1. kafliKetill flatnefur hét einn ágætur hersir í Noregi. Hann var sonur Bjarnar bunu Grímssonar hersis úr Sogni. Ketill var kvongaður. Hann átti Yngveldi, dóttur Ketils veðurs hersis af Raumaríki. Björn og Helgi hétu synir þeirra en dætur þeirra voru þær Auður hin djúpúðga, Þórunn hyrna og Jórunn mannvitsbrekka.
Björn sonur Ketils var fóstraður austur á Jamtalandi með jarli þeim er Kjallakur hét, vitur maður og ágætur. Jarlinn átti son er Björn hét en Gjaflaug hét dóttir hans.
Þetta var í þann tíma er Haraldur konungur hinn hárfagri gekk til ríkis í Noregi. Fyrir þeim ófriði flýðu margir göfgir menn óðul sín af Noregi, sumir austur um Kjölu, sumir um haf vestur. Þeir voru sumir er héldu sig á vetrum í Suðureyjum eða Orkneyjum en um sumrum herjuðu þeir í Noreg og gerðu mikinn skaða í ríki Haralds konungs. Bændur kærðu þetta fyrir konungi og báðu hann frelsa sig af þessum ófriði.
Þá gerði Haraldur konungur það ráð að hann lét búa her vestur um haf og kvað Ketil flatnef skyldu höfðingja vera yfir þeim her. Ketill taldist undan en konungur kvað hann fara skyldu. Og er Ketill sá að konungur vill ráða réðst hann til ferðarinnar og hafði með sér konu sína og börn, þau sem þar voru.
En er Ketill kom vestur um haf átti hann þar nokkurar orustur og hafði jafnan sigur. Hann lagði undir sig Suðureyjar og gerðist höfðingi yfir. Sættist hann þá við hina stærstu höfðingja fyrir vestan haf og batt við þá tengdir en sendi austur aftur herinn.
Og er þeir komu á fund Haralds konungs sögðu þeir að Ketill flatnefur var höfðingi í Suðureyjum en eigi sögðust þeir vita að hann drægi Haraldi konungi ríki fyrir vestan haf. En er konungur spyr þetta þá tekur hann undir sig eignir þær er Ketill átti í Noregi.
Ketill flatnefur gifti Auði dóttur sína Ólafi hvíta er þá var mestur herkonungur fyrir vestan haf. Hann var sonur Ingjalds Helgasonar en móðir Ingjalds var Þóra, dóttir Sigurðar orms í auga, Ragnarssonar loðbrókar.
Þórunni hyrnu gifti hann Helga hinum margra, syni Eyvindar austmanns og Raförtu dóttur Kjarvals Írakonungs.
2. kafliBjörn, sonur Ketils flatnefs, var á Jamtalandi þar til er Kjallakur jarl andaðist. Hann fékk Gjaflaugar, dóttur jarls, og fór síðan austan um Kjöl, fyrst til Þrándheims og síðan suður um land og tók undir sig eignir þær er faðir hans hafði átt, rak í braut ármenn þá er Haraldur konungur hafði yfir sett.
Haraldur konungur var þá í Víkinni er hann spurði þetta og fór þá hið efra norður til Þrándheims. Og er hann kom í Þrándheim stefndi hann átta fylkja þing og á því þingi gerði hann Björn Ketilsson útlaga af Noregi, gerði hann dræpan og tiltækjan hvar sem hann væri fundinn.
Eftir þetta sendi hann Hauk hábrók og aðra kappa sína að drepa hann ef þeir fyndu hann. En er þeir komu suður um Staði urðu vinir Bjarnar við varir ferð þeirra og gerðu honum njósn.
Björn hljóp þá á skútu eina er hann átti með skuldalið sitt og lausafé og fór undan suður með landi því að þá var vetrarmegn og treystist hann eigi á haf að halda. Björn fór þar til er hann kom í ey þá er Mostur heitir og liggur fyrir Sunnhörðalandi og þar tók við honum sá maður er Hrólfur hét Örnólfssonur fiskreka. Þar var Björn um veturinn á laun.
Konungsmenn hurfu aftur þá er þeir höfðu skipað eignir Bjarnar og setta menn yfir.
3. kafliHrólfur var höfðingi mikill og hinn mesti rausnarmaður. Hann varðveitti þar í eyjunni Þórshof og var mikill vinur Þórs og af því var hann Þórólfur kallaður. Hann var mikill maður og sterkur, fríður sýnum og hafði skegg mikið. Því var hann kallaður Mostrarskegg. Hann var göfgastur maður í eyjunni.
Um vorið fékk Þórólfur Birni langskip gott og skipað góðum drengjum og fékk Hallstein son sinn til fylgdar við hann og héldu þeir vestur um haf á vit frænda Bjarnar.
En er Haraldur konungur spurði að Þórólfur Mostrarskegg hafði haldið Björn Ketilsson, útlaga hans, þá gerði hann menn til hans og boðaði honum af löndum og bað hann fara útlægan sem Björn vin hans nema hann komi á konungs fund og leggi allt sitt mál á hans vald.
Það var tíu vetrum síðar en Ingólfur Arnarson hafði farið að byggja Ísland og var sú ferð allfræg orðin því að þeir menn er komu af Íslandi sögðu þar góða landakosti.
4. kafliÞórólfur Mostrarskegg fékk að blóti miklu og gekk til fréttar við Þór, ástvin sinn, hvort hann skyldi sættast við konung eða fara af landi brott og leita sér annarra forlaga en fréttin vísaði Þórólfi til Íslands.
Og eftir það fékk hann sér mikið hafskip og bjó það til Íslandsferðar og hafði með sér skuldalið sitt og búferli. Margir vinir hans réðust til ferðar með honum. Hann tók ofan hofið og hafði með sér flesta viðu þá er þar höfðu í verið og svo moldina undan stallanum þar er Þór hafði á setið.
Síðan sigldi Þórólfur í haf og byrjaði honum vel og fann landið og sigldi fyrir sunnan, vestur um Reykjanes. Þá féll byrinn og sáu þeir að skar í landið inn fjörðu stóra.
Þórólfur kastaði þá fyrir borð öndvegissúlum sínum, þeim er staðið höfðu í hofinu. Þar var Þór skorinn á annarri. Hann mælti svo fyrir að hann skyldi þar byggja á Íslandi sem Þór léti þær á land koma. En þegar þær hóf frá skipinu sveif þeim til hins vestra fjarðarins og þótti þeim fara eigi vonum seinna.
Eftir það kom hafgola. Sigldu þeir þá vestur fyrir Snæfellsnes og inn á fjörðinn. Þeir sjá að fjörðurinn er ákaflega breiður og langur og mjög stórfjöllótt hvorumtveggja megin. Þórólfur gaf nafn firðinum og kallaði Breiðafjörð.
Hann tók land fyrir sunnan fjörðinn, nær miðjum, og lagði skipið á vog þann er þeir kölluðu Hofsvog síðan. Eftir það könnuðu þeir landið og fundu á nesi framanverðu er var fyrir norðan voginn að Þór var á land kominn með súlurnar. Það var síðan kallað Þórsnes.
Eftir það fór Þórólfur eldi um landnám sitt, utan frá Stafá og inn til þeirrar ár er hann kallaði Þórsá, og byggði þar skipverjum sínum.
Hann setti bæ mikinn við Hofsvog er hann kallaði á Hofsstöðum. Þar lét hann reisa hof og var það mikið hús. Voru dyr á hliðvegginum og nær öðrum endanum. Þar fyrir innan stóðu öndvegissúlurnar og voru þar í naglar. Þeir hétu reginnaglar. Þar var allt friðarstaður fyrir innan. Innar af hofinu var hús í þá líking sem nú er sönghús í kirkjum og stóð þar stalli á miðju gólfinu sem altari og lá þar á hringur einn mótlaus, tvítugeyringur, og skyldi þar að sverja eiða alla. Þann hring skyldi hofgoði hafa á hendi sér til allra mannfunda. Á stallanum skyldi og standa hlautbolli og þar í hlautteinn sem stökkull væri og skyldi þar stökkva með úr bollanum blóði því er hlaut var kallað. Það var þess konar blóð er sæfð voru þau kvikindi er goðunum var fórnað. Umhverfis stallann var goðunum skipað í afhúsinu. Til hofsins skyldu allir menn tolla gjalda og vera skyldir hofgoðanum til allra ferða sem nú eru þingmenn höfðingjum en goði skyldi hofi upp halda af sjálfs síns kostnaði, svo að eigi rénaði, og hafa inni blótveislur.
Þórólfur kallaði Þórsnes milli Vigrafjarðar og Hofsvogs. Í því nesi stendur eitt fjall. Á því fjalli hafði Þórólfur svo mikinn átrúnað að þangað skyldi engi maður óþveginn líta og engu skyldi tortíma í fjallinu, hvorki fé né mönnum, nema sjálft gengi í brott. Það fjall kallaði hann Helgafell og trúði að hann mundi þangað fara þá er hann dæi og allir á nesinu hans frændur.
Þar sem Þór hafði á land komið, á tanganum nessins, lét hann hafa dóma alla og setti þar héraðsþing. Þar var og svo mikill helgistaður að hann vildi með engu móti láta saurga völlinn, hvorki í heiftarblóði og eigi skyldi þar álfrek ganga og var haft til þess sker eitt er Dritsker var kallað.
Þórólfur gerðist rausnarmaður mikill í búi og hafði fjölmennt með sér því að þá var gott matar að afla af eyjum og öðru sæfangi.
5. kafliNú skal segja frá Birni Ketilssyni flatnefs að hann sigldi vestur um haf þá er þeir Þórólfur Mostrarskegg skildu sem fyrr segir. Hann hélt til Suðureyja.
En er hann kom vestur um haf þá var andaður Ketill faðir hans en hann fann þar Helga bróður sinn og systur sínar og buðu þau honum góða kosti með sér.
Björn varð þess vís að þau höfðu annan átrúnað og þótti honum það lítilmannlegt er þau höfðu hafnað fornum sið, þeim er frændur þeirra höfðu haft og nam hann þar eigi yndi og enga staðfestu vildi hann þar taka. Var hann þó um veturinn með Auði systur sinni og Þorsteini syni hennar.
En er þau fundu að hann vildi eigi áhlýðast við frændur sína þá kölluðu þau hann Björn hinn austræna og þótti þeim illa er hann vildi þar ekki staðfestast.
6. kafliBjörn var tvo vetur í Suðureyjum áður hann bjó ferð sína til Íslands. Með honum var í ferð Hallsteinn Þórólfsson. Þeir tóku land í Breiðafirði og nam Björn land út frá Stafá, milli og Hraunsfjarðar, með ráði Þórólfs. Björn bjó í Borgarholti í Bjarnarhöfn. Hann var hið mesta göfugmenni.
Hallsteini Þórólfssyni þótti lítilmannlegt að þiggja land að föður sínum og fór hann vestur yfir Breiðafjörð og nam þar land og bjó á Hallsteinsnesi.
Nokkurum vetrum síðar kom út Auður djúpúðga og var hinn fyrsta vetur með Birni bróður sínum. Síðan nam hún öll Dalalönd í Breiðafirði, í milli Skraumuhlaupsár og Dögurðarár, og bjó í Hvammi. Á þessum tímum byggðist allur Breiðafjörður og þarf hér ekki að segja frá þeirra manna landnámum er eigi koma við þessa sögu.
7. kafliGeirröður hét maður er nam land inn frá Þórsá til Langadals og bjó á Eyri. Með honum kom út Úlfar kappi, er hann gaf land umhverfis Úlfarsfell, og Finngeir sonur Þorsteins öndurs. Hann bjó í Álftafirði. Hans sonur var Þorfinnur, faðir Þorbrands í Álftafirði.
Vestar hét maður, sonur Þórólfs blöðruskalla. Hann kom til Ísland með föður sinn gamlan og nam land fyrir utan Urthvalafjörð og bjó á Öndverðri-Eyri. Hans sonur var Ásgeir er þar bjó síðan.
Björn hinn austræni andaðist fyrst þessa landnámsmanna og var heygður við Borgarlæk. Hann átti eftir tvo sonu. Annar var Kjallakur gamli er bjó í Bjarnarhöfn eftir föður sinn. Kjallakur átti Ástríði, dóttur Hrólfs hersis, systur Steinólfs hins lága, þau áttu þrjú börn. Þorgrímur goði var sonur þeirra og Gerður dóttir er átti Þormóður goði, sonur Odds hins rakka. Þriðja var Helga er átti Ásgeir á Eyri. Frá börnum Kjallaks er komin mikil ætt og eru það kallaðir Kjalleklingar.
Óttar hét annar sonur Bjarnar, Hann átti Gró Geirleifsdóttur, systur Oddleifs af Barðaströnd. Þeirra synir voru þeir Helgi, faðir Ósvífurs hins spaka, og Björn, faðir Vigfúss í Drápuhlíð. Vilgeir hét hinn þriðji sonur Óttars Bjarnarsonar.
Þórólfur Mostrarskegg kvongaðist í elli sinni og fékk þeirrar konu er Unnur hét. Segja sumir að hún væri dóttir Þorsteins rauðs en Ari Þorgilsson hinn fróði telur hana eigi með hans börnum.
Þau Þórólfur og Unnur áttu son er Steinn hét. Þenna svein gaf Þórólfur Þór, vin sínum, og kallaði hann Þorstein og var þessi sveinn allbráðger.
Hallsteinn Þórólfsson fékk Óskar, dóttur Þorsteins rauðs. Þorsteinn hét sonur þeirra. Hann fóstraði Þórólfur og kallaði Þorstein surt en sinn son kallaði hann Þorstein þorskabít.
8. kafliÍ þenna tíma kom út Geirríður, systir Geirröðar á Eyri, og gaf hann henni bústað í Borgardal fyrir innan Álftafjörð. Hún lét setja skála sinn á þjóðbraut þvera og skyldu allir menn ríða þar í gegnum. Þar stóð jafnan borð og matur á, gefinn hverjum er hafa vildi. Af slíku þótti hún hið mesta göfugkvendi.
Geirríði hafði átta Björn, sonur Bölverks blindingatrjónu, og hét þeirra sonur Þórólfur. Hann var víkingur mikill. Hann kom út nokkuru síðar en móðir hans og var með henni hinn fyrsta vetur.
Þórólfi þótti það lítið búland og skoraði á Úlfar kappa til landa og bauð honum hólmgöngu því að hann var við aldur og barnlaus. Úlfar vildi heldur deyja en vera kúgaður af Þórólfi. Þeir gengu á hólm í Álftafirði og féll Úlfar en Þórólfur varð sár á fæti og gekk jafnan haltur síðan. af þessu var hann kallaður bægifótur.
Hann gerði bú í Hvammi í Þórsárdal. Hann tók lönd eftir Úlfar og var hinn mesti ójafnaðarmaður. Hann seldi lönd leysingjum Þorbrands í Álftafirði, Úlfari Úlfarsfell en Örlygi Örlygsstaði og bjuggu þeir þar lengi síðan.
Þórólfur bægifótur átti þrjú börn. Arnkell hét sonur hans en Gunnfríður dóttir er átti Þorbeinir á Þorbeinisstöðum inn á Vatnshálsi, inn frá Drápuhlíð. Þeirra synir voru þeir Sigmundur og Þorgils en hans dóttir var Þorgerður er átti Vigfús í Drápuhlíð. Önnur dóttir Þórólfs bægifóts hét Geirríður er átti Þórólfur, sonur Herjólfs hölkinrassa, og bjuggu þau í Mávahlíð. Þeirra börn voru þau Þórarinn svarti og Guðný.
9. kafliÞórólfur Mostrarskegg andaðist á Hofsstöðum. Þá tók Þorsteinn þorskabítur föðurleifð sína. Hann gekk að eiga Þóru, dóttur Ólafs feilans, systur Þórðar gellis er þá bjó í Hvammi. Þórólfur var heygður í Haugsnesi út frá Hofsstöðum.
Í þenna tíma var svo mikill ofsi Kjalleklinga að þeir þóttust fyrir öðrum mönnum þar í sveit. Voru þeir og svo margir ættmenn Bjarnar að engi frændbálkur var þá jafnmikill í Breiðafirði.
Þá bjó Barna-Kjallakur, frændi þeirra, á Meðalfellsströnd þar sem nú heitir á Kjallaksstöðum. Hann átti marga sonu og vel mennta. Þeir veittu allir frændum sínum fyrir sunnan fjörðinn á þingum og mannfundum.
Það var eitt vor á Þórsnessþingi að þeir mágar, Þorgrímur Kjallaksson og Ásgeir á Eyri, gerðu orð á að þeir mundu eigi leggja drag undir ofmetnað Þórsnesinga og það að þeir mundu ganga þar örna sinna sem annars staðar á mannfundum á grasi þótt þeir væru svo stolts að þeir gerðu lönd sín helgari en aðrar jarðir í Breiðafirði. Lýstu þeir þá yfir því að þeir mundu eigi troða skó til að ganga þar í útsker til álfreka.
En er Þorsteinn þorskabítur varð þessa var vildi hann eigi þola að þeir saurguðu þann völl er Þórólfur faðir hans hafði tignað umfram aðra staði í sinni landeign. Heimti hann þá að sér vini sína og ætlaði að verja þeim vígi völlinn ef þeir hygðust að saurga hann. Að þessu ráði hurfu með honum Þorgeir kengur, sonur Geirröðar á Eyri, og Álftfirðingar, Þorfinnur og Þorbrandur sonur hans, Þórólfur bægifótur og margir aðrir þingmenn Þorsteins og vinir.
En um kveldið er Kjalleklingar voru mettir tóku þeir vopn sín og gengu út í nesið. En er þeir Þorsteinn sáu að þeir sneru af þeim veg er til skersins lá þá hljópu þeir til vopna og runnu eftir þeim með ópi og eggjan. Og er Kjalleklingar sáu það hljópu þeir saman og vörðu sig. En Þórsnesingar gerðu svo harða atgöngu að Kjalleklingar hrukku af vellinum og í fjöruna. Snerust þeir þá við og varð þar hinn harðasti bardagi með þeim. Kjalleklingar voru færri og höfðu einvalalið.
Nú verða við varir Skógstrendingar, Þorgestur hinn gamli og Áslákur úr Langadal. Þeir hljópu til og gengu í milli, en hvorirtveggju voru hinir óðustu, og fengu eigi skilið þá áður en þeir hétu að veita þeim er þeirra orð vildu heyra til skilnaðarins, og við það urðu þeir skildir og þó með því móti að Kjalleklingar náðu eigi að ganga upp á völlinn og stigu þeir á skip og fóru brott af þinginu.
Þar féllu menn af hvorumtveggjum og fleiri af Kjalleklingum en fjöldi varð sár. Griðum varð engum á komið því að hvorgir vildu þau selja og hétu hvorir öðrum aðförum þegar því mætti við koma. Völlurinn var orðinn alblóðugur þar er þeir börðust og svo þar er Þórsnesingar stóðu meðan barist var.
10. kafliEftir þingið höfðu hvorirtveggju setur fjölmennar og voru þá dylgjur miklar með þeim. Vinir þeirra tóku það ráð að senda eftir Þórði gelli er þá var mestur höfðingi í Breiðafirði. Hann var frændi Kjalleklinga en námágur Þorsteins. Þótti hann líkastur til að sætta þá.
En er Þórði kom þessi orðsending fór hann til við marga menn og leitar um sættir. Fann hann að stórlangt var í millum þeirra þykkju en þó fékk hann komið á griðum með þeim og stefnulagi.
Þar urðu þær málalyktir að Þórður skyldi gera um með því móti að Kjalleklingar skildu það til að þeir mundu aldrei ganga í Dritsker örna sinn en Þorsteinn skildi það til að Kjalleklingar skyldu eigi saurga völlinn nú heldur en fyrr. Kjalleklingar kölluðu alla þá hafa fallið óhelga, er af Þorsteini höfðu fallið, fyrir það er þeir höfðu fyrr með þann hug að þeim farið að berjast. En Þórsnesingar sögðu Kjalleklinga alla óhelga fyrir lagabrot það er þeir gerðu á helguðu þingi. En þó að vandlega væri undir skilið gerðina þá játaði Þórður að gera og vildi heldur það en þeir skildu ósáttir.
Þórður hafði það upphaf gerðarinnar að hann kallar að sá skal hafa happ er hlotið hefir, kvað þar engi víg bæta skulu þau er orðið höfðu á Þórsnesi eða áverka, en völlinn kallar hann spilltan af heiftarblóði er niður hafði komið og kallar þá jörð nú eigi helgari en aðra og kallar þá því valda er fyrri gerðust til áverka við aðra. Kallaði hann það eitt friðbrot verið hafa, sagði þar og eigi þing skyldu vera síðan. En til þess að þeir væru vel sáttir og vinir þaðan af þá gerði hann það að Þorgrímur Kjallaksson skyldi halda uppi hofinu að helmingi og hafa hálfan hoftoll og svo þingmenn að helmingi, veita og Þorsteini til allra mála þaðan af og styrkja hann til hveriga helgi sem hann vill á leggja þingið þar sem næst verði sett. Hér með gifti Þórður gellir Þorgrími Kjallakssyni Þórhildi frændkonu sína, dóttur Þorkels meinakurs, nábúa síns. Var hann af því kallaður Þorgrímur goði.
Þeir færðu þá þingið inn í nesið þar sem nú er. Og þá er Þórður gellir skipaði fjórðungaþing lét hann þar vera fjórðungsþing Vestfirðinga. Skyldu menn þangað til sækja um alla Vestfjörðu. Þar sér enn dómhring þann er menn voru dæmdir í til blóts. Í þeim hring stendur Þórs steinn er þeir menn voru brotnir um er til blóta voru hafðir og sér enn blóðslitinn á steininum. Var á því þingi hinn mesti helgistaður en eigi var mönnum þar bannað að ganga örna sinna.
11. kafliÞorsteinn þorskabítur gerðist hinn mesti rausnarmaður. Hann hafði með sér jafnan sex tigu frelsingja. Hann var mikill aðdráttamaður og var jafnan í fiskiróðrum. Hann lét fyrst reisa bæinn að Helgafelli og færði þangað bú sitt og var þar hinn mesti hofstaður í það mund. Hann lét og bæ gera þar í nesinu, nær því sem þingið hafði verið. Þann bæ lét hann og mjög vanda og gaf hann síðan Þorsteini surt, frænda sínum. Bjó hann þar síðan og varð hinn mesti spekingur að viti.
Þorsteinn þorskabítur átti son er kallaður var Börkur digri. En sumar það er Þorsteinn var hálfþrítugur fæddi Þóra sveinbarn og var Grímur nefndur er vatni var ausinn. Þann svein gaf Þorsteinn Þór og kvað vera skyldu hofgoða og kallar hann Þorgrím. Það sama haust fór Þorsteinn út í Höskuldsey til fangs.
Það var eitt kveld um haustið að sauðamaður Þorsteins fór að fé fyrir norðan Helgafell. Hann sá að fjallið laukst upp norðan. Hann sá inn í fjallið elda stóra og heyrði þangað mikinn glaum og hornaskvöl. Og er hann hlýddi ef hann næmi nokkur orðaskil heyrði hann að þar var heilsað Þorsteini þorskabít og förunautum hans og mælt að hann skal sitja í öndvegi gegnt föður sínum.
Þenna fyrirburð sagði sauðamaður Þóru konu Þorsteins um kveldið. Hún lét sér fátt um finnast og kallar vera mega að þetta væri fyrirboðan stærri tíðinda.
Um morguninn eftir komu menn utan úr Höskuldsey og sögðu þau tíðindi að Þorsteinn þorskabítur hafði drukknað í fiskiróðri og þótti mönnum það mikill skaði.
Þóra hélt þar bú eftir og ræðst sá maður til með henni er Hallvarður hét. Þau áttu son er Már hét.
12. kafliSynir Þorsteins þorskabíts uxu þar upp heima með móður sinni og voru hinir efnilegustu menn og var Þorgrímur fyrir þeim í öllu og var þegar hofgoði er hann hafði aldur til.
Þorgrímur kvongaðist vestur í Dýrafjörð og fékk Þórdísar Súrsdóttur og réðst hann þangað vestur til mága sinna, Gísla og Þorkels. Þorgrímur drap Véstein Vésteinsson að haustboði í Haukadal. En annað haust eftir þá er Þorgrímur var hálfþrítugur sem faðir hans þá drap Gísli mágur hans hann að haustboði á Sæbóli. Nokkurum nóttum síðar fæddi Þórdís kona hans barn og var sá sveinn kallaður Þorgrímur eftir föður sínum.
Litlu síðar giftist Þórdís Berki hinum digra, bróður Þorgríms, og réðst til bús með honum til Helgafells. Þá fór Þorgrímur sonur hennar í Álftafjörð og var þar að fóstri með Þorbrandi. Hann var heldur ósvífur í æskunni og var hann af því Snerrir kallaður og eftir það Snorri.
Þorbrandur í Álftafirði átti Þuríði, dóttur Þorfinns Sel-Þórissonar frá Rauðamel. Þeir voru börn þeirra: Þorleifur kimbi elstur, annar Snorri, þriðji Þóroddur, fjórði Þorfinnur, fimmti Þormóður. Þorgerður hét dóttir þeirra. Þeir voru allir fóstbræður Snorra Þorgrímssonar.
Í þann tíma bjó Arnkell sonur Þórólfs bægifótar á Bólstað við Vaðilshöfða. Hann var manna mestur og sterkastur, lagamaður mikill og forvitri. Hann var góður drengur og umfram alla menn aðra þar í sveit að vinsældum og harðfengi. Hann var og hofgoði og átti marga þingmenn.
Þorgrímur Kjallaksson bjó í Bjarnarhöfn, sem fyrr var sagt, og áttu þau Þórhildur þrjá sonu. Brandur var elstur. Hann bjó í Krossnesi við Brimlárhöfða. Annar var Arngrímur. Hann var mikill maður og sterkur, nefmikill, stórbeinóttur í andliti, rauðbleikur á hár og vikóttur snemma, skolbrúnn, eygður mjög og vel. Hann var ofstopamaður mikill og fullur ójafnaðar og fyrir því var hann Styr kallaður. Vermundur hét hinn yngsti sonur Þorgríms Kjallakssonar. Hann var hár maður, mjór og fríður sýnum. Hann var kallaður Vermundur hinn mjóvi.
Sonur Ásgeirs á Eyri hét Þorlákur. Hann átti Þuríði, dóttur Auðunar stota úr Hraunsfirði. Þau voru þeirra börn: Steinþór, Bergþór, Þormóður, Þórður blígur og Helga.
Steinþór var framast barna Þorláks. Hann var mikill maður og sterkur og manna vopnfimastur og hinn mesti atgervismaður. Hógvær var hann hversdaglega. Steinþór var til þess tekinn að hinn þriðji maður hafi best verið vígur á Íslandi með þeim Helga Droplaugarsyni og Vémundi kögur. Þormóður var vitur maður og stilltur vel. Þórður blígur var ákafamaður mikill og örorður. Bergþór var yngstur og þó hinn efnilegasti.
13. kafliSnorri Þorgrímsson var þá fjórtán vetra er hann fór utan með fóstbræðrum sínum, Þorleifi kimba og Þóroddi. Börkur hinn digri, föðurbróðir hans, galt honum fimm tigu silfurs til utanferðar.
Þeir urðu vel reiðfari og komu til Noregs um haustið. Þeir voru um veturinn á Rogalandi. Snorri var með Erlingi Skjálgssyni á Sóla og var Erlingur vel til hans því að þar hafði verið forn vinátta með hinum fyrrum frændum þeirra, Hörða-Kára og Þórólfi Mostrarskegg.
Um sumarið eftir fóru þeir til Íslands og urðu síðbúnir. Þeir höfðu harða útivist og komu litlu fyrir vetur í Hornafjörð.
En er þeir bjuggust frá skipi, Breiðfirðingarnir, þá skaust þar mjög í tvö horn um búnað þeirra Snorra og Þorleifs kimba. Þorleifur keypti þann hest er hann fékk bestan. Hann hafði og steindan söðul allglæsilegan. Hann hafði búið sverð og gullrekið spjót, myrkblán skjöld og mjög gylltan, vönduð öll klæði. Hann hafði þar og til varið mjög öllum sínum fararefnum. En Snorri var í svartri kápu og reið svörtu merhrossi góðu. Hann hafði fornan trogsöðul og vopn lítt til fegurðar búin. Búnaður Þórodds var þar á milli.
Þeir riðu austan um Síðu og svo sem leið liggur vestur til Borgarfjarðar og svo vestur um Flötu og gistu í Álftafirði.
Eftir það reið Snorri til Helgafells og ætlar þar að vera um veturinn. Börkur tók því fálega og höfðu menn það mjög að hlátri um búnað hans. Tók Börkur svo á að honum hefði óheppilega með féið farist er öllu var eytt.
Það var einn dag öndverðan vetur að Helgafelli að þar gengu inn tólf menn alvopnaðir. Þar var Eyjólfur hinn grái, frændi Barkar, sonur Þórðar gellis. Hann bjó í Otradal vestur í Arnarfirði.
En er þeir voru að tíðindum spurðir þá sögðu þeir dráp Gísla Súrssonar og þeirra manna er látist höfðu fyrir honum áður hann féll. Við þessi tíðindi varð Börkur allgleymur og bað Þórdísi og Snorra að þau skyldu fagna Eyjólfi sem best, þeim manni er svo mikla skömm hafði rekið af höndum þeim frændum.
Snorri lét sér fátt um finnast um þessi tíðindi en Þórdís segir að þá var vel fagnað "ef grautur er gefinn Gíslabana."
Börkur svarar: "Eigi hlutast eg til málsverða."
Börkur skipar Eyjólfi í öndvegi en förunautum hans utar frá honum. Þeir skutu vopnum sínum á gólfið. Börkur sat innar frá Eyjólfi en þá Snorri.
Þórdís bar innar grautartrygla á borð og hélt með á spónum og er hún setti fyrir Eyjólf þá féll niður spónn fyrir henni. Hún laut niður eftir og tók sverð hans Eyjólfs og brá skjótt og lagði síðan upp undir borðið og kom í lær Eyjólfi en hjaltið nam við borðinu og varð þó sárið mikið. Börkur hratt fram borðinu og sló til Þórdísar. Snorri hratt Berki svo að hann féll við en tók til móður sinnar og setti hana niður hjá sér og kvað ærnar skapraunir hennar þótt hún væri óbarin. Eyjólfur hljóp upp og hans menn og hélt þar maður á manni.
Þar urðu þær málalyktir að Börkur seldi Eyjólfi sjálfdæmi og gerði hann mikið fé sér til handa fyrir áverkann. Fór hann við það í brott. Af þessu óx mjög óþokki með þeim Berki og Snorra.
14. kafliÁ vorþingi um sumarið heimti Snorri föðurarf sinn af Berki. Börkur svarar svo að hann mundi gjalda honum föðurarf sinn "en eigi nenni eg," segir hann, "að skipta Helgafelli sundur. En eg sé að okkur er eigi hent að eiga saman tvíbýli og vil eg leysa landið til mín."
Snorri svarar: "Það þykir mér jafnlegast að þú leggir land svo dýrt sem þér líkar en eg kjósi hvor okkar leysa skal."
Börkur hugsar þetta mál og hugðist svo að Snorri mundi eigi lausafé hafa að gefa við landinu ef skjótt skyldi gjalda og lagði hálft landið fyrir sex tigu silfurs og tók þó af áður eyjarnar því að hann hugðist litlu verði þær mundu fá en Snorri fengi aðra staðfestu. Það fylgdi og að þá skyldi þegar upp gjalda féið og leita eigi láns undir aðra menn til þess fjár "og kjós þú nú Snorri," sagði Börkur, "þegar í stað hvort þú vilt."
Snorri svarar: "Þess kennir nú að, Börkur frændi, að þér þykir eg févani er þú leggur svo ódýrt Helgafellsland en undir mig kýs eg föðurleifð mína að þessu verði og rétt fram höndina og handsala mér landið."
"Eigi skal það fyrr," segir Börkur, "en hver peningur er fyrir goldinn."
Snorri mælti til Þorbrands fóstra síns: "Hvort seldi eg þér sjóð nokkurn á hausti?"
"Já," segir Þorbrandur og brá sjóðnum undan kápu sinni.
Var þá talið silfrið og goldið fyrir landið hver peningur og var þá eftir í sjóðnum sex tigir silfurs.
Börkur tók við fénu og handsalar Snorra landið.
Síðan mælti Börkur: "Silfurdrjúgari hefir þú nú orðið frændi en vér hugðum. Vil eg nú að við gefum upp óþokka þann er millum hefir farið og mun eg það til leggja til hlunninda við þig að við skulum búa báðir samt þessi misseri að Helgafelli er þú hefir kvikfjár fátt."
Snorri svarar: "Þú skalt njóta kvikfjár þíns og verða í brottu frá Helgafelli."
Svo varð að vera sem Snorri vildi.
En er Börkur var í brott búinn frá Helgafelli gekk Þórdís fram og nefndi sér votta að því að hún sagði skilið við Börk bónda sinn og fann það til foráttu að hann hafði lostið hana og hún vildi eigi liggja undir höggum hans. Var þá skipt fé þeirra og gekk Snorri að fyrir hönd móður sinnar því að hann var hennar erfingi. Tók þá Börkur þann kost, er hann hafði öðrum ætlað, að hafa lítið fyrir eyjarnar.
Eftir það fór Börkur í brott frá Helgafelli og vestur á Meðalfellsströnd og bjó fyrst á Barkarstöðum milli Orrahvols og Tungu. Síðan fór hann í Glerárskóga og bjó þar til elli.
15. kafliSnorri Þorgrímsson gerði bú að Helgafelli og var móðir hans fyrir innan stokk. Már Hallvarðsson, föðurbróðir Snorra, réðst þangað með mart búfé og tók forráð fyrir búi Snorra. Hafði hann þá hið mesta rausnarbú og fjölmennt.
