ESRABÓK



Kýrus veitir hinum herleiddu heimfararleyfi

1
1Á fyrsta ríkisári Kýrusar Persakonungs blés Drottinn honum því í brjóst - til þess að orð Drottins fyrir munn Jeremía rættust - að láta boð út ganga um allt ríki sitt, og það í konungsbréfi, á þessa leið:

2"Svo segir Kýrus Persakonungur: Öll konungsríki jarðarinnar hefir Drottinn, Guð himnanna, gefið mér, og hann hefir skipað mér að reisa sér musteri í Jerúsalem í Júda. 3Hver sá meðal yðar, sem tilheyrir þjóð hans, með honum sé Guð hans, og hann fari heim til Jerúsalem í Júda og reisi musteri Drottins, Ísraels Guðs. Hann er sá Guð, sem býr í Jerúsalem. 4Og hvern þann, sem enn er eftir, á sérhverjum þeim stað þar sem hann dvelst sem útlendingur, hann skulu menn á þeim stað styrkja með silfri og gulli og lausafé og kvikfénaði, auk sjálfviljagjafa til Guðs musteris í Jerúsalem."

5Þá tóku ætthöfðingjar Júda og Benjamíns og prestarnir og levítarnir sig upp - allir þeir, er Guð hafði blásið því í brjóst að fara og reisa musteri Drottins í Jerúsalem. 6Og allir nágrannar þeirra hjálpuðu þeim um áhöld úr silfri, um gull, um lausafé og um kvikfénað og um gersemar, auk alls þess, er menn gáfu sjálfviljuglega.

7Kýrus konungur lét af hendi kerin úr musteri Drottins, þau er Nebúkadnesar hafði flutt burt frá Jerúsalem og sett í musteri guðs síns. 8Kýrus Persakonungur fékk þau í hendur Mítredat féhirði, og hann taldi þau út í hendur Sesbasar, höfðingja Júdaættkvíslar. 9En talan á þeim var þessi: 30 gullskálar, 1.000 silfurskálar, 29 pönnur, 1030 könnur af gulli, silfurkönnur minni háttar: 410, önnur ker 1.000 - 11öll kerin af gulli og silfri til samans 5.400. Allt þetta flutti Sesbasar með sér, þá er hinir herleiddu voru fluttir frá Babýlon heim til Jerúsalem.


Skrá um þá er sneru heim úr herleiðingunni

2
1Þessir eru þeir úr skattlandinu, er heim fóru úr herleiðingarútlegðinni, þeir er Nebúkadnesar konungur í Babýlon hafði herleitt til Babýlon og nú sneru aftur til Jerúsalem og Júda, hver til sinnar borgar, 2þeir sem komu með Serúbabel, Jósúa, Nehemía, Seraja, Reelja, Mordekai, Bilsan, Mispar, Bigvaí, Rehúm og Baana.

Talan á mönnum Ísraelslýðs var:

3Niðjar Parós: 2.172.

4Niðjar Sefatja: 372.

5Niðjar Ara: 775.

6Niðjar Pahat Móabs, sem sé niðjar Jesúa og Jóabs: 2.812.

7Niðjar Elams: 1.254.

8Niðjar Sattú: 945.

9Niðjar Sakkaí: 760.

10Niðjar Baní: 642.

11Niðjar Bebaí: 623.

12Niðjar Asgads: 1.222.

13Niðjar Adóníkams: 666.

14Niðjar Bigvaí: 2.056.

15Niðjar Adíns: 454.

16Niðjar Aters, frá Hiskía: 98.

17Niðjar Besaí: 323.

18Niðjar Jóra: 112.

19Niðjar Hasúms: 223.

20Niðjar Gibbars: 95.

21Ættaðir frá Betlehem: 123.

22Menn frá Netófa: 56.

23Menn frá Anatót: 128.

24Ættaðir frá Asmavet: 42.

25Ættaðir frá Kirjat Jearím, Kefíra og Beerót: 743.

26Ættaðir frá Rama og Geba: 621.

27Menn frá Mikmas: 122.

28Menn frá Betel og Aí: 223.

29Ættaðir frá Nebó: 52.

30Niðjar Magbis: 156.

31Niðjar Elams hins annars: 1.254.

32Niðjar Haríms: 320.

33Ættaðir frá Lód, Hadíd og Ónó: 725.

34Ættaðir frá Jeríkó: 345.

35Ættaðir frá Senaa: 3.630.

36Prestarnir:

Niðjar Jedaja, af ætt Jesúa: 973.

37Niðjar Immers: 1.052.

38Niðjar Pashúrs: 1.247.

39Niðjar Haríms: 1.017.

40Levítarnir:

Niðjar Jesúa og Kadmíels, af niðjum Hódavja: 74.

41Söngvararnir: niðjar Asafs: 128.

42Niðjar hliðvarðanna: niðjar Sallúms, niðjar Aters, niðjar Talmóns, niðjar Akúbs, niðjar Hatíta, niðjar Sóbaí - alls 139.

43Musterisþjónarnir: niðjar Síha, niðjar Hasúfa, niðjar Tabbaóts,

44niðjar Kerós, niðjar Síaha, niðjar Padóns,

45niðjar Lebana, niðjar Hagaba, niðjar Akúbs,

46niðjar Hagabs, niðjar Salmaí, niðjar Hanans,

47niðjar Giddels, niðjar Gahars, niðjar Reaja,

48niðjar Resíns, niðjar Nekóda, niðjar Gassams,

49niðjar Ússa, niðjar Pasea, niðjar Besaí,

50niðjar Asna, niðjar Meúníta, niðjar Nefísíta,

51niðjar Bakbúks, niðjar Hakúfa, niðjar Harhúrs,

52niðjar Baselúts, niðjar Mehída, niðjar Harsa,

53niðjar Barkós, niðjar Sísera, niðjar Tema,

54niðjar Nesía, niðjar Hatífa.

55Niðjar þræla Salómons: niðjar Sótaí, niðjar Sóferets, niðjar Perúda,

56niðjar Jaala, niðjar Darkóns, niðjar Giddels,

57niðjar Sefatja, niðjar Hattils, niðjar Pókeret Hassebaíms, niðjar Ami.

