Jæja, þá er komið að því að standa við stóru orðin. Í síðasta blaði lofaði ég að næsta blað kæmi út 3. janúar. Nú er 3. janúar kominn og þónokkru efni hefur mér tekist að öngla saman, þó tíminn um hátíðarnar hafi ekki orðið mér eins drjúgur og ég vonaðist til.Hingað til hef ég forðast að mestu að birta efni sem áður hefur birst annarsstaðar. Í þessu blaði eru tvær undantekningar frá þessari reglu. Grein Salvarar Gissurardóttur "Nokkur orð um tölvuleiki" birtist skömmu fyrir jól á ismennt ráðstefnunni ismennt.leikir og þýdda greinin "Harmsaga mótaldsfíkilsins" birtist fyrir nokkru á ráðstefnunni ismennt.almenn og hefur auk þess verið aðgengileg á Stöð 2 BBS alllengi.
Þetta þarf ekki að þýða það að minni áhersla verði lögð á frumsamið efni í blaðinu framvegis heldur verður horft á aðstæður hverju sinni og málin metin.
Nýir áskrifendur frá því síðast eru:
salvor@ismennt.is Salvör Gissurardóttir
harald@isy.liu.se Haraldur Bjarnason
leifur@ecst.csuchico.edu Leifur Björn Björnsson
sigfusk@fifo.hsf.no Sigfús Kristmannsson
thordur@rsp.is Þórður Helgason
helgihj@vel.hi.is Helgi Hjálmarsson
sigurdsson@katk.Helsinki.Fi Albert Svan Sigurðsson
dabbi@csr.lbl.gov Davíð Aðalsteinsson
gardar@holter.mei.com Garðar Þór Middleton
gisli@umich.edu Gísli Óttarsson
jbrag@vsys0.hac.com Jón Árni Bragason
siggi@unc.oit.unc.edu Sigurður Rúnar Sæmundsson
baldur@rsp.is Baldur Þorgilsson
72561.2662@CompuServe.COM Erling Aspelund
oli@idm.com Ólafur Ásgeir Ólafsson
gudmund@itek.norut.no Guðmundur Jökulsson
david@rala.is Davíð Gunnarsson
sigvaldi@ismennt.is Sigvaldi Jónsson
jjohanns@seraph1.sewanee.edu Jóhannes Jóhannsson
Í næsta blaði verður væntanlega viðtal við Láru Stefánsdóttur um Íslenska menntanetið, grein eftir Bjarka M. Karlsson um pappírslaus viðskipti og áfram verður haldið glímunni við mskermit.ini.
Viðtalið við Láru er ekki eiginlegt viðtal heldur voru sendir til hennar spurningalistar í rafpósti sem hún svaraði og síðan var gjarnan spurt aftur í framhaldi af svörunum eftir því sem þurfa þótti.
Bjarki M. Karlsson er framkvæmdastjóri Viðskiptavakans, sem er skrifstofa um pappírslaus viðskipti, sem öll helstu samtök atvinnulífsins standa að.
Björn Davíðsson á Ísafirði hefur boðist til að vinna að því með mér að koma hlutum svo fyrir að kermit-notendur geti haft samband við BBS-kerfi alveg vandræðalaust með kermit forritinu. Vonandi verður hægt að greina frá úrslitum þess máls í næsta blaði.
VGA-planets leikurinn sem boðaður var í 7. tölublaði '93 er loksins núna að fara af stað. (fyrsti leikurinn var í dag) Þátttakendur eru ekki nema 6 og tölvan stjórnar því 5 flokkum. Hægt er að koma inn í leikinn og taka við einhverjum ættflokknum sem tölvan stjórnar.
Notkunin á ismennt ráðstefnunum (skjástefnur vilja sumir nefna þetta fyrirbæri) fer sífellt vaxandi og oft er fróðlegt og skemmtilegt að fylgjast með þeim. Talsverðar umræður spunnust út af leiknum Doom og fleiri atriðum um miðjan desember og er grein Salvarar Gissurardóttur hér í blaðinu innlegg í þá umræðu. Þessi umræða þróaðist síðan yfir í það að verða almenn umræða um notkun tölva í skólastarfi, einkum við íslenskukennslu og það hafa aðallega verið þær Harpa Hreinsdóttir og Lára Stefánsdóttir sem hafa haldið fjörinu uppi í þeirri umræðu að undanförnu.
Umræðan er bæði fróðleg og bráðskemmtileg og þær stöllur báðar fylgnar sér og rökfastar. Ég hvet alla til þess að fylgjast með þessari deilu og vona að hún haldi áfram sem lengst.
Nú er bara að vona að takist að halda þá áætlun að láta blaðið koma út fyrsta og þriðja mánudag í hverjum mánuði. Samkvæmt því á næsta tölublað að koma út 17. janúar n.k. og ég hvet alla sem luma á efni sem ætti erindi í blaðið til að drífa sig nú í að ganga frá því og koma því til mín sem fyrst.
Auglýsingar eru sem fyrr vel þegnar og þeir sem vilja styrkja útgáfu blaðsins gera það best með því að hjálpa mér að finna gott efni í það.
Sæmundur Bjarnason
ER EITTHVAÐ BOGIÐ VIÐ VERÖLDINA?
Hin almenna afstæðiskenning, sem Albert Einstein setti fram árið 1916, gerir ráð fyrir því að rúmið, eða réttara sagt tímarúmið, sé sveigt eða bogið. Fyrst þegar ég heyrði getið um þessa kenningu þótti mér hún ákaflega undarleg. Ég hafði þó ekki áhyggjur af því hvort hún sé sönn eða ósönn heldur miklu fremur af því hvað Einstein hafi eiginlega verið að meina þegar hann sagði að tímarúmið sé sveigt?
Við skiljum öll hvað meint er þegar menn segja til dæmis að kústskaft sé sveigt eða bogið. Við vitum líka að yfirborð jarðar er sveigt, jörðin er jú kúla en ekki flöt plata. Hlutir eins og himintungl eða kústsköft geta sem best verið beinir eða bognir, sveigðir eða flatir. En hvernig getur rúmið sjálft, plássið sem hlutirnir eru dreifðir um, haft lögun?
Rúmið hefur auðvitað ekki lögun í bókstaflegum skilningi, en það hefur eiginleika sem svipar til lögunar. Hugsaðu þér að þú gangir á sléttum velli fyrst 10 metra í norður, svo 10 metra í austur, svo 10 metra í suður og að síðustu 10 metra í vestur. Þú endar auðvitað á sama stað og þú lagðir upp frá. En hvað ef þú gengur fyrst 5000 kílómetra í norður, svo 5000 kílómetra í austur, svo 5000 kílómetra í suður og að síðustu 5000 kílómetra í vestur? Hvar endar þú þá? Ekki á sama stað og þú lagðir upp frá því jörðin er ekki flöt heldur kúlulaga svo línurnar sem þú fylgdir á göngunni voru ekki beinar heldur bognar.
Þetta eru hversdagsleg sannindi en samt má nota þau til að skýra hvað Einstein og fylgismenn hans meina þegar þeir segja að rúmið sé sveigt. Þeir eru að meina að rúmið sé að því leyti líkara sveigðum fleti, eins og t.d. yfirborði jarðar, heldur en sléttum að ef við förum fyrst í beina línu í norður, svo jafnlangt í austur, þá jafnlangt í suður og að síðustu jafnlangt í vestur þá lendum við ekki endilega á sama stað og við lögðum upp frá. Einstein gerði reyndar ráð fyrir því að sveigja rúmsins sem við jarðarbúar hrærumst í sé svo lítil að við verðum hennar ekki vör neitt frekar en flugan sem skríður á skrifborðinu mínu verður vör við sveigjuna á yfirborði jarðar.
Sú hugmynd að rúmið kunni að vera sveigt eða bogið er reyndar eldri en Einstein. Þýski stærðfræðingurinn Carl Friedrich Gauss reyndi einu sinni að komast að því með mælingum hvort rúmið sé "flatt" eða "sveigt". Í "flötu" rúmi er hornasumma þríhyrnings 180° en í "sveigðu" rúmi er hún ýmist meiri eða minni eftir því á hvern veg sveigjan er. Gauss notaði aðferðir landmælingamanna til að mæla horn þríhyrnings sem myndaður var af þrem fjallstindum. Niður- staðan kom ekki á óvart. Horn þríhyrningsins mældust vera samtals 180°
En hvernig datt Gauss þessi furðulegi möguleiki í hug? Er nokkur ástæða til að efast um að þríhyrningur sem er myndaður úr beinum línum hefur hornasummuna 180° og að leið sem er dregin með því að ganga fyrst í norður, svo jafnlangt í austur, þá í suður og að síðustu í vestur endar á sama stað og hún byrjar ef allar línurnar eru beinar, jafnlangar, og mynda tóm 90° horn? Þeir sem eru alla æfi rígbundnir á klafa "heilbrigðrar skynsemi" láta sér aldrei detta í hug að efast um svona viðtekin "sannindi". En þeir sem hugsa af djörfung skemmta sér best þegar þeir geta efast um það sem allir aðrir telja augljóst. Dirfska Gauss er þó ekki eina skýringin á efasemdum hans. Þær eiga sér líka sögulegar rætur.
