FYRRI  SAMÚELSBÓK

Samúel


Bæn Hönnu á hausthátíðinni í Síló

1
1Maður er nefndur Elkana. Hann var frá Ramataím-Sófím, frá Efraímfjöllum; hann var sonur Jeróhams Elíhúsonar, Tóhúsonar, Súfssonar Efraímíta.

2Elkana átti tvær konur. Hét önnur Hanna, en hin Peninna. Peninna átti börn, en Hanna átti engin börn. 3Þessi maður fór á ári hverju úr borg sinni til þess að biðjast fyrir og til þess að færa Drottni allsherjar fórnir í Síló. En þar voru báðir synir Elí, Hofní og Pínehas, prestar Drottins.

4Í hvert sinn er Elkana fórnaði, þá gaf hann Peninnu, konu sinni, og öllum sonum hennar og dætrum sinn hlut hverju. 5Hann gaf Hönnu ekki nema einn hlut, þótt hann elskaði hana, en Drottinn hafði lokað móðurkviði hennar. 6Elja hennar skapraunaði henni einnig til þess að reita hana til reiði, af því að Drottinn hafði lokað móðurkviði hennar. 7Svo gjörði Elkana ár eftir ár, í hvert skipti sem þau fóru upp til húss Drottins, og þannig skapraunaði hún henni.

Hanna grét og neytti eigi matar. 8Þá sagði Elkana, maður hennar, við hana: "Hanna, hví grætur þú og hví neytir þú eigi matar og hví liggur svo illa á þér? Er ég þér ekki betri en tíu synir?"

9Og Hanna stóð upp, þá er þau höfðu etið í Síló og þá er þau höfðu drukkið. En Elí prestur sat á stól við dyrastafinn á musteri Drottins.

10Hanna var sárhrygg. Hún bað til Drottins og grét mjög, 11gjörði heit og mælti: "Drottinn allsherjar! Ef þú lítur á eymd ambáttar þinnar og minnist mín og gleymir eigi ambátt þinni og gefur ambátt þinni son, þá skal ég gefa hann Drottni alla daga ævi hans, og eigi skal rakhnífur koma á höfuð honum."

12Er hún gjörði lengi bæn sína fyrir augliti Drottins, og Elí tók eftir munni hennar, - 13en Hanna mæltist fyrir í hljóði; bærðust aðeins varirnar, en rödd hennar heyrðist ekki -, þá hélt Elí, að hún væri drukkin. 14Þá sagði Elí við hana: "Hversu lengi ætlar þú að láta sjá þig drukkna? Láttu vímuna renna af þér!"

15Hanna svaraði og sagði: "Nei, herra minn, ég er kona með hryggð í hjarta. Vín hefi ég ekki drukkið né áfengan drykk, en ég hefi úthellt hjarta mínu fyrir Drottni. 16Ætla þú eigi, að ambátt þín sé afhrak, því að af mínum mikla harmi og trega hefi ég talað hingað til."

17Elí svaraði og sagði: "Far þú í friði. Ísraels Guð mun veita þér það, er þú hefir beðið hann um."

18Hanna mælti: "Ó að ambátt þín mætti finna náð í augum þínum!"

Síðan fór konan leiðar sinnar og mataðist og var eigi framar með döpru bragði.

19Morguninn eftir risu þau árla og gjörðu bæn sína fyrir augliti Drottins, sneru síðan aftur og komu heim til Rama. Og Elkana kenndi Hönnu konu sinnar, og Drottinn minntist hennar. 20Og er ár var liðið, hafði Hanna orðið þunguð og alið son, og hún nefndi hann Samúel, "því að ég hefi beðið Drottin um hann."


Samúel færður Guði

21Elkana fór nú með alla fjölskyldu sína til þess að færa Drottni hina árlegu fórn og áheit sitt. 22En Hanna fór ekki, heldur sagði við mann sinn: "Ég fer ekki fyrr en sveinninn er vaninn af brjósti. Þá fer ég með hann, svo að hann birtist fyrir augliti Drottins og verði þar ávallt upp frá því."

23Elkana, maður hennar, sagði við hana: "Gjör þú sem þér vel líkar. Ver þú kyrr heima, uns þú hefir vanið hann af brjósti. Drottinn láti aðeins orð þín rætast." Síðan var konan kyrr heima og hafði son sinn á brjósti, uns hún vandi hann af. 24En er hún hafði vanið hann af brjósti, fór hún með hann og hafði með sér þriggja ára gamalt naut og eina efu mjöls og legil víns. Og hún fór með hann í hús Drottins í Síló. En sveinninn var þá ungur.

25Þau slátruðu nautinu og fóru með sveininn til Elí. 26Og hún sagði: "Heyr, herra minn! Svo sannarlega sem þú lifir, herra minn, er ég kona sú, er stóð hér hjá þér til þess að gjöra bæn mína til Drottins. 27Um svein þennan gjörði ég bæn mína, og Drottinn veitti mér bæn mína, sem ég bað hann um. 28Fyrir því vil ég og ljá Drottni hann. Svo lengi sem hann lifir, skal hann vera Drottni léður." Og þau féllu þar fram fyrir Drottin.


Lofsöngur Hönnu

2
1Hanna gjörði bæn sína og mælti:

Hjarta mitt fagnar í Drottni,
horn mitt er hátt upp hafið fyrir fulltingi Guðs míns.
Munnur minn er upp lokinn gegn óvinum mínum,
því að ég gleðst yfir þinni hjálp.
2 Enginn er heilagur sem Drottinn,
því að enginn er til nema þú,
ekkert bjarg er til sem vor Guð.
3 Mælið eigi án afláts drambyrði,
ósvífni komi eigi út af munni yðar.
Því að Drottinn er Guð, sem allt veit,
og af honum eru verkin vegin.

4 Bogi kappanna er sundur brotinn,
en máttfarnir menn gyrðast styrkleika.
5 Mettir leigja sig fyrir brauð,
en hungraðir njóta hvíldar.
Óbyrjan fæðir jafnvel sjö,
en margra barna móðirin mornar og þornar.

6 Drottinn deyðir og lífgar,
færir til Heljar niður og leiðir upp þaðan.
7 Drottinn gjörir fátækan og ríkan,
niðurlægir og upphefur.
8 Hann reisir hinn lítilmótlega úr duftinu,
lyftir hinum snauða upp úr skarninu,
leiðir þá til sætis hjá þjóðhöfðingjum
og setur þá á tignarstól.
Því að Drottni heyra stólpar jarðarinnar,
á þá setti hann jarðríkið.

9 Fætur sinna guðhræddu varðveitir hann,
en hinir guðlausu farast í myrkri,
því að fyrir eigin mátt sigrar enginn.
10 Þeir sem berjast móti Drottni, verða sundur molaðir,
hann lætur þrumur af himni koma yfir þá.
Drottinn dæmir endimörk jarðarinnar.
Hann veitir kraft konungi sínum
og lyftir upp horni síns smurða.

11Síðan fór Elkana heim til sín í Rama, en sveinninn gegndi þjónustu Drottins hjá Elí presti.


Synir Elí spilltir prestar

12Synir Elí voru hrakmenni. Þeir skeyttu ekki um Drottin, 13né hvað prestinum bar með réttu af hálfu lýðsins. Hvenær sem einhver færði sláturfórn, þá kom sveinn prestsins, meðan verið var að sjóða kjötið, með þrítenntan fork í hendinni 14og rak hann ofan í ketilinn, eða pottinn eða suðupönnuna eða grýtuna, og allt sem upp kom á forkinum, það tók presturinn handa sér. Svo fóru þeir með alla Ísraelsmenn, sem komu þangað til Síló. 15Meira að segja, áður en fitan var brennd, kom sveinn prestsins og sagði við þann, sem fórnaði: "Gef mér kjöt til þess að steikja handa prestinum. Hann vill ekki taka við soðnu kjöti af þér, heldur hráu." 16Segði maðurinn þá við hann: "Fyrst verður þó að brenna fituna; tak síðan slíkt er þú girnist!" þá svaraði hann: "Nei, heldur skalt þú gefa það nú þegar, ella mun ég taka það með valdi."

17Synd hinna ungu manna var mjög mikil frammi fyrir Drottni, því að þeir lítilsvirtu fórn Drottins.


Sveinninn Samúel þjónar í helgidóminum

18En Samúel gegndi þjónustu frammi fyrir Drottni sem ungur sveinn, skrýddur línhökli. 19Og móðir hans var vön að gjöra honum lítinn möttul og færði honum hann á ári hverju, þá er hún kom með manni sínum til þess að færa hina árlegu fórn. 20Þá blessaði Elí Elkana og konu hans og sagði: "Drottinn gefi þér afkvæmi við þessari konu í stað hans, er léður var Drottni." Síðan fóru þau heim til sín. 21Og Drottinn vitjaði Hönnu, og hún varð þunguð og fæddi þrjá sonu og tvær dætur.

En sveinninn Samúel óx upp hjá Drottni.

22Elí gjörðist mjög gamall og heyrði allt um það, hvernig synir hans fóru með allan Ísrael og að þeir legðust með konum þeim, sem gegndu þjónustu við dyr samfundatjaldsins. 23Og hann sagði við þá: "Hvers vegna hegðið þið ykkur svo? Því að ég hefi heyrt allan þennan lýð tala um illt athæfi ykkar. 24Eigi má svo vera, synir mínir! Það er ekki fallegur orðrómur, sem ég heyri lýð Drottins vera að breiða út. 25Syndgi maður á móti öðrum manni, þá sker Guð úr, en syndgi maður móti Drottni, hver má þá biðja honum líknar?" En þeir hlýddu ekki orðum föður síns, því að Drottinn vildi deyða þá.

26En sveinninn Samúel óx og þroskaðist og varð æ þekkari bæði Drottni og mönnum.


Spámaður boðar dóm yfir prestaætt Elí

27Guðsmaður einn kom til Elí og sagði við hann: "Svo segir Drottinn: Ég opinberaði mig ættmönnum föður þíns, þá er þeir heyrðu til húsi Faraós í Egyptalandi, 28og ég valdi mér þá fyrir presta úr öllum ættkvíslum Ísraels, til þess að þeir gengju upp að altari mínu til að færa reykelsisfórn og bæru hökul frammi fyrir mér, og ég hefi gefið húsi föður þíns allar eldfórnir Ísraelsmanna. 29Hvers vegna fótum troðið þér sláturfórnir mínar og matfórnir, sem ég hefi fyrirskipað í bústað mínum? Og þú metur sonu þína meira en mig, er þér feitið yður á hinu besta af öllum fórnum Ísraels, lýðs míns! 30Fyrir því segir Drottinn, Ísraels Guð: Ég hefi sagt: ,Þitt hús og hús föður þíns skal ganga fyrir augliti mínu eilíflega.' En nú segir Drottinn: Það sé fjarri mér. Því að ég heiðra þá, sem mig heiðra, en þeir, sem fyrirlíta mig, munu til skammar verða. 31Sjá, þeir tímar munu koma, að ég sundurbrýt arm þinn og arm ættar þinnar, svo að enginn verður gamall í húsi þínu. 32Og þú munt sjá ofsjónum yfir þeirri farsæld, sem Ísrael mun hlotnast, og aldrei framar skal nokkur verða gamall í húsi þínu. 33En einum af þínum vil ég eigi útrýma frá altari mínu. En ég mun láta augu þín daprast og sálu þína örmagnast, og öll viðkoma húss þíns skal falla fyrir sverði manna. 34Og þetta skal vera þér merkið, sem koma mun fram á báðum sonum þínum, Hofní og Pínehas: Á sama degi munu þeir báðir deyja. 35En ég mun skipa mér til handa trúan prest, og hann mun gjöra að mínum vilja og mínu skapi. Honum mun ég reisa stöðugt hús, og hann skal ganga fyrir augliti míns smurða alla daga. 36Þá mun það verða, að hver sá, sem eftir er í húsi þínu, mun koma til að lúta honum til þess að fá smáskilding eða brauðhleif, og segja: ,Kom þú mér niður við eitthvert prestsembættið, svo að ég fái brauðbita að eta.'"


Guð kallar á Samúel

3
1Sveinninn Samúel gegndi þjónustu Drottins hjá Elí.

Orð frá Drottni var sjaldgæft á þeim dögum, vitranir voru þá fátíðar.

2Þá bar svo til einn dag, að Elí svaf á sínum vanalega stað. En augu hans voru tekin að daprast, svo að hann var hættur að sjá, 3og enn var ekki slokknað á Guðs lampa, en Samúel svaf í musteri Drottins, þar sem Guðs örk var. 4Þá kallaði Drottinn á Samúel. Hann svaraði: "Hér er ég." 5Og hann hljóp til Elí og sagði: "Hér er ég, því að þú kallaðir á mig."

En Elí sagði: "Ég hefi ekki kallað. Far þú aftur að sofa." Fór hann þá og lagðist til svefns.

6En Drottinn kallaði enn að nýju: "Samúel!"

Og Samúel reis upp og fór til Elí og sagði: "Hér er ég, því að þú kallaðir á mig."

En hann sagði: "Ég hefi ekki kallað, sonur minn. Leggst þú aftur til svefns." 7En Samúel þekkti ekki enn Drottin, og honum hafði ekki enn birst orð frá Drottni.

8Þá kallaði Drottinn enn á Samúel, í þriðja skiptið. Og hann reis upp og fór til Elí og sagði: "Hér er ég, því að þú kallaðir á mig."

Þá skildi Elí, að það var Drottinn, sem var að kalla á sveininn. 9Fyrir því sagði Elí við Samúel: "Far þú og leggstu til svefns, og verði nú á þig kallað, þá svara þú: ,Tala þú, Drottinn, því að þjónn þinn heyrir.'" Fór Samúel þá og lagðist til svefns á sínum stað.

10Þá kom Drottinn og gekk fram og kallaði sem hin fyrri skiptin: "Samúel! Samúel!"

Og Samúel svaraði: "Tala þú, því að þjónn þinn heyrir."

11Drottinn mælti þá við Samúel: "Þá hluti mun ég gjöra í Ísrael, að óma mun fyrir báðum eyrum allra þeirra, er það heyra. 12Á þeim degi mun ég láta fram koma á Elí allt það, er ég hefi talað um hús hans - frá upphafi til enda. 13Því að ég hefi kunngjört honum, að ég muni dæma hús hans að eilífu vegna misgjörðar þeirrar, er honum var kunn, að synir hans leiddu bölvun yfir sig, og þó hafði hann ekki taum á þeim. 14Og fyrir því hefi ég svarið húsi Elí: Sannlega skal eigi verða friðþægt fyrir misgjörð Elí húss með sláturfórn eða matfórn að eilífu."

15Lá Samúel nú kyrr allt til morguns. Og um morguninn reis hann árla og lauk upp dyrunum á húsi Drottins. En Samúel þorði ekki að segja Elí frá sýninni.

16Elí kallaði á Samúel og sagði: "Samúel, sonur minn!"

Hann svaraði: "Hér er ég."

17Elí sagði: "Hvað var það, sem hann talaði við þig? Leyndu mig því ekki. Guð láti þig gjalda þess nú og síðar, ef þú leynir mig nokkru af því, sem hann talaði við þig." 18Þá sagði Samúel honum allt saman og leyndi hann engu. En Elí sagði: "Hann er Drottinn. Gjöri hann það, sem honum þóknast!"

19Samúel óx, og Drottinn var með honum og lét ekkert af því, er hann hafði boðað, falla til jarðar. 20Og allur Ísrael frá Dan til Beerseba kannaðist við, að Samúel væri falið að vera spámaður Drottins. 21Og Drottinn hélt áfram að birtast í Síló, og Drottinn opinberaðist Samúel í Síló með orði sínu.


Sáttmálsörkin tekin herskildi

4
1Orð Samúels kom til alls Ísraels. Og Ísrael fór í móti Filistum til hernaðar, og settu þeir herbúðir sínar hjá Ebeneser, en Filistar settu herbúðir sínar hjá Afek. 2Og Filistar fylktu liði sínu gegn Ísrael, og hallaðist bardaginn: Ísrael beið ósigur fyrir Filistum, og þeir felldu í valinn á vígvellinum um fjögur þúsund manns.

3Og er lýðurinn kom aftur í herbúðirnar, þá sögðu öldungar Ísraels: "Hví hefir Drottinn látið oss bíða ósigur í dag fyrir Filistum? Vér skulum sækja sáttmálsörk Drottins til Síló, og þegar hún er komin hér meðal vor, mun hún frelsa oss af hendi óvina vorra."

4Þá sendi lýðurinn menn til Síló, og þeir tóku þaðan sáttmálsörk Drottins allsherjar, hans sem situr uppi yfir kerúbunum. Báðir synir Elí, þeir Hofní og Pínehas, fóru með sáttmálsörk Guðs. 5En þegar sáttmálsörk Drottins kom í herbúðirnar, þá laust allur Ísrael upp svo miklu fagnaðarópi, að jörðin dundi.

6Þegar Filistar heyrðu óminn af fagnaðarópinu, sögðu þeir: "Hvað merkir þetta glymjandi fagnaðaróp í herbúðum Hebrea?" Og er þeir urðu þess vísir, að örk Drottins væri komin í herbúðirnar, 7þá urðu þeir skelkaðir, því að þeir hugsuðu: "Guð er kominn til þeirra í herbúðirnar," og sögðu: "Vei oss, því að slíkt hefir aldrei áður til borið! 8Vei oss! Hver mun frelsa oss af hendi þessara voldugu guða? Það voru þessir guðir, sem lustu Egypta með alls konar plágum í eyðimörkinni. 9Herðið ykkur upp og verið menn, Filistar, svo að þér verðið ekki ánauðugir Hebreum, eins og þeir hafa verið yður ánauðugir. Verið því menn og berjist!"

10Og Filistar börðust, og Ísrael hafði ósigur, og þeir flýðu, hver heim til sín. Og mannfallið var mjög mikið: féllu af Ísrael þrjátíu þúsundir fótgangandi manna. 11Og Guðs örk var tekin, og báðir synir Elí, þeir Hofní og Pínehas, létu lífið.


Dauði Elí prests

12Benjamíníti nokkur hljóp úr orustunni og kom til Síló þennan sama dag í rifnum klæðum og með mold á höfði sér. 13Og er hann kom, sjá, þá sat Elí á stól við hliðið og starði út á veginn, því að hann var hugsjúkur um örk Guðs. Og er maðurinn kom að segja þessi tíðindi í borginni, þá tók öll borgin að kveina.

14En er Elí heyrði óminn af harmakveininu, sagði hann: "Hvað merkir þessi háreysti?" Og maðurinn hraðaði sér og kom og sagði Elí tíðindin. 15En Elí var níutíu og átta ára gamall og augu hans stirðnuð, svo að hann mátti ekki sjá. 16Og maðurinn sagði við Elí: "Ég kem úr orustunni, ég flýði í dag úr orustunni."

Þá sagði Elí: "Hvernig hefir það gengið, sonur minn?"

17Maðurinn, sem tíðindin flutti, svaraði og mælti: "Ísrael er flúinn fyrir Filistum, og líka var mikið mannfall meðal fólksins, og einnig eru báðir synir þínir, þeir Hofní og Pínehas, dauðir, og Guðs örk er tekin." 18En er hann nefndi Guðs örk, þá féll Elí aftur á bak úr stólnum við hliðið og hálsbrotnaði, og varð það hans bani, því að hann var gamall maður og þungur. En hann hafði verið dómari í Ísrael í fjörutíu ár.

