REYKDÆLA  SAGA  OG  VÍGA - SKÚTU




1. kafli

Þorsteinn höfði hét maður. Hann bjó á Hörðalandi og var hann faðir þeirra Eyvindar og Ketils hins hörska. Það var eitt sinn í tali þeirra bræðra að Eyvindur kvaðst heyra gott af Íslandi sagt og fýsti bróður sinn Ketil til Íslandsferðar með sér eftir andlát föður síns. Ketill vildi eigi fara en bað Eyvind svo vítt nema land að þeim ynnist báðum vel ef honum líkaði þar landskostir. Eyvindur fór til Íslands og kom skipi sínu í Húsavík á Tjörnesi og nam Reykjadal upp frá Vestmannsvatni og bjó að Helgastöðum og þar var hann heygður.

Náttfari sá er Garðari hafði út fylgt hafði eignað sér Reykjadal áður og markað til á viði hversu vítt hann skyldi eiga. En er Eyvindur fann hann gerði hann honum tvo kosti, að hann skyldi eiga Náttfaravík ella alls ekki. Þangað fór Náttfari.

Ketill fór til Íslands að orðsending Eyvindar bróður síns og seldi áður jarðir sínar austur. Hann bjó fyrstur að Einarsstöðum í Reykjadal. Hann var faðir Konáls, föður Einars er þar bjó lengi. Eyvindur átti mörg börn. Synir hans voru þeir Helgi á Helgastöðum er þeir eru við kenndir, hann drukknaði á Grímseyjarsundi, og Áskell goði er bjó í Hvammi, faðir Víga-Skútu og Þorsteins. Dætur Eyvindar voru þær Þorbjörg er átti Þormóður úr Laxárdal og Fjörleif er átti Þórir leðurháls son Þorsteins Gnúpa-Bárðarsonar. Þeirra synir voru þeir Vémundur kögur, Herjólfur, Háls, Ketill í Húsavík, Áskell og Hávarður er bjó í Fellsmúla.

Eysteinn hét maður. Hann var Mánason og rómlendur að kyni. Hann bjó í Rauðaskriðu við Fljótsheiði. Hann var ójafnaðarmaður mikill.

Mýlaugur hét nábúi hans. Hann bjó á Mýlaugsstöðum. Hann var barnfóstri Hávarðs Fjörleifarsonar. Mýlaugur var auðigur maður og síngjarn.

Eysteinn fór til við sjötta mann og tók fyrir Mýlaugi fjögur mælihlöss skíðaviðar og hafði með sér heim því að hann vildi eigi selja honum. Oft hafði hann fengið honum áður við og hafði hann eigi fyrir goldið. Mýlaugur sagði til Hávarði en Hávarður Áskatli goða móðurbróður sínum. Áskell kvað Eystein eigi vera jafnaðarmann Mýlaugs viðureignar og vildi hann sjálfur til vekja um málið við Eystein, sem hann gerði um vorið. Eysteinn lagði gerð undir Áskel um þetta mál því að hann var réttlátastur manna í sættargerðum hverjir sem í hlut áttu. Áskell gerði Mýlaugi við jafnmikinn og tólf aura silfurs fyrir sakastaði. Þá var goldið silfrið þegar en viðurinn litlu síðar. Kvaðst Eysteinn eigi oftar skyldu leggja undir Áskel sitt mál. Ekki taldi Áskell að því.

Það mund kom Þorsteinn bölkamaður eða bolstöng út í Húsavík, systurson þeirra Áskels, og átti í skipi. Hann fór til Hávarðs og lét bera varnað sinn til Eyjafjarðar og þótti ekki á verða nema starf eitt og seldi þar Eysteini úr Rauðaskriðu þrjú hundruð lérefta og klæði fyrir tíu hundruð og bauð Eysteini að flytja til skips í Húsavík verðið áður fjórar vikur eru af sumri. Hávarði þótti það í illa skuldastaði selt þá er hann vissi en hélst kaup sem áður. Og er vora tók þá heimti Þorsteinn að Eysteini. Hann kvað Þorstein eigi þurfa að annast um.

Og annað sinn er Þorsteinn kom að heimta að Eysteini þá svaraði Eysteinn: "Eg hefi," segir hann, "selt öðrum mönnum léreftin. Nú gelst mér seint af þeim sem eg á að heimta að en verr hefir mér gengið en eg hugði til að kaupa við þig því að léreftin voru verri en eg ætlaði."

Þorsteinn kvað Eystein óspilltan varning tekið hafa. Og nú þykir sinn veg hvorum þeirra og þar kom nú mál þeirra að Eysteinn kvað það mundu best að heimta ekki fyrir varninginn og láta þar niður falla það mál sem nú var komið. Og þar kom nú máli með þeim að þeir skildu.

Hávarður segir að nú fór svo sem hann grunaði og hann gat til þá þegar er Þorsteinn sagði honum kaup þeirra: "Það sýnist mér fyrir liggja að leita til Áskels um þetta mál sem öll önnur og þau er hans sómi liggur við og frænda hans og er sá líkastur að rétta þetta mál við Eystein."

Þorsteinn kvaðst eigi vilja kæra frændur sína um þetta mál og bauð nú Eysteini hólmgöngu þá er hann varnaði honum gjaldsins. Og nú tókst hólmgangan með þeim og varð hún með því móti að Þorsteinn hjó af Eysteini skjöldinn og nær undan honum fótinn. Tók hann þar þrjár merkur silfurs og svo fékk hann þar vöru sína alla. Fer hann nú utan og þykir hann mikið hafa vaxið af þessu máli. En frá Eysteini er það að segja að fótur hans var græddur og gekk hann jafnan haltur síðan er hann hafði barist við Þorstein.


2. kafli

Svo er sagt að Háls Fjörleifarson gerði bú að Tjörnum í Ljósavatnsskarði og þar gerðist vinátta mikil í millum og Eysteins í Rauðaskriðu.

Björn hét maður. Hann var frændi þeirra Fjörleifarsona. Hann kemur einhverju sinni að hitta Háls Fjörleifarson og beiddi hann nokkurs tilbeina um ómegð sína og svo að gefa nokkuð til utanferðar sér. Háls sagði að hann mun annast ómegð hans ef frændur hans vildu beina til utanferðar honum. Björn réð það nú af að hann fer nú til Reykjadals að finna frændur sína. Kemur hann að kveldi til Eysteins og varð þeim margt talað og ræddu um hinar og aðrar tiltekjur er Björn ætlaði að hafa. Og þá spurði hann Eystein hverju hann ætlaði að beina til utanferðar hans.

"Viltu til vinna nokkuð það er hæfilegt er eða nenna?"

Eigi kvaðst hann flugumaður vilja vera þó að Eysteinn vildi það.

Eysteinn segir: "Eg skal gera þér kost einn fullgóðan. Þú skalt reka fimmtán geldinga til Háls frænda þíns, þá sem eg á, og þó með leynd á þessari nóttu og setja þar inn og byrgja en kasta vöttum þínum og staf hjá vökinni þar á tjörninni."

Björn fór með eftir ráðum Eysteins og rak fimmtán geldinga til Háls frænda síns á laun um nóttina. En Eysteinn fékk honum farbeina og fór hann utan austur í Fjörðum með ráði Eysteins. En frá því er nú að segja hvað Eysteini gekk til þess er hann bauð honum að kasta niður stafnum og vöttunum hjá vökinni en hann hugði að menn skyldu það ætla að hann væri drukknaður og að hvarf hans mundi af því vera.

Um morguninn eftir fór Eysteinn í rannsókn og með honum Þorkell Þorgeirsson frá Ljósavatni. Og er þeir komu til Háls báðu þeir hann rannsóknar. Var þeim það uppi látið. Og er Eysteinn rannsakaði fann hann geldinga sína fimmtán inni byrgða í geldingahúsi Háls og beiddist sjálfdæmis af honum. En Háls brást ókunnigur við þetta og vildi fyrir engan mun festa grið fyrir þetta mál er hann hafði engan grun um sauði Eysteins, þessa er þar voru komnir, eða hverju faraldi þeir hefðu þar komið. Og var það nú hans erindi að fara á fund frænda sinna, Áskels goða og Hávarðs, og segir þeim til þessa það sem hann mátti af vita.

Þeir svöruðu og sögðu honum að nú hafði svo farið vinátta þeirra Eysteins sem von var "að hann mundi eigi vel gefast hvorki öðrum né þér." Kváðu þeir mjög í bætur bera er hann hafði einskis mátt á leið koma um þenna áburð. Og nú var sú ráðagerð Áskels að þeir mundu utan fara báðir, Háls og Vémundur, í Eyjafirði.

Þess var eigi langt að bíða áður en fréttist hvarf Bjarnar og þótti mönnum það með undarlegu móti vera. Ætluðu margir að það mundi hafa saman borið, hvarfið Bjarnar og sauðanna Eysteins, kváðu það nokkuð íhugavert og óreynt, að eigi væri örvænt við féþurfi Bjarnar og grunnsæi en við slægð Eysteins og illgirni, þeir mundu með nokkuru móti verið báðir að einu ráði, töldu eigi ólíklegt að þann veg mundi Eysteinn helst mega þykjast reka svívirðingar sinnar er hann fékk af Þorsteini bolstöng að láta frænda hans verða fyrir þvílíku ámæli sem meir mundi þykja líklegt vera að Háls fengi af þeim hlut. Þótti það og undarlegt ef hann færi svo djarflega með og gengi svo gegnt að um rannsóknina nema hann vissi nokkuð til áður. Nú fer málið til þings og lauk því svo að Háls varð sekur um sauðatökuna fyrir því að Áskell vildi eigi svara fyrir hann.


3. kafli

Nú er að segja frá ferð þeirra Háls og Vémundar að þeir fóru utan og fundu Björn frænda sinn og spurðu hverju gegndi um ferðir hans. En hann varð fár við komu þeirra og fann það til utanferðar sinnar að hann þóttist svo helst mega forðast ómegð sína að hann færi utan. Háls kvað það mundu engu gegna. Björn sagði hvernig farið hafði með þeim Eysteini að hann hafði heitið honum að annast ómegð hans ef bræður Háls vildu beina til utanferðar honum. Og nú segir Vémundur að hann hafi ekki komið að finna þá. Og þykjast þeir bræður nú skilja að hann muni eigi hið sanna uppi láta og leita nú eftir við Björn þar til er hann lætur uppi hið sanna hversu farið hafði með þeim Eysteini. Og nú tóku þeir Vémundur og Háls Björn á sitt vald.

Þeir Háls fara aftur til Íslands þegar hið næsta sumar og koma skipi sínu í Húsavík og hafa þar Björn með sér. Það var ráðagerð þeirra Vémundar að leyna Birni þar til er þeir fyndu Áskel goða. Háls sagði þá þegar Katli bróður sínum er hann kom til skips. Nú láta þeir skammt að bíða áður en þeir fara á fund Áskels og segja honum sem nú er komið málinu. Og þykir honum nú vel hafa gengið ef Háls mætti nú fá rétting síns máls og safnar nú að sér mönnum þar til er þeir verða saman sex tigir og fara þá þegar til Eysteins og hugðust að koma þar á óvart. En það bar svo til að Eysteinn hafði þar eigi færra lið fyrir. Þeir Áskell og frændur hans bera upp sitt mál og duldi Eysteinn alls um það að svo væri sem þeir sögðu. Þá var Björn til leiddur og sannar hann sögu þeirra Áskels og eigi dylur Eysteinn að síður. Og nú biður hann liðs Þorkel son Þorgeirs Ljósvetnings.

En hann sagði að hann mundi eigi gott mál til bera og kvaðst það vita að Áskell vildi aldrei fylgja röngu máli, sagði þá og hafa sannanarmann sögu sinnar "og ber sá í móti því er þú segir og er það Björn frændi Fjörleifarsona."

Lauk hann svo sínu máli að hann vildi ekki lið veita honum um þetta mál.

Áskell lét nú stefna Eysteini um illmæli það sem hann hafði við Háls um sauðatökuna til alþingis. Engir menn urðu til að svara fyrir Eystein og nú verða þær málalyktir að Eysteinn varð sekur. Og þegar þeir koma heim af þingi þá reið Áskell þangað með flokk sinn til Eysteins og ætlaði að taka hann af lífi.

En í öðru lagi er það að segja frá Eysteini að honum hafði í hug komið að eigi væri örvænt að þvílíkar málalyktir mundu verða á þinginu sem nú voru. Og þótti honum þurfa nokkurra úrræða í að leita ef duga skyldi og kom það í hug að eigi var ráðið hve langt tóm þeir gæfu honum til ráðagerðar þegar þeir kæmu af þinginu ef hann sæist eigi áður fyrir. Og nú var það hans úrræði að hann safnaði saman öllu ganganda fé því er hann átti og rak inn í húsin og lagði eld í húsin og brenndi upp allt saman, bæinn og fénaðinn og svo hjónin öll þau sem verið höfðu hjá honum. En frá því segja menn ýmist hvað honum sjálfum varð fyrir. Er það sögn sumra manna að hann hafi farið utan suður á Eyrum og er það þeirra sögn að hann hafi farið í Vík austur og þaðan suður til Danmerkur. En sumir segja að hann muni hafa brunnið með hjónum sínum. Og vitum vér þó eigi hvort honum hefir nú heldur að bana orðið. En jarðir þær sem þar voru eftir urðu nú sektarfé.


4. kafli

Hánefur hét maður. Hann bjó í Óþveginstungu. Fátt verður frá honum vel sagt í þessari sögu og var hann óorðsæll maður. Hann græddi mikið fé en þó héldust lítt hjónin hjá honum.

Svo er sagt að Hánefur fer til fundar við Vémund og bauð heim til fósturs Þórkötlu dóttur hans og ætlaði hann sér það mjög til trausts við aðra menn. Vémundur var engi jafnaðarmaður kallaður og vænti Hánefur af slíku að hans hlutur mundi eigi fyrir borð borinn verða þó að honum bæri eigi ávallt gott mál til handa. Það er nú að segja að Vémundur þá barnfóstrið. Fer Hánefur nú heim og þykir sín för allgóð orðin.

Nú verður Áskell var við þetta og þótti kynlegt að hann vildi þiggja barnfóstur að svo skitlegum manni sem hann kvaðst hyggja að Hánefur væri, lét og það líklegt þykja að hann mundi af honum nokkuð illt hljóta. Vémundur kvað þetta eigi svo vera sem hann talaði, lét Hánef vera vingóðan mann og kvað hann hafa sér marga góða gripi gefna og kallaði sér líka vel við hann og kvað hann vera góðan dreng.

Áskell kvað eigi mundu langt líða áður en hann mundi vita "hversu góður drengur hann er. En hann þykist nú hafa fengið sér öruggt traust."

Og nú hætta þeir umræðunni.

Þorleifur hét maður. Hann var kallaður melrakki. Hann kemur til Hánefs og skorar á hann til vistar. Þá hafði húskarl Hánefs í brott hlaupið litlu áður og tekur Hánefur við Þorleifi. Það var siðvani Hánefs að hann lét hvern dag ganga í haga til sauða sinna og lét telja.

Maður hét Hrafn. Hann bjó að Lundarbrekku í Bárðardal. Hann var góður bóndi. Svo er sagt að Hrafni hurfu geldingar sextán og spurði ekki til og þóttust menn eigi vita hvað af var orðið.

Það er að segja að Þorleifur melrakki varð var við að Hánefur hvarf margoft úr hvílu sinni um nætur og þar kom að hann forvitnaðist hverju gegna mundi. Fer hann nú út og leitar hans. Og í einni brekku fellur hann og er hann stóð upp er blóð á hendi honum. Og nú hyggur hann að hvar hann væri skeindur er hann sá að hann var blóðigur og varð hann eigi þess var. Og nú grunar hann hverju gegna mundi. Þar voru hrísrunnar nokkurir sem hann var og þar hittir hann jarðhússmunna. Þar var þann veg um búið að þar var borinn fyrir hrísflekkur og stungið í gegnum hríslum og var svo að sjá sem heilir runnar stæðu ef eigi var allt að gengið. Nú fer hann í jarðhúsið og þreifast þar fyrir. Hann hittir þar gærur og sauðarhöfuð grábíldótt fann hann þar eitt og var það mjög auðkennt. Það tekur hann á brott og byrgir aftur eftir sér þann veg sem áður var. Síðan kenndi hann reykjarþef og því næst sá hann eld og var ketill yfir eldinum og var þar maður hjá og kennir hann Hánef húsbónda sinn og gengur nú fram að eldinum og lætur illa að Hánef er hann er að slíku um nætur. Hánefur kvað húsfreyju rekkjuilla en sagði sér annt um daga svo að hann mátti þá eigi að vera og nú býður hann Þorleifi til elds. En hann kvaðst eigi það vilja og segir að hann mundi eigi lengur með Hánef vera og kvað sér vera illan grun á hans máli. Og þar skilja þeir.

Fer hann nú þar til er hann kemur til Hrafns og varðveitti áður höfuðið það sem hann fór með. Vel fagnar Hrafn honum og spurði hví hann færi frá Hánef. Þorleifur taldi hvorntveggja þeirra geðlausan og því hefði hann í brott farið.

Nú varð Hrafni rætt um sauðahvarfið og varð þann veg í orðum Þorleifs að honum þótti menn engan gaum að gefa slíkum hlutum "er ekki skal eftir leita þvílíkum hvörfum er svo eru stödd."

Hrafn spurði ef hann vissi nokkuð til hvert eftir mundi vera að leita. Ekki vildi hann þó segja Hrafni greinilega til áður en Hrafn gaf honum hundrað silfurs. Og nú sýnir Þorleifur honum höfuðið og markið og kenndist Hrafn það. Fara þeir nú til jarðhússins og fundu þar ekki. Þeir þóttust vita að Hánef mundi hafa grunað að Þorleifur mundi var við orðið hafa og hafði nú á brott borið. Þeir Hrafn hitta nú Hánef og bera þetta á brýn honum að hann mun vera nokkurs af valdur um sauðatökuna en hann duldi alls um það. Þorleifur segir Hánef þann grun er hann þóttist af hafa og eigi dylur Hánefur að síður. Hrafn bauð það að hafa jafnmarga sauði aftur sem Hánefur hafði tekið frá honum. Eigi vildi Hánefur það og nú skiljast þeir. Fara þeir Hrafn heim og þykist hann nú víst vita að Hánefur hefir stolið frá honum geldingunum.

Það er nú að segja að Hánefur fer til fundar við Vémund vin sinn og segir honum illmæli það sem haft var að honum. Vémundur spyr ef hann væri nokkurs af valdur um þetta mál. En Hánefur kvað því fjarri fara og biður nú Vémund styðja sitt mál. Hann kvað svo vera skyldu.


5. kafli

Maður hét Steingrímur Örnólfsson, Þórðarsonar slítanda. Hann var mikill maður fyrir sér og góður bóndi. Hann var kvongaður maður og hét Ástríður kona hans.

Þorbjörn hét maður er bjó á þeim bæ er í Árskógi heitir. Það er á Galmaströnd. Þorbjörn hefir átt tvo sonu er við þessa sögu koma að nokkuru. Sá eini hét Steinn en annar Helgi. Þeir voru efnilegir menn, og mun sagt verða frá þeim síðar í sögunni. Dóttir Þorbjarnar er nefnd Ástríður. Þá konu átti Steingrímur Örnólfsson er fyrr var nefndur. Steingrímur bjó að Kroppi í Eyjafirði. Svo var sagt að hann var frændi Hrafns er bjó á Lundarbrekku í Bárðardal.

