5. tbl. 30. september 1993 1.  árg.

EFNISYFIRLIT

  1. Frá ritsjóra.

  2. Mislitir Horgemlingar. Sverri Páli Erlendssyni svarað. Sæmundur Bjarnason.

  3. Sitthvað um geisladiska. Björn Davíðsson.

  4. Að skrifa á Usenet - framhald. Sæmundur Bjarnason.

  5. Saga af umboði. Tryggvi R. Jónsson.

  6. Um pappír og fleira skylt.Sæmundur Bjarnason.

  7. QWK póstritillinn. Björn Davíðsson.

  8. Hjálp - Hvernig á að eyða "line-feed" merkjum úr ASCII texta. Sæmundur Bjarnason.

  9. PC-Home - blað og disklingur. Tryggvi R. Jónsson.

  10. Dálítið um Usenet og Gopher. >Sæmundur Bjarnason.

  11. Um IRC-fundinn 17. september s.l. Sæmundur Bjarnason.


FRÁ RITSTJÓRA

Þá er komið að því að fylgja 5. tölublaði Rafritsins úr hlaði. Engin leið er víst að vita hve mikla útbreiðslu ritið hefur á Íslenska menntanetinu, þ.e.a.s hve margir lesa það. Hinsvegar er auðvelt fyrir mig að sjá hve margir sækja það á Stöð 2 BBS. í dag 27. september eru tölurnar þannig:

1. tölublað 38
2. tölublað 43
3. tölublað 39
4. tölublað 29

Síðan veit ég að hægt er að nálgast það á að minnsta kosti einu BBS-i til viðbótar.

Ekki eru það mjög margir sem kæra sig um að fá ritið í pósthólfið sitt.

Eftirtaldir eru þó á póstlistanum rafritid:

brl Björgvin Rúnar Leifsson
ingimarr Ingimar Róbertsson
sigbern Sigurður Bernhard Finnsson
snerpa Björn Davíðsson
trigger Tryggvi R. Jónsson
bjarnisa Bjarni Sæmundsson
gudmb Guðmundur Bjarnason
runjul Rúnar Júlíusson
prasm Pétur Rasmussen
saemund Sæmundur Bjarnason
gkh Guðni Karl Harðarson
atli Atli Harðarson
harpa Harpa Hreinsdótti
r gustav Gústav K Gústavsson

Hver sem er getur skrifað á þennan póstlista og er það gert nákvæmlega eins og um væri að ræða venjulegt netnafn. Þannig má vel taka upp umræður um eitthvert tiltekið efni í blaðinu og stíla bréfið á rafritid og þá fer það til allra sem eru á þessum lista.

Já, vel á minnst. Netnafn. Ég hef tekið eftir því að stundum tala stjórnendur Ísmennt um verknúmer og eiga þá við það sem ég hef eiginlega vanist að sé nefnt login-name á ensku. Mér finnst bæði þessi nöfn ónothæf og legg til að í stað þeirra verði tekið upp orðið netnafn fyrir fremsta hluta netfangsins.

Þá væri "saemund" netnafnið mitt en "saemund@ismennt.is" netfangið mitt.

Hvað finnst fólki um þetta?

Í síðasta blaði voru nokkur atriði varðandi skráarflutninga og það að skrifa á Usenet ráðstefnur sem skoða mátti að nokkru leyti sem gagnrýni á Íslenska Menntanetið. Af því tilefni hafði ég samband við stjórnendur þar með fyrirspurn um það hvort frá þeim væri að vænta einhverra viðbragða. Svo var ekki og þess vegna verð ég að mæla með því að fólk skrifi stjórnendunum beint ef það vill fá svör við þeim spurningum sem velt er upp hér í ritinu og varða Íslenska Menntanetið.

Sorglega fáir hafa brugðist við þeirri áskorun minni að senda blaðinu efni og þess vegna verð ég að endurtaka þá áskorun mína hérna. Það er alls ekki nógu gott að ég neyðist til þess að skrifa mestallt efnið sjálfur.

Það efni sem hefur borist, bæði í þetta blað og fyrri, hefur þó verið alveg ágætt eins og lesendur hafa getað séð og ég þakka höfundum þess kærlega fyrir þann áhuga sem þeir hafa sýnt blaðinu. Margir fleiri hafa líka orðið til þess að hrósa þessu framtaki en samt er óhjákvæmilegt að saga blaðsins verður ekki löng ef höfundum efnis heldur áfram að fækka.

Sæmundur Bjarnason

Til baka í efnisyfirlit.


MISLITIR HORGEMLINGAR

Sverrir Páll Erlendsson kennari á Akureyri, skrifaði fyrir nokkrum dögum ágæta grein á ráðstefnusvæðið ismennt.visur. Í upphafi greinarinnar kvartar hann undan því að ekki skuli vera til neitt ráðstefnusvæði fyrir bókmenntir almennt.

Þetta umkvörtunarefni skil ég alls ekki. Mér finnst ekki skipta neinum sköpum hvað ráðstefnusvæðin á Ísmennt heita sem skrifað er á. Ég er sannfærður um að þeir sem á annað borð fylgjast með íslenskum ráðstefnum á Ismennt fylgjast með þeim öllum og þessvegna er alveg óþarfi að vera að binda sig við það hvaða ráðstefnusvæði stjórnendum netsins hefur dottið í hug að búa til.

Ef þessi ráðstefnusvæði væru farin að slaga í Usenet-stærð, sem sagt er að "velti" 50 - 100 megabætum á dag þá mundu nöfn ráðstefnanna skipta miklu máli. En á meðan þátttakan í ráðstefnum á Ismennt er af þeirri stærðargráðu sem raun ber vitni þá sé ég ekki að nöfnin skipti neinu verulegu máli. Ef það sýndi sig að mikið væri skrifað um eitthvað annað en nafnið gæfi til kynna væri hægur vandi að skipta ráðstefnunni í tvennt. Eins og nú er, þá er fjöldi ráðstefna á Ísmennt sem ekki hefur verið skrifað neitt á í marga mánuði.

Sverrir Páll birtir einnig í grein sinni eftirfarandi úr Morgunblaðinu frá 18. september s.l og er bálkur þessi eftir Björgvin Magnússon:

Og Sverrir Páll lætur eftirfarandi umsögn fylgja:

"Verður nú ekki lengur efast um að hefðbundinn kveðskapur með stuðlum og höfuðstöfum og endarími í nokkurri reglu stendur nútímakveðskap og því óstuðlaða bulli sem það kallar ljóð framar mjög. Einbeitni, beinskeytni og innihaldsheildarmagn efnis að viðbættri lipurð, orðsnilld og samhengi, samþjappaðri visku og speki lýsir hér sem sól í svartnætti. Það er mikill fengur íslenskri kvæðamenningu að af og til skuli henni bætast verk sem þessi.

Hef ég svo ekki um það fleiri orð að sinni."

Og lýkur hér tilvitnun í orð Sverris Páls.

Ég hef það fyrir satt að Snorri heitinn Sturluson í Reykholti hafi fyrstur Íslendinga sett fram í rituðu máli þau einföldu sannindi að oflof sé háð.

