Fyrirheitið um landið1
1Þessi eru þau orð, er Móse talaði við allan Ísrael hinumegin Jórdanar í eyðimörkinni, á sléttlendinu gegnt Súf, á milli Paran, Tófel, Laban, Haserót og Dí-Sahab. (2Eru ellefu dagleiðir frá Hóreb til Kades Barnea, þegar farin er leiðin, sem liggur til Seírfjalla.)3Á fertugasta ári, á fyrsta degi hins ellefta mánaðar, birti Móse Ísraelsmönnum allt það, er Drottinn hafði boðið honum um þá, 4eftir að hann hafði unnið á Síhon Amorítakonungi, sem hafði aðsetur í Hesbon, og Óg, konungi í Basan, sem hafði aðsetur í Astarót, hjá Edreí.
5Hinumegin Jórdanar, í Móabslandi, tók Móse að skýra lögmál þetta og mælti:
6Drottinn, Guð vor, talaði við oss á Hóreb á þessa leið: "Þér hafið nú dvalið nógu lengi á þessu fjalli. 7Snúið á leið, leggið af stað og haldið til fjalllendis Amoríta og allra nábúa þeirra á sléttlendinu, í fjalllendinu, á láglendinu, í Suðurlandinu, á sjávarströndinni, inn í land Kanaaníta og til Líbanon, allt til fljótsins mikla, Efratfljótsins.
8Sjá, ég fæ yður landið. Farið og takið til eignar landið, sem Drottinn sór feðrum yðar, Abraham, Ísak og Jakob, að gefa þeim og niðjum þeirra eftir þá."
Nýskipan dómsmála9Þá sagði ég við yður: "Ég rís ekki einn undir yður. 10Drottinn, Guð yðar, hefir margfaldað yður, og sjá, þér eruð í dag að fjölda til sem stjörnur himins. 11Drottinn, Guð feðra yðar, gjöri yður þúsund sinnum fleiri en þér eruð og blessi yður, eins og hann hefir heitið yður. 12Hvernig fæ ég einn borið þyngslin af yður, þunga yðar og deilur yðar! 13Veljið til vitra menn, skynsama og valinkunna af hverri kynkvísl yðar, og mun ég skipa þá höfðingja yfir yður."
14Þá svöruðuð þér mér og sögðuð: "Það er vel til fallið að gjöra það, sem þú talar um."
15Tók ég þá ætthöfðingja yðar, vitra menn og valinkunna, og skipaði þá höfðingja yfir yður, suma yfir þúsund, suma yfir hundrað, suma yfir fimmtíu, suma yfir tíu, og tilsjónarmenn meðal ættkvísla yðar.
16Ég lagði þá svo fyrir dómendur yðar: "Hlýðið á mál bræðra yðar og dæmið réttlátlega, hvort heldur mann greinir á við bróður sinn eða útlending, er hjá honum dvelur. 17Gjörið yður eigi mannamun í dómum, hlýðið jafnt á lágan sem háan. Hræðist engan mann, því að dómurinn er Guðs. En ef eitthvert mál er yður ofvaxið, þá skjótið því til mín, og skal ég sinna því." 18Þannig lagði ég þá fyrir yður allt það, er þér skylduð gjöra.
Landið kannað. Óhlýðni lýðsins19Því næst lögðum vér upp frá Hóreb og fórum yfir alla eyðimörkina miklu og hræðilegu, sem þér hafið séð, leiðina til fjalllendis Amoríta, eins og Drottinn Guð vor hafði fyrir oss lagt. Og vér komum til Kades Barnea.
20Þá sagði ég við yður: "Þér eruð komnir að fjalllendi Amoríta, sem Drottinn, Guð vor, gefur oss. 21Sjá, Drottinn Guð þinn hefir fengið þér landið. Far þú og tak það til eignar, eins og Drottinn, Guð feðra þinna, hefir boðið þér. Óttast þú eigi og lát eigi hugfallast."
22Þá genguð þér allir til mín og sögðuð: "Sendum menn á undan oss, að þeir megi kanna landið fyrir oss og færa oss fregnir af veginum, sem vér eigum að fara, og af borgunum, er vér munum koma til." 23Mér féll þetta vel í geð, og tók ég tólf menn af yður, einn mann af ættkvísl hverri. 24Og þeir fóru af stað og héldu norður til fjalla og komust í Eskóldal og könnuðu landið. 25Tóku þeir með sér nokkuð af ávöxtum landsins og færðu oss. Og þeir fluttu oss fregnir og sögðu: "Gott er landið, sem Drottinn Guð vor gefur oss."
26En þér vilduð eigi fara þangað og óhlýðnuðust skipun Drottins, Guðs yðar. 27Og þér mögluðuð í tjöldum yðar og sögðuð: "Af því að Drottinn hataði oss, hefir hann leitt oss burt af Egyptalandi til þess að selja oss í hendur Amorítum, svo að þeir eyði oss. 28Hvert erum vér að fara? Bræður vorir hafa skelft hjörtu vor með því að segja: ,Fólkið er stærra og hærra að vexti en vér. Borgirnar eru stórar og víggirtar hátt í loft upp. Vér höfum meira að segja séð þar Anakíta.'"
29Þá sagði ég við yður: "Látið eigi hugfallast og hræðist þá ekki. 30Drottinn Guð yðar, sem fyrir yður fer, mun berjast fyrir yður, eins og hann hjálpaði yður bersýnilega í Egyptalandi 31og á eyðimörkinni, þar sem þú sást, hvernig Drottinn, Guð þinn bar þig, eins og faðir ber barn sitt, alla þá leið, er þér hafið farið, þar til er þér komuð hingað."
32En þrátt fyrir allt þetta vilduð þér ekki treysta Drottni Guði yðar, 33sem gekk á undan yður á leiðinni til að leita upp tjaldstaði handa yður, á næturnar í eldi til þess að vísa yður veginn, sem þér ættuð að halda, en á daginn í skýi.
34En er Drottinn heyrði umtölur yðar, varð hann reiður, sór og sagði: 35"Sannlega skal enginn af þessum mönnum, af þessari illu kynslóð, fá að sjá landið góða, sem ég sór að gefa feðrum yðar, 36nema Kaleb Jefúnneson, hann skal fá að sjá það. Honum mun ég gefa landið, sem hann hefir stigið fæti á, og sonum hans, sökum þess að hann hefir fylgt Drottni trúlega."
37Drottinn reiddist mér einnig yðar vegna og sagði: "Þú skalt ekki heldur komast þangað. 38Jósúa Núnsson, sem stendur fyrir augliti þínu, hann skal komast þangað. Tel þú hug í hann, því að hann mun úthluta því Ísrael til eignar. 39Börn yðar, sem þér sögðuð að mundu verða fjandmönnunum að bráð, og synir yðar, sem í dag vita eigi grein góðs og ills, munu komast þangað. Þeim vil ég gefa það, og þeir skulu fá það til eignar. 40En þér skuluð snúa á leið og halda inn í eyðimörkina, leiðina til Sefhafsins."
41Þá svöruðuð þér og sögðuð við mig: "Vér höfum syndgað gegn Drottni. Vér viljum fara og berjast, eins og Drottinn Guð vor hefir boðið oss." Og þér gyrtuð yður, hver sínum hervopnum, og tölduð það hægðarleik að leggja upp á fjöllin.
42Þá sagði Drottinn við mig: "Seg þeim: ,Þér skuluð eigi fara þangað og eigi berjast, því að ég er eigi meðal yðar, svo að þér bíðið eigi ósigur fyrir óvinum yðar.'" 43Og ég talaði til yðar, en þér gegnduð ekki, heldur óhlýðnuðust skipun Drottins og gjörðuð yður svo djarfa að leggja upp á fjöllin. 44Fóru þá Amorítar, sem bjuggu á fjöllum þessum, í móti yður, eltu yður, eins og býflugur gjöra, og tvístruðu yður alla leið frá Seír til Horma. 45Og þér hurfuð aftur og grétuð frammi fyrir Drottni, en Drottinn heyrði ekki bænir yðar og hlýddi ekki á yður.
46Þannig hélduð þér kyrru fyrir í Kades langan tíma, eins langan tíma og þér dvölduð þar.
Haldið í norður, austan Dauðahafs2
1Síðan snerum vér á leið og héldum inn í eyðimörkina, leiðina til Sefhafsins, eins og Drottinn hafði boðið mér, og vér fórum í kringum Seírfjöll marga daga.2Þá sagði Drottinn við mig: 3"Þér hafið farið nógu lengi í kringum fjöll þessi. Haldið nú í norður. 4En bjóð þú lýðnum og seg: ,Þér farið nú yfir landamerki bræðra yðar, Esaú sona, sem búa í Seír, og þeir munu verða hræddir við yður. En gætið þess vandlega 5að gjöra þeim engan ófrið, því að ekki mun ég gefa yður svo mikið sem þverfet af landi þeirra, því að ég hefi gefið Esaú Seírfjöll til eignar. 6Mat skuluð þér kaupa af þeim fyrir silfur, að þér megið eta, og vatn skuluð þér einnig kaupa af þeim fyrir silfur, að þér megið drekka. 7Því að Drottinn Guð þinn hefir blessað þig í öllu, sem þú hefir tekið þér fyrir hendur. Hann hefir borið umhyggju fyrir för þinni um þessa miklu eyðimörk. Í fjörutíu ár hefir Drottinn Guð þinn nú verið með þér; ekkert hefir þig skort.'"
8Síðan héldum vér áfram burt frá bræðrum vorum Esaú sonum, sem búa í Seír, burt frá veginum yfir sléttlendið, burt frá Elat og Esjón Geber, og beygðum við og héldum leiðina til Móabseyðimerkur.
9Þá sagði Drottinn við mig: "Leitið eigi á Móabíta og hefjið engan ófrið við þá, því að eigi mun ég gefa þér neitt af landi þeirra til eignar, með því að ég hefi gefið Lots sonum Ar til eignar.
10(Emítar bjuggu þar forðum, mikil þjóð og fjölmenn og stórvaxin, eins og Anakítar. 11Þeir voru og taldir Refaítar, eins og Anakítar, en Móabítar kölluðu þá Emíta. 12Hórítar bjuggu og forðum í Seír, en Esaú synir hröktu þá burt og eyddu þeim, en settust sjálfir að löndum þeirra, eins og Ísrael gjörði við eignarland sitt, er Drottinn hafði gefið þeim.)
13Takið yður nú upp og farið yfir Seredá." Og vér fórum yfir Seredá.
14Í þrjátíu og átta ár vorum vér á leiðinni frá Kades Barnea, til þess er vér fórum yfir Seredá, uns öll kynslóðin, hinir vopnfæru menn, var dáin úr herbúðunum, eins og Drottinn hafði svarið þeim. 15Hönd Drottins var einnig á móti þeim, svo að hann eyddi þeim úr herbúðunum, uns enginn þeirra var eftir.
16En er allir vopnfærir menn af lýðnum voru dánir, 17þá mælti Drottinn til mín þessum orðum: 18"Þú fer í dag um land Móabíta, fram hjá Ar, 19og munt þú þá koma í nánd við Ammóníta, en eigi skalt þú leita á þá né gjöra þeim nokkurn ófrið, því að eigi mun ég gefa þér neitt af landi Ammóníta til eignar, með því að ég hefi gefið Lots sonum það til eignar.
20(Það er og talið land Refaíta. Refaítar bjuggu þar forðum og kölluðu Ammónítar þá Samsúmmíta, 21mikil þjóð og fjölmenn og stórvaxin, eins og Anakítar. En Drottinn eyddi þeim fyrir Ammónítum, svo að þeir eignuðust lönd þeirra og settust að í þeirra stað, 22eins og hann gjörði fyrir Esaú sonu, sem búa í Seír, þá er hann eyddi Hórítum fyrir þeim, svo að þeir eignuðust lönd þeirra og settust að í þeirra stað, og er svo enn í dag. 23Svo var og um Avíta, sem bjuggu í þorpum allt til Gasa. Kaftórítar komu frá Kaftór og eyddu þeim og settust sjálfir að löndum þeirra.)
24Takið yður nú upp og haldið af stað og farið yfir Arnoná. Sjá, ég hefi gefið á þitt vald Amorítann Síhon, konung í Hesbon, og land hans. Tak nú til að vinna landið og legg til orustu við hann. 25Skal ég láta það hefjast í dag, að öllum þjóðum undir himninum standi af þér ótti og hræðsla. Ef þær heyra þig nefndan á nafn, skulu þær fá í sig hræðslu og kvíða fyrir þér."
26Þá gjörði ég menn úr Kedemóteyðimörk á fund Síhons, konungs í Hesbon, með svolátandi friðarorð: 27"Leyf mér að fara um land þitt. Mun ég fara rétta þjóðleið og skal ég eigi sveigja af til hægri né vinstri. 28Mat munt þú selja mér fyrir silfur, að ég megi eta, og vatn skalt þú láta mig fá fyrir silfur, að ég megi drekka. Leyf mér aðeins að fara um fótgangandi -, 29eins og þeir leyfðu mér, Esaú synir, sem búa í Seír, og Móabítar, sem búa í Ar -, uns ég fer yfir Jórdan inn í landið, sem Drottinn Guð vor gefur oss."
30En Síhon, konungur í Hesbon, vildi ekki leyfa oss að fara um land sitt, því að Drottinn Guð þinn herti anda hans og gjörði hjarta hans þverúðarfullt, af því að hann vildi gefa hann í þínar hendur, eins og nú er fram komið.
31Drottinn sagði við mig: "Sjá, ég hefi byrjað að selja þér í hendur Síhon og land hans. Tak nú til að vinna það, svo að þú megir eignast land hans."
32Fór Síhon þá í móti oss með öllu liði sínu og átti orustu við oss hjá Jahas. 33En Drottinn Guð vor gaf hann á vort vald, svo að vér unnum sigur á honum, sonum hans og öllu liði hans. 34Þá unnum vér og á sama tíma allar borgir hans og gjöreyddum hverja borg að karlmönnum, konum og börnum. Vér létum engan undan komast. 35Fénaðinn einn tókum vér að herfangi, svo og ránsfenginn úr borgunum, er vér höfðum unnið. 36Frá Aróer, sem liggur á bakka Arnonár, og frá borginni, sem liggur í dalnum, alla leið til Gíleað var engin sú borg, er oss væri ókleift að vinna. Drottinn Guð vor gaf þær allar á vort vald. 37Aðeins komst þú ekki nærri landi Ammóníta, héraðinu fram við Jabboká, borgunum í fjalllendinu, né nokkru því, sem Drottinn Guð vor hafði bannað oss.
Tekið landið austan Jórdanar3
1Snerum vér nú á leið og héldum veginn, sem liggur til Basan. En Óg, konungur í Basan, fór í móti oss með öllu liði sínu til þess að heyja bardaga hjá Edreí. 2Þá sagði Drottinn við mig: "Eigi skalt þú óttast hann, því að ég gef hann og lið hans allt og land hans í þínar hendur, og skalt þú svo fara með hann eins og þú fórst með Síhon, Amorítakonung, er bjó í Hesbon."3Drottinn Guð vor gaf oss þannig og í hendur Óg, konung í Basan, og lið hans allt, og vér felldum hann, svo að enginn var eftir skilinn, er undan kæmist. 4Þá unnum vér allar borgir hans. Var engin sú borg, að vér eigi næðum henni frá þeim: sextíu borgir, allt Argóbhérað, konungsríki Ógs í Basan. 5Allt voru þetta borgir víggirtar háum múrveggjum, hliðum og slagbröndum, auk mikils fjölda af óumgirtum þorpum. 6Og vér gjöreyddum þær, eins og vér höfðum áður gjört við Síhon, konung í Hesbon, með því að gjöreyða hverja borg að karlmönnum, konum og börnum. 7En fénaðinn allan og ránsfenginn úr borgunum tókum vér að herfangi.
8Þannig tókum vér í það skipti úr höndum beggja Amorítakonunga land allt hinumegin Jórdanar frá Arnoná til Hermonfjalls 9(Hermon kalla Sídoningar Sirjon, en Amorítar kalla það Senír), 10allar borgir á sléttlendinu, Gíleað allt og Basan, alla leið til Salka og Edreí, þær borgir í Basan, er heyrðu konungsríki Ógs. 11Því að Óg, konungur í Basan, var sá eini, sem eftir var af Refaítum. Sjá, líkkista hans var gjör úr járni og er enn til í Rabba hjá Ammónítum. Hún er níu álna löng og fjögra álna breið eftir venjulegu alinmáli. 12Þetta land tókum vér þá til eignar.
Ættkvíslir setjast að austan JórdanarFrá Aróer, sem liggur við Arnoná, og hálft Gíleaðfjalllendi og borgirnar í því gaf ég Rúbenítum og Gaðítum, 13en það, sem eftir var af Gíleað, og allt Basan, konungsríki Ógs, gaf ég hálfri ættkvísl Manasse, allt Argóbhérað. Basan allt er kallað Refaítaland.
14Jaír, son Manasse, nam allt Argóbhérað allt að landamærum Gesúríta og Maakatíta og kallaði það, sem sé Basan, eftir nafni sínu Jaírsþorp, og helst það nafn enn í dag. 15Makír gaf ég Gíleað, 16og Rúbenítum og Gaðítum gaf ég land frá Gíleað suður að Arnoná, í dalinn miðjan, - voru það suðurtakmörkin, - og alla leið að Jabboká, sem er á landamærum Ammóníta. 17Enn fremur sléttlendið með Jórdan á mörkum, frá Genesaretvatni suður að vatninu á sléttlendinu, Saltasjó, undir Pisgahlíðum, austanmegin.
18Þá bauð ég yður og sagði: "Drottinn Guð yðar hefir gefið yður þetta land til eignar. Farið vígbúnir fyrir bræðrum yðar, Ísraelsmönnum, allir þér sem vopnfærir eruð. 19En konur yðar og börn og búsmali yðar - ég veit að þér eigið mikinn fénað - skal verða eftir í borgunum, sem ég hefi gefið yður, 20þar til er Drottinn Guð yðar veitir bræðrum yðar hvíld, eins og yður, og þeir hafa líka tekið til eignar land það, er Drottinn Guð yðar gefur þeim hinumegin Jórdanar. Þá megið þér snúa aftur, hver til óðals síns, er ég hefi gefið yður."
21Jósúa bauð ég þá og sagði: "Þú hefir séð allt það með eigin augum, sem Drottinn Guð yðar hefir gjört þessum tveimur konungum. Eins mun Drottinn fara með öll þau konungaríki, sem þú ert á leið til. 22Eigi skuluð þér óttast þau, því að Drottinn Guð yðar berst fyrir yður."
Móse meinað að fara inn í Kanaan23Þá bað ég Drottin líknar og sagði: 24"Ó Drottinn Guð! Þú hefir nú þegar sýnt þjóni þínum, hve mikill þú ert og hve sterk hönd þín er, því að hver er sá guð á himni eða jörðu, sem gjöri önnur eins verk og þú og jafnmikil máttarverk? 25Æ, leyf mér að fara yfir um og sjá landið góða, sem er hinumegin Jórdanar, þetta fagra fjalllendi og Líbanon."
26En Drottinn reiddist mér yðar vegna og bænheyrði mig ekki, og Drottinn sagði við mig: "Nóg um það. Tala eigi meira um þetta mál við mig. 27Far þú upp á Pisgatind og horf þú í vestur, norður, suður og austur og lít það með augum þínum, því að þú munt ekki komast yfir hana Jórdan. 28En skipa þú Jósúa foringja og tel hug í hann og gjör hann öruggan, því að hann skal fara yfir um fyrir þessu fólki og hann skal skipta milli þeirra landinu, sem þú sér."
29Dvöldum vér nú um hríð í dalnum á móts við Bet Peór.
Hvatningaræður og lög
Heyrið og hlýðið4
1Heyr þú nú, Ísrael, lög þau og ákvæði, sem ég kenni yður, til þess að þér haldið þau, svo að þér megið lifa og komast inn í það land, sem Drottinn, Guð feðra yðar, gefur yður, og fá það til eignar.2Þér skuluð engu auka við þau boðorð, sem ég legg fyrir yður, né heldur draga nokkuð frá, svo að þér varðveitið skipanir Drottins Guðs yðar, sem ég legg fyrir yður.
3Þér hafið séð með eigin augum, hvað Drottinn gjörði sakir Baal Peór, því að öllum þeim mönnum, sem fylgdu Baal Peór, eyddi Drottinn Guð þinn úr samfélagi yðar. 4En þér, sem hélduð yður fast við Drottin Guð yðar, lifið allir fram á þennan dag.
5Sjá, ég hefi kennt yður lög og ákvæði, eins og Drottinn Guð minn lagði fyrir mig, til þess að þér breytið eftir þeim í því landi, sem þér haldið nú inn í til þess að taka það til eignar. 6Varðveitið þau því og haldið þau, því að það mun koma á yður orði hjá öðrum þjóðum fyrir visku og skynsemi. Þegar þær heyra öll þessi lög, munu þær segja: "Það er vissulega viturt og skynsamt fólk, þessi mikla þjóð." 7Því að hvaða stórþjóð er til, sem hafi guð, er henni sé eins nálægur eins og Drottinn Guð vor er oss, hvenær sem vér áköllum hann? 8Og hver er sú stórþjóð, er hafi svo réttlát lög og ákvæði, eins og allt þetta lögmál er, sem ég legg fyrir yður í dag?
9En vara þig og gæt vandlega sálar þinnar, að eigi gleymir þú þeim hlutum, sem þú hefir séð með eigin augum, og að það ekki líði þér úr minni alla ævidaga þína, og þú skalt gjöra þá kunna börnum þínum og barnabörnum. 10Gleym þú eigi deginum, þegar þú stóðst frammi fyrir Drottni Guði þínum hjá Hóreb, og Drottinn sagði við mig: "Safna þú lýðnum saman fyrir mig. Ég ætla að láta þá heyra orð mín, svo að þeir læri að óttast mig alla þá daga, sem þeir lifa á jörðinni, og kenni það einnig börnum sínum."
11Þér komuð þá fram og námuð staðar undir fjallinu, en fjallið logaði allt í eldi upp í háan himin. Fylgdi því myrkur, ský og sorti. 12Og Drottinn talaði við yður út úr eldinum. Hljóm orðanna heyrðuð þér, en mynd sáuð þér enga, þér heyrðuð aðeins hljóminn.
