1. kafliMaður er nefndur Ketill og var kallaður raumur. Hann var ríkur maður. Hann bjó á þeim bæ er í Raumsdal heitir. Það er norðarlega í Noregi. Hann var son Orms skeljamola Hrossbjarnarsonar, Jötun-Bjarnarsonar norðan úr Noregi. Þá voru fylkiskonungar í Noregi er þessi saga gerðist. Ketill var ágætur maður og vel auðigur að fé, rammur að afli og hinn röskvasti í öllum mannraunum og hafði verið í hernaði hinn fyrra hlut ævi sinnar en settist nú að búm sínum sem aldur færðist yfir hann. Hann átti Mjöll dóttur Ánar bogsveigis. Ketill átti son með henni. Hann er Þorsteinn nefndur. Hann var vænn maður sjónum. Engi var hann ágætismaður á vöxt eða afl. Hann var átján vetra þá er þetta var tíðinda en þó var athæfi Þorsteins og allur færleikur með hinu betra meðallagi að því sem þá voru ungir menn.
Í þenna tíma þóttust menn þess verða varir að úthlaupsmenn eða illvirkjar mundu vera á leið þeirri er liggur á milli Jamtalands og Raumsdals því að engir komu aftur þeir er fóru og þótt saman væru fimmtán eða tuttugu þá höfðu þó engir aftur komið og þóttust menn því vita að frágerðamaður mundi úti liggja. Menn Ketils bónda urðu minnst fyrir þessum ófriði, bæði manndrápum og fésköðum, og gerðu menn mikið orð á til ámælis að sá væri mikill vanskörungur er yfirmaður var þess héraðs að engar aðgerðir skyldu í mót koma slíkum óhæfum og kváðu Ketil nú mjög eldast en hann gaf sér fátt um en þótti þó eftir því sem þeir sögðu.
2. kafliÞað var eitt sinn að Ketill mælti við Þorstein son sinn: "Önnur gerist nú atferð ungra manna en þá er eg var ungur. Þá girntust menn á nokkur framaverk, annað tveggja að ráðast í hernað eða afla fjár og sóma með einhverjum atferðum þeim er nokkur mannhætta var í. En nú vilja ungir menn gerast heimaelskir og sitja við bakelda og kýla vömb sína á miði og mungáti og þverr því karlmennska og harðfengi en eg hefi því fjár aflað og virðingar að eg þorði að leggja mig í hættu og hörð einvígi. Nú hefir þú Þorsteinn lítinn kraft hlotið afls og vaxtar. Er það og líkast að þú fylgir þar eftir þinni athöfn og fari þar eljun eftir og öll tilræði því að eigi viltu víkjast eftir atferðum hinna fyrri frænda þinna og sýnir þig eftir því sem þú ert ásýndum og mun hugur fylgja vexti. Það var ríkra manna siður, konunga eða jarla, vorra jafningja, að þeir lágu í hernaði og öfluðu sér fjár og frama og skyldi það fé eigi til arfs telja, né sonur eftir föður taka, heldur skyldi það fé í haug leggja hjá sjálfum höfðingjum. Nú þótt synir þeirra tækju jarðir máttu þeir eigi haldast í sínum kostum þótt virðing félli til nema þeir legðu sig og sína menn í hættu og herskap, aflandi sér svo fjár og frægðar hver eftir annan, og stíga svo í fótspor frændum sínum. Nú ætla eg að þér séu ókunn hermannalög og mætti eg þau kenna þér. Ertu nú og svo aldurs kominn að þér væri mál að reyna þig og vita hvað hamingjan vill unna þér."
Þorsteinn svarar: "Eggjað væri nú ef nokkuð tjóaði."
Hann stóð upp og gekk í burt og var hinn reiðasti.
Skógur mikill liggur á milli Raumsdals og Upplanda er almannavegur liggur yfir þótt nú heftist fyrir þeim meinvættum er menn hugðu úti liggja þótt enginn kynni frá að segja. Nú þótti sú framaferð mest að ráða hér bætur á.
3. kafliÞað var litlu síðar en þeir feðgar höfðu við talast að Þorsteinn gekk út einn saman frá drykkju og hyggur það helst fyrir sér að hann mun treysta á hamingju föður síns og verða eigi fyrir atyrðum hans heldur vildi hann nú leggja sig í nokkura mannhættu. Hann tók hest sinn og reið einn saman til skógar þangað sem honum þótti helst von illvirkjanna þó að honum þætti lítil von framgangsins við slíkt ofurefli sem hann þóttist vita að fyrir mundi búa. Vildi hann nú og heldur leggja lífið á en fara að erindislausu.
Hann hefti hest sinn við skóginn og gekk síðan í hann og fann afstíg einn er lá af þjóðgötunni. Og sem hann hafði lengi gengið fann hann í skóginum hús mikið og vel gert. Þorsteinn þóttist vita að þetta herbergi mundi sá eiga er stígana hafði bannað, hvort sem þeir voru einn eða fleiri. Síðan gekk Þorsteinn inn í skálann og fann þar stórar kistur og mart til gæða. Þar var skíðahlaði mikill en annars vegar vara í sekkum og alls kyns varningur. Þar sá hann rekkju eina. Hún var miklu meiri en nokkur sæng er Þorsteinn hafði fyrr séð. Þótti honum sá ærið hár er þetta rúm var mátulegt. Rekkjan var vel tjölduð. Þar var og borð búið með hreinum dúkum og heiðurlegum krásum og hinum besta drykk. Ekki gerði Þorsteinn að þessum hlutum. Síðan leitaði hann sér undanbragðs að hann væri eigi þegar fyrir augum þeim er skálann byggði því að hann vildi fyrr vita hvert efni honum þætti í vera en þeir tækjust orðum eða sæjust. Hann fór síðan upp í milli sekkanna í vöruhlaðann og sat þar.
Síðan heyrði hann út dyn mikinn er á leið kveldið og síðan kom inn maður og leiddi eftir sér hest. Sjá maður var harðla mikill. Hvítur var hann á hár og féll það á herðar með fögrum lokkum. Þorsteini sýndist maðurinn vera hinn fríðasti. Síðan kveikti þessi maður upp eld fyrir sér en leiddi áður hest sinn til stalls. Hann setti munnlaug fyrir sig og þó sig og þerrði á hvítum dúk. Hann renndi og af verpli vænan drykk í stórt stéttarker og tók síðan til matar. Allt sýndist Þorsteini athæfi þessa manns merkilegt og mjög hæversklegt. Miklu var hann meiri maður en Ketill faðir hans og þótti hann, sem var, manna mestur.
Og er skálabúinn var mettur sat hann við eld og sá í og mælti: "Skipun er hér á orðin. Eldurinn er nú miður fölskaður en eg hugði. Hygg eg að hann hafi verið fyrir skömmu upp kveiktur og veit eg eigi hvað það veit og má vera að menn séu komnir og sitji um líf mitt og er það eigi fyrir sakleysi og skal eg fara og leita um húsið."
Síðan tók hann sér eldiskíð og leitaði og kom þar að sem vöruhlaðinn var. Svo var þar háttað að ganga mátti af hlaðanum og í einn stóran reykbera er á var skálanum. Og er spellvirkinn kannaði hlaðann var Þorsteinn úti og gat skálabúinn eigi hitt hann því að Þorsteini var annarra forlaga auðið en vera þar drepinn. Hinn leitaði þrisvar um húsið og fann ekki.
Þá mælti skálabúinn: "Kyrrt mun eg nú vera láta og er óvíst til hvers um dregur og má vera að það komi fram um mína hagi sem mælt er að illa gefast ill ráð."
Síðan gekk hann aftur til hvílunnar og tók af sér saxið. Svo sýndist Þorsteini sem það væri hin mesta gersemi og alllíklegt til bits og gerði sér það í hug að duga mundi ef hann næði saxinu. Honum kom nú og í hug eggjan föður síns að þrótt og djarfleik mundi til þurfa að vinna slíkt afrek eða önnur en frami og fagurlegir peningar mundu í móti koma og hann mundi þá þykja betur gengið hafa en sitja við eldstó móður sinnar. Þá kom honum og í hug að faðir hans segði hann eigi betra til vopns en dóttur eða aðra konu og meiri sæmd væri frændum að skarð væri í ætt þeirra en þar sem hann var. Slíkt hvatti Þorstein fram og leitaði hann sér þá færis að hann mætti einn hefna margra vanréttis en í öðru lagi þótti honum þó skaði mikill um manninn.
Síðan sofnar skálabúinn en Þorsteinn gerir tilraun með nokkuru harki hve fast hann svæfi. Hann vaknaði við og snerist á hlið. Og enn leið stund og gerði Þorsteinn tilraun aðra og vaknaði hann enn við og þó minnur. Hið þriðja sinn gekk Þorsteinn fram og drap mikið högg á rúmstokkinn og fann að þá var allt kyrrt um hann. Síðan kveikti Þorsteinn log og gekk að rekkjunni og vill vita ef hann væri á burtu. Þorsteinn sér að hann liggur þar og svaf í silkiskyrtu gullsaumaðri og horfði í loft upp. Þorsteinn brá þá saxinu og lagði fyrir brjóst hinum mikla manni og veitti honum mikið sár. Þessi brást við fast og þreif til Þorsteins og kippti honum upp í rúmið hjá sér en saxið stóð í sárinu en svo fast hafði Þorsteinn til lagið að oddurinn stóð í beðinn en þessi maður var fárrammur og lét þar standa saxið sem komið var en Þorsteinn lá í milli þilis og hans.
Hinn sári maður mælti: "Hver er sjá maður er mér hefir áverka veittan?"
Hann svarar: "Þorsteinn heiti eg og er eg son Ketils raums."
Maðurinn mælti: "Eg þóttist vita áður nafn þitt en þó þykist eg frá ykkur feðgum þessa hafa síst maklegur verið því að eg hefi ykkur lítið eða ekki mein gert. En nú varstu heldur til skjótur en eg heldur til seinn því að nú var eg á brott búinn að hverfa frá þessu óráði en á eg kost alls við þig hvort eg læt þig lifa eða deyja. Nú ef eg geri eftir verðleik og sem þú hefir til stefnt þá segði engi frá okkarri sameign. En eg ætla það nú ráðlegast að láta þig þiggja líf þitt og mætti mér verða að þér gagn ef svo vildi takast. Nú vil eg og segja þér nafn mitt. Eg heiti Jökull og er eg son Ingimundar jarls af Gautlandi. En eftir hætti ríkra manna sona aflaði eg mér fjár þótt heldur væri freklega að ort. En nú var eg búinn til burtferðar. Nú ef þér þykir nokkuð veitt í lífgjöf þinni þá far á fund föður míns en hitt þó fyrr að máli móður mína er Vigdís heitir og seg henni einni saman þenna atburð og ber henni ástsamlega kveðju mína og seg að hún komi þér í frið við jarl og fulla vingan með þeim hætti að hann gifti þér dóttur sína en systur mína er Þórdís heitir. Nú er hér gull er þú skalt bera til jarteina að eg sendi þig. Og þótt henni þyki mikill harmur sinn eftir mig þá vænti eg að hún virði meira ást og orðsending mína en tilgerning þinn. En mér segir svo hugur um að þú munir gæfumaður verða. Nú ef þér verður sona auðið eða þínum sonum þá láttu eigi nafn mitt niðri liggja og vænti eg mér þar gæða af og hefi eg það fyrir lífgjöfina."
Þorsteinn bað hann nú gera sem honum líkaði um lífgjöf við sig og aðra hluti og kvaðst þar einkis mundu um biðja.
Jökull kvað nú vera hans líf undir sér "og allmjög muntu eggjaður verið hafa þessa verks af föður þínum enda hafa mig nú að fullu bitið hans ráð og sé eg að þér líkar þótt við deyjum báðir en meiri forlaga mun þér auðið verða. Eigi eru þeir forustulausir er þú ert fyrirmaður, sakir áræðis og karlmennsku, og betur er þá séð fyrir kosti systur minnar að þú fáir hennar en víkingar fái hana að herfangi. Nú þótt þér sé til boðið í Gautlandi þá far þú heldur til eigna þinna í Raumsdal því að eigi munu föðurfrændur mínir þér ríkis unna eftir hans dag en verða má að hörmungarvíg liggi í kyni yðru og munu menn missa saklausra frænda sinna. Nú seg eigi til nafns míns alþýðu nema föður þínum og frændum mínum því að ævin hefir ófögur verið enda er nú goldið að verðugu og fer svo flestum ranglætismönnum. Nú tak hér gullið og haf til jarteina en kipp í braut saxinu og mun þá eigi langt verða okkað viðtal."
Síðan kippti Þorsteinn í burt saxinu en Jökull dó.
4. kafliEftir þessi tíðindi ríður Þorsteinn heim og er hann nálgaðist bæinn sá hann marga menn ríða í mót sér og kenndi þar föður sinn og marga kunningja og fóru allir hans að leita.
Og er þeir fundust kvaddi Ketill son sinn með blíðum orðum og þóttist hann úr helju heimtan hafa "og iðraðist eg þegar eftir þeirra orða er eg mælti við þig til frýju eða áleitni."
Þorsteinn svarar og kvað hann lítt hafa fyrir séð hvort hann kæmi nokkurn tíma aftur eða aldrei en kvað hamingjuna hafa styrkt nú svo sitt mál að hann hafði heill aftur komið.
En þótt þeir kasti þessum orðum fram með nokkurri styggð þá urðu þeir brátt vel sáttir. Segir Þorsteinn nú föður sínum allan atburð sinnar ferðar. Fyrir þetta verk fékk Þorsteinn góðan orðstír af hverjum manni sem von var. Síðan lætur Þorsteinn þings kveðja og komu þar allir byggðarmenn úr þeim héruðum.
Á þessu þingi stóð Þorsteinn upp og mælti: "Það er öllum yður kunnigt að gera að ótti sá er á hefir legið hér um hríð af stigamönnum að menn máttu eigi fara ferða sinna, hann er nú af ráðinn og endaður. Er það og mest undir þessi minni þingstefnu að eg vil að hver taki sitt fé það er átt hefir en eg mun það eignast er af gengur."
Hér að var ger góður rómur af mönnum og fékk Þorsteinn virðing mikla með öllu sínu tiltæki. Nafn illvirkjans vissi eigi alþýða manna af því að það var lítt á loft borið.
5. kafliÞað var einn dag að Þorsteinn talar við föður sinn að hann mundi fara austur á fund Ingimundar jarls sem hann hefði heitið Jökli.
Kvað Ketill það eigi ráðlegt að ganga í hendur óvinum sínum og bað hann heldur heima vera "og þó að jarl vilji eigi granda þér þá má þó vera að nokkurir verði þér ágangsamir og eigi góðviljugir."
Þorsteinn svarar: "Því hefi eg heitið Jökli sem eg skal enda og þótt eg beri þaðan hvorigan fót heilan þá skal eg þó fara."
Síðan bjóst Þorsteinn og fór til Gautlands og hélt svo til að hann kom til heimilis jarls snemma dags. Jarl var farinn á veiðar að ríkra manna sið. Þorsteinn gekk inn í eina drykkjustofu og settist í bekk með föruneyti sínu. Þá kom kona jarls í stofuna og leit þá er komnir voru og sá að vera mundu útlendir menn. Hún spurði að hverjir þeir væru.
Þorsteinn kvaðst norrænn vera "en eg á leynt erindi við þig og göngum tvö saman."
Hún gerði svo.
Þá mælti Þorsteinn: "Tíðindi hefi eg að segja þér, víg Jökuls sonar þíns."
Hún svarar: "Þau mega mér mikil þykja en eigi ólíkleg fyrir sakir hans tiltektar og vondrar athafnar. En hvað skyldir þig til að segja þessa harmsögu og fara til langan veg?"
Þorsteinn svarar: "Mikið dregur mig til þess. Eg hét honum með trúnaði að okkrum skilnaði að eg mundi á yðvarn fund fara og segja satt í frá okkrum skilnaði. Er því eigi að leyna að eg varð hans banamaður því að ófært þótti vorum mönnum að sitja undir hans hendi sakir manndrápa og férána, en þó, þér að segja í trúnaði, kom eg á hans vald og átti hann kost að drepa mig ef hann vildi en hann gaf mér líf og lagði það á við mig að eg skyldi á þinn fund fara að hans orðsendingu, og sjá máttu að hægra væri heima en hætta á yðra miskunn. Nú hefi eg hér gull er hann kvað yður mundu við kannast og bað mig það bera til jarteina að þú kæmir mér í sætt við jarl með þeirri umleitan að eg fengi dóttur ykkra mér til konu er Þórdís heitir. Hann kvaðst og vænta að meira mundir þú virða sending hans og tilskipun en tilverknað minn."
Vigdís roðnaði við mjög og mælti: "Djarfur maður muntu vera en það hygg eg að þú segir sannindi af ykkrum fundi og ef Jökull gaf þér líf þá væri það mitt ráð að þú fengir það því að þú ert giftuvænlegur maður að sjá. En fyrir bænarorð Jökuls sonar míns mun eg byrja mál þitt við jarl en þú ver í leynum fyrst."
Og er jarl kom heim þá gekk drottning á fund hans og mælti: "Tíðindi er yður að segja þau er bæði okkur henda."
Jarl svarar: "Þú munt segja dauða Jökuls sonar míns."
Hún kvað það satt vera.
Jarl mælti: "Eigi mundi hann sóttdauður verða."
Hún svarar: "Það er satt að hann var veginn og sýndi hann áður mikinn drengskap. Hann gaf þeim manni líf er það gerði og sendi hann hingað á vort vald með sönnum jarteinum að þú gæfir honum grið og upp sakirnar þó að miklar séu. Verða mætti þér og styrkur að manninum ef þú efldir hann með mægðum og gjaforði dóttur þinnar eftir tilskipan Jökuls. Hefir hann og ætlað að þú mundir nokkurs virða hans síðustu bæn. Máttu og sjá hversu trúlyndur þessi maður hefir verið í sínum heitum þar sem hann fór hingað í ófriðarstað frá eignum sínum í hendur oss. Nú vænti eg fyrir minn flutning en sonar þíns orðsending að þú munir gera sem eg beiði og lítið hér á jarteinir."
Hún sýnir honum þá gullið.
Jarl blés þá við mæðilega og mælti: "Mart hefir þú mælt og mjög djarflega að eg mundi þeim manni gera sæmd er drepið hefir son minn og væri sjá maður heldur dauða verður en vingjafa."
Drottning mælti: "Á hitt er að líta herra hvað í er að virða orð Jökuls og dyggð mannsins að ganga á vald þitt. Í annan stað aldur þinn mikinn að þú þarft forstjóra fyrir þér og mun sjá maður þar vel til fallinn. Nú svo sem Jökull gaf honum líf og átti áður alls kosti við hann og sótti sjá maður giftu til hans, svo óvænlega sem hann stefndi, þá er og einsætt að eigi förum vér þeim sigri eða hamingju manns þessa en drengilegu úrræði sonar okkars og er það mikill sigur að haga svo sem Jökull gerði að gefa þeim líf er þvílíkar sakir hefir við oss gert og er það hin mesta skömm að gera honum nú mein þar sem hann er kominn á vort traust."
Jarl mælti: "Allmjög fylgir þú þessum manni og hefir þér vel á hann litist og fyrir víst vil eg sjá hann og virða fyrir mér hver slægur mér þykir í vera og mun honum það miklu skipta hvern veg mér virðist hann fyrir augum."
Síðan var Þorsteinn fram leiddur og stóð hann fyrir jarli en drottning hafði svo til stillt að honum var runnin hin mesta reiði.
Þorsteinn mælti: "Allt er nú herra jarl á yðru valdi um minn hag. Er yður nú og kunnigt hvað erindum eg hefi hingað haft. Vil eg og biðja yður til sætta en kvíða engu hvað þér viljið gert hafa. Er það og höfðingja siður að veita þeim líf er sjálfkrafa ganga upp á þeirra náð."
Jarl mælti: "Svo líst mér á þig sem eg muni gefa þér líf. Mun það nú og vænst til sonarbóta að þú gangir í sonar stað ef þú vilt með mér vera því að hamingjumót er á þér. Er það og eigi stórmannlegt að stríða þeim er á vald manns gengur."
Þorsteinn þakkar jarli lífgjöfina og var hann þar um hríð og könnuðust menn hugi við. Jarl fann brátt að Þorsteinn var vitur maður og merkilegur í öllum háttum.
Það var eitt sinn að Þorsteinn mælti til jarls: "Nú vil eg vita hvers af er kostur um mægðirnar við yður herra."
Jarl svarar: "Eigi vil eg því afneita því að vera má að það sé til hamingju vorrar ættar en það vil eg þú sért með oss."
Þorsteinn mælti: "Því vil eg játa og kunna þökk að vera hér meðan þér lifið en eigi munu menn unna mér hér metorða eftir þinn dag og verður hver eftir sínum forlögum að leita."
Jarl kvað líklega slíkt mælt.
6. kafliLitlu síðar reið Þorsteinn heim og segir föður sínum alla ráðastofnan og bað hann til ferðar og svo gerði Ketill. Jarl bjó veislu en Þorsteinn sótti til með Raumdæla og mörgu stórmenni en veislan var prýdd góðum tilföngum. Gekk hún út með hinni mestu sæmd og stórum fégjöfum og skildust þeir jarl og Ketill með hinni mestu vináttu. Þorsteinn var eftir með konu sína. Jafnan frétti Þorsteinn vingjarnleg orð til sín frá jarli. Brátt voru ástir góðar með þeim Þorsteini og Þórdísi.
Þess er getið eitt kveld að menn komu til jarls með þeim tíðindum að þeir sögðu lát Ketils raums og það með að menn vildu að Þorsteinn færi aftur til áttjarða sinna og ríkis. Þorsteinn bar þetta mál fyrir konu sína og jarl. Hún bað hann fyrir sjá og kvaðst því vilja að fylgja sem hann vill. Honum kvaðst mest í hug að fara heim, taldi það síst öfundareyri og allir mundu honum þar best sæmdar unna. Þessu ráði samþykkti og jarl og kvað líklegt að heima mundi honum auðið verða framgangs heldur en hjá ókunnu fólki.
Brátt eftir þetta tók jarl sótt. Hann heimti til sín Þorstein mág sinn og svo dóttur sína og mælti: "Búið nú ferð yðra svo héðan í braut að það sé með mikilli sæmd í fjárhlutum og mega frændur vorir því þó vel una að þeim sé hér ríki allt upp gefið í landi með því öllu sem hér fylgir. En ef ykkur verður sonar auðið látið hann hafa mitt nafn."
Þorsteinn kvað svo vera skyldu en því kvaðst hann eigi eftir jarls tign leita að frændur hans voru ótignir.
7. kafliIngimundur jarl andaðist litlu síðar en Þorsteinn fór heim til eigna sinna og tók við föðurleifð sinni. Hann var í hernaði á sumrum og aflaði fjár og virðingar en sat heima að búm sínum að vetrum og þótti hinn mesti sómamaður.
Ingjaldur hét maður er bjó í Hefni, ey norður á Hálogalandi. Hann var bóndi hraustur og var í hernaði á sumrum en sat um kyrrt á vetrum. Það var vingott með þeim Ingjaldi og Þorsteini. Ingjaldur var góður búþegn og mikilhæfur maður.
Þorsteinn átti son við konu sinni og er sveinninn var fæddur var hann borinn að föður sínum.
Þorsteinn leit á hann og mælti: "Sjá sveinn skal heita Ingimundur eftir móðurföður sínum og vænti eg honum hamingju sakir nafns."
Sveinninn var snemma með miklum þroska.
Þeir Þorsteinn og Ingjaldur áttu vinaboð saman á hverju hausti þá er þeir komu úr víkingu. Og eitt sinn er Ingjaldur var að veislu hjá Þorsteini þá rann sveinninn Ingimundur að Ingjaldi.
Hann mælti þá: "Hamingjusamlegur sveinn ertu og fyrir vináttu okkar föður þíns þá vil eg bjóða þér heim til mín til slíks fósturs sem eg kann að veita þér best."
Þorsteinn kvaðst þiggja mundu boðið og fór sveinninn heim með Ingjaldi. Grímur hét son Ingjalds en annar Hrómundur. Þeir voru vænlegir menn og gerðust fóstbræður Ingimundar. Þeir Þorsteinn og Ingjaldur héldu uppteknum hætti um heimboð og veislugerðir og þóttust menn hafa iðgjöld Ketils þar sem Þorsteinn var þótt hann væri maður minni vexti eða eigi svo sterkur sem hann var.
Það var eitt sinn þá er Ingimundur hitti föður sinn að hann mælti: "Gott fóstur hefir þú mér fengið en nú vil eg að þú fáir mér skip og vil eg herja í sumar eftir hætti hinna fyrri frænda minna. Er eg nú svo aldurs kominn að eg má vel slíkt starfa og vil eg kosta til þessar ferðar sjálfur og þú en eigi fóstri minn en veit eg að eg má hafa af honum slíkt er eg vil."
