Í vinnunni
Ég spurði um framkvæmdastjórann og var vísað inn eftir löngum gangi. Veggirnir voru silfurgráir og gljáandi, daufblár gólfdúkur, hógvær flúorljós felld inn í loft og veggi. Hvergi var rykörðu að sjá, allt var þvegið, stífbónað, pússað og sterílt. Ég gekk framhjá ótal hurðum með skiltum sem á stóðu númer eins og A-53, X-19 eða M-02. Ef hurðirnar voru númeraðar eftir einhverju sérstöku kerfi var það kerfi snúnara en svo að ég botnaði nokkurn skapaðan hlut í því. Mér var hætt að lítast á blikuna þegar ég loks fann hurðina sem ég var að leita að, K-22. Ég ýtti á þar til gerðan hnapp og innan skamms kviknaði grænt ljós og hurðin hrökk úr lás. Ég opnaði hana og gekk inn á rúmgóða og bjarta skrifstofu. Hún var innréttuð á sama steingelda háttinn og byggingin öll, silfurgrá og glansandi. Einu húsgögnin voru einstaklega stílhreint stálgrátt skrifborð með svartri glerplötu og hilla af sama sauðahúsi sem á stóðu allskyns viðurkenningar, skildir og verðlaunapeningar. Á bakvið skrifborðið sat maðurinn sem ég var kominn til að hitta, starfsmannastjóri H-markaðar, Leó Zen.Hann leit ekki út fyrir að vera neinn meðaljón eða möppudýr. Hann var lágvaxinn, frekar bústinn, klæddur í ljósbrún jakkaföt sem stungu í stúf við heildarímynd fyrirtækisins. Andlitið var kringluleitt og kátlegt á að líta. Leó Zen hafði brosandi brún augu sem glömpuðu af greind og undir nefi hans var þykkt en snyrtilegt yfirvaraskegg. Hárið var orðið nokkuð þunnt í toppinn en það gaf honum bara virðulegt yfirbragð. Almennt leit Leó Zen út fyrir að vera nokkuð ánægður með sjálfan sig þar sem hann hallaði sér aftur í stólnum með greipar spenntar á hnakka. Ég var ekki viss hvort þetta augljósa sjálfsöryggi hans myndi hjálpa mér eða hefta í bónarför minni.
"Komdu sæll herra Starfsmannastjóri" sagði ég. Þetta var byrjunin á fyrirfram undirbúnu samtali sem ég hafði lagt á minnið. Eins og þaulvanur skákmaður hafði ég ákveðið samræður okkar nokkra leiki fram í tímann. Eftir að hafa leitað fyrir mér um atvinnu á fleiri stöðum en ég kærði mig um að rifja upp þóttist ég þekkja þessi samtöl nokkuð vel.
"Þú ert ekki mjög stór" sagði Leó Zen.
"Ég veit herra, en það hefur ekki háð mér hingað til" svaraði ég að bragði. Ég þekkti ekki þessa byrjun hjá andstæðingi mínum en var nokkuð ánægður með svarleik minn.
"Hvað ertu gamall?" spurði Leó.
"Tuttuguogátta ára" svaraði ég.
"Tuttuguogátta, já" muldraði Leó. Ég þekkti þetta tilbrigði hinsvegar mætavel. Nú myndi hann spyrja eitthvað eins og hvort ég væri ekki svolítið gamall til að vera að sækja um þessa vinnu eða hvort ég hefði þá ekki víðtæka reynslu. Þá myndi ég svara eitthvað á þá leið að nei, ég hefði enga sérstaka reynslu eða menntun og hefði raunar ekki komið víða við í lífinu. Hann myndi tuldra eitthvað í barm sér um "óhæfa bjána" og segja mér svo með gerfilegu brosi að að það yrði haft samband við mig.
"Mér líst bara ágætlega á þig góði minn" sagði Leó. "Þú ert hér með ráðinn. Eða ertu ekki annars sáttur við það?".
"Jú herra, svo sannarlega" sagði ég og reyndi ekki að leyna gleði minni. Ég brosti svo að stríkkaði á andlitinu á mér. Leó brosti að brosi mínu og reis á fætur.
"Jæja vinur, ekki kalla mig herra. Við skulum þá kíkja á batteríið". Hann vísaði mér til dyra. "Við skulum byrja á að kíkja á verslunina. Ég veit að þú hefur séð þetta allt saman áður en ég vil vera viss um að þú skiljir þetta til botns. Skilurðu hvað ég er að fara?". Ég jánkaði með einhverskonar umli og kinkaði kolli til að láta í ljós áhuga minn.
"Eins og þú veist er H-markaður stærsta verslunarkeðja landsins og þótt víðar væri leitað. Þetta er engin tilviljun, góði minn, síður en svo. Stofnendur verslunarkeðjunnar voru nokkrir viðskiptafræðingar sem skildu að gamla formið á stórmörkuðum var orðið úrelt og úr sér gengið. Þeir vildu stórbæta þjónustuna án þess að hækka vöruverðið og raunar vildu þeir gera enn betur og lækka það. Þeir vildu sætta það ósamrýnanlega í einum glæsilegum stórmarkaði með góðu vöruúrvali, úrvalsþjónustu og lágu verði. Skilurðu hvað ég er að fara?". Ég jánkaði aftur og kinkaði ákafur kolli til að líta ekki út fyrir að vera áhugalaus. Við vorum nú komnir inn í aðalsal byggingarinnar. Vörumerki H-markaðar hékk gljáfægt á silfurgráu þili, umvafið neonljósum. Vöruhillurnar voru stórir gámar sem röðuðust upp í fylkingar og sveitir um gólfpláss byggingarinnar. Í hátalarakerfinu ómaði ljúf og átakalítil tónlist. Rekkarnir voru þéttskipaðir vörum og jafnóðum og viðskiptavinirnir tóku eitthvað úr hillunum fylltu sjálfvirkir vélarmar upp í eyðurnar.
"H-markaður nær þessu markmiði sínu með því að skera starfsmannafjölda algjörlega við trog. Eins og þú getur sjálfur séð eru engir starfsmenn á róli hér inni í verslunarrýminu. Rannsóknir sýna líka að viðskiptavininum líkar þetta fyrirkomulag betur. Þeim finnst það minni hnýsni í einkalíf þeirra að vél afgreiði þá en einhver bláókunnug manneskja". Hann lagði svolítinn fyrirlitningartón í orðin "starfsmenn" og "manneskja". Hann vék sér að stórum skjá, en slíkir skjáir voru á endum allra vöruhillnanna.
"Þessir tölvuskjáir hjálpa viðskiptavininum að finna vörur í versluninni". Hann ýtti á hnapp á skjánum. "Að hverju leitið þér?" spurði silkimjúk kvenmannsrödd. "Niðursoðnum gulrótum" sagði viðmælandi minn. Hann hafði vart sleppt orðinu þegar þrívítt kort af versluninni birtist á skjánum og rauð ör benti á hilluna þar sem dósir af niðursoðnum gulrótum stóðu í breiðfylkingu. "Var það eitthvað annað?" spurði röddin, þýðlynd og hjálpsöm. Leó Zen leit brosandi til mín.
"Taktu eftir því að ef kona hefði yrt á skjáinn hefði kynþokkafull karlmannsrödd svarað henni. Það hefur neysluhvetjandi áhrif. Allavega, það er hægt að gera miklu fleira með hjálp tölvunnar. Þú gætir til dæmis fengið upplýsingar um hvaða tegundir af gulrótum eru til í augnablikinu". Hann snerti tvo hnappa og samstundis komu myndir af öllum tegundum niðursoðinna gulróta sem í boði voru ásamt upplýsingum um verð og framleiðendur.
"Hægt er að fá allar upplýsingar um uppruna gulrótanna" sagði Leó og ýtti á hnapp. Á skjánum birtust allskyns upplýsingar um Rótar gulrætur. "Rótar gulrætur eru lífrænt ræktaðar í sérstökum dauðhreinsuðum gróðurhúsum á Norðurpólnum" þuldi röddin. Á skjánum rúllaði kvikmynd sem sýndi risavaxna glerkúpla í snjóauðn. "Þar að auki hafa verið hreinsuð úr þeim öll krabbameinsvaldandi efni, óholl bragðefni og sterk litarefni, sem útskýrir næpuhvítan lit þeirra" hélt röddin áfram.
"Þú getur líka beðið tölvuna um að sýna þér upplýsingar um næringargildi gulrótanna" sagði Leó. Á skjánum birtist ítarlegur listi yfir orku- og vítamíninnihald niðursoðnu gulrótanna.
