- ÍSLAND
- Ísland, farsældafrón
- og hagsælda, hrímhvíta móðir!
- Hvar er þín fornaldarfrægð,
- frelsið og manndáðin bezt?
- Allt er í heiminum hverfult,
- og stund þíns fegursta frama
- lýsir sem leiftur um nótt
- langt fram á horfinni öld.
- Landið var fagurt og frítt
- og fannhvítir jöklanna tindar,
- himinninn heiður og blár,
- hafið var skínandi bjart.
- Þá komu feðurnir frægu
- og frjálsræðishetjurnar góðu
- austan um hyldýpishaf,
- hingað í sælunnar reit.
- Reistu sér byggðir og bú
- í blómguðu dalanna skauti,
- ukust að íþrótt og frægð,
- undu svo glaðir við sitt.
- Hátt á eldhrauni upp,
- þar sem ennþá Öxará rennur
- ofan í Almannagjá,
- alþingið feðranna stóð.
- Þar stóð hann Þorgeir á þingi,
- er við trúnni var tekið af lýði.
- Þar komu Gissur og Geir,
- Gunnar og Héðinn og Njáll.
- Þá riðu hetjur um héruð,
- og skrautbúin skip fyrir landi
- flutu með fríðasta lið,
- færandi varninginn heim.
- Það er svo bágt að standa í stað,
- og mönnunum munar
- annaðhvort aftur á bak
- ellegar nokkuð á leið.
- Hvað er þá orðið okkar starf
- í sex hundruð sumur?
- Höfum við gengið til góðs
- götuna fram eftir veg?
- Landið er fagurt og frítt
- og fannhvítir jöklanna tindar,
- himinninn heiður og blár,
- hafið er skínandi bjart.
- En á eldhrauni upp,
- þar sem ennþá Öxará rennur
- ofan í Almannagjá,
- alþing er horfið á braut.
- Nú er hún Snorrabúð stekkur,
- og lyngið á Lögbergi helga
- blánar af berjum hvert ár,
- börnum og hröfnum að leik.
- Ó, þér unglinga fjöld
- og Íslands fullorðnu synir!
- Svona er feðranna frægð
- fallin í gleymsku og dá!
GUNNARSHÓLMI
- Skein yfir landi sól á sumarvegi,
- og silfurbláan Eyjafjallatind
- gullrauðum loga glæsti seint á degi.
- Við austur gnæfir sú hin mikla mynd
- hátt yfir sveit, og höfði björtu svalar
- í himinblámans fagurtærri lind.
- Beljandi foss við hamrabúann hjalar
- á hengiflugi undir jökulrótum,
- þar sem að gullið geyma Frosti og Fjalar.
- En hinum megin föstum standa fótum,
- blásvörtum feldi búin, Tindafjöll
- og grænu belti gyrð á dalamótum.
- Með hjálminn skyggnda, hvítri líkan mjöll,
- horfa þau yfir heiðarvötnin bláu,
- sem falla niður fagran Rangárvöll,
- þar sem að una byggðarbýlin smáu,
- dreifð yfir blómguð tún og grænar grundir.
- Við norður rísa Heklu tindar háu.
- Svell er á gnípu, eldur geisar undir.
- Í ógna djúpi, hörðum vafin dróma,
- skelfing og dauði dvelja langar stundir.
- En spegilskyggnd í háu lofti ljóma
- hrafntinnuþökin yfir svörtum sal.
- Þaðan má líta sælan sveitablóma,
- því Markarfljót í fögrum skógardal
- dunar á eyrum. Breiða þekur bakka
- fullgróinn akur, fagurst engjaval
- þaðan af breiðir hátt í hlíðarslakka
- glitaða blæju, gróna blómum smám.
- Klógulir ernir yfir veiði hlakka,
- því fiskar vaka þar í öllum ám.
- Blikar í lofti birkiþrasta sveimur,
- og skógar glymja, skreyttir reynitrjám.
- Þá er til ferðar fákum snúið tveimur,
- úr rausnargarði háum undir Hlíð,
- þangað sem heyrist öldufalla eimur,
- því atgang þann ei hefta veður blíð,
- sem voldug reisir Rán á Eyjasandi,
- þar sem hún heyir heimsins langa stríð.
