GÍSLS  ÞÁTTUR  ILLUGASONAR


(Eftir Huldu og Hrokkinskinnu)



1. kafli

Á dögum Magnúss konungs kom utan af Íslandi til Noregs sá maður er Gísl hét. Hann var sonur Illuga Þorvaldssonar, Tindssonar. Tindur var bróðir Illuga svarta.

Gísl var sautján vetra gamall þá er hann fór til Noregs. Hann lét lítið yfir sig og var löngum hljóður. Hann tók sér vist með ríkum manni er hét Hákon á Forborða. Gísl lét fátt til sín taka um veturinn og var aldrei glaður.

Hákon mælti eitt sinn til Gísls: "Eg hefi hugleitt skaplyndi þitt og sýnist mér þú jafnan með miklum áhyggjusvip og mun vera annaðhvort að þú býst við stórræðum nokkurum ella eru þér stórir hlutir á höndum. Nú seg mér hvað þér býr í skapi og þótt þú eigir um stórt að ræða mun eg mega leyna. En ef þú vilt eigi segja mér og farir þó svo héðan til nokkurra stórvirkja þá mun mér það illa líka."

Gísl svarar: "Þú getur rétt og skal eg segja þér satt af. Maður heitir Gjafvaldur og er mér sagt að nú sé hirðmaður konungs. Gjafvaldur var að drápi föður míns og veitti honum banasár svo að eg sá upp á út á Íslandi, með Þormóði Kollasyni mági sínum. Nú em eg því kominn hér til lands að eg ætla að fá hefnt föður míns eða liggja hér drepinn."

"Sú er óvæn ætlan," segir Hákon, "því að Gjafvaldur er með Magnúsi konungi í miklum kærleikum og mun útlendum manni eigi hægt að ná honum. En ekki skal eg gera þér til óliðs."

Magnús konungur sat þann vetur í Niðarósi og Gjafvaldur með honum, vel virður. Gísl fór til bæjarins og gerði það bragð á með ráði Hákonar húsbónda síns að hann lét steypa heitu vaxi á andlit sér og lét þar harðna á. Var hann þá vanheiligur að sjá. Hann sat um Gjafvald og fengust honum eigi hægleg færi á.


2. kafli

Það var einn þvottdag að Gísl stóð við stræti nokkuð snemma dags og heyrði hann gný mikinn. Hann sá hvar Magnús konungur fór og sveit mikil manna með honum. Þar sá hann Gjafvald.

Þá gekk kona út úr garði einum og hafði barn í faðmi. Þar var Helga Þormóðsdóttir kona Gjafvalds. Hún kallaði á hann og gekk hann til fundar við hana en konung og sveitina bar undan fram.

Síðan gekk Gjafvaldur að strætinu við annan mann. Þá sneri Gísl í móti honum og hjó til hans. Kom höggið á öxlina. Hljóp höndin niður en gekk eigi af. Gjafvaldur snerist við honum. Gísl hjó þá á aðra öxlina og fór það sár nær því sem hið fyrra. Féll þá Gjafvaldur.

Gísl hljóp ofan á bryggjurnar þar sem flaut einn bátur hlaðinn skíðum. Hét sá maður Þorsteinn, íslenskur, lítill vexti, er átti bátinn. Gísl hljóp út á bátinn til Þorsteins og svörfuðust skíðin utanborðs en hann reri yfir til Bakka.

Og er þeir komu á ána miðja stóð Gísl upp og kallaði á bryggjurnar: "Sár þau," segir hann, "er fengið hefir Gjafvaldur hirðmaður Magnúss konungs, ef að sárum gerist, en víg ef að vígi gerist, lýsi eg mér á hendur. Hét eg Vígfús í morgun en í kveld væni eg að eg heiti Ófeigur."

Síðan lentu þeir upp frá Bakka og hljóp Gísl þar á land. Þá var blásið í bænum og farið að leita mannsins bæði á skipum og landi. Hann fannst í hrísum nokkurum og var færður til bæjarins. Konungsmenn kenndu Þorsteini að hann hefði flutt Gísl yfir ána og gáfu honum sök á, sögðu hann og dauða verðan.

Þá mælti Gísl: "Gefið honum ekki sakar á því er hann er engu af valdur."

Gísl greip til Þorsteins er hann gekk hjá honum. Var hann svo lítill að hann tók varla undir hönd honum.

