DÓMARABÓKIN

Inngangur


Frásagnir af töku landsins

1
1Eftir andlát Jósúa spurðu Ísraelsmenn Drottin og sögðu: "Hver af oss skal fyrstur fara í móti Kanaanítum til þess að berjast við þá?"

2Drottinn sagði: "Júda skal fara í móti þeim, sjá, ég gef landið í hendur honum."

3Júda sagði við Símeon, bróður sinn: "Far þú með mér inn í minn hluta, svo að við báðir megum berjast við Kanaanítana. Þá skal ég líka fara með þér inn í þinn hluta." Fór þá Símeon með honum. 4Og Júda fór, og Drottinn gaf Kanaaníta og Peresíta í hendur þeirra, og lögðu þeir þá að velli í Besek, - tíu þúsundir manna.

5Þeir fundu Adóní Besek í Besek og börðust við hann og unnu sigur á Kanaanítum og Peresítum. 6En Adóní Besek flýði og veittu þeir honum eftirför, tóku hann höndum og hjuggu af honum þumalfingurna og stórutærnar. 7Þá mælti Adóní Besek: "Sjötíu konungar, sem höggnir voru af þumalfingur og stórutær, urðu að tína upp mola undir borði mínu. Eins og ég hefi gjört, svo geldur Guð mér." Síðan fóru þeir með hann til Jerúsalem og þar dó hann.

8Júda synir herjuðu á Jerúsalem og unnu hana, felldu íbúana með sverðseggjum og lögðu síðan eld í borgina. 9Eftir það héldu Júda synir ofan þaðan til þess að berjast við Kanaaníta, þá er bjuggu á fjöllunum, í Suðurlandinu og á láglendinu.

10Júda fór móti Kanaanítunum, sem bjuggu í Hebron, en Hebron hét áður Kirjat Arba. Og þeir unnu sigur á Sesaí, Ahíman og Talmaí. 11Þaðan fóru þeir móti Debír-búum, en Debír hét áður Kirjat Sefer.

12Kaleb sagði: "Hver sem leggur Kirjat Sefer undir sig og vinnur hana, honum skal ég gefa Aksa dóttur mína að konu." 13Otníel Kenasson, bróðir Kalebs og honum yngri, vann þá borgina, og hann gaf honum Aksa dóttur sína að konu. 14Þegar hún skyldi heim fara með bónda sínum, eggjaði hún hann þess, að hann skyldi beiðast lands nokkurs af föður hennar. Steig hún þá niður af asnanum. Kaleb spurði hana þá: "Hvað viltu?" 15Hún svaraði honum: "Gef mér gjöf nokkra, af því að þú hefir gefið mig til Suðurlandsins. Gef mér því vatnsbrunna." Gaf hann henni þá brunna hið efra og brunna hið neðra.

16Synir Kenítans, tengdaföður Móse, höfðu farið úr pálmaborginni með sonum Júda upp í Júdaeyðimörk, sem liggur fyrir sunnan Arad, og þeir fóru og settust að meðal lýðsins. 17En Júda fór með Símeon bróður sínum, og þeir unnu sigur á Kanaanítunum, sem bjuggu í Sefat, og helguðu hana banni. Fyrir því var borgin nefnd Horma.

18Júda vann Gasa og land það, er undir hana lá, og Askalon og land það, er undir hana lá, og Ekron og land það, er undir hana lá. 19Og Drottinn var með Júda, svo að þeir náðu undir sig fjalllendinu, en þá, sem bjuggu á sléttlendinu, fengu þeir eigi rekið burt, því að þeir höfðu járnvagna.

20Þeir gáfu Kaleb Hebron, eins og Móse hafði boðið, og þeir ráku þaðan þá Anaks sonu þrjá. 21En Jebúsítana, sem bjuggu í Jerúsalem, gátu Benjamíns synir ekki rekið burt. Fyrir því hafa Jebúsítar búið í Jerúsalem ásamt Benjamíns sonum fram á þennan dag.

22Ættmenn Jósefs fóru líka upp til Betel, og Drottinn var með þeim. 23Og ættmenn Jósefs létu njósna í Betel, en borgin hét áður Lúz. 24Þá sáu njósnarmennirnir mann koma út úr borginni og sögðu við hann: "Sýn oss, hvar komast má inn í borgina, og munum vér sýna þér miskunn." 25Og hann sýndi þeim, hvar komast mætti inn í borgina, og þeir tóku borgina herskildi, en manninum og öllu fólki hans leyfðu þeir brottgöngu. 26Maðurinn fór til lands Hetíta og reisti þar borg og nefndi hana Lúz. Heitir hún svo enn í dag.

27Manasse rak eigi burt íbúana í Bet Sean og smáborgunum, er að lágu, í Taanak og smáborgunum, er að lágu, íbúana í Dór og smáborgunum, er að lágu, íbúana í Jibleam og smáborgunum, er að lágu, né íbúana í Megiddó og smáborgunum, er að lágu; og þannig fengu Kanaanítar haldið bústað í landi þessu. 28En er Ísrael efldist, gjörði hann Kanaaníta sér vinnuskylda, en rak þá ekki algjörlega burt.

29Efraím rak eigi burt Kanaanítana, sem bjuggu í Geser; þannig héldu Kanaanítar áfram að búa í Geser meðal þeirra.

30Sebúlon rak eigi burt íbúana í Kitrón né íbúana í Nahalól; þannig héldu Kanaanítar áfram að búa meðal þeirra og urðu þeim vinnuskyldir.

31Asser rak eigi burt íbúana í Akkó né íbúana í Sídon, eigi heldur í Ahlab, Aksíd, Helba, Afík og Rehób. 32Fyrir því bjuggu Asserítar meðal Kanaaníta, er fyrir voru í landinu, því að þeir ráku þá eigi burt.

33Naftalí rak eigi burt íbúana í Bet Semes né íbúana í Bet Anat; fyrir því bjó hann meðal Kanaaníta, er fyrir voru í landinu, en íbúarnir í Bet Semes og Bet Anat urðu þeim vinnuskyldir.

34Amorítar þrengdu Dans sonum upp í fjöllin og liðu þeim ekki að koma niður á sléttlendið. 35Þannig fengu Amorítar haldið bústað í Har Heres, í Ajalon og Saalbím, en með því að ætt Jósefs var þeim yfirsterkari, urðu þeir vinnuskyldir.

36Landamæri Amoríta lágu frá Sporðdrekaskarði, frá klettinum og þar upp eftir.


Engill Drottins

2
1Engill Drottins kom frá Gilgal til Bókím og mælti: "Ég leiddi yður út af Egyptalandi og færði yður í það land, sem ég sór feðrum yðar, og ég sagði: ,Ég mun aldrei rjúfa sáttmála minn við yður, 2en þér megið ekki gjöra sáttmála við íbúa þessa lands, heldur skuluð þér rífa niður ölturu þeirra.' En þér hafið ekki hlýtt raustu minni. Hví hafið þér gjört þetta? 3Fyrir því segi ég einnig: ,Ég mun ekki stökkva þeim burt undan yður, og þeir munu verða broddar í síðum yðar og guðir þeirra verða yður að tálsnöru.'"

4Er engill Drottins hafði mælt þessum orðum til allra Ísraelsmanna, þá hóf lýðurinn upp raust sína og grét. 5Og þeir nefndu stað þennan Bókím, og færðu þar Drottni fórn.


Ísraelsmenn unnu ekki allt Kanaanland

6Síðan lét Jósúa fólkið frá sér fara, og héldu þá Ísraelsmenn hver til síns óðals til þess að taka landið til eignar. 7Og lýðurinn þjónaði Drottni meðan Jósúa var á lífi og meðan öldungar þeir, sem lifðu Jósúa, voru á lífi, þeir er séð höfðu öll hin miklu verk Drottins, er hann gjörði fyrir Ísrael. 8Þá andaðist Jósúa Núnsson, þjónn Drottins, hundrað og tíu ára gamall. 9Og hann var grafinn í eignarlandi sínu, hjá Timnat Heres á Efraímfjöllum, fyrir norðan Gaasfjall. 10En er öll sú kynslóð hafði líka safnast til feðra sinna, reis upp önnur kynslóð eftir hana, er eigi þekkti Drottin né þau verk, er hann hafði gjört fyrir Ísrael.

11Þá gjörðu Ísraelsmenn það, sem illt var í augum Drottins, og þjónuðu Baölum, 12og yfirgáfu Drottin, Guð feðra sinna, er leitt hafði þá af Egyptalandi, og eltu aðra guði, af guðum þjóða þeirra, er bjuggu umhverfis þá, og féllu fram fyrir þeim og egndu Drottin til reiði. 13Og þeir yfirgáfu Drottin og þjónuðu Baal og Astörtum.

14Þá upptendraðist reiði Drottins gegn Ísrael, og hann gaf þá á vald ránsmönnum og þeir rændu þá, og hann seldi þá í hendur óvinum þeirra allt í kringum þá, svo að þeir fengu eigi framar staðist fyrir óvinum sínum. 15Hvert sem þeir fóru, var hönd Drottins í móti þeim til óhamingju, eins og Drottinn hafði sagt og eins og Drottinn hafði svarið þeim. Komust þeir þá í miklar nauðir.

16En Drottinn vakti upp dómara, og þeir frelsuðu þá úr höndum þeirra, er þá rændu. 17En þeir hlýddu ekki heldur dómurum sínum, heldur tóku fram hjá með öðrum guðum og féllu fram fyrir þeim. Þeir viku brátt af vegi feðra sinna, sem hlýddu boðum Drottins; þeir breyttu ekki svo.

18Þegar Drottinn vakti þeim upp dómara, þá var Drottinn með dómaranum og frelsaði þá úr höndum óvina þeirra á meðan dómarinn var á lífi, því að Drottinn kenndi í brjósti um þá, er þeir kveinuðu undan kúgurum sínum og kvölurum. 19En er dómarinn andaðist, breyttu þeir að nýju verr en feður þeirra, með því að elta aðra guði til þess að þjóna þeim og falla fram fyrir þeim. Þeir létu eigi af gjörðum sínum né þrjóskubreytni sinni.

20Þá upptendraðist reiði Drottins gegn Ísrael og hann sagði: "Af því að þetta fólk hefir rofið sáttmála minn, þann er ég lagði fyrir feður þeirra, og ekki hlýtt minni raustu, 21þá mun ég ekki heldur framar stökkva burt undan þeim nokkrum manni af þjóðum þeim, sem Jósúa skildi eftir, er hann andaðist. 22Ég vil reyna Ísrael með þeim, hvort þeir varðveita veg Drottins og ganga hann, eins og feður þeirra gjörðu, eða ekki."

23Þannig lét Drottinn þjóðir þessar vera kyrrar án þess að reka þær burt bráðlega, og hann gaf þær eigi í hendur Jósúa.


3
1Þessar þjóðir lét Drottinn vera kyrrar til þess að reyna Ísrael með þeim, alla þá, er ekkert höfðu haft að segja af öllum bardögunum um Kanaan. 2Þetta gjörði hann einungis til þess, að hinar komandi kynslóðir Ísraelsmanna mættu kynnast hernaði, sem eigi höfðu kynnst slíku áður.

3Þessar eru þjóðirnar: Fimm höfðingjar Filistanna, allir Kanaanítar, Sídoningar og Hevítar, sem bjuggu á Líbanonfjöllum, frá fjallinu Baal Hermon allt þangað, er leið liggur til Hamat. 4Voru þeir eftir til þess að reyna Ísrael með þeim, svo að augljóst yrði, hvort þeir vildu hlýða boðorðum Drottins, er hann hafði sett feðrum þeirra fyrir meðalgöngu Móse.

5Þannig bjuggu Ísraelsmenn mitt á meðal Kanaaníta, Hetíta, Amoríta, Peresíta, Hevíta og Jebúsíta. 6Gengu þeir að eiga dætur þeirra og giftu sonum þeirra dætur sínar, og þjónuðu guðum þeirra.



Sögur af dómurum


Otníel

7Ísraelsmenn gjörðu það, sem illt var í augum Drottins, og gleymdu Drottni, Guði sínum, og þjónuðu Baölum og asérum. 8Upptendraðist þá reiði Drottins gegn Ísrael, svo að hann seldi þá í hendur Kúsan Rísjataím, konungi í Aram í Norður-Mesópótamíu, og Ísraelsmenn þjónuðu Kúsan Rísjataím í átta ár. 9Þá hrópuðu Ísraelsmenn til Drottins, og Drottinn vakti Ísraelsmönnum upp hjálparmann, er hjálpaði þeim, Otníel Kenasson, bróður Kalebs og honum yngri. 10Andi Drottins kom yfir hann, svo að hann rétti hluta Ísraels. Fór hann í hernað, og Drottinn gaf Kúsan Rísjataím, konung í Aram, í hendur honum, og hann varð Kúsan Rísjataím yfirsterkari. 11Var síðan friður í landi í fjörutíu ár. Þá andaðist Otníel Kenasson.


Ehúð

12Ísraelsmenn gjörðu enn af nýju það, sem illt var í augum Drottins. Þá efldi Drottinn Eglón, konung í Móab, móti Ísrael, af því að þeir gjörðu það, sem illt var í augum Drottins. 13Hann safnaði að sér Ammónítum og Amalekítum, fór því næst og vann sigur á Ísrael, og þeir náðu pálmaborginni á sitt vald.

14Ísraelsmenn þjónuðu Eglón, konungi í Móab, í átján ár. 15Þá hrópuðu Ísraelsmenn til Drottins, og Drottinn vakti þeim upp hjálparmann, Ehúð, son Gera Benjamíníta, en hann var maður örvhentur. Ísraelsmenn sendu hann með skatt á fund Eglóns, konungs í Móab.

16Ehúð hafði smíðað sér sax tvíeggjað, spannarlangt. Hann gyrti sig því undir klæðum á hægri hlið. 17Og hann færði Eglón, konungi í Móab, skattinn, en Eglón var maður digur mjög.

18Er hann hafði borið fram skattinn, lét hann mennina fara, er borið höfðu skattinn. 19En sjálfur sneri hann aftur hjá skurðmyndunum í Gilgal.

Ehúð sagði við konung: "Leyndarmál hefi ég að segja þér, konungur."

Konungur sagði: "Þei!" og allir þeir gengu út, er kringum hann stóðu.

20Þá gekk Ehúð til hans, þar sem hann sat aleinn í hinum svala þaksal sínum, og mælti: "Ég hefi erindi frá Guði við þig." Stóð konungur þá upp úr sæti sínu. 21En Ehúð greip til vinstri hendinni og þreif sverðið á hægri hlið sér og lagði því í kvið honum. 22Gekk blaðið á kaf og upp yfir hjöltu, svo að fal blaðið í ístrunni, því að eigi dró hann saxið úr kviði honum. Gekk hann þá út á þakið.

23Síðan gekk Ehúð út í gegnum forsalinn og lukti dyrunum á þaksalnum á eftir sér og skaut loku fyrir. 24En er hann var út genginn, komu þjónar konungs og sáu þeir að dyrnar á þaksalnum voru lokaðar og sögðu: "Hann hefir víst sest niður erinda sinna inni í svala herberginu." 25Biðu þeir nú, þar til er þeim leiddist biðin. Og er hann enn ekki lauk upp dyrunum á þaksalnum, þá tóku þeir lykilinn og luku upp, og lá þá herra þeirra dauður á gólfinu.

