JEREMÍA

Ræður frá tímum Jósía konungs


1
1Ræður Jeremía Hilkíasonar, er var einn af prestunum í Anatót í Benjamínslandi, 2en til hans kom orð Drottins á dögum Jósía Amónssonar, konungs í Júda, á þrettánda ríkisári hans. 3Og það kom enn fremur á dögum Jójakíms Jósíasonar, konungs í Júda, allt til ársloka hins ellefta árs Sedekía Jósíasonar, konungs í Júda, allt til herleiðingar Jerúsalembúa í fimmta mánuðinum.


Köllun spámannsins

4Orð Drottins kom til mín:

5Áður en ég myndaði þig í móðurlífi, útvaldi ég þig, og áður en þú komst af móðurkviði, helgaði ég þig. Ég hefi ákvarðað þig til að vera spámann þjóðanna!

6Þá sagði ég:

Æ, herra Drottinn! Sjá, ég kann ekki að tala, því að ég er enn svo ungur.

7En Drottinn sagði við mig:

Seg ekki: "Ég er enn svo ungur!" heldur skalt þú fara til allra, sem ég sendi þig til, og tala allt það, er ég býð þér. 8Þú skalt ekki óttast þá, því að ég er með þér til þess að frelsa þig! - segir Drottinn.

9Því næst rétti Drottinn út hönd sína og snart munn minn.

Og Drottinn sagði við mig:

Sjá, ég legg orð mín þér í munn. 10Sjá þú, ég set þig í dag yfir þjóðirnar og yfir konungsríkin til þess að uppræta og umturna, eyða og rífa niður, byggja og gróðursetja!


Tvær sýnir

11Orð Drottins kom til mín:

Hvað sér þú, Jeremía?

Ég svaraði:

Ég sé möndluviðargrein.

12En Drottinn sagði við mig:

Þú hefir séð rétt, því að ég vaki yfir orði mínu til þess að framkvæma það.

13Þá kom orð Drottins til mín annað sinn:

Hvað sér þú?

Ég svaraði:

Ég sé sjóðandi pott, og snýr hann framhliðinni að oss úr norðri.

14Þá sagði Drottinn við mig:

Úr norðri mun ógæfan koma sjóðandi yfir alla íbúa landsins. 15Því sjá, ég kalla allar ættkvíslir ríkjanna í norðri - Drottinn segir það -, til þess að þeir komi og reisi hver og einn upp hásæti sitt úti fyrir hliðum Jerúsalem og gegn öllum múrum hennar hringinn í kring og gegn öllum borgum í Júda.

16Og ég mun kveða upp dóma mína yfir þeim, vegna allrar illsku þeirra, að þeir hafa yfirgefið mig og fært öðrum guðum reykelsisfórnir og fallið fram fyrir handaverkum sínum.

17En gyrð þú lendar þínar, statt upp og tala til þeirra allt, sem ég býð þér. Vertu ekki hræddur við þá, til þess að ég gjöri þig ekki hræddan frammi fyrir þeim. 18Sjá, ég gjöri þig í dag að rammbyggðri borg og að járnsúlu og að eirveggjum gegn öllu landinu, gegn Júdakonungunum, gegn höfðingjum þess, gegn prestum þess og gegn öllum landslýðnum, 19og þótt þeir berjist gegn þér, þá munu þeir eigi fá yfirstigið þig, því að ég er með þér til þess að frelsa þig - Drottinn segir það.



Ádeiluræður gegn Júda og Jerúsalem

(2.-25. kapítuli)


Hryggð Guðs vegna fráfalls lýðsins

2
1Orð Drottins kom til mín: 2Far og kunngjör Jerúsalem þetta: Svo segir Drottinn:

Ég man eftir kærleika æsku þinnar, elsku festartíma þíns, hversu þú fylgdir mér í eyðimörkinni, í ófrjóu landi. 3Ísrael var helgaður Drottni, frumgróði uppskeru hans, allir þeir, sem vildu eta hann, urðu sekir, ógæfa kom yfir þá - segir Drottinn.

4Heyrið orð Drottins, Jakobs hús og allar þér ættkvíslir Ísraels húss! 5Svo segir Drottinn:

Hver rangindi hafa feður yðar fundið hjá mér, að þeir hurfu frá mér og eltu fánýt goð og breyttu heimskulega, 6og sögðu ekki: "Hvar er Drottinn, sem flutti oss burt af Egyptalandi, sem leiddi oss um eyðimörkina, um heiða- og gjótulandið, um þurra og niðdimma landið, um landið, sem enginn fer um og enginn maður býr í?"

7Ég leiddi yður inn í aldingarðslandið, til þess að þér nytuð ávaxta þess og gæða, en þegar þér voruð komnir þangað, saurguðuð þér land mitt og gjörðuð óðal mitt að viðurstyggð. 8Prestarnir sögðu ekki: "Hvar er Drottinn?" og þeir, er við lögmálið fengust, þekktu mig ekki. Hirðarnir rufu trúnað við mig, og spámennirnir spáðu í nafni Baals og eltu þá, sem ekki geta hjálpað.

9Fyrir því mun ég enn þreyta mál við yður - segir Drottinn - og við sonasonu yðar mun ég þreyta mál:

10Farið yfir til stranda Kitta og gangið úr skugga um, og sendið til Kedars og hyggið vandlega að. Gangið úr skugga um, hvort slíkt hafi nokkurn tíma við borið! 11hvort nokkur þjóð hafi skipt um guð - og það þótt þeir væru ekki guðir! En mín þjóð hefir látið vegsemd sína fyrir það, sem ekki getur hjálpað.

12Furðið yður, himnar, á þessu og skelfist og verið agndofa - segir Drottinn. 13Því að tvennt illt hefir þjóð mín aðhafst: Þeir hafa yfirgefið mig, uppsprettu hins lifandi vatns, til þess að grafa sér brunna, brunna með sprungum, sem ekki halda vatni.

14Er Ísrael þræll, eða er hann heimafætt þý? Hví er hann orðinn að herfangi? 15Ljón grenjuðu móti honum, hófu upp öskur sitt og gjörðu land hans að auðn. Borgir hans voru brenndar, urðu mannauðar. 16Nóf-menn og Takpanes-menn reyttu á þér skallann.

17Hefir þú ekki bakað þér þetta með því að yfirgefa Drottin, Guð þinn, þá er hann leiddi þig á veginum?

18Og nú, hvað þarft þú að fara til Egyptalands? Til þess að drekka vatn úr Níl? Og hvað þarft þú að fara til Assýríu? Til þess að drekka vatn úr Efrat? 19Vonska þín mun aga þig og fráhvarf þitt refsa þér. Þú skalt fá að kenna á því og reyna það, hve illt og beiskt það er, að þú yfirgafst Drottin, Guð þinn. Þú hafðir ekki ótta fyrir mér - segir herrann, Drottinn allsherjar.

20Fyrir löngu hefir þú sundurbrotið ok þitt, slitið böndin og sagt: "Ég vil ekki þjóna!" Því að á hverjum háum hól og undir hverju grænu tré lagðist þú niður og hóraðist. 21En ég hafði gróðursett þig sem gæðavínvið, eintómt úrvalssæði, hvernig gastu breytst fyrir mér í villivínviðarteinunga.

22Já, þótt þú þvægir þér með lút og brúkaðir mikla sápu á þig, þá verður samt misgjörð þín óhrein fyrir mér - herrann Drottinn segir það.

23Hvernig getur þú sagt: "Ég hefi ekki saurgað mig, ég hefi ekki elt Baalana"? Hygg að athæfi þínu í dalnum, sjá, hvað þú hefir gjört, léttfætta úlfaldahryssa, sem hleypur til og frá.

24Eins og villiasna, sem vön er eyðimörkinni, stendur hún á öndinni í girndarbruna sínum, - hver fær aftrað losta hennar? Þeir sem hennar leita, þurfa engir að þreyta sig, þeir finna hana í mánuði hennar.

25Varðveit þú fót þinn, svo að skórinn fari ekki af honum, og háls þinn, svo að hann verði ekki þurr! En þú segir: "Það er til einskis! Nei! Ég elska hina útlendu og þá vil ég elta!"

26Eins og þjófurinn má skammast sín, þegar hann er staðinn að verkinu, svo má Ísraels hús skammast sín: Þeir, konungar þeirra, höfðingjar þeirra, prestar þeirra og spámenn þeirra, 27segja við trédrumb: "Þú ert faðir minn!" og við stein: "Þú hefir fætt mig!"

Þeir hafa snúið við mér bakinu, en ekki andlitinu, en þegar þeir eru í nauðum staddir, þá hrópa þeir: "Rís upp og hjálpa oss!" 28En hvar eru guðir þínir, sem þú hefir gjört þér? Þeir verða að rísa upp, ef þeir geta hjálpað þér, þegar þú ert í nauðum staddur! Því að guðir þínir, Júda, eru orðnir eins margir og borgir þínar.

29Hví þráttið þér við mig? Þér hafið allir rofið trúnað við mig - segir Drottinn.

30Til einskis hefi ég slegið sonu yðar, aga þýddust þér ekki, sverð yðar tortímdi spámönnum yðar, eins og eyðandi ljón.

31Þú kynslóð, gef gaum orði Drottins! Hefi ég verið eyðimörk fyrir Ísrael eða niðdimmt land? Hví segir þá þjóð mín: "Vér erum lausir, vér munum ekki koma aftur til þín!"

32Mun mær gleyma skarti sínu, brúður belti sínu? Og þó hefir þjóð mín gleymt mér afar langan tíma.

33Hversu haganlega fer þú að ráði þínu, til þess að leita þér ástar! Til þess hefir þú jafnvel vanið þig á glæpa-atferli. 34Jafnvel á faldi klæða þinna sést blóð saklausra aumingja. Þú stóðst þá eigi að innbroti. 35Þrátt fyrir allt þetta segir þú: "Ég er saklaus, vissulega hefir reiði hans snúist frá mér." Sjá, nú dreg ég þig fyrir dóm, af því að þú segir: "Ég hefi ekki syndgað."

36Hví flýtir þú þér svo mjög burt til þess að halda aðra leið? Vonir þínar um Egyptaland munu og bregðast, eins og vonir þínar um Assýríu brugðust. 37Einnig þaðan munt þú koma, sláandi höndum saman yfir höfði þér, því að Drottinn hefir hafnað þeim, er þú treystir á, og þér mun ekkert lánast með þá.


Afturhvarf lýðsins

3
1Þegar maður rekur frá sér konu sína, og hún fer frá honum og giftist öðrum manni, getur hann þá horfið til hennar aftur? Mundi landið ekki vanhelgast af því? En þú hefir drýgt hór með mörgum friðlum og ættir þó að snúa aftur til mín! - segir Drottinn.

2Renn augum þínum upp á skóglausu hæðirnar og gæt að: Hvar hefir þú eigi hórast? Við vegina situr þú um friðla eins og Arabi í eyðimörkinni og vanhelgar landið með lauslæti þínu og vonsku þinni. 3Og þótt skúrunum væri haldið aftur og ekkert vorregn kæmi, þá varst þú með hórusvip, þú vildir ekki skammast þín.

4En nú kallar þú til mín: "Faðir minn! Þú ert unnusti æsku minnar!" 5Þú hugsar: "Mun hann verða reiður eilíflega, alltaf erfa það?" Sjá, þannig talar þú, en fremur illt og getur fengið það af þér.

6Drottinn sagði við mig á dögum Jósía konungs:

Hefir þú séð, hvað hin fráhverfa Ísrael hefir aðhafst? Hún fór upp á hverja háa hæð og inn undir hvert grænt tré og hóraðist þar. 7Ég hugsaði raunar: Eftir að hún hefir aðhafst allt þetta, mun hún snúa aftur til mín. En hún sneri ekki aftur.

Það sá hin ótrúa systir hennar, Júda, 8og þótt hún sæi, að einmitt vegna þess, að hin fráhverfa Ísrael hafði drýgt hór, hafði ég rekið hana burt og gefið henni skilnaðarskrá, þá óttaðist ekki hin ótrúa systir hennar, Júda, heldur fór og drýgði líka hór, 9og með hinu léttúðarfulla lauslæti sínu vanhelgaði hún landið og drýgði hór með steini og trédrumbi. 10En þrátt fyrir allt þetta hefir hin ótrúa systir hennar, Júda, eigi snúið sér til mín af öllu hjarta, heldur með hræsni - segir Drottinn.

11Drottinn sagði við mig:

Hin fráhverfa Ísrael er saklaus í samanburði við hina ótrúu Júda.

12Far þú og kalla þessi orð í norðurátt og seg: Hverf aftur, þú hin fráhverfa Ísrael - segir Drottinn -, ég vil ekki lengur líta reiðulega til þín, því að ég er miskunnsamur - segir Drottinn -, ég er ekki eilíflega reiður.

13Kannastu aðeins við ávirðing þína, að þú hefir rofið trúnað við Drottin, Guð þinn, og hlaupið ýmsar leiðir til þess að gefa þig á vald útlendum guðum undir hverju grænu tré, en minni raust hafið þér ekki hlýtt - segir Drottinn.

14Hverfið aftur, þér fráhorfnu synir - segir Drottinn -, því að ég er herra yðar. Og ég vil taka yður, einn úr hverri borg og tvo af hverjum kynstofni, og flytja yður til Síonar, 15og ég vil gefa yður hirða eftir mínu hjarta, og þeir munu gæta yðar með greind og hyggindum.

16Á þeim dögum, þegar yður fjölgar og þér verðið frjósamir í landinu - segir Drottinn -, þá munu menn eigi framar segja: "Sáttmálsörk Drottins!" Hún mun engum í hug koma, og þeir munu ekki minnast hennar né sakna hennar, né heldur munu menn framar búa aðra til. 17Þá munu menn kalla Jerúsalem "hásæti Drottins" og allar þjóðir munu safnast þangað vegna nafns Drottins og eigi framar fara eftir þrjósku síns vonda hjarta.

18Á þeim dögum mun Júda hús ganga til Ísraels húss, og þeir munu halda saman úr landinu norður frá inn í landið, sem ég gaf feðrum yðar til eignar.

19Ég hafði hugsað: Hversu hátt vil ég setja þig meðal barnanna og gefa þér unaðslegt land, hina dýrlegustu arfleifð meðal allra þjóða! Og enn fremur hugsaði ég: Þér skuluð nefna mig föður og eigi láta af að fylgja mér.

20En eins og kona verður ótrú elskhuga sínum, eins urðuð þér ótrúir mér, Ísraels hús - segir Drottinn.

21Hljóð heyrist á skóglausu hæðunum: grátbiðjandi kvein Ísraelsmanna, af því að þeir hafa breytt illa og gleymt Drottni Guði sínum.

22"Hverfið aftur, þér fráhorfnu synir, ég vil lækna fráhvarfssyndir yðar!"

"Hér erum vér, vér komum til þín, því að þú ert Drottinn Guð vor."

23Vissulega er hávaðinn á hæðunum svikull. Vissulega er hjálp Ísraels hjá Drottni, Guði vorum.

24Falsguðinn hefir eytt afla feðra vorra allt frá æsku vorri, sauðum þeirra og nautum, sonum þeirra og dætrum. 25Vér skulum leggjast niður í smán vorri, og skömm vor hylji oss, því að á móti Drottni Guði vorum höfum vér syndgað, bæði vér og feður vorir, frá æsku vorri og allt fram á þennan dag, og höfum eigi hlýtt raustu Drottins Guðs vors.

4
1Þegar þú hverfur aftur, Ísrael - segir Drottinn - skalt þú hverfa aftur til mín. Ef þú flytur viðurstyggðir þínar burt frá augliti mínu og ert ekki framar á sveimi 2og vinnur eiðinn "svo sannarlega sem Drottinn lifir" í sannleika, réttvísi og einlægni, munu þjóðir óska sér hans blessunar og hrósa sér af honum.

3Já, svo segir Drottinn við Júdamenn og við Jerúsalem:

Takið nýtt land til yrkingar og sáið ekki ofan í þyrna! 4Umskerið yður fyrir Drottni og takið burt yfirhúð hjarta yðar, þér Júdamenn og Jerúsalembúar, svo að heiftarreiði mín brjótist ekki út, eins og eldur, og brenni svo, að eigi verði slökkt, sakir vonskuverka yðar.


Innrás er í vændum

5Kunngjörið í Júda og boðið í Jerúsalem og segið:

Þeytið lúður í landinu!

Kallið fullum rómi og segið: Safnist saman, og förum inn í víggirtu borgirnar!

6Reisið upp hermerki í áttina til Síonar, flýið undan, standið eigi við! Því að ég kem með ógæfu úr norðri og mikla eyðing.

7Ljón er risið upp úr runni sínum, þjóða-eyðir lagður af stað, farinn að heiman til þess að gjöra land þitt að auðn, borgir þínar verða gjöreyddar, mannlausar. 8Gyrðið yður því hærusekk, harmið og kveinið, því að hin brennandi reiði Drottins hefir ekki snúið sér frá oss.

9En á þeim degi - segir Drottinn - munu konungurinn og höfðingjarnir standa ráðalausir, prestarnir verða agndofa og spámennirnir skelfast.

10Þá mælti ég: "Æ, herra Drottinn! Vissulega hefir þú illa svikið þessa þjóð og Jerúsalem, þá er þú sagðir: ,Yður mun heill hlotnast!' þar sem sverðið gengur nú mjög nærri þeim."

11Þá mun sagt verða um þessa þjóð og um Jerúsalem:

Glóandi vindur af skóglausum hæðum í eyðimörkinni kemur gegn þjóð minni, hvorki verður sáldrað né hreinsað! 12Ákafur vindur kemur í móti mér, en nú vil ég einnig kveða upp dóma gegn þeim.

13Sjá, eins og ský þýtur hann áfram, og vagnar hans eru eins og vindbylur, hestar hans eru fljótari en ernir. Vei oss, það er úti um oss!

14Þvo illskuna af hjarta þínu, Jerúsalem, til þess að þú frelsist. Hversu lengi eiga þínar syndsamlegu hugsanir að búa í brjósti þér? 15Því heyr, menn segja tíðindi frá Dan og boða ógæfu frá Efraímfjöllum.

16Segið þjóðunum frá því, kallið á þær gegn Jerúsalem! Umsátursmenn koma úr fjarlægu landi og hefja óp gegn Júdaborgum. 17Eins og akurverðir sitja þeir hringinn í kringum hana, af því að hún hefir þrjóskast í gegn mér - segir Drottinn.

18Atferli þitt og gjörðir þínar hafa bakað þér þetta, þetta hefir þú fyrir illsku þína. Já, beiskt er það, það gengur mjög nærri þér.


Spámaðurinn rekur harma sína

19Iður mín, iður mín! Ég engist sundur og saman!

Ó, veggir hjarta míns! Hjartað berst ákaft í brjósti mér, ég get ekki þagað! Því að önd mín heyrir lúðurhljóminn, bardagaópið.

20Hrun á hrun ofan er boðað, já allt landið er eytt. Skyndilega eru tjöld mín eydd, tjalddúkar mínir tættir sundur allt í einu. 21Hversu lengi á ég að sjá gunnfána, hversu lengi á ég að heyra lúðurhljóm?

22Já, fíflsk er þjóð mín, mig þekkja þeir ekki. Heimskir synir eru þeir, og vanhyggnir eru þeir. Vitmenn eru þeir illt að fremja, en gott að gjöra kunna þeir ekki.


Sýn um endalok alls

23Ég leit jörðina, og sjá, hún var auð og tóm; ég horfði til himins, og ljós hans var slokknað.

24Ég leit á fjöllin, og sjá, þau nötruðu, og allar hæðirnar, þær bifuðust.

25Ég litaðist um, og sjá, þar var enginn maður, og allir fuglar himinsins voru flúnir. 26Ég litaðist um, og sjá, aldingarðurinn var orðinn að eyðimörk og allar borgir hans gjöreyddar af völdum Drottins, af völdum hans brennandi reiði.

27Svo segir Drottinn: Auðn skal allt landið verða, en aleyðing á því vil ég ekki gjöra. 28Vegna þessa syrgir jörðin og himinninn uppi er dimmur, af því að ég hefi sagt það, og mig iðrar þess eigi, hefi ákveðið það og hætti ekki við það.

29Fyrir harki riddaranna og bogmannanna er hver borg á flótta. Menn skríða inn í runna og stíga upp á kletta. Allar borgir eru yfirgefnar og enginn maður býr framar í þeim. 30En þú, eyðingunni ofurseld, hvað ætlar þú að gjöra? Þótt þú klæðist skarlati, þótt þú skreytir þig með gullskarti, þótt þú smyrjir augu þín blýlit -, til einskis gjörir þú þig fagra. Friðlarnir hafna þér, þeir sitja um líf þitt. 31Já, hljóð heyri ég, eins og í jóðsjúkri konu, angistaróp, eins og í konu, sem er að ala fyrsta barnið, óp dótturinnar Síonar, sem stendur á öndinni af kvölum og breiðir út hendurnar: "Ó, vei mér, því að örmagna hnígur sál mín fyrir morðingjum."


Óvinir koma úr fjarlægu landi

5
1Gangið fram og aftur um stræti Jerúsalem, litist um og rannsakið og leitið á torgunum, hvort þér finnið nokkurn mann, hvort þar sé nokkur, sem gjörir það sem rétt er og leitast við að sýna trúmennsku, og mun ég fyrirgefa henni. 2Og þótt þeir segi: "svo sannarlega sem Drottinn lifir," sverja þeir engu að síður meinsæri.

3En, Drottinn, líta ekki augu þín á trúfesti? Þú laust þá, en þeir kenndu ekkert til, þú eyddir þeim, en þeir vildu ekki taka aga. Þeir gjörðu andlit sín harðari en stein, þeir vildu ekki snúa við.

4En ég hugsaði: "Það eru aðeins hinir lítilmótlegu, sem breyta heimskulega, af því að þeir þekkja ekki veg Drottins, réttindi Guðs síns. 5Ég ætla að fara til stórmennanna og tala við þá, því að þeir þekkja veg Drottins, réttindi Guðs síns." En einmitt þeir höfðu allir saman brotið sundur okið og slitið af sér böndin. 6Fyrir því drepur þá ljón úr skóginum, fyrir því eyðir þeim úlfurinn, sem hefst við á heiðunum. Pardusdýrið situr um borgir þeirra, svo að hver sá, er út úr þeim fer, verður rifinn sundur, því að afbrot þeirra eru mörg, fráhvarfssyndir þeirra miklar.

7Hví skyldi ég fyrirgefa þér? Börn þín hafa yfirgefið mig og svarið við þá, sem ekki eru guðir, og þótt ég mettaði þá, tóku þeir fram hjá og þyrptust að hóruhúsinu. 8Eins og sællegir stóðhestar hlaupa þeir til og frá og hvía hver að annars konu. 9Ætti ég ekki að hegna slíkum mönnum? - segir Drottinn -, eða hefna mín á annarri eins þjóð og þessari?

10Stígið upp á víngarðshjalla þjóðar minnar og rífið niður, en gjörið þó ekki aleyðing, takið burt vínviðargreinar hennar, því að þær heyra ekki Drottni. 11Því að Ísraels hús og Júda hús hafa breytt mjög sviksamlega gegn mér - segir Drottinn.

12Þeir hafa afneitað Drottni og sagt: "Það er ekki hann, og engin ógæfa mun yfir oss koma, sverð og hungur munum vér ekki sjá. 13Spámennirnir munu verða að vindi, því að orð Guðs býr ekki í þeim."

14Fyrir því mælir Drottinn, Guð allsherjar, svo: Af því að þeir hafa mælt slíkum orðum, fer svo fyrir þeim sjálfum!

Ég gjöri orð mín í munni þínum að eldi og þessa þjóð að eldiviði, til þess að hann eyði henni.

15Sjá, ég læt þjóð koma yfir yður úr fjarlægu landi, Ísraels hús - segir Drottinn. Það er óbilug þjóð, það er afar gömul þjóð, tungu þeirrar þjóðar þekkir þú ekki, og skilur ekki, hvað hún segir. 16Örvamælir hennar er sem opin gröf, allir eru þeir kappar.

17Hún mun eta uppskeru þína og neyslukorn þitt, þeir munu eta sonu þína og dætur. Hún mun eta sauði þína og naut, hún mun eta víntré þín og fíkjutré, hún mun brjóta niður með sverði hinar víggirtu borgir þínar, er þú reiðir þig á.

18En á þeim dögum - segir Drottinn - mun ég samt ekki gjöra aleyðing á yður. 19En ef þér þá segið: "Fyrir hvað gjörir Drottinn, Guð vor, oss allt þetta?" þá skalt þú segja við þá: "Eins og þér hafið yfirgefið mig og þjónað öðrum guðum í yðar landi, svo skuluð þér verða annarra þrælar í landi, sem ekki er yðar land."

20Kunngjörið það í húsi Jakobs og boðið það í Júda:

21Heyr þetta, þú heimski og skilningslausi lýður, þér sem hafið augu, en sjáið ekki, þér sem hafið eyru, en heyrið ekki!

22Mig viljið þér ekki óttast - segir Drottinn - eða skjálfa fyrir mínu augliti? fyrir mér, sem hefi sett hafinu fjörusandinn að takmarki, ævarandi girðingu, sem það kemst ekki yfir. Og þótt öldur þess komi æðandi, þá vinna þær ekki á, og þótt þær gnýi, þá komast þær ekki yfir hana.

23En lýður þessi er þverúðarfullur og þrjóskur í hjarta. Þeir hafa vikið af leið og horfið burt, 24en sögðu ekki í hjarta sínu: "Óttumst Drottin, Guð vorn, sem gefur regnið, haustregnið og vorregnið, í réttan tíma og viðheldur handa oss ákveðnum uppskeruvikum."

25Misgjörðir yðar hafa fært allt þetta úr skorðum, og syndir yðar hafa hrundið blessuninni burt frá yður.

26Meðal lýðs míns eru óguðlegir menn. Þeir liggja í fyrirsát, eins og þegar fuglarar húka, þeir leggja snörur til þess að veiða menn.

27Eins og fuglabúr fullt af fuglum, svo eru hús þeirra full af svikum; á þann hátt eru þeir orðnir miklir og auðugir. 28Þeir eru orðnir feitir, það stirnir á þá. Þeir eru og fleytifullir af illskutali, málefni munaðarleysingjans taka þeir ekki að sér til þess að bera það fram til sigurs, og þeir reka ekki réttar fátæklinganna.

29Ætti ég ekki að hegna slíkum mönnum? - segir Drottinn - eða hefna mín á annarri eins þjóð og þessari?

30Óttalegt og hryllilegt er það, sem við ber í landinu! 31Spámennirnir kenna lygar og prestarnir drottna eftir tilsögn þeirra, og þjóð minni þykir fara vel á því. En hvað ætlið þér að gjöra, þegar að skuldadögunum kemur?


Barist um Jerúsalem

6
1Flýið, Benjamínítar, út úr Jerúsalem! Þeytið lúður í Tekóa og reisið upp merki í Betkerem, því að ógæfa vofir yfir úr norðurátt og mikil eyðing.

2Dóttirin Síon, hin fagra og fínláta, er þögul. 3Til hennar koma hirðar með hjarðir sínar, slá tjöldum hringinn í kringum hana, hver beitir sitt svæði.

4"Vígið yður til bardaga móti henni! Standið upp og gjörum áhlaup um hádegið!"

Vei oss, því að degi hallar og kveldskuggarnir lengjast.

5"Standið upp og gjörum áhlaup að næturþeli og rífum niður hallir hennar!"

6Svo segir Drottinn allsherjar:

Fellið tré hennar og hlaðið virkisvegg gegn Jerúsalem. Það er borgin, sem hegna á. Undirokun ríkir alls staðar í henni. 7Því eins og vatnsþróin heldur vatninu fersku, þannig heldur hún illsku sinni ferskri. Ofbeldi og kúgun heyrist í henni, frammi fyrir augliti mínu er stöðuglega þjáning og misþyrming. 8Lát þér segjast, Jerúsalem, til þess að sál mín slíti sig ekki frá þér, til þess að ég gjöri þig ekki að auðn, að óbyggðu landi.


Fólkið hlýðir ekki á orð Guðs

9Svo segir Drottinn allsherjar:

Menn munu gjöra nákvæma eftirleit á leifum Ísraels, eins og gjört er á vínviði með því að rétta æ að nýju höndina upp að vínviðargreinunum, eins og vínlestursmaðurinn gjörir.

10Við hvern á ég að tala og hvern á ég að gjöra varan við, svo að þeir heyri? Sjá, eyra þeirra er óumskorið, svo að þeir geta ekki tekið eftir. Já, orð Drottins er orðið þeim að háði, þeir hafa engar mætur á því.

11En ég er fullur af heiftarreiði Drottins, ég er orðinn uppgefinn að halda henni niðri í mér. "Helltu henni þá út yfir börnin á götunni og út yfir allan unglingahópinn, því að karl sem kona munu hertekin verða, aldraðir jafnt sem háaldraðir. 12En hús þeirra munu verða annarra eign, akrar og konur hvað með öðru, því að ég rétti hönd mína út gegn íbúum landsins" - segir Drottinn.

13Bæði ungir og gamlir, allir eru þeir fíknir í rangfenginn gróða, og bæði spámenn og prestar, allir hafa þeir svik í frammi. 14Þeir hyggjast að lækna áfall þjóðar minnar með hægu móti, segjandi: "Heill, heill!" þar sem engin heill er.

15Þeir munu hljóta að skammast sín fyrir að hafa framið svívirðing! En þeir skammast sín ekki og vita ekki hvað það er, að blygðast sín. Fyrir því munu þeir falla meðal þeirra, sem falla. Þegar minn tími kemur að hegna þeim, munu þeir steypast - segir Drottinn.


"Spyrjið um gömlu göturnar"

16Svo mælti Drottinn:

Nemið staðar við vegina og litist um og spyrjið um gömlu göturnar, hver sé hamingjuleiðin, og farið hana, svo að þér finnið sálum yðar hvíld.

En þeir sögðu: "Vér viljum ekki fara hana."

17Þá setti ég varðmenn gegn yður: "Takið eftir lúðurhljóminum!" En þeir sögðu: "Vér viljum ekki taka eftir honum."

18Heyrið því, þjóðir! Sjá þú, söfnuður, hvað í þeim býr!

19Heyr það, jörð! Sjá, ég leiði ógæfu yfir þessa þjóð! Það er ávöxturinn af ráðabruggi þeirra, því að orðum mínum hafa þeir engan gaum gefið og leiðbeining minni hafa þeir hafnað.

20Hvað skal mér reykelsi, sem kemur frá Saba, og hinn dýri reyr úr fjarlægu landi? Brennifórnir yðar eru mér eigi þóknanlegar og sláturfórnir yðar geðjast mér eigi.

21Fyrir því segir Drottinn svo:

Sjá, ég legg fótakefli fyrir þessa þjóð, til þess að um þau hrasi bæði feður og synir, hver nábúinn farist með öðrum.


Eyðandinn kemur úr norðri

22Svo segir Drottinn:

Sjá, lýður kemur úr landi í norðurátt og mikil þjóð rís upp á útkjálkum jarðar. 23Þeir bera boga og skotspjót, þeir eru grimmir og sýna enga miskunn. Háreysti þeirra er sem hafgnýr, og þeir ríða hestum, búnir sem hermenn til bardaga gegn þér, dóttirin Síon.

24Vér höfum fengið fregnir af honum, hendur vorar eru magnlausar. Angist hefir gripið oss, kvalir eins og jóðsjúka konu. 25Farið ekki út á bersvæði og gangið ekki um veginn, því að óvinurinn hefir sverð - skelfing allt um kring.

26Þjóð mín, gyrð þig hærusekk og velt þér í ösku, stofna til sorgarhalds, eins og eftir einkason væri, beisklegs harmakveins, því að skyndilega mun eyðandinn yfir oss koma.

27Ég hefi gjört þig að rannsakara hjá þjóð minni, til þess að þú kynnir þér atferli þeirra og rannsakir það. 28Allir eru þeir svæsnir uppreisnarmenn, rógberendur, tómur eir og járn, allir eru þeir spillingarmenn.

29Smiðjubelgurinn másaði, blýið átti að eyðast í eldinum, til einskis hafa menn verið að bræða og bræða, hinir illu urðu ekki skildir frá. 30Ógilt silfur nefna menn þá, því að Drottinn hefir fellt þá úr gildi.



Ræður frá tímum Jójakíms konungs


Musterisræðan

7
1Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni:

2Nem staðar við hlið musteris Drottins og boða þar þessi orð og seg: Heyrið orð Drottins, allir Júdamenn, þér sem gangið inn um þetta hlið til þess að falla fram fyrir Drottni. 3Svo segir Drottinn allsherjar, Guð Ísraels:

Bætið breytni yðar og gjörðir, þá mun ég láta yður búa á þessum stað. 4Reiðið yður ekki á lygatal, er menn segja: "Þetta er musteri Drottins, musteri Drottins, musteri Drottins."

