1. kafliPrýðimaður mikill var Þormóður Kolbrúnarskáld og vel að íþróttum búinn, skáld gott, meðalmaður á vöxt, allra manna snarastur. Hann undi sér öngu eftir andlát Þorgeirs fóstbróður síns.
Og það sama sumar sem hann var veginn fór Þormóður utan vestur í Vaðli og er ekki sagt af ferðum þeirra fyrr en þeir komu fram í Danmörk. Þá réð þar fyrir Knútur hinn ríki og var honum sagt frá Þormóði að hann væri mikið afbragð annarra manna bæði sakir hreysti og kappgirni og svo skáldskapar. Og sendir konungur eftir honum og bað hann koma á sinn fund. Þormóður bregst fljótt við og fer að hitta konung og gengur fyrir hann og kveður hann ágætlega.
En konungur fagnar vel Þormóði og býður honum þegar til sín "og fer það orð frá þér," segir konungur, "að þú sért vel fallinn til að vera í konungs hirð og þjóna tignum mönnum."
Þormóður svarar: "Það er mér eigi fellt herra fyrir því að eg er eigi til fær að setjast í rúm höfuðskálda slíkra sem með yður hafa verið og er eg ekki reyndur að því að yrkja um þvílíka höfðingja sem þér eruð."
Konungur mælti: "Þetta viljum vér að þú kjósir af að vera með oss."
Þá svarar Þormóður: "Herra, varla er oss þetta fallið því að vér erum illa stilltir og kann vera að vér fáum eigi til gætt og þykir mér illt ef eg hrata hér í nokkurn ófagnað fyrir sakir skaplyndis míns því að oft nenni eg lítt að gera í móti skapi mínu. En þó vil eg yður þess biðja að þér fyrirkunnið mig eigi þess er eg mun mæla. Það verður stundum mælt af sumum mönnum að eigi hafi gefist að fullu þeim mönnum er með yður hafa verið."
Konungur mælti: "Var með oss Þórarinn loftunga."
Þormóður svarar: "Satt er það herra en var þó sú stund um hríð að eigi þótti það ólíkara að Þórarinn bæri sig eigi heilan á brott. En yður mun þó svo reynast að eg er miklu verra skáld en Þórarinn."
Konungur mælti: "Mjög verðum vér eftir að leita við þig Þormóður og má það gera um stundar sakar en þó má það á finna að vér vildum þína þjónustu hafa."
"Guð þakki yður það herra," segir Þormóður, "en þó verðum vér að ætla hóf fyrir oss þótt vér vitum það að yður sé merkilegast að þjóna."
"Nú mun eg það sýna," segir konungur, "sem eg gat áður að heldur en eigi farir þú til mín og mun eg gefa þér þvílíkan mála sem Þórarinn hafði en það var mörk gulls."
"Herra," sagði Þormóður, "ef vér tökum þenna kost þá þurfum vér mjög þinnar umstilli og umsjár því að eg er raunlítt stilltur sem eg sagði yður."
Þormóður tekur nú þetta af að hann fer til hirðvistar með Knúti konungi og er hann þar um hríð og vel virður. Hann skemmtir oft konungi og er það frá sagt að hann skemmti allra manna best og oft kvæði hann vísur um það er við bar. Konungi hugnaði hann vel og verður þó ekki meira en hann hugði til. Líður nú sumarið.
2. kafliUm veturinn er það sagt að maður sá kemur til hirðarinnar er Hárekur heitir. Honum var svo farið að hann er víkingur mikill og illgerðamaður en hann er þó vinur Knúts konungs. Færði hann honum jafnan herfang mikið og gersemar margar og virti konungur hann mikils.
Svo er sagt að konungur fréttir nú Hárek að hversu honum hefir farist um sumarið.
En hann segir að eigi hafi nú vel farist, kveðst látið hafa stafnbúa sinn "og vil eg þess biðja yður herra að þér fáið mér stafnbúa annan og er þó vandfengið í stað hans, að því að mér þykir, því að hann var oft góður tiltaks um orð ef svara þurfti hvort sem skyldi skattyrðast eða leita lofgjarnlegra orða."
Konungurinn íhugar þetta mál og kveðst þó vilja bjóða honum til sín ef hann vildi það og hætti hann hernaði og kveðst sér það ráð sýnast vænlegt að hann gerði svo. En Hárekur lést enn vilja hafa hina sömu iðn. Þar er hann um veturinn með konungi. Hann var vel við Þormóð og gerði mjög að athvarfi við hann.
