STJÖRNU - ODDA  DRAUMUR




1. kafli

Þórður hét maður er bjó í Múla norður í Reykjardal. Þar var á vist með honum sá maður er Oddi hét og var Helgason. Hann var kallaður Stjörnu-Oddi. Hann var rímkænn maður svo að engi maður var hans maki honum samtíða á öllu Íslandi og að mörgu var hann annars vitur. Ekki var hann skáld né kvæðinn. Þess er og einkum getið um hans ráð að það höfðu menn fyrir satt að hann lygi aldrei ef hann vissi satt að segja og að öllu var hann ráðvandur kallaður og tryggðarmaður hinn mesti. Félítill var hann og ekki mikill verkmaður.

Frá því er að segja að um þenna mann Odda gerðist undarlegur atburður. Hann fór heiman út til Flateyjar er Þórður húsbóndi hans sendi hann þessa ferð á vit fiska og er eigi annars getið en þeim fórst vel til eyjarinnar. Þar var hann í góðum beina. Ekki er frá því sagt hver þar bjó. En frá því er að segja að um kveldið er menn fóru í rekkju var vel búið um Odda og hæglega. En við það er Oddi var farmóður og veittur hóglegur umbúnaður þá sofnar hann brátt og dreymdi hann þegar að hann þóttist staddur vera heima í Múla og svo þótti honum sem þar væri kominn maður til gistingar og þótti honum sem menn færu í rekkju um kveldið. Þótti honum gesturinn vera beðinn skemmtanar en hann tók til og sagði sögu og hóf á þessa leið.


2. kafli

Hróðbjartur hefir konungur heitið. Hann réð austur fyrir Gautlandi. Hann var kvongaður maður. Hildigunnur hét kona hans. Þau áttu sér einn son barna er Geirviður er nefndur. Hann var snemma vænn og vitmikill og að öllum hlutum mannaður um fram sína jafnaldra en barn var hann að aldri er sagan gerðist.

Frá því er að segja að konungurinn Hróðbjartur hafði settan til landstjórnar yfir þriðjung ríkis síns jarl þann er Hjörvarður hét. Hann var og kvongaður og hét kona hans Hjörgunnur. Þau áttu eina dóttur barna. Sú hét Hlégunnur. Frá henni er svo sagt að hún var ólát í æsku sinni og var ávallt því ódælli sem hún var eldri. Það var og sagt að hún vildi ekki kvenna sið fága í sínu athæfi. Það var hennar venja jafnan að hún gekk í herklæðum og með vopnum og ef hana skildi á við menn þá veitti hún þeim annaðhvort áverka stóra eða líflát þegar henni líkaði eigi.

En við þenna hennar ójafnað þá þótti Hjörvarði jarli föður hennar eigi mega við sæma hennar vandræði og sagði henni þá ljóslega að hann mundi eigi þann veg lengur láta fram fara og kvað henni eigi hlýða mundu nema um batnaði nokkurs háttar "eða ellegar far í brott sem skjótast úr minni hirð."

En þegar Hlégunnur jarlsdóttir verður þessa áheyrsla af föður sínum að hann vildi hana láta í burt fara af sinni hirð þá svarar hún því máli svo að hún kvað sig þar ekki dvelja og beiddi hún þá föður sinn að hann skyldi fá henni langskip þrjú alskipuð bæði að mönnum og herklæðum og búa að öllu sem best með góðum liðskosti svo að henni þætti vel skipuð. Og ef svo væri gert sem hún beiddi hér um þetta mál þá taldi hún sér mundu vel líka þótt hún færi í braut við svo búið. Hjörvarður jarl vildi gjarna þetta til vinna að hún kæmist á braut sem skjótast því að honum þótti, sem var, mikil vandræði af standa hennar ráði.

Síðan lét hann búa að öllu þrjú langskip sem best. En þegar þetta lið var búið þá fer Hlégunnur jarlsdóttir úr landi með þessu liði og lagðist síðan í hernað og víking og aflaði sér svo fjár og frama. Svo er sagt að hún kom eigi í land meðan faðir hennar lifði.

