þeirri spurningu með "p" enda Telix bara til fyrir PC. Þar með erum við komin út úr TRACK aðgerðinni og ef við höfum fengið póst þá er ELM keyrt sjálfvirkt með "p"+ENTER, aftur "p"+ENTER og síða "e"+ENTER. Ef við vildum frekar fara beint í TakaPóst þá breytum við "e" í "t".
Við þurfum að búa til annað lítið forrit sem stjórnar sjálfum hring- inunum. Það kalla ég MN.SLT
Áður en hægt er að keyra þessi forrit þarf að þýða þau með SALT þýðandanum sem fylgir með Telix. Það heitir CS.EXE. Við þýðum með: CS MENNT og CS MN. Þá verða til MENNT.SLC og MN.SLC sem við notum til að keyra úr Telix.MN.SLT - Salt forrit sem hringir í tiltekin númer í DIAL listanum í TELIX. main() // Hringjum í númer 5,6,7 í dial-lista { // 5 sinnum í hvert númer eða þar til int stat; // tenging kemst á við eitthvert númer. stat = 0; // 3 númer sinnum 5 tilraunir gefur while( stat==0 ) // töluna 15. Ef 0 þá reynir TELIX stat = dial("5 6 7",15); // endalaust þar til tenging kemst á. // Ath. að mér hefur ekki tekist að } // rjúfa þær tilraunir nema með því að // slökkva á tölvunni, þannig að betra // er að hafa eitthvað hámark :-) // MN.SLT endar
Við getum sett þennan feril af stað á tvo vegu. Í fyrsta lagi með því að keyra Telix upp eins og venjulega og keyra síðan MN forritið með því að ýta á Alt-G og slá inn MN og ENTER. Við getum líka keyrt þetta beint með því að bæta command-línu aftan við þannig:
TELIX smn
Þetta getur verið sniðugra ef maður keyrir þetta úr BATCH skrá eða beint úr Windows o.s.frv. Athugið að maður verður að hafa nafn forritsins (mn) klesst við s (sem stendur fyrir script).MN forritið hringir þangað til samband kemst á og þá verður MENNT forritið keyrt enda sé það tilgreint í DIAL valmyndinni í Telix fyrir þau númer sem við hringjum í.
Að lokum sýni ég hér forritið sem ég keyri þegar ég hringi í BBS kerfi Stöðvar tvö.
// STOD2.SLT -Forrit sem tengir mig á BBS kerfi Stöðvar II // síminn þar er 673251. Það er geymt undir Alt-D // í Telix, ásamt uppl. um samskiptahraða, skjáhermi // og nafninu á þessu forriti. main() { transtab("*CLEAR*",0); // Ef ég var síðast í menntanetinu þá transtab("*CLEAR*",1); // eru þýðingar PC<->Unix aftengdar. waitfor("fullt nafn", 30); cputs("Einar Karlsson"); cputc(13); waitfor("Password:", 30); cputs("xyz"); cputc(13); waitfor("Meira ?", 30); // Ég skoða bara fyrstu skjámyndina í cputs("N"); // fréttasyrpunni. Að þessu loknu cputs(13); // birtist aðalvalmyndin og ég get } // valið úr henni.STOD2.SLT endar.
Ég vona að einhver geti nýtt sér þessar upplýsingar til að auðvelda aðgang að öðrum tölvum í gegnum mótaldið. Þeir sem í dag nota Kermit þurfa að gera nánast allt í höndunum. RHI-Kermit hefur innbyggða þýðingu fyrir Unix stafrófið og hefur verið í umferð svo lengi sem elstu menn muna. Ókosturinn við Kermit samanborið við Telix er ekki bara sjáanlegur á þeim forritum sem ég hef sýnt ykkur hér heldur líka á því að hann hefur ekki Zmodem skrárflutningarmöguleika, sem er margfalt hraðvirkari og öruggari en Kermit staðallinn.
Til að sækja skrá af mínu heimasvæði á UNU og flytja hana heim til mín í tölvuna mína gef ég skipunina: sz skranafn í UNU (send zmodem skráarnafn) og Telix keyrir sjálfvirkt upp mót- töku á skránni mín megin. Á sama hátt gef ég skipunina rz á UNU til að flytja skrá þangað (receive zmodem), vel PgUp í Telix og tilgreini skrána sem á að fara yfir.