Hárekur vekur til mjög oft við konunginn um stafnbúann að hann skuli fá honum en konungur slítur eigi úr því svo brátt. Þormóður verður eigi fyrir öfund af mönnum sem oft kann verða við þá menn sem nýkomnir eru til hirðar og virðir vel. En þar kemur um málið Háreks að hann segir honum að hann kýs Þormóð til stafnbúa sér.
Konungur mælir ekki því í móti ef Þormóður vildi og var nú þess leitað við hann og tók hann því ófljótt heldur. Og kom það loks að konungur sjálfur ræðir um við hann og segir að hann vill að Þormóður réðist til með Háreki.
Þormóður svarar: "Það er mér nú skapfelldast að vera með yður herra og er mér sjá alls ókunnur, hann Hárekur."
Konungur biður nú Þormóð til og segir hann hafa nú munu í móti vingan sína ef hann gerir nú þetta sumarlangt fyrir orð sín.
Þormóður svarar: "Heldur vildi eg nú herra með yður vera. En þó fyrir því að þér beiðið þessa þá vil eg eigi þessu afsvör veita með öllu en skilja vil eg nokkuð í málið. Ef eg ræðst í þessa ferð með Háreki þá vil eg ráða hvar í hafnir skal leggja eða brott skal leggja."
Konungur játar þessu og segja svo vera skulu sem hann beiðir. Og nú er kemur að þeirri stundu er þeir Hárekur og Þormóður skulu brott fara frá hirðinni þá koma eigi fram gjafir þær af konungs hendi við Þormóð sem honum þótti sér heitið hafa verið. Og eru þeir konungur nú báðir saman staddir.
Þá þykir Þormóði ráðlegt vera munu að minna konunginn á með nokkuru móti og kvað hann þá vísu þessa:
- Loftungu gaftu lengi
- látr það er Fáfnir átti.
- Þú lést mér, hinn mæri,
- merkr fránöluns vánir.
- Verðr em eg, varga myrðir
- víðlendr, frá þér síðan,
- eðr heldr um sjá sjaldan
- slíks réttar, skal eg vætta.
Konungur dregur þegar gullhring af hendi sér er stóð hálfa mörk og gaf Þormóði.
"Haf nú mikla þökk fyrir herra," segir Þormóður, "en fyrirkunnið oss eigi vorrar framgirni þótt eg mæli um þetta enn nokkuru framar. Það töluðuð þér herra að eg skyldi mörk gulls þiggja af yður í málagjöf."
Konungur svarar: "Það er satt skáld er þú mælir og skal það og eigi af draga."
Tekur konungur nú hring annan og gefur honum.
Og er hann tók við þessum hringnum þá kvað hann vísu þessa:
- Flestr of sér hve fasta
- fagrbúnar hefi eg túna
- báðar hendr úr breiðum
- barðs þjóðkonungs garði.
- Eld á eg jöfri að gjalda
- ungr, þeim er bregðr hungri,
- djúps, ber eg gull á greipum,
- gráðugs ara, báðum.
Nú skiljast þeir Knútur konungur.
3. kafliÞormóður ræðst nú til skips með Háreki og gerðist stafnbúi hans og fara þeir um sumarið og þykir Þormóður vera góður tiltaks bæði um orð og atgöngu og líkar þeim við hann einkar vel.
Það er sagt eitthvert sinn að áliðnu sumri að þeir leggja skip sín í lægi síð um aftan hjá ey nokkurri. Og það sjá þeir að renna fram hjá þeim skip nokkur og var það dreki er fyrst fór og allveglegt skip.
Og er drekann bar fram hjá skipinu því er Þormóður var á þá kallaði maður af drekanum: "Úr hart úr konungshöfninni," segir sá.
Þeir vilja þegar bregða tjöldunum og láta úr höfninni.
Og er Þormóður sér það þá bað hann hvergi brott leggja "og minnist nú á," segir hann, "hvað mælt var með oss að eg skyldi slíku ráða."
Þeir svöruðu félagar hans, biðja hann eigi verða svo óðan "og hefir þú mátt ráða þessu enn hér til fyrir oss og enn kann vera að svo sé."
Drekinn brunar nú fram að skipi þeirra Þormóðar og gengur nær og þykir þeim, er á drekanum eru, seint við látið að leggja úr höfninni.
Það er sagt að stafnbúinn á drekanum stendur upp og bregður sverði og höggur til Þormóðs en hann lætur eigi á sig hallt verða og höggur í móti til þess mannsins. Og ber svo til að sá lést en Þormóð sakaði ekki. Og þegar hleypur Þormóður af skipi sínu og upp á drekann og hefir skjöldinn fyrir sér og aftur eftir skipinu allt til lyftingar. En við þetta allt saman varð kall á skipinu og fréttist nú hvað tíðinda er. Og er Þormóður því næst höndlaður en víkingar leggja því næst brott og hirða ekki um Þormóð hvað af honum verður.
