Nú er frá því sagt að á einu sumri kom til Noregs utan af Íslandi Brandur sonur Vermundar í Vatnsfirði. Hann var kallaður Brandur hinn örvi. Var honum það sannnefni. Brandur lagði skipi sínu inn til Niðaróss.Þjóðólfur skáld var vinur Brands og hafði mart sagt Haraldi konungi frá Brandi, hve mikill mætismaður hann var og vel að sér og svo hafði hann mælt Þjóðólfur að honum þætti eigi sýnt að annar maður væri betur til konungs fallinn í Íslandi fyrir sakir örleika hans og stórmennsku.
Hann hefir sagt konungi mart frá örleikum hans og mælti konungur: "Það skal eg nú reyna," segir hann. "Gakk til hans og bið hann gefa mér skikkju sína."
Þjóðólfur fór og kom inn í skemmu þar er Brandur var fyrir. Hann stóð á gólfinu og stikaði léreft. Hann var í skarlatskyrtli og hafði skarlatsskikkju yfir sér og var bandið uppi á höfðinu. Hann hafði öxi gullrekna í handarkrikanum.
Þjóðólfur mælti: "Konungur vill þiggja skikkjuna."
Brandur hélt fram verkinu og svaraði engu en hann lét falla af sér skikkjuna og tekur Þjóðólfur hana upp og færir konungi og spurði konungur hversu færi með þeim. Hann segir að Brandur hafði engi orð um, segir síðan hvað hann hafðist að og svo frá búningi hans.
Konungur mælti: "Víst er sjá maður skapstór og mun vera mikils háttar maður er honum þótti eigi þurfa orð um að hafa. Gakk enn og seg að eg vil þiggja að honum öxina þá hina gullreknu."
Þjóðólfur mælti: "Ekki er mér mikið um herra að fara oftar. Veit eg eigi hversu hann vill það virða."
"Þú vaktir umræðu um Brand, bæði nú og jafnan," segir konungur, "enda skaltu nú fara og segja að eg vil þiggja öxina þá hina gullreknu. Ekki þykir mér hann ör nema hann gefi."
Fer Þjóðólfur nú til fundar við Brand og segir að konungur vill þiggja öxina. Hann rétti frá sér öxina og mælti ekki. Þjóðólfur færir konungi öxina og segir hve fór með þeim.
Konungur mælti: "Meiri von að þessi maður muni vera fleirum örvari og heldur fénar nú of hríð. Farðu enn og seg að eg vil hafa kyrtilinn er hann stendur í."
Þjóðólfur segir: "Ekki samir það herra að eg fari oftar."
Konungur mælti: "Þú skalt fara að vísu."
Fer hann enn og kemur í loftið og segir að konungur vill þiggja kyrtilinn. Brandur bregður þá sýslunni og steypir af sér kyrtlinum og mælti ekki. Hann sprettir af erminni annarri og kastar braut síðan kyrtlinum en hefir eftir ermina aðra. Þjóðólfur tekur hann upp og fer á fund konungs og sýnir honum kyrtilinn.
Konungur leit á og mælti síðan: "Þessi maður er bæði vitur og stórlyndur. Auðséð er mér hví hann hefir erminni af sprett. Honum þykir sem eg eigi eina höndina og þá þó, að þiggja ávallt en veita aldregi, og farið nú eftir honum."
Og var svo gert og fór Brandur til konungs og þá af honum góða virðing og fégjafar. Og var þetta gert til raunar við hann.