En í annan stað er þar til að taka sögunnar að þá er Geirviður son Hróðbjarts konungs var átta vetra gamall tók Hróðbjartur konungur sótt og verður það lítil frásaga því að sóttin leiðir svo til lands að konungurinn andast. Það þótti öllum hans ástvinum og virktamönnum hinn mesti skaði, sem var, að missa slíks höfðingja og þar út í frá öllu landsfólkinu. Síðan var fengið að virðulegri veislu og þar til boðið öllum hinum ríkustum mönnum og hinum bestum höfðingjum er í voru landinu. Þar með var og til boðið hverjum manni þeim er veisluna vildi sækja, bæði innan lands og utan svo að engi skyldi þar óboðið koma. En síðan þessi veisla var saman sett með því fjölmenni er þangað sótti þá var þar erfi drukkið eftir Hróðbjart konung með miklum veg og sóma svo sem byrjaði hans tign og sómasamlegri virðingu. En er erfinu var lokið þá var konungurinn heygður að fornum sið eftir því sem þá var tíska til við göfga menn.


3. kafli

Nú er svo að segja að eftir þessi miklu tíðindi er þar í landi höfðu gerst þá sýndist það öllum hinum vitrustum mönnum og hinum bestum vinum konungsins að taka annan mann til konungs og landstjórnar í stað þvílíks höfðingja sem þá var við misst. En svo var mikil ástúð öllum landsmönnum á Hróðbjarti konungi meðan hann lifði að menn vildu ekki annað en velja Geirvið son hans til konungs og láta eigi konungdóminn ganga úr hans ætt. Þótt Geirviður væri ungur að aldri eða hann þætti þá enn lítt til landráða fallinn í þann tíma vildi þó allt landsfólkið til þessa hætta með umsjá drottningar móður hans með því að hún var hin vitrasta kona og vel að sér í alla staði.

En er svo fór fram um hríð að svo ungur maður skyldi höfðingi vera og stjórna mörgu fólki sem Geirviður var þá gerðist brátt landstjórnin lítil, sem líklegt var. Það gerðist og að hirðin fáttkaðist fyrir því að margir voru þeir af hans hirðmönnum að aðra iðn lögðu fyrir sig. Sumir lögðust í víking, aðrir réðust í kaupferðir til ýmissa landa. Nú með því að á þessu þótti mikið mein sem nú var frá sagt þá gerðust þó mörg önnur óhægindi í ríki þessa hins unga konungs.

Þess er við getið í sögunni að illvirkjar tveir lögðust út á skóg þann er Jöruskógur heitir. Það var í ríki þessa hins unga manns. Þessir víkingar drápu menn til fjár sér og voru nálega berserkir. Annar þeirra hét Garpur en annar Gnýr. Svo er sagt að mönnum hlýddi aldrei fám að fara saman. Jafnan voru menn vanir að fara á skóginn með fjölmenni að leita illvirkjanna og ráða þá af en þeir urðu aldregi hittir þó að þeirra væri leita farið með fjölmenni. Slíku fer fram til þess er Geirviður konungur er tólf vetra. Og þá er hann var svo aldurs kominn þá var hann svo mikill maður vexti og sterkur að afli sem þeir menn margir sem fullkomnir voru að aldri og atgervi nálega eftir því sem þeir best voru á sig komnir fyrir allra hluta sakir.

Það var eitthvert sinn þá er Geirviður konungur sat yfir borðum með allri hirð sinni, þá tók hann til orða og mælti svo: "Nú er svo sem yður er kunnigt öllum mínum mönnum að eg hefi ungur verið hér til að aldri og svo hefi eg haft litla orku og því hefir af mér staðið lítil stjórn í ríkinu. Hefi eg það og oft heyrt sem von er að. Má það og eigi mjög undrast þó að hér til hafi af mér lítil stjórn staðið fyrir sakir æsku minnar. En þó er eg nú svo aldurs kominn að mér er nú mál að reyna mig og vita að nokkuð vilji mitt ráð þroskast og meir hefjast en áður er þar sem eg er nú orðinn maður tólf vetra gamall. Eru og margir ekki betur mannaðir á mínum aldri. Nú vil eg og því lýsa fyrir öllum yður, mínum þegnum og virktavinum, að eg ætla mér að fara til móts við berserkina, þá Garp og Gný, er liggja á Jöruskógi og gera þar mörg illvirki. Ætla eg og til þess að koma eigi aftur svo að þeir séu á lífi og skal eg þá yfirkoma eða þeir mig ella."

