VOPNFIRÐINGA  SAGA




1. kafli

Þar hefjum vér þenna þátt er sá maður bjó að Hofi í Vopnafirði er Helgi hét. Hann var sonur Þorgils Þorsteinssonar, Ölvissonar, Ásvaldssonar, Öxna-Þórissonar. Ölvir var lendur maður í Noregi um daga Hákonar jarls Grjótgarðssonar.

Þorsteinn hvíti kom fyrst út til Íslands þeirra langfeðga og bjó að Tóftavelli fyrir utan Síreksstaði. En Steinbjörn bjó að Hofi, sonur Refs hins rauða. Og er honum eyddist fé fyrir þegnskapar sakar þá keypti Þorsteinn Hofsland og bjó þar sex tigu vetra. Hann átti Ingibjörgu Hróðgeirsdóttur hins hvíta.

Þorgils var faðir Brodd-Helga. Hann tók við búi Þorsteins. Þorkell og Héðinn vógu Þorgils föður Brodd-Helga en Þorsteinn hvíti tók þá enn við búi og fæddi upp Helga sonarson sinn.

Helgi var mikill maður og sterkur og bráðger, vænn og stórmannlegur, ekki málugur í barnæsku, ódæll og óvægur þegar á unga aldri. Hann var hugkvæmur og margbreytinn.

Frá því er sagt einnhvern dag að Hofi er naut voru á stöðli að graðungur var á stöðlinum er þeir frændur áttu en annar graðungur kom á stöðulinn og stönguðust graðungarnir. En sveinninn Helgi var úti og sér að þeirra graðungur dugir verr og fer frá. Hann tekur mannbrodd einn og bindur í enni graðunginum og gengur þaðan frá þeirra graðungi betur. Af þessum atburði var hann kallaður Brodd-Helgi. Var hann afbrigði þeirra manna allra er þar fæddust upp í héraðinu að atgervi.


2. kafli

Maður hét Svartur er kom út hingað og gerði bú í Vopnafirði. Hið næsta honum bjó sá maður er Skíði hét. Hann var félítill. Svartur var mikill maður og rammur að afli og vel vígur og óeirðarmaður hinn mesti. Þá Svart og Skíða skildi á um beitingar og lauk því svo að Svartur vó Skíða. En Brodd-Helgi mælti eftir vígið og gerði Svart sekan. Þá var Brodd-Helgi tólf vetra gamall.

Eftir það lagðist Svartur út á heiði þá er vér köllum Smjörvatnsheiði skammt frá Sunnudal og leggst á fé Hofsverja og gerði miklu meira að en honum var nauðsyn til.

Sauðamaður að Hofi kom inn einn aftan og gekk inn í lokrekkjugólf Þorsteins karls þar sem hann lá sjónlaus.

Og mælti Þorsteinn: "Hversu hefir að farið í dag félagi?" segir hann.

"Sem verst," segir hinn, "horfinn er geldingurinn þinn hinn besti " segir sauðamaður, "og þrír aðrir."

"Komnir munu til sauða annarra manna," segir hann, "og munu aftur koma."

"Nei, nei," segir sauðamaður, "þeir munu aldrei aftur koma."

"Mæl við mig slíkt er þér líkar," segir Þorsteinn, "en tala ekki slíkt við Brodd-Helga," segir hann.

Brodd-Helgi spurði sauðamanninn hversu flakkað hefði, um daginn eftir. En hann hafði öll hin sömu svör við hann sem við Þorstein. Brodd-Helgi lét sem hann heyrði eigi og fór í rekkju um kveldið.

Og er aðrir menn voru sofnaðir reis hann upp og tók skjöld sinn og gekk hann síðan út. Þess er getið að hann tók upp einn hellustein mikinn og þunnan og lét annan enda í brækur sínar en annan fyrir brjóst. Hann hafði í hendi bolöxi mikla á hávu skafti. Hann fer uns hann kemur í sauðahús og rekur þaðan spor því að snjór var á jörðu. Hann kemur á Smjörvatnsheiði upp frá Sunnudal. Svartur gekk út og sá mann knálegan kominn og spurði hver þar væri. Brodd-Helgi sagði til sín.

"Þú munt ætla að fara á fund minn og eigi erindislaust," segir hann.

Svartur hljóp að honum og leggur til hans með höggspjóti miklu en Brodd-Helgi brá við skildinum og kom á utanverðan skjöldinn og kemur í helluna og sneiddi af hellunni svo hart að hann féll eftir laginu. En Brodd-Helgi höggur á fótinn svo að af tók.

Þá mælti Svartur: "Nú gerði gæfumun okkar," segir hann, "og muntu verða banamaður minn en sá ættangur mun verða í kyni yðru héðan af að alla ævi mun uppi vera meðan landið er byggt."

Eftir þetta hjó Helgi hann banahögg.

Nú vaknar Þorsteinn karl heima á Hofi og gengur af rekkju sinni og tekur í rúm Brodd-Helga. Var það kalt orðið. Hann vekur upp húskarla sína og biður þá fara að leita Brodd-Helga. Og er þeir komu út röktu þeir spor hans alla leið og fundu hann þar sem Svartur lá dauður. Síðan huldu þeir hræ Svarts og höfðu með sér allt það sem fémætt var.

Varð Brodd-Helgi víðfrægur og lofaður mjög af alþýðu fyrir þetta þrekvirki er hann hafði unnið, jafn ungur sem hann var enn að aldri.


3. kafli

Í þann tíma er Þorsteinn bjó að Hofi og Brodd-Helgi óx upp með honum þá bjó sá maður í Krossavík hinni ytri er Lýtingur hét og var Ásbjarnarson, Ólafssonar, Lauga-Hallssonar. Hann var vitur maður og vel auðugur að fé. Hann átti konu er Þórdís hét, dóttur Heklu-Bjarnar Arnfinnssonar. Þau áttu tvo sonu þá er við þessa sögu koma. Hét annar Grímur eða Geitir en annar Blængur. Halla hét dóttir Lýtings en önnur Rannveig og var hún gift í Klifshaga í Öxarfjörð þeim manni er Ólafur hét. Þeir voru mjög jafngamlir, bræður og Brodd-Helgi, og var með þeim vinfengi mikið.

Brodd-Helgi fékk Höllu Lýtingsdóttur systur þeirra bræðra. Þeirra dóttir var Þórdís todda er átti Helgi Ásbjarnarson. Bjarni hét sonur þeirra hinn yngri en Lýtingur hinn eldri. Bjarni var að fóstri í Krossavík með Geiti.

Blængur var rammur að afli og hallur nokkuð í göngu.

Geitir átti Hallkötlu Þiðrandadóttur föðursystur Droplaugarsona.

Svo var vingott með þeim Brodd-Helga og Geiti að þeir áttu hvern leik saman og öll ráð og hittust nær hvern dag og fannst mönnum orð um hversu mikil vinátta með þeim var.

Í þann tíma bjó sá maður í Sunnudal er Þormóður hét og var kallaður stikublindur. Hann var sonur Steinbjarnar körts og bróðir Refs hins rauða á Refsstöðum og Egils á Egilsstöðum. Börn Egils voru Þórarinn, Hallbjörn, Þröstur og Hallfríður er átti Þorkell Geitisson. Synir Þormóðar voru þeir Þorsteinn og Eyvindur en þeir synir Refs Steinn og Hreiðar. Allir voru þeir þingmenn Geitis. Hann var spekingur mikill.

Samfarar þeirra Höllu og Brodd-Helga voru góðar. Lýtingur var að fóstri í Öxarfirði með Þorgilsi skinna. Brodd-Helgi var vel auðigur að fé.


4. kafli

Eitthvert sumar er frá því sagt að skip kom út í Vopnafirði. Því skipi stýrði sá maður er Þorleifur hét og var kallaður hinn kristni. Hann átti bú í Reyðarfirði í Krossavík og var stjúpsonur Ásbjarnar loðinhöfða. Annar stýrimaður er nefndur Hrafn, norrænn að kyni, auðugur og fjölkunnugur að gersemum, sínkur maður og fálátur og vel stilltur. Þess er getið að hann átti gullhring þann er hann hafði ávallt á hendi sér og kistil er hann hafði oft undir sér og hugðu menn hann fullan af gulli og silfri. Þorleifur fór heim til bús síns en Austmenn vistuðust. Brodd-Helgi reið til skips og býður stýrimanni til vistar með sér. Austmaður kvaðst eigi þangað mundu fara til vistar.