58Allir musterisþjónarnir og niðjar þræla Salómons voru 392.

59Og þessir eru þeir, sem fóru heim frá Tel Mela, Tel Harsa, Kerúb, Addan, Immer, en kunnu eigi að greina ætt sína og uppruna, hvort þeir væru komnir af Ísrael: 60Niðjar Delaja, niðjar Tobía, niðjar Nekóda: 652.

61Og af niðjum prestanna: Niðjar Habaja, niðjar Hakkós, niðjar Barsillaí, er gengið hafði að eiga eina af dætrum Barsillaí Gíleaðíta og nefndur hafði verið nafni þeirra.

62Þessir leituðu að ættartölum sínum, en þær fundust ekki. Var þeim því hrundið frá prestdómi. 63Og landstjórinn sagði þeim, að þeir mættu ekki eta af hinu háheilaga, þar til er kæmi fram prestur, er kynni að fara með úrím og túmmím.

64Allur söfnuðurinn var til samans 42.360, 65auk þræla þeirra og ambátta, er voru 7.337.

Þeir höfðu 200 söngvara og söngkonur.

66Hestar þeirra voru 736, múlar 245, 67úlfaldar 435, asnar 6.720.

68Og sumir ætthöfðingjanna gáfu, er þeir komu til musteris Drottins í Jerúsalem, sjálfviljagjafir til musteris Guðs, til þess að það yrði reist á sínum stað. 69Gáfu þeir hver eftir efnum sínum í byggingarsjóðinn: í gulli 6.100 daríka og í silfri 5.000 mínur, og 100 prestserki.

70Þannig settust prestarnir og levítarnir og nokkrir af lýðnum og söngvararnir og hliðverðirnir og musterisþjónarnir að í borgum sínum. Og allur Ísrael tók sér bólfestu í borgum sínum.


Jósúa og Serúbabel endurreisa guðsdýrkun

3
1En er sjöundi mánuðurinn kom, og Ísraelsmenn voru í borgunum, safnaðist lýðurinn saman eins og einn maður í Jerúsalem. 2Þá tóku þeir sig til, Jósúa Jósadaksson og bræður hans, prestarnir, og Serúbabel Sealtíelsson og bræður hans, og reistu altari Ísraels Guðs, til þess að á því yrðu færðar brennifórnir eftir því, sem fyrir er mælt í lögmáli guðsmannsins Móse. 3Og þeir reistu altarið þar, er það áður hafði staðið, því að þeim stóð ótti af landsbúum, og færðu Drottni brennifórnir á því, morgunbrennifórnir og kveldbrennifórnir. 4Og þeir héldu laufskálahátíðina, eftir því sem fyrir er mælt, og báru fram brennifórnir á degi hverjum með réttri tölu, að réttum sið, það er við átti á hverjum degi, 5og því næst hinar stöðugu brennifórnir, og fórnir tunglkomuhátíðanna og allra hinna helgu löghátíða Drottins, svo og fórnir allra þeirra, er færðu Drottni sjálfviljafórn. 6Frá fyrsta degi hins sjöunda mánaðar byrjuðu þeir að færa Drottni brennifórnir, og hafði þá eigi enn verið lagður grundvöllur að musteri Drottins.

7Og þeir gáfu steinsmiðunum og trésmiðunum silfur og Sídoningum og Týrusmönnum mat og drykk og olífuolíu til að flytja sedrusvið frá Líbanon sjóleiðis til Jafó samkvæmt leyfi Kýrusar Persakonungs þeim til handa.


Hafin endurbygging musterisins

8Á öðru ári eftir heimkomu þeirra til húss Guðs í Jerúsalem, í öðrum mánuðinum, byrjuðu þeir Serúbabel Sealtíelsson og Jósúa Jósadaksson og aðrir bræður þeirra, prestarnir og levítarnir og allir þeir, er komnir voru úr útlegðinni til Jerúsalem, að setja levíta, tvítuga og þaðan af eldri, til að hafa eftirlit með byggingu húss Drottins. 9Og þannig gengu þeir Jósúa, synir hans og bræður hans, Kadmíel og synir hans, synir Hódavja, synir Henadads, svo og synir þeirra og bræður þeirra, levítarnir, sem einn maður að því verki að hafa eftirlit með þeim, er unnu að byggingu Guðs húss.

10Og er smiðirnir lögðu grundvöllinn að musteri Drottins, námu prestarnir þar staðar í embættisskrúða með lúðra og levítarnir, niðjar Asafs, með skálabumbur, til þess að vegsama Drottin eftir tilskipun Davíðs Ísraelskonungs. 11Og þeir hófu að lofa og vegsama Drottin fyrir það, að hann er góður og að miskunn hans við Ísrael er eilíf. Og allur lýðurinn laust upp miklu fagnaðarópi og lofaði Drottin fyrir það, að grundvöllur var lagður að húsi Drottins. 12En margir af prestunum og levítunum og ætthöfðingjunum - öldungar þeir, er séð höfðu hið fyrra musterið - grétu hástöfum, þegar grundvöllur þessa húss var lagður að þeim ásjáandi, en margir æptu líka fagnaðar- og gleðióp. 13Og lýðurinn gat ekki greint fagnaðarópin frá gráthljóðunum í fólkinu, því að lýðurinn laust upp miklu fagnaðarópi, og heyrðist ómurinn langar leiðir.


Samverjar tálma byggingu musterisins

4
1En er mótstöðumenn Júda og Benjamíns heyrðu, að þeir, er heim voru komnir úr herleiðingunni, væru að reisa Drottni, Ísraels Guði, musteri, 2þá gengu þeir fyrir Serúbabel og ætthöfðingjana og sögðu við þá: "Vér viljum byggja með yður, því að vér leitum yðar Guðs, eins og þér, og honum höfum vér fórnir fært síðan daga Asarhaddons Assýríukonungs, þess er flutti oss hingað." 3En Serúbabel og Jósúa og aðrir ætthöfðingjar Ísraels sögðu við þá: "Vér höfum ekkert saman við yður að sælda um bygginguna á húsi Guðs vors, heldur ætlum vér að reisa það einir saman Drottni, Ísraels Guði, eins og Kýrus konungur, konungur í Persíu, hefir boðið oss."

