1
1Á áttunda mánuði annars ríkisárs Daríusar kom orð Drottins til Sakaría spámanns Berekíasonar, Iddósonar, svo hljóðandi:2Drottinn var stórreiður feðrum yðar. 3Seg því við þá: Svo segir Drottinn allsherjar:
Snúið yður til mín - segir Drottinn allsherjar - þá mun ég snúa mér til yðar - segir Drottinn allsherjar. 4Verið ekki eins og feður yðar, sem hinir fyrri spámenn áminntu með svofelldum orðum: "Svo segir Drottinn allsherjar: Snúið yður frá yðar vondu breytni og frá yðar vondu verkum!" En þeir hlýddu ekki og gáfu engan gaum að mér - segir Drottinn. 5Feður yðar - hvar eru þeir? Og spámennirnir - geta þeir lifað eilíflega? 6En orð mín og ályktanir, þau er ég bauð þjónum mínum, spámönnunum, að kunngjöra, hafa þau ekki náð feðrum yðar, svo að þeir sneru við og sögðu: "Eins og Drottinn allsherjar hafði ásett sér að gjöra við oss eftir breytni vorri og verkum vorum, svo hefir hann við oss gjört"?
Fyrsta sýn: Rauður hestur7Á tuttugasta og fjórða degi hins ellefta mánaðar, það er mánaðarins sebat, á öðru ríkisári Daríusar, kom orð Drottins til Sakaría spámanns Berekíasonar, Iddósonar, svo hljóðandi:
8Ég sá sýn á náttarþeli: mann ríðandi á rauðum hesti, og hafði hann staðnæmst meðal mýrtustrjánna, sem eru í dalverpinu. Að baki honum voru rauðir, jarpir og hvítir hestar. 9Og er ég spurði: "Hverjir eru þessir, herra minn?" svaraði engillinn mér, sá er við mig talaði: "Ég skal sýna þér, hverjir þeir eru."
10Þá tók maðurinn, sem staðnæmst hafði meðal mýrtustrjánna, til máls og sagði: "Þessir eru þeir, sem Drottinn hefir sent til þess að fara um jörðina."
11Þá svöruðu þeir engli Drottins, er staðnæmst hafði meðal mýrtustrjánna, og sögðu: "Vér höfum farið um jörðina, og sjá, öll jörðin er í ró og kyrrð."
12Þá svaraði engill Drottins og sagði: "Drottinn allsherjar, hversu lengi á því fram að fara, að þú miskunnir þig ekki yfir Jerúsalem og Júdaborgir, er þú hefir nú reiður verið í sjötíu ár?"
13Þá svaraði Drottinn englinum, er við mig talaði, blíðum orðum og huggunarríkum, 14og engillinn sem við mig talaði, sagði við mig: "Kunngjör og seg: Svo segir Drottinn allsherjar: Ég brenn af mikilli vandlæting vegna Jerúsalem og Síonar 15og ég er stórreiður hinum andvaralausu heiðingjum, sem juku á bölið, þá er ég var lítið eitt reiður. 16Fyrir því segir Drottinn svo: Ég sný mér aftur að Jerúsalem með miskunnsemi. Hús mitt skal verða endurreist í henni - segir Drottinn allsherjar - og mælivaður skal þaninn verða yfir Jerúsalem.
17Kunngjör enn fremur og seg: Svo segir Drottinn allsherjar:
Enn skulu borgir mínar fljóta í gæðum, og enn mun Drottinn hugga Síon og enn útvelja Jerúsalem."
Önnur sýn: Fjögur horn og fjórir smiðir2
1Og ég hóf upp augu mín og sá, hvar fjögur horn voru. 2Þá spurði ég engilinn, sem við mig talaði: "Hvað merkja þessi?"Hann svaraði mér: "Þetta eru hornin, sem tvístrað hafa Júda, Ísrael og Jerúsalem."
3Því næst lét Drottinn mig sjá fjóra smiði, 4og er ég spurði: "Hvað ætla þessir að gjöra?" svaraði hann á þessa leið: "Þetta eru hornin, sem tvístruðu Júda svo, að enginn bar höfuð hátt, en þessir eru komnir til þess að skelfa þau, til þess að varpa niður hornum þeirra þjóða, er hófu horn gegn Júdalandi til þess að tvístra því."
Þriðja sýn: Mælisnúra5Og ég hóf upp augu mín og sá, hvar maður var. Hann hélt á mæliþræði í hendi sér. 6Þá spurði ég: "Hvert ætlar þú?"
Hann svaraði mér: "Að mæla Jerúsalem til þess að sjá, hve löng og hve breið hún er."
7Þá gekk engillinn, er við mig talaði, allt í einu fram, og annar engill gekk fram á móti honum. 8Við hann sagði hann: "Hlaup þú og tala þú svo til þessa unga manns: ,Jerúsalem skal liggja opin og ógirt sökum þess fjölda manna og skepna, sem í henni verða, 9og ég sjálfur skal vera eins og eldveggur kringum hana - segir Drottinn - og ég skal sýna mig dýrlegan í henni.'"
