4. tbl. 13. september 1993 1. árg.

EFNISYFIRLIT

  1. Frá ritstjóra

    

  2. Bréf til blaðsins. Guðni Karl Harðarson.

  3. Skráaflutningar. Gústav K Gústavsson.

  4. Um skák og tölvur. Sæmundur Bjarnason.

  5. Örlítið um MOO. Tryggvi R. Jónsson.

  6. Harðir diskar og aðrir. Björn Davíðsson.

  7. Svanurinn - örsaga.Benedikt Sæmundsson.

  8. Að skrifa á Usenet. Sæmundur Bjarnason.

  9. Hryllingssögur af tölvuumboði. Gústav K Gústavsson.

  10. Modemleikir yfir Internet. Tryggvi R. Jónsson.


FRÁ RITSTJÓRA

Þá er komið að 4. tölublaði Rafritsins. Viðtökur hafa verið góðar og dálítið hefur komið af aðsendum greinum en það mætti samt vera meira.

Frá og með næsta tölublaði geta þeir lesendur Rafritsins sem hafa verknúmer (hræðilegt orð) á Ísmennt gerst áskrifendur og fengið blaðið sent í rafpósthólfið sitt strax og það kemur út. Þetta verður þeim að kostnaðarlausu og þrátt fyrir þessa auknu þjónustu verður ekki nauðsynlegt að hækka verð blaðsins frá því sem verið hefur. :-)

Allt sem þarf að gera er að skrifa og tilkynna að áskriftar sé óskað.

Ég hef að undanförnu eytt dálitlum tíma í að reyna að senda DOS-forrit með póstkerfinu á Ísmennt en gengið illa. Mér finnst það galli að ekki skuli vera boðið upp á betri þjónustu á netinu, hvað varðar skráarflutninga, en raun ber vitni. Mér finnst líka galli hve valmyndakerfið er ófullkomið og oft sjálfu sér ósamkvæmt, en nú stendur víst til að bæta úr því og er það vel.

Óþægilegt er líka að ekki skuli vera til neinar leiðbeiningar um netið fyrir byrjendur (og lengra komna) og enginn vafi er á því að fyrsta aðkoma margra að netinu veldur vonbrigðum.

Sérstök ástæða er til að fagna þeirri yfirlýsingu Péturs Þorsteinssonar að til standi að fjölga modemum verulega og einnig að stórauka diskapláss. Ég hef reyndar ótrúlega sjaldan lent í því að allar símalínur séu á tali, en aftur á móti orðið svolítið fyrir barðinu á því að líftími greina á Usenet ráðstefnum er stundum ansi lítill.

Gera má ráð fyrir að umferð á Menntanetinu og BBS-um landsins fari nú að aukast með haustinu og ef til vill fjölgar lesendum Rafritsins líka.

Ég vil skora á lesendur blaðsins að láta í sér heyra og skrifa bréf eða greinar um hvað sem þeim dettur í hug og ekki síst að gera athugasemdir við það sem birtist í blaðinu ef þar er eitthvað missagt eða villandi.

Framvegis mun verða reynt að koma blaðinu út tvisvar í mánuði og ef nægilega margir skrifa mér og leggja til efni er lítið mál að standa við það.

Sæmundur Bjarnason
Til baka í efnisyfirlit


PÓSTHÓLFIÐ.

Guðni Karl Harðarson skrifar:

Sæll og blessaður,

Ég einn þeirra (örugglega fjölmörgu) sem sækja RAFRITIÐ heim af Menntanetinu. Hef ég sótt heim öll tölublöðin. Ég þakka fyrir ágætt blað og gott framtak!

Ég vil nota tækifærið og geta þess hvað ég hefði áhuga á að sjá í Rafritinu. Til dæmis væri gott að sjá fleiri greinar um notkun Menntanetsins. Mér finnst þetta Net alltof mikið af umfangi og mikið verk að læra inn á það til fulls og t.d. hinar ýmsu Unix skipanir. Væri þá áhugavert að sjá greinar um: Skilgreiningu á ýmsum Usenet ráðstefnum (hvaða ráðstefnur eru fyrir tiltekin málefni), hjálp við að ná heim skrám af Ftp stöðum (afpakka, skoða skrár á staðnum, breyta skrá úr Binary í Texta, grein um áhugaverða staði til að hringja á með Ftp (skemmtileg forrit og e.t.v. Bmp skrár o.fl.), hvernig best sé að leita í archie stöðum að forritum og fleira). Gaman væri að sjá greinar um þetta.

Það er annars eitt sem ég hefði ekki áhuga á að sjá meira í blaðinu, en það eru þessar Kúa-teikningar og annað slíkt. Þetta er gamalt og ég held að flestir hafi þegar séð þessar myndir á einhverjum BBSunum og auk þess tekur eitthvað svona lagað alltof mikið pláss í annars ágætu blaði.

Ég bíð eftir næsta blaði með ofvæni og vonast eftir mörgum áhugaverðum greinum sem séu þétt skrifaðar og hver grein þá helst ekki meira en tvær til þrjár síður.

Kveðjur,

gkh@ismennt.is
(Gudni Karl Hardarson.


------------- Ég þakka Guðna fyrir gott bréf. Ég er eiginlega sammála honum um allt sem hann skrifar, líka þessu með kýrmyndirnar, þær taka alltof mikið pláss. En vegna þess að ég var búinn að segja það í síðasta blaði að ég ætlaði að birta seinni hlutann í þessu blaði þá ætla ég að gera það, en eitthvað þessu líkt verður ekki endurtekið. Í fyrstu tveimur blöðunum voru smá ASCII myndir og mér finnst allt í lagi þó eitthvað af því tagi sé birt því ég held að það geri blaðið aðgengilegra að hafa það ekki allt saman mjög hátíðlegt.
Sæmundur Bjarnason
Til baka í efnisyfirlit.


AUGLÝSING

PC - TÖLVUKLÚBBURINN.

PC-tölvuklúbburinn tekur nú að nýju til starfa og að þessu sinni í talsvert breyttu formi.

Áhersla verður einkum lögð á leiki og eingöngu verða notaðir 3 1/2" 1,44 Mb disklingar. Til að geta örugglega notað öll þau forrit sem klúbburinn mun dreifa þarf VGA skjá og 386sx tölvu með 1 Mb minni og harðan disk. AT tölva (80286) mun þó líklega oftast nær duga ef hún er með VGA skjá en ekki verður reynt að þjóna lakari skjágerðum.

Á sama hátt og áður mun klúbburinn dreifa Shareware forritum sem ætlast er til að notendur greiði fyrir beint til þeirra sem eiga höfundarréttinn ef þeir ætla sér að nota forritin til frambúðar.

Ekki er verið að selja forritin sjálf heldur er sú greiðsla sem klúbbfélagar inna af hendi eingöngu fyrir efnis og dreifingarkostnaði ásamt þeim kostnaði sem leiðir af prófunum á forritum og leit að þeim. Leikjasérfræðingur klúbbsins fylgist ekki aðeins með á fjölmörgum alþjóðlegum Usenet ráðstefnum um leiki, heldur er líka sífellt verið að leita að forritum út um allan heim og taka niður til prófunar og athugunar.

Árgjaldið verður 2500 krónur og fyrir það munu klúbbfélagar fá heimsendan diskling í hverjum mánuði. Starfsemin nær þó ekki yfir sumarmánuðina júlí og ágúst, þannig að alls verður um 10 disklinga að ræða. Þeir verða troðfullir af nýjustu og bestu Shareware forritum sem fáanleg eru, einkum nýjustu leikjunum, ásamt leiðbeiningum og ráðleggingum á íslensku.

Sú breyting hefur orðið á að undanförnu að Shareware leikir eru nú orðið oft og einatt jafngóðir og rándýrir leikir sem seldir eru í verslunum og í sumum tilvikum jafnvel betri. Í þessu sambandi má t.d. minnast á leikinn Wolfenstein sem margir kannast við.

Auðvitað er líka mikið af Shareware leikjum óttalegt rusl, en með því að ganga í PC-tölvuklúbbinn tryggir þú þér þjónustu fagmanna sem þekkja þennan markað út og inn og velja bara bestu forritin til að senda þér.

Ef þú vilt gerast félagi í PC-tölvuklúbbnum og tryggja þér reglulegar heimsendingar á bestu fáanlegu Shareware leikjunum á hverjum tíma þá skaltu fylla út formið hér fyrir neðan og senda það til:

PC-tölvuklúbburinn
Pósthólf 3362
123 Reykjavík

eða hringja í síma 91-78002 (kvöld og helgar)

Á fyrsta disklingnum, sem er tilbúinn til dreifingar, eru eftirtaldir leikir:

Star Mines II - The planet of Mines.
Skemmtilegur skotleikur.

Electro BODY.
Mjög góður pallaleikur. Afbragðs Soundblaster.

Ancients I: The Deathwatch.
Role playing leikur sem líkist Eye of the beholder II. Pékk yfir 80 % í PC-FORMAT.

Shooting Gallery.
Þú færð tækifæri til að prófa hæfni þína í að skjóta í mark.

CD-man.
Leikur sem líkist mjög Pacman gamla. Afar skemmtileg grafík.

Jill of the jungle.
Frábær pallaleikur frá Epic Megagames einu þekktasta shareware fyrirtækinu. Gott Soundblaster.

til baka í efnisyfirlit


SKRÁAFLUTNINGAR

Viðbætur við grein um binary flutning í 2 tbl. Rafritsins.

