FÆREYINGA  SAGA




1. kafli

Maður er nefndur Grímur kamban; hann byggði fyrstur manna Færeyjar. En á dögum Haralds hins hárfagra flýðu fyrir hans ofríki fjöldi manna; settust sumir í Færeyjum og byggðu þar, en sumir leituðu til annarra eyðilanda.

Auður hin djúpauðga fór til Íslands og kom við Færeyjar og gifti þar Ólöfu dóttur Þorsteins rauðs, og er þaðan kominn hinn mesti kynþáttur Færeyinga, er þeir kalla Götuskeggja, er byggðu í Austurey.


2. kafli

Þorbjörn hét maður; hann var kallaður Götuskeggur. Hann bjó í Austurey í Færeyjum. Guðrún hét kona hans. Þau áttu tvo sonu; hét Þorlákur hinn ellri, en Þrándur hinn yngri. Þeir voru efnilegir menn. Þorlákur var bæði mikill og sterkur; Þrándur var og með því móti þá er hann þroskaðist, en miseldri þeirra bræðra var mikið.

Þrándur var rauður á hár og freknóttur í andliti, fríður sýnum.

Þorbjörn var auðigur maður og var þá gamall, er þetta var tíðenda.

Þorlákur kvændist þar í eyjunum og var þó heima með föður sínum í Götu. Og bráðlega er Þorlákur var kvæntur andaðist Þorbjörn Götuskeggur, og var hann heygður og út borinn að fornum sið, því að þá voru heiðnar allar Færeyjar. Synir hans skiptu arfi með sér, og vildi hvortveggi hafa heimabólið í Götu, þvíað það var hin mesta gersimi. Þeir lögðu hluti á, og hlaut Þrándur.

Þorlákur beiddi Þránd eftir skiptið að hann mundi hafa heimabólið, en hann lausafé meira, en Þrándur vildi það eigi. Fór Þorlákur þá í burt og fékk sér annan bústað þar í eyjunum.

Þrándur seldi á leigu landið í Götu mörgum mönnum og tók leigu sem mesta, en hann réðst til skips um sumarið og hafði lítinn kaupeyri og fór til Noregs og hafði bæjarsetu um veturinn og þótti jafnan myrkur í skapi. Þá réð fyrir Noregi Haraldur gráfeldur.

Um sumarið eftir fór Þrándur með byrðingsmönnum suður til Danmerkur og kom á Haleyri um sumarið. Þar var þá fjölmenni sem mest, og svo er sagt, að þar kemur mest fjölmenni hingað á norðurlönd meðan stendur markaðurinn. Þá réð fyrir Danmörk Haraldur konungur Gormsson er kallaður var blátönn. Haraldur konungur var á Haleyri um sumarið og fjölmenni mikið með honum.

Tveir hirðmenn konungsins eru nefndir, er þar voru þá með honum; hét annar Sigurður, en annar Hárekur. Þessir bræður gengu um kaupstaðinn jafnan og vildu kaupa sér gullhring þann er bestan fengu þeir og mestan. Þeir komu í eina búð þar er harðla vel var um búist. Þar sat maður fyrir og fagnaði þeim vel og spurði hvað þeir vildi kaupa. Þeir sögðust vilja kaupa gullhring mikinn og góðan. Hann kvað og gott val mundu á vera. Þeir spyrja hann að nafni, en hann nefndist Hólmgeir auðgi. Brýtur hann nú upp gersimar sínar og sýnir þeim einn digran gullhring, og var það gersimi sem mest, og mat svo dýrt að þeir þóttust eigi sjá hvort þeir munu allt það silfur fá, er hann mælti fyrir, þegar í stað, og beiddu hann fresta til morgins, en hann játaði því. Nú gengu þeir í burt við svo búið, og leið af sú nótt.

En um morguninn gengur Sigurður í brott úr búðinni, en Hárekur var eftir.

Og litlu síðar kemur Sigurður utan að tjaldskörum og mælti: "Hárekur frændi," sagði hann; "seldu mér sjóðinn skjótt, þann er silfrið er í, það er við ætluðum til hringskaupsins, þvíað nú er samið kaupið, en þú bíð hér meðan og gæt hér búðarinnar."

Nú fær hann honum silfrið út í gegnum tjaldskarirnar.


3. kafli

Nú litlu síðar kemur Sigurður í búðina til bróður síns og mælti: "Tak þú nú silfrið; nú er samið kaupið."

Hann svarar: "Eg fékk þér silfrið skömmu."

"Nei," segir Sigurður; "eg hefi ekki á því tekið."

Nú þræta þeir um þetta. Eftir það segja þeir konungi til. Konungur skilur nú, og aðrir menn, að þeir eru stolnir fénu. Nú leggur konungur farbann, svo að engi skip skulu sigla burt svo búið. Þetta þótti mörgum manni vanhagur mikill, sem var, að sitja um það fram, er markaðurinn stóð.

Þá áttu Norðmenn stefnu sín á milli um ráðagjörðir. Þrándur var á þeirri stefnu og mælti svo: "Hér eru menn mjög ráðlausir."

Þeir spyrja hann: "Kanntu hér ráð til?"

"Svo er víst," segir hann.

"Lát fram þá þína ráðagjörð," sögðu þeir.

"Eigi mun það kauplaust," segir hann.

Þeir spyrja hvað er hann mælir til.

Hann svarar: "Hver yðvar skal fá mér eyri silfurs," segir hann.

Þeir kváðu það mikið, en það varð kaup þeirra að hver maður fékk honum hálfan eyri þá í hönd, en annan hálfan eyri ef þetta yrði framgengt.

Og hinn næsta dag eftir átti konungur þing og talaði svo, að menn skyldu aldri þaðan lausir meðan eigi yrði víst um töku þessa.

Þá tekur til orða einn ungur maður, vaxið hár af kolli rauður á hárslit og freknóttur og heldur grepplegur í ásjónu, og mælti svo: "Hér eru menn heldur ráðlausir mjög," segir hann.

Ráðgjafar konungsins spyrja, hvert ráð hann sæi til.

Hann svarar: "Það er mitt ráð, að hver maður sá er hér er kominn leggi fram silfur slíkt sem konungur kveður á, og er það fé kemur saman í einn stað, þá bæti þeim er fyrir skaðanum er orðinn, en konungur hafi það sér til sæmdar, er af fram gengur. Veit eg að hann mun vel fyrir sjá, því er hann hlýtur, en menn liggi hér eigi veðurfastir, múgur manns sem hér er saman komið, til svo mikils vanhags."

Hér var skjótt undir tekið af alþýðu, og sögðust gjarna vilja fé fram leggja konungi til sæmdar, heldur en sitja þar sér í vanhag. Og þetta var ráðs tekið, og var þessu fé saman komið; var það óf fjár.

Og þegar eftir þetta sigldi í brottu mikill fjöldi skipa. Konungur átti þá þing, og var þá litið á hið mikla fé, og var þá bræðrum bættur skaði sinn af þessu fé.

Þá talaði konungur um við menn sína hvað af skyldi gjöra þessu hinu mikla fé. Þá tekur til orða einn maður og mælti: "Herra minn," sagði hann; "hvers þykir yður sá verður er þetta ráð gaf til?" segir hann.

Þeir sjá nú að sjá hinn ungi maður hafði þetta ráð til gefið, er þá var þar fyrir konungi.

Þá mælti Haraldur konungur: "Þessu fé skal öllu skipta í helminga; skulu mínir menn hafa helming annan, en þá skal enn skipta öðrum helmingi í tvo staði, og skal þessi ungi maður hafa annan hlut þessa helmings, en eg skal enn sjá fyrir öðrum."

Þrándur þakkaði þetta konunginum með fögrum orðum og blíðum. Varð það svo mikið ófa fé er Þrándur hlaut, er trautt kom markatali á. Sigldi Haraldur konungur í brott og allur saman múgur er þar hafði verið.

Þrándur fór til Noregs með kaupmönnum þeim hinum norrænum er hann hafði þangað með farið, og greiddu þeir honum það fé er hann hafði mælt, og keypti hann sér þar einn byrðing, mikinn og góðan, leggur þar á hið mikla fé er hann hafði fengið í þessi ferð; heldur nú þessu skipi til Færeyja, kemur þar með heilu og höldnu öllu fé sínu og setur nú bú saman í Götu um vorið og skortir nú eigi fé.


4. kafli

Hafgrímur hét maður; hann bjó í Suðurey í Færeyjum. Hann var ríkur maður og harðfengur, auðigur að fé. Guðríður hét kona hans og var Snæúlfsdóttir. Hafgrímur var höfðingi yfir helmingi eyjanna og hélt þeim helmingi í lén af Haraldi konungi gráfeldi, er þá réð fyrir Noregi. Hafgrímur var ákafamaður mikill í skaplyndi og ekki kallaður vitur maður. Einar hét heimamaður hans og var kallaður Suðureyingur. Annar maður hét Eldjárn kambhöttur, er þar var enn með Hafgrími. Hann var margorður og illorður, heimskur og illgjarn, dáðlaus og tilleitinn, lyginn og rógsamur.

Bræður tveir eru nefndir til sögunnar og bjuggu í Skúfey; hét annar Brestir, en annar Beinir. Þeir voru Sigmundarsynir. Sigmundur faðir þeirra og Þorbjörn Götuskeggur, faðir Þrándar, voru bræður.

Þeir Brestir og Beinir voru ágætir menn og voru höfðingjar yfir helmingi eyjanna og héldu þann í lén af Hákoni jarli Sigurðarsyni, er þá hafði ríki nokkuð inn í Þrándheimi, og voru þeir Brestir hirðmenn Hákonar jarls og hinir kærstu vinir. Brestir var allra manna mestur og sterkastur og hverjum manni betur vígur, er þá var í Færeyjum. Hann var sjálegur maður; fimur við alla leika. Beinir var og líkur bróður sínum um marga hluti og komst þó eigi til jafns við hann.

Fátt var með þeim Þrándi, þóað frændsemi væri mikil.

Eigi voru þeir kvongaðir bræður; friðlur áttu þeir; Cecilía hét friðla Brestis, en hin hét Þóra, er fylgdi Beini. Sigmundur hét son Brestis og var snemma mannvænlegur; Þórir hét son Beinis og var tveim vetrum ellri en Sigmundur.

Annað bú áttu þeir bræður í Dímun, og var það minna búið.

Synir þeirra bræðra voru þá ungir mjög er þetta var.

Snæúlfur, mágur Hafgríms, bjó í Sandey og var suðureyskur maður að ætt og flýði úr Suðureyjum fyrir víga sakir og ódældar og til Færeyja. Hann hafði verið í víkingu hinn fyrra hluta ævi sinnar. Hann var þá enn ódæll og harður viðureignar.


5. kafli

Bjarni hét maður er bjó í Svíney, og var kallaður Svíneyjar-Bjarni. Hann var einn gildur bóndi og hafði mikið fé; undirhyggjumaður mikill. Hann var móðurbróðir Þrándar úr Götu.

Þingstöð þeirra Færeyinga var í Straumsey, og þar er höfn sú er þeir kalla Þórshöfn.

Hafgrímur er bjó í Suðurey á þeim bæ er heitir að Hofi, hann var blótmaður mikill, þvíað þá voru heiðnar allar Færeyjar.

Það var eitt haust að Hafgríms bónda í Suðurey, að þeir sátu við sviðelda, Einar Suðureyingur og Eldjárn kambhöttur. Þeir fóru í mannjöfnuð; fylgdi Einar þeim frændum sínum Bresti og Beini, en Eldjárn fylgdi Hafgrími og kallaði Hafgrím framar. Þessu kom svo, að Eldjárn hljóp upp og laust til Einars með tré því er hann hélt á; kom það á öxl Einari, og varð honum illt við. Einar fékk eina öxi og laust í höfuð Kambhött svo að hann lá í óviti, og sprakk fyrir.

En er Hafgrímur varð þessa var, rak hann Einar á brott og bað hann nú fara til Skúfeyinga frænda sinna, er þó hafði hann þeim fylgt; - "og svo mun fara," segir Hafgrímur, "hvort sem er fyrr eða síðar, að vér munum til krækjast og þeir Skúfeyingar."

Einar fór í brott og kom til þeirra bræðra og segir þeim til hversu farið hafði. Þeir tóku við honum vel, og var hann þar um veturinn vel haldinn.

Einar biður Bresti frænda sinn taka við máli sínu, og svo gjörir hann. Brestir var vitur maður og lögkænn.

Og um veturinn fer Hafgrímur á skipi til Skúfeyjar og finnur þá bræður og spurði hverju þeir vildi um svara vansa þann er Einar hafði veitt Eldjárni kambhetti. Brestir svarar, að þeir skulu leggja það mál í hinna bestu manna dóm, svo að það sé jafnsætti. Hafgrímur svarar: "Ekki mun af sættum vorum verða nema eg ráða einn."

Brestir svarar: "Ekki er það jafnsætti, og mun ekki af því verða."

Þá stefndi Hafgrímur Einari til Straumseyjarþings, og skildu við svo búið.

Brestir hafði lýst þegar frumhlaupi því er Kambhöttur hafði veitt Einari, þá er nýorðið var.

Nú koma hvorir tveggju til þings og fjölmenna.

En er Hafgrímur gekk að dómum og ætlaði að hafa fram málið á hendur Einari, þá gengu þeir bræður að öðrum megin, Brestir og Beinir, með miklum flokki, og ónýtti Brestir málið fyrir Hafgrími og óhelgaði Kambhött að fornum landslögum, er hann barði saklausan mann, og hleypti upp dóminum fyrir Hafgrími, en þeir sóttu Eldjárn til útlegðar og fullra sekta. Hafgrímur sagði að þessa mundi hefnt verða. Brestir kveðst þess mundu búinn bíða og kvíða ekki hótum hans.

Skildu nú við svo búið.


6. kafli

Litlu eftir þetta fer Hafgrímur heiman og sex menn með honum og Guðríður kona hans með honum, og hafa eitt skip; fóru til Sandeyjar. Þar bjó Snæúlfur mágur hans, faðir Guðríðar konu hans.

Og er þeir komu að eyjunni sá þeir ekki manna úti á bænum og ekki úti á eyjunni; ganga nú upp til bæjarins og inn í húsin og verða ekki við menn varir; til stofu ganga þau, og er þar sett upp borð og bæði á matur og drykkur, en við menn verða þau ekki vör. Þetta þótti þeim undarlegt, og eru þar um nóttina.

En um morgininn eftir búast þeir í brott og fóru með eyjunni. Þá reri skip í móti þeim annan veg með eyjunni, hlaðið af mönnum, og kenndu þar Snæúlf bónda og hjón hans öll. Hafgrímur reri þá fyrir þá og heilsaði Snæúlfi mági sínum, en hann þagði við. Þá spurði Hafgrímur hver ráð hann legði til með honum um mál þeirra Brestis, að hann mætti fá sæmd sína. Snæúlfur svarar: "Illa er þér farið," segir hann; "leitar á þér betri menn um sakleysi, en ber þó ofvallt lægra hlut."

"Annars þóttumst eg meir þurfi en ávíta af þér," segir hann, "og vil eg eigi heyra þig."

Snæúlfur þreif upp spjót og skaut til Hafgríms. Hafgrímur kom fyrir sig skildi, og stóð þar fast í spjótið, en hann varð ekki sár. Skilja þeir við svo búið, og fer Hafgrímur heim í Suðurey og unir illa sínum hluta.

Þau Hafgrímur og Guðríður kona hans áttu son er Össur hét; hann var þá níu vetra er þetta var tíðenda og hinn efnilegsti maður.

Og nú líða stundir. Fer Hafgrímur heiman og í Austurey til Þrándar, og fagnar Þrándur honum vel. Og nú leitar Hafgrímur ráða við Þránd, hvað hann legði til með honum um mál þeirra Skúfeyinga, Brestis og Beinis; kvað hann mann vitrastan í eyjunum og kveðst gjarna vilja við hann nokkuð til vinna. Þrándur kvað slíks undarlega leitað, að hann mundi vilja vera í nokkurum vélræðum við frændur sína, - "enda mun þér eigi alvara vera. Skil eg og að þér er svo háttað, að þú vildir aðra menn hafa í ráðum með þér, en tímir ekki til að vinna að þú fáir nokkura framkvæmd."

"Svo er eigi," sagði Hafgrímur, "og vil eg þar mikið til vinna að þú sér í ráðum með mér, að eg næða lífi þeirra bræðra."

Þrándur svarar: "Koma mun eg þér í færi við þá bræður" sagði hann, "en þú skalt það til vinna við mig að fá mér tvö kúgildi hvert vor og tvö hundruð hvert haust, og skal sjá skyld vera ævinleg og svo eigi síður eftir þinn dag, og er eg þó eigi þessa búinn, nema fleiri bindist í. Vil eg að þú finnir Bjarna móðurbróður minn í Svíney og haf hann í ráðum með þér."

Hafgrímur játar þessu og fer þaðan til Svíneyjar og finnur Bjarna og beiðir hann þessa hins sama sem Þrándur hafði til lagt með honum. Bjarni svarar svo, að hann mun ekki í það ganga, nema hann hafi nokkur gæði í aðra hönd. Hafgrímur bað hann segja sér sitt skaplyndi. Bjarni mælti: "Þú skalt fá mér hvert vor þrjú kúgildi og hvert haust þrjú hundruð í slátrum."

Hafgrímur játar þessu og fer nú heim við svo búið.


7. kafli

Nú er að segja frá þeim bræðrum, Bresti og Beini; þeir áttu tvö bú, annað í Skúfey, en annað í Dímun. Brestir átti konu þá er Cecilía hét; hún var norræn að ætt. Son áttu þau, er Sigmundur hét, og var þá níu vetra gamall er þetta var, og var bæði mikill og skörulegur. Beinir átti friðlu er Þóra hét og son við henni er Þórir hét; hann var þá ellefu vetra gamall og hinn efnilegsti.

Það er að segja eitthvert sinn, þá er þeir bræður voru að búi sínu, Brestir og Beinir, í Dímun, að þeir fóru í eyna Dímun hina litlu; hún er óbyggð. Þar létu þeir ganga sauðfé sitt og naut þau er þeir ætluðu til sláturs. Sveinarnir beiddu að fara með þeim, Sigmundur og Þórir. Þeir bræður létu það eftir þeim, og fara nú til eyjarinnar. Þeir bræður höfðu nú öll vopn sín.

Svo er frá Bresti sagt að hann var bæði mikill og sterkur og hverjum manni betur vopnfær, vitur maður og vinsæll við alla sína vini. Beinir bróðir hans var og vel að sér gjörr, og komst þó eigi til jafns við bróður sinn.

Nú fóru þeir frá eyjunni Dímun hinni litlu, og er þeir sóttu mjög að eyjunni Dímun hinni byggðu, þá sá þeir þrjú skip fara í mót sér, hlaðin af mönnum og vopnum, og voru tólf menn á hverju skipi. Þeir kenndu þessa menn, og var þar Hafgrímur úr Suðurey og Þrándur úr Götu á öðru skipi, Bjarni úr Svíney á hinu þriðja skipi. Þeir komust á milli þeirra bræðra og eyjarinnar, og náðu þeir eigi lendingu sinni og komu upp skipi sínu í fjöruna einhvers staðar, en þar var hamarklettur einn upp frá þeim bræðrum, og hlupu þeir upp á með vopnum sínum, og sveinana settu þeir þar niður hjá sér á klettinn. Kletturinn var víður ofan og vígi gott.

Nú koma þeir Hafgrímur að og þessi þrjú skip, og hlaupa þegar af skipunum og upp í fjöruna að klettinum, og veita þeir Hafgrímur og Svíneyjar-Bjarni þegar aðsókn að þeim bræðrum, en þeir verjast vel og drengilega. Þrándur reikaði eftir fjörunni og skipverjar hans og voru eigi í aðsókn. Brestir varði þar klettinn, er hægra var til aðsóknar, en verra til varnar. Nú áttust þeir við um stund, og vannst eigi skjótt með þeim.

Þá mælti Hafgrímur: "Það átta eg skilið við þig, Þrándur, að þú veittir mér lið, og til þess gaf eg þér fé mitt," sagði hann.

Þrándur svarar: "Þú ert skauð að meiri að þú getur eigi sótt tvo menn við tvennar tylftir manna, og er það háttur þinn að hafa jafnan aðra á skotspæni fyrir þér og þorir lítt í nánd að koma þegar nokkur er mannraun í. Væri það ráð, ef nokkur dáð er í þér, að ráðast fyrstur upp að Bresti, en aðrir fylgdi þér eftir, ella sé eg það að þú ert öngu nýtur" - og eggjar nú sem ákaflegast.

Og eftir þetta hleypur Hafgrímur upp í klettinn að Bresti og leggur til hans með spjóti og rekur á honum miðjum og í gegnum hann. Og er Brestir skilur að þetta er hans banasár, þá gengur hann á lagið og að honum Hafgrími og höggur til hans með sverði, og kemur höggið á vinstri öxl Hafgrími og klauf ofan öxlina og síðuna svo að höndin féll frá í burt, og féll Hafgrímur dauður ofan fyrir klettinn og þar Brestir á hann ofan, og lét þar hvortveggi líf sitt.

Nú sækja þeir að Beini í annan stað, og verst hann vel; og lauk svo að Beinir lét þar líf sitt.

Svo segja menn að Brestir yrði þriggja manna bani áður hann drap Hafgrím, en Beinir tveggja manna bani.

Og eftir þessi tíðendi þá mælti Þrándur að drepa skyldi sveinana, Sigmund og Þóri. Bjarni svarar: "Eigi skal þá drepa," sagði hann.

Þrándur svarar: "Því er að skipta þó," sagði hann, "að þeir verða banar þeirra manna flestra er hér eru, ef þeir ganga undan."

Bjarni svarar: "Eigi skal þá heldur drepa en mig," sagði hann.

"Eigi var mér og þetta alvara," sagði Þrándur; "vilda eg gjöra til raun við yður, hversu þér tækið undir þetta; skal eg nú bæta þetta sveinunum, er eg hefi verið staddur á fundi þessum, og bjóða þeim til fósturs."

Sveinarnir sátu á klettinum og sá upp á þessi tíðendi, og grét Þórir, en Sigmundur mælti: "Grátum eigi frændi, en munum lengur."

Og eftir það fóru þeir í burt, og lét Þrándur sveinana fara heim í Götu, en lík Hafgríms var flutt til Suðureyjar og þar jarðað að fornum sið, en vinir þeirra Brestis og Beinis fluttu lík þeirra heim til Skúfeyjar og grófu þar, enn að fornum sið.

Nú spurðust þessi tíðendi um allar Færeyjar, og harmaði hver maður þá bræður.


8. kafli

Þetta sumar kom skip af Noregi til Færeyja, og hét Hrafn stýrimaður, víkverskur að ætt og átti garð í Túnsbergi. Hann sigldi jafnan til Hólmgarðs, og var hann kallaður Hólmgarðsfari. Skip það kom í Þórshöfn.

En er þeir voru búnir, kaupmennirnir, þá er það að segja einn morgin, að þar kemur Þrándur úr Götu á skútu einni og leiðir Hrafn stýrimann á eintal og kveðst hafa að selja honum þrælaefni tvö. Hann kveðst eigi kaupa vilja fyrr en hann sæi. Þrándur leiðir þar fram sveina tvo kollótta í hvítum kuflum. Þeir voru fríðir sjónum, en þrútnir í andliti af harmi.

Hrafn mælti þá er hann sá sveinana: "Er eigi það, Þrándur, að sveinar þessir sé synir þeirra Brestis og Beinis er þér drápuð fyrir skömmu?"

"Eg hygg víst svo vera," sagði Þrándur.

"Eigi koma þeir í mitt vald," sagði Hrafn, "svo að eg gefa fé fyrir þá."