Snorri var meðalmaður á hæð og heldur grannlegur, fríður sýnum, réttleitur og ljóslitaður, bleikhár og rauðskeggjaður. Hann var hógvær hversdaglega. Fann lítt á honum hvort honum þótti vel eða illa. Hann var vitur maður og forspár um marga hluti, langrækur og heiftúðigur, heilráður vinum sínum en óvinir hans þóttust heldur kulda af kenna ráðum hans. Hann varðveitti þá hof. Var hann þá kallaður Snorri goði. Hann gerðist þá höfðingi mikill en ríki hans var mjög öfundsamt því að þeir voru margir er eigi þóttust til minna um komnir fyrir ættar sakir en áttu meira undir sér fyrir afls sakir og prófaðrar harðfengi.
Börkur digri og Þórdís Súrsdóttir áttu þá dóttur er Þuríður hét og var hún þá gift Þorbirni digra er bjó á Fróðá. Hann var sonur Orms hins mjóva er þar hafði búið og numið Fróðárland. Þuríði, dóttur Ásbrands frá Kambi úr Breiðavík, hafði hann áður átta. Hún var systir Bjarnar Breiðvíkingakappa, er enn kemur síðar við þessa sögu, og Arnbjarnar hins sterka. Synir þeirra Þorbjarnar voru þeir Ketill kappi og Gunnlaugur og Hallsteinn. Þorbjörn var mikill fyrir sér og ósvífur við sér minni menn.
Þá bjó í Mávahlíð Geirríður, dóttir Þórólfs bægifótar, og Þórarinn svarti sonur hennar. Hann var mikill maður og sterkur, ljótur og hljóðlyndur, vel stilltur hversdaglega. Hann var kallaður mannasættir. Hann var eigi fémikill og hafði þó bú gagnsamt. Svo var hann maður óhlutdeilinn að óvinir hans mæltu að hann hefði eigi síður kvenna skap en karla. Hann var kvongaður maður og hét Auður kona hans. Guðný var systir hans er átti Vermundur mjóvi.
Í Holti út frá Mávahlíð bjó ekkja sú er Katla hét. Hún var fríð kona sýnum en eigi var hún við alþýðuskap. Oddur hét sonur hennar. Hann var mikill maður og knár, hávaðamaður mikill og málugur, slysinn og rógsamur.
Gunnlaugur sonur Þorbjarnar digra var námgjarn. Hann var oft í Mávahlíð og nam kunnáttu að Geirríði Þórólfsdóttur því að hún var margkunnig.
Það var einn dag er Gunnlaugur fór í Mávahlíð að hann kom í Holt og talaði mart við Kötlu en hún spurði hvort hann ætlar þá enn í Mávahlíð "og klappa um kerlingarnárann?"
Gunnlaugur kvað eigi það sitt erindi "en svo að eins ertu ung, Katla, að eigi þarftu að bregða Geirríði elli."
Katla svarar: "Eigi hugði eg að það mundi líkt vera en engu skiptir það," segir hún. "Engi þykir yður nú kona nema Geirríður ein en fleiri konur kunna sér enn nokkuð en hún ein."
Oddur Kötluson fór oft með Gunnlaugi í Mávahlíð. En er þeim varð síð aftur farið bauð Katla Gunnlaugi oft þar að vera en hann fór jafnan heim.
16. kafliÞað var einn dag öndverðan vetur þann er Snorri gerði fyrst bú að Helgafelli að Gunnlaugur Þorbjarnarson fór í Mávahlíð og Oddur Kötluson með honum. Þau Gunnlaugur og Geirríður töluðu þá löngum um daginn.
Og er mjög leið á kveldið mælti Geirríður við Gunnlaug: "Það vildi eg að þú færir eigi heim í kveld því að margir eru marlíðendur. Eru og oft flögð í fögru skinni en mér líst nú eigi sem hamingjusamlegast á þig."
Gunnlaugur svarar: "Eigi mun mig saka," segir hann, "er við erum tveir saman."
Hún svarar: "Ekki gagn mun þér að Oddi verða enda muntu sjálfur gjalda einræðis þíns."
Síðan gengu þeir út, Gunnlaugur og Oddur, og fóru þar til er þeir komu í Holt. Katla var þá komin í rekkju sína. Hún bað Odd bjóða Gunnlaugi þar að vera.
Hann sagðist það gert hafa "og vill hann heim fara," segir hann.
"Fari hann þá sem hann hefir fyrir sér gert," segir hún.
Gunnlaugur kom eigi heim um kveldið og var um rætt að hans skyldi leita fara en eigi varð af.
Um nóttina er Þorbjörn sá út fann hann Gunnlaug son sinn fyrir dyrum. Lá hann þar og var vitlaus. Þá var hann borinn inn og dregin af honum klæði. Hann var allur blóðrisa um herðarnar en hlaupið holdið af beinunum. Lá hann allan veturinn í sárum og var margrætt um hans vanheilsu. Flutti það Oddur Kötluson að Geirríður mun hafa riðið honum, segir að þau hefðu skilið í stuttleikum um kveldið og það hugðu flestir menn að svo væri.
Þetta vor um stefnudaga reið Þorbjörn í Mávahlíð og stefndi Geirríði um það að hún væri kveldriða og hún hefði valdið meini Gunnlaugs. Málið fór til Þórsnessþings og veitti Snorri goði Þorbirni mági sínum en Arnkell goði varði málið fyrir Geirríði systur sína. Tylftarkviður átti um að skilja en hvorgi þeirra Snorra né Arnkels þótti bera mega kviðinn fyrir hleyta sakir við sækjanda og varnaraðilja. Var þá Helgi Hofgarðagoði kvaddur tylftarkviðar, faðir Bjarnar, föður Gests, föður Skáld-Refs.
Arnkell goði gekk að dómi og vann eið að stallahring að því að Geirríður hafði eigi valdið meini Gunnlaugs. Þórarinn vann eið með honum og tíu menn aðrir. En eftir það bar Helgi af kviðinn og ónýttist málið fyrir þeim Snorra og Þorbirni og fengu þeir af þessu óvirðing.
17. kafliÁ þessu þingi deildu þeir Þorgrímur Kjallaksson og synir hans við Illuga svarta um mund og heimanfylgju Ingibjargar Ásbjarnardóttur, konu Illuga, er Tin-Forni hafði átt að varðveita.
Um þingið voru stormar miklir svo að engi maður mátti koma til þingsins af Meðalfellsströnd. Hamlaði það mjög afla Þorgríms að frændur hans komu eigi.
Illugi hafði hundrað manna og einvalalið og hélt hann fram málunum en Kjalleklingar gengu að dóminum og vildu upp hleypa. Var þá þröng mikil. Áttu menn þá hlut í að skilja þá. Kom þá svo að Tin-Forni greiddi féið að tölum Illuga.
Svo kvað Oddur skáld í Illugadrápu:
- Vestr var þröng á þingi
- Þórsness, með hug stórum
- höppum studdr þar er hodda
- hjálmraddar stafr kvaddi.
- Snarráðan kom síðan,
- sætt var ger með hætti,
- Forna sjóðs und fæði
- farmr dólgsvölu barma.
Eftir það létti upp storminum og komu Kjalleklingar vestan af ströndinni. Vildi Þorgrímur Kjallaksson þá eigi halda sættina og veitir þeim Illuga atgöngu. Tókst þar þá bardagi. Snorri goði bað sér þá manna til meðalgöngu og komu á griðum með þeim. Þar féllu þrír menn af Kjalleklingum en fjórir af Illuga. Styr Þorgrímsson vó þar tvo menn.
Svo segir Oddur í Illugadrápu:
- Drótt gekk sýnt á sættir
- svellendr en þar fellu
- þremja svells fyr þolli
- þrír andvöku randa
- áðr kynfrömuðr kæmi
- kvonar hreggs við seggi,
- frægt gerðist það fyrða
- forráð, griðum, Snorri.
Illugi þakkaði Snorra goða sína liðveislu og bauð honum fyrir fé en hann kveðst eigi vildu laun fyrir hina fyrstu liðveislu. Þá bauð Illugi honum heim með sér og það þá Snorri og fékk hann þá góðar gjafir. Voru þeir Snorri og Illugi þá vinir um hríð.
18. kafliÞetta sumar andaðist Þorgrímur Kjallaksson en Vermundur mjóvi sonur hans tók þá við búi í Bjarnarhöfn. Hann var vitur maður og stundar heilráður.
Styr hafði þá og búið um hríð undir Hrauni inn frá Bjarnarhöfn. Hann var vitur maður og harðfengur. Hann átti Þorbjörgu, dóttur Þorsteins hreggnasa. Þorsteinn og Hallur voru synir þeirra. Ásdís hét dóttir þeirra, drengileg kona og heldur skapstór. Styr var héraðríkur og hafði fjölmennt mjög. Hann átti sökótt við marga menn því að hann vó mörg víg en bætti engi.
Þetta sumar kom út skip í Salteyrarósi og áttu hálft norrænir menn. Hét Björn stýrimaður þeirra. Hann fór til vistar á Eyri til Steinþórs. Hálft skipið áttu suðureyskir menn og hét Álfgeir stýrimaður þeirra. Hann fór til vistar í Mávahlíð til Þórarins svarta og félagi hans með honum er Nagli hét, mikill maður og fóthvatur. Hann var skoskur að kyni.
Þórarinn átti víghest góðan á fjalli. Þorbjörn digri átti og stóðhross mörg saman er hann lét standa í fjallhögum og valdi af hross um haustum til sláturs.
Þetta haust gerðist það til tíðinda að eigi fundust hross Þorbjarnar og var víða leitað en haustið var heldur veðurhart.
Í öndverðan vetur sendi Þorbjörn Odd Kötluson suður um heiði undir Hraun. Þar bjó sá maður er Spá-Gils hét. Hann var framsýnn og eftirrýningamaður mikill um stuldi eða þá hluti aðra er hann vildi forvitnast.
Oddur spyr hvort hrossum Þorbjarnar höfðu stolið útlendir menn eða utanhéraðsmenn eða nábúar hans.
Spá-Gils svarar: "Segðu svo Þorbirni sem eg mæli að eg hygg að hross hans muni eigi langt gengin úr högum þeirra en vant er á menn að kveða og er betra að missa síns en stór vandræði hljótist af."
En er Oddur kom til Fróðár virtu þeir Þorbjörn sem Spá-Gils hefði nokkurar sneiðir stungið Máhlíðingum um mál þessi. Sagði Oddur og að hann hafði svo mælt að þeir væru líkastir til hrossatöku er sjálfir voru févana og höfðu þó aukið hjónum úr því sem vandi var til. Í þessum orðum þótti Þorbirni kveðið á Máhlíðinga.
Eftir þetta reið Þorbjörn heiman við tólfta mann. Hallsteinn sonur hans var þar í för en Ketill kappi, annar sonur hans, var þá utanlands. Þar var Þórir, sonur Arnar af Arnarhvoli, nábúi Þorbjarnar, hinn röskvasti maður. Oddur Kötluson var í þessi ferð. En er þeir komu í Holt til Kötlu færði hún Odd son sinn í kyrtil móbrúnan er hún hafði þá nýgert.
Síðan fóru þeir í Mávahlíð og var Þórarinn og heimamenn í dyrum úti er þeir sáu mannferðina. Þeir kvöddu Þorbjörn og spurðu tíðinda.
Síðan mælti Þorbjörn: "Það er vort erindi hingað Þórarinn," segir hann, "að vér leitum eftir hrossum þeim er stolin voru frá mér í haust. Viljum vér hér beiða rannsóknar hjá yður."
Þórarinn svarar: "Er rannsókn þessi nokkuð með lögum upp tekin eða hafið þér nokkura lögsjáendur til kvadda að skynja þetta mál eða viljið þér nokkur grið selja oss í rannsókn þessi eða hafið þér nokkuð víðara farið til rannsóknar?"
Þorbjörn svarar: "Ekki ætlum vér að víðar þurfi þessa rannsókn að fremja."
Þórarinn svarar: "Þá viljum vér þverlega þessar rannsóknar synja ef þér viljið aflaga eftir leita og upp hefja."
Þorbjörn svarar: "Þá munum vér það fyrir satt hafa að þú sért sannur að sökinni er þú vilt þig eigi láta undan bera með rannsókninni."
"Gerið það sem yður líkar," segir Þórarinn.
Eftir það setti Þorbjörn dyradóm og nefndi sex menn í dóm. Síðan sagði Þorbjörn fram sökina á hendur Þórarni um hrossatökuna.
Þá gekk Geirríður út í dyrnar og sá hvað er títt var og mælti: "Of satt er það er mælt er að meir hefir þú Þórarinn kvenna skap en karla er þú skalt þola Þorbirni digra hverja skömm og eigi veit eg hví eg á slíkan son."
Þá mælti Álfgeir stýrimaður: "Veita munum vér þér allt það er vér megum hvað sem þú vilt upp taka."
Þórarinn svarar: "Eigi nenni eg nú lengur hér að standa."
Eftir þetta hlaupa þeir Þórarinn út og vilja hleypa upp dóminum. Þeir voru sjö saman og sló þegar í bardaga. Þórarinn vó húskarl Þorbjarnar en Álfgeir annan. Þar féll og húskarl Þórarins. Ekki festi vopn á Oddi Kötlusyni.
Auður húsfreyja hét á konur að skilja þá og köstuðu þær klæðum á vopn þeirra.
Eftir það gengur Þórarinn inn og hans menn en þeir Þorbjörn riðu í brott og sneru áður málum til Þórsnessþings. Þeir riðu upp með voginum og bundu sár sín undir stakkgarði þeim er Korngarður heitir.
Í túninu í Mávahlíð fannst hönd þar sem þeir höfðu barist og var sýnd Þórarni. Hann sá að þetta var konuhönd. Hann spurði hvar Auður var. Honum var sagt að hún lá í sæng sinni. Þá gekk hann til hennar og spurði hvort hún var sár. Auður bað hann ekki um það hirða en hann varð þó vís að hún var handhöggin. Kallar hann þá á móður sína og bað hana binda sár hennar.
Þá gekk Þórarinn út og þeir félagar og runnu eftir þeim Þorbirni. Og er þeir áttu skammt til garðsins heyrðu þeir mælgi til þeirra Þorbjarnar og tók Hallsteinn til orða og mælti: "Af sér rak Þórarinn ragmælið í dag."
"Djarflega barðist hann," segir Þorbjörn, "en margir verða vaskir í einangrinum þó að lítt séu vaskir þess í milli."
Oddur svarar: "Þórarinn mun vera hinn röskvasti maður en slys mun það þykja er hann henti þá er hann hjó höndina af konu sinni."
"Var það satt?" segir Þorbjörn.
"Satt sem dagur," segir Oddur.
Þá hljópu þeir upp og gerðu að þessu mikla sköll og hlátur.
Í þessu komu þeir Þórarinn eftir og varð Nagli skjótastur. En er hann sá að þeir ofruðu vopnunum glúpnaði hann og hljóp umfram og í fjallið upp og varð að gjalti.
Þórarinn hljóp að Þorbirni og hjó með sverði í höfuðið og klauf ofan í jaxla. Eftir það sótti Þórir Arnarson að Þórarni við þriðja mann. Hallsteinn sótti Álfgeir við annan mann. Oddur Kötluson sótti félaga Álfgeirs við annan mann. Þrír förunautar Þorbjarnar sóttu tvo menn Þórarins og var bardagi þessi sóttur með miklu kappi.
Þeirra skipti fóru svo að Þórarinn hjó fót af Þóri þar er kálfi var digrastur en drap báða förunauta hans. Hallsteinn féll fyrir Álfgeiri sár til ólífis en er Þórarinn var laus rann Oddur Kötluson við þriðja mann. Hann var eigi sár því að eigi festi vopn á kyrtli hans. Allir lágu eftir aðrir förunautar þeirra. Látnir voru og báðir húskarlar Þórarins.
Þeir Þórarinn tóku hesta þeirra Þorbjarnar og ríða þeim heim og sáu þeir þá hvar Nagli hljóp hið efra um hlíðina. Og er þeir komu í túnið sáu þeir að Nagli var kominn fram um garðinn og stefndi inn til Búlandshöfða. Þar fann hann þræla Þórarins tvo er ráku sauði úr höfðanum. Hann segir þeim fundinn og liðsmun hver var. Kallaðist hann víst vita að Þórarinn og hans menn voru látnir og í því sáu þeir að menn riðu heiman eftir vellinum. Þá tóku þeir Þórarinn að hleypa því að þeir vildu hjálpa Nagla að hann hlypi eigi á sjó eða fyrir björg.
Og er þeir Nagli sjá að mennirnir riðu æsilega hugðu þeir að Þorbjörn mundi þar fara. Tóku þeir nú rás af nýju allir inn til höfðans og runnu þar til er þeir koma þar sem nú heitir Þrælaskriða. Þar fengu þeir Þórarinn tekið Nagla því að hann var nálega sprunginn af mæði en þrælarnir hljópu þar fyrir ofan og fram af höfðanum og týndust sem von var því að höfðinn er svo hár að allt hefir bana það sem þar fer ofan.
Síðan fóru þeir Þórarinn heim og var Geirríður í dyrum og spyr þá hve farist hefir. Þórarinn kvað þá vísu:
- Varði eg mig þar er myrðir
- morðfárs vega þorði,
- hlaut örn af ná neyta
- nýjum, kvenna frýju.
- Barkat vægð að vígi
- valnaðrs í styr þaðra.
- Mæli eg hól fyr hæli
- hjaldrsgoðs af því sjaldan.
Geirríður svarar: "Segið þér víg Þorbjarnar?"
Þórarinn kvað:
- Knátti hjör und hetti,
- hræflóð, bragar Móða,
- rauk um sóknar sæki,
- slíðrbeittr staðar leita.
- Blóð féll, en var voði
- vígtjalds náar skaldi,
- þá var dæmisalr dóma
- dreyrafullr, um eyru.
"Tekið hefir þá brýningin," sagði Geirríður, "og gangið inn og bindið sár yður." Og svo var.
Nú er að segja frá Oddi Kötlusyni. Hann fór þar til er hann kom til Fróðár og sagði þar tíðindin. Lét Þuríður húsfreyja safna þá mönnum og fara eftir líkunum en flytja heim sára menn. Þorbjörn var í haug lagður en Hallsteinn sonur hans var græddur. Þórir af Arnarhvoli var og græddur og gekk við tréfót síðan. Því var hann kallaður Þórir viðleggur. Hann átti Þorgrímu galdrakinn. Þeirra synir voru þeir Örn og Valur, drengilegir menn.
19. kafliEina nótt var Þórarinn heima í Mávahlíð. En um morguninn spyr Auður Þórarinn hvert ráð hann ætlar fyrir sér "vildum vér eigi úthýsa þér," segir hún, "en hrædd er eg að hér séu fleiri settir dyradómarnir í vetur því að eg veit að Snorri goði mun ætla að mæla eftir Þorbjörn mág sinn."
Þá kvað Þórarinn:
- Myndit vitr í vetri
- vekjandi mig sekja,
- þar á eg lífhvötuð leyfðan,
- löngráns, um þær vánir,
- ef niðbræði næðag
- nás valfallins ásar,
- Hugins létum nið njóta
- nágrundar, Vermundi.
Þá mælti Geirríður: "Það er nú ráðlegast að leita að slíkum tengdamönnum sem Vermundur er eða Arnkell bróðir minn."
Þórarinn svarar: "Meiri von að hvortveggja þurfi áður lýkur þessum málum en þar munum vér þó fyrst á treysta er Vermundur er."
Og þann sama dag riðu þeir allir er að vígum höfðu verið inn um fjörðu og komu í Bjarnarhöfn um kveldið og gengu inn er menn voru komnir í sæti.
Vermundur heilsar þeim og rýmdi þegar öndvegið fyrir þeim Þórarni. En er þeir höfðu niður sest þá spurði Vermundur tíðinda.
Þórarinn kvað:
- Skal eg þrymviðum þremja,
- þegi her meðan, segja,
- von er ísarns ásum
- örleiks, frá því görla
- hvé hjaldrviðir héldu,
- haldendr, við mig, skjaldar,
- roðinn sá eg Hrundar handa
- hnigreyr, löngum, dreyra.
"Hvað er þar frá að segja mágur?" segir Vermundur.
Þórarinn kvað:
- Sóttu heim, þeir er hættu,
- hjör-Nirðir mig, fjörvi.
- Gnýljómi beit geymi
- geira stígs að vígi.
- Svo görðum vér sverða
- sókn-miðjungar Þriðja,
- sleitka líknar leiki
- lostigr, fáa kosti.
Guðný systir hans nam staðar á gólfinu og mælti: "Hefir þú nokkuð varið þig nú frýjuorðinu þeirra út þar?"
Þórarinn kvað:
- Urðum vér að verja,
- varð ár drifin sára,
- hrafn naut hræva, Gefnar
- hjaldrskýja mig frýju,
- þá er við hjálm á hólmi
- hrein míns föður sveini,
- þaut andvaka unda
- unnr, benlækir runnu.
Vermundur mælti: "Brátt þykir mér sem þér hafið við ást."
Þórarinn kvað:
- Knáttu hjálmi hættar
- hjaldrs á mínum skjaldi
- Þrúðar vangs hins þunga
- þings spámeyjar singva
- þá er bjúgröðull bógar
- baugs fyr óðaldraugi,
- Gjöll óx vopns á völlum,
- varð blóðdrifinn Fróða.
Vermundur mælti: "Hvort vissu þeir nú hvort þú varst karlmaður eða kona?"
Þórarinn kvað:
- Reka þóttumk eg, Rakna,
- remmiskóðs við Móða,
- kunnfáka hné kennir,
- klámorð af mér borða,
- hvatki er Hildar götva,
- hrafn sleit af ná beitu,
- síks við sína leiku
- sælingr um það mælir.
Eftir það segir Þórarinn tíðindin. Þá spurði Vermundur: "Hví fórstu þá eftir þeim? Þótti þér eigi ærið að orðið hið fyrra sinn?"
Þórarinn kvað:
- Kveðin man, Hrofts, að heiftum,
- hyrskerðir, mér verða,
- kunni eg áðr fyr Enni,
- ylgteiti, vel beita,
- er lútviðir létu
- lækendr, þeir er skil flækja,
- eggjum hófs, að hjöggag
- Hlín guðvefjar mína.
"Vorkunn var það," segir Vermundur, "að þú stæðist það eigi. En hversu gáfust þér þeir hinir útlensku menn?"
Þórarinn kvað:
- Nágöglum fékk Nagli
- nest dálega flestum.
- Kafsunnu réð kennir
- klökkr í fjall að stökkva.
- Heldr gekk hjálmi faldinn,
- hjaldrs, að vopna galdri,
- þurði eldr of aldir,
- Álfgeir af hvöt meiri.
"Bar Nagli sig eigi allvel?" kvað Vermundur.
Þórarinn kvað.
- Grátandi rann gætir
- geira stígs frá vígi.
- Þar varat grímu geymi
- góð von friðar honum
- svo að merskyndir myndi,
- men-skiljandi, vilja,
- hugði bjóðr á bleyði
- bifstaups, á sjó hlaupa.
Og er Þórarinn hafði verið um nótt í Bjarnarhöfn þá mælti Vermundur: "Eigi mun þér mér þykja fara mikilmannlega mágur um liðveisluna við þig. Eg ber eigi traust á að taka við yður svo að eigi gangi fleiri menn í þetta vandræði. Og munum vér ríða inn í dag á Bólstað og finna Arnkel frænda þinn og vita hvað hann vill veita oss því að mér sýnist Snorri goði þungur í eftirmálinu."
"Þér skuluð ráða," segir Þórarinn.
Og er þeir voru á leið komnir kvað Þórarinn:
- Muna munum vér að vorum
- Vermundr glaðir stundum,
- auðar þöll, áðr ollum
- auðvarpaðar dauða.
- Nú séumk hitt, að hlaupa,
- hör-Gerðr, munum verða,
- leið erum randa rauðra
- regn, fyr prúðum þegni.
Þessu veik hann til Snorra goða. Þeir Vermundur og Þórarinn riðu inn á Bólstað og fagnaði Arnkell þeim vel og spyr að tíðindum.
Þórarinn kvað:
- Var til hreggs að hyggja
- hrafn-víns á bæ mínum,
- þurði eldr of aldir,
- ugglegt, Munins tuggu
- þá er á fyrða fundi
- frán víkinga mána
- lind beit, lögðis kindir
- liðu Högna vé gögnum.
Arnkell spyr eftir atburðum um tíðindi þau er Þórarinn sagði. Og er hann hafði frá sagt sem var, þá mælti Arnkell: "Reiðst hefir þú nú frændi, svo hógvær maður sem þú ert."
Þórarinn kvað:
- Hétu hirðinjótar
- haukaness til þessa,
- heftandi var eg heiftar,
- hóglífan mig drífu.
- Oft kemr, alnar leiftra
- ævifús, úr dúsi,
- nú kná jörð til orða,
- æðiregn, að fregna.
"Verða kann það," segir Arnkell, "en það vil eg við þig mæla, Þórarinn frændi, að þú ver með mér þar til er lýkur málum þessum á nokkurn hátt. En þó að eg gerist nokkuð gerkólfur í þessu boði þá vil eg það við þig mæla, Vermundur, að þú sért eigi við skilinn mál þessi þó að eg taki við Þórarni."
"Skylt er það," segir Vermundur, "að eg veiti Þórarni það er eg má, eigi að síður þóttú sért fyrirmaður að liðveislu við hann."
Þá mælti Arnkell: "Það er mitt ráð að vér sitjum hér í vetur allir saman samtýnis við Snorra goða."
Og svo gerðu þeir að Arnkell hafði fjölmennt um veturinn. Var Vermundur ýmist í Bjarnarhöfn eða með Arnkatli. Þórarinn hélt hinum sömum skapshöfnum og var löngum hljóður.
Arnkell var híbýlaprúður og gleðimaður mikill. Þótti honum og illa ef aðrir voru eigi jafnglaðir sem hann og ræddi oft um við Þórarin að hann skyldi vera kátur og ókvíðinn, lést hafa spurt að ekkjan að Fróðá bæri vel af sér harmana "og mun henni hlæglegt þykja ef þér berið yður eigi vel."
Þórarinn kvað:
- Skalat öldrukkin ekkja,
- eg veit að gat beitu
- hrafn af hræva efni,
- hoppfögr af því skoppa
- að hjördöggvar hyggjag,
- hér er fjón komin ljóna,
- haukr unir hörðum leiki
- hræva stríðs, á kvíðu.
Þá svarar einn heimamaður Arnkels: "Eigi veistu fyrr en í vor er lokið er Þórsnessþingi hversu einhlítur þú verður þér í málunum."
Þórarinn kvað:
- Láta hitt að hljóta
- haldendr munum skjaldar,
- sækjum ráð und ríkjan,
- rómusamt úr dómi
- nema Arnketill órum
- orðgóðr við lof þjóðar,
- vel trúi eg grímu geymi
- galdrs, sakmálum haldi.
20. kafliGeirríður húsfreyja í Mávahlíð sendi þau orð inn á Bólstað að hún var þess vís orðin að Oddur Kötluson hafi höggið höndina af Auði, kallaðist hafa til þess orð hennar sjálfrar og svo kvað hún Odd hafa því hælst fyrir vinum sínum.
Og er þeir Þórarinn og Arnkell heyrðu þetta riðu þeir heiman við tólfta mann út til Mávahlíðar og voru þar um nótt.
En um morguninn riðu þeir út í Holt og er sén ferð þeirra úr Holti. Þar var eigi karla fyrir fleira en Oddur.
Katla sat á palli og spann garn. Hún bað Odd sitja hjá sér "og ver hljóður og kyrr."
Hún bað konur sitja í rúmum sínum "og verið hljóðar," kvað hún, "en eg mun hafa orð fyrir oss."
Og er þeir Arnkell komu gengu þeir inn þegar og er þeir komu í stofu heilsaði Katla Arnkatli og spurði að tíðindum. Arnkell kvaðst engi segja og spyr hvar Oddur sé. Katla kvað hann farinn suður til Breiðavíkur "og mundi hann eigi forðast fund þinn ef hann væri heima því að vér treystum þér vel um drengskapinn."
"Vera má það," segir Arnkell, "en rannsaka viljum vér hér."
"Það skal sem yður líkar," segir Katla og bað matselju bera ljós fyrir þeim og lúka upp búri "það eitt er hús læst á bænum."
Þeir sáu að Katla spann garn af rokki. Nú leita þeir um húsin og finna eigi Odd og fóru brott eftir það.
Og er þeir komu skammt frá garðinum nam Arnkell staðar og mælti: "Hvort mun Katla eigi hafa héðni veift um höfuð oss? Og hefir þar verið Oddur sonur hennar er oss sýndist rokkurinn."
"Eigi er hún ólíkleg til," segir Þórarinn, "og förum aftur." Þeir gerðu svo.
Og er sást úr Holti að þeir hurfu aftur, þá mælti Katla við konur: "enn skuluð þér sitja í rúmum yðrum en við Oddur munum fram ganga."
En er þau koma fram um dyr gekk hún í öndina gegnt útidyrum og kembir þar Oddi syni sínum og sker hár hans.
Þeir Arnkell hljópu inn í dyrnar og sáu hvar Katla var og lék að hafri sínum og jafnaði topp hans og skegg og greiddi flóka hans.
Þeir Arnkell gengu í stofu og sáu hvergi Odd. Lá þar rokkur Kötlu í bekknum. Þóttust þeir þá vita að Oddur mundi eigi þar hafa verið, gengu síðan út og fóru í brott.
En er þeir koma nær því sem fyrr hurfu þeir aftur þá mælti Arnkell: "Ætlið þér eigi að Oddur hafi verið í hafurslíkinu?"
"Eigi má vita," segir Þórarinn. "En ef vér hverfum nú aftur þá skulum vér hafa hendur á Kötlu."
"Freista munum vér enn," segir Arnkell, "og vita hvað í gerist," og snúa enn aftur.
En er sén var ferðin bað Katla Odd ganga með sér. En er þau koma út gekk hún til öskuhaugs og bað Odd leggjast niður undir hauginn "og ver þar hvað sem í gerist."
En er þeir Arnkell komu á bæinn hljópu þeir inn og til stofu og sat Katla á palli og spann. Hún heilsar þeim og kvað þá þykkfarið gera. Arnkell kvað það satt.
Förunautar hans tóku rokkinn og hjuggu í sundur.
Þá mælti Katla: "Eigi er nú það heim að segja í kveld að þér hafið eigi erindi haft hingað í Holt er þér hjugguð rokkinn."
Síðan gengu þeir Arnkell og leituðu Odds úti og inni og sáu ekki kvikt utan túngölt einn, er Katla átti, er lá undir haugnum og fóru brott eftir það.
Og er þeir koma miðleiðis til Mávahlíðar kom Geirríður í móti þeim og verkamaður hennar með henni og spurði hversu þeim hefði farist. Þórarinn sagði henni.
Hún kvað þá hafa varleitað hans Odds "og vil eg enn að þér hverfið aftur og mun eg fara með yður og mun eigi mega með laufsegli að sigla þar sem Katla er."
Síðan snúa þeir aftur. Geirríður hafði blá skikkju yfir sér. Og er ferð þeirra var sén úr Holti er Kötlu sagt að nú væru fjórtán menn saman og einn í litklæðum.
Þá mælti Katla: "Mun Geirríður tröllið þar komin og mun þá eigi sjónhverfingum einum mega við koma."
Stóð hún þá upp af pallinum og tók hægindin undan sér. Var þar hlemmur undir og holur innan pallurinn. Lét hún Odd þar í koma og bjó um sem áður og settist á ofan og kvað sér vera heldur kynlegt.
En er þeir koma í stofu þá varð eigi að kveðjum með þeim. Geirríður varp af sér skikkjunni og gekk að Kötlu og tók selbelg er hún hafði haft með sér og færði hann á höfuð Kötlu. Síðan bundu förunautar þeirra að fyrir neðan. Þá bað Geirríður brjóta upp pallinn. Var Oddur þar fundinn og síðan bundinn.
Eftir það voru þau færð inn til Búlandshöfða og var Oddur þar hengdur.
Og er hann spornar gálgann mælti Arnkell til hans: "Illt hlýtur þú af þinni móður. Kann og vera að þú eigir illa móður."
Katla mælti: "Vera má víst að hann eigi eigi góða móður en eigi hlýtur hann af því illt af mér að eg vildi það. En það væri vilji minn að þér hlytuð allir illt af mér. Vænti eg og að það mun svo vera. Skal nú og eigi leyna yður því að eg hefi valdið meini Gunnlaugs Þorbjarnarsonar er þessi vandræði hafa öll af hlotist. En þú Arnkell," segir hún, "mátt eigi af þinni móður illt hljóta er þú átt enga á lífi en um það vildi eg að mín ákvæði stæðust að þú hlytir því verra af föður þínum en Oddur hefir af mér hlotið sem þú hefir meira í hættu en hann. Vænti eg og að það sé mælt áður lýkur að þú eigir illan föður."
Eftir það börðu þeir Kötlu grjóti í hel þar undir höfðanum. Síðan fóru þeir í Mávahlíð og voru þar um nóttina en riðu heim eftir um daginn. Spurðust nú þessi tíðindi öll jafnsaman og var engum harmsaga í. Líður nú svo veturinn.
21. kafliEftir um vorið var það einn dag að Arnkell kallar á tal við sig Þórarin frænda sinn, Vermund og Álfgeir og spurði hver liðveisla þeim þætti vinveittust við sig, hvort þeir færu til þings "og kostum að því allra vina vorra," segir hann. "Kann vera að þá sé annaðhvort að menn sættist og mun yður það verða féskylt að bæta þá menn alla er þar létust eða fyrir sárum urðu. Það kann og vera ef á þingreiðina er hætt að vandræðin aukist ef málin eru með ofurkappi varin. Hinn er annar kostur," segir hann, "að leggja á allan hug að þér komist utan með lausafé yðvart en þá leikist um lönd sem auðið er, þau sem eigi verða seld."
