Sköpun heimsins1
1Í upphafi skapaði Guð himin og jörð. 2Jörðin var þá auð og tóm, og myrkur grúfði yfir djúpinu, og andi Guðs sveif yfir vötnunum.3Guð sagði:
"Verði ljós!"
Og það varð ljós.
4Guð sá, að ljósið var gott, og Guð greindi ljósið frá myrkrinu. 5Og Guð kallaði ljósið dag, en myrkrið kallaði hann nótt.
Það varð kveld og það varð morgunn, hinn fyrsti dagur.
6Guð sagði:
"Verði festing milli vatnanna, og hún greini vötn frá vötnum."
7Þá gjörði Guð festinguna og greindi vötnin, sem voru undir festingunni, frá þeim vötnum, sem voru yfir henni. Og það varð svo.
8Og Guð kallaði festinguna himin.
Það varð kveld og það varð morgunn, hinn annar dagur.
9Guð sagði:
"Safnist vötnin undir himninum í einn stað, svo að þurrlendið sjáist."
Og það varð svo.
10Guð kallaði þurrlendið jörð, en safn vatnanna kallaði hann sjó.
Og Guð sá, að það var gott.
11Guð sagði:
"Láti jörðin af sér spretta græn grös, sáðjurtir og aldintré, sem hvert beri ávöxt eftir sinni tegund með sæði í á jörðinni."
Og það varð svo.
12Jörðin lét af sér spretta græn grös, jurtir með sæði í, hverja eftir sinni tegund, og aldintré með sæði í sér, hvert eftir sinni tegund.
Og Guð sá, að það var gott.
13Það varð kveld og það varð morgunn, hinn þriðji dagur.
14Guð sagði:
"Verði ljós á festingu himinsins, að þau greini dag frá nóttu og séu til tákns og til að marka tíðir, daga og ár. 15Og þau séu ljós á festingu himinsins til að lýsa jörðina."
Og það varð svo.
16Guð gjörði tvö stóru ljósin: hið stærra ljósið til að ráða degi og hið minna ljósið til að ráða nóttu, svo og stjörnurnar. 17Og Guð setti þau á festingu himinsins, að þau skyldu lýsa jörðinni 18og ráða degi og nóttu og greina sundur ljós og myrkur.
Og Guð sá, að það var gott.
19Það varð kveld og það varð morgunn, hinn fjórði dagur.
20Guð sagði:
"Vötnin verði kvik af lifandi skepnum, og fuglar fljúgi yfir jörðina undir festingu himinsins."
21Þá skapaði Guð hin stóru lagardýr og allar hinar lifandi skepnur, sem hrærast og vötnin eru kvik af, eftir þeirra tegund, og alla fleyga fugla eftir þeirra tegund.
Og Guð sá, að það var gott.
22Og Guð blessaði þau og sagði:
"Frjóvgist og vaxið og fyllið vötn sjávarins, og fuglum fjölgi á jörðinni."
23Það varð kveld og það varð morgunn, hinn fimmti dagur.
24Guð sagði:
"Jörðin leiði fram lifandi skepnur, hverja eftir sinni tegund: fénað, skriðkvikindi og villidýr, hvert eftir sinni tegund."
Og það varð svo.
25Guð gjörði villidýrin, hvert eftir sinni tegund, fénaðinn eftir sinni tegund og alls konar skriðkvikindi jarðarinnar eftir sinni tegund.
Og Guð sá, að það var gott.
26Guð sagði:
"Vér viljum gjöra manninn eftir vorri mynd, líkan oss, og hann skal drottna yfir fiskum sjávarins og yfir fuglum loftsins og yfir fénaðinum og yfir villidýrunum og yfir öllum skriðkvikindum, sem skríða á jörðinni."
27Og Guð skapaði manninn eftir sinni mynd, hann skapaði hann eftir Guðs mynd, hann skapaði þau karl og konu.
28Og Guð blessaði þau, og Guð sagði við þau:
"Verið frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina og gjörið ykkur hana undirgefna og drottnið yfir fiskum sjávarins og yfir fuglum loftsins og yfir öllum dýrum, sem hrærast á jörðinni."
29Og Guð sagði:
"Sjá, ég gef ykkur alls konar sáðberandi jurtir á allri jörðinni og alls konar tré, sem bera ávöxtu með sæði í. Það sé ykkur til fæðu. 30Og öllum villidýrum og öllum fuglum loftsins og öllum skriðkvikindum á jörðinni, öllu því, sem hefir lifandi sál, gef ég öll grös og jurtir til fæðu."
Og það varð svo.
31Og Guð leit allt, sem hann hafði gjört, og sjá, það var harla gott.
Það varð kveld og það varð morgunn, hinn sjötti dagur.
2
1Þannig algjörðist himinn og jörð og öll þeirra prýði.2Guð lauk á hinum sjöunda degi verki sínu, er hann hafði gjört, og hvíldist hinn sjöunda dag af öllu verki sínu, er hann hafði gjört.
3Og Guð blessaði hinn sjöunda dag og helgaði hann, því að á honum hvíldist Guð af verki sínu, sem hann hafði skapað og gjört.
4Þetta er sagan um uppruna himins og jarðar, er þau voru sköpuð.
Sagan um Paradís5Þegar Drottinn Guð gjörði jörðina og himininn, var enn alls enginn runnur merkurinnar til á jörðinni, og engar jurtir spruttu enn á mörkinni, því að Drottinn Guð hafði ekki enn látið rigna á jörðina og engir menn voru til þess að yrkja hana, 6en þoku lagði upp af jörðinni, og vökvaði hún allt yfirborð jarðarinnar. 7Þá myndaði Drottinn Guð manninn af leiri jarðar og blés lífsanda í nasir hans, og þannig varð maðurinn lifandi sál.
8Drottinn Guð plantaði aldingarð í Eden langt austur frá og setti þar manninn, sem hann hafði myndað. 9Og Drottinn Guð lét upp vaxa af jörðinni alls konar tré, sem voru girnileg á að líta og góð að eta af, og lífsins tré í miðjum aldingarðinum og skilningstréð góðs og ills.
10Fljót rann frá Eden til að vökva aldingarðinn, og þaðan kvíslaðist það og varð að fjórum stórám. 11Hin fyrsta heitir Píson; hún fellur um allt landið Havíla, þar sem gullið fæst. 12Og gull lands þess er gott. Þar fæst bedolakharpeis og sjóamsteinar. 13Önnur stóráin heitir Gíhon. Hún fellur um allt Kúsland. 14Þriðja stóráin heitir Kíddekel. Hún fellur fyrir vestan Assýríu. Fjórða stóráin er Efrat.
15Þá tók Drottinn Guð manninn og setti hann í aldingarðinn Eden til að yrkja hann og gæta hans.
16Og Drottinn Guð bauð manninum og sagði: "Af öllum trjám í aldingarðinum máttu eta eftir vild, 17en af skilningstrénu góðs og ills mátt þú ekki eta, því að jafnskjótt og þú etur af því, skalt þú vissulega deyja."
18Drottinn Guð sagði: "Eigi er það gott, að maðurinn sé einsamall. Ég vil gjöra honum meðhjálp við hans hæfi." 19Þá myndaði Drottinn Guð af jörðinni öll dýr merkurinnar og alla fugla loftsins og lét þau koma fyrir manninn til þess að sjá, hvað hann nefndi þau. Og hvert það heiti, sem maðurinn gæfi hinum lifandi skepnum, skyldi vera nafn þeirra. 20Og maðurinn gaf nafn öllum fénaðinum og fuglum loftsins og öllum dýrum merkurinnar. En meðhjálp fyrir mann fann hann enga við sitt hæfi. 21Þá lét Drottinn Guð fastan svefn falla á manninn. Og er hann var sofnaður, tók hann eitt af rifjum hans og fyllti aftur með holdi. 22Og Drottinn Guð myndaði konu af rifinu, er hann hafði tekið úr manninum, og leiddi hana til mannsins.
23Þá sagði maðurinn: "Þetta er loks bein af mínum beinum og hold af mínu holdi. Hún skal karlynja kallast, af því að hún er af karlmanni tekin."
24Þess vegna yfirgefur maður föður sinn og móður sína og býr við eiginkonu sína, svo að þau verði eitt hold.
25Og þau voru bæði nakin, maðurinn og kona hans, og blygðuðust sín ekki.
Fall mannsins3
1Höggormurinn var slægari en öll önnur dýr merkurinnar, sem Drottinn Guð hafði gjört. Og hann mælti við konuna: "Er það satt, að Guð hafi sagt: ,Þið megið ekki eta af neinu tré í aldingarðinum'?"2Þá sagði konan við höggorminn: "Af ávöxtum trjánna í aldingarðinum megum við eta, 3en af ávexti trésins, sem stendur í miðjum aldingarðinum, ,af honum,' sagði Guð, ,megið þið ekki eta og ekki snerta hann, ella munuð þið deyja.'"
4Þá sagði höggormurinn við konuna: "Vissulega munuð þið ekki deyja! 5En Guð veit, að jafnskjótt sem þið etið af honum, munu augu ykkar upp ljúkast, og þið munuð verða eins og Guð og vita skyn góðs og ills."
6En er konan sá, að tréð var gott að eta af, fagurt á að líta og girnilegt til fróðleiks, þá tók hún af ávexti þess og át, og hún gaf einnig manni sínum, sem með henni var, og hann át. 7Þá lukust upp augu þeirra beggja, og þau urðu þess vör, að þau voru nakin, og þau festu saman fíkjuviðarblöð og gjörðu sér mittisskýlur.
8En er þau heyrðu til Drottins Guðs, sem var á gangi í aldingarðinum í kveldsvalanum, þá reyndi maðurinn og kona hans að fela sig fyrir Drottni Guði millum trjánna í aldingarðinum.
9Drottinn Guð kallaði á manninn og sagði við hann: "Hvar ertu?"
10Hann svaraði: "Ég heyrði til þín í aldingarðinum og varð hræddur, af því að ég er nakinn, og ég faldi mig." 11En hann mælti: "Hver hefir sagt þér, að þú værir nakinn? Hefir þú etið af trénu, sem ég bannaði þér að eta af?"
12Þá svaraði maðurinn: "Konan, sem þú gafst mér til sambúðar, hún gaf mér af trénu, og ég át."
13Þá sagði Drottinn Guð við konuna: "Hvað hefir þú gjört?" Og konan svaraði: "Höggormurinn tældi mig, svo að ég át."
14Þá sagði Drottinn Guð við höggorminn: "Af því að þú gjörðir þetta, skalt þú vera bölvaður meðal alls fénaðarins og allra dýra merkurinnar. Á kviði þínum skalt þú skríða og mold eta alla þína lífdaga. 15Og fjandskap vil ég setja milli þín og konunnar, milli þíns sæðis og hennar sæðis. Það skal merja höfuð þitt, og þú skalt merja hæl þess."
16En við konuna sagði hann: "Mikla mun ég gjöra þjáningu þína, er þú verður barnshafandi. Með þraut skalt þú börn fæða, og þó hafa löngun til manns þíns, en hann skal drottna yfir þér."
17Og við manninn sagði hann: "Af því að þú hlýddir röddu konu þinnar og ást af því tré, sem ég bannaði þér, er ég sagði: ,Þú mátt ekki eta af því,' þá sé jörðin bölvuð þín vegna. Með erfiði skalt þú þig af henni næra alla þína lífdaga. 18Þyrna og þistla skal hún bera þér, og þú skalt eta jurtir merkurinnar. 19Í sveita andlitis þíns skalt þú neyta brauðs þíns, þangað til þú hverfur aftur til jarðarinnar, því að af henni ert þú tekinn. Því að mold ert þú og til moldar skalt þú aftur hverfa!"
20Og maðurinn nefndi konu sína Evu, því að hún varð móðir allra, sem lifa. 21Og Drottinn Guð gjörði manninum og konu hans skinnkyrtla og lét þau klæðast þeim.
22Drottinn Guð sagði: "Sjá, maðurinn er orðinn sem einn af oss, þar sem hann veit skyn góðs og ills. Aðeins að hann rétti nú ekki út hönd sína og taki einnig af lífsins tré og eti, og lifi eilíflega!"
23Þá lét Drottinn Guð hann í burt fara úr aldingarðinum Eden til að yrkja jörðina, sem hann var tekinn af. 24Og hann rak manninn burt og setti kerúbana fyrir austan Edengarð og loga hins sveipanda sverðs til að geyma vegarins að lífsins tré.
Kain og Abel4
1Maðurinn kenndi konu sinnar Evu, og hún varð þunguð og fæddi Kain og mælti: "Sveinbarn hefi ég eignast með hjálp Drottins." 2Og hún fæddi annað sinn, bróður hans, Abel.Abel varð hjarðmaður, en Kain jarðyrkjumaður. 3Og er fram liðu stundir, færði Kain Drottni fórn af ávexti jarðarinnar. 4En Abel færði einnig fórn af frumburðum hjarðar sinnar og af feiti þeirra. 5Og Drottinn leit með velþóknun til Abels og fórnar hans, en til Kains og fórnar hans leit hann ekki með velþóknun. Þá reiddist Kain ákaflega og varð niðurlútur. 6Þá mælti Drottinn til Kains: "Hví reiðist þú, og hví ert þú niðurlútur? 7Er því ekki þannig farið: Ef þú gjörir rétt, þá getur þú verið upplitsdjarfur, en ef þú gjörir ekki rétt, þá liggur syndin við dyrnar og hefir hug á þér, en þú átt að drottna yfir henni?"
8Þá sagði Kain við Abel bróður sinn: "Göngum út á akurinn!" Og er þeir voru á akrinum, réðst Kain á Abel bróður sinn og drap hann. 9Þá sagði Drottinn við Kain: "Hvar er Abel bróðir þinn?" En hann mælti: "Það veit ég ekki. Á ég að gæta bróður míns?" 10Og Drottinn sagði: "Hvað hefir þú gjört? Heyr, blóð bróður þíns hrópar til mín af jörðinni! 11Og skalt þú nú vera bölvaður og burt rekinn af akurlendinu, sem opnaði munn sinn til að taka á móti blóði bróður þíns af þinni hendi. 12Þegar þú yrkir akurlendið, skal það eigi framar gefa þér gróður sinn. Landflótta og flakkandi skalt þú vera á jörðinni."
13Og Kain sagði við Drottin: "Sekt mín er meiri en svo, að ég fái borið hana! 14Sjá, nú rekur þú mig burt af akurlendinu, og ég verð að felast fyrir augliti þínu og vera landflótta og flakkandi á jörðinni, og hver, sem hittir mig, mun drepa mig." 15Þá sagði Drottinn við hann: "Fyrir því skal hver, sem drepur Kain, sæta sjöfaldri hegningu." Og Drottinn setti Kain merki þess, að enginn, sem hitti hann, skyldi drepa hann. 16Þá gekk Kain burt frá augliti Drottins og settist að í landinu Nód fyrir austan Eden.
Kain ættfaðir Keníta17Kain kenndi konu sinnar, og hún varð þunguð og fæddi Henok. En hann var að byggja borg og nefndi borgina eftir nafni sonar síns Henok. 18Og Henoki fæddist Írad, og Írad gat Mehújael, og Mehújael gat Metúsael, og Metúsael gat Lamek.
19Lamek tók sér tvær konur. Hét önnur Ada, en hin Silla. 20Og Ada ól Jabal. Hann varð ættfaðir þeirra, sem í tjöldum búa og fénað eiga. 21En bróðir hans hét Júbal. Hann varð ættfaðir allra þeirra, sem leika á gígjur og hjarðpípur. 22Og Silla ól einnig son, Túbal-Kain, sem smíðaði úr kopar og járni alls konar tól. Og systir Túbal-Kains var Naama.
23Lamek sagði við konur sínar:
- Ada og Silla, heyrið orð mín,
- konur Lameks, gefið gaum ræðu minni!
- Mann drep ég fyrir hvert mitt sár
- og ungmenni fyrir hverja þá skeinu, sem ég fæ.
- 24Verði Kains hefnt sjö sinnum,
- þá skal Lameks hefnt verða sjö og sjötíu sinnum!
25Og Adam kenndi enn að nýju konu sinnar, og hún ól son og kallaði hann Set. "Því að nú hefir Guð," kvað hún, "gefið mér annað afkvæmi í stað Abels, þar eð Kain drap hann." 26En Set fæddist og sonur, og nefndi hann nafn hans Enos. Þá hófu menn að ákalla nafn Drottins.
Ættartala frá Adam til Nóa5
1Þetta er ættarskrá Adams:Þegar Guð skapaði Adam, gjörði Guð hann sér líkan. 2Hann skóp þau mann og konu og blessaði þau og nefndi þau menn, er þau voru sköpuð.
3Adam lifði hundrað og þrjátíu ár. Þá gat hann son í líking sinni, eftir sinni mynd, og nefndi hann Set. 4Og dagar Adams, eftir að hann gat Set, voru átta hundruð ár, og hann gat sonu og dætur. 5Og allir dagar Adams, sem hann lifði, voru níu hundruð og þrjátíu ár. Þá dó hann.
6Þegar Set var orðinn hundrað og fimm ára gamall gat hann Enos. 7Eftir að Set gat Enos lifði hann átta hundruð og sjö ár og gat sonu og dætur. 8Og allir dagar Sets voru níu hundruð og tólf ár, þá andaðist hann.
9Enos var níutíu ára, er hann gat Kenan. 10Og eftir að Enos gat Kenan lifði hann átta hundruð og fimmtán ár og gat sonu og dætur. 11Og allir dagar Enoss voru níu hundruð og fimm ár, þá andaðist hann.
12Þá er Kenan var sjötíu ára, gat hann Mahalalel. 13Og Kenan lifði, eftir að hann gat Mahalalel, átta hundruð og fjörutíu ár og gat sonu og dætur. 14Og allir dagar Kenans urðu níu hundruð og tíu ár, þá andaðist hann.
15Er Mahalalel var sextíu og fimm ára, gat hann Jared. 16Og Mahalalel lifði, eftir að hann gat Jared, átta hundruð og þrjátíu ár og gat sonu og dætur. 17Og allir dagar Mahalalels voru átta hundruð níutíu og fimm ár, þá andaðist hann.
18Er Jared var hundrað sextíu og tveggja ára, gat hann Enok. 19Og Jared lifði, eftir að hann gat Enok, átta hundruð ár og gat sonu og dætur. 20Og allir dagar Jareds voru níu hundruð sextíu og tvö ár, þá andaðist hann.
21Er Enok var sextíu og fimm ára, gat hann Metúsala. 22Og eftir að Enok gat Metúsala gekk hann með Guði þrjú hundruð ár og gat sonu og dætur. 23Og allir dagar Enoks voru þrjú hundruð sextíu og fimm ár. 24Og Enok gekk með Guði og hvarf, af því að Guð nam hann burt.
25Er Metúsala var hundrað áttatíu og sjö ára, gat hann Lamek. 26Og Metúsala lifði, eftir að hann gat Lamek, sjö hundruð áttatíu og tvö ár og gat sonu og dætur. 27Og allir dagar Metúsala voru níu hundruð sextíu og níu ár, þá andaðist hann.
28Er Lamek var hundrað áttatíu og tveggja ára, gat hann son. 29Og hann nefndi hann Nóa og mælti: "Þessi mun hugga oss í erfiði voru og striti handa vorra, er jörðin, sem Drottinn bölvaði, bakar oss." 30Og Lamek lifði, eftir að hann gat Nóa, fimm hundruð níutíu og fimm ár og gat sonu og dætur. 31Og allir dagar Lameks voru sjö hundruð sjötíu og sjö ár, þá andaðist hann.
32Og er Nói var fimm hundruð ára, gat hann Sem, Kam og Jafet.
Englar kvænast dætrum manna6
1Er mönnunum tók að fjölga á jörðinni og þeim fæddust dætur, 2sáu synir Guðs, að dætur mannanna voru fríðar, og tóku sér konur meðal þeirra, allar sem þeim geðjuðust.3Þá sagði Drottinn: "Andi minn skal ekki ævinlega búa í manninum, með því að hann einnig er hold. Veri dagar hans nú hundrað og tuttugu ár."
4Á þeim tímum voru risarnir á jörðinni, og einnig síðar, er synir Guðs höfðu samfarir við dætur mannanna og þær fæddu þeim sonu. Það eru kapparnir, sem í fyrndinni voru víðfrægir.
Flóðið mikla5Er Drottinn sá, að illska mannsins var mikil á jörðinni og að allar hugrenningar hjarta hans voru ekki annað en illska alla daga, 6þá iðraðist Drottinn þess, að hann hafði skapað mennina á jörðinni, og honum sárnaði það í hjarta sínu. 7Og Drottinn sagði: "Ég vil afmá af jörðinni mennina, sem ég skapaði, bæði mennina, fénaðinn, skriðkvikindin og fugla loftsins, því að mig iðrar, að ég hefi skapað þau." 8En Nói fann náð í augum Drottins.
Nói smíðar örk9Þetta er saga Nóa:
Nói var maður réttlátur og vandaður á sinni öld. Nói gekk með Guði.
10Og Nói gat þrjá sonu: Sem, Kam og Jafet.
11Jörðin var spillt í augsýn Guðs, og jörðin fylltist glæpaverkum. 12Og Guð leit á jörðina, og sjá, hún var spillt orðin, því að allt hold hafði spillt vegum sínum á jörðinni.
13Þá mælti Guð við Nóa: "Endir alls holds er kominn fyrir minni augsýn, því að jörðin er full af glæpaverkum þeirra. Sjá, ég vil afmá þá af jörðinni. 14Gjör þú þér örk af góferviði. Smáhýsi skalt þú gjöra í örkinni og bræða hana biki utan og innan. 15Og gjör hana svo: Lengd arkarinnar sé þrjú hundruð álnir, breidd hennar fimmtíu álnir og hæð hennar þrjátíu álnir. 16Glugga skalt þú gjöra á örkinni og búa hann til á henni ofanverðri, allt að alin á hæð, og dyr arkarinnar skalt þú setja á hlið hennar og búa til þrjú loft í henni: neðst, í miðju og efst.
17Því sjá, ég læt vatnsflóð koma yfir jörðina til að tortíma öllu holdi undir himninum, sem lífsandi er í. Allt, sem á jörðinni er, skal deyja.
18En við þig mun ég gjöra sáttmála minn, og þú skalt ganga í örkina, þú og synir þínir, og kona þín og sonakonur þínar með þér. 19Af öllum lifandi skepnum, af öllu holdi, skalt þú láta inn í örkina tvennt af hverju, svo að það haldi lífi með þér. Karldýr og kvendýr skulu þau vera: 20Af fuglunum eftir þeirra tegund, af fénaðinum eftir hans tegund og af öllum skriðkvikindum jarðarinnar eftir þeirra tegund. Tvennt af öllu skal til þín inn ganga, til þess að það haldi lífi. 21En tak þú þér af allri fæðu, sem etin er, og safna að þér, að það sé þér og þeim til viðurværis."
22Og Nói gjörði svo. Allt gjörði hann eins og Guð bauð honum.
Nói gengur í örkina7
1Drottinn sagði við Nóa: "Gakk þú og allt fólk þitt í örkina, því að þig hefi ég séð réttlátan fyrir augliti mínu í þessari kynslóð. 2Tak þú til þín af öllum hreinum dýrum sjö og sjö, karldýr og kvendýr, en af þeim dýrum, sem ekki eru hrein, tvö og tvö, karldýr og kvendýr. 3Einnig af fuglum loftsins sjö og sjö, karlkyns og kvenkyns, til að viðhalda lífsstofni á allri jörðinni. 4Því að sjö dögum liðnum mun ég láta rigna á jörðina fjörutíu daga og fjörutíu nætur, og ég mun afmá af jörðinni sérhverja skepnu, sem ég hefi gjört."5Og Nói gjörði allt eins og Drottinn bauð honum. 6En Nói var sex hundruð ára gamall, þegar vatnsflóðið kom yfir jörðina. 7Og Nói gekk í örkina, og synir hans og kona hans og sonakonur hans með honum, undan vatnsflóðinu. 8Af hreinum dýrum og af þeim dýrum, sem ekki voru hrein, og af fuglum og af öllu, sem skríður á jörðinni, 9kom tvennt og tvennt til Nóa í örkina, karlkyns og kvenkyns, eins og Guð hafði boðið Nóa.
Vatnsflóðið skellur á10Eftir sjö daga kom vatnsflóðið yfir jörðina.
11Á sexhundraðasta aldursári Nóa, í öðrum mánuðinum, á seytjánda degi mánaðarins, á þeim degi opnuðust allar uppsprettur hins mikla undirdjúps og flóðgáttir himinsins lukust upp.
12Og steypiregn dundi yfir jörðina fjörutíu daga og fjörutíu nætur. 13Einmitt á þeim degi gekk Nói og Sem, Kam og Jafet, synir Nóa, og kona Nóa og þrjár sonakonur hans með þeim í örkina, 14þau og öll villidýrin eftir sinni tegund og allur fénaðurinn eftir sinni tegund og öll skriðkvikindin, sem skríða á jörðinni, eftir sinni tegund, og allir fuglarnir eftir sinni tegund, allir smáfuglar, allt fleygt. 15Og þau komu til Nóa í örkina tvö og tvö af öllu holdi, sem lífsandi var í. 16Og þau, sem komu, gengu inn, karlkyns og kvenkyns af öllu holdi, eins og Guð hafði boðið honum.
Og Drottinn læsti eftir honum.
17Og flóðið var á jörðinni fjörutíu daga.
Vatnið óx og lyfti örkinni, og hún hófst yfir jörðina. 18Og vötnin mögnuðust og uxu stórum á jörðinni, en örkin flaut ofan á vatninu. 19Og vötnin mögnuðust ákaflega á jörðinni, svo að öll hin háu fjöll, sem eru undir öllum himninum, fóru í kaf. 20Fimmtán álna hátt óx vatnið, svo að fjöllin fóru í kaf. 21Þá dó allt hold, sem hreyfðist á jörðinni, bæði fuglar, fénaður, villidýr og allir ormar, sem skriðu á jörðinni, og allir menn.
22Allt sem hafði lífsanda í nösum sínum, allt sem var á þurrlendinu, það dó. 23Og þannig afmáði hann sérhverja skepnu, sem var á jörðinni, bæði menn og fénað, skriðkvikindi og fugla loftsins. Það var afmáð af jörðinni. En Nói einn varð eftir, og það sem með honum var í örkinni. 24Og vötnin mögnuðust á jörðinni hundrað og fimmtíu daga.
Flóðinu linnir8
1Þá minntist Guð Nóa og allra dýranna og alls fénaðarins, sem með honum var í örkinni, og Guð lét vind blása yfir jörðina, svo að vatnið sjatnaði. 2Og uppsprettur undirdjúpsins luktust aftur og flóðgáttir himinsins, og steypiregninu úr loftinu linnti. 3Og vatnið rénaði meir og meir á jörðinni og þvarr eftir hundrað og fimmtíu daga. 4Og örkin nam staðar í sjöunda mánuðinum, á seytjánda degi mánaðarins, á Araratsfjöllunum. 5Og vatnið var að réna allt til hins tíunda mánaðar. Í tíunda mánuðinum, á fyrsta degi mánaðarins, sáust fjallatindarnir.6Eftir fjörutíu daga lauk Nói upp glugga arkarinnar, sem hann hafði gjört, 7og lét út hrafn. Hann flaug fram og aftur, þangað til vatnið þornaði á jörðinni. 8Þá sendi hann út frá sér dúfu til að vita, hvort vatnið væri þorrið á jörðinni. 9En dúfan fann ekki hvíldarstað fæti sínum og hvarf til hans aftur í örkina, því að vatn var enn yfir allri jörðinni. Og hann rétti út hönd sína og tók hana og fór með hana inn til sín í örkina. 10Og hann beið enn aðra sjö daga og sendi svo dúfuna aftur úr örkinni. 11Þá kom dúfan til hans aftur undir kveld og var þá með grænt olíuviðarblað í nefinu. Þá sá Nói, að vatnið var þorrið á jörðinni. 12Og enn beið hann aðra sjö daga og lét þá dúfuna út, en hún hvarf ekki framar til hans aftur.
13Og á sexhundraðasta og fyrsta ári, í fyrsta mánuðinum, á fyrsta degi mánaðarins, var vatnið þornað á jörðinni.
Og Nói tók þakið af örkinni og litaðist um, og var þá yfirborð jarðarinnar orðið þurrt.
14Í öðrum mánuðinum, á tuttugasta og sjöunda degi mánaðarins, var jörðin þurr. 15Þá talaði Guð við Nóa og mælti: 16"Gakk þú úr örkinni, þú og kona þín og synir þínir og sonakonur þínar með þér. 17Og láttu fara út með þér öll dýr, sem með þér eru, af öllu holdi, bæði fuglana og fénaðinn og öll skriðkvikindin, sem skríða á jörðinni. Verði krökkt af þeim á jörðinni, verði þau frjósöm og fjölgi á jörðinni." 18Þá gekk Nói út og synir hans og kona hans og sonakonur hans með honum. 19Öll dýr, öll skriðkvikindi, allir fuglar, allt, sem bærist á jörðinni, hvað eftir sinni tegund, gekk út úr örkinni.
20Nói reisti þá Drottni altari og tók af öllum hreinum dýrum og hreinum fuglum og fórnaði brennifórn á altarinu. 21Og Drottinn kenndi þægilegan ilm, og Drottinn sagði við sjálfan sig: "Ég vil upp frá þessu ekki bölva jörðinni framar vegna mannsins, því að hugrenningar mannshjartans eru illar frá bernsku hans, og ég mun upp frá þessu ekki framar deyða allt, sem lifir, eins og ég hefi gjört. 22Meðan jörðin stendur, skal ekki linna sáning og uppskera, frost og hiti, sumar og vetur, dagur og nótt."