Í ágætri grein eftir Tryggva R. Jónsson um binary flutning þá mælir hann ekki með að nota ELM við skráarflutning vegna þess að flókið sé að nota uuencode og uudecode. Þetta þarf ekki að vera svona flókið. Sjálfur hef ég notað ELM við forrita/skráaflutning. Lausnin er að nota ekki uuencode og uudecode á Unix vélinni (host-inum), heldur uuencode-a og uudecode-a á sinni eigin vél. Allt sem þarf til þess er lítið forrit sem heitir UULite og Macintoshvél. Nú sé ég DOS/Windows menn rísa upp á afturfæturnar með morðglampa í augum.

Nei ég er að grínast!!!

Ég er ekki að segja að makkin sé betri, ég þekki ekki dásamlega undraveröld DOS og Windows nógu vel til að koma með svo barnalegar athugasemdir. Vafalaust er hægt að fá svipað forrit á DOS/Windows, en ég þekki það bara ekki. Vélarnar eru bara verkfæri sem á að nota en ekki trúarbrögð eins og sumir virðast halda. Hvaða máli skiptir hvort notað er naglbítur eða klaufhamar til að draga út nagla, bara að verkið sé unnið eins og mönnum finnst best? En áfram með smjörið.

Tökum dæmi um hvernig ég nota þetta:

Senda binary með elm.

1. Fyrst uuencode-a ég forritin og skrárnar sem ég ætla að senda annaðhvort í eina skrá eða hvert í sína skrá.

2. Opna samskiptaforrit og hringi í Ísmennt og fer í elm. Vel m)ail og skrifa þeim sem á að fá forritin/skrárnar bréf eins og venjulega þar sem ég segi honum hvað ég sé að senda, segi honum nýjustu fréttir, spyr hvernig amma hans hafi það og hvað annað sem mér dettur í hug.

3. Vel "Send Text" í samskiptaforritinu mínu og fæ þá venjulegan "opna" gluggan í makkanum og vel uuencodaða skrá. Þá sendir samskiptaforritið skrána eins og ég hafi skrifað hana á lyklaborðið.

4. Vel "hop" (escape) og síðan "z" eins og venjulega og sendi bréfið til viðtakanda.

Förum þá í hlutverk móttakanda og náum í bréfið:

1. Fer inn á ísmennt og fæ á skjáin að ég eigi póst. Hér kemur ýmislegt til greina. Annaðhvort að taka bréfið til sín með skráarflutningi (sjá 2b) eða að lesa það í ELM (sjá 2a). Segjum að ég viti ekki að bréfið innihaldi uuencode-að forrit og skrár og ég ákveði að lesa það í ELM. Semsé opna bréf í ELM. (sjá 2a.)

2a. Byrja að lesa bréf í ELM og sé þá að það inniheldur uuencode-að forrit/skrár. Þá eru tveir möguleikar. Hætta í ELM og taka skrána til sín með skráarflutningi (sjá 2b) eða að halda áfram að "lesa" skrána í ELM, þ.e. að láta alla skránna rúlla yfir skjáinn. Þú verður að hafa "Capture to log" á til að þú getir haldið áfram þannig.(Sjá 3b.) Þetta er einnig seinlegt ef forritin/skrárnar eru löng.

2b. Tekur skrána til þín með skráarflutningi.(sjá 3a.)

3a. "Loggar" þig út og hættir í samskiptaforritinu. Opnar UULite og decode-ar bréfið. UULite sér sjálft um að fjarlægja haus og annað sem ekki tilheyrir skránum og forritunum. Einnig sér það sjálft um að skilja forritin og skrárnar í sundur.

3b. "Loggar" þig út og hættir í samskiptaforritinu. Opnar UULite og decode-ar "Log" skránna frá samskiptaforritinu. UULite sér sjálft um að fjarlægja haus og annað sem ekki tilheyrir skránum og forritunum. Einnig sér það sjálft um að skilja forritin og skrárnar í sundur.

Með þessu þarf ekki að þvælast á milli mappa (directory) á Unixvélum eða afrita eða breyta skrám á UNIX vélinni, allt atriði sem getur vafist fyrir þeim sem þekkja kerfið ekki mjög vel. Binary flutningur vafðist jafnvel fyrir Tryggva og hefur mér sýnst að hann þekki nú ýmislegt allnáið á kerfinu.

Vona að þetta nýtist einhverjum og ég hafi ekki gert þetta of flókið. Ég reyndi að taka alla möguleika með þannig að þetta virkar e.t.v. snúið, en er í raun sáraeinfalt í notkun.

Kveðja

Gústav K Gústavsson

gustav@ismennt.is

Við þetta er því að bæta að það eru til forrit fyrir PC-tölvur til að gera þetta á sama hátt og Gústav lýsir og ég hef prófað tvö slík en þegar þau eru notuð þá eru skrárnar alltaf skemmdar þegar þær koma af Ísmennt þó allt gangi vel þegar forritin eru prófuð án þess að skránar séu sendar neitt.

Það kann auðvitað að vera að þetta sé einhver klaufaskapur hjá mér en mér finnst það þó ólíklegt. Hinsvegar virðast engin sérstök vandræði vera við það að þýða eða "decoda" skrárnar á Ísmennt og flytja þær svo heim en það er svolítið flóknara. Best er að gefa í skel skipunina: uudecode \usr\mail\notendanafn ef vitað er að bréf í pósthólfinu inniheldur forrit og ætti forritið þá að birtast á heimasvæði notanda. DCC flutningarnir á IRC-inu sem Tryggvi talar um eru mjög þægilegir ef báðir aðilar eru á sama tíma á netinu og hittast á irc-inu, en það kemur ekki í stað forritaflutninga með pósti.

Sæmundur Bjarnason.

Til baka í efnisyfirlit.


UM SKÁK OG TÖLVUR.

Nú eru heimsmeistaraeinvígin í skák bæði hafin. Í síðasta Rafriti var sagt frá því þegar Judit Polgar tapaði fyrir Deep Blue forritinu og þeirri skoðun hennar að tölvur muni bráðlega standa bestu skákmönnum miklu framar.

Um daginn var sýnt í sjónvarpi hér viðtal við heimsmeistarann í skák, Garry Kasparov. Eins og við var að búast var Kasparov spurður um það meðal annars hvort hann áliti að tölvur tæku bráðlega bestu skákmönnum fram. Kasparov kvaðst ekki hafa trú á að svo yrði nokkurntíma. Allra bestu skákmenn heimsins á hverjum tíma eða a.m.k. heimsmeistarinn sjálfur mundi alltaf verða betri en bestu og öflugustu skáktölvurnar.

Þessi skoðun Kasparovs er mjög athyglisverð og alls ekki er víst að allir séu honum sammála, hvorki skákmenn né aðrir. Það verður þó að álíta að hann viti vel hvað hann er að tala um. Sjálfur hefur hann oft teflt við tölvur og um þekkingu hans á skák þarf ekki að ræða.

Svo oft hefur því verið spáð að fljótlega yrðu bestu skáktölvur betri en bestu skákmennirnir að eðlilegt er að vera mjög vantrúaður á að slíkt rætist. Þó hefur skákforritum farið mikið fram á undanförnum árum, en það er greinilega ekki hægt að mæla það á neinn einhlítan hátt hversu langur tími muni líða þangað til þau verði betri en bestu skákmenn, ef svo skyldi fara.

Framfarir hjá skákforritum verða með allt öðrum hætti en hjá skákmönnum. Gera má ráð fyrir að sá hæfileiki tölvunnar að skoða ótölulegan grúa af mögulegum taflstöðum verði því þýðingarminni sem styrkleikinn eykst. Jafnvel ódýrustu skákforrit í dag eru á borð við öfluga meistara í taktískum brellum, svo framarlega sem leikjaraðirnar eru ekki of langar fyrir þau. Það er stöðumatið og stöðuskilningurinn sem þvælist enn fyrir tölvunum og jafnvel endataflstæknin. Þó eru tölvur í dag miklu betri í endatafli en áður var. Fyrir nokkrum árum þurftu miðlungsskákmenn ekki að hafa neinar áhyggjur af því að geta ekki unnið jafnvel sterkustu skáforrit, svo framarlega sem þeim tókst að komast klakklaust út úr byrjuninni og forðast allar taktískar brellur, því um leið og út í endataflið var komið þá voru tölvurnar jafnan eins og byrjendur.

En þetta er liðin tíð og það er staðreynd að jafnvel skákforrit sem seld eru tiltölulega ódýrt í verslunum eru nú orðin ótrúlega sterk. Það hefur líka komið í ljós á skákmótum bæði hér á landi og víðar að tölvuforrit eru ekki lengur neinir byrjendur.

Lítið hefur heyrst um það hvernig þátttöku skákforrita í skákmótum er háttað. Að undanförnu hefur oft heyrst sagt frá þátttöku skákforrita í skákmótum hér á landi. Mér eru ofarlega í huga nokkrar spurningar um þátttöku þessara forrita og gaman væri ef einhverjir lesendur blaðsins gætu sent mér línu um það.

Er borgað sama þátttökugjald fyrir þau og aðra? Er aðstoðarmaður með þeim sem flytur leikina á skákborð? Þurfa aðrir þátttakendur að tefla gegn þeim á tölvuskjá? (Það gerði Polgar þegar hún tefldi við Deep Blue á dögunum.) Er ekki hætta á að mannlegum þátttakendum á skákmótum fækki þegar tölvurnar fara að hirða verðlaunin? Er væntanlegum þátttakendum í mótum þar sem tölvuforrit keppa gerð grein fyrir því fyrirfram að tölva eða tölvur verði meðal þátttakenda? Er skákforritum leyfilegt að taka þátt í öllum mótum hér á landi?