19Tengdadóttir hans, kona Pínehasar, var þunguð og komin að falli, og er hún heyrði tíðindin, að Guðs örk væri tekin og tengdafaðir hennar og maður dauðir, þá hné hún niður og fæddi, því að jóðsóttin kom yfir hana. 20En er hún var komin í dauðann, sögðu konurnar, er yfir henni stóðu: "Óttast ekki, því að þú hefir son fætt." En hún svaraði engu og gaf því engan gaum, 21heldur nefndi sveininn Íkabóð og sagði: "Horfin er vegsemdin frá Ísrael" - vegna þess að Guðs örk var tekin, og vegna tengdaföður síns og manns síns. 22Hún sagði: "Horfin er vegsemdin frá Ísrael, því að Guðs örk er tekin."


Kynngikraftur sáttmálsarkarinnar

5
1Filistar höfðu tekið Guðs örk og flutt hana frá Ebeneser til Asdód. 2Nú tóku þeir Guðs örk og fluttu hana í musteri Dagóns og settu hana við hliðina á Dagón. 3En er Asdód-menn risu árla morguninn eftir, sjá, þá lá Dagón á grúfu á gólfinu fyrir framan örk Drottins. Tóku þeir þá Dagón og settu hann aftur á sinn stað.

4Og þeir risu árla um morguninn daginn eftir, og sjá, þá lá Dagón á grúfu á gólfinu fyrir framan örk Drottins. Höfuð Dagóns og báðar hendur voru brotnar af honum og lágu á þröskuldinum, bolurinn einn var eftir af Dagón. (5Fyrir því stíga prestar Dagóns og allir þeir, sem ganga inn í musteri Dagóns, ekki á þröskuld Dagóns í Asdód, og helst það enn í dag.)

6Hönd Drottins lá þungt á Asdód-mönnum, hann skelfdi þá og sló þá með kýlum, bæði Asdód og héraðið umhverfis. 7En þegar Asdód-búar sáu, að þetta var þannig, þá sögðu þeir: "Örk Ísraels Guðs skal eigi lengur hjá oss vera, því að hörð er hönd hans á oss og á Dagón, guði vorum." 8Þá gjörðu þeir út sendimenn og söfnuðu saman öllum höfðingjum Filista til sín og sögðu: "Hvað eigum vér að gjöra við örk Ísraels Guðs?"

Þeir sögðu: "Flytja skal örk Ísraels Guðs til Gat." Og þeir fluttu örk Ísraels Guðs þangað.

9En eftir að þeir höfðu flutt hana þangað, þá kom hönd Drottins yfir borgina með feikna mikilli skelfingu. Hann sló borgarbúa, bæði smáa og stóra, svo að kýli brutust út um þá.

10Þá sendu þeir Guðs örk til Ekron. En er Guðs örk kom til Ekron, þá kveinuðu Ekroningar og sögðu: "Þeir hafa flutt til mín örk Ísraels Guðs til þess að deyða mig og fólk mitt!" 11Þá gjörðu þeir út sendimenn og söfnuðu saman öllum höfðingjum Filista og sögðu: "Sendið burt örk Ísraels Guðs, svo að hún komist á sinn stað og deyði mig ekki og fólk mitt." Því að dauðans angist hafði gripið alla borgina. Hönd Guðs lá þar mjög þungt á. 12Þeir menn, sem eigi dóu, urðu slegnir kýlum, og kvein borgarinnar sté upp til himins.


Filistar skila örkinni

6
1Örk Drottins var sjö mánuði í Filistalandi. 2Og Filistar kölluðu prestana og spásagnarmennina og sögðu: "Hvað eigum vér að gjöra við örk Drottins? Segið oss til, hvernig vér eigum að senda hana heim á sinn stað."

3Þeir svöruðu: "Ef þér sendið burt örk Ísraels Guðs, þá sendið hana ekki gjafalaust, heldur greiðið henni sektarfórn. Þá munuð þér heilir verða, og yður mun verða kunnugt, hvers vegna hönd hans hefir ekki frá yður vikið."

4Þá sögðu Filistar: "Hvaða sektarfórn eigum vér að greiða henni?"

Þeir svöruðu: "Fimm kýli af gulli og fimm mýs af gulli, eins og höfðingjar Filista eru margir til, því að sama plágan hefir gengið yfir yður og höfðingja yðar. 5Búið nú til myndir af kýlum yðar og myndir af músum yðar, þeim er eyða landið, og gefið Ísraels Guði dýrðina: Má vera að hann létti þá af yður hendi sinni og af guði yðar og af landi yðar. 6Hvers vegna viljið þér herða hjörtu yðar, eins og Egyptar og Faraó hertu hjarta sitt? Var ekki svo, að þegar hann hafði leikið þá hart, þá slepptu þeir þeim, svo að þeir fóru burt? 7Og takið nú og gjörið nýjan vagn og tvær kýr, sem kálfar ganga undir og ok hefir ekki komið á, og beitið kúnum fyrir vagninn, en takið kálfana undan þeim og farið heim með þá. 8Takið síðan örk Drottins og setjið hana á vagninn, en gullgripi þá, er þér greiðið henni í sektarfórn, skuluð þér láta í kistil við hlið hennar. Látið hana síðan fara leiðar sinnar. 9Og hyggið að: Ef hún fer veginn til síns lands upp til Bet Semes, þá er það hann, sem hefir látið oss þessa miklu ógæfu að höndum bera. En fari hún ekki veginn, þá vitum vér, að ekki er það hönd hans, sem hefir lostið oss; þá er það tilviljun, er oss hefir að höndum borið."

10Og menn gjörðu svo. Þeir tóku tvær kýr, er kálfar gengu undir, og beittu þeim fyrir vagninn, en kálfana byrgðu þeir inni heima. 11Síðan settu þeir örk Drottins á vagninn, svo og kistilinn með gullmúsunum og kýlamyndunum. 12Og kýrnar fóru beina leið til Bet Semes. Þræddu þær brautina og bauluðu án afláts og viku hvorki til hægri né vinstri, og höfðingjar Filista fóru á eftir þeim allt að landamærum Bet Semes.

13Bet Semes-búar voru að hveitiuppskeru í dalnum. Varð þeim nú litið upp og sáu þeir örkina, og urðu þeir fegnir að sjá hana. 14Og vagninn kom inn á akur Jósúa í Bet Semes og nam þar staðar. En þar var stór steinn. Og þeir klufu viðinn úr vagninum og fórnuðu kúnum í brennifórn Drottni til handa. 15En levítarnir tóku örk Drottins niður og kistilinn, sem hjá henni var og gullgripirnir voru í, og settu á stóra steininn. Og Bet Semes-búar fórnuðu brennifórnum og slátruðu sláturfórnum á þeim degi Drottni til handa. 16Og höfðingjar Filistanna fimm sáu það og fóru þann sama dag aftur til Ekron.

17En þessi voru gullkýlin, sem Filistar greiddu Drottni í sektarfórn: eitt fyrir Asdód, eitt fyrir Gasa, eitt fyrir Askalon, eitt fyrir Gat, eitt fyrir Ekron, 18auk þess gullmýsnar, jafnmargar og allar borgir Filistahöfðingjanna fimm, bæði víggirtu borgirnar og bændaþorpin. Og stóri steinninn, er þeir settu örk Drottins niður á, er vottur þessa fram á þennan dag á akri Jósúa í Bet Semes.

19Drottinn laust nokkra af mönnunum í Bet Semes, af því að þeir skoðuðu örk Drottins, og hann laust af fólkinu sjötíu manns. En fólkið harmaði það, að Drottinn hafði gjört svo mikið mannfall meðal fólksins.

20Og Bet Semes-búar sögðu: "Hver fær staðist fyrir Drottni, þessum heilaga Guði? Og til hvers mun hann nú fara, er hann fer frá oss?" 21Þá gerðu þeir sendimenn á fund íbúanna í Kirjat Jearím og létu segja þeim: "Filistar hafa skilað aftur örk Drottins; komið hingað og flytjið hana til yðar."

7
1Og íbúarnir í Kirjat Jearím komu og sóttu örk Drottins og fluttu hana í hús Abínadabs á hæðinni, og vígðu þeir Eleasar son hans til þess að gæta arkar Drottins.


Lýðurinn tekur sinnaskiptum og sigrar Filista

2Frá þeim degi, er örkin kom til Kirjat Jearím, leið langur tími, og urðu það tuttugu ár. Þá sneri allt Ísraels hús sér til Drottins.

3Samúel sagði við allt Ísraels hús: "Ef þér viljið snúa yður til Drottins af öllu hjarta, þá fjarlægið hin útlendu goð frá yður og Astörturnar og snúið hjarta yðar til Drottins og þjónið honum einum. Mun hann þá frelsa yður af hendi Filista." 4Þá köstuðu Ísraelsmenn burt Baölum og Astörtum og þjónuðu Drottni einum.

5Samúel sagði: "Stefnið saman öllum Ísrael í Mispa, og skal ég þá biðja fyrir yður til Drottins." 6Söfnuðust þeir þá saman í Mispa og jusu vatn og úthelltu því fyrir Drottni. Og þeir föstuðu þann dag og sögðu þar: "Vér höfum syndgað móti Drottni!" Og Samúel dæmdi Ísraelsmenn í Mispa.

7En er Filistar heyrðu, að Ísraelsmenn höfðu safnast saman í Mispa, þá fóru höfðingjar Filista á móti Ísrael. Og er Ísraelsmenn heyrðu það, urðu þeir hræddir við Filista. 8Og Ísraelsmenn sögðu við Samúel: "Lát eigi af að hrópa til Drottins, Guðs vors, fyrir oss, að hann frelsi oss af hendi Filista." 9Þá tók Samúel dilklamb og fórnaði í brennifórn - alfórn - Drottni til handa. Og Samúel hrópaði til Drottins fyrir Ísrael, og Drottinn bænheyrði hann.

10En meðan Samúel var að fórna brennifórninni, voru Filistar komnir í nánd til að berjast við Ísrael. En Drottinn sendi þrumuveður með miklum gný yfir Filista á þeim degi og gjörði þá felmtsfulla, svo að þeir biðu ósigur fyrir Ísrael. 11Og Ísraelsmenn fóru út frá Mispa og eltu Filista og drápu þá á flóttanum, allt þar til komið var niður fyrir Betkar.

12Þá tók Samúel stein og reisti hann upp milli Mispa og Jesjana og kallaði hann Ebeneser og sagði: "Hingað til hefir Drottinn hjálpað oss."

13Þannig voru Filistar yfirbugaðir, og komu þeir ekki framar inn í land Ísraels. Og hönd Drottins var gegn Filistum meðan Samúel lifði. 14En borgir þær, sem Filistar höfðu tekið frá Ísrael, komu aftur undir Ísrael, frá Ekron allt til Gat, og landinu, er að þeim lá, náði Ísrael einnig úr höndum Filista. Og friður komst á milli Ísraels og Amoríta.

15Samúel dæmdi Ísrael meðan hann lifði. 16Og hann ferðaðist um á ári hverju og kom til Betel, Gilgal og Mispa og dæmdi Ísrael á öllum þessum stöðum. 17Og hann sneri aftur til Rama, því að þar átti hann heima, og þar dæmdi hann Ísrael. Og hann reisti Drottni þar altari.



Samúel og Sál


Ísraelsmenn krefjast konungsstjórnar

8
1Er Samúel var orðinn gamall, setti hann sonu sína dómara yfir Ísrael. 2Frumgetinn sonur hans hét Jóel, en annar sonur hans Abía. Þeir dæmdu í Beerseba. 3En synir hans fetuðu ekki í fótspor hans, heldur hneigðust þeir til ágirndar og þágu mútur og hölluðu réttinum.

4Þá söfnuðust allir öldungar Ísraels saman og fóru á fund Samúels í Rama 5og sögðu við hann: "Sjá, þú ert nú orðinn gamall og synir þínir feta ekki í fótspor þín. Set oss því konung til að dæma oss, eins og er hjá öllum öðrum þjóðum." 6En Samúel mislíkaði það, að þeir sögðu: "Gef oss konung til þess að dæma oss!" Og Samúel bað til Drottins.

7Drottinn sagði við Samúel: "Lát þú að orðum lýðsins í öllu því, sem þeir biðja þig um, því að þeir hafa ekki hafnað þér, heldur hafa þeir hafnað mér, að ég skuli ekki lengur vera konungur yfir þeim. 8Svona hafa þeir ávallt breytt frá þeim degi, er ég leiddi þá út af Egyptalandi, allt fram á þennan dag. Þeir hafa yfirgefið mig og þjónað öðrum guðum. Öldungis á sama hátt fara þeir nú og með þig. 9Lát því nú að orðum þeirra. Þó skalt þú vara þá alvarlega við, og segja þeim háttu konungsins, sem ríkja á yfir þeim."

10Þá sagði Samúel lýðnum, sem heimti af honum konung, öll orð Drottins 11og mælti: "Þessi mun verða háttur konungsins, sem yfir yður á að ríkja: Sonu yðar mun hann taka og setja þá við vagn sinn og á hesta sína, og þeir munu hlaupa fyrir vagni hans, 12og hann mun skipa þá höfuðsmenn yfir þúsund og höfuðsmenn yfir fimmtíu, og setja þá til að plægja akurland sitt og skera upp korn sitt og gjöra hernaðartygi sín og ökutygi. 13Og dætur yðar mun hann taka og láta þær búa til smyrsl, elda og baka. 14Og bestu lendur yðar, víngarða og olífugarða mun hann taka og gefa þjónum sínum, 15og af sáðlöndum yðar og víngörðum mun hann taka tíund og gefa hana geldingum sínum og þjónum sínum. 16Og þræla yðar og ambáttir og hina bestu uxa yðar og asna yðar mun hann taka og hafa til sinna verka. 17Af sauðfénaði yðar mun hann taka tíund, en sjálfir munuð þér verða þrælar hans. 18Þá munuð þér hrópa undan konungi yðar, er þér þá hafið kjörið yður, en þá mun Drottinn ekki svara yður."

19En fólkið vildi ekki hlýða fortölum Samúels og sagði: "Nei, konungur skal yfir oss vera, 20svo að vér séum eins og allar aðrar þjóðir, og konungur vor skal dæma oss og vera fyrirliði vor og heyja bardaga vora."

21Samúel hlýddi á öll ummæli lýðsins og tjáði þau fyrir Drottni. 22En Drottinn sagði við Samúel: "Lát þú að orðum þeirra og set yfir þá konung." Þá sagði Samúel við Ísraelsmenn: "Farið burt, hver til síns heimkynnis."


Sál og týndu ösnurnar

9
1Maður er nefndur Kís. Hann var úr Benjamín og var sonur Abíels, Serórssonar, Bekóratssonar, Afíasonar, sonar Benjamíníta nokkurs, auðugur maður. 2Hann átti son, er Sál hét, fyrirmannlegan og fríðan. Enginn af Ísraelsmönnum var fríðari en hann. Hann var höfði hærri en allur lýður.

3Ösnur Kíss, föður Sáls, týndust, og Kís sagði við Sál, son sinn: "Tak með þér einn af sveinunum og farðu og leitaðu að ösnunum." 4Og þeir fóru um Efraímfjöll og þeir fóru um Salísaland, en fundu þær ekki. Síðan fóru þeir um Saalímland, en þær voru þar eigi. Þá fóru þeir um Benjamínsland, en fundu þær ekki. 5En er þeir voru komnir í Súf-land, þá sagði Sál við svein sinn, þann er með honum var: "Kom þú, við skulum snúa við, svo að faðir minn fari ekki að undrast um okkur, í stað þess að hugsa um ösnurnar."

6Sveinninn svaraði honum: "Sjá, í borg þessari er guðsmaður einn, og er maðurinn frægur. Allt rætist, sem hann segir. Nú skulum við fara þangað; má vera að hann segi okkur, hvaða leið við eigum að halda."

7Sál sagði við hann: "Sjá, ef við förum, hvað eigum við þá að færa manninum? Því að brauðið er þrotið í malpokum okkar og gjöf höfum við enga að færa guðsmanninum. Hvað höfum við?"

8Þá svaraði sveinninn Sál aftur og mælti: "Sjá, ég hefi hjá mér fjórðung úr silfursikli. Hann ætla ég að gefa guðsmanninum, til þess að hann segi okkur, hvaða leið við eigum að halda." (9Fyrrum komust menn svo að orði í Ísrael, þá er þeir gengu til frétta við Guð: "Komið, vér skulum fara til sjáandans!" Því að þeir, sem nú eru kallaðir spámenn, voru fyrrum kallaðir sjáendur.)

10Þá sagði Sál við svein sinn: "Þú hefir rétt að mæla. Kom þú, við skulum fara!" Síðan fóru þeir til borgarinnar, þar sem guðsmaðurinn var.

11Er þeir voru að ganga upp stíginn upp að borginni, hittu þeir stúlkur, sem gengu út að sækja vatn, og sögðu við þær: "Er sjáandinn hér?"

12Þær svöruðu þeim og sögðu: "Já, hann er rétt á undan ykkur. Hann er alveg nýkominn til borgarinnar, því að lýðurinn ætlar í dag að færa sláturfórnir á fórnarhæðinni. 13Óðara en þið komið inn í borgina, munuð þið finna hann, áður en hann gengur upp á fórnarhæðina til að eta, því að lýðurinn etur ekki fyrr en hann kemur, af því að hann blessar fórnirnar; eftir það eta þeir, sem boðnir eru. Og gangið nú upp þangað, því að einmitt nú munuð þið finna hann." 14Síðan gengu þeir upp til borgarinnar.


Sál og Samúel hittast

Þegar þeir komu inn í borgina, sjá, þá gekk Samúel út á móti þeim og ætlaði upp á fórnarhæðina.

15Nú hafði Drottinn, daginn áður en Sál kom, opinberað Samúel þetta: 16"Í þetta mund á morgun mun ég senda til þín mann úr Benjamínslandi, og skalt þú smyrja hann til höfðingja yfir lýð minn Ísrael, og hann mun frelsa minn lýð af hendi Filistanna, því að ég hefi séð ánauð míns lýðs, og kvein hans hefir borist til mín." 17En er Samúel sá Sál, sagði Drottinn við hann: "Þetta er maðurinn, sem ég sagði um við þig: ,Hann skal drottna yfir mínum lýð.'"

18Sál gekk þá til Samúels í miðju borgarhliðinu og mælti: "Seg mér, hvar á sjáandinn heima?"

19Samúel svaraði Sál og mælti: "Ég er sjáandinn. Gakk á undan mér upp á fórnarhæðina. Þið skuluð eta með mér í dag, en á morgun snemma mun ég láta þig fara og fræða þig um allt það, er þú ber fyrir brjósti. 20Og að því er snertir ösnurnar, sem töpuðust hjá þér fyrir þremur dögum, þá vertu ekki áhyggjufullur út af þeim, því að þær eru fundnar. En hver mun hljóta allar hnossir Ísraels, hver nema þú og öll ætt föður þíns?"

21Sál svaraði og mælti: "Er ég ekki Benjamíníti, kominn af einni af hinum minnstu kynkvíslum Ísraels, og ætt mín hin lítilmótlegasta af öllum ættum Benjamíns kynkvíslar? Hví mælir þú þá slíkt við mig?"

22Samúel tók Sál og svein hans og leiddi þá inn í matsalinn, og hann vísaði þeim til sætis efst meðal boðsmannanna, en þeir voru um þrjátíu manns. 23Og Samúel sagði við matsveininn: "Kom þú nú með stykkið, sem ég fékk þér og sagði þér að taka frá." 24Þá bar matsveinninn fram bóginn og rófuna og setti fyrir Sál. Og Samúel mælti: "Sjá, það sem afgangs varð, er nú sett fyrir þig. Et, því að á hinum ákveðna tíma var það geymt þér, þá er sagt var: Ég hefi boðið fólkinu!" Og Sál át með Samúel þann dag. 25Og þeir gengu niður af hæðinni ofan í borgina, og var búið um Sál á þakinu, og lagðist hann til svefns.


