1
1Vitrun Jesaja Amozsonar, er hann fékk um Júda og Jerúsalem á dögum Ússía, Jótams, Akasar og Hiskía, konunga í Júda.
Guð ákærir2Heyrið, þér himnar, og hlusta þú, jörð, því að Drottinn talar:
Ég hefi fóstrað börn og fætt þau upp, og þau hafa risið í gegn mér.
3Uxinn þekkir eiganda sinn og asninn jötu húsbónda síns, en Ísrael þekkir ekki, mitt fólk skilur ekki.
Landið í sárum eftir innrás Assýringa4Vei hinni syndugu þjóð, þeim lýð, sem misgjörðum er hlaðinn, afsprengi illræðismannanna, spilltum sonum!
Þeir hafa yfirgefið Drottin, smáð Hinn heilaga í Ísrael og snúið baki við honum.
5Hvar ætlið þér að láta ljósta yður framvegis, fyrst þér haldið áfram að þverskallast?
Höfuðið er allt í sárum og hjartað allt sjúkt. 6Frá hvirfli til ilja er ekkert heilt, tómar undir, skrámur og nýjar benjar, sem hvorki er kreist úr né um bundið og þær eigi mýktar með olíu.
7Land yðar er auðn, borgir yðar í eldi brenndar, útlendir menn eta upp akurland yðar fyrir augum yðar, slík eyðing sem þá er land kemst í óvina hendur.
8Dóttirin Síon er ein eftir eins og varðskáli í víngarði, eins og vökukofi í melónugarði, eins og umsetin borg.
9Ef Drottinn allsherjar hefði eigi látið oss eftir leifar, mundum vér brátt hafa orðið sem Sódóma, - líkst Gómorru!
Fánýtar guðsþjónustur10Heyrið orð Drottins, dómarar í Sódómu! Hlusta þú á kenning Guðs vors, Gómorru-lýður!
11Hvað skulu mér yðar mörgu sláturfórnir? - segir Drottinn. Ég er orðinn saddur á hrútabrennifórnum og alikálfafeiti, og í uxa-, lamba- og hafrablóð langar mig ekki.
12Þegar þér komið til þess að líta auglit mitt, hver hefir þá beðið yður að traðka forgarða mína?
13Berið eigi lengur fram fánýtar matfórnir; þær eru mér andstyggilegur fórnarreykur!
Tunglkomur, hvíldardagar, hátíðastefnur, - ég fæ eigi þolað að saman fari ranglæti og hátíðaþröng. 14Sál mín hatar tunglkomur yðar og hátíðir, þær eru orðnar mér byrði, ég er þreyttur orðinn að bera þær.
15Er þér fórnið upp höndum, byrgi ég augu mín fyrir yður, og þótt þér biðjið mörgum bænum, þá heyri ég ekki. Hendur yðar eru alblóðugar.
16Þvoið yður, hreinsið yður. Takið illskubreytni yðar í burt frá augum mínum. Látið af að gjöra illt, 17lærið gott að gjöra!
- Leitið þess, sem rétt er.
- Hjálpið þeim, sem fyrir ofríki verður.
- Rekið réttar hins munaðarlausa.
- Verjið málefni ekkjunnar.
18Komið, eigumst lög við! - segir Drottinn. Þó að syndir yðar séu sem skarlat, skulu þær verða hvítar sem mjöll. Þó að þær séu rauðar sem purpuri, skulu þær verða sem ull.
19Ef þér eruð auðsveipir og hlýðnir, þá skuluð þér njóta landsins gæða, 20en ef þér færist undan því og þverskallist, þá skuluð þér verða sverði bitnir. Munnur Drottins hefir talað það.
Angurljóð um Jerúsalem21Hvernig stendur á því, að hún er orðin að skækju - borgin trúfasta? Hún var full réttinda, og réttlætið hafði þar bólfestu, en nú manndrápsmenn.
22Silfur þitt er orðið að sora, vín þitt vatni blandað. 23Höfðingjar þínir eru uppreistarmenn og leggja lag sitt við þjófa. Allir elska þeir mútu og sækjast ólmir eftir fégjöfum. Þeir reka eigi réttar hins munaðarlausa, og málefni ekkjunnar fær eigi að koma fyrir þá.
24Fyrir því segir hinn alvaldi Drottinn allsherjar, hinn voldugi Ísraels Guð:
Vei, ég skal ná rétti mínum gagnvart mótstöðumönnum mínum og hefna mín á óvinum mínum. 25Og ég skal rétta út hönd mína til þín og hreinsa sorann úr þér, eins og með lútösku, og skilja frá allt blýið.
26Ég skal fá þér aftur slíka dómendur sem í öndverðu og aðra eins ráðgjafa og í upphafi. Upp frá því skalt þú kallast bær réttvísinnar, borgin trúfasta.
27Síon skal endurleyst fyrir réttan dóm, og þeir, sem taka sinnaskiptum, munu frelsaðir verða fyrir réttlæti. 28En tortíming kemur yfir alla illræðismenn og syndara, og þeir, sem yfirgefa Drottin, skulu fyrirfarast.
Endalok heiðinna fórnarlunda29Þér munuð blygðast yðar fyrir eikurnar, sem þér höfðuð mætur á, og þér munuð skammast yðar fyrir lundana, sem voru yndi yðar. 30Því að þér munuð verða sem eik með visnuðu laufi og eins og vatnslaus lundur. 31Og hinn voldugi skal verða að strýi og verk hans að eldsneista, og hvort tveggja mun uppbrenna hvað með öðru og enginn slökkva.
2
1Orðið, sem Jesaja Amozsyni vitraðist um Júda og Jerúsalem.
Þjóðirnar streyma til Jerúsalem2Það skal verða á hinum síðustu dögum, að fjall það, er hús Drottins stendur á, mun grundvallað verða á fjallatindi og gnæfa upp yfir hæðirnar, og þangað munu allir lýðirnir streyma.
3Og margar þjóðir munu búast til ferðar og segja: "Komið, förum upp á fjall Drottins, til húss Jakobs Guðs, svo að hann kenni oss sína vegu og vér megum ganga á hans stigum," því að frá Síon mun kenning út ganga og orð Drottins frá Jerúsalem.
4Og hann mun dæma meðal lýðanna og skera úr málum margra þjóða. Og þær munu smíða plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum. Engin þjóð skal sverð reiða að annarri þjóð, og ekki skulu þær temja sér hernað framar.
5Ættmenn Jakobs, komið, göngum í ljósi Drottins.
Hinn mikli dagur dóms6Þú hefir hafnað þjóð þinni, ættmönnum Jakobs, því að þeir eru allir í austurlenskum göldrum og spáförum, eins og Filistar, og fylla landið útlendum mönnum.
7Land þeirra er fullt af silfri og gulli, og fjársjóðir þeirra eru óþrjótandi.
Land þeirra er fullt af stríðshestum, og vagnar þeirra eru óteljandi.
8Land þeirra er fullt af falsguðum, þeir falla fram fyrir eigin handaverkum sínum, fram fyrir því, sem fingur þeirra hafa gjört.
9En mannkind skal beygjast og maðurinn lægjast, og eigi munt þú fyrirgefa þeim.
10Gakk þú inn í bergið og fel þig í jörðu fyrir ógnum Drottins og ljóma hátignar hans.
11Hin drembilegu augu mannsins skulu lægjast og hroki mannanna beygjast, og Drottinn einn skal á þeim degi háleitur vera.
12Sannarlega mun dagur Drottins allsherjar upp renna. Hann kemur yfir allt það, sem dramblátt er og hrokafullt, og yfir allt, er hátt gnæfir, - það skal lægjast - 13og yfir öll hin hávöxnu og gnæfandi sedrustré á Líbanon, og yfir allar Basanseikur, 14og yfir öll há fjöll og allar gnæfandi hæðir, 15og yfir alla háreista turna og yfir alla ókleifa múrveggi, 16og yfir alla Tarsisknörru og yfir allt ginnandi glys.
17Og dramblæti mannsins skal lægjast og hroki mannanna beygjast, og Drottinn einn skal á þeim degi háleitur vera.
18Og falsguðirnir - það er með öllu úti um þá.
19Þá munu menn smjúga inn í bjarghella og jarðholur fyrir ógnum Drottins og fyrir ljóma hátignar hans, þegar hann rís upp til þess að skelfa jörðina.
20Á þeim degi munu menn kasta fyrir moldvörpur og leðurblökur silfurgoðum sínum og gullgoðum, er þeir hafa gjört sér til að falla fram fyrir, 21en skreiðast sjálfir inn í klettagjár og hamarskorur fyrir ógnum Drottins og fyrir ljóma hátignar hans, þegar hann rís upp til þess að skelfa jörðina.
22Hættið að treysta mönnum, hverfulan lífsanda hafa þeir í nösum sér. Hvers virði eru þeir?
Upplausn þjóðfélagsins3
1Sjá, hinn alvaldi, Drottinn allsherjar sviptir Jerúsalem og Júda hverri stoð og styttu, allri stoð brauðs og allri stoð vatns, 2hetjum og hermönnum, dómendum og spámönnum, spásagnamönnum og öldungum, 3höfuðsmönnum, virðingamönnum, ráðgjöfum, hugvitsmönnum og kunnáttumönnum.4Ég vil fá þeim ungmenni fyrir höfðingja, og smásveinar skulu drottna yfir þeim.
5Á meðal fólksins skal maður manni þrengja. Ungmennið mun hrokast upp í móti öldungnum og skrílmennið upp í móti tignarmanninum.
6Þegar einhver þrífur í bróður sinn í húsi föður síns og segir: "Þú átt yfirhöfn, ver þú stjórnari vor, og þetta fallandi ríki skal vera undir þinni hendi," 7þá mun hann á þeim degi hefja upp raust sína og segja: "Ég vil ekki vera sáralæknir, og í húsi mínu er hvorki til brauð né klæði. Gjörið mig ekki að þjóðstjóra."
8Jerúsalem er að hruni komin og Júda er að falla, af því að tunga þeirra og athæfi var gegn Drottni til þess að storka dýrðaraugum hans. 9Andlitssvipur þeirra vitnar í gegn þeim, og þeir gjöra syndir sínar heyrinkunnar, eins og Sódóma, og leyna þeim ekki. Vei þeim, því að þeir hafa bakað sjálfum sér ógæfu.
10Heill hinum réttlátu, því að þeim mun vel vegna, því að þeir munu njóta ávaxtar verka sinna.
11Vei hinum óguðlega, honum mun illa vegna, því að honum mun goldið verða eftir tilgjörðum hans.
12Harðstjóri þjóðar minnar er drengur, og konur drottna yfir henni. Þjóð mín, leiðtogar þínir leiða þig afleiðis og villa fyrir þér veginn.
Guð ákærir13Drottinn gengur fram til að sækja sökina, hann stendur frammi til að dæma þjóðirnar. 14Drottinn gengur fram til dóms í gegn öldungum lýðs síns og höfðingjum hans:
"Það eruð þér, sem hafið etið upp víngarðinn. Rændir fjármunir fátæklinganna eru í húsum yðar. 15Hvernig getið þér fengið af yður að fótum troða lýð minn og merja sundur andlit hinna snauðu," - segir hinn alvaldi, Drottinn allsherjar.
Hinar hreyknu Jerúsalemdætur16Drottinn sagði: Sökum þess að dætur Síonar eru drembilátar og ganga hnakkakerrtar, gjóta út undan sér augunum og tifa í göngunni og láta glamra í ökklaspennunum, 17þá mun Drottinn gjöra kláðugan hvirfil Síonar dætra og gjöra bera blygðan þeirra.
18Á þeim degi mun Drottinn burt nema skart þeirra: ökklaspennurnar, ennisböndin, hálstinglin, 19eyrnaperlurnar, armhringana, andlitsskýlurnar, 20motrana, ökklafestarnar, beltin, ilmbaukana, töfraþingin, 21fingurgullin, nefhringana, 22glitklæðin, nærklæðin, möttlana og pyngjurnar, 23speglana, líndúkana, vefjarhettina og slæðurnar.
24Koma mun ódaunn fyrir ilm, reiptagl fyrir belti, skalli fyrir hárfléttur, aðstrengdur hærusekkur í stað skrautskikkju, brennimerki í stað fegurðar.
25Menn þínir munu fyrir sverði falla og kappar þínir í orustu.
26Hlið borgarinnar munu kveina og harma, og hún sjálf mun sitja einmana á jörðinni.
4
1Á þeim degi munu sjö konur þrífa í sama manninn og segja: "Vér skulum sjálfar fæða oss og klæða, lát þú oss aðeins nefnast eftir nafni þínu, nem burt smán vora."
Hinir heilögu sem af komast2Á þeim degi mun kvistur Drottins prýðilegur og veglegur verða, og ávöxtur landsins hár og fagur fyrir þá af Ísrael, sem undan komast.
3Þeir sem af lifa í Síon og eftir verða í Jerúsalem, skulu kallast heilagir, allir þeir, sem skráðir eru meðal hinna lifandi í Jerúsalem.
4Þá er Drottinn hefir afþvegið óhreinindi Síonardætra og hreinsað blóð Jerúsalemborgar af henni með refsidómsanda og hreinsunaranda, 5mun hann skapa ský um daga og reyk og skínandi eldsloga um nætur yfir öllum helgidóminum á Síonarfjalli og samkomunum þar, því að yfir öllu því, sem dýrlegt er, skal verndarhlíf vera. 6Og laufskáli skal vera þar til forsælu fyrir hitanum á daginn og til hælis og skýlis fyrir steypiregni og skúrum.
Ástarkvæðið um víngarðinn5
1Ég vil kveða kvæði um ástvin minn, ástarkvæði um víngarð hans.Ástvinur minn átti víngarð á frjósamri hæð. 2Hann stakk upp garðinn og tíndi grjótið úr honum, hann gróðursetti gæðavínvið í honum, reisti turn í honum miðjum og hjó þar einnig út vínlagarþró, og hann vonaði að garðurinn mundi bera vínber, en hann bar muðlinga.
3Dæmið nú, þér Jerúsalembúar og Júdamenn, milli mín og víngarðs míns! 4Hvað varð meira að gjört við víngarð minn en ég hafði gjört við hann? Hví bar hann muðlinga, þegar ég vonaði að hann mundi bera vínber?
5En nú vil ég kunngjöra yður, hvað ég ætla að gjöra við víngarð minn: Rífa þyrnigerðið, svo að hann verði etinn upp, brjóta niður múrvegginn, svo að hann verði troðinn niður. 6Og ég vil gjöra hann að auðn, hann skal ekki verða sniðlaður og ekki stunginn upp, þar skulu vaxa þyrnar og þistlar, og skýjunum vil ég um bjóða, að þau láti enga regnskúr yfir hann drjúpa.
7Víngarður Drottins allsherjar er Ísraels hús, og Júdamenn ástkær plantan hans. Hann vonaðist eftir rétti, en sjá, manndráp; eftir réttvísi, en sjá, neyðarkvein.
Veihróp8Vei þeim, sem bæta húsi við hús og leggja akur við akur, uns ekkert landrými er eftir og þér búið einir í landi.
9Drottinn allsherjar mælir í eyra mér: Í sannleika skulu mörg hús verða að auðn, mikil og fögur hús verða mannlaus. 10Því að tíu plóglönd í víngarði skulu gefa af sér eina skjólu og ein tunna sæðis eina skeppu.
11Vei þeim, sem rísa árla morguns til þess að sækjast eftir áfengum drykk, sem sitja fram á nótt eldrauðir af víni. 12Gígjur, hörpur, bumbur og hljóðpípur kveða við, og vínið flóir við samdrykkjur þeirra, en gjörðum Drottins gefa þeir eigi gaum, og það, sem hann hefir með höndum, sjá þeir ekki.
13Fyrir því mun lýður minn fyrr en af veit fara í útlegð, og tignarmennirnir kveljast af hungri og svallararnir vanmegnast af þorsta.
14Fyrir því vex græðgi Heljar og hún glennir ginið sem mest hún má, og skrautmenni landsins og svallarar, hávaðamennirnir og gleðimennirnir steypast niður þangað.
15Og mannkind skal beygjast og maðurinn lægjast og augu dramblátra verða niðurlút. 16En Drottinn allsherjar mun háleitur verða í dóminum og hinn heilagi Guð sýna heilagleik í réttvísi.
17Lömb munu ganga þar á beit eins og á afrétti, og hinar auðu lendur ríkismannanna munu geitur upp eta.
18Vei þeim, sem draga refsinguna í böndum ranglætisins og syndagjöldin eins og í aktaugum, 19þeim er segja: "Flýti hann sér og hraði verki sínu, svo að vér megum sjá það, komi nú ráðagjörð Hins heilaga í Ísrael fram og rætist, svo að vér megum verða varir við."
20Vei þeim, sem kalla hið illa gott og hið góða illt, sem gjöra myrkur að ljósi og ljós að myrkri, sem gjöra beiskt að sætu og sætt að beisku.
21Vei þeim, sem vitrir eru í augum sjálfra sín og hyggnir að eigin áliti.
22Vei þeim, sem kappar eru í víndrykkju og öflugar hetjur í því að byrla áfengan drykk, 23þeim sem sýkna hinn seka fyrir mútur og svipta hina réttlátu rétti þeirra.
24Fyrir því, eins og eldsloginn eyðir stráinu og heyið hnígur í bálið, svo skal rót þeirra fúna og blóm þeirra feykjast sem ryk, af því að þeir hafa hafnað lögmáli Drottins allsherjar og fyrirlitið orð Hins heilaga í Ísrael.
25Þess vegna bálaðist reiði Drottins í gegn lýð hans, og hann rétti út hönd sína móti honum og laust hann, og fjöllin skulfu og líkin lágu sem sorp á strætum.
Allt fyrir það linnir ekki reiði hans og hönd hans er enn þá útrétt.
Assýringar munu koma26Drottinn reisir hermerki fyrir fjarlæga þjóð og blístrar á hana frá ystu landsálfu, og sjá, hún kemur fljót og frá. 27Enginn er þar móður og engum skrikar fótur, enginn blundar né tekur á sig náðir, engum þeirra losnar belti frá lendum, og ekki slitnar skóþvengur nokkurs þeirra.
28Örvar þeirra eru hvesstar og allir bogar þeirra bentir. Hófarnir á hestum þeirra eru sem tinna og vagnhjól þeirra sem vindbylur. 29Öskur þeirra er sem ljónsöskur, þeir öskra sem ung ljón. Þeir grenja, grípa herfangið og hafa það á burt, og enginn fær bjargað.
30Á þeim degi munu þeir koma grenjandi í móti þjóðinni eins og ólgandi brim.
Ef horft er yfir landið, er þar skelfilegt myrkur, og dagsbirtan er myrkvuð af dimmum skýjum.
Jesaja kallaður til spámanns6
1Árið sem Ússía konungur andaðist sá ég Drottin sitjandi á háum og gnæfandi veldistóli, og slóði skikkju hans fyllti helgidóminn. 2Umhverfis hann stóðu serafar. Hafði hver þeirra sex vængi. Með tveimur huldu þeir ásjónur sínar, með tveimur huldu þeir fætur sína og með tveimur flugu þeir. 3Og þeir kölluðu hver til annars og sögðu:"Heilagur, heilagur, heilagur er Drottinn allsherjar, öll jörðin er full af hans dýrð."
4Við raust þeirra, er þeir kölluðu, skulfu undirstöður þröskuldanna og húsið varð fullt af reyk.
5Þá sagði ég: "Vei mér, það er úti um mig! Því að ég er maður, sem hefi óhreinar varir og bý meðal fólks, sem hefir óhreinar varir, því að augu mín hafa séð konunginn, Drottin allsherjar."
6Einn serafanna flaug þá til mín. Hann hélt á glóandi koli, sem hann hafði tekið af altarinu með töng, 7og hann snart munn minn með kolinu og sagði: "Sjá, þetta hefir snortið varir þínar. Misgjörð þín er burt tekin og friðþægt er fyrir synd þína."
8Þá heyrði ég raust Drottins. Hann sagði: "Hvern skal ég senda? Hver vill vera erindreki vor?"
Og ég sagði: "Hér er ég, send þú mig!"
9Og hann sagði: "Far og seg þessu fólki:
Hlýðið grandgæfilega til, þér skuluð þó ekkert skilja, horfið á vandlega, þér skuluð þó einskis vísir verða!
10Gjör þú hjarta þessa fólks tilfinningarlaust og eyru þess daufheyrð og afturloka augum þess, svo að þeir sjái ekki með augum sínum, heyri ekki með eyrum sínum og skilji ekki með hjarta sínu, að þeir mættu snúa sér og læknast."
11Og ég sagði: "Hversu lengi, Drottinn?"
Hann svaraði: "Þar til er borgirnar standa í eyði óbyggðar og húsin mannlaus og landið verður gjöreytt."
12Drottinn mun reka fólkið langt í burt og eyðistaðirnir verða margir í landinu. 13Og þótt enn sé tíundi hluti eftir í því, skal hann og verða eyddur.
En eins og rótarstúfur verður eftir af terpentíntrénu og eikinni, þá er þau eru felld, svo skal og stúfur þess verða heilagt sæði.
Jesaja boðar von og staðfestu7
1Svo bar til á dögum Akasar, konungs í Júda, Jótamssonar, Ússíasonar, að Resín Sýrlandskonungur og Peka Remaljason, konungur í Ísrael, fóru upp til Jerúsalem til að herja á hana, en fengu ekki unnið hana.2Þá kom húsi Davíðs þessi fregn: Sýrland hefir gjört bandalag við Efraím. Skalf þá hjarta konungs og hjarta þjóðar hans, eins og skógartré skjálfa fyrir vindi.
3Þá sagði Drottinn við Jesaja: "Gakk þú og Sear Jasúb, sonur þinn, til móts við Akas, að enda vatnstokksins úr efri tjörninni, við veginn út á bleikivöllinn, 4og seg við hann: Gæt þín og haf kyrrt um þig. Óttast þú eigi og lát eigi hugfallast fyrir þessum tveimur rjúkandi brandabrotum, fyrir brennandi reiði þeirra Resíns, Sýrlendinga og Remaljasonar. 5Sökum þess að Sýrland, Efraím og Remaljasonur hafa haft ill ráð með höndum gegn þér og sagt: 6,Vér skulum fara herferð á hendur Júda og skjóta mönnum skelk í bringu, taka landið herskildi og setja Tabelsson þar til konungs,' - 7sökum þess segir hinn alvaldi Drottinn: Það skal eigi takast og það skal eigi verða. 8Damaskus er höfuð Sýrlands og Resín höfuð Damaskus. Og áður en liðin eru sextíu og fimm ár skal Efraím gjöreytt verða og eigi verða þjóð upp frá því. - 9Og Samaría er höfuð Efraíms og Remaljasonur höfuð Samaríu.
Ef þér trúið eigi, munuð þér eigi fá staðist."
Jesaja boðar tákn: Immanúel10Og enn talaði Drottinn við Akas og sagði: 11"Bið þér tákns af Drottni, Guði þínum, hvort sem þú vilt heldur beiðast þess neðan úr undirheimum eða ofan að frá hæðum."
12En Akas sagði: "Ég vil einskis biðja og eigi freista Drottins."
13Þá sagði Jesaja: "Heyrið, þér niðjar Davíðs, nægir yður það eigi að þreyta menn, úr því að þér þreytið einnig Guð minn? 14Fyrir því mun Drottinn gefa yður tákn sjálfur:
Sjá, yngismær verður þunguð og fæðir son og lætur hann heita Immanúel. 15Við súrmjólk og hunang skal hann alast, þá er hann fer að hafa vit á að hafna hinu illa og velja hið góða. 16Áður en sveinninn hefir vit á að hafna hinu illa og velja hið góða, skal mannauðn verða í landi þeirra tveggja konunga, sem nú skelfa þig. 17Drottinn mun láta yfir þig og yfir þjóð þína og yfir hús föður þíns þá daga koma, að ekki hafa slíkir yfir liðið síðan Efraím skildist frá Júda - Assýríukonung."
Sagt fyrir um innrás og neyð18Á þeim degi mun Drottinn blístra á flugurnar, sem eru við mynnið á Níl-kvíslunum á Egyptalandi, og á býflugurnar, sem eru í Assýríu, 19og þær munu allar koma og setjast í dalverpin og bergskorurnar, í alla þyrnirunna og í öll vatnsból.
20Á þeim degi mun Drottinn með rakhnífi, leigðum fyrir handan fljót - með Assýríukonungi - raka höfuðið og kviðhárin, og skeggið mun hann einnig nema burt.
21Á þeim degi mun maður hafa kvígu og tvær ær, 22og vegna þess, hve vel þær mjólka, mun hann hafa súrmjólk til matar. Á súrmjólk og hunangi skal hver maður lifa, sem eftir verður í landinu.
23Og á þeim degi mun svo fara, að alls staðar þar sem áður stóðu þúsund vínviðir, þúsund sikla virði, þar skulu vaxa þyrnar og þistlar. 24Menn skulu ekki fara þar um, nema þeir hafi með sér örvar og boga, því að landið skal ekki annað vera en þyrnar og þistlar. 25Og öll fellin, sem nú eru stungin upp með skóflu - þangað skal enginn maður koma af hræðslu við þyrna og þistla. Nautpeningi verður hleypt þangað og sauðfénaður látinn traðka þau niður.
Táknrænt nafn8
1Drottinn sagði við mig: "Tak þér stórt spjald og rita þú á það með algengu letri: Hraðfengi Skyndirán. 2Og tak mér skilríka votta, prestinn Úría og Sakaría Jeberekíason." 3Og ég nálgaðist spákonuna, og hún varð þunguð og ól son. Þá sagði Drottinn við mig: "Lát þú hann heita Hraðfengi Skyndirán. 4Því að áður en sveinninn lærir að kalla ,faðir minn' og ,móðir mín,' skal auður Damaskus og herfang Samaríu burt flutt verða fram fyrir Assýríukonung."
Hin straumhægu vötn og hin stríðu5Og Drottinn talaði enn við mig og sagði:
6Af því að þessi lýður fyrirlítur hin straumhægu Sílóa-vötn, en fagnar Resín og Remaljasyni, 7sjá, fyrir því mun Drottinn láta yfir þá koma hin stríðu og miklu vötn fljótsins - Assýríukonung og allt hans einvalalið. Skal það ganga upp yfir alla farvegu sína og flóa yfir alla bakka. 8Og það skal brjótast inn í Júda, flæða þar yfir og geysast áfram, þar til manni tekur undir höku, og breiða vængi sína yfir allt þitt land, eins og það er vítt til, Immanúel!
Guð er með oss9Vitið það, lýðir, og hlustið á, allar fjarlægar landsálfur! Herklæðist, þér skuluð samt láta hugfallast! Herklæðist, þér skuluð samt láta hugfallast! 10Takið saman ráð yðar, þau skulu að engu verða. Mælið málum yðar, þau skulu engan framgang fá, því að Guð er með oss!
Guð einn ber að óttast11Svo mælti Drottinn við mig, þá er hönd hans hreif mig og hann varaði mig við því að ganga sama veg og þetta fólk gengur:
12Þér skuluð ekki kalla allt það ,samsæri', sem þetta fólk kallar ,samsæri', og ekki óttast það, sem það óttast, og eigi skelfast. 13Drottinn allsherjar, hann skuluð þér telja heilagan, hann sé yður ótti, hann sé yður skelfing. 14Og hann skal verða helgidómur og ásteytingarsteinn og hrösunarhella fyrir báðar ættþjóðir Ísraels og snara og gildra fyrir Jerúsalembúa. 15Og margir af þeim munu hrasa, falla og meiðast, festast í snörunni og verða veiddir.
Spámaðurinn dregur sig í hlé16Ég bind saman vitnisburðinn og innsigla kenninguna hjá lærisveinum mínum. 17Ég treysti Drottni, þótt hann byrgi nú auglit sitt fyrir Jakobs niðjum, og ég bíð hans. 18Sjá, ég og synirnir, sem Drottinn hefir gefið mér, vér erum til tákns og jarteikna í Ísrael frá Drottni allsherjar, sem býr á Síonfjalli.
Varað við andasæringum19Ef þeir segja við yður: "Leitið til andasæringarmanna og spásagnarmanna, sem hvískra og umla! - Á ekki fólk að leita frétta hjá guðum sínum og leita til hinna dauðu vegna hinna lifandi?" - 20þá svarið þeim: "Til kenningarinnar og vitnisburðarins!"
Ef menn tala ekki samkvæmt þessu orði, hafa þeir engan morgunroða 21og munu ráfa hrjáðir og hungraðir. Og er þá hungrar munu þeir fyllast bræði og formæla konungi sínum og Guði sínum. Hvort sem horft er til himins 22eða litið til jarðar, sjá, þar er neyð og myrkur. Í angistarsorta og niðdimmu eru þeir útreknir.
Friðarhöfðinginn9
1Eigi skal myrkur vera í landi því, sem nú er í nauðum statt. Fyrrum lét hann vansæmd koma yfir Sebúlonsland og Naftalíland, en síðar meir mun hann varpa frægð yfir leiðina til hafsins, landið hinumegin Jórdanar og Galíleu heiðingjanna.2Sú þjóð, sem í myrkri gengur, sér mikið ljós. Yfir þá, sem búa í landi náttmyrkranna, skín ljós.
3Þú eykur stórum fögnuðinn, þú gjörir gleðina mikla. Menn gleðja sig fyrir þínu augliti, eins og þegar menn gleðjast á kornskurðartímanum, eins og menn leika af fögnuði þegar herfangi er skipt.
4Því að hið þunga ok hennar, stafinn, sem reið að herðum hennar, brodd rekstrarmannsins, hefir þú í sundur brotið, eins og á degi Midíans.
5Öll harkmikil hermannastígvél og allar blóðstokknar skikkjur skulu brenndar og verða eldsmatur.