Nú er það fyrst að segja að Hrafn sendi Þorleif melrakka til Steingríms frænda síns í Eyjafjörð og vildi ekki hætta honum þar með sér og kvað hann vera góðs verðan frá sér svo sem honum hafði drengilega farið í málum þeirra Hánefs. Kvaðst hann eigi vilja að hann hlyti þar illt af, segir að hann mun koma um veturinn að finna hann. Þorleifur kemur nú á fund Steingríms og tekur hann vel við honum að orðsendingu Hrafns. Og er Þorleifur nú með honum um veturinn. Finnast þeir frændur og var það í ráðagerðum þeirra að Hrafn skyldi selja jarðir sínar norður og fara síðan vestur í nánd Steingrími og stefna Hánef um sauðatökuna: En þá kvaðst Steingrímur vilja taka við málinu síðan.

Nú fór Hrafn svo með sem honum var ráð til gefið að hann stefndi Hánef um vorið áður hann fór í brott þaðan úr sveit með allt sitt í Eyjafjörð.

En frá því er nokkuð að segja hvern veg Hánef brá við stefnuna, að hann fékk sér hest og reið þegar á fund Vémundar og segir honum hvar nú er komið málinu. Og nú lætur hann á sannast fyrir Vémundi að hann var valdur sauðatökunnar og biður hann nú ásjá. Vémundi þótti nú illa að Hánefur hafði dulið hann tökunnar og sagði að allt þótti honum nú óhægra hlut í að eiga er hann hafði eigi áður vitað. En þó er svo sagt að Vémundur tekur handsölum á öllu fé hans en hafði heim dóttur sína. Nú verður Áskell brátt var við þetta og býður hann Hánef til sín og þótti hann vera þræls efni, segir nú sem fyrr að illt muni af honum hljótast, kvað eigi ólíkt því farið hafa sem hann gat til fyrir öndverðu þá er þeir Vémundur töluðust við þá er hann þá barnfóstur að honum. Steingrímur fer nú með málið til alþingis og lauk því svo að Hánefur varð sekur um sauðatökuna.

Hrói hét maður. Hann bjó norður í Öxarfirði á þeim bæ sem heitir í Klifshaga. Hann var mikill bóndi fyrir sér.

Svo er sagt að Steingrímur gaf Hróa hundrað silfurs til þess að drepa Hánef ef Vémundur sendi hann í Raufarhöfn til skips, "því að hann vill þar koma honum utan á Sléttunni."

En Steingrímur kvaðst mundu varða að Gásum að eigi kæmist hann þar utan og þetta vill Hrói. Fara menn nú heim af þinginu.

Vémundur fer Sandleið heim á Öndólfsstaði til bús síns í Reykjadal og hann kom í Hraunsás hjá Mývatni. Þar bjó kona sú er Þorgerður hét. Hún átti son er Þorkell hét. Hann var ungur maður og fræknlegur.

Vémundur biður að son hennar fari með honum norður á Sléttu til skips, kvaðst gott þykja að slíkir menn færu með honum sem Þorkell var "er svo eru vænlegir."

Hún leyfir og þykir allmikið fyrir en þó fer hann með Vémundi. Nú fer Vémundur að finna Áskel frænda sinn og ræðst um utanferðina Hánefs við hann. En Áskell latti utanferðina og bauð honum þar að taka við Hánef og sjá það ráð fyrir honum sem honum líkaði, sagði honum þann grun sem hann þóttist vita á með þeim Steingrími og Hróa í Klifshaga en kvað enga von að hann mundi á brott komast í Eyjafirði svo að Steingrímur yrði ekki var við. Vémundur kveðst það eina vilja að koma honum á brott.

"Engan hlut vil eg í því eiga," segir Áskell, "og far þú með sem þér líkar en mikið illt mun af Hánef hljótast."

Vémundur sendi orð Háls bróður sínum að hann komi á hans fund. Þó kom honum það í hug að eigi væri ráðið hversu menn vikjust við um hans orðsending og því gerir hann það ráð heldur að sendimaðurinn beri til orð Áskels þeim mönnum sem hann vildi til nefna. Hann sendi annan mann til Þóris geitskeggs er bjó í Laxárdal á þeim bæ er í Holti heitir. Þórir bjóst til sels þá er sendimaðurinn kom. Þórir neitti ferðinni áður en orð Áskels komu til en þá var hann þegar búinn. Ljót að Þverá í Laxárdal hitti hann er þá var sem óðast að skálasmíð og hinn þriðja Þórodd harðjaxl á Mánahjalla. Hann var enn í selför. Þessir köstuðu þegar niður verki sínu er Áskels orð komu til en eigi fyrr. Þessir menn allir fara nú með Vémundi og er Hánefur í för með þeim. Þeir voru átján saman og fara nú síðan þann veg sem leiðir lágu, taka gistingarstað í Reykjahverfi með þeim manni er Geirrekur hét. Hann var vinur Vémundar.

Hann bauð að hafa Hánef þar á laun þar til er skip kæmi náðulega að svo að honum mætti utan koma og kvaðst það þykja ráðlegra en sjá meðferð er Vémundur ætlaði að hafa og sagði að Hrói í Klifshaga hefði fé til tekið að drepa Hánef af Steingrími ef honum gæfi færi á "ef þangað er fars leitað sem þú ætlar nú til. Og því einu hefir hann þar um játað að hann mun það gjarna enda vilja ef hann má því á koma."

"Hitt er líkara," segir Vémundur, "að hann gefi að þessu engan gaum og munum vér fara þann veg er vér höfum áður ætlað."

"Þú munt því ráða," segir Geirrekur, "og annan veg mun reynast en hann Hrói láti hjá sér líða það sem hann er heitbundinn í við vini sína."

Þeir Vémundur kögur fara nú í Öxarfjörð og yfir Jökulsá að ferju hjá Akurhöfða. Sá maður hét Þórður er þar bjó. Þar hafa þeir dagverð að Þórðar.

Svo er sagt að Þórður átti þræl er fyrr var nefndur. Hann hafðist það að um daginn er þeir Vémundur komu að hann ók heim viði. Og þegar er þrællinn varð var við hverjir komnir eru þá veltir hann af hlassinu. Síðan tekur hann á rás mikla og rennur þar til er hann lítur Hróa í Klifshaga meðan þeir Vémundur mötuðust. Og nú segir hann Hróa að Vémundur var kominn í Akurhöfða við átjánda mann og það að þar var Hánefur í för og kvaðst þrællinn nú vilja launa brókavaðmálið er hann hafði gefið honum. Hrói sendir þrælinn að vita hverja leið þeir færu, hvað fremra eða hvað efra um hálsa.

Þórður í Akurhöfða bauð Vémundi að sitja þar og sagði það nú um þrælinn að hann hefði í brott hlaupið þá er þeir höfðu komið og kvaðst ætla að hann mundi hafa farið til Hróa og gert hann varan við komu þeirra. Vémundur vill fara sem hann hefir ætlað og kvað Hróa ekki mundu þykja undir um ferð þeirra.

Það er nú að segja að Hrói safnar liði og hefir þrjá tigu manna. Áður en hann fór heiman vildi fóstra hans þreifa um hann og þóttist hún þá gerst vita hvern veg honum mun farast. Hún finnur á fæti honum en annars staðar þótti henni vel vera.


6. kafli

Nú fer Hrói með föruneyti sínu, þrem tigum manna, og sátu fyrir þeim Vémundi í einstigi nokkuru. Höfðu þeir eigi lengi þar verið áður en Vémundur kemur með flokk sinn að einstiginu.

Og nú hlaupa þeir Hrói upp fyrir þeim og biður hann Vémund nú að hann fái Hánef í hendur þeim og fari aldregi með slíkt illmenni "heldur láttu mig sjá fyrir honum," segir hann, "það er mér líkar."

"Nei," segir Vémundur, "eigi mundi eg það vilja Hrói að þú kæmist svo auðveldlega að hundraðinu því sem þú tókst af Steingrími til höfuðs Hánef að eg selji hann nú þegar fram þér í hendur. Verðið þér að sækja eftir betur ef þér viljið," segir hann.

Nú slær þegar í bardaga með þeim og skýtur Vémundur þegar spjóti til Hróa í rist hans. En Hrói sendi þegar aftur spjótið til Þorkels og í gegnum hann. En hann var sonur Þorgerðar í Hraunsási. Þóroddur harðjaxl vó Helga bróður Hróa. Það er nú sagt að þeir vildu aftur hverfa Þóroddur og Hánefur en Vémundur vill það eigi. Og nú kemur þar Áskell við þrjá tigu manna og vildi sætta þá. Er svo sagt að hann fór þegar er hann spurði atferðina Vémundar og þótti þess eins von vera að eigi kæmu þeir skemmdarlaust fram ferðinni fyrir Hróa og kallar nú mikið á orðið og kvað þó þá betra að sættast en síðar.

Nú kemur þar til fundarins sá maður er Þórhallur hét. Hann bjó í Hafrafellstungu, góður bóndi og skilríkur. Hann var með þrjá tigu manna.

Hann gerir nú tvo kosti, bað þá að gera annaðhvort, kjósa hvorn þeir vildu, að þeir hættu að berjast eða hann mun ráðast til bardagans með þeim "fer þá sem auðið verður," segir hann.

Og nú láta þeir af að berjast. Svo er sagt að fallnir voru af liði Hróa Helgi bróðir hans og þrællinn en af Vémundi Þóroddur harðjaxl og Þorkell, er fyrr var getið. Hánefur var og fallinn. Þótti það fám mönnum skaði þó að hann væri drepinn.

Nú er þegar slegið í sætt málinu með því móti að Áskell skal gera um þeirra í millum. Sú var gerð Áskels að vígin skulu á standast, Þorkels og Helga bróður Hróa, Hánefs og þrælsins, en Þórodd skal bæta hundraði silfurs. Land var goldið í Reykjahverfi og voru það ráð Áskels. Eru þeir nú sáttir eftir þetta og fara nú hvorirtveggja til sinna heimkynna. Nú segir Áskell að nú hefir því nær farið sem hann gat til og þótti þessi för betur ófarin. Vémundur kvað hvern sínum forlögum fylgja verða, sagði nú hvoratveggja mega vel við una sinn hlut og segir að þá mun hver deyja er feigur er.


7. kafli

Þá gerði vetur mikinn þar eftir hinn næsta og eiga þeir fund Reykdælir að Þverá að Ljóts hofgoða og það sýndist mönnum ráð á samkomunni að heita til veðrabata. En um það urðu menn varla ásáttir hverju heita skyldi. Vill Ljótur því láta heita að gefa til hofs en bera út börn og drepa gamalmenni. En Áskatli þótti það ómælilegt og kvað engan hlut batna mundu við það heit, sagðist sjá þá hluti að honum þótti líkara til að batna mundi ef heitið væri. Og nú spyrja menn hvað það væri en hann sagði að ráðlegra væri að gera skaparanum tign í því að duga gömlum mönnum og leggja þar fé til og fæða upp börnin. Og svo lauk nú þessu máli að Áskell réð þó að margir menn mæltu í móti í fyrstu. Og öllum þeim er réttsýnir voru þótti þetta vera vel mælt.

Einhverju sinni kom Vémundur að máli við Áskel og bað hann ljá sér ferju að fara út til Flateyjar eftir veiðiskap. Kvaðst hann bæði mundu flytja að Áskatli og sér. Hann sagðist ljá ferjuna þegar hann vildi. Áskell átti þar mikil föng í eynni og hafði þann mann settan til að geyma er Kálfur hét. Ekki er hann sagður mikilmenni.

Nú fer Vémundur þar til er hann hittir Kálf og biður hann að greiða sér föng þau er Áskell átti í hans varðveislu og kvaðst vera eftir sendur. Kálfur svaraði að hann kvaðst selt hafa föngin þeim úr Árskógi, Þorbirni og sonum hans, og sagði nú Stein nýfarinn á brott og að hann hefði kú við tekið af þeim.

"Já," sagði Vémundur, "þá varð eg heldur til seinn. En það væri maklegt að eg dræpi þjóf þinn og mættir þú þann veg ekki svíkja fleiri góða menn sem Áskel og muntu vera hinn versti maður."

Kálfur svarar að hann ætti ekki refsing á þessu: "Lát mig fara á fund Áskels og vil eg gjarna að hann geri minn hlut þann sem hann vill." Nú fara þeir á fund Áskels og segir Vémundur honum það sem um var.

En Áskell sagði að ekki skuli þeir um þetta deila þurfa ef verðið gyldist: "Vil eg nú," segir Áskell, "gefa þér Kálfur kúna" og biður hann nú afla sér heyja um sumarið og sækja sér aðra kú heim til sín og kveðst þá vilja gefa honum og kenndi sér völd um það harðrétti er hann hafði þolað af Vémundi og virti það til vorkunnar við Kálf.

Og jafnan sýndi Áskell það að hann var fám mönnum líkur sakar réttdæmis er hann hafði manna í millum og drengskapar við hvern mann.


8. kafli

En að vori bað Vémundur Áskel ferju sinnar til Grímseyjar á reka þeirra Áskels. Sá maður er nefndur Máni er geymdi rekann þann er Áskell átti þar. Og nú segir Áskell Vémundi að hann hefði mælt við Mána á vorþingi að hann skyldi selja rekana ef hann gæti en ef nú væri eigi selt þá skyldi Vémundur með fara. Vémundur kom nú til Grímseyjar og dró upp skip í varar Áskels. En þar lá skip fyrir og tekur Vémundur það ráð að hann hratt út skipinu og lét fljóta um íla, gengur síðan til Mána og spyr eftir fanginu. En Máni kvaðst selt hafa sem Áskell skipaði áður. Vémundur segir að hann var nú eftir sendur fanginu og kveður Mána nú illa hafa með farið. Og vill hann þá enn eigi fara erindislaust, tekur síðan hval fram á ferjuna er þeir áttu feðgarnir úr Árskógi. Og í því bili kom þar Steinn í eyna og mæltust þeir við nokkur orð og vill Steinn eigi róa eftir honum og skiljast þeir nú að sinni.

Nú kemur Vémundur kögur á fund Áskels og segir honum hversu farið hafði og bauð honum af fanginu slíkt er hann vildi. Lét Áskell illa yfir ferðinni og kvaðst engan hlut vilja hafa af því er Vémundur stæli en sagði Mána svo hafa með farið sem hann hafði skipað honum og segir að Vémundur vill það oft ónýta sem hann leggur til með honum þótt honum gegndi hvergi verr það að hafa. Og nú segir Vémundur að eigi skal hann utan hafa flutt farminn til þess að engi njóti, lætur flytja í bú sitt, segir að nýta skal hann fangið þó að Áskell vilji eigi hafa.

Nú kemur Steinn að hitta Steingrím mág sinn og segir honum þau óskil er þeim feðgum voru ger af Vémundi um hvaltökuna. Steingrímur kveður þá skulu gera eftir dæmum Áskels og segir að þá skuli ekki á skilja um hvalfjósir nokkurar og bað þá láta vera kyrrt.


9. kafli

Það er nú að segja að skip kom í Eyjafjörð eitthvert sinn við Knarrareyri, sem oft kann við að bera þó helst sé hér nokkuð frá sagt að sinni. Það skip var viði hlaðið að miklum hluta. Og annað skip kemur að Gásum mjög í það mund sem hið fyrra.

Herjólfur frá Mývatni og Vémundur bróðir hans koma til kaupa. Herjólfur átti skála á velli og vildi kaupa til góðan við og bauð nú um Vémundi að vera fyrir sína hönd. Hann fer nú og falaði viðinn að Austmanni fyrir Herjólf og þar var með kjörviður er hann vildi kaupa og var hvortveggja góður viðurinn. Og nú segir Austmaðurinn að Steingrímur frá Kroppi hefur áður virt viðinn fyrir þrjú hundruð einlit en hefði goldið áður fyrir kjörviðinn öðru lagi sex aura. Vémundur hélt enn fram málinu og bauð hann hálft verðið mórent fyrir viðinn en allt mórent fyrir kjörviðinn, sagði honum eigi verra við sig að kaupa en við Steingrím "en hefir þó verðið meira fyrir."

Austmaðurinn kvaðst mundu hafa selt honum ef hann hefði fyrr komið með þvílíku verði sem Steingrími en segist nú ekki mundu taka litla mútu til að bregða þessu kaupi sínu "þar sem eg hefi orðið áður ásáttur við annan mann."

Nú sér Vémundur að hann fær ekki að gert að svo búnu en þó vildi hann fyrir hvern mun fá viðinn keyptan. Og nú kaupir hann að einum manni og gefur honum til eyri silfurs að hann segði í hávaða þar við skipið að Steingrímur hefði keypt við að Gásum og hann mundi nú ekki þessa viðar þurfa er hann hafði þar áður varðað fyrir sína hönd. Og þegar er sjá saga kemst við veðri þar að skipinu þá keypti Vémundur þá þegar viðinn þann er hann hafði áður falað. Og nú segir Herjólfur honum til er hann vill eigi hafa þenna við er keyptur var í brigð við annan mann og kveðst munu ná enn þeim viði er menn hefðu eigi áður keyptan. Vémundur segir að honum líkar það vel þótt hann vilji eigi hafa viðinn, kvað ósýnt að betra mundi hann við taka eða betri kaup á fá en sjá var, keyptur með þvílíku verði. Herjólfi kvaðst betra þykja þótt hann fengi harðari kosti á um viðinn og væri ekki tvímæli á síðan hvort hann ætti eða aðrir menn. Vémundur kvað því margan lítilmenni vera "að sér lætur allt í augum vaxa þótt smátt komi til."

Vémundur geldur þegar fyrir viðinn og lætur hann viðinn þegar heim flytja. Svo er sagt að nú þrýtur hrossin fyrir þeim og er kjörviðurinn eftir í Fnjóskadal á Veturliðastöðum við Þingvað en annar komst heim. Nú verður Steingrímur þessa brátt var hvern veg farið hefir um viðinn og segir að hann muni ekki kunna Austmann um þetta og þótti honum hafa vel farið. Og eigi vill hann hafa verðið er hann hafði reitt fyrir kjörviðinn, kvaðst annaðhvort skyldu missa hvorstveggja eða hafa allan viðinn þann er hann hafði keyptan.

Svo er sagt að Steingrímur sendi Þorleif melrakka og Hrafn verkstjóra sinn að vitja viðarins hvort Vémundur hefði látið heim draga viðinn. Og nú er ekki fyrr að segja frá þeirra ferð en þeir koma til Þingvaðs og finna þar þræla Vémundar. Er sá sagður fundur þeirra að þeir Þorleifur drepa þræla Vémundar en taka á brott kjörviðinn og hafa heim með sér og segja Steingrími hvað þeir höfðu að gert. En hann lét vel yfir þessari ferð og kvað þá ekki skulu síns í varða um þetta mál.

Nú er það að segja þessu næst að Vémundi þykir mjög seinkast heimkoma þrælanna og fer nú síðan að leita þeirra og finnur þá við Þingvað drepna og hulda með viðum. Og nú sér hann að á brott er kjörviðurinn. Nú bregður honum mjög í brún, fer nú þegar að finna Áskel, kvaðst eigi una við svo búið að eigi kæmi hér nokkuð fyrir og segir honum nú það sem á var orðið. Áskell sagði að varla sýnist honum þann veg, kvað ekki meira að orðið en honum þótti von að, svo illa sem Vémundur hefði þetta mál upp tekið fyrir öndverðu, fyrir viðarkaupið. Vémundur bað nú Áskel að eiga hér nokkurn hlut í svo að þetta mál mætti til skila ganga svo að eigi hlytist verra af en nú er orðið.