Þorsteinn kvað þessa vel leitað "og mun eg fá þér eitt skip."
Ingimundur kvað eigi mega minna við hlíta og fór heim og segir fóstra sínum.
Ingjaldur svarar: "Það er gott tillag en eg skal fá Grími annað skip og skuluð þið fara báðir samt með forsjá og athygli. Varist og að leggja þar að sem ofurefli er fyrir. Er og það meiri virðing að aukast af litlum efnum en að hefjast hátt og setjast með lægingu."
Síðan réðust þeir í hernað Ingimundur og Grímur og fóru vel með víkingskap sínum, lögðu eigi að þar að eigi sætti ráði og fengu fimm skip að hausti og voru öll vel búin að vopnum og mönnum og öllum herskap. Það sýndist brátt að Ingimundur var djarfur í framgöngu og góður drengur, traustur til vopns og harðfengi, vinhollur og góðgjarn, fastnæmur við vini sína og svo mátti höfðingja best farið vera sem honum var í fornum sið.
Hann lýsir yfir því fyrir Grími að hann ætlaði heim til föður síns að hausti og vera þar um veturinn nokkura stund með tuttugu menn. Og svo gerðu þeir.
Það fannst á heldur að Þorsteini þótti nokkuð svo vita ofsa þarvist þeirra og eigi með fullri forsjá.
Ingimundur svarar: "Eigi líst mér svo og eigi áttu svo að mæla og sannlegra er hitt að þú beiðist slíks í móti sem þú vilt af fjáraflanum eftir siðvenju hermanna og neyta þess svo að sæmd fylgi. Nú samir þér vel að veita oss vistina með vorum tilföngum."
Þórdís mælti: "Vel er slíkt mælt og drengilega og svo mundi gert hafa móðurfaðir þinn."
Þorsteinn mælti: "Eg skal og svo gera og er skörulega mælt."
Þar eru þeir um veturinn fram um jól og er þar góð vist og glaðleg. Öllum þótti mikils um Ingimund vert, bæði um háttu hans og yfirbragð. Hann var kænn við alla leika og að allri atgervi vel fær og óágjarn við sér minni menn en harðfengur og framgjarn við sína óvini.
Og er jól leið mælti Ingimundur til föður síns: "Nú munum vér kumpánar fara til fóstra míns og vera þar það er eftir er vetrar því að hann mun kunna þökk að vér séum þar."
Þorsteinn mælti: "Hitt þætti mér nú ráð að þú værir með oss í vetur frændi."
Ingimundur kvaðst fyrir hinu ráð hafa gert og svo gerðu þeir. Ingjaldur tók við þeim forkunnar vel og sýndi á sér aufúsusvip og voru þeir þar um veturinn það er eftir var. Og er voraði þá segir Ingimundur að hann vill að þeir búi ferð sína í hernað, segir þá nú til alls betur færa en fyrr. Ingjaldur kvað það sannindi.
Síðan fóru þeir annað sumar í hernað og fengu miklar tekjur fjár af reyfurum og ránsmönnum þeim sem lögðust á fé bænda eða kaupmanna, fóru svo um sumarið.
Þá mælti Ingimundur: "Ef eigi verða stórar mannraunir í vorum ferðum þá er einsætt að fara með hernaðinum drengilega."
Allir hlýddu hans boði og banni.
Og er nokkuð svo var haustað komu þeir við Svíasker. Þar voru víkingar fyrir og bjuggust þegar hvorirtveggju til bardaga og börðust fyrst með skotum og grjóti. Engi var liðsmunur. Þar urðu margir menn sárir af hvorumtveggjum. Ingimundur fékk þar góðan orðstír þann dag og sannlega þóttust þeir góðum höfðingja þjóna er hans menn voru. Og er kveldaði varð á hvíld nokkur bardaganum.
Ingimundur mælti þá: "Látum eigi það á finnast að vér letjumst þótt þessi fundur hafi hóti heldur verið með nokkurri mannhættu."
Þá stóð maður upp á skipi þeirra sem fyrir voru. Hann var bæði mikill og vasklegur.
Sjá mælti: "Hverjir eru þessir menn er við oss hafa barist í dag? En það er ósiðlegt að menn hafast eigi orð við. Eru hér og engar sakir í milli áður svo að eg viti."
Ingimundur svarar: "Ef þú spyrð að forráðsmönnum vors liðs þá heitir annar Ingimundur en annar Grímur. Eða hver ertu?"
Hann svarar: "Sæmundur er mitt nafn. Er eg og formaður þessa liðs, sygnskur maður að ætterni. Kunnigt er mér og um yður frændur og þar sem vér erum samlendir menn þá samir oss betur að vera eins liðs en berjast. Höfum vér og góða eina frétt til yðvar. Nú viljum vér mæla til vinganar við yður, eigi fyrir því að vér þurfum friðar að biðja fyrir liðsmunar sakir."
Ingimundur svarar: "Vel viljum vér þetta mál virða og leggja eigi til hallmælis. Nú munum vér eigi kjósa oss þann hlut til handa að girnast við yður til óviss frama en hafa nú handtekinn frið og vináttu yðra."
Nú settu þeir grið og frið sín í milli og héldu síðan allir saman það er eftir var sumarsins og varð þeim nú gott til fjár og sóma og sigldu um Sognsjó um haustið. Sæmundur kvað þá þar skiljast mundu og finnast þar að sumri með vináttu. Ingimundur játtar því. Sæmundur hélt nú í fjörðinn en Ingimundur sigldi norður með landi og hafði mörg skip og mikið fé. Hann fór til föður síns með sex tigu manna.
Grímur mælti: "Ætlar þú eigi nú fóstbróðir að föður þínum þyki ærnir gestir?"
Hann kvaðst ætla að nú væri nær hófi. Þorsteinn gekk í mót syni sínum og bauð honum með allri ölúð. Ingimundur kvaðst svo gera mundu.
Þorsteinn veitti þeim stórmannlega um veturinn og kvaðst vel við una að eiga þvílíkan son og kvaðst hafa snemma séð á honum frændagiftu "og svo sem eg sé að þinn þroski vex þá skaltu hafa af mér því meiri sóma."
Ingimundur var þar um veturinn og þótti mjög fara vaxandi hans virðing. Því meira lét hann til sín koma um fégjafir og aðra stórmennsku sem föngin voru nægri.
En er voraði þá ræddu þeir um ferðir sínar fóstbræður. Grímur kvaðst eigi mundu um breyta og fylgja honum. Síðan réðust þeir í hernað og kom Sæmundur til móts við þá sem mælt var og fóru allir samt um sumarið. Þeir áttu saman félag um þrjú sumur í samt fyrir vestan haf og öfluðu fjár og góðs orðróms. Ingimundur var fyrir þeim öllum um ráðagerðir og vitsmuni og allan skörungskap og var þeirra félagsskapur að öllu merkilegur. Ingimundur var með föður sínum á vetrum. Þóttist Þorsteinn og aldrei fullmikinn geta gert sóma Ingimundar sonar síns þegar hann sá hvelíkur maður hann vildi verða.
8. kafliÞess er getið hið síðasta sumar er þeir Sæmundur áttu fé saman og komu þá með miklu meira herfangi en fyrr þá gerðust þau tíðindi í Noregi að her safnaðist saman austur við Jaðar og var þá kominn nálega allur landher í tvo staði. Var þar öðrum megin Haraldur er var kallaður lúfa. Hann barðist í mót landshöfðingjum og átti þann hinn síðasta bardaga áður hann ynni allt land undir sig er hann barðist í Hafursfirði, sem víða getur í sögum. Og í því bili komu þeir Ingimundur og Sæmundur í land, sem sagt var áður, þar nær sem herinn var saman kominn.
Þá mælti Ingimundur: "Hér horfist nú til mikilla tíðinda því að hér eiga hlut í allir hinir stærstu menn innanlands þótt eg telji Harald konung mest verðan og sá maður er mér vel að skapi og vil eg honum bjóða mitt lið því að eigi er það við hvoriga muni."
Sæmundur kvaðst eigi mundu hætta lífi sínu fyrir hans sakir. Kom hann og eigi í þann bardaga.
Ingimundur svarar: "Sjá máttu fóstbróðir að mikill er afli konungs eða hvort þeim gegnir betur er með honum eru eða hinum er í mót honum standa að því er eg hygg. Mun hann það og góðu launa þeim er honum veita nú sæmd og eftirgöngu. En mér mundi þykja óvíst hvað fyrir lægi ef eigi er hans vilji ger og mun það skilja með okkur."
Síðan sigldi Sæmundur frá og inn eftir Sognsjó með sitt lið en Ingimundur sigldi inn í Hafursfjörð og leggur að skipaflota Haralds konungs. Þessir höfðingjar voru mestir í mót Haraldi konungi: Þórir haklangur og Ásbjörn kjötvi. Þeir höfðu allmikið lið og harðsnúið.
Ingimundur lagði að við lyftinguna á konungsskipinu og kvaddi konung á þessa leið: "Heill, heill, herra."
Konungur svarar: "Vel fagnar þú eða hver ertu?"
"Ingimundur heiti eg og er Þorsteinsson og því hér kominn að eg vil bjóða yður mitt lið og hyggjum vér þá betur hafa er yður veita en hina er við rísa. Er eg nýkominn úr hernaði með nokkurum skipum."
Konungur tók vel hans máli og kvaðst hans heyrt hafa getið að góðum hlutum "og það mundi eg vilja að þér yrði launað þitt starf því að eg skal allan Noreg undir mig leggja. Og mikinn mun á eg að gera þeirra er mér vilja þjóna eða þeirra er nú hlaupast á braut í flokka fjandmanna vorra eða til eigna sinna sem eg hefi spurt að Sæmundur hefir gert félagi þinn og kalla eg meira manndóm sýnast í slíkum tiltektum sem þú hefir haft."
Ingimundur segir Sæmundi mart þjóðvel gefið.
9. kafliEftir þetta kváðu við lúðrar um allan herinn og bjuggust menn til, hver eftir sínum efnum. Þenna bardaga átti Haraldur konungur mestan. Þá var með honum Rögnvaldur af Mæri og margir aðrir stórir höfðingjar og þeir berserkir er úlfhéðnar voru kallaðir. Þeir höfðu vargstakka fyrir brynjur og vörðu framstafn á konungsskipinu en konungur sjálfur varði lyftingina með hinni mestu prýði og karlmennsku. Mátti þar sjá mörg högg bæði og stór. Nú gerðust brátt mörg tíðindi og stór á skammri stundu í höggum og spjótalögum með grimmlegri grjótflaug. Gerðist nú skjótt mikið mannfall af hvorumtveggjum. Ingimundur fylgdi vel Haraldi konungi og aflaði sér góðs orðs. Fundinum lauk svo sem mörgum er kunnigt og fullfrægt er orðið að Haraldur konungur fékk ágætan sigur og varð síðan einvöldugur yfir öllum Noregi. Hann launaði höfðingjum öllum þeim er honum fylgdu og svo hverjum öðrum með hinni mestu stórmennsku.
Rögnvaldi gaf hann jarldóm og mælti: "Þú hefir sýnt mikinn manndóm í fylgd þinni við mig. Þú hefir og látið son þinn fyrir mínar sakir og má hann eigi aftur gjalda en hitt má eg að launa þér sæmdum, fyrst því að verða jarl og þar með eyjar þær er liggja fyrir vestan haf er Orkneyjar heita. Þær skaltu hafa í sonarbætur. Margan annan sóma skaltu þiggja af mér" og það efndi konungur.
Rögnvaldur sendi vestur Hallað son sinn og gat hann eigi haldið ríkinu fyrir víkingum. Þá sendi hann Torf-Einar son sinn og lést vænta að hann mundi halda ríkinu. Hann var jarl fyrstur á Orkneyjum og af honum eru komnir allir Orkneyjajarlar sem segir í ævi þeirra.
Haraldur konungur gaf mörgum stór lén fyrir sína fylgd og virti svo mikils við menn hvort með honum höfðu verið eða móti að alla gæddi hann þá að nokkurum hlutum en hina sem honum höfðu mótsnúnir verið rak hann úr landi, meiddi eða drap svo að engir fengu nokkura viðréttu.
Síðan mælti konungur til Ingimundar: "Mikla vináttu hefir þú við mig sýnt en aukið sjálfum þér frama. Skal eg ávallt þinn vin vera en hlutskipti þitt skulu vera þrjár skipshafnir. Þar með skaltu hafa herbúnað allan þeirra víkinga er þú barðist við og til marks að þú hefir verið í Hafursfirði skaltu eignast að gjöf hlut þann er átt hefir Ásbjörn kjötvi sem hann hafði mestar mætur á. Nú er það meir til sanninda þessa fundar en það sé mikið fé en þó sæmd í að þiggja af oss. En þá er vér höfum skipað ríki vort skal eg launa þér liðsemdina með heimboði og vingjöfum."
Ingimundur þakkar konungi gjafir og góð orð og skildust með því. Konungur sagðist og minnugur vera skyldi Sæmundar fyrir sínar tiltekjur og drottinssvik við sig.
10. kafliIngimundur hitti brátt eftir bardagann í Hafursfirði Sæmund og segir honum að eigi hefir fjarri farið hans hugboði um fundinn: "Eg veit og sakir orða konungs að þér hæfir eigi kyrrum að sitja og kalla eg ráð að þú leitir undan því að konungur mun efna heit sín en eg spara þig til harðra álaga fyrir okkarn vinskap. Þætti mér eigi óráðlegt að þú leitaðir til Íslands sem nú gera margir virðingamenn þeir sem eigi bera traust til að halda sig fyrir ríki Haralds konungs."
Sæmundur mælti: "Sýnir þú í þessu sem öðru trúskap þinn og vingan og mun eg þetta ráðs taka."
Ingimundur bað hann svo gera "og hefði betur verið að þú hefðir mér fylgt í Hafursfirði og þurfa nú eigi að fara í eyðisker þetta."
Sæmundur kvað hann mörgu nær geta. Síðan seldi hann jarðir sínar á laun og bjóst til brautferðar en þakkaði Ingimundi sín tillög og mælti enn til vináttu. Sæmundur fór síðan til Íslands og kom í Skagafjörð. Var þá enn víða ónumið landið. Hann fór með eldi að fornum sið og nam sér land þar er nú heitir Sæmundarhlíð í Skagafirði og gerðist þroskamikill maður. Son hans hét Geirmundur en Reginleif dóttir er átti Þóroddur hjálmur. Þeirra dóttir var Hallbera, móðir Guðmundar hins ríka á Möðruvöllum og Einars Þveræings.
Ingimundur fór til föður síns eftir bardagann í Hafursfirði með miklum sóma.
Þorsteinn tók við honum báðum höndum og sagði hann hamingjusamlega snúið hafa sínum ráðum, kvað það og líklegt "þar sem þú ert dótturson Ingimundar jarls, hins göfgasta manns."
Hann var þar um veturinn og á þeim vetri kom Ingjaldur til Þorsteins og varð þar mikill fagnafundur.
Ingjaldur kvað þá komið í það efni um Ingimund sem honum hefði hugur sagt "en veislu hefi eg þér nú búna fóstri minn með öllum þeim föngum sem eg hefi til."
Ingimundur kvaðst og koma mundu. Ingjaldur fór heim og bauð mörgum mönnum með sér. Síðan fór hver sem boðið var.
Þeir Ingjaldur efna þar seið eftir fornum sið til þess að menn leituðu eftir forlögum sínum. Þar var komin Finna ein fjölkunnig. Ingimundur og Grímur komu til veislunnar með miklu fjölmenni. Finnan var sett hátt og búið um hana veglega. Þangað gengu menn til frétta hver úr sínu rúmi og spurðu að örlögum sínum. Hún spáði hverjum eftir því sem gekk en það var nokkuð misjafnt hversu hverjum líkaði. Þeir fóstbræður sátu í rúmum sínum og gengu eigi til frétta. Þeir lögðu og engan hug á spár hennar.
Völvan mælti: "Hví spyrja þeir hinir ungu menn eigi að forlögum sínum því að mér þykir þeir merkilegastir menn af þeim sem hér eru saman komnir?"
Ingimundur svarar: "Mér er eigi annara að vita mín forlög fyrr en fram koma og ætla eg mitt ráð eigi komið undir þínum tungurótum."
Hún svarar: "Eg mun þó segja þér ófregið. Þú munt byggja land er Ísland heitir. Það er enn víða óbyggt. Þar muntu gerast virðingamaður og verða gamall. Þínir ættmenn munu og margir verða ágætir í því landi."
Ingimundur svarar: "Þetta er af því vel sagt að það hefi eg einhugsað að koma aldrei í þann stað og eigi verð eg þá góður kaupmaður ef eg sel áttjarðir mínar margar og góðar en fari í eyðibyggðir þær."
Finnan svarar: "Þetta mun fram koma sem eg segi og það til marks að hlutur er horfinn úr pússi þínum, sá er Haraldur konungur gaf þér í Hafursfirði, og er hann nú kominn í holt það er þú munt byggja og er á hlutnum markaður Freyr af silfri. Og þá er þú reisir bæ þinn mun saga mín sannast."
Ingimundur svarar: "Ef fóstra mínum væri eigi mótgerð í þá mundir þú taka launin í höfði þér. En með því eg er eigi ágangsmaður eða tyrrinn þá mun það fyrir farast."
Hún kvað þetta eigi þurfa að reiðimálum gera. Ingimundur segir hana þar illu heilli hafa komið. Hún kvað nú svo búið vera mundu hvort er honum þætti vel eða illa.
Og enn mælti hún: "Gríms eru og forlög þangað og svo bróður hans, Hrómundar, og munu þeir báðir verða gildir bændur."
Um morguninn eftir leitaði Ingimundur hlutarins og fann eigi. Það þótti honum eigi góðs viti.
Ingjaldur bað hann vera glaðan og láta þetta eigi á sig bíta eða fyrir gleði standa og kvað marga ágæta menn láta sér nú sóma að fara til Íslands: "Hefir mér og gott eina til gengið þótt eg byði hingað Finnunni."
Ingimundur sagðist honum enga þökk fyrir þetta kunna "en þó mun aldrei týnast okkað vinfengi."
Síðan fer Ingimundur heim til föður síns og var þar um veturinn. Og er voraði spurði hann fóstbræður sína um ferðirnar hvað þeim sýndist.
Grímur kvaðst hyggja að eigi mundi tjóa að brjótast við forlögunum "og ætla eg nú í sumar til Íslands og við báðir bræður og láta sér nú það margir sóma þótt göfgir séu. Er mér sagt gott frá landakostum að þar gangi fé sjálfala á vetrum en fiskur í hverju vatni, skógar miklir en frjálsir af ágangi konunga og illræðismanna."
Ingimundur svarar: "Eigi mun eg þangað og mun það skilja með okkur."
Grímur kvað svo vera mega "en eigi kemur mér það á óvart þótt við finnumst á Íslandi því að óhægt mun forlögin að flýja."
Ingimundur kvað sér víst sviptu að þeirra skilnaði.
Grímur sigldi út um sumarið og báðir þeir bræður, komu í Borgar fjörð og lögðu inn að Hvanneyri. Grímur kvaðst ætla að það land mundi hann nema sér til ábúðar. Hann tók sér landnám svo mikið að þar eru nú bæir margir í hans landeign. Hrómundur kvaðst mundu leita upp til fjalla og kvaðst þar mundu yndi nema í fjallaendum. Grímur kvað það vel efnað að þeir hefðu bæði jarðkost fjallanna og þó neyti af sjónum. Hrómundur nam Þverárhlíð og þótti vera merkismaður og kynsæll. Frá honum er kominn Illugi svarti. Grímur varð og kynsæll og kom mart göfugmenni frá honum þótt hér séu eigi nefndir.
11. kafliÞað sumar er þeir bræður fóru til Íslands þá fór Ingimundur til föður síns og var með honum. Þorsteinn faðir hans tók þá að eldast.
Og eitt sinn mælti Þorsteinn til Ingimundar: "Gott er nú að deyja og vita son sinn slíkan hamingjumann. Uni eg því best við ævi mína að eg hefi verið engi ágangsmaður við menn. Er og líkast að með þeim enda slitni ævi mín því að eg kenni nú sóttar. Nú vil eg þér frændi í kunnleika gera fjárfar mitt hvert er en eigi þykir mér kynlegt þótt þér svífi af þessum ættjörðum og læt eg mér eigi að því þykja."
Ingimundur kvaðst hug mundu á leggja að breyta eftir hans fyrirsögn. Þorsteinn kvaðst ætla að Ingimundur mundi þykja þar mikilmenni sem hann byggði hvar sem hann væri. Þorsteinn segir honum þá marga hluti fyrir og brátt eftir það andaðist hann. Var honum þá veittur sæmilegur umbúnaður eftir fornum sið. Ingimundur tók við fjárforráðum og öllum eignum. Ætlaði hann þar að nema yndi og settist nú um kyrrt.
12. kafliHaraldur konungur hinn hárfagri var nú kominn í fullan frið og kyrrsetu, er mestur hefir verið allra fornkonunga í Norðurlöndum. Hann minntist þá þess er hann hafði játtað vinum sínum og gerði þeim nú ríkulegar veislur með stórum sæmdum.
Hann bauð einkum Ingimundi og er hann kom tók konungur allvel við honum og mælti svo: "Þitt ráð spyrst mér á margan hátt sómasamlegt en þó skortir þig einn hlut, að þú ert kvonlaus, en þó hefi eg hugsað þér ráðakost. Var mér það í hug er þú lagðir líf þitt í hættu fyrir mitt líf. Dóttir Þóris jarls þegjanda heitir Vigdís. Hún er kvenna fríðust og með miklu fé. Því ráði mun eg þér í hendur koma."
Ingimundur þakkaði konungi og kvaðst fús vera þessa ráðahags. Konungur veitir veislu þessa með miklum ríkdóm og metnaði og fara menn heim. Eftir þetta efnar Ingimundur til brúðhlaupsgerðar og að því búnu kemur þar Haraldur konungur og mart annað stórmenni. Gengur Ingimundur að eiga Vigdísi eftir því sem stofnað var. Þetta brúðkaup var veitt með hinni mestu virðingu. Konungur lagði þar til mikinn kost í fégjöfum og annarri sæmd.
Ingimundur mælti til konungs: "Nú uni eg allvel við minn kost og stór heiður er að verða fyrir yðrum góðvilja en það stendur mér í hug er Finnan hefir mér spáð um ráðabreytni því að eg vildi að það sannaðist eigi að eg færi af ættjörðum mínum."
Konungur svarar: "Þar kann eg þó eigi af að taka nema það sé til nokkurs gert og vilji Freyr þar láta sinn hlut niður koma er hann vill sitt sæmdarsæti setja."
Ingimundur kvað sér fýst á að vita hvort hann fyndi hlutinn eða eigi þá er grafið væri fyrir öndvegissúlum hans: "Kann og vera að það sé eigi til engis gert. Er nú og eigi því að leyna herra að eg ætla að gera eftir Finnum þeim er mér sýni héraðsvöxt og landsskipan þar sem eg skal vera og ætla eg að senda þá til Íslands."
Konungur kvað hann það mega gera "en það hygg eg að þangað munir þú koma og er það ugglegt hvort þú ferð í lofi mínu eða leynist þú sem nú tekur mjög að tíðkast."
"Það mun mér aldrei verða," segir Ingimundur, "að eg fari í banni þínu."
Síðan skildu þeir konungur. Fór Ingimundur heim og sat að búm. Hann sendir eftir Finnum og komu norðan þrír.
Ingimundur segir að hann vill kaupa að þeim "og vil eg gefa yður smjör og tin en þér farið sendiferð mína til Íslands að leita eftir hlut mínum og segja mér frá landslegi."
Þeir svara: "Semsveinum er það forsending að fara en fyrir þína áskorun viljum vér prófa. Nú skal oss byrgja eina saman í húsi og nefni oss engi maður."
Og svo var gert. Og er liðnar voru þrjár nætur kom Ingimundur til þeirra.
Þeir risu þá upp og vörpuðu fast öndinni og mæltu: "Semsveinum er erfitt og mikið starf höfum vér haft en þó munum vér með þeim jarteinum fara að þú munt kenna land, ef þú kemur, af vorri frásögn en torvelt varð oss eftir að leita hlutinum og mega mikið atkvæði Finnunnar því að vér höfum lagt oss í mikla ánauð. Þar komum vér á land sem þrír firðir gengu af landnorðri og vötn voru mikil fyrir innan einn fjörðinn. Síðan komum vér í dal einn djúpan og í dalnum undir fjalli einu voru holt nokkur. Þar var byggilegur hvammur og þar í holtinu öðru var hluturinn. Og er vér ætluðum að taka hann þá skaust hann í annað holtið og svo sem vér sóttum eftir hljóp hann æ undan og nokkur hulda lá ávallt yfir svo að vér náðum eigi og muntu sjálfur fara verða."
