EXODUS

ÖNNUR  BÓK  MÓSE

Guð leysir úr ánauð


Ísraelsmenn þrælkaðir í Egyptalandi

1
1Þessi eru nöfn Ísraels sona, sem komu til Egyptalands með Jakob, hver með sitt heimilisfólk:

2Rúben, Símeon, Leví og Júda, 3Íssakar, Sebúlon og Benjamín, 4Dan og Naftalí, Gað og Asser.

5Alls voru niðjar Jakobs sjötíu manns, og Jósef var fyrir í Egyptalandi. 6Og Jósef dó og allir bræður hans og öll sú kynslóð. 7Og Ísraelsmenn voru frjósamir, jukust, margfölduðust og fjölgaði stórum, svo að landið varð fullt af þeim.

8Þá hófst til ríkis í Egyptalandi nýr konungur, sem engin deili vissi á Jósef. 9Hann sagði við þjóð sína: "Sjá, þjóð Ísraelsmanna er fjölmennari og aflmeiri en vér. 10Látum oss fara kænlega að við hana, ella kynni henni að fjölga um of, og ef til ófriðar kæmi, kynni hún jafnvel að ganga í lið með óvinum vorum og berjast móti oss og fara síðan af landi burt." 11Og þeir settu verkstjóra yfir hana til þess að þjá hana með þrælavinnu, og hún byggði vistaborgir handa Faraó, Pítóm og Raamses. 12En því meir sem þeir þjáðu hana, því meir fjölgaði henni og breiddist út, svo að þeir tóku að óttast Ísraelsmenn.

13Og Egyptar þrælkuðu Ísraelsmenn vægðarlaust 14og gjörðu þeim lífið leitt með þungri þrælavinnu við leireltu og tigulsteinagjörð og með alls konar akurvinnu, með allri þeirri vinnu, er þeir vægðarlaust þrælkuðu þá með.

15En Egyptalandskonungur mælti til hinna hebresku ljósmæðra - hét önnur Sifra, en hin Púa: 16"Þegar þið sitjið yfir hebreskum konum," mælti hann, "þá lítið á burðarsetið. Sé barnið sveinbarn, þá deyðið það, en sé það meybarn, þá má það lifa." 17En ljósmæðurnar óttuðust Guð og gjörðu eigi það, sem Egyptalandskonungur bauð þeim, heldur létu sveinbörnin lifa. 18Þá lét Egyptalandskonungur kalla ljósmæðurnar og sagði við þær: "Hví hafið þér svo gjört, að láta sveinbörnin lifa?" 19Ljósmæðurnar svöruðu Faraó: "Hebreskar konur eru ólíkar egypskum, því að þær eru hraustar. Áður en ljósmóðirin kemur til þeirra, eru þær búnar að fæða." 20Og Guð lét ljósmæðrunum vel farnast, og fólkinu fjölgaði og það efldist mjög. 21Og fyrir þá sök, að ljósmæðurnar óttuðust Guð, gaf hann þeim fjölda niðja.

22Þá bauð Faraó öllum lýð sínum og sagði: "Kastið í ána öllum þeim sveinbörnum, sem fæðast meðal Hebrea, en öll meybörn mega lífi halda."


Fæðing Móse

2
1Maður nokkur af Leví ætt gekk að eiga dóttur Leví. 2Og konan varð þunguð og fæddi son. Og er hún sá að sveinninn var fríður, þá leyndi hún honum í þrjá mánuði. 3En er hún mátti eigi leyna honum lengur, tók hún handa honum örk af reyr, bræddi hana með jarðlími og biki, lagði sveininn í hana og lét örkina út í sefið hjá árbakkanum. 4En systir hans stóð þar álengdar til að vita, hvað um hann yrði. 5Þá gekk dóttir Faraós ofan að ánni til að lauga sig, og gengu þjónustumeyjar hennar eftir árbakkanum. Hún leit örkina í sefinu og sendi þernu sína að sækja hana. 6En er hún lauk upp örkinni, sá hún barnið, og sjá, það var sveinbarn og var að gráta. Og hún kenndi í brjósti um það og sagði: "Þetta er eitt af börnum Hebrea." 7Þá sagði systir sveinsins við dóttur Faraós: "Á ég að fara og sækja fyrir þig barnfóstru, einhverja hebreska konu, að hún hafi sveininn á brjósti fyrir þig?" 8Og dóttir Faraós svaraði henni: "Já, far þú." En mærin fór og sótti móður sveinsins. 9Og dóttir Faraós sagði við hana: "Tak svein þennan með þér og haf hann á brjósti fyrir mig, og skal ég launa þér fyrir." Tók konan þá sveininn og hafði hann á brjósti. 10En er sveinninn var vaxinn, fór hún með hann til dóttur Faraós. Tók hún hann í sonar stað og nefndi hann Móse, því að hún sagði: "Ég hefi dregið hann upp úr vatninu."


Móse flýr

11Um þær mundir bar svo við, þegar Móse var orðinn fulltíða maður, að hann fór á fund ættbræðra sinna og sá þrældóm þeirra. Sá hann þá egypskan mann ljósta hebreskan mann, einn af ættbræðrum hans. 12Hann skimaði þá í allar áttir, og er hann sá, að þar var enginn, drap hann Egyptann og huldi hann í sandinum.

13Daginn eftir gekk hann út og sá tvo Hebrea vera að þrátta sín á milli. Þá mælti hann við þann, sem á röngu hafði að standa: "Hví slær þú náunga þinn?" 14En hann sagði: "Hver skipaði þig höfðingja og dómara yfir okkur? Er þér í hug að drepa mig, eins og þú drapst Egyptann?" Þá varð Móse hræddur og hugsaði með sér: "Það er þá orðið uppvíst!"

15Er Faraó frétti þennan atburð, leitaði hann eftir að drepa Móse, en Móse flýði undan Faraó og tók sér bústað í Midíanslandi og settist að hjá vatnsbólinu.

16Presturinn í Midíanslandi átti sjö dætur. Þær komu þangað, jusu vatn og fylltu þrórnar til að brynna fénaði föður síns. 17Þá komu að hjarðmenn og bægðu þeim frá. En Móse tók sig til og hjálpaði þeim og brynnti fénaði þeirra.

18Og er þær komu heim til Regúels föður síns, mælti hann: "Hví komið þér svo snemma heim í dag?" 19Þær svöruðu: "Egypskur maður hjálpaði oss móti hjarðmönnunum, jós líka vatnið upp fyrir oss og brynnti fénaðinum." 20Hann sagði þá við dætur sínar: "Hvar er hann þá? Hvers vegna skilduð þér manninn eftir? Bjóðið honum heim, að hann neyti matar."

21Móse lét sér vel líka að vera hjá þessum manni, og hann gifti Móse Sippóru dóttur sína. 22Hún ól son, og hann nefndi hann Gersóm, því að hann sagði: "Gestur er ég í ókunnu landi."


Köllun Móse

23Löngum tíma eftir þetta dó Egyptalandskonungur. En Ísraelsmenn andvörpuðu undir ánauðinni og kveinuðu, og ánauðarkvein þeirra sté upp til Guðs. 24Og Guð heyrði andvarpanir þeirra og minntist sáttmála síns við Abraham, Ísak og Jakob. 25Og Guð leit til Ísraelsmanna og kenndist við þá.

3
1En Móse gætti sauða Jetró tengdaföður síns, prests í Midíanslandi. Og hann hélt fénu vestur yfir eyðimörkina og kom til Guðs fjalls, til Hóreb. 2Þá birtist honum engill Drottins í eldsloga, sem lagði út af þyrnirunna nokkrum. Og er hann gætti að, sá hann, að þyrnirunninn stóð í ljósum loga, en brann ekki. 3Þá sagði Móse: "Ég vil ganga nær og sjá þessa miklu sýn, hvað til þess kemur, að þyrnirunninn brennur ekki."

4En er Drottinn sá, að hann vék þangað til að skoða þetta, þá kallaði Guð til hans úr þyrnirunnanum og sagði: "Móse, Móse!" Hann svaraði: "Hér er ég."

5Guð sagði: "Gakk ekki hingað! Drag skó þína af fótum þér, því að sá staður, er þú stendur á, er heilög jörð."

6Því næst mælti hann:

"Ég er Guð föður þíns, Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs."

Þá byrgði Móse andlit sitt, því að hann þorði ekki að líta upp á Guð.

7Drottinn sagði: "Ég hefi sannlega séð ánauð þjóðar minnar í Egyptalandi og heyrt hversu hún kveinar undan þeim, sem þrælka hana; ég veit, hversu bágt hún á. 8Ég er ofan farinn til að frelsa hana af hendi Egypta og til að leiða hana úr þessu landi og til þess lands, sem er gott og víðlent, til þess lands, sem flýtur í mjólk og hunangi, á stöðvar Kanaaníta, Hetíta, Amoríta, Peresíta, Hevíta og Jebúsíta. 9Nú með því að kvein Ísraelsmanna er komið til mín, og ég auk þess hefi séð, hversu harðlega Egyptar þjaka þeim, 10þá far þú nú. Ég vil senda þig til Faraós, og þú skalt leiða þjóð mína, Ísraelsmenn, út af Egyptalandi."

11En Móse sagði við Guð: "Hver er ég, að ég fari til fundar við Faraó og að ég leiði Ísraelsmenn út af Egyptalandi?" 12Þá sagði hann: "Sannlega mun ég vera með þér. Og það skalt þú til marks hafa, að ég hefi sent þig, að þá er þú hefir leitt fólkið út af Egyptalandi, munuð þér þjóna Guði á þessu fjalli."


Guð opinberar Móse nafn sitt

13Móse sagði við Guð: "En þegar ég kem til Ísraelsmanna og segi við þá: ,Guð feðra yðar sendi mig til yðar,' og þeir segja við mig: ,Hvert er nafn hans?' hverju skal ég þá svara þeim?" 14Þá sagði Guð við Móse:

"Ég er sá, sem ég er." Og hann sagði: "Svo skalt þú segja Ísraelsmönnum: ,Ég er' sendi mig til yðar."

15Guð sagði enn fremur við Móse: "Svo skalt þú segja Ísraelsmönnum: ,Drottinn, Guð feðra yðar, Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs sendi mig til yðar.' Þetta er nafn mitt um aldur, og þetta er heiti mitt frá kyni til kyns. 16Far nú og safna saman öldungum Ísraels og mæl við þá: ,Drottinn, Guð feðra yðar birtist mér, Guð Abrahams, Ísaks og Jakobs, og sagði: Ég hefi vitjað yðar og séð, hversu með yður hefir verið farið í Egyptalandi. 17Og ég hefi sagt: Ég vil leiða yður úr ánauð Egyptalands inn í land Kanaaníta, Hetíta, Amoríta, Peresíta, Hevíta og Jebúsíta, í það land, sem flýtur í mjólk og hunangi.' 18Þeir munu skipast við orð þín og skaltu þá ganga með öldungum Ísraels fyrir Egyptalandskonung, og skuluð þér segja við hann: ,Drottinn, Guð Hebrea, hefir komið til móts við oss. Leyf oss því nú að fara þrjár dagleiðir á eyðimörkina, að vér færum fórnir Drottni, Guði vorum.' 19Veit ég þó, að Egyptalandskonungur mun eigi leyfa yður burtförina, og jafnvel ekki þótt hart sé á honum tekið. 20En ég vil útrétta hönd mína og ljósta Egyptaland með öllum undrum mínum, sem ég mun fremja þar, og þá mun hann láta yður fara. 21Og ég skal láta þessa þjóð öðlast hylli Egypta, svo að þá er þér farið, skuluð þér eigi tómhentir burt fara, 22heldur skal hver kona biðja grannkonu sína og sambýliskonu um silfurgripi og gullgripi og klæði, og það skuluð þér láta sonu yðar og dætur bera, og þannig skuluð þér ræna Egypta."

4
1Móse svaraði og sagði: "Sjá, þeir munu eigi trúa mér og eigi skipast við orð mín, heldur segja: ,Guð hefir ekki birst þér!'" 2Þá sagði Drottinn við hann: "Hvað er það, sem þú hefir í hendi þér?" Hann svaraði: "Stafur er það." 3Hann sagði: "Kasta þú honum til jarðar!" Og hann kastaði honum til jarðar, og stafurinn varð að höggormi, og hrökk Móse undan honum. 4Þá sagði Drottinn við Móse: "Rétt þú út hönd þína og gríp um ormshalann!" Þá rétti hann út hönd sína og tók um hann, og varð hann þá aftur að staf í hendi hans, - 5"að þeir megi trúa því, að Drottinn, Guð feðra þeirra, Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs, hafi birst þér."

6Drottinn sagði enn fremur við hann: "Sting hendi þinni í barm þér!" Og hann stakk hendi sinni í barm sér. En er hann tók hana út aftur, var höndin orðin líkþrá og hvít sem snjór. 7Og hann sagði: "Sting aftur hendi þinni í barm þér!" Og hann stakk hendinni aftur í barm sér. En er hann tók hana aftur út úr barminum, var hún aftur orðin sem annað hold hans. 8"Vilji þeir nú ekki trúa þér eða skipast við hið fyrra jarteiknið, þá munu þeir skipast við hið síðara. 9En ef þeir vilja hvorugu þessu jarteikni trúa eða skipast láta við orð þín, þá skalt þú taka vatn úr ánni og ausa því upp á þurrt land, og mun þá það vatn er þú tekur úr ánni verða að blóði á þurrlendinu."


Aron valinn talsmaður Móse

10Þá sagði Móse við Drottin: "Æ, Drottinn, aldrei hefi ég málsnjall maður verið, hvorki áður fyrr né heldur síðan þú talaðir við þjón þinn, því að mér er tregt um málfæri og tungutak." 11En Drottinn sagði við hann: "Hver gefur manninum málið, eða hver gjörir hann mállausan eða daufan eða skyggnan eða blindan? Er það ekki ég, Drottinn, sem gjöri það? 12Far nú, ég skal vera með munni þínum og kenna þér, hvað þú skalt mæla." 13En hann svaraði: "Æ, Drottinn, send þú einhvern annan." 14Þá reiddist Drottinn Móse og sagði: "Þá er Aron bróðir þinn, levítinn! Ég veit að hann er vel máli farinn. Og meira að segja, sjá, hann fer til móts við þig, og þá er hann sér þig, mun hann fagna í hjarta sínu. 15Þú skalt tala til hans og leggja honum orðin í munn, en ég mun vera með munni þínum og munni hans og kenna ykkur, hvað þið skuluð gjöra. 16Hann skal tala fyrir þig til lýðsins, og hann skal vera þér sem munnur, en þú skalt vera honum sem Guð. 17Staf þennan skalt þú hafa í hendi þér. Með honum skalt þú jarteiknin gjöra."


Móse snýr aftur

18Síðan fór Móse heim aftur til Jetró tengdaföður síns og mælti til hans: "Leyf mér að fara og hverfa aftur til ættbræðra minna, sem á Egyptalandi eru, svo að ég viti, hvort þeir eru enn á lífi." Og Jetró sagði við Móse: "Far þú í friði!"

19Drottinn sagði við Móse í Midíanslandi: "Far þú og hverf aftur til Egyptalands, því að þeir eru allir dauðir, sem leituðu eftir lífi þínu." 20Þá tók Móse konu sína og sonu, setti þau upp á asna og fór aftur til Egyptalands. Og Móse tók Guðs staf í hönd sér.

21Drottinn sagði við Móse: "Sjá svo til, þá er þú kemur aftur í Egyptaland, að þú fremjir öll þau undur fyrir Faraó, sem ég hefi gefið þér vald til. En ég mun herða hjarta hans, svo að hann mun eigi leyfa fólkinu að fara. 22En þú skalt segja við Faraó: Svo segir Drottinn: ,Ísraelslýður er minn frumgetinn sonur. 23Ég segi þér: Lát son minn fara, að hann megi þjóna mér. En viljir þú hann eigi lausan láta, sjá, þá skal ég deyða frumgetinn son þinn.'"

24Á leiðinni bar svo við í gistingarstað einum, að Drottinn réðst í móti honum og vildi deyða hann. 25Þá tók Sippóra hvassan stein og afsneið yfirhúð sonar síns og snerti fætur hans og sagði: "Þú ert sannlega minn blóðbrúðgumi!" 26Þá sleppti hann honum. En ,blóðbrúðgumi' sagði hún vegna umskurnarinnar.

27Drottinn sagði við Aron: "Far þú út í eyðimörkina til móts við Móse." Og hann fór og mætti honum á Guðs fjalli og minntist við hann. 28Sagði Móse þá Aroni öll orð Drottins, er hann hafði fyrir hann lagt, og öll þau jarteikn, sem hann hafði boðið honum að gjöra.

29Þeir Móse og Aron fóru nú og stefndu saman öllum öldungum Ísraelsmanna, 30og flutti Aron öll þau orð, er Drottinn hafði mælt við Móse, og hann gjörði táknin í augsýn fólksins. 31Og fólkið trúði. Og er þeir heyrðu, að Drottinn hafði vitjað Ísraelsmanna og litið á eymd þeirra, féllu þeir fram og tilbáðu.


Móse og Aron frammi fyrir Faraó

5
1Eftir það gengu þeir Móse og Aron á fund Faraós og sögðu: "Svo segir Drottinn, Guð Ísraelsmanna: ,Gef fólki mínu fararleyfi, að það megi halda mér hátíð í eyðimörkinni.'" 2En Faraó sagði: "Hver er Drottinn, að ég skuli hlýða honum til þess að leyfa Ísrael að fara? Ég þekki ekki Drottin, og Ísrael leyfi ég eigi heldur að fara."

3Þeir sögðu: "Guð Hebrea hefir komið til móts við oss. Leyf oss að fara þriggja daga leið út í eyðimörkina til að færa fórnir Drottni, Guði vorum, að hann láti eigi yfir oss koma drepsótt eða sverð." 4En Egyptalandskonungur sagði við þá: "Hví viljið þið, Móse og Aron, taka fólkið úr vinnunni? Farið til erfiðis yðar!" 5Og Faraó sagði: "Nú, þegar fólkið er orðið svo margt í landinu, þá viljið þið láta það hætta að erfiða!"


Vinnan þyngd á fólkinu

6Sama dag bauð Faraó verkstjórum þeim, er settir voru yfir fólkið, og tilsjónarmönnum þess og sagði: 7"Upp frá þessu skuluð þér eigi fá fólkinu hálmstrá til að gjöra tigulsteina við, eins og hingað til. Þeir skulu sjálfir fara og safna sér stráum, 8en þó skuluð þér setja þeim fyrir að gjöra jafnmarga tigulsteina og þeir hafa gjört hingað til, og minnkið ekki af við þá, því að þeir eru latir. Þess vegna kalla þeir og segja: ,Vér viljum fara og færa fórnir Guði vorum.' 9Það verður að þyngja vinnuna á fólkinu, svo að það hafi nóg að starfa og hlýði ekki á lygifortölur."

10Þá gengu verkstjórar fólksins og tilsjónarmenn þess út og mæltu þannig til fólksins: "Svo segir Faraó: ,Ég læt eigi fá yður nein hálmstrá. 11Farið sjálfir og fáið yður strá, hvar sem þér finnið, en þó skal alls ekkert minnka vinnu yðar.'"

12Þá fór fólkið víðsvegar um allt Egyptaland að leita sér hálmleggja til að hafa í stað stráa. 13En verkstjórarnir ráku eftir þeim og sögðu: "Ljúkið dag hvern við yðar ákveðna dagsverk, eins og meðan þér höfðuð stráin." 14Og tilsjónarmenn Ísraelsmanna, sem verkstjórar Faraós höfðu sett yfir þá, voru barðir og sagt við þá: "Hví hafið þér eigi lokið við yðar ákveðna tigulgerðarverk, hvorki í gær né í dag, eins og áður fyrr?"

15Tilsjónarmenn Ísraelsmanna gengu þá fyrir Faraó, báru sig upp við hann og sögðu: "Hví fer þú svo með þjóna þína? 16Þjónum þínum eru engin strá fengin, og þó er sagt við oss: ,Gjörið tigulsteina.' Og sjá, þjónar þínir eru barðir og á þitt fólk sök á þessu." 17En hann sagði: "Þér eruð latir og nennið engu! Þess vegna segið þér: ,Látum oss fara og færa Drottni fórnir.' 18Farið nú og erfiðið! Og engin strá skal fá yður, en þó skuluð þér inna af hendi hina ákveðnu tigulsteina."

19Þá sáu tilsjónarmenn Ísraelsmanna í hvert óefni komið var fyrir þeim, þegar sagt var við þá: "Þér skuluð engu færri tigulsteina gjöra, hinu ákveðna dagsverki skal aflokið hvern dag!" 20Þegar þeir komu út frá Faraó, mættu þeir þeim Móse og Aroni, sem stóðu þar og biðu þeirra. 21Og þeir sögðu við þá: "Drottinn líti á ykkur og dæmi, þar eð þið hafið gjört oss illa þokkaða hjá Faraó og þjónum hans og fengið þeim sverð í hendur til að drepa oss með."

22Þá sneri Móse sér aftur til Drottins og sagði: "Drottinn, hví gjörir þú svo illa við þetta fólk? Hví hefir þú þá sent mig? 23Því síðan ég gekk fyrir Faraó til að tala í þínu nafni, hefir hann misþyrmt þessum lýð, og þú hefir þó alls ekki frelsað lýð þinn."

6
1En Drottinn sagði við Móse: "Þú skalt nú sjá, hvað ég vil gjöra Faraó, því að fyrir voldugri hendi skal hann þá lausa láta, fyrir voldugri hendi skal hann reka þá burt úr landi sínu."


Önnur köllun Móse

2Guð talaði við Móse og sagði við hann:

"Ég er Drottinn! 3Ég birtist Abraham, Ísak og Jakob sem Almáttugur Guð, en undir nafninu Drottinn hefi ég eigi opinberast þeim. 4Ég gjörði og við þá sáttmála, að gefa þeim Kanaanland, dvalarland þeirra, er þeir dvöldust í sem útlendingar. 5Ég hefi og heyrt kveinstafi Ísraelsmanna, sem Egyptar hafa að þrælum gjört, og ég hefi minnst sáttmála míns. 6Seg því Ísraelsmönnum: ,Ég er Drottinn. Ég vil leysa yður undan ánauð Egypta og hrífa yður úr þrældómi þeirra og frelsa yður með útréttum armlegg og miklum refsidómum. 7Ég vil útvelja yður til að vera mitt fólk, og ég vil vera yðar Guð, og þér skuluð reyna, að ég er Drottinn, Guð yðar, sem leysi yður undan ánauð Egypta. 8Og ég vil leiða yður inn í það land, sem ég sór að gefa Abraham, Ísak og Jakob, og ég vil gefa yður það til eignar. Ég er Drottinn.'"

9Móse sagði Ísraelsmönnum þetta, en þeir sinntu honum ekki sökum hugleysis og vegna hins stranga þrældóms.

10Þá talaði Drottinn við Móse og sagði: 11"Gakk á tal við Faraó, Egyptalandskonung, og bið hann leyfa Ísraelsmönnum burt úr landi sínu." 12Og Móse talaði frammi fyrir augliti Drottins og mælti: "Sjá, Ísraelsmenn vilja eigi gefa gaum að orðum mínum. Hversu mun þá Faraó skipast við þau, þar sem ég er maður málstirður?"

13Þá talaði Drottinn við Móse og Aron og fékk þeim það erindi til Ísraelsmanna og Faraós, Egyptalandskonungs, að þeir skyldu út leiða Ísraelsmenn af Egyptalandi.


Ættartala Móse og Arons

14Þessir eru ætthöfðingjar meðal forfeðra þeirra:

Synir Rúbens, frumgetins sonar Ísraels: Hanok, Pallú, Hesron og Karmí. Þetta eru kynþættir Rúbens.

15Synir Símeons: Jemúel, Jamín, Óhad, Jakín, Sóhar og Sál, sonur konunnar kanversku. Þetta eru kynþættir Símeons.

16Þessi eru nöfn Leví sona eftir ættbálkum þeirra: Gerson, Kahat og Merarí. En Leví varð hundrað þrjátíu og sjö ára gamall.

17Synir Gersons: Líbní og Símeí eftir kynþáttum þeirra.

18Synir Kahats: Amram, Jísehar, Hebron og Ússíel. En Kahat varð hundrað þrjátíu og þriggja ára gamall.

19Synir Merarí: Mahelí og Músí. Þetta eru kynþættir levítanna eftir ættbálkum þeirra.

20Amram fékk Jókebedar, föðursystur sinnar, og átti hún við honum þá Aron og Móse. En Amram varð hundrað þrjátíu og sjö ára gamall.

21Synir Jísehars: Kóra, Nefeg og Síkrí.

22Synir Ússíels: Mísael, Elsafan og Sítrí.

23Aron fékk Elísebu, dóttur Ammínadabs, systur Nahsons, og átti hún við honum þá Nadab, Abíhú, Eleasar og Ítamar.

24Synir Kóra: Assír, Elkana og Abíasaf. Þetta eru kynþættir Kóraíta.

