1. kafliHaraldur konungur hinn hárfagri réð fyrir Noregi þá er saga sjá gerðist. Í þann tíma var sá höfðingi í ríkinu er Kormákur hét, víkverskur að ætt, ríkur og kynstór. Hann var hinn mesti garpur og hafði verið með Haraldi konungi í mörgum orustum. Hann átti son er Ögmundur hét. Hann var hinn efnilegasti maður, snemma mikill og sterkur. Þegar er hann hafði aldur og þroska lagðist hann í víking á sumrum en var með konungi á vetrum. Hann aflaði sér góðs orðs og mikils fjár.
Eitt sumar lagðist hann í vesturvíking. Þar var fyrir sá maður er Ásmundur hét. Hann var hinn mesti garpur. Hann hafði sigrað marga víkinga og hermenn. Spyr nú hvor til annars og fara orð í milli þeirra og fundust þeir sjálfir og lögðu sér orustustað og börðust. Ásmundur hafði fleira lið og lagði eigi öllu til orustu. Þeir börðust fjóra daga. Féll mjög lið Ásmundar en hann flýði sjálfur en Ögmundur hafði sigur og kom heim með fé og frama.
Kormákur kvað Ögmund eigi mundu meira frama fá í hernaði "og mun eg fá þér konu, Helgu dóttur Fróða jarls."
"Það vil eg," segir Ögmundur.
Eftir það gera þeir ferð sína til Fróða jarls. Tók hann vel við þeim. Þeir bera upp erindi sín. Jarl tók því vel og kallaði á liggja ótta nokkurn um skipti þeirra Ásmundar. En þó tókust þessi ráð og fóru þeir heim og var við veislu búist og kom til þeirrar veislu fjölmenni mikið. Helga dóttir Fróða jarls átti sér fóstru framsýna og fór hún með henni.
Þetta spyr Ásmundur víkingur og fer til fundar við Ögmund, býður honum hólmgöngu. Ögmundur játar því.
Fóstra Helgu var því vön að þreifa um menn áður en til vígs færu. Hún gerir svo við Ögmund áður hann fór heiman. Hún kvað hvergi stórum við hníta. Þeir fóru síðan báðir til hólms og börðust. Víkingurinn færði við síðuna og beit ekki á. Þá brá Ögmundur upp sverðinu skjótt og skipti síðan í höndunum og hjó undan Ásmundi fótinn og tók þrjár merkur gulls í hólmlausn.
2. kafliÍ þann tíma andaðist Haraldur konungur hárfagri og tók ríki Eiríkur blóðex. En Ögmundur vingaðist ekki við þau Eirík og Gunnhildi og býr Ögmundur skip sitt til Íslands. Ögmundur og Helga áttu son er Fróði hét. Þá er skip var mjög búið tók Helga sótt og andaðist og Fróði son þeirra.
Eftir það sigldu þeir í haf. Þá kastar Ögmundur út öndvegissúlum sínum. Þeir komu utan að Miðfirði. Þar voru áður komnar öndvegissúlur hans, köstuðu þar akkerum.
En í þann tíma réð þar fyrir Miðfjarðar-Skeggi. Hann reri til þeirra og bauð þeim inn í fjörðinn og svo landskosti. Það þá Ögmundur, mældi grundvöll undir hús. Það var þeirra átrúnaður ef málið gengi saman, þá er oftar væri reynt, að þess manns ráð mundi saman ganga ef málvöndurinn þyrri en þróast ef hann vissi til mikilleiks. En málið gekk saman og þrem sinnum reynt.
Síðan lét Ögmundur gera hús þar á melnum og bjó þar síðan. Hann fékk Döllu dóttur Önundar sjóna. Þeirra synir voru þeir Þorgils og Kormákur. Hann var svartur á hár og sveipur í hárinu, hörundljós og nokkuð líkur móður sinni, mikill og sterkur, áhlaupamaður í skapi. Þorgils var hljóðlyndur og hægur.
Þá er þeir bræður voru fulltíða andaðist Ögmundur. Varðveitti Dalla bú með sonum sínum. Annaðist Þorgils um bú við umsjá Miðfjarðar-Skeggja.
3. kafliÞorkell hét maður er bjó í Tungu. Hann var kvongaður og áttu þau dóttur er Steingerður hét. Hún var í Gnúpsdal að fóstri.
Það var eitt haust að hvalur kom út á Vatnsnes og áttu þeir bræður Döllusynir. Þorgils bauð Kormáki hvort hann vildi heldur fara á fjall eða til hvals. Hann kaus að fara á fjall með húskörlum.
Maður hét Tósti. Hann var verkstjóri og skyldi skipa til um sauðaferðir og fóru þeir Kormákur báðir saman þar til er þeir komu í Gnúpsdal og voru þar um nóttina. Þar var mikill skáli og eldar gervir fyrir mönnum.
Um kveldið gekk Steingerður frá dyngju sinni og ambátt með henni. Þær heyrðu inn í skálann til ókunnra manna.
Ambáttin mælti: "Steingerður mín, sjáum við gestina."
Hún kvað þess enga þörf og gekk þó að hurðunni og sté upp á þreskjöldinn og sá fyrir ofan hlaðann. Rúm var milli hleðans og þreskjaldarins. Þar komu fram fætur hennar.
Kormákur sá það og kvað vísu:
- Nú varð mér í mínu,
- menreið, jötuns leiði,
- réttumk ristin, snótar
- rammaást fyr skömmu.
- Þeir munu fætr að fári
- fald-Gerðar mér verða,
- alls ekki veit eg ella,
- oftar en nú, svarra.
Nú finnur Steingerður að hún er sén, snýr nú í skotið og sér undir skegg Hagbarði. Nú ber ljós í andlit henni.
Þá mælti Tósti: "Kormákur, sérð þú augun utar hjá Hagbarðshöfðinu?"
Kormákur kvað vísu:
- Brunnu beggja kinna
- björt ljós á mig drósar,
- oss hlægir það eigi,
- eldhúss of við felldan
- en til ökkla svanna
- ítrvaxins gat eg líta,
- þrá munat oss um ævi
- eldast, hjá þreskeldi.
Og enn kvað hann:
- Brámáni skein brúna
- brims und ljósum himni
- Hristar hörvi glæstrar
- haukfránn á mig lauka.
- En sá geisli sýslir
- síðan gullhrings Fríðar
- hvarma tungls og hringa
- Hlínar óþurft mína.
Tósti mælti: "Starsýn gerist hún á þig."
Kormákur kvað:
- Hófat lind, né eg leyndi,
- líðs, hyrjar því stríði,
- bands man eg beiði-Rindi,
- baugsæm af mér augu
- þá er húnknarrar hjarra
- happþægi Bil krapta
- helsisæm á hálsi
- Hagbarðs á mig starði.
Nú ganga þær í skálann og setjast niður.
Kormákur heyrir hvað þær tala til yfirlita hans. Ambáttin kvað Kormák vera svartan og ljótan.
Steingerður kvað hann vænan og að öllu sem best: "Það eitt er lýtið á, hárið er sveipt í enninu."
Kormákur kvað vísu:
- Eitt lýti kvaðst Áta
- eldbekks á mér þykkja
- Eir of aftanskærur
- allhvít og þó lítlð.
- Haukmærar kvað hári
- Hlín velborin mínu,
- það skyldi eg kyn kvenna
- kenna, sveipt í enni.
Ambáttin mælti: "Svört eru augun systir og samir það eigi vel."
Þetta heyrir Kormákur og kvað vísu:
- Svört augu ber eg Sága,
- snyrtigrund, til fundar,
- þyki eg erma Ilmi
- allfölr, og lá sölva.
- Þó hefi eg mér hjá meyjum,
- mengrund, komið stundum,
- hrings við Hörn að manga
- hagr sem drengr hinn fagri.
Þar voru þeir um nóttina. Um morguninn er Kormákur reis upp gekk hann til vatnkakka og þó sér. Síðan gekk hann til stofu og sá þar engan mann og heyrði mannamál í innri stofu og snýr hann þangað. Þar var Steingerður og konur hjá henni.
Ambáttin mælti til Steingerðar: "Hér fer nú hinn væni maður Steingerður."
Hún segir: "Víst er hann vasklegur maður."
Steingerður kembdi sér.
Kormákur mælti: "Viltu ljá mér kambinn?"
Steingerður rétti til hans. Hún var hærð kvenna best.
Ambáttin mælti: "Þó mundir þú miklu kaupa að kona þín hefði slíkt hár sem Steingerður eða slík augu."
Kormákur kvað vísu:
- Öl-Ságu met eg auga
- annað, beðjar Nönnu
- það er í ljósu líki
- liggr, hundraða þriggja.
- Þann met eg hadd er, hodda,
- hörbeiði-Sif greiðir,
- dýr verðr fægi-Freyja,
- fimm hundraða, snimma.
Ambáttin mælti: "Jafnaðarþokki er með ykkur en þó muntu dýrt meta hana alla."
Kormákur kvað vísu:
- Alls met eg auðar þellu
- Íslands, þá er mér grandar,
- húnalands og handan
- hugstarkr sem Danmarkar.
- Verð er Engla jarðar
- Eir há-Dyrnis geira,
- sól-Gunni met eg svinna
- sunds, og Íra grundar.
Tósti kom þar og bað Kormák gá nokkurs.
Kormákur kvað vísu:
- Léttfæran skaltu láta,
- ljóstu vendi mar, Tósti,
- móðr um miklar heiðar
- minn hest und þér rinna.
- Makara er mér að mæla
- en mórauða sauði
- um afréttu elta
- orð mart við Steingerði.
Tósti kvað honum það mundu þykja skemmtilegra. Fer hann en Kormákur situr að tafli og skemmtir sér. Steingerður kvað honum betur orð liggja en frá var sagt. Sat hann þar um daginn.
Þá kvað hann vísu:
- Saurfirrðum kom svarðar
- sefþeys að mér Freyja,
- grepps reiðu man eg góða,
- geirteins skarar beina.
- Þó vorum vér þeiri
- þöll hyltinga vallar,
- minnumst Eir að unna
- unnfúrs, meðalkunnir.
Tósti kemur af fjalli og fara þeir heim.
Eftir þetta venur Kormákur göngur sínar í Gnúpsdal að hitta Steingerði og bað móður sína gera sér góð klæði að Steingerði mætti sem best á hann lítast. Dalla kvað mannamun mikinn og þó eigi víst að til yndis yrði ef þetta vissi Þorkell í Tungu.
4. kafliÞorkell spyr nú brátt hvað um er að vera og þykir sér horfa til óvirðingar og dóttur sinni ef Kormákur vill þetta eigi meir festa, sendir eftir Steingerði og fer hún heim.
Narfi hét maður. Hann var með Þorkeli. Hann var hávaðamaður og skapheimskur, hælinn og þó lítilmenni.
Narfi mælti til Þorkels: "Ef þér eru óskapþekkar komur Kormáks hingað þá má eg þar skjótt að gera."
Því játti Þorkell.
Um haustið annaðist Narfi um slátrastarf.
Það var eitt sinn er Kormákur kom í Tungu. Sá hann Steingerði í soðhúsi. Narfi stóð við ketil og er lokið var að sjóða vó Narfi upp mörbjúga og brá fyrir nasar Kormáki og kvað þetta:
- Hversu þykja ketils þér,
- Kormákr, ormar?
Hann segir:
- Góðr þykir soðinn mör
- syni Ögmundar.
Og um kveldið er Kormákur bjóst heim sá hann Narfa og minntist hann hæðiyrða.
Kormákur mælti: "Það hygg eg Narfi að það mun fyrr fram koma að eg mun ljósta þig en þú munir ráða ferðum mínum."
Og laust Kormákur hann exarhamarshögg og kvað:
- Hvað skaltu, orfa Áli,
- ófróðr of mat ræða?
- Þér var kerski þeirar
- þörf eng við mig Narfi.
Og enn kvað hann:
- Spurði frenju fæðir
- fréttinn hve mér þætti,
- hann sýnist mér heima
- hvarmrauðr, ketilormar.
- Veit eg að hrímugr hlúki,
- hrókr saurugra flóka,
- sá er túnvöllu taddi,
- tíkr erindi hafði.