Frægasta kennslubók í rúmfræði og kannski frægasta stærðfræðibók allra tíma var rituð af gríska stærðfræðingnum Evklíð sem uppi var um 300 f.Kr. Bókin heitir Stoíkeia á grísku en er þekktari undir latneska heitinu Elementa. Evklíð byrjar á að setja fram 10 forsendur sem rúmfræðin skyldi grundvölluð á. Af þeim leiddi hann út helstu sannindi um horn, línur, þríhyrninga, ferninga og fleiri slíka hluti sem rúmfræðingum eru kærir.
Sem dæmi um forsendur Evklíðs má nefna:
-Ef tveir hlutir eru jafnstórir og jafnmiklu er bætt við báða verða útkomurnar jafnar.
-Tveir punktar ákvarða beina línu.
-Um hvaða punkt sem er má draga hring með gefnum radíus.
Þessar forsendur eru svo augljósar sem mest getur verið, raunar of augljósar til að venjulegu fólki detti í hug að hafa orð á þeim. Þannig er um allar forsendur Evklíðs nema þá síðustu. Þessa forsendu má orða svona:
-Ef við höfum línu og punkt utan línunnar þá er aðeins hægt að draga eina línu gegnum punktinn sem ekki sker hina sama hvað þær eru lengdar mikið í báðar áttir.
Framsetning Evklíðs á þessari síðustu forsendu er reyndar dálítið flóknari en við skulum láta það liggja milli hluta. Það eru ótal leiðir til að segja að ef við höfum línu og punkt þá er aðeins hægt að draga samsíða línu gegnum punktinn á einn veg. Þótt þessi forsenda sé ekki alveg eins augljós og hinar 9 verður tæpast annað sagt en að hún sé sennileg.
Rúmfræði Evklíðs var öldum saman talinn til fyrirmyndar um vísindalega aðferð og sennilega hafa engin fræði haft jafnmikil áhrif á hugmyndir manna um hvernig sönn vísindi skuli vera. Evklíð setti fram fáeinar einfaldar fullyrðingar og leiddi alla kenningu sína af þeim með pottþéttum rökum. Séu fullyrðingarnar 10 allar sannar þá getum við verið viss um að allt sem Evklíð leiddi af þeim er líka satt.
Þar sem síðasta forsenda Evklíðs er ekki eins augljós og hinar hafa ýmsir stærðfræðingar reynt að leiða hana af þeim. Nú er löngu vitað að það er ekki hægt. Hins vegar er hægt að búa til rúmfræði sem er algerlega sjálfri sér samkvæm og byggir á sama grunni og Evklíð að öðru leyti en því að hún gerir ráð fyrir að síðasta forsendan sé ósönn. Þetta gerðu nokkrir stærðfræðingar á fyrri hluta síðustu aldar. Þeirra frægastir eru Rússinn Nikolai Lobachevski (1793 - 1856) og Þjóðverjarnir Carl Friedrich Gauss (1777 - 1855) og Georg Riemann (1826 - 1866). Rúmfræði þessara manna gerir ýmist ráð fyrir því að í gegnum punkt sé hægt að draga margar línur samsíða gefinni línu eða því að ekki sé hægt að draga neina línu samsíða gefinni línu. Í báðum tilvikum fæst sú niður- staða að rúmið sé líkara sveigðum hlut en flötum með þeim hætti sem fyrr greinir.
Þegar hingað var komið var kannski ekkert undarlegt að Gauss dytti í hug að athuga hvort það raunverulega rúm sem við lifum og hrærumst í sé eins og það sem Evklíð lýsti eða eins og það sem fjallað er um í rúmfræðinni sem hann hafði sjálfur búið til.
Eins og fram kom í upphafi þessa máls gerir kenning Einsteins ráð fyrir því að tímarúmið sé sveigt. Hún fjallar ekki beinlínis um það þrívíða rúm sem við kynnumst fyrir tilstilli augna, snertiskyns og hreyfinga heldur um fjórvíða samfellu þessa þrívíða rúms og tímans, sem okkur finnst af einhverjum ástæðum vera allt annars eðlis en fjarlægðir. En hvað sem okkur kann að finnast gerir afstæðiskenningin ráð fyrir því að 1 sekúnda sé 300.000 kílómetrar og ekkert frábrugðin hverjum öðrum 300.000 kílómetra spotta sem liggur þversum út í buskann. Við þurfum ekki að láta okkur bregða við þetta. Eðlisfræðingar hafa öldum saman haldið því fram að veruleikinn sé allt öðru vísi en okkur virðist hann vera.
En hvers vegna skyldi Einstein hafa haldið fram þessari hugmynd um að tíminn sé eins og hver önnur vegalengd? Hann lagði upp með þær forsendur að sömu náttúrulögmál gildi fyrir menn þótt þeir hreyfist í ólíkar stefnur og með ólíkum hraða og ljóshraðinn mælist sá sami hvernig sem athugandi hreyfist miðað við ljósgjafann. Þegar hann fór að draga ályktanir af þessu kom í ljós að ef tveir menn hreyfast með ólíkum hraða eða í ólíka stefnu og mæla fjarlægðir og tímabil milli atburða þá fá þeir ekki sömu niðurstöður. Ef þeir hreyfast hægt munar að vísu litlu á niðurstöðum þeirra. En ef annar tryllir fram hjá hinum á hraða sem nálgast ljóshraðann fær hann kannski út að tveir atburðir gerist með 1 sekúndu millibili meðan mælingar hins gefa til kynna að mörg ár líði á milli þeirra. Öðrum virðist kannski að bilið milli tveggja hluta sé aðeins fáeinir metrar en hinn fær út mörgþúsund kílómetra.
Það er semsagt afstætt við hreyfingu þess sem mælinguna gerir hvað tímabil mælast löng og fjarlægðir miklar - þess vegna heitir kenningin afstæðiskenning. En mismunurinn á tímalengd og fjarlægð jafnast ævinlega út þannig að þótt menn hreyfist á ólíka vegu þá fá þeir allir út sama bil milli atburða í tímarúminu. Þess vegna fjallar Einstein um tímarúm frekar en tíma og rúm.
Tími og rúm eru, ef svo má segja, birtingarform eins og sama veruleikans sem er tímarúmið. Nú er mál til komið að slá botn í þetta með því að segja hvað sú kenning að tímarúmið sé sveigt þýðir. Hún þýðir að síðasta forsenda Evklíðs gildi ekki um þennan fjórvíða veruleika sem birtist okkur klofinn sundur í tíma og rúm.
Atli Harðarson
FÁEIN ORÐ UM TÖLVULEIKI.
Ég fagna þeirri umræðu sem hefur átt sér stað á ráðstefnunni ismennt.leikir um gildi tölvuleikja til náms og tómstundastarfs. Kveikjan að þessarri umræðu er eflaust sjónvarpsþáttur um tölvuleiki sem var sýndur nýlega. Hér hafa orðið snörp skoðanaskipti og sýnist sitt hverjum um hvort kennarinn eigi að skipta sér af eða reyna að hafa áhrif á hvers konar tölvuleiki börn spila í frístundum sínum.
Tvö mismunandi sjónarmið
Hér gætir annars vegar þeirra sjónarmiða að einhvers staðar verði að setja mörkin á hvað sé hlutverk kennarans og skólakerfisins og hins vegar þeirra sem vilja horfast í augu við það að tölvuleikir eru ein tegund tómstundastarfs eins og t.d. bóklestur og íþróttaiðkun og eigi ekki að meðhöndlast öðruvísi af skólakerfinu. Hvað fyrra sjónarmiðið varðar þá er það skiljanlegt að kennarar séu langþreyttir á að ábyrgðinni sé í sífellu varpað yfir á skólana, öll þjóðfélagsmein séu að meira eða minni leyti talin skólakerfinu að kenna og allt eigi að leysa með því að bæta í sífellu nýjum hlutverkum á skólana sem síðan slást um þann knappa tíma sem gefinn er til þekkingarmiðlunar.
