- 1
1 Orðskviðir Salómons Davíðssonar, Ísraels konungs,- 2 til þess að menn kynnist visku og aga,
- læri að skilja skynsamleg orð,
- 3 til þess að menn fái viturlegan aga,
- réttlæti, réttvísi og ráðvendni,
- 4 til þess að þeir veiti hinum óreyndu hyggindi,
- unglingum þekking og aðgætni, -
- 5 hinn vitri hlýðir á og eykur lærdóm sinn,
- og hinn hyggni nemur hollar lífsreglur -
- 6 til þess að menn skilji orðskviði og líkingamál,
- orð spekinganna og gátur þeirra.
- Varastu slæman félagsskap
- 7 Ótti Drottins er upphaf þekkingar,
- visku og aga fyrirlíta afglapar einir.
- 8 Hlýð þú, son minn, á áminning föður þíns
- og hafna eigi viðvörun móður þinnar,
- 9 því að þær eru yndislegur sveigur á höfði þér
- og men um háls þinn.
- 10 Son minn, þegar skálkar ginna þig,
- þá gegn þeim eigi.
- 11 Þegar þeir segja: "Kom með oss!
- Leggjumst í launsátur til manndrápa,
- sitjum án saka um saklausan mann,
- 12 gleypum þá lifandi eins og Hel -
- með húð og hári, eins og þá sem farnir eru til dánarheima.
- 13 Alls konar dýra muni munum vér eignast,
- fylla hús vor rændum fjármunum.
- 14 Þú skalt taka jafnan hlut með oss,
- einn sjóð skulum vér allir hafa" -
- 15 son minn, þá haf ekki samleið við þá,
- halt fæti þínum frá stigum þeirra.
- 16 Því að fætur þeirra eru skjótir til ills
- og fljótir til að úthella blóði.
- 17 Því að til einskis þenja menn út netið
- í augsýn allra fleygra fugla,
- 18 og slíkir menn sitja um sitt eigið líf,
- liggja í launsátri fyrir sjálfum sér.
- 19 Þannig fer öllum þeim, sem fíknir eru í rangfenginn gróða:
- fíknin verður þeim að fjörlesti.
- Spekin prédikar sinnaskipti
- 20 Spekin kallar hátt á strætunum,
- lætur rödd sína gjalla á torgunum.
- 21 Hún hrópar á glaummiklum gatnamótum,
- við borgarhliðin heldur hún tölur sínar:
- 22 Hversu lengi ætlið þér, fávísir, að elska fávísi
- og hinir háðgjörnu að hafa yndi af háði
- og heimskingjarnir að hata þekkingu?
- 23 Snúist til umvöndunar minnar,
- sjá, ég læt anda minn streyma yfir yður,
- kunngjöri yður orð mín.
- 24 En af því að þér færðust undan, þá er ég kallaði,
- og enginn gaf því gaum, þótt ég rétti út höndina,
- 25 heldur létuð öll mín ráð sem vind um eyrun þjóta
- og skeyttuð eigi umvöndun minni,
- 26 þá mun ég hlæja í ógæfu yðar,
- draga dár að, þegar skelfingin dynur yfir yður,
- 27 þegar skelfingin dynur yfir yður eins og þrumuveður
- og ógæfa yðar nálgast eins og fellibylur,
- þegar neyð og angist dynja yfir yður.
- 28 Þá munu þeir kalla á mig, en ég mun ekki svara,
- þeir munu leita mín, en ekki finna mig.
- 29 Vegna þess að þeir hötuðu þekking
- og aðhylltust ekki ótta Drottins,
- 30 skeyttu ekki ráðum mínum
- og smáðu alla umvöndun mína,
- 31 þá skulu þeir fá að neyta ávaxtar breytni sinnar
- og mettast af sínum eigin vélræðum.
- 32 Því að fráhvarf fávísra drepur þá,
- og uggleysi heimskingjanna tortímir þeim.
- 33 En sá sem á mig hlýðir, mun búa óhultur,
- mun vera öruggur og engri óhamingju kvíða.
- Spekinni sungið lof
- 2
1 Son minn, ef þú veitir orðum mínum viðtöku- og geymir boðorð mín hjá þér,
- 2 svo að þú ljáir spekinni athygli þína,
- hneigir hjarta þitt að hyggindum,
- 3 já, ef þú kallar á skynsemina
- og hrópar á hyggindin,
- 4 ef þú leitar að þeim sem að silfri
- og grefst eftir þeim eins og fólgnum fjársjóðum,
- 5 þá munt þú skilja, hvað ótti Drottins er,
- og öðlast þekking á Guði.
- 6 Því að Drottinn veitir speki,
- af munni hans kemur þekking og hyggindi.