5. kafliÞórveig hét kona. Hún var mjög fjölkunnig. Hún bjó á Steinsstöðum í Miðfirði. Hún átti tvo sonu. Hét hinn eldri Oddur en hinn yngri Guðmundur. Þeir voru hávaðamenn miklir.
Oddur venur komur sínar í Tungu til Þorkels og situr á tali við Steingerði. Þorkell gerir sér dátt við þá bræður og eggjar þá að sitja fyrir Kormáki. Oddur kvað sér það ekki ofurefli.
Það var einhvern dag er Kormákur kom í Tungu. Var Steingerður í stofu og sat á palli. Þórveigarsynir sátu í stofunni og voru búnir að veita Kormáki tilræði er hann gengi inn. En Þorkell hafði sett öðrumegin dyra sverð brugðið en öðrumegin setti Narfi ljá í langorfi. En þá er Kormákur kom að skáladyrum skaraði ofan ljáinn og mætti hann sverðinu og brotnaði í mikið skarð. Þá kom Þorkell að og kvað Kormák mart illt gera og var málóði, snýr inn skyndilega og kveður Steingerði af stofunni. Ganga þau út um aðrar dyr og lýkur hann hana í einu útibúri, kvað þau Kormák aldrei sjást skulu. Kormákur gengur inn og bar hann skjótara að en þá varði og varð þeim bilt.
Kormákur litast um og sér eigi Steingerði en sér þá bræður er þeir struku vopn sín, snýr í brott skyndilega og kvað vísu:
- Hneit við Hrungnis fóta
- hallvitjöndum stalli,
- inn var eg Ilmi að finna,
- engisax, of genginn.
- Vita skal hitt ef hann hætir
- handviðris mér grandi
- né Yggs fyr lið leggjum
- lítis meira vítis.
Kormákur finnur eigi Steingerði og kvað vísu:
- Braut hvarf úr sal sæta,
- sunds erum hugr á Gunni,
- hvað merkir nú, herkis,
- höll þverlegar alla?
- Renndi eg allt hið innra,
- eirar geirs, að þeiri,
- Hlín, erum Hörn að finna,
- hús brágeislum, fúsir.
Eftir það gekk Kormákur að húsi er Steingerður var í og braut upp húsið og talaði við Steingerði.
Hún mælti: "Þú breytir óvarlega, sækir til tals við mig því að Þórveigarsynir eru ætlaðir til höfuðs þér."
Þá kvað Kormákur:
- Sitja sverð og hvetja
- sín andskotar mínir,
- eins karls synir, inni,
- erut þeir banar mínir.
- En á víðum velli
- vega tveir að mér einum,
- þá er sem ær að úlfi
- óræknum fjör sæki.
Þar sat Kormákur um daginn.
Nú sér Þorkell að þetta ráð er farið er hann hafði stofnað. Nú biður hann Þórveigarsonu að sitja fyrir Kormáki í dal einum fyrir utan garð sinn.
Þá mælti Þorkell: "Narfi skal fara með ykkur en eg mun vera heima og veita yður lið ef þér þurfið."
Um kveldið fer Kormákur í brott og þegar er hann kemur að dalnum sá hann menn þrjá og kvað vísu:
- Sitja menn og meina
- mér eina Gná steina.
- Þeir hafa víl að vinna
- er mér varða Gná borða.
- Því meira skal eg þeiri,
- er þeir ala meira
- öfund um órar göngur,
- unna sölva Gunni.
Þá hljópu Þórveigarsynir upp og sóttu að Kormáki lengi. Narfi skrjáði um hið ytra. Þorkell sér heiman að þeim sækist seint og tekur vopn sín. Í því bili kom Steingerður út og sér ætlan föður síns. Tekur hún hann höndum og kemst hann ekki til liðs með þeim bræðrum. Lauk svo því máli að Oddur féll en Guðmundur varð óvígur og dó þó síðan. Eftir þetta fór Kormákur heim en Þorkell sér fyrir þeim bræðrum.
Litlu síðar fer Kormákur að finna Þórveigu og kveðst ekki vilja byggð hennar þar í firðinum: "Skaltu flytja þig í brott að ákveðinni stundu en eg vil allra bóta varna um sonu þína."
Þórveig mælti: "Það er líkast að því komir þú á leið að eg verði héraðflótta en synir mínir óbættir en því skal eg þér launa að þú skalt Steingerðar aldrei njóta."
Kormákur segir: "Því muntu ekki ráða, hin vonda kerling."
6. kafliSíðan fer Kormákur að finna Steingerði jafnt sem áður.
Og eitt sinn er þau tala um þessa atburði lætur hún ekki illa yfir.
Kormákur kvað vísu:
- Sitja menn og meina
- mér ásjónu þína.
- Þeir hafa lögðis Loddu
- linna fætr að vinna.
- Því að upp skulu allar,
- ölstafns, áðr eg þér hafna,
- lýsigrund, í landi,
- linns, þjóðáar rinna.
"Mæl þú eigi svo mikið um," segir Steingerður, "mart má því bregða."
Þá kvað Kormákur:
- Hvern mundir þú Hrundar
- Hlín skapfrömuð línu,
- líknsýnir mér lúka
- ljós, þér að ver kjósa?
Steingerður segir:
- Bróðr, mundi eg blindum,
- bauglestir, mig festa,
- yrðu goð sem gerðist
- góð mér og sköp, Fróða.
Kormákur segir: "Nú kaustu sem vera ætti. Oft hefi eg hingað mínar komur lagðar."
Nú biður Steingerður Kormák stunda til föður hennar og fá hennar og fyrir sakir Steingerðar gaf Kormákur Þorkeli góðar gjafir. Eftir þetta eiga margir menn hlut í og þar kom um síðir að Kormákur bað Steingerðar og var hún honum föstnuð og ákveðin brullaupsstefna og stendur nú kyrrt um hríð. Nú fara orð á milli þeirra og verða í nokkurar greinir um fjárfar og svo veik við breytilega að síðan þessum ráðum var ráðið fannst Kormáki fátt um. En það var fyrir þá sök að Þórveig seiddi til að þau skyldu eigi njótast mega.
Þorkell í Tungu átti son roskinn er Þorkell hét og var kallaður tanngnjóstur. Hann hafði verið utan um stund. Þetta sumar kom hann út og var með föður sínum.
Kormákur sækir eigi brullaupið eftir því sem ákveðið var og leið fram stundin. Þetta þykir frændum Steingerðar óvirðing er hann bregður þessum ráðahag og leita sér ráðs.
7. kafliBersi hét maður er bjó í Saurbæ, auðigur maður og góður drengur, mikill fyrir sér, vígamaður og hólmgöngumaður. Hann hafði átt Finnu hina fögru og var þá önduð. Ásmundur hét son þeirra. Hann var ungur að aldri og bráðger. En Helga hét systir Bersa. Hún var ógefin, vel að sér og skörungur mikill. Hún var fyrir búi Bersa eftir andlát Finnu.
Á þeim bæ er í Múla heitir bjó Þórður Arndísarson. Hann átti Þórdísi, systur Barkar hins digra. Þau áttu tvo sonu. Voru þeir báðir yngri en Ásmundur Bersason.
Maður hét Vali. Bær hans hét á Valastöðum. Sá bær stendur skammt frá Hrútafirði.
Þórveig hin fjölkunniga fór að finna Hólm-Bersa og sagði honum sín vandræði, kvað Kormák banna sér byggð í Miðfirði. Bersi keypti henni land fyrir norðan Hrútafjörð og bjó hún þar lengi síðan.
Eitt sinn er Þorkell í Tungu og son hans ræða um brigðmæli Kormáks þótti þeim það hefnda vert.
Narfi mælti: "Eg sé ráðið það er duga mun. Förum vestur í sveitir með varning. Komum í Saurbæ til Bersa. Hann er kvonlaus. Bindum hann í málið. Hann er oss ærið traust."
Þetta ráð taka þeir, fara uns þeir koma í Saurbæ. Tók Bersi vel við þeim. Um kveldið verður þeim tíðrætt um kvenkosti.
Narfi mælti, segir engan jafngóðan kvenkost sem Steingerði: "Er það margra manna mál Bersi að hún sæmdi þér."
Bersi mælti: "Spyrst mér til sem þverbrestur muni á vera þó að kosturinn sé góður."
Narfi mælti: "Ef menn hræðast Kormák þurfa þeir þess eigi því að vandlega er hann horfinn þessu máli."
Og er Bersi heyrði þetta vekur hann málið við Þorkel og biður Steingerðar. Þorkell svarar vel og fastnar Bersa systur sína. Skulu þeir norður átján saman og sækja brullaupið. Þórður Arndísarson fór með Bersa norður.
Maður hét Vígi, mikill maður og sterkur og fjölkunnigur. Hann var frændi Bersa. Hann fór með honum. Þótti þeim sér mikið traust að Víga. Vígi átti bú í Hólmi. Mjög voru menn valdir til þeirrar ferðar. Og er þeir komu norður til Þorkels var þegar snúið að boði svo að þar fór engi frétt af um héraðið um þetta mál. Þetta var mjög gert í móti vilja Steingerðar. Vígi hinn hamrammi skynjaði hvers manns hagi þess er kom á bæinn eða á brott færi. Hann sat ystur í stofu og hvíldi við skáladyr.
Steingerður lét kalla Narfa til sín og er þau finnast þá mælti Steingerður: "Það vildi eg frændi að þú segðir Kormáki þessa ráðagerð er hér er stofnuð. Vildi eg að þú kæmir þessu erindi til hans."
Narfi fer nú leynilega. En þá er hann er skammt á leið kominn þá kemur Vígi eftir honum, bað hann heim dragast og sitja á engum svikræðum. Fara nú báðir saman og líður af nóttin. Um morguninn leitaði Narfi til og komst þá skemmra en um kveldið því að Vígi sætti honum og rak hann aftur með engri vægð.
Þá er brullaupi var lokið búast þeir á brott. Steingerður hefir með sér gull og gripi, ríða síðan til Hrútafjarðar og heldur hóglega.
Narfi fer þegar þau eru í brottu og kom á Mel. Kormákur hlóð vegg og barði með hnyðju. Narfi reið við skjöld og lét gildlega og hvaðanæva augun á sem á hrakdýri. Nokkurir menn voru uppi á vegginum með Kormáki er Narfi kom. Hestur opaði undir Narfa. Narfi var gyrður sverði.
Kormákur mælti: "Hvað er tíðinda Narfi eða hvað var manna með yður í nótt?"
Narfi segir: "Smá eru tíðindi en gesti áttum vér ærna."
Kormákur mælti: "Hverjir voru gestir?"
Narfi segir: "Þar var Hólm-Bersi með átjánda mann og sat að brullaupi sínu."
Kormákur spyr: "Hver var brúðurin?"
"Bersi fékk Steingerðar Þorkelsdóttur," segir Narfi. "Sendi hún mig hingað þá er þau voru í brottu að segja þér tíðindin."
Kormákur mælti: "Jafnan muntu illt segja."
Kormákur hleypur að Narfa og lýstur á skjöldinn og er að honum ber skjöldinn skeinist hann á bringunni og féll af baki en hesturinn hljóp í brott með skjöldinn. Þorgils bróðir Kormáks kvað þetta ofgert. Kormákur kvað nær hófi. Narfi réttir við úr rotinu og talast þeir við.
Þorgils spyr: "Hver var manna skipun að boðinu?"
Narfi segir þá.
"Hvort vissi Steingerður þetta fyrir?"
Narfi segir: "Eigi fyrr en hinn sama aftan þá er til boðs var komið."
Narfi segir frá skiptum þeirra Víga og kveður Kormáki munu þykja auðveldara að blístra í spor Steingerðar og gera farar sínar hraklegar en berjast við Bersa.
Þá kvað Kormákur vísu:
- Kostaðu hins að hesti
- haldir fast og skjaldi.
- Koma mun ór við eyra
- yðr bráðlega hnyðja.
- Segðu aldregi síðan
- þóttú sjö um dag fregnir,
- kemba skaltu of kúlu,
- kumlabrjótr frá sumbli.
Þorgils spyr um máldaga með þeim Bersa og Steingerði. Narfi segir að nú eru frændur Steingerðar lausir úr öllum vanda um þetta ráð hversu sem gefst en þeir feðgar skyldu ábyrgjast um boðið.
