1. kafliÁ einhverju sumri er sagt að Egill son Halls af Síðu fór utan af Íslandi til Noregs með þeim manni er Tófi hét og var Valgautsson. Tófi var gauskur maður og göfugur að kyni. Svo er sagt að Valgautur faðir hans væri jarl á Gautlandi. Þeir Tófi feðgar voru óskaplíkir því að jarl var blótmaður mikill en Tófi lagðist í víking á unga aldri og tók hann þá þegar skírn og rétta trú. Tófi var á vist með Agli Hallssyni um veturinn á Íslandi áður Egill fór utan með honum. Þeir urðu vel reiðfara um hafið, koma við Noreg og fóru á fund Ólafs konungs. Tók hann við þeim vel og bauð þeim með sér að vera og þekkjast þeir það.
Svo segja sumir menn að Þorlaug kona Egils færi með honum og Þorgerður dóttir þeirra og væri hún átta vetra gömul.
Og er þeir voru með konungi virti hann þá mikils og þykir Egill vera merkilegur maður sem líklegt er fyrir tilbrigða sökum. Skemmu leigðu þeir til handa þeim mæðgum þá er þeir voru til hirðvistar og byggðu þær þar um hríð.
Það er frá sagt að þá er þeir höfðu verið nokkura stund með hirðinni að þeir ógleðjast mjög og finnur konungurinn það brátt og spyr hvað til komi.
Egill svarar: "Mér þætti það vera meiri sómi herra að þær væru með hirðinni kona mín og dóttir en fyrir vanda sakir kunnum vér þess eigi að beiða."
"Það viljum vér þó gjarna gera," segir konungurinn, "ef yður líkar svo betur."
Og nú fara þær þangað til hirðarinnar. Og er konungurinn sér meyna Þorgerði dóttur Egils þá mælti hann, kvaðst þess vænta að hún mundi eigi gæfulaus. Og svo gafst og sem líklegt var því að hún er móðir Jóns biskups hins helga.
Nú eru þau öll saman með hirðinni um veturinn.
Og er vorar þá spyr Tófi ef hann leyfði þeim kaupferð að hafa um sumarið þangað er þeim sýndist en konungur lést eigi lofa sumarlangt "fyrir því að mér eru send orð af Knúti konungi að vér skulum eiga sáttarfund í Limafirði í Danmörku í sumar og ætla eg að koma til stefnunnar."
2. kafliOg nú býst Ólafur konungur til ferðar þessarar og hefir hann níu skip og góða skipan og fara þeir með honum Tófi og Egill og er nú ekki getið um ferð konungs áður hann kemur í Limafjörð. Og er þeir eru þar komnir þá er Knútur konungur eigi þar kominn og var hann vestur á Englandi.
Nú verður Ólafur konungur var þess að Knútur konungur var í svikum við hann og hyggur að sækja fund þenna með fjölmenni og segir Ólafur konungur nú mönnum sínum hverja frétt hann hafði af Knúti konungi "og vil eg eigi að vér bíðum hans hér og þykir mér hann nú brugðið hafa fyrri þessum sáttarfundi og munum vér nú freista að gera hér upprásir og herja á land Knúts konungs og gjalda honum svo svikin og ginning þessa."
Þeir ganga nú af skipunum og gera upprás harða á landið og verður fólkið hrætt og afla þeir mikils hlutskiptis í fjárhlutum. Konungurinn mælti svo fyrir að þeir skyldu taka fimmtán vetra gamla menn og eldri og leiða ofan til skipa. Og nú fá þeir fé mikið og marga hertekna menn. Landslýðurinn flýr undan en þeir reka flóttann konungsmennirnir.
Og þar kom að konungur mælti að stöðva skyldi liðið og hverfa aftur "því að eg sé bragð þeirra að þeir munu þegar við nema er þeir fá sér afla til en flýja undan þar til og teygja oss svo frá skipum vorum."
Nú snúa þeir til skipanna og er þeir koma þar allir þá biður konungur þá búast til brottferðar. Og svo gerðu þeir og liggja síðan albúnir og hafa tjöld á landi og voru þar varðveittir í böndum hinir herteknu menn og var þangað að heyra óp og veinan.
Svo er sagt að Egill Hallsson ræðir við Tófa félaga sinn: "Þetta eru ill læti og hörmuleg er menn þessir hafa og mun eg fara og leysa þá."
"Ger eigi það vinur," segir hann Tófi, "því að konungur leggur þar fyrir reiði sína og vildi eg gjarna að þú yrðir eigi fyrir því."