Hvatning til hinna herleiddu10Upp, upp, flýið úr norðurlandinu - segir Drottinn - því að ég hefi tvístrað yður í allar áttir - segir Drottinn.
11Upp, forðið yður til Síonar, þér sem búið í Babýlon!
12Svo segir Drottinn allsherjar, hinn vegsamlegi, sem hefir sent mig til þjóðanna sem rændu yður:
Hver sá er snertir yður, snertir augastein minn.
13Því sjá, ég mun veifa hendi minni yfir þeim, og þá skulu þeir verða þrælum sínum að herfangi, og þér skuluð viðurkenna, að Drottinn allsherjar hefir sent mig.
14Fagna þú og gleð þig, dóttirin Síon! Því sjá, ég kem og vil búa mitt í þér - segir Drottinn.
15Á þeim degi munu margar þjóðir ganga Drottni á hönd og verða hans lýður og búa mitt á meðal þín, og þú munt viðurkenna, að Drottinn allsherjar hefir sent mig til þín.
16Þá mun Drottinn taka Júda til eignar sem arfleifð sína í hinu heilaga landi og enn útvelja Jerúsalem.
17Allt hold veri hljótt fyrir Drottni! Því að hann er risinn upp frá sínum heilaga bústað.
Fjórða sýn: Jósúa æðsti prestur3
1Því næst lét hann mig sjá Jósúa æðsta prest, þar sem hann stóð frammi fyrir engli Drottins og Satan honum til hægri handar til þess að ákæra hann. 2En Drottinn mælti til Satans: "Drottinn ávíti þig, Satan! Drottinn, sem útvalið hefir Jerúsalem, ávíti þig! Er ekki þessi eins og brandur úr báli dreginn?"3Jósúa var í óhreinum klæðum, þar er hann stóð frammi fyrir englinum. 4Þá tók engillinn til máls og mælti til þeirra, er stóðu frammi fyrir honum: "Færið hann úr hinum óhreinu klæðum!" Síðan sagði hann við hann: "Sjá, ég hefi burt numið misgjörð þína frá þér og læt nú færa þig í skrúðklæði." 5Enn fremur sagði hann: "Látið hreinan ennidúk um höfuð hans!" Þá létu þeir hreinan ennidúk um höfuð hans og færðu hann í klæðin, en engill Drottins stóð hjá.
6Og engill Drottins vitnaði fyrir Jósúa og sagði: 7"Svo segir Drottinn allsherjar: Ef þú gengur á mínum vegum og varðveitir boðorð mín, þá skalt þú og stjórna húsi mínu og gæta forgarða minna, og ég heimila þér að ganga meðal þessara þjóna minna."
8Heyr, Jósúa æðsti prestur, þú og félagar þínir, sem sitja frammi fyrir þér, eru fyrirboðar þess, að ég læt þjón minn Kvist koma. 9Því sjá, steinninn, sem ég hefi lagt frammi fyrir Jósúa - sjö augu á einum steini - sjá, ég gref á hann letur hans - segir Drottinn allsherjar - og tek burt á einum degi misgjörð þessa lands.
10Á þeim degi - segir Drottinn allsherjar - munuð þér bjóða hver öðrum inn undir víntré og fíkjutré.
Fimmta sýn: Ljósastika og olíuviðartré. Serúbabel4
1Þá vakti engillinn, er við mig talaði, mig aftur, eins og þegar maður er vakinn af svefni, 2og sagði við mig: "Hvað sér þú?"Ég svaraði: "Ég sé ljósastiku, og er öll af gulli. Ofan á henni er olíuskál og á henni eru sjö lampar og sjö pípur fyrir lampana. 3Og hjá ljósastikunni standa tvö olíutré, annað hægra megin við olíuskálina, hitt vinstra megin."
4Þá tók ég til máls og sagði við engilinn, sem við mig talaði: "Hvað merkir þetta, herra minn?"
5Og engillinn, sem við mig talaði, svaraði og sagði við mig: "Veistu ekki, hvað þetta merkir?"
Ég svaraði: "Nei, herra minn!"
6Þá tók hann til máls og sagði við mig: "Þetta eru orð Drottins til Serúbabels: Ekki með valdi né krafti, heldur fyrir anda minn! - segir Drottinn allsherjar.
7Hver ert þú, stóra fjall? Fyrir Serúbabel skalt þú verða að sléttu. Og hann mun færa út hornsteininn, og þá munu kveða við fagnaðaróp: Dýrlegur, dýrlegur er hann!"
8Og orð Drottins kom til mín, svo hljóðandi:
9Hendur Serúbabels hafa lagt grundvöll þessa húss, hendur hans munu og fullgjöra það. Og þá skaltu viðurkenna, að Drottinn allsherjar hefir sent mig til yðar. 10Því að allir þeir, sem lítilsvirða þessa litlu byrjun, munu horfa fagnandi á blýlóðið í hendi Serúbabels.
Þessir sjö lampar eru augu Drottins, sem líta yfir gjörvalla jörðina.