26Ehúð hafði komist undan meðan þeir hinkruðu við. Hann var kominn út að skurðmyndunum og komst undan til Seíra. 27Og er hann var þangað kominn, lét hann þeyta lúður á Efraímfjöllum. Fóru Ísraelsmenn þá með honum ofan af fjöllunum, en hann var fyrir þeim. 28Og hann sagði við þá: "Fylgið mér, því að Drottinn hefir gefið óvini yðar, Móabítana, í hendur yður." Fóru þeir þá ofan á eftir honum og náðu öllum vöðum á Jórdan yfir til Móab og létu engan komast þar yfir. 29Og þá felldu þeir af Móabítum um tíu þúsundir manna, og voru það allt sterkir menn og hraustir. Enginn komst undan. 30Þannig urðu Móabítar á þeim degi að beygja sig undir vald Ísraels. Var nú friður í landi um áttatíu ár.


Samgar

31Eftir Ehúð kom Samgar Anatsson. Hann felldi af Filistum sex hundruð manna með staf, er menn reka með naut. Þannig frelsaði hann einnig Ísrael.


Debóra og Barak fara gegn Sísera

4
1Þegar Ehúð var dáinn, gjörðu Ísraelsmenn enn að nýju það, sem illt var í augum Drottins. 2Og Drottinn seldi þá í hendur Jabín, Kanaans konungi, sem hafði aðsetur í Hasór. Hershöfðingi hans hét Sísera og bjó hann í Haróset Hagojím. 3Og Ísraelsmenn hrópuðu til Drottins, því að hann átti níu hundruð járnvagna og hafði kúgað Ísraelsmenn harðlega í tuttugu ár.

4Kona hét Debóra. Hún var spákona og eiginkona manns þess, er Lapídót hét. Hún var dómari í Ísrael um þessar mundir. 5Hún sat undir Debórupálma milli Rama og Betel á Efraímfjöllum, og Ísraelsmenn fóru þangað upp til hennar, að hún legði dóm á mál þeirra.

6Hún sendi boð og lét kalla til sín Barak Abínóamsson frá Kedes í Naftalí og sagði við hann: "Sannlega hefir Drottinn, Ísraels Guð, boðið svo: ,Far þú og hald til Taborfjalls og haf með þér tíu þúsundir manna af Naftalí sonum og Sebúlons sonum. 7Og ég mun leiða Sísera, hershöfðingja Jabíns, með vögnum hans og liði til þín að Kísonlæk, og ég mun gefa hann í hendur þínar.'"

8Barak sagði við hana: "Fara mun ég, ef þú fer með mér, en viljir þú eigi fara með mér, mun ég hvergi fara."

9Hún svaraði: "Víst mun ég með þér fara. En enga frægð munt þú hafa af för þessari, sem þú fer, því að Drottinn mun selja Sísera í konu hendur."

Síðan tók Debóra sig upp og fór með Barak til Kedes. 10Þá kallaði Barak saman Sebúlon og Naftalí í Kedes, og tíu þúsundir manna fóru með honum, og Debóra var í för með honum.

11Heber Keníti hafði skilist við Kain, við niðja Hóbabs, tengdaföður Móse, og sló hann tjöldum sínum allt að eikinni hjá Saanaím, sem er hjá Kedes.

12Nú var Sísera sagt frá því, að Barak Abínóamsson væri farinn upp á Taborfjall. 13Dró Sísera þá saman alla vagna sína, níu hundruð járnvagna, og allt það lið, er með honum var, frá Haróset Hagojím til Kísonlækjar.

14Þá sagði Debóra við Barak: "Rís þú nú upp, því að nú er sá dagur kominn, er Drottinn mun selja Sísera í þínar hendur. Sannlega er Drottinn farinn á undan þér." Fór Barak þá ofan af Taborfjalli, og tíu þúsundir manna fylgdu honum. 15Og Drottinn gjörði Sísera felmtsfullan og alla vagna hans og allan hans her með sverðseggjum frammi fyrir Barak, svo að Sísera hljóp af vagni sínum og flýði undan á fæti. 16En Barak elti vagnana og herinn allt til Haróset Hagojím, og allur her Sísera féll fyrir sverðseggjum. Enginn komst undan.

17Sísera flýði á fæti til tjalds Jaelar, konu Hebers Keníta, því að friður var milli Jabíns, konungs í Hasór, og húss Hebers Keníta. 18Þá gekk Jael út í móti Sísera og sagði við hann: "Gakk inn, herra minn, gakk inn til mín, vertu óhræddur." Og hann gekk inn til hennar í tjaldið, og hún lagði ábreiðu yfir hann.

19Þá sagði hann við hana: "Gef mér vatnssopa að drekka, því að ég er þyrstur." Hún leysti þá frá mjólkurbelg og gaf honum að drekka, og breiddi síðan ofan á hann aftur. 20Þá sagði hann við hana: "Stattu í tjalddyrunum, og ef einhver kemur og spyr þig og segir: ,Er nokkur hér?' þá seg þú: ,Nei.'"

21Jael, kona Hebers, þreif tjaldhæl og tók hamar í hönd sér og gekk hljóðlega inn til hans og rak hælinn gegn um þunnvangann, svo að hann gekk í jörð niður, en Sísera var sofnaður fastasvefni, því að hann var þreyttur. Varð þetta hans bani.

22Í sama bili kom Barak og var að elta Sísera. Jael gekk þá út í móti honum og sagði við hann: "Kom þú hingað, og mun ég sýna þér þann mann, sem þú leitar að." Og hann gekk inn til hennar, og lá þá Sísera þar dauður með hælinn gegnum þunnvangann.

23Þannig lægði Guð á þeim degi Jabín, Kanaans konung, fyrir Ísraelsmönnum. 24Og hönd Ísraelsmanna lagðist æ þyngra og þyngra á Jabín, Kanaans konung, uns þeir að lokum gjörðu út af við hann.


Lofsöngur Debóru

5
1Þá sungu þau Debóra og Barak Abínóamsson á þessa leið:

2 Foringjar veittu forystu í Ísrael,
og fólkið kom sjálfviljuglega,
lofið því Drottin!
3 Heyrið, þér konungar, hlustið á, þér höfðingjar!
Drottin vil ég vegsama,
ég vil lofa hann,
lofsyngja Drottni, Ísraels Guði.
4 Drottinn, þegar þú braust út frá Seír,
þegar þú brunaðir fram frá Edómvöllum,
þá nötraði jörðin og himnarnir drupu,
já, skýin létu vatn niður streyma.
5 Fjöllin skulfu fyrir Drottni,
sjálft Sínaí fyrir Drottni, Ísraels Guði.

6 Á dögum Samgars Anatssonar,
á dögum Jaelar, voru þjóðbrautir mannlausar,
og vegfarendur fóru krókóttar leiðir.
7 Fyrirliða vantaði í Ísrael,
uns þú komst fram, Debóra,
uns þú komst fram, móðir í Ísrael!
8 Menn kusu sér nýja guði.
Þá var barist við borgarhliðin.
Skjöldur sást ei né spjót
meðal fjörutíu þúsunda í Ísrael.

9 Hjarta mitt heyrir leiðtogum Ísraels,
þeim er komu sjálfviljuglega fram meðal fólksins.
Lofið Drottin!

10 Þér, sem ríðið bleikrauðum ösnum,
þér, sem hvílið á ábreiðum,
og þér, sem farið um veginn,
hugsið um það.
11 Fjarri hávaða bogmannanna,
meðal vatnsþrónna,
þar víðfrægja menn réttlætisverk Drottins,
Þá fór lýður Drottins niður að borgarhliðunum.

12 Vakna þú, vakna þú, Debóra,
vakna þú, vakna þú, syng kvæði!
Rís þú upp, Barak,
og leið burt bandingja þína, Abínóams sonur!

13 Þá fóru ofan leifar göfugmennanna,
lýður Drottins steig ofan mér til hjálpar meðal hetjanna.
14 Frá Efraím fóru þeir ofan í dalinn,
á eftir þér, Benjamín, meðal liðsflokka þinna.
Frá Makír fóru ofan leiðtogar
og frá Sebúlon þeir, er báru liðstjórastafinn,
15 og fyrirliðarnir í Íssakar með Debóru,
og eins og Íssakar, svo og Barak.
Hann steypti sér á hæla honum ofan í dalinn.
Við Rúbens læki voru miklar ráðagerðir.

16 Hví sast þú milli fjárgirðinganna
og hlustaðir á pípublástur hjarðmannanna?
Við Rúbens læki voru miklar ráðagerðir.
17 Gíleað hélt kyrru fyrir hinumegin Jórdanar
og Dan, - hvers vegna dvaldi hann við skipin?
Asser sat kyrr við sjávarströndina
og hélt kyrru fyrir við víkur sínar.
18 Sebúlon er lýður, sem hætti lífi sínu í dauðann,
og Naftalí, á hæðum landsins.
19 Konungar komu og börðust,
þá börðust konungar Kanaans
við Taanak hjá Megiddóvötnum.
Silfur fengu þeir ekkert að herfangi.
20 Af himni börðust stjörnurnar,
af brautum sínum börðust þær við Sísera,
21 Kísonlækur skolaði þeim burt,
orustulækurinn, lækurinn Kíson.
Gakk fram, sál mín, öfluglega!
22Þá hlumdu hófar hestanna,
af reiðinni, reið kappanna.

23 "Bölvið Merós!" sagði engill Drottins,
já, bölvið íbúum hennar,
af því að þeir komu ekki Drottni til hjálpar,
Drottni til hjálpar meðal hetjanna.
24 Blessuð framar öllum konum veri Jael,
kona Hebers Keníta,
framar öllum konum í tjaldi veri hún blessuð!
25 Vatn bað hann um, mjólk gaf hún,
í skrautlegri skál rétti hún honum rjóma.
26 Hún rétti út hönd sína eftir hælnum,
hægri hönd sína eftir smíðahamrinum
og sló Sísera, mölvaði haus hans,
laust sundur þunnvanga hans og klauf inn úr.
27 Hann hné fyrir fætur henni,
féll út af og lá þar.
Hann hné fyrir fætur henni, féll út af,
þar sem hann hné niður, þar lá hann dauður.

28 Út um gluggann skimar og kallar
móðir Sísera, út um grindurnar:
"Hví seinkar vagni hans?
Hvað tefur ferð hervagna hans?"
29 Hinar vitrustu af hefðarfrúm hennar svara henni,
já, sjálf hefir hún upp fyrir sér orð þeirra:
30 "Efalaust hafa þeir fengið herfang og verið að skipta því,
eina ambátt, tvær ambáttir á mann,
litklæði handa Sísera að herfangi,
litklæði, glitofin, að herfangi,
litklæði, tvo glitofna dúka um háls mér!"

31 Svo farist allir óvinir þínir, Drottinn!
En þeir, sem hann elska, eru sem sólaruppkoman í ljóma sínum.

Var nú friður í landi í fjörutíu ár.


Inngangur að sögu Gídeons

6
1Ísraelsmenn gjörðu það, sem illt var í augum Drottins. Þá gaf Drottinn þá í hendur Midíans í sjö ár. 2Og Midían varð Ísrael yfirsterkari. Gjörðu Ísraelsmenn sér þá fylgsni á fjöllum uppi, hella og vígi fyrir Midían. 3Og þegar Ísrael sáði, komu Midíanítar, Amalekítar og austurbyggjar og fóru í móti honum. 4Og þeir settu herbúðir sínar gegn Ísraelsmönnum og eyddu gróðri landsins alla leið til Gasa og skildu enga lífsbjörg eftir í Ísrael, ekki heldur sauði, naut eða asna. 5Þeir fóru norður þangað með kvikfénað sinn og tjöld sín. Kom slíkur aragrúi af þeim, sem engisprettur væru. Varð engri tölu komið á þá né úlfalda þeirra, og brutust þeir inn í landið til að eyða það. 6Var Ísrael þá mjög þjakaður af völdum Midíans, og Ísraelsmenn hrópuðu til Drottins.

7Og er Ísraelsmenn hrópuðu til Drottins undan Midían, 8þá sendi Drottinn spámann til Ísraelsmanna, og hann sagði við þá: "Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: Ég leiddi yður út af Egyptalandi og færði yður út úr þrælahúsinu, 9og ég frelsaði yður úr höndum Egypta og úr höndum allra þeirra, er yður kúguðu, og ég stökkti þeim burt undan yður og gaf yður land þeirra. 10Og ég sagði við yður: ,Ég er Drottinn, Guð yðar. Þér skuluð ekki óttast guði Amorítanna, í hverra landi þér búið.' En þér hlýdduð ekki minni röddu."


Köllun Gídeons

11Þá kom engill Drottins og settist undir eikina í Ofra, er átti Jóas Abíesríti, en Gídeon sonur hans var að þreskja hveiti í vínþröng til þess að forða því undan Midían. 12Og engill Drottins birtist honum og sagði við hann: "Drottinn er með þér, hrausta hetja!"

13Þá sagði Gídeon við hann: "Æ, herra minn, ef Drottinn er með oss, hví hefir þá allt þetta oss að hendi borið? Og hvar eru öll dásemdarverk hans, þau er feður vorir hafa skýrt oss frá, segjandi: ,Já, Drottinn leiddi oss út af Egyptalandi!' En nú hefir Drottinn hafnað oss og gefið oss í hendur Midíans."

14Þá sneri Drottinn sér til hans og mælti: "Far af stað í þessum styrkleika þínum, og þú munt frelsa Ísrael úr höndum Midíans. Það er ég, sem sendi þig."

15Gídeon svaraði honum: "Æ, herra, hvernig á ég að frelsa Ísrael? Sjá, minn ættleggur er aumasti ættleggurinn í Manasse, og ég er lítilmótlegastur í minni ætt."

16Þá sagði Drottinn við hann: "Ég mun vera með þér, og þú munt sigra Midíaníta sem einn maður væri."

17Gídeon svaraði honum: "Hafi ég fundið náð í augum þínum, þá gjör mér tákn þess, að það sért þú, er við mig talar. 18Far ekki héðan burt, fyrr en ég kem aftur til þín og færi hingað út fórnargjöf mína og set hana fram fyrir þig."

Og Drottinn sagði: "Ég mun bíða hér, þar til er þú kemur aftur."

19Þá fór Gídeon og tilreiddi hafurkið og ósýrðar kökur úr einni efu mjöls. Lagði hann kjötið í körfu, en lét súpuna í krukku og kom með þetta út til hans undir eikina og bar það fram. 20En engill Guðs sagði við hann: "Tak þú kjötið og ósýrðu kökurnar og legg það á klett þennan og hell súpunni yfir." Hann gjörði svo. 21Engill Drottins rétti þá út staf þann, sem hann hafði í hendi, og snart kjötið og ósýrðu kökurnar með stafsendanum. Kom þá eldur upp úr klettinum og eyddi kjötinu og ósýrðu kökunum, en engill Drottins hvarf sjónum hans.