4Þá gjörðu landsbúar Júdalýð huglausan og hræddu þá frá að byggja, 5og þeir keyptu menn til að leggja ráð í móti þeim til þess að ónýta fyrirætlun þeirra, alla ævi Kýrusar Persakonungs og þar til er Daríus Persakonungur tók ríki.


Artaxerxes Persakonungur fær bréf

6Á ríkisárum Ahasverusar, í byrjun ríkisstjórnar hans, rituðu þeir ákæru gegn íbúunum í Júda og Jerúsalem.

7En á dögum Artahsasta rituðu þeir Bislam, Mítredat, Tabeel og aðrir samborgarar hans til Artahsasta, konungs í Persíu. En bréfið var ritað á arameísku og útlagt.

8Rehúm umboðsmaður og Simsaí ritari skrifuðu Artahsasta konungi bréf um Jerúsalembúa á þessa leið:

9"Rehúm umboðsmaður og Simsaí ritari og aðrir samborgarar þeirra, Dínear, Afarsatkear, Tarpelear, Afarsear, Arkevear, Babýloníumenn, Súsankear, Dehear, Elamítar 10og þær aðrar þjóðir, er hinn mikli og víðfrægi Asnappar flutti burt og setti niður í borginni Samaríu og í öðrum héruðum hinumegin Fljóts," og svo framvegis. 11Þetta er afrit af bréfinu, sem þeir sendu Artahsasta konungi: "Þjónar þínir, mennirnir í héraðinu hinumegin við Fljótið, og svo framvegis. 12Það sé konunginum vitanlegt, að Gyðingar þeir, er fóru upp eftir frá þér til vor, eru komnir til Jerúsalem. Eru þeir að reisa að nýju þessa óeirðargjörnu og vondu borg, fullgjöra múrana og gjöra við grundvöllinn. 13Nú sé það konunginum vitanlegt, að ef borg þessi verður endurreist og múrar hennar fullgjörðir, þá munu þeir hvorki borga skatt, toll né vegagjald, og það mun að lokum verða konunginum tekjumissir. 14Nú með því að vér etum salt hallarinnar og oss sæmir ekki að horfa upp á skaða konungs, þá sendum vér og látum konunginn vita þetta, 15til þess að leitað verði í ríkisannálum forfeðra þinna. Þá munt þú finna í ríkisannálunum og komast að raun um, að borg þessi er óeirðargjörn borg og skaðvæn konungum og skattlöndum og að menn hafa gjört uppreisn í henni frá alda öðli. Fyrir því hefir og borg þessi verið lögð í eyði. 16Vér látum konunginn vita, að ef borg þessi verður reist að nýju og múrar hennar fullgjörðir, þá er úti um landeign þína hinumegin Fljóts."

17Konungur sendi úrskurð til Rehúms umboðsmanns og Simsaí ritara og til annarra samborgara þeirra, sem bjuggu í Samaríu og öðrum héruðum hinumegin Fljóts:

"Heill og friður! og svo framvegis. 18Bréfið, sem þér senduð til vor, hefir verið lesið greinilega fyrir mér. 19Og er ég hafði svo fyrirskipað, leituðu menn og fundu, að þessi borg hefir frá alda öðli sýnt konungum mótþróa og að óeirðir og uppreist hafa verið gjörðar í henni. 20Og voldugir konungar hafa drottnað yfir Jerúsalem og ráðið fyrir öllum héruðum hinumegin Fljóts, og skattur og tollur og vegagjald hefir verið greitt þeim. 21Skipið því svo fyrir, að menn þessir hætti, svo að borg þessi verði eigi endurreist, uns ég læt skipun út ganga. 22Og gætið yðar, að þér sýnið ekkert tómlæti í þessu, svo að eigi hljótist af mikið tjón fyrir konungana."

23Jafnskjótt sem afritið af bréfi Artahsasta konungs hafði verið lesið fyrir þeim Rehúm og Simsaí ritara og samborgurum þeirra, fóru þeir með skyndi til Jerúsalem til Gyðinga og neyddu þá með ofríki og ofbeldi til að hætta.

24Þá var hætt við bygginguna á musteri Guðs í Jerúsalem, og lá hún niðri þar til á öðru ríkisári Daríusar Persakonungs.


Bygging hafin að nýju

5
1Haggaí spámaður og Sakaría Íddósson, spámennirnir, spáðu hjá Gyðingum, þeim er voru í Júda og Jerúsalem, í nafni Ísraels Guðs, sem yfir þeim var. 2Þá fóru þeir Serúbabel Sealtíelsson og Jósúa Jósadaksson til og hófu að byggja musteri Guðs í Jerúsalem, og spámenn Guðs voru með þeim og aðstoðuðu þá.

3Um þær mundir komu til þeirra Tatnaí, landstjóri héraðsins hinumegin Fljóts, og Star Bósnaí og samborgarar þeirra og mæltu til þeirra á þessa leið: "Hver hefir leyft yður að reisa þetta hús og fullgjöra þessa múra?" 4Síðan mæltu þeir til þeirra á þessa leið: "Hvað heita menn þeir, er reisa stórhýsi þetta?" 5En auga Guðs þeirra vakti yfir öldungum Gyðinga, svo að menn gátu ekki stöðvað þá, þar til er málið kæmi til Daríusar og bréfleg skipun um þetta væri komin aftur.