5En ef þér bætið breytni yðar og gjörðir alvarlega, ef þér iðkið réttlæti í þrætum manna á milli, 6undirokið ekki útlendinga, munaðarleysingja og ekkjur, og úthellið ekki saklausu blóði á þessum stað, og eltið ekki aðra guði, yður til tjóns, 7þá vil ég láta yður búa á þessum stað, í landinu, sem ég gaf feðrum yðar, frá eilífð til eilífðar.

8Sjá, þér reiðið yður á lygaræður, sem ekki eru til nokkurs gagns. 9Er ekki svo: Stela, myrða, drýgja hór, sverja meinsæri, færa Baal reykelsisfórnir og elta aðra guði, er þér ekki þekkið, 10og síðan komið þér og gangið fram fyrir mig í þessu húsi, sem kennt er við nafn mitt, og segið: "Oss er borgið!" og fremjið síðan að nýju allar þessar svívirðingar.

11Er þá hús þetta, sem kennt er við nafn mitt, orðið að ræningjabæli í augum yðar? Já, ég lít svo á - segir Drottinn.

12Farið til bústaðar míns í Síló, þar sem ég forðum daga lét nafn mitt búa, og sjáið, hvernig ég hefi farið með hann fyrir sakir illsku lýðs míns Ísraels. 13Og þar eð þér nú hafið framið öll þessi verk - segir Drottinn - og eigi hlýtt, þótt ég hafi talað til yðar seint og snemma, og eigi svarað, þótt ég hafi kallað á yður, 14þá ætla ég að fara með húsið, sem kennt er við nafn mitt og þér treystið á, og staðinn, sem ég hefi gefið yður og feðrum yðar, eins og ég fór með Síló, 15og útskúfa yður frá augliti mínu, eins og ég útskúfaði bræðrum yðar, öllum niðjum Efraíms.


Dýrkun himnadrottningarinnar (Astarte)

16Þú skalt ekki biðja fyrir þessum lýð og ekki hefja þeirra vegna grátbeiðni né fyrirbón, og legg ekki að mér, því að ég heyri þig ekki. 17Sér þú ekki hvað þeir hafast að í Júdaborgum og á strætum Jerúsalem? 18Börnin tína saman eldivið og feðurnir kveikja eldinn, en konurnar hnoða deig til þess að gjöra af fórnarkökur handa himnadrottningunni, og færa öðrum guðum dreypifórnir til þess að skaprauna mér.

19En skaprauna þeir mér - segir Drottinn -, hvort ekki miklu fremur sjálfum sér, til þess að þeir verði sér herfilega til skammar? 20Fyrir því segir herrann Drottinn svo: Reiði minni og heift mun úthellt verða yfir þennan stað, yfir menn og skepnur, yfir tré merkurinnar og yfir ávexti akurlendisins, - og hún skal brenna og eigi slokkna.


Ádeila á musterisþjónustuna

21Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð:

Bætið brennifórnum yðar við sláturfórnir yðar og etið kjöt! 22Því að ég hefi ekkert talað til feðra yðar né boðið þeim nokkuð um brennifórnir og sláturfórnir, þá er ég leiddi þá burt af Egyptalandi. 23En þetta hefi ég boðið þeim: Hlýðið minni raustu, þá skal ég vera yðar Guð og þér skuluð vera mín þjóð, og gangið jafnan á þeim vegi, sem ég býð yður, til þess að yður vegni vel. 24En þeir heyrðu ekki og lögðu ekki við eyrun, en fóru eftir vélráðum síns illa hjarta og sneru við mér bakinu, en ekki andlitinu.

25Frá þeim degi, er feður yðar fóru burt af Egyptalandi, og fram á þennan dag, hefi ég stöðugt dag eftir dag sent þjóna mína, spámennina, til yðar. 26En þeir heyrðu mig ekki og lögðu ekki við eyrun, heldur gjörðust harðsvíraðir og breyttu enn verr en feður þeirra. 27Og þótt þú talir öll þessi orð til þeirra, munu þeir ekki hlýða á þig, og þótt þú kallir til þeirra, munu þeir ekki svara þér. 28Seg því við þá: Þetta er þjóðin, sem eigi hlýðir raustu Drottins, Guðs síns, og engri umvöndun tekur. Horfin er trúfestin, já, upprætt úr munni þeirra.


Gegn heiðinni dýrkun og mannfórnum

29Sker af þér höfuðprýði þína og varpa henni frá þér og hef upp harmakvein á skóglausu hæðunum, því að Drottinn hefir hafnað og útskúfað þeirri kynslóð, sem hann reiddist.

30Júdamenn hafa gjört það, sem illt er í mínum augum - segir Drottinn -, þeir hafa reist upp viðurstyggðir sínar í húsi því, sem kennt er við nafn mitt, og saurgað það 31og byggt Tófet-fórnarhæðir í Hinnomssonar-dal til þess að brenna sonu sína og dætur í eldi, sem ég hefi ekki boðið og mér hefir ekki í hug komið!

32Sjá, fyrir því munu þeir dagar koma - segir Drottinn -, að eigi mun framar verða talað um "Tófet" og "Hinnomssonar-dal," heldur um "Drápsdal," og menn munu jarða í Tófet vegna rúmleysis. 33Lík þessa lýðs munu verða æti fyrir fugla himinsins og dýr jarðarinnar, og enginn mun fæla þau burt. 34Þá mun ég láta öll ánægju- og gleðihljóð, öll fagnaðarlæti brúðguma og brúðar hverfa burt úr Júdaborgum og af strætum Jerúsalem, því að landið skal verða auðn.

8
1Þá munu menn - segir Drottinn - taka bein Júdakonunga og bein Júdahöfðingja og bein prestanna og bein spámannanna og bein Jerúsalembúa úr gröfum þeirra, 2og breiða þau út á móti sólinni og tunglinu og öllum her himinsins, er þeir elskuðu og þjónuðu og eltu og gengu til frétta við og féllu fram fyrir. Þeim verður ekki safnað saman og þau verða ekki grafin, þau skulu verða að áburði á akrinum. 3Og allar leifarnar, þeir er eftir verða af þessari vondu kynslóð á öllum þeim stöðum, þangað sem ég hefi rekið þá, munu heldur kjósa dauða en líf - segir Drottinn allsherjar.


Er til fráhvarf án afturhvarfs?

4Seg því við þá: Svo segir Drottinn:

Hvort falla menn og standa ekki upp aftur? Eða hverfa menn burt án þess að koma aftur? 5Hvers vegna hefir þessi lýður horfið burt til ævarandi fráhvarfs? Þeir halda fast við svikin og vilja ekki hverfa aftur.

6Ég tók eftir og heyrði: Þeir tala ósannindi, enginn iðrast illsku sinnar, svo að hann segi: "Hvað hefi ég gjört?" Allir hafa þeir gjörst fráhverfir í rásinni, eins og hestur, sem ryðst áfram í orustu.

7Jafnvel storkurinn í loftinu þekkir sínar ákveðnu tíðir, og turtildúfan og svalan og tranan gefa gætur að tíma endurkomu sinnar, en lýður minn þekkir ekki rétt Drottins.


Lygapenni fræðimannanna

8Hvernig getið þér sagt: "Vér erum vitrir og lögmál Drottins er hjá oss"? Víst er svo, en lygapenni fræðimannanna hefir gjört það að lygi.

9Hinir vitru verða til skammar, þeir skelfast og verða gripnir, sjá, þeir hafa hafnað orði Drottins, hvaða visku hafa þeir þá? 10Fyrir því mun ég selja konur þeirra öðrum á vald og sigurvegurunum lönd þeirra, því að bæði ungir og gamlir, allir eru þeir fíknir í rangfenginn gróða, bæði spámenn og prestar, allir hafa þeir svik í frammi.

11Þeir hyggjast að lækna áfall þjóðar minnar með hægu móti, segjandi: "Heill, heill!" þar sem engin heill er. 12Þeir munu hljóta að skammast sín fyrir að hafa framið svívirðing! En þeir skammast sín ekki og vita ekki hvað það er að blygðast sín. Fyrir því munu þeir falla meðal þeirra, sem falla. Þegar minn tími kemur að hegna þeim, munu þeir steypast - segir Drottinn.

13Ég vil safna þeim saman eins og um uppskeru - segir Drottinn - en engin vínber eru á vínviðinum og engar fíkjur á fíkjutrénu, og laufið er fölnað. Vil ég því selja þá þeim á vald, er þá munu upp eta.

14Til hvers sitjum vér hér kyrrir? Safnist saman og höldum inn í víggirtu borgirnar og förumst þar, því að Drottinn, Guð vor, lætur oss farast og drykkjar oss með eiturvatni, af því að vér höfum syndgað á móti Drottni.

15Menn vænta hamingju, en ekkert gott kemur, vænta lækningartíma, og sjá, skelfing!

16Frá Dan heyrist frýsið í fákum hans, og af hneggi hesta hans nötrar allt landið, og þeir koma og eta upp landið og það, sem í því er, borgina og íbúa hennar.

17Sjá, ég sendi meðal yðar höggorma, nöðrur, sem særingar vinna ekki á, og þeir skulu bíta yður - segir Drottinn.


Angurljóð spámannsins og líksöngur

18Ó hvað má hugsvala mér í harminum! Hjartað er sjúkt í mér. 19Heyr, kvein þjóðar minnar hljómar úr fjarlægu landi. Er Drottinn ekki í Síon, eða er konungur hennar ekki í henni? "Hví egndu þeir mig til reiði með skurðmyndum sínum, með fánýtum, útlendum goðum?"

20Uppskeran er liðin, aldinskurðurinn á enda, en vér höfum eigi hlotið hjálp.

21Ég er helsærður af helsári þjóðar minnar, ég geng í sorgarbúningi, skelfing hefir gripið mig. 22Eru þá engin smyrsl í Gíleað, eða er þar enginn læknir? Hví er engin hyldgan komin á sár þjóðar minnar?

9
1Ó að höfuð mitt væri vatn og augu mín táralind, þá skyldi ég gráta daga og nætur þá, er fallið hafa af þjóð minni.

2Ó að ég hefði sæluhús í eyðimörkinni, þá skyldi ég yfirgefa þjóð mína og fara burt frá þeim, því að allir eru þeir hórdómsmenn, flokkur svikara.

3Þeir spenna tungu sína eins og boga sinn, með lygi, en eigi með sannleika, hafa þeir náð völdum í landinu, því að frá einni vonskunni ganga þeir til annarrar, en mig þekkja þeir ekki - segir Drottinn.

4Varið yður hver á öðrum og treystið engum bróður, því að sérhver bróðir beitir undirferli og sérhver vinur gengur með róg. 5Þeir blekkja hver annan og sannleika tala þeir ekki. Þeir venja tungu sína á að tala lygi, kosta kapps um að gjöra rangt.

6Þú býr mitt á meðal svikara. Vegna svika vilja þeir ekki þekkja mig - segir Drottinn.

7Fyrir því segir Drottinn allsherjar svo:

Sjá, ég vil hreinsa þá og reyna þá, því að hvernig ætti ég að fara öðruvísi að andspænis illsku þjóðar minnar?

8Tunga þeirra er deyðandi ör, svik tala þeir, með munninum tala þeir vingjarnlega við náunga sinn, en í hjarta sínu sitja þeir á svikráðum við hann. 9Ætti ég ekki að hegna slíkum mönnum - segir Drottinn - eða hefna mín á annarri eins þjóð og þessari?

10Á fjöllunum vil ég hefja grát og harmakvein, og sorgarljóð á beitilöndunum í öræfunum, því að þau eru sviðin, svo að enginn fer þar um framar og menn heyra eigi framar baul hjarðanna. Bæði fuglar himinsins og villidýrin eru flúin, farin.

11Og ég vil gjöra Jerúsalem að grjóthrúgum, að sjakalabæli, og Júdaborgir vil ég gjöra að auðn, þar sem enginn býr.

12Hver er svo vitur maður, að hann skilji þetta? Hver er sá, er munnur Drottins hafi talað við, að hann megi kunngjöra hvers vegna landið er gjöreytt, sviðið eins og eyðimörk, sem enginn fer um?

13En Drottinn sagði: Af því að þeir hafa yfirgefið lögmál mitt, sem ég setti þeim, og ekki hlýtt minni raustu og ekki farið eftir henni, 14heldur farið eftir þverúð hjarta síns og elt Baalana, er feður þeirra höfðu kennt þeim að dýrka, 15þess vegna - svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð - vil ég gefa þeim, þessum lýð, malurt að eta og eiturvatn að drekka, 16og tvístra þeim meðal þjóða, sem hvorki þeir né feður þeirra hafa þekkt, og senda sverðið á eftir þeim, þar til er ég hefi gjöreytt þeim.

17Takið eftir og kallið til harmkonur, að þær komi, og sendið til hinna vitru kvenna, að þær komi 18og hraði sér að hefja harmakvein yfir oss, til þess að augu vor fljóti í tárum og vatnið streymi af hvörmunum.

19Hátt harmakvein heyrist frá Síon: Hversu erum vér eyðilagðir, mjög til skammar orðnir, því að vér höfum orðið að yfirgefa landið, af því að þeir hafa brotið niður bústaði vora.

20Já, heyrið, þér konur, orð Drottins, og eyra yðar nemi orð hans munns. Kennið dætrum yðar harmljóð og hver annarri sorgarkvæði! 21Því að dauðinn er stiginn upp í glugga vora, kominn inn í hallir vorar, hann hrífur börnin af götunum, unglingana af torgunum. 22Og líkin af mönnunum liggja eins og hlöss á velli og eins og kornbundin að baki kornskurðarmanninum, sem enginn tekur saman.


Hin sanna viska

23Svo segir Drottinn:

Hinn vitri hrósi sér ekki af visku sinni og hinn sterki hrósi sér ekki af styrkleika sínum og hinn auðugi hrósi sér ekki af auði sínum. 24Hver sá er vill hrósa sér, hrósi sér af því, að hann sé hygginn og þekki mig, að það er ég, Drottinn, sem auðsýni miskunnsemi, rétt og réttlæti á jörðinni, því að á slíku hefi ég velþóknun - segir Drottinn.


Ísraelsmenn eru sjálfir óumskornir

25Sjá, þeir dagar munu koma - segir Drottinn -, að ég mun hegna öllum umskornum, sem þó eru óumskornir: 26Egyptalandi, Júda, Edóm, Ammónítum, Móab og öllum, sem skera hár sitt við vangann, þeim er búa í eyðimörkinni, - því að allir heiðingjar eru óumskornir og allt Ísraels hús er óumskorið á hjarta.


Hjáguðirnir eru hégómi

10
1Heyrið orðið, sem Drottinn talar til yðar, Ísraels hús! 2Svo segir Drottinn:

Venjið yður ekki á sið heiðingjanna og hræðist ekki himintáknin, þótt heiðingjarnir hræðist þau.

3Siðir þjóðanna eru hégómi. Menn höggva tré í skógi, og trésmiðurinn lagar það til með öxinni, 4hann prýðir það silfri og gulli, hann festir það með nöglum og hömrum, svo að það riði ekki.

5Skurðgoðin eru eins og hræða í melónugarði og geta ekki talað, bera verður þau, því að gengið geta þau ekki. Óttist þau því ekki, því að þau geta ekki gjört mein, en þau eru ekki heldur þess umkomin að gjöra gott.

6Enginn er þinn líki, Drottinn! Mikill ert þú og mikið er nafn þitt sakir máttar þíns. 7Hver skyldi eigi óttast þig, konungur þjóðanna? Já, þú ert þess maklegur, því að meðal allra spekinga þjóðanna og í öllu ríki þeirra er enginn þinn líki.

8Allir saman eru þeir óskynsamir og fávísir, þeir þiggja fræðslu hinna fánýtu guða, sem eru úr tré. 9Silfurplötur eru fluttar frá Tarsis, og gull frá Úfas, þeir eru verk trésmiðsins og gullsmiðsins. Klæðnaður þeirra er gjörður af bláum og rauðum purpura, verk hagleiksmanna eru þeir allir. 10En Drottinn er sannur Guð. Hann er lifandi Guð og eilífur konungur. Fyrir reiði hans nötrar jörðin, og þjóðirnar fá eigi þolað gremi hans.

11Þannig skuluð þér mæla til þeirra: Þeir guðir, sem ekki hafa skapað himin og jörð, munu hverfa af jörðinni og undan himninum.

12Hann sem gjört hefir jörðina með krafti sínum, skapað heiminn af speki sinni og þanið út himininn af hyggjuviti sínu, 13þegar hann þrumar, svarar vatnagnýr í himninum, og hann lætur ský upp stíga frá endimörkum jarðar. Hann gjörir leiftur til þess að búa rás regninu og hleypir vindinum út úr forðabúrum hans.

14Sérhver maður stendur undrandi og skilur þetta ekki, sérhver gullsmiður hlýtur að skammast sín fyrir líkneski sitt, því að hin steyptu líkneski hans eru tál og í þeim er enginn andi. 15Hégómi eru þau, háðungar-smíði. Þegar hegningartími þeirra kemur er úti um þau.

16En sá Guð, sem er hlutdeild Jakobs, er ekki þeim líkur, heldur er hann skapari alls, og Ísrael er hans eignarkynkvísl. Drottinn allsherjar er nafn hans.


Herleiðing er í vændum

17Tak böggul þinn upp af jörðinni, þú sem situr umsetin. 18Því að svo segir Drottinn: Sjá, ég mun burt snara íbúum landsins í þetta sinn og þrengja að þeim til þess að þeir fái að kenna á því.

19Vei mér vegna sárs míns, áverki minn er ólæknandi. Og þó hugsaði ég: Ef þetta er öll þjáningin, þá ber ég hana!

20Tjald mitt er eyðilagt, öll tjaldstög mín slitin, synir mínir eru frá mér farnir og eru ekki framar til. Enginn er sá til, er reisi aftur tjald mitt og festi aftur upp tjalddúka mína.

21Já, óskynsamir voru hirðarnir og Drottins leituðu þeir ekki. Fyrir því lánaðist þeim ekkert, og allri hjörð þeirra var tvístrað.

22Heyr! Hávaði! Sjá, það færist nær, ógurlegt hark úr landinu norður frá til þess að gjöra Júdaborgir að auðn, að sjakalabæli.

23Ég veit, Drottinn, að örlög mannsins eru ekki á hans valdi, né það heldur á valdi gangandi manns að stýra skrefum sínum.

24Refsa oss, Drottinn, en þó í hófi, ekki í reiði þinni, til þess að þú gjörir ekki út af við oss.

25Úthell heift þinni yfir heiðnu þjóðirnar, sem ekki þekkja þig, og yfir þær kynkvíslir, sem ekki ákalla nafn þitt, því að þær hafa etið Jakob, já, þær hafa etið hann og svelgt hann upp, og beitiland hans hafa þær eytt.


Bannfæring sáttmálans

11
1Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni:

2Heyrið orð þessa sáttmála. Tala þú til Júdamanna og Jerúsalembúa 3og seg við þá: Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: Bölvaður sé sá maður, sem ekki hlýðir á orð þessa sáttmála, 4er ég bauð feðrum yðar að halda, þá er ég leiddi þá burt af Egyptalandi, út úr járnbræðsluofninum og sagði:

"Hlýðið skipunum mínum og breytið eftir þeim, með öllu svo sem ég býð yður. Þá skuluð þér vera mín þjóð og ég skal vera yðar Guð, 5til þess að ég fái haldið þann eið, er ég sór feðrum yðar, að gefa þeim land, sem flýtur í mjólk og hunangi, landið, sem þér eigið enn í dag."

Og ég svaraði og sagði: Veri það svo, Drottinn!

6Þá sagði Drottinn við mig: Boða þú öll þessi orð í Júdaborgum og á Jerúsalemstrætum og seg:

Hlýðið á orð þessa sáttmála og breytið eftir þeim. 7Því að alvarlega hefi ég varað feður yðar við, þegar ég leiddi þá út af Egyptalandi og allt fram á þennan dag, iðulega og alvarlega, og sagt: "Hlýðið skipun minni!" 8En þeir hlýddu ekki og lögðu ekki við eyrun, heldur fóru hver og einn eftir þverúð síns vonda hjarta, og fyrir því lét ég fram á þeim koma öll orð þessa sáttmála, er ég hafði boðið þeim að halda, en þeir héldu ekki.

9Þá sagði Drottinn við mig: "Það er samsæri milli Júdamanna og Jerúsalembúa. 10Þeir eru horfnir aftur til misgjörða forfeðra sinna, sem eigi vildu hlýða orðum mínum, og þeir elta aðra guði, til þess að þjóna þeim. Ísraels hús og Júda hús hafa rofið minn sáttmála, þann er ég gjörði við feður þeirra. 11Fyrir því segir Drottinn svo: Sjá, ég leiði yfir þá ógæfu, er þeir ekki skulu fá undan komist, og er þeir þá hrópa til mín, mun ég ekki heyra þá. 12En fari Júdaborgir og Jerúsalembúar og hrópi til þeirra guða, er þeir færa reykelsisfórnir, þá munu þeir vissulega heldur ekki hjálpa þeim á ógæfutíma þeirra. 13Því að guðir þínir, Júda, eru orðnir eins margir og borgir þínar, og þér hafið reist eins mörg ölturu, til þess að fórna Baal á reykelsisfórnum, eins og stræti eru í Jerúsalem. 14En þú skalt ekki biðja fyrir þessum lýð og ekki hefja þeirra vegna grátbeiðni né fyrirbón, því að ég mun alls eigi heyra, þegar þeir kalla til mín á ógæfutíma þeirra."


Olíutréð fagurgræna

15Hvert erindi á mín ástkæra í hús mitt? Atferli hennar er lymskufullt.

Munu bænahróp og heilagt fórnarkjöt nema illsku þína burt frá þér, svo að þú síðan megir fagna?

16Fagurgrænt olíutré, prýtt dýrlegum ávöxtum, nefndi Drottinn þig eitt sinn, en í hvínandi ofviðri kveikir hann eld kringum það, og greinar þess brotna.

17Drottinn allsherjar, sem gróðursetti þig, hefir hótað þér illu vegna illsku Ísraels húss og Júda húss, er þeir frömdu til þess að egna mig til reiði, þá er þeir færðu Baal reykelsisfórnir.


Jeremía sýnt banatilræði

18Drottinn gjörði mér það kunnugt og ég fékk að vita og sjá gjörðir þeirra. 19Ég var sjálfur eins og vanið lamb, sem leitt er til slátrunar, og vissi ekki, að þeir voru að brugga ráð gegn mér: "Vér skulum eyða tréð í blóma þess og uppræta hann af landi lifenda, svo að nafns hans verði ekki minnst framar!"

20En, Drottinn allsherjar, þú er réttlátlega dæmir og rannsakar nýrun og hjartað, lát mig sjá hefnd þína á þeim, því að þér fel ég málefni mitt!

21Fyrir því segir Drottinn svo um Anatótmenn, þá er sitja um líf þitt og segja: "Þú skalt ekki spá í nafni Drottins, ella skalt þú deyja fyrir hendi vorri." 22Fyrir því mælir Drottinn allsherjar svo: Sjá, ég mun refsa þeim. Æskumennirnir skulu falla fyrir sverði, synir þeirra og dætur skulu deyja af hungri. 23Og leifar munu þeim engar eftir verða, því að ég leiði óhamingju yfir Anatótmenn, árið sem þeim verður refsað.

12
1Þú, Drottinn, ert réttlátari en svo, að ég megi þrátta við þig! Þó verð ég að deila á þig: Hví lánast athæfi hinna óguðlegu, hví eru allir þeir óhultir, er sviksamlega breyta?

2Þú gróðursetur þá, og þeir festa rætur, dafna og bera ávöxt. Þeir hafa þig ávallt á vörunum, en hjarta þeirra er langt frá þér.

3En þú, Drottinn, þekkir mig, sér mig, og þú hefir reynt hugarþel mitt til þín. Skil þá úr, eins og sauði til slátrunar, og helgaðu þá drápsdeginum.

4Hversu lengi á landið að syrgja og jurtir vallarins alls staðar að skrælna? Sakir illsku þeirra, er í því búa, farast skepnur og fuglar, þar eð þeir segja: "Hann sér eigi afdrif vor."

5Ef þú mæðist af því að hlaupa með fótgangandi mönnum, hvernig ætlar þú þá að þreyta kapphlaup við hesta? Og ef þú ert aðeins öruggur í friðuðu landi, hvernig ætlar þú þá að fara að í kjarrinu á Jórdanbökkum?

6Jafnvel bræður þínir og skyldulið föður þíns - einnig þeir eru þér ótrúir, einnig þeir hafa kallað fullum rómi á eftir þér. Treystu þeim ekki, þótt þeir tali vinsamlega til þín.


Guð hryggist yfir erfðahlut sínum

7Yfirgefið hefi ég hús mitt, hafnað eign minni. Ég hefi gefið það, sem sál minni var kærast, óvinum hennar á vald.

8Eign mín varð mér eins og ljón í skógi, hún öskraði í móti mér, fyrir því hata ég hana.

9Er eign mín orðin mér eins og marglitur ránfugl? Ránfuglar sækja að henni öllumegin.

Komið, safnið saman öllum dýrum merkurinnar, komið með þau til að eta.

10Margir hirðar hafa eytt víngarð minn, fótum troðið óðal mitt, hafa gjört hið unaðslega óðal mitt að eyðilegri heiði. 11Menn hafa gjört það að auðn, í eyði drúpir það fyrir mér, allt landið er í eyði lagt, af því að enginn leggur það á hjarta.

12Eyðandi ræningjar hafa steypt sér yfir allar skóglausar hæðir í eyðimörkinni. Sverð Drottins eyðir landið af enda og á, enginn er óhultur.

13Þeir sáðu hveiti, en uppskáru þyrna, þeir þreyttu sig, en varð ekki gagn að. Verðið því til skammar fyrir afrakstur yðar vegna hinnar brennandi reiði Drottins.


Heill og óheill nágrannaþjóða

14Svo segir Drottinn: Allir hinir vondu nágrannar mínir, þeir er áreitt hafa eignina, er ég gaf lýð mínum Ísrael, sjá, ég slít þá upp úr landi þeirra, og Júda hús vil ég upp slíta, svo að það sé eigi meðal þeirra. 15En eftir að ég hefi slitið þá upp, mun ég aftur miskunna mig yfir þá og flytja þá heim aftur, hvern til síns óðals og hvern til síns lands. 16Og ef þeir þá læra siðu þjóðar minnar og sverja við mitt nafn: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir!" eins og þeir hafa kennt þjóð minni að sverja við Baal, - þá skulu þeir þrífast meðal þjóðar minnar. 17En ef einhver þjóð vill ekki heyra, þá slít ég þá þjóð upp og tortími henni - segir Drottinn.


Línbeltið

13
1Svo mælti Drottinn við mig:

Far og kaup þér línbelti og legg það um lendar þér, en lát það ekki koma í vatn.

2Og ég keypti beltið eftir orði Drottins og lagði um lendar mér. 3Og orð Drottins kom til mín annað sinn, svohljóðandi:

4Tak beltið, sem þú keyptir og um lendar þínar er, og legg af stað og far austur að Efrat og fel það þar í bergskoru. 5Og ég fór og fal það hjá Efrat, eins og Drottinn hafði boðið mér. 6En er alllangur tími var um liðinn, sagði Drottinn við mig:

Legg af stað og far austur að Efrat og tak þar beltið, sem ég bauð þér að fela þar. 7Og ég fór austur að Efrat, gróf og tók beltið á þeim stað, sem ég hafði falið það. En sjá, beltið var orðið skemmt, til einskis nýtt framar.

8Og orð Drottins kom til mín, svo hljóðandi: 9Svo segir Drottinn:

Þannig vil ég skemma hroka Júda og hroka Jerúsalem, þann hinn mikla. 10Þessir vondu menn, sem ekki vilja hlýða orðum mínum, sem fara eftir þverúð hjarta síns og elta aðra guði til þess að þjóna þeim og falla fram fyrir þeim - þeir skulu verða eins og þetta belti, sem til einskis er nýtt framar. 11Því að eins og beltið fellir sig að lendum manns, eins hafði ég látið allt Ísraels hús og allt Júda hús fella sig að mér - segir Drottinn - til þess að það skyldi vera minn lýður og mér til frægðar, lofstírs og prýði, en þeir hlýddu ekki.


Brotnar vínkrukkur

12Mæl til þeirra þetta orð: Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: "Sérhver krukka verður fyllt víni." En segi þeir þá við þig: "Vitum vér þá ekki, að sérhver krukka verður fyllt víni?" 13þá seg við þá: "Svo segir Drottinn: Sjá, ég fylli alla íbúa þessa lands og konungana, sem sitja í hásæti Davíðs, og prestana og spámennina og alla Jerúsalembúa, svo að þeir verði drukknir, 14og mola þá sundur hvern við annan, feður og sonu alla saman - segir Drottinn. Ég tortími þeim hlífðarlaust, án nokkurrar vægðar og miskunnar."


Konungsmóðir ávörpuð

15Heyrið og takið eftir!

Verið ekki dramblátir, því að Drottinn hefir talað!

16Gefið Drottni, Guði yðar, dýrðina, áður en dimmir, áður en fætur yðar steyta á rökkurfjöllum.

Þér væntið ljóss, en hann mun breyta því í niðdimmu og gjöra það að svartamyrkri. 17En ef þér hlýðið því ekki, þá mun ég í leyni gráta vegna hrokans og sífellt tárast, já augu mín munu fljóta í tárum, af því að hjörð Drottins verður flutt burt hertekin.

18Seg við konung og við konungsmóður: "Setjist lágt, því að fallin er af höfðum yðar dýrlega kórónan! 19Borgir Suðurlandsins eru lokaðar, og enginn opnar, Júdalýður hefur verið burt fluttur allur saman, burt fluttur með tölu."

20Hef upp augu þín og sjá, þeir koma að norðan! Hvar er hjörðin, sem þér var fengin, þínir ágætu sauðir? 21Hvað munt þú segja, þegar þeir setja þá menn höfðingja yfir þig, sem þú hefir sjálf kennt að vera á móti þér? Munu ekki hviður að þér koma, eins og að jóðsjúkri konu, 22er þú segir í hjarta þínu: ,Hví ber mér slíkt að höndum?' Sakir þinnar miklu misgjörðar er klæðafaldi þínum upp flett, hælar þínir með valdi berir gjörðir.

23Getur blámaður breytt hörundslit sínum eða pardusdýrið flekkjum sínum? Ef svo væri munduð þér og megna að breyta vel, þér sem vanist hafið að gjöra illt.

24Ég vil tvístra þeim eins og hálmleggjum, sem berast fyrir eyðimerkurvindi.

25Þetta er hlutur þinn, afmældur skammtur þinn frá minni hendi - segir Drottinn - af því að þú hefir gleymt mér og treystir á lygi. 26Fyrir því kippi ég og klæðafaldi þínum upp að framan, svo að blygðan þín verði ber. 27Hórdóm þinn og losta-hví, hið svívirðilega fúllífi þitt - á fórnarhæðunum úti á víðavangi hefi ég séð viðurstyggðir þínar. Vei þér, Jerúsalem, þú munt ekki hrein verða - hve langt mun enn þangað til?


Þurrkar og hungursneyð. Bæn Jeremía

14
1Orð Drottins, sem kom til Jeremía út af þurrkunum.

2Júda drúpir, og þeir, sem sitja í borgarhliðum landsins, örmagnast, þeir sitja harmandi á jörðinni, og harmakvein Jerúsalem stígur upp. 3Tignarmenni þeirra senda undirmenn sína eftir vatni, þeir koma að vatnsþrónum, en finna ekkert vatn, þeir snúa aftur með tóm ílátin, þeir eru sneyptir og blygðast sín og hylja höfuð sín. 4Vegna akurlendisins, sem er agndofa af skelfingu, af því að ekkert regn fellur í landinu, eru akurmennirnir sneypulegir og hylja höfuð sín. 5Já, jafnvel hindin í haganum ber og yfirgefur kálfinn, því að gróður er enginn, 6og villiasnarnir standa á skóglausu hæðunum og taka öndina á lofti, eins og sjakalarnir. Augu þeirra daprast, því að hvergi er gras.

7Þegar misgjörðir vorar vitna í gegn oss, Drottinn, þá lát til þín taka vegna nafns þíns, því að fráhvarfssyndir vorar eru margar, gegn þér höfum vér syndgað.

8Ó Ísraels von, hjálpari hans á neyðartíma, hví ert þú sem útlendingur í landinu og sem ferðamaður, er tjaldar til einnar nætur?