"Ef þú kannar vöruverðið í verslununum muntu sjá að það er að jafnaði 36% lægra heldur en í sambærilegum verslunum. Samt er vöruúrvalið meira, húsakynnin glæsilegri og verslunarupplifunin ánægjulegri" talaði Leó eins og auglýsingabæklingur. "Öllu þessu náum við fram með því að nota tífælt færri starfsmenn en keppinautar okkar. Þess má geta, góði minn, að H-markaður skilaði á síðasta ári að meðaltali 23% meiri hagnaði heldur en sambærilegar verslunarkeðjur" hnýtti Leó aftan við og dró annað augað í pung. Við vorum nú komnir að útgangi verslunarinnar þar sem afgreiðsluvélarnar stóðu í löngum röðum.
"Þetta er hinsvegar mesta hátækniundrið í H-markaði" sagði Leó. "Viðskiptavinurinn raðar vörunum á þetta færiband og þaðan rúlla þær í gegnum afgreiðsluvélina. Hún les af þeim verðið, viktar það sem vikta þarf og raðar góssinu skipulega í poka. Viðskiptavinurinn rennir debetkortinu sínu í gegnum þessa rauf til að borga vöruna, tekur pokana og fer út. Mælingar sýna að vélarnar eru að jafnaði 60% fljótari að afgreiða heldur en vel þjálfað fólk". Það var svo sannarlega tilkomumikil sjón að sjá vörurnar rúlla inn í vélarnar öðru megin, hristast og skekjast þar og koma svo út hinumegin innpakkaðar í plastpoka. Samt fannst mér ég í fyrsta sinn sjá einhverja brotalöm í þessu annars fullkomna kerfi. Leó hnippti í mig.
"Auðvitað erum við með einhverja starfsmenn hérna, annars værir þú ekki hér. Við skulum kíkja inn á skrifstofuna hér bakatil". Við snérum við og fórum inn í skot þar sem lítt áberandi hurð var komið fyrir. Leó renndi starfsmannakorti sínu í gegnum þar til gerða rauf og við gengum inn um dyrnar. Ég elti Leó upp þröngan hringstiga og inn dimman gang. Gangurinn endaði í stóru og aflöngu dauflýstu dimmrauðu herbergi. Við annan langvegginn var langt borð og við borðið sat tylft manna og kvenna við stóra sjónvarpsskjái. Á sumum skjáanna sáust myndir frá búðinni. Á öðrum voru uppdrættir og kort af vélum og færiböndum. Fólkið fitlaði við allskyns stjórntæki eða pikkaði á lyklaborð. Sumir höfðu síma á höfðinu og gáfu skipanir í hálfum hljóðum. Fólkið leit ekki upp frá störfum sínum þegar við komum inn heldur virtist fullkomlega einbeitt við störf sín. Mér fannst allt að því furðurlegt að sjá hvernig það sat við skjáina án þess að gefa okkur nokkurn gaum.
"Þetta er stjórnstöð verslunarinnar, þar sem flestir starfsmannanna eru. Þeir hafa umsjón með að allar vélar virki og fylgjast með móðurtölvu verslunarinnar og mata hana á gögnum um lagerstöðu, innkaup og slíkt. Einnig hafa þeir eftirlit með viðskiptavinunum í versluninni". Innst í herberginu var auður stóll. Leó bauð mér sæti. Stóllinn var mjúkur og þægilegur. Strax og ég settist kviknaði á skjánum og skjaldarmerki H-markaðar birtist á honum.
"Hvað á geri ég svo?" spurði ég Leó. Hann rétti mér starfsmannakort með nafni mínu og mynd. Ég undraðist það að hann væri strax kominn með passa handa mér en sagði ekkert. Þegar ég renndi kortinu í gegnum rauf við skjáinn birtist "Góðan dag. Velkominn til starfa" á skjánum undir skjaldarmerki H-markaðar. Leó benti mér á að setja símann á hausinn.
"Hlutverk þitt verður að fylgjast með afgreiðsluvélunum" sagði hann. "Þú hreyfir þennan stýripinna til að færa til sjónsvið myndavélanna. Ef þú ýtir á þennan hnapp fjórskiptist skjárinn svo þú getur fylgst með mörgum vélum í einu". Hann sýndi mér í fljótheitum hvernig stjórntækin virkuðu.
"Þú átt að gá að búðarhnuplurum" sagði Leó. "Það er samt ekki eins flókið og það virðist" bætti hann við. "Allar vörurnar eru merktar með sérstöku segulmerki sem afgreiðsluvélarnar þurrka út. Ef einhver reynir að fela vörur innan á sér eða ætlar að fara með vöru framhjá vélunum birtist rauður hringur utan um hann á skjánum. Svo einfalt er það. Gættu þín sérstaklega á þeim sem að reyna að taka pokana úr afgreiðsluvélinni án þess að renna debetkortinu sínu í gegnum raufina. Skilurðu allt sem ég segi, góði minn?". Ég jánkaði því, þetta var allt svosem ósköp einfalt.
"Það var ágætt" sagði Leó. "Þá byrjar þú bara á mánudaginn. Nú skal ég fylgja þér út". Ég stóð ekki upp heldur sat kyrr og hugsaði málið smástund. Það var enginn vafi á því, það var ákveðin brotalöm í þessu kerfi. Ég gat ekki setið á mér heldur sagði við Leó:
"Ein spurning. Hvað geri ég, þú veist, ef einhver reynir að stela og hlaupa í burtu? Ég meina, ég er hér og hann er þar, hvað get ég svosem gert? Læsi ég útidyrahurðinni eða eitthvað?".
"Nei, nei!" hló Leó. "Það myndi trufla hina viðskiptavinina of mikið. Ef einhver reynir að stela ýtir þú á þennan hnapp. Þá færðu svona sigti á skjáinn. Þú færir það á þjófinn og skýtur hann svo með leysigeisla". Leó hló. Ég horfði agndofa á Leó.
"Skýt ég hann með leysigeisla?" hafði ég eftir honum.
"Einmitt, bara miða, ýta á rauða hnappinn, blamm, allt búið". Leó lék miðið og smellti saman lófum til að herma eftir blamminu.
"Allt búið? Hvað meinarðu maður, allt búið? Hvað kemur fyrir þjófinn, lamast hann þú veist eða sofnar hann eða hvað?"
"Nei nei" brosti Leó "hann steindrepst. Stiknar eins og kjúklingur í ofni". Leó Zen brosti breitt að þessari samlíkingu sinni. Ég gapti af undrun og hneykslun og var orðlaus í allnokkurn tíma. Svo hló ég og benti með vísifingri á Leó.
"Þú plataðir mig alveg þarna, herra. Djöfull get ég verið vitlaus maður! Þetta var bara próf, ekki satt? Smá próf, þú veist, sem þú lagðir fyrir mig, ha? Hvernig stóð ég mig? hahaha!" hló ég. Leó horfði strangur á mig. Í fyrsta skipti var hann ekki brosandi eða kátlegur. Tvær eða þrjár manneskjur höfðu litið upp frá skjáunum sínum og fylgdust grannt með okkur.
"Þetta er ekkert próf góðurinn" sagði Leó. "Svona ganga hlutirnir fyrir sig. Við hjá H-markaði tökum markmið okkar og stefnu alvarlega, að bjóða í senn bestu þjónustuna og bestu kjörin. Vissir þú hve miklu aðrar verslanir tapa á búðarhnuplurum?". Ég var orðinn nokkuð ringlaður. Var hann að gera at í mér? Var kallinn enn að prófa mig? Var ég að verða vitlaus?
"Mér er alveg sama, þetta er bara kjaftæði!" lýsti ég yfir og hristi hausinn. "Drepa kúnnann? Ég meina, þetta er bara rugl!" hrópaði ég og fórnaði höndum. Leó Zen hvessti á mig augun og mér fannst ég sjá rauðum blossum bregða fyrir í þeim.
"Ég skal nú segja þér hvað er kjaftæði, vinur minn. Kjaftæði er að verslun tapi allt að 15% varanna inn undir klæðnað bíræfinna búðarhnuplara. Kjaftæði er að heiðarlegir kúnnar gangi inn í verslun og greiði fyrir vöru, vitandi að þeir eru að borga bæði fyrir sig og einhvern samviskulausan þrjót sem er ekki vitund þakklátur fyrir það heldur er tilbúinn að láta þig gjalda fyrir græðgi sína og eigingirni. Kjaftæði er að leyfa fólki að komast upp með að halda að það sé rétthærra en aðrir og megi þessvegana bara taka það sem því sýnist. Kjaftæði er að heiðarlegt fólk verði nauðugt viljugt að halda ruslaralýð uppi. Þú hlýtur að sjá að góðurinn, það er hið eina og sanna kjaftæði!".