Engum blöðum þarf um það að fletta að hér er um oflof og því háð að ræða. En af hverju? Hvað er það sem gerir þennan samsetning svo mikilvægan? Er það vegna þess að "blað allra landsmanna", sem Sverrir Páll nefnir svo, birtir þetta? Kom þetta eitthvað illa við hann af sérstökum og ónefnanlegum ástæðum? Fór Sverrir Páll bara með vitlausan fót á undan fram úr rúminu daginn sem hann skrifaði þetta? Einhverra hluta vegna telur hann mikilvægt að vekja sérstaka athygli á þessu. Þetta fór t.d. alveg framhjá mér þangað til ég sá það á Ísmennt.

Sverrir Páll skuldar lesendum sínum skýringar á þessu og ég mun bíða spenntur eftir að hann útskýri þetta allt saman fyrir mér.

Á meðan ekkert kemur fram sem skýrir og réttlætir þessa árás hans á nafngreindan mann þá verð ég að lýsa þeirri skoðun minni að mér finnst hún ódrengileg.

Sæmundur Bjarnason

Til baka í efnisyfirlit.


SITTHVAÐ UM GEISLADISKA.

Það er mörg mismunandi hugtök og staðlar sem fylgja notkun á CD-drifum. Verður hér gerð grein fyrir þeim stöðlum sem í gildi eru í dag og hugtökum þeim tengdum:

CD-Audio:
Geislaplatan sem allir þekkja núorðið og allt byrjaði á. Þvermál disksins er 12 cm eða 4,72". Getur geymt hágæða hljóðupptökur að 70 mínutna lengd, en ef notast er við hljóðupptökur með minni gæðum má ná allt að 100 mínútna spilunartíma á þessum diskum.

CD-Graphics:
Venjuleg geislaplata, sem inniheldur að auki myndir og texta sem skoða má á sjónvarpsskjá um leið og tónlistin er spiluð. Þarf að sjálfsögðu sérstakan spilara fyrir þennan staðal.

CD_ROM:
Geisladiskur. Stendur fyrir "Compact Disk Read Only Memory". Algengasta form geisladiska fyrir tölvu (þegar þetta er skrifað) Þessir diskar geta geymt allt efni sem hægt er að geyma á disk- lingi, þ.e. forrit, gögn, myndir á tölvutæku formi. Þessa diska þarf að lesa með geisladrifi sem gert er til tengingar við tölvu og taka þeir allt að 650 megabæti. Það samsvarar texta sem er um 300.000 bls af vélrituðum A4 blöðum. Diskurinn er 17 grömm en A4 blöðin vega um 1300 kg! Diskarnir eru forsniðnir eftir staðli er heitir ISO 9660 sem gerir það mögulegt að lesa þá með mismunandi tegundum geisladrifa.

CD-ROM XA:
Stendur fyrir "Compact Disk Read Only Memory Extended Architect- ure". Útvíkkun á ISO 9660 staðlinum. Með XA-disk er mögulegt að nýta sér nokkuð af CD-I tækninni í PC-umhverfi. XA er einskonar millistig milli CD-I og "venjulegs" CD-ROM. Þetta kerfi krefst nýs stýrispjalds í tölvuna en hægt er að notast við sama drif og gengur fyrir CD-ROM (sem er yfirleitt merkt "CD-XA compatible"). Þegar þetta er skrifað eru þó einungis Hitachi, Philips og SONY sem geta afgreitt XA-stýrispjöld fyrir drif sín. Hægt er að nota venjulega CD-ROM diska í þessi drif einnig. Aðeins eru mjög fáir diskar á markaði með þessum staðli.

CD-I:
Stendur fyrir "Compact Disk Interactive", kerfi sem þróað er af Philips, SONY og Matsushita. CD-I er geisladiskur í drif sem eru beintengd sjónvarpi og er aflestri stýrt með fjarstýringu eða þá með mús. Með þessu kerfi er í raun hægt að setja myndefni, þ.e. videoefni á geislaplötu, svokallað "FMV - Full Motion Video".

DVI:
Stendur fyrir "Digital Video Interactive". Þetta kerfi var fyrst þróað af General Electric, en nú hafa tekið við því fyrirtækin Intel, Microsoft, IBM og Olivetti. CD-ROM diskur sem er með mynd og hljóði í svo þjöppuðu formi að um klukkutíma efni kemst fyrir á hverjum diski. Kerfið getur notað venjuleg CD-ROM drif en sér- stakt stýrispjald þarf til að afþjappa myndefnið. Reiknað er með að þetta verði mest notað til kennslu og sýninga á fræðsluefni í skólum. Vélbúnaður er fáanlegur nú þegar en titlar eru fáir.

Commodore CDTV:
Stendur fyrir "Commodore Dynamic Total Vision". Amiga tölva með innbyggðu CD-ROM. Diskar í drifið eru framleiddir eftir ISO 9660 staðlinum, en þurfa að vera sérmerktir CDTV til að geta notast í þessi drif. Gefur möguleika á gagnagrunnum, sem notast við les- mál, myndir, grafík, teiknimyndir (animation) og jafnvel hljóð. Tengist sjónvarpi og er hægt að bæta ýmsum möguleikum við grunn- eininguna, svo sem lyklaborði, diskettudrifi o.fl. og notast þá jafnvel sem venjuleg einkatölva.

MPC:
Stendur fyrir "Multimedia PC" eða margmiðlunarpési. Þessi skamm- stöfun er einskonar "stimpill" frá Microsoft og fleirum og þýðir ákveðna lágmarkssamsetningu af vélbúnaði en hún samanstendur af eftirfarandi: 386sx/16Mhz tölva, 2 mb innra minni (RAM), geisla- drif með ekki meiri meðalsóknartíma en eina sek. (1000 msec.) og Windows, útgáfu 3.0 eða nýrri. Ennfremur hefur bæst í hópinn það sem er ómissandi fyrir leikjafíkla, þ.e. hljóðkort.

Photo-CD:
Stendur fyrir "Photo Compact Disc". Sameiginlegt verkefni Kodak og Philips í að búa til staðal til að geyma ljósmyndir á geisla- disk í stafrænu formi. Þannig eru ljósmyndir á geisladiskum mjög skarpar, skarpari en sjónvarpsmynd er í dag, en kemur til með að nýta sjónvarpstækni sem kemur á markaðinn innan fárra ára, sem á að koma í stað blandaðra sjónvarpskerfa, svokallað "HDTV" sem er skammstöfun fyrir "High Definition TeleVision". Hægt er að skoða myndirnar með sérstöku drifi frá Kodak, CD-I drifi sem tengt er sjónvarpi eða öðru drifi sem hefur verið samhæft þessu kerfi. Er þá nauðsynlegt að drifið ráði við "multisession" diska.