9Hví ert þú eins og skelkaður maður, eins og hetja, sem ekki megnar að hjálpa? Og þó ert þú mitt á meðal vor, Drottinn, og vér erum nefndir eftir nafni þínu. Yfirgef oss eigi!

10Svo segir Drottinn um þennan lýð:

Þannig var þeim ljúft að reika um, þeir öftruðu ekki fótum sínum, en Drottinn hafði enga þóknun á þeim. Nú minnist hann misgjörðar þeirra og vitjar synda þeirra.

11Og Drottinn sagði við mig: "Þú skalt eigi biðja þessum lýð góðs. 12Þegar þeir fasta, þá hlýði ég eigi á grátbeiðni þeirra, og þegar þeir bera fram brennifórn og matfórn, þá hefi ég eigi þóknun á þeim, heldur vil ég gjöreyða þeim með sverði, hungri og drepsótt."

13Þá sagði ég: "Æ, herra Drottinn, sjá, spámennirnir segja við þá: Þér munuð ekki sjá sverð, og hungri munuð þér ekki verða fyrir, heldur mun ég láta yður hljóta stöðuga heill á þessum stað!"

14En Drottinn sagði við mig: "Spámennirnir boða lygar í mínu nafni. Ég hefi ekki sent þá og ég hefi ekki skipað þeim og ég hefi ekki við þá talað, þeir boða yður lognar sýnir, fánýtar spár og tál, sem þeir sjálfir hafa spunnið upp. 15Fyrir því segir Drottinn svo: Spámennirnir, sem spá í mínu nafni og segja, þótt ég hafi ekki sent þá: Hvorki mun sverð né hungur ganga yfir þetta land! - fyrir sverði og hungri skulu þeir farast, þessir spámenn. 16En lýðurinn, sem þeir boða spár sínar, skal liggja dauður á Jerúsalem-strætum af hungri og fyrir sverði, og enginn jarða þá, - þeir sjálfir, konur þeirra, synir þeirra og dætur þeirra - og ég vil úthella vonsku þeirra yfir þá."

17Þú skalt tala til þeirra þessi orð:

Augu mín skulu fljóta í tárum nótt og dag, og tárin eigi stöðvast, því að mærin, dóttir þjóðar minnar, hefir orðið fyrir ógurlegu áfalli, hefir særð verið al-ólæknandi sári. 18Gangi ég út á völlinn, þá liggja þar þeir, er fallið hafa fyrir sverði, og gangi ég inn í borgina, þá sé ég þar menn dána úr hungri. Já, spámenn og prestar fara um landið og bera ekki kennsl á það.

19Hefir þú þá hafnað Júda algjörlega, eða ert þú orðinn leiður á Síon? Hví hefir þú lostið oss svo, að vér verðum eigi læknaðir?

Menn vænta hamingju, en ekkert gott kemur, vænta lækningartíma, og sjá, skelfing!

20Vér þekkjum, Drottinn, yfirsjón vora, misgjörð feðra vorra, að vér höfum syndgað gegn þér. 21Fyrirlít eigi, vegna nafns þíns, - óvirð eigi hásæti dýrðar þinnar, minnstu sáttmála þíns við oss og rjúf hann eigi.

22Eru nokkrir regngjafar meðal hinna fánýtu guða heiðingjanna, eða úthellir himinninn skúrum sjálfkrafa? Ert það ekki þú, Drottinn, Guð vor, svo að vér verðum að vona á þig? Því að þú hefir gjört allt þetta.

15
1Þá sagði Drottinn við mig:

Þó að Móse og Samúel gengju fram fyrir mig, mundi sál mín ekki hneigjast að þessum lýð framar. Rek þá frá augliti mínu, svo að þeir fari burt. 2Og ef þeir segja við þig: "Hvert eigum vér að fara?" þá seg við þá: Svo segir Drottinn:

Til drepsóttar sá, sem drepsótt er ætlaður,

til sverðs sá, sem sverði er ætlaður,

til hungurs sá, sem hungri er ætlaður,

til herleiðingar sá, sem til herleiðingar er ætlaður.

3Ég býð ferns konar kyni út í móti þeim - segir Drottinn -: Sverðinu til þess að myrða þá, hundunum til þess að draga þá burt, fuglum himinsins og dýrum jarðarinnar til þess að eta þá og eyða þeim. 4Ég gjöri þá að grýlu fyrir öll konungsríki jarðar, sökum Manasse Hiskíasonar, Júdakonungs, fyrir það sem hann aðhafðist í Jerúsalem.


Hörmuleg örlög Jerúsalem

5Hver mun kenna í brjósti um þig, Jerúsalem, og hver mun sýna þér hluttekning og hver mun koma við til þess að spyrja um, hvernig þér líði?

6Það ert þú, sem hefir útskúfað mér - segir Drottinn. Þú hörfaðir frá. Fyrir því rétti ég höndina út á móti þér og eyddi þig, ég er orðinn þreyttur á að miskunna. 7Fyrir því sáldraði ég þeim með varpkvísl við borgarhlið landsins, gjörði menn barnlausa, eyddi þjóð mína, frá sínum vondu vegum sneru þeir ekki aftur. 8Ekkjur þeirra urðu fleiri en sandkorn á sjávarströnd. Ég leiddi yfir mæður unglinga þeirra eyðanda um hábjartan dag, lét skyndilega yfir þær koma angist og skelfing. 9Sjö barna móðirin mornaði og þornaði, hún gaf upp öndina. Sól hennar gekk undir áður dagur var á enda, hún varð til smánar og fyrirvarð sig. Og það, sem eftir er af þeim, ofursel ég sverðinu, þá er þeir flýja fyrir óvinum sínum - segir Drottinn.


Sálarstríð spámannsins

10Vei mér, móðir mín, að þú skyldir fæða mig, mig sem allir menn í landinu deila og þrátta við. Ekkert hefi ég öðrum lánað og ekkert hafa aðrir lánað mér, og þó formæla þeir mér allir.

11Drottinn sagði: Vissulega mun ég frelsa þig, ég mun vissulega láta óvininn grátbæna þig, þegar óhamingjuna og neyðina ber að höndum. 12Verður járn brotið sundur, járn að norðan, og eir?

13Eigur þínar og fjársjóðu ofursel ég að herfangi, ekki fyrir verð, heldur fyrir allar syndir þínar, og það fyrir þær syndir, er þú hefir drýgt í öllum héruðum þínum. 14Og ég læt þig þjóna óvinum þínum í landi, sem þú þekkir ekki, því að reiði mín er eldur brennandi, gegn yður logar hann.

15Þú veist það, Drottinn, minnstu mín og vitjaðu mín og hefn mín á ofsóknurum mínum. Hríf mig ekki burt í þolinmæði þinni við þá, mundu það, að ég þoli smán þín vegna.

16Kæmu orð frá þér, gleypti ég við þeim, og orð þín voru mér unun og fögnuður hjarta míns, því að ég er nefndur eftir nafni þínu, Drottinn, Guð allsherjar.

17Ég sat ekki í hóp hlæjandi manna til þess að skemmta mér. Gripinn af þinni hendi sat ég einsamall, af því að þú fylltir mig helgri reiði.

18Hví er kvöl mín orðin ævarandi og sár mitt svo illkynjað, að það verður ekki grætt?

Þú ert mér sem svikull lækur, eins og vatn, sem ekki er unnt að reiða sig á.

19Þessu svaraði Drottinn svo: Ef þú lætur af þessu víli þínu, mun ég aftur láta þig ganga fram fyrir mig. Og ef þú framleiðir aðeins dýrmæta hluti, en enga lélega, þá skalt þú aftur vera mér munnur. Þeir skulu snúa við til þín, en þú skalt ekki snúa við til þeirra.

20Og ég gjöri þig gagnvart þessum lýð að rammbyggðum eirvegg, og þótt þeir berjist við þig, skulu þeir eigi fá yfirstigið þig, því að ég er með þér til þess að hjálpa þér og frelsa þig - segir Drottinn. 21Ég frelsa þig undan valdi vondra manna og losa þig úr höndum ofbeldismanna.


Einsemd Jeremía

16
1Orð Drottins kom til mín:

2Þú skalt ekki taka þér konu, og þú skalt enga sonu né dætur eignast á þessum stað. 3Því að svo segir Drottinn um þá sonu og dætur, sem fæðast á þessum stað, og um mæðurnar, sem börnin ala, og um feðurna, sem geta þau í þessu landi: 4Af banvænum sjúkdómum munu þau deyja, menn munu eigi harma þau né jarða, þau munu verða að áburði á akrinum. Fyrir sverði og hungri skulu þau farast, og líkamir þeirra munu verða fuglum himinsins og dýrum jarðarinnar að æti.

5Já, svo segir Drottinn:

Þú skalt ekki ganga í sorgarhúsið og eigi fara til þess að harma, né heldur sýna þeim hluttekning, því að ég hefi tekið minn frið frá þessum lýð - segir Drottinn - náðina og miskunnsemina, 6og stórir og smáir skulu deyja í þessu landi. Þeir verða ekki jarðaðir, og ekki munu menn harma þá né þeirra vegna rista á sig skinnsprettur né gjöra sér skalla. 7Og ekki munu menn brjóta sorgarbrauð þeirra vegna, til huggunar eftir látinn mann, né láta þá drekka huggunarbikar vegna föður síns og móður sinnar.

8Eigi skalt þú heldur ganga í veisluhús, til þess að setjast með þeim til að eta og drekka. 9Því að svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Sjá, ég mun láta öll ánægju- og gleðihljóð, öll fagnaðarlæti brúðguma og brúðar hverfa burt úr þessum stað fyrir augum yðar og á yðar dögum.

10Þegar þú nú kunngjörir þessum lýð öll þessi orð og menn segja við þig: "Hvers vegna hefir Drottinn hótað oss allri þessari miklu ógæfu, og hver er misgjörð vor og hver er synd vor, sem vér höfum drýgt gegn Drottni, Guði vorum?" 11þá seg við þá: "Vegna þess að feður yðar yfirgáfu mig - segir Drottinn - og eltu aðra guði og þjónuðu þeim og féllu fram fyrir þeim, en mig yfirgáfu þeir og héldu ekki lögmál mitt. 12Og þér breytið enn verr en feður yðar, þar sem þér farið hver og einn eftir þverúð síns vonda hjarta og hlýðið mér ekki. 13Fyrir því vil ég varpa yður burt úr þessu landi til þess lands, sem þér hafið ekki þekkt, hvorki þér né feður yðar, og þar skuluð þér þjóna öðrum guðum dag og nótt, þar eð ég sýni yður enga miskunn."


Heimför úr herleiðingu

14Sjá, fyrir því munu þeir dagar koma - segir Drottinn - að ekki mun framar sagt verða: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir, sá er leiddi Ísraelsmenn út af Egyptalandi," 15heldur: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir, sá er leiddi Ísraelsmenn út úr landinu norður frá og úr öllum þeim löndum, þangað sem hann hafði rekið þá." Og ég mun flytja þá aftur til lands þeirra, sem ég gaf feðrum þeirra.


Herleiðingin er syndagjöld

16Sjá, ég mun senda út marga fiskimenn - segir Drottinn - og þeir munu fiska þá, og eftir það mun ég senda marga veiðimenn, og þeir munu veiða þá á hverju fjalli, á hverri hæð og í bergskorunum. 17Því að augu mín horfa á alla þeirra vegu, þeir eru ekki huldir fyrir mér og misgjörð þeirra er eigi falin fyrir augum mér. 18En fyrst vil ég gjalda þeim tvöfalt misgjörð þeirra og synd, af því að þeir hafa vanhelgað land mitt með hræi viðurstyggða sinna og fyllt óðal mitt andstyggðum sínum.


Heiðingjarnir munu þekkja Guð

19Drottinn, styrkur minn, vígi mitt og hæli mitt á neyðardegi, til þín munu þjóðir koma frá endimörkum jarðar og segja:

Lygar einar hafa feður vorir hlotið að eign, fánýta guði, og enginn þeirra er að neinu gagni.

20Getur maðurinn gjört sér guði? Slíkt eru engir guðir!

21Fyrir því vil ég í þetta sinn kenna þeim. Ég vil láta þá kannast við kraft minn og styrkleika, og þeir skulu viðurkenna, að nafn mitt er Drottinn.


Syndin verður ekki afmáð

17
1Synd Júda er rituð með járnstíl. Með demantsoddi er hún rist á spjöld hjartna þeirra og á altarishorn þeirra 2þeim til áminningar. Ölturu þeirra og fórnarsúlur standa hjá grænu trjánum, á háu hæðunum, 3í fjöllunum á hálendinu. Eigur þínar, alla fjársjóðu þína ofursel ég að herfangi vegna syndar, sem drýgð hefir verið í öllum héruðum þínum. 4Þá munt þú verða að sleppa hendinni af óðali þínu, því er ég gaf þér, og ég mun láta þig þjóna óvinum þínum í landi, sem þú þekkir ekki, því að reiði mín er eldur brennandi, sem loga mun eilíflega.


Orðskviðir

5Svo segir Drottinn:

Bölvaður er sá maður, sem reiðir sig á menn og gjörir hold að styrkleik sínum, en hjarta hans víkur frá Drottni. 6Hann er eins og einirunnur á saltsléttunni og hann lifir ekki það, að neitt gott komi. Hann býr á skrælnuðum stöðum í eyðimörkinni, á óbyggilegu saltlendi.

7Blessaður er sá maður, sem reiðir sig á Drottin og lætur Drottin vera athvarf sitt. 8Hann er sem tré, sem gróðursett er við vatn og teygir rætur sínar út að læknum, - sem hræðist ekki, þótt hitinn komi, og er með sígrænu laufi, sem jafnvel í þurrka-ári er áhyggjulaust og lætur ekki af að bera ávöxt.

9Svikult er hjartað fremur öllu öðru, og spillt er það. Hver þekkir það? 10Ég, Drottinn, er sá, sem rannsaka hjartað, prófa nýrun, og það til þess að gjalda sérhverjum eftir breytni hans, eftir ávexti verka hans.

11Sá, sem aflar auðs og eigi með réttu, er eins og akurhæna, sem liggur á eggjum, er hún eigi hefir orpið. Á miðri ævinni verður hann að yfirgefa auðinn og við ævilokin stendur hann sem heimskingi.


Bæn Jeremía

12Hásæti dýrðarinnar, hátt upp hafið frá upphafi, er staður helgidóms vors.

13Þú von Ísraels - Drottinn! Allir þeir, sem yfirgefa þig, skulu til skammar verða. Já, þeir sem vikið hafa frá mér, verða skrifaðir í duftið, því að þeir hafa yfirgefið lind hins lifandi vatns, Drottin.

14Lækna mig, Drottinn, að ég megi heill verða; hjálpa mér, svo að mér verði hjálpað, því að þú ert minn lofstír.

15Sjá, þeir segja við mig: "Hvar er orð Drottins? Rætist það þá!"

16Ég hefi ekki skotið mér undan því að vera hirðir eftir þinni bendingu, og óheilladagsins hefi ég ekki óskað - það veist þú! Það, sem fram gengið hefir af vörum mínum, liggur bert fyrir augliti þínu.

17Vertu mér ekki skelfing, þú athvarf mitt á ógæfunnar degi! 18Lát ofsóknarmenn mína verða til skammar, en lát mig ekki verða til skammar. Lát þá skelfast, en lát mig ekki skelfast. Lát ógæfudag koma yfir þá og sundurmola þá tvöfaldri sundurmolan!


Hvíldardagsboð

19Svo mælti Drottinn við mig:

Far og nem staðar í þjóðhliðinu, sem Júdakonungar ganga inn og út um, og í öllum hliðum Jerúsalem, 20og seg við þá: Heyrið orð Drottins, þér Júdakonungar og allir Júdamenn og allir Jerúsalembúar, þér sem gangið inn um hlið þessi! 21Svo segir Drottinn:

Gætið yðar - líf yðar liggur við - og berið eigi byrðar á hvíldardegi, svo að þér komið með þær inn um hlið Jerúsalem. 22Berið og engar byrðar út úr húsum yðar á hvíldardegi og vinnið ekkert verk, svo að þér haldið hvíldardaginn heilagan, eins og ég hefi boðið feðrum yðar. 23En þeir hlýddu ekki og lögðu ekki við eyrun, heldur voru harðsvíraðir, svo að þeir hlýddu ekki, né þýddust aga.

24En ef þér nú hlýðið mér - segir Drottinn - svo að þér komið ekki með neinar byrðar inn í hlið þessarar borgar á hvíldardegi, heldur haldið hvíldardaginn heilagan, svo að þér vinnið ekkert verk á honum, 25þá munu fara inn um hlið þessarar borgar konungar, sem sitja í hásæti Davíðs, akandi í vögnum og ríðandi hestum, þeir og höfðingjar þeirra, Júdamenn og Jerúsalembúar, og borg þessi mun eilíflega byggð verða. 26Og menn munu koma úr Júdaborgum og úr umhverfi Jerúsalem og úr Benjamínslandi og af láglendinu og úr fjöllunum og úr Suðurlandinu, þeir er færa brennifórn og sláturfórn og matfórn og reykelsi og þeir er færa þakkarfórn í musteri Drottins.

27En ef þér hlýðið mér eigi, að halda helgan hvíldardaginn og bera enga byrði og ganga eigi inn um hlið Jerúsalem á hvíldardegi, þá mun ég leggja eld í hlið hennar, sem eyða mun höllum Jerúsalem og eigi slökktur verða.


Jeremía hjá leirkerasmiðnum

18
1Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni:

2Statt upp og gakk ofan í hús leirkerasmiðsins. Þar vil ég láta þig heyra orð mín!

3Og ég gekk ofan í hús leirkerasmiðsins, og var hann að verki sínu við hjólið. 4Mistækist kerið, sem hann var að búa til, þá bjó hann aftur til úr því annað ker, eins og leirkerasmiðinum leist að gjöra.

5Þá kom orð Drottins til mín:

6Get ég ekki farið með yður eins og þessi leirkerasmiður, þú Ísraels hús? - segir Drottinn. Sjá, eins og leirinn í hendi leirkerasmiðsins, svo eruð þér í minni hendi, Ísraels hús. 7Stundum hóta ég þjóð og konungsríki að uppræta það, umturna því og eyða því, 8en snúi þjóðin, er ég hefi hótað þessu, sér frá vonsku sinni, þá iðrar mig hins illa, er ég hugði að gjöra henni. 9En stundum heiti ég þjóð og konungsríki að byggja það og gróðursetja það, 10en ef það gjörir það, sem illt er í mínum augum, svo að það hlýðir ekki minni raustu, þá iðrar mig þess góða, er ég hafði heitið að veita því.

11Seg þú nú við Júdamenn og Jerúsalembúa á þessa leið: Svo segir Drottinn: Sjá, ég bý yður ógæfu og brugga ráð gegn yður. Snúið yður hver og einn frá sinni vondu breytni og temjið yður góða breytni og góð verk! 12En þeir munu segja: "Það er til einskis! Vér förum eftir vorum hugsunum og breytum hver og einn eftir þverúð síns vonda hjarta."


Snjórinn á Líbanonsfjöllum

13Svo segir Drottinn:

Spyrjið meðal þjóðanna: Hefir nokkur heyrt slíkt? Mjög hryllilega hluti hefir mærin Ísrael í frammi haft.

14Hvort hverfur snjór Líbanons af gnæfandi klettinum? Eða þrýtur uppvellandi vatnið, hið svala og niðandi?

15Þjóð mín hefir gleymt mér. Fánýtum goðunum færa þeir reykelsisfórnir, og þeir hafa leitt þá í hrösun á vegum þeirra, gömlu götunum, svo að þeir ganga stigu, ólagðan veg. 16Þeir gjöra land sitt að skelfingu, að eilífu háði, svo að hver sá, er þar fer um, skelfist og hristir höfuðið.

17Eins og fyrir austanvindi mun ég tvístra þeim fyrir óvinunum, ég mun sýna þeim bakið, en ekki andlitið á þeirra glötunardegi.


Tilræði

18Þeir sögðu: "Komið, bruggum ráð gegn Jeremía, því að eigi mun prestana skorta kenning, spekingana ráð, né spámennina opinberun. Komið, vér skulum drepa hann með tungunni og engan gaum gefa orðum hans."

19Gef mér gaum, Drottinn, og heyr tal andstæðinga minna.

20Á að launa gott með illu, þar sem þeir hafa grafið mér gröf? Minnstu þess, hversu ég hefi staðið frammi fyrir þér til þess að tala máli þeirra, til þess að snúa þinni heiftarreiði frá þeim. 21Ofursel því sonu þeirra hungrinu og fá þá sverðinu á vald, svo að konur þeirra verði barnlausar og ekkjur, og menn þeirra farist af drepsótt og æskumenn þeirra falli fyrir sverði í bardaga. 22Lát neyðarkvein heyrast úr húsum þeirra, þegar þú lætur morðflokka skyndilega yfir þá koma, því að þeir hafa grafið gröf til að veiða mig í, og lagt snörur fyrir fætur mína. 23En þú, Drottinn, þekkir öll fjörráð þeirra gegn mér. Fyrirgef eigi misgjörð þeirra og afmá ekki synd þeirra fyrir augliti þínu. Lát þá steypast fyrir þér, framkvæm það á þeim, þegar reiði þín brýst út.


Tákn um eyðingu Jerúsalem

19
1Svo sagði Drottinn:

Far og kaup krús eftir leirkerasmið, tak því næst með þér nokkra af helstu mönnum þjóðarinnar og nokkra af helstu prestunum 2og gakk út í Hinnomssonar-dal, sem er fyrir utan Leirbrotahlið, og kunngjör þar þau orð, sem ég mun tala til þín, 3og seg: Heyrið orð Drottins, þér Júdakonungar og Jerúsalembúar! Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Sjá, ég mun leiða ógæfu yfir þennan stað, svo að óma mun fyrir báðum eyrum allra þeirra, er það heyra. 4Af því að þeir yfirgáfu mig og óvirtu þennan stað og færðu á honum reykelsisfórnir öðrum guðum, sem þeir ekki þekktu, hvorki þeir né feður þeirra né Júdakonungar, og fylltu þennan stað blóði saklausra manna 5og byggðu Baals-fórnarhæðir til þess að brenna sonu sína í eldi sem brennifórn Baal til handa, sem ég hefi hvorki skipað né mælt svo fyrir og mér hefir aldrei til hugar komið. 6Sjá, fyrir því munu þeir dagar koma - segir Drottinn - að þessi staður mun ekki framar nefndur verða "Tófet" og "Hinnomssonar-dalur", heldur "Drápsdalur". 7Þá mun ég ónýta ráð Júda og Jerúsalem á þessum stað og láta þá falla fyrir sverði, er þeir flýja undan óvinum sínum, og fyrir hendi þeirra, er sitja um líf þeirra, en lík þeirra mun ég gefa fuglum himinsins og dýrum jarðarinnar að æti, 8og ég mun gjöra þessa borg að skelfingu og háði: Hver sá, er hér fer um, mun skelfast og hæðast að öllum áföllunum, sem hún hefir orðið fyrir. 9Og ég mun láta þá eta hold sona sinna og hold dætra sinna, og þeir munu eta hver annars hold í neyð þeirri og þrenging, er óvinir þeirra og þeir, er sitja um líf þeirra, munu koma þeim í.

10Og þú skalt brjóta krúsina fyrir augum þeirra manna, sem með þér hafa farið, 11og segja við þá: Svo segir Drottinn allsherjar: Svo mun ég brjóta þessa þjóð og þessa borg, eins og menn brjóta leirker, sem ekki verður gjört heilt aftur, og í Tófet mun verða jarðað, með því að ekkert pláss er til að jarða í. 12Þannig mun ég fara með þennan stað - segir Drottinn - og þá, er hér búa, svo að ég gjöri þessa borg að Tófet. 13Þá skulu hús Jerúsalem og hús Júdakonunga verða óhrein, eins og Tófet-staðurinn, öll þau hús, þar sem menn hafa fært öllum himinsins her reykelsisfórnir á þökunum og öðrum guðum dreypifórnir.

14En er Jeremía kom frá Tófet, þangað sem Drottinn hafði sent hann til þess að spá, nam hann staðar í forgarði musteris Drottins og sagði við allan lýðinn: 15Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Sjá, ég leiði yfir þessa borg og allar borgir, er henni tilheyra, alla þá ógæfu, er ég hefi hótað henni, af því að þeir hafa verið harðsvíraðir og ekki hlýtt orðum mínum.


Jeremía húðstrýktur fyrir boðskapinn

20
1En er Pashúr prestur Immersson, yfirumsjónarmaður í musteri Drottins, heyrði Jeremía boða þessi orð, 2þá lét Pashúr húðstrýkja Jeremía spámann og setti hann í stokkinn, sem var í efra Benjamínshliði, hjá musteri Drottins. 3En daginn eftir losaði Pashúr Jeremía úr stokknum. Þá sagði Jeremía við hann: "Drottinn kallar þig ekki ,Pashúr', heldur ,Skelfing allt um kring.' 4Því að svo segir Drottinn: Sjá, ég gjöri þig að skelfingu fyrir sjálfan þig og fyrir alla vini þína, og þeir skulu falla fyrir sverði óvina sinna og þú horfa upp á það, og allan Júdalýð sel ég Babelkonungi á vald, og hann mun herleiða þá til Babýlon og drepa þá með sverði. 5Og ég framsel allan auð þessarar borgar og allar eigur hennar og öll dýrindi hennar, og alla fjársjóðu Júdakonunga sel ég óvinum þeirra á vald. Þeir skulu ræna þeim, taka þá og flytja þá til Babýlon. 6En þú, Pashúr, og allir þeir, sem búa í húsi þínu, skuluð herleiddir verða, og þú skalt komast til Babýlon og þar skalt þú deyja og þar skalt þú greftraður verða - þú og allir vinir þínir, þeir er þú spáðir lygum."


Angurljóð spámannsins

7Þú hefir tælt mig, Drottinn, og ég lét tælast! Þú tókst mig tökum og barst hærra hlut. Ég er orðinn að stöðugu athlægi, allir gjöra gys að mér. 8Já, í hvert sinn er ég tala, verð ég að kvarta undan ofbeldi og kúgun, því að orð Drottins hefir orðið mér til stöðugrar háðungar og spotts.

9Ef ég hugsaði: "Ég skal ekki minnast hans og eigi framar tala í hans nafni," þá var sem eldur brynni í hjarta mínu, er byrgður væri inni í beinum mínum. Ég reyndi að þola það, en ég gat það ekki.

10Já, ég hefi heyrt illyrði margra - skelfing allt um kring: "Kærið hann!" og "Vér skulum kæra hann!" Jafnvel allir þeir, sem ég hefi verið í vináttu við, vaka yfir því, að ég hrasi: "Ef til vill lætur hann ginnast, svo að vér fáum yfirstigið hann og hefnt vor á honum."

11En Drottinn er með mér eins og voldug hetja. Fyrir því munu ofsóknarmenn mínir steypast og engu áorka. Þeir skulu verða herfilega til skammar, af því að þeir hafa ekki farið viturlega að ráði sínu - til eilífrar, ógleymanlegrar smánar. 12Drottinn allsherjar, þú sem prófar hinn réttláta, þú sem sér nýrun og hjartað, lát mig sjá hefnd þína á þeim, því að þér fel ég málefni mitt.

13Lofsyngið Drottni! Vegsamið Drottin, því að hann frelsar líf hins fátæka undan valdi illgjörðamanna.

14Bölvaður sé dagurinn, sem ég fæddist. Dagurinn, sem móðir mín ól mig, sé ekki blessaður!

15Bölvaður sé maðurinn, sem flutti föður mínum gleðitíðindin: "Þér er fæddur sonur!" og gladdi hann stórlega með því. 16Fyrir þeim manni fari eins og fyrir borgum, sem Drottinn hefir umturnað vægðarlaust, og hann heyri óp á morgnana og hergný um hádegið, 17af því að hann lét mig ekki deyja í móðurlífi, svo að móðir mín hefði orðið gröf mín og móðurlíf hennar hefði eilíflega verið þungað.

18Hví kom ég af móðurlífi til þess að þola strit og mæðu og til þess að eyða ævinni í skömm?



Safn ádeilna á konunga í Jerúsalem


Sedekía konungur fær ávítur

21
1Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni, þegar Sedekía konungur sendi þá Pashúr Malkíason og Sefanía prest Maasejason til hans með þessa orðsendingu: 2"Nebúkadresar Babelkonungur herjar á oss. Gakk til frétta við Drottin fyrir oss, hvort Drottinn muni við oss gjöra samkvæmt öllum sínum dásemdarverkum, svo að hann fari burt frá oss aftur." 3Þá sagði Jeremía við þá: "Segið svo Sedekía: 4Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: Sjá, ég sný við hervopnunum í höndum yðar, sem þér berjist með við Babelkonung og við Kaldea, sem að yður kreppa fyrir utan borgarmúrinn. Ég safna þeim saman inni í þessari borg, 5og ég mun sjálfur berjast við yður með útréttri hendi og sterkum armlegg og með reiði, heift og mikilli gremi. 6Ég mun ljósta íbúa þessarar borgar, bæði menn og skepnur, þeir skulu deyja af mikilli drepsótt. 7En eftir það - segir Drottinn - mun ég selja Sedekía Júdakonung og þjóna hans og lýðinn, þá er eftir verða í þessari borg eftir drepsóttina, sverðið og hungrið, í hendur Nebúkadresars Babelkonungs og í hendur óvina þeirra og í hendur þeirra, er sækjast eftir lífi þeirra, og hann mun drepa þá með sverðseggjum hlífðarlaust, vægðarlaust og miskunnarlaust."

8En við lýð þennan skalt þú segja: Svo segir Drottinn:

Sjá, ég legg fyrir yður veg lífsins og veg dauðans. 9Þeir sem verða kyrrir í þessari borg, munu deyja fyrir sverði, af hungri og af drepsótt, en þeir sem fara út og ganga á vald Kaldeum, sem að yður kreppa, þeir munu lífi halda og hljóta líf sitt að herfangi. 10Því að ég hefi snúið andliti mínu gegn þessari borg, til óheilla og ekki til heilla - segir Drottinn. Hún skal ofurseld verða Babelkonungi, og hann skal brenna hana í eldi.


Gegn konungsættinni

11Um hús konungsins í Júda.

Heyrið orð Drottins! Davíðs hús, 12svo segir Drottinn:

Haldið rétt að morgni dags og frelsið hinn rænda af hendi kúgarans, til þess að heiftarreiði mín brjótist ekki út eins og eldur og brenni, svo að enginn fái slökkt sakir illverka yðar!

13Sjá, ég skal finna þig, þú sem býr í dalnum, kletturinn á sléttunni - segir Drottinn - yður sem segið: "Hver skyldi koma ofan gegn oss og hver skyldi brjótast inn í bústaði vora?" 14Og ég skal vitja yðar samkvæmt ávöxtum verka yðar - segir Drottinn - og leggja eld í skóg yðar, og hann skal eyða öllu, sem umhverfis hana er.

22
1Svo mælti Drottinn:

Gakk þú ofan að höll Júdakonungs og flyt þar þessi orð 2og seg: Heyr orð Drottins, konungur í Júda, þú sem situr í hásæti Davíðs, þú og þjónar þínir og lýður þinn, þeir sem ganga inn um þessi hlið! 3Svo segir Drottinn:

Iðkið rétt og réttlæti og frelsið hinn rænda af hendi kúgarans. Undirokið ekki útlendinga, munaðarleysingja og ekkjur, og hafið ekki órétt í frammi, og úthellið ekki saklausu blóði á þessum stað. 4Því ef þér gjörið þetta, munu inn um hlið þessa húss fara konungar, er sitja í hásæti Davíðs sem eftirmenn hans, akandi í vögnum og ríðandi á hestum - konungurinn sjálfur, þjónar hans og lýður hans. 5En ef þér hlýðið ekki þessum orðum, þá sver ég við sjálfan mig - segir Drottinn - að höll þessi skal verða að eyðirúst.

6Svo segir Drottinn um höll Júdakonungs:

Þú ert mér sem Gíleað, sem Líbanonstindur. Vissulega vil ég gjöra þig að eyðimörk, eins og óbyggðar borgir, 7og vígja spillvirkja í móti þér, hvern með sín vopn, til þess að þeir höggvi þín ágætu sedrustré og varpi þeim á eldinn.

8Margar þjóðir skulu ganga fram hjá þessari borg og menn segja hver við annan: "Hvers vegna hefir Drottinn farið svo með þessa miklu borg?" 9Og þá munu menn svara: "Af því að þeir yfirgáfu sáttmála Drottins, Guðs síns, og féllu fram fyrir öðrum guðum og þjónuðu þeim."