"Við skulum þá sveigja til svo," sagði Þrándur, "og eig hér tvær merkur silfurs, er eg vil gefa þér til að þú flytir þá í brott með þér svo að aldri komi þeir síðan til Færeyja." Hellir nú silfrinu í kné honum stýrimanninum, telur nú og tjár fyrir honum; líst Hrafni fagurt silfrið, og verður þetta af, að hann tekur við sveinunum, og siglir hann nú á haf þegar honum gefur byr og kemur þar að Noregi, sem hann mundi kjósa, austur við Túnsberg, og er hann þar um veturinn og sveinarnir með honum og eru vel haldnir.


9. kafli

Um vorið bjó hann skip sitt til austurferðar og spyr þá sveinana hversu þeir þættist þá komnir. Sigmundur svarar: "Vel hjá því sem þá er við vorum í valdi Þrándar."

Hrafn spyr: "Viti þið sammæli okkur Þrándar?" sagði hann.

"Vitu við víst," sagði Sigmundur.

"Eg ætla það ráð," sagði Hrafn, "að þið farið hvert er þið vilið fyrir mér, og svo silfur það er Þrándur fékk mér í hendur með ykkur, þá ætla eg svo best komið að þið hafið það til atvinnu ykkur, og eruð þið þó helsti fáráðir í ókunnu landi."

Sigmundur þakkaði honum og kvað honum vel fara, þar sem þá var komið þeirra máli.

Nú er að segja frá Þrándi, að hann tekur undir sig ríki allt í Færeyjum og allt fé það og eignir er þeir hafa átt bræður, Beinir og Brestir frændur hans, og hann tekur til sín sveininn Össur Hafgrímsson og fóstraði hann. Össur var þá tíu vetra gamall. Réð nú Þrándur einn öllu í Færeyjum, og treystist engi honum þá í móti að mæla.


10. kafli

Það sumar er þeir bræður, Brestir og Beinir, voru drepnir, varð höfðingjaskipti í Noregi; var felldur frá landi Haraldur gráfeldur, en Hákon jarl kom í staðinn og var þá fyrst skattjarl Haralds konungs Gormssonar og hélt ríki af honum. Var þá eytt öllu ríki þeirra Gunnhildarsona; sumir voru drepnir, en sumir flýðu úr landi.

Nú er að segja frá þeim Sigmundi og Þóri, að þeir eru tvo vetur síðan í Víkinni er Hrafn lét þá lausa, og er þá upp gengið féð það er Hrafn fékk þeim, og er Sigmundur þá tólf vetra gamall, en Þórir fjórtán vetra. Spyrja til ríkis Hákonar jarls og gera nú það ráð fyrir sér að vitja hans, ef þeir mætti því við koma; þykir þeim sér það líklegast til nokkurs góðs, er feður þeirra höfðu honum þjónað. Ganga nú úr Víkinni til Upplanda og þannveg austur eftir Heiðmörk og norður til Dofrafjalls og koma þar við vetur sjálfan, og snjóvar þá á fyrir þeim og vetrar. Ráða þeir þó á fjallið með litlu ráði, fara villt og liggja úti svo að mörgum dægrum skipti matarlausir, og þá lagðist Þórir fyrir og biður Sigmund þá hjálpa sér og leita af fjallinu. Hann kvað að þeir skyldu báðir af koma eða hvorgi þeirra ella. En sá var munur krafta þeirra að Sigmundur leggur Þóri á bak sér, og veit þá heldur fyrir ofan. Dösuðust nú mjög báðir; finna nú eitt kveld dalverpi nokkuð á fjallinu og fóru nú eftir því, og um síðir kenna þeir reykjarþef, og því næst finna þeir bæ og ganga inn og finna stofu. Þar sátu konur tvær, önnur við aldur, en önnur ung stúlka; báðar voru þær fríðar sjónum. Þær heilsuðu vel sveinum þessum og drógu af þeim klæðin, en fá þeim þurr klæði í staðinn; og brátt gefa þær þeim mat að eta, og síðan fylgja þær þeim til svefns og búa um þá vel og segja að þær vilja að þeir yrði eigi fyrir bónda er hann kemur heim, kvað hann vera stygglyndan.

Nú vaknar Sigmundur við það að maður kemur inn, mikill vexti og í hreinbjálfa og hafði hreindýri á baki. Hann hafði uppi nasarnar og var yggldur og spurði hvað komið væri. Húsfreyja sagði að þar voru komnir sveinar tveir, veslingar, kalnir og máttdregnir mjög, svo að komnir eru að bana.

Hann svarar: "Svo máttu oss skjótast uppi hafa að þið takið mennina í vor hús, og hefi eg það oft sagt þér."

"Eigi nennta eg," sagði húsfreyja, "að svo vænlegir menn dæi hér hjá húsum vorum."

Bóndi lét þá vera kyrrt, og fóru þau til matar og síðan til svefns.

Tvær voru rekkjur í svefnhúsi; lágu þau bóndi og húsfreyja í annarri, en dóttir bónda í annarri hvílu, en búið var um sveinana þar í húsinu.

En um morgininn var bóndi snemma á fótum og mælti til sveinanna: "Það þyki mér sem þær vili konurnar að þið hvílist hér í dag ef ykkur þykir svo henta."

Þeir kváðust það gjarna vilja.


11. kafli

Nú var bóndi í brott um daginn og kom heim að kveldi og var vel kátur við þá Sigmund. En annan morgin kom bóndi til sveinanna og mælti: "Auðið varð þess, að ykkur bæri hingað að húsum mínum. Nú þyki mér það ráð að þið dvelist hér í vetur, ef ykkur þykir svo betur gegna. Virðist þeim konum vel til ykkar, en þið hafið farið þvert af veginum, og er langt til byggða alla vega héðan."

Þeir Sigmundur þakka bónda boð sitt og sögðust það gjarna vilja, að vera þar.

Bóndi mælti að þeir skyldi þiggja vel að þeim húsfreyju og taka höndum til þess er þær þyrfti, - "en eg mun í brottu vera hvern dag að leita oss að föngum, ef svo vill verða."

Nú eru þeir þar sveinarnir, og er þeim vel veitt, og eru þær vel við þá, og þykir þeim þar gott, en bóndi er á burtu hvern dag.

Þar voru hús góð og ramleg og búist um vel. Bóndi nefndist Úlfur, en Ragnhildur kona hans, en Þuríður dóttir þeirra. Hún var hin fríðasta kona sýnum og mikilúðleg. Góður þokki var með þeim Sigmundi og Þuríði og töluðu oftlega, og lagði bóndi og húsfreyja ekki orð í það.

Líður nú vetur og kemur sumarmáladagurinn hinn fyrsti. Þá kemur Úlfur bóndi að máli við Sigmund og mælti: "Svo er háttað," sagði hann, "að þið hafið hér verið í vetur með mér. Nú ef ykkur þykir eigi annað sýnna fyrir liggja en vera hér, þá skal ykkur það heimilt, og vita að þið þroskist hér. Má vera að oss sé nokkurir fleiri hlutir saman ætlaðir. En einn er sá hlutur að eg vil vara ykkur við, að þið farið eigi í skóg þann er norður er frá bænum."

Þeir játuðu þessu og þökkuðu Úlfi bónda boð sitt, og þekktust þetta boð gjarna.


12. kafli

Tjörn ein var þaðan skammt frá bænum, og fór bóndi þangað til og vandi þá við sund. Þá fóru þeir í skotbakka og vöndust við skot, og varð Sigmundur skjótt áskynja allra íþrótta Úlfs, svo að hann varð hinn mesti íþróttamaður og báðir þeir Þórir, og komst hann þó eigi til jafns við Sigmund. Úlfur var mikill maður og sterkur, og það skildu þeir frændur að hann var hinn mesti íþróttamaður.

Þeir voru þar nú þrjá vetur, og var Sigmundur þá fimmtán vetra, en Þórir sautján vetra. Sigmundur var þá gildur maður fyrir þroska sakir og báðir þeir, og var Sigmundur þó öllum hlutum fremri, þó að hann væri tveim vetrum yngri.

Og nú er það eitt hvert sinn um sumarið að Sigmundur mælti til Þóris: "Hvað mun varða þó að við farim í skóg þenna er hér er norður frá garði?"

Þórir svarar: "Á því er mér engi forvitni," segir hann.

"Ekki er mér svo gefið," segir Sigmundur, "og þangað skal eg fara."

"Þú munt ráða hljóta," segir Þórir, "en brjótum við þá boðorð fóstra míns."

Nú fóru þeir, og hafði Sigmundur viðaröxi eina í hendi sér; koma í skóginn og í rjóður eitt fagurt. Og er þeir hafa þar eigi lengi verið, þá heyra þeir brak mikið í skóginn, og brátt sá þeir björn mikinn harðla og grimmlegan. Það var viðbjörn mikill, úlfgrár að lit. Þeir hlaupa nú aftur á stíginn þann er þeir höfðu þangað farið. Stígurinn var mjór og þröngur, og hleypur Þórir fyrir, en Sigmundur síðar. Dýrið hleypur nú eftir þeim á stíginn, og verður því þröngur stígurinn, og brotna eikurnar fyrir því. Sigmundur snýr þá skjótt út af stígnum millum trjánna og bíður þar til er dýrið kemur jafnfram honum; þá höggur hann jafnt meðal hlusta á dýrinu með tveim höndum svo að exin sökkur, en dýrið fellur áfram og er dautt, þvíað það hefir engi fjörbrot. Þórir varð nú þessa var og mælti svo: "Þér varð þessa þrekvirkis auðið, frændi," sagði Þórir, "en eigi mér, og er það og líklegast að eg sé um margt þinn eftirbátur."

Sigmundur mælti: "Nú skulu við freista að við getim reist upp dýrið."

Svo gera þeir og geta upp reist, sveigja svo að trén að eigi má falla, reka kefli í munninn, og þykir dýrið þá gapa munninum. Fara nú heim eftir þetta.

Og er þeir koma heim, þá er Úlfur fóstri þeirra heima í túni fyrir og var þá á ferð kominn að leita þeirra. Hann er þá ófrýnlegur og spurði hvert þeir hefði farið.

Sigmundur svarar: "Nú er illa orðið, fóstri minn," sagði hann. "Við höfum nú brugðið af ráðum þínum, og hefir björninn elt okkur."

Úlfur svarar: "Slíks var að von að svo mundi fara, en það munda eg vilja að hann elti ykkur eigi oftar, en þó er þetta dýr svo að eg hefi eigi traust á borið að glettast við, en þó skulum nú freista," sagði hann.

Snýr Úlfur nú inn og tekur eitt spjót í hönd sér og hleypur nú til skógarins og þeir Sigmundur með honum. Úlfur sér nú björninn og hleypur að þegar og rekur á spjótið, og fellur björninn við. Úlfur sér að dýrið er dautt áður og mælti: "Hæði þið nú að mér, eða hvor ykkar hefir drepið dýrið?"

Þórir svarar: "Ekki er mér að eigna af þessu, fóstri," segir hann, "og hefir Sigmundur drepið dýrið."

"Þetta er hið mesta þrekvirki," segir hann, "og munu hér mörg eftir fara þín afreksverk, Sigmundur," sagði hann.

Nú fara þeir heim eftir þetta, og hefir Úlfur enn meiri mæti á Sigmundi þaðan frá en áður.


13. kafli

Nú eru þeir frændur með Úlfi þar til að Sigmundur er átján vetra, en Þórir tuttugu. Sigmundur var þá frágjörðamaður á vöxt og afl og alla atgjörvi; þá er það skjótast af honum að segja, að hann hefir næst gengið Ólafi Tryggvasyni um allar íþróttir.

Og nú er svo er komið, þá segir Sigmundur Úlfi fóstra sínum að hann vill á brott leita, - "og þykir mér lítil okkur afdrif verða munu ef við forvitnumst eigi til annarra manna."

"Það skal og vera sem þið vilið," segir Úlfur.

En það höfðu þeir fundið, að hvert haust og hvert vor, meðan þeir voru þar, að Úlfur var í brottu sjö nætur eða því nær og hafði þá heim margt í birgðum, léreft og klæði, eða þá hluti aðra er þau þurftu að hafa.

Nú lætur Úlfur gera þeim klæði og býr þá vel í brott. Það finnst á konunum að þeim þykir mikið fyrir skilnaðinum og þó meira hinni yngri. Skilja nú, og fara þeir brott, og fer Úlfur á leið með og fylgir þeim um Dofrafjall, þar til er þeir sjá norður af til Orkadals. Þá sest Úlfur niður og segir að hann vill hvílast. Nú setjast þeir niður allir.

Þá mælti Úlfur: "Nú forvitnar mig að vita hverja eg hefi hér fóstrað eða hverrar ættar þið eru, eða hvar ykkart fósturland er."

Þeir segja nú allt frá sinni ævi, það er liðið var.

Úlfur harmar þá mjög.

Þá mælti Sigmundur: "Nú vil eg fóstri," segir hann, "að þú segir okkur frá ævi þinni, hvað þar hefir um liðið."

"Svo skal nú og vera," segir Úlfur.


14. kafli

Þar tek eg þá til sögu minnar, að Þórálfur hét bóndi er bjó á Heiðmörk á Upplöndum. Hann var ríkur maður og sýslumaður Upplendingakonunga. Hann var kvongaður maður og hét Iðunn kona hans, en Ragnhildur dóttir hans og var nær allra kvenna fríðust sýnum.

Sá bóndi bjó eigi langt þaðan, er Steingrímur hét, góður bóndi og vel fjáreigandi. Þóra hét kona hans. Son áttu þau er Þorkell hét; hann var efnilegur maður, mikill og sterkur.

Það var iðn Þorkels er hann var heima með feður sínum, að hvert haust er frosta tók og ísa lagði á vötn, þá lagðist hann út á merkur og nokkurir félagar hans með honum og veiddi dýr, og var hinn mesti bogmaður. Var þessi hans iðn þá er þurrafrost tekur til, og af þessu var hann kallaður þurrafrost.

Eitthvert sinn kom Þorkell að máli við föður sinn og sagði, að hann vill að hann fái honum kvonfang og biði til handa honum Ragnhildar dóttur Þórálfs bónda. Faðir hans svarar, að hann vill hátt stökka, en þetta verður þó, að þeir feðgar fara til Þórálfs bónda og bera upp eyrendi sín um bónorð Þorkels við dóttur hans Ragnhildi. Þórálfur svarar seinlega og kveðst hafa hærra hugað henni en þar er Þorkell er, en kveðst öllu vildu vel svara fyrir vingan þeirra Steingríms, en kvað þó ekki mundu af þessu verða. Skilja við svo búið og fara heim.


15. kafli

Litlu eftir þetta fer Þorkell heiman við annan mann um nótt, þá er hann fréttir að Þórálfur er eigi heima og farinn í sýslu sína. Þeir Þorkell ganga inn um nóttina og að hvílu Ragnhildar og tekur hana upp í fang sér og ber hana út og flytur hana heim með sér. Faðir hans varð illa við þetta og kvað hann taka stein um megn sér og bað hann flytja hana heim skjótt. Hann svarar: "Eigi mun eg það gjöra."

Steingrímur faðir hans bað hann þá í brottu verða.

Þorkell gerði þá svo: fór í burt með Ragnhildi og lagðist á skóga út. Þar voru í ferð með honum ellefu menn; þeir voru félagar hans og leikbræður.

Nú kemur Þórálfur bóndi heim og verður var þessara tíðenda og safnar þegar mönnum að sér og hafði hundrað manna og fer til Steingríms bónda og biður hann selja fram son sinn og fá honum í hendur dóttur sína.

Steingrímur kvað þau eigi þar vera.

Þeir Þórálfur rannsökuðu þar og fundu eigi það er þeir vildu. Eftir það fóru þeir á skóginn og leituðu þeirra og skiptu með sér leitinni, og voru þá þrír tigir manna með Þórálfi.

Nú er það einn dag að Þórálfur sér tólf menn í skóginum og konu hið þrettánda, og þykjast nú vita, og halda þangað til.

Nú tala förunautar Þorkels til, að menn drífi að þeim. Spyrja nú Þorkel hvað ráðs skal taka. Hann svarar: "Hóll einn er hér skammt frá oss, og munu vér þangað fara allir; er það vígi gott. Skulu vér brjóta þar upp grjót og veita karlmannlega vörn."

Og nú fara þeir á hólinn og búast þar við.

Brátt koma þeir Þórálfur að og láta þegar drífa vopn á þá, en þeir Þorkell verjast vel og drengilega.

Svo lýkur þeirra fundi að tólf menn falla af Þórálfi, en sjö af Þorkeli, en sárir fimm, þeir er eftir voru: Þórálfur bóndi var sár til ólífis.

Nú flýr Þorkell í skóginn og félagar hans með honum, og skilur þar með þeim; og er Ragnhildur nú þar eftir, og er hún flutt til byggða með föður sínum. Og er Þórálfur kemur í byggð, deyr hann úr sárum þessum, og er það sögn manna að Þorkell yrði banamaður hans.

Þessi tíðendi spurðust nú. Fer Þorkell heim til föður síns, og er hann lítt sár, en flestir förunautar hans meir. Eru þeir nú græddir.


16. kafli

Eftir þetta stefna þing Upplendingar, og er Þorkell þurrafrost gerr útlagi á þinginu.

Og er þeir feðgar frétta þetta, þá segir Steingrímur að Þorkell má eigi heima þar vera meðan þeir leita mest eftir honum; - "skaltu fara, frændi, til ár þeirrar er hér fellur skammt frá bænum, en þar eru gljúfur mikil upp með ánni og í árgljúfrunum er hellir einn, og veit það fylgsni engi nema eg. Þangað skaltu fara og hafa mat með þér."

Svo gjörir Þorkell, að hann er í hellinum meðan mest er leitin og verður eigi fundinn. Dauflegt þykir honum þar, og er stund líður fer hann burt úr hellinum og til bæjar þess er Þórálfur bóndi hafði átt og tekur nú Ragnhildi í burt í annan tíma og ræðst nú á fjöll og eyðimerkur; - og hér nem eg staðar, sagði hann, "sem nú hefi eg byggð mína setta, og hér hefi eg verið síðan og við Ragnhildur átján vetur, og er það aldur Þuríðar dóttur minnar. Nú hefi eg sagt ykkur ævisögu mína," segir hann.

"Mikil þyki mér saga þín, fóstri," segir Sigmundur. "En nú vil eg segja þér, að eg hefi eigi vel launað þér þinn velgjörning og fóstur, því að dóttir þín sagði mér þá er við skildum að hún væri með barni, og er þar engi maður í tigi til nema eg, og því fór eg mest í brott, að eg hugði að okkur mundi það á skilja."

Þorkell svarar: "Löngu vissa eg það, að með ykkur var ástarþokki, og vilda eg það ekki meina ykkur."

Sigmundur mælti: "Þess vil eg beiða ykkur, fóstri minn, að þú giftir eigi Þuríði dóttur þína, því að hana skal eg eiga, eða öngva konu ella."

Þorkell svarar: "Eigi mun dóttir mín betra manni giftast; en þess vil eg biðja þig, Sigmundur, að ef þú fær framkvæmd með höfðingjum, að þú munir nafn mitt og komir mér í þrift og í sætt við sveitunga mína, þvíað mjög leiðist mér nú í óbyggðum þessum."

Sigmundur játaði því, ef hann mætti svo við komast.

Og nú skilja þeir, og fóru þeir frændur til þess er þeir koma á Hlaðir til Hákonar jarls. Þar hafði hann aðsetu. Nú ganga þeir fyrir jarl og kveðja hann, en hann tók því vel og spyr hvað mönnum þeir sé. Sigmundur kveðst vera Brestisson, - "þess er var sýslumaður yðvar of hríð í Færeyjum og þar drepinn. Hefi eg því, herra, yðvarn fund sótt, að eg vænti mér af yður góðrar framkvæmdar, og vilda eg yður, herra, á hendi bindast og við báðir frændur."

Hákon jarl sagðist eigi vita gjörla hver maður hann var, - "en eigi ertu ólíkur Bresti, en sjálfur verður þú þig í ætt að færa en eigi spari eg mat við þig," - og vísaði þeim til sætis hjá gestum sínum. Og var Sveinn Hákonarson ungur og með hirð föður síns í þenna tíma.


17. kafli

Sigmundur kom sér í tal við Svein jarlsson og lék fyrir honum marga fimleika, og hendi jarlsson mikið gaman að honum.

Sigmundur flutti mál sitt fyrir Sveini og bað hann leggja til með sér að hann fengi nokkura framkvæmd af föður sínum.

Sveinn spyr hvers hann beiddist.

"Í hernað vilda eg helst," sagði Sigmundur, "ef faðir þinn vill efla mig."

"Slíkt er vel hugsað," sagði Sveinn.

Líður nú veturinn framan til jóla.

Og að jólum kemur þar Eiríkur jarl Hákonarson austan úr Víkinni; hann hafði þar aðsetu. Sigmundur kemur sér í tal við Eirík jarl og kærir fyrir honum sinn vanda. Heitur Eiríkur jarl honum sinni umsýslu við Hákon föður sinn og kveðst eigi skulu minna til leggja með honum en Hákon jarl.

Og eftir jólin vekur Sigmundur til við Hákon jarl, að hann mundi efla hann með nokkuru móti og láta hann njóta föður síns Brestis, er hann var hans þjónustumaður.

Hákon jarl svarar: "Víst fékk eg þar tjón góðrar fylgdar er Brestir var drepinn, hirðmaður minn, hinn vaskasti maður, og ills væri þeir frá mér verðir, er hann drápu, eða til hvers mælir þú?"

Sigmundur kveðst helst vilja fara í víking og fá þá annað hvort nokkurn frama eða bana.

Jarl kvað það vel mælt, - "og munt þú vita í vor, er menn búast ferða sinna, hversu eg vil þá vera láta."

Líður nú af veturinn, og þá heimtir Sigmundur fram vinmæli Hákonar jarls, en jarl svarar: "Langskip eitt vil eg fá þér og þar á fjóra tigu manna með vopnum, og mun það lið lítt vandað þvíað flestir munu ekki fúsir að fylgja þér, útlendum manni og ókunnum."

Sigmundur þakkaði jarli og segir Eiríki tillag föður síns.

Jarl svarar: "Lítið framlag, en þó má þér gagn að verða; en annað skip vil eg fá þér og á fjóra tigu manna," - og var það skip að öllu vel búið, er Eiríkur fékk honum.

Nú segir hann Sveini hvert tillag þeirra var feðga.

Sveinn svarar: "Mér er svo búið eigi jafnhægt um framlögin við vini mína sem þeim feðgum, en þó skal eg fá þér hið þriðja skip og á fjóra tigu manna, og skulu það vera þjónustumenn mínir, og vænti eg að þeir fylgi þér best af þeim mönnum er þér eru fengnir til fylgdar."


18. kafli

Sigmundur býst nú til fylgdar við menn sína og siglir þegar hann er búinn austur til Víkur og svo til Danmerkur og í gegnum Eyrarsund, og allt í hið eystra salt fer hann um sumarið og verður lítið til fengjar. Treystist hann hvergi til að halda þar er mikið er fyrir við þenna liðskost. Hann lætur þó fara kaupmenn í friði. Siglir þó austan er á leið sumarið, þar til er hann kemur undir Elfarsker; þar er jafnan víkingabæli mikið. Og er þeir hafa lagt í lægi undir einn hólma, þá gengur Sigmundur upp í skerið og vill litast um. Hann sér að öðrum megin undir hólmanum liggja fimm skip, og var dreki hið fimmta. Hann fer þá til manna sinna og segir þeim að fimm víkingaskip liggja öðrum megin undir skerinu; - "nú vil eg það segja yður, að mér er lítið um að flýja þeirra fund að öllu óreyndu. Munu vér og aldri frama fá nema vér leggim vort ráð í hættu."

Þeir báðu hann fyrir sjá.