Sáttmáli Guðs við Nóa9
1Guð blessaði Nóa og sonu hans og sagði við þá: "Verið frjósamir, margfaldist og uppfyllið jörðina. 2Ótti við yður og skelfing skal vera yfir öllum dýrum jarðarinnar, yfir öllum fuglum loftsins, yfir öllu, sem hrærist á jörðinni, og yfir öllum fiskum sjávarins. Á yðar vald er þetta gefið. 3Allt sem hrærist og lifir, skal vera yður til fæðu, ég gef yður það allt, eins og grænu jurtirnar. 4Aðeins hold, sem sálin, það er blóðið, er í, skuluð þér ekki eta. 5En yðar eigin blóðs mun ég hins vegar krefjast. Af hverri skepnu mun ég þess krefjast, og af manninum, af bróður hans, mun ég krefjast lífs mannsins. 6Hver sem úthellir mannsblóði, hans blóði skal af manni úthellt verða. Því að eftir Guðs mynd gjörði hann manninn. 7En ávaxtist þér og margfaldist og vaxið stórum á jörðinni og margfaldist á henni."8Og Guð mælti þannig við Nóa og sonu hans, sem voru með honum: 9"Sjá, ég gjöri minn sáttmála við yður og við niðja yðar eftir yður 10og við allar lifandi skepnur, sem með yður eru, bæði við fuglana og fénaðinn og öll villidýrin, sem hjá yður eru, allt, sem út gekk úr örkinni, það er öll dýr jarðarinnar. 11Minn sáttmála vil ég gjöra við yður: Aldrei framar skal allt hold tortímast af vatnsflóði, og aldrei framar mun flóð koma til að eyða jörðina."
12Og Guð sagði: "Þetta er merki sáttmálans, sem ég gjöri milli mín og yðar og allra lifandi skepna, sem hjá yður eru, um allar ókomnar aldir:
13Boga minn set ég í skýin, að hann sé merki sáttmálans milli mín og jarðarinnar. 14Og þegar ég dreg ský saman yfir jörðinni og boginn sést í skýjunum, 15þá mun ég minnast sáttmála míns, sem er milli mín og yðar og allra lifandi sálna í öllu holdi, og aldrei framar skal vatnið verða að flóði til að tortíma öllu holdi. 16Og boginn skal standa í skýjunum, og ég mun horfa á hann til þess að minnast hins eilífa sáttmála milli Guðs og allra lifandi sálna í öllu holdi, sem er á jörðinni."
17Og Guð sagði við Nóa: "Þetta er teikn sáttmálans, sem ég hefi gjört milli mín og alls holds, sem er á jörðinni."
Þrír synir Nóa18Synir Nóa, sem gengu úr örkinni, voru þeir Sem, Kam og Jafet, en Kam var faðir Kanaans.
19Þessir eru synir Nóa þrír, og frá þeim byggðist öll jörðin.
20Nói gjörðist akuryrkjumaður og plantaði víngarð. 21Og hann drakk af víninu og varð drukkinn og lá nakinn í tjaldi sínu. 22Og Kam, faðir Kanaans, sá nekt föður síns og sagði báðum bræðrum sínum frá, sem úti voru. 23Þá tóku þeir Sem og Jafet skikkjuna og lögðu á herðar sér og gengu aftur á bak og huldu nekt föður síns, en andlit þeirra sneru undan, svo að þeir sáu ekki nekt föður síns.
24Er Nói vaknaði af vímunni, varð hann þess áskynja, hvað sonur hans hinn yngri hafði gjört honum. 25Þá mælti hann:
- Bölvaður sé Kanaan,
- auvirðilegur þræll sé hann bræðra sinna.
- 26Og hann sagði:
- Lofaður sé Drottinn, Sems Guð,
- en Kanaan sé þræll þeirra.
- 27Guð gefi Jafet mikið landrými,
- og hann búi í tjaldbúðum Sems,
- en Kanaan sé þræll þeirra.
28Nói lifði eftir flóðið þrjú hundruð og fimmtíu ár. 29Og allir dagar Nóa voru níu hundruð og fimmtíu ár. Þá andaðist hann.
Þjóðir heimsins10
1Þetta er ættartala Nóa sona, Sems, Kams og Jafets. Þeim fæddust synir eftir flóðið.2Synir Jafets: Gómer, Magog, Madaí, Javan, Túbal, Mesek og Tíras. 3Og synir Gómers: Askenas, Rífat og Tógarma. 4Og synir Javans: Elísa, Tarsis, Kittar og Ródanítar. 5Út frá þeim kvísluðust þeir, sem byggja eylönd heiðingjanna.
Þetta eru synir Jafets eftir löndum þeirra, hver eftir sinni tungu, eftir kynþáttum þeirra og samkvæmt þjóðerni þeirra.
6Synir Kams: Kús, Mísraím, Pút og Kanaan. 7Og synir Kúss: Seba, Havíla, Sabta, Raema og Sabteka. Og synir Raema: Séba og Dedan.
8Kús gat Nimrod. Hann tók að gjörast voldugur á jörðinni. 9Hann var mikill veiðimaður fyrir Drottni. Því er máltækið: "Mikill veiðimaður fyrir Drottni eins og Nimrod." 10Og upphaf ríkis hans var Babel, Erek, Akkad og Kalne í Sínearlandi. 11Frá þessu landi hélt hann til Assýríu og byggði Níníve, Rehóbót-Ír og Kala, 12og Resen milli Níníve og Kala, það er borgin mikla.
13Mísraím gat Lúdíta, Anamíta, Lekabíta, Naftúkíta, 14Patrúsíta, Kaslúkíta (þaðan eru komnir Filistar) og Kaftóríta.
15Kanaan gat Sídon, frumgetning sinn, og Het 16og Jebúsíta, Amoríta, Gírgasíta, 17Hevíta, Arkíta, Síníta, 18Arvadíta, Semaríta og Hamatíta. Og síðan breiddust út kynkvíslir Kanaanítanna. 19Landamerki Kanaanítanna eru frá Sídon um Gerar allt til Gasa, þá er stefnan til Sódómu og Gómorru og Adma og Sebóím, allt til Lasa.
20Þetta eru synir Kams eftir kynþáttum þeirra, eftir tungum þeirra, samkvæmt löndum þeirra og þjóðerni.
21En Sem, ættfaðir allra Ebers sona, eldri bróðir Jafets, eignaðist og sonu.
22Synir Sems: Elam, Assúr, Arpaksad, Lúd og Aram. 23Og synir Arams: Ús, Húl, Geter og Mas.
24Arpaksad gat Sela, og Sela gat Eber. 25Og Eber fæddust tveir synir. Hét annar Peleg, því að á hans dögum greindist fólkið á jörðinni, en bróðir hans hét Joktan. 26Og Joktan gat Almódad, Salef, Hasarmavet, Jara, 27Hadóram, Úsal, Dikla, 28Óbal, Abímael, Seba, 29Ófír, Havíla og Jóbab. Þessir allir eru synir Joktans.
30Og bústaður þeirra var frá Mesa til Sefar, til austurfjallanna.
31Þetta eru synir Sems, eftir ættkvíslum þeirra, eftir tungum þeirra, samkvæmt löndum þeirra, eftir þjóðerni þeirra.
32Þetta eru ættkvíslir Nóa sona eftir ættartölum þeirra, samkvæmt þjóðerni þeirra, og frá þeim kvísluðust þjóðirnar út um jörðina eftir flóðið.
Babelsturninn11
1Öll jörðin hafði eitt tungumál og ein og sömu orð. 2Og svo bar við, er þeir fóru stað úr stað í austurlöndum, að þeir fundu láglendi í Sínearlandi og settust þar að. 3Og þeir sögðu hver við annan: "Gott og vel, vér skulum hnoða tigulsteina og herða í eldi." Og þeir notuðu tigulsteina í stað grjóts og jarðbik í stað kalks. 4Og þeir sögðu: "Gott og vel, vér skulum byggja oss borg og turn, sem nái til himins, og gjörum oss minnismerki, svo að vér tvístrumst ekki um alla jörðina."5Þá steig Drottinn niður til þess að sjá borgina og turninn, sem mannanna synir voru að byggja. 6Og Drottinn mælti: "Sjá, þeir eru ein þjóð og hafa allir sama tungumál, og þetta er hið fyrsta fyrirtæki þeirra. Og nú mun þeim ekkert ófært verða, sem þeir taka sér fyrir hendur að gjöra. 7Gott og vel, stígum niður og ruglum þar tungumál þeirra, svo að enginn skilji framar annars mál." 8Og Drottinn tvístraði þeim þaðan út um alla jörðina, svo að þeir urðu af að láta að byggja borgina. 9Þess vegna heitir hún Babel, því að þar ruglaði Drottinn tungumál allrar jarðarinnar, og þaðan tvístraði hann þeim um alla jörðina.
Ættartala frá Sem til Abrams10Þetta er ættartala Sems:
Sem var hundrað ára gamall, er hann gat Arpaksad, tveim árum eftir flóðið. 11Og Sem lifði, eftir að hann gat Arpaksad, fimm hundruð ár og gat sonu og dætur.
12Er Arpaksad var þrjátíu og fimm ára, gat hann Sela. 13Og Arpaksad lifði, eftir að hann gat Sela, fjögur hundruð og þrjú ár og gat sonu og dætur.
14Er Sela var þrjátíu ára, gat hann Eber. 15Og Sela lifði, eftir að hann gat Eber, fjögur hundruð og þrjú ár og gat sonu og dætur.
16Er Eber var þrjátíu og fjögurra ára, gat hann Peleg. 17Og Eber lifði, eftir að hann gat Peleg, fjögur hundruð og þrjátíu ár og gat sonu og dætur.
18Er Peleg var þrjátíu ára, gat hann Reú. 19Og Peleg lifði, eftir að hann gat Reú, tvö hundruð og níu ár og gat sonu og dætur.
20Er Reú var þrjátíu og tveggja ára, gat hann Serúg. 21Og Reú lifði, eftir að hann gat Serúg, tvö hundruð og sjö ár og gat sonu og dætur.
22Er Serúg var þrjátíu ára, gat hann Nahor. 23Og Serúg lifði, eftir að hann gat Nahor, tvö hundruð ár og gat sonu og dætur.
24Er Nahor var tuttugu og níu ára, gat hann Tara. 25Og Nahor lifði, eftir að hann gat Tara, hundrað og nítján ár og gat sonu og dætur.
26Er Tara var sjötíu ára, gat hann Abram, Nahor og Haran.
27Þetta er saga Tara: Tara gat Abram, Nahor og Haran, en Haran gat Lot. 28Og Haran dó á undan Tara föður sínum í ættlandi sínu, í Úr í Kaldeu. 29Og Abram og Nahor tóku sér konur. Kona Abrams hét Saraí, en kona Nahors Milka, dóttir Harans, föður Milku og föður Ísku. 30En Saraí var óbyrja, hún átti eigi börn.
31Þá tók Tara Abram son sinn og Lot Haransson, sonarson sinn, og Saraí tengdadóttur sína, konu Abrams sonar síns, og lagði af stað með þau frá Úr í Kaldeu áleiðis til Kanaanlands, og þau komu til Harran og settust þar að. 32Og dagar Tara voru tvö hundruð og fimm ár. Þá andaðist Tara í Harran.
Abraham, Ísak og Jakob
Fyrirheitna landið12
1Drottinn sagði við Abram:"Far þú burt úr landi þínu og frá ættfólki þínu og úr húsi föður þíns, til landsins, sem ég mun vísa þér á.
2Ég mun gjöra þig að mikilli þjóð og blessa þig og gjöra nafn þitt mikið, og blessun skalt þú vera.
3Ég mun blessa þá, sem þig blessa, en bölva þeim, sem þér formælir, og af þér skulu allar ættkvíslir jarðarinnar blessun hljóta."
4Þá lagði Abram af stað, eins og Drottinn hafði sagt honum, og Lot fór með honum. En Abram var sjötíu og fimm ára að aldri, er hann fór úr Harran.
Abram í Kanaan og Egyptalandi5Abram tók Saraí konu sína og Lot bróðurson sinn og alla fjárhluti, sem þeir höfðu eignast, og þær sálir, er þeir höfðu fengið í Harran. Og þeir lögðu af stað og héldu til Kanaanlands.
Þeir komu til Kanaanlands. 6Og Abram fór um landið, allt þangað er Síkem heitir, allt til Mórelundar. En þá voru Kanaanítar í landinu. 7Þá birtist Drottinn Abram og sagði við hann: "Niðjum þínum vil ég gefa þetta land." Og hann reisti þar altari Drottni, sem hafði birst honum. 8Þaðan hélt hann til fjallanna fyrir austan Betel og setti þar tjöld sín, svo að Betel var í vestur, en Aí í austur. Og hann reisti þar Drottni altari og ákallaði nafn Drottins. 9Og Abram færði sig smátt og smátt til Suðurlandsins. 10En hallæri varð í landinu. Þá fór Abram til Egyptalands til að dveljast þar um hríð, því að hallærið var mikið í landinu. 11Og er hann var kominn langt á leið til Egyptalands, sagði hann við Saraí konu sína: "Sjá, ég veit að þú ert kona fríð sýnum. 12Það mun því fara svo, að þegar Egyptar sjá þig, þá munu þeir segja: ,Þetta er kona hans,' og drepa mig, en þig munu þeir láta lífi halda. 13Segðu fyrir hvern mun, að þú sért systir mín, svo að mér megi líða vel fyrir þínar sakir og ég megi lífi halda þín vegna."
14Er Abram kom til Egyptalands, sáu Egyptar, að konan var mjög fríð. 15Og höfðingjar Faraós sáu hana og létu mikið af henni við Faraó, og konan var tekin í hús Faraós. 16Og hann gjörði vel við Abram hennar vegna, og hann eignaðist sauði, naut og asna, þræla og ambáttir, ösnur og úlfalda. 17En Drottinn þjáði Faraó og hús hans með miklum plágum vegna Saraí, konu Abrams. 18Þá kallaði Faraó Abram til sín og mælti: "Hví hefir þú gjört mér þetta? Hví sagðir þú mér ekki, að hún væri kona þín? 19Hví sagðir þú: ,Hún er systir mín,' svo að ég tók hana mér fyrir konu? En þarna er nú konan þín, tak þú hana og far burt." 20Og Faraó skipaði svo fyrir um Abram, að menn sínir skyldu fylgja honum á braut og konu hans með öllu, sem hann átti.
13
1Og Abram fór frá Egyptalandi með konu sína og allt, sem hann átti, og Lot fór með honum, til Suðurlandsins.
Abram og Lot skilja2Abram var stórauðugur að kvikfé, silfri og gulli. 3Og hann flutti sig smátt og smátt sunnan að allt til Betel, til þess staðar, er tjald hans hafði áður verið, milli Betel og Aí, 4til þess staðar, þar sem hann áður hafði reist altarið. Og Abram ákallaði þar nafn Drottins.
5Lot, sem fór með Abram, átti og sauði, naut og tjöld. 6Og landið bar þá ekki, svo að þeir gætu saman verið, því að eign þeirra var mikil, og þeir gátu ekki saman verið. 7Og sundurþykkja reis milli fjárhirða Abrams og fjárhirða Lots. - En Kanaanítar og Peresítar bjuggu þá í landinu.
8Þá mælti Abram við Lot: "Engin misklíð sé milli mín og þín og milli minna og þinna fjárhirða, því að við erum frændur. 9Liggur ekki allt landið opið fyrir þér? Skil þig heldur við mig. Viljir þú fara til vinstri handar, þá fer ég til hægri; og viljir þú fara til hægri handar, þá fer ég til vinstri." 10Þá hóf Lot upp augu sín og sá, að allt Jórdansléttlendið, allt til Sóar, var vatnsríkt land, eins og aldingarður Drottins, eins og Egyptaland. (Þetta var áður en Drottinn eyddi Sódómu og Gómorru.) 11Og Lot kaus sér allt Jórdansléttlendið, og Lot flutti sig austur á við, og þannig skildu þeir. 12Abram bjó í Kanaanlandi, en Lot bjó í borgunum á sléttlendinu og færði tjöld sín allt til Sódómu. 13En mennirnir í Sódómu voru vondir og stórsyndarar fyrir Drottni.
14Drottinn sagði við Abram, eftir að Lot hafði skilið við hann: "Hef þú upp augu þín, og litast um frá þeim stað, sem þú ert á, til norðurs, suðurs, austurs og vesturs. 15Því að allt landið, sem þú sér, mun ég gefa þér og niðjum þínum ævinlega. 16Og ég mun gjöra niðja þína sem duft jarðar, svo að geti nokkur talið duft jarðarinnar, þá skulu einnig niðjar þínir verða taldir. 17Tak þig nú upp og far þú um landið þvert og endilangt, því að þér mun ég gefa það." 18Og Abram færði sig með tjöld sín og kom og settist að í Mamrelundi, sem er í Hebron, og reisti Drottni þar altari.
Abram fer í stríð. Melkísedek14
1Þegar Amrafel var konungur í Sínear, Aríok konungur í Ellasar, Kedorlaómer konungur í Elam og Tídeal konungur í Gojím, bar það til, 2að þeir herjuðu á Bera, konung í Sódómu, á Birsa, konung í Gómorru, á Síneab, konung í Adma, á Semeber, konung í Sebóím, og konunginn í Bela (það er Sóar).3Allir þessir hittust á Siddímsvöllum. (Þar er nú Saltisjór.) 4Í tólf ár höfðu þeir verið lýðskyldir Kedorlaómer, en á hinu þrettánda ári höfðu þeir gjört uppreisn. 5Og á fjórtánda ári kom Kedorlaómer og þeir konungar, sem með honum voru, og sigruðu Refaítana í Astarot Karnaím, Súsítana í Ham, Emítana á Kírjataímsvöllum 6og Hórítana á fjalli þeirra Seír allt til El-Paran, sem er við eyðimörkina. 7Síðan sneru þeir við og komu til En-Mispat (það er Kades), og fóru herskildi yfir land Amalekíta og sömuleiðis Amoríta, sem bjuggu í Hasason Tamar.
8Þá lögðu þeir af stað, konungurinn í Sódómu, konungurinn í Gómorru, konungurinn í Adma, konungurinn í Sebóím og konungurinn í Bela (það er Sóar), og þeir fylktu liði sínu móti þeim á Síddímsvöllum, 9móti Kedorlaómer, konungi í Elam, Tídeal, konungi í Gojím, Amrafel, konungi í Sínear, og Aríok, konungi í Ellasar, fjórir konungar móti fimm. 10En á Siddímsvöllum var hver jarðbiksgröfin við aðra. Og konungarnir í Sódómu og Gómorru lögðu á flótta og féllu ofan í þær, en þeir, sem af komust, flýðu til fjalla. 11Þá tóku hinir alla fjárhluti, sem voru í Sódómu og Gómorru, og öll matvæli og fóru burt. 12Þeir tóku og Lot, bróðurson Abrams, og fjárhluti hans og fóru burt, en hann átti heima í Sódómu.
13Þá kom maður af flóttanum og sagði Hebreanum Abram tíðindin, en hann bjó þá í lundi Amorítans Mamre, bróður Eskols og Aners, og þeir voru bandamenn Abrams. 14En er Abram frétti, að frændi hans var hertekinn, bjó hann í skyndi þrjú hundruð og átján reynda menn sína, fædda í húsi hans, og elti þá allt til Dan. 15Skipti hann liði sínu í flokka og réðst á þá á náttarþeli, hann og menn hans, og sigraði þá og rak flóttann allt til Hóba, sem er fyrir norðan Damaskus. 16Sneri hann því næst heimleiðis með alla fjárhlutina og bróðurson sinn Lot, og fjárhluti hans hafði hann einnig heim með sér, sömuleiðis konurnar og fólkið.
17En er hann hafði unnið sigur á Kedorlaómer konungi og þeim konungum, sem með honum voru, og hélt heimleiðis, fór konungurinn í Sódómu til fundar við hann í Savedal. (Þar heitir nú Kóngsdalur.) 18Og Melkísedek konungur í Salem kom með brauð og vín, en hann var prestur Hins Hæsta Guðs. 19Og hann blessaði Abram og sagði:
"Blessaður sé Abram af Hinum Hæsta Guði, skapara himins og jarðar! 20Og lofaður sé Hinn Hæsti Guð, sem gaf óvini þína þér í hendur!"
Og Abram gaf honum tíund af öllu.
21Konungurinn í Sódómu sagði við Abram: "Gef mér mennina, en tak þú fjárhlutina." 22Þá mælti Abram við konunginn í Sódómu: "Ég upplyfti höndum mínum til Drottins, Hins Hæsta Guðs, skapara himins og jarðar: 23Ég tek hvorki þráð né skóþveng, né nokkuð af öllu sem þér tilheyrir, svo að þú skulir ekki segja: ,Ég hefi gjört Abram ríkan.' 24Ekkert handa mér! Aðeins það, sem sveinarnir hafa neytt, og hlut þeirra manna, sem með mér fóru, Aners, Eskols og Mamre. Þeir mega taka sinn hlut."
Guð gjörir sáttmála við Abram15
1Eftir þessa atburði kom orð Drottins til Abrams í sýn: "Óttast þú ekki, Abram, ég er þinn skjöldur, laun þín munu mjög mikil verða." 2Og Abram mælti: "Drottinn Guð, hvað ætlar þú að gefa mér? Ég fer héðan barnlaus, og Elíeser frá Damaskus verður erfingi húss míns." 3Og Abram mælti: "Sjá, mér hefir þú ekkert afkvæmi gefið, og húskarl minn mun erfa mig."4Og sjá, orð Drottins kom til hans: "Ekki skal hann erfa þig, heldur sá, sem af þér mun getinn verða, hann mun erfa þig." 5Og hann leiddi hann út og mælti: "Lít þú upp til himins og tel þú stjörnurnar, ef þú getur talið þær." Og hann sagði við hann: "Svo margir skulu niðjar þínir verða." 6Og Abram trúði Drottni, og hann reiknaði honum það til réttlætis.
7Þá sagði hann við hann: "Ég er Drottinn, sem leiddi þig út frá Úr í Kaldeu til þess að gefa þér þetta land til eignar." 8Og Abram mælti: "Drottinn Guð, hvað skal ég hafa til marks um, að ég muni eignast það?" 9Og hann mælti við hann: "Fær mér þrevetra kvígu, þrevetra geit, þrevetran hrút, turtildúfu og unga dúfu." 10Og hann færði honum öll þessi dýr og hlutaði þau sundur í miðju og lagði hvern hlutinn gegnt öðrum. En fuglana hlutaði hann ekki sundur. 11Og hræfuglar flugu að ætinu, en Abram fældi þá burt.
12Er sól var að renna, leið þungur svefnhöfgi á Abram, og sjá: felmti og miklu myrkri sló yfir hann.
13Þá sagði hann við Abram: "Vit það fyrir víst, að niðjar þínir munu lifa sem útlendingar í landi, sem þeir eiga ekki, og þeir munu þjóna þeim, og þeir þjá þá í fjögur hundruð ár. 14En þá þjóð, sem þeir munu þjóna, mun ég dæma, og síðar munu þeir þaðan fara með mikinn fjárhlut. 15En þú skalt fara í friði til feðra þinna, þú skalt verða jarðaður í góðri elli. 16Hinn fjórði ættliður þeirra mun koma hingað aftur, því að enn hafa Amorítar eigi fyllt mæli synda sinna."
17En er sól var runnin og myrkt var orðið, kom reykur sem úr ofni og eldslogi, er leið fram á milli þessara fórnarstykkja.
18Á þeim degi gjörði Drottinn sáttmála við Abram og mælti: "Þínu afkvæmi gef ég þetta land, frá Egyptalandsánni til árinnar miklu, árinnar Efrat: 19land Keníta, Kenissíta, Kadmóníta, 20Hetíta, Peresíta, Refaíta, 21Amoríta, Kanaaníta, Gírgasíta og Jebúsíta."
Hagar elur Ísmael16
1Saraí kona Abrams ól honum ekki börn. En hún hafði egypska ambátt, sem hét Hagar. 2Og Saraí sagði við Abram: "Heyrðu, Drottinn hefir varnað mér barngetnaðar. Gakk því inn til ambáttar minnar, vera má að hún afli mér afkvæmis." Og Abram hlýddi orðum Saraí. 3Saraí, kona Abrams, tók Hagar hina egypsku, ambátt sína, er Abram hafði búið tíu ár í Kanaanlandi, og gaf manni sínum Abram hana fyrir konu. 4Og hann gekk inn til Hagar, og hún varð þunguð. En er hún vissi, að hún var með barni, fyrirleit hún húsmóður sína. 5Þá sagði Saraí við Abram: "Sá óréttur, sem ég verð að þola, bitni á þér! Ég hefi gefið ambátt mína þér í faðm, en er hún nú veit, að hún er með barni, fyrirlítur hún mig. Drottinn dæmi milli mín og þín!" 6En Abram sagði við Saraí: "Sjá, ambátt þín er á þínu valdi. Gjör þú við hana sem þér gott þykir." Þá þjáði Saraí hana, svo að hún flýði í burtu frá henni.7Þá fann engill Drottins hana hjá vatnslind í eyðimörkinni, hjá lindinni á veginum til Súr. 8Og hann mælti: "Hagar, ambátt Saraí, hvaðan kemur þú og hvert ætlar þú að fara?" Hún svaraði: "Ég er á flótta frá Saraí, húsmóður minni." 9Og engill Drottins sagði við hana: "Hverf þú heim aftur til húsmóður þinnar og gef þig undir hennar vald."
10Engill Drottins sagði við hana: "Ég mun margfalda afkvæmi þitt, svo að það verði eigi talið fyrir fjölda sakir."
11Engill Drottins sagði við hana: "Sjá, þú ert þunguð og munt son fæða. Hans nafn skalt þú kalla Ísmael, því að Drottinn hefir heyrt kveinstafi þína. 12Hann mun verða maður ólmur sem villiasni, hönd hans mun vera uppi á móti hverjum manni og hvers manns hönd uppi á móti honum, og hann mun búa andspænis öllum bræðrum sínum." 13Og hún nefndi Drottin, sem við hana talaði, "Þú ert Guð, sem sér." Því að hún sagði: "Ætli ég hafi einnig hér horft á eftir honum, sem hefir séð mig?" 14Þess vegna heitir brunnurinn Beer-Lahaj-róí, en hann er á milli Kades og Bered.
15Hagar ól Abram son, og Abram nefndi son sinn, sem Hagar ól honum, Ísmael. 16En Abram var áttatíu og sex ára gamall, þegar Hagar ól honum Ísmael.
Abram nefndur Abraham17
1Er Abram var níutíu og níu ára gamall, birtist Drottinn honum og sagði: "Ég er Almáttugur Guð. Gakk þú fyrir mínu augliti og ver grandvar, 2þá vil ég gjöra sáttmála milli mín og þín, og margfalda þig mikillega."3Þá féll Abram fram á ásjónu sína, og Guð talaði við hann og sagði: 4"Sjá, það er ég, sem hefi gjört við þig sáttmála, og þú skalt verða faðir margra þjóða. 5Því skalt þú eigi lengur nefnast Abram, heldur skalt þú heita Abraham, því að föður margra þjóða gjöri ég þig. 6Og ég mun gjöra þig mjög frjósaman og gjöra þig að þjóðum, og af þér skulu konungar koma. 7Og ég gjöri sáttmála milli mín og þín og þinna niðja eftir þig, frá einum ættlið til annars, ævinlegan sáttmála: að vera þinn Guð og þinna niðja eftir þig. 8Og ég mun gefa þér og niðjum þínum eftir þig það land, sem þú nú býr í sem útlendingur, allt Kanaanland til ævinlegrar eignar, og ég skal vera Guð þeirra."
Umskurn og sáttmáli9Guð sagði við Abraham: "Þú skalt halda minn sáttmála, þú og niðjar þínir eftir þig, frá einum ættlið til annars. 10Þetta er minn sáttmáli, sem þér skuluð halda, milli mín og yðar og niðja þinna eftir þig: Allt karlkyn meðal yðar skal umskera. 11Yður skal umskera á holdi yfirhúðar yðar, og það sé merki sáttmálans milli mín og yðar. 12Átta daga gömul skal öll sveinbörn umskera meðal yðar, ættlið eftir ættlið, bæði þau, er heima eru fædd, og eins hin, sem keypt eru verði af einhverjum útlendingi, er eigi er af þínum ættlegg. 13Umskera skal bæði þann, sem fæddur er í húsi þínu, og eins þann, sem þú hefir verði keyptan, og þannig sé minn sáttmáli í yðar holdi sem ævinlegur sáttmáli. 14En óumskorinn karlmaður, sá er ekki er umskorinn á holdi yfirhúðar sinnar, hann skal upprættur verða úr þjóð sinni. Sáttmála minn hefir hann rofið."
Saraí nefnd Sara. Ísak og Ísmael15Guð sagði við Abraham: "Saraí konu þína skalt þú ekki lengur nefna Saraí, heldur skal hún heita Sara. 16Og ég mun blessa hana, og með henni mun ég einnig gefa þér son. Og ég mun blessa hana, og hún skal verða ættmóðir heilla þjóða, hún mun verða ættmóðir þjóðkonunga." 17Þá féll Abraham fram á ásjónu sína og hló og hugsaði með sjálfum sér: "Mun hundrað ára gamall maður eignast barn, og mun Sara níræð barn ala?" 18Og Abraham sagði við Guð: "Ég vildi að Ísmael mætti lifa fyrir þínu augliti!" 19Og Guð mælti: "Vissulega skal Sara kona þín fæða þér son, og þú skalt nefna hann Ísak, og ég mun gjöra sáttmála við hann sem ævinlegan sáttmála fyrir niðja hans eftir hann. 20Og að því er Ísmael snertir hefi ég bænheyrt þig. Sjá, ég mun blessa hann og gjöra hann frjósaman og margfalda hann mikillega. Tólf þjóðhöfðingja mun hann geta, og ég mun gjöra hann að mikilli þjóð. 21En minn sáttmála mun ég gjöra við Ísak, sem Sara mun fæða þér um þessar mundir á næsta ári." 22Og er Guð hafði lokið tali sínu við Abraham, sté hann upp frá honum.
23Þá tók Abraham son sinn Ísmael og alla, sem fæddir voru í hans húsi, og alla, sem hann hafði verði keypta, allt karlkyn meðal heimamanna Abrahams, og umskar hold yfirhúðar þeirra á þessum sama degi, eins og Guð hafði boðið honum. 24Abraham var níutíu og níu ára gamall, er hann var umskorinn á holdi yfirhúðar sinnar. 25Og Ísmael sonur hans var þrettán ára, er hann var umskorinn á holdi yfirhúðar sinnar. 26Á þessum sama degi voru þeir umskornir Abraham og Ísmael sonur hans, 27og allir hans heimamenn. Bæði þeir, er heima voru fæddir, og eins þeir, sem verði voru keyptir af útlendingum, voru umskornir með honum.