11Þá tók ég til máls og sagði við hann: "Hvað merkja þessi tvö olíutré, hægra og vinstra megin ljósastikunnar?" 12Og ég tók annað sinn til máls og sagði við hann: "Hvað merkja þær tvær olíuviðargreinar, sem eru við hliðina á þeim tveimur gullpípum, sem láta olífuolíu streyma út úr sér?"
13Þá sagði hann við mig: "Veistu ekki, hvað þær merkja?"
Ég svaraði: "Nei, herra minn!"
14Þá sagði hann: "Það eru þeir tveir smurðu, er standa frammi fyrir Drottni gjörvallrar jarðarinnar."
Sjötta sýn: Bókrolla á flugi5
1Ég hóf aftur upp augu mín og sá bókrollu, sem var á flugi. 2Þá sagði hann við mig: "Hvað sér þú?"Ég svaraði: "Ég sé bókrollu á flugi, tuttugu álna langa og tíu álna breiða."
3Þá sagði hann við mig: "Þetta er bölvunin, sem út gengur yfir gjörvallt landið, því að sérhverjum sem stelur, verður samkvæmt henni sópað héðan, og sérhverjum sem meinsæri fremur, verður samkvæmt henni sópað héðan."
4Ég hefi látið hana út ganga - segir Drottinn allsherjar - til þess að hún komi inn í hús þjófsins og inn í hús þess, sem meinsæri fremur við nafn mitt, og staðnæmist inni í húsi hans og eyði því bæði að viðum og veggjum.
Sjöunda sýn: Mælikerald5Þessu næst gekk fram engillinn, er við mig talaði, og sagði við mig: "Hef upp augu þín og sjá, hvað þar kemur fram!"
6Ég sagði: "Hvað er þetta?"
Þá sagði hann: "Þetta er efan, sem kemur í ljós." Þá sagði hann: "Þetta er misgjörð þeirra í öllu landinu." 7Þá lyftist allt í einu upp kringlótt blýlok, og sat þar kona ein niðri í efunni. 8Þá sagði hann: "Þetta er Vonskan!" - kastaði henni ofan í efuna og kastaði blýlokinu ofan yfir opið.
9Síðan hóf ég upp augu mín og sá allt í einu tvær konur koma fram, og stóð vindur undir vængi þeim - því að þær höfðu vængi sem storksvængi - og hófu þær efuna upp milli jarðar og himins. 10Þá sagði ég við engilinn, sem við mig talaði: "Hvert fara þær með efuna?"
11Hann svaraði mér: "Þær ætla að reisa henni hús í Sínearlandi, og þegar það er búið, þá setja þær hana þar á sinn stað."
Áttunda sýn: Fjórir vagnar6
1Ég hóf aftur upp augu mín og sá, hvar fjórir vagnar komu út á milli tveggja fjalla, en fjöllin voru eirfjöll. 2Fyrir fyrsta vagninum voru rauðir hestar, fyrir öðrum vagninum svartir hestar, 3fyrir þriðja vagninum voru hvítir hestar og fyrir fjórða vagninum rauðskjóttir hestar. 4Þá tók ég til máls og sagði við engilinn, er við mig talaði: "Hvað merkir þetta, herra minn?"5Engillinn svaraði og sagði við mig: "Þetta eru þeir fjórir vindar himinsins. Þeir hafa gengið fyrir Drottin gjörvallrar jarðarinnar og eru nú að fara af stað. 6Vagninn með svörtu hestunum fyrir var að fara til landsins norður frá, og hinir hvítu fóru á eftir þeim, en hinir skjóttu fóru til landsins suður frá." 7Og hinir rauðu fóru út, og með því að þeir voru ráðnir í að halda af stað til þess að fara um jörðina, sagði hann: "Farið! Farið um jörðina!" Og þeir fóru um jörðina. 8Þá kallaði hann á mig og sagði við mig: "Sjá, þeir sem fara til landsins norður frá, svala reiði minni við landið norður frá."
Krýning Jósúa æðsta prests9Orð Drottins kom til mín, svo hljóðandi:
10Tak þú við gjöfum hinna herleiddu af hendi Heldaí, Tobía og Jedaja, og far þú sjálfur þann sama dag og gakk þú inn í hús Jósía Sefaníasonar, en þangað eru þeir komnir frá Babýlon. 11Þar skalt þú taka silfur og gull og búa til kórónu og setja á höfuð Jósúa Jósadakssonar æðsta prests. 12Og þú skalt mæla þannig til hans: Svo segir Drottinn allsherjar:
Sjá, maður heitir Kvistur. Af hans rótum mun spretta, og hann mun byggja musteri Drottins. 13Hann er sá sem byggja mun musteri Drottins, og hann mun tign hljóta, svo að hann mun sitja og drottna í hásæti sínu, og prestur mun vera honum til hægri handar, og friðarþel mun vera milli þeirra beggja. 14En kórónan skal vera þeim Helem, Tobía, Jedaja og Hen Sefaníasyni til minningar í musteri Drottins. 15Og þeir sem búa í fjarlægð, munu koma til að byggja musteri Drottins. Og þá munuð þér viðurkenna, að Drottinn allsherjar hefir sent mig til yðar. Ef þér hlýðið röddu Drottins, Guðs yðar, þá mun þetta verða.