"Já en" maldaði ég í móinn "sumt fólk, þú veist, er kannski fátækt og allt og þarf ekkert að vera vont fyrir það, ég meina ..."
"Dæmigerður misskilningur" greip Leó frammí fyrir mér. "Kannanir sýna að 72% búðarhnuplara er ágætlega stætt fólk sem hefur enga ástæðu til að stela heldur getur vel greitt fyrir vöruna. Það er einfaldlega gráðugt, eigingjarnt og samviskulaust, haldið stelifíkn og þjóf-óeðli, ef ég má bæta við. Það væri strax bót í máli að vita að tapið kæmi einhverjum fátæklingum til góða en jafnvel því er ekki að heilsa góðurinn, síður en svo. Þetta fólk tekur bara og tekur og finnst ekkert sjálfsagðara en að aðrir fái minna. Þegar búðarhnuplari rænir verslunina verður hún að bæta sér skaðann með því að hækka vöruverðið og á endanum borgar þú fyrir brúsann. Þínir peningar, þín vinna. Einhver ókunnugur maður hefur seilst í veskið þitt og eignað sér hluta af þinni heiðarlegu vinnu. Einhver sem þú hefur aldrei séð hefur tekið frá þér einhvern hlut sem þig langar í eða einhverja skemmtun eða nautn sem þú hefðir getað veitt þér eða öðrum þínum vinum. Í hvert skipti sem þú gengur inn í verslun ertu að gera sjálfan þig að fórnarlambi, þú ert að bjóðast til að brauðfæða einhvern drullusokk! Hann stendur ábyggilega handan við hornið og hlær að þér og honum finnst hann vera betri en þú og honum finnst hann hafa snúið á þig. Og hann kemst upp með þetta í versluninni og hann færir sig upp á skaftið og hann svindlar á skattinum og hann svindlar á vinnuveitanda sínum og hann svindlar á öllum hvar sem hann fer og allstaðar þarf saklaust fólk að hreinsa upp eftir hann skítinn. Hann kennir börnunum sínum að svona eigi að lifa lífinu, sníkja á öðrum eins og iðramaðkar og þannig breiðir meinið úr sér þar til breiðu bökin á heiðarlegu fólki eins og mér og þér þola ekki meira heldur bresta. Allt þetta, í hvert skipti sem þú stígur fæti inn í kjörbúð ... nema hér í H-markaði. Hér látum við þá ekki komast upp með neitt svindl. Hér ert þú ekki að borga undir rassinn á neinum ræningjalýð! Hér gengur þú stoltur inn og ferð út, beinn í baki, vitandi það að þú hefur greitt fyrir vöruna hvorki meira né minna heldur en réttlátt getur talist og enginn hefur stungið hendinni í rassvasann þinn! Skilurðu hvað ég er að fara?"
Þegar Leó hafði lokið þessari þrumuræðu sinni áttaði ég mig á því að ég var honum algjörlega sammála. Eftir á að hyggja voru þetta ekkert sérlega traust eða gáfuleg rök, en þarna inni í stjórnstöðinni, augliti til auglitis við Leó Zen, var þetta eins og talað út úr mínu hjarta. Ég leit skömmustulegur á tærnar á skónum mínum. Leó klappaði mér á bakið og var aftur kominn í vinalega skapið sitt.
"Hafði engar áhyggjur, góði minn" sagði hann. "Þú ert fæddur í þetta starf, trúðu mér. Ég er nefnilega svolítill mannþekkjari, skilurðu ..." hvíslaði hann og dró annað augað í pung eins og honum einum er lagið. Ég kinkaði skömmustulega kolli og var honum þakklátur fyrir að hafa sýnt mér heiminn í svona skýru ljósi.
8. maí, mánudagur.
Kæra dagbók. Í dag byrjaði ég í vinnunni. Leó kynnti mig fyrir öllu fólkinu í stjórnstöðinni. Ég man nú ekki helminginn af nöfnunum en mér leist ágætlega á flesta. Sá sem er með mér í búðarhnuplsdeildinni heitir Óttar og er indælis gaur. Hann er á svipuðum aldri og ég, með krullað ljósbrúnt hár og svolítið geggjaðan svip. Það er samt bara á ytra borðinu, hann var mjög hjálplegur og tók sér góðan tíma til að kenna mér ýmsar brellur sem ekki koma fram í "Handbók starfsmanna í Stjórnstöð", en það er mikill doðrantur sem ég á víst að lesa spjaldanna á milli. Óttar sagði mér að hafa ekki áhyggjur af því. Yfirmaður stjórnstöðvar heitir Klemens. Hann hafði einhvað skrýtið millinafn en ég er búinn að gleyma því núna. Þetta er roskinn maður og virðist yfirleitt vera hálfdottandi þar sem hann situr í glerbúrinu sínu en það er hin mesta blekking, haukfránni mann hef ég varla vitað. Ef einhver virðist vera úti að aka er Klemens strax búinn að kalla í símann hans. Jafnvel ef eitthvað er að gerast á einhverjum skjánum sem skjástjórinn tekur ekki eftir er Klemens byrjaður að kalla. Hann virðist geta fylgst með öllum skjáunum í einu betur en við öll til samans. Ekki veit ég hvernig hann fer að þessu, kannski hefur hann hundrað augu. Sá sem ég man best eftir, eða réttara sagt sú, er Selma. Hún vinnur oftast við lagerskjáinn en stundum er hún víst á "ruplvaktinni" eins og þau kalla það að vinna við afgreiðsluvélaeftirlitið. Hún er með herðasítt kastaníubrúnt hár sem liðast á undraverðan hátt eins og foss niður á bak. Litur augnanna er af einhverju óskilgreindu grágrænu tagi, mjög fallegur. Samt væri synd að segja að hún væri beinlínis fríð, en hún hefur eitthvað við sig. Þegar ég var kynntur fyrir henni hallaði hún höfðinu til hliðar á svo sérstakan hátt að mér lá við orðfalli. Við spjölluðum örlítið saman í kaffipásunni og hún veit greinilega hvað hún syngur. Ég ætla að tékka betur á henni þegar mér gefst tækifæri til.
Það var samt aðallega eitt sem var mér ofarlega í huga þennan dag, skyldi ég þurfa að skjóta einhvern? Tilhugsuninum að taka líf annarrar manneskju olli mér lítilli gleði, en orð Leós stóðu prentuð í huga mér með skínandi stöfum. Ég fylgdist grannt með á skjánum mínum, allan daginn, en allt gekk eðlilega fyrir sig og ekkert gerðist. Þegar ég lauk vaktinni minni um sexleytið var ég orðinn að hálfgerðri taugahrúgu, því neita ég ekki. Ég trúði Óttari fyrir þessu en hann brosti bara og sagði að þetta vendist fljótt. Ég trúði honum.
9. maí, þriðjudagur.
Þegar ég vaknaði í morgun var sólbjartur og fallegur dagur. Mig hafði dreymt Selmu. Ég vil reyndar vekja athygli á því að þetta var alls ekki blautlegur draumur. Ég mætti fullsnemma í vinnuna svo ég fékk mér smók inni í reykherbergi með Jonna, en hann er sá eini fyrir utan mig sem svælir. Þetta var kátur náungi, hafði ótal klámbrandara á hraðbergi og sagði þá vel. Hann sagðist vinna við hillurnar. Hann er einn af þeim sem þarf að fara niður í verslunina til að kippa vélörmunum í liðinn ef þeir festast. Hann skaut því að mér að vélbúnaðurinn í versluninni væri nú ekki beinlínis fyrsta flokks, en bað mig að vera ekki að fjasa mikið um það.
Mér leið eitthvað skár í maganum í dag en í gær. Samt hugsaði ég stöðugt um það sem ég þyrfti að gera ef ég kæmi auga á búðarþjóf. Ég hef aldrei séð dauðann mann, ekki einu sinni í opinni kistu við jarðarför eða neitt. Ég reyndi að sjá fyrir mér hvernig það liti út ef ég skyti einhvern. "Stiknar eins og kjúklingur" hafði Leó sagt. Hvernig ætli leysigeislinn líti út? Einhver sagði mér að leysigeislar væru ósýnilegir en ég veit að þeir geta verið rauðir líka. Ætli þjófurinn fuðri upp eða ætli hann detti bara niður eins og hann hafi verið skotinn? Ætli hann drepist eins og í bíó eða ætli hann hristist allur og æli blóði? Ég reyndi nú að þagga niður í þessum hugsunum, en þær voru áleitnar. Það er gott að geta sagt þér frá þessu öllu í trúnaði, kæra dagbók, það léttir þungu fargi af mér.