13Þá birti hann yður sáttmála sinn, sem hann bauð yður að halda, tíu boðorðin, og hann reit þau á tvær steintöflur.
14Þá bauð Drottinn mér að kenna yður lög og ákvæði, svo að þér gætuð breytt eftir þeim í því landi, er þér haldið nú yfir til, til þess að taka það til eignar. 15Gætið yðar því vandlega, líf yðar liggur við - því að þér sáuð enga mynd á þeim degi, þegar Drottinn talaði við yður hjá Hóreb út úr eldinum, - 16að þér ekki mannspillið yður á því að búa yður til skurðgoð í mynd einhvers líkneskis, hvort heldur er í líki karls eða konu, 17í líki einhvers ferfætlings, sem til er á jörðinni, í líki einhvers fleygs fugls, er flýgur í loftinu, 18í líki einhvers dýrs, sem skríður á jörðinni, eða í líki einhvers fisks, sem til er í vötnunum undir jörðinni, 19og að þú eigi, þegar þú lyftir augum þínum til himins og sér sólina, tunglið og stjörnurnar, allan himinsins her, látir tælast til þess að falla fram fyrir þeim og dýrka þau. Því að Drottinn Guð þinn hefir skipt þeim meðal allra þjóða undir himninum.
20Yður hefir Drottinn tekið að sér og leitt yður út úr járnbræðsluofninum, út úr Egyptalandi, svo að þér skylduð verða eignarþjóð hans, sem og hefir verið til þessa.
21Drottinn reiddist mér yðar vegna, svo að hann sór, að ég skyldi ekki komast yfir Jórdan og ekki komast inn í góða landið, sem Drottinn Guð þinn gefur þér til eignar, 22heldur hlýt ég að deyja í þessu landi og fæ ekki að komast yfir Jórdan. En þér munuð komast yfir um og fá þetta góða land til eignar.
23Gætið yðar, að þér gleymið ekki sáttmálanum, er Drottinn Guð yðar hefir við yður gjört, og búið yður ekki til skurðgoð í mynd einhvers þess, er Drottinn Guð þinn hefir bannað þér. 24Því að Drottinn Guð þinn er eyðandi eldur, vandlátur Guð.
25Þegar þér hafið getið börn og barnabörn, og hafið ílengst í landinu, - ef þér þá mannspillið yður á því að búa til skurðgoð í einhverri mynd og gjörið það, sem illt er í augum Drottins Guðs yðar, svo að þér egnið hann til reiði, 26þá kveð ég í dag bæði himin og jörð til vitnis móti yður, að þá munuð þér brátt eyðast úr því landi, er þér haldið nú inn í yfir Jórdan til þess að fá það til eignar. Þér munuð þá eigi lifa þar mörg árin, heldur verða gjöreyddir. 27Og Drottinn mun þá dreifa yður meðal þjóðanna, svo að af yður skal einungis eftir verða lítill hópur meðal heiðingja þeirra, er Drottinn leiðir yður burt til. 28Þar munuð þér þjóna þeim guðum, sem eru handaverk manna, stokkar og steinar, sem eigi sjá og eigi heyra og eigi eta og eigi finna lykt.
29Þar munt þú leita Drottins Guðs þíns, og þú munt finna hann, ef þú leitar hans af öllu hjarta þínu og af allri sálu þinni.
30Þegar þú ert í nauðum staddur og allt þetta kemur yfir þig, þá munt þú, á komandi tímum, snúa þér til Drottins Guðs þíns og hlýða hans röddu. 31Því að Drottinn Guð þinn er miskunnsamur Guð. Hann mun eigi yfirgefa þig né afmá þig, og hann mun eigi gleyma sáttmálanum, er hann sór feðrum þínum.
32Spyr þig fyrir um fyrri tíma, sem verið hafa á undan þér, allt frá þeim tíma, er Guð skóp mennina á jörðinni, og frá einu heimsskauti til annars, hvort nokkurn tíma hafi orðið svo miklir hlutir eða nokkuð slíkt heyrst, 33hvort nokkur þjóð hafi heyrt raust Guðs út úr eldinum, eins og þú hefir heyrt, og þó haldið lífi. 34Eða hvort Guð hefir til reynt nokkurn tíma að koma sjálfur til þess að ná þjóð af annarri þjóð með máttarverkum, táknum og undrum, með styrjöld, sterkri hendi, útréttum armlegg og miklum skelfingum, eins og Drottinn Guð þinn gjörði við yður í Egyptalandi í augsýn þinni. 35Þetta hefir þú fengið að sjá, svo að þú mættir vita, að Drottinn, hann er Guð, og enginn nema hann einn.
36Af himni hefir hann látið þig heyra sína raust til þess að kenna þér, og á jörðu hefir hann látið þig sjá hinn mikla eld sinn, og þú hefir heyrt orð hans út úr eldinum. 37Og fyrir því að hann elskaði feður þína og útvaldi niðja þeirra eftir þá og leiddi þig sjálfur af Egyptalandi með hinum mikla mætti sínum 38til þess að stökkva burt undan þér þjóðum, sem eru stærri og sterkari en þú ert, en leiða þig þangað og gefa þér land þeirra til eignar, eins og nú er fram komið, 39þá ber þér í dag að kannast við það og hugfesta það, að Drottinn, hann er Guð á himnum uppi og á jörðu niðri og enginn annar.
40Þú skalt varðveita boð hans og skipanir, sem ég legg fyrir þig í dag, svo að þér vegni vel og börnum þínum eftir þig, og til þess að þú alla daga megir dvelja langa ævi í landinu, sem Drottinn Guð þinn gefur þér.
Griðastaðir austan Jórdanar41Þá skildi Móse frá þrjár borgir hinumegin Jórdanar, austanmegin, 42til þess að þangað mætti flýja hver sá vegandi, er óviljandi hefði vegið náunga sinn og eigi verið óvinur hans áður - að hann mætti flýja í einhverja af borgum þessum og halda lífi: 43Beser í eyðimörkinni á sléttlendinu handa Rúbenítum, Ramót í Gíleað handa Gaðítum og Gólan í Basan handa Manassítum.
Lög
Inngangur laganna44Þetta er lögmálið, sem Móse lagði fyrir Ísraelsmenn.
45Þetta eru fyrirmæli þau, lög og ákvæði, sem Móse birti Ísraelsmönnum, þá er þeir fóru af Egyptalandi, 46hinumegin Jórdanar, í dalnum gegnt Bet Peór í landi Síhons Amorítakonungs, sem hafði aðsetur í Hesbon og Móse og Ísraelsmenn felldu, er þeir fóru af Egyptalandi. 47Þeir lögðu undir sig land hans, svo og land Ógs, konungs í Basan, land Amorítakonunganna beggja, hinumegin Jórdanar, austanmegin, 48frá Aróer, sem liggur á bakka Arnonár, allt til Síón, það er Hermon, 49og allt sléttlendið hinumegin Jórdanar, austanmegin, allt að vatninu á sléttlendinu undir Pisgahlíðum.
Tíu boðorðin5
1Móse kallaði saman allan Ísrael og sagði við þá: Heyr þú, Ísrael, lög þau og ákvæði, sem ég birti yður í dag. Lærið þau og varðveitið þau, svo að þér haldið þau.2Drottinn Guð vor gjörði við oss sáttmála á Hóreb. 3Ekki gjörði Drottinn þennan sáttmála við feður vora, heldur við oss, oss sem hér erum allir lifandi í dag.
4Drottinn talaði við yður á fjallinu augliti til auglitis út úr eldinum. 5Ég stóð þá á milli Drottins og yðar til þess að flytja yður orð Drottins, því að þér hræddust eldinn og fóruð ekki upp á fjallið.
Hann sagði:
6"Ég er Drottinn, Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu.
7Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig.
8Þú skalt engar líkneskjur gjöra þér, engar myndir eftir því, sem er á himnum uppi, eða því, sem er á jörðu niðri, eða því, sem er í vötnunum undir jörðinni. 9Þú skalt ekki tilbiðja þær og ekki dýrka þær, því að ég, Drottinn Guð þinn, er vandlátur Guð, sem vitja misgjörða feðranna á börnunum, og í þriðja og fjórða lið, þeirra sem mig hata, 10en auðsýni miskunn þúsundum, þeirra sem elska mig og varðveita boðorð mín.
11Þú skalt ekki leggja nafn Drottins Guðs þíns við hégóma, því að Drottinn mun ekki láta þeim óhegnt, sem leggur nafn hans við hégóma.
12Gættu þess að halda hvíldardaginn heilagan, eins og Drottinn Guð þinn hefir boðið þér. 13Sex daga skalt þú erfiða og vinna allt þitt verk, 14en sjöundi dagurinn er hvíldardagur helgaður Drottni Guði þínum. Þá skalt þú ekkert verk vinna og ekki sonur þinn eða dóttir þín, þræll þinn eða ambátt þín, uxi þinn eða asni eða nokkur skepna, eða útlendingur, sem hjá þér er innan þinna borgarhliða, svo að þræll þinn og ambátt þín geti hvílt sig eins og þú. 15Og minnstu þess, að þú varst þræll á Egyptalandi og að Drottinn Guð þinn leiddi þig út þaðan með sterkri hendi og útréttum armlegg. Þess vegna bauð Drottinn Guð þinn þér að halda hvíldardaginn.
16Heiðra föður þinn og móður þína, eins og Drottinn Guð þinn hefir boðið þér, svo að þú verðir langlífur og svo að þér vegni vel í því landi, sem Drottinn Guð þinn gefur þér.
17Þú skalt ekki morð fremja.
18Þú skalt ekki drýgja hór.
19Þú skalt ekki stela.
20Þú skalt ekki bera falsvitni gegn náunga þínum.
21Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, og ekki ágirnast hús náunga þíns, ekki land hans, ekki þræl hans eða ambátt, ekki uxa hans eða asna, né nokkuð það, sem náungi þinn á."
22Þessi orð talaði Drottinn með hárri röddu til alls safnaðar yðar á fjallinu út úr eldinum, skýinu og sortanum. Bætti hann þar engu við, og hann ritaði þau á tvær steintöflur og fékk mér þær.
Meðalgangarinn milli Guðs og manna23Er þér heyrðuð röddina út úr myrkrinu og fjallið stóð í björtu báli, þá genguð þér til mín, allir höfðingjar ættkvísla yðar og öldungar yðar, 24og sögðuð: "Sjá, Drottinn Guð vor hefir sýnt oss dýrð sína og mikilleik, og vér heyrðum rödd hans úr eldinum. Vér höfum séð það í dag, að Guð getur talað við mann, og maðurinn þó haldið lífi. 25Hví skulum vér þá deyja? því að þessi mikli eldur ætlar að eyða oss. Ef vér höldum áfram að hlusta á raust Drottins Guðs vors, munum vér deyja. 26Því að hver er sá af öllu holdi, að hann hafi heyrt rödd hins lifandi Guðs tala út úr eldinum, eins og vér, og þó haldið lífi?
27Far þú og hlýð þú á allt það, sem Drottinn Guð vor segir, og seg þú oss allt það, er Drottinn Guð vor talar við þig, svo að vér megum hlýða á það og breyta eftir því."
28Drottinn heyrði ummæli yðar, er þér töluðuð við mig, og Drottinn sagði við mig: "Ég heyrði ummæli þessa fólks, er þeir töluðu við þig. Er það allt vel mælt, sem þeir sögðu. 29Ó, að þeir hefðu slíkt hugarfar, að þeir óttuðust mig og varðveittu allar skipanir mínar alla daga, svo að þeim vegni vel og börnum þeirra um aldur og ævi. 30Far þú og seg þeim: ,Hverfið aftur í tjöld yðar!' 31En þú, þú skalt standa hér hjá mér meðan ég legg fyrir þig allar þær skipanir, lög og ákvæði, sem þú átt að kenna þeim, svo að þeir breyti eftir þeim í því landi, sem ég gef þeim til eignar."
32Gætið því þess að gjöra svo sem Drottinn Guð yðar hefir boðið yður. Víkið eigi frá því, hvorki til hægri né vinstri. 33Gangið í öllu þann veg, sem Drottinn Guð yðar hefir boðið yður, svo að þér megið lífi halda og yður vegni vel og þér lifið lengi í landinu, sem þér fáið til eignar.
Þú skalt elska Guð einan6
1Þetta eru þá skipanir þær, lög og ákvæði, sem Drottinn Guð yðar hefir boðið, að þér skylduð læra og breyta eftir í því landi, er þér haldið nú yfir til, til þess að fá það til eignar, 2svo að þú óttist Drottin Guð þinn og varðveitir öll lög hans og skipanir, sem ég legg fyrir þig, bæði þú sjálfur og sonur þinn og sonarsonur þinn, alla ævidaga þína og svo að þú verðir langlífur.3Heyr því, Ísrael, og gæt þess að breyta eftir þeim, svo að þér vegni vel og yður megi fjölga stórum, eins og Drottinn, Guð feðra þinna, hefir heitið þér, í landi, sem flýtur í mjólk og hunangi.
4Heyr Ísrael! Drottinn er vor Guð; hann einn er Drottinn!
5Þú skalt elska Drottin Guð þinn af öllu hjarta þínu og af allri sálu þinni og af öllum mætti þínum.
6Þessi orð, sem ég legg fyrir þig í dag, skulu vera þér hugföst. 7Þú skalt brýna þau fyrir börnum þínum og tala um þau, þegar þú ert heima og þegar þú ert á ferðalagi, þegar þú leggst til hvíldar og þegar þú fer á fætur. 8Þú skalt binda þau til merkis á hönd þér og hafa þau sem minningarbönd á milli augna þinna 9og þú skalt skrifa þau á dyrastafi húss þíns og á borgarhlið þín.
10Þegar Drottinn Guð þinn leiðir þig inn í landið, sem hann sór feðrum þínum, Abraham, Ísak og Jakob, að gefa þér, stórar og fagrar borgir, sem þú hefir ekki reist, 11og hús full af öllum góðum hlutum, án þess að þú hafir fyllt þau, og úthöggna brunna, sem þú hefir eigi út höggvið, víngarða og olíutré, sem þú hefir ekki gróðursett, og þú etur og verður saddur, 12þá gæt þú þín, að þú gleymir ekki Drottni, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu.
13Drottin Guð þinn skalt þú óttast, og hann skalt þú dýrka og við nafn hans skalt þú sverja.
14Eigi skuluð þér elta neina aðra guði af guðum þjóða þeirra, er umhverfis yður búa -, 15því að Drottinn Guð þinn, sem býr hjá þér, er vandlátur Guð, - til þess að eigi upptendrist reiði Drottins Guðs þíns í gegn þér og hann eyði þér úr landinu.
16Eigi skuluð þér freista Drottins Guðs yðar, eins og þér freistuðuð hans í Massa.
17Varðveitið kostgæfilega skipanir Drottins Guðs yðar og fyrirmæli hans og lög, þau er hann hefir fyrir þig lagt.
18Þú skalt gjöra það, sem rétt er og gott í augum Drottins, svo að þér vegni vel og þú komist inn í og fáir til eignar landið góða, sem Drottinn sór feðrum þínum, 19með því að hann stökkvir burt öllum óvinum þínum undan þér, eins og Drottinn hefir heitið.
20Þegar sonur þinn spyr þig á síðan og segir: "Hvað eiga fyrirmælin, lögin og ákvæðin að þýða, sem Drottinn Guð vor hefir fyrir yður lagt?" 21þá skalt þú segja við son þinn: "Vér vorum þrælar Faraós í Egyptalandi, en Drottinn leiddi oss af Egyptalandi með sterkri hendi. 22Og hann gjörði mikil og skæð tákn og undur á hendur Egyptalandi, Faraó og öllu húsi hans að oss ásjáandi. 23Og hann leiddi oss út þaðan til þess að fara með oss hingað og gefa oss landið, sem hann sór feðrum vorum. 24Og hann bauð oss að halda öll þessi lög með því að óttast Drottin Guð vorn, svo að oss mætti vegna vel alla daga og hann halda oss á lífi, eins og allt til þessa. 25Og vér munum taldir verða réttlátir, ef vér gætum þess að breyta eftir öllum þessum skipunum fyrir augliti Drottins Guðs vors, eins og hann hefir boðið oss."
Bönnuð samskipti við heiðnar þjóðir7
1Þegar Drottinn Guð þinn leiðir þig inn í landið, sem þú heldur nú inn í til þess að taka það til eignar, og hann hefir stökkt burt undan þér mörgum þjóðum: Hetítum, Gírgasítum, Amorítum, Kanaanítum, Peresítum, Hevítum og Jebúsítum, sjö þjóðum, sem eru fjölmennari og voldugri en þú, - 2og er Drottinn Guð þinn gefur þær á vald þitt og þú sigrast á þeim, þá skalt þú gjöreyða þeim. Þú skalt eigi gjöra sáttmála við þær né sýna þeim vægð. 3Og eigi skalt þú mægjast við þær. Þú skalt hvorki gefa sonum þeirra dætur þínar né heldur taka dætur þeirra til handa sonum þínum. 4Því að þær mundu snúa sonum þínum frá hlýðni við mig og koma þeim til að dýrka aðra guði. Mundi reiði Drottins þá upptendrast í gegn yður og hann eyða þér skyndilega. 5Heldur skuluð þér svo með þá fara: Þér skuluð rífa niður ölturu þeirra, brjóta í sundur merkissteina þeirra, höggva sundur asérur þeirra og brenna skurðgoð þeirra í eldi. 6Því að þú ert Drottni Guði þínum helgaður lýður. Þig hefir Drottinn Guð þinn kjörið til að vera eignarlýður hans um fram allar þjóðir, sem eru á yfirborði jarðarinnar.7Ekki var það fyrir þá sök, að þér væruð fjölmennari en allar aðrar þjóðir, að Drottinn lagði ást á yður og kjöri yður, því að þér eruð allra þjóða minnstir. 8En sökum þess að Drottinn elskar yður og af því að hann vildi halda eiðinn, sem hann sór feðrum yðar, þá leiddi hann yður burt með sterkri hendi og leysti þig úr þrælahúsinu, undan valdi Faraós, Egyptalandskonungs.
9Fyrir því skalt þú vita, að Drottinn Guð þinn er hinn sanni Guð, hinn trúfasti Guð, er heldur sáttmálann og miskunnsemina í þúsund ættliði við þá, sem elska hann og varðveita boðorð hans. 10En þeim, sem hann hata, geldur hann líka hverjum og einum sjálfum með því að láta þá farast. Hann dregur það eigi fyrir þeim, sem hata hann; hverjum og einum geldur hann þeim sjálfum. 11Fyrir því skalt þú varðveita skipanir þær, lög og ákvæði, sem ég legg fyrir þig í dag, svo að þú breytir eftir þeim.
Trúfesti Guðs við sáttmálann12Ef þér nú hlýðið lögum þessum og varðveitið þau og breytið eftir þeim, þá mun Drottinn Guð þinn halda við þig þann sáttmála og miskunnsemi, sem hann sór feðrum þínum. 13Hann mun elska þig, blessa þig og margfalda þig, og hann mun blessa ávöxt kviðar þíns og ávöxt lands þíns, korn þitt, aldinlög þinn og olíu þína, viðkomu nautgripa þinna og burði hjarðar þinnar í landinu, sem hann sór feðrum þínum að gefa þér. 14Þú munt blessuð verða öllum þjóðum framar, meðal karlmanna þinna og kvenmanna skal enginn vera ófrjósamur, né heldur meðal fénaðar þíns. 15Og Drottinn mun bægja frá þér hvers konar sjúkleik, og enga af hinum vondu egypsku sóttum, sem þú þekkir, mun hann á þig leggja, heldur mun hann senda þær öllum þeim, er þig hata.
16En þú skalt eyða öllum þeim þjóðum, sem Drottinn Guð þinn gefur á þitt vald. Þú skalt ekki líta þær vægðarauga og þú skalt eigi dýrka guði þeirra, því að það mundi verða þér að tálsnöru.
17Ef þú skyldir segja í hjarta þínu: "Þessar þjóðir eru fjölmennari en ég; hvernig fæ ég rekið þær burt?" 18þá ver þú ekki hræddur við þær. Minnstu þess, hvað Drottinn Guð þinn gjörði við Faraó og alla Egypta, 19hinna miklu máttarverka, er þú sást með eigin augum, táknanna og stórmerkjanna, og hvernig Drottinn Guð þinn leiddi þig út með sterkri hendi og útréttum armlegg. Eins mun Drottinn, Guð þinn, fara með allar þær þjóðir, sem þú nú ert hræddur við. 20Já, jafnvel skelfingu mun Drottinn Guð þinn senda meðal þeirra, uns allir þeir eru dauðir, sem eftir hafa orðið og falið hafa sig fyrir þér. 21Þú skalt ekki hræðast þá, því að Drottinn, Guð þinn, er með þér, hinn mikli og ógurlegi Guð.
22Drottinn Guð þinn mun stökkva þessum þjóðum á burt undan þér smám saman; þú mátt ekki eyða þeim skjótlega, svo að villidýrunum fjölgi eigi um of fyrir þig. 23En Drottinn Guð þinn mun gefa þær á þitt vald og koma miklum ruglingi á þær, uns þær eru gjöreyddar. 24Og hann mun gefa konunga þeirra í hendur þér, og þú munt afmá nöfn þeirra undir himninum. Enginn mun standast fyrir þér, uns þú hefir gjöreytt þeim.
25Skurðlíkneski guða þeirra skalt þú brenna í eldi. Þú skalt eigi girnast silfrið og gullið, sem á þeim er, né taka það handa þér, svo að það verði þér eigi að tálsnöru, því að slíkt er andstyggilegt fyrir Drottni Guði þínum. 26Og eigi skalt þú færa andstyggilegan hlut inn í hús þitt, svo að þú fallir ekki í sama bannið, sem hann er í. Þú skalt hafa megnan viðbjóð og andstyggð á því, því að það er bannfærður hlutur.
Guð agar þig8
1Öll þau boðorð, sem ég legg fyrir yður í dag, skuluð þér varðveita til eftirbreytni, svo að þér megið lifa og margfaldast og komast inn í landið, sem Drottinn sór feðrum yðar, og fá það til eignar.2Þú skalt minnast þess, hversu Drottinn Guð þinn hefir leitt þig alla leiðina þessi fjörutíu ár í eyðimörkinni til þess að auðmýkja þig og reyna þig, svo að hann kæmist að raun um, hvað þér býr í hjarta, hvort þú mundir halda boðorð hans eða ekki.