Multisession:
"Multisession" eða "smáskammtar" er krafa sem gerð er til drifa sem eiga að geta lesið svokallaða "PhotoCD" frá Kodak eða mynda- diska. Þessir diskar eru diskar sem hægt er að "taka upp á" með sérstökum geislaspilara og á þá eru settar ljósmyndir í stafrænu formi samkvæmt forskrift frá Kodak. Þar sem venjulega eru fram- kallaðar 24 eða 36 myndir í hvert skipti er sá myndafjöldi stærð hvers "skammts" sem settur er á geisladiskinn í einu. Við næstu framköllun er bætt nýjum skammti á diskinn þangað til að hann er orðinn "fullur". En þar sem á diskinn er bætt í nokkrum áföngum er nauðsynlegt að drifið geri ráð fyrir þeim möguleika að það sé sett meira efni á diskinn síðar meir. Venjuleg drif geta þannig aðeins lesið fyrsta "skammtinn" af myndum. Að öðru leyti virkar kerfið svipað og CD-I, nema einungis er um kyrrmyndir að ræða. Á hverjum diski komast fyrir um 100 myndir í dag.

Björn Davíðsson

Til baka í efnisyfirlit.


AÐ SKRIFA Á USENET

Framhald.

Ekki var liðinn langur tími frá því að ég sendi 4. tölublað Rafritsins á vit örlaganna (var þetta ekki nokkuð gott hjá mér?) þegar sonur minn, Bjarni (bjarnisa@ismennt.is) benti mér á að ég gæti auðveldlega sent innlegg á ráðstefnur í gegnum póstinn. Hann sagði mér að prófa að senda á rec- games-chess@cs.utexas.edu og það eina sem ég þyrfti að gæta að væri að setja mínusa í staðinn fyrir punkta í nafninu á ráðstefnunni. Ég trúði því nú varla að þetta gæti verið svona einfalt eftir allt mitt strit og fjölda fyrirspurna til stjórnenda Ísmennt, en þetta reyndist hárrétt og nú er þetta mál leyst hvað mig snertir þó auðvitað væri ágætt að geta sent þetta á venjulegan hátt og að geta svarað beint á netinu.

Fyrsta innleggið sem ég sendi á þennan hátt kom fljótlega fram á Ísmennt og þegar ég gáði nokkru seinna á Gopherinn þá var það líka þar, svo augljóst var að það dreifðist bæði fljótt og vel.

Það var svo á mánudagskvöldið 20. september sem ég sendi mitt annað ráðstefnuinnlegg, en þá fór ekki alveg eins vel. Í ráðstefnupósti sem ég hafði náð í kvöldið áður hafði ég séð að einhver var að spyrja um númer hvað á Elo- stigalistanum Viswanathan Anand væri og hve gamall hann væri orðinn (nr. 3, 23 ára) og Kenneth Sloan einn helsti sérfræðingur r.g.c. í Elo málum hafði svarað og birt lista yfir 100 stigahæstu skákmenn heimsins. Nokkru seinna hafði komið fram athugasemd um að eitt nafn á listanum væri tvítekið. Þar sem ég er svo menntaður í DOS-fræðum að ég kann næstum því (þarf aðeins að kíkja í leiðbeiningarnar) að nota DOS skipunina Sort þá renndi ég henni á listann til að setja hann í stafrófsröð og sá þá strax að tvítekningarnar voru 3.

Þarna var semsagt komið ágætis tækifæri til þess að láta ljós sitt skína svo ég setti saman smáklausu um þetta og reyndi svo að hringja inn á Ísmennt. Það gekk nú heldur illa og það var ekki fyrr en eftir látlausar tilraunir í næstum klukkutíma að ég náði loksins sambandi.

Una var ekki í sem bestu skapi og svaraði í styttingi:

/: write failed, file system is full.

og til það þetta færi nú alls ekki framhjá mér endurtók hún þetta þrisvar. Þegar ég ætlaði svo að velja P til að segja henni að ég væri með Pésa þá svaraði hún um hæl: "Röng skjágerð, reyndu aftur." Ég reyndi aftur og aftur en án árangurs og svo datt mér í hug að prófa að velja M (fyrir Makka) og A (fyrir Archimedes, eða var það Amiga?) en allt kom fyrir ekki Una hélt sig við það að allt væru þetta rangar skjágerðir. Þá ætlaði ég að gefast upp og valdi Q (fyrir quit) og þá loksins komst ég inn í valmyndakerfið gamla og (góða). Já, vegir Ísmennt eru órannsakanlegir.

Pósthólfið var fullt (40-50 bréf) eins og verið hefur undanfarna daga. Ég er eiginlega alveg að gefast upp á þessu og þó þetta sé reyndar allt önnur saga þá er ég að hugsa um að segja hana hér.

Fyrir mörgum mánuðum gerðist ég áskrifandi að póstlista sem heitir L-CHESS og það koma alltaf öðru hvoru bréf á hann oft svona 2-5 á dag eða svo og fyrir einum eða tveimur mánuðum hættu alveg að koma bréf á þennan póstlista í nokkrar vikur, en svo tóku að berast bréf að nýju og smátt og smátt fór þeim að fjölga svolítið sem er ekkert óeðlilegt miðað við það að tvö heimsmeistaraeinvígi í skák fara nú fram. En fyrir nokkrum dögum skall á sannkallað óveður á listanum. Einhver skrifaði í mesta sakleysi bréf á listann og sagðist vera að prófa hvort það kæmist til skila og bað um að það yrði staðfest ef svo væri. Þónokkuð margir aðilar skrifuðu bréf á listann til þess að láta þennan mann vita að bréfið hans hefði komist til skila og upp úr því varð fjandinn laus. Nú fór fjöldi manns að skrifa á listann og spyrja hvað það ætti að þýða að vera að senda svona staðfestingar á listann, þær ætti að senda beint til fyrirspyrjanda. Og svo var farið að skamma þá sem skömmuðu hina fyrir það sama og svo koll af kolli. Líklega er ég að verða eini maðurinn á listanum sem hef stillt mig um að taka þátt í þessu fárviðri. Ég vona bara að þessu fari bráðum að linna. Ég hef einu sinni reynt að hætta að vera áskrifandi að þessum lista en það var ekkert mark tekið á því. Ef þetta bréfaflóð minnkar ekki fljótlega þá verð ég að reyna að fá hjálp til þess að stöðva þessi ósköp.

(Viðbót, viku seinna)
Nú, þessum ósköpum linnti skyndilega, því eftir þennan pakka sem segir frá hér á undan hefur ekki komið eitt einasta innlegg á þennan póstlista. Ég á nú samt von á og óttast hálfpartinn, að einhvern tíma komist hann á fulla ferð aftur.

Nú, áfram með smjörið, ég var þarna á Unu bilaðri (þetta átti nú ekki að hljóma svona, en skítt með það) og þegar ég ætlaði að taka póstinn niður til mín þá þverneitaði hún mér um það og bar við "write error" eða einhverju þessháttar og skrollaði á ofsahraða langri sögu um vandræði sín yfir skjáinn hjá mér.

Ég fékk þó að senda póstinn minn á rec-games- chess@cs.utexas.edu en það var samt allskyns vesen og vandræði á ferðinni. Sífelldar villutilkynningar og það var meira að segja ekki hægt að segja "fingur", en "finger" var afgreitt með semingi. Þá datt mér í hug að athuga hvort ekki væri hægt að telnet-a og það virtist vera í lagi. Ég ákvað því að nota tímann til að tefla nokkrar skákir og það gæti svosem orðið efni í einn útúrdúrinn ennþá að segja frá því, en ég er að hugsa um að sleppa honum.