Gegn Jóahas (Sallúm) konungi

10Grátið ekki þann, sem dauður er, og harmið hann ekki. Grátið miklu heldur þann, sem burt er farinn, því að hann mun aldrei koma heim aftur og sjá ættland sitt. 11Því að svo segir Drottinn um Sallúm Jósíason, konung í Júda, sem ríki tók eftir Jósía föður sinn og burt er farinn úr þessum stað: Hann mun aldrei framar koma hingað aftur, 12heldur mun hann deyja á þeim stað, þangað sem þeir hafa flutt hann hertekinn, en þetta land mun hann aldrei framar líta.


Gegn Jójakím konungi

13Vei þeim, sem byggir hús sitt með ranglæti og veggsvalir sínar með rangindum, sem lætur náunga sinn vinna fyrir ekki neitt og greiðir honum ekki kaup hans, 14sem segir: "Ég vil reisa mér rúmgott hús og loftgóðar svalir!" og heggur sér glugga, þiljar með sedrusviði og málar fagurrautt!

15Ert þú konungur, þótt þú keppir við aðra með húsagjörð úr sedrusviði? Át ekki faðir þinn og drakk? En hann iðkaði rétt og réttlæti, þá vegnaði honum vel. 16Hann rak réttar hinna aumu og fátæku, þá gekk allt vel. Er slíkt ekki að þekkja mig? - segir Drottinn. 17En augu þín og hjarta stefna eingöngu að eigin ávinning og að því að úthella saklausu blóði og beita kúgun og undirokun.

18Fyrir því segir Drottinn svo um Jójakím Jósíason, Júdakonung: Menn munu ekki harma hann og segja: "Æ, bróðir minn! Æ, systir!" Menn munu ekki harma hann og segja: "Æ, herra! Æ, vegsemd hans!" 19Hann skal verða jarðaður eins og asni er jarðaður: dreginn burt og varpað langt út fyrir hlið Jerúsalem.


Herleiðingin boðuð

20Stíg þú upp á Líbanon og hljóða! Lát raust þína gjalla í Basan og hljóða þú frá Abarím, því að allir ástmenn þínir eru sundurmolaðir.

21Ég talaði við þig í velgengni þinni, en þú sagðir: "Ég vil ekki heyra!" Þannig var breytni þín frá æsku, að þú hlýddir ekki minni raustu. 22Nú mun stormurinn hirða alla hirða þína, og ástmenn þínir munu herleiddir verða. Já, þá munt þú verða til skammar og smánar vegna allrar vonsku þinnar.

23Þú sem býr á Líbanon og hreiðrar þig í sedrustrjám, hversu munt þú stynja, þegar hríðirnar koma yfir þig, kvalir eins og yfir jóðsjúka konu.


Gegn Jójakín (Konja) konungi

24Svo sannarlega sem ég lifi - segir Drottinn - þótt Konja Jójakímsson, konungur í Júda, væri innsiglishringur á hægri hendi minni, þá mundi ég rífa hann þaðan. 25Og ég sel þig í hendur þeirra, sem sitja um líf þitt, og í hendur þeirra, sem þú hræðist, og í hendur Nebúkadresars Babelkonungs og í hendur Kaldea. 26Og ég varpa þér og móður þinni, sem ól þig, burt til annars lands, þar sem þið ekki eruð fædd, og þar skuluð þið deyja, 27en í landið, sem þeir þrá að komast til aftur, þangað skulu þeir aldrei aftur komast.

28Er þá þessi Konja fyrirlitlegt ílát, sem ekki er til annars en að brjóta sundur, eða ker, sem engum manni geðjast að? Hví var honum og niðjum hans þá kastað burt og varpað til lands, sem þeir þekktu ekki?

29Ó land, land, land, heyr orð Drottins!

30Svo segir Drottinn: Skrásetjið þennan mann barnlausan, mann, sem ekki mun verða lángefinn um dagana, því að engum af niðjum hans mun auðnast að sitja í hásæti Davíðs og ríkja framar yfir Júda.


Hinir vondu hirðar og hinn frelsandi konungur

23
1Vei hirðunum, sem eyða og tvístra gæsluhjörð minni! segir Drottinn. 2Fyrir því segir Drottinn, Ísraels Guð, svo um hirðana, sem gæta þjóðar minnar: Þér hafið tvístrað sauðum mínum og sundrað þeim og ekki litið eftir þeim. Sjá, ég skal vitja vonskuverka yðar á yður - segir Drottinn. 3En ég vil sjálfur safna leifum hjarðar minnar saman úr öllum löndum, þangað sem ég hefi rekið þá, og leiða þá aftur í haglendi þeirra, og þeir skulu frjóvgast og þeim fjölga. 4Og ég vil setja hirða yfir þá, og þeir skulu gæta þeirra, og þeir skulu eigi framar hræðast né skelfast og einskis þeirra skal saknað verða - segir Drottinn.

5Sjá, þeir dagar munu koma - segir Drottinn - að ég mun uppvekja fyrir Davíð réttan kvist, er ríkja skal sem konungur og breyta viturlega og iðka rétt og réttlæti í landinu. 6Á hans dögum mun Júda hólpinn verða og Ísrael búa óhultur, og þetta mun verða nafn hans, það er menn nefna hann með: "Drottinn er vort réttlæti!"

7Sjá, fyrir því munu þeir dagar koma - segir Drottinn - að menn munu eigi framar segja: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir, sá er leiddi Ísraelsmenn út af Egyptalandi!" 8heldur: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir, sá er leiddi og flutti heim niðja Ísraels húss úr landinu norður frá og úr öllum þeim löndum, þangað sem ég hafði rekið þá, svo að þeir mættu búa í landi sínu!"



Safn ádeilna á spámenn og stjórnendur


Vondir spámenn og prestar

9Um spámennina:

Hjartað í brjósti mér er sundurmarið, öll bein mín skjálfa. Ég er eins og drukkinn maður, eins og maður sem vínið hefir bugað, vegna Drottins og vegna hans heilögu orða.

10Landið er fullt af hórkörlum, já, vegna bölvunarinnar syrgir landið, og beitilöndin í öræfunum eru skrælnuð. Þeir hlaupa á eftir vonsku og styrkur þeirra er ósannsögli.

11Bæði spámenn og prestar eru guðlausir, jafnvel í húsi mínu hefi ég rekið mig á vonsku þeirra - segir Drottinn. 12Fyrir því mun vegur þeirra verða þeim eins og sleipir staðir í myrkri. Þeim skal verða hrundið, svo að þeir detti á honum, því að ég leiði óhamingju yfir þá árið sem þeim verður refsað - segir Drottinn.


Spámenn líkir Sódómu og Gómorru

13Hjá spámönnum Samaríu sá ég hneykslanlegt athæfi: Þeir spáðu í nafni Baals og leiddu lýð minn Ísrael afvega. 14En hjá spámönnum Jerúsalem sá ég hryllilegt athæfi: Þeir drýgja hór og fara með lygar og veita illgjörðarmönnum liðveislu, svo að enginn þeirra snýr sér frá illsku sinni. Þeir eru allir orðnir mér eins og Sódóma og íbúar hennar eins og Gómorra. 15Fyrir því segir Drottinn allsherjar svo um spámennina:

Sjá, ég vil gefa þeim malurt að eta og eiturvatn að drekka, því að frá spámönnum Jerúsalem hefir guðleysi breiðst út um allt landið.


Spámenn án köllunar

16Svo segir Drottinn allsherjar:

Hlýðið ekki á orð spámannanna, sem spá yður; þeir draga yður á tálar. Þeir boða vitranir, sem þeir sjálfir hafa spunnið upp, en ekki fengið frá Drottni. 17Sífelldlega segja þeir við þá, er hafa hafnað orði Drottins: "Yður mun heill hlotnast!" Og við alla sem fara eftir þverúð hjarta síns, segja þeir: "Engin ógæfa mun yfir yður koma!"

18Já, hver stendur í ráði Drottins? Hver sér og heyrir orð hans? Hver gefur gaum að orðum mínum og kunngjörir þau?

19Sjá, stormur Drottins brýst fram - reiði og hvirfilbylur - hann steypist yfir höfuð hinna óguðlegu.

20Reiði Drottins léttir ekki fyrr en hann hefir framkvæmt og leitt til lykta fyrirætlanir hjarta síns. Síðar meir munuð þér skilja það greinilega.

21Ég hefi ekki sent spámennina, og þó hlupu þeir. Ég hefi eigi talað til þeirra, og þó spáðu þeir. 22Hefðu þeir staðið í mínu ráði, þá mundu þeir kunngjöra þjóð minni mín orð og snúa þeim frá þeirra vonda vegi og frá þeirra vondu verkum.


Spámenn án umboðs

23Er ég þá aðeins Guð í nánd - segir Drottinn - og ekki Guð í fjarlægð? 24Getur nokkur falið sig í fylgsnum, svo að ég sjái hann ekki? - segir Drottinn. Uppfylli ég ekki himin og jörð? - segir Drottinn.

25Ég heyri hvað spámennirnir segja, þeir sem boða lygar í mínu nafni. Þeir segja: "Mig dreymdi, mig dreymdi!" 26Hversu lengi á þetta svo að ganga? Ætla spámennirnir, þeir er boða lygar og flytja tál, er þeir sjálfir hafa upp spunnið - 27hvort hyggjast þeir að koma þjóð minni til að gleyma nafni mínu, með draumum sínum, er þeir segja hver öðrum, eins og feður þeirra gleymdu nafni mínu vegna Baals? 28Sá spámaður, sem dreymir draum, segi drauminn, og sá, sem hefir mitt orð, flytji hann mitt orð í sannleika. Hvað er sameiginlegt hálmstrái og korni? - segir Drottinn. 29Er ekki orð mitt eins og eldur - segir Drottinn - og eins og hamar, sem sundurmolar klettana?

30Sjá, þess vegna skal ég finna spámennina - segir Drottinn - sem stela orðum mínum hver frá öðrum. 31Ég skal finna spámennina - segir Drottinn - sem taka til sinnar eigin tungu til þess að umla guðmæli. 32Ég skal finna spámennina, sem kunngjöra lygadrauma - segir Drottinn - og segja frá þeim og leiða þjóð mína afvega með lygum sínum og gorti, og þó hefi ég ekki sent þá og ekkert umboð gefið þeim, og þeir gjöra þessari þjóð alls ekkert gagn - segir Drottinn.


Um háðsyrði gegn spámannsorðinu

33Þegar þessi lýður spyr þig, eða einhver spámaðurinn eða einhver presturinn, og segir: "Hver er byrði Drottins?" þá skalt þú segja við þá:

Þér eruð byrðin, og ég mun varpa yður af mér - segir Drottinn.

34En sá spámaður og sá prestur og sá lýður, sem talar um "byrði Drottins" - slíks manns vil ég vitja og húss hans. 35Svo skuluð þér segja hver við annan og einn við annan: "Hverju hefir Drottinn svarað?" eða "Hvað hefir Drottinn sagt?" 36En "byrði Drottins" skuluð þér ekki framar nefna, því að hverjum manni munu þau orð hans verða "byrði", þar sem þér hafið rangfært orð hins lifanda Guðs, Drottins allsherjar, vors Guðs. 37Svo skulu menn segja við spámanninn: "Hverju hefir Drottinn svarað þér?" eða "Hvað hefir Drottinn sagt?" 38En ef þér talið um "byrði" Drottins - þá segir Drottinn svo: Af því að þér viðhafið þetta orð "byrði Drottins", þótt ég gjörði yður þá orðsending: Þér skuluð ekki tala um "byrði Drottins" - 39sjá, fyrir því vil ég hefja yður upp og varpa yður og borginni, sem ég gaf yður og feðrum yðar, burt frá mínu augliti. 40Og ég legg á yður eilífa smán og eilífa skömm, sem aldrei mun gleymast.


Tvær körfur af fíkjum: Herleiðingin verður til heilla

24
1Drottinn lét mig sjá: Tvær karfir fullar af fíkjum voru settar fyrir framan musteri Drottins, eftir að Nebúkadresar Babelkonungur hafði herleitt Jekonja Jójakímsson, Júdakonung, og höfðingjana í Júda og trésmiðina og járnsmiðina burt frá Jerúsalem og flutt þá til Babýlon. 2Í annarri körfinni voru mjög góðar fíkjur, líkar árfíkjum, en í hinni körfinni voru mjög vondar fíkjur, sem voru svo vondar, að þær voru óætar.

3Þá sagði Drottinn við mig:

Hvað sér þú, Jeremía? Og ég svaraði:

Fíkjur! Góðu fíkjurnar eru mjög góðar, en þær vondu eru mjög vondar, já svo vondar, að þær eru óætar.

4Þá kom orð Drottins til mín: 5Svo segir Drottinn, Ísraels Guð:

Eins og á þessar góðu fíkjur, svo lít ég á hina herleiddu úr Júda, sem ég hefi sent héðan til Kaldealands, þeim til heilla. 6Ég beini augum mínum á þá þeim til heilla og flyt þá aftur inn í þetta land, svo að ég megi byggja þá upp og ekki rífa þá niður aftur og gróðursetja þá og ekki uppræta þá aftur. 7Og ég gef þeim hjarta til að þekkja mig, að ég er Drottinn, og þeir skulu vera mín þjóð og ég skal vera þeirra Guð, þegar þeir snúa sér til mín af öllu hjarta.

8Og eins og vondu fíkjurnar, sem eru svo vondar, að þær eru óætar - já, svo segir Drottinn -, þannig vil ég fara með Sedekía konung í Júda og höfðingja hans og leifarnar af Jerúsalem, þá sem eftir eru í þessu landi og þá sem sest hafa að í Egyptalandi. 9Ég mun gjöra þá að grýlu, að andstyggð öllum konungsríkjum jarðar, að háðung, orðskvið, spotti og formæling á öllum þeim stöðum, þangað sem ég rek þá. 10Og ég sendi sverð, hungur og drepsótt í móti þeim, þar til er þeir eru gjöreyddir úr landinu, sem ég gaf þeim og feðrum þeirra.


Ræður 23ja ára rifjaðar upp

25
1Orðið sem kom til Jeremía um alla Júdamenn á fjórða ríkisári Jójakíms Jósíasonar, konungs í Júda - það var fyrsta ríkisár Nebúkadresars Babelkonungs -, 2orðið, sem Jeremía spámaður talað til alls Júdalýðs og til allra Jerúsalembúa:

3Frá þrettánda ríkisári Jósía Amónssonar, Júdakonungs, og fram á þennan dag, nú í tuttugu og þrjú ár, hefir orð Drottins komið til mín og ég hefi talað til yðar seint og snemma, en þér hafið ekki heyrt. 4Og Drottinn hefir sent til yðar alla þjóna sína, spámennina, bæði seint og snemma, en þér hafið ekki heyrt, né heldur lagt við eyrun til þess að heyra.

5Hann sagði: "Snúið yður, hver og einn frá sínum vonda vegi og frá yðar vondu verkum, þá skuluð þér búa kyrrir í landinu, sem Drottinn gaf yður og feðrum yðar, frá eilífð til eilífðar. 6En eltið ekki aðra guði til þess að þjóna þeim og falla fram fyrir þeim, og egnið mig ekki til reiði með handaverkum yðar, svo að ég láti yður ekkert böl að höndum bera." 7En þér hlýdduð ekki á mig - segir Drottinn - heldur egnduð mig til reiði með handaverkum yðar, yður sjálfum til ills. 8Fyrir því segir Drottinn allsherjar svo:

Af því að þér hlýdduð ekki orðum mínum, 9þá vil ég láta sækja allar kynkvíslir norðursins - segir Drottinn - og Nebúkadresar Babelkonung, þjón minn, og láta þá brjótast inn yfir þetta land og inn á íbúa þess og inn á allar þessar þjóðir hér umhverfis, og ég vil helga þá banni og gjöra þá að skelfing og spotti og eilífri háðung, 10og ég vil láta gjörsamlega hverfa meðal þeirra öll ánægju- og gleðihljóð, öll fagnaðarlæti brúðguma og brúðar, öll kvarnarhljóð og lampaljós. 11Og allt þetta land skal verða að rúst, að auðn, og þessar þjóðir skulu þjóna Babelkonungi í sjötíu ár.

12En þegar sjötíu ár eru liðin, mun ég refsa Babelkonungi og þessari þjóð - segir Drottinn - fyrir misgjörð þeirra, og gjöra land Kaldea að eilífri auðn. 13Og ég mun láta fram koma á þessu landi öll þau hótunarorð, er ég hefi talað gegn því, allt það sem ritað er í þessari bók, það sem Jeremía hefir spáð um allar þjóðir. 14Því að voldugar þjóðir og miklir konungar munu og gjöra þá að þrælum, og ég mun gjalda þeim eftir athæfi þeirra og eftir handaverkum þeirra.


Sýn spámannsins: Bikar reiðinnar

15Svo sagði Drottinn, Ísraels Guð, við mig:

Tak við þessum bikar reiðivínsins af hendi mér og lát allar þjóðirnar drekka af honum, þær er ég sendi þig til, 16svo að þær drekki og reiki og verði vitskertar af sverðinu, er ég sendi meðal þeirra.

17Þá tók ég við bikarnum af hendi Drottins og lét allar þær þjóðir drekka, sem Drottinn hafði sent mig til:

18Jerúsalem og borgirnar í Júda, konunga hennar og höfðingja, til að gjöra þá að rúst, að skelfing, að spotti og formæling, eins og nú er fram komið,

19Faraó, Egyptalandskonung, og þjóna hans og höfðingja, alla þjóð hans og allan þjóðblending,

20alla konunga í Ús-landi,

alla konunga í Filistalandi, sem sé Askalon, Gasa, Ekron og leifarnar af Asdód,

21Edóm og Móab og Ammóníta,

22alla konunga í Týrus og alla konunga í Sídon og konungana á ströndunum, hinum megin hafsins,

23Dedan og Tema og Bús og alla sem skera hár sitt við vangann,

24alla konunga Arabíu og alla konunga þjóðblendinganna, sem búa í eyðimörkinni,

25alla konungana í Simrí og alla konungana í Elam og alla konungana í Medíu,

26alla konungana norður frá, hvort sem þeir búa nálægt hver öðrum eða langt hver frá öðrum, í stuttu máli öll konungsríki á jörðinni. En konungurinn í Sesak skal drekka á eftir þeim.

27En þú skalt segja við þá: Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð:

Drekkið, til þess að þér verðið drukknir, spúið og dettið og standið ekki upp aftur, af sverðinu, sem ég sendi meðal yðar.

28En færist þeir undan að taka við bikarnum af hendi þinni til þess að drekka, þá seg við þá: Svo segir Drottinn allsherjar: Drekka skuluð þér! 29Því sjá, hjá borginni, sem nefnd er eftir nafni mínu, læt ég ógæfuna fyrst ríða yfir, - og þér skylduð sleppa óhegndir? Þér skuluð ekki sleppa óhegndir, því að sverði býð ég út gegn öllum íbúum jarðarinnar - segir Drottinn allsherjar.

30Þú skalt kunngjöra þeim öll þessi orð og segja við þá:

Af hæðum kveða við reiðarþrumur Drottins. Hann lætur rödd sína gjalla frá sínum heilaga bústað. Hann þrumar hátt út yfir haglendi sitt, raust hans gellur, eins og hróp þeirra, sem vínber troða. 31Dynurinn berst öllum þeim sem á jörðu búa, út á enda jarðar, því að Drottinn þreytir deilu við þjóðirnar, hann gengur í dóm við allt hold. Hina óguðlegu ofurselur hann sverðinu! - segir Drottinn.

32Svo segir Drottinn allsherjar:

Sjá, ógæfa fer frá einni þjóð til annarrar, og ákafur stormur rís á útjaðri jarðar. 33Þeir sem Drottinn hefir fellt, munu á þeim degi liggja dauðir frá einum enda jarðarinnar til annars. Þeir munu eigi verða harmaðir, eigi safnað saman og eigi jarðaðir, þeir skulu verða að áburði á akrinum.

34Æpið, hirðar, og kveinið! Veltið yður í duftinu, þér leiðtogar hjarðarinnar! Því að yðar tími er kominn, að yður verði slátrað og yður tvístrað, og þér skuluð detta niður eins og verðmætt ker. 35Þá er ekkert athvarf lengur fyrir hirðana og engin undankoma fyrir leiðtoga hjarðarinnar.

36Heyr kvein hirðanna og óp leiðtoga hjarðarinnar, af því að Drottinn eyðir haglendi þeirra, 37og hin friðsælu beitilönd eru gjöreydd orðin fyrir hinni brennandi reiði Drottins. 38Hann hefir yfirgefið skógarrunn sinn, eins og ljónið, já, að auðn varð land þeirra fyrir hinu vígfreka sverði og fyrir hans brennandi reiði.



Sögulegir kaflar


Jeremía handtekinn

26
1Í byrjun ríkisstjórnar Jójakíms Jósíasonar, konungs í Júda, kom þetta orð frá Drottni: 2Svo segir Drottinn: Gakk í forgarð musteris Drottins, og tala til allra þeirra manna úr Júdaborgum, sem komnir eru til þess að falla fram í musteri Drottins, öll þau orð, sem ég hefi boðið þér að tala til þeirra. Þú skalt ekki draga neitt orð undan. 3Ef til vill hlýða þeir og snúa sér, hver og einn frá sínum vonda vegi. Mun mig þá iðra þeirrar óhamingju, sem ég hygg að leiða yfir þá sakir illra verka þeirra. 4Og þú skalt segja þeim: Svo segir Drottinn: Ef þér hlýðið mér ekki, svo að þér breytið eftir lögmáli mínu, sem ég hefi fyrir yður lagt, 5svo að þér hlýðið orðum þjóna minna, spámannanna, er ég hefi sent til yðar æ að nýju óaflátanlega, - en þér hafið ekki hlýtt þeim -, 6þá vil ég fara með þetta hús eins og húsið í Síló, og gjöra þessa borg að formæling fyrir allar þjóðir jarðarinnar.

7En er prestarnir og spámennirnir og allur lýðurinn heyrði Jeremía flytja þessi orð í musteri Drottins, 8og Jeremía hafði lokið að tala allt það, sem Drottinn hafði boðið honum að tala til alls lýðsins, þá tóku prestarnir og spámennirnir og allur lýðurinn hann höndum og sögðu: "Þú skalt vissulega deyja! 9Hví hefir þú spáð í nafni Drottins og sagt: Þetta hús skal verða eins og húsið í Síló, og þessi borg skal í eyði lögð og mannlaus verða!" Og allur lýðurinn safnaðist gegn Jeremía í musteri Drottins.

10En er höfðingjarnir í Júda fréttu þetta, fóru þeir úr konungshöllinni upp til musteris Drottins og settust úti fyrir Hinu nýja hliði musterisins. 11Og prestarnir og spámennirnir töluðu til höfðingjanna og alls lýðsins og sögðu: "Þessi maður er dauða sekur, því að hann hefir spáð gegn þessari borg, eins og þér hafið heyrt með eigin eyrum."

12Jeremía mælti til allra höfðingjanna og alls lýðsins á þessa leið: "Drottinn hefir sent mig til þess að boða öll þessi orð, sem þér hafið heyrt, gegn þessu húsi og þessari borg. 13Og bætið nú framferði yðar og athafnir og hlýðið raustu Drottins, Guðs yðar, svo að Drottin megi iðra þeirrar óhamingju, er hann hefir hótað yður. 14En að því er til sjálfs mín kemur, þá er ég á yðar valdi. Gjörið við mig það, sem yður þykir gott og rétt. 15En það skuluð þér vita, að ef þér deyðið mig, þá leiðið þér saklaust blóð yfir yður og yfir þessa borg og yfir íbúa hennar, því að Drottinn hefir sannlega sent mig til yðar til þess að flytja yður öll þessi orð."

16Þá sögðu höfðingjarnir og allur lýðurinn við prestana og spámennina: "Þessi maður er ekki dauða sekur, því að hann hefir talað til vor í nafni Drottins, Guðs vors."

17Þá gengu nokkrir af öldungum landsins fram og mæltu til alls mannsafnaðarins á þessa leið: 18"Míka frá Móreset kom fram sem spámaður á dögum Hiskía konungs í Júda og mælti til alls Júdalýðs á þessa leið:

,Svo segir Drottinn allsherjar:

Síon mun plægð verða sem akur og Jerúsalem mun verða að rústum og musterisfjallið að skógarhæðum.'

19Hvort deyddi Hiskía Júdakonungur og allur Júdalýður hann? Óttaðist hann ekki Drottin og blíðkaði Drottin, svo að Drottin iðraði þeirrar óhamingju, er hann hafði hótað þeim? En vér erum rétt að því komnir að baka oss mikla óhamingju!"

20Annar maður var og, sem spáði í nafni Drottins, Úría Semajason frá Kirjat-Jearím. Hann spáði og gegn þessari borg og þessu landi, alveg á sama hátt og Jeremía. 21En er Jójakím konungur og allir kappar hans og allir höfðingjarnir spurðu orð hans, leitaðist konungur við að láta drepa hann. En er Úría frétti það, varð hann hræddur, flýði burt og fór til Egyptalands. 22En Jójakím konungur gjörði menn til Egyptalands, Elnatan Akbórsson og menn með honum. 23Og þeir sóttu Úría til Egyptalands og fóru með hann til Jójakíms konungs, og hann lét drepa hann með sverði og kasta líkinu á grafir múgamanna.

24En Ahíkam Safansson verndaði Jeremía, svo að hann var eigi framseldur í hendur lýðsins til lífláts.


Orðsending: Beygið yður undir ok konungsins í Babýlon

27
1Í upphafi ríkisstjórnar Sedekía Jósíasonar, konungs í Júda, kom þetta orð til Jeremía frá Drottni:

2Svo sagði Drottinn við mig:

Gjör þér bönd og ok og legg um háls þér 3og gjör konunginum í Edóm og konunginum í Móab og konungi Ammóníta og konunginum í Týrus og konunginum í Sídon orðsending með sendimönnunum, sem komnir eru til Jerúsalem til Sedekía Júdakonungs, 4og bjóð þeim að mæla svo til herra sinna: "Svo sagði Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Svo skuluð þér segja við herra yðar: 5Ég hefi gjört jörðina og mennina og skepnurnar, sem á jörðinni eru, með mínum mikla mætti og útrétta armlegg, og ég gef þetta þeim, er mér þóknast. 6Og nú gef ég öll þessi lönd á vald Nebúkadnesars Babelkonungs, þjóns míns. Jafnvel dýr merkurinnar gef ég honum, til þess að þau þjóni honum. 7Og allar þjóðir skulu þjóna honum og syni hans og sonarsyni hans, þar til er einnig tími hans lands kemur og voldugar þjóðir og miklir konungar gjöra hann að þræl sínum. 8Og sú þjóð og það konungsríki, sem ekki vill þjóna honum, Nebúkadnesar Babelkonungi, og ekki beygja háls sinn undir ok Babelkonungs, þeirrar þjóðar mun ég vitja með sverði, hungri og drepsótt - segir Drottinn - uns ég hefi gjöreytt þeim fyrir hans hendi.

9Hlýðið ekki á spámenn yðar né spásagnarmenn, né drauma yðar, né á galdramenn yðar né töframenn, þá er þeir mæla til yðar á þessa leið: ,Þér munuð ekki þjóna Babelkonungi.' 10Því að þeir boða yður lygar til þess að flæma yður úr landi yðar, svo að ég reki yður burt og þér farist. 11En þá þjóð, sem beygir háls sinn undir ok Babelkonungs og þjónar honum, hana vil ég láta vera kyrra í landi sínu - segir Drottinn - til þess að hún yrki það og byggi."

12Og við Sedekía Júdakonung talaði ég öldungis á sama hátt: "Sveigið háls yðar undir ok Babelkonungs og þjónið honum og þjóð hans, þá munuð þér lífi halda. 13Hví viljið þér, þú og þjóð þín, deyja fyrir sverði, af hungri og drepsótt, eins og Drottinn hefir hótað þeim þjóðum, er eigi vilja þjóna Babelkonungi? 14Hlýðið eigi á orð spámannanna, er segja við yður: ,Þér munuð eigi þjóna Babelkonungi!' Því að þeir boða yður lygar. 15Því að ég hefi ekki sent þá - segir Drottinn - heldur spá þeir ranglega í mínu nafni, til þess að ég reki yður burt og þér farist, ásamt spámönnunum, er yður hafa spáð."

16Við prestana og allan þennan lýð hefi ég og talað á þessa leið: "Svo segir Drottinn: Hlýðið eigi á orð spámanna yðar, er spá yður og segja: ,Sjá, áhöldin úr musteri Drottins munu bráðlega verða flutt heim aftur frá Babýlon!' - því að þeir boða yður lygar. 17Hlýðið eigi á þá. Þjónið heldur Babelkonungi, þá munuð þér lífi halda! Hví á þessi borg að verða að rúst? 18En séu þeir spámenn og sé orð Drottins hjá þeim, þá biðja þeir Drottin allsherjar, að áhöld þau, sem enn eru eftir í musteri Drottins og í höll Júdakonungs og í Jerúsalem, fari eigi líka til Babýlon. 19Því að svo segir Drottinn allsherjar um súlurnar, um hafið og um undirstöðupallana og um hin önnur áhöld, sem eftir eru í þessari borg, 20þau er Nebúkadnesar Babelkonungur ekki tók, þá er hann herleiddi Jekonja Jójakímsson, Júdakonung, frá Jerúsalem til Babýlon, ásamt öllum tignarmönnum Júda og Jerúsalem, 21já, svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð, um áhöldin, sem eftir eru í musteri Drottins og höll Júdakonungs og í Jerúsalem: 22Til Babýlon skulu þau flutt verða og þar skulu þau vera, allt til þess dags, er ég vitja þeirra - segir Drottinn - og sæki þau og flyt þau aftur á þennan stað.


Hananja spámaður og látbragðstákn oksins

28
1Þetta ár - í upphafi ríkisstjórnar Sedekía konungs í Júda, fjórða árið, í fimmta mánuðinum - sagði Hananja spámaður Assúrsson frá Gíbeon við mig í musteri Drottins í viðurvist prestanna og alls lýðsins: 2"Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Ég brýt sundur ok Babelkonungs! 3Áður en tvö ár eru liðin, flyt ég aftur á þennan stað öll áhöldin úr musteri Drottins, þau er Nebúkadnesar Babelkonungur tók á þessum stað og flutti til Babýlon. 4Jekonja Jójakímsson, Júdakonung, og alla hina herleiddu úr Júda, þá er komnir eru til Babýlon, flyt ég og aftur á þennan stað - segir Drottinn - því að ég brýt sundur ok Babelkonungs!"

5Þá talaði Jeremía spámaður til Hananja spámanns í viðurvist prestanna og alls lýðsins, sem stóð í musteri Drottins, 6og Jeremía spámaður mælti: "Verði svo! Drottinn gjöri það! Drottinn láti orð þín, er þú hefir spáð, rætast, svo að hann flytji aftur frá Babýlon á þennan stað áhöldin úr musteri Drottins og alla hina herleiddu! 7En heyr þessi orð, sem ég kunngjöri þér og öllum lýðnum: 8Þeir spámenn, sem komið hafa fram á undan mér og á undan þér frá alda öðli, þeir spáðu voldugum löndum og stórum konungsríkjum ófriði, óhamingju og drepsótt. 9En sá spámaður, sem spáir heill, - ef orð hans rætast, þá þekkist á því sá spámaður, er Drottinn hefir sannarlega sent."

10Þá tók Hananja spámaður okið af hálsi Jeremía spámanns og braut það sundur. 11Síðan mælti Hananja í viðurvist alls lýðsins á þessa leið: "Svo segir Drottinn: Eins skal ég sundurbrjóta ok Nebúkadnesars Babelkonungs áður tvö ár eru liðin af hálsi allra þjóða!"

En Jeremía spámaður fór leiðar sinnar.

12En orð Drottins kom til Jeremía, eftir að Hananja spámaður hafði sundurbrotið okið af hálsi Jeremía spámanns: 13Far og seg við Hananja: Svo segir Drottinn:

Tré-ok hefir þú sundurbrotið, en ég vil í þess stað gjöra járn-ok! 14Því að svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Járnok legg ég á háls allra þessara þjóða, til þess að þær verði þegnskyldar Nebúkadnesar Babelkonungi og þjóni honum, já, jafnvel dýr merkurinnar gef ég honum.

15Þá sagði Jeremía spámaður við Hananja spámann: "Heyr þú, Hananja! Drottinn hefir ekki sent þig, og þó hefir þú ginnt lýð þennan til að reiða sig á lygar! 16Fyrir því segir Drottinn svo: Sjá, ég kippi þér burt af jörðinni. Á þessu ári skalt þú deyja, því að þú hefir prédikað fráhvarf frá Drottni." 17Og Hananja spámaður dó þetta ár, í sjöunda mánuðinum.