3Hann auðmýkti þig og lét þig þola hungur og gaf þér síðan manna að eta, sem þú eigi þekktir áður né heldur feður þínir þekktu, svo að þú skyldir sjá, að maðurinn lifir eigi á einu saman brauði, heldur að maðurinn lifir á sérhverju því, er fram gengur af munni Drottins.
4Klæði þín hafa ekki slitnað á þér og fætur þínir hafa ekki þrútnað í þessi fjörutíu ár. 5Ver því sannfærður um það, að eins og maður agar son sinn, svo agar Drottinn Guð þinn þig.
6Varðveittu boðorð Drottins Guðs þíns, svo að þú gangir á hans vegum og óttist hann.
Lofgjörð um landið góða7Drottinn Guð þinn leiðir þig inn í gott land, inn í land, þar sem nóg er af vatnslækjum, lindum og djúpum vötnum, sem spretta upp í dölum og á fjöllum, 8inn í land, þar sem nóg er af hveiti og byggi, vínviði, fíkjutrjám og granateplatrjám, inn í land, þar sem nóg er af olíutrjám og hunangi, 9inn í land, þar sem þú munt ekki eiga við fátækt að búa og þar sem þig mun ekkert bresta, inn í land, þar sem steinarnir eru járn og þar sem þú getur grafið kopar úr fjöllunum. 10Og þegar þú hefir etið og ert orðinn mettur, þá skalt þú vegsama Drottin Guð þinn fyrir landið góða, sem hann gaf þér.
11Gæt þín, að þú gleymir ekki Drottni Guði þínum og haldir svo eigi boðorð hans, ákvæði og lög, sem ég legg fyrir þig í dag.
12Lát eigi, þegar þú hefir etið og ert mettur orðinn og hefir reist fögur hús og býr í þeim, 13þegar nautgripum þínum og sauðfénaði þínum fjölgar, þegar silfur þitt og gull eykst og allt sem þú átt, 14lát þá eigi hjarta þitt ofmetnast og gleym eigi Drottni Guði þínum, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu, 15sem leiddi þig um eyðimörkina miklu og hræðilegu, þar sem voru eitraðir höggormar og sporðdrekar og vatnslaust þurrlendi, og leiddi fram vatn handa þér af tinnuhörðum klettinum, 16hann sem gaf þér manna að eta í eyðimörkinni, er feður þínir eigi þekktu, svo að hann gæti auðmýkt þig og svo að hann gæti reynt þig, en gjört síðan vel við þig á eftir. 17Og seg þú ekki í hjarta þínu: "Minn eigin kraftur og styrkur handar minnar hefir aflað mér þessara auðæfa." 18Minnstu heldur Drottins Guðs þíns, því að hann er sá, sem veitir þér kraft til að afla auðæfanna, til þess að hann fái haldið þann sáttmála, er hann sór feðrum þínum, eins og líka fram hefir komið til þessa.
19En ef þú gleymir Drottni Guði þínum og eltir aðra guði, dýrkar þá og fellur fram fyrir þeim, þá votta ég yður í dag, að þér munuð gjörsamlega farast.
20Eins og þjóðirnar, er Drottinn eyðir fyrir yður, svo munuð þér og farast, af því að þér hlýdduð ekki röddu Drottins Guðs yðar.
Eigi sökum þíns eigin réttlætis9
1Heyr Ísrael! Þú fer nú í dag yfir Jórdan til þess að leggja undir þig þjóðir, sem eru stærri og voldugri en þú ert, stórar borgir og víggirtar hátt í loft upp, 2stórt og hávaxið fólk, Anakítana, sem þú þekkir og hefir sjálfur heyrt sagt um: "Hver fær staðist fyrir Anaks sonum?" 3Vit það því nú, að það er Drottinn Guð þinn, er fyrir þér fer sem eyðandi eldur. Hann mun eyða þeim og leggja þær að velli fyrir augliti þínu, svo að þú skjótlega getir rekið þær burt og gjöreytt þeim, eins og Drottinn hefir heitið þér.4Þegar Drottinn Guð þinn hefir rekið þær á burt undan þér, þá mátt þú ekki segja í hjarta þínu: "Sökum míns eigin réttlætis hefir Drottinn leitt mig inn í þetta land og fengið mér það til eignar," þar eð það er vegna guðleysis þessara þjóða, að Drottinn stökkvir þeim á burt undan þér. 5Það er ekki vegna réttlætis þíns eða hreinskilni hjarta þíns, að þú fær land þeirra til eignar, heldur er það vegna guðleysis þessara þjóða, að Drottinn Guð þinn stökkvir þeim á burt undan þér, og til þess að halda það loforð, er Drottinn sór feðrum þínum, Abraham, Ísak og Jakob.
6Vita skaltu því, að það er ekki vegna réttlætis þíns, að Drottinn, Guð þinn, gefur þér þetta góða land til eignar, því að þú ert harðsvíraður lýður.
Gullkálfurinn7Minnstu þess og gleym því eigi, hvernig þú reittir Drottin Guð þinn til reiði í eyðimörkinni. Frá því þú fyrst lagðir af stað úr Egyptalandi og þar til, er þér komuð hingað, hafið þér óhlýðnast Drottni.
8Hjá Hóreb reittuð þér Drottin til reiði, og Drottinn reiddist yður svo, að hann ætlaði að tortíma yður. 9Ég var þá farinn upp á fjallið til þess að taka á móti steintöflunum, töflunum, sem sáttmálinn var á, er Drottinn hafði gjört við yður, og ég dvaldi á fjallinu í fjörutíu daga og fjörutíu nætur, án þess að neyta matar eða drekka vatn.
10Drottinn fékk mér tvær steintöflur, ritaðar með fingri Guðs, og á þeim voru öll þau orð, er Drottinn hafði talað til yðar á fjallinu út úr eldinum, daginn sem þér voruð þar saman komnir. 11Og er fjörutíu dagar og fjörutíu nætur voru liðnar, fékk Drottinn mér báðar steintöflurnar, sáttmálstöflurnar.
12Drottinn sagði við mig: "Statt þú upp, far þú skjótt niður héðan, því að fólk þitt, sem þú leiddir burt af Egyptalandi, hefir misgjört. Skjótt hafa þeir vikið af þeim vegi, sem ég bauð þeim; þeir hafa gjört sér steypt líkneski." 13Og hann sagði við mig: "Ég sé nú, að þessi lýður er harðsvírað fólk. 14Lát mig í friði, svo að ég geti gjöreytt þeim og afmáð nöfn þeirra undir himninum, og ég mun gjöra þig að sterkari og fjölmennari þjóð en þessi er."
15Þá sneri ég á leið og gekk ofan af fjallinu, en fjallið stóð í björtu báli, og hélt ég á báðum sáttmálstöflunum í höndunum. 16Og ég leit til, og sjá: Þér höfðuð syndgað móti Drottni, Guði yðar, þér höfðuð gjört yður steyptan kálf og höfðuð þannig skjótt vikið af þeim vegi, sem Drottinn hafði boðið yður. 17Þá þreif ég báðar töflurnar og þeytti þeim af báðum höndum og braut þær í sundur fyrir augunum á yður. 18Og ég varp mér niður fyrir augliti Drottins, eins og hið fyrra sinnið, fjörutíu daga og fjörutíu nætur, og át ekki brauð og drakk ekki vatn, vegna allra yðar synda, sem þér höfðuð drýgt með því að gjöra það, sem illt var í augum Drottins, svo að þér egnduð hann til reiði. 19Því að ég var hræddur við þá reiði og heift, sem Drottinn bar til yðar, að hann ætlaði að tortíma yður. Og Drottinn bænheyrði mig einnig í þetta sinn.
20Drottinn reiddist einnig mjög Aroni, svo að hann ætlaði að tortíma honum, en ég bað og fyrir Aroni í það sama sinn.
21En synd yðar, kálfinn, sem þér höfðuð gjört, tók ég og brenndi í eldi og muldi hann vandlega í smátt, uns hann varð að fínu dufti, og duftinu kastaði ég í lækinn, sem rann þar ofan af fjallinu.
22Enn fremur reittuð þér Drottin til reiði í Tabera, í Massa og hjá Kibrót-hattava. 23Og þegar Drottinn sendi yður frá Kades Barnea og sagði: "Farið og takið til eignar landið, sem ég hefi gefið yður," þá óhlýðnuðust þér skipun Drottins Guðs yðar og trúðuð honum ekki og hlýdduð ekki raustu hans. 24Þér hafið verið Drottni óhlýðnir frá því ég þekkti yður fyrst.
Fyrirbæn Móse25Svo féll ég fram fyrir augliti Drottins þá fjörutíu daga og fjörutíu nætur, sem ég varp mér niður, því að hann kvaðst mundu tortíma yður. 26Og ég bað Drottin og sagði: "Drottinn Guð! Eyðilegg eigi þinn lýð og þína eign, sem þú frelsaðir með þínum mikla krafti, sem þú út leiddir af Egyptalandi með voldugri hendi. 27Minnstu þjóna þinna, Abrahams, Ísaks og Jakobs! Lít ekki á þvermóðsku þessa fólks, guðleysi þess og synd, 28svo að menn geti eigi sagt í landi því, sem þú leiddir oss út úr: ,Af því að Drottinn megnaði eigi að leiða þá inn í landið, sem hann hafði heitið þeim, og af því að hann hataði þá, hefir hann farið með þá burt til þess að láta þá deyja í eyðimörkinni.' 29Því að þín þjóð eru þeir og þín eign, sem þú út leiddir með miklum mætti þínum og útréttum armlegg þínum."
Sáttmálsörkin10
1Í það sama sinn sagði Drottinn við mig: "Högg þér tvær töflur af steini, eins og hinar fyrri voru, og kom til mín upp á fjallið. Þú skalt og gjöra þér örk af tré. 2Ég ætla að rita á töflurnar þau orð, sem stóðu á hinum fyrri töflunum, er þú braust í sundur, og skalt þú síðan leggja þær í örkina."3Ég gjörði þá örk af akasíuviði og hjó tvær töflur af steini eins og hinar fyrri, gekk því næst upp á fjallið með báðar töflurnar í hendi mér. 4Þá ritaði Drottinn á töflurnar með sama letri og áður tíu boðorðin, þau er hann hafði talað til yðar á fjallinu út úr eldinum, daginn sem þér voruð þar saman komnir. Síðan fékk hann mér þær. 5Þá sneri ég á leið og gekk ofan af fjallinu og lagði töflurnar í örkina, er ég hafði gjört, og þar voru þær geymdar, eins og Drottinn hafði fyrir mig lagt.
(6Ísraelsmenn fóru frá Beerót Bene Jaakan til Mósera. Þar dó Aron og var jarðaður þar, og Eleasar sonur hans varð prestur í hans stað. 7Þaðan fóru þeir til Gúdgóda, og frá Gúdgóda til Jotbata, þar sem gnægð er vatnslækja.
8Þá skildi Drottinn ættkvísl Leví frá til þess að bera sáttmálsörk Drottins, til þess að standa frammi fyrir Drottni og þjóna honum og til að blessa í hans nafni, og er svo enn í dag. 9Fyrir því fékk Leví eigi hlut né óðal með bræðrum sínum. Drottinn er óðal hans, eins og Drottinn Guð þinn hefir heitið honum.)
10En ég dvaldi á fjallinu fjörutíu daga og fjörutíu nætur, eins og hið fyrra sinnið, og Drottinn bænheyrði mig einnig í þetta skiptið: Drottinn vildi ekki tortíma þér. 11Og Drottinn sagði við mig: "Tak þig upp og hald af stað, til þess að þú megir fara fyrir lýðnum, er hann leggur upp, svo að þeir komist inn í og fái til eignar land það, sem ég sór feðrum þeirra að gefa þeim."
Elska skaltu Drottin og þjóna honum12Og nú, Ísrael, hvers krefst Drottinn Guð þinn af þér nema þess, að þú óttist Drottin Guð þinn og gangir því ávallt á hans vegum, og að þú elskir hann og að þú þjónir Drottni Guði þínum af öllu hjarta þínu og af allri sálu þinni 13með því að halda skipanir hans og lög, er ég legg fyrir þig í dag, og þér er fyrir bestu?
14Sjá, Drottni Guði þínum heyrir himinninn og himnanna himnar, jörðin og allt, sem á henni er, 15og þó hneigðist Drottinn að feðrum þínum einum, svo að hann elskaði þá, og hann útvaldi yður, niðja þeirra, eftir þá af öllum þjóðum, og er svo enn í dag. 16Umskerið því yfirhúð hjarta yðar og verið ekki lengur harðsvíraðir. 17Því að Drottinn Guð yðar, hann er Guð guðanna og Drottinn drottnanna, hinn mikli, voldugi og óttalegi Guð, sem eigi gjörir sér mannamun og þiggur eigi mútur. 18Hann rekur réttar munaðarleysingjans og ekkjunnar og elskar útlendinginn, svo að hann gefur honum fæði og klæði.
19Elskið því útlendinginn, því að þér voruð sjálfir útlendingar í Egyptalandi.
20Drottin Guð þinn skalt þú óttast, hann skalt þú dýrka, við hann skalt þú halda þér fast og við nafn hans skalt þú sverja. 21Hann er þinn lofstír og hann er þinn Guð, sá er gjört hefir fyrir þig þessa miklu og óttalegu hluti, sem augu þín hafa séð.
22Sjötíu að tölu voru feður þínir, þá er þeir fóru til Egyptalands, en nú hefir Drottinn Guð þinn gjört þig að fjölda til sem stjörnur himins.
11
1Fyrir því skalt þú elska Drottin Guð þinn og varðveita boðorð hans, lög, ákvæði og skipanir alla daga.
Viðurkennið mikilleik Guðs2Viðurkennið í dag - því að ekki á ég orðastað við börn yðar, sem eigi hafa þekkt það né séð -, viðurkennið ögun Drottins Guðs yðar, mikilleik hans, hina sterku hönd hans og útréttan armlegg hans, 3tákn hans og verk, sem hann gjörði í Egyptalandi á Faraó Egyptalandskonungi og öllu landi hans, 4hversu hann fór með herlið Egypta, hesta þeirra og vagna, hversu hann lét vötn Sefhafsins flæða yfir þá, er þeir veittu yður eftirför, og tortímdi þeim fram á þennan dag, 5og hversu hann gjörði til yðar í eyðimörkinni allt til þess er þér komuð hingað, 6og hversu hann fór með Datan og Abíram, sonu Elíabs Rúbenssonar, hversu jörðin lauk upp munni sínum og svalg þá mitt á meðal allra Ísraelsmanna, ásamt fjölskyldum þeirra og tjöldum og öllum lifandi skepnum, sem voru í fylgd með þeim. 7Því að augu yðar hafa séð öll hin miklu verk, sem Drottinn hefir gjört.
8Fyrir því skuluð þér varðveita allar þær skipanir, sem ég legg fyrir þig í dag, til þess að þér verðið sterkir, komist inn í og fáið til eignar land það, er þér haldið nú yfir til, til þess að taka það til eignar, 9og til þess að þér megið lifa langa ævi í landinu, sem Drottinn sór feðrum yðar að gefa þeim og niðjum þeirra, - landi, sem flýtur í mjólk og hunangi.
Augu Guðs hvíla á landinu10Landið sem þú heldur nú inn í til þess að taka það til eignar, það er ekki eins og Egyptaland, þaðan sem þér fóruð, þar sem þú sáðir sæði þínu og vökvaðir landið með fæti þínum eins og kálgarð, 11heldur er land það, er þér haldið nú yfir til, til þess að taka það til eignar, fjallaland og dala, og drekkur vatn af himnum þegar rignir, 12land, sem Drottinn Guð þinn annast. Stöðuglega hvíla augu Drottins Guðs þíns yfir því frá ársbyrjun til ársloka.
13Ef þér hlýðið skipunum mínum trúlega, þeim er ég legg fyrir yður í dag: að elska Drottin Guð yðar, og þjóna honum af öllu hjarta yðar og af allri sálu yðar, - 14þá mun ég gefa landi yðar regn á réttum tíma, haustregn og vorregn, svo að þú megir hirða korn þitt, aldinlög þinn og olíu þína. 15Þá mun ég og láta gras spretta í högum þínum handa skepnum þínum, svo að þú megir eta og saddur verða.
16Gætið yðar, að hjarta yðar láti ekki tælast og þér víkið ekki af leið og dýrkið aðra guði og fallið fram fyrir þeim, 17ella mun reiði Drottins upptendrast í gegn yður, og hann mun loka himninum, svo að eigi komi regn og jörðin gefi eigi ávöxt sinn, og þér munuð skjótlega eyðast úr landinu góða, sem Drottinn gefur yður.
18Fyrir því skuluð þér leggja þessi orð mín á hjarta yðar og huga, og þér skuluð binda þau til merkis á hönd yðar og hafa þau sem minningarbönd á milli augna yðar. 19Og þér skuluð kenna þau börnum yðar með því að tala um þau, þegar þú ert heima og þegar þú ert á ferðalagi, þegar þú leggst til hvíldar og þegar þú fer á fætur. 20Og þú skalt skrifa þau á dyrastafi húss þíns og á borgarhlið þín, 21til þess að þér og börn yðar megið lifa í landinu, sem Drottinn sór feðrum yðar að gefa þeim, svo lengi sem himinn er yfir jörðu.
22Ef þér varðveitið kostgæfilega allar þessar skipanir, sem ég legg fyrir yður að halda: að elska Drottin Guð yðar, að ganga ávallt á hans vegum og halda yður fast við hann, - 23þá mun Drottinn stökkva burt undan yður öllum þessum þjóðum, og þér munuð leggja undir yður þjóðir, sem eru stærri og voldugri en þér. 24Hver sá staður, er þér stígið fæti á, skal verða yðar eign. Frá eyðimörkinni allt til Líbanon, frá fljótinu, Efratfljótinu, allt til vesturhafsins skal land yðar ná. 25Enginn mun standast fyrir yður. Ótta við yður og skelfingu mun Drottinn Guð yðar láta koma yfir hvert það land, er þér stígið fæti á, eins og hann hefir heitið yður.
Blessun og bölvun26Sjá, ég legg fyrir yður í dag blessun og bölvun: 27blessunina, ef þér hlýðið skipunum Drottins Guðs yðar, sem ég býð yður í dag, 28en bölvunina, ef þér hlýðið ekki skipunum Drottins Guðs yðar og víkið af þeim vegi, sem ég býð yður í dag, til þess að elta aðra guði, sem þér eigi hafið þekkt.
29Þegar Drottinn Guð þinn leiðir þig inn í landið, sem þú heldur nú inn í til þess að taka það til eignar, þá skalt þú leggja blessunina á Garísímfjall og bölvunina á Ebalfjall. 30En þau eru hinumegin Jórdanar, vestanvert við sólarlagsveginn, í landi Kanaanítanna, þeirra er búa á sléttlendinu, gegnt Gilgal, hjá Mórelundi.
31Þér farið nú yfir Jórdan til þess að komast inn í og taka til eignar landið, sem Drottinn Guð yðar gefur yður, og þér munuð fá það til eignar og setjast að í því. 32Gætið þess þá að halda öll þau lög og ákvæði, sem ég legg fyrir yður í dag.
Lögbókin
12
1Þetta eru lög þau og ákvæði, sem þér skuluð gæta að breyta eftir í landi því, sem Drottinn, Guð feðra þinna, gefur þér til eignar, alla þá daga sem þér lifið á jörðinni.
Guðsdýrkun á einum stað2Þér skuluð gjöreyða alla þá staði, þar sem þjóðirnar, er þér leggið undir yður, hafa dýrkað guði sína, á háum fjöllum, á hæðum og undir hverju grænu tré. 3Þér skuluð rífa niður ölturu þeirra, brjóta í sundur merkissteina þeirra, brenna asérur þeirra í eldi, höggva sundur skurðlíkneski guða þeirra og afmá nafn þeirra úr þeim stað.
4Eigi skuluð þér svo breyta við Drottin Guð yðar, 5heldur skuluð þér leita til þess staðar, sem Drottinn Guð yðar mun til velja úr öllum kynkvíslum yðar til þess að láta nafn sitt búa þar, og þangað skalt þú fara. 6Þangað skuluð þér færa brennifórnir yðar og sláturfórnir, tíundir yðar og það, sem þér færið að fórnargjöf, heitfórnir yðar og sjálfviljafórnir, og frumburði nautgripa yðar og sauðfénaðar. 7Og þar skuluð þér halda fórnarmáltíð frammi fyrir Drottni Guði yðar og gleðja yður ásamt fjölskyldum yðar yfir öllu því, er þér hafið aflað, yfir því, sem Drottinn Guð þinn hefir blessað þig með.
8Þér megið ekki hegða yður þá eins og vér hegðum oss hér nú, er hver gjörir það, sem honum gott þykir, 9því að þér eruð ekki enn komnir á hvíldarstaðinn né til arfleifðarinnar, sem Drottinn Guð þinn gefur þér. 10En þegar þér eruð komnir yfir Jórdan og hafið setst að í landinu, sem Drottinn Guð yðar lætur yður fá til eignar, og þegar hann hefir veitt yður frið fyrir öllum óvinum yðar allt í kring og þér búið óhultir, 11þá skal sá staður, er Drottinn Guð yðar velur til þess að láta nafn sitt búa þar, vera staðurinn, sem þér færið til allt sem ég býð yður: brennifórnir yðar og sláturfórnir, tíundir yðar og það sem þér færið að fórnargjöf og allar útvaldar heitfórnir yðar, er þér heitið Drottni. 12Og þér skuluð gleðjast frammi fyrir Drottni Guði yðar, þér og synir yðar og dætur, þrælar yðar og ambáttir, ásamt levítunum, sem eru innan borgarhliða yðar, því að þeir hafa eigi hlutskipti né óðal með yður.
13Gæt þín, að þú fórnir ekki brennifórnum þínum á hverjum þeim stað, er þér ræður við að horfa, 14heldur á þeim stað, er Drottinn velur í einhverri af kynkvíslum þínum. Þar skalt þú fórna brennifórnum þínum og þar skalt þú gjöra allt það, sem ég býð þér. 15Þó mátt þú slátra og eta kjöt eftir eigin vild þinni innan allra borgarhliða þinna, eftir þeirri blessun, er Drottinn Guð þinn gefur þér. Bæði óhreinn maður og hreinn mega eta það, sem væri það skógargeit eða hjörtur. 16Aðeins megið þér ekki eta blóðið; þú skalt hella því á jörðina sem vatni.
