1. kafliÞað er upphaf þessarar sögu að Þorbjörn hét maður. Hann var Þjóðreksson. Hann bjó í Ísafirði á þeim bæ er heitir að Laugabóli. Hann hafði goðorð um Ísafjörð. Hann var stórættaður maður og höfðingi mikill og hinn mesti ójafnaðarmaður svo að engir menn þar um Ísafjörð báru styrk til neitt í móti honum að mæla. Hann tók dætur manna eða frændkonur og hafði við hönd sér nokkura stund og sendi síðan heim. Fyrir sumum tók hann bú upp eða rak brott af eignum sínum.
Þorbjörn hafði tekið þá konu fyrir bú sitt er Sigríður hét. Hún var ung kona og stórrar ættar. Hún átti fé mikið og skyldi það standa fyrir henni og ekki fram ganga meðan hún væri með Þorbirni.
Hávarður var maður nefndur. Hann bjó þar sem heitir á Blámýri. Hann var ættstór maður og var þá hniginn á hinn efra aldur. Hann hafði verið víkingur mikill hinn fyrra hluta ævi sinnar og hinn mesti kappi. Og í einhverjum bardaga hafði hann orðið sár mjög og fengið eitt sár undir knéskelina og þaðan af gekk hann jafnan haltur síðan. Hávarður var kvongaður og hét Bjargey kona hans. Hún var af góðum ættum og hinn mesti skörungur. Þau áttu son einn er Ólafur hét. Hann var á ungum aldri og manna gervilegastur. Hann var mikill vexti, fríður sýnum. Þau Hávarður og Bjargey unnu Ólafi mikið. Hann var þeim og hlýðinn og auðráður.
Þormóður hét maður. Hann bjó á þeim bæ er heitir á Bakka í Ísafirði. Þorgerður hét kona hans. Þormóður var lítt við alþýðuskap manna. Hann var þá hniginn nokkuð á hinn efra aldur. Var það kallað að hann væri eigi einhamur. Þótti hverjum þeirra og verst við hann að eiga.
Ljótur hét maður er bjó á Mánabergi í Ísafirði. Ljótur var mikill maður og sterkur. Hann var bróðir Þorbjarnar og honum líkastur um alla hluti.
Þorkell hét maður er bjó í ey þeirri er Æðey heitir. Hann var vitur maður og þó lítilmenni en þó af góðum ættum og manna óeinarðastur. Þorkell var lögmaður þeirra Ísfirðinga.
Tveir menn eru nefndir til sögunnar. Annar hét Brandur en annar Vakur. Þeir voru heimamenn Þorbjarnar á Laugabóli. Brandur var mikill vexti og rammur að afli. Það var iðja Brands að hann hafði ferðir á sumrum og flutti að búi það er þurfti en á vetrum gætti hann gamals fjár. Var hann vinsæll og óáleitinn. Vakur var systursonur Þorbjarnar. Var hann maður lítill og smáskitlegur, vígmáligur og títtmáligur, fýsti Þorbjörn frænda sinn jafnan þess er þá var verr en áður. Varð hann af því óvinsæll og unnu menn honum sannmælis. Hann vann ekki annað en gekk með Þorbirni út og inn eða fór sendiferðir hans og þá er hann vildi ill verk gera láta.
Þórdís hét kona er bjó á Hvoli í Ísafirði. Hún var systir Þorbjarnar en móðir Vakurs. Hún átti og annan son er Skarfur hét. Hann var bæði mikill og sterkur. Var hann með móður sinni og sá um bú þeirra.
Þórálfur hét maður er bjó þar sem heitir á Lónseyri. Hann var vinsæll maður og ekki mikilmenni. Hann var mjög skyldur bústýru Þorbjarnar. Þórálfur hafði boðist til að taka við Sigríði og ávaxta fé hennar en Þorbjörn vildi það ekki og sýndi þar um enn ójafnað sinn og bað hann ekki orð til leggja.
2. kafliÞar er nú til máls að taka að Ólafur vex upp á Blámýri. Hann gerist efnilegur maður. Svo segja menn að Ólafur Hávarðsson hafi haft bjarnyl því að aldrei var það frost eða kuldi að Ólafur færi í fleiri klæði en eina brók og skyrtu gyrða í brækur. Aldrei fór hann svo af bæ á brott að hann hefði fleiri klæði.
Þórhallur hét maður. Hann var frændi þeirra Hávarðar og heimamaður, ungur maður og hinn frálegasti. Hafði hann aðdrátt að búi þeirra.
Það var eitthvert haust að Ísfirðingar gengu afréttir sínar og heimtu menn lítt. Þorbirni á Laugabóli var vant sex tigu geldinga. Liðu veturnætur og fannst ekki. Nokkuru fyrir vetur fer Ólafur Hávarðsson heiman og gengur afréttir og öll fjöll, leitar fjár manna og finnur fjölda fjár, bæði það er Þorbjörn átti og þeir feðgar og svo aðrir menn, rekur síðan heim fénaðinn og færði hverjum það er átti. Verður Ólafur af þessu vinsæll svo að hver bað honum góðs.
Einn dag snemma rekur Ólafur geldinga Þorbjarnar ofan á Laugaból. Hann kom í þann tíma er menn sátu yfir borðum og voru engir menn úti. Ólafur drepur á dyrnar og gekk kona ein til dyranna. Það var Sigríður bústýra Þorbjarnar og heilsaði hún honum vel. Hún spurði hvað hann vildi.
Ólafur svarar: "Eg hefi rekið hingað geldinga Þorbjarnar er honum var vant í haust."
Og er Þorbjörn heyrði að á dyrnar var drepið bað hann Vakur forvitnast hvað komið væri. Hann gerði svo og gekk að skellihurðinni. Hann sá þá að þau Sigríður töluðust við. Hann hljóp þá upp á okann og stóð þar meðan þau töluðu.
Þá mælti Ólafur: "Nú þarf eg ekki að fara lengra. Skaltu nú Sigríður segja til geldinganna."
Hún segir að svo skyldi vera og bað hann vel fara. Vakur hljóp innar í stofuna æpandi. Þorbjörn spurði hví hann léti svo eða hvað komið hefði.
"Það ætla eg," segir hann, "að Ólafur glópurinn af Blámýri son Hávarðar kæmi. Hefir hann rekið hingað geldinga þína þá er vant var í haust."
"Það var vel gert," segir Þorbjörn.
"Annað ætla eg verið hafa eigi síður undir ferðinni," segir Vakur, "því að þau Sigríður hafa talað í allan morgun. Sá eg að henni þótti allgott að leggja hendur sínar um háls honum."
Þorbjörn mælti: "Þó að Ólafur sé hraustur maður þá er honum það ofdirfð að fara óþokkaferðir til vor."
Ólafur fer heim. Líða þau misseri og er svo sagt að Ólafur kemur jafnan á Laugaból og fann Sigríði og gerðist vel með þeim. Var þetta brátt orðað að Ólafur fífldi Sigríði.
Og annað haust gengu menn enn afréttir sínar og heimta lítt. Varð Þorbirni enn flest vant. Og er lokið var réttunum fer Ólafur heiman einn saman og gengur afréttirnar víða um fjöll og heiðar, finnur enn fjölda fjár og rekur í byggðina, færir enn hverjum það er á. Gerðist hann nú svo vinsæll af byggðarmönnum að allir biðja honum góðs utan Þorbjörn. Hann grimmast við hann fyrir allt saman það er aðrir lofa hann og það er hann heyrir talað um byggðina um þangaðkomur hans til fundar við Sigríði. Vakur sparir nú ekki af að rægja þau við Þorbjörn.
Nú er svo komið að Ólafur er kominn á Laugaból með geldingana svo marga sem fyrr. Og er hann kom voru engir menn úti. Gengur hann nú inn og til stofu. Var þar Þorbjörn bóndi í stofunni og frændi hans Vakur og margt heimamanna. Ólafur gengur innar á gólfið. Hann hefir öxina fyrir sér. Og er hann kemur innar mjög að pallinum stingur hann niður öxarskaftinu og styðst á en engi heilsaði honum og þögðu allir.
Og er hann sér að engi æmti honum þá kveður hann vísu:
- Það réð fyrst að fregna
- fámálgasta þegna.
- Hví þegja hér allir
- hjörþings viðir snjallir?
- Metorð leggja menn engi
- á mállausa drengi.
- Hef eg staðið hér lengi,
- höfumk kvaddan alls engi.
Þá mælti Ólafur: "Það er mitt erindi hingað Þorbjörn bóndi að eg hefi rekið hingað geldinga þína."
Þá mælti Vakur: "Kunnigt er mönnum það nú Ólafur að þú gerist sauðreki um Ísafjörð. Vitum vér og erindi þitt hingað, það að þú ferð að heimta hlut af sauðunum. Er það og stafkarla hlutur og er einsætt að minnast hans þó að lítið sé."
Ólafur svaraði: "Ekki er það mitt erindi. Mun eg og ekki reka hið þriðja sinn."
Snýr hann þá í brott en Vakur hleypur upp og æpir að honum. Ólafur gaf engan gaum að því og gekk heim og líða þau misseri.
Og um haustið heimta menn vel utan Þorbjörn. Honum var vant sex tigu geldinga og fundust ekki. Létu þeir frændur þau orð um fara að Ólafur mundi enn ætla að heimta til hlutar eða stela ella.
Það var eitt kveld að þeir feðgar sátu yfir borðum og á diskinum fyrir þeim lá langleggjarstykki.
Ólafur tók upp og mælti: "Þetta er furðu mikill leggur og digur."
Hávarður mælti: "Það ætla eg þó frændi að hann sé af okkrum sauðum en eigi Þorbjarnar bónda. Og mikið er að þola slíkan ójafnað."
Ólafur leggur niður legginn á borðið og roðnaði við og þótti þeim er hjá sátu sem hann þrýsti við borðinu en þó brast sundur leggurinn og svo snart að annar hluturinn stökk utar í bjórinn svo að þar var fastur. Hávarður leit upp og mælti ekki en brosti þó að.
Og í því gekk kona í stofuna og var þar komin Þorgerður af Bakka. Hávarður fagnaði henni vel og spurði tíðinda.
Hún segir andlát Þormóðar bónda síns: "Erum vér þó ekki vel við komin því að hann vitjar hverja nátt sængur sinnar. Því vildi eg þiggja bóndi að þér veittuð mér nokkuð lið því að fólki mínu þótti ódælt við Þormóð en nú er svo komið að það ætlar allt í brott."
Hávarður svarar: "Eg er nú af léttasta skeiði og ekki til slíks fær eða hví ferð þú ekki á Laugaból? Er þess von um höfðingja að þeir láti skjótt til slíkrar héraðsstjórnar koma sitt sveitargengi."
Hún svarar: "Einskis góðs vænti eg þangað. Læt eg vel yfir ef hann gerir mér ekki illt."
Þá mælti Hávarður: "Það er mitt ráð að þú biðjir Ólaf son minn og væri það ungra manna að reyna sig svo á karlmennsku. Mundi oss forðum slíkt gaman hafa þótt."
Hún gerir nú svo. Ólafur hét ferðinni og bað hana þar vera um náttina. En um daginn eftir fór Ólafur heim með Þorgerði. Var þar allt fólk ókátt.
En um kveldið fóru menn að sofa. Ólafur lá í stafnrekkju utar við dyr. Ljós brann í skálanum. Var ljóst hið efra en dimmt hið neðra. Ólafur lagðist niður í skyrtu og brókum því að hann hafði aldrei fleiri klæði. Hann kastaði á sig feldi einum. Og er var dagsett gekk Þormóður inn í skálann og lét róa tinglið. Hann sá að rekkja var skipuð er ekki var vani á. Var hann ekki allgestrisinn. Snýr hann þangað og þrífur í feldinn. Ólafur vill eigi laust láta og heldur þar til að þeir skipta feldinum með sér. Og er Þormóður finnur að afl er í þeim er fyrir er hleypur hann upp í setið að rúminu. Ólafur hljóp upp og þreif til öxarinnar og hafði ætlað að slá hann en bráðara bar að því að Þormóður hljóp undir hendur honum. Varð Ólafur þá við að taka. Tókst þar hinn harðasti atgangur. Varð Þormóður harðtækur svo að allt hljóp hold undan þar sem hann þreif til. Flest gekk og upp það sem fyrir þeim varð. Og í því bili slokknaði ljósið. Þótti Ólafi þá ekki um batna. Þormóður sótti þá í ákafa og þar kemur að lyktum að þeir hörfa út. Í túninu lá rekatré mikið og svo ber til að Þormóður rekur hælana báða í tréið og fellur á bak aftur. Ólafur lætur þá kné fylgja kviði, leikur þar til við Þormóð er hann sér fyrir honum slík ráð er honum sýnist.
Fólkið þagði allt er Ólafur gekk inn. Og er hann lét heyra til sín var allt senn að fólkið var uppi og ljósið og strauk hann uppi og niðri. Var hann hvervetna meiddur af atgangi Þormóðar. Þakkaði hvert mannsbarn honum það er mæla kunni. Hann kveðst ætla að þeim mundi ekki mein að honum verða.
Ólafur dvaldist þar nokkurar nætur, fór síðan heim á Blámýri. Varð hann víðfrægur af þessu verki um Ísafjörð og alla landsfjórðunga og af öllu þessu óx mjög óþokki millum þeirra Þorbjarnar.
3. kafliÞað er þessu næst að segja að hvalur kemur í Ísafjörð þar er Þorbjörn og Hávarður áttu reka að tveim megin. Var sú sögn þegar að Hávarður mundi eiga. Var það hin besta reyður. Hvorirtveggju fóru til og ætluðu að hafa lögmanns úrskurð á. Kom þar fjöldi manns saman. Þótti öllum sýnt að Hávarður mundi hvalinn eiga. Þorkell lögmaður var þar kominn. Var hann þá að spurður hver að ætti.
