Maður hét Þórarinn er bjó í Sunnudal, gamall maður og sjónlítill. Hann hafði verið rauðavíkingur í æsku sinni. Hann var eigi dældarmaður þótt hann væri gamall. Son átti hann sér einn er Þorsteinn er nefndur. Hann var mikill maður og öflugur og vel stilltur og vann svo fyrir búi föður síns að eigi mundi þriggja verk manna annarra hallkvæmara. Þórarinn var heldur félítill maður en vel margt átti hann vopna. Þeir áttu og stóðhross feðgar og var þeim það helst til fjár er þeir seldu undan hestana því að engir brugðust að reið né hug.Þórður er maður nefndur. Hann var húskarl Bjarna frá Hofi. Hann varðveitti reiðhesta Bjarna því að hann var kallaður hrossamaður. Þórður var ójafnaðarmaður mikill og lét hann marga þess og kenna er hann var ríkismanns húskarl. En eigi var hann sjálfur að meira verður og eigi varð hann að vinsælli.
Þeir menn voru enn á vist með Bjarna er annar hét Þórhallur en annar Þorvaldur. Þeir voru uppaustrarmenn miklir um allt það er þeir heyrðu í héraði.
Þeir Þorsteinn og Þórður mæltu til hestaats ungum hestum. Og er þeir öttu þá vildi hestur Þórðar verr bítast. Þórður lýstur nú á skoltinn hesti Þorsteins er honum þótti sinn hestur verr hafa, mikið högg. En Þorsteinn sá það og lýstur á móti hest Þórðar heldur meira högg og rann nú hesturinn Þórðar og æptu menn þá með kappi. Þá lýstur Þórður Þorstein með hestastafnum og kom á brúnina og hljóp hún ofan fyrir augað. Þá risti Þorsteinn af skyrtublaði sínu og bindur upp brúnina og lætur sem ekki hafi að orðið og biður að menn leyni þessu föður hans. Og féll þetta þar nú niður.
Þeir Þorvaldur og Þórhallur höfðu þetta fyrir kallsi og kölluðu hann Þorstein stangarhögg.
Litlu fyrir jól um veturinn risu konur til verks í Sunnudal. Þá stóð Þorsteinn og upp og bar inn hey og lagðist síðan niður í bekk. Nú kemur Þórarinn karl innar, faðir hans, og spurði hver þar lægi. Þorsteinn sagði til sín.
"Hví ertu svo snemma á fótum sonur?" sagði Þórarinn karl.
Þorsteinn svarar: "Við fá þykir mér að meta það sem hér er að vinna," sagði Þorsteinn.
"Er þér ekki illt í höfuðbeinunum sonur?" kvað Þórarinn karl.
"Eigi kenni eg þess," sagði Þorsteinn.
"Hvað segir þú mér sonur af hestaþinginu því er í fyrra sumar var? Varstu ekki lostinn í svíma frændi sem hundur?"
"Engi þykir mér virðing í vera," sagði Þorsteinn, "að kalla það heldur högg en atburð."
Þórarinn mælti: "Ekki mundi mig þess vara að eg mundi ragan son eiga."
"Mæl þú það eitt um nú faðir," sagði Þorsteinn, "er þér þykir eigi ofmælt síðar."
"Ekki mun eg hér svo mikið um mæla," sagði Þórarinn, "sem mér er að skapi."
Nú reis Þorsteinn upp og tók vopn sín og gekk síðan heiman og fór uns hann kom til hrossahúss þess er Þórður gætti hesta Bjarna í og var hann þar fyrir.
Þá hittir Þorsteinn Þórð og mælti til hans: "Vita vildi eg það Þórður minn hvort það varð þér voðaverk er eg fékk af þér högg í fyrra sumar á hestaþingi eða hefir það að vilja þínum orðið og hvort bæta muntu þá vilja yfir."
Þórður svarar: "Ef þú átt tvo hvoftana þá bregð þú tungunni sitt sinn í hvorn og kalla í öðrum voðaverk ef þú vilt en í öðrum kalla þú alvöru. Og eru það nú bæturnar þær er þú munt af mér fá."
"Búst þú þá svo við," sagði Þorsteinn, "að vera má að eg heimti eigi oftar."
Síðan hleypur Þorsteinn að honum og höggur Þórð banahögg, gekk síðan til húss að Hofi og hitti úti konu eina og mælti við hana: "Seg þú Bjarna að naut hafi stangað Þórð hestasvein hans og mun hann bíða þar til þess er hann kemur hjá hestahúsinu."
"Far þú heim maður," sagði hún, "en eg segi þá er mér sýnist."
Nú fer Þorsteinn heim en konan fer til verks síns.
