Þorvarður hét maður krákunef, vestfirskur maður að kyni, auðigur maður og drengur góður. Hann fór milli landa og mast vel þar sem hann kom.Hann kemur nú eitthvert sumar skipi sínu norður í Niðarós og var Haraldur konungur í bænum og Eysteinn orri mágur hans, sonur Þorbergs Árnasonar, er allra manna var vaskastur og mest virður af konungi. Þorvarður ruddi skip sitt og leigði sér skemmu. Síðan gekk hann á fund Haralds konungs þar sem hann drakk, kemur svo að stofunni að konungur var úti.
Og er hann vill inn snúa mælti Þorvarður: "Heill herra. Hér er segl eitt niðri á skipinu er eg vildi að þér þægjuð."
Konungur var nakkvað svo brúnvölvi og segir: "Eitt sinni þá eg segl að yður Íslendingum," segir hann, "og bjóst þá til að mér mundi það verða að skaða. Gekk það í sundur í siglingu og vil eg eigi þiggja."
Eysteinn mælti: "Gakk til herra," segir hann, "og sjá og kann vera að yður sýnist vel og þess er meiri von að þér þiggið þá hluti er óvirðilegri eru, því mun hann þér ætlað hafa."
Konungur segir: "Eg sé ráð fyrir mér en þú fyrir þér," snýr síðan inn í stofuna og má ekki festa orð á honum.
Þorvarður biður þá Eystein þiggja seglið "og gakk með mér," segir hann.
Eysteinn gerir svo og þykist eigi séð hafa meiri gersemi í einu segli og þakkar vel gjöfina og mælir að hann skuli koma til hans um veturinn og sjá bæ hans á Norðmæri í Giska. Er nú kyrrt of vetrin.
Og er vorar býr Þorvarður skip sitt og heldur suður fyrir land frá Sólskel og leggja þar til hafs. Og einn dag sjá þeir hvar skip brunar fram hjá og var alskipað með stöfnum. Þar stendur upp í stafninum maður vænn og listulegur. Sá var í skarlatskyrtli rauðum. Hann spyr ef Þorvarður væri þar. Hann svarar og fagnar vel Eysteini.
Eysteinn mælti: "Seinn varstu að sækja mig heim og stíg nú á skip með oss með svo marga menn sem þú vilt sjálfur því að nú er ekki byrvænlegt."
Hann gerir nú svo, fer með nakkverja menn og róa nú til eyjarinnar Giska og er þar fagnaður mikill og veisla ger. Þar voru hús stór og góð.
Og er á leið kveldið og nóttina og morgna tekur þá vaknar Þorvarður og sér að Eysteinn var á fótum og mælti: "Ekki er veður byrvænlegt. Verið með oss í dag og látið mig veðrið sjá fyrir yður og skuluð þér eigi að heldur byrina sitja."
Og of daginn er þeir drukku og voru kátir þá mælti hann Eysteinn: "Fyrir það er þú fórst með mér frá skipi þínu búnu og sóttir hingað heimili, þigg að mér kyrtil þenna."
Hann var allur hlöðum búinn og skorinn af nýju skarlati. Þorvarður þakkar honum gjöfina.
Eysteinn mælti: "Ekki skulu þetta vera segllaunin."
Sitja þá of daginn og skortir eigi góðan drykk.
Og annan morgun eftir mælir Eysteinn við Þorvarð: "Kyrrir skuluð þér vera í dag," segir hann, "því að þetta er engi byr."
Þorvarður segir: "Þér skuluð nú fyrir sjá."
Nú er allt meira við haft of drykk og allan fagnað og þá lætur Eysteinn bera fram skikkju. Það voru algrá skinn og vönduð sem mest og skarlatsmöttull yfir.
Þá mælti Eysteinn: "Þessa skikkju skaltu þiggja og er nú launað seglið því að þannig mun skikkjan bera sig með velflestum öðrum sem seglið ber af velflestum seglum."
Þorvarður þakkar nú vel gjöfina.
Líður af nóttin og of morguninn snemma er Þorvarður vakiður og er þar kominn Eysteinn og mælti: "Nú skal ekki dvelja yður því að nú er byr á kominn."
Tóku nú snæðing og drukku áður þeir fóru.
Þá mælti Eysteinn: "Eigi varð það auðið að konungur þægi seglið að þér en þess get eg ef hann hefði þegið að hann mundi þannig svo launa sem eg. En þó hefir þú nú ekki fyrir það er nú gaf eigi konungur þér launin. En þar má eg ekki að því hafa þó að eg sé ótignari en konungur. En fyrir mismuna okkarrar tignar skaltu þiggja gullhring þenna" og dró af hendi sér.
Þorvarður þakkar honum hringinn og fara eftir það til skips og gefur byri vel og fer út til Íslands og gerist mikill maður fyrir sér.
Og nú of sumarið þá er þeir sigldu fyrir land fram, Haraldur konungur og Eysteinn, og siglir Eysteinn meira og of fram þá mælti konungur: Hvaðan kom þér segl það hið góða er þú hefir?"
"Eysteinn svarar: "Hér er nú það seglið er þér neittuð herra."
Konungur mælti: "Eg sá aldrei betri segl og hefi eg þar góðu nítt."
Eysteinn mælti: "Viltu flensa í milli segla herra?"
Konungur mælti og brosti að: "Hví eigi?" segir hann, gekk upp síðan hjá siglunni.
Eysteinn mælti: "Ger þig eigi að undri og haf segl hvort er þú vilt og er vel að þú vitir hverju þú níttir."
Konungur þakkaði honum og hafði þetta segl yfir sínu skipi og stóðst það eigi þessu konungsskipinu í kappsiglingum því að skip var mikið en þó þótti það vera hin mesta gersemi.