Þorkell svaraði og heldur lágt: "Þeir eiga hval víst," sagði hann.
Þorbjörn gekk þá að honum með brugðið sverðið og mælti: "Hverjir þá, armi?" segir hann.
Þorkell svaraði skjótt og drap niður höfðinu: "Þér, þér víst," segir hann.
Þorbjörn gekk þá að með ójafnað sinn og tók upp hvalinn allan. Fór Hávarður heim og undi illa við sinn hlut. Þótti öllum mönnum Þorbjörn enn nú hafa auðsýndan ójafnað sinn og fullkominn ódrengskap.
Það var einn dag að Ólafur gengur til fjárhúsa sinna því að veðrátta var hörð um veturinn og þurftu menn mjög að fylgja fénaði sínum. Hafði veður verið hart um náttina. Og er hann ætlaði heim að ganga sér hann að maður gengur að húsinu. Er þar kominn Brandur hinn sterki. Ólafur tók honum vel. Brandur tók vel kveðju hans. Ólafur spurði hví hann færi svo síð.
Hann svaraði: "Eigi er svo frásögulegt. Eg gekk til fjár míns snemma í dag en það hafði rekast látið ofan í fjöruna. Má þar og í tveim stöðum upp reka. En jafnan þar sem eg leitaði til þá stóð þar maður fyrir og bannaði í móti fénu svo að það hljóp aftur í fang mér og hefir svo farið í allan dag allt hér til. Nú vildi eg gjarna að við færum til báðir saman."
"Það vil eg gera fyrir þína bæn."
Ganga síðan báðir saman ofan í fjöruna. Og þegar þeir vilja féið upp reka sáu þeir að Þormóður er þar fyrir, glímufélagi hans, og blakar í móti fénu svo að féið hleypur aftur í fang þeim.
Þá mælti Ólafur: "Hvort viltu heldur Brandur reka féið eða ráðast í móti Þormóði?"
Brandur svarar: "Það mun eg kjósa hið auðveldara, að reka féið."
Ólafur gengur að þar er Þormóður stóð gegnt á uppi. Þar var laginn snjór mikill framan í bakkann. Ólafur rann þegar upp á bakkann að Þormóði en hann gefur honum rúm. Og er Ólafur kemur á upp rennur Þormóður þegar undir hendur honum. Ólafur tekur og við eftir megni. Gangast þeir að lengi. Þykir Ólafi hann ekki raknað hafa eftir hnyskingina. Þar kemur að þeir falla báðir senn fram á bakkann og er svo er komið, veltir hvor öðrum þar til er þeir tumba báðir ofan fyrir fönnina. Eru þá ýmsir undir þar til er þeir koma í fjöruna. Þá bar svo til að Þormóður varð neðri. Neytir Ólafur þá þess og braut í sundur hrygginn í honum, bjó þá um sem honum líkaði og lagðist út á sjóinn með hann langt frá landi og sökkti niður í djúp. Þykir þar jafnan óhreint síðan ef menn sigla í nándir. Ólafur lagðist til lands. Hafði Brandur þá upp komið fénu öllu og fagnaði Ólafi vel. Gengu þeir þá heim báðir.
Og er Brandur kom heim var mikið af nátt. Þorbjörn spurði hvað hann hefði dvalið. Brandur sagði svo sem farið hafði og svo hversu Ólafur hafði honum til staðið.
Þá mælti Vakur: "Hræddur hefir þú orðið er þú lofar glóp þenna. Mun það hans fremd mest að fást við afturgöngumenn."
Brandur svarar: "Hræddari mundir þú hafa verið því að þú ert mestur í málinu sem refurinn í halanum. Muntu í engum hlut mega jafnast við hann."
Töluðu þeir þar til er hvorumtveggja mislíkaði.
Þorbjörn bað Brand ekki kapp á leggja með Ólafi: "Skal þér eigi duga og engum öðrum að láta Ólaf framar en mig eða frændur mína."
Líður nú af veturinn.
Og er vorar talast þeir við feðgar, Ólafur og Hávarður.
Hávarður mælti: "Svo er komið frændi að eg hefi eigi skaplyndi lengur að búa svo nærri Þorbirni með því að við höfum engan afla að halda okkur til jafns við hann."
Ólafur svarar: "Lítið er mér um að hafa það í yfirbætur að flýja fyrir Þorbirni en þó vil eg að þú ráðir. Eða hvert viltu þá leita?"
Hávarður svaraði: "Út með firðinum hinum megin eru víða tóftir og vítt land það er engi maður á. Þar vil eg að við reisum okkur bústað og erum við þá nær frændum okkrum og vinum."
Þetta taka þeir til ráðs, flytja þangað fé sitt allt og það góss er þeir eiga og gera þar hinn besta bústað. Heitir þar síðan á Hávarðsstöðum. Voru þeir einir bændur í þenna tíma í Ísafirði er landnámamenn voru.
4. kafliÞorbjörn Þjóðreksson reið hvert sumar til þings með menn sína. Var hann höfðingi mikill, ættstór og frændmargur.
Í þann tíma bjó Gestur Oddleifsson í Haga á Barðaströnd. Var hann spekingur mikill, vitur og vinsæll og manna framsýnastur og hafði margt mannaforráð.
Þetta hið sama sumar er þeir feðgar færðu bústað sinn reið Þorbjörn til þings og hóf bónorð sitt og bað systur Gests Oddleifssonar. Gestur tók þessu máli seinlega og sagði sér lítið um Þorbjörn fyrir ójöfnuð hans og ofbeldi. En með því að margir voru veitendur að málinu með Þorbirni þá gerði Gestur kost á að þessi ráð skyldu takast ef Þorbjörn héti honum því með handtaki að láta af ójöfnuði og rangindum, bjóða hverjum manni það er á og halda lög og rétt. En ef hann vildi ekki ganga að þessu þá skyldi Gestur brigða bónorðið og gera skilnað þeirra. Þessu játar Þorbjörn og kaupa að svo mæltu. Þá reið Þorbjörn með Gesti af þinginu heim á Barðaströnd og tókust þar þessi ráð um sumarið. Var þar hin besta veisla.
Og er þessi tíðindi spurðust til Ísafjarðar þá tekur Sigríður það ráð og Þórálfur frændi hennar að kveðja til bændur og láta virða Sigríði allt sitt fé af Laugabóli. Fór hún til Þórálfs á Lónseyri. Og er Þorbjörn kom heim á Laugaból varð hann stórlega reiður er Sigríður var í brott, hét þeim afarkostum og reiði bændunum er þeir höfðu virt féið, gerist þá þegar hinn harðasti og þóttist nú enn vaxið hafa af þessum mægðum.
Fé Hávarðar bónda var mjög óspakt um sumarið og einn morgun snemma kom smalamaður heim og spurði Ólafur hversu að færi.
"Svo fer að," segir hann, "að vantar fjölda fjár. Get eg eigi hvorttveggja gert að leita þess er vantar enda gæta hins er fundið er."
Ólafur svarar: "Vertu kátur félagi. Geym þess er fundið er en eg skal leita þess er vantar."
Hann gerist þá hinn efnilegasti maður og manna fríðastur sýnum, mikill og sterkur. Hann var þá átján vetra gamall.
Hann tekur nú öxi í hönd sér, gengur síðan út með firðinum allt þar til er hann kemur á Lónseyri. Hann sér hvar féið er allt komið þar sem það hafði verið flutt. Ólafur snýr þá til bæjarins. Var það snemma morguns. Hann barði á dyrnar. Þá gekk Sigríður til duranna og fagnaði vel Ólafi. Hann tók vel kveðju hennar.
Og sem þau höfðu nokkura stund skrafað þá mælti Sigríður: "Skip fer þar handan yfir fjörðinn og sé eg gerla að þar er Þorbjörn Þjóðreksson og Vakur frændi hans. Eg sé að vopn þeirra liggja í stafni fram. Þar er og Gunnlogi, sverðið Þorbjarnar, og er annaðhvort að hann hefir illt gert eða ætlar hann og vil eg Ólafur að þú finnir ekki Þorbjörn. Hefir lengi fátt verið með ykkur en þó ætla eg að nú hafi ekki um batnað er þér virtuð mér féið á Laugabóli."
Ólafur svarar: "Ekki óttast eg Þorbjörn á meðan eg hefi ekki gert til saka við hann. Mun eg og skammt renna fyrir honum einum."
Hún svarar: "Þetta er hraustlega mælt að þú átján vetra mundir eigi undan leita þeim manni er jafnvígur er hverjum manni. Hann hefir og það sverð er hvergi nemur í höggi stað. Ætla eg og það ef þeir vilja þig finna, sem mér segir hugur um að sé, að Vakur, illmennið, muni eigi sitja hjá ef þið berjist."
Ólafur svarar: "Eg á ekki erindi við Þorbjörn. Mun eg ekki finna þá en ef vér finnumst skaltu nokkuð hraustlegt eiga til að spyrja ef þess þarf."
Sigríður svarar og kveðst ekki mundu að spyrja. Ólafur spratt upp skjótt og bað hana vel lifa en hún bað hann vel fara.
Hann gekk þá ofan á eyrina því að þar lá féið. Þeir Þorbjörn voru þá að landi komnir þar gegnt. Gekk hann þá ofan að skipinu og tók í móti og kippti upp undir þeim á eyrina. Þorbjörn fagnaði þá vel Ólafi. Tók Ólafur kveðju hans og spurði hvert hann ætlaði.
Hann kveðst ætla að finna systur sína Þórdísi "og munum vér fara allir saman."
Ólafur svarar: "Ekki er það samfært af því að eg verð að reka heim fé mitt. Væri það sanntalað að þá stækkist sauðrekarnir um Ísafjörð ef þú lægðir þig svo."
"Ekki fer eg að því," segir Þorbjörn.
Var viðarbulungur mikill á eyrinni og þar á ofan lá forkur einn mikill og var brotið af endanum. Ólafur tók upp forkinn og hafði í hendi sér, stökkur nú fénu fyrir sér. Ganga þeir allir saman. Talar Þorbjörn við Ólaf og var hinn kátasti. Hann fann að þeir vildu jafnan ganga síðar en hann sá við því og fóru jafnan fram allir og allt fram fyrir hólinn. Skildust þar vegirnir.
Þorbjörn snerist þá við og mælti: "Vakur frændi, ekki þarf að seinka því er ætlað er."
Ólafur sér þá hvað þeir ætla. Snýr hann þá upp í brekkuna en þeir sækja að neðan. Ólafur verst með forkinum en Þorbjörn höggur hart og tíðum með sverðinu Gunnloga og skýfði svo forkinn sem hvannir. Fengu þeir þó stór högg af forkinum meðan til vannst. Og er hann var sundur sniðinn tók Ólafur öxi sína og varðist þá svo vel að þeim þótti ósýnt hversu fara mundi með þeim. Urðu þeir og allir sárir.
Þórdís systir Þorbjarnar gekk út þann morgun er þeir börðust og heyrði til en mátti ekki sjá. Hún sendi skósvein sinn að forvitnast til. Hann gerði svo og sagði Þórdísi að þeir berðust Þorbjörn bróðir hennar, Vakur sonur hennar og Ólafur Hávarðsson. Hún snýr þá inn og fann Skarf son sinn og segir honum þessi tíðindi og bað hann til fara og veita frændum sínum.
Hann mælti: "Eg em ráðinn að berjast með Ólafi og í mót þeim. Þykir mér og skömm að þrír gangi að einum manni með því að þeirra er eigi óvænna en fjögurra annarra. Mun eg hvergi fara."
Þórdís svarar: "Það ætlaði eg að eg mundi eiga tvo sonu vel hugaða. Er það satt að mælt er að margt leynist lengi. Nú veit eg að þú ert dóttir heldur en sonur er þú þorir eigi að verja frændur þína. Skal nú og raun til gera að eg er vaskari dóttir en þú sonur."
Hún gekk þá brott en hann reiddist ákaflega og spratt upp og þreif öxi sína. Hann hljóp út og ofan fyrir brekkuna og þar til er þeir börðust. Þorbjörn sá hann og sótti í ákafa en Ólafur sá hann ekki. Og þegar er Skarfur kemur í höggfæri við Ólaf þá hjó hann tveim höndum milli herða honum svo að þegar stóð á kafi. Ólafur hafði ætlað að höggva til Þorbjarnar. Og er Ólafur fékk höggið snarast hann við. Skarfi varð laus öxin en Ólafur hafði reidda öxina og hjó hann í höfuð Skarfi svo að þegar stóð í heilanum. Og í því var Þorbjörn upp kominn hjá þeim og hjó í fang Ólafi. Var það og nóg banasár og falla þeir báðir. Þorbjörn gekk þá að Ólaf og höggur um þvert andlitið svo að úr stukku tennurnar og jaxlarnir.
Vakur spurði: "Hví gerir þú þetta við dauðan mann?"
Hann kvað enn það mundu koma til nokkurs. Þorbjörn tók þá skauta einn og knýtti þar í tennurnar og varðveitti. Eftir það gengu þeir upp til bæjarins og sögðu Þórdísi tíðindin. Voru þeir báðir stórmjög sárir. Hún varð nú stórlega hrygg við þessa sögu og harmaði er hún hafði eggjað son sinn svo mjög, veitti þeim nú þó beina og hjúkun.
