Sögur úr Fílabeinsturninum: Meistarinn

Meistarinn

Einhverja nóttina er ég ráfaði draugfullur heim rakst ég á rónann Kúnígúnd. Það var ekki sjón að sjá hann og reyndar ekki mig heldur. Fyrr um kvöldið hafði ég týnt jakkanum mínum (keyptur á slikk í útlöndum) og af einhverjum völdum var ég í aðeins einum skó. Meðvitund mín var á allra síðasta snúningi svo ég gekk og hálfpartinn skreið inn í húsasund og hlammaði mér niður á vinalegan og hlýlegan ruslapoka. Maður skyldi aldrei vanmeta ruslapoka, sérstaklega ekki þessa stóru svörtu, því ruslapokinn rak upp skaðræðisöskur og sparkaði og sló. Ég varð felmtri sleginn og rúllaði mér ofan af pokanum. Það var nákvæmlega þá sem ég sá rónann Kúnígúnd. Hann krafsaði sig út úr pokanum og leit kíminn á mig og virtist ekki vitund reiður yfir því að ég hafði sest ofan á hann. Andlit hans var ólíkt öllum öðrum andlitum sem ég hafði áður séð en var engu að síður undarlega kunnuglegt. Það bar á sér svolítið austurlenskan blæ. Svört augun voru litlar rifur og út frá þeim gengu óteljandi brosviprur. Augnalokin voru allstór og brettust upp svo að glitti í rautt undir þeim. Umgjörð augnanna var einkennilega ferköntuð og voru augu hans innarlega í kúpunni. Mér sýndist á þeirri stundu að augnatóftir hans væru eins og sjónvarpsskjáir í laginu eða jafnvel alveg rétthyrndar. Hvítan í þeim var gul af langvinnri drykkju og ólífi og alsett dumbrauðum æðum. Annað augað virtist minna en hitt, sem stafaði af því að það var hálflokað af bólgu og ígerð. Yfir augunum tróndu tjásulegar og tættar augabrúnir, gráhvítar á litinn. Kynlega löng hárin stóðu sitt í hverja áttina eða voru klesst saman af fitu og skít. Einhverntíman höfðu þessar augabrúnir sjálfsagt verið þykkar og samvaxnar en nú máttu þær svo sannarlega muna fífil sinn fegri. Eflaust hefur róninn Kúnígúnd verið gráhærður og vafalítið hefur hárið verið álíka tjásað og gisið og augabrúnirnar, en þetta gat ég ekki fullvissað mig um því hann hafði einkennilega leðurlambhúshettu á höfðinu, sem huldi allt nema andlitið. Höfuðfatið var skakkt og skælt og allrahanda blettir og rispur á því. Það voru einhverskonar hlífðarpúðar ofan á því og einnig torkennilegar ólar, reyndar flestar slitnar. Það leið dágóð stund áður en ég áttaði mig á því að þetta skringilega höfuðfat var ekkert annað en leðurhjálmur herflugmanna í seinni heimstyrjöldinni. Sjálfsagt hafði hann grafið það upp hjá hjálpræðishernum eða stolið því einhversstaðar. Hann var tæpast nógu gamall til að hafa flogið í stríðinu. Hjálmurinn huldi þó ekki enni hans, en það var það alkrumpaðasta sem ég hafði séð. Yfirleitt eru svona hrukkur kallaðar áhyggjuhrukkur eða eitthvað í þá áttina en það heiti átti ekki við rónann Kúnígúnd. Þvert á móti gáfu þær honum enn skondnara og kæruleysislegra yfirbragð. Þær svignuðu upp og niður eins og öldur á sænum og lágu jafnvel þvert yfir hverja aðra á stöku stað (ég veit að þið trúið þessu ekki, en þetta er satt). Það var eins og honum hefði verið úthlutað höfuðleðri sem var einu númeri og stórt og það síðan hnoðað til og klínt á kúpuna. Á miðju þessu krumpaða andliti sat breitt og mikið nef. Ekki var það framstætt eða oddhvasst nef en bætti sér það upp með því að vera lýgilega breitt og teygja veldi sitt langt út á kinnar. Nasirnar voru í stíl við nefið, stórar og þandar, fullar af sóðalegum hárum. Kannski var það þetta ofvaxna flatnef sem gerði það að verkum að augun virkuðu pírð og smá. Það dró ekki úr stærð nefsins að róninn Kúnígúnd var sérlega kinnfiskasoginn og beinaber. Það líkast því að nefið hefði sogið allt annað efni af andlitinu inn í sig. Skinnið stríkkaði svo á kinnbeinunum að þau hvítnuðu eins og hné á rifnum gallabuxum. Ætli kinnarnar hafi ekki verið eini staðurinn á andlitinu sem ekki var krumpaður og rúnum ristur. Annars var erfiðara að dæma um það vegna rytjulegs skeggs sem hékk á andliti hans eins og dauður skógur. Á fagmáli heitir þetta víst "þriggja daga skegg", ætli það hafi ekki verið nær því að vera fjögurra eða fimm, en samt efaðist ég stórlega um að hann stæði í einhverjum rakstri. Ég held hreinlega að þetta skegg hafi gefist upp á því að vaxa og lagt niður lit og blöð. Það voru ótal hélublettir í því og það var ójafnt vaxið í kringum munninn. Liturinn var (eins og þið getið gert ykkur í hugarlund) daufgrár, en samt ekki. Víðast hvar voru sver, krabbameinssvört hár sem stungu sér upp á milli grárra lufsanna eins og trjábolir úr runnum. Annarsstaðar sló á það ljósbrúnum eða jafnvel rauðum bjarma. Enn annarsstaðar voru skjannahvít hár, kannski þau sem höfðu verið dauð lengst. Kannski var þetta tómur misskilningur hjá mér, kannski var háð grimmilegt stríð um yfirráðin á andliti rónans Kúnígúnds milli mismunandi litra hára. Gráu hárin höfðu greinilega haft tögl og haldir í nokkurn tíma en þau svörtu virtust viðsjárverð, sterk og óvægin en frekar sein að tímgast. Hinir litirnir virtust beita einhverri felutækni, reyndu að láta lítið á sér bera til að blekkja keppinautana en söfnuðu í sig veðri og undirbjuggu stórsókn. Andlitið var þessvegna ekkert annað en flakandi vígvöllur. Á þessum vígvelli var ein stór gjá en það var munnurinn. Hann var afskaplega ójafn, efri vörin þunn og lítilsigld en sú neðri breið og feit eins og stríðalinn rakki. Sú efri var blá og sultarleg en sú neðri fagurrauð og íburðarmikil. Þegar róninn Kúnígúnd brosti við mér sáust gular og grænar tennur veltast um á bólgnu tannholdinu eins og hafreka skip. Það breytti því ekki að þetta bros var snargeggjað og ég gaf honum strax prik fyrir það. Ég gæti lýst afganginum af rónanum Kúnígúnd nánar, nema hvað hann var ennþá hálfur ofaní svörtum ruslapoka. Það eina sem ég bætt við lýsinguna var að úr úr slitnum og skítugum grifflum stungust gulir og beinaberir puttar með skítugum og brotnum nöglum (eins og vera ber). Róninn Kúnígúnd var í einu orði sagt, heillandi. Ég var samt hálfskelkaður þarna ennþá og sagði því:

"Djöfullinn!"

"Já" sagði róninn Kúnígúnd og rak upp stuttan hrossahlátur "hann er jafnan nærri". Hláturrokan minnti mest á gargið í kríu. Ég reyndi að standa upp en það varð mér um megn og ég datt á bossann.

"Þú ert ekki hálfdrættingur á við Súsönnu í baðinu!" hló róninn Kúnígúnd. "Lífið er hrærigrautur af brugðnum lykkjum og við höfum báðir stungið höfðinu í eina" bætti hann við. "Kúnígúnd heiti ég, sérlegur róni af rennuvöllum og háæruverðugur ríkisstjóri í ræsabyggð. Þetta hér er ríki mitt sem þú hefur af dæmalausri vankænsku þrammað inn í á berum tánum og makalausum skó. Ekki gleyma að beygja til vinstri, gaddemit! Þú vilt kannski vita af hverju ég er kóngur en ekki hinir pokarnir? Það er einfalt. Fyrst tek ég einn putta, svo tek ég annan ...". Ég áttaði mig á því að ég kæmist ekki á lappir aftur svo ég skreið að næsta vegg og settist upp við hann. Ég fálmaði eftir sígarettum af mikilli klaufsku, hristi þrjár eða fjórar úr pakkanum en stakk einni upp í mig. Svo leitaði ég að kveikjara í öllum vösum mínum og fann hann í þeim síðasta (nema hvað). Þegar ég var búinn að kveikja í rettunni og sjúga hana tvisvar af áfergju spurði ég þvoglumæltur:

"Viltu sígó?". Róninn Kúnígúnd kímdi aftur eins og honum einum er lagið og sagði:

"Það sem ég segi er ekki flókið. Það er sama hvert þú ferð, allstaðar er fólkið með gulræturnar. Ef þér leiðist kemur ekkert annað til greina en að grafa holu, allavega fjórar mannhæðir. Ef þér líður illa, grafðu holu. Ef þú vilt sanna karlmennsku þína, grafðu holu. Ef þú vilt mótmæla, grafðu enn dýpri holu. Fjórar mannhæðir og ekkert getur komið þér á óvart. Þetta með að myrkið sé svart er bara tómur misskilningur. Kannski þegar ég var ungur og vitlaus. Akú batíra alí pratíska plató".

"Hvarta poppa, mar" sagði ég.

"Ég geng stundum niður í bæ og þá er ég postulín. Ef einhver blæs á mig feykist ég í burtu í ótal brotum. Ég brotna eins og þurrt sprek. Ég feta mig eftir örgrönnum þræði, þráðurinn í miðjunni og heimurinn allt um kring. Enginn verður til að mótmæla mér. Enginn vill láta bíta af sér hausinn. Þessvegna grassera hugsanirnar óáreittar í kollinum á mér. Þær vaxa og dafna, eðla sig og fjölga sér og fylla skelina að innan án þess að þurfa að hafa nokkurn skapaðan hlut fyrir tilverunni. Þær eru orðnar akfeitar og pattaralegar af ofeldi og hóglífi. Þær hvísla ósannindum í eyrað hver á annari og flissa þegar ég reyni að henda reiður á þeim. Jafnvel gjörandstæðar hugmyndir takast í hendur þegar þær hittast á förnum vegi. Gleðin klappar vinalega á bakið á sorginni, já teflir hraðskák við nei, hatrið spilar rommí við ástina. Sverðin og skildirnir ryðga undir súð á meðan landamærin standa auð og óvarin og fíflar og grös vaxa yfir völlunum. Þar til innrásin kemur, allt fer í uppnám, hugsanirnar hlaupa örvita fram og til baka og rekast á hverja aðra með skellum og látum, falla hver um aðra þvera. Þá er ekki sniðugt að vera til, onei. Heyrðu, fæ ég sopa af bokkunni þarna?". Ég hafði lokað eyrunum fyrir þessu rausi svo ég hrökk hálfpartinn við. Ég sagði:

"Ha?"

"Viskípelinn þarna í vinstri jakkavasanum. Ég held að ég fái mér sopa af honum, af því að mér fellur svo vel við þig" sagði róninn Kúnígúnd. Ég stakk höndinni innaná mig og dró fram pelann. Ég vissi ekki einusinni af honum þarna, hvaðan í skrambanum kom hann eiginlega? Ég var svo hissa að ég rétti rónanum Kúnígúnd pelann umyrðalaust. Það var líka ágætt. Ef ég hefði farið að staupa mig á honum hefði ég endanlega lognast út af. Ekki að það hefði sosum verið neitt slæmt. Róninn Kúnígúnd slokaði góðum sopa í sig og brosti breitt.