Röng fasta7
1Á fjórða ríkisári Daríusar konungs kom orð Drottins til Sakaría. Á fjórða degi hins níunda mánaðar, í kislevmánuði, 2sendu Betel Sareser og Regem Melek og menn hans sendimenn til þess að blíðka Drottin. 3Þeir lögðu svolátandi fyrirspurn fyrir prestana, sem þjónuðu í húsi Drottins allsherjar, og fyrir spámennina: "Á ég að gráta og fasta í fimmta mánuðinum, eins og ég hefi gjört nú í mörg undanfarin ár?"4Þá kom orð Drottins allsherjar til mín, svo hljóðandi:
5Tala þú til alls landslýðsins og til prestanna á þessa leið: Þar sem þér hafið fastað og kveinað í fimmta og sjöunda mánuðinum nú í sjötíu ár, hvort var það þá mín vegna, að þér föstuðuð? 6Og er þér etið og drekkið, eruð það þá ekki þér, sem etið, og eruð það ekki þér, sem drekkið? 7Eru þetta ekki þau orð, er Drottinn lét kunngjöra fyrir munn hinna fyrri spámanna, þá er Jerúsalem var byggð og naut friðar, ásamt borgunum umhverfis hana, og þá er Suðurlandið og sléttlendið voru byggð?
8Þá kom orð Drottins til Sakaría, svo hljóðandi: 9Svo segir Drottinn allsherjar:
Dæmið rétta dóma og auðsýnið hver öðrum kærleika og miskunnsemi. 10Veitið ekki ágang ekkjum og munaðarleysingjum, útlendingum né fátækum mönnum, og enginn yðar hugsi öðrum illt í hjarta sínu.
11En þeir vildu ekki gefa því gaum og þverskölluðust. Þeir gjörðu eyru sín dauf, til þess að þeir skyldu ekki heyra, 12og þeir gjörðu hjörtu sín að demanti, til þess að þeir skyldu ekki heyra fræðsluna og orðin, sem Drottinn allsherjar sendi fyrir anda sinn, fyrir munn hinna fyrri spámanna, og það kom mikil reiði frá Drottni allsherjar.
13Og eins og hann kallaði, en þeir heyrðu ekki, svo skulu þeir nú - sagði Drottinn allsherjar - kalla, en ég ekki heyra. 14Og ég feyki þeim burt meðal allra þjóða, er þeir eigi hafa þekkt, og landið skal verða að auðn, þá er þeir eru burt farnir, svo að enginn fer þar um á leið fram eða aftur.
Þannig gjörðu þeir unaðslegt land að auðn.
Fyrirheit um endurreisn Jerúsalem8
1Orð Drottins allsherjar kom til mín, svo hljóðandi: 2Svo segir Drottinn allsherjar:Ég er gagntekinn af vandlætisfullri elsku til Síonar og er upptendraður af mikilli reiði hennar vegna.
3Svo segir Drottinn:
Ég er á afturleið til Síonar og mun taka mér bólfestu í Jerúsalem miðri. Og Jerúsalem mun nefnd verða borgin trúfasta og fjall Drottins allsherjar fjallið helga.
4Svo segir Drottinn allsherjar:
Enn munu gamlir menn og gamlar konur sitja á torgum Jerúsalem og hvert þeirra hafa staf í hendi sér fyrir elli sakir. 5Og torg borgarinnar munu full vera af drengjum og stúlkum, sem leika sér þar á torgunum.
6Svo segir Drottinn allsherjar:
Þótt það sé furðuverk í augum þeirra, sem eftir verða af þessum lýð á þeim dögum, hvort mun það og vera furðuverk í mínum augum? - segir Drottinn allsherjar.
7Svo segir Drottinn allsherjar:
Sjá, ég mun frelsa lýð minn úr landi sólarupprásarinnar og úr landi sólsetursins, 8og ég mun flytja þá heim og þeir skulu búa í Jerúsalem miðri, og þeir skulu vera minn lýður og ég skal vera þeirra Guð í trúfesti og réttlæti.
9Svo segir Drottinn allsherjar:
Verið hughraustir, þér sem á þessum dögum heyrið þessi orð af munni spámannanna, sem uppi voru, er undirstöðusteinninn var lagður til þess að endurreisa hús Drottins allsherjar, musterið. 10Því að fyrir þann tíma varð enginn arður af erfiði mannanna og enginn arður af vinnu skepnanna, og enginn var óhultur fyrir óvinum, hvort heldur hann gekk út eða kom heim, og ég hleypti öllum mönnum upp, hverjum á móti öðrum. 11En nú stend ég öðruvísi gagnvart leifum þessa lýðs en í fyrri daga - segir Drottinn allsherjar - 12því að sáðkorn þeirra verða ósködduð. Víntréð ber sinn ávöxt, og jörðin ber sinn gróða. Himinninn veitir dögg sína, og ég læt leifar þessa lýðs taka allt þetta til eignar. 13Og eins og þér, Júda hús og Ísraels hús, hafið verið hafðir að formæling meðal þjóðanna, eins vil ég nú svo hjálpa yður, að þér verðið hafðir að blessunaróskum. Óttist ekki, verið hughraustir.