Útgáfan sem ég nota er 3.20 af Telix. Telix er shareware forrit og hægt er að ná sér í það á flestum BBS kerfum hér á landi. Eftir að ég var búinn að skoða það sendi ég að mig minnir 50 dollara til útgefandans og fékk til baka handbók og þá nýjustu útgáfu. Handbókin fylgir annars shareware útgáfunni í textaformi og þar er að finna nánari lýsingu á SALT forritunarmálinu í sérstakri skrá; SALT.DOC.
Einar Karlsson
einar@ismennt.is
Íslendingar fá ókeypis aðgang að Inernetinu. Íslendingum mun opnast ókeypis aðgangur að gagnanetinu Internet frá og með 25. nóvember n.k. Gagnanetið sem er kostað af bandarísku ríkisstjórninni hefur 15 milljónir notenda víða um heim og fjölgar þeim um eina milljón á mánuði.
Allir helstu háskólar í veröldinni ásamt milljónum fyrirtækja og einstaklinga eru tengdir Internet gagnanetinu. Þeir aðilar sem fá aðgang að netinu geta miðlað upplýsingum sín á milli í því sér að kostnaðarlausu. til viðbótar opnast aðgangur að þúsundum gagnagrunna þar sem t.d. má fá upplýsingar frá verðbréfamörkuðum, vísindaleg gögn eða upplýsingar um íþróttaviðburði. Með Internet er upplýsingum miðlað um allan heim í þeim tilgangi að auka framleiðni og skapa meiri skilning milli þjóða.
Samkvæmt upplýsingum International Internet Association hafa verið takmarkanir á gagnaflutningslínum til Íslands og erfiðleikar á tengingum. Hafa einungis rannsóknarstofnanir og fyrirtæki haft efni á að greiða fyrir aðgang að gagnanetinu. Markmið Internet er hins vegar að opna sem flestum aðgang að upplýsingum og hugmyndum án tillits til stöðu eða efnahags. Þetta markmið hefur nú náðst fram hér á landi og hefur Internet tilkynnt að fjármunir hafi fengist til að opna öllum Íslendingum ókeypis aðgagng að gagnanetinu frá 25. nóvember. Allir sem hafa yfir að ráða módaldi geta fengið aðgang með því að hringja í tiltekið númer í Washington. Notendur þurfa aðeins að skrá sig og óska eftir aðgagngsnúmeri. Hægt er að óska eftir númerinu með því að senda fax í nr. (202)387-5446 eða hringja í síma (202)387-5445. Nokkur töf kanna þó að verða á afgreiðslu þar sem búist er við miklum fjölda beiðna um lykilorð, segir í frétt frá Internet.
Morgunblaðið 28. október 1993
Já, þetta er furðufréttin úr Mogganum. Hún vakti talsverð viðbrögð á ráðstefnunni ismennt.almenn á Íslenska Menntanetinu og einhver skrifaði þar að hann hefði talað við blaðamanninn sem skrifaði greinina og sá hefði lofað leiðréttingu og ítarlegri umfjöllun. Mér vitanlega hefur sú leiðrétting ekki birst ennþá.
Ég er nú enginn sérfræðingur í málefnum Internets, en veit þó að hagstæðara er að tengjast því í gegnum Íslenska Menntanetið en að hringja í eitthvert númer í Washington!!
Annars er geysilega mikið að gerast í málefnum Internet um þessar mundir. Fjölgun notenda er gífurleg um allan heim og æ erfiðara verður að halda viðskiptahagsmunum og auglýsingamennsku frá netinu, en frá fornu fari hefur verið amast við slíku.
Fyrir nokkrum mánuðum póstaði ég á ismennt.almenn langa grein um Internet sem kom frá Associated Press og fyrir fáeinum vikum var forsíðugreinin í Newsweek um Internet.