Bréf Jeremía í fyrstu herleiðingu

29
1Þessi eru orð bréfsins, sem Jeremía spámaður sendi frá Jerúsalem til öldunga hinna herleiddu og til prestanna og til spámannanna og til alls lýðsins, sem Nebúkadnesar hafði herleitt frá Jerúsalem til Babýlon 2(eftir að Jekonja konungur og konungsmóðir og hirðmennirnir, höfðingjar Júda og Jerúsalem, og trésmiðirnir og járnsmiðirnir voru farnir burt úr Jerúsalem), 3með Elasa Safanssyni og Gemaría Hilkíasyni, sem Sedekía Júdakonungur sendi til Nebúkadnesars Babelkonungs til Babýlon:

4"Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð, öllum hinum herleiddu, þeim er ég herleiddi frá Jerúsalem til Babýlon:

5Reisið hús og búið í þeim, plantið garða og etið ávöxtu þeirra. 6Takið yður konur og getið sonu og dætur, og takið sonum yðar konur og giftið dætur yðar, til þess að þær megi fæða sonu og dætur og yður fjölgi þar, en fækki ekki. 7Látið yður umhugað um heill borgarinnar, sem ég herleiddi yður til, og biðjið til Drottins fyrir henni, því að heill hennar er heill sjálfra yðar. 8Því að svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Látið eigi spámenn yðar, sem meðal yðar eru, né spásagnamenn yðar tæla yður, og trúið ekki á drauma yðar, sem yður dreymir. 9Því að þeir spá yður ranglega í mínu nafni, ég hefi ekki sent þá! - segir Drottinn.

10Svo segir Drottinn:

Þegar sjötíu ár eru umliðin fyrir Babýlon, mun ég vitja yðar og efna við yður fyrirheit mitt að flytja yður aftur á þennan stað. 11Því að ég þekki þær fyrirætlanir, sem ég hefi í hyggju með yður - segir Drottinn - fyrirætlanir til heilla, en ekki til óhamingju, að veita yður vonarríka framtíð. 12Þá munuð þér ákalla mig og fara og biðja til mín, og ég mun bænheyra yður. 13Og þér munuð leita mín og finna mig. Þegar þér leitið mín af öllu hjarta, 14vil ég láta yður finna mig - segir Drottinn - og snúa við högum yðar og safna yður saman frá öllum þjóðum og úr öllum þeim stöðum, þangað sem ég hefi rekið yður - segir Drottinn - og flytja yður aftur á þann stað, þaðan sem ég herleiddi yður.

15Þér segið: ,Drottinn hefir vakið oss upp spámenn í Babýlon.'

16Svo segir Drottinn um konunginn, sem situr í hásæti Davíðs, og um allan lýðinn, sem býr í þessari borg, bræður yðar, sem ekki voru herleiddir með yður - 17svo segir Drottinn allsherjar: Sjá, ég sendi yfir þá sverð, hungur og drepsótt og gjöri þá eins og viðbjóðslegar fíkjur, sem eru svo vondar, að þær eru ekki ætar, 18og ég elti þá með sverði, hungri og drepsótt og gjöri þá að grýlu öllum konungsríkjum jarðar, að formæling, að skelfing, að spotti og háðung meðal allra þjóða, þangað sem ég rek þá, 19fyrir það að þeir hlýddu ekki orðum mínum - segir Drottinn - er ég hefi óaflátanlega sent þjóna mína, spámennina, með til þeirra, en þér heyrðuð ekki - segir Drottinn. 20En heyrið þér orð Drottins, allir þér hinir herleiddu, er ég hefi sent frá Jerúsalem til Babýlon.

21Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð, um Ahab Kólajason og um Sedekía Maasejason, sem boða yður lygar í mínu nafni: Sjá, ég gef þá Nebúkadresar Babelkonungi á vald, og hann mun láta drepa þá fyrir augum yðar. 22Og þeir munu verða bölbænar-formáli fyrir alla hina herleiddu úr Júda, sem eru í Babýlon, svo að menn kveði svo að orði: ,Drottinn fari með þig eins og Sedekía og Ahab, sem Babelkonungur steikti á eldi.' 23Sök þeirra er, að þeir frömdu óhæfuverk í Ísrael og drýgðu hór með konum vina sinna og töluðu orð í mínu nafni, er ég hafði þeim eigi um boðið, já ég þekki það sjálfur og er vottur að því! - segir Drottinn."


Bréf Semaja spámanns

24En við Semaja frá Nehalam skalt þú segja á þessa leið: 25Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Þú hefir sent bréf í þínu eigin nafni til alls lýðsins, sem er í Jerúsalem, og til Sefanía Maasejasonar prests og til allra prestanna, þess efnis: 26"Drottinn hefir sett þig prest í stað Jójada prests, til þess að þú hafir nákvæmar gætur í musteri Drottins á öllum óðum mönnum og þeim, er spámannsæði er á, og setjir þá í stokk og hálsjárn! 27Hví hefir þú þá ekki ávítað Jeremía frá Anatót, sem hér iðkar spádóma? 28Þannig hefir hann gjört oss svolátandi orðsending til Babýlon: ,Það verður langvinnt! Reisið hús og búið í þeim og plantið garða og etið ávöxtu þeirra.'"

29En Sefanía prestur las þetta bréf upphátt fyrir Jeremía spámanni. 30Þá kom orð Drottins til Jeremía, svo hljóðandi: 31Gjör öllum hinum herleiddu svo hljóðandi orðsending: Svo segir Drottinn um Semaja frá Nehalam:

Sökum þess að Semaja hefir spáð yður án þess að ég hafi sent hann og ginnt yður til þess að reiða yður á lygar, 32fyrir því segir Drottinn svo: Sjá, ég mun hefna þess á Semaja frá Nehalam og niðjum hans. Hann skal ekki eiga neinn niðja, sem búi meðal þessarar þjóðar, og hann skal ekki fá litið þau gæði, sem ég bý þjóð minni - segir Drottinn - því að hann hefir prédikað fráhvarf frá Drottni.



Bók huggunarinnar

30
1Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni:

2Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: Skrifa þú öll þau orð, er ég hefi til þín talað, í bók. 3Því sjá, þeir dagar munu koma - segir Drottinn - að ég mun snúa við hag lýðs míns, Ísraels og Júda - segir Drottinn - og láta þá hverfa aftur til þess lands, sem ég gaf feðrum þeirra, og þeir skulu taka það til eignar.

4Þessi eru orðin, sem Drottinn talaði um Ísrael og Júda.


"Óttast þú ekki, ég er með þér"

5Svo segir Drottinn:

Hræðsluóp heyrum vér, ótti er á ferðum, en engin heill!

6Spyrjið um og gætið að, hvort karlmaður ali barn! Hvers vegna sé ég þá alla menn með hendur á lendum, líkt og jóðsjúk kona væri, og hvers vegna eru öll andlit orðin nábleik?

7Vei, mikill er sá dagur, hann á ekki sinn líka og angistartími er það fyrir Jakob, en hann mun frelsast frá því.

8Á þeim degi - segir Drottinn allsherjar - mun ég sundur brjóta okið af hálsi hans og slíta af honum böndin, og útlendir menn skulu ekki lengur halda honum í þrældómi. 9Þeir skulu þjóna Drottni, Guði sínum, og Davíð, konungi sínum, er ég mun uppvekja þeim.

10Óttast þú ekki, þjónn minn Jakob - segir Drottinn - og hræðst þú ekki, Ísrael, því að ég frelsa þig úr fjarlægu landi og leysi niðja þína úr landinu, þar sem þeir eru herleiddir, til þess að Jakob hverfi heim aftur og njóti hvíldar og búi óhultur, án þess nokkur hræði hann.

11Ég er með þér - segir Drottinn - til þess að frelsa þig. Ég vil gjöreyða öllum þeim þjóðum, sem ég hefi tvístrað þér á meðal. Þér einni vil ég ekki gjöreyða, heldur vil ég hirta þig í hófi, en ég vil ekki láta þér með öllu óhegnt.


Guð læknar sárin

12Svo segir Drottinn:

Áverki þinn er illkynjaður, sár þitt ólæknandi. 13Enginn tekur að sér málefni þitt, við meininu er engin lækning, engin smyrsl til handa þér.

14Allir ástmenn þínir hafa gleymt þér, þeir spyrja ekki eftir þér, af því að ég hefi lostið þig, eins og óvinur lýstur, með grimmilegri hirting, sakir fjölda misgjörða þinna, sakir þess að syndir þínar eru margar.

15Hví æpir þú af áverka þínum, af þinni ólæknandi kvöl? Sakir fjölda misgjörða þinna, sakir þess að syndir þínar eru margar, hefi ég gjört þér þetta. 16Fyrir því skulu allir þeir, sem þig eta, etnir verða, og allir þeir, sem þér þröngva, herleiddir verða. Og þeir, sem rupla þig, skulu verða öðrum að herfangi, og alla þá, sem þig ræna, mun ég framselja til ráns.

17Ég mun láta koma hyldgan á sár þín og lækna þig af áverkum þínum - segir Drottinn - af því að þeir kalla þig "hina brottreknu," "Síon, sem enginn spyr eftir."


Endurreisn þjóðarinnar

18Svo segir Drottinn:

Sjá, ég sný við högum Jakobs tjalda og miskunna mig yfir bústaði hans, til þess að borgin verði aftur reist á hæð sinni og aftur verði búið í höllinni á hennar vanastað. 19Og þaðan skal hljóma þakkargjörð og gleðihljóð, og ég læt þeim fjölga og eigi fækka, og ég gjöri þá vegsamlega, svo að þeir séu ekki lengur lítilsvirtir.

20Synir hans skulu vera mér sem áður, og söfnuður hans skal vera grundvallaður frammi fyrir mér, en allra kúgara hans mun ég vitja.

21Höfðingi hans mun frá honum koma og drottnari hans fram ganga úr flokki hans. Og ég mun láta hann nálgast mig, og hann mun koma til mín, því að hver skyldi af sjálfsdáðum hætta lífi sínu í það að koma til mín? - segir Drottinn. 22Og þá munuð þér vera mín þjóð, og ég mun vera yðar Guð.


Hinn mikli hvirfilbylur

23Sjá, stormur Drottins brýst fram - reiði og hvirfilbylur - hann steypist yfir höfuð hinna óguðlegu.

24Hinni brennandi reiði Drottins linnir ekki fyrr en hann hefir framkvæmt fyrirætlanir hjarta síns og komið þeim til vegar. Síðar meir munuð þér skilja það.


Með ævarandi elsku elskaði ég þig

31
1Á þeim tíma mun ég - segir Drottinn - vera Guð fyrir allar ættkvíslir Ísraels, og þeir munu vera mín þjóð.

2Svo segir Drottinn:

Sá lýður, er undan sverðinu komst, fann náð í óbyggðum, er Ísrael leitaði hvíldar.

3Úr fjarlægð birtist Drottinn mér: "Með ævarandi elsku hefi ég elskað þig. Fyrir því hefi ég látið náð mína haldast við þig."

4Enn vil ég endurreisa þig, svo að þú verðir endurreist, mærin Ísrael. Enn munt þú skreyta þig með bjöllum og ganga út í dansi fagnandi manna.

5Þú munt enn planta víngarða á Samaríufjöllum. Þeir, sem hafa gróðursett þá, munu og hafa nytjar þeirra.

6Já, sá dagur mun koma, að varðmennirnir kalla á Efraím-fjöllum: Standið upp, förum upp til Síon, til Drottins, Guðs vors!


Aftur til fyrirheitna landsins

7Svo segir Drottinn:

Fagnið yfir Jakob með gleði og kætist yfir öndvegisþjóð þjóðanna. Kunngjörið, vegsamið og segið: Frelsa, Drottinn, þjóð þína, leifarnar af Ísrael!

8Sjá, ég flyt þá úr landinu norður frá og safna þeim saman frá útkjálkum jarðar, á meðal þeirra eru bæði blindir og lamir, bæði þungaðar og jóðsjúkar konur, í stórum hóp hverfa þeir hingað aftur.

9Þeir munu koma grátandi, og ég mun fylgja þeim huggandi, leiða þá að vatnslækjum, um sléttan veg, þar sem þeir geta eigi hrasað, því að ég er orðinn Ísrael faðir, og Efraím er frumgetinn sonur minn.


Sorg breytist í gleði

10Heyrið orð Drottins, þér þjóðir, og kunngjörið það á fjarlægu eyjunum og segið:

Sá, sem tvístraði Ísrael, safnar honum saman og mun gæta hans, eins og hirðir gætir hjarðar sinnar.

11Drottinn frelsar Jakob og leysir hann undan valdi þess, sem honum var yfirsterkari. 12Þeir skulu koma og fagna á Síonhæð og streyma til gæða Drottins, til kornsins, vínberjalagarins, olíunnar og ungu sauðanna og nautanna, og sál þeirra skal verða eins og vökvaður aldingarður, og þeir skulu eigi framar vanmegnast.

13Þá munu meyjarnar skemmta sér við dans og unglingar og gamalmenni gleðjast saman. Ég mun breyta sorg þeirra í gleði og hugga þá og gleðja eftir harma þeirra.

14Og ég mun endurnæra sál prestanna á feiti, og lýður minn mun seðja sig á gæðum mínum - segir Drottinn.


Ramakvein

15Svo segir Drottinn:

Rödd heyrist í Rama, harmakvein, beiskur grátur: Rakel grætur börnin sín. Hún vill ekki huggast láta vegna barna sinna, því að þau eru eigi framar lífs.

16Svo segir Drottinn:

Halt raust þinni frá gráti og augum þínum frá tárum, því að enn er til umbun fyrir verk þitt - segir Drottinn -: Þeir skulu hverfa heim aftur úr landi óvinanna. 17Já, enn er von um framtíð þína - segir Drottinn -: Börnin skulu hverfa heim aftur í átthaga sína.

18Að sönnu heyri ég Efraím kveina: "Þú hefir hirt mig, og ég lét hirtast eins og óvaninn kálfur, - lát mig snúa heim, þá skal ég snúa við, því að þú ert Drottinn, Guð minn! 19Því að eftir að ég hafði snúið mér frá þér, gjörðist ég iðrandi, og eftir að ég vitkaðist, barði ég mér á brjóst. Ég blygðast mín, já, ég er sneyptur, því að ég ber skömm æsku minnar."

20Er Efraím mér þá svo dýrmætur sonur eða slíkt eftirlætisbarn, að þótt ég hafi oft hótað honum, þá verð ég ávallt að minnast hans að nýju? Fyrir því kemst hjarta mitt við vegna hans, ég hlýt að miskunna mig yfir hann - segir Drottinn.


Hvatt til heimferðar

21Reis þér vörður! Set þér vegamerki! Haf athygli á brautinni, veginum, sem þú fórst! Hverf heim, mærin Ísrael! Hverf heim til þessara borga þinna!

22Hversu lengi ætlar þú að reika fram og aftur, þú hin fráhverfa dóttir? Því að Drottinn skapar nýtt á jörðu: Kvenmaðurinn verndar karlmanninn.


Blessun heitið

23Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð:

Enn munu menn mæla þessum orðum í Júda og í borgum hans, þá er ég hefi snúið við högum þeirra: "Drottinn blessi þig, bústaður réttlætisins, heilaga fjall!"

24Júda og allar borgir hans munu búa þar saman, akuryrkjumenn og þeir, sem fara um með hjarðir, 25því að ég drykkja hinar sárþyrstu sálir og metta sérhverja örmagna sál.

26Við þetta vaknaði ég og litaðist um, og svefninn hafði verið mér þægilegur.


Uppbygging landsins

27Sjá, þeir dagar koma - segir Drottinn - að ég sái Ísraels hús og Júda hús með mannsáði og fénaðarsáði, 28og eins og ég vakti yfir þeim til þess að uppræta og umturna, rífa niður og eyða og vinna þeim mein, þannig mun ég og vaka yfir þeim til þess að byggja og gróðursetja - segir Drottinn.


Ábyrgð einstaklingsins

29Á þeim dögum munu menn eigi framar segja: "Feðurnir átu súr vínber og tennur barnanna urðu sljóar!" 30Heldur mun hver deyja fyrir eigin misgjörð. Hver sá maður, er etur súr vínber, hans tennur munu sljóar verða.


Hinn nýi sáttmáli

31Sjá, þeir dagar munu koma - segir Drottinn - að ég mun gjöra nýjan sáttmála við Ísraels hús og Júda hús, 32ekki eins og þann sáttmála, er ég gjörði við feður þeirra, þá er ég tók í hönd þeirra til þess að leiða þá út af Egyptalandi, sáttmálann sem þeir hafa rofið, þótt ég væri herra þeirra - segir Drottinn. 33En í þessu skal sáttmálinn fólginn vera, sá er ég gjöri við Ísraels hús eftir þetta - segir Drottinn: Ég legg lögmál mitt þeim í brjóst og rita það á hjörtu þeirra, og ég skal vera þeirra Guð og þeir skulu vera mín þjóð. 34Og þeir skulu ekki framar kenna hver öðrum, né einn bróðirinn öðrum, og segja: "Lærið að þekkja Drottin," því að þeir munu allir þekkja mig, bæði smáir og stórir - segir Drottinn. Því að ég mun fyrirgefa misgjörð þeirra og ekki framar minnast syndar þeirra.


Skikkan skaparans

35Svo segir Drottinn, sem sett hefir sólina til að lýsa um daga, tunglið og stjörnurnar til að lýsa um nætur, sá er æsir hafið, svo að bylgjurnar gnýja - Drottinn allsherjar er nafn hans: 36Svo sannarlega sem þessi fasta skipan mun aldrei breytast fyrir mér - segir Drottinn - svo sannarlega munu Ísraels niðjar ekki hætta að vera þjóð fyrir mér alla daga.

37Svo segir Drottinn:

Svo sannarlega sem himinninn hið efra verður eigi mældur né undirstöður jarðarinnar hið neðra rannsakaðar, svo sannarlega mun ég ekki hafna öllum Ísraels niðjum sakir alls þess, er þeir hafa gjört - segir Drottinn.


Hin nýja Jerúsalem

38Sjá, þeir dagar munu koma - segir Drottinn - að borgin verður endurreist Drottni til handa, frá Hananel-turni allt að Hornhliðinu, 39og enn fremur skal mælisnúran ganga beint á Gareb-hæð og beygja þaðan til Góa. 40Og allur hræva- og öskudalurinn og allir vellirnir að Kídronlæk, allt austur að horni Hrossahliðs, skulu vera helgaðir Drottni. Eigi skal þar verða upprætt framar né rifið niður að eilífu.


Spámaðurinn kaupir akur

32
1Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni á tíunda ríkisári Sedekía konungs í Júda, það var átjánda ríkisár Nebúkadresars. 2Þá sat her Babelkonungs um Jerúsalem, en Jeremía spámaður var í varðhaldi í varðgarðinum, sem heyrir til hallar Júdakonungs. 3En Sedekía Júdakonungur hafði látið setja hann inn með þeim ummælum: "Hví spáir þú og segir: Svo segir Drottinn: Sjá, ég sel þessa borg í hendur Babelkonungi, að hann vinni hana, 4og Sedekía Júdakonungur mun ekki komast undan valdi Kaldea, heldur mun hann áreiðanlega verða seldur á vald Babelkonungi, og hann mun tala við hann munni til munns og sjá hann augliti til auglitis, 5og til Babýlon mun hann flytja Sedekía, og þar mun hann verða, uns ég vitja hans - segir Drottinn. Þegar þér berjist við Kaldea, munuð þér enga sigurför fara?"

6Jeremía svaraði: "Orð Drottins kom til mín, svohljóðandi: 7Sjá, Hanameel, sonur Sallúms föðurbróður þíns, mun til þín koma og segja: ,Kaup þú akur minn í Anatót, því að þú átt innlausnarréttinn að kaupa hann.' 8Og Hanameel frændi minn kom til mín í varðgarðinn, eins og Drottinn hafði fyrir sagt, og sagði við mig: ,Kaup þú akur minn í Anatót, sem er í Benjamínslandi, því að þú átt erfða- og innlausnarréttinn - kaup þú hann!'

Þá sá ég, að það var orð frá Drottni, 9keypti akurinn í Anatót af Hanameel frænda mínum og vó honum út andvirðið, seytján sikla silfurs. 10Og ég skrifaði það á bréf og innsiglaði það og tók votta að og vó silfrið á vog. 11Síðan tók ég kaupbréfið, hið innsiglaða - ákvæðin og skilmálana - og opna bréfið, 12og fékk kaupbréfið Barúk Neríasyni, Mahasejasonar, í viðurvist Hanameels frænda míns og í viðurvist vottanna, er skrifað höfðu undir kaupbréfið, í viðurvist allra þeirra Júdamanna, er sátu í varðgarðinum, 13og lagði svo fyrir Barúk í viðurvist þeirra: 14,Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Tak þessi bréf, þetta innsiglaða kaupbréf og þetta opna kaupbréf, og legg þau í leirker, til þess að þau varðveitist lengi. 15Því að svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Enn skulu hús keypt verða og akrar og víngarðar í þessu landi.'

16Og er ég hafði fengið Barúk Neríasyni kaupbréfið, bað ég til Drottins á þessa leið: 17,Æ, herra Drottinn, sjá, þú hefir með þínum mikla mætti og útrétta armlegg gjört himin og jörð. Þér er enginn hlutur um megn! 18Þú sem auðsýnir miskunn þúsundum og geldur misgjörð feðranna í skaut sonum þeirra eftir þá, - þú mikli, voldugi Guð, er nefnist Drottinn allsherjar, 19mikill í ráðum og máttugur í athöfnum, þú hvers augu standa opin yfir öllum vegum mannanna barna til þess að gjalda sérhverjum eftir breytni hans og eftir ávexti verka hans, 20þú sem hefir gjört tákn og undur á Egyptalandi og allt fram á þennan dag, bæði á Ísrael og á öðrum mönnum, og afrekað þér mikið nafn fram á þennan dag. 21Þú fluttir þjóð þína Ísrael af Egyptalandi með táknum og undrum og með sterkri hendi og útréttum armlegg og mikilli skelfingu 22og gafst þeim þetta land, er þú sórst feðrum þeirra að gefa þeim, land, sem flýtur í mjólk og hunangi. 23En er þeir voru komnir inn í það og höfðu tekið það til eignar, þá hlýddu þeir ekki þinni raustu, breyttu ekki eftir lögmáli þínu og gjörðu ekki neitt af því, er þú hafðir boðið þeim að gjöra. Þá lést þú alla þessa ógæfu þeim að höndum bera. 24Sjá, sóknarvirkin eru þegar komin að borginni til að vinna hana, og borgin er fyrir sakir sverðs, hungurs og drepsóttar seld á vald Kaldea, sem á hana herja, og það, sem þú hótaðir, er fram komið, og sjá, þú horfir á það. 25Og þó sagðir þú við mig, herra Drottinn: "Kaup þér akurinn fyrir silfur og tak votta að!" - þótt borgin sé seld á vald Kaldea.'"

26Þá kom orð Drottins til Jeremía:

27Sjá, ég er Drottinn, Guð alls holds. Er mér nokkur hlutur um megn? 28Fyrir því segir Drottinn svo: Sjá, ég sel þessa borg á vald Kaldea og á vald Nebúkadresars Babelkonungs, að hann vinni hana, 29og Kaldear, sem herja á þessa borg, munu brjótast inn í hana, og leggja eld í þessa borg og brenna hana og húsin, þar sem þeir á þökunum færðu Baal reykelsisfórnir og færðu öðrum guðum dreypifórnir til þess að egna mig til reiði. 30Því að Ísraelsmenn og Júdamenn hafa frá æsku sinni verið vanir að gjöra það eitt, sem mér mislíkaði, því að Ísraelsmenn hafa aðeins egnt mig til reiði með handaverkum sínum - segir Drottinn. 31Já, þessi borg hefir verið mér tilefni til reiði og gremi frá þeim degi, er hún var reist, allt fram á þennan dag, svo að ég verð að taka hana burt frá augliti mínu, 32sökum allrar illsku Ísraelsmanna og Júdamanna, er þeir hafa í frammi haft til þess að egna mig til reiði, - konungar þeirra, höfðingjar þeirra, prestar þeirra og spámenn þeirra, Júdamenn og Jerúsalembúar. 33Þeir sneru við mér bakinu, en ekki andlitinu, og þótt ég fræddi þá seint og snemma, þá hlýddu þeir ekki, svo að þeir tækju umvöndun. 34Heldur reistu þeir viðurstyggðir sínar upp í húsi því, sem kennt er við nafn mitt, til þess að saurga það. 35Þeir byggðu Baal fórnarhæðir í Hinnomssonar-dal, til þess að láta sonu sína og dætur ganga gegnum eldinn Mólok til handa, - sem ég hefi ekki boðið þeim og mér hefir ekki í hug komið, að þeir mundu fremja slíka svívirðing, til þess að tæla Júda til syndar.

36Og nú - fyrir því segir Drottinn, Ísraels Guð, svo um þessa borg, er þér segið að seld sé á vald Babelkonungs með sverði, hungri og drepsótt:

37Sjá, ég safna þeim saman úr öllum þeim löndum, þangað sem ég hefi rekið þá í reiði minni og heift og í mikilli gremi, og læt þá snúa aftur hingað og búa hér óhulta. 38Þá skulu þeir vera mín þjóð og ég skal vera þeirra Guð, 39og ég vil gefa þeim eitt hjarta og eina breytni, svo að þeir óttist mig alla daga, þeim sjálfum til heilla og sonum þeirra eftir þá. 40Og ég vil gjöra við þá eilífan sáttmála, að ég muni aldrei snúa frá þeim með velgjörðir mínar, og ég vil leggja ótta fyrir mér í hjörtu þeirra, til þess að þeir víki ekki frá mér. 41Og það skal verða unun mín að gjöra vel við þá, og ég mun gróðursetja þá í þessu landi í trúfesti, af öllu hjarta og af allri sálu.

42Því að svo segir Drottinn:

Eins og ég hefi leitt yfir þessa þjóð alla þessa miklu óhamingju, svo leiði ég og yfir þá alla þá hamingju, sem ég heiti þeim. 43Og akrar munu aftur keyptir verða í þessu landi, sem þér segið um: "Það er auðn, mannlaust og skepnulaust! Það er selt á vald Kaldea!" 44Akra munu menn kaupa fyrir silfur og skrifa kaupbréf og innsigla og taka votta að, bæði í Benjamínslandi og í umhverfi Jerúsalem og í borgum Júda og í fjallborgunum og í borgunum á sléttlendinu og í borgunum í Suðurlandinu, því að ég mun leiða heim aftur hina herleiddu menn þeirra - segir Drottinn.


Jerúsalem mun læknuð verða

33
1Og orð Drottins kom til Jeremía annað sinn, þá er hann enn var innilokaður í varðgarðinum:

2Svo segir Drottinn, sá er framkvæmir það, Drottinn, sá er upphugsar það, til þess að koma því til vegar - Drottinn er nafn hans:

3Kalla þú á mig og mun ég svara þér og kunngjöra þér mikla hluti og óskiljanlega, er þú hefir eigi þekkt. 4Já, svo segir Drottinn, Ísraels Guð, um hús þessarar borgar og um hallir Júdakonunga, sem rifin voru niður vegna hervirkjanna og sverðsins:

5Það koma einhverjir til þess að berjast gegn Kaldeum og til þess að fylla húsin líkum þeirra manna, er ég hefi lostið í reiði minni og heift, því ég hefi byrgt auglit mitt fyrir þessari borg sakir allrar illsku þeirra. 6Sjá, ég legg við hana umbúðir og græðslulyf og lækna þá og opna þeim gnægð stöðugrar hamingju, 7og ég leiði heim aftur hina herleiddu frá Júda og hina herleiddu frá Ísrael og byggi þá upp aftur eins og áður. 8Og ég hreinsa þá af allri misgjörð þeirra, er þeir hafa drýgt í móti mér, og fyrirgef þeim allar misgjörðir þeirra, er þeir hafa drýgt í móti mér, og uppreisn þeirra gegn mér, 9til þess að borgin verði mér til frægðar, til ununar, til lofs og dýrðar hjá öllum þjóðum jarðarinnar, sem spyrja munu öll þau gæði, er ég veiti þeim, og skelfast munu og titra vegna allra þeirra gæða og allrar þeirrar hamingju, sem ég veiti henni.

10Svo segir Drottinn:

Á þessum stað, er þér segið um: "Hann er eyddur, mannlaus og skepnulaus!" í borgum Júda og á Jerúsalemstrætum, sem nú eru gjöreydd, mannlaus, íbúalaus og skepnulaus, 11skulu aftur heyrast ánægjuhljóð og gleðihljóð, fagnaðarlæti brúðguma og brúðar, fagnaðarlæti þeirra, er færa þakkarfórn í musteri Drottins og segja:

Þakkið Drottni allsherjar,

því að Drottinn er góður,

því að miskunn hans varir að eilífu!

Því að ég mun leiða hið herleidda fólk landsins heim aftur, til þess að þeir séu eins og áður, segir Drottinn.

12Svo segir Drottinn allsherjar:

Enn skal á þessum stað, sem nú er eyddur, bæði mannlaus og skepnulaus, og í öllum borgum hans vera haglendi fyrir hjarðmenn, sem bæla þar hjarðir sínar. 13Í fjallborgunum, í borgunum á sléttlendinu og í borgunum í Suðurlandinu og í Benjamínslandi og í umhverfi Jerúsalem og í Júdaborgum munu enn sauðir renna fram hjá þeim, sem telur þá, segir Drottinn.


Sáttmálinn við Davíð

14Sjá, þeir dagar munu koma - segir Drottinn - að ég mun láta rætast fyrirheit það, er ég hefi gefið um Ísraels hús og Júda hús.

15Á þeim dögum og á þeim tíma mun ég Davíð láta upp vaxa réttan kvist, og hann skal iðka rétt og réttlæti í landinu. 16Á þeim dögum mun Júda hólpinn verða og Jerúsalem búa óhult, og þetta mun verða nafnið, er menn nefna hana: "Drottinn er vort réttlæti."

17Svo segir Drottinn:

Davíð skal aldrei vanta eftirmann, sem sitji í hásæti Ísraels húss. 18Og levítaprestana skal aldrei vanta eftirmann frammi fyrir mér, er framberi brennifórnir, brenni matfórnum og fórni sláturfórnum alla daga.

19Og orð Drottins kom til Jeremía: 20Svo segir Drottinn:

Svo sannarlega sem þér getið ekki rofið sáttmála minn við daginn og sáttmála minn við nóttina, svo að dagur og nótt komi ekki á sínum tíma, 21svo sannarlega mun sáttmáli minn við Davíð þjón minn eigi rofinn verða, svo að hann hafi ekki niðja, er ríki í hásæti hans, og við prestalevítana, þjóna mína. 22Eins og himinsins her verður ekki talinn og sjávarsandurinn ekki mældur, svo vil ég margfalda niðja Davíðs þjóns míns og levítana, er mér þjóna.

23Og orð Drottins kom til Jeremía:

24Hefir þú ekki tekið eftir, hvað þessi lýður talar, er hann segir: "Báðum ættkvíslunum, sem Drottinn útvaldi, hefir hann hafnað!" og að þeir segja fyrirlitlega um lýð minn, að hann sé ekki þjóð framar í þeirra augum? 25Svo segir Drottinn:

Ég, sem hefi gjört sáttmála við dag og nótt og sett himni og jörðu föst lög, 26skyldi ég hafna niðjum Jakobs og Davíðs, þjóns míns? Skyldi ég leiða hjá mér að velja af niðjum hans drottnara yfir ætt Abrahams, Ísaks og Jakobs? Nei, ég mun snúa við högum þeirra og miskunna þeim.


Sedekía boðar endadægur sitt

34
1Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni, þá er Nebúkadresar Babelkonungur og allur her hans og öll konungsríki jarðarinnar, þau er lutu hans valdi, og allar þjóðirnar herjuðu á Jerúsalem og allar borgir umhverfis hana: 2Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: Far og mæl til Sedekía Júdakonungs og seg við hann: Svo segir Drottinn:

Sjá, ég sel borg þessa á vald Babelkonungs, til þess að hann brenni hana í eldi, 3og þú munt sjálfur ekki komast undan honum, en áreiðanlega gripinn verða og framseldur á hans vald, og augu þín munu líta augu Babelkonungs og munnur hans tala við þinn munn, og til Babýlon munt þú fara. 4En heyr orð Drottins, Sedekía Júdakonungur: Svo segir Drottinn um þig: Þú skalt ekki deyja fyrir sverði. 5Í friði munt þú deyja, og eins og brennt var ilmreykelsi við jarðarför feðra þinna, hinna fyrri konunga, sem voru á undan þér, eins munu menn brenna þér til heiðurs og harma þig og segja: "Æ, drottnari!" því að það hefi ég talað - segir Drottinn.