Hann kvaðst þá og skyldu brátt fara og kvað eigi mundu stoða við að sporna. Vel gerði hann við Finna og fóru þeir braut en hann settist um kyrrt að búm sínum og var vel auðigur að fé og góður drengur.
Síðan hitti hann konung og sagði honum sína meðferð og fyrirætlan. Konungur kvað sér slíkt eigi á óvart koma og sagði óhægt að gera við ákveðnu.
Ingimundur kvað það satt "og hefi eg nú alls í leitað."
Konungur mælti: "Hvar landa sem þú ert muntu sæmdarmaður vera."
Konungur fékk honum enn sem fyrr nokkurn sæmdarhlut.
Eftir það gerði Ingimundur veislu og bauð til vinum sínum og höfðingjum með miklum ríkdóm og að þeirri veislu kvaddi hann sér hljóðs og mælti: "Ráðabreytni hefi eg ætlað fyrir mér og hygg eg mig fara munu til Íslands meir af forlögum og atkvæði rammra hluta en fýsi. En það er heimilt þeim er fara vilja með mér. Hinum er og leyfilegt eftir að vera er það vilja og jafnkomnir eru hvorirtveggju vorir vinir hvort sem heldur vilja kjósa fyrir sig."
Mikill rómur varð að máli hans og sögðu mikinn skaða að slíks manns brottferð "en þó er fátt sköpum ríkara."
Urðu og þess margir búnir að fara með Ingimundi þeir er mikils voru virðir, bæði bændur og lausir menn.
13. kafliÞenna tíma var sem mest sigling til Íslands og í það mund fæddi Vigdís barn. Það var sveinn. Sá var vænn mjög. Ingimundur leit á sveininn og mælti: "Sjá sveinn hefir hyggilegt augnabragð og skal eigi seilast til nafns. Hann skal heita Þorsteinn og mun eg þess vilnast að hamingja mun fylgja."
Sjá sveinn var snemma vænn og gervilegur, stilltur vel, orðvís, langsær, vinfastur og hófsmaður um alla hluti.
Son áttu þau annan. Sjá var og borinn að föður sínum og skyldi hann ráða fyrir nafni.
Hann leit á og mælti: "Þessi sveinn er allmikilfenglegur og hefir hvassar sjónir. Hann mun verða, ef hann lifir, og eigi margra maki og eigi mikill skapdeildarmaður en tryggur vinum og frændum og mun vera mikill kappi ef eg sé nokkuð til. Mun eigi nauður að minnast Jökuls frænda vors sem faðir minn bað mig og skal hann heita Jökull."
Hann óx upp og gerðist afreksmaður að vexti og afli. Hann var fálátur, ómjúkur og ódæll, harðúðigur og hraustur um allt.
Þórir hét hinn þriðji son Ingimundar skírgetinn. Hann var vænn maður og mikill vexti og hafði mjög á sér kaupmanns æði. Fjórði hét Högni, fimmti Smiður. Hann var frilluson. Þorsteinn var þeirra vitrastur allra bræðra. Þórdís hét dóttir Ingimundar, heitin eftir móður hans, önnur Jórunn.
Jörundur hét maður og var son Þóris jarls þegjanda, bróðir Vigdísar. Hann lýsir yfir því að hann mun fara til Íslands með Ingimundi, lét bæði til halda vingan og mágsemd. Ingimundur lést því vel kunna. Hvati hét maður og Ásmundur, þrælar Ingimundar. Þá hét maður Friðmundur, annar Þórir, þriðji Refkell, fjórði Úlfkell, fimmti Böðvar. Þessir menn bjuggu ferð sína til Íslands með Ingimundi og höfðu allir stórfé.
14. kafliNú lætur Ingimundur í haf þegar hann var búinn með sitt föruneyti og áttu góða útivist og komu út vestur fyrir Ísland og sigldu inn á Borgarfjörð í Leiruvog. Brátt spurðist skipkoman.
Grímur reið til skips og fagnaði vel fóstbróður sínum og kvaðst mikla þökk kunna hans þarkomu "og kemur hér nú að því sem mælt er að torsótt er að forðast forlögin."
Ingimundur kvað það satt vera "og verður eigi við gert fóstbróðir."
Grímur mælti: "Það er mitt boð að þú farir heim til mín og lið þitt allt og haf allt það af mínu fé er þú vilt, hvort það eru lönd eða aðrir aurar."
Ingimundur þakkar boðið og kvaðst mundu vera hjá honum í vetur "en þar sem eg hefi breytt ráðahag mínum til þessar ferðar þá mun eg þangað á leita sem mér var á vísað til landnáma, af tómi."
Ingimundur fór á Hvanneyri, kona hans og synir en lið hans var þar allt umhverfis. Grímur veitti þeim stórmannlega og lét ekki undan dregið þeim til sæmdar um veturinn. En er voraði þá lét Grímur enn sem fyrr innan handar allt það er hann átti um land eða aðra hluti.
Ingimundur kvað honum fara allt sem best sem von var að "en norður mun eg halda en um flutning og farargreiða verðum vér þín að njóta."
Grímur kvað svo vera skyldu. Slíkt sama gerði og Hrómundur því að allir fögnuðu Ingimundi ágæta vel.
Hann fór norður um sumarið í landaleitun og fór upp Norðurárdal og kom ofan í eyðifjörð einn. Og um daginn er þeir fóru með þeim firði þá hlupu úr fjalli að þeim tveir sauðir. Það voru hrútar.
Þá mælti Ingimundur: "Það mun vel fallið að þessi fjörður heiti Hrútafjörður."
Síðan komu þeir í fjörðinn og gerði þá þoku mikla. Þeir komu á eyri eina. Fundu þeir þar borð stórt nýrekið.
Þá mælti Ingimundur: "Það mun ætlað að vér skulum hér örnefni gefa og mun það haldast og köllum eyrina Borðeyri."
Þá leið á sumarið því að mart var að færa en farið síð og komu nær vetri í dal þann er allur var víði vaxinn.
Þá mælti Ingimundur: "Sjá dalur er mjög víði vaxinn. Köllum hann Víðidal og hér ætla eg líkast til vetursetu."
Þeir voru þar vetur annan og gerðu sér þar skála er nú heitir Ingimundarhóll.
Þá mælti Ingimundur: "Nú mun eigi vera vistin jafnglöð sem í Noregi en eigi þarf nú að minnast á það því að margir góðir drengir eru hér enn saman komnir til gamans og gleðjumst enn eftir tilföngum."
Allir tóku vel undir. Þar voru þeir um veturinn og höfðu leika og alls kyns gleði.
15. kafliEn er voraði og nokkuð leysti snjó úr hlíðum þá mælti Ingimundur: "Forvitni er mér á að vita ef nokkurir menn gengju á hátt fjall og sæju ef nokkuð væri snjóminna að sjá í aðra staði því að eigi þykir mér sem vér munum í þessum dal búnað reisa og eigi er ellegar jafnkeypi."
Síðan gengu menn á fjall eitt hátt og sá víða þaðan.
Þeir komu aftur og sögðu Ingimundi að fjöll voru snjólaus mjög þau er lágu í landnorður "og gott til að líta en hér er sem hin sama hríð sé ávallt er vér erum og kunnum vér það að sjá að þar eru landskostir miklu betri."
Ingimundur svarar: "Þá er hóf að og væntum enn að nokkuð grænt mun fyrir liggja. Svo mun hlut til draga."
Nú búast þeir snemma um vorið og er þeir nálgast norður til Vatnsdals þá mælti Ingimundur: "Sú mun sannast spáin Finnanna, því að nú kenni eg landsleg að frásögn þeirra, að hér mun oss að vísað, og vænkast nú mjög. Eg sé nú og land að víðleika með vexti og ef þar fylgja kostir þá má vera að hér sé vel byggjanda."
Og er þeir komu að Vatnsdalsá þá mælti Vigdís kona Ingimundar: "Hér mun eg eiga dvöl nokkura því að eg kenni mér sóttar."
Ingimundur svarar: "Verði það að góðu."
Þá fæddi Vigdís meybarn. Hún var Þórdís kölluð.
Ingimundur mælti: "Hér skal Þórdísarholt heita."
Síðan sótti liðið upp í dalinn og sá þar góða landakosti að grösum og skógum. Var fagurt um að litast. Lyfti þá mjög brúnum manna. Ingimundur nam Vatnsdal allan fyrir ofan Helgavatn og Urðarvatn. Þórdísarlækur fellur vestan í Smiðjuvatn. Ingimundur kaus sér bústað í hvammi einum mjög fögrum og efnaði til bæjar. Hann reisti hof mikið hundrað fóta langt og er hann gróf fyrir öndvegissúlum þá fann hann hlut sinn sem honum var fyrir sagt.
Þá mælti Ingimundur: "Það er þó satt að segja að eigi má við sköpunum sporna en þó skal nú á þetta góðan hug leggja. Bær sjá skal heita að Hofi."
Menn Ingimundar skipuðu sér um dalinn og tóku bústaði að hans ráði.
Þetta haust voru íslög mikil og er menn gengu á ísana þá fundu menn birnu eina og með henni húna tvo.
Ingimundur var í þeirri ferð og kvað það Húnavatn heita skyldu "en fjörður sá er flóir allur af vötnum, hann skal heita Vatnafjörður."
Eftir það fór Ingimundur heim. Hann setti saman virðulegt bú og gerðist brátt yfirmaður Vatnsdæla og þeirra sveita er nálægstar voru. Hann átti mart ganganda fé, bæði naut og sauði og annan búsmala.
Það sama haust hurfu frá honum sauðir og fundust um vorið í skógum. Þar heitir nú Sauðadalur. Og má af því marka landskosti þá er í það mund voru að féið gekk allt sjálfala úti.
Þess er enn getið að svín hurfu frá Ingimundi og fundust eigi fyrr en annað sumar að hausti og voru þá saman hundrað. Þau voru stygg orðin. Göltur einn mikill og gamall fylgdi þeim og var kallaður Beigaður. Ingimundur safnar mönnum til að henda svínin og kvað svo rétt að mæla að tvö höfuð væru á hvívetna. Þeir fóru eftir svínunum og ráku að vatni því er nú er kallað Svínavatn og vildu kvía þar við en gölturinn hljóp á vatnið og svamm yfir og varð svo móður að af honum gengu klaufirnar. Hann komst á hól einn er nú heitir Beigaðarhóll og dó þar. Ingimundur festi nú yndi í Vatnsdal. Þá gerðust og margar sveitir byggðar. Tókust þá upp lög og landsréttur.
16. kafliÞá er Ingimundur hafði búið nokkura hríð að Hofi lýsir hann utanferð sinni að sækja sér húsavið því að hann kvaðst vel vilja sitja bæ sinn og kvaðst vænta að Haraldur konungur mundi honum vel taka. Vigdís segir hann vænan til góðs. Hann setti menn yfir féforráð sín með Vigdísi. Ingimundur hafði bjarndýrin með sér. Honum fórst greitt og kom við Noreg. Hann hélt fréttum til Haralds konungs. Var allt kyrrt í landi. Og er hann fann Harald konung þá var honum vel fagnað. Bauð konungur honum með sér að vera og það þá Ingimundur. Hann var um veturinn með mikilli sæmd haldinn af konungi.
Konungur spurði hvernig honum hugnuðu landakostir.
Hann lét vel yfir "en það er mitt erindi mest að afla mér húsaviðar."
Konungur mælti: "Það er vel gert. Er þér og heimil vor mörk sem þú vilt höggva láta en eg mun láta til skips færa og skaltu engan hlut um það annast og ver með mér."
Ingimundur mælti: "Hér máttu sjá herra bjarndýri er eg náði á Íslandi og vildi eg að þú þægir af mér."
Konungur svarar: "Eg vil víst þiggja og kunna þökk fyrir."
Þeir skiptust mörgum gjöfum við um veturinn og er voraði var búið skip Ingimundar með farmi þeim er hann kaus og því viðarvali er best fékk.
Konungur mælti: "Eg sé það Ingimundur að þú munt eigi sjálfur ætla oftar að fara til Noregs. Nú þyrftir þú að hafa svo mikinn við að þér nægði en það má eigi eitt skip bera. Nú er hér að líta á nokkur skip. Kjós hér af hvert er þú vilt."
Ingimundur mælti: "Kjósið herra mér til handa. Það mun mestri giftu stýra."
"Svo skal og vera, mér er kunnast um. Hér er skip er Stígandi heitir er vér köllum bíta í siglingu, allra skipa best og farsælla en hvert annarra og það mun eg kjósa þér til handa. Skipið er frítt og eigi mikið."
Ingimundur þakkar konungi gjöfina. Síðan fór hann af konungs fundi með mörgum vingjöfum. Hann sér brátt hversu fljótt skip Stígandi var.
Þá mælti Ingimundur: "Vel hefir konungur mér skip valið og það má rétt heita Stígandi er svo les hafið."
Þeir komu við Ísland og sigldu fyrir norðan og svo vestur fyrir. Það höfðu engir áður gert. Ingimundur kom báðum skipunum í Húnavatnsós og gaf þar öll örnefni er síðan hafa haldist. Þar heitir Stígandahróf er hann var upp settur.
Þetta spyrst nú víða, útkoma Ingimundar, og létu allir vel yfir því er hann kom heim. Ingimundur átti ágætt bú með nógum efnum. Hann bætti nú mikið bæ sinn því að efnin voru nóg. Hann fékk sér og goðorð og mannaforráð.
Jörundur háls er annar maður var mestur sá er út kom með Ingimundi, hann nam sér land að ráði Ingimundar mágs síns fyrir utan Urðarvatn og til Mógilslækjar og bjó á Grund út frá Jörundarfjalli í Vatnsdal og var mikill maður fyrir sér sem ætterni hans var til. Már hét son hans er bjó á Mársstöðum í Vatnsdal, virðulegur maður. Þeir óxu upp samtíðis og Ingimundarsynir. Þá gerðist fjölbyggður dalurinn.
Hvati hét maður er út kom með Ingimundi. Hann nam land frá Mógilslæk til Giljár.
Ásmundur nam land út frá Helgavatni og um Þingeyrasveit.
Sauðadalur liggur fyrir austan Vatnsdal en þá Svínadalur og er þar í Svínavatn og Beigaðarhóll.
Þórólfur hét maður og var kallaður heljarskinn. Hann nam land í Forsæludal. Hann var ójafnaðarmaður mikill og óvinsæll. Hann gerði margan óskunda og óspekt í héraðinu. Hann gerði sér virki suður við Friðmundará skammt frá Vatnsdalsá við gjá eina og gekk nes í milli gjárinnar og árinnar en hamar stór fyrir framan. Grunaður var hann um það að hann mundi blóta mönnum og var eigi sá maður í dalnum öllum er óþokkasælli væri en hann.
Á Hvatastöðum hét þar er Hvati bjó en Ásmundur að Gnúpi.
Óttar hét maður er bjó í Grímstungum. Hann átti Ásdísi dóttur Ólafs frá Haukagili. Þeirra son var Hallfreður vandræðaskáld en dóttir hans hét Valgerður, ofláti mikill og væn að sjá.
17. kafliNú líða svo stundir fram. Ingimundur gerðist nokkuð aldraður og hélt hann ávallt búrisnu sinni. Eigi er hér getið þingdeilda hans að hann ætti stórmálum að skipta við menn því að hann varð samhuga við flesta og óágangsamur. Gott var þá mannval víða þar nálægt þótt hann væri með mestri virðingu og hélt til þess góðgirnd hans, stórlæti og vitsmunir. Synir hans óxu upp og voru allir gervilegir, með því móti sem fyrr segir.
Þess er getið eitt sumar að skip kom í Húnavatnsós er norrænir menn áttu. Stýrimaður hét Hrafn. Hann var fálátur í skaplyndi, stór og ódæll og mikill af sjálfum sér, hafði verið lengi í víkingu og bjóst mjög að vopnum og klæðum.
Ingimundur var vanur fyrstur manna til skips að koma og taka af varningi slíkt er honum sýndist og enn gerði hann svo, hitti stýrimann að máli og lét honum heimila vist með sér ef hann vildi. Hrafn kvað og eigi annað sýnna og fór hann heim með Ingimundi og hélt hann háttum sínum, var mjög einn um sitt. Fleiri höfðu þeir verið með Ingimundi að honum hafði betur við líkað því að Hrafn var honum eigi fylgjusamur en mjög ólíkur. Jafnan hafði hann í hendi gott sverð. Oft renndi Ingimundur augum til sverðsins og eitt sinn beiddist hann að sjá. Hrafn sagði þess mundu kost. Ingimundur tók við og brá. Eigi þótti honum þá minna um vert og spurði ef hann vildi selja. Hrafn kvaðst eigi svo féþurfi að hann seldi vopn úr hendi sér en sagði að bóndi skyldi sjá stað forgiftar sinnar af sér og kvaðst þar verið hafa er hann þurfti vopna við og kvað enn mega svo vera. Ingimundur reiddist mjög og þótti hann vanvirða sig og leitaði sér ráðs.
Og einn tíma er hann gekk til hofs síns stillti hann svo til að Austmaðurinn fór með honum. Ingimundur talar þá til hans hugarlátlega það er hann fann er honum var best að skapi. Hann vildi jafnan ræða um víking sína og herferðir. Ingimundur gekk inn í hofið fyrir og eigi finnur hann fyrr en Hrafn hleypur inn í hofið með sverðið.
Ingimundur snerist við honum og mælti: "Eigi er það siður að bera vopn í hofið og muntu verða fyrir goða reiði og er slíkt ófært nema bætur komi fram."
Hrafn svarar: "Hér hefir þú lengi um setið og ráð til sett og ef eg hefi misgert í lögum yðrum þá ætla eg það ráð að þú gerir um því að þú ert kallaður sannsýnn maður."
Ingimundur kvað það vænlegt til bóta að hann sæmdi goðin en lét það helst að duga að hann gerði eigi að sjálfvilja sínum "og því mun eigi jafnmikilla fyrir von hefndanna" og kvað það sannlegast að hann gæfi sverðið í vald hans því að hann lést eiga og því að stjórna og mýkja svo reiði goðanna.
Hrafn kvað hann mikið fé annað af sér hafa gert að eigi þætti honum það betra "og mun þér annað stórmannlegar fara."
Hann fór á brott um sumarið og er úr þessi sögu. Þetta sverð áttu þeir feðgar meðan þeir lifðu og kölluðu Ættartanga.
Eyvindur hét maður og var kallaður sörkvir. Hann kom út með Ingimundi og fór utan eitt sumar og þeir Þórormur. Þeir voru vinir. Ingimundur léði þeim Stíganda og kvaðst forvitni á að vita þótt hann færi eigi sjálfur hvort hann kynni skríða. Vingóður maður var Ingimundur við alla góða menn. Þeir komu út annað sumar í Blönduárósi og kunnu það Ingimundi að segja að skip mátti eigi fríðara vera. Þeir höfðu haft algóða kaupferð. Eyvindur bjó í Blöndudal en Gautur í Gautsdal.
18. kafliHrolleifur hét maður og var kallaður hinn mikli. Hann kom út í Hvítá og móðir hans er Ljót hét. Lítt var hún lofuð að skaplyndi og ein var hún sér í lýsku og var það líklegt því að hún var fám góðum mönnum lík. Son hennar var henni mjög líkur í skapsmunum. Hrolleifur var bróðurson Sæmundar fóstbróður Ingimundar. Þau fóru á fund hans til Skagafjarðar og sögðu honum deili á sér og sögðu hann frænda sinn.
Sæmundur svarar og kvaðst eigi mega dylja frændsemi við Hrolleif "en það er mitt hugboð að verr sé þér fengið móður en föður og mjög er eg hræddur um að þú sért meir í hennar ætt en föðurfrænda."
Hrolleifur kvað sér annað hallkvæmra en illar getur. Sæmundur kvaðst mundu veita þeim veturvist. Hrolleifur var allra manna sterkastur og fór illa með afli sínu við sér minni menn. Var hann glettinn og ágangssamur og launaði illu gott með ráði móður sinnar. Hann var illa við Geirmund son Sæmundar, bæði í leikum og í öðrum hlutum og gerðist fæð á með þeim frændum.
Eitt sinn mælti Geirmundur til föður síns: "Þessi frændi okkar leggur fram vistarlaun þau sem hann mun nægst til hafa en öðrum séu óhaldkvæm, það er heitan og harðyrði með óþyrmilegum meðferðum. Hafa sumir hlotið af honum beinbrot eða önnur meiðsl og engum hlýðir um að tala."
Sæmundur kvað hann víst verr launa vistina en stofnað var "og má eigi um það hræfa lengur."
Hrolleifur kvað það skammsamlegt að krikta um smáhluti en rækja eigi ættmenn sína: "Nenni eg víst eigi að ölmusur sparki í andlit mér."
Sæmundur mælti: "Svo muntu kalla en meir hefir þú skapsmuni Ljótar móður þinnar, sem mig grunaði, en vor frænda. Nú hefi eg hugað þér landakosti og bústað út á Höfðaströnd fyrir utan Höfða út frá Unadal. Væri það mitt ráð að þú vægðir við þá er þar búa næstir þér, Þórð bónda í Höfða og Una í Unadal eða aðra byggðarmenn, og bið þér byggðarleyfis."
Hann kvaðst ætla að hann mundi eigi skríða undir skegg þeim.
Hrolleifur fór út í dalinn og móðir hans og bjuggu þar. Síðan er þar kallaður Hrolleifsdalur. Þau vinguðust lítt við menn, komu þar fram hót eða heitan og sýndu búum sínum óþokkasvip í öllum búsifjum. Brátt tóku menn að hatast í móti og þótti Sæmundur hafa sent þeim illt rekald. Þeim þótti í fyrstu ógott að mæla í móti er hann var frændi Sæmundar. En nú er mönnum tók að kynnast þeirra skaplyndi vildu menn færa þau í brottu og aldrei hefðu þau komið.
Uni var auðigur maður og átti þann son er Oddur hét. Hann var vel frumvaxta. Dóttir hans hét Hróðný. Hún var fríð kona og vinnugóð.
Hrolleifur fór brátt á fund Una og kvað eigi vera mega kátt eða glatt í dalverpi því þótt menn hefðu það til skemmtanar sem mætti: "Nú kalla eg vel sama," sagði hann, "að við festum mágsemd með okkur og eigi eg dóttur þína. Má vera að þá batni búsifjar vorar."
Uni kvað hann eigi mundu skaplyndi til þess eiga að fá góðrar konu "og eigi sýnir þú það af þér. En dóttir mín er eigi ógiftusamleg kona og mun eg synja þér ráðsins."
Hrolleifur kvað hann þá það upp taka sem óráðlegra var "og skal hún þá vera frilla mín og er henni þó fullkosta."
Síðan vandi Hrolleifur þangað göngur sínar og settist á ræður við Hróðnýju. Fór því fram um hríð að óvilja frænda hennar.
19. kafliÞað var eitt sinn að Hrolleifur bjóst heim að fara að Uni mælti við Odd son sinn: "Eigi sýnist mér meðalatferðarleysi í er vér höfum ekki að um komur þessa manns og hættum vér oss meir á unga aldri þá er eg barðist við Kolbein og hafði eg hinn hærra hlut og er hann höfðingi og mikils ráðandi en sjá gengur einn til að vinna oss ósæmd."
Oddur kvað eigi hóglegt við heljarmann þann en við fjölkynngi móður hans: "Segja menn að hann hafi kyrtil þann er eigi bíta vopn á. Nú mun eg hitta Hrolleif fyrst."
Og svo gerði hann. Þeir fundust uppi á fjallinu milli dalanna.
Oddur mælti: "Það er þér tíðast að ganga jafnan þessa stígu en oss þætti betur að þú færir eigi svo oft."
Hrolleifur svarar: "Síðan eg var níu vetra hefi eg jafnan sjálfráði verið ferða minna og svo mun enn. Skal eg þín orð einkis virða hér um og þykir mér sem ekki torfæri sé á leið minni þóttú lafir á stígum."
Oddur kvað svara mega betur.
Hrolleifur kom heim og sagði móður sinni að hann mundi nú taka þræl af verki "og fari hann með mér húsgöngur því að þeir taka næsta að amast við mig."
Ljót svarar og kvað þræl eigi mega þarfara vinna en fylgja honum "og hirtu eigi um læti þeirra kotkarla og far í kyrtil þinn þegar þú vilt og vit hversu dugir."
Síðan fann Oddur föður sinn og sagði að hann vill finna Sæmund og segja honum til málsins. Uni kvað sér illa líka öll frestin þau sem á yrðu.
Oddur fór á fund Sæmundar og mælti: "Ill sending hefir komið til vor af þínu tilstilli þar sem er Hrolleifur frændi þinn og sitjum vér honum marga svívirðing og göngum því eigi frekt að að hann er þinn frændi."
