BRANDKROSSA  ÞÁTTUR




1. kafli

Þar hefjum vér upp Helganna sögu er Ketill þrymur er, því að vér vitum hann kynsælastan verið hafa þeirra manna er í þessari sögu er frá sagt. Eru frá honum komnir Síðumenn og svo Krossvíkingar og svo þeir Droplaugarsynir. Það viljum vér og segja hversu Helgi Ásbjarnarson er kominn af landnámsmönnum er göfgastur maður er í þessari sögu að vitra manna virðingu.

Maður hét Hrafnkell. Hann var Hrafnsson. Hann kom út til Íslands síð landnámatíðar og var í Skriðudal. Hann sofnaði þar og dreymdi að maður kom að honum og bað hann brottu verða og upp standa sem skjótast með allt sitt. Hrafnkell vaknaði og fór þegar í brott á sömu stundu. En því næst hljóp ofan fjallið allt og varð þar undir göltur og graðungur er Hrafnkell átti. Það hafði eftir orðið. En hann fór í Hrafnkelsdal og byggði allan dalinn sínum mönnum, nær tuttugu bæjum, en hann bjó sjálfur á Steinröðarstöðum. Hann gerðist brátt höfðingi mikill, ríkur og fjölmennur. Synir Hrafnkels voru þeir Ásbjörn og Þórir.

En er Hrafnkell andaðist tóku þeir synir hans arf eftir hann að jafnaði. Hlaut Þórir bústað þann er faðir hans hafði átt en Ásbjörn byggði þann bæ er kallaður var að Lokhillum er nú heitir að Hrafnkelsstöðum og sat hann þann bæ vel.

Ásbjörn átti þá konu er Hallbera hét. Hún var dóttir Hrollaugs sonar Rögnvalds jarls af Mæri. Þau áttu son þann er Helgi var kallaður. Helgi fæddist upp. Fálátur var hann og vel orðstilltur. Lagðist mönnum rómur á hversu hann gerðist.

Ásbjörn varð eigi gamall. Þá er hann andaðist tók Helgi arf eftir hann og bjó nokkura vetur að Lokhillum. Eftir það brá Helgi búi sínu og seldi svo Hrafnkeli Þórissyni bræðrung sínum. En hann fór utan og var marga vetur í hernaði, bæði í Orkneyjum og Noregi með frændum sínum. Helgi var og nokkur sumur í víkingu og var hinn hraustasti maður en engi afreksmaður að afli og vígfimi. Eftir það fór Helgi til Íslands og var bæði gott orðið til fjár og virðingar. Spak-Bersi bauð Helga til sín og fór hann með honum heim á Bersastaði.

Á þeim sömu misserum kvongaðist Helgi og fékk Oddlaugar systur Bersa og tókust þar brátt góðar samfarar og miklar ástir. Þá var Helgi staðfestulaus og var engi þá fús að rísa upp af sínu landi fyrir Helga.

Maður hét Oddur og var kallaður sindri. Hann var auðigur að fé og ódæll við að eiga. Hann hafði valið sér bústað við Lagarfljót öðrum megin en Bersastaðir eru og búið þann bæ vel. Oddur átti konu og son þann er Ósvífur hét. Var það kallað að hann fylgdi því nafni í skaplyndi. Hann var farmaður og barst á mikið, leikmaður mikill, háðsamur og hælinn.

Það var einhverju sinni að þeir ræddust við mágarnir Bersi og Helgi. Spyr Helgi Bersa hvar hann sæi honum bústað eða hvert ráð hann legði á með honum. Bersi gaf og gott ráð það sem þeir efndu síðan.

Þegar er ís lagði á vatnið þá gekk Helgi á Oddsstaði og gerði sér kátt við Ósvífur og því næst tókust leikar upp í milli Oddsstaða og Bersastaða.

Maður er nefndur Ótryggur er vistarmaður var á Oddsstöðum. Hann tók að sækja mjög Ósvífur að leikum og hældist eftir og sagði hann meir vera hælinn en harðleikinn. En Oddur vó hann síðan, Ótrygg. Helgi Ásbjarnarson tók við vígsmálinu. Þá leituðu menn um sættir en engi var kostur annar en Bersi gerði einn um og varð svo sætt þeirra að Bersi gerði litla fjársekt en gerði Odd í brott af bústað sínum og úr héraði. Oddi líkaði stórilla málalok en þó urðu þessi að vera af því að margir voru honum unnandi ófararinnar.

Helgi Ásbjarnarson leysti Oddsstaði aftur til sín og þó við mikinn óþokka Odds. En þó varð svo að vera að Oddur varð í brott að fara og er ekki síðan frá honum sagt í þessari sögu en þó hefir hann mikilmenni kallaður verið.

Helgi reisti bú á Oddsstöðum og ætlaði allt til á einum degi og þangað að færa bú sitt hinn fyrsta fardag. En er Oddur bjó sína ferð í braut þá lét hann höggva graðung og sjóða. En hinn fyrsta fardag þá er Oddur var á brott búinn lætur hann borð setja með endilöngum sætum og var þetta allt graðungsslátur á borð borið.

