BRÉFIР TIL  HEBREA



Guð hefur talað

1
1Guð talaði fyrrum oftsinnis og með mörgu móti til feðranna fyrir munn spámannanna. 2En nú í lok þessara daga hefur hann til vor talað í syni sínum, sem hann setti erfingja allra hluta. Fyrir hann hefur hann líka heimana gjört. 3Hann, sem er ljómi dýrðar hans og ímynd veru hans og ber allt með orði máttar síns, hreinsaði oss af syndum vorum og settist til hægri handar hátigninni á hæðum. 4Hann er orðinn englunum þeim mun meiri sem hann hefur að erfðum tekið ágætara nafn en þeir.


Sonurinn öllum æðri

5Því við hvern af englunum hefur hann nokkru sinni sagt:

Þú ert sonur minn,
í dag hef ég fætt þig.

Eða:

Ég vil vera honum faðir,
og hann skal vera mér sonur!

6Og aftur er hann leiðir hinn frumgetna inn í heimsbyggðina segir hann:

Og allir englar Guðs skulu tilbiðja hann.

7Og um englana segir hann:

Hann sem gjörir engla sína að vindum
og þjóna sína að eldslogum.

8En um soninn:

Hásæti þitt, ó Guð, er um aldir alda,
og sproti réttvísinnar er sproti ríkis þíns.
9 Þú hefur elskað réttlæti og hatað ranglæti.
Því hefur Guð, þinn Guð, smurt þig
gleðinnar olíu fram yfir þína jafningja.

10Og:

Þú, Drottinn, hefur í upphafi grundvallað jörðina,
og himnarnir eru verk handa þinna.
11 Þeir munu farast, en þú varir.
Allir munu þeir fyrnast sem fat,
12 og þú munt þá saman vefja eins og möttul,
um þá verður skipt sem klæði.
En þú ert hinn sami,
og þín ár taka aldrei enda.

13En við hvern af englunum hefur hann nokkru sinni sagt:

Set þig mér til hægri handar,
uns ég gjöri óvini þína að fótskör þinni?

14Eru þeir ekki allir þjónustubundnir andar, útsendir í þeirra þarfir, sem hjálpræðið eiga að erfa?


Hjálpræði Guðs

2
1Þess vegna ber oss að gefa því enn betur gaum, er vér höfum heyrt, svo að eigi berumst vér afleiðis. 2Því að hafi orðið af englum talað reynst stöðugt og hvert afbrot og óhlýðni hlotið réttlátt endurgjald, 3hvernig fáum vér þá undan komist, ef vér vanrækjum slíkt hjálpræði sem Drottinn flutti fyrst og var staðfest fyrir oss af þeim, er heyrðu? 4Guð bar jafnframt vitni með þeim með táknum og undrum og margs konar kraftaverkum og gjöfum heilags anda, sem hann útbýtti að vild sinni.


Bróðir manna

5Því ekki lagði hann undir engla hinn komandi heim, sem vér tölum um. 6Einhvers staðar er vitnað:

Hvað er maður, að þú minnist hans?
Eða mannssonur, að þú vitjir hans?
7 Skamma stund gjörðir þú hann englunum lægri.
Þú hefur krýnt hann vegsemd og heiðri.
Og þú hefur skipað hann yfir verk handa þinna.
8 Allt hefur þú lagt undir fætur hans.

Með því að leggja allt undir hann, þá hefur hann ekkert það eftir skilið, er ekki sé undir hann lagt. Ennþá sjáum vér ekki, að allir hlutir séu undir hann lagðir. 9En vér sjáum, að Jesús, sem "skamma stund var gjörður englunum lægri," er "krýndur vegsemd og heiðri" vegna dauðans sem hann þoldi. Af Guðs náð skyldi hann deyja fyrir alla.

10Allt er til vegna Guðs og fyrir Guð. Því varð hann, er hann leiðir marga syni til dýrðar, að fullkomna með þjáningum þann, er leiðir þá til hjálpræðis. 11Því að sá sem helgar og þeir sem helgaðir verða eru allir frá einum komnir. Þess vegna telur hann sér eigi vanvirðu að kalla þá bræður, 12er hann segir:

Ég mun kunnugt gjöra nafn þitt bræðrum mínum,
ég mun syngja þér lof mitt í söfnuðinum.

13Og aftur:

Ég mun treysta á hann.

Og enn fremur:

Sjá, hér er ég og börnin, er Guð gaf mér.

14Þar sem nú börnin eru af holdi og blóði, þá hefur hann og sjálfur fengið hlutdeild í mannlegu eðli á sama hátt, til þess að hann með dauða sínum gæti að engu gjört þann, sem hefur mátt dauðans, það er að segja djöfulinn, 15og frelsað alla þá, sem af ótta við dauðann voru undir þrælkun seldir alla sína ævi. 16Því að víst er um það, að ekki tekur hann að sér englana, en hann tekur að sér afsprengi Abrahams. 17Því var það, að hann í öllum greinum átti að verða líkur bræðrum sínum, svo að hann yrði miskunnsamur og trúr æðsti prestur í þjónustu fyrir Guði, til þess að friðþægja fyrir syndir lýðsins. 18Sjálfur hefur hann þjáðst og hans verið freistað. Þess vegna er hann fær um að hjálpa þeim, er verða fyrir freistingu.


Jesús og Móse

3
1Bræður heilagir! Þér eruð hluttakar himneskrar köllunar. Gefið því gætur að Jesú, postula og æðsta presti játningar vorrar. 2Hann var trúr þeim, er hafði skipað hann, eins og Móse var það líka í öllu hans húsi. 3En hann er verður meiri dýrðar en Móse, eins og sá, er húsið gjörði, á meiri heiður en húsið sjálft. 4Sérhvert hús er gjört af einhverjum, en Guð er sá, sem allt hefur gjört. 5Móse var að sönnu trúr í öllu hans húsi, eins og þjónn, til vitnisburðar um það, sem átti að verða talað, 6en Kristur eins og sonur yfir húsi hans. Og hans hús erum vér, ef vér höldum djörfunginni og voninni, sem vér miklumst af.