Englar vitja Abrahams. Heitið fæðingu Ísaks18
1Drottinn birtist Abraham í Mamrelundi, er hann sat í tjalddyrum sínum í miðdegishitanum. 2Og hann hóf upp augu sín og litaðist um, og sjá, þrír menn stóðu gagnvart honum. Og er hann sá þá, skundaði hann til móts við þá úr tjalddyrum sínum og laut þeim til jarðar 3og mælti: "Herra minn, hafi ég fundið náð í augum þínum, þá gakk eigi fram hjá þjóni þínum. 4Leyfið, að sótt sé lítið eitt af vatni, að þér megið þvo fætur yðar, og hvílið yður undir trénu. 5Og ég ætla að sækja brauðbita, að þér megið styrkja hjörtu yðar, - síðan getið þér haldið áfram ferðinni, - úr því að þér fóruð hér um hjá þjóni yðar." Og þeir svöruðu: "Gjörðu eins og þú hefir sagt."6Þá flýtti Abraham sér inn í tjaldið til Söru og mælti: "Sæktu nú sem skjótast þrjá mæla hveitimjöls, hnoðaðu það og bakaðu kökur." 7Og Abraham skundaði til nautanna og tók kálf, ungan og vænan, og fékk sveini sínum, og hann flýtti sér að matbúa hann. 8Og hann tók áfir og mjólk og kálfinn, sem hann hafði matbúið, og setti fyrir þá, en sjálfur stóð hann frammi fyrir þeim undir trénu, meðan þeir mötuðust.
9Þá sögðu þeir við hann: "Hvar er Sara kona þín?" Hann svaraði: "Þarna inni í tjaldinu." 10Og Drottinn sagði: "Vissulega mun ég aftur koma til þín að ári liðnu í sama mund, og mun þá Sara kona þín hafa eignast son." En Sara heyrði þetta í dyrum tjaldsins, sem var að baki hans. 11En Abraham og Sara voru gömul og hnigin á efra aldur, svo að kvenlegir eðlishættir voru horfnir frá Söru. 12Og Sara hló með sjálfri sér og mælti: "Eftir að ég er gömul orðin, skyldi ég þá á munúð hyggja, þar sem bóndi minn er einnig gamall?" 13Þá sagði Drottinn við Abraham: "Hví hlær Sara og segir: ,Mun það satt, að ég skuli barn fæða svo gömul?' 14Er Drottni nokkuð ómáttugt? Á sinni tíð að vori mun ég aftur koma til þín, og Sara hefir þá eignast son." 15Og Sara neitaði því og sagði: "Eigi hló ég," því að hún var hrædd. En hann sagði: "Jú, víst hlóst þú."
Abraham biður fyrir Sódómu16Því næst tóku mennirnir sig upp þaðan og horfðu niður til Sódómu, en Abraham gekk með þeim til að fylgja þeim á veg. 17Þá sagði Drottinn: "Skyldi ég dylja Abraham þess, sem ég ætla að gjöra, 18þar sem Abraham mun verða að mikilli og voldugri þjóð, og allar þjóðir jarðarinnar munu af honum blessun hljóta? 19Því að ég hefi útvalið hann, til þess að hann bjóði börnum sínum og húsi sínu eftir sig, að þau varðveiti vegu Drottins með því að iðka rétt og réttlæti, til þess að Drottinn láti koma fram við Abraham það, sem hann hefir honum heitið."
20Og Drottinn mælti: "Hrópið yfir Sódómu og Gómorru er vissulega mikið, og synd þeirra er vissulega mjög þung. 21Ég ætla því að stíga niður þangað til þess að sjá, hvort þeir hafa fullkomlega aðhafst það, sem hrópað er um. En sé eigi svo, þá vil ég vita það."
22Og mennirnir sneru í brott þaðan og héldu til Sódómu, en Abraham stóð enn þá frammi fyrir Drottni. 23Og Abraham gekk fyrir hann og mælti: "Hvort munt þú afmá hina réttlátu með hinum óguðlegu? 24Vera má, að fimmtíu réttlátir séu í borginni. Hvort munt þú afmá þá og ekki þyrma staðnum vegna þeirra fimmtíu réttlátu, sem þar eru? 25Fjarri sé það þér að gjöra slíkt, að deyða hina réttlátu með hinum óguðlegu, svo að eitt gangi yfir réttláta og óguðlega. Fjarri sé það þér! Mun dómari alls jarðríkis ekki gjöra rétt?" 26Og Drottinn mælti: "Finni ég í Sódómu fimmtíu réttláta innan borgar, þá þyrmi ég öllum staðnum þeirra vegna."
27Abraham svaraði og sagði: "Æ, ég hefi dirfst að tala við Drottin, þótt ég sé duft eitt og aska. 28Vera má, að fimm skorti á fimmtíu réttláta. Munt þú eyða alla borgina vegna þessara fimm?" Þá mælti hann: "Eigi mun ég eyða hana, finni ég þar fjörutíu og fimm."
29Og Abraham hélt áfram að tala við hann og mælti: "Vera má, að þar finnist ekki nema fjörutíu." En hann svaraði: "Vegna þeirra fjörutíu mun ég láta það ógjört."
30Og hann sagði: "Ég bið þig, Drottinn, að þú reiðist ekki, þó að ég tali. Vera má að þar finnist ekki nema þrjátíu." Og hann svaraði: "Ég mun ekki gjöra það, finni ég þar þrjátíu."
31Og hann sagði: "Æ, ég hefi dirfst að tala við Drottin! Vera má, að þar finnist ekki nema tuttugu." Og hann mælti: "Ég mun ekki eyða hana vegna þeirra tuttugu."
32Og hann mælti: "Ég bið þig, Drottinn, að þú reiðist ekki, þó að ég tali enn aðeins í þetta sinn. Vera má að þar finnist aðeins tíu." Og hann sagði: "Ég mun ekki eyða hana vegna þeirra tíu."
33Og Drottinn fór í brott, er hann hafði lokið tali sínu við Abraham, en Abraham hvarf aftur heimleiðis.
Lot bjargað úr eyðingu Sódómu19
1Englarnir tveir komu um kveldið til Sódómu. Sat Lot í borgarhliði. Og er hann sá þá, stóð hann upp í móti þeim og hneigði ásjónu sína til jarðar. 2Því næst mælti hann: "Heyrið, herrar mínir, sýnið lítillæti og komið inn í hús þjóns ykkar, og verið hér í nótt og þvoið fætur ykkar. Getið þið þá risið árla á morgun og farið leiðar ykkar." En þeir sögðu: "Nei, við ætlum að hafast við á strætinu í nótt." 3Þá lagði hann mikið að þeim, uns þeir fóru inn til hans og gengu inn í hús hans. Og hann bjó þeim máltíð og bakaði ósýrt brauð, og þeir neyttu.4En áður en þeir gengu til hvíldar, slógu borgarmenn, mennirnir í Sódómu, hring um húsið, bæði ungir og gamlir, allur múgurinn hvaðanæva. 5Og þeir kölluðu á Lot og sögðu við hann: "Hvar eru mennirnir, sem komu til þín í kveld? Leið þú þá út til vor, að vér megum kenna þeirra." 6Lot gekk þá út til þeirra, út fyrir dyrnar, og lokaði hurðinni að baki sér. 7Og hann sagði: "Fyrir hvern mun, bræður mínir, fremjið ekki óhæfu. 8Sjá, ég á tvær dætur, sem ekki hafa karlmanns kennt. Ég skal leiða þær út til yðar, gjörið við þær sem yður gott þykir. Aðeins megið þér ekkert gjöra þessum mönnum, úr því að þeir eru komnir undir skugga þaks míns." 9Þá æptu þeir: "Haf þig á burt!" og sögðu: "Þessi náungi er hingað kominn sem útlendingur og vill nú stöðugt vera að siða oss. Nú skulum vér leika þig enn verr en þá." Og þeir gjörðu ákaflega þröng að honum, að Lot, og gengu nær til að brjóta upp dyrnar. 10Þá seildust mennirnir út og drógu Lot til sín inn í húsið og lokuðu dyrunum. 11En þá, sem voru úti fyrir dyrum hússins, slógu þeir með blindu, smáa og stóra, svo að þeir urðu að gefast upp við að finna dyrnar.
12Mennirnir sögðu við Lot: "Átt þú hér nokkra fleiri þér nákomna? Tengdasyni, syni, dætur? Alla í borginni, sem þér eru áhangandi, skalt þú hafa á burt héðan, 13því að við munum eyða þennan stað, af því að hrópið yfir þeim fyrir Drottni er mikið, og Drottinn hefir sent okkur til að eyða borgina." 14Þá gekk Lot út og talaði við tengdasyni sína, sem ætluðu að ganga að eiga dætur hans, og mælti: "Standið upp skjótt og farið úr þessum stað, því að Drottinn mun eyða borgina." En tengdasynir hans hugðu, að hann væri að gjöra að gamni sínu.
15En er dagur rann, ráku englarnir eftir Lot og sögðu: "Statt þú upp skjótt! Tak þú konu þína og báðar dætur þínar, sem hjá þér eru, svo að þú fyrirfarist ekki vegna syndar borgarinnar." 16En er hann hikaði við, tóku mennirnir í hönd honum og í hönd konu hans og í hönd báðum dætrum hans, af því að Drottinn vildi þyrma honum, og leiddu hann út og létu hann út fyrir borgina. 17Og er þeir höfðu leitt þau út, sögðu þeir: "Forða þér, líf þitt liggur við! Lít ekki aftur fyrir þig og nem hvergi staðar á öllu sléttlendinu, forða þér á fjöll upp, að þú farist eigi." 18Þá sagði Lot við þá: "Æ nei, herra! 19Sjá, þjónn þinn hefir fundið náð í augum þínum, og þú hefir sýnt á mér mikla miskunn að láta mig halda lífi. En ég get ekki forðað mér á fjöll upp, ógæfan getur komið yfir mig og ég dáið. 20Sjá, þarna er borg í nánd, þangað gæti ég flúið, og hún er lítil. Ég vil forða mér þangað - er hún ekki lítil? - og ég mun halda lífi." 21Drottinn sagði við hann: "Sjá, ég hefi einnig veitt þér þessa bæn, að leggja ekki í eyði borgina, sem þú talaðir um. 22Flýt þér! Forða þér þangað, því að ég get ekkert gjört, fyrr en þú kemst þangað." Vegna þessa nefna menn borgina Sóar.
23Sólin var runnin upp yfir jörðina, er Lot kom til Sóar. 24Og Drottinn lét rigna yfir Sódómu og Gómorru brennisteini og eldi frá Drottni, af himni. 25Og hann gjöreyddi þessar borgir og allt sléttlendið og alla íbúa borganna og gróður jarðarinnar. 26En kona hans leit við að baki honum og varð að saltstöpli.
27Abraham gekk snemma morguns þangað, er hann hafði staðið frammi fyrir Drottni. 28Og hann horfði niður á Sódómu og Gómorru og yfir allt sléttlendið og sá, að reyk lagði upp af jörðinni, því líkast sem reykur úr ofni.
29En er Guð eyddi borgirnar á sléttlendinu, minntist Guð Abrahams og leiddi Lot út úr eyðingunni, þá er hann lagði í eyði borgirnar, sem Lot hafði búið í.
Dætur Lots30Lot fór frá Sóar upp á fjöllin og staðnæmdist þar og báðar dætur hans með honum, því að hann óttaðist að vera kyrr í Sóar, og hann hafðist við í helli, hann og báðar dætur hans. 31Þá sagði hin eldri við hina yngri: "Faðir okkar er gamall, og enginn karlmaður er eftir á jörðinni, sem samfarir megi við okkur hafa, eins og siðvenja er til alls staðar á jörðinni. 32Kom þú, við skulum gefa föður okkar vín að drekka og leggjast hjá honum, að við megum kveikja kyn af föður okkar." 33Síðan gáfu þær föður sínum vín að drekka þá nótt, og hin eldri fór og lagðist hjá föður sínum. En hann varð hvorki var við, að hún lagðist niður, né að hún reis á fætur.
34Og morguninn eftir sagði hin eldri við hina yngri: "Sjá, í nótt lá ég hjá föður mínum. Við skulum nú einnig í nótt gefa honum vín að drekka. Far þú síðan inn og leggst hjá honum, að við megum kveikja kyn af föður okkar." 35Síðan gáfu þær föður sínum vín að drekka einnig þá nótt, og hin yngri tók sig til og lagðist hjá honum. En hann varð hvorki var við, að hún lagðist niður, né að hún reis á fætur.
36Þannig urðu báðar dætur Lots þungaðar af völdum föður síns. 37Hin eldri ól son og nefndi hann Móab. Hann er ættfaðir Móabíta allt til þessa dags. 38Og hin yngri ól einnig son og nefndi hann Ben-Ammí. Hann er ættfaðir Ammóníta allt til þessa dags.
Abraham og Abímelek20
1Nú flutti Abraham sig þaðan til Suðurlandsins og settist að milli Kades og Súr og dvaldist um hríð í Gerar. 2Og Abraham sagði um Söru konu sína: "Hún er systir mín." Þá sendi Abímelek konungur í Gerar menn og lét sækja Söru. 3En Guð kom til Abímeleks í draumi um nóttina og sagði við hann: "Sjá, þú skalt deyja vegna konu þeirrar, sem þú hefir tekið, því að hún er gift kona." 4En Abímelek hafði ekki komið nærri henni. Og hann sagði: "Drottinn, munt þú einnig vilja deyða saklaust fólk? 5Hefir hann ekki sagt við mig: ,Hún er systir mín'? og hún sjálf hefir einnig sagt: ,Hann er bróðir minn?' Í einlægni hjarta míns og með hreinum höndum hefi ég gjört þetta." 6Og Guð sagði við hann í draumnum: "Víst veit ég, að þú gjörðir þetta í einlægni hjarta þíns, og ég hefi einnig varðveitt þig frá að syndga gegn mér. Fyrir því leyfði ég þér ekki að snerta hana. 7Fá því nú manninum konu hans aftur, því að hann er spámaður, og mun hann biðja fyrir þér, að þú megir lífi halda. En ef þú skilar henni ekki aftur, þá skalt þú vita, að þú munt vissulega deyja, þú og allir, sem þér tilheyra."8Abímelek reis árla um morguninn og kallaði til sín alla þjóna sína og greindi þeim frá öllu þessu. Og mennirnir urðu mjög óttaslegnir. 9Og Abímelek lét kalla Abraham til sín og sagði við hann: "Hvað hefir þú gjört oss? Og hvað hefi ég misgjört við þig, að þú skyldir leiða svo stóra synd yfir mig og ríki mitt? Verk, sem enginn skyldi fremja, hefir þú framið gegn mér." 10Og Abímelek sagði við Abraham: "Hvað gekk þér til að gjöra þetta?" 11Þá mælti Abraham: "Ég hugsaði: ,Vart mun nokkur guðsótti vera á þessum stað, og þeir munu drepa mig vegna konu minnar.' 12Og þar að auki er hún sannlega systir mín, samfeðra, þótt eigi séum við sammæðra, og hún varð kona mín. 13Og þegar Guð lét mig fara úr húsi föður míns, sagði ég við hana: ,Þessa góðsemi verður þú að sýna mér: Hvar sem við komum, þá segðu um mig: Hann er bróðir minn.'"
14Þá tók Abímelek sauði, naut, þræla og ambáttir og gaf Abraham og fékk honum aftur Söru konu hans. 15Og Abímelek sagði: "Sjá, land mitt stendur þér til boða. Bú þú þar sem þér best líkar." 16Og við Söru sagði hann: "Sjá, ég gef bróður þínum þúsund sikla silfurs. Sjá, það sé þér uppreist í augum allra þeirra, sem með þér eru, og ert þú þannig réttlætt fyrir öllum." 17Og Abraham bað til Guðs fyrir honum, og Guð læknaði Abímelek og konu hans og ambáttir, svo að þær ólu börn. 18Því að Drottinn hafði lokað sérhverjum móðurkviði í húsi Abímeleks sakir Söru, konu Abrahams.
Ísak fæðist21
1Drottinn vitjaði Söru, eins og hann hafði lofað, og Drottinn gjörði við Söru eins og hann hafði sagt. 2Og Sara varð þunguð og fæddi Abraham son í elli hans, um þær mundir, sem Guð hafði sagt honum. 3Og Abraham gaf nafn syni sínum, þeim er honum fæddist, sem Sara fæddi honum, og kallaði hann Ísak.4Abraham umskar Ísak son sinn, þá er hann var átta daga gamall, eins og Guð hafði boðið honum. 5En Abraham var hundrað ára gamall, þegar Ísak sonur hans fæddist honum.
6Sara sagði: "Guð hefir gjört mig að athlægi. Hver sem heyrir þetta, mun hlæja að mér." 7Og hún mælti: "Hver skyldi hafa sagt við Abraham, að Sara mundi hafa börn á brjósti, og þó hefi ég alið honum son í elli hans."
Hagar og Ísmael8Sveinninn óx og var vaninn af brjósti, og Abraham gjörði mikla veislu þann dag, sem Ísak var tekinn af brjósti. 9En Sara sá son Hagar hinnar egypsku, er hún hafði fætt Abraham, að leik með Ísak, syni hennar. 10Þá sagði hún við Abraham: "Rek þú burt ambátt þessa og son hennar, því að ekki skal sonur þessarar ambáttar taka arf með syni mínum, með Ísak." 11En Abraham sárnaði þetta mjög vegna sonar síns. 12Þá sagði Guð við Abraham: "Lát þig ekki taka sárt til sveinsins og ambáttar þinnar. Hlýð þú Söru í öllu því, er hún segir þér, því að afkomendur þínir munu verða kenndir við Ísak. 13En ég mun einnig gjöra ambáttarsoninn að þjóð, því að hann er þitt afkvæmi." 14Og Abraham reis árla næsta morgun, tók brauð og vatnsbelg og fékk Hagar, en sveininn lagði hann á herðar henni og lét hana í burtu fara. Hún hélt þá af stað og reikaði um eyðimörkina Beerseba.
15En er vatnið var þrotið á leglinum, lagði hún sveininn inn undir einn runnann. 16Því næst gekk hún burt og settist þar gegnt við, svo sem í örskots fjarlægð, því að hún sagði: "Ég get ekki horft á að barnið deyi." Og hún settist þar gegnt við og tók að gráta hástöfum. 17En er Guð heyrði hljóð sveinsins, þá kallaði engill Guðs til Hagar af himni og mælti til hennar: "Hvað gengur að þér, Hagar? Vertu óhrædd, því að Guð hefir heyrt til sveinsins, þar sem hann liggur. 18Statt þú upp, reistu sveininn á fætur og leiddu hann þér við hönd, því að ég mun gjöra hann að mikilli þjóð." 19Og Guð lauk upp augum hennar, svo að hún sá vatnsbrunn. Fór hún þá og fyllti belginn vatni og gaf sveininum að drekka. 20Og Guð var með sveininum, og hann óx upp og hafðist við í eyðimörkinni og gjörðist bogmaður. 21Og hann hafðist við í Paraneyðimörk, og móðir hans tók honum konu af Egyptalandi.
Abraham gerir bandalag við Abímelek22Um sömu mundir bar svo til, að Abímelek og hershöfðingi hans Píkól mæltu þannig við Abraham: "Guð er með þér í öllu, sem þú gjörir. 23Vinn mér nú eið að því hér við Guð, að þú skulir eigi breyta sviksamlega, hvorki við mig né afkomendur mína. Þú skalt auðsýna mér og landinu, sem þú dvelst í sem útlendingur, hina sömu góðsemi og ég hefi auðsýnt þér." 24Og Abraham mælti: "Ég skal vinna þér eið að því." 25En Abraham átaldi Abímelek fyrir vatnsbrunninn, sem þrælar Abímeleks höfðu tekið með ofríki. 26Þá sagði Abímelek: "Ekki veit ég, hver það hefir gjört. Hvorki hefir þú sagt mér það né hefi ég heldur heyrt það fyrr en í dag."
27Þá tók Abraham sauði og naut og gaf Abímelek, og þeir gjörðu sáttmála sín í milli.
28Og Abraham tók frá sjö gimbrar af hjörðinni. 29Þá mælti Abímelek til Abrahams: "Hvað skulu þessar sjö gimbrar, sem þú hefir tekið frá?" 30Hann svaraði: "Við þessum sjö gimbrum skalt þú taka af minni hendi, til vitnis um að ég hefi grafið þennan brunn."
31Þess vegna heitir sá staður Beerseba, af því að þeir sóru þar báðir.
32Þannig gjörðu þeir sáttmála í Beerseba. Síðan tók Abímelek sig upp og Píkól hershöfðingi hans og sneru aftur til Filistalands.
33Abraham gróðursetti tamarisk-runn í Beerseba og ákallaði þar nafn Drottins, Hins Eilífa Guðs. 34Og Abraham dvaldist lengi í Filistalandi.
Guð reynir Abraham22
1Eftir þessa atburði freistaði Guð Abrahams og mælti til hans: "Abraham!" Hann svaraði: "Hér er ég." 2Hann sagði: "Tak þú einkason þinn, sem þú elskar, hann Ísak, og far þú til Móríalands og fórna honum þar að brennifórn á einu af fjöllunum, sem ég mun segja þér til."3Abraham var árla á fótum næsta morgun og lagði á asna sinn, og tók með sér tvo sveina sína og Ísak son sinn. Og hann klauf viðinn til brennifórnarinnar, tók sig upp og hélt af stað, þangað sem Guð sagði honum.
4Á þriðja degi hóf Abraham upp augu sín og sá staðinn álengdar. 5Þá sagði Abraham við sveina sína: "Bíðið hér hjá asnanum, en við smásveinninn munum ganga þangað til að biðjast fyrir, og komum svo til ykkar aftur."
6Og Abraham tók brennifórnarviðinn og lagði syni sínum Ísak á herðar, en tók eldinn og hnífinn sér í hönd. Og svo gengu þeir báðir saman. 7Þá mælti Ísak við Abraham föður sinn: "Faðir minn!" Hann svaraði: "Hér er ég, sonur minn!" Hann mælti: "Hér er eldurinn og viðurinn, en hvar er sauðurinn til brennifórnarinnar?" 8Og Abraham sagði: "Guð mun sjá sér fyrir sauð til brennifórnarinnar, sonur minn." Og svo gengu þeir báðir saman.
9En er þeir komu þangað, er Guð hafði sagt honum, reisti Abraham þar altari og lagði viðinn á, og batt son sinn Ísak og lagði hann upp á altarið, ofan á viðinn. 10Og Abraham rétti út hönd sína og tók hnífinn til að slátra syni sínum. 11Þá kallaði engill Drottins til hans af himni og mælti: "Abraham! Abraham!" Hann svaraði: "Hér er ég." 12Hann sagði: "Legg þú ekki hönd á sveininn og gjör þú honum ekkert, því að nú veit ég, að þú óttast Guð, þar sem þú synjaðir mér ekki um einkason þinn." 13Þá varð Abraham litið upp, og hann sá hrút bak við sig, sem var fastur á hornunum í hrísrunni. Og Abraham fór og tók hrútinn og bar hann fram að brennifórn í stað sonar síns. 14Og Abraham kallaði þennan stað "Drottinn sér," svo að það er máltæki allt til þessa dags: "Á fjallinu, þar sem Drottinn birtist."
15Engill Drottins kallaði annað sinn af himni til Abrahams 16og mælti: "Ég sver við sjálfan mig," segir Drottinn, "að fyrst þú gjörðir þetta og synjaðir mér eigi um einkason þinn, 17þá skal ég ríkulega blessa þig og stórum margfalda kyn þitt, sem stjörnur á himni, sem sand á sjávarströnd. Og niðjar þínir skulu eignast borgarhlið óvina sinna. 18Og af þínu afkvæmi skulu allar þjóðir á jörðinni blessun hljóta, vegna þess að þú hlýddir minni röddu."
19Eftir það fór Abraham aftur til sveina sinna, og þeir tóku sig upp og fóru allir saman til Beerseba. Og Abraham bjó enn um hríð í Beerseba.
Ætt Nahors, bróður Abrahams20Eftir þetta bar svo við, að Abraham var sagt: "Sjá, Milka hefir og fætt bróður þínum Nahor sonu: 21Ús, frumgetning hans, og Bús, bróður hans, og Kemúel, ættföður Aramea, 22og Kesed, Kasó, Píldas, Jídlaf og Betúel." En Betúel gat Rebekku.
23Þessa átta fæddi Milka Nahor, bróður Abrahams. 24Og hann átti hjákonu, sem hét Reúma. Hún ól honum og sonu, þá Teba, Gaham, Tahas og Maaka.
Sara andast. Abraham kaupir henni legstað23
1Dagar Söru voru hundrað tuttugu og sjö ár, það var aldur Söru. 2Og Sara dó í Kirjat Arba (það er Hebron) í Kanaanlandi. Og Abraham fór til að harma Söru og gráta hana. 3Síðan gekk hann burt frá líkinu og kom að máli við Hetíta og sagði: 4"Ég er aðkomandi og útlendingur meðal yðar. Látið mig fá legstað til eignar hjá yður, að ég megi koma líkinu frá mér og jarða það." 5Þá svöruðu Hetítar Abraham og sögðu: 6"Heyr oss fyrir hvern mun, herra minn. Þú ert Guðs höfðingi vor á meðal. Jarða þú líkið í hinum besta af legstöðum vorum. Enginn meðal vor skal meina þér legstað sinn, að þú megir jarða líkið." 7Þá stóð Abraham upp og hneigði sig fyrir landslýðnum, fyrir Hetítum, 8og mælti við þá: "Ef það er yðar vilji, að ég megi jarða líkið og koma því frá mér, þá heyrið mig og biðjið fyrir mig Efron Sóarsson, 9að hann láti mig fá Makpelahelli, sem hann á og er yst í landeign hans. Hann láti mig fá hann fyrir fullt verð til grafreits meðal yðar." 10En Efron sat þar meðal Hetíta. Þá svaraði Hetítinn Efron Abraham, í viðurvist Hetíta, frammi fyrir öllum þeim, sem gengu út og inn um borgarhlið hans, og mælti: 11"Nei, herra minn, heyr mig! Landið gef ég þér, og hellinn, sem í því er, hann gef ég þér líka. Í augsýn samlanda minna gef ég þér hann. Jarða þú þar líkið." 12Þá hneigði Abraham sig fyrir landslýðnum, 13mælti því næst til Efrons í viðurvist landslýðsins á þessa leið: "Heyr nú, gef gaum að máli mínu! Ég greiði fé fyrir landið. Tak þú við því af mér, að ég megi jarða líkið þar." 14Þá svaraði Efron Abraham og mælti: 15"Herra minn, gef fyrir hvern mun gaum að máli mínu! Jörð, sem er fjögur hundruð silfursikla virði, hvað er það okkar í milli? Jarða þú líkið." 16Og Abraham lét að orðum Efrons, og Abraham vó Efron silfrið, sem hann hafði til tekið í viðurvist Hetíta, fjögur hundruð sikla í gangsilfri.17Þannig var landeign Efrons, sem er hjá Makpela gegnt Mamre, landeignin og hellirinn, sem í henni var, og öll trén, er í landeigninni voru, innan takmarka hennar hringinn í kring, 18fest Abraham til eignar, í viðurvist Hetíta, frammi fyrir öllum, sem út og inn gengu um borgarhlið hans.
19Eftir það jarðaði Abraham Söru konu sína í helli Makpelalands gegnt Mamre (það er Hebron) í Kanaanlandi. 20Þannig fékk Abraham landið og hellinn, sem í því var, hjá Hetítum til eignar fyrir grafreit.
Ísak fær Rebekku24
1Abraham var gamall og hniginn að aldri, og Drottinn hafði blessað Abraham í öllu. 2Þá sagði Abraham við þjón sinn, þann er elstur var í húsi hans og umsjónarmaður yfir öllu, sem hann átti: 3"Legg þú hönd þína undir lend mína, og vinn mér eið að því við Drottin, Guð himinsins og Guð jarðarinnar, að þú skulir ekki taka syni mínum til handa konu af dætrum Kanaaníta, er ég bý á meðal, 4heldur skaltu fara til föðurlands míns og til ættfólks míns, og taka konu handa Ísak syni mínum."5Þjónninn svaraði honum: "En ef konan vill ekki fara með mér til þessa lands, á ég þá að fara með son þinn aftur í það land, sem þú fórst úr?" 6Og Abraham sagði við hann: "Varastu að fara með son minn þangað! 7Drottinn, Guð himinsins, sem tók mig úr húsi föður míns og úr ættlandi mínu, hann sem hefir talað við mig og svarið mér og sagt: ,Þínum niðjum mun ég gefa þetta land,' hann mun senda engil sinn á undan þér, að þú megir þaðan fá syni mínum konu. 8Og vilji konan ekki fara með þér, þá ertu leystur af eiðnum. En með son minn mátt þú ekki fyrir nokkurn mun fara þangað aftur."
9Þá lagði þjónninn hönd sína undir lend Abrahams húsbónda síns og vann honum eið að þessu.
10Þá tók þjónninn tíu úlfalda af úlföldum húsbónda síns og lagði af stað, og hafði með sér alls konar dýrgripi húsbónda síns. Og hann tók sig upp og hélt til Mesópótamíu, til borgar Nahors. 11Og hann áði úlföldunum utan borgar hjá vatnsbrunni að kveldi dags, í það mund, er konur voru vanar að ganga út að ausa vatn. 12Og hann mælti: "Drottinn, Guð húsbónda míns Abrahams. Lát mér heppnast erindi mitt í dag og auðsýn miskunn húsbónda mínum Abraham. 13Sjá, ég stend við vatnslind, og dætur bæjarmanna ganga út að ausa vatn. 14Og ef sú stúlka, sem ég segi við: ,Tak niður skjólu þína, að ég megi drekka,' svarar: ,Drekk þú, og ég vil líka brynna úlföldum þínum,' - hún sé sú, sem þú hefir fyrirhugað þjóni þínum Ísak, og af því mun ég marka, að þú auðsýnir miskunn húsbónda mínum."