Starfsemi þessa furðulega fyrirbæris sem Internet vissulega er vekur æ meiri athygli meðal almennings og ég hef reyslu fyrir því að margir halda mann beinlínis ljúga þegar verið er að lýsa þeim möguleikum sem netið býr yfir og hve lítill kostnaður fylgir því í raun að nýta sér þá.
Mín skoðun er að Internet muni halda áfram að vaxa næstu ár og innan skamms muni viðskiptaaðilar smám saman leggja það undir sig. Það þarf þó alls ekki að þýða nein endalok þeirrar starfsemi sem nú fer þar fram en áreiðanlega mun margt breytast. Það verður gaman að fylgjast með þeirri byltingu sem stóraukin og sífellt almennari notkun Internets eða annarra hliðstæðra alþjóðlegra tölvukerfa á eftir að valda á mörgum sviðum á næstu árum.
Sæmundur Bjarnason
FLAKKAÐ UM INTERNETIÐ
ANNAR HLUTI
Ég vona að lesendur Rafritsins hafi haft gagn og gaman af fyrstu grein minni sem kom í síðasta Rafriti. Ég veit vel að sumir þeirra sem lesa þetta hafa oft farið á ftp staði og náð í skrár eða forrit, eða gopherað og leitað í ýmsum söfnum. Samt getur komið ýmislegt áhugavert upp úr svona flakki.
Lesendum Rafritsins er frjálst að skrifa mér e-mail bréf ef þeir óska eftir svörum við einhverju sérstöku.
Jæja þá er að byrja.
****** Vonandi skemmi ég ekki skósólana á öllu þessu flakki :-) ******
1. Mér datt í hug hvort að ekki hægt væri að nota .wav hljóðskrár fyrir windows þrátt fyrir að hafa ekki hljóðkort í tölvunni hjá mér. Því leitaði ég að driver sem gæti gert þetta mögulegt.
Í skel ($) telnet archie.funet.fi (sem er client server)
login: archie
prog sp (sem stendur fyrir speaker á tölvum) (prog er einfaldast) Úps... þetta gaf alltof mikið og skrollaði allt niður skjáinn dálitla stund.
Ég reyndi aftur:
prog speak.exe (mér var búið að detta í huga að forritið hefði eitthvað með sp í en vildi bara vita hvað kæmi út úr fyrri leit)
Upp komu þrír staðir sem bjóða upp á forritið.
Ég gaf því næst skipunina quit og kom þá aftur inn í skel.2. Því næst var að ná í speak.exe sem er sjálf sprengjandi skrá
(self extract able file)
Í skel ($) ftp nic.funet.fi (þetta er stór staður sem bíður upp á mikið
login: anonymous af dos og windows skrám og forritum)
Password: (nota þitt netfangs nafn)
cd /pub/msdos/windows/sound
ls (sem er sama og dir sem er líka hægt að nota)
get speak.exe (speak.exe fer yfir á tölvu menntanetsins og síðan verður að sækja hana heim á venjulegan hátt en muna eftir að setja kermit á binary ham á heimatölvunni fyrst)3. Eftir þetta er að bæta við .wav skrárnar og bíður þessi ftp staður tld. upp á þó nokkrar .wav skrár í .zip skrám. cd.. (fer til baka um eitt dir í windows directory).
cd wav
ls (eða dir) (sjá ágæta grein eftir Tryggva Jónsson í síðasta Rafriti um Unix skipanir)
og til dæmis:
get sorry.zip (sendir þá ftp staðurinn skrána á tölvu menntanetsins, þaðan þarf að ná henni á heimatölvu og er síðan hægt að opna hana með pkunzip.exe)
4. Af hverju ekki að ná í nokkrar bitmaps skrár í leiðinni? dæmi:
cd.. (til baka)
cd bmp
ls
get bart.zip (þetta er skemmtileg teikning af Bart Simpson og er hægt að láta hana koma fyrst upp þegar farið er í windows)
bye
Nóg um ftp í bili.5. Upplýsingar um áskrifendalista (skrifað á ensku og íslensku)
Ég ráðlegg öllum að gerast EKKI áskrifendur á of mörgum listum! Slíkt getur fyllt pósthólfið af allsskonar skrám og gæti tekið langan tíma og vinnu að skoða skrárnar allar og henda úr því sem er ekki áhugavert. Fyrir þá sem hafa áhuga á áskrifendalistum er best að velja aðeins þá sem mestur áhugi er fyrir!