Spyrjast nú þessi tíðindi um allan Ísafjörð og þótti öllum hinn mesti skaði að Ólafi með þeirri vörn er menn heyrðu hann haft hafa. Fór Þorbirni og vel að hann sagði jafnt frá sem farið hafði og bar vel Ólafi söguna. Þeir fóru heim þegar er þeir þóttust mega og mæði rann af þeim.
Þorbjörn kom á Lónseyri og spurði að Sigríði. Honum var sagt að hún hefði ekki fundist síðan hún gekk í brott með Ólafi um morguninn hinn. Var hennar þar víða leitað og er svo sagt að aldrei fannst hún síðan. Fór Þorbjörn þá heim og settist um kyrrt í búi sínu.
5. kafliÞar er nú til máls að taka að þau Hávarður og Bjargey spyrja þessi tíðindi, fall Ólafs sonar síns. Hávarður karl blés við mjög og gekk til sængur sinnar. Var og svo sagt að alla þá tólf mánuði næstu lá hann í rekkju og reis aldrei úr. En Bjargey tók það ráð að hún reri á sjó hvern dag með Þórhalli en hún vann um nætur það er hún þurfti. Fór nú svo fram þau misseri og er kyrrt allt. Verður ekki eftirmál um Ólaf. Þótti mönnum og ekki líklegt að nokkur rétting mundi frændum hans koma því að Hávarður þótti þá til einskis fær en við slíka stóreflismenn sem eiga er og eigi mjög væna til jafnaðar. Og liðu þau misseri.
Var það einn morgun að Bjargey gekk til funda við Hávarð karl og spurði hann hvort hann vekti. En hann kvaðst vaka og spurði hvað hún vildi.
"Það vil eg," segir hún, "að þú standir upp og farir á Laugaból og finnir Þorbjörn og beiðir hann bóta eftir Ólaf son þinn. Það er karlmannlegt mál að hann er til engra harðræðanna er fær að spara þá ekki tunguna að tala það er honum mætti verða gagn að. Muntu vera að ekki mikilþægur ef honum fer vel."
Hann svarar: "Eigi hygg eg gott til þess og þó skaltu ráða."
Eftir það býst Hávarður karl og fer þar til er hann kemur á Laugaból. Þorbjörn fagnaði honum vel. Hávarður tók kveðju hans.
Síðan mælti Hávarður karl: "Svo er mál með vexti Þorbjörn," mælti hann, "að eg er kominn að heimta bætur eftir Ólaf son minn er þú drapst saklausan."
Þorbjörn svarar: "Kunnigt er það Hávarður að eg hefi margan mann drepið. Þótt menn hafi saklausa kallað þá hefi eg engan fé bættan. En með því að þú áttir vaskan son og þér fellur svo nær þá ætla eg betur gert að minnast þín í nokkuru þó að lítið sé. Er hér hestur fyrir ofan garð er þeir sveinarnir kalla Dött. Hann er grár að lit, afgamall og baksár og hefir jafnan legið afvelta hingað til. En nú hefir hann verið á moðum nokkura daga og ætla eg hann batnað hafa. Far þú heim með hestinn ef þú vilt og eig."
Hávarður roðnaði og mátti engu svara. Fór hann þegar í brott og var stórlega reiður en Vakur æpti að honum. En hann gekk ofan til báts síns og fór allbjúgur en Þórhallur hafði þar beðið á meðan. Síðan reru þeir heim. Gekk Hávarður þegar til hvílu sinnar og lagðist niður og stóð aldrei upp á hinum næstum tólf mánuðum.
Spurðist þetta nú og þótti Þorbjörn enn sýnt hafa ójöfnuð og illmennsku í þessum svörum. Líða nú þau misseri.
6. kafliEn um sumarið ríður Þorbjörn til þings með menn sína úr Ísafirði.
Það er þá enn einn dag að Bjargey gengur til máls við Hávarð. Hann spurði þá hvað hún vildi.
Hún svarar: "Nú ætla eg að þú skulir ríða til þings og vita ef nokkuð skipast um mál þitt."
Hann svarar: "Þetta er mér mjög í móti skapi. Eða þykir þér eg ekki helst til hraktur af Þorbirni sonarbana mínum þó að eigi hrekti hann mig meir þar sem allir höfðingjar koma saman?"
"Eigi mun svo fara," sagði hún. "Þess get eg að nú verði nokkurir veitandi að þínu máli og mun það gera Gestur Oddleifsson. Og ef svo fer sem eg get að hann komi sættum á með ykkur Þorbirni og hljóti hann að gjalda þér fé mikið þá get eg að hann láti margt manna hjá vera og mun hringur sleginn um yður og munuð þér fáir vera innan í hringnum þá er Þorbjörn greiðir féið. Og ef svo ber til áður greitt er féið að Þorbjörn gerir það nokkuð er þér er í móti skapi eða raun að þá skaltu skunda á brott sem mest máttu. Og ef þér verður þá léttara en þér þætti von á þá skaltu ekki sættast á þetta mál því að þá er von þó að ólíklegt sé að hefnt verði Ólafs sonar okkars. En ef þér léttist þá ekki þá skaltu ekki ósáttur fara af þinginu því að þá mun ekki hefndin verða."
Hann kvaðst ekki vita til hvers þetta kæmi "en ef eg vissi að hefndin mætti verða eftir Ólaf son minn þá hirði eg aldrei hvað eg ynni þar til."
7. kafliEftir það býr hún ferð hans og ríður hann leið sína. Var karl heldur bjúgur og kemur hann á þing. Voru þá tjaldaðar búðir og menn allir komnir. Hann reið að einni mikilli búð en þá búð átti Steinþór af Eyri, ríkur maður og höfðingi mikill og hinn mesti garpur og fullhugi. Hann stígur af baki og gengur inn í búðina. Sat Steinþór og menn hans hjá honum þar. Hávarður gekk fyrir hann og kvaddi hann vel. Hann tók vel kveðju hans og spurði hver hann væri. Hávarður sagði til sín.
Steinþór mælti: "Ertu sá sem frægastan áttir son þann er Þorbjörn drap og menn ágættu mest vörn hans?"
Hann sagði að sá er hinn sami "og vildi eg bóndi að þú leyfðir mér að vera í búð þinni um þingið."
Hann svarar: "Það lofa eg víst. Og ver hljóður og fáskiptinn. Eru þeir sveinarnir jafnan glensmiklir og þér harmur mjög í hug. Ertu lítt við kominn, gamall og til einskis fær."
Það er sagt að Hávarður karl tekur sér einhvers staðar rúm í búðinni, leggst þar niður og gengur aldrei úr rúmi sínu. Aldrei kemur hann á mál sitt við nokkurn mann og líður mjög á þingið.
Það var einhvern morgun að Steinþór gengur að Hávarði og mælti: "Hví fórstu hingað þar sem þú liggur hér sem arftökukarl eða ófær maður?"
Hávarður svarar: "Hitt hafði eg ætlað að leita bóta eftir Ólaf son minn en eg em ófús til mjög. Er Þorbjörn óspar til illyrða og ódrengskapar."
Steinþór mælti: "Haf ráð mitt, gakk til funda við Þorbjörn og kær mál þitt. Vænti eg ef Gestur fer með þér að þú fáir rétt af Þorbirni."
Hann stóð þá upp og gekk út mjög bjúgur. Fór hann til búðar þeirra Gests og Þorbjarnar og inn í búðina. Var Þorbjörn þar en eigi Gestur. Þorbjörn heilsaði Hávarði og spurði hví hann væri þar kominn.
Hann svarar: "Svo verður mér minnisamt dráp Ólafs sonar míns að mér þykir sem nýtt sé og er það erindi mitt að beiða þig bóta fyrir vígið."
Þorbjörn svarar: "Hér kann eg gott ráð til. Kom til mín heim í héraði. Mun eg þá hugga þig að nokkuru en eg á nú margt að annast og vil eg að þú klymtir nú ekki á mér."
Hann svarar: "Ef þú gerir nú engan veg á þá hefi eg reynt að eigi gerir þú heldur heima í héraði. Hafði eg ætlað að nokkurir mundu styrkja mál mitt."
Þorbjörn mælti: "Heyrið fádæmi," segir hann. "Hann ætlar að koma mönnum á hendur mér. Ver á brott og kom ekki á þetta mál við mig síðan ef þú vilt ómeiddur vera."
Hávarður reiddist þá mjög og sneri út úr búðinni og mælti: "Urðum til gamlir og verið hefðu þeir mínir dagar að mér hefði ólíklegt þótt að eg mundi þola slíkan ójafnað."
Og er hann gengur í brott þá gengu menn í móti honum. Var þar Gestur Oddleifsson og fylgdarmenn hans. Hávarður var svo reiður að hann hugði varla að hvar hann fór. Hann vill og ekki finna mennina. Gekk hann heim til búðar. Gestur leit til mannsins er gekk hjá honum.
Hávarður gekk til rúms síns og lagðist niður og blés við. Steinþór spurði hversu farið hefði. Hann sagði sem fór.
Steinþór svarar: "Slíkt er óheyrilegur ójafnaður og vænn til mikillar sneypu nær sem fram kemur."
En er Gestur kom inn í búðina fagnaði Þorbjörn honum vel.
Þá mælti Gestur: "Hver gekk maður úr búðinni fyrir litlu?"
Þorbjörn svarar: "Hví spyrð þú svo undarlega, vitur maður? Ganga hér miklu fleiri út og inn en vér megum greina."
Gestur svarar: "Þessi maður var ólíkur öðrum mönnum. Hann var mikill vexti og nokkuð við aldur og skaust á fótum og þó hinn karlmannlegasti og svo leist mér sem fullur væri upp harms og óyndis og skaprauna og svo var hann reiður að hann gáði eigi hvar hann fór. Mér leist og maðurinn giftusamlegur og eigi allra færi við að eiga."
Þorbjörn svarar: "Þar mun verið hafa Hávarður karl þingmaður minn."
Gestur spurði: "Var sá ekki hans son er þú drapst saklausan?"
"Það ætla eg víst," sagði hann.
Gestur mælti: "Hversu þykist þú hafa efnt það er þú lofaðir mér þá er eg gifti þér systur mína?"
Þorgils hét maður og var kenndur við móður sína og kallaður Hölluson. Hann var hinn mesti ágætismaður og fullhugi. Var hann þá með Gesti frænda sínum og þá sem mestur uppgangur hans. Gestur bað Þorgils ganga eftir Hávarði og biðja hann þangað koma. Þorgils gekk til búðar Hávarðar og sagði honum að Gestur vildi finna hann.
Hávarður svaraði: "Ófús em eg að fara og verða að þola Þorbirni ójafnað og skemmileg orð."
Þorgils bað hann fara, "mun Gestur styðja þitt mál."
Hávarður fór og er þó tregur til. Koma þeir til Gests. Hann stendur upp í móti honum og fagnaði honum, setur hann niður hjá sér.
Þá mælti Gestur: "Nú skaltu Hávarður taka til að upphafi og segja frá skiptum ykkrum Þorbjarnar."
Hann gerði nú svo. Og er hann hafði sagt spurði Gestur Þorbjörn hvort nokkuð væri svo. Þorbjörn kvað ekki hégómað frá.
Gestur mælti: "Hefir nokkur heyrt slíkan ójafnað? Eru hér tveir kostir til. Sá annar að eg rýf öll kaup ella lát mig einn skera og skipta um ykkur mál."
Þorbjörn játar því.
Þeir gengu þá út úr búðinni. Kallaði Gestur til sín fjölda manna og stóðu menn í hring. En þar voru í hringnum nokkurir menn saman komnir og töluðu málið.
Þá mælti Gestur: "Eigi kann eg Þorbjörn að gera svo mikið sem vert væri fyrir því að þú hefir ekki til. Vil eg gera fyrir víg Ólafs þrenn manngjöld. En fyrir annan ójafnað þann sem þú hefir gert þeim Hávarði þá vil eg gera þér Hávarður, haust og vor, að þú komir til mín og skal eg sæma þig gjöfum og því heita þér að gera aldrei forverkum við þig meðan við lifum báðir."
Þá mælti Þorbjörn: "Þessu vil eg játa og gjalda hæglega heima í héraði."
Gestur svaraði: "Nú skal gjalda allt féið hér á þinginu og gjalda vel og skörulega. Mun eg svo leggja til ein manngjöld."
Lét hann og þegar það fram allt vel goldið. Settist Hávarður þá niður og hellti í kápuskaut sitt. Þorbjörn gekk þá að og galt smám og smám og gat goldið ein manngjöld og kvað þá lokið því er hann hefði til. Gestur bað hann þá ekki undan draga.
Þorbjörn tekur þá einn knýtiskauta og leysir til, "það mun víst að þá mun honum ekki vangoldið þykja ef þetta fer til" - slær síðan á nasir Hávarði svo að þegar féll blóð um hann - "eru þar nú tennur og jaxlar," segir Þorbjörn, "úr Ólafi syni þínum."
Hávarður sér nú að það hrynur ofan á kápuskautið. Sprettur hann upp ákafareiður svo að sinn veg hrýtur hver peningurinn. Hann hafði einn staf í hendi og hleypur að hringnum og setur stafinn fyrir brjóst einum manni svo að þegar fellur hann á bak aftur svo að hann lá lengi í óviti. Hávarður stökk út yfir mannhringinn svo að hann kom hvergi við og kom hvar fjarri niður og svo heim til búðar sem ungur maður. Og er hann kom heim mátti hann við engan mann mæla og kastaði sér niður og lá sem sjúkur væri.
Eftir þetta mælti Gestur við Þorbjörn: "Engum manni ertu líkur að illmennsku og ójafnaði. Kann eg og eigi að sjá á manni ef eigi iðrast þú þessa nokkurt sinn eða þínir frændur."