6Jeremía spámaður talaði öll þessi orð við Sedekía Júdakonung í Jerúsalem, 7þá er her Babelkonungs herjaði á Jerúsalem og allar Júdaborgir, sem enn voru eftir, Lakís og Aseka. Því að þessar einar voru eftir orðnar af borgunum í Júda, af víggirtu borgunum.


Sáttmálinn um frelsi þræla rofinn

8Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni, eftir að Sedekía konungur hafði gjört sáttmála við allan lýðinn í Jerúsalem um að boðað skyldi frelsi: 9Hver maður skyldi gefa frjálsan þræl sinn og ambátt sína, ef þau væru hebreskur maður og hebresk kona, svo að enginn Júdamaður hefði ættbræður sína að þrælum. 10Og allir höfðingjarnir hlýddu því og allur lýðurinn, þeir er gengist höfðu undir sáttmálann, að hver skyldi gefa frjálsan þræl sinn og ambátt sína, svo að hann hefði þau eigi framar að þrælum. Þeir hlýddu og gáfu þau frjáls. 11En seinna sóttu þeir aftur þrælana og ambáttirnar, er þeir höfðu gefið frjáls, og gjörðu þau að ánauðugum þrælum og ambáttum.

12Þá kom þetta orð Drottins til Jeremía: 13Svo segir Drottinn, Ísraels Guð:

Ég gjörði svohljóðandi sáttmála við feður yðar, þá er ég flutti þá burt af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu: 14"Að sjö árum liðnum skuluð þér hver og einn gefa lausan hebreskan bróður yðar, sem kann að hafa selt sig þér. Í sex ár skal hann vera þræll þinn, en síðan skalt þú láta hann lausan frá þér fara." En feður yðar hlýddu mér ekki og lögðu ekki við eyrun. 15En nú tókuð þér sinnaskiptum og gjörðuð það, sem rétt var í mínum augum, með því að boða hver öðrum frelsi, og gjörðuð sáttmála fyrir mínu augliti í musterinu, sem kennt er við nafn mitt. 16En þér hafið snúið yður aftur og vanhelgað nafn mitt, þar sem þér hafið hver og einn sótt aftur þræl sinn og ambátt, er þér höfðuð gefið algjörlega frjáls, og neytt þau til að vera þræla yðar og ambáttir.

17Fyrir því segir Drottinn svo:

Þér hafið eigi hlýtt mér um að boða frelsi, hver sínum bróður og hver sínum náunga. Sjá, ég ætla því að boða yður frelsi - segir Drottinn - svo að þér verðið ofurseldir sverðinu, drepsóttinni og hungrinu, og ég gjöri yður að grýlu öllum konungsríkjum jarðar. 18Ég framsel þá menn, er brotið hafa sáttmála minn, og eigi hafa haldið orð sáttmálans, er þeir gjörðu fyrir mínu augliti, þá er þeir slátruðu kálfinum, sem þeir skáru í tvennt og gengu á milli hlutanna, - 19höfðingja Júda og höfðingja Jerúsalem, hirðmennina og prestana og allan landslýðinn, er gengið hafa milli hluta kálfsins. 20Ég sel þá á vald óvina þeirra og á vald þeirra, sem sækjast eftir lífi þeirra, og lík þeirra skulu verða æti fyrir fugla himinsins og dýr jarðarinnar. 21En Sedekía konung í Júda og höfðingja hans sel ég á vald óvinum þeirra og á vald þeim, er sækjast eftir lífi þeirra, og á vald her Babelkonungs, þeim sem nú eru frá yður farnir. 22Sjá, ég mun gefa þeim skipun - segir Drottinn - og láta þá koma aftur til þessarar borgar, til þess að þeir herji á hana, vinni hana og brenni hana í eldi, og borgirnar í Júda gjöri ég að auðn, svo að enginn búi í þeim.


Hollusta Rekabítanna

35
1Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni á dögum Jójakíms Jósíasonar, Júdakonungs:

2"Gakk til ættflokks Rekabíta og tala við þá og kom með þá í musteri Drottins, inn í eitt herbergið, og gef þeim vín að drekka."

3Þá sótti ég Jaasanja Jeremíason, Habasinjasonar, og bræður hans og alla sonu hans og allan Rekabíta-ættflokkinn 4og fór með þá í musteri Drottins, inn í herbergi sona Hanans, Jigdaljasonar, guðsmannsins, sem er við hliðina á herbergi höfðingjanna, uppi yfir herbergi Maaseja Sallúmssonar þröskuldsvarðar. 5Og ég setti skálar fullar af víni og bikara fyrir ættmenn Rekabíta-flokksins og sagði við þá: "Drekkið vín!"

6Þá sögðu þeir: "Vér drekkum ekki vín, því að Jónadab Rekabsson ættfaðir vor hefir lagt svo fyrir oss: ,Þér skuluð aldrei drekka vín að eilífu, hvorki þér né synir yðar, 7og þér skuluð ekki reisa hús, né sá sæði, né planta víngarða, né eiga nokkuð slíkt, heldur skuluð þér búa í tjöldum alla ævi yðar, til þess að þér lifið langa ævi í því landi, þar er þér dveljið sem útlendingar.' 8Og vér höfum hlýtt skipun Jónadabs Rekabssonar ættföður vors í öllu því, er hann bauð oss, svo að vér drekkum alls ekki vín alla ævi vora, hvorki vér sjálfir, konur vorar, synir vorir né dætur vorar, 9og reisum oss ekki hús til að búa í og eigum hvorki víngarða, akra né sáð. 10Vér höfum því búið í tjöldum og hlýtt og farið eftir öllu því, er Jónadab ættfaðir vor bauð oss. 11En er Nebúkadresar Babelkonungur braust inn í landið, sögðum vér: ,Komið, vér skulum halda inn í Jerúsalem undan her Kaldea og undan her Sýrlendinga!' og settumst að í Jerúsalem."

12Þá kom orð Drottins til Jeremía:

13"Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð:

Far og seg við Júdamenn og Jerúsalembúa: Viljið þér ekki taka umvöndun, svo að þér hlýðið á orð mín? - segir Drottinn. 14Orð Jónadabs Rekabssonar eru haldin, þau er hann lagði fyrir sonu sína, að drekka ekki vín. Þeir hafa ekki vín drukkið allt fram á þennan dag, af því að þeir hafa hlýtt skipun ættföður síns. En ég hefi talað til yðar seint og snemma, en þér hafið ekki hlýtt mér. 15Og ég hefi sent til yðar alla þjóna mína, spámennina, seint og snemma, til þess að segja: "Snúið yður, hver frá sínum vonda vegi, og bætið gjörðir yðar og eltið ekki aðra guði til þess að þjóna þeim, þá skuluð þér búa kyrrir í landinu, sem ég gaf yður og feðrum yðar!" - en þér lögðuð ekki við eyrun og hlýdduð ekki á mig. 16Já, niðjar Jónadabs Rekabssonar hafa haldið skipun ættföður síns, þá er hann fyrir þá lagði, en þessi lýður hefir ekki hlýtt mér. 17Fyrir því segir Drottinn, Guð allsherjar, Ísraels Guð, svo: Sjá, nú leiði ég yfir Júda og alla Jerúsalembúa alla ógæfuna, er ég hefi hótað þeim, af því að þeir hafa ekki hlýtt, þótt ég hafi talað til þeirra, né svarað, þótt ég hafi kallað til þeirra.

18En við ættflokk Rekabíta sagði Jeremía: "Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Af því að þér hafið hlýtt skipun Jónadabs ættföður yðar og haldið allar skipanir hans og farið í öllu eftir því, er hann fyrir yður lagði, 19fyrir því segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð, svo: Jónadab Rekabsson skal aldrei vanta mann, er standi frammi fyrir mér."



Sögulegir kaflar

36
1Á fjórða ríkisári Jójakíms Jósíasonar, Júdakonungs, kom þetta orð til Jeremía frá Drottni:

2Tak þér bókrollu og rita á hana öll þau orð, sem ég hefi til þín talað um Ísrael og Júda og allar þjóðir, frá þeim degi er ég talaði við þig, frá dögum Jósía, og allt fram á þennan dag; 3vera má að Júda hús hlýði á alla þá ógæfu, sem ég hygg að leiða yfir þá, svo að þeir snúi sér, hver og einn frá sínum vonda vegi, og þá mun ég fyrirgefa þeim misgjörð þeirra og synd.

4Þá kallaði Jeremía á Barúk Neríason, og Barúk ritaði af munni Jeremía á bókrolluna öll orð Drottins, þau er hann hafði til hans talað. 5Og Jeremía skipaði Barúk og mælti: "Mér er tálmað, ég get ekki farið í musteri Drottins. 6Far þú því og lestu upphátt úr bókrollunni það, er þú hefir ritað af munni mér, orðin Drottins, fyrir lýðnum í musteri Drottins á föstu-degi. Þú skalt og lesa þau upphátt fyrir öllum Júdamönnum, sem komnir eru hingað úr borgum sínum. 7Vera má, að þeir gjöri auðmjúkir bæn sína til Drottins og snúi sér hver og einn frá sínum vonda vegi, því að mikil er reiðin og heiftin, sem Drottinn hefir hótað þessum lýð." 8Og Barúk Neríason gjörði með öllu svo sem Jeremía spámaður lagði fyrir hann og las orð Drottins upphátt úr bókinni í musteri Drottins.

9En á fimmta ríkisári Jójakíms Jósíasonar, konungs í Júda, í níunda mánuðinum, boðuðu menn allan lýðinn í Jerúsalem og allt það fólk, sem komið var úr Júdaborgum til Jerúsalem, til föstuhalds fyrir Drottni. 10Þá las Barúk upphátt fyrir öllum lýðnum úr bókinni orð Jeremía í musteri Drottins, í herbergi Gemaría Safanssonar kanslara, í efra forgarðinum, við nýja hliðið á musteri Drottins.

11En er Míka Gemaríason, Safanssonar, heyrði öll orð Drottins úr bókinni, 12þá gekk hann ofan í konungshöllina, inn í herbergi kanslarans, og sátu þá allir höfðingjarnir þar: Elísama kanslari, Delaja Semajason, Elnatan Akbórsson, Gemaría Safansson, Sedekía Hananíason og allir hinir höfðingjarnir. 13En Míka skýrði þeim frá öllu því, er hann hafði heyrt, þá er Barúk las upphátt úr bókinni fyrir öllum lýðnum.

14Þá sendu allir höfðingjarnir Júdí Nataníason, Selemíasonar, Kúsísonar, til Barúks með svolátandi orðsending: "Tak þér í hönd bókrolluna, sem þú last upphátt úr fyrir lýðnum og kom hingað." Og Barúk Neríason tók bókrolluna sér í hönd og kom til þeirra. 15En þeir sögðu við hann: "Sestu niður og lestu hana upphátt fyrir oss." Og Barúk gjörði svo. 16En er þeir höfðu heyrt öll orðin, litu þeir felmtsfullir hver á annan og sögðu við Barúk: "Vér verðum að segja konungi frá öllu þessu!" 17Jafnframt spurðu þeir Barúk: "Seg oss, hvernig þú hefir skrifað öll þessi orð?" 18Og Barúk svaraði þeim: "Hann hafði munnlega upp fyrir mér öll þessi orð, en ég skrifaði þau í bókina með bleki."

19Þá sögðu höfðingjarnir við Barúk: "Far og fel þig, ásamt Jeremía, svo að enginn viti, hvar þið eruð." 20Síðan gengu þeir til konungs inn í afhýsi hans, en létu bókrolluna eftir í herbergi Elísama kanslara, og sögðu konungi frá öllu þessu.


Jójakím konungur brennir bókina

21Þá sendi konungur Júdí til þess að sækja bókrolluna, og hann sótti hana í herbergi Elísama kanslara. Síðan las Júdí hana upphátt fyrir konungi og höfðingjunum, sem umhverfis konung stóðu. 22Konungur bjó í vetrarhöllinni, með því að þetta var í níunda mánuðinum, og eldur brann í glóðarkerinu fyrir framan hann.

23Í hvert sinn, er Júdí hafði lesið þrjú eða fjögur blöð, skar konungur þau sundur með pennahníf og kastaði þeim á eldinn í glóðarkerinu, uns öll bókrollan var brunnin á eldinum í glóðarkerinu. 24En hvorki varð konungur hræddur, né nokkur af þjónum hans, þeim er heyrðu öll þessi orð, né heldur rifu þeir klæði sín, 25og þótt Elnatan, Delaja og Gemaría legðu að konungi að brenna ekki bókrolluna, þá hlýddi hann þeim ekki, 26heldur skipaði hann Jerahmeel konungssyni og Seraja Asríelssyni og Selemja Abdeelssyni að sækja Barúk skrifara og Jeremía spámann, - en Drottinn fól þá. 27Þá kom orð Drottins til Jeremía, eftir að konungur hafði brennt bókrolluna, sem hafði inni að halda orð þau, er Barúk hafði ritað af munni Jeremía:

28Tak þér aftur aðra bókrollu og rita á hana öll hin fyrri orðin, er voru á fyrri bókrollunni, þeirri sem Jójakím Júdakonungur brenndi.

29En viðvíkjandi Jójakím Júdakonungi skalt þú segja: Svo segir Drottinn: Þú hefir brennt bókrolluna með þeim ummælum: ,Hvers vegna hefir þú skrifað á hana: Babelkonungur mun vissulega koma og eyða þetta land og útrýma úr því mönnum og skepnum!' 30Fyrir því segir Drottinn svo um Jójakím Júdakonung: Hann skal engan niðja eiga, er sitji í hásæti Davíðs, og hræ hans skal liggja úti í hitanum á daginn og kuldanum á nóttinni. 31Og ég vil hegna honum og niðjum hans og þjónum hans fyrir misgjörð þeirra og ég vil láta yfir þá koma og yfir Jerúsalembúa og Júdamenn alla þá ógæfu, er ég hefi hótað þeim, án þess að þeir hlýddu.

32Og Jeremía tók aðra bókrollu og fékk hana Barúk skrifara Neríasyni, og hann skrifaði á hana af munni Jeremía öll orð bókar þeirrar, er Jójakím Júdakonungur hafði brennt í eldi, - en auk þeirra var enn fremur bætt við mörgum orðum líkum hinum.


Sedekía sendir menn til Jeremía

37
1Sedekía Jósíason varð konungur í stað Konja Jójakímssonar, er Nebúkadresar Babelkonungur hafði gjört að konungi í Júda. 2En hvorki hann, né þjónar hans, né landslýðurinn hlýddi orðum Drottins, þeim er hann talaði fyrir munn Jeremía spámanns.

3Og Sedekía konungur sendi Júkal Selemjason og Sefanía prest Maasejason til Jeremía spámanns með svolátandi orðsending: "Bið þú fyrir oss til Drottins, Guðs vors!" 4En Jeremía gekk þá út og inn meðal lýðsins og þeir höfðu enn ekki sett hann í dýflissuna. 5Her Faraós var og lagður af stað frá Egyptalandi, og er Kaldear, sem sátu um Jerúsalem, spurðu það, héldu þeir burt frá Jerúsalem.

6Þá kom orð Drottins til Jeremía spámanns: 7Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: Svo skuluð þér segja við Júdakonung, sem sendi yður til mín, til þess að spyrja mig:

Her Faraós, sem lagður er af stað yður til hjálpar, mun snúa aftur til síns lands, til Egyptalands, 8og Kaldear munu og aftur snúa og herja á þessa borg, vinna hana og brenna hana í eldi.

9Svo segir Drottinn:

Svíkið ekki sjálfa yður með því að segja: "Kaldear munu vissulega fara burt frá oss!" því að þeir fara ekki burt. 10Því að þótt þér fellduð allan her Kaldea, er á yður herjar, og ekki væru aðrir orðnir eftir af þeim en sverði lagðir menn, þá mundu þeir rísa upp, hver og einn í sínu tjaldi, og brenna þessa borg í eldi!


Jeremía ákærður fyrir landráð

11En er her Kaldea fór burt frá Jerúsalem undan her Faraós, 12þá fór Jeremía frá Jerúsalem og hélt til Benjamínslands, til þess að taka þar á móti erfðahlut, mitt á meðal lýðsins. 13En er hann kom í Benjamínshlið, þá var þar fyrir varðmaður, að nafni Jería Selemjason, Hananíasonar. Hann þreif í Jeremía spámann og sagði: "Þú ætlar að hlaupast burt til Kaldea!" 14En Jeremía sagði: "Það er lygi! Ég ætla ekki að hlaupast burt til Kaldea!" En Jería hlustaði ekki á Jeremía og tók hann höndum og fór með hann til höfðingjanna. 15Og höfðingjarnir reiddust Jeremía og börðu hann og settu hann í fangelsi í húsi Jónatans kanslara, því að það höfðu þeir gjört að dýflissu.

16Þannig komst Jeremía í prísundina og í hvelfinguna, og þar sat Jeremía alllangan tíma.


Sedekía leitar ráða hjá Jeremía á laun

17En Sedekía konungur sendi og lét sækja hann, og konungur spurði hann á laun í höll sinni og mælti: "Hefir nokkurt orð komið frá Drottni?" "Svo er víst!" mælti Jeremía. "Þú munt seldur verða á vald Babelkonungs!" 18Því næst sagði Jeremía við Sedekía konung: "Hvað hefi ég brotið gegn þér og gegn þjónum þínum og gegn þessum lýð, að þér hafið sett mig í dýflissu? 19Og hvar eru nú spámenn yðar, þeir er spáðu yður og sögðu: ,Eigi mun Babelkonungur fara í móti yður og í móti þessu landi'? 20Og heyr nú, minn herra konungur! Virst að heyra auðmjúka bæn mína! Lát eigi flytja mig aftur í hús Jónatans kanslara, svo að ég deyi þar ekki!"

21Síðan var Jeremía settur í varðhald í varðgarðinum að boði Sedekía konungs og honum gefinn brauðhleifur á degi hverjum úr bakarastrætinu, uns allt brauð var uppgengið í borginni.

Og þannig sat Jeremía í varðgarðinum.


Spámanninum varpað í gryfju. Ebed-Melek bjargar honum

38
1Þá fréttu þeir Sefatja Mattansson, Gedalja Pashúrsson, Júkal Selemjason og Pashúr Malkíason þau orð, er Jeremía talaði til alls lýðsins: 2"Svo segir Drottinn:

Þeir, sem verða kyrrir í þessari borg, munu deyja fyrir sverði, af hungri og af drepsótt, en þeir, sem fara út til Kaldea, munu lífi halda og hljóta líf sitt að herfangi og lifa.

3Svo segir Drottinn:

Þessi borg mun vissulega verða gefin her Babelkonungs á vald og hann mun vinna hana!"

4Þá sögðu höfðingjarnir við konung: "Lát drepa mann þennan! Því að hann gjörir hermennina, sem eftir eru í þessari borg, huglausa og allan lýðinn með því að tala slík orð til þeirra, því að þessi maður leitar ekki þess, sem þessum lýð er til heilla, heldur þess, sem honum er til ógæfu." 5En Sedekía konungur svaraði: "Sjá, hann er á yðar valdi, því að konungurinn megnar ekkert á móti yður."

6Þá tóku þeir Jeremía og köstuðu honum í gryfju Malkía konungssonar, sem var í varðgarðinum, og létu þeir Jeremía síga niður í böndum, en í gryfjunni var ekkert vatn, heldur leðja, og Jeremía sökk ofan í leðjuna.

7En er Ebed-Melek, blálenskur geldingur, sem var í konungshöllinni, frétti, að þeir hefðu varpað Jeremía í gryfjuna, - en konungur sat þá í Benjamínshliði -, 8þá gekk Ebed-Melek út úr konungshöllinni og mælti til konungs á þessa leið: 9"Minn herra konungur! Illverk hafa þessir menn framið með öllu því, er þeir hafa gjört við Jeremía spámann, sem þeir köstuðu í gryfjuna, svo að hann hlýtur að deyja þar úr hungri, því að ekkert brauð er framar til í borginni." 10Þá skipaði konungur Ebed-Melek Blálendingi á þessa leið: "Tak héðan með þér þrjá menn og drag Jeremía spámann upp úr gryfjunni, áður en hann deyr." 11Og Ebed-Melek tók mennina með sér og fór inn í konungshöllina, inn undir féhirsluna, og tók þar sundurrifna fataræfla og klæðaslitur og lét síga í böndum niður í gryfjuna til Jeremía. 12Síðan mælti Ebed-Melek Blálendingur til Jeremía: "Legg rifnu og slitnu fataræflana undir hendur þér undir böndin!" Og Jeremía gjörði svo. 13Og þeir drógu Jeremía upp með böndunum og hófu hann upp úr gryfjunni.

Og sat nú Jeremía í varðgarðinum.


Sedekía ræðir við Jeremía í síðasta sinn

14Sedekía konungur sendi menn og lét sækja Jeremía spámann til sín að þriðju dyrunum, sem eru í musteri Drottins, og konungur mælti til Jeremía: "Ég vil spyrja þig nokkurs, leyn mig engu!" 15En Jeremía mælti til Sedekía: "Hvort munt þú ekki deyða mig, ef ég segi þér það? Og þótt ég ráðleggi þér eitthvað, þá hlýðir þú mér ekki!"

16Þá vann Sedekía konungur Jeremía eið á laun og mælti: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir, sá er skapað hefir í oss þetta líf, skal ég ekki deyða þig né selja þig á vald þessara manna, sem sitja um líf þitt." 17Þá sagði Jeremía við Sedekía: "Svo segir Drottinn, Guð allsherjar, Ísraels Guð: Ef þú gengur á vald höfðingjum Babelkonungs, þá munt þú lífi halda og borg þessi eigi verða brennd í eldi, og þú munt lífi halda og fólk þitt. 18En gangir þú ekki á vald höfðingjum Babelkonungs, þá mun borg þessi seld verða á vald Kaldea, og þeir munu brenna hana í eldi, og þú munt ekki heldur komast undan þeim."

19Þá sagði Sedekía konungur við Jeremía: "Ég óttast þá Júdamenn, sem þegar hafa hlaupist yfir til Kaldea, að menn kynnu að selja mig þeim á vald og þeir draga dár að mér!"

20En Jeremía sagði: "Þeir munu eigi framselja þig. Hlýð þú boði Drottins í því, er ég segi þér, þá mun þér vel vegna og þú lífi halda. 21En ef þú færist undan að ganga á vald þeirra, þá hefir Drottinn birt mér þetta: 22Sjá, allar þær konur, sem eftir munu verða í höll Júdakonungs, munu fluttar verða til höfðingja Babelkonungs, og þær munu segja: ,Menn, sem voru í vináttu við þig, hafa ginnt þig og orðið þér yfirsterkari. Þegar fætur þínir sukku í foræðið, hörfuðu þeir aftur á bak!' 23Og allar konur þínar og börn þín munu færð verða Kaldeum, og ekki munt þú heldur komast undan þeim, heldur munt þú gripinn verða og seldur á vald Babelkonungs, og þessi borg mun brennd verða í eldi."

24Þá sagði Sedekía við Jeremía: "Enginn maður má vita af þessum viðræðum, ella verður það þinn bani. 25En þegar höfðingjarnir frétta, að ég hafi talað við þig, og þeir koma til þín og segja við þig: ,Seg oss, hvað þú talaðir við konung, - leyn oss engu, ella drepum vér þig - og hvað konungur talaði við þig,' 26þá seg við þá: ,Ég bað konung auðmjúklega að láta mig ekki fara aftur í hús Jónatans til þess að deyja þar.'"

27Og allir höfðingjarnir komu til Jeremía og spurðu hann, en hann skýrði þeim með öllu svo frá sem konungur hafði lagt fyrir. Þá gengu þeir rólegir burt frá honum, því að þetta hafði ekki orðið hljóðbært.

28Og Jeremía sat í varðgarðinum allt til þess dags, er Jerúsalem var unnin.


Jerúsalem fellur

39
1Á níunda ríkisári Sedekía konungs í Júda, í tíunda mánuðinum, kom Nebúkadresar konungur í Babýlon og allur her hans til Jerúsalem, og settust um hana. 2En á ellefta ríkisári Sedekía, í fjórða mánuðinum, níunda dag mánaðarins, var brotið skarð inn í borgina. 3En er Jerúsalem var unnin, komu allir hershöfðingjar Babelkonungs og settust að í Miðhliðinu, þeir Nergalsareser, höfðingi í Símmagir, Nebúsarsekím hirðstjóri og margir aðrir höfðingjar Babelkonungs.

4En er Sedekía Júdakonungur og allir hermennirnir sáu þetta, flýðu þeir og fóru um nóttina út úr borginni, veginn sem liggur út að konungsgarðinum, gegnum hliðið milli beggja múranna og héldu leiðina til Jórdandalsins. 5En her Kaldea veitti þeim eftirför og náði Sedekía á Jeríkó-völlum. Tóku þeir hann og fluttu hann til Ribla í Hamathéraði til Nebúkadresars Babelkonungs. Hann kvað upp dóm hans. 6Lét Babelkonungur drepa sonu Sedekía í Ribla fyrir augum hans. Sömuleiðis lét Babelkonungur drepa alla tignarmenn í Júda. 7En Sedekía lét hann blinda og binda eirfjötrum til þess að flytja hann til Babýlon.

8Kaldear brenndu konungshöllina og hús lýðsins og rifu niður múra Jerúsalem. 9En leifar lýðsins, þá er eftir voru í borginni, og liðhlaupana, þá er hlaupist höfðu í lið með honum, og leifar lýðsins, þá er eftir voru, herleiddi Nebúsaradan lífvarðarforingi til Babýlon, 10en af almúgamönnum, sem ekkert áttu, lét Nebúsaradan lífvarðarforingi nokkra verða eftir í Júda og gaf þeim þann dag víngarða og akra.

11En um Jeremía gaf Nebúkadresar Babelkonungur út svolátandi skipun fyrir milligöngu Nebúsaradans lífvarðarforingja: 12"Tak hann og annast hann og gjör honum ekkert illt, heldur gjör við hann svo sem hann mælist til við þig!" 13Þá sendu þeir Nebúsaradan lífvarðarforingi og Nebúsasban hirðstjóri og Nergalsareser hershöfðingi og allir yfirmenn Babelkonungs 14menn og létu sækja Jeremía í varðgarðinn og seldu hann í hendur Gedalja Ahíkamssyni, Safanssonar, að hann færi með hann heim.

Og þannig varð hann kyrr meðal lýðsins.


Ebed-Melek heitið björgun

15Meðan Jeremía sat innilokaður í varðgarðinum, hafði orð Drottins komið til hans:

16Far og seg við Ebed-Melek Blálending: Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Sjá, ég læt orð mín um ógæfu, en eigi um hamingju, koma fram á þessari borg, og þau skulu rætast fyrir augum þínum á þeim degi. 17En ég skal frelsa þig á þeim degi - segir Drottinn - og þú skalt ekki seldur verða á vald mönnum þeim, er þú hræðist, 18heldur skal ég láta þig komast undan og þú skalt ekki falla fyrir sverði, og þú skalt hljóta líf þitt að herfangi, af því að þú hefir treyst mér - segir Drottinn.


Jeremía hjá Gedalja landstjóra

40
1Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni, eftir að Nebúsaradan lífvarðarforingi hafði látið hann lausan í Rama, er hann hafði flutt hann bundinn fjötrum ásamt hinum herteknu frá Jerúsalem og Júda, er flytjast áttu til Babýlon.

2Lífvarðarforinginn lét sækja Jeremía og sagði við hann: "Drottinn, Guð þinn, hótaði þessum stað þessari ógæfu 3og lét hana fram koma, og Drottinn gjörði eins og hann hafði hótað, því að þér syndguðuð gegn Drottni og hlýdduð eigi hans raustu, og fyrir því hefir yður þetta að höndum borið. 4Og sjá, nú leysi ég fjötrana af höndum þínum. Ef þér þóknast að koma með mér til Babýlon, þá kom þú og ég skal ala önn fyrir þér. En ef þér þóknast ekki að koma með mér til Babýlon, þá lát það ógjört. Sjá þú, allt landið liggur opið fyrir þér. Hvert sem þér líst gott og rétt að fara, þangað mátt þú fara. 5En ef þér þóknast að vera um kyrrt, skalt þú fara til Gedalja Ahíkamssonar, Safanssonar, er Babelkonungur hefir skipað yfir Júdaborgir, og ver með honum meðal lýðsins, eða far hvert sem þér þóknast að fara." Og lífvarðarforinginn fékk honum uppeldi og gjafir og lét hann í brott fara. 6Og Jeremía fór til Mispa til Gedalja Ahíkamssonar, og var með honum meðal lýðsins, þeirra er eftir voru í landinu.

7Og er allir hershöfðingjarnir, sem enn voru úti, og menn þeirra, fréttu, að Babelkonungur hefði skipað Gedalja Ahíkamsson landstjóra og að hann hefði falið umsjá hans menn og konur og börn og þá af almúga landsins, er eigi voru herleiddir til Babýlon, 8fóru þeir til Mispa á fund Gedalja, þeir Ísmael Netanjason, Jóhanan Kareason, Seraja Tanhúmetsson, synir Efaí frá Netófa, og Jesanja, sonur Maakatítans, og menn þeirra. 9Vann Gedalja Ahíkamsson, Safanssonar, þeim eið og mönnum þeirra og sagði: "Óttist eigi að vera Kaldeum lýðskyldir. Verið kyrrir í landinu og þjónið Babelkonungi, og mun yður vel vegna. 10Og sjá, ég verð kyrr í Mispa til þess að taka á móti þeim Kaldeum, er til vor kunna að koma, en safnið þér uppskeru af víni, ávöxtum og olíu og látið í ílát yðar og verið kyrrir í borgum yðar, er þér hafið tekið til eignar."

11Sömuleiðis fréttu allir Júdamenn, sem voru í Móab og hjá Ammónítum og í Edóm og í öllum öðrum löndum, að Babelkonungur hefði skilið leifar eftir af Júda og að hann hefði sett Gedalja Ahíkamsson, Safanssonar, yfir þá. 12Sneru þeir því aftur frá öllum þeim stöðum, þangað sem þeir höfðu hraktir verið, og komu til Júda, til Gedalja í Mispa, og þeir söfnuðu mjög mikilli uppskeru af víni og ávöxtum.


Morðið á Gedalja

13Jóhanan Kareason og allir hershöfðingjarnir, sem enn voru úti á landi, fóru til Mispa á fund Gedalja 14og sögðu við hann: "Veist þú að Baalis Ammónítakonungur hefir sent Ísmael Netanjason til þess að ráða þér bana?" En Gedalja Ahíkamsson trúði þeim ekki. 15Og Jóhanan Kareason sagði við Gedalja á laun í Mispa: "Leyf mér að fara og drepa Ísmael Netanjason, og enginn maður skal verða þess vís! Hví skal hann ráða þér bana og allir Júdamenn tvístrast, þeir er til þín hafa safnast, og leifar Júda verða að engu?" 16En Gedalja Ahíkamsson sagði við Jóhanan Kareason: "Þú skalt ekki gjöra það, því að þú talar lygar um Ísmael."

41
1En á sjöunda mánuði kom Ísmael Netanjason, Elísamasonar, af konungsættinni, og tíu menn með honum til Gedalja Ahíkamssonar í Mispa, og þeir mötuðust þar með honum í Mispa. 2Og Ísmael Netanjason og tíu mennirnir, sem með honum voru, spruttu upp og myrtu Gedalja, er Babelkonungur hafði sett yfir landið, 3svo og alla Júdamenn, er með honum voru í Mispa, og þá Kaldea, er þar voru.

4En á öðrum degi frá því er Gedalja var myrtur og áður en nokkur varð þess vís, 5komu menn frá Sikem, frá Síló og frá Samaríu, áttatíu manns, með skornu skeggi og rifnum klæðum og skinnsprettum á líkamanum. Höfðu þeir með sér matfórnir og reykelsi til þess að bera fram í musteri Drottins. 6Gekk Ísmael Netanjason út í móti þeim frá Mispa, og var hann sígrátandi, er hann gekk. Og er hann mætti þeim, sagði hann við þá: "Komið inn til Gedalja Ahíkamssonar!" 7En jafnskjótt og þeir voru komnir inn í borgina, brytjaði hann þá niður og kastaði þeim í gryfju. 8En meðal þeirra voru tíu menn, sem sögðu við Ísmael: "Deyð oss eigi, því að vér eigum niðurgrafnar birgðir úti á akrinum, hveiti og bygg og olíu og hunang." Þá hætti hann við og drap þá ekki ásamt bræðrum þeirra. 9En gryfjan, sem Ísmael kastaði í öllum líkum þeirra manna, er hann drap, var stóra gryfjan, sem Asa konungur hafði gjöra látið til varnar gegn Basa Ísraelskonungi. Hana fyllti Ísmael Netanjason vegnum mönnum.