6Afrit af bréfinu, sem þeir Tatnaí, landstjóri héraðsins hinumegin Fljóts, og Star Bósnaí og samborgarar hans, Afarsekear, sem bjuggu í héraðinu hinumegin Fljóts, sendu Daríusi konungi, - 7skýrslu sendu þeir honum og þannig var ritað í henni:

"Hvers kyns heill Daríusi konungi! 8Konunginum sé vitanlegt, að vér höfum farið til skattlandsins Júda, til musteris hins mikla Guðs. Er verið að byggja það úr stórum steinum, og eru bjálkar settir inn í veggina. Er unnið kostgæfilega að verki þessu, og miðar því vel áfram hjá þeim. 9Því næst spurðum vér öldungana á þessa leið: ,Hver hefir leyft yður að reisa þetta hús og fullgjöra þessa múra?' 10Líka spurðum vér þá að heiti til þess að láta þig vita, svo að vér gætum skrifað upp nöfn þeirra manna, er forustuna hafa. 11Og þeir svöruðu oss á þessa leið: ,Vér erum þjónar Guðs himinsins og jarðarinnar og reisum að nýju musterið, sem byggt var fyrir ævalöngu, og reisti það og fullgjörði mikill konungur í Ísrael. 12En af því að feður vorir höfðu egnt Guð himinsins til reiði, þá ofurseldi hann þá í hendur Nebúkadnesars Babelkonungs, Kaldeans. Hann lagði musteri þetta í eyði og flutti lýðinn til Babýloníu. 13En á fyrsta ári Kýrusar, konungs í Babýlon, veitti Kýrus konungur leyfi til að endurreisa þetta musteri Guðs. 14Og einnig gull- og silfuráhöldin úr húsi Guðs, þau er Nebúkadnesar hafði haft á burt úr musterinu í Jerúsalem og flutt til musterisins í Babýlon, þau tók Kýrus konungur úr musterinu í Babýlon, og voru þau fengin manni þeim, er hann hafði skipað landstjóra og Sesbasar hét. 15Og hann sagði við hann: ,Tak áhöld þessi, far og legg þau í musterið í Jerúsalem. Hús Guðs skal aftur reist verða á sínum fyrra stað.' 16Síðan kom Sesbasar þessi og lagði grundvöllinn að húsi Guðs í Jerúsalem, og síðan fram á þennan dag hafa menn verið að byggja það, og enn er því ekki lokið. 17Og nú, ef konunginum þóknast svo, þá sé gjörð leit í fjárhirslu konungsins þar í Babýlon, hvort svo sé, að Kýrus hafi veitt leyfi til að reisa þetta musteri Guðs í Jerúsalem, og konungur láti oss vita vilja sinn í þessu máli."


Daríus Persakonungur svarar bréfi

6
1Þá gaf Daríus konungur út þá skipun, að leita skyldi í skjalasafnshúsinu, þar sem og fjársjóðirnir voru lagðir fyrir til geymslu í Babýlon, 2og bókrolla fannst í Ahmeta, borginni, sem er í skattlandinu Medíu. Og í henni var ritað á þessa leið:

"Merkisatburður. 3Á fyrsta ári Kýrusar konungs gaf Kýrus konungur út svolátandi skipun: Hús Guðs í Jerúsalem skal endurreist verða, til þess að menn megi þar færa fórnir, og grundvöllur þess skal lagður. Það skal vera sextíu álnir á hæð og sextíu álnir á breidd. 4Lög af stórum steinum skulu vera þrjú og eitt lag af tré, og kostnaðurinn skal greiddur úr konungshöllinni. 5Einnig skal gull- og silfuráhöldunum úr húsi Guðs, þeim er Nebúkadnesar hafði á burt úr musterinu í Jerúsalem og flutti til Babýlon, verða skilað aftur, svo að hvert þeirra komist aftur í musterið í Jerúsalem á sinn stað, og þú skalt leggja þau í hús Guðs."

6"Fyrir því skuluð þér - Tatnaí, landstjóri héraðsins hinumegin Fljóts, Star Bósnaí og samborgarar þeirra, Afarsekear, í héraðinu hinumegin Fljóts - halda yður þar frá. 7Látið byggingu þessa Guðs húss í friði. Landstjóra Gyðinga og öldungum þeirra er heimilt að endurreisa þetta Guðs hús á sínum fyrra stað. 8Og ég hefi gefið út skipun um, hvað þér skuluð láta þessum öldungum Gyðinga í té til byggingar þessa Guðs húss. Skal mönnum þessum greiddur kostnaðurinn skilvíslega af tekjum konungs, þeim er hann hefir af sköttum úr héraðinu hinumegin Fljóts, og það tafarlaust. 9Og það sem með þarf, bæði ung naut, hrúta og lömb til brennifórna handa Guði himnanna, hveiti, salt, vín og olíu, það skal láta þeim í té, eftir fyrirsögn prestanna í Jerúsalem, á degi hverjum, og það prettalaust, 10til þess að þeir megi færa Guði himnanna fórnir þægilegs ilms og biðja fyrir lífi konungsins og sona hans. 11Og ég hefi gefið út þá skipun, að ef nokkur maður breytir á móti úrskurði þessum, þá skuli taka bjálka úr húsi hans og hann hengdur upp og negldur á hann, en hús hans skal fyrir þá sök gjöra að mykjuhaug. 12En sá Guð, sem lætur nafn sitt búa þar, kollsteypi öllum þeim konungum og þjóðum, sem rétta út hönd sína til þess að breyta út af þessu eða til þess að brjóta niður þetta hús Guðs í Jerúsalem. Ég, Daríus, hefi gefið út þessa skipun. Skal hún kostgæfilega framkvæmd."


Vígsluhátíð musterisins

13Þá fóru þeir Tatnaí, landstjóri héraðsins hinumegin Fljóts, Star Bósnaí og samborgarar þeirra nákvæmlega eftir fyrirmælum þeim, er Daríus konungur hafði sent. 14Og öldungar Gyðinga byggðu, og miðaði þeim vel áfram fyrir spámannsstarf þeirra Haggaí spámanns og Sakaría Íddóssonar.

Og þannig luku þeir byggingunni samkvæmt skipun Ísraels Guðs og samkvæmt skipun Kýrusar og Daríusar og Artahsasta Persakonungs. 15Og hús þetta var fullgjört á þriðja degi adarmánaðar, það er á sjötta ríkisári Daríusar konungs.