25Og Eleasar, sonur Arons, gekk að eiga eina af dætrum Pútíels, og hún ól honum Pínehas.

Þetta eru ætthöfðingjar levítanna eftir kynþáttum þeirra.

26Það var þessi Aron og Móse, sem Drottinn bauð: "Leiðið Ísraelsmenn út af Egyptalandi eftir hersveitum þeirra." 27Það voru þeir, sem boðuðu Faraó, Egyptalandskonungi, að þeir mundu leiða Ísraelsmenn út úr Egyptalandi, þessi Móse og Aron.


Aron spámaður Móse

28Er Drottinn talaði við Móse í Egyptalandi, 29mælti hann til hans þessum orðum: "Ég er Drottinn! Seg Faraó, Egyptalandskonungi, allt sem ég segi þér."

30Og Móse sagði frammi fyrir augliti Drottins: "Sjá, ég er maður málstirður, hversu má Faraó þá skipast við orð mín?"

7
1Drottinn sagði við Móse:

"Sjá, ég gjöri þig sem Guð fyrir Faraó, en Aron bróðir þinn skal vera spámaður þinn. 2Þú skalt tala allt sem ég býð þér, en Aron bróðir þinn skal flytja við Faraó, að hann gefi Ísraelsmönnum fararleyfi úr landi sínu. 3En ég vil herða hjarta Faraós og fremja mörg jarteikn og stórmerki í Egyptalandi. 4Faraó mun ekki skipast við orð ykkar, og skal ég þá leggja hönd mína á Egyptaland og leiða hersveitir mínar, þjóð mína, Ísraelsmenn með miklum refsidómum út úr Egyptalandi. 5Skulu Egyptar fá að vita, að ég er Drottinn, þegar ég rétti út hönd mína yfir Egyptaland og leiði Ísraelsmenn burt frá þeim."

6Móse og Aron gjörðu þetta. Þeir fóru að öllu svo sem Drottinn hafði fyrir þá lagt. 7Var Móse áttræður, en Aron hafði þrjá um áttrætt, er þeir töluðu við Faraó.


Faraó daufheyrist

8Drottinn talaði við þá Móse og Aron og sagði:

9"Þegar Faraó segir við ykkur: ,Látið sjá stórmerki nokkur,' þá seg þú við Aron: ,Tak staf þinn og kasta honum frammi fyrir Faraó.' Skal hann þá verða að höggormi."

10Þá gengu þeir Móse og Aron inn fyrir Faraó og gjörðu svo sem Drottinn hafði boðið þeim, og kastaði Aron staf sínum frammi fyrir Faraó og þjónum hans, og varð stafurinn að höggormi.

11Þá lét Faraó og kalla vitringana og töframennina, og þeir, spásagnamenn Egypta, gjörðu slíkt hið sama með fjölkynngi sinni: 12Kastaði hver þeirra staf sínum, og urðu stafirnir að höggormum. En stafur Arons gleypti þeirra stafi.

13En hjarta Faraós harðnaði, og hann hlýddi þeim ekki, eins og Drottinn hafði sagt.


Fyrsta plágan: Vatn breytist í blóð

14Þá sagði Drottinn við Móse: "Hjarta Faraós er ósveigjanlegt. Hann vill eigi leyfa fólkinu að fara. 15Far þú á morgun á fund Faraós. Sjá, hann mun ganga til vatns. Skalt þú þá ganga í veg fyrir hann á árbakkanum, og haf í hendi þér staf þann, er varð að höggormi. 16Og þú skalt segja við hann: ,Drottinn, Guð Hebrea, hefir sent mig til þín með þessa orðsending: Leyf fólki mínu að fara, að það megi þjóna mér á eyðimörkinni. En hingað til hefir þú ekki látið skipast. 17Svo segir Drottinn: Af þessu skaltu vita mega, að ég er Drottinn: Með staf þeim, sem ég hefi í hendi mér, lýst ég á vatnið, sem er í ánni, og skal það þá verða að blóði. 18Fiskarnir í ánni skulu deyja og áin fúlna, svo að Egypta skal velgja við að drekka vatn úr ánni.'"

19Þá mælti Drottinn við Móse: "Seg við Aron: ,Tak staf þinn og rétt hönd þína út yfir vötn Egyptalands, yfir fljót þess og ár, tjarnir og allar vatnsstæður, og skulu þau þá verða að blóði, og um allt Egyptaland skal blóð vera bæði í tréílátum og steinkerum.'"

20Móse og Aron gjörðu sem Drottinn hafði boðið þeim. Hann reiddi upp stafinn og laust vatnið í ánni að ásjáandi Faraó og þjónum hans, og allt vatnið í ánni varð að blóði.

21Fiskarnir í ánni dóu, og áin fúlnaði, svo að Egyptar gátu ekki drukkið vatn úr ánni, og blóð var um allt Egyptaland.

22En spásagnamenn Egypta gjörðu slíkt hið sama með fjölkynngi sinni. Harðnaði þá hjarta Faraós, og hann hlýddi þeim ekki, eins og Drottinn hafði sagt.

23Sneri Faraó þá burt og fór heim til sín og lét þetta ekki heldur á sig fá. 24En allir Egyptar grófu með fram ánni eftir neysluvatni, því að þeir gátu eigi drukkið vatnið úr ánni. 25Liðu svo sjö dagar eftir það, að Drottinn hafði lostið ána.


Önnur plágan: Froskar

8
1Því næst sagði Drottinn við Móse:

"Gakk fyrir Faraó og seg við hann: ,Svo segir Drottinn: Gef lýð mínum fararleyfi, að þeir megi þjóna mér. 2En ef þú synjar honum fararleyfis, þá skal ég þjá allt þitt land með froskum. 3Áin skal mora af froskum. Þeir skulu fara á land upp og skríða inn í höll þína og í svefnherbergi þitt og upp í rekkju þína, inn í hús þjóna þinna og upp á fólk þitt, í bakstursofna þína og deigtrog. 4Og froskarnir skulu skríða upp á þig og fólk þitt og upp á alla þjóna þína.'"

5Og Drottinn sagði við Móse: "Seg við Aron: ,Rétt út hönd þína og hald staf þínum uppi yfir fljótunum, ánum og tjörnunum, og lát froska koma yfir Egyptaland.'"

6Aron rétti út hönd sína yfir vötn Egyptalands. Komu þá upp froskar og huldu Egyptaland. 7En spásagnamennirnir gjörðu slíkt hið sama með fjölkynngi sinni og létu froska koma yfir Egyptaland.

8Þá lét Faraó kalla Móse og Aron og sagði: "Biðjið Drottin, að hann láti þessa froska víkja frá mér og frá þjóð minni. Þá skal ég láta fólkið fara, að það megi færa Drottni fórnir." 9Móse sagði við Faraó: "Þér skal veitast sú virðing að ákveða, nær ég skuli biðja fyrir þér og fyrir þjónum þínum og fyrir fólki þínu, að froskarnir víki frá þér og úr húsum þínum og verði hvergi eftir nema í ánni." 10Hann svaraði: "Á morgun." Og Móse sagði: "Svo skal vera sem þú mælist til, svo að þú vitir, að enginn er sem Drottinn, Guð vor. 11Froskarnir skulu víkja frá þér og úr húsum þínum, frá þjónum þínum og frá fólki þínu. Hvergi nema í ánni skulu þeir eftir verða."

12Síðan gengu þeir Móse og Aron burt frá Faraó og Móse ákallaði Drottin út af froskunum, sem hann hafði koma látið yfir Faraó. 13Og Drottinn gjörði sem Móse beiddist, og dóu froskarnir í húsunum, í görðunum og á ökrunum. 14Hrúguðu menn þeim saman í marga hauga, og varð af illur daunn í landinu.

15En er Faraó sá að af létti, herti hann hjarta sitt og hlýddi þeim ekki, eins og Drottinn hafði sagt.


Þriðja plágan: Mýbit

16Því næst sagði Drottinn við Móse: "Seg við Aron: ,Rétt út staf þinn og slá duft jarðarinnar, og skal það þá verða að mýi um allt Egyptaland.'"

17Þeir gjörðu svo. Rétti Aron út hönd sína og laust stafnum á duft jarðarinnar, og varð það að mýi á mönnum og fénaði. Allt duft jarðarinnar varð að mýi um allt Egyptaland.

18Og spásagnamennirnir gjörðu slíkt hið sama með fjölkynngi sinni til þess að framleiða mý, en gátu ekki. En mýið lagðist bæði á menn og fénað. 19Þá sögðu spásagnamennirnir við Faraó: "Þetta er Guðs fingur." En hjarta Faraós harðnaði, og hann hlýddi þeim ekki, eins og Drottinn hafði sagt.


Fjórða plágan: Flugur

20Þá sagði Drottinn við Móse: "Rís upp árla á morgun og far til fundar við Faraó, er hann gengur til vatns, og seg við hann: ,Svo segir Drottinn: Gef fólki mínu fararleyfi, að þeir megi þjóna mér. 21En leyfir þú eigi fólki mínu að fara, skal ég láta flugur koma yfir þig og þjóna þína, yfir fólk þitt og í hús þín, og hús Egypta skulu full verða af flugum og jafnvel jörðin undir fótum þeirra. 22En á þeim degi vil ég undan taka Gósenland, þar sem mitt fólk hefst við, svo að þar skulu engar flugur vera, til þess að þú vitir, að ég er Drottinn á jörðunni. 23Og ég vil gjöra aðskilnað milli míns fólks og þíns fólks. Á morgun skal þetta tákn verða.'"

24Og Drottinn gjörði svo. Kom þá fjöldi flugna í hús Faraós og hús þjóna hans og yfir allt Egyptaland, svo að landið spilltist af flugunum.

25Þá lét Faraó kalla þá Móse og Aron og sagði: "Farið og færið fórnir Guði yðar hér innanlands." 26En Móse svaraði: "Ekki hæfir að vér gjörum svo, því að vér færum Drottni, Guði vorum, þær fórnir, sem eru Egyptum andstyggð. Ef vér nú bærum fram þær fórnir, sem eru Egyptum andstyggð, að þeim ásjáandi, mundu þeir þá ekki grýta oss? 27Vér verðum að fara þrjár dagleiðir út á eyðimörkina til að færa fórnir Drottni, Guði vorum, eins og hann hefir boðið oss." 28Þá mælti Faraó: "Ég vil leyfa yður að fara burt, svo að þér færið fórnir Drottni, Guði yðar, á eyðimörkinni. Aðeins megið þér ekki fara of langt í burt. Biðjið fyrir mér!" 29Móse svaraði: "Sjá, þegar ég kem út frá þér, vil ég biðja til Drottins, að flugurnar víki frá Faraó og frá þjónum hans og frá fólki hans á morgun. En þá má Faraó ekki oftar prettast um að leyfa fólkinu að fara burt til að færa Drottni fórnir."

30Þá gekk Móse út frá Faraó og bað til Drottins. 31Og Drottinn gjörði sem Móse bað og lét flugurnar víkja frá Faraó og þjónum hans og fólki hans, svo að ekki ein varð eftir.

32En Faraó herti þá enn hjarta sitt, og ekki leyfði hann fólkinu að fara.


Fimmta plágan: Fjársýki

9
1Því næst sagði Drottinn við Móse:

"Gakk fyrir Faraó og seg við hann: ,Svo segir Drottinn, Guð Hebrea: Gef fólki mínu fararleyfi, að þeir megi þjóna mér. 2En synjir þú þeim fararleyfis, og haldir þú þeim enn lengur, 3sjá, þá skal hönd Drottins koma yfir kvikfénað þinn, sem er í haganum, yfir hesta og asna og úlfalda, nautpening og sauðfé, með harla þungum faraldri. 4Og Drottinn mun gjöra þann mun á kvikfénaði Ísraelsmanna og kvikfénaði Egypta, að engin skepna skal deyja af öllu því, sem Ísraelsmenn eiga.'" 5Og Drottinn tók til ákveðinn tíma og sagði: "Á morgun mun Drottinn láta þetta fram fara í landinu."

6Og Drottinn lét þetta fram fara að næsta morgni. Dó þá allur kvikfénaður Egypta, en engin skepna dó af fénaði Ísraelsmanna. 7Þá sendi Faraó menn, og sjá: Engin skepna hafði farist af fénaði Ísraelsmanna.

En hjarta Faraós var ósveigjanlegt, og hann gaf fólkinu eigi fararleyfi.


Sjötta plágan: Kýli

8Því næst sagði Drottinn við Móse og Aron: "Takið handfylli ykkar af ösku úr ofninum, og skal Móse dreifa henni í loft upp að Faraó ásjáandi. 9Skal hún þá verða að dufti um allt Egyptaland, en af því skal koma bólga, sem brýst út í kýli, bæði á mönnum og fénaði um allt Egyptaland."

10Þeir tóku þá ösku úr ofninum og gengu fyrir Faraó. Dreifði þá Móse öskunni í loft upp, og kom þá á menn og fénað bólga, sem braust út í kýli. 11En spásagnamennirnir gátu ekki komið á fund Móse sökum bólgunnar, því að bólga kom á spásagnamennina, eins og á alla Egypta.

12En Drottinn herti hjarta Faraós, og hann hlýddi þeim ekki, eins og Drottinn hafði sagt Móse.


Sjöunda plágan: Hagl

13Þá mælti Drottinn við Móse: "Rís upp árla á morgun, gakk fyrir Faraó og seg við hann: ,Svo segir Drottinn, Guð Hebrea: Gef fólki mínu fararleyfi, að þeir megi þjóna mér. 14Því að í þetta sinn ætla ég að senda allar plágur mínar yfir þig sjálfan, yfir þjóna þína og yfir fólk þitt, svo að þú vitir, að enginn er minn líki á allri jörðinni. 15Því að ég hefði þegar getað rétt út hönd mína og slegið þig og fólk þitt með drepsótt, svo að þú yrðir afmáður af jörðinni. 16En þess vegna hefi ég þig standa látið, til þess að ég sýndi þér mátt minn og til þess að nafn mitt yrði kunngjört um alla veröld. 17Þú stendur enn í móti fólki mínu með því að vilja ekki gefa þeim fararleyfi. 18Sjá, á morgun í þetta mund vil ég láta dynja yfir svo stórfellt hagl, að aldrei hefir slíkt komið á Egyptalandi, síðan landið varð til og allt til þessa dags. 19Fyrir því send nú og tak sem skjótast inn fénað þinn og allt það, er þú átt úti. Allir menn og skepnur, sem úti verða staddar og ekki eru í hús inn látnar og fyrir haglinu verða, munu deyja.'"

20Sérhver af þjónum Faraós, sem óttaðist orð Drottins, hýsti inni hjú sín og fénað. 21En þeir, sem ekki gáfu gaum að orðum Drottins, létu hjú sín og fénað vera úti.

22Þá sagði Drottinn við Móse: "Rétt hönd þína til himins og þá skal hagl drífa yfir allt Egyptaland, yfir menn og skepnur, og yfir allan jarðargróða í Egyptalandi." 23Þá lyfti Móse staf sínum til himins, og Drottinn lét þegar koma reiðarþrumur og hagl. Og eldingum laust á jörð niður, og Drottinn lét hagl dynja yfir Egyptaland. 24Og haglið dundi og eldingunum laust í sífellu niður innan um haglið, er var svo geysistórt, að slíkt hafði ekki komið á öllu Egyptalandi síðan það byggðist. 25Og haglið laust til bana allt það, sem úti var í öllu Egyptalandi, bæði menn og skepnur, og haglið lamdi allan jarðargróða og braut hvert tré merkurinnar. 26Aðeins í Gósenlandi, þar sem Ísraelsmenn bjuggu, kom ekkert hagl.

27Þá sendi Faraó og lét kalla þá Móse og Aron og sagði við þá: "Að þessu sinni hefi ég syndgað. Drottinn er réttlátur, en ég og mitt fólk höfum á röngu að standa. 28Biðjið til Drottins. Nóg er komið af reiðarþrumum og hagli. Vil ég þá gefa yður fararleyfi, og skuluð þér ekki bíða lengur."

29Móse svaraði honum: "Jafnskjótt sem ég er kominn út úr borginni, skal ég fórna höndum til Drottins, og mun þá reiðarþrumunum linna og hagl ekki framar koma, svo að þú vitir, að jörðin tilheyrir Drottni. 30Og veit ég þó, að þú og þjónar þínir óttast ekki enn Drottin Guð."

31Hör og bygg var niður slegið, því að öx voru komin á byggið og knappar á hörinn. 32En hveiti og speldi var ekki niður slegið, því að þau koma seint upp.

33Því næst gekk Móse burt frá Faraó og út úr borginni og fórnaði höndum til Drottins. Linnti þá reiðarþrumunum og haglinu, og regn streymdi ekki lengur niður á jörðina.

34En er Faraó sá, að regninu, haglinu og reiðarþrumunum linnti, hélt hann áfram að syndga og herti hjarta sitt, hann og þjónar hans.

35Og hjarta Faraós harðnaði, og hann gaf Ísraelsmönnum eigi fararleyfi, eins og Drottinn hafði sagt fyrir munn Móse.


Áttunda plágan: Engisprettur

10
1Því næst sagði Drottinn við Móse:

"Gakk inn fyrir Faraó, því að ég hefi hert hjarta hans og hjörtu þjóna hans til þess að ég fremji þessi tákn mín meðal þeirra 2og til þess að þú getir sagt börnum þínum og barnabörnum frá því, hvernig ég hefi farið með Egypta, og frá þeim táknum, sem ég hefi á þeim gjört, svo að þér vitið, að ég er Drottinn."

3Síðan gengu þeir Móse og Aron inn fyrir Faraó og sögðu við hann: "Svo segir Drottinn, Guð Hebrea: ,Hve lengi vilt þú færast undan að auðmýkja þig fyrir mér? 4Gef fólki mínu fararleyfi, að þeir megi þjóna mér, því að færist þú undan að leyfa fólki mínu að fara, þá skal ég á morgun láta engisprettur færast inn yfir landamæri þín. 5Og þær skulu hylja yfirborð landsins, svo að ekki skal sjást til jarðar. Skulu þær upp eta leifarnar, sem bjargað var og þér eigið eftir óskemmdar af haglinu, og naga öll tré yðar, sem spretta á mörkinni. 6Þær skulu fylla hús þín og hús allra þjóna þinna og hús allra Egypta, og hafa hvorki feður þínir né feður feðra þinna séð slíkt, frá því þeir fæddust í heiminn og allt til þessa dags.'" Síðan sneri hann sér við og gekk út frá Faraó.

7Þá sögðu þjónar Faraós við hann: "Hversu lengi á þessi maður að verða oss að meini? Gef mönnunum fararleyfi, að þeir megi þjóna Drottni Guði sínum! Veistu ekki enn, að Egyptaland er í eyði lagt?"

8Þá voru þeir Móse og Aron sóttir aftur til Faraós og sagði hann við þá: "Farið og þjónið Drottni Guði yðar! En hverjir eru það, sem ætla að fara?" 9Móse svaraði: "Vér ætlum að fara með börn vor og gamalmenni. Með sonu vora og dætur, sauðfé vort og nautgripi ætlum vér að fara, því að vér eigum að halda Drottni hátíð." 10En hann sagði við þá: "Svo framt sé Drottinn með yður, sem ég gef yður og börnum yðar fararleyfi! Sannlega hafið þér illt í huga. 11Eigi skal svo vera. Farið þér karlmennirnir og þjónið Drottni, því að um það hafið þér beðið." Síðan voru þeir reknir út frá Faraó.

12Þá mælti Drottinn við Móse: "Rétt út hönd þína yfir Egyptaland, svo að engisprettur komi yfir landið og upp eti allan jarðargróða, allt það, sem haglið eftir skildi." 13Þá rétti Móse út staf sinn yfir Egyptaland.

Og Drottinn lét austanvind blása inn yfir landið allan þann dag og alla nóttina, en með morgninum kom austanvindurinn með engispretturnar. 14Engispretturnar komu yfir allt Egyptaland, og mesti aragrúi af þeim kom niður í öllum héruðum landsins. Hafði aldrei áður verið slíkur urmull af engisprettum, og mun ekki hér eftir verða. 15Þær huldu allt landið, svo að hvergi sá til jarðar, og þær átu allt gras jarðarinnar og allan ávöxt trjánna, sem haglið hafði eftir skilið, svo að í öllu Egyptalandi varð ekkert grænt eftir, hvorki á trjánum né á jurtum merkurinnar.

16Þá gjörði Faraó í skyndi boð eftir Móse og Aroni og sagði: "Ég hefi syndgað á móti Drottni Guði yðar, og á móti yður. 17En fyrirgefið mér synd mína aðeins í þetta sinn og biðjið Drottin, Guð yðar, að hann fyrir hvern mun létti þessari voðaplágu af mér." 18Síðan gekk hann út frá Faraó og bað til Drottins. 19Þá sneri Drottinn veðrinu í mjög hvassan vestanvind, sem tók engispretturnar og fleygði þeim í Rauðahafið, svo að ekki var eftir ein engispretta nokkurs staðar í Egyptalandi.

20En Drottinn herti hjarta Faraós, svo að hann leyfði ekki Ísraelsmönnum burt að fara.


Níunda plágan: Myrkur

21Því næst sagði Drottinn við Móse: "Rétt hönd þína til himins, og skal þá koma þreifandi myrkur yfir allt Egyptaland."

22Móse rétti þá hönd sína til himins, og varð þá niðamyrkur í öllu Egyptalandi í þrjá daga. 23Enginn sá annan, og enginn hreyfði sig, þaðan sem hann var staddur, í þrjá daga, en bjart var hjá öllum Ísraelsmönnum, í híbýlum þeirra.

24Þá lét Faraó kalla Móse og sagði: "Farið og þjónið Drottni, látið aðeins sauðfénað yðar og nautgripi eftir verða. Börn yðar mega einnig fara með yður." 25En Móse svaraði: "Þú verður einnig að fá oss dýr til sláturfórnar og brennifórnar, að vér megum fórnir færa Drottni Guði vorum.26Kvikfé vort skal og fara með oss, ekki skal ein klauf eftir verða, því að af því verðum vér að taka til þess að þjóna Drottni Guði vorum. En eigi vitum vér, hverju vér skulum fórnfæra Drottni, fyrr en vér komum þangað."

27En Drottinn herti hjarta Faraós og hann vildi ekki gefa þeim fararleyfi.

28Og Faraó sagði við hann: "Haf þig á burt frá mér og varast að koma oftar fyrir mín augu, því að á þeim degi, sem þú kemur í augsýn mér, skaltu deyja." 29Móse svaraði: "Rétt segir þú. Ég skal aldrei framar koma þér fyrir augu."


Tíunda plágan boðuð

11
1Þá sagði Drottinn við Móse: "Ég vil enn láta eina plágu koma yfir Faraó og Egyptaland. Eftir það mun hann leyfa yður að fara héðan. Þegar hann gefur yður fullt fararleyfi, þá mun hann jafnvel reka yður burt héðan. 2Seg nú í áheyrn fólksins, að hver maður skuli biðja granna sinn og hver kona grannkonu sína um silfurgripi og gullgripi."

3Drottinn lét fólkið öðlast hylli Egypta, enda var Móse mjög mikils virtur maður í Egyptalandi, bæði af þjónum Faraós og lýðnum.

4Þá sagði Móse: "Svo segir Drottinn: ,Um miðnætti vil ég ganga mitt í gegnum Egyptaland, 5og þá skulu allir frumburðir í Egyptalandi deyja, frá frumgetnum syni Faraós, sem situr í hásæti sínu, til frumgetnings ambáttarinnar, sem stendur við kvörnina, og allir frumburðir fénaðarins. 6Þá skal verða svo mikið harmakvein um allt Egyptaland, að jafnmikið hefir ekki verið og mun aldrei verða. 7En eigi skal svo mikið sem rakki gelta að nokkrum Ísraelsmanna, hvorki að mönnum né skepnum, svo að þér vitið, að Drottinn gjörir greinarmun á Ísraelsmönnum og Egyptum. 8Þá skulu allir þessir þjónar þínir koma til mín, falla til jarðar fyrir mér og segja: Far þú á burt og allt það fólk, sem þér fylgir, - og eftir það mun ég á burt fara.'"

Síðan gekk hann út frá Faraó og var hinn reiðasti.

9En Drottinn sagði við Móse: "Faraó mun ekki láta að orðum yðar, svo að stórmerki mín verði mörg í Egyptalandi." 10En þeir Móse og Aron gjörðu öll þessi stórmerki fyrir Faraó.

En Drottinn herti hjarta Faraós, og ekki leyfði hann Ísraelsmönnum að fara burt úr landi sínu.