Samúel smyr Sál til konungs

26Þegar lýsti af degi, kallaði Samúel á Sál uppi á þakinu og mælti: "Rís nú á fætur, svo að ég geti fylgt þér á leið." Þá reis Sál á fætur, og þeir gengu báðir út, hann og Samúel. 27En er þeir voru komnir út fyrir borgina, sagði Samúel við Sál: "Segðu sveininum að fara á undan okkur, - og hann fór á undan - en statt þú kyrr, svo að ég megi flytja þér orð frá Guði."

10
1Þá tók Samúel buðk með olífuolíu og hellti yfir höfuð honum og minntist við hann og mælti: "Nú hefir Drottinn smurt þig til höfðingja yfir lýð sinn Ísrael, og þú skalt drottna yfir lýð Drottins og þú skalt frelsa hann af hendi óvina hans. Og þetta skalt þú til marks hafa um, að Drottinn hefir smurt þig til höfðingja yfir arfleifð sína: 2Þegar þú ert farinn frá mér í dag, munt þú hitta tvo menn við gröf Rakelar á Benjamíns landamærum hjá Selsa, og þeir munu segja við þig: ,Ösnurnar, sem þú fórst að leita að, eru fundnar. En faðir þinn er hættur að hugsa um ösnurnar og farinn að undrast um ykkur og segir: Hvað á ég að gjöra viðvíkjandi syni mínum?' 3Og þegar þú nú heldur áfram þaðan og kemur að Taboreik, þá munu þrír menn mæta þér þar, sem eru á leið upp til Guðs í Betel. Einn þeirra ber þrjú kið, annar ber þrjá brauðhleifa og hinn þriðji ber vínlegil. 4Þeir munu heilsa þér og gefa þér tvö brauð; skalt þú þiggja þau af þeim. 5Eftir það munt þú koma til Gíbeu Guðs, þar sem súla Filista stendur. Og þegar þú kemur inn í borgina, þá munt þú mæta hóp spámanna, sem eru á leið ofan af fórnarhæðinni með hörpur, bumbur, hljóðpípur og gígjur á undan sér og sjálfir eru í spámannlegum guðmóði. 6Þá mun andi Drottins koma yfir þig, svo að þú munt komast í spámannlegan guðmóð með þeim og verða annar maður. 7Og þegar þú sér þessi tákn koma fram, þá neyt þess færis, sem þér býðst, því að Guð er með þér. 8Og þú skalt fara á undan mér ofan til Gilgal. Og sjá, ég mun koma heim til þín og bera fram brennifórnir og fórna heillafórnum. Þú skalt bíða í sjö daga, þar til er ég kem til þín, og þá skal ég láta þig vita, hvað þú átt að gjöra."

9Þegar Sál nú sneri sér við og gekk burt frá Samúel, þá umbreytti Guð hjarta hans, og öll þessi tákn komu fram þennan sama dag.

10Er þeir komu til Gíbeu, kom hópur spámanna á móti honum. Og andi Guðs kom yfir hann, svo að hann komst í spámannlegan guðmóð meðal þeirra. 11En þegar allir þeir, sem þekkt höfðu hann áður, sáu, að guðmóður var kominn á hann eins og á spámennina, þá sögðu menn hver við annan: "Hvað kemur að syni Kíss? Er og Sál meðal spámannanna?" 12Þá svaraði maður nokkur þaðan og sagði: "Hver er þá faðir þeirra?" Þaðan er máltækið komið: "Er og Sál meðal spámannanna?" 13En er hinn spámannlegi guðmóður var af honum, þá fór hann heim til sín.

14Þá sagði föðurbróðir Sáls við hann og við svein hans: "Hvert fóruð þið?"

Og hann sagði: "Að leita að ösnunum. Og þegar við fundum þær hvergi, þá fórum við til Samúels."

15Þá sagði föðurbróðir Sáls: "Seg mér frá, hvað Samúel sagði við ykkur."

16Og Sál sagði við föðurbróður sinn: "Hann sagði okkur, að ösnurnar væru fundnar." En það, sem Samúel hafði sagt um konungdóminn, frá því sagði hann honum eigi.


Sál kjörinn konungur með hlutkesti

17Samúel kallaði lýðinn saman til Drottins í Mispa 18og sagði við Ísraelsmenn: "Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: Ég hefi leitt Ísrael út af Egyptalandi, og ég hefi frelsað yður undan valdi Egypta og undan valdi allra þeirra konungsríkja, er kúguðu yður. 19En þér hafið í dag hafnað Guði yðar, sem hjálpað hefir yður úr öllum nauðum yðar og þrengingum, og sagt: ,Nei, heldur skalt þú setja konung yfir oss.' En gangið nú fram fyrir Drottin eftir ættkvíslum yðar og þúsundum."

20Síðan lét Samúel allar ættkvíslir Ísraels ganga fram, og féll hlutur á Benjamíns ættkvísl. 21Þá lét hann Benjamíns ættkvísl ganga fram eftir kynþáttum hennar, og féll hlutur á kynþátt Matríta. Þá lét hann kynþátt Matríta ganga fram mann fyrir mann, og féll hlutur á Sál Kísson. Var hans þá leitað, en hann fannst ekki. 22Þá spurðust þeir enn fyrir hjá Drottni: "Er maðurinn kominn hingað?"

Drottinn svaraði: "Sjá, hann hefir falið sig hjá farangrinum."

23Þá hlupu þeir þangað og sóttu hann. Og er hann gekk fram meðal lýðsins, þá var hann höfði hærri en allur lýður. 24Og Samúel sagði við allan lýðinn: "Hafið þér séð, að hann sem Drottinn hefir útvalið, er slíkur, að enginn er hans líki meðal alls fólksins?"

Þá æpti allur lýðurinn og sagði: "Konungurinn lifi!"

25Og Samúel sagði lýðnum réttindi konungdómsins og skrifaði þau í bók og lagði hana til geymslu frammi fyrir Drottni. Síðan lét Samúel allan lýðinn burt fara, hvern heim til sín. 26Þá fór og Sál heim til Gíbeu, og með honum fóru hraustmennin, sem Guð hafði snortið hjartað í. 27En hrakmenni nokkur sögðu: "Hvað ætli þessi hjálpi oss?" Og þeir fyrirlitu hann og færðu honum engar gjafir, en hann lét sem hann vissi það ekki.


Konungdómur Sáls endurnýjaður

11
1Nahas Ammóníti fór og settist um Jabes í Gíleað. Þá sögðu allir Jabesbúar við Nahas: "Gjör þú sáttmála við oss, og munum vér þjóna þér."

2Nahas Ammóníti svaraði þeim: "Með þeim kostum vil ég gjöra sáttmála við yður, að ég stingi út á yður öllum hægra augað og gjöri öllum Ísrael háðung með því."

3Öldungarnir í Jabes sögðu við hann: "Gef oss sjö daga frest, og munum vér senda sendiboða um allt Ísraels land, og ef enginn þá hjálpar oss, munum vér gefast upp fyrir þér."

4Þegar sendiboðarnir komu til Gíbeu Sáls og báru upp erindi sitt í áheyrn lýðsins, þá hóf allur lýðurinn upp raust sína og grét. 5Og sjá, þá kom Sál á eftir nautunum utan af akri. Og Sál mælti: "Hvað ber til þess, að fólkið er að gráta?" Og þeir sögðu honum erindi Jabesmanna. 6Þá kom andi Guðs yfir Sál, er hann heyrði þessi tíðindi, og varð hann reiður mjög. 7Og hann tók tvo uxa og brytjaði þá og sendi stykkin um allt Ísraels land með sendiboðunum og lét þá orðsending fylgja: "Svo skal farið með naut hvers þess manns, er eigi fylgir Sál og Samúel í hernað."

Þá kom ótti Drottins yfir fólkið, svo að þeir lögðu af stað sem einn maður. 8Og hann kannaði liðið í Besek, og voru þá Ísraelsmenn þrjú hundruð þúsund og Júdamenn þrjátíu þúsund. 9Og þeir sögðu við sendiboðana, sem komnir voru: "Segið svo mönnunum í Jabes í Gíleað: Á morgun um hádegisbil skal yður koma hjálp." Og sendimennirnir komu og sögðu Jabesbúum frá þessu, og urðu þeir glaðir við. 10Og Jabesbúar sögðu við Nahas: "Á morgun munum vér gefast upp fyrir yður. Þá getið þér gjört við oss hvað sem yður gott þykir."

11En morguninn eftir skipti Sál liðinu í þrjá flokka, og brutust þeir inn í herbúðirnar um morgunvökuna og felldu Ammóníta fram til hádegis. Og þeir, sem af komust, dreifðust víðsvegar, svo að ekki urðu eftir af þeim tveir saman.

12Þá sagði fólkið við Samúel: "Hverjir voru það, sem sögðu: ,Á Sál að verða konungur yfir oss?' Framseljið þá menn, svo að vér getum drepið þá."

13En Sál sagði: "Engan mann skal deyða á þessum degi, því að í dag hefir Drottinn veitt Ísrael sigur."

14Samúel sagði við lýðinn: "Komið, vér skulum fara til Gilgal og endurnýja þar konungdóminn." 15Þá fór allur lýðurinn til Gilgal og gjörði Sál þar að konungi frammi fyrir Drottni í Gilgal. Og þeir fórnuðu þar heillafórnum frammi fyrir Drottni, og Sál og allir Ísraelsmenn glöddu sig þar mikillega.


Skilnaðarræða Samúels

12
1Samúel mælti til alls Ísraels:

"Sjá, ég hefi látið að orðum yðar í öllu því, sem þér hafið beiðst af mér, og ég hefi sett yfir yður konung. 2Og sjá, nú gengur konungurinn frammi fyrir yður, en ég er orðinn gamall og grár fyrir hærum, og synir mínir eru meðal yðar. En ég hefi gengið fyrir augliti yðar frá barnæsku fram á þennan dag. 3Hér er ég, vitnið á móti mér frammi fyrir Drottni og hans smurða: Hvers uxa hefi ég tekið? Og hvers asna hefi ég tekið? Og hvern hefi ég féflett? Hverjum hefi ég sýnt ofríki? Og af hverjum hefi ég þegið mútu eða jafnvel eina skó? Vitnið móti mér, og mun ég gjalda yður það aftur."

4Þeir svöruðu: "Eigi hefir þú féflett oss, og eigi hefir þú sýnt oss ofríki, og við engu hefir þú af nokkurs manns hendi tekið."

5Hann sagði við þá: "Drottinn sé vitni móti yður, og hans smurði sé vitni í dag, að þér hafið ekkert fundið í minni hendi."

Og þeir sögðu: "Já, þeir skulu vera vitni!"

6Þá sagði Samúel við lýðinn: "Drottinn sé vitni, hann sem skóp Móse og Aron og leiddi feður yðar út af Egyptalandi. 7Gangið nú fram, til þess að ég deili á yður frammi fyrir Drottni og minni yður á allar velgjörðir Drottins, sem hann hefir auðsýnt yður og feðrum yðar. 8Þegar Jakob var kominn til Egyptalands, þjáðu Egyptar þá. Þá hrópuðu feður yðar til Drottins, og Drottinn sendi Móse og Aron, og þeir leiddu feður yðar út af Egyptalandi, og hann fékk þeim bústað í þessu landi. 9En þeir gleymdu Drottni, Guði sínum. Þá seldi hann þá í hendur Sísera, hershöfðingja Jabíns konungs í Hasór, og í hendur Filistum og í hendur Móabskonungi, svo að þeir herjuðu á þá. 10En þeir hrópuðu til Drottins og sögðu: ,Vér höfum syndgað, þar sem vér höfum yfirgefið Drottin og þjónað Baölum og Astörtum; en frelsa oss nú af hendi óvina vorra, þá skulum vér þjóna þér.' 11Þá sendi Drottinn Jerúbbaal, Barak, Jefta og Samúel og frelsaði yður af hendi óvina yðar allt í kring, svo að þér bjugguð óhultir. 12En er þér sáuð, að Nahas, konungur Ammóníta, fór í móti yður, þá sögðuð þér við mig: ,Nei, konungur skal drottna yfir oss!' - en Drottinn, Guð yðar, er þó konungur yðar.

13Þarna er nú konungurinn, sem þér hafið valið, sem þér hafið beðið um. Drottinn hefir nú sett yfir yður konung. 14Ef þér óttist Drottin og þjónið honum og hlýðið hans raustu og óhlýðnist ekki skipun Drottins, og ef þér, bæði þér sjálfir og konungurinn, sem ríkir yfir yður, fylgið Drottni, Guði yðar, þá fer vel, 15en ef þér hlýðið ekki raustu Drottins og óhlýðnist skipun Drottins, þá mun hönd Drottins vera á móti yður og konungi yðar.

16Gangið nú fram og sjáið þann mikla atburð, er Drottinn lætur verða fyrir augum yðar. 17Er nú ekki hveitiuppskera? Ég ætla að biðja Drottin að senda þrumur og regn. Þá skuluð þér kannast við og skilja, hversu mikið illt þér gjörðuð í augum Drottins, er þér beiddust að fá konung."

18Og Samúel ákallaði Drottin, og Drottinn sendi þrumur og regn þennan sama dag. Þá varð lýðurinn mjög hræddur við Drottin og við Samúel. 19Og allur lýðurinn sagði við Samúel: "Bið til Drottins Guðs þíns fyrir þjónum þínum, svo að vér deyjum ekki, því að vér höfum bætt þeirri misgjörð ofan á allar syndir vorar, að vér höfum beiðst konungs."

20Samúel sagði við lýðinn: "Óttist ekki. Þér hafið að vísu framið þessa misgjörð, en víkið nú ekki frá Drottni og þjónið Drottni af öllu hjarta yðar 21og eltið ekki fánýtin, sem að engu liði eru og eigi frelsa, því að fánýt eru þau. 22Því að Drottinn mun eigi útskúfa lýð sínum vegna síns mikla nafns, af því að Drottni hefir þóknast að gjöra yður að sínum lýð. 23Og fjarri sé það mér að syndga á móti Drottni með því að hætta að biðja fyrir yður. Ég vil kenna yður hinn góða og rétta veg. 24Óttist aðeins Drottin og þjónið honum trúlega af öllu hjarta yðar, því sjáið, hversu mikið hann hefir fyrir yður gjört. 25En ef þér breytið illa, þá verður bæði yður og konungi yðar í burtu kippt."


Stríð við Filista. Sál hafnað

13
1Sál var þrítugur að aldri, þá er hann varð konungur, og ríkti í tvö ár yfir Ísrael.

2Sál valdi sér þrjú þúsund manns af Ísrael. Af þeim voru tvö þúsund hjá Sál í Mikmas og á Betelfjöllum, en eitt þúsund hjá Jónatan í Gíbeu í Benjamín. Hitt liðið lét hann brott fara, hvern heim til sín.

3Jónatan drap landstjóra Filista, sem sat í Geba, og Filistar fréttu það. Og Sál lét þeyta lúður um allt landið og sagði: "Hebrear skulu heyra það." 4Og allur Ísrael heyrði sagt: "Sál hefir drepið landstjóra Filista, og Filistar hafa andstyggð á Ísrael." Og liðinu var stefnt saman til þess að fara með Sál til Gilgal.

5Filistar söfnuðust saman til að berjast við Ísrael, þrjú þúsund vagnar og sex þúsund riddarar og fótgöngulið, svo margt sem sandur á sjávarströndu, og þeir lögðu af stað og settu herbúðir sínar í Mikmas fyrir austan Betaven. 6Og er Ísraelsmenn sáu, að þeir voru komnir í kreppu, því að að þeim þrengdi, þá faldi liðið sig í hellum, jarðholum, klettaskorum, gjótum og gryfjum. 7Nokkrir Hebreanna fóru yfir vöðin á Jórdan yfir í Gaðs land og Gíleaðs.

Sál var enn í Gilgal, en allt liðið hafði flúið burt frá honum fyrir hræðslu sakir. 8Og hann beið í sjö daga, til þess tíma, er Samúel hafði til tekið, en Samúel kom ekki til Gilgal, og fólkið dreifðist burt frá honum. 9Þá sagði Sál: "Færið mér hingað brennifórnina og heillafórnirnar." Og hann fórnaði brennifórninni. 10En er hann hafði fórnað brennifórninni, sjá, þá kom Samúel. Og Sál gekk út á móti honum til þess að heilsa honum. 11Og Samúel mælti: "Hvað hefir þú gjört?"

Sál svaraði: "Þegar ég sá, að liðið dreifðist burt frá mér og að þú komst ekki á tilteknum tíma, en Filistar söfnuðust saman í Mikmas, 12þá hugsaði ég: ,Nú munu Filistar fara ofan á móti mér til Gilgal, áður en ég hefi blíðkað Drottin.' Fyrir því herti ég upp hugann og fórnaði brennifórninni."

13Þá sagði Samúel við Sál: "Heimskulega hefir þér farið. Þú hefir ekki gætt skipunar Drottins, Guðs þíns, sem hann fyrir þig lagði, því að nú hefði Drottinn staðfest konungdóm þinn yfir Ísrael að eilífu. 14En nú mun konungdómur þinn ekki standa. Drottinn hefir leitað sér að manni eftir sínu hjarta, og hann hefir Drottinn skipað höfðingja yfir lýð sinn, því að þú hefir ekki gætt þess, er Drottinn fyrir þig lagði."

15Þá tók Samúel sig upp og fór frá Gilgal og hélt leiðar sinnar. En leifarnar af liðinu fóru á eftir Sál í móti herliðinu. Og er þeir voru komnir frá Gilgal til Gíbeu í Benjamín, þá kannaði Sál liðið, sem hjá honum var, um sex hundruð manns. 16Sál og Jónatan sonur hans og liðið, sem með þeim var, sátu í Geba í Benjamín, en Filistar höfðu sett herbúðir sínar í Mikmas.

17Ránssveit fór út úr herbúðum Filista í þrem hópum. Einn hópurinn stefndi veginn til Ofra inn í Sjúal-land, 18annar hópurinn stefndi veginn til Bet Hóron, og þriðji hópurinn stefndi veginn til hæðarinnar, sem gnæfir yfir Sebóímdalinn gegnt eyðimörkinni.

19Enginn járnsmiður var til í öllu Ísraelslandi, því að Filistar hugsuðu: "Hebrear mega ekki smíða sverð eða spjót." (20Ísraelsmenn urðu að fara ofan til Filista, ef þeir vildu láta hvessa plógjárn sín, haka, axir og sigðir. 21Gjaldið var tveir þriðju úr sikli fyrir plógjárn og haka, og þriðjungur úr sikli fyrir gaffla og axir og fyrir að setja brodd á broddstaf.) 22Þannig hafði gjörvallt liðið, sem var með Sál og Jónatan, hvorki sverð né spjót í höndum orustudaginn, en Sál og Jónatan sonur hans höfðu það.

23Varðflokkur Filista fór nú og settist í skarðið hjá Mikmas.


Þrekvirki Jónatans

14
1Svo bar við einn dag, að Jónatan sonur Sáls sagði við skjaldsvein sinn: "Kom þú, við skulum fara yfir til varðflokks Filista, sem er þarna hinumegin." En hann sagði ekki föður sínum frá því. 2En Sál sat utanvert við Gíbeu undir granateplatrénu, sem er hjá Mígron, og liðið, sem hann hafði með sér, var hér um bil sex hundruð manns. 3Og Ahía, sonur Ahítúbs, bróður Íkabóðs, Pínehassonar, Elísonar, prests Drottins í Síló, bar hökulinn. En liðið vissi ekki, að Jónatan hafði farið.

4Á milli klifanna, sem Jónatan vildi um fara yfir til varðflokks Filistanna, var hvor hamarinn sínum megin. Hét annar Bóses, en hinn Sene. 5Annar hamarinn var að norðanverðu og var brattur, gegnt Mikmas, en hinn að sunnanverðu, gegnt Geba.