Gestur var þá svo reiður og óður að þegar ríður hann af þinginu til Ísafjarðar og gerir skilnað þeirra Þorbjarnar og Þorgerðar. Þykir Þorbirni nú hin mesta smán og öllum frændum hans en geta þó ekki að gert. Sagði Gestur að svo muni hann annarra skamma verri bíða og sér maklegri. Ríður Gestur á Barðaströnd með frændkonu sína og of fjár.
Svo er sagt að eftir þingið býst Hávarður karl heim. Var hann þá allstirður.
Þá mælti Steinþór: "Ef þú þarft Hávarður lítillar liðveislu við þá kom til mín."
Hann þakkaði honum, reið síðan heim og lagðist niður í sæng sína og lá þar hina þriðju tólf mánuði. Var hann þá miklu stirðastur. Bjargey hélt hinu sömu fram um athöfn sína að hún reri á sjó hvern dag með Þórhalli.
8. kafliÞað var einn dag um sumarið þá er þau voru á sjó að þau sáu skip fara inn eftir firðinum. Kenndu þau og að þar var Þorbjörn og heimamenn hans.
Þá mælti Bjargey: "Nú skulum við hafa uppi færi okkur og róa í móti Þorbirni. Vil eg finna hann. Skaltu róa framan að barðinu skútunnar en eg skal tala við Þorbjörn nokkuð en þú skalt róa í hring um skútuna á meðan."
Þau gera nú svo, róa að skútunni.
Bjargey kastar nú orðum á Þorbjörn. Heilsar hún honum og spyr hvert hann ætli að fara.
Hann kveðst skyldu fara vestur í Vaðil, "er þar kominn út Sturla bróðir minn og Þjóðrekur son hans. Skal eg flytja þá hingað til mín."
Hún spurði: "Hversu lengi muntu vera á brott bóndi?" segir hún.
"Nær viku," segir hann.
Þórhallur hafði þá róið umhverfis skútuna. Bjargey hafði poka nokkurn í hendi og veifði umhverfis skútuna. Og er hún hefir að gert slíkt er hún vildi þá fleyta þau í árum og róa í brott slíkt er þau mega.
Þá mælti Þorbjörn: "Kvenna örmust farandi. Og skulum vér þegar róa eftir þeim og drepa hann en meiða hana."
Þá mælti Brandur: "Nú sannar þú enn það er mælt er til þín að þú munir eigi spara flest illt að gera enda skal eg veita þeim er eg má. Skaltu þá að keyptu komast."
En við umtölur Brands og það er þau voru langt undan komin þá lét Þorbjörn vera kyrrt og fór leið sína.
Þá mælti Bjargey: "Eigi er það líklegt en er það þó ætlan mín að hefnt muni verða Ólafs sonar míns. Skulum við eigi heim."
"Hvert viltu þá?" segir Þórhallur.
"Nú skal fara," segir hún, "og finna Valbrand bróður minn."
Hann bjó á Valbrandsstöðum. Hann var gamall maður mjög en hafði verið hinn ágætasti maður. Hann átti tvo sonu, hina vænlegustu menn. Hét annar Torfi en annar Eyjólfur. Voru þeir þá á ungum aldri.
Þau létta eigi fyrr en þau koma þangað. Valbrandur var úti á töðuvelli og margt manna með honum. Hann gekk þá í mót systur sinni og fagnaði henni vel og bauð henni þar að vera.
En hún kvað sér það eigi gegna, "verð eg heim í kveld."
Hann spurði: "Hvað viltu þá systir?"
"Eg vildi að þú léðir mér nætur þínar."
Hann svaraði: "Hér eru þrjár nætur og er ein forn mjög og nú ekki trúleg en hefir verið örugg en tvær eru nýjar og óreyndar. Haf þú hvort er þú vilt tvær eða þrjár."
Hún svarar: "Þær vil eg hafa hinar nýju en eg vil eigi hætta til að hafa hina fornu. En lát þú búnar þessar nær er eg læt eftir koma."
Hann kvað svo vera skyldu.
Eftir það fóru þau á brott.
Þá mælti Þórhallur: "Hvert skulum við nú fara?"
Hún svarar: "Nú skal fara og finna Þorbrand bróður minn."
Hann bjó á Þorbrandsstöðum. Hann var þá gamall mjög. Hann átti tvo sonu unga. Hét annar Oddur en annar Þórir. Voru þeir vænlegir menn.
Og er þau komu þar fagnaði Þorbrandur þeim vel og bauð þeim þar að vera. Hún kvaðst það eigi mega.
"Hvað viltu þá systir?" segir hann.
"Eg vildi," segir hún, "að þú léðir mér net þín."
Hann svarar: "Eg hefi þrjú til og er eitt fornt mjög en tvö eru ný og hafa ekki höfð verið. Haf hvort er þú vilt tvö eða þrjú."
Hún kvaðst þau nýju hafa vilja og skildu að því.
Síðan fara þau í brott.
Þórhallur spurði: "Hvert skulum við nú fara?"
"Nú skal," segir hún, "fara að finna Ásbrand karl bróður minn."
Hann bjó á Ásbrandsstöðum. Hann var þeirra bræðra elstur. Hann átti systur Hávarðar karls. Hann átti son er Hallgrímur hét. Hann var ungur aldri en bæði mikill og sterkur, ófríður sýnum en þó karlmannlegur.
Og er Bjargey kemur þar fagnar Ásbrandur henni vel og bað hana þar vera. Hún kvaðst skyldu heim um kveldið.
Hann spurði: "Hvað viltu þá og kemur þú þó sjaldan að finna frændur þína?"
"Lítið er erindið," segir hún. "Vér erum svo óbirg um torffæri og vildi eg gjarna að þú léðir mér torföxi þína."
Hann svarar brosandi: "Hér eru tvær til og önnur ryðfrakka mikil, forn og skörðótt, og þykir nú til einkis fær. Önnur er ný og mikil og hefir til einkis höfð verið."
En hún kvaðst hafa vilja þá hina nýju "þá er eg læt vitja."
Hann svarar að hún skal ráða.
Síðan fara þau heim á Hávarðsstaði um kveldið.
9. kafliLíða nú nokkurir dagar þar til sem henni þótti von að Þorbjörn mundi vestan koma. Og einn dag gekk hún að sæng Hávarðar og spurði hvort hann svæfi.
Hann settist upp við og kvað vísu:
- Eigi hefr á augu,
- unnskíðs, komið síðan,
- dyggr dó af und eggjar
- oddstefnum, mér svefnar
- síð er hræstorðar harðan
- hjör gerðu styr börvar
- ótt, þeir er Áleif létu
- allsaklausan falla.
"Það er víst," segir hún, "að þetta er allmikil lygi að þú hafir aldrei sofið á þrem árum. En þó er nú upp að standa og gera sig sem vaskastan ef þú vilt hefna Ólafs sonar þíns því að eigi verður hans hefnt um aldur þinn ef eigi verður á þessari nátt."
En er hann heyrði ummæli hennar spratt hann upp úr sænginni og fram á gólfið og kvað þá vísu:
- Ákat hægt, af hægu
- hljóð veiti mér sveitir,
- enn í elli minni
- ívegstafi segja
- síð er vel hressa vissag
- vopna Njörð að jörðu.
- Minn er sonr að sönnu,
- snjallr aflstuðill, fallinn.
Hávarður var þá hinn sprækasti og skorti ekki göngu. Hann gekk til kistu einnar mikillar, hún var full af vopnum, og lauk henni upp, tók hjálm á höfuð sér og fór í sterka brynju. Hann leit þá upp og sá að már einn fló yfir glugginn.
Hann kvað þá vísu:
- Hlakkar hagli stokkinn
- hræs er kemr að sævi,
- móðr krefr morgunbráðar,
- már valkastar báru.
- Svo gól fyrr þá feigir
- fólknárungar váru
- Gunnar haukr, er gaukar
- Gauts bragða spá sögðu.
Hann vopnaðist skjótt og fimlega. Hann bjó og Þórhall með góðum vopnum. Og er þeir voru búnir sneri hann að Bjargeyju og minntist við hana, kvað þá eigi sýnt vera nær þau fyndust.
Hún bað hann vel fara: "Þarf eigi að hafa eggjunarorð við þig um hefnd eftir Ólaf son okkarn með því að eg veit að þar fylgir kapp og hreysti er þú ert."
Eftir það skildu þau. Gengu þeir ofan til sjávar, hrundu fram sexærum bát og taka til ára, léttu eigi fyrr en þeir komu fyrir bæ Valbrands. Þar var eyrartangi langur er gekk út í sjóinn. Lögðu þeir þar að bátinn. Bað Hávarður Þórhall að gæta bátsins en hann gekk upp til bæjarins. Hann hafði spjót í hendi. Var það ágætt vopn. Og er hann kom upp á völlinn voru þeir þar feðgar. Þeir bræður voru af klæðunum og rökuðu upp töðuna. Þeir höfðu tekið af sér skóna og sett á völlinn hjá sér. Voru það upphávir skór. Valbrandur gekk í móti Hávarði og fagnaði honum vel og bauð honum þar að vera.
Hann kveðst ekki þar vera mega: "Er eg kominn að vitja nóta þinna er þú léðir systur þinni."
Hann gekk að sonum sínum og mælti: "Hér er kominn Hávarður mágur ykkar og er þann veg búinn sem þá er hann mundi ætla til stórræða nokkurra."
Og er þeir heyra þetta kasta þeir hrífunum og hlaupa til klæða sinna. Og er þeir skyldu taka skóna höfðu þeir skorpnað í skininu. Þeir stigu í ofan sem skjótast svo að þegar gekk skinnið af hælunum. Og er þeir komu heim voru skórnir fullir af blóði.
Valbrandur fékk sonum sínum góð vopn og mælti: "Veitið Hávarði góða fylgd. Hyggið meir á hefnd en hvað eftir kemur."
Eftir það fóru þeir á Þorbrandsstaði. Voru þeir og skjótt búnir, Oddur og Þórir. Fóru nú þar til er þeir komu á Ásbrandsstaði. Krafði Hávarður þar torföxarinnar. Bjóst Hallgrímur frændi hans þá til ferðar með honum.
Ánn er maður nefndur. Hann var heimamaður Ásbrands. Hafði hann húskarls verk. Hann var fóstri Hallgríms og bjóst til ferðar með þeim. Og er þeir voru búnir fara þeir þar til er báturinn var. Fagnaði Þórhallur þeim vel. Voru þeir þá átta saman og hver öðrum víglegri.
Þá mælti Hallgrímur við Hávarð frænda sinn: "Hví fórstu svo heiman frændi að þú hafðir hvorki sverð né öxi?"
Hann svarar: "Verði svo vel að vér finnum Þorbjörn Þjóðreksson eftir vorn skilnað skaltu annað mæla því að mér ætla eg sverðið Gunnloga er best vopn er."
Þeir báðu hann lúka heilum munni í sundur, "væri oss nú mikið undir að oss tækist karlmannlega til handa."
Það var mjög að áliðnum degi. Þeir hrinda þá fram bátnum og stigu þar á og tóku til ára. Þeir sáu að hrafnaflokkur mikill fló fyrir þeim og yfir eyrartangann er fyrir þeim var.
Hávarður kvað þá vísu:
- Efna hygg, það er Yggjar
- eg hef heitið má feitu.
- Sundlíri flýgr sára
- svangr fyr eyrar tanga.
- Veit eg að vér munum hljóta,
- vel er fallið það, allir,
- hljómr er af hjörva glaumi,
- Hallgrímr, farar tíma.
Þeir fóru yfir sundið og var hvasst mjög á firðinum og fengu mjög framanvott. Sóttu þeir drengilega og léttu eigi fyrr en þeir komu fyrir Laugaból. Var þar gott að að leggja fyrir því að Þorbjörn hafði látið gera þar höfn góða. Hann hafði látið ryðja og hreinsa allt inn að landi. Var þar aðdjúp mikið. Mátti þar fljóta skúta eða stærri skip þó að vildi. Þar voru og grafin niður rif stór fyrir hlunna og festir endarnir grjóti. Þurfti þar engi maður votur að verða þó að af skipinu stigi eða á skip og hvort er var meira skip eða minna. En uppi yfir var malarkampur hár. Fyrir ofan kampinn stóð hurðanaust mikið og var vel um horfið. Til annarrar handar var lón mikið fyrir ofan kampinn. Frá naustinu sá engi í fjöruna en af malarkampinum mátti bæði sjá til naustsins og í fjöruna. Og er þeir koma að landi hlaupa þeir af bátinum.
Þá mælti Hávarður: "Nú skulum vér bera bátinn upp yfir kampinn á lónið. Vér skulum og vera fyrir ofan kampinn svo að þeir megi eigi þegar sjá oss. Verum og eigi of veiðibráðir. Hlaupi engi fyrr upp en eg segi fyrir."
Var þá mjög dimmað.
10. kafliÞar er nú til máls að taka að Þorbjörn og þeir félagar fóru vestan tíu saman á skútunni. Var Sturla þar og Þjóðrekur son hans, Þorbjörn og Vakur, Brandur hinn sterki og tveir húskarlar. Höfðu þeir hlaðið mjög skútuna. Og þetta hið sama kveld koma þeir við Laugaból fyrir myrkur.
Þá mælti Þorbjörn: "Vér skulum fara að engu ótt og skulum vér láta liggja skútuna hér í nátt og ekki af bera nema vopn vor og klæði. Er nú veður gott og þurrlegt. Skaltu Vakur bera upp vopn vor."
Hann tók fyrst sverð þeirra og bar upp að naustinu.
Þá mælti Torfi: "Tökum fyrst sverð þeirra og þann sem fylgir."