Gísl varp honum á loft annarri hendi og mælti: "Sjáið nú hér til," segir hann, "hvað mundi veslingur þessi varða mér bátinn ef eg vildi til sækja er eg veifa honum sem barni. Látið hann fara í friði því að hann er saklaus."

Þeir gerðu svo og sögðu að Gísl talaði vel og drengilega. Gísl var settur í fjötur þann er gera hafði látið Haraldur konungur Sigurðarson og engi maður hafði úr komist. Hann sat í jarðstofu einni er kona nokkur átti völd á.

Þá var fjölmenni mikið í bænum. Þar voru þrjú Íslandsför. Réð fyrir einu skipi Teitur sonur Gissurar biskups. Þar var þá og Jón prestur Ögmundarson er síðan var biskup að Hólum og var eigi færra íslenskra manna í bænum en þrjú hundruð.

Magnús konungur var ákafa reiður. Sat hann á stefnu og bæjarbiskupinn með honum og þar var Jón prestur. Hann var vinur biskups. Konungur bað drepa manninn. Í því kvað við nónklukka.

Konungur mælti: "Er nú nón? Og sjáið til sólar."

Svo var þá gert og var öndvert nónið.

Þá mælti biskup: "Herra, eiga verður maðurinn helgarfrið á sér þótt hann hafi stórt til gert."

Konungur mælti: "Þetta er prettur yðvar og hafið þér ráðagerð í móti mér."

"Eigi er það herra," segir biskup, "en sjáið svo fyrir sem best samir."

Síðan söfnuðust saman íslenskir menn. Voru þar margir frændur og vinir Gísls og ræddu um málið hverja meðferð hafa skyldi. Sýndist þeim í mikið vandkvæði komið og urðu eigi á sáttir.


3. kafli

Nú kom drottinsdagur. Var þá sent til konungs og sagt að Gjafvaldur vildi finna hann. Konungur kom á fund hans.

Þá mælti Gjafvaldur: "Nú vil eg skipa herra til fjáreigna minna því að eigi veit hversu langt tóm til gefur. En biðja vil eg að þér gefið Gísl grið því að skörulega hefir hann hefnt síns föður."

"Þess er engi von," segir konungur.

Gjafvaldur mælti: "Það veist þú konungur að mjög lengi hefi eg þér fylgt og lagt stundum mitt líf fyrir þitt líf og verið búinn til þess alls sem þú hefir viljað fyrir mig leggja hvort sem var gott eða illa. En nú kann vera að sjá sé hinn síðasti fundur okkar. Hefi eg nú talað við kennimenn og gert þeim í kunnleika ráð mitt og tekið þjónustu og segja þeir mér svo að eg mun vera hjálparmaður ef nú fyrirgef eg það er við mig er misgert. Nú vænti eg þess herra að eigi munir þú byrgja svo fyrir mér himinríki að sjá sé dauðamaður."

"Besta fer þér," segir konungur.

Gekk hann í brott en Gjafvaldur andaðist litlu síðar.


4. kafli

Snemma annan dag vikunnar áttu Íslendingar stefnu.

Þá mælti Teitur: "Hér horfist eigi skörulega á um vort mál ef samlandi vor og fóstbróðir mikilsverður er drepinn. En allir megum vér það sjá hversu mikið vandkvæði er að bindast við mál þetta að sá veðsetur sig og fé sitt. Nú legg eg það til ráðs að vér gefum á konungs dóm. En ef þess skal engi kostur að maðurinn hafi líf þá séum vér allir drepnir eða höfum vort mál ella. Viljum vér þeim að fylgja er formaður gerist."

Þeir kváðust allir hann vilja fyrir sér hafa og hans ráðum að fylgja.

Hann segir: "Svo megið þér ætla að allir skuluð þér sverja mér eiða að hvorki sparið þér yður né fé yðvart til þess sem eg vil fram fara um þetta mál."

Þetta gerðu þeir. Eftir það tóku þeir bað, og í því var blásið. Hljóp Teitur þegar úr baðinu. Var hann í skyrtu og línbrókum og hafði gullhlað um enni en yfir sér skarlatsskikkju hálfskipta, rauða og brúna, og undir grá skinn og snúið út skinnunum. Þá voru þar saman komnir allir íslenskir menn. En það er eigi allt í senn er blásið er og menn koma til móts.

Þá mælti Teitur: "Snúum nú þegar að stofunni þar sem Gísl er og verðum fyrri að bragði en konungsmenn."

Þeir gengu snúðigt eftir strætinu og varð af gnýr mikill en konan hafði gert skjá fyrir stofuna.