"Eigi má eg þetta bera," segir Egill, "miklu er fólk þetta aumara. Vil eg eigi heyra læti þessi lengur," sprettur upp síðan og fer til tjaldsins og leysir bandingjana alla og lætur á brott hlaupa og eru þeir senn úr augsýn.
Nú er sagt konunginum að mennirnir voru á brottu og svo hver þá hafði leysta en hann varð við þetta reiður og segir hann skulu hér fyrir hafa mikið víti og sína reiði og er það nú þó kyrrt um nóttina og fréttir Egill þetta og líst nú misráðið.
3. kafliUm morguninn eftir þegar þeir voru búnir láta þeir úr læginu. Þá kemur þar maður af landi ofan hlaupandi, geystur mjög, og kallaði út á skipin og segir sig eiga nauðsynjaerindi að finna konunginn en þeir gefa öngan gaum að kalli hans. Tóku þeir þá að sigla með björgum nokkurum fram og bar eitt skipið fram hjá öðrum skipunum nokkuð svo. Og er þeim manni er kallað hafði þótti þeir daufheyrast við þá hleypur hann fram eftir björgunum og kastar ofan á skipið það er fyrst fer glófum og sýndist þeim svo sem dust ryki af þeim og síðan hleypur sá maður á brott. En það fylgir sendingu þessi að sótt kemur á skipið mikil og tekur svo fast að menn fá varla borið óæpandi og fengu margir bana af.
Og nú tekur Egill sóttina og svo harða sem þeir menn er harðast fengu af, þess er eigi gekk önd úr honum, en hann bar svo prýðilega að eigi kom stynur úr hálsi honum. Hann mælti við Tófa að hann skyldi segja konungi að hann vildi gjarna hitta hann. Tófi gerir svo að hann fer á fund Ólafs konungs og segir honum svo að Egill er sjúkur og hann vill hitta hann en konungur svarar honum öngu orði. Tófi bað hann þarflega og sagði nauðsyn á vera að þeir fyndust en konungur varð svo reiður Agli að hann vill eigi fara að finna hann. Síðan segir Tófi Agli svo búið. Egill biður Tófa fara í öðru sinni og flytja mál sitt við konunginn.
Og gerir hann svo og segir konungi að maðurinn er fram kominn mjög og vill nú iðrast mjög "að hann hefir í móti yðrum vilja gert og vill nú leggja allt á yðvart vald herra og ger nú svo vel að þú fyrirlít eigi manninn svo mjög og miskunna honum."
Konungurinn lítur við Tófa reiðulega og biður hann brott ganga. Tófi segir Agli hvar komið er og þykir Egli nú mikils um vert, fengið reiði konungs fyrst að upphafi en orðinn nú fyrir svo miklu áfelli að hann þykist eigi vita hvern enda hefir.
Og nú mælti hann enn við Tófa: "Gakk nú og finn vin minn Finn Árnason og bið hann ganga fyrir konung og biðja mér eirðar af honum að hann fyrirlíti mig eigi svo sem á horfist."
Nú hittir Tófi Finn og segir honum málavöxtinn og gengur hann þegar á konungs fund og Tófi með honum og síðan mælti Finnur: "Herra," segir hann, "ger nú fyrir yðra tign að þér hjálpið við manninum er nú liggur dauðvona og sjáið hversu mikill drengur hann er og hreystimaður. Það fær engi maður skilið að stynur komi úr hálsi honum. Hygg að að tign yður vaxi um þetta mál fyrir vorn vinskap, þá gakk nú til hans og lát hann njóta þinnar gæsku."
Konungur svarar: "Hitt hugði eg að engi skyldi brjóta mín boð en fyrir þín orð Finnur þá má eg ganga á fund Egils og víst vildi eg þess guð biðja að hann léði honum líf til þess að eg mætti hefna honum og fá fullt víti fyrir það að hann gerði."
"Já herra," segir Finnur, "það er á yðru valdi."
Nú fer konungur á fund Egils og sér hann vera mjög máttfarinn og er eitt allra manna orð að eigi hefði séð hraustara mann. Og nú sér Egill að konungur er kominn og fagnar hann honum vel en konungur tekur ekki kveðju hans.
Síðan mælti Egill: "Þess vil eg yður biðja herra að þér takið hendi fyrir brjóst mér og vænti eg mér þar af miskunnar þó að eg hafi eigi verðleika til."
Það þykir mönnum á finnast að konungi þótti mikils um vert og brá dúki um augu sér, leggur síðan hendur sínar á brjóst Egli og mælti síðan: "Það má um mæla að þú ert nær ærið hraustur."