"Já, hann finnur þig hvert sem þú ferð, fjandakornið. Þú getur reynt að horfa í hina áttina eða leiða hann hjá þér en hann fer aldrei langt frá þér. Jafnvel þá sjaldan að hann þagnar þá byrjar hann að gelta á þig tvíefldur um leið og þú tekur eftir þögninni. Þú kæmist heldur ekki af án hans. Hann er sleipur eins og smjörlíki. Dýfðu ekki tungunni í það, sóli minn. Það er eins og vélsög að saga sjálfa sig í tvennt. Hann kann að hvísla og hrópa og valda þér eilífum áhyggjum af sjálfum sér, útaf sjálfum sér með sjálfum sér úr sjálfum sér. Hann er fyrir innan í ómælinu og þú getur ekki teygt lúkurnar inn til að kyrkja hann, það er eins og að kyrkja sjálfan sig. Hann er meira að segja í fullu fjöri meðan þú sefur, sei sei, hvað hann getur blaðrað þá. En veistu hvað? Það er hægt að þagga niður í honum. Smástund, eða kannski heila ævi. Friður sem gefur dauðanum ekkert eftir". Róninn Kúnígúnd tók annan gúllara svo að stórsá á borðinu í flöskunni. Hann lokaði augunum meðan hann var að teyga það í sig. Hann hélt áfram að tala án þess að opna augun.

"Hann er eins og gamall vinur, sem þér líkar samt ekki við. Hann er eins og reiðskjóti sem þú ræður ekki almennilega við en þarft samt að notast við. Bikkjan þeytist með þig þangað sem henni sýnist, sama hvað þú rykkir í tauminn. Sú ferð er sjaldnast til fjár. Það er útilokað að þekkja kennileitin, þau breytast eins og vindáttin. Ef ég bara vissi hvort hann er vaki þrárinnar eða hvort ég á að leita að henni annarsstaðar. Ef þú sérð fallegt blóm, hvort áttu að stoppa og dást að því eða trampa það niður til að komast áfram án þess að sakna þess? Fer það ekki svolítið eftir því hvert ferðinni er heitið? Er betra að stappa á hverju blómi eða bara sumum eða færðu bara bakþanka af því öllu saman? Ef ég nú vissi það. Enginn er eyland en margur er útnes. Þegar ég er glaður hlæ ég, þegar ég er dapur græt ég og þegar ég elska geri ég þetta tvennt. Samt er ég kallaður andstyggilegur maður". Róninn Kúnígúnd opnaði augun og þagnaði nú í smástund. Hann saup restina úr pelanum og dæsti.

"Þetta er sko súkkulaði. Ekki að það skipti neinu máli. Beðja, beib, blómarós, bredda, budda, dama, dís, drós, dúlla, dækja, feima, fljóð, frauka, frú, fröken, gála, glyðra, gyðja, gæra, gæs, hnáta, hnyðra, hrund, kerling, kona, kvenmaður, kvendi, ljúfa, læða, man, meyja, mær, pía, pæja, selja, skvísa, snót, sprund, stelpa, stúlka, svanni, tík, tæfa, væna, víf. Ég man þetta allt ennþá, eins og það hefði gerst í gær. Það var áður en lífið fann mig í fjöru. Við erum ekki hönnuð fyrir þetta líf. Það er hundraðþúsundára gamalt og þekkir sig ekki í þessum hérna heimi. Það er útlendingur í honum, kann ekki einu sinni tungumálið og enginn hefur lagt í að teikna kort. Það er búið að breyta honum svo mikið að lífið finnur hann ekki lengur. Er það nú furða að maður sé langþreyttur". Róninn Kúnígúnd geispaði hátt, strax og hann hafði lokið setningunni.

"Veistu kva ég held?" sagði ég. Róninn Kúnígúnd svaraði ekki og ætlaði greinilega að hlusta.

"Ég heldú sért bra djösinsasni" klykkti ég út flissandi og fleygði sígarettustubbinum í áttina að honum. Það fékk ekki mikið á hann. Hann sagði:

"Stundum held ég að ég eigi að taka þátt. Stundum held ég að eigi að sleppa því. Ef ég væri á sömu skoðun tvo daga í röð gæti ég líkast til sigrað heiminn. Stundum lítur það út fyrir að vera frábært og flott og ég get ekki hugsað mér annað en vera með, mig vantar ekki nema smáagnarörðu af kjarki til að slá til. Daginn eftir, þegar kjarkurinn er minn og ég læt gluða, þá er það ekki flott og frábært lengur. Þá er það bara ljótt og leiðinlegt, hundfúlt, algjör bömmer. Þá ákveð ég að vera ekki með. Alveg þangað til ég sé hvað það er frábært. Ég skil ekki afhverju kjarkurinn og lífið eiga aldrei samleið. Þetta eru skilgetin afkvæmi hvors annars, fjandvinir frá elstu tíð. Núna held ég að þetta séu samantekin ráð, eitt allsherjar risasamsæri gegn mér. Það þýðir ekki að berjast við það, það er ósigrandi, það er þú og þú ert það og það er nefnilega það. Ég hef gengið upp marga sjömílnaskó fyrir minna. En láttu þér ekki til hugar koma að ég sé með þetta allt í rassvasanum. Þá væri ég löngu dauður. Pissuskálarnar á kallaklósettinu taka þó alltaf fagnandi á móti þér". Ég átti í erfiðleikum með að fylgja þræðinum, svo ég sagði, þrunginn speki:

"Ha?"

"Þetta hlýst allt af óttanum. Óttinn er magnað eitur. Ég hef drukkið hann, étið hann, reykt hann, sniffað hann, troðið honum í nösina og stungið honum í æð. Fyrstu merki eitrunarinnar eru smá óframfærni og smá eirðarleysi. Allt vex þér í augum, allt sem þú tekur þér fyrir hendur fellur í skuggann af öllu því ægilega sem gæti farið úrskeðis, æ æ og ó. Engin áhætta virðist vera afrakstursins virði, þú sækir öryggi í að gera ekkert og finnur þá stundarró og þykist vera hólpinn í bili. Þá fyrst er óttinn farinn að ná undirtökunum þegar þú heldur að þú hafir yfirhöndina. Þú færð hæfilega andstyggð á öllu, enda er allt svo fjári heimskulegt. Það er þín ástæða og afsökun, fullkomlega gild hvar sem er í heiminum, fullgilt vegabréf og skilríki í hvaða skúmaskoti sem er. Þú leggur þig ekki svo lágt að taka þátt í öðru eins, það sæmir ekki þessum hundraðprósent frábæra þér. Og þar sem þú stendur og bendir fingrinum, fitjandi upp á nefið, ertu líka að missa af því öllu saman. Það er hvorki heimskulegt eða lágkúrulegt og þú ert ekki stór eða mikill. Þú ert bara hræddur, ójá, skíthræddur, lamaður niður í tær af ótta, titrandi eins og lauf í vindi. Þrátt fyrir allt þráir þú leikinn. Þú finnur það endrum og eins líkast lúmskum efa en þá styrkir þú þig í trúnni með því að fyrirlíta allt ennþá meira. Þegar þú loks hefur troðið síðasta efann til dauðs er eitrunin komin á annað og hættulegra stig. Þá finnur þú til mikils styrks og finnst þú endurheimta fyrra hugrekki þitt. Þú getur látið eins og þér sýnist, óbundinn og óáreittur af öðrum. Þú ert frjáls. Þú lifir fyrir það að hæðast að því og sýna fram á hve miklu ofar þú stendur því öllu. Þú ferð þangað sem þig langar, segir það sem þú vilt, gerir það sem þér sýnist, allt nema það eitt að vera með, það gætir þú aldrei. Þú ert ekki með, þú stendur alltaf rétt fyrir utan í gjólunni og næðingnum og langar þrátt fyrir allt inn. Þú veist ekki hvernig það er þarna inni en samt leyfir þú þér að dæma. Ef þú ert nógu sannfærður getur þú meira að segja fengið aðra til að trúa þér og sveigt þá inn á sömu línu. Þeir halda að þeir finni hjá þér hugrekkið sem þá skortir sjálfa. Þeir vita ekki að þú ert ekki hugrakkur heldur hundragur og hrokafullur. Sjáið hve aumkunarvert og vesælt þetta er, segir þú. Sjáið þessa einföldu vesalinga, með sínar einföldu nautnir í sínum einfalda heimi. Sjáið þá hlægja og ærslast eins og bjána eða börn, sjáið þá brosa og flíra eins og fávita. Svona erum við ekki. Við sjáum heiminn í öllu sínu ógnvekjandi veldi og þekkjum og skiljum hans dimma sannleika. Leyfum þeim að loka augunum fyrir ljótleika heimsins, það gerum við ekki, við þorum að horfast beint í augu við hann. Þetta segir þú við áhangendur þína og hjálpar þeim að sigrast á efanum. Nú er eitrunin kominn í hverja æð í þér, sjálfsblekkingin hefur tekið við af skynjuninni og stýrir öllu sem þú sérð og heyrir. Brátt verður þú eins og föl vofa af sjálfum þér. Þú eignast auð og völd, byggir þér hallir og turna og hefur dansandi þræla og ambáttir þér til skemmtunar. Þú hefur líf bjánanna í hendi þér, allt vald er þér gefið á himni og jörðu og í skamman tíma finnst þér þetta jafnvel veita þér ánægju. Nú er eitrunin orðin banvæn. Þú hefur byrgt þig inni í veldi þínu, en það er sama hversu mörgum veggjum þú slærð upp í kringum þig og hversu margir lífverðir vaka yfir þér dag og nótt: óttinn læðist á kreik aftur. Eina vörnin gegn honum er að fá meira og stærra, en þegar þú getur ekki þanið þig út lengur hremmir hann þig eins og haukur hremmir varnarlausa mús. Þá skilurðu að þú ert núll, ekkert, gap, tóm. Óttinn, sem þú hefur eytt ævinni í að hlaupa undan, hann var aldrei langt undan. Strax og þú þreytist og mæðist á hlaupunum læsir hann í þig klónum og fer létt með það, glottir við þér þegar þú loks sérð að þitt stóra og volduga líf er einskis virði. Loksins þegar þér skilst þetta er ævinni lokið og þú átt enga aðra til að fara betur með. Og veistu hvað það sorglegasta er? Bjánarnir vissu það allan tímann og hafa alltaf vitað það. Þeir vissu að þú varst bjáninn en ekki þeir og þeim var innilega sama".