Þegar ég var búinn að tefla í svona klukkutíma og kom til baka þá leið Unu greyinu eitthvað betur og ég gat tekið minn póst. Þegar ég ætlaði hinsvegar að gá að því hvað væri á rec.games.chess ráðstefnunni þá kom enn ein Write error tilkynningin sem ég skildi þannig að svæðið sem notað var undir rec.games.chess væri skemmt. Önnur ráðstefnusvæði sem ég kíkti inn á voru í lagi.

Ég fór svo að sofa, en morguninn eftir gáði ég hvort rec.games.chess væri komið í lag og það virtist vera að öðru leyti en því að greinamagnið var grunsamlega lítið eftir einn og hálfan dag. Greinin mín var heldur ekki þarna. Þegar ég fór á Gopherinn þá var greinin mín þar og meira að segja svar frá Kenneth Sloan þar sem hann hrósaði mér fyrir eftirtektarsemina og birti nýjan og leiðréttan lista.

Þetta ætti nú að vera nóg um Usenet að sinni en þó má geta þess að á soc.culture.nordic virðist núna vera að hefjast umræða um Piet Hein og Gruk-kvæði hans sem margir þekkja, líka á Íslandi.

Sæmundur Bjarnason
Til baka í efnisyfirlit.


SAGA AF UMBOÐI.

Vegna greinar í Rafritinu 4. tbl. þá er ég knúinn til að segja eitthvað gott um söluaðila tölva. Ég keypti tölvu í okt. í fyrra af söluaðila hér á Akureyri. Þetta er þessi fína tölva og hefur gengið bara stórslysalaust. Tvennt hefur þó bilað á þessu tæpa ári sem ég er búinn að eiga þessa tölvu:

Músin DÓ ! Ég vil bara segja að kötturinn hafi komist í hana og hún dáið úr hræðslu en ... ég fór með hana í söluaðilann og viti menn EKKERT mál ég fékk aðra mús (að vísu þriggja takka en ekki tveggja) á meðan það væri verið að gera við mína. Kom ég daginn eftir og þá var allt í góðu lagi með mína mús! Hún hefur síðan þjónað mér vel.

Vélin DÓ ! Já allt í einu (það var verið að keyra demo á vélinni) þá kom bara blankur skjár. ÉG reyndi Ctrl-Alt-Del en ekkert gerðist. Ég verð hissa og ýti á RESET. Ekkert gerist. Ég slekk á tölvunni og gef henni 1 mínútu til að hætta þessari viltleysu og koma aftur í tölu lifenda. 4 bíbb og enginn mynd, svartur skjár og ekkert meir. Hvaða ... Ég geri það sem allir myndu gera, fer með hana í söluaðilann og (þetta var á föstudegi) þá var mér sagt það þetta gæti verið skjákortið (eðlileg ályktun, engin mynd, ekkert skjákort :)) og sagt "komdu á mánudaginn þá verð ég búinn að setja nýtt í." Fínt ég var hvort eð er á kafi þessa helgi svo að það skipti ekki öllu máli. Ég kem síðan á mánudaginn og spyr eftir vélinni minni. Þá er komið svolítið annað hljóð í viðgerðarmanninn. Hann var búinn að reyna ALLT! Taka skjákortið úr, taka SIMM-ana úr, taka hljóðkort og modem sem voru í vélinni úr henni og reyna nýjan skjá og diskstýringar. EKKERT gekk. Vélin var jafn látin og fyrr. Nú er farið að þykkna í fólkinu og búið að útiloka allt nema móðurborðið! Já, já, það er svosem ekkert mál að fá nýtt móðurborð í vélina. En samt var gerð ein tilraun í viðbót ... BIOS-inn var tekin úr (nánar til tekið einhver kubbur sem hafði með lyklaborðsstýringu að gera) og annar setur í (reyndar úr 486SX-25Mhz vél af sömu tegund en ekki 486DX-33Mhz) og VITI menn vélin bókstaflega stekkur upp. Ég er samt látinn bíða í einn dag í viðbót til að fá réttan BIOS í vélina. Var þetta gert mér að kostnaðarlausu og fór ég hin ánægðasti út frá þessu ævintýri. Síðan hefur vélin undantekningalaust virkað þegar á hefur reynt.

Tryggvi R. Jónsson

trigger@ismennt.is

Til baka í efnisyfirlit.


UM PAPPÍR OG FLEIRA SKYLT.

Umhverfisvæn orðæta.

Eftirfarandi grein birtist í DV um daginn og meira að segja mynd með.

Hún er alls engin meináta nýja vélin sem uppfinningamennirnir hjá japanska fyrirtækinu Ricoh hafa búið til. Þetta er vél sem á að bjarga því sem bjargað verður af skógum heimsins og það gerir hún með því að éta orð.

Þetta er eiginlega neikvæð ljósritunarvél því þegar þéttskrifuð blöð eru sett í hana koma þau út óskrifuð og tilbúin til notkunar á ný. Sagt er að nota megi sama blaðið 10 til 20 sinnum með aðstoð orðaætunnar og jafnvel endalaust þegar ætan hefur verið þróuð til fullnustu.

Í orðaætuna er notað sérstakt efni til að leysa upp prentduftið úr prenturum og ljósritunarvélum. Stafirnir leysast í sundur og prentduftið hrynur af blaðinu. Nýja tæknin er því bylting sem étur börnin sín.

Ekki er orðaætan ennþá svo fullkomin að hún dugi til að afmá allt sem skrifað er. Aðeins er hægt að ná texta úr nýtísku laserprenturum, föxum og ljósritunarvélum af pappírnum. Gamaldags blek stenst hinni nýju tækni snúning.

Þannig komust menn fljótt að því að undirskrift á skjölum stendur ein eftir þegar sjálfur textinn er horfinn. Því má með lagni skipta um texta á blaði en halda undirskriftinni eftir. Þetta opnar nýja og spennandi möguleika fyrir skjalafalsara.

Sá galli er og á gjöf Njarðar að orðaætan er þrjár mínútur að hreinsa eitt blað af A4 stærð. Það eru lítil afköst á þessum síðustu og verstu pappírssóunartímum.

Þeir sem vilja fara leynt með skrif sín geta notað sér orðaætuna til að afmá verkin. Stafirnir hverfa ekki alveg af pappírnum þótt þeir séu ekki sýnilegir með berum augum. Með því að beita enn nýrri tækni má framkalla orðin að nýju. Þetta er góður kostur fyrir menn í leynilögguleik. hins vegar er þessi huliðsskrift ekki hulin þeim sem kunna að framkalla hana.

Hjá Ricoh ætla menn að halda áfram að þróa orðaætuna. Ekki veitir af því ört gengur á skóglendi jarðar eftir því sem eftirspurn eftir pappír eykst.

Draumurinn er að endurnýta allan pappír sem ekki á að geyma án þess að senda hann í endurvinnslu. Því ætti orðaætan að valda hungursneyð hjá pappírstæturum og ruslakörfum í fyllingu tímans.

Tilvitnun lýkur.

Þetta er greinilega hið merkasta tæki þó líklega verði það aldrei mjög útbreitt. Pappírssóunin á nútímaskrifstofum er annars óhugnanleg. Þegar tölvur fóru fyrst að ryðja sér til rúms í almennum fyrirtækjum var því oft haldið fram að með notkun þeirra mundi draga úr pappírsnotkun. Reyndin varð þveröfug eins og allir þekkja en það er ekki tölvunum og tækninni að kenna.