"Mér ertu sagður stórlátur og fégjarn," segir hann, "en eg em smálátur og lítilhæfur og er það ósamfært."

Brodd-Helgi falaði af honum góða gripi því að hann var skrautmaður mikill en Hrafn kvaðst enga gripi vildu á frest selja.

Brodd-Helgi svarar: "Smælega hefir þú gert ferð mína, neitað vistinni en synjað kaupsins."

Geitir kom og til skips og fann stýrimann og kvað honum óviturlega hafa til tekist, ginntan að sér hinn göfgasta mann í því héraði.

Austmaðurinn svarar: "Það hefði eg ætlað að vistast hjá einhverjum bónda eða viltu nú taka við mér Geitir?" segir stýrimaður.

Geitir lét ekki skjótt við því en þó kom þar að hann tók við honum. Vistuðust hásetar og var skipi til hlunns ráðið. Gervibúr var Austmanni fengið að geyma í varning sinn. Seldi hann smátt varninginn.

Þá er komið var að veturnóttum höfðu þeir Egilssynir haustboð og voru þeir Brodd-Helgi og Geitir þar báðir og gekk Helgi fyrri og sat innri því að hann var skrautmenni mikið. Orð var á því að þeim Helga og Geiti þætti svo tíðrætt vera að því boði að menn fengju hvorki af þeim tal né gaman. Var nú slitið boðinu og fór hver heim til síns heimilis.

Um veturinn var leikur fjölmennur á bæ þeim er á Haga heitir skammt frá Hofi. Brodd-Helgi var þar. Geitir fýsti Austmanninn mjög til þessa fundar og kvað hann þar hitta mundu marga sína skuldunauta. Og fóru þeir síðan og varð honum hjaldrjúgt um skuldir sínar. Og er leiknum var lokið og menn voru í brottbúningi sat Helgi í stofu og talaði við þingmenn sína ... og sagði þeim að Hrafn austmaður væri veginn og urðu menn ekki varir við vegandann. Helgi gekk út þegar og mælti illa fyrir verki því er þar var unnið. Útferð Hrafns var ger sæmileg að þeirri siðvenju sem þá var.

Maður hét Tjörvi og bjó á Guðmundarstöðum. Hann var mikill maður og rammur að afli. Tjörvi var vinur þeirra Brodd-Helga og Geitis en hann var horfinn þann dag allan er Austmaðurinn var veginn. Það var sumra manna frásögn um líflát Hrafns að honum hafi vísað verið á forað og týnst þar. Þau orð fóru á milli Brodd-Helga og Geitis að hálft fé Hrafns mundi hvor hafa og skipta eigi fyrr en eftir vorþing og tók Geitir við vörunni um vorið og læsti í útibúri sínu.

Þorleifur hinn kristni bjó skip sitt um vorið til utanferðar og varð albúinn að vorþingi. En er svo var komið þá fóru menn til vorþings í Sunnudal, bæði Brodd-Helgi og Geitir, og var þá í mörgum stöðum fátt heima.

Og er á leið mjög þingið vaknar Þorleifur snemma og vekur upp skipverja sína. Stigu þeir á bátinn og reru síðan í Krossavík og gengu þar upp og til útibúrs Geitis og luku því upp og báru út allan fjárhlut þann er Hrafn hafði átt og fluttu til skips síns. Halla var þar, Lýtingsdóttir, og skipti sér engu af.

Nú fer Brodd-Helgi heim af þinginu með Geiti. En áður þeir komu heim var þeim sagt að Þorleifur hefði allan fjárhlut upp tekið og ætlaði í brott að flytja. Helgi tók svo upp að Þorleifur mundi lögvillur orðinn um þetta mál og þegar mundi hann laust láta er vitjað væri. Fara þeir síðan út til skips og höfðu mörg skip og smá og er þeir kvöddust þá mælti Brodd-Helgi að Þorleifur skyldi laust láta féið. Þorleifur kvaðst lítið vita til laga en kvaðst ætla að félagi mundi eiga að færa fé erfingjum.

Brodd-Helgi svarar: "Eigi ætlum vér erindislaust að fara."

Þorleifur svarar: "Fyrr skulum vér berjast allir en þér fáið nokkurn pening."

"Heyrið þér," kvað Helgi, "hvað sá maður mælir er einkis góðs er verður. Skulum vér að vísu gera þá hríð að nokkurum svíði."

Þá tók Geitir til orða og mælti: "Ekki að ráði þykir mér þetta að veita þeim atsókn á smáskipum en vér vitum eigi nema komi á andviðri og reki þá upp og má þá enn það af gera sem sýnist."

Þetta var vel fyrir mælt af öllum og var þetta ráð tekið. Og létu menn að landi og fór Brodd-Helgi heim með Geiti og var þar nokkurar nætur.

Þorleifi gaf þegar byr og varð hann vel hraðfara og færði erfingjum fé það er Hrafn hafði átt en þeir kunnu honum þökk fyrir. Þeir gáfu Þorleifi sinn hlut skips og skildu þeir góðir vinir síðan.


5. kafli

Brodd-Helgi var heldur ókátur um sumarið og langaði mjög til komu Þorleifs. Á hverjum mannfundi hittust þeir Brodd-Helgi og Geitir og ræddu um fjárlát sitt. Brodd-Helgi spurði Geiti hvað af kistli þeim væri orðið sem Hrafn hefði átt.

En Geitir kvaðst eigi vita hvort Þorleifur mundi hafa haft hann utan með öðru fé "eða mun Austmaðurinn haft hafa með sér?"

"Eigi ætla eg annað heldur," kvað Helgi, "en þú hafir í vitum þínum."

"Eða hvar er hringur sá er hann hafði á hendi sér þá er hann var veginn?"

"Eigi veit eg það," segir Helgi, "en það veit eg að eigi hafði hann hann í gröf með sér."

Á hverjum fundi er þeir hittust spurði Helgi að kistlinum en Geitir í mót að gullhringinum og greindi þá sýnt um og verður nú svo að hvor þeirra þóttist eiga marknað í annars garði og tók að fækkast með þeim.

Um sumarið eftir kom skip út í Reyðarfirði og átti Þorleifur hinn kristni og tveir Suðurmenn með honum. Þorleifur seldi sinn hlut skips og fór síðan til bús síns eftir það. Brodd-Helgi varð feginn þessum tíðindum. En er hann spurði að Þorleifur hefði allt fé af höndum greitt erfingjum Hrafns þá þótti honum ógreiðleg sú sök Þorleifi að gefa og ætlaði þó að fá á honum fangstað.

Kona hét Steinvör og var hofgyðja og varðveitti höfuðhofið. Skyldu þangað allir bændur gjalda hoftoll. Steinvör fór á fund Brodd-Helga því að hún var honum skyld og sagði honum til sinna vandræða, að Þorleifur hinn kristni gyldi ekki hoftoll sem aðrir menn. Brodd-Helgi kvaðst mundu taka þetta mál og gjalda henni það er þeir eiga og tók mál af henni á hendur Þorleifi hinum kristna.

Maður hét Ketill er bjó í Fljótsdal og var kallaður Digur-Ketill, góður drengur og garpur mikill. Það er að segja um för Helga að hann kom að gisting til Ketils og tók hann vel við honum. Þeir binda vel vinfengi sitt.

Helgi mælti: "Einn er sá hlutur er eg vil biðja þig að þú gerir fyrir mig, að sækja Þorleif hinn kristna um hoftoll og stefnir honum fyrst en eg mun koma til þings og séum við þá báðir saman."

"Eigi mundi eg bundið hafa vinfengi við þig hefði eg vitað að þetta mundi undir búa," segir Ketill, "því að Þorleifur er maður vinsæll en þó mun eg eigi neita þér í fyrsta sinni."

Skildust þeir síðan og fer Helgi leiðar sinnar. Ketill bjóst heiman þá er honum þótti tími til og fara saman tíu karlar og koma í Krossavík snemma dags. Þorleifur stóð úti og kvaddi þá vel Ketil og bauð þeim öllum gisting en Ketill kvað snemmt að taka gisting svo gott veður sem væri. Ketill spurði hvort Þorleifur hefði goldið hoftoll en hann kveðst ætla að goldinn mundi.

"Það er mitt erindi hingað að heimta hoftollinn," segir Ketill, "og er þér ekki ráð að halda því er engan mun fer í."