14Því að svo segir Drottinn allsherjar:
Eins og ég ásetti mér að gjöra yður illt, þá er feður yðar reittu mig til reiði - segir Drottinn allsherjar - og lét mig ekki iðra þess, 15eins hefi ég nú aftur ásett mér á þessum dögum að gjöra vel við Jerúsalem og Júda hús. Óttist ekki! 16Þetta er það sem yður ber að gjöra: Talið sannleika hver við annan og dæmið ráðvandlega og eftir óskertum rétti í hliðum yðar. 17Enginn yðar hugsi öðrum illt í hjarta sínu og hafið ekki mætur á lyga-svardögum. Því að allt slíkt hata ég - segir Drottinn.
18Orð Drottins allsherjar kom til mín, svo hljóðandi:
19Svo segir Drottinn allsherjar:
Fastan í hinum fjórða mánuði, fastan í hinum fimmta mánuði, fastan í hinum sjöunda mánuði og fastan í hinum tíunda mánuði mun verða Júda húsi til fagnaðar og gleði og að unaðslegum hátíðardögum. En elskið sannleik og frið.
20Svo segir Drottinn allsherjar:
Enn munu koma heilar þjóðir og íbúar margra borga. 21Íbúar einnar borgar munu fara til annarrar og segja: "Vér skulum fara til þess að blíðka Drottin og til þess að leita Drottins allsherjar! Ég fer líka!" 22Og þannig munu fjölmennir þjóðflokkar og voldugar þjóðir koma til þess að leita Drottins allsherjar í Jerúsalem og til þess að blíðka Drottin.
23Svo segir Drottinn allsherjar:
Á þeim dögum munu tíu menn af þjóðum ýmissa tungna taka í kyrtilskaut eins Gyðings og segja: "Vér viljum fara með yður, því að vér höfum heyrt, að Guð sé með yður."
Síðari hluti
Gegn þjóðunum9
1Spádómur.Orð Drottins beinist gegn Hadraklandi og það kemur niður í Damaskus, því að Drottinn hefir gætur á mönnunum og á öllum ættkvíslum Ísraels. 2Sömuleiðis í Hamat, sem þar liggur hjá, í Týrus og Sídon, því að þær eru vitrar mjög.
3Týrus reisti sér vígi og hrúgaði saman silfri eins og mold og skíragulli eins og saur á strætum. 4Sjá, Drottinn skal gjöra hana að öreiga og steypa varnarvirki hennar í sjóinn, og sjálf mun hún eydd verða af eldi.
5Askalon skal sjá það og hræðast, og Gasa engjast sundur og saman. Sömuleiðis Ekron, því að von hennar er orðin til skammar. Konungurinn mun hverfa frá Gasa, og Askalon mun verða óbyggð, 6og skríll mun búa í Asdód.
Ég gjöri enda á ofdrambi Filista, 7og ég tek blóðið burt úr munni þeirra og viðurstyggðirnar undan tönnum þeirra.
Þá munu þeir sem eftir verða, tilheyra Guði vorum, þeir munu verða eins og ætthöfðingjar í Júda og Ekronmenn eins og Jebúsítar.
8Ég sest kringum hús mitt sem varðlið gegn þeim, sem um fara og aftur snúa. Enginn kúgari skal framar vaða yfir þá, því að nú hefi ég séð með eigin augum.
Messías9Fagna þú mjög, dóttirin Síon, lát gleðilátum, dóttirin Jerúsalem!
Sjá, konungur þinn kemur til þín. Réttlátur er hann og sigursæll, lítillátur og ríður asna, ungum ösnufola.
10Hann útrýmir hervögnum úr Efraím og víghestum úr Jerúsalem. Öllum herbogum mun og útrýmt verða, og hann mun veita þjóðunum frið með úrskurðum sínum.
Veldi hans mun ná frá hafi til hafs og frá Fljótinu til endimarka jarðarinnar.
Frelsun bandingjanna11Vegna blóðs sáttmála þíns læt ég bandingja þína lausa úr hinni vatnslausu gryfju. 12Snúið aftur til hins trausta vígisins, þér bandingjar, sem væntið lausnar. Einnig í dag er gjört heyrinkunnugt: Ég endurgeld þér tvöfalt.
13Ég hefi bent Júda eins og boga, fyllt Efraím eins og örvamæli, og ég vek sonu þína, Síon, í móti sonum Javans og gjöri þig eins og sverð í hendi kappa. 14Drottinn mun birtast uppi yfir þeim og örvar hans út fara sem eldingar. Drottinn Guð mun þeyta lúðurinn og ganga fram í sunnanstormunum. 15Drottinn allsherjar mun halda hlífiskildi yfir þeim, og þeir munu sigra þá og fótum troða slöngvusteinana. Og þeir munu drekka og reika sem víndrukknir og verða fullir eins og fórnarskálar, dreyrstokknir sem altarishorn.
16Drottinn Guð þeirra mun veita þeim sigur á þeim degi sem hjörð síns lýðs, því að þeir eru gimsteinar í höfuðdjásni, sem gnæfa glitrandi á landi sínu. 17Já, hversu mikil eru gæði þess og hversu dýrleg fegurð þess! Korn lætur æskumenn upp renna og vínberjalögur meyjar.