8. kafliKormákur tók hest sinn og vopn og söðulreiði.
Þorgils spyr: "Hvað skaltu nú bróðir?"
Kormákur kvað vísu:
- Brott hefir Bersi setta,
- beiðis hann á reiði
- valkjósanda að vísu
- víns, heitkonu mína
- þá er unni mér manna,
- misst hefi eg fljóðs og hins tvista,
- þá kyssti eg mey, miklu
- mest, daglengis flestan.
Þorgils mælti: "Óvarleg för er þetta því að Bersi mun kominn til heimilis áður þér finnist en fara mun eg með þér."
Kormákur kvaðst fara skyldu og bíða engis manns, stígur þegar á hest sinn og hleypti allt það er hann fékk. Þorgils fær sér brátt manna. Urðu þeir saman átján. Þeir koma eftir Kormáki á Hrútafjarðarhálsi og hafði Kormákur þá sprengdan hest sinn, snúa fram að bæ Þórveigar. Þeir sjá þá að Bersi er kominn á skip Þórveigar.
Þórveig mælti til Bersa: "Eg vil að þú þiggir af mér litla gjöf en hollusta fylgir."
Það var targa járnrend.
Kvaðst Þórveig það ætla að Bersi mundi lítt sár verða ef hann bæri þessa hlíf: "Er þetta þó lítils vert hjá því er þú komst mér í þessa staðfestu."
Bersi þakkar henni gjöfina og skiljast þau síðan. Þórveig fær menn til að meiða öll skip þau er á landi voru því að hún vissi fyrir komu þeirra Kormáks. Eftir það koma þeir Kormákur og beiða Þórveigu skips.
Hún kvaðst þeim engi greiðskap gera mundu kauplaust: "Hér er vont skip í nausti er eg met hálfri mörk á leigu."
Þorgils kvað hóf á ef væri fyrir tvo aura. Kormákur kvað ekki mega standa að um slíkt. Þorgils kveðst fúsari að ríða fyrir innan fjörð. Kormákur réð og fóru á skipinu. En er þeir voru skammt frá landi komnir fyllti skipið undir þeim og komust við nauð til sama lands.
"Vítis ertu verð en eigi kaups hin illa kerling," segir Kormákur.
Þórveig kvað þetta lítinn prett. Eftir það greiðir Þorgils henni silfrið.
Kormákur kvað vísu:
- Að em eg Yggjar götva
- Ullr að Svölnis fulli
- of reiði-Sif rjóða
- runns sem vífl að brunni.
- Dýrt verðr döggvar kerti
- Draupnis mart að kaupa.
- Þremr aurum skal þetta
- Þórveigar skip leigja.
Bersi fær sér skjótt fararskjóta, ríður heimleiðis.
Kormákur sér að í sundur mun bera með þeim Bersa og kvað vísu:
- Svo kveð eg snyrti-Freyju,
- snimr trúði eg brúði,
- gamdis vangs of gengna
- greipar báls úr skálum
- að vegskorðan verði
- varrskíðs nemit síðan,
- söddum hölds á holdi
- hrafna, mér að tafni.
Þeir tóku hesta sína og riðu fyrir innan fjörð og komu til Vala og spurðu að Bersa.
Vali sagði að Bersi var kominn í Múla og hefir safnað að sér mönnum, "eru þeir fjölmennir."
"Þess til seinir erum vér orðnir," segir Kormákur, "er þeir hafa mönnum að sér komið."
Þorgils beiddi Kormák að þeir mundu aftur snúa, taldi litla virðing í mundu verða. Kormákur kveðst sjá vilja Steingerði. Vali fór með þeim og komu í Múla. Var þar Bersi fyrir með fjölmenni. Þeir talast við.
Telur Kormákur Bersa hafa svikið sig í brotttöku Steingerðar: "Viljum vér nú konu með oss hafa og bætur fyrir svívirðing."
Þá segir Þórður Arndísarson: "Sátt viljum vér bjóða Kormáki en Bersi á vald konunnar."
Bersi mælti: "Engi von er þess að Steingerður fari með yður en systur mína býð eg Kormáki til eiginorðs. Tel eg hann sé þá vel kvæntur ef hann fær Helgu."
Þorgils mælti: "Þetta er vel boðið og lítum hér á bróðir."
Kormáki varð staður að.
9. kafliKona hét Þórdís og illa lynd. Hún bjó að Spákonufelli á Skagaströnd. Hún vissi fyrir um ferðir Kormáks.
Hún kom þann dag í Múla og svarar þessu máli fyrir Kormák og segir svo: "Bjóðið honum ekki falskonu því að þessi kona er fífl og engum duganda manni við sæmanda og hans móður mun eigi að getast hans forlögum svo illum."
Þórður segir: "Dragstu í brott hin vonda fordæða," lét það sannast mundu að Helga mun skörungur reynast.
Kormákur segir: "Því mun mælt að satt mun vera. Mun eg ekki á þetta líta."
Þorgils segir: "Gæfufátt mun oss verða, hlýða orðum fjanda þessa en þiggja eigi þetta boð."
Þá mælti Kormákur: "Eg býð þér Bersi hólmgöngu á hálfs mánaðar fresti í Leiðhólmi í Miðdölum."
Þar er nú kallaður Orustuhólmur.
Bersi kveðst koma munu, kallar Kormák það kjósa er minni sæmd fylgdi.
Eftir þetta fer Kormákur að leita Steingerðar um bæinn og finnur hana, telur hana hafa brugðist sér er hún vildi öðrum manni giftast.
Steingerður segir: "Þú ollir fyrr afbrigðum Kormákur en þetta var þó ekki að mínu ráði gert."
Þá kvað Kormákur vísu:
- Þú telr, ljós, of logna,
- lín-Gefn, við þig stefnu
- en eg gerði mjög móðan
- minn fák of sök þína.
- Heldr eg hálfu vildi
- hring-Eir, að mar spryngi,
- sparði eg jó þann er áttum
- alllítt, en þig gefna.
Eftir þetta fara þeir Kormákur heimleiðis. Segir Kormákur móður sinni hversu farið hefir.
Dalla segir: "Lítt verður oss gæfu auðið um þín forlög því að þar hefir þú neitt hinum besta kosti en mjög óvænt að berjast við Bersa. Hann er garpur mikill og hefir góð vopn."
Bersi átti það sverð er Hvítingur hét, biturt sverð, og fylgdi lyfsteinn og hafði hann það sverð borið í mörgum mannhættum.
Dalla mælti: "Hvert muntu vopn hafa í móti Hvítingi?"
Kormákur kveðst munu hafa exi mikla og biturlega. Dalla telur ráðlegt að finna Miðfjarðar-Skeggja og biðja Sköfnungs.
Eftir þetta fer Kormákur til Reykja og segir Skeggja málavöxt, biður hann ljá sér Sköfnung.
Skeggi kveðst þess ófús, kvað þá óskaplíka: "Sköfnungur er tómlátur en þú ert óðlátur og óðlundaður."
Kormákur reið í brott og líkaði illa, kemur heim á Mel og segir móður sinni að Skeggi vill eigi ljá sverðið. Skeggi veitti Döllu umsjá í sínum tillögum og var vingott með þeim.
Dalla mælti: "Ljá mun hann sverðið þó er hann láti eigi fljótt til."
Kormákur kvað eigi að högum til skipta "ef hann sparar eigi við þig sverðið en hann sparar við oss."
Dalla kvað hann forsmann vera.
Nokkurum dögum síðar bað Dalla Kormák fara til Reykja: "Mun nú Skeggi ljá sverðið."
Kormákur hittir Skeggja og biður Sköfnungs.
"Vandhæfi mun þér á þykja meðferðinni," segir Skeggi. "Pungur fylgir og skaltu hann kyrran láta. Eigi skal sól skína á hið efra hjaltið. Eigi skaltu og bera það nema þú búist til vígs. En ef þú kemur á vettfang sit einn saman og bregð þar, rétt fram brandinn og blás á. Þá mun skríða yrmlingur undan hjaltinu. Halla sverðinu og ger honum hægt að skríða undir hjaltið."
Kormákur mælti: "Mart hafið þér við töframennirnir."
Skeggi mælti: "Þetta mun þó fyrir fullt koma."
Eftir þetta ríður Kormákur heim og segir móður sinni hversu farið hefir, telur mikið mega vilja hennar við Skeggja, sýnir henni sverðið og vill bregða sverðinu. Það gengur eigi úr slíðrunum.
Dalla mælti: "Of óráðþægur ertu frændi."
Kormákur setur þá fæturna við hjöltin og slítur af punginn. Sköfnungur grenjar þá við og gengur eigi úr slíðrunum.
Líður nú fram að stefnunni. Ríður Kormákur heiman með fimmtán menn. Slíkt hið sama ríður Bersi til hólms við jafnmarga menn. Kormákur kemur fyrri. Segir Kormákur Þorgilsi að hann vill einn saman sitja. Kormákur sest niður og tekur af sér sverðið, hirti eigi þó að sól skini á hjalt honum en hann hafði gyrt sig utan um klæði og vill bregða og fekk eigi fyrr en hann sté á hjaltið og kom yrmlingurinn og var ekki með farið sem skyldi og var brugðið heillinu sverðsins en það gekk grenjanda úr slíðrum.
10. kafliEftir það fór Kormákur á fund manna sinna. Voru þeir Bersi þá komnir og mart annarra manna að sjá þenna fund. Kormákur tók upp törguna Bersa og laust á og rauk úr eldur.
Nú er tekinn feldur og breiddur undir fætur þeim.
Bersi mælti: "Þú Kormákur skoraðir á mig til hólmgöngu en þar í mót býð eg þér einvígi. Þú ert maður ungur og lítt reyndur en á hólmgöngu er vandhæfi en alls ekki á einvígi."
"Ekki muntu betur berjast einvígi. Vil eg til þessa hætta og í öllu til jafns halda við þig."
"Þú ræður nú," segir Bersi.
Það voru hólmgöngulög að feldur skal vera fimm alna í skaut og lykkjur í hornum. Skyldi þar setja niður hæla þá er höfuð var á öðrum enda. Það hétu tjösnur. Sá er um bjó skyldi ganga að tjösnunum svo að sæi himin milli fóta sér og héldi í eyrasnepla með þeim formála sem síðan er eftir hafður í blóti því að kallað er tjösnublót. Þrír reitar skulu umhverfis feldinn, fets breiðir. Út frá reitum skulu vera strengir fjórir og heita það höslur. Það er völlur haslaður er svo er gert. Maður skal hafa þrjá skjöldu en er þeir eru farnir þá skal ganga á feld þó að áður hafi af hörfað. Þá skal hlífast með vopnum þaðan frá. Sá skal höggva er á er skorað. Ef annar verður sár svo að blóð komi á feld er eigi skylt að berjast lengur. Ef maður stígur öðrum fæti út um höslur fer hann á hæl en rennur ef báðum stígur. Sinn maður skal halda skildi fyrir hvorum þeim er berst. Sá skal gjalda hólmlausn er meir verður sár, þrjár merkur silfurs í hólmlausn.
Þorgils hélt skildi fyrir bróður sínum en Þórður Arndísarson fyrir Bersa. Bersi hjó fyrri og klauf skjöld Kormáks. Hann hjó til Bersa með slíkum hætti. Hjó hvor þrjá skjöldu fyrir öðrum til ónýts. Þá átti Kormákur að höggva. Síðan hjó hann til Bersa. Hann brá við Hvítingi. Tók Sköfnungur af oddinn af Hvítingi fyrir framan véttrimina og hraut sverðsoddurinn á hönd Kormáki og skeindist hann á þumalfingri og klofnaði köggullinn og kom blóð á feldinn. Eftir það gengu menn á milli þeirra og vildu eigi að þeir berðust lengur.
Þá mælti Kormákur: "Þetta er lítill sigur er Bersi hefir fengið af slysi mínu þótt við skiljumst."
En þá er Sköfnungur reið ofan kom á törguna og brotnaði skarð í Sköfnung en eldur hraut úr törgunni Þórveigarnaut.
Bersi heimti hólmlausn. Kormákur kvað honum goldið mundu verða fé og skildust við þá kosti.