Á endanum mun tölvutæknin valda því að pappír verður að mestu óþarfur. Rafritið þarf ekki á neinum pappír að halda og ég hef aldrei prentað það út, en auðvitað er ekkert því til fyrirstöðu að gera það. Hver og einn af lesendum blaðsins tekur sjálfur ákvörðun um það hvort hann prentar það út eða ekki. En vonandi verður engum skógum eytt vegna Rafritsins, en satt að segja verður manni stundum hugsað til vesalings trjánna þegar maður t.d. tekur upp eitt eintak af helgar Mogganum uppá svona tæpt kíló og veit að fimmtíu þúsund nákvæmlega samskonar blöð hafa verið prentuð.

Sú tækni í tölvumálum er nú orðin almenn sem notar geisladiska sem hver um sig vegur líklega um 15 grömm til þess að geyma 600 - 700 Megabæt af upplýsingum. Ef þarna væri eingöngu um ritað mál að ræða þá gæti vel þurft svona eitt tonn eða meira af pappír til að prenta það út. Þegar farið verður að gefa bækur almennt út á þennan hátt, má reikna með að margt tréð andi léttara.

Á einu sviði virðist eiga að reyna að þvinga Íslendinga til að auka pappírsnotkun sína, en það er varðandi peningaseðla. Enginn vafi er á því að notkun peningaseðla mun stóraukast ef bankamafíunni tekst að koma í framkvæmd fyrirætlunum sínum varðandi debetkortin svokölluðu og ávísanaeyðublöðin.

Þetta minnir mig á frétt frá Svíþjóð sem ég heyrði fyrir nokkrum árum. Þar í landi er maður einn sem kennir bankakerfinu sænska um öll sín vandræði og reyndar einnig um öll vandamál í sænsku þjóðlífi. Til þess að fylgja þessari skoðun sinni eftir hefur hann það fyrir venju að brjóta rúður í helstu bönkum landsins í hvert skipti sem hann getur. Hann er líka vanur að hafa samband við fjölmiðla áður en hann lætur til skarar skríða svo taka megi myndir af þessum framkvæmdum hans og heldur hann jafnan tölu um vonsku bankanna um leið og hann hefur lokið sér af við rúðubrotið. Auðvitað kemur lögreglan og tekur hann en framan af létu þeir hann vanalega lausan fljótlega aftur. Ég veit satt að segja ekki hvernig staðan í þessu máli er núna en líklega situr maðurinn í fangelsi. Einnig getur verið að fjölmiðlarnir séu bara orðnir leiðir á að segja frá þessu og þar með er þetta orðið fremur tilgangslítið hjá manninum.

Ekki kæmi mér á óvart þó einhver Íslendingur tæki sænsku veikina bráðum ef miðað er við hvernig bankarnir í landinu haga sér um þessar mundir.

Í Pressunni var sagt frá því um daginn að eintak af íslensku símaskránni í tölvutæku formi kostaði um hálfa milljón króna. Þetta er eftir öðru, ekki sparast pappírinn þarna. Í stað þess að selja þetta á disklingaverði eins og eðlilegast væri þá á að reyna að græða á þessu. Póstur og sími ætlar sér þannig að græða stórfé á þeirri sjálfsögðu þjónustu að veita upplýsingar um það hvaða símanúmer ég hef leigt af þeim á okurverði. Og svo hóta þeir málsókn og allskyns kárínum þeim sem voga sér að taka af þeim ómakið við að veita þessa eða svipaða þjónustu, samanber bæjaskrár hjálparsveita og annarra góðgerðafélaga. Óþolandi.

Frá því var greint í fréttum fyrir nokkru að til stæði að taka upp tölvuskráningu verðbréfa. Sagt var að ein meginástæðan fyrir því væri að í Seðlabankanum væri það nokkurra metra hár stafli af ríkisskuldabréfum sem seld eru í áskrift sem handskrifa þyrfti í mánuði hverjum. Varla er það nema einhver undirskrift sem þarf að handskrifa en samt er það augljóst að þetta getur vel verið talsvert verk og vafalaust kostar pappírinn í skírteinin sitt.

Undarlegt er í meira lagi að svona vitleysa skuli viðgangast árum saman. Ég held að viðskiptavinir banka, svo dæmi sé tekið, sætti sig yfirleitt alveg við það að fá ekki handskrifaða, undirritaða, vottfesta og innsiglaða yfirlýsingu á innrömmuðu skiliríi í átján litum í hvert sinn sem þeir leggja nokkrar (eða jafnvel margar) krónur inn á bankareikning. Hversvegna þarf blýantsnagaragengið í Seðlabankanum að ríghalda svona í forneskjuleg vinnubrögð og er engin leið að koma vitinu fyrir þessa menn?

Mér datt þetta svona í hug.

Sæmundur Bjarnason

Til baka í efnisyfirlit.


QWK - PÓSTRITILLINN.

Póstritill er í stuttu máli forrit sem notað er til að lesa póst af BBS-kerfi og svara bréfum án þess að vera samtímis tengdur við BBS-ið. Póstritlar eru einnig til fyrir Unix-kerfi en eru öðruvísi uppbyggðir en ég hef enn sem komið er einungis séð lesara af þeesu tagi, en ekki er hægt að skrifa í honum, heldur einungis lesa póst, svipað og í elm, nema hvað betur er aðgreint með litum hvað er efnisskrá (bréfaskrá) og hvað er lesefnið sjálft, bréfhaus o.s.frv. (RMAIL41.ZIP á Snerpu)

Hvað þarf póstritillinn að fá frá BBS-kerfinu?
Það sem póstritillinn þarf er einungis tilbúinn póstpakki sem sóttur er á BBS-ið eins og hverja aðra skrá og sé um það að ræða að bréfum sé svarað þá er það einnig gert með heimaritlinum sem að lokinni notkun býr til nýjan póstpakka sem sendur er á BBS-ið næst þegar hringt er þangað. BBS-ið tekur við pakkanum, sorterar úr honum svörin og athugar í hvaða póstsvæði þau eiga að lenda, setur þau þar og uppfærir tilvísanir milli bréfa þannig að svar sem skrifað er á póstritli kemur í beinu framhaldi af bréfinu sem svarað var. Póstritillinn er einungis notaður þegar sam- band er ekki á við BBS-ið. Samskiptaforrit notandans sér um að sækja QWK pakkana og senda upp REP-pakkana.

Til hvers gagns er póstritill?
Af póstritli er mikið hagræði þar sem notandi á BBS-kerfi getur þann- ig látið BBS-ið taka til handa sér bréf af þeim svæðum sem hann hefur áhuga á að lesa og eru enn ólesin af honum. BBS-ið velur þessi bréf eftir þeim upplýsingum sem það hefur um hvaða bréf eru ólesin af viðkom- andi notanda og hvort hann hefur merkt það svæði sem viðkomandi bréf er í sem svæði til að ná í bréf af. Síðan er notandanum boðið að taka pakk- ann í þjöppuðu formi eða ASCII-formi ef hann kýs frekar (sem tekur þá lengri tíma að senda). Pakkinn fær eftirnafnið .QWK og ef lagðir eru inn svarpakkar hefur heimaritillinn gefið þeim eftirnafnið .REP. Fyrri hluti skrárnafnsins er hinsvegar ákveðinn af umsjónarmanni þess BBS sem um er að ræða og er það gert til þess að hægt sé að aðgreina pakka frá fleiri en einu BBS-kerfi, hringi notandinn inn á mörg kerfi.