10. kafli

Það var sagt að á Möðruvöllum bjó Eyjólfur Valgerðarson. Sendir Áskell honum orð að hann komi til móts við hann að Tjörnum í Ljósavatnsskarði og vildi að þeir semdu þetta mál milli þeirra Steingríms og Vémundar og þótti sem minna mundi af verða ef þeir hittust eigi sjálfir er hvortveggja var kappsmaður mikill en miðlungi góðgjarn og sýndist það sáttvænlegra að þeir Eyjólfur semdu þeirra í milli. Hann sendi og þau orð að Eyjólfur forvitnaðist af Steingrími hvort hann mundi vilja una við svo búið og að Eyjólfur skipaði málum fyrir hans hönd sem honum líkaði en Áskell taki málum fyrir Vémund. En Steingrímur kvað þá allvel komið sínu máli að Eyjólfur sæi fyrir og setti niður sem honum líkaði.

Og nú finnast þeir að á kveðinni stundu, Áskell og Eyjólfur, og ræða mál með sér og var sú gerð þeirra að jöfn skal vera kjörviðartakan er hvor hafði tekið frá öðrum og þræladrápið er heimamenn Steingríms höfðu drepið við Þingvað. En svo er sagt frá orðum Vémundar þá er hann vissi gerðina að hann kvaðst eigi mundu rjúfa gerð þeirra en sagði það þó með að hann þóttist ekki hafa fyrir þrælana sjálfa. Nú býður Áskell honum af sér að þiggja hvort er hann vill, fé fyrir þræla sína eða þrælana sjálfa. En Vémundur kvaðst hvorki að honum þiggja vilja fé né mansalsmenn og kvaðst heldur við svo búið una mundu sem honum var þá ætlað.


11. kafli

Það er nú að segja að Háls kemur á fund Áskels frænda síns að hann vildi láta biðja konu til handa sér. Áskell spyr hvar hans hugur leikur á um þetta mál. Háls svarar að hann vill fá þeirrar konu er Helga heitir og var Grana dóttir er bjó á Granastöðum í Eyjafjarðardölum og biður Áskel vera fulltingismann þessa máls fyrir sína hönd. Áskell fer með Hálsi og vekur um bónorðið við Grana og bað hann gera sinn vilja um þetta mál og gefa Hálsi konuna. Grani svarar að Áskell skuli ráða þeim nokkura staðfestu og vera þeim jafnan ásjáandi, lét þess þurfa mundi fyrir sakar ofstopa Háls og hlutdeilni. Og nú takast þessi ráð og réð Áskell undir þau Helgastaði. Tókust nú ástir með þeim og voru þau þó eigi samlík í lundarfari.

Nú er það fyrst að segja að Hrafn á Hóli í Kræklingahlíð skyldi fá dóttur þess manns er Atli hét. Hann bjó á Grund í Bárðardal. Og nú biður Hrafn að Steingrímur fari með honum í brúðferðina og svo gerði hann, fara nú til þess er þeir koma til Atla.

Sá maður er nefndur til sögunnar er Örnólfur hét. Hann var kallaður rella. Hann bjó á þeim bæ er heitir á Jarlsstöðum. Örnólfur var maður auðigur að gripum og lausafé.

Það er sagt er hann var að brullaupinu er Atli gifti dóttur sína að Steingrímur falaði yxn tvö rauð að Örnólfi sex vetra gömul. Það voru góðir gripir en hann mat yxnin fyrir fimm hundruð en Steingrímur bauð við stóðhross og varð kaup þeirra að Steingrímur skyldi gefa til hálfmörk silfurs að hann næði kaupinu. Eigi vildi Steingrímur hafa á brott yxnin fyrr en Örnólfur sæi hrossin. Steingrímur sendi nú húskarla sína tvo að færa Örnólfi hrossin og hafa þeir nú með sér á brott yxnin og ætluðu heim með að fara til Steingríms. Þeir koma til Lauga í Ljósavatnsskarði um kveldið og setja inn yxnin og eru þar um nóttina.

En þá var haustboð undir Felli að Vémundar og komu þangað göngukonur tvær og sögðu Vémundi yxnakaupið. Nú kemur Vémundur að máli við Háls og bað hann halda þar nú háttum að boðinu en hann kveðst eiga heimanferð fyrir hendi. Hann fór nú við fjórða mann á Jarlsstaði til Örnólfs og kveðst vilja kaupa yxnin til þess að gefa Áskatli, kvaðst engi yxn eiga þau áður að honum þætti honum gefandi. Nú segir Örnólfur kaup þeirra Steingríms og það með að þeir hefðu þegar í brott farið með yxnin. Þá brást við griðkona ein og kvaðst hafa séð yxnin á stöðli um daginn og kvað það engu gegna er hann segði. Örnólfur kvað það hafa verið þau hin hvítu, hin fimm vetra gömlu yxnin, og hélt einn veg sögu sinni sem áður, þótti einskis örvænt fyrir Vémundi ef hann vissi eigi hið sanna en hugði að hann mundi heim snúa þaðan og vildi hann það eina láta af sér hljótast um mál þeirra að honum mætti ekki um kenna. Vémundur fer nú að leita yxnanna og grunaði sögu hans. Þeir koma nú til Tjarna og svo til Lauga og var nær sem þeim væri vísað til yxnanna, taka í brott og hafa heim með sér undir Fell um morguninn.

Vémundur vildi gefa Áskatli yxnin. Hann spyr Vémund hversu hann hefir fengið. Hann segir sem farið hafði. Áskell vill fyrir engan mun þiggja þegar hann veit hversu farið hafði. Nú tekur Vémundur til sín yxnin og lætur ala til jóla og skal Svartur vaka yfir um nætur.

Áskell lét illa yfir og kvað Vémund eigi fyrr af láta óspektinni en nokkuð illt hlytist af honum og kvað það líkara að Steingrímur mundi eigi vilja hafa svo búið, "þvílíka svívirðing sem þú hefir nú gert honum."

Vémundur kvaðst eigi síður eiga að sjá til síns hlutar við Steingrím og kvaðst gjarna vilja að hann fyndi það nokkuð sinn. Áskell bað Vémund að hann skilaði aftur yxnunum en hann kvað það mundu fjarri fara að hann vilji hafa sótta þá til einskis annars en að senda þá nú aftur þegar og kvað Steingrími svo munu þykja sem hann mundi nú eigi þora að halda þeim og kvaðst ekki það gera. Nú skiljast þeir Áskell og Vémundur og þykir sinn veg hvorum þeirra.

Nú koma þeir heim húskarlarnir, þeir er Steingrímur hafði sent eftir yxnunum, og segja honum til svo búins hvað af þeim var orðið. En hann lét þegar leita eftir. Fékk hann til ferðarinnar Þorleif melrakka. Hann kaus Hrafn verkstjóra að fara með sér. Nú fara þeir til þess er þeir koma til Vémundar og ganga til fjóss. Þorleifur spurði Hrafn hvort hann vildi taka uxana eða varðveita þann manninn er vakir en Hrafn kaus að sjá fyrir manninum. Nú ráðast þeir inn í fjósið og leiðir Þorleifur út uxana en Hrafn gengur nú fyrst þar til er Svartur var og varðveitir hann á þá leið að hann rak öxi í höfuð honum og veitti honum þegar banasár og kveðst það ætla að hann mundi eigi segja Vémundi frá þeirra ferð. Nú ráðast þeir á veginn og fara óþyrmilega með uxana yfir heiðina er heitir Fljótsheiður. Kom þeim það eina í hug að Vémundur mundi eftir þeim fara og vilja því firrast hann sem þeir mega. Og er lýsa tekur nokkuð og uxarnir þreyttust víkja þeir af götunni og leita sér hælis undir bökkum þar er síst mátti þá sjá.

Nú er frá því að segja að einhver griðkona fór í fjós að Vémundar og vildi vekja Svart og kvað hann eigi vera trúlyndan er hann vakti svo ódygglega. En hann vaknar eigi við kall hennar. Nú þrífur hún á honum og verður vör við að hann er drepinn, hleypur inn með ópi miklu og segir Vémundi að Svartur var dauður og þóttist Vémundur þegar vita hverju gegna mundi, býst nú þegar til ferðar við tólfta mann og ætlar að leita þeirra er verkið hafa unnið. Hann sendir þegar eftir Konáli á Einarsstaði að hann komi til liðs við hann. Konáll fór og við tólfta mann. Og er þeir finnast fagnar Vémundur honum vel og skipta þeir liði og riðu þeir Konáll götur til Ljósavatnsskarðs yfir fljótið en Vémundur leitar á Fljótsheiði ef þeir hefðu eigi komist yfir fljótið. Hann hafði sporhunda er Konáll hafði átt og nú finna hundarnir uxana. Þá spruttu þeir Þorleifur upp og út á fljótið og höfðu allt á kafi. Þeir Vémundur hleyptu nú eftir þeim en þeir Þorleifur fóru á hól nokkurn. Þá komu þeir Vémundur þar og sækja að þeim. Vémundur skaut spjóti á hólinn og kom á Þorleif miðjan og flaug í gegnum hann. Hrafn þrífur spjótið og sendir ofan aftur að þeim og steyptist sá dauður af baki er fyrir varð. Hrafn hljóp á bak hesti sínum og hleypir sem mest má hann þar til er hann kom heim og segir Steingrími um sína ferð sem orðið var. En þeir hverfa aftur með uxana og hjó Vémundur höfuð af hvorutveggja nautinu og sagði að Steingrímur skal aldrei þeirra njóta þaðan af.

Og nú fer Vémundur á fund Áskels og segir honum hvað á millum þeirra Steingríms hafði þá borið. Áskatli þótti þá farið hafa sem honum kom í hug og von var að og býðst enn til að sætta þá ef hann skal ráða fyrir hönd Vémundar. Nú játar Vémundur hans ummælum. Þá sendi Áskell orð Eyjólfi Valgerðarsyni að taka málum fyrir hönd Steingríms og koma til móts við hann að Laugum í Ljósavatnsskarði. Og þar finnast þeir eftir því sem Áskell beiddist. Og nú taka þeir til að tala um málin og var sú sættargerð þeirra að vígin á standist, Þorleifs melrakka og þess manns er Hrafn vó með því spjóti er Þorleifur hafði bana af fengið, en fyrir uxana tvo sex hundruð og virt til vöru. En Svartur skal koma fyrir það er teknir voru uxarnir frá Steingrími í fyrstunni og skapraun þá sem Vémundur gerði honum. Og nú segir Vémundur að hann þykist enn aldrei bætur hafa haft fyrir þrælana þá er drepnir voru við Þingvað en Áskell bað hann láta það eigi ofar komast og sagði að hann mátti vel við una er menn vildu honum jafnan sættar unna hver endemi sem hann tæki til bragðs og kvað hann eigi vera meðalóspektarmann. Og eru nú sáttir enn um sinn.


12. kafli

Svo er sagt að eitthvert sumar skyldi Steingrímur etja hesti sínum á Ljósvetningaleið við fnjóskdælskan mann nokkurn. Þar koma þeir Reykdælir, Áskell og Vémundur og Fjörleifarsynir.

Þeir Vémundur og Háls komu til þeirra manna er að soðning voru og beiddi Vémundur þá að þeir mundu gefa honum hrútshöfuð hvítt er var hjá þeim. Þeir spyrja hvað honum skal það en kváðust þó eigi mundu spara við hann ef honum þætti máli varða að hann næði því. Hann kvað þeim fara vel. Og nú svíður hann lítt um höfuðið og varðveitir það síðan sem honum sýndist.

Þeir fara nú á brott þaðan, finna þann mann er Þorgeir er nefndur og er kallaður smjörhringur. Frá honum er það sagt að engi fæða væri jafngóð sem smjör og brauð. Hann var kallaður lítill skilamaður.

Og nú segir Vémundur til Þorgeirs: "Það er vel að eg hefi þig fundið" og kallar hann frænda sinn: "Vil eg gjarna gefa þér mat meðan við erum hér" og kvað það maklegast vera að hann rækist ekki þar á öðrum mönnum.

En Þorgeir tekur því vel og kvað Vémund mundu góðan dreng vera.

Það er sagt að Áskell varð var við þetta og kvaðst eigi vita von í að Þorgeir væri þeim nokkuð skyldur og kvað það óvitsamlegt að gefa slíkum óvendismanni mat sinn sem Þorgeir var, kvaðst eigi vita hvað undir slíku bjó. En Vémundur gaf engan gaum að orðum hans og situr nú á tali við Þorgeir svo sem hann væri dugandismaður.

Og það varð í ráðum þeirra að Vémundur gerði honum kaupakost. Þorgeir spurði hver sá væri, kvaðst gjarna vilja við hann kaupa. Vémundur kögur svarar að hann mun fá honum veturvist ef Þorgeir vill það vinna til að ljósta Steingrím um daginn með sauðarhöfði fyrir augum öllum mönnum. Þorgeir bað hann gefa ráðið til en kvað sér eigi munu áræðið bila. Vémundur kvað svo vera skyldu.

Og nú segir hann Þorgeiri að þar skal etja hestum um daginn og Steingrímur á hesti að etja: "Skal eg nú ráð til leggja með þér að þú dragir sauðarhöfuðið það er eg fæ þér á stöng þína og gangir mjög að hestavígunum sem þú ert vanur" en kvað Steingrím fylgja hesti sínum og vera í hvítri skyrtu og hafa hlaðbúna húfu á höfði og kvað hann vera skrautmenni hið mesta. Og þá bað hann Þorgeir láta ríða stöng sína að höfði Steingríms svo að sauðarhöfuðið kæmi á háls honum sem harðast "en eg mun vera nær að duga þér," segir Vémundur.

Þorgeir svarar: "Vitur maður ertu og er þetta ráð af mikilli fyrirhyggju sett."

Og nú er þetta kaup ráðið með þeim.

Það er sagt að Áskell mælti við Vémund áður hestarnir voru fram leiddir að hann sæti hjá kyrr um daginn og ætti engan hlut í um hestakeyrslurnar og þótti það þá líkara ef hann sæti hjá og skipti sér ekki af.

Vémundur segir: "Oft þykir þér eg ekki ráðþægur um þá hluti er þú vilt mér kenna þótt mér væri það betra að hafa. Og nú finn eg hversu óviturlegt það er og nú vil eg svo gera, sem eg ætti jafnan, að taka með þökkum þín heilræði," kvað svo vera skyldu sem hann vildi.

Ekki vissi Áskell kaup þeirra Vémundar og Þorgeirs.

Og nú leiða menn saman hestana og fór það eftir því sem Vémundur gat til að Steingrímur keyrði hest sinn sjálfur og er vígið gott. Hleypur Þorgeir þar hjá og er málóði mjög. Menn gefa að því engan gaum og þykir eigi nýtt um það. Og í einhverri hvíld þá er menn varði minnst þá lýstur Þorgeir Steingrím mikið högg með sauðarhöfðinu á hálsinn og kallar nú á Vémund að hann skyldi duga honum. En Steingrímur hleypur eftir honum og mágar hans með honum, Steinn og Helgi, og vó Steingrímur Þorgeir og fékk honum nú veturvistina og tók þar nú starf af Vémundi. Nú snýr hann aftur og kvaðst þessa höggs hefnt hafa.

Vémundur hafði nú vel hlýtt ráðum Áskels og hafði setið kyrr hjá um daginn. En nú þóttust allir vita að þetta voru hans ráð er Þorgeir bað hann dugnaðar eftir höggið. Nú var þar þröng af mönnum og býður nú Áskell enn sætt fyrir þetta en Steingrímur segir að jafnan hafði hann sæst og kvað þá enga sætt halda vilja og segir að nú muni ekki af verða sættinni og kvað eigi mega þá verr verða en áður þá er þeir voru sáttir kallaðir. Og nú vill Áskell gefa Steingrími þrjá gripi, sverð og skikkju og gullhring, og voru það miklar gersemar en hann vill engan þiggja. Nú hefir Eyjólfur tekið við gripunum er Áskell bauð honum því að Steingrímur vildi eigi við taka.

Fara menn heim af leiðinni með engri sætt og una nú hvorigir vel við sinn hlut. Þóttist Steingrímur enga sætt hafa haft fyrir skömm þá er honum var ger en Vémundur þóttist nú verr vera orðinn í miklum óþokka við Steingrím. Og þó telur hann ekki að því og það líkar honum illa ef eigi skulu bætur koma fyrir Þorgeir og kallar hann fyrir sér drepinn hafa verið. Áskell bað hann það aldrei gera að heimta bætur fyrir mannfýlu þá og kvað hann svo mega gera sig berastan að því að Þorgeir hefði hans ráðum fram farið. Og unir Áskell illa við það er honum þykir Vémundur jafnan valda því er illa er en þótti það þó illa er hann fékk engum sáttum á komið í millum þeirra. Og skilja þeir nú að sinni.


13. kafli

Það var tveim vetrum síðar en það er nú var frá sagt eftir alþingi um sumarið að Steingrímur kvaddi Hrafn verkstjóra til selgerðar og kvað á hversu lengi hann skal að vera en það var tveggja vikna verk. Hrafn sagði að hann léti eigi vinna það er meira lá við en riga að slíku. Steingrímur spyr hvað það er.

Hrafn svarar: "Að hefna sauðarhöfuðhöggsins er þú varst lostinn á leið um sumarið fyrir tveim vetrum af Þorgeiri smjörhring."

Steingrímur kvað hann eigi mega meir fyrir gjalda en lífið en Hrafn sagði þá eigi ómaklegri að kenna af nokkurs er Þorgeir höfðu þess eggjað og kvað hann ekki það af sjálfum sér hafa tekið.

Steingrímur kvaðst eigi það vita "en þó hefi eg annað hugsað þér verkið en eg sagði þér."

Hrafn spyr hvert það er.

"Nú vil eg senda þig á Hól í Kræklingahlíð eftir Hrafni. Bið hann að koma á minn fund. Þú skalt og koma í Hörgárdal eftir þeim manni er Gnúpur heitir. Hann býr á þeim bæ er á Öxnahóli heitir og er góður bóndi. Síðan far þú á Galmaströnd eftir þeim mágum mínum, Steini og Helga, og bið þessa menn alla að koma á minn fund."

Hrafn kvað sér þetta betur hent en að vera að selgerðum.

Nú fer hann á fund þessara manna og sagði þeim sitt erindi. Voru þeir þegar uppi er Steingríms orð komu til. Og svo er sagt að Gnúpur mundi farið hafa fyrri þótt fyrr hefði komið verið, að því er hann sagði Hrafni.

Fara þeir nú allir á fund Steingríms. Fagnar hann þeim vel. Nú ríður hann heiman við tvítjánda mann og norður til Reykjadals og riðu snemma aftans heiman, taka hvíld á Fljótsheiði gagnvert Öndólfsstöðum og áðu þar. Og er svo sagt að þeir sofnuðu allir. Smalamaður Konáls fór í það mund þar nær að fé sínu. Og nú sér hann hesta marga en vissi ekki von mannaferða, snýr heim þegar og segir Konáli það sem hann hafði séð. Konáll þóttist vita hverjir vera mundu og býst nú við og sendir eftir Vémundi og hann fór þegar á fund Konáls og hafa nú tuttugu manna báðir saman.