Lýðurinn leiddur aftur heim10
1Biðjið Drottin um regn. Hann veitir vorregn og haustregn á réttum tíma. Helliskúrir og steypiregn gefur hann þeim, hverri jurt vallarins.2Húsgoðin veittu fánýt svör, og spásagnamennirnir sáu falssýnir. Þeir kunngjöra aðeins hégómlega drauma og veita einskisverða huggun. Fyrir því héldu þeir áfram eins og hjörð, eru nú nauðulega staddir, af því að enginn er hirðirinn.
3Gegn hirðunum er reiði mín upptendruð og forustusauðanna skal ég vitja. Því að Drottinn allsherjar hefir litið til hjarðar sinnar, Júda húss, og gjört þá að skrauthesti sínum í stríðinu.
4Frá þeim kemur hornsteinninn, frá þeim kemur tjaldhællinn, frá þeim kemur herboginn, frá þeim koma allir saman hershöfðingjarnir. 5Þeir munu í stríðinu verða eins og hetjur, sem troða niður saurinn á strætunum, og þeir munu berjast vasklega, því að Drottinn er með þeim, svo að þeir verða til skammar, sem hestunum ríða.
6Ég gjöri Júda hús sterkt, og Jósefs húsi veiti ég hjálp. Ég leiði þá aftur heim, því að ég aumkast yfir þá, og þeir skulu vera eins og ég hefði aldrei útskúfað þeim. Því að ég er Drottinn, Guð þeirra, og ég vil bænheyra þá.
7Þá munu Efraímsmenn verða eins og hetjur og hjarta þeirra gleðjast eins og af víni. Börn þeirra munu sjá það og gleðjast, hjarta þeirra skal fagna yfir Drottni.
8Ég vil blístra á þá og safna þeim saman, því að ég hefi leyst þá, og þeir skulu verða eins fjölmennir og þeir forðum voru. 9Ég sáði þeim út meðal þjóðanna, en í fjarlægum löndum munu þeir minnast mín og uppala þar börn sín og snúa síðan heim. 10Ég mun leiða þá heim aftur frá Egyptalandi og safna þeim saman frá Assýríu. Ég leiði þá inn í Gíleaðland og inn á Líbanon, og skorta mun landrými fyrir þá.
11Þeir fara yfir Egyptalandshaf, og hann lýstur hið bárótta haf, og allir álar Nílfljótsins þorna. Hroki Assýríu skal niður steypast og veldissprotinn víkja frá Egyptalandi. 12Ég vil gjöra þá sterka í Drottni, og af hans nafni skulu þeir hrósa sér - segir Drottinn.
11
1Upp lúk dyrum þínum, Líbanon, til þess að eldur geti eytt sedrustrjám þínum. 2Kveina þú, kýprestré, yfir því að sedrustréð er fallið. Kveinið þér, Basans eikur, yfir því að hinn þykki skógurinn liggur við velli. 3Heyr, hversu hirðarnir kveina, af því að prýði þeirra er eyðilögð. Heyr, hversu ungljónin öskra, af því að vegsemd Jórdanar er eydd.
Góði hirðirinn og hinn illi4Svo sagði Drottinn, Guð minn:
Hald til haga skurðarsauðunum, 5er kaupendur þeirra slátra að ósekju, og seljendur þeirra segja: "Lofaður sé Drottinn, nú er ég orðinn ríkur!" og hirðar þeirra vægja þeim ekki. 6Því að nú vil ég ekki framar vægja íbúum landsins - segir Drottinn - heldur framsel ég nú sjálfur mennina, hvern í hendur konungi sínum. Þeir munu eyða landið, og ég mun engan frelsa undan valdi þeirra.
7Þá hélt ég til haga skurðarsauðunum fyrir fjárkaupmennina, og tók ég mér tvo stafi. Kallaði ég annan þeirra Hylli og hinn Sameining. Gætti ég nú fjárins 8og afmáði þrjá hirða á einum mánuði. Varð ég leiður á þeim, og þeir höfðu einnig óbeit á mér. 9Þá sagði ég: "Ég vil ekki gæta yðar. Deyi það sem deyja vill, farist það sem farast vill, og það sem þá verður eftir, eti hvað annað upp." 10Síðan tók ég staf minn Hylli og braut í sundur til þess að bregða þeim sáttmála, sem ég hafði gjört við allar þjóðir. 11En er honum var brugðið á þeim degi, þá könnuðust fjárkaupmennirnir við, þeir er gáfu mér gaum, að þetta var orð Drottins.
12Þá sagði ég við þá: "Ef yður þóknast, þá greiðið mér kaup mitt, en að öðrum kosti látið það vera!" Þá vógu þeir mér þrjátíu sikla silfurs í kaup mitt. 13En Drottinn sagði við mig: "Kasta þú því til leirkerasmiðsins, hinu dýra verðinu, er þú varst metinn af þeim!" Og ég tók þá þrjátíu sikla silfurs og kastaði þeim til leirkerasmiðsins í musteri Drottins. 14Síðan braut ég sundur hinn stafinn, Sameining, til þess að bregða upp bræðralaginu milli Júda og Ísrael.