- 7 Hann geymir hinum ráðvöndu gæfuna,
- er skjöldur þeirra, sem breyta grandvarlega,
- 8 með því að hann vakir yfir stigum réttarins
- og varðveitir veg sinna guðhræddu.
- 9 Þá munt þú og skilja, hvað réttlæti er og réttur
- og ráðvendni, - í stuttu máli, sérhverja braut hins góða.
- 10 Því að speki mun koma í hjarta þitt,
- og þekking verða sálu þinni yndisleg.
- 11 Aðgætni mun vernda þig,
- og hyggindin varðveita þig,
- 12 til þess að frelsa þig frá vegi hins illa,
- frá þeim mönnum, sem fara með fals,
- 13 sem yfirgefa stigu einlægninnar
- og ganga á vegum myrkursins
- 14 sem hafa gleði af því að gjöra illt,
- fagna yfir illsku hrekkjum,
- 15 sem gjöra vegu sína hlykkjótta
- og komnir eru út á glapstigu í breytni sinni,
- 16 til þess að frelsa þig frá léttúðarkonu,
- frá blíðmálugri konu sem annar á,
- 17 sem yfirgefið hefir unnusta æsku sinnar
- og gleymt sáttmála Guðs síns,
- 18 því að hús hennar hnígur í dauðann,
- og brautir hennar liggja niður til framliðinna,
- 19 þeir sem inn til hennar fara, snúa engir aftur,
- og aldrei komast þeir á lífsins stigu, -
- 20 til þess að þú gangir á vegi góðra manna
- og haldir þig á stigum réttlátra.
- 21 Því að hinir hreinskilnu munu byggja landið,
- og hinir grandvöru verða eftir í því.
- 22 En hinir óguðlegu munu upprættir verða úr landinu,
- og hinum svikulu verða útrýmt þaðan.
- Spekin veitir farsæl ár
- 3
1 Son minn, gleym eigi kenning minni,- og hjarta þitt varðveiti boðorð mín,
- 2 því að langa lífdaga og farsæl ár
- og velgengni munu þau veita þér í ríkum mæli.
- 3 Kærleiki og trúfesti munu aldrei yfirgefa þig.
- Bind þau um háls þér,
- rita þau á spjald hjarta þíns,
- 4 þá munt þú ávinna þér hylli og fögur hyggindi,
- bæði í augum Guðs og manna.
- 5 Treystu Drottni af öllu hjarta,
- en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit.
- 6 Mundu til hans á öllum þínum vegum,
- þá mun hann gjöra stigu þína slétta.
- 7 Þú skalt ekki þykjast vitur,
- óttast Drottin og forðast illt,
- 8 það mun verða heilnæmt fyrir líkama þinn
- og hressandi fyrir bein þín.
- 9 Tigna Drottin með eigum þínum
- og með frumgróða allrar uppskeru þinnar,
- 10 þá munu hlöður þínar verða nægtafullar
- og vínberjalögurinn flóa út af vínlagarþróm þínum.
- 11 Son minn, lítilsvirð eigi ögun Drottins
- og lát þér eigi gremjast umvöndun hans,
- 12 því að Drottinn agar þann, sem hann elskar,
- og lætur þann son kenna til, sem hann hefir mætur á.
- Sá er óhultur, sem varðveitir spekina
- 13 Sæll er sá maður, sem öðlast hefir speki,
- sá maður, sem hyggindi hlotnast.
- 14 Því að betra er að afla sér hennar en að afla silfurs,
- og arðurinn af henni ágætari en gull.
- 15 Hún er dýrmætari en perlur,
- og allir dýrgripir þínir jafnast ekki á við hana.
- 16 Langir lífdagar eru í hægri hendi hennar,
- auður og mannvirðingar í vinstri hendi hennar.
- 17 Vegir hennar eru yndislegir vegir
- og allar götur hennar velgengni.
- 18 Hún er lífstré þeim, sem grípa hana,
- og sæll er hver sá, er heldur fast í hana.
- 19 Drottinn grundvallaði jörðina með visku,
- festi himininn af hyggjuviti.
- Fyrir þekking hans mynduðust hafdjúpin
- og drýpur döggin úr skýjunum.
- 21 Son minn, varðveit þú visku og gætni,
- lát þær eigi víkja frá augum þínum,
- 22 þá munu þær verða líf sálu þinni
- og prýði fyrir háls þinn.
- 23 Þá muntu ganga óhultur veg þinn
- og eigi drepa við fæti.
- 24 Þegar þú leggst til hvíldar, þarft þú ekki að hræðast,
- og hvílist þú, mun svefninn verða vær.