Nú er það að segja að nú vaknaði Steingrímur og sjá nú mannafarar til Öndólfsstaða og þykjast þeir nú skilja að menn hafa orðið varir við þá, taka nú hesta sína og fara nú á bak og sjá eigi færi sitt á Vémundi að sinni og þótti Steingrími það ráðlegt að þeir sneru heimleiðis en þeir Gnúpur og Steinn svöruðu að aldrei vildu þeir við þetta heim snúa og þóttust vita hæðileg orð Vémundar við þá ef þeir snúa aftur við þetta og kváðu nú vænna að snúa til Mývatns að drepa Herjólf síðan þeir náðu eigi Vémundi. Og þangað riðu þeir um nóttina og fengu það ráð að Þorsteinn blindingur, heimamaður Steingríms, skyldi ríða til húss og hafa lyng eða mosa í sekkjum og láta vísa sér til Möðrudalsheiðar svo sem hann ætlaði sér til skips og teygja Herjólf svo út. Og þetta ráð gekk svo fram sem þeir ætluðu að þann veg varð honum út komið. Þeir Gnúpur og Steinn hlaupa nú að honum og leiða hann frá dyrunum en Þorsteinn gætti hurðarinnar að engi mætti út komast þótt vildi. Svo er sagt að Gnúpur mat ekki við aðra menn að vega að Herjólfi. Og nú riðu þeir heimleiðis.

Þeir koma til Fjörleifartófta í Bárðardal. Hrafn af Hóli lýsti þar víginu Herjólfs fyrir Fjörleifu móður hans og lét sem hann skyldi drekka og fékk sér það til erinda. Hún segir að Herjólfur muni goldið hafa Vémundar og kvað hann og hefna mundu og sagði að varla var hún enn frændlaus eftir, kveðst við það mundu una að hefnt mundi verða.

Nú ríða þeir Steingrímur á fund Eyjólfs og segja honum vígið. En honum kvaðst það illa þykja að Vémundur var eigi heldur fyrir orðinn eða Háls.

En Steingrímur sagði að eigi hefðu þeir náð Vémundi "en þó vildum vér að hann hefði fyrir orðið."

Eyjólfur kvaðst ekki mundu að þessu telja og bauð að leita um sættir í milli þeirra. Steingrímur kvaðst nú sættast ef þeir vildu en sagði þó það með að eigi hefðu þeir þá haldið sættina er líkara var til.

Svo er sagt að Eyjólfur sendi orð Áskatli að þeir hittust að Laugum og sagði að Steingrímur vildi nú sættast á uxamálið. Áskatli þótti það enn vænlegast að taka sætt af Steingrími og mætti enn svo niður falla ófriðurinn að sinni í milli þeirra og fór hann til fundar við Eyjólf. Var sú sættargerð þeirra að gjalda skyldi hundrað silfurs fyrir víg Herjólfs en Gnúpur og Þorsteinn skulu fara utan og aldrei útkvæmt eiga og það efnir Þorsteinn en Steinn og Hrafn af Hóli skyldu vera utan þrjá vetur. Þessi sekt skal á falla hið þriðja sumar á Eyjafjarðarleið. Þá skyldu þeir útlægir falla.

Og nú líður sjá stund og er ekki sagt frá viðurskiptum þeirra í þessu máli til leiðar hið þriðja sumar. Og þegar er sú stund er liðin þá er það sagt að Vémundur kögur mælti við konu sína þegar eftir leiðina að hún skyldi sjá um bú þeirra en hann kvaðst mundu ríða til Eyjafjarðar og þræll hans með honum. Nú ríða þeir til frændkonu Vémundar er Þorgríma hét. Hún bjó á Vindheimum í Hörgárdal. Vémundur kögur spurði að Gnúpi ef hann væri heima að búi sínu. Hún kvaðst það gerr vita um morguninn og segir að hann ætlaði að fara eftir fiskum til Gása og spurði hvert Vémundur vill fara. En hann kvaðst erindi eiga að finna Gnúp og kvaðst hann hitta vilja.

Og nú fær hún Vémundi þræl einn er hún átti er nefndur er Melkólfur. Og nú fara þeir Vémundur þrír saman og hitta Gnúp fyrir utan Laugaland á melunum og voru þeir þrír saman og höfðu farið með honum þrælar hans tveir. Og þar sló þegar í bardaga. Þrælarnir börðust á. Vémundur batt áður hesta sína og kvað nú vera maklegan fund þeirra að þeir voru jafnmargir. Gnúpur kvaðst eigi mundu á telja það. Hvortveggja þeirra hafði skjöld. Þeir sóttust lengi. Og um síðir hjó Vémundur undan Gnúpi fótinn og nú stóð hann á knjám og bauð enn bardagann en Vémundur kvað þá hætta mundu að sinni. Og nú sendir hann heim Melkólf og kvað hann vel hafa dugað.

Vémundur ríður nú og þræll hans út á Galmaströnd í Arnarnes og spurði að þeim Steini og Helga mágum Steingríms. En honum var sagt að Helgi væri að smíð í Skagafirði en Steinn var farinn út í Hrísey til veggjahleðslu. Vémundur bað Galta skips er þar bjó að hann mundi ljá honum út til Hríseyjar og vildi að færi með honum Þorvaldur son Galta og hann léði honum hvorttveggja.

Fara þeir nú til eyjarinnar þrír saman og þar hittu þeir svein einn í eynni og spyr Vémundur hvers sonur hann væri en hann kvaðst vera son móður sinnar. Og nú áttu þeir Vémundur kaup saman og sveinninn að Vémundur skal gefa honum höðnukið til þess að hann segi honum hvort Steinn og húskarlar hans liggi að naustinu um nóttina eða heima á bænum. Sveinninn skal gneggja þar á höfðanum um kveldið ef þeir fara til naustsins en fara hvergi ef þeir væru heima.

Og um kveldið er hann hafði rekið fé á brott þá kom hann á höfðann fram og gneggjaði sem hann mátti mest. Nú þykist Vémundur vita að Steinn mun hafa farið til naustanna og bregða þeir nú við skjótt og fara hvatlega til naustsins. Og þá sáu hvorir aðra og voru nú hvorirtveggja á ferð til naustsins sem þeir mega.

Svo er sagt að Vémundur skaut snærisspjóti og kom á skjaldarsporð Steins og nisti hann við rist honum skjöldinn. Steinn laust í sundur spjótskaftið með öðrum fætinum og rann til naustsins síðan sem hann mátti. Vémundur bað hann eigi renna en Steinn gaf að því engan gaum. Og nú er svo að segja að Þorvaldur son Galta úr Arnarnesi féll í naustdyrunum fyrir Steini. Og þá vildi Steinn hlaupa út á ferjuna og ætlaði að verjast þaðan en þá kemur Vémundur kögur að í því og veitti Steini þegar banasár. Og nú fara þeir Vémundur þegar á brott og hafa með sér lík Þorvalds. Ekki gera þeir að húskörlunum.

Vémundur hittir nú Galta og segir honum tíðindin og réð honum það að fara til Laufáss á skipi með fé mikið og allt skuldalið sitt og síðan í Reykjadal til fundar við sig og hét honum bótum fyrir víg Þorvalds sonar hans. Vémundur vildi fara hið innra og ríður hann í Kræklingahlíð og varð var við að Hrafn af Hóli var í einhverjum starfa og vildi taka hesta sína og skera mön á. Og nú víkur Vémundur þangað og kveður Hrafn hafa sýnt sig í mótgangi jafnan við sig og þá frændur alla, segir hann nú skulu hafa fyrir það nokkuð þótt eigi væri mikið, hleypur síðan að honum Hrafni og hjó af honum höndina og kvað hann þó oflítið hafa. Snýr hann nú síðan heim norður og segir Áskatli allt af ferðum sínum.

En þar er frá að segja nokkuð að húskarlarnir þeir sem verið höfðu hjá Steini í eyjunni, þeir fara nú á fund Þorbjarnar föður hans og segja honum tíðindin. Hann bregður við skjótt og fer til Galta. Og er hann kom þar var hann allur á brottu. Og nú fer hann þegar yfir fjörðinn og ætlaði að þeir Vémundur og Galti mundu hafa farið báðir samt. En Galti tók það ráð sem Vémundur lagði til með honum og var nú kominn á leið með lausafé sitt og ætlaði að flytja til Reykjadals. Og nú koma þeir Þorbjörn eftir Galta og þótti Þorbirni hann hafa mjög efldan Vémund til þessara verka er hann fékk honum bæði skip og son sinn til fararinnar og kveðst þó skyldu bæta honum sonardauðann með því að hann höggur Galta banahögg en tekur upp lausaféð hans allt og flytur heim til sín.

Nú spurðust víða þessi tíðindi. Svo er sagt að Áskell sendir orð Eyjólfi að þeir fyndust í Ljósavatnsskarði á Hálsi. Eyjólfur kom til mótsins. Sú var sættargerð þeirra að Gnúpur og Hrafn skyldu báðir bótalausir er þeir höfðu ekki á brott farið sem skylt var. Steinn falli óhelgur en víg Þorvalds skal vera til sýknu Helga Þorbjarnarsonar en Galta skal bæta hundraði silfurs. Þeir Vémundur og Háls skulu falla óhelgir um Eyjafjörð nema þeir fylgi Áskatli. Helgi skyldi og falla óhelgur fyrir norðan Fnjóská nema hann væri í för með Eyjólfi Valgerðarsyni.


14. kafli

Maður hét Narfi. Hann var frændi þeirra Vémundar og bjó í Laxárdal.

Svo er sagt að maður hét Hallsteinn og var Þengilsson. Hann bjó á þeim bæ er að Höfða heitir. Hann átti dóttur er Þóra er nefnd. Hennar bað Helgi son Þorbjarnar úr Árskógi og var hún honum föstnuð og á kveðin brullaupsstefna og skal Hallsteinn inni hafa boðið.

Svo er sagt að Vémundur kom að máli við Narfa frænda sinn og taldi um fyrir honum að honum væri það til að kvænast og kveðst hann vera mundu fulltingsmaður að ef hann vill og nefnir til Þóru dóttur Hallsteins í Höfða.

Narfi kvað það vera óvænt stofnað "því að hún er áður," segir hann, "föstnuð Helga úr Árskógi. En líkar mér," segir hann, "kvonfangið ef þú mátt ná til handa mér þessi konunni."

Og um haustið fara þeir Vémundur tíu saman út í Höfðahverfi á þann bæ er heitir á Bárðartjörn. Þar bjó sú kona er Ísgerður hét. Þeir taka þar gisting. Hún var fyrir sér og fjölkunnig mjög og svo er sagt að hún var vinkona Vémundar.

Hún lagði þau ráð til að þeir færu til nausta og biðu þar ef nokkura veiði bæri í hendur þeim um morguninn og kvað þá koma mundu brúðmennina: "Mun eg," segir hún, "vera í umsjá um yðvart mál."

Og nú fara þeir Vémundur sem fyrir þá var lagt.

Steinfinnur hét maður. Hann var fróður maður og fjölkunnigur nokkuð. Honum Steinfinni var boðið til boðsins til skemmtanar mönnum.

Svo er sagt að brúðurin sat í dyngju sinni um daginn og margt kvenna hjá henni. Og þá er búið var til að þær komi inn konurnar þá sendi Hallsteinn húskarl sinn eftir þeim að þær færu inn úr dyngjunni. Húskarlinn tók í hönd henni og leiddi hana eftir sér. Og er þau komu út þá gerði á myrkur svo mikið að þau máttu ekki sjá frá sér. Og þá var húskarlinn sleginn mikið högg meðal herðanna og um höfuðið en bylur mikill kom að henni svo að hún fauk í einu allt ofan til naustanna. Þá kom kall mikið í naustdyrnar og var um rætt að þeir skyldu hafa hendur á henni Þóru ef þeim væri svo mikið um að varðveita kost hennar sem þeir höfðu látið. Þeir Vémundur hlaupa nú úr naustdyrum og fara á bak. Vémundur setur Þóru í kné sér og riðu þeir nú á brott með brúðina og fara þar til er þeir koma í Fnjóskadal og mjög svo til Þverár. Þar bjó sá maður er Gunnsteinn hét. En þá dvaldist ferð þeirra og var það af fjölkynngi Steinfinns sem enn mun sagt verða síðar.

Þeim Hallsteini þótti í óvænt efni komið vera þá er húskarlinn sagði þeim sögu sína að hann var lostinn mikið högg en brúðurin á brott tekin. Og þá segir hann gera svo mikið myrkur að aldrei vissi hann hvert hún hvarf. En þeir Hallsteinn þóttust það vita að af fjölkynngi mundi verið hafa myrkrið og af ráðum Vémundar ætluðu þeir þetta mundi verið hafa og ræddu margt um þetta sín á milli.

Svo er frá Steinfinni að segja að hann sat upp og horfir í jörðina fyrir sig fram og mælti við engan mann. Þá spyrja þeir ef hann þættist nokkuð til vita hvað af Þóru var orðið. En hann kveðst það gjörla mega vita og sagðist þó eigi munu segja þeim nema þeir gefi honum til þrjár merkur silfurs. Þeir sögðu að það þótti þeim lítið til að vinna ef nokkuð mætti þá þessi svívirðing af þvost þeirra máli en Helgi segir það fé vel komið er honum var gefið. Steinfinnur sagði mörgum mein að heimskunni og kallar það óviturlegt er þeir þóttust ekki til vita hvað af brúðinni var orðið.

Og nú segir Steinfinnur að Ísgerður hafði þar komið frá Bárðartjörn og rekið fótaskinn sitt um höfuð honum húskarlinum "og af því varð myrkrið og svo vindurinn sá er henni feykti ofan til naustanna."

Hann segir að þeir Vémundur höfðu þar verið í naustinu "og tóku þeir við Þóru og reiddu brott."

Og nú kvað hann heldur mundu seinka ferðinni þeirra Vémundar.

Helgi fór nú við tuttuganda mann en þeir voru allir eftir, Hallsteinn bóndi og Steingrímur og Þorbjörn úr Árskógi faðir Helga. Nú fara þeir Helgi og finna þá Vémund við Þverá og sló þegar í bardaga þar í brekkunni við þá Vémund og hans förunauta. Þar féllu þrír menn af liði Vémundar en tveir af Helga. Húskarl Gunnsteins frá Þverá var þar skammt brott frá er þeir börðust. Hann hljóp heim og sagði Gunnsteini til en hann fór þegar að skilja þá og sagði að hann mundi Vémundi veita ef Helgi vildi eigi frá hverfa með festarkonu sína. Og nú skiljast þeir. Fór Helgi heim með konuna og gerði brullaup til hennar.

Vémundur fór til Áskels og sagði honum til svo búins og varð Áskell illa við og þótti hann mjög klæmst hafa til þessa máls og kvað hann jafnan láta skammt á milli óspektanna. Og nú sendir Áskell enn orð Eyjólfi Valgerðarsyni að hann komi til móts við hann og fyndust að Hálsi. Og nú tala þeir um málin og var sú gerð þeirra að jafna saman vígunum en víg Narfa skal koma fyrir heimsóknina og brotttöku konunnar með en hinir mennirnir fjórir skulu vera jafnir er þar féllu.


15. kafli

Svo er sagt að Helga Granadóttir hljóp nú frá búi Háls bónda síns og heim til föður síns og hitti ekki Áskel. Háls fer nú á fund Áskels og biður hann eiga hlut að við Helgu að hún færi heim aftur til bús síns en Áskell sagðist mundu engan hlut að eiga með þeim svo ferlega sem þau létu jafnan og kvað þau ekki vilja af því hafa er þeim var ráðlagt.

Vémundur fer nú einhvern dag á Jarlsstaði til fundar við Örnólf rellu og falar gripi að honum. Og svo beiddist hann að taka mál af honum á hönd Steingrími um hálfa mörk silfurs þá er eftir hafði verið öxnaverðsins, þeirra er hann hafði selt Steingrími, en Örnólfur segist eigi munu selja honum málið nema Áskell vilji það. Þá beiddist Vémundur að Örnólfur færi á fund Áskels með honum og vildi hann gjarna við taka málinu. Og nú fara þeir á hans fund og bera upp fyrir honum. Áskell kveðst eigi vilja að Vémundur tæki við málinu af Örnólfi og bauð Áskell nú að taka við málinu af Örnólfi á hönd Steingrími og kvaðst vildu að þeir Vémundur og Steingrímur ættust ekki illt við ef svo mætti vera. Örnólfur bað Áskel með fara sem hann vildi. Og nú lét Áskell hann hafa tvær merkur silfurs og skiljast nú við svo búið.

Það er sagt að Vémundur kom að máli við konu sína einnhvern dag og segir að hann mundi fara á brott erinda sinna og kvaðst ekki heim mundu koma í bráð, sagðist þá mundu fara til Vöðlaþings með Áskatli. Hann fer nú heiman og þar til er hann kemur í Kaupang til manns er Þórður hét. Hann bjó á Völlum og var góður bóndi. En nú nefndist Vémundur Björn og kvaðst vera reikunarmaður einn og sagðist þar vildu bíða þings og beiddi hann bónda viðtöku þessa stund. Þórður bóndi bað hann kaupa sér mat með sverðinu því er hann hafði í hendi sinni. Hattarmaður vill eigi vera vopnlaus og vill heldur vinna til matar sér torfverk. Bóndi þóttist þurfa að láta gera garð um tún sitt fyrir þingmönnum að eigi beittu þeir upp völlinn. Tók Björn nú við verkfærum. En bóndi átti heimanferð fyrir höndum og vísar hann nú gestinum á verkið og sagði honum hvað hann skyldi vinna.

Og nú felldi Björn gaflhlað í búðartóft Steingríms og síðan rak hann þangað naut í búðartóftina og gerði þar sem hann mátti óhreinlegast. Nú koma þangað húskarlar Steingríms og skyldi tjalda búðina en þeir höfðu engi verkfæri haft með sér. Nú þótti þeim eigi vel í hendur sér búið að tóftin var full af torfi og grjóti. Björn bauð að ljá þeim verkfærin er hann fór með en þeir vildu það gjarna. Nú segir hann þeim að þar var rétt að grafa torfið á vellinum til búðarinnar en þeir tóku það ráð og þykir það starfminna en sækja til lengra og gera nú svo þar til er upp var ger tóftin.

Nú kom bóndi heim og taldi mjög á hönd Birni er þetta hafði af hans völdum verið og sagði þar gert mikið jarðarspell og lagabrot í þeima hlut. En Björn kvað svo mundu um verða búið að bóndi mætti þessu vel una, tók nú ofan höttinn og kenndi bóndi þar Vémund kögur. Og bauð hann að taka málið til meðferðar og eftirkæru, segir að þetta hefir af honum hlotist og væri það maklegast að hann rétti hlut bónda. Og nú handsalaði bóndi honum landið og er nú við hann að eiga um þetta mál.

Húskarlarnir segja nú Steingrími til þessa og hann þóttist þegar vita að þetta voru ráð Vémundar.

Nú koma menn á þing, Áskell og frændur hans. Þar kom og Steingrímur.

Svo var sagt að Steingrímur átti þann bróður er Þorvarður hét. Hann var Örnólfs son og Yngvildar og kölluð allrasystir. Hann bjó á þeim bæ er í Kristnesi heitir. Hann var vitur maður en miðlungi þótti hann góðgjarn.

