ÞORVALDS  ÞÁTTUR  TASALDA




Á þessu sama sumri sem nú var frá sagt kom til Noregs utan af Íslandi Þorvaldur tasaldi systurson Víga-Glúms. Hann var fríður maður sýnum, mikill og styrkur og ör af peningum. Þorvaldur kom af hafi utan að Þrándheimi. Lagði hann inn til Niðaróss.

Ólafur konungur var þar fyrir í bænum, nýkominn sunnan úr landi. Og þegar konungur vissi að þar voru komnir kaupmenn heiðnir af Íslandi þá boðaði hann Þorvaldi á sinn fund og bað hann láta skírast. Þorvaldur játaði að vinna það til vinganar konungs að láta skírast og taka við kristni. Konungur sagði að hann skyldi því alvörulegri fá hans vináttu sem hann léti auðveldlegar að hans orðum og boðskap. Var Þorvaldur þá skírður og hans skipverjar. Þorvaldur var með konungi um veturinn í góðri sæmd.

Sigurður hét hirðmaður konungs en annar Helgi. Báðir voru þeir gildir menn fyrir sér og kærir konungi en þó mjög óskaplíkir. Sigurður var vinsæll við alþýðu en Helgi ódæll og undirförull. Þorvaldi tasalda var skipað að sitja í milli þeirra um veturinn. Helgi öfundaði Þorvald og afþokkaði allt fyrir honum en Sigurður var vel til hans og flýði Helgi þaðan af bekkinum og vildi eigi sitja hjá þeim Þorvaldi. Tók hann þá að rægja Þorvald sem mest við konung allt þar til er konungur bað hann hætta.

"Þarftu hvorki," sagði konungur, "að rægja Þorvald við mig né aðra menn þá er með mér eru því að eg vil sjálfur reyna menn mína."

Helgi leitaði þá ef Sigurður vildi ýfast við Þorvald og rægði hann fyrir honum.

Sigurður svarar: "Eigi mun eg fyrir þín orð óþokkast við Þorvald því að hann er reyndur að góðum dreng en þú ert illmenni."

Nú með því að Helgi létti enn eigi af heldur var hann kostgæfur á rógið þá kom svo um síðir að konungur gerðist fár við Þorvald.

Einn dag mælti Helgi til Þorvalds: "Spyr þú konunginn eftir hví hann er svo fálátur."

Þorvaldur svarar: "Ekki geri eg fyrir orð þín eða eggjan og svo vænti eg að konungur trúi eigi rógi þínu þó að honum mislíki nokkur hlutur til mín."

Helgi mælti: "Drjúglega lætur landi enn."

Nokkuru síðar mælti Þorvaldur einn dag er hann kom fyrir konung: "Herra, dirfð er mér í að frétta eftir ógleði yðvarri. Ef sótt veldur þá er vandsén bótin. Veldur annar áhugi eða nokkur tilfelli af manna völdum þá má vera að bætist með yðvarri gift og hamingju."

Konungur svarar: "Eigi er eg sjúkur."

Þorvaldur mælti: "Þá er þegar nær er af er hinn harðasti. Eru menn sakbitnir við yður?"

Konungur sagði að svo var "og má hefna. En þú ert skyldur til Þorvaldur að losa þetta vandkvæði er þú hefir fyrstur eftir frétt."

Þorvaldur mælti: "Allir yðrir menn eru skyldir að gera það er þér bjóðið en vita verð eg hvar til þetta heyrir þó að eg sé vanfær til að leysa."

Konungur mælti: "Bárður digri heitir maður upplenskur að ætt, auðigur að peningum. Dóttur eina barna á hann er heitir Þóra. Bárður er hniginn á efra aldur. Hann býr á Upplöndum þar sem heitir í Úlfarsdölum. Hann á mikinn bæ og veglegan. Dóttir hans Þóra er með honum en ekki verða menn þar við mannfjölda varir. Nú líkar mér það lítt er Bárður vill eigi við trú taka og eigi koma á minn fund. Eg hefi sent til hans tvisvar tólf menn og hafa engir aftur komið."