6Jónatan sagði við skjaldsvein sinn: "Kom þú, við skulum fara yfir til varðflokks þessara óumskornu manna. Vera má, að Drottinn framkvæmi eitthvað oss í hag, því að ekkert getur tálmað Drottni að veita sigur, hvort heldur er með mörgum eða fáum."

7Skjaldsveinninn svaraði honum: "Gjör þú öldungis eins og þér leikur hugur á, sjá, ég mun fylgja þér. Vil ég það eitt, er þú vilt."

8Jónatan mælti: "Sjá, við förum nú yfir til mannanna og látum þá sjá okkur. 9Ef þeir þá kalla til okkar: ,Nemið staðar, þangað til vér komum til ykkar!' þá skulum við standa kyrrir, þar sem við erum staddir, og eigi fara upp til þeirra. 10En ef þeir kalla: ,Komið hingað upp til vor!' þá skulum við fara upp þangað, því að þá hefir Drottinn gefið þá í okkar hendur. Skulum við hafa það að marki."

11Síðan létu þeir báðir varðflokk Filistanna sjá sig, og Filistar sögðu: "Sjá, Hebrear koma fram úr holunum, sem þeir hafa falið sig í." 12Þá kölluðu varðmennirnir til Jónatans og skjaldsveins hans: "Komið hingað upp til vor, og skulum vér segja ykkur tíðindi."

Þá sagði Jónatan við skjaldsvein sinn: "Kom nú upp á eftir mér, því að Drottinn hefir gefið þá í hendur Ísraels." 13Og Jónatan klifraði upp á höndum og fótum og skjaldsveinn hans á eftir honum. Þá lögðu þeir á flótta fyrir Jónatan. En hann felldi þá, og skjaldsveinn hans vann á þeim á eftir honum. 14Og þeir sem Jónatan og skjaldsveinn hans lögðu að velli í þessu fyrsta áhlaupi, voru um tuttugu manns, eins og þegar plógur flettir sundur sverðinum á dagplægi lands. 15Þá sló ótta yfir herbúðirnar á völlunum og yfir allt liðið. Varðsveitin og ránsflokkurinn urðu einnig skelkaðir, og landið nötraði, og varð það að mikilli skelfingu.


Filistar sigraðir

16Sjónarverðir Sáls í Gíbeu í Benjamín lituðust um, og sjá, þá var allt á tjá og tundri í herbúðum Filista. 17Og Sál sagði við mennina, sem með honum voru: "Kannið nú liðið og hyggið að, hver frá oss hefir farið." Könnuðu þeir þá liðið, og vantaði þá Jónatan og skjaldsvein hans. 18Þá mælti Sál við Ahía: "Kom þú með hökulinn!" - því að hann bar þá hökulinn frammi fyrir Ísraelsmönnum. 19En meðan Sál var að tala við prestinn, varð ysinn í herbúðum Filista æ meiri og meiri, svo að Sál sagði við prestinn: "Hættu við það!" 20Og Sál og allt liðið, sem með honum var, safnaðist saman. En er þeir komu í orustuna, sjá, þá reiddi þar hver sverð að öðrum, og allt var í uppnámi. 21En Hebrear þeir, er að undanförnu höfðu lotið Filistum og farið höfðu með þeim í stríðið, snerust nú og í móti þeim og gengu í lið með Ísraelsmönnum, þeim er voru með Sál og Jónatan. 22Og er allir Ísraelsmenn, þeir er falið höfðu sig á Efraímfjöllum, fréttu, að Filistar væru lagðir á flótta, þá veittu þeir þeim og eftirför til þess að berjast við þá. 23Þannig veitti Drottinn Ísrael sigur á þeim degi.


Lýðurinn bjargar lífi Jónatans

Orustan þokaðist fram hjá Betaven, 24og Ísraelsmenn voru mæddir orðnir þann dag. Þá gjörði Sál mikið glappaverk. Hann lét liðið vinna svolátandi eið: "Bölvaður sé sá, sem neytir matar áður en kveld er komið og ég hefi hefnt mín á óvinum mínum!" Fyrir því bragðaði enginn af liðinu mat.

25En nú voru hunangsbú á völlunum. 26Og er liðið kom að hunangsbúunum, sjá, þá voru býflugurnar flognar út, en þrátt fyrir það bar enginn hönd að munni, því að liðið hræddist eiðinn. 27En Jónatan hafði eigi hlýtt á, þá er faðir hans lét liðið vinna eiðinn. Hann rétti því út enda stafsins, sem hann hafði í hendinni, og dýfði honum í hunangsseiminn og bar hönd sína að munni sér. Urðu augu hans þá aftur fjörleg. 28Þá tók einn úr liðinu til máls og sagði: "Faðir þinn hefir látið liðið vinna svolátandi eið: ,Bölvaður sé sá, sem matar neytir í dag!'" En liðið var þreytt.

29Jónatan svaraði: "Faðir minn leiðir landið í ógæfu. Sjáið, hversu fjörleg augu mín eru, af því að ég bragðaði ögn af þessu hunangi. 30Hversu miklu meira mundi mannfallið hafa verið meðal Filista en það nú er orðið, ef liðið hefði etið nægju sína í dag af herfangi óvinanna, er það náði."

31Og þeir felldu Filista á þeim degi frá Mikmas til Ajalon, og liðið var mjög þreytt. 32Og liðið fleygði sér yfir herfangið, og tóku þeir bæði sauðfé, naut og kálfa og slátruðu á jörðinni, og fólkið át kjötið með blóðinu. 33Og menn sögðu Sál frá því og mæltu: "Sjá, fólkið syndgar móti Drottni með því að eta kjötið með blóðinu."

Sál sagði: "Þér drýgið glæp. Veltið hingað til mín stórum steini." 34Og Sál mælti: "Gangið út meðal fólksins og segið þeim: ,Hver og einn af yður komi til mín með sinn uxa og sína sauðkind og slátrið þeim hér og etið, svo að þér syndgið ekki á móti Drottni með því að eta það með blóðinu.'" Þá kom hver og einn af liðinu um nóttina með það, er hann hafði, og þeir slátruðu því þar. 35Og Sál reisti Drottni altari. Það var fyrsta altarið, sem hann reisti Drottni.

36Og Sál mælti: "Vér skulum fara á eftir Filistum í nótt og ræna meðal þeirra, þar til er birtir af degi, og engan af þeim láta eftir verða."

Þeir sögðu: "Gjör þú allt, sem þér gott þykir."

En presturinn sagði: "Vér skulum ganga hér fram fyrir Guð."

37Sál gekk þá til frétta við Guð: "Á ég að fara á eftir Filistum? Munt þú gefa þá í hendur Ísrael?" En hann svaraði honum engu þann dag. 38Þá sagði Sál: "Gangið hingað, allir höfðingjar fólksins, og grennslist eftir og komist að raun um, hver drýgt hefir þessa synd í dag. 39Því að svo sannarlega sem Drottinn lifir, sá er veitt hefir Ísrael sigur, þó að það væri Jónatan sonur minn, sem hefði drýgt hana, þá skyldi hann láta lífið." En enginn svaraði honum af öllu fólkinu. 40Þá sagði hann við allan Ísrael: "Verið þér öðrumegin, en ég og Jónatan sonur minn skulum vera hinumegin."

Lýðurinn sagði við Sál: "Gjör þú sem þér gott þykir."

41Þá mælti Sál: "Drottinn, Ísraels Guð, hví svaraðir þú ekki þjóni þínum í dag? Ef þessi misgjörð hvílir á mér eða Jónatan syni mínum, Drottinn, Ísraels Guð, þá lát þú úrím koma upp, en ef hún hvílir á lýð þínum Ísrael, þá lát þú túmmím koma upp." Þá kom upp hlutur Jónatans og Sáls, en fólkið gekk undan. 42Og Sál mælti: "Hlutið með mér og Jónatan syni mínum!" Kom þá upp hlutur Jónatans. 43Og Sál sagði við Jónatan: "Segðu mér, hvað hefir þú gjört?"

Þá sagði Jónatan honum frá því og mælti: "Ég bragðaði aðeins ögn af hunangi á stafsendanum, sem ég hafði í hendinni. Sjá, hér er ég, fyrir það á ég að láta lífið?"

44Sál svaraði: "Guð gjöri við mig það, er hann vill: lífið verður þú að láta, Jónatan!"

45En lýðurinn sagði við Sál: "Á Jónatan að láta lífið, hann sem unnið hefir þennan mikla sigur í Ísrael? Fjarri sé það! Svo sannarlega sem Drottinn lifir, skal ekki eitt höfuðhár hans falla til jarðar, því að með Guðs hjálp hefir hann unnið í dag." Og fólkið leysti Jónatan út undan lífláti.

46Og Sál kom aftur, er hann hafði elt Filista, en Filistar fóru heim til sín.


Konungdómur Sáls. Ættfólk hans.

47Þá er Sál hafði hlotið konungdóm yfir Ísrael, háði hann ófrið við alla óvini sína allt í kring: við Móab, við Ammóníta, við Edóm, við konunginn í Sóba og við Filista, og hvert sem hann sneri sér, vann hann sigur. 48Hann sýndi og hreysti og vann sigur á Amalek og frelsaði Ísrael af hendi þeirra, er rændu hann.

49Synir Sáls voru Jónatan, Jísví og Malkísúa; og dætur hans tvær hétu: hin eldri Merab og hin yngri Míkal. 50Og kona Sáls hét Ahínóam, dóttir Ahímaas. Og hershöfðingi hans hét Abner, sonur Ners, föðurbróður Sáls. 51Því að Kís, faðir Sáls, og Ner, faðir Abners, voru synir Abíels.

52Og ófriðurinn við Filista var harður alla ævi Sáls, og sæi Sál einhvern kappa eða eitthvert hraustmenni, þá tók hann þann mann í sína sveit.


Sál hafnað sem konungi

15
1Samúel sagði við Sál: "Drottinn sendi mig til þess að smyrja þig til konungs yfir lýð sinn Ísrael. Hlýð því boði Drottins. 2Svo segir Drottinn allsherjar: Ég vil hefna þess, er Amalek gjörði Ísrael, að hann gjörði honum farartálma, þá er hann fór af Egyptalandi. 3Far því og vinn sigur á Amalek og helgaðu hann banni og allt, sem hann á. Og þú skalt ekki þyrma honum, heldur skalt þú deyða bæði karla og konur, börn og brjóstmylkinga, naut og sauðfé, úlfalda og asna."

4Sál bauð þá út liði og kannaði það í Telam: tvö hundruð þúsundir fótgönguliðs og tíu þúsundir Júdamanna. 5Og Sál kom til höfuðborgar Amaleks og setti launsát í dalinn. 6Og Sál sagði við Keníta: "Komið, víkið undan, farið burt frá Amalekítum, svo að ég tortími yður ekki með þeim, því að þér sýnduð öllum Ísraelsmönnum góðvild, þá er þeir fóru af Egyptalandi." Þá viku Kenítar burt frá Amalek.

7Sál vann sigur á Amalek frá Havíla suður undir Súr, sem liggur fyrir austan Egyptaland. 8Og Agag, konung Amaleks, tók hann höndum lifandi, en fólkið allt bannfærði hann með sverðseggjum. 9Þó þyrmdi Sál og fólkið Agag og bestu sauðunum og nautunum, öldu og feitu skepnunum, og öllu því, sem vænt var, og vildu ekki bannfæra það. En allt það af fénaðinum, sem var lélegt og rýrt, bannfærðu þeir.

10Þá kom orð Drottins til Samúels svohljóðandi: 11"Mig iðrar þess, að ég gjörði Sál að konungi, því að hann hefir snúið baki við mér og eigi framkvæmt boð mín." Þá reiddist Samúel og hrópaði til Drottins alla nóttina. 12Og Samúel lagði snemma af stað næsta morgun til þess að hitta Sál. Og Samúel var sagt svo frá: "Sál er kominn til Karmel, og sjá, hann hefir reist sér minnismerki. Því næst sneri hann við og hélt áfram og er farinn ofan til Gilgal."

13Þegar Samúel kom til Sáls, mælti Sál til hans: "Blessaður sért þú af Drottni, ég hefi framkvæmt boð Drottins."

14En Samúel mælti: "Hvaða sauðajarmur er það þá, sem ómar í eyru mér, og hvaða nautaöskur er það, sem ég heyri?"

15Sál svaraði: "Þeir komu með það frá Amalekítum, af því að fólkið þyrmdi bestu sauðunum og nautunum til þess að fórna þeim Drottni Guði sínum, en hitt höfum vér bannfært."

16Samúel sagði við Sál: "Hættu nú, og mun ég kunngjöra þér það, sem Drottinn hefir talað við mig í nótt."

Sál sagði við hann: "Tala þú!"

17Samúel mælti: "Er ekki svo, að þótt þú sért lítill í þínum augum, þá ert þú þó höfuð Ísraels ættkvísla, því að Drottinn smurði þig til konungs yfir Ísrael? 18Og Drottinn sendi þig í leiðangur og sagði: ,Far þú og bannfær syndarana, Amalekíta, og berst við þá, uns þú hefir gjöreytt þeim.' 19Hvers vegna hefir þú þá ekki hlýtt boði Drottins, heldur fleygt þér yfir herfangið og gjört það, sem illt var í augum Drottins?"

20Þá mælti Sál við Samúel: "Ég hefi hlýtt boði Drottins og hefi farið í leiðangur þann, er Drottinn sendi mig í, og hefi komið hingað með Agag, Amaleks konung, og Amalek hefi ég banni helgað. 21En fólkið tók sauði og naut af herfanginu, hið besta af því bannfærða, til þess að fórna því í Gilgal Drottni Guði þínum til handa."

22Samúel mælti: "Hefir þá Drottinn eins mikla velþóknun á brennifórnum og sláturfórnum eins og á hlýðni við boð sín? Nei, hlýðni er betri en fórn, gaumgæfni betri en feiti hrútanna. 23Þrjóska er ekki betri en galdrasynd, og þvermóðska er ekki betri en hjáguðadýrkun og húsgoð. Af því að þú hefir hafnað skipun Drottins, þá hefir hann og hafnað þér og svipt þig konungdómi."

24Sál mælti við Samúel: "Ég hefi syndgað, þar eð ég hefi brotið boð Drottins og þín fyrirmæli, en ég óttaðist fólkið og lét því að orðum þess. 25Fyrirgef mér nú synd mína og snú þú við með mér, svo að ég megi falla fram fyrir Drottni."

26Samúel svaraði Sál: "Ég sný ekki við með þér. Af því að þú hefir hafnað skipun Drottins, þá hefir og Drottinn hafnað þér og svipt þig konungdómi yfir Ísrael."

27Samúel sneri sér nú við og ætlaði að ganga burt. Þá greip Sál í lafið á skikkju hans, og rifnaði það af. 28Þá mælti Samúel til hans: "Rifið hefir Drottinn frá þér í dag konungdóminn yfir Ísrael og gefið hann öðrum, sem er betri en þú. 29Ekki lýgur heldur vegsemd Ísraels, og ekki iðrar hann, því að hann er ekki maður, að hann iðri."

30Sál mælti: "Ég hefi syndgað, en sýn mér þó þá virðingu frammi fyrir öldungum þjóðar minnar og frammi fyrir Ísrael að snúa við með mér, svo að ég megi falla fram fyrir Drottni Guði þínum."

31Þá sneri Samúel við og fór með Sál, og Sál féll fram fyrir Drottni.

32Og Samúel mælti: "Færið mér Agag, Amaleks konung." Og Agag gekk til hans kátur.

Og Agag mælti: "Sannlega er nú beiskja dauðans á brott vikin."

33Þá mælti Samúel: "Eins og sverð þitt hefir gjört konur barnlausar, svo skal nú móðir þín vera barnlaus öðrum konum framar." Síðan hjó Samúel Agag banahögg frammi fyrir Drottni í Gilgal.

34Því næst fór Samúel til Rama, en Sál fór heim til sín í Gíbeu Sáls. 35Og Samúel sá ekki Sál upp frá því allt til dauðadags, því að Samúel var sorgmæddur út af Sál, og Drottin iðraði þess, að hann hafði gjört Sál konung yfir Ísrael.



Sál og Davíð


Davíð smurður til konungs

16
1Drottinn sagði við Samúel: "Hversu lengi ætlar þú að vera sorgmæddur út af Sál, þar sem ég hefi þó hafnað honum og svipt hann konungdómi yfir Ísrael? Fyll þú horn þitt olíu og legg af stað; ég sendi þig til Ísaí Betlehemíta, því að ég hefi kjörið mér konung meðal sona hans."

2Samúel svaraði: "Hversu má ég fara? Frétti Sál það, mun hann drepa mig."

En Drottinn sagði: "Tak þú með þér kvígu og segðu: ,Ég er kominn til þess að færa Drottni fórn.' 3Og bjóð þú Ísaí til fórnarmáltíðarinnar, og ég skal sjálfur láta þig vita, hvað þú átt að gjöra, og þú skalt smyrja mér þann, sem ég mun segja þér."

4Samúel gjörði það, sem Drottinn sagði. Og er hann kom til Betlehem, gengu öldungar borgarinnar í móti honum hræddir í huga og sögðu: "Kemur þú góðu heilli?"

5Hann svaraði: "Já, ég er kominn til þess að færa Drottni fórn. Helgið yður og komið með mér til fórnarmáltíðarinnar." Og hann helgaði Ísaí og sonu hans og bauð þeim til fórnarmáltíðarinnar.

6En er þeir komu, sá Samúel Elíab og hugsaði: "Vissulega stendur hér frammi fyrir Drottni hans smurði." 7En Drottinn sagði við Samúel: "Lít þú ekki á skapnað hans og háan vöxt því að ég hefi hafnað honum. Guð lítur ekki á það, sem mennirnir líta á. Mennirnir líta á útlitið, en Drottinn lítur á hjartað."

8Þá kallaði Ísaí á Abínadab og leiddi hann fyrir Samúel. En hann mælti: "Ekki hefir Drottinn heldur kjörið þennan." 9Þá leiddi Ísaí fram Samma. En Samúel mælti: "Ekki hefir Drottinn heldur kjörið þennan." 10Þannig leiddi Ísaí fram sjö sonu sína fyrir Samúel, en Samúel sagði við Ísaí: "Engan af þessum hefir Drottinn kjörið." 11Og Samúel sagði við Ísaí: "Eru þetta allir sveinarnir?"

Hann svaraði: "Enn er hinn yngsti eftir, og sjá, hann gætir sauða."

Samúel sagði við Ísaí: "Send eftir honum og lát sækja hann, því að vér setjumst ekki til borðs fyrr en hann er kominn hingað." 12Þá sendi hann eftir honum og lét hann koma, en hann var rauðleitur, fagureygur og vel vaxinn. Og Drottinn sagði: "Statt þú upp, smyr hann, því að þessi er það." 13Þá tók Samúel olíuhornið og smurði hann mitt á meðal bræðra hans. Og andi Drottins kom yfir Davíð upp frá þeim degi. En Samúel tók sig upp og fór til Rama.


Davíð gengur í þjónustu Sáls

14Andi Drottins var vikinn frá Sál, en illur andi frá Drottni sturlaði hann. 15Þá sögðu þjónar Sáls við hann: "Illur andi frá Guði sturlar þig. 16Herra vor þarf ekki nema að skipa; þjónar þínir standa frammi fyrir þér og munu leita upp mann, sem kann að leika hörpu. Þá mun svo fara, að þegar hinn illi andi frá Guði kemur yfir þig, og hann leikur hörpuna hendi sinni, þá mun þér batna."

17Og Sál sagði við þjóna sína: "Finnið mér mann, sem vel leikur á strengjahljóðfæri, og færið mér hann."

18Þá svaraði einn af sveinunum og mælti: "Sjá, ég hefi séð son Ísaí Betlehemíta, sem kann að leika á strengjahljóðfæri og er hreystimenni og bardagamaður, vel máli farinn og vaxinn vel, og Drottinn er með honum."

