Kveðja1
1Páll, að vilja Guðs postuli Krists Jesú, heilsar hinum heilögu, sem eru í Efesus, þeim sem trúa á Krist Jesú.2Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.
Lofgjörð3Lofaður sé Guð og faðir Drottins vors Jesú Krists, sem í Kristi hefur blessað oss með hvers konar andlegri blessun í himinhæðum. 4Áður en heimurinn var grundvallaður hefur hann útvalið oss í Kristi, til þess að vér værum heilagir og lýtalausir fyrir honum.
Í kærleika sínum 5ákvað hann fyrirfram að veita oss sonarrétt í Jesú Kristi. Sá var vilji hans og velþóknun 6til vegsemdar dýrð hans og náð, sem hann lét oss í té í sínum elskaða syni.
7Í honum, fyrir hans blóð eigum vér endurlausnina og fyrirgefningu afbrota vorra. 8Svo auðug er náð hans, sem hann gaf oss ríkulega með hvers konar vísdómi og skilningi. 9Og hann kunngjörði oss leyndardóm vilja síns, þá ákvörðun, 10sem hann hafði með sjálfum sér ákveðið að framkvæma, er fylling tímans kæmi: Hann ætlaði að safna öllu því, sem er á himnum, og því, sem er á jörðu, undir eitt höfuð í Kristi.
11Í honum höfum vér þá líka öðlast arfleifðina, eins og oss var fyrirhugað samkvæmt fyrirætlun hans, er framkvæmir allt eftir ályktun vilja síns, 12til þess að vér, sem áður höfum sett von vora til Krists, skyldum vera dýrð hans til vegsemdar.
13Í honum eruð og þér, eftir að hafa heyrt orð sannleikans, fagnaðarerindið um sáluhjálp yðar og tekið trú á hann og verið merktir innsigli heilags anda, sem yður var fyrirheitið. 14Hann er pantur arfleifðar vorrar, að vér verðum endurleystir Guði til eignar, dýrð hans til vegsemdar.
Þakkir og fyrirbæn15Eftir að hafa heyrt um trú yðar á Drottin Jesú og um kærleika yðar til allra heilagra, 16hef ég þess vegna ekki heldur látið af að þakka fyrir yður, er ég minnist yðar í bænum mínum. 17Ég bið Guð Drottins vors Jesú Krists, föður dýrðarinnar, að gefa yður anda speki og opinberunar, svo að þér fáið þekkt hann. 18Ég bið hann að upplýsa sálarsjón yðar, svo að þér skiljið, hver sú von er, sem hann hefur kallað oss til, hver ríkdómur hans dýrlegu arfleifðar er, sem hann ætlar oss meðal hinna heilögu, 19og hver hinn yfirgnæfandi máttur hans við oss, sem trúum. En þetta er sami áhrifamikli, kröftugi mátturinn, 20sem hann lét koma fram í Kristi, er hann vakti hann frá dauðum og lét hann setjast sér til hægri handar í himinhæðum, 21ofar hverri tign og valdi og mætti, ofar öllum herradómi og sérhverju nafni, sem nefnt er, ekki aðeins í þessari veröld, heldur og í hinni komandi. 22Allt hefur hann lagt undir fætur honum og gefið hann kirkjunni sem höfuðið yfir öllu. 23En kirkjan er líkami hans og fyllist af honum, sem sjálfur fyllir allt í öllu.
Hólpnir af náð2
1Þér voruð eitt sinn dauðir vegna afbrota yðar og synda, 2sem þér lifðuð í samkvæmt aldarhætti þessa heims, að vilja valdhafans í loftinu, anda þess, sem nú starfar í þeim, sem ekki trúa. 3Vér lifðum fyrrum allir eins og þeir í mannlegum girndum vorum. Þá lutum vér vilja holdsins og hugsana vorra og vorum að eðli til reiðinnar börn alveg eins og hinir.4En Guð er auðugur að miskunn. Af mikilli elsku sinni, sem hann gaf oss, 5hefur hann endurlífgað oss með Kristi, þegar vér vorum dauðir vegna misgjörða vorra. Af náð eruð þér hólpnir orðnir. 6Guð hefur uppvakið oss í Kristi Jesú og búið oss stað í himinhæðum með honum. 7Þannig vildi hann á komandi öldum sýna hinn yfirgnæfandi ríkdóm náðar sinnar með gæsku sinni við oss í Kristi Jesú. 8Því að af náð eruð þér hólpnir orðnir fyrir trú. Þetta er ekki yður að þakka. Það er Guðs gjöf. 9Ekki byggt á verkum, enginn skal geta miklast af því. 10Vér erum smíð Guðs, skapaðir í Kristi Jesú til góðra verka, sem hann hefur áður fyrirbúið, til þess að vér skyldum leggja stund á þau.