Auk þessa tekur BBS-ið saman ýmsar upplýsingar eins og fréttaskrána NEWS sem segir frá helstu nýjungum eða breytingum á BBS-inu og skjámynd- irnar WELCOME og GOODBYE sem eru opnunar- og kveðjumyndir BBS-kerfisins. Mismunandi er eftir kerfum hvort þetta eða jafnvel fleira fylgir póst- pakkanum. Sum kerfi geta tekið til s.k. "bulletin" sem eru t.d. lesefni eins og þetta og taka þá til einungis "bulletin" sem hafa verið endur- nýjuð eða sett ný síðan síðast var sóttur QWK-pakki.

Af öllu þessu hlýst að notandinn getur farið yfir bréfin í ró og næði eftir að hann hefur slitið sambandinu við BBS-kerfið og er þá ekki að eyða skrefum af símareikning sínum á meðan. Hann getur einnig skrifað svör ef hann svo kýs og hringt síðan aftur inn á BBS-ið og lagt þar inn pakkann með svörunum.

Hvernig setur maður upp heimaritil?
Það fer eftir því hvaða heimaritill er notaður. Tveir þeir algengustu heita "BlueWave offline-mailreader" og "Silly Little Mail Reader" eða bara SLMR. BlueWave er mjög fullkominn en að sama skapi nokkuð snúið að setja hann rétt upp. SLMR er hinsvegar mjög notandavænn í alla staði og það besta við hann er að þó að hann sé opinberlega "shareware", er hann í raun og veru ókeypis, því að hann er lokaútgáfa sem "shareware", þar sem hann hefur skipt um eiganda (framleiðanda) og fyrri framleiðandi er hættur að þjónusta hann og hefur afsalað sér öllum greiðslum fyrir notk- un á þeirri útgáfu sem í gangi er.

Gott lesmál (á ensku) fylgir báðum þessum forritum og vísast í það með uppsetningu. Þó er vert að geta þess að forritið þarfnast þess að vita hvar forrit eins og PKUNZIP og PKZIP eru til þess að geta opnað og lokað póstinum. Einnig þarf það að vita hvar samskiptaforritið setur skrár sem það sækir (þar með talið póstpakkann) og hvar samskiptaforritið vill hafa skrár sem eiga að sendast inn á BBS-ið (sem er þá svarpakkinn).

Á hvaða BBSum er hægt að sækja QWK-pakka?
T.d. á Snerpu (94-4417), Vision (92-14626), Torginu og á einhverjum af BBs-unum á Keflavíkurflugvelli. Þeim sem eru með BBS-kerfi sem ekki gera ráð fyrir QWK-pósti og hafa áhuga á að koma sér því upp er bent á að til eru QWK-"hurðir" sem tiltölulega lítið mál er að koma upp. Flestar nýjar útgáfur af BBS-forritum eru þó með þetta innbyggt.

Ef þú lest og skrifar póst á BBSi skaltu nota póstritil. Þægindin eru augljós, og svo má líka geyma póstinn sinn eftir að hann er farinn út af BBSinu... Og vertu dugleg(ur) við að skrifa og lesa póstinn. Hann er það mikilvægasta í tölvusamskiptum, þ.e. að dreifa upplýsingum um það sem er að gerast í tölvuheiminum.

Björn Davíðsson

snerpa@ismennt.is

Til baka í efnisyfirlit.


LINE-FEED MERKI Í ASCII - TEXTA

Getur nokkur sagt mér hvernig ég á að ná "line-feed" merkjum úr ASCII-texta með DOS forriti eða Windows? (frekar DOS)

Ég er stundum með ASCII texta sem ég vil breyta uppsetningu á en kann enga þægilega og fljótlega aðferð við að ná "line-feed" merkjum í burtu.

Ég hef reynt þetta dálítið í Word 4.0 með Search og Replace sem mér fannst eðlilegast að prófa fyrst en gat ómögulega látið forritið þekkja merkið.

Best væri náttúrlega að taka öll "line-feed" merki nema þar sem þau eru tvö eða fleiri saman því með því móti mætti halda greina- skilum. Setja þarf orðabil í staðinn fyrir þau merki sem fjarlægð eru.

Sæmundur Bjarnason
Til baka í efnisyfirlit.

PC - HOME, BLAÐ OG DISKLINGUR.

Glæsilegur fylgidiskur með tímariti.

Nýlega keypti ég tölvublað (PC Home) og með því fylgdi diskur (3.5 1.44MB) sem væri ekki í frásögur færandi nema ... Á þessum diski eru fjögur forrit. Og má segja að þarna séu á ferðinni MJÖG "feitir bitar". Þar ber að nefna: Dashboard 1.01, SOS (leikur), valmyndakerfi (DOS) og FAST!

Ég er búinn að skoða þrennt af þessu og ætla aðeins að segja frá því.

*Dashboard* er "skel" fyrir Windows (bless bless Program Manager) sem er bara smá borði neðst á skjánum. Þessi ágæti hugbúnaður kemur frá Hewlett-Packard ("the makers of huppa, una and urta" :)). Svipar þetta mjög til stjórnborðsins sem er á þeim vélum. Þarna er t.d. "bensínmælir" sem fylgist með minni vélarinnar, hnappar sem ræsa uppáhaldsforritin manns og (þetta er kannski það merkilegasta við þetta) allt að NÍU skjáir hlið við hlið. Mjög fljótlegt er að skipta á milli "sessiona" og jafnvel færa forrit á milli skjáa án þess að vera með þá virka. Einn af kostum þessa "borðs" er að það er ALLTAF ofaná (meira að segja leggst það ofan á "screensaver-inn" minn (After Dark).

Þarna eru einnig staðgenglar fyrir hópana sem búið var að setja upp í PM (miklu fyrirferðarminni), klukka (með vekjara). Hægt er að vista uppsetningar (jafnvel hvaða forrit á að vera með í hvaða glugga og hvaða skjal í hvaða forriti!). Mikill kostur er að þetta tekur minna minni en Program Manager. Hægt er að prenta með því að "henda" skjölum í prentaratákn (það vantar bara körfuna :-)). Þetta er ein af þægilegustu leiðunum til að nota Windows. Eini gallinn er að þegar maður hefur svona mikið pláss á skjánum er freisting að vera með mörg forrit í gangi í einu. En þá fer innra minni (eða minnisleysi) að segja til sín. Það þarf að venjast þessu svolítið en eftir svona viku þá vill maður ekki sjá annað.

