ÓTTARS  ÞÁTTUR  SVARTA  (eftir Tómasskinnu)




Óttar hafði verið með Ólafi Svíakonungi. Hann hafði ort mansöngsdrápu um Ástríði dóttur Ólafs svenska. Það kvæði mislíkaði Ólafi konungi Haraldssyni því að kvæðið var mjög kveðið svo að hélt við væningar. En er Óttar kom til Noregs lét Ólafur konungur taka hann og setja í myrkvastofu.

Sighvatur skáld var náfrændi Óttars og vinur hans mikill. Sighvatur fór um nótt til myrkvastofunnar að finna Óttar og spurði hversu honum líkaði. Óttar kveðst verið hafa kátari. Sighvatur bað hann kveða sér kvæði það er hann hafði ort um Ástríði drottningu. Óttar gerði svo.

Þá mælti Sighvatur: "Mjög er kvæðið ort og er eigi undarlegt að konunginum líki eigi vel kvæðið. Nú skulum við snúa vísum þeim er næst eru kveðnar í kvæðinu. En síðan skaltu yrkja annað kvæði um konunginn því að hann mun vilja heyra það er ort var um drottningu áður en þú ert drepinn. En þegar úti er drápan þá skaltu hefja upp það kvæði er þú hefir ort um konunginn og kveða á meðan þú mátt."

Óttar gerði sem Sighvatur kenndi ráð til. Hann orti drápu um Ólaf konung á þeim þremur nóttum er hann var í myrkvastofunni. Eftir það lét Ólafur konungur leiða Óttar á sinn fund.

Hann kvaddi konunginn en konungur tók eigi kveðju hans heldur mælti hann til Óttars: "Það er nú ráð Óttar að þú látir fram kvæði það er þú hefir ort um Ástríði drottningu því að hún skal nú heyra hróður sinn."

Ástríður sat á aðra hönd konunginum. Óttar settist niður fyrir fætur konunginum á meðan hann flutti kvæðið en konungur roðnaði við.

En er lokið var kvæðinu þá lét Óttar eigi dvína kveðandina og hóf þegar upp drápuna þá er hann hafði ort um konunginn og er þetta upphaf:

Hlýð, manngöfugur, minni
myrkblás því að eg kann yrkja.
Finnum yðr og annan,
allvaldr, konung fallinn.
Það tel eg grams og, Gauta,
glaðnistanda, misstag
döglings, verk að dýrka,
dýr þengill, mitt lengi.

Þá kölluðu hirðmenn og mæltu að Óttar skyldi þegja.

Þá mælti Sighvatur: "Það er öllum auðsýnt mönnum að konungur má gera af ráði Óttars það sem hann vill þó eð hann skýrði um kvæði þetta. En oss er gott að heyra lof konungs vors."

Hirðmenn þögnuðu en Óttar kvað drápuna. Konungur þagði á meðan Óttar kvað drápuna. En er lokið var kvæðinu þá lofaði Sighvatur mjög kvæðið.

Þá mælti konungur: "Það mun best Óttar að þú þiggir höfuð þitt fyrir drápu þína."

Óttar svaraði: "Sú gjöf þykir mér góð þó að höfuðið sé eigi fagurt."

Konungur dró gullhring af hendi sér og gaf Óttari. Ástríður renndi fingurgulli af hendi sér og gaf Óttari.

Þá mælti konungur við drottningu: "Skaltu lengi halda á vingjöfunum við Óttar?"

Ástríður svaraði: "Eigi munuð þér kunna mig um þetta herra þó að eg vilji launa mitt lof sem þú þitt."

Konungur mælti: "Svo skal vera."

Óttar var lengi með konunginum í góðri virðing. Sjá drápa heitir Höfuðlausn er Óttar orti um Ólaf konung. Þenna vetur hinn næsta áður hafði andast Ólafur konungur hinn svenski.




Netútgáfan - maí 1999