22Þá sá Gídeon, að það hafði verið engill Drottins. Og Gídeon sagði: "Vei, Drottinn Guð, því að ég hefi séð engil Drottins augliti til auglitis!"

23Og Drottinn sagði við hann: "Friður sé með þér. Óttast ekki, þú munt ekki deyja!"

24Gídeon reisti Drottni þar altari og nefndi það: Drottinn er friður. Stendur það enn í dag í Ofra Abíesrítanna.


Gídeon upprætir heiðna dýrkun

25Þessa sömu nótt sagði Drottinn við hann: "Tak uxa föður þíns og annan uxa, sjö vetra gamlan, og brjót Baalsaltari föður þíns og högg þú upp aséruna, sem hjá því er. 26Reis því næst Drottni, Guði þínum, vandað altari efst uppi á borg þessari, tak síðan annan uxann og ber fram brennifórn ásamt viðinum úr asérunni, er þú heggur upp."

27Þá tók Gídeon tíu menn af sveinum sínum og gjörði svo sem Drottinn hafði sagt honum. En með því að hann óttaðist, að hann mundi eigi geta gjört þetta að degi til fyrir ættmennum sínum og borgarmönnum, þá gjörði hann það um nótt.

28En er borgarmenn risu árla morguninn eftir, þá var Baalsaltarið brotið og höggin upp aséran, sem hjá því var, og öðrum uxanum hafði verið fórnað á nýreista altarinu. 29Þá sögðu þeir hver við annan: "Hver hefir gjört þetta?" Og þeir rannsökuðu og leituðu, og sögðu: "Gídeon Jóasson hefir gjört þetta." 30Þá sögðu borgarmenn við Jóas: "Sel fram son þinn, og skal hann deyja, því að hann hefir brotið Baalsaltarið og höggvið upp aséruna, sem hjá því var."

31En Jóas sagði við alla þá, sem hjá honum stóðu: "Ætlið þér að taka upp mál fyrir Baal, eða ætlið þér að fara að hjálpa honum? Hver sá, sem tekur upp mál fyrir hann, skal lífi týna áður næsti dagur rennur upp. Ef hann er Guð, þá sæki hann sjálfur mál sitt, úr því að altari hans hefir verið brotið."

32Upp frá þeirri stundu var Gídeon nefndur Jerúbbaal, af því að menn sögðu: "Baal sæki mál á hendur honum," fyrir því að hann braut altari hans.


Gídeon biður um tákn

33Nú höfðu allir Midíanítar, Amalekítar og austurbyggjar safnast saman. Fóru þeir yfir um Jórdan og settu herbúðir sínar á Jesreel-sléttu.

34En andi Drottins kom yfir Gídeon, og þeytti hann lúðurinn, og Abíesrítar söfnuðust saman til fylgdar við hann. 35Hann sendi og sendiboða út um allan Manasse; safnaðist hann og til fylgdar við hann. Hann sendi og sendiboða til Assers, Sebúlons og Naftalí; fóru þeir og til fylgdar við hann.

36Þá sagði Gídeon við Guð: "Ef þú ætlar að frelsa Ísrael fyrir mínar hendur, eins og þú hefir sagt, 37sjá, þá legg ég ullarreyfi út á láfann. Ef dögg er þá á reyfinu einu, en jörð öll er þurr, þá veit ég að þú munt frelsa Ísrael fyrir mínar hendur, eins og þú hefir sagt." 38Og það varð svo. Morguninn eftir reis hann árla og kreisti reyfið, og vatt hann þá dögg úr reyfinu, fulla skál af vatni. 39En Gídeon sagði við Guð: "Lát eigi reiði þína upptendrast gegn mér, þó að ég tali enn aðeins í þetta sinn. Ég ætla aðeins einu sinni enn að gjöra tilraun með reyfið. Skal nú reyfið eitt þurrt vera, en jörð öll vot af dögg." 40Og Guð gjörði svo á þeirri nóttu. Var reyfið eitt þurrt, en jörð var öll vot af dögg.


Herför Gídeons gegn Midíanítum

7
1Nú tók Jerúbbaal, það er Gídeon, sig árla upp og allt liðið, er með honum var, og settu þeir herbúðir sínar hjá Haródlind, en herbúðir Midíans voru fyrir norðan hann, hinumegin við Mórehæð þar á sléttunni.

2Drottinn sagði við Gídeon: "Liðið er of margt, sem með þér er, til þess að ég vilji gefa Midían í hendur þeirra, ella kynni Ísrael að hrokast upp gegn mér og segja: ,Mín eigin hönd hefir frelsað mig.' 3Kalla því nú í eyru fólksins og seg: Hver sá, sem hræddur er og hugdeigur, snúi við og fari aftur frá Gíleaðfjalli." Þá sneru aftur tuttugu og tvær þúsundir af liðinu, en tíu þúsundir urðu eftir.

4Þá sagði Drottinn við Gídeon: "Enn er liðið of margt. Leið þú þá ofan til vatnsins, og mun ég reyna þá þar fyrir þig. Sá sem ég þá segi um við þig: ,þessi skal með þér fara,' hann skal með þér fara, en hver sá, er ég segi um við þig: ,þessi skal ekki með þér fara,' hann skal ekki fara."

5Leiddi Gídeon þá liðið niður til vatnsins. Og Drottinn sagði við Gídeon: "Öllum þeim, sem lepja vatnið með tungu sinni, eins og hundar gjöra, skalt þú skipa sér, og sömuleiðis öllum þeim, sem krjúpa á kné til þess að drekka úr lófa sínum, er þeir færa upp að munni sér." 6En þeir, sem löptu vatnið, voru þrjú hundruð að tölu, en allt hitt liðið kraup á kné til þess að drekka vatnið.

7Þá sagði Drottinn við Gídeon: "Með þeim þrem hundruðum manna, sem lapið hafa, mun ég frelsa yður og gefa Midían í hendur yðar, en allt hitt liðið skal fara, hver heim til sín." 8Þá tóku þeir til sín veganesti liðsins og lúðra þeirra, en alla aðra Ísraelsmenn lét hann burt fara, hvern til síns heimkynnis, og hélt aðeins þrem hundruðum manna eftir. Og herbúðir Midíans voru fyrir neðan hann á sléttunni.

9Hina sömu nótt sagði Drottinn við Gídeon: "Rís þú upp og far ofan í herbúðirnar, því að ég hefi gefið þær í þínar hendur. 10En ef þú ert hræddur að fara ofan þangað, þá far þú með Púra, svein þinn, til herbúðanna, 11og hlustaðu á, hvað þeir segja. Mun þá hugur þinn styrkjast svo, að þú fer ofan í herbúðirnar." Þá fór hann og Púra sveinn hans til ystu hermannanna, sem voru í herbúðunum.

12Midíanítar, Amalekítar og allir austurbyggjar höfðu reist herbúðir á sléttunni, sem engisprettur að fjölda til, og úlfaldar þeirra voru óteljandi, sem sandur á sjávarströndu að fjölda til.

13Þegar Gídeon kom þangað, var maður nokkur að segja félaga sínum draum með þessum orðum: "Sjá, mig dreymdi draum, og þótti mér byggbrauðskaka velta sér að herbúðum Midíans, og komst hún alla leið að tjaldinu og rakst á það, svo að það féll, og kollvelti því, svo að tjaldið lá flatt."

14Þá svaraði hinn: "Þetta er ekkert annað en sverð Ísraelítans Gídeons Jóassonar. Guð hefir gefið Midían og allar herbúðirnar í hendur hans."

15Er Gídeon hafði heyrt frásöguna um drauminn og ráðningu hans, féll hann fram og tilbað. Sneri hann síðan aftur til herbúða Ísraels og sagði: "Rísið upp, því að Drottinn hefir gefið herbúðir Midíans í yðar hendur." 16Þá skipti hann þeim þrem hundruðum manna í þrjá flokka og fékk þeim öllum lúðra í hönd og tómar krúsir og blys í krúsunum. 17Og hann sagði við þá: "Lítið á mig og gjörið sem ég. Þegar ég kem að útjaðri herbúðanna, þá gjörið eins og ég gjöri. 18Þegar ég því þeyti lúðurinn og allir þeir, sem með mér eru, þá skuluð þér líka þeyta lúðrana kringum allar herbúðirnar og segja: ,Sverð Drottins og Gídeons!'"

19Gídeon og það hundrað manna, er með honum var, komu að útjaðri herbúðanna í byrjun miðvarðtíðarinnar. Var þá einmitt nýbúið að setja verðina. Þá þeyttu þeir lúðrana og brutu sundur krúsirnar, sem þeir báru í höndum sér. 20Þeyttu nú flokkarnir þrír lúðrana og brutu krúsirnar, tóku blysin í vinstri hönd sér og lúðrana í hægri hönd sér til þess að þeyta þá, og æptu: "Sverð Drottins og Gídeons!" 21Stóðu þeir kyrrir, hver á sínum stað, umhverfis herbúðirnar, en í herbúðunum komst allt í uppnám, og flýðu menn nú með ópi miklu. 22Og er þeir þeyttu þrjú hundruð lúðrana, þá beindi Drottinn sverðum þeirra gegn þeirra eigin mönnum um allar herbúðirnar, og flýði allur herinn til Bet Sitta, á leið til Serera, að árbakkanum við Abel Mehóla hjá Tabbat.

23Nú voru kallaðir saman Ísraelsmenn úr Naftalí, Asser og öllum Manasse, og þeir veittu Midían eftirför. 24Gídeon hafði og sent sendimenn um öll Efraímfjöll og látið segja: "Farið ofan í móti Midían og varnið þeim yfirferðar yfir árnar allt til Bet Bara og yfir Jórdan." Þá var öllum Efraímítum stefnt saman, og þeir vörnuðu þeim yfirferðar yfir árnar allt til Bet Bara og yfir Jórdan. 25Og þeir handtóku tvo höfðingja Midíaníta, þá Óreb og Seeb, og drápu Óreb hjá Órebskletti, en Seeb drápu þeir hjá Seebsvínþröng. Síðan veittu þeir Midíanítum eftirför. En höfuðin af Óreb og Seeb færðu þeir Gídeon hinumegin Jórdanar.


Efraímítar deila á Gídeon

8
1Efraímítar sögðu við Gídeon: "Hví gjörðir þú oss þetta, að kalla oss eigi? Heldur hefir þú farið einn til þess að berjast við Midíaníta." Og þeir þráttuðu ákaflega við hann.

2Þá sagði hann við þá: "Hvað hefi ég nú gjört í samanburði við yður? Er ekki eftirtíningur Efraíms betri en vínberjatekja Abíesers? 3Í yðar hendur hefir Guð gefið höfðingja Midíans, þá Óreb og Seeb. Hvað hefi ég megnað að gjöra í samanburði við yður?" Og er hann hafði þetta mælt, sefaðist reiði þeirra við hann.


Gídeon austan Jórdanar

4Gídeon kom nú að Jórdan og fór yfir hana með þau þrjú hundruð manna, er með honum voru, en þeir voru þreyttir orðnir að reka flóttann. 5Og hann sagði við Súkkótbúa: "Gefið liðinu, sem fylgir mér, brauðhleifa, því að þeir eru þreyttir orðnir, þar eð ég er að elta þá Seba og Salmúna, Midíans konunga."

6En höfðingjarnir í Súkkót sögðu: "Eru þeir Seba og Salmúna þegar gengnir þér svo í greipar, að vér megum gefa her þínum brauð?"

7Þá sagði Gídeon: "Sé það svo! Þegar Drottinn gefur Seba og Salmúna í mínar hendur, þá skal ég þreskja hold yðar með þyrnum eyðimerkurinnar og með þistlum."

8Þaðan fór hann til Penúel og mælti við þá á sömu leið. En Penúelbúar svöruðu honum hinu sama og Súkkótbúar höfðu svarað. 9Þá sagði hann og við Penúelbúa á þessa leið: "Þegar ég kem aftur heilu og höldnu, mun ég brjóta niður kastala þennan."

10Þeir Seba og Salmúna voru í Karkór og herlið þeirra með þeim, um fimmtán þúsundir manna, allir þeir, er eftir voru af öllum her austurbyggja, en eitt hundrað og tuttugu þúsundir vopnaðra manna voru fallnar. 11Fór Gídeon nú tjaldbúaleið fyrir austan Nóba og Jogbeha og réðst á herbúðirnar, þá er herinn uggði eigi að sér. 12Þeir Seba og Salmúna flýðu, en hann elti þá og tók höndum báða Midíanskonungana Seba og Salmúna, og tvístraði öllum hernum.

13Eftir það sneri Gídeon Jóasson aftur úr leiðangrinum hjá Heresstígnum. 14Og hann tók höndum svein nokkurn frá Súkkótbúum og kvaddi hann sagna, og sveinninn skrifaði upp fyrir hann höfðingjana í Súkkót og öldungana, sjötíu og sjö manns. 15Og er hann kom til Súkkótbúa, sagði hann: "Hér eru þú þeir Seba og Salmúna, er þér hædduð mig fyrir og sögðuð: ,Eru þeir Seba og Salmúna þegar gengnir svo í greipar þér, að vér megum gefa þreyttum mönnum þínum brauð?'" 16Og hann tók öldunga borgarinnar og þyrna eyðimerkurinnar og þistla og lét Súkkótbúa kenna á þeim. 17Og hann braut niður kastalann í Penúel og drap borgarbúa.

18Síðan sagði hann við Seba og Salmúna: "Hvernig voru þeir menn í hátt, er þið drápuð hjá Tabor?"

Þeir sögðu: "Þeir voru alveg eins og þú. Voru þeir allir slíkir ásýndum sem væru þeir konungssynir."

19Þá sagði hann: "Þeir hafa verið bræður mínir, synir móður minnar. Svo sannarlega sem Drottinn lifir: Ef þið hefðuð gefið þeim líf, mundi ég ekki hafa drepið ykkur." 20Því næst sagði hann við Jeter, frumgetinn son sinn: "Far þú til og drep þá!" En sveinninn brá ekki sverði sínu, því að hann bar ekki hug til, enda var hann ungur að aldri.

21En þeir Seba og Salmúna sögðu: "Far þú sjálfur til og vinn á okkur, því að afl fylgir aldri manns." Fór þá Gídeon til og drap þá Seba og Salmúna og tók tinglin, sem voru um hálsana á úlföldum þeirra.


Gídeon reisir líkneski

22Þá sögðu Ísraelsmenn við Gídeon: "Drottna þú yfir oss, bæði þú og sonur þinn og sonarsonur þinn, því að þú hefir frelsað oss af hendi Midíans."

23En Gídeon sagði við þá: "Eigi mun ég drottna yfir yður, og eigi mun sonur minn heldur drottna yfir yður. Drottinn skal yfir yður drottna."

24Þá sagði Gídeon við þá: "Bónar vil ég biðja yður. Gefið mér allir eyrnahringa þá, er þér hafið fengið að herfangi," - en Ísmaelítar báru eyrnahringa af gulli.