Eitt í Kristi11Þér skuluð því minnast þessa: Þér voruð forðum fæddir heiðingjar og kallaðir óumskornir af mönnum, sem kalla sig umskorna og eru umskornir á holdi með höndum manna. 12Sú var tíðin, er þér voruð án Krists, lokaðir úti frá þegnrétti Ísraelsmanna. Þér stóðuð fyrir utan sáttmálana og fyrirheit Guðs, vonlausir og guðvana í heiminum. 13Nú þar á móti eruð þér, sem eitt sinn voruð fjarlægir, orðnir nálægir í Kristi, fyrir blóð hans. 14Því að hann er vor friður. Hann gjörði báða að einum og reif niður vegginn, sem skildi þá að, fjandskapinn milli þeirra. Með líkama sínum 15afmáði hann lögmálið með boðorðum þess og skipunum til þess að setja frið og skapa í sér einn nýjan mann úr báðum. 16Í einum líkama sætti hann þá báða við Guð á krossinum, þar sem hann deyddi fjandskapinn. 17Og hann kom og boðaði frið yður, sem fjarlægir voruð, og frið hinum, sem nálægir voru. 18Því að fyrir hann eigum vér hvorir tveggja aðgang til föðurins í einum anda.
19Þess vegna eruð þér ekki framar gestir og útlendingar, heldur eruð þér samþegnar hinna heilögu og heimamenn Guðs. 20Þér eruð bygging, sem hefur að grundvelli postulana og spámennina, en Krist Jesú sjálfan að hyrningarsteini. 21Í honum er öll byggingin samantengd og vex svo, að hún verður heilagt musteri í Drottni. 22Í honum verðið þér líka bústaður handa Guði fyrir anda hans.
Leyndardómur Krists opinber3
1Þess vegna er það, að ég, Páll, bandingi Krists Jesú vegna yðar, heiðinna manna, beygi kné mín. 2Víst hafið þér heyrt um þá ráðstöfun Guðs náðar, sem hann fól mér hjá yður: 3Að birta mér með opinberun leyndardóminn. Ég hef stuttlega skrifað um það áður. 4Þegar þér lesið það, getið þér skynjað, hvað ég veit um leyndardóm Krists. 5Hann var ekki birtur mannanna sonum fyrr á tímum. Nú hefur hann verið opinberaður heilögum postulum hans og spámönnum í andanum: 6Heiðingjarnir eru í Kristi Jesú fyrir fagnaðarerindið orðnir erfingjar með oss, einn líkami með oss, og eiga hlut í sama fyrirheiti og vér.7Ég varð þjónn þessa fagnaðarerindis, af því að Guð gaf mér gjöf náðar sinnar með krafti máttar síns. 8Mér, sem minnstur er allra heilagra, var veitt sú náð að boða heiðingjunum fagnaðarerindið um hinn órannsakanlega ríkdóm Krists 9og að upplýsa alla um það, hvernig Guð hefur ráðstafað þessum leyndardómi. Hann hefur frá eilífð verið hulinn í Guði, sem allt hefur skapað.
10Nú skyldi kirkjan látin kunngjöra tignunum og völdunum í himinhæðum, hve margháttuð speki Guðs er. 11Þetta er Guðs eilífa fyrirætlun, sem hann hefur framkvæmt í Kristi Jesú, Drottni vorum. 12Á honum byggist djörfung vor. Í trúnni á hann eigum vér öruggan aðgang að Guði. 13Fyrir því bið ég, að þér látið eigi hugfallast út af þrengingum mínum yðar vegna. Þær eru yður til vegsemdar.