En er Geirviður konungur hafði þetta mælt þá svarar fyrst máli hans drottningin móðir hans og þar með allir hans bestu menn og mæltu nálega allir sem eins manns munni og báðu konung fara fjölmennan á fund stigamannanna og með miklum viðbúnaði ef hann vildi fara.

Geirviður konungur svarar: "Hugsað hefi eg þetta mál áður nokkuð fyrir mér en eg kvæði upp og sýnist mér á þá leið sem í þessari ferð megi mér þá engi frami kaupast þótt eg fái náð berserkjunum enda leita eg þeirra með miklu liði alvopnuðu. En það er þá nokkur svívirðing ef þeir fást þá eigi og komi eg við það aftur og verður þá ósnöfurmannlega minnar handar ef svo tekst. Nú hefi eg hina leið ætlað ferðina að fara með annan mann á þeirra fund og mun þá skipta gæfa með oss hver þá skal verða vor skilnaður. Má þá og verða ef vill að nokkur svo fremd fylgi ferðinni. Skal nú og á það ráð hætta hversu sem til vill takast. Er nú og fyrir því upp borið þetta mál fyrir yður að eg vil nú vita hver fúsastur er til þessarar ferðar með mér og er nú það ráð að nokkur vakni við, sá er til vill ráðast, og svari sá nú mínu máli enda skuluð þér það vita hér með að nú er þetta mál fullgert fyrir mína hönd að eg mun þó fara þessa ferð þótt eg fari einn saman og verði engi til að fylgja mér."

En við þessi ummæli konungs þá er það sagt að drottning sjálf fyrst að upphafi latti á alla vega þessar ferðar og sagði, sem var, allóráðlega stofnað þar sem við heljarmenn var að eiga er illvirkjarnir voru, svo mikið sem þar var í ábyrgð er konungurinn var sjálfur því að öllum þótti vís von að hann mundi látast fyrir þeim og fá minna hlut í þeirra skiptum ef svo yrði sem líklegt mundi þykja fyrir sakir æsku konungs þeirra en harðfengi berserkjanna. Allir vinir konungs löttu ákaflega fararinnar og þótti konungur út seldur ef hann færi við annan mann.

Konungur svarar að ekki mundi tjóa að letja hann.

Og er allir skildu að konungur mundi eigi letjast láta þá verður til og svarar máli konungs sá er Dagfinnur hét. Hann var hirðmaður konungs og konungsskáld.

"Herra," segir hann, "engan mann veit eg þér meiri sæmd eiga að launa í alla staði en mig. Er eg og því skyldari að skiljast aldrei við þig er þú ert í meira háska staddur ef þér viljið þiggja mitt föruneyti og fylgd og er eg til þessar farar albúinn þegar þér viljið."


4. kafli

En þegar þessi maður, Dagfinnur, var nefndur í sögunni þá er frá því að segja er mjög er undarlegt að þá brá því við í drauminum Odda að hann Oddi sjálfur þóttist vera þessi maður, Dagfinnur, en gesturinn sá er söguna sagði er nú úr sögunni og drauminum en þá þóttist hann sjálfur sjá og vita allt það er héðan af er í drauminum. En nú síðan er drauminn svo að segja sem honum þótti sjálfum fyrir sig bera, Odda, þá þóttist hann vera Dagfinnur og ráðast í ferðina með konunginum Geirviði.

En er þeir voru albúnir þá riðu þeir tveir saman með vopnum sínum til þess er þeir komu á Jöruskóg þangað sem illvirkjanna var von en þar var svo viður vaxið að gata var breið um skóginn. Og er þeir komu mjög langt í skóginn þá er þess getið að þar varð fyrir þeim hóll einn mjög hár. Hann var brattur öllum megin. Síðan gengu þeir upp á hólinn og vildu þaðan sjást um og vita hverra tíðinda þeir mættu vísir verða. Mart smágrjót var á hóli þessum. Þaðan sáu þeir víða.