Ég talaði ekkert við Selmu í dag, en það liggur heldur ekkert á. Reynslan hefur kennt mér að maður uppskeri eins og maður sái og að það sé betra að vanda til sáningarinnar.
10. maí, miðvikudagur.
Ekkert. Ekki nokkur skapaður hlutur. Ég held að ég sé að fara á taugum. Spennan vex bara frekar en hitt. Hún safnast upp í mér eins og púður og ég bíð bara eftir því að ég springi. Hinir sjá hvernig mér líður og reyna að létta lund mína með aulabröndurum eða klappi á bakið. Ég held að ég verði bara feginn þegar eitthvað gerist. Þá þarf ég ekki að velta því fyrir mér allan daginn hvernig það verður. Í dag prófaði ég að fá fram sigtið og miðaði á nokkrar manneskjur. Puttarnir á mér námu við rauða hnappinn og ég hefði ekki þurft nema að teygja úr einum fingri til að plaffa einhvern niður. Klemens tók strax eftir þessu og spurði mig í símtækið hvort ég hefði komið auga á eitthvað. Ég lét miðið hverfa í hvelli og svaraði að bragði að þetta hafi ekki verið neitt. Hann sér sko allt, hann Klemens. Talaði ekkert við Selmu.
11. maí, fimmtudagur.
Ég fékk smá martröð í nótt. Mig dreymdi að ég væri að versla í H-markaðinum. Mér fannst ég vera klæddur í síðan, svartan frakka og fólki virtist standa einhver stuggur af mér. Ég var með einhverja matvöru í innkaupakörfu og var að ganga framhjá grænmetisdeildinni þegar það hvarflaði allt í einu að mér að stela gulrót. Í draumnum vissi ég ágætlega að ef ég reyndi að stela yrði ég skotinn en samt færðist ég nær og nær gulrótahillunni. Ég setti nokkrar gulrætur í poka eins og á að gera, en í staðinn fyrir að setja pokann í innkaupakörfuna leit ég snöggt í kringum mig og tróð svo pokanum innaná frakkann minn. Ég skil ekki ennþá afhverju, en í draumnum hafði ég einhverja geysilega mikilvæga ástæðu til að stela þessum gulrótum. Svo gekk ég í áttina að afgreiðsluvélunum og reyndi að líta sakleysislega út. Ég vissi að ég kæmist ekki upp með þetta, að það væru segulmerki í hverri einustu gulrót og að nú myndi birtast rauður hringur utanum mig á einhverjum skjá. Ég vissi að ég yrði drepinn en samt hélt ég áfram að ganga í átt að afgreiðsluvélinni, setti vörurnar hikandi á færibandið, tók upp debetkortið mitt til að borga þær. Ég hrópaði á sjálfan mig í huganum að hlaupa til baka, eða setja gulræturnar á færibandið með hinum vörunum, en ég gat það ekki, það var eins og einhver æðri vilji stjórnaði mínum. Ég tók við pokanum með vörunum mínum og stakk kortinu í vasann. Ég fann næstum því fyrir rauðum hring á bakinu á mér. Svo gekk ég af stað í áttina að útidyrahurðinni, hvert skref var eins og þúsund. Ég var kominn svo nálægt útidyrunum að þær opnuðust fyrir mér þegar ég fann brennandi sársauka milli herðablaðanna og á næsta augnabliki lá ég á gólfinu og barðist við að ná andanum. Ég get svarið að ég fann járnbragðið af blóðinu uppí mér. Svo opnaði ég augun. Ég svaf ekki mikið það sem eftir lifði nætur.
Þessi martröð virðist samt hafa veitt mér einhverja útrás, því að mér leið betur í vinnunni í dag. Ekkert gerðist. Ég er aftur farinn að hallast að því að þetta hafi bara verið allsherjar djók hjá Leó og öllum hinum.
13. maí, laugardagur.
Kæra dagbók. Fyrirgefðu að ég skrifaði ekkert í gær, en það var af því að í gær, eins og í dag, gerðist ekkert. Það er nú kannski ekki alveg rétt, ég talaði helling við Selmu í hádeginu. Ég held að mér hafi bara tekist vel upp. Hún hló allavega einhver ósköp að stælunum í mér. Samt var þetta öðruvísi með hana heldur en margar aðrar stelpur. Hún horfði ekki á mig með aðdáunaraugum, eins og ég hefði beitt svartagaldri á hana. Hún horfði meira á mig eins og ég væri sá sem væri fórnarlamb galdra. Hún hefur ábyggilega komið víða við, séð þetta allt saman áður. Hún ber það með sér að vera reynd og þroskuð, án þess þó að hafa tapað húmornum fyrir þessu fáránlega lífi. Mér líkar betur við hana í hvert skipti sem ég hugsa til hennar. Ég er viss um að hún fílar mig líka.
15. maí, mánudagur.
Í dag gerðist það, það sem ég hafði verið að kvíða fyrir alla síðustu viku. Í dag skaut ég minn fyrsta búðarþjóf. Mér hefur aldrei liðis eins illa á ævinni. Það er víst betra að ég byrji á byrjuninni, þótt erfitt sé.
Dagurinn leið í svipuðu tilbreytingarleysi og aðrir dagar. Ég gantaðist við Selmu og strákana í miðdegispásunni og var raunar nokkurnveginn laus við allan kvíða og spennu. Klukkan var orðin hálfsex og mig var farið að hlakka til að sleppa af vaktinni minni þegar rauður hringur birtist skyndilega utan um manneskju á skjánum. Á samri stundu helltist yfir mig öll sú angist sem ég hafði verið að glíma við vikuna áður. Á skjánum birtust upplýsingar um hverju maðurinn var að stela: kexpakka og tyggjói. Þetta var maður á mínum aldri, klæddur í fín jakkaföt og bindi. Ég trúði því varla að svona vel klæddur maður tæki upp á því að stela kexpakka! Á hinn bóginn rifjaðist fyrir mér kaflinn í HSS-handbókinni um sjálfvirka þjófaskynjunarbúnaðinn þar sem stóð að honum skjátlaðist aldrei. Nú gerðist allt mjög hratt. Maðurinn var að taka pokann sinn og búa sig undir að ganga út. Ég leit á hina og sá að þeir horfðu á mig. Klemens hafði gripið hljóðnemann sinn og kallaði eitthvað til mín, sem ég tók ekki eftir hvað var. Ég færði sigtið á manninn og renndi skotfingrinum yfir rauða hnappinn. Hendur mínar titruðu. Þetta var enginn tölvuleikur. Ef ég ýtti á hnappinn myndi ég tortíma þessum snyrtilega klædda manni. Efasemdarödd innra með sagði: "ætlar þú að tortíma þessari manneskju fyrir það eitt að stela kexpakka? Ætlar þú að binda ótímabæran enda á líf þessa manns fyrir eina litla yfirsjón, fyrir að falla fyrir einni lítilli freistingu? Er hægt að meta mannslíf á við kexpakka?" Hjartað barðist um í brjósti mínu og ég gældi sveittur við rauða hnappinn. Maðurinn hafði tekið pokann og var að ganga út. "Skjótt'ann strákur!" hrópaði Klemens og spratt á fætur. Ég leit á skjáinn og leit á hina. Maðurinn var að sleppa en ég gat ekki fengið mig til að ýta á hnappinn. "Ég ..." sagði ég. "Á ég að ... ?". Selma kinkaði rólega kolli til mín. Þá lagfærði ég miðið og ýtti fast á hnappinn. Á skjánum birtist skær ljósrönd og ég heyrði læti í heyrnartólunum. Maðurinn teygði út hendurnar eins og hann ætlaði að grípa um sárið á hnakkanum, en það vara bara sjálfvirkt taugaviðbragð. Hann tók hálft skref áfram og datt svo á hurðina og lá fram á hana eins og hann væri að reyna að detta ekki. Ég sá að það rauk úr hnakkanum á honum og svartrautt blóðský breiddi úr sér niður eftir herðum og baki. Svo opnaðist útidyrahurðin og hann féll kylliflatur fram fyrir sig út á gangstétt. Fætur hans kipptust til og fingurnir krepptust saman. Ég sá sem betur fer ekki andlitið á honum en ég sá að blóðpollur var að myndast undir hálsinum á honum. Líkami hans tók tvo eða þrjá krampakippi og svo lá hann kyrr. Hurðin lokaðist á líkið en opnaðist svo aftur. Ég starði frosnum augum á skjáinn. Hurðin keyrði á manninn, aftur og aftur, svo hann virtist aldrei vera almennilega dauður. Ég kastaði upp yfir stjórnborðið og man svo ekki meira í minn haus.