Neytandi, foreldri, borgari
Það má hins vegar skoða að í grunnskólum er gefinn tími til að lesa skáldsögur og reynt á ýmsa lund að stuðla að bóklestri. Þá hefur jafnan verið talið að það væri hlutverk skólans að fræða nemendur um hvað gæti stuðlað að heilbrigðara og göfugra líferni. Þannig er hugað að neytendamálum og ábyrgð einstaklinganna á náttúru og umhverfi, lögð áhersla á að ólíkir hópar og þjóðir skuli lifa í sátt og samlyndi, uppfrætt um ábyrgð í kynlífi og fjölskyldustofnun, kennt um skaðsemi fíkniefna svo eitthvað sé nefnt. Sívaxandi hluta af skólatíma er þannig varið í að búa nemandann undir hlutverk sem neytandi, foreldri og borgari og að leggja rækt við þætti sem yfirvöld skólamála skynja sem mikilvæga til þess arna.
Samfélag gærdagsins
Skólar eru í eðli sínu íhaldsamar stofnanir og breytingar á samfélaginu lengi að síast út í skólakerfið í formi breytinga á hvað er kennt. Þannig er mikil áhersla lögð á gildi bóklesturs og talið af hinu góða af hálfu skólans að hvetja til bóklesturs barna og unglingabóka. Aldrei hef ég hins vegar heyrt um sérstakt átak á vegum skóla til að hvetja börn til að horfa á vídeómyndir eða spila tölvuleiki. Þó sumar erlendar barnasögur hafi verið kvikmyndaðar er ekki örgrannt um að álitið sé að það hafi einhvern veginn meira uppeldis- og menningargildi að lesa bókina heldur en "drepa tímann" við að horfa á söguna á vídeospólu. Getur verið að hér endurspeglist gildi sem eiga við samfélag gærdagsins? Hér fer saman taumlaus dýrkun á hinu ritaða orði og skilningsleysi á því sem verður ekki í letur fært svo sem myndmál og hreyfingu.
Kostir tölvuleikja?
Hvort sem fólki líkar betur eða verr þá verður ekki á móti mælt að tölvuleikir skipa stóran sess í tómstundum barna. Það er því ekki úr vegi að skoða þessa gerð tómstundastarfs fordómalaust og bera saman við aðrar svo sem bóklestur. Okkur verður oft starsýnt á hina neikvæðu þætti í tölvuleikjum, spennu og hraða samfara miklu ofbeldi í myndum og gjörðum en getur verið að tölvuleikir hafi líka einhverja kosti? Við skulum hafa í huga að í samfélögum manna og dýra hefur leikur ungviðis geysilega mikla þýðingu í að læra þá færni sem fullorðinn einstaklingur þarf að búa yfir. Það getur verið að sú færni sem spilari í nútímatölvuleik tileinkar sér sé vænleg í starfi og lífi morgundagsins. Leikirnir krefjast jú sumir hverjir hraða, nákvæmni og einbeitingar, hæfileika til að fylgja flóknum leikreglum og lesa út úr villandi og kaotískum upplýsingum sem eru samanklístraðar á litlum skjá ásamt því að geta flett upp upplýsingum eða notað verkfæri þegar þörfin krefur (minnir á Just- in-Time tískuna í stjórnendafræðum).
Ofbeldi og mannvonska í tölvuleikjum
Því verður hins vegar ekki á móti mælt að margir tölvuleikir eru svo fullir af ofbeldi og mannvonsku að það er gersamlega ósæmandi að hafa slíkt efni um hönd í grunnskólum. Þegar bækur eru valdar á skólabókasafn þá eru gerðar kröfur um málfar og að efnið sé þess eðlis að almenns velsæmis sé gætt og ekki stútfullt af ofbeldi og hafi væntalega eitthvað réttlætanlegt uppeldis- eða menningargildi að ég tala nú ekki um að það tíðkast að borga fyrir bækurnar. Það er engin ástæða til að gera minni kröfur til tölvuleikja í skólum heldur en bókakosts. Því miður hefur það stundum gerst að nemendur hafa borið inn í skólann tölvuleiki sem alls ekki er boðlegt að hafa inn á tölvum í skólum. Það er því mikilvægt að skólar komi sér upp einhvers konar viðmiðum um hvaða leiki er viðeigandi að nota í tómstundastarfi í skólum. Raunar mun það vera á dagskrá bráðlega að tveir stærstu framleiðendur sjónvarpstölvuleikja, Sega og Nintendo komi sér upp kerfi "rating" á leiki á sama hátt og tíðkast um kvikmyndir.
Er ofbeldi tengt nýjum miðli?
Það yfirgengilega ofbeldi sem nú tíðkast í tölvuleikjum og virðist reyndar aukast eftir því sem tækninni fleygir fram (til að sannfærast skulu þið fara í nýjustu vélarnar í spilasalnum í Kringlunni og setjið upp hanska og leikið bankaræningja sem blammar niður allt og alla og fólk hleypur um allt og biður um miskunn og þið skjótið það niður og blóðsletturnar klínast upp um alla veggi...) minnir dálítið á það sem tíðkaðist í árdaga teiknimyndasögunnar. Þar var sá miðill notaður óspart til þess að tjá ógeðslegar hryllingssögur og var geysivinsæll hjá unglingum. Þá var skrifuð bók "The Seductance of the Innocent" (fer sennilega ekki rétt með nafnið). Þessi bók hafði mikil áhrif og vakti upp fjölmiðlaumræðu og varð rothögg á þess konar teiknimyndasögur. Ef til vill má draga af þessu þann lærdóm að nýjir miðlar séu fremur líklegir að verða notaðir við það sem menn hræðast vegna þess að þeir hafa meiri áhrifamátt (hluti af því að vera nýr og spennandi miðill). Þannig var á sínum tíma ógeðslegra að sjá blóði drifna hrollvekjufrásögn í teiknimyndasögu heldur en sömu sögu í hefðbundinni bók og í dag verðum við skelfingu lostin við þá tilhugsun að í tölvuleik getum við leikið bankaræningja sem skýtur í spað allt sem á vegi hans verður á meðan við höfum ef til vill ekki tölu á þeim ofbeldismyndum sem við höfum horft á og hugsanlega samsamað okkur með ódæðismanni sem framdi miklu ógeðslegri morð.
Spennulosun
Að lokum er eitt atriði sem mig langar til að ræða. Það kom fram í einhverri grein á þessarri ráðstefnu að það gæti verið nokkurs konar spennulosun að spila tölvuleik og skyldi ég það svo að þá skipti ofbeldið eða inntak leikjarins ekki máli. Þetta viðhorf að því fylgi einhvers konar útrás að spila leiki hversu ofbeldisfullir sem þeir væru og viðkomandi ætti þá að ganga ljúfur sem lamb að öðrum störfum minnir mig óþægilega mikið á þær röksemdir sem voru á sínum tíma (og eru) gegn ritskoðun á sorpritum svo sem ofbeldisfullum klámritum. Því miður er þetta ákaflega bernskt viðhorf og hefur reynst lítt haldbært til að útskýra hegðun manna.
Spennulosun og yfirfærsla
Þetta er líka í hrópandi andstöðu við mikilvægt hugtak innan kennslufræði þ.e. um yfirfærslu. Í kennslu æskilegs atferlis þá gerum við ráð fyrir eða a.m.k. vonum að nemandinn geti og muni nota þekkingu eða færni við annars konar aðstæður seinna meir í lífinu. Það er þunnur þrettándi ef við ætlum svo að halda fram að nemandinn skrúfi fyrir alla persónuleikaþætti sem eiga að valda yfirfærslu við aðrar aðstæður en markvissa kennslu. Í þessu sambandi er fjárhættuspilari nærtækt dæmi í þessu spilakassasamfélagi okkar. Er líklegt að hann komi endurnærður úr spilamennskunni, ósnortinn af því umhverfi sem spilamennskan hrærist í? Það er miklu líklegra að fjárhættuspilarinn hafi tamið sér virðingarleysi fyrir peningum (og hugsanlega eignarétti) og þörf fyrir að taka áhættu sem síðan hefur áhrif á ákvarðanir hans utan spilamennskunnar.
Hér lýkur þessu spjalli mínu um tölvuleiki að sinni. Hér hafa allir tölvuleikir verið settir undir sama hatt og ekki verið gerður greinarmunur á spilaborðsleik sem byggir á rökhugsun og hlutverkaleikjum sem byggja á spennu, hraða og tilviljunum eða kennsluleikjum sem eru þjálfun í dularklæðum. Það er að sjálfsögðu geysilega mikill munur á þessum leikjum og allt of mikil einföldun að taka þá svona í einni púlíu.