Svo er frá sagt að við átak hans linar þegar sóttinni og hægist mjög en konungur gengur á brott frá Egli og batnar honum stund frá stund og þar kemur að hann verður alheill.
En það er sögn manna að Knútur konungur hafi keypt að einum finnskum manni og fjölkunnigum mjög að hann skyldi fara til Limafjarðar á fund Ólafs konungs og skyldi gera svo af sínum kænleik að konungur og lið hans fengi sótt mikla og illa svo að þeir fengju aldurtila af ef nokkuð dveldist ferð þeirra Ólafs konungs og mætti hann finna þá og hafi sá þess háttar maður verið er glófunum kastaði. Og er nú ekki getið um ferð konungs áður hann kemur heim í land.
4. kafliEinn dag bar svo til að Egill og Tófi gengu fyrir konung, féllu þá fram og báðu af sér reiði og bjóða konungi fyrir sig fébætur svo sem hann vill sjálfur gert hafa en konungur kveðst ekki vilja fé þeirra og segir eina lausnina til vera á þessu máli.
"Hvað er það herra?" sögðu þeir.
"Aldrei komið þér í vort vinfengi," segir hann, "nema því að eina að af yðrum brögðum og kænleik verðið þið svo ríkir að Valgautur faðir þinn Tófi komi á vorn fund. Nú ef svo verður þá skuluð þið lausir vera undan þessum sökum."
Tófi svarar: "Það er skjótast um að ræða að fyrir allt fram vildum vér eigi hafa þína reiði en þó er það allvíst að þessu verður eigi á leið komið nema þinnar hamingju njóti við því að fyrir þá sök er eg eigi heima með föður mínum að hann setur allan sinn mátt og kraft í móti kristnum dómi og vill fyrir öngan mun þann sið taka. En þó skulum vér við leita að gera þetta með yðvarri forsjá."
Nú búa þeir Tófi og Egill ferð sína til Gautlands og fara síðan uns þeir koma á fund Valgauts jarls og ganga fyrir hann og gengur Tófi fyrri og kveður hann síðan.
Hann fagnar honum vel og hans förunautum og býður honum með sér að vera "og vildum vér nú sonur að þú flæmdist eigi frá oss í brott og verið nú hér og stýrið ríki þessu með oss því að þetta er yður eign eftir oss sem þér vitið."
Tófi svarar: "Þetta er vel boðið faðir," segir hann, "sem von var að yður. En þó mun nú eigi svo búið vera mega að sinni því að hér liggur við nú líf vort að þér takið við oss blíðlega og látið sveigjast eftir vorum vilja því að Ólafur konungur hefir það á lagið við oss og sendi oss hingað þeirra erinda til þín að þú komir á hans fund. En ef vér getum eigi þessu á leið komið þá var það á lagið við oss að vér skyldum týna allri hans vináttu og þar lífinu með. Og er það sannast um að ræða að Ólafur konungur er hinn mesti ágætismaður og ólíkur öðrum mönnum og það fylgir með að engi maður má það orðum inna hversu mikið að skilur siðuna, þann er konungurinn hefir og þeir allir er hans orðum hlýða eða sá sem þú hefir og aðrir heiðnir menn. Ger nú svo vel fyrir þinn manndóm og vora frændsemi og fylg að um þetta mál sem vor er nauðsyn til og vilji."
Jarl spratt upp við og svarar með mikilli reiði og sór um að hann kvað aldrei við sig mælt hafa verið slík endemi að hann mundi láta sið sinn þann er hann hafði lengi hafðan og hans ættmenn "eða eg mundi koma á fund þess konungs er mér er allra manna óskapfelldastur þeirra er eg hefi spurdaga til og hefir þú í mörgu lagi sundur sagt vorri frændsemi og standi menn upp og taki hann og setji í myrkvastofu og alla förunauta hans."
Jarl var nú svo reiður að stórum bar og var nú svo gert sem hann mælti að þeir voru byrgðir í myrkvastofu.
5. kafliAnnan dag eftir er það sagt að menn ganga með höfðingjum og vinum jarls að biðja að hann vægi syni sínum og honum sami eigi að þrengja hans ráði "og er það vegur yðvar," sögðu þeir. "Takið nú upp heldur nokkuð gott ráð og sæmilegt sem þér eruð líklegir til þegar þér hugsið málið og reiði yður sefast."
Jarl svarar og spurði hver sá var hinn mikli maður er næstur gekk Tófa: "Leiðið þann hingað til máls við mig."
Nú er svo gert og er Egill kom fyrir jarl þá spurði jarl hver hann væri en Egill segir honum deili á sér.