17Þú mátt eigi eta innan borgarhliða þinna tíund af korni þínu, aldinlegi þínum og olíu þinni, né frumburði nautgripa þinna og sauðfénaðar, né nokkuð af heitfórnum þínum, er þú hefir heitið, né sjálfviljafórnir þínar, né nokkuð, sem þú færir að fórnargjöf, 18heldur skalt þú eta það frammi fyrir Drottni Guði þínum, á þeim stað, sem Drottinn Guð þinn velur, þú og sonur þinn og dóttir þín og þræll þinn og ambátt þín og levítinn, sem er innan borgarhliða þinna, og þú skalt gleðjast frammi fyrir Drottni Guði þínum yfir öllu því, sem þú hefir aflað.
19Gæt þín, að þú setjir ekki levítana hjá alla þá daga, sem þú lifir í landi þínu.
20Þegar Drottinn Guð þinn færir út landamerki þín, eins og hann hefir heitið þér, og þú segir: "Ég vil eta kjöt!" af því að þig lystir að eta kjöt, þá mátt þú eta kjöt, eins og þig lystir. 21Ef sá staður, sem Drottinn Guð þinn velur til þess að láta nafn sitt búa þar, er mjög langt í burtu frá þér, þá skalt þú slátra af nautum þínum og sauðum, sem Drottinn hefir gefið þér, eins og ég hefi fyrir þig lagt, og þú skalt eta það innan borgarhliða þinna eins og þig lystir. 22Aðeins skalt þú eta það eins og menn eta skógargeit eða hjört; bæði óhreinn maður og hreinn mega eta það.
23Þó skalt þú varast það grandgæfilega að neyta blóðsins, því að blóðið er lífið, og þú skalt ekki eta lífið með kjötinu. 24Þú skalt ekki neyta þess, þú skalt hella því á jörðina sem vatni. 25Þú skalt ekki neyta þess, svo að þér vegni vel og börnum þínum eftir þig, er þú gjörir það sem rétt er í augum Drottins.
26En helgigjafir þínar, þær er þér ber að færa, og heitfórnir þínar skalt þú taka og fara með þær til þess staðar, sem Drottinn velur. 27Og þú skalt fram bera brennifórnir þínar, kjötið og blóðið, á altari Drottins Guðs þíns, og blóðinu úr sláturfórnum þínum skal hella á altari Drottins Guðs þíns, en kjötið skalt þú eta.
28Varðveit þú og hlýð þú öllum þessum boðorðum, sem ég legg fyrir þig, svo að þér vegni vel og börnum þínum eftir þig ævinlega, er þú gjörir það, sem gott er og rétt í augum Drottins Guðs þíns.
Bönnuð heiðin dýrkun29Þegar Drottinn Guð þinn upprætir þær þjóðir fyrir þér, er þú heldur nú til, til þess að leggja þær undir þig, og er þú hefir lagt þær undir þig og ert setstur að í landi þeirra, 30þá gæt þín, að þú freistist ekki til þess að taka upp siðu þeirra, eftir að þeir eru eyddir burt frá þér, og að þú farir ekki að spyrjast fyrir um guði þeirra og segja: "Hvernig dýrkuðu þessar þjóðir guði sína, svo að ég geti og farið eins að?" 31Þú skalt eigi breyta svo við Drottin Guð þinn, því að allt sem andstyggilegt er Drottni, það er hann hatar, hafa þær gjört til heiðurs guðum sínum, því að jafnvel sonu sína og dætur hafa þær brennt í eldi til heiðurs guðum sínum.
32Þér skuluð gæta þess að halda öll þau boðorð, sem ég legg fyrir yður. Þú skalt engu auka við þau né heldur draga nokkuð undan.
Refsing fyrir að dýrka aðra guði13
1Ef spámaður eða draumamaður rís upp meðal yðar og boðar þér tákn eða undur, 2og táknið eða undrið rætist, það er hann hafði boðað þér og sagt um leið: "Vér skulum snúa oss til annarra guða (þeirra er þú hefir eigi þekkt), og vér skulum dýrka þá!" 3þá skalt þú ekki hlýða á orð þess spámanns eða draumamanns, því að Drottinn Guð yðar reynir yður til þess að vita, hvort þér elskið Drottin Guð yðar af öllu hjarta yðar og af allri sálu yðar.4Drottni Guði yðar skuluð þér fylgja og hann skuluð þér óttast, og skipanir hans skuluð þér varðveita og raustu hans skuluð þér hlýða, og hann skuluð þér dýrka og við hann skuluð þér halda yður fast. 5En spámann þann eða draumamann skal deyða, því að hann hefir prédikað uppreisn gegn Drottni Guði yðar, sem leiddi yður út af Egyptalandi og leysti þig úr þrælahúsinu, til þess að tæla þig burt af þeim vegi, sem Drottinn Guð þinn bauð þér að ganga. Þannig skalt þú útrýma hinu illa burt frá þér.
6Ef bróðir þinn, sonur móður þinnar, eða sonur þinn eða dóttir þín eða konan í faðmi þínum eða vinur þinn, sem þú elskar eins og lífið í brjósti þínu, ginnir þig einslega og segir: "Vér skulum fara og dýrka aðra guði," þá er hvorki þú né feður þínir hafa þekkt, 7af guðum þeirra þjóða, sem kringum yður eru, hvort heldur þær eru nálægar þér eða fjarlægar þér, frá einu heimsskauti til annars, 8þá skalt þú eigi gjöra að vilja hans og eigi hlýða á hann, og þú skalt ekki líta hann vægðarauga og þú skalt ekki þyrma honum né hylma yfir með honum, 9heldur skalt þú drepa hann, þín hönd skal fyrst á lofti vera gegn honum til þess að deyða hann, og því næst hönd alls lýðsins. 10Þú skalt lemja hann grjóti til bana, af því að hann leitaðist við að tæla þig frá Drottni Guði þínum, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu. 11Og allur Ísrael skal heyra það og skelfast, svo að enginn hafist framar að slíkt ódæði þín á meðal.
12Ef þú heyrir sagt um einhverja af borgum þínum, þeim er Drottinn Guð þinn gefur þér til þess að búa í: 13"Varmenni nokkur eru upp komin þín á meðal, og hafa þau tælt samborgara sína og sagt: ,Vér skulum fara og dýrka aðra guði, þá er þér þekkið ekki,'" 14þá skalt þú rækilega rannsaka það, grennslast eftir og spyrjast fyrir, og ef það reynist satt vera, að slík svívirðing hafi framin verið þín á meðal, 15þá skalt þú fella íbúa þeirrar borgar með sverðseggjum, bannfæra borgina og allt, sem í henni er, og fénaðinn í henni með sverðseggjum. 16Allt herfangið úr henni skalt þú bera saman á torgið og brenna síðan borgina og allt herfangið í eldi sem eldfórn Drottni Guði þínum til handa, og hún skal verða ævarandi rúst og aldrei framar endurreist verða. 17Og ekkert af hinu bannfærða skal loða við hendur þínar, til þess að Drottinn megi láta af hinni brennandi reiði sinni og auðsýni þér miskunnsemi, og til þess að hann miskunni þér og margfaldi þig, eins og hann sór feðrum þínum, 18er þú hlýðir raustu Drottins Guðs þíns með því að varðveita allar skipanir hans, þær er ég legg fyrir þig í dag, og gjörir það sem rétt er í augum Drottins Guðs þíns.
Bannaðir heiðinglegir sorgarsiðir14
1Þér eruð börn Drottins, Guðs yðar. Þér skuluð eigi rista skinnsprettur á yður né raka yður krúnu eftir framliðinn mann. 2Því að þú ert Drottni Guði þínum helgaður lýður, og þig hefir Drottinn kjörið til að vera eignarlýður hans umfram allar þjóðir, sem á jörðinni eru.
Hrein dýr og óhrein3Þú skalt ekki eta neitt viðbjóðslegt.
4Þessi eru þau ferfætt dýr, sem þér megið eta: naut, sauðfé og geitfé, 5hirtir, skógargeitur, dáhirtir, steingeitur, fjallageitur, antílópur og gemsur. 6Öll ferfætt dýr, sem hafa klaufir, og þær alklofnar, og jórtra, megið þér eta.
7Af þeim sem jórtra, og af þeim sem alklofnar klaufir hafa, megið þér þó ekki þessi eta:
Úlfaldann, hérann og stökkhérann, því að þeir jórtra að sönnu, en hafa eigi klaufir; þeir séu yður óhreinir,
- 8og svínið, því að það hefir að sönnu klaufir, en jórtrar ekki; það sé yður óhreint. Kjöt þeirra skuluð þér ekki eta, og hræ þeirra skuluð þér ekki snerta.
9Af lagardýrunum megið þér eta þessi: Öll þau, sem hafa sundugga og hreistur, megið þér eta, 10en öll þau, sem ekki hafa sundugga og hreistur, megið þér ekki eta; þau séu yður óhrein.
11Alla hreina fugla megið þér eta, 12en þessa megið þér ekki eta: örninn, skegggamminn og gamminn, 13gleðuna og fálkakynið,
- 14allt hrafnakynið,
- 15strútinn, svöluna, mávinn og haukakynið,
- 16ugluna, náttugluna og hornugluna, 17pelíkanann, hrægamminn og súluna, 18storkinn og lóukynið, herfuglinn og leðurblökuna.
19Öll fleyg skriðkvikindi séu yður óhrein; þau má eigi eta. 20Öll hrein flugdýr megið þér eta.
21Þér skuluð ekki eta neitt sjálfdautt. Útlendum manni, sem er innan borgarhliða þinna, mátt þú gefa það til að eta, eða selja það aðkomnum manni, því að þú ert Drottni Guði þínum helgaður lýður.
Þú skalt ekki sjóða kið í mjólk móður þinnar.
Tíund22Þú skalt tíunda vandlega allan ávöxt af útsæði þínu, allt það er vex á mörkinni, á ári hverju, 23og þú skalt eta frammi fyrir Drottni Guði þínum á þeim stað, sem hann velur til þess að láta nafn sitt búa þar, tíundina af korni þínu, aldinlegi þínum og olíu þinni og frumburði nautgripa þinna og sauðfénaðar, svo að þú lærir að óttast Drottin Guð þinn alla daga. 24Og sé vegurinn of langur fyrir þig og getir þú eigi borið það, af því að staðurinn, sem Drottinn Guð þinn velur til þess að láta nafn sitt búa þar, er langt í burtu frá þér, þegar Drottinn Guð þinn hefir blessað þig, 25þá skalt þú koma því í peninga, taka silfrið með þér og geyma þess vel og fara til þess staðar, er Drottinn Guð þinn velur. 26Og fyrir silfrið skalt þú kaupa hvað sem þig lystir, nautgripi, sauðfé, vín, áfengan drykk eða hvað annað, sem þig langar í, og þú skalt neyta þess þar frammi fyrir Drottni Guði þínum og gleðja þig ásamt fjölskyldu þinni.
27Og levítana, sem eru innan borgarhliða þinna, skalt þú ekki setja hjá, því að þeir hafa ekki hlut né óðal með þér.
28Þriðja hvert ár skalt þú færa út alla tíund af ávexti þínum það árið og leggja hana niður innan borgarhliða þinna, 29svo að levítar, því að þeir hafa ekki hlut né óðal með þér, útlendingar, munaðarleysingjar og ekkjur þær, sem eru innan borgarhliða þinna, megi koma og eta sig mett, til þess að Drottinn Guð þinn blessi þig í öllu því, er þú tekur þér fyrir hendur að gjöra.
Umlíðun skulda sjöunda árið15
1Sjöunda hvert ár skalt þú veita umlíðun skulda. 2En þeirri umlíðun er svo farið: Sérhver lánardrottinn skal veita umlíðun á því, sem hann hefir lánað náunga sínum. Hann skal eigi ganga hart að náunga sínum og bróður, því að umlíðun hefir boðuð verið Drottni til dýrðar. 3Að útlendum manni mátt þú ganga hart, en það, sem þú átt hjá bróður þínum, skalt þú líða hann um.4Reyndar mun enginn fátækur hjá þér vera, því að Drottinn mun blessa þig ríkulega í landi því, sem Drottinn Guð þinn gefur þér sem arf til eignar, 5ef þú aðeins hlýðir kostgæfilega raustu Drottins Guðs þíns með því að gæta þess að halda allar þessar skipanir, sem ég legg fyrir þig í dag. 6Því að Drottinn Guð þinn hefir blessað þig, eins og hann hefir heitið þér, svo að þú munt lána mörgum þjóðum, en sjálfur eigi þurfa að taka lán, og þú munt drottna yfir mörgum þjóðum, en þær munu eigi drottna yfir þér.
7Ef með þér er fátækur maður, einhver af bræðrum þínum, í einhverri af borgum þínum í landi þínu, því er Drottinn Guð þinn gefur þér, þá skalt þú ekki herða hjarta þitt og eigi afturlykja hendi þinni fyrir fátækum bróður þínum, 8heldur skalt þú upp ljúka hendi þinni fyrir honum og lána honum fúslega það, er nægi til að bæta úr skorti hans.
9Gæt þín, að eigi komi sú ódrengskaparhugsun upp í hjarta þínu: "Sjöunda árið, umlíðunarárið, er fyrir hendi!" og að þú lítir eigi fátækan bróður þinn óblíðu auga og gefir honum ekkert, svo að hann hrópi til Drottins yfir þér, og það verði þér til syndar. 10Miklu fremur skalt þú gefa honum og eigi gjöra það með illu geði, því að fyrir það mun Drottinn Guð þinn blessa þig í öllu verki þínu og í öllu, sem þú tekur þér fyrir hendur, 11því að aldrei mun fátækra vant verða í landinu. Fyrir því býð ég þér og segi: Þú skalt fúslega upp ljúka hendi þinni fyrir bróður þínum, fyrir þurfamanninum og hinum fátæka í landi þínu.
Lausn hebreskra þræla12Ef bróðir þinn, hebreskur maður eða hebresk kona, selur sig þér, þá skal hann þjóna þér í sex ár, en sjöunda árið skalt þú láta hann lausan frá þér fara. 13Og þegar þú lætur hann lausan frá þér fara, þá skalt þú ekki láta hann fara tómhentan. 14Þú skalt gjöra hann vel úr garði og gefa honum af hjörð þinni, úr láfa þínum og vínþröng þinni, þú skalt gefa honum af því, sem Drottinn Guð þinn hefir blessað þig með. 15Og þú skalt minnast þess, að þú varst þræll í Egyptalandi og að Drottinn Guð þinn leysti þig. Fyrir því legg ég þetta fyrir þig í dag.
16En segi hann við þig: "Ég vil ekki fara frá þér," af því að honum er orðið vel við þig og skyldulið þitt, með því að honum líður vel hjá þér, 17þá skalt þú taka al og stinga í gegnum eyra honum inn í hurðina, og skal hann síðan vera þræll þinn ævinlega. Á sömu leið skalt þú og fara með ambátt þína.
18Lát þér eigi fallast um það, þótt þú eigir að láta hann lausan frá þér fara, því að í sex ár hefir hann unnið þér tvöfalt, miðað við kaup kaupamanns. Og Drottinn Guð þinn mun blessa þig í öllu, sem þú gjörir.
Helgun frumburða hjarðarinnar19Alla frumburði karlkyns, sem fæðast á meðal nautgripa þinna og sauðfjár þíns, skalt þú helga Drottni Guði þínum. Frumburði nauta þinna skalt þú ekki hafa til vinnu né klippa frumburði sauðfjár þíns. 20Frammi fyrir augliti Drottins Guðs þíns skalt þú eta þá á ári hverju á þeim stað, sem Drottinn velur, ásamt skylduliði þínu.
21En ef einhver lýti eru á þeim, ef þeir eru haltir eða blindir eða hafa einhvern annan slæman galla, þá skalt þú eigi fórna þeim Drottni Guði þínum. 22Innan borgarhliða þinna skalt þú eta þá, og það jafnt óhreinn sem hreinn, sem væri það skógargeit eða hjörtur. 23Blóðsins eins skalt þú ekki neyta; þú skalt hella því á jörðina sem vatni.
Stórhátíðirnar þrjár16
1Gæt þess að halda Drottni Guði þínum páska í abíbmánuði, því að í abíbmánuði leiddi Drottinn Guð þinn þig á náttarþeli út af Egyptalandi. 2Og þú skalt slátra sauðum og nautum í páskafórn til handa Drottni Guði þínum á þeim stað, sem Drottinn velur til þess að láta nafn sitt búa þar. 3Þú mátt ekki eta sýrt brauð með því; í sjö daga skalt þú eta með því ósýrð brauð, neyðarbrauð - því að í flýti fórst þú af Egyptalandi, - til þess að þú minnist brottfarardags þíns af Egyptalandi alla ævi þína. 4Ekki má súrdeig sjást nokkurs staðar hjá þér innan þinna landamerkja í sjö daga, og ekkert af kjöti því, er þú fórnar að kveldi fyrsta daginn, skal liggja náttlangt til morguns.5Þú mátt eigi slátra páskafórninni í einhverri af borgum þeim, er Drottinn Guð þinn gefur þér, 6heldur skalt þú slátra páskafórninni á þeim stað, sem Drottinn Guð þinn velur til þess að láta nafn sitt búa þar, að kveldi um sólarlagsbil, 7í það mund, er þú fórst af Egyptalandi. Og þú skalt sjóða það og eta á þeim stað, sem Drottinn Guð þinn velur, og morguninn eftir skalt þú snúa á leið og halda heim til tjalda þinna.
8Sex daga skalt þú eta ósýrð brauð, og sjöunda daginn skal vera hátíðafundur til handa Drottni Guði þínum. Þá skalt þú ekkert verk vinna.
9Sjö vikur skalt þú telja. Frá þeim tíma, er sigðin fyrst var borin að kornstöngunum, skalt þú byrja að telja sjö vikur. 10Þá skalt þú halda Drottni Guði þínum viknahátíðina með sjálfviljagjöfum þeim, er þú innir af hendi, eftir því sem Drottinn Guð þinn hefir blessað þig. 11Og þú skalt gleðjast frammi fyrir Drottni Guði þínum, þú og sonur þinn og dóttir þín, þræll þinn og ambátt þín og levítinn, sem er innan borgarhliða þinna, og útlendingurinn, munaðarleysinginn og ekkjan, sem með þér eru, á þeim stað, sem Drottinn Guð þinn velur til þess að láta nafn sitt búa þar. 12Og þú skalt minnast þess, að þú varst þræll í Egyptalandi, og þú skalt gæta þess að halda þessi lög.
13Laufskálahátíðina skalt þú halda í sjö daga, er þú alhirðir af láfa þínum og úr vínþröng þinni. 14Og þú skalt gleðjast á hátíð þinni, þú og sonur þinn og dóttir þín, þræll þinn og ambátt þín og levítinn, útlendingurinn, munaðarleysinginn og ekkjan, sem eru innan borgarhliða þinna. 15Í sjö daga skalt þú halda Drottni Guði þínum hátíð á þeim stað, sem Drottinn velur, því að Drottinn Guð þinn mun láta þér blessast allan jarðargróða þinn og öll handaverk þín. Fyrir því skalt þú gleðjast mikillega.
16Þrem sinnum á ári skal allt þitt karlkyn birtast frammi fyrir Drottni Guði þínum á þeim stað, sem hann mun velja: á hátíð hinna ósýrðu brauða, á viknahátíðinni og á laufskálahátíðinni. Og fyrir Drottin skal enginn koma tómhentur. 17Hver og einn skal koma með það, er hann getur látið af hendi rakna, eftir þeirri blessun, sem Drottinn Guð þinn hefir veitt þér.
Um rétta dóma18Dómendur og tilsjónarmenn skalt þú skipa í öllum borgum þínum, þeim er Drottinn Guð þinn gefur þér, eftir ættkvíslum þínum, og þeir skulu dæma lýðinn réttlátum dómi.
19Þú skalt eigi halla réttinum.
Þú skalt eigi gjöra þér mannamun og eigi þiggja mútu, því að mútan blindar augu hinna vitru og umhverfir máli hinna réttlátu.
20Réttlætinu einu skalt þú fram fylgja, til þess að þú megir lifa og fá til eignar landið, sem Drottinn Guð þinn gefur þér.
Boðorð um guðsdýrkun21Þú skalt ekki gróðursetja aséru af neins konar tré hjá altari Drottins Guðs þíns, því er þú gjörir þér.
22Þú skalt ekki reisa þér neinn merkisstein, þann er Drottinn Guð þinn hatar.
17
1Þú skalt ekki fórna Drottni Guði þínum nokkru því nauti eða sauð, sem lýti er á, einhver slæmur galli, því að það er andstyggilegt Drottni Guði þínum.
Brot gegn sáttmálanum2Ef hjá þér finnst, í einhverri af borgum þínum, þeim er Drottinn Guð þinn gefur þér, maður eða kona, er gjörir það sem illt er í augum Drottins Guðs þíns, með því að rjúfa sáttmála hans, 3og fer og dýrkar aðra guði og fellur fram fyrir þeim, eða fyrir sólinni eða tunglinu eða öllum himinsins her, er ég hefi eigi leyft, 4og verði þér sagt frá þessu og þú heyrir það, þá skalt þú rækilega rannsaka það, og ef það reynist satt vera, að slík svívirðing hafi framin verið í Ísrael, 5þá skalt þú leiða mann þann eða konu, er slíkt ódæði hefir framið, að borgarhliðinu - manninn eða konuna, og lemja þau grjóti til bana.
6Eftir framburði tveggja eða þriggja vitna skal sá líflátinn verða, er fyrir dauðasök er hafður. Eigi skal hann líflátinn eftir framburði eins vitnis. 7Vitnin skulu fyrst reiða hönd gegn honum til þess að deyða hann, og því næst allur lýðurinn. Þannig skalt þú útrýma hinu illa burt frá þér.