"Látum vera enn," sagði Hávarður.
Hann bað Hallgrím fara og taka sverðið Gunnloga og færa sér. Og er Vakur gekk ofan hljóp Hallgrímur og tók sverðið og færði Hávarði. Hann brá á loft við og skók meðalkaflann.
Vakur gekk upp í annað sinn og hafði hlaðið á bak sér skjöldum en stálhúfum hafði hann hlaðið á handlegg sér. Hann hafði hjálm á höfði. Og er hann var kominn upp með lóninu þá hlupu þeir upp og ætluðu að taka hann. Og er hann heyrir harkið til þeirra þóttist hann vita að ófriður mundi vera. Ætlaði hann að skunda til þeirra með vopnin. Og er hann bregður við hart skruppu honum fæturnir við lónið svo að höfuðið kemur fyrst niður á honum. Var þar blautt mjög en vatnið grunnt en maðurinn þungur á sér með vopnum öllum. Getur hann og eigi upp staðið en engi þeirra vildi duga honum og lýkur svo ævi Vakurs að hann deyr þar.
Og er þeir sáu það hlaupa þeir ofan á malarkampinn. Og er þetta sér Þorbjörn kastar hann sér þegar á sund og leggst frá landi. Þetta sér fyrst Hávarður karl, skundar þegar og kastar sér á sund eftir Þorbirni.
Svo er sagt um Brand hinn sterka að hann hleypur að og rífur upp einn hlunn, það var hvalrif mikið, og rekur í höfuð fóstra Hallgríms. Hallgrímur var þá ofan kominn af mölinni og sá að Ánn féll. Hann hljóp að með reidda öxina og hjó í höfuð Brandi og klauf hann í herðar niður. Og í þessari svipan hlupu þeir á sund, Þorbjörn og Hávarður. Og er Hallgrímur sér það hleypur hann þegar eftir þeim. Torfi Valbrandsson hleypur í móti Sturlu. Var hann bæði mikill og sterkur og hverjum manni betur vígur. Hann var og með vopnum sínum öllum. Þeir börðust bæði lengi og drengilega.
11. kafliNú verður þar til að taka er þeir Þorbjörn eru og Hávarður. Þeir leggjast frá landi. Var það langt sund þar til Þorbjörn kom í eitt sker er þar liggur frammi fyrir. Og er hann kemur í skerið þá kom Hávarður að framan. Og er Þorbjörn sér það, var hann vopnlaus fyrir, þrífur þá upp stein mikinn og ætlaði að keyra í höfuð honum. Og er Hávarður sér það kom honum í hug að hann hafði heyrt sagt utan úr löndum að þar var annar siður boðaður en norður í lönd og með því ef nokkur kynni honum það að segja að sú trúa væri betri og fegri þá skyldi hann því trúa ef hann sigraði Þorbjörn. Og eftir það lagði hann sem harðast að skerinu. Og er Þorbjörn ætlaði að kasta steininum skruppu honum fæturnir og varð honum á hált á grjótinu svo að hann féll á bak aftur en steinninn fellur ofan á bringspalir honum og verður honum ósvipt við. Og í því komst Hávarður upp á skerið og lagði hann þegar í gegnum með sverðinu Gunnloga. Hallgrímur var þá upp kominn í skerið. Hávarður hjó þá um þvert andlitið og klauf tennur og jaxla og þar niður í gegnum. Hallgrímur spurði hví hann gerði svo við dauðan mann.
Hávarður svaraði: "Það var mér þá í hug er Þorbjörn rak knýtilskautann á nasir mér. Hrundu þá úr tennur og jaxlar er hann hafði höggvið úr Ólafi syni mínum með hinu sama sverði."
Síðan lögðust þeir til lands. Þótti mönnum síðan, þeim sem um töluðu, Hallgrímur hraustlega farið hafa er hann lagðist út á fjörðinn en vissi ekki til að skerið væri út undan. Var það þó alllangt sund.
En er þeir komu að landi var þar allkyrrlegt. Og er þeir komu upp að mölinni hljóp maður mót þeim með reidda öxi. Sá var í blám stakki og gyrður í brækur. Þeir snúa í mót honum og er þeir fundust kenndu þeir þar Torfa Valbrandsson og fögnuðu þeir honum vel. Spurði Torfi hvort Þorbjörn væri dauður.
Hávarður kvað vísu:
- Mótreyni klauf eg mána
- málma braks í jaxla.
- Segg lét eg alms í augu
- eitt högg staðar leita.
- Sákak hitt að hrykki
- hringmerktr fetilsstingi.
- Hné Gunnlogi, gunnar
- gjallharðan sá eg falla.
Hávarður spurði hvað þeir hefðu að gert. Torfi sagði að Sturla væri fallinn og húskarlarnir "enda er Ánn dauður."
Hávarður kvað vísu:
- Vér höfum fellda fjóra,
- feng tel eg í því drengjum,
- brátt þeir er blóðgan létu
- Bjargeyjar son deyja.
- Enn af órum mönnum
- einhvern sollinn, geira
- þjónn var hæfðr með hlunni,
- Hallgrímr kveðr nú fallinn.
Þeir gengu þá upp að naustinu. Voru þeir þar fyrir félagar og fögnuðu þeim vel. Þá spurði Eyjólfur Valbrandsson hvort eigi skyldi drepa þrælana.
Hávarður kvað ekki að hefndara Ólafs sonar síns þó að þeir dræpu þrælana "veri þeir hér í nátt og geymi svo að engir steli af rekunum."
Þá spurði Hallgrímur hvað þeir skyldu þá að hafast.
Hávarður svaraði: "Vér skulum taka skútuna og allt það er oss þykir slægur til og halda undir Mánaberg og finna Ljót kappann. Væri heldur hefnd í slíkum mönnum sem hann er ef svo vel vildi verða."
Þeir taka nú skútuna og marga gripi þá er þeir frændur höfðu átt og róa út eftir firði og framan að Mánabergi.
Þá mælti Hávarður: "Nú munum vér verða með ráðum að að fara. Er Ljótur var um sig. Á hann jafnan sökótt. Hann lætur vaka yfir sér hverja nátt með vopnum. Hann liggur í lokrekkju læstri hverja nátt. Jarðhús er í hvílugólfinu og er annar jarðhússmunninn á baki húsunum. Hefir hann og margt manna með sér."
Þá mælti Torfi Valbrandsson: "Það er mitt ráð að vér berum eld að bænum og brennum inni hvert mannsbarn."
Hávarður sagði að eigi skyldi svo vera: "Skuluð þið Hallgrímur frændi vera uppi á húsunum og gæta þess jarðhússmunnans er út má ganga. Trúi eg ykkur best til. Hér eru og tvennar dyr framan á bænum. Á skálanum eru og tvennar dyr. Nú skulum við Eyjólfur ganga inn aðrar en þeir bræður Oddur og Þórir aðrar og svo í skálann en þú Þórhallur skalt gæta hér skútunnar og skaltu verja með karlmennsku þó að þess þurfi með."
Og er hann hefir til skipað svo sem hann vill þá ganga þeir heim að bænum. Útibúr mikið stóð í túni og maður einn sat undir veggnum með vopnum. Og er þeir koma mjög svo að upp sér hann mennina og sprettur upp og hleypur og ætlar að gera vart við komu þeirra. Hallgrímur gekk fyrstur þeirra félaga. Hann skaut spjóti eftir honum og rak í gegnum hann við vegginn. Dó hann þegar á spjótinu. Eftir það gengu þeir þangað sem ætlað var. Ganga þeir Torfi og Hallgrímur þangað sem útganga var á bænum.
12. kafliSvo er sagt að Hávarður snarast inn í skálann. Brann þar ljós og var ljóst hið efra en dimmt hið neðra. Hann gekk þar þegar að hvílugólfinu. Bar þá svo til að húsfreyja var ekki í sæng komin, var í stofu og konur hjá henni. Var þá ekki læst hvílugólfið. Hávarður slær flötu sverðinu á hurðina. Ljótur vaknaði við og spurði hver harkaðist. Hávarður karl sagði til sín.
Ljótur mælti þá: "Hví ertu hér Hávarður karl? Var oss sagt í fyrra dag að þú værir að dauða kominn."
Hávarður svarar: "Annars dauða muntu fyrr spyrja. Kann eg að segja þér víg bræðra þinna, Þorbjarnar og Sturlu."
Og er hann heyrir þetta hljóp hann upp í rúminu og grípur ofan sverð er hékk yfir honum. Ljótur bað menn upp standa í skálanum og taka til vopna. Hávarður hljóp þá upp í hvílugólfið og hjó til Ljóts á öxlina vinstri en Ljótur brást við hart og bar sverðið út af öxlinni og flusti ofan handlegginn og af höndina í ölnbogabótinni. Ljótur hljóp fram úr rúminu með brugðið sverðið og ætlaði að höggva til Hávarðar. Þá var Eyjólfur upp kominn og hjó á öxlina hægri og af höndina og felldu þeir þar Ljót. Þá var ys mikill í skálanum. Vildu húskarlar Ljóts þá upp standa og taka til vopna. Voru Þorbrandssynir þá inn komnir. Fengu menn þá einstaka slög og skeinur.
Þá mælti Hávarður og bað húskarla vera sem kyrrasta, sýna eigi illt af sér "ella drepum vér hvert mannsbarn á fætur öðru."
Þykir þeim sá bestur að liggja sem kyrrastir. Var Ljótur fám harmdauði þó að þeir hefðu verið með honum. Eftir það snúa þeir út. Vildi Hávarður þar ekki að gera fleira. Þá komu þeir á móti þeim, Torfi og Hallgrímur. Höfðu þeir þá ætlað til inngöngu og spurðu hvað að hefði gerst.
Hávarður kvað þá vísu:
- Snart gekk sonr, þá er sótti
- Sunnar bliks að runni,
- hvatr frá eg hjör brá, bitrum
- blóðísi, Geirdísar.
- Enn réð Eyjólfr minnast
- eggleiks við kyn seggja,
- geira Baldr, að gjalda
- gunnblaks fyrra runnum.
Síðan gengu þeir ofan til skútunnar og heilsaði Þórhallur þeim vel. Þá spurði Torfi Valbrandsson hvað nú skyldi að hafast.
"Nú skal leita til trausts nokkurs. Þó að ekki verði hefndin jafnmikil sem eg vildi þá munum vér þó ekki einhlítir til að halda oss eftir þessi verk. Eru enn margir frændur Þorbjarnar, þeir er mikils eru verðir. Þykir mér líkast að leita til Steinþórs á Eyri. Hefir hann helst haft tilmæli við mig ef eg þyrfti nokkurs við."
Allir þeir báðu hann fyrir sjá og sögðust það vilja gera er hann vildi og eigi fyrr við skiljast en hann sæi ráð fyrir. Eftir það halda þeir út á fjörðinn. Tóku þeir að spenna árarnar en Hávarður settist við stjórn. Þá mælti Hallgrímur og bað Hávarð kveða vísu nokkura.
Hávarður kvað þá vísu þessa:
- Heldr höfum heiftir goldið,
- Hallgrímr, saman allir,
- vígs iðrumk þess þeygi,
- þjóreks sonum stórar.
- Urðu æski-Nirðir
- oddregns of sök vegnir.
- Ör þjóða veit eg eyði
- inngjarna Þorbjarnar.
13. kafliNú er ekki að segja frá þeirra ferð fyrr en þeir koma á Eyri. Var það þann tíma dags er Steinþór sat að borðum með menn sína. Þeir ganga í stofuna fjórir saman með vopnum: Gekk Hávarður fyrir Steinþór og kvaddi hann. Steinþór tók kveðju hans og spurði hver hann væri. Hann kveðst Hávarður heita.
"Varstu í búð vorri í fyrra sumar?"
Hann kvað svo verið hafa.
Steinþór mælti: "Hafið þér séð ólíkara mann piltar sjálfum sér er hann er nú eða þá var hann? Sýndist mér sem hann gæti varla gengið staflaust á milli búða og oss þótti líklegur til kararmanns með því að honum skapraunaði mjög. En nú sýnist mér maðurinn hinn gervilegasti undir vopnum. Eða segið þér nokkuð tíðinda?"
Hávarður svaraði: "Vér segjum víg Þorbjarnar Þjóðrekssonar og bræðra hans, Ljóts og Sturlu Þjóðrekssona, Brands hins sterka og þeirra sjö saman."
Steinþór svarar: "Þetta eru mikil tíðindi. Eða hverjir hafa þetta gert er drepið hafa niður kappa hina mestu og stóreflismenn?"
Hávarður mælti og sagði að þeir frændur hafi það gert. Steinþór mælti og spurði hvert Hávarður ætlaði að leita trausts eftir slíkt stórvirki.
Hávarður svarar: "Það hefi eg ætlað sem nú er orðið að leita til þín. Þótti mér þú það mæla í fyrra sumar á þingi ef eg þyrfti lítillar liðveislu við að eg mundi eigi síður koma til þín en til annarra höfðingja."
Steinþór svaraði: "Eigi veit eg nær þú þykist mikillar þurfa ef nú þarftu lítillar. En það máttu hugsa að eigi mundi eg þá góður viðtakna ef nokkurs þyrfti við er nú læt eg seint við. Skal og eigi svo vera. Vil eg bjóða þér Hávarður hér að sitja með félögum þínum þar til er þessi mál koma til vegar. Vil eg og því heita að rétta yður mál eftir, því að mjög líst mér svo á yður að sá mun betur hafa er við yður tekur og er ekki víst að jafnröskva menn fái sem þér eruð. Hefir þetta meir gengið eftir málefnum en líkindum."