Nú finnast þeir á þinginu, Áskell og Steingrímur, og segir Áskell Steingrími að hann hafði tekið sök á hönd honum en Steingrímur sagði það mundu með engum vandræðum verða skulu sinna vegna og bað Áskel fyrir ráða þann veg sem hann vildi og galt Áskatli tvær merkur silfurs. En Áskell bauð Vémundi að hafa fé það en hann vill eigi hafa fé Áskels. Áskell vill nú að niður falli sökin Vémundar við Steingrím og þetta lét Vémundur sér líka fyrir bæn Áskels og fara nú heim sáttir af þinginu.


16. kafli

Nú er frá því að segja að Háls kemur einhverju sinni á fund Áskels og ber upp vandkvæði sín fyrir honum, segir að varla þóttist hann mega búi halda ef Helga kona hans kemur eigi heim og biður Áskel nú hlut í eiga og vita ef hún vildi enn láta að hans orðum. Áskell hét nú að eiga hlut í með þeim ef Háls vill því heita í móti að láta batna samfararnar við hana.

Svo er sagt að Áskell bjóst til ferðarinnar með tuttuganda mann og var í ferð með honum Vémundur og Háls. Og nú fara þeir þar til er þeir koma þar sem heitir Leyningsbakki og þá mælti Áskell að þar vildi hann vera grafinn þá er hann andaðist og þótti þar vera gott landsleg og sagði að hann vildi ekki fé hafa með sér. Nú svara þeir frændur hans að þess skyldi langt að bíða að hann þyrfti niður að grafa.

Síðan aka þeir til Eyjafjarðar og upp með Eyjafjarðará og nær gagnvart Stokkahlöðum. Vémundur og Háls riðu fram fyrir og sjá þeir að menn ganga brott úr laugunni og kenna að þar var Steingrímur og nokkurir menn með honum.

Og þá mælti Háls: "Við hefir Steingrímur enn leitað að þvo af sér svívirðinguna er þú lést ljósta hann með sauðarhöfðinu. Og þó mun honum það tregt veita áður en hann fái alla af þvegið."

Og nú segir Áskell að honum þótti helst tröll toga tungu úr höfði honum er hann mælti slíkt, sagði að meiri von væri að þeir hefðu heyrt hvað hann hafði mælt er hann var forviðris en Áskell kveðst heyra í gegn veðrinu og var mjög löng stund fram til þeirra Vémundar. En þó kvað hann nú svo búið vera mundu.

Þeir ríða nú í Eyjafjarðardal til Grana og voru þar um nóttina. Nú beiðir Áskell Grana að Helga dóttir hans mundi verða í ferð með þeim og hét nú því á mót að Háls skyldi betur við hana vera héðan af en áður hafði hann verið en ellegar kveðst hann mundu heimta út peninga hennar og láta hana þá heim fara ef eigi betraðist um af hans hendi. Og Grani vill enn gera sem Áskell beiddi.

Nú bjuggust þeir á brott þaðan snemma um morguninn og var Helga í þeirra ferð og Grani lét aka Áskatli til Vöðlaheiðar. En er þau koma gagnvart Kroppi þá sáu þau þrjá tigu manna renna til árinnar. Og nú bað Áskell að þeir skyldu fara undir stakkgarðinn er þar var hjá þeim og æja hestum sínum en síðan bað hann þá ganga fram á bakkann og verjast þaðan ef eigi væri allt fritt af Steingríms hendi og þótti nú vera mega að eigi þyrfti nú að dyljast við hvort Steingrímur hefði heyrt fyrra dags það sem Háls mælti. Og nú ganga þeir fram á bakkann. En svo er sagt að áin var ísuð og var ótraustur ísinn á ánni. Áskell spurði þá hvað Steingrímur vildi er hann fór svo hvatlega. En Steingrímur kvað nú mál að efna heitstrenging sína og kvað nú fleiri munu gjalda Vémundar en þá er þess væru maklegir.

Nú er svo sagt að þar sló þegar í bardaga er þeir voru komnir í skotmál. Þá sá Steingrímur að seint mun að vinnast meðan þeir gangast eigi nær en svo sem þá var og þykir nú það eina til að þeir leiti yfir ísinn að þeim Áskatli. Nú mælti Áskell til Steingríms og bað hann varlega fara á ísinn og kvað hann ótraustan en Helgi úr Árskógi svaraði og kvað þá munu sára mjög, Áskel og förunauta hans, og hann mundi fyrir því slíkt mæla og letja þá atgöngunnar. Þá segir Þorvarður Örnólfsson að honum þykir atsóknin þeirra Steingríms óvænleg. Þá tók Helgi úr Árskógi það bragða, mágur hans, að hann stakk spjótskaftinu niður á ísinn og hljóp svo á bakkann upp að þeim Áskatli. Háls hjó þegar framan í fang Helga svo að hann féll á bak aftur út á ána og fékk þegar bana.

Svo er sagt að nú brast niður spöngin undir þeim Steingrími. Sumir vilja það segja að Vémundur skyti til Steingríms með spjóti þá er hann vildi upp úr vökinni á ísinn og yrði honum það að bana en sumir segja að hann drukknaði þar í vökinni. Tveir menn drukknuðu aðrir en Steingrímur. Tveir menn voru og drepnir af hans förunautum, Helgi mágur hans og einn maður annar.

Svo er sagt að Áskell bað þá nú hvata í brott sem þeir mega. Ekki er þess getið að hann týndi neinum manni í bardaganum. Ráðast þau nú til ferðar. Þeir ríða nú fyrir, Vémundur og förunautar þeirra, og ræða um að mjög vel hefði að borist er Steingrímur var af ráðinn og þótti þeim vel hafa gengið leikurinn.

Frá því er að segja að sá maður hafði verið í ferðinni með Steingrími er Þórir er nefndur. Hann var son Ketils flatnefs. Hann hafði rennt fótskriðu yfir ísinn og leyndist þar þá er hann sá hversu Steingrími hafði farist. Þar heitir Kárapollur sem hann var staddur. Nú er hann þóttist vita að þeir Áskell mundu brott farnir frá ánni þá hljóp hann undan ísinum og upp á bakkana. Þá Vémund hafði nú mjög brátt borið undan fram. Það er frá Þóri að segja að hann hleypur nú fram eftir þeim Áskatli og er hann kom að sleðanum þar sem þeir óku þá hjó hann þegar til Áskels goða og kom í höfuðið. Hann snýr nú þegar aftur til árinnar og rennir enn fótskriðu yfir ísinn og fer nú til sinna förunauta og sagði þeim frá sinni ferð. Þeim þótti hann hafa haft gott erindi. Fara þeir nú heim og una sinni ferð illa.

Frá Áskatli er það að segja að hann bað Helgu binda um höfuð sér og ekki skyldi hún gera vart við um áverkann og kveðst gjarna vilja að hér hlytist ekki illt af ef hann mætti því við koma. Og hún gerði sem hann beiddi og gat ekki um þetta og vissu þau tvö ein þenna atburð.

Þau komust á Háls um aftaninn. Og um morguninn snemma vekur Áskell þá og biður upp standa hvatlega og kveðst heim vilja til dagverðar um daginn. Og nú fara þau og komast yfir Fljótsheiði. Nú sagði hann þeim að hann hafði sár fengið og hversu það hafði að borist og kveðst fyrir því eigi fyrr hafa til sagt að hann vissi kapp frænda sinna um það að þeir mundu eigi hafa skilið við svo búið ef þeir vissu þá þegar en hann kvaðst gjarna vilja að engir menn hlytu illt af vígi hans og bað þá vera sáttgjarna frændur sína og kvað þá það best af að gera að stöðva óhöppin sem mátti, sagði og að hann þóttist það jafnan gert hafa um þeirra mál að firra þá vandræðum sem hann mátti og bað þá nú þess minnast um þenna hlut er honum þótti svo miklu máli skipta, segir og að hann vildi gerð þeirra Eyjólfs Valgerðarsonar og Hávarðs og hafði hann þegar sett ráðið allt fyrir Hávarði um gerðina, hvern veg hann vildi vera láta. Nú andast Áskell goði og þótti mönnum það mikill mannskaði því að hann hafði verið mikill höfðingi og vinsæll. Nú veita þeir honum þvílíkan umbúnað sem hann hafði fyrir sagt og þóttu nú þessi tíðindi helsti fljótt að hendi hafa komið.

Þessi tíðindi spyrjast nú víða og þótti öllum mikið að orðið í fráfalli slíkra manna. Þótt Áskell væri mörgum mönnum meir harmdauði en Steingrímur þá var þó hvortveggi mikill höfðingi.

Nú er svo sagt að Eyjólfur sendi orð Hávarði og svo Þorsteini syni Áskels og Vémundi og öðrum frændum hans þeim sem nokkurs voru verðir. Skyldu þeir koma á Möðruvöllu til sáttarfundar. En því er Skútu Áskelssonar ekki hér við getið að hann var þá ekki á Íslandi og hafði hann verið utan um hríð. Og nú koma menn til fundarins. Er svo sagt að Einar Konálsson fóstri Eyjólfs átti mikinn hlut í sáttmálum millum manna. Er nú um leitast ef Þorsteinn eða frændur hans vildu sættir taka.

Þorsteinn segir: "Að því hefi eg jafnan hugað þá er eg hefi verið við staddur þá er faðir minn var við málaferli manna að jafnan vildi hann firra menn vandræðum heldur en æsa þá fram að óhöppunum. Og svo mikinn hug sem hann lagði á jafnan að sætta menn þá líst mér," segir hann, "sem gjarna mundi hann vilja að hér gerðust eigi vandræði af á milli manna þessu máli er hann tekur svo mjög sjálfan. Nú mun eg eigi hitta mér betra ráð en líkja sem mest eftir því sem eg vissi að hann gerði og mun eg eigi níta sættunum."

Kemur nú þar að menn vilja að Eyjólfur og Hávarður geri um málin eftir því sem Áskell hafði beitt fyrir öndverðu og er þeir höfðu sáttir á orðið á málið þá biðja þeir Þorstein koma til sín og aðra menn þá sem þar voru við staddir. Var sú sættargerð þeirra Hávarðs og Eyjólfs að vígin Áskels og Steingríms skyldu á standast en hinir þrír förunautar Steingríms er þar létust skulu koma fyrir tilferðina þeirra Steingríms en goldin aftur Eyin mikla fyrir víg Helga úr Árskógi. Og voru nú veittar tryggðir í milli manna nema fyrir Skútu. Hann var utanlands. Þórir skyldi fara utan og vera aldrei í Norðlendinga fjórðungi meðan Fjörleifarsynir væru á lífi. Eyjólfur seldi nú gripina í hendur Þorsteini og Hávarði, þá er Áskell hafði honum selda eftir hrútshöfuðshöggið. Og nú skiljast menn vel sáttir og undu nú vel þessum málalyktum.

En frá Vémundi kögur er það að segja að hann varð sóttdauður en þótti þó vera hinn mesti garpur meðan hann lifði.


17. kafli

Það er nú fyrst að segja að Þorsteinn býr í Hvammi eftir Áskel föður sinn og var hann vinsæll maður. Hann seldi af hendi goðorð þeirra Skútu.

Svo er sagt að annað sumar eftir kom Skúta til Íslands og var hann með Þorsteini bróður sínum um veturinn og var löngum hljóður á þeim vetri og þykir sér nærri höggvið hafa verið og þóttist engar bætur haft hafa fyrir víg föður síns.

Og um vorið eftir skiptu þeir bræður fé sínu og föðurarfi. Skal Skúta hafa lausafé úr skiptinu og hann var til þess ætlaður að hefna föður þeirra ef hann mætti því að hann var í engum tryggðum við menn um þessa sök. En Þorsteinn skal hafa landið í Hvammi og halda búinu. Nú kaupir Skúta sér land að Mývatni og bjó þar sem nú heitir á Skútustöðum, gerðist brátt mikilhæfur maður í mörgu lagi, sem enn mun heyra mega síðar í sögunni.

Þorbergur hét maður og var kallaður höggvinkinni og ekki vinsæll við alþýðu manna. Hann átti tvo sonu. Hét annar Þorsteinn en annar Ölvir hinn spaki.

Geiri austmaður bjó á Geirastöðum fyrir norðan Mývatn. Hann átti þrjá sonu er enn eru nokkuð við þessa sögu hafðir ... hét sonur hans, annar Glúmur, hinn þriðji Þorkell. Þeir voru allir miklir menn fyrir sér.

Arnór hét maður og var Þorgrímsson og bjó í Reykjahlíð fyrir norðan Mývatn. Hans synir voru þeir Þorfinnur og Böðvar. Arnór var mikill kappi og góður bóndi og jafnan er frá honum vel sagt þar sem hann kemur við sögur og málaferli manna.

Hallur hét maður er bjó að Sandfelli við Mývatn, skammt frá Geirastöðum. Hann átti dóttur er Þorkatla hét.


18. kafli

Eitthvert sumar kemur skip af hafi í Húsavík, þó að svo bæri oftar að. Það skip áttu bræður þrír. Vagn hét einn og var kallaður spjót, annar Nafar og var kallaður sax, Skefill hinn þriðji og var kallaður sverð. Þeir voru miklir menn fyrir sér. Svo er sagt að hver þeirra bræðra átti það vopn sem við var kenndur. Þeim þóttu þau í besta lagi sinnar eigu og létu sér aldrei hendi firr ganga og það segja menn að öll þessi vopn voru forkunnar góð. Þeir voru kunningjar Glúms Geirasonar og ætluðu þangað til vistar til þeirra feðga, Geira og Glúms, því að Glúmur hafði boðið þeim þangað til vistar. Nú áttu þeir annríkt mjög og varð eigi tóm að sækja Austmennina sem ætlað hafði verið og þótti þeim feðgum sem það mundi engu skipta þótt þeir kæmu nokkurum nóttum síðar en þeir höfðu um rætt í fyrstu.

Svo er sagt að varð þess var Þorbergur að Mývatni eða enn heldur Arnarvatni og fer hann þegar til skips og bauð Austmönnum til sín. En þeir segja að þeir muni fara til Glúms.

"Já," segir Þorbergur, "er ekki það sem mig grunar að nú mun vera liðinn sá tími er til var tekinn að eftir þeim skyldi hafa farið verið?"

Þeir sögðu að svo var, "kann vera," segja þeir, "að Glúmi sé annsamt og eigi hann eigi tóm að koma eftir okkur en hann mun þykjast vita að svívirðingarlaust mun vera.

"En hitt þætti mér líkara," sagði Þorbergur, "að honum mundi það í hug koma að þeir væru lítt til færir að taka við frjálsum mönnum þeim er nokkuru skipti hversu við var gert. Því að svo eru þeir feðgar fátækir að fémunum," segir Þorbergur, "að nær er úti annar biti þá er annar er etinn."

Nú hlýða þeir nokkuð á þetta sem hann sagði og þar til taldi hann um fyrir þeim að þeir játta að fara þangað til vistar til Þorbergs. Fer hann nú heim og lætur vel yfir sinni ferð.

Nú er svo sagt að Glúmur kemur til skips annan dag og sagðist þá vera kominn eftir þeim bræðrum og vildi þá heim flytja til sín. En þeir sögðu að Þorbergur hafði þar komið um daginn áður og sögðust nú vera ráðnir að fara þangað til vistar og kváðust nú eigi vildu því bregða.

Þá svarar Glúmur er þeir höfðu sagt honum umtalið Þorbergs og svo það hversu hann hafði á tekið þeim feðgum, þá segir Glúmur: "Engi maður mun það kunna að segja að honum Þorbergi verði féskorturinn. En fleiri munu það segja að hann láti færrum mönnum verða gagn að sínu fé."

Og þótti honum illa er þeir skyldu vera með svo vondum manni sem Þorbergur var.

Nú lætur Þorbergur brátt koma eftir kaupmönnum og lætur flytja þá heim til sín og var við þá forkunnar vel.

Svo var sagt að Þorbergur sendi Ótrygg heimamann sinn að færa út í eyjar fé það er slátra skyldi til jóla og svo naut og kapla. Og áður en hann færi heiman bað hann Ótrygg færa eina merina í hlöðu Glúms á náttarþeli og haga svo til að engi yrði var við. Nú fór hann sem fyrir var mælt og vissi þó engi hvað þessu skyldi, kemur heim síðan og segir honum til svo búins og nú þykir Þorbergi hann hafa vel gert.

Um morguninn kemur Þorbergur snemma inn og vekur menn upp og segir að honum var horfið merhryssi gott og vill að menn fari að leita "og mun svo eftir að sjá," segir hann, "að af mannavöldum mun vera og get eg að stolið sé hrossinu."

Þá svara sumir að enga menn þóttust sjá líklega til þess.

"Eigi má það vita," segir hann, "þar sem hér sitja þrotsmenn samtýnis hjá oss og eru þeir feðgar líklegastir til að valda þessu, Geiri og synir hans, því að þeir eru áræðismiklir er þeir þurfa nokkurs við. Og munum vér þangað fara að rannsaka."

Svo er sagt að Þorkell Geirason var nú ekki hér við þessi mál því að hann var útlendis.

Nú biður Þorbergur Austmennina verða í ferð með þeim að rannsaka, kvað þá nú sjá mega að því var vel ráðið er þeir höfðu heldur haft þessa vistina en með Glúmi. En Austmenn kváðu það vera verra manns bragð en Glúms að stela frá mönnum og sögðust eigi mundu þangað fara til að rannsaka.

Er svo sagt að Þorbergur fer nú og menn með honum. Fer hann nú og heldur djarflega er hann þóttist vita hversu takast mundi ferðin og koma nú til Glúms og beiða hann rannsóknar og þeir feðgar láta uppi rannsóknina. Leitar hann nú vandlega og hittir ekki þar til er hann kemur að einhverri hlöðu og þar í hlöðunni fann hann merina og kvað þá vera verri menn en þeir létu yfir eða margir aðrir er þeir skyldu vera sannreyndir að þjófskap. Þá svaraði Glúmur og kvað sér á þessu engan kunnleika vera og kvað hann vera sjálfan líklegastan til að hafa þetta bragð gert en snúa nú síðan á aðra menn og kvað mönnum það miklu kunnara að hann var vondur maður. Öllum þótti þetta illa vera orðið því að þeir voru vinsælir menn frændur. Nú spurði Þorbergur ef Glúmur vildi nokkuru bæta fyrir þetta og félli þar málið niður sem nú var komið en Glúmur kvað það fjarri fara að hann mundi hér neinu fyrir bæta er hann mátti engan grun vita sér á hendur. Þorbergur kvað þó hér mundu verða nokkuð fyrir að koma þó að honum væri leiðint gert um bótina. Glúmur kvaðst því betur þykja er meira kæmi fyrir ef sá gyldi er maklegastur væri. Og nú skilja þeir ræðuna að sinni og fer Þorbergur nú heim og þykist vel hafa leikið.

Spurðist þetta nú víða og þótti mönnum þetta illa orðið því að fleiri menn unnu góðs hlutar Glúmi en Þorbergi og vænta enn að hér muni önnur raun á verða um þetta mál en nú var fyrst orðrætt af alþýðu. Nú sitja hvorirtveggja í kyrrðum um veturinn.