Bjarni reis upp um morguninn og er hann var undir borð kominn þá spurði Bjarni hvar Þórður væri og svöruðu menn að hann mundi til hrossa farinn.
"Heim hugði eg hann þó mundu kominn," kvað Bjarni, "ef hann væri heill."
Þá tók kona til orða, sú er Þorsteinn hafði hitta: "Satt er það er oss er oft sagt konum að þar er lítið til vits að taka sem vér erum konur. Hér kom Þorsteinn stangarhögg í morgun, kvað naut hafa stangað Þórð svo að hann mundi eigi sjálfbjargi verða. En eg nennti eigi þá að vekja þig og þá hvarf mér úr hug síðan."
Bjarni sté þá undan borði, gekk þá til hrossahússins og fann þar Þórð veginn og var hann síðan jarðaður.
Bjarni býr nú mál til og gerir Þorstein sekan um vígið. En Þorsteinn sat heima í Sunnudal og vann fyrir föður sínum og lét Bjarni þó kyrrt vera.
Um haustið sátu menn við sviðuelda að Hofi en Bjarni lá úti á eldahússveggnum og hlýddi þaðan til tals manna.
Nú taka þeir bræður til orða, Þórhallur og Þorvaldur: "Eigi varði oss þess þegar vér tókum vist með Víga-Bjarna að vér mundum hér svíða dilkahöfuð en Þorsteinn skógarmaður hans skyldi svíða geldingahöfuð. Væri eigi verra að hafa meir vægt frændum sínum í Böðvarsdal og sæti nú eigi skógarmaðurinn jafnhátt honum í Sunnudal. En lagðir verða forlagðir ef fyrir sárunum verða og eigi vitum vér hvenær hann vill þenna flekk má af virðingu sinni."
Maður einn svaraði: "Slíkt er verr mælt en þagað og líklegt að ykkur hafi tröll togað tungu úr höfði. Ætlum vér að hann nenni eigi að taka björg frá föður hans sjónlausum og annarri ómegð þeirri sem í Sunnudal er. En kynlegt þykir mér ef þið svíðið oft lambahöfuðin hér eða hrósið því hvað í Böðvarsdal var títt."
Nú fara menn til borða og síðan til svefns og fann ekki á Bjarna hvað talað hafði verið.
Um morguninn vakti Bjarni þá Þórhall og Þorvald og bað þá ríða í Sunnudal og færa sér höfuð Þorsteins við bolinn skilið að dagmálum "og þykir mér þið," sagði hann, "líklegastir til að færa flekk af virðingu minni ef eg hefi ekki þrek til sjálfur."
Nú þykjast þeir víst ofmælt hafa og fara þeir nú þó uns þeir koma í Sunnudal. Þorsteinn stóð í durum og hvatti sax.
Og er þeir komu þar þá spurði hann hvert þeir ætluðu en þeir sögðust hrossa leita skyldu en Þorsteinn kvað þeirra mundu skammt að leita, "er hér eru við garð."
"Eigi er víst að við finnum hrossin ef þú vísar okkur eigi gerr til."
Þorsteinn gengur þá út. Og er þeir koma í garðinn ofan þá færir Þorvaldur upp öxina og hleypur að honum en Þorsteinn stakk við honum hendi sinni svo að hann féll fyrir. Þorsteinn lagði saxinu í gegnum hann. Þá vildi Þórhallur veita honum tilræði og hafði hann slíka för sem Þorvaldur. Þá bindur Þorsteinn á bak báða þá og lætur upp taumana á háls hestinum og vísar á leið öllu saman og ganga hestarnir nú heim til Hofs.
Húskarlar voru úti að Hofi og gengu inn og sögðu Bjarna að þeir Þorvaldur voru heim komnir og sögðu þá eigi erindlaust farið hafa. Gengur nú Bjarni út og sér nú hvernig um er búið og hefir ekki orða um fleira, lætur nú jarða þá. Og er nú kyrrt allt uns jól líður.
Þá tekur Rannveig til orða einn aftan er þau komu í sæng sína, Bjarni og hún: "Hvað ætlar þú að nú sé tíðast talað í héraðinu?" kvað hún.
"Eigi veit eg," sagði Bjarni. "Margir þykja mér ómerkir í sínum orðum," sagði hann.
"Það er nú tíðast að ræða að menn þykjast eigi vita hvað Þorsteinn stangarhögg mun þess gera að þér muni þurfa þykja að hefna. Hefir hann nú vegið húskarla þína þrjá. Þykir þingmönnum þínum eigi vænt til halds þar sem þú ert ef þessa er óhefnt og eru þér mjög mislagðar hendur í kné."
Bjarni svarar: "Nú kemur hér að því sem mælt er að engi lætur sér annars víti að varnaði en hlýða mun eg þér hvað er þú mælir. Hefir Þorsteinn og fá saklausa drepið."