11. kafliSteinar hét maður. Hann var son Önundar sjóna, bróðir Döllu móður Kormáks. Hann bjó á Elliða og var óeirumaður.
Þangað reið Kormákur frá hólminum að finna Steinar frænda sinn. Kormákur segir frá ferðum sínum. Steinar lét illa yfir.
Kormákur kvaðst ætla af landi í brott "en eg ætla þér fégjaldið við Bersa."
Steinar segir: "Engi ertu ofurhugi en gjaldast mun fé ef þarf."
Kormákur er þar nokkurar nætur. Blés mjög höndina er með engum var umböndum.
Eftir þenna fund fór Hólmgöngu-Bersi að finna bræður sína og þeir spyrja Bersa hve tekist hafði hólmgangan. Hann segir sem farið hefir. Þeir kváðu þá tvo ofurhuga höggið hafa í smærra lagi, kváðu Bersa af slysi Kormáks sigrast hafa. Bersi hittir Steingerði. Hún spurði hversu farið hafði.
Hann kvað vísu:
- Mér varð hjálms á hólmi
- hald-Ullr fyr sig gjalda,
- þoll má þann of kalla,
- þrjár merkr, hugum sterkan.
- Skora mun Sköglar dýra
- skjaldveðrs reginn aldrei,
- vér bárum hlut hæra
- hríðfimr á mig síðan.
Steinar og Kormákur riðu brott frá Elliða. Þeir ríða til Saurbæjar. Þeir sjá mannareið í móti sér. Fer þar Bersi. Hann kveður Kormák og spyr hversu sárið hafist. Kormákur kvað eigi stórra bóta ávant.
Bersi mælti: "Viltu að eg græði þig þó að af mér hafi til hlotist? Og mun þér þá skammt mein að verða."
Kormákur neitti því og kvaðst jafnan illt vildu eiga við hann.
Þá kvað Bersi vísu:
- Muna muntu hjaldr þann er Hildar
- háraddar mig kvaddir.
- Geng eg að geira þingi
- glaðr, em eg reyndr að öðru.
- Randlauki klauf eg, randa,
- rönd Kormáki að höndum
- vildi eigi fram af feldi
- Freyr einvígi heyja.
Skildu þeir að því.
Eftir þetta fer Kormákur heim á Mel og finnur móður sína. Hún græðir hönd hans, verður ljótt og grær um ólíkan. Skarð það er í var Sköfnungi hvöttu þeir. Var það því meira sem það var oftar hvatt.
Síðan fór hann til Reykja og kastaði Sköfnungi fyrir fætur Skeggja og kvað vísu:
- Að hefi eg yðr að færa
- eggfallinn hjör, Skeggi.
- Beit eigi vopn, að vísu
- varð þeira hlutr meiri.
- Varat um gang þann er gengum
- geirþey of mey heyja,
- söngvarðaða sverða
- sennu, mér að kenna.
Skeggi mælti: "Fór sem mig varði."
Kormákur snýr í brott og kemur heim á Mel.
Kormákur kvað vísu:
- Hefi eg á hólm of gengið,
- hugðumk það fyrir betra,
- við híðbyggvi holta
- handarskers að berjast.
- Brast fyr mér hinn mæri
- mundar vöndr í hendi.
- Misst hefir margra kosta
- morðeggjandi seggja.
Og þá er þau fundust, Dalla og Kormákur, kvað hann vísu:
- Færðit mér að morði
- morðvönd, fetils storðar
- staðr er í strandar naðri,
- starreggjaðan Skeggi.
- Gerði holt fyr hjalti
- Hvíting í tvö bíta,
- brotið hefi eg skarð í skerðum,
- Sköfnungr, fetils þrafna.
Og enn kvað hann:
- Gerði og minn að morði
- morðvöndr, er eg hjó randir,
- greipar rann að gunni,
- grannfengr, íugtanni.
- Illa lét, þá er Áta
- ófús várar húsa
- sónar fress úr sínu
- slíðrbyðu gekk híði.
Og enn kvað hann:
- Göngu var eg of genginn
- Gefn, til vissar stefnu,
- nú em eg hörþellu hylli
- hornungr, tváa morgna.
- Gætumk hins, að heima,
- hörfit, munak sitja
- mér er um erma Ilmi
- iðjusamt, hinn þriðja.
Eftir þetta fer Kormákur til Reykja einn dag og talast þeir Skeggi við. Kallar Skeggi lítilmannlega orðna hólmgönguna.
Þá kvað Kormákur vísu:
- Firnattu mig þótt fjörnis
- Freyr væri eg þér dreyra,
- mærð ber eg fyr þig mína,
- mæri seinn að færa.
- Því að und heiðis hlíðir
- hreggmiðjunga, Skeggi,
- verið hefr í þrym þremja
- þinn hjör, sköp of vinna.
Og enn kvað hann:
- Fram þóttumk eg flotta
- Freyr, mínum gram dreyra,
- Gauts að gatna móti,
- galdrs, blóðfrekum halda
- né glymranar gína
- gátt hliðs init máttit
- minn leikr hugr á henni,
- hlunnjós við banmunni.
12. kafliUm veturinn voru leikar í Saurbæ og voru þar hvorirtveggju Ásmundur Bersason og þeir synir Þórðar Arndísarsonar. Þeir voru yngri og óknárri. Ásmundur stillti illa afli sínu. Komu synir Þórðar oft bláir og blóðgir heim. Þetta líkar Þórdísi móður þeirra illa, biður Þórð vekja til við Bersa föður Ásmundar að hann vilji bæta fyrir hann. Þórður kvaðst þess ófús.
Hún segir þá: "Börk mun eg þá finna bróður minn og mun þá eigi minna illt af hljótast."
Þórður bað hana það eigi gera: "Vil eg heldur um tala við Bersa."
Og fyrir bæn hennar hittir hann Bersa og vekur til um bætur.
Bersi mælti: "Of fégjarn ertu nú og horfir það lítt til sæmdar að fara með slíkt. Er eigi ráðið hvort þú verður öreigi ef mig þrotar eigi."
Fer Þórður heim og er fátt með þeim um veturinn.
Líður á vorið fram til Þórsnessþings. Þykist Bersi nú skilja að Þórdís hefir valdið því ákalli er Þórður veitti honum. Búast menn nú til þings. Var það vandi Þórðar og Bersa að ríða báðir saman til þings. Bersi ríður heiman og kemur í Múla. Þórður var í brottu.
Bersi mælti: "Brugðið hefir Þórður nú vanda er hann beið mín eigi."
Þá svarar Þórdís: "Þú ollir afbrigðum en þetta er lítil hefnd ef eigi kemur meiri."
Þau urðu andorða og segir Bersi að af hennar ráðum mun illt hljótast. Ríða þeir í brott.
Bersi mælti: "Snúum fram að firðinum og fáum oss skip. Langt er að ríða hið innra."
Þar fengu þeir skip er Þórður átti, fara nú leiðar sinnar, koma til þings þá er flestir voru áður komnir, ganga til búðar Ólafs pá úr Hjarðarholti. Bersi var hans þingmaður. Fjölmennt var í búðinni og fékkst Bersa ekki rúm. Hann var vanur að sitja hjá Þórði. Það rúm var skipað. Þar sat maður mikill og sterklegur í bjarnskinnsúlpu og gríma fyrir andliti. Bersi stóð fyrir honum og gafst eigi rúmið. Bersi spyr þenna mann að nafni. Honum er sagt að hann heitir ýmist Glúmur eða Skúma.
Bersi kvað vísu:
- Hver er án, bjarnar barði,
- á bekk kominn rekka,
- úlf hafa órir niðjar,
- ægilegr, und bægi?
- Glíkan hefr of gervan,
- Glúmr er nefndr eða Skúma
- förum til móts á morgni,
- mann Steinari þenna.
"Og er þér ekki að leyna nafni þínu bjarnúlpumaður," segir Bersi.
"Svo er og," segir hann Steinar, "og á eg fé að gjalda þér fyrir Kormák ef þarf en fyrri skora eg þér á hólm. Kann vera að þú fáir þá tvennar merkur eða látir ella báðar."
Þá kvað Bersi:
- Boðið er brodda hríðar
- beiðendr við styr kenndir,
- þykkir oss það ekki
- angr, á hólm að ganga.
- Gamall er eg, geira vimrar,
- gunnþeysandi að leysa,
- uggi eg hvergi að hyggja
- Hlakkar, veðr, um blakka.
"En auðsætt er það að þér frændur ætlið mér að fyrirkoma. Er og vel að þú vitir hvort nokkuð er undir mínum þokka og mætti setjast ofmetnaður þinn."
Steinar segir: "Ekki vinnum vér þér bana en vel þætti oss að þú kynnir að meta þig."
Bersi játar hólmgöngunni og gengur í afbúð og var þar.
Einn dag var kallað að menn skyldu á sund.
Steinar mælti við Bersa: "Viltu reyna sund við mig Bersi?"
Hann segir: "Niður hefi eg lagt sund en til mun eg fara."
Bersi fer örðigur og leggst hart. Hann hafði lyfstein á hálsi. Steinar leggst að honum og slítur af honum steininn með punginum og kastar á sundið og kvað vísu:
- Lifði eg lengi.
- Lét eg ráða goð.
- Hafði eg aldrei
- hosu mosrauða.
- Batt eg aldrei mér
- belg að hálsi
- urtafullan.
- Þó eg enn lifi.
Eftir þetta leggjast þeir til lands. Það bragð er Steinar hafði við Bersa var af ráðum Þórðar að Bersa skyldi verr ganga hólmgangan. Þórður gekk hjá firðinum er fjaraði og fann lyfsteininn og hirti.
Steinar átti sverð það er Skrýmir hét. Það var aldrei saurugt. Fylgdu því og engi vandhæfi.
Þann dag er ákveðið var gengu út úr búð Þórður og Steinar. Kom Kormákur þá á þingið. Ólafur pái fær Bersa lið til hólms. Var Þórður Arndísarson vanur að halda skildi fyrir Bersa en nú varð það ekki. Gengur Bersi þó til hólms og er eigi nefndur skjaldsveinn hans. Kormákur skal halda skildi fyrir Steinari. Bersi hafði törguna Þórveigarnaut. Þrjá skjöldu hafði hvor. Þá hjó Bersi tvo skjöldu en Kormákur hélt á hinum þriðja. Bersi hjó til Steinars en Hvíting festi í járnrendingunni á skildi Steinars. Kormákur brá upp skildinum. Í því hjó Steinar til Bersa og kom á skjaldarröndina og hljóp af skildinum og á þjóhnappa Bersa og renndi ofan eftir lærunum í knésbætur svo að sverðið stóð í beini og féll Bersi.
Steinar mælti þá: "Nú er goldið féið fyrir Kormák."
Bersi spratt þá upp og hjó til Steinars og klauf skjöldinn og kom sverðsoddurinn í bringu Steinari. Þórður hljóp að og hratt Steinari undan.
Þórður mælti: "Nú galt eg þér sona meiðing."
Eftir það var Bersi borinn til búðar og bundin sár hans. Þórður fór heim til búða.
En þá er Bersi sá hann kvað hann vísu:
- Fylgduð oss, að Óðins,
- endr, úr þessi hendi,
- Hlakkar Njörðr, á hurðir
- hurðúlfr gininn þurði.
- Nú fer enn svo að ekkja
- Jalks skýja vill týju,
- myrði-Freyr, að morði,
- marglyndr ertu törgu.
Og enn kvað hann:
- Þótti eg þá er æri,
- ársagt er það, várum
- hæfr í Hlakkar drífu
- hyrrunnum vel Gunnar.
- Nú vilja mig mínir,
- minnst dyljum þess, hylja,
- það hefi eg sótt í sléttan
- Saurbæ, fríendr auri.
Þórður mælti: "Eigi þig dauðan en óvirðingar unnum vér þér í þessu sinni."
Þá kvað Bersi vísu:
- Mér hafa frændr að fundi,
- ferst von gleði, þessum,
- ræði eg heldr fyr höldum
- hugað mál of það, brugðist.
- Torugætir eru, teitan
- tók hrafn á ná jafnan,
- ek em við ógnar rekka
- óhryggr, vinir tryggvir.
Eftir þetta var Bersi færður heim í Saurbæ og lá hann lengi í sárum.
Nú er að segja frá Kormáki og Steinari.