Þeir geta að líta hvar ganga tveir menn. Þeir voru miklir vexti og gengu þegar þangað að hólinum sem þeir konungur stóðu. Þessir menn voru báðir vel vopnaðir. En þegar þeir konungur og Dagfinnur sáu þessa menn þá þóttust þeir vita að þar voru þeir komnir Garpur og Gnýr.

Þá mælti Dagfinnur: "Herra, eg vil yður kunnigt gera að eg er eigi mjög vanur vopnaskipti og kann eg lítt að treysta hug mínum né vopnfimi. Nú vil eg að þér kjósið um tvo kosti, hvort þér viljið heldur að eg ráðist í mót berserkjunum með þér eða viltu að eg sjái til yðvarrar sameignar af hólinum og kunni eg frá að segja öðrum mönnum."

Konungur svarar: "Ef þér lér nokkuð tveggja huga um þetta mál þá þykir mér einsætt að þú sért hér á hólinum og sjáir héðan til sameignar vorrar og komir eigi nær við vor vopnaskipti."

Dagfinnur tekur það ráð sem konungur mælti og dvaldist eftir á hólinum og kemur hvergi nær og þykir honum það allráðlegt en konungurinn sjálfur ræðst ofan af hólinum í móti stigamönnunum. Þar kann eigi glögglega frá að segja hversu högg fóru með þeim og mun eg þar gera skjóta frásögu því að það er þar frá lyktum að segja að svo skipti hamingjan með þeim, því að konungi varð lagið líf og lykka, að hann bar af báðum illvirkjunum og létust þeir af stórum sárum er konungur hafði þeim veitt.

Og eftir það er illvirkjarnir voru fallnir þá gengu þeir konungur og Dagfinnur fram á götuna lengra og komu þar að farandi er stígur lítill lá af þjóðbrautinni í skóginn. Þeir höfðu litla stund gengið þann hinn litla stíg áður brátt gerðist rjóður mjög mikið í mörkinni og stóð þar eitt hús. Það hús var hátt og rammgert og rammlega læst og grafinn lykill í dyragætti. Þeir luku upp húsinu og gengu þar inn. Það hús var vel innan búið og var nálega fullt af allskyns auðæfum. Þar voru þeir um nóttina og skorti þar hvorki góðan drykk né dýran mat en um morguninn fóru þeir heimleiðis og huldu áður hræ útilegumannanna.

En er konungurinn kom heim til ríkis síns þá varð hann frægur mjög víða um lönd af sínu þrekvirki og ágætum sigri og urðu allir vinir konungsins og frændur honum fegnir er hann kom heim með göfuglegum sigri og þóttust menn hann nálega úr helju heimt hafa, sem var.


5. kafli

Nú eftir þenna atburð allan saman lét konungur þings kveðja og kemur þar mikið fjölmenni saman. En er saman var sett þetta hið fjölmenna þing þá sagði konungur þar þessi miklu tíðindi og þótti öllum þetta hin mesta frægð, sem var, er Geirviður konungur hafði einn sigur borið af slíkum kempum.

Síðan bað Geirviður að menn skyldu vitja til þess húss er illvirkjarnir höfðu í borið það mikla fé og skyldi þar hver taka sitt fé það er misst hafði. En allir gáfu konungi upp sitt fé það sem hver átti og sögðu það best komið að hann hefði og kváðu hann fullu kostað hafa. Síðan lét konungur sækja féið og kastaði á sinni eigu.

Eftir það lét konungur taka til húsgerðar og gerðu menn konungi haug þann er hann skyldi sitja á. Þá var konungur settur á stól þann er stóð á hauginum og hófu menn hann svo einkum til tignar og gáfu honum þá enn af nýju dýrar presentur og dýrkuðu hann sem þeir höfðu framast föng á.

Þess er við getið þar sem Dagfinnur skáld er, honum kom í hug að engi mundi skyldari til konunginn að sæma með kvæði en svo sem hann var. Síðan gengur Dagfinnur á hauginn upp til konungsins og féll á kné fyrir hann og laut honum og kvaddi hann virðulega og sagði honum að hann hefði kvæði ort um konunginn og bað að hann mundi hlýða. Konungur játti því blíðlega.