Inn til hvíldar Guðs

7Því er það, eins og heilagur andi segir:

Ef þér heyrið raust hans í dag,
8 þá forherðið ekki hjörtu yðar, eins og í uppreisninni
á degi freistingarinnar á eyðimörkinni;
9 þar sem feður yðar freistuðu mín og reyndu mig,
þótt þeir fengju að sjá verkin mín í fjörutíu ár.
10 Þess vegna varð ég gramur kynslóð þessari
og sagði: Án afláts villast þeir í hjörtum sínum.
Þeir þekktu ekki vegu mína.
11 Og ég sór í bræði minni:
Eigi skulu þeir inn ganga til hvíldar minnar.

12Gætið þess, bræður, að enginn yðar búi yfir vondu vantrúar hjarta og falli frá lifanda Guði. 13Áminnið heldur hver annan hvern dag, á meðan enn heitir "í dag", til þess að enginn yðar forherðist af táli syndarinnar. 14Því að vér erum orðnir hluttakar Krists, svo framarlega sem vér höldum staðfastlega allt til enda trausti voru, eins og það var að upphafi. 15Sagt er: "Ef þér heyrið raust hans í dag, þá forherðið ekki hjörtu yðar eins og í uppreisninni" - 16Hverjir voru þá þeir, sem heyrt höfðu og gjörðu þó uppreisn? Voru það ekki einmitt allir þeir, sem út höfðu farið af Egyptalandi fyrir tilstilli Móse? 17Og hverjum "var hann gramur í fjörutíu ár"? Var það ekki þeim, sem syndgað höfðu og báru beinin á eyðimörkinni? 18Og hverjum "sór hann, að eigi skyldu þeir ganga inn til hvíldar hans," nema hinum óhlýðnu? 19Vér sjáum, að sakir vantrúar fengu þeir eigi gengið inn.


4
1Fyrirheitið um það að ganga inn til hvíldar hans stendur enn, vörumst því að nokkur yðar verði til þess að dragast aftur úr. 2Fagnaðarerindið var oss boðað eigi síður en þeim. En orðið, sem þeir heyrðu, kom þeim eigi að haldi vegna þess, að þeir tóku ekki við því í trú. 3En vér, sem trú höfum tekið, göngum inn til hvíldarinnar eins og hann hefur sagt: "Og ég sór í bræði minni: Eigi skulu þeir inn ganga til hvíldar minnar." Þó voru verk Guðs fullgjör frá grundvöllun heims. 4Því að einhvers staðar er svo að orði kveðið um hinn sjöunda dag: "Og Guð hvíldist hinn sjöunda dag eftir öll verk sín." 5Og aftur á þessum stað: "Eigi skulu þeir inn ganga til hvíldar minnar." 6Enn stendur því til boða, að nokkrir gangi inn til hvíldar Guðs. Þeir, sem fagnaðarerindið var fyrr boðað, gengu ekki inn sakir óhlýðni. 7Því ákveður Guð aftur dag einn, er hann segir löngu síðar fyrir munn Davíðs: "Í dag." Eins og fyrr hefur sagt verið: "Ef þér heyrið raust hans í dag, þá forherðið ekki hjörtu yðar."

8Hefði Jósúa leitt þá til hvíldar, þá hefði Guð ekki síðar meir talað um annan dag. 9Enn stendur þá til boða sabbatshvíld fyrir lýð Guðs. 10Því að sá, sem gengur inn til hvíldar hans, fær hvíld frá verkum sínum, eins og Guð hvíldist eftir sín verk. 11Kostum því kapps um að ganga inn til þessarar hvíldar, til þess að enginn óhlýðnist eins og þeir og falli.

12Því að orð Guðs er lifandi og kröftugt og beittara hverju tvíeggjuðu sverði og smýgur inn í innstu fylgsni sálar og anda, liðamóta og mergjar, það dæmir hugsanir og hugrenningar hjartans. 13Enginn skapaður hlutur er honum hulinn, allt er bert og öndvert augum hans. Honum eigum vér reikningsskil að gjöra.


Æðstiprestur án syndar

14Er vér þá höfum mikinn æðsta prest, sem farið hefur í gegnum himnana, Jesú Guðs son, skulum vér halda fast við játninguna. 15Ekki höfum vér þann æðsta prest, er eigi geti séð aumur á veikleika vorum, heldur þann, sem freistað var á allan hátt eins og vor, en án syndar. 16Göngum því með djörfung að hásæti náðarinnar, til þess að vér öðlumst miskunn og hljótum náð til hjálpar á hagkvæmum tíma.


5
1Svo er um hvern æðsta prest, sem úr flokki manna er tekinn, að hann er settur fyrir menn til þjónustu frammi fyrir Guði, til þess að bera fram gáfur og fórnir fyrir syndir. 2Hann getur verið mildur við fáfróða og villuráfandi, þar sem hann sjálfur er veikleika vafinn. 3Og sökum þess á hann að bera fram syndafórn, eigi síður fyrir sjálfan sig en fyrir lýðinn. 4Enginn tekur sér sjálfum þennan heiður, heldur er hann kallaður af Guði, eins og Aron.

5Svo var það og um Krist. Ekki tók hann sér sjálfur þá vegsemd að gjörast æðsti prestur. Hann fékk hana af Guði, er hann sagði við hann:

Þú ert sonur minn
í dag hef ég fætt þig.

6Og á öðrum stað:

Þú ert prestur að eilífu
að hætti Melkísedeks.

7Á jarðvistardögum sínum bar hann fram með sárum kveinstöfum og táraföllum bænir og auðmjúk andvörp fyrir þann, sem megnaði að frelsa hann frá dauða, og fékk bænheyrslu vegna guðhræðslu sinnar. 8Og þótt hann sonur væri, lærði hann hlýðni af því, sem hann leið. 9Þegar hann var orðinn fullkominn, gjörðist hann öllum þeim, er honum hlýða, höfundur eilífs hjálpræðis, 10af Guði nefndur æðsti prestur að hætti Melkísedeks.