Salvör Gissurardóttir
HARMSAGA MÓTALDFÍKLSINS.
"Vissirðu að helvítis símareikningurinn er yfir 50 þúsund krónur?" sagði konan mín með rödd sem sýndi vel heimsku og barnaskap eiginmannsins. "Það er fjórum sinnum meira en þú borgar á mánuði fyrir tölvudrusluna," hélt hún áfram og var nú orðin skrækróma.
"Ég játa, ég játa," snökti ég. "Ég er bara beinlínuháður. Ég er orðinn fíkinn í mótaldið mitt. Ég hugsa að ég verði að ganga í MA (Modems Anonymous) samtökin áður en ég sel sál mína Pósti og Síma."
Sem leiðbeinandi hjá MA samtökunum heyri ég mörg afbrigði af ofangreindri sögu á hverjum degi. Þessi hættulegi sjúkdómur, mótaldssóttin, breiðist ört út og margir af fremstu tölvunotendum landsins hafa nú fengið hann. Mótaldslöngunin lætur engan í friði og engin leið virðist að stöðva útbreiðslu sjúkdómsins.
Ef þú hefur ekki ennþá kynnst þessum varasömu tækjum sem kölluð eru mótöld þá skaltu gæta þín. Láttu þér ekki detta í hug að kaupa þannig tæki. Mótaldssóttin byrjar mjög sakleysislega, en fyrr en varir hefur hún náð taki á peningaveskinu þínu, ávísanaheftinu og jafnvel krítarkortinu.
Ef þú átt mótald þá lendirðu undir eins í þeirri stórhættulegu gildru að "hringja í" kunningja þinn sem einnig á mótald. Af einhverjum ástæðum finnst ykkur heillandi að pikka skilaboð til hvors annars á lyklaborð tölvunnar. (jafnvel þó þið séuð að minnsta kosti tíu sinnum lengur að því en þið væruð með því að tala í símann.) Auðvitað þurftuð þið að gera nokkrar tilraunir til að tengjast áður en þið uppgötvuðuð að a.m.k. annar ykkar verður að nota hálf-duplex ham. Sú uppgötvum var reyndar alveg æsispennandi (ótrúlegt en satt).
Þessu næst ýtir þessi mótalds-kunningi þinn (ekki getum við kallað hann vin) þér eitt skref enn í átt til ánetjunar með því að gefa þér upp númer á nálægu BBS-i (Bulletin Board Service). Þegar þú hefur fengið þetta númer þá hefur þú tekið fyrsta lífshættulega skrefið í áttina að því sem aðeins getur endað með algjörri beinlínufíkn.
Þegar þú hefur tekið næsta skref og hringt í þetta BBS sem félagi þinn gaf þér upp kemstu að því að það er ósköp einfalt að "logga sig inn". Þetta einkennilega samtal við fjarstadda ómannaða tölvu er undarlega æsandi, miklu meira æsandi en að pikka skilaboðin til kunningja þíns. Upphafs tilkynningarnar renna yfir skjáinn og segja þér frá kerfinu en þú ert alltof æstur til að skilja nema lítið brot af því. Síðan ferðu að lesa bréfin á póstsvæðinu og skrifar svo í tilraunaskyni eitt eða tvö sjálfur. Þetta er skemmtilegt, en æsingurinn byrjar að minnka og þú róast og hugsar með þér að það væri kannski rétt að lesa betur upphafs tilkynningarnar og ferð til baka á aðalvalmyndina.
Það er þá, sem það skeður. BBS-ið er með beituna sem lokkar þig til að ganga veg glötunarinnar allt til enda og verða algjör mótaldsfíkill. Einn valmöguleikinn heitir skráarsvæði og ef þú velur hann hefurðu endanlega kokgleypt beituna og átt þér ekki undankomu auðið. Þegar þú rennir augunum yfir listann yfir forritin sem eru í boði stekkurðu upp í loftið af fögnuði af að sjá öll þessi nöfn og lýsingar renna yfir skjáinn. Og þetta er allt ÓKEYPIS. Allt sem þú þarft að gera er að segja BBS-inu að senda þér skrárnar. Þú dánlódar þínu fyrsta forriti og ert búinn að vera; hreinsaður, plokkaður og steiktur.
55 mínútum eftir að þú loggaðir þig inn ertu búinn að dánlóda sex forrit. Eitt af þeim er nýtt og fullkomið samskiptaforrit, eitt er listi yfir önnur BBS víðsvegar um landið. Þú prentar listann yfir BBS-in út og skoðar hann. Þar eru upplýsingar um samskiptahraða, opnunartíma og sérhæfingu. Þú ákveður að prófa nýja samskiptaforritið og hringja í BBS í næsta bæjarfélagi. Það er á tali svo þú notar tímann til að setja öll símanúmerin inn í símaskrá samskiptaforritsins. Þú reynir aftur; enn á tali. Hey, þarna er eitt sem sérhæfir sig í forritun, kannski ég prófi það. Það er á öðru landshorni en það er komið kvöld svo það er kvöldtaxti í gildi. Þetta verður ekki svo dýrt.
Forritunar BBS-ið svarar og eftir 45 mínútur ertu búinn að dánlóda önnur 5 forrit. Síðan hringirðu í annað BBS og svo enn annað... langt fram á nótt. Og næstu nótt... Og næstu.
Suma daga áttar þú þig á þessu. Þessari skítugu mótaldsfíkn. Sérstaklega þegar þér líður eins og krakka undir skömmum konunnar þinnar vegna þessara stjarnfræðilegu símareikninga - ef hún er ekki þegar búin að skilja við þig.
Í hvert skipti sem þú sest við tölvuna þína og ætlar að vinna eitthvað hringirðu í staðinn í BBS. Ef það fyrsta er á tali hringirðu í það næsta eða þarnæsta þar til þú nærð sambandi. Þá líður þér vel. Þú kemst næstum í vímu. Þegar þú loksins slítur sambandinu, geturðu enn ekki farið að vinna heldur þarftu að hringja í eitt BBS í viðbót.
Þessi ánetjun þín sem beinlínufíkils er bara ein af mörgum harmsögum þínum í nútíma tækniþjóðfélagi. Eins og sú árátta þín að þurfa að draga hringi um öll númerin á auglýsingaspjaldi tölvutímaritsins þíns. Að lokum snýst öll hugsun þín um skilaboðin sem þú finnur á BBS-unum; eina hamingja þín er forritin sem þú dánlódar. (Þú notar þau aldrei, bara safnar þeim.)
Þó er von. Við starfsfólk MA (Modems Anonymous) höfum þrátt fyrir lág laun lagt út í langvarandi og ítarlegar rannsóknir til að finna lækningu við mótalds-maníunni sem hefur eyðilagt líf fjölmargra. Og okkur hefur tekist þetta. Lækningin er í rauninni sáraeinföld en áhrifamikil: Settu upp þitt eigið BBS. Þá hringja allir hinir mótaldssjúklingarnir til þín og eiginkonur þeirra geta skammast í þeim útaf 50 þúsund króna símareikningum. Og þú finnur frið - að lokum.
Þýtt og endursagt:
Sæmundur Bjarnason
ISLAND - LIST OG GK FRÉTTIR.
Í síðasta Rafriti skoraði ég á lesendur að gerast áskrifendur ef þeir hefðu yfir netfangi að ráða. Nokkur árangur varð af þessu og einn gerði betur en það. Gunnar Davíðsson í Noregi skrifaði tilkynningu um þetta og birti úrdrátt úr grein minni á póstlistanum island-list sem ég vissi ekki einu sinni að væri til. Sömuleiðis kom hann með tillögu um að senda efnið á GK-formi eins og GK-fréttir. Hvorugt kannaðist ég við. Með því að spyrjast fyrir komst ég að því að Guðbjartur Kristófersson í Reykjavík stæði fyrir þessu svo ég skrifaði honum og bað um upplýsingar. Hann brást vel við því:
-----
Sæll Sæmundur,
Fyrir 3 árum hóf ég að senda syni mínum, sem er við nám í Boston, fréttapistla. Þetta hlóð svo utaná sig og sl. 2 ár hef ég sent þessa pistla nær vikulega á svokallaðan island-list en hann var settur upp á vél í Vancouver. Nú hefur orðið sú breyting á að island-list hefur verið klofinn í gk-news og island-list.gk-news er eingöngu ætlaður fyrir fréttapistlana en hinn listinn er hugsaður til umræðu um hvað sem er. Ég fór þess á leit að listarnir væru aðskildir því hér heima eru margir sem vilja vera á umræðulistanum en hafa enga þörf fyrir fréttir sem þeir eru búnir að lesa í Mogganum eða heyra í RÚV. Svo eru líka nokkrir sem aðeins hafa áhuga á fréttaskeytunum en vilja ekki láta trufla sig með umræðu sem þeir hinir sömu hafa e.t.v. lítinn áhuga á.