Spurningin um skákstyrkleika tölva samanborið við menn hefur lengi heillað menn. Ekki fer á milli mála að þeir sem spáð hafa yfirvofandi yfirburðum tölva á þessu sviði hafa oft orðið sér til skammar og þó tölvur vinni öðru hvoru frækna sigra og það jafnvel gegn stórmeisturum er þó enginn vafi á því að ennþá stendur Deep Blue bestu skákmönnum heimsins nokkuð að baki.

Á einum stað njóta tölvurnar fulls jafnréttis og það er á alþjóðlegu skákmiðlurunum í Boston og Árósum (Coot og Bentley) en allir sem tengst geta Internet eiga þess kost að komast þangað inn og tefla eða horfa á skákir. Á öllum tímum sólarhringsins er fjöldi skákmanna þar við tafl.

Þónokkrir Íslendingar eru þar á meðal og einnig tefla þar allmörg skákforrit m.a. Deep Blue, ChessGenius og MChess svo þau sterkustu séu aðeins talin.

Skákforritin eru jafnan nokkuð ofarlega á stigalistunum þarna, einkum í hraðskákinni og það eru ekki nema góðir skákmenn þar sem hafa nokkuð að gera í hendurnar á þeim. Stundum eru líka sýningarskákir á skákmiðlurunum og eru þá þekktir skákmeistarar fengnir til að tefla við bestu tölvurnar. Slíkar viðureignir vekja jafnan mikla athygli en tölvurnar eru oft nokkuð sigursælar.

Á skákmiðlurunum er líka hægt að fylgjast með skákunum í heimsmeistaraeinvígjunum og hlusta á og taka þátt í fróðlegum umræðum og bollaleggingum manna um þær.

Sæmundur Bjarnason

Til baka í efnisyfirlit.


ÖRLÍTIÐ UM MOO.

MOO er nokkurs konar "advanced" Mud. Margir kannast við MUD-inn. Ég hef ekki sjálfur prófað hann, en mér var hins vegar bent á MOO nú nýverið. Hér er um að ræða stakar tölvur sem keyra þennan MOO hugbúnað. Til að nefna nokkur MOO: Media-MOO, Lamda-MOO og PMC-MOO. Hægt er að segja að MOO-"heimurinn" sé eins og stór ævintýraleikur. Sumir ganga jafnvel svo langt að kalla þetta "textbundinn sýndarveruleika". Til að komast í MOO er notað telnet. T.d. telnet 152.1.24.90 7777 (úr skel)
Nauðsynlegt er að hafa 7777 á eftir.
Þetta er PMC-MOO. Þar hefst "leikurinn" á háaloftinu. Síðan eru nokkur atriði sem þarf að kunna til að halda áfram. Til að "segja" eitthvað við einhvern þarf að hafa " á undan því sem segja skal.

Til að "gera" eitthvað þá þarf að hafa : á undan.

Hægt er að skoða með því að segja look en ef sagt er bara þá kemur lýsing á "herberginu" sem þú ert staddur (stödd) í. Á PMC-MOO getur hver sem er fengið "leikanda". Þegar búið er að telneta þá skal slá inn:

@create Sumar skipanir eru með @ á undan. Þegar þessu er lokið þá er hægt að tengjast:

connect Þá ertu loksins komin(n) á háaloftið. Þar eru nokkrir hlutir sem gaman er að skoða. Þegar háaloftið er orðið "of lítið" þá er hægt að segja:
open door
Þá er maður kominn í anddyri (lobby). Þar eru oftast einhverjir. Munið: " = segja, : = gera og look = skoða. Síðan er nauðsynlegt að komast á milli staða. go er notað til þess. Go n,s,e,w hreyfir þig í norður, suður, austur og vestur. Einnig er hægt að fara upp og niður (u og d). Samt er ekki alltaf hægt að fara í allar áttir. Það kemur oftast listi yfir útganga í hverju herbergi þegar gert er look og þegar fyrst er komið inn í það. Það eru ótrúlega margar skipanir í MOO (eitthvað um 150!) em hægt er að komast um með því að kunna 4 eða 5.

MOO kann að virðast lítilfjörlegt í fyrstu en þegar farið er að skoða það nánar kemur í ljós að það er alls ekki svo galið.

Til dæmis er hjálpin hrein út sagt STÓRKOSTLEG þar er hægt að fá góðar upplýsingar með lítilli fyrirhöfn. Mjög gott er að hafa einhvers konar "log" á þegar hjálp er skoðuð. Þá er hægt að láta upplýsingarnar renna eftir skjánum og skoða þær svo í rólegheitum eftir á.

Tryggvi R. Jónsson
trigger@ismennt.is

Til baka í efnisyfirlit.


HARÐIR DISKAR OG AÐRIR.

Hvað eru harðir diskar?
- og hvernig vinna þeir?

Harðir diskar eru sá hluti tölvanna, sem segja má að sé afgerandi þáttur í gagnsemi þeirra. Þessi geymslumiðill hefur þá kosti að ákaflega fljótlegt er að sækja gögn og forrit til vinnslu. Ókostur er hinsvegar að ekki er hægt um vik að skipta um disk þegar hann er fullur eða ef hann bilar, þar sem hann er fasttengdur tölvunni sjálfri og þarf þá þar með að opna kassann utan um vélina til þess að komast að disknum. Þó eru til á markaði sérstakir útskiptanlegir diskar sem ganga undir nafninu harðir diskar en þar er ekki um sömu tækni að ræða og yfirleitt eru þessi drif hægvirkari en "Winchester"-diskurinn, en þetta gælunafn hlaut þessi tegund diska fyrst sem dulnefni hjá IBM á meðan hönnun stóð. Sagt er að það hafi verið vegna þess að fyrsti diskurinn hafi verið tveir diskar á sama öxli og þar með fundin samlíking við Winchester tvíhleypuna. Þó að harðir diskar hafi það framyfir aðrar tegundir diska að sóknartími þeirra er mjög lítill þá eru þeir viðkvæmir fyrir titringi og höggum. Þó hefur náðst góður árangur á þeim rúma áratug síðan byrjað var að nota þá í einkatölvur, í því að gera þá höggþolnari.

Hver harður diskur samanstendur yfirleitt af nokkrum diskum, sem eru hlið við hlið á sama ás og er einn leshaus fyrir hverja hlið hvers disks. Utan um diskana er loftþéttur kassi til að hindra að smæsta rykögn berist á diskana. Leshausarnir snerta ekki yfirborð diskana en eru stilltir með gífurlegri nákvæmni þannig að þeir nánast fljúga eftir örþunnu loftlagi yfir yfirborði disksins, sem snúast á miklum hraða, yfirleitt um 3600 snúninga á mínútu en er þó breytilegt efitr stærð diska.

Gjarna hefur verið notuð sú lýsing á þessu örlitla bili, að ef að leshausinn væri stór farþegaþota og yfirborð disksins samsvaraði yfirborði jarðar, þá þyrfti þotan að fljúga svo nálægt yfirborðinu að ef að jarðarber væri á milli, þá rækist þotan á það. Vilji menn hinsvegar notast við metrakerfið í þessum efnum þá skal hér upplýst að fjarlægðin milli disks og leshauss er oft á bilinu 0,04 mm til 0,013 mm og jafnvel enn minna.

Þetta gerir það að verkum að mjög skamman tíma tekur fyrir stýrispjald disksins að velja þann stað á honum sem geymir þau gögn sem beðið er um. Þessi tími er kallaður meðal-sóknartími og er jafnan um 14-17 og allt upp í 28 millisekúndur á algengustu gerðum í dag. Til eru diskar með innbyggðu skammtímaminni sem geta náð 9 millisekúndna meðalsóknartíma við bestu aðstæður. Til samanburðar má geta þess að svokallaðir CD-ROM diskar sem líta eins út og hljómdiskarnir (CD) hafa um 350-400 millisekúndna meðalsóknartíma. Nýjustu drif þeirrar tegundar (sk. tvíhraða drif) ná þó um 150 ms. meðalsóknartíma. Einnig skiptir máli hversu hratt er hægt að lesa af diskum eftir að rétti "byrjunarreiturinn" er fundinn en harðir diskar eru um 10-15 sinnum fljótari að koma frá sér gögnum en venjulegir disklingar. Þetta þýðir gróflega að forrit sem keyrt er af hörðum diski er um 10-15 sinnum hraðvirkara í diskvinnslu en forrit sem keyrt er af disklingi.

Fyrsti harði diskurinn sem kom á almennan markað var áðurnefndur "Winchester" frá IBM en hann var innbyggður í fyrstu IBM AT-vélarnar og þótti geysistór, heil 10 megabæti sem þykir víst ekki merkilegt í dag. Þessi diskur var raunar upprunalega hannaður og kynntur undir nafninu IBM 3340 árið 1973, ári eftir að IBM kynnti fyrsta disklinginn sem var 8 tommur í þvermál. Þessi diskur lagði línurnar að því sem koma skyldi og þótt að við hönnun hans hefði þótt mikið stórvirki að auka þéttni segulyfirborðs hans tvöfalt frá því sem áður var, leið ekki á löngu þar til á markaðinn komu stærri diskar. Hönnuðir lentu að vísu í nokkrum vandræðum eftir að á markaðinn komu diskar sem voru stærri en 32 megabæti þar sem við hönnun DOS-stýrikerfisins hafði ekki verið gert ráð fyrir svo ævintýralega stórum geymslumiðlum.

Þessi vandi var leystur með því að skipta diskunum niður sem kallað var eða "partitioning" . Þá var stýrikerfið forritað þannig að tölvan leit á diskadrifið sem tvö eða fleiri drif þar sem ekkert þeirra var stærra en 32 megabæti. 70 megabæta diskur gat þannig verið drif C:, D: og E:. Úr þessum vanda var síðan leyst í útgáfu 4 af DOS en eldri útgáfur geta, eins og áður segir, ekki unnið með stærri diskum en 32 megabæti.