Þorleifur svarar: "Meir gengur mér það til en smálæti að mér þykir það allt illa komið er þar leggst til."

Ketill svarar: "Það er mikil dul að þú þykist betur kunna en allir aðrir menn enda viltu eigi gjalda slíkar lögskyldur."

Þorleifur svarar: "Eigi hirði eg hvað þú segir um þetta mál."

Síðan nefndi Ketill sér votta og stefndi Þorleifi hinum kristna. Og er lokið var stefnunni þá bauð Þorleifur þeim þar að vera og taldi veðrið ótrúlegt gerast. Ketill kvaðst fara mundu. Hann bað þá aftur hverfa ef veðrið tæki að harðna. Þeir fara á brott og var skammt að bíða illviðris og urðu þeir aftur að hverfa og komu þeir allsíð til Þorleifs og voru mjög dasaðir. Þorleifur tók vel við þeim og sátu þeir þar tvær nætur veðurfastir og var því betri beini sem þeir sátu lengur.

En er þeir Ketill voru brott búnir þá mælti hann: "Vér höfum hér haft góðan beina og hefir Þorleifur reynst hinn besti drengur. Og mun eg því launa þér að niður skal falla sök þín og vera vinur þinn héðan í frá."

Þorleifur svarar: "Mikils þykir mér vert vinfengi þitt en ekki þykir mér undir hvor sekur fellur eða eigi. Heiti eg á þann félaga er mig lætur ekki slíkt varða."

Skilja þeir síðan og er nú svo búið til þingsins.

Það er sagt að Brodd-Helgi fjölmennir mjög til þingsins og hyggur sér til hreyfings. Og er á leið þingið spurði Brodd-Helgi hvar komið var um málið Þorleifs hins kristna. Honum var sagt hið sanna.

Helgi svarar: "Mjög hefir þú Ketill brugðist um þetta mál enda mun nú lokið vinfengi okkru."

Og fæst nú ekki fang á Þorleifi og er hann úr þessari sögu.

Þeir Brodd-Helgi og Geitir hittust skjótt eftir þingið og taldi Helgi mjög á hendur Geiti og kvaðst af honum þessa svívirðing hlotið hafa nær sem hann gæti leiðrétt. Tók þeirra vinfengi þá heldur að minnkast.


6. kafli

Það er sagt að Halla Lýtingsdóttir tók til orða og mælti við Brodd-Helga: "Samfarar okkrar hafa lengi góðar verið en eg kenni mjög vanheilsu og mun þér verða skömm forvista fyrir búi þínu."

Helgi svarar: "Eg þykist vel kvongaður og ætla eg að una þessu meðan okkart líf vinnst."

En það var þá siðvenja að biðjast úr búi í þær mundir.

Kona hét Þorgerður og var kölluð silfra. Hún var dóttir Þorvalds hins háva, ung að aldri og var hún þó ekkja og bjó í Fljótsdal þar sem nú heitir að Þorgerðarstöðum og var að umsýslu með henni bróðir hennar er Kolfinnur hét. Þorgerður bauð Brodd-Helga til sín við þriðja mann og fór hann þangað og tók hún við honum ágætavel og setti hann í öndvegi og settist niður hjá honum og varð þeim allhjaldrjúgt. Og áður Helgi fór heim er það að segja að hann fastnaði sér Þorgerði silfru. Er þá ekki frá Helga sagt fyrr en hann kom heim til Hofs og var hann spurður að tíðindum. Hann segir að kona væri föstnuð manni.

Halla spurði: "Er það Þorgerður silfra?" segir hún.

"Já," segir hann.

Hún spurði hverjum hún væri föstnuð. Hann segir henni það.

"Það þykir þér eigi of brátt," segir hún.

Helgi kvaðst mundu fara og hitta Geiti. Hann bað að hún skyldi þar vera á meðan og það lét hún leiðast að hún fór eigi fyrr en Þorgerður kom. Þegar spurðust þessi tíðindi um héraðið og lagðist illur rómur á því að Halla var vinsæl af öllum mönnum.

Þeir sendu menn eftir Höllu. Fór hún þá í brott er Helgi kom heim og hafði með sér gripi sína. Helgi stóð úti í durum og lét sem hann vissi eigi að Halla færi í brottu. Halla var varla á bak komin ...

Þá mælti sendimaður að þau skyldu ríða fyrr, en hann sneri til málaleitunar við Helga og mælti hvenær hann skyldi greiða af höndum fé það "er Halla á í þinn garð."

Helgi svarar: "Gott þykir mér," segir hann, "ef Halla unir eigi í Krossavík þá er hún er heim komin. Mun hún enn hingað koma til Hofs."

Geitir reið nú heim við svo búið og þótti hvorutveggjum eigi betur en áður. En er Geitir kom eftir spurði Halla hvað þeir Helgi hefðu við talast en hann sagði slíkt sem til var.

Hún svarar: "Þú hefir verið bráður í þessu máli og má vera að Helga þyki sviptir að áður en firrðir hann öllu saman og er fjárstaður greiður að Helga og mun ekki mitt fé þverra í hans garði ef það stendur með leigum."

"Sé eg," kvað Geitir, "hversu þetta mál horfir. Þykir mér svo fremst allrar svívirðingar leitað ef þú ríður félaus úr hans garði."

Nú líður veturinn og fór Geitir um vorið til Hofs að heimta peninga Höllu í annað sinn en Helgi vildi eigi út gjalda. Þá stefndi Geitir Brodd-Helga um fé Höllu til Sunnudalsþings og fjölmennti hvorutveggi mjög til þingsins og varð Helgi fjölmennari en Geitir hafði mannval betra. En er að dómi skyldi ganga þá varð Geitir ofurliði borinn og kom Helgi málinu fram. Og bauð Geitir málinu til alþingis og eyddi Brodd-Helgi þá enn málið og mest af liðveislu Guðmundar hins ríka og gerðist nú hin mesta óþykkja með þeim Brodd-Helga og Geiti.


7. kafli

Maður hét Þórður er bjó í Sunnudal á bæ þeim er í Tungu heitir þeim megin ár sem Hofsbær stendur. Þingmaður var hann Helga. Þeir Þormóður áttu skóg saman og skildi þá á um skógarhöggið og svo um beitingar og þóttist Þórður mjög vanhaldinn fyrir Þormóði. Og fór Þórður á fund Brodd-Helga og sagði honum ofgang Þormóðar. Brodd-Helgi kvaðst eigi nenna að deila um fé hans og engan hlut mundu í eiga nema hann handsalaði honum féið allt og færi til Hofs með allt sitt. Hann kaus það og seldist Helga arfsali.

Einnhvern dag kvaddi Brodd-Helgi Þórð að ríða á afrétt og sjá geldfé sitt er þar var. Fóru þeir síðan og komu í afréttinn.

Þá mælti Brodd-Helgi: "Nú höfum við séð yfir fénað þann er þið Þormóður hafið áttan."

Nú fer Helgi og safnar saman uxum þeim er Þormóður átti og höggur af höfuðin og lætur þar liggja, fer síðan heim og sendir menn til Þormóðar og biður að hann láti forvitnast um yxn sín. Og svo var gert og var slátur þar heim fært.

Eftir það ríður Þormóður í Krossavík og sagði Geiti til og bað hann rétta hluta sinn. Geitir kvaðst eigi nenna að deila við Helga um þenna hlut.

Þormóður segir: "Illa er þér varið er þú vilt eigi styðja mál vor."

"Ekki stoða jagmál þín við mig," segir Geitir. "Ber hingað uxaslátrið og mun eg kaupa svo að þér sé skaðlaust."

Þormóður fór heim þvílíkur og hann kom þar og var sagt Helga að hann muni hafa farið að segja Geiti til vandræða sinna.

"Og vildi eg gjarna," segir hann, "að hann þyrfti eigi oftar slíkra erinda að fara."

Litlu síðar boðar Helgi til sín landsetum sínum og ákveður hann þessa til ferðar með sér og húskarla sína og gesti og fór í skóg þann er þeir Þormóður áttu báðir saman og hjuggu upp allan skóginn og drógu hvert tré heim til Hofs.

Og er Þormóður frétti þetta, hver skaði honum er ger þá fer hann í annað sinn á fund Geitis og sagði hver ójöfnuður honum var ger.