Dómstóll í musterinu8Ef þér er um megn að dæma í einhverju máli: manndrápsmáli, máli um eignarrétt, meiðslamáli - í einhverjum þrætumálum innan borgarhliða þinna, þá skalt þú hafa þig til vegar og fara til þess staðar, er Drottinn Guð þinn velur, 9og þú skalt ganga fyrir levítaprestana og dómarann, sem þá er, og þú skalt spyrja þá ráða, og þeir skulu segja þér dómsatkvæðið. 10Og þú skalt fara eftir því atkvæði, sem þeir segja þér á þeim stað, sem Drottinn velur, og þú skalt gæta þess að gjöra allt eins og þeir segja þér fyrir. 11Eftir þeim fyrirmælum, sem þeir tjá þér, og eftir þeim dómi, sem þeir segja þér, skalt þú fara. Þú skalt eigi víkja frá atkvæðinu, sem þeir segja þér, hvorki til hægri né vinstri. 12En ef nokkur gjörir sig svo djarfan, að hann vill eigi hlýða á prestinn, sem stendur þar í þjónustu Drottins Guðs þíns, eða á dómarann - sá maður skal deyja, og þú skalt útrýma hinu illa úr Ísrael, 13svo að allur lýðurinn heyri það og skelfist og enginn sýni framar slíka ofdirfsku.
Um konunga14Þegar þú ert kominn inn í landið, sem Drottinn Guð þinn gefur þér, og þú hefir fengið það til eignar og ert setstur þar að og segir: "Ég vil taka mér konung, eins og allar þjóðirnar, sem í kringum mig eru," 15þá skalt þú taka þann til konungs yfir þig, sem Drottinn Guð þinn útvelur. Mann af bræðrum þínum skalt þú taka til konungs yfir þig. Eigi mátt þú setja útlendan mann yfir þig, þann sem eigi er bróðir þinn.
16Eigi skal hann hafa marga hesta, né heldur fara aftur með lýðinn til Egyptalands til þess að afla sér margra hesta, með því að Drottinn hefir sagt við yður: "Þér skuluð aldrei snúa aftur þessa leið." 17Hann skal og eigi hafa margar konur, svo að hjarta hans gjörist eigi fráhverft, og hann skal eigi draga saman ógrynni af silfri og gulli. 18Og þegar hann nú er setstur í hásæti konungdóms síns, þá skal hann fá lögmál þetta hjá levítaprestunum og rita eftirrit af því handa sér í bók. 19Og hann skal hafa hana hjá sér og lesa í henni alla ævidaga sína, til þess að hann læri að óttast Drottin Guð sinn og gæti þess að halda öll fyrirmæli þessa lögmáls og þessi ákvæði, 20að hann ofmetnist eigi í hjarta sínu yfir bræður sína og víki eigi frá boðorðunum, hvorki til hægri né vinstri, svo að hann megi um langa ævi ríkjum ráða í Ísrael, hann og synir hans.
Um presta18
1Eigi skulu levítaprestarnir, öll kynkvísl Leví, fá hlut og óðal með Ísrael. Á eldfórnum Drottins og erfðahluta hans skulu þeir lifa. 2En óðal skulu þeir eigi fá meðal bræðra sinna. Drottinn er óðal þeirra, eins og hann hefir heitið þeim.3Þessi skulu vera réttindi prestanna af hálfu lýðsins, af hálfu þeirra manna, er fórna sláturfórn, hvort heldur er nauti eða sauð: Presti skal gefa bóginn, báða kjammana og vinstrina. 4Frumgróðann af korni þínu, aldinlegi þínum og olíu þinni og fyrstu ullina, sem þú klippir af sauðfé þínu, skalt þú gefa honum. 5Því að Drottinn Guð þinn hefir útvalið hann af öllum kynkvíslum þínum, til þess að hann og synir hans gegni þjónustu í nafni Drottins alla daga.
6Nú kemur levíti úr einhverri af borgum þínum í öllum Ísrael, þar er hann dvelur sem útlendingur - og hann má koma eftir vild sinni - til þess staðar, er Drottinn velur, 7og má hann þá gegna þjónustu í nafni Drottins Guðs síns eins og allir bræður hans, levítarnir, er standa þar frammi fyrir Drottni. 8Þeir skulu fá jafnan hlut til viðurværis, án tillits til þess, er hann fær fyrir selda séreign sína.
Gegn heiðnum siðum9Þegar þú kemur inn í landið, sem Drottinn Guð þinn gefur þér, þá skalt þú ekki taka upp svívirðingar þessara þjóða. 10Eigi skal nokkur finnast hjá þér, sá er láti son sinn eða dóttur ganga gegnum eldinn, eða sá er fari með galdur eða spár eða fjölkynngi, eða töframaður 11eða gjörningamaður eða særingamaður eða spásagnamaður eða sá er leiti frétta af framliðnum. 12Því að hver sá, er slíkt gjörir, er Drottni andstyggilegur, og fyrir slíkar svívirðingar rekur Drottinn Guð þinn þá burt undan þér.
13Þú skalt vera grandvar gagnvart Drottni Guði þínum. 14Því að þessar þjóðir, er þú rekur nú burt, hlýða á spásagnamenn og galdramenn, en þér hefir Drottinn Guð þinn eigi leyft slíkt.
Guð heitir að senda spámann15Spámann mun Drottinn Guð þinn upp vekja meðal þín, af bræðrum þínum, slíkan sem ég er. Á hann skuluð þér hlýða. 16Mun þannig fyllilega rætast það, er þú baðst Drottin Guð þinn um hjá Hóreb, daginn sem þér voruð þar saman komnir, er þú sagðir: "Eigi vildi ég lengur þurfa að heyra raust Drottins Guðs míns né oftar að sjá þennan mikla eld, svo að ég deyi ekki."
17Þá sagði Drottinn við mig: "Vel er það mælt, sem þeir segja. 18Ég vil upp vekja þeim spámann meðal bræðra þeirra, slíkan sem þú ert, og ég mun leggja honum mín orð í munn, og hann skal mæla til þeirra allt það, er ég býð honum. 19Og hvern þann, er eigi vill hlýða á orð mín, þau er hann mun flytja í mínu nafni, hann mun ég krefja reikningsskapar. 20En sá spámaður, sem dirfist að tala í mínu nafni það, er ég hefi eigi boðið honum að tala, og sá sem talar í nafni annarra guða, sá spámaður skal deyja.
21Ef þú segir í hjarta þínu: ,Hvernig fáum vér þekkt úr þau orð, er Drottinn hefir ekki talað?' 22þá vit, að þegar spámaður talar í nafni Drottins og það rætist eigi né kemur fram, þá eru það orð, sem Drottinn hefir eigi talað. Af ofdirfsku sinni hefir spámaðurinn talað það, þú þarft ekki að hræðast hann."
Griðastaðir19
1Þegar Drottinn Guð þinn upprætir þær þjóðir, hverra land Drottinn Guð þinn gefur þér, og er þú hefir lagt þær undir þig og ert setstur að í borgum þeirra og húsum, 2þá skalt þú skilja frá þrjár borgir í landi þínu, því er Drottinn Guð þinn gefur þér til eignar. 3Þú skalt leggja veg að þeim og skipta gjörvöllu landi þínu, því er Drottinn Guð þinn lætur þig eignast, í þrjá hluti, og skal það vera til þess að þangað megi flýja hver sá, er mann vegur.4Svo skal vera um veganda þann, er þangað flýr til þess að forða lífi sínu:
Ef maður drepur náunga sinn óviljandi og hefir eigi verið óvinur hans áður, 5svo sem þegar maður fer með náunga sínum í skóg að fella tré og hann reiðir upp öxina til að höggva tréð, en öxin hrýtur af skaftinu og lendir á náunga hans, svo að hann fær bana af - sá maður má flýja í einhverja af borgum þessum og forða svo lífi sínu, 6til þess að hefndarmaðurinn elti ekki vegandann meðan móðurinn er á honum og nái honum, af því að vegurinn er langur, og drepi hann, þótt hann sé ekki dauðasekur, með því að hann var ekki óvinur hans áður.
7Fyrir því býð ég þér og segi: Þú skalt skilja þrjár borgir frá. 8Og ef Drottinn Guð þinn færir út landamerki þín, eins og hann hefir svarið feðrum þínum, og hann gefur þér gjörvallt landið, sem hann hét að gefa feðrum þínum, 9svo framarlega sem þú gætir þess að halda allar þessar skipanir, sem ég legg fyrir þig í dag, með því að elska Drottin Guð þinn og ganga á hans vegum alla daga, þá skalt þú enn bæta þrem borgum við þessar þrjár, 10til þess að saklausu blóði verði eigi úthellt í landi þínu, því er Drottinn Guð þinn gefur þér til eignar, og blóðsök falli eigi á þig.
11En ef maður hatast við náunga sinn og situr um hann, ræðst á hann og lýstur hann til bana og flýr síðan í einhverja af borgum þessum, 12þá skulu öldungar þeirrar borgar, er hann á heima í, senda þangað og sækja hann og selja í hendur hefndarmanni til lífláts. 13Þú skalt ekki líta hann vægðarauga, heldur hreinsa Ísrael af saklausra manna blóði, svo að þér vegni vel.
Um merkjafærslu14Þú skalt eigi færa úr stað landamerki náunga þíns, þau er forfeðurnir hafa sett, á arfleifð þinni, er þú munt eignast í landinu, sem Drottinn Guð þinn gefur þér til eignar.
Um vitnaleiðslu15Eigi skal eitt vitni koma fram gegn manni, þá er um einhvern glæp eða einhverja synd er að ræða - hvaða synd sem það nú er, sem hann hefir drýgt. Því aðeins skal framburður gildur vera, að tveir eða þrír vottar beri.
16Nú rís falsvottur gegn einhverjum og ber á hann lagabrot, 17og skulu þá báðir þeir, er kærumálið eiga saman, ganga fram fyrir Drottin, fyrir prestana og dómarana, sem þá eru í þann tíma, 18og dómararnir skulu rannsaka það rækilega, og ef þá reynist svo, að votturinn er ljúgvottur, að hann hefir borið lygar á bróður sinn, 19þá skuluð þér gjöra svo við hann sem hann hafði hugsað að gjöra við bróður sinn, og þannig skalt þú útrýma hinu illa burt frá þér. 20Og hinir munu heyra það og skelfast og eigi framar hafast að slíkt ódæði þín á meðal. 21Eigi skalt þú líta slíkt vægðarauga: Líf fyrir líf, auga fyrir auga, tönn fyrir tönn, hönd fyrir hönd, fót fyrir fót.
Hernaðarlög20
1Þegar þú fer í hernað við óvini þína og þú sér hesta og vagna og liðfleiri her en þú ert, þá skalt þú ekki óttast þá, því að Drottinn Guð þinn er með þér, hann sem leiddi þig burt af Egyptalandi.2Og þegar að því er komið, að þér leggið til orustu, þá skal presturinn ganga fram og mæla til lýðsins 3og segja við þá: "Heyr, Ísrael! Þér leggið í dag til orustu við óvini yðar. Látið ekki hugfallast, óttist ekki, skelfist ekki og hræðist þá ekki, 4því að Drottinn Guð yðar fer með yður til þess að berjast fyrir yður við óvini yðar og veita yður fulltingi."
5Því næst skulu tilsjónarmennirnir mæla til lýðsins og segja: "Hver sá maður, er reist hefir nýtt hús, en hefir ekki vígt það, skal fara og snúa heim aftur, svo að hann falli ekki í orustunni og annar maður vígi það. 6Hver sá maður, sem plantað hefir víngarð, en hefir engar hans nytjar haft, skal fara og snúa heim aftur, svo að hann falli ekki í orustunni og annar maður hafi hans not. 7Hver sá maður, er fastnað hefir sér konu, en hefir ekki enn gengið að eiga hana, skal fara og snúa heim aftur, svo að hann falli ekki í orustunni og annar maður gangi að eiga hana."
8Enn fremur skulu tilsjónarmennirnir mæla til lýðsins og segja: "Hver sá maður, sem hræddur er og hugdeigur, skal fara og snúa heim aftur, svo að bræðrum hans fallist ekki hugur eins og honum."
9Og er tilsjónarmennirnir hafa lokið því að mæla til lýðsins, skal skipa hershöfðingja yfir liðið.
10Þegar þú býst til að herja á borg, þá skalt þú bjóða henni frið. 11Og ef hún veitir friðsamleg andsvör og lýkur upp fyrir þér, þá skal allur lýðurinn, sem í henni finnst, vera þér ánauðugur og þjóna þér. 12En vilji hún ekki gjöra frið við þig, heldur eiga ófrið við þig, þá skalt þú setjast um hana, 13og þegar Drottinn Guð þinn gefur hana í hendur þér, skalt þú deyða með sverðseggjum allt karlkyn, sem í henni er, 14en konum, börnum og fénaði og öllu, sem er í borginni, öllu herfanginu, mátt þú ræna handa þér og neyta herfangs óvina þinna, þess er Drottinn Guð þinn gefur þér.
15Svo skalt þú fara með allar þær borgir, sem eru mjög í fjarska við þig og ekki eru af borgum þessara þjóða.
16En í borgum þessara þjóða, sem Drottinn Guð þinn gefur þér til eignar, skalt þú enga mannssál láta lífi halda. 17Miklu fremur skalt þú gjöreyða þeim: Hetítum, Amorítum, Kanaanítum, Peresítum, Hevítum og Jebúsítum, eins og Drottinn Guð þinn hefir fyrir þig lagt, 18til þess að þeir kenni yður ekki að taka upp allar þær svívirðingar, er þeir hafa í frammi haft guðum sínum til vegsemdar, og þér syndgið gegn Drottni Guði yðar.
19Þegar þú verður að sitja lengi um einhverja borg til þess að taka hana herskildi, þá skalt þú ekki spilla trjám hennar með því að bera að þeim exi, því að þú getur etið af þeim aldinin, og þú skalt ekki höggva þau, því að hvort munu tré merkurinnar vera menn, svo að þau þurfi að vera í umsát þinni? 20Þau tré ein, er þú veist að eigi bera æt aldin, þeim mátt þú spilla og höggva þau til þess að reisa úr þeim hervirki gegn borg þeirri, er á í ófriði við þig, uns hún fellur.
Um morð, er enginn veit, hver framið hefir21
1Ef maður finnst veginn í landi því, er Drottinn Guð þinn gefur þér til eignar, liggjandi úti á víðavangi, en enginn veit, hver hann hefir drepið, 2þá skulu öldungar þínir og dómendur fara út og mæla fjarlægðina til borganna, er liggja hringinn í kringum hinn vegna. 3Og sú borg, sem næst er hinum vegna, - öldungar þeirrar borgar skulu taka kvígu, sem eigi hefir höfð verið til vinnu né gengið hefir undir oki. 4Því næst skulu öldungar borgarinnar fara með kvíguna ofan í dal með sírennandi vatni, sem hvorki er yrktur né sáinn, og þar í dalnum skulu þeir brjóta kvíguna úr hálsliðnum. 5Þá skulu prestarnir, synir Leví, ganga fram, - því að þá hefir Drottinn Guð þinn útvalið til að þjóna sér og til þess að blessa í nafni Drottins, og eftir atkvæði þeirra skal skera úr öllum þrætumálum og meiðslamálum -, 6og allir öldungar þeirrar borgar, þeir er næstir eru hinum vegna, skulu þvo hendur sínar yfir kvígunni, sem hálsbrotin var í dalnum, 7og þeir skulu taka til orða og segja: "Vorar hendur hafa ekki úthellt þessu blóði og augu vor hafa ekki séð það. 8Fyrirgef, Drottinn, lýð þínum, Ísrael, er þú hefir leyst, og lát ekki lýð þinn Ísrael gjalda saklauss blóðs!" Og þeim skal blóðsökin upp gefin verða.9Þannig skalt þú hreinsa þig af saklausra manna blóði, svo að þér vegni vel, er þú gjörir það sem rétt er í augum Drottins.
Um herteknar konur10Þegar þú fer í hernað við óvini þína og Drottinn Guð þinn gefur þá í hendur þér og þú hertekur fólk meðal þeirra, 11og þú sér meðal hinna herteknu konu fríða sýnum og fellir hug til hennar og vilt taka hana þér fyrir konu, 12þá skalt þú leiða hana inn í hús þitt, og hún skal raka höfuð sitt og skera neglur sínar 13og fara úr fötum þeim, er hún var hernumin í. Síðan skal hún dvelja í húsi þínu og gráta föður sinn og móður heilan mánuð. Eftir það mátt þú ganga inn til hennar og samrekkja henni og hún vera kona þín. 14En fari svo, að þú hafir eigi lengur þokka til hennar, þá skalt þú láta hana algjörlega lausa og mátt alls eigi selja hana við verði. Þú skalt ekki fara með hana sem ambátt, fyrir því að þú hefir spjallað hana.
Um réttindi frumgetins sonar15Ef maður á tvær konur, og hefir mætur á annarri en lætur sér fátt um hina, og þær fæða honum sonu, bæði sú er hann hefir mætur á og sú er hann lætur sér fátt um, og frumgetni sonurinn er sonur þeirrar, er hann lætur sér fátt um, 16þá skal honum ekki heimilt vera, er hann skiptir því sem hann á meðal sona sinna, að gjöra son konunnar, sem hann hefir mætur á, frumgetinn fram yfir son þeirrar, er hann lætur sér fátt um og frumgetinn er, 17heldur skal hann viðurkenna frumgetninginn, son þeirrar, er hann lætur sér fátt um, og gefa honum tvöfaldan hlut af öllu því, er hann á, því að hann er frumgróði styrkleika hans, honum heyrir frumburðarrétturinn.
Um foreldravaldið18Ef maður á þrjóskan son og ódælan, sem eigi vill hlýða föður sínum og móður, og hann hlýðnast þeim ekki að heldur, þótt þau hirti hann, 19þá skal faðir hans og móðir taka hann og fara með hann til öldunga borgar hans, að borgarhliðinu, þar sem hann á heima, 20og segja við öldunga borgar hans: "Þessi sonur okkar er þrjóskur og ódæll og vill ekki hlýða okkur, hann er svallari og drykkjurútur." 21Skulu þá allir borgarmenn lemja hann grjóti til bana. Þannig skalt þú útrýma hinu illa burt frá þér, og allur Ísrael skal heyra það og skelfast.
Um lík hengds manns22Þegar maður drýgir synd, sem varðar lífláti, og hann er líflátinn og þú hengir hann á tré, 23þá skal líkami hans ekki vera náttlangt á trénu, heldur skalt þú jarða hann samdægurs. Því að sá er bölvaður af Guði, sem hengdur er, og þú skalt ekki saurga land þitt, það er Drottinn Guð þinn gefur þér til eignar.
Um týndan fjárhlut22
1Þegar þú sér naut eða sauð bróður þíns á slæðingi, þá skalt þú ekki ganga fram hjá þeim, heldur skalt þú reka þau aftur til bróður þíns. 2En ef bróðir þinn býr eigi í grennd við þig eða ef þú þekkir hann ekki, þá skalt þú taka það heim til þín og hafa hjá þér, uns bróðir þinn leitar þess. Þá skalt þú fá honum það aftur. 3Eins skalt þú og fara með asna hans, og eins skalt þú fara með klæðnað hans, og eins skalt þú fara með hvern þann týndan hlut, er bróðir þinn hefir misst og þú fundið. Þú mátt eigi leiða það hjá þér.4Ef þú sér asna eða uxa bróður þíns liggja afvelta á veginum, þá skalt þú ekki ganga fram hjá þeim. Þú skalt vissulega hjálpa honum til að reisa þá á fætur.
Ýmisleg ákvæði5Eigi skal kona ganga í karlmannsbúningi og eigi skal karlmaður fara í kvenmannsföt, því að hver sá, er slíkt gjörir, er Drottni Guði þínum andstyggilegur.
6Ef fuglshreiður verður fyrir þér á leið þinni, uppi í tré eða á jörðinni, með ungum í eða eggjum, og móðirin liggur á ungunum eða eggjunum, þá skalt þú ekki taka móðurina ásamt ungunum. 7Þú skalt sleppa móðurinni, en taka ungana eina, til þess að þér vegni vel og þú lifir langa ævi.
8Þegar þú reisir nýtt hús, skalt þú gjöra brjóstrið allt í kring uppi á þakinu, svo að ekki bakir þú húsi þínu blóðsekt, ef einhver kynni að detta ofan af því.
9Þú skalt eigi sá víngarð þinn tvenns konar sæði, svo að allt falli ekki undir helgidóminn, sæðið, sem þú sáir, og eftirtekjan af víngarðinum.
10Þú skalt ekki plægja með uxa og asna saman.
11Þú skalt ekki fara í föt, sem ofin eru af tvenns konar efni, af ull og hör saman.
12Þú skalt gjöra þér skúfa á fjögur skaut skikkju þinnar, þeirrar er þú sveipar um þig.
Sifjaréttarákvæði13Nú gengur maður að eiga konu, en fær óbeit á henni, er hann hefir samrekkt henni, 14og ber á hana svívirðilegar sakir og ófrægir hana og segir: "Ég gekk að eiga þessa konu, en er ég kom nærri henni, fann ég ekki meydómsmerki hjá henni," 15þá skulu foreldrar stúlkunnar taka meydómsmerki hennar og fara með þau til öldunga borgarinnar í borgarhliðið, 16og faðir stúlkunnar skal segja við öldungana: "Dóttur mína gaf ég þessum manni að eiginkonu, en hann hefir óbeit á henni. 17Nú ber hann svívirðilegar sakir á hana og segir: ,Ég fann eigi meydómsmerki hjá dóttur þinni.' En hér eru sannanir fyrir meydómi dóttur minnar!" Og þau skulu breiða út rekkjuklæðið í augsýn öldunga borgarinnar.
18Og öldungar borgarinnar skulu taka manninn og refsa honum, 19og þeir skulu gjöra bætur á hendur honum, hundrað sikla silfurs, og greiða þá föður stúlkunnar, fyrir það að hann ófrægði mey í Ísrael. Og hún skal vera kona hans, honum skal eigi heimilt að skilja við hana alla ævi sína.
20En ef það reynist satt, og sönnur verða eigi á það færðar að stúlkan hafi hrein mey verið, 21þá skal fara með stúlkuna að húsdyrum föður hennar, og borgarmenn skulu lemja hana grjóti til bana, því að hún hefir framið óhæfuverk í Ísrael, með því að hórast í föðurgarði. Þannig skalt þú útrýma hinu illa burt frá þér.
22Ef maður er staðinn að því að liggja hjá konu annars manns, þá skulu þau bæði deyja, maðurinn, sem lá hjá konunni, og konan sjálf. Þannig skalt þú útrýma hinu illa úr Ísrael.