6Því að barn er oss fætt, sonur er oss gefinn. Á hans herðum skal höfðingjadómurinn hvíla. Nafn hans skal kallað Undraráðgjafi, Guðhetja, Eilífðarfaðir, Friðarhöfðingi.
7Mikill skal höfðingjadómurinn verða og friðurinn engan enda taka á hásæti Davíðs og í ríki hans. Hann mun reisa það og efla með réttvísi og réttlæti héðan í frá og að eilífu.
Vandlæting Drottins allsherjar mun þessu til vegar koma.
Dómsræður8Drottinn hefir sent orð gegn Jakob, og því lýstur niður í Ísrael. 9Og öll þjóðin skal verða þess áskynja, bæði Efraím og Samaríubúar, sem af metnaði og stærilæti hjartans segja: 10"Tigulsteinarnir eru hrundir, en vér skulum byggja upp aftur af höggnu grjóti, mórberjatrén eru felld, en vér skulum setja sedrustré í staðinn." 11Þess vegna mun Drottinn efla mótstöðumenn Resíns á hendur þeim og vopna óvini þeirra, 12Sýrlendinga að austan og Filista að vestan, og þeir skulu svelgja Ísrael með gapandi gini.
Allt fyrir það linnti ekki reiði hans, og hönd hans er enn þá útrétt.
13En þjóðin sneri sér ekki til hans, sem laust hana, og Drottins allsherjar leituðu þeir ekki. 14Þess vegna mun Drottinn höggva höfuð og hala af Ísrael, pálmakvistinn og sefstráið á sama degi.
15Öldungarnir og virðingamennirnir eru höfuðið, spámenn þeir, er kenna lygar, eru halinn.
16Því að leiðtogar þessa fólks leiða það afleiðis, og þeir, sem láta leiða sig, tortímast. 17Fyrir því hefir Drottinn enga gleði af æskumönnum þess og enga meðaumkun með munaðarleysingjum þess og ekkjum, því að allir eru þeir guðleysingjar og illvirkjar, og hver munnur mælir heimsku.
Allt fyrir þetta linnti ekki reiði hans, og hönd hans er enn þá útrétt.
18Því að hið óguðlega athæfi brennur eins og eldur, eyðir þyrnum og þistlum og kveikir í þykkum skógarrunnum, svo að þeir hvirflast upp í reykjarmökk. 19Vegna reiði Drottins allsherjar stendur landið í björtu báli og fólkið verður sem eldsmatur; enginn þyrmir öðrum. 20Menn rífa í sig til hægri handar og eru þó hungraðir. Þeir eta til vinstri handar og verða þó eigi saddir. Hver etur holdið af sínum eigin armlegg: 21Manasse Efraím og Efraím Manasse, og báðir saman ráða þeir á Júda.
Allt fyrir þetta linnir ekki reiði hans, og hönd hans er enn þá útrétt.
10
1Vei þeim, sem veita ranga úrskurði og færa skaðsemdarákvæði í letur 2til þess að halla rétti fátækra og ræna lögum hina nauðstöddu á meðal fólks míns, til þess að ekkjurnar verði þeim að herfangi og þeir fái féflett munaðarleysingjana. 3Hvað ætlið þér að gjöra á degi hegningarinnar og þegar eyðingin kemur úr fjarska? Til hvers viljið þér þá flýja um ásjá? Og hvar viljið þér geyma auðæfi yðar? 4Er nokkuð annað fyrir hendi en að falla á kné meðal hinna fjötruðu eða hníga meðal hinna vegnu?Allt fyrir þetta linnir ekki reiði hans, og hönd hans er enn þá útrétt.
Heimsveldið Assýría er refsivöndur5Vei Assúr, vendinum reiði minnar! Heift mín er stafurinn í höndum þeirra. 6Ég sendi hann móti guðlausri þjóð, ég býð honum að fara á móti lýðnum, sem ég er reiður, til þess að ræna og rupla og troða hann fótum sem saur á strætum.
7En hann skilur það eigi svo, og hjarta hans hugsar eigi svo, heldur girnist hann að eyða og uppræta margar þjóðir.
8Hann segir: "Eru ekki höfðingjar mínir allir saman konungar? 9Fór ekki fyrir Kalne eins og fyrir Karkemis, fyrir Hamat eins og fyrir Arpad, fyrir Samaríu eins og fyrir Damaskus? 10Eins og hönd mín náði til konungsríkja guðanna, og voru þó líkneskjur þeirra fleiri en Jerúsalem og Samaríu, 11já, eins og ég hefi farið með Samaríu og guði hennar, svo mun ég fara með Jerúsalem og guðalíkneski hennar!"
12En þegar Drottinn hefir lokið öllu starfi sínu á Síon-fjalli og í Jerúsalem, mun hann vitja ávaxtarins af ofmetnaðinum í hjarta Assýríukonungs og hins hrokafulla drembilætis augna hans, 13því að hann hefir sagt: "Með styrk handar minnar hefi ég þessu til leiðar komið og með hyggindum mínum, því að ég er vitsmunamaður. Ég hefi fært úr stað landamerki þjóðanna, rænt fjárhlutum þeirra og sem alvaldur steypt af stóli drottnendum þeirra. 14Hönd mín náði í fjárafla þjóðanna, sem fuglshreiður væri. Eins og menn safna eggjum, sem fuglinn er floginn af, svo hefi ég safnað saman öllum löndum, og hefir enginn blakað vængjum, lokið upp nefinu né tíst."
15Hvort má öxin dramba í gegn þeim, sem heggur með henni, eða sögin miklast í gegn þeim, sem sagar með henni? Allt eins og sprotinn ætlaði að sveifla þeim, er reiðir hann, eða stafurinn færa á loft þann, sem ekki er af tré. 16Fyrir því mun hinn alvaldi, Drottinn allsherjar, senda megrun í hetjulið hans, og undir dýrð hans mun eldur blossa upp sem brennandi bál. 17Og ljós Ísraels mun verða að eldi og Hinn heilagi í Ísrael að loga, og sá logi skal á einum degi upp brenna og eyða þyrnum hans og þistlum 18og afmá að fullu og öllu hina dýrlegu skóga hans og aldingarða. Hann skal verða eins og sjúklingur, sem veslast upp. 19Og leifarnar af skógartrjám hans munu verða teljandi, og smásveinn mun geta skrifað þau upp.
Leifar munu komast af20Á þeim degi skulu leifarnar af Ísrael og þeir af Jakobs húsi, sem af komast, eigi framar reiða sig á þann sem sló þá, heldur munu þeir með trúfesti reiða sig á Drottin, Hinn heilaga í Ísrael.
21Leifar munu aftur hverfa, leifarnar af Jakob, til hins máttuga Guðs. 22Því að þótt fólksfjöldi þinn, Ísrael, væri sem sjávarsandur, skulu þó aðeins leifar af honum aftur hverfa.
Eyðing er fastráðin, framveltandi flóð réttlætis. 23Því að eyðingu, og hana fastráðna, mun hinn alvaldi, Drottinn allsherjar framkvæma á jörðinni miðri.
Guð snýst gegn heimsveldinu24Svo segir hinn alvaldi, Drottinn allsherjar: Þú þjóð mín, sem býr á Síon, óttast þú eigi Assúr, er hann slær þig með sprota og reiðir að þér staf sinn, eins og Egyptar gjörðu. 25Því að eftir skamma hríð er reiðin á enda, og þá beinist heift mín að eyðing þeirra. 26Þá reiðir Drottinn allsherjar svipuna að þeim, eins og þegar hann laust Midíansmenn hjá Óreb-kletti. Stafur hans er útréttur yfir hafið, og hann færir hann á loft, eins og gegn Egyptum forðum. 27Á þeim degi skal byrði sú, sem hann hefir á þig lagt, falla af herðum þér og ok hans af hálsi þínum, og okið skal brotna fyrir ofurfitu.
Ráðist á Jerúsalem28Óvinurinn heldur til Ajat, fer um Mígron og lætur eftir farangur sinn í Mikmas. 29Þeir fara yfir skarðið, þeir hafa náttból í Geba. Rama skelfist, íbúar Gíbeu Sáls leggja á flótta.
30Hljóða þú upp, Gallímdóttir! Hlustaðu á, Lejsa! Taktu undir, Anatót!
31Madmena flýr, íbúar Gebím forða sér undan.
32Þennan sama dag æir hann í Nób. Hann réttir út hönd sína móti fjalli Síonardóttur, móti hæð Jerúsalemborgar.
Dómur yfir þjóð og konungi33Sjá, hinn alvaldi, Drottinn allsherjar afsníður laufkrónuna voveiflega. Hin hávöxnu trén eru höggvin og hin gnæfandi hníga til jarðar. 34Hann ryður skógarrunnana með öxi, og Líbanon fellur fyrir Hinum volduga.
Ríki Messíasar11
1Af stofni Ísaí mun kvistur fram spretta og angi upp vaxa af rótum hans.2Yfir honum mun hvíla andi Drottins: Andi vísdóms og skilnings, andi ráðspeki og kraftar, andi þekkingar og ótta Drottins. 3Unun hans mun vera að óttast Drottin.
Hann mun ekki dæma eftir því, sem augu hans sjá, og ekki skera úr málum eftir því, sem eyru hans heyra. 4Með réttvísi mun hann dæma hina fátæku og skera með réttlæti úr málum hinna nauðstöddu í landinu. Hann mun ljósta ofbeldismanninn með sprota munns síns og deyða hinn óguðlega með anda vara sinna.
5Réttlæti mun vera beltið um lendar hans og trúfesti beltið um mjaðmir hans.
6Þá mun úlfurinn búa hjá lambinu og pardusdýrið liggja hjá kiðlingnum, kálfar, ung ljón og alifé ganga saman og smásveinn gæta þeirra. 7Kýr og birna munu vera á beit saman og kálfar og húnar liggja hvorir hjá öðrum, og ljónið mun hey eta sem naut. 8Brjóstmylkingurinn mun leika sér við holudyr nöðrunnar, og barnið nývanið af brjósti stinga hendi sinni inn í bæli hornormsins.
9Hvergi á mínu heilaga fjalli munu menn illt fremja eða skaða gjöra, því að jörðin er full af þekkingu á Drottni, eins og djúp sjávarins er vötnum hulið.
Hinir herleiddu munu snúa heim10Á þeim degi mun rótarkvistur Ísaí standa sem hermerki fyrir þjóðirnar og lýðirnir leita til hans, og bústaður hans mun dýrlegur verða.
11Á þeim degi mun Drottinn útrétta hönd sína í annað sinn til þess að endurkaupa þær leifar fólks síns, sem eftir eru í Assýríu, Norður-Egyptalandi, Suður-Egyptalandi, Blálandi, Elam, Babýloníu, Hamat og á eyjum hafsins. 12Og hann mun reisa merki fyrir þjóðirnar, heimta saman hina brottreknu menn úr Ísrael og safna saman hinum tvístruðu konum úr Júda frá fjórum höfuðáttum heimsins.
13Þá mun öfund Efraíms hverfa og fjandskapur Júda líða undir lok. Efraím mun ekki öfundast við Júda og Júda ekki fjandskapast við Efraím. 14Þeir munu steypa sér niður á síðu Filista gegn vestri og ræna í sameiningu austurbyggja. Edóm og Móab munu þeir hremma og Ammónítar verða þeim lýðskyldir.
15Og Drottinn mun þurrka upp voga Egyptahafs og bregða hendi sinni yfir fljótið í stríðum stormi og skipta því í sjö kvíslir, svo að yfir má ganga með skó á fótum. 16Og það skal verða brautarvegur fyrir þær leifar fólks hans, sem enn eru eftir í Assýríu, eins og var fyrir Ísrael, þá er hann fór af Egyptalandi.
Þakkarsálmur12
1Á þeim degi skaltu segja:"Ég vegsama þig, Drottinn, því þótt þú værir mér reiður, þá er þó horfin reiði þín og þú huggaðir mig.
2Sjá, Guð er mitt hjálpræði, ég er öruggur og óttast eigi, því að Drottinn Guð er minn styrkur og minn lofsöngur, hann er orðinn mér hjálpræði."
3Þér munuð með fögnuði vatni ausa úr lindum hjálpræðisins. 4Og á þeim degi munuð þér segja:
"Lofið Drottin, ákallið nafn hans. Gjörið máttarverk hans kunn meðal þjóðanna, hafið í minnum, að háleitt er nafn hans.
5Lofsyngið Drottni, því að dásemdarverk hefir hann gjört. Þetta skal kunnugt verða um alla jörðina.
6Lát óma gleðihljóm og kveða við fagnaðaróp, þú sem býr á Síon, því að mikill er Hinn heilagi í Ísrael meðal þín."
Spádómar um erlendar þjóðir
13
1Spádómur um Babýlon, er vitraðist Jesaja Amozsyni.
Gegn herleiðendum í Babýlon2Reisið merki á skóglausri hæð! Kallið hárri röddu til þeirra! Bendið þeim með hendinni, að þeir fari inn um hlið harðstjóranna! 3Ég er sá, sem boðið hefi út vígðum liðsmönnum mínum og kallað á kappa mína til að framkvæma reiðidóm minn, þessa hreyknu og hróðugu menn mína.
4Heyr þysinn á fjöllunum, eins og af mannmergð, heyr gnýinn af hinum samansöfnuðu þjóðum. Drottinn allsherjar er að kanna liðið.
5Þeir koma frá fjarlægu landi, frá himins enda, Drottinn með verkfæri reiði sinnar, til þess að leggja í eyði gjörvalla jörðina.
6Kveinið, því að dagur Drottins er nálægur; hann kemur sem eyðing frá hinum Almáttka. 7Þess vegna verða allar hendur lémagna og sérhvert mannshjarta bráðnar. 8Þeir skelfast, harmkvæli og þrautir gagntaka þá, þeir hafa hríðir eins og jóðsjúk kona. Angistarfullir stara þeir hver á annan, andlit þeirra eru sem eldslogi.
9Sjá, dagur Drottins kemur, grimmilegur, með heift og brennandi reiði, til að gjöra jörðina að auðn og afmá syndarana af henni.
10Stjörnur himinsins og stjörnumerkin láta eigi ljós sitt skína, sólin er myrk í uppgöngu sinni og tunglið ber eigi birtu sína.
11Ég vil hegna jarðríki fyrir illsku þess og hinum óguðlegu fyrir misgjörðir þeirra, ég vil niðurkefja ofdramb hinna ríkilátu og lægja hroka ofbeldismannanna. 12Ég vil láta menn verða sjaldgæfari en skíragull og mannfólkið torgætara en Ófír-gull. 13Þess vegna vil ég hrista himininn, og jörðin skal hrærast úr stöðvum sínum fyrir heift Drottins allsherjar og á degi hans brennandi reiði.
14Eins og fældar skógargeitur og eins og smalalaus hjörð skulu þeir hverfa aftur, hver til sinnar þjóðar, og flýja hver heim í sitt land. 15Hver sem fundinn verður, mun lagður verða í gegn, og hver sem gripinn verður, mun fyrir sverði falla. 16Ungbörn þeirra munu knosuð verða fyrir augum þeirra, hús þeirra verða rænd og konur þeirra smánaðar.
17Sjá, ég æsi upp Medíumenn gegn þeim. Þeir meta einskis silfrið og þá langar ekki í gullið. 18Bogar þeirra rota unga menn til dauða. Þeir þyrma ekki lífsafkvæmum, og líta ekki miskunnaraugum til ungbarna.
19Svo skal fara fyrir Babýlon, þessari prýði konungsríkjanna og drembidjásni Kaldea, sem þá er Guð umturnaði Sódómu og Gómorru. 20Hún skal aldrei framar af mönnum byggð vera, kynslóð eftir kynslóð skal þar enginn búa. Enginn Arabi skal slá þar tjöldum sínum og engir hjarðmenn bæla þar fénað sinn. 21Urðarkettir skulu liggja þar og húsin fyllast af uglum. Strútsfuglar skulu halda þar til og skógartröll stökkva þar um. 22Sjakalar skulu kallast á í höllunum og úlfar í bílífis-sölunum.
Tími hennar nálægist og dagar hennar munu eigi undan dragast.
Hinir herleiddu munu snúa aftur14
1Drottinn mun miskunna Jakob og enn útvelja Ísrael. Hann mun gefa þeim bólfestu í landi þeirra, og útlendir menn munu sameinast þeim og gjöra félagsskap við Jakobs hús. 2Og þjóðirnar munu taka þá og flytja þá til átthaga þeirra, en Ísraelsniðjar munu eignast þær að þrælum og ambáttum í landi Drottins. Þeir munu hertaka hertakendur sína og drottna yfir kúgurum sínum.
Háðkvæði um fall Babýlonar3Þegar Drottinn veitir þér hvíld af þrautum þínum og ónæði og af hinni hörðu ánauð, sem á þig var lögð, 4þá muntu kyrja upp háðkvæði þetta um konunginn í Babýlon og segja:
- Hversu hljóður er harðstjórinn nú orðinn,
- hve hljótt í kvalastaðnum!
- 5 Drottinn hefir sundurbrotið staf hinna óguðlegu,
- sprota yfirdrottnaranna,
- 6 sem laust þjóðflokkana í bræði
- högg á högg ofan,
- og kúgaði þjóðirnar í reiði
- með vægðarlausri kúgan.
- 7 Öll jörðin nýtur nú hvíldar og friðar,
- fagnaðarópin kveða við.
- 8 Jafnvel kýprestrén gleðjast yfir þér
- og sedrustrén á Líbanon:
- "Fyrst þú ert lagstur lágt, mun enginn upp stíga
- til þess að fella oss."
- 9 Hjá Helju niðri er allt í uppnámi þín vegna
- til þess að taka á móti þér.
- Vegna þín rekur hún hina dauðu á fætur,
- alla foringja jarðarinnar.
- Af hásætum sínum lætur hún upp standa
- alla þjóðkonunga.
- 10 Þeir taka allir til máls
- og segja við þig:
- "Þú ert þá einnig orðinn máttvana sem vér,
- orðinn jafningi vor!
- 11 Ofmetnaðar-skrauti þínu er niður varpað til Heljar,
- hreimnum harpna þinna!
- Ormar eru breiddir undir þig,
- og ábreiðan þín eru maðkar."
- 12 Hversu ertu hröpuð af himni,
- þú árborna morgunstjarna!
- Hversu ert þú að velli lagður,
- undirokari þjóðanna!
- 13 Þú, sem sagðir í hjarta þínu:
- "Ég vil upp stíga til himins!
- Ofar stjörnum Guðs
- vil ég reisa veldistól minn!
- Á þingfjalli guðanna vil ég setjast að,
- yst í norðri.
- 14 Ég vil upp stíga ofar skýjaborgum,
- gjörast líkur Hinum hæsta!"
- 15 Já, til Heljar var þér niður varpað,
- í neðstu fylgsni grafarinnar.
- 16 Þeim sem sjá þig, verður starsýnt á þig,
- þeir virða þig fyrir sér:
- "Er þetta maðurinn, sem skók jörðina
- og skelfdi konungsríkin,
- 17 gjörði jarðkringluna að eyðimörk,
- eyddi borgir hennar
- og gaf eigi bandingjum sínum heimfararleyfi?"
- 18 Allir konungar þjóðanna liggja virðulega grafnir,
- hver í sínu húsi,
- 19 en þér er fleygt út, langt frá gröf þinni,
- eins og auvirðilegum kvisti.
- Þú ert þakinn dauðra manna búkum, þeirra er lagðir voru sverði,
- eins og fótum troðið hræ.
- 20 Við þá, sem stíga niður í steinlagðar grafir,
- hefir þú eigi samneyti,
- því að land þitt hefir þú eytt,
- myrt þjóð þína.
- Eigi skal nefnt verða að eilífu
- afsprengi illvirkjanna.
- 21 Búið nú sonum hans rauðan serk
- sakir misgjörða feðra þeirra.
- Eigi skulu þeir fá risið á legg og lagt undir sig jörðina
- né fyllt jarðkringluna rústum!
22Ég vil rísa upp í gegn þeim, segir Drottinn allsherjar, og afmá nafn og leifar Babýlonsborgar, ætt og afkomendur - segir Drottinn. 23Ég vil gefa hana stjörnuhegrum til eignar og láta hana verða að vatnsmýri. Ég vil sópa henni burt með sópi eyðingarinnar, segir Drottinn allsherjar.
Ráðsályktun Guðs og kúgun Assýríu24Drottinn allsherjar hefir svarið og sagt:
Sannlega, það, sem ég hefi fyrirhugað, skal verða og það, sem ég hefi ályktað, skal framgang fá. 25Ég mun sundurmola Assýríu í landi mínu og fótum troða hana á fjöllum mínum. Skal þá ok hennar af þeim tekið og byrði hennar tekin af herðum þeirra.
26Þetta er sú ráðstöfun, sem áformuð er um alla jörðina, og þetta er sú hönd, sem út er rétt gegn öllum þjóðum.
27Drottinn allsherjar hefir ályktað þetta; hver má ónýta það? Það er hans hönd, sem út er rétt. Hver má kippa henni aftur?
Sendimönnum Filista svarað28Þessi spádómur var birtur árið, sem Akas konungur andaðist.
29Gleðst þú eigi, gjörvöll Filistea, af því að stafurinn, sem sló þig, er í sundur brotinn, því að út af rót höggormsins mun naðra koma og ávöxtur hennar verða flugdreki.
30Hinir allralítilmótlegustu skulu hafa viðurværi, og hinir fátæku hvílast óhultir, en rót þína vil ég með hungri deyða, og leifarnar af þér munu drepnar verða.
31Kveina, þú hlið! Hljóða þú, borg! Gnötra þú, gjörvöll Filistea! því að mökkur kemur úr norðurátt, í fylkingum hans dregst enginn aftur úr.
32Og hverju skal þá svara sendimönnum hinnar heiðnu þjóðar? Að Drottinn hafi grundvallað Síon, og að hinir þjáðu meðal þjóðar hans leiti sér hælis í henni.
Gegn Móab15
1Spádómur um Móab.Já, á náttarþeli verður Ar í Móab unnin og gjöreydd!
Já, á náttarþeli verður Kír í Móab unnin og gjöreydd!
2Íbúar Díbon stíga upp á hæðirnar til að gráta. Móab kveinar á Nebó og í Medeba.
Hvert höfuð er sköllótt, allt skegg af rakað. 3Á strætunum eru þeir gyrtir hærusekk. Uppi á þökunum og á torgunum kveina þeir allir, fljótandi í tárum.
4Íbúar Hesbon og Eleale hljóða svo hátt, að það heyrist til Jahas. Þess vegna æpa hermennirnir í Móab, þeim er horfinn hugur.
5Hjarta mitt kveinar yfir Móab, flóttamenn þeirra flýja til Sóar, til Eglat Selisía.
Grátandi ganga þeir upp stíginn hjá Lúkít. Á veginum til Hórónaím hefja þeir neyðarkvein tortímingarinnar.
6Nimrímvötn eru orðin að öræfum, því að grasið skrælnar, jurtirnar eyðast, allt grængresi hverfur. 7Fyrir því bera þeir það, sem þeir hafa dregið saman, og það, sem þeir hafa geymt, yfir Pílviðará.
8Neyðarkveinið gengur yfir gjörvallt Móabsland. Hljóðin berast allt til Eglaím, hljóðin berast allt til Beer Elím.
9Vötn Dímonar eru full af blóði. Já, enn vil ég leggja meira á Dímon: Ljón fyrir þá, sem undan komast frá Móab, og fyrir þá, sem eftir verða í landinu.
16
1Sendið landshöfðingjanum sauðaskattinn úr klettagjánum gegnum eyðimörkina til fjalls Síondóttur.2Eins og flöktandi fuglar, eins og ungar, fældir úr hreiðri, skulu Móabsdætur verða við vöðin á Arnon.
3"Legg nú ráð, veit hjálp, gjör skugga þinn um hábjartan dag sem nótt. Fel hina burtreknu, seg ekki til flóttamannanna. 4Ljá hinum burtreknu úr Móab dvöl hjá þér. Ver þeim verndarskjól fyrir eyðandanum.
Þegar kúgarinn er horfinn burt, eyðingunni linnir og undirokararnir eru farnir úr landinu, 5þá mun veldisstóll reistur verða með miskunnsemi og á honum sitja með trúfesti í tjaldi Davíðs dómari, sem leitar réttinda og temur sér réttlæti."
6Vér höfum heyrt drambsemi Móabs - hann er mjög hrokafullur - ofmetnað hans, drambsemi og ofsa, og hin marklausu stóryrði hans. 7Þess vegna kveina nú Móabítar yfir Móab, allir kveina þeir.
Yfir rúsínukökum Kír Hareset munu þeir andvarpa harla hnuggnir. 8Því að akurlönd Hesbon eru fölnuð og víntré Síbma. Vín þeirra varpaði höfðingjum þjóðanna til jarðar. Vínviðarteinungarnir náðu til Jaser, villtust út um eyðimörkina. Greinar þeirra breiddu sig út, fóru yfir hafið. 9Fyrir því græt ég með Jaser yfir víntrjám Síbma. Ég vökva þig með tárum mínum, Hesbon og Eleale! því að fagnaðarópum óvinanna laust yfir sumargróða þinn og vínberjatekju.
10Fögnuður og kæti eru horfin úr aldingörðunum, og í víngörðunum heyrast engir gleðisöngvar né fagnaðarhljóð. Troðslumenn troða ekki vínber í vínþröngunum, ég hefi látið fagnaðaróp þeirra þagna. 11Fyrir því titrar hjarta mitt sem gígjustrengur sökum Móabs og brjóst mitt sökum Kír Hares.
12Og þó að Móab sýni sig á blóthæðinni og streitist við og fari inn í helgidóm sinn til að biðjast fyrir, þá mun hann samt engu til leiðar koma.
13Þetta er það orð, sem Drottinn talaði um Móab fyrrum. 14En nú talar Drottinn á þessa leið: Áður en þrjú ár eru liðin, slík sem ár kaupamanna eru talin, skal vegsemd Móabs með öllum hinum mikla mannfjölda fyrirlitin verða, en leifar munu eftir verða, lítilfenglegar, eigi teljandi.
Gegn Sýrlandi og Norðurríkinu17
1Spádómur um Damaskus.Sjá, Damaskus skal verða afmáð og ekki vera borg framar, hún skal verða að rústum.
2Borgir Aróer skulu verða yfirgefnar, hjörðum skulu þær verða til beitar, þar skulu þær liggja og enginn styggja þær.
3Varnarvirki Efraíms líður undir lok og konungdómurinn hverfur frá Damaskus. Fyrir leifum Sýrlands skal fara eins og fyrir vegsemd Ísraelsmanna - segir Drottinn allsherjar.
4Á þeim degi mun vegsemd Jakobs verða lítilfengleg og fitan á holdi hans rýrna. 5Þá mun fara líkt og þegar kornskurðarmaður safnar kornstöngum og armleggur hans afsníður öxin, og eins og þegar öx eru tínd í Refaím-dal. 6Eftirtíningur skal eftir verða af þeim, eins og þegar olíuviður er skekinn, tvö eða þrjú ber efst í laufinu, fjögur eða fimm á greinum aldintrésins - segir Drottinn, Ísraels Guð.
7Á þeim degi mun maðurinn mæna til skapara síns og augu hans líta til Hins heilaga í Ísrael. 8Eigi mun hann þá mæna á ölturun, handaverk sín, né líta til þess, er fingur hans hafa gjört, hvorki til aséranna né sólsúlnanna.
9Á þeim degi munu hinar víggirtu borgir hans verða sem yfirgefnir staðir Amoríta og Hevíta, er þeir fyrirlétu, þá er þeir hrukku undan Ísraelsmönnum, og landið skal verða að auðn, 10því að þú hefir gleymt Guði hjálpræðis þíns og eigi minnst þess hellubjargsins, sem er hæli þitt.
Vegna þess að þú plantar yndislega garða og setur þar niður útlenda gróðurkvistu, 11ræktar garð þinn á daginn og lætur á morgnana útsæði þitt blómgast, skal uppskeran bregðast á degi hins banvæna sárs og hinna ólæknandi kvala.
Árásarmenn reknir á flótta12Heyr gný margra þjóða - þær gnýja sem gnýr hafsins.
Heyr dyn þjóðflokkanna - þeir dynja eins og dynur mikilla vatnsfalla. 13Þjóðflokkarnir dynja eins og dynur margra vatnsfalla.
En Drottinn hastar á þá, og þá flýja þeir langt burt. Þeir tvístrast eins og sáðir á hólum fyrir vindi, eins og rykmökkur fyrir stormi.
14Að kveldi er þar skelfing, áður en morgnar eru þeir allir á burt. Þetta er hlutskipti þeirra, er oss ræna, og örlög þeirra, er frá oss rupla.
Sendimönnum Eþíópíukonungs svarað18
1Vei landi vængjaþytsins, hinumegin Blálands fljóta, 2er gjörir út sendimenn yfir hafið og í reyrbátum yfir vötnin.Farið, þér hröðu sendiboðar, til hinna hávöxnu og gljáandi þjóðar, til lýðsins, sem hræðilegur var þegar frá upphafi vega sinna, til hinnar afar sterku þjóðar, sem allt treður undir fótum sér, um hverrar land fljótin renna: 3Allir þér, sem heimskringluna byggið og á jörðu búið, skuluð sjá, þegar merkið er reist á fjöllunum, og hlusta, þegar blásið er í lúðurinn. 4Því að svo hefir Drottinn sagt við mig:
Ég vil halda kyrru fyrir og horfa á frá bústað mínum, meðan loftið er glóandi í sólskininu, meðan döggin er mikil í breiskjuhita kornskurðartímans.
5Áður en uppskeran kemur, þegar blómgunin er á enda og blómið verður að fullvöxnu vínberi, heggur hann vínviðargreinarnar af með sniðlinum, og frjóangana stýfir hann, sníður þá af. 6Allir saman skulu þeir gefnir verða ránfuglum fjallanna og dýrum jarðarinnar. Ránfuglarnir skulu sitja á þeim sumarlangt og öll dýr jarðarinnar halda sig þar þegar vetrar.