- 25 Þú þarft ekki að óttast skyndilega hræðslu,
- né eyðilegging hinna óguðlegu, þegar hún dynur yfir.
- 26 Því að Drottinn mun vera athvarf þitt
- og varðveita fót þinn, að hann verði eigi fanginn.
- Elskaðu náunga þinn
- 27 Synja eigi góðs þeim, er þarfnast þess,
- ef það er á þínu valdi að gjöra það.
- 28 Seg þú ekki við náunga þinn: "Far og kom aftur!
- á morgun skal ég gefa þér" - ef þú þó átt það til.
- 29 Brugga eigi illt gegn náunga þínum,
- þegar hann býr öruggur hjá þér.
- 30 Deil ekki við neinn að ástæðulausu,
- ef hann hefir ekki gjört þér neitt mein.
- 31 Öfunda ekki ofbeldismanninn
- og haf engar mætur á neinum gjörðum hans.
- 32 Því að andstyggð er sá Drottni, er afvega fer,
- en ráðvandir menn alúðarvinir hans.
- 33 Bölvun Drottins er yfir húsi hins óguðlega,
- en bústað réttlátra blessar hann.
- 34 Spottsama spottar hann,
- en lítillátum veitir hann náð.
- 35 Vitrir menn munu heiður hljóta,
- en heimskingjar bera smán úr býtum.
- Spekin í föðurhúsum
- 4
1 Heyrið, synir, áminning föður yðar- og hlýðið til, svo að þér lærið hyggindi!
- 2 Því að góðan lærdóm gef ég yður,
- hafnið eigi kenning minni!
- 3 Þegar ég var sonur í föðurhúsum,
- viðkvæmt einkabarn heima hjá móður minni,
- 4 þá kenndi faðir minn mér og sagði við mig:
- "Hjarta þitt haldi fast orðum mínum,
- varðveit þú boðorð mín, og muntu lifa!
- 5 Afla þér visku, afla þér hygginda!
- Gleym eigi og vík eigi frá orðum munns míns!
- 6 Hafna henni eigi, þá mun hún varðveita þig,
- elska hana, þá mun hún vernda þig.
- 7 Upphaf viskunnar er: afla þér visku,
- afla þér hygginda fyrir allar eigur þínar!
- 8 Haf hana í hávegum, þá mun hún hefja þig,
- hún mun koma þér til vegs, ef þú umfaðmar hana.
- 9 Hún mun setja yndislegan sveig á höfuð þér,
- sæma þig prýðilegri kórónu."
- 10 Heyr þú, son minn, og veit viðtöku orðum mínum,
- þá munu æviár þín mörg verða.
- 11 Ég vísa þér veg spekinnar,
- leiði þig á brautir ráðvendninnar.
- 12 Gangir þú þær, skal leið þín ekki verða þröng,
- og hlaupir þú, skalt þú ekki hrasa.
- 13 Haltu fast í agann, slepptu honum ekki,
- varðveittu hann, því að hann er líf þitt.
- 14 Kom þú eigi á götu óguðlegra
- og gakk eigi á vegi vondra manna.
- 15 Sneið hjá honum, farðu hann ekki,
- snú þú frá honum og farðu fram hjá.
- 16 Því að þeir geta ekki sofið, nema þeir hafi gjört illt,
- og þeim kemur ekki dúr á auga, nema þeir hafi fellt einhvern.
- 17 Því að þeir eta glæpabrauð
- og drekka ofbeldisvín.
- 18 Gata réttlátra er eins og bjartur árdagsljómi,
- sem verður æ skærari fram á hádegi.
- 19 Vegur óguðlegra er eins og niðamyrkur,
- þeir vita ekki, um hvað þeir hrasa.
- 20 Son minn, gef gaum að ræðu minni,
- hneig eyra þitt að orðum mínum.
- 21 Lát þau eigi víkja frá augum þínum,
- varðveit þau innst í hjarta þínu.
- 22 Því að þau eru líf þeirra, er öðlast þau,
- og lækning fyrir allan líkama þeirra.
- 23 Varðveit hjarta þitt framar öllu öðru,
- því að þar eru uppsprettur lífsins.
- 24 Haltu fláræði munnsins burt frá þér
- og lát fals varanna vera fjarri þér.
- 25 Augu þín líti beint fram
- og augnalok þín horfi beint fram undan þér.
- 26 Gjör braut fóta þinna slétta,
- og allir vegir þínir séu staðfastir.
- 27 Vík hvorki til hægri né vinstri,
- haltu fæti þínum burt frá illu.
- Varastu lausláta konu
- 5
1 Son minn, gef gaum að speki minni,- hneig eyra þitt að hyggindum mínum,
- 2 til þess að þú megir varðveita mannvit
- og varir þínar geymi þekkingu.