Þess má geta í framhjáhlaupi hér að DOS 1.0 gat ekki náð sambandi við neina harða diska, það var einfaldlega ekki gert ráð fyrir svoleiðis lúxus í einkatölvum á þeim tíma.

Í dag er ekki óalgengt að í tölvur sem nota á til teikni- eða hönnunarvinnu sé krafist að séu ekki minni diskar en 160-250 megabæti og tölvur til heimilisnota eru núorðið ógjarnan orðið með smærri diskum en 60-100 megabæti. Forrit eru orðin það frek á diskrými að minna dugir hreinlega ekki.

Spjalddrif

Á markaði í dag eru tvær gerðir af hörðum diskum, sem eru hefðbundnir diskar og síðan svokallað spjalddrif en þar er búið að smækka drifið það mikið að drifið er fest á stýrispjaldið sem stjórnar því og getur þetta sparað töluvert pláss. Að öðru leyti vinnur spjalddrif alveg eins og hefðbundið drif.

Diskstýrispjöld

Til að sjá um að stjórna því hvar á drifi skal leita gagna þegar tölvan biður um þau eru sérstakar rásir sem gegna því hlutverki að stýra hausum drifsins, að skynja segulmynstrið á diskunum og að hleypa straum á hausana til að segulmagna diskinn þegar skrifað er á hann. Þessar rásir eru á svokölluðu diskstýrispjaldi en slík spjöld gegna oft á tíðum tveimur hlutverkum samhliða, þ.e. þau stjórna bæði hörðum drifum og disklingadrifum þó að töluverður munur sé á þessum tveimur gerðum.

Þetta er gert til að spara pláss en tilfellið er að hafi tölva harðan disk á annað borð, þá er nokkuð öruggt að einnig eru eitt eða tvö disklingadrif í sömu vél. Spjaldinu er komið fyrir í vélinni með því að því er stungið í eina af tengiraufunum sem eru á aðalplötu tölvunnar, svokölluðu móðurborði.

Til að rugla málin enn frekar eru einnig til tölvur þar sem þessar rásir eru hluti af móðurborðinu en þá er hægt að gera þann hluta móðurborðsins óvirkan ef þörf krefur, t.d. ef harður diskur er af gerð sem passar ekki þeim tiltekna staðli sem byggður er inn í rásirnar. Dæmi um öðruvísi og fullkomnari staðla en þennan venjulega (sem kallast IDE) eru SCSI (framborið skussi) og ESDI. Þeir eru í meginatriðum byggðir á þeirri tækni að diskstýrispjaldið er ekki lengur hluti af sjálfu drifinu, heldur gegnir það jafnvel fleiri hlutverkum um leið, eins og t.d. að tengjast skanna, CD- drifi og þess háttar.

Bernoulli og MO-diskadrif

Til eru á markaði drif sem hvorki er hægt að kalla hefðbundin disklingadrif né harða diska. Flest eru þau ný af nálinni en flestir líta á þessi drif sem afritunardrif, þ.e. til að taka afrit af gögnum sem mikilvægt er að glatist ekki. Algengt er að taka öryggisafrit með segulböndum en drif sem geta geymt mikið magn upplýsinga eru ekki síður hentug til afritatöku ef þau eru með lausum diskum. Margar gerðir eru á markaði og er hér aðeins litið á fá af þeim drifum sem í boði eru.

Bernoulli-drif

Þessi drif eru einn harðasti keppinautur harðra diska. Drifin eru disklingadrif en þau voru upphaflega markaðssett til afritatöku á mikilvægum gögnum og eru raunar enn mest notuð til þess. Hver disklingur tekur 90 megabæti og meðal- sóknartími er um 19 millisekúndur sem er mjög góður hraði. Drifið er þó nokkuð dýrt, kostar um 100 þúsund krónur og hver disklingur kostar um 10 þúsund. Það er hinsvegar ótvíræður kostur að geta skipt um disklinga eða að geta læst þá inni í t.d. eldtraustum skáp ef því er að skipta.

"Magneto Optical"-drif

Þessi drif sem á ensku eru gjarna kölluð "MO-drive" eru nýlega komin á markaðinn en þau sameina lasertækni og segulmiðla. Meðalsóknartími 3« tommu drifanna er 50-70 millisekúndur en 5¬ tommu drifin eru með þyngri leshausa og meðalsóknartími þeirra er 60-100 millisekúndur en þau geta geymt 650 megabæti. Nýju 3« tommu drifin nota hinsvegar disklinga sem taka 128 megabæti en þeir eru jafnstórir venjulegum 3« tommu disklingum nema hvað þeir eru tvöfalt þykkari.

Drifið vinnur í stuttu máli á tækni sem mætti kalla ljósseglunartækni eða þannig að veikt segulsvið er búið til umhverfis það svæði disksins sem næst liggur les- og skrifhausnum. Þvínæst er skotið lasergeisla á það svæði disksins sem á að skrifa á og hitnar þá málmþynnan í yfirborði disksins. Við það snýst segulsvið málmþynnunnar í sömu átt og segulsvið það sem er umhverfs þynnuna. Þá er búið að hreinsa burt þau gögn sem fyrir voru, svipað og eftir afþurrkunarhaus á segulbandi. Síðan er skrifað á þynnuna í næstu umferð með því að snúa við segulsviðinu og skjóta lasernum aftur á málmþynnuna en nú aðeins á þá hluta hennar sem við á til að mynda tvíundamynstrið sem táknar hinar ýmsu tölur.

Lesið er af diskinum með því að varpa á hann lasergeisla að nýju en þá er hann hinsvegar mikið kraftminni en þegar skrifað er, og án segulsviðs, og nægir styrkur ljóssins ekki til að breyta stefnu segulsviðsins á þynnunni. En þar sem laserinn er skautað ljós, þ.e. ljós með ákveðinni stefnu en ekki dreift, er hægt að nýta sér skautunina þannig að ljósið sem endurkastast af þynnunni snýr mismunandi ef þannig má að orði komast, eftir stefnu segulsviðsins á yfirborði disksins. Þetta er skynjað með sérstökum ljósnema sem breytir þá stefnu ljóssins í rafboð sem samsvara tvíundatákninu á diskinum.

Björn Davíðsson

snerpa@ismennt.is

Til baka í efnisyfirlit.


SVANURINN

Örsaga eftir Benedikt Sæmundsson

Æi það er erfitt að vera geimvera! Tökum sem dæmi þessa litlu plánetu sem íbúarnir kalla Jörð. Við höfum um árabil reynt að komast í samband við Jarðarbúa með venjulegum hugskeytum og þessháttar, en þeir vilja endilega sjá einhverja fljúgandi hluti. En loksins fréttum við af manni sem veit hvernig við viljum hafa samband við þá. Að vísu vill hann hitta okkur við einhvert fjall sem gerir allar hugarorkusendingar mjög erfiðar, en loksins loksins. Nú, æðsta ráð okkar kom saman og var ákveðið að það yrði að heiðra þennan mikla hugsuð sem er að koma á sambandi á milli okkar. Fimm hundruð af okkar færustu hugskeytasendlum stilltu saman orku sína til að taka hvítan fugl með langan háls og hengja hann fyrir framan hús hans. Þetta er einn almesti heiður sem hægt er að sýna nokkrum manni, og er þessi siður þekktur um allan alheiminn. En hann brást hinn versti við og sagðist ekki skilja þennan afbrigðilega hugsunarhátt. Því hefur verið áhveðið að hætta öllum frekari tilraunum til að ná sambandi við Jarðarbúa.

Til baka í efnisyfirlit.


AÐ SKRIFA Á USENET.

Þegar ég byrjaði að "módemast" að ráði á Ísmennt-netinu einhvern tíma rétt eftir áramótin síðustu þá fór ég fljótlega að fylgjast með Usenet ráðstefnunum. Aðallega fylgdist ég þó með einni ákveðinni ráðstefnu sem heitir rec.games.chess en þar var hægt að fylgjast með fróðlegum og skemmtilegum umræðum um allt sem snerti eitt aðaláhugmál mitt, sem er skák. Talsvert mikið er yfirleitt skrifað á þessa ráðstefnu (líklega verða þó öll met slegin núna næstu daga enda tvö heimsmeistaraeinvígi í gangi) og t.d. eru 50 til 100 K ekki sjaldgæfur dagsskammtur.

Mér er tamt að tala um stærð skráa í K-um (kílóbætum) allt síðan ég kynntist fyrst Sinclair ZX-81 tölvunni með 1 K í innra minni sem seinna var svo hægt að kaupa gríðarlega stóra og mikla minnisstækkun við, sem var heil 16 K !!.

Nú, þetta var útúrdúr. Þegar ég hafði fylgst með r.g.c. í nokkrar vikur þá fannst mér kominn tími til að ég léti ljós mitt skína á þessari ráðstefnu. Það leit ekki út fyrir að vera ákaflega flókið að senda innlegg þangað og ég skrifaði einhverjar fréttir úr skáklífinu hér. Sagði ef ég man rétt m.a. frá atskákmóti því sem Judit Polgar tók þátt í hér í Reykjavík. Þetta gekk prýðilega og tölvan sagði mér að grein mín hefði verið send en ég skyldi ekki búast við að hún kæmist á leiðarenda alveg strax:

Be patient! your new article will not show up immediately.

Ég sætti mig við þetta en gáði þó fljótlega að því hvor hún væri ekki þarna. Og mikið rétt, þarna var hún, vel samin og gagnorð :-) (á ensku auðvitað).