23Nú er mey manni föstnuð, og karlmaður hittir hana innan borgar og leggst með henni, 24þá skuluð þér leiða þau bæði að borgarhliðinu og lemja þau grjóti til bana, stúlkuna vegna þess að hún kallaði ekki, þó að hún væri inni í borginni, og manninn vegna þess að hann spjallaði konu náunga síns. Þannig skalt þú útrýma hinu illa burt frá þér.
25En ef maðurinn hittir föstnuðu stúlkuna úti á víðavangi, og hann tekur hana með valdi og leggst með henni, þá skal maðurinn einn deyja, sá er með henni lagðist. 26En stúlkunni skalt þú ekkert gjöra. Hún hefir ekki framið neitt það, sem dauða sé vert, því að hér stóð eins á og þegar maður ræðst á náunga sinn og drepur hann. 27Því að þar sem hann hitti hana úti á víðavangi, kann fastnaða stúlkan að hafa kallað, en enginn verið við til að hjálpa henni.
28Ef maður hittir mey, sem eigi er föstnuð, og hann tekur hana og leggst með henni og komið er að þeim, 29þá skal maðurinn, er lagðist með henni, greiða föður stúlkunnar fimmtíu sikla silfurs, en hún skal verða kona hans, fyrir því að hann hefir spjallað hana. Honum skal eigi heimilt að skilja við hana alla ævi sína.
30Eigi skal maður ganga að eiga konu föður síns né fletta upp ábreiðu föður síns.
Hverjum meina skuli aðgang að þingsamkomu safnaðarins23
1Enginn sá, er meiddur hefir verið eistnamari eða hreðurskorinn, má vera í söfnuði Drottins.2Enginn bastarður má vera í söfnuði Drottins, jafnvel ekki tíundi maður frá honum má vera í söfnuði Drottins.
3Enginn Ammóníti eða Móabíti má vera í söfnuði Drottins. Jafnvel ekki tíundi maður frá þeim má vera í söfnuði Drottins að eilífu, 4vegna þess að þeir komu ekki í móti yður með brauð og vatn, þá er þér voruð á leiðinni frá Egyptalandi, og vegna þess að þeir keyptu í móti þér Bíleam Beórsson frá Petór í Mesópótamíu til þess að bölva þér. 5En Drottinn Guð þinn vildi ekki hlýða á Bíleam, og Drottinn Guð þinn sneri bölvaninni í blessan fyrir þig, af því að Drottinn Guð þinn elskaði þig. 6Þú skalt aldrei alla ævi þína láta þér annt um farsæld þeirra og velgengni.
7Þú skalt eigi hafa andstyggð á Edómítum, því að þeir eru bræður þínir.
Þú skalt eigi hafa andstyggð á Egyptum, því að þú dvaldir sem útlendingur í landi þeirra. 8Afkomendur þeirra í þriðja lið mega vera í söfnuði Drottins.
Um hreinleika herbúðanna9Þegar þú fer í hernað móti óvinum þínum, þá skalt þú gæta þín við öllum illum hlutum. 10Ef einhver, sem með þér er, er ekki hreinn vegna þess, sem hann hefir hent um nóttina, þá skal hann ganga út fyrir herbúðirnar og má eigi koma inn í herbúðirnar, 11en að áliðnum degi skal hann lauga sig í vatni, og er sól er setst, má hann aftur ganga inn í herbúðirnar.
12Þú skalt og hafa afvikinn stað fyrir utan herbúðirnar. Þangað skalt þú fara erinda þinna. 13Og þú skalt hafa spaða í tækjum þínum, og er þú þarft að setjast niður úti, þá skalt þú grafa holu með honum, moka því næst aftur yfir og hylja saurindin. 14Því að Drottinn Guð þinn er á gangi um herbúðir þínar til þess að frelsa þig og gefa óvini þína á þitt vald; fyrir því skulu herbúðir þínar helgar vera, svo að hann sjái ekkert óþokkalegt hjá þér og snúi sér burt frá þér.
Ýmisleg ákvæði15Þú skalt eigi framselja í hendur húsbónda þræl, sem flúið hefir til þín frá húsbónda sínum. 16Hann skal setjast að hjá þér, í landi þínu, á þeim stað, er hann sjálfur velur, í einhverri af borgum þínum, þar sem honum best líkar. Þú skalt ekki sýna honum ójöfnuð.
17Á meðal Ísraels dætra má engin vera, sú er helgi sig saurlifnaði, og á meðal Ísraels sona má enginn vera, sá er helgi sig saurlifnaði. 18Þú skalt eigi bera skækjulaun eða hundsgjald inn í hús Drottins Guðs þíns eftir neinu heiti, því að einnig hvort tveggja þetta er Drottni Guði þínum andstyggilegt.
19Þú skalt ekki taka fjárleigu af bróður þínum, hvorki fyrir peninga, matvæli né nokkurn hlut annan, er ljá má gegn leigu. 20Af útlendum manni mátt þú taka fjárleigu, en af bróður þínum mátt þú ekki taka fjárleigu, til þess að Drottinn Guð þinn blessi þig í öllu því, er þú tekur þér fyrir hendur í landinu, sem þú heldur nú inn í til þess að taka það til eignar.
21Þegar þú gjörir Drottni Guði þínum heit, þá skalt þú ekki láta dragast að efna það, því að ella mun Drottinn Guð þinn krefjast þess af þér og það verða þér til syndar. 22En þótt þú sleppir því að gjöra heit, þá hvílir engin sekt á þér fyrir það.
23Það sem komið hefir yfir varir þínar, skalt þú halda og breyta eftir því, eins og þú sjálfviljuglega hefir heitið Drottni Guði þínum, það sem þú hefir talað með munni þínum.
24Þegar þú kemur í víngarð náunga þíns, þá mátt þú eta vínber eins og þig lystir, þar til er þú ert mettur, en í ker þitt mátt þú ekkert láta.
25Þegar þú kemur á kornakur náunga þíns, þá mátt þú tína öx með hendinni, en sigð mátt þú ekki sveifla yfir kornstöngum náunga þíns.
Um hjónaskilnað24
1Ef maður gengur að eiga konu og samrekkir henni, en hún finnur síðan ekki náð í augum hans, af því að hann verður var við eitthvað viðbjóðslegt hjá henni, og hann skrifar henni skilnaðarskrá og fær henni í hendur og lætur hana fara burt af heimili sínu, - 2ef hún því næst, eftir að hún er farin burt af heimili hans, fer og giftist öðrum manni, 3en þessi seinni maður leggur líka óvild á hana og skrifar henni skilnaðarskrá og fær henni í hendur, og lætur hana fara burt af heimili sínu -, eða ef seinni maðurinn, sem kvæntist henni, deyr, 4þá má ekki fyrri maður hennar, sá er við hana skildi, taka hana aftur sér að eiginkonu, eftir að hún er saurguð orðin, því að slíkt er andstyggilegt fyrir Drottni, og þú skalt eigi flekka landið, sem Drottinn Guð þinn gefur þér til eignar.
Ýmisleg ákvæði5Þegar maður er nýkvæntur, þá skal hann ekki fara í hernað og engar álögur skulu á hann lagðar. Hann skal vera frjáls maður fyrir heimili sitt eitt ár, svo að hann gleðji konu sína, er hann hefir gengið að eiga.
6Eigi skal taka kvörn eða efri kvarnarstein að veði, því að það væri að taka líf mannsins að veði.
7Ef maður verður uppvís að því að stela einhverjum af bræðrum sínum, einhverjum af Ísraelsmönnum, og hann fer með hann sem þræl eða selur hann, þá skal slíkur þjófur deyja. Þannig skalt þú útrýma hinu illa burt frá þér.
8Gæt þín í líkþrárveikindum að athuga vandlega og fara eftir öllu því, sem levítaprestarnir tjá yður. Þér skuluð gæta þess að gjöra svo sem ég hefi fyrir þá lagt. 9Minnstu þess, hvað Drottinn Guð þinn gjörði við Mirjam á leiðinni, þá er þér fóruð af Egyptalandi.
10Þegar þú lánar náunga þínum eitthvað, hvað sem það svo er, þá skalt þú eigi ganga inn í hús hans til þess að taka veð af honum. 11Þú skalt staðnæmast úti fyrir, og sá, er þú lánar, skal færa þér veðið út.
12Og ef það er snauður maður, þá skalt þú ekki leggjast til hvíldar með veð hans, 13heldur skalt þú skila honum aftur veðinu um sólarlagsbil, svo að hann geti lagst til hvíldar í yfirhöfn sinni og blessi þig, og það mun talið verða þér til réttlætis fyrir augliti Drottins Guðs þíns.
14Þú skalt eigi beita fátækan og þurfandi daglaunamann ofríki, hvort sem hann er einn af bræðrum þínum eða útlendingum þeim, er dvelja í landi þínu innan borgarhliða þinna. 15Þú skalt greiða honum kaup hans sama daginn, áður en sól sest, - því að hann er fátækur, og hann langar til að fá það -, svo að hann hrópi ekki til Drottins yfir þér og það verði þér til syndar.
16Feður skulu ekki líflátnir verða ásamt börnunum, og börn skulu ekki líflátin verða ásamt feðrunum. Hver skal líflátinn verða fyrir sína eigin synd.
17Þú skalt ekki halla rétti útlends manns eða munaðarleysingja.
Þú skalt ekki taka fatnað ekkjunnar að veði. 18Og þú skalt minnast þess, að þú varst þræll í Egyptalandi og að Drottinn Guð þinn leysti þig þaðan. Fyrir því býð ég þér að gjöra þetta.
19Þegar þú sker upp korn á akri þínum og gleymir kornbundini úti á akrinum, þá skalt þú ekki snúa aftur til að sækja það. Útlendingurinn, munaðarleysinginn og ekkjan mega fá það, til þess að Drottinn Guð þinn blessi þig í öllu, sem þú tekur þér fyrir hendur. 20Þegar þú slær ávexti af olíutrjám þínum, þá skalt þú ekki gjöra eftirleit í greinum trjánna. Útlendingurinn, munaðarleysinginn og ekkjan mega fá það. 21Þegar þú tínir víngarð þinn, þá skalt þú ekki gjöra eftirleit. Útlendingurinn, munaðarleysinginn og ekkjan mega fá það. 22Þú skalt minnast þess, að þú varst þræll í Egyptalandi, fyrir því býð ég þér að gjöra þetta.
25
1Þegar deila rís milli manna og þeir koma fyrir dóm, og dómur hefir upp kveðinn verið yfir þeim með þeim hætti, að hinn saklausi hefir verið sýknaður, en hinn seki dæmdur sekur, 2og hinn seki hefir unnið til húðstroku, þá skal dómarinn láta leggja hann niður og láta slá hann í viðurvist sinni eins mörg högg og hæfir misgjörð hans. 3Hann má láta slá hann fjörutíu högg, en ekki fleiri, til þess að bróðir þinn verði ekki fyrirlitlegur í augum þínum, ef haldið er áfram að slá hann enn mörg högg.4Þú skalt ekki múlbinda uxann, er hann þreskir.
Um mágskyldu5Þegar bræður búa saman og einn þeirra deyr og á engan son, þá skal kona hins látna ekki giftast neinum manni úrættis. Mágur hennar skal ganga inn til hennar og taka hana sér fyrir konu og gegna mágskyldunni við hana, 6en fyrsti sonurinn, er hún fæðir, skal teljast sonur hins látna bróður hans, svo að nafn hans afmáist ekki úr Ísrael.
7En ef manninn fýsir eigi að ganga að eiga bróðurkonu sína, þá skal hún ganga upp í borgarhliðið, til öldunganna, og segja: "Mágur minn færist undan að halda við nafni bróður síns í Ísrael. Hann vill ekki gegna mágskyldunni við mig."
8Öldungar borgar hans skulu þá kalla hann fyrir og tala við hann, og ef hann stendur fastur fyrir og segir: "Mig fýsir eigi að ganga að eiga hana," 9þá skal mágkona hans ganga að honum í viðurvist öldunganna, draga skóinn af fæti honum, hrækja framan í hann, taka til máls og segja: "Svo skal fara með hvern þann, er eigi vill reisa við ætt bróður síns." 10Og ætt hans skal í Ísrael nefnd Berfótsætt.
Ýmisleg ákvæði11Þegar tveir menn eru í áflogum, og kona annars hleypur að til þess að hjálpa manni sínum úr höndum þess, er slær hann, og hún réttir út höndina og tekur um hreðjar honum, 12þá skalt þú höggva af henni höndina og eigi líta hana vægðarauga.
13Þú skalt ekki hafa tvenns konar vogarsteina í sjóði þínum, annan stærri og hinn minni.
14Þú skalt ekki hafa tvenns konar efu í húsi þínu, aðra stærri og hina minni. 15Þú skalt hafa nákvæma og rétta vog, þú skalt hafa nákvæma og rétta efu, til þess að þú lifir lengi í landinu, sem Drottinn Guð þinn gefur þér. 16Því að hver sá, er slíkt gjörir, hver sá er ranglæti fremur, er Drottni Guði þínum andstyggilegur.
17Minnstu þess, hvernig Amalekítar fóru með þig á leiðinni, þá er þér fóruð af Egyptalandi, 18hvernig þeir réðust á þig á leiðinni og unnu á þeim, er aftastir fóru, öllum þeim er þreyttir voru og aftur úr drógust, þegar þú varst orðinn lúinn og uppgefinn, - og óttuðust ekki Guð. 19Fyrir því skalt þú, þegar Drottinn Guð þinn veitir þér hvíld fyrir öllum óvinum þínum allt í kringum þig í landinu, sem Drottinn Guð þinn gefur þér sem arf til eignar, afmá nafn Amalekíta af jörðinni. Gleym því ekki.
Játning trúar við frumgróðafórn26
1Þegar þú ert kominn inn í landið, sem Drottinn Guð þinn gefur þér til eignar, og þú hefir tekið það til eignar og ert setstur að í því, 2þá skalt þú taka nokkuð af frumgróða alls ávaxtar landsins, er þú fær af landi þínu, því er Drottinn Guð þinn gefur þér, láta það í körfu og fara með það til þess staðar, er Drottinn Guð þinn velur til þess að láta nafn sitt búa þar.3Þú skalt fara til prestsins, sem þá er, og segja við hann:
"Ég játa í dag fyrir Drottni Guði þínum, að ég er kominn inn í landið, sem Drottinn sór feðrum vorum að gefa oss."
4Og presturinn skal taka körfuna af hendi þér og setja hana niður fyrir framan altari Drottins Guðs þíns.
5Þá skalt þú taka til máls og segja frammi fyrir Drottni Guði þínum:
"Faðir minn var umreikandi Aramei, og hann fór suður til Egyptalands fáliðaður og dvaldist þar sem útlendingur og varð þar að mikilli, sterkri og fjölmennri þjóð. 6En Egyptar fóru illa með oss og þjáðu oss og lögðu á oss þunga þrælavinnu. 7Þá hrópuðum vér til Drottins, Guðs feðra vorra, og Drottinn heyrði raust vora og sá eymd vora, þraut og ánauð. 8Og Drottinn flutti oss af Egyptalandi með sterkri hendi og útréttum armlegg, með mikilli skelfingu og með táknum og undrum. 9Og hann leiddi oss hingað og gaf oss þetta land, land, sem flýtur í mjólk og hunangi. 10Og nú færi ég hér frumgróðann af ávexti landsins, þess er þú, Drottinn, hefir gefið mér."
Því næst skalt þú setja það niður frammi fyrir Drottni Guði þínum og falla fram fyrir Drottni Guði þínum. 11Og þú skalt gleðjast yfir öllum þeim gæðum, sem Drottinn Guð þinn hefir gefið þér, þú og skyldulið þitt, og levítinn og útlendingurinn, sem hjá þér eru.
Tíund til fátækra12Þegar þú hefir greitt alla tíund af afrakstri þínum þriðja árið, tíundarárið, og hefir fengið hana í hendur levítanum, útlendingnum, munaðarleysingjanum og ekkjunni, svo að þau megi eta hana innan borgarhliða þinna og verða mett, 13þá skalt þú segja frammi fyrir Drottni Guði þínum:
"Ég hefi flutt hið heilaga burt úr húsinu og fengið það í hendur levítanum, útlendingnum, munaðarleysingjanum og ekkjunni og farið þannig nákvæmlega eftir boðorði þínu, því er þú hefir fyrir mig lagt. Ég hefi eigi breytt út af neinu boðorða þinna né gleymt nokkru þeirra. 14Ég hefi eigi etið neitt af því í sorg minni, eigi flutt neitt af því burt, er ég var óhreinn, og eigi gefið dauðum manni neitt af því. Ég hefi hlýtt raustu Drottins Guðs míns og gjört allt eins og þú hefir fyrir mig lagt. 15Lít niður frá þínum heilaga bústað, frá himnum, og blessa þú lýð þinn Ísrael og landið, sem þú hefir gefið oss, eins og þú sórst feðrum vorum, land sem flýtur í mjólk og hunangi."
Formáli sáttmálans milli Guðs og lýðsins16Í dag býður Drottinn Guð þinn þér að halda þessi lög og ákvæði. Þú skalt því varðveita þau og halda þau af öllu hjarta þínu og af allri sálu þinni.
17Þú hefir látið Drottin lýsa yfir því í dag, að hann vilji vera þinn Guð og að þér skuluð ganga á hans vegum og varðveita lög hans, skipanir og ákvæði og hlýða hans raustu. 18Og Drottinn hefir látið þig lýsa yfir því í dag, að þú viljir vera hans eignarlýður, eins og hann hefir boðið þér, og að þú viljir varðveita allar skipanir hans, 19svo að hann geti hafið þig yfir allar þjóðir, er hann hefir skapað, til lofs, frægðar og heiðurs, og þú sért Drottni Guði þínum helgaður lýður, eins og hann hefir sagt.
Sáttmálshátíð haldin
Fyrirmæli um sáttmálshátíð27
1Móse og öldungar Ísraels buðu lýðnum og sögðu: "Varðveitið allar þær skipanir, sem ég legg fyrir yður í dag. 2Og þegar þér eruð komnir yfir Jórdan inn í landið, sem Drottinn Guð þinn gefur þér, þá skalt þú reisa upp stóra steina og strjúka þá utan kalki 3og rita á þá öll orð lögmáls þessa, þá er þú ert kominn yfir um, til þess að þú komist inn í landið, sem Drottinn Guð þinn gefur þér, land sem flýtur í mjólk og hunangi, eins og Drottinn, Guð feðra þinna, hefir heitið þér. 4Og þegar þér eruð komnir yfir Jórdan, þá skuluð þér reisa upp þessa steina, sem ég hefi mælt fyrir um í dag, á Ebalfjalli og strjúka þá utan kalki. 5Þú skalt og reisa Drottni Guði þínum þar altari, altari af steinum. Þú mátt ekki bera að þeim járntól. 6Af óhöggnum steinum skalt þú reisa altari Drottins Guðs þíns, og á því skalt þú fórna Drottni Guði þínum brennifórnum. 7Og þú skalt slátra heillafórnum og eta þær þar og gleðjast frammi fyrir Drottni Guði þínum. 8Og þú skalt rita á steinana öll orð þessa lögmáls mjög greinilega."9Móse og levítaprestarnir töluðu til alls Ísraels og sögðu: "Ver hljóður og hlýð á, Ísrael! Í dag ert þú orðinn lýður Drottins, Guðs þíns. 10Fyrir því skalt þú hlýða raustu Drottins Guðs þíns og halda skipanir hans og lög, sem ég legg fyrir þig í dag."
11Þennan sama dag bauð Móse lýðnum og sagði: 12"Þessir skulu standa á Garísímfjalli til þess að blessa lýðinn, þegar þér eruð komnir yfir Jórdan: Símeon, Leví, Júda, Íssakar, Jósef og Benjamín. 13Og þessir skulu standa á Ebalfjalli til að lýsa bölvan: Rúben, Gað, Asser, Sebúlon, Dan og Naftalí.
Tólf bannfæringar14Levítarnir skulu taka til máls og segja með hárri raustu við alla Ísraelsmenn:
15Bölvaður er sá maður, sem býr til skurðgoð eða steypt líkneski, andstyggð Drottni, handaverk smiðs, og reisir það á laun!
Og allur lýðurinn skal svara: Amen.
16Bölvaður er sá, sem óvirðir föður sinn eða móður sína!
Og allur lýðurinn skal segja: Amen.
17Bölvaður er sá, sem færir úr stað landamerki náunga síns!
Og allur lýðurinn skal segja: Amen.
18Bölvaður er sá, sem leiðir blindan mann af réttri leið!
Og allur lýðurinn skal segja: Amen.
19Bölvaður er sá, sem hallar rétti útlends manns, munaðarleysingja eða ekkju!
Og allur lýðurinn skal segja: Amen.
20Bölvaður er sá, sem leggst með konu föður síns, því að hann hefir flett upp ábreiðu föður síns!
Og allur lýðurinn skal segja: Amen.
21Bölvaður er sá, sem hefir samlag við nokkra skepnu!
Og allur lýðurinn skal segja: Amen.
22Bölvaður er sá, sem leggst með systur sinni, hvort heldur hún er dóttir föður hans eða dóttir móður hans!
Og allur lýðurinn skal segja: Amen.
23Bölvaður er sá, sem leggst með tengdamóður sinni!
Og allur lýðurinn skal segja: Amen.
24Bölvaður er sá, sem vegur náunga sinn á laun!
Og allur lýðurinn skal segja: Amen.
25Bölvaður er sá, sem lætur múta sér til þess að vega saklausan mann!
Og allur lýðurinn skal segja: Amen.
26Bölvaður er sá, sem eigi heldur í gildi orðum þessa lögmáls með því að breyta eftir þeim!
Og allur lýðurinn skal segja: Amen."
Blessanir28
1Ef þú hlýðir grandgæfilega raustu Drottins Guðs þíns, svo að þú varðveitir og heldur allar skipanir hans, þær er ég legg fyrir þig í dag, þá mun Drottinn Guð þinn hefja þig yfir allar þjóðir á jörðu, 2og þá munu fram við þig koma og á þér rætast allar þessar blessanir, ef þú hlýðir raustu Drottins Guðs þíns:3Blessaður ert þú í borginni og blessaður ert þú á akrinum.