Þá svarar Geitir: "Miklu þykir mér meiri vorkunn á að þér þyki sá skaðinn illur heldur en hinn er fyrr var því að sá þótti mér lítils verður. Vil eg og ekki veita Helga til þessara mála en þó mun eg leggja ráð til með þér. Finn þú frændur þína, sonu Refs hins rauða, Stein og Hreiðar, og bið þá fara með þér stefnuför til Hofs. Kom þú og á Guðmundarstaði og bið Tjörva að fara með þér og verið eigi fleiri saman en átta. Og skaltu stefna Þórði um skógarhögg og stilltu svo til að Brodd-Helgi sé eigi heima. Eigi mun yður ellegar duga."

Þormóður fer við svo búið og hittir þá menn er Geitir hefir til nefnda og hétu þeir allir að fara og ákveða hvenær þeir fara skyldu. Ríður Þormóður heim og segir Geiti hvar komið var. En svo er satt sem mælt er, fer orð er munn líður, og kemur þetta til Helga og fer hann eigi sem ætlað var.

Þann morgun er þeirra var von þá mælti Helgi við húskarla sína að þeir skyldu hvergi fara frá húsum um daginn: "Þér skuluð höggva yður sviga stóra úr viði og stafi marga. Er manna hingað von í dag og skuluð þér þá neyta stafanna og berja hrossin undir þeim og reka svo úr túni allt saman."

Nú fara Þormóður og þeir heiman sem ætlað var og koma til Hofs og sjá ekki manna úti og ríða þegar á hlaðið og nefnir Þormóður sér votta og stefnir Þórði um skógarhögg.

Helgi var inni og heyrir stefnuna og hleypur út síðan og leggur í gegnum Þormóð og mælti síðan: "Rekum í brott þessi vanmenni og látum þá hafa hingað erindi til Hofs í dag."

Nú hlaupa út húskarlarnir og berja hrossin undir þeim og hörfar nú allt saman ofan fyrir hlaðið og urðu þau málalok en ekki betri. Komust menn Geitis undan með illan leik. Það höfðu menn fyrir satt að Helgi mundi verið hafa banamaður þeirra manna er líflátnir voru. Helgi lét bera líkin í tóft eina og bera ofan á hrís.

Geitis menn undu stórilla sínum hlut og við ekki annað verr en það að þeir náðu eigi að jarða frændur sína og ástmenn. Og komu þeir oft á tal við Geiti um þetta mál.

Hann svarar og bað þá bíða: "Það er mælt að liðar verður sá að leita er lítið sax hefir og mun svo oss verða við Brodd-Helga."


8. kafli

En er á leið þá sendir Geitir orð þingmönnum sínum og fara þeir síðan úr Krossavík og stefndu leið til Hofs.

Geitir mælti: "Vér höfum ekki lið þetta svo leynilega saman dregið að eigi muni Helgi spurt hafa og get eg að þar muni fjölmennt fyrir vera. Vér skulum ríða í tún og stíga af baki og binda hesta vora og leggja af oss skikkjur og ganga síðan snúðugt. En eg get að þá ráði Helgi í mót en eigi get eg að hann beri vopn á menn vora. En það skuluð þér varast að sæta áverkum við engan mann fyrri og þæfist svo við. Nú skulu fara af liði voru Egilssynir og Tjörvi hinn mikli með þeim upp þessum megin um Guðmundarstaði og svo í skógana bak Hofi og skuluð þér hafa kollaupa stóra, tóma af dreggjunum, á hrossunum og farið þegar er þér komið að túngarðinum heim til hússins leynilega, takið líkamana og látið í laupana og farið aftur hina sömu leið til móts við mig."

Nú skiljast þeir og fara hvorutveggju eftir fyrirsögn Geitis.

Og er þeir Geitir koma mjög að bænum stíga þeir af baki og fara að öllu tómlega. Helgi var fjölmennur mjög og réðst þegar á móti Geiti og verða þar kvaðningar með engri blíðu. Spurði Helgi hvert Geitir ætlaði að fara en hann kvaðst litlu mundu við auka, lést það ætla að öllum mundi þykja auðsýnt erindið.

"Vér munum nú og eigi ófrið bjóða að sinni þótt til þess sé ærin sök og viljum vér reyna enn framar áður en vér ráðum frá með öllu."

Þeir þæfast þannig við um daginn og reiðir þröngdina ýmsa vega eftir vellinum.

Þá tekur maður til orða úr flokki Helga: "Menn fara þarna eigi allfáir og með klyfjahross."

Annar svarar: "Eigi eru það síður kolamenn og fara úr skógi og eru laupar á hrossunum og sá eg þá í dag er þeir í skóginn fóru."

Nú fellur þetta mál niður.

Þá mælti Geitir: "Nú mun enn fara sem oftar að vér munum bera lægra hlut úr því að vér náum eigi að flytja í brott lík frænda vorra."

"Hví lætur þú þannig?" kvað Helgi. "Það er enn líklegra að hinn lægri verði að lúta. En þó er það vænst að hvorigir taki nú óvirðing af öðrum á þessum fundi og viljum vér nú slíta þessi þæfð ef yður sýnist en eigi viljum vér komu yðra nær húsi en nú eruð þér komnir."

Eftir það slíta þeir þröngdinni og fóru þeir Geitir til hesta sinna en þeir Helgi voru eftir á vellinum. Þeir Geitir komu til móts við þá Egilssonu og stíga þegar af baki og gefa upp reiðina en þeir Helgi stóðu heima á hlaðinu á Hofi og sáu að þeir dvöldust.

Þá tók Helgi til orða: "Eftir koma ósvinnum ráð í hug," segir hann. "Vér höfum verið allan dag í þröng þessari. Eg sé nú eftir að kappar Geitis voru hjá engir og munu þeir hafa borið í brott líkin í kollaupunum og er ávallt að Geitir er vitrastur vor þótt hann verði jafnan ofríki borinn."

Ekki varð eftirmál um víg Þormóðar og að engu máli fékk Geitir jöfnuð af Helga.

Þorkell sonur Geitis fór utan og jafnan landa í millum þegar er hann hafði aldur til þess og varð hann lítt við riðinn mál þeirra Brodd-Helga og Geitis föður síns.

Vanmáttur Höllu Lýtingsdóttur í Krossavík gerðist mikill og hættilegur.


9. kafli

Það er sagt að Geitir fór heiman í Fljótsdalshérað til Eyvindarár á kynnisleið og var í brottu meir en viku.

Og er hann var heiman farinn þá sendi Halla mann eftir Helga og bað hann að hann skyldi hitta hana. Hann fór þegar í Krossavík. Halla kvaddi hann. Hann tók vel kveðju hennar. Hún bað hann að hann skyldi sjá meinið. Hann gerði svo og kvaðst honum þungt hugur um segja. Hann hleypir út vatni miklu úr sullinum og varð hún máttlítil eftir þetta. Hún bað hann þar vera um nóttina en hann vildi það eigi.

Það var bæði að hún var máttlítil enda var hún angursöm við hann og mælti: "Eigi þarf nú að biðja þig hérvistar. Þú munt nú mjög lokið hafa verkum og get eg að fæstir munu lúka við sínar konur svo sem þú munt við mig."

Brodd-Helgi fór heim og undi illa við sinn hlut. Halla lifði litla stund síðan og var hún önduð er Geitir kom heim og var honum sagt allt svo sem farið hafði. Og er nú kyrrt um hríð.


10. kafli

Eftir þetta óx mikil óþykkja með þeim Brodd-Helga og Geiti.

Eitthvert sumar varð Helga aflafátt á þingi og bað hann Guðmund liðs. En hann kvaðst eigi nenna að veita honum lið á hverju þingi og óvinsæla sig við aðra höfðingja en taka af honum engi gæði í móti. Þeir skildu svo með þetta mál að Guðmundur hét honum liði en Helgi skyldi gefa honum hálft hundrað silfurs.

Er dómum var lokið, og höfðu Helga málin vel gengið, þá mættust þeir Guðmundur við búðir og heimti Guðmundur féið að Helga. En Helgi kvaðst ekki eiga að gjalda honum og kvaðst eigi sjá að hann þyrfti fé að gefa í milli vinfengis þeirra.

Guðmundur svarar: "Það er þér illa farið," segir hann, "þarft annarra ávallt en geldur eigi það er þú ert heitbundinn. En vinfengi þitt þykir mér lítils vert. Mun eg og eigi oftar heimta þetta fé enda vera þér aldrei að liði síðan."