Gjörist ekki sljóir

11Um þetta höfum vér langt mál að segja og torskilið, af því að þér hafið gjörst heyrnarsljóir. 12Þó að þér tímans vegna ættuð að vera kennarar, þá hafið þér þess enn á ný þörf, að einhver kenni yður undirstöðuatriði Guðs orða. Svo er komið fyrir yður, að þér hafið þörf á mjólk, en ekki fastri fæðu. 13En hver sem á mjólk nærist er barn og skilur ekki boðskap réttlætisins. 14Fasta fæðan er fyrir fullorðna, fyrir þá, sem jafnt og þétt hafa tamið skilningarvitin til að greina gott frá illu.


6
1Þess vegna skulum vér sleppa byrjunar-kenningunum um Krist og sækja fram til fullkomleikans. 2Vér förum ekki að byrja aftur á undirstöðuatriðum eins og afturhvarfi frá dauðum verkum og trú á Guð, kenningunni um skírnir og handayfirlagningar, upprisu dauðra og eilífan dóm. 3Og þetta munum vér gjöra, ef Guð lofar.

4Ef menn eru eitt sinn orðnir upplýstir og hafa smakkað hina himnesku gjöf, fengið hlutdeild í heilögum anda 5og reynt Guðs góða orð og krafta komandi aldar, 6en hafa síðan fallið frá, þá er ógerlegt að endurnýja þá til afturhvarfs. Þeir eru að krossfesta Guðs son að nýju og smána hann.

7Jörð sú, er drukkið hefur í sig regnið, sem á hana fellur hvað eftir annað, og ber gróður til gagns fyrir þá, sem yrkja hana, fær blessun frá Guði. 8En beri hún þyrna og þistla, er hún ónýt. Yfir henni vofir bölvun og hennar bíður að lokum að verða brennd.

9En hvað yður snertir, þér elskaðir, þá erum vér sannfærðir um að yður er betur farið og þér nær hjálpræðinu, þó að vér mælum svo. 10Guð er ekki ranglátur. Hann gleymir ekki verki yðar og kærleikanum, sem þér auðsýnduð nafni hans, er þér veittuð hinum heilögu þjónustu og veitið enn. 11Vér óskum, að sérhver yðar sýni sömu ástundan allt til enda, þar til von yðar fullkomnast. 12Gjörist ekki sljóir. Breytið heldur eftir þeim, sem vegna trúar og stöðuglyndis erfa fyrirheitin.


Jesús gekk inn vor vegna

13Þegar Guð gaf Abraham fyrirheitið, þá "sór hann við sjálfan sig," þar sem hann hafði við engan æðri að sverja, og sagði: 14"Sannlega mun ég ríkulega blessa þig og stórum margfalda kyn þitt." 15Og Abraham öðlaðist það, sem Guð hafði heitið honum er hann hafði beðið þess með stöðuglyndi.

16Menn sverja eið við þann, sem æðri er, eiðurinn er þeim staðfesting og bindur enda á öll andmæli. 17Með því nú að Guð vildi sýna erfingjum fyrirheitsins enn skýrar, hve ráð sitt væri óraskanlegt, þá ábyrgðist hann heit sitt með eiði. 18Í þessum tveim óraskanlegu athöfnum Guðs, þar sem óhugsandi er að hann fari með lygi, eigum vér sterka uppörvun, vér sem höfum leitað hælis í þeirri sælu von, sem vér eigum. 19Hún er eins og akkeri sálarinnar, traust og öruggt, og nær alla leið inn fyrir fortjaldið, 20þangað sem Jesús gekk inn, fyrirrennari vor vegna, þegar hann varð æðsti prestur að eilífu að hætti Melkísedeks.


Prestur Guðs

7
1Melkísedek þessi var konungur í Salem og prestur Guðs hins hæsta. Hann gekk á móti Abraham og blessaði hann, þegar hann sneri heimleiðis eftir að hafa unnið sigur á konungunum. 2Og honum lét Abraham í té tíund af öllu. Fyrst þýðir nafn hans "réttlætis konungur", en hann heitir enn fremur Salem-konungur, það er "friðar konungur". 3Hann er föðurlaus, móðurlaus, ekki ættfærður, og hefur hvorki upphaf daga né endi lífs. Hann er líkur syni Guðs, hann heldur áfram að vera prestur um aldur.

4Virðið nú fyrir yður, hvílíkur maður það var, sem Abraham, sjálfur forfaðirinn, gaf valda tíund af herfanginu. 5Og víst er um það, að þeim Levísonum, er prestþjónustuna fá, er boðið að taka tíund af lýðnum eftir lögmálinu, það er að segja af bræðrum sínum, enda þótt þeir séu komnir af Abraham. 6En sá, er eigi var ættfærður til þeirra, tók tíund af Abraham og blessaði þann, er fyrirheitin hafði. 7En með öllu er það ómótmælanlegt, að sá sem er meiri blessar þann sem minni er. 8Hér taka dauðlegir menn tíund, en þar tók sá er um var vitnað, að hann lifi áfram. 9Og svo má að orði kveða, að enda Leví, hann sem tíund tekur, hafi greitt tíund, þar sem Abraham gjörði það, 10því að enn þá var hann í lend forföður síns, þegar Melkísedek gekk á móti honum.

11Hefði nú fullkomnun fengist með levíska prestdóminum, - en hann var grundvöllur lögmálsins, sem lýðurinn fékk -, hver var þá framar þörf þess að segja að koma skyldi annars konar prestur að hætti Melkísedeks, en ekki að hætti Arons? 12Þegar prestdómurinn breytist, þá verður og breyting á lögmálinu. 13Sá sem þetta er sagt um var af annarri ætt, og af þeirri ætt hefur enginn innt þjónustu af hendi við altarið. 14Því að alkunnugt er, að Drottinn vor er af Júda upp runninn, en Móse hefur ekkert um presta talað, að því er varðar þá ættkvísl.