19Þá gjörði Sál menn til Ísaí og lét segja honum: "Sendu Davíð son þinn til mín, þann er sauðanna gætir." 20Þá tók Ísaí tíu brauð, vínbelg og einn geithafur og sendi Sál með Davíð syni sínum. 21Og Davíð kom til Sáls og þjónaði honum. Lagði Sál mikinn þokka á hann og gjörði hann að skjaldsveini sínum. 22Þá sendi Sál til Ísaí og lét segja honum: "Lát þú Davíð ganga í þjónustu mína, því að hann fellur mér vel í geð." 23Og jafnan þegar hinn illi andi frá Guði kom yfir Sál, þá tók Davíð hörpuna og lék hana hendi sinni. Þá bráði af Sál og honum batnaði, og hinn illi andi vék frá honum.


Golíat storkar Ísraelsmönnum

17
1Filistar drógu nú saman hersveitir sínar til bardaga, og söfnuðust þeir saman í Sókó, sem heyrir Júda, og settu þeir herbúðir sínar hjá Efes-Dammím, milli Sókó og Aseka. 2En Sál og Ísraelsmenn söfnuðust saman og settu herbúðir sínar í Eikidalnum og bjuggust til bardaga í móti Filistum. 3Og Filistar stóðu á fjalli öðrumegin og Ísraelsmenn stóðu á fjalli hinumegin, svo að dalurinn var á milli þeirra.

4Þá gekk hólmgöngumaður fram úr fylkingum Filista. Hét hann Golíat og var frá Gat. Hann var á hæð sex álnir og spönn betur. 5Hann hafði eirhjálm á höfði og var í spangabrynju, og vó brynjan fimm þúsund sikla eirs. 6Hann hafði legghlífar af eiri á fótum sér og skotspjót af eiri á herðum sér. 7En spjótskaft hans var sem vefjarrifur, og fjöðurin vó sex hundruð sikla járns. Skjaldsveinn hans gekk á undan honum.

8Golíat gekk fram og kallaði til fylkinga Ísraels og mælti til þeirra: "Hví farið þér í leiðangur og búist til bardaga? Er ég ekki Filisti og þér þjónar Sáls? Veljið yður mann, sem komi hingað ofan til mín. 9Sé hann fær um að berjast við mig og felli mig, þá skulum vér vera yðar þrælar, en beri ég hærra hlut og felli hann, þá skuluð þér vera vorir þrælar og þjóna oss." 10Og Filistinn mælti: "Ég hefi smánað fylkingar Ísraels í dag. Fáið til mann, að við megum berjast." 11Og þegar Sál og allur Ísrael heyrði þessi ummæli Filistans, þá skelfdust þeir og urðu mjög hræddir.


Davíð sendur í herbúðirnar

12Davíð var sonur Ísaí, sem var Efratíti í Betlehem í Júda. Ísaí átti átta sonu. Á Sáls dögum var maðurinn orðinn gamall og hniginn að aldri. 13Og þrír elstu synir Ísaí höfðu farið með Sál í stríðið. Og synir hans þrír, sem í stríðið höfðu farið, hétu: hinn elsti Elíab, annar Abínadab og hinn þriðji Samma. 14En Davíð var yngstur. Þrír hinir eldri höfðu farið með Sál. 15Og við og við fór Davíð frá Sál til þess að gæta sauða föður síns í Betlehem.

16En Filistinn gekk fram morgna og kveld og bauð sig fram fjörutíu daga.

17Dag nokkurn sagði Ísaí við Davíð son sinn: "Tak þú efu af þessu bakaða korni handa bræðrum þínum og þessi tíu brauð og flýt þér og færðu bræðrum þínum þetta í herbúðirnar. 18Og þessa tíu mjólkurosta skalt þú færa hersveitarforingjanum, og fáðu að vita, hvernig bræðrum þínum líður, og komdu með jarteikn frá þeim. 19En Sál og þeir og allir Ísraelsmenn eru í Eikidalnum og eru að berjast við Filista."

20Davíð reis árla morguninn eftir og fékk sauðina hirði nokkrum til geymslu og lyfti á sig og hélt af stað, eins og Ísaí hafði boðið honum. Þegar hann kom til herbúðanna, gekk herinn fram í fylkingu, og æptu þeir heróp. 21Stóðu nú hvorir tveggja búnir til bardaga, Ísrael og Filistar, hvor fylkingin gegnt annarri. 22Og Davíð skildi við sig það, er hann hafði meðferðis, hjá manni þeim, er gætti farangursins, og hljóp að fylkingunni og kom og spurði bræður sína, hvernig þeim liði. 23En meðan hann var að tala við þá, sjá, þá gekk fram hólmgöngumaðurinn - hann hét Golíat, Filisti frá Gat - úr fylkingum Filistanna og mælti sömu orðum sem fyrr, og Davíð hlýddi á. 24En er Ísraelsmenn sáu manninn, hörfuðu þeir allir undan honum og voru mjög hræddir. 25Og einn Ísraelsmanna sagði: "Hafið þér séð manninn, sem kemur þarna? Hann kemur til þess að smána Ísrael. Hverjum þeim, sem fellir hann, vill konungurinn veita mikil auðæfi og gefa honum dóttur sína og gjöra ætt hans skattfrjálsa í Ísrael."

26Þá sagði Davíð við þá, sem næstir honum stóðu: "Hverju verður þeim manni umbunað, sem fellir Filista þennan og rekur svívirðing af Ísrael? Því að hver er þessi óumskorni Filisti, er dirfist að smána herfylkingar lifanda Guðs?" 27Og fólkið talaði til hans þessum sömu orðum: "Þessu verður þeim umbunað, sem fellir hann."

28En er Elíab, elsti bróðir hans, heyrði, hvað hann talaði við mennina, þá reiddist hann Davíð og mælti: "Til hvers ert þú hingað kominn, og hjá hverjum skildir þú eftir þessa fáu sauði í eyðimörkinni? Ég þekki ofdirfsku þína og vonsku hjarta þíns: Þú ert hingað kominn til þess að horfa á bardagann."

29Davíð svaraði: "Nú, hvað hefi ég þá gjört? Var mér ekki frjálst að spyrja?" 30Og hann sneri sér frá honum og til annars og mælti á sömu leið, og fólkið svaraði honum hinu sama sem hið fyrra skiptið.

31En er það spurðist, sem Davíð hafði sagt, þá sögðu menn Sál frá því, og lét hann þá sækja hann.


Davíð og Golíat

32Davíð sagði við Sál: "Enginn láti hugfallast! Þjónn þinn mun fara og berjast við Filista þennan."

33Sál sagði við Davíð: "Þú ert ekki fær um að fara móti Filista þessum og berjast við hann, því að þú ert ungmenni, en hann hefir verið bardagamaður frá barnæsku sinni."

34Davíð sagði við Sál: "Þjónn þinn gætti sauða hjá föður sínum. Ef þá kom ljón eða björn og tók kind úr hjörðinni, 35þá hljóp ég á eftir honum og felldi hann og reif kindina úr gini hans, en ef hann réðst í móti mér, þreif ég í kampa hans og laust hann til bana. 36Bæði ljón og björn hefir þjónn þinn drepið, og þessum óumskorna Filista skal reiða af eins og þeim, því að hann hefir smánað herfylkingar lifanda Guðs." 37Og Davíð mælti: "Drottinn, sem frelsaði mig úr klóm ljónsins og úr klóm bjarnarins, hann mun frelsa mig af hendi þessa Filista."

Þá mælti Sál við Davíð: "Far þú þá, og Drottinn mun vera með þér." 38Og Sál færði Davíð í brynjukufl sinn og setti eirhjálm á höfuð honum og færði hann í brynju. 39Og Davíð gyrti sig sverði sínu utan yfir brynjukuflinn og fór að ganga, því að hann hafði aldrei reynt það áður. Þá sagði Davíð við Sál: "Ég get ekki gengið í þessu, því að ég hefi aldrei reynt það áður." Og þeir færðu Davíð úr þessu, 40en hann tók staf sinn í hönd sér og valdi sér fimm hála steina úr gilinu og lét þá í smalatöskuna, sem hann hafði með sér, í skreppuna, og tók sér slöngvu í hönd og gekk á móti Filistanum.

41Filistinn gekk nær og nær Davíð, og maðurinn, sem bar skjöld hans, gekk á undan honum. 42En er Filistinn leit til og sá Davíð, fyrirleit hann hann, af því að hann var ungmenni og rauðleitur og fríður sýnum. 43Og Filistinn sagði við Davíð: "Er ég þá hundur, að þú kemur með staf á móti mér?" Og Filistinn formælti Davíð við guð sinn. 44Og Filistinn mælti við Davíð: "Kom þú til mín, svo að ég gefi fuglum loftsins og dýrum merkurinnar hold þitt."

45Davíð sagði við Filistann: "Þú kemur á móti mér með sverð og lensu og spjót, en ég kem á móti þér í nafni Drottins allsherjar, Guðs herfylkinga Ísraels, sem þú hefir smánað. 46Í dag mun Drottinn gefa þig í mínar hendur, og ég mun leggja þig að velli og höggva af þér höfuðið, og hræ þitt og hræin af her Filista mun ég í dag gefa fuglum loftsins og dýrum merkurinnar, svo að öll jörðin viðurkenni, að Guð er í Ísrael, 47og til þess að allur þessi mannsafnaður komist að raun um, að Drottinn veitir ekki sigur með sverði og spjóti, því að bardaginn er Drottins, og hann mun gefa yður í vorar hendur."

48Og er Filistinn fór af stað og gekk fram og fór í móti Davíð, þá flýtti Davíð sér og hljóp að fylkingunni í móti Filistanum. 49Og Davíð stakk hendi sinni ofan í smalatöskuna og tók úr henni stein og slöngvaði og hæfði Filistann í ennið, og steinninn festist í enni hans, og féll hann á grúfu til jarðar. 50Þannig sigraði Davíð Filistann með slöngvu og steini og felldi hann og drap hann, og þó hafði Davíð ekkert sverð í hendi. 51Þá hljóp Davíð að og gekk til Filistans, tók sverð hans og dró það úr slíðrum og drap hann og hjó af honum höfuðið með því.

En er Filistar sáu, að kappi þeirra var dauður, lögðu þeir á flótta. 52En Ísraelsmenn og Júdamenn lögðu af stað og æptu heróp og eltu Filista allt til Gat og að borgarhliði Ekron, svo að Filistar lágu vegnir jafnvel á veginum, sem lá inn um borgarhliðið bæði í Gat og Ekron. 53Og Ísraelsmenn sneru aftur og hættu að elta Filista og rændu herbúðir þeirra. 54En Davíð tók höfuð Filistans og hafði með sér til Jerúsalem, en vopn hans lagði hann í tjald sitt.


Jónatan og Davíð gjöra sáttmála

55Þegar Sál sá Davíð fara móti Filistanum, mælti hann við Abner hershöfðingja: "Abner, hvers son er sveinn þessi?"

Abner svaraði: "Svo sannarlega sem þú lifir, konungur, veit ég það ekki."

56Konungurinn mælti: "Spyr þú að, hvers sonur þetta ungmenni sé."

57Og er Davíð sneri aftur og hafði lagt Filistann að velli, þá tók Abner hann og leiddi hann fyrir Sál, en hann hélt á höfði Filistans í hendi sér. 58Og Sál sagði við hann: "Hvers son ert þú, sveinn?"

Davíð svaraði: "Sonur þjóns þíns Ísaí Betlehemíta."

18
1Þegar Davíð hafði endað tal sitt við Sál, þá lagði Jónatan ást mikla við Davíð og unni honum sem lífi sínu. 2Og Sál tók Davíð að sér upp frá þeim degi og leyfði honum ekki að fara heim aftur til föður síns. 3Og Jónatan gjörði fóstbræðralag við Davíð, af því að hann unni honum sem lífi sínu. 4Og Jónatan fór úr skikkju sinni, sem hann var í, og gaf Davíð hana, svo og brynjukufl sinn og jafnvel sverð sitt, boga sinn og belti. 5Og Davíð fór í leiðangra. Var hann giftudrjúgur, hvert sem Sál sendi hann. Setti Sál hann því yfir hermennina. Og hann var vel þokkaður af öllum lýð og einnig þjónum Sáls.


Sál öfundast við Davíð

6Þegar þeir komu heim, þá er Davíð hafði lagt Filistann að velli, þá gengu konur úr öllum borgum Ísraels syngjandi og dansandi út í móti Sál konungi, með bumbum, strengleik og mikilli gleði. 7Og konurnar stigu dansinn, hófu upp söng og mæltu:

Sál felldi sín þúsund,
en Davíð sín tíu þúsund.

8Þá varð Sál reiður mjög, og honum mislíkuðu þessi orð og hann sagði: "Davíð hafa þær gefið tíu þúsundin, en mér hafa þær gefið þúsundin. Nú vantar hann ekki nema konungdóminn!" 9Og Sál leit Davíð öfundarauga ávallt upp frá því.

10Daginn eftir kom illur andi frá Guði yfir Sál, og æði greip hann inni í húsinu, en Davíð var að leika hörpuna hendi sinni, eins og hann var vanur að gjöra á degi hverjum, og Sál hafði spjót í hendi. 11Þá reiddi Sál spjótið og hugsaði með sér: "Ég skal reka það gegnum Davíð og inn í vegginn." En Davíð skaut sér tvívegis undan.

12Sál var hræddur við Davíð, því að Drottinn var með honum, en var vikinn frá Sál. 13Fyrir því lét Sál hann frá sér og gjörði hann að hersveitarforingja. Var hann nú fyrir liðinu bæði þegar það fór og kom. 14En Davíð var giftudrjúgur í öllu, sem hann tók sér fyrir hendur, af því að Drottinn var með honum. 15Og er Sál sá, að hann var giftusamur mjög, tók honum að standa uggur af honum. 16En allur Ísrael og Júda elskaði Davíð, því að hann gekk jafnan þeirra fremstur.


Davíð mægist við konung

17Sál sagði við Davíð: "Sjá, ég vil gefa þér Merab, eldri dóttur mína, fyrir konu. En þú verður að reynast mér hraustur maður og þú verður að heyja bardaga Drottins!" En Sál hugsaði með sér: "Ég skal ekki leggja hönd á hann, en Filistar skulu leggja hönd á hann."

18Davíð sagði við Sál: "Hver er ég og hvert er kyn mitt, ætt föður míns í Ísrael, að ég skuli verða tengdasonur konungsins?" 19En er sá tími kom, að gifta skyldi Davíð Merab, dóttur Sáls, þá var hún gefin Adríel frá Mehóla fyrir konu.

20En Míkal, dóttir Sáls, elskaði Davíð. Og Sál var sagt frá því, og honum líkaði það vel. 21Þá hugsaði Sál með sér: "Ég vil gefa honum hana, svo að hún verði honum að tálsnöru og Filistar leggi hönd á hann." Og Sál sagði í annað sinn við Davíð: "Þú skalt verða tengdasonur minn í dag." 22Og Sál bauð þjónum sínum: "Talið leynilega við Davíð og segið: ,Sjá, konungur hefir mætur á þér, og allir þjónar hans elska þig, og því skalt þú mægjast við konung.'"

23Þjónar Sáls töluðu þessi orð í eyru Davíðs. En Davíð sagði: "Sýnist yður það lítils um vert að mægjast við konung, þar sem ég er maður fátækur og lítilsháttar?"

24Þjónar Sáls báru honum þetta og sögðu: "Slíkum orðum hefir Davíð mælt." 25Þá sagði Sál: "Mælið svo við Davíð: ,Eigi girnist konungur annan mund en hundrað yfirhúðir Filista til þess að hefna sín á óvinum konungs.'" En Sál hugsaði sér að láta Davíð falla fyrir hendi Filista. 26Og þjónar hans báru Davíð þessi orð, og Davíð líkaði það vel að eiga að mægjast við konung. En tíminn var enn ekki liðinn, 27er Davíð tók sig upp og lagði af stað með menn sína og drap hundrað manns meðal Filista. Og Davíð fór með yfirhúðir þeirra og lagði þær allar með tölu fyrir konung, til þess að hann næði mægðum við konung. Þá gaf Sál honum Míkal dóttur sína fyrir konu.

28Sál sá það æ betur og betur, að Drottinn var með Davíð og að allur Ísrael elskaði hann. 29Þá varð Sál enn miklu hræddari við Davíð. Varð Sál nú óvinur Davíðs alla ævi.

30Og höfðingjar Filistanna fóru í leiðangur. En í hvert skipti, sem þeir fóru í leiðangur, varð Davíð giftudrýgri en allir þjónar Sáls, svo að nafn hans varð víðfrægt.


Jónatan og Míkal taka málstað Davíðs

19
1Sál talaði við Jónatan son sinn og við alla þjóna sína um að drepa Davíð. En Jónatan, sonur Sáls, hafði miklar mætur á Davíð. 2Fyrir því sagði Jónatan Davíð frá þessu og mælti: "Sál faðir minn situr um að drepa þig. Ver því var um þig á morgun snemma og fel þig og ver þú kyrr í því leyni. 3En ég ætla sjálfur að fara út og nema staðar við hlið föður míns á mörkinni, þar sem þú ert, og ég ætla að tala um þig við föður minn; og ef ég verð nokkurs vísari, mun ég segja þér það."

4Jónatan talaði vel um Davíð við Sál föður sinn og sagði við hann: "Syndgast þú ekki, konungur, á Davíð þjóni þínum, því að hann hefir ekki syndgað á móti þér og verk hans hafa verið þér mjög gagnleg. 5Hann lagði líf sitt í hættu og felldi Filistann, og þannig veitti Drottinn öllum Ísrael mikinn sigur. Þú sást það og gladdist. Hvers vegna vilt þú syndgast á saklausu blóði með því að deyða Davíð án saka?"

6Sál skipaðist við orð Jónatans og sór: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir, þá skal hann ekki verða drepinn." 7Þá kallaði Jónatan á Davíð og tjáði honum öll þessi orð. Síðan leiddi Jónatan Davíð til Sáls, og hann var hjá honum sem áður.

8Er ófriður hófst að nýju, fór Davíð og barðist við Filista og felldi mikinn fjölda af þeim, svo að þeir flýðu fyrir honum.

9Þá kom illur andi frá Drottni yfir Sál; en hann sat í húsi sínu og hafði spjót í hendi sér, og Davíð lék hörpuna hendi sinni. 10Þá reyndi Sál að reka Davíð í gegn með spjótinu upp við vegginn, en hann skaut sér undan Sál, svo að hann rak spjótið inn í vegginn. Og Davíð flýði og komst undan.

11Hina sömu nótt sendi Sál sendimenn í hús Davíðs til þess að hafa gætur á honum, svo að hann fengi drepið hann um morguninn. En Míkal, kona hans, sagði Davíð frá og mælti: "Ef þú forðar ekki lífi þínu í nótt, þá verður þú drepinn á morgun." 12Þá lét Míkal Davíð síga niður út um gluggann, og hann fór og flýði og komst undan. 13Síðan tók Míkal húsgoðið og lagði í rúmið, og hún lagði blæju úr geitarhári yfir höfðalagið og breiddi ábreiðu yfir. 14Og þegar Sál sendi menn til þess að sækja Davíð, þá sagði hún: "Hann er sjúkur." 15Þá sendi Sál mennina aftur til að vitja um Davíð og sagði: "Færið mér hann í rúminu, til þess að ég geti drepið hann." 16En er sendimennirnir komu, sjá, þá lá húsgoðið í rúminu og geitarhársblæjan yfir höfðalaginu. 17Þá sagði Sál við Míkal: "Hví hefir þú svikið mig svo og látið óvin minn í burt fara, svo að hann hefir komist undan?"

Míkal sagði við Sál: "Hann sagði við mig: ,Lát mig komast burt, ella mun ég drepa þig!'"