Hún hljóp af húsinu og sagði Gísli: "Mikil óhamingja er það er þú komst hér niður því að nú fara hér konungsmenn."

Gísl svarar: "Látum okkur ekki það angra fóstra."

Hann kvað þá vísu þessa:

Kátr skal eg enn þótt ætli
aldrán viðir skaldi,
jörn taka oss að orna,
unda teins, að beinum.
Hverr deyr seggr en, svarri,
snart er dreng skapað hjarta.
Prúðr skal eg enn í óði
eitt sinn á þrek minnast.

Því næst hjuggu þeir upp hurðina og brast við hátt. Þá að eins sáu menn að Gísl kipptist við og þó lítt. Teitur hjó af honum fjöturinn og tók hann í sinn flokk, gengu svo til mótsins. Þá gekk öðrum megin að mótinu Sóni gestahöfðingi og ætlaði þá eftir manninum.

Hann mælti: "Eigi voruð þér nú tómlátir Íslendingar. Hygg eg nú að þér ætlið yður dóminn um manninn en eigi konungi. Er það og vel að þeir rækju minni til hvað þeir hafa gert þenna morgun og reiðst hefir Magnús konungur um minni mótgerðir en drepinn sé hirðmaður hans af þeim mörfjöndunum."


5. kafli

En er þingið var sett þá stóð upp Sigurður ullstrengur og mælti: "Það ætla eg að flestir menn munu vita að veginn er lögunautur vor Gjafvaldur. Kom maður af Íslandi utan og þóttist eiga sakar við hann og hafði þá atferðina að hann veitti honum þegar banasár en leitaði eigi eftir bótum sem öðrum mönnum er títt. Mun oss svo sýnast konungsmönnum að lítið mun fyrir þykja að bleðja af hirð konungs ef þessa skal hafa atförina að höggva niður hirðina. Má vera að þeir láti svo ganga allt að höfðinu og þyrmi eigi heldur konunginum en öðrum mönnum. Nú eru slíkt mikil endemi og stórrefsinga vert og er eigi að bættra þótt þar séu tíu drepnir af íslenskum mönnum sem einn er af vorum mönnum og hegna þeim svo sína ofdirfð að taka menn úr konungsvaldi."

Síðan þagnaði hann.

Þá stóð upp Teitur biskupsson og mælti: "Hvort vill konungur leyfa mér að tala erindi?"

Konungur spurði mann er stóð hjá honum: "Hver er sjá maður?" segir hann.

Hann svarar: "Herra, það er Teitur biskupsson."

Konungur mælti til Teits: "Fyrir engan mun vil eg þér leyfa að mæla því að öll þín orð þau er þú mælir munu mikið spilla og væri maklegt að úr þér væri skorin tungan."

Þá stóð upp Jón prestur Ögmundarson og mælti: "Vill konungur leyfa mér að mæla nokkur orð?"

Konungur spurði: "Hver mælir nú?"

Maðurinn svarar: "Prestur sá hinn íslenski, hann Jón."

Konungur mælti: "Leyfa vil eg þér að tala."

Þá hóf Jón prestur svo sitt mál: "Guði er það að þakka að löndin eru kristin orðin, Noregur og Ísland, því að áður óðu saman menn og fjandur en nú gengur fjandinn eigi svo djarflega í sýn við menn. Fær hann nú menn til að bera fram sín erindi sem skammt er á að minnast að fjandinn mælti fyrir munn þessum er nú talaði. Var fyrst veginn maðurinn einn en síðan fýsti hann að drepa skyldi tíu. Og það hygg eg að slíkir menn muni mest að vinna í sinni illgirnd og vondum fortölum að eyða réttlæti og miskunn og öðrum góðum siðum höfðingjanna en hvetja þá og hvessa til grimmdar og glæpa og gleðja svo fjandann í kristinna manna drápi. En jafnt erum vér herra konungur þínir þegnar sem þeir er hér eru innanlands. Skylduð þér að því hyggja er settir eruð hér í heiminum höfðingjar og dómendur yfir fólkinu að þér berið merking þess dómandans er koma mun að efsta dómi að dæma alla veröldina. Nú mun yður herra mikið við liggja að þér dæmið rétta dóma en eigi ranga því að til hvers þings og móts kemur sjálfur almáttigur guð og hans helgir menn. Vitjar guð góðra manna og réttra dóma. Svo kemur og fjandinn og hans árar að vitja vondra manna verka og rangra dóma. Og utan ef mun sá dómandi koma um síðir er alla hluti mun rétt dæma. Hyggið að nú herra konungur hvor eldurinn mun vera heitari og langærri, sá lagður er í eikistokkinn er ger er um ofninn eða hinn sem kveiktur er í þurru limi. Nú ef þú konungur dæmir ranga dóma þá mun þér orpið í þann eldinn er í eikistokkinn er lagður en ef þú dæmir rétta dóma eftir þínu viti þá er þó von að þú skírir þig í hreinsanareldi þeim er af þurru limi er ger."