"Nú skulu vér bera grjót á skipin," sagði Sigmundur, "og búast við sem oss þykir líkast. Vér skulum leggja skipum vorum í utanverðan þenna vog er nú eru vér komnir, þvíað vogurinn er þar mjóstur, og svo leist mér í kveld, er vér sigldum inn, að eigi mundu skipin fá inn lagt hjá oss ef vér leggjum þrjú skip vor jafnfram, og má oss það duga, að þeir leggi eigi öllu megin að oss."

Þetta gera þeir.

En um morgininn er þeir hafa lagt skip sín í utanverðan voginn, þá róa þar að þeim á fimm skipum víkingar, og stendur maður í stafni á drekanum, mikill og sterklegur, og spyr þegar hver fyrir skipunum réði. Sigmundur nefndi sig og spyr hann að nafni. Hann kveðst Randvér heita og ættaður austan úr Hólmgarði og kvað þeim tvo kosti til vera: að þeir gæfi upp skip sín og sjálfa sig í hans vald, eða verja sig ella. Sigmundur kvað þá kosti ójafna og sagði að þeir mundi freista hljóta fyrst vopna sinna. Randvér bað sína menn að leggja á þrem skipum, er eigi mátti öllum að koma, en hann vildi sjá fyrst hversu færi.

Sigmundur stýrði skipi því er Sveinn jarlsson hafði fengið honum, en Þórir því er Eiríkur jarl hafði átt.

Nú leggjast þeir að og berjast. Láta þeir Sigmundur ganga grjót svo ákaft í fyrstu að hinir megu ekki annað en hlífa sér, og er farið er grjótið, gera þeir skothríð harða, og fellur lið margt af víkingum, en fjöldi sár. Nú taka þeir Sigmundur til höggvopna sinna. Tekur nú að halla bardaganum á lið Randvés. En er hann sér ófarar sinna manna kvað hann þá vera auvirðismenn mikla, er þeir sigruðu eigi þá menn er hann kvað ekki að mönnum vera mundu. Þeir kváðu hann oft eggja sig, en hlífa sér; báðu hann nú ráðast í móti. Hann kvað svo vera skyldu. Leggur hann nú að drekanum og annað skip er menn voru hvíldir á, en skipar hið þriðja ósárum mönnum. Leggjast nú að í annað sinn og berjast, og er nú miklu stríðari orrusta en fyrr.

Sigmundur var fremstur sinna manna á sínu skipi og höggur bæði hart og títt. Þórir frændi hans gengur vel fram. Berjast nú lengi svo að eigi má í millum sjá hvorir drjúgari verða.

Þá mælti Sigmundur til sinna manna: "Eigi munu vér sigrast á þeim til þrautar, nema vér reynim oss framar. Nú vil eg ráða til uppgöngu á drekann og fylgið mér drengilega."

Nú kemst Sigmundur upp á drekann og þeir tólf saman og drepur mann, og brátt annan, en þeir fylgja honum vel. Þórir kemst og á drekann við fimmta mann. Hrökkur nú allt undan þeim. Og er Randvér sér þetta, hleypur hann fram og í mót Sigmundi, og mætast þeir og berjast mjög lengi.

Nú sýnir Sigmundur íþrótt sína og kastar sverði sínu og fleygði í loft upp og tekur vinstri hendi sverðið, en skjöldinn hægri hendi og höggur með sverðinu til Randvés og tekur undan honum fótinn hægra fyrir neðan kné. Randvér fellur þá. Sigmundur veitir honum hálshögg það er af tók höfuðið. Þá æpa Sigmundar menn heróp, og eftir það flýja víkingar á þrem skipum, en þeir Sigmundur ryðja drekann, svo að þeir drepa hvert mannsbarn er á var.

Nú kanna þeir lið sitt, og eru fallnir þrír tigir manna af liði Sigmundar. Leggja nú skipin í lægi og binda sár sín og hvíla sig þar nokkurar nætur.

Nú tekur Sigmundur drekann til sín og annað skip er eftir varð. Þeir taka þar mikið fé, bæði í vopnum og öðrum gripum. Sigla nú í burt og til Danmerkur og svo norður til Víkurinnar og finna Eirík jarl, og fagnar hann vel Sigmundi og býður honum með sér að vera. Sigmundur þakkar jarli boðið, en kveðst norður mundu fara fyrst til Hákonar jarls, en lét þar eftir tvö skip sín í varðveislu jarls, er þeir höfðu lítt skipað.

Nú koma þeir til Hákonar jarls, og fagnar hann vel Sigmundi og hans félögum, og er Sigmundur með jarli um veturinn og gjörist frægur maður mjög.

En að jólum um veturinn gjörðist Sigmundur hirðmaður Hákonar jarls og þeir Þórir báðir, og sátu nú um kyrrt í góðum fagnaði.


19. kafli

Þenna tíma réð fyrir Svíþjóðu Eiríkur konungur hinn sigursæli, Bjarnarson, Eiríkssonar, Eyvindarsonar. Hann var ríkur konungur.

Einn vetur höfðu kaupmenn tólf saman norrænir farið austan um Kjöl til Svíþjóðar, og er þeir komu í Svíaríki áttu þeir kaupstefnu við landsmenn, og skildi þá á í kaupstefnunni, og drap norrænn maður einn svenskan mann. Og er Eiríkur konungur spyr þetta, sendir hann til gesti sína og lætur drepa þessa tólf menn.

Og nú um vorið spyr Hákon jarl hvert Sigmundur ætlaði að halda um sumarið.

Sigmundur sagði að það skyldi á hans forsjó.

Hákon jarl mælti: "Það vilda eg að þú færir nökkvað nærri ríki Svíakonungs og minntist þess á Svíum er þeir drápu tólf menn mína um veturinn fyrir litlu, og hefir engi hefnd fyrir komið."

Sigmundur kveðst svo gera mundu, ef svo vildi til takast.

Hákon jarl fær þá einvalalið Sigmundi af hirð sinni, sumt leiðangurslið. Voru nú allir fúsir til Sigmundar. Halda nú austur til Víkur og finna Eirík jarl, og fær hann Sigmundi enn frítt lið, og hefir Sigmundur nú vel þrjú hundruð manna og fimm skip vel skipuð. Sigla þaðan suður til Danmerkur og svo austur fyrir Svíaveldi. Þar leggja þeir skipum sínum að Svíþjóð, austan að landinu.

Sigmundur segir þá sínum mönnum: "Hér munu vér veita uppgöngu og skulum fara hermannlega."

Þeir ganga nú á land upp og koma í byggðina með þrjú hundruð manna og drepa menn, en taka fé, brenna bæi. Stökkur nú landsfólkið undan á merkur og skóga sem undan komust.

Þaðan eigi langt í brott er þeir ráku flóttann réð fyrir sýslumaður Eiríks konungs, er Björn hét; safnar liði að sér, er hann fréttir hernaðinn og verður fjölmennur og kemst á milli þeirra og skipanna.

Og einn dag sjá þeir landherinn.

Þá tala menn Sigmundar um hvað ráðs skal taka.

"Mörg eru enn góð til," sagði Sigmundur, "og oftar sigrast þeim eigi vel er fleiri eru saman, ef menn eru skeleggir til móts. Nú skulu vér það ráð taka að fylkja liði voru og gera á svínfylking. Skulu við Þórir frændur vera fremstir, en þá þrír og fimm, en skjaldaðir menn skulu vera út í arma tveim megum, og ætla eg það ráð vort að vér skulum hlaupa að fylkingu þeirra og vita að vér komimst svo í gegnum, en Svíar munu ekki fastir á velli."

Þetta gera þeir; hlaupa nú að fylkingu Svía og komast í gegnum. Verður nú orrusta mikil, og fellur margt manna af Svíum. Gengur Sigmundur nú vel fram og höggur nú á tvær hendur og kemur að merkismanni Bjarnar og höggur hann banahögg. Þá eggjar hann menn sína að þeir skyldu brjóta skjaldborgina er skotin var um Björn, og svo gera þeir. Sigmundur kemst að Birni og eigast við vopnaskipti, og vinnur Sigmundur hann skjótt og verður banamaður hans. Æpa víkingar nú siguróp, og flýja þá landsmenn.

Sigmundur segir að þeir skulu eigi reka flóttann; sagði að þeir hefði ekki afla til þess í ókunnu landi. Svo gera þeir; taka þar mikið fé og fóru við það til skipa sinna. Sigla nú burt af Svíþjóðu og austur til Hólmgarðs og herja þaðra um eyjar og annes.

Bræður tveir eru nefndir í ríki Svíakonungs; hét annar Vandill, en annar Aðill. Þeir voru landvarnarmenn Svíakonungs og höfðu aldri minnur en átta skip og dreka tvo.

Svíakonungur spyr þessi tíðendi, er hernaður var gjörr í landi hans, og sendir orð þeim bræðrum og biður þá taka Sigmund af lífi og hans félaga. Þeir játuðu þessu.

En um haustið sigla þeir Sigmundur austan og koma undir eina ey er liggur fyrir Svíþjóð. Þá segir Sigmundur til sinna manna: "Nú erum vér ekki með vinum komnir þar er þeir eru Svíar. Skulu vér vera varir um oss, og mun eg ganga upp á eyna og sjást um."

Og svo gjörir hann og sér að öðrum megin eyjarinnar liggja tíu skip, drekaskip tvö og önnur átta.

Sigmundur sagði nú sínum mönnum, og að þeir skulu veita viðbúnað og bera fjárhlut sinn af skipum, en grjót í staðinn, og búast nú við um nóttina.


20. kafli

Og um morgininn snemma róa þeir að þeim tíu skipum, og kalla þeir þegar formennirnir hverir fyrir skipunum réði. Sigmundur sagði til sín. Og er þeir vitu hverir þessir menn eru, þá þurfti eigi að sökum að spyrja: brjóta upp vopn sín og berjast, og ekki hafa þeir Sigmundur þar komið að þeir hefði slíka raun haft.

Vandill leggur nú dreka sínum að dreka Sigmundar. Varð þar hart móttak. Og er þeir höfðu barist um hríð, þá mælti Sigmundur til sinna manna: "Enn er sem fyrr að vér munum eigi sigur fá, nema vér gangimst nær. Nú vil eg hlaupa upp á drekann, en þér fylgið mér vel."

Og nú hleypur Sigmundur á drekann, og fylgir honum mikil sveit. Verður hann skjótt manns bani og annars. Hrökkur nú liðið undan þeim.

Vandill sækir nú í mót Sigmundi og eigast nú við vopnaskipti mjög lengi. Sigmundur hefir hið sama bragð sem fyrr: skiptir um vopn í höndum sér og höggur hinni vinstri hendi til Vandils og af honum höndina hægri, og féll niður sverðið það er hann hafði vegið með. Sigmundur gjörir þá skjótt um við hann og drepur hann. Þá æpa menn Sigmundar siguróp.

Aðill mælti þá: "Umskipti hafa nú orðið, og mun Vandill drepinn, og leggjum á flótta. Verður nú hver að leita fyrir sér."

Nú flýja þeir Aðill á fimm skipum, en fjögur eru eftir og dreki hið fimmta, og drepa þeir hvert mannsbarn er eftir var, en hann hafði drekann með sér og önnur skip. Fara nú þar til er þeir koma í ríki Danakonungs. Þykjast nú hirðir og haldnir. Hvíla sig nú og binda sár sín.

En er þeir eru vel færir sigla þeir til þess er þeir koma í Víkina og finna Eirík jarl, og er þeim þar vel fagnað. Dveljast þar litla hríð og fara norður til Þrándheims og koma á fund Hákonar jarls. Hann fagnar vel Sigmundi og hans mönnum og þakkar honum þessi verk er hann hafði unnið um sumarið.

Eru þeir frændur með jarli um veturinn, Sigmundur og Þórir, og nokkur sveit með þeim, en lið þeirra vistaðist annarstaðar. Skortir nú eigi fé.


21. kafli

En er voraði fréttir Hákon jarl Sigmund hvert hann ætlaði að herja um sumarið. Sigmundur kvað það skyldu á hans forsjó vera.

"Ekki mun eg eggja þig að fara í glett við þá Svía. Vil eg nú að þú farir vestur um haf í nánd Orkneyjum. Þar er von þess manns er Haraldur járnhaus heitir. Hann er útlagi minn og óvinur sem mestur og hefir marga óspekt gjört í Noregi. Hann er mikill maður fyrir sér. Hann vil eg að þú drepir, ef þú mátt svo við komast."

Sigmundur kveðst mundu finna hann ef hann frétti til hans.

Nú siglir Sigmundur af Noregi átta skipum, og stýrir Þórir nú drekanum Vandilsnaut, en Sigmundur Randvésnaut. Þeir sigla nú vestur um haf og verður illt til fengjar um sumarið. Og að áliðnu sumri koma þeir skipum sínum undir Öngulsey; hún liggur í Englandshafi. Þar sjá þeir liggja fyrir sér tíu skip, og var þar með eitt drekaskip mikið.

Sigmundur verður þess skjótt vís, að fyrir þeim skipum ræður Haraldur járnhaus.

Þeir mæla til bardaga með sér um morgininn.

Líður nú af nóttin.

Og um morgininn í sólar roð brjóta þeir upp vopn sín og berjast þann dag allan til nætur; skilja við myrkur og mæla til bardaga með sér um morgininn.

Og annan morgin eftir kallar Haraldur á skip Sigmundar og spurði hvort hann vildi enn berjast. Hann kveðst eigi annað ætla.

"Það mun eg nú mæla," segir hann, "er eg hefi eigi fyrr mælt, að eg vilda að við gerðimst félagar, en berjumst eigi lengur."

Hér lögðu menn hvorstveggja vel til og kváðu nauðsyn á vera að þeir sættist og væri allir eins, og mundi fátt við þeim standa. Sigmundur kvað einn hlut fyrir standa að þeir mundi eigi sættast.

"Hvað er það?" segir Haraldur.

Sigmundur svarar: "Hákon jarl sendi mig eftir höfði þínu."

"Ills var mér að honum von," segir Haraldur, "og eru þið ólíkir menn, þvíað þú ert hinn vaskasti maður, en Hákon er einn hinn versti maður."

"Ekki mun okkur þetta einn veg þykja," segir Sigmundur.

Nú áttu menn þeirra hlut að með þeim til sættar, og verður það, að þeir sættast og leggja allt herfang sitt saman og herja nú víða um sumarið, og stendur nú fátt við þeim.

En er haustar sagði Sigmundur að hann vill halda til Noregs.

Haraldur svarar: "Þá mun skilja með okkur."

"Eigi skal það," sagði Sigmundur;, "vil eg nú að við farim báðir til Noregs. Hefi eg þá nökkuð af því sem eg hét Hákoni jarli, ef eg kem þér á hans fund."

"Hví munda eg fara á fund hins mesta óvinar míns?"

"Lát mig þessu ráða," segir Sigmundur.

"Bæði er að eg trúi þér vel," sagði Haraldur, "enda er þér þá vant um, og skaltu þessu ráða."

Sigla nú síðan norður til Noregs og koma að Hörðalandi. Þá er þeim sagt að Hákon jarl væri á Norðmæri og væri í Bergund. Halda þeir þangað og leggja skipum sínum í Steinavogi. Þá fer Sigmundur inn til Bergundar með tólf menn á einni róðrarskútu og vill finna Hákon jarl fyrst, en Haraldur liggur í Steinavogi meðan.

Nú kemur Sigmundur á fund Hákonar jarls, og situr hann við drykkjuborð. Sigmundur gengur þegar inn fyrir jarlinn og kveður hann vel. Jarl tók honum blíðlega og spyr hann tíðenda og biður setja undir hann stól, og svo var gert. Tala um hríð, og segir Sigmundur honum af ferðum sínum, en ekki getur hann að hann hafi Járnhaus fundið. En er Hákoni þykir frestast frásögn, þá spyr jarl hvort hann fyndi Harald.

"Svo var víst," sagði Sigmundur, og sagði honum sem farið hafði, að þeir sættust.

Jarl þagnar þá og roðnaði á að sjá og mælti er stund leið: "Oftar hefir þú, Sigmundur, mitt eyrendi betur rekið en nú."

"Hér er nú kominn maðurinn, herra," segir Sigmundur, "á yðvart vald, og ætla eg að þér munið taka sættum af Haraldi fyrir mín orð, svo að hann fái lífs grið og lima og landsvist sína."

"Eigi mun svo fara," sagði jarlinn; "eg skal láta þegar drepa hann að eg nái honum."

"Eg vil bjóða handsöl mín, herra, fyrir hann," sagði Sigmundur, "og fé svo mikið sem þér vilið mest gera."

"Engva sætt mun hann af mér fá," sagði jarl.

Sigmundur svarar: "Til lítils hefi eg þér þjónað og eigi góðs, er eg skal eigi einum manni fá grið og sætt. Skal eg í burt úr landi þessu og þjóna þér eigi lengur, og munda eg það vilja, að þér yrðið til hans að vinna nökkuð áður en hann væri drepinn."

Sprettur Sigmundur upp og gengur út af stofunni, en jarl situr eftir og þegir, og engi þorir að biðja fyrir Sigmundi.

Þá tekur jarl til orða: "Reiður var Sigmundur nú," sagði hann, - "og skaði er það ríki mínu ef hann ræðst í brott, og eigi mun honum það alvara."

"Það mun honum víst alvara," sögðu menn hans.

"Fari nú eftir honum," sagði jarl, "og skulu við sættast að þessu sem hann bauð."

Nú ganga jarlsmenn til Sigmundar og segja honum þetta, og nú gengur Sigmundur til jarls og fagnar jarl honum nú fyrri og sagði að þeir skulu að þessu sættast sem hann bauð fyrri; - "vil eg þig eigi brottu frá mér."

Tók Sigmundur þá grið og sætt þessa af Hákoni jarli til handa Haraldi, og fer Sigmundur nú að finna Harald og segir honum nú svo búið, að sættin er ráðin. Haraldur kvað illt mundu að trúa honum, en þó fóru þeir á fund jarls og sættust að þessu. Fór þá Haraldur eftir það norður á Hálogaland, en Sigmundur var með jarli um veturinn í miklum kærleikum og þeir Þórir frændur og mikil sveit manna með þeim.

Sigmundur heldur vel menn sína bæði að klæðum og vopnum.


22. kafli

Nú er að segja frá þeim Færeyingum, að Össur Hafgrímsson vex upp með Þrándi úr Götu þar til sem hann er fullþroskaður maður og er fræknlegur maður að sjá og skörulegur. Þrándur fær honum kvonfang þar í eyjunum, hinnar bestu bóndadóttur, og þá sagði Þrándur að þeir mundi skipta eyjum í helminga til valds og stjórnar, og skal Össur hafa þann helming sem faðir hans hafði átt, en Þrándur þann helming er þeir bræður Brestir og Beinir höfðu átt. Þrándur sagði og Össuri að honum þyki það maklegast að hann taki fé þau öll, lönd og lausafé, er þeir bræður höfðu átt, og hafi það í föðurbætur. Fer það nú allt svo sem Þrándur lagði ráð til. Átti Össur nú tvö bú eða þrjú: eitt að Hofi á föðurleifð sinni í Suðurey, annað í Skúfey, þriðja í Dímun á föðurleifðum þeirra Sigmundar og Þóris.

Frétt höfðu þeir Færeyingar til Sigmundar, að hann er frægur maður, og höfðu viðbúnað mikinn. Össur lét gera virki um bæinn í Skúfey og var þar lengstum.

Skúfey er svo háttað, að hún er svo brött að þar er hið besta vígi; er þar ein uppganga, og svo segja þeir að eigi mun eyin sótt verða ef fyrir eru tuttugu karlar eða þrír tigir, að aldri komi svo margur til að sótt verði.

Össur fór milli búa sinna með tuttugu menn, en heima voru með honum jafnan þrír tigir manna með verkmönnum. Engi maður var jafn ríkur í Færeyjum þegar Þránd leið.

Silfur það hið mikla, er Þrándur fékk á Haleyri, gekk aldri á grunn, og var hann auðgastur allra og stjórnaði nú öllu einn í Færeyjum, þvíað þeir Össur voru eigi jafn slægir.


23. kafli

Það er nú að segja frá Sigmundi, að hann talaði við Hákon jarl, að hann vill létta þessum hernaði og vill leita út til Færeyja; kveðst eigi lengur vilja heyra það að hann hefndi eigi föður síns og honum sé því brigslað og beiðir jarl efla sig til þessa og gefa sér ráð til, hversu hann skal til hátta.

Hákon svarar og segir að - "hafið er torsóttlegt til eyjanna og brim mikið, og þangað má eigi langskipum halda, og skal eg láta gera þér knörru tvo og menn fá til með þér svo að okkur þyki vel skipað."

Sigmundur þakkar honum sinn velgerning. Er nú búin ferð hans um veturinn, og skip þessi algjör um vorið og menn til fengnir.

Haraldur kom til móts við hann um vorið og réðst til ferðar með honum. Og er hann er mjög búinn, þá mælti Hákon jarl:

"Þann skal út leiða, að maður vill að aftur komi."

Gekk jarl út með Sigmundi.

Þá mælti Hákon: "Hvað segir þú mér til þess, hvern hefir þú átrúnað?"

Sigmundur svarar: "Eg trúi á mátt minn og megin."

Jarl svarar: "Ekki má svo vera," segir hann, "og verður þú þangað trausts að leita er eg hefi allan átrúnað á, þar sem er Þorgerður Hörðabrúður. Skulu við nú fara að finna hana og leita þér þangað heilla."

Sigmundur bað hann fyrir sjá.

Og nú ganga þeir til skógar akbraut eina og afstíg lítinn í skóginn, og verður þar rjóður fyrir þeim, og þar stendur hús og skíðgarður um. Það hús var harðla fagurt, og gulli og silfri var rennt í skurðina. Inn ganga þeir í húsið, Hákon og Sigmundur, og fáir menn með þeim. Þar var fjöldi goða. Glergluggar voru margir á húsinu, svo að hvergi bar skugga á. Kona var þar innar í húsið um þvert, og var hún veglega búin. Jarl kastaði sér niður fyrir fætur henni og lá lengi; og síðan stendur hann upp og segir Sigmundi að þeir skulu færa henni fórn nokkura og koma silfri því á stólinn fyrir hana, - "en það skulum við að marki hafa," segir Hákon, "hvort hún vill þiggja, að eg vildi að hún léti lausan hring þann er hún hefir á hendi sér. Áttu, Sigmundur, af þeim hring heillir að taka."

En nú tekur jarl til hringsins, og þykir Sigmundi hún beygja að hnefann, og náði jarl eigi hringnum. Jarl kastar sér niður í annan tíma fyrir hana, og það finnur Sigmundur að jarl tárast, og stendur upp eftir það og tekur til hringsins og er þá laus, og fær jarl Sigmundi hringinn og mælti svo, að þessum hring skyldi Sigmundur eigi lóga, og því hét hann.

Skilja nú við svo búið, og fer Sigmundur til skipa sinna, og er svo sagt að fimm tigir manna voru á hvoru skipinu. Létu nú í haf, og gaf þeim vel byri, þar til er þeir höfðu fugl af eyjum, og héldu samflota.

Haraldur járnhaus var á skipi með Sigmundi, en Þórir stýrði öðru skipi.

Nú rak á storm fyrir þeim, og skildust þá skipin, og hafa nú rekið mikið, svo að dægrum skiptir.


24. kafli

Nú er að segja frá þeim Sigmundi að byr kemur á fyrir þeim og sigla nú að eyjunum, og sjá þá að þeir eru komnir austan að eyjum, og eru þeir menn á með Sigmundi að kenna landsleg, og eru þeir mjög komnir að Austurey. Sigmundur sagði að hann mundi það helst kjósa að fá vald á Þrándi. Og er þá ber að eyjunni kemur á mót þeim bæði straumur og stormur, svo að ekki er nálægt um að þeir næði eyjunni; fá tekið í Svíney, með því að menn voru kænir og liðgóðir. Koma þar í næturelding og hlaupa upp þegar til bæjarins fjórir tigir manna, en tíu gættu skips. Þeir taka bæinn og brjóta upp bæinn, taka Bjarna bónda í rekkju sinni og leiða hann út.