25Þeir svöruðu: "Vér viljum fúslega gefa þér þá." Og þeir breiddu út skikkju og köstuðu þangað hver og einn eyrnahringum þeim, er þeir höfðu fengið að herfangi. 26En þyngd þessara eyrnahringa af gulli, er hann beiðst hafði, var eitt þúsund og sjö hundruð siklar gulls, fyrir utan tinglin, eyrnaperlurnar og purpuraklæðin, sem Midíanskonungarnir báru, og fyrir utan festar þær, sem voru um hálsana á úlföldum þeirra. 27Og Gídeon gjörði úr því hökul og reisti hann upp í borg sinni, í Ofra, og allur Ísrael tók þar fram hjá með honum, og það varð Gídeon og húsi hans að tálsnöru.

28Þannig urðu Midíanítar að lúta í lægra haldi fyrir Ísraelsmönnum og máttu aldrei síðan höfuð hefja. Var nú friður í landi í fjörutíu ár, meðan Gídeon var á lífi.


Dauði Gídeons

29Því næst hélt Jerúbbaal Jóasson heim til sín og bjó í sínu húsi.

30Gídeon átti sjötíu sonu, sem út gengnir voru af lendum hans, því að hann átti margar konur. 31Og hjákona hans, sú er hann átti í Síkem, fæddi honum og son, og hann nefndi hann Abímelek.

32Gídeon Jóasson dó í góðri elli og var grafinn í gröf Jóasar, föður síns, í Ofra Abíesrítanna. 33En er Gídeon var dáinn, tóku Ísraelsmenn enn af nýju fram hjá með Baölum, og gjörðu Sáttmála-Baal að guði sínum. 34Og Ísraelsmenn minntust ekki Drottins, Guðs síns, sem frelsað hafði þá úr höndum allra óvina þeirra hringinn í kring, 35og ekki auðsýndu þeir heldur kærleika húsi Jerúbbaals, Gídeons, fyrir allt hið góða, sem hann hafði gjört Ísrael.


Bylting Abímeleks og bræðravíg

9
1Abímelek Jerúbbaalsson fór til Síkem til móðurbræðra sinna og talaði við þá og við allt frændlið móðurættar sinnar á þessa leið: 2"Talið svo í eyru allra Síkembúa: ,Hvort mun yður betra, að sjötíu menn, allir synir Jerúbbaals, drottni yfir yður, eða að einn maður drottni yfir yður?' Minnist þess og, að ég er yðar hold og bein."

3Móðurbræður hans töluðu öll þessi orð um hann í eyru Síkembúa, svo að hugur þeirra hneigðist að Abímelek, því að þeir sögðu: "Hann er bróðir vor."

4Þeir gáfu honum sjötíu sikla silfurs úr musteri Sáttmála-Baals, og Abímelek leigði fyrir það lausingja og óvendismenn og gjörðist fyrirliði þeirra. 5Því næst fór hann til húss föður síns í Ofra og drap bræður sína, sonu Jerúbbaals, sjötíu manns á einum steini. Jótam, yngsti sonur Jerúbbaals, varð einn eftir, því að hann hafði falið sig. 6En allir Síkembúar söfnuðust nú saman og allir þeir, sem bjuggu í Síkemkastala, og fóru til og tóku Abímelek til konungs hjá merkisteinseikinni, sem er hjá Síkem.


Dæmisaga Jótams

7Er Jótam spurði þetta, fór hann og nam staðar á tindi Garísímfjalls, hóf upp raust sína, kallaði og mælti til þeirra:

"Heyrið mig, Síkembúar, svo að Guð heyri yður!

8Einu sinni fóru trén að smyrja konung sér til handa. Og þau sögðu við olíutréð: Ver þú konungur yfir oss! 9En olíutréð sagði við þau: Á ég að yfirgefa feiti mína, sem Guð og menn virða mig fyrir, og fara að sveima uppi yfir trjánum?

10Þá sögðu trén við fíkjutréð: Kom þú og ver þú konungur yfir oss!

11En fíkjutréð sagði við þau: Á ég að yfirgefa sætleik minn og ágætan ávöxt minn og fara að sveima uppi yfir trjánum?

12Þá sögðu trén við vínviðinn: Kom þú og ver þú konungur yfir oss!

13En vínviðurinn sagði við þau: Á ég að yfirgefa vínlög minn, sem gleður bæði Guð og menn, og fara að sveima uppi yfir trjánum?

14Þá sögðu öll trén við þyrninn: Kom þú og ver þú konungur yfir oss!

15En þyrnirinn sagði við trén: Ef það er alvara yðar að smyrja mig til konungs, þá komið og fáið yður skjól í skugga mínum. En ef svo er eigi, þá gangi eldur út frá þyrninum og eyði sedrustrjánum á Líbanon.

16Nú ef þér hafið sýnt hreinskilni og einlægni í því að taka Abímelek til konungs, og ef þér hafið gjört vel við Jerúbbaal og hús hans og ef þér hafið breytt við hann, eins og hann hafði til unnið - 17því að fyrir yður barðist faðir minn og stofnaði lífi sínu í hættu, og yður frelsaði hann úr höndum Midíans, 18en þér hafið í dag risið upp í gegn húsi föður míns og drepið sonu hans, sjötíu að tölu, á einum steini og tekið Abímelek, son ambáttar hans, til konungs yfir Síkembúa, af því að hann er bróðir yðar - 19ef þér því hafið sýnt Jerúbbaal og húsi hans hreinskilni og einlægni í dag, þá gleðjist yfir Abímelek, og hann gleðjist þá og yfir yður. 20En ef svo er eigi, þá gangi eldur út frá Abímelek og eyði Síkembúum og þeim, sem búa í Síkemkastala, og þá gangi eldur út frá Síkembúum og þeim, sem búa í Síkemkastala, og eyði Abímelek."

21Síðan lagði Jótam á flótta og flýði burt og fór til Beer. Þar settist hann að, til þess að vera óhultur fyrir Abímelek bróður sínum.


Síkembúar rísa gegn Abímelek

22Abímelek réð nú fyrir Ísrael í þrjú ár. 23Þá lét Guð sundurþykkis anda koma upp milli Abímeleks og Síkembúa, svo að Síkembúar rufu tryggðir við Abímelek, 24til þess að hefnd kæmi fyrir níðingsverkið á þeim sjötíu sonum Jerúbbaals og að blóð þeirra kæmi yfir Abímelek, bróður þeirra, sem drepið hafði þá, og yfir Síkembúa, sem styrkt höfðu hann til að drepa bræður hans. 25Settu Síkembúar þá menn í launsát í móti honum hæst á fjöllum uppi, og rændu þeir alla þá, er um veginn fóru fram hjá þeim. Og Abímelek var sagt frá því.

26Þá kom Gaal Ebedsson og bræður hans, og héldu þeir inn í Síkem, og Síkembúar fengu traust á honum.

27Þeir fóru út á akurinn og lásu vínberin í víngörðum sínum og tróðu þau og héldu hátíð, fóru inn í musteri guðs síns og átu og drukku og bölvuðu Abímelek. 28Og Gaal Ebedsson sagði: "Hver er Abímelek og hverjir erum vér í Síkem, að vér eigum að lúta honum? Er hann ekki sonur Jerúbbaals og Sebúl höfuðsmaður hans? Lútið mönnum Hemors, föður Síkems! En hví skyldum vér eiga að lúta honum? 29Ég vildi að fólk þetta væri undir minni hendi, þá skyldi ég ekki vera lengi að reka Abímelek burt og segja við Abímelek: Auk her þinn og kom út!"

30Er Sebúl, höfuðsmaður borgarinnar, spurði ummæli Gaals Ebedssonar, upptendraðist reiði hans, 31og sendi hann menn á laun til Abímeleks og lét segja honum: "Sjá, Gaal Ebedsson og bræður hans eru komnir til Síkem og æsa þeir borgina upp í móti þér. 32Tak þig því upp um nótt með liðið, sem hjá þér er, og leggstu í launsátur úti á víðavangi, 33og að morgni, þegar sól rennur upp, þá skalt þú vera árla á fótum og ráðast á borgina. Þá mun hann og liðið, sem með honum er, fara út í móti þér, og skalt þú þá með hann fara svo sem þú færð færi á."

34Þá tók Abímelek sig upp um nótt með allt liðið, sem hjá honum var, og þeir lögðust í launsát í fjórum flokkum móti Síkem. 35Og er Gaal Ebedsson kom út og nam staðar fyrir utan borgarhliðið, þá spratt Abímelek upp úr launsátinni og liðið, sem með honum var. 36Og Gaal sá liðið og sagði við Sebúl: "Sjá, þarna kemur fólk ofan af fjöllunum."

En Sebúl sagði við hann: "Þú sérð skuggann í fjöllunum og ætlar menn vera."

37En Gaal hélt áfram að mæla og sagði: "Sjá, þarna kemur fólk ofan af háhæðinni, og einn hópur kemur frá veginum að spásagnaeikinni."

38Þá mælti Sebúl við hann: "Hvar eru nú stóryrði þín, er þú sagðir: ,Hver er Abímelek, að vér eigum að lúta honum?' Er þetta ekki liðið, sem þú fyrirleist? Láttu nú sjá, far út og berst við það." 39Fór Gaal þá fyrir Síkembúum og barðist við Abímelek. 40En Abímelek sótti svo hart að honum, að hann flýði fyrir honum, og varð þar mannfall mikið allt að borgarhliðinu. 41Eftir það dvaldist Abímelek í Arúma, en Sebúl rak Gaal og bræður hans burt, svo að þeir fengu ekki að búa í Síkem.

42En daginn eftir fór fólkið út á akurinn, og sögðu menn Abímelek frá því. 43Þá tók hann lið sitt og skipti því í þrjár sveitir og lagðist í launsát úti á víðavangi, og er hann sá fólkið koma út úr borginni, réðst hann á það og vann sigur á því. 44Abímelek sjálfur og sveitin, sem með honum var, þusti fram og nam staðar fyrir borgarhliðinu, en báðar hinar sveitirnar gjörðu áhlaup á alla þá, sem úti á víðavangi voru, og unnu sigur á þeim. 45Því næst herjaði Abímelek á borgina allan þann dag og vann borgina, og drap fólkið, sem í henni var; braut síðan niður borgina og stráði yfir hana salti.

46Er allir þeir menn, sem bjuggu í Síkemkastala, heyrðu þetta, gengu þeir inn í hvelfinguna í musteri Sáttmála-guðs. 47Og er Abímelek var sagt frá því, að allir menn í Síkemkastala hefðu safnast þar saman, 48þá fór Abímelek upp á Salmónfjall með allt liðið, sem hjá honum var. Og Abímelek tók öxi í hönd sér og hjó af trjágrein, hóf á loft og lagði á herðar sér og sagði við liðið, sem með honum var: "Gjörið nú sem skjótast slíkt hið sama, er þér sáuð mig gjöra." 49Þá hjó og allt fólkið hver sína grein, og fylgdu þeir Abímelek og báru að hvelfingunni og lögðu síðan eld í hvelfinguna yfir þeim, svo að allir menn í Síkemkastala dóu, hér um bil eitt þúsund karla og kvenna.


Dauði Abímeleks

50Síðan fór Abímelek til Tebes og settist um Tebes og vann hana. 51En í miðri borginni var sterkur turn. Þangað flýðu allir menn og konur, já, allir borgarbúar. Lokuðu þeir sig þar inni og stigu síðan upp á þakið á turninum.

52Nú kom Abímelek að turninum og gjörði áhlaup á hann. En er hann gekk að dyrum turnsins, til þess að leggja eld í hann, 53þá kastaði kona ein efri kvarnarsteini í höfuð Abímelek og mölvaði sundur hauskúpuna. 54Þá kallaði hann sem skjótast til skjaldsveins síns og mælti við hann: "Bregð sverði þínu og deyð mig, svo að eigi verði um mig sagt: Kona drap hann!" Þá lagði sveinn hans hann í gegn, og varð það hans bani.

55En er Ísraelsmenn sáu, að Abímelek var dauður, fóru þeir hver heim til sín.

56Þannig galt Guð illsku Abímeleks, þá er hann hafði í frammi haft við föður sinn, er hann drap sjötíu bræður sína. 57Og Guð lét alla illsku Síkembúa koma þeim í koll. Rættist þannig á þeim formæling Jótams Jerúbbaalssonar.


Tveir dómarar: Tóla og Jaír

10
1Eftir Abímelek reis upp Tóla Púason, Dódóssonar, maður af Íssakar, til að frelsa Ísrael. Hann bjó í Samír á Efraímfjöllum, 2og var hann dómari í Ísrael í tuttugu og þrjú ár. Síðan andaðist hann og var grafinn í Samír.

3Eftir hann reis upp Jaír Gíleaðíti og var dómari í Ísrael í tuttugu og tvö ár. 4Hann átti þrjátíu sonu, sem riðu á þrjátíu ösnufolum, þeir áttu þrjátíu borgir. Eru þær kallaðar Jaírs-þorp allt fram á þennan dag. Þær liggja í Gíleaðlandi. 5Síðan andaðist Jaír og var grafinn í Kamón.


Inngangur að sögu Jefta

6Ísraelsmenn gjörðu enn að nýju það, sem illt var í augum Drottins, og dýrkuðu Baala og Astörtur, guði Arams, guði Sídonar, guði Móabs, guði Ammóníta og guði Filista, og yfirgáfu Drottin og dýrkuðu hann ekki. 7Þá upptendraðist reiði Drottins gegn Ísrael, og hann seldi þá í hendur Filistum og í hendur Ammónítum. 8Og þeir þjáðu og þjökuðu Ísraelsmenn það ár. Í átján ár þjökuðu þeir alla Ísraelsmenn, sem bjuggu hinumegin Jórdanar í landi Amoríta, þá er bjuggu í Gíleað. 9Enn fremur fóru Ammónítar yfir Jórdan til þess að herja einnig á Júda, Benjamín og Efraíms hús, svo að Ísrael komst í miklar nauðir.

10Þá hrópuðu Ísraelsmenn til Drottins og sögðu: "Vér höfum syndgað móti þér, því að vér höfum yfirgefið Guð vorn og dýrkað Baala."

11En Drottinn sagði við Ísraelsmenn: "Hafa ekki Egyptar, Amorítar, Ammónítar, Filistar, 12Sídoningar, Amalekítar og Midíanítar kúgað yður? Þá hrópuðuð þér til mín og ég frelsaði yður úr höndum þeirra. 13En þér hafið yfirgefið mig og dýrkað aðra guði. Fyrir því vil ég eigi framar hjálpa yður. 14Farið og hrópið til guða þeirra, er þér hafið kjörið. Hjálpi þeir yður, þegar þér eruð í nauðum."

15Þá sögðu Ísraelsmenn við Drottin: "Vér höfum syndgað. Gjör við oss rétt sem þér líkar, frelsa oss aðeins í dag." 16Síðan köstuðu þeir burt frá sér útlendu guðunum og dýrkuðu Drottin. Eirði hann þá illa eymd Ísraels.