Svo lauk Jón prestur sinni ræðu.

Þá mælti konungur: "Strítt hefir þú talað prestur."

En ekki fannst það á að hann reiddist mjög við.

Þá stóð upp Gísl og mælti: "Viltu leyfa mér konungur að tala lítið erindi?"

Konungur spurði hver nú mælti. Honum var sagt.

"Eigi vil eg banna," segir konungur.

Gísl mælti: "Þá tek eg þar til máls að faðir minn var veginn. Voru að því verki Gjafvaldur og Þormóður. Þá var eg sex vetra gamall en Þorvaldur bróðir minn níu. Vorum við þar við staddir er faðir minn var drepinn. Þá mælti Gjafvaldur að okkur bræður báða skyldi drepa. En eigi er karlmannlegra frá að segja herra að þá var grátraust í kverkum mér."

Konungur mælti: "Drengilega hefir þú þá grátraust á brott fært."

Gísl mælti: "Það er satt að segja herra að eg hefi lengi í vor setið um Gjafvald. Og þá tvisvar er mér gáfust helst færi á virti eg til kirkjuna í annað sinn er þetta verk fórst fyrir, en í annað sinn lét eg standa fyrir nónhringing og virði eg svo að því gæfi nónhringingin mér nú líf. En kvæði hefi eg ort um yður og vildi eg hljóð hafa."

Konungur mælti: "Kveð þú ef þú vilt."

Hann flutti kvæðið skörulega en ekki var þar mikill skáldskapur í því kvæði.

Síðan mælti Gísl til Teits: "Þér hafið sýnt við mig mikinn manndóm en nú vil eg eigi leggja yður í hættu lengur. Vil eg ganga á vald Magnúss konungs og færa honum höfuð mitt."

"Ger nú sem þú vilt," segir Teitur.

Tók Gísl þá af sér vopnin, gekk yfir mótfjalarnar og lagði höfuð sitt í kné konungi og mælti: "Gerið nú slíkt af höfði mínu sem yður sýnist. Kann eg þökk ef þér viljið gefa mér og gera mig að slíkum manni sem yður sýnist fallið."

Konungur svarar: "Ráð sjálfur höfði þínu en gakk inn til borðs í rúm Gjafvalds, tak þar vist og drykk og halt slíka þjónustu sem hann hefir haft áður. Geri eg þetta mest fyrir bæn Gjafvalds vinar míns. En nú gangi átta íslenskir menn til festu. En eg geri fyrir víg Gjafvalds sextán merkur gulls. Skal gefast upp helmingur fyrir sakar en sína mörk gjaldi hver yðvar festumanna."

Þeir þökkuðu konungi og sættust að því.

Þá mælti konungur til Jóns prests: "Vel virðist mér þitt formæli. Hefir þú af guðs hálfu talað. Vildi eg gjarna vera undir þínum bænum því að þær munu mikið mega við guð því að eg trúi að saman fari guðs vilji og þinn."

Hann játti konungi bæn sína.

Og einn dag er Jón prestur gekk að stræti mælti maður til hans: "Gakk inn í herbergið. Sigurður ullstrengur vill finna þig."

Hann gerði svo.

Sigurður mælti: "Eigi veit eg prestur nema orðin þín hafi bitið mig því að eg em sjúkur og vildi eg að þú syngir yfir mér."

Hann gerði svo og signdi hann.

Þá mælti Sigurður: "Mikið mega orð þín, bæði hörð og góð, því að nú er mér gott."

Sigurður gaf Jóni presti góðar gjafar og skildust þeir vinir. Þessi Sigurður lét fyrst setja munklífi í Niðarhólmi og gaf þar til stórar eignir.

Eftir þetta fóru þeir til Íslands, Jón prestur og Teitur biskupsson. Gerðist Teitur ágætur maður og varð skammær. En Jón prestur varð biskup að Hólum og er nú sannheilagur.




Netútgáfan - apríl 1998