Þorvaldur mælti: "Er Bárður þessi blótmaður mikill?"

Konungur svarar: "Ekki vita menn til þess því að ekki er hof á bæ hans og þykir mönnum Bárður mjög kynlegur og óvísir eru mönnum hættir hans og framferði."

Þorvaldur mælti: "Gjarna vildi eg fá gleði yðra herra. Nú mun eg fara að hitta Bárð ef þér viljið hvað sem fleira gerist að."

Konungur sagðist það vilja.

Helgi varð við þetta glaður því að hann vænti að Þorvaldur mundi eigi aftur koma heldur en aðrir þeir er þessa ferð höfðu farið. Síðan bjóst Þorvaldur og bað konungur hann hafa menn svo marga sem hann vildi.

Þorvaldur svarar: "Sigurð sessunaut minn hefi eg reynt að dyggum manni og góðum. Hann vil eg að fari með mér en ekki fleiri því að gift yður og hamingja herra má oss meira en menn nokkurir."

Konungur svarar: "Víst skal eg minn góðvilja til leggja með ykkur. En eg vil senda ykkur til bónda þess er Björn heitir. Hann býr skammt frá Bárði. Hann þykir mér vænstur til að kunna yður nokkuð af að segja háttum Bárðar og vísa ykkur þangað leið."

Síðan fóru þeir og komu til Bjarnar og tók hann við þeim vel þegar hann vissi að þeir voru sendimenn konungs. Spurðu þeir hann að híbýlum og háttum Bárðar.

Björn kvað með undrum hans hag fram flytjast: "Þar verður ekki við menn vart þá er þangað er komið en þar fara allar sýslur fram vel og skipulega."

Um nóttina er þeir voru sofnaðir þá dreymdi Þorvald að honum þótti Ólafur konungur koma að sér og mæla: "Þú munt finna að höfði þér dúk einn er þú vaknar og er þar knýtt í bréf það er á eru rituð nöfn guðs. Það bréf skaltu láta koma á morgun fyrir brjóst þér og vefja dúkinum að utan og um búk þér svo sem hann tekur. Þá mun þér duga að ganga djarflega að Bárði."

Þorvaldur vaknaði og fann dúkinn og bjó um sem honum var kennt. Um morguninn leiddi Björn bóndi þá úr garði og vísaði þeim leið til bæjar Bárðar. Var þar að fara yfir skóg nokkurn. En er þeir komu fram úr skóginum sáu þeir bæ mikinn og var skíðgarður hár um. Gengu þeir til bæjarins. Grindarhlið var opið á garðinum og svo dyr á húsum. Þeir sáu ekki manna úti. Þeir gengu í anddyrið og lituðust um. Voru þar hús stór og þili nýskafin. Skáli var á aðra hönd, tjaldaður allur og búinn vel. Bárður sat í öndvegi. Hann var sköllóttur í skarlatsklæðum og hélt á hjartskinnsglófum en kona mikil og væn sat við borða. Ekki sáu þeir þar fleira manna.

Bárður mælti: "Hvað er komið í anddyrið?"

Þeir nefndu sig, sögðust vera konungsmenn.

Bárður mælti: "Hvert erindi hafið þið hingað tveir einir saman?"

Þorvaldur svarar: "Lið okkart er svo margt fyrir durum að þig mun mega færa nauðigan á konungs fund ef þú vilt eigi fara lostigur."

Bárður snaraði þá glófana sundur milli handa sér og kvað þetta við:

Hugði eg hitt að eg hefði
harðhendið það stundum,
að eg skálpgrana skoskum
skyldi eg einn of halda.

Þorvaldur mælti: "Reynum við nú þá og tökumst til."