Þeirrar liðveislu var Álfgeir fúsastur. Þórarinn kvaðst og eigi sjá efni sín til að bæta sakir þær allar með fé er gerst höfðu í þessum málum. Vermundur kvaðst eigi mundu skilja við Þórarin, hvort er hann vildi að hann færi utan með honum eða veita honum vígsgengi hér á landi. En Þórarinn kaus að Arnkell veitti þeim til utanferðar.
Síðan var maður sendur út á Eyri til Bjarnar stýrimanns að hann skyldi allan hug á leggja að búa skip þeirra sem fyrst mátti hann.
22. kafliNú skal segja frá Snorra goða að hann tók við eftirmáli um víg Þorbjarnar mágs síns. Hann lét og Þuríði systur sína fara heim til Helgafells því að sá orðrómur lék á að Björn, sonur Ásbrands frá Kambi, vendi þangað komur sínar til glapa við hana. Snorri þóttist og sjá allt ráð þeirra Arnkels, þegar hann spurði skipbúnaðinn, að þeir mundu eigi ætla fébótum uppi að halda eftir vígin við það að engar voru sættir boðnar af þeirra hendi. En þó var kyrrt allt framan til stefnudaga.
En er sá tími kom safnar Snorri mönnum og reið inn í Álftafjörð með átta tigu manna því að það voru þá lög að stefna heiman vígsök svo að vegendur heyrðu eða að heimili þeirra og kveðja eigi búa til fyrr en á þingi.
En er ferð þeirra Snorra var sén af Bólstað þá ræddu menn um hvort þegar skyldi sæta áverkum við þá því að fjölmennt var fyrir.
Arnkell segir að eigi skal það vera "og skal þola Snorra lög," segir hann og kvað hann það eitt að gera svo búið er nauðsyn rak til.
Og er Snorri kom á Bólstað voru þar engi áköst með mönnum. Síðan stefndi Snorri Þórarni til Þórsnessþings og þeim öllum er að vígum höfðu verið. Arnkell hlýddi vel stefnunni. Eftir það riðu þeir Snorri í brott og upp til Úlfarsfells.
Og er þeir voru á brott farnir kvað Þórarinn vísu:
- Erat sem gráps fyr glæpi,
- grund fagrvita mundar,
- fúra fleygiáru
- frænings lögum ræni
- ef sannvitendr sunnu,
- sé eg þeira lið meira,
- oss megni goð gagni,
- Gauts þekju mig sekja.
Snorri goði reið upp um háls til Hrísa og svo til Drápuhlíðar og um morguninn út til Svínavatns og svo til Hraunsfjarðar og þaðan, sem leið liggur, út til Tröllaháls og létti eigi ferðinni fyrr en við Salteyrarós. En er þeir komu þar varðveittu sumir Austmennina en sumir brenndu skipið og riðu þeir Snorri goði svo heim, að þetta allt var gert.
Arnkell spyr þetta, að Snorri hefir brennt skipið. Þá gengu þeir á skip Vermundur og Þórarinn með nokkura menn og reru vestur um fjörð til Dögurðarness. Þar stóð skip uppi er Austmenn áttu. Þeir Arnkell og Vermundur keyptu það skip og gaf Arnkell Þórarni hálft skipið en Vermundur bjó sinn hluta. Þeir fluttu skipið út í Dímun og bjuggu þar. Sat Arnkell þar við til þess er þeir voru búnir og fór síðan með þeim út um Elliðaey og skildu þar með vináttu. Sigldu þeir Þórarinn á haf en Arnkell fór heim til bús síns og lagðist sá orðrómur á að þessi liðveisla þætti hin skörulegasta.
Snorri goði fór til Þórsnessþings og hélt fram málum sínum. Varð Þórarinn þar sekur og allir þeir er að vígum höfðu verið en eftir þingið heimti Snorri sér slíkt er hann fékk af sektarfé og lauk svo þessum málum.
23. kafliVigfús sonur Bjarnar Óttarssonar bjó í Drápuhlíð sem fyrr segir. Hann átti Þorgerði Þorbeinisdóttur. Hann var gildur bóndi og ódældarmaður mikill. Með honum var á vist systursonur hans er Björn hét. Hann var örorður maður og ógegn.
Um haustið eftir Máhlíðingamál fundust stóðhross Þorbjarnar digra á fjalli og hafði hesturinn eigi haldið högum fyrir hesti Þórarins og hafði fennt hrossin og fundust öll dauð.
Þetta sama haust áttu menn rétt fjölmenna í Tungu milli Laxá upp frá Helgafelli. Þangað fóru til réttar heimamenn Snorra goða. Var Már Hallvarðsson föðurbróðir Snorra fyrir þeim. Helgi hét sauðamaður hans. Björn frændi Vigfúss lá á réttargarðinum og hafði fjallstöng í hendi. Helgi dró sauði. Björn spurði hvað sauð það væri er hann dró. En er að var hugað þá var mark Vigfúss á sauðnum.
Björn mælti: "Slundasamlega dregur þú sauðina í dag Helgi."
"Hættara mun yður það," segir Helgi, "er sitjið í afrétt manna."
"Hvað mun þjófur þinn vita til þess," segir Björn og hljóp upp við og laust hann með stönginni svo að hann féll í óvit.
Og er Már sá þetta brá hann sverði og hjó til Bjarnar og kom á höndina upp við öxl og varð það mikið sár. Eftir það hljópu menn í tvo staði en sumir gengu í milli og skildu þá svo að eigi varð fleira til tíðinda þar.
Um morguninn eftir reið Vigfús ofan til Helgafells og beiddi bóta fyrir vansa þenna en Snorri sagði að hann kveðst eigi mun gera þeirra atburða er þar höfðu orðið. Þetta líkaði Vigfúsi illa og skildu þeir með hinum mesta styttingi.
Um vorið bjó Vigfús áverkamálið til Þórsnessþings en Snorri drepið til óhelgi við Björn og urðu þau málalok að Björn varð óheilagur af frumhlaupinu við Helga og fékk engar bætur fyrir áverkann en hann bar í fatla höndina jafnan síðan.
24. kafliÁ þessu sama þingi sóttu þeir Þorgestur hinn gamli og synir Þórðar gellis Eirík hinn rauða um víg sona Þorgests er látist höfðu um haustið þá er Eiríkur sótti setstokkana á Breiðabólstað og var þetta þing allfjölmennt. Þeir höfðu áður haft setur fjölmennar.
Eiríkur bjó um þingið skip sitt til hafs í Eiríksvogi í Öxnaey og veittu þeir Eiríki Þorbjörn Vífilsson og Víga-Styr og synir Þorbrands úr Álftafirði og Eyjólfur Æsuson úr Svíney. en Styr einn var á þinginu liðveislumanna Eiríks og dró alla menn undan Þorgesti þá er hann mátti.
Styr beiddi þá Snorra goða að hann skyldi eigi fara að Eiríki eftir þingið með Þorgestlingum og hét Snorra í mót að hann mun veita honum í annað sinn þó að hann eigi vandræði að halda. Og fyrir þessi heit Styrs leiðir Snorri hjá sér þessi málaferli.
En eftir þingið fóru þeir Þorgestur með mörgum skipum inn í eyjar en Eyjólfur Æsuson leyndi skipi Eiríks í Dímunarvogi og komu þeir Styr og Þorbjörn þar til móts við Eirík. Gerðu þeir Eyjólfur og Styr þá eftir dæmum Arnkels að þeir fylgdu Eiríki á sinni ferju hvor þeirra út um Elliðaey.
Í þeirri ferð fann Eiríkur rauði Grænland og var þar þrjá vetur og fór síðan til Íslands og var þar einn vetur áður hann fór að byggja Grænland. En það var fjórtán vetrum fyrir kristni lögtekna á Íslandi.
25. kafliNú er að segja frá þeim Vermundi og Þórarni svarta að þeir komu af hafi norður við Þrándheimsmynni og héldu inn í Þrándheim. Þá réð Hákon jarl Sigurðarson fyrir Noregi og fór Vermundur til jarls og gerðist honum handgenginn.
Þórarinn fór vestur um haf þegar um haustið með Álfgeiri og gaf Vermundur þeim sinn hlut í skipinu og er Þórarinn eigi við þessa sögu héðan af.
Hákon jarl sat að Hlöðum um veturinn. Vermundur var með honum í kærleikum. Var jarl vel til hans því að hann vissi að Vermundur var stórættaður út hér.
Með jarli voru bræður tveir, sænskir að ætt. Hét annar Halli en annar Leiknir. Þeir voru menn miklu meiri og sterkari en í þann tíma fengjust þeirra jafningjar í Noregi eða víðara annars staðar. Þeir gengu berserksgang og voru þá eigi í mannlegu eðli er þeir voru reiðir og fóru galnir sem hundar og óttuðust hvorki eld né járn. En hversdaglega voru þeir eigi illir viðureignar ef eigi var í móti þeim gert en þegar hinir mestu örskiptamenn er þeim tók við að horfa. Eiríkur hinn sigursæli Svíakonungur hafði sent jarli berserkina og setti varnað á að hann skyldi gera vel til þeirra og sagði sem var að hið mesta fullting mátti að þeim verða ef til yrði gætt skapsmuna þeirra.
Um vorið er Vermundur hafði verið einn vetur með jarli þá fýstist hann til Íslands og bað jarl gefa sér orlof til þeirrar ferðar.
Jarl bað hann fara sem hann vildi og bað hann hugsa um áður "ef nokkurir eru þeir hlutir í mínu valdi, aðrir meir en aðrir, er þú vilt þiggja þér til framkvæmdar en báðum okkur til sæmdar og virðingar."
En er Vermundur hugsaði eftir hverra hluta hann skal af jarli beiðast þá kom honum í hug að honum mundi mikillar framkvæmdar afla á Íslandi ef hann hefði slíka eftirgöngumenn sem berserkirnir voru. Og staðfestist það í skapi hans að hann mundi leita eftir ef jarlinn vildi fá honum berserkina til eftirgöngu. En það bar til er hann beiddist þessa að honum þótti Styr bróðir sinn mjög sitja yfir sínum hlut og hafa ójafnað við sig sem flesta aðra þá er hann fékk því við komið. Hugði hann að Styr mundir þykja ódælla við sig að eiga ef hann hefði slíka fylgdarmenn sem þeir bræður voru.
Nú segir Vermundur jarli að hann vill þann sóma af honum þiggja að hann gefi honum til trausts og fylgdar berserkina.
Jarl svarar: "Þar beiddist þú þess er mér sýnist að þér muni engi nytsemd í verða þó að eg veiti þér. Hygg eg að þeir verði þér stirðir og skapstórir þegar er þér kaupist við. Hygg eg það flestum bóndasonum ofurefli að stýra þeim eða halda hræddum þó að þeir hafi mér hlýðnir verið í sinni þjónustu."
Vermundur kvaðst mundu til hætta að taka við þeim ef jarl vildi gefa þá í hans vald. Jarl bað hann leita fyrst við berserkina ef þeir vildu honum fylgja.
Hann gerði svo, leitaði ef þeir vildu fara með honum til Íslands og veita honum fylgd og sporgöngu en hann hét í mót að gera vel til þeirra um þá hluti er þeim þætti sig varða og þeir kynnu honum til að segja.
Berserkirnir kváðust eigi hafa sett hug sinn eftir að fara til Íslands. Létust þeir og eigi vita von þar þeirra höfðingja er þeim þætti sér hent að þjóna "en ef þú kostgæfir svo mjög Vermundur að við skulum fara til Íslands með þér máttu svo ætla að við munum því illa kunna ef þú veitir okkur eigi slíkt er við beiðum ef þú hefir föng á."
Vermundur kvað það og eigi vera skyldu. Eftir það fékk hann jáyrði af þeim að fara með sér til Íslands ef það væri jarls vilji og samþykki.
Nú segir Vermundur jarli hvar þá var komið.
Jarl veitti þá úrskurð að berserkirnir skulu fara með honum til Íslands "ef þér þykir það þín sæmd mest ger," en bað hann svo hugsa að honum mundi fjandskapur í þykja ef hann lýkur illa við þá svo sem þeir eru nú á hans vald komnir.
En Vermundur kvaðst eigi mundu þurfa til þess að taka. Eftir það fór Vermundur til Íslands með berserkina og varð vel reiðfara og kom heim í Bjarnarhöfn til bús síns hið sama sumar sem Eiríkur rauði fór til Grænlands, sem fyrr er ritað.
Brátt er Vermundur kom heim vakti Halli berserkur til þess við Vermund að hann mundi fá honum kvonfang mjög sæmilegt. En Vermundur þóttist eigi vita von þeirrar konu af góðum ættum er sig mundi binda við berserk né sín forlög og hafði Vermundur undandrátt um þetta mál. En er Halli fann það sló hann á sig úlfúð og illsku og fór þá allt í þverúð með þeim. Gerðu berserkir sig stóra og ómjúka við Vermund. Tók Vermundur þá að iðrast að hann hafði berserkina á hendur tekist.
Um haustið hafði Vermundur boð mikið og bauð Arnkatli goða til sín og Eyrbyggjum og Styr bróður sínum. Og er boðinu var lokið bauð Vermundur að gefa Arnkatli berserkina og kallar það best henta, en hann vill eigi þiggja. Þá leitar Vermundur ráðs við Arnkel hversu hann skal af sér koma þessu vandræði en hann lagði það til að hann skyldi gefa Styr, kallar honum best fallið að hafa slíka menn fyrir sakir ofsa og ójafnaðar.
Og er Styr var brott búinn gekk Vermundur að honum og mælti: "Nú vildi eg bróðir að við legðum niður fæð þá er með okkur var áður eg fór utan en við tækjum upp holla frændsemi með góðri vináttu og þar með vil eg gefa þér menn þá er eg hefi út flutt þér til styrktar og fylgdar og veit eg eigi þeirra manna von að traust muni til hafa að stríða við þig ef þú hefir slíka sporgöngumenn sem þeir eru."
Styr svarar: "Vel vil eg því taka frændi að batni frændsemi okkur en þá eina frétt hefi eg til þessa manna er þú hefir út flutt að það mun heldur vera vandræðatak en menn muni framkvæmd eða auðnu af þeim hljóta. Nú vil eg aldrei að þeir komi í mín híbýli því að ærnar eru mínar óvinsældir þó að eg hljóti eigi vandræði af þeim."
"Hvert ráð gefur þú þá til frændi," segir Vermundur, "að eg komi þessu vandræði af mér?"
"Annað mál er það," sagði Styr, "að eg leysi vandræði þitt en hitt að þiggja menn þessa af þér í vingjöf og það vil eg eigi. En vandræði þitt er engi maður jafnskyldur að leysa sem eg ef okkur þykir einn veg báðum."
En þó að Styr mælti svo um þá kaus Vermundur að Styr tæki við berserkjunum og skilja þeir bræður nú með kærleik.
Fór Styr þá heim og berserkirnir með honum og voru þeir þess eigi fúsir í fyrstu og kalla Vermund eigi eiga að selja sig né gefa sem ánauðga menn en þó kalla þeir nær sínu skapi að fylgja Styr en Vermundi. Og fóru þeirra skipti mjög líklega fyrst.
Þá voru berserkirnir með Styr er hann fór vestur um fjörð að drepa Þorbjörn kjálka er bjó í Kjálkafirði. Hann átti lokrekkju sterka gerva af timburstokkum og brutu berserkirnir þegar upp svo að af gengu nafarnar fyrir utan, en þó varð Styr banamaður Þorbjarnar kjálka.
26. kafliÞað haust er berserkirnir komu til Styrs varð það til tíðinda að Vigfús í Drápuhlíð fór til kolgerðar þangað sem heita Seljabrekkur og með honum þrælar hans þrír. Einn hét Svartur hinn sterki.
Og er þeir komu í skóginn mælti Vigfús: "Allmikill harmur er það, og svo mun þér þykja Svartur, er þú skalt vera ánauðigur maður svo sem þú ert sterkur og drengilegur að sjá."
"Víst þykir mér mikið mein að því," segir hann, "en eigi er mér það sjálfrátt."
Vigfús mælti: "Hvað viltu til vinna að eg gefi þér frelsi?"
"Eigi má eg það með fé kaupa, því að eg á ekki, en þá hluti er eg má mun eg enga til spara."
Vigfús mælti: "Þú skalt fara til Helgafells og drepa Snorra goða en eftir það skaltu sannlega fá frelsi þitt og þar með góða kosti er eg skal veita þér."
"Því mun eg eigi til leiðar koma," segir Svartur.
"Eg skal ráð til setja," segir Vigfús, "það er þetta skal framkvæmt verða mannhættulaust."
"Heyra vil eg það," segir Svartur.
"Þú skalt fara til Helgafells og ganga í loft það er þar er yfir útidyrum og rýma fjalir í gólfinu svo að þú fáir þar lagt atgeiri í gegnum. En þá er Snorri gengur til kamars þá skaltu leggja atgeirinum í gegnum loftsgólfið í bak Snorra svo fast að út gangi um kviðinn, hlaup síðan út á ræfrið og svo ofan fyrir vegginn og lát náttmyrkrið gæta þín."
Og með þessu ráði fór Svartur til Helgafells og rauf ræfrið yfir útidyrum og gekk þar inn í loftið. Það var í þann tíma er þeir Snorri sátu við málelda.
Í þann tíma voru útikamrar á bæjum. En er þeir Snorri gengu frá eldinum ætluðu þeir til kamarsins og gekk Snorri fyrstur og bar undan út í dyrnar áður tilræðið Svarts varð. En Már Hallvarðsson gekk næst Snorra og lagði Svartur atgeirinum til hans og kom lagið á herðarblaðið og renndi út undir höndina og skar þar út og varð það eigi mikið sár.
Svartur hljóp út og ofan fyrir vegginn. Honum varð hált á brústeinunum og féll hann fall mikið er hann kom niður og fékk Snorri tekið hann áður hann stóð upp. Voru þá hafðar af honum sannar sögur og sagði hann þá allt hversu farið hafði með þeim Vigfúsi og svo það að hann er að kolbrennu undir Seljabrekkum. Síðan var bundið sár Más.
Eftir það fóru þeir Snorri sjö saman út til Drápuhlíðar. Sáu þeir, þá er þeir koma upp í hlíðina, eldinn er þeir Vigfús brenndu kolin. Þeir komu að þeim Vigfúsi óvörum og drápu Vigfús en gáfu grið húskörlum hans. Síðan fór Snorri heim en húskarlar Vigfúss sögðu þessi tíðindi heim í Drápuhlíð. Vigfús var heygður eftir um daginn.
Þann sama dag fór Þorgerður kona Vigfúss inn á Bólstað að segja Arnkatli frænda sínum og bað hann taka við eftirmáli um víg Vigfúss. En Arnkell veik því af sér og kvað það koma til Kjalleklinga frænda hans og vísaði hann þessu máli helst á Styr, segir hans vera að mæla eftir Vigfús frænda sinn með því að hann vildi þó í mörgu starfa.
Þormóður Trefilsson kvað vísu þessa um víg Vigfúss:
- Felldi fólksvaldi
- fyrst hins gullbyrsta
- velti valgaltar,
- Vigfús þann hétu.
- Slíta þar síðan
- sára benskárar
- bráð af böð-Nirði,
- Bjarnar arfnytja.
27. kafliEftir þetta fór Þorgerður út undir Hraun og bað Styr mæla eftir Vigfús frænda sinn.
Hann svarar: "Því hét eg Snorra goða í vor þá er hann sat hjá málum vorum Þorgestlinga að eg skyldi eigi með fjandskap ganga í mót honum um þau mál er margir væru jafnnær sem eg. Nú máttu sækja Vermund bróður minn að þessu máli eða aðra frændur vora."
Eftir það fór hún út til Bjarnarhafnar og beiddi Vermund liðveislu og kallar honum vandast um "því að Vigfús trúði þér best af öllum sínum frændum."
Vermundur svarar: "Skyldur er eg hér nokkuð gott til að leggja en eigi nenni eg að ganga í þetta vandræði fyrir aðra frændur vora. En vera skal eg aðveitandi bæði með framkvæmd og ráðum, slíkt er eg fæ að gert. Vil eg fyrst að þú farir út á Eyri og finnir Steinþór frænda Vigfúss. Honum er nú léttvígt og er mál að hann reyni sig í nokkurs konar málaferlum."
Þorgerður svarar: "Mikið gerið þér mér fyrir þessu máli en eigi mundi eg mitt erfiði til spara ef til framkvæmdar yrði."
Síðan fór hún út á Eyri og fann Steinþór og bað hann gerast formann eftirmælis þessa.
Steinþór svarar: "Hví beiðir þú mig þessa? Eg er ungur maður og átt eigi hlut að málum manna en frændur Vigfúss, þeir er honum eru nánari en eg, eru meiri uppivöðslumenn en eg. Er og þess engi von að eg taki þetta mál fyrir hendur þeim en eigi mun eg skiljast við frændur mína þá er eftir þessu máli eiga að sjá."
Fékk Þorgerður þar eigi önnur svör. Fór hún eftir það inn yfir fjörðu á fund Vermundar og sagði honum hvar þá var komið, kvað allt sitt mál fyrir borði verða nema hann gerðist skörungur fyrir þessu máli.
Vermundur svarar: "Meiri von er að reki verði að ger þessum málum þér til hugganar. Skal eg þó til leggja enn ráð með þér ef þú vilt þér að fylgja."
Hún svarar: "Flesta hluti mun eg til þess vinna."
"Nú skaltu heim fara," sagði Vermundur, "og láta upp grafa Vigfús bónda þinn. Tak síðan höfuð hans og fær Arnkatli og seg honum svo að þetta höfuð mundi eigi við aðra meta að mæla eftir hann ef þess þyrfti við."
Þorgerður kvaðst eigi vita hvar þessu máli mundi koma en sjá kvaðst hún að þeir spörðu hana eigi til erfiðis og skaprauna "en til mun eg þetta vinna," segir hún, "ef þá yrði þyngri hlutur óvina minna en áður."
Eftir það fór hún heim og hafði þessa meðferð alla sem henni var kennd. Og er hún kom á Bólstað segir hún Arnkatli að frændur Vigfúss vildu að hann gerðist fyrirmaður að eftirmáli um víg Vigfúss en þeir hétu allir sinni liðsemd. Arnkell kvaðst sagt hafa áður hversu honum var gefið um þetta mál.
Þá brá Þorgerður höfðinu undan skikkju sinni og mælti: "Hér er nú það höfuð er eigi mundi undan teljast að mæla eftir þig ef þess þyrfti við."
Arnkatli brá mjög við þetta og hratt henni frá sér og mælti: "Far brott," segir hann, "og seg svo frændum Vigfúss að þeir skjöplist eigi meir í liðveislunni móti Snorra goða en eg mun í fyrirvist málanna. En svo segir mér hugur um hversu sem þetta mál fer að fyrr leggi þeir undir land en eg. En sé eg að þetta eru ráð Vermundar er þú ferð nú með en eigi mun hann þurfa að eggja mig fram hvar sem við mágar erum staddir."
Síðan fór Þorgerður heim. Leið veturinn. En um vorið bjó Arnkell mál um víg Vigfúss á hendur þeim mönnum öllum er til vígs höfðu farið nema Snorra goða en Snorri lét til búa fjörráðamál við sig og áverkamál Más til óhelgi Vigfúsi og fjölmenntu hvorirtveggju til Þórsnessþings og veittu allir Kjalleklingar Arnkatli og urðu þeir fjölmennari. Hélt Arnkell fram þessum málum með mikilli freku.
Og er málin komu í dóm gengu menn að og voru málin í gerð lagin með umgangi og sættarboðum góðgjarnra manna og kom svo að Snorri goði gekk til handlaga fyrir víg Vigfúss og voru þá gervar miklar fésektir. En Már skyldi vera utan þrjá vetur. En Snorri galt fé upp og lauk svo þinginu að þar var sæst á öll mál.
28. kafliNú gerðist það næst til tíðinda, sem fyrr er ritað, að berserkir voru með Styr. Og er þeir höfðu þar verið um hríð slóst Halli á tal við Ásdísi dóttur Styrs. Hún var ung kona og sköruleg, ofláti mikill og heldur skapstór.
En er Styr fann tal þeirra þá bað hann Halla eigi gera sér svívirðing eða skapraun í því að glepja dóttur hans.
Halli svarar: "Það er þér engi svívirðing þó að eg tali við dóttur þína. Vil eg það og eigi gera til vanvirðu við þig. Er þér það skjótt af að segja að eg hefi svo mikinn ástarhug til hennar fellt að eg fæ það eigi úr hug mér gert. Nú vil eg," segir Halli, "leita eftir staðfastri vináttu við þig og biðja að þú giftir mér Ásdísi dóttur þína en þar í mót vil eg leggja mína vináttu og trúlega fylgd og svo mikinn styrk með krafti Leiknis bróður míns að á Íslandi skal eigi fást jafnmikil frægð í tveggja manna fylgd sem við skulum þér veita. Skal og okkur framkvæmd meir styrkja þinn höfðingskap en þó að þú giftir dóttur þína þeim bónda er mestur er í Breiðafirði. Skal það þar í mót koma að við erum eigi fésterkir. En ef þú vilt hér engan kost á gera þá mun það skilja vora vináttu. Munu þá og hvorir verða að fara með sínu máli sem líkar. Mun þá og raunlítið tjóa að vanda um tal okkart Ásdísar."
En er hann hafði þetta mælt þá þagnaði Styr og þótti nokkur vandi á svörum og mælti er stund leið: "Hvort er þessa leitað með alhuga eða er þetta orðaframkast og málaleitan?"
"Svo skaltu svara," segir Halli, "sem þetta sé eigi hégómatal og mun hér öll vor vinátta undir felast hversu þessu máli verður svarað."
Styr mælti: "Þá vil eg þetta mál tala við vini mína og taka ráð af þeim hversu þessu skal svara."
Halli mælti: "Þetta mál skaltu tala við þá menn er þér líkar, innan þriggja nátta. Vil eg eigi þessi svör láta draga fyrir mér lengur því að eg vil eigi vera vonbiðill þessa ráðs."
Og eftir þetta skildu þeir.
Um morguninn eftir reið Styr inn til Helgafells. Og er hann kom þar bauð Snorri honum þar að vera en Styr kvaðst tala vilja við hann og ríða síðan. Snorri spurði ef hann hefði nokkur vandamál að tala.
"Svo þykir mér," sagði Styr.
Snorri svarar: "Þá skulum við ganga upp á Helgafell. Þau ráð hafa síst að engu orðið er þar hafa ráðin verið."
"Þér skuluð slíku ráða," sagði Styr.
Síðan gengu þeir á fjallið upp og sátu þar á tali allt til kvelds. Vissi það engi maður hvað þeir töluðu. Síðan reið Styr heim.
Um morguninn eftir gengu þeir Halli á tal. Spyr Halli Styr hvern stað eiga skal hans mál.
Styr svarar: "Það er mál manna að þú þykir heldur félítill eða hvað skaltu til þessa vinna með því að þú hefir eigi fé fram að leggja?"
Halli svarar: "Til mun eg vinna það er eg má en eigi tek eg þar fé er eigi er til."
Styr svarar: "Sé eg," sagði hann, "að það mun þér mislíka ef eg gifti þér eigi dóttur mína. Nú mun eg gera sem fornir menn að eg mun láta þig vinna til ráðahags þessa þrautir nokkurar."
"Hverjar eru þær?" segir Halli.
"Þú skalt ryðja," segir Styr, "götu yfir hraunið út til Bjarnarhafnar og leggja hagagarð yfir hraunið mill landa vorra og gera byrgi hér fyrir innan hraunið. En að þessum hlutum fram komnum mun eg gifta þér Ásdísi dóttur mína."
Halli svarar: "Eigi er eg vanur til vinnu en þó mun eg undir þetta játtast ef eg skal þá auðveldlega komast að ráðahagnum."
Styr kvað þá þessu kaupa mundu.
Eftir þetta tóku þeir að ryðja götuna og er það hið mesta mannvirki. Þeir lögðu og garðinn sem enn sér merki. Og eftir það gerðu þeir byrgið.
En meðan þeir voru að þessu verki lét Styr gera baðstofu heima undir Hrauni og var grafin í jörð niður og var gluggur yfir ofninum, svo að utan mátti á gefa, og var það hús ákaflega heitt.
Og er lokið var mjög hvorutveggja verkinu, var það hinn síðasta dag er þeir voru að byrginu, þá gekk Ásdís Styrsdóttir hjá þeim en það var nær bænum. Hún hafði tekið sinn besta búnað. En er þeir Halli mæltu við hana svarar hún engu.
Þá kvað Halli vísu þessa:
- Hvert hafið, Gerðr, of görva,
- gangfögr liðar hanga,
- ljúg vætr að mér, leygjar,
- línbundin, för þína,
- því að í vetr, hin vitra,
- vangs, sákat þig ganga,
- hirðidís, frá húsi,
- húns, skrautlegar búna.
Þá kvað Leiknir:
- Sólgrund Siggjar linda
- sjaldan hefr of faldið
- jafnhátt, öglis stéttar
- elds nú er skart á þellu.
- Hoddgrund, hvað býr undir,
- Hlín, oflæti þínu,
- hýrmælt, hóti fleira,
- hvítings, en vér lítum?
Eftir þetta skildi með þeim. Berserkirnir gengu heim um kveldið og voru móðir mjög sem háttur er þeirra manna sem eigi eru einhama að þeir verða máttlausir mjög er af þeim gengur berserksgangurinn.
Styr gekk þá í mót þeim og þakkaði þeim verk og bað þá fara í bað og hvíla sig eftir það. Þeir gerðu svo. Og er þeir komu í baðið lét Styr byrgja baðstofuna og bera grjót á hlemminn er var yfir forstofunni en hann lét breiða niður nautshúð hráblauta hjá uppganginum. Síðan lét hann gefa utan á baðið í glugg þann er yfir var ofninum. Var þá baðið svo heitt að berserkirnir þoldu eigi í baðinu og hljópu á hurðirnar. Fékk Halli brotið hlemminn og komst upp og féll á húðinni. Veitti Styr honum á banasár. En er Leiknir vildi hlaupa upp úr dyrunum lagði Styr í gegnum hann og féll hann inn í baðstofuna og lést þar. Síða lét Styr veita umbúnað líkum þeirra. Voru þeir færðir út í hraunið og kasaðir í dal þeim er þar er í hrauninu er svo djúpur að engan hlut sér úr nema himin yfir sig. Það er við sjálfa götuna. Yfir grefti berserkjanna kvað Styr vísu:
- Sýndist mér sem myndi
- móteflandar spjóta
- Ála ekki dælir
- Él-herðöndum verða.
- Uggi eg eigi seggja
- ofrgang of mig strangan.
- Nú hefr bilgrönduðr brandi
- berserkjum stað merktan.
En er Snorri goði spyr þetta reið hann út undir Hraun og sátu þeir Snorri og Styr enn allan dag. En af tali þeirra kom það upp að Styr fastnaði Snorra goða Ásdísi dóttur sína og tókust þessi ráð um haustið eftir og var það mál manna að hvortveggja þótti vaxa af þessum tengdum. Var Snorri goði ráðagerðarmaður meiri og vitrari en Styr atgöngumeiri. Báðir voru þeir frændmargir og fjölmennir innan héraðs.
29. kafliÞóroddur hét maður. Hann var ættaður af Meðalfellsströnd, skilgóður maður. Hann var farmaður mikill og átti skip í ferðum. Þóroddur hafði siglt kaupferð vestur til Írlands, til Dyflinnar.
Í þann tíma hafði Sigurður jarl Hlöðvésson í Orkneyjum herjað til Suðureyja og allt vestur í Mön. Hann lagði gjald á Manarbyggðina. Og er þeir höfðu sæst setti jarl eftir menn að bíða skattsins en hann var mest goldinn í brenndu silfri. En jarl sigldi þá undan norður til Orkneyja.
En er þeir voru seglbúnir er skattsins biðu tóku þeir útsunnanveður. Og er þeir höfðu siglt um stund gekk veður til landsuðurs og austurs og gerði storm mikinn og bar þá norður um Írland og brutu þar skipið í spón við ey eina óbyggða. Og er þeir voru þar að komnir bar þar að þeim Þórodd Íslending er hann sigldi úr Dyflini. Jarlsmenn kölluðu á kaupmenn til hjálpar sér. Þóroddur lét skjóta báti og gekk þar á sjálfur. En er þeir fundust hétu jarlsmenn á Þórodd til hjálpar sér og buðu honum fé til að hann flytti þá heim til Orkneyja á fund Sigurðar jarls en Þóroddur þóttist það eigi mega er hann var áður búinn til Íslandsferðar. En þeir skoruðu á hann fast því að þeim þótti við liggja fé sitt og frelsi að þeir væru eigi upp leiddir á Írland eða Suðureyjar þar sem þeir höfðu áður herjað. Og svo kom að hann seldi þeim bátinn frá hafskipinu og tók þar við mikinn hlut af skattinum. Héldu þeir síðan bátinum til Orkneyja en Þóroddur sigldi bátlaust til Íslands og kom sunnan að landinu. Hélt hann síðan vestur fyrir og sigldi inn á Breiðafjörð og kom með heilu í Dögurðarnes og fór um haustið til vistar með Snorra goða til Helgafells. Hann var síðan kallaður Þóroddur skattkaupandi.
Þetta var litlu eftir víg Þorbjarnar digra. Þann vetur var að Helgafelli Þuríður, systir Snorra goða, er Þorbjörn digri hafði átt.
Litlu eftir það er Þóroddur kom út hafði hann uppi orð sín og bað Snorra goða að hann gifti sér Þuríði systur sína. En með því að hann var auðigur að fé og Snorri vissi góð skil á honum og hann sá að hún þurfti mjög forvistu, við þetta allt saman sýndist Snorra að gifta honum konuna og veitti hann brúðkaup þeirra um veturinn þar að Helgafelli. En um vorið eftir tók Þóroddur við búi að Fróðá og gerðist hann góður bóndi og skilríkur.
En þegar Þuríður kom til Fróðár vandi Björn Ásbrandsson þangað komur sínar og var það alþýðumál að með þeim Þuríði væru fíflingar. Tók Þóroddur þá að vanda um komur hans og hafði eigi að sök.