Páskahátíðin

12
1Þá mælti Drottinn við þá Móse og Aron í Egyptalandi á þessa leið: 2"Þessi mánuður skal vera upphafsmánuður hjá yður. Hann skal vera fyrsti mánuður ársins hjá yður. 3Talið til alls safnaðar Ísraelsmanna og segið:

,Á tíunda degi þessa mánaðar skal hver húsbóndi taka lamb fyrir fjölskyldu sína, eitt lamb fyrir hvert heimili. 4En sé eitt lamb of mikið fyrir heimilið, þá taki hann og granni hans, sá er næstur honum býr, lamb saman eftir tölu heimilismanna. Eftir því sem hver etur, skuluð þér ætla á um lambið. 5Lambið skal vera gallalaust, hrútlamb veturgamalt, og má vera hvort sem vill ásauðarlamb eða hafurkið. 6Og þér skuluð varðveita það til hins fjórtánda dags þessa mánaðar. Þá skal öll samkoma Ísraelssafnaðar slátra því um sólsetur. 7Þá skulu þeir taka nokkuð af blóðinu og ríða því á báða dyrastafi og dyratré húsa þeirra, þar sem þeir eta lambið. 8Sömu nóttina skulu þeir eta kjötið, steikt við eld. Með ósýrðu brauði og beiskum jurtum skulu þeir eta það. 9Ekki skuluð þér eta neitt af því hrátt eða soðið í vatni, heldur steikt við eld, höfuðið með fótum og innyflum. 10Engu af því skuluð þér leifa til morguns, en hafi nokkru af því leift verið til morguns, þá skuluð þér brenna það í eldi. 11Og þannig skuluð þér neyta þess: Þér skuluð vera gyrtir um lendar yðar, hafa skó á fótum og stafi í höndum. Þér skuluð eta það í flýti. Það eru páskar Drottins. 12Því að þessa sömu nótt vil ég fara um Egyptaland og deyða alla frumburði í Egyptalandi, bæði menn og fénað. Og refsidóma vil ég láta fram koma á öllum goðum Egyptalands. Ég er Drottinn. 13Og blóðið skal vera yður tákn á þeim húsum, þar sem þér eruð: Er ég sé blóðið, mun ég ganga fram hjá yður, og engin skæð plága skal yfir yður koma, þegar ég slæ Egyptaland. 14Þessi dagur skal vera yður endurminningardagur, og þér skuluð halda hann sem hátíð Drottins. Kynslóð eftir kynslóð skuluð þér hann hátíðlegan halda eftir ævarandi lögmáli.'


Hátíð hinna ósýrðu brauða

15,Í sjö daga skuluð þér eta ósýrt brauð. Þegar á fyrsta degi skuluð þér flytja súrdeig burt úr húsum yðar, því að hver sem etur sýrt brauð frá fyrsta degi til hins sjöunda, hann skal upprættur verða úr Ísrael. 16Á hinum fyrsta degi skuluð þér halda helga samkomu og sömuleiðis á hinum sjöunda degi helga samkomu. Á þeim dögum skal ekkert verk vinna, nema það megið þér tilreiða, sem hver og einn þarf sér til matar. 17Þér skuluð halda helga hátíð hinna ósýrðu brauða, því að einmitt á þessum degi leiddi ég hersveitir yðar út af Egyptalandi. Fyrir því skuluð þér halda heilagt þennan dag, kynslóð eftir kynslóð, eftir ævarandi lögmáli. 18Í fyrsta mánuðinum skuluð þér ósýrt brauð eta frá því um kveldið hinn fjórtánda dag mánaðarins og til þess um kveldið hinn tuttugasta og fyrsta dag mánaðarins. 19Í sjö daga skal súrdeig ekki finnast í húsum yðar, því að hver sem þá etur sýrt brauð, sá maður skal upprættur verða úr söfnuði Ísraels, hvort sem hann er útlendur eða innlendur. 20Þér skuluð ekkert sýrt brauð eta. Í öllum bústöðum yðar skuluð þér eta ósýrt brauð.'"


Páskahátíðin undirbúin

21Þá stefndi Móse saman öllum öldungum Ísraelsmanna og sagði við þá: "Farið og takið yður sauðkindur handa heimilum yðar og slátrið páskalambinu. 22Takið ísópsvönd og drepið honum í blóðið, sem er í troginu, og ríðið blóði úr troginu á dyratréð og báða dyrastafina. Og enginn yðar skal fara út fyrir dyr á húsi sínu fyrr en að morgni. 23Því að Drottinn mun fara yfir landið til þess að ljósta Egypta. Hann mun sjá blóðið á dyratrénu og báðum dyrastöfunum, og mun þá Drottinn ganga fram hjá dyrunum og ekki láta eyðandann koma í hús yðar til að ljósta yður. 24Gætið þessa sem ævinlegrar skipunar fyrir þig og börn þín. 25Og þegar þér komið í landið, sem Drottinn mun gefa yður, eins og hann hefir heitið, þá skuluð þér halda þennan sið. 26Og þegar börn yðar segja við yður: ,Hvaða siður er þetta, sem þér haldið?' 27þá skuluð þér svara: ,Þetta er páskafórn Drottins, sem gekk fram hjá húsum Ísraelsmanna í Egyptalandi, þá er hann laust Egypta, en hlífði vorum húsum.'"

Þá féll lýðurinn fram og tilbað. 28Og Ísraelsmenn fóru og gjörðu þetta. Þeir gjörðu eins og Drottinn hafði boðið þeim Móse og Aroni.


Tíunda plágan: Dauði frumburðanna

29Um miðnæturskeið laust Drottinn alla frumburði í Egyptalandi, frá frumgetnum syni Faraós, sem sat í hásæti sínu, allt til frumgetnings bandingjans, sem í myrkvastofu sat, og alla frumburði fénaðarins.

30Þá reis Faraó upp um nóttina, hann og allir þjónar hans, og allir Egyptar. Gjörðist þá mikið harmakvein í Egyptalandi, því að ekki var það hús, að eigi væri lík inni. 31Lét hann kalla þá Móse og Aron um nóttina og sagði: "Takið yður upp og farið burt frá minni þjóð, bæði þið og Ísraelsmenn. Farið og þjónið Drottni, eins og þið hafið um talað. 32Takið með yður bæði sauðfé yðar og nautgripi, eins og þið hafið um talað, farið því næst af stað og biðjið einnig mér blessunar." 33Og Egyptar ráku hart eftir fólkinu til þess að koma þeim sem fyrst burt úr landinu, því að þeir sögðu: "Vér munum allir deyja."

34Fólkið tók þá deigið, sem það hafði, áður en það sýrðist, batt deigtrogin innan í klæði sín og bar þau á öxlum sér. 35En Ísraelsmenn höfðu gjört eftir fyrirmælum Móse og beðið Egypta um gullgripi og silfurgripi og klæði, 36og hafði Drottinn látið fólkið öðlast hylli Egypta, svo að þeir urðu við bæn þeirra, og þannig rændu þeir Egypta.


Lagt af stað

37Tóku Ísraelsmenn sig nú upp frá Ramses og fóru til Súkkót, hér um bil sex hundruð þúsund fótgangandi manna, auk barna. 38Þar að auki fór með þeim mikill fjöldi af alls konar lýð, svo og stórar hjarðir sauða og nauta.

39Og þeir bökuðu ósýrðar kökur af deiginu, sem þeir höfðu með sér úr Egyptalandi, því að deigið hafði ekki sýrst, þar eð þeir voru reknir burt úr Egyptalandi og máttu engar viðtafir hafa og höfðu því ekkert búið sér til veganestis.

40Ísraelsmenn höfðu þá búið í Egyptalandi fjögur hundruð og þrjátíu ár. 41Og að liðnum þeim fjögur hundruð og þrjátíu árum, einmitt á þeim degi, fóru allar hersveitir Drottins út af Egyptalandi.

42Þetta er vökunótt Drottins, með því að hann leiddi þá út af Egyptalandi. Þessa sömu nótt halda allir Ísraelsmenn helga sem vökunótt Drottins frá kyni til kyns.


Lög um páskahald

43Drottinn sagði við þá Móse og Aron:

"Þetta eru ákvæðin um páskalambið:

Enginn útlendur maður má af því eta.

44Sérhver þræll, sem er verði keyptur, má eta af því, er þú hefir umskorið hann.

45Enginn útlendur búandi eða daglaunamaður má eta af því.

46Menn skulu eta það í einu húsi.

Ekkert af kjötinu mátt þú bera út úr húsinu.

Ekkert bein í því megið þér brjóta.

47Allur söfnuður Ísraels skal svo gjöra.

48Ef nokkur útlendingur býr hjá þér og vill halda Drottni páska, þá skal umskera allt karlkyn hjá honum, og má hann þá koma og halda hátíðina, og skal hann vera sem innborinn maður. En enginn óumskorinn skal þess neyta. 49Sömu lög skulu vera fyrir innborna menn sem fyrir þá útlendinga, er meðal yðar búa."

50Allir Ísraelsmenn gjörðu svo, þeir gjörðu svo sem Drottinn hafði boðið þeim Móse og Aroni.

51Einmitt á þessum degi leiddi Drottinn Ísraelsmenn út af Egyptalandi eftir hersveitum þeirra.


Boð um frumburði og minningarhátíð

13
1Þá talaði Drottinn við Móse og sagði: 2"Þú skalt helga mér alla frumburði. Hvað eina sem opnar móðurlíf meðal Ísraelsmanna, hvort heldur er menn eða fénaður, það er mitt."

3Móse sagði við fólkið: "Verið minnugir þessa dags, er þér fóruð burt úr Egyptalandi, út úr þrælahúsinu, því með voldugri hendi leiddi Drottinn yður út þaðan: Sýrð brauð má eigi eta. 4Í dag farið þér af stað, í abíb-mánuði.

5Þegar Drottinn leiðir þig inn í land Kanaaníta, Hetíta, Amoríta, Hevíta og Jebúsíta, sem hann sór feðrum þínum að gefa þér, í það land, sem flýtur í mjólk og hunangi, þá skaltu halda þennan sið í þessum sama mánuði.

6Sjö daga skaltu eta ósýrt brauð, og á hinum sjöunda degi skal vera hátíð Drottins.

7Ósýrt brauð skal eta í þá sjö daga, ekkert sýrt brauð má sjást hjá þér, og ekki má heldur súrdeig sjást nokkurs staðar hjá þér innan þinna landamerkja.

8Á þeim degi skaltu gjöra syni þínum grein fyrir þessu og segja:

,Það er sökum þess sem Drottinn gjörði fyrir mig, þá er ég fór út af Egyptalandi.'

9Og þetta skal vera þér til merkis á hendi þinni og til minningar á milli augna þinna, svo að lögmál Drottins sé þér æ á vörum, því með voldugri hendi leiddi Drottinn þig út af Egyptalandi.

10Þessa skipun skaltu því halda á ákveðnum tíma ár frá ári.

11Þegar Drottinn leiðir þig inn í land Kanaaníta, eins og hann sór þér og feðrum þínum, og gefur þér það, 12þá skaltu eigna Drottni allt það, sem opnar móðurlíf. Og allir frumburðir, sem koma undan þeim fénaði, er þú átt, skulu heyra Drottni til, séu þeir karlkyns. 13Alla frumburði undan ösnum skaltu leysa með lambi. Leysir þú ekki, skaltu brjóta þá úr hálsliðum. En alla frumburði manna meðal barna þinna skaltu leysa.

14Og þegar sonur þinn spyr þig á síðan og segir: ,Hvað á þetta að þýða?' þá svara honum: ,Með voldugri hendi leiddi Drottinn oss út af Egyptalandi, úr þrælahúsinu, 15því þegar Faraó synjaði oss þverlega fararleyfis, þá deyddi Drottinn alla frumburði í Egyptalandi, bæði frumburði manna og frumburði fénaðar. Þess vegna fórnfæri ég Drottni öllu, sem opnar móðurlíf, en alla frumburði barna minna leysi ég.'

16Og það skal vera merki á hendi þér og minningarband á milli augna þinna um það, að Drottinn leiddi oss út af Egyptalandi með voldugri hendi."


Guð leiðir fólkið úr Egyptalandi

17Þegar Faraó hafði gefið fólkinu fararleyfi, leiddi Guð þá ekki á leið til Filistalands, þótt sú leið væri skemmst, - því að Guð sagði: "Vera má að fólkið iðrist, þegar það sér, að ófriðar er von, og snúi svo aftur til Egyptalands," 18- heldur lét Guð fólkið fara í bug eyðimerkurveginn til Sefhafsins, og fóru Ísraelsmenn vígbúnir af Egyptalandi.

19Móse tók með sér bein Jósefs, því að hann hafði tekið eið af Ísraelsmönnum og sagt: "Sannlega mun Guð vitja yðar. Flytjið þá bein mín héðan burt með yður."

20Þeir tóku sig upp frá Súkkót og settu búðir sínar í Etam, þar sem eyðimörkina þrýtur.

21Drottinn gekk fyrir þeim á daginn í skýstólpa til að vísa þeim veg, en á nóttunni í eldstólpa til að lýsa þeim, svo að þeir gætu ferðast nótt sem dag. 22Skýstólpinn vék ekki frá fólkinu á daginn, né heldur eldstólpinn á nóttunni.


Faraó veitir eftirför

14
1Drottinn talaði við Móse og sagði:

2"Seg Ísraelsmönnum, að þeir snúi aftur og setji búðir sínar fyrir framan Pí-Hakírót, milli Migdóls og hafsins, gegnt Baal Sefón. Þar andspænis skuluð þér setja búðir yðar við hafið. 3Og Faraó mun segja um Ísraelsmenn: ,Þeir fara villir vega í landinu, eyðimörkin hefir innibyrgt þá.' 4Og ég vil herða hjarta Faraós, og hann skal veita þeim eftirför. Ég vil sýna dýrð mína á Faraó og öllum liðsafla hans, svo að Egyptar skulu vita, að ég er Drottinn." Og þeir gjörðu svo.

5Þegar Egyptalandskonungi var sagt, að fólkið væri flúið, varð hugur Faraós og þjóna hans mótsnúinn fólkinu og þeir sögðu: "Hví höfum vér gjört þetta, að sleppa Ísrael úr þjónustu vorri?" 6Lét hann þá beita fyrir vagna sína og tók menn sína með sér. 7Og hann tók sex hundruð valda vagna og alla vagna Egyptalands og setti kappa á hvern þeirra. 8En Drottinn herti hjarta Faraós, Egyptalandskonungs, svo að hann veitti Ísraelsmönnum eftirför, því að Ísraelsmenn höfðu farið burt með upplyftri hendi.

9Egyptar sóttu nú eftir þeim, allir hestar og vagnar Faraós, riddarar hans og her hans, og náðu þeim þar sem þeir höfðu sett búðir sínar við hafið, hjá Pí-Hakírót, gegnt Baal Sefón.

10Þegar Faraó nálgaðist, hófu Ísraelsmenn upp augu sín, og sjá, Egyptar sóttu eftir þeim. Urðu Ísraelsmenn þá mjög óttaslegnir og hrópuðu til Drottins. 11Og þeir sögðu við Móse: "Tókst þú oss burt til þess að deyja hér á eyðimörk, af því að engar væru grafir til í Egyptalandi? Hví hefir þú gjört oss þetta, að fara með oss burt af Egyptalandi? 12Kemur nú ekki fram það, sem vér sögðum við þig á Egyptalandi: ,Lát oss vera kyrra, og viljum vér þjóna Egyptum, því að betra er fyrir oss að þjóna Egyptum en að deyja í eyðimörkinni'?" 13Þá sagði Móse við lýðinn: "Óttist ekki. Standið stöðugir, og munuð þér sjá hjálpræði Drottins, er hann í dag mun láta fram við yður koma, því að eins og þér sjáið Egyptana í dag, munuð þér aldrei nokkurn tíma framar sjá þá. 14Drottinn mun berjast fyrir yður, en þér skuluð vera kyrrir."


Guð opnar leið um hafið

15Þá sagði Drottinn við Móse: "Hví hrópar þú til mín? Seg Ísraelsmönnum, að þeir haldi áfram, 16en lyft þú upp staf þínum og rétt út hönd þína yfir hafið og kljúf það, og Ísraelsmenn skulu ganga á þurru mitt í gegnum hafið. 17Sjá, ég mun herða hjörtu Egypta, svo að þeir skulu sækja á eftir þeim, og ég vil sýna dýrð mína á Faraó og öllum liðsafla hans, á vögnum hans og riddurum. 18Og Egyptar skulu vita, að ég er Drottinn, þá er ég sýni dýrð mína á Faraó, á vögnum hans og riddurum."

19Engill Guðs, sem gekk á undan liði Ísraels, færði sig og gekk aftur fyrir þá, og skýstólpinn, sem var fyrir framan þá, færðist og stóð að baki þeim. 20Og hann bar á milli herbúða Egypta og herbúða Ísraels, og var skýið myrkt annars vegar, en annars vegar lýsti það upp nóttina, og færðust hvorugir nær öðrum alla þá nótt. 21En Móse rétti út hönd sína yfir hafið, og Drottinn lét hvassan austanvind blása alla nóttina og bægja sjónum burt og gjörði hafið að þurrlendi.

Og vötnin klofnuðu, 22og Ísraelsmenn gengu á þurru mitt í gegnum hafið, og vötnin stóðu eins og veggur til hægri og vinstri handar þeim. 23Og Egyptar veittu þeim eftirför og sóttu eftir þeim mitt út í hafið, allir hestar Faraós, vagnar hans og riddarar.

24En á morgunvökunni leit Drottinn yfir lið Egypta í eld- og skýstólpanum, og sló felmti í lið Egypta, 25og hann lét vagna þeirra ganga af hjólunum, svo að þeim sóttist leiðin erfiðlega. Þá sögðu Egyptar: "Flýjum fyrir Ísrael, því að Drottinn berst með þeim móti Egyptum."

26Þá sagði Drottinn við Móse: "Rétt út hönd þína yfir hafið, og skulu þá vötnin aftur falla yfir Egypta, yfir vagna þeirra og riddara."

27Móse rétti hönd sína út yfir hafið, og sjórinn féll aftur undir morguninn í farveg sinn, en Egyptar flýðu beint í móti aðfallinu, og keyrði Drottinn þá mitt í hafið. 28Og vötnin féllu að og huldu vagnana og riddarana, allan liðsafla Faraós, sem eftir þeim hafði farið út í hafið. Ekki nokkur einn þeirra komst lífs af. 29En Ísraelsmenn gengu á þurru mitt í gegnum hafið, og vötnin stóðu eins og veggur til hægri og vinstri handar þeim.

30Þannig frelsaði Drottinn Ísrael á þeim degi undan valdi Egypta, og Ísrael sá Egypta liggja dauða á sjávarströndinni. 31Og er Ísrael sá hið mikla undur, sem Drottinn hafði gjört á Egyptum, þá óttaðist fólkið Drottin, og þeir trúðu á Drottin og þjón hans Móse.


Lofsöngur Móse og Ísraelsmanna

15
1Þá söng Móse og Ísraelsmenn Drottni þennan lofsöng:

Ég vil lofsyngja Drottni, því að hann hefir sig dýrlegan gjört,
hestum og riddurum steypti hann niður í hafið.

2 Drottinn er styrkur minn og lofsöngur,
og hann varð mitt hjálpræði.
Hann er minn Guð, og ég vil vegsama hann,
Guð föður míns, og ég vil tigna hann.

3 Drottinn er stríðshetja, Drottinn er hans nafn.
4 Vögnum Faraós og herliði hans varpaði hann í hafið,
og hinir völdustu kappar hans drukknuðu í Hafinu rauða.
5 Undirdjúpin huldu þá,
þeir sukku niður í sjávardjúpið eins og steinn.

6 Þín hægri hönd, Drottinn, hefir sýnt sig dýrlega í krafti,
þín hægri hönd, Drottinn, sundurkremur fjandmennina.
7 Og með mikilleik þinnar hátignar leggur þú mótstöðumenn þína að velli,
þú útsendir þína reiði, og hún eyðir þeim eins og hálmleggjum.
8 Og fyrir blæstri nasa þinna hlóðust vötnin upp,
rastirnar stóðu eins og veggur,
öldurnar stirðnuðu mitt í hafinu.
9 Óvinurinn sagði: "Ég skal elta þá, ég skal ná þeim,
ég skal skipta herfangi, ég skal skeyta skapi mínu á þeim,
ég skal bregða sverði mínu, hönd mín skal eyða þeim."
10Þú blést með þínum anda, hafið huldi þá,
þeir sukku sem blý niður í hin miklu vötn.

11Hver er sem þú, Drottinn, meðal guðanna?
Hver er sem þú, dýrlegur að heilagleik,
dásamlegur til lofsöngva, þú sem stórmerkin gjörir?

12Þú útréttir þína hægri hönd, jörðin svalg þá.
13Þú hefir leitt fólkið, sem þú frelsaðir, með miskunn þinni,
þú fylgdir því með þínum krafti til þíns heilaga bústaðar.

14Þjóðirnar heyrðu það og urðu felmtsfullar,
ótti gagntók íbúa Filisteu.
15Þá skelfdust ættarhöfðingjarnir í Edóm,
hræðsla greip forystumennina í Móab,
allir íbúar Kanaanlands létu hugfallast.
16Skelfingu og ótta sló yfir þá.
Fyrir mikilleik þíns armleggs urðu þeir hljóðir sem steinninn,
meðan fólk þitt, Drottinn, fór leiðar sinnar,
meðan fólkið, sem þú hefir aflað þér, fór leiðar sinnar.
17Þú leiddir þá inn og gróðursettir þá á fjalli arfleifðar þinnar,
þeim stað, sem þú, Drottinn, hefir gjört að þínum bústað,
þeim helgidóm, sem þínar hendur, Drottinn, hafa reist.
18Drottinn skal ríkja um aldur og að eilífu!

19Þegar hestar Faraós ásamt vögnum hans og riddurum fóru út í hafið, lét Drottinn vötn sjávarins flæða yfir þá, en Ísraelsmenn gengu á þurru mitt í gegnum hafið.


Söngur Mirjamar

20Þá tók Mirjam spákona, systir Arons, bumbu í hönd sér, og allar konurnar gengu á eftir henni með bumbum og dansi. 21Og Mirjam söng fyrir þeim:

Lofsyngið Drottni, því að hann hefir sig dýrlegan gjört, hestum og riddurum steypti hann í hafið.



Eyðimerkurganga Ísraelsmanna


Komið til Mara og Elím

22Móse lét Ísrael hefja ferð sína frá Sefhafinu, og héldu þeir til Súr-eyðimerkur. Gengu þeir þrjá daga um eyðimörkina og fundu ekkert vatn. 23Þá komu þeir til Mara, en þeir gátu ekki drukkið vatnið fyrir beiskju, því að það var beiskt. Fyrir því var sá staður kallaður Mara. 24Þá möglaði fólkið móti Móse og sagði: "Hvað eigum vér að drekka?" 25En hann hrópaði til Drottins, og vísaði Drottinn honum þá á tré nokkurt. Kastaði hann því í vatnið, og varð vatnið þá sætt.

Þar setti hann þeim lög og rétt, og þar reyndi hann þá.

26Og hann sagði: "Ef þú hlýðir gaumgæfilega raust Drottins Guðs þíns og gjörir það, sem rétt er fyrir honum, gefur gaum boðorðum hans og heldur allar skipanir hans, þá vil ég engan þann sjúkdóm á þig leggja, sem ég lagði á Egypta, því ég er Drottinn, græðari þinn."

27Síðan komu þeir til Elím. Þar voru tólf vatnslindir og sjötíu pálmar, og settu þeir búðir sínar þar við vatnið.


Manna. Lynghæns

16
1Því næst héldu þeir af stað frá Elím, og allur söfnuður Ísraelsmanna kom til Sín-eyðimerkur, sem liggur milli Elím og Sínaí, á fimmtánda degi hins annars mánaðar eftir burtför þeirra úr Egyptalandi.

2Þá möglaði allur söfnuður Ísraelsmanna gegn Móse og Aroni í eyðimörkinni. 3Og Ísraelsmenn sögðu við þá: "Betur að vér hefðum dáið fyrir hendi Drottins í Egyptalandi, er vér sátum við kjötkatlana og átum oss sadda af brauði, því að þið hafið farið með oss út á þessa eyðimörk til þess að láta allan þennan mannfjölda deyja af hungri."

4Þá sagði Drottinn við Móse: "Sjá, ég vil láta rigna brauði af himni handa yður, og skal fólkið fara út og safna hvern dag svo miklu sem þarf þann daginn, svo að ég reyni það, hvort það vill breyta eftir mínu lögmáli eða ekki. 5Og er þeir þá á hinum sjötta degi tilreiða það, sem þeir koma heim með, skal það vera tvöfalt við það, sem þeir annars safna daglega."

6Þá sögðu Móse og Aron við alla Ísraelsmenn: "Í kveld skuluð þér viðurkenna, að Drottinn hefir leitt yður út af Egyptalandi. 7Og á morgun skuluð þér sjá dýrð Drottins, með því að hann hefir heyrt möglanir yðar gegn Drottni. Því að hvað erum við, að þér möglið gegn okkur?" 8Og Móse sagði: "Þetta verður, þegar Drottinn gefur yður að kveldi kjöt að eta og brauð til saðnings að morgni, því að Drottinn hefir heyrt möglanir yðar, sem þér beinið gegn honum. Því að hvað erum við? Þér möglið ekki gegn okkur, heldur gegn Drottni."