7Á þeim tíma skulu gjafir verða færðar Drottni allsherjar frá hinum hávaxna og gljáandi lýð, frá lýðnum, sem hræðilegur var þegar frá upphafi vega sinna, frá hinni afar sterku þjóð, sem allt treður undir fótum sér, um hverrar land fljótin renna, - til þess staðar, þar sem nafn Drottins hersveitanna er, til Síonfjalls.
Dómsorð um Egyptaland19
1Spádómur um Egyptaland.Sjá, Drottinn ekur á léttfæru skýi og kemur til Egyptalands. Þá skjálfa goð Egyptalands fyrir honum og hjörtu Egypta bráðna í brjóstum þeirra.
2Ég æsi Egypta í gegn Egyptum, svo að bróðir skal berjast við bróður, vinur við vin, borg við borg og ríki við ríki. 3Hyggindi Egypta munu þá verða örþrota, og ráðagjörðir þeirra ónýti ég. Þeir munu leita frétta hjá goðum sínum, hjá galdramönnum, þjónustuöndum og spásagnaröndum.
4Ég vil selja Egypta harðráðum drottnara á vald, og grimmur konungur skal ríkja yfir þeim - segir hinn alvaldi, Drottinn allsherjar.
5Vötnin í sjónum munu þverra og fljótið grynnast og þorna upp. 6Árkvíslarnar munu fúlna, fljót Egyptalands þverra og þorna, reyr og sef visna. 7Engjarnar fram með Níl, á sjálfum Nílarbökkunum, og öll sáðlönd við Níl þorna upp, eyðast og hverfa. 8Þá munu fiskimennirnir andvarpa og allir þeir sýta, sem öngli renna í Níl, og þeir, sem leggja net í vötn, munu örvilnast.
9Þeir, sem vinna hörinn, munu standa ráðþrota, kembingarkonurnar og vefararnir blikna.
10Stoðir landsins skulu brotnar verða sundur, allir þeir, sem vinna fyrir kaup, verða hugdaprir.
11Höfðingjarnir í Sóan eru tómir heimskingjar, ráðspekin hjá hinum vitrustu ráðgjöfum Faraós orðin að flónsku. Hvernig dirfist þér að segja við Faraó: "Ég er sonur vitringanna og kominn af fornkonungunum"? 12Hvar eru nú vitringar þínir? Þeir ættu nú að segja þér, og mega vita, hverja fyrirætlan Drottinn allsherjar hefir með Egyptaland.
13Höfðingjarnir í Sóan standa eins og afglapar, höfðingjarnir í Nóf eru á tálar dregnir. Þeir sem eru hyrningarsteinar ættkvísla Egyptalands, hafa leitt það á glapstigu. 14Drottinn hefir byrlað þeim sundlunaranda, svo að þeir valda því, að Egyptaland er á reiki í öllum fyrirtækjum sínum, eins og drukkinn maður reikar innan um spýju sína.
15Ekkert heppnast Egyptalandi, hvorki það sem höfuð eða hali, pálmakvistur eða sefstrá taka sér fyrir að gjöra.
Egyptar munu snúa sér til Guðs16Á þeim degi munu Egyptar verða sem konur, þeir munu skelfast og hræðast reidda hönd Drottins allsherjar, er hann reiðir gegn þeim. 17Þá skal Egyptalandi standa ótti af Júdalandi. Í hvert sinn sem á það er minnst við þá munu þeir skelfast, vegna ráðs þess, er Drottinn allsherjar hefir ráðið gegn þeim.
18Á þeim degi munu fimm borgir í Egyptalandi mæla á kanverska tungu og sverja hlýðni Drottni allsherjar. Skal ein þeirra kallast Bær réttvísinnar.
19Á þeim degi mun vera altari handa Drottni í miðju Egyptalandi og merkissteinn handa Drottni við landamærin. 20Það skal vera til merkis og vitnisburðar um Drottin allsherjar í Egyptalandi. Þegar þeir hrópa til Drottins undan kúgurunum, mun hann senda þeim fulltingjara og forvígismann, er frelsar þá. 21Drottinn mun kunnur verða Egyptalandi, og Egyptar munu þekkja Drottin á þeim degi. Þeir munu dýrka hann með sláturfórnum og matfórnum og vinna Drottni heit og efna þau. 22Og Drottinn mun slá Egyptaland, slá og græða, og þeir munu snúa sér til Drottins, og hann mun bænheyra þá og græða þá.
23Á þeim degi skal vera brautarvegur frá Egyptalandi til Assýríu, og Assýringar skulu koma til Egyptalands og Egyptar til Assýríu, og Egyptar munu tilbiðja ásamt Assýringum.
24Á þeim degi munu þessir þrír taka saman, Ísrael, Egyptaland og Assýría, og vera blessun á jörðinni miðri. 25Drottinn allsherjar blessar þá og segir:
Blessuð sé þjóð mín Egyptar, verkið handa minna Assýría og arfleifð mín Ísrael!
Bandalag við Egypta fordæmt20
1Árið sem yfirhershöfðinginn kom til Asdód, sendur af Sargon Assýríukonungi, og herjaði á Asdód og vann hana, - 2í það mund talaði Drottinn fyrir munn Jesaja Amozsonar á þessa leið:Far og leys hærusekkinn af lendum þér og drag skó þína af fótum þér.
Og hann gjörði svo og gekk fáklæddur og berfættur. 3Og Drottinn mælti:
Eins og Jesaja þjónn minn hefir gengið fáklæddur og berfættur í þrjú ár sem tákn og fyrirburður um Egyptaland og Bláland, 4svo skal Assýríukonungur færa burt bandingjana frá Egyptalandi og útlagana frá Blálandi, bæði unga og gamla, fáklædda og berfætta, með bera bakhlutina, Egyptum til smánar. 5Þá munu þeir skelfast og skammast sín vegna Blálands, er þeir reiddu sig á, og Egyptalands, er þeir stærðu sig af. Og þeir, sem búa á þessari strönd, munu segja á þeim degi: "Svo er þá komið fyrir þeim, er vér reiddum oss á og flýðum til í von um hjálp til þess að frelsast undan Assýríukonungi! Hversu megum vér þá sjálfir komast undan?"
Fall Babýlonar21
1Spádómur um öræfin við hafið.Eins og fellibyljir í suðurlandinu geysist það áfram, það kemur úr öræfunum, úr hinu hræðilega landi. 2Hörð tíðindi hafa mér birt verið: "Ránsmenn ræna, hermenn herja! Áfram, Elamítar! Gjörið umsát, Medíumenn! Ég gjöri enda á öllum andvörpum."
3Þess vegna skjálfa lendar mínar, þess vegna hremma sárir verkir mig, eins og hríðir jóðsjúka konu. Ég engist saman, svo að ég heyri ekkert, ég er svo agndofa, að ég sé ekkert. 4Hjarta mitt er ringlað, skelfing er skyndilega yfir mig komin. Nú er nóttin, sem ég jafnan hefi þráð, orðin mér að skelfingu. 5Borðin eru sett fram og ábreiðurnar breiddar á hvílubekkina, etið er og drukkið. "Rísið upp, þjóðhöfðingjar! Smyrjið skjölduna!"
6Svo sagði Drottinn við mig: "Far þú og nem staðar á sjónarhólnum og seg, hvað þú sér. 7Og sjáir þú menn á reið, tvo reiðmenn, annan ríðandi á asna, hinn á úlfalda, þá legg þú hlustirnar við."
8En ég kallaði: "Æ, Drottinn, á ég að standa allan daginn á sjónarhól og vera á varðbergi nótt eftir nótt?"
9En sjá, þá komu menn ríðandi, tveir reiðmenn. Og þeir tóku til orða og sögðu: "Fallin, fallin er Babýlon, og allar goðalíkneskjur hennar liggja sundur brotnar á jörðinni."
10Kramda og þreskta þjóðin mín, það sem ég hefi heyrt af Drottni allsherjar, Guði Ísraels, það hefi ég kunngjört yður.
Um Edómíta11Spádómur um Dúma.
Það er kallað til mín frá Seír: "Vökumaður, hvað líður nóttinni? Vökumaður, hvað líður nóttinni?"
12Vökumaðurinn svarar: "Morgunninn kemur, og þó er nótt. Ef þér viljið spyrja, þá komið aftur og spyrjið."
Spádómur um kaupmannalestir Araba13Spádómur um Arabíu.
Takið náttstað í kjarrinu að kveldi, þér kaupmannalestir Dedansmanna! 14Komið út með vatn á móti hinum þyrstu, þér sem búið í Temalandi! Færið brauð flóttamönnunum! 15Því þeir flýja undan sverðunum, undan brugðnu sverði, undan bendum boga, undan þunga ófriðarins. 16Því að svo hefir Drottinn sagt við mig:
Áður en eitt ár er liðið, eins og ár kaupamanna eru talin, skal öll vegsemd Kedars að engu verða, 17og leifarnar, sem eftir verða af bogum Kedarínga kappa, munu verða teljandi, því að Drottinn, Ísraels Guð, hefir sagt það.
Dómsorð um Jerúsalem22
1Spádómur um Sjóna-dalinn. Hvað kemur að þér, að allt fólk þitt skuli vera stigið upp á húsþökin, 2þú ofkætisfulli, hávaðasami bær, þú glaummikla borg? Menn þínir, sem fallnir eru, hafa ekki fallið fyrir sverði né beðið bana í orustum. 3Höfðingjar þínir lögðu allir saman á flótta, voru handteknir án þess skotið væri af boga. Allir menn þínir, er náðust, voru handteknir hver með öðrum, þótt þeir hefðu flúið langt burt.4Þess vegna segi ég: "Látið mig einan, ég vil gráta beisklega. Gjörið mér eigi ónæði með því að hugga mig yfir eyðingu dóttur þjóðar minnar."
5Því að dagur skelfingar, undirokunar og úrræðaleysis var kominn frá hinum alvalda, Drottni allsherjar, í Sjóna-dalnum.
Múrar voru brotnir niður, óhljóðin heyrðust til fjalla. 6Elam tók örvamælinn, ásamt mönnuðum vögnum og hestum, og Kír tók hlífar af skjöldum. 7Þínir fegurstu dalir fylltust hervögnum, og riddarar tóku sér stöðu fyrir borgarhliðunum. 8Og hann tók skýluna burt frá Júda.
Á þeim degi skyggndist þú um eftir herbúnaðinum í Skógarhúsinu, 9og þér sáuð, að veggskörðin voru mörg í Davíðsborg. Og þér söfnuðuð vatninu í neðri tjörninni, 10tölduð húsin í Jerúsalem og rifuð húsin til þess að treysta með múrvegginn. 11Og þér bjugguð til vatnstæðu milli múrveggjanna tveggja fyrir vatnið úr gömlu tjörninni. En að honum, sem þessu veldur, gáfuð þér eigi gætur, og til hans, sem hagaði þessu svo fyrir löngu, lituð þér ekki.
12Á þeim degi kallaði hinn alvaldi, Drottinn allsherjar, menn til að gráta og kveina, til að reyta hár sitt og gyrðast hærusekk. 13En sjá, hér er gleði og glaumur, naut drepin, sauðum slátrað, kjöt etið, vín drukkið: "Etum og drekkum, því á morgun deyjum vér!"
14Opinberun Drottins allsherjar hljómar í eyrum mínum: "Sannlega skuluð þér eigi fá afplánað þessa misgjörð áður en þér deyið"- segir hinn alvaldi, Drottinn allsherjar.
Um tvo hirðmenn15Svo mælti hinn alvaldi, Drottinn allsherjar: Far þú og gakk til þessa dróttseta, hans Sébna, er forstöðu veitir húsi konungsins:
16Hvað hefir þú hér að gjöra? Og hvern átt þú hér, er þú lætur höggva þér hér gröf? Þú sem höggva lætur gröf handa þér á háum stað og lætur grafa handa þér legstað í berginu. 17Sjá, Drottinn varpar þér burt, maður! Hann þrífur fast í þig, 18vefur þig saman í böggul og þeytir þér sem sopp út á víðan vang. Þar skalt þú deyja og þar skulu þínir dýrlegu vagnar vera, þú sem ert húsi Drottins þíns til svívirðu! 19Ég hrindi þér úr stöðu þinni, og úr embætti þínu skal þér steypt verða.
20En á þeim degi mun ég kalla þjón minn, Eljakím Hilkíason. 21Ég færi hann í kyrtil þinn og gyrði hann belti þínu og fæ honum í hendur vald þitt. Hann skal verða faðir Jerúsalembúa og Júdaniðja. 22Og lykilinn að húsi Davíðs legg ég á herðar honum. Þegar hann lýkur upp, skal enginn læsa; þegar hann læsir, skal enginn upp ljúka. 23Ég rek hann eins og nagla á haldgóðan stað, og hann skal verða veglegt hásæti fyrir hús föður síns. 24En hengi allur þungi föðurættar hans sig á hann með niðjum sínum og skyldmennum, öll smákerin, eigi aðeins skálarnar, heldur og öll leirkerin, 25þá mun naglinn - það eru orð Drottins allsherjar, - sem rekinn var á haldgóðum stað, jafnskjótt láta undan, brotna og detta niður, og byrðin, sem á honum hékk, skal sundur molast, því að Drottinn hefir talað það.
Dómsorð um borgir Fönikíumanna23
1Spádómar um Týrus.Kveinið, þér Tarsisknerrir, því að hún er í eyði lögð! Ekkert hús þar framar, ekkert til að fara inn í! Frá Kýpur berst þeim sú fregn.
2Verið hljóðir, þér íbúar eyborgarinnar, sem full var af kaupmönnum frá Sídon, er yfir hafið fara, 3og dró að sér Síkor-sáð og Nílarkorn yfir hin miklu höf og var kauptún þjóðanna!
4Fyrirverð þig, sæborgin Sídon, því særinn segir: "Eigi hefi ég verið jóðsjúkur og eigi fætt, og eigi hefi ég fóstrað yngismenn né uppalið meyjar." 5Þegar fregnin kemur til Egyptalands, munu þeir skelfast af fregninni um Týrus.
6Farið yfir til Tarsis og kveinið, þér íbúar eyborgarinnar. 7Er þetta glaummikla borgin yðar, sem rekur uppruna sinn fram til fornaldar daga og stikað hefir langar leiðir til þess að taka sér bólfestu? 8Hver hefir ályktað svo um Týrus, um hana, sem ber höfuðdjásnið, þar sem kaupmennirnir voru höfðingjar og verslunarmennirnir tignustu menn á jörðu? 9Drottinn allsherjar hefir ályktað þetta til þess að ósæma allt hið dýrlega skraut og lægja alla hina tignustu menn á jörðu.
10Flæð yfir land þitt eins og Nílfljótið, Tarsisdóttir, engir flóðgarðar eru framar til.
11Drottinn rétti hönd sína út yfir hafið, skelfdi konungsríki. Hann bauð að gjöreyða varnarvirki Kanaans. 12Hann sagði: Þú skalt aldrei framar leika af kæti, þú spjallaða mey, Sídondóttir. Statt upp og far yfir til Kýprus; þú skalt ekki heldur finna þar hvíld.
13Sjá land Kaldea, það er þjóðin, sem orðin er að engu. Assýringar hafa fengið það urðarköttum. Þeir reistu vígturna sína, rifu niður hallirnar, gjörðu landið að rústum.
14Kveinið, þér Tarsis-knerrir, því að varnarvirki yðar er lagt í eyði.
15Á þeim dögum skal Týrus gleymast í sjötíu ár, eins og um daga eins konungs. En að liðnum sjötíu árum mun fara fyrir Týrus eins og segir í skækjukvæðinu:
- 16 Tak gígjuna, far um alla borgina,
- þú gleymda skækja!
- Leik fagurlega, syng hátt,
- svo að eftir þér verði munað!
17Að liðnum þeim sjötíu árum mun Drottinn vitja Týrusar. Mun hún þá aftur fá skækjulaun sín og hórast með öllum konungsríkjum veraldarinnar, þeim sem á jörðinni eru; 18en aflafé hennar og skækjulaun skulu helguð verða Drottni. Það skal ekki verða lagt í sjóð eða geymt, því að þeir, sem búa frammi fyrir augliti Drottins, skulu fá aflafé hennar sér til fæðslu og saðningar og sæmilegs klæðnaðar.
Um efsta dag
Jörðin eyðist á efsta degi24
1Sjá, Drottinn tæmir jörðina og eyðir hana, hann umhverfir ásjónu hennar og tvístrar íbúum hennar.2Eitt gengur yfir prest og alþýðu, yfir húsbónda og þjón, yfir húsfreyju og þernu, yfir seljanda og kaupanda, yfir lánsala og lánþega, yfir okrarann og skuldunaut hans. 3Jörðin skal verða altæmd og gjörsamlega rænd, því að Drottinn hefir talað þetta.
4Jörðin viknar og kiknar, heimur bliknar og kiknar, tignarmenni lýðsins á jörðu blikna.
5Jörðin vanhelgast undir fótum þeirra, er á henni búa, því að þeir hafa brotið lögin, brjálað boðorðunum og rofið sáttmálann eilífa. 6Þess vegna eyðir bölvun jörðinni og íbúar hennar gjalda fyrir það. Þess vegna farast íbúar jarðarinnar af hita, svo að fátt manna er eftir orðið.
7Vínberjalögurinn sýtir, vínviðurinn visnar, nú andvarpa allir þeir sem áður voru af hjarta glaðir.
8Gleðihljóð bumbnanna er þagnað, hávaði hinna glaðværu hættur, gleðiómur gígjunnar þagnaður. 9Menn sitja ekki syngjandi að víndrykkju, þeim sem drekka áfengan drykk, finnst hann beiskur.
10Borgirnar eru lagðar í eyði, öll hús lokuð, svo að ekki verður inn komist. 11Á strætunum er harmakvein af vínskortinum, öll gleði er horfin, fögnuður landsins flúinn. 12Auðnin ein er eftir í borginni, borgarhliðin eru mölbrotin. 13Því að á jörðinni miðri, á meðal þjóðanna, skal svo fara sem þá er olíuviður er skekinn, sem við eftirtíning að loknum vínberjalestri.
Gleði á hjálpræðistíð14Þeir hefja upp raust sína og fagna. Yfir hátign Drottins gjalla gleðiópin í vestri. 15Vegsamið þess vegna Drottin á austurvegum, nafn Drottins, Ísraels Guðs, á ströndum hafsins!
16Frá ysta jaðri jarðarinnar heyrðum vér lofsöngva: "Dýrð sé hinum réttláta!"
Efsti dagur dómsEn ég sagði: "Æ, mig auman! Æ, mig auman! Vei mér!"
Ránsmenn ræna, ránum ránsmenn ræna. 17Geigur, gröf og gildra koma yfir þig, jarðarbúi.
18Sá sem flýr undan hinum geigvæna gný, fellur í gröfina, og sá sem kemst upp úr gröfinni, festist í gildrunni, því að flóðgáttirnar á hæðum ljúkast upp og grundvöllur jarðarinnar skelfur.
19Jörðin brestur og gnestur, jörðin rofnar og klofnar, jörðin riðar og iðar. 20Jörðin skjögrar eins og drukkinn maður, henni svipar til og frá eins og vökuskýli. Misgjörð hennar liggur þungt á henni, hún hnígur og fær eigi risið upp framar.
21Á þeim degi mun Drottinn vitja hers hæðanna á hæðum og konunga jarðarinnar á jörðu. 22Þeim skal varpað verða í gryfju, eins og fjötruðum bandingjum, og þeir skulu byrgðir verða í dýflissu. Eftir langa stund skal þeim hegnt verða. 23Þá mun máninn fyrirverða sig og sólin blygðast sín, því að Drottinn allsherjar sest að völdum á Síonfjalli og í Jerúsalem, og fyrir augliti öldunga hans mun dýrð ljóma.
Þjóðirnar taka sinnaskiptum25
1Drottinn, þú ert minn Guð! Ég vil vegsama þig, lofa nafn þitt! Þú hefir framkvæmt furðuverk, löngu ráðin ráð, trúfesti og sannleika.2Þú hefir gjört bæi að grjóthrúgu, víggirtar borgir að hruninni rúst. Hallir óvinanna eru eigi framar bæir, þær skulu aldrei verða reistar aftur. 3Þess vegna munu harðsnúnar þjóðir heiðra þig og borgir ofríkisfullra þjóða óttast þig.
4Þú varst vörn lítilmagnans, vörn hins vesala í nauðum hans, skjól í skúrunum, hlíf í hitanum. Þótt andgustur ofríkismannanna sé eins og kuldaskúrir, 5glaumkæti óvinanna eins og sólarbreiskja í ofþurrki, þá sefar þú sólarbreiskjuna með skugganum af skýinu, og sigursöngur ofríkismannanna hljóðnar.
Dauðinn afmáður6Drottinn allsherjar mun á þessu fjalli búa öllum þjóðum veislu með krásum, veislu með dreggjavíni, mergjuðum krásum og skírðu dreggjavíni. 7Og hann mun afmá á þessu fjalli skýlu þá, sem hylur alla lýði, og þann hjúp, sem breiddur er yfir allar þjóðir.
8Hann mun afmá dauðann að eilífu, og hinn alvaldi Drottinn mun þerra tárin af hverri ásjónu, og svívirðu síns lýðs mun hann burt nema af allri jörðinni, því að Drottinn hefir talað það.
9Á þeim degi mun sagt verða: "Sjá, þessi er vor Guð, vér vonuðum á hann, að hann mundi frelsa oss. Þessi er Drottinn, vér vonuðum á hann. Fögnum og gleðjumst yfir hjálpræði hans!"
Gegn Móab10Hönd Drottins mun hvíla yfir þessu fjalli, en Móab verða fótum troðinn þar sem hann er, eins og hálmur er troðinn niður í haugpolli. 11Og hann mun breiða út hendur sínar niðri í pollinum, eins og sundmaður gjörir til þess að taka sundtökin. En hann mun lægja dramb hans þrátt fyrir brögð handa hans. 12Vígi þinna háu múra mun hann að velli leggja, steypa því niður og varpa til jarðar, ofan í duftið.
Þakkarsöngur fátækra26
1Á þeim degi mun þetta kvæði sungið verða í Júdalandi:Vér eigum rammgerva borg. Hjálpræði sitt gjörir hann að múrum og varnarvirki.
2Látið upp hliðin, svo að réttlátur lýður megi inn ganga, sá er trúnaðinn varðveitir 3og hefir stöðugt hugarfar. Þú veitir ævarandi frið, því að þeir treysta á þig.
4Treystið Drottni æ og ætíð, því að Drottinn, Drottinn er eilíft bjarg.
5Hann niðurlægir þá, sem byggja á hæðum. Háreistu borginni steypir hann niður, hann steypir henni til jarðar og leggur hana í duftið.
6Fætur troða hana niður, fætur fátækra, iljar umkomulausra.
Fæðingarhríðir nýrrar aldar7Vegur hins réttláta er sléttur, götu hins réttláta ryður þú. 8Já, á vegi dóma þinna, Drottinn, væntum vér þín; þitt nafn og þína minning þráir sála vor.
9Af hjarta þrái ég þig á næturnar, já, með andanum í brjósti mínu skima ég eftir þér.
Þegar dómar þínir birtast á jörðu, þá læra byggjendur jarðríkis réttlæti.
10Sé hinum óguðlegu sýnd vægð, læra þeir eigi réttlæti. Þá fremja þeir órétt í því landi, þar sem réttlæti skal ríkja, og gefa ekki gætur að hátign Drottins.
11Drottinn, hönd þín er á lofti, en þeir sjá það ekki. Lát þá sjá vandlæti þitt lýðsins vegna og blygðast sín, já, eldur eyði óvinum þínum.
12Drottinn, veit þú oss frið, því að þú hefir látið oss gjalda allra vorra verka.
13Drottinn, Guð vor, aðrir drottnar en þú höfðu fengið yfirráð yfir oss, en nú viljum vér eingöngu lofa þitt nafn.
14Dauðir lifna ekki, vofur rísa ekki upp. Þú vitjaðir þeirra og eyddir þeim og afmáðir alla minningu um þá.
15Þú hefir gjört þjóðina stóra, Drottinn, þú hefir gjört þjóðina stóra, þú hefir gjört þig dýrlegan, þú hefir fært út öll takmörk landsins. 16Drottinn, í neyðinni leituðu þeir þín, þeir stundu upp andvörpum, er þú hirtir þá.
17Eins og þunguð kona, sem komin er að því að fæða, hefir hríðir og hljóðar í harmkvælum sínum, eins vorum vér fyrir þínu augliti, Drottinn! 18Vér vorum þungaðir, vér höfðum hríðir en þegar vér fæddum, var það vindur. Vér höfum eigi aflað landinu frelsis, og heimsbúar hafa eigi fæðst.
19Menn þínir, sem dánir eru, skulu lifna, lík þeirra rísa upp.
Vaknið og hefjið fagnaðarsöng, þér sem búið í duftinu, því að döggin þín er dögg ljóssins, og jörðin skal fæða þá, sem dauðir eru.
20Gakk þú, þjóð mín, inn í herbergi þitt og lyk aftur dyrunum á eftir þér. Fel þig skamma hríð, uns reiðin er liðin hjá. 21Því sjá, Drottinn gengur út frá aðseturstað sínum til þess að hegna íbúum jarðarinnar fyrir misgjörðir þeirra. Jörðin mun birtast láta blóðið, sem á henni hefir verið úthellt, og hún mun ekki lengur hylja þá, sem á henni hafa myrtir verið.
Skrímsl heimsendis27
1Á þeim degi mun Drottinn með hinu harða, mikla og sterka sverði sínu hegna Levjatan, hinum flughraða dreka, Levjatan, hinum bugðótta dreka, og bana sjóskrímslinu.
Víngarðslíking2Á þeim degi skuluð þér kveða um hinn yndislega víngarð:
3Ég, Drottinn, er vörður hans, ég vökva hann á hverri stundu. Ég gæti hans nótt og dag, til þess að enginn vinni þar spell.
4Mér er ekki reiði í hug, en finni ég þyrna og þistla ræðst ég á þá og brenni þá til ösku - 5nema menn leiti hælis hjá mér og gjöri frið við mig, gjöri frið við mig.
Sekt lýðsins afplánuð6Á komandi tímum mun Jakob festa rætur, Ísrael blómgast og frjóvgast, og þeir munu fylla jarðarkringluna með ávöxtum.
7Hefir Drottinn lostið lýðinn annað eins högg og það, er hann lýstur þá, sem lustu hann? Eða hefir Ísrael myrtur verið, eins og banamenn hans eru myrtir?
8Með því að reka lýðinn frá þér, með því að láta hann frá þér, hegnir þú honum. Hann hreif hann burt með hinum hvassa vindi sínum, þegar austanstormurinn geisaði. 9Þess vegna verður misgjörð Jakobs með því afplánuð og með því er synd hans algjörlega burt numin, að hann lætur alla altarissteinana verða sem brotna kalksteina, svo að asérurnar og sólsúlurnar rísa ekki upp framar.
Heimsborgin fellur10Hin víggirta borg er komin í eyði, eins og mannauður og yfirgefinn áfangastaður í eyðimörkinni. Kálfar ganga þar á beit og liggja þar og bíta þar kvisti. 11Þegar greinarnar þorna, eru þær brotnar, konur koma og kveikja eld við þær. Því að hún var óvitur þjóð, fyrir því getur hann, sem skóp hana, ekki verið henni miskunnsamur, og hann, sem myndaði hana, ekki verið henni líknsamur.
Heill efsta dags12Á þeim degi mun Drottinn slá kornið úr axinu, allt í frá straumi Efrats til Egyptalandsár, og þér munuð saman tíndir verða einn og einn, Ísraelsmenn!
13Á þeim degi mun blásið verða í mikinn lúður, og þá munu þeir koma, hinir töpuðu í Assýríu og hinir burtreknu í Egyptalandi, og þeir munu tilbiðja Drottin á fjallinu helga í Jerúsalem.
Um Ísrael og Júda
Blótveislur á Samaríuhæð28
1Vei hinum drembilega höfuðsveig drykkjurútanna í Efraím, hinu bliknandi blómi, hinni dýrlegu prýði, sem stendur á hæðinni í frjósama dalnum hinna víndrukknu.2Sjá, sterk og voldug hetja kemur frá Drottni. Eins og haglskúr, fárviðri, eins og dynjandi, streymandi regn í helliskúr varpar hann honum til jarðar með hendi sinni.
3Fótum troðinn skal hann verða, hinn drembilegi höfuðsveigur drykkjurútanna í Efraím.
4Og fyrir hinu bliknandi blómi, hinni dýrlegu prýði, sem stendur á hæðinni í frjósama dalnum, skal fara eins og árfíkju, er þroskast fyrir uppskeru: Einhver kemur auga á hana og gleypir hana óðara en hann hefir náð henni.
5Á þeim degi mun Drottinn allsherjar vera dýrlegur höfuðsveigur og prýðilegt höfuðdjásn fyrir leifar þjóðar sinnar 6og réttlætisandi þeim, er í dómum sitja, og styrkleikur þeim, er bægja burt ófriðnum að borghliðum óvinanna.
Gegn vantrúarprestum og spámönnum7En einnig hérna reika menn af víni og skjögra af áfengum drykkjum. Prestar og spámenn reika af áfengum drykkjum, eru ruglaðir af víni, skjögra af áfengum drykkjum. Þá svimar í vitrunum sínum og allt hringsnýst fyrir þeim í úrskurðum þeirra. 8Því að öll borð eru full af viðbjóðslegri spýju, enginn blettur hreinn eftir.
9"Hverjum þykist spámaðurinn vera að kenna visku og hvern ætlar hann að fræða með boðskap sínum? Erum vér nývandir af mjólkinni og nýteknir af brjóstunum? 10Alltaf að skipa og skipa, skipa og skipa - skamma og skamma, skamma og skamma - ýmist þetta, ýmist hitt."
