ÞORSTEINS  ÞÁTTUR  SÍÐU - HALLSSONAR  (eftir Flateyjarbók)




1. kafli

Svo er sagt að eitt sinni er Þorsteinn Hallsson af Síðu kom úr kaupferð af Dyflinni og var það ekki að konungsleyfi. En það var ekki í þann tíma að menn færu úr landi kaupferðir utan konungur gæfi leyfi til og var sök á hverjum er hann færi ólofað. Svo og höfðu þeir eigi goldið landaura er gjaldkerinn heimti og lést Þorsteinn eigi skyldur að gjalda er hann var konungs hirðmaður. Þorsteinn þóttist og heimilt eiga að fá eigi gjald fyrir þá menn er með honum voru og varð eigi fyrir það fast að gengið að heimta frekara er menn vissu það satt vera að Þorsteinn var hirðmaður Magnúss konungs. Hann fór út til Íslands um sumarið til bús síns.

Magnús konungur spyr þetta nú allt jafnt saman og líkar stórilla, lést veitt mundu honum hafa Þorsteini sjálfum landaura en eigi mönnum hans en kvað þó þykja meira vert er hann tók Dyflinnarferð á sig svo að hann hafði ekki leyfi til og gerir konungur Þorstein útlægan og úr öllum hirðmannalögum fyrir þetta og kvaðst svo skyldu leiða fleirum lagabrotin þótt að mikils væru verðir.

Og annað sumar kom Þorsteinn út af Íslandi og hafði þá ekki spurt þetta. Hann flutti utan með sér stóðhross ágætleg. Nú kemur Þorsteinn norður við Þrándheim og styggðust menn við honum þótt áður hefðu látið líklega til hans fyrir sakir ummæla Magnúss konungs, og kom þar að því sem mælt er að dýrt er drottins orð. Sat Þorsteinn jafnan nú einn í herbergi og félagar hans. Þetta þykir honum þó harðla dauflegt er öngvir menn vilja eiga gleði við þá. Stóðhrossin voru fyrir ofan bæinn í haga á Íluvöllum og fór Þorsteinn jafnan að líta yfir þau.


2. kafli

Þeir voru þá í bænum Einar þambaskelfir og Indriði son hans. Og einn dag gengur Einar út á Íluvöllu, kemur nú að hrossunum og lítur á um stund og lofar allfast. Og er þeir ætla brott að ganga þá kemur Þorsteinn þar og heilsar Einari og spyr hversu honum líst á hrossin. Hann svarar og kveðst vel á lítast.

"Þá vil eg að þér þiggið," segir Þorsteinn.

En Einar lést eigi þiggja vilja.

"Það veit eg," segir Þorsteinn, "að þú munt þiggja gjafir að þvílíkum mönnum sem eg er."

"Satt er það," segir Einar, "en ærið mikið þykir oss á liggja fyrir þér og þínu máli félagi," segir hann, "og berjum vér þar nú augum í."

"Svo verður það að vera," segir Þorsteinn og skiljast við það.

Og litlu síðar gengur Indriði til að sjá hrossin og lofaði mjög og spurði hver ætti. Þorsteinn kom þá að og heilsar honum vel og segir að hann vill gjarna að hann þiggi hrossin ef honum þykja nokkuru neyt. Indriði tók við og þakkaði honum gjöfina og skiljast við það.

En er þeir feðgar finnast þá segir Einar að hann mundi mikið hafa til gefið að Indriði hefði eigi tekið við hrossunum. Indriði kveðst eigi svo á lítast og kvað vera gott mannkaup í Þorsteini.

Einar segir: "Eigi mun eg því í móti mæla en eigi muntu þá gjörla kunna skaplyndi Magnúss konungs fóstra míns ef þú ætlar það auðsótt að sættast við hann á þetta mál þar sem hann hefir áður gert hann útlægan en þó muntu mega það. En ætla munum vér oss minna en það að beitast birni við Magnús konung og það vinn eg til einskis en eg veit að það mun hér á liggja því að ekki gerir hann þetta að barnamálum."

Skildu þeir feðgar nú við þetta í styttingi. Indriði býður Þorsteini til sín og fór hann þangað og situr hann hið næsta honum um veturinn í góðu yfirlæti.


3. kafli

Magnúsi konungi líkar þetta þungt er hann fréttir þetta og mæla margir fyrir honum að eigi sé allsæmilegt þeirra handar að gera slíkt, svo mikla sem hann gerði þá feðga í öllum Þrændalögum, og nú skulu þeir halda útlaga konungs er slík lagabrot hafði gert og konungur hafði reiði á. Konungur svarar þeim fám orðum er slíkt töluðu fyrir honum, lét nær sem hann heyrði eigi en hugsaði þó fyrir sér að eigi væri víst hvort þeir væru svo miklu traustari eða heilli er slíkt báru til eyrna honum ef hann þyrfti nokkurs með.