Svo er sagt að Þorbergur hittir Þorgeir goða frá Ljósavatni því að vinátta var milli þeirra og spyr hann ráða um þetta mál, hversu með skal fara, segir að hann þykist þar eiga mikið traust um ráðagerðir sínar þar sem hann var. Þorgeir bauð að búa til málið á hönd Glúmi en Þorbergur kvað þá þann upp kominn sem honum var mest að skapi, fer nú heim síðan.

Og er voraði bjóst hann að fara stefnuför til Glúms og biður nú menn til fararinnar með sér. Hann ræðir um við veturtaksmenn sína ef þeir vilja verða í ferð með honum en þeir voru þó tregir til og fóru þó um síðir við fortölur Þorbergs. Býst hann nú heiman og voru þeir átján saman. Þeir höfðu kalt veður um daginn. Fara þeir nú þar til er kom á Geirastaði. Þeir Glúmur sátu við eld þá er þeim var sagt að mennirnir fóru að bænum. Nú hlaupa þeir til klæða sinna og vopnast og ganga síðan í dyr út og nú senda þeir eftir mönnum að veita þeim lið. Svo er sagt að þeir Glúmur voru átta saman þar fyrir þá er Þorbergur kom.

Nú koma þeir Þorbergur að bænum og ríða þegar í túnið og stefnir Þorbergur þegar Glúmi um þjófskap. Svo er sagt að þá er hóf stefnuna hljóp hann Geiri úr dyrunum út og að honum Þorbergi og hjó til hans en Þorsteinn son Þorbergs brá við skildi. Og þá hljóp Glúmur að og hjó til Þorsteins og veitti honum þegar bana. Nú hlaupa út allir þeirra menn og til bardagans og nú veitir Þorbergur Geira sár á fæti. Þá kom að Hallur frá Sandfelli við tíunda mann og fór þegar til með Glúmi og þeir tíu sem með honum voru.

Og nú var skammt að bíða áður en Skúta kemur þar til með tíunda mann og nú ræðir hann til sinna manna að þeir skulu ganga á hæð nokkura er þar var hjá þeim og vildi hann hvorigum veita og kvað þeim betur ganga sem skyldi, segir og ef sá yrði brott ger af vígunum að þá mundi reynast brátt hver ríkastur væri að Mývatni. Þá kom Þorfinnur Arnórsson að ríðandi og fer þegar til bardagans með Glúmi. Og svo er sagt að Þorfinnur hjó framan í andlit Þorbergi og var af því hann kallaður höggvinkinni.

Í þessu bili kemur að Arnór úr Reykjahlíð með tólfta mann og gengur hann þegar í milli manna og skildi þá. Þar féllu allir Austmennirnir en sinn húskarl var fallinn af hvorum en Ótryggur, er áður var frá sagt, var særður til ólífis og græddi Glúmur hann því að hann sagði hversu farið hafði um merina þá er Þorbergur bauð honum að leiða hana í hlöðu Glúms og varð nú bert illmælið af Þorbergs hendi við Glúm.

Er nú leitað um sættir milli þeirra og kom svo að þeir skulu gera um málin, Þorgeir goði frá Ljósavatni og Arnór úr Reykjahlíð. Sú var gerð þeirra að á gengust vígin húskarlanna en áverki Ótryggs er hann var særður til ólífis og enn aðrir tveir menn líflátnir af liði Þorbergs skulu koma fyrir áverka Geira. En sá áverki er Þorbergur hafði fengið skal vera fyrir tilförina og ill málaefni er hann hafði með svikum að farið. Þeir voru og allir drepnir Austmennirnir er með Þorbergi voru og lágu þeirra víg kyrr svo að engi þeirra var fé bættur. Þeir voru brott gervir þaðan úr sveitinni, Geiri og Glúmur feðgarnir, og er svo sagt að Geiri bjó í Króksfirði á Geirastöðum.

Svo er sagt að Glúmur fékk Ingunnar Þórólfsdóttur Véleifssonar. Þeirra son var Þórður. Og þótti Glúmur vera mikill maður fyrir sér sem enn má nokkuð marka í þessum frásögnum.


19. kafli

Það er sagt að Þorkell Geirason kom út um sumarið í Húsavík vetri síðar en þessir atburðir voru er nú var frá sagt og fór hann til vistar til Ófeigs í Skörð. Ófeigur var þá átján vetra gamall og það segja menn að þeir Þorkell væru jafngamlir.

Maður er nefndur Þorsteinn og var kallaður varastafur. Hann bjó í Laxárdal. Hann var hólmgöngumaður mikill og illur viðureignar. Það er sagt að hann gerir heiman ferð sína einhverju sinni þess erindis að biðja Þorkötlu dóttur Halls frá Sandfelli en Hallur sagði að hann mundi eigi gifta dóttur sína svo vondum manni sem hann var og kvað það mörgum manni kunnigt vera að varla fékkst meiri ójafnaðarmaður en Þorsteinn var. Nú bauð Þorsteinn Halli hólmgöngu, sagði þá reyna mundu hvor ráða skal kosti konunnar. En Hallur nennir varla að ganga undan því en þóttist þó vera vanfær að ganga í mót þvílíkum berserk sem Þorsteinn var. Og nú finnast þeir Hallur og Þorkell Geirason og sagði Hallur Þorkatli hvern vanda honum hefir til handa borið og svo að ráðin var hólmgangan með þeim Þorsteini varastaf.

Þorkell kvað Hall nú missa Glúms bróður síns og sagði hann þá eigi mundu þurfa að ganga á hólm við Þorstein "ef hann væri hér, svo vingott sem með ykkur var."

Nú bauð Þorkell að hann skyldi ganga á hólm fyrir hönd Halls en hann kvaðst það gjarna vilja þiggja af honum.

Hallur lét nú taka sverðið Skefilsnaut og er Þorkell skyldi á hólm ganga fékk Hallur honum sverðið í hendur og kvað það bíta mundu. Það er nú að segja að þeir Ófeigur og Þorkell söfnuðu að sér mönnum og bjuggust nú til hólmsins og voru þeir saman fjórir tigir manna og hélt Ófeigur skildi fyrir Þorkatli. Þorsteinn hafði og fjóra tigu manna.

Þorsteinn hét maður og var kallaður kvígur. Hann var vanur að halda skildi fyrir nafna sínum og svo var þá.

Ófeigur hélt nú skildi fyrir Þorkatli og ganga þeir nú á hólminn. Er svo sagt frá viðskiptum þeirra að Þorkell hjó Þorstein banahögg.

Og þegar er Þorsteinn var fallinn þá mælti Ófeigur til Þorsteins kvígs að nú vill hann að þeir gangi á hólminn og reyni með sér: "Höfum við nú áður haft skemmtan af þeirra bardaga. Skulum við nú skemmta öðrum mönnum nokkura stund."

En Þorsteinn vill fyrir engan mun í móti mæla er honum var svo á hólm skorað. Og nú ganga þeir á hólminn og lauk því máli svo að Þorsteinn fellur fyrir Ófeigi.

Svo er sagt að Þorkell vill nú láta bera aftur sverðið í kumlið þar sem það var tekið til handa honum en Hallur kvað það fjarri skulu fara að engi maður skuli njóta svo góðs gripar og segir að eigi skal aftur bera sverðið. En Þorkell réð að sverðið var þangað borið. Fara menn nú heim af hólmstefnunni og þótti mönnum það vera landhreinsan að þeir nafnar voru drepnir.

Svo er sagt að um nóttina eftir hina næstu bar Þorkatli Skefil í drauma og kvað Þorkel munu vera góðan dreng og þakkaði honum hve hann hafði drengilega dugað og svo sverðið haft "en ef þú hefðir eigi viljað að aftur hefði verið borið sverðið þá mundir þú hafa goldið þess í nokkuru. En nú mun fara með okkur annan veg því að nú skal hvorgi illa hafa svo vel sem þér hefir farið. Og vil eg gefa þér sverðið því að eg þarf það nú ekki en þú ert svo vaskur maður að eg ann þér allvel að njóta."

Og nú vaknar Þorkell og var þar komið sverðið og þótti honum það allgóður gripur og bar það lengi ævi. Þorkell setti bú saman og bjó hann þar í hinum ytrum Skörðum og þótti hinn besti bóndi.

Spjótið Vagnsnaut átti síðan Þorvarður Þorgeirsson. Saxið var og upp tekið úr kumli Nafars og þóttu öll vopnin vera forkunnar góð sem jafnan bar raun á ef þau voru til nokkurs höfð. Enn eru hér nokkur merki til sögð.

Svo er sagt að skip kom út við Knarrareyri eitthvert sumar. Og Skúta fer til skipsins og vó hann þann fyrstan mann í hefnd föður síns. Sá maður hafði verið í ferð með Steingrími þá er þeir Áskell börðust og Steingrímur, sem sagt er fyrr í Reykdæla sögunni frá viðskiptum þeirra. Annan mann drap hann litlu síðar er þar hafði verið á þeim fundi. Eftirmál var veitt um þessa menn báða og bætti Þorsteinn þá, bróðir Skútu, með sínu fé sem rætt var í máldögum með þeim bræðrum. En ekki kunnum vér með sannindum að segja atburð um líflát þessara manna en það vitum vér að þetta var hin fyrsta hefnd Skútu eftir Áskel goða föður hans.


20. kafli

Þórir son Ketils flatnefs, er fyrr var frá sagt að vó Áskel goða, hann varð sekur eftir víg Hróars Tungugoða sunnan um land er hann hafði að verið með þeim Móðólfssonum í þeirri sveit er heitir Skógahverfi, er þeir börðust þar sem nú heitir Hróarstunga. Það er í milli Foss og Hörgshlíðar og milli lækja tveggja er þar falla ofan af heiðinni.

Svo er sagt að Þórir fer á fund Eyjólfs Valgerðarsonar að vita um héraðsvist norður þar því að hann var nokkuð skyldur honum og þó lítt. Nú biður hann Eyjólf að staðfestast þar í héraðinu er hann kom út. Eyjólfur bað lýsa sýknu hans á Hegranessleið og taldi hann vera sýknan ef engi talaði á móti og svo á Vöðlaleið. Svo var gert og fékkst þar hvortveggja sýknan þegar er beiðst var. Síðan skal biðja á Ljósvetningaleið. Og þótti Eyjólfi það líkast að þar mundi í móti mælt sýknu hans en taldi hann vera frjálsan ef þar fengist sýknuleyfið. Þar kom Eyjólfur til leiðarinnar og svo Þorgeir frá Ljósavatni og sat Þórir í milli þeirra höfðingjanna.

Svo er sagt að Skúta kemur nú að máli við Þorstein bróður sinn og spyr hvort hann vill heldur vinna á Þóri eða setja ráðin til og sagði þá eiga honum mikla harma að gjalda er hann hafði drepið föður þeirra: "Skaltu fyrir því kjósa um," sagði Skúta, "að eg mun gera það sem þú vilt síður því að eigi mun auðvelt þykja að svo búnu að komast yfir hann. Og eigi ber okkur að minni nauðsyn til, þótt torvelt sé að ná honum, að reka okkarra harma við hann."

En Þorsteinn þóttist til hvorskis vera vel fær. Og nú þóttist Skúta sjá að þetta mundi verða meir til hans að taka og setti þau ráð til að Þorsteinn skal bjóða Þorgeiri sætt fyrir sekt þess manns er hann hafði fyrir ráðið og lúka þegar fyrir sakar fjölskyldar þeirrar er hann átti að annast. Og nú verður svo sem hann setti ráð til að Þorsteinn bauð fyrir vottum sættina og Þorgeir kvaðst vilja að Þorsteinn gengi til handsalanna og með fá menn. Skúta var með Þorsteini og duldist hann. Og nú þegar er Skúta mátti að komast þá hjó hann þegar til Þóris með öxinni Flugu og veitti honum banasár.

Þá mælti Skúta: "Veiddi Fluga Flatnefjunginn þótt hann sæti á millum tveggja goðanna."

Eigi máttu nú lúkast handsölin fyrir þröng þeirri er þar var. Og svo er sagt að Skúta komst í brott úr þrönginni og á bak hesti sínum og hleypti þegar í brott í skóginn og var bæði riðið og runnið eftir honum og varð honum þó ekki náð og komst hann svo undan. Fara menn nú heimleiðis og undu þeir Eyjólfur illa við þenna atburð og Þorgeir því að þeir vildu hafa haldið hendi yfir manninum.

Annan dag eftir þá er smalamaður Þorgeirs goða hafði rekið fé sitt þá hittir hann mann þann er finna vildi Þorgeir og kvaðst vera sekur og vildi biðja hann dugnaðar og viðtöku en þorði þó eigi að láta sjá sig og biður hann að koma þangað í skóginn en hann kveðst mundu þar bíða og bað hann þó aðra menn ekki láta vara verða við þetta en Þorgeir. Smalamaður fer nú sem honum var boðið og segir Þorgeiri en hann grunaði hverju gegna mundi og fór nú til skógar með tíunda mann og lætur hann eftir mennina við skóginn en þeir fóru tveir einir í skóginn, Þorgeir og smalamaður hans, og fundu hvergi hinn seka manninn og fer Þorgeir nú heim aftur við svo búið.


21. kafli

Nú er þar til að taka að Grímur heitir maður er Þórður gellir hafði sektan um áverka eitthvert sumar á þingi. Hann kemur á fund Þorgeirs einhverju sinni og biður hann taka við sér og kvaðst mjög vera þurfandi dugnaðar en kvaðst það hafa frétt að Þorgeir væri góður drengur og sagðist því fyrst hafa á hans fund sótt að hann vænti af honum nokkurra hjálpráða en Þorgeir kvaðst mundu veita honum ásjá ef hann vægi Skútu.

Nú kaupa þeir þessu saman. Síðan sendi Þorgeir Grím til Þorbergs höggvinkinna að hann réði honum ráð til að drepa Skútu. Sú var ráðagerð að Grímur skal fara á fund Skútu og biðja hann dugnaðar og segja sér alla af hendi vera og að engu gagni vilja koma og biðja hann þarvistar og ásjá og bað hann vera færivandan.

Nú fer hann sem fyrir hann var lagt og bar upp erindi sín fyrir Skútu og bað hann þarvistar og ásjá og kveðst mjög þurftigur vera. Og svo kemur að Skúta tekur við honum og hét að hann mundi þar vera um veturinn. Og þar var hann þann vetur og veitti Skúta honum vel vistina enda kunni Grímur vel að þiggja og leitaði hann aldrei til að vinna á Skútu.

Um vorið er það sagt að þeir fara til netja báðir saman einhvern dag, Skúta og Grímur, er þar voru í vatninu. Og er þeir hafa farið um hríð þá losnar skóþvengur Skútu og dvaldist hann að og batt þvenginn og þá veitti Grímur honum tilræði og hjó til Skútu. En Skúta var þann veg búinn að hann var í kufli og hafði brynju undir kuflinum. Festi öxi Gríms í kuflinum en Skútu sakaði ekki og nú greip hann Grím höndum og spurði hví hann var svo hverflyndur og ótrúr. En hann segir þegar að Þorgeir hafði hann þangað sent að drepa Skútu og nú bað hann sér griða en Skúta hét honum engu um það en vita þóttist hann að þetta voru ráð Þorbergs.

Svo er sagt að Skúta færði Grím út í einn hólm í Mývatni og alnöktan. Síðan batt hann hann þar í hólminum við einn staur og kvað hann þar mundu búa verða um hríð nema Þorgeir byrgi honum. Nú fer Skúta heim og sendi Þorgeiri orð um þetta. En Þorgeir spurði ef þeir vildu nokkuð við hjálpa manninum en þeir kváðust aldrei hirða hvar hann var og kváðust eigi mundu duga honum og lét hann þar líf sitt í hólminum og angraði mest sultur og mýbit er hann var í engum klæðum.


22. kafli

Maður hét Ólafur og annar Þorgautur. Þeir voru sekir menn og þó var þeim margt vel gefið. Þeir voru menn vænir og kurteisir og góðir fardrengir.

Svo er sagt að þeir koma einhverju sinni á fund Þorgeirs goða og báðu hann ásjá og var kaup þeirra með sama móti og þeirra Gríms hafði verið að hann mun veita þeim ásjá ef þeir dræpu Skútu. Og nú sendir hann þá til Þorbergs höggvinkinna vinar síns með þeim erindum sem fyrr að hann gæfi enn ráð til að ná Skútu. Og nú koma þeir á hans fund og sögðu honum sín erindi, þau sem Þorgeir hafði boðið til hans. Gott þótti Þorbergi að Þorgeir lét eigi fyrir vinnast um þetta mál, kveðst að vísu enn skulu til gefa nokkur ráð.

Nú var önnur ráðagerð hans en hið fyrra sinn. Þeir hafa nú varning norrænan með sér frá Þorbergs og skulu segjast hafa komið út á Eyrum suður og teljast vera frændur þeirra Skefils og segja að því fóru þeir norður þangað að þeir vilja bæði heimta bætur fyrir vígin og svo fé það sem þeir höfðu átt bræður og Þorbergur vildi eigi láta af takast: "Skorið þá til vistar við Skútu og ásjá um mál ykkart, farið fyrst suður um vatnið og þaðan að húsi."

Og nú fara þeir svo með öllu sem þeim var fyrir sagt, koma nú á fund Skútu og bera upp erindi sín og tók hann við þeim sem þeir beiddu. Svo var sagt að þeir voru þar og var Skúta vel til þeirra og hverjum manni líkar vel við þá.

Og um jól um veturinn eða litlu fyrir jólin fellur þar voðmeiður og kemur einhver kona að Skútu og bað hann að gera og hann fer til þegar og þeir með honum veturtaksmenn hans. Tekur nú Skúta og styður herðum sínum undir mitt tréið en þeir Ólafur og Þorgautur setja nú kvíslartré undir endana. Þá hjó Ólafur til Skútu en Skúta hljóp nú undan trénu og féll það niður á milli þeirra og kom eigi á hann höggið. Hann var þá vopnlaus því að Fluga stóð við vegg. Þá hljóp Þorgautur að honum með reidda öxina og vildi þegar höggva til hans og nú þreif hann upp eitt tré er lá hjá honum og laust við öxinni með víflinni er konur voru vanar að hafa til þvottar og svo laust hann hart við að öxin hraut brott úr hendi honum Þorgauti. Og þá er svo sagt að Skúta greip þegar öxina og hjó þegar Ólaf banahögg með þeirri öxi. En frá lífláti Þorgauts segja menn misjafnt. Sumir segja að Skúta léti hann koma í Hrafnasker og sendi Þorbergi orð að hann veitti honum nokkura björg ef hann vildi en sumir segja að hann dræpi hann þegar. Og hvort sem það var heldur þá hefir hann bana af fengið. Nú eignast Skúta fé allt það sem þeir höfðu þangað haft.

Nú verða þeir vísir, Þorgeir og Þorbergur, og þótti þeim miklu við auka sína svívirðing er þeir fengu því heldur sem þeir lögðu meiri stund á að ná Skútu og una nú stórilla sínum hlut en létu þar fé mikið. Og þótti þeim það þó miklu verra er Skúta skal njóta mega fjárins en kunna þó eigi tilkall að veita og þóttust þá verða berir í svikum við hann ef þeir kölluðu til fjárins og varð nú af því þar niður að falla þessi mál sem þá var komið.


23. kafli

Þormóður hét maður er bjó í Laxárdal á Mánahjalla. Hann var kvongaður maður og hét kona hans Þorbjörg. Hún var föðursystir Víga-Skútu. Þau Þormóður áttu son og var nefndur Eyjólfur. Hann var vænlegur maður og óx þar upp heima með föður sínum og móður.