15Þetta er enn miklu bersýnilegra á því, að upp er kominn annar prestur, líkur Melkísedek. 16Hann varð ekki prestur eftir mannlegum lögmálsboðum, heldur í krafti óhagganlegs lífs. 17Því að um hann er vitnað: "Þú ert prestur að eilífu að hætti Melkísedeks." 18Hið fyrra boðorð er þar með ógilt, af því að það var vanmáttugt og gagnslaust. 19Lögmálið gjörði ekkert fullkomið. En jafnframt er leidd inn betri von. Fyrir hana nálgumst vér Guð.

20Þetta varð ekki án eiðs. Hinir urðu prestar án eiðs, 21en hann með eiði, þegar Guð sagði við hann: "Drottinn sór, og ekki mun hann iðra þess: Þú ert prestur að eilífu."

22Þessi samanburður sýnir, að Jesús er orðinn ábyrgðarmaður betri sáttmála.

23Enn fremur urðu hinir prestarnir margir af því að dauðinn meinaði þeim að vera áfram. 24En hann er að eilífu og hefur prestdóm þar sem ekki verða mannaskipti. 25Þess vegna getur hann og til fulls frelsað þá, sem fyrir hann ganga fram fyrir Guð, þar sem hann ávallt lifir til að biðja fyrir þeim.

26Slíks æðsta prests höfðum vér þörf, sem er heilagur, svikalaus, óflekkaður, greindur frá syndurum og orðinn himnunum hærri. 27Hann þarf ekki daglega, eins og hinir æðstu prestarnir, fyrst að bera fram fórnir fyrir eigin syndir, síðan fyrir syndir lýðsins. Það gjörði hann í eitt skipti fyrir öll, er hann fórnfærði sjálfum sér. 28Lögmálið skipar menn æðstu presta, sem eru veikleika háðir, en eiðurinn, er kom á eftir lögmálinu, skipar son, fullkominn gjörðan að eilífu.


Æðsti prestur nýs sáttmála

8
1Höfuðinntak þess, sem sagt hefur verið, er þetta: Vér höfum þann æðsta prest, er settist til hægri handar við hásæti hátignarinnar á himnum. 2Hann er helgiþjónn helgidómsins og tjaldbúðarinnar, hinnar sönnu, sem Drottinn reisti, en eigi maður. 3Sérhver æðsti prestur er skipaður til þess að bera fram bæði gjafir og fórnir. Þess vegna er nauðsynlegt, að þessi æðsti prestur hafi líka eitthvað fram að bera. 4Væri hann nú á jörðu, mundi hann alls ekki vera prestur, þar sem þeir eru fyrir, sem samkvæmt lögmálinu bera fram gjafirnar. 5En þeir þjóna eftirmynd og skugga hins himneska, eins og Móse fékk bendingu um frá Guði, er hann var að koma upp tjaldbúðinni: "Gæt þess," segir hann, "að þú gjörir allt eftir þeirri fyrirmynd, sem þér var sýnd á fjallinu." 6En nú hefur Jesús fengið þeim mun ágætari helgiþjónustu sem hann er meðalgangari betri sáttmála, sem byggist á betri fyrirheitum.

7Hefði hinn fyrri sáttmáli verið óaðfinnanlegur, þá hefði ekki verið þörf fyrir annan. 8En nú ávítar Guð þá og segir:

Sjá, dagar koma, segir Drottinn,
er ég mun gjöra nýjan sáttmála við hús Ísraels og við hús Júda,
9 ekki eins og sáttmálann, er ég gjörði við feður þeirra
á þeim degi, er ég tók í hönd þeirra til að leiða þá
út af Egyptalandi,
því að þeir héldu ekki minn sáttmála,
og ég hirti eigi um þá, segir Drottinn.
10 Þetta er sáttmálinn, sem ég mun gjöra við hús Ísraels
eftir þá daga, segir Drottinn:
Ég mun leggja lög mín í hugskot þeirra
og rita þau á hjörtu þeirra.
Ég mun vera Guð þeirra,
og þeir munu vera lýður minn.
11 Og enginn mun þá kenna landa sínum
og enginn bróður sínum og segja: "Þekktu Drottin!"
Allir munu þeir þekkja mig,
jafnt smáir sem stórir.
12 Því að ég mun vera vægur við misgjörðir þeirra
og ég mun ekki framar minnast synda þeirra.

13Þar sem hann nú kallar þetta nýjan sáttmála, þá hefur hann lýst hinn fyrri úreltan. En það, sem er að úreldast og fyrnast, er að því komið að verða að engu.


Helgidómur á himni og jörðu

9
1Nú hafði fyrri sáttmálinn líka fyrirskipanir um þjónustuna og jarðneskan helgidóm. 2Tjaldbúð var gjörð, hin fremri, og í henni voru bæði ljósastikan, borðið og skoðunarbrauðin, og heitir hún "hið heilaga". 3En bak við annað fortjaldið var tjaldbúð, sem hét "hið allrahelgasta". 4Þar var reykelsisaltari úr gulli og sáttmálsörkin, sem öll var gulli búin. Í henni var gullkerið með manna í, stafur Arons, sem laufgast hafði, og sáttmálsspjöldin. 5En yfir henni voru kerúbar dýrðarinnar og breiddu vængina yfir náðarstólinn. En um þetta hvað fyrir sig á nú ekki að ræða.

6Þessu er þannig komið fyrir. Prestarnir ganga stöðugt inn í fremri tjaldbúðina og annast þjónustu sína. 7Inn í hina innri gengur æðsti presturinn einn, einu sinni á ári, ekki án blóðs. Það ber hann fram vegna sjálfs sín og fyrir syndir lýðsins, sem drýgðar hafa verið af vangá. 8Með því sýnir heilagur andi, að vegurinn til hins heilaga er enn eigi kunnur orðinn, á meðan fremri tjaldbúðin enn stendur. 9Hún er ímynd þess tíma, sem nú er. Hér eru fram bornar gjafir og fórnir, sem megna ekki að færa þeim, sem innir þjónustuna af hendi, vissu um að vera fullkominn. 10Þetta eru aðeins ytri fyrirmæli, ásamt reglum um mat og drykk og ýmiss konar þvotta, sem mönnum eru á herðar lagðar allt til tíma viðreisnarinnar.