Hætta þau þessu tali og sofa af um nóttina. Um morguninn vaknar Rannveig er Bjarni tók ofan skjöld sinn og spurði hún hvert hann skyldi.
Hann svarar: "Nú skal skipta virðingu með okkur Þorsteini í Sunnudal," segir hann.
"Hversu fjölmennur skaltu fara?" segir hún.
"Ekki mun eg draga fjölmenni að Þorsteini," segir hann, "og mun eg einn fara."
"Gerðu eigi það," segir hún, "að hætta þér einn undir vopn heljarmannsins."
Bjarni mælti: "Mun þér nú eigi verða þeirra kvenna dæmi er það gráta á annarri stundu er eggja á annarri? En eg þoli oft lengi frýjuorð bæði þér og öðrum en þá stoðar og ekki að letja mig þá er eg vil fara."
Bjarni fer nú í Sunnudal og stendur Þorsteinn í durum og köstuðust þeir á nokkurum orðum.
Bjarni mælti: "Þú skalt til einvígis ganga við mig í dag Þorsteinn á hól þenna er hér er í túni."
"Allt er mér til þess vant," kvað Þorsteinn, "að berjast við þig en eg skal þegar utan er skip ganga því að eg kann drengskap þinn að þú munt fá föður mínum forverk ef eg fer frá."
"Ekki stoðar nú undan að mælast," segir Bjarni.
"Leyfa muntu mér þá að eg finni föður minn áður," sagði Þorsteinn.
"Að vísu," sagði Bjarni.
Þorsteinn gekk inn og sagði föður sínum að Bjarni var þar kominn og bauð honum til einvígis.
Þórarinn karl svaraði: "Von má hver maður þess vita ef hann á við sér ríkara mann og sitji samhéraðs honum og hafi þó gert honum nokkura ósæmd að hann mun eigi mörgum skyrtum slíta og kann eg því ekki að sýta þig að mér þykir þú mikið til hafa gert. Tak nú vopn þín og ver þig sem skörulegast því að þar mundi verið hafa minnar ævi að ekki mundi eg bograð hafa fyrir slíkum sem Bjarni er. Er Bjarni þó hinn mesti kappi. Þykir mér og betra að missa þín en eiga ragan son."
Nú gengur Þorsteinn út og fara þeir síðan út á hólinn og taka til að berjast með harðfengi og hjuggust mjög hlífar fyrir hvorumtveggja.
Og þá er þeir höfðu mjög lengi barist þá mælti Bjarni til Þorsteins: "Þyrstir mig nú því að eg em óvanari erfiðinu en þú."
"Gakk þú þá til lækjarins," sagði Þorsteinn, "og drekk."
Bjarni gerði svo og lagði niður sverðið hjá sér.
Þorsteinn tók upp, leit á og mælti: "Eigi mundir þú þetta sverð hafa í Böðvarsdal."
Bjarni svaraði engu. Ganga þeir nú upp á hólinn og berjast um stundar sakar og þykir Bjarna maðurinn vígkænn og þykir fastlegra fyrir en hann hugði.
"Margt hendir mig nú í dag," sagði Bjarni, "laus er nú skóþvengur minn."
"Bind þú hann þá," kvað Þorsteinn.
Nú lýtur Bjarni niður en Þorsteinn gekk inn og hefir út skjöldu tvo og sverð eitt, gengur nú á hólinn til Bjarna og mælti við hann: "Hér er skjöldur og sverð er faðir minn sendi þér og mun þetta eigi sljóvgast meir í höggunum en það sem þú hefir áður. Nenni eg og eigi að standa hlífarlaus lengur undir höggum þínum en gjarna vildi eg nú hætta þessum leik því að eg em hræddur að meira muni mega gæfa þín en ógifta mín og er hver frekur til fjörsins um alla þraut ef eg mætti nokkuru um ráða."
"Eigi mun nú stoða að beiðast undan," sagði Bjarni, "berjast skal enn."
"Eigi mundi eg frekt höggva," sagði Þorsteinn.
Þá höggur Bjarni allan skjöldinn af Þorsteini en þá hjó Þorsteinn skjöldinn af Bjarna.
"Stórt er nú höggvið," kvað Bjarni.
Þorsteinn svaraði: "Ekki hjóstu smærra högg."
Bjarni mælti: "Betur bítur þér nú hið sama vopnið er þú hefir áður í dag haft."
Þorsteinn mælti: "Spara mundi eg við mig óhapp ef eg mætti svo gera og berst eg hræddur við þig. Vildi eg enn allt á þínu valdi vera láta."
Þá átti Bjarni að höggva og var nú hvortveggi hlífarlaus.