9Og Móse sagði við Aron: "Seg við allan söfnuð Ísraelsmanna: ,Gangið nær í augsýn Drottins, því að hann hefir heyrt möglanir yðar.'" 10Og er Aron talaði þetta til alls safnaðar Ísraelsmanna, sneru þeir sér í móti eyðimörkinni, og sjá, dýrð Drottins birtist í skýinu.

11Drottinn talaði við Móse og sagði: 12"Ég hefi heyrt möglanir Ísraelsmanna. Tala til þeirra og seg: ,Um sólsetur skuluð þér kjöt eta, og að morgni skuluð þér fá saðning yðar af brauði, og þér skuluð viðurkenna, að ég er Drottinn, Guð yðar.'"

13Um kveldið bar svo við, að lynghæns komu og huldu búðirnar, en um morguninn var döggmóða umhverfis búðirnar. 14En er upp létti döggmóðunni, lá eitthvað þunnt, smákornótt yfir eyðimörkinni, þunnt eins og héla á jörðu. 15Þegar Ísraelsmenn sáu þetta, sögðu þeir hver við annan: "Hvað er þetta?" Því að þeir vissu ekki, hvað það var. Þá sagði Móse við þá: "Þetta er brauðið, sem Drottinn gefur yður til fæðu. 16En þessi er skipun Drottins: ,Safnið því, eftir því sem hver þarf að eta. Þér skuluð taka einn gómer á mann eftir fólksfjölda yðar, hver handa þeim, sem hann hefir í tjaldi sínu.'" 17Og Ísraelsmenn gjörðu svo, og söfnuðu sumir meira, sumir minna. 18En er þeir mældu það í gómer-máli, hafði sá ekkert afgangs, sem miklu hafði safnað, og þann skorti ekki, sem litlu hafði safnað, heldur hafði hver safnað eftir því sem hann þurfti sér til fæðu.


Ýmsar reglur um manna

19Móse sagði við þá: "Enginn má leifa neinu af því til morguns." 20En þeir hlýddu ekki Móse, heldur leifðu sumir nokkru af því til morguns. En þá kviknuðu maðkar í því, svo að það fúlnaði, og varð Móse þá reiður þeim.

21Þeir söfnuðu því þá hvern morgun, hver eftir því sem hann þurfti sér til fæðu. En þegar sólin skein heitt, bráðnaði það.

22En á sjötta deginum söfnuðu þeir tvöfalt meira af brauði, tvo gómera á mann. Komu þá allir foringjar lýðsins og sögðu Móse frá. 23En hann sagði við þá: "Þetta er það, sem Drottinn sagði: ,Á morgun er hvíldardagur, heilagur hvíldardagur Drottins. Bakið það, sem þér viljið baka, og sjóðið það, sem þér viljið sjóða, en allt það, sem af gengur, skuluð þér leggja fyrir og geyma til morguns.'" 24Þeir lögðu það þá fyrir til næsta morguns, eins og Móse bauð, og fúlnaði það ekki né maðkaði. 25Þá sagði Móse: "Í dag skuluð þér eta það, því að í dag er hvíldardagur Drottins. Í dag finnið þér það ekki á mörkinni. 26Sex daga skuluð þér safna því, en sjöundi dagurinn er hvíldardagur, þá mun ekkert finnast." 27Og sjöunda daginn gengu nokkrir af fólkinu út til að safna, en fundu ekkert.

28Drottinn sagði við Móse: "Hversu lengi tregðist þér við að varðveita boðorð mín og lög? 29Lítið á! Vegna þess að Drottinn hefir gefið yður hvíldardaginn, þess vegna gefur hann yður sjötta daginn brauð til tveggja daga. Haldi hver maður kyrru fyrir á sínum stað, enginn fari að heiman á sjöunda deginum." 30Og fólkið hvíldist á hinum sjöunda degi.

31Ísraelsmenn kölluðu þetta brauð manna. Það líktist kóríanderfræi, var hvítt og á bragðið sem hunangskaka.

32Móse sagði: "Þetta er það, sem Drottinn hefir boðið: ,Fyllið einn gómer af því til þess að geyma það handa eftirkomendum yðar, svo að þeir sjái það brauð, sem ég gaf yður að eta í eyðimörkinni, er ég leiddi yður út af Egyptalandi.'" 33Þá sagði Móse við Aron: "Tak eitt ker og lát í það fullan gómer af manna, og legg það til geymslu frammi fyrir Drottni, svo að það varðveitist handa eftirkomendum yðar." 34Aron lagði það fyrir framan sáttmálið, til þess að það væri þar geymt, eins og Drottinn hafði boðið Móse.

35Ísraelsmenn átu manna í fjörutíu ár, uns þeir komu í byggt land. Þeir átu manna, uns þeir komu að landamærum Kanaanlands.

36En gómer er tíundi partur af efu.


Þráttan í Massa og Meríba

17
1Allur söfnuður Ísraelsmanna tók sig nú upp frá Sín-eyðimörk, og fóru þeir í áföngum að boði Drottins og settu herbúðir sínar í Refídím. En þar var ekkert vatn handa fólkinu að drekka. 2Þá þráttaði fólkið við Móse og sagði: "Gef oss vatn að drekka!" En Móse sagði við þá: "Hví þráttið þér við mig? Hví freistið þér Drottins?" 3Og fólkið þyrsti þar eftir vatni, og fólkið möglaði gegn Móse og sagði: "Hví fórstu með oss frá Egyptalandi til þess að láta oss og börn vor og fénað deyja af þorsta?" 4Þá hrópaði Móse til Drottins og sagði: "Hvað skal ég gjöra við þetta fólk? Það vantar lítið á að þeir grýti mig." 5En Drottinn sagði við Móse: "Gakk þú fram fyrir fólkið og tak með þér nokkra af öldungum Ísraels, og tak í hönd þér staf þinn, er þú laust með ána, og gakk svo af stað. 6Sjá, ég mun standa frammi fyrir þér þar á klettinum á Hóreb, en þú skalt ljósta á klettinn, og mun þá vatn spretta af honum, svo að fólkið megi drekka." 7Og Móse gjörði svo í augsýn öldunga Ísraels. Og hann kallaði þennan stað Massa og Meríba sökum þráttanar Ísraelsmanna, og fyrir því að þeir höfðu freistað Drottins og sagt: "Hvort mun Drottinn vera meðal vor eður ekki?"


Amalekítar ráðast á Ísraelsmenn

8Þá komu Amalekítar og áttu orustu við Ísraelsmenn í Refídím. 9Þá sagði Móse við Jósúa: "Vel oss menn og far út og berst við Amalekíta. Á morgun mun ég standa efst uppi á hæðinni og hafa staf Guðs í hendi mér."

10Jósúa gjörði sem Móse hafði sagt honum og lagði til orustu við Amalekíta, en þeir Móse, Aron og Húr gengu efst upp á hæðina. 11Þá gjörðist það, að alla þá stund, er Móse hélt uppi hendi sinni, veitti Ísraelsmönnum betur, en þegar er hann lét síga höndina, veitti Amalekítum betur. 12En með því að Móse urðu þungar hendurnar, tóku þeir stein og létu undir hann, og settist hann á steininn, en þeir Aron og Húr studdu hendur hans, sinn á hvora hlið, og héldust þannig hendur hans stöðugar allt til sólarlags. 13En Jósúa lagði Amalekíta og lið þeirra að velli með sverðseggjum.

14Þá sagði Drottinn við Móse: "Rita þú þetta í bók til minningar og gjör Jósúa það hugfast, því að ég vil vissulega afmá nafn Amalekíta af jörðinni." 15Og Móse reisti þar altari og nefndi það "Jahve-nisí".16Og hann sagði: "Með upplyftri hendi að hásæti Drottins sver ég: ,Ófrið mun Drottinn heyja við Amalekíta frá kyni til kyns.'"


Jetró kemur til Móse

18
1Er Jetró prestur í Midíanslandi, tengdafaðir Móse, heyrði allt það, sem Guð hafði gjört Móse og lýð sínum Ísrael, að Drottinn hafði leitt Ísrael út af Egyptalandi, 2þá tók Jetró, tengdafaðir Móse, Sippóru konu Móse, en hann hafði sent hana aftur, 3og tvo sonu hennar. Hét annar Gersóm, því að hann hafði sagt: "Gestur er ég í ókunnu landi." 4Hinn hét Elíeser, því að hann hafði sagt: "Guð föður míns var mín hjálp, og hann frelsaði mig frá sverði Faraós."

5En er Jetró, tengdafaðir Móse, kom með sonu hans og konu til hans í eyðimörkina, þar sem hann hafði sett búðir sínar hjá Guðs fjalli, 6þá lét hann segja Móse: "Ég, Jetró, tengdafaðir þinn, er kominn til þín, og kona þín og báðir synir hennar með henni." 7Gekk þá Móse út á móti tengdaföður sínum, laut honum og kyssti hann. Og þegar þeir höfðu heilsast, gengu þeir inn í tjaldið.

8Og Móse sagði tengdaföður sínum frá öllu því, sem Drottinn hafði gjört Faraó og Egyptum fyrir sakir Ísraels, frá öllum þeim þrautum, sem þeim höfðu mætt á leiðinni, og hversu Drottinn hafði frelsað þá. 9Og Jetró gladdist af öllum þeim velgjörðum, sem Drottinn hafði auðsýnt Ísrael, þar sem hann hafði frelsað hann undan valdi Egypta. 10Og Jetró sagði: "Lofaður sé Drottinn fyrir það, að hann frelsaði yður undan valdi Egypta og undan valdi Faraós, fyrir það, að hann frelsaði fólkið undan valdi Egypta. 11Nú veit ég, að Drottinn er öllum guðum meiri, því að hann lét Egyptum hefnast fyrir ofdramb þeirra gegn Ísraelsmönnum." 12Þá tók Jetró, tengdafaðir Móse, brennifórn og sláturfórnir Guði til handa. Kom þá Aron og allir öldungar Ísraels, til þess að matast með tengdaföður Móse frammi fyrir Guði.


Jetró kennir nýja skipan réttarfars

13Daginn eftir settist Móse til að mæla lýðnum lögskil, og stóð fólkið frammi fyrir Móse frá morgni til kvelds. 14En er tengdafaðir Móse sá allt það, sem hann gjörði við fólkið, þá sagði hann: "Hvað er þetta, sem þú gjörir við fólkið? Hvers vegna situr þú einn saman, en allt fólkið stendur frammi fyrir þér frá morgni til kvelds?"

15Móse svaraði tengdaföður sínum: "Fólkið kemur til mín til þess að leita Guðs atkvæða. 16Þegar mál gjörist þeirra á milli, koma þeir á fund minn, og ég dæmi milli manna og kunngjöri lög Guðs og boðorð hans."

17Þá sagði tengdafaðir Móse við hann: "Eigi er það gott, sem þú gjörir. 18Bæði þreytist þú og eins fólkið, sem hjá þér er, því að þetta starf er þér um megn, þú fær því ekki afkastað einn saman. 19Hlýð nú orðum mínum. Ég vil leggja þér ráð, og mun Guð vera með þér. Þú skalt ganga fram fyrir Guð í nafni fólksins og fram bera málin fyrir Guð. 20Og þú skalt kenna þeim lögin og boðorðin, og sýna þeim þann veg, sem þeir skulu ganga, og þau verk, sem þeir skulu gjöra. 21Og þú skalt velja meðal alls fólksins dugandi menn og guðhrædda, áreiðanlega menn og ósérplægna, og skipa þá foringja yfir lýðinn, suma yfir þúsund, suma yfir hundrað, suma yfir fimmtíu og suma yfir tíu. 22Og þeir skulu mæla lýðnum lögskil á öllum tímum. Öll hin stærri mál skulu þeir láta koma fyrir þig, en sjálfir skulu þeir dæma í öllum smærri málum. Skaltu þannig gjöra þér hægra fyrir, og þeir skulu létta undir með þér. 23Ef þú gjörir þetta, og Guð býður þér það, þá muntu fá risið undir því, og þá mun og allt þetta fólk fara ánægt til heimila sinna."

24Móse hlýddi orðum tengdaföður síns og gjörði allt, sem hann hafði sagt. 25Og Móse valdi dugandi menn af öllum Ísraels lýð og skipaði þá foringja yfir lýðinn, suma yfir þúsund, suma yfir hundrað, suma yfir fimmtíu, suma yfir tíu. 26Og mæltu þeir lýðnum lögskil á öllum tímum. Vandamálunum skutu þeir til Móse, en sjálfir dæmdu þeir í hinum smærri málum. 27Lét Móse síðan tengdaföður sinn frá sér fara, og hélt hann aftur heim í sitt land.



Sáttmálinn á Sínaífjalli


Sáttmálinn undirbúinn

19
1Á þriðja mánuði eftir brottför Ísraelsmanna frá Egyptalandi, á þeim degi komu þeir í Sínaí-eyðimörk. 2Þeir tóku sig upp frá Refídím og komu í Sínaí-eyðimörk og settu búðir sínar í eyðimörkinni.

Og Ísrael setti búðir sínar þar gegnt fjallinu.

3Gekk Móse þá upp til Guðs, og kallaði Drottinn til hans af fjallinu og sagði: "Svo skalt þú segja Jakobs niðjum og kunngjöra Ísraelsmönnum:

4,Þér hafið sjálfir séð, hvað ég hefi gjört Egyptum, og hversu ég hefi borið yður á arnarvængjum og flutt yður til mín. 5Nú ef þér hlýðið minni röddu grandgæfilega og haldið minn sáttmála, þá skuluð þér vera mín eiginleg eign umfram allar þjóðir, því að öll jörðin er mín. 6Og þér skuluð vera mér prestaríki og heilagur lýður.'

Þetta eru þau orð, sem þú skalt flytja Ísraelsmönnum."

7Og Móse fór og stefndi saman öldungum lýðsins og flutti þeim öll þau orð, er Drottinn hafði boðið honum. 8Þá svaraði allur lýðurinn einum munni og sagði: "Vér viljum gjöra allt það, sem Drottinn býður." Og Móse flutti Drottni aftur orð fólksins.

9Þá sagði Drottinn við Móse: "Sjá, ég vil koma til þín í dimmu skýi, svo að fólkið heyri, er ég tala við þig, og trúi þér ævinlega." Og Móse flutti Drottni orð lýðsins.

10Þá mælti Drottinn við Móse: "Far til fólksins og helga þá í dag og á morgun, og lát þá þvo klæði sín, 11og skulu þeir vera búnir á þriðja degi, því að á þriðja degi mun Drottinn ofan stíga á Sínaífjall í augsýn alls lýðsins. 12En þú skalt marka fólkinu svið umhverfis og segja: ,Varist að ganga upp á fjallið eða snerta fjallsræturnar.' Hver sem snertir fjallið, skal vissulega láta líf sitt. 13Engin mannshönd skal snerta hann, heldur skal hann grýttur eða skotinn til bana, hvort það er heldur skepna eða maður, þá skal það ekki lífi halda. Þegar lúðurinn kveður við, skulu þeir stíga upp á fjallið."

14Þá gekk Móse ofan af fjallinu til fólksins og helgaði fólkið, og þeir þvoðu klæði sín. 15Og hann sagði við fólkið: "Verið búnir á þriðja degi: Komið ekki nærri nokkurri konu."

16Á þriðja degi, þegar ljóst var orðið, gengu reiðarþrumur og eldingar, og þykkt ský lá á fjallinu, og heyrðist mjög sterkur lúðurþytur. Skelfdist þá allt fólkið, sem var í búðunum. 17Þá leiddi Móse fólkið út úr búðunum til móts við Guð, og tóku menn sér stöðu undir fjallinu.


Drottinn birtist

18Sínaífjall var allt í einum reyk, fyrir því að Drottinn sté niður á það í eldinum. Mökkurinn stóð upp af því, eins og reykur úr ofni, og allt fjallið lék á reiðiskjálfi. 19Og lúðurþyturinn varð æ sterkari og sterkari. Móse talaði, og Guð svaraði honum hárri röddu. 20Og Drottinn sté niður á Sínaífjall, á fjallstindinn. Og Drottinn kallaði Móse upp á fjallstindinn, og gekk Móse þá upp.

21Þá sagði Drottinn við Móse: "Stíg ofan og legg ríkt á við fólkið, að það brjótist ekki upp hingað til Drottins fyrir forvitni sakir og fjöldi af þeim farist. 22Einnig prestarnir, sem annars nálgast Drottin, skulu helga sig, svo að Drottinn gjöri eigi skarð í hóp þeirra." 23En Móse sagði við Drottin: "Fólkið getur ekki stigið upp á Sínaífjall, því að þú hefir lagt ríkt á við oss og sagt: ,Set vébönd umhverfis fjallið og helga það.'" 24Og Drottinn sagði við hann: "Far nú og stíg ofan, og kom því næst upp aftur og Aron með þér. En prestarnir og fólkið má ekki brjótast upp hingað til Drottins, að hann gjöri ekki skarð í hóp þeirra." 25Móse gekk þá ofan til fólksins og sagði þeim þetta.


Stjórnarskrá sáttmálans: Boðorðin tíu

20
1Guð talaði öll þessi orð og sagði: 2"Ég er Drottinn Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu. 3Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig.

4Þú skalt engar líkneskjur gjöra þér né nokkrar myndir eftir því, sem er á himnum uppi, eður því, sem er á jörðu niðri, eður því, sem er í vötnunum undir jörðinni. 5Þú skalt ekki tilbiðja þær og ekki dýrka þær, því að ég, Drottinn Guð þinn, er vandlátur Guð, sem vitja misgjörða feðranna á börnunum, já í þriðja og fjórða lið, þeirra sem mig hata, 6en auðsýni miskunn þúsundum, þeirra sem elska mig og varðveita boðorð mín.

7Þú skalt ekki leggja nafn Drottins Guðs þíns við hégóma, því að Drottinn mun ekki láta þeim óhegnt, sem leggur nafn hans við hégóma.

8Minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagan. 9Sex daga skalt þú erfiða og vinna allt þitt verk, 10en sjöundi dagurinn er hvíldardagur helgaður Drottni Guði þínum. Þá skalt þú ekkert verk vinna og ekki sonur þinn eða dóttir þín, þræll þinn eða ambátt þín eða skepnur þínar, eða nokkur útlendingur, sem hjá þér er innan borgarhliða þinna, 11því að á sex dögum gjörði Drottinn himin og jörð, hafið og allt sem í þeim er, og hvíldist sjöunda daginn. Fyrir því blessaði Drottinn hvíldardaginn og helgaði hann.

12Heiðra föður þinn og móður þína, svo að þú verðir langlífur í því landi, sem Drottinn Guð þinn gefur þér.

13Þú skalt ekki morð fremja.

14Þú skalt ekki drýgja hór.

15Þú skalt ekki stela.

16Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum.

17Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns. Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, ekki þræl hans eða ambátt, ekki uxa hans eða asna, né nokkuð það, sem náungi þinn á."


Fólkið biður Móse að vera meðalgangara

18Allt fólkið heyrði og sá reiðarþrumurnar og eldingarnar og lúðurþytinn og fjallið rjúkandi. Og er fólkið sá þetta, skelfdust þeir og stóðu langt í burtu. 19Þeir sögðu þá við Móse: "Tala þú við oss og vér skulum hlýða, en lát ekki Guð tala við oss, að vér deyjum ekki." 20Og Móse sagði við fólkið: "Óttist ekki, því að Guð er kominn til þess að reyna yður og til þess að hans ótti sé yður fyrir augum, svo að þér syndgið ekki." 21Stóð fólkið þá kyrrt langt í burtu, en Móse gekk að dimma skýinu, sem Guð var í.


Lög um altarið

22Drottinn mælti við Móse: "Svo skalt þú segja Ísraelsmönnum: ,Þér hafið sjálfir séð, að ég hefi talað til yðar af himnum. 23Þér skuluð eigi til búa aðra guði jafnhliða mér. Guði af silfri eða guði af gulli skuluð þér ekki búa yður til. 24Þú skalt gjöra mér altari af torfi, og á því skalt þú fórna brennifórnum þínum og þakkarfórnum, sauðum þínum og nautum. Alls staðar þar sem ég læt minnast nafns míns, mun ég koma til þín og blessa þig. 25En gjörir þú mér altari af steinum, þá mátt þú ekki hlaða það af höggnu grjóti, því að berir þú meitil á það, þá vanhelgar þú það. 26Og eigi mátt þú þrep upp ganga að altari mínu, svo að blygðun þín opinberist þar ekki.'


Lög um hebreska þræla

21
1Þetta eru þau lög, sem þú skalt leggja fyrir þá: 2Þegar þú kaupir hebreskan þræl, skal hann þjóna þér sex ár, en á sjöunda ári skal hann frjáls burt fara án endurgjalds. 3Hafi hann komið einhleypur, skal hann og einhleypur burt fara, en hafi hann kvongaður verið, skal kona hans fara burt með honum. 4Hafi húsbóndi hans fengið honum konu og hafi hún fætt honum sonu eða dætur, þá skal konan og börn hennar heyra húsbónda sínum til, en hann skal fara burt einhleypur. 5En ef þrællinn segir skýlaust: "Ég elska húsbónda minn, konu mína og börn mín, ég vil ekki frjáls í burtu fara," 6þá skal húsbóndi hans færa hann til Guðs og leiða hann að dyrunum eða að dyrastafnum, og skal húsbóndi hans stinga al í gegnum eyra honum, og skal hann síðan vera þræll hans ævinlega.

7Þegar maður selur dóttur sína að ambátt, skal hún ekki burt fara á sama hátt sem þrælar. 8Geðjist hún eigi húsbónda sínum, sem ætlað hefir hana sjálfum sér, þá skal hann leyfa að hún sé leyst. Ekki skal hann hafa vald til að selja hana útlendum lýð, með því að hann hefir brugðið heiti við hana. 9En ef hann ætlar hana syni sínum, þá skal hann gjöra við hana sem dóttur sína. 10Taki hann sér aðra konu, skal hann ekki minnka af við hana í kosti eða klæðnaði eða sambúð. 11Veiti hann henni ekki þetta þrennt, þá fari hún burt ókeypis, án endurgjalds.


Glæpir sem varða dauðarefsingu

12Hver sem lýstur mann, svo að hann fær bana af, skal líflátinn verða. 13En hafi hann ekki setið um líf hans, en Guð látið hann verða fyrir honum, þá skal ég setja þér griðastað, sem hann megi í flýja. 14En fremji nokkur þá óhæfu að drepa náunga sinn með svikum, þá skalt þú taka hann, jafnvel frá altari mínu, að hann verði líflátinn.

15Hver sem lýstur föður sinn eða móður sína skal líflátinn verða.

16Hver sem stelur manni og selur hann, eða hann finnst í hans vörslu, hann skal líflátinn verða.

17Hver sem bölvar föður sínum eða móður sinni skal líflátinn verða.


Lög um líkamsáverka og búfjártjón

18Þegar menn deila og annar lýstur hinn steini eða hnefa, og fær hann ekki bana af, heldur leggst í rekkju, 19ef hann þá kemst á fætur og gengur úti við staf sinn, þá sé sá sýkn saka, er laust. En bæta skal hann honum verkfallið og láta græða hann til fulls.

20Ef maður lýstur þræl sinn eða ambátt með staf, svo að hann deyr undir hendi hans, þá skal hann refsingu sæta. 21En sé hann með lífi einn dag eða tvo, þá skal hann þó eigi refsingu sæta, því að þrællinn er eign hans verði keypt.

22Ef menn fljúgast á og stjaka við þungaðri konu, svo að henni leysist höfn, en verður ekki annað mein af, þá haldi hann bótum uppi, slíkum sem bóndi konunnar kveður á hann, og greiði eftir mati gjörðarmanna. 23En ef skaði hlýst af, þá skalt þú láta líf fyrir líf, 24auga fyrir auga, tönn fyrir tönn, hönd fyrir hönd, fót fyrir fót, 25bruna fyrir bruna, sár fyrir sár, skeinu fyrir skeinu.

26Ef maður slær þræl sinn eða ambátt á auga og skemmir það, þá skal hann gefa honum frelsi sitt fyrir augað, 27og ef hann lýstur tönn úr þræli sínum eða ambátt, þá gefi hann honum frelsi fyrir tönn sína.

28Ef uxi stangar mann eða konu til bana, þá skal grýta uxann og ekki neyta kjötsins, og er eigandi uxans þá sýkn saka. 29En hafi uxinn verið mannýgur áður og eigandinn verið látinn vita það, og geymir hann ekki uxans að heldur, svo að hann verður manni eða konu að bana, þá skal grýta uxann, en eigandi skal og líflátinn verða. 30En gjörist honum að bæta með fé, þá leysi hann líf sitt með svo miklum bótum sem honum verður gjört að greiða. 31Hvort sem uxinn stangar son eða dóttur, skal með hann fara eftir þessu lagaákvæði. 32Ef uxinn stangar þræl manns eða ambátt, þá skal eigandi gjalda húsbónda þeirra þrjátíu sikla silfurs, og skal grýta uxann.