10Því næst flutti Ísmael allar leifar lýðsins, sem voru í Mispa, konungsdæturnar og allan lýðinn, sem eftir var í Mispa, sem Nebúsaradan lífvarðarforingi hafði sett Gedalja Ahíkamsson yfir - þá flutti Ísmael Netanjason burt hertekna og hélt af stað til þess að fara yfir til Ammóníta.

11En er Jóhanan Kareason og allir hershöfðingjarnir, sem með honum voru, fréttu öll þau illvirki, er Ísmael Netanjason hafði framið, 12tóku þeir alla menn sína og lögðu af stað til þess að berjast við Ísmael Netanjason, og varð fundur þeirra við stóru tjörnina hjá Gíbeon. 13En er allur lýðurinn, sem var með Ísmael, sá Jóhanan Kareason og alla hershöfðingjana, sem með honum voru, gladdist hann, 14og allur lýðurinn, sem Ísmael hafði flutt hertekinn frá Mispa, sneri við og hvarf aftur og gekk í lið með Jóhanan Kareasyni. 15En Ísmael Netanjason komst undan Jóhanan við áttunda mann og fór til Ammóníta.

16Því næst tók Jóhanan Kareason og allir hershöfðingjarnir, sem með honum voru, allar leifar lýðsins, er Ísmael Netanjason hafði flutt herteknar frá Mispa, eftir að hann hafði drepið Gedalja Ahíkamsson, menn, konur og börn og geldinga, er hann hafði flutt aftur frá Gíbeon, 17og þeir lögðu af stað og námu staðar í Gerút-Kimham, sem er hjá Betlehem, til þess að halda þaðan áfram ferðinni til Egyptalands, 18til þess að komast undan Kaldeum, sem þeir óttuðust, af því að Ísmael Netanjason hafði drepið Gedalja Ahíkamsson, er Babelkonungur hafði sett yfir landið.


Jeremía fluttur með valdi til Egyptalands

42
1Þá komu allir hershöfðingjarnir og meðal þeirra Jóhanan Kareason og Asarja Hósajason og allur lýðurinn, bæði smáir og stórir, 2og sögðu við Jeremía spámann: "Veit oss auðmjúka bæn vora og bið þú til Drottins, Guðs þíns, fyrir oss, fyrir öllum þessum leifum, sem vér erum, því að fáir erum vér eftir orðnir af mörgum, eins og þú sjálfur sér á oss. 3Bið þú þess, að Drottinn, Guð þinn, gjöri oss kunnan þann veg, er vér eigum að fara, og það, sem vér eigum að gjöra."

4En Jeremía spámaður sagði við þá: "Gott og vel! Ég skal biðja til Drottins, Guðs yðar, samkvæmt tilmælum yðar, og allt það, er Drottinn svarar yður, það skal ég segja yður. Engu skal ég leyna yður."

5Og þeir sögðu við Jeremía: "Drottinn sé sannur og áreiðanlegur vottur gegn oss! Vér munum með öllu fara eftir þeim orðum, er Drottinn, Guð þinn, sendir þig með til vor, 6hvort sem það verður gott eða illt. Skipun Drottins, Guðs vors, sem vér sendum þig til, viljum vér hlýða, til þess að oss megi vel vegna, er vér hlýðum skipun Drottins, Guðs vors."

7Og að tíu dögum liðnum kom orð Drottins til Jeremía, 8og hann kallaði Jóhanan Kareason og alla hershöfðingjana saman, sem með honum voru, og allan lýðinn, bæði smáa og stóra, 9og sagði við þá:

Svo segir Drottinn, Ísraels Guð, er þér senduð mig til, að ég bæri fram fyrir hann auðmjúka bæn yðar:

10Ef þér búið kyrrir í þessu landi, vil ég uppbyggja yður og ekki rífa niður, og ég vil gróðursetja yður og ekki uppræta, því að mig iðrar hins illa, er ég hefi gjört yður. 11Óttist ekki Babelkonung, sem þér nú óttist, óttist hann ekki - segir Drottinn - því að ég er með yður til þess að hjálpa yður og til þess að frelsa yður undan hans valdi. 12Og ég vil veita yður þá miskunn, að hann miskunni yður og láti yður snúa aftur heim í land yðar.

13En ef þér segið: "Vér viljum eigi búa kyrrir í þessu landi!" og hlýðið eigi skipun Drottins, Guðs yðar, 14en segið: "Nei, heldur viljum vér fara til Egyptalands, svo að vér þurfum ekki að sjá stríð, né heyra lúðurþyt, né hungra eftir brauði, og þar viljum vér setjast að!" - 15þá heyrið nú þess vegna orð Drottins, þér leifar Júdamanna: Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð:

Ef þér eruð alvarlega að hugsa um að fara til Egyptalands og komist þangað, til þess að dveljast þar sem flóttamenn, 16þá skal sverðið, sem þér nú óttist, ná yður þar, í Egyptalandi, og hungrið, sem þér nú hræðist, skal elta yður til Egyptalands, og þar skuluð þér deyja. 17Og allir þeir menn, sem eru að hugsa um að fara til Egyptalands, til þess að dveljast þar sem flóttamenn, skulu deyja fyrir sverði og af hungri og drepsótt, og enginn þeirra skal sleppa við né komast undan ógæfu þeirri, er ég leiði yfir þá. 18Því að svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Eins og reiði minni og heift var úthellt yfir Jerúsalembúa, svo skal og heift minni úthellt verða yfir yður, er þér farið til Egyptalands, og þér skuluð verða að formæling, að skelfing, að bölbænarformála og að háðung, og eigi framar sjá þennan stað.

19Drottinn hefir svo til yðar talað, þér leifar Júdamanna:

Farið eigi til Egyptalands! Vita skuluð þér, að nú hefi ég varað yður við. 20Því að þér dróguð sjálfa yður á tálar, er þér senduð mig til Drottins, Guðs yðar, og sögðuð: "Bið til Drottins, Guðs vors, fyrir oss og seg oss nákvæmlega svo frá sem Drottinn, Guð vor, mælir, og vér skulum gjöra það!"

21Nú hefi ég sagt yður frá því í dag, en þér hafið ekki hlýtt skipun Drottins, Guðs yðar, viðvíkjandi öllu því, er hann hefir sent mig með til yðar. 22Og vita skuluð þér nú, að þér munuð deyja fyrir sverði, af hungri og drepsótt á þeim stað, þangað sem yður lystir að fara, til þess að dveljast þar sem flóttamenn.

43
1En er Jeremía hafði lokið að mæla til alls lýðsins öll orð Drottins, Guðs þeirra, öll þau orð, er Drottinn, Guð þeirra, hafði sent hann með til þeirra, 2þá sögðu Asarja Hósajason og Jóhanan Kareason og allir ofstopafullu mennirnir við Jeremía: "Þú talar lygi! Drottinn, Guð vor, hefir eigi sent þig og sagt: ,Þér skuluð eigi fara til Egyptalands, til þess að dveljast þar sem flóttamenn!' 3heldur egnir Barúk Neríason þig upp á móti oss, til þess að selja oss á vald Kaldeum, að þeir drepi oss eða herleiði oss til Babýlon."

4Og ekki hlýddu Jóhanan Kareason og allir hershöfðingjarnir og allur lýðurinn skipun Drottins, að vera kyrrir í Júda, 5heldur tóku þeir Jóhanan Kareason og allir hershöfðingjarnir allar leifar Júdamanna, er aftur voru heim komnar frá öllum þeim þjóðum, þangað sem þeir höfðu verið brott reknir, til þess að dveljast í Júda, 6menn og konur og börn og konungsdæturnar og allar þær sálir, sem Nebúsaradan lífvarðarforingi hafði skilið eftir hjá Gedalja Ahíkamssyni, Safanssonar, svo og Jeremía spámann og Barúk Neríason, 7og fóru til Egyptalands, því að þeir hlýddu ekki skipun Drottins.

Og þeir fóru til Takpanes.


Spáð herför Nebúkadresars gegn Egyptum

8Orð Drottins kom til Jeremía í Takpanes:

9Tak þér í hönd stóra steina og graf þá í steinlími niður í steinhlaðið, sem er úti fyrir dyrum hallar Faraós í Takpanes, í viðurvist flóttamannanna frá Júda 10og seg við þá: Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð:

Sjá, ég sendi og læt sækja Nebúkadresar Babelkonung, þjón minn, og reisi hásæti hans yfir þessum steinum, er ég hefi grafið niður, og hann skal breiða hásætisdúk sinn yfir þá. 11Og hann mun koma og ljósta Egyptaland: Hann mun framselja dauðanum þann, sem dauða er ætlaður, herleiðingunni þann, sem herleiðingu er ætlaður, og sverðinu þann, sem sverði er ætlaður!

12Ég mun leggja eld í musteri guða Egyptalands, og hann mun brenna þau til ösku og flytja burt guði þeirra, og hann mun vefja um sig Egyptalandi, eins og hirðir vefur um sig skikkju sinni. Síðan mun hann fara þaðan óáreittur. 13Og hann mun brjóta sundur súlurnar í Betsemes í Egyptalandi og brenna musteri guða Egyptalands í eldi.


Síðustu prédikanir Jeremía í Egyptalandi

44
1Orðið sem kom til Jeremía um alla Júdamenn, sem bjuggu í Egyptalandi, þá er bjuggu í Migdól, Takpanes, Nóf og í Patróslandi:

2Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð:

Þér hafið séð alla þá óhamingju, sem ég hefi leitt yfir Jerúsalem og yfir allar borgirnar í Júda. Þær eru nú eyðirústir, og enginn maður býr í þeim. 3Er það sakir illsku þeirrar, er þeir höfðu í frammi, að egna mig til reiði með því að fara og færa öðrum guðum reykelsisfórnir, er þeir ekki þekktu, hvorki þeir, né þér, né feður yðar.

4Ég sendi til yðar alla þjóna mína, spámennina, bæði seint og snemma, til þess að segja yður: "Fremjið eigi slíka svívirðing, sem ég hata!" 5En þeir hlýddu ekki og lögðu ekki við eyrun, að þeir sneru sér frá vonsku sinni, svo að þeir færðu ekki öðrum guðum reykelsisfórnir. 6Þá var heift minni og reiði úthellt, og hún brann í borgum Júda og á Jerúsalem-strætum, svo að þær urðu að rúst, að auðn, eins og þær nú eru. 7Og nú - svo segir Drottinn, Guð allsherjar, Ísraels Guð - hví viljið þér gjöra sjálfum yður mikið tjón, með því að uppræta fyrir yður bæði menn og konur, börn og brjóstmylkinga úr Júda, svo að þér látið engar leifar af yður eftir verða, 8þar sem þér egnið mig til reiði með handaverkum yðar, þar sem þér færið öðrum guðum reykelsisfórnir í Egyptalandi, þangað sem þér eruð komnir, til þess að dveljast þar sem flóttamenn, til þess að þér verðið upprættir og til þess að þér verðið að formæling og spotti meðal allra þjóða á jörðu?

9Hafið þér gleymt illgjörðum feðra yðar og illgjörðum Júdakonunga og illgjörðum höfðingja yðar og yðar eigin illgjörðum og illgjörðum kvenna yðar, er framdar hafa verið í Júda og á strætum Jerúsalem? 10Ekki hafa þeir auðmýkt sig enn og ekki hafa þeir óttast né farið eftir lögmáli mínu og setningum, er ég lagði fyrir yður og fyrir feður yðar.

11Fyrir því segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð:

Sjá, ég sný andliti mínu gegn yður til óhamingju, og það til þess að uppræta allan Júda. 12Og ég vil hrífa burt leifar Júdamanna, þá er ásettu sér að fara til Egyptalands, til þess að dveljast þar sem flóttamenn. Allir skulu þeir farast, falla í Egyptalandi, fyrir sverði og af hungri skulu þeir farast, bæði smáir og stórir, fyrir sverði og af hungri skulu þeir deyja. Og þeir skulu verða að bölvun, að skelfing, að formæling og að spotti. 13Og ég mun vitja þeirra, sem búa í Egyptalandi, eins og ég vitjaði Jerúsalem, með sverði, hungri og drepsótt. 14Og af leifum Júdamanna, þeim er komnir eru til Egyptalands, til þess að dveljast þar sem flóttamenn, skal enginn af bjargast eða undan komast, svo að hann geti horfið aftur til Júda, þangað sem þá langar til að hverfa aftur, til þess að búa þar, því að þeir munu eigi hverfa heim aftur, nema fáeinir, sem undan komast.

15Þá svöruðu allir mennirnir, sem vissu að konur þeirra færðu öðrum guðum reykelsisfórnir, og allar konurnar, sem stóðu þar í miklum hóp, og allur lýðurinn, sem bjó í Egyptalandi, í Patrós, Jeremía á þessa leið: 16"Viðvíkjandi því, er þú hefir til vor talað í nafni Drottins, þá ætlum vér ekki að hlýða þér, 17heldur ætlum vér að halda með öllu heit það, er vér höfum gjört, að færa himnadrottningunni reykelsisfórnir og dreypifórnir, eins og vér gjörðum og feður vorir, konungar vorir og höfðingjar vorir í borgum Júda og á Jerúsalem-strætum. Þá höfðum vér nægð brauðs og oss leið vel, og vér litum enga óhamingju. 18En síðan vér hættum að færa himnadrottningunni reykelsisfórnir og dreypifórnir, hefir oss skort allt, og vér höfum farist fyrir sverði og af hungri. 19Og þar sem vér nú færum himnadrottningunni reykelsisfórnir og dreypifórnir, er það án vilja og vitundar manna vorra, að vér gjörum henni kökur, til þess að gjöra þann veg mynd af henni, og færum henni dreypifórnir?"

20Þá mælti Jeremía á þessa leið til alls lýðsins, til karlmannanna og kvennanna og til alls lýðsins, er honum hafði svo svarað:

21"Reykjargjörð sú, er þér gjörðuð í borgum Júda og á Jerúsalem-strætum, þér og feður yðar, konungar yðar og höfðingjar og landslýðurinn, - hvort minntist Drottinn hennar ekki, hvort kom hún honum ekki í hug? 22Og Drottinn gat ekki lengur þolað vonskuverk yðar og svívirðingar þær, er þér frömduð. Og þannig varð land yðar að auðn og skelfing og formæling, íbúalaust, svo sem það enn er, 23sakir þess að þér færðuð reykelsisfórnir og syndguðuð gegn Drottni og hlýdduð ekki skipun Drottins og fóruð ekki eftir lögmáli hans, setningum og boðorðum. Fyrir því kom þessi ógæfa yfir yður, eins og nú er fram komið."

24Og Jeremía sagði við allan lýðinn og við allar konurnar:

Heyrið orð Drottins, allir þér Júdamenn, sem í Egyptalandi eruð! 25Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð:

Þér konur. Þér hafið talað það með munni yðar og framkvæmt það með höndum yðar, sem þér segið: "Vér viljum halda heit vor, er vér höfum gjört, að færa himnadrottningunni reykelsisfórnir og dreypifórnir!" Þá efnið heit yðar og haldið heit yðar!

26Heyrið því orð Drottins, allir Júdamenn, þér sem í Egyptalandi búið:

Sjá, ég sver við mitt mikla nafn - segir Drottinn: Nafn mitt skal eigi framar nefnt verða af nokkurs Júdamanns munni í öllu Egyptalandi, að hann segi: "Svo sannarlega sem herrann Drottinn lifir."

27Sjá, ég vaki yfir þeim til óhamingju og eigi til hamingju, og allir Júdamenn, sem í Egyptalandi eru, skulu farast fyrir sverði og af hungri, uns þeir eru gjöreyddir. 28En þeir, sem komast undan sverðinu, skulu hverfa aftur frá Egyptalandi til Júda, en aðeins fáir menn. Og allar leifar Júda, þeir er komnir eru til Egyptalands, til þess að dveljast þar sem flóttamenn, skulu komast að raun um, hvers orð rætist, mitt eða þeirra! 29Og hafið þetta til marks - segir Drottinn - um að ég mun hegna yður á þessum stað, til þess að þér komist að raun um, að ógnanir mínar til yðar um óhamingju muni rætast: 30Svo segir Drottinn: Sjá, ég sel Hofra Faraó, Egyptalandskonung, á vald óvinum hans og á vald þeirra, sem sækjast eftir lífi hans, eins og ég seldi Sedekía Júdakonung á vald Nebúkadresars Babelkonungs, er var óvinur hans og sóttist eftir lífi hans.


Orðið til Barúks

45
1Orðið sem Jeremía spámaður talaði til Barúks Neríasonar, þá er hann skrifaði þessi orð í bókina eftir forsögn Jeremía á fjórða ríkisári Jójakíms Jósíasonar, konungs í Júda:

2Svo segir Drottinn, Ísraels Guð, um þig, Barúk:

3Þú sagðir: "Vei mér, því að Drottinn bætir harmi við kvöl mína. Ég er þreyttur orðinn af andvörpum mínum, og hvíld finn ég enga!"

4Svo skalt þú til hans mæla: Svo segir Drottinn:

Sjá, það sem ég hefi byggt, ríf ég niður, og það sem ég hefi gróðursett, uppræti ég. 5En þú ætlar þér mikinn hlut! Girnst það eigi! Því að sjá, ég leiði ógæfu yfir allt hold - segir Drottinn. En þér gef ég líf þitt að herfangi, hvert sem þú fer.



Spámæli gegn þjóðunum


Gegn Egyptum

46
1Þetta birtist Jeremía spámanni sem orð Drottins um þjóðirnar.

2Um Egyptaland. Viðvíkjandi her Faraós, Nekós Egyptalandskonungs.

Herinn var við Efratfljót, hjá Karkemis, er Nebúkadresar Babelkonungur vann sigur á honum á fjórða ríkisári Jójakíms Jósíasonar, Júdakonungs:


Ósigur Egypta við Efratfljót

3Búið út törgu og skjöld og gangið fram til orustu! 4Beitið fyrir hestana og stígið á bak herfákunum og fylkið yður hjálmaðir! Fægið lensurnar! Klæðist pansara!

5Hví sé ég þá skelfda hörfa aftur á bak? Og kappar þeirra eru yfirkomnir af ótta og flýja allt hvað af tekur og líta ekki við - skelfing allt um kring - segir Drottinn.

6Eigi mun hinn frái forða sér né kappinn komast undan. Norður frá, á bökkum Efratfljóts, hrasa þeir og falla.

7Hver var það, sem belgdist upp eins og Níl, hvers vötn komu æðandi eins og fljót? 8Egyptaland belgdist upp eins og Níl, og vötn þess komu æðandi eins og fljót, og það sagði: "Ég vil stíga upp, þekja landið, eyða borgir og íbúa þeirra. 9Komið, hestar, og æðið, vagnar, og kapparnir leggi af stað, Blálendingar og Pút-menn, sem bera skjöld, og Lúdítar, sem benda boga!"

10En sá dagur er hefndardagur herranum, Drottni allsherjar, að hann hefni sín á mótstöðumönnum sínum. Þá mun sverðið eta og seðjast og drekka sig drukkið af blóði þeirra, því að herrann, Drottinn allsherjar, heldur fórnarhátíð í landinu norður frá, við Efratfljót.

11Far upp til Gíleað og sæk smyrsl, þú mærin, dóttirin Egyptaland! Til einskis munt þú viðhafa mörg læknislyf, enginn plástur er til handa þér! 12Þjóðirnar fréttu smán þína, og jörðin er full af harmakveini þínu, því að einn kappinn hrasaði um annan, féllu báðir jafnsaman.


Innrás Nebúkadresars í Egyptaland

13Orðið sem Drottinn talaði til Jeremía spámanns, um það að Nebúkadresar Babelkonungur mundi vinna sigur á Egyptalandi.

14Kunngjörið í Egyptalandi og boðið í Migdól, já boðið í Nóf og Takpanes, segið:

Gakk fram og gjör þig vígbúinn, því að sverðið hefir þegar etið umhverfis þig!

15Hví eru þínir sterku menn að velli lagðir? Þeir fengu eigi staðist, því að Drottinn kollvarpaði þeim. 16Hann lét marga hrasa, og þeir féllu hver um annan þveran, svo að þeir sögðu: "Á fætur, og hverfum aftur til þjóðar vorrar, til ættlands vors, undan hinu vígfreka sverði!" 17Þeir munu nefna Faraó, Egyptalandskonung: "Tortíming! - hann lét hinn hentuga tíma líða hjá."

18Svo sannarlega sem ég lifi, segir konungurinn, Drottinn allsherjar er nafn hans: Líkur Tabor meðal fjallanna og líkur Karmel við sjóinn mun hann koma.

19Gjör þér áhöld til brottfarar, þú sem þar býr, dóttirin Egyptaland, því að Nóf mun verða að auðn og hún mun verða brennd og verða mannauð.

20Egyptaland er mjög fögur kvíga, kleggjar úr norðri koma yfir hana. 21Jafnvel málaliðið, sem það hefir hjá sér, eins og alikálfa - já, jafnvel það snýr við, flýr allt saman, fær eigi staðist.

Því að glötunardagur þeirra er yfir þá kominn, hegningartími þeirra. 22Rödd þess er orðin eins og þruskið í höggorminum, sem skríður burt, því með herliði bruna þeir áfram og með öxum ryðjast þeir inn á það, eins og viðarhöggsmenn. 23Þeir höggva upp skóg þess - segir Drottinn - því að um hann verður ekki farið, því að þeir eru fleiri en engisprettur og á þá verður engri tölu komið.

24Dóttirin Egyptaland varð til skammar, hún var seld á vald þjóð að norðan.

25Drottinn allsherjar, Ísraels Guð, segir:

Sjá, ég vitja Amóns frá Þebu og Faraós og þeirra, sem á hann treysta, 26og sel þá á vald þeirra, er sækjast eftir lífi þeirra, og á vald Nebúkadresars Babelkonungs og á vald þjóna hans. En eftir það skal það byggt vera, eins og fyrri á dögum - segir Drottinn.

27En óttast þú ekki, þjónn minn Jakob, og hræðst þú ekki, Ísrael, því að ég frelsa þig úr fjarlægu landi og niðja þína úr landinu, þar sem þeir eru herleiddir, til þess að Jakob hverfi heim aftur og njóti hvíldar og búi óhultur, án þess nokkur hræði hann.

28Óttast þú ekki, þjónn minn Jakob - segir Drottinn - því að ég er með þér! Því að ég vil gjöreyða öllum þeim þjóðum, er ég hefi rekið þig til, en þér vil ég ekki gjöreyða, heldur vil ég hirta þig í hófi; en ég vil ekki láta þér með öllu óhegnt.


Gegn Filistum

47
1Þetta birtist Jeremía spámanni sem orð Drottins um Filista, áður en Faraó vann Gasa:

2Svo segir Drottinn:

Sjá, vatn kemur streymandi úr norðri og verður að á, sem flæðir yfir. Það flóir yfir landið og það, sem í því er, yfir borgir og íbúa þeirra, svo að menn æpa hátt og allir íbúar landsins hljóða 3vegna dynsins af hófastappi hesta hans, vegna skröltsins í vögnum hans og glymsins í hjólum hans. Feðurnir líta ekki við til barna sinna af því að hendur þeirra eru orðnar lémagna 4vegna dagsins, sem kominn er til að eyða öllum Filistum, til að uppræta fyrir Týrus og Sídon sérhvern hjálparmann sem enn er eftir. Því að Drottinn mun eyða Filistum, leifum Kaftór strandar.

5Gasa er orðin sköllótt, Askalon í eyði lögð; þér leifar Anakíta, hversu lengi ætlið þér að rista á yður skinnsprettur?

6Æ, sverð Drottins, hve lengi ætlar þú að vera hvíldarlaust? Drag þig aftur í slíðrar þínar, still þig og hljóðna!

7Hvernig ætti það að hvílast, þar sem Drottinn hefir gefið því skipun? Til Askalon og til strandar hafsins, - þangað hefir hann ætlað því för.


Gegn Móabítum

48
1Um Móab.

Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð:

Vei yfir Nebó, því að hún er eydd, orðin til skammar, Kirjataím er unnin, háborgin er orðin til skammar og skelfd.

2Frægð Móabs er farin. Í Hesbon brugga menn ill ráð gegn borginni: "Komið, vér skulum uppræta hana, svo að hún sé eigi framar þjóð!" Einnig þú, Madmen, munt gjöreydd verða, sverðið eltir þig!

3Neyðarkvein heyrist frá Hórónaím: "Eyðing og ógurleg tortíming!" 4Móab er í eyði lagður, þeir láta neyðarkvein heyrast allt til Sóar, 5því að grátandi ganga þeir upp stíginn hjá Lúkít, já, í hlíðinni hjá Hórónaím heyra menn neyðarkvein tortímingarinnar. 6Flýið, forðið lífi yðar, og verðið eins og einirunnur í eyðimörkinni!

7Af því að þú reiddir þig á káksmíðar þínar og fjársjóðu þína, verður þú og unnin, og Kamos verður að fara í útlegð, prestar hans og höfðingjar hver með öðrum.

8Eyðandinn kemur yfir hverja borg, engin borg kemst undan. Dalurinn ferst og sléttlendið eyðileggst, eins og Drottinn hefir sagt.

9Fáið Móab vængi, því að á flugferð skal hann brott fara, og borgir hans skulu verða að auðn og enginn í þeim búa. 10Bölvaður sé sá, sem slælega framkvæmir verk Drottins, og bölvaður sé sá, sem synjar sverði sínu um blóð!

11Móab hefir lifað í friði frá æsku og legið í náðum á dreggjum sínum. Honum hefir ekki verið hellt úr einu kerinu í annað, og aldrei hefir hann farið í útlegð. Fyrir því hefir bragðið af honum haldist og ilmurinn af honum eigi breytst.

12Sjá, þeir dagar munu því koma, segir Drottinn, að ég sendi honum tæmendur, sem tæma hann. Þeir skulu hella úr kerum hans og mölva sundur krúsir hans. 13Þá mun Móab verða til skammar vegna Kamoss, eins og Ísraels hús varð til skammar vegna Betel, er það treysti á.

14Hvernig getið þér sagt: "Vér erum hetjur og öflugir hermenn?" 15Eyðandi Móabs og borga hans kemur þegar, og úrval æskumanna hans hnígur niður til slátrunar - segir konungurinn. Drottinn allsherjar er nafn hans.

16Eyðilegging Móabs er komin nærri og óhamingja hans hraðar sér mjög.

17Vottið honum hluttekning, allir þér nábúar hans, og allir þér, sem þekkið nafn hans. Segið: "Hvernig brotnaði stafurinn sterki, sprotinn dýrlegi!"

18Stíg niður úr vegsemdinni og sest í duftið, þú sem þar býr, dóttirin Díbon, því að eyðandi Móabs kemur í móti þér, eyðir vígi þín. 19Gakk út á veginn og skyggnst um, þú sem býr í Aróer, spyr flóttamanninn og þá konu, er undan hefir komist, og seg: "Hvað hefir til borið?"

20Móab varð til skammar, já skelfdist. Hljóðið og kveinið! Kunngjörið hjá Arnon, að Móab sé eyddur.

21Dómur er genginn yfir sléttulandið, yfir Hólon og Jahsa og Mefaat, 22yfir Díbon, Nebó og Bet-Díblataím, 23yfir Kirjataím, Bet-Gamúl og Bet-Meon, 24yfir Keríót, Bosra, og allar borgir Móabslands, fjær og nær.

25Horn Móabs er afhöggvið og armur hans brotinn - segir Drottinn.

26Gjörið hann drukkinn - því að gegn Drottni hefir hann miklast -, til þess að Móab skelli ofan í spýju sína og verði líka að athlægi. 27Eða var Ísrael þér eigi hlátursefni? Var hann gripinn með þjófum, þar sem þú hristir höfuðið í hvert sinn sem þú talar um hann?

28Yfirgefið borgirnar og setjist að í klettaskorum, þér íbúar Móabs, og verið eins og dúfan, sem hreiðrar sig hinum megin á gjárbarminum.

29Heyrt höfum vér um drambsemi Móabs - hann er mjög hrokafullur - um hroka hans, drambsemi, ofmetnað og yfirlæti hans. 30Já, ég þekki - segir Drottinn - ofsa hans: Svo marklaus eru stóryrði hans, svo marklaust það, er þeir gjöra. 31Fyrir því kveina ég yfir Móab og hljóða yfir Móab öllum, yfir mönnunum frá Kír-Heres mun andvarpað verða.

32Meir en grátið verður yfir Jaser, græt ég yfir þér, vínviður Síbma. Greinar þínar fóru yfir hafið, komust til Jaser, á sumargróða þinn og vínberjatekju hefir eyðandinn ráðist. 33Fögnuður og kæti er horfin úr aldingörðunum og úr Móabslandi. Vínið læt ég þverra í vínþröngunum, troðslumaðurinn mun eigi framar troða, fagnaðarópið er ekkert fagnaðaróp.

34Frá hinni kveinandi Hesbon allt til Eleale, allt til Jahas láta þeir raust sína glymja, frá Sóar allt til Hórónaím, allt til Eglat-Selisía, því að einnig Nimrímvötn verða að öræfum. 35Og ég eyði úr Móab - segir Drottinn - sérhverjum þeim, sem stígur upp á fórnarhæð og færir guði sínum reykelsi. 36Fyrir því kveinar hjarta mitt yfir Móab eins og hljóðpípur og hjarta mitt kveinar yfir mönnunum frá Kír-Heres eins og hljóðpípur, fyrir því misstu þeir það, er þeir höfðu dregið saman. 37Því að hvert höfuð er sköllótt orðið og allt skegg af rakað, á öllum handleggjum eru skinnsprettur, og hærusekkur um mjaðmir. 38Uppi á öllum þökum í Móab og á torgunum heyrist ekki annað en harmakvein, því að ég hefi brotið Móab eins og ker, sem engum manni geðjast að, - segir Drottinn. 39Hversu er hann skelfdur! Hljóðið! Hversu hefir Móab snúið baki við! Fyrirverð þig! Og Móab skal verða til athlægis og skelfingar öllum nágrönnum sínum.

40Svo segir Drottinn:

Sjá, hann kemur fljúgandi eins og örn og breiðir vængi sína út yfir Móab. 41Borgirnar eru teknar og vígin unnin, og hjarta Móabs kappa mun á þeim degi verða eins og hjarta konu, sem er í barnsnauð. 42En Móab mun afmáður verða, svo að hann verði eigi þjóð framar, því að hann hefir miklast gegn Drottni.

43Geigur, gröf og gildra koma yfir þig, Móabsbúi - segir Drottinn.

44Sá, sem flýr undan geignum, fellur í gröfina, og sá, sem kemst upp úr gröfinni, festist í gildrunni. Því að þetta leiði ég yfir Móab árið, sem þeim verður hegnt - segir Drottinn.

45Í skugga Hesbon nema flóttamenn staðar magnlausir, en eldur brýst út úr Hesbon og logi úr höll Síhons, hann eyðir þunnvanganum á Móab og hvirflinum á hávaðamönnum.

46Vei þér, Móab! Það er úti um lýð Kamoss! Því að synir þínir munu verða fluttir burt til herleiðingar og dætur þínar hernumdar. 47En ég mun snúa við högum Móabs, þá er fram líða stundir - segir Drottinn.

Hér lýkur dómsorðunum yfir Móab.


Gegn Ammónítum

49
1Um Ammóníta.

Svo segir Drottinn:

Á þá Ísrael enga sonu, eða á hann engan erfingja?

Hví hefir Milkóm erft Gað og hví hefir lýður hans setst að í borgum hans?

2Sjá, þeir dagar munu koma - segir Drottinn - að ég læt heróp heyrast til Rabba, borgar Ammóníta, og hún skal verða að grjóthrúgu og dæturnar eyðast í eldi, og þá skal Ísrael erfa aftur erfingja sína - segir Drottinn.

3Hljóða þú, Hesbon, yfir því að borgin er unnin! Kveinið Rabbadætur! Gyrðist hærusekk, harmið og reikið um innan fjárgirðinganna, því að Milkóm verður að fara í útlegð, prestar hans og höfðingjar hverjir með öðrum.

4Hví stærir þú þig af dölunum, af frjósemi dals þíns, fráhverfa dóttir, sem reiðir sig á fjársjóðu sína og segir: "Hver skyldi ráða á mig?" 5Sjá, ég læt skelfingu koma yfir þig - segir herrann, Drottinn allsherjar - úr öllum áttum í kringum þig, og þér skuluð verða reknir brott, hver það sem horfir, og enginn safnar þeim saman, er flýja. 6En síðar meir mun ég leiða heim aftur hina herleiddu af Ammónítum - segir Drottinn.