16Og Ísraelsmenn - prestarnir og levítarnir og aðrir þeir, er komnir voru heim úr herleiðingunni - héldu vígsluhátíð þessa Guðs húss með fögnuði. 17Og þeir fórnuðu við vígslu þessa Guðs húss hundrað nautum, tvö hundruð hrútum og fjögur hundruð lömbum og í syndafórn fyrir allan Ísrael tólf geithöfrum eftir tölu Ísraels ættkvísla. 18Og þeir skipuðu presta eftir flokkum þeirra og levíta eftir deildum þeirra, til þess að gegna þjónustu Guðs í Jerúsalem, samkvæmt fyrirmælum Mósebókar.


Páskahátíð haldin

19Og þeir, sem heim voru komnir úr herleiðingunni, héldu páska hinn fjórtánda dag hins fyrsta mánaðar. 20Því að prestarnir og levítarnir höfðu hreinsað sig allir sem einn maður, allir voru hreinir. Og þeir slátruðu páskalambinu fyrir alla þá, er heim voru komnir úr herleiðingunni, og fyrir bræður þeirra, prestana, og fyrir sjálfa sig. 21Síðan neyttu Ísraelsmenn þess, þeir er aftur voru heim komnir úr herleiðingunni, og allir þeir, er skilið höfðu sig frá saurugleik hinna heiðnu þjóða landsins og gengið í flokk með þeim, til þess að leita Drottins, Ísraels Guðs. 22Og þannig héldu þeir hátíð hinna ósýrðu brauða í sjö daga með fögnuði, því að Drottinn hafði glatt þá og snúið hjarta Assýríukonungs til þeirra, svo að hann styrkti hendur þeirra við byggingu musteris Guðs, Ísraels Guðs.


Esra kemur til Jerúsalem

7
1Eftir þessa atburði, á ríkisárum Artahsasta Persakonungs, fór Esra Serajason, Asarjasonar, Hilkíasonar, 2Sallúmssonar, Sadókssonar, Ahítúbssonar, 3Amarjasonar, Asarjasonar, Merajótssonar, 4Serahjasonar, Ússísonar, Búkkísonar, 5Abísúasonar, Pínehassonar, Eleasarssonar, Aronssonar æðsta prests, - 6þessi Esra fór heim frá Babýlon. En hann var fræðimaður, vel að sér í Móselögum, er Drottinn, Ísraels Guð, hefir gefið, og konungur veitti honum allar bænir hans, með því að hönd Drottins, Guðs hans, var yfir honum. 7Og nokkrir af Ísraelsmönnum og af prestunum, levítunum, söngvurunum, hliðvörðunum og musterisþjónunum fóru með honum til Jerúsalem á sjöunda ríkisári Artahsasta konungs. 8Og hann kom til Jerúsalem í fimmta mánuðinum, það var á sjöunda ríkisári konungs. 9Því að hinn fyrsta dag hins fyrsta mánaðar bjó hann ferð sína frá Babýlon, og hinn fyrsta dag hins fimmta mánaðar kom hann til Jerúsalem, með því að Guð hans hélt náðarsamlega hönd sinni yfir honum. 10Því að Esra hafði snúið huga sínum að því að rannsaka lögmál Drottins og breyta eftir því og að kenna lög og rétt í Ísrael.


Artaxerxes gefur út tilskipun

11Þetta er afrit af bréfinu, sem Artahsasta konungur fékk Esra presti, fræðimanninum, sem fróður var í ákvæðum boðorða Drottins og í lögum hans, þeim er hann hafði sett Ísrael:

12"Artahsasta, konungur konunganna, til Esra prests hins fróða í lögmáli Guðs himnanna, og svo framvegis. 13Ég hefi gefið út skipun um, að hver sá í ríki mínu af Ísraelslýð og af prestum hans og levítum, sem vill fara til Jerúsalem, skuli fara með þér, 14þar eð þú ert sendur af konungi og sjö ráðgjöfum hans, til þess að gjöra rannsóknir um Júda og Jerúsalem, samkvæmt lögmáli Guðs þíns, sem þú hefir í höndum, 15og til að flytja silfur það og gull, sem konungur og ráðgjafar hans sjálfviljuglega hafa gefið Ísraels Guði, þeim er bústað á í Jerúsalem, 16svo og allt það silfur og gull, er þú fær í öllu Babelskattlandi, ásamt sjálfviljagjöfum lýðsins og prestanna, sem og gefa sjálfviljuglega til musteris Guðs síns í Jerúsalem. 17Fyrir því skalt þú með allri kostgæfni kaupa fyrir fé þetta naut, hrúta, lömb og matfórnir og dreypifórnir þær, er þar til heyra, og fram bera þær á altarinu í húsi Guðs yðar í Jerúsalem. 18Og það sem þér og bræðrum þínum þóknast að gjöra við afganginn af silfrinu og gullinu, það skuluð þér gjöra samkvæmt vilja Guðs yðar. 19En áhöldin, sem þér munu verða fengin til guðsþjónustunnar í húsi Guðs þíns, þeim skalt þú skila óskertum frammi fyrir Guði í Jerúsalem. 20Og annað það, er með þarf við hús Guðs þíns og þú kannt að þurfa að greiða, það skalt þú greiða úr féhirslu konungs. 21Og ég, Artahsasta konungur, hefi gefið út skipun til allra féhirða í héraðinu hinumegin Fljóts: Allt það, er Esra prestur, sá er fróður er í lögmáli Guðs himnanna, biður yður um, það skal kostgæfilega í té látið, 22allt að hundrað talentur silfurs og allt að hundrað kór af hveiti og allt að hundrað bat af víni og allt að hundrað bat af olífuolíu og salt ómælt. 23Allt það, sem þörf er á samkvæmt skipun Guðs himnanna, skal kostgæfilega gjört fyrir hús Guðs himnanna, til þess að reiði komi ekki yfir ríki konungs og sona hans. 24En yður gefst til vitundar, að engum er heimilt að leggja skatt, toll eða vegagjald á nokkurn prest eða levíta, söngvara, dyravörð, musterisþjón eða starfsmann við þetta musteri Guðs. 25En þú, Esra, skipa þú samkvæmt visku Guðs þíns, þeirri er þú hefir í hendi þér, dómendur og stjórnendur, til þess að þeir dæmi mál manna hjá öllum lýð í héraðinu hinumegin Fljóts - hjá þeim er þekkja lög Guðs þíns. Og þeim, er ekki þekkir þau, honum skuluð þér kenna. 26En hver sá, er eigi breytir eftir lögmáli Guðs þíns og lögmáli konungsins, á honum skal dómur vendilega framkvæmdur verða, hvort heldur er til dauða eða til útlegðar eða til fjárútláta eða til fangelsisvistar."