Hægt er að fá upplýsingar um einhvern ákveðinn Revised LISTSERV með: SUBSCRIBE
Þú getur einnig fengið sent hjálp frá LISTSERV dæmi:
Water
Resource: LISTSERV
Address: aquifer@bacsata
(discusses pollution and groundwater rcharge. To subscribe, address a message in th following manner:
To: LISTSERV@ibacsata
From:
Subject: LISTSERV ignores this
HELP aquifer(sem einu línuna í bréfinu) Einnig er hægt að nota ýmsa valmöguleika: SIGNOFF
(hættir sem áskrifandi)
info ?(færð sendann til baka lista yfir valmöguleika á LISTSERV
LIST (gefur nöfn á mögulegum listum í LISTSERV)
6. Ná í áskrifendalista (skrifað á ensku og íslensku hér)
a. KVIKMYNDIR
Resource: LISTSERV
Address: film-l@itesmv1
Þessi listi er um kvikmyndagerð og umsagnir um kvikmyndir. Til að gerast áskrifandi, sendu skilaboð þannig:
To: LISTSERV@itesmvf1
From: (your address)
Subject: LISTSERV ignores this (Efni: aðeins þessi eina lína í
SUBSCRIBE film-l (firstname) (lastname) skjalinu og ekkert meira)
b. SOUND CARDS
Resource: LISTSERV
Address: ibmsnd-l@brownvm.brown.edu
This is a forum for the discussion and support of sound cards. To subscribe, address a message in the following manner: To: LISTSEV@brownvm.brown.edu
From:(þitt e-mail nafn)
Subject: LISTSERV ignores this (og þarf ekkert að setja hér)
SUBSCRIBE ibmsnd-l
7. Því næst fór ég í gopher og valdi:
fyrst --> 10. Þjónusta á Internet/
svo --> 3. Ýmsir Gopher-þjónar (á ensku)/
svo --> 7. USDA/CYFER-NET resources/
svo --> 8. Other Gopher and Information Servers/
svo --> 5. Search titles in Gopherspace using veronica/
svo --> 8. Searching veronica at NS... (betra en PS..) by keywords >
(Hér má alveg eins velja einhverja af hinum valmöguleikunum)
Ég valdi þrjú orð til að leita að:
a) languages, sem kemur upp með 12 blaðsíðum af deildum (dir) þar sem hægt er að velja ýmislegt varðandi tungumál.b) aids, sem kemur upp með fullt af skrám um sjúkdóminn aids (ég leitaði einnig með aids life expectancy og komu þá upp .txt skrár þar sem getið er um líflíkur á sjúkdómnum aids.
c) cars, sem kemur upp með nokkrar blaðsíður af skrám um bíla og valdi ég þar tildæmis:
--> 26. British Racing cars... (þessi skrá er dálítið löng og ekki hentugt fyrir þá sem hafa frekar hægvirk modem að bíða eftir að hún komi upp)
Hægt er að velja fleira en eitt orð í einu með leit í veronica.Endir.
Í næstu grein verður farið inn á ýmiss Freenet, farið á ftp staði og náð þar í forrit og/eða skrár.
Guðni Karl Harðarson
UM STAFATÖFLUR OG ÞÝÐINGAR.
Á föstudags IRC-fundunum hef ég stundum legið undir ámæli fyrir að nota svo fornaldarlegt fyrirbæri eins og Kermit.
Ég verð að játa það að allt síðan ég tengdist fyrst Menntanetinu þá hef ég mestmegnis notað Kermit, jafnt til skráarflutninga sem annars. Mér hefur hvað eftir annað verið sagt að þetta sé afskaplega hægvirkt og ófullkomið forrit en samt hef ég haldið áfram að nota það. Ég er þó að mestu hættur að taka stórar skrár niður með Kermit.
Með skipuninni "Set packet-length" má stækka pakkana sem Kermit flytur og auka hraðann lítilsháttar með því. En það er greinilegt að flutningshraðinn með þessu forriti er afskaplega lítill.