Sál og Davíð meðal spámanna

18Davíð flýði og komst undan og kom til Samúels í Rama og sagði honum frá öllu, sem Sál hafði gjört honum. Og hann fór með Samúel og þeir bjuggu í Najót. 19Nú var Sál sagt svo frá: "Sjá, Davíð er í Najót í Rama!" 20Sendi Sál þá menn til að sækja Davíð. En er þeir sáu hóp spámanna, sem voru í spámannlegum guðmóði, og Samúel standa þar sem foringja þeirra, þá kom Guðs andi yfir sendimenn Sáls, svo að þeir komust einnig í spámannlegan guðmóð. 21Og menn sögðu Sál frá þessu, og hann sendi aðra menn, en þeir komust einnig í spámannlegan guðmóð. Þá sendi Sál enn menn hið þriðja sinn, en þeir komust einnig í spámannlegan guðmóð. 22Þá fór hann sjálfur til Rama. Og er hann kom að vatnsþrónni miklu í Sekó, þá spurði hann og mælti: "Hvar eru þeir Samúel og Davíð?" Og menn sögðu: "Þeir eru í Najót í Rama." 23En er hann fór þaðan til Najót í Rama, þá kom og Guðs andi yfir hann, og var hann stöðugt í spámannlegum guðmóði alla leiðina til Najót í Rama. 24Þá fór hann einnig af klæðum sínum, og hann var líka í spámannlegum guðmóði frammi fyrir Samúel og lá þar nakinn allan þennan dag og alla nóttina. Fyrir því segja menn: "Er og Sál meðal spámannanna?"


Jónatan og Davíð staðfesta sáttmálann

20
1Davíð flýði frá Najót í Rama og kom til Jónatans og sagði: "Hvað hefi ég gjört? Í hverju hefi ég misgjört og í hverju hefi ég syndgað á móti föður þínum, fyrst hann situr um líf mitt?"

2Jónatan sagði við hann: "Það skal aldrei verða! Þú munt eigi lífi týna. Sjá, faðir minn gjörir ekkert, hvorki stórt né smátt, að hann láti mig eigi vita það. Og hví skyldi faðir minn þá leyna mig þessu? Nei, slíkt á sér ekki stað."

3Davíð svaraði aftur og mælti: "Faðir þinn veit það vel, að þér þykir vænt um mig, og hugsar með sér: ,Jónatan má eigi vita þetta, það kynni að fá honum hryggðar.' En svo sannarlega sem Drottinn lifir og þú lifir: Milli mín og dauðans er aðeins eitt fótmál."

4Jónatan sagði við Davíð: "Hvað sem þú biður um mun ég fyrir þig gjöra."

5Þá sagði Davíð við Jónatan: "Sjá, á morgun er tunglkomudagur, og ég get ekki með neinu móti setið til borðs með konunginum. Leyf mér því að fara burt, svo að ég geti falið mig úti á víðavangi til kvelds. 6Ef nú faðir þinn saknar mín, þá skalt þú segja: ,Davíð beiddist leyfis af mér að mega bregða sér til Betlehem, föðurborgar sinnar, því að ársfórn allrar ættarinnar fer þar fram.' 7Ef hann þá segir: ,Það er gott!' þá er þjóni þínum óhætt, en verði hann reiður, þá vit, að hann hefir illt af ráðið. 8Auðsýn nú þjóni þínum kærleika, úr því að þú hefir látið þjón þinn ganga í Drottins-fóstbræðralag við þig. En hafi ég misgjört, þá drep þú mig sjálfur. Hví skyldir þú fara með mig til föður þíns?"

9Jónatan mælti: "Lát þér eigi koma það til hugar! Ef ég yrði þess áskynja, að faðir minn hafi illt af ráðið gegn þér, mundi ég þá ekki segja þér frá því?"

10Davíð sagði við Jónatan: "Hver lætur mig nú vita, hvort faðir þinn svarar þér illu til?"

11Jónatan sagði við Davíð: "Kom þú, við skulum ganga út á víðavang." Og þeir gengu báðir út á víðavang. 12En Jónatan sagði við Davíð: "Drottinn, Ísraels Guð, veri vitni: Þegar ég á morgun um þetta leyti hefi komist eftir, hvað föður mínum býr í skapi, og ég sé að þér er óhætt, mun ég senda til þín og láta þig vita. 13Drottinn láti mig gjalda þess nú og síðar, ef faðir minn hefir illt í huga gegn þér, og ég læt þig ekki vita það. Ég leyfi þér að fara, svo að þú megir fara óhultur. Drottinn mun vera með þér, eins og hann hefir verið með föður mínum. 14Og vilt þú ekki, verði ég þá enn á lífi, auðsýna mér miskunn Drottins, svo að ég týni eigi lífi? 15Og svipt hús mitt aldrei miskunn þinni, og þegar Drottinn upprætir alla óvini Davíðs af jörðinni, 16þá skal nafn Jónatans eigi verða slitið frá húsi Davíðs. Drottinn hefni Davíðs á óvinum hans!"

17Jónatan vann Davíð enn eið við ást þá, er hann bar til hans, því að hann unni honum hugástum. 18Og Jónatan sagði við hann: "Á morgun er tunglkomudagur. Þá verður þín saknað, því að sæti þitt mun verða autt. 19En á þriðja degi mun þín mjög verða saknað. Þá skalt þú fara til þess staðar, þar sem þú fólst þig fyrri daginn, og sestu hjá þeim hól. 20Ég mun þá á þriðja degi skjóta örvum í hólinn, eins og ég væri að skjóta til marks. 21Og sjá, ég mun senda sveininn og segja: ,Farðu og sæktu örina.' Ef ég nú kalla til sveinsins: ,Sjá, örin liggur hérnamegin við þig, kom þú með hana!' þá skalt þú koma heim, því að þá er þér óhætt og ekkert er að, svo sannarlega sem Drottinn lifir. 22En ef ég kalla svo til piltsins: ,Örin liggur hinumegin við þig!' þá far þú, því að Drottinn hefir þá sent þig burt. 23En viðvíkjandi því, sem við höfum talað, ég og þú, þá er Drottinn vitni milli mín og þín að eilífu." 24Þá fól Davíð sig úti á víðavangi.


Sál vill Davíð feigan

Er tunglkomudagurinn kom, settist konungur undir borð að máltíð. 25Sat konungur í sæti sínu, eins og vant var, í sætinu við vegginn, en Jónatan sat gegnt honum, og Abner sat við hliðina á Sál. En sæti Davíðs var autt. 26Þó sagði Sál ekkert þann dag, því að hann hugsaði: "Það er tilviljun: hann er ekki hreinn. Hann hefir ekki látið hreinsa sig." 27En daginn eftir tunglkomuna var sæti Davíðs enn autt. Þá sagði Sál við Jónatan son sinn: "Hvers vegna hefir sonur Ísaí ekki komið til máltíðar, hvorki í gær né í dag?"

28Jónatan svaraði Sál: "Davíð beiddist þess af mér að mega fara til Betlehem. 29Hann sagði: ,Leyf mér að fara, því að vér ætlum að halda ættarfórn í borginni, og bræður mínir hafa beðið mig að koma, og hafi ég fundið náð í augum þínum, þá lofaðu mér að komast burt, svo að ég geti heimsótt bræður mína.' Fyrir því hefir hann ekki komið að konungsborði."

30Þá reiddist Sál Jónatan og sagði við hann: "Þú sonur þrjóskrar móður! Ætli ég viti ekki að þú ert vinur Ísaísonar, þér til skammar, og blygðun móður þinnar til skammar! 31Því að alla þá stund, sem Ísaísonur er lifandi á jörðinni, munt þú og konungdómur þinn eigi fastur standa. Send því nú og lát koma með hann til mín, því að hann er dauðamaður."

32Þá svaraði Jónatan Sál föður sínum og sagði við hann: "Hví skal deyða hann? Hvað hefir hann gjört?"

33Þá snaraði Sál að honum spjótinu og ætlaði að leggja hann í gegn. Sá Jónatan þá, að faðir hans hafði fastráðið að drepa Davíð. 34Og Jónatan stóð upp frá borðinu ævareiður og neytti ekki matar annan tunglkomudaginn, því að hann tók sárt til Davíðs, af því að faðir hans hafði smánað hann.


Jónatan bjargar Davíð

35Morguninn eftir gekk Jónatan út á víðavang á þeim tíma, er þeir Davíð höfðu til tekið, og var ungur sveinn með honum. 36Og hann sagði við svein sinn: "Hlauptu og sæktu örina, sem ég ætla að skjóta." Sveinninn hljóp af stað, en hann skaut örinni yfir hann fram. 37En er sveinninn kom þar að, er örin lá, sem Jónatan hafði skotið, þá kallaði Jónatan á eftir sveininum og sagði: "Örin liggur hinumegin við þig!" 38Og Jónatan kallaði enn á eftir sveininum: "Áfram, flýttu þér, stattu ekki kyrr!" Og sveinn Jónatans tók upp örina og færði húsbónda sínum. 39En sveinninn vissi ekki neitt. Þeir Jónatan og Davíð vissu einir, hvað þetta átti að þýða. 40Og Jónatan fékk sveini sínum vopn sín og sagði við hann: "Farðu með þau inn í borgina."

41Sveinninn fór nú heim, en Davíð reis upp undan hólnum, féll fram á ásjónu sína til jarðar og laut þrisvar sinnum, og þeir kysstu hvor annan og grétu hvor með öðrum, þó Davíð miklu meir. 42Og Jónatan sagði við Davíð: "Far þú í friði. En viðvíkjandi því, sem við báðir höfum unnið eið að í nafni Drottins, þá sé Drottinn vitni milli mín og þín, og milli minna niðja og þinna niðja að eilífu." Síðan hélt Davíð af stað og fór burt, en Jónatan gekk inn í borgina.


Davíð í helgidóminum í Nób

21
1Davíð kom til Nób, til Ahímeleks prests, en Ahímelek gekk skelkaður í móti Davíð og mælti til hans: "Hví ert þú einsamall og enginn maður með þér?"

2Davíð svaraði Ahímelek presti: "Konungur fól mér erindi nokkurt og sagði við mig: ,Enginn maður má vita neitt um erindi það, er ég sendi þig í og ég hefi falið þér.' Fyrir því hefi ég stefnt sveinunum á vissan stað. 3Og ef þú hefir nú fimm brauð hjá þér, þá gef mér þau, eða hvað sem fyrir hendi er."

4Prestur svaraði Davíð og sagði: "Ég hefi ekkert óheilagt brauð hjá mér, en heilagt brauð er til, - aðeins að sveinarnir hafi haldið sér frá konum."

5Davíð svaraði presti og mælti til hans: "Já, vissulega. Kvenna hefir oss verið varnað undanfarið. Þegar ég fór að heiman, voru ker sveinanna heilög. Að vísu er þetta ferðalag óheilagt, en nú verður allt helgað!"

6Þá gaf prestur honum heilagt brauð, því að þar var ekkert brauð, nema skoðunarbrauðin, sem tekin eru burt frá augliti Drottins, en volg brauð lögð í stað þeirra, þá er þau eru tekin. 7En þar var þennan dag einn af þjónum Sáls, inni byrgður fyrir augliti Drottins. Hann hét Dóeg og var Edómíti og yfirmaður hirða Sáls.

8Davíð sagði við Ahímelek: "Hefir þú ekki spjót eða sverð hér hjá þér? Því að ég tók hvorki sverð mitt né vopn mín með mér, svo bar bráðan að um konungs erindi."

9Þá sagði prestur: "Hér er sverð Golíats Filista, sem þú lagðir að velli í Eikidal, sveipað dúk á bak við hökulinn. Ef þú vilt hafa það, þá tak það, því að hér er ekkert annað en það."

Davíð sagði: "Það er sverða best, fá mér það."


Davíð í Filistaborginni Gat

10Síðan tók Davíð sig upp og flýði þennan sama dag fyrir Sál, og kom til Akís konungs í Gat. 11Og þjónar Akís sögðu við hann: "Er þetta ekki Davíð, konungur landsins? Var það ekki um hann, að sungið var við dansinn:

Sál felldi sín þúsund
og Davíð sín tíu þúsund?"

12Davíð festi þessi orð í huga og var mjög hræddur við Akís konung í Gat. 13Fyrir því gjörði hann sér upp vitfirringu fyrir augum þeirra og lét sem óður maður innan um þá, sló á vængjahurðir hliðsins sem á bumbu og lét slefuna renna ofan í skeggið. 14Þá sagði Akís við þjóna sína: "Þér sjáið að maðurinn er vitstola. Hví komið þér með hann til mín? 15Hefi ég ekki nóg af vitfirringum, úr því að þér hafið komið með þennan til að ærast frammi fyrir mér? Hvað á hann að gjöra í mitt hús?"


Davíð stofnar útlagasveit

22
1Davíð fór þaðan og komst undan í Adúllamhelli. Og er bræður hans og allt hús föður hans fréttu það, komu þeir þangað til hans. 2Og allir nauðstaddir menn söfnuðust til hans og allir þeir, sem komnir voru í skuldir, svo og allir þeir, er óánægðir voru, og gjörðist hann höfðingi þeirra. Voru nú með honum um fjögur hundruð manns.

3Davíð fór þaðan til Mispe í Móab og sagði við Móabskonung: "Leyf föður mínum og móður minni að vera hér hjá yður, uns ég fæ að vita, hvað Guð gjörir við mig." 4Síðan skildi hann þau eftir hjá Móabskonungi, og þau voru hjá honum meðan Davíð var í virkinu.

5Og Gað spámaður sagði við Davíð: "Þú skalt ekki vera kyrr í virkinu. Haf þig á braut og far til Júda." Þá fór Davíð af stað og kom í Heretskóg.


Sál lætur drepa prestana í Nób

6Nú fréttir Sál, að Davíð sé fundinn og þeir menn, sem með honum voru.

Sál sat í Gíbeu undir tamarisktrénu á hæðinni og hafði spjót í hendi, og allir þjónar hans stóðu umhverfis hann. 7Þá mælti Sál við þjóna sína, sem stóðu umhverfis hann: "Heyrið, þér Benjamínítar! Ætli Ísaísonur gefi yður öllum akra og víngarða og gjöri yður alla að hersveitarforingjum og hundraðshöfðingjum? 8Þér hafið allir gjört samsæri á móti mér, og enginn sagði mér frá því, þegar sonur minn gjörði bandalag við Ísaíson, og enginn yðar hefir kennt í brjósti um mig og sagt mér frá því, að sonur minn hefir eflt þegn minn til fjandskapar í móti mér, eins og nú er fram komið."

9Þá tók Dóeg Edómíti til máls, - en hann stóð hjá þjónum Sáls - og mælti: "Ég sá Ísaíson koma til Nób, til Ahímeleks Ahítúbssonar, 10og gekk hann til frétta við Drottin fyrir hann. Hann gaf honum og vistir, og sverð Golíats Filista fékk hann honum."

11Þá sendi konungur eftir Ahímelek presti Ahítúbssyni og öllu frændliði hans, prestunum í Nób, og þeir komu allir á konungs fund. 12Þá mælti Sál: "Heyr þú, Ahítúbsson!"

Hann svaraði: "Hér er ég, herra minn!"

13Sál mælti til hans: "Hví hafið þið gjört samsæri í móti mér, þú og Ísaíson, þar sem þú fékkst honum brauð og sverð og gekkst til frétta við Guð fyrir hann, svo að hann gæti risið til fjandskapar í gegn mér, eins og nú er fram komið?"

14Ahímelek svaraði konungi og mælti: "Hver er svo trúr sem Davíð meðal allra þjóna þinna, tengdasonur konungsins, foringi lífvarðar þíns og mikils metinn í húsi þínu? 15Er þetta þá í fyrsta sinni, sem ég geng til frétta við Guð fyrir hann? Fjarri fer því. Konungur má eigi gefa þjóni sínum og öllu frændliði mínu sök á þessu, því að þjónn þinn vissi alls ekki neitt um þetta."

16En konungur mælti: "Þú skalt lífið láta, Ahímelek, þú og allt frændlið þitt." 17Og konungur mælti til varðmannanna, sem hjá honum stóðu: "Komið hingað og deyðið presta Drottins, því að einnig þeir hafa hjálpað Davíð. Og þótt þeir vissu, að hann var að flýja, þá létu þeir mig ekki vita það." En þjónar konungs vildu ekki leggja hendur á presta Drottins. 18Þá sagði konungur við Dóeg: "Kom þú hingað og drep þú prestana." Og Dóeg Edómíti gekk þangað, og hann drap prestana og deyddi á þeim degi áttatíu og fimm menn, sem báru línhökul. 19Og Nób, borg prestanna, eyddi hann með sverðseggjum; bæði karla og konur, börn og brjóstmylkinga, uxa, asna og sauði felldi hann með sverðseggjum.

20Aðeins einn af sonum Ahímeleks Ahítúbssonar komst undan. Hann hét Abjatar og flýði til Davíðs og gekk í sveit með honum. 21Og Abjatar sagði Davíð frá, að Sál hefði myrt presta Drottins. 22Davíð sagði við Abjatar: "Ég vissi það þá þegar, úr því að Dóeg Edómíti var þar, að hann mundi segja Sál frá því. Ég á sök á lífláti allra ættmenna þinna. 23Vertu hjá mér og óttast ekki, því að sá sem leitar eftir mínu lífi, leitar eftir þínu lífi. Hjá mér er þér óhætt."


Davíð frelsar borg í Júda

23
1Menn fluttu Davíð þessi tíðindi: "Sjá, Filistar herja á Kegílu og ræna kornláfana." 2Þá gekk Davíð til frétta við Drottin og sagði: "Á ég að fara og herja á þessa Filista?"

Drottinn sagði við Davíð: "Far þú og herja á Filistana og frelsaðu Kegílu."

3En menn Davíðs sögðu við hann: "Sjá, vér erum hræddir um oss hér í Júda, hvað mun þá, ef vér förum til Kegílu á móti herfylkingum Filista?"

4Þá gekk Davíð enn til frétta við Drottin, og Drottinn svaraði honum og sagði: "Tak þig upp og far til Kegílu, því að ég mun gefa Filista í hendur þér." 5Síðan fór Davíð og menn hans til Kegílu, og hann herjaði á Filista, rak fénað þeirra burt og lagði fjölda þeirra að velli. Þannig frelsaði Davíð þá, sem bjuggu í Kegílu.

6Þegar Abjatar Ahímeleksson flýði til Davíðs, þá hafði hann með sér hökul.

7Sál var sagt frá því, að Davíð væri kominn til Kegílu. Þá mælti Sál: "Guð hefir selt hann mér á vald, því að hann hefir sjálfur byrgt sig inni með því að fara inn í borg með hliðum og slagbröndum." 8Og Sál stefndi öllum lýðnum saman til hernaðar til þess að fara til Kegílu og gjöra umsát um Davíð og menn hans.

9Þegar Davíð frétti, að Sál sæti á svikráðum við sig, sagði hann við Abjatar prest: "Kom þú hingað með hökulinn." 10Og Davíð mælti: "Drottinn, Ísraels Guð! Þjónn þinn hefir sannspurt, að Sál ætli sér að koma til Kegílu til þess að eyða borgina mín vegna. 11Hvort munu Kegílubúar framselja mig í hendur honum? Mun Sál koma hingað, eins og þjónn þinn hefir spurt? Drottinn, Ísraels Guð! Gjör það kunnugt þjóni þínum."

Drottinn svaraði: "Já, hann mun koma."

12Þá mælti Davíð: "Hvort munu Kegílubúar framselja mig og menn mína í hendur Sál?"

Drottinn svaraði: "Já, það munu þeir gjöra."

13Þá tók Davíð sig upp og hans menn, um sex hundruð manns, og þeir lögðu af stað frá Kegílu og sveimuðu víðsvegar. En er Sál frétti, að Davíð hefði forðað sér burt frá Kegílu, þá hætti hann við herförina.