Sæmundur kvað sér það eigi á óvart koma "og væri eigi illa þótt slíkir menn væru af ráðnir."
Oddur kvaðst ætla að honum mundi eigi svo þykja ef það yrði gert "en þar er þó sá maður er við alla vill illt eiga og virða menn þig til að eigi er að gert."
Oddur fór heim.
Uni mælti: "Svo þykir mér sem Hrolleifur láti eigi af sínum ferðum og þætti mér til þín koma Oddur frændi því að þú ert nú maður ungur og til alls vel fær en eg er örvasi fyrir aldurs sakir. Nú þótt hann sé harður maður en móðir hans margkunnig þá má þó eigi svo búið vera."
Oddur svarar og kvaðst mundu í leita nokkurs.
Eitt kveld bjóst Oddur við fimmta mann í fyrirsát við Hrolleif en þeir fóru tveir saman og spratt Oddur upp og mælti: "Nú má vera að stöðvist ferð þín að sinni Hrolleifur. Mætti og verða að nú settist illska þín og vefjist þér um fætur."
Hrolleifur kvað enn ósýnt hver mest mætti fagna að þeirra skilnaði "þótt þér séuð fjölmennari en eg. Ætla eg nú eigi illa þótt einhverjum blæði."
Síðan hlupust þeir að og börðust. Hrolleifur var harður maður og af reyndur af afli. Hann hafði og kyrtil þann er móðir hans hafði gert honum og eigi festi járn á.
Nú er frá því að segja að Oddur vó Ljót fylgdarmann Hrolleifs en gekk síðan mót Hrolleifi og mælti: "Illa bíta þig vopnin Hrolleifur og alls konar er þér illa farið, bæði fjölkunnigur og þó að öðru illa siðaður."
Síðan slæmdi Oddur á fót Hrolleifi og beit þar er kyrtillinn tók eigi.
Þá mælti Oddur: "Eigi hlífði þér nú gerningastakkurinn."
Hrolleifur hjó þá til Odds og veitti honum banasár og annan mann til drap hann en þrír komu á flótta.
Það var síð um kveld upp frá bæ Una. Hrolleifur kom heim og sagði móður sinni að þeim hefði illa vegnað er í mót voru. Hún lét vel yfir því að eigi réðu búkarlar eða synir þeirra ferðum hans, þeir er sættu illyrðum við hann.
Hrolleifur kvaðst nú hafa launað Oddi það "er hann hrakti mig mest og kvað mig að öllu ósamjafnan dugandi mönnum en eg spáði honum það sem nú er fram komið að vaxa mundi hans svívirðing af okkrum fundi sem nú gafst honum."
20. kafliUni fór á fund Höfða-Þórðar og sagði honum sín vandræði um víg Odds sonar síns "og vildi eg hafa þitt liðsinni að rétta mitt mál. Liggur þar og mjög við þín sæmd að óeirðarmenn hefjist eigi hér í héraði."
Þórður kvað hann satt segja "og mikill vandi er oss að hendi kominn en þó er Sæmundur skyldastur að leysa óhæfu frænda síns og færa hann úr héraði."
Síðan fóru þeir á fund Sæmundar og báðu hann rétta málið og sögðu honum eigi sama annað. Sæmundur kvað svo vera skyldu. Var þá tekin upp byggð Hrolleifs og fór hann til Sæmundar og móðir hans en menn til fengnir búsins. En á sættarfundi um vorið lukust upp málin, að Uni tók land Hrolleifs að sakabótum en Hrolleifur ger héraðssekur svo víða sem vötn féllu til Skagafjarðar.
Sæmundur minntist nú á fornt vinfengi þeirra Ingimundar.
Og er þeir fundust mælti Sæmundur: "Svo er með vexti fóstbróðir að maður sá er kominn til mín er eigi þykir dæll í skaplyndi en hann er þó frændi minn og heitir Hrolleifur. Nú vildi eg að þú tækir við honum og við móður hans og fáir þeim þar ráðstafa hjá þér."
Ingimundur svarar: "Eigi hafa þau góða orðheill og er eg ófús að taka við þeim en synsemi mun þér í þykja og eigi stórmannlegt ef eg synja en meðallagi er oss til fallið því að eg á sonu suma eigi mjög skaphæga."
Sæmundur svarar og kvað hann hamingjudrjúgan vera mundu og flesta farsælast af honum. Ingimundur lét það þá reynt ef hér tækist vel. Síðan fór Hrolleifur til Ingimundar og móðir hans Ljót með litlum orðstír.
21. kafliNú voru þau Hrolleifur með Ingimundi tvo vetur eða þrjá. Þau skiptu eigi skapsmunum sínum svo við sonu Ingimundar sem við aðra menn en þeir þoldu það illa og einna verst Jökull því að þeir áttu svo harða og marga leika að við meiðingar stóð og kvað Jökull illa vera sendingina Sæmundar "og sætir þó hófi," segir hann, "ef eigi verður meira að" og kvað aldrei þann mannfjanda yfir þá skyldu ganga.
Engi var munur þeirra á vöxt og afl því að hvortveggi var ærið sterkur.
Ingimundur mælti: "Illa gerir þú Hrolleifur er þú stillir eigi skap þitt og launar eigi góðu gott. Nú sé eg að eigi má svo búið hlýða og mun eg fá þér bústað hér yfir í Ási."
Hrolleifur kvað sér það og eigi óvinveittra "en vera hér við illlyndi sona þinna."
"Leitt er mér að segja þig afhendan," kvað Ingimundur, "því að það hefi eg aldrei gert ef eg hefi við manni tekið."
Þorsteinn kvaðst ætla að síðar mundi verra.
Ingimundur byggði þeim Hrolleifi og Ljót móður hans bæinn í Ási og bjuggu þau þar lengi og hélt Hrolleifur sig í öllu til jafns við sonu Ingimundar.
Í þenna tíma komu út bræður tveir. Hét annar Hallormur en annar Þórormur og voru auðgir menn. Þeir voru með Ingimundi um veturinn. Hallormur hefur uppi orð sín og biður Þórdísar dóttur Ingimundar. Honum var vel svarað. Kvað Ingimundur að honum mikinn styrk sakir ríkdóms og var hún honum gefin. Fylgdi henni heiman Kárnsnesland. Þeirra son var Þorgrímur. En Þórormur bjó í Tungu hinni neðri í Vatnsdal. Þar var síðan kölluð Þórormstunga.
22. kafliÞess er getið að veiður mikil var í Vatnsdalsá, bæði laxa og annarra fiska. Þeir skiptu með sér verkum bræður, synir Ingimundar, því að það var siður ríkra manna barna í þann tíma að hafa nokkura iðn fyrir hendi. Að þessu voru þeir fjórir bræður, Þorsteinn, Jökull, Þórir og Högni, en Smiður hafðist annað að. Þeir bræður fara í ána og fengu mikið af.
Hrolleifur hafði venju sína. Voru það illar búsifjar við alla þá er í nánd voru. Hafði það og eigi verið vina ráð að Ingimundur tók nokkurn tíma við honum. Synir Ingimundar tóku því stórilla er Hrolleifur sat í kostum þeirra en miðlaði illt eina í mót og kölluðu það mjög hafa orðið á fyrir föður sínum að hann tók hann til sín. Þeir áttu veiði allir saman Hofsmenn og Hrolleifur. En svo var mælt að Hrolleifur skyldi hafa veiði ef eigi kæmu Ingimundarsynir til eða þeirra menn en að því gaf hann engan gaum því að hann virti meira vilja sinn og ranglæti en hvað skilið var.
Og eitt sinn er húskarlar Ingimundar komu til árinnar mæltu þeir til Hrolleifs að hann skyldi rýma netlögin fyrir þeim. Hrolleifur kvaðst mundu gefa að því engan gaum hvað sem þrælar segðu. Þeir svöruðu og sögðu honum það betur sama að halda eigi til kapps við þá Hofsmenn og kváðu honum það eigi endast munu þótt hann kæmi því fram við aðra. Hrolleifur bað þá dragast á brott, vonda þræla, og hæta sér eigi mönnum. Hann keyrði þá í braut hraklega og ómaklega.
Þeir sögðu: "Illa gerir þú það svo mikils góðs sem Ingimundur er maklegur frá þér þá er hann tók við þér og gaf þér bæði bú og veiðina og mart annað gott þar er áður þóttir þú hvergi hæfur með dugandi mönnum."
Hrolleifur kvað sig eigi skyldan að ganga úr ánni fyrir illskuþrælum og lætur vaða stein til eins þeirra svo að sá liggur í svíma og lét þeim eigi skyldu hlýða að vera allfjölorðir.
Þeir komu heim er menn sátu yfir borðum. Þeir fóru flaumósa. Ingimundur spyr hví þeir fara svo hrapallega. Þeir kváðust reknir braut úr ánni með meiðingu og illum orðum af Hrolleifi.
Jökull svarar: "Hann mun vilja gerast Vatnsdælagoði og vilja búa við oss sem aðra fyrr en það skal aldrei verða að sá manndjöfull kúgi oss."
Þorsteinn kvað of mikið bragð að vera en þó vænst að gæta til með stillingu "og var ósynju nokkurn tíma tekið við Hrolleifi."
"Mikið er til þess haft," kvað Ingimundur, "en þó gerið þér svo vel að þér sættist á því að þér eigið ójöfnum til að verja. Hann er heljarmaður og von að illt hljótist af."
Jökull kvaðst reyna skyldu hvort hann gengi úr ánni og hljóp fram undan borðinu og út.
Ingimundur mælti: "Þorsteinn frændi, þér treysti eg best til um alla stilling og far þú með bræðrum þínum."
Þorsteinn lést eigi vita hversu hægt vera mundi að halda Jökli "en eg mun eigi standa hjá ef hann berst við Hrolleif."
Og er þeir komu að ánni þá sáu þeir að Hrolleifur var í ánni og veiddi.
Þá mælti Jökull: "Dragstu úr ánni fjandinn og dirf þig eigi að þreyta við oss og skulum vér nú ellegar reyna með oss til fulls."
Hrolleifur mælti: "Eigi að síður þótt þér séuð þrír eða fjórir mun eg halda minni sýslu fyrir blóti þínu."
Jökull mælti: "Þitt illmenni treystir tröllskap móður þinnar ef þú ætlar að verja oss veiðina einn öllum."
Jökull réðst þá í ána að honum en Hrolleifur fór eigi burt.
Þorsteinn mælti: "Lát af þrályndi þinni Hrolleifur og það mun þér að illu verða ef vér náum eigi réttu af þér. Þá má vera að fleiri gjaldi. Dugir og eigi að þú gangir yfir menn með rangindum."
Jökull mælti þá: "Drepum mannfjanda þenna."
Þá lét Hrolleifur hefjast að landi þar sem grjót var fyrir og grýtti að þeim og þeir í móti um ána þvera en sumir skutu og varð Hrolleifi eigi skeinusamt. Jökull vill ráðast að honum annars staðar yfir ána og kvað eigi meðalskömm í vera ef þeir bera eigi af honum.
Þorsteinn mælti: "Hitt er mitt ráð að víkjast aftur hingað og eiga heldur undir oss en ganga í greipur þeim mæðginum því að eg hygg hana skammt frá hefjast og er sem menn reyni sig eigi við dugandi menn þótt vér eigum við gerningar þeirra."
Jökull kvaðst aldrei það hirða og leitar að fara en bræður hans grýta og skjóta að Hrolleifi.
Nú kom maður heim til Hofs hlaupandi og sagði Ingimundi að í óefni var komið og þeir börðust um ána þvera "og er búi þinn fæstum líkur."
Ingimundur mælti: "Búið hest minn og vil eg til ríða."
Hann var þá gamall og nær blindur. Hafði hann og þá af höndum látið öll fjárforræði og svo bú. Sveinn var honum fenginn til fylgdar. Ingimundur var í blárri kápu. Sveinninn leiddi hestinn undir honum. Og er þeir komu á árbakkann þá sjá synir hans hann.
Þorsteinn mælti: "Kominn er faðir vor og látum hefjast undan og mun hann ætla að vér munum gera vilja hans en hræddur er eg um komu hans" og bað nú Jökul hefta sig.
Ingimundur reið á ána og mælti: "Gakk úr ánni Hrolleifur og hygg að hvað þér hæfir."
Og er Hrolleifur sá hann skaut hann til hans spjóti og kom á hann miðjan.
Og er hann fékk lagið reið hann aftur að bakkanum og mælti: "Þú sveinn, fylg mér heim."
Hann hitti eigi sonu sína. Og er þeir komu heim var mjög liðið á aftaninn.
Og er Ingimundur skyldi af baki fara þá mælti hann: "Stirður er eg nú og verðum vér lausir á fótum hinir gömlu mennirnir."
Og er sveinninn tók við honum þá þaut í sárinu. Sá sveinninn þá að spjótið stóð í gegnum hann.
Ingimundur mælti: "Þú hefir mér lengi trúr verið. Ger nú sem eg bið þig. Meiri von að eg krefji þig fás héðan af. Far þú nú og seg Hrolleifi að áður morgunn kemur get eg að synir mínir þykist eiga þangað að sjá eftir föðurhefndum sem hann er og gæti hann svo síns ráðs að hann fari í braut áður dagur komi. Mín er eigi að betur hefnt þótt hann deyi en mér samir að skjóta skjóli yfir þann er eg hefi áður á hendur tekist meðan eg má um mæla, hversu sem síðar fer."
Hann braut spjótið af skafti og gekk inn með fulltingi sveinsins og settist í öndvegi sitt og bað hann eigi ljós gera áður synir hans kæmu heim.
Sveinninn kom til árinnar og sá þar laxa marga er Hrolleifur hafði veitt.
Sveinninn mælti: "Það er sannmælt að þú ert mestur mannhundur. Þú hefir það gert að vér munum aldrei bætur bíða, veitt Ingimundi bónda bana, og bað hann mig svo segja þér að þú skyldir eigi morguns heima bíða og kvaðst það ætla að synir hans mundu til þín eiga eftir föðurhefndum að leita. Og gerði eg þetta meir að bæn hans en hitt að þú værir mér svo spar undir öxi þeirra bræðra."
Hrolleifur svarar: "Eg trúi því er þú segir en eigi skyldir þú héðan heill fara ef þú hefðir eigi þessi tíðindi sagt."
23. kafliNú er það að segja frá Ingimundarsonum að þeir fóru heim um kveldið og ræddu með sér að Hrolleifur væri endemismaður.
Þorsteinn mælti: "Enn vitum vér eigi gjörla hversu illt vér munum af honum hlotið hafa og segir mér eigi létt hugur um ferð föður vors."
Þeir komu heim og gekk Þorsteinn í eldaskálann og stakk niður hendinni er hann hrataði og mælti: "Hví er vott húsfreyja?"
Hún svarar: "Það ætla eg að runnið muni hafa úr klæðum Ingimundar bónda."
Þorsteinn svarar: "Þetta er hált sem blóð og kveikið ljós skjótt."
Og svo var gert.
Sat þá Ingimundur í öndvegi sínu og var dauður. Stóð þar spjótið í gegnum hann.
Jökull mælti: "Allillt er slíkt að vita um svo göfgan mann að slíkt illmenni skal hafa honum að bana orðið og förum þegar og drepum hann."
Þorsteinn mælti: "Eigi kanntu góðgirnd föður vors ef hann hefir honum eigi undan skotið eða hvar er sveinn sá er honum fylgdi?"
Nú sást hann eigi.
Þorsteinn mælti: "Eigi get eg nú Hrolleifs heima að vænta og munum vér með ráðum verða hans að leita en eigi með áhlaupum. En við það megum vér huggast að mikill manna munur er orðinn með þeim Hrolleifi og njóta mun faðir minn þess frá þeim er sólina hefir skapt og allan heiminn, hver sem sá er. En það má vita að það mun nokkur gert hafa."
Jökull var svo óður að varla fengu þeir stillt hann. Í því bili kom inn sveinninn og sagði sitt erindi. Jökull kvað það óþarft.
Þorsteinn mælti: "Eigi er hann um að kunna því að hann gerði sem faðir vor vildi."
Ingimundur var lagiður í bátinn frá skipinu Stíganda og búið um virðulega sem þá var siður um tigna menn. Þetta spurðist nú víða og þótti sem var mikil tíðindi og ill.
Þorsteinn mælti við bræður sína: "Það sýnist mér ráð að vér setjumst eigi í sæti föður vors hvorki heima né í mannboðum meðan hans er óhefnt."
Og svo gerðu þeir og sóttu lítt til leika eða mannfundi.
En er Eyvindur sörkvir frá þetta þá mælti hann við fósturson sinn: "Far þú og seg Gauti vin mínum hvað eg tek til og slíkt þætti mér honum til liggja."
Síðan brá hann saxi undan skikkju sinni og lét fallast á ofan og dó svo.
Og er Gautur spyr þetta mælti hann: "Erat vinum líft Ingimundar, og skal neyta góðs bragðs Eyvindar vinar míns" og brá saxi fyrir brjóst sér og drap sig.
Hermundur hét son hans Eyvindar og Hrómundur hinn halti er síðar verður getið.
24. kafliLátum þar nú fyrst líða um en segjum nokkuð frá Hrolleifi. Hann hittir móður sína og segir henni tíðindin. Hún kvað engan komast yfir skapadægur sitt, kvað Ingimund hafa lengi aldurs notið.
"Er það mitt ráð," segir hún, "að þú farir á braut fyrst því að blóðnætur eru bráðastar. Vitja þá hingað er mér þætti vænst að nokkuð yrði af framkvæmd um mína ráðagerð en eigi sé eg þar á milli hvort drjúgara verður, vitsmunir Þorsteins og gifta eða brögð mín."
Síðan fór Hrolleifur norður til Skagafjarðar og kom í Sæmundarhlíð og var Sæmundur þá andaður en Geirmundur réð þá fyrir eignum. Bróðir hans hét Arnaldur. Geirmundur spyr tíðinda. Hrolleifur kvaðst segja líflát Ingimundar bónda frá Hofi.
Geirmundur svarar: "Þar fór nýtur maður eða hvað varð honum að bana?"
Hrolleifur sagði: "Hann var hafður að skotspæni" og sagði síðan allan atburðinn.
Geirmundur svarar: "Það sé eg að þú ert hinn versti óhappamaður og far á brottu, hin vonda mannfýla, og kom hér aldrei."
Hann kvaðst hvergi fara mundu "og skal eg hér drepinn þér til svívirðingar og man eg það enn að faðir minn féll í liði föður þíns og Ingimundar og hefir það af þér hlotist og þínum mönnum."
Geirmundur kvað það dugandi menn henda að falla í bardögum "og fram mun eg þig selja þegar er Ingimundarsynir koma."
Honum kvaðst þess að von eða annars verra. Hann var þar á laun í gervibúri.
Ingimundarsynir voru heima um veturinn og sátu á hinn óæðra bekk og fóru til engra leika eða þings og voru mjög ókátir.
Og er skammt var til sumars þá heimti Þorsteinn bræður sína á mál og mælti: "Öllum oss ætla eg það einn veg gefið að mál mundi þykja að leita um föðurhefnd en eigi er það allauðsóttlegt. Sýnist mér það ráð að sá er ráðleitni hefir til eftir að leita, að sá skal kjósa einn kostgrip af eigu vorri."
Þeir kváðust það vilja "og ertu best til fallinn af oss sakir vitsmuna."
25. kafliEinn morgun var Þorsteinn snemma á fótum og mælti til bræðra sinna: "Nú skulum vér búast norður til héraða hvað sem fyrir starf kemur."
Þeir voru saman fimm bræður og eigi fleiri menn. Þeir komu að kveldi eins dags til Geirmundar og tók hann allvel við þeim og voru þar um nóttina í góðum beinleika.
En um morguninn mælti Þorsteinn við bræður sína: "Nú skuluð þér bræður vera að tafli í dag en eg skal tala við Geirmund."
Þeir gerðu svo.
Þorsteinn mælti til Geirmundar: "Því erum vér bræður hér komnir að vér leitum eftir Hrolleifi er vér hyggjum hér vera með þér. Ertu og mjög skyldur til að veita oss þar sem þér senduð föður vorum þann mannfóla er svo mikið illt hefir af hlotist þótt það sé eigi að yðrum vilja. Á hann og enga góða frændur nema þig einn."
Geirmundur svarar: "Allt er slíkt satt og er viturlega eftir leitað en eigi er Hrolleifur hér nú."
Þorsteinn mælti: "Hitt ætla eg sannara að hann sitji í útibúri þínu. Tak nú hér hundrað silfurs og lát hann á brott og skal eg svo til stilla að hann sé eigi hér tekinn á þínum varnaði svo að það sé þér lagið til ámælis en vér munum þó eftir honum leita þó að föður vors sé eigi að hefndara. Seg honum að þú þykist eigi traust til hafa að halda hann fyrir oss og sitja fyrir fjandskap vorum en ella hafa vora vináttu."
Geirmundur svarar: "Nú skal og við ganga að hann er hér og virði nú hver sem vill. Mun eg svo gera sem þú leggur ráð til og segja honum að fara á burt og leitið þér þá eftir honum er hann er eigi hjá mér."
"Svo skal vera," segir Þorsteinn.
Geirmundur hitti nú Hrolleif og mælti: "Nú eru hér komnir Ingimundarsynir og leita eftir þér. Mun nú eigi verða vist þín lengur hér með mér því að eg vil eigi leggja mig í hættu fyrir þig eða fé mitt við málaefni þín ill en þeir bræður eru bæði ráðugir og atgöngumiklir."
Hrolleifur svarar: "Þess var von að þér mundi klækilega verða og hafðu alla óþökk fyrir þína liðveislu."
Geirmundur segir: "Verð á brottu skjótt."
Síðan hitti hann Þorstein: "Það þykir mér best til mín gert að þér hrapið að engu og sitjið hér í dag."
Hann kvað svo vera skyldu. Bjuggust síðan annan dag og fóru vestur yfir skörðin en þeyr hafði á verið og sá mannssporin í snjónum.
Þá mælti Þorsteinn: "Nú skulum vér niður setjast og mun eg segja yður viðtal okkar Geirmundar. Eg varð var að Hrolleifur var þar."
Jökull mælti: "Þú ert kynlegur maður, vildir sitja kyrr en föðurbani þinn sat hjá þér. Og ef eg hefði vitað það þá mundi eigi kyrrt með öllu verið hafa."
Þorsteinn kvað það eigi örvænt "en það samir betur að gera Geirmund eigi beran að þessu. Nú skulum vér fara fullum dagleiðum og vita ef vér kæmum eigi síðar vestur en hann því að heim munu liggja spor hans og nú mun Ljót móðir hans blóta í mót sumri sem hún er vön að þeirra sið en þá mun eigi fram koma hefndin ef áður er framið blótið."
Jökull mælti: "Skyndum þá."
Hann var þá fremstur á stígum af öllum þeim.
Þá leit hann aftur og mælti: "Illt er þeim mönnum er ölmusur eru að vexti og fráleik sem er Þorsteinn bróðir minn og mun nú draga úr höndum hefndina er vér komumst hvergi."
Þorsteinn svarar: "Eigi er enn sýnt að minna megi tillög mín og ráðagerðir en áhlaup þín óviturleg."
Síð um aftaninn komu þeir ofan að bænum að Hofi og sátu menn undir borðum.
26. kafliÞorsteinn hitti úti smalamann sinn og mælti: "Far þú í Ás og drep á dyr og hygg að hversu skjótt er til hurðar gengið og kveð meðan vísu. Gef þér það til erindis að spyrja að sauðum og spurður muntu vera hvort vér séum heim komnir en þú skalt segja að vér séum eigi heim komnir."
Sauðamaður fór og kom í Ás og drap á dyr og var eigi fyrr til gengið en hann hafði kveðið tólf vísur. Þá kom húskarl út og spurði tíðinda eða hvort þeir bræður væru heim komnir. Hann kvað þá eigi heim komna og spurði að sauðum sínum. Hann kvað þá eigi þar komna. Sauðamaður fór aftur og sagði Þorsteini hve margar vísur hann hafði kveðið.
Þorsteinn kvað hann úti hafa staðið þá stund að mart mátti að hafast inni á meðan "eða komstu nokkuð inn?"
Hann kvaðst ganga inn og skyggnast um.
Þorsteinn spurði: "Var bjartur eldur á arni eða eigi?"
Hann svarar: "Svo nokkuð sem fyrir litlu hefði verið kveiktur."
Þorsteinn mælti: "Sástu nokkura nýlundu í húsinu?"
Hann kveðst séð hafa hrúgu eina mikla og koma undan fram rautt klæði.
Þorsteinn mælti: "Þar muntu séð hafa Hrolleif og blótklæði hans. Nú mun þangað eftir að leita. Búumst nú skjótt og hættum á hvað gerir."