Ég lenti þó í óvæntum erfiðleikum þegar ég ætlaði að fara eins að og með Ismennt ráðstefnurnar, þ.e. að senda innlegg úr skrá en það þykir mér alltaf mun þægilegra.

Það á kannski ekkert sérstakt erindi í þessa grein en ég er samt að hugsa um að útskýra hvers vegna mér finnst betra að senda ráðstefnuinnlegg og reyndar sendibréf líka úr skrá heldur en að skrifa það á netinu. Á hægfara módemi eins og ég hef yfir að ráða eru editorarnir sem notaðir eru á netinu svo hægvirkir að það er óttalega leiðinlegt að skrifa þar og þó einkum ef maður þarf að bæta inn í og breyta. Einnig er alveg óþarfi að leggja undir sig símann í þann tíma sem maður er að skrifa grein eða bréf, en sá tími er stundum þónokkur hjá mér, þó ég geti verið fljótur að slá á takkana. Einnig kostar tengingin einhverjar krónur ef hún stendur lengi.

En semsagt, þegar ég ætlaði að senda úr skrá á Usenet ráðstefnu þá rakst ég á vegg. Tölva menntanetsins neitaði mér alfarið um leyfi til þess. Ég vildi ekki gefast upp og skrifaði stjórnendum netsins og spurði hverju þetta sætti. Svarið sem ég fékk vakti furðu mína. Það var einfaldlega þannig: "Þetta á að vera svona. Við viljum ekki að það sé hægt að senda inn á Usenet ráðstefnur með þessum hætti." Mér var einnig sagt að ég gæti farið framhjá þessu með því að senda skrána fyrst inn á Ismennt og fara síðan inn í editorinn eins og ég ætlaði að fara að skrifa innlegg á ráðstefnuna, en gefa þá skipunina Ctrl-x og síðan Ctrl-i og þannig gæti ég "insertað" skrána sem ég hefði áður flutt inn á netið. Ég prófaði þetta og það gekk ljómandi vel. Engin vandamál og nú gat ég semsagt unnið að greinunum sem ég skrifaði á r.g.c. í mestu rólegheitum og sent þær síðan með þessari aðferð inn á ráðstefnuna.

HÉLT ÉG !!!!!

En það var mikill misskilningur hjá mér að halda að nú væru öll vandamál leyst. Þau voru ekki byrjuð ennþá!!

Ég gat alltaf lesið þau innlegg sem ég sendi á r.g.c. og sömuleiðis hafa þeir notendur Ísmennt sem áhuga hafa haft á að lesa r.g.c. getað lesið þau. En það sótti að mér nagandi efi. Er nokkuð víst að þessi snilldarverk mín dreifist út um allan heim eins og meining mín er? Þegar ég hugsaði mig um þá fór ég að efast um að ég gerði rétt í því að svara ekki af fyllstu samviskusemi öllum spurningunum sem lagðar voru fyrir mig þegar ég fór inn í editorinn.

Newsgroups:

Þetta var fyrsta spurningin og það var eiginlega alveg ljóst að þarna þurfti ég að skrifa rec.games.chess.

Subject:

Var næsta spurning. Varla gat skipt miklu máli hvað væri skrifað þarna. Það hlaut að vera átt við hvert væri efni greinarinnar.

Keywords:

Var þriðja atriðið. Um það hlaut að gegna líku máli og um nr. tvö. Það mátti reyna að setja þarna nokkur orð sem komu mikið fyrir í greininni sem verið var að senda.

Summary:

Var það fjórða. Þetta gat varla valdið vandræðum.

Distribution: (default 'local')

Þetta var líklega lykilatriðið. Gat verið að með því að svara þessu ekki eins og ég hafði gert fram að þessu væri ég að ákveða að greinin dreifðist bara á Íslenska Menntanetinu? Líklega. Bölvaður auli gat maður verið. Best að prófa að setja þarna Usenet, ætli tölvuskömmin skilji það ekki? Þetta prófaði ég og tölvan lét sér það vel líka. En efinn yfirgaf mig ekki. Ef þetta væri nú ekki rétt. Kannski átti að skrifa eitthvað allt annað þarna. Að lokum ákað ég að skrifa grein á ráðstefnuna Ismennt.vandamal og spyrja um þetta. Ég fékk strax ein tvö svör og svarendurnir sögðust halda að þarna ætti að standa world. Mér skildist þó að þeir hefðu ekki prófað það sjálfir, en hefðu lesið það einhverns staðar. Þetta leit vel út og nú var bara að prófa þetta.

Um þessar mundir var ég farinn að draga mjög úr skrifunum og ákvað eiginlega að hætta þeim alveg nema ég gæti gengið úr skugga um að skrifin kæmust til skila. Það er ekkert gaman til lengdar að vera að skrifa það sem maður heldur að sé fyrir allan heiminn en svo les það kannski aldrei nokkur maður!!

Þegar hér var komið var ég farinn að fikta dálítið við Gopherinn mér til hugarhægðar og allt í einu uppgötvaði ég það að á einhverri tölvu í Bandaríkjunum gat ég fengið að lesa allt það sem var skrifað á allar Usenet ráðstefnur sem til voru. Þarna var tækifærið komið, nú gat ég prófað að skrifa á r.g.c. og sjálfur gengið úr skugga um hvort það sem ég skrifaði kæmist inn á ráðstefnuna.

Nú fór ég að skrifa og notaði Distribution world en það gekk ekki, greinarnar komust greinilega ekki út af Ísmennt netinu. Ég gerði ýmsar tilraunir og velti mikið fyrir mér valmyndinni sem birtist þegar farið er út úr editornum:

[vista /usr/tmp/nn.a05739]

a)bort e)dit h)old m)ail r)eedit s)end v)iew w)rite Action: (post article)

Þetta tók ég þannig að nóg væri að ýta á enter til þess að greinin færi á sinn stað (post article) þó mér fyndist nú að mátt hefði hafa þetta ljósara. En auðvitað prófaði ég líka að nota s fyrir send. En það virtist alveg sama hvor aðferðin var notuð tölvan svaraði jafnan:

Be patient! Your new article will not show up immediately.

Article posted
Press enter:
Þetta skildi ég þannig að búið væri að senda greinina og þegar ég ýtti á enter fór ég einfaldlega út í valmyndakerfið aftur. En það var sama hvaða aðferð ég notaði ekkert sem ég skrifaði komst inn á r.g.c. Ég uppgötvaði núna ráðstefnu eina merkilega sem heitir misc.test og er einmitt notuð til þess að gera tilraunir á. Ég fór nú að senda frekar á hana en r.g.c. en það skipti engu máli, bréfin frá mér strönduðu öll einhvers staðar.

Nú fór ég líka að sjá öðru hvoru að aðrir skákmenn voru að senda innlegg á r.g.c. Meðal annars voru þeir stundum að svara fyrirspurnum sem þar komu fram. Einkum fyrirspurnum um styrkleika helstu skákforrita, en nokkrir Íslendingar eru miklir sérfræðingar á því sviði. Þegar ég gáði á Gopherinn þá gat ég aldrei fundið að þessar greinar þeirra kæmust nokkuð í gegn frekar en mínar.

Nú var komið langt fram á sumar og ég ákvað að reyna eitthvað róttækt í málinu og skrifaði Pétri Yfirguru bréf um þessi vandræði mín. Hann svaraði fljótt og sagðist ekkert skilja í þessu, en hann skyldi athuga málið. Bað mig líka að segja sér sem nákvæmast hvernig ég sendi greinarnar á ráðstefnuna. Ég gerði það og við lögðum báðir höfuðin í bleyti í nokkra daga.

Á leiðinni heim úr vinnunni einn daginn fékk ég skyndilega hugljómun. Gæti verið að nauðsynlegt væri að skrifa World með stóru W-i. Það var dálítið UNIX-legt og ég var alls ekki viss um að ég hefði prófað það í fyrri tilraunum. Ég flýtti mér heim og prófaði þetta. Og viti menn nú leit þetta talsvert öðruvísi út. Áður hafði ég alltaf fengið eftirfarandi klausu efst á skjáinn þegar ég var kominn inn í editorinn og búinn að svara öllum spurningunum:

Newsgroups: rec.games.chess
Subject: xxxx
Summary: xxx
Keywords: xxx

> En nú bættist fimmta línan við og hún var svohljóðandi:

Distribution: World

Ég flýtti mér að skrifa Pétri og segja honum að frekari vangaveltna væri ekki þörf, málið væri leyst. Vandinn hefði ekki verið annar en sá að gæta þess að hafa stórt W í World. Og ég sá fyrir mér Yfir-Yfir-tölvugúrua Usenets þar sem þeir hlógu sig máttlausa og litu hver á annan og sögðu: "Skelfing eru menn nú vitlausir. Að skrifa World með litlu w-i og nafnið sitt með stórum staf. Hvað þykjast menn vera?"

Jæja, þá var loksins hægt að fara að láta ljós sitt skína á alþjóðavettvangi.

HÉLT ÉG !!!!!

En eins og fyrri daginn skjátlaðist mér hrapallega þar. Þó ég notaði stórt W í World þá breyttist ekkert annað en það að línan Distribution World kom í bréfhausinn til viðbótar við þær 4 sem áður höfðu jafnan komið.

Ég skrifaði nú Pétri aftur og sagði mínar farir ekki sléttar. Pétur viðurkenndi eftir að hafa athugað málið að þetta stafaði greinilega af einhverjum galla í kerfinu hjá sér og sagði að hugsanlega yrði erfitt að finna hann, en hann mundi reyna eins og hann gæti.