15Áður en hann hafði lokið máli sínu, sjá, þá kom Rebekka, dóttir Betúels, sonar Milku, konu Nahors, bróður Abrahams, og bar hún skjólu sína á öxlinni. 16En stúlkan var einkar fríð sýnum, mey, og enginn maður hafði kennt hennar. Hún gekk niður að lindinni, fyllti skjólu sína og gekk aftur upp frá lindinni. 17Þá hljóp þjónninn móti henni og mælti: "Gef mér vatnssopa að drekka úr skjólu þinni." 18Og hún svaraði: "Drekk, herra minn!" Og hún tók jafnskjótt skjóluna niður af öxlinni í hönd sér og gaf honum að drekka. 19Og er hún hafði gefið honum að drekka, mælti hún: "Líka skal ég ausa vatn úlföldum þínum, uns þeir hafa drukkið nægju sína." 20Og hún flýtti sér og steypti úr skjólu sinni í vatnsstokkinn, og hljóp svo aftur að brunninum að ausa vatn. Og hún jós vatn öllum úlföldum hans. 21En maðurinn starði á hana þegjandi, til þess að komast að raun um, hvort Drottinn hefði látið ferð hans heppnast eða ekki.
22En er úlfaldar hans höfðu drukkið nægju sína, tók maðurinn nefhring úr gulli, sem vó hálfan sikil, og tvö armbönd og dró á hendur henni. Vógu þau tíu sikla gulls. 23Því næst mælti hann: "Hvers dóttir ert þú? Segðu mér það. Er rúm í húsi föður þíns til að hýsa oss í nótt?" 24Og hún sagði við hann: "Ég er dóttir Betúels, sonar Milku, sem hún ól Nahor." 25Þá sagði hún við hann: "Vér höfum yfrið nóg bæði af hálmi og fóðri, og einnig húsrúm til gistingar." 26Þá laut maðurinn höfði, bað til Drottins 27og mælti: "Lofaður sé Drottinn, Guð Abrahams húsbónda míns, sem hefir ekki dregið í hlé miskunn sína og trúfesti við húsbónda minn. Mig hefir Drottinn leitt veginn til húss frænda húsbónda míns."
28Stúlkan skundaði heim og sagði í húsi móður sinnar frá því, sem við hafði borið.
29Rebekka átti bróður, sem Laban hét, og Laban hljóp til mannsins út að lindinni. 30Og er hann sá hringinn og armböndin á höndum systur sinnar og heyrði orð Rebekku systur sinnar, sem sagði: "Svona talaði maðurinn við mig," þá fór hann til mannsins. Og sjá, hann stóð hjá úlföldunum við lindina. 31Og hann sagði: "Kom þú inn, blessaður af Drottni. Hví stendur þú hér úti? Ég hefi rýmt til í húsinu, og staður er fyrir úlfalda þína." 32Þá gekk maðurinn inn í húsið, og Laban spretti af úlföldunum og gaf þeim hálm og fóður, en færði honum vatn til að þvo fætur sína og fætur þeirra manna, sem voru með honum. 33Og matur var fram borinn fyrir hann, en hann sagði: "Eigi vil ég matar neyta fyrr en ég hefi borið upp erindi mitt." Og menn svöruðu: "Tala þú!"
34Hann mælti: "Ég er þjónn Abrahams. 35Drottinn hefir ríkulega blessað húsbónda minn, svo að hann er orðinn auðmaður. Hann hefir gefið honum sauði og naut, silfur og gull, þræla og ambáttir, úlfalda og asna. 36Og Sara, kona húsbónda míns, hefir alið húsbónda mínum son í elli sinni, og honum hefir hann gefið allt, sem hann á. 37Og húsbóndi minn tók af mér eið og sagði: ,Þú mátt eigi konu taka syni mínum af dætrum Kanaaníta, er ég bý hjá, 38heldur skalt þú fara í hús föður míns og til ættingja minna og taka syni mínum konu.' 39Og ég sagði við húsbónda minn: ,Vera má, að konan vilji ekki fara með mér.' 40Og hann svaraði mér: ,Drottinn, fyrir hvers augsýn ég hefi gengið, mun senda engil sinn með þér og láta ferð þína heppnast, svo að þú megir fá konu til handa syni mínum af ætt minni og úr húsi föður míns. 41Þá skaltu vera laus við þann eið, sem þú vinnur mér, ef þú fer til ættingja minna, og vilji þeir ekki gefa þér hana, þá ertu laus við eiðinn, sem ég tek af þér.' 42Og er ég í dag kom að lindinni, sagði ég: ,Drottinn, Guð Abrahams húsbónda míns. Ætlir þú að láta þá för lánast, sem ég nú er að fara, 43þá sjá, ég stend við þessa lind, og fari svo, að sú stúlka, sem kemur hingað til að sækja vatn og ég segi við: Gef mér að drekka vatnssopa úr skjólu þinni, - 44svarar mér: Drekk þú, og líka skal ég ausa úlföldum þínum vatn, - hún sé sú kona, sem Drottinn hefir fyrirhugað syni húsbónda míns.' 45En áður en ég hafði lokið þessu tali við sjálfan mig, sjá, þá kom Rebekka út þangað með skjólu sína á öxlinni og gekk niður að lindinni og bar upp vatn. Og ég sagði við hana: ,Gef mér að drekka!' 46Og óðara tók hún skjóluna niður af öxlinni og sagði: ,Drekk þú, og líka skal ég brynna úlföldum þínum.' Og ég drakk, og hún brynnti líka úlföldunum. 47Þá spurði ég hana og mælti: ,Hvers dóttir ert þú?' Og hún sagði: ,Dóttir Betúels, sonar Nahors, sem Milka ól honum.' Lét ég þá hringinn í nef hennar og armböndin á hendur hennar. 48Og ég laut höfði og bað til Drottins, og ég lofaði Drottin, Guð Abrahams húsbónda míns, sem hafði leitt mig hinn rétta veg til að taka bróðurdóttur húsbónda míns syni hans til handa. 49Og nú, ef þér viljið sýna vináttu og tryggð húsbónda mínum, þá segið mér það. En viljið þér það ekki þá segið mér og það, svo að ég geti snúið mér hvort heldur væri til hægri eða vinstri."
50Þá svöruðu þeir Laban og Betúel og sögðu: "Þetta er frá Drottni komið. Við getum ekkert við þig sagt, hvorki illt né gott. 51Sjá, Rebekka er á þínu valdi, tak þú hana og far þína leið, að hún verði kona sonar húsbónda þíns, eins og Drottinn hefir sagt."
52Og er þjónn Abrahams heyrði þessi orð, laut hann til jarðar fyrir Drottni. 53Og þjónninn tók upp skartgripi af silfri og skartgripi af gulli og klæði, og gaf Rebekku, en bróður hennar og móður gaf hann gersemar. 54Því næst átu þeir og drukku, hann og mennirnir, sem með honum voru, og gistu þar um nóttina.
Er þeir voru risnir úr rekkju um morguninn, mælti hann: "Látið mig nú fara heim til húsbónda míns." 55Þá svöruðu bróðir hennar og móðir: "Leyf þú stúlkunni að vera hjá oss enn nokkurn tíma eða eina tíu daga. Þá má hún fara." 56En hann svaraði þeim: "Tefjið mig ekki! Drottinn hefir látið ferð mína heppnast. Leyfið mér að fara heim til húsbónda míns." 57Þau sögðu þá: "Við skulum kalla á stúlkuna og spyrja hana sjálfa." 58Þá kölluðu þau á Rebekku og sögðu við hana: "Vilt þú fara með þessum manni?" Og hún sagði: "Ég vil fara." 59Þá létu þau Rebekku systur sína og fóstru hennar fara með þjóni Abrahams og mönnum hans.
60Þau blessuðu Rebekku og sögðu við hana: "Systir vor, vaxi af þér þúsundir þúsunda og eignist niðjar þínir borgarhlið fjandmanna sinna!"
61Þá tók Rebekka sig upp með þernum sínum, og þær riðu úlföldunum og fóru með manninum. Og þjónninn tók Rebekku og fór leiðar sinnar.
62Ísak hafði gengið að Beer-lahaj-róí, því að hann bjó í Suðurlandinu. 63Og Ísak hafði gengið út að áliðnum degi til að hugleiða úti á mörkinni, og hann hóf upp augu sín og sá úlfalda koma. 64Og Rebekka leit upp og sá Ísak. Sté hún þá jafnskjótt niður af úlfaldanum. 65Og hún sagði við þjóninn: "Hver er þessi maður, sem kemur á móti oss þarna á mörkinni?" Og þjónninn svaraði: "Það er húsbóndi minn." Þá tók hún skýluna og huldi sig. 66Og þjónninn sagði Ísak frá öllu því, sem hann hafði gjört.
67Og Ísak leiddi hana í tjald Söru móður sinnar, og tók Rebekku og hún varð kona hans og hann elskaði hana. Og Ísak huggaðist af harmi þeim, er hann bar eftir móður sína.
Abraham andast og er grafinn í Hebron25
1Abraham tók sér enn konu. Hún hét Ketúra. 2Og hún ól honum Símran, Joksan, Medan, Midían, Jísbak og Súa. 3Og Joksan gat Séba og Dedan, og synir Dedans voru Assúrítar, Letúsítar og Leúmmítar. 4Og synir Midíans voru: Efa, Efer, Hanok, Abída og Eldaa. Allir þessir eru niðjar Ketúru.5Abraham gaf Ísak allt, sem hann átti. 6En sonum þeim, sem Abraham hafði átt með hjákonunum, gaf hann gjafir og lét þá, meðan hann enn var á lífi, fara burt frá Ísak syni sínum í austurátt, til austurlanda.
7Þetta eru ævidagar Abrahams, sem hann lifði, hundrað sjötíu og fimm ár. 8Og Abraham andaðist og dó í góðri elli, gamall og saddur lífdaga, og safnaðist til síns fólks. 9Og Ísak og Ísmael synir hans jörðuðu hann í Makpelahelli í landi Efrons, sonar Hetítans Sóars, sem er gegnt Mamre, 10í landi því, sem Abraham hafði keypt af Hetítum, þar var Abraham jarðaður og Sara kona hans. 11Og eftir andlát Abrahams blessaði Guð Ísak son hans. En Ísak bjó hjá Beer-lahaj-róí.
12Þetta er ættartal Ísmaels Abrahamssonar, sem Hagar hin egypska, ambátt Söru, ól honum. 13Og þessi eru nöfn Ísmaels sona, samkvæmt nöfnum þeirra, eftir kynþáttum þeirra.
Nebajót var hans frumgetinn son, þá Kedar, Adbeel, Míbsam, 14Misma, Dúma, Massa, 15Hadar, Tema, Jetúr, Nafis og Kedma.
16Þessir eru synir Ísmaels, og þessi eru nöfn þeirra, eftir þorpum þeirra og tjaldbúðum, tólf höfðingjar, eftir ættkvíslum þeirra. 17Og þetta voru æviár Ísmaels: hundrað þrjátíu og sjö ár, - þá andaðist hann og dó, og safnaðist til síns fólks. 18Og þeir bjuggu frá Havíla til Súr, sem er fyrir austan Egyptaland, í stefnu til Assýríu. Fyrir austan alla bræður sína tók hann sér bústað.
Esaú selur Jakob frumburðarréttinn19Þetta er saga Ísaks Abrahamssonar.
Abraham gat Ísak. 20Ísak var fertugur að aldri, er hann gekk að eiga Rebekku, dóttur Betúels hins arameíska frá Paddan-aram, systur Labans hins arameíska. 21Ísak bað Drottin fyrir konu sinni, því að hún var óbyrja, og Drottinn bænheyrði hann, og Rebekka kona hans varð þunguð. 22Og er börnin hnitluðust í kviði hennar, sagði hún: "Sé það svona, hví lifi ég þá?" Gekk hún þá til frétta við Drottin. 23En Drottinn svaraði henni:
- Þú gengur með tvær þjóðir,
- og tveir ættleggir munu af skauti þínu kvíslast.
- Annar verður sterkari en hinn,
- og hinn eldri mun þjóna hinum yngri.
24Er dagar hennar fullnuðust, að hún skyldi fæða, sjá, þá voru tvíburar í kviði hennar. 25Og hinn fyrri kom í ljós, rauður að lit og allur sem loðfeldur, og var hann nefndur Esaú. 26Og eftir það kom bróðir hans í ljós, og hélt hann um hælinn á Esaú, og var hann nefndur Jakob. En Ísak var sextíu ára, er hún ól þá.
27Er sveinarnir voru vaxnir, gjörðist Esaú slyngur veiðimaður og hafðist við á heiðum, en Jakob var maður gæfur og bjó í tjöldum. 28Og Ísak unni Esaú, því að villibráð þótti honum góð, en Rebekka unni Jakob.
29Einu sinni hafði Jakob soðið rétt nokkurn. Kom þá Esaú af heiðum og var dauðþreyttur. 30Þá sagði Esaú við Jakob: "Gef mér fljótt að eta hið rauða, þetta rauða þarna, því að ég er dauðþreyttur." Fyrir því nefndu menn hann Edóm. 31En Jakob mælti: "Seldu mér fyrst frumburðarrétt þinn." 32Og Esaú mælti: "Ég er kominn í dauðann, hvað stoðar mig frumburðarréttur minn?" 33Og Jakob mælti: "Vinn þú mér þá fyrst eið að því!" Og hann vann honum eiðinn og seldi Jakob frumburðarrétt sinn. 34En Jakob gaf Esaú brauð og baunarétt, og hann át og drakk og stóð upp og gekk burt. Þannig lítilsvirti Esaú frumburðarrétt sinn.
Ísak og Abímelek26
1Hallæri varð í landinu, annað hallæri en hið fyrra, sem var á dögum Abrahams. Fór þá Ísak til Abímeleks Filistakonungs í Gerar. 2Og Drottinn birtist honum og mælti: "Far þú ekki til Egyptalands. Ver þú kyrr í því landi, sem ég segi þér. 3Dvel þú um hríð í þessu landi, og ég mun vera með þér og blessa þig, því að þér og niðjum þínum mun ég gefa öll þessi lönd, og ég mun halda þann eið, sem ég sór Abraham, föður þínum. 4Og ég mun margfalda niðja þína sem stjörnur himinsins og gefa niðjum þínum öll þessi lönd, og af þínu afkvæmi skulu allar þjóðir á jörðinni blessun hljóta, 5af því að Abraham hlýddi minni röddu og varðveitti boðorð mín, skipanir mínar, ákvæði og lög."6Og Ísak staðnæmdist í Gerar. 7Og er menn þar spurðu um konu hans, sagði hann: "Hún er systir mín," því að hann þorði ekki að segja: "Hún er kona mín." "Ella kynnu," hugsaði hann, "menn þar að myrða mig vegna Rebekku, af því að hún er fríð sýnum." 8Og svo bar við, er hann hafði verið þar um hríð, að Abímelek Filistakonungur leit út um gluggann og sá, að Ísak lét vel að Rebekku konu sinni. 9Þá kallaði Abímelek á Ísak og mælti: "Sjá, vissulega er hún kona þín. Og hvernig gast þú sagt: ,Hún er systir mín'?" Og Ísak sagði við hann: "Ég hugsaði, að ella mundi ég láta lífið fyrir hennar sakir." 10Og Abímelek mælti: "Hví hefir þú gjört oss þetta? Hæglega gat það viljað til, að einhver af lýðnum hefði lagst með konu þinni, og hefðir þú þá leitt yfir oss syndasekt." 11Síðan bauð Abímelek öllum landslýðnum og mælti: "Hver sem snertir þennan mann og konu hans, skal vissulega deyja." 12Og Ísak sáði í þessu landi og uppskar hundraðfalt á því ári, því að Drottinn blessaði hann. 13Og maðurinn efldist og auðgaðist meir og meir, uns hann var orðinn stórauðugur. 14Og hann átti sauðahjarðir og nautahjarðir og margt þjónustufólk, svo að Filistar öfunduðu hann.
Sáttmáli Ísaks við Abímelek15Alla þá brunna, sem þjónar föður Ísaks höfðu grafið á dögum Abrahams, föður hans, byrgðu Filistar og fylltu með mold. 16Og Abímelek sagði við Ísak: "Far þú burt frá oss, því að þú ert orðinn miklu voldugri en vér." 17Þá fór Ísak þaðan og tók sér bólfestu í Gerardal og bjó þar. 18Og Ísak lét aftur grafa upp brunnana, sem þeir höfðu grafið á dögum Abrahams föður hans og Filistar höfðu aftur byrgt eftir dauða Abrahams, og gaf þeim hin sömu heiti sem faðir hans hafði gefið þeim.
19Þrælar Ísaks grófu í dalnum og fundu þar brunn lifandi vatns. 20En fjárhirðar í Gerar deildu við fjárhirða Ísaks og sögðu: "Vér eigum vatnið." Og hann nefndi brunninn Esek, af því að þeir höfðu þráttað við hann. 21Þá grófu þeir annan brunn, en deildu einnig um hann, og hann nefndi hann Sitna. 22Eftir það fór hann þaðan og gróf enn brunn. En um hann deildu þeir ekki, og hann nefndi hann Rehóbót og sagði: "Nú hefir Drottinn rýmkað um oss, svo að vér megum vaxa í landinu."
23Og þaðan fór hann upp til Beerseba. 24Þá hina sömu nótt birtist Drottinn honum og mælti:
"Ég er Guð Abrahams, föður þíns. Óttast þú eigi, því að ég er með þér. Og ég mun blessa þig og margfalda afkvæmi þitt fyrir sakir Abrahams, þjóns míns."
25Og hann reisti þar altari og ákallaði nafn Drottins og setti þar tjald sitt, og þrælar Ísaks grófu þar brunn.
26Þá kom Abímelek til hans frá Gerar og Akúsat, vinur hans, og Píkól, hershöfðingi hans. 27Þá sagði Ísak við þá: "Hví komið þér til mín, þar sem þér þó hatið mig og hafið rekið mig burt frá yður?" 28En þeir svöruðu: "Vér höfum berlega séð, að Drottinn er með þér. Fyrir því sögðum vér: ,Eiður sé milli vor, milli vor og þín,' og vér viljum gjöra við þig sáttmála: 29Þú skalt oss ekki mein gjöra, svo sem vér höfum eigi snortið þig og svo sem vér höfum eigi gjört þér nema gott og látið þig fara í friði, því að þú ert nú blessaður af Drottni." 30Eftir það gjörði hann þeim veislu, og þeir átu og drukku. 31Og árla morguninn eftir unnu þeir hver öðrum eiða. Og Ísak lét þá í burt fara, og þeir fóru frá honum í friði.
32Þann sama dag bar svo við, að þrælar Ísaks komu og sögðu honum frá brunninum, sem þeir höfðu grafið, og mæltu við hann: "Vér höfum fundið vatn." 33Og hann nefndi hann Síba. Fyrir því heitir borgin Beerseba allt til þessa dags.
34Er Esaú var fertugur að aldri, gekk hann að eiga Júdít, dóttur Hetítans Beerí, og Basmat, dóttur Hetítans Elons. 35Og var þeim Ísak og Rebekku sár skapraun að þeim.
Jakob nær blessun föður síns með vélráðum27
1Svo bar til, er Ísak var orðinn gamall og augu hans döpruðust, svo að hann gat ekki séð, að hann kallaði á Esaú, eldri son sinn, og mælti til hans: "Sonur minn!" Og hann svaraði honum: "Hér er ég." 2Og hann sagði: "Sjá, ég er orðinn gamall og veit ekki, nær ég muni deyja. 3Tak þú nú veiðigögn þín, örvamæli þinn og boga, og far þú á heiðar og veið mér villidýr. 4Og tilreið mér ljúffengan rétt, sem mér geðjast að, og fær mér hann, að ég megi eta, svo að sál mín blessi þig, áður en ég dey."5En Rebekka heyrði, hvað Ísak talaði við Esaú son sinn. Og er Esaú var farinn út á heiðar til að veiða villidýr og hafa heim með sér, 6mælti Rebekka við Jakob son sinn á þessa leið: "Sjá, ég heyrði föður þinn tala við Esaú bróður þinn og segja: 7,Fær þú mér villibráð og tilreið mér ljúffengan rétt, að ég megi eta og blessa þig í augsýn Drottins, áður en ég dey.' 8Og hlýð þú mér nú, sonur minn, og gjör sem ég segi þér. 9Far þú til hjarðarinnar og fær mér tvö væn hafurkið úr henni, að ég megi tilreiða föður þínum ljúffengan rétt, sem honum geðjast að, 10og skalt þú færa hann föður þínum, að hann megi eta, svo að hann blessi þig, áður en hann deyr." 11En Jakob sagði við Rebekku móður sína: "Gáðu að, Esaú bróðir minn er loðinn, en ég er snöggur. 12Vera má að faðir minn þreifi á mér og þyki sem ég hafi viljað dára sig. Mun ég þá leiða yfir mig bölvun, en ekki blessun." 13En móðir hans sagði við hann: "Yfir mig komi sú bölvun, sonur minn. Hlýð þú mér aðeins. Farðu og sæktu mér kiðin." 14Þá fór hann og sótti þau og færði móður sinni. Og móðir hans tilreiddi ljúffengan rétt, sem föður hans geðjaðist að. 15Og Rebekka tók klæðnað góðan af Esaú, eldri syni sínum, sem hún hafði hjá sér í húsinu, og færði Jakob, yngri son sinn, í hann. 16En kiðskinnin lét hún um hendur hans og um hálsinn, þar sem hann var hárlaus. 17Og hún fékk Jakob syni sínum í hendur hinn ljúffenga rétt og brauðið, sem hún hafði gjört.
18Þá gekk hann inn til föður síns og mælti: "Faðir minn!" Og hann svaraði: "Hér er ég. Hver ert þú, son minn?" 19Og Jakob sagði við föður sinn: "Ég er Esaú, sonur þinn frumgetinn. Ég hefi gjört sem þú bauðst mér. Sestu nú upp og et af villibráð minni, svo að sál þín blessi mig." 20Og Ísak sagði við son sinn: "Hvernig máttir þú svo skjótlega finna nokkuð, son minn?" Og hann mælti: "Drottinn, Guð þinn, lét það verða á vegi mínum." 21Þá sagði Ísak við Jakob: "Kom þú samt nær, að ég megi þreifa á þér, son minn, hvort þú sannlega ert Esaú sonur minn eða ekki." 22Jakob gekk þá að Ísak föður sínum, og hann þreifaði á honum og mælti: "Röddin er rödd Jakobs, en hendurnar eru hendur Esaú." 23Og hann þekkti hann ekki, því að hendur hans voru loðnar eins og hendur Esaú bróður hans, og hann blessaði hann. 24Og hann mælti: "Ert þú þá Esaú sonur minn?" Og hann svaraði: "Ég er hann." 25Þá sagði hann: "Kom þú þá með það, að ég eti af villibráð sonar míns, svo að sál mín megi blessa þig." Og hann færði honum það og hann át, og hann bar honum vín og hann drakk. 26Og Ísak faðir hans sagði við hann: "Kom þú nær og kyss þú mig, son minn!" 27Og hann gekk að honum og kyssti hann. Kenndi hann þá ilm af klæðum hans og blessaði hann og mælti:
- Sjá, ilmurinn af syni mínum
- er sem ilmur af akri, sem Drottinn hefir blessað.
- 28Guð gefi þér dögg af himni og feiti jarðar
- og gnægð korns og víns.
- 29Þjóðir skulu þjóna þér
- og lýðir lúta þér.
- Þú skalt vera herra bræðra þinna,
- og synir móður þinnar skulu lúta þér.
- Bölvaður sé hver sá, sem bölvar þér,
- en blessaður sé hver sá, sem blessar þig!
30Er Ísak hafði lokið blessuninni yfir Jakob og Jakob var nýgenginn út frá Ísak föður sínum, þá kom Esaú bróðir hans heim úr veiðiför sinni. 31Og hann tilreiddi einnig ljúffengan rétt og bar föður sínum, og hann mælti við föður sinn: "Rístu upp, faðir minn, og et af villibráð sonar þíns, svo að sál þín blessi mig." 32En Ísak faðir hans sagði við hann: "Hver ert þú?" Og hann mælti: "Ég er sonur þinn, þinn frumgetinn son Esaú." 33Þá varð Ísak felmtsfullur harla mjög og mælti: "Hver var það þá, sem veiddi villidýr og færði mér, svo að ég át af því öllu, áður en þú komst, og blessaði hann? Blessaður mun hann og verða."
34En er Esaú heyrði þessi orð föður síns, hljóðaði hann upp yfir sig hátt mjög og sáran og mælti við föður sinn: "Blessa þú mig líka, faðir minn!" 35Og hann mælti: "Bróðir þinn kom með vélráðum og tók blessun þína." 36Þá mælti hann: "Vissulega er hann réttnefndur Jakob, því að tvisvar sinnum hefir hann nú leikið á mig. Frumburðarrétt minn hefir hann tekið, og nú hefir hann einnig tekið blessun mína." Því næst mælti hann: "Hefir þú þá enga blessun geymt mér?" 37Og Ísak svaraði og sagði við Esaú: "Sjá, ég hefi skipað hann herra yfir þig, og ég hefi gefið honum alla bræður sína að þrælum, og ég hefi séð honum fyrir korni og víni. Hvað get ég þá gjört fyrir þig, sonur minn?" 38Og Esaú mælti við föður sinn: "Hefir þú ekki nema þessa einu blessun til, faðir minn? Blessa mig líka, faðir minn!" Og Esaú tók að gráta hástöfum. 39Þá svaraði Ísak faðir hans og sagði við hann:
- Fjarri jarðarinnar feiti skal bústaður þinn vera
- og án daggar af himni ofan.
- 40En af sverði þínu muntu lifa,
- og bróður þínum muntu þjóna.
- En svo mun fara, er þú neytir allrar orku þinnar,
- að þú munt brjóta sundur ok hans af hálsi þínum.
41Esaú lagði hatur á Jakob sakir þeirrar blessunar, sem faðir hans hafði gefið honum. Og Esaú hugsaði með sjálfum sér: "Þess mun eigi langt að bíða, að menn munu syrgja föður minn látinn, og skal ég þá drepa Jakob bróður minn." 42Og Rebekku bárust orð Esaú, eldri sonar hennar. Þá sendi hún og lét kalla Jakob, yngri son sinn, og mælti við hann: "Sjá, Esaú bróðir þinn hyggur á hefndir við þig og ætlar að drepa þig. 43Og far þú nú að ráðum mínum, sonur minn! Tak þig upp og flý til Labans, bróður míns í Harran, 44og dvel hjá honum nokkurn tíma, þangað til heift bróður þíns sefast, 45þangað til bróður þínum er runnin reiðin við þig og hann hefir gleymt því, sem þú hefir honum í móti gjört. Þá mun ég senda eftir þér og láta sækja þig þangað. Hví skyldi ég missa ykkur báða á einum degi?"
Jakob fer til Mesópótamíu46Rebekka mælti við Ísak: "Ég er orðin leið á lífinu vegna Hets dætra. Ef Jakob tæki sér konu slíka sem þessar eru, meðal Hets dætra, meðal hérlendra kvenna, hví skyldi ég þá lengur lifa?"
28
1Þá kallaði Ísak Jakob til sín og blessaði hann. Og hann bauð honum og sagði við hann: "Þú skalt eigi taka þér konu af Kanaans dætrum. 2Tak þig upp og far til Mesópótamíu, í hús Betúels móðurföður þíns, og tak þér þar konu af dætrum Labans móðurbróður þíns. 3Og Almáttugur Guð blessi þig og gjöri þig frjósaman og margfaldi þig, svo að þú verðir að mörgum kynkvíslum. 4Hann gefi þér blessun Abrahams, þér og niðjum þínum með þér, að þú megir eignast það land, er þú býr í sem útlendingur og Guð gaf Abraham."5Síðan sendi Ísak Jakob burt, og hann fór til Mesópótamíu, til Labans Betúelssonar hins arameíska, bróður Rebekku, móður þeirra Jakobs og Esaú.
6En Esaú varð þess vís, að Ísak hafði blessað Jakob og sent hann til Mesópótamíu til að taka sér þar konu, að hann hafði blessað hann, boðið honum og sagt: "Þú skalt ekki taka þér konu af Kanaans dætrum," 7og að Jakob hafði hlýðnast föður sínum og móður sinni og farið til Mesópótamíu. 8Þá sá Esaú, að Kanaans dætur geðjuðust eigi Ísak föður hans. 9Fór Esaú því til Ísmaels og tók Mahalat, dóttur Ísmaels Abrahamssonar, systur Nebajóts, sér fyrir konu, auk þeirra kvenna, sem hann átti áður.
Draumur Jakobs10Jakob lagði af stað frá Beerseba og hélt á leið til Harran. 11Og hann kom á stað nokkurn og var þar um nóttina, því að sól var runnin. Og hann tók einn af steinum þeim, er þar voru, og lagði undir höfuð sér, lagðist því næst til svefns á þessum stað. 12Þá dreymdi hann. Honum þótti stigi standa á jörðu og efri endi hans ná til himins, og sjá, englar Guðs fóru upp og ofan eftir stiganum.
13Og sjá, Drottinn stóð hjá honum og sagði: "Ég er Drottinn, Guð Abrahams föður þíns og Guð Ísaks. Landið, sem þú hvílist á, mun ég gefa þér og niðjum þínum. 14Og niðjar þínir skulu verða sem duft jarðar, og þú skalt útbreiðast til vesturs og austurs, norðurs og suðurs, og af þér munu allar ættkvíslir jarðarinnar blessun hljóta og af þínu afkvæmi. 15Og sjá, ég er með þér og varðveiti þig, hvert sem þú fer, og ég mun aftur flytja þig til þessa lands, því að ekki mun ég yfirgefa þig fyrr en ég hefi gjört það, sem ég hefi þér heitið."