Maður hét Þorsteinn. Hann bjó á þeim bæ er á Mýri heitir. Hann var og kvongaður maður og átti þá konu er Þorgerður er nefnd. Hún var systir Víga-Glúms að Þverá úr Eyjafirði. Þau áttu þann son er Bjarni hét. Hann var mikill maður þegar á unga aldri og rammur að afli. Þau Bjarni voru því vön jafnan um haustum að fara til Þverár að heimboði. Og nú gera þau enn svo á einhverju hausti. Tekur Glúmur við þeim forkunnar vel og voru þar þá stund sem þeim líkaði. En er þau búast heim að fara þá gaf Glúmur Bjarna frænda sínum hest rauðan, sex vetra gamlan og kveðst mundu fá honum annan hest ef nokkurir væru hvassari en sjá.

Og nú fara þau heim frá heimboðinu og setur Bjarni þegar hestinn til heys og var allvel varðveittur. Og um sumarið eftir var honum mikil forvitni hve bítast vildi hesturinn. Ræddi hann um að hann vill etja við hest er átti Þorkell Geirason úr Skörðum og var á kveðið að þeir skulu etja að miðju sumri hestunum á Mánahjalla.

En feðgar áttu grán hest föxóttan og seldu mönnum jafnan hross undan til sláturs en áttu ekki skap til að etja hestinum. Svo er sagt að saman koma hestarnir einhverju sinni, þeir Þormóðs og Bjarna, og bitust svo að í blóði var hvortveggja.

Húskarl Bjarna kemur nú á fund hans og segir honum frá er hafði séð báða hestana albitna og kvað hvorntveggja hestinn vera alrauðan. Og þá sendi Bjarni orð Þorkatli að eigi mundu þeir etja hestunum, segir og hvað til bar að hans hestur var nú ekki ötufær. Það ætlaði Bjarni að þeir Eyjólfur mundu hafa att hestunum og Þormóður faðir hans og því mundu þeir þann veg vera að af mannavöldum mundi orðið hafa og því bauð hann þeim at að átta vikum sumars. En Þormóður bað Eyjólf son sinn fyrir ráða hvort etja skal eða eigi en hann vill etja láta.

Nú voru hestarnir fram leiddir og voru góð vígin þar til er gengnar voru ellefu lotur. Þá tekur hestur Eyjólfs undir kinnarkjálka á hesti Bjarna og hélt þar lengi þar til að Bjarni fór til og laust hestinn af takinu. En Eyjólfur snerist nú við og laust hestinn og hraut stafurinn hart af hestinum og kom á öxl Bjarna og nú voru þegar skildir hestarnir.

Gengur Eyjólfur að Bjarna og mælti að þetta þykir honum verr tekist hafa en hann vildi: "Skal eg," segir hann, "raun til gera hvort mér var þetta voðaverk eða eigi. Nú vil eg," segir hann, "gefa þér sex tigu geldinga til þess að þú kunnir mig eigi um þetta og máttu þá skilja að eg mundi eigi vilja að svo hefði að borist."

Bjarni kveðst þessu litlu síður valdið hafa. Þykist hann nú vita að þeir muni eigi att hafa hestunum. Fara menn nú síðan heimleiðis.

Og um haustið að réttum drógu þeir Eyjólfur út sex tigu geldings. Nú spyr Þormóður hvað sauðir skulu þeir sem út voru dregnir en Eyjólfur kvaðst hafa gefið Bjarna sauðina.

Þá segir Þormóður: "Bæði ætla eg," segir hann, "að höggið var mikið enda er miklu launað."

Og þegar eftir er hann hafði þetta mælt þá snýr hann Bjarni að honum og hjó hann banahögg. Og nú vill hann eigi þiggja geldingana. Eyjólfur var nú fámennur svo að hann mátti ekki ná Bjarna. Og nú segir hann móður sinni að hann mun finna Þorstein frænda sinn að um þetta mál og svo Einar Konálsson og beiða þá ásjá um með sér. En Þorbjörgu móður hans þótti mest traust að Skútu og kvað honum verr mundu þykja ef aðrir væru fyrr að sóttir en hann.

Nú gerir hann svo að hann hittir Skútu og segir honum sín erindi og hann tekur við honum forkunnar vel og hét þegar sinni ásjá um þetta mál. Tók hann nú við Eyjólfi.

Nú fer Bjarni á fund Glúms að Þverá, frænda síns, og segir honum vígið. Glúmur segir að hann vill að Bjarni sé þar með honum um veturinn og til þess er lyki málum þessum og þótti vera gagnsakir í málinu. Bjarni sagði að honum þótti lítilmannlegt að flýja bú sín og fór hann af því heim en þó vildi Glúmur að hann hefði eigi heim farið á því méli.

Eyjólfur vekur nú til við Skútu frænda sinn þrjá tíma um tilbúnað málsins og tók hann vel hið fyrsta sinn og kvað enn vera gott tóm til þess. En í annað sinn kvað hann munu finnast gagnsakir í málinu. Og hið þriðja sinn þá er Eyjólfur hafði þetta mál upp við Skútu þá kvaðst Skúta vilja hefnd láta fyrir koma. Og þá beiddist Eyjólfur að taka við málinu, en hann hafði áður Skútu í hendur fengið, en hann varnaði honum þess. Og nú verða þeir frændur andorða um þetta og við það skilja þeir að sinn veg þótti hvorum.

En bráðlega eftir tal þeirra fer Eyjólfur heiman einn saman og þar til er hann kom á Mýri og nemur þar staðar undir garði einhverjum hávum. Og nú sér hann hvar Bjarni fór einn saman til sauðahúss og skal rýja sauði fyrr en aðrir menn. Nú setur hann hurð fyrir húsið. Eyjólfur gengur nú þangað og þokar hann hurðinni frá dyrunum. Þá tók Bjarni til hendinni og vill láta fyrir dyrnar. Það sér Eyjólfur og er svo sagt að hann höggur af Bjarna höndina, er hann rétti út hjá hurðinni, fyrir framan úlfliðinn. Bjarni hljóp nú út með öxi og bað Eyjólf bíða sín og svo gerði hann. Og þegar er Bjarni kom eftir þá hjó hann til Eyjólfs með annarri hendi og þegar af honum skjöldinn og í jörðina niður síðan. Þá hjó Eyjólfur milli herða Bjarna og var það banahögg.

Nú fer Eyjólfur á fund móður sinnar og Skútu og sagði þeim til þessa. Svo er sagt að nú líkar Skútu forkunnar vel og þykir nú gott hlut í að eiga með honum er hann vildi nokkuð að manna vera sjálfur og kallar hans ferð góða vera.


24. kafli

Svo er sagt að Þorgerður móðir Bjarna fer þegar á fund Glúms bróður síns og segir honum þessi tíðindi og svo selur hún honum vígsmálið og biður hann taka við eftirmálinu. Hann gerir svo. Glúmur harmaði þetta mjög og þótti vera ill tíðindi, fer nú á fund Eyjólfs Valgerðarsonar og segir honum atburðinn. Eyjólfur vill að þeir fari allir í málatilbúnaðinn, kvað vera nauðsyn að slík mál lægju eigi kyrr.

Svo er sagt að Glúmur fer nú fyrir í njósn með tíunda mann til Fnjóskadals og þaðan til Gnúpsskarðs, svo í Bárðardal og átu dagverð þar í dalinum að þess manns er Áslákur hét. Þar var stafkarl einn á búi og þótti förunautum Glúms gaman að glettast við karl. Glúmur bað þá ekki glettast við hann meir en hann vildi, kvað það vera lítilmannlegt að erta gamalmenni og nú láta þeir hann lausan. En karl fór þegar á brott er hann mátti í sjálfræði vera og þar til er hann kom á þann bæ er heitir í Ísólfstungu en þar bjó sá maður er Hávarður hét og móðir hans. Nú sagði hann Hávarði að allólíkur var hann þó öðrum mönnum, Glúmur, og kvað hann engan einn hlut til þess hafa að honum væri betur farið en öðrum mönnum.

"Mikið tekur þú af," sagði Hávarður, "eða hvað er nú svo nýtt um þetta?"

Nú sagði karl honum hvaðan hann var að kominn og hve farið hafði með förunautum hans og honum "áður Glúmur átti hlut í með oss" og lofaði hann Glúm í hverju orði sem hann kunni.

Og nú bað Hávarður móður sína gefa karli mat en hann bjóst heiman og fór á fund Skútu vinar síns og sagði honum um ferðir Glúms það sem hann vissi til.

"Vel þætti mér það," sagði Skúta, "að Glúmur kæmi hingað til vor og vildi eg gjarna að hann fengi erindi ef hann kemur hér."

Nú ríður Glúmur yfir fjallið og hans förunautar.

Svo er sagt að maður hét Gautur. Hann bjó þar sem heitir í Gautlöndum. Hann átti góðan hund er Flóki hét. Og það sama kveld gó Flóki einart á fjallið upp og þá þóttist Gautur vita að manna mundi von af fjallinu ofan og nú sendi hann þegar hjón sín öll til Skútu ef hann þyrfti nokkuð manna við.

Og nú er þeir Glúmur koma þar í nánd heyrir hann mannamál og skilur að nokkur njósn mun komin vera um þeirra ferð en vildi eigi láta teppa sig þar svo að hann mætti eigi þegar aftur snúa að hann vildi og snúa þeir nú aftur á leið þar til er þeir finna Eyjólf og förunauta hans á Hálsi.

Skúta segir nú að honum þótti Gautur minna hafa veitt sér í njósninni en hann mundi vilja þá er seinkaðist koman Glúms. Þóttist hann nú vita að Glúmur mun hafa orðið var við mannafararnar og snúið þá aftur er hann skildi njósnina komna vera fyrir þeim.

Svo er sagt að Skúta vill nú verja þeim vaðið á fljótinu og hafði hann nær hundraði manna áður en þeir koma til móts við hann Einar og Þorsteinn bróðir hans eftir orðsending Skútu. Nú koma þeir Eyjólfur og Glúmur til vaðsins með tvö hundruð manna. Og því nær var sagt að þeir Skúta hefðu og, því að Arnór úr Reykjahlíð veitti honum.

Það er sagt að þetta var við Eyjarvað og voru nú sínum megin hvor með flokkana. Eyjólfur talar til Glúms að rétt var að búa þar mál til er þeir mættu framast komast svo að þeim væri óhætt. Og nú íhugar Glúmur málið og fékk hann nú það ráð að þeir skulu heyjast við Skútu, þeir Eyjólfur, en Már son Glúms er þá var átján vetra gamall skal ríða til Mývatns við tíunda mann að stefna Eyjólfi Þormóðssyni. Hann kom þar snemma um morguninn og barði á hurð. En Hávarður úr Ísólfstungu var þar þá og gekk hann þá til hurðarinnar en Már rak á honum spjótið, Hávarði, og vó hann þar en síðan stefnir hann Eyjólfi.

Eftir það fer hann á fund föður síns og segir honum til hvað hann hefir að sýst á þeirri stundu sem hann hefir á brottu verið. Vel líkar þeim Glúmi og Eyjólfi förin Más og báðu hann hafa þökk fyrir, segja nú Skútu að Hávarður mun eigi bera oftar njósnina. Skúta skaut nú yfir vaðið snærisspjóti og kom á þann mann er Þrándur hét. Hann var góður bóndi og er svo sagt að hann fékk þegar bana. Nú mælti Eyjólfur að þar væri þann veg varið mönnum í hvorumtveggja stað að mannskæð mundi verða deilan þeirra.

Og nú eiga þeir hlut í Eyjólfur og Einar að þeir mundu vilja sættast á málið. Og þar kom að þeir játtuðu báðir þeirra ummælum þessara mála. En sú var sættargerð þeirra Eyjólfs og Einars að stafshöggið er Eyjólfur laust Bjarna og orðin Þormóðs skulu óhelga hann sjálfan. Eyjólfur skal vera utan þrjá vetur og fara þá til búa sinna er hann kemur aftur. Bjarna skal bæta hundraði silfurs. Það skal Glúmur láta koma í hendur Þorgerði systur sinni en móður Bjarna. En það var ráðið á laun að Skúta skal fá Þórlaugar dóttur Glúms og skal Skútu svo heima standa hundraðið að Glúmur gyldi því minni heimanfylgjuna en þó vissi það ekki fyrst alþýða manna. Og nú skiljast þeir að sinni vel sáttir.

Svo er sagt að Skúta bað Þórlaugar og fékk hennar. Þá var Álfhildur önduð er Skútu hafði fylgt áður og Kolli hafði átta á Sauðanesi.

Það segja menn að Þórlaug hafi átta þrjá bændur. Fyrst átti hún Skútu, þar næst þann mann er Eldjárn hét og var kallaður hinn mildi. Hann var farmaður og góður drengur. Síðast átti hana Arnór kerlingarnef og eru göfgir menn frá þeim komnir og þótti hún vera mikill skörungur.


25. kafli

Nú er það fyrst að segja að Þorgeir son Þóris flatnefs kemur að máli einhverju sinni við Þórodd goða af Hjalla í Ölfusi frænda sinn, að hann gæfi honum nokkuð ráð til þess að koma Skútu til alþingis og þóttist Þorgeir eiga að sjá þar til föðurhefnda við Skútu.

Þóroddur kvað eigi mundu batna við hans komu en sjá þykist hann bragð til þessa, segir að búðir þeirra standa hið næsta fyrir vestan á og nú gaf hann það ráðið til að þeir skulu hafa búðartóft Skútu fyrir gang um sumarið og svo bað hann Þorgeir reisa þar upp ás og skera á karlhöfða á endanum "og væntir mig," segir Þóroddur, "að Skúta mundi koma til þingsins að sumri ef þann veg er með farið því að svívirðing mun honum að þykja þá er hann veit."

Þessa meðferð hefir Þorgeir sem nú var frá sagt og er menn koma heim á héruð var mjög fjölrætt um þetta hvort Skúta mun þola Þorgeiri þessa svívirðing. Og þykir það hvergi ólíkara að hann mundi hefna vilja svo sem hann er áður farinn við flesta menn þó að minna væri til gert en nú var.

Það er sagt að kemur þetta til eyrna Skútu og lét hann sem hann vissi eigi allt þar til er menn búast til þings annað sumar eftir. Þá fer hann á fund Arnórs úr Reykjahlíð og segir honum að hann vill að þeir ríði til þings um sumarið. Og nú safna þeir að sér mönnum, ríða heiman sem leiðir liggja til þingsins. En er þeir koma á völluna efri þá bað Skúta Arnór ríða til búðar með liðinu en hann kveðst eiga annað erindi af út að snúa. Nú reið Arnór með flokkinn til búðar Skútu og tjalda búðina.

En Skúta snýr þangað sem hann sá mann ganga með viðarbyrði og nú skiptir hann klæðum við þenna mann en tekur upp byrðina og gengur vestur yfir á með og hefir viðaröxina í hendi sér. Þeir hlupu nú að menn Þorgeirs og föluðu viðinn en færa hann í reikuð. Og nú sér hann Þorgeir og bað þá vera láta. Og þá er hann átti hlut í þessu þá féll ofan byrðurin og í því reiðir hann upp öxina, Skúta, og veitti Þorgeiri þegar banasár. Nú hljóp Skúta þegar til sinna manna og fara þeir á bak og riðu brott af þinginu, fara nú þar til er Skúta var kominn úr allri hættu. Þá ríður Skúta heim til bús síns en Arnór snýr aftur til þingsins með allan flokkinn og svo til búðarinnar.

Mál eru nú til búin á hönd Skútu og Glúmur galt fyrir hann hundrað silfurs þar á þinginu. Fara menn nú heimleiðis. Og er þeir finnast Skúta og Glúmur sagði Glúmur honum hvar þá var komið, að sæst var á málið og hann hafði goldið fyrir vígið. Skúta sagði að það mundi hann aldrei gert hafa ef hann hefði ráðið og kveðst honum eigi þökk fyrir kunna. Glúmur kvað hann meiri svívirðing af mundu hafa fengið ef eigi hefði þetta verið að gert sem nú var frá sagt. Og þótti sinn veg hvorum sem jafnan. Voru þeir eigi samlyndir mágar.

Eldjárn hinn mildi Áskelsson kom út á skipi sínu í Eyjafjörð nokkuru síðar. Hann var farmaður mikill. Og hann kemur á fund Glúms og sitja þeir á tali allan dag svo að engi vissi hvað þeir töluðu. Og litlu síðar sendi Glúmur mann til Mývatns og bauð hann Þórlaugu dóttur sinni til boðs og bað hana hafa gripi sína með sér og svo nokkuð lausafé. En sumir menn vilja það segja að Skúta sendi hana heim til Glúms þá er versnaði með þeim og þóttist Skúta gera það til svívirðingar Glúmi. En hin frásögn er hér höfð að Skúta væri eigi heima þá er sendimaðurinn kom eftir Þórlaugu og var hann farinn norður á Strandir að rekum. Hún fer nú á fund föður síns að hans orðsendingu.

Nú urðu menn brátt varir við hvað verið hafði í talinu þeirra Glúms og Eldjárns því að þá gifti hann Þórlaugu dóttur sína Eldjárni og fóru þau þegar á brott og utan. Og þótti mönnum þetta vera mikil tíðindi og þóttust vita að Skúta mundi þessa hefna ef hann mætti því við koma.


26. kafli

Ásbjörn hét maður. Hann var frændi Þórlaugar og ónytjungur mikill. Hann varð sekur á vorþingi í Skagafirði. Hann kemur nú á fund Skútu og biður hann dugnaðar því að þau Þórlaug höfðu veitt honum fyrri ásjá og Skúta hét honum ásjá ef hann færi sendiför hans til Glúms. Ásbjörn kveðst eigi vilja vera flugumaður.

Skúta sagði það eigi vera hans færi: "Þú skalt fara á hans fund og mæla þessum orðum að þú þykist þurfandi að hann gerist forsjámaður ráðs þíns og seg að þitt vandræði er mikið er þú hefir beðið af vígaferlinu. Og get eg að þann veg beri til um fund ykkarn að Glúmur sé í þingreið. En hans skaplyndi er það að hann er maður þrautgóður ef menn þurfa hans og enn mætti svo verða ef þú gerir þitt mál líklegt, enda viti hann að þú ert hjálplaus, að hann mælir að þú farir til Þverár og bíðir hans þar til þess er hann kemur heim af þinginu. Þá skaltu svo svara að "meir er þrengt mínu máli með því að hugur býr lítill í brjósti, seg að þú hræðist mennina og vildir heldur koma á hans fund er þú hittir hann einn saman. Og með því að Glúmur er armvitigur og vel skapi farinn kann vera að þar leggi hann til nokkuð ráð. Og þess skaltu biðja að finna hann í Mjaðmárdal er gengur upp frá bænum að Þverá og sel hans standa. Lát það þar sýnast sem þú munt hugboðið hafa að finna hann að ákveðnum degi og stund. Og ef þetta gengur fram skaltu þess njóta frá mér og mun eg þá veita þér dugnað enda vinnur þú það eina til að þér samir vel."

Og þessu játtar Ásbjörn.

Svo er sagt að hann hittir nú Glúm þá er hann var kominn á leið á Öxnadalsheiði og ríður hjá honum og segir sitt erindi og þau orð öll er áður voru sögð.