Gekk þá Oddur þar að svo talandi: "Hér er nú vandlega borð búið og svo sem hinum kærustu vinum vorum. Þessa veislu gef eg alla Frey að hann láti eigi þann með minna harmi brott fara af Oddsstöðum er í minn stað kemur en eg fer nú."

Eftir það fór Oddur í brott með allt sitt.


2. kafli

Þessa ræðu segja sumir menn til ættar Droplaugarsona þeirrar er ókunnari er. En þótt sumum mönnum þyki hún efanleg þá er þó gaman að heyra hana.

Maður hét Grímur er bjó í Vopnafirði í Vík hinni innri. Hann var ungur maður og kvongaður og vellauðigur að fé. Hann ól upp uxa þann er brandkrossóttur var að lit og ágætanaut að hlutum og vexti. Honum þótti hann betri en allt annað það er hann átti í kvikfé. Hann gekk í túnum á sumrum og drakk mjólk bæði vetur og sumar.

Það bar við um sumarið, þá er uxinn var tíu vetra gamall en taðan stóð úti umhverfis húsin í stórsæti að uxinn hljóp út og inn og kastaði sátunum úr stað. Þá vildu menn taka hann og gátu eigi og gerði hann þá engan mun og var kominn þó fjöldi manna til en hann hljóp á leið fram og allt um síðir í hina ytri Krossavík og þar á sjá út og synti allt út í haf meðan menn máttu sjá.

Grímur undi nú stórilla við skaða sinn er hann hafði misst uxann. Hann átti bróður í Öxarfirði þann er Þorsteinn hét. Hann var góður bóndi, vitur maður og vinsæll. Unnust þeir og mikið bræðurnir. Nú voru Þorsteini orð send að hann kæmi til fundar við bróður sinn Grím í Vík. Og er þeir fundust bræður taldi Þorsteinn um fyrir honum að hann kynni eigi svo illa skaða sínum þessum, sagði enn margt í bætur bera en fé var nógt en eigi örvænt að hann æli upp annan uxa eigi verra en sagði vera virðing mikla að víkur þær báðar mundu síðan vera kenndar við uxa hans. Grímur var nálega sem við annað eyra gengi út það er Þorsteinn mælti.

Þorsteinn var þar allan veturinn til huggunar við bróður sinn en þó gerði Grím mjög óárlegan. Svaf hann lítið og neytti lítt matar. Og er á leið misserið leitaði hann eftir ef Grími væri nokkuð um utanferð, kvað við það stríð manna stemmast og dofna hugann af þeim áhyggjum er fyrir standa gleði manna og gamni. Grímur kvaðst fara vilja ef Þorsteinn færi með honum en hann kvaðst það gjarna vilja ef Grími væri fyrir það nokkurs vildara en áður.

Þeir settu menn fyrir bú sín til varðveislu en þeir réðust utan báðir bræður í Unaósi og höfðu ekki mikið fé. Og var þá vandi að hafa vararfeldi að varningi og svo höfðu þeir. Þeir urðu vel reiðfara og kom skip það í Þrándheim er þeir voru á bræður. Þeir gerðu sér tjald á landi og drifu menn síðan frá skipi hver til sinna heimkynna en þeir bræður sátu eftir í tjaldi sínu.

Snemma einn morgun kom maður til tjalds þeirra bræðra. Sá maður var mikill og sterklegur. Þeir spurðu þann mann að nafni. Hann sagðist Kárhöfði heita. Þá spurðu þeir hann hvert hann skyldi fara eða hvaðan hann væri. Hann kvaðst heima eiga hjá bónda þeim er Geitir heiti og sagðist hafa skyldu til handa honum tuttugu og fjóra vararfeldi en kvað Geiti vel auðgan og hinn besta í skuldum. Þeir seldu honum feldi sem hann vildi og mæltu mjöl fyrir. Hann kastaði á öxl sér og gekk brott síðan.

Eftir það kom sá maður til þeirra er Þórir hét, innan úr Þrándheimi, og bauð þeim til vistar. Hann var góður bóndi. Þeir þágu það og fóru til Þóris. Var þeim þar vel veitt vistin. Þeir spurðu Þóri bónda jafnan að Geiti en hann lést engi deili á honum vita.

Þeir höfðu eigi lengi á vist verið áður en þeir fýstust að fara heiman og vildu leita Geitis. Þórir latti þess en það kom fyrir ekki. Þeir fóru upp eftir dölum og spurðu jafnan að Geiti en engi kunni af honum að segja. Þá komu þeir um síðir til karls í afdal nokkurn og spurðu hann að Geiti og kvaðst hann eigi kenna hann. Þá spurði Þorsteinn ef nokkur örnefni vissi hann þau er Geiti væru kennd við. Hann kvað heita Geitishamra og sagði þá þeim til þeirra.