11En Kristur er kominn sem æðsti prestur hinna komandi gæða. Hann gekk inn í gegnum hina stærri og fullkomnari tjaldbúð, sem ekki er með höndum gjörð, það er að segja er ekki af þessari sköpun. 12Ekki fór hann með blóð hafra og kálfa, heldur með eigið blóð, inn í hið heilaga í eitt skipti fyrir öll og aflaði eilífrar lausnar. 13Ef blóð hafra og nauta og askan af kvígu, stráð á menn, er óhreinir hafa gjörst, helgar til ytri hreinleika, 14hve miklu fremur mun þá blóð Krists hreinsa samvisku vora frá dauðum verkum, til að þjóna Guði lifanda, þar sem Kristur fyrir eilífan anda bar fram sjálfan sig sem lýtalausa fórn fyrir Guði.

15Þess vegna er hann meðalgangari nýs sáttmála. Hann dó og bætti að fullu fyrir afbrotin undir fyrri sáttmálanum, til þess að hinir kölluðu mættu öðlast hina eilífu arfleifð, sem heitið var.

16Arfleiðsluskrá tekur ekki gildi fyrr en sá er dáinn, er hana gjörði. 17Hún er óhagganleg, þegar um látna er að ræða, en er í engu gildi meðan arfleiðandi lifir. 18Þess vegna var ekki heldur hinn fyrri sáttmáli vígður án blóðs. 19Þegar Móse hafði kunngjört gjörvöllum lýðnum öll boðorð lögmálsins, þá tók hann blóð kálfanna og hafranna ásamt vatni og skarlatsrauðri ull og ísópi og stökkti bæði á sjálfa bókina og allan lýðinn 20og mælti: "Þetta er blóð sáttmálans, sem Guð lét gjöra við yður." 21Sömuleiðis stökkti hann blóðinu á tjaldbúðina og öll áhöldin við helgiþjónustuna. 22Og samkvæmt lögmálinu er það nálega allt, sem hreinsast með blóði, og eigi fæst fyrirgefning án úthellingar blóðs.


Í eitt skipti fyrir öll

23Það var því óhjákvæmilegt, að eftirmyndir þeirra hluta, sem á himnum eru, yrðu hreinsaðar með slíku. En sjálft hið himneska krefst betri fórna en þessara. 24Því að Kristur gekk ekki inn í helgidóm höndum gjörðan, eftirmynd hins sanna helgidóms, heldur inn í sjálfan himininn, til þess nú að birtast fyrir augliti Guðs vor vegna. 25Og ekki gjörði hann það til þess að frambera sjálfan sig margsinnis, eins og æðsti presturinn gengur inn í hið heilaga á ári hverju með annarra blóð. 26Þá hefði hann oft þurft að líða frá grundvöllun heims. En nú hefur hann birst í eitt skipti fyrir öll við endi aldanna til að afmá syndina með fórn sinni. 27Og eins og það liggur fyrir mönnunum eitt sinn að deyja og eftir það að fá sinn dóm, 28þannig var Kristi fórnfært í eitt skipti til þess að bera syndir margra, og í annað sinn mun hann birtast, ekki sem syndafórn, heldur til hjálpræðis þeim, er hans bíða.


Hin eina fórn

10
1Lögmálið geymir aðeins skugga hins góða, sem er í vændum, ekki skýra mynd þess. Ár eftir ár eru bornar fram sömu fórnir, sem geta aldrei gjört þá fullkomna til frambúðar, sem ganga fram fyrir Guð. 2Annars hefðu þeir hætt að bera þær fram. Dýrkendurnir hefðu þá ekki framar verið sér meðvitandi um synd, ef þeir hefðu í eitt skipti fyrir öll orðið hreinir. 3En með þessum fórnum er minnt á syndirnar ár hvert. 4Því að blóð nauta og hafra getur með engu móti numið burt syndir.

5Því er það, að Kristur segir, þegar hann kemur í heiminn:

Fórn og gjafir hefur þú eigi viljað,
en líkama hefur þú búið mér.
6 Brennifórnir og syndafórnir geðjuðust þér ekki.
7 Þá sagði ég: "Sjá, ég er kominn -
í bókinni er það ritað um mig -
ég er kominn til að gjöra þinn vilja, Guð minn!"

8Fyrst segir hann: "Fórnir og gjafir og brennifórnir og syndafórnir hefur þú eigi viljað, og eigi geðjaðist þér að þeim." En það eru einmitt þær, sem fram eru bornar samkvæmt lögmálinu. 9Síðan segir hann: "Sjá, ég er kominn til að gjöra vilja þinn." Hann tekur burt hið fyrra til þess að staðfesta hið síðara. 10Og samkvæmt þessum vilja erum vér helgaðir með því, að líkama Jesú Krists var fórnað í eitt skipti fyrir öll.

11Og svo er því farið um hvern prest, að hann er dag hvern bundinn við helgiþjónustu sína og ber fram margsinnis hinar sömu fórnir, þær sem þó geta aldrei afmáð syndir. 12En Jesús bar fram eina fórn fyrir syndirnar og settist um aldur við hægri hönd Guðs 13og bíður þess síðan, að óvinir hans verði gjörðir að fótskör hans. 14Því að með einni fórn hefur hann um aldur fullkomnað þá, er helgaðir verða.

15Og einnig heilagur andi vitnar fyrir oss. Fyrst segir hann:

16 Þetta er sáttmálinn, er ég mun gjöra við þá
eftir þá daga, segir Drottinn.
Lög mín vil ég leggja í hjörtu þeirra,
og í hugskot þeirra vil ég rita þau.

17Síðan segir hann:

Ég mun aldrei framar minnast synda þeirra eða lögmálsbrota.

18En þar sem syndirnar eru fyrirgefnar, þar þarf ekki framar fórn fyrir synd.