Bæn um styrk og skilning14Þess vegna beygi ég kné mín fyrir föðurnum, 15sem hvert faðerni fær nafn af á himni og jörðu. 16Megi hann gefa yður af ríkdómi dýrðar sinnar að styrkjast fyrir anda sinn að krafti hið innra með yður, 17til þess að Kristur megi fyrir trúna búa í hjörtum yðar og þér verða rótfestir og grundvallaðir í kærleika. 18Þá fáið þér ásamt öllum heilögum skilið, hve kærleikur Krists er víður og langur, hár og djúpur, og komist að raun um hann, 19sem gnæfir yfir alla þekkingu, og náið að fyllast allri Guðs fyllingu.
20En honum, sem í oss verkar með krafti sínum og megnar að gjöra langt fram yfir allt það, sem vér biðjum eða skynjum, 21honum sé dýrð í kirkjunni og í Kristi Jesú um öll æviskeið, öld eftir öld. Amen.
Vaxtartakmark Krists fyllingar4
1Ég, bandinginn vegna Drottins, áminni yður þess vegna um að hegða yður svo sem samboðið er þeirri köllun, sem þér hafið hlotið. 2Verið í hvívetna lítillátir og hógværir. Verið þolinmóðir, langlyndir og umberið hver annan í kærleika. 3Kappkostið að varðveita einingu andans í bandi friðarins. 4Einn er líkaminn og einn andinn, eins og þér líka voruð kallaðir til einnar vonar. 5Einn er Drottinn, ein trú, ein skírn, 6einn Guð og faðir allra, sem er yfir öllum, með öllum og í öllum.7Sérhverjum af oss var náðin veitt eftir því, sem Kristur úthlutaði honum. 8Því segir ritningin: "Hann steig upp til hæða, hertók fanga og gaf mönnunum gjafir." (9En "steig upp", hvað merkir það annað en að hann hefur einnig stigið niður í djúp jarðarinnar? 10Sá, sem steig niður, er og sá, sem upp sté, upp yfir alla himna til þess að fylla allt.) 11Og frá honum er sú gjöf komin, að sumir eru postular, sumir spámenn, sumir trúboðar, sumir hirðar og kennarar. 12Þeir eiga að fullkomna hina heilögu og láta þeim þjónustu í té, líkama Krists til uppbyggingar, 13þangað til vér verðum allir einhuga í trúnni og þekkingunni á syni Guðs, verðum fullþroska og náum vaxtartakmarki Krists fyllingar. 14Vér eigum ekki að halda áfram að vera börn, sem hrekjast og berast fram og aftur af hverjum kenningarvindi, tæld af slægum mönnum með vélabrögðum villunnar. 15Vér eigum heldur að ástunda sannleikann í kærleika og vaxa í öllu upp til hans, sem er höfuðið, - Kristur. 16Hann tengir líkamann saman og heldur honum saman með því að láta sérhverja taug inna sína þjónustu af hendi, allt eftir þeim krafti, sem hann úthlutar hverri þeirra. Þannig lætur hann líkamann vaxa og byggjast upp í kærleika.
Nýtt líf17Þetta segi ég þá og vitna í nafni Drottins: Þér megið ekki framar hegða yður eins og heiðingjarnir hegða sér. Hugsun þeirra er allslaus, 18skilningur þeirra blindaður og þeir eru fjarlægir lífi Guðs vegna vanþekkingarinnar, sem þeir lifa í, og síns harða hjarta. 19Þeir eru tilfinningalausir og hafa ofurselt sig lostalífi, svo að þeir fremja alls konar siðleysi af græðgi.
20En svo hafið þér ekki lært að þekkja Krist. 21Því að ég veit, að þér hafið heyrt um hann og hafið verið um hann fræddir eins og sannleikurinn er í Jesú: 22Þér eigið að hætta hinni fyrri breytni og afklæðast hinum gamla manni, sem er spilltur af tælandi girndum, 23en endurnýjast í anda og hugsun og 24íklæðast hinum nýja manni, sem skapaður er eftir Guði í réttlæti og heilagleika sannleikans.