Síðan tók Dagfinnur til og flutti kvæðið og var það flokkur. Og er lokið var kvæðinu þá þakkar konungur vel og allir þeir er við voru staddir og sögðu vel ort og svo sem sæmdi tign og virðing konungs þeirra. Og sem konungur heyrði að allir létu vel yfir og lofuðu mjög kvæðið þá vildi hann sér láta og verða stórmannlega og launa höfðinglega og vill gefa skáldinu gullhring mikinn er hann hafði á arminum.

En Dagfinnur vildi eigi hringinn þiggja og sagði svo að honum var mikil öfúsa á því að hafa sóma og virðing af konunginum en fé kvaðst hann eigi þurfa að þiggja af honum og kallaði sig ekki skorta meðan hann héldi honum heilum "en þeir eru margir aðrir er þar sjá til fjárins sem þér eruð."

Konungi líkar þetta vel.


6. kafli

Þessu næst er að segja frá þeim tíðindum að Hjörgunnur kona Hjörvarðar jarls tók sótt hættlega og þarf þar eigi að gera mikinn orðahjaldur að þessi sótt leiðir Hjörgunni til bana. Síðan var hún erfð og út borin og gert eftir hana sem tíska var til í fornum sið eftir ríkar konur. Jarli þótti mikill skaði eftir drottning sína, sem von var, og harmaði hana mjög og svo margir aðrir út í frá.

Eigi höfðu liðið langir tímar áður vinir hans fýstu að hann skyldi fá sér annarrar konu. Hann spurði hvar þeir sæju honum kvonfang það er honum væri virðing í að fá. Þeir töldu ráðlegt að hann bæði til handa sér Hildigunnar drottningar og sögðu honum mikið uppheldi að þeim ráðahag ef hann næðist. Og er þetta var oft tjáð fyrir jarli þá sýndist á þá leið því að hann var vitur maður.

Síðan hefir hann upp orð sín og biður Hildigunnar drottningar sér til eiginkonu. Hún var þá enn ekki meir en fertug kona að aldri og þótti kosturinn vera hinn merkilegasti fyrir allra hluta sakir. Og hvort sem um þetta var talað lengur eða skemur þá var það að ráði gert að drottning var gift Hjörvarði jarli með ráði konungs sonar hennar. Síðan var fengið að virðulegri veislu og drukkið brúðhlaup Hjörvarðar jarls og Hildigunnar drottningar með miklum veg og margskonar sóma. Og er veislunni var lokið þá fer hver heim til sinna heimkynna. Brátt takast þar miklar ástir í millum þeirra og eru samfarar þeirra sæmilegar og eigi langar áður en þau áttu dóttur. Hún var nefnd Hlaðreið.

Svo er sagt að samför þeirra jarls og drottningar var eigi löng þaðan í frá er þau höfðu Hlaðreiði getið áður þau tíðindi gerðust að jarl tekur sótt og leiðir hún svo til lands að hann andast af þeirri sótt. Það þótti vera skaði mikill því að hann var virðulegur höfðingi. Eftir þessi tíðindi setti Geirviður konungur sína menn yfir ríkið það er jarl hafði átt og eignaði sér. Þessi tíðindi spyrjast víða, sem von var, fráfall þvílíks höfðingja.

Þar kemur að þessi tíðindi koma fyrir Hlégunni dóttur Hjörvarðar jarls, að faðir hennar er andaður, þar sem hún er í hernaði og brýtur undir sig víkinga. Bregður henni svo við tíðindin að hún snýr öllu sínu liði til Gautlands og herjar þar. Og svo kemur því máli að hún lagði undir sig allt það ríki er átt hafði faðir hennar. Síðan sendir hún menn á fund Geirviðar konungs og bað svo segja honum sín orð að hann skyldi annaðhvort gera að unna henni hálfs ríkis og landráða við sjálfan sig eða ella skyldi hann búa sig og sína menn og koma til móts við hana með sinn her í sund þau er heita Síldasund og berjast við hana þar og hefði það þeirra sigur og gagn er meiri gæfu stýrði.


7. kafli

Nú er þar til að taka að sendimenn fóru þeir er Hlégunnur sendi. Það voru skjaldmeyjar. Þær fóru á konungs fund og báru upp sín erindi fyrir konunginn.