Þegar ég rankaði við mér var búið að leggja mig uppá borð í kaffiteríunni. Óttar, Klemens og Selma hjálpuðu mér að rísa upp við dogg. Óttar gaf mér vatn að drekka. Ég horfði sljóeygur á þau og kjökraði.
"Ég drap hann" hikstaði ég og reyndi að hlægja.
"Þú stóðst þig vel" sagði Klemens og klappaði á lærið á mér.
"Velkominn í hópinn" sagði Óttar og gaf mér þumalinn. Ég kjökraði og hló. Svo vék hláturinn fyrir grátinum og ég fór að gráta stjórnlaust. Selma tók þétt utan um mig og hlýtur að hafa bent hinum á að fara því að við vorum tvö ein í herberginu. Hún ruggaði mér varlega og hvíslaði "svona svona" að mér. Ég veit ekki hvað lengi ég grét í fangi hennar en ég veit að ég grét sárar heldur en ég hafði áður grátið.
Seinna þegar ég hafði fengið ný föt og farið í sturtu sat ég inni á skrifstofu K-22 hjá Leó Zen með teppi yfir öxlunum og kaffibolla með viskítári í. Hann brosti vinalega til mín og mér fannst það gott. Ég var allur dofinn og vissi ekki hvort ég var vakandi eða sofandi. Hann sagði ekki neitt, enda var ekkert að segja. Ég sá sjálfann mig, manninn sem hafði drepið annan mann. Mitt líf hafði tortímt öðru lífi. Mitt líf hafði haft þessi áhrif á annað líf. Þó að teppið væri þykkt og kaffið rjúkandi fór um mig óstjórnlegur hrollur. Ég sá fyrir mér reykinn sem liðaðist úr hnakka mannsins og sá fyrir mér hvernig hann hafði reynt að standa í lappirnar þó að mænan í honum væri sundurtætt. Nú var þessi maður hættur að taka þátt í tímanum, þökk sé mér, en ég var hérna ennþá. Ég hef glatað einhverju stóru sakleysi í dag. Framvegis verð ég öðruvísi en fólkið í strætó. Ef þú sæir mig í strætó myndir þú líklega ekki taka sérstaklega eftir mér, en ég væri öðruvísi. Mitt líf hefði raunar tvöfalt vægi, því að það hefði deytt annað. Eða kannski er það bara eitt stórt núll, mitt líf mínus líf búðarhnuplarans. Ég hafði gert eitthvað sem ég gæti aldrei tekið aftur og líf mitt hafði tekið nýja og ófyrirsjáanlega stefnu. Fólkið í strætó var ekki morðingjar en ég var morðingi. Ég var morðingi.
"Þú ert enginn morðingi" sagði Leó eins og hann hefði lesið hugsanir mínar. "Þú gerðir það sem af þér var krafist. Þú stóðst við þitt gagnvart fyrirtækinu og samfélaginu. Þú hefur ekkert að skammast þín fyrir". Orð Leós höfðu aldrei haft jafn lítil áhrif á mig. Ég leit á hann með allt annað en blíðu augnaráði. Allar áætlanir mínar um að vera ruddalegur eða andstyggilegur við hann runnu þó út í sandinn þegar hann stóð upp og lagði höndina á öxl mér.
"Taktu þetta nafnspjald. Þetta er sálfræðingurinn okkar, sem hefur hjálpað hundruðum manna sem hafa staðið í þínum sporum að jafna sig. Allir þurfa að fá örlitla leiðsögn við og við. Meiraðsegja ég hef stundum farið til hans. Heldurðu að þú drífir þig ekki til hans, vinur?". Ég tók þegjandi við nafnspjaldinu.
Leó borgaði leigubíl handa mér heim. Ég fór í tveggja tíma langa sturtu og reyndi að skola af mér glæpinn sem ég hafði framið. Svo skreið ég undir sæng og það er ekki fyrr en núna, upp úr miðnætti, að ég hef styrk til að segja þér frá þessu. Hendur mínar skjálfa ennþá þegar ég slæ þetta inn. Ég er ekki ég lengur, ég er einhver annar.
16. maí, þriðjudagur.
Ég kveið því að fara í vinnuna í dag. Ég vissi ekki hvernig hinir myndu taka á móti mér. Ég skammaðist mín fyrir að hafa brotnað svona niður. Sérstaklega fannst mér slæmt að hafa sýnt veikleika minn fyrir framan Selmu. En sá kvíði reyndist vera óþarfur. Allir voru vingjarnlegir við mig og létu eins og ekkert væri. Mér fannst ég hreinlega tilheyra þessum hópi meira en áður. Ég var ekki lengur nýliðinn sem aldrei hafði komist í hann krappann, ég var einn úr genginu. Ég var einn úr genginu sem drepur.
Ég hugsaði mikið um dauðann þennan dag. Ég velti því fyrir mér hvort mig langaði að lifa áfram. Hvers virði var mitt auma, sjúka líf, sem fyrirkemur öðrum lífum? Ég velti því fyrir mér hvort ég ætti að fara í einhvern annan H-markað og hnupla kexpakka, til að borga til baka það sem ég hefði tekið. Eftir mikla umhugsun komst ég að þeirri niðurstöðu að það þjónaði engum tilgangi. Mikið er ég samt feginn að það engir aðrir þjófar létu á sér kræla þennan dag. Ég veit ekki hvernig ég hefði brugðist við því.
Ég hugsaði um það hvort ég væri góður. Áður var ég góður, en nú var ég ekki viss. Það má vel vera að ég hafði verið kærulaus og reikull og jafnvel svolítið drykkfelldur á stundum en ég var allavega góður. Það má vera að ég hafi aldrei haft dugnað eða úthald til að ljúka neinu námi sem ég hóf, endast í neinni vinnu lengur en ár eða láta neitt samband sem ég var í endast nema í nokkra mánuði, en ég var samt góð manneskja. Ég var ekki vondur við annað fólk, eða það held ég allavega ekki. Konurnar í lífi mínu urðu leiðar á kæruleysi mínu, leti og áhugaleysi og létu mig flakka, án þess að ég tæki það nokkuð nærri mér, en ég var góður við þær meðan á því stóð. Ég var ekki frekur eða yfirgangssamur, ekki beinlínis eigingjarn, alls ekki ofbeldishneigður. En núna er ég ekki svo viss. Ég drap mann, er ég þá ekki góður lengur? Gústav gamli frændi minn var hermaður í stríðinu. Ég ætti kannski að spyrja hann hvernig honum leið þegar hann drap fólk fyrir föðurlandið og var föðurlandshetja. Getur maður drepið fólk fyrir fyrirtækið og verið fyrirtækishetja?
18. maí, fimmtudagur.
Ég vann í bæði dag og í gær. Ég sat einbeittur við skjáinn og leit ekki upp. Ég sá að ég var orðinn eins og hinir, sat þögull og þrár við skjáinn. Selma bauð mér út að borða! Við förum á morgun. Ég kímdi við tilhugsunina að hún væri að bjóða mér út að borða. Yfirleitt varð það nú ég sem bauð þeim. Henni var alveg sama. Nennti ekki að standa í svoleiðis "veseni" eins og hún kallaði það. Ég er bara spenntur. Raunar finn ég fiðring í maganum við tilhugsunina að fara út á lífið með henni.
Ég hugsaði líka um dauðann í dag. Ég reyndi að benda sjálfum mér á að maðurinn sem ég drap hafi verið ótíndur þjófur og hafi átt þetta skilið. "Meinið var að breiða úr sér" eins og Leó hafði sagt. Ég er samt ekki sannfærður um að hann hafi átt skilið að deyja. Kannski hafði hann aldrei stolið áður. Þegar ég fór í kvöldsundið mitt horfði ég með svolítilli fyrirlitningu á þetta venjulega, mjúka fólk allt í kringum mig. Stundum hefur það farið svolítið fyrir brjóstið á mér að vera nakinn í sturtu með öðrum karlmönnum, en núna var mér skítsama. Þetta voru bara venjuleg kallagrey hvorteðer, sem aldrei höfðu upplifað þá tilfinningu að drepa.