33Ef maður opnar brunn eða grefur brunn og byrgir eigi aftur, og uxi eða asni fellur í hann, 34þá skal eigandi brunnsins bæta. Hann skal greiða eigandanum fé fyrir, en hafa sjálfur hið dauða.

35Ef uxi manns stangar uxa annars manns til bana, þá skulu þeir selja þann uxann, sem lifir, og skipta verði hans, og einnig skulu þeir skipta dauða uxanum. 36En ef það var kunnugt, að uxinn var mannýgur áður, og eigandi gætti hans ekki að heldur, þá bæti hann uxa fyrir uxa, en hafi sjálfur hinn dauða.


Lög um þjófnað og eignatjón

22
1Ef maður stelur nauti eða sauð, og slátrar eða selur, þá gjaldi hann aftur fimm uxa fyrir einn uxa og fjóra sauði fyrir einn sauð.

2Ef þjófur er staðinn að innbroti og lostinn til bana, þá er vegandinn eigi blóðsekur. 3En ef sól er á loft komin, þá er hann blóðsekur. Þjófurinn skal greiða fullar bætur, en eigi hann ekkert til, skal selja hann í bætur fyrir stuldinn. 4Ef hið stolna finnst lifandi hjá honum, hvort heldur það er uxi, asni eða sauður, þá skal hann gjalda tvöfalt aftur.

5Ef maður beitir akur eða víngarð og lætur fénað sinn ganga lausan og hann gengur í akri annars manns, þá skal hann bæta með því, sem best er á akri hans eða í víngarði hans.

6Ef eldur kviknar og kemst í þyrna og brennur kerfaskrúf, kornstangir eða akur, þá bæti sá fullum bótum, er eldinn kveikti.

7Nú selur maður öðrum manni silfur eða nokkra gripi til varðveislu og því er stolið úr húsi hans, og finnist þjófurinn, þá skal hann gjalda tvöfalt aftur. 8En finnist þjófurinn ekki, þá skal leiða húseigandann fram fyrir Guð, og synji hann fyrir með eiði að hann hafi lagt hendur á eign náunga síns.

9Fari einhver óráðvandlega með uxa, asna, sauð, klæðnað eða hvað annað, er tapast hefir og einhver segir um: "Það er þetta," þá skal mál þeirra beggja koma fyrir Guð, og sá sem Guð dæmir sekan skal gjalda náunga sínum tvöfalt.

10Ef maður selur öðrum manni asna eða naut eða sauð eða nokkra aðra skepnu til varðveislu, og hún deyr eða lestist eða er tekin svo að enginn sér, 11þá skal til koma eiður við Drottinn þeirra í millum, að hann lagði ekki hönd á eign náunga síns, og skal eigandi þann eið gildan taka, en hinn bæti engu. 12En hafi því verið stolið frá honum, þá gjaldi hann bætur eigandanum. 13Ef það er dýrrifið, þá skal hann koma með það til sannindamerkis. Það sem dýrrifið er skal hann ekki bæta.

14Ef maður hefir fengið einhvern grip léðan hjá öðrum manni og hann lestist eða deyr, sé eigandi ekki viðstaddur, þá bæti hinn fullum bótum, 15en sé eigandi við, bæti hann engu. Ef það var leigugripur, þá eru bæturnar fólgnar í leigunni.

16Ef maður glepur mey, sem ekki er föstnuð manni, og leggst með henni, þá skal hann hana mundi kaupa sér að eiginkonu. 17En ef faðir hennar vill eigi gifta honum hana, þá skal hann greiða svo mikið silfur sem meyjarmundi svarar.


Ýmisleg lög

18Eigi skalt þú láta galdrakonu lífi halda.

19Hver sem hefir samlag við fénað skal líflátinn verða.

20Hver sem færir fórnir nokkrum guði, öðrum en Drottni einum, skal bannfærður verða.

21Útlendum manni skalt þú eigi sýna ójöfnuð né veita honum ágang, því að þér voruð sjálfir útlendingar í Egyptalandi.

22Þér skuluð ekki leggjast á ekkjur eða munaðarleysingja. 23Ef þú leggst á þau, og þau hrópa til mín, mun ég vissulega heyra neyðarkvein þeirra. 24Þá skal reiði mín upptendrast, og ég skal drepa yður með sverði, svo að konur yðar verði ekkjur og börn yðar föðurlaus.

25Ef þú lánar peninga fólki mínu, hinum fátæka, sem hjá þér er, þá skalt þú ekki vera við hann eins og okrari. Þér skuluð ekki taka leigu af honum.

26Ef þú tekur yfirhöfn náunga þíns að veði, þá skila þú honum henni aftur áður sól sest, 27því að hún er hið eina, sem hann hefir til að hylja sig með, hún skýlir líkama hans. Hvað á hann annars að hafa yfir sér, er hann leggst til hvíldar? Þegar hann hrópar til mín, skal ég heyra, því að ég er miskunnsamur.

28Þú skalt ekki lastmæla Guði og ekki bölva höfðingja þíns fólks.

29Lát eigi undan dragast að færa fórn af korngnótt þinni og aldinsafa.

Frumgetning sona þinna skalt þú mér gefa. 30Hið sama skalt þú gjöra af nautum þínum og sauðum. Sjö daga skal frumburðurinn vera hjá móður sinni, en hinn áttunda dag skalt þú færa mér hann.

31Helgir menn skuluð þér vera fyrir mér.

Það kjöt, sem rifið er af dýrum úti á víðavangi, skuluð þér eigi eta, heldur kasta því fyrir hunda.


Lög um réttarvernd

23
1Þú skalt ekki fara með lygikvittu.

Þú skalt ekki leggja lið þeim, er með rangt mál fer, til að gjörast ljúgvottur.

2Þú skalt ekki fylgja fjöldanum til illra verka. Ef þú átt svör að veita í sök nokkurri, þá skalt þú ekki á eitt leggjast með margnum til þess að halla réttu máli.

3Ekki skalt þú vera hliðdrægur manni í máli hans, þótt fátækur sé.

4Ef þú finnur uxa óvinar þíns eða asna hans, sem villst hefir, þá fær þú honum hann aftur. 5Sjáir þú asna fjandmanns þíns liggja uppgefinn undir byrði sinni, þá skalt þú hverfa frá því að láta hann einan. Vissulega skalt þú hjálpa honum til að spretta af asnanum.

6Þú skalt ekki halla rétti fátæks manns, sem hjá þér er, í máli hans.

7Forðastu lygimál og ver eigi valdur að dauða saklauss manns og réttláts, því að eigi mun ég réttlæta þann, sem með rangt mál fer.

8Eigi skalt þú mútu þiggja, því að mútan gjörir skyggna menn blinda og umhverfir máli hinna réttlátu.

9Eigi skalt þú veita útlendum manni ágang. Þér vitið sjálfir, hvernig útlendum manni er innanbrjósts, því að þér voruð útlendingar í Egyptalandi.


Lög um sabbatsár og hvíldardag

10Sex ár skalt þú sá jörð þína og safna gróða hennar, 11en sjöunda árið skalt þú láta hana liggja ónotaða og hvílast, svo að hinir fátæku meðal fólks þíns megi eta. Það sem þeir leifa, mega villidýrin eta. Eins skalt þú fara með víngarð þinn og olíutré þín.

12Sex daga skalt þú verk þitt vinna, en sjöunda daginn skalt þú halda heilagt, svo að uxi þinn og asni geti hvílt sig, og sonur ambáttar þinnar og útlendingurinn megi endurnærast.

13Allt sem ég hefi sagt yður, skuluð þér halda. Nafn annarra guða megið þér ekki nefna. Eigi skal það heyrast af þínum munni.


Lög um hátíðir

14Þrisvar á ári skalt þú mér hátíð halda.

15Þú skalt halda hátíð hinna ósýrðu brauða. Sjö daga skalt þú eta ósýrt brauð, eins og ég hefi boðið þér, á ákveðnum tíma í abíb-mánuði, því að í þeim mánuði fórst þú út af Egyptalandi.

Enginn skal koma tómhentur fyrir mitt auglit.

16Þú skalt halda hátíð frumskerunnar, frumgróðans af vinnu þinni, af því sem þú sáðir í akurinn.

Þú skalt halda uppskeruhátíðina við árslokin, er þú alhirðir afla þinn af akrinum.

17Þrem sinnum á ári skal allt þitt karlkyn birtast frammi fyrir herra Drottni.

18Eigi skalt þú fram bera blóð fórnar minnar með sýrðu brauði, og feitin af hátíðafórn minni skal ekki liggja til morguns.

19Hið fyrsta, frumgróða jarðar þinnar, skalt þú færa til húss Drottins Guðs þíns.

Þú skalt ekki sjóða kið í mjólk móður sinnar.


Fyrirheiti og áminningar

20Sjá, ég sendi engil á undan þér til að varðveita þig á ferðinni og leiða þig til þess staðar, sem ég hefi fyrirbúið. 21Haf gát á þér fyrir honum og hlýð hans röddu, móðga þú hann ekki, því að hann mun ekki fyrirgefa misgjörðir yðar, því að mitt nafn er í honum. 22En ef þú hlýðir röddu hans rækilega og gjörir allt, sem ég segi, þá skal ég vera óvinur óvina þinna og mótstöðu veita þínum mótstöðumönnum.

23Engill minn skal ganga á undan þér og leiða þig til Amoríta, Hetíta, Peresíta, Kanaaníta, Hevíta og Jebúsíta, og ég skal afmá þá. 24Þú skalt ekki tilbiðja þeirra guði og ekki dýrka þá og ekki fara að háttum þeirra, heldur skalt þú gjöreyða þeim og með öllu sundur brjóta merkissteina þeirra.

25Þér skuluð dýrka Drottin, Guð yðar, og hann mun blessa brauð þitt og vatn, og ég skal bægja sóttum burt frá þér.

26Engin vanbyrja og engin óbyrja skal finnast í landi þínu.

Ég skal fylla tal daga þinna.

27Ógn mína mun ég senda á undan þér og gjöra felmtsfullar allar þær þjóðir, sem þú kemur til, og alla óvini þína mun ég flýja láta fyrir þér. 28Ég skal senda skelfingu á undan þér, og hún skal í burt stökkva Hevítum, Kanaanítum og Hetítum úr augsýn þinni.

29Þó vil ég ekki stökkva þeim burt úr augsýn þinni á einu ári, svo að landið fari ekki í auðn og villidýrunum fjölgi ekki þér til meins. 30Smám saman vil ég stökkva þeim burt úr augsýn þinni, uns þér fjölgar og þú eignast landið. 31Og ég vil setja landamerki þín frá Rauðahafinu til Filistahafs, og frá eyðimörkinni til Fljótsins. Ég mun gefa íbúa landsins á vald yðar, og þú skalt stökkva þeim burt undan þér. 32Þú skalt eigi gjöra sáttmála við þá eða þeirra guði. 33Þeir skulu ekki búa í landi þínu, svo að þeir komi þér ekki til þess að syndga gegn mér, því ef þú dýrkar þeirra guði, mun það verða þér að tálsnöru."


Sáttmálinn haldinn heilagur

24
1Guð sagði við Móse: "Stíg upp til Drottins, þú og Aron, Nadab og Abíhú og sjötíu af öldungum Ísraels, og skuluð þér falla fram álengdar. 2Móse einn skal koma í nálægð Drottins, en hinir skulu ekki nærri koma, og fólkið skal ekki heldur stíga upp með honum."

3Og Móse kom og sagði fólkinu öll orð Drottins og öll lagaákvæðin. Svaraði þá fólkið einum munni og sagði: "Vér skulum gjöra allt það, sem Drottinn hefir boðið."

4Og Móse skrifaði öll orð Drottins.

En næsta morgun reis hann árla og reisti altari undir fjallinu og tólf merkissteina eftir tólf kynkvíslum Ísraels. 5Síðan útnefndi hann unga menn af Ísraelsmönnum, og þeir færðu Drottni brennifórnir og slátruðu uxum til þakkarfórna. 6Og Móse tók helming blóðsins og hellti því í fórnarskálarnar, en hinum helming blóðsins stökkti hann á altarið. 7Því næst tók hann sáttmálsbókina og las upp fyrir lýðnum, en þeir sögðu: "Vér viljum gjöra allt það, sem Drottinn hefir boðið, og hlýðnast því."

8Þá tók Móse blóðið, stökkti því á fólkið og sagði:

"Þetta er blóð þess sáttmála, sem Drottinn hefir gjört við yður og byggður er á öllum þessum orðum."

9Þá stigu þeir upp Móse og Aron, Nadab og Abíhú og sjötíu af öldungum Ísraels. 10Og þeir sáu Ísraels Guð, og var undir fótum hans sem pallur væri, gjörður af safírhellum, og skær sem himinninn sjálfur. 11En hann útrétti eigi hönd sína gegn höfðingjum Ísraelsmanna. Og þeir sáu Guð og átu og drukku.


Löggjöf á fjallinu

12Drottinn sagði við Móse: "Stíg upp á fjallið til mín og dvel þar, og skal ég fá þér steintöflur og lögmálið og boðorðin, er ég hefi skrifað, til þess að þú kennir þeim." 13Þá lagði Móse af stað og Jósúa, þjónn hans, og Móse sté upp á Guðs fjall. 14En við öldungana sagði hann: "Verið hér kyrrir, þar til er vér komum aftur til yðar, og sjá, Aron og Húr eru hjá yður. Hver sem mál hefir að kæra, snúi sér til þeirra."

15Móse sté þá upp á fjallið, en skýið huldi fjallið. 16Og dýrð Drottins hvíldi yfir Sínaífjalli, og skýið huldi það í sex daga, en á sjöunda degi kallaði hann á Móse mitt út úr skýinu. 17Og dýrð Drottins var á að líta fyrir Ísraelsmenn sem eyðandi eldur á fjallstindinum.

18En Móse gekk mitt inn í skýið og sté upp á fjallið, og var Móse á fjallinu í fjörutíu daga og fjörutíu nætur.



Ákvæði um helgidóm og helgihald


Gjafir til helgidómsins

25
1Drottinn talaði við Móse og sagði:

2"Seg Ísraelsmönnum að þeir færi mér gjafir. Af hverjum þeim manni skuluð þér gjöf taka mér til handa, sem gefur hana af fúsum huga. 3Og þessar eru gjafir þær, sem þér skuluð af þeim taka: gull, silfur og eir; 4blár purpuri, rauður purpuri, skarlat, baðmull og geitahár; 5rauðlituð hrútskinn, höfrungaskinn og akasíuviður; 6olía til ljósastikunnar, kryddjurtir til ilmsmyrsla og ilmreykelsis; 7sjóamsteinar og steinar til legginga á hökulinn og brjóstskjöldinn. 8Og þeir skulu gjöra mér helgidóm, að ég búi mitt á meðal þeirra. 9Þér skuluð gjöra hann í öllum greinum eftir þeirri fyrirmynd af tjaldbúðinni og eftir þeirri fyrirmynd af öllum áhöldum hennar, sem ég mun sýna þér.


Sáttmálsörkin

10Þeir skulu gjöra örk af akasíuviði. Hún skal vera hálf þriðja alin á lengd, hálf önnur alin á breidd og hálf önnur alin á hæð. 11Hana skaltu leggja skíru gulli, innan og utan skaltu gullleggja hana, og umhverfis á henni skaltu gjöra brún af gulli. 12Þú skalt steypa til arkarinnar fjóra hringa af gulli og festa þá við fjóra fætur hennar, sína tvo hringana hvorumegin. 13Þú skalt gjöra stengur af akasíuviði og gullleggja þær. 14Síðan skalt þú smeygja stöngunum í hringana á hliðum arkarinnar, svo að bera megi örkina á þeim. 15Skulu stengurnar vera kyrrar í hringum arkarinnar, eigi má taka þær þaðan. 16Og þú skalt leggja niður í örkina sáttmálið, er ég mun fá þér í hendur.

17Þú skalt og gjöra lok af skíru gulli. Skal það vera hálf þriðja alin á lengd og hálf önnur alin á breidd. 18Og þú skalt gjöra tvo kerúba af gulli, af drifnu smíði skalt þú gjöra þá á hvorum tveggja loksendanum. 19Og lát annan kerúbinn vera á öðrum endanum, en hinn á hinum endanum. Þú skalt gjöra kerúbana áfasta við lokið á báðum endum þess. 20En kerúbarnir skulu breiða út vængina uppi yfir, svo að þeir hylji lokið með vængjum sínum, og andlit þeirra snúa hvort í mót öðru; að lokinu skulu andlit kerúbanna snúa.

21Þú skalt setja lokið ofan yfir örkina, og niður í örkina skalt þú leggja sáttmálið, sem ég mun fá þér. 22Og þar vil ég eiga samfundi við þig og birta þér ofan af arkarlokinu millum beggja kerúbanna, sem standa á sáttmálsörkinni, allt það, er ég býð þér að flytja Ísraelsmönnum.


Borð fyrir skoðunarbrauðin

23Þú skalt og gjöra borð af akasíuviði, tvær álnir á lengd, alin á breidd og hálfa aðra alin á hæð. 24Þú skalt leggja það skíru gulli og gjöra umhverfis á því brún af gulli. 25Umhverfis það skalt þú gjöra lista þverhandar breiðan og búa til brún af gulli umhverfis á listanum. 26Þá skalt þú gjöra til borðsins fjóra hringa af gulli og setja hringana í fjögur hornin, sem eru á fjórum fótum borðsins. 27Skulu hringarnir vera fast upp við listann, svo að í þá verði smeygt stöngum til þess að bera borðið. 28Stengurnar skalt þú gjöra af akasíuviði og gullleggja þær. Á þeim skal borðið bera. 29Og þú skalt gjöra föt þau, sem borðinu tilheyra, skálar og bolla, og ker þau, sem til dreypifórnar eru höfð. Af skíru gulli skalt þú gjöra þau. 30En á borðið skalt þú ætíð leggja skoðunarbrauð frammi fyrir mér.


Sjöarma ljósastikan

31Enn fremur skalt þú ljósastiku gjöra af skíru gulli. Með drifnu smíði skal ljósastikan gjör, stétt hennar og leggur. Blómbikarar hennar, knappar hennar og blóm, skulu vera samfastir henni. 32Og sex álmur skulu liggja út frá hliðum hennar, þrjár álmur ljósastikunnar út frá annarri hlið hennar og þrjár álmur ljósastikunnar út frá hinni hlið hennar. 33Þrír bikarar, í lögun sem möndlublóm, skulu vera á fyrstu álmunni, knappur og blóm. Þrír bikarar, í lögun sem möndlublóm, skulu vera á næstu álmunni, knappur og blóm. Svo skal vera á öllum sex álmunum, sem út ganga frá ljósastikunni. 34Og á sjálfri ljósastikunni skulu vera fjórir bikarar í lögun sem möndlublóm, knappar hennar og blóm: 35einn knappur undir tveim neðstu álmunum, samfastur ljósastikunni, og annar knappur undir tveim næstu álmunum, samfastur ljósastikunni, og enn knappur undir tveim efstu álmunum, samfastur ljósastikunni, svo undir sex álmunum, er út ganga frá ljósastikunni. 36Knapparnir og álmurnar skulu vera samfastar henni. Allt skal það gjört með drifnu smíði af skíru gulli.

37Þú skalt gjöra lampa hennar sjö og skalt svo upp setja lampana, að þeir beri birtu yfir svæðið fyrir framan hana. 38Ljósasöx og skarpönnur, sem ljósastikunni fylgja, skulu vera af skíru gulli. 39Af einni talentu skíragulls skal hana gjöra með öllum þessum áhöldum. 40Og sjá svo til, að þú gjörir þessa hluti eftir þeirri fyrirmynd, sem þér var sýnd á fjallinu.


Tjaldbúðin og fortjaldið

26
1Tjaldbúðina skalt þú gjöra af tíu dúkum úr tvinnaðri baðmull, bláum purpura, rauðum purpura og skarlati. Skalt þú búa til kerúba á þeim með listvefnaði. 2Hver dúkur skal vera tuttugu og átta álna langur og fjögra álna breiður; allir skulu dúkarnir vera jafnir að máli. 3Fimm dúkarnir skulu tengjast saman hver við annan, og eins skal tengja saman hina fimm dúkana sín í milli. 4Og þú skalt búa til lykkjur af bláum purpura á jaðri ysta dúksins í samfellunni, og eins skalt þú gjöra á jaðri ysta dúksins í hinni samfellunni. 5Skalt þú búa til fimmtíu lykkjur á öðrum dúknum, og eins skalt þú gjöra fimmtíu lykkjur á jaðri þess dúksins, sem er í hinni samfellunni, svo að lykkjurnar standist á hver við aðra. 6Og þú skalt gjöra fimmtíu króka af gulli og tengja saman dúkana hvern við annan með krókunum, svo að tjaldbúðin verði ein heild.

7Þú skalt og gjöra dúka af geitahári til að tjalda með yfir búðina, ellefu að tölu. 8Hver dúkur skal vera þrjátíu álna langur og fjögra álna breiður; allir ellefu dúkarnir skulu vera jafnir að máli. 9Og þú skalt tengja saman fimm dúka sér og sex dúka sér, en sjötta dúkinn skalt þú brjóta upp á sig á framanverðu tjaldinu. 10Og þú skalt búa til fimmtíu lykkjur á jaðri ysta dúksins í annarri samfellunni og eins fimmtíu lykkjur á dúkjaðri hinnar samfellunnar. 11Og þú skalt gjöra fimmtíu eirkróka og krækja krókunum í lykkjurnar, og tengja svo saman tjaldið, að ein heild verði. 12En afgangurinn, sem yfir hefir af tjalddúkunum, hálfi dúkurinn, sem er umfram, skal hanga niður af tjaldbúðinni baka til. 13En sú eina alin beggja vegna, sem yfir hefir af tjalddúkunum á lengdina, skal hanga niður af hliðum tjaldbúðarinnar báðumegin til þess að byrgja hana. 14Þú skalt enn gjöra þak yfir tjaldið af rauðlituðum hrútskinnum og enn eitt þak þar utan yfir af höfrungaskinnum.

15Og þú skalt gjöra þiljuborðin í tjaldbúðina af akasíuviði, og standi þau upp og ofan. 16Hvert borð skal vera tíu álnir á lengd og hálf önnur alin á breidd. 17Á hverju borði skulu vera tveir tappar, báðir sameinaðir. Svo skalt þú gjöra á öllum borðum tjaldbúðarinnar. 18Og þannig skalt þú gjöra borðin í tjaldbúðina: Tuttugu borð í suðurhliðina, 19og skalt þú búa til fjörutíu undirstöður af silfri undir tuttugu borðin, tvær undirstöður undir hvert borð, sína fyrir hvorn tappa. 20Og eins í hina hlið tjaldbúðarinnar, norðurhliðina: tuttugu borð 21og fjörutíu undirstöður af silfri, tvær undirstöður undir hvert borð. 22Í afturgafl búðarinnar, gegnt vestri, skalt þú gjöra sex borð. 23Og tvö borð skalt þú gjöra í búðarhornin á afturgaflinum. 24Og þau skulu vera tvöföld að neðan og sömuleiðis halda fullu máli upp úr allt til hins fyrsta hrings. Þannig skal þeim háttað vera hvorum tveggja, á báðum hornum skulu þau vera. 25Borðin skulu vera átta og með undirstöðum af silfri, sextán undirstöðum, tveim undirstöðum undir hverju borði.

26Því næst skalt þú gjöra slár af akasíuviði, fimm á borðin í annarri hlið búðarinnar 27og fimm slár á borðin í hinni hlið búðarinnar og fimm slár á borðin í afturgafli búðarinnar, gegnt vestri. 28Miðsláin skal vera á miðjum borðunum og liggja alla leið, frá einum enda til annars. 29Og borðin skalt þú gullleggja, en hringana á þeim, sem slárnar ganga í, skalt þú gjöra af gulli. Þú skalt og gullleggja slárnar. 30Og þú skalt reisa tjaldbúðina eins og hún á að vera og þér var sýnt á fjallinu.

31Þú skalt og gjöra fortjald af bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnaðri baðmull. Skal það til búið með listvefnaði og kerúbar á. 32Og þú skalt festa það á fjóra stólpa af akasíuviði, gulli lagða, með nöglum í af gulli, á fjórum undirstöðum af silfri. 33En þú skalt hengja fortjaldið undir krókana og flytja sáttmálsörkina þangað, inn fyrir fortjaldið, og skal fortjaldið skilja milli hins heilaga og hins allrahelgasta hjá yður. 34Þú skalt setja lokið yfir sáttmálsörkina í hinu allrahelgasta. 35En borðið skalt þú setja fyrir utan fortjaldið og ljósastikuna gagnvart borðinu við suðurhliðvegg búðarinnar, en lát borðið vera við norðurhliðvegginn. 36Þú skalt og gjöra dúkbreiðu fyrir dyr tjaldsins af bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnaðri baðmull, og glitofna. 37Og fyrir dúkbreiðuna skalt þú gjöra stólpa af akasíuviði og gullleggja þá. Naglarnir í þeim skulu vera af gulli, og þú skalt steypa fimm undirstöður af eiri undir þá.