Bjarni mælti þá: "Það mun illt kaup að taka glæp við miklu happi. Ætla eg mér fullgoldið fyrir þrjá húskarla mína þig einn ef þú vilt mér trúr vera."
Þorsteinn sagði: "Orðið hafa mér svo færi í dag á þér að eg mætti svíkja þig ef ógæfa mín gengi ríkara en lukka þín og mun eg eigi svíkja þig," sagði Þorsteinn.
"Sé eg að þú ert afbragðsmaður," sagði Bjarni. "Lofa muntu mér að eg gangi inn til föður þíns," sagði hann, "og segja honum slíkt sem eg vil."
"Gakk sem þú vilt fyrir mínum sökum," kvað Þorsteinn, "og far þó varlega."
Þá gekk og Bjarni að lokhvílu þeirri er Þórarinn karl lá í. Þórarinn spurði þá hver þar færi en Bjarni sagði til sín.
"Hvað segir þú tíðinda Bjarni minn?" kvað Þórarinn.
"Víg Þorsteins sonar þíns," kvað Bjarni.
"Varðist hann nokkuð?" kvað Þórarinn.
"Engan mann ætla eg snarlegra verið hafa í vopnaskipti en Þorstein son þinn."
"Eigi er kynlegt að því," kvað karl, "að þungt veitti við þig í Böðvarsdal er þú barst nú af syni mínum."
Þá mælti Bjarni: "Eg vil bjóða þér til Hofs og skaltu sitja þar í öðru öndvegi meðan þú lifir og mun eg vera þér í sonar stað."
"Svo er mér farið," kvað karl, "sem þeim er ekki eiga undir sér og verður heitum heimskur maður feginn. En svo eru heit yður höfðingja þá er þér viljið fróa manninn eftir slíka atburði að það er mánaðarfró en þá erum vér virðir eftir það sem aðrir framfærslumenn og fyrnast við það seint vorir harmar. En sá maður er handsöl tekur af slíkum manni sem þú ert má þó vel una sínum hlut hvað sem að dæma er. Mun eg og þessi handsöl taka af þér og gakk þú nú hingað til mín í rekkjugólfið og verður þú nær að ganga því að karl skelfur nú allur á fótum fyrir elli sakar og vanheilsu en eigi trútt að mér hafi eigi í skap runnið sonardauðinn."
Bjarni gekk nú í rekkjugólfið og tók í hönd Þórarni karli. Hann fann þá að hann þuklaði á saxi og vildi þá leggja að Bjarna.
Hann kippti hendinni og mælti: "Allra fretkarla armastur," sagði Bjarni. "Nú mun að maklegleika fara með okkur. Þorsteinn sonur þinn lifir og skal hann fara heim með mér til Hofs en þér skal fá þræla til forverks og skal þér einskis vant meðan þú lifir."
Þorsteinn fór nú heim með Bjarna til Hofs og fylgdi honum allt til dauðadags og þótti nær einskis manns maki vera að drengskap og hreysti.
Bjarni hélt vel virðingu sinni og var hann því vinsælli og betur stilltur sem hann var eldri og var allra manna þrautbestur og gerðist trúmaður mikill hinn síðasta hluta ævi sinnar. Bjarni fór utan og gekk suður og andaðist í þeirri ferð. Hann hvílir í borg þeirri er Vateri heitir og er það mikil borg, skammt hingað frá Rómaborg.
Bjarni varð kynsæll maður. Hans sonur var Skegg-Broddi er víða kemur við sögur og var hinn mesti afbragðsmaður um sína daga. Dóttir Bjarna hét Halla, móðir Guðríðar er Kolbeinn lögsögumaður átti. Yngvildur var og dóttir Bjarna er Þorsteinn Síðu-Hallsson átti og var þeirra sonur Magnús, faðir Einars, föður Magnúss biskups. Ámundi var og sonur Þorsteins og Yngvildar. Hann átti Sigríði dóttur Þorgríms blinda. Hallfríður var og dóttir Ámunda, móðir Ámunda, föður Guðmundar, föður Magnúss goða og Þóru er Þorvaldur Gissurarson átti, og annarrar Þóru, móður Orms Svínfellings. Guðrún var og Ámundadóttir, móðir Þórdísar, móður Helgu, móður Guðnýjar Böðvarsdóttur, móður Sturlusona, Þórðar og Sighvats og Snorra. Rannveig var og Ámundadóttir, móðir Steins, föður Guðrúnar, móður Arnfríðar er Digur-Helgi átti. Þorkatla var og Ámundadóttir, móðir Arnbjargar, móður Finns prests og Þorgeirs og Þuríðar. Og hefir margt höfðingsmanna frá þeim komið.
Og lýkur þar að segja frá Þorsteini stangarhögg.