Nýr og lifandi vegur

19Vér megum nú, bræður, fyrir Jesú blóð með djörfung ganga inn í hið heilaga, 20þangað sem hann vígði oss veginn, nýjan veg og lifandi inn í gegnum fortjaldið, það er að segja líkama sinn. 21Vér höfum mikinn prest yfir húsi Guðs. 22Látum oss því ganga fram fyrir Guð með einlægum hjörtum, í öruggu trúartrausti, með hjörtum, sem hreinsuð hafa verið og eru laus við meðvitund um synd, og með líkömum, sem laugaðir hafa verið í hreinu vatni. 23Höldum fast við játningu vonar vorrar án þess að hvika, því að trúr er sá, sem fyrirheitið hefur gefið. 24Gefum gætur hver að öðrum og hvetjum hver annan til kærleika og góðra verka. 25Vanrækið ekki safnaðarsamkomur yðar eins og sumra er siður, heldur uppörvið hver annan, og það því fremur sem þér sjáið að dagurinn færist nær.

26Því að ef vér syndgum af ásettu ráði, eftir að vér höfum öðlast þekkingu sannleikans, þá er úr því enga fórn að fá fyrir syndirnar, 27heldur er það óttaleg bið eftir dómi og grimmilegur eldur, sem eyða mun andstæðingum Guðs. 28Sá, er að engu hefur lögmál Móse, verður vægðarlaust líflátinn, ef tveir eða þrír vottar bera. 29Hve miklu þyngri hegning ætlið þér þá ekki að sá muni vera talinn verðskulda, er fótum treður son Guðs og vanhelgar blóð sáttmálans, er hann var helgaður í, og smánar anda náðarinnar? 30Vér þekkjum þann, er sagt hefur: "Mín er hefndin, ég mun endurgjalda." Og á öðrum stað: "Drottinn mun dæma lýð sinn." 31Óttalegt er að falla í hendur lifanda Guðs.

32Minnist fyrri daga, er þér höfðuð tekið á móti ljósinu, hvernig þér urðuð að þola mikla raun þjáninga. 33Það var ýmist, að þér sjálfir, smánaðir og aðþrengdir, voruð hafðir að augnagamni, eða þá hitt, að þér tókuð þátt í kjörum þeirra, er áttu slíku að sæta. 34Þér þjáðust með bandingjum, og tókuð því með gleði, er þér voruð rændir eignum yðar, því að þér vissuð, að þér áttuð sjálfir betri eign og varanlega. 35Varpið því eigi frá yður djörfung yðar. Hún mun hljóta mikla umbun. 36Þolgæðis hafið þér þörf, til þess að þér gjörið Guðs vilja og öðlist fyrirheitið. 37Því að:

Innan harla skamms tíma
mun sá koma, sem koma á, og ekki dvelst honum.
38 Minn réttláti mun lifa fyrir trúna,
en skjóti hann sér undan,
þá hefur sála mín ekki velþóknun á honum.

39En vér skjótum oss ekki undan og glötumst, heldur trúum vér og frelsumst.


Fyrir trú

11
1Trúin er fullvissa um það, sem menn vona, sannfæring um þá hluti, sem eigi er auðið að sjá. 2Fyrir hana fengu mennirnir fyrr á tíðum góðan vitnisburð.

3Fyrir trú skiljum vér, að heimarnir eru gjörðir með orði Guðs og að hið sýnilega hefur ekki orðið til af því, er séð varð.

4Fyrir trú bar Abel fram fyrir Guð betri fórn en Kain, og fyrir trú fékk hann þann vitnisburð, að hann væri réttlátur, er Guð bar vitni um fórn hans. Með trú sinni talar hann enn, þótt dauður sé.

5Fyrir trú var Enok burt numinn, að eigi skyldi hann dauðann líta. "Ekki var hann framar að finna, af því að Guð hafði numið hann burt." Áður en hann var burt numinn, hafði hann fengið þann vitnisburð, "að hann hefði verið Guði þóknanlegur." 6En án trúar er ógerlegt að þóknast honum, því að sá, sem gengur fram fyrir Guð, verður að trúa því, að hann sé til og að hann umbuni þeim, er hans leita.

7Fyrir trú fékk Nói bendingu um það, sem enn þá var ekki auðið að sjá. Hann óttaðist Guð og smíðaði örk til björgunar heimilisfólki sínu. Með trú sinni dæmdi hann heiminn og varð erfingi réttlætisins af trúnni.

8Fyrir trú hlýddi Abraham, er hann var kallaður, og fór burt til staðar, sem hann átti að fá til eignar. Hann fór burt og vissi ekki hvert leiðin lá. 9Fyrir trú settist hann að í hinu fyrirheitna landi eins og útlendingur og hafðist við í tjöldum, ásamt Ísak og Jakob, er voru samerfingjar með honum að hinu sama fyrirheiti. 10Því að hann vænti þeirrar borgar, sem hefur traustan grunn, þeirrar, sem Guð er smiður að og byggingarmeistari.

11Fyrir trú öðlaðist Abraham kraft til að eignast son, og þó var Sara óbyrja og hann kominn yfir aldur. Hann treysti þeim, sem fyrirheitið hafði gefið. 12Þess vegna kom út af honum, einum manni, og það mjög ellihrumum, slík niðja mergð sem stjörnur eru á himni og sandkorn á sjávarströnd, er ekki verður tölu á komið.

13Allir þessir menn dóu í trú, án þess að hafa öðlast fyrirheitin. Þeir sáu þau álengdar og fögnuðu þeim og játuðu, að þeir væru gestir og útlendingar á jörðinni. 14Þeir, sem slíkt mæla, sýna með því, að þeir eru að leita eigin ættjarðar. 15Hefðu þeir nú átt við ættjörðina, sem þeir fóru frá, þá hefðu þeir haft tíma til að snúa þangað aftur. 16En nú þráðu þeir betri ættjörð, það er að segja himneska. Þess vegna blygðast Guð sín ekki fyrir þá, að kallast Guð þeirra, því að borg bjó hann þeim.