27Lofaður sé Drottinn, Guð feðra vorra, sem blásið hefir konunginum slíku í brjóst, að gjöra musteri Drottins í Jerúsalem dýrlegt, 28og hneigt til mín hylli konungs og ráðgjafa hans og allra hinna voldugu höfðingja konungs! Og ég tók í mig hug, með því að hönd Drottins, Guðs míns, hvíldi yfir mér, og safnaði saman höfðingjum Ísraels til þess að fara heim með mér.


Skrá um þá er komu með Esra

8
1Þessir eru ætthöfðingjar þeirra - og þetta er ættarskrá þeirra - er fóru með mér heim frá Babýlon, þá er Artahsasta konungur sat að völdum:

2Af niðjum Pínehasar: Gersóm.

Af niðjum Ítamars: Daníel.

Af niðjum Davíðs: Hattús, 3sonur Sekanja.

Af niðjum Parós: Sakaría og með honum skráðir af karlmönnum 150.

4Af niðjum Pahat-Móabs: Eljehóenaí Serajason og með honum 200 karlmenn.

5Af niðjum Sattú: Sekanja Jahasíelsson og með honum 300 karlmenn.

6Af niðjum Adíns: Ebed Jónatansson og með honum fimm tugir karlmanna.

7Af niðjum Elams: Jesaja Ataljason og með honum sjö tugir karlmanna.

8Af niðjum Sefatja: Sebadía Míkaelsson og með honum átta tugir karlmanna.

9Af niðjum Jóabs: Óbadía Jehíelsson og með honum 218 karlmenn.

10Af niðjum Baní: Selómít Jósifjason og með honum 160 karlmenn.

11Af niðjum Bebaí: Sakaría Bebaíson og með honum 28 karlmenn.

12Af niðjum Asgads: Jóhanan Hakkatansson og með honum 110 karlmenn.

13Af niðjum Adóníkams, síðkomnir, og þessi voru nöfn þeirra: Elífelet, Jeíel og Semaja, og með þeim 60 karlmenn.

14Af niðjum Bigvaí: Útaí og Sabbúd og með þeim 70 karlmenn.


Undirbúin för til Jerúsalem

15Ég safnaði þeim saman við fljótið, sem rennur um Ahava, og lágum vér þar í tjöldum í þrjá daga. En er ég hugði að fólkinu og prestunum, þá fann ég þar engan af niðjum Leví. 16Þá sendi ég eftir Elíeser, Aríel, Semaja, Elnatan, Jaríb, Elnatan, Natan, Sakaría og Mesúllam, ætthöfðingjum, og Jójaríb og Elnatan, kennurum, 17og bauð þeim að fara til Íddós, höfðingja í Kasifjabyggð, og lagði þeim orð í munn, er þeir skyldu flytja Íddó, bræðrum hans og musterisþjónunum í Kasifjabyggð, til þess að þeir mættu útvega oss þjónustumenn í musteri Guðs vors. 18Og með því að hönd Guðs vors hvíldi náðarsamlega yfir oss, þá færðu þeir oss vel kunnandi mann af niðjum Mahelí Levísonar, Ísraelssonar, og Serebja og sonu hans og bræður - átján alls, 19og Hasabja og með honum Jesaja af niðjum Merarí, bræður hans og sonu þeirra - tuttugu alls, 20og af musterisþjónunum, sem Davíð og höfðingjar hans höfðu sett til að þjóna levítunum: tvö hundruð og tuttugu musterisþjóna. Þeir voru allir nefndir með nafni.

21Og ég lét boða þar föstu við fljótið Ahava, til þess að vér skyldum auðmýkja oss fyrir Guði vorum til að biðja hann um farsællega ferð fyrir oss, börn vor og allar eigur vorar. 22Því að ég fyrirvarð mig að biðja konung um herlið og riddara til verndar fyrir óvinum á leiðinni. Því að vér höfum sagt konungi: "Hönd Guðs vors hvílir yfir öllum þeim, sem leita hans, þeim til góðs, en máttur hans og reiði yfir öllum þeim, sem yfirgefa hann." 23Vér föstuðum því og báðum Guð um þetta, og hann bænheyrði oss.

24Síðan valdi ég tólf úr af prestahöfðingjunum og Serebja, Hasabja og með þeim tíu af bræðrum þeirra, 25og vó þeim út silfrið og gullið og áhöldin - gjöfina til húss Guðs vors, er konungur og ráðgjafar hans og höfðingjar hans og allir Ísraelsmenn, þeir er þar voru, höfðu gefið. 26Og þannig vó ég í hendur þeirra sex hundruð og fimmtíu talentur í silfri, hundrað talentur í silfuráhöldum, hundrað talentur í gulli. 27Auk þess tuttugu gullkönnur, þúsund daríka virði, og tvö ker af gullgljáum góðum eiri, dýrmæt sem gull. 28Og ég sagði við þá: "Þér eruð helgaðir Drottni, og áhöldin eru heilög, og silfrið og gullið eru sjálfviljagjöf til Drottins, Guðs feðra yðar. 29Gætið því þessa og varðveitið það, þar til er þér vegið það aftur út í augsýn prestahöfðingjanna og levítanna og ætthöfðingja Ísraels í Jerúsalem í herbergi musteris Drottins." 30Síðan tóku prestarnir og levítarnir við silfrinu og gullinu og áhöldunum eftir vigt til þess að flytja það til Jerúsalem, til musteris Guðs vors.