Það mund er Bersi var til búðar borinn mælti Steinar við Kormák:
- Fólk-Sýrar lét eg fjóra,
- fráttuð þess, og átta
- skyggs fyr Skrýmis eggju
- skerðendr hliða verða.
- Nú hefr bjóðr forsa Bersa
- Bestlu niðs á lesti
- sárgeitunga sveita
- sanneldingu felldan.
Steinar mælti: "Eg vil að þú eigir nú Skrými Kormákur því að eg ætla mér þessa hólmgöngu síðasta."
Eftir þetta skildust þeir vinir. Fór Steinar heim en Kormákur fór á Mel.
13. kafliNú er að segja frá Bersa. Sár hans greru seint.
Það var eitt sinn að margir menn komu til að rætt var um fundinn hvernig tekist hafði.
Þá kvað Bersi vísu:
- Mér hélt Yggr und eggjar
- allstyrkr góins vallar,
- nauðr hagar nú til fræða,
- naðrs, en hlífðir öðrum.
- Svo fara ráð, en reiðast
- róglinns, sumir minna.
- Nú læt eg þar þrjóti
- Þórröðr vinun óra.
Eftir þetta fór Þórður að rúminu til Bersa og færði honum lyfsteininn. Síðan græddi Þórður Bersa og tókst þá þeirra vinátta og héldu vel síðan.
Við þessa atburði lagði Steingerður leiðindi á við Bersa og vill skilja við hann.
Og er hún er búin til brottfarar gengur hún að Bersa og mælti: "Fyrst varstu kallaður Eyglu-Bersi en þá Hólmgöngu-Bersi en nú máttu að sönnu heita Rassa-Bersi" og segir skilið við hann.
Steingerður fer norður til frænda sinna, hittir Þorkel bróður sinn, biður hann heimta fé sín að Bersa, mund og heimanfylgju, og kveðst eigi vilja eiga Bersa örkumlaðan. Þorkell lastar það ekki og heitir för sinni. Líður veturinn og frestast för Þorkels.
14. kafliEftir um vorið fór Þorkell tanngnjóstur að finna Hólmgöngu-Bersa og heimta fé Steingerðar.
Bersi kvað sinn hlut mundu sýnast þungan þó að hvorirtveggju kenndu nokkurs af "og mun eigi féið greiðast."
Þorkell mælti: "Eg býð þér hólmgöngu í Orustuhólmi við Tjaldanes."
Bersi segir: "Það mun þér nú þykja til lítils, slíkur garpur sem þú ert, en þó heit eg þér að koma."
Þeir komu til hólms og tókst hólmgangan. Hélt Þórður Arndísarson skildi fyrir Bersa en Vali fyrir Þorkeli. Og þá er tveir skildir voru farnir bauð Bersi Þorkeli að taka hinn þriðja. Þorkell vildi það eigi. Bersi hafði skjöld og sverð langt og biturt.
Þorkell mælti: "Það sverð er þú hefir Bersi er lengra en lög liggja til."
"Það skal eigi vera," segir Bersi, tekur upp Hvíting og tvíhendir, höggur Þorkel banahögg.
Þá kvað Bersi:
- Nú hefi eg, en té eg tanna,
- Tanngnjóst vegið manna,
- þau beri menn frá morði
- mín orð, tigar fjorða.
- Komat mun Ullr, þótt elli,
- oftar, mara þoftu,
- litar blóði svan sveita
- setrs, í heim að betra.
Eftir það bauð Vali Bersa hólmgöngu.
En Bersi kvað vísu:
- Boðið hafa brynju hríðar
- beiðendr við styr kenndir,
- oss gerum að því ekki
- angr, á hólm að ganga.
- Gaman þykir nú gumnum
- gunnstæranda að færa,
- uggum hvergi að höggva,
- Hlakkar veðr, á bökkum.
Þórður kom þá er berjast skyldi og mælti til þeirra Bersa og Vala: "Það þykir mönnum mikil vandræði ef hraustir menn skulu drepast niður án nokkurri sök og býðst eg til að gera í milli ykkar."
Þeir játtu því.
Þórður mælti: "Vali, það þykir mér vænlegast til sættar að Bersi fái Þórdísar systur þinnar. Má þér verða að því sæmd."
Því játtar Bersi og skal Þórdísi heiman fylgja Brekkuland og tekst þessi mægð með þeim. Eftir þetta lætur Bersi gera virki um bæ sinn og sat þá marga vetur í kyrrðum.
15. kafliÞórarinn hét maður. Hann var Álfsson. Hann bjó norður í Þambardal. Sá dalur gengur af Bitru. Hann var mikill maður og sterkur og kallaður Þórarinn rammi. Hann hafði lengi verið í förum og svo farsæll að hann kaus sér jafnan höfn þar er hann vildi. Hann átti þrjá sonu. Hét einn Álfur, annar Loftur, þriðji Skofti. Þórarinn var óeirðarmaður mikill. Þar eftir voru synir hans skapfarnir, hinir mestu hávaðamenn.
Maður hét Oddur. Hann bjó í Tungu. Það er í Bitru. Dóttir hans hét Steinvör, væn og vel að sér. Hún var kölluð mjóbeina. Með Oddi voru fiskimenn margir.
Maður hét Glúmur. Hann var til vers, skapillur og leiðindur.
Það var eitt sinn er þeir Oddur og Glúmur ræddu um hverjir menn mestir væru í héraði. Glúmur taldi Þórarin fyrirmann en Oddur kvað Hólmgöngu-Bersa að öllu framar.
Glúmur mælti: "Hvað færir þú til þess?"
Oddur mælti: "Mun nokkuð alllíkt garpskapur Bersa eða stuldir Þórarins?"
Þar til ræða þeir um þetta er þeir reiddust og veðjuðu.
Þá fer Glúmur og segir Þórarni. Hann gerir reiðan mjög og heitast við Odd. Síðan fer Þórarinn og tekur í brott Steinvöru úr Tungu án ráði Odds föður hennar og kveður honum eigi óhætt skyldu ef hann teldi að. Og þau koma heim í Þambardal. Fór nú svo fram um hríð.
Eftir þetta fer Oddur að finna Hólm-Bersa og segir honum sem farið hefir og biður hann liðs að sækja Steinvöru og reka skammar þessar.
Bersi kvað þetta óskylt tal verið hafa og bað Odd heim fara og sér engu af skipta "en þó heit eg þér minni ásjá."
Þegar Oddur er í brottu býst Bersi heiman, ríður við alvæpni og gyrður Hvítingi og hefir þrjú spjót, kemur í Þambardal mjög að áliðnum degi þá er konur gengu úr dyngju. Steinvör sér Bersa og snýr til móts við hann og segir honum til sinna vandræða.
"Búst þú með mér," segir Bersi og hún gerir svo.
Bersi kveðst eigi erindlaust fara vilja í Þambardal, snýr að dyrum er menn sátu við langelda. Lýstur Bersi á dyr og gengur þar út maður. Sá nefndist Þorleifur. Þórarinn kenndi mál Bersa og hleypur út með tálguhníf mikinn og leggur til Bersa. Þetta sér Bersi og bregður Hvítingi og höggur hann þegar banahögg.
Eftir þetta hleypur Bersi á bak og setur Steinvöru í kné sér og tekur spjót sín er Steinvör hafði varðveitt, ríður í skóg nokkurn og í leyni einu lét hann hestinn og Steinvöru og bað hana sín bíða. Síðan gekk hann til klifs þess er þjóðgata lá yfir og býst þar fyrir.
Í Þambardal var eigi allt kyrrt. Þorleifur hleypur og segir sonum Þórarins að hann lá dauður í dyrunum. Þeir spurðu hver því voldi. Þorleifur segir. Síðan fóru þeir eftir Bersa og stefndu hið gegnsta til klifsins og ætluðu að komast fyrir Bersa. En nú er hann fyrir í klifinu. En er þeir komu nær að honum skaut Bersi spjóti til Álfs og í gegnum hann. Þá skaut Loftur til Bersa. Hann brá við törgunni og hraut af. Síðan skaut Bersi Loft til bana og svo Skofta. Þá er þetta var gert komu heimamenn þeirra bræðra. Veik Þorleifur aftur móti þeim og fóru heim allir saman.
16. kafliEftir þetta vitjar Bersi Steinvarar og stígur á hest sinn og kom heim áður menn voru upp staðnir. Þeir spyrja um ferðir Bersa en hann segir. Þórður spyr Bersa er þeir finnast um fund þeirra, hvernig farið hafði.
Þá kvað Bersi vísu:
- Einn beið úlfa grennir
- andrán í dal Þambar.
- Féll fyr fræða spilli
- fram Þórarinn rami.
- Lífspell biðu lýðir.
- Loftr hné, Álfr og Skofti.
- Þeir hlutu feðgar fjórir
- feigð, kom eg einn til þeira.
Eftir þetta fer Oddur heim en Steinvör er með Bersa. Þetta líkar Þórdísi illa. Þá var nokkuð á föru virkið Bersa en nú lét hann bæta virkið. Svo er sagt að engar yrðu bætur eftir menn þessa. Liðu nú fram stundir.
Eitt sinn er þau Þórdís og Bersi töluðust við mælti Bersi: "Það ráð hefi eg hugsað að bjóða Ólafi Höskuldssyni barnfóstur."
Hún segir: "Lítið er mér um það. Líst mér það mikill vandi en ósýnn sæmdarauki."
"Það er og öruggt traust en eg á sökótt en gerist mjög aldri orpinn," segir Bersi.
Fer hann til móts við Ólaf og býður honum barnfóstur. Þetta tekur Ólafur með þökkum og flytur hann Halldór heim með sér og fær Steinvöru til fósturs. Þetta líkar Þórdísi illa og skýtur undan peningunum. Bersi tekur nú mjög að eldast.
Það var enn einn tíma að þingmenn komu til Bersa. Hann sat einn saman og kom fyrr matur hans en annarra manna. Bersi hafði graut en aðrir menn ost og skyr.
Þá kvað Bersi vísu:
- Bengiða hjó eg bráðir
- bláfiðruðum skrara,
- kenndr var eg mjög við manna
- morð, hálfan tug fjorða.
- Tröll hafi líf ef laufa
- lita eg aldregi bitran.
- Beri þá brynju meiðar
- brjót í haug sem skjótast.
Halldór mælti: "Vega ætlar þú mann ennþá fóstri minn."
Bersi segir: "Sé eg manninn maklegan til."
Þórdís leyfði Vala bróður sínum nytjar í Brekkulandi. Bersi lét húskarla sína vinna heima og skipta engu við Vala. Halldóri þótti illa er Bersi réð eigi fé sínu.
Eftir það kvað Bersi vísu:
- Liggjum báðir
- í bekk saman,
- Halldór og ek,
- hvergi færir,
- höfum engi þrek.
- Veldr æska þér
- en elli mér,
- þess batnar þér
- en þeygi mér.
Halldór mælti: "Illa hugnar mér við Vala."
Bersi kvað vísu:
- Veit eg að Vali beitir
- vegstór töður órar.
- Oss vill heldr inn hvassi
- hjálmnjótr troða und fótum.
- Oft hefi eg ýfst þá er heiftir
- undsólar galt eg runnum,
- rauð eg á brynju beiði
- benja linn, of minna.
Og enn kvað hann:
- Kominn er Ullr við elli
- ölna grjóts af fótum.
- Mart verðr gegni-Gautum
- geirfitjar nú sitja.
- Þótt skírviðir skaldi
- skapi aldr í gröf kaldan.
- Fyrr rýð eg hjálms á hólmi
- hríðvönd en eg því kvíði.
Halldór mælti: "Lítt eldist þú enn í huginum fóstri minn."
Þau Steinvör og Bersi talast við.
Bersi mælti til hennar: "Ráð skal setja og þurfum vér þín að."
Hún sagði það skylt slíkt er hún mætti að gera.
"Þú skalt láta þig á skilja við Þórdísi um mjólkurketil og halda á þar til er þið sláið niður. Mun eg þá til koma og mæla allt eftir henni. Síðan skaltu fara til Vala og segja þínar hrakningar."
Þetta fór eftir því sem Bersi setti ráð til og kom hún til Vala og segir sínar eigi sléttar, biður Vala fylgja sér um klifið. Hann gerir svo.