11Já, með stamandi vörum og annarlegri tungu mun hann láta tala til þessarar þjóðar, 12hann sem sagði við þá: "Þetta er hvíldin - ljáið hinum þreytta hvíld! - Hér er hvíldarstaður."
En þeir vildu ekki heyra. 13Fyrir því mun orð Drottins láta svo í eyrum þeirra: "Skipa og skipa, skipa og skipa - skamma og skamma, skamma og skamma - ýmist þetta, ýmist hitt," að þeir steypist aftur á bak og beinbrotni, festist í snörunni og verði teknir.
Hið undarlega verk Guðs14Heyrið því orð Drottins, þér spottsamir menn, þér sem drottnið yfir fólki því, sem býr í Jerúsalem.
15Þér segið: "Vér höfum gjört sáttmála við dauðann og samning við Hel. Þó að hin dynjandi svipa ríði yfir, þá mun hún eigi til vor koma, því að vér höfum gjört lygi að hæli voru og falið oss í skjóli svikanna."
16Fyrir því segir hinn alvaldi Drottinn svo:
Sjá, ég legg undirstöðustein á Síon, traustan stein, óbifanlegan, ágætan hornstein. Sá sem trúir, er eigi óðlátur.
17Ég gjöri réttinn að mælivað og réttlætið að mælilóði. Og haglhríð skal feykja burt hæli lyginnar og vatnsflóð skola burt skjólinu. 18Sáttmáli yðar við dauðann skal rofinn verða og samningur yðar við Hel eigi standa. Þá er hin dynjandi svipa ríður yfir, skuluð þér sundurmarðir verða af henni. 19Í hvert sinn, sem hún ríður yfir, skal hún hremma yður, því að á hverjum morgni ríður hún yfir, nótt sem nýtan dag. Og það skal verða skelfingin ein að skilja boðskapinn.
20Hvílan mun verða of stutt til þess að maður fái rétt úr sér, og ábreiðan of mjó til þess að maður fái skýlt sér með henni.
21Drottinn mun standa upp, eins og á Perasímfjalli, hann mun reiðast, eins og í dalnum hjá Gíbeon. Hann mun vinna verk sitt, hið undarlega verk sitt, og framkvæma starf sitt, hið óvanalega starf sitt.
22Látið nú af spottinu, svo að fjötrar yðar verði ekki enn harðari, því að ég hefi heyrt af hinum alvalda, Drottni allsherjar, að fastráðið sé, að eyðing komi yfir land allt.
Allt hefir sinn tíma23Hlustið á og heyrið mál mitt! Hyggið að og heyrið orð mín!
24Hvort plægir plógmaðurinn í sífellu til sáningar, ristir upp og herfar akurland sitt?
25Hvort mun hann eigi, þegar hann hefir jafnað moldina að ofan, sælda þar kryddi og sá kúmeni, setja hveiti niður í raðir, bygg á tilteknum stað og speldi í útjaðarinn? 26Guð hans kennir honum hina réttu aðferð og leiðbeinir honum.
27Eigi er krydd þreskt með þreskisleða né vagnhjóli velt yfir kúmen, heldur er kryddblómið barið af með þúst og kúmen með staf.
28Mun neyslukorn mulið sundur? Nei, menn halda ekki stöðugt áfram að þreskja það og keyra eigi vagnhjól sín né hesta yfir það, menn mylja það eigi sundur.
29Einnig þetta kemur frá Drottni allsherjar. Hann er undursamlegur í ráðum og mikill í vísdómi.
Eins og í draumsýn bjargast Jerúsalem29
1Æ, Aríel, Aríel, þú borg, þar sem Davíð sló herbúðum! Bætið ári við þetta ár, lát hátíðirnar fara sinn hring, 2þá þrengi ég að Aríel, og hún skal verða hryggð og harmur, og hún skal verða mér sem Aríel.3Ég vil setja herbúðir allt í kringum þig, umlykja þig með varðmönnum og reisa hervirki í móti þér. 4Þú skalt tala lágri röddu upp úr jörðinni, og orð þín hljóma dimmum rómi úr duftinu. Rödd þín skal vera sem draugsrödd úr jörðinni og orð þín hljóma sem hvískur úr duftinu.
5En mergð fjandmanna þinna skal verða sem moldryk og mergð ofbeldismannanna sem fjúkandi sáðir. Það skal verða skyndilega, á einu augabragði.
6Hennar skal verða vitjað af Drottni allsherjar með reiðarþrumu, landskjálfta og miklum gný, fellibyljum, stormviðri og eyðandi eldsloga.
7Eins og í draumsýn um nótt, þannig mun fara fyrir mergð allra þeirra þjóða, sem herja á Aríel, og öllum þeim, sem herja á hana og hervirki hennar og þrengja að henni. 8Og eins og þegar hungraðan mann dreymir að hann eti, en vaknar svo jafnhungraður, og eins og þegar þyrstan mann dreymir að hann drekki, en vaknar svo örmagna og sárþyrstur, svo skal fara fyrir mergð allra þeirra þjóða, er herja á Síonfjall.
Guð lokar augum manna9Fallið í stafi og undrist, gjörið yður sjónlausa og verið blindir! Gjörist drukknir, og þó ekki af víni, reikið, og þó ekki af áfengum drykk. 10Því að Drottinn hefir úthellt yfir yður svefnsemi-anda og aftur lukt augu yðar - spámennina - og brugðið hulu yfir höfuð yðar - þá sem vitranir fá.
11Öll opinberun er yður sem orðin í innsiglaðri bók. Sé hún fengin þeim, sem kann að lesa, og sagt: "Les þú þetta," þá segir hann: "Ég get það ekki, því að hún er innsigluð." 12En sé bókin fengin þeim, sem eigi kann að lesa, og sagt: "Les þú þetta," þá segir hann: "Ég er ekki læs."
Ónýtar guðsþjónustur13Drottinn sagði:
Með því að þessi lýður nálgast mig með munni sínum og heiðrar mig með vörum sínum, en fjarlægir hjarta sitt langt í burt frá mér, og með því að ótti þeirra fyrir mér er manna boðorð, lærð utan bókar, 14sjá, fyrir því mun ég enn fara undursamlega með þennan lýð, undursamlega og undarlega. Speki spekinganna skal komast í þrot og hyggindi hyggindamannanna fara í felur.
Guði afneitað15Vei þeim, sem leggjast djúpt til þess að dylja áform sín fyrir Drottni og fremja verk sín í myrkrinu og segja: "Hver sér oss? Hver veit af oss?"
16Hvílík fásinna! Eða skal meta að jöfnu leirinn og smiðinn, svo að verkið geti sagt um meistarann: "Hann hefir eigi búið mig til," og smíðin geti sagt um smiðinn: "Hann kann ekki neitt?"
Hinir fátæku munu fagna17Eftir skamma hríð skal Líbanonskógur verða að aldingarði og aldingarður talinn verða kjarrskógur. 18Á þeim degi skulu hinir daufu heyra rituð orð, og augu hinna blindu skulu sjá út úr dimmunni og myrkrinu. 19Þá mun aukast gleði hinna auðmjúku yfir Drottni, og hinir fátækustu meðal manna munu fagna yfir Hinum heilaga í Ísrael. 20Því að ofbeldismenn eru ekki framar til og spottarar undir lok liðnir, og allir þeir upprættir, er ranglæti iðka, 21þeir er sakfella menn fyrir rétti og leggja snörur fyrir þá, er vanda um á þingum, og blekkja hina saklausu með hégóma.
22Fyrir því segir Drottinn, hann er frelsaði Abraham, svo um Jakobs hús: Jakob skal eigi framar þurfa að blygðast sín og ásjóna hans eigi framar blikna. 23Því að þegar niðjar hans sjá verk handa minna á meðal sín, munu þeir helga nafn mitt, þeir munu helga Hinn heilaga, Jakobs Guð, og óttast Ísraels Guð. 24Þá munu hinir andlega villtu átta sig og hinir þverúðarfullu láta sér segjast.
Mælt gegn bandalagi við Egypta30
1Vei hinum þverúðugu börnum - segir Drottinn. Þau taka saman ráð, er eigi koma frá mér, og gjöra bandalag, án þess að minn andi sé með í verki, til að hlaða synd á synd ofan. 2Þau gjöra sér ferð suður til Egyptalands án þess að leita minna atkvæða, til að leita sér hælis hjá Faraó og fá sér skjól í skugga Egyptalands.3En hælið hjá Faraó skal verða yður til skammar og skjólið í skugga Egyptalands til smánar!
4Látum höfðingja lýðsins vera í Sóan og sendimenn hans komast alla leið til Hanes! 5Þeir munu allir skammast sín fyrir þá þjóð, sem eigi hjálpar þeim, er að engu liði verður og til engrar hjálpar, heldur eingöngu til skammar og háðungar.
Gjafir sendar til Egyptalands6Spádómur um dýr Suðurlandsins.
Um torfæruland og angistar, þar sem ljónynjur og ljón, eiturormar og flugdrekar hafast við, flytja þeir auðæfi sín á asnabökum og fjársjóðu sína á úlfaldakryppum til þeirrar þjóðar, sem eigi hjálpar þeim.
7Liðveisla Egyptalands er fánýt og einskis virði. Fyrir því kalla ég það: Stórgortarinn, er eigi hefst að.
Lýðurinn hafnar kenningunni en Guð bíður og vonar8Far nú og rita það á spjald hjá þeim og letra það í bók, svo að það á komandi tímum verði til vitnisburðar ævinlega. 9Því að þetta er þrjóskur lýður, lygin börn, börn sem eigi vilja heyra kenningu Drottins. 10Þau segja við sjáendur: "Þér skuluð eigi sjá sýnir," og við vitranamenn: "Þér skuluð eigi birta oss sannleikann. Sláið oss heldur gullhamra og birtið oss blekkingar. 11Farið út af veginum, beygið út af brautinni, komið Hinum heilaga í Ísrael burt frá augliti voru."
12Fyrir því segir Hinn heilagi í Ísrael svo: Sökum þess að þér hafnið þessu orði, en reiðið yður á ofríki og andhælisskap og styðjist við það, 13fyrir því skal þessi misgjörð verða yður eins og veggjarkafli, sem bungar út á háum múrvegg og kominn er að hruni. Skyndilega og að óvörum hrynur hann. 14Og hann brotnar sundur, eins og þegar leirker er brotið, vægðarlaust mölvað, svo að af molunum fæst eigi svo mikið sem leirbrot til að taka með eld af arni eða til að ausa með vatni úr þró.
15Svo hefir hinn alvaldi Drottinn, Hinn heilagi í Ísrael, sagt:
Fyrir afturhvarf og rósemi skuluð þér frelsaðir verða, í þolinmæði og trausti skal styrkur yðar vera.
En þér vilduð það ekki 16og sögðuð: "Nei, á hestum skulum vér þjóta" - fyrir því skuluð þér flýja! - "og á léttum reiðskjótum skulum vér ríða" - fyrir því skulu þeir vera léttir á sér, sem elta yður!
17Eitt þúsund skal flýja fyrir ógnunum eins manns, fyrir ógnunum fimm manna skuluð þér flýja, uns eftirleifar yðar verða sem vitastöng á fjallstindi og sem hermerki á hól.
18En Drottinn bíður þess að geta miskunnað yður og heldur kyrru fyrir, uns hann getur líknað yður. Því að Drottinn er Guð réttlætis. Sælir eru allir þeir, sem á hann vona.
Opinberun hinstu daga19Já, þú lýður í Síon, þú sem býr í Jerúsalem, grát þú eigi án afláts. Hann mun vissulega miskunna þér, þegar þú kallar í neyðinni, hann mun bænheyra þig, þegar hann heyrir til þín.
20Drottinn mun gefa yður neyðarbrauð og þrengingarvatn. En hann, sem kennir þér, mun þá eigi framar fela sig, heldur munu augu þín líta hann, 21og eyru þín munu heyra þessi orð kölluð á eftir þér, þá er þér víkið til hægri handar eða vinstri: "Hér er vegurinn! Farið hann!"
22Þá munuð þér óhrein telja hin silfurlögðu skurðgoð yðar og hin gullbúnu líkneski yðar. Þú munt burt snara þeim eins og einhverri viðurstyggð, þú munt segja við þau: "Burt héðan."
23Þá mun hann regn gefa sæði því, er þú sáir í akurland þitt, og brauð af gróðri akurlandsins; kjarngott og kostmikið mun það vera; fénaður þinn mun á þeim degi ganga í víðlendum grashaga. 24Uxarnir og asnarnir, sem akurinn erja, skulu eta saltan fóðurblending, sem hreinsaður hefir verið með varpskóflu og varpkvísl. 25Á hverju háu fjalli og á hverri gnæfandi hæð munu vatnslækir fram fljóta á hinum mikla mannfallsdegi, þegar turnarnir hrynja. 26Þá mun tunglsljósið verða sem sólarljós, og sólarljósið sjöfaldast, eins og sjö daga ljós, þann dag er Drottinn bindur um sár þjóðar sinnar og græðir hennar krömdu undir.
Drottinn bardagahetjan sigrar kúgarann27Sjá, nafn Drottins kemur úr fjarlægð. Reiði hans bálar og þykkan reykjarmökk leggur upp af. Heiftin freyðir um varir hans og tunga hans er sem eyðandi eldur. 28Andgustur hans er sem ólgandi vatnsfall, það er tekur manni í háls. Hann mun drifta þjóðirnar í sáldi eyðingarinnar og leggja þjóðunum í munn bitil þann, er leiðir þær afvega.
29Þá munuð þér syngja ljóð, eins og aðfaranótt hátíðar, og hjartans gleði á yður vera, eins og þegar gengið er með hljóðpípum upp á fjall Drottins til hellubjargs Ísraels.
30Þá mun Drottinn heyra láta hina hátignarlegu raust sína og láta sjá til sín, þegar hann reiðir ofan armlegg sinn í brennandi reiði, með eyðandi eldslogum, með helliskúrum, steypihríðum og hagléljum. 31Já, fyrir raustu Drottins mun Assýría skelfast, er hann lýstur hana með sprota sínum. 32Og í hvert sinn sem refsivölur sá, er Drottinn reiðir á lofti uppi yfir henni, kemur niður, mun heyrast bumbuhljóð og gígjusláttur, og með því að sveifla hendinni mun hann berjast gegn þeim.
33Brennslugróf er þegar fyrir löngu undirbúin, hún er og gjörð handa konunginum. Hann hefir gjört eldstæðið í henni djúpt og vítt, hann ber að mikinn eld og við. Andgustur Drottins kveikir í því, eins og brennisteinsflóð.
Enn gegn bandalagi við Egypta31
1Vei þeim, sem fara suður til Egyptalands í liðsbón, sem reiða sig á hesta og treysta á vagna, af því að þeir séu margir, og á riddara, af því að fjöldinn sé mikill, en líta ekki til Hins heilaga í Ísrael og leita ekki Drottins. 2En hann er líka ráðspakur og lætur ógæfuna yfir koma og tekur ekki orð sín aftur. Hann rís upp í móti húsi illvirkjanna og í móti hjálparliði misgjörðamannanna.3Egyptar eru menn, en enginn Guð, hestar þeirra eru hold, en eigi andi. Þegar Drottinn réttir út hönd sína, hrasar liðveitandinn og liðþeginn fellur, svo að þeir farast allir hver með öðrum.
Jerúsalem bjargast undan Assýríu4Svo hefir Drottinn við mig sagt:
Eins og ljónið eða ljónskálfurinn urrar yfir bráð sinni, þegar hjarðmannahóp er stefnt saman á móti honum, og hann hræðist ekki köll þeirra og lætur ekki hugfallast við háreysti þeirra, eins mun Drottinn allsherjar ofan stíga til þess að herja á Síonfjall og hæð þess.
5Eins og fuglar á flökti, eins mun Drottinn allsherjar vernda Jerúsalem, vernda hana og frelsa, vægja henni og bjarga.
6Hverfið aftur, þér Ísraelsmenn, til hans, sem þér eruð horfnir svo langt í burtu frá. 7Því að á þeim degi munu þeir hver og einn hafna silfurgoðum sínum og gullgoðum, er sekar hendur yðar hafa gjört handa yður.
8Assýría skal fyrir sverði falla, en ekki fyrir manna sverði. Sverð skal verða henni að bana, en ekkert mannssverð. Hún mun undan sverði flýja og æskumenn hennar verða ánauðugir. 9Og bjarg hennar mun farast af ótta og höfðingjar hennar flýja í ofboði undan merkinu. Svo segir Drottinn, sem hefir eld sinn á Síon og arin sinn í Jerúsalem.
Spekiyrði um réttlátt ríki32
1Þegar konungurinn ríkir með réttlæti og höfðingjarnir stjórna með réttvísi, 2þá verður hver þeirra sem hlé fyrir vindi og skjól fyrir skúrum, sem vatnslækir í öræfum, sem skuggi af stórum hamri í vatnslausu landi. 3Þá eru augu hinna sjáandi eigi afturlukt, og þá hlusta eyru þeirra, sem heyrandi eru. 4Hjörtu hinna gálausu munu læra hyggindi og tunga hinna mállausu tala liðugt og skýrt. 5Þá verður heimskinginn eigi framar kallaður göfugmenni og hinn undirföruli eigi sagður veglyndur.6Heimskinginn talar heimsku og hjarta hans býr mönnum ógæfu, með því að hann breytir óguðlega og talar villu gegn Drottni, lætur hinn hungraða vera svangan og gefur eigi þyrstum manni vatnsdrykk.
7Vopn hins undirförula eru skaðvænleg. Hann hugsar upp pretti til þess að koma hinum umkomulausa á kné með lygaræðum, og það jafnvel þótt hinn fátæki sanni rétt sinn. 8En göfugmennið hefir göfugleg áform og stendur stöðugur í því, sem göfuglegt er.
Ógn og von hinstu daga9Þér áhyggjulausu konur, standið upp og heyrið raust mína! Þér ugglausu dætur, gefið gaum að ræðu minni:
10Eftir ár og daga skulu þér hinar ugglausu skelfast, því að vínberjatekjan bregst og aldintekja verður engin.
11Hræðist, þér hinar áhyggjulausu! Skelfist, þér hinar ugglausu! Farið af klæðum og verið naktar, gyrðið hærusekk um lendar yðar, 12berið yður hörmulega vegna akranna, vegna hinna yndislegu akra, vegna hins frjósama vínviðar, 13vegna akurlendis þjóðar minnar þar sem vaxa munu þyrnar og þistlar, já vegna allra glaðværðarhúsanna í hinni glaummiklu borg! 14Því að hallirnar munu verða mannauðar og hávaði borgarinnar hverfa. Borgarhæðin og varðturninn verða hellar um aldur og ævi, skógarösnum til skemmtunar og hjörðum til hagbeitar - 15uns úthellt verður yfir oss anda af hæðum. Þá skal eyðimörkin verða að aldingarði og aldingarður talinn verða kjarrskógur, 16réttvísin festa byggð í eyðimörkinni og réttlætið taka sér bólfestu í aldingarðinum.
17Og ávöxtur réttlætisins skal vera friður, og árangur réttlætisins rósemi og öruggleiki að eilífu. 18Þá skal þjóð mín búa í heimkynni friðarins, í híbýlum öruggleikans og í rósömum bústöðum. 19En hegla mun þegar skógurinn hrynur og borgin steypist. 20Sælir eruð þér, sem alls staðar sáið við vötn og látið uxa og asna ganga sjálfala.
Harðstjórum steypt, ríki Guðs stofnað33
1Vei þér, sem eyðir, og hefir þó sjálfur eigi fyrir eyðingu orðið, sem rænir, og hefir þó eigi rændur verið! Þegar þú hefir lokið eyðingunni, skalt þú fyrir eyðingu verða, þegar þú ert hættur að ræna, skalt þú rændur verða.2Drottinn, ver þú oss líknsamur! Vér vonum á þig. Ver þú styrkur vor á hverjum morgni og hjálpræði vort á neyðarinnar tíma.
3Fyrir hinum dynjandi gný flýja þjóðirnar. Þegar þú rís upp, tvístrast heiðingjarnir. 4Þá mun herfangi verða safnað, eins og þegar engisprettur eru að tína, menn munu stökkva á það, eins og þegar jarðvargar stökkva.
5Hár er Drottinn, því að hann býr á hæðum, hann fyllir Síon réttindum og réttlæti.
6Örugga tíma skalt þú hljóta, gæfufjársjóð átt þú í visku og þekkingu. Ótti Drottins er auður lýðsins.
7Sjá, kapparnir kveina úti fyrir, friðarboðarnir gráta beisklega. 8Þjóðvegirnir eru eyðilagðir, mannaferðir hættar. Menn rjúfa sáttmálann, fyrirlíta vitnin og virða náungann vettugi.
9Landið sýtir og visnar, Líbanon blygðast sín og skrælnar, Saronsléttan er orðin eins og eyðimörk, Basan og Karmel fella laufið.
10Nú vil ég upp rísa, segir Drottinn, nú vil ég láta til mín taka, nú vil ég hefjast handa. 11Þér gangið með hey og alið hálm, andgustur yðar er eldur, sem eyða mun sjálfum yður. 12Þjóðirnar munu brenndar verða að kalki, þær munu verða sem upphöggnir þyrnar, sem brenndir eru í eldi.
13Heyrið, þér sem fjarlægir eruð, hvað ég hefi gjört, og sjáið, þér sem nálægir eruð, kraft minn!
14Syndararnir í Síon eru hræddir, skelfing hefir gagntekið guðleysingjana: "Hver af oss má búa við eyðandi eld, hver af oss má búa við eilíft bál?"
15Sá sem fram gengur réttvíslega og talar af hreinskilni, sá sem hafnar þeim ávinningi, sem fenginn er með ofríki, sá sem hristir mútugjafir af höndum sér, sá sem byrgir fyrir eyru sín til þess að heyra eigi morð ráðin, sá sem afturlykur augum sínum til þess að horfa eigi á það, sem illt er, 16hann skal búa uppi á hæðunum. Hamraborgirnar skulu vera vígi hans, brauðið skal verða fært honum og vatnið handa honum skal eigi þverra.
17Augu þín skulu sjá konunginn í ljóma sínum, þau skulu horfa á víðáttumikið land. 18Hjarta þitt mun hugsa til skelfingartímans: Hvar er nú sá, er silfrið taldi? Hvar er sá, er vó það? Hvar er sá, sem taldi turnana?
19Þú skalt ekki framar sjá hina ofstopafullu þjóð, sem talar svo óglöggt mál, að ekki verður numið, og svo óskilmerkilega tungu, að enginn fær skilið.
20Lít þú á Síon, borg samfunda vorra! Augu þín skulu horfa á Jerúsalem, bústaðinn örugga, tjaldið, sem eigi er flutt úr stað, hælum þess eigi kippt upp og ekkert af stögum þess slitið. 21Nei, hinn máttki, Drottinn, er þar oss til varnar, eins og fljót og breið vatnsföll, þar sem engin róðrarskip geta gengið og engin tignarleg langskip um farið.
22Drottinn er vor dómari, Drottinn er vor löggjafi, Drottinn er vor konungur, hann mun frelsa oss.
23Stögin eru slök hjá þér, þau halda ekki siglunni í skorðum og geta eigi þanið út seglið.
Þá skal mikilli bráð og herfangi skipt verða, jafnvel haltir menn skulu ræna. 24Og enginn borgarbúi mun segja: "Ég er sjúkur." Fólkið, sem þar býr, hefir fengið fyrirgefning misgjörða sinna.
Himinninn vefst saman eins og bókfell34
1Gangið nær, þér þjóðir, að þér megið heyra!Hlýðið til, þér lýðir!
Heyri það jörðin og allt, sem á henni er, jarðarkringlan og allt, sem á henni vex!
2Drottinn er reiður öllum þjóðunum og gramur öllum þeirra her. Hann hefir vígt þær dauðanum og ofurselt þær til slátrunar. 3Vegnum mönnum þeirra er burt kastað, og hrævadaunn stígur upp af líkum þeirra, og fjöllin renna sundur af blóði þeirra.
4Allur himinsins her hjaðnar, og himinninn vefst saman eins og bókfell. Allur hans her hrynur niður, eins og laufið fellur af vínviði og visin blöð af fíkjutré.
5Sverð mitt hefir drukkið sig drukkið á himnum, nú lýstur því niður til dóms yfir Edóm, þá þjóð, sem ég hefi vígt dauðanum. 6Sverð Drottins er alblóðugt, löðrandi af feiti, af blóði lamba og kjarnhafra, af nýrnamör úr hrútum, því að Drottinn heldur fórnarveislu í Bosra og slátrun mikla í Edómlandi.
7Villinautin hníga með þeim, og ungneytin með uxunum. Land þeirra flýtur í blóði, og jarðvegurinn er löðrandi af feiti. 8Því að nú er hefndardagur Drottins, endurgjaldsárið, til að reka réttar Síonar.
9Lækirnir skulu verða að biki og jarðvegurinn að brennisteini, landið skal verða að brennandi biki. 10Það skal eigi slokkna nætur né daga, reykurinn af því skal upp stíga um aldur og ævi. Það skal liggja í eyði frá einni kynslóð til annarrar, enginn maður skal þar um fara að eilífu.
11Pelíkanar og stjörnuhegrar skulu fá það til eignar, náttuglur og hrafnar búa þar. Hann mun draga yfir það mælivað auðnarinnar og mælilóð aleyðingarinnar.
12Tignarmenn landsins kveðja þar eigi til konungskosningar, og allir höfðingjarnir verða að engu.
13Í höllunum munu þyrnar upp vaxa og klungrar og þistlar í víggirtum borgunum. Það mun verða sjakalabæli og strútsfuglagerði. 14Urðarkettir og sjakalar skulu koma þar saman og skógartröll mæla sér þar mót. Næturgrýlan ein skal hvílast þar og finna sér þar hæli.
15Stökkormurinn skal búa sér þar hreiður og klekja þar út, verpa þar eggjum og unga þeim út í skugganum. Gleður einar skulu flykkjast þar hver til annarrar.
16Leitið í bók Drottins og lesið: Ekkert af þessum dýrum vantar, ekkert þeirra saknar annars. Því að munnur Drottins hefir svo um boðið, og það er andi hans, sem hefir stefnt þeim saman. 17Hann hefir sjálfur kastað hlutum fyrir þau, og hönd hans hefir skipt landinu milli þeirra með mælivað. Þau munu eiga það um aldur og ævi og búa þar frá einni kynslóð til annarrar.
Hinir endurleystu koma aftur35
1Eyðimörkin og hið þurra landið skulu gleðjast, öræfin skulu fagna og blómgast sem lilja. 2Þau skulu blómgast ríkulega og fagna af unaði og gleði. Vegsemd Líbanons skal veitast þeim, prýði Karmels og Sarons. Þau skulu fá að sjá vegsemd Drottins og prýði Guðs vors.3Stælið hinar máttvana hendur, styrkið hin skjögrandi kné! 4Segið hinum ístöðulausu: "Verið hughraustir, óttist eigi! Sjá, hér er Guð yðar! Hefndin kemur, endurgjald frá Guði! Hann kemur sjálfur og frelsar yður."
5Þá munu augu hinna blindu upp lúkast og opnast eyru hinna daufu. 6Þá mun hinn halti létta sér sem hjörtur og tunga hins mállausa fagna lofsyngjandi, því að vatnslindir spretta upp í eyðimörkinni og lækir á öræfunum.
7Sólbrunnar auðnir skulu verða að tjörnum og þurrar lendur að uppsprettum. Þar sem sjakalar höfðust áður við, í bælum þeirra, skal verða gróðrarreitur fyrir sef og reyr.
8Þar skal verða braut og vegur. Sú braut skal kallast brautin helga. Enginn sem óhreinn er, skal hana ganga. Hún er fyrir þá eina. Enginn sem hana fer, mun villast, jafnvel ekki fáráðlingar. 9Þar skal ekkert ljón vera, og ekkert glefsandi dýr skal þar um fara, eigi hittast þar. En hinir endurleystu skulu ganga þar.
10Hinir endurkeyptu Drottins skulu aftur hverfa. Þeir koma með fögnuði til Síonar, og eilíf gleði skal leika yfir höfði þeim. Fögnuður og gleði skal fylgja þeim, en hryggð og andvarpan flýja.
Sögulegir kaflar
Frásögur af spámanninum á dögum Sanheríbs Assýríukonungs36
1Svo bar til á fjórtánda ríkisári Hiskía konungs, að Sanheríb Assýríukonungur fór herför gegn öllum víggirtum borgum í Júda og vann þær. 2Þá sendi Assýríukonungur marskálk sinn með miklu liði frá Lakís til Jerúsalem á fund Hiskía konungs. Hann nam staðar hjá vatnstokknum úr efri tjörninni, við veginn út á bleikivöllinn.3Þá gengu þeir út til hans Eljakím Hilkíason dróttseti, Sébna kanslari og Jóak Asafsson ríkisritari. 4Og marskálkurinn mælti til þeirra:
"Segið Hiskía: Svo segir hinn mikli konungur, Assýríukonungur: Hvert er það athvarf er þú treystir á? 5Er þú ráðgjörir hernað og hyggur þig fullstyrkan til, þá er það munnfleipur eitt. Á hvern treystir þú þá svo, að þú skulir hafa gjört uppreisn í gegn mér? 6Sjá, þú treystir á þennan brotna reyrstaf, á Egyptaland, en hann stingst upp í höndina á hverjum þeim, er við hann styðst, og fer í gegnum hana. Slíkur er Faraó Egyptalandskonungur öllum þeim, er á hann treysta. 7Og segir þú við mig: ,Vér treystum á Drottin, Guð vorn,' eru það þá ekki fórnarhæðir hans og ölturu, sem Hiskía nam burt, er hann sagði við Júda og Jerúsalem: ,Fyrir þessu eina altari skuluð þér fram falla?'