Fréttirnar eru kóðaðar niður í 7 bita ASCII með forritinu iso2gk og þeir sem vilja geta síðan afkóðað með gk2iso eða eytt pípu og tildu, sem eru einu aukatáknin, úr textanum. Mönnum gengur þetta misjafnlega en þeir sem hafa komið sér upp psheader geta prentað herlegheitin út á postscript-prentara þó svo þeir hafi aðeins skjái fyrir 7-bita. Einnig má notast við PC-windows eða Macca.
Þú getur fengið þessi forrit ef þú villt en til að forðast rugling þá máttu ekki dreifa þeim breyttum undir sama nafni.
Þessi forrit eru löglega skrifuð fyrir UNIX þannig að hægt er að pípa í þau og nú ætla ég að kóða þetta með því að segja:
til að vista.
iso2gk /tmp/snd.4822 (en það er nafnið á þessari temporary-skrá) JÞú getur fengið netfang þitt sett á island-list og komist þar í samband við tölvutóta en mér er illa við að annað en gk_fréttir séu sendar inn á fréttalistann.
Þú getur fengið afrit af forritunum ef þú vilt en sértu á UNU þarftu aðeins að gefa skipunina:
iso2gk -h eða gk2iso -h til að fá hjálparmyndina og láta þau vinna á þínu svæði.
Kær kveðja og gleðileg jól,
----- Tilvitnun lýkur. Guðbjartur.
Á hvorum lista munu vera um 300 manns. Ég hef ekki gert neitt í því ennþá að snúa Rafritinu á GK-form en mun reyna að gera það og líklega senda það þá á sérstakan áskrifendalista ef óskir koma fram um það.
Sæmundur Bjarnason
NÝIR NOTENDUR Á INTERNET.
Hér eru nokkur atriði sem nýir notendur á Internet ættu að kynna sér. Nauðsynlegt er að kunna að ftp-a til að geta nýtt sér þetta.
Til að kynnast Internet:
ftp-a á nic.merit.edu Svæði: documents/fyi Skjal: fyi_20.txt Svarar spurningunni: Hvað er Internet?
ftp-a á nysernet.org Svæði: pub/resources/guides Skjal: surfing.2.0.3.txt
Ýmislegt fróðlegt á Internet.
ftp-a á nic.merit.edu Svæði: documents/fyi Skjal: fyi_04.txt Byrjendaspurningar.
ftp-a á ftp.sura.net Svæði: pub/nic/internet.literature Skjal: netiquette.txt
Hegðun á Internet.
Leiðarvísar um Internet
ftp-a á ftp.eff.org Svæði: pub/EFF/papers Skjal: big-dummys-guide.txt
ftp-a á mrcnext.cso.uiuc.edu Svæði etext/etext93 Skjal: email025.txt
ftp-a á csn.org Svæði: pub/net/zen Skjal: zen-1.0.PS.Z
ftp-a á ftp.eunet.no Svæði: pub/text Skjal: online.txt
Listarftp-a á rtfm.mit.edu Svæði: pub/usenet/news.answers/internet-services Skjal: faq
faq (frequently asked questions) um þjónustu á Internet.
ftp-a á ftp.rpi.edu Svæði: pub/communications Skjal: internet-cmc.txt Upplýsingabankar.
ftp-a á csd4.csd.uwm.edu Svæði: pub Skjal: inet.services.txt Þjónusta á Internet.
ftp-a á ftp.rpi.edu Svæði: pub/communications Skjal: internet-tools Internet hjálpartæki.
Internet kannað
ftp-a á ftp.cni.org Svæði: pub/net-guides/i-hunt Skjal: 00README
ftp-a á nic.merit.edu Skjal: READ.ME
ftp-a á ds.internic.net Svæði: dirofdirs Skjal: 0intro.dirofdirs
ftp-a á ds.internic.net Svæði: resource-guide Skjal: overview
Þessar upplýsingar eru komnar frá John December (decemj@rpi.edu)
Sæmundur Bjarnason
SÝNDARVERULEIKI
VIRTUAL REALITY
Strengjakvartett er að leika í anddyri safns eins í New York. Og hvað er svona merkilegt við það, kynnu margir að hugsa.
En þú getur gengið alveg að hljóðfæraleikurunum og snert þá. Eða lagt eyrað alveg að hljóðfærunum þeirra. Þeim er alveg sama og það sér enginn til þín. Þeir eru nefnilega ekki raunverulegir. Þetta er sýndarveruleiki.
Guggenheimsafnið sýndi fimm dæmi um sýndarveruleika í október síðastliðnum. Gestir settu á sig höfuðbúnað og sérstaka vettlinga til að komast í tölvustýrðan sýndarveruleika-heim þar sem allar venjulegar reglur um rými og hreyfingar og jafnvel almenna kurteisi hverfa.
Sýndarveruleiki hefur verið til í 25 ár. Hinsvegar hafa aðeins örfá stórfyrirtæki og ríkisstjórnir haft efni á honum hingaðtil og örfáir sérfræðingar kynnst honum af eigin raun.
En sýndarveruleiki er í dag staddur þar sem tölvuleikir voru fyrir 15 árum. Í þann veginn að verða þekktur og vinsæll.
Fjöldi fyrirtækja ráðgerir að setja sýndarveruleika-leiki á markaðinn í leiktækjasölum á árinu 1994. Sega of America mun hefja sölu á sýndarveruleikahjálmum sem hægt verður að tengja við tölvuleiktæki þeirra.
Í nýju spilavíti í Las Vegas er kvikmyndasalur þar sem nokkur hundruð áhorfendum er boðið í ferð í gegnum sýndar-pýramída í eltingarleik við mannræningja.
Guggenheimsýningin var m.a. til þess að sýna að sýndarveru- leiki er annað og meira en æðisgenginn geimbardagi.
"Sýndarveruleiki var upphaflega álitinn vera eingöngu afbragðs tölvuleikur," segir Kevin Teixeira, verkefnisstjóri sýndarveruleika-hóps hjá Intel fyrirtækinu sem styrkti sýninguna. "Í rauninni er þetta öflug leið til að nota tölvur á margvíslega hátt."
Sýndarveruleiki kennir flugmönnum að fljúga og ökumönnum að aka. Vísindamenn hafa með hjálp sýndarveruleika getað séð ýmsa eiginleika vetrarbrautarinnar sem ekki var hægt að sjá með stjörnukíkjum eða á myndum.
Og nú eru að opnast nýjar víddir í listum með þessari aðferð.
"Það er ekki óvenjulegt í sögu sjónlista að listamennirnir kanni notkun sérhvers nýs miðils sem kemur fram," segir Michael Govan aðstoðarframkvæmdastjóri Guggenheim.
Það var listakonan Jenny Holzer sem vakti áhuga safnsins á sýndarveruleika en hún er fræg fyrir óvenjulega notkun ljósatafla á íþróttakappleikjum.
Holzer bjó til tvö forrit fyrir sýninguna. Annað undir áhrifum frá átökunum í fyrrum Júgóslavíu. Gesturinn gengur um í yfirgefnu sýndar-þorpi. Ef farið er inn í hús eða byggingu, heyrist rödd hermanns, fórnarlambs nauðgara eða áhorfanda.
"Það skemmtilega við þetta er að það gilda engin náttúrulögmál önnur en þau sem þú ákveður," segir hún.
Lagasmiðurinn Thomas Dolby, sem samdi lagið "She Blinded Me With Science" sem vinsælt var fyrir um 10 árum bjó til sýndar-strengjakvartettinn.
Thomas Dolby óttast að þegar tækni- og fjarskiptafyrirtæki fara að framleiða nýja sýndarveruleika-leiki og þessháttar muni eldra fólk í fyrstunni verða afskipt.
"Ég held að það sé mikilvægt fyrir alla að taka þátt í þessari nýju tækni," segir Dolby. "Við erum ekki öll táningsstrákar".