Og er hann heyrði kostaboð Hlégunnar þá svarar hann skjótt á þessa leið: "Því skjótara skal kjósa sem kostir eru ójafnari og vil eg miklu heldur berjast við hana en láta ríki mitt fyrir ágangi hennar."

Sendimenn fóru aftur á fund Hlégunnar og segja henni til svo búins og líkaði henni þeirra för forkunnlega vel.

Nú er það að segja að Geirviður konungur safnar herliði um allt sitt ríki og skal hver maður fara í þessa herför er skildi má valda eða skafti skjóta.

Þess er við að geta að höfði sá gekk einum megin hjá sundunum er Hofshöfði heitir og skyldi þar hittast lið konungsins allt við höfðann. En er Geirviður konungur var albúinn þá leiddi hann alþýða til skips.

Þar var í ferð með konungi Dagfinnur skáld. En í ofangöngunni til skipanna þá varð sá atburður er geta verður, þó að lítils vægis þyki vera, að losnaði skóþvengur Dagfinns skálds. Og síðan bindur hann þvenginn og þá vaknaði hann og var þá Oddi, sem von var, en eigi Dagfinnur.

Eftir þenna fyrirburð gekk Oddi út og hugði að stjörnum sem hann átti venju til jafnan er hann sá út um nætur þá er sjá mátti stjörnur. Þá minntist hann á drauminn og mundi allan nema kvæðið það er hann þóttist ort hafa í drauminum nema þessar vísur sem hér eru ritnar:

Voru austr
á Jöruskógi
barmar tveir
böls um fylltir
og til fjár
fyrðar næmdu
við morðráð
mörgu sinni.

En sá gramr
er gera bræðir
hefir tírgjarn
tindótt hjarta
og böðfrækn
báða felldi
Garp og Gný
Geirviðr konungr.

Réð jafngjarn
auði að skipta
Roðbjartssonr,
rekka mærði
af því fé
fyrða kindir
er svikmenni
safnað höfðu.

Lét gunndjarfr
gefna hringa
seggja ætt
siklingr Gauta
svo að hirðmenn
höfðu allir
haukastóls
hengiskafla.

Mun Dagfinnr
dýrra málma
við lofsorð
lúka kvæði.
Njóti vel
vegs og landa
gramr göfugr
gauskrar þjóðar.


8. kafli

En sem Oddi hafði úti verið slíka stund sem honum vel líkaði fór hann inn í rekkju sína og sofnaði þegar og dreymdi hann það sem hið fyrra sinn og hann hafði vaknað frá. Þóttist hann þá hafa bundið skóþvenginn og vera Dagfinnur og skynda til skipanna. Svo þótti honum í drauminum sem hann skyldi vera skipstjórnarmaður.

Og þegar þeir voru búnir til ferðar fóru þeir með skipaflotann til þess er þeir komu við höfðann og hittist þar allt lið konungs og lögðu síðan fram í sundin Síldasund. Þá er og sagt að þar var komin Hlégunnur skjaldmær og lá þar fyrir í sundunum með skipaflota sinn og hafði ógrynni liðs og albúin til orustu.

Síðan lögðu hvorir í mót öðrum og laust saman með þeim snarpri sókn og var þar hinn harðasti bardagi og réðst brátt mikið mannfall í hvortveggja liði en þó hafði eigi lengi staðið bardaginn áður en mannfallið hneig í lið konungs og hruðust hans skip mjög.

Þess er og getið að Hlégunnur varð ekki sén í orustunni um daginn og hugðu menn þó drjúgt að af konungsmönnum og þótti það undarlegt. En er slíku hafði fram farið langa hríð um daginn þá leitaðist Dagfinnur um með sinni list og sá hann þá Hlégunni og var þá komin á konungsskipið og var þá orðin skipan mikil á hennar hag. Honum sýndist á henni ylgjarhöfuð geysimikið og tröllslegt og biti með því höfuðin af konungsmönnum.