Þá bjó Þórir viðleggur að Arnarhvoli. Voru synir hans þá vaxnir, Örn og Valur, og voru hinir efnilegustu menn. Þeir lögðu Þóroddi til ámælis að hann þoldi Birni slíka skömm sem hann veitti honum og buðust þeir til fylgdar með Þóroddi ef hann vildi ráða bætur á komum Bjarnar.
Það var eitt sinn að Björn kom til Fróðár að hann sat á tali við Þuríði. En Þóroddur var jafnan vanur inni að sitja þá er Björn var þar en nú sést hann hvergi.
Þuríður mælti: "Hugsa þú svo um ferðir þínar Björn," sagði hún, "að eg hygg Þóroddur ætli nú af að ráða hingaðkomur þínar og get eg að þeir hafi farið á veg fyrir þig og mun hann ætla að þér skulið eigi jafnliða finnast."
Þá kvað Björn vísu þessa:
- Guls mundum við vilja
- viðar og blás í miðli,
- grand fæ eg af stoð stundum
- strengs, þenna dag lengstan,
- alls í aftan, þella,
- eg tegumk sjálfr að drekka
- oft horfinnar erfi,
- armlinns, gleði minnar.
Eftir það tók Björn vopn sín og gekk í brott og ætlar heim. En er hann kom upp um Digramúla hljópu upp fyrir honum fimm menn. Þar var Þóroddur, húskarlar hans tveir og synir Þóris viðleggs. Þeir veittu Birni atgöngu en hann varðist vel og drengilega. Gengu þeir fastast að Þórissynir. Þeir veittu honum áverka en hann varð banamaður beggja þeirra.
Eftir það leitaði Þóroddur undan með húskarla sína og var sár lítt en þeir ekki.
Björn gekk leið sína þar til er hann kom heim og gekk til stofu og bað húsfreyja griðkonu að vinna honum beina. Og er hún kom í stofu með ljós þá sá hún að Björn var blóðugur mjög. Gekk hún þá fram og sagði Ásbrandi föður hans að Björn var blóðugur heim kominn. Gekk Ásbrandur í stofu og spurði hann hví Björn var blóðugur "eða hafið þið Þóroddur fundist?"
Björn svarar og segir að svo var. Ásbrandur spurði hversu farið hefðu viðskipti þeirra. Björn kvað:
- Munat hyrlesti hraustum
- hríðar mér að stríða,
- heldr hef eg vígi valdið
- Viðleggs sona tveggja,
- sem vígbalkar válki
- valdr geymi-Bil falda
- eða dalsveigi deigum
- Draupnis skatt að kaupa.
Síðan batt Ásbrandur sár hans og varð hann græddur að heilu.
Þóroddur sótti Snorra goða að eftirmáli um víg Þórissona og lét Snorri búa mál til Þórsnessþings en synir Þorláks á Eyri veittu Breiðvíkingum að málum þessum. Og urðu þær málalyktir að Ásbrandur gekk til handsala fyrir Björn son sinn og hélt upp fébótum fyrir vígin en Björn var sekur ger utan um þrjá vetur og fór hann í brott samsumars.
Það sama sumar fæddi Þuríður að Fróðá sveinbarn og var nefndur Kjartan. Óx hann upp heima að Fróðá og var snemma mikill og efnilegur.
En er Björn kom um haf fór hann suður til Danmarkar og þaðan suður til Jómsborgar. Þá var Pálna-Tóki fyrir Jómsvíkingum. Björn gekk þar í lög þeirra og var þar kappi kallaður. Hann var þá í Jómsborg er Styrbjörn hinn sterki vann hana. Björn fór og til Svíþjóðar er Jómsvíkingar veitu Styrbirni. Hann var og í orustunni á Fýrisvöllum þá er Styrbjörn féll og komst þaðan á skóg með öðrum Jómsvíkingum. Og meðan Pálna-Tóki lifði var Björn með honum og þótti hinn besti drengur og hinn hraustasti í öllum mannraunum.
30. kafliNú skal segja frá Þórólfi bægifót. Hann tók nú að eldast fast og gerðist illur og æfur við ellina og mjög ójafnaðarfullur. Lagðist og mjög ómjúkt á með þeim Arnkatli feðgum.
Það var einn dag að Þórólfur reið inn til Úlfarsfells að finna Úlfar bónda. Hann var forverksmaður góður og tekinn til þess að honum hirðist skjótar hey en öðrum mönnum. Hann var og svo fésæll að fé hans dó aldrei af megri eða drephríðum.
En er þeir Þórólfur fundust spurði Þórólfur hvert ráð Úlfar gæfi honum hversu hann skyldi haga verksháttum sínum eða hversu honum segði hugur um sumar hversu þerrisamt vera mundi.
Úlfar svarar: "Eigi kann eg þér annað ráð að kenna en sjálfum mér. Eg mun láta bera út ljá í dag og slá undir sem mest má þessa viku alla því að eg hygg að hún muni verða regnsöm en eg get að eftir það mun verða gott til þerra hinn næsta hálfan mánuð."
Fór þetta svo sem hann sagði því að það fannst oft á að hann kunni gerr veður að sjá en aðrir menn.
Síðan fór Þórólfur heim. Hann hafði með sér mart verkmanna. Lét hann nú og þegar taka til engiverka. Veður fór þannig sem Úlfar hafði sagt.
Þeir Þórólfur og Úlfar áttu engi saman upp á hálsinn. Þeir slógu fyrst hey mikið hvorirtveggju. Síðan þurrkuðu þeir og færðu í stórsæti.
Það var einn morgun snemma að Þórólfur stóð upp. Sá hann þá út. Var veður þykkt og hugði hann að glepjast mundi þerririnn. Bað hann þræla sína upp standa og aka saman heyi og bað þá að vinna sem mest um daginn "því að mér sýnist veður eigi trúlegt."
Þrælarnir klæddust og fóru til heyverks en Þórólfur hlóð heyinu og eggjaði á fast um verkið að sem mest gengi fram.
Þenna morgun sá Úlfar út snemma og er hann kom inn spurðu verkmenn að veðri. Hann bað þá sofa í náðum "veður er gott," sagði hann, "og mun skína af í dag. Skuluð þér slá í töðu í dag en vér munum annan dag hirða hey vort, það er vér eigum upp á hálsinn."
Fór svo um veðrið sem hann sagði. Og er á leið kveld sendi Úlfar mann upp á hálsinn að sjá um andvirki sitt það er þar stóð. Þórólfur lét aka þrennum eykjum um daginn og höfðu þeir hirt heyið að nóni það er hann átti. Þá bað hann þá aka heyi Úlfars í garð sinn. Þeir gerðu sem hann mælti. En er sendimaður Úlfars sá það hljóp hann og sagði Úlfari.
Úlfar fór upp á hálsinn og var óður mjög og spyr hví Þórólfur rændi sig. Þórólfur kvaðst eigi hirða hvað hann sagði og var málóði og illur viðureignar og hélt þeim við áhöld. Sá Úlfar þá engan sinn kost annan en verða á brottu.
Fer Úlfar þá til Arnkels og segir honum skaða sinn og bað hann ásjá, lést ella allur mundu fyrir borði verða. Arnkell sagðist mundu beiða föður sinn bóta fyrir heyið en kvað sér þó þungt hug segja um að nokkuð mundi að sök hafa.
Og er þeir feðgar fundust bað Arnkell föður sinn bæta Úlfari heytökuna en Þórólfur kvað þræl þann helsti auðgan. Arnkell bað hann gera fyrir sín orð og bæta honum heyið. Þórólfur kveðst ekki gera þar fyrir nema versnaði hlutur Úlfars og skildust þeir við það.
En er Arnkell fann Úlfar segir hann honum hversu Þórólfur hefir svarað. Það fannst á Úlfari að honum þótti sem Arnkell hefði lítt fylgt málinu og kvað hann ráða slíku við föður sinn ef hann vildi. Arnkell galt Úlfari fyrir heyið slíkt verð sem honum líkaði. Og er þeir feðgar fundust í annað sinn heimti Arnkell enn heyverð að föður sínum en Þórólfur lét eigi batna um svörin og skildu þeir þá reiðir. Um haustið eftir lét Arnkell reka af fjalli yxn sjö er Þórólfur faðir hans átti og lét drepa alla í bú sitt. Þetta líkaði Þórólfi stórilla og heimti verð af Arnkatli en Arnkell kvað þá skyldu koma fyrir heyið Úlfars. Þá líkaði Þórólfi miklu verr en áður og kallast þetta af Úlfari hlotið hafa, kvað hann sig skyldu fyrir finna.
31. kafliÞenna vetur um jól hafði Þórólfur drykkju mikla og veitti kappsamlega þrælum sínum. En er þeir voru drukknir eggjar hann þá að fara inn til Úlfarsfells og brenna Úlfar inni og hét að gefa þeim þar til frelsi. Þrælarnir sögðust þetta mundu vinna til frelsis sér ef hann efndi orð sín. Síðan fóru þeir sex saman inn til Úlfarsfells. Tóku þeir viðköst og drógu að bænum og slógu eldi í.
Í þenna tíma sátu þeir Arnkell við drykkju á Bólstað. Og er þeir gengu til svefns sáu þeir eld til Úlfarsfells, fóru þá þegar til og tóku þrælana en slökktu eldinn. Voru þá enn lítt brennd húsin.
Um morguninn eftir lét Arnkell flytja þrælana inn í Vaðilshöfða og voru þeir þar hengdir allir. Eftir það handsalaði Úlfar Arnkatli fé sitt allt og gerðist hann þá varnaðarmaður Úlfars.
Þetta handsal líkaði illa Þorbrandssonum því að þeir þóttust eiga allt fé eftir Úlfar, leysingja sinn, og tókst af þessu fæð mikil með þeim Arnkatli og Þorbrandssonum og máttu þeir þaðan af eigi leika saman eiga. En áður höfðu þeir leikist við og var Arnkell þó sterkastur að leikum. En sá maður tók best í móti honum og var annar sterkastur er hét Freysteinn bófi og var fóstri Þorbrands og kenningarson því að það var flestra manna sögn að hann væri hans son en ambátt var móðir hans. Hann var dregilegur maður og mikill fyrir sér.
Þórólfi bægifót líkaði stórilla við Arnkel er þrælarnir voru drepnir og beiddi bóta fyrir en Arnkell synjaði þverlega að gjalda fyrir þá nokkurn pening. Líkaði Þórólfi nú verr en áður.
Það var einn dag að Þórólfur reið út til Helgafells að finna Snorra goða og bauð Snorri honum þar að vera en Þórólfur kvaðst eigi þurfa að eta mat hans "er eg því hér kominn að eg vil að þú réttir hlut minn því að eg kalla þig héraðshöfðinja og skyldan að rétta þeirra manna hlut er áður eru vanhluta."
"Fyrir hverjum liggur hlutur þinn undir, bóndi?" sagði Snorri.
"Fyrir Arnkatli syni mínum," segir Þórólfur.
Snorri mælti: "Það skaltu eigi kæra því að þér á svo hver hlutur að þykja sem honum því að hann er betri maður en þú."
"Þann veg er eigi," segir hann, "því að hann veitir mér nú mestan ágang. Vil eg nú gerast vinur þinn fullkominn, Snorri, en þú tak við eftirmálum um þræla mína er Arnkell hefir drepa látið og mun eg eigi mæla mér allar bæturnar."
Snorri svarar: "Eigi vil eg ganga í deilu með ykkur feðgum."
Þórólfur svarar: "Engi ertu vinur Arnkels. En það kann vera að þér þyki eg féglöggur en nú skal eigi það. Eg veit," sagði hann, "að þú vilt eiga Krákunes og skóginn með er mest gersemi er hér í sveit. Nú mun eg þetta allt handsala þér en þú mæl eftir þræla mína og fylg því svo skörulega að þú vaxir af en þeir þykist ofgert hafa er mig svívirtu. Vil eg og engum manni hlífa láta þeim er hér hafa hlut í átt hvort sem hann er meiri eða minni minn vandamaður."
Snorri þóttist mjög þurfa skóginn. Og er svo sagt að hann tók handsölum á landinu og tók við eftirmáli þrælanna. Reið Þórólfur síðan heim og undi vel við en þetta mæltist lítt fyrir af öðrum mönnum.
Um vorið lét Snorri búa mál til Þórsnessþings á hendur Arnkatli um þræladrápið. Fjölmenntu þeir báðir til þingsins og hélt Snorri fram málum.
Og er mál koma í dóm kvaddi Arnkell sér bjargkviðar og færði það til varna að þrælarnir voru teknir með kveiktum eldi til bæjarbrennu.
Þá færði Snorri það fram að þrælarnir voru óhelgir á þeim vettvangi "en það að þér færðuð þá inn í Vaðilshöfða og drápuð þá þar, það hygg eg að þeir væru þar eigi óhelgir."
Hélt þá Snorri fram málinu og eyddi bjargkviðnum Arnkels. Eftir það áttu menn hlut í að sætta þá og var sættum á komið. Skyldu þeir bræður gera um málið, Styr og Vermundur. Þeir dæmdu fyrir þrælana tólf aura fyrir hvern, gjaldist féið þegar á þinginu. Og er féið var goldið fékk Snorri Þórólfi sjóðinn.
Hann tók við og mælti: "Eigi ætlaði eg til þess þá er eg fékk þér land mitt að þú mundir þessu svo lítilmannlega fylgja og það veit eg að eigi mundi Arnkell þessa hafa varnað mér að eg hefði slíkar bætur fyrir þræla mína ef eg hefði undir hann lagið."
Snorri svarar: "Það kalla eg að þú sért skammlaus af þessu en eigi vil eg veðsetja virðing mína til móts við illgirni þína og ranglæti."
Þórólfur svarar: "Það er og mest von að eg sæki þig eigi oftar að málum og sofi yður þó eigi öll vá héraðsmönnum."
Eftir þetta fóru menn af þinginu og undu þeir Arnkell og Snorri illa við þessar málalyktir en Þórólfur þó verst.
32. kafliSvo er sagt að það gerðist nú til tíðinda að Örlygur á Örlygsstöðum tók sótt. Og er að honum tók að líða sat Úlfar bróðir hans yfir honum. Hann andaðist af þessi sótt.
En er Örlygur var látinn sendi Úlfar þegar eftir Arnkatli. Fór Arnkell þegar á Örlygsstaði og tóku þeir Úlfar fé allt undir sig það er þar stóð saman. En er Þorbrandssynir spurðu andlát Örlygs fóru þeir á Örlygsstaði og veittu tilkall um fé það er þar stóð saman og kalla sína eign það er leysingi þeirra hafði átt en Úlfar kvaðst arf eiga eftir bróður sinn að taka. Þeir spurðu hvern hlut Arnkell vildi að eiga. Arnkell kvað Úlfar óræntan skyldu fyrir hverjum manni meðan félag þeirra væri ef hann mætti ráða.
Fóru Þorbrandssynir þá í brott og fyrst út til Helgafells og segja Snorra goða og beiddu hann liðveislu en Snorri goði kvaðst eigi mundu þetta mál leggja í þrætur við Arnkel með því að þeim hafði svo sleppt til tekist í fyrstunni að þeir Arnkell höfðu fyrri komið höndum á féið. Þorbrandssynir kváðu hann eigi mundu meira stjórna ef hann hirti eigi um slíkt.
Þetta haust eftir hafði Arnkell inni haustboð mikið en það var vandi hans að bjóða Úlfari vin sínum til allra boða og leiða hann jafnan með gjöfum út.
Þann dag er menn skyldu frá boðinu fara af Bólstað reið Þórólfur bægifótur heiman. Hann fór að finna Spá-Gils vin sinn, hann bjó í Þórsárdal á Spá-Gilsstöðum, og bað hann ríða með sér inn á Úlfarsfellsháls. Þræll Þórólfs fór með honum.
Og er þeir komu inn á hálsinn þá mælti Þórólfur: "Þar mun Úlfar fara frá boðinu og meiri von að hann hafi gjafir sæmilegar með að fara. Nú vildi eg Spá-Gils," segir hann, "að þú færir mót honum og sætir fyrir honum undir garðinum að Úlfarsfelli og vil eg að þú drepir hann. En þar til vil eg gefa þér þrjár merkur silfurs og eg skal bótum upp halda fyrir vígið. En þá er þú hefir drepið Úlfar skaltu taka af honum gripi þá er hann hefir þegið af Arnkatli. Þú skalt hlaupa út með Úlfarsfelli til Krákuness. En ef nokkurir menn fara eftir þér, lát þá skóginn hlífa þér. Far síðan á minn fund og svo skal eg til sjá að þig skal eigi saka."
En með því að Spá-Gils var ómegðarmaður og mjög féþurfi þá tók hann við flugu þessi og fór utan undir túngarðinn að Úlfarsfelli. Sá hann þá að Úlfar gekk neðan frá Bólstað og hafði skjöld góðan er Arnkell hafði gefið honum og sverð búið. Og er þeir fundust beiddist Spá-Gils að sjá sverðið. Hann hældi Úlfari mjög og kvað hann vera göfgan mann er hann þótti þess verður að þiggja hinar sæmilegustu gjafir af höfðingjum. Úlfar vatt við skegginu og seldi honum sverðið og skjöldinn. Gils brá þegar sverðinu og lagði í gegnum Úlfar. Eftir það hljóp hann út með Úlfarsfelli til Krákuness.
Arnkell var úti staddur. Hann sá hvar maður hljóp og hafði skjöld og þóttist kenna skjöldinn. Kom honum í hug að Úlfar mundi eigi hafa skjöldinn látið sjálfráður.
Kvaddi Arnkell þá menn til að fara eftir manninum "en með því," segir hann, "að hér hafa komið fram ráð föður míns og hafi þessi maður veitt Úlfari bana, þá skuluð þér þegar drepa hann hver sem hann er og látið hann eigi koma mér í augsýn."
Þá gekk Arnkell upp til Úlfarsfells. Fundu þeir þar Úlfar dauðan. Þórólfur bægifótur sá að Spá-Gils hljóp út með Úlfarsfelli og hafði skjöld. Þóttist hann þá vita hversu farið hafði með þeim Úlfari.
Þá mælti hann við þrælinn er honum fylgdi: "Nú skaltu fara inn á Kársstaði og segja Þorbrandssonum að þeir fari til Úlfarsfells og láti nú eigi ræna sig leysingjaarfinum sem fyrr því að nú er Úlfar drepinn."
Eftir það reið Þórólfur heim og þóttist nú hafa vel sýslað. En þeir er eftir Spá-Gilsi hljópu fengu tekið hann út við klif er upp ríður úr fjörunni. Fengu þeir þá af honum sannar sögur. Og er hann hafði sagt allt sem farið hafði tóku þeir hann af lífi og kösuðu hann þar við klifið en þeir tóku gripina og færðu Arnkatli.
Þræll Þórólfs kom á Kársstaði og sagði Þorbrandssonum orðsending Þórólfs. Þá fóru þeir út til Úlfarsfells og er þeir komu þar var Arnkell þar fyrir og mart manna með honum. Þá veittu Þorbrandssynir tilkall um fé það er Úlfar hafði átt en Arnkell leiddi fram vottasögu þeirra er við voru handsal þeirra Úlfars og kvaðst það halda mundu því að hann kvað þar eigi ósáttir á hafa gengið að lögum, bað þá eigi ákall veita um fé þetta því að hann kvaðst halda mundu sem föðurarfi sínum.
Sáu Þorbrandssynir þá sinn kost að hverfa frá. Fóru þeir þá enn út til Helgafells og sögðu Snorra goða hvar þá var komið og báðu hann liðveislu.
Snorri kvað enn farið hafa sem fyrr að þeir höfðu orðið tafli seinni en Arnkell "og munuð þér", sagði hann, "eigi þrífa í hendur honum eftir þessum peningum með því að hann hefir áður tekið undir sig lausafé en löndin liggja yður öllum jafnnær og munu þeir þau hafa sem handsterkari eru. En þess er þó meiri von að Arnkell hafi hér af meira hlut sem af öðrum yðrum skiptum. Er það og satt að segja að má yður það er yfir margan gengur því að Arnkell situr nú yfir hvers manns hlut hér í héraði og mun það svo vera meðan hann lifir hvort sem það er lengur eða skemur."
Þorleifur kimbi svarar: "Satt segir þú það Snorri. Má það og kalla vorkunn að þú réttir eigi vorn hlut við Arnkel því að þú heldur engu máli til fulls við hann því er þið eigist við með ykkur að skipta."
Eftir það fóru þeir Þorbrandssynir heim og líkaði þeim allþungt.
33. kafliSnorri goði lét nú vinna Krákunesskóg og mikið að gera um skógarhöggið. Þórólfi bægifót þótti spillast skógurinn. Reið Þórólfur þá út til Helgafells og beiddi Snorra að fá sér aftur skóginn og kveðst hafa léð honum en eigi gefið. Snorri kvað það skyldu skýrra vera þá er þeir bera um er við handsalið voru, kvaðst og eigi skyldu skóginn láta nema þeir bæru af honum. Þórólfur reið þá í brott og var í allillu skapi. Hann reið þá inn á Bólstað að finna Arnkel son sinn. Arnkell fagnar vel föður sínum og spyr að erindum hans.
Þórólfur svarar: "Það er erindi mitt hingað að eg sé missmíði á að fæð er með okkur. Vildi eg að nú legðum við það niður og tækjum upp frændsemi okkra því að það er óskaplegt að við séum ósáttir því að mér þætti sem við mundum miklir verða hér í héraði við harðfengi þína en ráðagerðir mínar."
"Því betur þætti mér," segir Arnkell, "er fleira væri með okkur."
"Það vil eg," sagði Þórólfur, "að við höfum upphaf að sættargerð okkarri og vináttu að við heimtum Krákunesskóg að Snorra goða því að mér þykir það verst er hann skal sitja yfir hlut okkrum en hann vill nú eigi lausan láta skóginn fyrir mér og kallar að eg hafi gefið honum en það er lygð," segir hann.
Arnkell svarar: "Eigi gerðir þú það til vináttu við mig er þú fékkst Snorra skóginn og mun eg eigi gera það fyrir róg þitt að deila við Snorra um skóginn. En veit eg að hann hefir eigi réttar heimildir á skóginum. En eigi vil eg að þú hafir það fyrir illgirni þína að gleðjast af deilu okkarri."
"Það hygg eg," segir Þórólfur, "að meir komi þar til lítilmennska en þú sparir að eg hendi gaman að deilu ykkarri."
"Haf þú það fyrir satt sem þú vilt þar um," segir Arnkell, "en eigi mun eg svo búið deila um skóginn við Snorra."
Við þetta skildu þeir feðgar. Fór Þórólfur heim og unir stórilla sínum hlut og þykist nú eigi sinni ár fyrir borð koma.
Þórólfur bægifótur kom heim um kveldið og mælti við engan mann. Hann settist niður í öndvegi sitt og mataðist eigi um kveldið. Sat hann þar eftir er menn fóru að sofa. En um morguninn, er menn stóðu upp, sat Þórólfur þar enn og var dauður.
Þá sendi húsfreyja mann til Arnkels og bað segja honum andlát Þórólfs. Reið þá Arnkell upp í Hvamm og nokkurir heimamenn hans. Og er þeir komu í Hvamm varð Arnkell þess vís að faðir hans var dauður og sat í hásæti en fólk allt var óttafullt því að öllum þótti óþokki á andláti hans. Gekk Arnkell nú inn í eldaskálann og svo inn eftir setinu á bak Þórólfi. Hann bað hvern að varast að ganga framan að honum meðan honum voru eigi nábjargir veittar. Tók Arnkell þá í herðar Þórólfi og varð hann að kenn aflsmunar áður hann kæmi honum undir. Síðan sveipaði hann klæðum að höfði Þórólfi og bjó um hann eftir siðvenju. Eftir það lét hann brjóta vegginn á bak honum og draga hann þar út. Síðan voru yxn fyrir sleða beittir. Var Þórólfur þar í lagður og óku honum upp í Þórsárdal og var það eigi þrautarlaust áður hann kom í þann stað sem hann skyldi vera. Dysjuðu þeir Þórólf þar rammlega.
Eftir það reið Arnkell heim í Hvamm og kastaði sinni eign á fé það allt er þar stóð saman og faðir hans hafði átt. Var Arnkell þar þrjár nætur og var þessa stund tíðindalaust. Fór hann síðan heim.
34. kafliEftir dauða Þórólfs bægifóts þótti mörgum mönnum verra úti þegar er sólina lægði. En er á leið sumarið urðu menn þess varir að Þórólfur lá eigi kyrr. Máttu menn þá aldrei í friði úti vera þegar er sól settist. Það var og með að yxn þeir er Þórólfur var ekinn á urðu tröllriða, og allt fé það er nær kom dys Þórólfs ærðist og æpti til bana. Smalamaður í Hvammi kom svo oft heim að Þórólfur hafði eltan hann.
Sá atburður varð um haustið í Hvammi að hvorki kom heim smalamaður né féið og um morguninn var leita farið og fannst smalamaður dauður skammt frá dys Þórólfs. Var hann allur kolblár og lamið í hvert bein. Var hann dysjaður hjá Þórólfi en fénaður allur, sá er verið hafði í dalnum, fannst sumur dauður en sumur hljóp á fjöll og fannst aldrei. En ef fuglar settust á dys Þórólfs féllu þeir niður dauðir.
Svo gerðist mikill gangur að þessu að engi maður þorði að beita upp í dalinn. Oft heyrðu menn úti dunur miklar um nætur í Hvammi. Urðu menn og þess varir að oft var riðið skálanum. Og er vetur kom sýndist Þórólfur oft heima á bænum og sótti mest að húsfreyju. Varð og mörgum manni að þessu mein en henni sjálfri hélt við vitfirring. Svo lauk þessu að húsfreyja lést af þessum sökum. Var hún og færð upp í Þórsárdal og var dysjuð hjá Þórólfi.
Eftir þetta stukku menn burt af bænum. Tók Þórólfur nú að ganga svo víða um dalinn að hann eyddi alla bæi í dalnum. Svo var og mikill gangur að afturgöngum hans að hann deyddi suma menn en sumir stukku undan. En allir menn þeir er létust voru sénir í ferð með Þórólfi.
Kærðu menn nú þetta vandkvæði mjög. Þótti mönnum Arnkell eiga að ráða bætur á. Arnkell bauð þeim öllum til sín er það þótti vildara en vera annars staðar. En hvar sem Arnkell var staddur varð aldrei þar mein að Þórólfi og sveitungum hans. Svo voru allir menn hræddir við afturgöngur Þórólfs að engir menn þorðu að fara ferða sinna, þó að erindi ættu, um veturinn.
En er af leið veturinn voraði vel. Og er þeli var úr jörðu sendi Arnkell mann inn á Kársstaði eftir Þorbrandssonum og bað þá fara til með sér að færa Þórólf brott úr Þórsárdal og leita annars legstaðar. Jafnskylt var öllum mönnum í lögum þeirra að færa dauða menn til graftrar sem nú ef þeir eru kvaddir.
En er Þorbrandssynir heyrðu þetta kváðu þeir sér enga nauðsyn til bera að leysa vandkvæði Arnkels eða manna hans.
Þá svarar Þorbrandur karl: "Það er nauðsyn," segir hann, "að fara ferðir þær allar er mönnum eru lögskuldir til og eruð þér nú þess beiddir er þér eigið eigi að synja."
Þá mælti Þóroddur við sendimanninn: "Far þú og seg Arnkatli að eg mun fara ferð þessa fyrir oss bræður og kem eg til Úlfarsfells og finnumst þar."
Nú fór sendimaðurinn og sagði Arnkatli. Bjó hann nú ferð sína og voru þeir tólf saman. Höfðu þeir með sér eyki og graftól. Fóru þeir fyrst til Úlfarsfells og fundu þar Þórodd Þorbrandsson og voru þeir þrír saman.
Þeir fóru upp yfir hálsinn og komu í Þórsárdal og til dysjar Þórólfs, brjóta dysina og finna Þórólf þar ófúinn og var hann nú hinn illilegasti. Þeir tóku hann upp úr gröfinni og lögðu hann í sleða og beittu fyrir tvo sterka yxn og drógu hann upp á Úlfarsfellsháls og voru þá þrotnir yxnirnir og teknir aðrir og drógu hann inn á hálsinn. Ætlaði Arnkell að færa hann inn á Vaðilshöfða og jarða hann þar. En er þeir komu inn á hálsbrúnina þá ærðust yxnirnir og urðu þegar lausir og hljópu þegar af hálsinum fram og stefndu út með hlíðinni fyrir ofan garð að Úlfarsfelli og þar út til sævar og voru þá sprungnir báðir. En Þórólfur var þá svo þungur að þeir fengu hvergi komið honum talsvert. Færðu þeir hann þá á einn lítinn höfða er þar var hjá þeim og jörðuðu hann þar og heitir þar síðan Bægifótshöfði.
Lét Arnkell síðan leggja garð um þveran höfðann fyrir ofan dysina svo hávan að eigi komst yfir nema fugl fljúgandi og sér enn þess merki. Lá Þórólfur þar kyrr alla stund meðan Arnkell lifði.
35. kafliSnorri goði lét vinna Krákunesskóg allt að einu þó að Þórólfur bægifótur hefði um vandað en það fannst á Arnkatli goða að honum þótti eigi að lögum farið hafa heimildartakan á skóginum. Þótti honum Þórólfur hafa gert arfskot í því er hann hafði fengið Snorra goða skóginn.
Það var eitt sumar er Snorri sendi þræla sína að vinna skóginn og hjuggu þeir timbur mart og hlóðu saman og fóru heim eftir það. En er timbrið þornaði lét Arnkell sem hann mundi heim bera timbrið en það varð þó eigi en þó bað hann smalamann sinn verða varan við þá er Snorri léti sækja timbrið og segja sér. En er þurr var viðurinn sendi Snorri þræla sína þrjá að sækja viðinn. Hann fékk til Hauk, fylgdarmann sinn, að fylgja þrælunum til styrks við þá. Fóru þeir síðan og bundu timbrið á tólf hesta, sneru síðan heim á leið.
Smalamaður Arnkels varð var við ferð þeirra og segir Arnkatli. Hann tók vopn sín og reið eftir þeim og gat farið þá út frá Svelgsá, milli og Hóla, og þegar hann kemur eftir þeim hljóp Haukur af baki og lagði til Arnkels með spjóti, kom það í skjöldinn og varð hann eigi sár. Þá hljóp Arnkell af baki og lagði til Hauks með spjóti og kom það á hann miðjan og féll hann þar sem nú heitir Hauksá.
Og er þrælarnir sáu fall Hauks tóku þeir á rás og hljópu heim á leið og elti Arnkell þá allt um Öxnabrekkur. Hvarf þá Arnkell aftur og rak heim með sér viðarhestana, tók af þeim viðinn en lét lausa hestana og festi reipin upp á þá. Var þeim síðan vísað út með fjalli. Ganga þá hestarnir til þess er þeir komu heim til Helgafells. Spurðust nú þessi tíðindi. Stóð allt kyrrt þessi misseri.
En um vorið eftir bjó Snorri goði til vígsmálið Hauks til Þórsnessþings en Arnkell bjó frumhlaupið til óhelgi Hauki. Og fjölmenntu mjög hvorirtveggju til þingsins og gengu með miklu kappi að þessum málum. En þær urðu málalyktir að Haukur varð óheilagur að frumhlaupinu og ónýttust mál fyrir Snorra goða og riðu við það heim af þinginu. Voru þá dylgjur miklar með mönnum um sumarið.
36. kafliÞorleifur hét maður. Hann var austfirskur og hafði orðið sekur um konumál. Hann kom til Helgafells um haustið og beiddi Snorra goða viðtöku en hann veik honum af höndum og töluðu þeir mjög lengi áður hann fór á brott. Eftir það fór Þorleifur inn á Bólstað og kom þar um kveldið og var þar aðra nótt.
Arnkell stóð upp snemma um morguninn og negldi saman útihurð sína. En er Þorleifur reis upp gekk hann til Arnkels og beiddi hann viðtöku. Hann svarar heldur seinlega og spyr ef hann hefir fundið Snorra goða.
"Fann eg hann," segir Þorleifur, "og vildi hann engan kost á gera að taka við mér enda er mér lítið um," segir Þorleifur, "að veita þeim manni fylgd er jafnan vill sinn hlut láta undir liggja við hvern mann sem um er að eiga."
"Eigi kemur mér það í hug," segir Arnkell, "að Snorri kaupi sínu kaupi betur þótt hann gefi þér mat til fylgdar."
"Hér vil eg á halda um viðtökuna Arnkell sem þú ert," segir Þorleifur.
"Eigi er eg vanur," segir Arnkell, "að taka við utanhéraðsmönnum."
Áttust þeir þar við um hríð. Hélt Þorleifur á um málið en Arnkell veik af höndum. Þá boraði Arnkell hurðarokann og lagði niður meðan tálguöxina. Þorleifur tók hana upp og reiddi skjótt yfir höfuð sér og hugði að setja í höfuð Arnkatli. En er Arnkell heyrði hvininn hljóp hann undir höggið og hóf Þorleif upp á bringu sér og kenndi þar aflsmunar því að Arnkell var rammur að afli. Felldi hann Þorleif svo mikið fall að honum hélt við óvit en öxin hraut úr hendi honum og fékk Arnkell hana tekið og setti í höfuð Þorleifi og veitti honum banasár.
Sá orðrómur lagðist á að Snorri goði hefði þenna mann sendan til höfuðs Arnkatli. Snorri lét þetta mál eigi til sín taka og lét hér ræða um hvern það er vildi og liðu svo þau misseri að eigi varð til tíðinda.
37. kafliAnnað haust eftir að veturnóttum hafði Snorri goði haustboð mikið og bauð til vinum sínum. Þar var öldrykkja og fast drukkið.
Þar var ölteiti mörg. Var þar talað um mannjöfnuð hver þar væri göfgastur maður í sveit eða mestur höfðingi. Og urðu menn þar eigi á eitt sáttir sem oftast er ef um mannjöfnuð er talað. Voru þeir flestir að Snorri goði þótti göfgastur maður en sumir nefndu til Arnkel. Þeir voru enn sumir er nefndu til Styr.