17Fyrir trú fórnfærði Abraham Ísak, er hann var reyndur. Og Abraham, sem fengið hafði fyrirheitin, var reiðubúinn að fórnfæra einkasyni sínum. 18Við hann hafði Guð mælt: "Afkomendur Ísaks munu taldir verða niðjar þínir." 19Hann hugði, að Guð væri þess jafnvel megnugur að vekja upp frá dauðum. Þess vegna má svo að orði kveða, að hann heimti hann aftur úr helju.

20Fyrir trú blessaði Ísak þá Jakob og Esaú einnig um ókomna tíma.

21Fyrir trú blessaði Jakob báða sonu Jósefs, er hann var að dauða kominn og "laut fram á stafshúninn og baðst fyrir".

22Fyrir trú minntist Jósef við ævilokin á brottför Ísraelssona og gjörði ráðstöfun fyrir beinum sínum.

23Fyrir trú leyndu foreldrar Móse honum í þrjá mánuði eftir fæðingu hans, af því að þau sáu, að sveinninn var fríður, og þau létu eigi skelfast af skipun konungsins. 24Fyrir trú hafnaði Móse því, er hann var orðinn fulltíða maður, að vera talinn dóttursonur Faraós, 25og kaus fremur illt að þola með lýð Guðs en njóta skammvinns unaðar af syndinni. 26Hann taldi vanvirðu Krists meiri auð en fjársjóðu Egyptalands, því að hann horfði fram til launanna. 27Fyrir trú yfirgaf hann Egyptaland og óttaðist ekki reiði konungsins, en var öruggur eins og hann sæi hinn ósýnilega. 28Fyrir trú hélt hann páska og lét rjóða blóðinu á húsin, til þess að eyðandi frumburðanna skyldi ekki snerta þá. 29Fyrir trú gengu þeir gegnum Rauðahafið sem um þurrt land, og er Egyptar freistuðu þess, drukknuðu þeir.

30Fyrir trú hrundu múrar Jeríkóborgar, er menn höfðu gengið í kringum þá í sjö daga. 31Fyrir trú var það, að skækjan Rahab fórst ekki ásamt hinum óhlýðnu, þar sem hún hafði tekið vinsamlega móti njósnarmönnunum.

32Hvað á ég að orðlengja framar um þetta? Mig mundi skorta tíma, ef ég færi að segja frá Gídeon, Barak, Samson og Jefta, og af Davíð, Samúel og spámönnunum. 33Fyrir trú unnu þeir sigur á konungsríkjum, iðkuðu réttlæti, öðluðust fyrirheit. Þeir byrgðu gin ljóna, 34slökktu eldsbál, komust undan sverðseggjum. Þeir urðu styrkir, þótt áður væru þeir veikir, gjörðust öflugir í stríði og stökktu fylkingum óvina á flótta. 35Konur heimtu aftur sína framliðnu upprisna. Aðrir voru pyndaðir og þágu ekki lausn til þess að þeir öðluðust betri upprisu. 36Aðrir urðu að sæta háðsyrðum og húðstrokum og þar á ofan fjötrum og fangelsi. 37Þeir voru grýttir, sagaðir í sundur, höggnir með sverði. Þeir ráfuðu í gærum og geitskinnum, alls vana, aðþrengdir og illa haldnir. 38Og ekki átti heimurinn slíka menn skilið. Þeir reikuðu um óbyggðir og fjöll og héldust við í hellum og gjótum.

39En þó að allir þessir menn fengju góðan vitnisburð fyrir trú sína, hlutu þeir þó eigi fyrirheitið. 40Guð hafði séð oss fyrir því sem betra var: Án vor skyldu þeir ekki fullkomnir verða.


Drottinn agar

12
1Fyrst vér erum umkringdir slíkum fjölda votta, léttum þá af oss allri byrði og viðloðandi synd og þreytum þolgóðir skeið það, sem vér eigum framundan. 2Beinum sjónum vorum til Jesú, höfundar og fullkomnara trúarinnar. Vegna gleði þeirrar, er beið hans, leið hann þolinmóðlega á krossi, mat smán einskis og hefur nú setst til hægri handar hásæti Guðs. 3Virðið hann fyrir yður, sem þolað hefur slíkan fjandskap gegn sér af syndurum, til þess að þér þreytist ekki og látið hugfallast.

4Í baráttu yðar við syndina hafið þér ekki enn þá staðið í gegn, svo að blóð hafi runnið. 5Og þér hafið gleymt áminningunni, sem ávarpar yður eins og syni:

Sonur minn, lítilsvirð ekki hirtingu Drottins,
og lát ekki heldur hugfallast er hann tyftar þig.
6 Því að Drottinn agar þann, sem hann elskar,
og hirtir harðlega hvern þann son, er hann að sér tekur.

7Þolið aga. Guð fer með yður eins og syni. Hver er sá sonur, sem faðirinn ekki agar? 8En séuð þér án aga, sem allir hafa fyrir orðið, þá eruð þér þrælbornir og ekki synir. 9Enn er það, að vér bjuggum við aga jarðneskra feðra og bárum virðingu fyrir þeim. Skyldum vér þá ekki miklu fremur vera undirgefnir föður andanna og lifa? 10Feður vorir öguðu oss um fáa daga, eftir því sem þeim leist, en oss til gagns agar hann oss, svo að vér fáum hlutdeild í heilagleika hans. 11Í bili virðist allur agi að vísu ekki vera gleðiefni, heldur hryggðar, en eftir á gefur hann þeim, er við hann hafa tamist, ávöxt friðar og réttlætis.

12Réttið því úr máttvana höndum og magnþrota knjám. 13Látið fætur yðar feta beinar brautir, til þess að hið fatlaða vindist ekki úr liði, en verði heilt.