En er Dagfinnur sá þessi undur þá steig hann af því skipi er hann stýrði. Það lá fjarri konungsskipinu. Síðan hljóp hann hvert af öðru uns hann kom á konungsskipið. En þegar hann kom á fund konungs þá sagði Dagfinnur hvað títt var og hvað stór endemi voru við. Síðan vísaði Dagfinnur konungi til hvar Hlégunnur var, að hann mætti sjá hana, en konungur fékk hana eigi séð sakir fjölkynngi hennar en hitt sá hann að menn hans féllu tugum saman. Þá bað Dagfinnur konunginn sjá undir hönd sér hina vinstri og svo gerði hann. En er konungur fór svo með þá sá hann Hlégunni. Síðan gengu þeir báðir saman aftan til siglu. Þá hljóp konungurinn fram með brugðnu sverði og þegar hann kemur í höggfæri við Hlégunni þá höggur hann til hennar með sverðinu og kemur höggið á hálsinn og hjó hann af henni höfuðið og féll það útbyrðis.

En er hún var fallin þá bauð konungurinn kost þeim mönnum er fylgt höfðu Hlégunni hvort þeir vildu heldur halda bardaga upp við hann eða ganga honum til handa. En þeir kjöru skjótt að ganga á konungs vald. Og síðan er Geirviður konungur lagði á braut úr þeim bardaga þá lagði hann undir sig allt landið og setur þar yfir sýslumenn og friðaði svo allt ríkið.

Síðan hélt konungur heim og var ger í mót honum dýrðleg veisla. Eftir það var kvatt þings og var það þing allfjölmennt. Var konungurinn Geirviður settur þá enn á stól af nýju og hafiður upp á hinn sama haug sem fyrr og nú til konungs tekinn og ríkisstjórnar yfir allt Gautland. Gekk þá annar höfðingi að öðrum upp á hauginn og gerði til konungsins veg og sóma hver eftir slíku sem framast hafði föng og færi á.

Dagfinni skáldi kom það í hug að engi átti konunginum meiri virðing að launa í alla staði en hann. Gekk hann síðan upp á hauginn og kvaddi konunginn vel og hæversklega. Konungur tók glaðlega kveðju hans. Dagfinnur sagði konunginum deili á því að hann hafði þá enn ort kvæði um hann af nýju og bað að hann skyldi hlýða og kvaðst þá vilja færa kvæðið. Konungurinn svarar að hann kvaðst gjarna hlýða vilja.

Tók þá Dagfinnur og flutti kvæðið og var það þrítug drápa er hann þóttist ort hafa. En er kvæðinu var lokið þá þakkaði konungur það allvel og dró digran gullhring af hendi sér og gaf Dagfinni að skáldskaparlaunum en Dagfinnur vildi eigi þiggja hringinn og sagðist allt ærið hafa meðan hann héldi konunginum heilum. En Geirviður konungur lét það þá í ljós við Dagfinn að hann skyldi hans sóma meira gera í alla staði heldur en hvers manns annars í sínu ríki og bauð honum það að hann mundi afla honum kvonfangs og sagði svo að hann mundi þá konu fá honum til handa er hann vildi helst kjósa, nálega þess er kostur var í því landi.

Dagfinnur tók þessu máli vel, sem von var, er konungurinn vildi svo mikinn gera hans sóma og svarar: "Ef þetta skal allt efna af yðvarri hendi við mig sem nú er um mælt þá er ekki því að leyna að er sá kosturinn að gjarna mundi eg mér unna og þú átt og mest undir sjálfum þér."

Konungur mælti: "Hver er sú kona er þú talar til?"

Dagfinnur svarar: "Það er Hlaðreið systir þín. Hún er svo kvenna að mér er mestur hugur á að fá ella hygg eg að fyrir muni farast um kvonföngin."

Konungur sagði að það skyldi og eigi undan draga við Dagfinn er honum þótti sinn sómi vaxa við.

Hlaðreið konungssystir var þá gjafvaxta og þó ung mjög að aldri en kvenna var hún fegurst og fríðust og best að sér ger um alla hluti.

En hvort sem þetta mál var talað lengur eða skemur þá ræðst það af að Hlaðreið var föstnuð Dagfinni skáldi. Síðan var þar fengið að boði og var þar ger hin veglegasta veisla í alla staði með hinum bestum tilföngum því að ekki vantaði til það er hafa þurfti. Þar var og allt hið besta mannval það er í var landinu. Var nú drukkið brúðhlaup þeirra með hinni mestu sæmd og prýði. En er veisluna þraut þá fór hver til sinna heimkynna er þangað hafði sótt. En með þeim Dagfinni og Hlaðreiði tókust brátt miklar ástir og var þeirra samför einkar góð.