En er þeir töluðu þetta þá svarar þar til Þorleifur kimbi: "Hví þræta menn um slíka hluti er allir menn mega sjá hversu er?"
"Hvað viltu til segja Þorleifur," sögðu þeir, "er þú deilir þetta mál svo mjög brotum?"
"Miklu mestur þykir mér Arnkell," segir hann.
"Hvað finnur þú til þess?" segja þeir.
"Það er satt er," segir hann. "Eg kalla að þar sé sem einn maður er þeir eru Snorri goði og Styr fyrir tengda sakir, en engir liggja heimamenn Arnkels ógildir hjá garði hans þeir er Snorri hefir drepið, sem Haukur fylgdarmaður Snorra liggur hér hjá garði hans er Arnkell hefir drepið."
Þetta þótti mönnum mjög mælt og þó satt þar sem þeir voru komnir og féll niður þetta tal.
En er menn fóru í brott frá boðinu valdi Snorri gjafir vinum sínum. Hann leiddi Þorbrandssonu til skips inn til Rauðavíkurhöfða.
Og er þeir skildu gekk Snorri að Þorleifi kimba og mælti: "Hér er öx Þorleifur er eg vil gefa þér og á eg þessa háskeftasta og mun hún eigi taka til höfuðs Arnkatli, þá er hann býr um hey sitt á Örlygsstöðum, ef þú reiðir heiman til úr Álftafirði."
Þorleifur tók við öxinni og mælti: "Hugsa þú svo," segir hann, "að eg mun eigi dvelja að reiða öxina að honum Arnkatli þá er þú ert búinn að hefna Hauks fylgdarmanns þíns."
Snorri svarar: "Það þykist eg eiga að yður Þorbrandssonum að þér haldið njósnum nær færi gefur á Arnkatli en ámælið mér þá ef eg kem eigi til móts við yður, ef nokkuð má að skapast, ef þér gerið mig varan við."
Skildu þeir við það að hvorirtveggju létust búnir að ráða Arnkel af lífi en Þorbrandssynir skyldu halda njósn um ferðir hans.
Snemma vetrar gerði íslög mikil og lagði fjörðu alla. Freysteinn bófi gætti sauða í Álftafirði. Hann var settur til að halda njósnum ef færi gæfi á Arnkatli.
Arnkell var starfsmaður mikill og lét þræla sína vinna alla daga milli sólsetra. Arnkell hafði undir sig bæði löndin, Úlfarsfell og Örlygsstaði, því að engir urðu til að taka löndin fyrir ófrelsi Þorbrandssona.
En um veturinn var það siður Arnkels að flytja heyið af Örlygsstöðum um nætur er nýlýsi voru því að þrælarnir unnu alla daga. Hirti hann og eigi þó að Þorbrandssynir yrðu eigi varið við þá er heyið var flutt.
Það var eina nótt um veturinn fyrir jól að Arnkell stóð upp um nótt og vakti þræla sína þrjá og hét einn Ófeigur. Arnkell bóndi fór með þeim inn á Örlygsstaði. Þeir höfðu fjóra yxn og tvo sleða með.
Þorbrandssynir urðu varir við ferð þeirra og fór Freysteinn bófi þegar um nótt út til Helgafells eftir ísnum og kom þar er menn höfðu í rekkju verið um hríð. Hann vakti upp Snorra goða.
Snorri spyr hvað hann vill. Hann svarar: "Nú er örninn gamli floginn á æslið á Örlygsstaði."
Snorri stóð upp og bað menn klæðast. Og er þeir voru klæddir þá tóku þeir vopn sín og fóru níu saman inn eftir ísnum til Álftafjarðar. Og er þeir komu inn í fjarðarbotninn komu Þorbrandssynir til móts við þá, sex saman. Fóru þeir síðan upp til Örlygsstaða. Og er þeir komu þar þá hafði þrællinn einn heim farið með heyhlassið en þeir Arnkell voru þá að gera annað. Þá sáu þeir Arnkell að vopnaðir menn fóru frá sæ neðan.
Ræddi Ófeigur um að ófriður mundir vera "og er sá einn til að vér förum heim."
Arnkell svarar: "Hér kann eg gott ráð til því að hér skulu gera hvorir það er betra þykir. Þið skuluð hlaupa heim og vekja upp fylgdarmenn mína og munu þeir koma skjótt til móts við mig en hér er vígi gott í stakkgarðinum og mun eg héðan verjast ef þetta eru ófriðarmenn því að mér þykir það betra en renna. Mun eg eigi skjótt verða sóttur. Munu mínir menn koma skjótt til móts við mig ef þið rekið drengilega erindið."
Og er Arnkell hafði þetta mælt hófu þrælarnir á rás. Varð Ófeigur skjótari. Hann varð svo hræddur að hann gekk nálega af vitinu og hljóp í fjall upp og þaðan í foss einn og týndist og heitir þar Ófeigsfoss. Annar þræll hljóp heim á bæinn og er hann kom til hlöðunnar var þar fyrir félagi hans og bar inn heyið. Hann kallar á þann þrælinn er hljóp að hann skyldi leggja inn heyið með honum en það fannst á að þrælnum var verkið eigi leitt og fór hann til með honum.
Nú er að segja frá Arnkatli að hann kenndi ferð þeirra Snorra goða. Þá reif hann meiðinn undan sleðanum og hafði upp í garðinn með sér. Garðurinn var hár utan en vaxinn mjög upp innan og var það gott vígi. Hey var í garðinum og voru teknir á garðsetar.
En er þeir Snorri komu að garðinum þá er eigi getið að þeir hefðust orð við og veittu þeir honum þegar atgöngu og mest með spjótalögum en Arnkell laust af sér með meiðnum og gengu mjög í sundur spjótsköftin fyrir þeim en Arnkell varð eigi sár. En er þeir höfðu látið skotvopnin þá rann Þorleifur kimbi að garðinum og hljóp upp á garðinn með brugðið sverð en Arnkell laust sleðmeiðnum í mót honum og lét Þorleifur þá fallast undan högginu öfugur út af garðinum en meiðurinn koma á garðinn og gekk úr garðinum upp fyrir jarðartorfa frosin en sleðmeiðurinn brotnaði í fjötraraufinni og hraut annar hluturinn út af garðinum. Arnkell hafði reist við heyið sverð sitt og skjöld. Tók hann þá upp vopnin og varðist með þeim. Varð honum þá skeinisamt. Komust þeir þá upp í garðinn að honum en Arnkell hljóp upp á heyið og varðist þaðan um hríð. En þó urðu þær málalyktir að Arnkell féll og huldu þeir hann í garðinum með heyi. Eftir þetta fóru þeir Snorri heim til Helgafells.
Um dráp Arnkels kvað Þormóður Trefilsson vísu þessa:
- Fékk hinn fólkrakki,
- framdist ungr sigri,
- Snorri sá-orra
- sverði nógs verðar.
- Laust í lífs köstu
- Leifa máreifir
- unda gjálfrs eldi
- þá er hann Arnkel felldi.
Nú er að segja frá þrælum Arnkels að þeir gengu inn þá er þeir höfðu inn borið heyið og fóru af skinnstökkum sínum. Þá vöknuðu fylgdarmenn Arnkels og spurðu hvar hann var.
Þá var sem þrællinn vaknaði af svefni og svarar: "Það er satt," segir hann, "hann mun berjast inn á Örlygsstöðum við Snorra goða."
Þá hljópu menn upp og klæddust og fóru sem skyndilegast inn á Örlygsstaði og fundu Arnkel bónda sinn dauðan og var hann öllum mönnum harmdauði því að hann hefir verið allra menna best að sér um alla hluti í fornum sið og manna vitrastur, vel skapi farinn, hjartaprúður og hverjum manni djarfari, einarður og allvel stilltur. Hafði hann og jafnan hinn hærra hlut í málaferlum við hverja sem skipta var. Fékk hann af því öfundsamt sem nú kom fram.
Tóku þeir nú lík Arnkels og bjuggu um og færðu til graftar. Arnkell var lagður í haug við sæinn út við Vaðilshöfða og er það svo víður haugur sem stakkgarður mikill.
38. kafliEftir víg Arnkels voru konur til erfðar og aðildar og var fyrir því eigi svo mikill reki að ger um vígið sem von mundi þykja um svo göfgan mann. En þó var sæst á vígið á þingi og urðu þær einar mannsektir að Þorleifur kimbi skyldi vera utan þrjá vetur því að honum var kennt banasár Arnkels.
En með því að eftirmálið varð eigi svo sæmilegt sem líklegt þótti um svo mikinn höfðingja sem Arnkell var þá færðu landsstjórnarmenn lög á því að aldrei síðan skyldi kona vera vígsakaraðili né yngri karlmaður en sextán vetra og hefir það haldist jafnan síðan.
39. kafliÞorleifur kimbi tók sér fari um sumarið með kaupmönnum þeim er bjuggust í Straumfirði og var hann í sveit með stýrimönnum.
Það var þá kaupmanna siður að hafa eigi matsveina en sjálfir mötunautar hlutuðu með sér hverjir búðarvörð skyldu halda dag frá degi. Þá skyldu og allir skiparar eiga drykk saman og skyldi ker standa við siglu er drykkur var í og lok yfir kerinu en sumur drykkur var í verplum og var þaðan bætt í kerið svo sem úr var drukkið.
En er þeir voru mjög búnir þá kom þar maður á Búðarhamar. Þessi maður var mikill vexti og hafði byrði á baki. Sýndist mönnum hann nokkuð undarlegur. Hann spyr að stýrimanni og var honum vísað til hans búðar. Hann lagði af sér baggann hjá búðardyrum og gekk síðan inn í búðina.
Hann spyr ef stýrimaður vildi veita honum far um hafið. Þeir spurðu hann að nafni en hann nefndist Arnbjörn, sonur Ásbrands frá Kambi, og kvaðst vilja fara utan og leita Bjarnar bróður síns er utan hafði farið fyrir nokkurum vetrum og hafði eigi til hans spurst síðan hann fór til Danmerkur. Austmenn sögðu að þá var bundinn búlki og þóttust eigi leysa mega. Hann lést eigi hafa fararefni meiri en liggja megi á búlka. En með því að þeim þótti honum nauðsyn á ferðinni þá tóku þeir við honum og var hann einn saman í mötuneyti og bjó á þiljum fram. Í bagga hans voru þrjú hundruð vaðmála og tólf vararfeldir og farnest hans. Arnbjörn var liðgóður og ofléttur og virðist kaupmönnum hann vel.
Þeir fengu hæga útivist og komu við Hörðaland og tóku þar útsker eitt. Þeir bjuggu þar mat sinn á landi.
Þorleifur kimbi hlaut búðarvörð og skyldi gera graut. Arnbjörn var á landi og gerði sér graut. Hafði hann búðarketil þann er Þorleifur skyldi hafa síðan. Gekk Þorleifur þá á land upp og bað Arnbjörn fá sér ketilinn en hann hafði þá enn eigi þafðan sinn graut og hrærði þá enn í katlinum. Stóð Þorleifur yfir honum uppi.
Þá kölluðu Austmenn af skipinu að Þorleifur skyldi matbúa og sögðu hann vera mjög íslenskan fyrir tómlæti sitt. Þá varð Þorleifi skapfátt og tók ketilinn en steypti niður grautinum Arnbjarnar og sneri á brott síðan. Arnbjörn sat eftir og hélt á þvörunni og laust með henni til Þorleifs og kom á hálsinn. Það var lítið högg en með því að grauturinn var heitur þá brann Þorleifur á hálsinum.
Hann mælti: "Eigi skulu Noregsmenn að því hlæja, með því að við erum hér komnir tveir samlendir, að þeir þurfi að draga okkur í sundur sem hunda en minnast skal þessa þá er við erum á Íslandi. Arnbjörn svarar engu.
Lágu þeir þar fár nætur áður þeim byrjaði að landi inn og skipuðu þar upp. Vistaðist Þorleifur þar en Arnbjörn tók sér fari með byrðingsmönnum nokkurum austur til Víkur og þaðan til Danmerkur að leita Bjarnar bróður síns.
40. kafliÞorleifur kimbi var tvo vetur í Noregi og fór síðan til Íslands með sömu kaupmönnum og hann fór utan. Komu þeir í Breiðafjörð og tóku Dögurðarnes. Fór Þorleifur heim í Álftafjörð um haustið og lét vel yfir sér sem vandi hans var til.
Það saman sumar komu þeir bræður út í Hraunhafnarósi, Björn og Arnbjörn. Björn var síðan kallaður Breiðvíkingakappi. Hafði Arnbjörn þá góða peninga út haft og keypti hann þegar um sumarið er hann kom út land á Bakka í Hraunhöfn og gerði þar bú um vorið eftir. Hann var um veturinn á Knerri með Þórði blíg mági sínum
Arnbjörn var engi áburðarmaður og fámálugur um flesta hluti en hann var þó hinn gildasti karlmaður um alla hluti.
Björn bróðir hans var áburðarmaður mikill er hann kom út og hélt sig vel því að hann hafði samið sig eftir sið útlenskra höfðingja. Var hann maður miklu fríðari en Arnbjörn en í engu var hann ógildari maður en reyndur mjög í framgöngu er hann hafði framið sig utanlands.
Um sumarið þá er þeir voru nýkomnir út var stefnt fjölmennt mannamót fyrir norðan heiðina undir Haugabrekkum, inn frá Fróðárósi, og riðu þeir til kaupmennirnir allir í litklæðum. Og er þeir komu til mannamótsins var þar mart manna fyrir. Þar var Þuríður húsfreyja frá Fróðá og gekk Björn til tals við hana og lagði engi maður það til orðs. Þótti mönnum að vonum að þeim yrði hjaldrjúgt svo langt sem í milli funda hafði verið.
Þar urðu áverkar með mönnum um daginn. Þar var særður til ólífis maður þeirra norðanmanna og var hann borinn undir hrísrunn einn er stóð á eyrinni og hljóp blóð mikið úr sárinu og stóð blóðtjörn í runninum.
Þar var sveinninn Kjartan, sonur Þuríðar frá Fróðá. Hann hafði öxi litla í hendi. Hann hljóp að runninum og laugaði öxina í blóðinu.
En er þeir Heiðsynningar riðu suður af mannamótinu spyr Þórður blígur hversu á horfist um tal með þeim Þuríði að Fróðá. Björn lét vel yfir.
Þá spurði Þórður hvort hann hefði séð um daginn sveininn Kjartan son þeirra Þórodds allra saman.
"Sá eg hann," segir Björn.
"Hvern veg leist þér á hann?" sagði Þórður.
Þá kvað Björn vísu þessa:
- Sá eg hvar rann í runni
- runnr að fenris brunni,
- ægilegr í augum,
- iðglíki mér, bríkar.
- Láta þeygi þrjótar
- það barn vita Mörnar,
- hesta hleypi rastar
- hlunns, sinn föður kunna.
Þórður mælti: "Hvað mun Þóroddur nú til segja hvor ykkar eiga mun sveininn?"
Þá kvað Björn vísu:
- Þá mun þöll hin mjóva
- Þórodds aðalbjóra,
- fold unni mér földu
- fannhvít, getu sanna,
- ef áttgöfug ætti
- auðbrík sonu líka,
- enn er eg gjarn til Gunnar
- gjálfrelda, mér sjálfum.
Þórður mælti: "Það mun þó vera yðart ráð að eigast fátt við og snúa frá hug sínum þar sem Þuríður er."
"Það mun vera gott ráð," segir Björn, "en firr er það mínu skapi þó að við nokkurn mannamun sé að eiga þar sem Snorri goði er, bróðir hennar."
"Þú sérð nú ráð fyrir þér," segir Þórður. Og skildi þar talið með þeim.
Björn fór nú heim til Kambs og tók þar bústjórn því að faðir hans var þá andaður. Hann hóf ferð sína um veturinn yfir heiði norður að hitta Þuríði. En þó að Þóroddi þætti það illa þá þótti honum sér óhægt vera bætur á að ráða, taldi það í hug sér hversu hart hann hafði af fengið þá er hann hafði um vandað hagi þeirra en hann sá að Björn var nú miklu kraftameiri en fyrr.
Þóroddur keypti um veturinn að Þorgrímu galdrakinn að hún skyldi gera hríðviðri að Birni þá er hann færi um heiðina.
Það var einn dag að Björn fór til Fróðár. Og um kveldið er hann bjóst heim að fara var þykkt veður og regn nokkuð og var hann heldur síðbúinn. En er hann kom upp á heiðina kólnaði veðrið og dreif. Var þá svo myrkt að hann sá eigi leiðina fyrir sér. Eftir það laust á hríð með svo miklu hreggi að hann fékk varla stýrt sér. Tók þá að frysta að honum klæðin er hann var áður alvotur. Fór hann þá og svo villur að hann vissi eigi hvert hann horfði. Hann hitti um nóttina hellisskúta einn og fór þar inn í og var þar um nóttina og hafði kalda búð. Þá kvað Björn:
- Myndit Hlín of hyggja
- hafleygjar vel þeygi,
- sú er ber í vá víða
- váðir, mínu ráði
- ef eld-Njörun öldu
- ein vissi mig steina,
- hirðiþoll, í helli,
- hafviggs, kalinn liggja.
Og enn kvað hann:
- Sýlda skar eg svana fold
- súðum því að gæibrúðr
- ástum leiddi oss fast
- austan með hlaðið flaust.
- Víða gat eg vosbúð,
- víglundr nú um stund
- helli byggir hugfullr
- hingað fyr konu bing.
Björn var úti þrjú dægur í hellinum áður upp létti hríðinni en þá kom hann af heiðinni hið fjórða dægrið og kom þá heim til Kambs. Hann var þrekaður mjög. Spurðu heimamenn hann hvar hann hefði verið um veðrin. Björn kvað:
- Spurðust vor und vörðum
- verk Styrbjarnar merkjum.
- Járnfaldinn hlóð öldum
- Eirekr í dyn geira.
- Nú trað eg hauðr of heiði
- hundvillr því fat eg illa
- víða braut í votri
- vífs görninga drífu.
Björn var nú heima um veturinn. Um vorið gerði Arnbjörn bróðir hans bú á Bakka í Hraunhöfn en Björn bjó að Kambi og hafði rausnarbú mikið.
41. kafliVor þetta hið sama á Þórsnessþingi hóf Þorleifur kimbi bónorð sitt og bað Helgu Þorláksdóttur á Eyri, systur Steinþórs á Eyri, og gekk mest með þessu Þormóður bróðir hennar. Hann átti Þorgerði Þorbrandsdóttur, systur Þorleifs kimba.
En er þetta mál kom til Steinþórs tók hann því seinlega og veik nokkuð til ráða bræðra sinna. Gengu þeir þá til Þórðar blígs. Og er þetta mál kom fyrir hann svarar hann svo: "Eigi mun eg þessu máli skjóta til annarra manna. Má eg hér verða skörungur. Og er það þér að segja Þorleifur hér af að fyrr skulu grónir grautardílarnir á hálsi þér, þeir er þú brannst þá er þú varst barður fyrir þremur vetrum í Noregi, en eg muni gifta þér systur mína."
Þorleifur svarar: "Eigi veit eg hvers þar verður um auðið. En hvort þess verður hefnt eða eigi þá mundi eg það vilja að eigi liðu þrír vetur áður þú værir barður."
Þórður svarar: "Óhræddur sit eg fyrir hótum þeim."
Um morguninn eftir höfðu þeir torfleik hjá búð Þorbrandssona og þar ganga þeir hjá Þorlákssynir. Og er þeir fóru framhjá fló sandtorfa ein mikil og kom undir hnakka Þórði blíg. Var það högg svo mikið að fótunum kastaði fram yfir höfuðið. En er hann stóð upp sá hann að Þorbrandssynir hlógu að honum mjög. Sneru Þorlákssynir þá þegar aftur og brugðu vopnum. Hljópust þeir þá í mót og börðust þegar. Þá urðu nokkurir menn sárir en engir létust. Steinþór hafði eigi við verið. Hafði hann talað við Snorra goða.
En er þeir voru skildir var leitað um sættir og varð það að sætt að þeir Snorri og Steinþór skyldu gera um. Var þá jafnað sárum manna og frumhlaupum en bættur skakki. Og voru allir kallaðir sáttir er heim riðu.
42. kafliÞetta sumar kom skip í Hraunhafnarós en annað í Dögurðarnes. Snorri goði átti erindi til skips í Hraunhöfn og reið hann heiman við fimmtánda mann.
En er þeir koma suður yfir heiðina í Dufgusdal hleyptu þar eftir þeim sex menn alvopnaðir. Voru þar Þorbrandssynir. Snorri spyr hvert þeir ætli að fara. Þeir kváðust fara skyldu til skips í Hraunhafnarós.
Snorri kvaðst mundu lúka erindum þeirra en bað þá fara heim og glettast eigi við menn, kallar oft lítið þurfa til með þeim mönnum er áður var fátt í meðal ef fundi bæri saman.
Þorleifur kimbi svarar: "Eigi skal það spyrjast að vér þorum eigi að ríða um sveitir fyrir þeim Breiðvíkingum en vel máttu heim ríða ef þú þorir eigi að ríða leið þína þó að þú eigir erindi."
Snorri svarar engu. Riðu þeir síðan út yfir hálsana og svo út til Hofgarða og þaðan út um sanda með sæ. Og er þeir komu mjög út að ósinum riðu Þorbrandssynir frá þeim og upp að Bakka. Og er þeir komu að bænum hljópu þeir af baki og ætluðu inn að ganga og fengu eigi upp brotið hurðina. Hljópu þeir þá upp á húsin og tóku að rjúfa. Arnbjörn tók vopn sín og varðist innan úr húsunum. Lagði hann út í gegnum þekjuna og varð þeim það skeinisamt. Þetta var snemma um morguninn og var veður bjart.
Þenna morgun höfðu Breiðvíkingar staðið upp snemma og ætluðu að ríða til skips. En er þeir komu inn fyrir Öxlina sáu þeir að maður var í skrúðklæðum á húsum uppi á Bakka. En þeir vissu að það var eigi búnaður Arnbjarnar. Sneru þeir Björn þá þangað ferð sinni.
En er Snorri goði vissi að Þorbrandssynir höfðu frá riðið föruneyti hans reið hann eftir þeim. Og er þeir komu á Bakka voru þeir sem óðastir að rjúfa húsin og þá bað Snorri þá frá hverfa og gera engan ófrið í sínu föruneyti. Og með því að þeim hafði eigi tekist inngangan þá gáfu þeir upp atsóknina sem Snorri bað og riðu síðan til skips með Snorra.
Breiðvíkingar komu til skips um daginn og gengu hvorir með sínum flokki. Voru þá miklar dylgjur og viðsjár með þeim en hvorigir leituðu á aðra. Voru Breiðvíkingar fjölmennari í kaupstefnunni.
Snorri goði reið um kveldið suður í Hofgarða. Þar bjó þá Björn og Gestur sonur hans, faðir Hofgarða-Refs. Þeir Björn Breiðvíkingakappi buðu Arnbirni að ríða eftir þeim Snorra en Arnbjörn vildi það eigi og kvað nú hafa skyldu hvorir það er fengið höfðu.
Þeir Snorri riðu heim um daginn eftir og undu Þorbrandssynir nú sínum hlut verr en áður. Tók nú að líða á haustið.
43. kafliÞorbrandur bóndi í Álftafirði átti þræl þann er Egill sterki hét. Hann var manna mestur og sterkastur og þótti honum ill ævi sín er hann var ánauðgaður og bað oft Þorbrand og sonu hans að þeir gæfu honum frelsi og bauð þar til að vinna slíkt er hann mætti.
Það var eitt kveld að Egill gekk að sauðum í Álftafirði út til Borgardals. Og er á leið kveldið sá hann að örn fló vestan yfir fjörðinn. Dýrhundur mikill fór með Agli. Örninn lagðist að hundinum og tók hann í klær sér og fló vestur aftur yfir fjörðinn á dys Þórólfs bægifóts og hvarf þar undir fjallið. Þenna fyrirburð kvað Þorbrandur vera mundu fyrir tíðindum.
Það var siður Breiðvíkinga um haustum að þeir höfðu knattleika um veturnáttaskeið undir Öxlinni suður frá Knerri. Þar heita síðan Leikskálavellir, og sóttu menn þangað um alla sveitina. Voru þar gervir leikskálar miklir. Vistuðust menn þangað og sátu þar hálfan mánuð eða lengur. Var þar þá gott mannval um sveitina og byggð mikil og flestir hinir yngri menn að leikum nema Þórður blígur. Hann mátti eigi að vera fyrir kapps sakir en eigi var hann svo sterkur að hann mætti eigi fyrir þá sök að vera. Sat hann á stóli og sá á leikinn. Þeir bræður, Björn og Arnbjörn, þóttu eigi að leikum hæfir fyrir afls sakir nema þeir lékjust við sjálfir.
Þetta sama haust ræddu Þorbrandssynir við Egil, þræl sinn, að hann skal fara út til knattleikanna og drepa nokkurn af Breiðvíkingum, Björn eða Þórð eða Arnbjörn, með nokkuru móti en síðan skal hann hafa frelsi.
Það er sumra manna sögn að það væri gert með ráði Snorra goða og hafi hann svo fyrir sagt að hann skyldi vita ef hann mætti leynast inn í skálann og leita þaðan til áverka við menn og bað hann ganga ofan skarð það er upp er frá Leikskálum og ganga þá ofan er máleldar væru gervir því að hann sagði það mjög far veðranna að vindar lögðust af hafi um kveldum og hélt þá reykinum upp í skarðið og bað hann þess bíða um ofangönguna er skarðið fyllti af reyk.
Egill réðst til ferðar þessarar og fór fyrst út um fjörðu og spyr að sauðum Álftfirðinga og lét sem hann færi í eftirleit. En á meðan hann var í þessi ferð skyldi Freysteinn bófi gæta sauða í Álftafirði.
Um kveldið er Egill var heiman farinn gekk Freysteinn að sauðum vestur yfir ána og er hann kom á skriðu þá er Geirvör heitir er gengur ofan fyrir vestan ána þá sá hann mannshöfuð laust óhulið. Höfuðið kvað stöku þessa:
- Roðin er Geirvör
- gumna blóði,
- hún mun hylja
- hausa manna.
Hann sagði Þorbrandi fyrirburðinn og þótti honum vera tíðindavænlegt.
En það er að segja af ferð Egils að hann fór út um fjörðu og upp á fjall fyrir innan Búlandshöfða og svo suður yfir fjallið og stefndi svo að hann gekk ofan í skarðið að Leikskálum. Leyndist hann þar um daginn og sá til leiksins.
Þórður blígur sat hjá leikinum. Hann mælti: "Það veit eg eigi hvað eg sé upp í skarðið, hvort þar er fugl eða leynist þar maður og kemur upp stundum. Kvikt er það," segir hann. "Þykir mér ráð að um sé forvitnast," en það varð eigi.
Þenna dag hlutu þeir búðarvörð Björn Breiðvíkingakappi og Þórður blígur og skyldi Björn gera eld en Þórður taka vatn. Og er eldurinn var ger lagði reykinn upp í skarðið sem Snorri hafði getið til. Gekk Egill þá ofan eftir reykinum og stefndi til skálans.
Þá var enn eigi lokið leikinum. En dagurinn var mjög á liðinn og tóku eldarnir mjög að brenna en skálinn var fullur af reyk. Og stefnir Egill þangað. Hann hafði stirðnað mjög á fjallinu.
Egill hafði skúfaða skóþvengi, sem þá var siður til, og hafði losnað annar þvengurinn og dragnaði skúfurinn. Gekk þrællinn þá inn í forhúsið. En er hann gekk í aðalskálann vildi hann fara hljóðlega því að hann sá að þeir Björn og Þórður sátu við eld og ætlaði Egill nú á lítilli stundu að vinna sér til ævinlegs frelsis. Og er hann vildi stíga yfir þröskuldinn þá sté hann á þvengjarskúfinn þann er dragnaði. Og er hann vildi hinum fætinum fram stíga þá var skúfurinn fastur og af því reiddi hann til falls og féll hann innar á gólfið. Varð það svo mikill dynkur sem nautsbúk flegnum væri kastað niður á gólfið.
Þórður hljóp upp og spurði hvað fjanda þar færi. Björn hljóp og upp og að honum og fékk tekið hann áður hann komst á fætur og spyr hver hann væri.
Hann svarar: "Egill er hér, Björn félagi," sagði hann.
Björn spurði: "Hver er Egill þessi?"
"Þetta er Egill úr Álftafirði," segir hann.
Þórður tók sverð og vildi höggva hann. Björn tók þá Þórð og bað hann eigi svo skjótt höggva manninn "viljum vér áður hafa af honum sannar sögur." Settu þeir þá fjötur á fætur Agli.
En um kveldið er menn komu heim til skála segir Egill svo að allir menn heyrðu hversu ferð hans hafði ætluð verið. Sat hann þar um nóttin en um morguninn leiddu þeir hann upp í skarðið, það heitir nú Egilsskarð, og drápu hann þar.
Það voru lög í þann tíma ef maður drap þræl fyrir manni að sá maður skyldi færa heim þrælsgjöld og hefja ferð sína fyrir hina þriðju sól eftir víg þrælsins. Það skyldu vera tólf aurar silfurs. Og er þrælsgjöld voru að lögum færð þá var eigi sókn til um víg þrælsins.
Eftir víg Egils tóku Breiðvíkingar það ráð að færa þrælsgjöld að lögum og völdu þrjá tigu manna þaðan frá Leikskálum og var það einvalalið. Þeir riðu norður um heiði og gistu um nótt á Eyri hjá Steinþóri. Réðst hann þá til ferðar með þeim. Voru þeir þaðan í ferð sex tigir manna og riðu inn um fjörðu og voru aðra nótt á Bakka að Þormóðar, bróður Steinþórs. Þeir kvöddu þá Styr og Vermund frændur sína til þessar ferðar og voru þá saman átta tigir manna.
Þá sendi Steinþór mann til Helgafells og vildi vita hvað Snorri goði tæki til ráða er hann spurði liðsafnaðinn. En er sendimaðurinn kom til Helgafells sat Snorri goði í öndugi sínu og var þar engi breytni á híbýlum. Varð sendimaður Steinþórs engra tíðinda vís hvað Snorri ætlaðist fyrir. En er hann kom út á Bakka segir hann Steinþóri hvað tíðinda var að Helgafelli.
Steinþór svarar: "Þess var von að Snorri mundi þola mönnum lög. Og ef hann fer eigi inn til Álftafjarðar þá sé eg eigi til hvers vér þurfum liðsfjölda þenna því eg vil að menn fari spaklega þó að vér höldum málum vorum til laga. Sýnist mér ráð Þórður frændi," segir hann, "að þér Breiðvíkingar séuð hér eftir því að þar mun minnst til þurfa að í komi með ykkur Þorbrandssonum."
Þórður svarar: "Það er víst að eg skal fara og skal Þorleifur kimbi eigi að því eiga að spotta að eg þori eigi að færa þrælsgjöld."
Þá mælti Steinþór til þeirra bræðra, Bjarnar og Arnbjarnar: "Það vil eg," segir hann, "að þið séuð eftir með tuttugu menn."
Björn svarar: "Eigi mun eg keppast til fylgdar við þig meir en þér þykir hæfilegt en eigi hefi eg þar fyrr verið að eg hafi liðrækur verið ger. En það hygg eg," segir hann, "að yður verði Snorri goði djúpsær í ráðunum en eigi er eg framsýnn," sagði Björn, "en það er hugboð mitt að þar komi í þessi ferð að þér þyki þínir menn eigi of margir áður við finnumst næst."
Steinþór svarar: "Eg skal gera ráð fyrir oss meðan eg er hjá þó að eg sé eigi svo djúpsær sem Snorri goði."
"Mega skaltu það frændi fyrir mér," segir Björn.
Eftir þetta riðu þeir Steinþór brott af Bakka, nær sex tigir manna, inn eftir Skeiðum til Drápuhlíðar og inn yfir Vatnsháls og um þveran Svelgsárdal og stefndu þaðan inná Úlfarsfellsháls.
44. kafliSnorri goði hafði sent nábúum sínum orð að þeir skyldu flytja skip sín undir Rauðavíkurhöfða. Fór hann þegar þangað með heimamenn sína er sendimaður Steinþórs var farinn brott. En því fór hann eigi fyrr að hann þóttist vita að maðurinn mundi sendur vera að njósna um athafnir hans.
Snorri fór inn eftir Álftafirði þrennum skipum og hafði nær fimm tigu manna og kom hann fyrr á Kársstaði en þeir Steinþór.
En er menn sáu ferð þeirra Steinþórs af Kársstöðum, þá mæltu Þorbrandssynir að þeir skyldu fara í móti þeim og láta þá eigi ná að komast í túnið "því að vér höfum lið mikið og frítt." Það voru átta tigir manna.
Þá svarar Snorri goði: "Eigi skal þeim verja bæinn og skal Steinþór ná lögum því að hann mun viturlega og spaklega fara með sínu máli. Vil eg að allir menn séu inni og kastist engum orðum á svo að af því aukist vandræði manna."
Eftir það gengu allir inn í stofu og settust í bekki en Þorbrandssynir gengu um gólf.
Þeir Steinþór riðu að dyrum og er svo frá sagt að hann væri í rauðum kyrtli og hafði drepið upp fyrirblöðunum undir belti. Hann hafði fagran skjöld og hjálm og gyrður sverði. Það var forkunnlega búið. Hjöltin voru hvít fyrir silfri og vafður silfri meðalkaflinn og gylltar listur á.
Þeir Steinþór stigu af hestum sínum og gekk hann upp að dyrum og festi á hurðarklofann sjóð þann er í voru tólf aurar silfurs. Hann nefndi þá votta að þrælsgjöld voru þá að lögum færð.