Svo er sagt að Einari var fátt til Þorsteins um veturinn og segir að Indriði mundi bjóða góða sætt konungi fyrir hann. Þeir feðgar voru vanir að drekka jól með Magnúsi konungi og segir Indriði föður sínum að enn mun hann svo gera.

"Þú ræður," segir Einar, "en heima mun eg sitja og ráðlegra þætti mér að þú gerðir svo."

Eigi býst Indriði að síður og Þorsteinn með honum, fara nú heiman og voru saman tólf og komu á einn lítinn bæ, voru þar um nóttina.

Og um morguninn sér Þorsteinn út og kemur inn aftur og segir Indriða að menn ríða að bænum "og er alllíkt föður þínum."

"Já," segir Indriði, "það bætir mikið vora ferð en hann vill nokkuð fylla vorn flokk."

Og svo var að Einar kom þar og mælti til Indriða: "Allkynleg er þín ætlan og eigi sýnist mér viturleg, að þú ætlar að sækja heim Magnús konung og hafa Þorstein með þér og er slíkt meir gert af kappi en álitum. Far nú heldur heim á Gimsar en eg vil hitta konung og vita hvað af skapist. Eg kann skaplyndi ykkars konungs að ekki munuð þið svo stilla ykkrum orðum að það muni vel hlýða og er mér þá ekki betra um að tala ef áður verður meira að."

Svo gera þeir nú að Indriði fór heim fyrir bæn föður síns en Einar kom til bæjarins á konungs fund og tekur konungur blíðlega við honum, tala nú mart og situr Einar hjá konungi á aðra hönd sem hann átti vanda til.

Og hinn fjórða dag jóla vekur Einar til við konung um málið Þorsteins Hallssonar "og vildi eg gjarna herra að þér tækjuð sættum við hann" og kvað gott mannkaup í honum vera og kvaðst ekki til vildu spara það er hann ætti völd á ef þá væri nær en áður.

Konungur segir: "Ekki þurfum við þar um að ræða því að mér þykir mikið fyrir að gera þig reiðan."

Hættir Einar þessu og þykir horfa helsti þunglega og er konungur þegar kátur er þeir taka annað að tala.

Líður svo framan til jóla. Og hins átta dags þá vekur Einar hið sama málið við konung og fer rétt á sömu leið og fær ekki af konungi og að síður vill hann ekki um tala.

Og nú kemur hinn þrettándi dagur.

Þá biður Einar að konungur taki sættum við Þorstein "og vænti eg að þér munuð nokkuð gera fyrir mína skuld því að mér þykir þetta allmiklu skipta."

Konungur segir þá allstutt: "Ekki er hér um að tala," segir hann, "og kynlegt þykir mér að þér haldið þann mann er eg hefi reiði á."

"Eg ætlaði," segir Einar, "að mér mundi stoða orð mín um einn mann og þann er eigi hefir meira saka til að bera en þessi maður því að hvorki hefir hann drepið frændur yðra né vini og ekki hefir hann neina svívirðing gert yður svo að þér þurfið neinn heiftarhug á honum að hafa fyrir það. Nú viljum vér yðra virðing gera í öllu og svo þykjumst vér gera jafnan og var þetta meir ráð Indriða frænda en mín í fyrstu að taka við Þorsteini en þó allt að einu mun eg ekki hann fyrr fyrirláta en sjálfan mig. En það ætla eg að mikið muni á liggja áður en Þorsteinn er drepinn því að eg kann skaplyndi Indriða í því að eina leið fara þeir báðir ef hann má ráða. Nú em eg þá vant við kominn er þið eigið saman sonur minn og þér. Og viljir þú heldur berjast við Indriða en að taka sættum fyrir Þorstein þá mun það heldur horfa til þurrðar ríki þínu en til framgagns. En eigi mun eg þó berjast í móti þér og eigi þykir mér þú nú mjög á það minnast er eg sótti þig í Garða austur og styrkti eg síðan ríki yðvart í öllu því er eg mátti svo að eg sit fyrir því í nokkurri hættu af öðrum. Og veit eg að þeim þætti eigi allilla þótt þann veg færi vor félagskapur. Hefi eg að því hugað hverja stund síðan eg gerðist fósturfaðir þinn að þín sæmd mætti verða sem mest. Nú skal eg fara af landi í brott og verða þér hvorki að gagni né meini síðan en mæla munu það sumir menn að lítið vinnir þú á í þessu."

Einar sprettur þá upp úr sætinu og er allreiður og snýr nú utar eftir höllunni.

Magnús konungur rís þá upp og eftir honum og leggur hendur um háls Einari og mælti: "Kom heill og sæll fóstri," segir hann, "það skal aldrei verða ef eg má ráða að okkra ástsemd skilji og tak mann í frið svo sem þér líkar."

Einar sæfist nú við þetta og er Þorsteinn nú í sætt tekinn við konung. Fór Einar nú heim eftir það og segir þeim Indriða hvað hann hefir á orkað og þakka þeir honum forkunnar vel.




Netútgáfan - júlí 1999