Sál eltir Davíð í Júdaóbyggðum

14Davíð hafðist við í eyðimörkinni uppi í fjallvígjum, og hann hafðist við á fjöllunum í Sífeyðimörku. Og Sál leitaði hans alla daga, en Guð gaf hann ekki í hendur honum. 15Davíð varð hræddur, þegar Sál lagði af stað til þess að sækjast eftir lífi hans.

Davíð var þá í Hóres í Sífeyðimörku. 16Og Jónatan, sonur Sáls, tók sig upp og fór á fund Davíðs í Hóres og hughreysti hann í nafni Guðs 17og sagði við hann: "Óttast þú ekki, því að Sál faðir minn mun eigi hendur á þér festa, en þú munt verða konungur yfir Ísrael, og mun ég þá ganga þér næstur. Sál faðir minn veit og þetta." 18Og þeir gjörðu báðir sáttmála fyrir augliti Drottins. Og Davíð var kyrr í Hóres, en Jónatan fór heim til sín.

19Þá komu Sífítar til Sáls í Gíbeu og sögðu: "Veistu að Davíð felur sig hjá oss í fjallvígjunum í Hóres, í Hahakílahæðunum, sunnarlega í Júdaóbyggðum? 20Og ef þig nú fýsir, konungur, að koma þangað, þá kom þú. Vort hlutverk verður það þá að framselja hann í hendur konungi."

21Sál mælti: "Blessaðir séuð þér af Drottni, fyrir það að þér kennduð í brjósti um mig. 22Farið nú og takið enn vel eftir og kynnið yður og komist sem fyrst að raun um, hvar hann heldur sig, því að mér hefir verið sagt, að hann sé slægur mjög. 23Og njósnið nú og kynnið yður öll þau fylgsni, er hann kann að felast í, og færið mér síðan örugga fregn af, og mun ég þá með yður fara. Og ef hann er í landinu, þá skal ég leita hann uppi meðal allra Júda þúsunda." 24Þá tóku þeir sig upp og fóru á undan Sál til Síf.

Davíð var þá með mönnum sínum í Maoneyðimörk, á sléttlendinu syðst í Júdaóbyggðum. 25Og Sál fór að leita hans með mönnum sínum. Sögðu menn Davíð frá því, og fór hann þá niður að hamrinum, sem er í Maoneyðimörk. Og er Sál heyrði það, veitti hann Davíð eftirför inn í Maoneyðimörk. 26Sál og menn hans fóru öðrumegin við fjallið, en Davíð og hans menn hinumegin við það. Davíð flýtti sér nú í angist að komast undan Sál, en Sál og menn hans voru að því komnir að umkringja Davíð og menn hans og taka þá höndum. 27En þá kom sendimaður til Sáls og mælti: "Kom þú nú skjótt, því að Filistar hafa brotist inn í landið." 28Þá hvarf Sál aftur og lét af að elta Davíð, en sneri í móti Filistum. Fyrir því var sá staður nefndur Aðskilnaðarklettur.


Davíð þyrmir lífi Sáls

24
1Davíð fór þaðan og hafðist við uppi í fjallvígjum við Engedí. 2Og þegar Sál kom aftur úr herförinni móti Filistum, báru menn honum tíðindi og sögðu: "Sjá, Davíð er í Engedí-eyðimörk." 3Þá tók Sál þrjár þúsundir manns, einvalalið úr öllum Ísrael, og lagði af stað til að leita Davíðs og hans manna austan í Steingeitahömrum. 4Og hann kom að fjárbyrgjunum við veginn. Þar var hellir, og gekk Sál inn í hann erinda sinna. En Davíð og hans menn höfðu lagst fyrir innst í hellinum. 5Þá sögðu menn Davíðs við hann: "Nú er dagurinn kominn, sá er Drottinn talaði um við þig: ,Sjá, ég mun gefa óvin þinn í hendur þér, svo að þú getir við hann gjört það, er þér vel líkar.'" Og Davíð stóð upp og sneið leynilega lafið af skikkju Sáls. 6En eftir á sló samviskan Davíð, að hann hafði sniðið lafið af skikkju Sáls. 7Og hann sagði við menn sína: "Drottinn láti það vera fjarri mér, að ég gjöri slíkt við herra minn, Drottins smurða, að ég leggi hönd á hann, því að Drottins smurði er hann." 8Og Davíð átaldi menn sína harðlega og leyfði þeim ekki að ráðast á Sál.

Sál stóð upp og gekk út úr hellinum og fór leiðar sinnar. 9Þá reis Davíð upp og gekk út úr hellinum og kallaði á eftir Sál: "Minn herra konungur!" Þá leit Sál aftur, en Davíð hneigði andlit sitt til jarðar og laut honum. 10Og Davíð sagði við Sál: "Hví hlýðir þú á tal þeirra manna, sem segja: ,Sjá, Davíð situr um að vinna þér mein'? 11Sjá, nú hefir þú sjálfur séð, hversu Drottinn gaf þig í mínar hendur í dag í hellinum. Og menn eggjuðu mig á að drepa þig, en ég þyrmdi þér og hugsaði með mér: ,Ég skal eigi leggja hendur á herra minn, því að Drottins smurði er hann.' 12En líttu á, faðir, já líttu á lafið af skikkju þinni í hendi mér. Af því, að ég sneið lafið af skikkju þinni og drap þig ekki - af því mátt þú skynja og skilja, að ég bý eigi yfir illsku og svikum og að ég hefi eigi syndgað á móti þér. En þú situr um að ráða mig af dögum. 13Drottinn dæmi milli mín og þín, og Drottinn hefni mín á þér, en hendur legg ég ekki á þig. 14Eins og gamalt máltæki segir: ,Ills er af illum von,' en hendur legg ég ekki á þig. 15Hvern eltir Ísraelskonungur? Hvern ofsækir þú? Dauðan hund, eina fló! 16Drottinn sé dómari og dæmi okkar í milli og sjái til og flytji mál mitt og reki réttar míns í hendur þér."

17Þegar Davíð hafði mælt þessum orðum til Sáls, þá kallaði Sál: "Er það ekki þín rödd, Davíð sonur minn?" og Sál tók að gráta hástöfum. 18Og hann mælti til Davíðs: "Þú ert réttlátari en ég, því að þú hefir gjört mér gott, en ég hefi gjört þér illt. 19Og þú hefir í dag aukið á það góða, sem þú hefir auðsýnt mér, þar sem Drottinn seldi mig í þínar hendur, en þú drapst mig ekki. 20Því að hitti einhver óvin sinn, mun hann þá láta hann fara leiðar sinnar í friði? En Drottinn mun umbuna þér þennan dag góðu, fyrir það sem þú gjörðir mér. 21Og sjá, nú veit ég, að þú munt konungur verða og að konungdómur Ísraels mun staðfestast í þinni hendi. 22Vinn mér því eið að því við Drottin, að þú skulir ekki uppræta niðja mína eftir mig og ekki afmá nafn mitt úr ætt minni." 23Og Davíð vann Sál eið að því.

Fór Sál því næst heim til sín, en Davíð og menn hans fóru upp í fjallvígið.


Dauði Samúels

25
1Samúel dó, og allur Ísrael safnaðist saman og syrgði hann, og var hann grafinn hjá húsi sínu í Rama.


Davíð og Abígail

Davíð tók sig upp og fór ofan í Maoneyðimörk. 2En í Maon var maður, er bú átti í Karmel. Hann var auðugur mjög og átti þrjú þúsund sauðfjár og eitt þúsund geitur. Hann var þá að klippa sauði sína í Karmel. 3Maður þessi hét Nabal og kona hans Abígail. Hún var kona vitur og fríð sýnum, en hann maður harður og illur viðureignar. Hann var af ætt Kalebs.

4Og Davíð frétti í eyðimörkinni, að Nabal væri að klippa sauði sína. 5Þá sendi Davíð tíu sveina. Og Davíð sagði við sveinana: "Farið til Karmel og gangið á fund Nabals og berið honum kveðju mína 6og mælið svo við bróður minn: Heill sért þú og heill sé húsi þínu og heill sé öllu, sem þú átt. 7Nú hefi ég heyrt, að verið sé að klippa sauði þína. Fjárhirðar þínir hafa með oss verið og vér höfum þeim ekkert mein gjört, enda hefir þeim einskis vant orðið allan þann tíma, er þeir hafa verið í Karmel. 8Spyr þú sveina þína, og munu þeir segja þér hið sanna. Lát því sveinana finna náð í augum þínum, því að á hátíðardegi erum vér komnir. Gef því þjónum þínum og Davíð syni þínum það, sem þú hefir fyrir hendi."

9Þegar sveinar Davíðs komu á fund Nabals, fluttu þeir honum öll þessi orð í nafni Davíðs og þögnuðu síðan. 10En Nabal svaraði þjónum Davíðs og mælti: "Hver er Davíð? Og hver er Ísaíson? Margir gjörast þeir nú þrælarnir, sem strjúka frá húsbændum sínum. 11Á ég að taka brauð mitt og vín og sláturfé mitt, sem ég hefi slátrað handa sauðaklippurum mínum, og gefa það mönnum, sem ég ekki einu sinni veit hvaðan eru?"

12Þá sneru sveinar Davíðs á leið og hurfu aftur og komu og fluttu honum öll þessi orð. 13Þá mælti Davíð til sinna manna: "Gyrðið yður nú, hver sínu sverði!" Og þeir gyrtu sig, hver sínu sverði. Síðan gyrtist og Davíð sínu sverði, og lögðu þeir nú af stað undir forystu Davíðs, um fjögur hundruð manns, en tvö hundruð urðu eftir hjá farangrinum.

14Einn af sveinum Nabals sagði Abígail, konu Nabals, frá þessu og mælti: "Sjá, Davíð gjörði sendimenn úr eyðimörkinni með kveðju til húsbónda vors, en hann jós yfir þá fáryrðum. 15Og menn þessir hafa þó verið mjög góðir við oss. Oss hefir ekkert mein verið gjört og oss hefir einskis vant orðið allan þann tíma, er vér héldum oss nálægt þeim, meðan vér vorum í haganum. 16Þeir voru sem varnargarður í kringum oss bæði um nætur og daga allan þann tíma, er vér héldum fénu til haga nálægt þeim. 17Hygg nú að og sjá til, hvað þú skalt gjöra, því að ógæfa er búin húsbónda vorum og öllu húsi hans, en hann er slíkt hrakmenni, að ekki má við hann mæla."

18Þá brá Abígail við og tók tvö hundruð brauð og tvo vínlegla, fimm tilreidda sauði og fimm mæla af bökuðu korni, hundrað rúsínukökur og tvö hundruð fíkjukökur og klyfjaði með asna 19og sagði við sveina sína: "Farið á undan mér, sjá, ég kem á eftir yður." En Nabal manni sínum sagði hún ekki frá þessu. 20Og er hún kom ríðandi á asna ofan fjallið og var í hvarfi, sjá, þá kom Davíð með menn sína ofan í móti henni, og rakst hún þar á þá. 21En Davíð hafði sagt: "Já, til einskis hefi ég varðveitt allt, sem sá maður átti á eyðimörkinni, svo að einskis varð vant af öllu, sem hann átti. Hann hefir launað mér gott með illu. 22Guð láti Davíð gjalda þess nú og síðar, ef ég læt eftir verða einn karlmann af öllu því, sem hann á, þegar birtir á morgun."

23En er Abígail sá Davíð, sté hún sem skjótast niður af asnanum og féll fram á ásjónu sína fyrir Davíð og laut til jarðar. 24Og hún féll honum til fóta og mælti: "Sökin hvílir á mér, herra minn! Leyf ambátt þinni að tala við þig og hlýð á orð ambáttar þinnar. 25Skeyt eigi, herra minn, um hrakmenni þetta, hann Nabal, því að hann ber nafn með réttu. Heimskingi heitir hann og heimskur er hann. En ég, ambátt þín, hefi ekki séð sveinana, er þú, herra minn, sendir. 26Og nú, herra minn, svo sannarlega sem Drottinn lifir, og svo sannarlega sem þú lifir og Drottinn hefir aftrað þér frá að úthella blóði og hefna þín sjálfur, þá verði nú óvinir þínir sem Nabal og allir þeir, sem sitja um að gjöra þér illt, herra! 27Og gáfu þessa, sem þerna þín hefir fært þér, herra minn, lát nú gefa hana sveinunum, sem eru í fylgd með þér, herra minn! 28Fyrirgef afbrot ambáttar þinnar, því að veita mun Drottinn herra mínum staðfast hús, af því að herra minn heyir bardaga Drottins, og illt mun ekki finnast í fari þínu meðan þú lifir. 29Og rísi einhver maður upp til þess að ofsækja þig og sitja um líf þitt, þá sé líf herra míns bundið í bundini lifandi manna hjá Drottni, Guði þínum, en lífi óvina þinna þeyti hann burt úr slöngvunni. 30Og þegar Drottinn veitir þér, herra minn, öll þau gæði, er hann hefir þér heitið, og hefir skipað þig höfðingja yfir Ísrael, 31þá mun það ekki verða þér til ásteytingar né herra mínum að samviskubiti, að herra minn hafi úthellt blóði að orsakalausu og hefnt sín sjálfur. En þegar Drottinn gjörir vel við þig, herra minn, þá minnstu ambáttar þinnar."

32Þá mælti Davíð til Abígail: "Lofaður veri Drottinn, Ísraels Guð, sem sendi þig í dag á minn fund. 33Og blessuð séu hyggindi þín og blessuð sért þú sjálf, sem aftrað hefir mér í dag frá að baka mér blóðskuld og að hefna mín sjálfur. 34En svo sannarlega sem Drottinn, Ísraels Guð, lifir, sem varðveitt hefir mig frá að gjöra þér illt, hefðir þú eigi hraðað þér svo á minn fund, þá myndi eigi nokkur af mönnum Nabals hafa beðið morguns ódrepinn." 35Og Davíð tók við því af henni, sem hún færði honum, og sagði við hana: "Far þú í friði heim til þín. Sjá, ég hefi hlýtt á mál þitt og veitt þér bæn þína."

36Þegar Abígail kom til Nabals, þá hafði hann veislu í húsi sínu, sem konungsveisla væri. Var Nabal hinn kátasti og drukkinn mjög. Sagði hún honum ekkert, hvorki smátt né stórt, fyrr en birti morguninn eftir. 37En um morguninn, þá er víman var runnin af Nabal, sagði kona hans honum öll þessi tíðindi. Þá dó hjartað í brjósti honum og hann varð sem steinn. 38Og að eitthvað tíu dögum liðnum laust Drottinn Nabal, svo að hann dó.

39Þegar Davíð frétti, að Nabal væri dáinn, mælti hann: "Lofaður sé Drottinn, sem hefnt hefir svívirðu minnar á Nabal og haldið hefir þjóni sínum frá illu. En illsku Nabals hefir Drottinn látið honum sjálfum í koll koma." Sendi þá Davíð menn til Abígail þess erindis, að hann vill fá hennar sér til eiginkonu.

40Þjónar Davíðs komu til Abígail í Karmel og mæltu svo til hennar: "Davíð hefir sent oss á þinn fund þess erindis, að hann vill fá þín sér til eiginkonu." 41Þá stóð hún upp og hneigði andlit sitt til jarðar og mælti: "Sjá, ambátt þín er þess albúin að gjörast þerna til þess að þvo fætur þjóna herra míns." 42Síðan bjó Abígail sig í skyndi og steig á bak asna sínum, svo og meyjar hennar fimm, þær er með henni fóru. Hún fór með sendimönnum Davíðs og varð kona hans. 43Akínóam frá Jesreel hafði Davíð fengið sér til eiginkonu, og báðar urðu þær konur hans. 44En Sál hafði gefið Míkal dóttur sína, konu Davíðs, Paltí Laíssyni frá Gallím.


Davíð þyrmir lífi Sáls öðru sinni

26
1Sífítar komu til Sáls í Gíbeu og sögðu: "Veistu, að Davíð hefir falið sig í Hahakílahæðunum, gegnt Júdaóbyggðum?" 2Þá tók Sál sig upp og fór ofan í Sífeyðimörk og með honum þrjú þúsund manns, valdir menn af Ísrael, til þess að leita Davíðs í Sífeyðimörk. 3Og Sál setti herbúðir sínar í Hahakílahæðunum, við veginn gegnt Júdaóbyggðum. En Davíð hélt sig á eyðimörkinni. En er hann frétti, að Sál væri kominn í eyðimörkina til þess að elta hann, 4sendi Davíð út njósnarmenn og fékk að vita með vissu, að Sál var kominn. 5Þá tók Davíð sig upp og kom þangað sem Sál hafði sett herbúðir sínar. Og er Davíð sá, hvar Sál og Abner Nersson, hershöfðingi hans, hvíldu - en Sál hvíldi í vagnborg og liðsmenn hans lágu í tjöldum sínum umhverfis hann -, 6þá kom hann að máli við Akímelek Hetíta og Abísaí Serújuson, bróður Jóabs, og sagði: "Hver vill fara með mér inn í herbúðirnar til Sáls?"

Abísaí mælti: "Ég skal fara með þér." 7En er þeir Davíð og Abísaí komu að liðinu um nótt, þá lá Sál sofandi í vagnborginni, og spjót hans var rekið í jörðu að höfði honum, en Abner og liðsmennirnir lágu í kringum hann. 8Þá sagði Abísaí við Davíð: "Í dag hefir Guð selt óvin þinn í hendur þér. Nú mun ég reka spjótið gegnum hann og ofan í jörðina með einu lagi; eigi mun ég þurfa að leggja til hans tvisvar."

9En Davíð sagði við Abísaí: "Drep þú hann ekki, því að hver leggur svo hönd á Drottins smurða, að hann sleppi hjá hegningu?" 10Og Davíð mælti enn fremur: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir, vissulega mun annaðhvort Drottinn ljósta hann eða dauða hans ber að hendi með náttúrlegum hætti, eða hann fer í hernað og fellur. 11Drottinn láti það vera fjarri mér að leggja hendur á Drottins smurða. En tak þú nú spjótið, sem er þarna að höfði honum, og vatnsskálina, og förum síðan." 12Og Davíð tók spjótið og vatnsskálina að höfði Sáls, og síðan fóru þeir leiðar sinnar, en enginn sá það og enginn varð þess var og enginn vaknaði, heldur voru þeir allir sofandi, því að þungur svefn frá Drottni var á þá siginn.

13Þá gekk Davíð yfir á hæð eina þar gegnt við og nam þar staðar allfjarri, svo að mikið bil var í milli þeirra. 14Þá kallaði Davíð til liðsins og Abners Nerssonar og mælti: "Hvort mátt þú heyra mál mitt, Abner?"

Abner svaraði og sagði: "Hver ert þú, sem kallar til konungsins?"

15Davíð sagði við Abner: "Ert þú ekki karlmenni, og hver er þinn líki í Ísrael? Hví hefir þú ekki vakað yfir herra þínum, konunginum? Því að einn maður úr liðinu kom og ætlaði að drepa konunginn, herra þinn. 16Þar hefir þér illa farið. Svo sannarlega sem Drottinn lifir, eruð þér dauða verðir fyrir það, að þér hafið ekki vakað yfir herra yðar, yfir Drottins smurða. Og hygg nú að, hvar spjót konungsins er og hvar vatnsskálin er, sem stóð að höfði honum."

17En Sál þekkti málróm Davíðs og mælti: "Er þetta ekki málrómur þinn, Davíð sonur minn?"