Hvatningar og fyrirmæli

14Stundið frið við alla menn og helgun, því að án hennar fær enginn Drottin litið. 15Hafið gát á, að enginn missi af Guðs náð, að engin beiskjurót renni upp, sem truflun valdi, og margir saurgist af. 16Gætið þess, að eigi sé neinn hórkarl eða vanheilagur, eins og Esaú, sem fyrir einn málsverð lét af hendi frumburðarrétt sinn. 17Þér vitið, að það fór líka svo fyrir honum, að hann var rækur gjör, þegar hann síðar vildi öðlast blessunina, þó að hann grátbændi um hana. Hann fékk ekki færi á að iðrast.

18Þér eruð ekki komnir til fjalls, sem á verður þreifað, ekki til brennandi elds og sorta, myrkurs, ofviðris 19og básúnuhljóms og raustar sem talaði svo að þeir, sem hana heyrðu, báðust undan því að meira væri til sín talað. 20Því að þeir þoldu ekki það, sem fyrir var skipað: "Þó að það sé ekki nema skepna, sem kemur við fjallið, skal hún grýtt verða." 21Svo ógurlegt var það, sem fyrir augu bar, að Móse sagði: "Ég er mjög hræddur og skelfdur."

22Nei, þér eruð komnir til Síonfjalls og borgar Guðs lifanda, hinnar himnesku Jerúsalem, til tugþúsunda engla, 23til hátíðarsamkomu og safnaðar frumgetinna, sem á himnum eru skráðir, til Guðs, dómara allra, og til anda réttlátra, sem fullkomnir eru orðnir, 24og til Jesú, meðalgangara nýs sáttmála, og til blóðsins, sem hreinsar og talar kröftuglegar en blóð Abels.

25Gætið þess, að þér hafnið ekki þeim sem talar. Þeir, sem höfnuðu þeim er gaf guðlega bendingu á jörðu, komust ekki undan. Miklu síður munum vér undan komast, ef vér gjörumst fráhverfir honum, er guðlega bendingu gefur frá himnum. 26Raust hans lét jörðina bifast fyrrum. En nú hefur hann lofað: "Enn einu sinni mun ég hræra jörðina og ekki hana eina, heldur og himininn." 27Orðin: "Enn einu sinni", sýna, að það, sem bifast, er skapað og hverfur, til þess að það standi stöðugt, sem eigi bifast.

28Þar sem vér því fáum ríki, sem ekki getur bifast, skulum vér þakka það og þjóna Guði, svo sem honum þóknast, með lotningu og ótta. 29Því að vor Guð er eyðandi eldur.


Lofgjörðafórn fyrir Guð

13
1Bróðurkærleikurinn haldist. 2Gleymið ekki gestrisninni, því að vegna hennar hafa sumir hýst engla án þess að vita. 3Minnist bandingjanna, sem væruð þér sambandingjar þeirra. Minnist þeirra er illt líða, þar sem þér sjálfir eruð einnig með líkama.

4Hjúskapurinn sé í heiðri hafður í öllum greinum og hjónasængin sé óflekkuð, því að hórkarla og frillulífismenn mun Guð dæma.

5Sýnið enga fégirni í hegðun yðar, en látið yður nægja það, sem þér hafið. Guð hefur sjálfur sagt: "Ég mun ekki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig." 6Því getum vér öruggir sagt:

Drottinn er minn hjálpari,
eigi mun ég óttast.
Hvað geta mennirnir gjört mér?

7Verið minnugir leiðtoga yðar, sem Guðs orð hafa til yðar talað. Virðið fyrir yður, hvernig ævi þeirra lauk, og líkið eftir trú þeirra. 8Jesús Kristur er í gær og í dag hinn sami og um aldir. 9Látið ekki afvegaleiða yður af ýmislegum framandi kenningum. Það er gott að hjartað styrkist við náð, ekki mataræði. Þeir, sem sinntu slíku, höfðu eigi happ af því.

10Vér höfum altari, og hafa þeir, er tjaldbúðinni þjóna, ekki leyfi til að eta af því. 11Því að brennd eru fyrir utan herbúðirnar hræ þeirra dýra, sem æðsti presturinn ber blóðið úr inn í helgidóminn til syndafórnar. 12Þess vegna leið og Jesús fyrir utan hliðið, til þess að hann helgaði lýðinn með blóði sínu. 13Göngum því til hans út fyrir herbúðirnar og berum vanvirðu hans. 14Því að hér höfum vér ekki borg er stendur, heldur leitum vér hinnar komandi. 15Fyrir hann skulum vér því án afláts bera fram lofgjörðarfórn fyrir Guð, ávöxt vara, er játa nafn hans. 16En gleymið ekki velgjörðaseminni og hjálpseminni, því að slíkar fórnir eru Guði þóknanlegar.

17Hlýðið leiðtogum yðar og verið þeim eftirlátir. Þeir vaka yfir sálum yðar og eiga að lúka reikning fyrir þær. Verið þeim eftirlátir til þess að þeir geti gjört það með gleði, ekki andvarpandi. Það væri yður til ógagns.

18Biðjið fyrir oss, því að vér erum þess fullvissir, að vér höfum góða samvisku og viljum í öllum greinum breyta vel. 19Ég bið yður enn rækilegar um að gjöra þetta, til þess að þér fáið mig brátt aftur heimtan.


Bæn og kveðjur

20En Guð friðarins, er leiddi hinn mikla hirði sauðanna, Drottin vorn Jesú, upp frá dauðum með blóði eilífs sáttmála, 21hann fullkomni yður í öllu góðu til að gjöra vilja hans og komi því til leiðar í oss, sem þóknanlegt er í hans augum, fyrir Jesú Krist. Honum sé dýrð um aldir alda. Amen.

22Ég bið yður, bræður, að þér takið vel þessum áminningarorðum. Fáort hef ég ritað yður.

23Vita skuluð þér, að bróðir vor Tímóteus hefur verið látinn laus og ásamt honum mun ég heimsækja yður, komi hann bráðum.

24Berið kveðju öllum leiðtogum yðar og öllum heilögum. Mennirnir frá Ítalíu senda yður kveðju.

25Náð sé með yður öllum.



Netútgáfan og Hið Íslenska Biblíufélag - ágúst 1997