*FAST!* er "disk-cache". Sennilega eru flestir ef ekki allir með einhverskonar skyndiminni (sennilega er Smardrive algengast, enda fylgir það með hverju eintaki af DOS og Windows). En kannski er ekki sama hvaða skyndiminni er notað. Með Smardrv. 4.1 (2024/1024 í Win.) þá kom diskurinn minn út með 16.5 msek úr Core-testi. Þegar ég var búinn að setja inn Fast! (og þar með taka úr smartdrv.) kom dálítið annað hljóð í prófið! Að vísu sagði "testið" við mig áður en það birti niðurstöðurnar að sennilega væru einhver brögð í tafli (ekki í þessum orðum þó !!) sennilega disk-cache.

CORETEST: Smartdrive 4.1 (1MB): 766 (performance index)
7890 (data transfer rate)
FAST! (1MB): 8902 (performance index)
1195 (data transfer rate)

Með Fast! þá sýndi hún ekki nema 0.0 í "track to track" og "Average seek time". Eini gallinn við þetta annars ágæta forrit er að það þarf að disable-a það þegar slökkt er á tölvunni. Ef það er ekki gert getur (og hefur gerst hjá mér) Swapfile (fyrir Windows) skemmst.

Leikurinn (SOS) er mjög góður líka (svona nokkurs konar Lemmings) en ég hef ekki nennt að spila hann því hann virðist ekki virka nema í Dosi undir Windows (furðulegt!!!).

Sumsé nokkuð gott blað og skemmtilegur diskur í kaupbætti.

Tryggvi R. Jónsson

trigger@ismennt.is

Til baka í efnisyfirlit.


UM USENET OG GOPHER.

1. Gerðir ráðstefna
Ráðstefnum er skipt í tvo flokka: ritstýrðar og opnar ráðstefnur. Ritstýrðar ráðstefnur (moderated) eru með þeim hætti að allar greinar sem fara á ráðstefnuna eru sendar til einhvers konar ritstjórnar. Allir geta þó lesið ritstýrðar ráðstefnur. Á opnar ráðstefnur geta allir skrifað án nokkurra takmarkana.

2. Ráðstefnuflokkar
Það sem hér kemur á eftir eru bara "móður" flokkar ráðstefna. Undir hverri geta síðan verið mismargar ráðstefnur.

* ICENET ráðstefnur
Í þennan flokk fara ráðstefnur sem dreift er innan Íslands. Hér eru fáir undirflokkar og lítil umferð vegna þess hversu litla útbreiðslu Netið hefur hér á landi.

* EUNET ráðstefnur
Þessum ráðstefnum er einungis dreift innan Evrópu og einskorðast umræðurnar við málefni er snerta fólk og atburði í Evrópu. Nokkur fjöldi undirráðstefna er í þessum flokki um ýmis mál, allt frá dreifingu hugbúnaðar til umræðna um evrópsk stjórnmál.

* COMP ráðstefnur
COMP ráðstefnur eru meginhluti Netsins. Þær fjalla um efni sem tengist tölvum og tölvunotkun og er dreift um allan heim.

* NEWS ráðstefnur
Í þessum flokki eru ráðstefnur er fjalla um Usenet sjálft, rekstur þess og útbreiðslu. Hér ræða menn um ýmsa möguleika við flutning upplýsinga, um hvernig mönnum ber að haga sér í samskiptum á Netinu og hvaða nýjar ráðstefnur skuli smíða, eða hverju skuli eyða.

* SCI ráðstefnur
Hér undir falla ýmsar greinar raunvísinda og læknisfræði. Undir- ráðstefnur fjalla um stjörnufræði, eðlisfræði, efnafræða, ýmsar greinar stærðfræði, geimvísindi og margt fleira.

* SOC ráðstefnur
Hér eru rædd menningar- og félagsmál ýmissa landa, landsvæða og þjóðarbrota. Dæmi um undirflokka eru ráðstefnur um málefni Afríku og Kína. Þar er m.a. ráðstefnan soc.culture.nordic.

* REC ráðstefnur
Þetta eru ýmsar afþreyingar ráðstefnur. Skipast í flokka um alls konar spil og leiki, bókmenntir, listir o.s.frv.

* MISC ráðstefnur
Ráðstefnur um efni sem ekki flokkast undir neinn ofangreindra aðalflokka. Hér hefjast oft umræður sem síðar leiða til að stofnaðar eru nýjar ráðstefnur um viðkomandi málaflokki.

* ALT ráðstefnur
Þessar rástefnur lúta ekki sömu reglum og aðrar hvað varðar skipulag og nafngiftir. Þarna verða til nýir málaflokkar með litlum fyrirvara og aðrir hverfa. Alt ráðstefnurnar eru ekki formlega hluti af Usenet

Margir aðrir ráðstefnuflokkar eru til, en þetta eru þeir mikilvægustu. Þessir flokkar eru líka stórir og fjölbreyttir með mikinn fjölda undirflokka

Það er dálítið langt mál að fara að segja frá undirflokkum og líklega er best fyrir þá sem vilja kynna sér þá að fletta bara í gegnum þá. Ef greinafjöldinn er mjög mikill í einhverjum flokki er alltaf hægt að hlaupa yfir hann með því að ýta á stórt N.

Nokkur dæmi um ráðstefnur (* þýðir undirflokka)
rec.games.chess umræður um skák
comp.sys.ibm.pc.games.* umræður um tölvuleiki
soc.culture.nordic ýmis mál sem snerta Norðurlöndin
misc.kids skemmtilegar sögur af börnum
alt.sex.* ýmislegt um kynferðismál
alt.tasteless ógeðslegt
rec.arts.erotica klámsögur (moderated)
rec.sport.soccer umræður um knattspyrnu
sci.military hernaðarmálefni

Önnur góð aðferð til þess að kynna sér það sem er um að velja á Usenet ráðstefnum er að fara þangað á Gopher. Þá er hægt að skoða hvaða ráðstefnu sem er, ekki bara þær sem ákveðið hefur verið að taka heim á Ísmennt. Gallinn við þá aðferð er að hún er miklu seinlegri.

Leiðin þangað er þannig:
G fyrir Gagnasöfn frá aðalvalmynd
G fyrir Gopher
10. Þjónusta á Internet
3. Ýmsir Gopher-þjónar (á ensku)
7. Umhverfisgopher (EnviroGopher) í Pittsburg
9. The Internet and Its Services
7. USENET news
Því miður næst ekki samband við Umhverfisgoperinn í Pittsburg frá Ísmennt um þessar mundir og hefur ekki gert í eina eða tvær vikur. Af einhverjum ástæðum er ekki búið að breyta um "host" í valmyndinni eins og tilkynnt hefur verið að gera þurfi af stofnun þeirri sem rekur þennan gopher.

Hægt er að komast á Umhverfisgopherinn í Pittsburg beint með því að skrifa úr skel:

telnet envirolink.org, og síðan þegar beðið er um login: að skrifa þá gopher.

Til að spara sér tíma og fyrirhöfn er síðan sjálfsagt að búa til Bookmark eftir að á staðinn er komið. Það er gert með því að ýta á a og síðan enter eða nýtt nafn.

Til þess að nota svo Bookmark listann seinna meir er ýtt á V þegar komið er inn á Gopherinn.

Nýlega var sagt frá því á Ísmennt að Gopher námskeið fyrir byrjendur verði haldið á næstunni. Áreiðanlega er óhætt að hvetja alla til að taka þátt í þessu námskeiði en það mun byrja 18. október.