Í upphafi var aðalástæðan fyrir því að ég notaði Kermit sú að það var með innbyggða stafatöfluleiðréttingu þannig að ég sá íslenska stafi með því á Ísmennt.
Stafatöflur er auðvelt að setja á t.d. Telix og Pcplus en sá galli er á gjöf Njarðar að þær virka ekki á skráarflutninga eins og Kermit gerir ef notaður er svokallaður kermit-flutningur. Ég tek einmitt oft í allstórum slumpum ráðstefnugreinar, póst og fleira á íslensku þannig að þetta hefur verið svolítið vandamál. Ef ég hef þurft að breyta skrám að þessu leyti þá hef ég oftast notað Word fyrir Windows, en ég hef ekki aðgang að því nema í vinnunni þannig að það hefur ekki hentað vel.
Björn Davíðsson á Ísafirði sagði mér fyrir nokkru frá íslensku forriti sem hann ætti sem héti stafir.exe og væri til þess að þýða á milli allra þeirra stafatafla sem í notkun eru hér á Íslandi. Því miður var hann búinn að týna sínu eintaki af þessu ágæta forriti svo ég vildi gjarnan vita hvort einhver þekkir þetta forrit og getur vísað okkur á það.
Á IRC-fundinum föstudaginn 5. nóvember s.l. kom þetta til tals og þá sagði einn af þátttakendunum þar Albert Pétur Einarsson frá því að hann væri nýbúinn að gera forrit sem þýddi milli Unix og DOS. Ég spurði hann þá hvort hann gæti látið mig hafa það og skrapp hann þá út af ráðstefnunni en kom fljótlega aftur og lét mig fá forritið með DCC flutningi (sjá nánar um DCC flutninga í RR nr. 2).
Ég er nú búinn að prófa þetta forrit og það virkar ágætlega. Það er mjög einfalt í notkum, aðeins þarf að gefa skipunina unix-dos eða dos-unix eftir því sem við á ásamt nafni á innskrá og útskrá. Ef tilgreint nafn á frálagsskrá er til fyrir spyr forritið hvort skrifa eigi ofan í hana.
Auðvelt er að búa til nýjar þýðingartöflur fyrir forritið því þær eru einfaldar textaskrár. Forritið er svolítið seinvirkt en ekki til baga nema unnið sé með þeim mun stærri skrár.
Þeir sem vilja geta nálgast þetta forrit sem heitir thyda.zip á Stöð 2 BBS svæði nr. 9 ÍSLENSK FORRIT.
Sæmundur Bjarnason
SVOLÍTIÐ UM UNIX
Annar hluti
Nokkur orð um skeljar.
Skel, hvað er nú það? Það er von að einhver spyrji. Það eru ekki margir sem vinna dagsdaglega í "skeljum" eða hvað? Er ekki skel bara eitthvað sem við tökum ekki eftir? Nokkur almenn atriði um skeljar: Stundum er talað um hvarf innan forrits "út" til stýrikerfisins sem skel. T.d. í DOS-forritum er oft hægt að fara "út í DOS" og kemur þá skipanalína og möguleikinn á að gefa skipanir þar þangað til slegið er inn "exit". Þá er horfið aftur til forritsins. Hvað er þessi DOS-skel? Lítum á hvað tölvan gerir í raun þegar "DOS-skel" er ræst á slíkri vél. Vélin kallar á forrit sem heitir "command.com" (oft erum við búin að sjá þetta nafn ...). Í þessari skrá eru svo skilgreiningar á skipunum eins og dir, cd og del. Einnig þessi frægu boð: 'Bad command or filename'. Glöggir DOS-arar hafa sennilega tekið eftir því að í \DOS skráasafninu eru skrár fyrir margar skipanir stýrikerfisins t.d. xcopy, backup o.fl. en ekki þessar grunnskipanir. Þar kom útskýring á því. Ekki er óalgengt að keyrt sé upp eitt eintak af command.com í autoexec.bat eða config.sys t.d. eitthvað þessu slíkt:
SHELL=C:\DOS\COMMAND.COM C:\DOS\ /p