Hávarður kvað þá vísu:
- Nú er jafnöndum efni
- angrsólar fram ganga,
- varra elds þeir er vilja
- viggs teymendur fremja.
- Vera kveða ham enn höggvinn
- hjör saklausra börva
- Ísfirðinga angri
- eirlaust, skart hið trausta.
Þökkuðu þeir Steinþóri mikilmannlegt boð. Hann bað taka við klæðum þeirra og vopnum og fá þeim þurr klæði. Og er Hávarður tók af sér hjálminn og steypir af sér brynjunni þá kvað hann vísu:
- Hlógu herðidraugar
- hvinnendr of sök minni.
- Fróns á frænda mínum
- falli dómr í skalla.
- Nú tér, síð er vegnir voru
- víðníðingar sverðum,
- hverju hóps í bjargi
- hóts annan veg þjóta.
Steinþór bað Hávarð að ganga til bekkjar og sitja gegnt sér "og skipa þar félögum þínum hjá þér."
Hávarður gerir og svo, skipar Hallgrími frænda sínum innar frá sér en innar frá honum sitja þeir Þórir og Oddur Þorbrandssynir en utar frá Hávarði sátu þeir Torfi og Eyjólfur Valbrandssynir, þá Þórhallur, þá heimamenn þeir sem áður sátu.
Og er þeir setjast niður þá kvað Hávarður vísu:
- Hallgrímr, skulum heiman,
- hlíti eg vættungi níta,
- uggi eg ógnir mestu,
- oddvargs úr stað bíða.
- En víg þau er vér vógum,
- vildi eg aldrei gjalda
- geira gætiáru,
- gervöll í strá falla.
Þá mælti Steinþór: "Auðheyrt er það nú Hávarður að þér gengur nú flest eftir vilja. Enda væri þá svo og ef ekki eftirmál mundi verða um jafnhrausta menn og ríka sem þeir voru allir frændur og svo miklir menn sem enn eru til eftirmálsins."
Hávarður kveðst aldrei hugsa um eftirmál, kvað lokið því héðan af að hann mundi hafa nokkura sorg eða angur í sínu hjarta og þykja eigi þann veg vel sem af reiddi hans mál. Var hann og svo kátur og glaður við hvert mannsbarn sem ungur væri.
Spyrjast nú þessi tíðindi víða og þótti með mestum ólíkindum verða.
Sátu þeir nú á Eyri með Steinþóri bónda. Skorti þar ekki fjölmenni mikið og hinn mesta fagnað. Þar var ekki færra en sex tigir vígra manna.
Hverfum nú frá er þeir sitja á Eyri með Steinþóri í góðum fagnaði og með miklum kostnaði.
14. kafliLjótur hét maður. Hann bjó á Rauðasandi. Hann var kallaður Hólmgöngu-Ljótur. Var hann bæði mikill og sterkur og hinn mesti hólmgöngumaður. Hann var bróðir Þorbjarnar Þjóðrekssonar. Er svo sagt að Ljótur var hinn mesti ójafnaðarmaður og hafði öxi í höfði hverjum manni er eigi vildi laust láta fyrir honum það er hann vildi og báru engir menn frjálst höfuð fyrir honum þar um Rauðasand og víðar annarstaðar.
Þorbjörn hét maður. Hann bjó þar sem heitir á Eyri. Hann var auðigur maður að fé og kominn mjög á hinn efra aldur og ekki mikilmenni að skapi. Hann átti tvo sonu. Hét annar Grímur en annar Þorsteinn.
Svo er sagt að þeir Ljótur og Þorbjörn áttu eitt veitiengi báðir saman. Var það hin mesta gersemi. Var svo skilið að sitt sumar skyldu hafa hvorir. En sá lækur féll fyrir neðan bæ Ljóts er hljóp á engið á vorin. Voru þar í stíflur og vel um búið. Fór svo jafnan er Þorbjörn átti að hafa engið að hann náði aldrei læknum og kom svo að Ljótur lét næsta þau orð um fara að Þorbjörn ætti ekki í og skyldi hann eigi þora að eigna sér. Og er Þorbjörn heyrði þetta þykist hann vita að Ljótur mun það efna sem hann hefir heitið. Var skammt milli bæja þeirra.
Og einn dag fundust þeir. Spurði Þorbjörn hvort Ljótur ætlaði að taka af honum engið.
Ljótur svaraði og bað hann ekki orð til leggja: "Skal þér eigi duga heldur en öðrum að kvarta um það er eg vil vera láta. Ger annaðhvort, lát þér vel líka það er eg vil gera ellegar rek eg þig brott af eignum þínum. Skaltu hvorki hafa engið né annað."
Og er Þorbjörn vissi ójafnað Ljóts, en hann hafði of fjár, þá kaupir hann engið eftir því sem Ljótur kvað á og gaf fyrir tuttugu hundruð þegar í stað og skilja að því.
Og er sveinarnir spyrja þetta verða þeir stórilla við og kalla þetta hið mesta arfrán að kaupa það er hann átti áður. Spyrst þetta nú víða. Þótti mönnum þetta hinn mesti ójafnaður orðinn.
Þeir bræður gættu fjár föður síns. Var Þorsteinn tólf vetra en Grímur tíu.
Það var einn dag á öndverðum vetri er þeir bræður gengu til fjárhúsa, hafði veður komið mikið, og ætluðu að vita hvort heim væri kominn allur fénaðurinn. Það bar saman að Ljótur hafði þá gengið um morguninn til reka sinna. Hann var umsvifsmaður mikill um bú sitt. Það var í þann tíma er sveinarnir voru komnir að húsinu þá sjá þeir að Ljótur gengur neðan frá sjónum.
Þá mælti Þorsteinn við Grím bróður sinn: "Sérð þú Hólmgöngu-Ljót þar sem hann gengur neðan frá sjónum?"
"Hví mun eg ekki sjá hann?" segir Grímur.
Þá mælti Þorsteinn: "Mikinn ójafnað gerir Ljótur þessi oss og mörgum öðrum og er mér það í skapi að hefna ef eg gæti."
Grímur mælti: "Þetta er óviturlega mælt að þú mundir sýna nokkura óvísu af þér við slíkan kappa sem Ljótur er og gildari en fjórir eða fimm aðrir þó að mjög séu vaxnir og er hann ekki barna færi."
Þorsteinn svaraði: "Ekki gerir að letja mig. Skal eg til ráða allt að einu en þú munt líkjast föður þínum og vilja vera ræningi Ljóts sem margir aðrir."
Grímur svarar: "Með því að þér er þetta í hug frændi þá mun þér verða of lítið gagn að mér en slíkt sem er þá skal eg veita þér eftir megni."
"Þá fer þér vel," segir Þorsteinn, "og má vera að gangi eftir málaefnum."
Þeir höfðu handöxar í hendi og voru þær litlar og biturlegar. Standa þeir nú og bíða til þess er Ljót ber að húsinu. Hann snarast fram hjá þeim. Hafði Ljótur bolöxi í hendi. Hann gengur leið sína og lætur eigi sem hann sjái sveinana. Og er hann ber fram hjá þeim þá höggur Þorsteinn á öxlina Ljóti. Öxin beit ekki en þó varð höggið svo mikið að höndin gekk úr axlarliðnum. En er Ljótur sá að sveinarnir vildu glettast við hann snarast hann við og hóf upp öxina og ætlaði að slá Þorstein með öxinni. Og í því er hann reiðir upp öxina hleypur Grímur að og höggur af Ljóti höndina fyrir ofan úlflið. Fellur þá niður höndin með öxinni. Láta þeir þá skammt höggva á milli og er eigi sagt líklegra en svo að þeir fella þar Hólmgöngu-Ljót en verða ekki sárir. Grafa þeir hann niður í fönnina og ganga þar frá.
Og er þeir koma heim var faðir þeirra í durum úti og spurði hví þeim hefði seint orðið eða hví blóðug væru klæði þeirra. Þeir segja víg Ljóts. Hann spyr hvort þeir hefðu drepið hann. Þeir segja að svo var.
Þá mælti hann: "Verðið í brott vondir óhappamenn. Hafið þið unnið hið mesta óhappaverk og drepið hinn mesta höfðingja og vorn formann. Munuð þið það hafa að gert að eg mun ger af eignum mínum og öllu því er eg á en þið munuð drepnir og er það allvel."
Þorbjörn hljóp þá brott og út frá bænum.
Grímur mælti: "Fáumst við aldrei við skrattakarl þenna er svo lætur leiðinlega og er þetta eigi meðalvesalingur hversu sér lætur."
Þorsteinn svarar: "Finnum við hann því að það grunar mig að hann sé eigi jafnreiður sem hann lætur til reiðulega."
Eftir það ganga þeir að honum. Þorbjörn mælti glaðlega við þá og bað þá bíða sín þar. Hann gekk þá heim og var litla stund á brott. Hann kom aftur með hesta tvo vel búna.
Þá mælti Þorbjörn að þeir skyldu stíga á bak: "Vil eg senda ykkur á Eyri til Steinþórs vinar míns. Biðjið hann að taka við ykkur. Er hér gullhringur, mikil gersemi, er þið skuluð gefa honum. Hefir hann oft til mælt og fengið aldrei en nú skal lausan láta fyrir ykkra nauðsyn."
Eftir það minnist karl við sonu sína og bað þá vel fara og heila hittast.
Er nú ekki sagt frá þeirra ferð fyrr en þeir koma á Eyri. Var það snemma dags. Ganga þeir til stofunnar og var hún altjölduð og skipuð á báða bekki. Skorti þar eigi glaum né gleði. Þeir ganga fyrir Steinþór og kveðja hann vel. Hann tók vel kveðju þeirra. Hann spurði hverjir þeir væru. Þeir sögðu nöfn sín og föður síns.
Þá mælti Þorsteinn: "Hér er hringur er faðir minn sendi þér og með kveðju sína og bað þess að þú veittir okkur veturvist í vetur eða lengur þó að við þyrftum."
Steinþór tók við hringnum og mælti: "Segið þið nokkur tíðindi?"
Þeir segja þá víg Ljóts og það að þeir hefðu drepið hann.
Steinþór svarar: "Þetta er enn orðið undarlega, að tvö ungmenni hafa orðið að skaða þvílíkum kappa sem Ljótur var. Eða hvað var til saka?"
Þeir sögðu slíkt sem þeim þótti vera.
Steinþór mælti: "Það er ráð mitt að þið gangið yfir fyrir hann Hávarð hærukarlinn er situr gegnt mér. Spyrjið hann eftir hvort hann vill taka við ykkur eða eigi í sveit með sér."
Þeir gera nú svo, ganga fyrir Hávarð. Hann fagnar þeim vel og spurði tíðinda og lét sem hann hefði ekki heyrt en þeir sögðu honum frá sem innilegast.
Og er lokið var ræðu þeirra sprettur Hávarður upp í móti þeim og kvað vísu:
- Þekkilegr var vígi.
- Vertu hollr hér þollum.
- Enn eg æski runnum
- ógurlegum sólar.
- Þann vissi eg mér manna
- mest alls á Hlín fallinn.
- Orðin spyrji fárleg fyrðar
- flest andskotum vestan.
Hávarður skipar þeim bræðrum utar frá sér. Sátu þeir þá glaðir og kátir.
Spyrjast nú þessi tíðindi um allan Rauðasand og víða annarstaðar. Finnst Ljótur þar dauður undir veggnum. Var þá farið til Þorbjarnar og hann að spurður. Þrætti Þorbjörn ekki að synir hans hefðu drepið hann. Og með því að Ljótur var óvinsæll um Rauðasand og Þorbjörn kveðst hafa illa við orðið og rekið þá á brott, og það bera heimamenn með honum, þá verður þar ekki eftirmál að sinni. Sest Þorbjörn um kyrrt í búi sínu.
15. kafliNú er þar til að taka að þeir sitja á Eyri allir saman vel haldnir. Varð Steinþóri kostnaðarsamt svo margt fjölmenni sem hann hafði og þurfti stóran kostnað til að leggja svo mikla rausn sem hann hélt.
Atli hét maður er bjó í Otradal og átti systur Steinþórs á Eyri er Þórdís hét. Atli var manna minnstur og vesallegastur og svo er sagt að þar eftir væri skaplyndi hans, að hann var hinn mesti vesalingur, en var þó stórra manna og svo auðigur að hann vissi varla aura sinna tal. Hafði Þórdís verið gift Atla til fjár. Svo er sagt að bærinn í Otradal er kominn mjög af almannaveg. Það var út öðrum megin fjarðarins gegnt Eyri. Atli tímdi ekki að halda vinnumenn. Vann hann bæði nátt og dag slíkt er hann mátti. Hann var og svo einþykkur að hann vildi hvorki eiga við aðra menn gott né illt. Hann var hinn mesti búmaður. Hann átti útibúr mikið. Var þar í alls konar gæði. Þar voru inni hlaðar stórir og alls konar slátur, skreið og ostar og allt það er hafa þurfti. Atli hafði þar gert sæng sína og lágu þau þar hverja nátt.
Svo er sagt að einn morgun var Steinþór snemma á fótum og gekk að sæng Hávarðar og tók á fótum hans og bað hann upp standa. Hávarður spratt upp skjótt og fram á gólfið. Og er hann stóð upp þá stóð upp hver að öðrum þeirra félaga því að það var vandi þeirra að allir gengu hvert sem einn þurfti að fara. Og er þeir voru allir búnir gengu þeir út í túnið. Steinþór var þar fyrir með nokkura menn.
Þá mælti Hávarður: "Búnir erum vér bóndi að fara hvert er þér viljið láta fara. Viljum vér gjarna þér fylgja hvort sem er ríflegt eða óríflegt en það er eftir metnaðar míns að eg vil eigi vera í þeirri ferð er eg veit eigi hvert eg skal fara."