Þeir fóru og komu í Ás og var ekki manna úti. Þeir sáu hlaðið skíðum á húsvegginn tveim megin mænis. Þeir sáu hús standa lítið fyrir dyrum og hlið í milli og heimadyranna.
Þorsteinn mælti: "Þetta mun vera blóthús og mun Hrolleifi hingað ætlað þá hún hefir fullgert sitt efni og allan sinn fjandskap en mér er minna um það. Nú gangið þér í krókinn hjá húsunum en eg mun sitja yfir dyrum uppi og hafa kefli í hendi. En ef Hrolleifur gengur út þá mun eg kasta keflinu til yðvar og hlaupið þér þá til mín."
Jökull mælti: "Auðséð er það bróðir að þú vilt virðing af þessu hafa sem öllu öðru en eg vil eigi það og mun eg sitja við keflið."
Þorsteinn mælti: "Þú munt ráða vilja þó eigi sé svo betra því mér þykir þú ráðinn til nokkurra slysa."
Jökull settist í skíðahlaðann og vonum bráðara kom út maður og kagaði hjá dyrum og sá eigi mennina er komnir voru. Þá kom út maður annar og hinn þriðji og var það Hrolleifur. Jökull kenndi hann gjörla og vast við hart og féll skíðahlaðinn og þó gat hann kastað keflinu til bræðra sinna og hljóp ofan af húsinu og gat þrifið Hrolleif svo að honum gafst eigi undanrásin. Engi var þeirra aflamunur og ultu báðir ofan fyrir brekkuna og lágu ýmsir undir.
Og er þeir bræður komu að mælti Högni: "Hvað fjanda fer hér að oss er eg veit eigi hvað er?"
Þorsteinn svarar: "Þar fer Ljót kerling og hefir breytilega um búist."
Hún hafði rekið fötin fram yfir höfuð sér og fór öfug og rétti höfuðið aftur milli fótanna. Ófagurlegt var hennar augnabragð hversu hún gat þeim tröllslega skotið.
Þorsteinn mælti til Jökuls: "Dreptu nú Hrolleif, þess hefir þú lengi fús verið."
Jökull svarar: "Þess er eg nú albúinn."
Hjó hann þá af honum höfuðið og bað hann aldrei þrífast.
"Já, já," sagði Ljót, "nú lagði allnær að eg mundi vel geta hefnt Hrolleifs sonar míns og eruð þér Ingimundarsynir giftumenn miklir."
Þorsteinn svarar: "Hvað er nú helst til marks um það?"
Hún kvaðst hafa ætlað að snúa þar um landslagi öllu "en þér ærðust allir og yrðuð að gjalti eftir á vegum úti með villidýrum og svo mundi og gengið hafa ef þér hefðuð mig eigi fyrr séð en eg yður."
Þorsteinn kvað þess von að hamingja skipti með þeim.
Síðan dó Ljót kerling í móð sínum og trölldómi og eru þau úr þessi sögu.
27. kafliEftir dráp þeirra Hrolleifs og Ljótar fóru þeir bræður heim og urðu menn þeim fegnir.
Nokkuru síðar mælti Þorsteinn við bræður sína: "Nú þykist eg kominn til að kjósa kostgrip einhvern af eigu vorri."
Þeir játtuðu því.
"Þá kýs eg bæinn að Hofi og landið með búinu."
Þeir kváðu það varla einn grip vera og þótti freklega á horfast.
Þorsteinn kvað allt saman eigi að fara, land og bú "en þótt yður þyki þetta nokkuð freklega horfa þá er á hitt að líta að vor virðing mun þá mest að vér séum sem sáttastir og hitt annað að eg sjái sem helst fyrir. Eru hér og fleiri kostgripir og ann eg yður þeirra allvel."
Var þá lagið til skiptis. Hlaut Högni skipið Stíganda því hann var farmaður. Þórir hafursþjó hlaut goðorðið en Jökull Ættartanga. Hafði hann sverðið á leikmótum og hestaþingum en Þorsteinn bar hann á leiðum og lögmótum því að Jökull vildi að svo væri. Þórir mælti og slíkum orðum þótt hann ætti goðorðið að hann unni Þorsteini best allra virðinga af málaferlum.
Þorsteinn mælti: "Það er mér auðsætt að þér bræður mínir viljið mér í öllu sæmdar leita en þótt eg hafi kosið mér bústað þá ann eg yður þó fjár fyrir. Nú þykir mér ráð að vér færum sess vorn í öndvegi föður vors."
Og svo gerðu þeir.
Þorsteinn gerðist höfðingi yfir Vatnsdælum og Vesturhópi og öllum þeim sveitum sem Ingimundur faðir hans hafði haft. Þorsteinn átti þá konu er Gyða hét og var Sölmundardóttir Guðmundarsonar. Hann var faðir Víga-Barða. Þótti þá virðingarvænlegt að tengjast við Vatnsdæla. Jökull bjó í Tungu en Smiður á Smiðsstöðum, Þórir hafursþjó að Nautabúi. Það heitir nú að Undunfelli.
28. kafliNú skal segja frá þeim manni er hét Þórólfur sleggja. Hann gerðist hinn mesti óspektarmaður. Bæði var hann þjófur og þó um annað stórilla fallinn. Þótti mönnum með stórmeinum hans byggð og einkis ills örvænt fyrir honum. Og þótt hann hefði eigi fjölmenni hjá sér þá átti hann þá hluti er hann vænti trausts að. Það voru tuttugu kettir. Þeir voru ákaflega stórir og allir svartir og mjög trylltir. Fóru menn nú til Þorsteins og sögðu honum sín vandræði og létu til hans koma um alla héraðsstjórn, sögðu Þórólf frá mörgum stolið hafa og gert svo mart ómannlegt annað.
Þorsteinn kvað þá satt segja "en eigi er allhægt við heljarmanninn að eiga og við köttu hans og þar til spara eg alla mína menn."
Þeir sögðu hann varla mega halda sæmd sinni ef eigi væri að gert.
Eftir þetta safnaði Þorsteinn mönnum og vildi undir sér eiga fyrir mannfjölda sakir. Með honum voru bræður hans allir og Austmaður hans. Þeir fóru á Sleggjustaði. Þórólfur gaf sér ekki að. Aldrei mátti hann góða menn með sér hafa.
Hann gekk inn er hann sá mannareiðina og mælti: "Nú er við gestum að taka og ætla eg þar til köttu mína og mun eg setja þá alla í dyr út og mun seint ráðast inngangan ef þeir verja dyrnar."
Síðan magnaði hann þá mjög og voru þeir þá stórum illilegir með emjun og augnaskotum.
Jökull mælti við Þorstein: "Nú tókstu gott ráð attú lést eigi sitja mannfjanda þenna lengur kyrran."
Þeir voru átján menn.
Þórólfur mælti: "Nú skal eld gera og hirði eg eigi þótt reykur fylgi því að koma Vatnsdæla mun eigi vera friðsamleg."
Hann lét ketil yfir eld og bar undir ull og hvers konar harka og var fullt húsið af reyk.
Þorsteinn kom að dyrum og mælti: "Útgöngu beiðum vér þig Þórólfur."
Hann kvaðst ætla að það eitt mundi erindi þeirra að eigi væri vingjarnlegt. Þá tóku kettirnir þegar að amra og illa láta.
Þorsteinn mælti: "Þetta er ill sveit."
Jökull svarar: "Göngum inn að þeim og hirðum eigi um köttu þessa."
Þorsteinn kvað það eigi skyldu "því að meiri von er að vér höldum eigi liði voru heilu með öllu saman, köttunum og vopnum Þórólfs, því að hann er garpur mikill og þætti mér betra að hann gæfi sig upp sjálfur og gengi út því að meira efni hefir hann til eldingar en honum megi vel eira inni að vera."
Þórólfur reiddi ketilinn af eldinum en felldi á ullarhlaðann og lagði út remmuna svo að þeir Þorsteinn máttu eigi vera allnær dyrunum.
Hann mælti þá: "Varist þér köttuna að þeir hremmsi yður eigi og fleygjum eldinum upp að húsunum."
Jökull þreif einn eldibrand mikinn og fleygði upp að dyrunum en kettirnir hörfuðu undan og féll hurðin við það aftur. Veðrið stóð á húsin en bálið tók að vaxa.
Þorsteinn mælti: "Stöndum út við garðinn þar er reykurinn er mestur og sjáum þá hvað hann taki til því að meira efni hefir hann til um eldsgerð en það megi honum lengi duga."
Varð Þorsteinn þess og nærgætur. Hljóp Þórólfur þá út með kistur tvær fullar af silfri og fór með reyknum.
Og þá er hann kom út var þar fyrir Austmaðurinn og mælti: "Hér fer nú fjandinn og er illslegur."
Austmaðurinn hljóp eftir honum ofan til Vatnsdalsár. Þórólfur kom þar að er voru augu djúp eða fen.
Þórólfur snerist þá í mót honum og greip til hans og brá honum undir hönd sér og mælti: "Til rásar kostar þú nú og förum að því báðir saman" og hljóp í fenið og sukku svo að hvorgi kom upp.
Þorsteinn mælti: "Stórilla hefir nú tekist er Austmaðurinn minn hefir týnst en það mun bóta að endast mun fé Þórólfs að bæta hann."
Og var svo gert.
Þar heita síðan Sleggjustaðir er Þórólfur hafði búið og sáust jafnan kettir og illt þótti þar oftlega síðan. Sjá bær er ofan frá Helgavatni.
29. kafliMár Jörundarson færði bú sitt af Grund á Mársstaði. Góð var frændsemi með þeim Ingimundarsonum.
Það var til tíðinda eitt haust að Mávi hurfu sauðir nokkurir og var víða leitað og fundust eigi.
Þorgrímur hét maður og var kallaður skinnhúfa. Hann bjó á Hjallalandi. Hann var fjölkunnigur mjög og þó að öðru illa.
Var nú orðræða mikil um sauðahvörfin og þótti dalurinn víðast vel skipaður. Eitt kveld er sauðamaður kom heim spurði Már tíðinda.
Hann sagði að sauðir hans voru fundnir og hafði engi illur að orðið "en þó fylgir annað meira. Land hefi eg fundið í skógum og er ágætajörð góð og hafa sauðirnir þar verið og eru allvel holdir."
Már spurði: "Hvort er það í mínu landi eða annarra?"
Hann kvaðst ætla að honum mundi berast "en þó liggja við lönd Ingimundarsona. Má og úr þínu landi aðeins í ganga."
Már sá landskostinn og þótti góður og eignaði sér. Þorgrímur kvaðst ætla að þeir mundu haldið fá landinu fyrir Ingimundarsonum.
Þorsteinn spyr þetta og mælti: "Mjög þykir mér Már frændi minn bera sinn sann á þetta og unna oss varla laga."
Litlu eftir það hitti Jökull Þorstein bróður sinn og varð þeim talað mart og sagði Jökull það mikil firn ef menn skyldu ræna þá þar í dalnum "og dregst sú mannfýla mjög óþarfi til, hann Þorgrímur skinnhúfa, að reita oss og væri hæfilegt að hann tæki gjöld fyrir."
Þorsteinn kvað hann eigi sparnaðarmann "en eigi veit eg hvort hann er svo þegar upp næmdur."
Þorsteinn bað að þeir færu á fund Þorgríms. Jökull kvaðst þess albúinn. Og er Þorgrímur varð þess var fór hann og hitti Má. Þeir kvöddust vel.
Þorgrímur lést kominn af hlaupi "og munu Ingimundarsynir hér koma."
Már spurði hvað hann vissi til þess.
Þorgrímur svarar: "Þeir eru nú á ferð komnir til bæjar míns og vilja drepa mig og mun það jafnan sýnast að eg veit fleira en aðrir menn."
Og er þeir komu á bæinn mælti Þorsteinn: "Hér eigum vér við hrekkvísan um er Þorgrímur er því að hann mun eigi heima vera."
Jökull mælti: "Gerum hér þó nokkuð illt."
Þorsteinn kvaðst það eigi vilja: "Nenni eg eigi að það sé mælt að vér tökum upp fé hans en fáum eigi veitt hann sjálfan" og fóru heim við svo búið.
Eitt sinn mælti Þorsteinn enn til bræðra sinna: "Forvitni væri mér á að freista að vér gætum fundið Þorgrím."
"Nú er eg og albúinn," sagði Jökull.
Enn fór Þorgrímur að hitta Má og mælti: "Enn eru þeir eigi afhuga við mig Ingimundarsynir. Vildi eg að þú færir nú heim með mér og skulu þeir það sanna að eg þori að bíða þeirra heima."
Már fór þangað. Þá riðu og að garði Ingimundarsynir og fundust þeir í túni.
Þorsteinn mælti: "Eigi fer þann veg frændsemi vor Már sem skyldi. Vildi eg að hvorir vægðu til við aðra en þú settir eigi niður vandræðamenn þá er bægjast vilja við oss."
Már kvað þá sýna af sér óvingjarnlegar heimsóknir og lést eigi mundu láta sinn hlut fyrir þeim. Jökull kvað og einsætt að þeir reyndu þá með sér.
Þorsteinn kvaðst tregur til vandræða við frændur sína "en þó er eigi örvænt að þar komi ef vér náum eigi réttindum."
Þeir fóru á braut því þeir máttu eigi ná Þorgrími fyrir fjölkynngi hans en mótgangi Más og var annað tveggja að Þorgrímur hvarf af bæ sínum eða Már sat þar við fjölmenni og stóð þetta mál svo nokkura hríð.
Í þenna tíma kom út Högni Ingimundarson með skip sitt Stíganda og var með Þorsteini um veturinn og sagði frá ferðum sínum merkilega meðan hann hafði utan verið, svo og það að hann hafði eigi skip reynt jafngott Stíganda.
Mikill orðrómur gerðist á um héraðið um málaferli þeirra frænda. Jökull hitti oft Þorstein bróður sinn og kvað hann enn undan vilja leita við Má.
Þorsteinn svarar: "Svo hefir verið til þessa en þó munum vér nú sitja um Þorgrím og segir mér þó í meðallagi hugur um."
Þeir bjuggust heiman bræður einn dag og voru hálfur þriðji tugur manna. Voru þeir bræður fimm.
Þá mælti Þorgrímur: "Nú eru ills efni í. Þeir munu hér koma brátt Ingimundarsynir."
Hann hljóp út og tók klæði sín áður.
Hann hitti Má og sagði að þá væru Ingimundarsynir á ferð "og munu oss ætla með grimmum hug að fá og er nú ráð að búast við og leiða þeim hlaup þeirra."
Már safnaði mönnum. Hrómundur son Eyvindar sörkvis, kappi mikill, hann átti dóttur Más. Hann var þar á búi. Hann kvað einsætt að þeir reyndu þá með sér. Þeir urðu alls fjórir tigir manna og umfram tveir systursynir Más, ungir menn og vænlegir.
Þorgrímur mælti: "Það er ráð að fara í mót Ingimundarsonum."
Og svo var gert.
Þorsteinn sá það og mælti: "Nú mun oss gefa til að reyna oss og þykir mér nú ráð að hver gefist eftir efnum."
Jökull brá þá Ættartanga og kvaðst allgott til hyggja að reyna hann í hálsum manna Más. Þeir fundust á Kárnsnesi.
Þorgrímur segir Mávi að hann mundi felast "og má þó vera að eg sé eigi óþarfari en þótt eg standi hjá yður en eg trúi mér eigi til framgöngu."
Már svarar engu.
Tókst síðan bardagi og er hann hafði gengið um hríð mælti Jökull: "Eigi hæli eg bitinu hans Ættartanga."
Þorsteinn svarar: "Slík dæmi eru með oss og verður nú vorum mönnum skeinisamt."
Jökull var fremstur af öllum og hjó til beggja handa. Maðurinn var reyndur að afli en hinn mesti fullhugi. Hann hjó svo að lamdist fyrir en eigi beit.
Jökull mælti: "Ertu nú heillum horfinn Ættartangi eða hvað?"
Þorsteinn svarar: "Og svo sýnist mér sem þeir standi upp er eg hefi höggið eða sjáið þér nokkuð Þorgrím?"
Þeir kváðust eigi hann sjá.
Þorsteinn bað Jökul þá víkja frá orustunni og vita hvort þeir sæju hann eigi "en þú Högni frændi halt upp meðan bardaganum."
Hann kvaðst svo gera mundu. Síðan leituðu þeir hans.
Jökull mælti: "Eg sé hvar fjandinn kemur upp."
Þorsteinn mælti: "Þar liggur nú grenskollinn."
Og í því koglaði hann til þeirra þaðan sem hann lá. Það var við ána. Jökull hljóp eftir honum og báðir þeir bræður. Þorgrímur hljóp undan til árinnar. Jökull komst svo nær að sverðið tók til hans og af það er nam en það voru þjóhnapparnir báðir allt við bakhlut. Þar heitir síðan Húfuhylur er hann hljóp á kaf
Jökull mælti: "Beit nú Ættartangi."
Þorsteinn svarar: "Svo get eg að héðan af sé."
Þess verður nú að geta síðan hvað tíðinda varð í bardaganum. Hrómundur gekk fast fram í mót Högna og áttust þeir hart höggvaskipti við. Lauk svo þeirra skipti að Högni féll fyrir Hrómundi. Og í því kom Jökull að og tók þá í annað sinn æsing sinn hinn mikla, sótti þá að Hrómundi með ákafa. Skorti þá eigi að sverðið beit, bæði hans og annarra. Hann hjó á fót Hrómundi og veitti honum svo mikið sár að hann var alla ævi síðan örkumlaður og var kallaður Hrómundur halti. Þar féllu systursynir Más. Og nú er svo er komið bardaganum þá sáu menn af bæjum fund þeirra og fóru til að skilja þá. Var þar fyrstur Þorgrímur að Kárnsá og aðrir bændur. Hann var frændi Ingimundarsona. Voru þeir þá skildir og var sárt mart en allir mæddir.
Þorgrímur mælti: "Þú Már hefir sýnt þrályndi mikla við þá bræður í mótgangi en þeir eru eigi þínir líkar við að eiga. Er það nú mitt ráð að þú vægir til við þá og seljir Þorsteini sjálfdæmi."
Hann kvað þetta heilræði og sættust að þessu. Þorsteinn kvaðst eigi mundu gerð upp lúka fyrr en á nokkuru lögþingi. Fóru menn nú heim af þessum fundi.
Og er það þing kom er Þorsteinn vildi gerð upp lúka fjölmenntu þeir mjög Hofverjar.
Þorsteinn mælti þá: "Það er flestum mönnum kunnigt hér um sveitir hversu fór um fund vorn Más frænda vors og svo hitt að það mál er undir mig komið. Er það nú gerð mín að jafnt skal víg Högna bróður míns og ákomur þær er fengu menn Más, smár og stórar. Hrómundur skal sekur vera milli Hrútafjarðarár og Jökulsár í Skagafirði fyrir víg Högna en hafa ekki fyrir örkuml sín. Már skal eiga Hjallaland því að úr hans landi að eins má upp ganga en gjalda oss bræðrum hundrað silfurs. Þorgrímur skinnhúfa skal ekki hafa fyrir sína ákomu og er hann þó verra verður."
Síðan fóru menn heim og voru sáttir að þessu. Skinnhúfa fór í brott úr héraði og kom niður norður á Melrakkasléttu og var þar til dauðadags.
Þorsteinn átti tvo sonu. Hét annar Ingólfur. Hann var manna vænstur. Annar hét Guðbrandur. Hann var og fríður maður. Jórunni dóttur Ingimundar átti Ásgeir æðikollur, faðir Kálfs og Hrefnu er átti Kjartan Ólafsson og Þorbjargar er kölluð var bæjarbót.
30. kafliFrá Þórólfi heljarskinn er það að segja að hann bjó fyrst í Forsæludal og var illa kenndur af mönnum.
Þorsteinn frá Hofi kom til hans og kvaðst eigi vilja byggð hans þar "nema þú takir annan hátt en þú hefir áður ella munum vér eigi láta kyrrt vera."
Þórólfur kvað það vænst að Þorsteinn réði því hvort hann byggi þar eða eigi "en sjálfur mun eg ráða háttum mínum."
Síðan færði hann bú sitt og gerði sér virki suður við Friðmundará. Þórólfur lagðist á fé manna og gerðist hinn mesti þjófur. Hann átti og blótgrafir því að menn hugðu að hann blótaði bæði mönnum og fé. Illt varð honum til eftirgöngu manna þeirra er góðir voru en þó voru þeir níu saman þá er þeir voru flestir, allir hans jafningjar eða verri. Og er þeir spurðu að Þorsteinn ætlaði að gera til þeirra flýðu sumir úr virkinu og vildu eigi bíða. Héraðsmenn hittu Þorstein og báðu hann þenna mann af taka er svo var illur í byggðarlagi að menn máttu eigi um tæla eða við búa. Hann kvað þá satt mæla, sendir síðan eftir bræðrum sínum, Jökli og Þóri. Á Þóri kom stundum berserksgangur. Þótti það þá með stórum meinum um þvílíkan mann því að honum varð það að engum frama.
Jökull mælti til Þorsteins: "Vel gerir þú það að þú lætur hér í dalnum engi illmenni fá nokkura uppreist."
Síðan fóru þeir nítján saman og er þeir sáu virki Þórólfs mælti Þorsteinn: "Eigi veit eg hversu vér fáum að sótt virkinu fyrir árgljúfrum þessum."
Jökull svarar: "Þetta er engi torveldi og mun eg gefa hér ráð til. Þú Þorsteinn og menn með þér skuluð skjóta að þeim og glettast við þá en eg mun fara upp með ánni við fá menn og vita ef eg mætti komast á bak þeim í virkið og ættu þeir þá við hvorutveggjum að sjá."
Þorsteinn kvað það hættuferð mikla. Jökull fór þá upp með ánni við fá menn.
Þeir Þórólfur sáu eigi það og bað þá sína menn vel gefast "en þó hafa þeir bræður rammar fylgjur. Leitum vér þá til leyna vorra ef að oss ekur."
Jökull komst yfir ána fyrir ofan virkið. Hann hafði í hendi öxi mikla er hann átti. Síðan komst hann að virkinu og gat krækt öxinni upp á virkið og las sig síðan eftir skaftinu og komst svo í virkið. Hann fór snyðjandi að leita Þórólfs og varð hann eigi fyrir augum. Jökull gat þá að líta hvar Þórólfur kom upp úr blótgröf sinni og hljóp úr virkinu en Jökull eftir honum. Menn Jökuls leita að förunautum Þórólfs og eru þar eltingar miklar. Þá var Þórólfur kominn á mýri nokkura upp með ánni en Jökull sótti eftir. En er Þórólfur sá að hann mundi eigi komast undan þá settist hann niður í mýrinni og grét. Þar heitir síðan Grátsmýr. Jökull kom þá að honum og kvað hann vera mikla mannfýlu og illmenni en þó engan þróttinn í. Jökull hjó hann þá banahögg. Þorsteinn sótti að virkinu því að þeir illvirkjarnir voru þá aftur komnir. Jökull skopar að skeið og komst í virkið. Og er þeir sjá það er í virkinu voru óttuðust þeir og hljópu undan honum tveir í nestangann og drap hann þá báða. Hinn þriðji hljóp fyrir hamra ofan. Eigi þótti röskvari ferð farin hafa verið en sú er Jökull fór þá.
Þeir fóru heim bræður eftir þetta og höfðu unnið mikla héraðsbót í drápi Þórólfs heljarskinns.
31. kafliÞorsteinn frá Hofi var stórlátur af búi sínu við héraðsmenn. Þar var öllum mönnum matur heimill og hestaskipti og allur annar farargreiði og skylt þótti það öllum utanhéraðsmönnum að hitta Þorstein fyrstan og segja honum tíðindi úr sveitum og það er til nýlundu varð.
Eyjarengi heitir það er best er með Hofslandi. Þar áttu verkmenn Þorsteins tjald á sumrum. Þau sáu einn dag að tíu menn áðu í enginu og var kona eitt. Þeir voru allir í litklæðum. Vesl hafði einn yfir sér og slæður af góðu klæði. Þau sáu hvað þessi maður gerði. Hann brá sverði og sneið af neðan það er saurugt hafði orðið í reiðinni og kastaði á braut, það var spannarbreitt, og mælti svo að þau heyrðu að hann kvaðst eigi vilja reiða eftir sér saur. Eigi hittu þau mennina en illa þótti þeim gert að æja í engjum manna. Griðkona tók það er hann hafði af skorið og kvað þenna mann mega heita hinn mesta ofláta.
Þorsteinn spurði þau tíðinda um kveldið en þau kváðust engi segja kunna og þó nýlundu litla. Síðan sögðu þau það sem þau höfðu séð og heyrt til manna þessa og sýndu það sem hann hafði skorið af slæðunum.