Réð Þorvaldur þá á Bárð og sviptust þeir fast. Þá var dagur mjög á liðinn. Þeir áttust við um stund og varð Þorvaldur mjög aflvani. Bað hann þá guð hljóðlega veita sér nokkurn styrk móti honum en Bárður gekk þá að sem fastast. Og er brjóstin þeirra mættust þá var því líkt sem maður gengi að honum og kippti fótum undan Bárði svo að hann féll að þreskeldinum. Voru þeir Þorvaldur þá báðir svo móðir að þeir máttu ekki að hafast.

Þá mælti Bárður: "Dugi þú nú Þóra."

Hún svarar: "Ekki má eg duga þér faðir því að við Sigurður sviptumst og er hér allvel á komið er við erum jafnstyrk."

Bárður mælti: "Þá verður nú til þess að taka sem eg hefi eigi fyrr þurft, að biðja mér liðs í móti einum. Gangi nú fram þeir er undirskálann byggja og veiti mér."

Hljópu þar þá fram fjórir tigir manna. Voru þeir Þorvaldur þá handteknir.

Bárður mælti: "Vel hafa skálans undirbúar veitt mér Þóra og svo mun enn ef eg þarf nokkurs við og því þykir mér ráð að þeir Sigurður séu eigi í böndum. En þó vil eg eigi að þú rennir oftar á mig, tröllið, þó að þú nefndist Þorvaldur því að eigi skortir þig dirfð og áræði. En þó má vera að þú skulir maður heita og munt vera heldur fjölkunnigur því að ekki varð mér aflskortur við þig fyrrum en eg hygg að þú hafir ragnað að mér svo rammar vættir að eg varð að falla fyrir því að það varð aldrei fyrr að eg félli fyrir einum. En hér verðið þið að vera í nótt þó að þið séuð hræddir hversu við ykkur mun búið."

Var þeim þá sett borð og búið vel. Skorti þar þá hvorki vist né drykk góðan.

En er þeir voru mettir mælti Bárður: "Ekki tel eg mat eftir ykkur en vel djarflega þætti mér þið snæða þó að þið væruð með öllu óhræddir menn og með vinum komnir."

Var þeim síðan fylgt til sængur og sváfu vel þá nótt. Um morguninn er þeir voru braut búnir bað Bárður menn sína fylgja þeim af garði. En er þeir voru út komnir litaðist Þorvaldur um og sá enga menn hjá þeim.

Hann mælti þá: "Það vildi Bárður nú að við færum burtu og ættumst vér ekki fleira við en það skal nú eigi vera. Finna skulum við hann enn áður."

Gengu þeir þá inn.

Bárður mælti: "Þið eruð allundarlegir menn, genguð út en fóruð eigi í braut. Hví kunnið þið ekki að hræðast sem aðrir menn eða er ykkur allannt til að deyja?"

Þorvaldur svaraði: "Því hurfum við aftur að eg vildi eigi drepa niður góðræði mínu en sæmd þinni. Erum við víst eigi svo hræddir að við þorum eigi að flytja til fullnaðar konungs erindi. Nú vil eg þess beiða að þú farir sjálfviljandi með mér á konungs fund."

Bárður mælti: "Hví spyrð þú eigi þess fyrst hvern átrúnað eg hefi?"

"Því, að mér er þar engi forvitni á," segir Þorvaldur.

Bárður mælti: "Það vil eg þér þó kunnigt gera að eg trúi ekki á skurðgoð eða fjandur. Eg hefi farið land af landi og mætt bæði risum og blámönnum og fyrirkomu þeir mér ekki. Hefi eg því lengi trúað á mátt minn og megin. En nú er mér orðinn váljúgur hið fyrsta sinn að þeim átrúnaði og sé eg það að ekki hefðir þú sigrað mig ef þú nytir engis að nema sjálfs þíns. Eða hvað var fyrir brjósti þér þá er bringspelir okkrir komu saman? Þar er mér grunur á að sá mun mikið mega er sá afspringur er af kominn."