Ég hef semsagt ekki hugmynd um hve miklir erfiðleikar eru eftir áður en þessu takmarki mínu, að skrifa á Usenet ráðstefnu verður náð, en ég vona bara að Pétri gangi lúsaleitin vel og að þetta komist í lag von bráðar.

Þessi frásögn sýnir vel hve miklir erfiðleikar geta mætt notendum sem lítið kunna fyrir sér í fræðunum þegar þeir ætla að fara að láta að sér kveða á Ísmennt og mórallinn er að mínum dómi sá að aldrei megi gefast upp, heldur verði alltaf að halda áfram baráttunni og síst af öllu megi óttast að verða að athlægi. Það hvarflaði nefnilega oft að mér í þessari baráttu allri að það væri bara ég sem væri svona vitlaus, allir aðrir gætu auðveldlega sent greinar á Usenet.

Sæmundur Bjarnason

Til baka í efnisyfirlit.


HRYLLINGSSÖGUR AF TÖLVUUMBOÐI.

Maður nokkur keypti tölvu.....
samkvæmt ríkissamningi í gegnum Innkaupastofnun ríkisins. Hún var með hörðum diski og innsettu kerfisforriti, semsagt tilbúin til notkunar. Eftir að hafa kannað dásemdir vélarinnar um tíma þá var eitt stjórnborðsskjal sem hann vissi ekki hvað gerði. Enginn samstarfsmaður hans né kunningi hafði þetta skjal á sinni tölvu og þrátt fyrir að tölvufróðari menn skoðuðu gripinn þá vissi enginn hvað þetta skjal gerði. Þetta skjal hét FileSaver og þegar það var opnað þá gast þú valið "On" eða "Off" og valið harða diskinn. Einnig birtist stundum á skjánum "How many files?" og gluggi þar sem hægt var að skrifa tölur. Eina ráðið sem hann fékk hjá "tölvugúru-unum" var að spyrja Innkaupastofnunina eða tölvuumboðið hvað þetta væri. Náunginn vildi ekki opinbera fáfræði sína fyrir sérfræðingunum og gerði ekkert frekar í málinu í um 4 mánuði. En þar sem hann "vildi vita allt um tölvuna" snéri hann sé að handbókunum sem fylgdu vélinni og las þær staf fyrir staf eina helgina. En þar voru engin svör. Hann safnaði kjarki til að opinbera fáfræði sína fyrir sérfræðingunum og hringdi í Innkaupastofnunina.

Þar könnuðust menn við að þar hefðu verið sett inn kerfisforritin en könnuðust ekki við þetta skjal. Þeir tjáðu honum einnig að tölvuumboðið ætti að annast alla þjónustu en ekki þeir. Nokkrum dögum seinna átti hann leið fram hjá tölvuumboðinu ásamt systur sinni og ákvað að líta inn og spyrja þá.

Afgreiðslumaðurinn sagðist ekki þekkja þetta en sagðist mundu kalla á mann sem mundi líklega þekkja gripinn. Sá maður birtist og var spurður hvað þetta væri. Eftir að hafa spurt tölvueigandann nokkurra spurninga og komist að því að hann vissi nánast ekkert um tölvur kom niðurstaðan. Já, já hann vissi alveg hvað þetta væri, og síðan kom runa af allskonar tækniorðum sem fóru inn um annað eyrað á eigandanum og út um hitt. Þó náði hann því eftir nánari eftirgrennslan að þetta væri hluti af netstýrikerfi. Þegar eigandinn spurði um gluggann þar sem hægt væri að velja harða diskinn þá sagði starfsmaður umboðsins að það væri til að velja hvaða diskur ætti að vera á netinu. Aðspurður um "How many files?" gluggann þá sagði hann að hann væri til að ákveða hvað margar skrár mætti geyma á harðdisknum. Og síðan kom heillöng ræða skreytt allavega tækniorðum sem eigandinn skildi ekkert í og eftir því sem augun í honum urðu kringlóttari því ákafari varð starfsmaður umboðsins.

En nú kom í ljós að hann hafði gert alvarleg mistök. Jafnvel þótt eigandi tölvunnar væri löngu hættur að skilja orð í því sem starfsmaður umboðsins sagði og óskaði helst að hann væri kominn út með alla sína fáfræði þá gleypti systir tölvueigandans, sem stóð til hliðar við þá hvert orð sem sagt var og varð sífellt undarlegri á svip án þess að starfsmaðurinn tæki eftir því. Að lokum gat hún ekki orða bundist og snaraði sér að honum og greip fram í fyrir honum og sagði:
"Hvaða HELVÍTIS bull er þetta?!!!! Ég hef aldrei heyrt aðra eins vitleysu."
Starfsmaðurinn snarstoppaði í miðju orði hvítnaði upp og starði í forundran á þetta stelpugympi sem leit út fyrir að vera í mesta lagi 18-19 ára og dirfðist að trufla hann í miðjum fyrirlestri. Eftir að hafa orðið rauðari í andliti en eðlilegt er hreytti hann út úr sér með fyrirlitningu:
"Þykist ÞÚ hafa eitthvað meira vit á þessu en ÉG!!!"
Hún: "Ef bullið í þér síðustu mínúturnar er til marks um 'vit' þitt á tölvunetum, já!.
Hann: "Og hvaðan þykist ÞÚ hafa þekkingu á tölvunetum?"
Þegar hér var komið þá þuldi hún upp tölvubrautir og framhaldsnám í ýmsum skólum, þar á meðal Tækniskóla Íslands, Háskóla Íslands, og allavega tvo skóla í Bandaríkjunum sem ég kann ekki að nefna í augnablikinu.

Munnurinn á starfsmanninum varð að einu striki, hann snarsnéri sér við og strunsaði bak við afgreiðsluborðið og hvarf þar inn um dyr. Eftir stóð dasaður tölvueigandi og systir hans sem lítur út fyrir að vera 18-19 ára en er í raun 34 ára og tveggja barna móðir í Breiðholtinu. (Kannski öll setan fyrir framan tölvuskjái hafi dregið úr líkamlegum þroska? Ég man nú ekki eftir að hafa séð rannsóknir sem beinast inn á þetta. Það væri kannski verðugt verkefni fyrir einhvern 'fræðinginn' að rannsaka það?)

Tölvueigandinn fór heim til sín og tók með hálfum huga þetta skjal út af harðdisknum, þar sem hann ætlaði ekki að nota tölvuna á neti. Samt var hann frekar efins að þetta væri netforrit en gat ekki ímyndað sér hvað þetta væri og var hálf uggandi. En þar sem einu áhrifin af því að taka þetta út, voru þau að það hætti að koma bjarghringur á skjáinn á tveggja tíma fresti og vélin fór að djöflast á harðdiskinum og öll önnur vinnsla stoppaði á meðan, þá fór hann að sofa áhyggjulaust á nóttunni eftir mánuð eða svo.

Eins og gefur að skilja hefur eigandinn forðast þetta tölvuumboð eins og heitan eldinn. Sérstaklega eftir að hann komst að hvað FileSaver er í raun og veru. Kaupir ekki einu sinni forrit þar, flytur þau frekar inn sjálfur og vinir hans í 'tölvuheiminum' hjálpa honum að aðlaga þau íslenskum aðstæðum ef með þarf.

Fyrir þá sem það vilja vita þá er FileSaver hluti af Norton Utilities, sem flestir ættu að kannast við sem helsta bjargvætt tölvumanna sem lenda í því að "krassa" harða diskinum sínum. Eða til að bjarga skjölum sem hafa skemmst, týnst eða verið hent. Eða til að finna út hvers vegna tölvan þeirra vinnur ekki eðlilega. FileSaver er sá hluti af Norton sem sér um að halda skrá um hvar allar skrár eru á diskinum og passa að ekki sé skrifað á þau svæði þar sem nýhent skjöl eru á, nema nauðsyn beri til.

En eins og allir tölvunotendur ættu að vita þá eru skjöl sem er hent (eytt) ennþá á disknum, þau eru bara fjarlægð úr efnisyfirliti disksins og svæðið sem skjölin voru á, merkt sem laust til notkunar. Þessvegna er oft hægt að bjarga skjölum sem hefur óvart verið eytt ef ekkert hefur verið skrifað á diskinn síðan. En ef FileSaver er í gangi þá er ekki skrifað á þau svæði þar sem nýhent skjöl eru og FileSaver geymir allar upplýsingar um staðsetningu þeirra og fleira. Þessvegna getur Norton bjargað skjölum þótt skrifað hafi verið á diskinn eftir að skjalinu var hent því Norton notar upplýsingarnar frá FileSaver til að endurheimta skjölin.

Og þar með endar þessi saga en ......
Maður nokkur keypti tölvu.......
og notaði hana vel og lengi og var mjög ánægður með gripinn. Allavega notaði hann hana það lengi að hún var kominn úr ábyrgð. En eitt kvöldið þegar hann kveikti á vélinni virtist hún ræsa alveg eðlilega en ekkert birtist á skjánum. Hvað var nú til ráða? Inn á innbyggða harðdiski tölvunnar var verk sem eigandinn hafði tekið að sér í aukavinnu og varð að klára og skila af sér eigi síðar en á sunnudegi en nú var miðvikudagskvöld. Þótt aðalstarf mannsins væri að gera við rafeindatæki og tölvubúnað sem var margfalt flóknari en borðtölvan hans, þá treysti hann sér ekki til að gera við tölvuna sína með svona skömmum fyrirvara, enda var mjög mikið að gera í aðalstarfinu líka þar sem hann vann tíu til tólf tíma á sólarhring. Líklegast virtist vera að eitthvað væri að skjánum á vélinni en þar sem skjárinn var innbyggður í vélina þá varð að fara með alla vélina í viðgerð. Eigandinn vildi þó hafa vaðið fyrir neðan sig ef ekki væri hægt að gera við vélina fyrir helgina og opnaði vélina og tók úr henni harða diskinn. Ef í hart færi gæti hann vonandi platað einhvern kunningja sinn til að lána sér vélina sína og hann gæti sett drifið sitt í hana. Einnig var fullt af persónulegum upplýsingum um eigandann og fleiri, sem var ekki ætlað augum annara, inni á harðdrifinu.