- Um trausta strengi liggur fyrir landi
- borðfögur skeið, með bundin segl við rá,
- skínandi trjóna gín mót sjávar grandi.
- Þar eiga tignir tveir að flytjast á,
- bræður, af fögrum fósturjarðar ströndum
- og langa stund ei litið aftur fá,
- fjarlægum ala aldur sinn í löndum,
- útlagar verða, vinar augum fjær.
- Svo hafa forlög fært þeim dóm að höndum.
- Nú er á brautu borinn vigur skær
- frá Hlíðarenda hám, því Gunnar ríður
- atgeirnum beitta búinn. Honum nær
- dreyrrauðum hesti hleypir gumi, fríður
- og bláu saxi gyrður, yfir grund.
- Þar mátti kenna Kolskegg allur lýður.
- Svo fara báðir bræður enn um stund.
- Skeiðfráir jóar hverfa fram að fljóti.
- Kolskeggur starir út á Eyjasund,
- en Gunnar horfir hlíðarbrekku móti.
- Hræðist þá ekki frægðarhetjan góða
- óvina fjöld, þó hörðum dauða hóti.
- "Sá ég ei fyrr svo fagran jarðargróða,
- fénaður dreifir sér um græna haga,
- við bleikan akur rósin blikar rjóða.
- Hér vil eg una ævi minnar daga
- alla, sem guð mér sendir. Farðu vel,
- bróðir og vinur!" - Svo er Gunnars saga.
*
- Því Gunnar vildi heldur bíða hel
- en horfinn vera fósturjarðar ströndum.
- Grimmlegir fjendur, flárri studdir vél,
- fjötruðu góðan dreng í heljar böndum.
- Hugljúfa samt ég sögu Gunnar tel,
- þar sem ég undrast enn á köldum söndum
- lágan að sigra ógnabylgju ólma
- algrænu skrauti prýddan Gunnarshólma.
- Þar sem að áður akrar huldu völl,
- ólgandi Þverá veltur yfir sanda.
- Sólroðin líta enn hin öldnu fjöll
- árstrauminn harða fögrum dali granda.
- Flúinn er dvergur, dáin hamratröll,
- dauft er í sveitum, hnípin þjóð í vanda.
- En lágum hlífir hulinn verndarkraftur,
- hólmanum, þar sem Gunnar sneri aftur.
TIL HERRA PÁLS GAIMARD
- Þú stóðst á tindi Heklu hám
- og horfðir yfir landið fríða,
- þar sem um grænar grundir líða
- skínandi ár að ægi blám.
- En Loki bundinn beið í gjótum
- bjargstuddum undir jökulrótum. -
- Þótti þér ekki Ísland þá
- yfirbragðsmikið til að sjá?
- Þú reiðst um fagran fjalladal
- á fáki vökrum, götu slétta,
- þar sem við búann brattra kletta
- æðandi fossar eiga tal,
- þar sem að una hátt í hlíðum
- hjarðir á beit með lagði síðum. -
- Þótti þér ekki Ísland þá
- íbúum sínum skemmtan ljá?
- Þú komst á breiðan brunageim
- við bjarta vatnið fiskisæla,
- þar sem vér áður áttum hæla
- fólkstjórnarþingi, frægu um heim.
- Nú er þar þrotin þyrping tjalda,
- þögult og dapurt hraunið kalda. -
- Þótti þér ekki Ísland þá,
- alþingi svipt, með hrellda brá?
- Nú heilsar þér á Hafnar slóð
- heiman af Fróni vina flokkur.
- Við vitum glöggt, að anntu okkur,
- frakkneskur maður, frjálsri þjóð,
- því andinn lifir æ hinn sami,
- þótt afl og þroska nauðir lami.
- Menntanna brunni að bergja á
- bezta skal okkur hressing ljá!
- Vísindin efla alla dáð,
- orkuna styrkja, viljann hvessa,
- vonina glæða, hugann hressa,
- farsældum vefja lýð og láð.