17Þá var Ammónítum stefnt saman, og settu þeir herbúðir sínar í Gíleað. Og Ísraelsmenn söfnuðust saman og settu herbúðir sínar í Mispa. 18En lýðurinn, höfðingjarnir í Gíleað sögðu hver við annan: "Hver er sá maður, er fyrstur vill hefja ófrið við Ammóníta? Hann skal vera höfðingi yfir öllum Gíleaðbúum!"


Jefta kjörinn leiðtogi

11
1Jefta Gíleaðíti var kappi mikill, en hann var skækjuson. Gíleað hafði getið Jefta, 2og er kona Gíleaðs fæddi honum sonu og synir hennar uxu upp, þá ráku þeir Jefta burt og sögðu við hann: "Eigi skalt þú taka arf í ætt vorri, því að þú ert sonur annarrar konu." 3Þá flýði Jefta burt frá bræðrum sínum og settist að í landinu Tób. Þá söfnuðust til Jefta lausingjar og fylgdu þeir honum.

4Nokkrum tíma eftir þetta hófu Ammónítar hernað á hendur Ísrael. 5En er Ammónítar herjuðu á Ísrael, lögðu öldungarnir í Gíleað af stað til þess að sækja Jefta í landið Tób. 6Og þeir sögðu við Jefta: "Kom þú og ver þú fyrirliði vor, og munum vér berjast við Ammóníta."

7Jefta sagði við öldungana í Gíleað: "Hafið þér ekki lagt hatur á mig og rekið mig burt úr ætt minni? Hví komið þér þá nú til mín, þá er þér eruð í nauðum staddir?"

8Öldungarnir í Gíleað sögðu við Jefta: "Fyrir því erum vér nú aftur komnir til þín, og ef þú fer með oss og berst við Ammóníta, þá skalt þú vera höfðingi vor, allra þeirra er búa í Gíleað."

9Þá sagði Jefta við öldungana í Gíleað: "Ef þér sækið mig til þess að berjast við Ammóníta, og Drottinn gefur þá á mitt vald, þá vil ég vera höfðingi yfir yður!"

10Þá sögðu öldungarnir í Gíleað við Jefta: "Drottinn veri heyrnarvottur að tali voru og hegni oss, ef vér gjörum eigi það, sem þú hefir mælt." 11Og Jefta fór með öldungunum í Gíleað, og lýðurinn tók hann til höfðingja yfir sig og fyrirliða. Og Jefta talaði öll orð sín frammi fyrir Drottni í Mispa.


Herför gegn Ammónítum

12Þá gjörði Jefta sendimenn á fund konungs Ammóníta og lét segja honum: "Hvað er þér á höndum við mig, er þú hefir farið í móti mér til þess að herja á land mitt?"

13Konungur Ammóníta svaraði sendimönnum Jefta: "Ísrael lagði undir sig land mitt, þá er hann fór af Egyptalandi, frá Arnon til Jabbok og að Jórdan. Skila þú því nú aftur með góðu!"

14Jefta gjörði enn menn á fund Ammónítakonungs 15og lét segja honum: "Svo segir Jefta: Ísrael lagði ekki undir sig Móabsland né land Ammóníta, 16því að þegar þeir fóru af Egyptalandi og Ísrael hafði farið um eyðimörkina að Sefhafi og var kominn til Kades, 17þá gjörði Ísrael menn á fund Edómkonungs og lét segja honum: ,Leyf mér að fara um land þitt!' En Edómkonungur daufheyrðist við. Þá sendi hann og til Móabskonungs, en hann vildi ekki. Hélt Ísrael nú kyrru fyrir í Kades, 18hélt síðan áfram um eyðimörkina og fór í bug kringum Edómland og Móabsland og kom austan að Móabslandi og setti búðir sínar hinumegin Arnon. En inn yfir landamæri Móabs komu þeir ekki, því að Arnon ræður landamærum Móabs. 19Þá gjörði Ísrael sendimenn á fund Síhons Amorítakonungs, konungs í Hesbon, og Ísrael lét segja honum: ,Leyf oss að fara um land þitt, þangað sem ferðinni er heitið.' 20En Síhon treysti eigi Ísrael svo, að hann vildi leyfa honum að fara um land sitt, heldur safnaði Síhon öllu liði sínu, og settu þeir herbúðir sínar í Jahsa, og hann barðist við Ísrael. 21En Drottinn, Ísraels Guð, gaf Síhon og allt hans lið í hendur Ísraels, svo að þeir unnu sigur á þeim, og lagði Ísrael undir sig allt land Amoríta, er byggðu það land. 22Lögðu þeir þannig undir sig allt land Amoríta frá Arnon að Jabbok, og frá eyðimörkinni að Jórdan. 23Drottinn, Guð Ísraels, hefir því stökkt Amorítum burt undan lýð sínum Ísrael, og nú ætlar þú að taka land hans til eignar? 24Hvort tekur þú ekki til eignar það, sem Kamos, guð þinn, gefur þér til eignar? Svo tökum vér og til eignar land allra þeirra, sem Drottinn, Guð vor, stökkvir burt undan oss. 25Og hvort munt þú nú vera nokkru betri en Balak Sippórsson, konungur í Móab? Átti hann í deilum við Ísrael eða fór hann með hernað á hendur þeim? 26Þar sem Ísrael hefir búið í Hesbon og smáborgunum, er að liggja, og í Aróer og smáborgunum, er að liggja, og í öllum borgunum, sem liggja meðfram Arnon báðumegin, í þrjú hundruð ár, hvers vegna hafið þér þá ekki náð þeim aftur allan þennan tíma? 27Ég hefi ekki gjört þér neitt mein, en þú beitir mig ranglæti, er þú herjar á mig. Drottinn, dómarinn, dæmi í dag milli Ísraelsmanna og Ammóníta!"

28En konungur Ammóníta sinnti ekki orðum Jefta, þeim er hann lét færa honum.

29Þá kom andi Drottins yfir Jefta, og hann fór um Gíleað og Manasse og hann fór til Mispe í Gíleað, og frá Mispe í Gíleað fór hann í móti Ammónítum. 30Og Jefta gjörði Drottni heit og sagði: "Ef þú gefur Ammóníta í hendur mér, 31þá skal sá, er fyrstur gengur út úr dyrum húss míns í móti mér, er ég sný aftur heilu og höldnu frá Ammónítum, heyra Drottni, og skal ég fórna honum að brennifórn."

32Síðan fór Jefta í móti Ammónítum til þess að berjast við þá, og Drottinn gaf þá í hendur honum. 33Hann vann mjög mikinn sigur á þeim frá Aróer alla leið til Minnít, tuttugu borgir, og til Abel-Keramím. Þannig urðu Ammónítar að lúta í lægra haldi fyrir Ísraelsmönnum.


Dóttir Jefta

34En er Jefta kom heim til húss síns í Mispa, sjá, þá gekk dóttir hans út í móti honum með bumbum og dansi. Hún var einkabarnið hans. Hann átti engan son né dóttur nema hana. 35Og er hann sá hana, reif hann klæði sín og sagði: "Æ, dóttir mín, mjög beygir þú mig nú. Sjálf veldur þú mér nú sárustum trega. Ég hefi upp lokið munni mínum gagnvart Drottni, og ég get ekki tekið það aftur."

36En hún sagði við hann: "Faðir minn, ef þú hefir upp lokið munni þínum gagnvart Drottni, þá gjör þú við mig eins og fram gengið er af munni þínum, fyrst Drottinn hefir látið þig koma fram hefndum á óvinum þínum, Ammónítum." 37Og enn sagði hún við föður sinn: "Gjör þetta fyrir mig: Lát mig fá tveggja mánaða frest, svo að ég geti farið hér ofan í fjöllin og grátið það með stallsystrum mínum, að ég verð að deyja ung mær." 38Hann sagði: "Far þú!" og lét hana burt fara í tvo mánuði.

Fór hún þá burt með stallsystrum sínum og grét það á fjöllunum, að hún varð að deyja ung mær. 39En að tveim mánuðum liðnum sneri hún aftur til föður síns, og hann gjörði við hana samkvæmt heiti því, er hann hafði unnið. En hún hafði aldrei karlmann kennt. Og varð það siður í Ísrael: 40Ár frá ári fara Ísraels dætur að lofsyngja dóttur Jefta Gíleaðíta, fjóra daga á ári hverju.


Efraímítar deila á Jefta

12
1Efraímsmönnum var stefnt saman. Þeir héldu í norður og sögðu við Jefta: "Hví hefir þú farið að berjast við Ammóníta og eigi kvatt oss þér til fylgdar? Nú munum vér leggja eld í hús þitt yfir þér."

2Þá sagði Jefta við þá: "Ég og þjóð mín áttum í miklum deilum við Ammóníta. Beiddist ég þá liðs hjá yður, en þér hjálpuðuð mér ekki úr höndum þeirra. 3Og er ég sá, að þér ætluðuð ekki að hjálpa mér, þá lagði ég líf mitt í hættu og fór í móti Ammónítum, og Drottinn gaf þá í hendur mér. Hvers vegna komið þér þá í dag til mín til þess að berjast við mig?"

4Og Jefta safnaði saman öllum mönnum í Gíleað og barðist við Efraímíta, og unnu Gíleaðsmenn sigur á Efraímítum, því að Efraímítar höfðu sagt: "Þér eruð flóttamenn frá Efraím! Gíleað liggur mitt í Efraím, mitt í Manasse."

5Gíleaðítar settust um Jórdanvöðin yfir til Efraím. Og þegar flóttamaður úr Efraím sagði: "Leyf mér yfir um!" þá sögðu Gíleaðsmenn við hann: "Ert þú Efraímíti?" Ef hann svaraði: "Nei!" 6þá sögðu þeir við hann: "Segðu ,Sjibbólet.'" Ef hann þá sagði: "Sibbólet," og gætti þess eigi að bera það rétt fram, þá gripu þeir hann og drápu hann við Jórdanvöðin. Féllu þá í það mund af Efraím fjörutíu og tvær þúsundir.

7Jefta var dómari í Ísrael í sex ár. Síðan andaðist Jefta Gíleaðíti og var grafinn í einni af Gíleaðs borgum.


Þrír dómarar: Íbsan, Elón og Abdón

8Eftir Jefta var Íbsan frá Betlehem dómari í Ísrael. 9Hann átti þrjátíu sonu, og þrjátíu dætur gifti hann burt frá sér, og þrjátíu konur færði hann sonum sínum annars staðar að. Hann var dómari í Ísrael í sjö ár. 10Síðan andaðist Íbsan og var grafinn í Betlehem.

11Eftir hann var Elón Sebúloníti dómari í Ísrael. Hann var dómari í Ísrael í tíu ár. 12Síðan andaðist Elón Sebúloníti og var grafinn í Ajalon í Sebúlon-landi.

13Eftir hann var Abdón Híllelsson Píratóníti dómari í Ísrael. 14Hann átti fjörutíu sonu og þrjátíu sonasonu, sem riðu sjötíu ösnufolum. Hann var dómari í Ísrael í átta ár. 15Síðan andaðist Abdón Híllelsson Píratóníti og var grafinn í Píratón í Efraímlandi á Amalekítafjöllum.


13
1Ísraelsmenn gjörðu enn að nýju það, sem illt var í augum Drottins. Þá gaf Drottinn þá í hendur Filistum í fjörutíu ár.


Fæðing Samsonar

2Maður er nefndur Manóa. Hann var frá Sorea, af ætt Daníta. Kona hans var óbyrja og hafði eigi barn alið.

3Engill Drottins birtist konunni og sagði við hana: "Sjá, þú ert óbyrja og hefir eigi barn alið, en þú munt þunguð verða og son ala. 4Og haf nú gætur á þér, drekk hvorki vín né áfengan drykk, og et ekkert óhreint. 5Því sjá, þú munt þunguð verða og ala son, og skal rakhnífur ekki koma á höfuð hans, því að sveinninn skal vera Guði helgaður allt í frá móðurlífi, og hann mun byrja að frelsa Ísrael af hendi Filista."

6Þá fór konan og sagði við mann sinn á þessa leið: "Guðsmaður nokkur kom til mín, og var hann ásýndum sem engill Guðs, ægilegur mjög; en ég spurði hann ekki, hvaðan hann væri, og nafn sitt sagði hann mér ekki. 7Hann sagði við mig: ,Sjá, þú munt þunguð verða og son ala. Drekk því hvorki vín né áfengan drykk, og et ekkert óhreint, því að sveinninn skal vera Guði helgaður allt í frá móðurlífi til dauðadags.'"

8Þá bað Manóa Drottin og sagði: "Æ, herra! Lát guðsmanninn, sem þú sendir, koma til okkar aftur, svo að hann megi kenna okkur, hvernig við eigum að fara með sveininn, sem fæðast á."

9Guð heyrði bæn Manóa, og engill Guðs kom aftur til konunnar. Var hún þá stödd úti á víðavangi og maður hennar Manóa ekki hjá henni. 10Þá hljóp konan sem skjótast og sagði manni sínum frá og mælti við hann: "Sjá, maðurinn, sem til mín kom um daginn, hefir birst mér."

11Þá reis Manóa upp og fór á eftir konu sinni, og hann kom til mannsins og sagði við hann: "Ert þú maðurinn, sem talaði við konuna?"

Hann svaraði: "Já."

12Þá sagði Manóa: "Ef það nú kemur fram, sem þú hefir sagt, hvernig á þá að fara með sveininn, og hvað á hann að gjöra?"

13Engill Drottins sagði við Manóa: "Konan skal forðast allt það, sem ég hefi sagt henni. 14Hún skal ekkert það eta, er af vínviði kemur, ekki drekka vín né áfengan drykk, og ekkert óhreint eta. Hún skal gæta alls þess, er ég hefi boðið henni."

15Þá sagði Manóa við engil Drottins: "Leyf okkur að tefja þig stundarkorn, svo að við getum matbúið handa þér hafurkið."

16En engill Drottins sagði við Manóa: "Þó að þú fáir mig til að tefja, þá et ég samt ekki af mat þínum. En ef þú vilt tilreiða brennifórn, þá fær þú hana Drottni." 17Því að Manóa vissi ekki, að það var engill Drottins.

Þá sagði Manóa við engil Drottins: "Hvert er nafn þitt? Því að rætist orð þín, munum við tigna þig."

18Engill Drottins svaraði honum: "Hví spyr þú um nafn mitt? Nafn mitt er undursamlegt."

19Þá tók Manóa geithafurinn og matfórnina og færði það Drottni á kletti einum. Þá varð undur mikið að þeim Manóa og konu hans ásjáandi. 20Því að þegar logann lagði upp af altarinu til himins, þá fór engill Drottins upp í altarisloganum. Og er þau Manóa og kona hans sáu það, féllu þau fram á ásjónur sínar til jarðar.

21Eftir það birtist engill Drottins eigi framar Manóa og konu hans. Þá sá Manóa að það hafði verið engill Drottins.

22Manóa sagði við konu sína: "Vissulega munum við deyja, því að við höfum séð Guð!"

23En kona hans svaraði honum: "Ef Drottinn hefði viljað deyða okkur, þá hefði hann eigi þegið brennifórn og matfórn af okkur, né látið okkur sjá allt þetta, og þá hefði hann eigi nú látið okkur heyra slíka hluti."