25Leggið nú af lygina og talið sannleika hver við sinn náunga, því að vér erum hver annars limir. 26Ef þér reiðist, þá syndgið ekki. Sólin má ekki setjast yfir reiði yðar. 27Gefið djöflinum ekkert færi. 28Hinn stelvísi hætti að stela, en leggi hart að sér og gjöri það sem gagnlegt er með höndum sínum, svo að hann hafi eitthvað að miðla þeim, sem þurfandi er. 29Látið ekkert skaðlegt orð líða yður af munni, heldur það eitt, sem er gott til uppbyggingar, þar sem þörf gjörist, til þess að það verði til góðs þeim, sem heyra. 30Hryggið ekki Guðs heilaga anda, sem þér eruð innsiglaðir með til endurlausnardagsins. 31Látið hvers konar beiskju, ofsa, reiði, hávaða og lastmæli vera fjarlægt yður og alla mannvonsku yfirleitt. 32Verið góðviljaðir hver við annan, miskunnsamir, fúsir til að fyrirgefa hver öðrum, eins og Guð hefur í Kristi fyrirgefið yður.
Börn ljóssins5
1Verðið því eftirbreytendur Guðs, svo sem elskuð börn hans. 2Lifið í kærleika, eins og Kristur elskaði oss og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir oss svo sem fórnargjöf, Guði til þægilegs ilms.3En frillulífi og óhreinleiki yfirleitt eða ágirnd á ekki einu sinni að nefnast á nafn meðal yðar. Svo hæfir heilögum. 4Ekki heldur svívirðilegt hjal eða ósæmandi spé. Þess í stað komi miklu fremur þakkargjörð. 5Því að það skuluð þér vita og festa yður í minni, að enginn frillulífismaður eða saurugur eða ágjarn, - sem er sama og að dýrka hjáguði -, á sér arfsvon í ríki Krists og Guðs.
6Enginn tæli yður með marklausum orðum, því að vegna þessa kemur reiði Guðs yfir þá, sem hlýða honum ekki. 7Verðið þess vegna ekki lagsmenn þeirra. 8Eitt sinn voruð þér myrkur, en nú eruð þér ljós í Drottni. Hegðið yður eins og börn ljóssins. - 9Því að ávöxtur ljóssins er einskær góðvild, réttlæti og sannleikur. - 10Metið rétt, hvað Drottni þóknast. 11Eigið engan hlut í verkum myrkursins, sem ekkert gott hlýst af, heldur flettið miklu fremur ofan af þeim. 12Því að það, sem slíkir menn fremja í leyndum, er jafnvel svívirðilegt um að tala. 13En allt það, sem ljósið flettir ofan af, verður augljóst. Því að allt, sem er augljóst, er ljós.
14Því segir svo:
- Vakna þú, sem sefur,
- og rís upp frá dauðum,
- og þá mun Kristur lýsa þér.
15Hafið því nákvæma gát á, hvernig þér breytið, ekki sem fávísir, heldur sem vísir. 16Notið hverja stund, því að dagarnir eru vondir. 17Verið því ekki óskynsamir, heldur reynið að skilja, hver sé vilji Drottins. 18Drekkið yður ekki drukkna af víni, það leiðir aðeins til spillingar. Fyllist heldur andanum, 19og ávarpið hver annan með sálmum, lofsöngum og andlegum ljóðum. Syngið og leikið fyrir Drottin í hjörtum yðar, 20og þakkið jafnan Guði, föðurnum, fyrir alla hluti í nafni Drottins vors Jesú Krists.
Skyldur hjóna21Verið hver öðrum undirgefnir í ótta Krists: 22Konurnar eiginmönnum sínum eins og það væri Drottinn. 23Því að maðurinn er höfuð konunnar, eins og Kristur er höfuð kirkjunnar, hann er frelsari líkama síns. 24En eins og kirkjan er undirgefin Kristi, þannig séu og konurnar mönnum sínum undirgefnar í öllu.