Bjarni spyr hver foringi væri þeirrar ferðar.

Sigmundur sagði til sín.

"Þá muntu grimmur þeim að þér sýndi ekki nema illt á þeim fundi er faðir þinn var drepinn, en eigi mun eg dylja þess að eg var þar, eða mantu nokkuð til hvað eg lagði til um mál þitt, þá er það var mælt að þú mundir drepinn vera og þið Þórir frændi þinn, en eg sagði svo, að ykkur skyldi eigi heldur drepa en mig."

"Man eg víst," sagði Sigmundur.

"Nær skal mér það ömbuna?" sagði Bjarni.

"Nú," sagði Sigmundur; "þú skalt hafa grið, en eg vil einn ráða öðru."

"Svo skal víst," sagði Bjarni.

"Þú skalt fara með oss," sagði Sigmundur, "til Austureyjar."

"Þangað kemst þú eigi heldur í himininn upp," sagði Bjarni, "að þessi veðurstöðu."

"Þá skaltu fara til Skúfeyjar, ef Össur er heima."

"Þú skalt því ráða," segir Bjarni, "og þar ætla eg Össur vera."

Aðra nótt fara þeir til Skúfeyjar og koma enn í næturelding við eyna. Gefur Sigmundi svo tímasamlega að öngir menn voru á verði í einstiginu þar á Skúfeyju. Þeir ganga upp þegar fimm tigir manna, með þeim er Bjarni fékk þeim, koma að virkinu, og eru þeir Össur þá komnir upp á virkið, og spyr Össur hverir þeir menn eru, er þar eru komnir.

Sigmundur sagði til sín.

"Þú munt þykjast eiga hingað eyrendi til vor. Vil eg bjóða þér sættir." sagði Össur, "að hinir bestu menn í Færeyjum dæmi um mál okkur."

"Ekki mun af sættum okkrum verða," sagði Sigmundur "nema eg ráði einn."

"Eigi mun eg að því sættast," segir Össur, "að selja þér sjálfdæmi. Veit eg ekki þann mannamun okkarn og málaferla mun að eg þurfi þess."

Sigmundur svarar og sagði sínum mönnum að þeir skulu sækja að virkinu gletting þann, - "en eg mun leita mér ráðs hvað er eg tek til."

Haraldur járnhaus var harður í tillögum og latti allra sætta.

Össur hafði þrjá tigu manna í virkinu, og var virkið torsótt.

Össur átti son er Leifur hét og var þá ungt barn.

Nú sækja menn Sigmundar að virkinu, en hinir verja.

Sigmundur gengur hjá virkinu og lítur á. Hann var svo búinn, að hann hafði hjálm á höfði og gyrður sverði, öx í hendi silfurrekin og snaghyrnd og hið besta vopn, og vafið skaftið. Hann var í rauðum kyrtli og brynstakkur léttur um utan, og var það mál vina og óvina að eigi hefði slíkur maður komið í Færeyjar sem hann var.

Og Sigmundur sér í einum stað að virkisveggurinn var hruninn, og var þar nokkuru auðveldra en annarstaðar. Sigmundur opar frá virkinu og rennur að skeið og svo langt upp í, að hann fær krækt öxinni á virkisvegginn, og þá las hann sig skjótt upp eftir öxarskaftinu, og því næst kemur hann upp á virkið. Maður einn kom skjótt á mót honum og höggur til hans með sverði. Sigmundur lýstur af sér höggið með öxinni og leggur skjótt með öxarhyrnunni, svo að öxin stendur á kafi í fangi honum, og er sá skjótt dauður. Þetta sér Össur skjótt og hleypur í mót Sigmundi og höggur til hans, en Sigmundur lýstur enn af sér höggið, en höggur til Össurar öxinni og tekur af honum höndina hægri, og fellur niður sverðið. Þá höggur Sigmundur annað sinn til Össurar í fangið, svo að öxin gekk á hol, og féll Össur. Þá drífa menn að Sigmundi, en hann stökkur út af virkisvegginum öfugur og kemur standandi niður.

Nú styrma þeir yfir Össuri þar til er hann er dauður.

Nú segir Sigmundur þeim mönnum er eftir voru í virkinu að tveir eru kostir fyrir höndum: að hann mun sitja þeim mat í virkinu eða brenna, ella gangi þeir til sætta og láti hann einn ráða. Þeir selja honum nú sjálfdæmi og gefast upp.

Það er að segja frá Þóri, að hann ber að Suðurey og kemur nú til móts við Sigmund er þessi umskipti eru áður orðin.

Nú fara orð milli þeirra Sigmundar og Þrándar til sættar, og verður griðum á komið og fundur stefndur með þeim í Straumsey í Þórshöfn, þar er þingstöð þeirra var Færeyinga. Þar koma þeir Sigmundur og Þrándur og fjölmenni mikið, og er Þrándur hinn kátasti. Er nú talað um sættir. Sagði Þrándur að hann "var ósæmilegur á þeim fundi er faðir þinn var drepinn, Sigmundur frændi," sagði Þrándur; "vil eg unna þér þeirra sætta er þér væri mest sæmd að og þú mættir best við una: Vil eg að þú gjörir okkar í millum allar sættir."

"Það vil eg eigi," sagði Sigmundur; "vil eg að geri Hákon jarl allar sættir, ella sé við ósáttir, og ætla eg það maklegra; en við skulu fara báðir á fund Hákonar jarls ef við sættumst."

"Þess er eg fúsastur, frændi," sagði Þrándur, "að þú dæmir og vil eg það til skilja, að eg hafi landsvist mína og mannaforráð það er eg á."

"Engi verður sættin," segir Sigmundur, "nema sú að eg býð."

Og er Þrándur sá að annar mun harðari, þá sættast þeir að þessu, og skulu fara báðir til Noregs að sumri.

Skip þetta annað fer til Noregs um haustið og margt manna á, er Sigmundi hafði út fylgt, en Sigmundur var í Skúfey um veturinn og Þórir með honum, frændi hans, og Haraldur járnhaus og margt manna með þeim. Hafði Sigmundur rausn mikla og aðföng mikil í bú sitt.

Nú líður af veturinn, og býr Sigmundur skip sitt. Þrándur býr byrðing einn er hann átti. Vita nú hvorir til annarra. Siglir Sigmundur þegar er hann er búinn. Er þar í ferð með honum Þórir og Haraldur járnhaus og nær tuttugu menn á skipi. Þeir taka Noreg við Sunnmæri. Frétta til Hákonar jarls, að hann er eigi langt þaðan, og finna hann bráðlega.

Hákon jarl fagnar vel Sigmundi og hans félögum.

Sigmundur segir honum um sættir þeirra Þrándar.

Jarl svarar: "Eigi hafi þið orðið jafn slægir þið Þrándur; þætti mér eigi víst að hann kæmi skjótt á minn fund."

Líður á sumarið og kemur Þrándur eigi. Koma nú skip af Færeyjum og sögðu að Þrándur hefði orðið afturreka og lest svo skip hans að eigi væri fært.


25. kafli

Nú segir Sigmundur jarli að hann vill að hann lúki upp gerð með þeim Þrándi, þó að hann sé eigi kominn.

Jarl sagði að "svo skal vera. Þar geri eg manngjöld tvenn fyrir hvorn þeirra bræðra; hin þriðju fyrir fjörráð við ykkur, er Þrándur vildi að þið væruð drepnir, þá er hann lét drepa feður ykkra; hin fjórðu manngjöld skulu koma fyrir það er Þrándur seldi ykkur mansali. En þann fjórðung er þú átt í mannaforræði í Færeyjum, þar skal af taka hvorn tveggja hlut Þrándar og arfa Össurar, svo að þín eign skal nú vera helmingur eyjanna, en helmingur skal falla í minn garð fyrir það er Hafgrímur og Þrándur drápu hirðmenn mína, Bresti og Beini. Hafgrímur skal vera ógildur fyrir víg Brestis og aðför við saklausa menn. Össur skal eigi fé bæta, fyrir þann ójafnað er hann settist í eignir þínar og var þar drepinn, en þú skalt skipta fébótum með ykkur Þóri frænda þínum sem þér líkar. Þrándur hafi landsvist sína ef hann heldur sættir þessar. Eyjar allar skaltu hafa í lén af mér," segir jarl, "og gjalda mér skatta af mínum hluta."

Sigmundur þakkaði jarli gjörð þessa og var með honum um veturinn.

Að vori fer hann út til Færeyja og með honum Þórir frændi hans, en Haraldur járnhaus var þá eftir.

Sigmundi ferst vel og kemur til Færeyja og stefnir þing við Þránd í Straumsey í Þórshöfn; kemur Þrándur þar og margt manna.

Sigmundur sagði að Þrándur héldi enn lítt sættina og segir nú upp gjörðina jarls; biður hann nú gera annað hvort að halda sættina eða rjúfa.

Þrándur biður Sigmund gera og kveðst því best una að hann yrði sem mestur maður af.

Sigmundur kvað nú ekki gera að hvika um þetta; bað hann skjótt gera annað hvort játa eða neita; kveðst enn eigi síður kjósa að þeir væri ósáttir.

Þrándur kjöri heldur að halda sætt og bað sér fresta á um gjöld fjárins, en jarl hafði á kveðið að þetta fé skyldi hafa goldist á einum missarum; en við bæn manna, þá lét Sigmundur það gangast að þetta fé skyldi gjaldast á þremur árum.

Þrándur sagði að honum þætti allvel að Sigmundur frændi hans færi nú með mannaforráð, jafn lengi sem hann hefði áður með farið, - "og er það nú jafnaður að svo sé."

Sigmundur sagði að hann þyrfti ekki að fara með gyllingar slíkar; sagði að hann mundi aldri á taka.

Skilja nú við þetta, að menn voru sáttir allir.

Þrándur bauð Leifi Össurarsyni nú til fósturs heim í Götu, og þar óx hann upp.

Sigmundur bjó skip sitt um sumarið til Noregs, og þá geldur Þrándur upp einn þriðjung fjárins, og stankaði þó mjög við.

Sigmundur heimti saman skatta Hákonar jarls áður hann sigldi af eyjunum.

Sigmundi ferst vel og kemur við Noreg skipi sínu. Og brátt fer hann á fund Hákonar jarls og færir honum skatta sína. Jarl fagnar vel Sigmundi og þeim Þóri frændum og öllum förunautum þeirra. Eru nú með jarli um veturinn.


26. kafli

Það sumar er Sigmundur hafði gjörst hirðmaður Hákonar jarls áður um veturinn að jólum, fór hann með jarli inn til Frostaþings, og þá flutti Sigmundur mál Þorkels mágs síns, að Hákon jarl gjörði hann sýknan og gæfi honum landsvist sína að frjálsu, og Hákon jarl játaði Sigmundi því skjótt. Lét jarl þá senda eftir Þorkeli og liði hans, og var Þorkell þann vetur með Hákoni jarli og kona hans og Þuríður dóttir þeirra; hún hafði fætt meybarn það sama sumar er þeir Sigmundur höfðu í brott farið, og hét sú mær Þóra.

Um vorið eftir fékk Hákon jarl Þorkeli þurrafrost sýslu út í Orkadal, og setti Þorkell þar bú saman og var þar alla stund, þar til er nú er komið sögunni.

Nú ríður Sigmundur út í Orkadal og finnur Þorkel, og er við honum vel tekið. Og nú hefur Sigmundur bónorð sitt og biður Þuríðar. Þorkell tekur þessu vel, og þykir sér og dóttur sinni og öllum þeim leitað í þessu sæmdar og virðingar. Drekkur Sigmundur nú brúðhlaup sitt á Hlöðum með Hákoni jarli, og lætur jarl þá veislu standa sjö nætur. Gjörðist þá Þorkell þurrafrost hirðmaður Hákonar jarls og hinn kærasti vinur. Fara nú heim eftir þetta; en Sigmundur var með jarli og kona hans þar til er hann fer út til Færeyja um haustið og Þuríður kona hans með honum og Þóra dóttir hans.

Er nú kyrrt í eyjunum um veturinn.

Að vori fara menn til þings í Straumsey; kemur þar fjölmennt; Sigmundur og sveit manna með honum. Þrándur kemur þar, og heimtir Sigmundur fé sitt að Þrándi, þriðjung annan, en kveðst þó allt eiga að hafa, nema hann gjörði fyrir bæn manna.

Þrándur svarar: "Svo er háttað, frændi," sagði hann, "að sá maður er Leifur heitir og er Össurarson, og bauð eg honum heim er við vorum sáttir. Nú vil eg biðja þig, frændi," sagði Þrándur, "að þú unnir Leifi nökkurra sæmda eftir föður sinn, Össur, er þú drapt, og mætta eg gjalda honum það fé er þú átt hjá mér."

"Það gjöri eg eigi," sagði Sigmundur, "og skaltu gjalda mér fé mitt."

"Þetta mun þér sýnast sannlegt," segir Þrándur.

Sigmundur svarar: "Gjalt þú féð," sagði hann; "annar mun verri."

Þrándur greiddi nú helming af þeim þriðjungi og kveðst þá eigi við látinn að greiða þá meira. Sigmundur gekk þá að Þrándi og hafði öxi í hendi þá hina silfurreknu er hann vó Össur með. Hann setti öxarhyrnuna fyrir brjóst Þrándi og kveðst mundu þrýsta svo að hann kenndi ótæpilega, nema greiddi hann þegar féð.

Þrándur sagði þá: "Vandræðamaður ertu," segir hann, og bað mann sinn ganga inn í búð eftir fésjóð er þar lá og vita hvort nokkuð væri eftir af silfri. Sá fór og rétti sjóðinn að Sigmundi, og var þá vegið féð, og stóðst það á endum og það er Sigmundur átti.

Skilja nú við svo búið.

Þetta sumar fór Sigmundur til Noregs með skatta Hákonar jarls, og er þar við honum vel tekið; dvelst nú skamma hríð með jarli og fer út til Færeyja og situr þar um veturinn.

Þórir frændi hans er jafnan með honum.

Sigmundur var vinsæll þar í eyjunum. Þeir Svíneyjar- Bjarni héldu vel sætt sína, og kom Bjarni jafnan sama á með þeim Þrándi og Sigmundi; ella mundi verr farið hafa.

Um vorið fara menn til Straumseyjarþings; kemur þar fjölmennt. Heimti Sigmundur fé sitt að Þrándi, en Þrándur beiðir föðurbóta fyrir hönd Leifs Össurarsonar, og margir menn leggja nú orð til að þeir skuli vel semja.

Sigmundur svarar: "Eigi geldur Þrándur heldur Leifi féð en mér, en fyrir orð góðra manna skal fé þetta standa; en eigi gef eg það upp og eigi geld eg það svo búið."

Og skilja nú við þetta og fara heim af þingi.

Sigmundur bjóst enn að fara til Noregs um sumarið með skatta Hákonar jarls og verður síðbúinn. Siglir í haf er hann er búinn. Þuríður kona hans er eftir, en Þórir frændi hans fer með honum. Ferst þeim vel; koma norður við Þrándheim síð um haustið. Fór Sigmundur þá til Hákonar jarls, og er honum þar vel fagnað.

Sigmundur hefir þá sjö vetur og tuttugu er þetta var, og var síðan með Hákoni jarli.


27. kafli

Þann vetur komu Jómsvíkingar í Noreg og börðust við þá Hákon jarl og sonu hans. Þeir frændur Sigmundur og Þórir voru í bardaga með jörlum, Hákoni og Eiríki, og Sigmundur Brestisson var skipstjórnarmaður og sveitarhöfðingi í liði jarls - - - - -

Og eftir þenna atburð þrífur Búi upp eitt bryntröll. ákaflega stórt, og eggjar nú sína menn til framgöngu og höggur nú til báðra handa og svo hart og ákaft að allt hrökkur undan, það er fyrir verður. Og er Hákon jarl sér þetta, þá heitur hann nú á alla sveitarhöfðingja sína að þeir skyldu ráðast í móti Búa og reka þenna víking af höndum sér; en þeir voru flestir að mæddir voru af langri sókn og þótti betra firr Búa en nær, þvíað þeim þótti ekki frýnlegt að eiga náttból undir bryntröllinu því er Búi fór með.

Nú sér Hákon jarl að engi verður til þessa þrekvirkis í móti Búa, en hann gengur af sér sem mest og gerði stór slög á liði jarlsins. Þá heitur hann á Sigmund Brestisson að hann legði skipi sínu að Búa skipi og dræpi þenna spellvirkja.

Sigmundur svaraði: "Bæði er nú, jarl, að eg á yður margan sóma að launa, er þér hafið mér veittan, enda vili þér nú hafa mig í hina mestu hættu, er eg skal ráðast í móti Búa."

Hákon jarl velur nú hið besta lið og hið harðasta á skip Sigmundar og biður hann nú vel fram ganga. Síðan leggur hann skipi sínu að Búa skipi, og tókst nú með þeim og liði þeirra hin harðasta sókn. Búi var stórhöggur mjög, þvíað hann var rammur að afli, og hné margur maður fyrir honum og lét sitt líf.

Sigmundur eggjar nú mjög sveitunga sína að veita uppgöngu á skip Búa, þrjá tigu manna saman fram á saxið. Búi og hans félagar réðu snarplega í móti, og tókst þar hörð sókn og snörp orrusta. Þeir mætast brátt, Búi og Sigmundur, og eigast við vopnaskipti; er Búi maður sterkari, en Sigmundur fimari og vígkænni. Sigmundur skiptir enn vopnum í höndum sér, þvíað hann gerir sér báðar hendur jafn fimar til vígs að hafa, en við gátu fáir menn gjört eða öngir; og í þessi svipan höggur Sigmundur hönd af Búa í úlflið og brátt aðra. Og er Búi hefir hendur báðar misst, þá stingur hann handarstúfunum í hringa á gullkistum sínum er fullar voru af fé. Hann mælti þá og kallaði þá hátt:

"Fyrir borð allir Búa liðar."

Nú hleypur Búi fyrir borð og kom aldri upp síðan, og vinnur Sigmundur þenna sigur til handa Hákoni jarli.

Þetta er sögn Hallbjarnar hala hins fyrra og Steingríms Þórarinssonar og frásögn Ara prests fróða Þorgilssonar.

Og nú skilur þenna bardaga með því sem nú var sagt. Þakka þeir feðgar nú Sigmundi Brestissyni þenna sigur er nú var unninn - - - - - -

En af Sigmundi Brestissyni er það að segja að hann var með Hákoni jarli eftir um veturinn er þessir atburðir höfðu orðið. En um sumarið eftir fer hann út til Færeyja með góðum gjöfum reyfður af Hákoni jarli og þeim báðum feðgum, og situr Sigmundur nú um veturinn um kyrrt í Færeyjum. - - - -


28. kafli

Nú er þar til að taka að Ólafur konungur Tryggvason hafði verið tvo vetur í Noregi og kristnað um veturinn allan Þrándheim. Þá um vorið gerði konungur orðsendingar út til Færeyja til Sigmundar Brestissonar og boðaði honum á sinn fund; lét hann og það fylgja orðsendingu, að Sigmundur skyldi fara sæmdarför og konungur mundi gera hann mestan mann í Færeyjum, ef Sigmundur vildi gerast hans maður.


29. kafli

Ólafur konungur fór norðan úr Þrándheimi er á leið sumarið. En er hann kom á Sunnmæri og þá þar veislu með einum ríkum bónda, þá kom utan af Færeyjum að orðsendingu konungs Sigmundur Brestisson og Þórir frændi hans.

En er Sigmundur fann konung, tók konungur honum glaðlega; áttust þeir brátt tal við. Konungur sagði svo:

"Vel hefir þú gert, Sigmundur, er þú lagðist þessa ferð eigi undir höfuð; bauð eg þér af því mest á minn fund að mér er mikið sagt af fræknleik þínum og atgervi; vil eg gjarna vera þinn vin fullkominn ef þú vill mér hlýðnast um þá hluti er mér þykir mestu varða. Er það og mál sumra manna að okkar félagskapur sé eigi óviðurkæmilegur, sakir þess að við erum nú báðir kallaðir eigi óhreystilegir, en þolað lengi volk og vandræði, áður við fengim okkrar eiginlegar sæmdir, þvíað okkur hafa sumir hlutir eigi ólíkt að borist í útlegð og ánauð: Þú varst barn og sást upp á er faðir þinn var drepinn saklaus, en eg var í móðurkviði er minn faðir var sviksamlega drepinn, utan alla sök nema illsku og ágirnd sinna frænda. Svo er mér og sagt að þér væri því síður boðnar föðurbætur, að frændur þínir báðu drepa þig eigi síður en föður þinn og varst síðan seldur svo sem mansali, eða enn heldur gefið fé til að þú værir þjáður og þrælkaður og með því móti flæmdur og fluttur frá þínum eignum og óðalsjörðum og hafðir ekki til hjálpar í ókunnu landi langan tíma, utan það er vandalausir menn veittu þér miskunn með þess fulltingi og forsjá, er alla hluti má. En þessu eigi ólíkt, sem nú hefi eg tínt af þér, þegar eg var fæddur var mér veitt ofsókn og umsát og hugað líflát af mínum samlöndum, svo að móðir mín varð fátæklega að flýja með mig sinn föður og frændur og allar eignir. Liðu svo fram hinir fyrstu þrír vetur minnar ævi. Því næst voru við bæði tekin af víkingum, og skilda eg þá við móður mína, svo að eg sá hana aldri síðan. Var eg þá þrisvar seldur mansali; var eg þá á Eistlandi með öllum ókunnum til þess er eg var níu vetra. Þá kom þar einn minn frændi sá er við kannaðist ætt mína; leysti hann mig úr ánauð og flutti mig með sér austur í Garða. Var eg þar aðra níu vetur enn í útlegð, þó að eg væra þá kallaður frjáls maður. Fékk eg þar þroska nökkurn og þaðan af meiri sæmd og virðing af Valdamar konungi en líklegt mætti þykja um einn útlendan mann, mjög enn á þá mynd og þú fékkst af Hákoni jarli. Nú er svo komið um síðir að hvortveggi okkar hefir öðlast sína föðurleifð og fósturland fyrir langan missi sælu og sæmdar. Nú allra helst fyrir þá skyld er eg hefi spurt að þú hafir aldri blótað skurðgoð eftir hætti annarra heiðinna manna, þá hefi eg góða von á að hinn háleiti himnakonungur, skapari allra hluta, muni þig leiða til kynningar síns háleita nafns og heilagrar trúar af mínum fortölum, og gera þig mér samfélaga í réttum átrúnaði svo sem jafnan í afli og atgervi og öðrum sínum margföldum miskunnargjöfum er hann hefir þér veitt sem mér löngum tíma fyrr en eg hafði nokkura vissu af hans dýrð. Nú veiti það sá hinn sami allsvaldandi guð að eg geti þig leitt til sannrar trúar og undirokað hans þjónustu, svo að þaðan af megir þú með hans miskunn og mínu eftirdæmi og áeggjan leiða til hans dýrðar alla þína undirmenn, sem eg vænti að verða skal; skaltu og ef þú vill svo hlýðnast mínum fortölum sem nú hefi eg sagt, og þjóna trúlega guði með staðfesti, öðlast af mér vináttu og virðing, þó að það sé engis vert hjá þeirri sæmd og sælu er almáttigur guð faðir mun þér veita sem hverjum annarra þeim er geyma hans boðorða fyrir ást hans hins helga anda, að samríkja sínum sæta syni, konungi allra konunga, eilíflega í hinni hæstu himinríkis dýrð."