Hurðin var opin en heimakona ein var í dyrunum og heyrði vottnefnuna. Gekk hún þá í stofu og mælti: "Það er bæði," sagði hún, "að hann Steinþór af Eyri er drengilegur enda mæltist honum vel er hann færði þrælsgjöldin."
Og er Þorleifur kimbi heyrði þetta þá hljóp hann fram og aðrir Þorbrandssynir og síðan gengu fram allir þeir er í stofunni voru. Þorleifur kom fyrstur í dyrnar og sá að Þórður blígur stóð fyrir dyrum og hafði skjöld sinn en Steinþór gekk þá fram í túnið. Þorleifur tók spjót er stóð í dyrunum og lagði til Þórðar blígs og kom lagið í skjöldinn og renndi af skildinum í öxlina og var það mikið sár. Eftir það hljópu menn út. Varð þar bardagi í túninu. Steinþór var hinn ákafasti og hjó til beggja handa. Og er Snorri goði kom út bað hann menn stöðva vandræðin og bað þá Steinþór ríða brott af túninu en hann kvaðst eigi mundu láta eftir fara. Þeir Steinþór fóru ofan eftir vellinum og skildi þá fundinn.
En er Snorri goði gekk heim að dyrum stóð þar fyrir honum Þóroddur sonur hans og hafði mikið sár á öxlinni. Hann var þá tólf vetra. Snorri spurði hver hann hefði særðan.
"Steinþór af Eyri," sagði hann.
Þorleifur kimbi svarar: "Nú launaði hann þér maklega er þú vildir eigi láta eftir honum fara. Er það nú mitt ráð að vér skiljum eigi við þetta."
"Svo skal og nú vera," segir Snorri goði, "að vér skulum við eigast fleira." Bað hann Þorleif nú segja mönnum að eftir þeim skyldi fara.
Þeir Steinþór voru komnir ofan af vellinum er þeir sáu eftirreiðina. Fóru þeir þá yfir ána og sneru síðan upp í skriðuna Geirvör og bjuggust þar fyrir, því að þar var vígi gott fyrir grjóts sakir.
En er flokkurinn Snorra gekk neðan skriðuna þá skaut Steinþór spjóti að fornum sið til heilla sér yfir flokk Snorra en spjótið leitaði sér staðar og varð fyrir Már Hallvarðsson frændi Snorra og varð hann þegar óvígur.
Og er þetta var sagt Snorra goða þá svarar hann: "Gott er að það sannist að það er eigi jafnan best að ganga síðast."
Eftir þetta tókst þar bardagi mikill. Var Steinþór í öndverðum flokki sínum og hjó á tvær hendur en sverðið það hið búna dugði eigi er það kom í hlífarnar og brá hann því oft undir fót sér. Hann sótti þar mest að sem fyrir var Snorri goði. Styr Þorgrímsson sótti hart fram með Steinþóri frænda sínum. Varð það fyrst að hann drap mann úr flokki Snorra mágs síns.
Og er Snorri goði sá það mælti hann til Styrs: "Svo hefnir þú Þórodds, dóttursonar þíns, er Steinþór hefir særðan til ólífis og ertu eigi meðalníðingur."
Styr svarar: "Þetta fæ eg skjótt bætt þér."
Skipti hann þá um sínum skildi og gekk í lið með Snorra goða og drap annan mann úr liði Steinþórs.
Í þenna tíma komu þeir að feðgar úr Langadal, Áslákur og Illugi hinn rammi sonur hans, og leituðu meðalgöngu. Þeir höfðu þrjá tigu manna. Gekk þá Vermundur hinn mjóvi í lið með þeim. Beiddu þeir þá Snorra goða að hann léti stöðvast manndrápin.
Snorri bað Eyrbyggja þá ganga til griða. Þá báðu þeir Steinþór taka grið handa sínum mönnum. Steinþór bað Snorra þá rétta fram höndina og svo gerði hann. Þá reiddi Steinþór upp sverðið og hjó á hönd Snorra goða og varð þar við brestur mikill. Kom höggið í stallahringinn og tók hann mjög svo í sundur en Snorri varð eigi sár.
Þá kallar Þóroddur Þorbrandsson: "Engi grið vilja þeir halda og léttum nú eigi fyrr en drepnir eru allir Þorlákssynir."
Þá svarar Snorri goði: "Agasamt mun þá verða í héraðinu ef allir Þorlákssynir eru drepnir og skulu haldast grið ef Steinþór vill eftir því sem áður var mælt."
Þá báðu allir Steinþór taka griðin. Fór þetta þá fram að grið voru sett með mönnum þar til að hver kæmi til síns heima.
Það er að segja frá Breiðvíkingum að þeir spurðu að Snorri goði hafði farið með fjölmenni til Álftafjarðar. Tóku þeir þá hesta sína og riðu eftir Steinþóri sem ákafast og voru þeir á Úlfarsfellshálsi þá er bardaginn var á skriðunni. Og er það sumra manna sögn að Snorri goði sæi þá Björn er þeir voru uppi í hálsbrúninni, er hann horfði í gegn þeim, og væri því svo auðveldur í griðasölunni við þá Steinþór.
Þeir Steinþór og Björn fundust á Örlygsstöðum. Sagði Björn þá að þetta hefði farið eftir getu hans. "Er það mitt ráð," sagði hann, "að þér snúið aftur og herðum nú að þeim."
Steinþór svarar: "Halda vil eg grið mín við Snorra goða hversu sem mál vor Snorra skipast síðan."
Eftir það riðu þeir allir hver til sinna heimkynna en Þórður blígur lá í sárum á Eyri.
Í bardaganum í Álftafirði féllu fimm menn af Steinþóri en tveir af Snorra goða en margir urðu sárir af hvorumtveggjum því að fundurinn var hinn harðasti.
Svo segir Þormóður Trefilsson í Hrafnsmálum:
- Saddi svangreddir
- sára dynbáru
- örn á úlfs virði
- í Álftafirði.
- Þar lét þá Snorri
- þegna að hjörregni
- fjörvi fimm numna,
- svo skal fjandr hegna.
Þorbrandur hafði verið í bardaganum í meðalgöngu með þeim Ásláki og Illuga og hann hafði þá beðið að leita um sætti. Þakkar hann þeim vel sína liðveislu og svo Snorra goða fyrir sinn styrk. Fór Snorri goði þá heim til Helgafells eftir bardagann.
Var þá svo ætlað að Þorbrandssynir skyldu vera ýmist að Helgafelli eða heima í Álftafirði þar til að lyki málum þessum því að þá voru hinar mestu dylgjur sem von var er allt var griðalaust með mönnum þegar er menn voru heim komnir frá fundinum.
45. kafliÞað sumar, áður bardaginn var í Álftafirði, hafði skip komið í Dögurðarnes sem fyrr var sagt. Þar hafði Steinþór af Eyri keypt teinæring góðan við skipið. Og er hann skyldi heim færa skipið tók hann vestanveður mikið og sveif þeim inn um Þórsnes og lentu í Þingskálanesi og settu þar upp skipið í Gruflunaust og gengu þaðan út yfir ásana til Bakka og fóru þaðan á skipi heim. En teinæringurinn hafði ekki sóttur orðið um haustið og stóð hann þar í Gruflunausti.
Það var einn morgun litlu fyrir jól að Steinþór stóð upp snemma og segir að hann vill sækja skip sitt inn í Þingskálanes. Þá réðust til ferðar með honum bræður hans, Bergþór og Þórður blígur. Þá voru sár hans mjög gróin svo að hann var vel vopnfær. Þar voru og í ferð Austmenn Steinþórs tveir. Alls voru þeir átta saman og voru fluttir inn yfir fjörð til Seljahöfða og gengu síðan inn á Bakka og fór þaðan Þormóður bróðir þeirra. Hann var hinn níundi.
Ís var lagður á Hofstaðavog mjög svo að bakka hinum meira og gengu þeir inn eftir ísum og svo inn yfir eið til Vigrafjarðar og lá hann allur. Honum er svo háttað að hann fjarar allan að þurru og leggst ísinn á leirana er fjaran er en sker þau er eru á firðinum stóðu upp úr ísnum og var þar brotinn mjög ísinn um skerið og voru jakarnir hallir mjög út af skerinu. Lausasnjór var fallinn á ísinn og var hált mjög á ísnum.
Þeir Steinþór gengu inn í Þingskálanes og drógu skipið úr naustinu. Þeir tóku bæði árar og þiljur úr skipinu og lögðu þar eftir á ísnum og svo klæði sín og vopn þau er þyngst voru. Síðan drógu þeir skipið inn eftir firðinum og svo út yfir eiðið til Hofstaðavogs og allt út að skörinni. Síðan gengu þeir inn eftir klæðum sínum og öðrum föngum. Og er þeir gengu inn aftur á Vigrafjörð sáu þeir að sex menn gengu innan úr Þingskálanesi og fóru mikinn út eftir ísnum og stefndu til Helgafells.
Þeir Steinþór höfðu grun af að þar mundu fara Þorbrandssynir og mundu ætla til jólavistar til Helgafells. Tóku þeir Steinþór þá ferð mikla út eftir firðinum til klæða sinn og vopna þeirra sem þar voru. En þetta var, sem Steinþór gat, að þar voru Þorbrandssynir. Og er þeir sáu að menn hljópu innan eftir firðinum þóttust þeir vita hverjir þar mundu vera og hugðu að Eyrbyggjar mundu vilja sækja fund þeirra. Tóku þeir þá og ferð mikla og stefndu til skersins og hugðu sér þar til viðurtöku og fórust þeir þá mjög svo í móti og komust þeir Þorbrandssynir í skerið.
En er þeir Steinþór hljópu fram um skerið þá skaut Þorleifur kimbi spjóti í flokk þeirra og kom það á Bergþór Þorláksson miðjan og varð hann þegar óvígur. Gekk hann inn á ísinn og lagðist þar niður en þeir Steinþór sóttu þá að skerinu en sumir fóru eftir vopnum þeirra.
Þorbrandssynir vörðust vel og drengilega. Höfðu þeir og vígi gott því að jakarnir voru hallir út af skerinu og voru ákaflega hálir. Tókust því seint áverkar með mönnum áður þeir komu aftur er vopnin sóttu.
Þeir Steinþór sóttu sex að skerinu en Austmenn gengu í skotmál á ísinn frá skerinu. Þeir höfðu boga og skutu á þá í skerið og varð þeim það skeinusamt.
Þorleifur kimbi mælti þá er hann sá að Steinþór brá sverðinu: "Hvítum ræður þú enn hjöltunum Steinþór," sagði hann, "en eigi veit eg hvort þú ræður enn deigum brandinum sem á hausti í Álftafirði."
Steinþór svarar: "Það vildi eg að þú reyndir áður við skildum hvort eg hefði deigan brandinn eða eigi."
Sóttist þeim seint skerið. Og er þeir höfðu langa hríð við ást gerði Þórður blígur skeið að skerinu og vildi leggja spjóti til Þorleifs kimba því að hann var jafnan fremstur sinna manna. Lagið kom í skjöld Þorleifs. En með því að hann varði sér mjög til spruttu honum fætur á jakanum þeim hinum halla og féll hann á bak aftur og renndi öfugur ofan af skerinu. Þorleifur kimbi hljóp eftir honum og vildi drepa hann áður hann kæmist á fætur. Freysteinn bófi hljóp eftir Þorleifi. Hann var á skóbroddum.
Steinþór hljóp til og brá skildi yfir Þórð, er Þorleifur vildi höggva hann, en annarri hendi hjó hann til Þorleifs kimba og undan honum fótinn fyrir neðan kné. En er þetta var tíðinda þá lagði Freysteinn bófi til Steinþórs og stefndi á hann miðjan. En er hann sá það þá hljóp hann í loft upp og kom lagið milli fóta honum. Og þessa þrjá hluti lék hann senn sem nú voru taldir.
Eftir þetta hjó hann til Freysteins með sverðinu og kom á hálsinn og brast við hátt.
Steinþór mælti: "Ball þér nú Bófi?" sagði hann.
"Ball víst," sagði Freysteinn, "og ball hvergi meir en þú hugðir því að eg er eigi sár."
Hann hafði verið í flókahettu og saumað í horn um hálsinn og kom þar í höggið. Síðan snerist Freysteinn aftur upp í skerið. Steinþór bað hann eigi renna ef hann væri eigi sár. Snerist Freysteinn þá við í skerinu og sóttust þá allfast og varð Steinþóri fallhætt, er jakarnir voru bæði hálir og hallir, en Freysteinn stóð fast á skóbroddunum og hjó bæði hart og tíðum. En svo lauk þeirra skiptum að Steinþór kom sverðshöggi á Freystein fyrir ofan mjaðmir og tók manninn í sundur í miðju.
Eftir það gengu þeir upp í skerið og léttu eigi fyrr en fallnir voru allir Þorbrandssynir.
Þá mælti Þórður blígur að þeir skyldu á milli bols og höfuðs ganga allra Þorbrandssona en Steinþór kvaðst eigi vilja vega að liggjöndum mönnum.
Gengu þeir þá ofan af skerinu og þar til er Bergþór lá og var hann þá enn málhress og fluttu þeir hann með sér inn eftir ísnum og svo út yfir eið til skipsins. Reru þeir þá skipinu út til Bakka um kveldið.
Sauðamaður Snorra goða hafði verið á Öxnabrekkum um daginn og séð þaðan fundinn á Vigrafirði. Fór hann þegar heim og sagði Snorra goða að fundurinn hefði orðið á Vigrafirði um daginn lítt vinsamlegur. Tóku þeir Snorri þá vopn sín og fóru inn til fjarðarins níu saman. Og er þeir komu þar voru þeir Steinþór í brottu og komnir inn af fjarðarísnum.
Sáu þeir Snorri á sár manna og voru þar engir menn látnir nema Freysteinn bófi en allir voru þeir sárir til ólífis.
Þorleifur kimbi kallar á Snorra goða og bað þá fara eftir þeim Steinþóri og láta engan þeirra undan komast.
Síðan gekk Snorri goði þangað sem Berþór hafði legið og sá þar blóðflekk mikinn. Hann tók upp allt saman, blóðið og snæinn, í hendi sér og kreisti og stakk í munn sér og spurði hverjum þar hefði blætt.
Þorleifur kimbi segir að Bergþóri hefir blætt.
Snorri segir að það var holblóð.
"Má það fyrir því," segir Þorleifur, "að það var af spjóti."
"Það hygg eg," sagði Snorri, "að þetta sé feigs manns blóð og munum vér eigi eftir fara."
Síðan voru Þorbrandssynir færðir heim til Helgafells og bundin sár þeirra.
Þóroddur Þorbrandsson hafði svo mikið sár aftan á hálsinn að hann hélt eigi höfðinu. Hann var í leistabrókum og voru votar allar af blóðinu. Heimamaður Snorra goða skyldi draga af honum. Og er hann skyldi kippa brókinni fékk hann eigi af honum komið.
Þá mælti hann: "Eigi er það logið af yður Þorbrandssonum er þér eruð sundurgerðamenn miklir að þér hafið klæði svo þröng að eigi verður af yður komið."
Þóroddur mælti: "Vantekið mun á vera." Eftir það spyrnti sá öðrum fæti í stokkinn og togaði af öllu afli og gekk eigi af brókin.
Þá gekk til Snorri goði og þreifaði um fótinn og fann að spjót stóð í gegnum fótinn milli hásinarinnar og fótleggsins og hafði níst allt samt, fótinn og brókina. Mælti Snorri þá að hann væri eigi meðalsnápur að hann hafði eigi hugsað slíkt.
Snorri Þorbrandsson var hressastur þeirra bræðra og sat undir borði hjá nafna sínum um kveldið og höfðu þeir skyr og ost. Snorri goði fann að nafni hans bargst lítt við ostinn og spurði hví hann mataðist svo seint. Snorri Þorbrandsson svaraði og sagði að lömbunum væri tregast um átið fyrst er þau eru nýkefld.
Þá þreifaði Snorri goði um kverkurnar á honum og fann að ör stóð um þverar kverkurnar og í tunguræturnar. Tók Snorri goði þá spennitöng og kippti brott örinni og eftir það mataðist hann.
Snorri goði græddi þá alla, Þorbrandssonu. Og er hálsinn Þórodds tók að gróa stóð höfuðið gneipt af bolnum nokkuð svo. Þá segir Þóroddur að Snorri vildi græða hann að örkumlamanni en Snorri goði kvaðst ætla að upp mundi hefja höfuðið þá er sinarnar hnýtti. En Þóroddur vildi eigi annað en aftur væri rifið sárið og sett höfuðið réttara. En þetta fór sem Snorri gat að þá er sinarnar hnýtti hóf upp höfuðið og mátti hann lítt lúta jafnan síðan. Þorleifur kimbi gekk alla stund síðan við tréfót.
46. kafliÞá er þeir Steinþór af Eyri koma til nausta á Bakka settu þeir þar upp skip sitt og gengu þeir bræður heim til bæjar. En þar var tjaldað yfir Bergþóri um nóttina.
Það er sagt að Þorgerður húsfreyja vildi eigi fara í rekkju um kveldið hjá Þormóði bónda sínum. Og í það bil kom maður neðan frá naustinu og sagði þá Bergþór látinn. Og er þetta spurðist fór húsfreyja í rekkju sína og er eigi getið að þeim hjónum yrði þetta síðan að sundurþykki.
Steinþór fór heim á Eyri um morguninn og var atfaralaust með mönnum veturinn þaðan í frá.
En um vorið er leið að stefnudögum þótti góðgjörnum mönnum í vant efni komið að þeir menn skyldu missáttir vera og deildir við eigast er þar voru göfgastir í sveit. Völdust þá til hinir bestu menn, vinir hvorratveggju, að leita um sættir með þeim. Og var Vermundur hinn mjóvi fyrirmaður að því og með honum margir góðgjarnir menn þeir er voru tengdamenn hvorratveggju. En það varð af um síðir að grið voru sett og þeir sættust og er það flestra manna sögn að málin kæmu í dóm Vermundar. En hann lauk gerðum upp á Þórsnessþingi og hafði við hina vitrustu menn er þar voru komnir.
Það er frá sagt sáttargerðinni að mannalátum var saman jafnað og atferðum. Var það jafnt gert sár Þórðar blígs í Álftafirði og sár Þórodds sonar Snorra goða. En sár Más Hallvarðssonar og högg það er Steinþór hjó til Snorra goða, þar komu í móti þriggja manna víg þeirra er féllu í Álftafirði. En þau víg er Styr vó í hvorn flokk voru jöfn látin. En á Vigrafirði var líkt látið víg Bergþórs og sár þriggja Þorbrandssona en víg Freysteins bófa kom á móti þeim manni er áður var ótaldur og látist hafði af Steinþóri í Álftafirði. Þorleifi kimba var bætt fóthöggið. En sá maður er látist hafði af Snorra goða í Álftafirði kom fyrir frumhlaup það að Þorleifur kimbi hafði þar víg vakið. Síðan var saman jafnað annarra manna sárum og bættur skakki sá er á þótti vera og skildust menn sáttir á þinginu og hélst sú sætt vel meðan þeir lifðu báðir, Steinþór og Snorri goði.
47. kafliSumar þetta hið sama eftir sættina bauð Þóroddur skattkaupandi Snorra goða mági sínum til heimboðs þangað til Fróðár og fór Snorri þangað við hinn níunda mann.
En er Snorri var að heimboðinu þá kærði Þóroddur fyrir honum að hann þóttist hafa bæði skömm og skapraun af ferðum Bjarnar Ásbrandssonar er hann fór að finna Þuríði, konu hans en systur Snorra goða. Sagði Þóroddur að honum þótti Snorri eiga að ráða bætur á þeim vandræðum.
Snorri var að heimboðinu nokkurar nætur. Leiddi Þóroddur hann á brott með sæmilegum gjöfum. Reið Snorri goði þaðan suður yfir heiði og gerði það orð á að hann mundi ríða til skips í Hraunhafnarós. Þetta var um sumarið um túnannir.
En er þeir komu suður á Kambsheiði þá mælti Snorri: "Hér munum vér ríða af heiðinni ofan að Kambi. Vil eg yður það kunnigt gera," segir hann, "að eg vil hafa tilfarar við Björn og taka hann af lífi ef færi gefur en eigi sækja hann í hús inn því að hús eru hér sterk en Björn er hraustur og harðfengur en vér höfum afla lítinn. En þeim mönnum hefir lítt sóst að sækja afarmenni slíkt í hús inn er með meira afla hafa til farið sem dæmi finnast að þeim Geir goða og Gissuri hvíta þá er þeir sóttu Gunnar að Hlíðarenda inn í hús með átta tigu manna en hann var einn fyrir og urðu sumir sárir en sumir drepnir og léttu frá atsókninni áður Geir goði fann það af skyni sjálfs síns að honum fækkuðust skotvopnin. Nú með því," sagði hann, "að Björn sé úti, sem nú er von með því að þerridagur er góður, þá ætla eg þér Már frændi að sæta áverkum við Björn. Og sjá þú svo fyrir að hann er engi klektunarmaður og er því fangs von að frekum úlfi er hann er ef hann fær eigi þann áverka í fyrstunni er honum vinnist skjótt til bana."
Og er þeir riðu ofan af heiðinni að bænum þá sáu þeir að Björn var úti á túnvelli og smíðaði vögur og var ekki manna hjá honum og engi vopn nema lítil öx og tálguhnífur mikill er hann hafði tekið með úr vagaborunum. Hann var spannar fram frá hefti.
Björn sá að þeir Snorri goði riðu ofan af heiðinni og á völlinn. Hann kenndi þegar mennina. Snorri goði var í blárri kápu og reið fyrstur.
Það var fangaráð Bjarnar að hann tók hnífinn og gekk snúðigt í móti þeim. Hann tók annarri hendi í kápuermina er þeir Snorri fundust en annarri hendi hnefaði hann hnífinn og hélt sem honum var hægst að leggja fyrir brjóst Snorra ef honum sýndist það ráð.
Björn heilsaði þeim þegar þeir fundust en Snorri tók kveðju hans en Mávi féllust hendur því að honum þótti Björn skjótlegur til meins við Snorra ef honum væri nokkuð gert til ófriðar. Síðan sneri Björn á leið með þeim Snorra goða og spurði almæltra tíðinda og hélt þeim tökum er hann fékk í fyrstunni.
Síðan tók Björn til orða: "Svo er háttað Snorri bóndi að eg dylst eigi við að eg hafi gert þá hluti til yðvar er þér megið vel sakir á gefa og mér er það sagt að þér hafið þungan huga til mín. Nú er mér best að skapi," segir hann, "ef þér eigið nokkur erindi við mig önnur en að koma hér um farinn veg að þér lýsið yfir því. En ef það er eigi þá vil eg að þér játið mér griðum og vil eg snúa aftur því að eg er eigi leiðifífl."
Snorri svarar: "Svo hefir þú fangsæll orðið á fundi vorum að þú munt grið hafa að sinni hversu sem áður var ætlað. En þess vil eg biðja þig að þú heft þig að héðan af að glepja Þuríði systur mína því að eigi mun um heilt gróa með okkur ef þú heldur þar um teknum hætti."
Björn svarar: "Því einu vil eg heita þér er eg efni en eg veit eigi hversu eg fæ það efnt," segir hann, "ef við Þuríður erum sams héraðs."
Snorri svarar: "Þig heldur hér eigi svo mart að þú megir eigi vel bægja hér héraðsvist."
Björn svarar: "Satt er það er nú segir þú. Skal og svo vera, er þú ert sjálfur kominn á minn fund og þann veg sem fundur vor er orðinn, að eg mun því heita þér að þið Þóroddur skuluð eigi hafa skapraun af fundum okkrum Þuríðar hina næstu vetur."
"Þá gerir þú vel," segir Snorri.
Eftir þetta skildu þeir. Reið Snorri goði til skips og síðan heim til Helgafells.
Annan dag eftir reið Björn suður í Hraunhöfn til skips og tók sér þar þegar far um sumarið og urðu heldur síðbúnir. Þeir tóku út landnyrðing og viðraði það löngum um sumarið en til skips þess spurðist eigi síðan langan tíma.
48. kafliEftir sætt Eyrbyggja og Álftfirðinga fóru Þorbrandssynir til Grænlands, Snorri og Þorleifur kimbi, við hann er kenndur Kimbavogur á Grænlandi í millum jökla, og bjó Þorleifur á Grænlandi til elli. En Snorri fór til Vínlands hins góða með Karlsefni. Er þeir börðust við Skrælingja þar á Vínlandi þá féll þar Snorri Þorbrandsson, hinn röskvasti maður.
Þóroddur Þorbrandsson bjó eftir í Álftafirði. Hann átti Ragnhildi Þórðardóttur Þorgilssonar arnar en Þorgils örn var sonur Hallsteins goða af Hallsteinsnesi er þrælana átti.
49. kafliÞað er nú næst sagt að Gissur hvíti og Hjalti mágur hans komu út með kristniboð og allir menn voru skírðir á Íslandi og kristni var í lög tekin á alþingi og flutti Snorri goði mest við Vestfirðinga að við kristni væri tekið.
Og þegar er þingi var lokið lét Snorri goði gera kirkju að Helgafelli en aðra Styr mágur hans undir Hrauni. Og hvatti menn það mjög til kirkjugerðar að það var fyrirheit kennimanna að maður skyldi jafnmörgum mönnum eiga heimilt rúm í himinríki sem standa mættu í kirkju þeirri er hann léti gera.
Þóroddur skattkaupandi lét og kirkju gera á bæ sínum að Fróðá en prestar urðu eigi til að veita tíðir að kirkjum þótt gervar væru því að þeir voru fáir á Íslandi í þann tíma.
50. kafliSumar það er kristni var í lög tekin á Íslandi kom skip af hafi út við Snæfellsnes. Það var Dyflinnarfar. Voru þar á írskir menn og suðureyskir en fáir norrænir. Þeir lágu mjög lengi um sumarið við Rif og biðu þar byrjar að sigla inn eftir firði til Dögurðarness og fóru margir menn um Nesið til kaupa við þá.
Þar var á ein kona suðureysk er Þórgunna hét. Það sögðu hennar skipmenn að hún mundi hafa gripi þá með að fara að slíkir mundu torgætir á Íslandi.
En er Þuríður húsfreyja að Fróðá spyr þetta var henni mikil forvitni á að sjá gripina því að hún var glysgjörn og skartskona mikil. Fór hún þá til skips og fann Þórgunnu og spurði ef hún hefði kvenbúnað nokkurn þann er afbragðlegur væri. Hún kveðst enga gripi eiga til sölu en hafa lést hún gripi svo að hún væri óhneist að boðum eða öðrum mannfundum. Þuríður beiddist að sjá gripina og það veitti hún henni og sýndust henni vel gripirnir og sem best farandi en eigi fémiklir.
Þuríður falaði gripina en Þórgunna vildi eigi selja. Þá bauð Þuríður henni þangað til vistar með sér því að hún vissi að Þórgunna var fjölskrúðig og hugðist hún mundu fá gripina af henni í tómi.
Þórgunna svarar: "Gott þykir mér að fara til vistar með þér en vita skaltu það að eg nenni lítt að gefa fyrir mig því að eg er vel verkfær. Er mér og verkið óleitt en þó vil eg engi vosverk vinna. Vil eg sjálf ráða hvað eg skal gefa fyrir mig af því fé sem eg hefi."
Talaði Þórgunna um heldur harðfærlega en Þuríður vildi þó að hún færi þangað. Voru þá föng Þórgunnu borin af skipi. Það var örk mikil læst, er hún átti, og sviptikista. Var það þá fært heim til Fróðár.
Og er Þórgunna kom til vistar sinnar bað hún fá sér rekkju. Var henni fengið rúm í innanverðum skála. Þá lauk hún upp örkina og tók þar upp úr rekkjuklæði og voru þau öll mjög vönduð. Breiddi hún yfir rekkjuna enskar blæjur og silkikult. Hún tók og úr örkinni rekkjurefil og allan ársalinn með. Það var svo góður búningur að menn þóttust eigi slíkan séð hafa þess kyns.
Þá mælti Þuríður húsfreyja: "Met þú við mig rekkjubúnaðinn."
Þórgunna svarar: "Eigi mun eg liggja í hálmi fyrir þig þó að þú sért kurteis og berist á mikið."
Þetta mislíkar Þuríði og falar eigi oftar gripina. Þórgunna vann voðverk hvern dag er eigi var heyverk. En þá er þerrar voru vann hún að þurru heyi í töðunni og lét gera sér hrífu þá er hún vildi ein með fara.
Þórgunna var mikil kona vexti, bæði digur og há og holdug mjög, svartbrún og mjóeyg, jörp á hár og hærð mjög, háttagóð hversdaglega og kom til kirkju hvern dag áður hún færi til verks síns en eigi var hún glöð eða margmálug hversdaglega. Það var áhugi manna að Þórgunna mundi sótt hafa hinn sétta tug og var hún þó kona hin ernasta.
Í þenna tíma var Þórir viðleggur kominn á framfærslu til Fróðár og svo Þorgríma galdrakinn kona hans og lagðist heldur þungt á með þeim Þórgunnu.
Kjartan sonur bónda var þar svo manna að Þórgunna vildi flest við eiga og elskaði hún hann mjög en hann var heldur fár við hana og varð hún oft af því skapstygg. Kjartan var þá þrettán vetra eða fjórtán og var bæði mikill vexti og skörulegur að sjá.
51. kafliSumar var heldur óþerrisamt en um haustið komu þerrar góðir. Var þá svo komið heyverkum að Fróðá að taða öll var slegin en fullþurr nær helmingurinn. Kom þá góður þerridagur og var veður kyrrt og þunnt svo að hvergi sá ský á himni.
Þóroddur bóndi stóð upp snemma um morguninn og skipaði til verks. Tóku þá sumir til ekju en sumir hlóðu heyinu en bóndi skipaði konum til að þurrka heyið og var skipt verkum með þeim og var Þórgunnu ætlað nautsfóður til atverknaðar. Gekk mikið verk fram um daginn.
En er mjög leið að nóni kom skýflóki svartur á himininn norður yfir Skor og dró skjótt yfir himin og þangað beint yfir bæinn. Þóttust menn sjá að regn mundi í skýinu. Þóroddur bað menn raka upp heyið en Þórgunna rifjaði þá sem óðast sitt hey. Tók hún eigi að raka upp þótt það væri mælt.
Skýflókann dró skjótt yfir. Og er hann kom yfir bæinn að Fróðá fylgdi honum myrkur svo mikið að menn sáu eigi úr túninu á brott og varla handa sinna skil. Úr skýinu kom svo mikið regn að heyið varð allt vott það er flatt lá. Flókann dró og skjótt af og lýsti veðrið. Sáu menn að blóði hafði rignt í skúrinni.
Um kveldið gerði þerri góðan og þornaði blóðið skjótt á heyinu öllu öðru en því er Þórgunna þurrkaði. Það þornaði eigi og aldrei þornaði hrífan er hún hafði haldið á.
Þóroddur spurði hvað Þórgunna ætlar að undur þetta muni benda. Hún kvaðst eigi það vita "en það þykir mér líklegast," segir hún, "að þetta muni furða nokkurs þess manns er hér er."
Þórgunna gekk heim of kveldið og til rúms síns og lagði af sér klæðin þau hin blóðgu. Síðan lagðist hún niður í rekkjuna og andvarpaði mjög. Fundu menn að hún hafði sótt tekið.
Skúr þessi hafði hvergi víðar komið en að Fróðá.
Þórgunna vildi engum mat bergja um kveldið. En um morguninn kom Þóroddur bóndi til hennar og spurði að um sótt hennar hvern enda hún hyggur að eiga mundi.
Hún kvaðst það ætla að hún mundi eigi taka fleiri sóttir.
Síðan mælti hún: "Þig kalla eg vitrastan mann hér á bæ," segir hún. "Vil eg því þér segja mína tilskipan hverja eg vil á hafa um fé það er eg á eftir og um sjálfa mig því að það mun svo fara sem eg segi," sagði hún, "þó að yður þyki fátt merkilegt um mig að eg get lítt duga munu af því að bregða sem eg segi fyrir. Hefir þetta þann veg upp hafist að eg get eigi til mjórra enda þoka munu ef eigi eru rammar skorður við reistar."
Þóroddur svarar: "Eigi þykir mér lítil von að þú verðir nærgæt um þetta. Vil eg og því heita þér," sagði hann, "að bregða eigi af þínum ráðum."
Þórgunna mælti: "Það er skipan mín að eg vil láta færa mig í Skálaholt, ef eg andast úr þessi sótt, því að mér segir svo hugur um að sá staður muni nokkura hríð verða mest dýrkaður á þessu landi. Veit eg og," segir hún, "að þar munu nú vera kennimenn að veita mér yfirsöngva. Vil eg þess biðja þig að þú látir mig þangað flytja. Skaltu þar fyrir hafa af minni eign svo að þig skaði eigi í. En af óskiptri minni eigu skal Þuríður hafa skarlatsskikkju þá er eg á. Geri eg það til þess að hún skuli létta á leggja þótt eg sjái fyrir öðru mínu fé slíkt er mér líkar. En eg vil að þú takir í kostnað þann er þú hefir fyrir mér það er þú vilt eða henni líkar af því er ég læt til. Gullhring á eg og hann skal fara til kirkju með mér en rekkju mína og rekkjutjald vil eg láta brenna í eldi því að það mun engum manni að nytjum verða. Og mæli eg þetta eigi fyrir því að eg unni engum að njóta gripanna ef eg vissi að að nytjum mætti verða. En nú mæli eg því svo mikið um," segir hún, "að mér þykir illt að menn hljóti svo mikil þyngsl af mér sem eg veit að verða mun ef af er brugðið því sem eg segi fyrir."
Þóroddur hét að gera eftir því sem hún beiddi. Eftir þetta megnaðist sóttin við Þórgunnu. Lá hún eigi mörg dægur áður hún andaðist. Líkið var fyrst borið í kirkju og lét Þóroddur gera kistu að líkinu.