Davíð svaraði: "Jú, málrómur minn er það, herra konungur!" 18Og Davíð mælti: "Hví ofsækir þú, herra minn, þjón þinn? Hvað hefi ég þá gjört, og hvað illt er í minni hendi? 19Og hlýð því, minn herra konungur, á mál þjóns þíns. Hafi Drottinn egnt þig upp á móti mér, þá lát hann finna ilm af fórnarreyk, en ef menn hafa gjört það, þá séu þeir bölvaðir fyrir Drottni, þar sem þeir hafa nú flæmt mig burt, svo að ég má eigi halda hóp með eign Drottins, með því að þeir segja: ,Far þú, þjóna þú öðrum guðum!' 20En lát eigi blóð mitt falla á jörð langt burtu frá augliti Drottins, því að Ísraels konungur er lagður af stað til þess að ná lífi mínu, eins og menn elta akurhænu á fjöllum."

21Þá mælti Sál: "Ég hefi syndgað. Hverf aftur, Davíð sonur minn, því að ég skal aldrei framar gjöra þér mein, fyrst þú þyrmdir lífi mínu í dag. Sjá, ég hefi breytt heimskulega, og mér hefir mikillega yfirsést."

22Davíð svaraði og sagði: "Hér er spjót konungs, komi nú einn af sveinunum hingað og sæki það. 23En Drottinn umbunar hverjum manni ráðvendni hans og trúfesti. Drottinn hafði gefið þig í hendur mínar í dag, en ég vildi ekki leggja hendur á Drottins smurða. 24Og sjá, eins og líf þitt var mikilsvert í mínum augum í dag, svo veri og líf mitt mikilsvert í augum Drottins, og hann virðist að frelsa mig úr öllum nauðum."

25Og Sál mælti til Davíðs: "Blessaður ver þú, Davíð sonur minn. Þú munt bæði verða mikill í framkvæmdum og giftudrjúgur."

Síðan fór Davíð leiðar sinnar, en Sál sneri aftur heim til sín.


Davíð í Filistalandi

27
1Davíð hugsaði með sjálfum sér: "Nú fell ég einhvern daginn fyrir hendi Sáls. Nú er það ráð vænst, að ég forði mér undan til Filistalands. Þá gefst Sál upp við að elta mig um allt Ísraelsland, og ég slepp úr greipum honum." 2Síðan tók Davíð sig upp og fór með þau sex hundruð manns, er með honum voru, yfir til Akís Maókssonar, konungs í Gat. 3Og Davíð settist að hjá Akís í Gat, bæði hann og menn hans, hver með sína fjölskyldu, Davíð með báðum konum sínum: Akínóam frá Jesreel og Abígail, þá er átt hafði Nabal í Karmel. 4Og þegar Sál frétti, að Davíð væri flúinn til Gat, þá hætti hann að leita hans.

5Davíð sagði við Akís: "Hafi ég fundið náð í augum þínum, þá lát þú fá mér bústað í einhverri borg landsins. Hví skal þjónn þinn búa hjá þér í höfuðborginni?" 6Þá fékk Akís honum Siklag þann sama dag. Fyrir því liggur Siklag enn í dag undir Júda konunga. 7En sá tími, sem Davíð bjó í Filistalandi, var eitt ár og fjórir mánuðir.

8Davíð og menn hans fóru herför og gjörðu árás á Gesúríta, Gírsíta og Amalekíta, því að þeir bjuggu í landinu, sem náði frá Telam alla leið til Súr og Egyptalands. 9Og þegar Davíð braust inn í þessi lönd, lét hann hvorki menn né konur lífi halda, en tók sauðfé og nautgripi, asna og úlfalda og klæði, sneri síðan við og fór aftur til Akís. 10Og ef Akís spurði: "Hvar hafið þér á ráðist í dag?" þá svaraði Davíð: "Í Júda sunnan til," eða: "Á suðurland Jerahmeelíta," eða: "Á suðurland Keníta." 11En Davíð lét hvorki menn né konur lífi halda til þess að flytja það til Gat, með því að hann hugsaði: "Þau kynnu að segja eftir oss og taka svo til orða: Svo hefir Davíð að farið." Og sá var siður hans allan þann tíma, sem hann bjó í Filistalandi. 12Og Akís trúði Davíð, með því að hann hugsaði: "Honum er ekki lengur vært hjá þjóð sinni Ísrael, og fyrir því mun hann ævinlega verða í minni þjónustu."

28
1Í þann tíma drógu Filistar saman her sinn og bjuggust að fara í hernað móti Ísrael. Og Akís sagði við Davíð: "Vita skaltu, að þú verður að fara með mér í leiðangurinn, bæði þú og menn þínir."

2Davíð svaraði Akís: "Nú skalt þú fá að reyna, hverju þjónn þinn fær orkað." Og Akís sagði við Davíð: "Þá skipa ég þig höfuðvörð minn allar stundir."


Sál í Endór

3Samúel var dáinn, og allur Ísrael hafði syrgt hann og jarðað hann í Rama, hans eigin borg. En Sál hafði gjört landræka alla andasæringamenn og spásagnamenn.

4Nú söfnuðust Filistar saman og komu og settu herbúðir sínar í Súnem. Þá safnaði Sál saman öllum Ísrael og setti herbúðir sínar á Gilbóafjalli. 5En þegar Sál sá her Filista, varð hann hræddur og missti móðinn. 6Sál gekk til frétta við Drottin, en Drottinn svaraði honum ekki, hvorki í draumum né með úrím né fyrir milligöngu spámannanna. 7Þá sagði Sál við þjóna sína: "Leitið fyrir mig að særingakonu, svo að ég geti farið til hennar og leitað frétta hjá henni."

Og þjónar hans sögðu við hann: "Í Endór er særingakona."

8Sál gjörði sig torkennilegan og klæddist dularbúningi og lagði af stað og tveir menn með honum. Þeir komu til konunnar um nótt, og Sál sagði: "Lát þú andann spá mér og lát koma fram þann, er ég nefni til við þig."

9Konan svaraði honum: "Sjá, þú veist, hvað Sál hefir gjört, að hann hefir upprætt úr landinu alla andasæringamenn og spásagnamenn. Hví leggur þú þá snöru fyrir mig til þess að deyða mig?"

10Þá vann Sál henni eið við Drottin og mælti: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir skal engin sök á þig falla fyrir þetta."

11Þá sagði konan: "Hvern viltu að ég láti koma fram?"

Hann svaraði: "Lát þú Samúel koma fram fyrir mig."

12En er konan sá Samúel, hljóðaði hún upp yfir sig. Og konan sagði við Sál: "Hví hefir þú svikið mig? Þú ert Sál."

13En konungurinn mælti til hennar: "Ver þú óhrædd. En hvað sér þú?"

Og konan sagði við Sál: "Ég sé anda koma upp úr jörðinni."

14Hann sagði við hana: "Hvernig er hann í hátt?"

Hún svaraði: "Gamall maður stígur upp og er hjúpaður skikkju."

Þá skildi Sál, að það var Samúel, og hneigði andlit sitt til jarðar og laut honum.

15Þá sagði Samúel við Sál: "Hví hefir þú ónáðað mig og látið kalla mig fram?"

Sál mælti: "Ég er í miklum nauðum staddur. Filistar herja á mig, og Guð er frá mér vikinn og svarar mér ekki lengur, hvorki fyrir milligöngu spámannanna né í draumum. Fyrir því lét ég kalla þig, til þess að þú segir mér, hvað ég á að gjöra."

16Samúel svaraði: "Hví spyr þú mig þá, fyrst Drottinn er frá þér vikinn og orðinn óvinur þinn? 17Drottinn hefir þá við þig gjört, eins og hann hefir sagt fyrir minn munn. Drottinn hefir rifið frá þér konungdóminn og gefið hann öðrum, gefið Davíð hann. 18Af því að þú hlýddir ekki boði Drottins og framkvæmdir ekki hans brennandi reiði á Amalek, fyrir því hefir Drottinn gjört þér þetta í dag. 19Og Drottinn mun og gefa Ísrael ásamt þér í hendur Filista, og á morgun munt þú og synir þínir hjá mér vera. Drottinn mun og gefa her Ísraels í hendur Filista."

20Þá varð Sál hræddur og féll endilangur til jarðar, og hann skelfdist mjög af orðum Samúels. Hann var og magnþrota, því að hann hafði eigi matar neytt allan daginn og alla nóttina. 21Konan gekk nú til Sáls, og er hún sá, hversu mjög hann var felmtsfullur, sagði hún við hann: "Sjá, ambátt þín hefir hlýtt raustu þinni, og ég hefi lagt líf mitt í hættu, og ég hefi gjört það, sem þú baðst mig um. 22Hlýð þú þá líka raust ambáttar þinnar: Ég ætla að færa þér matarbita, og skalt þú eta, svo að þér aukist þróttur og þú getir farið leiðar þinnar."

23En hann færðist undan og sagði: "Eigi vil ég eta." En er bæði menn hans og konan lögðu að honum, þá lét hann að orðum þeirra og stóð upp af gólfinu og settist á rúmið. 24Og konan átti alikálf í húsinu. Slátraði hún honum í skyndi, tók mjöl, hnoðaði það og bakaði úr því ósýrðar kökur. 25Síðan bar hún það fyrir Sál og menn hans, og er þeir höfðu etið, tóku þeir sig upp og lögðu af stað þessa sömu nótt.


Davíð snúið aftur til Filistalands

29
1Filistar drógu nú saman allan her sinn hjá Afek, en Ísrael setti herbúðir sínar við lindina hjá Jesreel. 2Og höfðingjar Filista komu með hundruð sín og þúsundir, og Davíð og menn hans komu síðastir með Akís. 3Þá sögðu höfðingjar Filista: "Hvað eiga þessir Hebrear hér að gjöra?"

Akís sagði við höfðingja Filista: "Það er Davíð, hirðmaður Sáls konungs í Ísrael, sem nú hefir með mér verið í tvö ár, og hefi ég ekki haft neitt út á hann að setja frá þeirri stundu, er hann gjörðist minn maður, og allt fram á þennan dag."

4Höfðingjar Filista reiddust honum og sögðu við hann: "Lát þú manninn hverfa heim aftur. Fari hann á sinn stað, þar sem þú hefir sett hann, en eigi skal hann með oss fara í bardagann, svo að hann snúist ekki á móti oss í orustunni. Með hverju gæti hann betur náð aftur hylli herra síns en með höfðum þessara manna? 5Var það ekki þessi sami Davíð, sem sungið var um við dansinn:

Sál felldi sín þúsund
og Davíð sín tíu þúsund?"

6Þá lét Akís kalla Davíð og sagði við hann: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir ert þú ráðvandur, og ég uni því vel, að þú gangir út og inn með mér í herbúðunum, því að ég hefi ekki orðið neins ills var hjá þér frá þeirri stundu, er þú komst til mín, og allt fram á þennan dag, en höfðingjunum er ekki um þig. 7Hverf því aftur og far í friði, svo að þú gjörir ekki neitt það, sem höfðingjum Filista mislíkar."

8Þá sagði Davíð við Akís: "Hvað hefi ég þá gjört, og hvað hefir þú haft út á þjón þinn að setja, frá þeirri stundu, er ég gjörðist þinn maður, og allt fram á þennan dag, að ég skuli ekki mega fara og berjast við óvini herra míns, konungsins?"

9Akís svaraði og sagði við Davíð: "Ég veit, að þú ert í mínum augum góður, sem værir þú engill Guðs, en höfðingjar Filista segja: ,Eigi skal hann með oss fara í bardagann.' 10Rís þú því árla á morgun, ásamt mönnum herra þíns, sem með þér komu, og farið þér þangað sem ég hefi sett yður, og ætlaðu mér ekkert illt, því að vel er mér til þín, - og rísið þá árla á morgun og haldið af stað, þegar birtir."

11Reis nú Davíð árla um morguninn og menn hans og lögðu af stað heim aftur til Filistalands, en Filistar fóru upp í Jesreel.


Davíð frelsar hertekna menn

30
1Þegar Davíð og menn hans komu til Siklag á þriðja degi, þá höfðu Amalekítar gjört herhlaup á Suðurlandið og á Siklag, unnið Siklag og brennt hana. 2Höfðu þeir hertekið konur og allt, sem í henni var, bæði smátt og stórt. Engan mann höfðu þeir drepið, en haft fólkið á burt með sér og farið síðan leiðar sinnar. 3Og er Davíð og menn hans komu til borgarinnar, sjá, þá var hún brunnin, en konur þeirra, synir og dætur hertekin.

4Þá tók Davíð og liðið, sem með honum var, að gráta hástöfum, uns þeir voru uppgefnir að gráta. 5Báðar konur Davíðs höfðu verið herteknar, Akínóam frá Jesreel og Abígail, er átt hafði Nabal í Karmel. 6Var Davíð nú mjög nauðulega staddur, því að liðið hafði við orð að grýta hann, því að menn voru allir sárhryggir vegna sona sinna og dætra. En Davíð hressti sig upp í Drottni, Guði sínum.

7Og Davíð sagði við Abjatar prest, son Ahímeleks: "Fær mér hingað hökulinn." Og Abjatar fór með hökulinn til Davíðs. 8Og Davíð gekk til frétta við Drottin og mælti: "Á ég að elta þennan ræningjaflokk? Mun ég ná þeim?"

Hann svaraði honum: "Eltu þá, því að þú munt vissulega ná þeim og fá bjargað." 9Þá lagði Davíð af stað, hann og þau sex hundruð manns, sem hjá honum voru, og þeir komu að Besórlæk. Þar námu þeir staðar, er eftir urðu. 10Og Davíð hélt áfram með fjögur hundruð manns, en tvö hundruð manns urðu þar eftir, því að þeir máttu eigi yfir Besórlæk komast vegna þreytu.

11Þá fundu þeir egypskan mann úti á víðavangi og fóru með hann til Davíðs, og þeir gáfu honum mat að eta og vatn að drekka. 12Þeir gáfu honum sneið af fíkjuköku og tvær rúsínukökur, og át hann það og lifnaði við, því að hann hafði ekki mat etið né vatn drukkið í þrjá daga og þrjár nætur. 13Og Davíð sagði við hann: "Hvers maður ert þú og hvaðan ert þú?"

Hann svaraði: "Ég er egypskur sveinn, þræll Amalekíta nokkurs. Húsbóndi minn skildi mig hér eftir, af því að ég varð sjúkur fyrir þrem dögum. 14Vér gjörðum herhlaup á suðurland Kreta og á land, sem liggur undir Júda, svo og á suðurland Kalebs, og Siklag brenndum vér upp."

15Og Davíð sagði við hann: "Viltu vísa mér leið til ræningjaflokks þessa?"

Hann svaraði: "Vinn þú mér eið að því við Guð að drepa mig ekki og framselja mig ekki í hendur húsbónda míns, þá skal ég vísa þér leið til ræningjaflokks þessa." 16Og hann veitti þeim leiðsögu þangað.

Ránsmennirnir höfðu þá dreifst um allt landið og átu og drukku og gjörðu sér glaðan dag vegna hins mikla herfangs, sem þeir höfðu tekið í Filistalandi og í Júdalandi. 17Og Davíð barði á þeim frá því í dögun og allt til kvelds og helgaði þá banni, svo að enginn þeirra komst undan, nema fjögur hundruð sveinar, sem stigu á bak úlföldum og flýðu.

18Þann veg náði Davíð aftur öllu því, sem Amalekítar höfðu rænt. Og báðum konum sínum bjargaði Davíð. 19Þá vantaði ekkert, hvorki smátt né stórt, hvorki herfang né sonu og dætur, né nokkuð það, er ránsmennirnir höfðu rænt. Davíð kom aftur með það allt. 20Þá tóku þeir alla sauðina og nautin og leiddu fram fyrir hann og sögðu: "Þetta er herfang Davíðs."

21En er Davíð kom til þeirra tvö hundruð manna, er gefist höfðu upp, svo að þeir máttu ekki fylgja honum, og fyrir því verið skildir eftir við Besórlæk, þá fóru þeir í móti Davíð og liðinu, sem með honum var. Og er Davíð kom með liðið, þá heilsuðu þeir þeim. 22Þá tóku allir ódrengir og varmenni meðal manna þeirra, er með Davíð höfðu farið, til máls og sögðu: "Fyrst þeir fóru ekki með oss, þá viljum vér ekki láta þá fá neitt af herfanginu, sem vér höfum bjargað. Þó má hver maður fá konu sína og sonu. Það mega þeir taka með sér og fara síðan."

23En Davíð sagði: "Breytið eigi svo, eftir að Drottinn hefir oss slíkt í té látið og varðveitt oss og selt oss í hendur ræningjaflokk þann, sem á oss hafði ráðist. 24Og hver mun verða á yðar máli í þessu efni? Nei, sama hlut og sá fær, er í bardagann fer, sama hlut skal og sá fá, sem verður eftir hjá farangrinum. Allir skulu þeir fá jafnan hlut." 25Og við það sat upp frá þeim degi. Og hann gjörði það að lögum og venju í Ísrael, og hefir það haldist fram á þennan dag.

26Þegar Davíð kom til Siklag, sendi hann öldungunum í Júda, vinum sínum, nokkuð af herfanginu með þessari orðsending: "Sjá, þetta er gjöf yður til handa af herfangi óvina Drottins." 27Sömuleiðis þeim í Betel, þeim í Ramot-Negeb, þeim í Jattír, 28þeim í Aroer, þeim í Sífmót, þeim í Estemóa, 29þeim í Rakal, þeim í borgum Jerahmeelíta, þeim í borgum Keníta, 30þeim í Horma, þeim í Bór Asan, þeim í Atak, 31þeim í Hebron, og til allra þeirra staða, þar sem Davíð hafði um farið með menn sína.


Dauði Sáls

31
1Filistar höfðu lagt til orustu við Ísrael. Höfðu Ísraelsmenn flúið fyrir Filistum, og lágu margir fallnir á Gilbóafjalli. 2Filistar eltu Sál og sonu hans og felldu Jónatan, Abínadab og Malkísúa, sonu Sáls. 3Var nú gjör hörð atlaga að Sál, og höfðu nokkrir bogmannanna komið auga á hann. Varð hann þá mjög hræddur við bogmennina. 4Þá sagði Sál við skjaldsvein sinn: "Bregð þú sverði þínu og legg mig í gegn með því, svo að óumskornir menn þessir komi ekki og fari háðulega með mig." En skjaldsveinninn vildi ekki gjöra það, því að hann var mjög hræddur. Þá tók Sál sverðið og lét fallast á það. 5Og er skjaldsveinninn sá, að Sál var dauður, þá lét hann og fallast á sverð sitt og dó með honum. 6Þannig létu þeir líf sitt, Sál, synir hans þrír og skjaldsveinn hans, allir þennan sama dag.

7Er Ísraelsmenn , þeir er bjuggu hinumegin við sléttlendið og þeir er bjuggu hinumegin Jórdanar, sáu, að Ísraelsmenn voru flúnir, og Sál og synir hans fallnir, þá yfirgáfu þeir borgir sínar og lögðu á flótta. Og Filistar komu og settust að í þeim.

8Daginn eftir komu Filistar að ræna valinn. Fundu þeir þá Sál og sonu hans þrjá fallna á Gilbóafjalli. 9Hjuggu þeir af honum höfuðið og flettu hann herklæðum og gjörðu sendimenn um allt Filistaland til þess að flytja skurðgoðum sínum og lýðnum gleðitíðindin. 10Og þeir lögðu vopn hans í hof Astörtu, en lík hans hengdu þeir upp á borgarmúrinn í Bet San.

11En er íbúarnir í Jabes í Gíleað fréttu, hvernig Filistar höfðu farið með Sál, 12þá tóku sig til allir vopnfærir menn, gengu alla nóttina og tóku lík Sáls og lík sona hans ofan af borgarmúrnum í Bet San. Síðan héldu þeir heim til Jabes og brenndu þar líkin. 13Því næst tóku þeir bein þeirra og grófu þau undir tamarisktrénu í Jabes og föstuðu í sjö daga.



Netútgáfan og Hið Íslenska Biblíufélag - ágúst 1997