Altarið

27
1Þú skalt gjöra altarið af akasíuviði, fimm álna langt og fimm álna breitt - ferhyrnt skal altarið vera - og þriggja álna hátt. 2Og þú skalt gjöra hornin á því upp af fjórum hyrningum þess, - þau horn skulu vera áföst við það -, og þú skalt eirleggja það.

3Þú skalt gjöra ker undir öskuna, eldspaða þá, fórnarskálir, soðkróka og eldpönnur, sem altarinu fylgja. Öll áhöld þess skalt þú gjöra af eiri.

4Þú skalt gjöra um altarið eirgrind, eins og riðið net, og setja fjóra eirhringa á netið, á fjögur horn altarisins. 5Grindina skalt þú festa fyrir neðan umgjörð altarisins undir niðri, svo að netið taki upp á mitt altarið. 6Og þú skalt gjöra stengur til altarisins, stengur af akasíuviði, og eirleggja þær. 7Skal smeygja stöngunum í hringana, og skulu stengurnar vera á báðum hliðum altarisins, þegar það er borið. 8Þú skalt gjöra altarið af borðum, holt að innan. Þeir skulu gjöra það eins og þér var sýnt uppi á fjallinu.


Forgarðurinn

9Þannig skalt þú gjöra forgarð tjaldbúðarinnar: Á suðurhliðinni skulu tjöld vera fyrir forgarðinum úr tvinnaðri baðmull, hundrað álna löng á þá hliðina, 10og tuttugu stólpar með tuttugu undirstöðum af eiri, en naglar stólpanna og hringrandir þeirra skulu vera af silfri. 11Sömuleiðis skulu að norðanverðu langsetis vera hundrað álna löng tjöld og tuttugu stólpar með tuttugu undirstöðum af eiri, en naglar í stólpunum og hringrandir á þeim skulu vera af silfri. 12En á þverhlið forgarðsins að vestanverðu skulu vera fimmtíu álna löng tjöld og tíu stólpar með tíu undirstöðum.

13Þverhlið forgarðsins að austanverðu, mót uppkomu sólar, skal vera fimmtíu álnir, 14og skulu vera fimmtán álna tjöld annars vegar með þremur stólpum og þremur undirstöðum, 15og hins vegar sömuleiðis fimmtán álna tjöld með þremur stólpum og þremur undirstöðum.

16Fyrir hliði forgarðsins skal vera tuttugu álna dúkbreiða af bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnaðri baðmull, glitofin, með fjórum stólpum og fjórum undirstöðum. 17Allir stólpar umhverfis forgarðinn skulu vera með hringröndum af silfri og silfurnöglum og undirstöðurnar af eiri. 18Lengd forgarðsins skal vera hundrað álnir og breiddin fimmtíu álnir og hæðin fimm álnir, úr tvinnaðri baðmull og undirstöðurnar af eiri. 19Öll áhöld tjaldbúðarinnar, til hverrar þjónustugjörðar í henni sem vera skal, svo og allir hælar, sem henni tilheyra, og allir hælar, sem forgarðinum tilheyra, skulu vera af eiri.


Olífuolían

20Þú skalt bjóða Ísraelsmönnum að færa þér tæra olíu af steyttum olífuberjum til ljósastikunnar, svo að lampar verði ávallt settir upp. 21Í samfundatjaldinu fyrir utan fortjaldið, sem er fyrir framan sáttmálið, skal Aron og synir hans tilreiða þá frammi fyrir Drottni, frá kveldi til morguns. Er það ævinleg skyldugreiðsla, er á Ísraelsmönnum hvílir frá kyni til kyns.


Skrúði prestanna

28
1Þú skalt taka Aron bróður þinn og sonu hans með honum til þín úr sveit Ísraelsmanna, að hann þjóni mér í prestsembætti, þá Aron, Nadab og Abíhú, Eleasar og Ítamar, sonu Arons.

2Þú skalt gjöra Aroni bróður þínum helg klæði til vegs og prýði.

3Og þú skalt tala við alla hugvitsmenn, sem ég hefi fyllt hugvitsanda, og skulu þeir gjöra Aroni klæði, svo að hann verði vígður til að þjóna mér í prestsembætti.

4Þessi eru klæðin, sem þeir skulu gjöra: Brjóstskjöldur, hökull, möttull, tiglofinn kyrtill, vefjarhöttur og belti. Þeir skulu gjöra Aroni bróður þínum og sonum hans helg klæði, að hann þjóni mér í prestsembætti, 5og skulu þeir til þess taka gull, bláan purpura, rauðan purpura, skarlat og baðmull.

6Þeir skulu gjöra hökulinn af gulli, bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnaðri baðmull með forkunnarlegu hagvirki. 7Á honum skulu vera tveir axlarhlýrar, festir við báða enda hans, svo að hann verði festur saman. 8Og hökullindinn, sem á honum er til að gyrða hann að sér, skal vera með sömu gerð og áfastur honum: af gulli, bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnaðri baðmull. 9Því næst skalt þú taka tvo sjóamsteina og grafa á þá nöfn Ísraels sona: 10Sex af nöfnum þeirra á annan steininn og nöfn hinna sex, er eftir verða, á hinn steininn, eftir aldri þeirra. 11Þú skalt grafa nöfn Ísraels sona á báða steinana með steinskurði, innsiglisgrefti, og greypa þá inn í umgjarðir af gulli. 12Og þú skalt festa báða steinana á axlarhlýra hökulsins, að þeir séu minnissteinar Ísraelsmönnum, og skal Aron bera nöfn þeirra frammi fyrir Drottni á báðum öxlum sér, til minningar. 13Og þú skalt gjöra umgjarðir af gulli 14og tvær festar af skíru gulli. Þú skalt gjöra þær snúnar sem fléttur, og þú skalt festa þessar fléttuðu festar við umgjarðirnar.

15Þú skalt og búa til dómskjöld, gjörðan með listasmíði. Skalt þú búa hann til með sömu gerð og hökulinn; af gulli, bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnaðri baðmull skalt þú gjöra hann.

16Hann skal vera ferhyrndur og tvöfaldur, spannarlangur og spannarbreiður.

17Þú skalt alsetja hann steinum í fjórum röðum: eina röð af karneól, tópas og smaragði, er það fyrsta röðin; 18önnur röðin: karbunkull, safír og jaspis; 19þriðja röðin: hýasint, agat og ametýst; 20og fjórða röðin: krýsolít, sjóam og ónýx. Þeir skulu greyptir vera í gull, hver á sínum stað.

21Steinarnir skulu vera tólf, eftir nöfnum Ísraels sona, og vera með nöfnum þeirra. Þeir skulu vera grafnir með innsiglisgrefti, og skal sitt nafn vera á hverjum þeirra, eftir þeim tólf kynkvíslum.

22Þú skalt gjöra festar til brjóstskjaldarins, snúnar eins og fléttur, af skíru gulli. 23Þú skalt og gjöra til brjóstskjaldarins tvo hringa af gulli og festa þessa tvo hringa á tvö horn brjóstskjaldarins. 24Síðan skalt þú festa báðar gullflétturnar í þessa tvo hringa á hornum brjóstskjaldarins. 25En tvo enda beggja snúnu festanna skalt þú festa við umgjarðirnar tvær og festa þær við axlarhlýra hökulsins, á hann framanverðan. 26Þá skalt þú enn gjöra tvo hringa af gulli og festa þá í tvö horn brjóstskjaldarins, innanvert í þá brúnina, sem að höklinum veit. 27Og enn skalt þú gjöra tvo hringa af gulli og festa þá á báða axlarhlýra hökulsins, neðan til á hann framanverðan, þar sem hann er tengdur saman, fyrir ofan hökullindann. 28Nú skal knýta brjóstskjöldinn með hringum hans við hökulhringana með snúru af bláum purpura, svo að hann liggi fyrir ofan hökullindann, og mun þá eigi brjóstskjöldurinn losna við hökulinn.

29Aron skal bera nöfn Ísraels sona í dómskildinum á brjósti sér, þegar hann gengur inn í helgidóminn, til stöðugrar minningar frammi fyrir Drottni.

30Og þú skalt leggja inn í dómskjöldinn úrím og túmmím, svo að það sé á brjósti Arons, þegar hann gengur inn fyrir Drottin, og Aron skal ávallt bera dóm Ísraelsmanna á brjósti sér frammi fyrir Drottni.

31Hökulmöttulinn skalt þú allan gjöra af bláum purpura. 32Á honum skal vera hálsmál faldað með ofnum borða, eins og á brynju, svo að ekki rifni út úr. 33Á faldi hans skalt þú búa til granatepli af bláum purpura, rauðum purpura og skarlati, á faldi hans allt í kring, og bjöllur af gulli í milli eplanna allt í kring, 34svo að fyrst komi gullbjalla og granatepli, og þá aftur gullbjalla og granatepli, allt í kring á möttulfaldinum. 35Í honum skal Aron vera, þegar hann embættar, svo að heyra megi til hans, þegar hann gengur inn í helgidóminn fram fyrir Drottin og þá er hann gengur út, svo að hann deyi ekki.

36Þú skalt gjöra spöng af skíru gulli og grafa á hana með innsiglisgrefti: ,Helgaður Drottni.' 37Og þú skalt festa hana á snúru af bláum purpura, og skal hún vera á vefjarhettinum. Framan á vefjarhettinum skal hún vera. 38Og hún skal vera á enni Arons, svo að Aron taki á sig galla þá, er verða kunna á hinum helgu fórnum, er Ísraelsmenn fram bera, hverjar svo sem helgigjafir þeirra eru. Hún skal ætíð vera á enni hans til þess að gjöra þær velþóknanlegar fyrir Drottni.

39Þú skalt tiglvefa kyrtilinn af baðmull og gjöra vefjarhött af baðmull og búa til glitofið belti. 40Þú skalt og gjöra kyrtla handa sonum Arons og búa þeim til belti. Einnig skalt þú gjöra þeim höfuðdúka til vegs og prýði. 41Þú skalt færa Aron bróður þinn og sonu hans með honum í það, og þú skalt smyrja þá og fylla hendur þeirra og helga þá til að þjóna mér í prestsembætti. 42Þú skalt og gjöra þeim línbrækur til að hylja með blygðun þeirra. Þær skulu ná frá mjöðmum niður á læri. 43Í þeim skal Aron og synir hans vera, er þeir ganga inn í samfundatjaldið eða nálgast altarið til að embætta í helgidóminum, að þeir eigi baki sér sekt og deyi.

Þetta skal vera ævinlegt lögmál fyrir hann og niðja hans eftir hann.


Vígsla prestanna

29
1Þannig skalt þú að fara, er þú vígir þá til þess að þjóna mér í prestsembætti:

Tak eitt ungneyti og tvo hrúta gallalausa, 2ósýrt brauð og ósýrðar kökur olíublandaðar og ósýrð flatbrauð olíusmurð. Skalt þú gjöra þau af fínu hveitimjöli. 3Því næst skalt þú láta þau í eina körfu og koma með þau í körfunni, ásamt uxanum og báðum hrútunum.

4Þú skalt koma með Aron og sonu hans að dyrum samfundatjaldsins og lauga þá í vatni. 5Síðan skalt þú taka klæðin og skrýða Aron kyrtlinum, hökulmöttlinum, höklinum og brjóstskildinum, og gyrða hann hökullindanum. 6Þá skalt þú setja vefjarhöttinn á höfuð honum og festa hið heilaga ennishlað á vefjarhöttinn. 7Þá skalt þú taka smurningarolíuna og hella henni yfir höfuð honum og smyrja hann. 8Síðan skalt þú leiða fram sonu hans og færa þá í kyrtla, 9gyrða þá beltum, bæði Aron og sonu hans, og binda á þá höfuðdúka, að þeir hafi prestdóm eftir ævarandi lögmáli, og þú skalt fylla hönd Arons og hönd sona hans.

10Síðan skalt þú leiða uxann fram fyrir samfundatjaldið, og skulu þeir Aron og synir hans leggja hendur sínar á höfuð uxanum. 11En þú skalt slátra uxanum frammi fyrir Drottni, fyrir dyrum samfundatjaldsins. 12Síðan skalt þú taka nokkuð af blóði uxans og ríða því á altarishornin með fingri þínum, en öllu hinu blóðinu skalt þú hella niður við altarið. 13Og þú skalt taka alla netjuna, er hylur iðrin, stærra lifrarblaðið, bæði nýrun og nýrnamörinn og brenna á altarinu. 14En kjöt uxans, húðina og gorið skalt þú brenna í eldi fyrir utan herbúðirnar. Það er syndafórn.

15Því næst skalt þú taka annan hrútinn, og skulu þeir Aron og synir hans leggja hendur sínar á höfuð hrútsins. 16Síðan skalt þú slátra hrútnum, taka blóð hans og stökkva því allt um kring á altarið. 17En hrútinn skalt þú hluta í sundur, þvo innyfli hans og fætur og leggja það ofan á hin stykkin og höfuðið. 18Skalt þú síðan brenna allan hrútinn á altarinu. Það er brennifórn Drottni til handa, þægilegur ilmur; það er eldfórn Drottni til handa.

19Þessu næst skalt þú taka hinn hrútinn, og skulu þeir Aron og synir hans leggja hendur sínar á höfuð hrútsins. 20En þú skalt slátra hrútnum og taka nokkuð af blóði hans og ríða því á hægri eyrnasnepil Arons og hægri eyrnasnepil sona hans og á þumalfingur hægri handar þeirra og á stórutá hægri fótar þeirra og stökkva blóðinu allt um kring á altarið.

21Þú skalt taka nokkuð af blóði því, sem er á altarinu, og nokkuð af smurningarolíunni og stökkva því á Aron og klæði hans, og á sonu hans og klæði sona hans ásamt honum, og verður hann þá helgaður og klæði hans, og synir hans og klæði sona hans ásamt honum. 22Síðan skalt þú taka feitina af hrútnum: rófuna, netjuna, er hylur iðrin, stærra lifrarblaðið, bæði nýrun og nýrnamörinn og hægra lærið - því að þetta er vígsluhrútur -, 23einn brauðhleif, eina olíuköku og eitt flatbrauð úr körfunni með ósýrðu brauðunum, sem stendur frammi fyrir Drottni. 24Allt þetta skalt þú leggja í hendur Aroni og í hendur sonum hans og veifa því sem veififórn frammi fyrir Drottni.

25Síðan skalt þú taka það af höndum þeirra og brenna það á altarinu ofan á brennifórninni til þægilegs ilms frammi fyrir Drottni. Það er eldfórn Drottni til handa. 26Því næst skalt þú taka bringuna af vígsluhrút Arons og veifa henni sem veififórn frammi fyrir Drottni. Hún skal koma í þinn hlut. 27Þú skalt helga veififórnarbringuna og lyftifórnarlærið, sem veifað og lyft hefir verið, af vígsluhrútnum, bæði Arons og sona hans. 28Og skal Aron og synir hans fá það hjá Ísraelsmönnum eftir ævarandi lögmáli, því að það er fórnargjöf, og sem fórnargjöf skulu Ísraelsmenn fram bera það af þakkarfórnum sínum, sem fórnargjöf þeirra til Drottins.

29Hin helgu klæði Arons skulu synir hans fá eftir hann, svo að þeir verði smurðir í þeim og hendur þeirra verði fylltar í þeim. 30Sá af sonum hans, sem prestur verður í hans stað, skal sjö daga skrýðast þeim, er hann gengur inn í samfundatjaldið til að embætta í helgidóminum.

31Þú skalt taka vígsluhrútinn og sjóða kjöt hans á helgum stað, 32og skulu þeir Aron og synir hans eta kjöt hrútsins og brauðið, sem er í körfunni, fyrir dyrum samfundatjaldsins. 33Og þeir skulu eta þetta, sem friðþægt var með, er hendur þeirra voru fylltar og þeir helgaðir. En óvígður maður má eigi neyta þess, því að það er helgað.

34En verði nokkrar leifar af vígslukjötinu og brauðinu til næsta morguns, þá skalt þú brenna þær leifar í eldi. Það má ekki eta, því að það er helgað.

35Þú skalt svo gjöra við Aron og sonu hans í alla staði, eins og ég hefi boðið þér. Í sjö daga skalt þú fylla hendur þeirra, 36og á hverjum degi skalt þú slátra uxa í syndafórn til friðþægingar og syndhreinsa altarið, er þú friðþægir fyrir það, og skalt þú þá smyrja það til þess að helga það. 37Í sjö daga skalt þú friðþægja fyrir altarið og helga það, og skal þá altarið verða háheilagt. Hver sá, er snertir altarið, skal vera helgaður.


Hin daglega brennifórn

38Þetta er það, sem þú skalt fórna á altarinu: tvö lömb veturgömul dag hvern stöðuglega.

39Öðru lambinu skalt þú fórna að morgni dags, en hinu lambinu skalt þú fórna um sólsetur. 40Með öðru lambinu skal hafa tíunda part úr efu af fínu mjöli, blönduðu við fjórðung úr hín af olíu úr steyttum olífuberjum, og til dreypifórnar fjórðung úr hín af víni.

41Hinu lambinu skalt þú fórna um sólsetur, og hafa við sömu matfórn og dreypifórn sem um morguninn, til þægilegs ilms, til eldfórnar fyrir Drottin. 42Skal það vera stöðug brennifórn hjá yður frá kyni til kyns fyrir dyrum samfundatjaldsins í augsýn Drottins. Þar vil ég eiga samfundi við yður til að tala þar við þig, 43og þar vil ég eiga samfundi við Ísraelsmenn, og það skal helgast af minni dýrð.

44Ég vil helga samfundatjaldið og altarið; Aron og sonu hans vil ég og helga, að þeir þjóni mér í prestsembætti.

45Ég vil búa á meðal Ísraelsmanna og vera þeirra Guð. 46Og þeir skulu viðurkenna, að ég er Drottinn, Guð þeirra, sem leiddi þá út af Egyptalandi, til þess að ég mætti búa meðal þeirra.

Ég er Drottinn, Guð þeirra.


Reykelsisaltarið

30
1Þú skalt gjöra altari til að brenna á reykelsi. Það skalt þú búa til af akasíuviði. 2Það skal vera álnarlangt og álnarbreitt, ferhyrnt, tveggja álna hátt og horn þess áföst við það. 3Þú skalt leggja það skíru gulli, bæði að ofan og á hliðunum allt í kring, svo og horn þess, og þú skalt gjöra brún af gulli á því allt í kring.

4Þú skalt gjöra á því tvo hringa af gulli fyrir neðan brúnina báðumegin. Þú skalt gjöra þá á báðum hliðum þess, þeir skulu vera til að smeygja í stöngum til að bera það á. 5Og þú skalt gjöra stengurnar af akasíuviði og gullleggja þær.

6Þú skalt setja það fyrir framan fortjaldið, sem er fyrir sáttmálsörkinni, fyrir framan lokið, sem er yfir sáttmálinu, þar sem ég vil eiga samfundi við þig. 7Og Aron skal brenna ilmreykelsi á því, hann skal brenna því á hverjum morgni, þegar hann tilreiðir lampana. 8Þegar Aron setur upp lampana um sólsetur, skal hann og brenna reykelsi. Það skal vera stöðug reykelsisfórn frammi fyrir Drottni hjá yður frá kyni til kyns. 9Þér skuluð ekki fórna annarlegu reykelsi á því, né heldur brennifórn eða matfórn, og eigi megið þér dreypa dreypifórn á því.

10Aron skal friðþægja fyrir horn þess einu sinni á ári. Með blóðinu úr syndafórn friðþægingarinnar skal hann friðþægja fyrir það einu sinni á ári hjá yður frá kyni til kyns. Það er háheilagt fyrir Drottni."


Gjald til helgidómsins

11Drottinn talaði við Móse og sagði:

12"Þegar þú tekur manntal meðal Ísraelsmanna við liðskönnun, þá skulu þeir hver um sig greiða Drottni gjald til lausnar lífi sínu, þegar þeir eru kannaðir, svo að engin plága komi yfir þá vegna liðskönnunarinnar. 13Þetta skal hver sá gjalda, sem talinn er í liðskönnun: hálfan sikil eftir helgidómssikli - tuttugu gerur í sikli, - hálfan sikil sem fórnargjöf til Drottins.

14Hver sem talinn er í liðskönnun, tvítugur og þaðan af eldri, skal greiða Drottni fórnargjöf. 15Hinn ríki skal eigi greiða meira og hinn fátæki ekki minna en hálfan sikil, er þér færið Drottni fórnargjöf til þess að friðþægja fyrir sálir yðar. 16Og þú skalt taka þetta friðþægingargjald af Ísraelsmönnum og leggja það til þjónustu samfundatjaldsins. Það skal vera Ísraelsmönnum til minningar frammi fyrir Drottni, að það friðþægi fyrir sálir yðar."


Eirker til þvottar

17Drottinn talaði við Móse og sagði:

18"Þú skalt gjöra eirker með eirstétt til þvottar, og þú skalt setja það milli samfundatjaldsins og altarisins og láta vatn í það, 19og skulu þeir Aron og synir hans þvo hendur sínar og fætur úr því. 20Þegar þeir ganga inn í samfundatjaldið, skulu þeir þvo sér úr vatni, svo að þeir deyi ekki; eða þegar þeir ganga að altarinu til þess að embætta, til þess að brenna eldfórn Drottni til handa, 21þá skulu þeir þvo hendur sínar og fætur, svo að þeir deyi ekki. Þetta skal vera þeim ævarandi lögmál fyrir hann og niðja hans frá kyni til kyns."


Ilmsmyrsl til smurningar

22Drottinn talaði við Móse og sagði:

23"Tak þér hinar ágætustu kryddjurtir, fimm hundruð sikla af sjálfrunninni myrru, hálfu minna, eða tvö hundruð og fimmtíu sikla, af ilmandi kanelberki og tvö hundruð og fimmtíu sikla af ilmreyr, 24og fimm hundruð sikla af kanelviði eftir helgidómssikli og eina hín af olífuberjaolíu. 25Af þessu skalt þú gjöra heilaga smurningarolíu, ilmsmyrsl, til búin að hætti smyrslara. Skal það vera heilög smurningarolía. 26Með þessu skalt þú smyrja samfundatjaldið og sáttmálsörkina, 27borðið með öllum áhöldum þess, ljósastikuna með öllum áhöldum hennar og reykelsisaltarið, 28brennifórnaraltarið með öllum áhöldum þess, kerið og stétt þess. 29Og skalt þú vígja þau, svo að þau verði háheilög. Hver sem snertir þau, skal vera helgaður.

30Þú skalt og smyrja Aron og sonu hans og vígja þá til að þjóna mér í prestsembætti.

31Þú skalt tala til Ísraelsmanna og segja: ,Þetta skal vera mér heilög smurningarolía hjá yður frá kyni til kyns.' 32Eigi má dreypa henni á nokkurs manns hörund, og með sömu gerð skuluð þér eigi til búa nein smyrsl. Helg er hún, og helg skal hún yður vera. 33Hver sem býr til sams konar smyrsl eða ber nokkuð af þeim á óvígðan mann, skal upprættur verða úr þjóð sinni."


Reykelsið helga

34Drottinn sagði við Móse:

"Tak þér ilmjurtir, balsam, marnögl og galbankvoðu, ilmjurtir ásamt hreinu reykelsi. Skal vera jafnt af hverju. 35Og þú skalt búa til úr því ilmreykelsi að hætti smyrslara, salti kryddað, hreint og heilagt. 36Og nokkuð af því skalt þú mylja smátt og leggja það fyrir framan sáttmálið í samfundatjaldinu, þar sem ég vil eiga samfundi við þig. Það skal vera yður háheilagt.

37Reykelsi, eins og þú til býr með þessari gerð, megið þér ekki búa til handa yður sjálfum. Skalt þú meta það sem Drottni helgað. 38Skyldi einhver búa til nokkuð þvílíkt til þess að gæða sér með ilm þess, skal hann upprættur verða úr þjóð sinni."


Tjaldbúðarsmiðir kvaddir til

31
1Drottinn talaði við Móse og sagði: 2"Sjá, ég hefi kvatt til Besalel Úríson, Húrssonar, af Júda ættkvísl. 3Ég hefi fyllt hann Guðs anda, bæði vísdómi, skilningi, kunnáttu og hvers konar hagleik, 4til þess að upphugsa listaverk og smíða úr gulli, silfri og eiri 5og skera steina til greypingar og til tréskurðar, til þess að vinna að hvers konar smíði. 6Og sjá, ég hefi fengið honum til aðstoðar Oholíab Akísamaksson af Dans ættkvísl.

Og öllum hugvitsmönnum hefi ég gefið vísdóm, að þeir megi gjöra allt það, sem ég hefi fyrir þig lagt: 7samfundatjaldið, sáttmálsörkina, lokið, sem er yfir henni, og öll áhöld tjaldsins, 8borðið og áhöld þess, gull-ljósastikuna og öll áhöld hennar og reykelsisaltarið, 9brennifórnaraltarið og öll áhöld þess, kerið og stétt þess, 10glitklæðin, hin helgu klæði Arons prests og prestsþjónustuklæði sona hans, 11smurningarolíuna og ilmreykelsið til helgidómsins. Allt skulu þeir gjöra eins og ég hefi fyrir þig lagt."