Um daginn eftir lét Þóroddur bera út rekkjuklæðin í veður og færði til viðu og lét hlaða þar bál hjá. Þá gekk að Þuríður húsfreyja og spyr hvað hann ætlar að gera af rekkjuklæðunum. Hann kveðst ætla að brenna þau í eldi sem Þórgunna hafði fyrir mælt.
"Það vil eg eigi," segir hún, "að þvílíkar gersemar séu brenndar."
Þóroddur svarar: "Hún mælti mikið um að eigi mundi duga að bregða af því er hún mælti fyrir."
Þuríður mælti: "Slíkt er eigi nema öfundarmál eitt. Unni hún engum manni að njóta, hefir hún því svo fyrir mælt. En þar munu engi býsn eftir koma hversu sem slíku er breytt."
"Eigi veit eg," segir hann, "að þetta takist annan veg en hún hefir fyrir sagt."
Síðan lagði hún hendur yfir háls honum og bað að hann skyldi eigi brenna rekkjubúnaðinn. Sótti hún þá svo fast að honum gekkst hugur við og kom þessu máli svo að Þóroddur brenndi dýnur og hægindi en hún tók til sín kult og blæjur og ársalinn allan og líkaði þó hvorigu vel.
Eftir þetta var búin líkferð og fengnir til skilgóðir menn að fara með líkinu og góðir hestar er Þóroddur átti. Líkið var sveipað líndúkum en saumað eigi um og síðan lagt í kistu. Fóru þeir síðan suður um heiði svo sem leiðir liggja. Og er eigi sagt af þeirra ferð áður þeir fóru suður um Valbjarnarvöllu. Þar fengu þeir keldur blautar mjög og lá oft ofan fyrir þeim, fóru síðan suður til Norðurár og yfir ána að Eyjarvaði og var djúp áin. Var bæði hregg og allmikið regn.
Þeir komust að lyktum á bæ þann í Stafholtstungum er í Nesi heitir hinu neðra, kvöddu þar gistingar en bóndi vildi engan greiða gera þeim. En með því að þá var komið að nótt þóttust þeir eigi mega fara lengra því að þeim þótti eigi friðlegt að eiga við Hvítá um nótt. Þeir tóku þar af hestum sínum og báru líkið í hús eitt fyrir dyrum úti, gengu síðan til stofu og fóru af klæðum sínum og ætluðu að vera þar um nótt matlausir en heimamenn fóru í dagsljósi í rekkju.
Og er menn komu í rekkjur heyrðu þeir hark mikið í búrið. Var þá farið að forvitnast hvort eigi væru þjófar inn komnir. Og er menn komu til búrsins var þar sén kona mikil. Hún var nökvin svo að hún hafði engan hlut á sér. Hún starfaði að matseld. En þeir menn er hana sáu urðu svo hræddir að þeir þorðu hvergi nær að koma.
En er líkmenn vissu þetta fóru þeir til og sáu hversu háttað var. Þar var Þórgunna komin og sýndist það ráð öllum að fara eigi til með henni. Og er hún hafði þar unnið slíkt er hún vildi, þá bar hún mat í stofu. Eftir það setti hún borð og bar þar á mat.
Þá mæltu líkmenn við bónda: "Vera má að svo lúki við áður vér skiljum að þér þyki alkeypt að þú vildir engan greiða gera oss."
Þá mæltu bæði bóndi og húsfreyja: "Við viljum víst gefa yður mat og gera yður annan greiða þann er þér þurfið."
Og þegar er bóndi hafði boðið þeim greiða gekk Þórgunna fram úr stofunni og út eftir það og sýndist hún eigi síðan.
Eftir þetta var gert ljós í stofu og dregin af gestum klæði þau er vot voru en fengin önnur þurr í staðinn. síðan gengu þeir undir borð og signdu mat sinn en bóndi lét stökkva vígðu vatni um öll hús. Átu gestir mat sinn og sakaði engan mann þótt Þórgunna hefði matbúið, sváfu af þá nótt og voru þar í allbeinum stað.
Um morguninn bjuggu þeir ferð sína og tókst þeim allgreitt en hvar sem þessi atburður spurðist sýndist flestum það ráð að vinna þeim þann beina er þeir þurftu. Var þaðan af allt tíðindalaust um þeirra ferð.
Og er þeir komu í Skálaholt voru fram greiddir gripir þeir er Þórgunna hafði þangað gefið. Tóku þá kennimenn glaðlega við öllu saman. Var Þórgunna þar jörðuð en líkmenn fóru heim og tókst þeim allt greitt um sína ferð og komu með öllu heilu heim.
52. kafliAð Fróðá var eldaskáli mikill og lokrekkja innar af eldaskálanum sem þá var siður. Utar af eldaskálanum voru klefar tveir, sinn á hönd hvorri. Var hlaðið skreið í annan en mjölvi í annan. Þar voru gervir máleldar hvert kveld í eldaskála sem siður var til. Sátu menn löngum við eldana áður menn gengu til matar.
Það kveld er líkmenn komu heim, þá er menn sátu við málelda að Fróðá, þá sáu menn á veggþili hússins að komið var tungl hálft. Það máttu allir menn sjá þeir er í húsinu voru. Það gekk öfugt um húsið og andsælis. Það hvarf eigi á brott meðan menn sátu við elda.
Þóroddur spurði Þóri viðlegg hvað þetta mundi boða. Þórir kvað það vera urðarmána "mun hér eftir koma manndauður." segir hann.
Þessi tíðindi bar þar við viku alla að urðarmáni kom inn hvert kveld sem annað.
53. kafliÞað bar hér næst til tíðinda að sauðamaður kom inn með hljóðleikum miklum. Hann mælti fátt en af styggð það er var. Sýndist mönnum þann veg helst sem hann mundi leikinn því að hann fór hjá sér og talaði við sjálfan sig og fór svo fram um hríð.
En er liðnar voru af vetri tvær vikur kom sauðamaður heim eitt kveld, gekk þá til rekkju sinnar og lagðist þar niður. En um morguninn var hann dauður er menn komu til hans og var hann grafinn þar að kirkju.
Brátt eftir þetta gerðust reimleikar miklir.
Það var eina nótt að Þórir viðleggur gekk út nauðsynja sinna og frá dyrunum annan veg. Og er hann vildi inn ganga sá hann að sauðamaður var kominn fyrir dyrnar. Vildi Þórir inn ganga en sauðamaður vildi það víst eigi. Þá vildi Þórir undan leita en sauðamaður sótti eftir og fékk tekið hann og kastaði honum heim að dyrunum. Honum varð illt við þetta og komst þó til rúms síns og var víða orðinn kolblár. Af þessu tók hann sótt og andaðist. Var hann og grafinn þar að kirkju. Sýndust þeir báðir jafnan síðan í einni ferð, sauðamaður og Þórir viðleggur. Og af þessu varð fólkið allt óttafullt sem von var.
Eftir andlát Þóris tók sótt húskarl Þórodds og lá þrjár nætur áður hann andaðist. Síðan dó hver að öðrum þar til er sex voru látnir. Var þá komið að jólaföstu en þó var þann tíma eigi fastað á Íslandi.
Skreiðinni var svo hlaðið í klefann að hann var svo fullur að eigi mátti hurðinni upp lúka og tók hlaðinn upp undir þvertré og varð stiga til að taka að rjúfa hlaðann ofan. Það var til tíðinda um kveldum, er menn sátu við málelda, að heyrt var í klefann að rifin var skreiðin en þá er til var leitað fannst þar eigi kvikt.
Það var um veturinn litlu fyrir jól að Þóroddur bóndi fór út á Nes eftir skreið sinni. Þeir voru sex saman á teinæringi og voru út þar um nóttina.
Það var tíðinda að Fróðá það sama kveld, er Þóroddur hafði heiman farið, að máleldar voru gervir og er menn komu fram sáu þeir að selshöfuð kom upp úr eldgrófinni. Heimakona ein kom fyrst fram og sá þessi tíðindi. Hún tók lurk einn er lá í dyrunum og laust í höfuð selnum. Hann gekk upp við höggið og gægðist upp á ársalinn Þórgunnu. Þá gekk til húskarl og barði selinn. Gekk hann upp við hvert högg þar til að hann kom upp yfir hreifana, þá féll húskarl í óvit. Urðu þá allir óttafullir þeir er við voru.
Þá hljóp til sveinninn Kjartan og tók upp mikla járndrepsleggju og laust í höfuð selnum og varð það högg mikið en hann skók höfuðið og litaðist um. Lét Kjartan þá fara hvert að öðru en selurinn gekk þá niður við sem hann ræki hæl. Hann barði þar til að selurinn gekk svo niður að hann landi saman gólfið fyrir ofan höfuð honum og svo fór jafnan um veturinn að allir fyrirburðir óttuðust mest Kjartan.
54. kafliUm morguninn, er þeir Þóroddur fóru utan af Nesi með skreiðina, týndust þeir allir út fyrir Enni. Rak þar upp skipið og skreiðina undir Ennið en líkin fundust eigi.
En er þessi tíðindi spurðust til Fróðár buðu þau Kjartan og Þuríður nábúum sínum þangað til erfis. Var þá tekið jólaöl þeirra og snúið til erfisins.
En hið fyrsta kveld er menn voru að erfinu og menn voru í sæti komnir, þá gengur Þóroddur bóndi í skálann og förunautar hans allir alvotir. Menn fögnuðu vel Þóroddi því að þetta þótti góður fyrirburður því að þá höfðu menn það fyrir satt að þá væri mönnum vel fagnað að Ránar ef sædauðir menn vitjuðu erfis síns. En þá var enn lítt af numin forneskjan þó að menn væru skírðir og kristnir að kalla.
Þeir Þóroddur gengu eftir endilöngum setaskálanum en hann var tvídyrður. Þeir gengu til eldaskála og tóku einskis manns kveðju. Settust þeir við eldinn en heimamenn stukku úr eldaskálanum en þeir Þóroddur sátu þar eftir þar til er eldurinn var fölskaður. Þá hurfu þeir á brott. Fór þetta svo hvert kveld, meðan erfið stóð, að þeir komu til eldanna. Hér var mart um rætt að erfinu. Gátu sumir að þetta mundi af taka er lokið væri erfinu. Fóru boðsmenn heim eftir veisluna en þar voru híbýli heldur daufleg eftir.
Það kveld er boðsmenn voru brottu voru gervir máleldar að vanda. En er eldar brunnu kom Þóroddur inn með sveit sína og voru allir votir. Settust þeir niður við eldinn og tóku að vinda sig. Og er þeir höfðu niður sest kom inn Þórir viðleggur og hans sveitungar sex. Voru þeir allir moldugir. Þeir skóku klæðin og hreyttu moldinni á þá Þórodd. Heimamenn stukku úr eldhúsinu sem von var að og höfðu hvorki á því kveldi ljós né steina og enga þá hluti að þeir hefðu neina veru af eldinum.
Annað kveld eftir var máleldur ger í öðru húsi. Var þá ætlað að þeir mundu síður þangað koma. En það fór eigi svo því að allt gekk með sama hætti og hið fyrra kveldið. Komu þeir hvorirtveggju til eldanna.
Hið þriðja kveld gaf Kjartan það ráð til að gera skyldi langeld mikinn í eldaskála en máleld skyldi gera í öðru húsi. Og svo var gert. Og þá endist með því móti að þeir Þóroddur sátu við langeld en heimamenn við hinn litla eld og svo fór fram um öll jólin.
Þá var svo komið að meir og meir lét í skreiðarhlaðanum. Var þá svo að heyra nætur sem daga að skreiðin væri rifin. Eftir það voru þær stundir að skreiðina þurfti að hafa. Var þá leitað til hlaðans og sá maður er upp kom á hlaðann sá þau tíðindi að upp úr hlaðanum kom rófa, vaxin sem nautsrófa sviðin. Hún var snögg og selhár. Sá maður er upp fór á hlaðann tók í rófuna og togaði og bað aðra menn til fara með sér. Fóru menn þá upp á hlaðann, bæði karlar og konur, og toguðu rófuna og fengu eigi að gert. Skildu menn eigi annað en rófan væri dauð. Og er þeir toguðu sem mest strauk rófan úr höndum þeim svo að skinnið fylgdi úr lófum þeirra er mest höfðu á tekið en varð eigi síðan vart við rófuna. Var þá skreiðin upp borin og var þar hver fiskur úr roði rifinn svo að þar beið engan fisk í þegar niður sótti í hlaðann en þar fannst engi hlutur kvikur í hlaðanum.
Næst þessum tíðindum tók sótt Þorgríma galdrakinn, kona Þóris viðleggs. Hún lá litla hríð áður hún andaðist og hið sama kveld sem hún var jörðuð sást hún í liði með Þóri bónda sínum. Þá endurnýjaði sóttina í annað sinn þá er rófan hafði sýnst og önduðust þá meir konur en karlar. Létust þá enn sex menn í hríðinni. En sumt fólk flýði fyrir reimleikum og afturgöngum.
Um haustið höfðu þar verið þrír tigir hjóna en átján önduðust en fimm stukku í brottu en sjö voru eftir að gói.
55. kafliEn þá er svo var komið undrum þeim var það einn dag að Kjartan fór inn til Helgafells að finna Snorra goða móðurbróður sinn og leitaði ráðs við hann, hvað að skyldi gera undrum þeim er yfir voru komin. Þá var kominn prestur sá til Helgafells er Gissur hvíti hafði sent Snorra goða. Sendi Snorri prestinn út til Fróðár með Kjartani og Þórð kausa son sinn og sex menn aðra. Hann gaf þau ráð til að brenna skyldi ársal Þórgunnu en sækja þá menn alla í dyradómi er aftur gengu, bað prest veita þar tíðir, vígja vatn og skrifta mönnum.
Síðan riðu þeir út til Fróðár og kvöddu menn af næstum bæjum með sér um leið og komu til Fróðár um kveldið fyrir kyndilmessu í þann tíma er máleldar voru gervir. Þá hafði Þuríður húsfreyja tekið sótt með þeim hætti sem þeir er látist höfðu.
Kjartan gekk inn þegar og sá að þeir Þóroddur sátu við eld sem þeir voru vanir. Kjartan tók ofan ársalinn Þórgunnu, gekk síðan í eldaskála, tók glóð af eldi og gekk út með. Var þá brenndur allur rekkjubúnaðurinn er Þórgunna hafði átt.
Eftir það stefndi Kjartan Þóri viðlegg en Þórður kausi Þóroddi bónda um það að þeir gengju þar um híbýli ólofað og firrðu menn bæði lífi og heilsu. Öllum var þeim stefnt er við eldinn sátu.
Síðan var nefndur dyradómur og sagðar fram sakir og farið að öllum málum sem á þingadómum. Voru þar kviðir bornir, reifð mál og dæmd.
En síðan er dómsorði var á lokið um Þóri viðlegg stóð hann upp og mælti: "Setið er nú meðan sætt er." Eftir það gekk hann út þær dyr sem dómurinn var eigi fyrir settur.
Þá var lokið dómsorði á sauðamann. En er hann heyrði það stóð hann upp og mælti: "Fara skal nú og hygg eg að þó væri fyrr sæmra."
En er Þorgríma galdrakinn heyrði að dómsorði var á hana lokið stóð hún upp og mælti: "Verið er nú meðan vært er."
Síðan var sóttur hver að öðrum og stóð svo hver upp sem dómur féll á og mæltu allir nokkuð er út gengu og fannst það á hvers orðum að nauðigur losnaði.
Síðan var sókn felld á Þórodd bónda. Og er hann heyrði það stóð hann upp og mælti: "Fátt hygg eg hér friða enda flýjum nú allir." Gekk hann þá út eftir það.
Síðan gengu þeir Kjartan inn. Bar prestur þá vígt vatn og helga dóma um öll hús. Eftir um daginn syngur prestur tíðir allar og messu hátíðlega og eftir það tókust af allar afturgöngur að Fróðá og reimleikar en Þuríði batnaði sóttarinnar svo að hún varð heil.
Um vorið eftir undur þessi tók Kjartan sér hjón og bjó að Fróðá lengi síðan og varð hinn mesti garpur.
56. kafliSnorri goði bjó að Helgafelli átta vetur síðan kristni var lögtekin á Íslandi. Þann vetur bjó hann þar síðast er Styr mágur hans var drepinn á Jörva í Flisuhverfi. Snorri goði fór eftir líkinu suður þangað og hann gekk í dyngjuna að Styr í Hrossholti þá er hann hafði upp sest og hélt um miðja dóttur bónda.
Það vor eftir keypti Snorri goði um lönd við Guðrúnu Ósvífursdóttur og færði Snorri þá bú sitt í Tungu í Sælingsdal. Það var tveim vetrum eftir víg Bolla Þorleikssonar, bónda Guðrúnar Ósvífursdóttur.
Það sama vor fór Snorri goði suður til Borgarfjarðar í málatilbúnað eftir víg Styrs við fjögur hundruð manna. Þar var í ferð þá með honum Vermundur hinn mjóvi bróðir Styrs. Hann bjó þá í Vatnsfirði. Þar var og Steinþór af Eyri og Þóroddur Þorbrandsson úr Álftafirði, Þorleikur Brandsson úr Krossnesi, bróðursonur Styrs, og margir aðrir virðingamenn. Þeir komust hið lengsta suður til Hvítár, að Haugsvaði gegnt Bæ. Þar var fyrir sunnan ána Illugi svarti, Kleppjárn hinn gamli, Þorsteinn Gíslason, Gunnlaugur ormstunga, Þorsteinn Þorgilsson úr Hafsfjarðarey. Hann átti Vigdísi, dóttur Illuga svarta. Margir voru þar og aðrir virðingamenn og höfðu meir en fimm hundruð manna.
Þeir Snorri goði náðu eigi að ríða suður yfir ána og höfðu þar fram málin er þeir komu framast svo að þeim var óhætt og stefndi Snorri Gesti um víg Styrs. Þessi sömu mál ónýtti Þorsteinn Gíslason fyrir Snorra goða um sumarið á alþingi.
Það sama haust reið Snorri goði suður til Borgarfjarðar og tók af lífi Þorstein Gíslason og Gunnar son hans. Þá var enn Steinþór af Eyri í för með honum og Þóroddur Þorbrandsson, Bárður Höskuldsson, Þorleikur Brandsson og alls voru þeir fimmtán.
Um vorið eftir fundust þeir á Þórsnessþingi, Snorri goði og Þorsteinn úr Hafsfjarðarey, mágur Illuga svarta. Þorsteinn var sonur Þorgils Þorfinnssonar Sel-Þórissonar frá Rauðamel. En móðir hans var Auður, dóttir Álfs úr Dölum, og var Þorsteinn systrungur Þorgils Arasonar af Reykjahólum og Þorgeirs Hávarssonar og Þorgils Höllusonar og Bitru-Odda og Álftfirðinga, Þorleifs kimba og þeirra Þorbrandssona. Þorsteinn hafði búið mál mörg til Þórsnessþings.
Það var einn dag í þingbrekku að Snorri goði spurði Þorstein hvort hann hefði þangað búið mál mörg til þings. Þorsteinn kveðst búið hafa þangað nokkur mál.
Snorri mælti: "Nú muntu vilja að vér greiðum svo mál með þér sem þér Borgfirðingar greidduð vor mál í fyrra vor?"
"Eigi fýsist eg þess," sagði Þorsteinn.
En er Snorri goði hafði þetta mælt lögðu hér stórþungt til synir Snorra goða og margir aðrir frændur Styrs, sögðu að Þorsteini skyldi sá bestur að þar félli hvert mál sem komið var og sögðu hitt maklegra að hann gyldi sjálfan sig fyrir þá svívirðing er þeir Illugi mágur hans höfðu gert til þeirra hið fyrra sumarið.
Þorsteinn svarar hér fá um og gengu menn við það af þingbrekku. Þorsteinn og frændur hans, Rauðmelingar, höfðu þar allir samt mikla sveit. En er til dóms skyldi ganga bjóst Þorsteinn til að hafa fram mál þau öll er hann hafði þangað búið. Og er frændur Styrs og tengdamenn vissu það vopnuðust þeir og gengu á milli dóms og Rauðmelinga er þeir vildu ganga að dóminum. Tókst þá bardagi með þeim.
Þorsteinn úr Hafsfjarðarey geymdi eigi annars en sækja þar að sem fyrir var Snorri goði. Þorsteinn var bæði mikill maður og sterkur og röskur til vopns.
En er Þorsteinn sótti fast að Snorra þá hljóp fram fyrir hann Kjartan frá Fróðá systursonur hans. Börðust þeir Þorsteinn tveir lengi og voru þeirra vopnaskipti mjög harðskeytt. Eftir það komu til beggja vinir og gengu millum og komu á griðum.
Eftir bardagann mælti Snorri goði við Kjartan frænda sinn: "Fram sóttir þú nú mjög í dag, Breiðvíkingurinn."
Kjartan svarar heldur reiðulega: "Eigi þarftu að bregða mér ætt minni
Í bardaga þessum féllu af Þorsteini sjö menn en margir urðu sárir af hvorumtveggjum. Málum þessum var þar slegið í sætt þegar á þinginu og var Snorri goði ósmár í öllum sáttmálum því að hann vildi eigi að þessi mál kæmu til alþingis því að þá var eigi sæst enn á víg Þorsteins Gíslasonar. Þóttist hann þó ærnu eiga að svara á alþingi að eigi væri þessi mál að kæra.
Um þessi tíðindi öll saman, víg Þorsteins Gíslasonar og Gunnars sonar hans og síðan um bardagann á Þórsnessþingi, orti Þormóður Trefilsson í Hrafnsmálum vísu þessa:
- Meirr vó hinn móðbarri
- menn að hjörsennu
- týnir tjörreinar
- tvo fyr á sunnan.
- Lágu sjö síðan,
- slíks eru jarteignir,
- gífrs á grand-nesi
- gumnar fjörnumnir.
Var skilið í sætt þeirra að Þorsteinn skyldi fram hafa mál sín öll á Þórsnessþingi sem hann hafði þangað til boðið. En um sumarið á alþingi var sæst á víg Þorsteins Gíslasonar og Gunnars sonar hans. Réðust þá til utanferðar þeir menn er til víganna höfðu farið með Snorra goða.
Þetta sumar tók Þorsteinn úr Hafsfjarðarey Rauðmelingagoðorð úr Þórsnessþingi því að hann þóttist þar aflvani orðið hafa fyrir Snorrungum. Tóku þeir frændur þá upp þing í Straumfirði og héldu það lengi síðan.
57. kafliEn er Snorri goði hafði fá vetur búið í Sælingsdalstungu þá bjó sá maður á Eyri í Bitru norður er Óspakur hét. Hann var sonur Kjallaks frá Kjallaksá af Skriðinsenni. Óspakur var kvongaður maður. Hann átti son þann er Glúmur hét og var ungur í þann tíma. Óspakur var manna mestur og sterkastur. Hann var óþokkasæll og hinn mesti ójafnaðarmaður. Hann hafði með sér karla sjö eða átta og voru þeir mjög sakgæfir við menn þar norður. Höfðu þeir jafnan skip fyrir landi og tóku af hvers manns eigu eða rekum það er þeim sýndist.
Álfur hinn litli hét maður. Hann bjó í Þambárdal í Bitru. Hann átti vel fé og var hinn mesti maður í búi sínu. Hann var þingmaður Snorra goða og varðveitti reka hans út undir Guðlaugshöfða. Álfur þóttist og kenna kulda af Óspaki og hans félögum og kærði það jafnan fyrir Snorra goða þá er þeir fundust.
Þórir Gull-Harðarson bjó þá í Tungu í Bitru. Hann var vinur Sturlu Þjóðrekssonar er Víga-Sturla var kallaður. Hann bjó á Staðarhóli í Saurbæ. Þórir var gildur bóndi og var fyrir mönnum um Bitruna. Hafði hann umboð og varðveislu á rekum Sturlu norður þar. Þeir Óspakur og Þórir eldu oft grátt silfur og veitti ýmsum léttara. Var Óspakur fyrirmaður út þar um Krossárdal og Ennið.
Það var einn vetur að snemma kom á vetrarríki mikið og gerði þegar jarðbönn þar um Bitruna. Tóku menn þá aflát stór en sumir ráku fé sitt um heiði. Þetta sumar áður hafði Óspakur látið gera virki á bæ sínum á Eyri. Það var öruggt vígi ef menn væru til varnar. Um veturinn á gói kom hríð mikil og hélst hún viku. Það var norðanveður mikið. En er af létti hríðinni sáu menn að hafís var að kominn allt hið ytra en þá var ísinn eigi kominn inn í Bitruna. Fóru menn þá að kanna fjörur sínar. En frá því er sagt að út frá Stiku, á milli og Guðlaugshöfða, hafði rennt upp reyður mikil. Í hval þeim átti mest Snorri goði og Sturla Þjóðreksson. Álfur hinn litli og enn fleiri bændur áttu þar nokkuð í. Menn fóru til þar um Bitruna og skáru hvalinn eftir tilskipan Þóris og Álfs.
Og er menn voru að hvalskurðinum sáu þeir að skip reri handan um fjörðinn frá Eyri og kenndu að það var tólfæringur mikill er Óspakur átti. Lentu þeir þar við hvalinn og gengu þar upp fimmtán menn alvopnaðir.
Og er Óspakur kom á land gekk hann að hvalnum og spyr hverjir fyrir hvalnum réðu.
Þórir sagði að hann réði fyrir þeim er Sturla átti en Álfur fyrir þeim er hann átti svo og fyrir þeim er Snorri goði átti "en þá ræður hver fyrir sínum hlut annarra bónda."
Óspakur spyr hvað þeir vildu fá honum af hvalnum.
Þórir svarar: "Ekki vil eg fá þér af þeim hlut er eg skal annast en eg veit eigi nema bændur vilji selja þann er þeir eiga eða hvað skal við gefa?"
"Veistu það Þórir," sagði Óspakur, "að eg er eigi vanur að kaupa hval að yður Bitrumönnum."
"Það er mér þó von," segir Þórir, "að þú fáir engan ókeypis."
Hvalurinn lá í kös sá er skorinn var og var engum skipt. Óspakur bað sína menn ganga til og bera hvalinn út á skipið. Þeir er við hvalinn voru höfðu fátt vopna nema öxar þær er þeir skáru hvalinn með.
En er Þórir sá að þeir Óspakur gengu til hvalsins hét hann á menn að þeir skyldu eigi láta rænast. Hljópu þeir þá til öðrum megin. Gengu þeir þá frá hinum óskorna hvalnum og varð Þórir skjótastur. Sneri þegar Óspakur honum í móti og laust hann með öxarhamri. Kom höggið við eyrað og féll hann þegar í óvit. En þeir er honum voru næstir tóku til hans og kipptu honum að sér og styrmdu yfir honum meðan hann lá í óvitinu. En þá varð hvalurinn eigi varður.
Þá kom að Álfur hinn litli og bað þá eigi taka hvalinn.
Óspakur mælti: "Far þú eigi til Álfur," segir hann, "þú hefir haus þunnan en eg hefi öxi þunga. Mun ferð þín verri en Þóris ef þú gengur feti framar."
Þetta heilræði hafði Álfur sem honum var kennt.
Þeir Óspakur báru hvalinn á skipið og höfðu það gert áður Þórir vitkaðist. En er hann vissi hvað títt var ávítaði hann sína menn að þeim tækist auvirðlega er þeir stóðu hjá er sumir voru ræntir en sumir barðir. Hljóp Þórir þá upp. En Óspakur hafði þá flotað skipinu og létu frá landi, reru síðan vestur yfir fjörðinn til Eyrar og störfuðu fyrir föngum sínum og lét Óspakur enga þá frá sér fara er þessa ferð höfðu farið. Höfðu þeir þar setu og bjuggust fyrir í virkinu. Þeir Þórir skiptu hvalnum og létu það vera allra skaða er upp var tekið, eftir því sem hverjir áttu í hvalnum. Fóru heim allir eftir þetta. Var nú fjandskapur mikill með þeir Þóri og Óspaki. En af því að Óspakur hafði mannmart þá gengu þeim skjótt upp föngin.
58. kafliÞað var eina nótt að þeir Óspakur fóru í Þambárdal fimmtán saman og gengu þar inn að Álfi og ráku hann í stofu og hjú hans öll meðan þeir rændu þar og báru þaðan á fjórum hestum.
En menn höfðu varir orðið við ferð þeirra frá Fjarðarhorni og var þaðan sendur maður í Tungu að segja Þóri. Þórir safnaði þegar mönnum og urðu saman átján og fóru ofan til fjarðarbotnsins. Sá Þórir þá að þeir Óspakur fóru umfram og fóru þá út frá Fjarðarhorni.
Og er Óspakur sá eftirferðina mælti hann: "Menn fara þar og mun þar vera Þórir og mun ætla nú að hefna höggsins þess er eg laust hann á vetri. Eru þeir átján en vér fimmtán og búnir betur. Er það vant að sjá hverjir enn verða höggum fegnir. En hestar þeir er vér höfum haft úr Þambárdal munu vera heimfúsir en eg vil eigi láta af takast það er vér höfum höndum á komið. Skulu nú tveir vorir menn, þeir er minnst eru viðbúnir, reka klyfjahestana fyrr út til Eyrar en láta menn fara í móti oss þá sem heima eru en vér þrettán munum hér taka í móti þeim slíkt sem verða má."
Þeir gerðu sem Óspakur mælti. Og er þeir Þórir komu eftir heilsaði Óspakur þeim og spurði að tíðindum. Hann var mjúkur viðmælis og vildi svo dvelja þá Þóri. Þórir spurði hvaðan þeir hefðu föng haft.
Óspakur segir að þeir höfðu úr Þambárdal.
"Hvern veg komust þér að því?" segir Þórir.
Óspakur svarar: "Hvorki voru gefin né goldin né sölum seld."
"Viljið þér þá laust láta," segir Þórir, "og fá oss í hendur?"
Óspakur sagðist eigi því nenna.
Síðan hljópust þeir á og tókst þar bardagi. Voru þeir Þórir hinir áköfustu en þeir Óspakur vörðust alldrengilega. Varð þeim þó handfátt og urðu þeir sumir sárir en sumir féllu. Þórir hafði bjarnsviðu í hendi og hljóp að Óspaki og lagði til hans en Óspakur laust af sér lagið. En er Þórir hafði sér mjög til varið en ekki varð fyrir spjótinu þá féll hann á knéin og laut áfram við. Óspakur hjó þá á bak Þóri með öxi og varð þar við brestur mikill.
Óspakur mælti: "Það mun þig letja langfaranna Þórir," sagði hann.
Þórir sagði: "Má það, en fara hygg eg mig enn munu fullum dagleiðum fyrir þér og höggi þínu."
Þórir hafði haft tygilhníf á hálsi sem þá var títt og kastað á bak sér aftur og hafði þar komið í höggið en hann hafði skeinst á hrygglundunum tveim megin og þó lítt.
Eftir það hljóp til förunautur Þóris og hjó til Óspaks en hann brá við öxinni og kom í skaftið svo að í sundur tók og féll þá öxin niður. Þá kallar Óspakur og bað sína menn undan halda. Tók hann þá og sjálfur að renna. En þegar er Þórir stóð upp þá skaut hann sviðunni eftir Óspaki og kom í lærið og renndi fram utan lærs. Óspakur kippti brott sviðunni úr sárinu og snerist við. Sendi hann aftur sviðuna og kom á þann miðjan er höggvið hafði til hans og féll sá dauður til jarðar.
Eftir það rann Óspakur og fylgdarmenn hans en þeir Þórir eltu þá út með fjörum mjög svo til Eyrar. Þá fóru menn heiman af bænum, bæði karlar og konur. Hurfu þeir Þórir þá aftur. Var þá aðfaralaust með þeim þaðan af um veturinn. Á þeim fundi féllu þrír menn af Óspaki en einn af Þóri en margir urðu sárir af hvorumtveggjum.
59. kafliSnorri goði tók við málum Álfs hins litla öllum á hendur þeim Óspaki og gerði þá Óspak alla sekja á Þórsnessþingi. Eftir þingið fór Snorri goði heim í Tungu og sat heima til féránsdóms. Fór hann þá norður í Bitru með fjölmenni. Og er hann kom þar var Óspakur á brottu með allt sitt. Höfðu þeir farið norður á Strandir fimmtán saman og höfðu tvö skip. Þeir voru á Ströndum um sumarið og gerðu þar margar óspektir. Þeir bjuggust fyrir norður í Þaralátursfirði og söfnuðu að sér mönnum. Þar kom til þeirra sá maður er Hrafn hét og var kallaður víkingur. Hann var einn illgerðamaður og hafði legið úti á Norðurströndum. Þeir gerðu þar mikið hervirki í ránum og manndrápum, voru þar allir samt framan til veturnátta. Þá söfnuðust þeir saman Strandamenn, Ólafur Eyvindarson frá Dröngum og aðrir bændur með honum, og fóru að þeim. Höfðu þeir þá enn virki um bæ sinn þar í Þaralátursfirði og voru þá saman nær þrír tigir manna. Þeir Ólafur settust um virkið og þótti torsóttlegt vera. Töluðust þeir þá við og buðu illvirkjarnir að fara brott af Ströndum og gera þar engar óspektir þaðan af enda skyldu þeir fara frá virkinu. En með því að þeim þótti eigi í hendi liggja að eiga við þá, þá tóku þeir þenna kost og bundu það svardögum með sér. Fóru bændur við það heim.
60. kafliNú er að segja frá Snorra goða að hann fór til féránsdóms í Bitru norður sem fyrr var ritað. Og er hann kom á Eyri var Óspakur í brottu og háði Snorri goði féránsdóm sem lög stóðu til og tók upp allt sektarfé og skipti með þeim mönnum er þeir höfðu mesta óspekt gert, Álfi litla og þeim mönnum öðrum er fyrir ránum höfðu orðið. Síðan reið Snorri goði heim í Tungu og leið svo sumarið.
Þeir Óspakur fóru af Ströndum um veturnáttaskeið og höfðu tvö skip mikil. Fóru þeir inn fyrir Strandir og síðan norður yfir Flóa til Vatnsness. Gengu þeir þar upp og rændu og hlóðu bæði skipin sem borð báru, héldu síðan norður yfir Flóann í Bitru og lentu á Eyri og báru þar föng sín upp í virkið. Þar hafði kona Óspaks verið um sumarið og Glúmur sonur þeirra með tvær kýr.