Glúmur kveðst eigi það vita að hann ætti honum góða hluti að launa "en fyrir þá sök að þú sýnir þig vinlausan og lætur að hér liggi við líf þitt þá vil eg að þú farir norður til Þverár og bíðir þar minnar heimkomu."

Hann svarar: "Vel er leyst vandræðið og mikilmannlega. En þó hefi eg eigi dirfð til að sækja þangað er margir menn eru fyrir og aldrei örvænt hvar óvinum mætir."

Glúmur svarar: "Þú ert blauthugaður. En að þú skiljir að eg vil þér hjálpir veita þá kom þú í Mjaðmárdal að ákveðinni stundu til selja minna því að þar mun eigi fjölmenni fyrir."

Hann svarar: "Þann kost hefir þú boðið er mér líkar."

Skiljast þeir nú. Fer Glúmur til þings en Ásbjörn fer til Skútu og segir honum hvar komið er.

Skúta segir: "Vel hefir þú leyst þitt erindi og ver nú með mér."

En er að líður þessum tíma þá býst Skúta heiman og þeir Arnór með þrjá tigu manna. Þeir ríða nú norðan og koma vestur yfir Vöðlaheiði og á hjalla þann er heitir Rauðahjalli. Þar stíga þeir af baki.

Þá mælti Skúta til Arnórs: "Nú munuð þér eiga hér dvöl um hríð en eg mun ríða inn með hlíðum og vita ef nokkuð verður til fengjar. Langt hefir nú verið síðan vér höfum hitt menn úr héruðum."

Hann ríður með vopnum sínum og sér er hann reið í dalinn að maður ríður neðan eftir dalnum upp frá Þverá, mikill í kápu grænni, og kennir hann þar Glúm. Þá stígur Skúta af hestinum. Hann hafði vesl yfir sér tvískipt, svart og hvítt. Hann lét hestinn í rjóður eitt og gengur síðan upp til selsins og var Glúmur þá kominn í selið. Það var þann dag er þeir skyldu finnast Glúmur og sendimaður Skútu. Skúta hafði Flugu í hendi og hjálm á höfði. Þar segja menn eigi einn veg frá. Sumir segja svo sem hér er sagt að það væri öx og héti Fluga en sumir segja að það væri sverð og héti Fluga. En hvort sem heldur var þá hafði Skúta það vopn jafnan í hendi og svo var nú þetta sinn.

Nú gengur Skúta að selsdyrunum og laust á vegginn og víkur síðan hjá selinu aftur. Glúmur gekk þá út og hafði ekki í hendinni og sér nú eigi manninn. Hann snýr þá hjá selinu og kom í hug að maðurinn var ódjarfur, að hann mundi eigi traust til bera að ganga að selsdyrunum. Nú víkur Skúta milli hans og dyranna og er Glúmur sér það og kennir manninn þá hopar hann undan. En árgljúfur voru nær selinu. Skúta biður hann bíða.

Glúmur segir að það mundi mælt að eigi væri fjarri hvor þeirra betur væri vígur ef þeir eru jafnbúnir til "en eigi vil eg ganga á vopn þín."

Og hopar hann að gljúfrinu en Skúta sækir nú að honum. Og er Glúmur kom að fram þá steyptist hann ofan fyrir gljúfrin. En Skúta leitar þar ofan er ganga mátti og sér í gljúfrinu hvar kápuna rak ofan. Hann hleypur að og leggur til kápunnar.

Þá heyrir hann að mælt er yfir honum uppi: "Það er lítil fremd," segir sá, "að spilla klæðum manna."

Skúta leit upp og kennir þar Glúm. Hafði hann vitað raunar að þar var tó undir er hann fór ofan og réð hann því til að hann sá eigi færi að bíða.

Þá mælti Skúta: "Á það áttu að minnast Glúmur að nú hefir þú runnið og beðið eigi Skútu."

"Satt er það," segir Glúmur, "en vilja mundi eg að þú rynnir eigi skemmra áður sól settist í kveld."

Þá kvað Glúmur þetta:

Hálfs eyris met eg hverjan
hrísrunn fyr á sunnan.
Vel hafa viðir skógar
vargfæðanda borgið.

Þar skilur með þeim. Fer Glúmur heim og safnar liði og segir hvert vélræði var fyrir hann sett af óvina hendi, lést og vilja að það mætti brátt gjaldast. Hann fær á lítilli stundu sex tigu manna og ríða síðan upp í dalinn.

Skúta gekk til hests síns og reið með hlíðinni og gat nú að sjá hvar fjöldi manna reið og veit að það má honum eigi endast ef þeir fá staðið hann, leitar nú ráðs, brýtur af skaftinu spjótið og hefir fyrir staf, tekur af hestinum söðulinn en snýr veslinu og reið nú að sauðum og hóar fast á féið. Nú koma þeir eftir honum förunautar Glúms og spyrja ef hann hefði séð mann nokkurn skörulegan og með vopnum ríða fram um leitið. Skúta kvaðst víst séð hafa manninn ríða fram um leitið. Hann kvaðst sjá að maðurinn fór hvatlega og dró þá í sundur er leitið bar í milli þeirra. Þeir spyrja hvað er hann hét.

Skúta segir: "Eg heiti Margur að Mývatni en Fár í Fiskilækjarhverfi."

Þeir sögðu: "Af skætingu viltu svara oss og spotti."

Skúta segir: "Eg kann aldrei sannara að segja."

Og þá skilur með þeim. Það er sagt að Skúta tekur nú vopn sín og reið hvatlega til sinna manna.

En hinir finna Glúm og segja honum að þeir fundu þann mann er þeim svaraði með spotti og kvaðst heita Margur í Mývatnshverfi en Fár í Fiskilækjarhverfi.

Glúmur segir: "Nú hefir yður orðið ráðfátt nokkuð. Þar hafið þér hitt Skútu. Eða hvað mátti hann sannara segja því að í Mývatnshverfi er hver skúti við annan en í Fiskilækjarhverfi hittir hvergi skúta? Og hefir nú nær lagt með oss og eftir skulum vér enn ríða."

Og koma nú að hjallanum og eru þeir Skúta þar fyrir. En þar var einstigi upp að ganga og er þar betra að verja með þrjá tigu manna en sækja að með sex tigu.

Þá mælti Skúta: "Svo er nú Glúmur að þú hefir kost til gefið að sækja eftir mér. Má nú vera að þú þykist þín eiga í að hefna fyrir undanhaldið því að allknálega hélstu undan og barst gott áræði til að hlaupa í gilið."

Glúmur segir: "Satt er það að mér leist það ráð. En kunnir þú og hræddur að verða þá er þú lést vera sauðamaður Eyfirðinga og leyndir vopnum þínum og ætla eg að eigi rynnir þú skemmri leið."

Skúta segir: "Hversu sem hér til hefir verið þá sæk nú að með hálfu fleira lið en vér munum hér bíða og eltast eigi lengra."

Glúmur segir: "Eg ætla að vér munum nú skilja að sinni. Verður nú virt sem má í hvorn stað."

Nú ríður Glúmur heim til Þverár með sínum mönnum og ekki bjó hann þetta mál til. Skúta kveðst ætla að eigi mundi honum auðið verða að koma Glúmi fyrir og sagði að það mundi undan bera að hann yrði honum að skaða. Og fer hann nú heim við sínum mönnum.


27. kafli

Nú er það fyrst að segja að Þorbergur höggvinkinni gerir heiman ferð sína til fundar við þann mann er Arnór hét, hann var að og smíðaði skot um skála Skútu, og gaf honum hálft hundrað silfurs til að hann skyldi leyna þeim mönnum þar í skotinu hjá sér er annar hét Játgeir en annar Eyjólfur. Þeir voru sekir menn og hafði Þorbergur þá sent til að vinna á Skútu. Og nú var þetta kaup þeirra Arnórs og Þorbergs. Eigi var Skúta heima þá er Þorbergur hafði þar komið. Hann kemur nú heim og var honum vel fagnað sem líklegt var. Gengur Skúta nú til og lítur á smíðina Arnórs og hefir hann ekki vopna í hendi. Arnór telgdi þá með hnífi en tálgöxin lá þar hjá honum. Nú hleypur ofan þilið og mennirnir fram. Þykist Skúta nú sjá bragð þeirra. Varð honum nú það fyrir að hann þreif upp tálgöxina og hjó hann Arnór banahögg og kvað hann eigi oftar sig svíkja skulu. Og nú kallar Skúta á sína menn og segir þeim hvert vélræði var fyrir hann sett en húskarlar hans hlupu til og drápu flugumennina en Skúta hefir silfrið það er Arnór hafði haft af Þorbergi höggvinkinna.

Þetta mál var til búið á hönd Þorbergi til Eyjarþings og var þar sæst á málið. Skal Þorbergur gjalda fyrir fjörráðið hálft hundrað silfurs en Þorbergur skal fara á brott þaðan úr sveitinni og til Lundarbrekku í Bárðardal og þótti þá líklegra til að af mundi taka óþokkann milli þeirra ef þeir sætust eigi svo nær sem áður hafði verið. Og færir Þorbergur þegar bú sitt.


28. kafli

Maður er nefndur Auðgísl. Hann var frændi Þorbergs höggvinkinna og hinn mesti ónytjungur þótti hann vera. Hann kemur einhverju sinni á fund Þorbergs frænda síns og skorar á hann til nokkurra tillaga við sig. En Þorbergur kvað hann eigi verr til fallinn að afla sér fjár en sig ef hann hefði þrifnað til en fá kveðst hann mundu til utanferðar honum ef hann vægi Skútu. En Auðgísl kveðst litlu verra eiga að launa Skútu en honum en kvaðst þó nær mundu honum leggja ef hann vildi. Og nú setti hann sjálfur þau ráð til að hann mun brjóta fatakistu Þorbergs og taka á brott feld hans og kyrtil og sverð en ganga síðan fyrir hann og heitast við hann sjálfan og taka meira ef hann vildi eigi þetta gefa honum en fara síðan til Skútu og biðja hann ásjá og sagði hann eigi gruna mundu ef hann færi þann veg með. Þorbergur kvaðst þetta þykja féfrekt en kveður þó líklegt að svo mundi ganga og vill hann fyrir því þenna kost.

Svo fer Auðgísl með sínu máli sem áður var frá sagt og kemur á fund Skútu og beiddi hann viðtöku og ásjá. Spurt hafði Skúta að sönn var saga hans og tók hann við honum.

Svo er sagt að Skúta hafði látið gera sér lokrekkju. En þar var svo um búið að ketill var upp yfir rekkjuna og reist upp haddan yfir katlinum og voru þar á festir hringar til þess að eigi mætti svo að koma rekkjunni að Skúta yrði ekki var við. Af því var haddan upp reist að hann vaknaði við ef hún félli. Og jarðhús átti hann undir rúmi sínu og annan jarðhússmunna í sauðahúsum sínum. Ekki vissu þetta fleiri menn en Skúta og fóstra hans er Sigríður hét að væri þann veg um búið. Og svo unni hann henni mikið að hann trúði henni einni að vita með sér slíka hluti.

En er Auðgísl hafði þar verið hálfan mánuð var það eina nátt að Skúta gekk úr rúmi sínu og læsir hlemminn er hann kemur aftur til rúmsins og leggst nú niður. Síðan réð Auðgísl til er hann var sofnaður og sté í rekkjugólfið og þegar hljóp niður gólfið undir honum. Þá féll haddan á katlinum því að hann hafði komið við festina. Og nú vaknar Skúta í því bili við þetta allt saman og nú leggur hann á Skútu miðjan en Skúta bregður upp fætinum og leggur hann í fótinn á honum. Nú hljóp hann þegar upp og veitti honum banasár en tekur nú til sín gripina þá er Þorbergur hafði átt.

Og eftir leitar hann við Þorberg ef þetta væri nokkuð af hans ráðum en hann kvað það fjarri fara og kvað Auðgísl hafa stolið frá sér gripunum og barið á honum á svo gert ofan. Nú bjó Skúta þetta mál ekki til og féll þetta þar niður.


29. kafli

Einhverju sinni kemur Þorbergur á fund Þorgeirs goða og sagði að honum þótti eigi vel veita við Skútu, þóttist fá mikið manntjón af honum og engar bætur fengið og biður nú Þorgeir eiga hlut í um sínar sakar að Skúta yrði af ráðinn. Honum kvaðst illa hug um segja en játar þó að vita hvernig til vill takast um sinn.

Um vorið að vorþingi safnar Þorgeir að sér mönnum og fór upp í Reykjadal á laun og hafði tvö hundruð manna til Lauga og ætlaði að sitja þar fyrir Skútu þá þegar hann ríður til Eyjarþings. Skúta hafði sex tigu manna og vissi hann enga von til ferða Þorgeirs.

Nú sér Skúta hrossa fjölda mikinn og þykist eigi vita hverju gegna mundi, bað nú Arnór úr Reykjahlíð að vera fyrir liðinu en hann vill ríða til húss að Reykjum.

Nú fer hann til bæjarins einn saman og síðan að hrossum Þorgeirs og hittir hann einn mann þar af liði Þorgeirs er gætti hrossanna. Sá maður sagði allt hverju gegndi um farir Þorgeirs og spurði ef hann vissi nokkuð til Skútu en hann kvað það fjarri fara. Nú spurði Skúta hverjir þar sætu í brekkunni stund frá þeim.

En maðurinn kvað þann heita Vestmann er fyrir þeim var og í litklæðunum var en hinir tveir fengnir honum til fylgdar "og skulu þeir," segir hann, "njósna um ferð Skútu því að Þorgeir vill finna hann."

Og nú skiljast þeir og ríður Skúta hjá þeim Vestmanni. Hann var í kufli og nú fleygir Skúta til Vestmanns spjóti og kvað hann mega nú sjá þann mann sem hann hefði áður að leitað. Spjótið kom á Vestmann miðjan og fékk hann þegar bana. Skúta hleypti nú á brott og til sinna manna en hinir fóru á fund Þorgeirs og segja honum til svo búins. Nú eggjar Þorbergur mjög að ríða eftir Skútu en Þorgeir vill það ekki og kvaðst ekki mundu oftar til leita við Skútu.

Þetta mál var nú borið til Eyjarþings og sættust þeir á þinginu. Guldu þeir Þorbergur og Einar hundrað silfurs fyrir víg Vestmanns. Og þá lét Þorgeir það til að sitja aldrei síðan um líf Skútu ef hann næði bótunum. Og nú fara þeir heim af þinginu og voru nú sáttir. Og efndi Þorgeir það vel að hann setti aldrei fjörráð fyrir Skútu.


30. kafli

Svo er sagt að þeir kæmu að máli við Þórodd goða Eyvindarson frænda sinn synir Þóris flatnefs. Hét annar þeirra Þórður illugi en annar Björn. Þeir báðu hann ráðagerðar til að drepa Skútu Áskelsson því að hann hafði drepið föður þeirra og bróður. Hann Þóroddur vill nú þreifa um þá og þóttist gerr vita hvað þeir voru og þótti honum Þórður illugi ólíklegur til hefnda og bað þá koma önnur misseri í það mund og sagðist þá mundu gerr vita híbýli Víga-Skútu og sagðist þá heldur mega vita hverja meðferð hafa skyldi. Brott fara þeir að sinni bræður og ætla að vísu að koma á hans fund á nefndri stundu ef nokkuð mættu þeir reka réttir sinnar svívirðingar.

Nú kemur Þóroddur að máli við þann er Þorgrímur hét. Hann var Óttarsson Þorgrímssonar og systrungur Þórodds að frændsemi.

Nú segir hann Þorgrími að hann var heitbundinn í við þá bræður, en frændur sína og sonu Þóris flatnefs, að kunna að segja þeim nokkuð af híbýlum Víga-Skútu að Mývatni og ráðið þeim ráð til hefnda eftir föður sinn og frændur "en mér er þaðan ókunnigt," segir hann, "að svo búnu. Nú trúi eg þér best að fara með mínum erindum norður þangað. En það skal vera með því móti og tilstilli að eg vil," segir Þóroddur, "að þú látir þig á skilja við einhvern húskarl minn og vinna á honum. Síðan skaltu hlaupast í brott og til Skútu og biðja hann ásjá og skaltu fíflast á Sigríði fóstru hans og gefa henni margt en tala aldrei um Skútu við hana. Og far til þings að sumri til fundar við mig."

Þorgrímur mælti mjög í móti en fór þó með öllu sem Þóroddur mælti fyrir, vinnur nú á húskarlinum og hleypur nú norður á brott síðan á fund Skútu og bað hann viðtöku. En Skúta segir að honum þykir kynlegt að hann fór norður þangað og sagði sér margt vera sagt torsóttlegt frá Þóroddi, tók þó við honum og var hann þar vel haldinn. Hann tekur sér brátt af að skipta við Sigríði fóstru Skútu og gat ástir hennar því að Skúta bannaði það ekki en þó grunaði hann Þorgrím. Var hann þar um veturinn.

En um sumarið vill hann fara til þings að hitta Þórodd. Og nú fer hann og segir Þóroddi til þessa, það er hann mátti af vita um háttu Skútu, og þótti Þóroddi ekki færi að svo búnu. Illt þótti Þorgrími að starfa í þessu því að Skúta var vel til hans.

Þóroddur réð þeim Þórði illuga og Birni að fara til Ölvis hins ...


(Hér er eyða í sögunni sem lýkur við víg Skútu.)


... ga þeir Illugi og Björn í jarðhúsið með ljósi en Ölvir var hjá jarðhússmunnanum. Þeir ganga nú eftir jarðhúsinu og koma að þar sem um festina var búið. Og nú skáru þeir festina og létu síga hóglega niður hödduna. Nú lúka þeir upp jarðhússmunnanum og þá kom kaldur blær á Skútu úr jarðhúsinu og vaknar hann við og stóð nú upp. Og í því bili lagði Illugi spjóti á Skútu en Skúta hjó yfir höfuð Illuga og í höfuð Birni og mælti í því að eigi hefðu allir haldinorðir verið. Og nú var hann þó því sári særður er hann leiddi til bana.

Illugi bar nú Björn bróður sinn á brott af jarðhúsinu og var hann mjög sár. Fer hann nú síðan á brott og þeir Ölvir allir saman og andaðist Björn bráðlega af því sári sem Skúta hafði veitt honum.

Þorgrímur bauð nú Sigríði með sér að fara en hún ásakaði hann mjög um þetta og kvað þá Skútu hafa ójafnt við haft "er hann trúði þér vel en þú hefir nú svikið hann."

Og þó fer hún nú brott með honum á þeirri nótt og giftist honum síðan.

Nú er það sagt að mál var til búið um víg Skútu og varð Þórður illugi sekur um vígið Skútu og skal hann vera utan þrjá vetur en þeir halda upp bótum fyrir ráðin og tilförina vígs Skútu, Þóroddur goði og Ölvir hinn spaki sonur Þorbergs höggvinkinna og voru nú sáttir að kalla. Þótti mörgum mönnum það eigi fyrr hafa að hendi borið en líklegt var um málið Skútu að hann væri af ráðinn. En þó er það eina satt af honum að segja að hann var vitur maður og hinn mesti fullhugi og margir gengu ekki betur en til jafns við hann þótt miklir þættust fyrir sér vera en eigi þótti hann öllum jafnaðarmaður vera.

Höfum vér nú hér lok þessarar frásagnar og þakki nú hver sem vert þykir.




Netútgáfan - mars 1999