Og skildu við svo búið og er nú lokið vinfengi þeirra.

Geitir spyr þetta og fer til fundar við Guðmund og býður honum að taka fé til vinfengis. Guðmundur lést eigi vilja hafa fé hans og kvað sér lítið um að veita þeim mönnum lið er ávallt vildu hinn lægra hlut úr hverju máli bera fyrir Helga.

Fara menn nú heim af þingi og var nú kyrrt um hríð.


11. kafli

Það er sagt að skip kom út í Vopnafirði og var á því skipi Þórarinn Egilsson er þá var kallaður vænstur maður í förum og gervilegastur. Brodd-Helgi reið til skips og bauð hann Þórarni til vistar með sér og þeim mönnum með honum sem hann vildi en hann kvaðst það mundu þiggja. Helgi fór heim og sagði að von væri Þórarins stýrimanns þangað til vistar.

Geitir fór til skips og hitti Þórarin og spyr ef hann ætlaði til Hofs. Hann kvað það rætt en ráðið eigi.

Geitir kvað honum heldur ráðlegra að fara í Krossavík "því að fám ætla eg mínum mönnum vel gefist að þiggja vist hjá Helga."

Það réðst úr að Þórarinn fór í Krossavík. Brodd-Helgi spyr þetta og ríður hann þegar til skips með söðlaða hesta og ætlar að hafa Þórarin heim með sér. Þórarinn segir að þá var annað ráðið.

"Það vil eg sýna," kvað Helgi, "að eg hefi þér eigi með flærð heim boðið því að eg vil vera vandalaus af þótt þú farir þangað."

Annan dag eftir reið Helgi til skips og gaf Þórarni stóðhross fimm saman til vinfengis og voru öll fífilbleik.

Geitir fer eftir Þórarni og spyr hvort hann hefir þegið stóðhrossin að Brodd-Helga. Hann kvað það satt vera.

"Það ræð eg þér," segir Geitir, "að þú skilir aftur stóðhrossunum."

Hann gerði svo og tók Helgi aftur við stóðhrossunum.

Þórarinn var með Geiti um veturinn og fór utan um sumarið eftir. Og er hann kom út aftur þá hafði Geitir flutt bústað sinn og bjó þar er heitir í Fagradal. Þórarinn fór á Egilsstaði til vistar.

Þeir bera ráð saman þingmenn Geitis og þóttust eigi þola mega lengur ójafnað Brodd-Helga, fóru nú til fundar við Geiti og mælti Þórarinn fyrir þingmenn.

"Hversu lengi skal svo fram fara," segir hann, "hvort þar til er yfir lýkur með öllu? Nú gengur margt manna undan þér og lagast allir til Helga og virðum vér þér þrekleysi eitt til ganga er þú hlífist við Helga. Þú ert ykkar snarari en þó hefir þú eigi með þér minni garpa en hann hefir með sér. Og eru nú tveir kostir af vorri hendi, að þú farir heim í Krossavík á bú þitt og flyt þaðan aldrei síðan en ger í mót Helga ef hann gerir þér nokkurn ósóma héðan í frá ellegar munum vér selja bústaði vora og ráðast í brottu, sumir af landi en sumir úr héraði."


12. kafli

Geitir gerir heiman för sína og fer norður í Ljósavatnsskarð til Ófeigs Járngerðarsonar. Guðmundur hinn ríki hitti Geiti og sátu þeir á tali allan dag. Skiljast þeir síðan og gistir Geitir að Mývatni að Ölvis hins spaka og spurði hann að Brodd-Helga vandlega. Geitir lét vel yfir honum og kvað hann vera stórmenni mikið, óvæginn og ódælan og þó góðan dreng að mörgu lagi.

"Er hann eigi ójafnaðarmaður mikill?" segir Ölvir.

Geitir svarar: "Það er helst á mér orðið um ójafnaðinn Helga að hann unni mér eigi að hafa himininn jafnan yfir höfði mér sem hann hefir sjálfur."

Ölvir svarar: "Skal honum þá allt þola?"

"Svo hefir enn verið hér til," segir Geitir.

Nú hætta þeir þessu tali. Fer Geitir heim og er nú allt kyrrt um veturinn.


13. kafli

Um vorið eftir færir Geitir bústað sinn í Krossavík og hafði mjög mannmargt. Hallæri var mikið. En er dró að þingi þá hittast þeir Brodd-Helgi og Geitir og spurði Helgi hversu fjölmennur hann vildi ríða til þingsins.

"Hví skal nú fjölmennari fara," segir hann, "þar eg á ekki um að vera? Eg mun ríða til öndverðs þings og ríða við fá menn."

"Þá er eg fer munum við hittast," kvað Helgi, "og ríða báðir saman. Eg mun og með fá menn ríða."

"Vel mun það mega," segir Geitir.

Bjarni sonur Brodd-Helga ríður heiman á öndvert þing með þingmenn þeirra Helga en Lýtingur beið Helga því að hann unni honum miklu meira. Geitir hefir njósn af um för Brodd-Helga. Brodd-Helgi ríður heiman og með honum Lýtingur sonur hans, þegar er hann var búinn, og Þorgils skinni fóstri Lýtings, Eyjólfur feiti, Kollur austmaður, Þorgerður silfra og dóttir þeirra Helga er Hallbera hét.

Geitir ríður og heiman og með honum þeir Egilssynir - Þórarinn, Hallbjörn, Þröstur, - Tjörvi hinn mikli og sjö menn aðrir.

Það segja sumir menn að Helgi ætti fóstru framvísa og var hann vanur að finna hana jafnan áður hann fór heiman og svo gerði hann enn. Og er hann kom til hennar sat hún og sá í gaupnir sér og grét. Helgi spyr hví hún gréti eða hví henni væri svo skapþungt. Hún kvaðst gráta drauma sína.

"Mig dreymdi það," segir hún, "að eg sá hér upp rísa að Hofi uxa bleikan, mikinn og skrautlegan, og bar hann hátt hornin og gekk hann á sandinn fram hjá Sunnudalsmynni. Enn sá eg fara naut utan eftir héraðinu, stór og eigi allfá, og gekk þar fyrir uxi rauðflekkóttur, ekki mikill né fagur, en allsterklegur var hann. Nautin stönguðu uxann til bana. Þá reis hér upp að Hofi rauður uxi og var beinlitur á hornunum og var allra nauta skrautlegastur. Sá stangaði rauðflekkótta uxann til bana. Þá reis upp í Krossavík þjór nokkur og var sænautalitur á. Hann fór beljandi um allt héraðið og allar heiðarnar og leitaði ávallt hins rauða uxans enda vaknaði eg þá."

"Það muntu ætla," segir Helgi, "að eg muni eiga hinn bleika uxann en Geitir rauðflekkóttan og muni hann verða mér að bana."

"Það ætla eg víst," kvað hún.

"Það muntu ætla að Lýtingur muni sá rauði uxinn og muni hann hefna mín."

"Nei," sagði hún, "Bjarni mun hefna þín."

"Þá veistu ekki til," segir hann og hljóp hann þá út reiður ...


(Hér er eyða í öllum pappírshandritum sögunnar. Eina skinnblaðið sem til er af sögunni fyllir þó hluta eyðunnar, en er illlæsilegt, svo að víða verður að geta i eyðurnar. Á seinni síðu skinnblaðsins er þó víða unnt að fylla í eyður eftir pappírshandritum.)


14. kafli

... er féþurfi er og vill nokkuð ... en ... utanferð ... var máli lokið að bráðla skyldi gera svo mikið í ... Guðmundar Eyjólfssonar til alþingis. Mæltar voru í fyrstu að fyrirmun greinir þær að Tjörvi hinn mikli skyldi sitja á búi sínu þau misseri en vera í brottu fyrir hinn fyrsta fardag og þar aldrei eiga héraðsvært síðan. Nú fara þeir til alþingis og semur Guðmundur sátt þeirra. Gerir hann fyrir dráp Brodd-Helga hundrað silfurs og þrjá tigi um fram. Geitir spurði Guðmund ef Bjarni mundi við una.

"Sjálfur mun hann halda sáttina," segir hann.

Fara þeir síðan heim af þingi og er nú allt kyrrt.