Fyrsta sem hann gerði á fimmtudagsmorguninn var að fara með tölvuna í tölvuumboðið þar sem hún var keypt. Um annað var ekki að ræða því það gerði enginn annar við þessa tölvutegund. (Ég veit allavega ekki um aðra aðila.) Tölvueigandinn er sem sagt mættur á verkstæðið og lýsir fyrir afgreiðslumanninum að hann sé í tímapressu og hvort möguleiki sé að fá tölvuna aftur fyrir helgina. Afgreiðslumaðurinn virðist hálf efins en segir eigandanum að bíða og fer innfyrir og sækir einn af viðgerðarmönnunum. Hann fær lýsingu á biluninni hjá eigandanum og segir: "Við skulum líta á gripinn".

Tölvunni er vippað upp úr burðartöskunni og hún sett á afgreiðsluborðið, henni stungið í samband og kveikt á henni. Viðgerðarmaður: "Hvað, hún startar sér ekki einu sinni upp?"
Eigandi: "Þú verður nú fyrst að setja í hana ræsidiskettu"
Viðg.m.: "Nú er ekki ræsiforrit á harða diskinum?"
Eigandi: "Jú, en hann er ekki í núna, ég tók hann úr til að nota hann í annari vél."
Viðg.m: "TÓKST ÞÚ HANN ÚR????!!!!!!"
Eigandi: "Já, ég þurfti að nota gögnin á honum."
Viðg.m.: [um leið of hann rífur vélina úr sambandi úr veggnum án þess að slökkva á henni], "Nei, þessa vél gerum við ekki við. Við gerum ekki við vélar sem einhver annar er búinn að fikta í."
Eigandi: [næstum orðlaus af undrun] "Hvað meinarðu? Þetta á ekki að vera ábyrgðarviðgerð, vélin er löngu komin úr ábyrgð."
Viðg.m.: "Það er ekki málið, við gerum ekki við vélar sem einhver asninn er búinn að fikta í og eyðileggja"
Eigandi: [allreiður en reynir að stilla sig] "Það var enginn "asni" sem tók drifið úr, heldur er ég vanur viðgerðarmaður á rafeindabúnaði og vissi alveg hvað ég var að gera."
Viðg.m.: "Mér er sama þótt þú sért páfinn í Róm, þessa vél gerum við ekki við!."
Nú var eigandinn orðin svo reiður að hann treystir sér ekki til að hafa orðrétt eftir hvað honum og viðgerðarmanninum fór á milli, enda er það varla hafandi eftir á prenti. En á meðan að rifrildið stóð sem hæst smeygði afgreiðslumaðurinn sér innfyrir þilið, inn á verkstæðið og birtist eftir smástund með annan mann með sér. Sá maður kallaði á viðgerðarmanninn með nafni og sagði honum að þegja og snauta inn á verkstæði, sem hann og gerði en ekki þagnaði hann, heldur heyrðust svívirðingarnar um tölvueigandann í gegnum þilið. Maðurinn sem rak hann innfyrir brosti þvingað og afsakandi til eigandans og hristi höfuðið. "Vélin verður tilbúinn klukkan fjögur á morgun, þú mátt ná í hana þá." Eigandinn þakkaði fyrir og spurði manninn að nafni sem hann lét í té. Eigandinn fór til sinnar vinnu en það tók hann langan tíma að geta einbeitt sér að vinnunni og gleymt öllum látunum. Klukkan þrjú á föstudeginum hringdi eigandinn í umboðið og var sagt að hann mætti sækja vélina. Eigandinn hafði mætt í vinnuna klukkan fimm um morguninn til að geta hætt snemma svo hann gæti hraðað sér heim og klárað verkið sem hann þurfti að vinna á tölvunni. Hann hraðaði sér því niður í umboðið og náði í vélina. Þar var honum sagt að skipt hafi verið um "analog" borð, það hefði verið ónýtt. (það er borðið sem allar spennurnar fyrir stýringar á myndlampanum eru unnar ásamt stýringum fyrir spennugjafa vélarinnar) Fyrir þetta greiddi hann 6.652 kr fyrir varahluti og 2.280 fyrir vinnu eða samtals 8.932 sem eiganda fannst dýrt en greiddi án þess að mögla. (þetta var 1989).

Hér með ætti þessari hryllingssögu að ljúka. Sú varð þó ekki raunin. Eigandinn átti drifkassa sem hann var búinn að setja drifið í svo hann þyrfti ekki að opna vélina þegar heim kæmi, aðeins tengja drifið vélinni með réttum kapli (SCSI). Semsagt vélinni var snarað á borðið, hún tengd við drifið. Vél stungið í samband, kveikt á drifi og síðan kveikt á vélinni. Vélin byrjar að ræsa sig upp eðlilega en þegar mynd birtist á skjánum er hún allt of björt. Höndin teygir sig sjálfvirkt undir skjáinn og þangað sem sem birtustillirinn er. Réttara er að segja þar sem birtustillirinn Á að vera!!

Neðri kjálki eigandans sígur ískyggilega augnablik en þeytist síðan upp og kjálkavöðvarnir hnyklast. Það eina góða við þessa sögu er að enginn jaxl skyldi brotna, að ég ekki tali um ef tunga eigandans hefði lent á milli tannanna á honum! Eigandinn lýtur fram og kíkir undir skjáinn. Jú, birtustillirinn ER þarna en af þessum stóra hnappi sem er á stillinum sést aðeins bláröndin. Fingurgómar eigandans rétt ná taki á stillinum en til einskis gagns, stillirinn er fastur og ekki hægt að hagga honum! Augu eigandans leita upp á skjáinn sem er allt, allt of bjartur. Ekki nóg með það, allt er út úr fókus á skjánum, það sem á að vera svart er ljósgrátt, mynd þekur aðeins einn þriðja af skjánum á þverveginn en nær út fyrir skjá að ofan og neðan! Eigandinn keyrir niður vélina og slekkur á henni og dregur fram verkfæri til að opna vélina. Þegar hann er búinn að því þá blasir við honum "analog" borðið. En það lítur ekki eðlilega út. Það er eins og "S" í laginu, þ.e. það er ekki í raufunum þar sem það á að vera heldur er það bókstaflega vafið utan um stýripinnana sem það á að vera á milli. Eigandinn lyftir borðinu upp og kemur því á sinn stað. Sko bara, birtustillirinn er kominn á sinn stað! Eigandinn dregur fram mæli og tengir spennumæli á spennugjafaspennuna. Síðan er vélin ræst. Hver ands... spennan er allt of há! Vélin keyrð niður í snatri og slökkt á henni. Eigandinn horfir nokkra stund á svartan skjáinn en teygir sig síðan í símaskrána og símann. Hringir í umboðið og biður um þann sem er yfir viðhaldsdeild. Hann kemur í símann og reynist það vera sami maðurinn sem hafði lofað að vélin yrði tilbúin klukkan fjögur. Eigandinn lýsir óförum sínum.

Yfirmaður viðhaldsd.: "Nú já, þetta hefur eitthvað misfarist hjá okkur, komdu með vélina á þriðjudagsmorguninn og við kippum...." Eigandi: [grípur fram í fyrir honum] "ÞRIÐJUDAGSmorgun?" Yfirmaður viðh.d.: "mánudagsmorgun og við kippum þessu í liðinn. Strákurinn sem gerði við vélina þína er nýbyrjaður og er að læra. Hann hefur ekki áttað sig á að það þyrfti að stilla vélina dálítið á eftir að hann skipti um borðið."

Eigandi: "Ég get nú ekki ímyndað mér að hann hafi einu sinni kveikt á henni. En hvað um það, ég þarf að fá vélina í lag fyrir helgi, á mánudaginn er það of seint, eins og ég sagði þegar ég kom með vélina." Og eigandinn rakti upp alla söguna aftur. Yfirmaður viðg.d.: "Eiginlega getum við ekki gert þetta fyrr en á þriðjudag/miðvikudag en komdu með hana á mánudaginn og við reynum að hafa hana tilbúna í síðasta lagi seinnipartinn á þriðjudag." Eigandi: "Það gengur ekki eins og ég sagði þér, ég verð bara að gera þetta sjálfur."

Yfirmaður viðg.d.: "Þú um það, vertu blessaður."
Eigandi: "Heyrðu, .... hvernig er með vinnuna sem mér sýnist að ég hafi borgað fyrir en ekki fengið? Það hefur varla tekið meira en tíu mínútur að troða borðinu í eins og það var?"

Yfirmaður viðg.d.: [hlær] "Ef þú heldur að þú fáir endurgreitt, þá skaltu bara gleyma því."

Eigandi: "Vertu blessaður, og ég ráðlegg ykkur að hafa betri umsjón með lærlingunum ykkar sem vita ekki hvað þeir eru að gera. Eitt er víst að ef ég get ekki gert sjálfur við vélina mína þegar hún bilar næst, þá hendi ég henni frekar en að koma með hana í viðgerð til ykkar."

Yfirmaður viðg.d.: "Þú um það." og lagði á.

Eigandinn stillti síðan spennugjafa og skjástýringu vélarinnar og lauk sínu verkefni á réttum tíma.