En er svo kurteislega var komið ráðahag Dagfinns sem nú er frá sagt þá var lokið drauminum og vaknaði hann þá, er Oddi var raunar.


9. kafli

Síðan hugði Oddi að um draum sinn og mundi gersamlega drauminn allan, bæði hinn fyrra og svo hinn síðara, og minntist síðan á drápuna þá er hann þóttist síðar kveðið hafa og mundi hann eigi fleira í kvæðinu heldur en þessar ellefu vísur sem nú eru hér ritnar og þetta er upphaf að:

Geirviðr of nam greiða
gang svo að skreið úr þangi
og byrsóta beitti
barð út um lágarða.
Og seglhættu sóttu
snarpir meðr úr veðri,
blés við hún, und höfða,
harðan vegg of seggjum.

Skeið náði þá skríða
skjót um bylgjur ljótar.
Fóru dyggir drengir
á dýrmörum hlýra.
Þar sá eg frægra fyrða
för prúðlegsta görva.
Þó er gotneskra gumna
Geirviðr konungr þeira.

Sigldum Hofs fyrir höfða
herðendr, skipaferðum,
Göndul, grams, með landi,
gott ráð var það dróttar,
uns í Síldasundi
sigrgöfgaðir vigrum
hjuggu horskir seggir
hjörs andskota börva.

Og skjaldmeyja skjóma
skerðendr svo gerðu
að varfærir véar
í vág fyrir lágu.
Gátu ljónar líta
leiðangrs flota breiðan.
Hilmis fór und hjálmi,
hirð, sú er vörn of firrðist.

Brátt vöknuðu virðar
að vígboði þjóðar
þá er Hlégunnar hestar
hafrastar mjög þustu
og snarráðir sóttu
siklings vinir þingað.
Þó er gotneskra gumna
Geirviðr konungr þeira.

Og hnigsólar Högna
hríð æxti þá síðan
blóðísunga beiðir,
bragna konr, af magni,
en vígroða víða
varp af rómu snarpri.
Sjár varð dökkr af dreyra
drótt þá er hríðmál sótti.

Svipan gerðist þar sverða,
saman kómu þar rómu,
Göndul varð fyrir grundu,
grams drótt því að vel sótti.
Geirviðr of vó geiri,
geirvaldr, í Hlökk þeiri.
Blóðár sá eg í blóði.
Blóð stökk um skör þjóða.

Gerði hríð af hörðu
hirð sú er fylkir stýrði.
Margr er gramr af gengi
göfugr tiginna jöfra.
Spyrkat eg frægra fyrða
ferð snjallari verða.
Þó er gotneskra gumna
Geirviðr konungr þeira.

Hlégunnar leit eg hingað
harðráðar ódáðir.
Ýfð með ylgjar höfði
eiskranleg réð geisa.
Trölls kjafta sá eg tyggja
tönnum hold af mönnum.
Með hnitgeirum hvofta
harða sókn of gerði.

Annað sté eg af öðru
Áta skíð um víði
uns glæsimar Gylfa
gekk með hilmis rekkum
og eg siklingi sagðag
sýslu ægis geisla
hve grimmhuguð gerði
Gerðr of vígaferði.

Gramr leit hitt hvar hafði
Hörn hvergymis stjörnu
höfuð á hauka stofni
heiðingja sér brúðar.
Ásynju lét elda
ósvífr konungr hníga
flóðs af fyllar meiði
frægr, hinn er ekki vægði.

Nú er draum þessum lokið er Stjörnu-Odda dreymdi eftir því sem hann sjálfur hefir sagt. Og má víst undarlegur og fáheyrður þykja þessi fyrirburður en þó þykir flestum líklegt að hann muni það eina sagt hafa er honum hafi svo þótt verða í drauminum því að Oddi var reiknaður bæði fróður og sannsögull. Má og ekki undrast þótt kveðskapurinn sé stirður því að í svefni var kveðið.




Netútgáfan - maí 1999