Steinþór svarar: "Eg ætla að fara til Atla mágs míns og vil eg að þér veitið mér brautargengi."
Þeir gengu ofan til sjóvar. Var þar skúta sú er þeir höfðu tekið af Þorbirni. Þeir hrundu fram skútunni og tóku til ára og reru yfir á fjörðinn. Þótti Steinþóri þeir félagar til alls harðfengilega taka.
Þenna morgun stóð Atli bóndi snemma upp og gekk af sæng sinni. Atli var svo búinn að hann var í hvítum stakki, stuttum og þröngum. Var maðurinn ekki skjótlegur á fótum. Var hann bæði vesalmannlegur og ljótur að sjá, sköllóttur og inneygur. Hann gekk út og sá til veðurs. Veður var kalt og frost mikið. Hann sá að skip fór handan yfir fjörðinn og komið mjög að landi og kenndi þar Steinþór bónda mág sinn og varð eigi gott við. Garður stóð í túninu og meir út á völlinn. Stóð þar í heykleggi einn og dregið af öllum megin. Það var bragð Atla að hann hljóp í garðinn og velti kleggjanum ofan á sig og lá Atli þar undir.
Nú er að segja frá Steinþóri og þeim öllum saman að þeir koma að landi og ganga upp til bæjarins. Og er þeir koma í útibúrið þá spratt Þórdís upp og fagnaði vel bróður sínum og öllum þeim og kvað hann sjaldsénan þar. Steinþór spyr hvar Atli mágur hans var. Hún kvað hann fyrir litlu brott genginn. Steinþór bað þá leita hans. Þeir leituðu hans um bæinn og fundu ekki og segja síðan Steinþóri.
Þá mælti Þórdís: "Hvað viltu hingað frændi til vor?"
Hann svaraði: "Það hafði eg ætlað að Atli skyldi hafa gefið mér eða selt mér föng nokkur."
Hún svaraði: "Eigi þykist eg síður ráða eiga en Atli. Vil eg að þú hafir slíkt er þú vilt."
Hann kvaðst það gjarna vilja. Eftir það ryðja þeir búrið og bera ofan á skútuna til þess að hún var hlaðin. Voru þar alls konar föng.
Þá mælti Steinþór: "Nú skuluð þér fara heim á skútunni en eg skal hér eftir vera hjá systur minni. Er mér forvitni á að vita hversu Atli mágur minn lætur sér þá er hann kemur aftur."
Hún svarar: "Þarfleysu eina ætla eg þetta vera frændi minn," sagði Þórdís. "Mun þér ekki þykja gaman í að heyra til hans en þó skaltu ráða. En því skaltu heita mér að vera ekki verri vin Atla en áður hvað sem hann mælir eða gerir."
Steinþór játaði þessu. Hún lét hann vera undir fortjaldi nokkuru þar sem engi mátti sjá hann.
En þeir halda heim aftur á skútunni. Þeir höfðu hvasst mjög á fjörðinn og fengu mjög innanvott áður þeir komu að landi.
16. kafliNú er þar til að taka er Atli liggur undir kleggjanum. Og er hann sér að þeir eru undan landi skríður hann undan kleggjanum og er hann þá svo stirður og kalinn að hann má varla upp standa, dragnar síðan heim að búrinu. Og er hann kemur inn skelfur hann svo mjög að glamrar í honum hver tönn og gnötrar. Hann rekur upp sjónirnar og sér að rutt er búrið.
Hann mælti þá: "Hvaða ránsmenn hafa hér komið?"
Þórdís svarar: "Engir hafa hér rænt en þó kom hér Steinþór bróðir minn með menn sína og gaf eg honum það er þú kallar rænt."
Atli svaraði: "Þess mun eg mest iðrast er eg hefi þig fengið og er eg vesall eigu. Veit eg eigi hver verri maður er en Steinþór bróðir þinn eða hverjir meiri ránsmenn eru en þeir sem með honum eru en tekið nú frá mér og stolið og rænt hér öllu svo að við munum brátt á húsgangi."
Þá mælti Þórdís: "Aldrei mun okkur fé skorta og far í sæng þína og lát mig verma þig nokkuð. Þykir mér sem þú sért stórlega kalinn."
Og það verður að hann hokrar undir klæðin hjá henni. Þykir Steinþóri mágur sinn alllítilfjörlegur vera, hefir ekki á fótunum en steypt stakki á höfuð sér og tók hvergi ofan. Atli smýgur þá undir hjá henni og er málóði, ámælir jafnan Steinþóri og kallar ránsmann.
Eftir það þagnar hann nokkura stund.
Og er honum hitnar þá mælti hann: "Það er þó að segja að mikla gersemi á eg þar sem þú ert. Er það og satt að segja að slíkur rausnarmaður mun eigi finnast sem Steinþór mágur minn. Er og það vel komið sem hann hefir haft, er það sem eg varðveitti."
Gengur þetta nú lengi að hann lofar Steinþór. Steinþór gengur þá fram að sænginni og er Atli sér hann stendur hann upp og fagnar honum.
Þá mælti Steinþór: "Hvort þykir þér Atli mágur ruðst hafa búrið?"
Atli svaraði: "Það er nú sannast að mér þykir það allt best komið er þú hefir. Vil eg og það bjóða þér að þú hafir það allt af mínu góssi sem þú vilt því að eigi skortir til. Hefir þú hið höfðinglegasta ráð upp tekið, tekið við þeim mönnum er rekið hafa harma sinna. Muntu þá ætla út að leysa stórmannlega. Máttu verða af því hinn stórmannlegasti."
Þá mælti Steinþór: "Þess vil eg biðja þig Atli mágur að þú gerir þig eigi jafnvesalan sem þú hefir gert þig áður. Tak þig upp vel og haf vinnumenn fyrir þig og ver siðblandur við aðra menn. Veit eg að þú ert ekki lítilmenni þó að þú gerir þig svo fyrir skaplyndar sakir."
Atli hét nú þessu. Fer Steinþór heim um daginn, skilja þeir mágar með mikilli blíðu, og kemur svo heim á Eyri og þykist vel farið hafa. Sitja nú heima og leið á veturinn. Þeir höfðu gleði mikla á Eyri um veturinn. Voru þar skinnleikar knáir.
17. kafliSvartur hét maður. Hann var þræll þar á Eyri, mikill og sterkur svo að hann hafði fjögurra manna megin. Var hann þarfur búi. Vann hann mikið.
Það var einn dag að Steinþór lét kalla til sín þrælinn og mælti við hann: "Þeir vilja að þú værir í leik með oss í dag því að oss vantar einn mann."
Svartur svarar: "Ekki þarf að biðja mig til þess því að eg á margt að vinna. Get eg og að kappar þínir vilji eigi vinna fyrir mig. En þó skal þetta veita þér ef þú vilt."
Svo er frá sagt að Hallgrímur skyldi í móti Svarti. Er þar og best frá að segja að í hvert sinn er þeir takast á þá fellur Svartur og eftir hvert fall þá fara af honum skórnir og tefst hann þar af löngum að binda á sig skóna. Fer svo lengi dags og gerðu menn hér að mikið óp og hlátur.
En Hávarður kvað vísu:
- Varðat vætki Njörðum,
- Valbrands sonum handan,
- þess minnumk nú, þinnils
- þvengs vanbundinn lengi
- þá er skerfoldar skyldi
- skjalda hlums á sumri,
- græfr svall gylfir sjávar,
- gegn, míns sonar, hefna.
Leikurinn var hinn besti. Var Hallgrímur þá átján vetra gamall og þótti líklegur til afreksmanns þá er væri fullþroskaður.
Svo er sagt að af leið veturinn og varð ekki til tíðinda og allt þar til er þeir bjuggust til þings. Steinþór lést eigi vita hvert ráð hann skyldi sjá fyrir þeim félögum. Vildi hann eigi hafa þá til þings með sér en þótti ekki gott að láta þá vera heima um þingið.
Og fám dögum fyrir þingið fundust þeir Atli. Atli spurði hvað hann mundi sjá fyrir vistarmönnum sínum um þingið.
Steinþór kvaðst eigi víst vita hvar hann mundi þeim svo koma að hann væri óhræddur um þá "nema þú takir þá."
Atli mælti: "Bindast mun eg í að taka við þessum mönnum."
"Þá gerir þú vel," sagði Steinþór.
Atli mælti: "Eftir megni mun eg veita þér það er þú vilt."
Steinþór mælti: "Þar treysti eg þér allvel til."
18. kafliEftir þetta fer Hávarður brott með Atla og hans félagar. Koma þeir í Otradal. Tekur hann við Hávarði báðum höndum. Skorti þar ekki það er hafa þurfti. Gerði hann þeim hina bestu veislu. Voru þar tíu karlar vígir. Lét Atli ryðja búrið og gerði þar sængur þeirra og festi þar upp vopn þeirra og var þar búið um hið besta.
En Steinþór boðar að sér mönnum. Skorti þar eigi vini né frændur. Var hann og mægður við höfðingja. Reið hann á þing við þrjú hundruð manna. Voru það allt hans þingmenn, vinir, frændur og mágar.
19. kafliÞórarinn hét maður. Hann var goðorðsmaður vestur um Dýrafjörð, höfðingi mikill og nokkuð við aldur. Hann var bróðir þeirra Þjóðrekssona. Var hann miklu hyggnastur og spakastur. Hann hafði spurt þessi tíðindi, víg bræðra sinna og frænda, og þótti sér nær höggvið vera og þóttist eigi sitja mega hjá slíkum málum þar sem mest kom til hans eftirmálið. Og áður til þings var riðið stefnir hann að sér mönnum um Dýrafjörð og þar sem voru vinir og frændur.
Dýri hét maður er þar var annar mestur höfðingi. Hann var vinur mikill Þórarins goða. Þorgrímur hét son hans. Var hann fullþroskaður maður þá er þetta var tíðinda. Svo er frá honum sagt að hann var mikill og sterkur, fjölkunnigur og hinn margvísasti og gerði margt með göldrum.
Bar Þórarinn þetta mál upp við vini sína og var það ráð þeirra allra saman að þessu að Þórarinn og Dýri ríða á þing við tvö hundruð manna en Þorgrímur Dýrason bauðst til að drepa Hávarð og þá alla saman frændur og félaga, kveðst spurt hafa að Steinþór á Eyri hefði haldið þá um veturinn og heitið að halda þeirra málum til fullra laga við þá sem eftirmálsmenn væru við þá frændur.
Kveðst Þorgrímur vita að Steinþór væri heiman riðinn með mikið fjölmenni en þeir frændur og félagar væru komnir í Otradal til Atla veslingsins mágs Steinþórs "og mun ekki fyrir verða að drepa hvern á fætur öðrum."
Var þetta ráð lokið að Þorgrímur ríður heiman við átjánda mann. Er eigi sagt frá ferð þeirra fyrr en þeir koma til bæjar Atla í Otradal, var það einn morgun snemma, og ríða í eitt dalverpi það er eigi mátti sjá frá bænum. Bað Þorgrímur þá stíga af baki, kvað sig svo syfja að hann mátti engan veg upp sitja. Þeir gera nú svo, létu hestana bíta en Þorgrímur sofnaði og breiddi feld á höfuð sér og lét illa í svefni.
20. kafliNú er þar til að taka hvað þeir hafast að heima í Otradal. Þeir sofa í útibúrinu um náttina sem þeir áttu vanda til. Um morguninn vakna þeir við það að Atli lét illa í svefni svo að engi þeirra mátti fyrir sofa því að hann braust um og blés og barði bæði höndum og fótum í sænginni þar til er Torfi Valbrandsson hljóp upp og vakti hann og sagði að engi mætti sofa fyrir honum og látum hans. Atli sest upp og strauk um skallann. Hávarður spyr hvort nokkuð hefði borið fyrir hann.
Hann kvað heldur það vera: "Eg þóttist ganga út úr búrinu og sá eg að vargar runnu sunnan á völlinn sautján saman en fyrir vörgunum rann refkeila ein. Það var svo slæglegt kvikindi að slíkt hefi eg aldrei séð fyrri. Það var ógurlegt mjög og illilegt. Það skyggndist víða og á öllu vildi það augu hafa og öll sýndust mér dýrin grimmleg. En er þau voru komin heim að bænum þá vakti Torfi mig og veit eg víst að það eru manna hugir. Skulum vér þegar upp standa."
Atli hafnaði eigi vana sínum, sprettur upp og steypir á sig stakki sínum, svo út sem kólfi skyti. En þeir taka vopn sín og klæði og búast sem skörulegast. Og er þeir voru mjög búnir kom Atli aftur og var þá kominn í sterka brynju og brugðið sverð í hendi.
Þá mælti Atli: "Það er líkast að þetta fari svo sem margur hefir getið til að Steinþóri mági mínum mundi það vel duga að láta yður hér niður koma. Nú beiðist eg þess að þér látið mig fyrir ráða tilskipun fyrir oss. Er fyrst mitt ráð að vér göngum út undir húsvegginn og látum eigi stanga oss inni. Get eg og yður það í hug að flýja ekki hvað sem að höndum kemur."
Þeir segja svo vera.
21. kafliÞar er nú til að taka að Þorgrímur vaknar. Var honum orðið heitt.
Hann mælti þá: "Heima hefi eg verið um hríð á bænum og er svo villt fyrir mér að eg veit eigi frá mér en þó munum vér heim ganga að bænum. Ætla eg að vér skulum brenna þá inni. Þykir mér það skjótast mega yfir taka."