Bjarni býr þau misseri með Þorgerði silfru stjúpmóður sinni ... og upp systkin, Bjarni og börn Þorgerðar. Þeir finnast oft frændur og galt Geitir hundrað silfurs sem skilið var en þrír tigir stóðu eftir. Bauð Geitir það ekki fram enda heimti Bjarni það ekki.

Nú líður að fardögum og hefir Tjörvi hinn mikli lógað landi sínu og allt lið ... Það var á þvottdagsmorgun. Hestur Tjörva var heftur hjá garði og ætlaði hann að fara á laun síðar og ríða laus.

Í þetta mund kom smalamaður inn að Hofi og spurði Bjarni hvað hann segði tíðinda.

En hann svarar: "Nú leysist varningur Tjörva."

Bjarni stendur upp og tekur skjöld sinn og spjót og stígur á bak smalahestinum og kemur á Guðmundarstaði. Tjörvi var farinn að sækja hest sinn og sér hann nú för Bjarna og snýr hann þegar heim hvatlega. Sá verður misfari þeirra að þá ríður Tjörvi í túnið að Bjarni kemur að tún- garðinum. Hann strýkur eftir honum og rekur í gegnum hann spjótið og ríður heim eftir það og segir Þorgerði víg Tjörva.

Hún segir: "Betra er það en ekki."

Geitir spyr víg Tjörva og lætur jarða hann og gaf ekki Bjarna skuld fyrir þetta. Þeir voru að veislum báðir saman og var Bjarni að heimboðum í Krossavík og voru þar ráð hans öll er Geitir var. Nú fer svo fram lengi að ... var kyrrt um hríð.

Bjarni kvongaðist og fékk konu þeirrar er Rannveig hét og var dóttir Þorgeirs Eiríkssonar úr Guðdölum. Hana hafði átt Ingimundur Úlfsson og var þeirra son Skíði hinn prúði. Rannveig var væn kona og vel að sér og hafði hún auð fjár.

Frá því er að segja þessu næst að Bjarni var að boði í Krossavík og sátu menn við elda. En þeir frændur lágu í svefnbúri nokkuru í einni sæng báðir. Bjórþili var á húsinu og voru gluggar tveir á. Geitir leit út um glugginn. Bjarni spurði hvað hann sæi.

Geitir segir: "Kynlegt er það er fyrir mig bar. Mér sýndist sem klæði væri fest fyrir blóði drifið og er roði svo mikill af klæðinu að mér þykir allt ... hingað í húsið."

"Ekki sé eg af því," segir Bjarni, "og mun síga blóð í augu þér fyrir sakir elds."

"Vera má það," segir Geitir.

Nú ganga þeir inn eftir það og var ... lat var. Bjarni fer heim síðan og er nú enn kyrrt allt nokkura hríð.

Það var þar vandi í héraði að menn höfðu samkomu í öndverðan einmánuð á bæ þeim er á Þorbrandsstöðum heitir. Skyldi þar skipta vinnum á bændur, mæla þeim málum öllum er þá þótti nauðsyn til og sk ... millum voru. Geitir var maður skilríkur og áttu margir menn við hann málþarfir og sat hann ... en eigi drífan á mikil og spurði Bjarni hvað hann skyldi yfir sér hafa.

... í hönd Bjarna. Hann tekur við og rekur í sundur og var hún bæði ... og í sundur höggvin:

Bjarni laust til hennar og mælti: "Sel þú allra kvenna örmust."

Bjarni var þá rauður sem blóð ... gengur út skyndilega.

Hún segir: "Eigi þarftu að snarast á brott fyrir því að ... er ekki var minni garpur en þú og ... mundi sá ..."

... gaf engan gaum að orðum hennar. Hann hefir í hendi sér viðaröxi litla. En er hann kemur til fundarins var þar fjölmenni. Geitir sat á hurð lítilli við túngarðinn sjálfan ... bað ... Bjarni heilsar á fyrirmenn og heldur fálega.

"Svo líst mér á þig," segir Geitir, "sem muni hávaðar ... fyrir þér áður þú fórst heiman að þér mun í skap hafa runnið við oss og vildum vér það þó eigi."

Bjarni var fámálugur mjög. Kolfinnur fór heiman með Bjarna.

Hann tók til orða illu heilli og mælti og sá í himininn upp: "Nú er margháttað um veðrin, í morgun þótti mér nokkuð éllegt vera og var afar kalt en nú þykir mér þvílíkt gera sem þeyja muni."

Bjarni segir: "Þá mun ávallt þeyja ef þetta verður að þey."

Bjarni stóð þá upp og mælti: "Dofinn er mér fótur minn."

"Ligg þú þá kyrr á," segir Geitir.

Bjarni hjó þá í höfuð Geiti og fékk hann þegar bana. Og jafnskjótt sem hann hafði höggið iðraðist hann og settist undir höfuð Geiti og andaðist hann í knjám Bjarna. Geitir var nú jarðaður síðan. Eftir þetta fara menn á brott. Var þar ekki mælt til líka.

Þetta verk mæltist illa fyrir og þótti ómannlegt orðið verkið. Bjarni fór heim til Hofs. Og er hann kom heim rak hann á brott Þorgerði silfru og mælti að hún skyldi aldrei koma í augsýn honum.

Þorkell son Geitis var eigi á Íslandi er faðir hans var veginn en Blængur varðveitti bú í Krossavík með umsjá Egilssona er þá voru mágar Þorkels Geitissonar.

Um vorið tóku bændur af þingið og vildu eigi hafa og þótti óvænt í millum að ganga þeirra manna er í slíkum stórmælum áttu hlut.

Það er sagt að Bjarni setti til mann er Birningur hét að hafa njósn af ef nokkurs ófriðar væri von og gera Bjarna varan við svo að eigi mætti honum á óvart koma.

Þorvarður hét maður. Hann var vinsæll og var þá kallað að hann væri bestur læknir þar í héraði. Hann bjó á Síreksstöðum.

Nú kemur Þorkell Geitisson út og fer hann þegar til bús síns til Krossavíkur og lætur sem hann eigi ekki um að vera. Þá sendir Bjarni menn á fund Þorkels, þá er beggja þeirra vinir voru, að bjóða Þorkatli sætt og sæmd og sjálfdæmi. En er þeir báru þessi erindi upp fyrir Þorkel lét hann sem hann heyrði eigi og eigi brá hann tali sínu því er hann hafði áður. Nú fara sendimenn aftur að segja Bjarna svo búið. Svo virtu menn að hann mundi til hefnda hyggja.

Bjarni var vanur hvert haust að fara á fjall sem faðir hans hafði gert og treysti þá engi öðrum rangt að gera. Þorvarður læknir varð var að Þorkell bjóst til fjallgöngu og valdi menn með sér til brautargengis. Þorvarður gerði Bjarna varan við. Bjarni settist aftur og fær aðra menn í stað sinn. Nú gengu menn á fjallið. Fundur þeirra Bjarna varð eigi sem Þorkell hafði ætlað og sátu þeir um kyrrt um veturinn.


15. kafli

Þar er nú næst frá að segja að Þorkell sendir mann heiman um dag úr Krossavík og til Egilsstaða að hitta Þórarin. Sá maður hét Kollur er sendur var. Það var erindi Kolls að vita hversu fjölmennt væri að Hofi. Og er hann kom á Egilsstaði hitti hann Þórarin úti og sagði honum sín erindi.

Þórarinn mælti: "Eigi mun þér gestbeinlega þykja boðið. Far þú heim sem tíðast og lát eigi verða vart en eg mun vís verða þess er Þorkell vill forvitnast" og kveðst honum það segja mundu.

Nú snýr Kollur heim á leið og verður honum síð farið. En á þessum sama aftni varð sá atburður að maður braut fót sinn á næsta bæ út frá Síreksstöðum og var farið eftir Þorvarði lækni og kom hann að binda fótinn. Honum var boðið þar að vera en hann vildi heim ríða um nóttina og hitti hann Koll á leið og kveðjast þeir og spurðust tíðinda og spyr Þorvarður hvaðan Kollur væri að kominn en Kollur spyr í móti því hann fari um nætur. Þorvarður segir það öngu sæta.

"Seg mér nú þitt erindi Kollur," segir Þorvarður.

"Eg fór upp í hérað að leita sauða og fann eg eigi," segir hann.

Skiljast þeir nú og fer Kollur heim um nóttina.