Þorsteinn kvað þetta bragð tveggja hvort, að spilla gripum sínum þótt stykki á og síðan að æja í engjum manna "nokkurs heimsks manns og óráðvands ella mikils manns og ofláta. Þessir menn hafa og eigi mig hitt sem siður er til langferðamanna. Nú mun eg geta til að þar mun hafa verið Bergur hinn rakki er út hefir komið í sumar, systurson Finnboga hins ramma frá Borg úr Víðidal. Hann er rammur að afli og hinn mesti ofurkappsmaður."
Var þetta sem annað það er Þorsteinn leiddi getum um að hann varð nærgætur.
Bergur kom til Borgar og tók Finnbogi við honum allvel og spurði hann tíðinda en hann sagði slík er hann vissi. Finnbogi spurði hvort hann hefði nokkuð hitt Þorstein Ingimundarson. Bergur kvaðst eigi hann hitt hafa og riðið fyrir neðan garð. Finnbogi lét hitt þó venjulegra að hitta hann fyrst og segja honum tíðindi.
Bergur kvaðst eigi vilja lægja sig svo að finna hann "því að erindi mitt var eigi til hans."
32. kafliÞorgrímur hét maður er bjó að Borg hinni minni í Víðidal. Hann festi sér konu þá er Þorbjörg hét og var Skíðadóttir. Þorgrímur bauð þeim Finnboga og Bergi til boðsins. Þeir hétu ferðinni. Brúðhlaupið skyldi vera að veturnóttum að Skíða.
Hann hitti þá Ingimundarsonu og bauð þeim til boðsins "því að mér þykir þetta eigi með fullum sóma nema þér komið."
Þeir hétu að fara.
Veðrátta var eigi algóð og illt yfir Vatnsdalsá og fórst þeim Víðdælum heldur ógreitt. Létu þeir Finnbogi eftir hestana að bónda þess er bjó við ána. Áin var opin um mitt en lágu að fram höfuðísar.
Bergur mælti: "Eg mun bera yfir fólk."
Og svo gerði hann, sótti knálega. Frost var á mikið og fraus um hann klæðin.
Skíði gekk í mót boðsmönnum og fyrirboðsmenn hans, Þorsteinn og þeir bræður. Síðan voru eldar gervir og þídd klæði manna. Þorsteinn bóndi gekk mjög að að vinna mönnum beinleika og taka við klæðum manna því að hann var hverjum manni lítillátari. Finnbogi gekk fyrstur og skyldi sitja í öndvegi gegnt Þorsteini, þá Bergur. Hann var í slæðum og skinnúlpu. Stóð þetta út af honum er hann var allur frosinn og þurfti hann rúm mikið og færðist að eldinum og vildi þíða sig.
Hann gekk þar hjá sem Þorsteinn var og mælti: "Gef mér rúm maður."
Hann gekk svo snúðugt að Þorsteinn hrataði fyrir og við því búið að hann mundi falla á eldinn.
Jökull sá þetta og varð reiður mjög. Hann hélt á Ættartanga, spratt upp og hljóp að honum, laust milli herðanna Bergi með hjöltunum svo að hann féll við áfram og mælti: "Hvað vill skelmir þinn, viltu eigi hlífa goða vorum Vatnsdæla?"
Bergur spratt upp og varð ákaflega reiður og tók til vopna. Stóðu þá menn í milli þeirra og hélt þó við að þeir mundu á berjast því að Bergi eirði hið versta. Urðu þeir þó skildir.
Þorsteinn mælti: "Illa hefir nú enn tekist fyrir bráðræði Jökuls bróður míns. Vil eg bjóða fébætur svo að Bergur sé vel sæmdur af."
Bergur kvað sig eigi fé skorta og kvaðst sjálfur hefna skyldu. Jökull kvað hann æ því vesalla verða skyldu sem þeir ættust fleira við. Skíði bað að þeir Finnbogi færu á brott og ættust menn eigi við.
Þorsteinn kvað það eigi hæfa að ráðahag þessum væri brugðið "og skulum vér ríða bræður með vorum mönnum á Mársstaði."
Og svo var.
33. kafliBergur lýsti högginu til Húnavatnsþings og bjó þangað til málið. Síðan komu menn til þings og leituðu um sættir.
Bergur kvaðst eigi mundu fébætur taka og því að eins sættast að Jökull gengi undir þrjú jarðarmen sem þá var siður eftir stórar afgerðir "og sýna svo lítillæti við mig."
Jökull kvað fyrr mundu hann tröll taka en hann lyti honum svo.
Þorsteinn kvað þetta vera álitamál "og mun eg ganga undir jarðarmenið."
Bergur kvað þá goldið. Hið fyrsta jarðarmen tók í öxl, annað í bróklinda, þriðja í mitt lær. Þá gekk Þorsteinn undir hið fyrsta.
Bergur mælti þá: "Svínbeygði eg nú þann sem æðstur var af Vatnsdælum."
Þorsteinn svarar: "Þetta þurftir þú eigi að mæla en það mun fyrst í mót koma þessum orðum að eg mun eigi ganga undir fleiri."
Finnbogi mælti: "Þetta er víst eigi vel mælt en þó kemur eigi mikið fyrir vansa Bergs er hann fékk af Jökli ef hér skal staðar nema og þykir yður allt lágt hjá yður Vatnsdælum og vil eg skora á þig Þorsteinn til hólmgöngu á vikufresti við stakkgarð þann er stendur í eyjunni fyrir neðan bæ minn að Borg."
Bergur mælti þá: "Slíkt hið sama vil eg mæla við þig Jökull að eg býð þér hólmgöngu að á kveðnum tíma Finnboga og skuluð þér þá lútir fara Hofverjar."
Jökull svarar: "Heyr hvað mannfýlan mælir að þú dirfir þig að því að jafnast við oss eða bjóða mér hólmgöngu því að mér þykir mér eigi ofætlað þótt eg berjist við ykkur Finnboga báða. Skal og það vera og vil eg leysa undan Þorstein bróður minn því að það er skaði að honum verði nokkuð til meins en það er þó eigi örvænt ef þeir Finnbogi berjast því að hann er hinn mesti ofurhugi en hér er hvoriga að spara sem vér erum. Fór Bergur þá lútari, bikkjan, er eg sló hann svo að hann féll við, enda kom þú nú til hólmstefnunnar ef þú hefir heldur manns hug en merar. En ef nokkurir koma eigi þá skal þeim reisa níð með þeim formála að hann skal vera hvers manns níðingur og vera hvergi í samlagi góðra manna, hafa goða gremi og griðníðings nafn."
Skilja þeir síðan við svo búið og fór hver heim til síns heimilis. Var þetta nú gert að tíðindasögn um sveitir. Það bar saman hólmstefnur þessar og Þorsteinn hafði vinaboð að Hofi því að svo gerði hann hvert haust.
Helga hét kona. Hún kom út með Bergi og var frilla hans. Hún var mikil kona og sköruleg, framsýn og forspá og margkunnig um flesta hluti.
Hún mælti til Bergs: "Óviturlega hefir ykkur frændum orðið að þið ætlið að þreyta hamingju við sonu Ingimundar. Það fer eigi svo því að Þorsteinn er reyndur bæði að viti og gæfu en það er sannmælt til Jökuls að engi berserkur er slíkur í öllum Norðlendingafjórðungi sem hann og ertu eigi hans jafningi þóttú sért mikill fyrir þér. Og svo mikla sneypu sem þú hefir áður farið fyrir honum þá ferð þú nú aðra hálfu meiri ef þið eigist nokkuð við."
Bergur svarar: "Mikið hefir Jökull um mælt svo að mér er það eigi þolanda."
Helga svarar: "Þóttú sért svo heimskur að þú kunnir eigi fyrir þér að sjá þá skal eg það að gera að sjá hólmganga skal engi verða."
"Muntu eigi ráða því," sagði Bergur.
Eigi vissi Finnbogi þessi ráð.
34. kafliSvo er sagt að þann sama morgun, að fara skyldi til hólmgöngu þessarar, var komið á svo mikið kafafjúk með frosti að engu vætta var út komanda. Þann sama morgun snemma var barið á dyr að Hofi. Þorsteinn gekk til dyra og heilsaði Jökli bróður sínum.
Hann mælti: "Ertu búinn Þorsteinn til hólmstefnunnar?"
Hann svarar: "Þykir þér einsætt að fara því að þetta er illviðri?"
Jökull mælti: "Það þykir mér víst."
Þorsteinn svarar: "Gakk inn fyrst bróðir og bíðum ef veður batnar."
Jökull kvaðst eigi inn vilja og þíða á sér snjó "og þóttú viljir hvergi fara þá skal eg þó fara."
Þorsteinn mælti: "Aldrei skal sá munur hreysti okkarrar að eg sitji eftir en þú farir, og bíð mín."
Þorsteinn gekk inn og bjóst og mælti við boðsmenn sína að þeir skyldu þar sitja og eigi þaðan fara fyrr en algott væri, bað húsfreyju og sonu sína vinna mönnum beinleika. Þeir fóru báðir bræður saman.
Þá mælti Þorsteinn: "Hver er nú ráðagerð þín?"
Jökull svarar: "Þetta veit eg þig eigi fyrr gert hafa að leita ráða undir mig. Mun hér og til lítils að sjá ef þeirra þarf við en þó verður mér eigi til þessa ráðfátt. Við skulum fara til Undunfells og skal Þórir fara með okkur, bróðir okkar."
Þeir gerðu svo, fóru þaðan og komu að kveldi til Faxa- Brands. Hann var vinur Jökuls. Voru þar um nóttina. Brandur átti hest föxóttan er kallaður var Freysfaxi. Hann var virkur að hestinum og þótti góður. Var hann og öruggur til alls, bæði vígs og annars. Höfðu flestir það fyrir satt að Brandur hefði átrúnað á Faxa.
Um morguninn eftir var hin sama hríð, nema meiri væri. Þeir vildu fara bræður þótt eigi batnaði. Brandur hafði tjaldað sleða með húðum og beitt fyrir Faxa og kvað þá mundu hitta leið báða saman.
Jökull mælti: "Þorsteinn og Þórir skulu setjast í sleða en við Faxa-Brandur skulum ganga fyrir."
Þeir komu snemma dags undir stakkgarðinn og var ekki komið.
Um morguninn mælti Finnbogi til Bergs: "Ætlar þú eigi Jökul kominn vera til hólmstefnunnar?"
"Eigi ætla eg," segir hann, "því að það er einkis manns að fara í þvílíku veðri."
"Annar maður er Jökull þá en eg ætla," segir Finnbogi, "ef hann er eigi kominn og hefði betra verið að ganga eigi jafnlangt fram við hann og þola nú eigi hverja skömm á aðra ofan."
"Það hafið þér of síð séð," segir Helga, "og svo illt sem nú er frá að taka þá mun þó síðar verra."
"Ætlar þú Jökul kominn?" segir Bergur.
"Ekki mun eg um ætla," segir hún, "en hitt ætla eg sem gangast mun að hann er eigi yðvar maður."
Fellur þetta þar niður en þeir fara hvergi.
Þeir bræður biðu til nóns og er svo var komið þá fóru þeir Jökull og Faxa-Brandur til sauðahúss Finnboga er þar var hjá garðinum og tóku súlu eina og báru undir garðinn. Þar voru og hross er þangað höfðu farið til skjóls í hríðinni. Jökull skar karlshöfuð á súluendanum og reist á rúnar með öllum þeim formála sem fyrr var sagður. Síðan drap Jökull meri eina og opnuðu hana hjá brjóstinu og færðu á súluna og létu horfa heim á Borg, fóru síðan heimleiðis og voru að Faxa-Brands um nóttina, voru nú kátir mjög um kveldið.
Jökull mælti: "Þannig er nú Þorsteinn frændi að þú ert maður miklu vinsælli en eg og átt vini fleiri en þó er nú svo komið að vinir mínir duga nú eigi verr en þínir. Þykir mér sem Faxa-Brandur hafi vel dugað."
"Vel hefir Brandur gefist," segir Þorsteinn.
Brandur mælti: "Gott er slíkum manni að duga við sem Jökull er því að hann er fárra líki."
Þeir Faxa-Brandur og Jökull kváðu þetta gerningaveður verið hafa og kenndu það Helgu frá Borg. Þeir komu heim bræður og urðu allir menn þeim fegnir.
Spurðist þetta nú um allar sveitir hversu mikla sneypu Borgarmenn höfðu enn farið fyrir þeim bræðrum.
35. kafliEinhvern tíma skammt frá þessu heimti Finnbogi og þeir Bergur menn saman um Víðidal og urðu saman þrír tigir. Helga spurði hvað þeir ætluðu. Finnbogi kvaðst eiga ferð til Vatnsdals.
"Já," sagði Helga, "nú munuð þið ætla ykkar að hefna á þeim bræðrum en eg ætla að þið farið því fleiri ófarar sem þér eigist fleira við."
"Á það skal nú hætta," segir Finnbogi.
Helga svarar: "Farið þér, eigi mun yður óannara heim en heiman."
Þetta spurðist nú brátt víða og kom til Hofs til Þorsteins. Hann sendi orð bræðrum sínum og komu þeir til hans. Segir hann þeim slíkt er hann hafði spurt. Gera nú það ráð að þeir safna mönnum og þann dag er þeirra Finnboga var utan von komu saman að Hofi sex tigir manna. Þar var Már af Mársstöðum frændi þeirra og Eyjólfur úr Kárnsnesi og aðrir vinir þeirra. Var þá og sén reið þeirra Finnboga.
Þorsteinn mælti: "Nú skulum vér stíga á hesta vora og ríða í mót þeim því að eg vil eigi spark þeirra á bæ mínum."
Þeir gera svo.
Jökull mælti: "Ríðum að vel og hlaupum á þá svo að þeir verði eigi við búnir."
Þorsteinn svarar: "Eigi skulum vér óðlega láta og skal eg hafa orð fyrir oss og vita hvað þeir vilja og má vera að lítils þurfi við en veit eg frændi að þú ert búinn til allra atgerða."
Jökull svarar: "Von var þess að þú mundir eigi vilja að lengi stæðu mínar ráðagerðir yfir."
"Vel dugði þá frændi," sagði Þorsteinn, "er þín ráð voru höfð en nú mun lítils við þurfa."
Finnbogi mælti til sinna manna: "Menn ríða frá Hofi eigi allfáir og er það sannast að segja að Þorsteini kemur fátt á óvart. Eru nú tveir kostir fyrir höndum og hvorgi góður, ríða undan og heim við svo búið og er það þó hin mesta sneypa eða að hætta á fundi við þá og er þó nokkuð hættu við liðsmun þann sem mér sýnist að sé."
"Mun nú eigi verða að hætta á eitthvað," segir Bergur, "og skulum vér víst finnast."
Finnbogi mælti: "Stígum af baki og bindum hesta vora og höldum oss saman vel hvað sem í gerist."
Þetta sjá þeir Þorsteinn og stigu af baki og bundu sína hesta.
Þá mælti Þorsteinn: "Nú skulum vér ganga til móts við þá en eg skal hafa orð fyrir oss."
Þá mælti Þorsteinn: "Hver er foringi þessa manna sem hér eru komnir?"
Finnbogi segir til sín.
Þorsteinn mælti: "Hver eru erindi hingað í dalinn?"
"Oft eru smá erindi um sveitir," segir Finnbogi.
Þorsteinn mælti: "Þess get eg að nú sé orðið það erindi, sem ætlað var þá er þér fóruð heiman þótt annan veg hafi að borið en hugsað var, að finna oss bræður. Ef svo er þá hefir nú vel til borið. Skal nú gera þér tvo kosti Finnbogi, eigi fyrir því tvo að eigi væri hitt maklegra að þú hefðir einn. Far heim til Borgar við svo búið og sit í búi þínu. Hinn er annar kostur að nú skulum vér þreyta hólmgöngur vorar og þó með því móti að nú munu hvorir njóta síns brautargengis og muntu þá vita hvað þú vinnur á þóttú sért bæði stór og sterkur. Það skal þessu fylgja að þú skalt fara brott úr Víðidal að vori og vera eigi vistum milli Jökulsár í Skagafirði og Hrútafjarðarár og ætla þér aldrei síðan að deila kappi við oss bræður. En þú Bergur hefir mjög dregist til óvísu við oss bræður. Þú gerðir mér og lítið óspektarbragð fyrst er þú komst í hérað. Þá áðir þú hestum þínum í engjum mínum og ætlaðir mig það lítilmenni að eg mundi hirða hvar hestar þínir bitu gras. En þar er Jökull bróðir minn laust þig högg, það skaltu hafa bótalaust því að þú afníttir þá er þér voru boðnar. Þú skalt og eigi vera í þessu takmarki er Finnboga er bannað og hafið þið þá nokkurar minjar vorra viðskipta. Takið nú skjótt annan hvorn."
Jökull stóð hjá Þorsteini með Ættartanga og var búinn að bregða. Finnbogi og þeir Bergur ganga til hesta sinna og stíga á bak, ríða á brott og létta eigi fyrr en þeir koma heim til Borgar. Helga stóð úti og spyr tíðinda. Þeir kváðust engi segja kunna.
"Vera má að ykkur þyki svo en eigi mun það öðrum þykja þar sem þið eruð gervir héraðssekir sem illræðismenn og hefir nú yfir tekið um ykkrar ófarar."
Þorsteinn og þeir bræður riðu heim til Hofs og hver til síns heimilis. Þakkaði Þorsteinn þeim vel fylgdina. Sat hann nú enn í virðingu um þetta mál sem öll önnur.
Um vorið seldi Finnbogi landið að Borg og réðst norður á Strandir í Trékyllisvík og bjó þar. Bergur fór og á burt og er það eigi sagt í þessi sögu hvað hann lagði helst fyrir sig. Og lýkur þar skiptum þeirra Ingimundarsona.
36. kafliFrá því er sagt eitt sumar að skip kom í Hrútafjörð. Þar voru á systur tvær, Þórey og Gróa. Þær fóru báðar til vistar til Hofs og voru þar um veturinn með Þorsteini en sóttu hann að um vorið að hann skyldi fá þeim staðfestu nokkura. Þórey keypti land að ráði Þorsteins og bjó þar en Gró fékk hann bústað nær sér. Þorsteinn hafði beðið ámæli af konu sinni Þuríði að hann legði hug á Gró fyrir sakir fjölkynngi hennar. Gróa keypti malt og bjó til veislu og bauð Ingimundarsonum þangað. Eigi þóttu þær systur svo lítils háttar vera. Hún bauð og Mávi af Mársstöðum og mörgum héraðsmönnum.
Og hina þriðju nótt áður Þorsteinn skyldi heiman ríða dreymdi hann að kona sú er fylgt hafði þeim frændum kom að honum og bað hann hvergi fara. Hann kvaðst heitið hafa.
Hún mælti: "Það líst mér óvarlegra og þú munt og illt af hljóta."
Og svo fór þrjár nætur að hún kom og ávítaði hann og kvað honum eigi hlýða mundu og tók á augum hans.
Það var siðvenja þeirra þegar Þorsteinn skyldi nokkur heiman fara að allir komu þann dag til Hofs er ríða skyldu. Komu þeir Jökull og Þórir, Már og þeir menn aðrir er fara skyldu. Þorsteinn bað þá heim fara. Hann kvaðst vera sjúkur. Þeir gera svo.
Þann aftan þá er sól var undir gengin sá sauðamaður Gró að hún gekk út og gekk andsælis um hús sín og mælti: "Erfitt mun verða að standa í mót giftu Ingimundarsona."
Hún horfði upp í fjallið og veifði giska eða dúki þeim er hún hafði knýtt í gull mikið er hún átti og mælti: "Fari nú hvað sem búið er."
Síðan gekk hún inn og lauk aftur hurðu. Þá hljóp aurskriða á bæinn og dóu allir menn.
Og er þetta spurðist þá ráku þeir bræður á burt Þóreyju systur hennar úr sveit. Þar þótti reimt jafnan síðan er byggð Gró hafði verið og vildu menn þar eigi búa frá því upp.
37. kafliÞorgrímur á Kárnsá gat barn við frillu sinni er Nereiður hét og af orðum konu hans var barnið út borið.
Ástúðigt var með þeim bræðrum Ingimundarsonum og oft fundust þeir.
Eitt sinn hitti Þorsteinn Þóri bróður sinn. Leiddi Þórir hann á götu. Þorsteinn spyr þá Þóri hver honum þætti fyrir þeim bræðrum.
Þórir kvað það eigi getumál "að þú ert fyrir oss um allar ráðagerðir og vitsmuni."
Þorsteinn svarar: "Jökull er brjóst fyrir oss um öll harðræði."
Þórir kvaðst minnst háttar af þeim "fyrir það að á mig kemur berserksgangur jafnan þá er eg vildi síst og vildi eg bróðir að þú gerðir að."
"Því er eg hér kominn að eg hefi spurt að Þorgrímur frændi vor hefir látið bera út barn sitt af orðum konu sinnar og er það illa gert. Þykir mér og með stórum meinum að þú ert eigi í öðli þínu sem aðrir menn."
Þórir kvaðst hvatvetna mundu til vinna að þetta hyrfi af honum.
Þorsteinn kvaðst og vilja ráð til leggja "eða hvað muntu vilja til vinna?"
Þórir svarar: "Það sem þú vilt."
Þorsteinn mælti: "Einn er sá hlutur er eg beiðist en það er goðorðið til handa sonum mínum."
Þórir kvað það vera skyldu.
Þorsteinn mælti: "Nú vil eg heita á þann er sólina hefir skapað, því að eg trúi hann máttkastan, að sjá ótími hverfi af þér. Vil eg það gera í staðinn fyrir hans sakir að hjálpa við barninu og fæða upp til þess að sá er skapað hefir manninn mætti honum til sín snúa síðan því að eg get honum þess auðið verða."
Síðan stigu þeir á hesta sína og fóru þangað til er þeir vissu að barnið var fólgið og þræll Þóris hafði fundið við Kárnsá og sáu þeir að breitt hafði verið yfir andlitið og kraflaði fyrir nösunum og var þá komið að bana. Þeir tóku barnið og fluttu heim til Þóris og hann fæddi upp sveininn og var kallaður Þorkell krafla. En berserksgangur kom aldrei síðan á Þóri. Komst svo Þorsteinn að goðorðinu.
Ólafur bjó að Haukagili en Óttar í Grímstungum. Hann átti Ásdísi dóttur Ólafs og á lögfundum áttu þeir eina búð.
Synir Þorsteins óxu upp og voru gervilegir menn. Guðbrandur var mikill maður og sterkur. Ingólfur var manna fríðastur og þó mikill. Hann hafði og atgervi yfir flesta menn.
Og á einu haustþingi komu þar margir menn saman og var leikur stofnaður. Ingólfur var í leiknum og sýndi þá enn atgervi sína. Og eitt sinn er hann sótti eftir knetti sínum bar svo til að hann fló til Valgerðar Óttarsdóttur. Hún svipti að möttli sínum og töluðust þau við um hríð. Honum sýndist konan forkunnlega fríð. Og hvern dag þann er eftir þingsins var kom hann til tals við hana. Eftir það gerir hann þangað komur sínar jafnan. Óttari var þetta í móti skapi og kom á ræðu við Ingólf og bað hann eigi það gera er báðum þeim var til ósæmdar og kvaðst heldur vilja gefa honum konuna með sæmd en hann fífldi hana með vanvirðu. Ingólfur kvaðst gera mundu um komur sem honum sýndist og kvað honum enga ósæmd að því. Óttar hitti nú Þorstein og bað hann eiga hlut í með Ingólfi að hann gerði að. Hann kvað svo vera skyldu.
Þorsteinn mælti til Ingólfs: "Hví verður þér það fyrir að gera Óttari sneypu eða svívirða dóttur hans? Hefir þú illt ráð upp tekið og mun okkur verða að sundurþykki ef þú gerir eigi að."
Lét Ingólfur þá af komum en orti mansöngsvísur nokkurar um Valgerði og kvað síðan.
Óttar fór enn á fund Þorsteins og kvaðst illa una við kveðskapinn Ingólfs: "Þykir mér þú skyldur til að leggja nokkuð ráð á."
Þorsteinn kvað eigi að sínu skapi gert "og hefi eg um talað og tjóar eigi."
Óttar mælti: "Bæta máttu fé fyrir Ingólf eða leggja leyfi til að vér sækjum hann til laga."
"Fýsa vil eg þig," kvað Þorsteinn, "að þú gefir að engan gaum og máttu að lögum gera það."
Óttar fór stefnuför til Hofs og stefndi Ingólfi til Húnavatnsþings og bjó mál til sóknar.
Og er Jökull spyr þetta gerði hann sig óðan um og kvað slíkt mikil endemi ef þeir frændur skyldu þar sekir gervir í átthaga sínum og kvað Þorstein mjög eldast "og þótt vér séum eigi lögmenn þá munum vér eyða málið með öxarhömrum."