Þorvaldur svarar: "Rétt innir þú að sá er máttugur því að það eru nöfn guðs þess er vér kristnir menn trúum á."

Bárður mælti: "Eigi kann eg það að hugsa að eigi muni hann öllu mega orka ef hann kemur sjálfur til er mér vann nú að fullu er nöfn hans voru. Og fyrir því mun eg fara með þér á konungs fund að eg skil að gott mun á þann guð að trúa er svo er máttugur ef á nokkurn skal trúa. En því lét eg gera undirskálann og setti eg þar mína menn að ef fjölmenni væri dregið að mér ætlaði eg til þeirra að taka og njóta liðsmunar. En ef til mín kæmu tveir eða þrír þá gaf eg mér ekki um því að eg þóttist eigi uppnæmur fyrir þeim. Hér eru og menn Ólafs konungs fjórir og tuttugu er hann hefir sent til mín. Eru þeir hér allir vel haldnir en eigi drepnir sem konungur mundi ætla."

Síðan bjóst Bárður og fór með Þorvaldi við alla sína menn á konungs fund.

En er þeir komu nær bænum í Niðarósi þá mælti Bárður: "Far þú nú Þorvaldur til konungs og seg honum að vér viljum hér skírðir vera sem nú erum vér komnir því að vér viljum eigi að fjölmenni hlæi að er vér erum afklæddir svo gamlir."

Þorvaldur fór til konungs og sagði honum allt um sína ferð og hvar þá var komið. Ólafur konungur varð við þetta glaður og fór þegar með kennimenn til fundar við Bárð.

Bárður fagnaði vel konungi og mælti: "Máttkum guði stýrir þú herra konungur og fyrir því að eg hefi það reynt þá vil eg nú á hann trúa og láta skírast."

Konungur svarar: "Vel talar þú Bárður eftir þinni skilningu en það er satt atkvæði að sá guð er máttugur er mér stýrir og öllum hlutum sýnilegum og ósýnilegum og kallar til sín þó að með ýmissum hætti alla þá er hans þjónustu eru maklegir."

Var þá Bárður skírður og allir hans menn.

Þá mælti Bárður: "Seg þú mér kóngur hvort eg er nú góður."

Konungur kvað svo vera.

Bárður mælti: "Eg hefi þóst mér mjög einhlítur hér til og þjónað ekki konungum eða öðrum höfðingjum en nú vil eg gerast þér handgenginn konungur og þér fylgja meðan eg lifi. Þykir mér það vænast að þá týni eg eigi þeim góðleik er nú hefi eg fengið. En eg vil að þú sjáir ráð fyrir Þóru dóttur minni og öllu hennar fé og giftir hana Þorvaldi þessum hinum íslenska því að vér eigum honum gott að launa."

Þorvaldur svarar: "Eigi má svo vera því að eg er áður kvongaður á Íslandi."

Konungur mælti: "Þá skaltu gefa þessa konu Sigurði vin þínum. Þar er vel á komið með þeim er þau eru jafnstyrk."

Þorvaldur svarar: "Það vil eg gjarna gera. En það vil eg til skilja við yður herra að þér segið Helga úr yðvarri þjónustu og er þó ger of lítill munur þeirra Sigurðar. En eg mun þó fyrir yðra skyld ekki gera á hluta Helga ef þér veitið mér þetta."

Konungur sagði að svo skyldi vera. Síðan fékk Sigurður Þóru og settist í bú á Upplöndum það er átt hafði Bárður digri. Bárður tók sótt litlu síðar en hann var skírður og andaðist í hvítavoðum.

En Þorvaldur fór til Íslands með mikilli sæmd af Ólafi konungi og þótti mikilmenni og hinn vaskasti.




Netútgáfan - júní 1999