8Kom til og veðja við herra minn, Assýríukonunginn: Ég skal fá þér tvö þúsund hesta, ef þú getur sett riddara á þá. 9Hvernig munt þú þá fá rekið af höndum þér einn höfuðsmann meðal hinna minnstu þjóna herra míns? Og þó treystir þú á Egyptaland vegna hervagnanna og riddaranna! 10Og hvort mun ég nú hafa farið til þessa lands án vilja Drottins til þess að eyða það? Drottinn sagði við mig: ,Far þú inn í þetta land og eyð það.'"
11Þá sögðu þeir Eljakím, Sébna og Jóak við marskálk konungs: "Tala þú við þjóna þína á arameísku, því að vér skiljum hana, en tala eigi við oss á Júda tungu í áheyrn fólksins, sem uppi er á borgarveggnum."
12En marskálkurinn sagði: "Hefir herra minn sent mig til herra þíns eða til þín til þess að flytja þetta erindi? Hefir hann ekki sent mig til þeirra manna, sem þar sitja uppi á borgarveggnum og eiga þann kost fyrir höndum ásamt með yður að eta sinn eiginn saur og drekka þvag sitt?"
13Þá gekk marskálkurinn fram og kallaði hárri röddu á Júda tungu og mælti: "Heyrið orð hins mikla konungs, Assýríukonungs! 14Svo segir konungurinn: Látið eigi Hiskía tæla yður, því að hann fær ekki frelsað yður. 15Og látið eigi Hiskía koma yður til að treysta á Drottin með því að segja: ,Drottinn mun vissulega frelsa oss; þessi borg skal ekki verða Assýríukonungi í hendur seld.' 16Hlustið eigi á Hiskía! Því að svo segir Assýríukonungur: Gjörið frið við mig og gangið mér á hönd, þá skal hver yðar mega eta af sínum vínviði og sínu fíkjutré og hver yðar drekka vatn úr sínum brunni, 17þar til er ég kem og flyt yður í annað eins land og yðar land, í kornland og aldinlagar, í brauðland og víngarða. 18Látið eigi Hiskía ginna yður, er hann segir: ,Drottinn mun frelsa oss.' Hefir nokkur af guðum þjóðanna frelsað land sitt undan hendi Assýríukonungs? 19Hvar eru guðir Hamatborgar og Arpadborgar? Hvar eru guðir Sefarvaím? Hafa þeir frelsað Samaríu undan minni hendi? 20Hverjir eru þeir af öllum guðum þessara landa, er frelsað hafi lönd sín undan minni hendi, svo að Drottinn skyldi fá frelsað Jerúsalem undan minni hendi?"
21En menn þögðu og svöruðu honum engu orði, því að skipun konungs var þessi: "Svarið honum eigi."
22En þeir Eljakím Hilkíason dróttseti, Sébna kanslari og Jóak Asafsson ríkisritari gengu á fund Hiskía með sundurrifnum klæðum og fluttu honum orð marskálksins.
37
1Og er Hiskía konungur heyrði þetta, reif hann klæði sín, huldi sig hærusekk og gekk í hús Drottins. 2En Eljakím dróttseta og Sébna kanslara og prestaöldungana sendi hann klædda hærusekk til Jesaja Amozsonar spámanns, 3og skyldu þeir segja við hann: "Svo segir Hiskía: Þessi dagur er neyðar-, hirtingar- og háðungardagur, því að barnið er komið í burðarliðinn, en krafturinn er enginn til að fæða. 4Vera má, að Drottinn, Guð þinn, heyri orð marskálksins, er sendur er af Assýríukonungi, herra sínum, til að spotta hinn lifandi Guð, og láti hegnt verða þeirra orða, er Drottinn Guð þinn hefir heyrt. En bið þú fyrir leifunum, sem enn eru eftir."5En er þjónar Hiskía konungs komu til Jesaja, 6þá sagði Jesaja við þá:
"Segið svo herra yðar: Svo segir Drottinn: Óttast þú eigi smánaryrði þau, er þú hefir heyrt sveina Assýríukonungs láta sér um munn fara í gegn mér. 7Sjá, ég læt hann verða þess hugar, að þegar hann spyr tíðindi, skal hann hverfa aftur heim í land sitt, og þá skal ég láta hann fyrir sverði falla í sínu eigin landi."
8Síðan sneri marskálkurinn aftur og hitti Assýríukonung þar sem hann sat um Líbna, því að hann hafði frétt, að hann væri farinn burt frá Lakís. 9Þar kom honum svolátandi fregn af Tírhaka Blálandskonungi: "Hann er lagður af stað til þess að berjast við þig." Og er hann heyrði það, gjörði hann sendimenn til Hiskía með þessari orðsending: 10"Segið svo Hiskía Júdakonungi: Lát eigi Guð þinn, er þú treystir á, tæla þig, er þú hugsar: ,Jerúsalem verður eigi seld í hendur Assýríukonungi.' 11Sjá, þú hefir sjálfur heyrt, hverju Assýríukonungar hafa fram farið við öll lönd, hversu þeir hafa gjöreytt þau, og munt þú þá frelsaður verða? 12Hvort hafa guðir þjóðanna, er feður mínir hafa að velli lagt, frelsað þær - Gósan og Haran og Resef og Edenmenn, sem voru í Telassar? 13Hvar er nú konungurinn í Hamat og konungurinn í Arpad og konungurinn í Sefarvaímborg, Hena og Íva?"
14Hiskía tók við bréfinu af sendimönnunum og las það. Síðan gekk hann upp í hús Drottins og rakti það sundur frammi fyrir Drottni. 15Og Hiskía bað til Drottins og sagði: 16"Drottinn allsherjar, Guð Ísraels, þú sem situr uppi yfir kerúbunum, þú einn ert Guð yfir öllum konungsríkjum jarðar, þú hefir gjört himin og jörð. 17Hneig, Drottinn, eyra þitt og heyr! Opna, Drottinn, auga þitt og sjá! Heyr þú öll orð Sanheríbs, er hann hefir sent til að smána með hinn lifandi Guð. 18Satt er það, Drottinn, að Assýríukonungar hafa gjöreytt öllum þjóðum og löndum þeirra, 19og kastað guðum þeirra á eld, því að þeir voru ekki guðir, heldur handaverk manna, stokkar og steinar, svo að þeir gátu gjört þá að engu. 20En Drottinn, Guð vor, frelsa oss nú af hans hendi, svo að öll konungsríki jarðar megi við kannast, að þú, Drottinn, einn ert Guð."
21Þá sendi Jesaja Amozson til Hiskía og lét segja honum: "Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: Þar sem þú hefir beðið til mín um hjálp gegn Sanheríb Assýríukonungi, 22þá er þetta orðið, er Drottinn hefir um hann sagt: Mærin, dóttirin Síon, fyrirlítur þig og gjörir gys að þér, dóttirin Jerúsalem skekur höfuðið á eftir þér. 23Hvern hefir þú smánað og spottað? Og gegn hverjum hefir þú hafið upp raustina og lyft augum þínum í hæðirnar? Gegn Hinum heilaga í Ísrael! 24Þú hefir látið þjóna þína smána Drottin og sagt: ,Með fjölda hervagna minna steig ég upp á hæðir fjallanna, efst upp á Líbanonfjall. Ég hjó hin hávöxnu sedrustré þess og hin ágætu kýprestré þess. Ég braust upp á efsta tind þess, inn í aldinskóginn, þar sem hann var þéttastur. 25Ég gróf til vatns og drakk, og með iljum fóta minna þurrkaði ég upp öll vatnsföll Egyptalands.'
26Hefir þú þá ekki tekið eftir því, að ég hefi ráðstafað þessu svo fyrir löngu og hagað því svo frá öndverðu? Og nú hefi ég látið það koma fram, svo að þú mættir leggja víggirtar borgir í eyði og gjöra þær að eyðilegum grjóthrúgum. 27En íbúar þeirra voru aflvana og skelfdust því og urðu sér til minnkunar. Jurtir vallarins og grængresið varð sem gras á þekjum og í hlaðvarpa.
28Ég sé þig, þegar þú stendur og þegar þú situr, og ég veit af því, þegar þú fer og kemur, svo og um ofsa þinn gegn mér. 29Sökum ofsa þíns í gegn mér og af því að ofmetnaður þinn er kominn mér til eyrna, þá vil ég setja hring minn í nasir þínar og bitil minn í munn þér og færa þig aftur sama veg og þú komst.
30Þetta skaltu til marks hafa: Þetta árið munuð þér eta sjálfsáið korn, annað árið sjálfvaxið korn, en þriðja árið munuð þér sá og uppskera, planta víngarða og eta ávöxtu þeirra. 31Og leifarnar af Júda húsi, sem komist hafa undan, skulu að nýju festa rætur að neðan og bera ávöxtu að ofan. 32Því að frá Jerúsalem munu leifar út ganga og þeir, er undan komust, frá Síonfjalli. Vandlæti Drottins allsherjar mun þessu til vegar koma.
33Já, svo segir Drottinn um Assýríukonung: Eigi skal hann inn komast í þessa borg, engri ör þangað inn skjóta, engan herskjöld að henni bera og engan virkisvegg hlaða gegn henni. 34Hann skal aftur snúa sömu leiðina, sem hann kom, og inn í þessa borg skal hann ekki koma - segir Drottinn.
35Ég vil vernda þessa borg og frelsa hana, mín vegna og vegna Davíðs þjóns míns."
36Þá fór engill Drottins og laust hundrað áttatíu og fimm þúsundir manns í herbúðum Assýringa. Og er menn risu morguninn eftir, sjá, þá voru þeir allir liðin lík. 37Þá tók Sanheríb Assýríukonungur sig upp, hélt af stað og sneri heim aftur og sat um kyrrt í Níníve. 38En er hann eitt sinn baðst fyrir í hofi Nísroks, guðs síns, unnu synir hans, Adrammelek og Sareser, á honum með sverði. Þeir komust undan á flótta til Araratlands, en Asarhaddon sonur hans tók ríki eftir hann.
Veikindi Hiskía konungs38
1Um þær mundir tók Hiskía sótt og var að dauða kominn. Þá kom Jesaja Amozson spámaður til hans og sagði við hann: "Svo segir Drottinn: Ráðstafa húsi þínu, því að þú munt deyja og eigi lifa."2Þá sneri Hiskía andliti sínu til veggjar, bað til Drottins 3og mælti: "Æ, Drottinn, minnstu þess, að ég hefi gengið fyrir augliti þínu með trúmennsku og einlægu hjarta og gjört það, sem þér er þóknanlegt!" Og hann grét sáran.
4Þá kom orð Drottins, til Jesaja, svolátandi: 5"Far og seg Hiskía: Svo segir Drottinn, Guð Davíðs, forföður þíns: Ég hefi heyrt bæn þína og séð tár þín. Sjá, ég vil enn leggja fimmtán ár við aldur þinn. 6Og ég vil frelsa þig og þessa borg af hendi Assýríukonungs, og ég mun vernda þessa borg. 7Og þetta skalt þú til marks hafa af Drottni, að Drottinn muni efna það, sem hann hefir heitið: 8Sjá, ég færi aftur stigskuggann, er með sólinni hefir færst niður á sólskífu Akasar, um tíu stig." Og sólin færðist aftur á bak þau tíu stig á sólskífunni, er hún hafði gengið niður.
Þakkarsálmur Hiskía9Sálmur eftir Hiskía konung í Júda, þá er hann hafði verið sjúkur, en var heill orðinn af sjúkleik sínum.
- 10 Ég sagði: Á hádegi ævi minnar
- stend ég við dauðans dyr.
- Það sem eftir er ára minna
- er ég ofurseldur hliðum Heljar.
- 11 Ég sagði: Ég fæ eigi framar að sjá Drottin
- á landi lifenda,
- ég fæ eigi framar menn að líta
- meðal þeirra sem heiminn byggja.
- 12 Bústað mínum er kippt upp og svipt burt frá mér
- eins og hjarðmannatjaldi.
- Ég hefi undið upp líf mitt eins og vefari.
- Hann sker mig frá uppistöðunni.
- Þú þjáir mig frá því að dagar og þar til nóttin kemur.
- 13 Ég þreyði til morguns.
- Öll mín bein voru kramin eins og af ljónshrammi.
- Þú þjáir mig frá því að dagar og þar til nóttin kemur.
- 14 Ég tísti sem svala
- og kurra sem dúfa.
- Augu mín mæna til himins.
- Drottinn, ég er í nauðum, líkna þú mér.
- 15 Hvað á ég að segja? Hann talaði til mín
- og efndi sín orð.
- Í auðmýkt vil ég ganga alla mína lífdaga,
- því minni sálarangist er létt.
- 16 Drottinn, af þessu lifa menn,
- og í öllu þessu er líf anda míns fólgið,
- þú gafst mér heilsuna aftur og lést mig lifna við.
- 17 Sjá, til blessunar varð mér hin sára kvöl.
- Þú forðaðir lífi mínu
- frá gröf eyðingarinnar,
- því að þú varpaðir að baki þér
- öllum syndum mínum.
- 18 Hel vegsamar þig eigi,
- dauðinn lofar þig eigi.
- Þeir sem niður eru stignir í gröfina
- vona eigi á trúfesti þína.
- 19 En sá einn lofar þig, sem lifir,
- eins og ég í dag.
- Feður kunngjöra börnum sínum
- trúfesti þína.
- 20 Drottinn er mitt hjálpræði.
- Í húsi Drottins
- skulum vér því hreyfa strengina
- alla vora lífdaga.
21Og Jesaja bauð að taka skyldi fíkjudeig og leggja á kýlið, og mundi honum þá batna. 22En Hiskía sagði: "Hvað skal ég hafa til marks um það, að ég megi aftur ganga upp í hús Drottins?"
Sendimenn frá Babýlon39
1Um þær mundir sendi Meródak Baladan Baladansson, konungur í Babýlon, bréf og gjafir til Hiskía, því að hann hafði frétt, að hann hefði verið sjúkur, en væri nú aftur heill orðinn.2Hiskía fagnaði komu þeirra og sýndi þeim féhirslu sína, silfrið og gullið, ilmjurtirnar og hina dýru olíu og allt vopnabúr sitt og allt, sem til var í fjársjóðum hans. Var enginn sá hlutur í höll Hiskía eða nokkurs staðar í ríki hans, að eigi sýndi hann þeim.
3Þá kom Jesaja spámaður til Hiskía konungs og sagði við hann: "Hvert var erindi þessara manna, og hvaðan eru þeir til þín komnir?"
Hiskía svaraði: "Af fjarlægu landi eru þeir til mín komnir, frá Babýlon."
4Þá sagði hann: "Hvað sáu þeir í höll þinni?"
Hiskía svaraði: "Allt, sem í höll minni er, hafa þeir séð. Enginn er sá hlutur í fjársjóðum mínum, að eigi hafi ég sýnt þeim."
5Þá sagði Jesaja við Hiskía: "Heyr þú orð Drottins allsherjar. 6Sjá, þeir dagar munu koma, að allt, sem er í höll þinni, og það, sem feður þínir hafa saman dregið allt til þessa dags, mun flutt verða til Babýlon. Ekkert skal eftir verða - segir Drottinn. 7Og nokkrir af sonum þínum, sem af þér munu koma og þú munt geta, munu teknir verða og gjörðir að hirðsveinum í höll konungsins í Babýlon."
8En Hiskía sagði við Jesaja: "Gott er það orð Drottins, er þú hefir talað." Því að hann hugsaði: "Farsæld og friður helst þó meðan ég lifi."
Annar hluti
Boðuð endalok herleiðingarinnar40
1Huggið, huggið lýð minn! segir Guð yðar.2Hughreystið Jerúsalem og boðið henni, að áþján hennar sé á enda, að sekt hennar sé goldin, að hún hafi fengið tvöfalt af hendi Drottins fyrir allar syndir sínar!
3Heyr, kallað er:
"Greiðið götu Drottins í eyðimörkinni, ryðjið Guði vorum veg í óbyggðinni!
4Sérhver dalur skal hækka, hvert fjall og háls lækka. Hólarnir skulu verða að jafnsléttu og hamrarnir að dalagrundum!
5Dýrð Drottins mun birtast, og allt hold mun sjá það, því að munnur Drottins hefir talað það!"
6Heyr, einhver segir:
"Kalla þú!"
Og ég svara: "Hvað skal ég kalla?"
"Allt hold er gras og allur yndisleikur þess sem blóm vallarins. 7Grasið visnar, blómin fölna, þegar Drottinn andar á þau. Sannlega, mennirnir eru gras.
8Grasið visnar, blómin fölna, en orð Guðs vors stendur stöðugt eilíflega."
9Stíg upp á hátt fjall, þú Síon fagnaðarboði! Hef upp raust þína kröftuglega, þú Jerúsalem fagnaðarboði! Hef upp raustina, óttast eigi, seg borgunum í Júda: "Sjá, Guð yðar kemur!"
10Sjá, hinn alvaldi Drottinn kemur sem hetja, og armleggur hans aflar honum yfirráða. Sjá, endurgjald hans fylgir honum, og fengur hans fer á undan honum.
11Eins og hirðir mun hann halda hjörð sinni til haga, taka unglömbin í faðm sér og bera þau í fangi sínu, en leiða mæðurnar.
Guð skapari er æðsta speki og máttur12Hver hefir mælt vötnin í lófa sínum og stikað himininn með spönn sinni, innilukt duft jarðarinnar í mælikeri og vegið fjöllin á reislu og hálsana á metaskálum?
13Hver hefir leiðbeint anda Drottins, hver hefir verið ráðgjafi hans og frætt hann?
14Hvern hefir hann sótt að ráðum, þann er gæfi honum skilning og kenndi honum leið réttvísinnar, uppfræddi hann í þekkingu og vísaði honum veg viskunnar?
15Sjá, þjóðirnar eru sem dropi í vatnskjólu og metnar sem ryk á vogarskálum. Sjá, eylöndunum lyftir hann upp eins og duftkorni. 16Og Líbanon-skógur hrekkur ekki til eldsneytis og dýrin í honum ekki til brennifórnar.
17Allar þjóðir eru sem ekkert fyrir honum, þær eru minna en ekki neitt og hégómi í hans augum.
18Við hvern viljið þér þá samlíkja Guði, og hvað viljið þér taka til jafns við hann?
19Líkneskið steypir smiðurinn, og gullsmiðurinn býr það slegnu gulli og setur á silfurfestar, 20en sá, sem eigi á fyrir slíkri fórnargjöf, velur sér þann við, er ekki fúni, og leitar að góðum smið, er reist geti svo líkneski, að ekki haggist!
21Vitið þér ekkert? Heyrið þér ekki? Hefir yður eigi verið kunngjört það frá upphafi? Hafið þér engan skilning hlotið frá grundvöllun jarðar?
22Það er hann, sem situr hátt yfir jarðarkringlunni, og þeir, sem á henni búa, eru sem engisprettur. Það er hann, sem þenur út himininn eins og þunna voð og slær honum sundur eins og tjaldi til þess að búa í. 23Það er hann, sem lætur höfðingjana verða að engu og gjörir drottna jarðarinnar að hégóma. 24Varla eru þeir gróðursettir, varla niðursánir, varla hefir stofn þeirra náð að festa rætur í jörðinni fyrr en hann andar á þá, og þá skrælna þeir upp og stormbylurinn feykir þeim burt eins og hálmleggjum.
25Við hvern viljið þér samlíkja mér, að ég sé honum jafn? segir Hinn heilagi.
26Hefjið upp augu yðar til hæða og litist um: Hver hefir skapað stjörnurnar? Hann, sem leiðir út her þeirra með tölu og kallar þær allar með nafni. Sökum mikilleiks kraftar hans og af því að hann er voldugur að afli verður einskis þeirra vant.
27Hví segir þú þá svo, Jakobsætt, og hví mælir þú þá svo, Ísrael: "Hagur minn er hulinn fyrir Drottni, og réttur minn er genginn úr höndum Guði mínum?"
28Veistu þá ekki? Hefir þú ekki heyrt? Drottinn er eilífur Guð, er skapað hefir endimörk jarðarinnar. Hann þreytist ekki, hann lýist ekki, speki hans er órannsakanleg.
29Hann veitir kraft hinum þreytta og gnógan styrk hinum þróttlausa. 30Ungir menn þreytast og lýjast, og æskumenn hníga, 31en þeir, sem vona á Drottin, fá nýjan kraft, þeir fljúga upp á vængjum sem ernir. Þeir hlaupa og lýjast ekki, þeir ganga og þreytast ekki.
Guð vekur upp Kýrus konung41
1Verið hljóð og hlustið á mig, þér eylönd. Safni þjóðirnar nýjum kröftum, gangi svo nær og tali máli sínu. Vér skulum eigast lög við.2Hver hefir vakið upp manninn í austrinu, sem réttlætið kveður til fylgdar?
Hver leggur þjóðir undir vald hans og lætur hann drottna yfir konungum?
Hver gjörir sverð þeirra að moldarryki og boga þeirra sem fjúkandi hálmleggi, 3svo að hann veitir þeim eftirför og fer ósakaður þann veg, er hann aldrei hefir stigið á fæti sínum?
4Hver hefir gjört það og framkvæmt? - Hann sem kallaði fram kynþáttu mannanna í öndverðu, ég, Drottinn, sem er hinn fyrsti, og með hinum síðustu enn hinn sami.
5Eylöndin sáu það og urðu hrædd, endimörk jarðarinnar skulfu. Þeir þyrptust saman og komu.
Smíðað goðalíkneski6Hver hjálpar öðrum og segir við félaga sinn: "Vertu hughraustur!"
7Trésmiðurinn hughreystir gullsmiðinn, koparsmiðurinn járnsmiðinn og segir: "Kveikingin er góð!" Síðan festir hann goðalíkneskið með nöglum, til þess að það haggist ekki.
Hinir herleiddu hughreystir8En þú Ísrael, þjónn minn, Jakob, sem ég hefi útvalið, þú afsprengi Abrahams ástvinar míns. 9Þú, sem ég þreif frá endimörkum jarðarinnar og kallaði þig frá ystu landsálfum hennar og sagði við þig: "Þú ert þjónn minn, ég hefi útvalið þig og eigi hafnað þér!"
10Óttast þú eigi, því að ég er með þér. Lát eigi hugfallast, því að ég er þinn Guð. Ég styrki þig, ég hjálpa þér, ég styð þig með hægri hendi réttlætis míns.
11Sjá, allir fjandmenn þínir skulu verða til skammar og háðungar. Sökudólgar þínir skulu verða að engu og tortímast. 12Þó að þú leitir að þrætudólgum þínum, skalt þú ekki finna þá. Þeir sem á þig herja, skulu hverfa og að engu verða. 13Því að ég, Drottinn, Guð þinn, held í hægri hönd þína og segi við þig: "Óttast þú eigi, ég hjálpa þér!"
14Óttast þú eigi, maðkurinn þinn Jakob, þú fámenni hópur Ísrael! Ég hjálpa þér, segir Drottinn, og frelsari þinn er Hinn heilagi í Ísrael. 15Sjá, ég gjöri þig að nýhvesstum þreskisleða, sem alsettur er göddum. Þú skalt þreskja sundur fjöllin og mylja þau í smátt og gjöra hálsana sem sáðir. 16Þú skalt sáldra þeim, og vindurinn mun feykja þeim og stormbylurinn tvístra þeim. En sjálfur skalt þú fagna yfir Drottni og miklast af Hinum heilaga í Ísrael.
Guð mun láta eyðimörkina blómgast17Hinir fátæku og voluðu leita vatns, en finna ekki, tunga þeirra verður þurr af þorsta. Ég, Drottinn, mun bænheyra þá, ég, Ísraels Guð, mun ekki yfirgefa þá.
18Ég læt ár spretta upp á gróðurlausum hæðum og vatnslindir í dölunum miðjum. Ég gjöri eyðimörkina að vatnstjörnum og þurrlendið að uppsprettum. 19Ég læt sedrustré, akasíutré, myrtustré og olíutré vaxa í eyðimörkinni, og kýpresviður, álmviður og sortulyngsviður spretta hver með öðrum á sléttunum, 20svo að þeir allir sjái og viti, skynji og skilji, að hönd Drottins hefir gjört þetta og Hinn heilagi í Ísrael hefir því til vegar komið.
Guð deilir á hjáguðina21Berið nú fram málefni yðar, segir Drottinn. Færið fram varnir yðar, segir konungur Jakobsættar.
22Látum þá koma með málefni sín og kunngjöra oss, hvað verða muni.
Gjörið kunnugt það sem áður var, svo að vér getum hugleitt það! Látið oss heyra, hvað koma á, svo að vér vitum, hvað í vændum er! 23Gjörið kunnugt, hvað hér eftir muni fram koma, svo að vér megum sjá, að þér eruð guðir! Gjörið annaðhvort af yður gott eða illt, svo að við fáum reynt með okkur og sjón verði sögu ríkari.
24Sjá, þér eruð ekkert og verk yðar ekki neitt! Andstyggilegur er sá, sem yður kýs!
25Ég vakti upp mann í norðri, og hann kom. Frá upprás sólar kallaði ég þann, er ákallar nafn mitt. Hann gengur yfir landstjóra sem leir, eins og leirkerasmiður treður deigulmó.
26Hver hefir kunngjört það frá öndverðu, svo að vér vissum það, eða fyrirfram, svo að vér gætum sagt: "Hann hefir rétt fyrir sér"? Nei, enginn hefir kunngjört það, enginn látið til sín heyra, enginn hefir heyrt yður segja neitt.
27Ég var hinn fyrsti, sem sagði við Síon: "Sjá, þar kemur það fram!" og hinn fyrsti, er sendi Jerúsalem fagnaðarboða.
28Ég litast um, en þar er enginn, og á meðal þeirra er ekki neinn, er úrskurð veiti, svo að ég geti spurt þá og þeir svarað mér. 29Sjá, þeir eru allir hégómi og verk þeirra ekki neitt, líkneski þeirra vindur og hjóm.
Ljóð um hinn líðandi þjón Drottins42
1Sjá þjón minn, sem ég leiði mér við hönd, minn útvalda, sem ég hefi þóknun á. Ég legg anda minn yfir hann, hann mun boða þjóðunum rétt.2Hann kallar ekki og hefir ekki háreysti og lætur ekki heyra raust sína á strætunum.
3Brákaðan reyrinn brýtur hann ekki sundur, og dapran hörkveik slökkur hann ekki. Hann boðar réttinn með trúfesti.
4Hann daprast eigi og gefst eigi upp, uns hann fær komið inn rétti á jörðu, og fjarlægar landsálfur bíða eftir boðskap hans.
5Svo segir Drottinn Guð, sá er skóp himininn og þandi hann út, sá er breiddi út jörðina með öllu því, sem á henni vex, sá er andardrátt gaf mannfólkinu á jörðinni og lífsanda þeim, er á henni ganga:
6Ég, Drottinn, hefi kallað þig til réttlætis og held í hönd þína. Ég mun varðveita þig og gjöra þig að sáttmála fyrir lýðinn og að ljósi fyrir þjóðirnar 7til að opna hin blindu augun, til að leiða út úr varðhaldinu þá, er bundnir eru, og úr dýflissunni þá, er í myrkri sitja.
8Ég er Drottinn, það er nafn mitt, og dýrð mína gef ég eigi öðrum né lof mitt úthöggnum líkneskjum.
9Sjá, hinir fyrri hlutir eru fram komnir, en nú boða ég nýja hluti og læt yður heyra þá áður en fyrir þeim vottar.
Lofsöngur um komandi tíma10Syngið Drottni nýjan söng, syngið lof hans til endimarka jarðarinnar, þér sjófarendur og allt sem í hafinu er, þér fjarlægar landsálfur og þeir sem þær byggja!
11Eyðimörkin og borgir hennar og þorpin, þar sem Kedar býr, skulu hefja upp raustina. Fjallabúarnir skulu fagna, æpa af gleði ofan af fjallatindunum! 12Þeir skulu gefa Drottni dýrðina og kunngjöra lof hans í fjarlægum landsálfum!
13Drottinn leggur af stað sem hetja, elur á hugmóð sínum eins og bardagamaður. Hann kallar, hann lýstur upp herópi, sýnir hetjuskap á óvinum sínum:
14Ég hefi þagað langan tíma, verið hljóður og stillt mig. Nú mun ég hljóða sem jóðsjúk kona, stynja og standa á öndinni í sama bili.
15Ég mun svíða fjöllin og hálsana og skrælna láta allar jurtir, er þar vaxa. Ég mun gjöra ár að eyjum og þurrka upp tjarnirnar.
16Ég mun leiða blinda menn um veg, er þeir ekki rata, færa þá um stigu, sem þeir ekki þekkja. Ég vil gjöra myrkrið fram undan þeim að ljósi og hólótt landið að jafnsléttu.
Þessa hluti mun ég gjöra, og ég hætti eigi við þá.
17Þeir sem treysta skurðgoðunum, hörfa aftur á bak og verða sér til skammar, þeir sem segja við steypt líkneski: "Þér eruð guðir vorir."
Guð deilir á þjóðina fyrir blindni18Heyrið, þér hinir daufu! Lítið upp, þér hinir blindu, að þér megið sjá!
19Hver er svo blindur sem þjónn minn og svo daufur sem sendiboði minn, er ég hefi sent? Hver er svo blindur sem trúnaðarmaðurinn og svo blindur sem þjónn Drottins?
20Þú hefir séð margt, en athugar það ekki, eyrun eru opin, en þú heyrir þó ekki.
21Fyrir sakir réttlætis síns hefir Drottni þóknast að gjöra kenninguna háleita og vegsamlega. 22Og þó er þetta rændur og ruplaður lýður, þeir eru allir fjötraðir í gryfjum og byrgðir í myrkvastofum. Þeir eru orðnir að herfangi, og enginn frelsar þá, orðnir að ránsfeng, og enginn segir: "Skilið þeim aftur!"