En er konungur lauk sinni ræðu svaraði Sigmundur:

"Það er yður kunnigt, herra, sem þér komuð við í yðru máli, að eg var þjónustubundinn Hákoni jarli; veitti hann mér gott yfirlæti, og unda eg þá allvel mínu ráði, þvíað hann var hollur og heilráður, örlyndur og ástúðigur sínum vinum, þó að hann væri grimmur og svikall óvinum sínum. En langt er í milli ykkars átrúnaðar. En svo sem eg skil af yðrum fagurlegum fortölum, að þessi átrúnaður sem þér boðið er í alla staði fegri og farsællegri en hinn er heiðnir menn hafa, þá er eg fús að fylgja yðrum ráðum og eignast yðra vináttu. Og fyrir því vilda eg eigi blóta skurðgoð að eg sá löngu að sá siður var engu hæfur, þó að eg kynni engan betra."


30. kafli

Ólafur konungur varð glaður við er Sigmundur tók svo skynsamlega máli hans. Var Sigmundur þá skírður og allt hans föruneyti, og lét konungur kenna þeim heilög fræði. Var Sigmundur þá með konungi um hríð í mikilli virðingu.

En er hausta tók, sagði konungur Sigmundi að hann vill senda hann út til Færeyja að kristna það fólk er þar byggir. Sigmundur mæltist undan því starfi, en játti þó um síðir konungs vilja. Skipaði konungur hann þá valdsmann yfir allar Færeyjar og fékk honum kennimenn að skíra fólkið og kenna þeim skyld fræði. Sigldi Sigmundur þegar hann var búinn, og greiddist hans ferð vel.

En er hann kom til Færeyja stefndi hann þing í Straumsey við bændur; kom þar fjölmennt. En er þingið var sett, stóð Sigmundur upp og skaut á erendi og sagði frá því, að hann hafði farið um sumarið austur til Noregs á fund Ólafs konungs Tryggvasonar; sagði og að konungur hafði skipað í hans vald allar eyjarnar; tóku flestir bændur því vel.

Þá mælti Sigmundur: "Það vil eg yður og kunnigt gera, að eg hefi tekið siðaskipti, og er eg maður kristinn, og hefi eg tekið við því erendi og boðskap Ólafs konungs að snúa hér í eyjunum öllu fólki til réttrar trúar."

Þrándur svarar máli hans; sagði það til heyra að bændur tali með sér þetta vandamál. Bændur sögðu að það var vel mælt.

Gengu þeir Þrándur þá annan veg á völlinn. Telur Þrándur þá um fyrir bóndum, að þeim er einsætt að neita þessum boðskap skjótt, og lýkur svo með hans fortölum að þeir verða allir á eitt sáttir.

En er Sigmundur sér að allt fólk er drifið til þeirra Þrándar svo að ekki var eftir hjá honum utan hans menn þeir er kristnir voru, þá mælti hann:

"Ofmikið vald hefi eg nú fengið Þrándi."

Því næst drifu menn þangað er þeir Sigmundur sátu og höfðu þegar vopnin á lofti og létu ekki friðlega. Þeir Sigmundur spruttu upp í móti.

Þá mælti Þrándur: "Setist menn niður og geri sig ekki svo óða. En þér er það að segja, Sigmundur frændi, að vér bændur verðum allir á eitt sáttir um erendi það er þú fluttir, að vér viljum með engu móti taka siðaskipti, og hér munu vér veita þér aðgöngu á þinginu og drepa þig, nema þú léttir af og heitir því til fasta að flytja aldri þenna boðskap síðan hér í eyjunum."

En er Sigmundur sér að hann kemur engu til leiðar að sinni um trúna, en hafði engan afla til að deila kappi við allt fólk, þá verður það, að hann heitur þessu sem þeir beiddu við vitni og með handfesti, og slíta við það þingið.

Sigmundur sat heima um veturinn í Skúfey og líkaði allþungt er bændur höfðu kúgað hann, en lét það þó ekki finna á sér.


31. kafli

Um vorið einn tíma þá er straumar voru sem mestir og mönnum þótti ófært á sjá milli eyjanna, þá fór Sigmundur heiman úr Skúfey með þrjá tigu manna á tveim skipum; sagði hann að þá skyldi leggja á tvíhættu að koma fram konungserendinu eða deyja að öðrum kosti. Þeir héldu til Austureyjar og gátu tekið eyna; komu þar að áliðinni nótt á óvart, svo að þeir slógu hring um bæinn í Götu; skutu síðan stokki á skemmuhurðina þar er Þrándur svaf í og brutu upp, tóku Þránd höndum og leiddu út.

Þá mælti Sigmundur: "Nú er enn svo, Þrándur, að ýmsir eiga: Þú kúgaðir mig á hausti og gerðir mér tvo harða kosti. Nú vil eg gera þér tvo kosti mjög ójafna. Sá er góður, að þú takir trú rétta og látir skírast; en ef þú vill eigi þenna, þá er sá annar kostur að þú skalt vera drepinn þegar í stað. Er þér sá illur, þvíað þú missir þá skjótt auðæfa og veraldlegrar sælu þessa heims, en tekur í móti eymd og eilífa pínu helvítis annars heims."

Þrándur svarar: "Ekki mun eg bregðast hinum fornum vinum mínum."

Sigmundur fékk þá mann til að vega að Þrándi og fékk þeim manni mikla öxi í hönd. En er hann gekk að Þrándi með reidda öxina, leit Þrándur við honum og mælti:

"Högg mig eigi svo skjótt, maður. Eg vil áður mæla nökkuð, eða hvar er Sigmundur frændi minn?"

"Hér em eg," segir hann.

"Einn skaltu ráða okkar í milli, frændi," segir Þrándur, "og skal eg taka þann sið er þú vill."

Þá mælti Þórir Beinisson: "Högg þú maður."

Sigmundur svarar: "Eigi skal höggva að sinni."

"Það er þinn bani og þinna vina," segir Þórir, "ef Þrándur gengur nú undan."

Sigmundur sagði að hætta skyldi þá á það.

Var Þrándur þá skírður af presti og hans heimamenn.

Sigmundur lét Þránd þá fara með sér, er hann var skírður. Fór Sigmundur þá um allar Færeyjar og létti eigi fyrr en þar var kristið allt fólk. Síðan býr hann skip sitt um sumarið og ætlar til Noregs að færa Ólafi konungi skatta sína og þar með Þránd úr Götu.

En er Þrándur verður þess var að Sigmundur ætlar að flytja hann á konungs fund, þá baðst hann undan þeirri ferð, en Sigmundur lét það ekki tjá, og slógu landfestum þegar byr gaf.

En er þeir voru eigi langt í haf komnir, þá hittu þeir bæði í strauma og storm mikinn; urðu við það afturreka til Færeyja og brutu skipið í spón og týndu fé öllu, en mönnum varð borgið flestum. Sigmundur barg Þrándi og mörgum öðrum.

Þrándur sagði að eigi mundi þeim ferðin takast slétt ef þeir léti hann nauðigan fara.

Sigmundur sagði að hann skyldi fara allt að einu, þó að honum þætti illt.

Tók Sigmundur þá skip annað og fé sitt að færa konungi fyrir skattinn, þvíað Sigmund skorti eigi lausafé. Láta þeir í haf í annað sinn; komast nú lengra áleiðis en fyrr; fá þó enn mótviðri stór og rekur þá aftur til Færeyja og lesta skipið.

Sigmundur sagði að honum þótti mikið farbann á liggja.

Þrándur sagði að svo mundi fara hversu oft sem þeir leitaði til svo að þeir flytti hann nauðigan með sér.

Sigmundur lætur Þránd nú lausan með því skilorði, að hann sver trúnaðareiða að hann skal hafa og halda rétta trú, vera tryggur og trúr Ólafi konungi og Sigmundi, tefja eigi né tálma fyrir nökkurum manni þar í eyjunum að við þá haldi trúleika og hlýðni, fremja og fullgjöra í alla staði þenna boðskap Ólafs konungs og svo hvern annarra sem hann sendir til Færeyja. Og svo sver Þrándur freklega sem Sigmundur kann vandlegast fyrir að skilja. Fer Þrándur þá heim í Götu, en Sigmundur situr þá í búi sínu í Skúfey þann vetur, þvíað þá var haustað mjög er þeir urðu afturreka hið síðara sinn. Lét Sigmundur þá bæta það skipið er minnur var brotið. Var allt kyrrt og tíðindalaust í Færeyjum um veturinn.


32. kafli

Sigmundur Brestisson bjó skip sitt þegar um vorið er honum þótti fært landa í milli. Hélt hann í haf þegar hann var búinn. Lét hann Þránd þá eftir með því skilorði sem áður er greint. Greiddist þá vel ferð Sigmundar. Fann hann Ólaf konung norður í Niðarósi og færði honum fé það er hann greiddi fyrir skatta af Færeyjum, þá er týnst höfðu hið fyrra sumar, og svo þá skatta er nú áttu að lúkast. Konungur tók honum vel, og dvaldist Sigmundur með konungi lengi um vorið.

Sigmundur sagði konungi glögglega allt sem farið hafði með þeim Þrándi og öðrum eyjarskeggjum. Konungur svarar:

"Það var illa, er Þrándur kom eigi á minn fund, og spillir það mjög byggð yðvarri út þar í eyjunum, er hann verður eigi þaðan braut flæmdur, þvíað það er ætlan mín, að þar siti hinn versti maður einn hver á norðurlöndum, er hann er."


33. kafli

Það var einn dag um vorið að Ólafur konungur mælti til Sigmundar Brestissonar: "Nú skulum við skemmta okkur í dag og reyna fimleika okkra."

"Þar er eg mjög vanfær til, herra," segir Sigmundur, "en þó skal þetta á yðru valdi sem annað það er eg má ráða."

Síðan reyndu þeir sund og skot og aðra fimleika, og er það sögn manna, að Sigmundur hafi næst gengið Ólafi konungi um margar íþróttir, þeirra manna er þá voru í Noregi, og skorti hann þó alla hluti við konung þá er þeir reyndu.

Það er sagt eitt sinn, þá er Ólafur konungur sat við drykk og veitti hirð sinni og hafði marga menn í boði sínu, þá var Sigmundur með konungi í miklum kærleikum og sátu tveir menn í milli konungs og Sigmundar. Sigmundur lagði hendur sínar fram á borðið. Konungur leit til og sá að Sigmundur hafði digran gullhring á hendi.

Konungur mælti: "Lát sjá hringinn."

Sigmundur tók hringinn af hendi sér og fékk konungi.

Konungur mælti: "Vilt þú gefa mér hring þenna?"

Sigmundur svaraði: "Það hefi eg ætlað, herra, að lóga eigi hring þessum."

"Eg mun fá þér annan hring í móti," segir konungur, "og skal sá hvorki minni né ófríðari."

"Eigi mun eg þessum lóga," segir Sigmundur; "því hét eg Hákoni jarli þá er hann gaf mér hringinn með mikilli ölúð, að eg munda eigi lóga, og það skal eg efna, þvíað góður þótti mér þá nautinn, er jarl var, og vel gerði hann til mín marga hluti."

Konungur mælti þá: "Lát þér hann þykja svo góðan sem þú vill, bæði hringinn og þann er þér gaf. En giftufátt verður þér nú, þvíað þessi hringur verður þinn bani. Þetta veit eg jafngjörla og það, hversu þú hefir hann fengið, eða hvaðan hann er að kominn; gekk mér það meir til þessarar beiðni að eg vildi firra vini mína vandræðum en mig fýsti að eiga hring þenna."

Var konungur þá rauður sem dreyri í andliti, en tal þetta féll niður. Og aldri síðan varð konungur jafn blíður við Sigmund sem áður; dvaldist hann þó um hríð með konungi og fór eftir það snemma sumars út til Færeyja. Skildu þeir Ólafur konungur þá með vináttu, og sá Sigmundur hann aldri síðan. Kom Sigmundur út til Færeyja og settist í bú sitt í Skúfey. - - - - -


34. kafli

Nú ráða jarlar Noregi, Eiríkur og Sveinn, og voru allvinsælir, þvíað lýðurinn var mjög sjálfráður; sátu þeir lengstum á Hlöðum í Þrándheimi að föðurleifð sinni; var þar og mestur styrkur þeirra í átthaga sínum. Þó var Eiríkur fyrir þeim bræðrum um alla hluti.

Eiríkur var frægur mjög af orrustum þeim tveim, sem hann hafði í verið fyrir Svöldur og á Hjörungavogi, sem einhverjar hafa mestar verið, og hafði í báðum sigur. Eiríkur var allra manna vænstur og ráðugastur og var að því líkur föður sínum, en ólíkur að skapsmunum og siðferði, svo að það er allra manna mál, að hann hafi verið einhver mestur beturfeðrungur.


35. kafli

Sveinn og Eiríkur jarlar sendu orð út til Færeyja Sigmundi Brestissyni að hann skyldi koma á þeirra fund. Sigmundur leggur þá ferð eigi undir höfuð og fer til Noregs og kemur á fund jarla norður á Hlaðir í Þrándheimi. Þeir taka við honum vel og með mikilli ölúð; minnast nú á forna vináttu sína; gerðist Sigmundur nú hirðmaður þeirra; skipa þeir honum Færeyjar í lén, og skilja þeir með hinni mestu blíðu og vináttu. Fer Sigmundur út til Færeyja um haustið.


36. kafli

Þrír menn eru nefndir til sögunnar; þeir vóxu upp með Þrándi í Götu; hét einn Sigurður og var Þorláksson, bróðurson Þrándar. Hann var mikill maður og sterkur, sjálegur maður, bleikur á hár og féll með lokkum. Hann var hlaðinn íþróttum, og það var sagt, að hann hefði næst gengið um allar íþróttir Sigmundi Brestissyni. Þórður hét bróðir hans og var kallaður lágur. Hann var manna þreklegastur og sterkur að afli. Gautur hinn rauði hét hinn þriði. Hann var systurson Þrándar. Allir voru þeir miklir menn og sterkir.

Leifur var þar að fóstri, og voru þeir jafnaldra.

Þessi voru börn þeirra Sigmundar og Þuríðar: Þóra var elst, dóttir þeirra, er fædd var á fjallinu. Hún var mikil kona og sköruleg, ekki dávæn, og hafði snemmendis viskubragð á sér. Þórálfur hét hinn elsti son þeirra; annar Steingrímur, þriði Brandur, fjórði Heri. Allir voru þeir efnilegir menn.

Nú fór um kristni í Færeyjum sem víðara annarstaðar í ríki jarla, að hver lifði sem vildi, en þeir sjálfir héldu vel sína trú.

Sigmundur hélt vel trú sína og allt lið hans og lét kirkju gera á bæ sínum.

Það er sagt frá Þrándi, að hann kastar raunmjög trú sinni og allir hans félagar.

Nú stefna þeir þing Færeyingar; kemur þar Sigmundur og Þrándur úr Götu og mikið fjölmenni.

Þrándur mælti til Sigmundar: "Svo er háttað, Sigmundur frændi, að eg vil beiða þig bóta fyrir hönd Leifs Össurarsonar, að þú bætir honum föður sinn."

Sigmundur kvaðst þeim dómi mundu þar um hlíta, er Hákon jarl hafði dæmt milli þeirra um öll málaferli þeirra.

Þrándur kvað hitt mundu sýnast, "að unna Leifi þeirra föðurbóta að hinir bestu menn geri með ykkur hér í eyjunum."

Sigmundur kvað Þránd þar ekki þurfa árar um að draga, kvað það ekki verða mundu.

Þrándur mælti, að "það er sannast, að þú verður harður í horn að taka; má og vera að þeir frændur mínir er upp vaxa með mér þyki þú lítill jafnaðarmaður, er þú vill ekki miðla ríki við þá, þar er vér eigum meir en helming við þig, og er eigi ráðið að menn uni þessu lengi. Þú hefir mér margar skammir gert," sagði Þrándur, "og þá mesta er þú kúgaðir mig til siðaskiptis, er eg uni verst við allar stundir er eg gekk undir það; máttu og við því um búast að menn munu eigi una svo skörðum hlut við þig."

Sigmundur kvaðst sofa mundu svefn sinn fyrir hótum hans.

Skildu nú við svo búið.


37. kafli

Það er sagt um sumarið að einhvern dag fór Sigmundur til eyjarinnar Dímon á skipi, hinnar litlu, og þeir Þórir og Einar Suðureyingur með honum, þvíað Sigmundur vildi taka sér slátursauði er gengu í eyjunni. Sigmundur og þeir voru uppi á eyjunni; sá þeir þá að menn gengu upp á eyna og þar blikuðu við skildir fagrir. Þeir höfðu töl á, og voru tólf menn komnir upp á eyna. Sigmundur spurði hvað mönnum það mundi vera.

Þórir kveðst kenna að þar voru Götuskeggjar, Þrándur og þeir frændur hans, - "eða hvað skal nú ráðs taka," segir Þórir.

"Eigi mun vandi á," segir Sigmundur; "vér skulum ganga í mót þeim," segir hann, "allir með vopnum vorum, og ef þeir sækja að oss, þá skulum vér undan hlaupa sér hver vor, og koma þó allir í einn stað niður þar sem uppgangan er á eyna."

Þeir Þrándur tala um með sér, að Leifur skuli ganga í móti Sigmundi og Þorlákssynir með honum og hinn fjórði maður með þeim. Þeir Sigmundur heyra þetta. Gangast nú í mót, og ráða þeir Þrándur þegar til þeirra, en þeir Sigmundur halda nú undan sér hver þeirra, en komu í einn stað niður og hlaupa í uppgönguna, og er þar einn maður fyrir. Sigmundur kom að honum fyrstur og gerði skjótt um við hann. Þá varði Sigmundur uppgönguna, en þeir Þórir og Einar hlupu til skips þeirra Þrándar; hélt þar annar maður festi, en annar var út á skipi. Þórir hljóp að þeim er festinni hélt og drap þann; Einar hljóp til skips þeirra Sigmundar og flotaði því. Sigmundur varði uppgönguna og opaði ofan í fjöruna undan þeim, þvíað hann vildi til skips þeirra, og vó þar einn förunaut þeirra í fjörunni; þá hljóp hann út á skipið og þeir Þórir báðir. Sigmundur færði þann skjótt útbyrðis, er á skipinu var. Nú reru þeir á burt báðum skipunum, en sá komst til lands, sem Sigmundur hafði útbyrðis skotið.

Þeir Þrándur brenndu vita, og var róið til þeirra, og fóru þeir heim í Götu.

Sigmundur safnaði mönnum að sér og ætlaði að taka þá Þránd þar í eyjunni, áður hann frétti að þeir voru í burtu.

Og nokkuru síðar um sumarið fór Sigmundur á skipi og þeir þrír saman að landsskyldum sínum. Þeir reru í eitt þröngt sund milli eyja nokkurra. Og er þeir komu úr sundinu, þá sigldi þar skip á móti þeim og átti allskammt til þeirra. Þeir kenndu menn þessa, og voru þar Götuskeggjar, Þrándur og þeir tólf saman.

Þórir mælti þá: "Helsti nær oss eru þeir," segir hann, "eða hvað er nú til ráðs, Sigmundur frændi?" segir hann.

"Lítils mun við þurfa," sagði Sigmundur; "en það skulum vér ráðs taka," segir Sigmundur, "að róa á móti þeim, en þeir munu vilja fella seglið, og er skip vort ber framhjá skipi þeirra, þá skulu þið bregða sverðum ykkrum og skera höfuðbendur á það borð er eigi fer seglið ofan, en eg mun að hafast slíkt er mér líkar."

Nú róa þeir á móti þeim, og er skip þeirra Sigmundar ber framhjá þeim, þá skera þeir Þórir og Einar allar höfuðbendur á það borð er eigi fór seglið ofan. Sigmundur þrífur upp fork einn er lá í skipi hans og rekur út í húfinn á skipi þeirra svo hart, að því næst horfði kjölurinn upp á skipinu. Hann færði forkinn í þann húf skipsins, er seglið hafði ofan farið og þagat hallaðist áður; því hvelfdi skipinu skjótt, með því að hann fylgdi að með öllu afli. Drukknuðu þar fimm menn af liði Þrándar.

Þórir mælti að þeir skyldi drepa hvern þeirra sem þeir næði. Sigmundur kvaðst það eigi vilja; sagðist heldur vildu hrekja þá sem mest. Nú skilur þar með þeim.

Þá mælti Sigurður Þorláksson: "Hið sama vill hér vera um hrakfarir vorar fyrir Sigmundi."

Hann fær rétt skipið og barg mörgum mönnum.

Þá mælti Þrándur er hann kom upp í skipið: "Nú mun hafa um skipt hamingju með oss Sigmundi," segir hann, "þvíað nú hefir honum gefið missýni mikið er hann drap oss eigi, er hann átti alls kosti við oss; skulu vér nú og skeleggir á vera héðan í frá og létta aldri fyrr en vér höfum Sigmund í helju."

Þeir kváðust það gjarna vilja. Fara nú heim í Götu við svo búið.

Líður nú á sumarið, og eigast nú ekki fleira við að sinni.


38. kafli

Svo bar til einn dag þá er skammt var til vetrar, að Þrándur safnar mönnum að sér og fara sex tigir manna, og segir Þrándur að þá skulu þeir leita á fund Sigmundar; kveðst svo dreymt hafa að þá muni honum nær stýrt verða. Þeir höfðu tvö skip og lið valið. Þar var í för með Þrándi Leifur Össurarson, Sigurður Þorláksson, Þórður lági og Gautur rauði; Steingrímur hét bóndi í Austurey; Eldjárn kambhöttur. Hann hafði þá lengi verið með Þrándi. Svíneyjar-Bjarni sat hjá þessum málum síðan þeir Sigmundur sættust.

Þeir Þrándur fóru nú til þess er þeir koma til Skúfeyjar og draga upp skip sín og ganga upp allir, til þess er þeir koma að uppgöngunum.

Skúfey er svo gott vígi, að þeir segja að eyin verði eigi sótt ef tíu menn eru til varnar hjá uppgöngunni, en aldri komi svo margur að sótt verði.

Eldjárn kambhöttur gekk upp sýnu fyrstur og fann varðmann Sigmundar hjá uppgöngunni. Þeir réðust þegar til, og lýkur svo þeirra skiptum að þeir hrutu báðir fyrir hamar ofan, og fengu bana báðir þeir.

Þrándur gengur nú upp og allir þeir til bæjar og slá hring um bæinn og koma svo mjög á óvart að engi njósn kom fyrir þeim. Þeir brutu upp hurðir. Þeir Sigmundur hlaupa til vopna skjótt og allir þeir er fyrir voru. Þuríður húsfreyja tekur og vopn og dugir eigi verr til en einn hver karlmaður. Þeir Þrándur bera eld að húsunum og ætla að sækja bæinn með eldi og vopnum. Veita nú harða aðsókn.

Og er þeir hafa að sótt um hríð, þá gengur Þuríður húsfreyja út í dyrnar og mælti: "Hversu lengi ætlar þú, Þrándur," segir hún, "að berjast við höfuðlausa menn?"

Þrándur svarar: "Þetta mun dagsanna," segir hann, "og mun Sigmundur vera í brottu."

Nú gengur Þrándur rangsælis um bæinn og blístrar. Þrándur kemur nú að jarðhúsmunna einum, er stund þá var brott frá bænum. Hann fer þá svo, að hann hafði niðri aðra höndina á jörðu og bregður henni annað skeið að nösum sér og mælti:

"Hér hafa þeir farið þrír, Sigmundur, Þórir og Einar."

Nú fer Þrándur um hríð og þefaði sem hann rekti spor sem hundar. Hann biður þá ekki við sig mæla. Fer hann til þess er hann kemur að gjá einni, en sú gjá gengur um eyna þvera Skúfey. Þá mælti Þrándur:

"Hér hafa þeir farið, og mun Sigmundur hér hafa hlaupið yfir, hvað sem þeir hafa af sér gjört. Nú skulu vér skipta liði voru," segir Þrándur; "skal Leifur Össurarson og Sigurður Þorláksson fara fyrir annan enda gjárinnar og sumt lið með þeim, en eg fyrir annan enda, og finnumst þá hinu megin gjárinnar."