Gegn Edómítum

7Um Edóm.

Svo segir Drottinn allsherjar:

Er þá engin viska framar í Teman? Eru góð ráð horfin hinum hyggnu, er viska þeirra þrotin?

8Flýið, hverfið brott, felið yður djúpt niðri, þér íbúar Dedans! Því að Esaús glötun læt ég yfir hann koma, þá er ég hegni honum. 9Ef vínlestursmenn ráðast á þig, þá skilja þeir ekki neinn eftirtíning eftir. Ef þjófar koma að þér á náttarþeli, þá skemma þeir, þar til er þeim nægir. 10En af því að ég sjálfur afhjúpa Esaú, gjöri ber fylgsni hans, svo að hann getur ekki falið sig, þá verða niðjar hans unnir og frændþjóðir hans og nábúar, og úti er um hann.

11Yfirgef munaðarleysingja þína, - ég mun halda lífinu í þeim, og ekkjur þínar mega reiða sig á mig!

12Svo segir Drottinn:

Sjá, þeim sem eigi bar að drekka bikarinn, þeir urðu að drekka hann - og þú ættir að sleppa óhegndur? Þú munt ekki sleppa óhegndur, heldur skalt þú drekka.

13Því að ég sver við sjálfan mig - segir Drottinn -, að Bosra skal verða að skelfing, háðung, undrun og formæling, og allar borgir hennar skulu verða að eilífum rústum.

14Ég hefi fengið vitneskju frá Drottni, og boðberi er sendur meðal þjóðanna! Safnist saman og farið gegn borginni og búist til bardaga!

15Sjá, ég vil gjöra þig litla meðal þjóðanna, fyrirlitna meðal mannanna.

16Skelfingin, sem þú skaust öðrum í brjóst, og hroki hjarta þíns hafa dregið þig á tálar, þú sem átt byggð í klettaskorum, situr á háa hnúknum.

Þó að þú byggðir hreiður þitt hátt, eins og örninn, þá steypi ég þér þaðan niður - segir Drottinn.

17Edóm skal verða að skelfingu, hver sem fer þar um mun skelfast og hæðast að öllum áföllunum, er hann hefir orðið fyrir. 18Eins og Sódómu og Gómorru og nágrannaborgunum var umturnað, segir Drottinn, svo skal og enginn maður búa þar, né nokkurt mannsbarn hafast þar við.

19Sjá, eins og ljón, sem kemur út úr kjarrinu á Jórdanbökkum og stígur upp á sígrænt engið, svo mun ég skyndilega reka hann burt þaðan, og hvern þann, sem útvalinn er, mun ég setja yfir hana.

Því að hver er minn líki?

Hver vill stefna mér?

Hver er sá hirðir, er fái staðist fyrir mér?

20Heyrið því ráðsályktun Drottins, er hann hefir gjört viðvíkjandi Edóm, og þær fyrirætlanir, er hann hefir í huga viðvíkjandi Teman-búum:

Sannarlega munu þeir draga hina lítilmótlegustu úr hjörðinni burt. Sannarlega skal haglendi þeirra verða agndofa yfir þeim.

21Af dyn falls þeirra nötrar jörðin, neyðarkveinið - ómurinn af því heyrist við Rauðahafið. 22Sjá, sem örn stígur hann upp og flýgur hingað og breiðir út vængi sína yfir Bosra, og hjarta Edóms kappa mun á þeim degi verða eins og hjarta konu, sem er í barnsnauð.


Gegn Damaskus

23Um Damaskus.

Hamat og Arpad eru agndofa, því að þær hafa spurt ill tíðindi, þær eru hræddar, fullar af óró, eins og hafið, sem getur ekki verið kyrrt.

24Damaskus er orðin huglaus, hefir snúist á flótta, og ótti hefir gripið hana, angist og kvalir hafa altekið hana, eins og jóðsjúka konu.

25Hví var hún ekki yfirgefin, hin vegsamaða borg, ununar-borgin mín?

26Fyrir því verða nú æskumenn hennar að falla á torgunum og allir hermenn hennar að farast á þeim degi - segir Drottinn allsherjar. 27Og ég kveiki eld við múra Damaskus, til þess að hann eyði höllum Benhadads.


Gegn Kedar og Hasór

28Um Kedar og konungsríki Hasórs, er Nebúkadresar Babelkonungur vann.

Svo segir Drottinn:

Standið upp, farið á móti Kedar og herjið á austurbyggja. 29Tjöld þeirra og sauði munu þeir taka, og tjalddúka þeirra og öll áhöld og úlfalda þeirra munu þeir flytja burt frá þeim. Þá munu menn hrópa yfir þeim: "Skelfing allt um kring!"

30Leggið á flótta, flýið sem hraðast, felið yður djúpt niðri, þér íbúar Hasórs - segir Drottinn, því að Nebúkadresar Babelkonungur hefir gjört ráðsályktun gegn yður og hefir í huga ráðagjörð gegn yður.

31Af stað! Farið á móti meinlausri þjóð, sem býr örugg - segir Drottinn -, og hvorki hefir hurðir né slagbranda. Þeir búa einir sér. 32Úlfaldar þeirra skulu verða að ránsfeng og mergð nautahjarða þeirra að herfangi, og ég mun dreifa þeim fyrir öllum vindum, þeim sem skera hár sitt við vangann, og láta ógæfu hvaðanæva yfir þá koma - segir Drottinn.

33Hasór skal verða að sjakalabæli, að auðn um eilífð. Enginn maður mun framar búa þar og ekkert mannsbarn hafast þar við.


Gegn Elamítum

34Þetta birtist Jeremía spámanni sem orð Drottins um Elam í upphafi ríkisstjórnar Sedekía Júdakonungs:

35Svo segir Drottinn allsherjar:

Sjá, ég brýt sundur boga Elamíta, meginstyrk þeirra. 36Og ég hleypi á Elamíta fjórum vindum úr fjórum áttum himins og tvístra þeim fyrir öllum þessum vindum, og engin skal sú þjóð til vera, að þangað komi ekki flóttamenn frá Elam.

37Ég læt Elamíta skelfast fyrir óvinum þeirra og fyrir þeim, er sækjast eftir lífi þeirra, og leiði yfir þá óhamingju, mína brennandi reiði - segir Drottinn - og sendi sverðið á eftir þeim, uns ég hefi gjöreytt þeim.

38Ég reisi hásæti mitt í Elam og eyði þaðan konungi og höfðingjum - segir Drottinn. 39En þá er fram líða stundir mun ég snúa við högum Elams - segir Drottinn.


Um fall Babýlons og heimkomu hinna herleiddu

50
1Orðið sem Drottinn talaði um Babýlon, um land Kaldea, fyrir munn Jeremía spámanns.

2Kunngjörið það meðal þjóðanna, boðið það og setjið upp merki!

Boðið það, dyljið það ekki! Segið: "Babýlon er unnin! Bel er orðin til skammar! Mardúk niður brotinn! Líkneskin eru orðin til skammar, skurðgoðin niður brotin!"

3Þjóð kemur á móti henni úr norðurátt, hún gjörir land hennar að auðn, svo að enginn maður býr þar framar, bæði menn og skepnur flýja, fara burt.

4Á þeim dögum og á þeim tíma - segir Drottinn - munu Ísraelsmenn koma, ásamt Júdamönnum. Grátandi munu þeir ganga og leita Drottins, Guðs síns.

5Þeir spyrja eftir Síon, þangað stefna þeir. Þeir koma og ganga Drottni á hönd með eilífum sáttmála, sem ekki mun gleymast.

6Þjóð mín var sem týndir sauðir, hirðar þeirra leiddu þá afvega, tældu þá upp í fjöll, þeir reikuðu af hálsi á hæð, gleymdu bóli sínu. 7Allir, sem hittu þá, átu þá, og mótstöðumenn þeirra sögðu: "Vér bökum oss enga sekt, vegna þess að þeir syndguðu gegn Drottni, haglendi réttlætisins og von feðra þeirra, Drottni."

8Flýið burt úr Babýlon og farið burt úr landi Kaldea og verið sem hafrar á undan hjörðinni.

9Sjá, ég læt upp rísa safn mikilla þjóða frá norðlægum löndum, er fer á móti Babýlon. Þær munu skipa sér móti henni. Þaðan mun hún unnin verða. Örvar þeirra eru eins og giftusöm hetja, er ekki hverfur aftur við svo búið.

10Kaldea skal verða að herfangi, allir, sem hana ræna, fá nægju sína - segir Drottinn.

11Gleðjist, já fagnið, þér ránsmenn eignar minnar, já stökkvið eins og þreskjandi kvíga og hvíið eins og stóðhestar.

12Móðir yðar verður mjög til skammar, hún, sem ól yður, má fyrirverða sig. Sjá, hún er hin síðasta meðal þjóðanna, eyðimörk, þurrt land, heiði!

13Vegna reiði Drottins mun hún verða óbyggð og verða algjörlega að auðn. Hvern, sem fer fram hjá Babýlon, mun hrylla við, og hann mun hæðast að öllum áföllunum, sem hún hefir orðið fyrir.

14Skipið yður niður kringum Babýlon, allir þér bogmenn! Skjótið á hana, sparið ekki örvarnar, því að gegn Drottni hefir hún syndgað. 15Ljóstið upp ópi hringinn í kringum hana: Hún hefir gefist upp, stoðir hennar eru fallnar, múrar hennar niður rifnir, það er hefnd Drottins.

Hefnið yðar á henni. Gjörið við hana eins og hún hefir til gjört. 16Afmáið í Babýlon sáðmanninn og þann, er sigðina ber um uppskerutímann. Fyrir hinu vígfreka sverði munu þeir hver og einn hverfa til sinnar þjóðar og flýja hver og einn til síns lands.

17Ísrael er sem burtflæmdur sauður, er ljón hafa elt: Fyrst át Assýríukonungur hann og nú síðast hefir Nebúkadresar Babelkonungur nagað bein hans. 18Fyrir því segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð, svo: Sjá, ég vitja Babelkonungs og lands hans, eins og ég vitjaði Assýríukonungs.

19Ég leiði Ísrael aftur heim í haglendi sitt, og hann skal vera á beit á Karmel og í Basan og seðja hungur sitt á Efraím-fjöllum og í Gíleað.

20Á þeim dögum og á þeim tíma - segir Drottinn - mun leitað verða að sekt Ísraels, en hún er ekki framar til, og að syndum Júda, en þær finnast ekki, því að ég mun fyrirgefa þeim, sem ég læt eftir verða.

21Far móti Maratajím-héraði og gegn íbúum Pekod. Eyð þeim og helga þá banni - segir Drottinn - og gjör með öllu svo sem ég hefi fyrir þig lagt.

22Heyr! Stríð í landinu og mikil eyðilegging!

23Hversu er hamarinn, sem laust alla jörðina, höggvinn af skafti og sundurbrotinn! Hversu er Babýlon orðin að skelfingu meðal þjóðanna! 24Ég lagði snöru fyrir þig - Babýlon, og þú festist og vissir ekki af. Þú náðist og þú varst gripin, því að þú hafðir dirfst að berjast gegn Drottni.

25Drottinn hefir lokið upp vopnabúri sínu og tekið út vopn reiði sinnar, því að herrann, Drottinn allsherjar, hefir verk með höndum í landi Kaldea.

26Komið móti henni úr öllum áttum, ljúkið upp hlöðum hennar, kastið henni eins og bundinum í bing og helgið hana banni! Látið engar leifar af henni eftir verða! 27Drepið alla uxa hennar, þeir skulu hníga niður til slátrunar.

Vei þeim, því að dagur þeirra er kominn, hegningartími þeirra.

28Heyr! Hér eru menn, sem flúið hafa og komist undan frá Babýlon til þess að boða í Síon að Drottinn, Guð vor, hefnir, hefnir fyrir musteri sitt.

29Bjóðið skyttum út gegn Babýlon, öllum þeim sem benda boga! Setjið herbúðir allt í kringum hana! Látið engan komast undan! Gjaldið henni eftir verkum hennar! Gjörið við hana að öllu svo sem hún hefir til gjört, því að hún hefir ofmetnast gegn Drottni, gegn Hinum heilaga í Ísrael. 30Fyrir því skulu æskumenn hennar falla á torgunum og allir hermenn hennar farast á þeim degi - segir Drottinn.

31Sjá, ég ætla að finna þig, Drambsemi - segir herrann, Drottinn allsherjar - því að dagur þinn er kominn, hegningartími þinn. 32Nú skal Drambsemi hrasa og falla, og enginn skal reisa hana á fætur, og ég mun leggja eld í borgir hennar, og hann skal eyða öllu því, sem umhverfis hana er.

33Svo segir Drottinn allsherjar:

Kúgaðir eru Ísraelsmenn og Júdamenn allir saman. Allir þeir, er þá hafa herleitt, halda þeim föstum, vilja ekki láta þá lausa. 34En lausnari þeirra er sterkur, - Drottinn allsherjar heitir hann. Hann mun reka mál þeirra með dugnaði, til þess að hann speki jörðina, en óspeki Babýlonsbúa.

35Sverð komi yfir Kaldea - segir Drottinn - og yfir Babýlonsbúa og yfir höfðingja hennar og vitringa!

36Sverð komi yfir þvaðrarana, svo að þeir standi eins og afglapar!

Sverð komi yfir kappa hennar, svo að þeir verði huglausir!

37Sverð komi yfir hesta hennar og vagna og yfir allan þjóðblendinginn, sem í henni er, svo að þeir verði að konum!

Sverð komi yfir fjársjóðu hennar, svo að þeim verði rænt!

38Sverð komi yfir vötn hennar, svo að þau þorni! Því að skurðgoðaland er það, og þeir láta sem vitfirringar með skelfingar-líkneskin.

39Fyrir því munu urðarkettir búa hjá sjökulum, og strútsfuglar búa í henni, og hún skal ekki framar byggð vera að eilífu, né þar verða búið frá kyni til kyns.

40Eins og Guð umturnaði Sódómu og Gómorru og nágrannaborgunum - segir Drottinn - svo skal og enginn maður búa þar né nokkurt mannsbarn hafast við í henni.

41Sjá, lýður kemur úr norðurátt og mikil þjóð og voldugir konungar rísa upp á útkjálkum jarðar. 42Þeir bera boga og skotspjót, þeir eru grimmir og sýna enga miskunn, háreysti þeirra er sem hafgnýr, og þeir ríða hestum, búnir sem hermenn til bardaga gegn þér, dóttirin Babýlon.

43Babelkonungur hefir fengið fregnir af þeim, hendur hans eru magnlausar, angist hefir gripið hann, kvalir, eins og jóðsjúka konu.

44Sjá, eins og ljón, sem kemur út úr kjarrinu á Jórdanbökkum og stígur upp á sígrænt engið, svo mun ég skyndilega reka þá burt þaðan, og hvern þann, sem útvalinn er, mun ég setja yfir hana.

Því að hver er minn líki? Hver vill stefna mér? Hver er sá hirðir, er fái staðist fyrir mér?

45Heyrið því ráðsályktun Drottins, er hann hefir gjört viðvíkjandi Babýlon, og þær fyrirætlanir, er hann hefir í huga viðvíkjandi landi Kaldea: Sannarlega munu þeir draga þá burt, hina lítilmótlegustu úr hjörðinni. Sannarlega skal haglendið verða agndofa yfir þeim. 46Af ópinu: "Babýlon er unnin" nötrar jörðin, og neyðarkvein heyrist meðal þjóðanna.

51
1Svo segir Drottinn:

Sjá, ég vek upp eyðandi storm gegn Babýlon og gegn íbúum Kaldeu. 2Ég sendi vinsara gegn Babýlon, að þeir vinsi hana og tæmi land hennar.

Þegar þeir umkringja hana á óheilladegi, 3skal enginn benda boga sinn né reigja sig í pansara sínum.

Hlífið ekki æskumönnum hennar, helgið banni allan her hennar, 4svo að vegnir menn falli í landi Kaldea og sverði lagðir hnígi á strætum hennar, 5af því að land þeirra er fullt af sekt gegn Hinum heilaga í Ísrael. En Ísrael og Júda eru ekki yfirgefin af Guði sínum, Drottni allsherjar.

6Flýið út úr Babýlon og hver og einn forði lífi sínu. Látið eigi tortíma yður vegna misgjörða hennar. Því að það er hefndartími Drottins, hann endurgeldur henni eins og hún hefir til unnið.

7Babýlon var gullbikar í hendi Drottins, er gjörði alla jörðina drukkna. Af víni hennar drukku þjóðirnar, fyrir því létu þjóðirnar sem þær væru óðar.

8Sviplega er Babýlon fallin og sundurmoluð. Kveinið yfir henni! Sækið smyrsl við kvölum hennar, má vera að hún verði læknuð.

9"Vér ætluðum að lækna Babýlon, en hún var ólæknandi. Yfirgefið hana, og förum hver til síns lands, því að refsidómur sá, er yfir hana gengur, nær til himins og gnæfir við ský." 10Drottinn hefir leitt í ljós vort réttláta málefni, komið, vér skulum kunngjöra í Síon verk Drottins, Guðs vors!

11Fægið örvarnar, takið á yður skjölduna! Drottinn hefir vakið hugmóð Medíukonunga, því að fyrirætlan hans er miðuð gegn Babýlon til þess að eyða hana. Því að það er hefnd Drottins, hefnd fyrir musteri hans.

12Reisið merki gegn Babýlonsmúrum! Aukið vörðinn! Skipið verði! Setjið launsátur! Því að Drottinn hefir ákveðið og framkvæmir það, er hann hefir hótað Babýlonsbúum.

13Þú, sem býr við hin miklu vötn, auðug að fjársjóðum, endadægur þitt er komið, lífdagar þínir taldir.

14Drottinn allsherjar sver við sjálfan sig: Þótt ég hefði fyllt þig mönnum, eins og engisprettum, munu menn þó hefja siguróp yfir þér.

15Hann, sem gjört hefir jörðina með krafti sínum, skapað heiminn af speki sinni og þanið út himininn af hyggjuviti sínu, - 16þegar hann þrumar, svarar vatnagnýr í himninum, - þegar hann lætur ský upp stíga frá endimörkum jarðar og gjörir leiftur til þess að búa rás regninu og hleypir vindinum út úr forðabúrum hans, 17þá stendur sérhver maður undrandi og skilur þetta ekki, og sérhver gullsmiður skammast sín fyrir líkneski sitt, því að hin steyptu líkneski hans eru tál, og í þeim er enginn andi. 18Hégómi eru þau, háðungar-smíði, þegar hegningartími þeirra kemur, er úti um þau.

19En hlutdeild Jakobs er ekki þeim lík, heldur er hann skapari alls, og Ísrael er hans eignarkynkvísl. Drottinn allsherjar er nafn hans.

20Þú varst mér hamar, hervopn, að ég gæti molað sundur með þér þjóðir og eytt með þér konungsríki, 21að ég gæti molað sundur með þér hesta og reiðmenn, að ég gæti molað sundur með þér vagna og þá, sem í þeim óku, 22að ég gæti molað sundur með þér karla og konur, að ég gæti molað sundur með þér gamla og unga, að ég gæti molað sundur með þér æskumenn og meyjar, 23að ég gæti molað sundur með þér hirða og hjarðir, að ég gæti molað sundur með þér akurmenn og sameyki þeirra, að ég gæti molað sundur með þér jarla og landstjóra!

24Ég endurgeld Babel og öllum íbúum Kaldeu allt það illt, er þeir hafa gjört Síon að yður áhorfandi - segir Drottinn.

25Sjá, ég ætla að finna þig, þú Skaðræðisfjall - segir Drottinn - þú sem skaðræði vannst allri jörðinni, og ég útrétti hönd mína gegn þér og velti þér ofan af hömrunum og gjöri þig að brenndu fjalli. 26Úr þér skulu menn ekki sækja hornsteina, né undirstöðusteina, heldur skalt þú verða að eilífri auðn - segir Drottinn.

27Reisið merki á jörðinni! Þeytið lúðurinn meðal þjóðanna!

Vígið þjóðir móti henni! Kallið móti henni konungsríki Ararats, Minní og Askenas! Skipið herforingja móti henni! Færið fram hesta, líka byrstum engisprettum!

28Vígið þjóðir móti henni, konunga Medíu, jarla hennar og landstjóra og allt land ríkis þeirra.

29Þá nötrar jörðin og bifast, því að fyrirætlanir Drottins gegn Babýlon rætast, með því að hann gjörir Babýlon að auðn, svo að enginn býr þar.

30Kappar Babýlons hætta við að berjast, þeir halda kyrru fyrir í virkjunum, hreysti þeirra er þorrin, þeir eru orðnir að konum.

Menn hafa lagt eld í híbýli hennar, slagbrandar hennar eru brotnir. 31Hlaupasveinn hleypur móti hlaupasveini og sendiboði móti sendiboða til þess að boða Babelkonungi að borg hans sé unnin öllumegin, 32brýrnar teknar, sefmýrarnar brenndar í eldi og hermennirnir skelfdir.

33Já, svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð:

Dóttirin Babýlon líkist láfa á þeim tíma, þá er hann er troðinn. Innan skamms kemur og uppskerutími fyrir hana.

34"Nebúkadresar Babelkonungur hefir etið oss, hefir eytt oss, hann gjörði úr oss tómt ílát. Hann svalg oss eins og dreki, kýldi vömb sína og rak oss burt úr unaðslandi voru!"

35"Það ofbeldi og sú misþyrming, sem ég hefi orðið fyrir, komi yfir Babýlon," segi Síonbúar, og "blóð mitt komi yfir íbúa Kaldeu," segi Jerúsalem.

36Fyrir því segir Drottinn svo:

Sjá, ég tek að mér málefni þitt og læt þig ná rétti þínum. Ég þurrka upp vatn Babýlons og læt uppsprettu hennar þorna. 37Og hún skal verða að grjóthrúgu, að sjakalabæli, að skelfing og háði, enginn skal þar búa.

38Þeir öskra allir eins og ung ljón, gnöllra eins og ljónshvolpar. 39En þegar græðgihitinn er kominn í þá, vil ég búa þeim veislu og gjöra þá drukkna, til þess að þeir verði kátir. Því næst skulu þeir sofna eilífum svefni og ekki vakna framar! - segir Drottinn. 40Ég læt þá hníga sem lömb til slátrunar, sem hrúta ásamt höfrum.

41Hversu varð Sesak unnin og tekin, hún er fræg var um víða veröld! Hversu er Babýlon orðin að skelfingu meðal þjóðanna!

42Sjórinn gekk yfir Babýlon, hún huldist gnýjandi bylgjum hans.

43Borgir hennar urðu að auðn, að þurru landi og heiði. Enginn maður mun framar búa þar né nokkurt mannsbarn fara þar um.

44Ég vitja Bels í Babýlon og tek út úr munni hans það, er hann hefir gleypt, og eigi skulu þjóðir framar streyma til hans. Babýlonsmúr hrynur einnig.

45Far út úr henni, lýður minn, og hver og einn forði lífi sínu undan hinni brennandi reiði Drottins.

46Látið ekki hugfallast og verðið ekki hræddir við tíðindin, sem heyrast í landinu. Þessi tíðindi koma þetta árið og því næst önnur tíðindi annað árið: ofbeldi er framið í landinu, og drottnari rís mót drottnara.

47Fyrir því, sjá, þeir dagar koma, að ég vitja skurðgoða Babýlons, og þá mun allt land hennar verða til skammar og allir vegnir menn hennar falla inni í henni. 48Þá mun himinn og jörð og allt, sem í þeim er, hlakka yfir Babýlon, því að úr norðri brjótast eyðendurnir inn yfir hana - segir Drottinn.

49Babýlon verður að falla vegna hinna vegnu manna af Ísrael, eins og vegnir menn hafa orðið að falla um alla jörðina vegna Babýlon.

50Þér, sem undan sverðinu hafið komist, haldið þér áfram, standið ekki við. Minnist Drottins í fjarlægð og hafið Jerúsalem í huga.

51Vér erum orðnir til skammar, því að vér urðum varir við fyrirlitningu, blygðun hylur auglit vor, því að útlendir menn hafa brotist inn yfir helgidóma musteris Drottins.

52Fyrir því, sjá, þeir dagar munu koma - segir Drottinn - að ég vitja skurðgoða hennar, og sverði lagðir menn skulu stynja í öllu landi hennar.

53Þó að Babýlon hefji sig til himins og þó að hún gjöri vígi sitt svo hátt, að það verði ókleift, þá munu þó frá mér koma eyðendur yfir hana - segir Drottinn.

54Heyr! Neyðarkvein frá Babýlon og mikil eyðilegging úr landi Kaldea! 55Já, Drottinn eyðir Babýlon og upprætir úr henni hinn mikla hávaða. Bylgjur þeirra gnýja eins og stór vötn, gjallandi kveður við óp þeirra. 56Því að eyðandi kemur yfir hana, yfir Babýlon, og kappar hennar verða teknir höndum og bogar þeirra brotnir, því að Drottinn er Guð endurgjaldsins, hann endurgeldur áreiðanlega.

57Ég gjöri drukkna höfðingja hennar og vitringa, jarla hennar og landstjóra og kappa hennar. Þeir skulu sofna eilífum svefni og eigi vakna framar - segir konungurinn. Drottinn allsherjar er nafn hans.

58Svo segir Drottinn allsherjar: Hinn víði Babýlonsmúr skal rifinn verða til grunna og hin háu borgarhlið hennar brennd í eldi, - já, lýðir vinna fyrir gýg og þjóðir leggja á sig erfiði fyrir eldinn!


Bók varpað í Efrat

59Skipunin sem Jeremía spámaður lagði fyrir Seraja Neríason, Mahasejasonar, þá er hann fór í erindum Sedekía Júdakonungs til Babýlon, á fjórða ári ríkisstjórnar hans. En Seraja var herbúðastjóri. 60En Jeremía skrifaði alla þá ógæfu, er koma mundi yfir Babýlon, í eina bók - allar þessar ræður, sem ritaðar eru um Babýlon.

61Jeremía sagði við Seraja: "Þá er þú kemur til Babýlon, þá sjá til, að þú lesir upp öll þessi orð, 62og seg: ,Drottinn, þú hefir sjálfur hótað þessum stað að afmá hann, svo að enginn byggi framar í honum, hvorki menn né skepnur, því að eilífri auðn skal hún verða.' 63Og þegar þú hefir lesið bók þessa til enda, þá bind þú við hana stein og kasta þú henni út í Efrat, 64og seg: ,Svo skal Babýlon sökkva og ekki rísa upp aftur, vegna þeirrar ógæfu, er ég læt yfir hana koma!'"

Hér lýkur orðum Jeremía.


Fall Jerúsalem

52
1Sedekía var tuttugu og eins árs að aldri, þá er hann varð konungur, og ellefu ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Hamútal Jeremíadóttir og var frá Líbna. 2Hann gjörði það sem illt var í augum Drottins, með öllu svo sem gjört hafði Jójakím. 3Vegna reiði Drottins fór svo fyrir Jerúsalem og Júda, að hann varpaði þeim burt frá augliti sínu.

Sedekía brá trúnaði við Babelkonung, 4og á níunda ríkisári hans, á tíunda degi hins tíunda mánaðar, kom Nebúkadresar Babelkonungur með allan her sinn til Jerúsalem, og þeir settust um hana og reistu hervirki hringinn í kringum hana. 5Varð borgin þannig í umsátri fram á ellefta ríkisár Sedekía konungs.

6Í fjórða mánuðinum, á níunda degi mánaðarins, er hungrið tók að sverfa að borginni og landslýður var orðinn vistalaus, 7þá var brotið skarð inn í borgina. Og konungur og allir hermennirnir flýðu og fóru út úr borginni um nóttina gegnum hliðið milli beggja múranna, sem er hjá konungsgarðinum, þótt Kaldear umkringdu borgina, og héldu leiðina til sléttlendisins.

8Her Kaldea veitti konungi eftirför og náði Sedekía á Jeríkóvöllum, er allur her hans hafði tvístrast burt frá honum. 9Tóku þeir konung höndum og fluttu hann til Ribla í Hamat-héraði til Babelkonungs. Hann kvað upp dóm hans. 10Lét Babelkonungur drepa sonu Sedekía fyrir augum hans. Sömuleiðis lét hann drepa alla höfðingja Júda í Ribla. 11En Sedekía lét hann blinda og binda eirfjötrum. Síðan lét Babelkonungur flytja hann til Babýlon og setja í fangelsi, og var hann þar til dauðadags.

12En í fimmta mánuði, á tíunda degi mánaðarins - það er á nítjánda ríkisári Nebúkadresars Babelkonungs - kom Nebúsaradan lífvarðarforingi, vildarþjónn Babelkonungs, til Jerúsalem 13og brenndi musteri Drottins og konungshöllina og öll hús í Jerúsalem, og öll hús stórmennanna brenndi hann í eldi. 14En allur Kaldeaher, sá er var með lífvarðarforingjanum, reif niður alla múrana umhverfis Jerúsalem. 15En leifar lýðsins, þá er eftir voru í borginni, og liðhlaupana, þá er hlaupist höfðu í lið með Babelkonungi, og þá sem eftir voru af iðnaðarmönnum, herleiddi Nebúsaradan lífvarðarforingi til Babýlon. 16En af almúga landsins lét Nebúsaradan lífvarðarforingi nokkra verða eftir sem víngarðsmenn og akurkarla.

17Eirsúlurnar, er voru við musteri Drottins, og undirstöðupallana og eirhafið, er voru í musteri Drottins, brutu Kaldear sundur og fluttu allan eirinn til Babýlon. 18Og katlana, eldspaðana, skarbítana, ádreifingarskálarnar, bollana og öll eiráhöldin, er notuð voru við guðsþjónustuna, tóku þeir. 19Þá tók og lífvarðarforinginn katlana, eldpönnurnar, ádreifingarskálarnar, pottana, ljósastikurnar, bollana, kerin - allt sem var af gulli og silfri. 20Súlurnar tvær, hafið og undirstödupallana, er Salómon konungur hafði gjöra látið í musteri Drottins - eirinn úr öllum þessum áhöldum varð eigi veginn. 21En hvað súlurnar snertir, þá var önnur súlan átján álnir á hæð, og tólf álna langan þráð þurfti til að ná utan um hana, en hún var fjögra fingra þykk, hol að innan. 22En ofan á henni var súlnahöfuð af eiri og var það fimm álnir á hæð. Riðið net og granatepli voru umhverfis höfuðið, allt af eiri, og eins var á hinni súlunni. 23En granateplin voru níutíu og sex, þau er út sneru. Öll granateplin voru hundrað á riðna netinu allt um kring.

24Og lífvarðarforinginn tók Seraja höfuðprest og Sefanía annan prest og þröskuldsverðina þrjá. 25Og úr borginni tók hann hirðmann einn, er skipaður var yfir hermennina, og sjö menn af þeim, er daglega litu auglit konungs, er fundust í borginni, og ritara hershöfðingjans, þess er bauð út landslýðnum, og sextíu manns af sveitafólki, því er fannst í borginni. 26Þessa menn tók Nebúsaradan lífvarðarforingi og flutti þá til Ribla til Babelkonungs. 27En Babelkonungur lét drepa þá í Ribla í Hamat-héraði. Þannig var Júda herleiddur úr landi sínu.

28Þetta var mannfólkið, sem Nebúkadresar herleiddi: Sjöunda árið 3023 Júdabúa, 29átjánda ríkisár Nebúkadresars 832 sálir úr Jerúsalem. 30Tuttugasta og þriðja ríkisár Nebúkadresars herleiddi Nebúsaradan lífvarðarforingi 745 sálir af Júdabúum. Alls voru það 4600 sálir.


Jójakín náðaður

31Og á þrítugasta og sjöunda útlegðarári Jójakíns Júdakonungs, í tólfta mánuðinum, tuttugasta og fimmta dag mánaðarins, náðaði Evíl-Meródak Babelkonungur - árið sem hann kom til ríkis - Jójakín Júdakonung og tók hann út úr dýflissunni. 32Og hann talaði vingjarnlega við hann og setti stól hans ofar stólum hinna konunganna, sem hjá honum voru í Babýlon. 33Og hann fór úr bandingjafötum sínum og borðaði stöðuglega með honum, meðan hann lifði. 34En uppeldi hans - hið stöðuga uppeldi - var honum veitt af Babelkonungi, það er hann þurfti á degi hverjum, alla ævi hans, allt þar til er hann dó.



Netútgáfan og Hið Íslenska Biblíufélag - ágúst 1997