24Og konan ól son og nefndi hann Samson; og sveinninn óx upp, og Drottinn blessaði hann. 25Og andi Drottins tók að knýja hann í herbúðum Dans millum Sorea og Estaól.


Samson velur sér konu af Filistum

14
1Samson fór niður til Timna og sá konu eina þar í Timna. Var hún ein af dætrum Filista. 2Síðan fór hann heim aftur og sagði föður sínum og móður frá þessu og mælti: "Ég hefi séð konu eina í Timna. Er hún ein af dætrum Filista. Takið þið hana nú mér til handa að eiginkonu."

3En faðir hans og móðir sögðu við hann: "Er þá engin kona meðal dætra frænda þinna og í öllu fólki mínu, að þú þurfir að fara og taka þér konu af Filistum, sem eru óumskornir?"

Samson svaraði föður sínum: "Tak hana mér til handa, því að hún geðjast augum mínum." 4En faðir hans og móðir vissu ekki, að þetta var frá Drottni, og að hann leitaði færis við Filistana. Um þær mundir drottnuðu Filistar yfir Ísrael.

5Þá fóru þau Samson og faðir hans og móðir niður til Timna. Og er þau komu að víngörðum Timna, þá kom ungt ljón öskrandi í móti honum. 6Þá kom andi Drottins yfir hann, svo að hann sleit það sundur, eins og menn slíta sundur hafurkið, og hann hafði þó ekkert í hendinni. En eigi sagði hann föður sínum né móður frá því, er hann hafði gjört.

7Síðan fór Samson ofan og talaði við konuna, og hún geðjaðist augum hans. 8Eftir nokkurn tíma kom hann aftur að sækja hana. Vék hann þá af leið til þess að sjá dauða ljónið, og sjá, býflugur voru í ljónshræinu og hunang. 9Og hann tók það í lófa sér, hélt síðan áfram og át, og hann fór til föður síns og móður og gaf þeim, og þau átu. En ekki sagði hann þeim frá því, að hann hefði tekið hunangið úr ljónshræinu.


Samson leggur gátu fyrir Filista

10Því næst fór faðir hans ofan til konunnar, og gjörði Samson þar veislu, því að sá var háttur ungra manna. 11En er þeir sáu hann, fengu þeir honum þrjátíu brúðarsveina, er vera skyldu með honum. 12Og Samson sagði við þá: "Ég mun bera upp fyrir yður gátu eina. Ef þér fáið ráðið hana á þessum sjö veisludögum og getið hennar, þá mun ég gefa yður þrjátíu kyrtla og þrjátíu hátíðaklæðnaði. 13En ef þér getið ekki ráðið hana, þá skuluð þér gefa mér þrjátíu kyrtla og þrjátíu hátíðaklæðnaði."

Þeir svöruðu honum: "Ber þú upp gátu þína, svo að vér megum heyra hana."

14Þá sagði hann við þá:
"Æti gekk út af etanda
og sætleiki gekk út af hinum sterka."

Og liðu svo þrír dagar að þeir gátu ekki ráðið gátuna.

15Á fjórða degi sögðu þeir við konu Samsonar: "Ginn þú bónda þinn til að segja oss ráðningu gátunnar, ella munum vér þig í eldi brenna og hús föður þíns. Hafið þér boðið oss til þess að féfletta oss? Er ekki svo?"

16Þá grét kona Samsonar og sagði við hann: "Hatur hefir þú á mér, en enga ást, þú hefir borið upp gátu fyrir samlöndum mínum, en ekki sagt mér ráðningu hennar."

Hann svaraði henni: "Sjá, ég hefi ekki sagt föður mínum og móður minni ráðningu hennar og ætti þó að segja þér hana?" 17Og hún grét og barmaði sér við hann sjö dagana, sem veislan stóð yfir, og á sjöunda degi sagði hann henni ráðninguna, af því að hún gekk svo fast á hann. En hún sagði samlöndum sínum ráðningu gátunnar. 18Þá sögðu borgarmenn við hann á sjöunda degi, áður sól settist:

"Hvað er sætara en hunang?
Og hvað er sterkara en ljón?"

Samson sagði við þá: "Ef þér hefðuð ekki erjað með kvígu minni, munduð þér ekki hafa ráðið gátu mína." 19Þá kom andi Drottins yfir hann, svo að hann fór ofan til Askalon og drap þrjátíu menn af þeim, tók klæðnaði þeirra og gaf þá þeim að hátíðaklæðum, er ráðið höfðu gátuna. Og hann varð ákaflega reiður og fór upp til húss föður síns. 20En kona Samsonar giftist brúðarsveini hans, þeim er hann hafði valið sér að svaramanni.


Afreksverk Samsonar

15
1Að nokkrum tíma liðnum kom Samson um hveitiuppskerutímann að vitja konu sinnar og hafði með sér hafurkið. Og hann sagði við föður hennar: "Leyf mér að ganga inn í afhýsið til konu minnar!"

En faðir hennar vildi ekki leyfa honum inn að ganga. 2Og faðir hennar sagði: "Ég var fullviss um, að þú hefðir fengið megna óbeit á henni og gifti hana því brúðarsveini þínum, en yngri systir hennar er fríðari en hún, hana skalt þú fá í hennar stað."

3Þá sagði Samson við þá: "Nú ber ég enga sök á því við Filista, þó að ég vinni þeim mein."

4Síðan fór Samson og veiddi þrjú hundruð refi, tók blys, sneri hölunum saman og batt eitt blys millum hverra tveggja hala. 5Síðan kveikti hann í blysunum og sleppti því næst refunum inn á kornakra Filista og brenndi þannig bæði kerfaskrúf, óslegið korn, víngarða og olíugarða. 6Þá sögðu Filistar: "Hver hefir gjört þetta?" Og menn svöruðu: "Samson, tengdasonur Timnítans, því að hann hefir tekið frá honum konuna og gift hana brúðarsveini hans." Þá fóru Filistar upp þangað og brenndu hana inni og föður hennar.

7En Samson sagði við þá: "Fyrst þér aðhafist slíkt, mun ég ekki hætta fyrr en ég hefi hefnt mín á yður." 8Síðan barði hann svo óþyrmilega á þeim, að sundur gengu lær og leggir. Og hann fór þaðan og settist að í Etamklettaskoru.

9Þá fóru Filistar upp eftir og settu herbúðir sínar í Júda og dreifðu sér um Lekí. 10Og Júdamenn sögðu: "Hví hafið þér farið í móti oss?"

En þeir svöruðu: "Vér erum hingað komnir til þess að binda Samson, svo að vér megum með hann fara sem hann hefir farið með oss." 11Þá fóru þrjú þúsund manns frá Júda ofan til Etamklettaskoru og sögðu við Samson: "Veist þú ekki, að Filistar drottna yfir oss? Hví hefir þú þá gjört oss þetta?"

Hann svaraði þeim: "Eins og þeir fóru með mig, svo hefi ég farið með þá."

12Þeir sögðu við hann: "Vér erum hingað komnir til að binda þig, svo að vér getum selt þig í hendur Filista."

Þá sagði Samson við þá: "Vinnið mér eið að því, að þér sjálfir skulið ekki drepa mig."

13Þeir svöruðu honum: "Nei, vér munum aðeins binda þig og selja þig í hendur þeirra - en drepa þig munum vér ekki." Og þeir bundu hann með tveimur reipum nýjum og fóru með hann burt frá klettinum.

14En er Samson kom til Lekí, fóru Filistar með ópi miklu í móti honum. Þá kom andi Drottins yfir hann, og urðu reipin, sem voru um armleggi hans, sem þræðir í eldi brunnir, og hrukku fjötrarnir sundur af höndum hans. 15Og hann fann nýjan asnakjálka, rétti út höndina og tók hann og laust með honum þúsund manns. 16Þá sagði Samson:

"Með asnakjálka hefi ég gjörsamlega flegið þá,
með asnakjálka hefi ég banað þúsund manns!"

17Og er hann hafði mælt þetta, varpaði hann kjálkanum úr hendi sér, og var þessi staður upp frá því nefndur Ramat Lekí.

18En Samson var mjög þyrstur og hrópaði því til Drottins og mælti: "Þú hefir veitt þennan mikla sigur fyrir hönd þjóns þíns, en nú hlýt ég að deyja af þorsta og falla í hendur óumskorinna manna!" 19Þá klauf Guð holuna, sem var í Lekí, svo að vatn rann fram úr henni. En er hann hafði drukkið, kom andi hans aftur og hann lifnaði við. Fyrir því var hún nefnd Hrópandans lind. Hún er í Lekí fram á þennan dag.

20En Samson var dómari í Ísrael um daga Filista í tuttugu ár.


16
1Samson fór til Gasa. Þar sá hann portkonu eina og gekk inn til hennar. 2Þá var Gasabúum sagt svo frá: "Samson er hér kominn." En þeir umkringdu hann og gjörðu honum fyrirsát alla nóttina í borgarhliðinu, en höfðu þó hljótt um sig alla nóttina, með því að þeir hugsuðu: Þegar birtir af degi, skulum vér drepa hann. 3En Samson svaf til miðrar nætur. En um miðja nótt reis hann á fætur, þreif hurðirnar á borgarhliðinu, ásamt báðum dyrastöfunum, og kippti þeim upp ásamt slagbrandinum og lagði á herðar sér og bar þær efst upp á fjallið, sem er gegnt Hebron.


Samson og Dalíla

4Eftir þetta bar svo við, að Samson felldi ástarhug til konu einnar í Sórekdal. Hún hét Dalíla. 5Höfðingjar Filista komu til hennar og sögðu við hana: "Ginn þú hann og komstu að því, í hverju hið mikla afl hans er fólgið og með hverju móti vér fáum yfirbugað hann, svo að vér getum bundið hann og þjáð hann, og munum vér gefa þér hver um sig eitt þúsund sikla silfurs og hundraði betur."

6Dalíla sagði þá við Samson: "Seg mér, í hverju hið mikla afl þitt er fólgið og með hverju þú verður bundinn, svo að menn eigi alls kostar við þig."

7Samson svaraði henni: "Ef menn binda mig með sjö nýjum strengjum, sem ekki eru þurrir orðnir, þá gjörist ég linur og verð eins og hver annar maður."

8Þá færðu höfðingjar Filista henni sjö nýja strengi, sem ekki voru þurrir orðnir, og hún batt hann með þeim. 9En mennina, er um hann sátu, hafði hún hjá sér í svefnhúsinu. Því næst sagði hún við hann: "Filistar yfir þig, Samson!" Þá sleit hann sundur strengina, eins og hörþráður slitnar sundur, er hann kennir elds, og ekki varð komist fyrir afl hans.

10Þá sagði Dalíla við Samson: "Sjá, þú hefir blekkt mig og logið að mér! Seg mér nú, með hverju þú verður bundinn."

11Hann svaraði henni: "Ef menn binda mig með nýjum reipum, sem ekki hafa verið höfð til neinnar vinnu, þá gjörist ég linur og verð sem hver annar maður."

12Þá tók Dalíla ný reipi og batt hann með þeim og sagði við hann: "Filistar yfir þig, Samson!" og mennirnir, er um hann sátu, voru í svefnhúsinu. En hann sleit þau af armleggjum sér sem þráður væri.

13Og Dalíla sagði við Samson: "Enn hefir þú blekkt mig og logið að mér. Seg mér, með hverju þú verður bundinn."

En hann sagði við hana: "Ef þú vefur hárlokkana sjö á höfði mér saman við uppistöðuna í vef."

14Og hún festi þá með nagla og sagði við hann: "Filistar yfir þig, Samson!" Þá vaknaði hann af svefninum og kippti út vefjarnaglanum og uppistöðunni.

15Þá sagði hún við hann: "Hvernig getur þú sagt: Ég elska þig! þar sem þú ert ekki einlægur við mig? Þrisvar sinnum hefir þú nú blekkt mig og ekki sagt mér, í hverju hið mikla afl þitt sé fólgið."

16En er hún nauðaði á honum alla daga með orðum sínum og gekk á hann fastlega, þá varð hann dauðleiður á því 17og sagði henni allt hjarta sitt og mælti til hennar: "Aldrei hefir rakhnífur komið á höfuð mitt, því að ég er Guði helgaður í frá móðurlífi. Væri nú hár mitt skorið, þá hyrfi afl mitt frá mér og ég gjörðist linur og yrði sem allir menn aðrir."

18Þegar Dalíla sá, að hann hafði sagt henni allt hjarta sitt, þá sendi hún og lét kalla höfðingja Filista, og lét hún segja þeim: "Nú skuluð þér koma, því að hann hefir sagt mér allt hjarta sitt." Þá fóru höfðingjar Filista til hennar og höfðu silfrið með sér. 19En hún svæfði hann á skauti sínu og kallaði á mann og lét hann skera hárlokkana sjö af höfði honum. Og hún tók að þjá hann, en afl hans var frá honum horfið. 20Þá sagði hún: "Filistar yfir þig, Samson!" Þá vaknaði hann af svefninum og hugsaði: Ég slepp í þetta sinn sem hin fyrri og slít mig lausan! En hann vissi ekki, að Drottinn var vikinn frá honum.

21Filistar tóku hann höndum og stungu úr honum augun og fóru með hann niður til Gasa og bundu hann eirfjötrum, og varð hann að draga kvörn í dýflissunni.

22En höfuðhár hans tók aftur að vaxa, eftir að það hafði verið skorið.


Dauði Samsonar

23Nú söfnuðust höfðingjar Filista saman til þess að færa Dagón, guði sínum, fórn mikla og til þess að gjöra sér glatt, með því að þeir sögðu: "Guð vor hefir gefið Samson, óvin vorn, í vorar hendur."

24Og er fólkið sá hann, vegsömuðu þeir guð sinn, því að þeir sögðu: "Guð vor hefir gefið óvin vorn í vorar hendur, hann sem eytt hefir land vort og drepið hefir marga menn af oss."

25En er þeir nú gjörðust glaðir, sögðu þeir: "Látið sækja Samson, til þess að hann skemmti oss." Létu þeir nú sækja Samson úr dýflissunni, og varð hann að skemmta þeim. Og þeir höfðu sett hann milli súlnanna.

26Þá sagði Samson við sveininn, sem leiddi hann: "Slepptu mér og leyfðu mér að þreifa á súlunum, sem húsið hvílir á, svo að ég geti stutt mig upp við þær." 27En húsið var fullt af körlum og konum. Þar voru og allir höfðingjar Filista, og uppi á þakinu voru um þrjú þúsund karla og kvenna, sem horfðu á, er Samson skemmti.

28Þá hrópaði Samson til Drottins og sagði: "Drottinn Guð! Minnstu mín! Styrk mig nú, Guð, í þetta eina sinn, svo að ég geti hefnt mín á Filistum fyrir bæði augun mín í einu!" 29Því næst þreif Samson í báðar miðsúlurnar, sem húsið hvíldi á, hægri hendinni í aðra og vinstri hendinni í hina, og treysti á. 30Þá mælti Samson: "Deyi nú sála mín með Filistum!" Síðan lagðist hann á af öllu afli, svo að húsið féll ofan á höfðingjana og allt fólkið, er í því var, og þeir dauðu, sem hann drap um leið og hann beið bana, voru fleiri en þeir, er hann hafði drepið um ævina.