"Ég vil að fólk, sem hélt að aldrei í lífinu mundi það koma nálægt leiktækjasal eða leika sér í tölvuleik, sjái þennan kvartett minn, segir hann. "Það á það skilið ekki síður en aðrir að kynnast þessum byltingarkenndu nýju leikföngum."
Þegar tækninni fleygir fram langar Dolby að gera sýndar-tónlistarskóla. "Þegar þú ert búinn að fá nóg af strengjakvartettnum, geturðu labbað yfir í næsta herbergi og séð afrísk-kúbanska trommuleikarann og kannski tekið sellóleikarann með þér," segir Dolby.
Svona sýning virðist vera upplagt verkefni fyrir tæknifyrirtæki eins og Time Warner og Sony sem eiga bæði kvikmyndafyrirtæki og hljómplötufyrirtæki og hafa aðgang að listamönnum.
En það var Intel, heimsins stærsti framleiðandi á sviði tölvuörgjörva, sem kom þessari sýningu upp sem hluta af áætlun um að fá listamönnum og smáfyrirtækjum í hendurnar öfluga hátækni.
Fyrirtækið hagnast á hugmyndum um nýja notkun á tölvum og með sýningum sem þessari sýnir það kraftinn í nýjasta örgjörvanum sínum sem kallaður er Pentium, en öll forritin eru keyrð á venjulegum einkatölvum.
Frá Associated Press
Þýðing: Sæmundur Bjarnason
AÐ HRINGJA Í BBS - KERFI
Tölvusamskipti einkaaðila á Íslandi skiptast nokkuð í tvennt. Annarsvegar er Internet og þeir sem því tengjast en þar er einkum um að ræða starfsfólk og nemendur skóla, fólk tengt ýmsum öðrum stofnunum, rannsóknarstofum, tölvufyrirtækjum og þ.h. og svo vaxandi fjölda áhugamanna sem líklega eru flestir tengdir Íslenska menntanetinu.
Hins vegar er svo BBS heimurinn. Þar er einfaldlega um að ræða alla þá sem hafa aðgang að tölvum og módemum, jafnvel bara tímabundið og þá sem eiga slík tæki en hafa ekki ráðist í það að kaupa sér aðgang að Internet.
Furðu lítill samgangur er milli þessara hópa. Bæði er tæknibúnaður dálítið mismunandi og svo virðist í sumum tilfellum um að ræða lítinn áhuga á að kynnast því umhverfi sem ókunnugra er. Þónokkrir fyrrum BBS manna eru reyndar orðnir talsvert atkvæðamiklir á ismennt, en þeir sem aldir eru upp í Internet umhverfinu ef svo má segja virðast sjaldan hafa áhuga á að kynnast BBS-heiminum.
Það er einungis núna á síðasta ári eða svo sem Internet-aðgangur hefur orðið á færi almennra tölvuáhugamanna. Áður þurftu þeir að láta sér nægja BBS-heiminn og það er ekki því að neita að hann hefur þróast talsvert og býður upp á margt skemmtilegt. Það sem lengst af hefur staðið honum mest fyrir þrifum er að samband til útlanda hefur verið ákaflega dýrt. BBS kerfi hafa líka yfirleitt ekki lifað lengi og eru sífellt að koma og fara. Þau hafa líka yfirleitt verið rekin á áhuganum einum saman. Erfiðlega hefur gengið að selja aðgang að þeim og oftast nær skapa þau eigendum sínum miklu fremur útgjöld en tekjur.
Með tilkomu Íslenska menntnetsins og tengingu þess við flesta skóla landsins hefur þeim sem fást við tölvusamskipti fjölgað stórlega á stuttum tíma. Margir notenda menntanetsins hafa þó átt í talsverðum erfiðleikum við að ná sambandi við BBS-kerfi á landinu þó þeir hafi viljað það. Veldur þar mestu um að samskiptahugbúnaður sá sem mest hefur verið dreift gerir aðeins ráð fyrir tengingu við menntanetið. Þar hefur verið um að ræða Kermit samskiptaforritið og oftast nær þannig upp sett að það notar einungis ISO 8859/1 stafatöfluna. Þetta verður til þess að íslensku stafirnir brenglast og auk þess er oftast einnig nokkrum vandkvæðum bundið að sækja og senda (dánlóda og uplóda) skrár.
Ég hef lengi haft áhuga á að gera þeim notendum menntanetsins sem aðeins hafa yfir Kermit að ráða kleift að ná fullkomnu sambandi við BBS-kerfi á auðveldan hátt. Fyrst reyndi ég að breyta mskermit.ini skránni sem fylgir kermit forritinu sem dreift hefur verið en mig skorti kunnáttu til þess og fyrirspurnir báru ekki árangur. Næst reyndi ég að afla mér vitneskju um hvernig hægt væri að veita notendum menntanetsins leyfi til að sækja á mitt heimasvæði forrit sem hentuðu en það gekk ekki vel og ég gafst fljótlega upp við þær fyrirætlanir.
Þá var eiginlega bara um eitt að ræða og það var að sækja þessi forrit til útlanda. (Ég get aldrei fundið neitt á Isgate.is, því miður.) Hér á eftir fara nákvæmar leiðbeiningar um það hvernig koma skal sér upp búnaði til að hafa fullkomið samband við BBS kerfi landsins þannig að engin vandamál verði um að ræða varðandi stafatöflur og flutningsstaðla.
Ég geri ráð fyrir því að Kermit samskiptaforritið sé notað til að ná sambandi við ismennt. Annnars skiptir það ekki máli en einungis er ástæða til að halda lestrinum áfram fyrir þá sem ekki hefur tekist að hafa óbrengluð samskipti við BBS-kerfi. Þessar leiðbeiningar eru sniðnar fyrir þá sem nota PC tölvur og búast má við að margt sem hér er sagt eigi ekki við um aðrar tölvutegundir.
Frá aðalvalmynd ismennt er valið S fyrir skel. frá skel er skrifað: ftp fpt.funet.fi
. Þegar finnska tölvan biður um netnafn (login name) þarf að skrifa anonymous og þegar hún biður um lykilorð þarf að setja inn netfangið sitt (nafn@ismennt.is). Þegar þessu er lokið á að fara á svæðið: pub/msdos/communications/procomm Þetta er gert með cd skipuninni og má annaðhvort gefa upp alla slóðina í einu eða hvern einstakan hluta hennar sérstaklega. Í hverju skráarsafni má svo líka gefa skipunina dir til að ganga úr skugga um að verið sé á réttri leið. Þá er næst að sækja réttu skrána en hún heitir pcplus.zip. Það er einfaldlega gert með því að skipa: get pcplus.zip Tölvan tilkynnir þegar hún er búin að því, en ágætt er að gefa skipunina hash áður en get skipunin er gefin því þá er hægt að fylgjast svolítið með því hvernig flutningurinn gengur.
Þeir sem ekki eiga forrit til að afpakka .zip skrám (pkunzip.exe eða unzip.exe) þurfa að ná sér í aðra skrá. Hinir geta farið aftur heim á ismennt með þvi að gefa skipunin quit.
Afpökkunarforritið heitir unz50p1.exe og er á svæðinu: pub/msdos/starter og er hún tekin heim á nákvæmlega sama hátt og hin.
Næst liggur svo fyrir að flytja þessar skrár heim af ismennt. Ef Kermit er notað er ágætt að gera það í gegnum valmyndirnar og er þá frá aðalvalmynd valið F fyrir flutninga og síðan P fyrir pésa og þvínæst T fyrir taka skrá. Farið er nákvæmlega eftir leiðbeiningum tölvunnar og gæta skal þess að hoppa út í Kermit með ctrl-x og skrifa þar: set file type binary, ef ekki er full vissa fyrir því að forritið sé þannig stillt. Sjálfgefna stillingin er venjulega textaflutningur að ég held.
Flutningurinn af ismennt ætti að ganga snurðulaust og þá er komið að því að afpakka samskiptaforritið. Fyrst er rétt að setja bæði forritin sem sótt hafa verið í sérstakt skráasafn, síðan er unz50p1.exe skráin afpökkuð með því að skrifa unz50p1
Síðan er pcplus.zip skráin opnuð með unzip pcplus.zip þá er eiginlega ekki annað eftir en að keyra procomm plus forritið upp með skipuninni pcplustd og síðan er líklega best (en ekki nauðsynlegt) að stilla samskiptaforritið á réttan baud hraða, en það er gert með því að velja R fyrir revise entry.
Annað hvort má þá setja nafnið á BBS-inu og símanúmer þess inn um leið og baud hraðanum er breytt eða ýtt er á M fyrir manual eftir að breytingum er lokið og númerið sett þar inn og ýtt á enter.