Þá er Vali vill aftur hverfa koma þeir Halldór og Bersi í mót honum. Bersi hafði höggspjót í hendi og staf í annarri en Halldór Hvíting. Þegar Vali sér þá snýr hann í mót þeim og höggur til Bersa. Halldór komst á bak Vala og beitir á hásinar honum Hvítingi. Þá bregður Vali hart við og snýr í mót Halldóri. Þá setti Bersi spjótið milli herðanna. Var það hans banasár. Síðan setja þeir upp skjöld hans að fótum honum en sverð að höfði og breiða á hann vararfeld hans. Og eftir það stíga þeir á bak og ríða um fimm bæi og lýsa víginu á hendur sér og ríða heim síðan. Fara menn og búa um Vala og heitir þar síðan Valafall er hann var drepinn. Halldór var nú tólf vetra gamall er þessi atburður gerðist.
17. kafliÞorvaldur hét maður og var Eysteinsson og var kallaður tinteinn. Hann var maður auðigur og hagur, skáld og engi skörungur í skaplyndi. Bróðir hans hét Þorvarður er bjó norður í Fljótum. Þeir voru frændur margir og var sá kynsþáttur kallaður Skíðingar og hafði litla mannheill.
Þorvaldur tinteinn bað Steingerðar og að frænda ráði var hún honum gefin og ekki með hennar mótmæli. Þetta var samsumars og Steingerður gekk frá Bersa. Þessi tíðindi fréttir Kormákur og lætur sem hann viti eigi. Litlu áður hafði Kormákur flutt varnað sinn til skips og ætlaði utan og báðir þeir bræður.
Einn morgun snemma ríður Kormákur frá skipi, fer að finna Steingerði og talar við hana, biður hana gera sér skyrtu. Hún kvað enga þörf komu hans, kvað Þorvald eigi mundu þola hefndalaust eða frændur hans.
Kormákur kvað vísu:
- Mákak hitt of hyggja
- hví þú skyldir verða,
- gullhlaðs geymiþella,
- gefin tindráttar manni.
- Trauðla má eg of tæja
- tanna, silki-Nanna,
- síð er þig fastnaði frægja
- faðir þinn blotamanni.
Steingerður mælti: "Auðheyrður er fjandskapur í slíku og mun eg segja Þorvaldi hróp þitt og er slíkt engum manni sitjanda."
Þá kvað Kormákur:
- Þarftaðu hvít að hæta
- Hlín skrautlegrar línu,
- vér kunnum skil skepja,
- Skíðinga mér níði.
- Naddhríðar skal eg níða
- njót svo að steinar fljóti.
- Nú hefi eg illan enda
- Eysteins sonum leystan.
Eftir þetta skilja þau með engri blíðu og fór Kormákur til skips.
18. kafliÞá er þeir bræður létu úr læginu kom upp hjá skipinu hrosshvalur. Kormákur skaut til hans pálstaf og kom á hvalinn og sökktist. Þóttust menn þar kenna augu Þórveigar. Þessi hvalur kom ekki upp þaðan í frá en til Þórveigar spurðist það að hún lá hætt og er það sögn manna að hún hafi af því dáið.
Síðan sigldu þeir á haf og komu við Noreg. Í þann tíma réð Hákon Aðalsteinsfóstri Noregi. Þeir bræður fóru skjótt á konungs fund. Tók konungur vel við þeim. Voru þeir þar um veturinn vel virðir.
Um sumarið eftir leggjast þeir í hernað og vinna mörg stórvirki. Sá maður var í félagi með þeim er Sigurður hét, þýðeskur maður og vel borinn. Þeir gerðu víða upprásir.
Einn dag er þeir voru á land upp gengnir komu að þeim bræðrum ellefu menn og sóttu að þeim. Lauk svo þeirra viðskiptum að þeir bræður tveir sigruðu hina ellefu. Eftir það fóru þeir til skipa. Þóttust víkingarnir mundu hafa látið þessa menn en fagna nú því er þeir komu aftur með sigri og fé. Í þessi ferð fengu þeir bræður mikla frægð.
Leið á sumarið og var komið að vetri. Þeir vildu þá halda til Noregs, fengu veðráttu kalda. Lagði hrím í seglið. Þeir voru jafnan mjög frammi bræður.
Þá kvað Kormákur vísu:
- Skaka verð eg ver, Skarði,
- skald á búð til kalda,
- fjöll eru fjarðar kelli
- faldin, hrím á tjaldi.
- Vildi eg attræðar valdi
- væri öngu hæra.
- Hann er til latr frá ljóssi
- linnbeðjar Gná sinni.
Þorgils mælti: "Getur þú hennar nú jafnan en þá vildir eigi fá hennar er buðust kostir á."
Kormákur segir: "Meir ollu því vondra vætta atkvæði en mín mislyndi."
Nú sigldu þeir að hömrum nokkurum, hlóðu seglum við mikinn háska.
Kormákur mælti: "Vel mætti Þorvaldur tinteinn hér vera hjá oss."
Þorgils segir brosandi: "Það er líkara að hann uni nú betur í dag en vér."
"Eigi er þá sem skyldi," segir Kormákur.
Litlu síðar tóku þeir Noreg.
19. kafliMeðan þeir höfðu brottu verið var orðið höfðingjaskipti. Hákon var látinn en Haraldur gráfeldur í stað kominn. Vingast þeir við konung. Hann tók þeirra máli vel. Þeir fóru með konungi til Írlands og áttu þar orustur.
Það var eitt sinn er þeir höfðu upp gengið með konungi og kom mikið lið mót konungi.
Og þá er saman laust liðinu þá kvað Kormákur vísu:
- Uggi eg lítt þótt leggi,
- landvörðr, saman randir,
- várat virðar stæri
- vellauðigr, mér dauða
- meðan skerjarðar, Skarði,
- skorð man eg fyr norðan,
- hvöss og angrar sú, sessi,
- sótt, Þorketils dóttur.
Þorgils mælti: "Aldrei kemur þú í þá mannraun að þér komi eigi jafnan í hug Steingerður."
Kormákur segir: "Alllítt fyrnist mér það enn."
Þessi orusta var mikil. Fékk Haraldur konungur ágætan sigur. Hans menn ráku flótta. Þeir bræður voru staddir báðir saman. Snerust þá í mót níu menn. Þeir börðust um hríð.
Kormákur kvað vísu:
- Skjótt munum, Skarði, herðnir,
- skulum tveir banar þeira,
- hollr, andskotum hrinda,
- hjördrífr, níu fjörvi.
- Meðan goðleiðum gáða
- grunnleit, sú er mér unni,
- gengr að glæstum bingi
- gullseim-Njörun heima.
Þorgils mælti: "Þar kemur þó oftast niður."
Þeirra orustu lauk svo að þeir bræður fengu sigur en hinir féllu níu. Þeir tóku þar fyrir mikið lof af konungi og marga sæmd aðra.
Þeir bræður voru með konungi í herferðum jafnan. Þá fann Þorgils að Kormákur svaf lítið jafnan og spurði hví það sætti.
Þá kvað Kormákur vísu:
- Brim gnýr, brattir hamrar
- blálands Haka strandar.
- Allt gjálfr eyja þjálfa
- út líðr í stað víðis.
- Mér kveð eg heldr of Hildi
- hrannbliks en þér miklu
- svefnfátt, sörva Gefnar
- sakna mun eg ef eg vakna.
"Kann eg það segja þér bróðir að eg lýsi útferð minni til Íslands."
Þorgils mælti: "Miklu er fyrir fætur þér kastað bróðir og ei veit eg nú til hvers dregur."
Þegar konungur verður vís farfýsi Kormáks þá kallar konungur Kormák til sín og segir hann óviturlega gera og letur hann ferðarinnar og tjáir það ekki. Réðst hann til skips. Í útláti fengu þeir veður hvasst og áföll stór og brotnaði ráin.
Þá kvað Kormákur vísu:
- Era mér sem Tinteini,
- trauðr er vosfara kauði,
- skjarr er hann við þys þenna,
- þrjótr myksleða brjóti.
- Þá er, alsnjallir allir
- oddregns stafar fregni,
- í Sólundar sundi
- sundfaxa rá bundin.
Þeir láta í haf og þola harða veðráttu. Og eitt sinn er komið hafði mikið áfall voru menn votir.
Þá kvað Kormákur vísu:
- Veit hinn er tin tannar,
- trauðr sæfara, hinn blauði,
- stöndum Ilmr fyr yndi,
- ógörva það, sörva.
- Hvar eldfaldin alda
- oft gengr of skör, drengjum,
- hann á vífs að vitja,
- varma bauð á armi.
Þeir hafa harða útivist og koma um síðir utan að Miðfirði. Þeir kasta akkerum nær landi.
Þeir sjá á land upp hvar kona ríður. Kormákur kennir Steingerði og lét skjóta báti og rær til lands, gengur skjótt frá skipi og fær sér hest, ríður til móts við Steingerði. Og þegar er þau finnast hleypur Kormákur af baki og tekur hana ofan og setur niður hjá sér. Hrossin ganga frá þeim og líður á daginn og kemur að myrkri.
Steingerður mælti: "Mál er að leita að hestum vorum."
Kormákur kvað lítils mundu við þurfa og litast hann um og sér hvergi hrossin en þau höfðu vafist í einu lækjarfari skammt frá því er þau sátu. Nú fer nótt að hendi. Taka þau á sig göngu og komu til lítils bæjar og var við þeim tekið og veittur beini slíkur sem þau þurftu. Um nóttina hvíldi sínum megin bríkar hvort þeirra.
Þá kvað Kormákur vísu:
- Hvílum handar bála
- Hlín, valda sköp sínu,
- það sjáum, reið að ráði,
- rík, tveim megin bríkar.
- Nærgi er oss í eina
- angrlaust sæing göngum,
- dýr Sköfnunga drafnar
- dúneyjar við Freyja.
Steingerður kvað betur að eigi bæri saman fundi þeirra.
Kormákur kvað vísu:
- Sváfum hress í húsi
- hornþeyjar við Freyja
- fjarðarlegs hin frægja
- fimm nætr saman grimmar
- og hyrketils hverja
- hrafns ævi gnoð stafna
- lags, á lítt of hugsi,
- lá eg andvana banda.
Steingerður mælti: "Liðið er þetta og get eigi."
Kormákur kvað vísu:
- Heitast hellur fljóta
- hvatt sem korn á vatni,
- enn em eg auðspöng ungri
- óþekkr, en bjöð sökkva.
- Færast fjöll hin stóru
- fræg í djúpan ægi
- auðs áðr jafnfögr tróða
- alin verði Steingerði.
Steingerður kvaðst eigi vilja háð hans.
Kormákur kvað vísu:
- Svo ber mér í mína,
- men-Gefn, of það svefna,
- nema fági dul drjúga
- drengr, ofraðar lengi
- að axllimar yðrar,
- auð-Frigg, muni liggja,
- hrund, á heiðis landi
- hlíðar mér of síðir.
Steingerður segir: "Það skal eigi verða ef eg má ráða og skildist þú svo að eins við þau mál að þess er þér engi von."
Nú sofa þau af um nóttina.
Um morguninn býst Kormákur í brott, finnur Steingerði, tók af hendi sér fingurgull og vill gefa henni.
Hún mælti: "Tröll hafi þig allan og svo gull þitt."
Kormákur kvað vísu:
- Digla bauð eg við dregla,
- dagtála því máli,
- mér vara dagr sá er dugði
- drífgagl af því vífi.
- En blíðhuguð bæði
- bauð gyls maran auðar
- mitt villat fé Fylla
- fingrgoll gefið trollum.
Ríður Kormákur og líkar heldur illa við Steingerði en verr við Tintein. Hann ríður heim á Mel og er þar um veturinn og vistar kaupmenn nær skipi.
20. kafliÞorvaldur tinteinn bjó norður í Svínadal en Þorvarður bróðir hans í Fljótum.
Um veturinn gerir Kormákur ferð sína norður í Svínadal að finna Steingerði. Og er hann kom í Svínadal stígur hann af baki og gekk til stofu. Steingerður sat á palli og sest Kormákur hjá henni en Þorvaldur situr í bekk og þar hjá honum Narfi.