Þorvarður fór og heim um nóttina. Og um morguninn eftir tók hann hest sinn og reið upp til Hofs og var þar við honum vel tekið og var spurður að tíðindum en hann sagði að maður braut fót sinn. Hann heimtir Bjarna á tal og segir að hann hitti Koll og þótti sem hann mundi kominn frá Egilsstöðum og sagðist víst vita að hann sagði honum ekki orð satt um sína ferð.

"Sé eg nú," segir Bjarni, "að þú vilt að ekki gerist það út í héraði að eg viti eigi og haf þú mikla þökk fyrir. Nú far þú heim og kom á bæ þann er heitir á Fáskrúðsbakka í miðju héraðinu. Þar eru Þorkels menn fyrir. Og ef að verður spurt hversu fjölmennt hér er þá seg þú að hér komu í morgun nokkurir vorir menn og voru hross heim rekin og eigi allfá en þú

(Hér þrýtur skinnblaðið og pappírshandritin taka við að nýju.)


vissir eigi hvað þau skyldu."

Þorvarður fer og kemur á Bakka og var hann spurður hversu fjölmennt væri að Hofi. En hann sagði slíkt sem honum var sagt og fer hann heim síðan. En þegar er hann var í brottu sendu þeir menn til Egilsstaða og sögðu að seta mikil var að Hofi. Síðan sendi Þórarinn Þorkeli orð að eigi mundi að svo búnu auðsótt til Hofs og líður nú enn veturinn.


16. kafli

Um vorið eftir átti Bjarni ferð út á Strönd og varð hann að fara hið efra um heiðina því að vatn gengur fram um víkurnar. Sel voru á heiðunum og ríður Bjarni hjá selinu við þriðja mann og finnur eigi fyrr en þar var Þorkell fyrir honum við níunda mann og hafði hann haft njósn af um ferðir hans Bjarna. Fyrir selinu stóð fjalhögg mikið og þrífætt.

"Nú skulum vér taka fjalhöggið," kvað Bjarni, "og færa það í kápu mína og setja í söðul minn og ríða á tvær hendur og styðja á baki og ríða á það leiti er næst er selinu en eg mun ganga inn í selið. Og ef þeir ríða eftir yður og um fram selið þá mun eg ganga í skóginn og forða mér. En ef þeir víkja hingað að selinu þá mun eg verjast eftir því sem minn er drengskapur til."

Nú gera þeir eftir því sem þeim var fyrir sagt.

Þorkell var maður eigi skyggn en þó var hann vitur og glöggþekkinn og er saman dró með þeim þá spurði Þorkell ef þeir sæju víst að þrír riðu mennirnir frá selinu fram "því að það væri ráð að ganga inn í selið og svo í skóginn ef oss ber um fram."

En þeir kváðust víst sjá að þrír fóru mennirnir fram.

"Sé eg," kvað Þorkell, "að þrír voru hestarnir en grunur er mér á hvort menn voru á baki öllum."

"Að heldur voru menn á baki þeim öllum," kváðu þeir, "að sá var maðurinn mestur á baki er í miðið reið."

"Þessu munum vér hlíta," segir Þorkell, "sem yður sýnist en það hygg eg að það muni misráðið er eigi er kannað selið."

Ríða þeir Þorkell nú eftir þeim og er þeir eru mjög eftir komnir þá láta þeir förunautar Bjarna falla ofan fjalhöggið og ríða undan síðan. En Bjarni hefir sig þegar í skóginn og er nú hólpinn fyrir þeim Þorkeli.

Þorkell hverfur nú aftur og kemur heim og unir illa við sinn hlut. Förunautar Bjarna vitja hans þegar er þeim þykir honum óhætt vera. Og fara þeir leiðar sinnar og ber nú enn í sundur með þeim Þorkeli og Bjarna að sinni.


17. kafli

Litlu síðar sendir Þorkell menn í Fljótsdalshérað eftir frændum sínum, Helga og Grími Droplaugarsonum, að þeir skyldu koma í Krossavík og þeir fara þegar með sendimönnum Þorkels. Og er þeir komu í Krossavík var við þeim tekið vel og spyr Helgi hvað að skyldi hafast er hann hefði honum orð sent.

"Fyrir skömmu fór eg þá ferð er eg uni illa við svo búið," segir Þorkell. "Gerði eg mig beran í því að eg vildi Bjarna feigan og kom eg engu fram. Nú vildi eg brátt fara til Hofs og veita Bjarna heimsókn og sækja hann með eldi ef vér getum eigi með vopnum."

Helgi lét vel yfir þessari ætlan. Sofa þeir nú af nóttina fyrst. Þorkell var lítt heill jafnan og tók oft bráða sótt.

Helgi vaknar þegar í elding og klæðist og gengur til lokrekkju Þorkels og mælti: "Mál er upp að standa ef nú er slíkt í hug sem í gær fyrir því að sjaldan vegur sofandi maður sigur."

Þorkell svarar: "Litla athöfn mun eg drýgja daglangt fyrir sakar vanheilsu minnar."

Helgi bauðst til ferðar þessarar og gera að slíkt sem áður var ætlað.

Þorkell svarar: "Ekki þykir mér það annarra manna en mín að vera foringinn þessarar ferðar."

Helgi mælti og tók þá að styttast: "Eigi þarftu mér orð oftar að senda er þú skræfist nú, er eg em hér kominn til liðs við þig enda viltu eigi að aðrir fari."

Skiljast þeir nú síðan með styttingi. Fara þeir bræður nú heim og er nú kyrrt um hríð og fundust þeir Bjarni og Þorkell ekki í þessu sinni.


18. kafli

Um vorið eftir fara þeir báðir höfðingjar, Bjarni og Þorkell, til vorþings í Fljótsdalshérað. Með Þorkeli var Blængur og þeir Egilssynir, Þórarinn, Hallbjörn og Þröstur, Eyjólfur er bjó á Víðivöllum og voru þeir Þorkell fimmtán saman og fóru til Eyvindarár til Gró og annaðist hún það er þeir þurftu. Með Bjarna voru í fór Þorvarður læknir af Síreksstöðum, Brúni af Þorbrandsstöðum, Eilífur Torfason af Torfastöðum, bræður tveir af Búastöðum, Bergur og Brandur, Skíði fóstri Bjarna, Haukur Loftsson og voru þeir átján saman.

Þau Helgi Ásbjarnarson og Þórdís Brodd-Helgadóttir tóku við þeim vel. Og er þinginu var lokið þá varð Þorkell fyrr á braut búinn og þótti Bjarna það vel. En er hann var búinn til heimferðar þá gaf Þórdís todda honum men gott og kvaðst eigi laun vilja fyrir hafa, bjó svo um að var fest á háls honum og festi rammlega.

Þorkell fer nú með því föruneyti um heiðina. Þeir Þorkell komu síðan ofan í Böðvarsdal. Tóku þeir þar gisting hjá bónda þeim er Kári hét og var hann þingmaður Þorkels. En er þeir gengu að sofa þá bauð Þorkell Kára um að hann skyldi vörð halda ef menn nokkurir kæmu af heiðinni og gera hann þegar varan við.

Bjarni fór tómlega um heiðina og þótti vel að Þorkell gerði feril um heiðina fyrir því að færð var ill. Hann kom til konu þeirrar um nóttina er Freygerður hét og fór síðan um heiðina og kom snemma um morguninn ofan í Böðvarsdal hjá bæ Kára.

Og er spor þeirra Þorkels lágu til bæjarins þá mælti Bjarni að þeir þrír skyldu ganga jafnframt og þar eftir aðrir þrír og síðan hinir þriðju þrír "og munu þá sýnast þriggja manna spor."

Og svo gerðu þeir.

Kári var úti er þeir gengu hjá garði og gerði ekki vart við og þótti mikill vandi með þeim frændum og vildi hann það ekki til sín taka láta.

Þorkell vaknaði í sæng sinni og vakti upp förunauta sína og kvað fullsofið. Nú vopnast þeir og ganga síðan út. Þorkell bað þá ganga aftur á ferilinn og sjá ef nokkur spor lægju af ferlinum og sjá þeir liggja þriggja manna spor af í brott.

Hann fer sjálfur til ferilsins og mælti: "Þungir hafa þessir menn verið," segir Þorkell, "og ætla eg að þeir Bjarni muni hér farið hafa og höldum nú eftir hart."