Eins og gefur að skilja hefur eigandinn forðast þetta tölvuumboð eins og heitan eldinn. Hann hefur tvisvar sinnum keypt sér öflugri tölvur síðan þetta var og viðeigandi forrit. Þótt þær hafi báðar sama vörumerki og tölvan sem bilaði þá voru þær ekki keyptar af umboðinu, heldur erlendis. Öll forrit sem hann hefur keypt eru keypt erlendis. Meira að segja prentborðana flytur hann frekar inn sjálfur heldur en að versla við umboðið.

Og þar með endar þessi saga en .....
. Maður nokkur keypti tölvu......
. en með tímanum urðu skjölin og forritin sem hann vann með stærri og stærri. Þannig var komið að lokum að hann var orðin í mestu vandræðum með að vinna með sum gögn sem hann var með á harðdiskinum. Og svo kom að því einn daginn að tölvan kvartaði svo mikið yfir minnisskorti að eigandinn sá að þetta gengi ekki lengur. Hann vissi nú ekki hvar hann gæti fengið minniskubba (SIMM) og hringdi í ýmsa aðila, og þar á meðal umboðið. Nú hittist svo illa á að enginn átti minniskubba á lager nema umboðið. Hann fékk uppgefið verð á þeim og fannst þeir dýrir, allavega miðað við verðið í erlendum tölvublöðum sem hann átti. Hann ákvað samt að skella sér á að kaupa þá hjá umboðinu, var orðinn óþolinmóður á vandamálinu, og nennti ekki að bíða í þá daga sem það tæki að panta þá frá útlöndum. Eigandinn fer í verslunina sem er með umboðið og spyr hvort þeir eigi 1Mb SIMM og hvað þeir kosti. Eftir að hafa kannað það segir afgreiðslustúlkan að þeir séu til og gefur upp verðið. Eigandi: "Ég ætla að fá 2 megabyte."

Afgreiðslustúlka: "Ha...Já....Nei þú verður að fara á verkstæðið til að fá þá". Og vísar tölvueigandanum til vegar. Eigandinn fer út úr versluninni gengur hálfhring í kringum húsið og inn á verkstæðið. Þar tekur á móti honum afgreiðslumaður. Eigandi: "Góðan daginn. Ég var upp í verslun og þeir vísuðu mér hingað. Ég ætlaði að fá tvö stykki, eins megabæta SIMMS" Afgreiðslumaður: "Já ...." pikkar á lyklaborð tölvu "það kostar xxxxx" (reikningur fannst ekki þannig að eigandi þorði ekki að fara með verðið)

Eigandi: "Já takk, ég ætla að fá þá" Afgreiðslumaður: [horfir með spurnarsvip á eiganda] "Já ...... en ........ " [nú var eigandinn kominn með spurnarsvip líka] "hvar er tölvan?"

Eigandi: "Tölvan? .... Nú, heima."
Afgreiðslumaður: "Já, en þú verður að koma með hana til að við getum sett minnið í."
Eigandi: "Nei þú misskilur, ég ætla bara að fá minniskubbana, ég ætlaði ekki að láta ykkur setja þá í."
Afgreiðslumaður: "Nú ..... þannig ......bíddu augnablik." og hann hverfur bak við þilið. Eftir nokkrar mínútur birtist hann aftur með annan mann með sér. Sá býður góðan dag og segir: Maður: "Ætlaðir þú að fá minniskubba?"
Eigandi: "Já"
Maður: "En þú ætlaðir ekki að láta okkur setja þá í?"
Eigandi: "Nei, bara að fá kubbana."
Maður: "Já, en málið er að við seljum ekki minniskubba nema að við setjum þá sjálfir í."
Eigandi: "Nú hvers vegna ekki?"
Maður: "Nei, við erum alltaf að fá vélar þar sem menn hafa verið að reyna að setja minniskubba í, sem þeir hafa keypt annars staðar en hafa síðan eyðilagt vélarnar og minniskubbana og svo ÞURFUM VIÐ að laga þær."
Eigandi: "Nú, er það ekki MITT mál ef ég eyðilegg MÍNA vél. Ef ég skemmi vélina þá er það á mína ábyrgð, og ég þarf þá að greiða fullt verð fyrir viðgerð. Ég sé ekki að ég sé að valda ykkur skaða með því. Þvert á móti."
Maður: [þegir um stund, en gefur eiganda illt auga] "Jæja, við getum svo sem selt þér minniskubbana, við þurfum þá bara að selja þér nýtt móðurborð á eftir."
Eigandi: "Takk"
Maður: "En þú verður að fá þá upp í versluninni."
Eigandi: "Nú? þeir sendu mig hingað. ....[horfir á manninn sem starir á móti] ... Jæja þá það." og hann gengur út, gengur annan hálfhring í kringum húsið og inn í verslunina.
Afgreiðslustúlka: "Góðan daginn, get ég aðstoðað?"
Eigandi: "Góðan daginn, ég ætla að fá minniskubba."
Afgreiðslustúlka: "Nú, já þú varst hérna áðan. Fannstu ekki verkstæðið?"
Eigandi: "Jú, en þeir vísuðu mér hingað"
Afgreiðslustúlka: "Nú? Þetta er einhver misskilningur, við höfum aldrei verið með þá hérna í búðinni. Þeir hafa alltaf verið á verkstæðinu. Bíddu augnablik." Og hún hverfur á bakvið. Birtist síðan aftur eftir nokkrar mínútur og segir "augnablik, það er verið að finna þá fyrir þig." Eftir nokkra stund birtist MAÐURINN með minniskubba í umbúðum og réttir afgreiðslustúlkunni. Snýr sér við og ætlar að fara á bakvið aftur.
Afgreiðslustúlka: [við mann] "Heyrðu, hvernig er þetta skráð í tölvunni? Ég veit ekki hvar þetta er í tölvunni."
Maðurinn snýr sér að tölvunni og finnur það fyrir hana. Dokar síðan við.
Afgreiðslustúlka: [við eiganda] "Þetta verða xxxxx kr" og nefnir sama verð og upphaflega.
Eigandi: [við mann] "Það er verðið með ísetningu er það ekki?" Maður: "Jú"
Eigandi: "Hvað kostar þeir þá án ísetningar?"
Maður: "Þeir kosta sama hvort sem við setjum þá í eða ekki." Eigandi nennti þessu ekki lengur og borgaði uppsett verð, fór heim með kubbana sína og setti þá í sjálfur. Þó nú séu liðin eitthvað um tvö ár síðan þetta var og eigandinn sé búinn að selja þessa vél þá veit sá sem þetta skrifar að vélin er enn í góðu lagi, það er innan við mánuður síðan hann notaði hana sjálfur.

Sá sem átti vélina var búinn að heyra nokkrar "tröllasögur" um umboðið áður en þetta kom fyrir hann. Og þannig höfðu þær litið út fyrir honum, þ.e. verið "tröllasögur". Öll eigum við okkar slæmu daga og öllum verða á mistök, er það ekki? Þó fór hann að taka meira mark á "tröllasögunum" á eftir þessa reynslu. Þegar ég spurði hann, þegar ég var að rita þetta niður hvenær hann hefði verslað síðast við umboðið þá sagði hann eftir nokkra umhugsun að þetta hefði bara líklegast verið síðustu viðskipti hans við umboðið. Allavega gat hann ekki munað eftir að hafa verslað við þá síðan. Þessi maður á þó tvær vélar og einn prentara frá sama framleiðanda og umrætt fyrirtæki er með umboð fyrir en ekkert af því er keypt í umboðinu. Allar rekstrarvörur eru einnig keyptar annars staðar.

Og þar með endar þessi saga en .....
Nei, nú er nóg komið í bili. Þó á ég fleiri í pokahorninu. Það virðist vera lítið um sögur af góðri þjónustu hjá þessum umboðsaðila. Ef þið hafið eitthverja sögur af góðri þjónustu við viðskiptamenn, þá látið í ykkur heyra, þetta fer að verða svo einhæft. Þó virðist vera auðsætt að þessi umboðsaðili sem hér er fjallað um þarf að taka sig allverulega á til að halda viðskiptamönnum sínum. Látum þetta gott heita að sinni.

Kveðjur

Gústav K Gústavsson gustav@ismennt.is

Til baka í efnisyfirlit.


MODEMLEIKIR YFIR INTERNET.

stutt kynning á IHHD.

Sennilega kannast allir við tölvuleiki þar sem hægt er að spila á móti öðrum einstaklingi. T.d. er hægt að tengja tölvur saman með nullmodemkapli (serial->serial), eða yfir nærnet (Novell 3.11 o.fl.). Einnig er hægt að tengjast modem í modem.

Líklega eru það eru ekki margir á Íslandi sem "stunda" svona [reyndar veit ég ekki um neinn :) en gaman væri ef einhver segði frá reynslu sinni af þessu].

Gott væri að geta tengst notendum Internet um allan heim á þennan hátt (annars væri svo sem ekkert að því að hringja í vin sinn í Kína og spila á móti honum, nema HVE dýrt það er :-)).

Til að gera þetta þægilegra og hagkvæmara þá er til svolítið sem heitir IHHD, Internet Head to Head Daemon. IHHD er aðstaða til að finna andstæðinga til að leika á móti, ræða um uppáhalds modem-leikina sína og sér um tengingu "leikenda". Er hér um að ræða í fyrsta lagi póstlista (maillist) sem hægt er að gerast áskrifandi að og fá nánari upplýsingar um þessa þjónustu. Sendið póst til: listserv@cactus.org.

Í bréfinu þarf að standa (enginn haus nauðsynlegur):

subscribe ihhd (nafn_þitt)
(enga íslenska stafi)

Tryggvi R. Jónsson

trigger@ismennt.is

Til baka í efnisyfirlit.