4Blessaður er ávöxtur kviðar þíns og ávöxtur lands þíns og ávöxtur fénaðar þíns, viðkoma nautgripa þinna og burðir hjarðar þinnar.
5Blessuð er karfa þín og deigtrog þitt.
6Blessaður ert þú, þegar þú gengur inn, og blessaður ert þú, þegar þú gengur út.
7Drottinn mun láta óvini þína bíða ósigur fyrir þér, þá er upp rísa í móti þér. Um einn veg munu þeir fara í móti þér, en um sjö vegu munu þeir flýja undan þér.
8Drottinn láti blessun fylgja þér í forðabúrum þínum og í öllu, sem þú tekur þér fyrir hendur, og hann blessi þig í landinu, sem Drottinn Guð þinn gefur þér.
9Drottinn gjöri þig að lýð, sem heilagur er fyrir honum, eins og hann hefir svarið þér, ef þú varðveitir skipanir Drottins Guðs þíns og gengur á hans vegum. 10Og allar þjóðir á jörðinni munu þá sjá, að þú hefir nefndur verið eftir nafni Drottins, og þær munu óttast þig.
11Drottinn mun veita þér gnægð gæða í ávexti kviðar þíns og í ávexti fénaðar þíns og í ávexti lands þíns í landi því, sem Drottinn sór feðrum þínum að gefa þér.
12Drottinn mun upp ljúka fyrir þér forðabúrinu sínu hinu góða, himninum, til þess að gefa landi þínu regn á réttum tíma og blessa öll verk handa þinna, og þú munt fé lána mörgum þjóðum, en sjálfur eigi þurfa að taka fé að láni.
13Drottinn mun gjöra þig að höfði og eigi að hala, og þú skalt stöðugt stíga upp á við, en aldrei færast niður á við, ef þú hlýðir skipunum Drottins Guðs þíns, þeim er ég legg fyrir þig í dag, til þess að þú varðveitir þær og breytir eftir þeim, 14og ef þú víkur ekki frá neinu boðorða þeirra, er ég legg fyrir yður í dag, hvorki til hægri né vinstri, til þess að elta aðra guði og þjóna þeim.
Bannfæringar15En ef þú hlýðir ekki raustu Drottins Guðs þíns, svo að þú varðveitir og haldir allar skipanir hans og lög, er ég legg fyrir þig í dag, þá munu fram við þig koma og á þér hrína allar þessar bölvanir:
16Bölvaður ert þú í borginni og bölvaður ert þú á akrinum.
17Bölvuð er karfa þín og deigtrog þitt.
18Bölvaður er ávöxtur kviðar þíns og ávöxtur lands þíns, viðkoma nautgripa þinna og burðir hjarðar þinnar.
19Bölvaður ert þú, þegar þú gengur inn, og bölvaður ert þú, þegar þú gengur út.
20Drottinn mun senda yfir þig bölvun, skelfing og ógnun í öllu því, er þú tekur þér fyrir hendur að gjöra, uns þú gjöreyðist og fyrirferst skyndilega sökum illra verka þinna - sökum þess, að þú yfirgafst mig.
21Drottinn mun láta drepsóttina við þig loða, þar til er hann eyðir þér úr landi því, er þú heldur nú inn í til þess að taka það til eignar.
22Drottinn mun slá þig með tæring og köldu, hita og bruna, með ofþurrki, korndrepi og gulnan, og mun þetta ásækja þig uns þú líður undir lok.
23Himinninn yfir höfði þér skal verða sem eir og jörðin undir fótum þér sem járn.
24Í stað regns mun Drottinn láta ryk og sandfok koma yfir land þitt; það mun falla yfir þig af himni, uns þú ert gjöreyddur.
25Drottinn mun láta þig bíða ósigur fyrir óvinum þínum. Um einn veg munt þú fara í móti þeim, en um sjö vegu munt þú flýja undan þeim, og þú munt verða grýla fyrir öll konungsríki jarðarinnar. 26Og hræ þín munu verða æti fyrir alla fugla himinsins og fyrir dýr jarðarinnar, og enginn mun fæla þau burt.
27Drottinn mun slá þig með egypskum kaunum: með kýlum, kláða og útbrotum, svo að þú skalt verða ólæknandi.
28Drottinn mun slá þig með vitfirring, blindni og hugarsturlan. 29Þú munt fálma um hábjartan dag, eins og blindur maður fálmar í myrkri, og þú munt enga gæfu hljóta á vegum þínum, og þú munt alla daga sæta tómri undirokun og ránskap, og enginn mun hjálpa þér.
30Þú munt festa þér konu, en annar maður mun leggjast með henni. Þú munt reisa hús, en eigi búa í því. Þú munt planta víngarð, en engar hans nytjar hafa.
31Uxa þínum mun slátrað verða fyrir augunum á þér, en þú munt ekki fá neitt af honum að eta. Asna þínum mun rænt verða að þér ásjáandi, en hann mun eigi hverfa aftur til þín. Sauðir þínir munu seldir verða í hendur óvinum þínum, og enginn mun hjálpa þér.
32Synir þínir og dætur munu seldar verða í hendur annarri þjóð, og augu þín skulu horfa á það og daprast af þrá eftir þeim allan daginn, en þú skalt eigi fá að gjört.
33Ávöxt lands þíns og allt það, er þú hefir aflað þér með striti þínu, mun þjóð ein eta, sem þú ekki þekkir, og þú munt sæta áþján einni og undirokun alla daga, 34og þú munt verða vitstola út af því, er þú verður að horfa upp á.
35Drottinn mun slá þig með illkynjuðum ólæknandi kaunum á knjám og fótleggjum, frá iljum og allt upp á hvirfil.
36Drottinn mun leiða þig og konung þinn, þann er þú munt taka yfir þig, til þeirrar þjóðar, er hvorki þú né feður þínir hafa þekkt, og þar munt þú þjóna öðrum guðum, stokkum og steinum. 37Og þú munt verða að undri, orðskvið og spotti meðal allra þjóða, þeirra er Drottinn leiðir þig til.
38Mikið kornsæði munt þú færa út á akrana, en litlu skalt þú aftur inn safna, því að engisprettur skulu upp eta það.
39Þú munt planta víngarða og yrkja þá, en vín munt þú hvorki drekka né leggja fyrir til geymslu, því að maðkurinn mun eyða því.
40Þú munt hafa olíutré um allt land þitt, en með olíu munt þú eigi smyrja þig, því að olífur þínar munu detta af.
41Þú munt geta sonu og dætur, en ekki fá að njóta þeirra, því að þau munu fara í útlegð.
42Öll tré þín og ávöxt lands þíns munu engispretturnar leggja undir sig.
43Útlendingurinn, sem hjá þér er, mun stíga hærra og hærra upp yfir þig, en þú færast lengra og lengra niður á við. 44Hann mun lána þér, en þú munt eigi lána honum, hann mun verða höfuðið, en þú munt verða halinn.
45Allar þessar bölvanir munu koma fram á þér, elta þig og á þér hrína, uns þú ert gjöreyddur, af því að þú hlýddir ekki raustu Drottins Guðs þíns, að varðveita skipanir hans og lög, þau er hann fyrir þig lagði, 46og þær skulu fylgja þér og niðjum þínum ævinlega sem tákn og undur.
47Fyrir því að þú þjónaðir ekki Drottni Guði þínum með gleði og fúsu geði, af því að þú hafðir allsnægtir, 48þá skalt þú þjóna óvinum þínum, þeim er Drottinn sendir í móti þér, hungraður og þyrstur, klæðlaus og farandi alls á mis, og hann mun leggja járnok á háls þér, uns hann hefir gjöreytt þér.
49Drottinn mun stefna í móti þér þjóð einni úr fjarlægð, frá enda jarðarinnar, og kemur hún fljúgandi eins og örn, þjóð, hverrar tungu þú ekki skilur, 50illúðlegri þjóð, sem eigi skeytir manngrein gamalmenna og enga vægð sýnir ungmennum. 51Og hún mun eta ávöxt fénaðar þíns og ávöxt lands þíns, uns þú ert gjöreyddur. Hún mun ekki leifa þér korni, aldinlegi og olíu, viðkomu nauta þinna né burði hjarðar þinnar, uns hún hefir gjört út af við þig. 52Hún mun gjöra umsát um þig í öllum borgum þínum, uns hinir háu og rammgjörvu múrar þínir, sem þú treystir á, eru hrundir um land þitt allt. Og hún mun gjöra umsát um þig í öllum borgum þínum alls staðar í landi þínu, því er Drottinn Guð þinn gefur þér. 53Og þú munt eta ávöxt kviðar þíns, holdið af sonum þínum og dætrum, þeim er Drottinn Guð þinn hefir gefið þér. Svo nærri mönnum mun umsátrið ganga og þær hörmungar, er þú munt sæta af óvinum þínum.
54Jafnvel sá maður meðal þín, sem mjúklífur er og mjög kveifarlegur, mun óblíðu auga líta bróður sinn, konuna í faðmi sínum og þau börnin sín, er hann enn á eftir, 55og eigi tíma að gefa neinu af þeim neitt af holdi barna sinna, sem hann etur, af því að hann hefir ekkert annað til. Svo nærri mönnum mun umsátrið ganga og þær hörmungar, er þú munt sæta af óvinum þínum í öllum borgum þínum.
56Mjúklíf og kveifarleg kona meðal þín, sem aldrei hefir reynt að tylla fæti sínum á jörðina af kveifarhætti og tepruskap, mun óblíðu auga líta manninn í faðmi sínum, son sinn og dóttur sína, 57og fylgjuna, sem út gengur af skauti hennar, og börn sín, þau er hún elur, því að hún etur þau sjálf á laun, þegar allar bjargir eru bannaðar. Svo nærri mönnum mun umsátrið ganga og þær hörmungar, er þú munt sæta af óvinum þínum í öllum borgum þínum.
58Ef þú gætir þess eigi að halda öll fyrirmæli þessa lögmáls, þau er rituð eru í þessari bók, með því að óttast þetta dýrlega og hræðilega nafn, DROTTINN GUÐ ÞINN, 59þá mun Drottinn slá þig og niðja þína með feiknaplágum, með miklum plágum og þrálátum, með illkynjuðum sjúkdómum og þrálátum, 60og hann mun aftur láta yfir þig koma allar hinar egypsku sóttir, þær er þú hræðist, og þær munu við þig loða. 61Auk þess mun Drottinn láta yfir þig koma alla þá sjúkdóma og allar þær plágur, sem ekki eru ritaðar í þessari lögmálsbók, uns þú ert gjöreyddur.
62Aðeins fámennur hópur skal eftir verða af yður, í stað þess að þér áður voruð sem stjörnur himins að fjölda til, af því að þú hlýddir eigi raustu Drottins Guðs þíns.
63Og eins og Drottinn áður fyrri hafði yndi af því að gjöra vel við yður og margfalda yður, eins mun Drottinn hafa yndi af að tortíma yður og gjöreyða, og þér munuð verða reknir burt úr því landi, er þér haldið nú inn í til þess að taka það til eignar. 64Og Drottinn mun dreifa þér meðal þjóðanna frá einu heimsskauti til annars, og þar munt þú þjóna öðrum guðum, sem hvorki þú né feður þínir hafa þekkt, stokkum og steinum. 65Og meðal þessara þjóða munt þú eigi mega búa í næði, og hvergi mun hvíldarstaður vera á fæti þínum, heldur mun Drottinn gefa þér þar skjálfandi hjarta, þrotnandi augu og ráðþrota sál. 66Líf þitt mun leika fyrir þér sem á þræði, og þú munt hræddur vera nótt og dag og aldrei vera ugglaus um líf þitt. 67Á morgnana muntu segja: "Ó, að það væri komið kveld!" og á kveldin muntu segja: "Ó, að það væri kominn morgunn!" sökum hræðslu þeirrar, er gagntekið hefir hjarta þitt, og sökum þess, er þú verður að horfa upp á. 68Drottinn mun flytja þig aftur til Egyptalands á skipum, þá leið, er ég sagði um við þig: "Þú skalt aldrei framar líta hana!" Og þar munuð þér boðnir verða óvinum yðar til kaups að þrælum og ambáttum, en enginn vilja kaupa.
Hvatningarræða um að halda sáttmálann29
1Þessi eru orð sáttmálans, sem Drottinn bauð Móse að gjöra við Ísraelsmenn í Móabslandi, auk sáttmálans, sem hann gjörði við þá hjá Hóreb.2Móse kallaði saman allan Ísrael og sagði við þá:
Þér hafið séð allt það, sem Drottinn gjörði fyrir augum yðar í Egyptalandi við Faraó og alla þjóna hans og allt land hans, 3hin miklu máttarverk, er þú hefir séð með eigin augum, hin miklu tákn og undur. 4En allt fram á þennan dag hefir Drottinn ekki gefið yður hjarta til að skilja með, augu til að sjá eða eyru til að heyra.
5Ég leiddi yður í fjörutíu ár um eyðimörkina. Föt yðar slitnuðu ekki á yður, og skór þínir slitnuðu ekki á fótum þér, 6brauð átuð þér ekki, og vín eða áfengan drykk drukkuð þér ekki, til þess að þér mættuð skilja, að ég er Drottinn, Guð yðar.
7Er þér komuð hingað, og Síhon, konungur í Hesbon, og Óg, konungur í Basan, fóru í móti oss til orustu, þá unnum vér sigur á þeim 8og tókum land þeirra og gáfum það Rúbenítum, Gaðítum og hálfri ættkvísl Manasse til eignar. 9Varðveitið því orð þessa sáttmála og breytið eftir þeim, til þess að yður lánist vel allt, sem þér gjörið.
10Þér standið í dag allir frammi fyrir Drottni, Guði yðar: höfuðsmenn yðar, ættkvíslir yðar, öldungar yðar, tilsjónarmenn yðar, allir karlmenn í Ísrael, 11börn yðar og konur og útlendingar þínir, sem eru í herbúðum þínum, - bæði viðarhöggsmenn og vatnsberar þínir -, 12til þess að gangast undir sáttmála Drottins, Guðs þíns, og í eiðfest samfélag við hann, er Drottinn Guð þinn gjörir við þig í dag, 13til þess að hann gjöri þig í dag að sínum lýð og hann sé þinn Guð, eins og hann hefir heitið þér og eins og hann hefir svarið feðrum þínum, Abraham, Ísak og Jakob.
14En ég gjöri ekki þennan sáttmála og þetta eiðfesta samfélag við yður eina, 15heldur bæði við þá, sem standa hér með oss í dag frammi fyrir Drottni Guði vorum, og einnig við þá, sem ekki eru hér með oss í dag.
16Þér vitið sjálfir, að vér bjuggum á Egyptalandi og hvernig vér komumst mitt í gegnum þær þjóðir, er þér urðuð að fara gegnum. 17Og þér sáuð viðurstyggðir þeirra og skurðgoð þeirra úr tré og steinum, silfri og gulli, sem hjá þeim voru. 18Aðeins að eigi sé meðal yðar karl eða kona eða heimili eða ættkvísl, sem í dag snúi hjarta sínu frá Drottni Guði vorum og gangi að dýrka guði þessara þjóða! Aðeins að eigi sé meðal yðar rót, sem beri eitur og malurt að ávexti! - 19enginn sem telji sig sælan í hjarta sínu og segi, er hann heyrir orð þessa eiðfesta sáttmáls: "Mér mun vel farnast, þótt ég gangi fram í þrjósku hjarta míns."
Slíkt mundi leiða til þess, að hið vökvaða yrði afmáð ásamt hinu þurra. 20Drottinn mun eigi vilja fyrirgefa honum, heldur mun reiði Drottins og vandlæting þá bálast gegn slíkum manni, og öll bölvunin, sem rituð er í þessari bók, mun þá á honum hvíla, og Drottinn mun afmá nafn hans af jörðinni. 21Og Drottinn mun skilja slíka ættkvísl úr öllum ættkvíslum Ísraels henni til glötunar, samkvæmt öllum bölvunum sáttmálans, sem ritaður er í þessari lögmálsbók.
22Hin komandi kynslóð, börn yðar, sem upp munu vaxa eftir yður, og útlendir menn, sem koma munu af fjarlægu landi, munu segja, er þeir sjá plágur þær og sóttir, er Drottinn hefir lagt á land þetta, - 23landið er allt orðið að brennisteini, salti og brunaskellum, þar verður eigi sáð og ekkert sprettur þar og engin jurt kemur þar upp úr jörðinni, en allt er umturnað eins og Sódóma og Gómorra, Adma og Sebóím, er Drottinn umturnaði í reiði sinni og heift -, 24já, allar þjóðir munu segja: "Hvers vegna hefir Drottinn farið svo með þetta land? Hvernig stendur á þessari miklu ofsareiði?"
25Þá munu menn svara: "Af því að þeir yfirgáfu sáttmála Drottins, Guðs feðra sinna, sem hann gjörði við þá, er hann leiddi þá af Egyptalandi, 26en gengu að dýrka aðra guði og falla fram fyrir þeim, guði, er þeir þekktu eigi og hann hafði eigi úthlutað þeim. 27Fyrir því upptendraðist reiði Drottins gegn landi þessu, svo að hann lét yfir þá koma alla þá bölvun, sem rituð er í þessari bók. 28Og Drottinn sleit þá upp úr landi þeirra í reiði og heift og mikilli gremju og þeytti þeim í annað land, og er svo enn í dag."
29Hinir leyndu hlutir heyra Drottni Guði vorum, en það, sem opinberað er, heyrir oss og börnum vorum ævinlega, svo að vér megum breyta eftir öllum orðum lögmáls þessa.
30
1Þegar allt þetta, blessunin og bölvunin, sem ég hefi lagt fyrir þig í dag, kemur fram við þig, og þú hugfestir það meðal allra þeirra þjóða, er Drottinn Guð þinn rekur þig til, 2og þú snýr þér aftur til Drottins Guðs þíns og hlýðir raustu hans í öllu, sem ég býð þér í dag, bæði þú og börn þín, af öllu hjarta þínu og af allri sálu þinni, 3þá mun Drottinn Guð þinn snúa við högum þínum og miskunna þér og safna þér aftur saman frá öllum þjóðum, þeim er Drottinn Guð þinn hefir dreift þér á meðal.4Þótt þínir brottreknu væru yst við skaut himins, þá mun Drottinn Guð þinn saman safna þér þaðan og sækja þig þangað. 5Og Drottinn Guð þinn mun leiða þig inn í landið, sem feður þínir áttu, og þú skalt taka það til eignar, og hann mun gjöra enn betur til þín og fjölga þér enn meir en feðrum þínum.
6Drottinn Guð þinn mun umskera hjarta þitt og hjarta niðja þinna, svo að þú elskir Drottin Guð þinn af öllu hjarta þínu og af allri sálu þinni, til þess að þú megir lifa.
7Og Drottinn Guð þinn mun láta allar þessar bölvanir bitna á óvinum þínum og fjendum, þeim er hafa ofsótt þig. 8En þú munt aftur hlýða raustu Drottins og halda allar skipanir hans, þær er ég legg fyrir þig í dag.
9Drottinn Guð þinn mun veita þér gnægð gæða í öllu, sem þú tekur þér fyrir hendur, í ávexti kviðar þíns og í ávexti fénaðar þíns og í ávexti lands þíns, því að Drottinn mun aftur gleðjast yfir þér, þér til heilla, eins og hann gladdist yfir feðrum þínum, 10ef þú hlýðir raustu Drottins Guðs þíns og varðveitir skipanir hans og lög, sem rituð eru í þessari lögmálsbók, ef þú snýr þér til Drottins Guðs þíns af öllu hjarta þínu og af allri sálu þinni.
11Þetta boðorð, sem ég legg fyrir þig í dag, er þér eigi um megn, og það er eigi fjarlægt þér.
12Ekki er það uppi í himninum, svo að þú þurfir að segja: "Hver ætli fari fyrir oss upp í himininn og sæki það handa oss og kunngjöri oss það, svo að vér megum breyta eftir því?"
13Og það er eigi hinumegin hafsins, svo að þú þurfir að segja: "Hver ætli fari fyrir oss yfir hafið og sæki það handa oss og kunngjöri oss það, svo að vér megum breyta eftir því?"
14Heldur er orðið harla nærri þér, í munni þínum og hjarta þínu, svo að þú getur breytt eftir því.
15Sjá, ég hefi í dag lagt fyrir þig líf og heill, dauða og óheill. 16Ef þú hlýðir skipunum Drottins Guðs þíns, þeim er ég legg fyrir þig í dag, að elska Drottin Guð þinn, ganga á hans vegum og varðveita skipanir hans, lög og ákvæði, þá munt þú lifa og margfaldast, og Drottinn Guð þinn mun blessa þig í landi því, er þú heldur nú inn í til þess að taka það til eignar. 17En ef hjarta þitt gjörist fráhverft og þú verður óhlýðinn og lætur tælast til að falla fram fyrir öðrum guðum og dýrka þá, 18þá boða ég yður í dag, að þér munuð gjörsamlega farast. Þér munuð þá eigi lifa mörg árin í landi því, er þér haldið nú inn í yfir Jórdan til þess að taka það til eignar.
19Ég kveð í dag bæði himin og jörð til vitnis móti yður, að ég hefi lagt fyrir þig lífið og dauðann, blessunina og bölvunina. Veldu þá lífið, til þess að þú og niðjar þínir megi lifa, 20með því að elska Drottin Guð þinn, hlýða raustu hans og halda þér fast við hann, því að undir því er líf þitt komið og langgæður aldur þinn, svo að þú megir búa í landinu, sem Drottinn sór feðrum þínum, Abraham, Ísak og Jakob, að gefa þeim.