Hann mælti Narfi við Þorvald: "Skaltu engan hlut í eiga um setu Kormáks? Og er slíkt ósitjanda."
Þorvaldur segir: "Sæma mun eg við slíkt. Líst mér þetta skammlaust þótt þau tali."
Narfi segir: "Illa er þá."
Litlu síðar finnast þeir bræður, Þorvaldur og Þorvarður. Segir Þorvaldur honum komur Kormáks þangað.
Þorvarður segir: "Þykir þér slíkt sitjanda?"
Hann kvað ekki hafa til sakað þar til en sagði sér óskapfellt vera um komur Kormáks.
Þá segir Þorvarður: "Eg skal bætur á ráða þótt þú þorir eigi því að öllum oss er skömm í."
Það var næst er Þorvarður kom í Svínadal. Keyptu þeir bræður og Narfi að einum göngusveini að hann skyldi kveða vísu svo að Steingerður heyrði og segði að Kormákur hefði orta en það gegndi engu. Þeir sögðu að Kormákur hefði kennt konu þeirri er Eylaug hét, frændkona hans.
En þessi var vísa:
- Vildi eg hitt að væri
- vald-Eir gömul jalda
- stærilát í stóði
- Steingerðr en eg reini.
- Væri eg þráða Þrúði
- þeiri, er stöðvar geira
- gunnörðigra garða
- gaupelds, á bak hlaupinn.
Steingerður verður nú reið mjög svo að hún vill eigi Kormák heyra nefndan.
Þetta spyr Kormákur og fer að finna Steingerði. Hann leitar lengi orða við hana.
Þau svör komu upp að lyktum að henni mislíkar að hann yrkir um hana níð "og er það nú borið um allt hérað."
Kormákur kveður það eigi satt vera.
Steingerður segir: "Mjög mundir þú þræta ef eg hefði eigi heyrt."
Kormákur mælti: "Hver kvað svo að þú heyrðir?"
Hún segir hver kvað "og þarftu eigi míns tals að vænta ef þetta sannast."
Kormákur ríður í brott og leitar þessa stráks og finnur og nú verður hann að segja hið sanna. Kormákur verður reiður mjög og hleypur að Narfa og vegur hann. Slíka för ætlar hann Þorvaldi en hann skaust í skugga og skammaðist sín og komust menn í milli þeirra og skildu þá.
Kormákur kvað þá vísu:
- Nú mun ætlæla ýta
- auðmætandinn hæta,
- vér kunnum skil skepja,
- Skíðunga mér níði.
- Naddhríðar skal eg níða
- njót svo að steinar fljóti.
- Nú hefi eg illan enda
- Eysteins sonum leystan.
Þetta fréttist um héraðið og vex að eins óþokki milli þeirra. Þeir Þorvarður og Þorvaldur bræður eru stórorðir en Kormáki líkar það illa.
21. kafliEftir þetta sendir Þorvarður orð úr Fljótum að hann vill berjast við Kormák, kveður á stað og stund, kallast nú hefna vilja níðsins og annarra svívirðinga. Kormákur játtar því. Og er stefnudagur kom fór Kormákur í þann stað sem ákveðið var og var eigi Þorvarður þar kominn og engi af hans mönnum. Kormákur hittir konu eina þar á bænum. Hún heilsar honum og spyrjast þau tíðinda.
Hún mælti: "Hvert er þitt erindi eða hvers bíður þú?"
Kormákur kvað vísu:
- Seinn þykki mér sökkva
- snyrtimóts úr Fljótum
- sá er áttgrennir Unnar
- orð sendi mér norðan.
- Hringsnyrtir þarf hjarta
- hafær í sig færa,
- þó er men-Gunnar manni
- meira vant, úr leiri.
Kormákur mælti: "Nú býð eg Þorvarði af nýju hólmgöngu ef hann telst hugar síns eigandi. Verði hann hvers manns níðingur ef hann kemur eigi."
Og þá kvað Kormákur vísu:
- Skulut níðingar neyða,
- nú em eg sóttr um gjöf dóttur,
- upp held eg Gauta gildi,
- gögnum, mig til þagnar.
- Það munu þróttar víttir
- þropregns stafar fregna,
- byrja eg frægð, nema fjörvi
- félmiðlendr mig véli.
Þá búa þeir bræður mál til á hendur Kormáki um níð. Frændur Kormáks halda upp svörum. Hann vill engi boð bjóða láta, kvað þá níðs verða en eigi sóma og kvaðst Kormákur ekki við þeim vanbúinn utan þeir svíki hann. Þorvarður hafði eigi sótt hólmstefnu þá er Kormákur bauð honum. Sagði Kormákur sjálffellt níð á þá og þeim maklegt að þola slíkt níð.
Líður nú fram til Húnavatnsleiðar. Fóru hvorirtveggju til leiðar.
Eitt sinn er þeir fundust, Þorvarður og Kormákur, þá mælti Þorvarður: "Mikinn fjandskap eigum vér þér að gjalda margs háttar og fyrir það sama býð eg þér hólmgöngu hér á leiðinni."
Kormákur segir: "Muntu nú nokkuð betur til fallinn en áður og hefir þú jafnan undan hvikað."
"Eigi skal að síður til hætta," segir Þorvarður, "þolum vér eigi lengur skammir slíkar."
Kormákur kvað sig ekki dvelja og fer heim á Mel.
22. kafliMaður hét Þórólfur er bjó undir Spákonufelli. Hann átti Þórdísi spákonu sem fyrr var getið. Þau voru þar á leiðinni. Þóttust margir þar traust mikið eiga er hún var. Þorvarður sækir hana að og beiðir hana liðs í móti Kormáki og gaf fé til. Býr Þórdís hann nú til hólms svo sem henni líkar.
Kormákur segir móður sinni sína fyrirætlan. Hún spyr hvort hann hyggi gott til.
"Hví skal eigi svo þó?" segir Kormákur.
Dalla mælti: "Þér mun eigi hlýða svo búið þó, því að ófús mun Þorvarður að berjast nema fjölkynngi sé við. Þykir mér hitt ráð að þú hittir Þórdísi spákonu því að við svik mun að berjast."
Kormákur mælti: "Lítið er mér um það."
Þó fór hann og hitti Þórdísi og bað hana liðs.
Hún mælti: "Þú kemur til síð. Nú bíta hann eigi vopn. En vil eg eigi þér varna liðveislu og ver hér í nótt og vitja heilla og mun eg þá fá svo gert að þig bíti og eigi járn."
Þar er Kormákur um nóttina.
Þá er hann vaknaði fann hann að þreifað var undir ábreiðuna að höfði honum. Hann spyr hver þar sé. Sá snýr í brott og til útidyra en Kormákur eftir og sér að þar er Þórdís og er hún þá komin í þann stað sem þeir skyldu berjast og hefir gás undir. Kormákur spyr hvað skuli.
Hún lætur heimgásina niður og mælti: "Hví máttir þú eigi kyrr vera?"
Þá leggst Kormákur niður og heldur fyrir sér vöku og vill vita tiltekjur Þórdísar. Hún vitjar þrisvar og forvitnast hann í hvert sinn um athæfi hennar.
Hið þriðja sinn er Kormákur kemur út hefir hún skorið tvær gæs og látið renna saman blóðið í bolla. Þá hafði hún tekið hina þriðju gásina og ætlar að skera.
Þá mælti Kormákur: "Hvað skal þessu starfi fóstra?"
Þórdís mælti: "Það mun þó sannast Kormákur að þér mun í síðra lagi mega að duga. Hafði eg nú ætlað að fyrirkoma þeim ósköpum er Þórveig hafði á lagt ykkur Steingerði og mættuð nú njótast ef eg skæri hina þriðju gásina svo að engi vissi."
Kormákur mælti: "Ekki trúi eg á slíkt" og kvað vísu:
- Aura gaf eg á eyri,
- af skar mær, að bærri
- Týr sýndist mér taura,
- tveim gangvegum þeima.
- Vera mun blóð af blóði,
- bjóð aldregi það skaldi
- þeim er ölverki orkar
- ásar, tveggja gása.
Þeir fóru til hólms. Þorvarður gaf spákonu meira fé og þá hann blótið.
Kormákur kvað vísu:
- Mjög hafa tröll of troðna
- trúir maðr konu annars,
- eldreið Áta foldar
- ómissila þessa.
- Vætti hins að valdi,
- er að vangroði gengum,
- hvað of kennum það henni?
- hás völva því bölvi.
Þórdís mælti: "Fæ eg svo gert að kennir þig eigi."
Kormákur mælti illt í móti og kvað hana illu einu valda munu og vill draga hana út í dyr og sjá augu hennar í sólskini. Þorgils bróðir hans bannaði honum það og lét til engis vera. Steingerður kveðst fara vilja til hólms og svo var gert.
Þá er Kormákur sá hana kvað hann vísu:
- Hefi eg á hólm of gengið
- hald-Eir of þig földu,
- hvað megi okkrum ástum,
- annað Sinn, of renna?
- Og vígsakar vaktar
- Vár hefi eg of þig báru,
- því skal mér en Tinteini,
- tvær, unnustan nærri.
Síðan börðust þeir. Sverð Kormáks beit ekki. Þeir áttust lengi höggva viðskipti við og beit hvorki sverðið. Að lyktum hjó Kormákur á síðu Þorvarði. Varð það mikið högg svo að lúðist undir og brotnuðu rifin í Þorvarði og varð hann óvígur og skildu við þetta.
Kormákur sá hvar naut stóð og hjó það. Honum var orðið varmt og tók hann af höfði sér hjálminn.
Og kvað Kormákur vísu:
- Hefi eg á hólm of gengið,
- handarskers, að berjast
- þú skaltat mér, þella,
- þriðja sinn of kviðja.
- Rýðk eigi eg rauða
- reyr á þessi dreyra,
- mitt kveð eg slætt, í sveita,
- sverð fordæðan gerði.
Hann þerrir af sér sveita á möttulskauti Steingerðar.
Kormákur kvað vísu:
- Eg verð oft, því að þykjum
- erróttr, af mér þerra,
- gulls hlýt eg af þér þella
- þraut, á möttulskauti.
- Því láttu í set snauta
- saurreiði, bragar greiði,
- mér hefir steypt í stúru
- Steingerðr, bana verðan.
Kormákur bað Steingerði með sér fara. Hún kvaðst munu skipa um menn og skiljast þau og unir hvorttveggja illa við. Þorvarður er þangað færður og bindur hún um meiðsl hans.
Kormákur hittir nú jafnan Steingerði.
Þorvarði batnar seint og þegar er hann má á fætur færast fer hann að hitta Þórdísi og fréttir hana hvað honum væri helst til heilsubótar.
Hún segir: "Hóll einn er héðan skammt í brott er álfar búa í. Graðung þann er Kormákur drap skaltu fá og rjóða blóð graðungsins á hólinn utan en gera álfum veislu af slátrinu og mun þér batna."
Eftir þetta senda þeir Kormáki orð að þeir vilja kaupa graðunginn. Hann kvaðst eigi vilja varna þeim kaups en hafa fyrir baug þann er Steingerður átti. Þeir vitja graðungsins en selja Kormáki bauginn og fara með sem Þórdís sagði fyrir.
Kormákur kvað vísu:
- Hins mun hör-Gefn spyrja
- er þið heim komið báðir
- með blót roðin, beiði
- benhlunns, sú er mér unni:
- Hvar er nú baugr hinn brenndi?
- Böl ólítið ...
- Hefir hann sveinn inn svarti,
- sonr Ögmundar, skáldið?
Þetta fer sem Kormákur gat til að Steingerði líkar illa er þeir höfðu baugnum lógað.
23. kafliEftir þetta batnar Þorvarði skjótt. Þá er hann þóttist afturbati ríður hann á Mel og býður Kormáki hólmgöngu.
Kormákur mælti: "Seint leiðist þér en játti eg."
Nú fara þeir til hólms. Finnur Þórdís Þorvarð nú sem fyrr. Kormákur sækir ekki hennar traust. Hún deyfði fyrir Kormáki sverðið svo að ekki beit en þó hjó Kormákur svo mikið högg á öxl Þorvarði að axlarbeinið brotnaði og varð höndin þegar ónýt. Varð hann af þessum lemstrum óvígur og hlaut að gjalda annan baug í hólmlausn.