Þegar hina sömu nótt, er þeir höfðu heim komið, reru þeir báðum skipunum inn til fjarðarbotns og gengu upp til bæjar í Tungu og brutu þar upp hús. Þeir tóku Þóri bónda úr rekkju sinni og leiddu hann út og drápu. Síðan rændu þeir þar fé öllu því er innan gátta var og færðu það til skipa.
Síðan reru þeir til Þambárdals, hljópu þar upp og brutu hurðir sem í Tungu. Álfur litli hafði legið í klæðum sínum. Og er hann heyrði að hurðin var upp brotin hljóp hann upp og til laundyra er voru á bak húsum. Hann komst þar út og hljóp upp eftir dal. Þeir Óspakur rændu öllu því er þeir komu höndum á og færðu til skipa sinna og fóru þá heim á Eyri með hlaðin bæði skipin og færðu föng þessi í virkið. Þeir færðu og skipin í virkið og fylltu þau bæði vatns og læstu síðan virkið, það var hið besta vígi, og sátu þar síðan um veturinn.
61. kafliÁlfur litli hljóp suður yfir heiði og létti eigi fyrr en hann kom í Tungu til Snorra goða og sagði honum vandræði sín. Eggjaði hann mjög að þá skyldi þegar fara norður að þeim Óspaki. En Snorri goði vildi fyrst spyrja norðan hvað þeir hefðu fleira gert en stökkt honum norðan eða hvort þeir staðfestist nokkuð þar í Bitrunni.
Nokkuru síðar spurðist norðan úr Bitru víg Þóris og viðbúningur sá er Óspakur hafði þar. Spurðist mönnum svo til sem þeir mundu eigi vera auðsóttir. Þá lét Snorri goði sækja lið Álfs og svo fé það er eftir var. Fór það allt í Tungu og var þar um veturinn.
Óvinir Snorra goða lögðu honum til ámælis að hann þótti seint rétta hlut Álfs. Lét Snorri goði þar tala um hvern það er vildi en þó varð eigi að gert.
Sturla Þjóðreksson sendi þau orð að vestan að hann væri þegar búinn að fara að þeim Óspaki er Snorri vildi og kallar sig eigi óskyldara að fara þessa för en Snorra. Leið svo veturinn fram um jól og spurðust jafnan óspektir norðan frá þeim Óspaki. Vetrarríki var á mikið og lágu firðir allir.
Það var litlu fyrir föstu að Snorri goði sendi út á Nes til Ingjaldshvols. Þar bjó þá maður sá er hét Þrándur stígandi. Hann var son Ingjalds þess er bærinn er við kenndur á Ingjaldshvoli. Þrándur var manna mestur og sterkastur og manna fóthvatastur. Hann hafði verið fyrr með Snorra goða og var kallaður eigi einhamur meðan hann var heiðinn en þá tók af flestum tröllskap er skírðir voru. Snorri sendi til þess orð að Þrándur skyldi koma inn þangað í Tungu á fund hans og búast svo við ferðinni sem hann mundi nokkura mannraun fyrir höndum eiga.
Og er Þrándi komu orð Snorra goða mælti hann við sendimanninn: "Þú skalt hvíla þig hér slíka stund er þér líkar. En eg mun fara að orðsending Snorra goða og munum við eigi verða samfara."
Sendimaður kvað þá vita er reynt væri.
En um morguninn er sendimaður vaknaði var Þrándur allur í brottu. Hann hafði tekið vopn sín og gekk inn undir Enni og svo sem leið liggur inn til Búlandshöfða, svo inn um fjörðu til bæjar þess er á Eiði heitir. Þar gekk hann á ís og svo yfir Kolgrafafjörð og Seljafjörð og þaðan inn til Vigrafjarðar og svo inn eftir ísum allt í fjarðarbotn og kom í Tungu um kveldið er Snorri sat undir borðum. Snorri fagnaði honum blíðlega. Þrándur tók því vel og spurði hvað hann vildi honum, kvaðst þá búinn að fara þangað er hann skyldi ef hann vildi senda hann nokkuð. Snorri bað hann þar vera um nóttina í náðum. Voru þá tekin klæði Þrándar.
62. kafliÞessa sömu nótt sendi Snorri goði mann vestur á Staðarhól og bað Sturlu Þjóðreksson að koma til móts við sig í Tungu norður í Bitru um daginn eftir. Snorri sendi og menn á næstu bæi og stefndi að sér mönnum. Fóru þeir þaðan um daginn eftir norður um Gaflfellsheiði með fimm tigu manna, komu í Tungu í Bitru um kveldið. Var Sturla þar fyrir með þrjá tigu manna, fóru þaðan út á Eyri um nóttina.
Og er þeir komu þar gengu þeir Óspakur út á virkið og spyrja hverjir fyrir flokkinum réðu.
Þeir sögðu til sín og báðu þá upp gefa virkið en Óspakur kvaðst eigi mundu upp gefast "en gera munum vér yður slíkan kost sem Strandamönnum," segir hann, "að fara á brott úr sveit ef þér farið frá virkinu."
Snorri kvað þá eigi skyldu gera sér neina etjukosti.
Um morguninn eftir þegar er ljóst var skiptu þeir virkinu með sér til atsóknar. Hlaut Snorri goði þann hlut virkisins til atsóknar er Hrafn víkingur varði, en Sturla þar sem Óspakur varði. Synir Barkar hins digra, Sámur og Þormóður, sóttu að einum megin en synir Snorra sóttu að einum vegginum, Þóroddur og Þorsteinn þorskabítur. Þeir Óspakur höfðu mest grjót til varnar svo að þeir mættu við koma. Létu þeir það og óspart við þá því að þar voru hinir röskustu menn fyrir. Þeir Snorri og Sturla höfðu mest til atsóknar skotvopn, bæði bogaskot og handskot. Höfðu þeir því mart að flutt að þeir höfðu lengi við búist að vinna virkið. Atsókn varð hin harðasta. Urðu því margir sárir af hvorumtveggjum en hvorigir féllu.
Þeir Snorri skutu svo títt að þeir Hrafn hrukku inn af vegginum.
Þá gerði Þrándur stígandi skeið að vegginum og hljóp svo langt í upp að hann fékk krækt öxi sinni á virkið en síðan las hann sig upp eftir öxarskaftinu þar til að hann kom upp á virkið. En þegar er Hrafn sá að maður var kominn í virkið hljóp hann að Þrándi og lagði til hans með spjóti en Þrándur laust af sér lagið og hjó á höndina Hrafni uppi við öxlina og tók þar af höndina. Eftir það komu þeir margir að honum. Lét hann þá fallast út af virkisvegginum og kom svo til sinna manna.
Óspakur eggjaði sína menn til varnar og barðist sjálfur alldjarflega. Hann gekk mjög út á virkið er hann kastaði steinunum. Það var eitt sinn er hann varði sér mjög til og kastaði steini í flokk Sturlu en í því skaut Sturla snærispjóti til hans. Það kom á hann miðjan og féll hann út af virkinu. Sturla hljóp þegar að honum og tók hann til sín og vildi eigi að fleiri menn ynnu á honum því að hann vildi að það væri einmælt að hann yrði banamaður hans. Hinn þriðji maður féll af þeim vegginum er Barkarsynir sóttu.
Eftir þetta buðu víkingar að gefa upp virkið en þeir skyldu hafa lífs grið og lima og buðu þar með allt sitt mál á dóm þeirra Snorra goða og Sturlu. En með því að þeir Snorri goði voru farnir mjög að skotvopnum þá játtu þeir því. Var þá virkið upp gefið og gengu virkismenn á vald Snorra goða en hann lét alla hafa lífs grið og lima sem þeir höfðu skilið. Þeir létust þegar báðir, Óspakur og Hrafn, og hinn þriðji maður enn af þeirra liði en margir urðu sárir af hvorumtveggjum.
Svo sagði Þormóður í Hrafnsmálum:
- Böð varð í Bitru,
- bráð hygg eg þar fengu
- gervi gnógs styrjar
- gjóðum sigrfljóða.
- Lágu lífs vanir
- leiðendr hafreiðar
- þrír fyr þrekstæri.
- Þar fékk hrafn væri.
Snorri goði lét konu Óspaks hafa þar bú eftir og Glúm son þeirra. Glúmur fékk síðan Þórdísar, dóttur Ásmundar hærukolls, systur Grettis hins sterka, og var þeirra son Óspakur er deildi við Odd í Miðfirði Ófeigsson. Þeir Snorri goði og Sturla stökktu á brott öllum víkingum sinn veg hverjum og dreifðu svo óaldarflokki þessum og fóru heim síðan. Þrándur stígandi var skamma stund með Snorra goða áður hann fór heim út til Ingjaldshvols og þakkaði Snorri honum vel góða fylgd. Þrándur stígandi bjó lengi síðan á Ingjaldshvoli en eftir það á Þrándarstöðum og var hann mikill maður fyrir sér.
63. kafliÍ þenna tíma bjó Þóroddur Þorbrandsson í Álftafirði. Hann átti þá bæði löndin, Úlfarsfell og Örlygsstaði. En þá var svo mikill gangur að um afturgöngur Þórólfs bægifóts að menn þóttust eigi mega búa á löndum þeim. En Bólstaður var þá auður því að Þórólfur tók þegar aftur að ganga er Arnkell var látinn og deyddi bæði menn og fé þar á Bólstað. Hefir og engi maður traust til borið að byggja þar fyrir þær sakir. En er þar var aleytt sótti Bægifótur upp til Úlfarsfells og gerði þar mikil vandræði. En allt fólk varð óttafullt þegar vart varð við Bægifót.
Fór þá bóndi inn á Kársstaði og kærði þetta vandræði fyrir Þóroddi því að hann var hans landseti, sagði að það var ætlan manna að Bægifótur mundi eigi fyrr létta en hann hefði eytt allan fjörðinn bæði að mönnum og fé ef engra ráða væri í leitað "mun eg eigi lengur þar við haldast ef eigi er að gert."
En er Þóroddur heyrði þetta þótti honum eigi gott til úrræða.
Um morguninn eftir lét Þóroddur taka hest sinn. Hann kvaddi með sér húskarla sína. Hann lét og fara menn með sér af næstum bæjum. Fara þeir út til Bægifótshöfða og til dysjar Þórólfs. Síðan brutu þeir upp dysina og fundu þar Þórólf. Var hann þá enn ófúinn og hinn tröllslegasti að sjá. Hann var blár sem hel og digur sem naut. Og er þeir vildu hræra hann þá fengu þeir hvergi rigað honum. Lét Þóroddur þá færa undir hann brot og við þetta komu þeir honum upp úr dysinni. Síðan veltu þeir honum á fjöru ofan og kvistuðu þar bál mikið, slógu síðan eldi í og veltu þar í Þórólfi og brenndu upp allt saman að köldum kolum og var það þó lengi að eigi orkaði eldur á Þórólf. Vindur var á hvass og fauk askan víða þegar brenna tók en þeirri ösku er þeir máttu sköruðu þeir á sjó út. Og er þeir höfðu þessu verki lokið fóru þeir heim og voru þá náttmál er Þóroddur kom heim á Kársstaði, voru þá konur að mjöltum.
Og er Þóroddur reið á stöðulinn hljóp kýr ein undan honum og féll og brotnaði í fóturinn. Þá var kýrin tekin og var svo mögur að eigi þótti dræp. Lét Þóroddur þá binda fótinn en undan kúnni tók nyt alla. En er fóturinn kýrinnar var festur var hún færð út í Úlfarsfell til feitingar því að þar var hagi góður sem í eylandi væri. Kýrin gekk oft ofan í fjöruna þar sem bálið hafði verið og sleikti steinana þar sem askan hafði fokið.
Það er sumra manna sögn að þá er eyjamenn fóru utan eftir firði með skreiðarfarm að þá sæju þeir kúna upp í hlíðina og naut annað apalgrátt að lit en þess átti engi maður von.
En um haustið ætlaði Þóroddur að drepa kúna. Og er menn skyldu sækja hana fannst hún eigi. Þóroddur lét oft leita hennar um haustið og fannst hún aldrei. Hugðu menn eigi annað en kýrin mundi dauð eða stolin ella.
Er skammt var til jóla var það einn morgun snemma þar á Kársstöðum að nautamaður gekk til fjóss eftir vanda að hann sá naut fyrir fjósdyrum og kenndi að þar var þá komin kýrin hin fótbrotna er vant hafði verið. Leiddi hann kúna á bás og batt og sagði síðan Þóroddi. Hann gekk til fjóss, sá kúna og hafði á hendur. Þeir kenndu kálf í kúnni og þótti þeim þá eigi dræp. Hafði Þóroddur þá og skorið í bú sitt sem hann bar nauðsyn til.
En um vorið er lítið var af sumri þá bar kýrin kálf. Það var kvíga. Nokkuru síðar bar hún kálf annan og var það griðungur og komst hún nauðulega frá, svo var hann mikill. Og litlu síðar dó kýrin.
Kálfur þessi hinn mikli var borinn inn í stofu. Var hann apalgrár að lit og alleigulegur. Var þá hvortveggi kálfurinn í stofunni og sá er fyrr var borinn.
Kerling ein gömul var í stofunni. Sú var fóstra Þórodds og þá sjónlaus. Hún þótti verið hafa framsýn á fyrra aldri en er hún eltist var henni virt til gamalóra það er hún mælti. En það gekk þó mart eftir sem hún sagði. En er kálfurinn sá hinn mikli var bundinn á gólfinu kvað hann við hátt. Og er kerlingin heyrði það þá varð henni illt við og mælti: "Þetta eru trölls læti en eigi annars kvikindis og gerið svo vel, skerið vábeiðu þessa."
Þóroddur kvað það eigi fært að skera kálfinn, segir allælilegan og kvað verða mundu ágæta naut ef upp væri alinn. Þá kvað kálfurinn við í annað sinn.
Þá mælti kerling og flugði öll: "Fóstri minn," sagði hún, "láttu skera kálfinn því að vér munum illt af honum hljóta ef hann er upp alinn."
Hann svarar: "Skera skal kálf ef þú vilt, fóstra."
Var þá borinn út hvortveggi kálfurinn. Lét Þóroddur þá skera kvígukálfinn og bera hinn út í hlöðu og bauð Þóroddur varnað á að engi skyldi segja kerlingu að kálfurinn lifði.
Kálfur þessi óx dagvöxtum svo að um vorið er kálfar voru út látnir þá var hann eigi minni en þeir er alnir voru á öndverðum vetri. Hann hljóp mikið í töðunni er hann kom út og beljaði hátt sem griðungur gylli svo að gjörla heyrði í hús inn.
Þá mælti kerlingin: "Það var þó að tröllið var eigi drepið og munum vér meira illt af honum hljóta en vér mættum orð eftir senda."
Kálfurinn óx skjótt og gekk í túni um sumarið. Var hann um haustið svo mikill að færri veturgömul naut voru stærri. Hann var hyrndur vel og allra nauta fríðastur að sjá. Griðungurinn var kallaður Glæsir. Er hann var tvævetur var hann svo mikill sem fimm vetra gamlir yxn. Hann var jafnan heima með kúneytum. Og hvert sinn er Þóroddur kom á stöðul gekk Glæsir að honum og daunsaði um hann og sleikti um klæði hans en Þóroddur klappaði um hann. Hógvær var hann bæði við menn og fé sem sauður en jafnan er hann beljaði lét hann stórum afskræmilega. En er kerling heyrði hann brá henni jafnan mjög við. Þá er Glæsir var fjögurra vetra gamall gekk hann eigi undan konum, börnum eða ungmennum en ef karlar gengu að honum reigðist hann við og lét ótrúlega en gekk undan þeim í þraut.
Það var einn dag er Glæsir kom heim á stöðul að hann gall ákaflega hátt að svo gjörla heyrði inn í húsin sem hjá væri. Þóroddur var í stofu og svo kerling.
Hún andvarpaði mjög og mælti: "Eigi virðir þú mikils orð mín í því að láta drepa griðunginn fóstri," segir hún.
Þóroddur svarar: "Uni þú nú vel við fóstra mín, nú skal Glæsir lifa til hausts en þá skal hann drepa er hann hefir fengið sumarholdin."
"Þá mun of seint," sagði hún.
"Vant er það að sjá," sagði Þóroddur.
Og er þau töluðu þetta kvað griðungurinn við og lét enn verr en fyrr.
Þá kvað kerling vísu þessa:
- Haus knýr hjarðar vísi,
- hann ræðr of fjör manna,
- hallar hristi mjallar
- hadds, blóðvita röddu.
- Sá kennir þér sinna
- svarðristið ben jarðar.
- Það verðr að fé fjötrar
- fjör þitt, en sé eg görva.
Þóroddur svarar: "Gamalær gerist þú nú fóstra og muntu eigi það sjá."
Hún kvað:
- Oft er auðar þófta
- ær er tungu hrærir,
- sá eg blóðgum búki
- bengrát, er þér látið.
- Tarfr mun hér, því að horfa
- hann tekr reiðr við mönnum,
- það sér gulls hins gjalla
- Gerðr, þinn bani verða.
"Ekki mun svo verða fóstra," sagði hann.
"Því er verr að svo mun verða," sagði hún.
Það var um sumarið að Þóroddur hafði látið raka töðu sína alla í stórsæti að þá kom á regn mikið. En um morguninn er menn komu út sáu þeir að Glæsir var kominn í tún og var stokkurinn af hornum hans er á hafði felldur verið er hann tók að ýgjast. Hann hafði týnt venju sinni því að hann var aldrei vanur að granda heyinu þó að hann gengi í töðunni. En nú hljóp hann að sátunum og stakk hornunum undir botnana og hóf upp sætið og dreifði svo um völlinn. Tók hann þegar aðra, er önnur var brotin, og fór svo beljandi um völlinn og lét öskurlega og stóð mönnum svo mikil ógn af honum að engi þorði til að fara að reka hann úr töðunni.
Var þá sagt Þóroddi hvað Glæsir hafðist að. Hann hljóp út þegar. En viðarbulungur stóð fyrir dyrum úti og tók hann þar af birkiraft mikinn og reiddi um öxl svo að hann hélt um skálmirnar og hljóp ofan á völlinn að griðunginum.
En er Glæsir sá hann nam hann staðar og snerist við honum. Þá herstist Þóroddur á hann en griðungurinn gekk eigi undan að heldur. Þá hóf Þóroddur upp raftinn og laust milli horna honum svo mikið högg að rafturinn gekk sundur í skálmunum. En við höggið brá Glæsi svo að hann hljóp að Þóroddi en Þóroddur fékk tekið hornin og veik honum hjá sér og fóru þeir svo um hríð að Glæsir sótti eftir en Þóroddur fór undan og brá honum á ýmsar hliðar sér allt þar til er Þóroddur tók að mæðast. Þá hljóp hann upp á háls griðunginum og spennti höndum niður undir kverkina en lá fram á höfuð griðunginum milli hornanna og ætlar svo að mæða hann. En griðungurinn hljóp aftur og fram um völlinn með hann.
Þá sáu heimamenn Þórodds að í óefni var komið með þeim en þeir þorðu eigi til að fara vopnlausir. Gengu þeir þá inn eftir vopnum og er þeir komu út hljópu þeir ofan á völlinn með spjót og önnur vopn. En er griðungurinn sá það rak hann höfuðið niður milli fóta sér og snaraðist við svo að hann fékk komið öðru horninu undir hann Þórodd. Síðan brá hann upp höfðinu svo snart að fótahlutinum Þórodds sló á loft svo að hann stóð nær á höfði á hálsi griðunginum. En er Þóroddi sveif ofan vatt Glæsir undir hann höfðinu og kom annað hornið á kviðinn svo að þegar stóð á kafi. Lét Þóroddur þá laust höndunum en griðungurinn rak við skræk mikinn og hljóp ofan til árinnar eftir vellinum.
Heimamenn Þórodds hljópu eftir Glæsi og eltu hann um þvera skriðuna Geirvör og allt þar til er þeir komu að feni einu fyrir neðan bæinn að Hellum. Þar hljóp griðungurinn út á fenið og sökk svo að hann kom aldrei upp síðan og heitir þar síðan Glæsiskelda.
En er heimamenn komu aftur á völlinn var Þóroddur á brott þaðan. Hafði hann gengið heim til bæjar. En er þeir komu heim lá Þóroddur inni í rúmi sínu og var þá andaður. Var hann færður til kirkju.
Kár sonur Þórodds tók við búi eftir föður sinn í Álftafirði og bjó þar lengi síðan og við hann er kenndur bærinn á Kársstöðum.
64. kafliGuðleifur hét maður. Hann var sonur Guðlaugs hins auðga úr Straumfirði, bróðir Þorfinns er Sturlungar eru frá komnir. Guðleifur var farmaður mikill. Hann átti knörr mikinn en annan Þórólfur sonur Eyra-Lofts, þá er þeir börðust við Gyrð son Sigvalda jarls. Þá lét Gyrður auga sitt.
Það var ofarlega á dögum Ólafs hins helga að Guðleifur hafði kaupferð vestur til Dyflinnar. En er hann sigldi vestan ætlaði hann til Íslands. Hann sigldi fyrir vestan Írland og fékk austanveður og landnyrðinga og rak þá langt vestur í haf og í útsuður svo að þeir vissu ekki til landa. En þá var mjög á liðið sumar og hétu þeir mörgu að þá bæri úr hafinu.
Og þá kom þar að þeir urðu við land varir. Það var mikið land en eigi vissu þeir hvert land það var. Það ráð tóku þeir Guðleifur að þeir sigldu að landinu því að þeim þótti illt að eiga lengur við hafsmegnið. Þeir fengu þar höfn góða. Og er þeir höfðu þar litla stund við land verið þá koma menn til fundar við þá. Þeir kenndu þar engan mann en helst þótti þeim sem þeir mæltu írsku. Brátt kom til þeirra svo mikið fjölmenni að það skipti mörgum hundruðum. Þessir menn veittu þeim atgöngu og tóku þá höndum alla og bundu og ráku þá síðan á land upp. Þá voru þeir færðir á mót eitt og dæmt um þá. Það skildu þeir að sumir vildu að þeir væru drepnir en sumir vildu að þeim væri skipt á vistir og væru þeir þjáðir.
Og er þetta var kært sjá þeir hvar reið flokkur manna og var þar borið merki í flokkinum. Þóttust þeir þá vita að höfðingi nokkur mundi vera í flokkinum.
Og er flokk þenna bar þangað að sáu þeir að undir merkinu reið mikill maður og garplegur og var þá mjög á efra aldur og hvítur fyrir hærum. Allir menn er þar voru fyrir hnigu þeim manni og fögnuðu sem herra sínum. Fundu þeir þá brátt að þangað var skotið öllum ráðum og atkvæðum sem hann var.
Síðan sendi þessi maður eftir þeim Guðleifi. Og er þeir komu fyrir þenna mann þá mælti hann til þeirra á norrænu og spyr hvaðan af löndum þeir væru. Þeir sögðu að þeir væru flestir íslenskir. Þessi maður spurði hverjir þeir væru hinir íslensku menn. Gekk Guðleifur þá fyrir þenna mann og kvaddi hann en hann tók því vel og spurði hvaðan af Íslandi þeir væru. Guðleifur sagði að hann væri úr Borgarfirði. Þá spurði hann hvaðan úr Borgarfirði hann væri. En Guðleifur segir honum það. Eftir það spurði hann vandlega eftir sérhverjum hinna stærri manna í Borgarfirði og Breiðafirði. Og er þeir töluðu þetta spyr hann eftir Snorra goða og Þuríði frá Fróðá systur hans og hann spurði vandlega eftir öllum hlutum frá Fróðá og mest að sveininum Kjartani er þá var bóndi að Fróðá.
Landsmenn kölluðu í öðrum stað að nokkuð ráð skyldi gera fyrir skipshöfninni. Eftir það gekk þessi maður hinn mikli í brott frá þeim og nefndi með sér tólf menn af sínum mönnum og sátu þeir langa hríð á tali. Eftir það gengu þeir til mannfundarins.
Þá mælti hinn mikli maður til þeirra Guðleifs: "Vér landsmenn höfum talað nokkuð um mál yður og hafa landsmenn nú gefið yðvart mál á mitt vald en eg vil nú gefa yður fararleyfi þangað sem þér viljið fara. En þó að yður þyki nú mjög á liðið sumar þá vil eg þó það ráða yður að þér látið á brott héðan því að hér er fólk ótrútt og illt viðureignar. En þeim þykja áður brotin lög á sér."
Guðleifur mælti: "Hvað skulum vér til segja, ef oss verður auðið að koma til ættjarða vorra, hver oss hafi frelsi gefið?"
Hann svarar: "Það mun eg yður eigi segja því að eg ann eigi þess frændum mínum og fóstbræðrum að þeir hafi hingað þvílíka ferð sem þér munduð haft hafa ef þér nytuð eigi mín við en nú er svo komið aldri mínum," sagði hann, "að þess er á engri stundu örvænt nær elli stígur yfir höfðuð mér. En þó að eg lifi enn um stundar sakir þá eru hér á landi ríkari menn en eg, þeir er lítinn frið munu gefa útlendum mönnum, þó að þeir séu eigi hingað nálægir sem þér eruð að komnir."
Síðan lét þessi maður búa skipið með þeim og var þar við til þess er byr kom sá er þeim var hagstæður út að taka.
En áður þeir Guðleifur skildu tók þessi maður gullhring af hendi sér og fær í hendur Guðleifi og þar með gott sverð. En síðan mælti hann við Guðleif: "Ef þér verður auðið að koma til fósturjarðar þinnar þá skaltu færa sverð þetta Kjartani, bóndanum að Fróðá, en hringinn Þuríði móður hans."
Guðleifur mælti: "Hvað skal eg til segja hver þeim sendi þessa gripi?"
Hann svarar: "Seg að sá sendi að meiri vinur var húsfreyjunnar að Fróðá en goðans að Helgafelli, bróður hennar. En ef nokkur þykist vita þar af hver þessa gripi hefir átta þá seg þau mín orð að ég banna hverjum manni að leita á minn fund því að það er hin mesta ófæra nema mönnum takist þann veg giftusamlega um landtökuna sem yður hefir tekist, því að hér er land vítt og illt til hafna en ráðinn ófriður alls staðar útlendum mönnum nema svo beri til sem nú hefir orðið."
Eftir þetta skildu þeir. Þeir Guðleifur létu í haf og tóku Írland síð um haustið og voru í Dyflinni um veturinn. En um sumarið sigldu þeir til Íslands og færði Guðleifur þá af höndum gripina og hafa menn það fyrir satt að þessi maður hafi verið Björn Breiðvíkingakappi. En engi önnur sannindi hafa menn til þess nema þau sem nú voru sögð.
65. kafliSnorri goði bjó í Tungu tuttugu vetur og hafði hann fyrst heldur öfundsamt setur meðan þeir lifðu stórbokkarnir, Þorsteinn Kuggason og Þorgils Hölluson, og enn fleiri hinir stærri menn þeir er óvinir hans voru. Kemur hann og víða við sögur aðrar en þessa. Hann kemur við Laxdæla sögu sem mörgum er kunnigt. Hann var hinn mesti vinur Guðrúnar Ósvífursdóttur og sona hennar. Hann kemur og við Heiðarvíga sögu og veitti mest manna Barða eftir Heiðarvíg annar en Guðmundur hinn ríki.
En er Snorri tók að eldast þá tóku að vaxa virðingar hans og vinsældir og bar það til þess að þá fækkuðust öfundarmenn hans. Það bætti um vinsældir að hann batt tengdir við hin mestu stórmenni í Breiðafirði og víðar annars staðar.
Hann gifti Sigríði dóttur sína Brandi hinum örva Vermundarsyni. Hana átti síðar Kolli Þormóðarson Þorlákssonar á Eyri og bjuggu þau í Bjarnarhöfn. Unni dóttur sína gifti hann Víga-Barða. Hana átti síðar Sigurður, sonur Þóris hunds úr Bjarkey á Hálogalandi, og var þeirra dóttir Rannveig er átti Jón, sonur Árna Árnasonar Arnmóðssonar, og var þeirra sonur Víðkunnur úr Bjarkey er einn hefir göfgastur verið lendra manna í Noregi. Snorri goði gifti Þórdísi dóttur sína Bolla Bollasynir og eru af þeim komnir Gilsbekkingar. Hallberu dóttur sína gifti Snorri Þórði, syni Sturlu Þjóðrekssonar. Þeirra dóttir var Þuríður er átti Hafliði Másson og er þaðan komin mikil ætt. Þóru dóttur sína gifti Snorri Kerru-Bersa, syni Halldórs Ólafssonar úr Hjarðarholti. Hana átti síðan Þorgrímur sviði og er þaðan komin mikil ætt og göfug.
En aðrar dætur Snorra goða voru giftar að honum dauðum. Þuríði hina spöku Snorradóttur átti Gunnlaugur, sonur Steinþórs af Eyri. Guðrúnu dóttur Snorra goða átti Kolfinnur af Sólheimum. Halldóru Snorradóttur átti Þorgeir úr Ásgarðshólum. Ólöfu Snorradóttur átti Jörundur Þorfinnsson, bróðir Gunnlaugs úr Straumfirði.
Halldór var göfgastur sona Snorra goða. Hann bjó í Hjarðarholti í Laxárdal. Frá honum eru komnir Sturlungar og Vatnsfirðingar. Þóroddur var annar göfgastur sonur Snorra goða. Hann bjó að Spákonufelli á Skagaströnd. Máni sonur Snorra bjó á Sauðafelli. Hans sonur var Ljótur er kallaður var Mána-Ljótur. Hann var kallaður mestur sonarsona Snorra goða. Þorsteinn sonur Snorra goða bjó að Laugarbrekku og eru frá honum komnir Ásbirningar í Skagafirði og mikil ætt. Þórður kausi sonur Snorra goða bjó í Dufgusdal. Eyjólfur sonur Snorra goða bjó á Lambastöðum á Mýrum. Þorleifur sonur Snorra goða bjó á Meðalfellsströnd. Frá honum eru komnir Ballæringar. Snorri sonur Snorra goða bjó í Sælingsdalstungu eftir föður sinn. Kleppur hét sonur Snorra goða, og vita menn eigi bústað hans og eigi vitum vér manna frá honum komið svo að sögur gangi frá.
Snorri goði andaðist í Sælingsdalstungu einum vetri eftir fall Ólafs konungs hins helga. Hann var þar jarðaður að kirkju þeirri er hann hafði sjálfur gera látið. En þá er þar var kirkjugarður grafinn voru bein hans upp tekin og færð ofan til þeirrar kirkju sem nú er þar. Þá var þar við stödd Guðný Böðvarsdóttir, móðir þeirra Sturlusona, Snorra, Þórðar og Sighvats, og sagði hún svo frá að það væru meðalmanns bein og ekki mikil. Þar kvað hún þá og upp tekin bein Barkar hins digra, föðurbróður Snorra goða, og sagði hún þau vera ákaflega mikil. Þá voru og upp tekin bein Þórdísar kerlingar, dóttur Þorbjarnar súrs, móður Snorra goða, og sagði Guðný þau vera lítil kvenmannsbein og svo svört sem sviðin væru. Og voru þau bein öll grafin niður þar sem nú stendur kirkjan.
Og lýkur þar sögu Þórsnesinga, Eyrbyggja og Álftfirðinga.
Söguauki: Ævi Snorra goða
Snorri goði átti nítján börn frjálsborin þau er úr barnæsku komust. Þórður kausi var elstur, annar Þóroddur, þriðji Þorsteinn, fjórði Guðlaugur munkur. Þeir voru synir Ásdísar Víga-Styrsdóttur. Fimmta var Sigríður, sétta Unnur. Þær voru dætur Þuríðar, dóttur Illuga hins rauða. Sjöundi Kleppur, áttunda Halldóra, níunda Þórdís, tíunda Guðrún, ellefti Halldór, tólfti Máni, þrettándi Eyjólfur, fjórtánda Þóra, fimmtánda Hallbera, sextánda Þuríður, sautjándi Þorleifur, átjánda Ólöf, nítjándi Snorri. Hann var fæddur eftir föður sinn. Þessi voru börn Hallfríðar Einarsdóttur. Snorri goði átti þrjú börn þýborin. Sá hét annar Þórður kausi, Jörundur og Þórhildur.Snorri goði var fjórtán vetra er hann fór utan. Hann var utan einn vetur. Hinn næsta vetur er hann kom út var hann að Helgafelli með Berki hinum digra föðurbróður sínum og Þórdísi móður sinni. Þetta haust drap Eyjólfur hinn grái, sonur Þórðar gellis, Gísla Súrsson og þetta vor eftir er Snorri var sextán vetra gamall gerði hann bú að Helgafelli og bjó þar tuttugu og þrjá vetur áður kristni var í lög tekin á Íslandi en þaðan frá bjó hann átta vetur að Helgafelli. Og á þeim síðasta vetri drap Þorgestur Þórhallsson Víga-Styr, mág Snorra goða, á Jörva í Flisuhverfi. Síðan fór hann búi sínu í Sælingsdalstungu og bjó þar tuttugu vetur. Hann lét kirkju gera að Helgafelli en aðra í Tungu í Sælingsdal. En sumir segja að hann léti gera í annað sinn að Helgafelli með Guðrúnu kirkju þá er sú brann er hann hafði gera látið.
Hann andaðist úr sótt á hinum sjöunda vetri hins sjöunda tigar aldurs síns. Það var einum vetri eftir fall Ólafs konungs hins helga. Og var Snorri goði grafinn heima þar í Sælingsdalstungu að þeirri kirkju er hann sjálfur hafði gera látið. Hann er orðinn stórum kynsæll því að til hans telja ættir flestir hinir göfgustu menn á Íslandi og Bjarkeyingar á Hálogalandi, Götuskeggjar í Færeyjum og mart annað stórmenni það er hér eigi er talt, bæði á þessu landi og öðrum.