19. maí, föstudagur.
Í dag drap ég í annað sinn. Það var gömul kerling. Ég sá það löngu áður en rauði hringurinn birtist að hún var að fela eitthvað innaná sér. Það reyndust vera heilir fimm kjúklingar. Ég miðaði á hana og sló tvisvar létt á rauða hnappinn, svo laust að skotið reið ekki af. Kerlingin var bara með einn mjólkurpott í innkaupakörfunni sinni. Hún setti mjólkina á færibandið. Ég sló einu sinni aðeins fastar á hnappinn. Hjartsláttur minn örvaðist og sjónsvið mitt þrengdist þannig að ég sá ekkert annað en kerlinguna. Hún gekk framhjá afgreiðsluvélinni. Hún ætlaði greinilega ekki að borga fyrir þessa kjúklinga. Ég sló fastar á rauða hnappinn og svo aðeins fastar. Ekkert gerðist. Kerlingin var að labba út. Ég sló mjög fast á hnappinn og skotið reið af. Það hitti hana illa, neðarlega í bakið. Hún snérist í hálfhring og rak upp óp. Tveir eða þrír frosnir kjúklingar duttu neðan undan kápunni hennar. Sumir viðskiptavinanna horfðu á hana með undrun en flestir nenntu ekki að spá í þetta heldur hröðuðu sér út. Kerlingin datt á bossann. Ég sá að geislinn hafði ekki farið alveg í gegnum hana og að með þessu áframhaldi myndi taka hana eilífðartíma að blæða út. Þessvegna miðaði ég á hausinn á henni og skaut aftur. Ég vissi ekki hvort þetta mátti, það stóð ekkert um það í HSS- handbókinni, en geislinn brenndi af henni andlitið. Hún datt út á hlið og hreyfði hvorki legg né lið.
Ég fann fyrir klígju, sérstaklega að sjá kolbrunnið andlitið á henni, en fann samt ekkert á við ógleðina þegar ég skaut manninn í jakkafötunum og framdi þar með mitt fyrsta morð. Ég strauk höndunum yfir andlitið á mér og dró djúpt andann. Þegar ég hafði jafnað mig fór ég út með hinum til að að fjarlægja líkið og ræsta.
Klemens sagði að það hefði verið allt í lagi að skjóta hana aftur, ég hefði bara verið að líkna henni og það væri ágætt. Það væri hinsvegar frekar sjaldgæft að miðunarbúnaðurinn hitti svona illa. Mér fannst ekki svo mikið til þessa annars dráps míns koma. Ég var flekkaður fyrir og ein þjófkerling til eða frá breytti litlu um það.
Um kvöldið tók ég strætó til Selmu. Við fórum á bílnum hennar. Ég heimtaði að fá að keyra í það minnsta, fyrst ég gæti ekki útvegað minn eigin bíl. Hún sagði að ég gæti fljótlega keypt mér bíl ef ég vildi. Vinnan hjá H-markaði er vel launuð og þar að auki veitir H-markaður duglegum starfsmönnum ódýr lán. Ég veit reyndar ekki hver er skilgreiningin á duglegum starfsmanni.
Við fórum á tyrkneskan stað sem ég held mikið uppá. Selmu fannst rétturinn sinn of mikið kryddaður. Þegar ég fékk steikina mína, vel brennda eins og ég hafði beðið um, datt mér í hug eitt augnablik andlitið á kerlingunni. Ég var nú fljótur að bægja þeirri hugsun frá mér. Að öðru leyti var þetta frábært kvöld. Eftir að hafa drukkið kaffi og með því röltum við um hafnarhverfið, hönd í hönd eins og unglingspar. Við átum steikta snigla, drukkum romm og fengum okkur snúning á dansstað. Þar kysstumst við fyrst. Svo fórum við heim til hennar. Það kemur þér sjálfsagt á óvart, kæra dagbók, en ég svaf ekki hjá henni þessa fyrstu nótt okkar saman. Við töluðum bara fram undir morgunn og sofnuðum svo í faðmlögum í stofusófanum hjá henni. Hún er stórmerkileg kona, Selma, og einhverntíman seinna ætla ég að segja þér frá lífshlaupi hennar.
24. maí, miðvikudagur.
Ég bið þig enn og aftur afsökunar, kæra dagbók, hvað ég hef verið skriflatur. Það er nú bara þannig að ég hef ekki gert neitt annað en vinna og vera með Selmu. Ég hef næstum ekkert sofið, en samt er ég sprækari en þegar ég var tvítugur. Ég drap einn þjóf í gær, en það er svosem ekkert tiltökumál. Það var gamall kall sem lét lífið fyrir hundahálsól! Þvílíkt uppátæki. Mér liggur við að hlægja þegar ég hugsa um það.
Við Selma erum saman öllum stundum þegar við erum ekki að vinna. Hún skipti á vakt við aðra stelpu svo að við hefðum meiri tíma saman. Ég er mjög hrifinn af henni. Ég hallast jafnvel að því að ég sé ástfanginn. Við eyðum heilu og hálfu dögunum í bólinu. Ég hugsa að ég hafi byrjað of snemma að vera með stelpum, núna loksins er ég að fatta hvað þetta gengur út á.
Það eina sem skyggir á gleði mína eru slæmar martraðir. Mér finnst eins og það sé sótt að mér í svefni. Stundum finnst ég mér eins og ég sjái manninn í jakkafötunum og það rýkur úr hnakkanum á honum eða andlitslausu kerlinguna, stundum kemur fólk sem ég þekki ekki, kannski fólk sem ég á eftir að drepa seinna. Það er reitt út í mig og reynir að krafsa í mig en ég veit að það getur það ekki. Hinsvegar er þetta mjög óhuggulegt og ég hrekk stundum upp æpandi. Þá er gott að hafa Selmu hjá sér. Hún segist kannast við þetta og segir að þetta líði hjá. Ég trúi henni. Ég trúi öllu sem hún segir.
26. maí, föstudagur.
Þessa dagana eyði ég meiri tíma hjá Selmu heldur en heima hjá mér. Ég finn einhverja andúð á sambandi okkar innan hópsins en er skítsama um það. Meðan Leó kvartar ekki þarf ég engar áhyggjur að hafa. Nenni ekki að eyða meiri tíma í gagnslaus skrif. Kæra dagbók, ég er að halda framhjá þér og líkar bara vel.
30. maí, fimmtudagur.
Í dag átti ég afmæli og varð tuttuguogníu. Ég framdi eitt morð. Það var kona á mínum aldri að stela sælgæti. Plaffaði hana í hausinn. Punktur, basta. Til hamingju með afmælið.
Ég og Selma fórum út að borða í tilefni dagsins. Hún gaf mér fína pípu í afmælisgjöf með löngum hálsi og fangamerkinu mínu í hausnum. Það var ágætis gjöf. Þetta var indælis kvöld. Ég held að ást mín sé að verða eitthvað skynsamari, þó það nú væri fyrir nær þrítugan mann. Ástarbríminn er ekki eins brjálaður og fyrir viku síðan heldur rólegri og staðfastari.
Mér finnst ég vera að stækka. Mikið var ég lítill fyrir einum mánuði. Kannski er það aldurinn.
12. júní, föstudagur.
Fjandi er langt síðan ég hef skrifað eitthvað. Kannski ég reyni að gefa stutta skýrslu um síðustu vikur. Byrjum á vinnunni.
Ég hef skotið tvær manneskjur í millitíðinni, einn gaur að stela gosdós og eina stelpu að stela sokkabuxum. Stelpan hefur varla verið meira en átján og hún birtist mér í svefni næstu nótt, benti á mig og veinaði og öskraði. Hún var óskýr og dauf og flökti eins og logi. Ég gat ekki sofið meira þá nóttina svo á endanum tók ég svefnpillur og svaf fram eftir, þó að ég vissi að það kallaði á enn verri martraðir næstu nótt.
Ég er oftast hjá Selmu núna. Hún dekrar við mig og mér þykir það mjög gott. Þó að ég sé mjög hrifinn af henni hefur mér tekist að halda sjálfstæði mínu óskertu. Það veitir mér styrk. Þegar ég horfi í spegilinn sé ég sterkan og voldugan mann. Ef einhver spyr mig við hvað ég vinni ætla ég að svara því til að í vinnunni sé ég guð. Ef viðkomandi spyr hvaða guð ætla ég að svara engill dauðans.