Og er vorþing kom bað Ingólfur Þorstein leggja ráð til um málið ella kvaðst hann mundu færa öxi í höfuð Óttari.
Þorsteinn mælti: "Nú vil eg að þú neytir goðorðsins og takir við."
Og var svo gert.
Og er í dóm kom málið gengu þeir Ingólfur og Jökull að dóminum og hleyptu upp með höggum og féll niður málið.
Litlu eftir þingið segir Óttar Ólafi mági sínum að hann mundi eigi við vera og selja land sitt. Hann gerði svo, færði bú sitt suður um heiði.
38. kafliEn eigi langan tíma upp frá þessu tók Þorsteinn sótt og andaðist og þó að fyrr segi líflát Þorsteins þá lést Jökull fyrstur þeirra bræðra en Þórir lifði lengst. Þorkell krafla var þá þrevetur er Þórir andaðist fóstri hans. Þá fór Þorkell til Þórorms og var þar upp fóstraður. Eigi ætluðu menn að fá mundi iðgjöld Þorsteins og bræðra hans en þó þótti mönnum synir hans vel stíga í spor honum. Ingólfur þótti konunum vænstur svo sem kveðið var:
- Allar vildu meyjar
- með Ingólfi ganga
- þær er vaxnar voru.
- Vesöl kvaðst hún æ til lítil.
Þeir bræður skiptu arfi með sér. Ingólfur bjó að Hofi en Guðbrandur að Guðbrandsstöðum. Ingólfur átti Halldísi dóttur Ólafs frá Haukagili. Hún var yngri en Ásdís, er Óttar átti, er móðir var Valgerðar og Hallfreðar vandræðaskálds. Ingólfur kom að finna Valgerði jafnan er hann fór til þings eða frá. Það líkaði Óttari illa. Hún gerði honum og klæði öll þau er mest skyldi vanda.
39. kafliNokkurum vetrum eftir líflát Þorsteins Ingimundarsonar fann Óttar er hann reið af þingi á Bláskógaheiði mann sekjan er Þórir nefndist, kominn að austan úr Fjörðum og kvaðst hafa sekur orðið um konumál og bað hann Óttar viðtöku.
Óttar kvaðst mundu gera á þessu kost "ef þú ferð sendiferð mína."
Hann spyr hver sú væri.
Óttar svarar: "Eg vil senda þig norður í Vatnsdal til Ingólfs að þú sitjir um líf hans eða annars hvors þeirra bræðra því að eigi er ólíklegt ef að líkindum fer að þeir verði eigi giftudrjúgir. Nú ef þú ferð mun eg veita þér ásjá."
Hann kvaðst til þess vel fær "því að eigi brestur mig áræði."
Hann fór heim með Óttari og keyptu þessu saman að hann skyldi drepa Ingólf eða Guðbrand ef hann næði honum heldur en Óttar skyldi koma honum utan.
Hann fór norður til Vatnsdals og kom til Hofs, var þar um nótt og bað Ingólf ásjá, kvaðst vera sekur maður. Ingólfur kvaðst eigi þurfa utanhéraðsmanna og kvað sér slíka auðfengna, bað hann á burtu verða skjótt og kvaðst illa á hann lítast.
Þórir fór á brott og kom til Guðbrands. Hann tók við honum og var hann þar um hríð. Og einn morgun bað Guðbrandur hann taka sér hest og gekk út en Þórir eftir. Og er Guðbrandur kom á þreskjöldinn þá laut hann við en Þórir veitti honum þá tilræði. Og er hann heyrði að öxin þaut veik hann sér hjá dyrunum en Þórir hjó í ásinn er fram tók úr vindskeiðunum og stóð öxin þar föst en Þórir hljóp á burt úr garði en Guðbrandur eftir. Þórir hljóp yfir árgljúfrin þegar er hann kom að og lá fallinn. Guðbrandur skaut eftir honum sverði og kom á hann miðjan. Hann hafði knýtt beislinu um sig og kom sverðið á beislhringinn. Guðbrandur hljóp yfir ána og að Þóri og var hann þá dauður. Kasaði hann hann þar. Skörð voru fallin í sverðinu og eitt það er leggja mátti í fingrargóm. Brýnt var að síðan og var hið besta vopn.
Guðbrandur fór að finna bróður sinn og sagði honum þessi tíðindi og kvað þetta vera ráð Óttars og lét þá við slíku mundu búast eiga. Ingólfur kvað slík mikil firn og riðu þegar suður til Borgarfjarðar og báru þetta að Óttari en hann mælti móti því að þar var þá fjölmennt og náðu þeir honum eigi.
Var þá leitað um sættir og sættust að því að Óttar galt hundrað silfurs en Þórir skyldi ógildur. Það fylgdi og þessi sætt að Ingólfur skyldi óheilagur falla ef hann kæmi að finna Valgerði svo að Guðbrandur fylgdi honum eigi.
Þá mælti Ingólfur: "Til þess máttu ætla Óttar ef fleiri farar verða óvingjarnlegar til vor en sjá að þá mun eigi fébótum við koma og þér mun þá að verðugu goldin svikræðin."
Hann kvað það marga mæla mundu að væru sakir til áður þetta var gert. Síðan skildu þeir.
40. kafliSvartur hét maður er skipi sínu kom á Minþakseyri. Hann var suðureyskur að ætterni, maður mikill og sterkur, óvinsæll og lítt við alþýðuskap. Hann kom af brotnu skipi. Og er menn vissu hvers háttar maður hann var þá urðu engir til að taka við honum og fór hann um sveitir uns hann kom til Óttars og bað hann viðtöku og ásjá.
Hann svarar: "Ómaklega sýnist mér til þín gert að veita eigi slíkum manni sem þú ert og vil eg við þér taka því að þú ert maður eigi lítilmótlegur og hygg eg að mér sé traust að þér mikið."
Hann kvað hann þess maklegan. Svartur átti nokkuð fé.
Var hann nú með Óttari og eigi lengi áður hann mælti til Svarts: "Eg vil senda þig norður til Vatnsdals til Hofs. Sá maður býr þar er Ingólfur heitir. Hann er sakadólgur minn og hefir gert mér margs konar skammir og fæ eg eigi rétt af honum en hann er þó mikilhæfur maður en eg hygg þig munu gæfu til bera með mínu tilstilli að hefna því að mér líst vel á þig."
Svartur kvaðst verið hafa þar er eigi þótti öllum einn veg, kvað það og líklegra að hann fengi erindið, sagðist verið hafa í víking og oft einn á brott komist.
Skip stóð uppi í Hvítá. Og með þeim hætti keyptu þeir saman að hann skyldi höggva hönd eða fót af Ingólfi eða drepa Guðbrand ef hann næði eigi Ingólfi en Óttar skyldi fá honum veturvist og koma honum utan. Svartur skyldi leita fyrir sér ef hann kæmi eigi fram verkinu en ella fara til vistar sinnar. Óttar fékk sér varning frá skipi og fékk hann Svarti til meðferðar. Hann fékk honum og mann til fylgdar og hesta tvo, sagði honum til byggða eða hverjar leiðir honum var best að fara norður eða norðan.
Svartur fór þar til er hann kom í Hvanndali, tók þar af hestum sínum og bjó um farning sinn en hestar gengu á bit. Svartur kom gangandi til Hofs snemma dags og var Ingólfur úti og skefti spjót. Svartur kvaddi Ingólf og kvað sér eigi greitt farist hafa, kvað sér horfna á heiðinni hesta tvo en varning sinn liggja þar, kistu og húðfat, og bað Ingólf fá til menn að leita með sér eða flytja föng sín til byggða, kvaðst vilja flytjast norður til Eyjafjarðar og kvað sig verið hafa að Hrafnagili fyrir nokkurum vetrum.
Ingólfur kvað nú fátt manna á bænum "en eg vil hvergi fara og verð í brottu í stað."
"Þá muntu vilja fylgja mér á götu og vísa mér til annars bæjar."
Og svo var. Hann fór með honum á götuna og varaðist Ingólfur hann þó af hugboði sínu því að Svartur vildi ávallt síðar fara. Hann var gyrður sverði en hafði spjót í hendi mjög mikið. Það var fjaðurspjót langskeft og vafið járni skaftið.
Svartur beiddist viðtöku en Ingólfur hefði af varningi slíkt er hann vildi: "Ertu víðfrægur maður og samir þér vel að taka útlenda menn, allra helst ef eigi skortir fé til forgiftar."
"Eigi er eg því vanur," kvað Ingólfur, "að taka ókunna menn til mín. Gefast þeir margir illa og ertu eigi til þess ólíklegur því að þú hefir illslegt bragð á þér" og vísaði honum skjótt af höndum og kvaðst engu vilja við hann kaupa og hvarf aftur.
Svartur fór og kom til Guðbrands og sagði honum hina sömu sögu. Guðbrandur mælti: "Eigi gefist þér vel hinir ókunnu menn en sækja má eg láta varning þinn en gerum síðan sem sýnist um vistafar."
Þeir fóru og fundu varninginn en ætluðu hestana hafa í burt hlaupið. Þeir fundu þá fljótt. Guðbrandur hafði heim til sín allt saman og tók við Svarti.
Og er það spyr Ingólfur hitti hann bróður sinn og þótti óvarleg hans tiltekja "og vil eg að hann fari á burt."
Guðbrandur kvaðst ætla að eigi mundi sjá maður honum til skaða ætlaður og kvað hann sig eigi líklegan hafa til gert síðan hann kom.
Ingólfur svarar: "Þá líst okkur eigi það einn veg því að mér líst maðurinn flugumannlegur og illa mun hann reynast og vil eg eigi að hann sé hjá þér því að mér segir illa hugur um hann en mér þykir betri hinn fyrri varinn."
En það varð þó eigi og var hann þar um veturinn.
En um vorið þá er sumra tók færði Guðbrandur lið sitt í sel og var svo til skipað að húsfreyja reið ein saman en Guðbrandur og Svartur einum hesti báðir og reið Svartur að baki. En er þau komu á mýrar þær er nú heita Svartsfellsmýrar þá liggur í hesturinn undir þeim og bað Guðbrandur Svart skreiðast aftur af hestinum og svo gerir hann. Og nú sem Svartur sér að Guðbrandur varast hann eigi þá snýr hann spjótinu.
Þetta sér húsfreyja og mælti: "Varastu hundinn er vill svíkja þig og drepa."
Og í því lagði Svartur Guðbrand með spjótinu undir hendina og þegar á hol. Guðbrandur fékk brugðið sverðinu og slæmir eftir honum og í sundur í miðju. Húsfreyja kom til sels og sagði líflát þeirra beggja og þóttu þetta ill tíðindi.
Ingólfur spyr þetta og kvað farið hafa eftir sínu hugboði og bjó þegar mál til á hendur Óttari til alþingis um fjörráð við sig og bróður sinn. Og er menn komu til þings var leitað um sættir og var það mjög torsótt við Ingólf. En sakir þess að margir góðgjarnir áttu hlut í og hitt annað að Ingólfur hafði eigi haldið sætt sína við Óttar um fundi við Valgerði þá tók hann sættir og komu fyrir fjörráð við Guðbrand þrjú hundruð silfurs. Skyldi þá og niður falla sættarof við Óttar um Valgerðar mál. Skiljast nú við þetta og voru sáttir.
Ingólfur átti tvo sonu við konu sinni og hétu þeir Surtur og Högni. Þeir voru báðir gervilegir menn. Ingólfur þótti mikill höfðingi og stíga vel í spor sínum föður um marga hluti.
Ólafur að Haukagili tók þá að eldast mjög.
41. kafliÚtilegumenn og ránsmenn voru mjög í þenna tíma bæði suður og norður svo að nálega mátti engi á sínu halda. Á einni nótt rændu þeir að Haukagili mat miklum því að þar voru gnóttir hversvetna. Ólafur fór og hitti Ingólf og sagði honum. Ingólfur bjóst heiman við fimmtánda mann. Ólafur bað hann vera varfæran og kvað sér meira varða að hann kæmi heill heim en hitt hvar matur hans færi. Þeir riðu suður á heiði og ræddu um ránið Ólafs. Þjófarnir höfðu rænt til fimmtán hundraða. Þeir Ingólfur komu á sporin þeirra og röktu þau þar til er þeir villtust um því að sporin lágu þá tvo vega. Þá skiptu þeir og liði sínu, fóru átta í öðrum stað en sjö í öðrum og leituðu svo lengi. Þar voru sel skammt frá þeim og fóru þeir þangað. Þar sáu þeir átján hross hjá selinu og ræddu um að þar mundu vera komnir þjófarnir og kváðu þá ráðlegast að leita eftir förunautum sínum.
Ingólfur kvað það fyrir sumt óráðlegra "því að þeir mega þá ná til hellisins því að hann er skammt frá þeim og eru þeir hólpnir ef þeir fá hann og er þá vor för sljóleg en eigi víst hvar vorir menn eru."
Ingólfur spratt af baki og hljóp í gil nokkuð er hjá honum var og þrífur upp hellur tvær, lætur aðra koma fyrir brjóst sér en aðra milli herða og gyrti að utan. Hann hafði í hendi sverðið Ættartanga og gekk síðan að selinu. Það var tvídyrt. Það segja menn að Ingólfur væri þar þá eigi fjölmennari en við annan mann. Þá mælti förunautur Ingólfs að þeir mundu gera sína menn við vara. Ingólfur kvaðst verja mundu seldyrnar en hann færi eftir mönnum þeirra.
Hann kvaðst nú eigi mundu á burt fara "þykir mér þínir eigi of margir."
Ingólfur vildi þegar inn ráða að þeim og bað hann fylgja sér drengilega. Þjófarnir lögðu þegar að honum er hann kom inn og honum hlífðu hellur þær er hann hafði og svöddu lögin af honum. Sóttu þeir þá að Ingólfi öllumegin en hann varðist vel og drengilega. Þá reiddi hann upp Ættartanga og kom sverðið í höfuð þeim er stóð að baki honum svo að sá fékk bana en hjó þann banahögg er fyrir stóð og drap Ingólfur þá báða í einu höggi. Þeir áttu snarpan bardaga og lauk svo að Ingólfur drap fimm menn enda var þá fallinn fylgdarmaður hans. Voru þeir þá komnir út úr selinu en Ingólfur var sár mjög. Komu þá að menn hans. Þjófarnir stukku þá í brott en þeir tóku ránið og bundu á hesta sína og ráku norður aftur.
Ingólfur lá í sárum vetur þenna og greri yfir að kalla. En um vorið er sumarhita tók rifnuðu upp aftur öll svo að það leiddi hann til bana. Og áður Ingólfur andaðist bað hann sig grafa í öðru holti en þeir voru grafnir frændur hans og kvað þá hugkvæmra Vatnsdalsmeyjum ef hann væri svo nær götu. Síðan andaðist hann. Þar heitir Ingólfsholt sem hann var jarðaður. Alþýða manna harmaði mjög fráfall Ingólfs. Tólf vetur lifði hann eftir andlát föður síns með mikilli virðingu. Óttar gifti Valgerði dóttur sína stafhylskum manni.
En er Ingólfur var andaður var höfðingjalaust í Vatnsdal því að synir Ingólfs voru eigi til færir sakir aldurs að varðveita goðorðið. Var nú um leitað hversu fara skyldi. En það voru lög í þann tíma meðan erfingjar voru í ómegð að sá skyldi af þingmönnum varðveita goðorðið sem best þætti til fallinn.
42. kafliÞorkell krafla Þorgrímsson var maður bæði mikill og sterkur. Hann var þá tólf vetra er þetta var tíðinda. Þorgrímur gekk eigi við faðerni hans en hann var þó miklu fræknlegri en skírgetnir synir hans.
Þorkell silfri frá Helgavatni var hamrammur mjög og þó margkunnigur. Hann var vellauðigur að fé, eigi vinsæll og óþokkasæll af flestum mönnum en þó verður mikils.
Þenna sama dag er fundurinn var stefndur að Kárnsá um goðorðsmálið mælti kona Þorkels silfra: "Hvað ætlar þú í dag að gera?"
Þorkell svarar: "Fara til fundarins og vera í kveld goðorðsmaður er eg kem heim."
"Eigi vildi eg að þú færir," segir hún, "til þess að þú ætlaðir þér að verða yfirmaður Vatnsdæla því að þér mun það eigi lagið verða enda ertu eigi til þess felldur."
Hann svarar: "Í öðru skulu þín ráð standast en eigi hér um."
Til þess fundar ætlaði og Klakka-Ormur og Þorgrímur frá Kárnsá dótturson Ingimundar. Þorgrímur þótti best til fallinn fyrir frændsemi við Vatnsdæli en þó skyldi það til hlutfalls leggja því að margir þóttust vel til fallnir. Þessi fundur var lagiður að einmánuði í Forsæludal að Klakka-Orms.
Þorkel silfra dreymdi hina næstu nótt áður fundurinn var og sagði Signýju konu sinni að hann þóttist ríða ofan eftir Vatnsdal hesti rauðum og þótti honum trautt við jörðina koma "og vil eg svo ráða að rautt mun fyrir brenna og til virðingar snúa."
Signý kvaðst annan veg ætla: "Sýnist mér þetta illur draumur" og kvað hest mar heita "en mar er manns fylgja" og kvað rauða sýnast ef blóðug yrði "og má vera að þú sért veginn á fundinum ef þú ætlar þér goðorðið því að nógir munu þér þess fyrirmuna."
Þorkell lét sem hann heyrði eigi og bjóst vel heiman að klæðum og vopnum því að hann var skartsmaður hinn mesti og kom í síðasta lagi.
Þorgrímur kom snemma dags og sat í öndvegi hjá Ormi. Hann gekk aldrei við faðerni Þorkels kröflu. Hann lék sér þá enn á gólfi með öðrum börnum og var bæði mikill og sterkur og manna fríðastur. Hann nam staðar fyrir Þorgrími og horfði á hann mjög lengi og á taparöxi er hann hélt á.
Þorgrímur spurði hví ambáttarson sjá stirði svo á hann. Þorkell kvað eigi of mikið sitt gaman þó að hann horfði á hann.
Þorgrímur spurði: "Hvað viltu til vinna Krafla að eg gefi þér öxina því að eg sé að þér líst allvel á hana og hitt að eg gangi við frændsemi þinni?"
Þorkell bað hann á kveða.
Þorgrímur mælti: "Þú skalt færa öxina í höfuð Silfra svo að hann fái aldrei goðorðið Vatnsdæla. Þykir mér þú þá sjálfur færa þig í Vatnsdælakyn."
Þorkell kvaðst þetta gera mundu. Þorgrímur leggur nú ráð til að hann láti sem verst með öðrum sveinum. Silfri sat svo jafnan að hann setti hönd undir kinn en lagði fót á kné sér. Þorkell skyldi hlaupa í saur en aðra stund inn og koma við klæði Silfra og vita ef hann reiddist. Nú ræða þeir um goðorðið og verða eigi ásáttir. Vildi hver sinn hlut fram draga. Þá leggja þeir hluti í skaut og kom jafnan upp hlutur Silfra því að hann var margkyndugur. Þorgrímur gekk þá fram og mætti Þorkeli kröflu í dyrum hjá sveinum.
Þorgrímur mælti þá: "Nú vil eg að þú greiðir öxarverðið."
Þorkell mælti þá: "Öxar er eg allfús og má eg nú vel greiða verðið þótt eigi sé nú þann veg vara til sem þú vildir."
Þorgrímur svarar: "Fleira mun nú tekið en vara ein."
Þorkell mælti: "Viltu nú að eg drepi Silfra?"
"Já," kvað Þorgrímur.
Þá var komið goðorðið í hlut Silfra. Þorkell krafla kom inn í stofu og gekk hjá Silfra og kom við fót honum en hann hratt honum frá sér og kallaði hann ambáttarson. Þorkell hljóp upp í sætið hjá og keyrði taparöxina í höfuð honum, og var Þorkell silfri þegar dauður, og kvaðst eigi of mikið vinna til öxarinnar.
Þorgrímur kvað sveininn hafa verið illa beiddan "enda hefir hann eigi vel staðist. Hefir piltur þessi nú næsta sagt sig í Vatnsdælakyn og mun eg ganga við faðerni þínu."
Síðan tók Þorgrímur goðorðið og var kallaður Kárnsárgoði. Sæst var á víg Silfra því að synir hans voru ungir. Þorkell fór heim til Kárnsár með föður sínum og beiddist að fara utan og vita hve til tækist ef hann hitti Sigurð jarl Hlöðvisson frænda sinn. Þorgrímur kvað hann hafa skyldu það er hann vildi.
43. kafliBjörn hét austmaður er skip átti búið til hafs. Með honum fór Þorkell krafla utan. Þeir komu við Orkneyjar. Þá var Sigurður jarl í eyjunum. Björn var jarli kunnigur og leitaði að hann tæki við þeim Þorkeli og kvað hann góðra manna og mikils verðan og mjög fyrir íslenskum mönnum. Jarl kvaðst mundu taka við þeim og spurði að ætt Þorkels en hann sagði til hver var en hann hugleiddi það lítt. Síðan tók jarl við þeim. Einlyndur þótti þeim jarlsmönnum Þorkell vera. Aldrei gekk hann úr rúmi sínu nema jarl gengi og honum var hann mjög fylgjusamur.
Eitt sinn um vorið fór hirðin til leiks úr höllinni en jarl sat eftir með fá menn og mælti: "Þú ert staðfastari en flestir menn aðrir Þorkell að þú ferð eigi til leiks eða hvað sagðir þú mér af ætterni þínu?"
Þorkell taldi þá ætt sína og vaknaði jarl við og svarar: "Þú munt vera skyldur mér og ertu seinn mjög í slíkum sögnum."
Jarl jók þá virðing hans og um sumarið eftir fór jarl í hernað og spurði Þorkel hvort hann vildi fara með honum. Hann kvaðst fara vildu ef jarl vildi. Þeir herjuðu víða um sumarið. Og eitt sinn er þeir gerðu upprás í Skotlandi og komu aftur til skipa spurði jarl hversu margra manna vant væri. Var þá að hugað og var Þorkels eins saknað. Hann hafði verið á skipi jarls. Þeir kváðu engan skaða vera um svo tómlátan mann. Jarl bað fara í stað og leita hans. Og svo var. Þeir fundu Þorkel í skógarrjóðri við eik eina. Tveir menn sóttu að honum en fjórir lágu dauðir hjá honum. Á brott hlupu atsóknarmenn Þorkels þegar jarlsmenn komu. Jarl spurði hvað dvalið hefði.
Þorkell mælti: "Það hefi eg heyrt yður mæla að renna skyldi frá skipum og á land upp en aldrei það að renna til skipa svo að hver hlypi frá öðrum."
Jarl svarar: "Þú segir satt frændi. Skal og svo vera héðan af. En sá skal engi hlutskipti taka er það gerir að renna frá merki af landi ofan."
Jarl spurði hvort það væru landsmenn er dauðir lágu hjá honum eða hans menn. Þorkell kvað það landsmenn.
Hann kvaðst farið hafa hjá kastala einum "og þar sem eg gekk hröpuðu úr steinvegginum steinar nokkurir og þar í fann eg fé eigi svo lítið. Og þetta sáu kastalamenn og sóttu eftir mér og varð þá fundur vor slíkur sem sjá mátti."
Jarl tjáði þá fyrir þeim fræknleik hans. Síðan spurði jarl hve mikið fé það væri. Hann kvað vera tuttugu merkur silfurs. Jarl kvað hann eiga þann fjárhlut og engan annan. Þorkell kvað jarl eiga og allt sitt hlutskipti. Jarl kvað þá báða eiga skyldu og eigi kom það fé í skipti. Jarl lagði mikla virðing á Þorkel fyrir þessa för. Hann var með jarli tvo vetur. Þá fýstist Þorkell til Íslands og sagði það jarli.
Hann svarar: "Þess væntir mig að frændum þínum verði sæmd að þér."
Hann gerðist handgenginn jarli og hann gaf honum öxi gullrekna og góð klæði og kvaðst vera skyldu vinur hans. Jarl gaf honum kaupskip með farmi þeim sem hann kjöri. Gullhring sendi hann Þorgrími til frelsis Nereiði er vó hálfa mörk. Nereiði sendi hann allan kvenbúnað góðan fyrir frændsemi. Síðan lét Þorkell í haf og fórst honum vel. Hann kom skipi sínu í Húnavatnsós. Þorgrímur Kárnsárgoði reið til skips og fagnaði vel syni sínum og bauð honum til sín og það þá hann. Þorgrímur gaf Nereiði frelsi svo sem jarl hafði orð til sent. Litlu eftir þetta tók Þorgrímur sótt og andaðist en synir hans skírgetnir tóku arf allan sem lög stóðu til.