Fara þeir síðan þangað eftir um daginn. Þar koma þeir að hellisdyrum. Þar brann eldur í hellinum. Við eldinn sat maður. Kenndu þeir þar Kárhöfða kompán sinn. Hann spratt upp þegar og fagnaði þeim vel. Þeir settust niður við eldinn og lituðust um. Þeir þóttust sjá þar Brandkrossa uxa Gríms heilan standa öðrum megin út undir bergið. Kárhöfði tók við klæðum þeirra og varðveitti og er hann kom aftur þá bauð hann þeim í stofu að fara og er þeir komu þar þá sátu menn á báða bekki og kenndu þeir á þeim feldi sína.

Maður sat í öndvegi í rauðum feldi, mikill og tígulegur. Sá maður kvaddi þá fyrri og bauð þeim þar að vera svo lengi sem þeir vildu og setti þá hið næsta sér og var þar gott vistafang og góður drykkur. Konur tvær voru innar frá Geiti og báðar fríðar og sat sú honum nær er eldri var og var sú kona hans en dóttir hans hin yngri. Þar voru þeir skamma stund áður Grímur ógladdist.

Það fann Geitir brátt og mælti við Grím um einn dag: "Eg hefi sakar gert við þig Grímur," segir hann. "Eg sendi Kárhöfða þræl minn eftir uxa þínum Brandkrossa er best naut var á öllu Íslandi. En þar er þú þóttist sjá hann hinn fyrsta aftan, uxa þinn, það er belgur hans fullur af mjölvi og ætla eg þér það í uxaverðið. Mér hefir og sýnst sem þú hafir augum litið til Droplaugar dóttur minnar en eg mun hana gifta þér ef þú vilt flytja hana til Íslands með þér, með miklum fjárhlut er henni skal heiman fylgja. Hún er vel borin í móðurætt en þó eigi smáborin í föðurætt. Var móðir mín vel mönnuð en föður átti eg heldur stórfengan."

Grímur tók þessu máli vel og voru síðan gervar samfarar þeirra Gríms og Droplaugar. Var þar hin skörulegasta veisla og hvíldu þau í einni hvílu þrjú allan veturinn, Grímur, Droplaug og Þorsteinn, í einum afhelli og tókust með þeim góðar ástir, Grími og Droplaugu. Undi hann þá vel sínu ráði.

En er voraði þá spurði Geitir Grím hvað hann vildi ráða sinna en hann kveðst til Íslands vilja sem lífið að lifa. Geitir bað þá bræður kaupa sér skip og búa en hann kvað þau Grím eigi skyldu fé skorta og sagði Kárhöfða allt mundu til skips færa það er þau áttu þar í fjárhlutum og varningi.


3. kafli

Þeir bræður gerðu eftir því sem Geitir lagði ráð til og bjuggust til brottferðar. Mæltust þeir mágar vel fyrir að skilnaði. Bað Geitir Grím að hafa ráð fyrir þeim hjónum báðum og segir þá vel hlýða mundu.

En er þeir bræður voru mjög búnir til skips og hafs þá kom Kárhöfði ofan af landi og hafði belg Brandkrossa, fullan af mjölvi, á baki sér og gekk á skip út og lagði þar niður hóglega sem þeir vildu að væri. Annað sinn gekk hann ofan með feldaverð þeirra. Þriðja sinn fór hann ofan með kistur tvær og var í annarri klæði og gripir Droplaugar en í annarri gull og silfur og gersemar og var þetta heimanfylgja Droplaugar.

Þau létu í haf síðan og urðu vel reiðfara og lentu í Krossavík hinni innri og var þar færður belgur Brandkrossa af skipi og er við hann hvortveggja víkin kennd.

Þeir bræður seldu nú síðan skipið og fór hvor heim til síns bús. Þorsteinn kvongaðist og þótti hinn nýtasti bóndi og jók sína ætt í Öxarfirði en Grímur bjó í Krossavík og undi vel sínu ráði meðan þau Droplaug lifðu bæði og þótti vera hinn röskvasti maður en Droplaug var væn kona og stórmannleg, umsýslumikil og drenglunduð og ómálug. Hún var stórlát og staðlynd ef í móti henni var gert, fálát og fengsöm og staðföst vinum sínum en mjög harðúðig óvinum sínum. Hún varð ekki mjög gömul kona og varð sóttdauð og þótti Grími mikið að missa hennar. Fékk hann mikinn harm eftir hana og undi sér lítt. Þau áttu dóttur eftir er Mardöll hét. Hún var væn mær og virðuleg og mjög lík móður sinni, umsýslusöm, vinsæl og vingóð þegar hún hafði aldur til þess. Hún var fyrst fyrir búi fóður síns eftir móður sína dauða. Þótti því öllu vel ráðið er hún réð. En síðan var hún gift austur í Héraðsdal til Gilsár og var hún móðir Gríms Mardallarsonar, föður Droplaugar, móður þeirra Gríms og Helga Droplaugarsona.




Netútgáfan - mars 1998