23Hver af yður vill hlýða á þetta, gefa því gaum og veita því athygli framvegis?
24Hver hefir framselt Jakob til ráns og fengið Ísrael ræningjum í hendur? Er það ekki Drottinn, hann, sem vér höfum syndgað á móti? Á hans vegum vildu þeir ekki ganga, og hans lögmáli hlýddu þeir ekki. 25Fyrir því jós hann yfir þá brennandi reiði sinni og styrjaldarofsa. Hún bálaðist umhverfis þá, en þeir skildu það eigi, hún brenndi þá, en þeir hugfestu það eigi.
,Óttast þú eigi'43
1En nú segir Drottinn svo, sá er skóp þig, Jakobsætt, og myndaði þig, Ísrael:Óttast þú eigi, því að ég frelsa þig. Ég kalla á þig með nafni, þú ert minn.
2Gangir þú gegnum vötnin, þá er ég með þér, gegnum vatnsföllin, þá skulu þau ekki flæða yfir þig. Gangir þú gegnum eld, skalt þú eigi brenna þig, og loginn skal eigi granda þér. 3Því að ég, Drottinn, er Guð þinn, Hinn heilagi í Ísrael frelsari þinn.
Ég gef Egyptaland í lausnargjald fyrir þig, læt Bláland og Seba í stað þín. 4Sökum þess að þú ert dýrmætur í mínum augum og mikils metinn, og af því að ég elska þig, þá legg ég menn í sölurnar fyrir þig og þjóðir fyrir líf þitt.
5Óttast þú eigi, því að ég er með þér.
Ég kem með niðja þína úr austri og safna þér saman úr vestri. 6Ég segi við norðrið: "Lát fram!" og við suðrið: "Haltu þeim eigi! Flyt þú sonu mína úr fjarlægð og dætur mínar frá endimörkum jarðarinnar: 7sérhvern þann, sem við nafn mitt er kenndur og ég hefi skapað mér til dýrðar, sérhvern þann, er ég hefi myndað og gjört!"
Ádeila á þjóðirnar8Lát nú koma fram lýð þann, sem blindur er, þótt hann hafi augu, og þá menn, sem daufir eru, þótt þeir hafi eyru. 9Lát alla heiðingjana safnast í einn hóp og þjóðirnar koma saman.
Hver af þeim getur kunngjört slíkt og látið oss heyra það, er áður er fram komið? Leiði þeir fram votta sína og færi sönnur á mál sitt, svo að menn segi, er þeir heyra það: "Það er satt!"
10En þér eruð mínir vottar, segir Drottinn, og minn þjónn, sem ég hefi útvalið, til þess að þér skylduð kannast við og trúa mér og skilja, að það er ég einn. Á undan mér hefir enginn guð verið búinn til, og eftir mig mun enginn verða til.
11Ég, ég er Drottinn, og enginn frelsari er til nema ég.
12Það var ég, sem boðaði og hjálpaði og kunngjörði, en enginn annar yðar á meðal, og þér eruð vottar mínir - segir Drottinn.
Ég er Guð. 13Já, enn í dag er ég hinn sami.
Enginn getur frelsað af minni hendi. Hver vill gjöra það ógjört, sem ég framkvæmi?
Sagt fyrir um fall Babýlonar14Svo segir Drottinn, frelsari yðar, Hinn heilagi í Ísrael:
Yðar vegna sendi ég til Babýlon og brýt niður slagbranda hennar. Og gleðilæti Kaldeanna munu snúast í sorgarsöng. 15Ég, Drottinn, er yðar Heilagi, skapari Ísraels, konungur yðar.
Guð leiðir vatn um eyðimörkina16Svo segir Drottinn, hann sem lagði veg yfir hafið og braut yfir hin ströngu vötn, 17hann sem leiddi út vagna og hesta, herafla og fyrirliða. Þeir liggja þar hver með öðrum og fá eigi risið á fætur, þeir slokknuðu, kulnuðu út sem hörkveikur:
18Rennið eigi huga til hins umliðna og gefið eigi gætur að því er áður var. 19Sjá, nú hefi ég nýtt fyrir stafni, það tekur þegar að votta fyrir því - sjáið þér það ekki?
Ég gjöri veg um eyðimörkina og leiði ár um öræfin. 20Dýr merkurinnar, sjakalar og strútsfuglar skulu vegsama mig, því að ég leiði vatn um eyðimörkina og ár um öræfin til þess að svala lýð mínum, mínum útvalda.
21Sá lýður, sem ég hefi skapað mér til handa, skal víðfrægja lof mitt.
Ádeila á Ísrael22Eigi hefir þú ákallað mig, Jakobsætt, né lagt þig í líma fyrir mig, Ísrael. 23Þú hefir ekki fært mér sauðkindur þínar í brennifórnir og eigi tignað mig með sláturfórnum þínum. Ég hefi eigi mætt þig með matfórnum né þreytt þig með reykelsi. 24Þú hefir ekki keypt ilmreyr fyrir silfur mér til handa, og þú hefir ekki satt mig á feiti sláturfórna þinna, heldur hefir þú mætt mig með syndum þínum og þreytt mig með misgjörðum þínum.
25Ég, ég einn afmái afbrot þín sjálfs mín vegna og minnist ekki synda þinna.
26Minn mig á, við skulum eigast lög við. Tel þú upp, svo að þú fáir réttlætt þig.
27Hinn fyrsti forfaðir þinn syndgaði og talsmenn þínir brutu á móti mér. 28Þess vegna vanhelgaði ég hina heilögu höfðingja og ofurseldi Jakobsætt bannfæringunni og Ísrael háðunginni.
Hjálpræðistíð fer í hönd44
1Heyr þú nú, Jakob, þjónn minn, og Ísrael, sem ég hefi útvalið. 2Svo segir Drottinn, sá er þig hefir skapað og þig hefir myndað frá móðurkviði, hann sem hjálpar þér:Óttast þú eigi, þjónn minn Jakob, og þú Jesjúrún, sem ég hefi útvalið. 3Því að ég mun ausa vatni yfir hið þyrsta og veita árstraumum yfir þurrlendið. Ég mun úthella anda mínum yfir niðja þína og blessan minni yfir afsprengi þitt.
4Þeir skulu spretta upp, eins og gras milli vatna, eins og pílviðir á lækjarbökkum. 5Einn mun segja: "Ég heyri Drottni," annar mun kalla sig nafni Jakobs, og enn annar rita á hönd sína "Helgaður Drottni" og kenna sig við Ísrael.
Guð einn6Svo segir Drottinn, konungur Ísraels og frelsari, Drottinn allsherjar:
Ég er hinn fyrsti og ég er hinn síðasti, og enginn Guð er til nema ég.
7Hver er sem ég - hann segi frá því og sanni mér það - frá því er ég hóf hina örgömlu þjóð? Látum þá kunngjöra hið ókomna og það sem verða mun!
8Skelfist eigi og látið eigi hugfallast. Hefi ég ekki þegar fyrir löngu sagt þér það og boðað það?
Þér eruð vottar mínir: Er nokkur Guð til nema ég? Nei, ekkert annað hellubjarg er til, ég veit af engu öðru.
Háðyrði um hjáguðadýrkun9Þeir sem búa til goðalíkneski, eru hver með öðrum hégóminn einber, og dýrindissmíðar þeirra eru að engu liði. Vottar slíkra guða sjá eigi og vita eigi, til þess að þeir verði sér til skammar.
10Hver hefir myndað guð og steypt líkneski, til þess að það verði að engu liði? 11Sjá, allir dýrkendur þess munu til skammar verða. Og smiðirnir, þeir eru þó ekki nema menn, - látum þá alla safnast saman og ganga fram, þeir skulu skelfast og til skammar verða hver með öðrum.
12Járnsmiðurinn myndar egg á öxina, tekur hana fram við glóð og lagar hana með hömrunum. Hann býr hana til með hinum sterka armlegg sínum. En svelti hann, þá vanmegnast hann, fái hann ekki vatn að drekka, lýist hann.
13Trésmiðurinn strengir mæliþráð sinn og markar fyrir með alnum, telgir tréð með hnífum og afmarkar það með sirkli. Og hann býr til úr því mannlíkan, fríðan mann, til þess að búa í húsi. 14Hann heggur sér sedrustré, tekur steineik eða eik og velur um meðal skógartrjánna. Hann gróðursetur furutré, og regnskúrirnar koma vexti í þau. 15Og maðurinn hefir tréð til eldiviðar, hann tekur nokkuð af því og vermir sig við, hann kveikir eld við það og bakar brauð, en auk þess býr hann til guð úr því og fellur fram fyrir honum. Hann smíðar úr því skurðgoð og knékrýpur því.
16Helmingnum af trénu brennir hann í eldi. Við þann helminginn steikir hann kjöt, etur steik og verður saddur; hann vermir sig og segir: "Æ, nú hitnar mér, ég sé eldinn." 17En úr afganginum býr hann til guð, skurðgoð handa sér. Hann knékrýpur því, fellur fram og gjörir bæn sína til þess og segir: "Frelsaðu mig, því að þú ert minn guð!"
18Þeir hafa hvorki skyn né skilning, augu þeirra eru lokuð, svo að þeir sjá ekki, og hjörtu þeirra, svo að þeir skynja ekki. 19Og þeir hugleiða það eigi, þeir hafa eigi vitsmuni og skilning til að hugsa með sér: "Helmingnum af því brenndi ég í eldi, ég bakaði brauð við glæðurnar, steikti kjöt og át; og svo ætti ég að fara að búa til andstyggilegt líkneski af því, sem afgangs er, og falla á kné fyrir trédrumbi!" 20Þann mann, er sækist eftir ösku, hefir táldregið hjarta leitt afvega, svo að hann fær eigi borgið lífi sínu. Hann segir ekki við sjálfan sig: "Er það ekki svikatál, sem ég held á í hægri hendi minni?"
Jakobsætt hefir hlotið fyrirgefningu21Minnstu þess, Jakob, og þú Ísrael, því að þú ert þjónn minn. Ég hefi skapað þig til að vera þjón minn, þú, Ísrael, munt mér aldrei úr minni líða!
22Ég hefi feykt burt misgjörðum þínum eins og þoku og syndum þínum eins og skýi. Hverf aftur til mín, því að ég frelsa þig.
23Fagnið, þér himnar, því að Drottinn hefir því til vegar komið, látið gleðilátum, þér undirdjúp jarðarinnar. Hefjið fagnaðarsöng, þér fjöll, skógurinn og öll tré, sem í honum eru, því að Drottinn frelsar Jakob og sýnir vegsemd sína á Ísrael.
Kýrus konungur hinn smurði Drottins24Svo segir Drottinn, frelsari þinn, sá er þig hefir myndað frá móðurkviði:
Ég er Drottinn, sem allt hefi skapað, sem útþandi himininn aleinn og útbreiddi jörðina hjálparlaust, 25sá sem ónýtir tákn lygaranna og gjörir spásagnamennina að fíflum, sem gjörir vitringana afturreka og þekking þeirra að heimsku, 26sem staðfestir orð þjóns síns og framkvæmir ráð sendiboða sinna.
Ég er sá sem segi um Jerúsalem: "Verði hún aftur byggð!" og um borgirnar í Júda: "Verði þær endurreistar, og rústir þeirra reisi ég við!"
27Ég er sá sem segi við djúpið: "Þorna þú upp, og ár þínar þurrka ég upp!"
28Ég er sá sem segi um Kýrus: "Hann er hirðir minn, og hann skal framkvæma allan vilja minn og segja um Jerúsalem: Hún skal endurreist verða og musterið grundvallað að nýju!"
45
1Svo segir Drottinn við sinn smurða, við Kýrus, sem ég held í hægri höndina á, til þess að leggja að velli þjóðir fyrir augliti hans og spretta belti af lendum konunganna, til þess að opna fyrir honum dyrnar og til þess að borgarhliðin verði eigi lokuð:2Ég mun ganga á undan þér og jafna hólana, ég mun brjóta eirhliðin og mölva járnslárnar. 3Ég mun gefa þér hina huldu fjársjóðu og hina fólgnu dýrgripi, svo að þú kannist við, að það er ég, Drottinn, sem kalla þig með nafni þínu, ég Ísraels Guð.
4Vegna þjóns míns Jakobs og vegna Ísraels, míns útvalda, kallaði ég þig með nafni þínu, nefndi þig sæmdarnafni, þó að þú þekktir mig ekki.
5Ég er Drottinn og enginn annar. Enginn Guð er til nema ég.
Ég hertygjaði þig, þó að þú þekktir mig ekki, 6svo að menn skyldu kannast við það bæði í austri og vestri, að enginn er til nema ég.
Ég er Drottinn og enginn annar.
7Ég tilbý ljósið og framleiði myrkrið, ég veiti heill og veld óhamingju.
Ég er Drottinn, sem gjöri allt þetta.
8Drjúpið, þér himnar, að ofan, og láti skýin réttlæti niður streyma. Jörðin opnist og láti hjálpræði fram spretta og réttlæti blómgast jafnframt. Ég, Drottinn, kem því til vegar.
9Vei þeim, sem þráttar við skapara sinn, sjálfur leirbrot innan um önnur leirbrot jarðar!
Hvort má leirinn segja við leirmyndarann: "Hvað getur þú?" eða handaverk hans: "Hann hefir engar hendur."
10Vei þeim, sem segir við föður sinn: "Hvað munt þú fá getið!" eða við konuna: "Hvað ætli þú getir fætt!"
11Svo segir Drottinn, Hinn heilagi í Ísrael og sá er hann hefir myndað:
Spyrjið mig um hið ókomna og felið mér að annast sonu mína og verk handa minna! 12Ég hefi til búið jörðina og skapað mennina á henni. Mínar hendur hafa þanið út himininn og ég hefi kallað fram allan hans her.
13Ég hefi vakið hann upp í réttlæti og ég mun greiða alla hans vegu. Hann skal byggja upp borg mína og gefa útlögum mínum heimfararleyfi, og það án endurgjalds og án fégjafa, - segir Drottinn allsherjar.
Guð hylur sig14Svo segir Drottinn: Auður Egyptalands og verslunargróði Blálands og Sebainga, hinna hávöxnu manna, skal ganga til þín og verða þín eign. Þeir skulu fylgja þér, í fjötrum skulu þeir koma, og þeir skulu falla fram fyrir þér og grátbæna þig og segja: "Guð er hjá þér einum, enginn annar er til, enginn annar guð."
15Sannlega ert þú Guð, sem hylur þig, Ísraels Guð, frelsari.
16Skurðgoðasmiðirnir verða sér til skammar, já, til háðungar allir saman, þeir ganga allir sneyptir. 17En Ísrael frelsast fyrir Drottin eilífri frelsun. Þér skuluð eigi verða til skammar né háðungar að eilífu.
18Já, svo segir Drottinn, sá er himininn hefir skapað - hann einn er Guð, sá er jörðina hefir myndað og hana til búið, hann, sem hefir grundvallað hana og hefir eigi skapað hana til þess, að hún væri auðn, heldur myndað hana svo, að hún væri byggileg:
Ég er Drottinn, og enginn annar.
19Ég hefi ekki talað í leynum, einhvers staðar í landi myrkranna. Ég hefi eigi sagt við Jakobsniðja: "Leitið mín út í bláinn!" Ég, Drottinn, tala það sem rétt er og kunngjöri sannmæli.
Guð er Guð allrar veraldar20Safnist saman og komið, nálægið yður, allir þér af þjóðunum, sem undan hafið komist: Skynlausir eru þeir, sem burðast með trélíkneski sitt og biðja til guðs, er eigi getur hjálpað.
21Gjörið kunnugt og segið til! Já, ráðfæri þeir sig hver við annan!
Hver hefir boðað þetta frá öndverðu og kunngjört það fyrir löngu? Hefi ég, Drottinn, ekki gjört það?
Enginn Guð er til nema ég. Fyrir utan mig er enginn sannur Guð og hjálpari til.
22Snúið yður til mín og látið frelsast, þér gjörvöll endimörk jarðarinnar, því að ég er Guð og enginn annar.
23Ég hefi svarið við sjálfan mig, af munni mínum er sannleikur út genginn, orð, er eigi mun bregðast:
Fyrir mér skal sérhvert kné beygja sig, sérhver tunga sverja mér trúnað.
24"Hjá Drottni einum," mun um mig sagt verða, "er réttlæti og vald."
Allir fjendur hans skulu til hans koma og blygðast sín. 25Allir Ísraelsniðjar skulu réttlætast fyrir Drottin og miklast af honum.
Skurðgoð Babýlonar og Guð alheims46
1Bel er hokinn, Nebó er boginn. Líkneski þeirra eru fengin eykjum og gripum, goðalíkneskin, sem þér áður báruð um kring, eru nú látin upp á þreyttan eyk, eins og önnur byrði. 2Þeir eru bæði bognir og hoknir. Þeir megna ekki að frelsa byrðina, og sjálfir hljóta þeir að fara í útlegð.3Hlýðið á mig, þér kynsmenn Jakobs, og allir þér, sem eftir eruð af kyni Ísraels, þér sem eruð mér á herðar lagðir allt í frá móðurkviði og ég hefi borið allt í frá móðurlífi:
4Allt til elliára er ég hinn sami, og ég vil bera yður, þar til er þér verðið gráir fyrir hærum. Ég hefi gjört yður, og ég skal bera yður, ég skal bera yður og frelsa.
5Við hvern viljið þér samlíkja mér og jafna mér? Saman við hvern viljið þér bera mig sem jafningja minn?
6Þeir sem steypa gullinu úr sjóðnum og vega silfrið á vogarskálum, leigja sér gullsmið til að smíða úr því guð, síðan knékrjúpa þeir og falla fram. 7Þeir lyfta honum á axlir sér, bera hann og setja hann á sinn stað, og þar stendur hann og víkur ekki úr stað. Og þótt einhver ákalli hann, þá svarar hann ekki, hann frelsar eigi úr nauðum.
8Minnist þessa og látið yður segjast, leggið það á hjarta, þér trúrofar.
9Minnist þess hins fyrra frá upphafi, að ég er Guð og enginn annar, hinn sanni Guð og enginn minn líki.
10Ég kunngjörði endalokin frá öndverðu og sagði fyrir fram það, sem eigi var enn fram komið.
Ég segi:
Mín ráðsályktun stendur stöðug, og allt, sem mér vel líkar, framkvæmi ég.
11Ég kalla örninn úr austurátt, úr fjarlægu landi mann þann, er framkvæmir ráðsályktun mína.
Það sem ég tala, það læt ég einnig fram koma, það sem ég áset mér, það gjöri ég einnig.
12Hlýðið á mig, þér harðsvíruðu, sem eruð fjarlægir réttlætinu! 13Ég nálægi mitt réttlæti, það er ekki langt í burtu, og hjálp mín skal ekki dvelja. Ég veiti hjálp í Síon og vegsemd mína Ísrael.
Spáð falli Babýlonar47
1Stíg niður og sest í duftið, þú mærin Babeldóttir!Sest þú á jörðina hásætislaus, þú Kaldeadóttir! því þú munt eigi framar kölluð verða hin lystilega og látprúða.
2Tak kvörnina og mala mjöl! Bregð burt skýlu þinni, tak upp um þig klæðin, gjör beran fótlegg þinn og vað yfir fljótin!
3Ber verði blygðan þín og svívirða þín augsýnileg.
Ég vil hefna mín og hlífi engum, 4segir lausnari vor; Drottinn allsherjar er nafn hans, Hinn heilagi í Ísrael.
5Sit hljóð og gakk inn í myrkrið, þú Kaldeadóttir, því þú munt eigi framar kölluð verða drottning konungsríkjanna.
6Ég var reiður lýð mínum og lét eign mína verða fyrir vansæmd og seldi hana í hendur þér. En þú sýndir þeim enga miskunnsemi. Jafnvel á gamalmennin lagðir þú þitt afar þunga ok.
7Og þú sagðir: "Ég skal verða drottning um aldur og ævi." Þú hugfestir þetta eigi og hugsaðir eigi um, hver endalokin mundu verða.
8En heyr nú þetta, þú hin sællífa, er situr andvaralaus og segir í hjarta þínu: "Ég og engin önnur. Í ekkjudómi skal ég aldrei sitja og eigi reyna, hvað það er að vera barnalaus." 9En hvort tveggja þetta skal þér að hendi bera skyndilega, á einum degi. Þú skalt bæði verða barnalaus og ekkja. Í fullum mæli mun það yfir þig koma, þrátt fyrir þína margvíslegu töfra og þínar miklu særingar.
10Þú þóttist örugg í vonsku þinni og sagðir: "Enginn sér til mín."
Viska þín og kunnátta hefir leitt þig afvega, svo að þú sagðir í hjarta þínu: "Ég og engin önnur!"
11Þess vegna skal ógæfa yfir þig koma, sem þú skalt ekki geta keypt þig undan. Ólán skal yfir þig dynja, er þú eigi fær afstýrt með fégjöfum. Skyndilega skal eyðing yfir þig koma, þegar þig varir minnst.
12Kom þú nú með særingar þínar og með hina margvíslegu töfra þína, sem þú hefir stundað með allri elju í frá barnæsku þinni. Má vera, að þú getir eitthvað áunnið, má vera, þú fáir fælt það burt.
13Þú ert orðin þreytt á hinum mörgu fyrirætlunum þínum. Lát því himinfræðingana og stjörnuskoðarana koma og hjálpa þér, þá er á mánuði hverjum boða þér, hvað yfir þig á að koma.
14Sjá, þeir eru sem hálmleggir, eldurinn eyðir þeim. Þeir geta ekki bjargað lífi sjálfra sín úr loganum, því það verður ekki glóð til að orna sér við eða eldur til að sitja við.
15Svo munu þeir reynast þér, er þú hefir mæðst fyrir, þeir er keypt hafa við þig frá æskuárum þínum: Þeir þjóta í sína áttina hver, og enginn verður til að hjálpa þér.
,Ég boða þér nýja hluti'48
1Heyrið þetta, þér Jakobs niðjar, þér sem nefndir eruð eftir Ísrael og runnir eruð úr Júda lindum, þér sem sverjið við nafn Drottins og tignið Ísraels Guð, þótt eigi sé í sannleika og réttlæti, 2því að þeir kenna sig við hina helgu borg og leita trausts hjá Ísraels Guði: Nafn hans er Drottinn allsherjar.3Það sem nú er fram komið, hefi ég kunngjört fyrir löngu, það er útgengið af mínum munni, og ég hefi gjört það heyrinkunnugt. Skyndilega færði ég það til vegar, og það kom fram.
4Af því að ég vissi, að þú ert þrjóskur og háls þinn seigur sem járnseymi og enni þitt hart sem kopar, 5fyrir því kunngjörði ég þér það löngu fyrir og lét þig vita það áður en það kom fram, til þess að þú skyldir ekki segja: "Goð mitt hefir komið því til leiðar, og skurðgoð mitt og hið steypta líkneski mitt hefir ráðstafað því."
6Þú hefir heyrt það, sjá, nú er það allt komið fram! Og þér, hljótið þér ekki að játa það?
Nú boða ég þér nýja hluti og hulda, sem þú ekkert veist um. 7Þeir eru nú að skapast, en eigi fyrr, fyrr en í dag hefir þú ekkert um þá heyrt, svo að þú skyldir ekki geta sagt: "Sjá, ég vissi það!"
8Þú hefir hvorki heyrt það né vitað það, né heldur hefir eyra þitt verið opið fyrir löngu, því að ég vissi, að þú ert mjög ótrúr og að þú hefir kallaður verið "trúrofi" frá móðurlífi.
9Fyrir sakir nafns míns sefa ég reiði mína og vegna lofs míns hefti ég hana þér í vil, svo að ég uppræti þig eigi.
10Sjá, ég hefi hreinsað þig, þó eigi sem silfur, ég hefi reynt þig í bræðsluofni hörmungarinnar. 11Mín vegna, sjálfs mín vegna gjöri ég það, og dýrð mína gef ég eigi öðrum, því að hversu mjög yrði nafn mitt vanhelgað!
12Heyr mig, Jakob, og þú Ísrael, sem ég hefi kallað:
Ég er hann, ég er hinn fyrsti, ég er einnig hinn síðasti.
13Hönd mín hefir grundvallað jörðina, og hægri hönd mín hefir þanið út himininn. Þegar ég kalla á þau, koma þau.
14Safnist allir saman og heyrið: Hver á meðal þeirra hefir kunngjört þetta: Sá er Drottinn elskar, skal framkvæma vilja hans á Babýlon og vera armleggur hans meðal Kaldea?
15Það er ég, það er ég, sem hefi talað það, ég hefi og kallað hann. Ég hefi leitt hann fram og veitt honum sigurgengi.
16Komið til mín og heyrið þetta: Frá upphafi hefi ég eigi talað í leyndum; þegar kominn var sá tími, að það skyldi verða, kom ég.
Nú hefir hinn alvaldi Drottinn sent mig með sinn anda.
17Svo segir Drottinn, frelsari þinn, Hinn heilagi í Ísrael:
Ég, Drottinn Guð þinn, er sá sem kenni þér að gjöra það sem þér er gagnlegt, sem vísa þér þann veg, er þú skalt ganga.
18Æ, að þú vildir gefa gaum að boðorðum mínum, þá mundi heill þín verða sem fljót og réttlæti þitt sem bylgjur sjávarins. 19Niðjar þínir mundu þá verða sem fjörusandur og lífsafkvæmi þín sem sandkorn. Nafn hans mun aldrei afmáð verða og aldrei hverfa burt frá mínu augliti.
20Gangið út úr Babýlon, skundið burt frá Kaldeum með fagnaðarópi, boðið þetta og birtið það, útbreiðið það til endimarka jarðarinnar: Drottinn hefir frelsað þjón sinn Jakob!
21Og þá þyrsti ekki, þegar hann leiddi þá um öræfin. Hann lét vatn spretta upp úr kletti handa þeim, og hann klauf klettinn, svo að vatnið vall þar upp.
22Hinum óguðlegu, segir Drottinn, er enginn friður búinn.
Ljóð um hinn líðandi þjón Drottins49
1Heyrið mig, þér eylönd, og hyggið að, þér fjarlægar þjóðir! Drottinn hefir kallað mig allt í frá móðurlífi, nefnt nafn mitt frá því ég var í kviði móður minnar. 2Hann hefir gjört munn minn sem beitt sverð og hulið mig í skugga handar sinnar. Hann hefir gjört mig að fágaðri ör og falið mig í örvamæli sínum.3Hann sagði við mig: "Þú ert þjónn minn, Ísrael, sá er ég mun sýna á vegsemd mína."
4En ég sagði: "Ég hefi þreytt mig til einskis, eytt krafti mínum til ónýtis og árangurslaust. Samt sem áður er réttur minn hjá Drottni og laun mín hjá Guði mínum."
5En nú segir Drottinn, hann sem myndaði mig allt í frá móðurlífi til að vera þjón sinn, til þess að ég sneri Jakob aftur til hans og til þess að Ísrael yrði safnað saman til hans, - og ég er dýrmætur í augum Drottins og Guð minn varð minn styrkur - 6nú segir hann:
"Það er of lítið fyrir þig að vera þjónn minn, til þess að endurreisa ættkvíslir Jakobs og leiða heim aftur þá, er varðveitst hafa af Ísrael. Fyrir því gjöri ég þig að ljósi fyrir þjóðirnar, svo að þú sért mitt hjálpræði til endimarka jarðarinnar."
Fjötruðum boðuð lausn7Svo segir Drottinn, frelsari og heilagur Guð Ísraels, við þann, sem af mönnum er fyrirlitinn, við þann, sem fólk hefir andstyggð á, við þjón harðstjóranna:
Konungar munu sjá það og standa upp, þjóðhöfðingjar munu sjá það og falla fram, vegna Drottins, sem reynist trúr, vegna Hins heilaga í Ísrael, sem þig hefir útvalið.
8Svo segir Drottinn:
Á tíma náðarinnar bænheyri ég þig, og á degi hjálpræðisins hjálpa ég þér. Ég varðveiti þig og gjöri þig að sáttmála fyrir lýðinn, til þess að reisa við landið, til þess að úthluta erfðahlutum, sem komnir eru í auðn, 9til þess að segja hinum fjötruðu: "Gangið út," og þeim sem í myrkrunum eru: "Komið fram í dagsbirtuna."
Fram með vegunum skulu þeir vera á beit, og á öllum gróðurlausum hæðum skal vera beitiland fyrir þá. 10Þá skal ekki hungra og ekki þyrsta, og eigi skal breiskjuloftið og sólarhitinn vinna þeim mein, því að miskunnari þeirra vísar þeim veg og leiðir þá að uppsprettulindum.
11Ég gjöri öll mín fjöll að vegi, og brautir mínar skulu hækka. 12Sjá, sumir koma langt að, sumir frá norðri og vestri, aðrir frá Syene.
13Lofsyngið, þér himnar, og fagna þú, jörð! Hefjið gleðisöng, þér fjöll, því að Drottinn veitir huggun sínum lýð og auðsýnir miskunn sínum þjáðu.
Jerúsalem mun endurreist verða14Síon segir: "Drottinn hefir yfirgefið mig, hinn alvaldi hefir gleymt mér!"
15Hvort fær kona gleymt brjóstbarni sínu, að hún miskunni eigi lífsafkvæmi sínu? Og þó að þær gætu gleymt, þá gleymi ég þér samt ekki.
16Sjá, ég hefi rist þig á lófa mína, múrar þínir standa jafnan fyrir augum mér.
17Byggjendur þínir koma með flýti, en þeir, sem brutu þig niður og lögðu þig í rústir, víkja burt frá þér.
18Hef upp augu þín og litast um: Þeir safnast allir saman og koma til þín. Svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn, skalt þú íklæðast þeim öllum sem skarti og belta þig með þeim sem brúður. 19Því að rústir þínar, eyðistaðir þínir og umturnað land þitt - já, nú verður þú of þröng fyrir íbúana og eyðendur þínir munu vera langt í burtu.