Nú gera þeir svo.

Þrándur mælti þá: "Það er nú til, Sigmundur, að gera vart við sig, ef þú ert hugar þíns eigandi og þykist vaskur maður vera, sem þú hefir lengi kallaður verið."

En niðmyrkur var á sem mest.

Og litlu síðar hleypur maður yfir gjána að þeim Þrándi og höggur með sverði til Steingríms nábúa Þrándar og klýfur hann í herðar niður, og var þar Sigmundur. Hann hleypur þegar öfugur aftur yfir gjána.

"Þar fór Sigmundur," segir Þrándur, "og eftir þeim skulum vér halda fyrir enda gjárinnar."

Og svo gera þeir, og finnast þeir Leifur nú allir og Þrándur.

Sigmundur og hans félagar koma nú allir á einn hamar við sjóinn og heyra nú mannamál alla vega frá sér.

Þá mælti Þórir: "Nú munu vér veita hér vörn sem auðið má verða."

"Ekki er eg til varnar fær," segir Sigmundur, "þvíað sverð mitt varð mér laust áðan er eg hljóp öfugur aftur yfir gjána, og munu vér hér hlaupa ofan fyrir hamarinn og leggjumst til sunds."

"Gerum sem þér líkar," segir Þórir.

Þetta taka þeir ráðs: hlaupa á sund þar af hamrinum fram.

Þá mælti Þrándur er hann heyrði skellina: "Þar fóru þeir nú," segir hann; "nú skulu vér taka þar skip er vér fám, og leita þeirra, sumir á sjá, en sumir á landi."

Og svo gera þeir, og finna þá eigi.


39. kafli

Nú er að segja frá þeim Sigmundi, að þeir leggjast um hríð og ætla til Suðureyjar; þagat var skemmst, og var það þó löng vika sjóvar.

Og er þeir höfðu hálfnað sundið mælti Einar: "Hér mun skilja oss."

Sigmundur kvað það eigi skyldu, - "og far, Einar, meðal herða mér."

Og svo gerði hann.

Sigmundur leggst þá um hríð.

Þá mælti Þórir, er hann lagðist síðar: "Hversu lengi skaltu, Sigmundur frændi, flytja dauðan mann eftir þér?"

"Eigi ætla eg þess þurfa," segir Sigmundur.

Nú lögðust þeir þar til er eftir var fjórðungur sundsins.

Þá mælti Þórir: "Alla ævi okkra, Sigmundur frændi, höfum við ásamt verið og mikla ástúð haft, hvor okkar við annan. En nú er vænst að þrjóti okkra samvistu. Hefi eg nú fram lagið slíkt er eg er til fær. Vil eg að þú hjálpir þér og lífi þínu, en gef eigi gaum að mér, þvíað þar gefur þú þitt líf við, frændi, ef þú faltrast við mig."

"Það skal aldri verða," segir Sigmundur, "að við skilim svo, Þórir frændi; skulu við annað hvort báðir á land komast eða hvorgi."

Sigmundur flytur nú Þóri meðal herða sér. Var Þórir þá svo máttfarinn að hann mátti sér nær ekki að veita, og leggst Sigmundur þar til er hann kemur að Suðurey. Brim var að eyjunni; var Sigmundur þá svo máttfarinn að hann dró stundum frá landi, en annað skeið hóf hann að. Skolaði Þóri þá af herðum honum, og drukknaði hann, en Sigmundur gat skriðið upp um síðir og var þá svo máttfarinn að hann mátti eigi ganga og skreið upp í fjöruna og lagðist niður í þarabrúkið. Þetta var í lýsing. Þar lá hann til þess er lýst var.

Þar var bær einn lítill skammt upp á eyna, er hét í Sandvík. Þar bjó sá maður er Þorgrímur illi hét, mikill maður og sterkur, landseti Þrándar úr Götu. Hann átti tvo syni; hét Ormsteinn og Þorsteinn. Þeir voru efnilegir menn.

Um morgininn gekk Þorgrímur illi til fjöru og hafði bolexi í hendi. Hann kom þar er hann sá að rautt klæði tók úr brúkinu. Hann rótar af þaranum og sér að þar liggur maður; hann spyr hver hann væri.

Sigmundur segir til sín.

"Lágt fer nú höfðingi vor," sagði hann; "eða hvað ber til?"

Sigmundur sagði allt sem farið hafði.

Þá koma að synir hans. Sigmundur biður þá að þeir mundu hjálpa þá. Þorgrímur tók ekki fljótt á því, og talar nú hljótt við sonu sína:

"Sigmundur hefir svo mikið fé á sér, að því að mér líst," sagði hann, "að vér hafim aldri slíks eigandi orðið, og er gullhringur hans harðla digur; líst mér það ráð að vér drepim hann og myrðim hann síðan; mun þess aldri víst verða."

Synir hans mæla í móti um hríð, en samþykktu honum um síðir, og ganga nú þar til er Sigmundur lá og taka nú í hár honum, en Þorgrímur illi höggur höfuð af Sigmundi með bolöxi, og lætur Sigmundur svo líf sitt, hinn vaskasti maður fyrir flestra hluta sakir. Þeir fletta hann klæðum og gripum, og draga hann síðan upp undir einn moldbakka og kasa hann þar. Lík Þóris var upp rekið og kasa þeir hann hjá Sigmundi og myrða þá báða.


40. kafli

Það er að segja af Þrándi og hans förunautum, að hann fer heim eftir þessi tíðendi, en borgið var bænum í Skúfey er menn komu til, og var lítt brunninn. Fátt hafði þar manna látist.

Þuríður húsfreyja, er síðan var kölluð meginekkja, hélt búi sínu í Skúfey eftir Sigmund bónda sinn. Þar óx upp börn þeirra Sigmundar með henni og voru öll mannvænleg.

Þrándur og Leifur Össurarson tóku nú undir sig allar Færeyjar og höfðu vald yfir. Þrándur lét bjóða Þuríði meginekkju sættir og sonum hennar, en þau tóku lítt undir það. Varð og ekki af því, að synir Sigmundar leitaði trausts við Noregs höfðingja, er þeir voru ungir að aldri.

Leið nú svo fram nokkura vetur að kyrrt var í Færeyjum.

Þrándur kemur að máli við Leif Össurarson, að hann vildi leita honum að kvonfangi nokkuru.

"Hvar skal að því leita?" segir Leifur.

"Þar sem Þóra er Sigmundardóttir," segir Þrándur.

"Eigi þyki mér líklega horfa," segir Leifur.

"Eigi mun þér konan gift ef þú biður eigi," segir Þrándur.

Þeir gera nú ferð sína til Skúfeyjar með nokkura menn, og er þeim þar fálega fagnað. Þrándur og Leifur bjóða þeim sættir, Þuríði og sonum hennar, að hinir bestu menn dæmdi þeirra á milli þar í Eyjum. Þau tóku ekki fljótt undir það. Þá hóf Þrándur bónorð fyrir hönd Leifs og bað Þóru til handa honum, dóttur Sigmundar; þótti það líklegast til heilla sátta. Bauð Þrándur að gæða hluta Leifs með miklu fé.

Þessu var seinlega tekið af öllum þeim, en Þóra sjálf svarar svo:

"Manngjarnlega mun yður mér þykja fara. Eg vil á þessu gera kost fyrir mína hönd, ef Leifur er eiðfær að hann sé eigi föðurbani minn og eigi menn til fengið að drepa föður minn, þá geri eg þann kost á, að hann skal vís verða hvað er föður mínum hefir að bana orðið, eða hver valdur er dauða hans. Og að öllum þessum hlutum fram komnum, þá megum vér gera sætt með oss með bræðra minna ráði og móður og annarra frænda vorra og vina."

Þetta þótti öllum vel mælt og viturlega til fundið, og þetta semja þau með sér, að þeir Þrándur og Leifur heita þessu, og skilja nú við svo búið.


41. kafli

Litlu eftir þetta býst Þrándur heiman úr Götu og Leifur með honum og fara á einu skipi og eru tólf saman. Þeir fara til Suðureyjar og koma í Sandvík til Þorgríms illa. Þetta var nokkurum vetrum eftir líflát þeirra Sigmundar. Þeir koma síð við eyna; ganga upp til bæjar: Þorgrímur fagnar vel þeim Þrándi, og ganga þeir inn. Þrándur gengur til stofu og Þorgrímur bóndi, en þeir Leifur sitja frammi í húsum við elda er upp voru kveiktir fyrir þeim.

Þrándi og Þorgrími varð margt talað.

Þrándur mælti: "Hvað ætla menn að Sigmundi Brestissyni muni hafa að bana orðið?" sagði hann.

"Eigi þykjast menn það gjörla vita," segir Þorgrímur; "ætla sumir að þér munið hafa fundið þá í fjörunni eða á sundi og drepið þá."

"Slíkt er illa ætlað og ólíklega," segir Þrándur, "þvíað það vissu allir, að vér vildum bana Sigmundar, en fyrir hvað mundu vér vilja myrða þá? Og er slíkt óvingjarnlega mælt."

"Mæla það enn sumir menn," segir Þorgrímur, "að þeir muni hafa sprungið á sundi, eða Sigmundur muni hafa komist til lands nokkur, er hann var afreksmaður um marga hluti, og muni þá hafa verið drepinn, ef hann hefir magnlítill til lands komið, eða myrður."

"Slíkt er alláræðilega talað," segir Þrándur, "og það er mín ætlan, að svo hafi verið. Eða hvað er nú, félagi! Er eigi svo sem mig grunar, að þú sér valdur að dauða Sigmundar?"

Þorgrímur synjar þess sem mest má hann.

"Eigi muntu þessa þurfa að þræta," segir Þrándur, "þvíað eg þykjumst vita að þú ert þessa verks sannur."

Hann synjar sem áður.

Þrándur lætur þá kalla á þá Leif og Sigurð og biður að Þorgrímur og synir hans sé fjötraðir, og svo var gert, að þeir eru fjötraðir og ríkt bundnir.

Þrándur hafði þá látið gera elda mikla í eldaskála, og grindur fjórar lætur hann gera með fjórum hornum, og níu reita rístur Þrándur alla vega út frá grindunum, en hann sest á stól milli elds og grindanna. Hann biður þá nú ekki við sig tala, og þeir gera svo.

Þrándur situr svo um hríð.

Og er stund leið, þá gengur maður inn í eldaskálann og var allur alvotur. Þeir kenna manninn, að þar var Einar Suðureyingur. Hann gengur að eldinum og réttir að hendur sínar, og litla hríð; og snýr út eftir það. Og er stund líður gengur maður inn í eldahúsið; hann gengur að eldi og réttir til hendur sínar og gengur út síðan. Þeir kenndu að þar var Þórir. Brátt eftir þetta gengur hinn þriði maður í eldaskálann. Þessi var mikill maður og mjög blóðugur. Hann hafði höfuðið í hendi sér. Þenna kenna þeir allir, að þar var Sigmundur Brestisson. Hann nemur staðar nokkura stund á gólfinu og gengur út síðan.

Og eftir þetta rís Þrándur af stólinum og varpar mæðilega öndunni og mælti: "Nú megi þér sjá hvað þessum mönnum hefir að bana orðið: Einar hefir látist fyrst og kalið í hel, eða drukknað, er hann var þeirra kraftaminnstur; þá mun Þórir hafa látist þar næst, og mun Sigmundur hafa flutt hann og dasast mest á því, en Sigmundur mun hafa komist á land máttlítill, og munu þessir menn hafa drepið hann, er oss sýndist hann blóðugur og höfuðlaus."

Förunautar Þrándar sönnuðu þetta allir, að svo muni farið hafa.

Nú segir Þrándur að þeir skuli þar rannsaka allt, og svo gera þeir, og finna þar öngvan ávitöl. Þeir Þorgrímur og synir hans þræta og kváðust þessa verks eigi valdir. Þrándur kvað þá eigi þurfa að þræta; bað menn sína rannsaka gerla, og þeir gera enn svo.

Örk ein mikil og fornleg stóð í eldahúsinu. Þrándur spyr hvort þeir hafa rannsakað örkina. Þeir sögðu það eigi vera og brutu hana upp, og þótti þeim þar ekki í nema hroði einn, og leitaðu þar í um hríð.

Þrándur mælti: "Hvelfið örkinni."

Og svo gerðu þeir. Þar fundu þeir tötrabagga einn, er verið hafði í örkinni, og fengu Þrándi. Hann leysti til, og voru þar margir tötrar saman vafðir, og um síðir fann Þrándur þar mikinn gullhring og kenndi að þann hring hafði átt Sigmundur Brestisson og Hákon jarl hafði gefið honum. Og er Þorgrímur veit þetta, þá gengur hann við morði Sigmundar og segir nú allt sem farið hafði. Hann vísar þeim til hvar þeir Sigmundur og Þórir voru dysjaðir, og flytja þeir lík þeirra á brott.

Þrándur lætur þá Þorgrím og sonu hans fara með sér.

Síðan eru þeir greftraðir, Sigmundur og Þórir, að kirkju í Skúfey, þeirri er Sigmundur hafði gera látið.


42. kafli

Nú eftir þetta lætur Þrándur stefna þing fjölmennt í Straumsey í Þórshöfn; þar er þingstöð þeirra Færeyinga. Þar sögðu þeir Þorgrímur illi og synir hans, svo að allir þingmenn heyra, dráp og dauða Sigmundar, að þeir kváðust hann drepið hafa og myrðan síðan. Eftir þessa hluti sagða, þá eru þeir upp festir þar á þinginu, og lauk svo þeirra æfi.

Nú halda þeir Leifur og fóstri hans Þrándur á bónorði við Þóru og bjóða þeim sættir þar með, þær er þau mætti best við una. Og þær verða þar málalyktir, að Leifur fær Þóru Sigmundardóttur, og sættast þau með heilum sáttum. Setur Leifur bú saman á föðurleifð sinni í Suðurey að Hofi, og er nú kyrrt í Færeyjum nokkura hríð.

Þórálfur Sigmundarson kvongast og gerir bú í Dímon og er góður bóndi. - - - - -


43. kafli

Það sama sumar, er Ólafur Haraldsson hafði konungur verið tíu vetur, komu utan af Færeyjum til Noregs að orðsending hans Gilli lögsögumaður, Leifur Össurarson, Þórálfur úr Dímun og margir aðrir bónda synir. En Þrándur í Götu bjóst til ferðar; en er hann var búinn mjög, þá tók hann fælisótt þá er hann var hvergi fær, og dvaldist hann eftir.

En er þeir Færeyingar komu á fund Ólafs konungs, þá kallaði hann þá á tal og átti stefnu við þá; lauk hann þá upp við þá örendi þau er undir bjuggu ferðinni og sagði þeim að hann vildi hafa skatt af Færeyjum, og það með að Færeyingar skyldu hafa þau lög sem Ólafur konungur setti þeim.

En á þessi stefnu fannst það á orðum konungs, að hann mundi taka festu til þessa máls af þeim færeyskum mönnum er þá voru þar komnir, ef þeir vildi það sáttmál svardögum binda; bauð þeim mönnum er honum þóttu þar ágæstir, að þeir skyldu gerast honum handgengnir og þiggja af honum metorð og vináttu. En þeim hinum færeyskum virðist svo orð konungs sem grunur mundi á vera hvernig þeirra mál mundi snúast ef þeir vildi eigi undir það allt ganga, sem konungur beiddi þá. En þó að til þessa máls yrði fleiri stefnulög áður en það lyktist, þá varð það framgengt allt, er konungur beiddist. Gengu þeir til handa konungi og gerðust hirðmenn hans, Leifur og Gilli og Þórálfur, en allir þeir förunautar veittu svardaga Ólafi konungi til þess að halda í Færeyjum þau lög og þann landsrétt sem hann setti þeim og skattgildi það er hann kvað á. Síðan bjuggust þeir hinir færeysku til heimferðar. En að skilnaði veitti konungur þeim vingjafir, er honum höfðu handgengnir gerst; fara þeir ferðar sinnar þá er þeir voru búnir, en konungur lét búa skip og fékk manna til og sendi þá menn til Færeyja að taka þar við skatti þeim er Færeyingar skyldu gjalda honum. Þeir urðu ekki snemmbúnir og fóru er þeir voru búnir, og er frá ferð þeirra það að segja, að þeir koma eigi aftur og engi skattur á því sumri er næst var eftir, þvíað þeir höfðu ekki komið til Færeyja; hafði þar engi maður skatt heimtan.


44. kafli

Sumarið eftir spurði Ólafur konungur að skip það var horfið, er hann hafði sent til Færeyja hið fyrra sumar, og það hafði hvergi til landa komið, svo að spurt væri. Konungur fékk þá til skip annað og þar menn með og sendi til Færeyja eftir skatti. Fóru þeir menn og létu í haf, en síðan spurðist ekki til þeirra heldur en til hinna fyrri, og voru þar margar getur á, hvað af skipum þeim myndi orðið.


45. kafli

Vor það hið næsta hafði farið skip af Noregi út til Færeyja; á því skipi fóru orðsendingar Ólafs konungs til þess að koma skyldi utan af Færeyjum einhver þeirra hirðmanna hans: Leifur Össurarson eða Gilli lögsögumaður eða Þórálfur úr Dímun. En er þessi orðsending kom til Færeyja og þeim var sagt sjálfum, þá ræða þeir sín á milli hvað undir mun búa orðsendingunni, og kom það ásamt með þeim, að þeir hugðu að konungur mundi vilja spyrja eftir um þau tíðendi er sumir menn höfðu fyrir satt að þar mundi gerst hafa í eyjunum, um misfarar sendimanna konungs, þeirra tveggja skipsagna, er engi maður hafði af komist. Þeir réðu það af, að Þórálfur skyldi fara. Réðst hann til ferðar og bjó byrðing er hann átti og aflaði þar til manna; voru þeir á skipi tíu eða tólf.

En er þeir voru búnir og biðu byrjar, þá var það tíðenda í Austurey í Götu að Þrándar, að einn góðan veðurdag gekk Þrándur í stofu, en þar lágu í pöllum bróðursynir hans tveir, Sigurður og Þórður; þeir voru Þorlákssynir; hinn þriði hét Gautur hinn rauði; hann var enn frændi þeirra. Allir voru þeir fóstrar Þrándar gervilegir menn; var Sigurður elstur þeirra og fyrir þeim mest í öllu. Þórður átti kenningarnafn; var hann kallaður Þórður hinn lági; hann var þó manna hæstur, og var hitt þó meir, að hann var þreklegur og ramur að afli.

Þá mælti Þrándur: "Margt skipast á manns ævi. Ótítt var það, þá er vér vorum ungir, að menn skyldu sitja eða liggja veðurdaga góða, þeir er ungir voru og til alls vel færir. Mundi það eigi þykja líklegt hinum fyrrum mönnum að Þórálfur úr Dímun mundi vera þroskamaður meiri en þér. En byrðingur sá er eg hefi átt og hér stendur í nausti ætla eg að nú gerist svo forn að fúni undir bráðinu. Er hér hús hvert fullt af ullu og verður ekki til verðs haldið; mundi eigi svo ef eg væra nokkurum vetrum yngri."

Sigurður hljóp upp og hét á þá Þórð og Gaut, kvaðst eigi þola frýju Þrándar. Ganga þeir út og þar til er húskarlar voru; ganga þeir til og setja fram byrðinginn; létu þeir þá flytja til farm og hlóðu skipið; skorti þar eigi heima farm til, svo reiði allur með skipi. Bjuggu þeir það á fám dögum; voru þeir og menn tíu eða tólf á skipi. Tóku þeir Þórálfur út eitt veður allir; vissust til jafnan í hafinu. Þeir komu að landi í Hernum aftan dags; lögðu þeir Sigurður utar við ströndina, og var þó skammt milli þeirra.

Það varð til tíðenda um aftaninn er myrkt var og þeir Þórálfur ætluðu til rekkna búast, þá gekk Þórálfur á land upp og annar maður með honum. Leituðu þeir sér staðar. En er þeir voru búnir ofan að ganga, þá sagði sá svo, er honum fylgdi, að kastað var klæði yfir höfuð honum; var hann tekinn upp af jörðu. Í því bili heyrði hann brest. Síðan var farið með hann og reiddur til falls, en þar var undir sær, og var hann keyrður á kaf. En er hann komst á land fór hann þar til er þeir Þórálfur höfðu skilist. Hitti hann þar Þórálf, og var hann klofinn í herðar niður, og var hann þá dauður.

En er skipverjar urðu þessa varir, þá báru þeir lík hans út á skip og náttsættu.

Þá var Ólafur konungur á veislu í Lygru; voru þangað orð ger. Var þá stefnt örvarþing, og var konungur á þingi; hann hafði þangað stefna látið þeim Færeyingum af báðum skipum, og voru þeir til þings komnir. En er þing var sett, þá stóð konungur upp og mælti:

"Þau tíðendi eru hér orðin, er því er betur að slík eru sjaldgæt: Hér er af lífi tekinn góður drengur, og hyggju vér að saklaus sé, eða er nokkur sá maður á þingi, er það kunni að segja hver valdi er verks þessa?"

En þar gekk engi við.

Þá mælti konungur: "Ekki er því að leyna hver minn áhugi er um verk þetta, að eg hygg á hendur þeim Færeyingum; þyki mér þannig helst að unnið sem Sigurður Þorláksson mundi hafa vegið manninn, en Þórður hinn lági mundi hinn hafa fært á kaf. En það fylgir að eg munda þess til geta að það mundi til saka vera fundið, að þeir mundi eigi vilja að Þórálfur segði eftir þeim ódáðir þær er hann muni vitað hafa að satt er, en oss hefir verið grunur á, um morð þau og illvirki, að sendimenn mínir hafi þar verið myrðir."

En er konungur hætti ræðu sinni, þá stóð upp Sigurður Þorláksson. Hann mælti:

"Ekki hefi eg talað fyrr á þingum; ætla eg mig munu þykja ekki orðfiman. En þó ætla eg ærna nauðsyn til vera að svara nokkuru. Vil eg þess til geta, að ræða þessi er konungur hefir uppi haft muni vera komin undan tungurótum þeirra manna er miklu eru óvitrari en hann og verri. En það er ekki leynt, að þeir munu vilja vera fulllega vorir óvinir. Er það ólíklega mælt að eg munda vilja vera skaðamaður Þórálfs, þvíað hann var fóstbróðir minn og góður vinur. En ef þar væri nokkur önnur efni í og væri sakar milli okkar Þórálfs, þá em eg svo viti borinn, að eg munda heldur til þessa verks hætta heima í Færeyjum en hér undir handarjaðri yðrum, konungur. Nú vil eg þessa máls synja fyrir mig og fyrir oss alla skipverja; vil eg þar bjóða fyrir eiða, svo sem lög yður standa til. En ef yður þykir hitt í nokkuru fullara, þá vil eg flytja járnburð; vil eg að þér séð sjálfir við skírsluna."

En er Sigurður hætti ræðu sinni, þá urðu margir til flutningar og báðu konung að Sigurður skyldi ná undanfærslu; þótti Sigurður vel hafa talað og kváðu hann ósannan mundu að vera því er honum var kennt.

Konungur svarar: "Um þenna mann mun stórum skipta, og ef hann er loginn þessu máli, þá mun hann vera góður maður; en að öðrum kosti, þá mun hann vera nokkuru djarfari en dæmi muni til vera, og er það eigi miður mitt hugboð; en þó get eg að hann beri sér sjálfur vitni um."