Þá hljóp að Þórólfur undan Spákonufelli og hjó til Kormáks.
Hann bar af sér höggið og kvað þá vísu:
- Rjóðandi lét randa
- ryðskálm of mér fálma,
- fægi eg Fjölnis veigar,
- fnasi hann vesalstr manna
- og þrumskúrar þeirar
- það varð hlaup að skaupi
- víst hafðir mér voðir
- verr spákonu ferri.
Kormákur hjó blótnaut eftir siðvenju og mælti: "Illa erum vér við komnir að þola ágang yðvarn en fjölkynngi Þórdísar" og kvað vísu:
- Deyfði eldi öldu
- örg vættr fyr mér törgu,
- læt eg niðr á bak bíta
- blaðshund að hjörfundi.
- Dugðit hjör þá er hugðag
- hjálmrækjanda að sækja.
- Högg hlaut huglaus dugga
- helsti stinn að minni.
Eftir það fara hvorir til síns heima og líkar hvorigum vel.
24. kafliSkip þeirra bræðra stóð uppi í Hrútafirði um veturinn. Um vorið halda kaupmenn til skips. Þeir bræður ætla og að fylgja skipi sínu.
Þá er þeir voru búnir fer Kormákur að finna Steingerði og áður en þau skilja kyssir Kormákur Steingerði tvo kossa heldur óhrapallega. Tinteinn vill eigi sógört hafa. Nú eiga hlut í vinir hvorratveggju að Kormákur skuli bæta. Kormákur spyr hvers þeir beiðist.
Þorvaldur segir: "Bauga þeirra tveggja er eg hefi misst fyrri."
Þá kvað Kormákur vísu:
- Baugi varð eg að bæta
- brúnleggs hvaðrantveggja,
- gulduð fé fyrr, bjartrar
- háls fang mýils spangar.
- Gátut gjallar mæta
- golls laufguðum þolli,
- tál hefi eg teitimála,
- tveir kossar fémeiri.
Og er Kormákur var til skips farinn þá kvað hann vísu:
- Vísu mun eg of vinna,
- áðr vér til skips göngum,
- senda sörva Rindi
- til Svínadals mína.
- Koma skulu öll til eyrna
- orð mín Skögul borða,
- betr ann eg sigli Ságu
- en sjálfum mér hálfu.
Nú fer Kormákur utan og með honum Þorgils bróðir hans og komu til hirðar konungs. Var þar við þeim vel tekið.
Þess er getið að Steingerður biður Þorvald tintein að þau skyldu utan. Hann kvað það eigi ráðlegt en má þó eigi synja henni. Ráðast þau til ferðar og komu um haf og settu víkingar að þeim og vildu ræna þau og taka í brott Steingerði. Þess verður Kormákur vís og fer til og veitir þeim lið svo að þau héldu öllu fé sínu. Komu þau síðan til konungshirðar.
Og einn dag var það er Kormákur gekk um stræti. Sá hann Steingerði sitja í skemmu einni og gekk þangað og sat hjá henni og talaði við hana og kyssti hana fjóra kossa. Þorvaldur varð var við það og brá sverði. Síðan hljópu konur í milli og síðan var sent eftir Haraldi konungi.
Hann kvað vant munu til að gæta með þeim "en gera mun eg sætt með ykkur."
Þeir játtu því.
Konungur mælti: "Einn koss skal vera fyrir það er Kormákur veitti þér lið í landtöku en fyrir annan það er Kormákur sótti Steingerði en fyrir tvo kossa tvo aura gulls."
Kormákur kvað sömu vísu sem fyrr er ritin:
- Baugi varð eg að bæta
- brúnleggs hvaðrantveggja,
- gulduð fé fyrr, bjartrar
- háls fang mýils spangar.
- Gátut gjallar mæta
- golls laufguðum þolli,
- tál hefi eg teitimála,
- tveir kossar fémeiri.
Einn dag er Kormákur gekk á stræti sá hann Steingerði, víkur til hennar og biður hana ganga með sér. Hún neitar því. Þá kippir Kormákur henni að sér. Hún kallar til liðs sér. Konungur var nær staddur og gengur til og þótti undarleg þessi för og tók hana af honum og mælti til hans stuttlega. Konungur gerði sig reiðan en Kormákur er þó með hirð og kemst brátt í vináttu við konung og var kyrrt um veturinn.
25. kafliEftir um vorið byrjar Haraldur konungur ferð sína til Bjarmalands með miklu liði. Kormákur var skipstjórnarmaður í þeirri ferð og á öðru skipi var Þorvaldur. Eigi eru fleiri nefndir skipstjórnarmenn.
Og er þeir sigldust nær í sundi einu laust Kormákur hjálmvelinum við eyra Þorvaldi og féll hann frá stýrinu í rot. Skip Kormáks renndi við er það missti hjálmvalar. Steingerður sat áður hjá Þorvaldi og tók til stýris og stýrði á flatt skip Kormáks.
Það sá Kormákur og kvað vísu:
- Fékk sá er fögru vífi
- fór nær en vér stórum
- högg af hjálmar skíði
- í hattarstall miðjan.
- Eysteins hratar arfi
- á elliða stafni.
- Stýrðu ei á mig Steingerður
- þóttú steigurlega látir.
Skipinu hvelfir undir Kormáki og hans mönnum. Varð skjótt borgið er mart var manna við. Þorvaldur rétti við og snúa áleiðis ferðinni. Býður konungur sína gerð á málinu og því játtu þeir báðir. Konungur lét jafnt högg Þorvalds og hrakning Kormáks.
Þeir komu um kveldið við land. Sat konungur og hans menn í snæðingi. Kormákur sat utar við dyr í tjaldinu og drakk tvímenning á Steingerði. Og meðan hann gerði þetta stal maður frá Kormáki dálki til spotts er hann hafði lagt af sér feldinn og er hann skyldi til taka var úr dálkurinn.
Kormákur spratt upp og hljóp eftir manninum með spjót það er hann kallaði Vigur og skaut eftir honum og missti og kvað vísu:
- Drengr ungr stal mig dálki
- þá er eg drakk á mey rakka.
- Við skulum dálkinn deila
- sem drengir tveir ungir.
- Vel hefir Vigr of skefta.
- Verð eg í grjót að skjóta,
- víst er að eg mannsins missti,
- mosinn var upp að losna.
Eftir þetta fóru þeir til Bjarmalands og aftur þaðan og komu heim í land.
26. kafliÞorvaldur tinteinn býr skip sitt til Danmerkur og Steingerður með honum. Litlu síðar fara þeir bræður hina sömu leið og komu við Brenneyjar síð um kveld. Þar sáu þeir fljóta fyrir skip Þorvalds. Var hann þar sjálfur og nokkurir menn með honum. Þeir voru ræntir fé öllu en Steingerður brott tekin af víkingum. Þar var fyrir víkingum Þorsteinn son Ásmundar eskisíðu er barðist við Ögmund föður Kormáks og Þorgils.
Nú finnast þeir Þorvaldur og Kormákur. Þá spyr Kormákur hvort eigi hefði tekist slétt.
Hann segir: "Nú hefir víst tekist eigi sem best."
Kormákur spyr: "Hvað er að orðið, er Steingerður í brottu?"
Þorvaldur segir: "Brottu er Steingerður og fé vort allt."
Kormákur mælti: "Hví sækið þér eigi eftir?"
Þorvaldur segir: "Eigi höfum vér afla til."
Kormákur mælti: "Segir þú ómátt þinn á?"
Þorvaldur segir: "Eigi höfum vér þrek til að berjast við Þorstein en ef þú hefir afla til sæk þú þér til handa."
Kormákur mælti: "Fara skal þá."
Um nóttina gengu þeir bræður á bát og reru til víkingaskips, gengu upp á skip Þorsteins. Steingerður var í lyftingu og gift manni en flest lið var á landi við baksturelda. Kormákur heimti sögur af matsveinum og sögðu þeir honum allt það er þeir vildu bræður. Þeir gengu á skip að skutbryggju. Þorgils kippti brúðguma á borð út en Kormákur drap hann við borðinu. Þorgils hljóp á kaf með Steingerði og svamm til lands. Þá er Kormákur var nær landi lögðust að honum álar yfir hendur honum og fætur svo að hann dregur niður.
Kormákur kvað vísu:
- Runnu, randar linna
- rógendr, að mér nógir
- þá er vér of fen fórum,
- flokkum díkis bokkar.
- Gauts mundi þá gáttar
- gnýsvells, ef eg þar fellag,
- lunds, kom eg litlu sprundi,
- löngum minnst, úr öngum.
Kormákur leggst til lands og færir Þorvaldi Steingerði. Þorvaldur bað Steingerði nú fara með Kormáki, sagði hann drengilega hafa eftir sótt. Kormákur kvað það vilja sinn. Steingerður kvaðst ekki skyldu kaupa um hnífa. Kormákur kvað og ekki þess mundu auðið verða, kvað illar vættir því snemma skirrt hafa eða ósköp.
Kormákur kvað vísu:
- Hirðattu, handar girðis
- Hlín, sof hjá ver þínum,
- fátt kanntu, í mun manni,
- minna frama, að vinna.
- Þó skaltu, fornrar földu
- Frigg, heldr en mér liggja,
- drykk hefi eg yðr of aukið
- Aurreks, náar gauri.
Kormákur bað Steingerði fara með bónda sínum.
27. kafliSíðan sneru þeir aftur bræður og til Noregs en Þorvaldur tinteinn fór til Íslands. En þeir bræður herjuðu um Írland, Bretland, England, Skotland og þóttu hinir ágætustu menn. Þeir settu fyrst virki það er heitir Skarðaborg. Þeir runnu upp á Skotland og unnu mörg stórvirki og höfðu mikið lið. Í þeim her var engi slíkur sem Kormákur um afl og áræði.
Eitt sinn er þeir höfðu herjað rak Kormákur flótta en liðið var til skips farið. Þá kom að Kormáki úr skógi blótrisi Skota og tókst þar atgangur harður. Kormákur var ósterkari en risinn tröllauknari. Kormákur leit til sverðs síns og var rennt úr slíðrum. Kormákur seildist til og hjó risann banahögg. Risinn lagði þó svo fast hendur að síðum Kormáki að rifin brotnuðu og féll Kormákur og risinn dauður ofan á hann og komst Kormákur eigi upp. Í annan stað fara menn að leita hans og finna og fluttu hann til skipa.
Þá kvað Kormákur vísu:
- Vara sem fljóð í faðmi
- þá er fangremmi mættag
- við strengmara stýri,
- Steingerði, mér hefðag.
- Mundi eg öl að Óðins
- í öndvegi drekka,
- skjótt segi eg til þess skötnum,
- ef mér Skrýmir lið veitti.
Þá var að hugað sárum Kormáks og voru brotin rifin í hvorritveggju síðunni. Kormákur kvað eigi þurfa að græða sig. Lá hann í sárum um hríð. Hörmuðu menn það er hann skyldi svo óvarlega farið hafa.
Kormákur kvað vísu:
- Réð eg ei þess af reiði,
- Rindr, morðgöfugr forðum,
- sunds, að sóttar grandi
- sverð skyldi mér verða.
- Forðumk vættr því að verða
- vígnaðrs stafar aðrir,
- snertum höfug við hjarta
- helnauð, og kördauða.
Og enn kvað hann vísu:
- Varat með mér í morgun
- maðr þinn, konan svinna,
- roðinn var hjör til hodda,
- handfögr, á Írlandi
- þá slíðrdreginn, Sága,
- söng of mínum vanga
- Hlakkar trafr en hrafni
- heitr féll á nef sveiti.
Og nú tók að líða að Kormáki.
Þá kvað hann vísu:
- Dundi djúpra benja
- dögg úr mækis höggvi.
- Bar eg með dýrum drengjum
- dreyrugt sverð á eyri.
- Bera knáttu þá breiðan
- blóðvönd hjarar Þundar.
- Þó mun eg, greipa glóðar
- Gerðr, strádauða verða.
Kormákur kveðst Þorgilsi bróður sínum gefa vilja féið og liðið, kveðst honum unna best að njóta. Síðan andaðist Kormákur en Þorgils réð fyrir liði og var lengi í víkingu.
Og lýkur þar sögu þessi.