Ákvæði um hvíldardaginn

12Drottinn talaði við Móse og sagði:

13"Tala þú til Ísraelsmanna og seg: ,Sannlega skuluð þér halda mína hvíldardaga, því að það er teikn milli mín og yðar frá kyni til kyns, svo að þér vitið, að ég er Drottinn, sá er yður helgar. 14Haldið því hvíldardaginn, því að hann skal vera yður heilagur. Hver sem vanhelgar hann, skal vissulega líflátinn verða, því að hver sem þá vinnur nokkurt verk, sá maður skal upprættur verða úr þjóð sinni.

15Sex daga skal verk vinna, en sjöundi dagurinn er algjör hvíldardagur, helgaður Drottni. Hver sem verk vinnur á hvíldardegi, skal vissulega líflátinn verða. 16Fyrir því skulu Ísraelsmenn gæta hvíldardagsins, svo að þeir haldi hvíldardaginn heilagan frá kyni til kyns sem ævinlegan sáttmála. 17Ævinlega skal hann vera teikn milli mín og Ísraelsmanna, því að á sex dögum gjörði Drottinn himin og jörð, en sjöunda daginn hvíldist hann og endurnærðist.'"

18Þegar Drottinn hafði lokið viðræðunum við Móse á Sínaífjalli, fékk hann honum tvær sáttmálstöflur, steintöflur, ritaðar með fingri Guðs.



Fráfall lýðsins og endurnýjun sáttmálans


Gullkálfurinn

32
1Er fólkið sá, að seinkaði komu Móse ofan af fjallinu, þyrptist fólkið í kringum Aron og sagði við hann: "Kom og gjör oss guð, er fyrir oss fari, því að vér vitum ekki, hvað af þessum Móse er orðið, manninum, er leiddi oss burt af Egyptalandi." 2Og Aron sagði við þá: "Slítið eyrnagullin úr eyrum kvenna yðar, sona og dætra, og færið mér." 3Þá sleit allt fólkið eyrnagullin úr eyrum sér og færði Aroni, 4en hann tók við því af þeim, lagaði það með meitlinum og gjörði af því steyptan kálf. Þá sögðu þeir: "Þetta er guð þinn, Ísrael, sem leiddi þig út af Egyptalandi." 5Og er Aron sá það, reisti hann altari fyrir framan hann, og Aron lét kalla og segja: "Á morgun skal vera hátíð Drottins."

6Næsta morgun risu þeir árla, fórnuðu brennifórnum og færðu þakkarfórnir. Síðan settist fólkið niður til að eta og drekka, og því næst stóðu þeir upp til leika.

7Þá sagði Drottinn við Móse: "Far þú og stíg ofan, því að fólk þitt, sem þú leiddir út af Egyptalandi, hefir misgjört. 8Skjótt hafa þeir vikið af þeim vegi, sem ég bauð þeim. Þeir hafa gjört sér steyptan kálf, og þeir hafa fallið fram fyrir honum, fært honum fórnir og sagt: ,Þetta er guð þinn, Ísrael, sem leiddi þig út af Egyptalandi.'"

9Drottinn sagði við Móse: "Ég sé nú, að þessi lýður er harðsvírað fólk. 10Lát mig nú einan, svo að reiði mín upptendrist í gegn þeim og tortími þeim. Síðan vil ég gjöra þig að mikilli þjóð."

11En Móse reyndi að blíðka Drottin, Guð sinn, og sagði: "Hví skal, Drottinn, reiði þín upptendrast í gegn fólki þínu, sem þú leiddir út af Egyptalandi með miklum mætti og voldugri hendi? 12Hví skulu Egyptar segja og kveða svo að orði: ,Til ills leiddi hann þá út, til að deyða þá á fjöllum uppi og afmá þá af jörðinni'? Snú þér frá þinni brennandi reiði og lát þig iðra hins illa gegn fólki þínu. 13Minnst þú þjóna þinna, Abrahams, Ísaks og Ísraels, sem þú hefir svarið við sjálfan þig og heitið: ,Ég vil gjöra niðja yðar marga sem stjörnur himinsins, og allt þetta land, sem ég hefi talað um, vil ég gefa niðjum yðar, og skulu þeir eiga það ævinlega.'" 14Þá iðraðist Drottinn hins illa, er hann hafði hótað að gjöra fólki sínu.

15Síðan sneri Móse á leið og gekk ofan af fjallinu með báðar sáttmálstöflurnar í hendi sér. Voru þær skrifaðar báðumegin, svo á einni hliðinni sem á annarri voru þær skrifaðar. 16En töflurnar voru Guðs verk og letrið Guðs letur, rist á töflurnar.

17En er Jósúa heyrði ópið í fólkinu, sagði hann við Móse: "Það er heróp í búðunum!" 18En Móse svaraði: "Það er ekki óp sigrandi manna og ekki óp þeirra, er sigraðir verða; söngóm heyri ég."

19En er Móse nálgaðist herbúðirnar og sá kálfinn og dansinn, upptendraðist reiði hans, svo að hann þeytti töflunum af hendi og braut þær í sundur fyrir neðan fjallið. 20Síðan tók hann kálfinn, sem þeir höfðu gjört, brenndi hann í eldi og muldi hann í duft og dreifði því á vatnið og lét Ísraelsmenn drekka.

21Þá sagði Móse við Aron: "Hvað hefir þetta fólk gjört þér, að þú skulir hafa leitt svo stóra synd yfir það?" 22Aron svaraði: "Reiðst eigi, herra. Þú þekkir lýðinn, að hann er jafnan búinn til ills. 23Þeir sögðu við mig: ,Gjör oss guð, er fyrir oss fari, því vér vitum eigi, hvað af þessum Móse er orðið, manninum, er leiddi oss burt af Egyptalandi.' 24Þá sagði ég við þá: ,Hver sem gull hefir á sér, hann slíti það af sér.' Fengu þeir mér það, og kastaði ég því í eldinn, svo varð af því þessi kálfur."

25Er Móse sá, að fólkið var orðið taumlaust, því að Aron hafði sleppt við það taumnum, svo að þeir voru hafðir að spotti af mótstöðumönnum sínum, 26þá nam Móse staðar í herbúðahliðinu og mælti: "Hver sem heyrir Drottni til, komi hingað til mín!" Þá söfnuðust allir levítar til hans. 27Og hann sagði við þá: "Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: ,Hver einn festi sverð á hlið sér, fari síðan fram og aftur frá einu hliði herbúðanna til annars og drepi hver sinn bróður, vin og frænda.'" 28Og levítarnir gjörðu sem Móse bauð þeim, og féllu af fólkinu á þeim degi þrjár þúsundir manna. 29Og Móse sagði: "Fyllið hendur yðar í dag, Drottni til handa, því að hver maður var á móti syni sínum og bróður, svo að yður veitist blessun í dag."


Móse biður fyrir fólkinu

30Morguninn eftir sagði Móse við lýðinn: "Þér hafið drýgt stóra synd. En nú vil ég fara upp til Drottins; má vera, að ég fái friðþægt fyrir synd yðar." 31Síðan sneri Móse aftur til Drottins og mælti: "Æ, þetta fólk hefir drýgt stóra synd og gjört sér guð af gulli. 32Ég bið, fyrirgef þeim nú synd þeirra! Ef ekki, þá bið ég, að þú máir mig af bók þinni, sem þú hefir skrifað." 33En Drottinn sagði við Móse: "Hvern þann, er syndgað hefir móti mér, vil ég má af bók minni. 34Far nú og leið fólkið þangað, sem ég hefi sagt þér, sjá, engill minn skal fara fyrir þér. En þegar minn vitjunartími kemur, skal ég vitja synda þeirra á þeim."

35En Drottinn laust fólkið fyrir það, að þeir höfðu gjört kálfinn, sem Aron gjörði.


Nærvera Guðs

33
1Drottinn sagði við Móse: "Far nú héðan með fólkið, sem þú leiddir burt af Egyptalandi, til þess lands, sem ég sór Abraham, Ísak og Jakob, er ég sagði: ,Niðjum þínum vil ég gefa það.' 2Ég vil senda engil á undan þér og reka burt Kanaaníta, Amoríta, Hetíta, Peresíta, Hevíta og Jebúsíta, - 3til þess lands, sem flýtur í mjólk og hunangi, því að ekki vil ég sjálfur fara þangað með þér, af því að þú ert harðsvíraður lýður, að eigi tortími ég þér á leiðinni."

4En er fólkið heyrði þennan ófögnuð, urðu þeir hryggir, og enginn maður bjó sig í skart.

5Þá sagði Drottinn við Móse: "Seg Ísraelsmönnum: ,Þér eruð harðsvíraður lýður. Væri ég eitt augnablik með þér á leiðinni, mundi ég tortíma þér. Legg nú af þér skart þitt, svo að ég viti, hvað ég á að gjöra við þig.'" 6Þá lögðu Ísraelsmenn niður skart sitt undir Hórebfjalli og báru það eigi upp frá því.


Samfundatjaldið

7Móse tók tjaldið og reisti það fyrir utan herbúðirnar, spölkorn frá þeim, og kallaði það samfundatjald, og varð hver sá maður, er leita vildi til Drottins, að fara út til samfundatjaldsins, sem var fyrir utan herbúðirnar. 8Og þegar Móse gekk út til tjaldsins, þá stóð upp allur lýðurinn og gekk hver út í sínar tjalddyr og horfði á eftir honum, þar til er hann var kominn inn í tjaldið.

9Er Móse var kominn inn í tjaldið, steig skýstólpinn niður og nam staðar við tjalddyrnar, og Drottinn talaði við Móse. 10Og allur lýðurinn sá skýstólpann standa við tjalddyrnar. Stóð þá allt fólkið upp og féll fram, hver fyrir sínum tjalddyrum. 11En Drottinn talaði við Móse augliti til auglitis, eins og maður talar við mann. Því næst gekk Móse aftur til herbúðanna, en þjónn hans, sveinninn Jósúa Núnsson, vék ekki burt úr tjaldinu.


Fyrirbæn Móse

12Móse sagði við Drottin: "Sjá, þú segir við mig: ,Far með fólk þetta.' En þú hefir ekki látið mig vita, hvern þú ætlar að senda með mér. Og þó hefir þú sagt: ,Ég þekki þig með nafni, og þú hefir einnig fundið náð í augum mínum.' 13Hafi ég nú fundið náð í augum þínum, þá bið ég: Gjör mér kunna þína vegu, að ég megi þekkja þig, svo að ég finni náð í augum þínum, og gæt þess, að þjóð þessi er þinn lýður."

14Drottinn sagði: "Auglit mitt mun fara með og búa þér hvíld."

15Móse sagði við hann: "Fari auglit þitt eigi með, þá lát oss eigi fara héðan. 16Af hverju mega menn ella vita, að ég og lýður þinn hafi fundið náð í augum þínum? Hvort eigi af því, að þú farir með oss, og ég og þinn lýður verðum ágættir framar öllum þjóðum, sem á jörðu búa?"

17Þá sagði Drottinn við Móse: "Einnig þetta, er þú nú mæltir, vil ég gjöra, því að þú hefir fundið náð í augum mínum, og ég þekki þig með nafni." 18En Móse sagði: "Lát mig þá sjá dýrð þína!" 19Hann svaraði: "Ég vil láta allan minn ljóma líða fram hjá þér, og ég vil kalla nafnið Drottinn frammi fyrir þér. Og ég vil líkna þeim, sem ég vil líkna, og miskunna þeim, sem ég vil miskunna." 20Og enn sagði hann: "Þú getur eigi séð auglit mitt, því að enginn maður fær séð mig og lífi haldið."

21Drottinn sagði: "Sjá, hér er staður hjá mér, og skalt þú standa uppi á berginu. 22En þegar dýrð mín fer fram hjá, vil ég láta þig standa í bergskorunni, og mun ég byrgja þig með hendi minni, uns ég er kominn fram hjá. 23En þegar ég tek hönd mína frá, munt þú sjá á bak mér. En auglit mitt fær enginn maður séð."


Nýjar lögmálstöflur

34
1Drottinn sagði við Móse: "Högg þér tvær töflur af steini, eins og hinar fyrri voru. Mun ég þá rita á töflurnar þau orð, sem stóðu á hinum fyrri töflunum, er þú braust í sundur. 2Og ver búinn á morgun og stíg árla upp á Sínaífjall og kom þar til mín uppi á fjallstindinum. 3Enginn maður má fara upp þangað með þér, og enginn má heldur láta sjá sig nokkurs staðar á fjallinu. Eigi mega heldur sauðir eða naut vera á beit uppi undir fjallinu."

4Þá hjó Móse tvær töflur af steini, eins og hinar fyrri. Og hann reis árla næsta morgun og gekk upp á Sínaífjall eins og Drottinn hafði boðið honum og tók í hönd sér báðar steintöflurnar.


Dýrð Drottins birtist Móse á fjallinu

5Þá steig Drottinn niður í skýi, en staðnæmdist þar hjá honum og kallaði nafn Drottins. 6Drottinn gekk fram hjá honum og kallaði:

"Drottinn, Drottinn, miskunnsamur og líknsamur Guð, þolinmóður, gæskuríkur og harla trúfastur, 7sem auðsýnir gæsku þúsundum og fyrirgefur misgjörðir, afbrot og syndir, en lætur þeirra þó eigi með öllu óhegnt, heldur vitjar misgjörða feðranna á börnum og barnabörnum, já í þriðja og fjórða lið."

8Móse féll þá skjótlega til jarðar og tilbað. 9Og hann sagði: "Hafi ég, Drottinn, fundið náð í augum þínum, þá fari Drottinn með oss, því að þetta er harðsvíraður lýður. En fyrirgef oss misgjörðir vorar og syndir, og gjör oss að þinni eign."


Sáttmálinn endurnýjaður

10Drottinn sagði: "Sjá, ég gjöri sáttmála. Í augsýn alls þíns fólks vil ég gjöra þau undur, að ekki hafa slík verið gjörð í nokkru landi eða hjá nokkurri þjóð, og skal allt fólkið, sem þú ert hjá, sjá verk Drottins, því að furðulegt er það, sem ég mun við þig gjöra.

11Gæt þess, sem ég býð þér í dag: Sjá, ég vil stökkva burt undan þér Amorítum, Kanaanítum, Hetítum, Peresítum, Hevítum og Jebúsítum. 12Varast þú að gjöra nokkurn sáttmála við íbúa lands þess, sem þú kemur til, svo að þeir verði þér ekki að tálsnöru, ef þeir búa á meðal þín, 13heldur skuluð þér rífa niður ölturu þeirra, brjóta í sundur merkissteina þeirra og höggva niður asérur þeirra.

14Þú skalt eigi tilbiðja neinn annan guð, því að Drottinn nefnist vandlætari. Vandlátur Guð er hann. 15Varast að gjöra nokkurn sáttmála við íbúa landsins, því að þeir munu taka fram hjá með guðum sínum og þeir munu færa fórnir guðum sínum, og þér mun verða boðið og þú munt eta af fórnum þeirra. 16Og þú munt taka dætur þeirra handa sonum þínum, og dætur þeirra munu taka fram hjá með guðum sínum og tæla syni þína til að taka fram hjá með guðum þeirra.

17Þú skalt eigi gjöra þér steypta guði.

18Þú skalt halda hátíð hinna ósýrðu brauða. Sjö daga skaltu eta ósýrð brauð, eins og ég hefi boðið þér, á ákveðnum tíma í abíb-mánuði, því að í abíb-mánuði fórst þú út af Egyptalandi.

19Allt það, sem opnar móðurlíf, er mitt, sömuleiðis allur fénaður þinn, sem karlkyns er, frumburðir nauta og sauða. 20En frumburði undan ösnum skaltu leysa með lambi. Leysir þú ekki, skaltu brjóta þá úr hálsliðum. Alla frumburði sona þinna skaltu leysa, og enginn skal tómhentur koma fyrir auglit mitt.

21Sex daga skaltu vinna, en hvílast hinn sjöunda dag, þá skaltu hvílast, hvort heldur er plægingartími eða uppskeru.

22Þú skalt halda viknahátíðina, hátíð frumgróða hveitiuppskerunnar, og uppskeruhátíðina við árslokin.

23Þrem sinnum á ári skal allt þitt karlkyn birtast frammi fyrir Drottni Guði, Guði Ísraels. 24Því að ég mun reka heiðingjana burt frá þér og færa út landamerki þín, og enginn skal áseilast land þitt, þegar þú fer upp til að birtast frammi fyrir Drottni Guði þínum þrem sinnum á ári.

25Þú skalt ekki fram bera blóð fórnar minnar með sýrðu brauði, og páskahátíðarfórnin má ekki liggja til morguns.

26Hið fyrsta, frumgróða jarðar þinnar, skaltu færa til húss Drottins Guðs þíns.

Þú skalt ekki sjóða kið í mjólk móður sinnar."

27Drottinn sagði við Móse: "Skrifa þú upp þessi orð, því að samkvæmt þessum orðum hefi ég gjört sáttmála við þig og við Ísrael." 28Og Móse var þar hjá Drottni fjörutíu daga og fjörutíu nætur og át ekki brauð og drakk ekki vatn. Og hann skrifaði á töflurnar orð sáttmálans, tíu boðorðin.


Geislar af andliti Móse

29En er Móse gekk ofan af Sínaífjalli, og hann hafði báðar sáttmálstöflurnar í hendi sér, þegar hann gekk ofan af fjallinu, þá vissi Móse ekki að geislar stóðu af andlitshörundi hans, af því að hann hafði talað við Drottin. 30Og Aron og allir Ísraelsmenn sáu Móse, og sjá: Geislar stóðu af andlitshörundi hans. Þorðu þeir þá ekki að koma nærri honum. 31En Móse kallaði á þá, og sneru þeir þá aftur til hans, Aron og allir leiðtogar safnaðarins, og talaði Móse við þá. 32Eftir það gengu allir Ísraelsmenn til hans, og bauð hann þeim að halda allt það, sem Drottinn hafði við hann talað á Sínaífjalli.

33Er Móse hafði lokið máli sínu við þá, lét hann skýlu fyrir andlit sér. 34En er Móse gekk fram fyrir Drottin til þess að tala við hann, tók hann skýluna frá, þar til er hann gekk út aftur. Því næst gekk hann út og flutti Ísraelsmönnum það, sem honum var boðið. 35Sáu Ísraelsmenn þá andlit Móse, hversu geislar stóðu af andlitshörundi hans. Lét Móse þá skýluna aftur fyrir andlit sér, þar til er hann gekk inn til þess að tala við Guð.



Helgidómurinn


Hvíldardagsboð

35
1Móse stefndi saman öllum söfnuði Ísraelsmanna og sagði við þá: "Þetta er það, sem Drottinn hefir boðið að gjöra: 2,Sex daga skal verk vinna, en sjöundi dagurinn skal vera yður helgur hvíldardagur, hátíðarhvíld Drottins. Hver sem verk vinnur á þeim degi, skal líflátinn verða. 3Hvergi skuluð þér kveikja upp eld í híbýlum yðar á hvíldardegi.'"


Gjafir til helgidómsins

4Móse talaði til alls safnaðar Ísraelsmanna og mælti: "Þetta er það, sem Drottinn hefir boðið: 5,Færið Drottni gjöf af því, sem þér eigið. Hver sá, er gefa vill af fúsum huga, beri fram gjöf Drottni til handa: gull, silfur og eir; 6bláan purpura, rauðan purpura, skarlat, baðmull og geitahár; 7rauðlituð hrútskinn, höfrungaskinn og akasíuvið; 8olíu til ljósastikunnar, kryddjurtir til smurningarolíu og ilmreykelsis; 9sjóamsteina og steina til legginga á hökulinn og brjóstskjöldinn. 10Og allir hagleiksmenn meðal yðar komi og búi til allt það, sem Drottinn hefir boðið: 11búðina, tjöldin yfir hana, þak hennar, króka, borð, slár, stólpa og undirstöður, 12örkina og stengurnar, er henni fylgja, lokið og fortjaldsdúkbreiðuna, 13borðið og stengurnar, er því fylgja, öll áhöld þess og skoðunarbrauðin, 14ljósastikuna, áhöld þau og lampa, er henni fylgja, og olíu til ljósastikunnar, 15reykelsisaltarið og stengurnar, er því fylgja, smurningarolíuna, ilmreykelsið og dúkbreiðuna fyrir dyrnar, fyrir dyr búðarinnar, 16brennifórnaraltarið og eirgrindina, sem því fylgir, stengur þess og öll áhöld, og kerið með stétt þess, 17tjöld forgarðsins, stólpa hans með undirstöðum og dúkbreiðuna fyrir hlið forgarðsins, 18hæla búðarinnar og hæla forgarðsins og þau stög, sem þar til heyra, 19glitklæðin til embættisgjörðar í helgidóminum, hin helgu klæði Arons prests og prestsþjónustuklæði sona hans.'"

20Því næst gekk allur söfnuður Ísraelsmanna burt frá Móse. 21Komu þá allir, sem gáfu af fúsum huga og með ljúfu geði, og færðu Drottni gjafir til að gjöra af samfundatjaldið og allt það, sem þurfti til þjónustugjörðarinnar í því og til hinna helgu klæða. 22Og þeir komu, bæði menn og konur, allir þeir, sem fúsir voru að gefa, og færðu spangir, eyrnagull, hringa, hálsmen og alls konar gullgripi, svo og hver sá, er færa vildi Drottni gull að fórnargjöf. 23Og hver maður, sem átti í eigu sinni bláan purpura, rauðan purpura, skarlat, baðmull, geitahár, rauðlituð hrútskinn og höfrungaskinn, bar það fram. 24Og hver sem bar fram silfur og eir að fórnargjöf, færði það Drottni að fórnargjöf, og hver sem átti í eigu sinni akasíuvið til hvers þess smíðis, er gjöra skyldi, bar hann fram.

25Og allar hagvirkar konur spunnu með höndum sínum og báru fram spuna sinn: bláan purpura, rauðan purpura, skarlat og baðmull. 26Og allar konur, sem til þess voru fúsar og höfðu kunnáttu til, spunnu geitahár. 27En foringjarnir færðu sjóamsteina og steina til legginga á hökulinn og brjóstskjöldinn, 28og kryddjurtir og olíu til ljósastikunnar og til smurningarolíu og ilmreykelsis.

29Ísraelsmenn færðu Drottni þessar gjafir sjálfviljuglega, hver maður og hver kona, er fúslega vildi láta eitthvað af hendi rakna til alls þess verks, er Drottinn hafði boðið Móse að gjöra.


Tjaldbúðarsmiðir kvaddir til

30Móse sagði við Ísraelsmenn: "Sjáið, Drottinn hefir kvatt til Besalel Úríson, Húrssonar, af Júda ættkvísl 31og fyllt hann Guðs anda, bæði vísdómi, skilningi, kunnáttu og hvers konar hagleik, 32til þess að upphugsa listaverk og smíða úr gulli, silfri og eiri 33og skera steina til greypingar og til tréskurðar, til þess að vinna að hvers konar hagvirki. 34Hann hefir og gefið honum þá gáfu að kenna öðrum, bæði honum og Oholíab Akísamakssyni af Dans ættkvísl. 35Hann hefir fyllt þá hugviti til alls konar útskurðar, listvefnaðar, glitvefnaðar af bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og baðmull, og til dúkvefnaðar, svo að þeir geta framið alls konar iðn og upphugsað listaverk.

36
1Og skulu þeir Besalel og Oholíab og allir hugvitsmenn, er Drottinn hefir gefið hugvit og kunnáttu, svo að þeir bera skyn á, hvernig gjöra skal allt það verk, er að helgidómsgjörðinni lýtur, gjöra allt eins og Drottinn hefir boðið."

2Móse lét þá kalla Besalel og Oholíab og alla hugvitsmenn, er Drottinn hafði gefið hugvit, alla þá, sem af fúsum huga gengu að verkinu til að vinna það. 3Tóku þeir við af Móse öllum gjöfunum, sem Ísraelsmenn höfðu fram borið til framkvæmda því verki, er að helgidómsgjörðinni laut. En þeir færðu honum á hverjum morgni eftir sem áður gjafir sjálfviljuglega.

4Þá komu allir hugvitsmennirnir, sem störfuðu að helgidómsgjörðinni í smáu og stóru, hver frá sínu verki, sem þeir voru að vinna, 5og sögðu við Móse á þessa leið: "Fólkið leggur til miklu meira en þörf gjörist til að vinna það verk, sem Drottinn hefur boðið að gjöra." 6Þá bauð Móse að láta þetta boð út ganga um herbúðirnar: "Enginn, hvorki karl né kona, skal framar hafa nokkurn starfa með höndum í því skyni að gefa til helgidómsins." Lét fólkið þá af að færa gjafir. 7Var þá gnógt verkefni fyrir þá til alls þess, er gjöra þurfti, og jafnvel nokkuð afgangs.


