MÁNA  ÞÁTTUR  SKÁLDS




Þeir Magnús konungur lágu viku í Unnardys á Lista. Þar var þá með Magnúsi konungi Máni skáld og kvað vísu:

Byr gefðu brátt, hinn örvi,
Björgynjar til mörgum,
þess biðjum vér, þjóðum,
þungstalls konungr sólar.
Angrar oss það er lengi
útnyrðingr heldr fyrðum,
vindr er til seinn að sundi
sunnrænn, í dys Unnar.

Konungur mælti: "Vel er kveðið Tungli."

En skyrtur margar lágu í hrúgu er þvegnar höfðu verið og mælti konungur að hann skyldi hafa eina.

Máni kom til hans austur að landsenda, var þá kominn frá Rómi og var stafkarl, gekk inn í stofuna þar er konungurinn var með sveit sinni og var hann þá ekki félegur, Máni, kollóttur og magur og nær klæðlaus, og þó kunni hann konung veglega að kveðja. Konungur spurði hver hann væri. Hann kveðst heita Máni og vera íslenskur og þá kominn frá Rómi sunnan.

Konungur mælti: "Þú munt kunna fræða Tungli. Sest niður og kveð."

Hann kvað síðan Útfarardrápuna er Halldór skvaldri orti um Sigurð konung Jórsalafara, móðurföður Magnúss konungs, og fékk þetta kvæði góðan róm, þótti og vel skemmt.

En leikarar tveir voru í stofunni er hlaupa létu smárakka yfir hávar stengur fyrir tignum mönnum og því hærra sem menn voru tignari.

Konungur mælti: "Finnur þú Tungli að leikararnir sjá ekki vel til þín? Nú yrktu um þá vísu og má vera að þér verði heldur gagn að."

Þá kvað Máni:

Slægr fer gaur með gígju,
ginn er hér komið inni,
meiðr hefir skjaldar skóða
skrípalát, og pípu.
Rekkr lætr rauða bikkju
rekið skvaldr, fyrir aldir,
skulut hlýða því þjóðir,
það er skaup, yfir staf hlaupa.

Og enn kvað hann:

Gígjan syngr þar er ganga
grípa menn til pípu.
Færa fólsku stóra
fram leikarar bleikir.
Undr er hve augum vendir
um sá er þýtr í trumbu.
Kníðan lít eg á kauða
kjaft og blásna hvafta.

Þá varð að mikill hlátur og slógu hirðmenn hring um þessa leikara og kváðu vísuna og æ það oftast: "Kjaft og blásna hvafta."

Þeim leikurunum þótti nær sem þeir væru í eldi og komust út úr stofunni. En konungur tók Mána til sín og var hann síðan í hans föruneyti til Björgynjar.




Netútgáfan - október 1998