"Þúrtí tómu rugli" sagði ég og geispaði af innileika og barneskju dauðadrukkins manns.

"Og hvaðan kemur síðan þetta hugrekki, þessi mikli óttabani? Hvert sækjum við það? Hvar fengu bjánarnir hugrekkið? Hver er andstæða óttans og systir hugrekkisins? Svaraðu mér því". Róninn Kúnígúnd beið eftir svari. Ég sagði:

"Kva, vastað seieitthva?".

"Þú hefur bróðurpartinn úr ævi þinni til að finna svarið. Ég veit það, en eins og ég segi, það er of seint fyrir mig. Skrambinn að ég ætti aðra flösku. Heyrðu! ég bið að heilsa lífinu. Segðu því að ég hafi oft horft á það í búðarglugganum en ekki haft næga peninga á mér". Að svo mæltu skreið róninn Kúnígúnd ofan í svarta ruskapokann sinn aftur. Það eina sem stóð út var höfuðið. Ég sat nokkra stund og geispaði. Ég brölti síðan með erfiðismunum á fætur og ráfaði um bakgarðinn, sparkandi með fótunum í grassvörðinn. Sólin var nú að hefja sig á loft og himinn hló í morgunlitagleði. Í dáfallegu rósabeði fann ég það sem ég var að leita að: stóran og mikinn steinhnullung. Ég rúllaði honum út úr garðinum og fram í portið, þar sem róninn Kúnígúnd svaf vært og rumskaði ekki við bramboltið. Ég kjagaði með steininn í fanginu þar sem hann svaf og settist á hnén við höfðalag hans. Ég strauk svitann af enninu og kastaði mæðinni. Svo tók ég báðum höndum um steininn og lyfti honum upp yfir höfuð rónans Kúnígúnds. Andlit hans var venju fremur friðsælt og slétt þar sem hann svaf, eins og allar áhyggjur hefðu sofnað með honum. Ég hélt steininum lengi á lofti og handleggirnir voru farnir að titra af áreynslu. Róninn Kúnígúnd umlaði eitthvað og smjattaði í svefninum. Ég hóf hnullunginn hærra á loft. Kúnígúnd svaf. Svo lagði ég steininn frá mér, tók alla þá peninga sem ég hafði á mér og stakk í lófann á rónanum Kúnígúnd. Einhvernveginn fannst mér að hann hefði meiri þörf fyrir þá en ég.


Netútgáfan - janúar 1997