31Bræður hans fóru ofan og allt ættfólk hans, og tóku þeir hann og fóru upp þaðan með hann og jörðuðu hann millum Sorea og Estaól, í gröf Manóa föður hans. En hann hafði verið dómari í Ísrael í tuttugu ár.



Bókarlok


Míka dýrkar líkneski

17
1Maður hét Míka. Hann var frá Efraímfjöllum. 2Hann sagði við móður sína: "Þeir ellefu hundruð siklar silfurs, sem hafa verið teknir frá þér og þú hefir beðið bölbæna fyrir og talað það í mín eyru, - sjá, það silfur er nú hjá mér. Ég var sá, sem tók það."

Þá sagði móðir hans: "Blessaður veri sonur minn af Drottni." 3Síðan skilaði hann móður sinni þessum ellefu hundruð siklum silfurs aftur, og móðir hans sagði: "Ég helga að öllu leyti Drottni silfrið úr minni hendi til heilla fyrir son minn, til þess að úr því verði gjört útskorið og steypt líkneski, og fyrir því fæ ég þér það nú aftur."

4Er hann hafði skilað móður sinni aftur silfrinu, þá tók móðir hans tvö hundruð sikla silfurs og fékk þá gullsmið, og hann gjörði úr þeim útskorið og steypt líkneski, og það var í húsi Míka.

5Þessi maður, Míka, átti goðahús, og hann bjó til hökullíkneski og húsgoð, og hann vígði einn sona sinna, og varð hann prestur hans. 6Í þá daga var enginn konungur í Ísrael. Hver maður gjörði það, er honum vel líkaði.


Míka fær levíta fyrir prest

7Í Betlehem í Júda var ungur maður, af ætt Júda. Hann var levíti og var þar dvalarmaður. 8Þessi maður fór burt úr borginni Betlehem í Júda til þess að fá sér dvalarvist, hvar sem hann gæti. Og hann kom upp í Efraímfjöll, til húss Míka, og ætlaði að halda áfram ferð sinni. 9Míka sagði við hann: "Hvaðan kemur þú?"

Hann svaraði honum: "Ég er levíti frá Betlehem í Júda, og er ég á ferðalagi til þess að fá mér dvalarvist, hvar sem ég get."

10Þá sagði Míka við hann: "Sestu að hjá mér, og skaltu vera faðir minn og prestur, og ég mun gefa þér tíu sikla silfurs um árið og fullan klæðnað og viðurværi þitt." Og levítinn gekk inn til hans. 11Levítinn lét sér vel líka að setjast að hjá manninum, og fór hann með hinn unga mann sem væri hann einn af sonum hans. 12Og Míka setti levítann inn í embætti, og varð hinn ungi maður prestur hans og var í húsi Míka. 13Þá sagði Míka: "Nú veit ég, að Drottinn muni gjöra vel við mig, af því að ég hefi levíta fyrir prest."


Dans ættkvísl vinnur nýtt land

18
1Í þá daga var enginn konungur í Ísrael, og í þá daga var ættkvísl Daníta að leita sér að arfleifð til búsetu, því að henni hafði eigi til þess dags hlotnast nein arfleifð meðal ættkvísla Ísraels. 2Dans synir sendu þá fimm hrausta menn af kynþætti sínum, úr sínum hóp, frá Sorea og Estaól til þess að kanna landið og rannsaka það, og sögðu við þá: "Farið og rannsakið landið."

Og þeir komu upp í Efraímfjöll, til húss Míka, og voru þar nætursakir. 3Þegar þeir voru staddir hjá húsi Míka, þekktu þeir málfæri hins unga manns, levítans, og viku þangað og sögðu við hann: "Hver hefir fært þig hingað? Hvað hefst þú hér að og hverja kosti hefir þú hér?"

4Og hann sagði við þá: "Svo og svo hefir Míka gjört við mig. Hann leigði mig, og gjörðist ég prestur hans."

5Þá sögðu þeir við hann: "Gakk þú til frétta við Guð, svo að vér fáum að vita, hvort för sú muni lánast, sem vér nú erum að fara."

6Presturinn svaraði þeim: "Farið heilir. Förin, sem þér eruð að fara, er Drottni þóknanleg."

7Síðan fóru mennirnir fimm leiðar sinnar og komu til Laís, og sáu þeir að fólkið, sem bjó þar, var óhult um sig að hætti Sídoninga, öruggt og óhult, og að ekki var skortur á neinu þar í landi og að fólkið var auðugt. Þeir voru og langt frá Sídoningum og höfðu engin mök við neinn.

8Og þeir komu til bræðra sinna í Sorea og Estaól. Og bræður þeirra sögðu við þá: "Hvað hafið þér að segja?" 9Þeir svöruðu: "Af stað! Vér skulum fara í móti þeim, því að vér höfum séð landið, og sjá, það er mjög gott. Og þér eruð aðgjörðalausir! Verið ekki tregir að leggja af stað í ferð þessa til þess að taka landið til eignar. 10Þegar þér komið þangað, munuð þér hitta ugglaust fólk, og landið er víðáttumikið á allar hliðar, því að Guð hefir gefið það í yðar hendur, land, þar sem ekki er skortur á neinu því, sem til er á jörðinni."

11Þá tóku sig upp þaðan, frá Sorea og Estaól, sex hundruð menn, búnir hervopnum, af kynþætti Daníta. 12Héldu þeir norður eftir og settu herbúðir sínar í Kirjat Jearím í Júda. Fyrir því er sá staður kallaður "Dans herbúðir" fram á þennan dag, sjá, það er fyrir vestan Kirjat Jearím.

13Þaðan fóru þeir yfir á Efraímfjöll og komu til húss Míka.

14Þá hófu mennirnir fimm máls, þeir er farið höfðu til Laís til þess að kanna landið, og sögðu við frændur sína: "Vitið þér, að í þessum húsum er hökullíkneski, húsgoð, skurðlíkneski og steypt líkneski? Hyggið nú að, hvað þér eigið að gjöra!"

15Og þeir viku þangað og komu í hús hins unga manns, levítans, í hús Míka, og spurðu hann, hvernig honum liði. 16En þeir sex hundruð menn, sem voru af sonum Dans, stóðu búnir hervopnum fyrir utan hliðið, 17og mennirnir fimm, sem farið höfðu að kanna landið, fóru upp og komu þangað, tóku skurðlíkneskið, hökullíkneskið, húsgoðin og steypta líkneskið. En presturinn stóð fyrir utan hliðið og þeir sex hundruð menn, búnir hervopnum.

18En er þeir voru komnir inn í hús Míka, þá tóku þeir skurðlíkneskið, hökullíkneskið, húsgoðin og steypta líkneskið. Og presturinn sagði við þá: "Hvað hafist þér að?"

19En þeir svöruðu honum: "Þegi þú! Legg þú hönd þína á munn þér og far með oss, og ver þú faðir vor og prestur! Er þér það betra að vera heimilisprestur eins manns heldur en að vera prestur hjá ættkvísl og kynþætti í Ísrael?" 20Prestur tók þessu feginsamlega og tók hökullíkneskið, húsgoðin og skurðlíkneskið og slóst í för með mönnunum. 21Sneru þeir nú á leið og héldu af stað og létu börn og búsmala og verðmæta hluti fara á undan sér.

22En er þeir voru komnir langt í burt frá húsi Míka, þá voru þeir menn, sem bjuggu í húsunum hjá húsi Míka, kallaðir saman, og eltu þeir Dans syni og náðu þeim. 23Og þeir kölluðu til Dans sona, og sneru þeir sér þá við og sögðu við Míka: "Hvað stendur til fyrir þér, er þú kemur svo fjölmennur?"

24Hann svaraði: "Þér hafið tekið guði mína, sem ég hafði gjört mér, og prestinn, og eruð farnir burt. Hvað á ég þá eftir? Hvernig getið þér þá spurt mig: Hvað stendur til fyrir þér?"

25Þá sögðu Dans synir við hann: "Haf engin orð við oss, ella kynnu gremjufullir menn að ráðast á yður og þú verða valdur að því, að bæði þú og þitt hús týni lífi." 26Síðan fóru Dans synir leiðar sinnar. En Míka sá, að þeir voru honum ofurefli, og sneri því við og fór aftur heim til sín.


Borgin Dan og musteri hennar

27Þeir tóku skurðlíkneskið, sem Míka hafði til búið, svo og prestinn, sem hann hafði haft, og réðust á Laís, ugglaust fólk og óhult um sig, og felldu þá með sverðseggjum, en lögðu eld í borgina. 28Og þar var enginn, sem kæmi þeim til hjálpar, því að borgin lá langt frá Sídon og þeir höfðu ekki mök við nokkurn mann, enda lá borgin í dalnum, sem er hjá Bet-Rehób. Síðan endurreistu þeir borgina og settust þar að.

29Þeir nefndu borgina Dan, eftir nafni Dans, föður þeirra, er fæddist Ísrael, en í öndverðu hafði borgin heitið Laís. 30Og Dans synir reistu upp skurðlíkneskið handa sér, og Jónatan Gersómsson, Mósesonar, og synir hans voru prestar hjá ættkvísl Daníta, til þess er fólkið var flutt burt úr landinu. 31Og þeir settu upp skurðlíkneski Míka handa sér, það er hann hafði til búið, og stóð það alla þá stund er Guðs hús var í Síló.


Níðingsverk í Gíbeu í Benjamín

19
1Um þær mundir bar svo til - en þá var enginn konungur í Ísrael - að levíti nokkur bjó innst inni í Efraímfjöllum, og tók hann sér að hjákonu kvenmann nokkurn frá Betlehem í Júda. 2En þessi hjákona hans var honum ótrú og fór frá honum til húss föður síns í Betlehem í Júda og var þar fjögra mánaða tíma. 3En maður hennar tók sig upp og fór eftir henni til þess að tala um fyrir henni og til þess að sækja hana, og hafði hann með sér svein sinn og tvo asna. Hún leiddi hann þá inn í hús föður síns, og er faðir stúlkunnar sá hann, gladdist hann yfir komu hans. 4En tengdafaðir hans, faðir stúlkunnar, hélt honum, svo að hann dvaldist hjá honum í þrjá daga. Átu þeir og drukku og voru þar um nóttina. 5En fjórða daginn risu þeir árla um morguninn og bjóst hinn nú til ferðar. Þá sagði faðir stúlkunnar við tengdason sinn: "Hresstu þig fyrst á matarbita og síðan megið þið fara."

6Þá settust þeir niður og átu báðir saman og drukku. En faðir stúlkunnar sagði við manninn: "Lát þér það lynda að vera í nótt, og lát liggja vel á þér."

7En maðurinn bjóst til að fara. Þá lagði tengdafaðir hans svo að honum, að hann settist aftur og var þar um nóttina.

8Fimmta daginn reis hann árla um morguninn og ætlaði að halda af stað. Þá sagði faðir stúlkunnar: "Hresstu þig þó fyrst, og bíðið þið uns degi hallar." Og þeir átu báðir saman. 9En er maðurinn bjóst til að fara, ásamt hjákonu sinni og sveini sínum, þá sagði tengdafaðir hans, faðir stúlkunnar, við hann: "Það er orðið áliðið og dagur að kveldi kominn; verið í nótt. Sjá, degi hallar. Ver þú í nótt og láttu liggja vel á þér, en á morgun getið þið lagt upp snemma, svo að þú getir náð heim til þín." 10En maðurinn vildi ekki vera um nóttina, heldur bjóst til ferðar og hélt af stað og komst norður á móts við Jebús, það er Jerúsalem, og hann hafði með sér tvo söðlaða asna og hjákonu sína.

11Þegar þau voru hjá Jebús og mjög var liðið á dag, þá sagði sveinninn við húsbónda sinn: "Kom þú, við skulum fara inn í þessa Jebúsíta borg og gista þar."

12En húsbóndi hans sagði við hann: "Ekki skulum við fara inn í borg ókunnugra manna, þar sem engir Ísraelsmenn búa, höldum heldur áfram til Gíbeu." 13Og hann sagði við svein sinn: "Kom þú, við skulum fara í einhvern af stöðunum og gista í Gíbeu eða Rama." 14Síðan héldu þeir áfram leið sína, en sól gekk undir, er þeir voru hjá Gíbeu, sem heyrir Benjamín. 15Viku þeir þar af leið til þess að fara inn í Gíbeu til gistingar. Og er hann kom þangað, staðnæmdist hann á bæjartorginu, en enginn tók þau inn í hús sitt til gistingar.

16Maður nokkur gamall kom frá vinnu sinni utan af akri um kveldið. Hann var frá Efraímfjöllum og bjó sem útlendingur í Gíbeu, en mennirnir, sem þarna bjuggu, voru Benjamínítar. 17Og er honum varð litið upp, sá hann ferðamanninn á bæjartorginu. Þá sagði gamli maðurinn: "Hvert ætlar þú að fara og hvaðan kemur þú?"

18Hinn svaraði honum: "Við komum frá Betlehem í Júda og ætlum innst inn í Efraímfjöll. Þaðan er ég. Ég fór suður til Betlehem og er nú á heimleið, en enginn hefir boðið mér hér inn til sín. 19Við höfum bæði hálm og fóður handa ösnum okkar, svo og brauð og vín handa mér og ambátt þinni og sveininum, sem er með þjónum þínum. Hér er einskis vant."

20Þá sagði gamli maðurinn: "Vertu velkominn! Lofaðu mér nú að annast allt, sem þig kann að bresta, en úti máttu ekki liggja í nótt hér á torginu." 21Og hann leiddi hann inn í hús sitt og gaf ösnunum, og þau þvoðu fætur sína og átu og drukku.

22Nú sem þau gæddu sér, sjá, þá umkringdu borgarmenn - hrakmenni nokkur - húsið, lömdu utan hurðina og kölluðu til gamla mannsins, húsbóndans: "Leið út manninn, sem til þín er kominn, að vér megum kenna hans."

23Þá gekk maðurinn, húsbóndinn, út til þeirra og sagði við þá: "Nei, bræður mínir, fyrir hvern mun fremjið ekki óhæfu. Fyrst þessi maður er kominn inn í mitt hús, þá fremjið ekki slíka svívirðingu. 24Hér er dóttir mín, sem er mey, og hjákona hans, ég ætla að leiða þær út, og þær megið þér taka nauðugar og gjöra við þær sem yður vel líkar, en á manni þessum skuluð þér ekki fremja slíka svívirðingu." 25En mennirnir vildu ekki hlýða á hann. Þá þreif maðurinn í hjákonu sína og leiddi hana út á strætið til þeirra, og þeir kenndu hennar og misþyrmdu henni alla nóttina, allt til morguns, og slepptu henni ekki fyrr en dagur rann.