Skilnaðarstund Móse og andlát
Jósúa skipaður eftirmaður Móse31
1Móse fór og flutti öllum Ísrael þessi orð 2og sagði við þá: "Ég er nú hundrað og tuttugu ára. Ég get ekki lengur gengið út og inn, og Drottinn hefir sagt við mig: ,Þú skalt ekki komast yfir hana Jórdan.' 3Drottinn Guð þinn fer sjálfur yfir um fyrir þér, hann mun sjálfur eyða þessum þjóðum fyrir þér, svo að þú getir tekið lönd þeirra til eignar. Jósúa skal fara yfir um fyrir þér, eins og Drottinn hefir sagt. 4Og Drottinn mun fara með þær eins og hann fór með Síhon og Óg, konunga Amoríta, og land þeirra, sem hann eyddi. 5Og Drottinn mun gefa þær yður á vald, og þér skuluð fara með þær nákvæmlega eftir skipun þeirri, er ég hefi fyrir yður lagt. 6Verið hughraustir og öruggir, óttist eigi og hræðist þá eigi, því að Drottinn Guð þinn fer sjálfur með þér. Hann mun ekki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig."7Móse kallaði þá á Jósúa og sagði við hann í augsýn alls Ísraels: "Vertu hughraustur og öruggur, því að þú munt leiða þetta fólk inn í landið, sem Drottinn sór feðrum þeirra að gefa þeim, og þú munt skipta því milli þeirra. 8Og Drottinn mun sjálfur fara fyrir þér, hann mun vera með þér, hann mun eigi sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig. Óttast þú eigi og lát eigi hugfallast."
Kennsla í lögmáli sáttmálans9Móse ritaði lögmál þetta og fékk það í hendur prestunum, sonum Leví, er bera sáttmálsörk Drottins, og öllum öldungum Ísraels. 10Og Móse lagði svo fyrir þá:
"Sjöunda hvert ár, umlíðunarárið, á laufskálahátíðinni, 11þegar allur Ísrael kemur til að birtast fyrir augliti Drottins Guðs þíns á þeim stað, sem hann velur, þá skalt þú lesa lögmál þetta fyrir öllum Ísrael í heyranda hljóði. 12Safna þú saman lýðnum, bæði körlum, konum og börnum, og útlendingum þeim, sem hjá þér eru innan borgarhliða þinna, til þess að þeir hlýði á og til þess að þeir læri að óttast Drottin Guð yðar og gæti þess að halda öll orð þessa lögmáls. 13Og börn þeirra, þau er enn ekki þekkja það, skulu hlýða á og læra að óttast Drottin Guð yðar alla þá daga, sem þér lifið í því landi, er þér haldið nú inn í yfir Jórdan til þess að taka það til eignar."
Síðustu fyrirmæli Guðs til Móse14Drottinn sagði við Móse: "Sjá, andlátstími þinn nálgast. Kalla þú á Jósúa og gangið inn í samfundatjaldið, svo að ég megi leggja fyrir hann skipanir mínar."
Þá fóru þeir Móse og Jósúa og gengu inn í samfundatjaldið. 15En Drottinn birtist í tjaldinu í skýstólpa, og skýstólpinn nam staðar við tjalddyrnar.
16Drottinn sagði við Móse: "Sjá, þú munt nú leggjast til hvíldar hjá feðrum þínum. Þá mun lýður þessi rísa upp og taka fram hjá með útlendum guðum lands þess, er hann heldur nú inn í, en yfirgefa mig og rjúfa sáttmála minn, þann er ég við hann gjörði. 17Þá mun reiði mín upptendrast gegn þeim, og ég mun yfirgefa þá og byrgja auglit mitt fyrir þeim, og lýðurinn mun eyddur verða og margs konar böl og þrengingar yfir hann koma. Þá mun hann segja: ,Vissulega er þetta böl yfir mig komið, af því að Guð minn er ekki hjá mér.' 18En á þeim degi mun ég byrgja auglit mitt vandlega vegna allrar þeirrar illsku, sem hann hefir í frammi haft, er hann sneri sér til annarra guða.
19Skrifa þú nú upp kvæði þetta og kenn það Ísraelsmönnum, legg þeim það í munn, til þess að kvæði þetta megi verða mér til vitnisburðar gegn Ísraelsmönnum. 20Því að ég mun leiða þá inn í landið, sem ég sór feðrum þeirra, sem flýtur í mjólk og hunangi, og þeir munu eta og verða saddir og feitir og snúa sér til annarra guða og dýrka þá, en mér munu þeir hafna og rjúfa sáttmála minn. 21Og þegar margs konar böl og þrengingar koma yfir þá, þá mun kvæði þetta bera vitni gegn þeim, því að það mun eigi gleymast í munni niðja þeirra. Því að ég veit, hvað þeim býr innanbrjósts nú þegar, áður en ég hefi leitt þá inn í landið, sem ég sór feðrum þeirra."
22Og Móse skrifaði upp kvæði þetta þann hinn sama dag og kenndi það Ísraelsmönnum.
23Drottinn lagði skipanir sínar fyrir Jósúa Núnsson og sagði: "Vertu hughraustur og öruggur, því að þú munt leiða Ísraelsmenn inn í landið, sem ég sór þeim, og ég mun vera með þér."
24Þegar Móse hafði algjörlega lokið því að rita orð þessa lögmáls í bók, 25þá bauð hann levítunum, sem bera sáttmálsörk Drottins, og sagði: 26"Takið lögmálsbók þessa og leggið hana við hliðina á sáttmálsörk Drottins Guðs yðar, svo að hún geymist þar til vitnisburðar gegn þér. 27Því að ég þekki mótþróa þinn og þrjósku. Sjá, meðan ég enn er lifandi hjá yður í dag, hafið þér óhlýðnast Drottni, og hvað mun þá síðar verða að mér dauðum! 28Safnið saman til mín öllum öldungum ættkvísla yðar og tilsjónarmönnum yðar, að ég megi flytja þeim þessi orð í heyranda hljóði og kveðja himin og jörð til vitnis móti þeim. 29Því að ég veit, að eftir dauða minn munuð þér gjörspillast og víkja af þeim vegi, sem ég hefi boðið yður. Þá mun og ógæfan koma yfir yður á komandi tímum, er þér gjörið það sem illt er í augum Drottins, svo að þér egnið hann til reiði með athæfi yðar."
Ljóð Móse30Móse flutti þá öllum söfnuði Ísraels orð þessa kvæðis, uns því var lokið:
- Upphaf kvæðis
32
- 1Hlustið, þér himnar, því að nú mun ég mæla,
- og jörðin hlýði á mál munns míns!
- 2Kenning mín streymi sem regn,
- ræða mín drjúpi sem dögg,
- eins og gróðrarskúrir á grængresið
- og sem þungaregn á jurtirnar.
- Verk Guðs eru fullkomin
- 3Ég vil kunngjöra nafn Drottins:
- Gefið Guði vorum dýrðina!
- 4Bjargið - fullkomin eru verk hans,
- því að allir vegir hans eru réttlæti.
- Trúfastur Guð og tállaus,
- réttlátur og réttvís er hann.
- 5Synir hans eru spilltir orðnir, blettur er á þeim,
- rangsnúin og rammspillt kynslóð.
- 6Ætlið þér að launa Drottni þannig,
- þú heimska og óvitra þjóð?
- Er hann ekki faðir þinn, sá er skóp þig,
- sá er gjörði þig og myndaði?
- 7Minnstu fyrri tíða,
- hyggið að árum liðinna alda!
- Spyr föður þinn, að hann megi fræða þig,
- gamalmenni þín, að þau megi segja þér frá!
- Guð annast lýð sinn
- 8Þá er hinn hæsti skipti óðulum meðal þjóðanna,
- þá er hann greindi í sundur mannanna börn,
- þá skipaði hann löndum þjóðflokkanna
- eftir tölu Ísraels sona.
- 9Því að hlutskipti Drottins er lýður hans,
- Jakob úthlutuð arfleifð hans.
- 10Hann fann hann í eyðimerkurlandi
- og í óbyggðum, innan um öskrið á öræfunum.
- Hann verndaði hann, hugði að honum,
- hann varðveitti hann sem sjáaldur auga síns.
- 11Eins og örn, sem vekur upp hreiður sitt
- og svífur yfir ungum sínum,
- svo útbreiddi hann vængi sína, tók hann upp
- og bar hann á flugfjöðrum sínum.
- 12Drottinn einn leiddi hann,
- og enginn annar guð var með honum.
- 13Hann lét hann fram bruna á hæðum landsins
- og lét hann njóta ávaxtar akursins.
- Hann lét hann sjúga hunang úr klettunum
- og olífuolíu úr tinnusteinunum.
- 14Hann ól hann á kúarjóma og sauðamjólk,
- ásamt feitu kjöti af dilkum og hrútum.
- Hann gaf honum Basan-uxa og kjarnhafra,
- ásamt nýrnafeiti hveitisins.
- Þrúgnablóð drakkst þú sem kostavín.
- Fráfall Guðs lýðs
- 15En Jesjúrún varð feitur og sparkaði aftur undan sér,
- - feitur varðst þú, digur og sællegur!
- Þá hafnaði hann Guði, skapara sínum,
- og fyrirleit bjarg hjálpræðis síns.
- 16Þeir vöktu vandlæti hans með útlendum guðum,
- egndu hann til reiði með andstyggðum.
- 17Þeir færðu fórnir vættum, sem ekki eru Guð,
- guðum, sem þeir höfðu eigi þekkt,
- nýjum guðum, nýlega upp komnum,
- er feður yðar höfðu engan beyg af.
- 18Um bjargið, sem þig hafði getið, hirtir þú ekki
- og gleymdir þeim Guði, sem þig hafði alið.
- Dómurinn
- 19Drottinn sá það og hafnaði þeim
- af gremju við sonu sína og dætur.
- 20Og hann sagði: Ég vil byrgja auglit mitt fyrir þeim,
- ég ætla að sjá, hver afdrif þeirra verða.
- Því að þeir eru rangsnúin kynslóð,
- börn, sem engin tryggð er í.
- 21Þeir hafa vakið vandlæti mitt með því, sem ekki er Guð,
- egnt mig til reiði með hinum fánýtu goðum sínum.
- Nú mun ég vekja vandlæti þeirra með því, sem ekki er þjóð,
- egna þá til reiði með heiðnum lýð.
- 22Því að eldur kviknaði í nösum mér,
- og hann logar lengst niður í undirheima,
- eyðir jörðina og ávöxtu hennar
- og kveikir í undirstöðum fjallanna.
- 23Ég vil hrúga yfir þá margs konar böli,
- eyða á þá öllum örvum mínum.
- 24Þótt þeir séu megraðir af hungri
- og tærðir af sýki
- og eitraðri sótt,
- þá mun ég hleypa tönnum villidýranna á þá,
- ásamt eitri þeirra, er í duftinu skríða.
- 25Sverðið mun eyða þeim úti fyrir,
- en hræðslan í húsum inni,
- bæði yngismönnum og meyjum,
- brjóstmylkingum og gráhærðum öldungum.
- Eintal Guðs
- 26Ég mundi segja: Ég vil blása þeim burt,
- afmá minning þeirra meðal mannanna! -
- 27ef ég óttaðist ekki, að mér mundi gremjast við óvinina,
- að mótstöðumenn þeirra mundu leggja það út á annan veg,
- að þeir mundu segja: Hönd vor var á lofti,
- og það var ekki Drottinn, sem gjörði allt þetta!
- 28Því að þeir eru ráðþrota þjóð,
- og hjá þeim eru engin hyggindi.
- 29Ef þeir væru vitrir, þá mundu þeir sjá þetta,
- hyggja að, hver afdrif þeirra munu verða.
- 30Hvernig gæti einn maður elt þúsund
- og tveir rekið tíu þúsundir á flótta,
- ef bjarg þeirra hefði ekki selt þá,
- ef Drottinn hefði ekki ofurselt þá?
- 31Því að bjarg þeirra er ekki eins og vort bjarg
- - um það geta óvinir vorir dæmt.
- 32Því að vínviður þeirra er af vínviði Sódómu,
- af akurlöndum Gómorru.
- Vínber þeirra eru eitruð vínber,
- þrúgur þeirra beiskar.
- 33Vín þeirra er höggormsólyfjan
- og banvænt nöðrueitur.
- 34Er þetta ekki geymt hjá mér,
- innsiglað í forðabúrum mínum?
- 35Mín er hefndin og mitt að endurgjalda,
- þá er þeir gjörast valtir á fótum.
- Því að glötunardagur þeirra er nálægur,
- og það ber óðfluga að, er fyrir þeim liggur.
- Guð líknar
- 36Drottinn mun rétta hluta þjóðar sinnar
- og aumkast yfir þjóna sína,
- þá er hann sér, að öll hjálp er úti
- og enginn er framar til, þræll né frelsingi.
- 37Þá mun hann segja: Hvar eru nú guðir þeirra,
- bjargið, er þeir leituðu hælis hjá,
- 38sem átu feiti fórna þeirra
- og drukku vín dreypifórna þeirra?
- Rísi þeir nú upp og hjálpi yður,
- veri þeir yður nú hlíf!
- Ég einn er Guð
- 39Sjáið nú, að ég, ég er hann,
- og að enginn guð er til nema ég!
- Ég deyði og ég lífga,
- ég særi og ég græði,
- og enginn getur frelsað af minni hendi.
- 40Því að ég lyfti hendi minni til himins
- og segi: Svo sannarlega sem ég lifi eilíflega, -
- 41þegar ég hefi hvesst mitt blikandi sverð,
- og ég legg hönd á dóminn,
- þá mun ég efna hefnd við mótstöðumenn mína
- og endurgjalda þeim, er hata mig!
- 42Ég vil gjöra örvar mínar drukknar af blóði,
- og sverð mitt skal hold eta
- - af blóði veginna manna og hertekinna,
- af höfði fyrirliða óvinanna.
- 43Vegsamið, þjóðir, lýð hans!
- því að hann hefnir blóðs þjóna sinna.
- Hann efnir hefnd við mótstöðumenn sína
- og friðþægir fyrir land síns lýðs.
Móse boðið að fara upp á fjallið Nebó að deyja44Móse kom og flutti lýðnum öll orð þessa kvæðis í heyranda hljóði, hann og Hósea Núnsson.
45Og er Móse hafði lokið að mæla öll þessi orð til alls Ísraels, 46sagði hann við þá: "Hugfestið öll þau orð, sem ég flyt yður í dag, til þess að þér getið brýnt þau fyrir börnum yðar, svo að þau gæti þess að halda öll orð þessa lögmáls. 47Því að það er ekkert hégómamál fyrir yður, heldur er það líf yðar, og fyrir þetta orð munuð þér lifa langa ævi í landinu, sem þér haldið nú inn í yfir Jórdan til þess að taka það til eignar."
48Þann hinn sama dag talaði Drottinn við Móse og sagði: 49"Far þú þarna upp á Abarímfjall, upp á Nebófjall, sem er í Móabslandi gegnt Jeríkó, og lít yfir Kanaanland, sem ég gef Ísraelsmönnum til eignar. 50Og þú skalt deyja á fjallinu, er þú fer upp á, og safnast til þíns fólks, eins og Aron bróðir þinn dó á Hórfjalli og safnaðist til síns fólks, 51af því að þið sýnduð mér ótrúmennsku mitt á meðal Ísraelsmanna hjá Meríbavötnum við Kades í Síneyðimörk, af því að þið helguðuð mig ekki meðal Ísraelsmanna. 52Því að handan yfir skalt þú fá að líta landið, en inn í landið, sem ég gef Ísraelsmönnum, skalt þú ekki komast."
Móse blessar ættkvíslir Ísraels33
1Þessi er blessunin, er guðsmaðurinn Móse blessaði með Ísraelsmenn, áður en hann andaðist:
- 2Drottinn kom frá Sínaí
- og rann upp fyrir þeim á Seír.
- Hann lét ljós sitt skína frá Paranfjöllum
- og kom frá hinum helgu tíu þúsundum,
- eldingarnar í hægri hendi hans voru þeim til varnar.
- 3Já, hann elskar sinn lýð,
- allir hans heilögu eru í hans hendi.
- Og þeir fara eftir leiðsögu þinni,
- sérhver þeirra meðtekur af orðum þínum.
- 4Móse setti oss lögmál,
- óðal Jakobs safnaðar.
- 5Og Drottinn varð konungur í Jesjúrún,
- þá er höfðingjar lýðsins söfnuðust saman,
- ættkvíslir Ísraels allar samt.
- 6Lifi Rúben og deyi ekki,
- þannig að menn hans verði fáir að tölu.
- 7Og þetta er blessunin um Júda:
- Heyr, Drottinn, bænir Júda,
- og leið hann aftur til þjóðar sinnar,
- - með höndum sínum hefir hann barist fyrir hana -
- og ver þú honum hjálp gegn fjendum hans.
- 8Og um Leví sagði hann:
- Túmmím þín og úrím heyra mönnum hollvinar þíns,
- þess er þú reyndir hjá Massa
- og barðist gegn hjá Meríbavötnum,
- 9- heyra þeim, er sagði um föður og móður: Ég sá þau ekki,
- er eigi kannaðist við bræður sína
- og leit eigi við börnum sínum.
- Því að þeir varðveittu orð þitt
- og héldu sáttmála þinn.
- 10Þeir kenna Jakob dóma þína
- og Ísrael lögmál þitt,
- þeir bera reykelsi fyrir vit þín
- og alfórn á altari þitt.
- 11Blessa, Drottinn, styrkleik hans,
- og lát þér þóknast verk handa hans.
- Myl sundur lendar óvina hans
- og þeirra er hata hann, svo að þeir fái eigi risið upp aftur.
- 12Um Benjamín sagði hann:
- Ljúflingur Drottins
- býr óhultur hjá honum.
- Hann verndar hann alla daga
- og hefir tekið sér bólfestu milli hálsa hans.
- 13Um Jósef sagði hann:
- Blessað af Drottni er land hans
- með himinsins dýrmætustu gjöf, dögginni,
- og með djúpinu, er undir hvílir,
- 14með hinu dýrmætasta, er sólin framleiðir,
- og með hinu dýrmætasta, sem tunglin láta spretta,
- 15með hinu besta á hinum eldgömlu fjöllum
- og með hinu dýrmætasta á hinum eilífu hæðum,
- 16með hinu dýrmætasta af jörðinni og öllu því, sem á henni er,
- og með þóknun hans, sem bjó í þyrnirunninum.
- Þetta komi yfir höfuð Jósefs
- og í hvirfil hans, sem er höfðingi meðal bræðra sinna!
- 17Prýðilegur er frumgetinn uxi hans,
- og horn hans eru sem horn vísundarins.
- Með þeim rekur hann þjóðir undir,
- allt til endimarka jarðarinnar.
- Þetta eru tíu þúsundir Efraíms,
- og þetta eru þúsundir Manasse!
18Um Sebúlon sagði hann:
- Gleðst þú, Sebúlon, yfir sæförum þínum,
- og þú, Íssakar, yfir tjöldum þínum!
- 19Þjóðflokkum bjóða þeir til fjallsins,
- þar fórna þeir réttum fórnum,
- því að þeir munu sjúga í sig nægtir hafsins
- og hina huldustu fjársjóðu sandsins.
- 20Um Gað sagði hann:
- Blessaður sé sá, sem veitir Gað landrými!
- Hann hefir lagst niður sem ljónynja,
- og rífur sundur arm og hvirfil.
- 21Hann valdi sér landið, er fyrst var tekið,
- því að þar var landshluti geymdur ætthöfðingja.
- Og hann kom með höfðingjum lýðsins,
- hann framkvæmdi réttlæti Drottins
- og dóma hans ásamt Ísrael.
- 22Um Dan sagði hann:
- Dan er ljónshvolpur,
- sem kemur stökkvandi frá Basan.
- 23Um Naftalí sagði hann:
- Naftalí, saddur velþóknunar
- og fullur af blessun Drottins,
- tak þú sjó og Suðurland til eignar!
- 24Um Asser sagði hann:
- Blessaðastur af sonunum sé Asser!
- Veri hann eftirlæti bræðra sinna
- og vökvi fót sinn í olíu!
- 25Slár þínar séu af járni og eir,
- og afl þitt réni eigi fyrr en ævina þrýtur!
- 26Enginn er sem Guð Jesjúrúns,
- er ekur yfir himininn til hjálpar þér
- og á skýjunum í tign sinni!
- 27Hæli er hinn eilífi Guð,
- og hið neðra eru eilífir armar.
- Hann stökkti óvinum þínum undan þér
- og sagði: Gjöreyð!
- 28Og síðan bjó Ísrael óhultur,
- lind Jakobs ein sér,
- í landi korns og vínlagar,
- þar sem himinninn lætur dögg drjúpa.
- 29Heill þér, Ísrael! Hver er sem þú?
- - lýður, sigursæll fyrir hjálp Drottins!
- Hann er skjöldur þíns fulltingis,
- og hann er sverð tignar þinnar.
- Óvinir þínir munu smjaðra fyrir þér,
- og þú munt fram bruna á hæðum þeirra.
Andlát Móse34
1Og Móse gekk neðan af Móabsheiðum upp á Nebófjall, Pisgatind, sem er gegnt Jeríkó. Þaðan sýndi Drottinn honum gjörvallt landið: Gíleað allt til Dan, 2allt Naftalí og Efraímsland og Manasse, og allt Júdaland allt til vesturhafsins, 3og Suðurlandið og Jórdan-sléttlendið, dalinn hjá Jeríkó, pálmaborginni, allt til Sóar.4Og Drottinn sagði við hann: "Þetta er landið, sem ég sór Abraham, Ísak og Jakob, er ég sagði: ,Niðjum þínum vil ég gefa það!' Ég hefi látið þig líta það eigin augum, en yfir um þangað skalt þú ekki komast."
5Móse, þjónn Drottins, dó þar í Móabslandi, eins og Drottinn hafði sagt, 6og hann var grafinn í dalnum í Móabslandi, gegnt Bet Peór, en enginn maður veit enn til þessa dags, hvar gröf hans er. 7Og Móse var hundrað og tuttugu ára gamall, er hann andaðist. Eigi glapnaði honum sýn, og eigi þvarr þróttur hans.
8Ísraelsmenn grétu Móse á Móabsheiðum í þrjátíu daga, þá enduðu sorgargrátsdagarnir eftir Móse. 9En Jósúa Núnsson var fullur vísdómsanda, því að Móse hafði lagt hendur sínar yfir hann, og Ísraelsmenn hlýddu honum og gjörðu svo sem Drottinn hafði boðið Móse.
10En eigi reis framar upp í Ísrael annar eins spámaður og Móse, er Drottinn umgekkst augliti til auglitis, 11þegar litið er til allra þeirra tákna og undra, er Drottinn hafði sent hann til að gjöra í Egyptalandi á Faraó og öllum þjónum hans og öllu landi hans, 12og þegar litið er til alls hins volduga máttar og allra hinna miklu og hræðilegu verka, er Móse gjörði í augsýn alls Ísraels.
Netútgáfan og Hið Íslenska Biblíufélag - ágúst 1997