Ekkert annað þarf að gera og tryggt er, svo framarlega sem island.sys eða code page 861 er virkt á viðkomandi tölvu, að engin vandræði verða með íslensku stafina. Til að sjá hvaða stafatafla er virk má gefa skipunina chcp.
Símanúmerið á Stöð 2 BBS er 673251. Þegar BBS-kerfið svarar þarf aðeins að svara fyrst nokkrum spurningum og síðan er komið inn á kerfið og hægt að fara að gera þar allt sem kerfið býður upp á: Skrifa póst, lesa póst, sækja skrár, senda skrár, lesa tilkynningar, fara í leiki o.fl.
Eins þarf að gæta þegar skrár eru fluttar og það er að þessi útgáfa af procomm + hefur ekki samskipta-prótókollinn zmodem og því er sennilega best að velja xmodem í staðinn.
Á stöð 2 BBS (eða öðrum kerfum sem farið er á) má síðan fá upplýsingar um önnur BBS og rekja sig þannig um BBS-heiminn. Einn galli er á þessu samanborið við ismennt og það er það að flest kerfin hafa bara eina línu og þessvegna er æði oft á tali. Þá er ekki um annað að gera en að taka á þolinmæðinni eða reyna að hringja í næsta kerfi.
Vonandi gengur ykkur vel að ná réttu og góðu sambandi við einhver BBS-kerfi, en ef eitthvað er óljóst í þessum leiðbeiningum eða ef ykkur rekur upp á sker af einhverjum öðrum ástæðum þá er velkomið að hringja í mig. (sjá símanúmer aftast í blaðinu)
Sæmundur Bjarnason.
LÖND Á INTERNET
Oft vaknar sú spurning þegar netföng eru lesin frá hvaða landi viðkomandi sé. Slíkt má eins og kunnugt er jafnan sjá af síðustu stöfum netfangsins. Hér er listi yfir einkennisstafi allra landa heimsins.
Því miður er þessi listi ekki alveg hárréttur. Sjálfsagt eru þetta þó þeir stafir sem hverju landi hefur verið úthlutað. Eitthvað er af löndum á þessum lista sem ekki hafa nein netföng á Internet. Mér er t.d. kunnugt um að engir Færeyingar hafa netföng sem enda á FO eins og sagt er á þessum lista. Einhverjir Færeyingar eru tengdir Íslenska menntanetinu og hringja þá væntanlega beint til Íslands með X-25 þegar þeir tengjast, en þeir hljóta að hafa netföng sem enda á .is
Á listanum stendur að Bandaríki Norður Ameríku hafi einkennisstafina US. Þetta er ekki rétt eins og allir vita. Flest (eða öll) Internet netföng sem enda á þremur stöfum (.edu .gov .com .org o.fl.) eru hinsvegar frá Bandaríkunum.
Ýmsar spurningar vakna þegar listinn er skoðaður. Ég hef ekki eytt miklum tíma í athuganir á honum en undrast t.d. hvers vegna Frakkland er sagt hafa tvennskonar einkennisstafi og af hverju Sviss hefur einkennisstafina CH en ekki S eitthvað.
Á þessum lista eru 239 lönd. Ég geri ekki ráð fyrir að neinn af lesendum blaðsins kannist við öll þessi lönd eða landssvæði. Okkur Íslendingum væri hollt að minnast þess þegar við hneykslumst á fáfræði útlendinga um Ísland.
Listinn er á ensku en vonandi hafa allir full not af honum þrátt fyrir það.
Albert Pétur Einarsson sendi blaðinu þennan lista.
>> Sæmundur Bjarnason <<
AD Andorra
AE United Arab Emirates
AF Afghanistan
AG Antigua and Barbuda
AI Anguilla
AL Albania
AM Armenia
AN Netherland Antilles
AO Angola
AQ Antarctica
AR Argentina
AS American Samoa
AT Austria
AU Australia
AW Aruba
AZ Azerbaidjan
BA Bosnia-Herzegovina
BB Barbados
BD Bangladesh
BE Belgium
BF Burkina Faso
BG Bulgaria
BH Bahrain
BI Burundi
BJ Benin
BM Bermuda
BN Brunei Darussalam
BO Bolivia
BR Brazil
BS Bahamas
BT Buthan
BV Bouvet Island
BW Botswana
BY Bielorussia
BZ Belize
CA Canada
CC Cocos Island
CF Central African Republic
CG Congo
CH Switzerland
CI Ivory Coast
CK Cook Islands
CL Chile
CM Cameroon
CN China
CO Colombia
CR Costa Rica
CS Czechoslovakia
CU Cuba
CV Cape Verde
CX Christmas Island
CY Cyprus
DE Germany
DJ Djibouti
DK Denmark
DM Dominica
DO Dominican Republic
DZ Algeria
EC Ecuador
EE Estonia
EG Egypt
EH Western Sahara
ES Spain
ET Ethiopia
FI Finland
FJ Fiji
FK Falkland Islands
FM Micronesia
FO Faroe Islands
FR France
FX France
GA Gabon
GB Great Britain (UK)
GD Grenada
GE Georgia
GH Ghana
GI Gibraltar
GL Greenland
GP Guadeloupe
GQ Equatorial Guinea
GF French Guyana
GM Gambia
GN Guinea
GR Greece
GT Guatemala
GU Guam
GW Guinea Bissau
GY Guyana
HK Hong Kong
HM Heard & McDonald Island
HN Honduras
HR Croatia
HT Haiti
HU Hungary
ID Indonesia
IE Ireland
IL Israel
IN India
IO British Indian Ocean Territories
IQ Iraq
IR Iran
IS Iceland
IT Italy
JM Jamaica
JO Jordan
JP Japan
KE Kenya
KG Kirgistan
KH Cambodia
KI Kiribati
KM Comoros
KN St.Kitts Nevis Anguilla
KP North Korea
KR South Korea
KW Kuwait
KY Cayman Islands
KZ Kazachstan
LA Laos
LB Lebanon
LC Saint Lucia
LI Liechtenstein
LK Sri Lanka
LR Liberia
LS Lesotho
LT Lithuania
LU Luxembourg
LV Latvia
LY Libya
MA Morocco
MC Monaco
MD Moldavia
MG Madagascar
MH Marshall Islands
ML Mali
MM Myanmar
MN Mongolia
MO Macau
MP Northern Mariana Island
MQ Martinique
MR Mauritania
MS Montserrat
MT Malta
MU Mauritius
MV Maldives
MW Malawi
MX Mexico
MY Malaysia
MZ Mozambique
NA Namibia
NC New Caledonia
NE Niger<
NF Norfolk Island
NG Nigeria
NI Nicaragua
NL Netherlands
NO Norway
NP Nepal
NR Nauru
NT Neutral Zone
NU Niue
NZ New Zealand
OM Oman
PA Panama
PE Peru
PF Polynesia
PG Papua New Guinea
PH Philippines
PK Pakistan
PL Poland
PM St. Pierre & Miquelon
PN Pitcairn
PT Portugal
PR Puerto Rico
PW Palau
PY Paraguay
QA Qatar
RE Reunion
RO Romania
RU Russian Federation
RW Rwanda
SA Saudi Arabia
SB Solomon Islands
SC Seychelles
SD Sudan
SE Sweden
SG Singapore
SH St. Helena
SI Slovenia
SJ Svalbard & Jan Mayen Islands
SL Sierra Leone
SM San Marino
SN Senegal
SO Somalia
SR Suriname
ST St. Tome and Principe
SU Soviet Union
SV El Salvador
SY Syria
SZ Swaziland
TC Turks & Caicos Islands
TD Chad
TF French Southern Territories
TG Togo
TH Thailand
TJ Tadjikistan
TK Tokelau
TM Turkmenistan
TN Tunisia
TO Tonga
TP East Timor
TR Turkey
TT Trinidad & Tobago
TV Tuvalu
TW Taiwan
TZ Tanzania
UA Ukraine
UG Uganda
UK United Kingdom
UM US Minor Outlying Islands
US United States
UY Uruguay
UZ Uzbekistan
VA Vatican City State
VC St.Vincent & Grenadines
VE Venezuela
VG British Virgin Islands
VI U.S. Virgin Islands
VN Vietnam
VU Vanuatu
WF Wallis & Futuna Islands
WS Samoa
YE Yemen
YU Yugoslavia
ZA South Africa
ZM Zambia
ZR Zaire
ZW Zimbabwe
BRÉF TIL BLAÐSINS.