En drekanum stýrir Ólafur konungur og er honum sagt hvað í hefir gerst og svo að vegandinn er handtekinn og biður konungur láta drepa hann og kallar hann þess verðan vera.
Og er Finnur Árnason heyrir þetta er konungur mælti þá gengur hann til og vill vita hver maðurinn sé sá er vegið hefir stafnbúann og mælti er þeir fundust: "Fyrir hví varstu svo djarfur maður að þú treystir að hlaupa á konungsskipið, slíkt sem þú hafðir áður unnið?"
Þormóður svarar: "Það kom til þess," segir hann, "að eg hirti ekki um lífið ef eg kæmist á vald konungsins."
Nú segir Finnur þetta Sigurði biskupi og biður hann veita sér orðafullting við konunginn að biðja manninum friðar og ræða um með sér og sýnist þeim sem honum hafi hvatlega orðið allt jafnsaman. Og biðja þeir nú konung að hann skuli gefa honum grið og fara um það mörgum orðum.
Konungur spurði hví hann kæmi á hans vald þar sem hann var áður á öðru skipi, svo illa sem hann hafði sína sök til búið.
Þormóður heyrði þetta sjálfur og svarar konungi með vísu þessi:
- Hafa þóttist eg, hættinn
- happsækjandi, ef tækir
- hreins, við haldi mínu
- hvert land þegið, branda.
- Ríkr, vil eg með þér, rækir
- randa linns hinn svinni,
- rönd berum út á andra
- eybaugs, lifa og deyja.
"Já," sagði konungur, "auðsætt er það á þessi tiltekju að þú hirðir lítt um lífið ef þú kemur því fram sem þú vildir. En það hygg eg að verjir þú það rúm er þér er í skipað eða hvert er nafn þitt?"
Þormóður sagði til sín "og er eg fóstbróðir Þorgeirs Hávarssonar."
Konungur mælti: "Meiri gæfumaður skyldir þú vera en Þorgeir var en hitt er mér sýnt að þú munt lagður til óhappanna því að mér sýnist þú unglegur eða hversu mörg hefir þú vígin vegið?"
Þormóður kvað þá vísu:
- Sex hef eg alls síð er uxu
- ónhjalta Tý fjónir,
- kenndur er eg við styr stundum,
- stálregns boða vegna.
- Þó em eg enn að mun manna
- morðs varlega orðinn,
- vér létum þó þeira,
- þrítugr, skarar bíta.
Konungur mælti: "Þörf væri að þú biðir eigi aðra þrjá tigi vetra en þó er skaði að slíka menn því að þú munt vera skáld mikið."
Þormóður svarar: "Það mun nú mjög á yðru valdi hversu gamall eg skal verða en góðs vænti eg að yður fyrir sakir þíns vinar, Þorgeirs Hávarssonar fóstbróður míns. Fór eg og því mest af Íslandi að eg þóttist vita að þú mundir vilja láta hefna hirðmanns þíns og vinar, Þorgeirs Hávarssonar, en eg vissi mig skyldastan til að hefna hans með yðvarri umsjá."
Konungur mælti: "Þiggja muntu höfuð þitt alls þú ert á minn fund kominn. Vil eg að þú leitir fyrir þér hvert er þú vilt fyrir mér."
Þormóður svarar: "Sú lífgjöf kemur mér fyrir lítið því að mér er ókunnigt um Noreg en eg vil ekki leita til annarra konunga en þín. Nú ger þú annaðhvort, tak við mér eða lát mig drepa ella."
Og nú við árnun biskups og Finns og hins annars er konungi féllst vel í þokka til Þormóðar þá mælti konungur: "Statt upp þú Þormóður. Nú muntu verða að gjalda mér til þjónustu sjálfan þig fyrir þann mann minn er þú vóst. Ertu vel til fallinn að fara sendiferðir mínar."
Þá kvað Þormóður vísu:
- Þarf sá er þér skal hvarfla,
- þengill, fyrir kné lengi,
- svaraðu hóglega hverju,
- hugborð, konungr orði.
- Fáir erum vér, né frýju,
- frændr, vorum þó vændir,
- minnist eg meir á annað
- mitt starf, konungdjarfir.
Konungur svarar: "Gaman mun vera að skáldskap þínum og eigi ætla eg að þú verðir til lykta ógæfumaður."
Þormóður var nú með konungi og var hann því betur til hans sem hann hafði lengur verið því að konungi reyndist hann hinn röskvasti maður í öllum mannraunum.