20Enn munu börnin frá árunum, er þú varst barnalaus, segja í eyru þér: "Hér er of þröngt um mig. Færðu þig, svo að ég fái bústað!"
21Þá muntu segja í hjarta þínu: "Hver hefir alið mér þessi börn? Ég var barnlaus og óbyrja, útlæg og brottrekin. Og hver hefir fóstrað þessi börn? Sjá, ég var ein eftir skilin, hvernig stendur þá á börnum þessum?"
22Svo segir hinn alvaldi Drottinn: Sjá, ég mun banda hendi minni til þjóðanna og reisa upp merki mitt fyrir lýðina, og munu þeir þá færa hingað sonu þína í fangi sér, og dætur þínar bornar verða hingað á öxlinni.
23Konungar skulu verða barnfóstrar þínir og drottningar þeirra barnfóstrur þínar. Þeir munu falla til jarðar fram á ásjónur sínar fyrir þér og sleikja duft fóta þinna. Þá munt þú komast að raun um, að ég er Drottinn og að þeir verða ekki til skammar, sem á mig vona.
24Hvort mun herfangið verða tekið af hinum sterka? Og munu bandingjar ofbeldismannsins fá komist undan?
25Já, svo segir Drottinn:
Bandingjarnir skulu teknir verða af hinum sterka og herfang ofbeldismannsins komast undan. Ég skal verja sök þína gegn sökunautum þínum, og sonu þína mun ég frelsa. 26Ég mun láta kúgara þína eta eigið hold, og þeir skulu verða drukknir af eigin blóði, eins og af vínberjalegi. Allt hold mun þá komast að raun um, að ég, Drottinn, er frelsari þinn, og hinn voldugi Jakobs Guð, lausnari þinn.
Guð getur bjargað50
1Svo segir Drottinn:Hvar er sú skilnaðarskrá móður yðar, er ég á að hafa rekið hana burt með? Eða hverjum af lánardrottnum mínum hefi ég selt yður? Sjá, sökum misgjörða yðar hafið þér seldir verið og vegna afbrota yðar hefir móðir yðar verið burt rekin.
2Hvers vegna var enginn fyrir, þegar ég kom, hví gegndi enginn, þegar ég kallaði? Er hönd mín þá svo stutt orðin, að hún geti eigi frelsað, eða vantar mig mátt til að bjarga?
Sjá, með hótun minni þurrka ég upp hafið, gjöri fljótin að eyðimörk, svo að fiskarnir í þeim úldna af vatnsleysi og deyja af þorsta. 3Ég færi himininn í svartan hjúp og sveipa hann í sorgarbúning.
Ljóð um hinn líðandi þjón Drottins4Hinn alvaldi Drottinn hefir gefið mér lærisveina tungu, svo að ég hefði vit á að styrkja hina mæddu með orðum mínum.
Hann vekur á hverjum morgni, á hverjum morgni vekur hann eyra mitt, svo að ég taki eftir, eins og lærisveinar gjöra. 5Hinn alvaldi Drottinn opnaði eyra mitt, og ég þverskallaðist eigi, færðist ekki undan.
6Ég bauð bak mitt þeim, sem börðu mig, og kinnar mínar þeim, sem reyttu mig. Ég byrgði eigi ásjónu mína fyrir háðungum og hrákum.
7Drottinn hinn alvaldi hjálpar mér, því lét ég ekki háðungarnar á mér festa. Fyrir því gjörði ég andlit mitt að tinnusteini, því að ég veit, að ég verð ekki til skammar.
8Nálægur er sá er mig réttlætir. Hver vill deila við mig? Við skulum báðir ganga fram! Hver hefir sök að kæra á hendur mér? Komi hann til mín!
9Sjá, hinn alvaldi Drottinn hjálpar mér. Hver er sá er geti gjört mig sekan? Sjá, þeir munu allir detta sundur eins og gamalt fat, mölur skal eyða þeim.
10Hver sá meðal yðar, sem óttast Drottin, hlýði raustu þjóns hans. Sá sem í myrkrunum gengur og enga skímu sér, hann treysti á nafn Drottins og reiði sig á Guð sinn.
11Sjá, allir þér, sem kveikið eld og gyrðið yður eldlegum skeytum, gangið þér út í þann eld, sem þér hafið kveikt, og sláið umhverfis yður þeim slagbröndum, sem þér hafið tendrað! Frá minni hendi kemur þetta yfir yður, þér skuluð liggja í kvölum.
Réttlæti Guðs brýst fram51
1Hlýðið á mig, þér sem leggið stund á réttlæti, þér sem leitið Drottins! Lítið á hellubjargið, sem þér eruð af höggnir, og á brunnholuna, sem þér eruð úr grafnir! 2Lítið á Abraham, föður yðar, og á Söru, sem ól yður! Því að barnlausan kallaði ég hann, en ég blessaði hann og jók kyn hans.3Já, Drottinn huggar Síon, huggar allar rústir hennar. Hann gjörir auðn hennar sem Eden og heiði hennar sem aldingarð Drottins. Fögnuður og gleði mun finnast í henni, þakkargjörð og lofsöngur.
4Hlýð þú á mig, þú lýður minn, hlusta á mig, þú þjóð mín, því frá mér mun kenning út ganga og minn réttur sem ljós fyrir þjóðirnar.
5Skyndilega nálgast réttlæti mitt, hjálpræði mitt er á leiðinni. Armleggir mínir munu færa þjóðunum réttlæti. Fjarlægar landsálfur vænta mín og bíða eftir mínum armlegg.
6Hefjið augu yðar til himins og lítið á jörðina hér neðra. Himinninn mun leysast sundur sem reykur og jörðin fyrnast sem fat og þeir, sem á henni búa, deyja sem mý. En mitt hjálpræði varir eilíflega, og mínu réttlæti mun eigi linna.
7Hlýðið á mig, þér sem þekkið réttlætið, þú lýður, sem ber lögmál mitt í hjarta þínu.
Óttist eigi spott manna og hræðist eigi smánaryrði þeirra, 8því að mölur mun eta þá eins og klæði og maur eta þá eins og ull. En réttlæti mitt varir eilíflega og hjálpræði mitt frá kyni til kyns.
Sköpun og endurlausn9Vakna þú, vakna þú, íklæð þig styrkleika, armleggur Drottins!
Vakna þú, eins og fyrr á tíðum, eins og í árdaga!
Varst það eigi þú, sem banaðir skrímslinu og lagðir í gegn drekann?
10Varst það eigi þú, sem þurrkaðir upp hafið, vötn hins mikla djúps, sem gjörðir sjávardjúpin að vegi, svo að hinir endurleystu gætu komist yfir?
11Hinir endurkeyptu Drottins skulu aftur hverfa og koma með fögnuði til Síonar, og eilíf gleði skal leika yfir höfði þeim. Fögnuður og gleði skal fylgja þeim, en hryggð og andvarpan flýja.
12Ég, ég er sá sem huggar yður. Hver ert þú, að þú skulir hrædd vera við mennina, sem eiga að deyja, og mannanna börn, sem felld verða eins og grasið, 13en gleymir Drottni, skapara þínum, sem útþandi himininn og grundvallaði jörðina, að þú óttast stöðugt liðlangan daginn heift kúgarans?
Þegar hann býr sig til að gjöreyða, hvar er þá heift kúgarans?
14Brátt skulu þeir, er fjötraðir eru, leystir verða, og þeir skulu eigi deyja og fara í gröfina, né heldur skal þá skorta brauð - 15svo sannarlega sem ég er Drottinn, Guð þinn, sá er æsir hafið, svo að bylgjurnar gnýja. Drottinn allsherjar er nafn hans.
16Ég hefi lagt mín orð í munn þér og skýlt þér undir skugga handar minnar, ég, sem gróðursetti himininn og grundvallaði jörðina og segi við Síon: "Þú ert minn lýður!"
Guð ríkir að nýju í Jerúsalem17Hresstu þig upp, hresstu þig upp, rístu upp, Jerúsalem, þú sem drukkið hefir reiðibikar Drottins, er hönd hans rétti að þér. Vímubikarinn hefir þú drukkið í botn!
18Af öllum þeim sonum, sem hún hafði alið, var ekki nokkur einn, sem leiddi hana. Af öllum þeim sonum, sem hún hafði upp fætt, var enginn, sem tæki í hönd hennar.
19Þetta tvennt henti þig - hver aumkar þig? - eyðing og umturnun, hungur og sverð - hver huggar þig?
20Synir þínir liðu í ómegin og lágu á öllum strætamótum, eins og antílópur í veiðigröf, fullir af reiði Drottins, af hirtingarorðum Guðs þíns.
21Fyrir því heyr þú þetta, þú hin vesala, þú sem drukkin ert, og þó ekki af víni: 22Svo segir Drottinn þinn alvaldur og Guð þinn, sem réttir hlut lýðs síns:
Sjá, ég tek úr hendi þinni vímubikarinn, skál reiði minnar, þú skalt ekki framar á henni bergja. 23Ég fæ hana í hendur þeim, sem angra þig, þeim er sögðu við þig: "Varpa þér niður, svo að vér getum gengið á þér!" Og þú varðst að gjöra hrygg þinn sem gólf og að götu fyrir vegfarendur.
52
1Vakna þú, vakna þú, íklæð þig styrk þínum, Síon! Klæð þig skartklæðum þínum, Jerúsalem, þú hin heilaga borg! því að enginn óumskorinn eða óhreinn skal framar inn í þig ganga.2Hrist af þér rykið, rís upp og sest í sæti þitt, Jerúsalem! Losa þú af þér hálsfjötra þína, þú hin hertekna, dóttirin Síon!
3Svo segir Drottinn:
Þér voruð seldir fyrir ekkert, þér skuluð og án silfurs leystir verða.
4Svo segir hinn alvaldi Drottinn:
Til Egyptalands fór lýður minn forðum til þess að dveljast þar um hríð, og Assýringar kúguðu hann heimildarlaust. 5Og nú, hvað hefi ég hér að gjöra - segir Drottinn - þar sem lýður minn hefir verið burt numinn fyrir ekkert? Yfirdrottnarar hans dramba - segir Drottinn - og stöðugt er nafn mitt smáð liðlangan daginn.
6Fyrir því skal lýður minn fá að þekkja nafn mitt, fá að reyna það á þeim degi, að það er ég, sem segi: "Sjá, hér er ég!"
7Hversu yndislegir eru á fjöllunum fætur fagnaðarboðans, sem friðinn kunngjörir, gleðitíðindin flytur, hjálpræðið boðar og segir við Síon: "Guð þinn er setstur að völdum!"
8Varðmenn þínir hefja upp raustina allir í einu, þeir æpa fagnaðaróp, því að með eigin augum sjá þeir Drottin hverfa aftur til Síonar.
9Hefjið gleðisöng, æpið fagnaðaróp allar í einu, þér eyðirústir Jerúsalem, því að Drottinn huggar lýð sinn, leysir Jerúsalem.
10Drottinn hefir beran gjört heilagan armlegg sinn í augsýn allra þjóða, og öll endimörk jarðarinnar skulu sjá hjálpræði Guðs vors.
Haldið burt frá Babýlon!11Farið burt, farið burt, gangið út þaðan! Snertið ekkert óhreint! Gangið burt þaðan, hreinsið yður, þér sem berið ker Drottins! 12Því að eigi skuluð þér í flýti brott ganga né fara með skyndingu, því að Drottinn fer fyrir yður í fararbroddi og Guð Ísraels gengur aftastur í flokki yðar.
Ljóð um hinn líðandi þjón Drottins13Sjá, þjónn minn mun giftusamur verða, hann mun verða mikill og veglegur og mjög hátt upp hafinn.
14Eins og margir urðu agndofa af skelfingu yfir honum - svo afskræmd var ásýnd hans framar en nokkurs manns og mynd hans framar en nokkurs af mannanna sonum - 15eins mun hann vekja undrun margra þjóða, og konungar munu afturlykja munni sínum fyrir honum. Því að þeir munu sjá það, sem þeim hefir aldrei verið frá sagt, og verða þess áskynja, er þeir hafa aldrei heyrt.
53
1Hver trúði því, sem oss var boðað, og hverjum varð armleggur Drottins opinber?2Hann rann upp eins og viðarteinungur fyrir augliti hans og sem rótarkvistur úr þurri jörð.
Hann var hvorki fagur né glæsilegur, svo að oss gæfi á að líta, né álitlegur, svo að oss fyndist til um hann.
3Hann var fyrirlitinn, og menn forðuðust hann, harmkvælamaður og kunnugur þjáningum, líkur manni, er menn byrgja fyrir andlit sín, fyrirlitinn og vér mátum hann einskis.
4En vorar þjáningar voru það, sem hann bar, og vor harmkvæli, er hann á sig lagði.
Vér álitum hann refsaðan, sleginn af Guði og lítillættan, 5en hann var særður vegna vorra synda og kraminn vegna vorra misgjörða. Hegningin, sem vér höfðum til unnið, kom niður á honum, og fyrir hans benjar urðum vér heilbrigðir.
6Vér fórum allir villir vega sem sauðir, stefndum hver sína leið, en Drottinn lét misgjörð vor allra koma niður á honum.
7Hann var hrjáður, en hann lítillætti sig og lauk eigi upp munni sínum. Eins og lamb, sem leitt er til slátrunar, og eins og sauður þegir fyrir þeim, er klippa hann, lauk hann eigi upp munni sínum.
8Með þrenging og dómi var hann burt numinn, og hver af samtíðarmönnum hans hugsaði um það?
Hann var hrifinn burt af landi lifenda, fyrir sakir syndar míns lýðs var hann lostinn til dauða.
9Og menn bjuggu honum gröf meðal illræðismanna, legstað með ríkum, þótt hann hefði eigi ranglæti framið og svik væru ekki í munni hans.
10En Drottni þóknaðist að kremja hann með harmkvælum: Þar sem hann fórnaði sjálfum sér í sektarfórn, skyldi hann fá að líta afsprengi og lifa langa ævi og áformi Drottins fyrir hans hönd framgengt verða.
11Vegna þeirra hörmunga, er sál hans þoldi, mun hann sjá ljós og seðjast.
Þá menn læra að þekkja hann, mun hann, hinn réttláti, þjónn minn, gjöra marga réttláta, og hann mun bera misgjörðir þeirra. 12Fyrir því gef ég honum hina mörgu að hlutskipti, og hann mun öðlast hina voldugu að herfangi, fyrir það, að hann gaf líf sitt í dauðann og var með illræðismönnum talinn.
En hann bar syndir margra og bað fyrir illræðismönnum.
Friðarsáttmálinn skal ekki raskast54
1Fagna, þú óbyrja, sem ekki hefir fætt! Hef upp gleðisöng, lát við kveða fagnaðaróp, þú sem eigi hefir haft fæðingarhríðir! Því að börn hinnar yfirgefnu munu fleiri verða en giftu konunnar, - segir Drottinn.2Víkka þú út tjald þitt, og lát þá þenja út tjalddúka búðar þinnar, meina þeim það ekki, gjör tjaldstög þín löng og rek fast hælana. 3Því að þú munt útbreiðast til hægri og vinstri, og niðjar þínir munu eignast lönd þjóðanna og byggja eyddar borgir.
4Óttast eigi, því að þú skalt eigi til skammar verða, lát eigi háðungina á þér festa, því að þú skalt eigi þurfa að fyrirverða þig. Því að þú skalt gleyma vanvirðu æsku þinnar og eigi framar minnast svívirðingar ekkjudóms þíns.
5Því að hann, sem skóp þig, er eiginmaður þinn, Drottinn allsherjar er nafn hans. Og Hinn heilagi í Ísrael er frelsari þinn, Guð gjörvallrar jarðarinnar heitir hann.
6Drottinn kallar þig sem yfirgefna konu og harmþrungna, og æskunnar brúður, sem verið hefir ein látin, - segir Guð þinn.
7Skamma stund yfirgaf ég þig, en með mikilli miskunnsemi tek ég þig að mér.
8Í ofurreiði minni byrgði ég auglit mitt fyrir þér um stund, en með eilífri líkn miskunna ég þér, - segir endurlausnari þinn, Drottinn.
9Það fer eins fyrir mér með þetta og með Nóaflóð: Svo sem ég sór þá, að Nóaflóð skyldi ekki framar ganga yfir jörðina, eins sver ég nú að reiðast þér ekki né ávíta þig.
10Því þótt fjöllin færist úr stað og hálsarnir riði skal mín miskunnsemi við þig ekki færast úr stað og minn friðarsáttmáli ekki raskast, - segir miskunnari þinn, Drottinn.
11Þú hin vesala, hrakta, huggunarlausa! Sjá, ég legg rúbína sem steina í bygging þína og hleð grunnmúra þína af safírsteinum. 12Ég gjöri múrtinda þína af jaspis og hlið þín af roðasteinum og allan ummerkjagarð þinn af dýrindissteinum.
13Allir synir þínir eru lærisveinar Drottins og njóta mikils friðar.
14Fyrir réttlæti munt þú stöðug standa. Álít þig fjarlæga ofríki, því að þú þarft ekki að óttast, og fjarlæga skelfingu, því að hún skal ekki koma nærri þér.
15Ef nokkur áreitir þig, þá er það ekki að mínum vilja. Hver sem áreitir þig, skal falla fyrir þér.
16Sjá, ég skapa smiðinn, sem blæs að kolaeldinum og framleiðir vopnið til sinnar notkunar, og ég skapa eyðandann til þess að leggja í eyði.
17Engin vopn, sem smíðuð verða móti þér, skulu verða sigurvænleg, og allar tungur, sem upp rísa gegn þér til málaferla, skalt þú kveða niður.
Þetta er hlutskipti þjóna Drottins og það réttlæti, er þeir fá hjá mér - segir Drottinn.
Davíðssáttmálinn endurnýjaður55
1Heyrið, allir þér sem þyrstir eruð, komið hingað til vatnsins, og þér sem ekkert silfur eigið, komið, kaupið korn og etið! Komið, kaupið korn án silfurs og endurgjaldslaust bæði vín og mjólk!2Hví reiðið þér silfur fyrir það, sem ekki er brauð, og gróða yðar fyrir það, sem ekki er til saðnings?
Hlýðið á mig, þá skuluð þér fá gott að eta og sálir yðar gæða sér á feiti!
3Hneigið eyru yðar og komið til mín, heyrið, svo að sálir yðar megi lifna við!
Ég vil gjöra við yður eilífan sáttmála, Davíðs órjúfanlega náðarsáttmála.
4Sjá, ég hefi gjört hann að vitni fyrir þjóðirnar, að höfðingja og stjórnara þjóðanna.
5Sjá, þú munt kalla til þín þjóð, er þú þekkir ekki, og fólk, sem ekki þekkir þig, mun hraða sér til þín, sakir Drottins Guðs þíns og vegna Hins heilaga í Ísrael, af því að hann hefir gjört þig vegsamlegan.
Orð Guðs hið lifandi6Leitið Drottins, meðan hann er að finna, kallið á hann, meðan hann er nálægur!
7Hinn óguðlegi láti af breytni sinni og illvirkinn af vélráðum sínum og snúi sér til Drottins, þá mun hann miskunna honum, til Guðs vors, því að hann fyrirgefur ríkulega.
8Já, mínar hugsanir eru ekki yðar hugsanir, og yðar vegir ekki mínir vegir - segir Drottinn.
9Heldur svo miklu sem himinninn er hærri en jörðin, svo miklu hærri eru mínir vegir yðar vegum og mínar hugsanir yðar hugsunum.
10Því eins og regn og snjór fellur af himni ofan og hverfur eigi þangað aftur, fyrr en það hefir vökvað jörðina, gjört hana frjósama og gróandi og gefið sáðmanninum sæði og brauð þeim er eta, 11eins er því farið með mitt orð, það er útgengur af mínum munni: Það hverfur ekki aftur til mín við svo búið, eigi fyrr en það hefir framkvæmt það, sem mér vel líkar, og komið því til vegar, er ég fól því að framkvæma.
Haldið heim frá Babýlon12Já, með gleði skuluð þér út fara, og í friði burt leiddir verða.
Fjöll og hálsar skulu hefja upp fagnaðarsöng fyrir yður, og öll tré merkurinnar klappa lof í lófa.
13Þar sem áður voru þyrnirunnar, mun kýpresviður vaxa, og þar sem áður var lyng, mun mýrtusviður vaxa.
Þetta mun verða Drottni til lofs og eilífs minningarmarks, sem aldrei mun afmáð verða.
Þriðji hluti
Boðið að halda lögmálið og hvíldardaginn56
1Svo segir Drottinn:Varðveitið réttinn og gjörið það, sem rétt er, því að hjálpræði mitt er í nánd og réttlæti mitt birtist bráðlega.
2Sæll er sá maður, sem gjörir þetta, og það mannsbarn, sem heldur fast við það, sá sem gætir þess að vanhelga ekki hvíldardaginn og varðveitir hönd sína frá því að gjöra nokkuð illt.
3Eigi má útlendingurinn, er gengið hefir Drottni á hönd, segja: "Drottinn mun skilja mig frá lýð sínum!" Og eigi má geldingurinn segja: "Ég er visið tré!" 4Því að svo segir Drottinn:
Geldingunum, sem halda hvíldardaga mína og kjósa það, sem mér vel líkar, og halda fast við sáttmála minn, 5þeim vil ég gefa minningarmark og nafn í húsi mínu og á múrveggjum mínum, sem er betra en synir og dætur. Eilíft nafn vil ég gefa þeim, það er aldrei mun afmáð verða.
6Og útlendinga, sem gengið hafa Drottni á hönd til þess að þjóna honum og til þess að elska nafn Drottins, til þess að verða þjónar hans - alla þá, sem gæta þess að vanhelga ekki hvíldardaginn og halda fast við minn sáttmála, 7þá mun ég leiða til míns heilaga fjalls og gleðja þá í bænahúsi mínu. Brennifórnir þeirra og sláturfórnir skulu vera mér þóknanlegar á altari mínu.
Því að hús mitt skal nefnast bænahús fyrir allar þjóðir.
8Hinn alvaldi Drottinn segir:
Þegar ég safna saman hinum burtreknu af Ísrael, mun ég og safna mörgum auk þeirra!
Blindir leiðtogar9Safnist saman, öll dýr merkurinnar, komið til að eta, öll dýr skógarins!
10Varðmenn Ísraels eru allir blindir, vita ekki neitt, þeir eru allir hljóðlausir hundar, sem ekki geta gelt. Þeir liggja í draummóki, þeim þykir gott að lúra. 11Og hundarnir eru gráðsoltnir, fá aldrei fylli sína.
Og hirðarnir sjálfir hafa ekki vit á að taka eftir, þeir fara hver sinna ferða, líta allir á eigin hag: 12"Komið, ég ætla að sækja vín, vér skulum drekka ósleitulega! Og morgundagurinn skal verða sem þessi, dýrlegur næsta mjög!"
Gegn heiðinni dýrkun í eikilundum57
1Hinir réttlátu líða undir lok, og enginn leggur það á hjarta. Hinum guðhræddu er burt svipt, og enginn veitir því athygli.Hinir réttlátu verða burt numdir frá ógæfunni, 2þeir ganga inn til friðar. Þeir, sem ganga beina braut, munu hvíla í legurúmum sínum.
3Komið þér hingað, þér seiðkonusynir, þú afsprengi hórkarls og skækju!
4Að hverjum skopist þér? Framan í hvern eruð þér að bretta yður og reka út úr yður tunguna? Eruð þér ekki syndarinnar börn og lyginnar afsprengi?
5Þér brunnuð af girndarbruna hjá eikitrjánum, undir hverju grænu tré, þér slátruðuð börnum í dölunum, niðri í klettagjánum.
6Á sleipum steinum í árfarvegi skriðnar þér fótur. Þú úthelltir drykkjarfórn handa þeim, færðir þeim matfórn. Átti ég að una slíku?
7Á háu og gnæfandi fjalli settir þú hvílurúm þitt, þú fórst og upp þangað til þess að færa fórnir.
8Á bak við hurð og dyrastafi settir þú minningarmark þitt. Já, fráhverf mér flettir þú ofan af hvílu þinni, steigst upp í hana og rýmkaðir til í henni og gjörðir samning við þá. Þér voru kær hvílubrögð þeirra, þú sást blygðan þeirra.
9Þú fórst til konungsins með olíu og hafðir með þér mikil smyrsl, og þú sendir sendiboða þína langar leiðir og steigst niður allt til Heljar.
10Þú varðst þreytt af hinu langa ferðalagi þínu, en þó sagðir þú ekki: "Ég gefst upp!" Þú fannst nýjan lífsþrótt í hendi þinni, fyrir því örmagnaðist þú ekki.
11Hvern hræddist og óttaðist þú þá, að þú skyldir bregða svo trúnaði þínum, að þú skyldir ekki muna til mín, ekkert um mig hirða?
Er eigi svo: Ég hefi þagað, og það frá eilífð, mig óttaðist þú því ekki?
12En ég skal gjöra réttlæti þitt kunnugt, og verkin þín - þau munu þér að engu liði verða.
13Lát skurðgoðin, sem þú hefir saman safnað, bjarga þér, er þú kallar á hjálp! Vindurinn mun svipta þeim öllum í burt, gusturinn taka þau.
En sá, sem leitar hælis hjá mér, mun erfa landið og eignast mitt heilaga fjall.
Friður veitist fátækum14Sagt mun verða: "Leggið braut, leggið braut, greiðið veginn, ryðjið hverjum ásteytingarsteini úr vegi þjóðar minnar!"
15Já, svo segir hinn hái og háleiti, hann sem ríkir eilíflega og heitir Heilagur:
Ég bý á háum og helgum stað, en einnig hjá þeim, sem hafa sundurkraminn og auðmjúkan anda, til þess að lífga anda hinna lítillátu og til þess að lífga hjörtu hinna sundurkrömdu. 16Því að ég þreyti ekki deilur eilíflega og reiðist ekki ævinlega, ella mundi andi mannsins vanmegnast fyrir mér og sálirnar, sem ég hefi skapað.
17Sökum hinnar syndsamlegu ágirndar hans reiddist ég og laust hann, ég byrgði andlit mitt og var reiður. Þrjóskufullur hélt hann þá leið, er hann lysti.
18Ég sá vegu hans og ég vil lækna hann, ég vil leiða hann og veita honum hugsvölun.
Öllum þeim, sem hryggir eru hjá honum, 19vil ég gefa ávöxt varanna - segir Drottinn.
Friður, friður fyrir fjarlæga og fyrir nálæga. Ég lækna hann!
20En hinir óguðlegu eru sem ólgusjór, því að hann getur ekki verið kyrr og bylgjur hans róta upp aur og leðju. 21Hinum óguðlegu, segir Guð minn, er enginn friður búinn.
Hvíldardagurinn er feginsdagur58
1Kalla þú af megni og drag ekki af! Hef upp raust þína sem lúður og kunngjör lýð mínum misgjörð þeirra og húsi Jakobs syndir þeirra!2Þeir leita mín dag frá degi og girnast að þekkja mína vegu. Þeir heimta af mér réttláta dóma og girnast það, að Guð komi til, eins og væru þeir þjóð, sem iðkar réttlæti og eigi víkur frá skipunum Guðs síns.
3"Hví föstum vér, og þú sér það ekki? Hví þjáum vér oss, og þú skeytir því ekki?"
Sjá, daginn sem þér fastið fáist þér við störf yðar og þrælkið öll hjú yðar.
4Sjá, þér fastið til þess að vekja deilur og þrætur og til þess að ljósta með ósvífnum hnefa. En þér fastið eigi í dag til þess að láta rödd yðar heyrast upp í hæðirnar.
5Mun slíkt vera sú fasta, er mér líkar, sá dagur, er menn þjá sig? Að hengja niður höfuðið sem sef og breiða undir sig sekk og ösku, kallar þú slíkt föstu og dag velþóknunar fyrir Drottni?
6Nei, sú fasta, sem mér líkar, er að leysa fjötra rangsleitninnar, láta rakna bönd oksins, gefa frjálsa hina hrjáðu og sundurbrjóta sérhvert ok, 7það er, að þú miðlir hinum hungruðu af brauði þínu, hýsir bágstadda, hælislausa menn, og ef þú sér klæðlausan mann, að þú þá klæðir hann og firrist eigi þann, sem er hold þitt og blóð.
8Þá skal ljós þitt bruna fram sem morgunroði og sár þitt gróa bráðlega, þá mun réttlæti þitt fara fyrir þér, dýrð Drottins fylgja á eftir þér.
9Þá munt þú kalla á Drottin, og hann mun svara, þú munt hrópa á hjálp og hann segja: "Hér er ég!"
Ef þú hættir allri undirokun, hæðnisbendingum og illmælum, 10ef þú réttir hinum hungraða brauð þitt og seður þann, sem bágt á, þá mun ljós þitt renna upp í myrkrinu og niðdimman í kringum þig verða sem hábjartur dagur.
11Þá mun Drottinn stöðugt leiða þig og seðja þig, þótt þú sért staddur á vatnslausum stöðum, og styrkja bein þín, og þá munt þú verða sem vökvaður aldingarður og sem uppsprettulind, er aldrei þrýtur.
12Þá munu afkomendur þínir byggja upp hinar fornu borgarrústir, og þú munt reisa að nýju múrveggina, er legið hafa við velli marga mannsaldra, og þá munt þú nefndur verða múrskarða-fyllir, farbrauta-bætir.
13Ef þú varast að vanhelga hvíldardaginn, varast að gegna störfum þínum á helgum degi mínum, ef þú kallar hvíldardaginn feginsdag, hinn helga dag Drottins heiðursdag og virðir hann svo, að þú framkvæmir ekki fyrirætlanir þínar, annast ekki störf þín né talar hégómaorð, 14þá munt þú gleðjast yfir Drottni og þá mun ég láta þig fram bruna á hæðum landsins og láta þig njóta arfleifðar Jakobs föður þíns, því að munnur Drottins hefir talað það.