16Þá vaknaði Jakob af svefni sínum og mælti: "Sannlega er Drottinn á þessum stað, og ég vissi það ekki!" 17Og ótta sló yfir hann og hann sagði: "Hversu hræðilegur er þessi staður! Hér er vissulega Guðs hús, og hér er hlið himinsins!" 18Og Jakob reis árla um morguninn og tók steininn, sem hann hafði haft undir höfðinu, og reisti hann upp til merkis og hellti olíu yfir hann. 19Og hann nefndi þennan stað Betel, en áður hafði borgin heitið Lúz.
20Og Jakob gjörði heit og mælti: "Ef Guð verður með mér og varðveitir mig á þessari ferð, sem ég nú fer, og gefur mér brauð að eta og föt að klæðast, 21og ef ég kemst farsællega aftur heim í hús föður míns, þá skal Drottinn vera minn Guð, 22og þessi steinn, sem ég hefi upp reist til merkis, skal verða Guðs hús, og ég skal færa þér tíundir af öllu, sem þú gefur mér."
Jakob og Rakel hittast29
1Jakob hélt áfram ferð sinni og kom til lands austurbyggja. 2Og er hann litaðist um, sjá, þá var þar brunnur á mörkinni, og sjá, þar lágu þrjár sauðahjarðir við hann, því að þeir voru vanir að vatna hjörðunum við þennan brunn. En steinn mikill lá yfir munna brunnsins. 3Og er allar hjarðirnar voru þar saman reknar, veltu þeir steininum frá munna brunnsins og vötnuðu fénu, síðan létu þeir steininn aftur yfir munna brunnsins á sinn stað. 4Þá sagði Jakob við þá: "Kæru bræður, hvaðan eruð þér?" 5Þeir svöruðu: "Vér erum frá Harran." Og hann mælti til þeirra: "Þekkið þér Laban Nahorsson?" Þeir svöruðu: "Já, vér þekkjum hann." 6Og hann mælti til þeirra: "Líður honum vel?" Þeir svöruðu: "Honum líður vel. Og sjá, þarna kemur Rakel dóttir hans með féð." 7Og hann mælti: "Sjá, enn er mikið dags eftir og ekki kominn tími til að reka saman fénaðinn. Brynnið fénu, farið síðan og haldið því á haga." 8Þeir svöruðu: "Það getum vér ekki fyrr en allar hjarðirnar eru saman reknar, þá velta þeir steininum frá munna brunnsins, og þá brynnum vér fénu." 9Áður en hann hafði lokið tali sínu við þá, kom Rakel með féð, sem faðir hennar átti, því að hún sat hjá. 10En er Jakob sá Rakel, dóttur Labans móðurbróður síns, og fé Labans móðurbróður síns, þá fór hann til og velti steininum frá munna brunnsins og vatnaði fé Labans móðurbróður síns. 11Og Jakob kyssti Rakel og tók að gráta hástöfum. 12Og Jakob sagði Rakel, að hann væri frændi föður hennar og að hann væri sonur Rebekku. En hún hljóp og sagði þetta föður sínum. 13En er Laban fékk fregnina um Jakob systurson sinn, gekk hann skjótlega á móti honum, faðmaði hann að sér og minntist við hann, og leiddi hann inn í hús sitt. En hann sagði Laban alla sögu sína. 14Þá sagði Laban við hann: "Sannlega ert þú hold mitt og bein!" Og hann var hjá honum heilan mánuð.
Jakob kvænist Leu og Rakel15Laban sagði við Jakob: "Skyldir þú þjóna mér fyrir ekki neitt, þó að þú sért frændi minn? Seg mér, hvert kaup þitt skuli vera." 16En Laban átti tvær dætur. Hét hin eldri Lea, en Rakel hin yngri. 17Og Lea var daufeygð, en Rakel var bæði vel vaxin og fríð sýnum. 18Og Jakob elskaði Rakel og sagði: "Ég vil þjóna þér í sjö ár fyrir Rakel, yngri dóttur þína." 19Laban svaraði: "Betra er að ég gefi þér hana en að ég gefi hana öðrum manni. Ver þú kyrr hjá mér." 20Síðan vann Jakob fyrir Rakel í sjö ár, og þótti honum sem fáir dagar væru, sakir ástar þeirrar, er hann bar til hennar. 21Og Jakob sagði við Laban: "Fá mér nú konu mína, því að minn ákveðni tími er liðinn, að ég megi ganga inn til hennar." 22Þá bauð Laban til sín öllum mönnum í þeim stað og hélt veislu. 23En um kveldið tók hann Leu dóttur sína og leiddi hana inn til hans, og hann gekk í sæng með henni. 24Og Laban fékk henni Silpu ambátt sína, að hún væri þerna Leu dóttur hans. 25En um morguninn, sjá, þá var það Lea. Og hann sagði við Laban: "Hví hefir þú gjört mér þetta? Hefi ég ekki unnið hjá þér fyrir Rakel? Hví hefir þú þá svikið mig?" 26Og Laban sagði: "Það er ekki siður í voru landi að gifta fyrr frá sér yngri dótturina en hina eldri. 27Enda þú út brúðkaupsviku þessarar, þá skulum vér einnig gefa þér hina fyrir þá vinnu, sem þú munt vinna hjá mér í enn önnur sjö ár." 28Og Jakob gjörði svo og endaði út vikuna með henni. Þá gifti hann honum Rakel dóttur sína. 29Og Laban fékk Rakel dóttur sinni Bílu ambátt sína fyrir þernu. 30Og hann gekk einnig í sæng með Rakel og hann elskaði Rakel meira en Leu. Og hann vann hjá honum í enn önnur sjö ár.
Börn Jakobs31Er Drottinn sá, að Lea var fyrirlitin, opnaði hann móðurlíf hennar, en Rakel var óbyrja. 32Og Lea varð þunguð og ól son og nefndi hann Rúben, því að hún sagði: "Drottinn hefir séð raunir mínar. Nú mun bóndi minn elska mig." 33Og hún varð þunguð í annað sinn og ól son. Þá sagði hún: "Drottinn hefir heyrt að ég er fyrirlitin. Fyrir því hefir hann einnig gefið mér þennan son." Og hún nefndi hann Símeon. 34Og enn varð hún þunguð og ól son. Þá sagði hún: "Nú mun bóndi minn loks hænast að mér, því að ég hefi fætt honum þrjá sonu." Fyrir því nefndi hún hann Leví. 35Og enn varð hún þunguð og ól son og sagði: "Nú vil ég vegsama Drottin." Fyrir því nefndi hún hann Júda. Og hún lét af að eiga börn.
30
1En er Rakel sá, að hún ól Jakob ekki börn, öfundaði hún systur sína og sagði við Jakob: "Láttu mig eignast börn, ella mun ég deyja." 2Jakob reiddist þá við Rakel og sagði: "Er ég þá Guð? Það er hann sem hefir synjað þér lífsafkvæmis." 3Þá sagði hún: "Þarna er Bíla ambátt mín. Gakk þú inn til hennar, að hún megi fæða á skaut mitt og afla mér afkvæmis." 4Og hún gaf honum Bílu ambátt sína fyrir konu, og Jakob gekk inn til hennar. 5Og Bíla varð þunguð og ól Jakob son. 6Þá sagði Rakel: "Guð hefir rétt hluta minn og einnig bænheyrt mig og gefið mér son." Fyrir því nefndi hún hann Dan. 7Og Bíla, ambátt Rakelar, varð þunguð í annað sinn og ól Jakob annan son. 8Þá sagði Rakel: "Mikið stríð hefi ég þreytt við systur mína og unnið sigur." Og hún nefndi hann Naftalí.9Er Lea sá, að hún lét af að eiga börn, tók hún Silpu ambátt sína og gaf Jakob hana fyrir konu. 10Og Silpa, ambátt Leu, ól Jakob son. 11Þá sagði Lea: "Til heilla!" Og hún nefndi hann Gað. 12Og Silpa, ambátt Leu, ól Jakob annan son. 13Þá sagði Lea: "Sæl er ég, því að allar konur munu mig sæla segja." Og hún nefndi hann Asser.
14Rúben gekk eitt sinn út um hveitiskurðartímann og fann ástarepli á akrinum og færði þau Leu móður sinni. Þá sagði Rakel við Leu: "Gef þú mér nokkuð af ástareplum sonar þíns." 15En hún svaraði: "Er það ekki nóg, að þú tekur bónda minn frá mér, viltu nú einnig taka ástarepli sonar míns?" Og Rakel mælti: "Hann má þá sofa hjá þér í nótt fyrir ástarepli sonar þíns."
16Er Jakob kom heim um kveldið af akrinum, gekk Lea út á móti honum og sagði: "Þú átt að ganga inn til mín, því að ég hefi keypt þig fyrir ástarepli sonar míns." Og hann svaf hjá henni þá nótt. 17En Guð bænheyrði Leu, og hún varð þunguð og ól Jakob hinn fimmta son og sagði: 18"Guð hefir launað mér það, að ég gaf bónda mínum ambátt mína." Og hún nefndi hann Íssakar. 19Og Lea varð enn þunguð og ól Jakob hinn sjötta son. 20Þá sagði Lea: "Guð hefir gefið mér góða gjöf. Nú mun bóndi minn búa við mig, því að ég hefi alið honum sex sonu." Og hún nefndi hann Sebúlon. 21Eftir það ól hún dóttur og nefndi hana Dínu.
22Þá minntist Guð Rakelar og bænheyrði hana og opnaði móðurlíf hennar. 23Og hún varð þunguð og ól son og sagði: "Guð hefir numið burt smán mína." 24Og hún nefndi hann Jósef og sagði: "Guð bæti við mig öðrum syni!"
Jakob eignast mikinn fénað25Er Rakel hafði alið Jósef, sagði Jakob við Laban: "Leyf þú mér nú að fara, að ég megi halda heim til átthaga minna og ættlands míns. 26Fá mér konur mínar og börn mín, sem ég hefi þjónað þér fyrir, að ég megi fara, því að þú veist, hvernig ég hefi þjónað þér." 27Þá sagði Laban við hann: "Hafi ég fundið náð í augum þínum, þá vertu kyrr. Ég hefi tekið eftir því, að Drottinn hefir blessað mig fyrir þínar sakir." 28Og hann mælti: "Set sjálfur upp kaup þitt við mig, og skal ég gjalda það." 29Jakob sagði við hann: "Þú veist sjálfur, hvernig ég hefi þjónað þér og hvað fénaður þinn er orðinn hjá mér. 30Því að lítið var það, sem þú áttir, áður en ég kom, en það hefir aukist margfaldlega, og Drottinn hefir blessað þig við hvert mitt fótmál. Og auk þess, hvenær á ég þá að veita forsjá húsi sjálfs mín?" 31Og Laban mælti: "Hvað skal ég gefa þér?" En Jakob sagði: "Þú skalt ekkert gefa mér, en viljir þú gjöra þetta, sem ég nú segi, þá vil ég enn þá halda fé þínu til haga og gæta þess. 32Ég ætla í dag að ganga innan um allt fé þitt og skilja úr því hverja flekkótta og spreklótta kind. Og hver svört kind meðal sauðanna og hið spreklótta og flekkótta meðal geitanna, það skal vera kaup mitt. 33Og ráðvendni mín skal eftirleiðis bera mér vitni, er þú kemur að skoða kaup mitt: Allt sem ekki er flekkótt og spreklótt meðal minna geita og svart meðal minna sauða, skal teljast stolið." 34Og Laban sagði: "Svo skal þá vera sem þú hefir sagt."
35Á þeim degi skildi Laban frá alla rílóttu og spreklóttu hafrana, og allar flekkóttu og spreklóttu geiturnar - allt það, sem hafði á sér einhvern hvítan díla, - og allt hið svarta meðal sauðanna og fékk sonum sínum. 36Og hann lét vera þriggja daga leið milli sín og Jakobs. En Jakob gætti þeirrar hjarðar Labans, sem eftir varð.
37Jakob tók sér stafi af grænni ösp, möndluviði og hlyni og skóf á þá hvítar rákir með því að nekja hið hvíta á stöfunum. 38Því næst lagði hann stafina, sem hann hafði birkt, í þrærnar, í vatnsrennurnar, sem féð kom að drekka úr, beint fyrir framan féð. En ærnar fengu, er þær komu að drekka. 39Þannig fengu ærnar uppi yfir stöfunum, og ærnar áttu rílótt, flekkótt og spreklótt lömb.
40Jakob skildi lömbin úr og lét féð horfa á hið rílótta og allt hið svarta í fé Labans. Þannig kom hann sér upp sérstökum fjárhópum og lét þá ekki saman við hjörð Labans. 41Og um allan göngutíma vænu ánna lagði Jakob stafina í þrærnar fyrir framan féð, svo að þær skyldu fá uppi yfir stöfunum. 42En er rýru ærnar gengu, lagði hann þá þar ekki. Þannig fékk Laban rýra féð, en Jakob hið væna. 43Og maðurinn varð stórauðugur og eignaðist mikinn fénað, ambáttir og þræla, úlfalda og asna.
Jakob flýr frá Laban31
1Nú frétti Jakob svofelld ummæli Labans sona: "Jakob hefir dregið undir sig aleigu föður vors, og af eigum föður vors hefir hann aflað sér allra þessara auðæfa." 2Og Jakob sá á yfirbragði Labans, að hann bar ekki sama þel til sín sem áður. 3Þá sagði Drottinn við Jakob: "Hverf heim aftur í land feðra þinna og til ættfólks þíns, og ég mun vera með þér." 4Þá sendi Jakob og lét kalla þær Rakel og Leu út í hagann, þangað sem hjörð hans var. 5Og hann sagði við þær: "Ég sé á yfirbragði föður ykkar, að hann ber ekki sama þel til mín sem áður; en Guð föður míns hefir verið með mér. 6Og það vitið þið sjálfar, að ég hefi þjónað föður ykkar af öllu mínu megni. 7En faðir ykkar hefir svikið mig og tíu sinnum breytt kaupi mínu, en Guð hefir ekki leyft honum að gjöra mér mein. 8Þegar hann sagði: ,Hið flekkótta skal vera kaup þitt,' - fæddi öll hjörðin flekkótt, og þegar hann sagði: ,Hið rílótta skal vera kaup þitt,' - þá fæddi öll hjörðin rílótt. 9Og þannig hefir Guð tekið fénaðinn frá föður ykkar og gefið mér hann. 10Og um fengitíma hjarðarinnar hóf ég upp augu mín og sá í draumi, að hafrarnir, sem hlupu á féð, voru rílóttir, flekkóttir og dílóttir. 11Og engill Guðs sagði við mig í draumnum: ,Jakob!' Og ég svaraði: ,Hér er ég.' 12Þá mælti hann: ,Lít upp augum þínum og horfðu á: Allir hafrarnir, sem hlaupa á féð, eru rílóttir, flekkóttir og dílóttir; því að ég hefi séð allt, sem Laban hefir gjört þér. 13Ég er Betels Guð, þar sem þú smurðir merkisstein, þar sem þú gjörðir mér heit. Tak þig nú upp, far burt úr þessu landi og hverf aftur til ættlands þíns.'"14Þá svöruðu þær Rakel og Lea og sögðu við hann: "Höfum við nokkra hlutdeild og arf framar í húsi föður okkar? 15Álítur hann okkur ekki vandalausar, þar sem hann hefir selt okkur? Og verði okkar hefir hann og algjörlega eytt. 16Aftur á móti eigum við og börn okkar allan þann auð, sem Guð hefir tekið frá föður okkar. Og gjör þú nú allt, sem Guð hefir boðið þér."
17Þá tók Jakob sig upp og setti börn sín og konur upp á úlfaldana 18og hafði á burt allan fénað sinn og allan fjárhlut sinn, sem hann hafði aflað sér, fjáreign sína, sem hann hafði aflað sér í Mesópótamíu, og hóf ferð sína til Ísaks föður síns í Kanaanlandi.
19Þegar Laban var farinn að klippa sauði sína, þá stal Rakel húsgoðum föður síns. 20Og Jakob blekkti Laban hinn arameíska, með því að hann sagði honum eigi frá því, að hann mundi flýja. 21Þannig flýði hann með allt, sem hann átti. Og hann tók sig upp og fór yfir fljótið og stefndi á Gíleaðsfjöll.
22Laban var sagt það á þriðja degi, að Jakob væri flúinn. 23Þá tók hann frændur sína með sér og elti hann sjö dagleiðir og náði honum á Gíleaðsfjöllum. 24En Guð kom um nóttina til Labans hins arameíska í draumi og sagði við hann: "Gæt þín, að þú mælir ekkert styggðarorð til Jakobs." 25Og Laban náði Jakob, sem hafði sett tjöld sín á fjöllunum, og Laban tjaldaði einnig á Gíleaðsfjöllum með frændum sínum. 26Þá mælti Laban við Jakob: "Hvað hefir þú gjört, að þú skyldir blekkja mig og fara burt með dætur mínar, eins og þær væru herteknar? 27Hví flýðir þú leynilega og blekktir mig og lést mig ekki af vita, svo að ég mætti fylgja þér á veg með fögnuði og söng, með bumbum og gígjum, 28og leyfðir mér ekki að kyssa dætrasonu mína og dætur? Óviturlega hefir þér nú farist. 29Það er á mínu valdi að gjöra yður illt, en Guð föður yðar mælti svo við mig í nótt, er var: ,Gæt þín, að þú mælir ekkert styggðarorð til Jakobs.' 30Og nú munt þú burt hafa farið, af því að þig fýsti svo mjög heim til föður þíns, en hví hefir þú stolið goðum mínum?"
31Þá svaraði Jakob og mælti til Labans: "Af því að ég var hræddur, því að ég hugsaði, að þú kynnir að slíta dætur þínar frá mér. 32En sá skal ekki lífi halda, sem þú finnur hjá goð þín. Rannsaka þú í viðurvist frænda vorra, hvað hjá mér er af þínu, og tak það til þín." En Jakob vissi ekki, að Rakel hafði stolið þeim.
33Laban gekk í tjald Jakobs og tjald Leu og í tjald beggja ambáttanna, en fann ekkert. Og hann fór út úr tjaldi Leu og gekk í tjald Rakelar. 34En Rakel hafði tekið húsgoðin og lagt þau í úlfaldasöðulinn og setst ofan á þau. Og Laban leitaði vandlega í öllu tjaldinu og fann ekkert. 35Og hún sagði við föður sinn: "Herra minn, reiðstu ekki, þótt ég geti ekki staðið upp fyrir þér, því að mér fer að eðlisháttum kvenna." Og hann leitaði og fann ekki húsgoðin. 36Þá reiddist Jakob og átaldi Laban og sagði við Laban: "Hvað hefi ég misgjört, hvað hefi ég brotið, að þú eltir mig svo ákaflega? 37Þú hefir leitað vandlega í öllum farangri mínum; hvað hefir þú fundið af öllum þínum búshlutum? Legg það hér fram í viðurvist frænda minna og frænda þinna, að þeir dæmi okkar í milli. 38Ég hefi nú hjá þér verið í tuttugu ár. Ær þínar og geitur hafa ekki látið lömbunum, og hrúta hjarðar þinnar hefi ég ekki etið. 39Það sem dýrrifið var, bar ég ekki heim til þín, það bætti ég sjálfur, þú krafðist þess af mér, hvort sem það hafði verið tekið á degi eða nóttu. 40Ég átti þá ævi, að á daginn þjakaði mér hiti og á nóttinni kuldi, og eigi kom mér svefn á augu. 41Í tuttugu ár hefi ég nú verið á heimili þínu. Hefi ég þjónað þér í fjórtán ár fyrir báðar dætur þínar og í sex ár fyrir hjörð þína, og þú hefir breytt kaupi mínu tíu sinnum. 42Hefði ekki Guð föður míns, Abrahams Guð og Ísaks ótti, liðsinnt mér, þá hefðir þú nú látið mig tómhentan burt fara. En Guð hefir séð þrautir mínar og strit handa minna, og hann hefir dóm upp kveðið í nótt er var."
Sáttmáli Jakobs og Labans43Þá svaraði Laban og sagði við Jakob: "Dæturnar eru mínar dætur og börnin eru mín börn og hjörðin er mín hjörð, og allt, sem þú sér, heyrir mér til. En hvað skyldi ég gjöra þessum dætrum mínum í dag, eða börnum þeirra, sem þær hafa alið? 44Gott og vel, við skulum gjöra sáttmála, ég og þú, og hann skal vera vitnisburður milli mín og þín."
45Þá tók Jakob stein og reisti hann upp til merkis.
46Og Jakob sagði við frændur sína: "Berið að steina." Og þeir báru að steina og gjörðu grjótvörðu, og þeir mötuðust þar á grjótvörðunni. 47Og Laban kallaði hana Jegar Sahadúta, en Jakob kallaði hana Galeð. 48Og Laban mælti: "Þessi varða skal vera vitni í dag milli mín og þín." Fyrir því kallaði hann hana Galeð, 49og Mispa, með því að hann sagði: "Drottinn sé á verði milli mín og þín, þá er við skiljum. 50Ef þú misþyrmir dætrum mínum og ef þú tekur þér fleiri konur auk dætra minna, þá gæt þess, að þótt enginn maður sé hjá okkur, er Guð samt vitni milli mín og þín." 51Og Laban sagði við Jakob: "Sjá þessa vörðu og sjá þennan merkisstein, sem ég hefi reist upp milli mín og þín! 52Þessi varða sé vitni þess og þessi merkissteinn vottur þess, að hvorki skal ég ganga fram hjá þessari vörðu til þín né þú ganga fram hjá þessari vörðu og þessum merkissteini til mín með illt í huga. 53Guð Abrahams og Guð Nahors, Guð föður þeirra, dæmi milli okkar." Og Jakob sór við ótta Ísaks föður síns. 54Og Jakob slátraði fórnardýrum á fjallinu og bauð frændum sínum til máltíðar, og þeir mötuðust og voru á fjallinu um nóttina.
55Laban reis árla næsta morgun og minntist við sonu sína og dætur og blessaði þau. Því næst hélt Laban af stað og hvarf aftur heim til sín.
32
1Jakob fór leiðar sinnar. Mættu honum þá englar Guðs. 2Og er Jakob sá þá, mælti hann: "Þetta eru herbúðir Guðs." Og hann nefndi þennan stað Mahanaím.
Jakob býst til að mæta Esaú3Jakob gjörði sendimenn á undan sér til Esaú bróður síns til Seír-lands, Edómhéraðs. 4Og hann bauð þeim og sagði: "Segið svo herra mínum Esaú: ,Svo segir þjónn þinn Jakob: Ég hefi dvalið hjá Laban og verið þar allt til þessa. 5Og ég hefi eignast uxa, asna og sauði, þræla og ambáttir, og sendi ég nú til herra míns að láta hann vita það, svo að ég megi finna náð í augum þínum.'"
6Sendimennirnir komu aftur til Jakobs og sögðu: "Vér komum til Esaú bróður þíns. Hann er sjálfur á leiðinni á móti þér og fjögur hundruð manns með honum." 7Þá varð Jakob mjög hræddur og kvíðafullur. Og hann skipti mönnunum, sem með honum voru, og sauðunum, nautunum og úlföldunum í tvo flokka. 8Og hann hugsaði: "Þó að Esaú ráðist á annan flokkinn og strádrepi hann, þá getur samt hinn flokkurinn komist undan."
9Og Jakob sagði: "Guð Abrahams föður míns og Guð Ísaks föður míns, Drottinn, þú sem sagðir við mig: ,Hverf heim aftur til lands þíns og til ættfólks þíns, og ég mun gjöra vel við þig,' - 10ómaklegur er ég allrar þeirrar miskunnar og allrar þeirrar trúfesti, sem þú hefir auðsýnt þjóni þínum. Því að með stafinn minn einn fór ég þá yfir Jórdan, en nú á ég yfir tveim flokkum að ráða. 11Æ, frelsa mig undan valdi bróður míns, undan valdi Esaú, því að ég óttast hann, að hann komi og höggvi oss niður sem hráviði. 12Og þú hefir sjálfur sagt: ,Ég mun vissulega gjöra vel við þig og gjöra niðja þína sem sand á sjávarströndu, er eigi verður talinn fyrir fjölda sakir.'" 13Og hann var þar þá nótt.
Og hann tók gjöf handa Esaú bróður sínum af því, sem hann hafði eignast: 14tvö hundruð geitur og tuttugu geithafra, tvö hundruð ásauðar og tuttugu hrúta, 15þrjátíu úlfaldahryssur með folöldum, fjörutíu kýr og tíu griðunga, tuttugu ösnur og tíu ösnufola. 16Og hann fékk þetta í hendur þjónum sínum, hverja hjörð út af fyrir sig, og mælti við þjóna sína: "Farið á undan mér og látið vera bil á milli hjarðanna." 17Og þeim, sem fyrstur fór, bauð hann á þessa leið: "Þegar Esaú bróðir minn mætir þér og spyr þig og segir: ,Hvers maður ert þú og hvert ætlar þú að fara og hver á þetta, sem þú rekur á undan þér?' 18þá skaltu segja: ,Þjónn þinn Jakob á það. Það er gjöf, sem hann sendir herra mínum Esaú. Og sjá, hann er sjálfur hér á eftir oss.'" 19Á sömu leið bauð hann hinum öðrum og þriðja og öllum þeim, sem hjarðirnar ráku, og mælti: "Þannig skuluð þér tala við Esaú, þegar þér hittið hann. 20Og þér skuluð einnig segja: ,Sjá, þjónn þinn Jakob kemur sjálfur á eftir oss.'" Því að hann hugsaði: "Ég ætla að blíðka hann með gjöfinni, sem fer á undan mér. Því næst vil ég sjá hann. Vera má, að hann taki mér þá blíðlega." 21Þannig fór gjöfin á undan honum, en sjálfur var hann þessa nótt í herbúðunum.
Jakobsglíman22Og Jakob lagði af stað um nóttina og tók báðar konur sínar og báðar ambáttir sínar og ellefu sonu sína og fór yfir Jabbok á vaðinu. 23Og hann tók þau og fór með þau yfir ána. Og hann fór yfir um með allt, sem hann átti.
24Jakob varð einn eftir, og maður nokkur glímdi við hann, uns dagsbrún rann upp. 25Og er hann sá, að hann gat ekki fellt hann, laust hann hann á mjöðmina, svo að Jakob gekk úr augnakörlunum, er hann glímdi við hann. 26Þá mælti hinn: "Slepptu mér, því að nú rennur upp dagsbrún." En hann svaraði: "Ég sleppi þér ekki, nema þú blessir mig." 27Þá sagði hann við hann: "Hvað heitir þú?" Hann svaraði: "Jakob." 28Þá mælti hann: "Eigi skalt þú lengur Jakob heita, heldur Ísrael, því að þú hefir glímt við Guð og menn og fengið sigur." 29Og Jakob spurði hann og mælti: "Seg mér heiti þitt." En hann svaraði: "Hvers vegna spyr þú mig að heiti?" Og hann blessaði hann þar. 30Og Jakob nefndi þennan stað Peníel, "því að ég hefi," kvað hann, "séð Guð augliti til auglitis og þó haldið lífi." 31Og er hann fór frá Penúel, rann sólin upp. Var hann þá haltur í mjöðminni. 32Fyrir því eta Ísraelsmenn allt til þessa dags ekki sinina, sem er ofan á augnakarlinum, því að hann hitti mjöðm Jakobs þar sem sinin er undir.
Esaú og Jakob sættast33
1Jakob hóf upp augu sín og sá Esaú koma og með honum fjögur hundruð manns. Skipti hann þá börnunum niður á Leu og Rakel og báðar ambáttirnar. 2Og hann lét ambáttirnar og þeirra börn vera fremst, þá Leu og hennar börn, og Rakel og Jósef aftast. 3En sjálfur gekk hann á undan þeim og laut sjö sinnum til jarðar, uns hann kom fast að bróður sínum. 4Þá hljóp Esaú á móti honum og faðmaði hann, lagði hendur um háls honum og kyssti hann, og þeir grétu. 5Og Esaú leit upp og sá konurnar og börnin og mælti: "Hvernig stendur á þessu fólki, sem með þér er?" Og hann svaraði: "Það eru börnin, sem Guð hefir af náð sinni gefið þjóni þínum." 6Þá gengu fram ambáttirnar og börn þeirra og hneigðu sig. 7Þá gekk og Lea fram og börn hennar og hneigðu sig, og síðan gengu Jósef og Rakel fram og hneigðu sig.8Esaú mælti: "Hvað skal allur þessi hópur, sem ég mætti?" Jakob svaraði: "Að ég megi finna náð í augum herra míns." 9Þá mælti Esaú: "Ég á nóg. Eig þú þitt, bróðir minn!" 10En Jakob sagði: "Eigi svo. Hafi ég fundið náð í augum þínum, þá þigg þú gjöfina af mér, því að þegar ég sá auglit þitt, var sem ég sæi Guðs auglit, og þú tókst náðarsamlega á móti mér. 11Ég bið þig, að þú þiggir gjöf mína, sem þér var færð, því að Guð hefir verið mér náðugur og ég hefi allsnægtir." Og hann lagði að honum, svo að hann þá gjöfina.
12Þá mælti Esaú: "Tökum okkur nú upp og höldum áfram, og skal ég fara á undan þér." 13En hann svaraði honum: "Þú sér, herra minn, að börnin eru þróttlítil og að í ferðinni eru lambær og kýr með kálfum, og ræki ég þær of hart einn dag, þá mundi öll hjörðin drepast. 14Fari herra minn á undan þjóni sínum, en ég mun halda á eftir í hægðum mínum, eins og fénaðurinn getur farið, sem ég rek, og eins og börnin geta farið, uns ég kem til herra míns í Seír." 15Þá mælti Esaú: "Þá vil ég þó láta eftir hjá þér nokkra af þeim mönnum, sem með mér eru." Hann svaraði: "Hver þörf er á því? Lát mig aðeins finna náð fyrir augum herra míns."
16Síðan fór Esaú þann sama dag leiðar sinnar heim aftur til Seír. 17Og Jakob hélt áfram til Súkkót og byggði sér hús, og handa fénaði sínum gjörði hann laufskála. Fyrir því heitir staðurinn Súkkót.
Jakob sest að hjá Síkem18Jakob kom heill á hófi til Síkemborgar, sem er í Kanaanlandi, er hann kom frá Mesópótamíu, og hann sló tjöldum fyrir utan borgina.