Og er þeir komu nokkuð svo í brott frá bænum sjá þeir að sporin dreifðust. Fara þeir nú sem þeir mega mest uns þeir koma mjög svo í öndverðan dalinn. Bær stendur þar lítill er heitir á Eyvindarstöðum. Þar bjó sá maður er Eyvindur hét. En er þeir Bjarni áttu skammt til túngarðsins þá tóku þeir hvíld.

Bjarni mælti: "Eigi mun eg renna lengur fyrir Þorkeli og skulum vér hér þess bíða er að höndum kemur."

Þegar er Þorkell kemur eftir mælti hann: "Göngum nú að drengilega. Við Bjarni, frændurnir, munum á sjást en Blængur og Birningur, Þorvarður og Þröstur."

Nú tekst bardagi og vörðust þeir Bjarni hið drengilegasta og gekk svo um stund að menn urðu ekki sárir.

Þá mælti Þorkell: "Klækilega sækjum vér nú að er ekki verður sögulegt í."

Bjarni svarar: "Ærinn hefir þú hug," segir hann.

Kona ein gekk út á Eyvindarstöðum og sér sameign manna og hverfur hún inn aftur skyndilega og mælti: "Eyvindur," segir hún, "eg hygg að þeir frændur muni berjast hér skammt frá garði, Þorkell og Bjarni, og eg sá einn mann liggja undir garðinum og sýndist mér sá allhræddur."

Eyvindur svarar: "Förum vér sem skjótast og höfum klæði með oss og köstum á vopnin."

Eyvindur tók upp stokk og reiðir um öxl sér og hljóp þar út af garðinum er maðurinn lá undir og var þetta Þorvarður. Hann spratt upp og varð felmtsfullur. En þegar er hann kom til tókst mannfallið í bardaganum, og hafði hann kastað sér niður af mæði undir garðinn. Féll þar fyrstur Birningur fyrir Blængi. Þá hjó Blængur til Bjarna og kom á hálsinn og brast við hátt fyrir því að menið brast í sundur. Bjarni skeindist og allt menið féll niður í snæinn. Bjarni seildist eftir meninu og lét það í serk sinn.

Þorkell mælti: "Fégjarn ertu enn frændi."

Bjarni mælti: "Svo muntu um búa í dag að þurfa mun fjárins."

Þorkell settist þá niður en Blængur sótti að Bjarna allfast í ákafa. Lýkur svo þeirra atgangi að Blængur fellur. Þá stóð Þorkell upp og sækir snarplega og fékk hann sár á hendi svo að hann varð óvígur. Synir Glíru-Halla féllu þar báðir. Eilífur féll og fyrir Hallbirni og lifði hann þá að kalla.

Þá kom að Eyvindur og gekk svo hart fram með setstokkinn milli manna að þeir hrukku hvorutveggju vegna. Konur voru með honum og köstuðu klæðum á vopnin og stöðvaðist bardaginn. Þá voru fallnir úr liði Bjarna fjórir menn en þeir margir sárir er eftir lifðu. Fjórir féllu af Þorkeli.

Eyvindur spurði ef Þorkell lofaði að færa Bjarna til húsa og hans menn en kvaðst sjá að Þorkell vildi bjargast á sínar hendur og hans menn. Þorkell bannaði það eigi. Þá var síðan búið um lík þeirra manna er þar féllu.

Eftir það sneru á brottu hvorutveggju. Fóru þeir Þorkell heim til Krossavíkur og hans menn en Eyvindur flutti þá Bjarna inn eftir Vopnafirði og komu þeir heim til Hofs. Þorvarður læknir kom til Hofs og batt sár manna. Eilífur Torfason lá í sárum lengi og varð þó græddur.

Bjarni fór þegar á fund Halla og sagði honum fall sona sinna og bauð honum til sín og kvaðst skyldu vera honum í sona stað.

Halli svarar: "Mikill skaði þykir mér að sonum mínum en þó þykir mér betra að missa þeirra en það þeir bæru bleyðiorð sem sumir förunautar þínir. En eg mun enn hlíta búm mínum og fara ekki til Hofs en haf þú mikla þökk fyrir heimboðið."

Það var einn dag að Bjarni mælti við Þorvarð lækni: "Nú er svo komið sárum vorum hér að Hofi að vér munum verða sjálfbjargi með umsjá þinni en eg veit að Þorkell hefir sár og græðir hann engi og gerist hann máttlítill. Nú vil eg að þú farir að lækna hann."

Þorvarður segist svo mundu gera sem hann vill. Hann fer nú og kemur í Krossavík nær miðjum degi og er tafl uppi og sat Þorkell uppi og horfði á taflið. Hann var mjög fölleitur. Engi maður heilsaði Þorvarði.

Hann gekk að Þorkeli og mælti: "Sjá vil eg sár þitt. Mér er óríflegt sagt frá því."

Hann bað hann gera sem hann vildi. Var hann þar sjö nætur og batnaði bónda dag frá degi.

Nú fer Þorvarður í brott úr Krossavík og launaði Þorkell honum vel lækning sína, gaf honum hest og silfurhring og mælti síðan við hann vingjarnlegum orðum. Fer hann nú síðan og kemur til Hofs og segir Bjarna til svo búins og þótti honum vel hafa um ráðist er Þorkell varð heill.


19. kafli

Sumar þetta var lítið forverk því að Þorkell var lítt fær til umsýslu í Krossavík, Jórunn var þá húsfreyja hans, og horfðist til óvænlega að skera mundi verða kvikfé niður eða drepa.

Húskarl Þorkels átti för upp í hérað. Tók hann gisting að Hofi. Var þar vel við honum tekið. Bjarni spurði hann um heilsun manna og um búfjárhagi.

Húskarlinn mælti: "Vel þokar áleiðis um heilsun manna" en um búfjárhagi kallaði hann gerast hið óvænlegasta.

En um morguninn er húskarlinn fór í brott leiddi Bjarni hann úr garði og mælti: "Bið þú Þorkel annaðhvort flytja hingað hjú sín ellegar mun eg þangað flytja slátur og fjárfæði svo að eigi þurfi að um huga fjárlát og vertu nú góður erindsreki."

Húskarlinn fer nú og kemur svo heim að menn voru undir borð komnir og bar Jórunn mat fram. Hann gekk fyrir Þorkel og segir honum öll orð Bjarna. Jórunn nam staðar á gólfinu og hlýddi á hvað hann mælti. Þorkell svarar engu.

Jórunn mælti: "Hví muntu þegja við því er svo er drengilega boðið?"

Þorkell svarar: "Eigi mun eg bráð svör veita þessu máli því að kostaboð þessi munu flestum mönnum á óvart koma."

Jórunn mælti: "Það vildi eg að við færum til Hofs á morgun og hittum Bjarna og þykir mér þvílík boð allsæmileg af þvílíkum manni sem hann er."

"Þú skalt ráða," segir Þorkell, "því að eg hefi oft reynt að þú ert bæði vitur og góðgjörn."

Um morguninn eftir fara þau Þorkell heiman tólf saman og er för þeirra var sén frá Hofi þá var sagt Bjarna. Því varð hann feginn er hann spurði það nú þegar og gekk í móti þeim og kvaddi Þorkel vel.

Og er þeir áttu tal með sér frændur þá rippuðu þeir upp öll málaferli þeirra vel og einarðlega. Bauð Bjarni síðan Þorkeli sætt og sjálfdæmi og hans vilja að gera um alla hluti þaðan í frá meðan þeir lifðu báðir. Þorkell þekktist þessi boð og sættust þeir nú heilum sáttum og gerði hann hundrað silfurs fyrir víg Geitis og seldi hvor öðrum grið og héldu vel síðan.

Bjarni var röskur maður. Ekki hafa Hofverjar verið spekingar miklir en þó hefir þeim vel flest tekist.

Þorkell var höfðingi mikill og hinn mesti hreystimaður og málafylgismaður mikill. Fé gekk af höndum honum í elli hans og er hann brá búi sínu bauð Bjarni honum til Hofs og eldist hann þar til lykta. Þorkell var kynsæll maður. Ragnheiði dóttur hans átti Loftur Þórarinsson og áttu þau níu börn. Halla var dóttir þeirra, móðir Steina, föður Höllu, móður Þorláks biskups hins helga. Ragnheiður var systir Þorláks biskups, móðir Páls biskups og Orms Jónssonar og Jóns prests Arnþórssonar.




Netútgáfan - febrúar 1998