15Því næst sagði Drottinn við mig:
Tak þér enn verkfæri heimsks hirðis, 16því að sjá, ég ætla sjálfur að láta hirði rísa upp í landinu, sem vitjar ekki þess, sem er að farast, leitar ekki þess, sem villst hefir, græðir ekki hið limlesta, annast ekki hið heilbrigða, heldur etur kjötið af feitu skepnunum og rífur klaufirnar af þeim.
17Vei hinum ónýta hirði, sem yfirgefur sauðina. Glötun komi yfir armlegg hans og yfir hægra auga hans! Armleggur hans visni gjörsamlega, og hægra auga hans verði steinblint.
Frelsun Jerúsalem12
1Spádómur. Orð Drottins um Ísrael, guðmæli Drottins, sem útþandi himininn, grundvallaði jörðina og myndaði andann í brjósti mannsins:2Sjá, ég gjöri Jerúsalem að vímuskál fyrir allar þjóðirnar, sem umhverfis hana eru. Jafnvel Júda mun vera með í umsátinni um Jerúsalem.
3Á þeim degi mun ég gjöra Jerúsalem að aflraunasteini fyrir allar þjóðir. Hver sá, er hefur hann upp, mun hrufla sig til blóðs, og allar þjóðir jarðarinnar munu safnast gegn henni.
4Á þeim degi - segir Drottinn - mun ég slá felmt á alla víghesta og vitfirring á þá sem ríða þeim. Á Júda húsi vil ég hafa vakandi auga, en slá alla hesta þjóðanna með blindu. 5Þá munu ætthöfðingjar Júda segja með sjálfum sér: "Styrkur er Jerúsalembúum í Drottni allsherjar, Guði sínum."
6Á þeim degi mun ég gjöra ætthöfðingja Júda eins og glóðarker í viðarkesti og sem brennandi blys í kerfum, og þeir munu eyða til hægri og til vinstri öllum þjóðum umhverfis, en Jerúsalem mun verða kyrr á sínum stað eins og áður. 7Fyrst mun Drottinn frelsa tjöld Júda, til þess að frægð Davíðs húss og frægð Jerúsalembúa verði ekki meiri en Júda.
8Á þeim degi mun Drottinn halda hlífiskildi yfir Jerúsalembúum, og hinn máttfarni meðal þeirra mun á þeim degi vera eins og Davíð og Davíðs hús eins og Guð, eins og engill Drottins á undan þeim.
9Á þeim degi mun ég leitast við að eyða öllum þjóðunum, er fóru í móti Jerúsalem. 10En yfir Davíðs hús og yfir Jerúsalembúa úthelli ég líknar- og bænaranda, og þeir munu líta til mín, til hans, sem þeir lögðu í gegn, og harma hann eins og menn harma lát einkasonar, og syrgja hann eins og menn syrgja frumgetinn son.
11Á þeim degi mun eins mikið harmakvein verða í Jerúsalem eins og Hadad-Rimmon-harmakveinið í Megiddódal. 12Landið mun kveina, hver kynþáttur fyrir sig: Kynþáttur Davíðs húss fyrir sig og konur þeirra fyrir sig, kynþáttur Natans húss fyrir sig og konur þeirra fyrir sig, 13kynþáttur Leví húss fyrir sig og konur þeirra fyrir sig, kynþáttur Símeíta fyrir sig og konur þeirra fyrir sig, 14og eins allir hinir kynþættirnir, sem eftir eru, hver kynþáttur fyrir sig og konur þeirra fyrir sig.
13
1Á þeim degi mun Davíðs húsi og Jerúsalembúum standa opin lind til að þvo af sér syndir og saurugleik.2Á þeim degi - segir Drottinn allsherjar - mun ég afmá nöfn skurðgoðanna úr landinu, svo að þeirra skal eigi framar minnst verða, og sömuleiðis vil ég reka burt úr landinu spámennina og óhreinleikans anda. 3En ef nokkur kemur enn fram sem spámaður, þá munu faðir hans og móðir, hans eigin foreldrar, segja við hann: "Þú skalt eigi lífi halda, því að þú hefir talað lygi í nafni Drottins." Og faðir hans og móðir, hans eigin foreldrar, munu leggja hann í gegn, þá er hann kemur fram sem spámaður.
4Á þeim degi munu allir spámenn skammast sín fyrir sýnir sínar, þá er þeir eru að spá, og þeir skulu eigi klæðast loðfeldum til þess að blekkja aðra, 5heldur mun hver þeirra segja: "Ég er enginn spámaður, ég er akurkarl, því á akuryrkju hefi ég lagt stund frá barnæsku." 6Og segi einhver við hann: "Hvaða ör eru þetta á brjósti þínu?" þá mun hann svara: "Það er eftir högg, sem ég fékk í húsi ástvina minna."
Hirðir Guðs veginn7Hef þig á loft, sverð, gegn hirði mínum og gegn manninum, sem mér er svo nákominn! - segir Drottinn allsherjar.