^^^^^ Shell er jú skel. Einnig er sami hlutur í Windows. DOS prompt/DOS skipanalína sem er oft einhversstaðar í Main-glugganum er hvarf til stýrikerfisins, þarna eru komin smásvipur sem líkist *aðeins* unix-hugtakinu sem ég kem að næst. Nú þegar ljóst er hvað skel er þá er best að fara út í unix-skeljar og mismunandi gerðir þeirra. Aðeins ætla ég að fara út í almenna notkun EKKI svokallaða "skelritun" þar sem gerð eru "skelrit" sem eru í raun ágætis forritunarmál... Hvað gerist þegar notandi loggar sig inn á unix vél? Jú það er byrjað á því að keyra upp skel (á ÍM er það tcsh) síðan er (á vélum ÍM) keyrt upp valmyndakerfi (lush). Í valmyndinni er gefin kostur á að "fara út í skel" þá er keyrð upp skel sem heitir 'sh'. Stöldrum aðeins við hér. sh og tcsh (eða csh). (t)csh er skel alveg eins og sh NEMA í skelritun er hægt að nota C form á skelritin (nota { og } í stað begin og end (sbr. pascal)). Annar er ekki munurinn. Sjánlegur munur er á þessu tvennu sem telst til uppsetningaratriða. Þegar kerfið er kvatt (farið úr valmynd) kemur kvaðning þessu lík:
[akureyri]/sarpur/users/trigger[103]>
auðvitað mismunandi eftir vél og login-nafni. Talan [XXX] stendur fyrir hve margar skipanir búið er að gefa í þessari skel. Aftur á móti er $ í sh. allt þetta ..../users..... dót er bara fyrir þá sem villast oft í skráakerfinu :-) (kemur fyrir alla) eins og í DOS kemur:
X:\NOTENDUR\TRIGGER\ADMIN\>
[Gaman að benda á þann mun að í unix er notað /
á milli skráasafna en í DOS er notað \]
Allar skipanir sem ég var að tala um í síðustu grein eru gefnar úr skel (hvaða skel sem er) og þegar ég vitna til einhverra unix-skipana þá á ég við slíka skipun. Hvað er nú hægt að gera með svona skel? Jú ræsa upp forrit, gefa skipanir (m.a.) og hvernig er hægt að fá nýja skel? Nú skulum við fara í svolítið skemmtilegan hlut sem heitir "job-control"Hægt er að vera með margar skeljar í einu og láta þær vinna mörg verk í einu. Alveg eins og þeir sem eru með Xwindows geta verið með marga glugga í einu þá er "job-control" (eins og einhver sagði) "glúrið trick" fyrir þá sem eru bara með einn glugga og var mikið notað áður en gluggakerfið kom til sögunnar. Hvernig er þetta nú gert? Tökum einfalt dæmi. Ég logga mig inn og fer í nn. Allt í einu kemur "talk"-beiðni frá öðrum notanda. Og í stað þess að fara út úr nn (og missa niður það sem ég var að lesa...) þá geri ég *CTRL-Z* þá kemur [akureyri]......]> og ég get svarað "talkinu" eða gert hvað sem er. Segum svo að ég fari í elm í stað þess að svara "talki". Ennþá er nn í backgrunni. Hvernig er hægt að nálgast það? Verið í skel [gefa úr elm annað CTRL-Z] og gefið skipunina "jobs"
. Kemur þá listi yfir öll verk sem verið er að vinna (allar skeljar sem eru í gangi) og lengst til vinstri er númer (mikilvægt atriði!!) og það er síðan notað til að komast aftur í skelina. Í dæminu hér á undan ætti þetta að vera eitthvað svona:1 nn
2 elm
[það kemur fleira í "jobs" en ég er bara að benda á aðalatriði] og notum síðan skipunina fg til að komast "til baka" Formið á þeirri skipun er: fg %n þar sem n er númer skeljarinnar sem kemur í jobs. Ef ég vil fara aftur í nn þá geri ég einfaldlega:
fg %1
og kem þá að nn eins og það var. Hægt er að vera með margar skeljar í gangi í einu og hef ég ekki rekið mig á nein galla við þetta nema að IRC tekur þessu MJÖG illa. Fyrst tók IRC alls ekki við sér þegar ég gerði CTRL-Z :-( Þá var mér bent á af fróðum mönnum að gera /load disc og HVAÐ GERIR ÞAÐ NÚ? Skipunin /load í irc "hleður upp" ýmis script sem gefa t.d. bætt við skipunum eða ræst sjálfvirka svörun við einhverju. Alveg hættulaus með þessu. :-) Samt á IRC skjárinn til að brenglast eftir langa fjarveru. Job control er mjög hentugt og býr til hámarksfjölda af "aukaferlum" [meira um ferla (processes) í næstu grein]. En einföld regla:
margir ferlar = mikið notað minni
Önnur aðferð sem ég lærði af öðrum notanda frá Akureyri: senda BREAK-merki til hinnar tölvunnar. Þetta er eingöngu hægt (að ég best veit) í DOS-kermit og er gert svona: alt+h (og síðan) b eða beint á alt+b. Þegar þetta er gert kemur upp önnur kvaðning en í job-control. En það er: IMnet2> en þetta er skjáþjónskvaðning og gefur notandanum kost á að velja vél. Þá þarf að velja vél, loginnafn og lykilorð. Berum að gammni okkar saman þessar tvær aðferðir segjum að við séum í nn og veljum þá nýja skel til að svara pósti í elm.
Með job-control Með BREAK-aðferð
CTRL-Z ALT-B eða ALT-H,B
elm velja vél t.d. una
gefa upp loginnafn t.d. gestur
gefa upp lykilorð t.d. XXXXXX :-)
gefa upp vélargerð t.d. p fyrir PC
[fá upp valmynd og velja] P(óstur)
P(c póstur) eða M(ac póstur)(VAR)E[lm] fyrir elm
Er þetta ekki miklu aðveldara að nota hluti sem eru innbyggðir í unix-stýrikerfið? Það finnst mér. NB. ég segi [VAR] við Pc póstur eða Mac póstur því nýja valmyndin á víst ekki að spyrja af þessu. Tvær aðgerðir á móti 8 eða 9 ? Einnig verða til aukaferlar (3-4) þegar BREAK-aðferðin er notuð.
Næst: ferlar og meðferð þeirra.
Tryggvi R. Jónsson
trigger@ismennt.is
FÓTMÆLI
Í síðasta blaði var smágrein um bréfafætur og spakmæli. Þetta er nokkurs konar framhald. Lesendur eru hvattir til að koma á framfæri snjöllum fótmælum sem þeir kunna að eiga í fórum sínum.
Hér eru nokkur ný fótmæli.
Sælir er unglingarnir því þeir munu skuldirnar erfa.
Stöðugar breytingar eru komnar til að vera.
Skerðu pizzuna í 6 sneiðar, ég get ekki borðað 8.
Windows 3.0: kemur frá fólkinu sem færði þér EDLIN.
Windows 3.1: flottasti kapall sem ég hef séð.
Sega og Nintendo ætla að sameinast. Nýja fyrirtækið á að heita Windows NT.
SYSTEM ERROR: Ýttu á F13 til að halda áfram.
Það er lífshættulegt að verða gamall.
Mánudagar eru rót alls ills.
Ekkert er svo einfalt að ekki sé hægt að klúðra því.
Nú, þegar ég hef gefið upp alla von, líður mér miklu betur.
Þegar þú ert farinn að skilja hvernig tölvan þín vinnur, þá er hún orðin úrelt.
Frestaðu því aldrei til morguns sem þú getur alveg eins gert hinndaginn
Samkvæmt lögmáli Arkímedesar léttist hlutur sem settur er í vatn um þriðjung þeirrar vegalengdar sem er auð og hindrunarlaus framundan.
Bannið ruslpóst og bjargið trjánum.
Láttu mig vita ef þú hefur ekki fengið þetta bréf.
Framtíðin er eins og nútíðin, nema lengri.
Enginn sleppur lifandi frá lífinu.
Númerið sem þú hringir úr hefur verið aftengt.
Sæmundur Bjarnason