Misgjörð firrir fólkið Guði59
1Sjá, hönd Drottins er eigi svo stutt, að hann geti ekki hjálpað, og eyra hans er ekki svo þykkt, að hann heyri ekki. 2Það eru misgjörðir yðar, sem skilnað hafa gjört milli yðar og Guðs yðar, og syndir yðar, sem byrgt hafa auglit hans fyrir yður, svo að hann heyrir ekki.3Hendur yðar eru blóði ataðar og fingur yðar misgjörðum, varir yðar tala lygi og tunga yðar fer með illsku.
4Enginn stefnir fyrir dóm af því, að honum gangi réttlæti til, og enginn á í málaferlum sannleikans vegna. Menn reiða sig á hégóma og tala lygi, þeir ganga með ranglæti og ala illgjörðir. 5Þeir klekja út hornormseggjum og vefa köngulóarvefi. Hverjum sem etur af eggjum þeirra er dauðinn vís, og verði eitthvert þeirra troðið sundur, skríður úr því eiturormur.
6Vefnaður þeirra er ónýtur til klæða, og það sem þeir vinna verður eigi haft til skjóls: Athafnir þeirra eru illvirki, og ofbeldisverk liggja í lófum þeirra.
7Fætur þeirra eru skjótir til ills, og fljótir til að úthella saklausu blóði. Ráðagjörðir þeirra eru skaðræðisráðagjörðir, eyðing og tortíming er á vegum þeirra. 8Veg friðarins þekkja þeir ekki, og ekkert réttlæti er á þeirra stigum. Þeir hafa gjört vegu sína hlykkjótta, hver sá, er þá gengur, hefir ekki af friði að segja.
9Fyrir því er rétturinn fjarlægur oss og réttlætið kemur ekki nálægt oss. Vér væntum ljóss, en það er myrkur, væntum dagsbirtu, en göngum í niðdimmu.
10Vér þreifum fyrir oss, eins og blindir menn með vegg, fálmum eins og þeir, sem misst hafa sjónina. Oss verður fótaskortur um hábjartan daginn eins og í rökkri, í blóma lífsins erum vér sem dauðir menn.
11Vér rymjum allir sem birnir, kurrum eins og dúfur. Vér væntum réttar, en hann fæst ekki, væntum hjálpræðis, en það er langt í burtu frá oss.
12Afbrot vor eru mörg frammi fyrir þér og syndir vorar vitna í gegn oss, því að afbrot vor eru oss kunn og misgjörðir vorar þekkjum vér.
13Vér höfum horfið frá Drottni og afneitað honum og vikið burt frá Guði vorum. Vér höfum látið oss ofríki og fráhvarf um munn fara, vér höfum upphugsað og mælt fram af hjarta voru lygaorð.
14Og rétturinn er hrakinn á hæl, og réttlætið stendur langt í burtu, því að sannleikurinn hrasaði á strætunum og hreinskilnin kemst ekki að.
15Sannleikurinn er horfinn, og sá sem firrist það, sem illt er, verður öðrum að herfangi.
Og Drottinn sá það, og honum mislíkaði réttleysið. 16Og hann sá að þar var enginn, og hann undraðist, að enginn vildi í skerast. En þá hjálpaði honum armleggur hans, og réttlæti hans studdi hann.
17Hann íklæddist réttlætinu sem pansara og setti hjálm hjálpræðisins á höfuð sér. Hann klæddist klæðum hefndarinnar sem fati og hjúpaði sig vandlætinu eins og skikkju.
18Eins og menn hafa unnið til, svo mun hann gjalda: mótstöðumönnum sínum heift og óvinum sínum hefnd, fjarlægum landsálfum endurgeldur hann.
19Menn munu óttast nafn Drottins í frá niðurgöngu sólar og dýrð hans í frá upprás sólar. Já, hann brýst fram eins og á í gljúfrum, er andgustur Drottins knýr áfram. 20En til Síonar kemur hann sem frelsari, til þeirra í Jakob, sem snúið hafa sér frá syndum - segir Drottinn.
21Þessi er sáttmálinn, sem ég gjöri við þá - segir Drottinn:
Andi minn, sem er yfir þér, og orð mín, sem ég hefi lagt í munn þér, þau skulu ekki víkja frá munni þínum, né frá munni niðja þinna, né frá munni niðja niðja þinna, - segir Drottinn, - héðan í frá og að eilífu.
Dýrð Guðs rennur upp yfir hina helgu borg60
1Statt upp, skín þú, því að ljós þitt kemur og dýrð Drottins rennur upp yfir þér!2Sjá, myrkur grúfir yfir jörðinni og sorti yfir þjóðunum. En yfir þér upp rennur Drottinn, og dýrð hans birtist yfir þér.
3Þjóðirnar stefna á ljós þitt og konungar á ljómann, sem upp rennur yfir þér.
4Hef upp augu þín og litast um: Þeir safnast allir saman og koma til þín. Synir þínir koma af fjarlægum löndum, og dætur þínar eru bornar á mjöðminni. 5Við þá sýn muntu gleðjast, hjarta þitt mun titra og svella, því að auðlegð hafsins hverfur til þín og fjárafli þjóðanna kemur undir þig.
6Mergð úlfalda hylur þig, ungir úlfaldar frá Midían og Efa. Þeir koma allir frá Saba, gull og reykelsi færa þeir, og þeir kunngjöra lof Drottins.
7Allar hjarðir Kedars safnast til þín, hrútar Nebajóts þjóna þér: Þeir stíga upp á altari mitt mér til þóknunar, og hús dýrðar minnar gjöri ég dýrlegt.
8Hverjir eru þessir, sem koma fljúgandi eins og ský og sem dúfur til búra sinna? 9Mín bíða eylöndin, og Tarsis-knerrir fara fremstir til þess að flytja sonu þína heim af fjarlægum löndum, og þeir hafa með sér silfur sitt og gull sitt - vegna nafns Drottins Guðs þíns og vegna Hins heilaga í Ísrael, af því að hann hefir gjört þig vegsamlega.
10Útlendir menn munu hlaða upp múra þína og konungar þeirra þjóna þér, því að í reiði minni sló ég þig, en af náð minni miskunna ég þér.
11Hlið þín munu ávallt opin standa, þeim er hvorki lokað dag né nótt, til þess að menn geti fært þér fjárafla þjóðanna og konunga þeirra sem bandingja. 12Því að hver sú þjóð og hvert það konungsríki, sem eigi vill lúta þér, skal undir lok líða, og þær þjóðir munu gjöreyddar verða.
13Prýði Líbanons mun til þín koma: kýpresviður, álmviður og sortulyngsviður, hver með öðrum til þess að prýða helgan stað minn og gjöra vegsamlegan stað fóta minna. 14Og synir þeirra, sem kúguðu þig, munu koma til þín niðurlútir, og allir þeir, sem smánuðu þig, munu fleygja sér flötum fyrir fætur þér. Þeir munu kalla þig borg Drottins, Síon Hins heilaga í Ísrael.
15Í stað þess, að þú áður varst yfirgefin, hötuð og enginn fór um hjá þér, gjöri ég þig að eilífri vegsemd, að fögnuði margra kynslóða. 16Og þú munt drekka mjólk þjóðanna og sjúga brjóst konunganna, og þá skalt þú reyna það, að ég, Drottinn, er frelsari þinn, og Jakobs voldugi Guð, lausnari þinn.
17Ég mun færa þér gull í stað eirs og silfur í stað járns, eir í stað trjáviðar og járn í stað grjóts. Ég gjöri friðinn að valdstjórn þinni og réttlætið að valdsmanni þínum.
18Eigi skal framar heyrast getið um ofríki í landi þínu, né um tjón og tortíming innan landamerkja þinna. Þú skalt kalla Hjálpræði múra þína og Sigurfrægð hlið þín.
19Þú skalt ekki framar hafa sólina til að lýsa þér um daga, og tunglið skal ekki skína til að gefa þér birtu, heldur skal Drottinn vera þér eilíft ljós og Guð þinn vera þér geislandi röðull.
20Þá mun sól þín ekki framar ganga undir og tungl þitt ekki minnka, því að Drottinn mun vera þér eilíft ljós og hörmungardagar þínir skulu þá vera á enda.
21Og lýður þinn - þeir eru allir réttlátir, þeir munu eiga landið eilíflega: þeir eru kvisturinn, sem ég hefi gróðursett, verk handa minna, er ég gjöri mig vegsamlegan með.
22Hinn minnsti skal verða að þúsund og hinn lítilmótlegasti að voldugri þjóð. Ég, Drottinn, mun hraða því, þegar að því kemur.
Gleðiboðskapur Messíasar61
1Andi Drottins er yfir mér, af því að Drottinn hefir smurt mig. Hann hefir sent mig til að flytja nauðstöddum gleðilegan boðskap og til að græða þá, sem hafa sundurmarið hjarta, til að boða herteknum frelsi og fjötruðum lausn, 2til að boða náðarár Drottins og hefndardag Guðs vors, til að hugga alla hrellda, 3til að láta hinum hrelldu í Síon í té, - gefa þeim höfuðdjásn í stað ösku, fagnaðarolíu í stað hryggðar, skartklæði í stað hugarvíls.Þeir munu kallaðir verða réttlætis-eikur, plantan Drottins honum til vegsemdar.
4Þeir munu byggja upp hinar fornu rústir, reisa að nýju tóttir fyrri tíða, koma upp aftur eyddum borgum, sem legið hafa við velli í marga mannsaldra.
5Útlendingar munu standa yfir hjörðum yðar og halda þeim til haga, og aðkomnir menn vera akurmenn og víngarðsmenn hjá yður, 6en sjálfir munuð þér kallaðir verða prestar Drottins og nefndir verða þjónar Guðs vors. Þér munuð njóta fjárafla þjóðanna og stæra yður af auðlegð þeirra.
7Fyrir þá smán, er þér þolduð, skuluð þér fá tvöfalt. Í stað háðungar skulu þeir fagna yfir hlutskipti sínu. Fyrir því skulu þeir eignast tvöföld óðul í landi sínu, og eilíf gleði skal falla þeim í skaut.
8Því að ég, Drottinn, elska réttlæti, en hata glæpsamlegt rán. Ég geld þeim laun þeirra með trúfesti og gjöri við þá eilífan sáttmála.
9Niðjar þeirra munu kunnir verða meðal þjóðanna og afsprengi þeirra á meðal þjóðflokkanna. Allir sem sjá þá, munu kannast við, að þeir eru sú kynslóð, sem Drottinn hefir blessað.
10Ég gleðst yfir Drottni, sál mín fagnar yfir Guði mínum, því að hann hefir klætt mig klæðum hjálpræðisins, hann hefir sveipað mig í skikkju réttlætisins, eins og þegar brúðgumi lætur á sig höfuðdjásn og brúður býr sig skarti sínu.
11Því eins og jörðin lætur gróður sinn koma upp og eins og aldingarðurinn lætur frækornin upp spretta, svo mun hinn alvaldi Drottinn láta réttlæti og frægð upp spretta í augsýn allra þjóða.
,Sjá, hjálpræði þitt kemur'62
1Sökum Síonar get ég ekki þagað, og sökum Jerúsalem get ég ekki kyrr verið, uns réttlæti hennar rennur upp sem ljómi og hjálpræði hennar sem brennandi blys. 2Þá skulu þjóðirnar sjá réttlæti þitt og allir konungar vegsemd þína, og þú munt nefnd verða nýju nafni, er munnur Drottins mun ákveða.3Þú munt verða prýðileg kóróna í hendi Drottins og konunglegt höfuðdjásn í hendi Guðs þíns. 4Þú munt ekki framar nefnd verða Yfirgefin, og land þitt ekki framar nefnt verða Auðn, heldur skalt þú kölluð verða Yndið mitt, og land þitt Eiginkona, því að Drottinn ann þér og land þitt mun manni gefið verða.
5Eins og ungur maður fær meyjar, eins munu synir þínir eignast þig, og eins og brúðgumi gleðst yfir brúði, eins mun Guð þinn gleðjast yfir þér.
6Ég hefi skipað varðmenn yfir múra þína, Jerúsalem. Þeir skulu aldrei þegja, hvorki um daga né nætur.
Þér sem minnið Drottin á, unnið yður engrar hvíldar! 7Ljáið honum engrar hvíldar, uns hann reisir Jerúsalem og gjörir hana vegsamlega á jörðinni.
8Drottinn hefir svarið við hægri hönd sína og við sinn máttuga armlegg: "Ég mun aldrei framar gefa óvinum þínum korn þitt að eta, og eigi skulu útlendir menn drekka aldinlög þinn, sem þú hefir erfiði fyrir haft, 9heldur skulu þeir, sem hirt hafa kornið, eta það sjálfir og lofa Drottin fyrir, og þeir, sem safnað hafa aldinleginum, skulu drekka hann í forgörðum helgidóms míns."
10Gangið út, gangið út um borgarhliðin! Greiðið götu lýðsins! Leggið, leggið braut! Ryðjið burt grjótinu! Reisið merki fyrir þjóðirnar!
11Sjá, Drottinn gjörir það kunnugt til endimarka jarðarinnar: Segið dótturinni Síon: "Sjá, hjálpræði þitt kemur! Sjá, endurgjald hans fylgir honum, og fengur hans fer á undan honum!"
12Og þeir munu kallaðir verða hinn heilagi lýður, hinir endurleystu Drottins, og þú munt kölluð verða hin fjölsótta, borgin, sem eigi var yfirgefin.
Ljóð um hefnandann63
1Hver er þessi, sem kemur frá Edóm, í hárauðum klæðum frá Bosra? Þessi hinn tigulega búni, sem gengur fram hnarreistur í mikilleik máttar síns?- Það er ég, sá er mæli réttlæti og mátt hefi til að frelsa.
2Hví er rauð skikkja þín, og klæði þín eins og þess, er treður ber í vínþröng?
3- Vínlagarþró hefi ég troðið, aleinn, af þjóðunum hjálpaði mér enginn. Ég fótum tróð þá í reiði minni, marði þá sundur í heift minni. Þá hraut lögur þeirra á klæði mín, og skikkju mína ataði ég alla.
4Hefndardagur var mér í hug, og lausnarár mitt er komið.
5Ég litaðist um, en enginn var til að hjálpa, mig undraði, að enginn skyldi aðstoða mig. En þá hjálpaði mér armleggur minn, og heift mín aðstoðaði mig.
6Ég tróð þjóðirnar í reiði minni og marði þær sundur í heift minni og lét löginn úr þeim renna á jörðina.
Angurljóð7Ég vil víðfrægja hinar mildilegu velgjörðir Drottins, syngja honum lof fyrir allt það, sem hann hefir við oss gjört, og hina miklu gæsku hans við Ísraels hús, er hann hefir auðsýnt þeim af miskunn sinni og mikilli mildi.
8Hann sagði: "Vissulega eru þeir minn lýður, börn, sem ekki munu bregðast!" Og hann varð þeim frelsari.
9Ávallt þegar þeir voru í nauðum staddir, kenndi hann nauða, og engill auglitis hans frelsaði þá. Af elsku sinni og vægðarsemi endurleysti hann þá, hann tók þá upp og bar þá alla daga hinna fyrri tíða.
10En þeir gjörðust mótsnúnir og hryggðu heilagan anda hans. Gjörðist hann þá óvinur þeirra og barðist sjálfur í móti þeim.
11Þá minntist lýður hans hinna fyrri tíða, þá er Móse var á dögum:
Hvar er hann, sem leiddi þá upp úr hafinu ásamt hirði hjarðar sinnar? Hvar er hann, sem lét heilagan anda sinn búa mitt á meðal þeirra? 12Hann sem lét dýrðarsamlegan armlegg sinn ganga Móse til hægri handar, hann sem klauf vötnin fyrir þeim til þess að afreka sér eilíft nafn, 13hann sem lét þá ganga um djúpin, eins og hestur gengur um eyðimörk, og þeir hrösuðu ekki?
14Eins og búféð, sem fer ofan í dalinn, færði andi Drottins þá til hvíldar. Þannig hefir þú leitt lýð þinn til þess að afreka þér dýrðarsamlegt nafn.
15Horf þú af himni ofan og lít niður frá hinum heilaga og dýrðarsamlega bústað þínum!
Hvar er nú vandlæti þitt og máttarverk þín? Þín viðkvæma elska og miskunnsemi við mig hefir dregið sig í hlé!
16Sannlega ert þú faðir vor, því að Abraham þekkir oss ekki og Ísrael kannast ekki við oss. Þú, Drottinn, ert faðir vor, "Frelsari vor frá alda öðli" er nafn þitt.
17Hví lést þú oss, Drottinn, villast af vegum þínum, hví lést þú hjarta vort forherða sig, svo að það óttaðist þig ekki? Hverf aftur fyrir sakir þjóna þinna, fyrir sakir ættkvísla arfleifðar þinnar!
18Um skamma stund fékk fólk þitt hið heilaga fjall þitt til eignar, en nú hafa óvinir vorir fótum troðið helgidóm þinn.
19Vér erum orðnir sem þeir, er þú um langan aldur hefir ekki drottnað yfir, og eins og þeir, er aldrei hafa nefndir verið eftir nafni þínu.
64
1Ó, að þú sundurrifir himininn og færir ofan, svo að fjöllin nötruðu fyrir augliti þínu - eins og þegar eldur kveikir í þurru limi eða þegar eldur kemur vatni til að vella, - til þess að gjöra óvinum þínum kunnugt nafn þitt, svo að þjóðirnar mættu skjálfa fyrir augliti þínu, 2er þú framkvæmdir hræðilega hluti, sem vér gátum eigi vænst eftir.Þú fórst ofan, fjöllin nötruðu fyrir augliti þínu.
3Frá alda öðli hefir enginn haft spurn af eða heyrt, né auga séð nokkurn Guð nema þig, þann er gjöri slíkt fyrir þá, er á hann vona.
4Þú kemur í móti þeim er gjöra með gleði það, sem rétt er, þeim er minnast þín á vegum þínum.
Sjá, þú reiddist, og vér urðum brotlegir, - yfir tryggðrofi voru, og vér urðum sakfallnir.
5Vér urðum allir sem óhreinn maður, allar dyggðir vorar sem saurgað klæði. Vér visnuðum allir sem laufblað, og misgjörðir vorar feyktu oss burt eins og vindur.
6Enginn ákallar nafn þitt, enginn herðir sig upp til þess að halda fast við þig, því að þú hefir byrgt auglit þitt fyrir oss og gefið oss á vald misgjörðum vorum.
7En nú, Drottinn! Þú ert faðir vor! Vér erum leirinn, og þú ert sá, er myndar oss, og handaverk þín erum vér allir!
8Reiðst eigi, Drottinn, svo stórlega, og minnstu eigi misgjörða vorra eilíflega. Æ, lít þú á: Vér erum allir þitt fólk.
9Þínar heilögu borgir eru orðnar að eyðimörk. Síon er orðin að eyðimörk, Jerúsalem komin í auðn.
10Hið heilaga og veglega musteri vort, þar sem feður vorir vegsömuðu þig, er brunnið upp til kaldra kola, og allt það, sem oss var dýrmætt, er orðið að rústum.
11Hvort fær þú, Drottinn, leitt slíkt hjá þér? Getur þú þagað og þjáð oss svo stórlega?
Dómur og náð65
1Ég var fús að veita þeim áheyrn, sem eigi spurðu eftir mér, ég gaf þeim kost á að finna mig, sem eigi leituðu mín. Ég sagði: "Hér er ég, hér er ég," við þá þjóð, er eigi ákallaði nafn mitt.2Ég hefi rétt út hendur mínar allan daginn í móti þrjóskum lýð, í móti þeim, sem ganga á illum vegum, eftir eigin hugþótta sínum, 3í móti fólki, sem reitir mig stöðuglega til reiði upp í opin augun, sem fórnar í lundunum og brennir reykelsi á tigulsteinunum, 4sem lætur fyrirberast í gröfunum og er um nætur í hellunum, etur svínakjöt og hefir viðbjóðslega súpu í ílátum sínum, 5sem segir: "Far þú burt, kom ekki nærri mér, ég er þér heilagur!" - Slíkir menn eru reykur í nösum mér, eldur, sem brennur liðlangan daginn.
6Sjá, það stendur skrifað frammi fyrir mér: Ég mun ekki þagna fyrr en ég hefi goldið, já, ég mun gjalda þeim í skaut, 7bæði fyrir misgjörðir þeirra og fyrir misgjörðir feðra þeirra - segir Drottinn. Þeir brenndu reykelsi á fjöllunum og smánuðu mig á hæðunum! Ég vil mæla þeim í skaut laun þeirra.
8Svo segir Drottinn:
Eins og menn segja, þegar lögur finnst í vínberi: "Ónýt það eigi, því að blessun er í því!" eins vil ég gjöra fyrir sakir þjóna minna, svo að ég tortími þeim ekki öllum.
9Ég vil láta afsprengi æxlast út af Jakob og út af Júda erfingja að fjöllum mínum. Mínir útvöldu skulu erfa þau og þjónar mínir búa þar.
10Saron skal verða að beitilandi fyrir hjarðir og Akordalur að nautastöðli fyrir þá af þjóð minni, sem leita mín.
11En þér, sem yfirgefið Drottin, sem gleymið mínu heilaga fjalli, sem setjið borð fyrir heilladísina og hellið á kryddvíni fyrir örlaganornina, 12yður ætla ég undir sverðið, og allir skuluð þér leggjast niður til slátrunar, af því að þér gegnduð ekki, þegar ég kallaði, og heyrðuð ekki, þegar ég talaði, heldur aðhöfðust það, sem illt var í mínum augum, og höfðuð mætur á því, sem mér mislíkaði.
13Fyrir því segir hinn alvaldi Drottinn svo:
Sjá, þjónar mínir munu eta, en yður mun hungra, sjá, þjónar mínir munu drekka, en yður mun þyrsta, sjá, þjónar mínir munu gleðjast, en þér munuð glúpna, 14sjá, þjónar mínir munu fagna af hjartans gleði, en þér munuð kveina af hjartasorg og æpa af hugarkvöl. 15Og þér munuð leifa mínum útvöldu nafn yðar sem formæling, en hinn alvaldi Drottinn mun deyða yður. En sína þjóna mun hann nefna öðru nafni.
16Hver sá er óskar sér blessunar í landinu, hann óski sér blessunar í nafni hins trúfasta Guðs, og hver sem eið vinnur í landinu, hann vinni eið við hinn trúfasta Guð, af því að hinar fyrri þrautir eru þá gleymdar og af því að þær eru huldar fyrir augum mínum.
Hin nýja Jerúsalem17Sjá, ég skapa nýjan himin og nýja jörð, og hins fyrra skal ekki minnst verða, og það skal engum í hug koma.
18Gleðjist og fagnið ævinlega yfir því, sem ég skapa, því sjá, ég gjöri Jerúsalem að fögnuði og fólkið í henni að gleði.
19Ég vil fagna yfir Jerúsalem og gleðjast yfir fólki mínu, og eigi skal framar heyrast þar gráthljóð eða kveinstafir.
20Eigi skal þar framar vera nokkurt ungbarn, er aðeins lifi fáa daga, né nokkurt gamalmenni, sem ekki nái fullum aldri, því að sá er þar ungur maður, sem deyr tíræður, og sá sem ekki nær tíræðisaldri skal álítast einskis verður.
21Þeir munu reisa hús og búa í þeim, og þeir munu planta víngarða og eta ávöxtu þeirra. 22Eigi munu þeir reisa og aðrir í búa, eigi munu þeir planta og aðrir eta, því að aldur fólks míns mun vera sem aldur trjánna, og mínir útvöldu skulu sjálfir njóta handaverka sinna.
23Eigi munu þeir erfiða til ónýtis og eigi börn geta til skammlífis, því að þeir eru kynslóð manna, er Drottinn hefir blessað, og niðjar þeirra verða hjá þeim.
24Áður en þeir kalla, mun ég svara, og áður en þeir hafa orðinu sleppt, mun ég bænheyra.
25Úlfur og lamb munu vera saman á beit, og ljónið mun hey eta sem naut, en moldin skal vera fæða höggormsins.
Hvergi á mínu heilaga fjalli munu menn illt fremja eða skaða gjöra - segir Drottinn.
Hásæti Guðs er á himnum66
1Svo segir Drottinn:Himinninn er hásæti mitt og jörðin er fótskör mín. Hvaða hús munuð þér geta reist mér, og hvar er sá staður, sem verið geti bústaður minn?
2Hönd mín hefir gjört allt þetta og þannig er það allt til orðið - segir Drottinn.
Þeir sem ég lít til, eru hinir þjáðu og þeir er hafa sundurmarinn anda og skjálfa fyrir orði mínu.
3Sá sem slátrar uxa, er ekki mætari en manndrápari, sá sem fórnar sauð, er ekki mætari en sá sem hengir hund, sá sem færir fórnargjöf, ekki mætari en sá sem ber fram svínablóð, sá sem brennir reykelsi, ekki mætari en sá sem blessar skurðgoð.
Eins og þeir hafa valið sína vegu og eins og sál þeirra hefir mætur á hinum viðurstyggilegu goðum þeirra, 4eins mun ég láta mér vel líka að hrjá þá og láta yfir þá koma það, er þeir hræðast. Því að enginn gegndi, þegar ég kallaði, og þeir heyrðu ekki, þegar ég talaði, heldur aðhöfðust það, sem illt var í mínum augum, og höfðu mætur á því, sem mér mislíkaði.
Tvær andstæðar fylkingar5Heyrið orð Drottins, þér sem skjálfið fyrir orði hans!
Bræður yðar, er hata yður og reka yður burt frá sér fyrir sakir nafns míns, þeir segja:
"Gjöri Drottinn sig dýrlegan, svo að vér megum sjá gleði yðar!"
En þeir skulu til skammar verða.
Gleði Jórsala og hinsti dómur6Heyr gnýinn frá borginni, heyr óminn frá musterinu! Heyr, Drottinn geldur óvinum sínum fyrir tilverknað þeirra!
7Hún fæðir, áður en hún kennir sín, hún er orðin léttari að sveinbarni, áður en hún tekur jóðsóttina.
8Hver hefir heyrt slíkt? Hver hefir séð slíka hluti? Er nokkurt land í heiminn borið á einum degi, eða fæðist nokkur þjóð allt í einu? Því að óðara en Síon hefir kennt sóttar, hefir hún alið börn sín.
9Skyldi ég láta barnið komast í burðarliðinn og ekki láta það fæðast? - segir Drottinn. Eða skyldi ég, sem læt barnið fæðast, loka móðurkviðnum? - segir Guð þinn.
10Gleðjist með Jerúsalem og fagnið yfir henni, allir þér sem elskið hana!
Kætist með henni, allir þér sem nú hryggist yfir henni, 11svo að þér megið sjúga og saddir verða við hugsvalandi brjóst hennar, svo að þér megið teyga og gæða yður við dýrðargnótt hennar.
12Því að svo segir Drottinn:
Sjá, ég veiti velsæld til hennar eins og fljóti, og auðæfum þjóðanna eins og bakkafullum læk.
Þér skuluð liggja á brjóstum hennar og skuluð bornir verða á mjöðminni og yður skal hossað verða á hnjánum.
13Eins og móðir huggar son sinn, eins mun ég hugga yður. Í Jerúsalem skuluð þér huggaðir verða.
14Þér munuð sjá það, og hjarta yðar mun fagna og bein yðar blómgast sem grængresi.
Hönd Drottins mun kunn verða á þjónum hans, og hann mun láta óvini sína kenna á reiði sinni.
15Því sjá, Drottinn kemur í eldi, og vagnar hans eru sem vindbylur, til þess að gjalda reiði sína í heift og hótun sína í eldslogum.
16Því að Drottinn mun dóm heyja með eldi, og með sverði sínu yfir öllu holdi, og þeir munu margir verða, er Drottinn fellir.
17Þeir sem helga sig og hreinsa sig til þess að fara inn í fórnarlundana, bak við einhvern, sem fyrir miðju er, sem eta svínakjöt, viðurstyggileg skriðdýr og mýs - þeir skulu allir undir lok líða - segir Drottinn.
18En ég þekki athafnir þeirra og hugsanir.
Dómur efsta dagsSá tími kemur, að ég mun saman safna öllum þjóðum og tungum, og þær skulu koma og sjá mína dýrð. 19Og ég mun gjöra tákn á þeim og senda flóttamenn frá þeim til þjóðanna, til Tarsis, Pút og Lúd, sem benda boga, til Túbal og Javan, til hinna fjarlægu eylanda, sem ekki hafa neina fregn af mér og ekki hafa séð dýrð mína, og þeir skulu kunngjöra dýrð mína meðal þjóðanna.
20Þeir munu flytja alla bræður yðar heim frá öllum þjóðum sem fórnargjöf Drottni til handa, á hestum og á vögnum, í burðarstólum, á múlum og úlföldum, til míns heilaga fjalls, til Jerúsalem - segir Drottinn - eins og þegar Ísraelsmenn færa fórnargjafir í hreinum kerum til húss Drottins.
21Og af þeim mun ég einnig taka presta og levíta - segir Drottinn.
22Já, eins og hinn nýi himinn og hin nýja jörð, sem ég skapa, munu standa stöðug fyrir mínu augliti - segir Drottinn - eins mun afsprengi yðar og nafn standa stöðugt.
23Og á mánuði hverjum, tunglkomudaginn, og á viku hverri, hvíldardaginn, skal allt hold koma til þess að falla fram fyrir mér - segir Drottinn.
24Þeir munu ganga út og sjá hræ þeirra manna, er rofið hafa trú við mig. Því að ormur þeirra mun ekki deyja og eldur þeirra ekki slokkna, og þeir munu viðurstyggð vera öllu holdi.
Netútgáfan og Hið Íslenska Biblíufélag - ágúst 1997