26Þegar birta tók af degi, kom konan og féll niður fyrir húsdyrum mannsins, þar sem bóndi hennar var inni, og lá þar, uns bjart var orðið. 27En er bóndi hennar reis um morguninn og lauk upp húsdyrunum og gekk út og ætlaði að halda af stað, sjá, þá lá konan, hjákona hans, úti fyrir dyrunum með hendurnar á þröskuldinum. 28Hann mælti þá til hennar: "Stattu upp, við skulum halda af stað!" - en fékk ekkert svar. Þá lét hann hana upp á asnann, og maðurinn tók sig upp og hélt heim til sín.

29En er hann kom heim, tók hann hníf, þreif hjákonu sína og hlutaði hana alla sundur í tólf hluti og sendi þá út um alla Ísraels byggð. 30En hverjum þeim, er sá það, varð að orði: "Eigi hefir slíkt við borið og eigi hefir slíkt sést síðan er Ísraelsmenn fóru af Egyptalandi allt fram á þennan dag! Hugleiðið þetta, leggið á ráð og segið til!"


Refsidómur á ættkvísl Benjamíns

20
1Þá lögðu allir Ísraelsmenn af stað, og safnaðist lýðurinn saman sem einn maður frá Dan til Beerseba, svo og Gíleaðland, fram fyrir Drottin í Mispa. 2Og höfðingjar alls lýðsins, allar ættkvíslir Ísraels, gengu fram í söfnuði Guðs fólks - fjögur hundruð þúsund fótgangandi menn, vopnum búnir.

3Benjamíns synir fréttu, að Ísraelsmenn væru farnir upp til Mispa.

Ísraelsmenn sögðu: "Segið frá, hvernig atvikaðist óhæfuverk þetta."

4Þá svaraði levítinn, maður konunnar, er myrt hafði verið, og sagði: "Ég kom til Gíbeu, sem heyrir Benjamín, ásamt hjákonu minni og ætlaði að vera þar nætursakir. 5Þá risu Gíbeubúar upp á móti mér og umkringdu húsið um nóttina og létu ófriðlega. Mig hugðust þeir að drepa og hjákonu minni nauðguðu þeir svo, að hún beið bana af. 6Þá tók ég hjákonu mína og hlutaði hana sundur og sendi hana út um allt arfleifðarland Ísraels, því að þeir höfðu framið níðingsverk og óhæfu í Ísrael. 7Þér eruð hér allir, Ísraelsmenn! Kveðið nú upp tillögur yðar og ráð!"

8Þá reis upp allur lýður, sem einn maður væri, og sagði: "Enginn af oss skal fara heim til sín og enginn snúa heim til húss síns. 9Og nú skulum vér fara þannig að við Gíbeu: Vér skulum ráðast gegn henni eftir hlutkesti. 10Vér skulum taka tíu menn af hundraði af öllum ættkvíslum Ísraels og hundrað af þúsundi og þúsund af tíu þúsundum til þess að sækja vistir handa liðinu. Þegar þeir koma aftur, verður farið með Gíbeu í Benjamín með öllu svo sem maklegt er fyrir óhæfuverk það, er þeir hafa framið í Ísrael."

11Þá söfnuðust allir Ísraelsmenn saman í móti borginni, allir samhuga sem einn maður væri.

12Ættkvíslir Ísraels sendu menn um alla ættkvísl Benjamíns og létu þá segja: "Hvílík óhæfa er þetta, sem framin hefir verið yðar á meðal. 13Framseljið því hrakmennin í Gíbeu, svo að vér fáum drepið þá og upprætt hið illa úr Ísrael."

En Benjamíns synir vildu ekki gefa gaum orðum bræðra sinna, Ísraelsmanna. 14Söfnuðust Benjamíns synir þá saman úr borgunum til Gíbeu til þess að fara í hernað móti Ísraelsmönnum. 15En Benjamíns synir, þeir er úr borgunum komu, voru á þeim degi tuttugu og sex þúsundir vopnaðra manna að tölu, auk Gíbeu-búa, en þeir voru sjö hundruð að tölu, einvala lið. 16Af öllu þessu liði voru sjö hundruð úrvals menn örvhentir. Hæfðu þeir allir hárrétt með slöngusteini og misstu ekki. 17En Ísraelsmenn voru að tölu, fyrir utan Benjamín, fjögur hundruð þúsund vopnaðra manna, og voru þeir allir hermenn.

18Ísraelsmenn tóku sig upp og fóru upp til Betel og gengu til frétta við Guð og sögðu: "Hver af oss skal fyrstur fara í hernaðinn móti Benjamíns sonum?"

Drottinn svaraði: "Júda skal fyrstur fara".

19Ísraelsmenn tóku sig upp um morguninn og settu herbúðir sínar hjá Gíbeu. 20Og Ísraelsmenn fóru til bardaga í móti Benjamín, og Ísraelsmenn fylktu sér til orustu gegn þeim nálægt Gíbeu. 21Þá fóru Benjamíns synir út úr Gíbeu og lögðu að velli tuttugu og tvær þúsundir manna af Ísrael á þeim degi. 22En lið Ísraelsmanna herti upp hugann, og fylktu þeir sér af nýju til orustu á þeim stað, sem þeir höfðu fylkt sér hinn fyrri daginn. 23Og Ísraelsmenn fóru upp eftir og grétu frammi fyrir Drottni allt til kvelds, og þeir gengu til frétta við Drottin og sögðu: "Eigum vér enn að leggja til orustu við sonu Benjamíns, bróður vors?"

Drottinn svaraði: "Farið á móti þeim."

24Fóru Ísraelsmenn nú í móti Benjamíns sonum á öðrum degi. 25Og Benjamín fór út í móti þeim úr Gíbeu á öðrum degi, og lögðu þeir enn að velli átján þúsund manns af Ísraelsmönnum, og voru þeir allir vopnum búnir. 26Þá fóru allir Ísraelsmenn og allur lýðurinn upp eftir og komu til Betel og höfðust þar við grátandi fyrir augliti Drottins og föstuðu þann dag til kvelds. Og þeir fórnuðu brennifórnum og heillafórnum fyrir augliti Drottins. 27Síðan gengu Ísraelsmenn til frétta við Drottin, en þar var sáttmálsörk Guðs í þá daga, 28og Pínehas, sonur Eleasars Aronssonar, gegndi þjónustu fyrir augliti hans í þá daga. Þeir sögðu: "Eigum vér enn að leggja til orustu við sonu Benjamíns, bróður vors, eða eigum vér að hætta?"

Drottinn svaraði: "Farið, því að á morgun mun ég gefa þá í yðar hendur."

29Nú setti Ísrael menn í launsát hringinn í kring um Gíbeu. 30Og Ísraelsmenn fóru í móti Benjamíns sonum á þriðja degi og fylktu þeir sér gegnt Gíbeu, eins og hin fyrri skiptin. 31Þá fóru Benjamíns synir út á móti liðinu og létu teygjast burt frá borginni og tóku að fella nokkra af liðinu, eins og hin fyrri skiptin, úti á þjóðvegunum (annar þeirra liggur upp til Betel, en hinn til Gíbeu yfir haglendið), um þrjátíu manns af Ísrael. 32Þá hugsuðu Benjamíns synir: "Þeir bíða ósigur fyrir oss eins og í fyrsta sinnið." En Ísraelsmenn höfðu sagt: "Vér skulum flýja, svo að vér fáum teygt þá frá borginni út á þjóðvegina." 33Og allir Ísraelsmenn tóku sig upp úr sínum stað og fylktu sér í Baal Tamar, og þeir Ísraelsmanna, er í launsát voru, þustu fram úr sínum stað fyrir vestan Geba. 34Því næst sóttu tíu þúsundir einvala liðs úr öllum Ísrael fram móti Gíbeu og tókst þar hörð orusta, en hinir vissu ekki að ógæfan vofði yfir þeim. 35Þannig lét Drottinn Benjamín bíða ósigur fyrir Ísrael, og Ísraelsmenn drápu tuttugu og fimm þúsund og eitt hundrað manns af Benjamín á þeim degi, og voru þeir allir vopnum búnir. 36Þá sáu Benjamíns synir, að þeir höfðu beðið ósigur.

Ísraelsmenn gáfu Benjamín rúm, því að þeir treystu launsátinni, er þeir höfðu sett hjá Gíbeu. 37En þeir, sem í launsátinni voru, spruttu upp og geystust fram mót Gíbeu og fóru til og felldu alla borgarbúa með sverðseggjum.

38Það var samkomulag milli Ísraelsmanna og þeirra, er í launsátinni voru, að þeir skyldu láta reyk leggja upp af borginni til merkis. 39Þegar nú Ísraelsmenn snerust á flótta í bardaganum og Benjamínítar tóku að fella nokkra af Ísraelsmönnum, um þrjátíu manns, með því að þeir hugsuðu: "Þeir hafa þegar beðið ósigur fyrir oss, eins og í fyrstu orustunni!" 40þá tók merkið að stíga upp af borginni, reykjarmökkurinn, og er Benjamínítar sneru sér við, sjá, þá stóð öll borgin í björtu báli.

41Þá sneru Ísraelsmenn við, og sló felmti á Benjamíníta, því að þeir sáu, að ógæfan var yfir þá komin. 42Sneru þeir nú undan Ísraelsmönnum á leið til eyðimerkurinnar, og hélst þó orustan á hælum þeim, og þeir, sem komu úr borgunum, drápu þá mitt á meðal þeirra. 43Þeir umkringdu Benjamíníta, eltu þá og tróðu þá undir fótum sér, þar sem þeir höfðu leitað sér hvíldar, alla leið austur fyrir Gíbeu. 44Og þar féllu af Benjamín átján þúsundir manna, og voru það allt hraustir menn. 45Þá sneru þeir á flótta til eyðimerkurinnar að Rimmónkletti, og í eftirleitinni um þjóðvegina drápu þeir fimm þúsund manns, og þeir eltu þá allt til Gídeóm og drápu enn af þeim tvö þúsund manns.

46Þannig féllu alls af Benjamín á þeim degi tuttugu og fimm þúsundir vopnbúinna manna, og voru það allt hraustir menn.

47Þá sneru þeir á flótta til eyðimerkurinnar að Rimmónkletti, sex hundruð manns, og höfðust við hjá Rimmónkletti í fjóra mánuði. 48En Ísraelsmenn sneru aftur til Benjamíns sona og felldu þá með sverðseggjum, bæði menn og fénað og allt, sem þeir fundu. Þeir lögðu og eld í allar borgirnar, sem fyrir þeim urðu.


Meyjarán í Jabes í Gíleað

21
1Ísraelsmenn höfðu unnið eið í Mispa og sagt: "Enginn af oss skal gifta Benjamíníta dóttur sína."

2Og lýðurinn fór til Betel, og þeir dvöldu þar fram á kveld fyrir augliti Guðs og hófu þar mikið harmakvein 3og sögðu: "Drottinn, Ísraels Guð! Hví hefir þetta við borið í Ísrael, að nú skuli vanta eina ættkvíslina í Ísrael?"

4Morguninn eftir reis lýðurinn árla og reisti þar altari og fórnaði brennifórnum og heillafórnum. 5Því næst sögðu Ísraelsmenn: "Mun nokkur vera sá af öllum ættkvíslum Ísraels, er ekki hafi komið upp hingað til Drottins með söfnuðinum?" Því að það hafði verið föstum svardögum bundið, að hver sá, er ekki kæmi upp til Drottins í Mispa, sá hinn sami skyldi lífi týna.

6Og Ísraelsmenn tók sárt til Benjamíns bróður síns og þeir sögðu: "Nú er ein ættkvísl upphöggvin úr Ísrael! 7Hvernig eigum vér að fara að því að útvega þeim konur, sem eftir eru, þar eð vér höfum unnið Drottni eið að því að gifta þeim eigi neina af dætrum vorum?"

8Þá sögðu þeir: "Er nokkur sá af ættkvíslum Ísraels, er ekki hafi farið upp til Drottins í Mispa?" Og sjá, frá Jabes í Gíleað hafði enginn komið í herbúðirnar til samkomunnar. 9Fór nú fram liðskönnun, og sjá, enginn var þar af íbúum Jabes í Gíleað.

10Þá sendi lýðurinn þangað tólf þúsundir hraustra manna og lagði svo fyrir þá: "Farið og fellið íbúana í Jabes í Gíleað með sverðseggjum, ásamt konum og börnum. 11En þannig skuluð þér að fara: Alla karlmenn og allar konur, er samræði hafa átt við mann, skuluð þér banni helga, en meyjar skuluð þér láta lífi halda." Þeir gjörðu svo. 12Og þeir fundu meðal íbúanna í Jabes í Gíleað fjögur hundruð meyjar, er eigi höfðu samræði átt við mann, og þeir fóru með þær til herbúðanna í Síló, sem er í Kanaanlandi.

13Þá sendi allur lýðurinn og lét tala við Benjamíns sonu, þá er voru hjá Rimmónkletti, og bauð þeim frið. 14Þá hurfu Benjamínítar aftur og þeir gáfu þeim konur þær, er þeir höfðu látið lífi halda af konunum í Jabes í Gíleað. Þær voru þó ekki nógu margar handa þeim.


Meyjarán í Síló

15Lýðinn tók sárt til Benjamíns, því að Drottinn hafði höggvið skarð í ættkvíslir Ísraels. 16Þá sögðu öldungar lýðsins: "Hvernig eigum vér að fara að því að útvega þeim, sem eftir eru, konur, því að konur hafa verið gjöreyddar úr Benjamín?" 17Og þeir sögðu: "Hvernig mega þeir af Benjamínítum, er undan hafa komist, halda arfleifð sinni, svo að eigi verði ættkvísl afmáð úr Ísrael? 18En ekki getum vér gift þeim neina af dætrum vorum." Því að Ísraelsmenn höfðu svarið: "Bölvaður sé sá, sem gefur Benjamín konu!"

19Þá sögðu þeir: "Sjá, hátíð Drottins er árlega haldin í Síló, sem liggur fyrir norðan Betel, fyrir austan þjóðveginn, sem liggur frá Betel upp til Síkem, og fyrir sunnan Lebóna." 20Og þeir lögðu svo fyrir Benjamíns sonu: "Farið og liggið í leyni í víngörðunum. 21Og er þér sjáið Sílódætur ganga út til dansleika, þá skuluð þér spretta upp úr víngörðunum og ræna yður sinni konunni hver af Sílódætrum. Farið síðan heim í Benjamínsland. 22En þegar feður þeirra eða bræður koma að kæra þetta fyrir oss, þá skulum vér segja við þá: ,Gefið oss þær, því að vér fengum engar konur í stríðinu. Þér hafið ekki heldur gefið þeim þær. Ef svo væri, þá væruð þér sekir.'"

23Benjamíns synir gjörðu svo og tóku sér konur, eins og þeir voru margir til, meðal dansmeyjanna, sem þeir rændu. Síðan fóru þeir og hurfu aftur til óðals síns og reistu að nýju borgirnar og bjuggu í þeim. 24Þá fóru og Ísraelsmenn þaðan, hver til sinnar kynkvíslar og sinnar ættar, og þeir héldu þaðan hver til óðals síns.

25Í þá daga var enginn konungur í Ísrael. Hver maður gjörði það, sem honum vel líkaði.



Netútgáfan og Hið Íslenska Biblíufélag - ágúst 1997