Þórormur var bróðir Klakka-Orms, föður Þorgríms, föður Þorkels. Þórormur fór á fund Þorkels og bauð honum til sín og það þá hann. Þorkell var blíður maður og lyndisgóður.
44. kafliÞorgils hét maður er bjó að Svínavatni. Hann átti sér húsfreyju og með henni fjóra sonu og eru tveir nefndir, Þorvaldur og Ormur. Glæðir hét bróðurson Þorgils en hann var systurson Guðmundar hins ríka á Möðruvöllum. Glæðir var áburðarmaður mikill, málugur og óvitur og hinn mesti gapuxi.
Þeir feðgar Þorgils og Þorvaldur fóru til Klakka-Orms að biðja Sigríðar dóttur hans. Var því vel svarað og ákveðin brúðhlaupsstefna að veturnóttum í Forsæludal. Þar var fámennt heima en starf mikið fyrir höndum, bæði að sækja á fjall sauði og svín og mart annað að gera. Þorkell bauðst til að fara með verkmönnum á fjall. Ormur kvaðst það vilja. Þeir fóru síðan og sóttist þeim seint því að féið var styggt. Sótti engi knálegar en Þorkell. Það þótti torsóttlegast að eiga við svínin. Þorkell var óhlífinn og bauðst jafnan til þess er öðrum þótti verra að gera.
Og er þeir skyldu búa sér vistir mælti Þorkell: "Mun eigi vel fallið að taka oss grísinn nokkurn til matar?"
Þorkell tók einn og bjó til borðs. Allir urðu á það sáttir að Þorkell var fyrir þeim um alla liðsemd. Þeir komu heim.
Ávaldi hét maður er var með Klakka-Ormi. Hann var Ingjaldsson. Hann var umsýslumaður en Hildur kona hans fyrir innan stokk. Hún var dóttir Eyvindar sörkvis.
Litlu áður en brúðhlaupið skyldi vera kom Glæðir austan úr Fjörðum og frétti nú þessi tíðindi og ráðastofnun.
Glæðir kvaðst hafa og spurt önnur tíðindi "en það er fjallferð Þorkels kröflu, að hann var valiður til svínagæslu," kvað hann það og maklegast um ambáttarsoninn og kvað hann drepið hafa grísinn þann er drukkið hafði spenann um nóttina áður og legið hjá galta "því að hann kól sem aðra hundtík."
Þorgils mælti: "Þetta er heimsklegt gaman er þú hefir og er svo sagt að Þorkell hafi svo farið að þannig sami best, bæði þar og annars staðar."
"Auvirðlega þykir mér honum tekist hafa," segir Glæðir.
Nú koma menn til brúðhlaups.
Þá mælti Þorkell til Orms fóstra síns: "Eg mun vinna mönnum beina og vera fyrir starfi og til ætlanar."
Ormur kvaðst það gjarna vilja þiggja. Þorkell veitti vel og stórmannlega. Þeir Ormur sátu í öndvegi en Þorgrímur hinum óæðra megin og hans menn. Þorkell gekk mjög um beina og var lítillátur í sinni þjónustu. Þeir úr Svínadal hlógu að honum mjög og kváðu ærið stóran vera ambáttarsoninn. Þorkell kvað meiri kurteisi að láta gleði og gamanræður koma í mót beinleika en skaup eða atyrði.
Glæðir kvað hann mörg stórvirki unnið hafa "og máttu af því stórlega láta. Það nú fyrir skemmstu er þú drapst grísinn þann er eina nótt hafði drukkið spenann. Er það og þín iðn."
Þorkell svarar: "Fá eru mín stórvirki Glæðir en þó munu þau fleiri en þín og er þér óskylt um þetta að tala."
Glæðir hló að Þorkeli fyrir Þorvaldi og kvað hann fimastan við matreiðuna. Þorvaldur kvað Glæði óviturlega mæla. Og um kveldið fóru menn að sofa.
Um morguninn gekk Þorkell í útibúr og hvatti öxina jarlsnaut og gekk síðan í anddyri. Þá var Glæðir þar og tók laugar. Þá gengu menn hjá honum með sláturtrog.
Glæðir mælti til Þorkels: "Nær muntu verið hafa búverkunum í morgun og munum vér skulu nú njóta hans galta og lát það feitast er fyrir oss kumpána kemur. Það hæfir vel ambáttarsyni."
"Mun eigi vel fallið að brytja fyrst höfuðið," kvað Þorkell, "og velja stykkin fyrir þig og aldrei veit eg að þú sért nú svo frekur að torsótt sé að fylla þig."
Þann dag skyldi frá boðinu ríða. Þorgils spurði hvort búinn væri dagverður. Þorkell kvað búinn þegar soðið var og kvað skammt til þess og gekk út verkmanna dyr og inn aðrar dyr og tók öxi sína er stóð hjá dyrum. Og er Glæðir gekk út gekk Þorkell eftir honum og hjó til hans í höfuðið og hafði Glæðir þegar bana. Þorkell hljóp til norðurdyra því að þeir voru fyrir suðurdyrum. Matur stóð um allt húsið. Þorgils var fjölmennur og hlupu menn hans um húsið og hyggja Þorkel eigi skulu út komast og ætla að hafa hendur á honum. Þorkell hljóp um sætin. Skot voru um húsið og lokhvílur og úr einni lokhvílu mátti hlaupa í skotið. Hann leitar þangað sem konur sátu og földuðu sér. Hann hljóp þar að er Hildur var fyrir. Hún spurði hví hann færi svo hart. Þorkell segir sem var. Hún bað hann fara í skotið hjá sér og þar komst hann út.
Þorgils mælti: "Snúum þar að er konurnar eru því að mér þótti maðurinn þangað hlaupa."
Hildur tók öxi í hönd sér og kvað eigi skyldu einn þeirra af sér taka. Þorgils hyggur Þorkel þar nú vera munu og biður bera klæði að þeim. Og var svo gert og fannst Þorkell eigi. Þorgils sá nú að þetta var eigi utan prettur og dvöl og fóru út síðan. Og er þeir komu út þóttust þeir sjá svip manns niður við ána. Þorgils bað leita þangað og svo var gert og fannst hann eigi. Þorkell vissi að þar var hellir við ána er nú heitir Kröfluhellir og þar var hann.
Þeir Þórormur og Klakka-Ormur leituðu um sættir. Eigi vildi Þorgils bætur taka en brugðu eigi ráðahag þessum og kváðu mannhefndir skyldu fyrir koma víg Glæðis. Þórormur leiddi brúðmenn úr garði og leitaði jafnan um sættir og fékk eigi og skildu að því.
Þorkell var ýmist þann vetur á Kárnsá með bræðrum sínum eða með öðrum frændum sínum því að allir vildu honum veita nokkura ásjá og hugðu gott til að nokkur þroski yrði hans í þeirri sveit svo að eigi settust þar utanhéraðsmenn yfir þá. Þeir fóru Vatnsdælir að leita honum trausts til Þórdísar spákonu er bjó að Spákonufelli. Hún var mikils verð og margs kunnandi og báðu hana ásjá og fulltings um mál Þorkels og kváðu þar allmikið undir þykja að hún legði til nokkuð ráð. Hún kvað og svo vera skyldu.
Þorgils fór að hitta Guðmund ríka og kvað honum skyldast vera að mæla eftir frænda sinn "en eg mun að fylgja."
Guðmundur mælti: "Eigi þykir mér málið svo hægt því að eg hygg að Þorkell verði mikilmenni en margur frændi til aðstoðar en mér hefir svo til spurst að eigi sé fyrir sakleysi tiltekt Þorkels. Nú bú þú til málið en eg mun við taka í sumar á þingi."
Um vorið bjó Þorgils málið til alþingis. Vatnsdælir fjölmenntu mjög og svo hvorirtveggju. Þorgils reið til þings með mikla sveit manna. Þorkell reið og til þings með frændum sínum. Þar reið með þeim Þórdís spákona og átti ein sér búð og hennar menn. Tók þá Guðmundur við málinu. Þeir Vatnsdælir buðu sættir en þeir Guðmundur vildu ekki utan sektir. Þórormur hitti Þórdísi og ræðst um við hana því að hún var forvitra og framsýn og var tekin til þess að gera um stórmál.
Hún mælti þá: "Fari Þorkell hingað til búðar minnar og sjáum hvað í gerist."
Svo gerði Þorkell.
Þórdís mælti við Þórorm: "Far þú og bjóð Guðmundi sættir en eg geri um málið."
Þorkell gaf Þórdísi tvö hundruð silfurs. Þórormur bauð dóm Þórdísar á málinu en Guðmundur nítti og kvaðst eigi vilja taka fébætur.
Þórdís mælti: "Eg ætla mér og engan vanda við Guðmund."
Síðan mælti hún við Þorkel: "Far þú nú í kufl minn hinn svarta og tak stafsprotann í hönd þér er Högnuður heitir. Eða muntu þora að ganga í flokk Guðmundar við svo búið?"
Hann kvaðst þora mundu með hennar ráði.
Hún svarar: "Hættum nú til þessa. Nú skaltu ganga til Guðmundar og drepa sprotanum þrisvar sinnum á hina vinstri kinn honum og eigi sýnist mér þú bráðfeiglegur og vænti eg að dugi."
Hann kom í flokkinn Guðmundar og sá engi maður til hans. Hann kom að Guðmundi og gat á leið komið því sem honum boðið var. Nú frestaðist þeim sókn sakarinnar og dvelst málið.
Þorgils mælti: "Hví gengur eigi fram málið?"
Guðmundur kvað brátt greiðast mundu en það varð eigi og dvaldist stundin svo að ónýtt varð málið til sóknar.
Þórdís hitti Vatnsdæli og bað þá ganga að dómum og bjóða nú fé fyrir manninn "og má vera að nú taki þeir og lúkist svo málið."
Þeir gerðu svo, gengu til dóma og hittu Guðmund og buðu sættir og fébætur.
Guðmundur svarar: "Eg veit eigi hvað þér viljið bjóða en mikils vil eg það virða í málinu að sá er veginn var hafði mælt sér til óhelgi."
Þeir kváðust vel vilja bjóða fyrir hans sakir og báðu hann um mæla. Og er hann skildi í hvert efni komið var málinu og eigi mátti sækja til laga þá tók hann sjálfdæmi af Þórormi að gera fé slíkt sem hann vildi að undanskildum utanferðum og héraðssektum. Var þá handsalað niðurfall að sökum. Þá sendi Þórdís Þorkel í annað sinn til Guðmundar að láta koma stafsprotann við hægri kinn honum og svo gerði hann. Þá tók Guðmundur minnið og þótti kynlegt að það hafði frá honum horfið. Guðmundur gerði hundrað silfurs fyrir víg Glæðis og féllu þá niður gagnsakir og guldu þau Þórormur og Þórdís allt féið og skildust sáttir. Þorkell fór til Spákonufells með Þórdísi heim.
Þorgils mælti til Guðmundar: "Hví skipaðist svo skjótt hugur þinn um málin í dag?"
Guðmundur svarar: "Því, að eg kunni eigi orð að mæla frá munni og því var eg tregur og má vera að við ramman væri reip að draga."
Fóru nú heim af þingi.
45. kafliVatnsdælar efldu Þorkel kröflu mjög til virðingar um alla hluti. Þeir báðu konu til handa honum og goðorðið lagðist til hans því að þeir Surtur og Högni Ingólfssynir voru þá ellefu vetra en annar fimmtán og náðu þeir eigi staðfestum sínum af Þorkeli og var Hofsland keypt til handa honum og gerðist Þorkell nú höfðingi yfir Vatnsdælum.
Lið Óttars dreifðist norður til sveita og var eigi að því gaumur gefinn. Hallfreður og Galti synir Óttars fóru norður og enn fleira barna hans. Oft kom Hallfreður til Skegg-Ávalda og talaði við dóttur hans er Kolfinna hét. Þeirrar konu fékk Grís Sæmingsson en þó lék hið sama orð á með þeim Hallfreði sem segir í sögu hans. Og eitt sinn er hann kom út, því að hann var farmaður, en Grís var á þingi þá kom Hallfreður þar sem Kolfinna var í seli og lá þar hjá henni. Og er Grís vissi þetta líkaði honum stórilla en Hallfreður fór utan þegar samsumars.
Á leiðmóti í Vatnsdal var fjölmenni mikið og tjölduðu menn búðir því að vera skyldi tveggja nátta leið. Þorkell átti búð mesta og fjölmennasta. Skegg-Ávaldi átti búð saman og Hermundur son hans og er Galti Óttarsson var genginn erinda sinna mætti hann Hermundi en hann minntist á sakir þær er Hallfreður hafði gert við þá og hljóp að Galta og drap hann og fór síðan í búð til föður síns. Og er Þorkell spyr vígið spratt hann upp með sveit sína og vill hefna.
Hildur stóð í dyrum, móðir Hermundar, og mælti: "Hitt er nú Þorkell betra ráð að hlaupa eigi svo skjótt og var þér það í hug eitt sinn þá er við fundumst að þú mundir eigi drepa son minn fyrir augum mér."
Þorkell svarar: "Nú er fleira í komið en þá vissum við von. Gakk nú út úr búðinni," kvað Þorkell, "því að þá muntu eigi sjá son þinn höggvinn fyrir augum þér ef þú gerir svo."
Hún skildi þó raunar hvað hann mælti til hjálpar manninum og þótti bæði skjótt og skörulegt hans úrræði og tók hún síðan búnaðinn af höfði sér og bjó hann með en settist í rúm hans að eigi gengju fleiri konur út en von var.
Þorkell bað þær skynda og þröngdist að þeim og mælti: "Standið þér eigi svo því að ærin er þó raun konunnar að hún sjái eigi manninn höggvinn eða heyri til."
Þeir vildu þegar inn hlaupa og drepa Hermund.
Þorkell fór þá í búðardyrnar og mælti: "Sjáum hvað oss hæfir, að drepa eigi héraðsmenn vorra sjálfra og þingmenn, og sættumst heldur."
Var þá leitað um sættir milli þeirra og var svo til þuklað að hvorirtveggju undu vel við og gervar bætur svo miklar að þeir voru vel sæmdir er taka áttu. Leysti Þorkell svo þetta mál sér af hendi með drengskap og allir undu vel við. Öllum málum var til hans skotið um héraðið því að hann þótti mestrar náttúru í Vatnsdælakyni annar en Þorsteinn Ingimundarson.
46. kafliNærri þessum tíma kom út Friðrekur biskup og Þorvaldur Koðránsson er kallaður var hinn víðförli. Þessu næst kom út annað skip og voru þar á berserkir tveir og hét Haukur hvortveggi. Þeir urðu óvinsælir af mönnum því að þeir buðu mönnum nauðung til kvenna eða fjár ella buðu þeir hólmgöngu. Þeir grenjuðu sem hundar og bitu í skjaldarrendur og óðu eld brennanda berum fótum. Þeir biskup og Þorvaldur fóru með nýjan sið að bjóða mönnum aðra trú en sú er hér var áður. Þeir voru að Giljá hinn fyrsta vetur. Landsmenn styggðust við nýgervingum þessum er þeir biskup fóru með. Koðrán tók trú og skírn í fyrsta lagi og kona hans. Ólafur að Haukagili var svo gamall að hann lá í rekkju og drakk horn.
Um haustið að veturnóttum bauð Ólafur til sín vinum sínum, einkum Þorkeli mági sínum. Þeir biskup og Þorvaldur voru þar. Vel að eins tók Þorkell þeim og lét þá vera eina saman í húsi því að þeir höfðu annan sið. Hinn fyrsta aftan veislunnar var sén ferð berserkjanna og kvíddu menn mjög við þeim. Þorkell spurði biskup ef hann vildi ráð til leggja að berserkir þessir fengju bana.
Biskup bað þá taka við trú og láta skírast en hann kvaðst mundu af ráða illmenni þessi "með yðrum atgangi."
Þorkell mælti: "Allt er þá nær ef þér sýnið mönnum jarteinir."
Biskup mælti: "Látið gera elda þrjá á gólfi í skálanum."
Og svo var gert.
Síðan vígði biskup eldana og mælti: "Nú skal skipa bekkina af mönnum þeim er bestir eru áræðis með stóra lurka því að þá bíta eigi járn og skal svo berja þá til bana."
Síðan gengu þeir nafnar inn er þeir komu og óðu eldinn fyrsta og svo annan og brunnu þá mjög og urðu nú furðulega hræddir af eldshitanum og vildu þegar að bekkjunum. Síðan voru þeir lamdir til bana og voru færðir upp með gili því er síðan heitir Haukagil.
Biskup þóttist nú kominn til kaups við Þorkel að hann tæki við trú og léti skírast.
Þorkell kvaðst eigi vilja aðra trú hafa "en þeir Þorsteinn Ingimundarson höfðu og Þórir fóstri minn. Þeir trúðu á þann er sólina hefir skapað og öllum hlutum ræður."
Biskup svarar: "Þá sömu trú boða eg með þeirri grein að trúa á einn guð, föður, son og heilagan anda, og láta skírast í vatni í hans nafni."
Það þótti Þorkeli mest af bregða er í vatni skyldi þvost og kvaðst eigi nenna enn um sinn að hafa þessa breytni en kvaðst þó hyggja að sjá mundi góð "og þessi skipan mun hér og við gangast. Ólafur bóndi mágur minn er gamall. Hann skal taka við þessi trú og allir aðrir þeir er vilja en eg mun enn bíða um tíma."
Síðan var Ólafur skírður og andaðist í hvítavoðum og enn voru skírðir fleiri menn að þeirri veislu. Þorkell var skírður þá er kristni var lögtekin á Íslandi og allir Vatnsdælar. Þorkell var mikill höfðingi. Hann lét kirkju gera á bæ sínum og hélt vel trú sína.
47. kafliBræður tveir bjuggu í Engihlíð í Langadal, Föstólfur og Þróttólfur. Þeir voru miklir fyrir sér. Þeir tóku við manni til ásjá og vildu hann hafa í leynum, meðan þeir færu til þings, á Kili skammt frá Reykjavöllum en þeir mundu lúka málum hans.
Aðrir tveir bræður bjuggu að Móbergi í Langadal og hétu Húnröður og Úlfhéðinn, synir Véfreðar Ævarssonar hins gamla. Úlfhéðinn var vinsælli þeirra bræðra.
Þórólfur hét maður er kallaður var leikgoði. Hann var með þeim bræðrum.
Úlfhéðinn var mikill vinur Hólmgöngu-Starra og það segja menn, þá er Þórarinn illi skoraði á hann til hólmgöngu, að Úlfhéðinn fór með honum til hólmstefnunnar og í þeirri ferð gerði að þeim veður illt og ætluðu þeir vera gerningaveður.
Bárður hét maður og var kallaður stirfinn. Hann fór með þeim. Þeir báðu hann af taka veðrið því að hann var margkunnigur. Hann bað þá handkrækjast og gera hring. Síðan gekk hann andsælis þrisvar og mælti írsku. Hann bað þá já við kveða. Þeir gerðu svo. Síðan veifði hann giska til fjalls og tók þá af veðrið.
Þeir Þróttólfur og Föstólfur fóru til þings sem fyrr segir en maðurinn var meðan í Þjófadal og vænti að þá mundi minna fé goldið ef hann færi eigi sjálfur. Þeir riðu og til þings Húnröður og Þórólfur leikgoði. Hross hlupu frá þeim skammt frá Reykjavöllum og leituðu víða og fundu eigi. Þeir sáu mann skammt frá sér og hugðu vera illmenni og hann mundi tekið hafa hross þeirra. Þeir fréttust og eigi fyrir og hlupu þegar að honum og drápu hann, riðu síðan til þings og sögðu þeim bræðrum Þróttólfi og Föstólfi. Þeim líkaði stórilla og beiddu bóta fyrir og kváðust sæst hafa við frændur hins vegna og grið tekið og síðan goldið fé fyrir hann. Húnröður kvaðst ætla að vera munu önnur fégjöld til skyldari og riðu við það af þinginu.
Þeir bræður keyptu land á Kólkumýrum er í Holti heitir.
Þorfinnur hét maður og bjó á Breiðabólstað í Vatnsdal, frændi þeirra. Hann átti ferð út á Skagaströnd og svo bar til að Úlfhéðinn fór út þangað og Þórólfur leikgoði með honum. Og er þeir komu til Breiðavaðs hjá Blöndu riðu þeir Þorfinnur og bræðurnir Föstólfur og Þróttólfur seinna nokkuð.
Þeir Föstólfur kváðu vel á komið að finna Úlfhéðin "því að þeir bræður drápu mann okkarn í sumar og skal ríða eftir þeim."
"Eigi mun eg eftir ríða," kvað Þorfinnur.
Og svo var.
Síðan riðu þeir bræður eftir í ákefð.
Þetta sér Þórólfur leikgoði og mælti hann: "Ríðum undan hart. Hér fara þeir bræður eftir okkur."
"Nei," kvað Úlfhéðinn, "það geri eg eigi því að þeir kalla mig þá renna."
Þórólfur hleypti út á ána en þeir bræður unnu á Úlfhéðni og lá hann þar eftir. Síðan riðu þeir bræður aftur og sögðu Þorfinni tíðindin. Hann kvað ómaklega gert við góðan dreng og fór hann heim í Vatnsdal.
Úlfhéðinn var særður til ólífis.
Húnröður fór eftir honum, bróðir hans, og flutti hann heim og bað hann Húnröð bróður sinn sættast á mál þessi eftir sig og kvað eigi hefnda mundu auðið verða "því að eg minnist nú á ferðina hina fyrri og veit eg þann engan sóttdauðan orðið hafa er í þeirri ferð voru."
Síðan andaðist Úlfhéðinn en Húnröður lét ólíklega við sættinni og bjó málið til alþingis. Þorfinnur bauð sætt og fébætur en Húnröður kvaðst eigi vilja nema sektir þeirra og svo varð og reið við það af þingi. Þeir bræður gerðu virki mikið í Holti á Kólkumýrum og varð Húnröði torvelt að sækja þá.
Skúmur hét lausingi einn. Hann hafði aflað fjár og orðinn auðigur. Húnröður eyddi fyrir honum og fór hann utan og kom til Noregs og fór norður í Þrándheim. Hann fékk þar stórfé og dvaldist þar, kom auðigur í annan tíma. Húnröður eyddi öllum peningum sínum og svo þeim er Skúmur hafði átt svo að hann varð nálega félaus. Hann fór á fund Þorkels Vatnsdælagoða og sagði honum sín vandræði.
Þorkell mælti: "Illt ráð hefir þú upp tekið að taka eigi bætur eftir bróður þinn þar sem hann sagði þér svo fyrir að þér mundi eigi annað hlýða og hefir þú nú hvorki fé né hefndir. En fyrir það er þú hefir sótt mig heim að ráðum þá mun eg fara til með þér og leita um sættir."
Síðan hitti Þorkell þá bræður og spurði hvort þeir vildu sættast við Húnröð ef kostur væri. Þeir létu seinlega við og kváðu honum nú eigi betra að sættast en þá er honum var boðið.
Þorkell mælti: "Nú skuluð þið gera annaðhvort, að fara utan sem mælt var ella mun eg engi ráð leggja til með yður."
Þeir kváðust hans orð mikils skyldu virða "og viljum við þig síst í móti okkur hafa."
Þeir fóru nú utan og komu í Þrándheim.
Þá mælti Þróttólfur: "Eigi skiptir það högum til að Húnröður, góður drengur, skal vera félaus orðinn og hlotið það mest af okkur en þræll hans Skúmur skal orðinn auðigur sem Njörður."
Síðan fóru þeir og drápu hann en tóku fé hans allt og sendu Húnröði.
Litlu síðar kom Þróttólfur út og fór á fund Þorkels kröflu og bað hann fylgja að sætt þeirra Húnröðar. Þorkell kvað svo vera skyldu. Hann fer síðan á fund Húnröðar og með viturleika sínum og góðum vilja þá sætti hann þá heilum sáttum svo að hvorirtveggju undu vel við hans ummæli.
Þorkell varð gamall maður og þá er hann lá í banasótt sinni stefndi hann til sín vinum sínum, frændum og þingmönnum.
Þorkell mælti þá: "Eg vil yður kunnigt gera að eg hefi fengið sjúkdóm nokkurn og þykir mér líklegt að hann muni skilja vorar samvistur og hafið þér vel hlítt minni forsjá og verið mér hlýðnir og eftirlátir og hafið þér þökk fyrir það."
Eftir það andaðist hann og var mjög harmdauði þingmönnum sínum og öllum héraðsmönnum því að hann þótti sem var hinn mesti héraðshöfðingi og mikill giftumaður og hinn líkasti hinum fyrrum Vatnsdælum svo sem Þorsteini og Ingimundi og bar Þorkell það fyrir að hann var rétttrúaður maður og elskaði guð og bjóst mjög kristilega við dauða sínum.
Og gerum vér þar enda á Vatnsdæla sögu.