Námskeiðið mun fara fram á ensku og þátttaka er ókeypis.

Kennt verðu að nota Gopher, Bookmark og að leita með Verocica.

Gera má ráð fyrir að bréf sem þátttakendum berast í sambandi við námskeiðið verði alls yfir 100 talsins, mismunandi stór að sjálfsögðu.

Nánari upplýsingar er að finna á Ísmennt.

Til að skrá sig þarf að senda bréf á: listserv@ubvm.cc.buffalo.edu

í þessu bréfi á ekki að standa annað en:

Subscribe gophern Skírnarnafn Eftirnafn

Athugið hvernig gopher er skrifað þarna með n-i í endann en þannig verður það að vera. Að sjálfsögðu setja menn svo sitt eigið nafn í stað Skírnarnafns og Eftirnafns.

Að hluta til er í þessari grein stuðst við uppskrift Tryggva Rúnars Jónssonar úr ISnet handbókinni.

Sæmundur Bjarnason

Til baka í efnisyfirlit.


IRC - FUNDUR.

IRC-fundurinn föstudagskvöldið 17. september heppnaðist ágætlega.

10 manns mættu:
gustav Gústav K Gústavsson
hordjo Hörður Jóhannsson
ingimarr Ingimar Róbertsson
joney Jón Eyfjörð
rhf Ríkharður H Friðriksson
saemund Sæmundur Bjarnason
siggern Sigurður Bernhard Finnsson
snerpa Björn Davíðsson
tho Þóroddur Bjarnason
trigger Tryggvi R. Jónsson

Sumir stoppuðu nú ekki lengi og líklega voru aldrei fleiri en 7 í einu.

Ég undirritaður mætti rétt fyrir klukkan ellefu og þá var enginn annar á Iceland-rásinni en TRIG-bot. Ég lét nú ekki svo lítið að heilsa honum enda farinn að kannast við kauða. Robotar eru forritsbútar sem látnir eru halda ákveðnum rásum og með því má taka yfir rásina og stjórna því til dæmis hvort hún er opin eða lokuð og hverjir mega vera þar inni og hverjir ekki o.s.frv. Ég kann reyndar ekkert sjálfur á þessi fyrirbrigði en það eru nokkrir notendur á Ísmennt sem hafa mikinn áhuga á þessu og stundum hefur drjúgur tími á föstudagsfundunum farið í róbótarifrildi. Ég á ekki við að róbótarnir rífist eða sláist heldur rífast eigendur þeirra um það hvort þeir séu leyfilegir eða óleyfilegir og hver þeirra sé bestur og kurteisastur.

Fljótlega kom Gústi og við fórum að ræða um það hvort Tryggvi mundi ekki koma því það er afar sjaldgæft að hann láti sig vanta.

Það þurfti ekki að bíða lengi eftir því að Tryggvi birtist með gusugangi.

Ég læt fylgja hér á eftir smá útskrift á því sem gerðist á rásinni þá.

Þetta er alveg eins og það birtist á mínum skjá að öðru leyti en því að ég bætti nafninu mínu framan við það sem ég skrifaði.

*** Mode change "-b trigger!*@*" on channel #Iceland by TRIG-bot
*** Mode change "-b trigger!*@*" on channel #Iceland by TRIG-bot
*** trigger (trigger@193.4.2.1) has joined channel #ICeland
*** Mode change "+o trigger" on channel #Iceland by TRIG-bot
*** Mode change "+o TRIG-bot" on channel #Iceland by TRIG-bot



*** Mode change "+oo saemund GustavKG" on channel #Iceland by trigger
robotinn brjálast þegar þú kemur, eða hvað?
Ég var í heimsókn og rankaði við mér kl 22.55
Eins og hundur flaðrar upp um eigandann
já hann á bara eitt skilið ..
!kill
*** Signoff: TRIG-bot (Local kill)
Ég var að sýna netið í morgun og setti hann upp svona til að "monta" mig :)

Hér er svo gripið niður á fundinum miklu seinna en þá er verið meðal annars að ræða um Rafritið. Þessi kafli sýnir nokkuð vel hverning hlutirnir ganga oft fyrir sig í IRC-i. Erfitt getur verið að átta sig á samhenginu og oft er talað um margt í einu. Þetta kemur til af því að stundum eru aðrir búnir að senda upp eitthvað á meðan maður er að pikka á lyklaborðið sitt eigið innlegg.

Muli er Ingimar Róbertsson og Demen er Sigurður Bernhard Finnsson. Algengt er að verið sé undir stuttu nafni eða gælunafni í IRC-i.

Mér finnst RR vera mjög þarft og skemmtilegt framtak
Ég þarf að skrifa niður góða sögu sem ég heyrði af blaðaútgáfu fyrir 50 árum síðan ú í sveit
Já og samanburð við nútímann
... en það mættu vera chr$(12) á síðuskilunum til að prenta það beint
ungmennafélag sem gaf út vikublað
nei þetta var bara MJÖG góður brandarinn
já en hvað eiga síðurnar að vera langar?
ca 60 línur
já ég hef verið að velta því fyrir mér
þetta er oft þannig á manúölum
jamm kannski að telja út þar?
en það þarf ekkert endilega að reikna með að það sé prentað út
trigger komdu með brandarann
gerið þið það?
ég já
ekki ég
ég les það á skjánum
*** Demen is now known as Dem
*** Dem is now known as Demen
prentarinn er í óstuði
Bara að gera tilraun :)
trigger komdu bara með eina línu í einu
Það var fyrir 50 árum í Svarfaðardal að ungmennafélagið Atli ákvað að gefa út vikublað. Það hét máni. Það var handskrifað :) og upplagið var EITT það gekk á milli meðlima í félaginu og hver fyrir sig skrifaði eitthvað skemmtilegt (eina skilyrðið var að það

væri frumsamið. Þetta voru orðnar margar bækur :)
þetta var algengt áður fyrr
og í hverjum mánuði var teiknaður "flottur" haus :)
það er spurning hvort þetta er ekki álíka hjá mér
Þetta er alveg stórkostlega góð hugmynd
í raun er eintakið bara eitt
já en það er hægt að taka afrit af þessu þetta var hins vegar bara eitt
já það var erfiðara með afritunina þá
já ...
það væri náttúrulega hægt að stækka það sífellt með því að splæsa viðbótinni aftaná en þá væri það kannski of stórt?
*** Action: Muli loves cut and paste
það má ekki verða of stórt.
Ekki "GAme_Byte" stórt :)
Nokkru seinn bauðst Muli til að sýna okkur mynd af Simpsonfjölskyldunni og lét hana síðan renna yfir sjáina hjá öllum sem þá voru eftir á fundinum.

. Mætið nú öll á næsta fund og þið megið taka með ykkur efni sem þið viljið sýna, texta eða myndir (ASCII), en þið verðið að vera búin að uplóda það á svæðið ykkar áður. Hafið skrárnar samt ekki stórar því þetta gengur m j ö g hægt.

Ég skal kenna ykkur hvernig þið eigið að gera þetta. Mér tókst að læra það!!

Sæmundur Bjarnason

Til baka í efnisyfirlit.