19Hann keypti landspilduna, sem hann hafði tjaldað á, af sonum Hemors, föður Síkems, fyrir hundrað silfurpeninga. 20Og hann reisti þar altari og kallaði það El-elóhe-Ísrael.
Dínu nauðgað34
1Dína dóttir Leu, er hún hafði fætt Jakob, gekk út að sjá dætur landsins. 2Þá sá Síkem hana, sonur Hevítans Hemors, höfðingja landsins, og hann tók hana og lagðist með henni og spjallaði hana. 3Og hann lagði mikinn ástarhug á Dínu, dóttur Jakobs, og hann elskaði stúlkuna og talaði vinsamlega við hana.4Síkem kom að máli við Hemor föður sinn og mælti: "Tak mér þessa stúlku fyrir konu."
5En Jakob hafði frétt, að hann hefði svívirt Dínu dóttur hans, en með því að synir hans voru úti í haga með fénað hans, þá lét hann kyrrt vera, þar til er þeir komu heim. 6Þá gekk Hemor, faðir Síkems, út til Jakobs til þess að tala við hann. 7Og synir Jakobs komu heim úr haganum, er þeir heyrðu þetta. Og mennirnir styggðust og urðu stórreiðir, því að hann hafði framið óhæfuverk í Ísrael, er hann lagðist með dóttur Jakobs, og slíkt hefði aldrei átt að fremja.
8Þá talaði Hemor við þá og mælti: "Síkem sonur minn hefir mikla ást á dóttur yðar. Ég bið að þér gefið honum hana fyrir konu. 9Mægist við oss, gefið oss yðar dætur og takið yður vorar dætur 10og staðnæmist hjá oss, og landið skal standa yður til boða. Verið hér kyrrir og farið um landið og takið yður bólfestu í því."
11Og Síkem sagði við föður hennar og bræður: "Ó, að ég mætti finna náð í augum yðar. Hvað sem þér til nefnið, það skal ég greiða. 12Krefjist af mér svo mikils mundar og morgungjafar sem vera skal, og mun ég greiða það, er þér til nefnið, en gefið mér stúlkuna fyrir konu."
13Þá svöruðu synir Jakobs þeim Síkem og Hemor föður hans, og töluðu með undirhyggju, af því að hann hafði svívirt Dínu systur þeirra, 14og sögðu við þá: "Eigi megum vér þetta gjöra, að gefa systur vora óumskornum manni, því að það væri oss vanvirða. 15Því aðeins viljum vér gjöra að yðar vilja, að þér verðið eins og vér, með því að láta umskera allt karlkyn meðal yðar. 16Þá skulum vér gefa yður vorar dætur og taka yðar dætur oss til handa og búa hjá yður, svo að vér verðum ein þjóð. 17En viljið þér eigi láta að orðum vorum og umskerast, þá tökum vér dóttur vora og förum burt."
18Og Hemor og Síkem, syni Hemors, geðjaðist vel tal þeirra. 19Og sveinninn lét ekki á því standa að gjöra þetta, því að hann elskaði dóttur Jakobs. En hann var talinn maður ágætastur í sinni ætt.
20Hemor og Síkem sonur hans komu í hlið borgar sinnar og töluðu við borgarmenn sína og sögðu: 21"Þessir menn bera friðarhug til vor. Látum þá setjast að í landinu og fara allra sinna ferða um það, því að nóg er landrýmið á báðar hendur handa þeim. Dætur þeirra munum vér taka oss fyrir konur og gefa þeim dætur vorar. 22En því aðeins vilja mennirnir gjöra að vorum vilja og búa vor á meðal, svo að vér verðum ein þjóð, að vér látum umskera allt karlkyn meðal vor, eins og þeir eru umskornir. 23Hjarðir þeirra, fjárhlutur þeirra og allur fénaður þeirra, verður það ekki vor eign? Gjörum aðeins að vilja þeirra, svo að þeir staðnæmist hjá oss." 24Og þeir létu að orðum Hemors og Síkems sonar hans, allir sem gengu út um hlið borgar hans, og allt karlkyn lét umskerast, allir þeir, sem gengu út um hlið borgar hans.
25En svo bar til á þriðja degi, er þeir voru sjúkir af sárum, að tveir synir Jakobs, þeir Símeon og Leví, bræður Dínu, tóku hvor sitt sverð og gengu inn í borgina, sem átti sér einskis ills von, og drápu þar allt karlkyn. 26Drápu þeir einnig Hemor og son hans Síkem með sverðseggjum og tóku Dínu úr húsi Síkems og fóru síðan burt. 27Synir Jakobs réðust að hinum vegnu og rændu borgina, af því að þeir höfðu svívirt systur þeirra. 28Sauði þeirra, naut þeirra og asna, og allt, sem var í borginni, og það, sem var í högunum, tóku þeir. 29Og öll auðæfi þeirra, öll börn þeirra og konur tóku þeir að herfangi og rændu, sömuleiðis allt, sem var í húsunum.
30Jakob sagði við Símeon og Leví: "Þið hafið stofnað mér í ógæfu með því að gjöra mig illa þokkaðan af landsmönnum, af Kanaanítum og Peresítum. Nú með því að ég er liðfár, munu þeir safnast saman á móti mér og vinna sigur á mér. Verð ég þá afmáður, ég og mitt hús." 31En þeir svöruðu: "Átti hann þá að fara með systur okkar eins og skækju?"
Jakob kemur til helgistaðarins í Betel35
1Guð sagði við Jakob: "Tak þig upp og far upp til Betel og dvel þú þar og gjör þar altari Guði, sem birtist þér, þegar þú flýðir undan Esaú bróður þínum."2Jakob sagði við heimafólk sitt og alla, sem með honum voru: "Kastið burt þeim útlendu goðum, sem þér hafið hjá yður, og hreinsið yður og hafið fataskipti, 3og skulum vér taka oss upp og fara upp til Betel. Vil ég reisa þar altari þeim Guði, sem bænheyrði mig á tíma neyðar minnar og hefir verið með mér á þeim vegi, sem ég hefi farið."
4Og þeir fengu Jakob öll þau útlendu goð, sem þeir höfðu hjá sér, og hringana, sem þeir höfðu í eyrum sér, og gróf Jakob það undir eikinni, sem er hjá Síkem. 5Því næst fóru þeir af stað. En ótti frá Guði var yfir öllum borgunum, sem voru umhverfis þá, svo að sonum Jakobs var ekki veitt eftirför.
6Og Jakob kom til Lúz, sem er í Kanaanlandi (það er Betel), hann og allt fólkið, sem með honum var. 7Og hann reisti þar altari og kallaði staðinn El-Betel, því að Guð hafði birst honum þar, þegar hann flýði undan bróður sínum.
8Þar andaðist Debóra, fóstra Rebekku, og var jörðuð fyrir neðan Betel, undir eikinni, og fyrir því heitir hún Gráteik.
Jakob nefndur Ísrael9Enn birtist Guð Jakob, er hann var á heimleið frá Mesópótamíu, og blessaði hann. 10Og Guð sagði við hann:
"Nafn þitt er Jakob. Eigi skalt þú héðan af Jakob heita, heldur skal nafn þitt vera Ísrael."
Og hann nefndi hann Ísrael. 11Og Guð sagði við hann:
"Ég er Almáttugur Guð. Ver þú frjósamur og auk kyn þitt. Þjóð, já fjöldi þjóða skal frá þér koma, og konungar skulu út ganga af lendum þínum. 12Og landið, sem ég gaf Abraham og Ísak, mun ég gefa þér, og niðjum þínum eftir þig mun ég gefa landið."
13Því næst sté Guð upp frá honum, þaðan sem hann talaði við hann.
Jakob í Betel og Hebron. Fæðing Benjamíns. Dauði Rakelar og Ísaks14Jakob reisti upp merki á þeim stað, sem Guð talaði við hann, merkisstein, og dreypti yfir hann dreypifórn og hellti yfir hann olíu. 15Og Jakob nefndi staðinn, þar sem Guð talaði við hann, Betel.
16Þeir tóku sig upp frá Betel. En er þeir áttu skammt eftir ófarið til Efrata, tók Rakel léttasótt og kom hart niður. 17Og er hún kom svo hart niður í barnburðinum, sagði ljósmóðirin við hana: "Óttast þú ekki, því að nú eignast þú annan son." 18Og er hún var í andlátinu, - því að hún dó -, þá nefndi hún hann Benóní, en faðir hans nefndi hann Benjamín. 19Því næst andaðist Rakel og var jörðuð við veginn til Efrata, það er Betlehem.
20Jakob reisti minnismerki á leiði hennar. Þar er legsteinn Rakelar allt til þessa dags.
21Ísrael hélt áfram ferðinni og sló tjöldum sínum hinumegin við Mígdal Eder.
22Meðan Ísrael hafðist við í því byggðarlagi, bar svo við, að Rúben fór og lagðist með Bílu, hjákonu föður síns. Og Ísrael varð þess áskynja.
Jakob átti tólf sonu.
23Synir Leu: Rúben, frumgetinn son Jakobs, Símeon, Leví, Júda, Íssakar og Sebúlon.
24Synir Rakelar: Jósef og Benjamín.
25Synir Bílu, þernu Rakelar: Dan og Naftalí.
26Synir Silpu, þernu Leu: Gað og Asser. Þetta eru synir Jakobs, sem honum fæddust í Mesópótamíu.
27Og Jakob kom til Ísaks föður síns í Mamre við Kirjat Arba, það er Hebron, þar sem Abraham og Ísak höfðu dvalist sem útlendingar. 28En dagar Ísaks voru hundrað og áttatíu ár. 29Og Ísak andaðist og dó og safnaðist til síns fólks, gamall og saddur lífdaga, og Esaú og Jakob synir hans jörðuðu hann.
Niðjatal Esaú og Edómíta36
1Þetta er ættartala Esaú, það er Edóms.2Esaú hafði tekið sér konur af dætrum Kanaaníta: Ada, dóttur Hetítans Elons, og Oholíbama, dóttur Ana, sonar Hórítans Síbeons, 3og Basmat, dóttur Ísmaels, systur Nebajóts. 4Og Ada ól Esaú Elífas, Basmat ól Regúel 5og Oholíbama ól Jehús, Jaelam og Kóra. Þessir eru synir Esaú, sem honum fæddust í Kanaanlandi.
6Esaú tók konur sínar, sonu sína og dætur og allar sálir í húsi sínu og hjörð sína og kvikfénað og allan þann fjárhlut, sem hann hafði aflað sér í Kanaanlandi, og fór í burtu frá Jakob bróður sínum til Seírlands. 7Því að eign þeirra var meiri en svo, að þeir gætu saman verið, og landið, er þeir bjuggu í sem útlendingar, bar þá ekki sökum hjarða þeirra.
8Esaú settist að á Seírfjöllum; en Esaú er Edóm.
9Þetta er saga Esaú, ættföður Edómíta, á Seírfjöllum.
10Þetta eru nöfn Esaú sona:
Elífas, sonur Ada, konu Esaú; Regúel, sonur Basmat, konu Esaú. 11Synir Elífas voru: Teman, Ómar, Sefó, Gaetam og Kenas. 12Timna var hjákona Elífas, sonar Esaú, og hún ól Elífas Amalek. Þetta eru synir Ada, konu Esaú.
13Þessir eru synir Regúels: Nahat, Sera, Samma og Missa. Þessir voru synir Basmat, konu Esaú. 14Og þessir voru synir Oholíbama, dóttur Ana, sonar Síbeons, konu Esaú, hún ól Esaú Jehús, Jaelam og Kóra.
15Þessir eru ætthöfðingjar meðal Esaú sona:
Synir Elífas, frumgetins sonar Esaú: Höfðinginn Teman, höfðinginn Ómar, höfðinginn Sefó, höfðinginn Kenas, 16höfðinginn Kóra, höfðinginn Gaetam, höfðinginn Amalek. Þessir eru þeir höfðingjar, sem komnir eru frá Elífas í Edómlandi, þessir eru synir Ada.
17Þessir voru synir Regúels, sonar Esaú: Höfðinginn Nahat, höfðinginn Sera, höfðinginn Samma, höfðinginn Missa. Þessir eru þeir höfðingjar, sem komnir eru frá Regúel í Edómlandi, þessir eru synir Basmat, konu Esaú.
18Þessir eru synir Oholíbama, konu Esaú: Höfðinginn Jehús, höfðinginn Jaelam, höfðinginn Kóra. Þessir eru þeir höfðingjar, sem komnir eru frá Oholíbama, dóttur Ana, konu Esaú.
19Þessir eru synir Esaú og þessir eru höfðingjar þeirra, það er Edóm.
20Þessir eru synir Hórítans Seírs, frumbyggjar landsins: Lótan, Sóbal, Síbeon, Ana, 21Díson, Eser og Dísan. Þessir eru höfðingjar Hórítanna, synir Seírs í Edómlandi. 22Synir Lótans voru Hórí og Hemam, og systir Lótans var Timna. 23Þessir eru synir Sóbals: Alvan, Manahat, Ebal, Sefó og Ónam. 24Þessir eru synir Síbeons: Aja og Ana, það er sá Ana, sem fann laugarnar á öræfunum, er hann gætti asna Síbeons föður síns. 25Þessi eru börn Ana: Díson og Oholíbama, dóttir Ana. 26Þessir eru synir Dísons: Hemdan, Esban, Jítran og Keran. 27Þessir eru synir Esers: Bílhan, Saavan og Akan. 28Þessir eru synir Dísans: Ús og Aran.
29Þessir eru höfðingjar Hórítanna: Höfðinginn Lótan, höfðinginn Sóbal, höfðinginn Síbeon, höfðinginn Ana, 30höfðinginn Díson, höfðinginn Eser, höfðinginn Dísan. Þessir eru höfðingjar Hórítanna eftir höfðingjum þeirra í Seírlandi.
31Þessir eru þeir konungar, sem ríktu í Edómlandi, áður en konungar ríktu yfir Ísraelsmönnum:
32Bela, sonur Beórs, var konungur í Edóm, og hét borg hans Dínhaba. 33Og er Bela dó, tók Jóbab, sonur Sera frá Bosra, ríki eftir hann. 34Og er Jóbab dó, tók Húsam frá Temanítalandi ríki eftir hann. 35Og er Húsam dó, tók Hadad, sonur Bedads, ríki eftir hann. Hann vann sigur á Midíanítum á Móabsvöllum, og borg hans hét Avít. 36Og er Hadad dó, tók Samla frá Masreka ríki eftir hann. 37Og er Samla dó, tók Sál frá Rehóbót hjá Efrat ríki eftir hann. 38Og er Sál dó, tók Baal Hanan, sonur Akbórs, ríki eftir hann. 39Og er Baal Hanan sonur Akbórs dó, tók Hadar ríki eftir hann, og hét borg hans Pagú, en kona hans Mehetabeel, dóttir Matredar, dóttur Me-Sahabs.
40Þessi eru nöfn höfðingja þeirra, er frá Esaú eru komnir, eftir ættkvíslum þeirra, eftir bústöðum þeirra, eftir nöfnum þeirra: Höfðinginn Timna, höfðinginn Alva, höfðinginn Jetet, 41höfðinginn Oholíbama, höfðinginn Ela, höfðinginn Pínon, 42höfðinginn Kenas, höfðinginn Teman, höfðinginn Mibsar, 43höfðinginn Magdíel, höfðinginn Íram. Þessir eru höfðingjar Edómíta, eftir bústöðum þeirra í landi því, sem þeir höfðu numið. Þessi Esaú er ættfaðir Edómíta.
Saga Jósefs
Draumar Jósefs37
1Jakob bjó í landi því, er faðir hans hafði dvalist í sem útlendingur, í Kanaanlandi.2Þetta er ættarsaga Jakobs.
Þegar Jósef var seytján ára gamall, gætti hann sauða með bræðrum sínum. En hann var smásveinn hjá þeim sonum Bílu og sonum Silpu, er voru konur föður hans. Og Jósef bar föður sínum illan orðróm um þá.
3Ísrael unni Jósef mest allra sona sinna, því að hann hafði átt hann í elli sinni. Og hann lét gjöra honum dragkyrtil. 4En er bræður hans sáu, að faðir þeirra elskaði hann meir en alla sonu sína, lögðu þeir hatur á hann og gátu ekki talað við hann vinsamlegt orð.
5Jósef dreymdi draum og sagði hann bræðrum sínum. Hötuðu þeir hann þá enn meir. 6Og hann sagði við þá: "Heyrið nú draum þennan, sem mig dreymdi: 7Sjá, vér vorum að binda kornbundin á akrinum, og mitt kornbundin reisti sig og stóð upprétt, en yðar kornbundin skipuðu sér umhverfis og lutu mínu kornbundini." 8Þá sögðu bræður hans við hann: "Munt þú þá verða konungur yfir oss? Munt þú þá drottna yfir oss?" Og þeir hötuðu hann enn meir sakir drauma hans og sakir orða hans.
9Enn dreymdi hann annan draum og sagði hann bræðrum sínum og mælti: "Sjá, mig hefir enn dreymt draum: Mér þótti sólin, tunglið og ellefu stjörnur lúta mér." 10En er hann sagði föður sínum og bræðrum frá þessu, ávítti faðir hans hann og mælti til hans: "Hvaða draumur er þetta, sem þig hefir dreymt? Munum vér eiga að koma, ég og móðir þín og bræður þínir, og lúta til jarðar fyrir þér?" 11Og bræður hans öfunduðu hann, en faðir hans festi þetta í huga sér.
Jósef seldur til Egyptalands12Er bræður hans voru að heiman farnir til þess að halda hjörð föður þeirra á haga í Síkem, 13mælti Ísrael við Jósef: "Bræður þínir halda hjörðinni á beit í Síkem. Kom þú, ég ætla að senda þig til þeirra." Og hann svaraði honum: "Hér er ég." 14Og hann sagði við hann: "Far þú og vit þú, hvort bræðrum þínum og hjörðinni líður vel, og láttu mig svo vita það." Og hann sendi hann úr Hebronsdal, og hann kom til Síkem.
15Þá hitti hann maður nokkur, er hann var að reika á víðavangi. Og maðurinn spurði hann og mælti: "Að hverju leitar þú?" 16Hann svaraði: "Ég er að leita að bræðrum mínum. Seg mér hvar þeir eru með hjörðina." 17Og maðurinn sagði: "Þeir eru farnir héðan, því að ég heyrði þá segja: ,Vér skulum fara til Dótan.'" Fór Jósef þá eftir bræðrum sínum og fann þá í Dótan.
18Er þeir sáu hann álengdar, áður en hann var kominn nærri þeim, tóku þeir saman ráð sín að drepa hann. 19Og þeir sögðu hver við annan: "Sjá, þarna kemur draumamaðurinn. 20Förum nú til og drepum hann og köstum honum í einhverja gryfjuna og segjum svo, að óargadýr hafi etið hann. Þá skulum vér sjá, hvað úr draumum hans verður." 21En er Rúben heyrði þetta, vildi hann frelsa hann úr höndum þeirra og mælti: "Ekki skulum vér drepa hann." 22Og Rúben sagði við þá, til þess að hann gæti frelsað hann úr höndum þeirra og fært hann aftur föður sínum: "Úthellið ekki blóði. Kastið honum í þessa gryfju, sem er hér á eyðimörkinni, en leggið ekki hendur á hann."
23En er Jósef kom til bræðra sinna, færðu þeir hann úr kyrtli hans, dragkyrtlinum, sem hann var í, 24tóku hann og köstuðu honum í gryfjuna. En gryfjan var tóm, ekkert vatn var í henni. 25Settust þeir nú niður að neyta matar.
En er þeim varð litið upp, sáu þeir lest Ísmaelíta koma frá Gíleað, og báru úlfaldar þeirra reykelsi, balsam og myrru. Voru þeir á leið með þetta til Egyptalands. 26Þá mælti Júda við bræður sína: "Hver ávinningur er oss það, að drepa bróður vorn og leyna morðinu? 27Komið, vér skulum selja hann Ísmaelítum, en ekki leggja hendur á hann, því hann er bróðir vor, hold vort og blóð." Og bræður hans féllust á það.
28En midíanítískir kaupmenn fóru þar fram hjá, tóku Jósef og drógu hann upp úr gryfjunni. Og þeir seldu Jósef Ísmaelítunum fyrir tuttugu sikla silfurs, en þeir fóru með Jósef til Egyptalands.
29En er Rúben kom aftur að gryfjunni, þá var Jósef ekki í gryfjunni. Reif hann þá klæði sín. 30Og hann sneri aftur til bræðra sinna og mælti: "Sveinninn er horfinn, og hvert skal ég nú fara?" 31Þá tóku þeir kyrtil Jósefs, skáru geithafur og velktu kyrtilinn í blóðinu. 32Því næst sendu þeir dragkyrtilinn og létu færa hann föður sínum með þeirri orðsending: "Þetta höfum vér fundið. Gæt þú að, hvort það muni vera kyrtill sonar þíns eða ekki." 33Og hann skoðaði hann og mælti: "Það er kyrtill sonar míns. Óargadýr hefir etið hann. Sannlega er Jósef sundur rifinn." 34Þá reif Jakob klæði sín og lagði hærusekk um lendar sínar og harmaði son sinn langan tíma. 35Og allir synir hans og allar dætur hans leituðust við að hugga hann, en hann vildi ekki huggast láta og sagði: "Með harmi mun ég niður stíga til sonar míns til heljar." Og faðir hans grét hann. 36En Midíanítar seldu hann til Egyptalands, Pótífar hirðmanni Faraós og lífvarðarforingja.
Júda og Tamar38
1Um þessar mundir bar svo við, að Júda fór frá bræðrum sínum og lagði lag sitt við mann nokkurn í Adúllam, sem Híra hét. 2Þar sá Júda dóttur kanversks manns, sem Súa hét, og tók hana og hafði samfarir við hana. 3Og hún varð þunguð og ól son, og hún nefndi hann Ger. 4Og hún varð þunguð í annan sinn og ól son, og hún nefndi hann Ónan. 5Og enn ól hún son og nefndi hann Sela. En hún var í Kesíb, er hún ól hann. 6Og Júda tók konu til handa Ger, frumgetnum syni sínum. Hún hét Tamar. 7En Ger, frumgetinn sonur Júda, var vondur í augum Drottins, svo að Drottinn lét hann deyja. 8Þá mælti Júda við Ónan: "Gakk þú inn til konu bróður þíns og gegn þú mágskyldunni við hana, að þú megir afla bróður þínum afkvæmis." 9En með því að Ónan vissi, að afkvæmið skyldi eigi verða hans, þá lét hann sæðið spillast á jörðu í hvert sinn er hann gekk inn til konu bróður síns, til þess að hann aflaði eigi bróður sínum afkvæmis. 10En Drottni mislíkaði það, er hann gjörði, og lét hann einnig deyja. 11Þá sagði Júda við Tamar tengdadóttur sína: "Ver þú sem ekkja í húsi föður þíns, þangað til Sela sonur minn verður fulltíða." Því að hann hugsaði: "Ella mun hann og deyja, eins og bræður hans." Fór Tamar þá burt og var í húsi föður síns.12En er fram liðu stundir, andaðist dóttir Súa, kona Júda. Og er Júda lét af harminum, fór hann upp til Timna, til sauðaklippara sinna, hann og Híra vinur hans frá Adúllam. 13Var þá Tamar sagt svo frá: "Sjá, tengdafaðir þinn fer upp til Timna að klippa sauði sína." 14Þá fór hún úr ekkjubúningi sínum, huldi sig blæju og hjúpaði sig og settist við hlið Enaímborgar, sem er við veginn til Timna. Því að hún sá, að Sela var orðinn fulltíða, og hún var þó ekki honum gefin fyrir konu.
15Júda sá hana og hugði, að hún væri skækja, því að hún hafði hulið andlit sitt. 16Og hann vék til hennar við veginn og mælti: "Leyf mér að leggjast með þér!" Því að hann vissi ekki, að hún var tengdadóttir hans. Hún svaraði: "Hvað viltu gefa mér til þess, að þú megir leggjast með mér?" 17Og hann mælti: "Ég skal senda þér hafurkið úr hjörðinni." Hún svaraði: "Fáðu mér þá pant, þangað til þú sendir það." 18Þá mælti hann: "Hvaða pant skal ég fá þér?" En hún svaraði: "Innsiglishring þinn og festi þína og staf þinn, sem þú hefir í hendinni." Og hann fékk henni þetta og lagðist með henni, og hún varð þunguð af hans völdum. 19Því næst stóð hún upp, gekk burt og lagði af sér blæjuna og fór aftur í ekkjubúning sinn.
20Og Júda sendi hafurkiðið með vini sínum frá Adúllam, svo að hann fengi aftur pantinn af hendi konunnar, en hann fann hana ekki. 21Og hann spurði menn í þeim stað og sagði: "Hvar er portkonan, sem sat við veginn hjá Enaím?" En þeir svöruðu: "Hér hefir engin portkona verið." 22Fór hann þá aftur til Júda og mælti: "Ég fann hana ekki, enda sögðu menn í þeim stað: ,Hér hefir engin portkona verið.'" 23Þá mælti Júda: "Haldi hún því, sem hún hefir, að vér verðum ekki hafðir að spotti. Sjá, ég sendi þetta kið, en þú hefir ekki fundið hana."
24Að þrem mánuðum liðnum var Júda sagt: "Tamar tengdadóttir þín hefir drýgt hór, og meira að segja: Hún er þunguð orðin í hórdómi." Þá mælti Júda: "Leiðið hana út, að hún verði brennd." 25En er hún var út leidd, gjörði hún tengdaföður sínum þessa orðsending: "Af völdum þess manns, sem þetta á, er ég þunguð orðin." Og hún sagði: "Hygg þú að, hver eiga muni innsiglishring þennan, festi og staf." 26En Júda kannaðist við gripina og mælti: "Hún hefir betri málstað en ég, fyrir þá sök að ég hefi eigi gift hana Sela syni mínum." Og hann kenndi hennar ekki upp frá því.
27En er hún skyldi verða léttari, sjá, þá voru tvíburar í kviði hennar. 28Og í fæðingunni rétti annar út höndina. Tók þá ljósmóðirin rauðan þráð og batt um hönd hans og sagði: "Þessi kom fyrr í ljós." 29En svo fór, að hann kippti aftur að sér hendinni, og þá kom bróðir hans í ljós. Þá mælti hún: "Hví hefir þú brotist svo fram þér til góða?" Og hún nefndi hann Peres. 30Eftir það fæddist bróðir hans, og var rauði þráðurinn um hönd hans. Og hún nefndi hann Sera.
Jósef hjá Pótífar í Egyptalandi39
1Jósef var fluttur til Egyptalands, og Pótífar, hirðmaður Faraós og lífvarðarforingi, maður egypskur, keypti hann af Ísmaelítum, sem hann höfðu þangað flutt. 2En Drottinn var með Jósef, svo að hann varð maður lángefinn, og hann var í húsi húsbónda síns, hins egypska manns. 3Og er húsbóndi hans sá, að Drottinn var með honum og að Drottinn lét honum heppnast allt, sem hann tók sér fyrir hendur, 4þá fann Jósef náð í augum hans og þjónaði honum. Og hann setti hann yfir hús sitt og fékk honum í hendur allt, sem hann átti. 5Og upp frá þeirri stundu, er hann hafði sett Jósef yfir hús sitt og yfir allt, sem hann átti, blessaði Drottinn hús hins egypska manns sakir Jósefs, og blessun Drottins var yfir öllu, sem hann átti innan húss og utan. 6Og hann fól Jósef til umráða allar eigur sínar og var afskiptalaus um allt hjá honum og gekk aðeins að máltíðum.
Freistni JósefsJósef var vel vaxinn og fríður sýnum. 7Og eftir þetta bar svo til, að kona húsbónda hans renndi augum til Jósefs og mælti: "Leggstu með mér!" 8En hann færðist undan og sagði við konu húsbónda síns: "Sjá, húsbóndi minn lítur ekki eftir neinu í húsinu hjá mér, og allar eigur sínar hefir hann fengið mér í hendur. 9Hann hefir ekki meira vald í þessu húsi en ég, og hann fyrirmunar mér ekkert nema þig, með því að þú ert kona hans. Hvernig skyldi ég þá aðhafast þessa miklu óhæfu og syndga á móti Guði?" 10Og þó að hún leitaði til við Jósef með þessum orðum dag eftir dag, þá lét hann ekki að vilja hennar að leggjast með henni og hafa samfarir við hana.
11Þá bar svo til einn dag, er hann gekk inn í húsið til starfa sinna og enginn heimilismanna var þar inni, 12að hún greip í skikkju hans og mælti: "Leggstu með mér!" En hann lét skikkjuna eftir í hendi hennar og flýði og hljóp út. 13En er hún sá, að hann hafði látið eftir skikkjuna í hendi hennar og var flúinn út, 14þá kallaði hún á heimafólk sitt og mælti við það: "Sjáið, hann hefir fært oss hebreskan mann til þess að dára oss. Hann kom inn til mín og vildi hafa lagst með mér, en ég æpti hástöfum. 15Og er hann heyrði, að ég hrópaði og kallaði, lét hann skikkju sína eftir hjá mér og flýði og hljóp út." 16Því næst geymdi hún skikkju hans hjá sér þangað til húsbóndi hans kom heim. 17Sagði hún honum þá sömu söguna og mælti: "Hebreski þrællinn, sem þú hefir til vor haft, kom til mín til þess að dára mig. 18En þegar ég hrópaði og kallaði, lét hann eftir skikkju sína hjá mér og flýði út."
19Er húsbóndi hans heyrði orð konu sinnar, er hún talaði við hann svo mælandi: "Þannig hefir þræll þinn hegðað sér við mig," þá varð hann ákaflega reiður. 20Og húsbóndi Jósefs tók hann og setti hann í myrkvastofu, þar sem bandingjar konungs voru geymdir, og hann sat þar í myrkvastofunni.