Slá þú hirðinn, þá mun hjörðin tvístrast, og ég mun snúa hendi minni til hinna smáu.
8Og svo skal fara í gjörvöllu landinu - segir Drottinn - að tveir hlutir landsfólksins skulu upprættir verða og gefa upp öndina, en þriðjungur þess eftir verða. 9En þennan þriðjung læt ég í eld og bræði þá, eins og silfur er brætt, og hreinsa þá eins og gull er hreinsað. Hann mun ákalla nafn mitt, og ég mun bænheyra hann og ég mun segja: "Þetta er minn lýður!" og hann mun segja: "Drottinn, Guð minn!"
Á efsta degi14
1Sjá, sá dagur kemur frá Drottni, að herfangi þínu verður skipt mitt í sjálfri þér. 2Og ég mun safna öllum þjóðunum til hernaðar móti Jerúsalem, og borgin mun verða tekin, húsin rænd og konurnar smánaðar. Helmingur borgarmanna mun verða herleiddur, en hinn lýðurinn mun ekki upprættur verða úr borginni. 3Og Drottinn mun út fara og berjast við þessar þjóðir, eins og þegar hann barðist forðum á orustudeginum. 4Fætur hans munu á þeim degi standa á Olíufjallinu, sem er austanvert við Jerúsalem, og Olíufjallið mun klofna um þvert frá austri til vesturs, og þar mun verða geysivíður dalur, því að annar hluti fjallsins mun undan síga til norðurs, en hinn til suðurs. 5En þér munuð flýja í fjalldal minn, því að fjalldalurinn nær til Asal. Og þér munuð flýja, eins og þér flýðuð undan landskjálftanum á dögum Ússía Júdakonungs. En Drottinn, Guð minn, mun koma og allir heilagir með honum.6Á þeim degi mun hvorki verða hiti, kuldi né frost, 7og það mun verða óslitinn dagur - hann er Drottni kunnur - hvorki dagur né nótt, og jafnvel um kveldtíma mun vera bjart.
8Á þeim degi munu lifandi vötn út fljóta frá Jerúsalem, og mun annar helmingur þeirra falla í austurhafið, en hinn helmingurinn í vesturhafið. Skal það verða bæði sumar og vetur. 9Drottinn mun þá vera konungur yfir öllu landinu. Á þeim degi mun Drottinn vera einn og nafn hans eitt.
10Allt landið frá Geba til Rimmon fyrir sunnan Jerúsalem mun verða að einni sléttu, en hún mun standa háreist og óhögguð á stöðvum sínum, frá Benjamínshliði þangað að er fyrra hliðið var, allt að hornhliðinu, og frá Hananelturni til konungsvínþrónna. 11Menn munu búa í henni, og bannfæring skal eigi framar til vera, og Jerúsalem skal óhult standa.
12Og þetta mun verða plágan, sem Drottinn mun láta ganga yfir allar þær þjóðir, sem fóru herför gegn Jerúsalem: Hann mun láta hold þeirra upp þorna, meðan þeir enn standa á fótum, augu þeirra munu hjaðna í augnatóttunum og tungan visna í munninum.
13Á þeim degi mun mikill felmtur frá Drottni koma yfir þá, og þeir munu þrífa hver í höndina á öðrum og hver höndin vera uppi á móti annarri. 14Jafnvel Júda mun berjast gegn Jerúsalem. Þá mun auði allra þjóðanna, sem umhverfis eru, safnað verða saman: gulli, silfri og klæðum hrönnum saman. 15Og alveg sama plágan mun koma yfir hesta, múla, úlfalda, asna og yfir allar þær skepnur, sem verða munu í þeim herbúðum.
16En allir þeir, sem eftir verða af öllum þeim þjóðum, sem farið hafa móti Jerúsalem, munu á hverju ári fara upp þangað til þess að falla fram fyrir konunginum, Drottni allsherjar, og til að halda laufskálahátíðina.
17En þeir menn af kynkvíslum jarðarinnar, sem ekki fara upp til Jerúsalem til þess að falla fram fyrir konunginum, Drottni allsherjar, yfir þá mun engin regnskúr koma. 18Og ef kynkvísl Egyptalands fer eigi upp þangað og kemur ekki, þá mun sama plágan koma yfir þá sem Drottinn lætur koma yfir þær þjóðir, er eigi fara upp þangað til að halda laufskálahátíðina. 19Þetta mun verða hegning Egypta og hegning allra þeirra þjóða, sem eigi fara upp þangað, til þess að halda laufskálahátíðina.
20Á þeim degi skal standa á bjöllum hestanna: "Helgaður Drottni," og katlarnir í húsi Drottins munu verða eins stórir og fórnarskálarnar fyrir altarinu. 21Og sérhver ketill í Jerúsalem og í Júda mun helgaður vera Drottni allsherjar, og allir þeir sem fórnfæra vilja, munu koma og taka einhvern þeirra og sjóða í, og á þeim degi mun enginn mangari framar vera í húsi Drottins allsherjar.
Netútgáfan og Hið Íslenska Biblíufélag - ágúst 1997