Þá mælti jarl: "Hvað kanntu að segja mér frá konungi þessum, honum Ólafi, eða hvern veg barst að er þið fenguð hans reiði?"
Egill segir honum nú alla tilstöðu um þetta og talar þar síðan snjallt erindi því að hann var vel orðfær. Undruðust þeir mjög er hjá voru hans orðsnilld. Síðan segir hann jarli hver ágætismaður Tófi var og hversu gott var slíkan son að eiga og biður hann nú gera honum sæmd og virðing fyrir mennsku sökum og frændsemi.
Jarl mælti þá að Tófi skyldi þangað koma og var þá svo gert.
Þá mælti Valgautur jarl er hann var þar kominn: "Svo virðist mér," segir hann, "sem yður þyki að sýnu ganga að konungur yðvar hafi ráð mitt allt í höndum ef eg kem á hans fund. En nú fyrir þá sök að þér hafið á honum ást mikla og viljið hans vilja gera í því er þér megið en hafið honum eiða svarið og líf yðvart við lagið en mig væntir þó þess, þó að yður þyki það ólíklegt, að konungur yðvar neyði mig til einskis hlutar þótt eg komi á hans fund og er eg í trausti um það að svo mun kraftur og máttur goðanna skýla oss að eg verð ekki nauðungarmaður konungs þessa. En fyrir snilld þessa manns, hans Egils, og fyrir það annað að eg sé reyndar er reiði gengur af að eigi byrjar mér að gera Tófa líftjón þá er nú svo komið að eg mun fara með yður ef þér viljið og með öngum fjölda liðs ef þér kallist þá lausir vera og sýknir ef konungur sér mig og eg kem á hans fund. En ekki berst eg þó það fyrir að taka trúna þá er hann boðar og fyrr skulu brenna þorp og kastalar í mínu ríki og margur góður drengur látinn en eg játi mig undir þessa óhæfu."
6. kafliNú eftir þetta býst Valgautur jarl til ferðar með þeim og fara síðan uns þeir koma til Noregs og á fund Ólafs konungs og þeir Tófi og Egill og kallast nú lausir vera þessa máls og undan reiði konungs en konungur kvað að vísu svo vera.
Nú hafa þeir þar góðar viðtökur. Og um morguninn eftir leitar konungur eftir við jarl ef hann vildi taka trúna og telur það fyrir honum með mörgum orðum og merkilegum. Valgautur jarl svarar og sagði að það mundi aldrei verða hans ráð, kvað ekki þurfa mundu slíks við sig að leita.
Konungur mælti: "Svo mun mönnum nú sýnast að eg hafi vald og ríki til þess að neyða þig til trúar ef eg vil en það vil eg þó eigi gera fyrir því að það verður þægt mest í guðs augliti að mönnum sé eigi nauðgað til að gerast guðs þjónar og vill guð eigi nauðga þjónustu en verður feginn þeim hverjum er til hans vilja snúast að sjálfræði sínu."
Nú lætur konungur jarl á brott fara í friði og dvalar hann ekki brottferðinni. En svo liggur leið þeirra að skógar miklir eru þar sem þeir fara. Og er þeir jarl og hans förunautar voru komnir í einnhvern skóg og voru eigi langt farnir frá því er þeir konungur fundust og þar tekur jarl sótt mikla og hættlega og þegar sendir hann menn aftur á fund Ólafs konungs til þess að hann vildi að konungurinn kæmi þá að hitta hann.
Nú fara þeir að finna konung og segja honum að jarl vill hafa hans fund og þegar fer konungur með þeim og hittast þeir jarl og segir hann konungi að nú vill hann taka trúna en konungur tekur það með þökkum er hans hugur hefir svo vel skipast. Síðan fékk konungur kennimann til og var jarlinn nú skírður.
Og þá er því embætti var lokið þá mælti jarl: "Nú vil eg eigi að eg sé á brott færður úr þessum stað því að mér segir svo hugur um að eg muni eigi marga daga lifa héðan í frá. En ef svo verður þá vil eg þess biðja að hér sé kirkja ger til sálubótar mér í þessum stað sem eg hefi staddur verið og skírn tekið og sé þar fé til lagið svo að sú kirkja megi vel haldast fyrir þeim sökum."
Svo er sagt að jarl var nærgætur og andast hann. Og er svo gert sem hann bað að kirkjan var ger og fé til lagið en Tófi sonur hans tók ríki það er hann átti á Gautlandi og var hann hinn mesti ágætismaður.
Egill var nú hinn kærasti vin Ólafs konungs í annað sinn og fór hann til Íslands til ættjarðar sinnar og þótti vera hinn besti drengur.