Mér tekst að ná sæmilegum svefni með því að reyna að tæma hugan áður en ég fer að sofa. Ef það tekst ekki tek ég róandi eða svefnpillur en þó alltaf í hófi. Ég vanda mig við lyfjanotkunina því að ég veit að menn geta farið illa á pilluáti, vinur minn hefur þurft að fara oft í meðferð, en hann er nú ekki mikill bógur greyið. Þetta er allt spurning um jafnvægi, jafnvægi, jafnvægi.
Mig langar að drepa draumsvipina aftur. Þá veit ég að þeir eru endanlega úr sögunni. Kannski þarf að drepa alla menn tvisvar. Um daginn lék ég mér aftur að því að taka fram miðið og beina því að fólki og ímynda mér að það væri kjúklingakerlingin eða gaurinn með hálsólina eða einhver af hinum. Klemens tók náttúrulega eftir þessu og spurði hvort eitthvað væri á seyði. Ég svaraði neitandi og hætti þessum leik. En það var gott að gæla við hnappinn og hafa á valdi mínu þessi vesælu líf á skjánum. Hnappurinn og ég erum vinir. Hann bíður spenntur eftir á að ég ýti á hann aftur. Hann er ánægður með að hafa svona sterkan og ákveðinn húsbónda eins og mig, sem hvikar ekki frá skyldu sinni hvað sem á dynur.
15. júní, mánudagur.
Í dag er nákvæmlega mánuður síðan ég útrýmdi fyrsta þjófnum. Ég hélt uppá það um kvöldið með því að draga tappa úr kampavínsflösku og skála við Selmu. Það var meiraðsegja alvöru kampavín. Það er satt sem Selma segir, þeir borga vel hjá H- markaði.
Í dag sá ég stelpu úti á götu sem minnti mig ótrúlega mikið á stelpuna með sokkabuxurnar. Hún var reyndar lágvaxnari en hafði sama andlit og sömu hreyfingar. Skotfingurinn þreifaði árangurslaust eftir rauða hnappinum í vasanum. Hvað ég hefði verið til í að skjóta hana, þá myndi hún hætta að angra mig á nóttunni. Ég vona að hún reyni að stela í búðinni minni.
Það kom svolítið fyndið fyrir seinnipartinn í dag þegar ég var að kaupa inn. Ég var í biðröð við sjoppuna að ná mér í rettur þegar náungi ruddi sér fram fyrir mig. Yfirleitt hefði ég ekki gert neitt í því en núna lagði ég höndina öxlina á honum og spurði hann hvern fjandann hann héldi að hann væri að gera. Hann snéri sér við og færði hönd mína af öxlinni og spurði mig hvurn andskotann það kæmi mér við. Þá sagði ég honum að ég væri á undan og að honum væri hollara að fara í biðröðina á eftir mér. Hann sagði mér að fara til helvítis og ýtti mér í burtu. Þá greip ég um jakkalöfin á gaurnum og fleygði honum í götuna. Það var merkilega auðvelt miðað við hvað hann var stór. Hann kútveltist og bölvaði og spratt á fætur aftur. Hann ætlaði að hjóla í mig en ég stóð bara kyrr og horfði stíft á hann. Þá bölvaði hann mér í sand og ösku og hafði sig á brott. Ekki veit ég hvaðan ég fékk styrk eða hugrekki til að gera þetta eða afhverju hann lúffaði svona fljótt, en eins og ég segi, ég er að stækka.
16. júní, þriðjudagur.
Enginn þjófur í dag. Ég er eiginlega farinn að bíða eftir að eitthvað gerist. Þegar næsti þjófur birtist ætla ég að ímynda mér að hann sé stelpan með sokkabuxurnar. Það verður ljúft. Þá fæ ég þann nætursvefn sem ég þarf.
Selma segir að ég taki of mikið að svefnpillum. Ég sagði henni að skipta sér ekki af því sem komi henni ekki við.
18 júní, fimmtudagur.
Enn ekkert. Ég er að verða mjög óþreyjufullur. Ég bað Leó um yfirvinnu og hann sagðist ætla að hugsa málið. Hann bætti því við að ég stæði mig vel og hann væri ánægður með mig. Mér fannst vænt um að heyra það.
19 júní, föstudagur.
Ekki neitt! Þar fór helgin. Í gærnótt þegar ég gat ekki sofið fór ég efst upp í stigaganginn og klifraði út um þakglugga. Svo settist ég á þaksylluna, horfði á borgarljósin og saup á koníakspela. Ég hef ábyggilega setið þarna í þrjá eða fjóra tíma. Það var ótrúlega notalegt að sitja þarna í myrkinu og heyra niðinn í fjarlægri umferð. Ég svaf eins og steinn þegar ég lagðist upp í rúmið aftur og náði þannig aftur hluta af þeim svefni sem svipirnir höfðu rænt mig. Ég læddist til að Selma vaknaði ekki. Ég fór svo hljóðlega um að ég heyrði ekki einusinni minn eigin andardrátt. Ég skrifa þessar línur að morgni, útsofinn og sæll.
22. júní, mánudagur.
Hver segir að mánudagar séu slæmir? Loksins, loksins, loksins reyndi eitthvað fífl að stela í búðinni minni. Það var kona að stela plasthnífapörum. Ég horfði á hana og ímyndaði mér að hún væri stelpan með sokkabuxurnar. Svo lokaði ég augunum og ýtti á hnappinn. Um mig fór stuttur unaðskippur í ætt við fullnægingu. Geislinn hitti hana í kviðinn og hún datt á bakið. Ég hefði vel getað klárað hana með öðru skoti en ég gerði það ekki. Það tók hana meira en fimm mínútur að deyja. Ég fylgdist bara með, beindi myndavélinni að andlitinu á henni. Blóðið flæddi úr kvið hennar, munni og nefi. Hún reyndi að segja eitthvað og lyfta upp höndunum. Ég horfði á afspilunina á aftökunni aftur og aftur. Ég er glaður og hreinn eins og nýfætt barn. Svipirnir muni ekki angra mig í nótt.
Það sem meira er, ég sá tvífara sokkabuxnastelpunnar aftur í dag. Núna veit ég hvar hún á heima. Ég finn fyrir sterkri löngun til að kenna henni lexíu.
24. júní, miðvikudagur (síðasta dagbókarfærslan)
Þessa dags minnist ég með skelfingu. Hve fljótt sæla getur orðið að sársauka. Ég er á morgunvöktum þessa vikuna og strax um hálfníuleytið ætlaði gæfan að færa mér fórnarlamb á silfurfati. Ég rykkti æstur fram miðinu og setti skotfingurinn í stellingar. Svo fór ég að skoða gaurinn. Þetta var maður á mínum aldri, klæddur í svartan frakka, tilvalda flík til að stinga einhverju undir. Það merkilega er að ég man ekki hverju hann að var að stela. Hvað um það, hann byrjaði að raða úr innkaupakerrunni sinni á færibandið og um leið fann ég að ekki var allt með felldu. Maðurinn tíndi hlutina úr körfunni einn og einn í einu, mjög hægt og rólega og fór sér að engu óðslega. Úr andliti hans fannst mér ég geta lesið að hann ætti í einhverri innbyrðis baráttu við sjálfan sig. Hann leit ekki út fyrir að vera gæfumaður, líklega langt leiddur fíkill, var með tinnusvarta bauga undir eldrauðum augunum. Samt var hann ekki vesæll og reikandi og önnur dópistagrey sem maður sér. Hann leit þvert á móti út fyrir að vera bæði grimmur og sterkur og vísari en svo að reyna að stela í H-markaði. Það var næstum eins og hann vissi hvaða örlög biðu hans.