- Tífaldar þakkir því ber færa
- eim, sem að guðdómseldinn skæra
- akið og glætt og verndað fá
- izkunnar helga fjalli á.
- Þvílíkar færum þakkir vér
- þér, sem úr fylgsnum náttúrunnar
- gersemar, áður aldrei kunnar,
- með óþrjótanda afli ber.
- Heill sér þér, Páll, og heiður mestur!
- Hjá oss sat aldrei kærri gestur.
- Alvaldur greiði æ þinn stig!
- Ísland skal lengi muna þig.
HULDULJÓÐ
- Skáld er ég ei, en huldukonan kallar
- og kveða biður hyggjuþungan beim.
- Mun ég því sitja, meðan degi hallar
- og mæddur smali fénu kemur heim,
- þar sem að háan hamar fossinn skekur
- og hulduþjóð til næturiðju vekur.
- Þrumi eg á bergi, þýtur yfir hjalla
- þokan að hylja mig og kaldan foss.
- Nú skal úr hlíðum hárra Tinnufjalla,
- svo huldumeyjar þægan vinni koss,
- óbrotinn söngur yfir dalinn líða
- eins og úr holti spóaröddin þýða.
- Þú, sem að byggir hamrabýlin háu,
- hjartanu mínu alla daga kær,
- sólfagra mey, djúpt undir bergi bláu,
- bústu að sitja vini þínum nær.
- Döggsvalur úði laugar lokkinn bleika,
- ljós er af himni, næturmyndir reika.
- Hvers er að dyljast? Harma sinna þungu.
- Hlægja þeir öld, er ræður þeim ei bót.
- Hvers er að minnast? Hins, er hverri tungu,
- huganum í svo festa megi rót,
- ætlanda væri eftir þeim að ræða,
- sem orka mætti veikan lýð að fræða.
- Að fræða! Hver mun hirða hér um fræði?
- Heimskinginn gerir sig að vanaþræl.
- Gleymd eru lýðnum landsins fornu kvæði.
- Leirburðarstagl og holtaþokuvæl
- fyllir nú breiða byggð með aumlegt þvaður.
- Bragðdaufa rímu þylur vesall maður.
- Háðungarorð, sem eyrun Huldu særa,
- ei skulu spilla ljóði voru meir.
- Sendið þér annan, sanninn heim að færa
- söngvurum yðar, Njörður, Þór og Freyr!
- Og hver sá ás, sem ata þeir í kvæði,
- eirðinni gleymi og hefni sín í bræði.
- Sólfagra mey! Ég sé - nú leit minn andi
- þanns seglið vatt í byrnum undan Skor
- og aldrei síðan aftur bar að landi.
- Eggert, ó, hyggstu þá að leita vor?
- Marblæju votri varpar sér af herðum
- vandlætishetjan, sterkum búin gerðum.
- Hvað er í heimi, Hulda, líf ag andi,
- hugsanir drottins sálum fjær og nær,
- þar sem að bárur brjóta hval á sandi,
- í brekku, þar sem fjallaljósið grær,
- þar sem að háleit hugmynd leið sér brýtur.
- Hann vissi það, er andi vor nú lítur.
- Ó, Eggert! Þú varst ættarblóminn mesti
- og ættarjarðar þinnar heill og ljós.
- Blessuð sú stund, er fót hann aftur festi
- á frjórri grund við breiðan sævarós.
- Sólfagra mey! Hann svipast um með tárum,
- saltdrifin hetja, stigin upp af bárum.
- Hví er inn sterki úr hafi bláu genginn
- á hauður, sem í nætur faðmi þreyr?
- Veit ég, að þegar værðin góða er fengin,
- vinirnir gleyma að birtast framar meir.
- Ó, hve hann hefur eftir þráð að líta
- ástarland sitt með tignarfaldinn hvíta.
- Tárperlur bjartar titra þér í augum,
- tindra þær gegnum fagurt lokkasafn.
- sólfagra mey, því sjónar þinnar baugum
- séður er aldrei kappi þessum jafn.
- Þú elskar, Hulda, Eggert, foldar blóma,