Taka þeir nú vopn sín og ganga heim á völlinn.
Og er þeir Atli sjá mennina þá mælti Atli: "Það er ætlan mín að þeir séu hér komnir Dýrfirðingarnir og sé fyrir þeim Þorgrímur Dýrason er verstur maður er í öllum Dýrafirði og fjölkunnigastur. Eru þeir hinir mestu vinir Þórarins er eftirmál á um bræður sína. Ætla eg mér, þó að ólíklegt sé, að ganga á móti Þorgrími en þér Hávarður ætla eg að ganga í móti tveimur. Ertu reyndur og kappi mikill. Hallgrími frænda þínum ætla eg og tvo þá sem gildastir eru. Valbrandssonum, Torfa og Eyjólfi, ætla eg fjóra og þeim Þorbrandssonum, Oddi og Þóri, ætla eg fjóra. Þorbjarnarsonum, Grími og Þorsteini, ætla eg þrjá en þá ætla eg sinn mann hverjum þeirra Þórhalls og húskarls míns."
Og er Atli hafði til skipað sem hann vildi þá gengu þeir Þorgrímur sunnan að húsum, sjá nú að þar er öðruvís fyrir búið en þeir ætluðu. Standa þar menn með vopnum og búnir til viðtöku.
Þá mælti Þorgrímur: "Hver veit nema Atli hinn ragi sé brögðóttari en vér ætlum en þó skulum vér á móti þeim allt að einu."
Hlaupast menn nú að svo sem ætlað var. Það var hið fyrsta athlaup að Atli hinn litli hljóp að Þorgrími og hjó til hans tveim höndum með sverðinu og beit eigi á. Þeir hjuggust til nokkura stund og beit ekki á Þorgrím.
Þá mælti Atli: "Trölli líkur ertu Þorgrímur en eigi manni er þig bíta engi járn."
Þorgrímur svaraði: "Hví dirfist þú að tala um slíkt því að eg hjó til þín áðan svo sem mér var hægast og beit eigi á þinn vonda skalla."
Atli sér að eigi mun svo búið hlýða, kastar síðan sverðinu og hleypur undir Þorgrím og rekur hann niður við völlinn. Nú er eigi vopnið hjá honum en hann veit að liðsmunur er mikill. Verður honum það fyrir að hann greyfist niður að honum Þorgrími og bítur sundur í honum barkann, dregur hann síðan þangað til er sverð hans var og sníður af honum höfuðið. Eftir það rekur hann upp skyggnurnar og sér að Hávarður hefir fellt annan þeirra er hann átti við. Hleypur Atli þar fyrst að og skipta þeir eigi lengi höggum við hann áður hann fellur. Hallgrímur hafði drepið báða þá er hann átti við og svo Torfi. Eyjólfur hafði drepið annan þann er hann átti við. Þórir og Oddur höfðu drepið þrjá en eftir var einn. Þorsteinn og Grímur höfðu fellda tvo en einn var eftir. Þórhallur hafði drepið þann er hann átti við. Húskarl hafði eigi drepið þann er honum var ætlaður. Hávarður bað að hætta skyldi.
Þá mælti Þorsteinn Þorbjarnarson: "Eigi skal faðir minn það spyrja vestur á Rauðasand að við bræður vinnum eigi hlutverkum okkrum sem aðrir menn."
Hann hleypur að einum þeirra með reidda öxi og rekur í höfuð honum svo að þegar fékk hann bana.
Atli spurði hví hann skyldi eigi alla drepa. Hávarður kvað það til einkis vera. Atli settist niður og bað þá leiða fyrir sig. Hann rak af þeim hárið og gerði þeim koll og bar í tjöru eftir. Síðan tók hann hníf sinn úr skeiðum og rak af þeim öllum eyrun og bað þá svo markaða fara á fund Dýra og Þórarins, kvað þá heldur muna mega að þeir hefðu fundið Atla hinn litla. Eftir það fara þeir þaðan þrír en komu átján saman, allir frækilegir og vel búnir.
Hávarður kvað þá vísu:
- Það mun vestr og vestan,
- varð ár roðin sára,
- orð til Ísafjarðar
- oddregns komu þegna,
- að til geira glettu
- gunnnæringar væru,
- vægr er vöxtr í augum
- Valbrands sonum handan.
Eftir það snúa þeir áleiðis og jarða þá er drepnir voru, taka síðan á sig náðir og frelsi slíkt sem þurfti.
22. kafliNú er þar til að taka er menn komu á þing. Var þar fjölmenni mikið. Voru þar höfðingjar miklir og mikils verðir. Þar var Gestur Oddleifsson, Steinþór af Eyri og þeir Dýri og Þórarinn. Var þá talað um mál þeirra öll saman. Var Steinþór fyrir hönd þeirra Hávarðar. Bauð hann sættir fyrir þá og gerð Gests Oddleifssonar, kvað honum kunnigast um málið. Og með því að þeir vissu áður hversu þeir höfðu undir búið þá gengu þeir að þessu allgleðilega.
Þá mælti Gestur: "Með því að það er vilji hvorratveggja að eg tali hér nokkuð um þá skal eigi seint til láta. Mun eg þar fyrst til taka sem hið fyrra sumar var talað um víg Ólafs Hávarðssonar að eg geri það þrenn manngjöld. Skulu þar niður falla víg Sturlu og Þjóðreks og Ljóts er mjög voru saklausir drepnir. En Þorbjörn Þjóðreksson skal hafa fallið ógildur fyrir ójafnað sinn og fyrir marga óheyrilega tiltekt þá er hann hefir haft við Hávarð og marga aðra. Svo og þeir Vakur og Skarfur bræður skulu hafa fallið óhelgir. En víg þeirra skulu jöfn vera Brands hins sterka og Áns fóstra Hallgríms, gjalda ein manngjöld fyrir fylgdarmann Ljóts að Mánabergi er þeir Hávarður höfðu drepið. Svo og um víg Ljóts kann eg eigi fé að gera. Er það öllum auðsætt ójafnaður sá er Ljótur hefir haft við Þorbjörn og alla aðra þá er hann hefir mátt. Gekk það eftir málefnum að tvö börn skyldu drepa þvílíkan kappa sem Ljótur var. Skal og Þorbjörn hafa engi það allt frjálslega er þeir áttu báðir saman áður. En til huggunar við Þórarin þá skulu þessir menn fara utan: Hallgrímur Ásbrandsson, Torfi og Eyjólfur Valbrandssynir, Þórir og Oddur Þorbrandssynir, Þorsteinn og Grímur Þorbjarnarsynir. Með því að þú ert gamlaður mjög þá skulu þeir eigi koma út fyrr en þeir spyrja að þú ert allur. En Hávarður skal færa bústað sinn og vera ekki í þessum landsfjórðungi og svo Þórhallur frændi hans. Vil eg að þér sættist heilum sáttum og sé þetta prettalaust af hvorumtveggjum."
Eftir það gengur Steinþór að og tekur sætt fyrir Hávarð og þá alla félaga með því skilorði sem Gestur hafði fyrir sagt. Steinþór geldur og hundrað silfurs það er gjalda átti. Gengu þeir Þórarinn og Dýri að öllu drengilega og létu sér vel líka það er gert var.
Og er þessum málum var lokið þá komu þar þeir afeyringar á þingið og segja þessi tíðindi að öllum áheyröndum sem gerst höfðu í ferð þeirra. Þótti öllum þetta mikil tíðindi og þó farið maklega. Þótti mönnum Þorgrímur hafa dregist til fjandskapar við þá en orðin umskipti jafnleg.
Þá mælti Gestur: "Það er þó sannast að segja að þér frændur eruð ólíkir öðrum mönnum að illsku og ódrengskap. Eða hví varð þér þetta fyrir Þórarinn að láta sem þú skyldir sættast en fara með slíka prettvísi? Nú með því að eg hefi hér nokkuð um talað áður það er til vægðar mætti komast þitt mál þá læt eg nú þó standa svo eftir því sem áður var gert og talað en hins væruð þið verðir Þórarinn og Dýri að ykkur mál væru mjög spjölluð fyrir ykkra undirhyggju. En það skal þar fyrir koma að eg skal aldrei að ykkrum málum veita. En þú Steinþór, lát þér þetta vel líka fyrir því að héðan af skal eg veita þér að málum þínum við hvern sem þú átt um. Hefir þér þetta vel farið og drengilega."
Steinþór sagði að Gestur skyldi þá mestu um ráða: "Þykir mér þeir nú hafa af hinn versta, látið menn sína marga og þar með drengskap sinn."
Eftir þetta slíta þeir þingið. Skilja þeir Gestur og Steinþór með mikilli vináttu en þeir Þórarinn og Dýri undu við stórilla.
Og er Steinþór kom heim á Eyri sendir hann eftir þeim í Otradal. Og er þeir finnast segja hvorir öðrum sem farið hafði. Þótti þeim allvel farið hafa úr því sem ráða var. Þökkuðu þeir Steinþóri fyrir forganginn, sögðu og að Atli mágur hans hefði vel við þá gert eða hversu hraustlega hann hefði fram gengið og sögðu hann hinn hraustlegasta dreng. Gerðist þá hin besta vinátta með þeim mágum. Var Atli þaðan af haldinn hinn besti drengur hvar sem hann kom.
23. kafliEftir það fer Hávarður og þeir allir heim til Ísafjarðar. Verður Bjargey þeim stórlega fegin og svo feður þeirra bræðra og þykjast nú ungir orðnir í annan tíma.
Nú tekur Hávarður það til ráðs að hann býr til veislu mikillar. Var þar bær mikill og stórmannlegur. Skorti þar engan hlut til. Síðan býður hann Steinþóri af Eyri og Atla mági hans, Gesti Oddleifssyni og öllum mágum sínum og frændum. Verður þá fjölmenni mikið og hin vænsta veisla. Sitja þar viku allir saman glaðir og kátir.
Hávarður var stórauðigur maður að alls konar fé og að lyktum veislunnar gefur Hávarður Steinþóri þrjá tigu geldinga og fimm yxn, skjöld og sverð og gullhring, hina bestu gersemi. Gesti Oddleifssyni gaf hann tvo gullhringa og níu yxn. Atla bónda gaf hann og góðar gjafir. Valbrandssonum og Þorbrandssonum og Þorbjarnarsonum gaf hann og öllum hinar bestu gjafir, sumum vopn góð og aðra hluti. Hallgrími frænda sínum gaf hann sverðið Gunnloga og þar með öll hervopn, harla góð, þakkaði þeim öllum góða fylgd og drengilega framgöngu. Öllum gaf hann góðar gjafir þeim sem hann hafði þangað boðið því að hvorki skorti til gull né silfur.
Og eftir þessa veislu ríður Steinþór heim á Eyri en Gestur á Barðaströnd, Atli í Otradal. Skilja nú allir með hinum mestum kærleikum.
En þeir er utan skyldu, fara vestur í Vaðil og þar utan um sumarið. Gefur þeim vel, koma við Noreg. Réð þá Hákon jarl fyrir Noregi. Voru þeir þar um veturinn en um vorið fá þeir sér skip og leggja í hernað og verða hinir frægustu menn. Hafa þeir þá iðju nokkur misseri. Fara þeir nú út hingað og var Þórarinn þá dauður. Urðu þeir ágætir menn. Eru af þeim miklar sögur hér á landi og víðar annarstaðar. Lýkur nú hér frá þeim að segja.
24. kafliSvo er sagt frá Hávarði að hann selur eignir sínar en þau ráðast norður til Svarfaðardals og upp í dal þann er Oxadalur heitir og reisir þar bústað sinn og bjuggu þar nokkura vetur og kallaði Hávarður þenna bæ á Hávarðsstöðum.
Og nokkurum vetrum síðar spurði Hávarður þau tíðindi að Hákon jarl var dauður en kominn í land Ólafur konungur Tryggvason og væri hann orðinn einvaldskonungur yfir Noregi og boðaði aðra trú sanna. Og er þetta spyr Hávarður bregður hann búinu og fer utan og Bjargey með honum og Þórhallur frændi hans. Koma þau á fund Ólafs konungs og tók hann vel við þeim. Var Hávarður þá skírður og öll þau og voru þau þar um veturinn í góðu yfirlæti með Ólafi konungi. Þann sama vetur andaðist Bjargey. En Hávarður og frændi hans Þórhallur fóru út til Íslands um sumarið.
Hávarður hafði út með sér kirkjuvið harla mikinn. Hann setti bústað sinn í neðanverðum Þórhallsdal og býr þar eigi lengi áður hann tekur sótt, kallar þá á Þórhall frænda sinn og mælti: "Svo er nú vexti að eg hefi sótt fengið þá er mig mun til bana leiða. Vil eg að þú takir fé eftir mig. Ann eg þér vel að njóta. Hefir þú mér vel þjónað og veitt mér góða fylgd. Skaltu færa bústað þinn í ofanverðan Þórhallsdal. Skaltu láta þar kirkju gera og vil eg að þeirri mig grafa láta."
Og er hann hefir fyrir sagt slíkt er hann vill þá deyr hann litlu síðar. Þórhallur bregður við skjótt og færir bústað sinn upp í dalinn og gerir þar reisulegan bæ og kallar á Þórhallsstöðum. Fær hann kvonfang gott, og hefir margt manna frá honum komið, og býr þar til elli. Er og svo sagt að þá er kristni kom til Íslands að Þórhallur lét kirkju gera á bæ sínum af þeim viði er Hávarður flutti út hingað. Varð það hið skrautlegasta hús og var Hávarður að þeirri kirkju grafinn og þótti verið hafa hið mesta mikilmenni.
Og lúkum vér nú þar þessari sögu að sinni með þessu efni.