Komið til Jerúsalem

31Því næst lögðum vér upp frá fljótinu Ahava hinn tólfta dag hins fyrsta mánaðar og héldum til Jerúsalem, og hönd Guðs vors hvíldi yfir oss, svo að hann frelsaði oss undan valdi óvina og stigamanna. 32Og vér komum til Jerúsalem og dvöldumst þar í þrjá daga. 33En á fjórða degi var silfrið og gullið og áhöldin vegin út í musteri Guðs vors í hendur Meremóts prests Úríasonar, - og með honum var Eleasar Pínehasson, og með þeim voru levítarnir Jósabad Jesúason og Nóadja Binnúíson - 34allt saman með tölu og vigt. Og öll vigtin var þá skrifuð upp.

35Þeir er heim komu úr herleiðingunni, þeir hernumdu, er aftur sneru, færðu Ísraels Guði brennifórnir: tólf naut fyrir allan Ísrael, níutíu og sex hrúta, sjötíu og sjö lömb, tólf hafra í syndafórn - allt sem brennifórn Drottni til handa. 36Og þeir fengu jörlum konungs og landstjórunum í héraðinu hinumegin Fljóts konungsboðin, og þeir aðstoðuðu lýðinn og musteri Guðs.


Gyðingar kvænast heiðnum konum

9
1Þegar þessu var lokið, komu höfðingjarnir til mín og sögðu: "Ísraelslýður og prestarnir og levítarnir hafa ekki haldið sér frá hinum heiðnu íbúum landsins, sem skylt hefði verið vegna viðurstyggða þeirra, frá Kanaanítum, Hetítum, Peresítum, Jebúsítum, Ammónítum, Móabítum, Egyptum og Amórítum, 2því að þeir hafa tekið sér og sonum sínum konur af dætrum þeirra, og þannig hefir hinn heilagi ættstofn haft mök við hina heiðnu íbúa landsins, og hafa höfðingjarnir og yfirmennirnir gengið á undan í þessu tryggðrofi." 3Þegar ég heyrði þetta, reif ég kyrtil minn og yfirhöfn mína, reytti hár mitt og skegg og sat agndofa. 4Þá söfnuðust til mín allir þeir, er óttuðust orð Ísraels Guðs, út af tryggðrofi hinna hernumdu, en ég sat agndofa allt til kveldfórnar.

5En er að kveldfórninni var komið, stóð ég upp frá föstu minni og reif um leið enn að nýju kyrtil minn og yfirhöfn mína. Síðan féll ég á kné, fórnaði höndum til Drottins, Guðs míns, 6og sagði:

"Guð minn, ég fyrirverð mig og blygðast mín að hefja auglit mitt til þín, ó minn Guð! Því að misgjörðir vorar eru vaxnar oss yfir höfuð og sekt vor orðin svo mikil, að hún nær til himins. 7Allt frá dögum feðra vorra fram á þennan dag höfum vér verið í mikilli sekt, og vegna misgjörða vorra höfum vér verið ofurseldir, konungar vorir og prestar vorir, í hendur konunga heiðinna landa, undir sverðin, til herleiðingar, til ráns og til háðungar, eins og enn í dag á sér stað. 8En nú höfum vér um örskamma stund hlotið miskunn frá Drottni, Guði vorum, með því að hann lét oss eftir verða leifar, er af komust, og veitti oss bólfestu á sínum heilaga stað, til þess að Guð vor léti gleðina skína úr augum vorum og veitti oss ofurlítinn nýjan lífsþrótt í ánauð vorri. 9Því að ánauðugir erum vér. Þó hefir Guð vor eigi yfirgefið oss í ánauð vorri, heldur hagað því svo, að vér fundum náð fyrir augliti Persakonunga, svo að þeir veittu oss nýjan lífsþrótt til að koma upp musteri Guðs vors og reisa það úr rústum og útvega oss umgirtan bústað í Júda og Jerúsalem. 10Og hvað eigum vér nú að segja, Guð vor, eftir allt þetta? Því að vér höfum yfirgefið boðorð þín, 11sem þú hefir fyrir oss lagt fyrir munn þjóna þinna, spámannanna, er þú sagðir: ,Landið, er þér haldið inn í til þess að taka það til eignar, er óhreint land vegna saurugleika hinna heiðnu landsbúa, vegna viðurstyggða þeirra, er þeir í saurgun sinni hafa fyllt það með landshornanna milli. 12Fyrir því skuluð þér hvorki gefa dætur yðar sonum þeirra né taka dætur þeirra sonum yðar að konum, og um aldur og ævi skuluð þér ekki leitast við að efla farsæld þeirra og velgengni, til þess að þér eflist og fáið að njóta landsins gæða og megið láta börnum yðar það eftir í arf um aldur og ævi.' 13Og eftir allt það, sem yfir oss er komið vegna vondra verka vorra og vorrar miklu sektar - því að þú, Guð vor, hefir vægt oss og ekki hegnt oss, svo sem vér áttum skilið fyrir misgjörð vora, og veitt oss slíkar leifar - 14ættum vér þá enn að nýju að brjóta boðorð þín og mægjast við þær þjóðir, sem aðhafast slíkar svívirðingar? Mundir þú eigi reiðast oss, þar til er vér værum gjöreyddir, svo að engar leifar væru eftir né nokkrir þeir, er undan hefðu komist? 15Drottinn, Ísraels Guð, þú ert réttlátur! Vér erum eftir skildir sem leifar, er undan hafa komist, svo sem sjá má þann dag í dag. Sjá, vér stöndum frammi fyrir þér í sekt vorri, því að það er eigi unnt að standast fyrir þér vegna þessa."


Ólögleg hjónabönd leyst sundur

10
1Meðan Esra baðst þannig fyrir og bar fram játning sína grátandi og knéfallandi frammi fyrir musteri Guðs, safnaðist til hans mjög mikill skari Ísraelsmanna, karlar og konur og börn, því að fólkið grét hástöfum. 2Þá tók Sekanja Jehíelsson, af niðjum Elams, til máls og sagði við Esra: "Vér höfum brotið á móti Guði vorum, þar sem vér höfum gengið að eiga útlendar konur af hinum heiðnu íbúum landsins. Þó er ekki öll von úti fyrir Ísrael í þessu efni. 3Fyrir því skulum vér nú gjöra sáttmála við Guð vorn um að reka burt allar þessar konur og börn þau, er af þeim eru fædd, eftir ráðum herra míns og þeirra manna, er óttast boðorð Guðs vors, og það skal verða farið eftir lögmálinu. 4Rís upp, því að mál þetta hvílir á þér, og vér munum styðja þig. Hertu nú upp hugann og framkvæmdu þetta."