Jósef í fangelsi21Drottinn var með Jósef og veitti honum mannahylli og lét hann finna náð í augum forstjóra myrkvastofunnar. 22Og forstjóri myrkvastofunnar fékk Jósef á vald alla bandingjana, sem voru í myrkvastofunni. Og hvað eina, sem þeir gjörðu þar, gjörðu þeir að hans fyrirlagi. 23Forstjóri myrkvastofunnar leit ekki eftir neinu, sem var undir hans hendi, því að Drottinn var með honum. Og hvað sem hann gjörði, það lét Drottinn heppnast.
40
1Eftir þetta varð sá atburður, að byrlari konungsins í Egyptalandi og bakarinn brutu á móti herra sínum, Egyptalandskonungi. 2Og Faraó reiddist báðum hirðmönnum sínum, yfirbyrlaranum og yfirbakaranum, 3og lét setja þá í varðhald í húsi lífvarðarforingjans, í myrkvastofuna, þar sem Jósef var í haldi. 4Og lífvarðarforinginn setti Jósef til þess að þjóna þeim, og voru þeir nú um hríð í varðhaldi.
Jósef ræður drauma í fangelsinu5Þá dreymdi þá báða draum, byrlara og bakara konungsins í Egyptalandi, sem haldnir voru í myrkvastofunni, sinn drauminn hvorn sömu nóttina, og hafði hvor draumurinn sína þýðingu. 6Og er Jósef kom inn til þeirra um morguninn, sá hann að þeir voru óglaðir. 7Spurði hann þá hirðmenn Faraós, sem voru með honum í varðhaldi í húsi húsbónda hans, og mælti: "Hvers vegna eruð þið svo daprir í bragði í dag?" 8En þeir svöruðu honum: "Okkur hefir dreymt draum, og hér er enginn, sem geti ráðið hann." Þá sagði Jósef við þá: "Er það ekki Guðs að ráða drauma? Segið mér þó."
9Þá sagði yfirbyrlarinn Jósef draum sinn og mælti við hann: "Mér þótti í svefninum sem vínviður stæði fyrir framan mig. 10Á vínviðinum voru þrjár greinar, og jafnskjótt sem hann skaut frjóöngum, spruttu blóm hans út og klasar hans báru fullvaxin vínber. 11En ég hélt á bikar Faraós í hendinni og tók vínberin og sprengdi þau í bikar Faraós og rétti svo bikarinn að Faraó."
12Þá sagði Jósef við hann: "Ráðning draumsins er þessi: Þrjár vínviðargreinarnar merkja þrjá daga. 13Að þrem dögum liðnum mun Faraó hefja höfuð þitt og setja þig aftur inn í embætti þitt. Munt þú þá rétta Faraó bikarinn, eins og áður var venja, er þú varst byrlari hans. 14En minnstu mín, er þér gengur í vil, og gjör þá miskunn á mér að minnast á mig við Faraó, svo að þú megir frelsa mig úr þessu húsi. 15Því að mér var með leynd stolið úr landi Hebrea, og eigi hefi ég heldur hér neitt það til saka unnið, að ég yrði settur í þessa dýflissu."
16En er yfirbakarinn sá, að ráðning hans var góð, sagði hann við Jósef: "Mig dreymdi líka, að ég bæri á höfðinu þrjár karfir með hveitibrauði. 17Og í efstu körfunni var alls konar sælgætisbrauð handa Faraó, og fuglarnir átu það úr körfunni á höfði mér." 18Þá svaraði Jósef og mælti: "Ráðning draumsins er þessi: Þrjár karfirnar merkja þrjá daga. 19Að þrem dögum liðnum mun Faraó hefja höfuð þitt af þér og festa þig á gálga, og fuglarnir munu eta af þér hold þitt."
20Og það bar til á þriðja degi, á afmælisdegi Faraós, að hann hélt öllum þjónum sínum veislu. Hóf hann þá upp höfuð yfirbyrlarans og höfuð yfirbakarans í viðurvist þjóna sinna. 21Setti hann yfirbyrlarann aftur í embætti hans, að hann mætti aftur bera Faraó bikarinn, 22en yfirbakarann lét hann hengja, eins og Jósef hafði ráðið drauminn fyrir þá. 23En eigi minntist yfirbyrlarinn Jósefs, heldur gleymdi honum.
Jósef ræður drauma Faraós41
1Svo bar við að tveim árum liðnum, að Faraó dreymdi draum. Hann þóttist standa við Níl. 2Og sjá, upp úr ánni komu sjö kýr, fallegar útlits og feitar á hold, og fóru að bíta sefgresið. 3Og sjá, á eftir þeim komu sjö aðrar kýr upp úr ánni, ljótar útlits og magrar á hold, og staðnæmdust hjá hinum kúnum á árbakkanum. 4Og kýrnar, sem ljótar voru útlits og magrar á hold, átu upp hinar sjö kýrnar, sem voru fallegar útlits og feitar á hold. Þá vaknaði Faraó.5Og hann sofnaði aftur og dreymdi í annað sinn, og sjá, sjö öx uxu á einni stöng, þrýstileg og væn. 6Og sjá, sjö öx, grönn og skrælnuð af austanvindi, spruttu á eftir þeim. 7Og hin grönnu öxin svelgdu í sig þau sjö þrýstilegu og fullu. Þá vaknaði Faraó, og sjá, það var draumur.
8En um morguninn var honum órótt í skapi. Sendi hann því og lét kalla alla spásagnamenn Egyptalands og alla vitringa þess. Og Faraó sagði þeim drauma sína, en enginn gat ráðið þá fyrir Faraó.
9Þá tók yfirbyrlarinn til máls og sagði við Faraó: "Ég minnist í dag synda minna. 10Faraó reiddist þjónum sínum og setti þá í varðhald í húsi lífvarðarforingjans, mig og yfirbakarann. 11Þá dreymdi okkur sömu nóttina draum, mig og hann, sinn drauminn hvorn okkar, og hafði hvor draumurinn sína þýðingu. 12Þar var með okkur hebreskur sveinn, þjónn hjá lífvarðarforingjanum. Honum sögðum við drauma okkar, og hann réð þá fyrir okkur. Hvorum fyrir sig réð hann eins og draumur hans þýddi. 13Og svo fór sem hann hafði ráðið okkur draumana, því að ég var aftur settur í embætti mitt, en hinn var hengdur."
14Þá sendi Faraó og lét kalla Jósef, og leiddu þeir hann í skyndi út úr myrkvastofunni. Því næst lét hann skera hár sitt og fór í önnur klæði, gekk síðan inn fyrir Faraó. 15Þá sagði Faraó við Jósef: "Mig hefir dreymt draum, og enginn getur ráðið hann. En það hefi ég af þér frétt, að þú ráðir hvern draum, sem þú heyrir." 16Þá svaraði Jósef Faraó og mælti: "Eigi er það á mínu valdi. Guð mun birta Faraó það, er honum má til heilla verða."
17Faraó sagði við Jósef: "Mig dreymdi, að ég stæði á árbakkanum. 18Og sjá, upp úr ánni komu sjö kýr, feitar á hold og fallegar útlits, og fóru að bíta sefgresið. 19Og sjá, á eftir þeim komu upp sjö aðrar kýr, renglulegar og mjög ljótar útlits og magrar á hold. Hefi ég engar séð jafn ljótar á öllu Egyptalandi. 20Og hinar mögru og ljótu kýrnar átu sjö fyrri feitu kýrnar. 21En er þær höfðu etið þær, var það ekki á þeim að sjá, að þær hefðu etið þær, heldur voru þær ljótar útlits sem áður. Þá vaknaði ég. 22Og ég sá í draumi mínum, og sjá, sjö öx uxu á einni stöng, full og væn. 23Og sjö öx kornlaus, grönn og skrælnuð af austanvindi, spruttu á eftir þeim. 24Og hin grönnu öxin svelgdu í sig sjö vænu öxin. Ég hefi sagt spásagnamönnunum frá þessu, en enginn getur úr leyst."
25Þá mælti Jósef við Faraó: "Draumur Faraós er einn. Það sem Guð ætlar að gjöra, hefir hann boðað Faraó. 26Sjö vænu kýrnar merkja sjö ár, og sjö vænu öxin merkja sjö ár. Þetta er einn og sami draumur. 27Og sjö mögru og ljótu kýrnar, sem á eftir hinum komu, merkja sjö ár, og sjö tómu öxin, sem skrælnuð voru af austanvindi, munu vera sjö hallærisár. 28Það er það, sem ég sagði við Faraó: Það sem Guð ætlar að gjöra, hefir hann sýnt Faraó. 29Sjá, sjö ár munu koma. Munu þá verða miklar nægtir um allt Egyptaland. 30En eftir þau munu koma sjö hallærisár. Munu þá gleymast allar nægtirnar í Egyptalandi og hungrið eyða landið. 31Og eigi mun nægtanna gæta í landinu sakir hallærisins, sem á eftir kemur, því að það mun verða mjög mikið. 32En þar sem Faraó dreymdi tvisvar sinnum hið sama, þá er það fyrir þá sök, að þetta er fastráðið af Guði, og Guð mun skjótlega framkvæma það.
33Fyrir því velji nú Faraó til hygginn og vitran mann og setji hann yfir Egyptaland. 34Faraó gjöri þetta og skipi umsjónarmenn yfir landið og taki fimmtung af afrakstri Egyptalands á sjö nægtaárunum. 35Og þeir skulu safna öllum vistum frá góðu árunum, sem fara í hönd, og draga saman kornbirgðir í borgirnar undir umráð Faraós og geyma. 36Og vistirnar skulu vera forði fyrir landið á sjö hallærisárunum, sem koma munu yfir Egyptaland, að landið farist eigi af hungrinu."
Jósef verður ráðherra Faraós37Þetta líkaði Faraó vel og öllum þjónum hans. 38Og Faraó sagði við þjóna sína: "Munum vér finna slíkan mann sem þennan, er Guðs andi býr í?" 39Og Faraó sagði við Jósef: "Með því að Guð hefir birt þér allt þetta, þá er enginn svo hygginn og vitur sem þú. 40Þig set ég yfir hús mitt, og þínum boðum skal öll mín þjóð hlýða. Að hásætinu einu skal ég þér æðri vera."
41Faraó sagði við Jósef: "Sjá, ég set þig yfir allt Egyptaland." 42Og Faraó tók innsiglishring sinn af hendi sér og dró á hönd Jósefs og lét færa hann í dýrindis línklæði og lét gullmen um háls honum. 43Og hann lét aka honum í öðrum vagni sínum, og menn hrópuðu fyrir honum: "Lútið honum!" - og hann setti hann yfir allt Egyptaland.
44Faraó sagði við Jósef: "Ég er Faraó, en án þíns vilja skal enginn hreyfa hönd eða fót í öllu Egyptalandi." 45Og Faraó kallaði Jósef Safenat-panea og gaf honum fyrir konu Asenat, dóttur Pótífera, prests í Ón. Og Jósef ferðaðist um Egyptaland.
46Jósef var þrítugur að aldri, er hann stóð frammi fyrir Faraó, Egyptalandskonungi. Því næst fór Jósef burt frá augliti Faraós og ferðaðist um allt Egyptaland.
47Afrakstur landsins var afar mikill sjö nægtaárin. 48Þá safnaði hann saman öllum vistum þeirra sjö ára, er nægtir voru í Egyptalandi, og safnaði vistum í borgirnar. Í sérhverja borg safnaði hann vistunum af þeim ökrum, sem umhverfis hana voru. 49Og Jósef hrúgaði saman korni sem sandi á sjávarströndu, ákaflega miklu, þar til hann hætti að telja, því að tölu varð eigi á komið.
50Jósef fæddust tveir synir áður en fyrsta hallærisárið kom. Þá sonu fæddi honum Asenat, dóttir Pótífera, prests í Ón. 51Og Jósef nefndi hinn frumgetna Manasse, "því að Guð hefir," sagði hann, "látið mig gleyma öllum þrautum mínum og öllu húsi föður míns." 52En hinn nefndi hann Efraím, "því að Guð hefir," sagði hann, "gjört mig frjósaman í landi eymdar minnar."
53Og sjö nægtaárin, sem voru í Egyptalandi, liðu á enda, 54og sjö hallærisárin gengu í garð, eins og Jósef hafði sagt. Var þá hallæri í öllum löndum, en í öllu Egyptalandi var brauð.
55En er hungur gekk yfir allt Egyptaland, heimtaði lýðurinn brauð af Faraó. Þá sagði Faraó við alla Egypta: "Farið til Jósefs, gjörið það, sem hann segir yður." 56Og hungrið gekk yfir allan heiminn, og Jósef opnaði öll forðabúrin og seldi Egyptum korn, og hungrið svarf að í Egyptalandi. 57Komu menn þá úr öllum löndum til Egyptalands til þess að kaupa korn hjá Jósef, því að hungrið svarf að í öllum löndum.
Jakob sendir syni sína til Egyptalands42
1Er Jakob frétti, að korn var til í Egyptalandi, þá sagði hann við sonu sína: "Hví horfið þér hver á annan?" 2Og hann mælti: "Ég hefi sannfrétt, að korn sé til í Egyptalandi. Farið þangað og kaupið oss þar korn, að vér megum lífi halda og deyjum ekki." 3Þá lögðu tíu bræður Jósefs af stað til að kaupa korn í Egyptalandi. 4En Benjamín, bróður Jósefs, lét Jakob ekki fara með bræðrum hans, því að hann var hræddur um, að honum kynni að vilja eitthvert slys til. 5Og synir Ísraels komu að kaupa korn meðal annarra, sem komu, því að hungur var í Kanaanlandi.6En Jósef var stjórnari landsins, hann var sá, sem seldi öllum landslýðnum korn. Og bræður Jósefs komu og lutu honum og hneigðu sig til jarðar. 7Og er Jósef sá bræður sína, þekkti hann þá, en vék ókunnuglega að þeim og talaði harðlega til þeirra og mælti við þá: "Hvaðan komið þér?" Þeir svöruðu: "Frá Kanaanlandi, til að kaupa vistir."
8Jósef þekkti bræður sína, en þeir þekktu hann ekki. 9Og Jósef minntist draumanna, sem hann hafði dreymt um þá, og sagði við þá: "Þér eruð njósnarmenn, þér eruð komnir til þess að sjá, hvar landið er varnarlaust fyrir." 10En þeir svöruðu honum: "Eigi er svo, herra minn, heldur eru þjónar þínir komnir til að kaupa vistir. 11Vér erum allir synir sama manns, vér erum hrekklausir menn, þjónar þínir eru ekki njósnarmenn." 12En hann sagði við þá: "Eigi er svo, heldur eruð þér komnir til þess að sjá, hvar landið er varnarlaust fyrir."
13Þeir svöruðu: "Vér þjónar þínir erum tólf bræður, synir sama manns í Kanaanlandi. Og sjá, hinn yngsti er nú hjá föður vorum, og einn er eigi framar á lífi." 14Og Jósef sagði við þá: "Svo er sem ég sagði við yður: Þér eruð njósnarmenn. 15Með þessu skuluð þér reyndir verða: Svo sannarlega sem Faraó lifir, skuluð þér ekki héðan fara, nema yngsti bróðir yðar komi hingað. 16Sendið einn yðar til að sækja bróður yðar, en þér hinir skuluð vera í varðhaldi, svo að orð yðar verði reynd, hvort þér talið satt. En sé eigi svo, þá eruð þér njósnarmenn, svo sannarlega sem Faraó lifir."
17Síðan lét hann hafa þá alla í haldi í þrjá daga. 18En á þriðja degi sagði Jósef við þá: "Þetta skuluð þér gjöra, að þér megið lífi halda, því að ég óttast Guð. 19Ef þér eruð hrekklausir, þá verði einn af yður bræðrum eftir í böndum í dýflissunni, þar sem þér voruð, en farið þér hinir og flytjið heim korn til bjargar þurfandi heimilum yðar. 20Komið svo til mín með yngsta bróður yðar, þá munu orð yðar reynast sönn og þér eigi lífi týna." Og þeir gjörðu svo.
21Þá sögðu þeir hver við annan: "Sannlega erum vér í sök fallnir fyrir bróður vorn, því að vér sáum sálarangist hans, þegar hann bað oss vægðar, en vér daufheyrðumst við. Þess vegna erum vér komnir í þessar nauðir."
22Rúben svaraði þeim og mælti: "Sagði ég ekki við yður: ,Syndgist ekki á sveininum,' en þér daufheyrðust við. Og sjá, nú er einnig blóðs hans krafist."
23En þeir vissu ekki, að Jósef skildi þá, því að þeir höfðu túlk.
24Þá vék Jósef frá þeim og grét. Síðan sneri hann til þeirra aftur og talaði við þá og tók Símeon úr flokki þeirra og batt hann fyrir augum þeirra. 25Síðan bauð hann að fylla sekki þeirra korni og láta silfurpeninga hvers eins þeirra aftur í sekk hans og fá þeim nesti til ferðarinnar. Og var svo gjört við þá.
Synir Jakobs snúa aftur til Kanaan26Þá létu þeir korn sitt upp á asna sína og fóru af stað. 27En er einn af þeim opnaði sekk sinn til að gefa asna sínum fóður á gistingarstaðnum, sá hann silfurpeninga sína, og sjá, þeir lágu ofan á í sekk hans. 28Og hann sagði við bræður sína: "Silfurpeningar mínir eru komnir aftur, sjá, þeir liggja hér í sekk mínum." Þá féllst þeim hugur, og skjálfandi litu þeir hver á annan og sögðu: "Hví hefir Guð gjört oss þetta?"
29Þeir komu til Jakobs föður síns í Kanaanlandi og sögðu honum frá öllu, sem fyrir þá hafði komið, með þessum orðum: 30"Maðurinn, landsherrann, talaði harðlega til vor og fór með oss sem værum vér komnir til landsins í njósnarerindum. 31En vér sögðum við hann: ,Vér erum hrekklausir, vér erum ekki njósnarmenn. 32Vér erum tólf bræður, synir föður vors. Einn er ekki framar á lífi, og sá yngsti er nú hjá föður vorum í Kanaanlandi.' 33Þá sagði maðurinn, landsherrann, við oss: ,Af þessu skal ég marka, hvort þér eruð hrekklausir: Látið einn af yður bræðrum verða eftir hjá mér, og takið korn til bjargar þurfandi heimilum yðar og farið leiðar yðar. 34En komið með yngsta bróður yðar til mín, svo að ég sjái, að þér eruð ekki njósnarmenn, heldur að þér eruð hrekklausir. Þá skal ég skila yður bróður yðar aftur og þér megið fara allra yðar ferða um landið.'"
35En þeir helltu úr sekkjum sínum, sjá, þá var sjóður hvers eins í sekk hans. Og er þeir og faðir þeirra sáu sjóði þeirra, urðu þeir óttaslegnir.
36Jakob faðir þeirra sagði við þá: "Þér gjörið mig barnlausan. Jósef er farinn, Símeon er farinn, og nú ætlið þér að taka Benjamín. Allt kemur þetta yfir mig." 37Þá sagði Rúben við föður sinn: "Þú mátt deyða báða sonu mína, ef ég færi þér hann ekki aftur. Trúðu mér fyrir honum, og ég skal aftur koma með hann til þín." 38En Jakob sagði: "Ekki skal sonur minn fara með yður, því að bróðir hans er dáinn og hann er einn eftir, og verði hann fyrir slysi á þeirri leið, sem þér farið, þá leiðið þér hærur mínar með harmi niður til heljar."
Síðari för Jakobs sona til Egyptalands43
1Hallærið var mikið í landinu. 2Og er þeir höfðu etið upp kornið, sem þeir höfðu sótt til Egyptalands, sagði faðir þeirra við þá: "Farið aftur og kaupið oss nokkuð af vistum." 3Þá svaraði Júda honum og mælti: "Maðurinn lagði ríkt á við oss og sagði: ,Þér skuluð ekki sjá auglit mitt, nema bróðir yðar sé með yður.' 4Ef þú sendir bróður vorn með oss, þá skulum vér fara og kaupa þér vistir. 5En ef þú vilt ekki senda hann með, þá förum vér hvergi, því að maðurinn sagði við oss: ,Þér skuluð ekki sjá auglit mitt, nema bróðir yðar sé með yður.'"6Ísrael mælti: "Hví hafið þér gjört mér svo illa til, að segja manninum, að þér ættuð einn bróður enn?" 7Þeir svöruðu: "Maðurinn spurði ítarlega um oss og ætt vora og sagði: ,Er faðir yðar enn á lífi? Eigið þér einn bróður enn?' Og vér sögðum honum eins og var. Gátum vér vitað, að hann mundi segja: 8,Komið hingað með bróður yðar'?"
Júda sagði við Ísrael föður sinn: "Láttu sveininn fara með mér. Þá skulum vér taka oss upp og fara af stað, svo að vér megum lífi halda og ekki deyja, bæði vér og þú og börn vor. 9Ég skal ábyrgjast hann, af minni hendi skalt þú krefjast hans. Komi ég ekki með hann aftur til þín og leiði ég hann ekki fram fyrir þig, skal ég vera sekur við þig alla ævi. 10Því að hefðum vér ekki tafið, þá værum vér nú komnir aftur í annað sinn."
11Þá sagði Ísrael faðir þeirra við þá: "Ef svo verður að vera, þá gjörið þetta: Takið af gæðum landsins í sekki yðar og færið manninum að gjöf lítið eitt af balsami og lítið eitt af hunangi, reykelsi og myrru, pistasíuhnetur og möndlur. 12Og takið með yður tvöfalt gjald og hafið aftur með yður silfurpeningana, sem komu aftur ofan á í sekkjum yðar. Vera má, að það hafi verið af vangá. 13Og takið bróður yðar. Leggið því næst upp og farið aftur til mannsins. 14Og Almáttugur Guð gefi, að maðurinn sýni yður nú miskunnsemi og láti lausan við yður hinn bróður yðar og Benjamín. Ég hefi hvort sem er þegar orðið fyrir sonamissi." 15Og mennirnir tóku þessa gjöf; líka tóku þeir tvöfalt gjald með sér og Benjamín. Og þeir lögðu af stað og fóru til Egyptalands og gengu fyrir Jósef.
Jósef heldur bræðrum sínum veislu16Er Jósef sá Benjamín með þeim, sagði hann við ráðsmann sinn: "Far þú með þessa menn inn í húsið og slátra þú og matreið, því að þessir menn skulu eta með mér miðdegisverð í dag." 17Og maðurinn gjörði sem Jósef bauð og fór með mennina inn í hús Jósefs.
18Mennirnir urðu hræddir, af því að þeir voru leiddir inn í hús Jósefs, og sögðu: "Sakir silfurpeninganna, sem aftur komu í sekki vora hið fyrra sinnið, erum vér hingað leiddir, svo að hann geti ráðist að oss og vaðið upp á oss og gjört oss að þrælum og tekið asna vora." 19Þá gengu þeir til ráðsmanns Jósefs og töluðu við hann úti fyrir dyrum hússins 20og sögðu: "Æ, herra minn, vér komum hingað í fyrra skiptið að kaupa vistir. 21En svo bar til, er vér komum í áfangastað og opnuðum sekki vora, sjá, þá voru silfurpeningar hvers eins ofan á í sekk hans, silfurpeningar vorir með fullri vigt, og vér erum nú komnir með þá aftur. 22Og annað silfur höfum vér með oss til að kaupa vistir. Eigi vitum vér, hver látið hefir peningana í sekki vora." 23Hann svaraði: "Verið ókvíðnir, óttist ekki! Yðar Guð og Guð föður yðar hefir gefið yður fjársjóð í sekki yðar. Silfur yðar er komið til mín." Síðan leiddi hann Símeon út til þeirra.
24Maðurinn fór með þá inn í hús Jósefs og gaf þeim vatn, að þeir mættu þvo fætur sína, og ösnum þeirra gaf hann fóður. 25Og tóku þeir nú gjöfina fram, að hún væri til taks, er Jósef kæmi um miðdegið, því að þeir höfðu heyrt, að þeir ættu að matast þar.
26Er Jósef kom heim, færðu þeir honum gjöfina, sem þeir höfðu meðferðis, inn í húsið og hneigðu sig til jarðar fyrir honum. 27En hann spurði, hvernig þeim liði, og mælti: "Líður yðar aldraða föður vel, sem þér gátuð um? Er hann enn á lífi?" 28Þeir svöruðu: "Þjóni þínum, föður vorum, líður vel. Hann er enn á lífi." Og þeir hneigðu sig og lutu honum.
29Jósef hóf upp augu sín og sá Benjamín bróður sinn, son móður sinnar, og mælti: "Er þetta yngsti bróðir yðar, sem þér gátuð um við mig?" Og hann sagði: "Guð sé þér náðugur, son minn!" 30Og Jósef hraðaði sér burt, því að hjarta hans brann af ást til bróður hans, og hann vék burt til þess að gráta og fór inn í innra herbergið og grét þar. 31Síðan þvoði hann andlit sitt og gekk út, og hann lét ekki á sér sjá og mælti: "Berið á borð!" 32Og menn báru á borð fyrir hann sér í lagi og fyrir þá sér í lagi og sér í lagi fyrir þá Egypta, sem með honum mötuðust, því að ekki mega Egyptar eta með Hebreum, fyrir því að Egyptar hafa andstyggð á því. 33Og þeim var skipað til sætis gegnt honum, hinum frumgetna eftir frumburðarrétti hans og hinum yngsta eftir æsku hans, og mennirnir litu með undrun hver á annan. 34Og hann lét bera skammta frá sér til þeirra, en skammtur Benjamíns var fimm sinnum stærri en skammtur nokkurs hinna. Og þeir drukku með honum og urðu hreifir.
Jósef reynir bræður sína44
1Jósef bauð ráðsmanni sínum og mælti: "Fyll þú sekki mannanna vistum, svo mikið sem þeir geta með sér flutt, og láttu silfurpeninga hvers eins ofan á í sekk hans. 2Og bikar minn, silfurbikarinn, skalt þú láta ofan á í sekk hins yngsta og silfurpeningana fyrir korn hans." Og hann gjörði eins og Jósef bauð honum.3Er bjart var orðið næsta morgun, voru mennirnir látnir fara, þeir og asnar þeirra. 4Og er þeir voru komnir út úr borginni, en skammt burt farnir, sagði Jósef við ráðsmann sinn: "Bregð þú við og veit mönnunum eftirför, og þegar þú nær þeim, skalt þú segja við þá: ,Hví hafið þér launað gott með illu? Hví hafið þér stolið silfurbikar mínum? 5Er það ekki sá, sem herra minn drekkur af og hann spáir í? Þar hafið þér illa gjört.'"
6Og er hann náði þeim, talaði hann þessi orð til þeirra. 7En þeir sögðu við hann: "Hví talar herra minn þannig? Fjarri sé það þjónum þínum að gjöra slíkt. 8Sjá, það silfur, sem vér fundum ofan á í sekkjum vorum, færðum vér þér aftur frá Kanaanlandi, og hvernig skyldum vér þá stela silfri eða gulli úr húsi herra þíns? 9Hver sá af þjónum þínum, sem bikarinn finnst hjá, skal deyja, og þar að auki skulum vér hinir vera þrælar herra míns."
10Hann svaraði: "Sé þá svo sem þér segið. Sá sem hann finnst hjá, veri þræll minn, en þér skuluð vera lausir." 11Þá flýttu þeir sér að taka ofan hver sinn sekk, og þeir opnuðu hver sinn sekk. 12Og hann leitaði, byrjaði á hinum elsta og endaði á hinum yngsta, og fannst þá bikarinn í sekk Benjamíns. 13Þá rifu þeir klæði sín, létu hver upp á sinn asna og fóru aftur til borgarinnar.
Júda talar máli bróður síns14Júda og bræður hans gengu inn í hús Jósefs, en hann var þar enn þá, og þeir féllu fram fyrir honum til jarðar. 15Þá sagði Jósef við þá: "Hvílík óhæfa er þetta, sem þér hafið framið? Vissuð þér ekki, að annar eins maður og ég kann að spá?" 16Og Júda mælti: "Hvað skulum vér segja við herra minn, hvað skulum vér tala og hvernig skulum vér réttlæta oss? Guð hefir fundið misgjörð þjóna þinna. Sjá, vér erum þrælar herra míns, bæði vér og sá, sem bikarinn fannst hjá." 17Og hann svaraði: "Fjarri sé mér að gjöra slíkt. Sá maður, sem bikarinn fannst hjá, hann sé þræll minn, en farið þér í friði til föður yðar."
18Þá gekk Júda nær honum og mælti: "Æ, herra minn, leyf þjóni þínum að tala nokkur orð í áheyrn herra míns, og reiði þín upptendrist ekki gegn þjóni þínum, því að þú ert sem Faraó. 19Herra minn spurði þjóna sína og mælti: ,Eigið þér föður eða bróður?' 20Og vér sögðum við herra minn: ,Vér eigum aldraðan föður og ungan bróður, sem hann gat í elli sinni. Og bróðir hans er dáinn, og hann er einn á lífi eftir móður sína, og faðir hans elskar hann.' 21Og þú sagðir við þjóna þína: ,Komið með hann hingað til mín, að ég fái litið hann með augum mínum.' 22Og vér sögðum við herra minn: ,Sveinninn má ekki yfirgefa föður sinn, því að yfirgæfi hann föður sinn, mundi það draga hann til dauða.' 23Þá sagðir þú við þjóna þína: ,Ef yngsti bróðir yðar kemur ekki hingað með yður, þá skuluð þér ekki framar fá að sjá auglit mitt.' 24Og þegar vér komum heim til þjóns þíns, föður míns, þá sögðum vér honum ummæli herra míns. 25Og faðir vor sagði: ,Farið aftur og kaupið oss lítið eitt af vistum.' 26Þá svöruðum vér: ,Vér getum ekki farið þangað. Megi yngsti bróðir vor fara með oss, þá skulum vér fara þangað, því að vér fáum ekki að sjá auglit mannsins, ef yngsti bróðir vor er ekki með oss.' 27Og þjónn þinn, faðir minn, sagði við oss: ,Þér vitið, að kona mín ól mér tvo sonu. 28Annar þeirra fór að heiman frá mér, og ég sagði: Vissulega er hann sundur rifinn. - Og hefi ég ekki séð hann síðan. 29Og ef þér takið nú þennan líka burt frá mér og verði hann fyrir slysi, þá munuð þér leiða hærur mínar með hörmung til heljar.' 30Og komi ég nú til þjóns þíns, föður míns, og sé sveinninn ekki með oss, - því að hann ann honum sem lífi sínu, - 31þá mun svo fara, að sjái hann, að sveinninn er eigi með oss, þá deyr hann, og þjónar þínir munu leiða hærur þjóns þíns, föður vors, með harmi til heljar. 32Því að þjónn þinn tók ábyrgð á sveininum við föður minn og sagði: ,Ef ég kem ekki með hann aftur, skal ég vera sekur við föður minn alla ævi.' 33Og lát þú því þjón þinn verða hér eftir sem þræl herra míns í stað sveinsins, en leyf sveininum að fara heim með bræðrum sínum. 34Því að hvernig gæti ég farið heim til föður míns, sé sveinninn ekki með mér? Ég yrði þá að sjá þá hörmung, sem koma mundi yfir föður minn."