Það var samt ekki þetta sem olli mér hugarangri. Það óþægilega var að ég skynjaði einhver óræð tengsl á milli mín og þessa manns. Ég fann í sjálfum mér fyrir hræðslu mannsins og kvíða og ég fann að ég skalf örlítið og svitnaði, ekki af tilhlökkun heldur nístandi ótta. Öll tilhlökkunin eftir að skjóta hann hafði rokið út í veður og vind. Ég sá heiminn bæði með mínum augum og hans. Ég miðaði á hann og reyndi að teygja fingurinn að rauða hnappinum. Ég tók eftir því að Selma stóð fyrir aftan mig. Angist mín smitaðist úr höfðinu niður í kroppinn og varð þar að svíðandi þjáningu. Höndin lá eins og slytti hjá hnappinum og ég gat ekki fengið hana til að ýta á hann. Augu mannsins voru svartari en orð fá lýst. Þetta var maðurinn sem hafði staðið yfir vöggunni minni þegar ég var nýfæddur og hvíslað að mér sögum úr fílabeinsturninum. Þetta var sami maður og hélt í höndina á mér þegar ég tók mín fyrstu hikandi spor og hjálpaði mér á fætur og huggaði mig þegar ég datt. Sami maður var alltaf nærri þegar ég prílaði í trjánum og klettunum og gætti þess að ég dytti ekki og meiddi mig. Hann hnippti oft í mig og bað mig að hugsa mig tvisvar um þegar ég var að steypa mér í einhverja vitleysuna og stýrði mér af öryggi framhjá grýttum skerjum unglingsáranna sem margir félaga minna steyttu á og fórust. Það var hann sem sýndi mér atvinnuauglýsinguna frá H-markaði og útvegaði mér þessa vinnu. Ég gæti ekki hafa drepið þennan mann, ég hefði drepið sjálfan mig um leið. Ég var rétt að ranka við mér eftir þessa uppgötvun þegar skær ljósgeisli blossaði á skjánum. Hann hitti manninn milli herðablaðanna. Maðurinn féll fram fyrir sig virtist örendur. Ég hrópaði upp yfir mig, ég hafði ekki ýtt á hnappinn, ég leit á hönd mína og sá að hönd Selmu lá á henni. Ég spratt á fætur og hrinti henni frá mér.
"Hvað ertu að hugsa?" spurði Selma, "hann var að sleppa út með þýfið".
"Helvítis tíkin þín!" hrópaði ég á hana og gekk að henni með kreppta hnefana. Hún hörfaði undan mér með opinn undrunarsvip á andlitinu. Ég tók um axlirnar á henni og hristi hana hrottalega. "Þú drapst ... hann" gargaði ég beint upp í andlitið á henni. "Hvernig gastu gert þetta?" spurði ég og skellti henni óþyrmilega upp að veggnum. Hún byrjaði að kjökra. Óttar og hinir höfðu staðið upp og nálguðust mig. Ég fleygði henni frá mér og setti mig í varnarstellingar. Klemens hafði tekið upp símtólið í búrinu sínu og var að tala við einhvern, sjálfsagt öryggisgæsluna.
"Hvað er að þér maður?" sagði einhver.
"Hún drap hann" sagði ég.
"Róaðu þig niður félagi, þetta er allt í lagi, slappaðu af".
"Hún drap hann" endurtók ég. Þeir nálguðust mig og einn þeirra hélt á rafstuðara sem ég vissi ekki einusinni að væri til á svæðinu. Þeir stóðu milli mín og hurðarinnar. Ég var bráðin og þeir voru veiðimennirnir. Ég var króaður af og þeir nálguðust mig sífellt með spjót sín og net. Ég beraði tennurnar og urraði. Fuglarnir hófu sig til flugs af greinunum allt í kring. Veiðimennirnir kölluðu eitthvað á milli sín á tungu sem ég ekki skildi. Nú höfðu þeir raðað sér allt í kringum mig. Ég snéri mér í hringi og reyndi að átta mig á því hvar þeir földu sig. Ég vissi að ein stunga af spjótum þeirra gæti orðið mér að fjörtjóni. Ég vissi líka að ef þeim tækist að flækja mig í net sín væru þeir fljótir að stinga mig til dauðs. Ég urraði aftur og öskraði. Köll veiðimannanna höfðu hljóðnað, þeir voru að búa sig undir að leggja til atlögu. Þá mundi ég að þetta var frumskógurinn minn og að hér var það ég sem réði ríkjum. Þessir grannvöxnu litlu menn stóðust mér ekki snúning. Þeir höfðu ekki styrk minn eða snerpu eða tennurnar beittu. Þeir gátu í mesta lagi talið kjarkinn í hvorn annan og reynt að ota að mér litlu spjótunum sínum. Ég hafði sjálfur allan þann kjark sem ég þurfti á að halda. Því tók ég undir mig risavaxið stökk þangað sem ég vissi að einn mannanna duldist og sökkti tönnunum í háls hans. Hann brotnaði eins og sprek undan digrum hrömmum mínum. Svo klóraði ég annan til dauðs og beit höfuðið af þeim þriðja. Þeir reyndu að stinga mig en spjót þeirra bitu ekki á mér. Þeir reyndu að kasta netum sínum yfir mig en ég reif þau af mér eins og þau væru spunnin úr daggarþráðum. Þá veinuðu þeir og flótti brast í lið þeirra. Þegar þeir síðustu voru horfnir úr augsýn rak ég upp siguröskur mitt svo að allir mætti heyra hver væri voldugastur og sterkastur í frumskóginum.
Svo þeytti ég hurðinni af hjörunum og geystist út. Ég hljóp í gegnum alla sem reyndu að stöðva mig eins og þeir væru loft. Á örfáum andartökum hafði ég snarast niður í verslunarrýmið og til mannsins í svarta frakkanum þar sem hann lá í blóði sínu. Fólkið í versluninni æpti og hraðaði sér út þegar ég birtist og urraði að því. Ég sat grátandi inni í versluninni með höfuð mannsins í kjölti mér. Hann leit til mín sljóum augum og brosti dauflega.
"Mannstu ekki enn hvað ég sagði?" stundi hann með erfiðismunum. Um leið og hann lognaðist út af opnaði hann annan lófann. Í lófanum var bréfmiði. Þegar ég heyrði vælið í sírenunum og sá rauðan bjarmann af þeim tók ég miðann og hraðaði mér í burtu.
Núna er ég skugginn. Ég fer þangað sem aðrir komast bara í huganum og geri það sem aðrir láta sig ekki einusinni dreyma um. Ég fylgist með ykkur þaðan sem ég sit og hata ykkur meira en þið getið gert ykkur í hugarlund. Ég lifi fyrir utan lífið og sé það eins og flöktandi bjarma inni í ykkur. Þið eruð blind eins myrkrið og sjáið mig ekki einusinni með því að píra augun. Ég þekki hvorki svefn né vöku en held eilíflega áfram för minni, gangandi og svífandi. Ég tek þátt í nautnum ykkar og leikjum eins og gestur, glottandi sökum þeirrar vitneskju að ég get dregið mig í hlé hvenær sem er en þið verðið að halda áfram nauðug viljug, ef þið eigið ekki að deyja. Að missa af einu andartaki yrði ykkar bani á meðan ég hef öll andartök allra tíma í hendi mér. Ég stíg út og inn eins og mér hentar en þið stígið án afláts til að eygja einhverja von.
Ég sýp á bikar lífs þíns eins og sætu víni. Ævi þín er allt sem þú átt en hún er bara lítill keimur á tungu minni. Ég rann á blóðbragð þitt alla leið þangað sem þú faldir þig. Ég smaug inn í hús þitt nóttina sem þú hélst að þú værir öruggastur og rændi þig því sem þú tókst frá mér.
Eins heimsótti ég svipinn sem ég hataði mest. Ég þurfti ekki að brjóta mér leið inn. Þegar þú opnaðir og sást mig vissum við bæði örlög þín. Þú bauðst mig velkominn og ég sá eftirvæntinguna í augum þínum. Síðustu nótt þína gafstu þig á vald dauðanum, uns dauðinn þreyttist á öllum leikjum.
Þig svalg ég síðast, þú sem átt sök á mér. Í annað skipti varðstu mér að aldurtila þegar ég sökkti tönnunum í mjúkan hálsinn. Þú skapaðir mig og tortímdir í senn. Ég settist á þaksylluna í annað sinn og naut þess að finna ilminn af þér. Ég sat lengi í skuggsælu horni í herberginu og horfði á þig sofa. Nú ertu farin og líflaust þjark mitt er til einskis. Ég hripa á miða þau einu orð sem mér koma til hugar.
Fólki stendur stuggur af mér þegar ég sýni mig. Ég tíni í körfuna eitt og annað. Ég er klæddur í svartan frakka sem er í stíl við svört augu mín. Mér finnst ég næstum því finna fyrir rauðum hringnum á baki mínu. Ég geng í átt að útidyrunum og læt það vera sem verður. Það síðasta sem ég sé þegar myrkrið gleypir mig er kunnuglegt andlit.
"Mannstu ekki enn hvað ég sagði?" styn ég upp af veikum mætti. Miðinn er í lófa mér. Á hann hafði ég skrifað skilaboð til þín. Ég vona að þau berist til þín og að þú skiljir þau.
Þú ert ekki mín
þú ert þín.
Netútgáfan - janúar 1997