5Þá reis Esra upp og lét presta- og levítahöfðingjana og allan Ísrael vinna eið að því, að þeir skyldu hegða sér eftir þessu, og unnu þeir eiðinn. 6Og Esra reis upp og gekk burt þaðan er hann hafði verið, fyrir framan musteri Guðs, og inn í herbergi Jóhanans Eljasíbssonar. Þar var hann um nóttina og neytti hvorki brauðs né drakk vatn, því að hann var hryggur yfir tryggðrofi hinna herleiddu.

7Og menn létu boð út ganga um Júda og Jerúsalem til allra þeirra, er heim voru komnir úr herleiðingunni, að safnast saman í Jerúsalem. 8Og hver sá, er eigi kæmi innan þriggja daga, samkvæmt ráðstöfun höfðingjanna og öldunganna - allar eigur hans skyldu banni helgaðar og hann sjálfur rekinn úr söfnuði hinna herleiddu.

9Þá söfnuðust allir Júdamenn og Benjamíns saman í Jerúsalem á þriðja degi, það var í níunda mánuðinum, á tuttugasta degi mánaðarins. Og allt fólkið sat á auða svæðinu fram undan musteri Guðs, skjálfandi út af þessu og af því að stórrigning var. 10Þá stóð Esra prestur upp og mælti til þeirra: "Þér hafið rofið tryggðir, með því að ganga að eiga útlendar konur, til þess að auka á sekt Ísraels. 11Gjörið því játningu frammi fyrir Drottni, Guði feðra yðar, og gjörið hans vilja og skiljið yður frá hinum heiðnu íbúum landsins og frá hinum útlendu konum."

12Og allur söfnuðurinn svaraði og sagði með hárri röddu: "Svo sem þú hefir sagt, þannig er oss skylt að breyta. 13En fólkið er margt og rigningatími, svo að vér getum ekki staðið úti. Þetta er og meira en eins eða tveggja daga verk, því að vér höfum margfaldlega brotið í þessu efni. 14Gangi því höfðingjar vorir fram fyrir allan söfnuðinn, og allir þeir í borgum vorum, er gengið hafa að eiga útlendar konur, skulu koma hver á tilteknum tíma, og með þeim öldungar hverrar borgar og dómarar hennar, þar til er þeir hafa snúið hinni brennandi reiði Guðs vors frá oss að því er mál þetta snertir." 15Þeir Jónatan Asahelsson og Jahseja Tikvason einir mótmæltu þessu, og Mesúllam og Sabtaí levíti studdu þá.

16Þeir, sem heim voru komnir úr herleiðingunni, gjörðu svo, og Esra prestur valdi sér menn, ætthöfðingja hinna einstöku ætta, og þá alla með nafni, og settust þeir á ráðstefnu hinn fyrsta dag hins tíunda mánaðar til þess að rannsaka málið. 17Og þeir höfðu að öllu leyti útkljáð mál þeirra manna, er gengið höfðu að eiga útlendar konur, fyrir fyrsta dag hins fyrsta mánaðar.


Skrá um þá er áttu útlendar konur

18Af niðjum prestanna fundust þessir, er gengið höfðu að eiga útlendar konur:

Af niðjum Jósúa Jósadakssonar og bræðrum hans: Maaseja, Elíeser, Jaríb og Gedalja. 19Lofuðu þeir með handsali að reka frá sér konur sínar og að fórna hrút vegna sektar sinnar.

20Af niðjum Immers: Hananí og Sebadía.

21Af afkomendum Haríms: Maaseja, Elía, Semaja, Jehíel og Úsía.

22Af niðjum Pashúrs: Eljóenaí, Maaseja, Ísmael, Netaneel, Jósabad og Elasa.

23Af levítunum: Jósabad, Símeí og Kelaja - það er Kelíta, Petahja, Júda og Elíeser.

24Af söngvurunum: Eljasíb.

Af hliðvörðunum: Sallúm, Telem og Úrí.

25Af Ísrael:

Af niðjum Parós: Ramja, Jisía, Malkía, Míjamín, Eleasar, Malkía og Benaja.

26Af niðjum Elams: Mattanja, Sakaría, Jehíel, Abdí, Jeremót og Elía.

27Af niðjum Sattú: Eljóenaí, Eljasíb, Mattanja, Jeremót, Sabad og Asísa.

28Af niðjum Bebaí: Jóhanan, Hananja, Sabbaí og Atlaí.

29Af niðjum Baní: Mesúllam, Mallúk og Adaja, Jasúb, Seal, Jeramót.

30Af niðjum Pahat Móabs: Adna, Kelal, Benaja, Maaseja, Mattanja, Besaleel, Binnúí og Manasse.

31Niðjar Haríms: Elíeser, Jisía, Malkía, Semaja, Símeon, 32Benjamín, Mallúk, Semarja.

33Af niðjum Hasúms: Matnaí, Mattatta, Sabad, Elífelet, Jeremaí, Manasse, Símeí.

34Af niðjum Baní: Maadaí, Amram, Úel, 35Benaja, Bedja, Kelúhí, 36Vanja, Meremót, Eljasíb, 37Mattanja, Matnaí, Jaasaí,

38Baní, Binnúí, Símeí, 39Selemja, Natan, Adaja, 40Maknadbaí, Sasaí, Saraí, 41Asareel, Selemja, Semarja, 42Sallúm, Amarja, Jósef.

43Af niðjum Nebós: Jeíel, Mattija, Sabad, Sebína, Jaddaí, Jóel, Benaja.

44Allir þessir höfðu gengið að eiga útlendar konur. Og það voru konur meðal þeirra, sem höfðu alið börn.



Netútgáfan og Hið Íslenska Biblíufélag - ágúst 1997