En við bæn manna, þá tók konungur festu af Sigurði til járnburðar; skyldi hann koma eftir um daginn til Lygru; skyldi byskup þar gera skírslu, og sleit svo þinginu. Fór konungur aftur til Lygru, en Sigurður og þeir förunautar til skips síns.

Tók þá brátt að myrkva af nótt.

Þá mælti Sigurður við þá förunauta:

"Það er satt að segja að vér höfum komið í mikið vandkvæði og orðið fyrir mikilli álygi, og er konungur sjá brögðóttur og vélráður, og mun auðsær vor kostur ef hann skal ráða, þvíað hann lét fyrst drepa Þórálf, en hann vill nú gera oss að óbótamönnum. Er honum lítið fyrir að villa járnburð þenna. Nú ætla eg þann verr hafa er til þess hættir við hann. Nú leggst innan eftir sundinu fjallagol nokkuð; ræð eg það, að vér vindim segl vort og stefnum út á haf. Fari Þrándur annað sumar með ull sína ef hann vill selja. En ef eg komumst í brott, þá þyki mér þess von að eg koma aldri síðan til Noregs."

Þeim förunautum þótti þetta snjallræði. Taka þeir og setja upp segl sitt og láta ganga um nóttina í haf út sem mest megu þeir. Létta þeir eigi fyrr en þeir koma í Færeyjar og heim í Götu. Lét Þrándur illa yfir ferð þeirra. Þeir svöruðu eigi vel, og voru þó heima með Þrándi.


46. kafli

Brátt spurði Ólafur konungur það er þeir Sigurður voru í brott farnir, og lagðist þá þungur orðrómur á um þeirra mál. Voru þeir margir, að þá kölluðu þess von að þeir Sigurður mundu sönnu sagðir, er áður höfðu synjað fyrir hann og mælt í móti. Ólafur konungur var fáræðinn um þetta mál; en hann þóttist vita þá sannendi á því er áður hafði hann grunað. Fór konungur þá ferðar sinnar og tók veislur þar er fyrir honum voru gjörvar.


47. kafli

Vorið eftir var það á einu húsþingi er Ólafur konungur átti, að hann hafði það mál í munni, sagði frá mannskaða þeim er hann hafði látið af Færeyjum. - "En skattur sá," segir hann, "er þeir hafa mér heitið, þá kemur ekki fram. Nú ætla eg enn þangað menn að senda eftir skattinum."

Veik konungur þessu máli nokkuð til ýmissa manna, að til þeirrar ferðar skyldu ráðast. En þar komu þau svör í mót, að allir menn töldust undan förinni.

Þá stóð upp maður á þinginu, mikill og allvörpulegur; sá hafði rauðan kyrtil, hjálm á höfði, gyrður sverði; höggspjót mikið í hendi. Hann tók til máls:

"Það er satt að segja," kvað hann, "að hér er mikill munur manna: þér hafið konung góðan, en hann drengi illa; þér neikveðið sendiferð eina er hann býður yður, en hafið þegið áður af honum vingjafir og marga sæmilega hluti. En eg hefi verið hér til engi vinur konungs þessa; hefir hann og verið óvinur minn; telur hann að sakar sé til þess. Nú vil eg bjóða þér konungur að fara för þessa, ef ekki eru vildari föng á."

Konungur svarar: "Hver er þessi maður hinn drengilegi, er svarar máli mínu? Gjörir þú mikinn mun öðrum mönnum, þeim er hér eru, er þú býðst til farar, en þeir töldust undan, er eg hugða að vel mundu hafa við skipast; en eg kann á þér engi deili og eigi veit eg nafn þitt."

Hann svarar svo að "nafn mitt er ekki vant, konungur. Þess er mér von að þú munir mig heyrt hafa nefndan. Eg em kallaður Karl mærski."

Konungur svarar: "Svo er það, Karl; heyrt hefi eg þig nefndan fyrr, og er það satt að segja að verið hafa þær stundir, ef fundi okkra hefði að borið, er þú mundir ekki kunna segja frá tíðendum. En nú vil eg eigi verr hafa en þú, er þú býður mér liðsemd þína, að leggja eigi þar að móti þökk og aufúsu. Skaltu, Karl, koma til mín og vera í boði mínu í dag. Skulu við þá ræða þetta mál."

Karl sagði að svo skyldi vera.


48. kafli

Karl hinn mærski hafði verið víkingur og hinn mesti ránsmaður, og hafði konungur mjög oft gerva menn til hans og vildi hann af lífi taka. En Karl var maður ættstór og mikill athafnarmaður; íþróttamaður og atgervimaður um marga hluti. En er Karl var ráðinn til ferðar þessar, þá tók konungur hann í sætt og því næst í kærleik; lét búa ferð hans sem best. Voru þeir á skipi nær tuttugu menn.

Konungur gerði orðsendingar til vina sinna í Færeyjar: sendi Karl til halds og trausts þar er var Leifur Össurarson og Gilli lögsögumaður; sendi til þess jartegnir sínar. Fór Karl þegar er hann var búinn. Byrjaði þeim vel og komu til Færeyja og lögðu í Þórshöfn í Straumsey.

Síðan var þar þing stefnt, og kom þar fjölmennt. Þar kom Þrándur úr Götu með flokk mikinn; þar kom og Leifur og Gilli; höfðu þeir og fjölmenni mikið.

En er þeir höfðu tjaldað og um búist, þá gengu þeir til fundar við Karl mærska. Voru þar kveðjur góðar. Síðan bar Karl fram orð og jartegnir Ólafs konungs og vinmæli til þeirra Leifs og Gilla. Þeir tóku því vel og buðu Karli til sín og að flytja örendi hans og veita honum slíkt traust sem þeir hefði föng á. Hann tók því þakksamlega.

Litlu síðar kom þar Þrándur og fagnaði vel Karli. "Em eg," segir hann, "feginn orðinn er slíkur drengur hefir komið hingað til lands vors með örendi konungs vors, er vér erum allir skyldir undir að standa. Vil eg ekki annað, Karl, en þú farir til mín til veturvistar og það með þér allt þíns liðs, er þinn vegur væri þá meiri en áður."

Karl svarar að hann var áður ráðinn að fara til Leifs, - "en eg munda ellegar," segir hann, "fúslega þiggja þetta boð."

Þrándur svarar: "Þá mun Leifi auðið vegsmuna af þessu; en eru nokkurir aðrir hlutir þá, þeir er eg mega svo gera að yður sé liðsemd að?"

Karl svarar að honum þótti mikið í veitt, að Þrándur drægi saman skattinn um Austurey og svo um allar Norðureyjar.

Þrándur sagði að það var skylt og heimilt, að hann veitti þann beina að örendi konungs. Gekk Þrándur þá aftur til búðar sinnar. Varð á því þingi ekki fleira til tíðenda. Fór Karl til vistar með Leifi Össurarsyni, og var hann þar um veturinn eftir. Heimti Leifur skatt saman um Straumsey og um allar eyjar suður þaðan.

Um vorið eftir fékk Þrándur úr Götu vanheilsu mikla, hafði augnaþunga og þó enn kramar aðrar; en þó bjóst hann að fara til þings sem vandi hans var. En er hann kom á þingið og búð hans var tjölduð, þá lét hann tjalda undir svörtum tjöldum innan af, til þess að þá væri síður skíðdræpt.

En er dagar nokkurir voru liðnir af þinginu, þá ganga þeir Leifur og Karl til búðar Þrándar og voru fjölmennir. En er þeir komu að búðinni, þá stóðu þar úti nokkurir menn. Leifur spurði hvort Þrándur væri inni í búðinni. Þeir sögðu að hann var þar.

Leifur mælti að þeir skyldu biðja Þránd út ganga; - "eigu við Karl örendi við hann," segir hann.

En er þeir menn komu aftur, þá sögðu þeir að Þrándur hafði þann augnaverk að hann mátti eigi út koma, - "og bað hann, Leifur, að þú skyldir inn ganga."

Leifur mælti við förunauta sína að þeir skyldu fara varlega er þeir kæmi í búðina, - "þröngvast eigi; gangi sá fyrstur út er síðast gengur inn."

Leifur gekk fyrst inn, en þar næst Karl; þá hans förunautar, og fóru með alvæpni sem þá að þeir skyldi til bardaga búast. Leifur gekk innar að hinum svörtum tjöldunum; spurði þá hvar Þrándur væri.

Þrándur svaraði og heilsaði Leifi.

Leifur tók kveðju hans; spurði síðan hvort hann hefði nokkuð skatt heimt um Norðureyjar, eða hver greiði þá mundi á vera of silfrið.

Þrándur svaraði og sagði að eigi hefði honum það úr hug horfið, er þeir Karl höfðu rætt, og svo að greiði mundi á verða um skattinn. - "Hér er sjóður, Leifur, er þú skalt við taka, og er fullur af silfri."

Leifur sást um og sá fátt manna í búðinni; lágu menn í pöllunum, en fáir sátu upp. Síðan gekk Leifur til Þrándar og tók við sjóðnum og bar utar í búðina, þar er ljóst var, og steypti silfrinu ofan á skjöld sinn, rótaði í hendi sinni og mælti að Karl skyldi sjá silfrið.

Þeir litu á um stund.

Þá spurði Karl hvernig Leifi sýndist silfrið.

Hann svarar: "Það hygg eg, að hver sá peningur er illur er í Norðureyjum, að hér muni kominn."

Þrándur heyrði þetta og mælti: "Sýnist þér eigi vel silfrið Leifur?"

"Svo er," segir hann.

Þrándur mælti: "Eigi eru þeir þó meðalmannníðingar frændur vorir, er þeim má til einskis trúa: Eg hefi sent þá í vor að heimta skatt norður í eyjar, er eg var að engu fær í vor, en þeir hafa tekið mútur af bændum að taka fals slíkt, er eigi þykir gjaldgengt, og er hitt vænst, Leifur, að sjá þetta silfur er goldist hefir í landskuldir mínar."

Bar Leifur þá aftur silfrið, en tók við sjóð öðrum og bar þann til Karls. Rannsökuðu þeir það fé. Spurði Karl hversu Leifi sýndist þetta fé. Hann sagði að honum þótti þetta fé vont, - "og eigi svo að um þær skuldir er óvandlega var fyrir mælt, að eigi yrði slíkt þá tekið; en eigi vil eg þetta fé konungi til handa taka."

Maður einn, sá er lá í pallinum, kastaði feldi af höfði sér og mælti: "Satt er hið fornkveðna: Svo ergist hver sem eldist. Svo er þér og, Þrándur: lætur Karl hinn mærska reka fé fyrir þér í allan dag."

Þar var Gautur hinn rauði.

Þrándur hljóp upp við orð Gauts og varð málóði; veitti þeim stórar átölur frændum sínum. En að lyktum mælti hann að Leifur skyldi selja honum það silfur, - "en tak hér við sjóð er landbúar mínir hafa fært mér heim í vor. En þótt eg sjá óskyggn, þá er þó sjálf hönd hollust."

Maður reis upp við ölboga, er lá í pallinum; þar var Þórður hinn lági. Hann mælti: "Eigi hljótu vér meðalorðaskak af honum Mæra-Karli, og væri hann launa fyrir verður."

Leifur tók við sjóðnum og bar enn fyrir Karl. Sá þeir það fé.

Mælti Leifur: "Ekki þarf lengi að sjá á þetta silfur; hér er hver peningur öðrum betri, og viljum vér þetta fé hafa. Fá þú til, Þrándur, mann að sjá reislur."

Þrándur svarar að honum þótti þá best til fengið að Leifur sæi fyrir hans hönd.

Gengu þeir Leifur þá út og skammt frá búðinni; settust þeir þá niður og reiddu þá silfrið. Karl tók hjálm af höfði sér og hellti þar í silfri því er vegið var. Þeir sá mann ganga hjá sér og hafði refði í hendi og hött síðan á höfði, heklu græna, berfættur, knýtt línbrókum að beini. Hann setti niður refðið í völl og gekk frá og mælti.

"Sé þú við, Mæra-Karl, að þér verði eigi mein að refði mínu."

Litlu síðar kom þar maður hlaupandi og kallaði ákaflega á Leif Össurarson, bað hann fara sem skjótast til búðar Gilla lögsögumanns; - "þar hljóp inn um tjaldskarar Sigurður Þorláksson og hefir særðan búðarmann hans til ólífis."

Leifur hljóp þegar upp og gekk á brott til fundar við Gilla; gekk með honum allt búðarlið hans, en Karl sat eftir. Þeir Austmenninir stóðu í hring um hann. Gautur rauði hljóp að og hjó með handöxi yfir herðar mönnum, og kom högg það í höfuð Karli, og varð sár það ekki mikið. Þórður lági greip upp refðið er stóð í vellinum og lýstur á ofan öxarhamarinn svo að öxin stóð í heila. Þusti þá fjöldi manna út úr búð Þrándar.

Karl var þaðan dauður borinn.

Þrándur lét illa yfir verki þessu og bauð þó fé til sátta fyrir frændur sína. Leifur og Gilli gengu að eftirmáli, og kom þar eigi fébótum fyrir. Varð Sigurður útlagur fyrir áverka þann er hann veitti búðunaut Gilla, en Þórður og Gautur fyrir víg Karls.

Austmenn bjuggu skip það er Karl hafði haft þangað og fóru austur á fund Ólafs konungs. En þess varð eigi auðið fyrir þeim ófriði er þá hafði gerst í Noregi, og er nú lokið að segja frá þeim tíðendum er urðu af því er Ólafur konungur heimti skatt af Færeyjum.


49. kafli

Eftir víg Karls mærska og áverka við búðarmann Gilla lögsögumanns voru þeir brott reknir og gervir úr Færeyjum, Sigurður Þorláksson, Þórður lági, Gautur rauði, frændur Þrándar. Þrándur fékk þeim skip haffæranda og fé nokkuð, og þóttust þeir lítillega af höndum leystir; hafa þeir átölur miklar við Þránd: sögðu að hann hafði undir sig dregið föðurarf þeirra, en miðlaði þeim ekki af. Þrándur sagði þá miklu meira hafa en þeir ætti, sagðist hafa annast þá lengi og miðlað þeim oft fjárhluti, en illa í þökk lagið.

Nú láta þeir Sigurður í haf og eru tólf menn saman á skipi, og er það orð á, að þeir ætli að halda til Íslands. - Og er þeir hafa skamma stund í hafi verið, þá rekur á storm mikinn, og hélst veðrið nær viku. Það vissu allir þeir er á landi voru að þetta var þeim Sigurði í móti sem mest, og sagði mönnum óvænt hugur um þeirra ferð.

Og er á leið haustið fundust rekar af skipi þeirra í Austurey. Og er vetur kom, gerðust afturgöngur miklar í Götu og víða í Austurey, og sýndust þeir oft, frændur Þrándar, og varð mönnum að þessu mikið mein: sumir fengu beinbrot eða önnur meiðsl. Þeir sóttu Þránd svo mjög að hann þorði hvergi einn að ganga um veturinn. Var nú mikið orð á þessu.

Nú er á leið veturinn sendi Þrándur orð Leifi Össurarsyni að þeir skyldu finnast. Og svo gera þeir. Og er þeir finnast mælti Þrándur:

"Vér hittum í fyrra sumar, fóstri, í vandræði mikil, að við því var búið að allur þingheimurinn mundi berjast á. Nú vilda eg, fóstri minn, sagði Þrándur, "að það væri lögtekið gert með okkru ráði að menn hefði aldri vopn til þings þar er menn skulu lögskil sín tala og spektarmál."

Leifur kvað þetta vel mælt, - "og skulu við hér við hafa ráð Gilla lögsögumanns frænda míns."

Þeir voru systra synir, Gilli og Leifur.

Nú finnast þeir allir saman og tala þetta með sér.

Gilli svarar svo Leifi: "Brigt þyki mér að trúa Þrándi, og munu við því játa að handgengnir menn allir hafi vopn sín og nokkurir þeir er okkur fylgja, en almenningur sé vopnlaus."

Nú ráða þeir þetta með sér til staðar.

Líður nú af veturinn, og koma menn til þings um sumarið í Straumsey.

Nú er það einn dag að þeir Gilli og Leifur ganga frá búðum sínum á eina hæð er var á eyjunni og talast þar við. Og nú sjá þeir austur á eyna undir sólina, að á höfða þann er þar var ganga upp menn eigi allfáir, þar til er þeir sjá þrjá tigu manna. Þar blika við sólskininu skildir fagrir og hjálmar skrautlegir, öxar og spjót, og var það lið hið harðlegsta. Þeir sjá að maður gekk fyrir, mikill og vasklegur, í rauðum kyrtli og hafði hálflitan skjöld, blán og gulan, hjálm á höfði og höggspjót mikið í hendi. Þeir þóttust þar kenna Sigurð Þorláksson. Þar gekk maður hið næsta honum, þreklegur, í rauðum kyrtli og hafði rauðan skjöld. Að vísu þóttust þeir þenna kenna, að þar var Þórður lági. Hinn þriði maður hafði rauðan skjöld, og dreginn á mannfái, og mikla öxi í hendi. Þar var Gautur rauði.

Þeir Leifur gengu nú skjótt heim til búða sinna. Þá Sigurð ber brátt að, og eru þeir allir vel vopnaðir.

Þrándur gengur úr búð sinni móti þeim Sigurði og margt manna með honum og hans menn með vopnum allir.

Þeir Leifur og Gilli höfðu fátt manna hjá því sem þeir Þrándur, og var þess mestur munur er þeir höfðu fáir einir vopn.

Þeir Þrándur og frændur hans gengu að flokki þeirra Leifs. Þá mælti Þrándur:

"Svo er háttað, Leifur fóstri," kvað hann, "að hér eru komnir frændur mínir, og fóru skyndilega næst úr Færeyjum. Nú nenni eg eigi að vér frændur farim svo halloki fyrir ykkur Gilla. Eru hér tveir kostir fyrir höndum: sá annar, að eg dæma einn yðvarr á milli, en ef þér vilið þenna eigi, þá mun eg eigi hefta þá að því er þeir vilja að hafast."

Þeir Leifur sjá að þeir hafa öngan liðskost að sinni við þeim Þrándi; taka nú þenna kost, að handsala öll mál í dóm Þrándar, og lýkur hann þegar gerð upp; segir að hann mun ekki síðar vitrari. "Er sú gerð mín," segir Þrándur, "að eg vil að þeir frændur mínir sé frjálsir að vera þar í Færeyjum sem þeim líkar, þó að þeir hafi áður verið brott gervir, en fé vil eg af hvorigum gera. Ríki þau er hér eru í Færeyjum vil eg það skipti á gera, að eg hafi þriðjung, annan Leifur, þriðja synir Sigmundar; hafa ríki þessi lengi að öfund orðið og bitbeinum. Þér Leifur, fóstri, segir Þrándur, "vil eg bjóða barnfóstur og fóstra Sigmund son þinn. Vil eg enn gera það til góðs við þig."

Leifur svarar: "Það vil eg að barnfóstur það sé undir atkvæðum Þóru, hvort hún vill að son hennar fari til þín, eða sé hann með okkur."

Skilja við svo búið.

Og er Þóra veit um fóstrið, þá svarar hún:

"Svo má vera að mér lítist það enn annan veg; en eigi mun eg kjósa undan Sigmundi syni mínum það fóstur ef eg skal ráða, þvíað margt þyki mér Þrándur hafa fyrir flesta menn."

Sigmundur son Þóru og Leifs fór í Götu til fósturs til Þrándar; hann var þá þrevetur að aldri og hið vænlegsta mannsefni, og óx hann þar upp.


50. kafli

Í þann tíma er Sveinn var konungur í Noregi og Alfífa móðir hans var Þrándur heima í Götu og frændur hans: Sigurður, Þórður og Gautur hinn rauði. Og er svo sagt að Þrándur væri ekki kvongaður maður. Hann átti eina dóttur er Guðrún hét.

Og er frændur Þrándar höfðu þar verið nokkura hríð, þá kemur hann að máli við þá og sagði að hann vill eigi að þeir sé þar lengur við óþrifnað sinn og atferðarleysi. Sigurður svarar illa: kvað hann ills eins unna öllum frændum sínum og segir hann sitja yfir föðurarfi sínum. Áttust þá hart við í orðum.

Fóru þeir þá í brott þrír frændur. Þeir fara til Straumseyjar; hún er fjölbyggðust Færeyja. Sá maður átti þar bú, er Þórhallur hét hinn auðgi. Hann átti konu þá er Birna hét og var kölluð Straumseyjar-Birna; hún var svarri mikill og sjáleg kona. Þórhallur var þá sýnt við aldur; hafði Birna verið gefin til fjár.

Þórhallur átti nær fé undir hverjum manni, og galst honum víða lítt.

Þeir Sigurður, Þórður og Gautur koma við Straumsey og finna Þórhall bónda að máli. Sigurður býður honum að heimta fé hans til helmingar af skuldastöðum þeim er óríflegstir voru, en ef hann þyrfti að sækja til, þá vildi hann hafa fyrir starf sitt það er til sóknar þyrfti, en bóndi í sinn hlut helming. Þórhalli þótti sá harður, en þó varð það samkeypi þeirra.

Sigurður fer nú víða um Færeyjar og heimtir saman fé Þórhalls og sækir til þegar honum þykir þess þurfa; fær hann af brátt mikið fé, svo að hann setur af auðgan brátt.

Sigurður er nú löngum, og þeir allir frændur, með þeim Þórhalli. Oft ber saman tal þeirra Sigurðar og Birnu, og er það mál manna að þar muni vera fíflingar með þeim.

Eru þeir þar um veturinn.

Að vori segir Sigurður að hann vill leggja búfélag við Þórhall, en hann var heldur fár við það, áður húsfreyja átti hlut að; þá gerði bóndi að og lét húsfreyju ráða. Taka þau nú frekt ráðin; verður Þórhallur nú fyrir borð borinn, og ráða þau Sigurður öllu þann veg sem þau vildu.


51. kafli

Það bar til tíðenda um sumarið að skip kom við Færeyjar og braut í spón við Suðurey, og týndist mjög féð, og voru tólf menn á skipi og týndust fimm, en sjö komu lífs á land; hét einn Hafgrímur og Bjarngrímur og Hergrímur; þeir voru allir bræður og voru stýrimenn. Þeim varð illt til vista og annars þess er þeir þurftu.

Sigurður, Þórður og Gautur fóru til fundar við þá og kveður þá lítt vera komna og býður þeim öllum til sín.

Þórhallur kom þá að máli við Birnu og þótti því bráðráðið gert.

Sigurður kvað sitt skyldu við brenna.

Eru þeir þar og heldur vel virðir og betur en Þórhallur.

Þórhallur bóndi var smákvæmur, og varð þeim oft að orðum og Bjarngrími.

Það var eitt kveld er menn sátu þar í stofu, þá varð þeim að orðum Þórhalli bónda og Bjarngrími. Þórhallur sat í bekk og hafði stafsprota einn í hendi; hann veifði honum er hann var málóður og var óskyggn, og kemur stafurinn á nasar Bjarngrími. Hann verður óður við og vill taka til öxar og færa í höfuð Þórhalli. Sigurður hljóp til skjótt og grípur Bjarngrím og segir að hann vill gera þá sátta; og þetta fer svo, að þeir sættast.

Eru þeir þar um veturinn og eigast fátt við þaðan frá.

Líður af veturinn. - Segir Sigurður að hann mun birgja þá með nokkuru móti.

Hann fær þeim byrðing færan er þeir Þórhallur áttu báðir saman. Lét Þórhallur sér það enn illa líka, þar til er húsfreyja tók hann orðum. Sigurður fékk þeim vist, og fóru til skips; lágu á skipum um nætur, en gengu heim til bæjar.

Og er þeir voru búnir var það einn morgin að þeir gengu heim til bæjar. Sigurður var eigi á bænum heima og gekk um sýslur og gerði slíkt er honum þótti þurfa. Síðan voru þeir þar um daginn. Kom Sigurður heim og fór til borðs; voru kaupmenn þá farnir ofan til skips.