Tjaldbúðin og fortjaldið

8Gjörðu nú allir hugvitsmenn meðal þeirra, er að verkinu unnu, tjaldbúðina af tíu dúkum. Voru þeir gjörðir af tvinnaðri baðmull, bláum purpura, rauðum purpura og skarlati, og listofnir kerúbar á. 9Hver dúkur var tuttugu og átta álna langur og fjögra álna breiður, og voru allir dúkarnir jafnir að máli. 10Fimm dúkarnir voru tengdir saman hver við annan, og eins voru hinir fimm dúkarnir tengdir saman hver við annan. 11Þá voru gjörðar lykkjur af bláum purpura á jaðri ysta dúksins í samfellunni. Eins var gjört á jaðri ysta dúksins í hinni samfellunni. 12Fimmtíu lykkjur voru gjörðar á öðrum dúknum, og eins voru gjörðar fimmtíu lykkjur á jaðri þess dúksins, sem var í hinni samfellunni, svo að lykkjurnar stóðust á hver við aðra. 13Þá voru gjörðir fimmtíu krókar af gulli og dúkarnir tengdir saman hver við annan með krókunum, svo að tjaldbúðin varð ein heild.

14Því næst voru gjörðir dúkar af geitahári til að tjalda með yfir búðina, ellefu að tölu. 15Hver dúkur var þrjátíu álna langur og fjögra álna breiður, og voru allir ellefu dúkarnir jafnir að máli. 16Þá voru tengdir saman fimm dúkar sér og sex dúkar sér, 17og síðan búnar til fimmtíu lykkjur á jaðri ysta dúksins í annarri samfellunni og eins fimmtíu lykkjur á dúkjaðri hinnar samfellunnar. 18Þá voru gjörðir fimmtíu eirkrókar til að tengja saman tjaldið, svo að það varð ein heild. 19Þá var enn gjört þak yfir tjaldið af rauðlituðum hrútskinnum og enn eitt þak þar utan yfir af höfrungaskinnum.

20Því næst voru gjörð þiljuborðin í tjaldbúðina. Voru þau af akasíuviði og stóðu upp og ofan. 21Var hvert borð tíu álnir á lengd og hálf önnur alin á breidd. 22Á hverju borði voru tveir tappar, báðir sameinaðir. Var svo gjört á öllum borðum tjaldbúðarinnar. 23Og þannig voru borðin í tjaldbúðina gjörð: Tuttugu borð í suðurhliðina, 24og fjörutíu undirstöður af silfri voru búnar til undir tuttugu borðin, tvær undirstöður undir hvert borð, sín fyrir hvorn tappa. 25Og í hina hlið tjaldbúðarinnar, norðurhliðina, voru gjörð tuttugu borð 26og fjörutíu undirstöður af silfri, tvær undirstöður undir hvert borð. 27Í afturgafl búðarinnar, gegnt vestri, voru gjörð sex borð. 28Og tvö borð voru gjörð í búðarhornin á afturgaflinum. 29Voru þau tvöföld að neðan og héldu sömuleiðis fullu máli upp úr allt til hins fyrsta hrings. Þannig var þeim háttað hvorum tveggja á báðum hornunum. 30Borðin voru átta og með undirstöðum af silfri, sextán undirstöðum, tveim undirstöðum undir hverju borði.

31Því næst voru gjörðar slár af akasíuviði, fimm á borðin í annarri hlið búðarinnar 32og fimm slár á borðin í hinni hlið búðarinnar og fimm slár á borðin í afturgafli búðarinnar, gegnt vestri. 33Þá var gjörð miðsláin og látin liggja á miðjum borðunum alla leið, frá einum enda til annars. 34Og voru borðin gulllögð, en hringarnir á þeim, sem slárnar gengu í, gjörðir af gulli. Slárnar voru og gulllagðar.

35Þá var fortjaldið gjört af bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnaðri baðmull. Var það til búið með listvefnaði og kerúbar á. 36Til þess voru gjörðir fjórir stólpar af akasíuviði. Voru þeir gulllagðir og naglarnir í þeim af gulli, en undir stólpana voru steyptar fjórar undirstöður af silfri. 37Dúkbreiða var og gjörð fyrir dyr tjaldsins, af bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnaðri baðmull, og glitofin, 38svo og fimm stólparnir er henni fylgdu og naglarnir í þeim. Voru stólpahöfuðin gulllögð og hringrandir þeirra, en fimm undirstöðurnar undir þeim voru af eiri.


Sáttmálsörkin

37
1Besalel gjörði örkina af akasíuviði. Var hún hálf þriðja alin á lengd, hálf önnur alin á breidd og hálf önnur alin á hæð. 2Og hann lagði hana skíru gulli innan og utan og gjörði umhverfis á henni brún af gulli. 3Og hann steypti til arkarinnar fjóra hringa af gulli til að festa þá við fjóra fætur hennar, sína tvo hringana hvorumegin. 4Þá gjörði hann stengur af akasíuviði og gulllagði þær, 5smeygði síðan stöngunum í hringana á hliðum arkarinnar, svo að bera mátti örkina.

6Þá gjörði hann lok af skíru gulli. Var það hálf þriðja alin á lengd og hálf önnur alin á breidd. 7Og hann gjörði tvo kerúba af gulli, af drifnu smíði gjörði hann þá á hvorum tveggja loksendanum. 8Var annar kerúbinn á öðrum endanum, en hinn á hinum endanum. Gjörði hann kerúbana áfasta við lokið á báðum endum þess. 9En kerúbarnir breiddu út vængina uppi yfir, svo að þeir huldu lokið með vængjum sínum, og andlit þeirra sneru hvort í móti öðru; að lokinu sneru andlit kerúbanna.


Borð fyrir skoðunarbrauðin

10Þá gjörði hann borðið af akasíuviði, tvær álnir á lengd, alin á breidd og hálfa aðra alin á hæð. 11Lagði hann það skíru gulli og gjörði umhverfis á því brún af gulli. 12Umhverfis það gjörði hann lista þverhandar breiðan og bjó til brún af gulli umhverfis á listanum. 13Og hann steypti til borðsins fjóra hringa af gulli og setti hringana í fjögur hornin, sem voru á fjórum fótum borðsins. 14Voru hringarnir fast uppi við listann, svo að í þá yrði smeygt stöngunum til þess að bera borðið. 15Og hann gjörði stengurnar af akasíuviði og gulllagði þær, svo að bera mátti borðið. 16Þá bjó hann til ílátin, er á borðinu skyldu standa, föt þau, er því tilheyrðu, skálar og ker, og bolla þá, er til dreypifórnar eru hafðir, - af skíru gulli.


Sjöarma ljósastikan

17Hann gjörði ljósastikuna af skíru gulli. Með drifnu smíði gjörði hann ljósastikuna, stétt hennar og legg. Blómbikarar hennar, knappar hennar og blóm, voru samfastir henni. 18Og sex álmur lágu út frá hliðum hennar, þrjár álmur ljósastikunnar út frá annarri hlið hennar og þrjár álmur ljósastikunnar út frá hinni hlið hennar. 19Þrír bikarar, í lögun sem möndlublóm, voru á fyrstu álmunni, knappur og blóm. Þrír bikarar, í lögun sem möndlublóm, voru á næstu álmunni, knappur og blóm. Svo var á öllum sex álmunum, sem út gengu frá ljósastikunni. 20Og á sjálfri ljósastikunni voru fjórir bikarar í lögun sem möndlublóm, knappar hennar og blóm: 21einn knappur undir tveim neðstu álmunum, samfastur ljósastikunni, og annar knappur undir tveim næstu álmunum, samfastur ljósastikunni, og enn knappur undir tveim efstu álmunum, samfastur ljósastikunni, svo var undir sex álmunum, er út gengu frá ljósastikunni. 22Knapparnir og álmurnar voru samfastar henni. Allt var það gjört með drifnu smíði af skíru gulli.

23Og hann gjörði lampa hennar sjö og ljósasöx þau og skarpönnur, er henni fylgdu af skíru gulli. 24Af einni talentu skíragulls gjörði hann hana með öllum áhöldum hennar.


Reykelsisaltarið

25Þá gjörði hann reykelsisaltarið af akasíuviði. Það var álnarlangt og álnarbreitt, ferhyrnt, tveggja álna hátt og horn þess áföst við það. 26Og hann lagði það skíru gulli, bæði að ofan og á hliðunum allt í kring, svo og horn þess, og hann gjörði brún af gulli á því allt í kring. 27Og hann gjörði á því tvo hringa af gulli fyrir neðan brúnina báðumegin, á báðum hliðum þess, til að smeygja í stöngum til að bera það á. 28Og stengurnar gjörði hann af akasíuviði og gulllagði þær. 29Hann bjó og til hina helgu smurningarolíu og hreina ilmreykelsið á smyrslarahátt.


Altarið

38
1Þá gjörði hann brennifórnaraltarið af akasíuviði. Það var fimm álna langt og fimm álna breitt, ferhyrnt og þriggja álna hátt. 2Og hann gjörði hornin á því upp af fjórum hyrningum þess, - þau horn voru áföst við það -, og hann eirlagði það. 3Og hann gjörði öll áhöld, sem altarinu skyldu fylgja: kerin, eldspaðana, fórnarskálirnar, soðkrókana og eldpönnurnar. Öll áhöld þess gjörði hann af eiri. 4Enn fremur gjörði hann um altarið eirgrind, eins og riðið net, fyrir neðan umgjörð þess undir niðri allt upp að miðju þess. 5Og hann steypti fjóra hringa í fjögur horn eirgrindarinnar til að smeygja í stöngunum. 6En stengurnar gjörði hann af akasíuviði og eirlagði þær. 7Og hann smeygði stöngunum í hringana á hliðum altarisins til að bera það á. Hann gjörði það af borðum, holt að innan. 8Því næst gjörði hann eirkerið með eirstétt úr speglum kvenna þeirra, er gegndu þjónustu við dyr samfundatjaldsins.


Forgarðurinn

9Hann gjörði forgarðinn þannig: Á suðurhliðinni voru tjöld fyrir forgarðinum úr tvinnaðri baðmull, hundrað álna löng, 10með tuttugu stólpum og tuttugu undirstöðum af eiri, en naglar í stólpunum og hringrandir á þeim voru af silfri. 11Á norðurhliðinni voru og hundrað álna tjöld með tuttugu stólpum og tuttugu undirstöðum af eiri, en naglarnir í stólpunum og hringrandirnar á þeim voru af silfri. 12Að vestanverðu voru fimmtíu álna löng tjöld með tíu stólpum og tíu undirstöðum, en naglarnir í stólpunum og hringrandirnar á þeim voru af silfri. 13Og að austanverðu, mót uppkomu sólar, voru fimmtíu álna tjöld. 14Voru fimmtán álna tjöld annars vegar með þremur stólpum og þremur undirstöðum, 15og hins vegar, báðumegin við forgarðshliðið, sömuleiðis fimmtán álna tjöld með þremur stólpum og þremur undirstöðum. 16Öll tjöld umhverfis forgarðinn voru úr tvinnaðri baðmull, 17undirstöðurnar undir stólpunum af eiri, naglarnir í stólpunum og hringrandirnar á þeim af silfri og stólpahöfuðin silfurlögð, en á öllum stólpum forgarðsins voru hringrandir af silfri.

18Dúkbreiðan fyrir hliði forgarðsins var glitofin af bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnaðri baðmull, tuttugu álna löng og fimm álna há eftir dúkbreiddinni, eins og tjöld forgarðsins voru. 19Og þar til heyrðu fjórir stólpar og fjórar undirstöður af eiri, en naglarnir í þeim voru af silfri, stólpahöfuðin silfurlögð og hringrandirnar á þeim af silfri. 20Og allir hælarnir til tjaldbúðarinnar og forgarðsins hringinn í kring voru af eiri.


Dýrir málmar til helgidómsgjörðar

21Þetta er kostnaðarreikningur tjaldbúðarinnar, sáttmálsbúðarinnar, sem gjörður var að boði Móse með aðstoð levítanna af Ítamar, syni Arons prests. 22En Besalel Úríson, Húrssonar, af Júda ættkvísl gjörði allt það, sem Drottinn hafði boðið Móse, 23og með honum var Oholíab Akísamaksson af Dans ættkvísl; hann var hagur á steingröft, listvefnað og glitvefnað af bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og baðmull.

24Allt það gull, sem haft var til smíðisins við alla helgidómsgjörðina og fært var að fórnargjöf, var tuttugu og níu talentur og sjö hundruð og þrjátíu siklar eftir helgidóms siklum.

25Silfrið, sem þeir af söfnuðinum, er í manntali voru, lögðu til, var hundrað talentur og seytján hundruð sjötíu og fimm siklar eftir helgidóms siklum, 26hálfsikill á mann, það er hálfur sikill eftir helgidóms sikli, á hvern þann, er talinn var í liðskönnun, tvítugur og þaðan af eldri, og voru það sex hundruð og þrjú þúsund, fimm hundruð og fimmtíu manns.

27Hundrað talenturnar af silfri voru hafðar til að steypa úr undirstöður til helgidómsins og undirstöður til fortjaldsins, hundrað undirstöður úr hundrað talentum, ein talenta í hverja undirstöðu. 28Af seytján hundruð sjötíu og fimm siklunum gjörði hann naglana í stólpana, silfurlagði stólpahöfuðin og bjó til hringrandir á þá.

29Fórnargjafa-eirinn var sjötíu talentur og tvö þúsund og fjögur hundruð siklar. 30Af honum gjörði hann undirstöðurnar til samfundatjalds-dyranna, eiraltarið, eirgrindina, sem því fylgdi, og öll áhöld altarisins, 31undirstöðurnar til forgarðsins allt í kring, undirstöðurnar til forgarðshliðsins, alla hæla til tjaldbúðarinnar og alla hæla til forgarðsins allt í kring.


Skrúði prestanna

39
1Af bláa purpuranum, rauða purpuranum og skarlatinu gjörðu þeir glitklæði til embættisgjörðar í helgidóminum, og þeir gjörðu hin helgu klæði Arons, svo sem Drottinn hafði boðið Móse. 2Hann bjó til hökulinn af gulli, bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnaðri baðmull. 3Þeir beittu út gullið í þynnur, en hann skar þynnurnar í þræði til að vefa þá inn í bláa purpurann, rauða purpurann, skarlatið og baðmullina með forkunnarlegu hagvirki. 4Þeir gjörðu axlarhlýra á hökulinn, og voru þeir festir við hann. Á báðum endum var hann festur við þá. 5Og hökullindinn, sem á honum var til að gyrða hann að sér, var áfastur honum og með sömu gerð: af gulli, bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnaðri baðmull, svo sem Drottinn hafði boðið Móse. 6Og þeir greyptu sjóamsteina inn í umgjarðir af gulli og grófu á þá nöfn Ísraels sona með innsiglisgrefti. 7Festi hann þá á axlarhlýra hökulsins, svo að þeir væru minnissteinar fyrir Ísraelsmenn, svo sem Drottinn hafði boðið Móse.

8Þá bjó hann til brjóstskjöldinn, gjörðan með listasmíði og með sömu gerð og hökullinn, af gulli, bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnaðri baðmull. 9Var hann ferhyrndur. Gjörðu þeir brjóstskjöldinn tvöfaldan. Var hann spannarlangur og spannarbreiður og tvöfaldur. 10Og þeir settu hann fjórum steinaröðum: Eina röð af karneól, tópas og smaragði, var það fyrsta röðin; 11önnur röðin: karbunkull, safír og jaspis; 12þriðja röðin: hýasint, agat og ametýst; 13og fjórða röðin: krýsólít, sjóam og onýx. Voru þeir greyptir í gullumgjarðir, hver á sínum stað. 14Og steinarnir voru tólf, eftir nöfnum Ísraels sona, og með nöfnum þeirra. Voru þeir grafnir með innsiglisgrefti, og var sitt nafn á hverjum þeirra, eftir þeim tólf kynkvíslum. 15Og þeir gjörðu festar til brjóstskjaldarins, snúnar eins og fléttur, af skíru gulli. 16Þeir gjörðu og tvær umgjarðir af gulli og tvo gullhringa, og þessa tvo hringa festu þeir á tvö horn brjóstskjaldarins; 17festu síðan báðar gullflétturnar í þessa tvo hringa á hornum brjóstskjaldarins. 18En tvo enda beggja snúnu festanna festu þeir við umgjarðirnar tvær og festu þær við axlarhlýra hökulsins, á hann framanverðan. 19Þá gjörðu þeir enn tvo hringa af gulli og festu þá í tvö horn brjóstskjaldarins, innanvert í þá brúnina, sem að höklinum vissi. 20Og enn gjörðu þeir tvo hringa af gulli og festu þá á báða axlarhlýra hökulsins, neðan til á hann framanverðan, þar sem hann var tengdur saman, fyrir ofan hökullindann. 21Og knýttu þeir brjóstskjöldinn með hringum hans við hökulhringana með snúru af bláum purpura, svo að hann lægi fyrir ofan hökullindann og brjóstskjöldurinn losnaði ekki við hökulinn, svo sem Drottinn hafði boðið Móse.

22Síðan gjörði hann hökulmöttulinn. Var hann ofinn og allur af bláum purpura, 23og var hálsmál möttulsins á honum miðjum, eins og á brynju, og hálsmálið faldað með borða, svo að ekki skyldi rifna út úr. 24Á möttulfaldinum gjörðu þeir granatepli af bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnaðri baðmull. 25Þeir gjörðu og bjöllur af skíru gulli og festu bjöllurnar millum granateplanna á möttulfaldinum allt í kring, á millum granateplanna, 26svo að fyrst kom bjalla og granatepli, og þá aftur bjalla og granatepli, allt í kring á möttulfaldinum, til þjónustugjörðar, svo sem Drottinn hafði boðið Móse.

27Þá gjörðu þeir kyrtlana handa Aroni og sonum hans af baðmull, og voru þeir ofnir. 28Sömuleiðis vefjarhöttinn af baðmull og höfuðdúkana prýðilegu af baðmull og línbrækurnar af tvinnaðri baðmull, 29og beltið af tvinnaðri baðmull, bláum purpura, rauðum purpura og skarlati, glitofið, svo sem Drottinn hafði boðið Móse.

30Síðan gjörðu þeir spöngina, hið helga ennishlað, af skíru gulli og letruðu á hana með innsiglisgrefti: "Helgaður Drottni." 31Og þeir festu við hana snúru af bláum purpura til að festa hana á vefjarhöttinn ofanverðan, svo sem Drottinn hafði boðið Móse.


Verkalok

32Þannig var nú lokið öllu verki við búð samfundatjaldsins, og gjörðu Ísraelsmenn allt, sem Drottinn hafði boðið Móse. 33Síðan fluttu þeir búðina til Móse: tjaldið með öllum áhöldum þess, krókana, þiljuborðin, slárnar, stólpana og undirstöðurnar, 34þakið úr rauðlituðu hrútskinnunum, þakið úr höfrungaskinnunum og fortjaldsdúkbreiðuna, 35sáttmálsörkina, stengurnar og arkarlokið, 36borðið með öllum þess áhöldum og skoðunarbrauðin, 37gullljósastikuna með lömpum, lömpunum, er raða skyldi, öll áhöld hennar og olíu ljósastikunnar, 38gullaltarið, smurningarolíuna, ilmreykelsið og dúkbreiðuna fyrir tjalddyrnar, 39eiraltarið ásamt eirgrindinni, stengur þess og öll áhöld, kerið og stétt þess, 40forgarðstjöldin, stólpa hans og undirstöður, dúkbreiðuna fyrir hlið forgarðsins, stög þau og hæla, sem þar til heyra, og öll þau áhöld, sem heyra til þjónustugjörð í búðinni, í samfundatjaldinu, 41glitklæðin til embættisgjörðar í helgidóminum, hin helgu klæði Arons prests og prestsþjónustuklæði sona hans. 42Unnu Ísraelsmenn allt verkið, í alla staði svo sem Drottinn hafði boðið Móse. 43Og Móse leit yfir allt verkið og sjá, þeir höfðu unnið það, svo sem Drottinn hafði fyrir lagt, svo höfðu þeir gjört það. Og Móse blessaði þá.


Vígsla samfundatjaldsins

40
1Drottinn talaði við Móse og sagði: 2"Á fyrsta degi hins fyrsta mánaðar skalt þú reisa búð samfundatjaldsins. 3Þar skalt þú setja sáttmálsörkina og byrgja fyrir örkina með fortjaldinu. 4Og þú skalt bera borðið þangað og raða því, sem á því skal vera. Síðan skalt þú bera þangað ljósastikuna og setja upp lampa hennar. 5Og þú skalt setja hið gullna reykelsisaltari fyrir framan sáttmálsörkina og hengja dúkbreiðuna fyrir búðardyrnar. 6Og þú skalt setja brennifórnaraltarið fyrir framan dyr samfundatjalds-búðarinnar. 7Og kerið skalt þú setja milli samfundatjaldsins og altarisins og láta vatn í það. 8Síðan skalt þú reisa forgarðinn umhverfis og hengja dúkbreiðu fyrir forgarðshliðið. 9Þá skalt þú taka smurningarolíuna og smyrja búðina og allt, sem í henni er, og vígja hana með öllum áhöldum hennar, svo að hún sé heilög. 10Og þú skalt smyrja brennifórnaraltarið og öll áhöld þess, og þú skalt vígja altarið, og skal altarið þá vera háheilagt. 11Og þú skalt smyrja kerið og stétt þess og vígja það. 12Þá skalt þú leiða Aron og sonu hans að dyrum samfundatjaldsins og þvo þá úr vatni. 13Og þú skalt færa Aron í hin helgu klæði, smyrja hann og vígja, að hann þjóni mér í prestsembætti. 14Þú skalt og leiða fram sonu hans og færa þá í kyrtlana, 15og þú skalt smyrja þá, eins og þú smurðir föður þeirra, að þeir þjóni mér í prestsembætti, og skal smurning þeirra veita þeim ævinlegan prestdóm frá kyni til kyns."

16Og Móse gjörði svo. Eins og Drottinn hafði boðið honum, svo gjörði hann í alla staði. 17Búðin var reist í fyrsta mánuði hins annars árs, fyrsta dag mánaðarins. 18Reisti Móse búðina, lagði undirstöðurnar, sló upp þiljunum, setti í slárnar og reisti upp stólpana. 19Og hann þandi tjaldvoðina yfir búðina og lagði tjaldþökin þar yfir, eins og Drottinn hafði boðið Móse.

20Hann tók sáttmálið og lagði það í örkina, setti stengurnar í örkina og lét arkarlokið yfir örkina. 21Og hann flutti örkina inn í búðina, setti upp fortjaldsdúkbreiðuna og byrgði fyrir sáttmálsörkina, eins og Drottinn hafði boðið Móse.

22Hann setti borðið inn í samfundatjaldið, við norðurhlið búðarinnar, fyrir utan fortjaldið, 23og hann raðaði á það brauðunum frammi fyrir Drottni, eins og Drottinn hafði boðið Móse.

24Hann setti upp ljósastikuna í samfundatjaldinu gegnt borðinu við suðurhlið búðarinnar. 25Og hann setti upp lampana frammi fyrir Drottni, eins og Drottinn hafði boðið Móse.

26Hann setti upp gullaltarið inni í samfundatjaldinu fyrir framan fortjaldið, 27og brenndi á því ilmreykelsi, eins og Drottinn hafði boðið Móse.

28Síðan hengdi hann dúkbreiðuna fyrir dyr búðarinnar, 29setti brennifórnaraltarið við dyr samfundatjalds-búðarinnar og fórnaði á því brennifórn og matfórn, eins og Drottinn hafði boðið Móse.

30Hann setti kerið milli samfundatjaldsins og altarisins og lét vatn í það til þvottar, 31og þvoðu þeir Móse, Aron og synir hans hendur sínar og fætur úr því. 32Hvert sinn er þeir gengu inn í samfundatjaldið og nálguðust altarið, þvoðu þeir sér, svo sem Drottinn hafði boðið Móse.

33Síðan reisti hann forgarðinn umhverfis búðina og altarið og hengdi dúkbreiðuna fyrir forgarðshliðið, og hafði Móse þá aflokið verkinu.

34Þá huldi skýið samfundatjaldið, og dýrð Drottins fyllti búðina, 35og mátti Móse ekki inn ganga í samfundatjaldið, því að skýið lá yfir því og dýrð Drottins fyllti búðina.

36Hvert sinn er skýið hófst upp frá búðinni, lögðu Ísraelsmenn upp, alla þá stund er þeir voru á ferðinni. 37En er skýið hófst ekki upp, lögðu Ísraelsmenn ekki af stað fyrr en þann dag er skýið hófst upp. 38Því að ský Drottins var yfir búðinni um daga, en eldbjarmi um nætur, í augsýn allra Ísraelsmanna, alla þá stund, er þeir voru á ferðinni.



Netútgáfan og Hið Íslenska Biblíufélag - ágúst 1997