Salvör Gissurardóttir segir í bréfi til mín:
Þetta er afbragðsgott framtak hjá þér, ég er viss um að mjög margir lesa ritið. Mjög gott að fá efnisyfirlit í byrjun og að hafa svona fáa stafi í línu og auðar línur milli leskafla. Fólk áttar sig oft ekki á að það krefst miklu meiri einbeitingar að lesa af skjá en pappír. Ég hef reyndar gert rannsókn sem virðist benda til að mjög langar greinar (margar skjáfyllar) á ráðstefnum séu sniðgengnar þ.e. aðeins sé lesin fyrsta skjáfyllin.
Ég er sammála því að efnið er á köflum nokkuð sérfræðilegt, ég myndi gjarna vilja sjá svona nokkur byrjendaatriði í UNIX og svo greinar um t.d. kurteisi á netum og óskrifaðar "umgengisreglur". Útskýra t.d. hvað "flaming" er og sýna dæmi um það. Svo væri ansi gaman að fá yfirlit yfir hvaða aðilar eru tengdir Internet á Íslandi.
Eins og ég sagði þá er Rafritið stórmerkilegt og gott blað, vona að þú haldir ótrauður áfram.
Með ósk um gott gengi,
Salvör Gissurardóttir
Kennaraháskóla Íslands
Ég þakka hrósið og vona að mér fyrirgefist þó ég birti það, en að öðru leyti finnst mér að það sem í bréfinu stendur eigi fullt erindi til lesenda blaðsins.
Sæmundur Bjarnason.
EFNISYFIRLIT RAFRITSINS 1993
1. tbl. 15. júlí
1. Hvernig á að FTP-a. Ítarlegar leiðbeiningar fyrir byrjendur.
2. Úr sjúrnölum sjúkrahúss í Reykjavík. Bráðfyndnar athugasemdir úr sjúkraskýrslum.
3. Stafatöflur. Íslenskir stafir í mismunandi stafatöflum.
4. Leikir. Nokkrir vinsælir tölvuleikir teknir til athugunar af kunnáttumanni.
5. Ferðalög Íslendinga fyrr á tíð. Söguskýring í anda nýrra og upplýstra tíma.
2. tbl. 22. ágúst
1. Frá ritsjóra.
2. Listin að IRC-a ...................... Tryggvi Rúnar Jónsson.
Ítarlegar leiðbeiningar fyrir byrjendur og lengra komna.3. Úr tjónaskýrslum tryggingarfélags. Bráðfyndnar athugasemdir úr lögregluskýrslum.
4. Þankagangur um íslenska menntanetið..Tryggvi Rúnar Jónsson.
5. Leikir ................................. Benedikt Sæmundsson.
Um leikinn Day of the Tentacle og stuttar fréttir úr leikjaheiminum.6. Um Stöð 2 BBS ........................... Sæmundur Bjarnason.
7. Hraðapróf og allt það ................ Tryggvi Rúnar Jónsson.
8. Hið eilífa stríð ..................... Tryggvi Rúnar Jónsson.
Samanburður á Mökkum og Pésum.9. BBS-kerfi á Íslandi ..................... Sæmundur Bjarnason.
Tilraun til skráningar upplýsinga um öll BBS-kerfi sem starfað hafa á Íslandi.10. Um binary flutninga .................. Tryggvi Rúnar Jónsson.
Samanburður á aðferðum við skráarflutninga á Íslenska Menntanetinu.3. tbl. 30. ágúst
1. Frá ritstjóra
2. Bæn tölvarans
3. Judit Polgar vs Deep Blue. Yngsti stórmeistarinn gegn bestu skáktölvunni ......... Sæmundur Bjarnason.
4. Kong Christian stod ved hójen mast. Aldagamall misskilningur leiðréttur ....... Atli Harðarson.
5. Usenet-fréttir. Um veiðar Íslendinga í Smugunni.............. Sæmundur Bjarnason.
6. Hljóðkort ........................... Tryggvi Rúnar Jónsson.
7. Um Viskítegundir
8. Innri gerð tölva ....................... Sæmundur Bjarnason.
9. Lítil dæmisaga
10. Íslenski hesturinn (Usenet) ............ Sæmundur Bjarnason.
11. Kýrmyndirnar frægu (fyrri hluti)
4. tbl. 13. september 1. Frá ritsjóra
2. Bréf til blaðsins .................... Guðni Karl Harðarson.
3. Skráaflutningar ....................... Gústav K Gústavsson.
4. Um skák og tölvur ...................... Sæmundur Bjarnason.
5. Örlítið um MOO ......................... Tryggvi R. Jónsson.
6. Harðir diskar og aðrir .................... Björn Davíðsson.
7. Svanurinn - örsaga .................... Benedikt Sæmundsson.
8. Að skrifa á Usenet ..................... Sæmundur Bjarnason.
9. Hryllingssögur af tölvuumboði ......... Gústav K Gústavsson.
10. Modemleikir yfir Internet .............. Tryggvi R. Jónsson.
11. Kýrmyndirnar frægu (seinni hluti)
5. tbl. 30. september
1. Frá ritsjóra
2. Mislitir Horgemlingar - Sverri Páli Erlendssyni svarað .... Sæmundur Bjarnason.
3. Sitthvað um geisladiska ................... Björn Davíðsson.
4. Að skrifa á Usenet - framhald .......... Sæmundur Bjarnason.
5. Saga af umboði ......................... Tryggvi R. Jónsson.
6. Um pappír og fleira skylt .............. Sæmundur Bjarnason.
7. QWK póstritillinn ......................... Björn Davíðsson.
8. Hjálp - Hvernig á að eyða "line-feed" merkjum úr ASCII texta ..... Sæmundur Bjarnason.
9. PC-Home - blað og disklingur ........... Tryggvi R. Jónsson.
10. Dálítið um Usenet og Gopher ............ Sæmundur Bjarnason.
11. Um IRC-fundinn 17. september s.l ....... Sæmundur Bjarnason.
6. tbl. 22. október
1. Frá ritstjóra
2. Um efnisval í Rafritinu ................. Sæmundur Bjarnason
3. Þverstæður .................................. Atli Harðarson
4. Flakkað um Internet ................... Guðni Karl Harðarson
5. Svolítið um Unix ........................ Tryggvi R. Jónsson
6. IRC-fundir .............................. Sæmundur Bjarnason
7. Um snafsa, mótöld og nýyrði ................ Óli Þór Atlason
8. Séríslenskir stafir .................... Guðmundur Bjarnason
9. soc.culture.nordic ...................... Sæmundur Bjarnason
10. Talk - Write Samskiptaleiðir milli notenda á Unix fjölnotendavélum ...... Tryggvi R. Jónsson
11. Tvær limrur á ensku
12. Um bréfafætur og spakmæli ............... Sæmundur Bjarnason
7. tbl. 10 nóvember
1. Frá ritstjóra
2. Um efahyggju ................................ Atli Harðarson
3. VGA - planets ........................... Sæmundur Bjarnason
4. Módem - 9600 bps og áfram ................. Björn Davíðsson og Gústav K Gústafsson
5. Um samskiptaforritið Telix og tengingar við Menntanetið ...........Einar Karlsson
6. Íslendingar fá ókeypis aðgang að Internet .......... Morgunblaðið + Sæmundur Bjarnason
7. Flakkað um Internet 2. hluti .......... Guðni Karl Harðarson
8. Um stafatöflur og þýðingar .............. Sæmundur Bjarnason
9. Svolítið um Unix 2. hluti ............... Tryggvi R. Jónsson
10. Fótmæli ................................. Sæmundur Bjarnason
8. tbl. 20. desember
1. Frá ritstjóra .............................................
2. Internet og eðli þess .................. Michael Strangelove
3. Uppboð á seðlabúnti ......................... Atli Harðarson
4. Svolítð um Unix - ferlar ................ Tryggvi R. Jónsson
5. Flakkað um Internet ................... Guðni Karl Harðarson
6. Meira um Telix samskiptaforritið ............ Einar Karlsson
7. Novell hugbúnaður á ftp ................. Tryggvi R. Jónsson
8. Let it be - Write in C ........................ Ljóð á ensku
9. Um Doom .............................. Tryggvi Rúnar Jónsson
Höfundar efnis:
1. Sæmundur Bjarnason
2. Benedikt Sæmundsson
3. Tryggvi Rúnar Jónsson
4. Atli Harðarson
5. Guðni Karl Harðarson
6. Gústav K Gústavsson
7. Björn Davíðsson
8. Óli Þór Atlason
9. Guðmundur Bjarnason
10. Einar Karlsson
11. Michael Strangelove