Sigurður spurði, er hann kom undir borð, hvar Þórhallur bóndi væri; honum var sagt að hann mun sofa.

"Það er ónáttúrlegur svefn," segir Sigurður, "eða hvort er hann klæddur eða eigi? Og viljum vér bíða hans að mat."

Nú var gengið til skála, og lá Þórhallur í rekkju sinni og svaf. Það var sagt Sigurði. Hann sprettur upp og gengur fram og að rúmi Þórhalls og verður brátt þess vís að Þórhallur var dauður. Sigurður leggur af honum klæði og sér að rekkja hans er víða blóðug og finnur sár undir vinstri hendi honum, og hafði hann lagður verið með mjófu járni til hjartans.

Sigurður mælti að það væri hið versta verk, - "og það mun hinn armi Bjarngrímur unnið hafa og þykjast nú hefnt hafa stafshöggsins. Skulu vér nú fara ofan til skips og hefna þessa, ef svo vill verða."

Taka þeir frændur nú vopn sín, og hefir Sigurður mikla öxi í hendi, og hlaupa ofan til skips, og var Sigurður málóður; hann hleypur þegar út á skipið. Í þessu spretta þeir bræður upp, er þeir heyra blót og bölvan. Sigurður hleypur að Bjarngrími og höggur tveim höndum með öxi framan í fang honum svo að öxin stendur á kafi. Var það þegar banasár. Þórður lági höggur til Hafgríms með sverði á öxlina og sníður ofan síðuna alla og frá höndina, og hefir hann þegar bana. Gautur rauði höggur með öxi í höfuð Hergrími og klýfur hann í herðar niður. Og er þeir eru allir dauðir, þá segir Sigurður að hann mun ekki gera á hluta þeirra er eftir voru, en fé kveðst hann vilja hafa það er þeir bræður áttu eftir, og var það þó lítið.

Þeir Sigurður fara heim með fé þetta. Þykist hann nú vel hefnt hafa Þórhalls bónda. En eigi að síður leikur illt orð á Sigurði og öllum þeim frændum um líflát Þórhalls.

Sigurður fær nú Birnu og gengur þar til bús með henni. Þau Þórhallur og Birna áttu margt barna.


52. kafli

Þorvaldur hét maður; hann bjó í Sandey. Þorbera hét kona hans. Hann var auðigur maður að fjárhlutum og þá við aldur, er þetta var.

Gautur rauði kemur til Þorvalds og býðst til að heimta fé hans, það er lítt var komið á skuldastöðum, og það var kaup þeirra, mjög á mynd og með þeim Þórhalli og Sigurði.

Gautur er með þeim Þorvaldi eigi skemmrum en með Sigurði. Brátt er það talað að Gautur fífli konu Þorvalds. Dregst honum mjög fé.

Eitthvert sinn kom sá maður er Þorvaldur átti fé að; það var fiskimaður einn. Og um kveldið var myrkt í stofu, og sátu menn þar. Þá heimti Þorvaldur fé sitt af fiskimanni, en hann svarar seinlega og heldur illa.

Gautur reikaði á gólfinu og nokkurir menn í myrkrinu.

En er minnst varir mælti Þorvaldur: "Legg þú manna armastur saxi fyrir brjóst gömlum manni og saklausum."

Hann hné upp að þilinu og var þegar dauður.

Og er Gautur heyrði þetta, hljóp hann þegar að fiskimanninum og höggur hann þegar banahögg; kvað hann eigi skyldu fleiri óhöpp vinna. Gengur Gautur þar í bú með ekkjunni og fær hennar.


53. kafli

Leifur hét maður; hann var son Þóris Beinissonar. Hann var í kaupferð milli Noregs og Færeyja og hafði vel fé. Hann var ýmist með Leifi Össurarsyni, þá er hann var í Færeyjum, eða Þuríði meginekkju og sonum hennar.

Nú er það eitthvert sinn er Leifur Þórisson kom skipi sínu við Færeyjar, að Sigurður Þorláksson býður honum heim til sín í Straumsey, og þessu ráða þeir. Leifur Össurarson kom til skips og tekur á þessu eigi mjög er nafni hans hefir ráðið sig til Sigurðar, kvað það ekki sitt ráð og kvað honum mundu heimila vist verið hafa í Suðurey með sér. Leifur kvað nú svo búið vera verða, og fór hann til vistar með Sigurði, og setur Sigurður hann hið næsta sér og er vel til hans. Er hann þar um veturinn í góðu yfirlæti.


54. kafli

Um vorið eftir er það sagt einn dag að Sigurður sagðist fara skyldu að heimta fé sitt af nábúa sínum er Björn hét, - "og vil eg, Leifur," segir hann, "að þú farir með mér og sér til samnings með okkur, þvíað Björn er mjög skapvani, en eg hefi lengi misst míns fjár fyrir honum."

Leifur kveðst fara vilja sem hann vildi.

Ganga nú tveir samt til Bjarnar, og heimtir Sigurður fé sitt, en Björn svarar illa. Því næst eru þar upphlaup stór, og vill Björn höggva til Sigurðar, en Leifur hljóp á milli, og kom öx Bjarnar í höfuð honum svo að það varð þegar að vígi. Sigurður hljóp þá að Birni og hjó hann banahögg.

Þessi tíðendi spyrjast nú.

Sigurður var nú einn hér til frásagnar. Rís þá enn illt orð á Sigurði.

Þær Þuríður meginekkja og Þóra dóttir hennar frýja mjög Leifi Össurarsyni að hann vili aldri hefja handa hverjar skammir sem þeim eru gervar; leggja á hann fæð og fjandskap, en hann hafði við gott þol og mikið. Þær sögðu þol hans af bleyði og framkvæmdarleysi. Eirir þeim mæðgum stórilla lát Leifs Þórissonar; þykjast víst vita að Sigurður mun hann drepið hafa.

Svo er sagt einhverju sinni að Þuríði húsfreyju dreymdi að Sigmundur Brestisson bóndi hennar kæmi að henni, er verið hafði. Hann mælti til hennar:

"Það er sem þér sýnist að eg er hér kominn, og er mér þetta lofað af guði sjálfum," segir hann; "en haf eigi harðan hug né illan á Leifi mági þínum, þvíað honum mun auðið verða að reka yðvarra skamma."

Eftir það vaknar Þuríður og segir Þóru dóttur sinni drauminn, og þaðan frá eru þær betur til Leifs en áður.


55. kafli

Það er nú næst þessu að segja að skip kom af hafi við Færeyjar í Straumsey skammt frá bæ Sigurðar. Það voru norrænir menn; hét Arnljótur stýrimaður. Þeir voru átján menn á skipi.

Sá maður bjó við skipalægið er Skopti hét; hann var í starfi með kaupmönnum og þjónaði vel til þeirra; virðist þeim og vel til hans.

Stýrimaður kemur að máli við Skopta og sagði svo:

"Þér mun eg segja trúnað minn," segir hann, "að þeir voru synir mínir, Bjarngrímur og bræður hans, er þeir Sigurður Þorláksson drápu, en eg vildi að þú værir í ráðum með mér að eg gæti náð þeim Sigurði og hefnt sona minna."

Skopti kveðst ekki gott eiga að launa Sigurði, og hét Arnljóti að gera hann þegar varan við er þeim gæfist færi á þeim Sigurði.

Nú eitthvert sinn um sumarið fara þeir þrír frændur á skipi, Sigurður, Þórður og Gautur. Þeir fara til einnar eyjar að sækja sláturfé, þvíað það er siður Færeyinga að hafa nýtt kjöt öllum missarum. Og er þeir voru farnir, þá gerir Skopti Arnljót varan við. Bregða þeir við skjótt kaupmennirnir og voru fimmtán saman á kaupskipsbátinum og komu til þeirrar eyjar er þeir Sigurður voru fyrir og ganga upp á eyna tólf saman, en þrír gættu skips.

Þeir Sigurður sá mennina er upp komu á eyna og tala með sér hverir vera muni. Þeir sá að menn voru í litklæðum og með vopnum. - "Má vera," sagði Sigurður, "að hér sé komnir kaupmennirnir þeir er hér hafa legið í sumar, og má vera að annað sé eyrendi þeirra en að reka kaupstefnu eina saman, og mun við oss eyrendi; svo munu vér eiga við að búast. Nú skulu vér ganga í móti þeim og hafa ráð Sigmundar Brestissonar" segir Sigurður, "og hlaupa síðan sér hver vor og finnumst að skipi voru allir."

Nú gangast þeir í móti. Arnljótur eggjar þegar förunauta sína og biður þá hefna sona sinna. Þeir Sigurður stökkva undan sér hver þeirra, og komast allir í fjöruna til skips síns. Þá koma þeir Arnljótur og sækja að þeim. Sigurður höggur til þess er að honum sótti og rekur undan honum fætur báða fyrir ofan kné, og hafði sá bana. Þórður drepur mann annan, en Gautur hinn þriðja. Þá hlaupa þeir á skip sitt og róa fram með eyjunni og finna kaupskipsbátinn og þar á þrjá menn. Sigurður hleypur á bátinn og drepur einn þeirra, en rekur tvo á kaf; taka bátinn og róa á burt báðum skipum og heim.

Sigurður safnar mönnum að sér og fer út til eyjarinnar; ganga upp á eyna. Austmenn hlaupa saman og ætla að verja sig.

Þórður lági mælti: "Það er ráð, Sigurður frændi, að gefa þessum mönnum grið, er vér eigum alls kosti við, en vér höfum áður unnið Arnljóti mikinn skaða."

Sigurður svarar: "Það er vel mælt, en þó vil eg að þeir leggi allt á mitt vald ef þeir skulu grið hafa."

Það fór fram, að þeir seldu Sigurði sjálfdæmi, en hann gerir á hendur Arnljóti þrenn manngjöld fyrir hvern þeirra. Það fé galt Arnljótur allt, og var hann suðureyskur maður, og hafði hann það í bætur fyrir sonu sína og fór við það í burt af Færeyjum.

Sigurður varð var við svik Skopta og sagði að hann skal hafa líf sitt, en fara í burt af Færeyjum, og fór hann til Noregs og varð útlagi af Færeyjum.


56. kafli

Nú er að segja frá því að Sigurður Þorláksson eggjar Þórð bróður sinn að hann skyldi kvænast.

Þórður spyr hvar hann sæi honum konu.

"Eigi mun eg hjá þeim kosti sneiða, er mér þykir bestur hér í Færeyjum; það er Þuríður meginekkja."

"Ekki ætla eg mér svo hátt," segir Þórður.

"Eigi muntu fá ef við biðjum eigi," segir Sigurður.

"Ekki mun eg þessa leita," segir hann, "og mun eigi nær leggja að hún vili mér giftast," segir Þórður; "en þó máttu þessa leita ef þú vill."

Sigurður fer nú annan dag til Skúfeyjar og ber þetta mál upp fyrir Þuríði. Hún tekur þessu ekki fljótt, en hann flytur málið. Og þar kemur að hún kveðst mundu ráðast um við vini sína og sonu og lést mundu gera honum orð um það sem þá var að leika.

Fer Sigurður heim og sagði allt líklegt um svör hennar.

"Undarlega veit það við," segir Þórður, "og grunar mig að þessu fylgi eigi alögi."

Þuríður hitti Leif mág sinn og Þóru dóttur sína og sagði þeim bónorðið.

Þóra spyr hverju hún svaraði.

Hún kvaðst hafa mjög frá vísað, en þó minnur en henni var að skapi, - "eða hvað þyki þér ráð, dóttir?"

Hún svarar: "Eigi muntu frá vísa ef eg ræð, ef yður er nokkuð það í hug að róa þess á hefnileið, er oss hefir til skamma gjört verið, og eigi sé eg annað það teygiagn er líkara sé til að þeir verði að dregnir en þetta. Þarf eg eigi að leggja orð í munn móður minni, þvíað marga vega má hún þá á það draga svo að þeir ráði ekki í það."

Leifur verður samþykkur um þetta Þóru og kveðst hug skyldu á leggja að þeir hefði um síðir það er þeir voru maklegir; kváðu á dag með sér, nær þeir skyldu til koma þessa mála að vitja.

Þá mælti Leifur: "Langt hefir Þrándur þá fram séð er hann bauð okkur barnfóstur, og kenni eg þér völd um það, Þóra," segir hann, "og er það dauði Sigmundar sonar okkars ef hann er þá með Þrándi, er nokkuð skerst úr með oss Sigurði."

"Eigi ætla eg," segir Þóra, "að hann skuli þar lengi vera héðan frá, og er mál að við farim til Austureyjar og finnir þú Þránd fóstra þinn."

Öll verða þau á það sátt.


57. kafli

Fara þau Leifur nú öll saman, og eru þau sjö menn á skipi og koma við Austurey og höfðu innanvott um daginn, og voru þeir Leifur votir mjög, en Þóra var þurr. Þau ganga upp til bæjar í Götu, og fagnar Þrándur þeim vel og lætur drepa upp elda fyrir þeim Leifi, en Þóru var fylgt til stofu, og var sveinninn Sigmundur þar hjá henni, son hennar; hann var þá níu vetra gamall og hinn skjótlegsti að sjá.

Móðir hans spurði hvað Þrándur hefði kennt honum, en hann kveðst numið hafa allar saksóknir að sækja og réttarfar sitt og annarra; lá honum það greitt fyrir. Þá spyr hún hvað fóstri hans hefði kennt honum í helgum fræðum. Sigmundur kveðst numið hafa pater noster og kredduna. Hún kveðst heyra vilja, og hann gerði svo, og þótti henni hann syngja pater noster til nokkurrar hlítar, en kredda Þrándar er á þessa leið:


Gangat eg einn út fjórir mér fylgja fimm guðs englar; ber eg bæn fyrir mér, bæn fyrir Kristi; syng eg sálma sjö, sjái guð hluta minn.

Og í þessu kemur Þrándur í stofuna og spyr hvað þau tali.

Þóra svarar og segir að Sigmundur son hennar hafi flutt fyrir henni fræði þau er hann hafði kennt honum, - "og þyki mér engi mynd á;" segir hún, "á kredó."

"Því er svo háttað sem þú veist," segir Þrándur, "að Kristur átti tólf lærisveina eða fleiri og kunni sína kreddu hver þeirra. Nú hefi eg mína kreddu, en þú þá er þú hefir numið, og eru margar kreddur, og er slíkt," segir hann, "eigi á eina lund rétt."

Skilja nú tal sitt.

Um kveldið er þeim allbeint, og var drukkið allfast, og var Þrándur hinn kátasti, og segir Þrándur að þar skal búa um þau í stofunni og gera flatsæng á gólfinu.

Leifur segir að svo mátti vel vera.

Þóra segir að hún vildi að Sigmundur segi henni af fræðum sínum og lægi hjá henni um nóttina.

"Það má eigi," segir Þrándur, "þvíað þá má eg aldri sofa í nátt."

"Þetta verður þú að veita mér, Þrándur minn," segir hún.

Og það varð, að sveinninn liggur hjá þeim; en Þrándur átti sér eina litla skemmu, og svaf hann þar jafnan og sveinninn hjá honum og fátt manna hjá honum, og gekk Þrándur til skemmu sinnar, og var þá langt af nótt.

Leifur ætlar að sofa og leggst niður og snýr frá konu sinni. Hún rekur hendur í bak honum og bað hann eigi sofa. "Standið upp," segir hún, "og farið umhverfum Austurey í nótt og meiðið hvert skip svo að ekki sé sjófært."

Og svo gera þeir. Var Leifi þar kunnigt í hverja vík. Meiddu þeir þar hvert fljótanda far svo að ekki var sjófært.

Þeir sofa ekki um náttina; standa upp snemma um morgininn; fara þau Þóra þegar ofan til skips, en Leifur gekk ofan til skemmu og biður Þránd vel lifa og hafa þökk fyrir góðan fagnað, - "og vill Þóra að Sigmundur fari með henni."

Þrándur hafði lítið sofið um náttina og sagði að ekki mátti svo vera að Sigmundur færi í brott.

Leifur gengur skyndilega til skips, en Þrándur þóttist nú sjá allt ráð þeirra Leifs og biður húskarla sína taka skútu er hann átti, hlaupa þar á margir menn. Þeir gera svo, og fellur þar inn kolblár sjár, og verða þeir fegnir er þeir komast á land, og er ekki skip fært í eyjunni, og verður Þrándur þar að vera hvort er honum þykir gott eða illt.

Leifur fer þar til er hann kemur heim og safnar þá mönnum að sér, og er það þann dag áður en þeir Sigurður skulu finnast eftir um daginn.


58. kafli

Nú er að segja frá þeim Sigurði Þorlákssyni að þeir búast heiman um daginn og eggjar að þeir skyldu hvata.

Þórður segir að honum er lítið um að fara, - "og ætla eg að þú sér feigur," segir hann, "er þú ákafast á þetta svo mjög."

"Ger þig eigi að undri," segir Sigurður, "og ver eigi svo hræddur að öngri mannraun, og skulu vér að vísu eigi rjúfa þá stefnu er vér höfum sammælst á."

"Þú munt ráða," segir Þórður, "en eigi kemur mér á óvart að eigi komi vér allir heim heilir í kveld."

Þeir fóru tólf saman á einu skipi og vel vopnaðir. Þeir höfðu stormviðri um daginn og strauma hættlega og báru vel af og komu við Skúfey.

Þá sagði Þórður að hann mun eigi lengra fara.

Sigurður kveðst fara skyldu upp til bæjar þó að hann færi einn.

Þórður kvað hann feigan mundu vera.

Sigurður gengur upp á eyna. Hann var í rauðum kyrtli og hafði tuglamöttul blán á herðum sér. Hann var gyrður sverði og hafði hjálm á höfði. Hann gengur upp á eyna; og er hann kemur mjög upp að húsunum, þá sér hann að aftur voru hurðir. Kirkja stóð í túninu gegnt dyrum, sú er Sigmundur hafði gera látið. Og er Sigurður kom upp í milli heimahúsa og kirkju, þá sér hann að kirkja er opin og kona gengur frá kirkjunni í rauðum kyrtli og blán möttul á herðum. Sigurður kenndi að þar var Þuríður húsfreyja og víkur að henni. Hún heilsar honum blíðlega og gengur að tré einu er lá í túninu. Þar setjast þau á tréð, og vill hún horfa að kirkjunni, en hann vildi horfa að heimadyrum og frá kirkjunni, en hún réð, og horfðu þau að kirkjunni.

Sigurður spurði hvað manna væri komið.

Hún kvað þar mannfátt.

Hann spurði hvort Leifur væri þar.

Hún kvað hann eigi þar vera.

"Eru synir þínir heima?" segir hann.

"Það má kalla," segir hún.

"Hvað hafa þeir talað um mál vor síðan?" segir Sigurður.

"Það höfum vér um talað," segir hún, "að öllum oss konunum líst best á þig, og mundi lítt seinkað af minni hendi ef þú værir óklúsaður."

"Mikill giftuskortur hefir mér þá orðið," segir Sigurður, "og má það og skjótt skipast að eg sé laus maður."

"Það er sem verða má," segir hún.

Og í því vildi hann sveigja hana að sér og tók höndum um hana, en hún las að sér tuglamöttulinn, og í því var lokið hurðunni og hljóp út maður með brugðið sverð, og var það Heri Sigmundarson. Og er Sigurður sér það, þá smýgur hann niður úr möttlinum og varð svo laus, en Þuríður heldur eftir möttlinum. Nú koma út fleiri menn, og hleypur Sigurður ofan eftir vellinum. Heri þrífur upp spjót eitt og hleypur ofan á völlinn eftir honum og verður hann skjótastur. Hann skýtur spjótinu til Sigurðar, og Sigurður sér að spjótið stefnir á herðar honum; þá leggst hann niður við vellinum, og flýgur spjótið yfir hann fram og nam staðar í vellinum. Sigurður stendur upp skjótt og þrífur spjótið og sendir aftur, og kemur það á Hera miðjan, og hafði hann skjótt bana. Sigurður hleypur þá ofan í einstigið, en Leifur kemur þar að er Heri liggur og snýr skjótt þaðan frá og hleypur þaðan fram á eyna og þar fyrir ofan sem hann kom að, og segja menn að þar sé fimmtán faðma hátt í fjöru niður. Leifur kom standandi niður. Hann hleypur til skips þeirra, og er Sigurður þá kominn að skipinu og ætlaði að hlaupa út á skipið, en Leifur lagði þá sverði til hans á síðuna, en hann snaraðist við honum, og gekk sverðið á hol, að því er Leifur hugði. Sigurður hljóp þá út á skipið, og létu frá landi, og skildi þar með þeim.

Leifur gengur upp á eyna til manna sinna og biður þá skjótt fara til skipa, - "og skulu vér halda eftir þeim."

Þeir spyrja hvort hann hefir spurt lát Hera eða fundið Sigurð.

Hann kveðst eigi mundu margt frá segja að sinni.

Þeir hlaupa á tvö skip, og hafði Leifur átta tigi manna, og varð misfari þeirra eigi alllítill.

Þeir Sigurður koma að landi í Straumsey, og hafði Sigurður stýrt skipinu og var fáorður við þá. En er hann gengur upp af skipinu, Þórður spurði hvort hann mundi mjög sár vera.

Hann kveðst það ógjörla vita.

Sigurður gengur að naustvegginum er þar var nær sjónum og leggur þar hendur sínar á upp, en þeir ryðja skipið, og ganga síðan upp til naustsins og sjá að Sigurður stendur þar og var þá stirðnaður og dauður.

Þeir fluttu lík hans heim og sögðu ekki þessi tíðendi.

Fara þeir til náttverðar, og er þeir eru að mat, þá koma þeir Leifur að bænum og veita þar aðsókn og bera eld að. Þeir verjast vel, og eru ellefu menn fyrir, en þrír tigir voru að komnir. Og er eldur sótti húsin þá hleypur Gautur rauði út og þolir eigi inni lengur. Steingrímur Sigmundarson sótti að honum og tveir menn aðrir, en hann varðist vel. Gautur höggur á kné Steingrími og af knéskelina, og var það mikið sár, svo að hann gekk jafnan haltur síðan, og drap annan félaga hans. Þá kemur að Leifur Össurarson og eigast þeir við vopnaskipti, og lýkur svo að Leifur drepur Gaut. Þá hleypur út Þórður lági og í mót honum Brandur Sigmundarson og tveir menn aðrir og sóttu að Þórði, en svo lauk með þeim að Þórður drepur Brand og förunauta hans báða. Þá kom að Leifur Össurarson og leggur sverði því hinu sama í gegnum Þórð, er áður hafði hann lagt með Sigurð bróður hans, og lét Þórður skjótt líf sitt.


59. kafli

Eftir þessi tíðendi fer Leifur heim og verður frægur af þessum verkum.

En er Þrándur spurði þessi tíðendi, þá féllu honum þau svo nær að hann dó af helstríði.

Leifur ræður nú einn öllum Færeyjum, og var það um daga Magnúss konungs góða Ólafssonar.

Leifur fór til Noregs á fund Magnúss konungs og tekur af honum lén yfir Færeyjum; kemur heim í Færeyjar; býr þar til elli.

Sigmundur son hans bjó í Suðurey eftir föður sinn Leif og þótti mikilmenni.

Þuríður húsfreyja og Leifur önduðust á dögum Magnúss konungs, en Þóra var með Sigmundi syni sínum og þótti alla stund hinn mesti kvenskörungur.

Son Sigmundar hét Hafgrímur, og eru frá honum komnir Einar og Skeggi sonur hans, er verið höfðu fyrir skömmu sýslumenn í Færeyjum.

Steingrímur halti Sigmundarson bjó í Skúfey og þótti góður bóndi. Og er hér eigi getið að meiri afdrif hafi orðið Sigmundar Brestissonar eða afkvæmis hans.




Netútgáfan - apríl 1998