25Þér menn, elskið konur yðar eins og Kristur elskaði kirkjuna og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir hana, 26til þess að helga hana og hreinsa í laug vatnsins með orði. 27Hann vildi leiða hana fram fyrir sig í dýrð án þess hún hefði blett eða hrukku né neitt þess háttar. Heilög skyldi hún og lýtalaus. 28Þannig skulu eiginmennirnir elska konur sínar eins og eigin líkami. Sá, sem elskar konu sína, elskar sjálfan sig. 29Enginn hefur nokkru sinni hatað eigið hold, heldur elur hann það og annast, eins og Kristur kirkjuna, 30því vér erum limir á líkama hans.
31"Þess vegna skal maður yfirgefa föður og móður og búa við eiginkonu sína, og munu þau tvö verða einn maður." 32Þetta er mikill leyndardómur. Ég hef í huga Krist og kirkjuna. 33En sem sagt, þér skuluð hver og einn elska eiginkonu sína eins og sjálfan sig, en konan beri lotningu fyrir manni sínum.
Foreldrar og börn6
1Þér börn, hlýðið foreldrum yðar vegna Drottins, því að það er rétt.2"Heiðra föður þinn og móður," - það er hið fyrsta boðorð með fyrirheiti: 3"til þess að þér vegni vel og þú verðir langlífur á jörðinni."
4Og þér feður, reitið ekki börn yðar til reiði, heldur alið þau upp með aga og umvöndun Drottins.
Þrælar og herrar5Þér þrælar, hlýðið yðar jarðnesku herrum með lotningu og ótta, í einlægni hjartans, eins og það væri Kristur. 6Ekki með augnaþjónustu, eins og þeir er mönnum vilja þóknast, heldur eins og þjónar Krists, er gjöra vilja Guðs af heilum huga. 7Veitið þjónustu yðar af fúsu geði, eins og Drottinn ætti í hlut og ekki menn. 8Þér vitið og sjálfir, að sérhver mun fá aftur af Drottni það góða, sem hann gjörir, hvort sem hann er þræll eða frjáls maður.
9Og þér, sem eigið þræla, breytið eins við þá. Hættið að ógna þeim. Þér vitið, að þeir eiga í himnunum sama Drottin og þér og hjá honum er ekkert manngreinarálit.
Alvæpni Guðs10Að lokum: Styrkist nú í Drottni og í krafti máttar hans. 11Klæðist alvæpni Guðs, til þess að þér getið staðist vélabrögð djöfulsins. 12Því að baráttan, sem vér eigum í, er ekki við menn af holdi og blóði, heldur við tignirnar og völdin, við heimsdrottna þessa myrkurs, við andaverur vonskunnar í himingeimnum. 13Takið því alvæpni Guðs, til þess að þér getið veitt mótstöðu á hinum vonda degi og haldið velli, þegar þér hafið sigrað allt.
14Standið því gyrtir sannleika um lendar yðar og klæddir brynju réttlætisins 15og skóaðir á fótunum með fúsleik til að flytja fagnaðarboðskap friðarins. 16Takið umfram allt skjöld trúarinnar, sem þér getið slökkt með öll hin eldlegu skeyti hins vonda. 17Takið við hjálmi hjálpræðisins og sverði andans, sem er Guðs orð. 18Gjörið það með bæn og beiðni og biðjið á hverri tíð í anda. Verið því árvakrir og staðfastir í bæn fyrir öllum heilögum. 19Biðjið fyrir mér, að mér verði gefin orð að mæla, þá er ég lýk upp munni mínum, til þess að ég kunngjöri með djörfung leyndardóm fagnaðarerindisins. 20Þess boðberi er ég í fjötrum mínum. Biðjið, að ég geti flutt það með djörfung, eins og mér ber að tala.
Lokaorð21En til þess að þér fáið einnig að vita um hagi mína, hvernig mér líður, þá mun Týkíkus, minn elskaði bróðir og trúi aðstoðarmaður í þjónustu Drottins, skýra yður frá öllu. 22Ég sendi hann til yðar einkum í því skyni, að þér fáið að vita, hvernig oss líður, og til þess að hann uppörvi yður.
23Friður sé með bræðrunum og kærleikur, samfara trú frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. 24Náð sé með öllum þeim, sem elska Drottin vorn Jesú Krist með ódauðlegum kærleik.
Netútgáfan og Hið Íslenska Biblíufélag - ágúst 1997