Jósef segir til sín45
1Jósef gat þá ekki lengur haft stjórn á sér í augsýn allra, sem viðstaddir voru, og kallaði: "Látið alla ganga út frá mér!" Og enginn maður var inni hjá honum, þegar hann sagði bræðrum sínum hver hann væri. 2Og hann grét hástöfum, svo að Egyptar heyrðu það, og hirðmenn Faraós heyrðu það.3Jósef mælti við bræður sína: "Ég er Jósef. Er faðir minn enn á lífi?" En bræður hans gátu ekki svarað honum, svo hræddir urðu þeir við hann.
4Og Jósef sagði við bræður sína: "Komið hingað til mín!" Og þeir gengu til hans. Hann mælti þá: "Ég er Jósef bróðir yðar, sem þér selduð til Egyptalands. 5En látið það nú ekki fá yður hryggðar, og setjið það ekki fyrir yður, að þér hafið selt mig hingað, því að til lífs viðurhalds hefir Guð sent mig hingað á undan yður. 6Því að nú hefir hallærið verið í landinu í tvö ár, og enn munu líða svo fimm ár, að hvorki verði plægt né uppskorið. 7En Guð hefir sent mig hingað á undan yður til þess að halda við kyni yðar á jörðinni og sjá lífi yðar borgið, til mikils hjálpræðis. 8Það er því ekki þér, sem hafið sent mig hingað, heldur Guð. Og hann hefir látið mig verða Faraó sem föður og herra alls húss hans og höfðingja yfir öllu Egyptalandi. 9Hraðið yður nú og farið heim til föður míns og segið við hann: ,Svo segir Jósef sonur þinn: Guð hefir gjört mig að herra alls Egyptalands; kom þú til mín og tef eigi. 10Og þú skalt búa í Gósenlandi og vera í nánd við mig, þú og synir þínir og sonasynir þínir og sauðfé þitt og nautgripir þínir og allt, sem þitt er. 11En ég skal sjá þér þar fyrir viðurværi, - því að enn verður hallæri í fimm ár -, svo að þú komist ekki í örbirgð, þú og þitt hús og allt, sem þitt er.' 12Og nú sjá augu yðar, og augu Benjamíns bróður míns sjá, að ég með eigin munni tala við yður. 13Og segið föður mínum frá allri vegsemd minni á Egyptalandi og frá öllu, sem þér hafið séð, og flýtið yður nú og komið hingað með föður minn."
14Og hann féll um háls Benjamín bróður sínum og grét, og Benjamín grét um háls honum. 15Og hann minntist við alla bræður sína, faðmaði þá og grét. Eftir það töluðu bræður hans við hann.
16Þau tíðindi bárust til hirðar Faraós: "Bræður Jósefs eru komnir!" Og lét Faraó og þjónar hans vel yfir því. 17Og Faraó sagði við Jósef: "Seg þú við bræður þína: ,Þetta skuluð þér gjöra: Klyfjið eyki yðar og haldið af stað og farið til Kanaanlands. 18Takið föður yðar og fjölskyldur yðar og komið til mín, og skal ég gefa yður bestu afurðir Egyptalands, og þér skuluð eta feiti landsins.' 19Og bjóð þú þeim: ,Gjörið svo: Takið yður vagna í Egyptalandi handa börnum yðar og konum yðar og flytjið föður yðar og komið. 20Og hirðið eigi um búshluti yðar, því að hið besta í öllu Egyptalandi skal vera yðar.'"
21Og synir Ísraels gjörðu svo, og Jósef fékk þeim vagna eftir boði Faraós, og hann gaf þeim nesti til ferðarinnar. 22Hann gaf og sérhverjum þeirra alklæðnað, en Benjamín gaf hann þrjú hundruð sikla silfurs og fimm alklæðnaði. 23Og föður sínum sendi hann sömuleiðis tíu asna klyfjaða hinum bestu afurðum Egyptalands og tíu ösnur klyfjaðar korni og brauði og vistum handa föður hans til ferðarinnar. 24Lét hann síðan bræður sína fara, og þeir héldu af stað. Og hann sagði við þá: "Deilið ekki á leiðinni."
25Og þeir fóru frá Egyptalandi og komu til Kanaanlands, heim til Jakobs föður síns. 26Og þeir færðu honum tíðindin og sögðu: "Jósef er enn á lífi og er höfðingi yfir öllu Egyptalandi." En hjarta hans komst ekki við, því að hann trúði þeim ekki. 27En er þeir báru honum öll orð Jósefs, sem hann hafði við þá talað, og hann sá vagnana, sem Jósef hafði sent til að flytja hann á, þá lifnaði yfir Jakob föður þeirra. 28Og Ísrael sagði: "Mér er það nóg, að Jósef sonur minn er enn á lífi. Ég vil fara og sjá hann áður en ég dey."
Jakob fer til Egyptalands46
1Ísrael lagði af stað með allt sitt, og hann kom til Beerseba og færði þar Guði Ísaks föður síns sláturfórn. 2Og Guð talaði við Ísrael í sýn um nóttina og sagði: "Jakob, Jakob!" Og hann svaraði: "Hér er ég." 3Og hann sagði: "Ég er Guð, Guð föður þíns. Óttast þú ekki að fara til Egyptalands, því að þar mun ég gjöra þig að mikilli þjóð. 4Ég mun fara með þér til Egyptalands, og ég mun líka flytja þig þaðan aftur, og Jósef skal veita þér nábjargirnar."5Þá tók Jakob sig upp frá Beerseba, og Ísraels synir fluttu Jakob föður sinn og börn sín og konur sínar á vögnunum, sem Faraó hafði sent til að flytja hann á. 6Og þeir tóku fénað sinn og fjárhluti, sem þeir höfðu aflað sér í Kanaanlandi, og komu til Egyptalands, Jakob og allir niðjar hans með honum. 7Sonu sína og sonasonu, dætur sínar og sonadætur og alla niðja sína flutti hann með sér til Egyptalands.
Niðjatal Ísraels8Þessi eru nöfn Ísraels sona, sem komu til Egyptalands:
Jakob og synir hans:
Rúben, frumgetinn son Jakobs.
9Synir Rúbens: Hanok, Pallú, Hesron og Karmí.
10Synir Símeons: Jemúel, Jamín, Óhad, Jakín, Sóar og Sál, sonur kanversku konunnar.
11Synir Leví: Gerson, Kahat og Merarí.
12Synir Júda: Ger, Ónan, Sela, Peres og Sera. En Ger og Ónan dóu í Kanaanlandi. Synir Peres voru: Hesron og Hamúl.
13Synir Íssakars: Tóla, Púva, Job og Símron.
14Synir Sebúlons: Sered, Elon og Jahleel.
15Þessir voru synir Leu, sem hún fæddi Jakob í Mesópótamíu, ásamt Dínu dóttur hans. Allir synir hans og dætur voru að tölu þrjátíu og þrjú.
16Synir Gaðs: Sífjón, Haggí, Súní, Esbon, Erí, Aródí og Arelí.
17Synir Assers: Jimna, Jísva, Jísví, Bría og Sera, systir þeirra. Synir Bría voru: Heber og Malkíel.
18Þessir voru synir Silpu, sem Laban gaf Leu dóttur sinni. Hún ól Jakob þessa, sextán sálir.
19Synir Rakelar, konu Jakobs: Jósef og Benjamín.
20En Jósef fæddust synir í Egyptalandi: Manasse og Efraím, sem Asenat, dóttir Pótífera prests í Ón, ól honum.
21Synir Benjamíns: Bela, Beker, Asbel, Gera, Naaman, Ehí, Rós, Múppím, Húppím og Ard.
22Þetta voru synir Rakelar, sem hún ól Jakob, alls fjórtán sálir.
23Sonur Dans: Húsín.
24Synir Naftalí: Jahseel, Gúní, Jeser og Sillem.
25Þessir voru synir Bílu, sem Laban gaf Rakel dóttur sinni, og þessa ól hún Jakob, sjö sálir alls.
26Allar þær sálir, sem komu með Jakob til Egyptalands og af honum voru komnar, voru sextíu og sex að tölu, auk sonakvenna Jakobs. 27Og synir Jósefs, sem honum höfðu fæðst í Egyptalandi, voru tveir að tölu. Allar þær sálir af ætt Jakobs, sem komu til Egyptalands, voru sjötíu að tölu.
Jakob tekur sér bólfestu í Egyptalandi28Jakob sendi Júda á undan sér til Jósefs, að hann vísaði sér veginn til Gósen. Og þeir komu til Gósenlands. 29Þá lét Jósef beita fyrir vagn sinn og fór á móti Ísrael föður sínum til Gósen, og er fundum þeirra bar saman, féll hann um háls honum og grét lengi um háls honum. 30Og Ísrael sagði við Jósef: "Nú vil ég glaður deyja, fyrst ég hefi séð auglit þitt, að þú ert enn á lífi." 31Og Jósef sagði við bræður sína og við frændlið föður síns: "Nú vil ég fara og láta Faraó vita og segja við hann: ,Bræður mínir og frændlið föður míns, sem var í Kanaanlandi, er til mín komið. 32Og mennirnir eru hjarðmenn, því að þeir hafa stundað kvikfjárrækt, og sauði sína og nautpening sinn og allt, sem þeir eiga, hafa þeir haft hingað með sér.' 33Þegar nú Faraó lætur kalla yður og spyr: ,Hver er atvinna yðar?' 34þá skuluð þér svara: ,Kvikfjárrækt hafa þjónar þínir stundað frá barnæsku allt til þessa dags, bæði vér og feður vorir,' - til þess að þér fáið að búa í Gósenlandi, því að Egyptar hafa andstyggð á öllum hjarðmönnum."
Jakob er leiddur fyrir Faraó47
1Því næst gekk Jósef fyrir Faraó, sagði honum frá og mælti: "Faðir minn og bræður mínir eru komnir úr Kanaanlandi með sauði sína og nautgripi og allt, sem þeir eiga, og eru nú í Gósenlandi." 2En hann hafði tekið fimm af bræðrum sínum með sér og leiddi þá fyrir Faraó. 3Þá mælti Faraó við bræður Jósefs: "Hver er atvinna yðar?" Og þeir svöruðu Faraó: "Þjónar þínir eru hjarðmenn, bæði vér og feður vorir."4Og þeir sögðu við Faraó: "Vér erum komnir til að staðnæmast um hríð í landinu, því að enginn hagi er fyrir sauði þjóna þinna, af því að hallærið er mikið í Kanaanlandi. Leyf því þjónum þínum að búa í Gósenlandi."
5Faraó sagði við Jósef: "Faðir þinn og bræður þínir eru komnir til þín. 6Egyptaland er þér heimilt, lát þú föður þinn og bræður þína búa þar sem landkostir eru bestir. Búi þeir í Gósenlandi, og ef þú þekkir nokkra duglega menn meðal þeirra, þá fel þeim yfirumsjón hjarða minna."
7Þá fór Jósef inn með Jakob föður sinn og leiddi hann fyrir Faraó. Og Jakob heilsaði Faraó með blessunaróskum. 8Og Faraó sagði við Jakob: "Hversu gamall ert þú?" 9Og Jakob svaraði Faraó: "Vegferðartími minn er hundrað og þrjátíu ár. Fáir og illir hafa dagar lífs míns verið og ná ekki þeirri áratölu, er feður mínir náðu á vegferð sinni." 10Síðan kvaddi Jakob Faraó með blessunaróskum og gekk út frá honum.
11Og Jósef fékk föður sínum og bræðrum bústaði og gaf þeim fasteign í Egyptalandi, þar sem bestir voru landkostir, í Ramseslandi, eins og Faraó hafði boðið. 12Og Jósef sá föður sínum og bræðrum sínum og öllu skylduliði föður síns fyrir viðurværi eftir tölu barnanna.
Aðgerðir Jósefs í hungursneyðinni13Algjör skortur var á neyslukorni um allt landið, því að hallærið var mjög mikið, og Egyptaland og Kanaanland voru að þrotum komin af hungrinu. 14Og Jósef dró saman allt það silfur, sem til var í Egyptalandi og Kanaanlandi, fyrir kornið, sem þeir keyptu, og Jósef skilaði silfrinu í hús Faraós.
15Og er silfur þraut í Egyptalandi og í Kanaanlandi, þá komu allir Egyptar til Jósefs og sögðu: "Lát oss fá brauð! - hví skyldum vér deyja fyrir augum þér? - því að silfur þrýtur." 16Og Jósef mælti: "Komið hingað með fénað yðar, ég skal gefa yður korn til neyslu fyrir fénað yðar, ef silfur þrýtur." 17Þá fóru þeir með fénað sinn til Jósefs, og hann lét þá fá neyslukorn fyrir hestana, sauðféð, nautpeninginn og asnana, og hann birgði þá upp með korni það árið fyrir allan fénað þeirra.
18Og er það árið var liðið, komu þeir til hans næsta ár og sögðu við hann: "Eigi viljum vér leyna herra vorn því, að silfrið er allt þrotið og kvikfénaður vor er orðinn eign herra vors. Nú er ekki annað eftir handa herra vorum en líkamir vorir og ekrur vorar. 19Hví skyldum vér farast fyrir augsýn þinni, bæði vér og ekrur vorar? Kaup þú oss og ekrur vorar fyrir brauð, þá viljum vér með ekrum vorum vera þrælar Faraós, og gef þú oss sáðkorn, að vér megum lífi halda og ekki deyja og ekrurnar leggist ekki í auðn." 20Þá keypti Jósef allar ekrur Egypta handa Faraó, því að Egyptar seldu hver sinn akur, þar eð hungrið svarf að þeim. Og þannig eignaðist Faraó landið. 21Og landslýðinn gjörði hann að þrælum frá einum enda Egyptalands til annars. 22Ekrur prestanna einar keypti hann ekki, því að prestarnir höfðu ákveðnar tekjur frá Faraó og þeir lifðu af hinum ákveðnu tekjum sínum, sem Faraó gaf þeim. Fyrir því seldu þeir ekki ekrur sínar.
23Þá sagði Jósef við lýðinn: "Sjá, nú hefi ég keypt yður og ekrur yðar Faraó til handa. Hér er sáðkorn handa yður, og sáið nú ekrurnar. 24En af ávextinum skuluð þér skila Faraó fimmta hluta, en hina fjóra fimmtuhlutana skuluð þér hafa til þess að sá akrana, og yður til viðurlífis og heimafólki yðar og börnum yðar til framfærslu." 25Og þeir svöruðu: "Þú hefir haldið í oss lífinu. Lát oss finna náð í augum þínum, herra minn, og þá viljum vér vera þrælar Faraós." 26Og Jósef leiddi það í lög, sem haldast allt til þessa dags, að Faraó skyldi fá fimmta hlutann af akurlendi Egypta. Ekrur prestanna einar urðu ekki eign Faraós.
27Ísrael bjó í Egyptalandi, í Gósenlandi, og þeir festu þar byggð og juku kyn sitt, svo að þeim fjölgaði mjög.
Bón Jakobs28Jakob lifði í seytján ár í Egyptalandi, og dagar Jakobs, æviár hans, voru hundrað fjörutíu og sjö ár.
29Er dró að dauða Ísraels, lét hann kalla Jósef son sinn og sagði við hann: "Hafi ég fundið náð í augum þínum, þá legg hönd þína undir lend mína og auðsýn mér elsku og trúfesti: Jarða mig ekki í Egyptalandi. 30Ég vil hvíla hjá feðrum mínum, og skalt þú flytja mig burt úr Egyptalandi og jarða mig í gröf þeirra." Og hann svaraði: "Ég vil gjöra svo sem þú hefir fyrir mælt." 31Þá sagði Jakob: "Vinn þú mér eið að því!" Og hann vann honum eiðinn. Og Ísrael hallaði sér niður að höfðalaginu.
Efraím og Manasse hljóta blessun48
1Eftir þetta bar svo til, að Jósef var sagt: "Sjá, faðir þinn er sjúkur." Tók hann þá með sér báða sonu sína, Manasse og Efraím. 2Þetta tjáðu menn Jakob og sögðu: "Sjá, Jósef sonur þinn kemur til þín." Þá hreysti Ísrael sig og settist upp í rúminu.3Jakob sagði við Jósef: "Almáttugur Guð birtist mér í Lúz í Kanaanlandi og blessaði mig 4og sagði við mig: ,Sjá, ég vil gjöra þig frjósaman og margfalda þig og gjöra þig að fjölda þjóða og gefa niðjum þínum eftir þig þetta land til ævinlegrar eignar.' 5Og nú skulu báðir synir þínir, sem þér fæddust í Egyptalandi áður en ég kom til þín til Egyptalands, heyra mér til. Efraím og Manasse skulu heyra mér til, eins og Rúben og Símeon. 6En það afkvæmi, sem þú hefir getið eftir þá, skal tilheyra þér. Með nafni bræðra sinna skulu þeir nefndir verða í erfð þeirra. 7Þegar ég kom heim frá Mesópótamíu, missti ég Rakel í Kanaanlandi á leiðinni, þegar ég átti skammt eftir ófarið til Efrata, og ég jarðaði hana þar við veginn til Efrata, það er Betlehem."
8Þá sá Jakob sonu Jósefs og mælti: "Hverjir eru þessir?" 9Og Jósef sagði við föður sinn: "Það eru synir mínir, sem Guð hefir gefið mér hér." Og hann mælti: "Leiddu þá til mín, að ég blessi þá." 10En Ísrael var orðinn sjóndapur af elli og sá ekki. Og Jósef leiddi þá til hans, og hann kyssti þá og faðmaði þá. 11Og Ísrael sagði við Jósef: "Ég hafði eigi búist við að sjá þig framar, og nú hefir Guð meira að segja látið mig sjá afkvæmi þitt." 12Og Jósef færði þá frá knjám hans og hneigði ásjónu sína til jarðar.
13Jósef tók þá báða, Efraím sér við hægri hönd, svo að hann stóð Ísrael til vinstri handar, og Manasse sér við vinstri hönd, svo að hann stóð Ísrael til hægri handar, og leiddi þá til hans. 14En Ísrael rétti fram hægri hönd sína og lagði á höfuð Efraím, þótt hann væri yngri, og vinstri hönd sína á höfuð Manasse. Hann lagði hendur sínar í kross, því að Manasse var hinn frumgetni. 15Og hann blessaði Jósef og sagði:
"Sá Guð, fyrir hvers augliti feður mínir Abraham og Ísak gengu, sá Guð, sem hefir varðveitt mig frá barnæsku allt fram á þennan dag, 16sá engill, sem hefir frelsað mig frá öllu illu, hann blessi sveinana, og þeir beri nafn mitt og nafn feðra minna Abrahams og Ísaks, og afsprengi þeirra verði stórmikið í landinu."
17En er Jósef sá, að faðir hans lagði hægri hönd sína á höfuð Efraím, mislíkaði honum það og tók um höndina á föður sínum til þess að færa hana af höfði Efraíms yfir á höfuð Manasse. 18Og Jósef sagði við föður sinn: "Eigi svo, faðir minn, því að þessi er hinn frumgetni. Legg hægri hönd þína á höfuð honum." 19En faðir hans færðist undan því og sagði: "Ég veit það, sonur minn, ég veit það. Einnig hann mun verða að þjóð og einnig hann mun mikill verða, en þó mun yngri bróðir hans verða honum meiri, og afsprengi hans mun verða fjöldi þjóða." 20Og hann blessaði þá á þessum degi og mælti:
"Með þínu nafni munu Ísraelsmenn óska blessunar og segja: ,Guð gjöri þig sem Efraím og Manasse!'"
Hann setti þannig Efraím framar Manasse.
21Og Ísrael sagði við Jósef: "Sjá, nú dey ég, en Guð mun vera með yður og flytja yður aftur í land feðra yðar. 22En ég gef þér fram yfir bræður þína eina fjallsöxl, sem ég hefi unnið frá Amorítum með sverði mínu og boga."
Jakob veitir blessun sonum sínum tólf49
1Þá lét Jakob kalla sonu sína og mælti: "Safnist saman, að ég megi birta yður það, sem fyrir yður liggur á komandi tímum."
- 2 Skipist saman og hlýðið á, synir Jakobs,
- hlýðið á Ísrael föður yðar!
- 3 Rúben, þú ert frumgetningur minn,
- kraftur minn og frumgróði styrkleika míns,
- fremstur að virðingum og fremstur að völdum.
- 4 En þar eð þú ólgar sem vatnið,
- skalt þú eigi fremstur vera,
- því að þú gekkst í hvílu föður þíns.
- Þá flekkaðir þú hana, gekkst í hjónasæng mína!
- 5 Símeon og Leví eru bræður,
- tól ofbeldis eru sverð þeirra.
- 6 Sál mín komi ekki á ráðstefnu þeirra,
- sæmd mín hafi eigi félagsskap við söfnuð þeirra,
- því að í reiði sinni drápu þeir menn,
- og í ofsa sínum skáru þeir á hásinar nautanna.
- 7 Bölvuð sé reiði þeirra, því að hún var römm,
- og bræði þeirra, því að hún var grimm.
- Ég vil dreifa þeim í Jakob
- og tvístra þeim í Ísrael.
- 8 Júda, þig munu bræður þínir vegsama.
- Hönd þín mun vera á hálsi óvina þinna,
- synir föður þíns skulu lúta þér.
- 9 Júda er ljónshvolpur,
- frá bráðinni ert þú stiginn upp, sonur minn.
- Hann leggst niður, hann hvílist sem ljón
- og sem ljónynja, hver þorir að reka hann á fætur?
- 10 Ekki mun veldissprotinn víkja frá Júda,
- né ríkisvöndurinn frá fótum hans,
- uns sá kemur, er valdið hefur,
- og þjóðirnar ganga honum á hönd.
- 11 Hann bindur við víntré ösnufola sinn,
- við gæðavínvið son ösnu sinnar,
- hann þvær klæði sín í víni
- og möttul sinn í vínberjablóði.
- 12 Vínmóða er í augum hans
- og tennur hans hvítar af mjólk.
- 13 Sebúlon mun búa við sjávarströndina,
- við ströndina þar sem skipin liggja,
- og land hans vita að Sídon.
- 14 Íssakar er beinasterkur asni,
- sem liggur á milli fjárgirðinganna.
- 15 Og hann sá, að hvíldin var góð
- og að landið var unaðslegt,
- og hann beygði herðar sínar undir byrðar
- og varð vinnuskyldur þræll.
- 16 Dan mun rétta hluta þjóðar sinnar
- sem hver önnur Ísraels ættkvísl.
- 17 Dan verður höggormur á veginum
- og naðra í götunni,
- sem hælbítur hestinn,
- svo að reiðmaðurinn fellur aftur á bak.
- 18 Þinni hjálp treysti ég, Drottinn!
- 19 Gað - ræningjaflokkur fer að honum,
- en hann rekur þá á flótta.
- 20 Asser - feit er fæða hans,
- og hann veitir konungakrásir.
- 21 Naftalí er rásandi hind,
- frá honum koma fegurðarorð.
- 22 Jósef er ungur aldinviður,
- ungur aldinviður við uppsprettulind,
- greinar hans teygja sig upp yfir múrinn.
- 23 Bogmenn veittust að honum,
- skutu að honum og ofsóttu hann,
- 24 en bogi hans reyndist stinnur,
- og handleggir hans voru fimir.
- Sá styrkur kom frá Jakobs Volduga,
- frá Hirðinum, Hellubjargi Ísraels,
- 25 frá Guði föður þíns, sem mun hjálpa þér,
- frá Almáttugum Guði, sem mun blessa þig
- með blessun himinsins að ofan,
- með blessun djúpsins, er undir hvílir,
- með blessun brjósta og móðurlífs.
- 26 Blessunin, sem faðir þinn hlaut, gnæfði hærra en hin öldnu fjöll,
- hærra en unaður hinna eilífu hæða.
- Hún komi yfir höfuð Jósefs
- og í hvirfil hans, sem er höfðingi meðal bræðra sinna.
- 27 Benjamín er úlfur, sem sundurrífur.
- Á morgnana etur hann bráð,
- og á kveldin skiptir hann herfangi.
28Allir þessir eru tólf kynþættir Ísraels, og þetta er það, sem faðir þeirra talaði við þá.
Dauði JakobsJakob blessaði þá, sérhvern blessaði hann með þeirri blessun, er honum bar. 29Og hann bauð þeim og mælti við þá: "Ég safnast nú til míns fólks. Jarðið mig hjá feðrum mínum, í hellinum, sem er í landi Efrons Hetíta, 30í hellinum, sem er í Makpelalandi og liggur gegnt Mamre í Kanaanlandi og Abraham keypti með akrinum af Efron Hetíta fyrir grafreit. 31Þar hafa þeir jarðað Abraham og Söru konu hans, þar hafa þeir jarðað Ísak og Rebekku konu hans, og þar hefi ég jarðað Leu. 32Akurinn og hellirinn, sem á honum er, hafði keyptur verið af Hetítum." 33Og er Jakob hafði lokið þessum fyrirmælum við sonu sína, lagði hann fætur sína upp í hvíluna og andaðist og safnaðist til síns fólks.
Jakob er jarðaður í Hebron50
1Jósef laut þá ofan að andliti föður síns og grét yfir honum og kyssti hann. 2Og Jósef bauð þjónum sínum, læknunum, að smyrja föður sinn. Og læknarnir smurðu Ísrael, 3en til þess gengu fjörutíu dagar, því að svo lengi stendur á smurningunni. Og Egyptar syrgðu hann sjötíu daga.4Er sorgardagarnir voru liðnir, kom Jósef að máli við hirðmenn Faraós og mælti: "Hafi ég fundið náð í augum yðar, þá berið Faraó þessi orð mín: 5Faðir minn tók eið af mér og sagði: ,Sjá, nú mun ég deyja. Í gröf minni, sem ég gróf handa mér í Kanaanlandi, skaltu jarða mig.' Leyf mér því að fara og jarða föður minn. Að því búnu skal ég koma aftur." 6Og Faraó sagði: "Far þú og jarða föður þinn, eins og hann lét þig vinna eið að." 7Og Jósef fór að jarða föður sinn, og með honum fóru allir þjónar Faraós, öldungar hirðarinnar og allir öldungar Egyptalands 8og allir heimilismenn Jósefs, svo og bræður hans og heimilismenn föður hans. Aðeins létu þeir börn sín, sauði sína og nautgripi eftir verða í Gósenlandi. 9Í för með honum voru vagnar og riddarar, og var það stórmikið föruneyti.
10En er þeir komu til Góren-haatad, sem er hinumegin við Jórdan, þá hófu þeir þar harmakvein mikið og hátíðlegt mjög, og hann hélt sorgarhátíð eftir föður sinn í sjö daga.
11Og er landsbúar, Kanaanítar, sáu sorgarhátíðina í Góren-haatad, sögðu þeir: "Þar halda Egyptar mikla sorgarhátíð." Fyrir því var sá staður nefndur Abel Mísraím. Liggur hann hinumegin við Jórdan.
12Synir hans gjörðu svo við hann sem hann hafði boðið þeim. 13Og synir hans fluttu hann til Kanaanlands og jörðuðu hann í helli Makpelalands, sem Abraham hafði keypt ásamt akrinum fyrir grafreit af Efron Hetíta, gegnt Mamre.
14Og Jósef fór aftur til Egyptalands, er hann hafði jarðað föður sinn, hann og bræður hans og allir, sem með honum höfðu farið að jarða föður hans.
Veglyndi Jósefs og andlát hans15Er bræður Jósefs sáu að faðir þeirra var dáinn, hugsuðu þeir: "En ef Jósef nú fjandskapaðist við oss og launaði oss allt hið illa, sem vér höfum gjört honum!" 16Og þeir gjörðu Jósef svolátandi orðsending: "Faðir þinn mælti svo fyrir, áður en hann dó: 17,Þannig skuluð þér mæla við Jósef: Æ, fyrirgef bræðrum þínum misgjörð þeirra og synd, að þeir gjörðu þér illt.' Fyrirgef því misgjörðina þjónum þess Guðs, sem faðir þinn dýrkaði." Og Jósef grét, er þeir mæltu svo til hans.
18Því næst komu bræður hans sjálfir og féllu fram fyrir honum og sögðu: "Sjá, vér erum þrælar þínir." 19En Jósef sagði við þá: "Óttist ekki, því að er ég í Guðs stað? 20Þér ætluðuð að gjöra mér illt, en Guð sneri því til góðs, til að gjöra það, sem nú er fram komið, að halda lífinu í mörgu fólki. 21Verið því óhræddir, ég skal annast yður og börn yðar." Síðan hughreysti hann þá og talaði við þá blíðlega.
22Jósef bjó í Egyptalandi, hann og ættlið föður hans. Og Jósef varð hundrað og tíu ára gamall. 23Og Jósef sá niðja Efraíms í þriðja lið. Og synir Makírs, sonar Manasse, fæddust á kné Jósefs. 24Og Jósef sagði við bræður sína: "Nú mun ég deyja. En Guð mun vissulega vitja yðar og flytja yður úr þessu landi til þess lands, sem hann hefir svarið Abraham, Ísak og Jakob." 25Og Jósef tók eið af Ísraels sonum og mælti: "Sannlega mun Guð vitja yðar. Flytjið þá bein mín héðan." 26Og Jósef dó hundrað og tíu ára gamall, og þeir smurðu hann, og hann var kistulagður í Egyptalandi.
Netútgáfan og Hið Íslenska Biblíufélag - ágúst 1997