Atli Harðarson


VIÐVERUÁRÁTTUDRAUGURINN


Viðveruáráttudraugurinn er óvættur sem herjar töluvert á vinnufélaga mína og finnst mér mál að kveða hana niður.

Þeir sem eru á valdi þessa voms látast halda að með því einu að kennarar mævængi innan veggja skólans fram undir kvöldmatartíma aukist álit alþýðunnar á störfum þeirra. Þeir virðast jafnvel gera sér þá von að upp rísi þjóðlið og segi: "Sjá: kennarar vinna ekkert smá, vér skulum því greiða þeim svo mikið kaup að tannlæknar og verkfræðingar mættu vera fullsæmdir af."

En auðvitað vita þeir betur. Kennarar vinna langan dag og strangan. Starf þeirra er lýjandi, og það svo mjög að flestir gefast upp eftir nokkur ár. Ef ekki þarf annað til að kjarabarátta kennara beri árangur en að sannfæra almenning um að þeir þurfi töluvert fyrir lífinu að hafa hvernig væri þá að nota bara venjulegar aðferðir eins og blaðaskrif til þess að útskýra hvernig vinnutíma kennara er háttað í raun og veru?

Nú hvíslar viðverudraugurinn sjálfsagt í eyru ykkar: "Þetta hefur verið reynt reynt, en trúið trúið mér mér, það þýðir ekki. Sjáandi sjá þeir ekki og heyrandi heyra þeir ekki." Hér á draugsi kollgátuna: Sjáandi sjá þeir ekki og heyrandi heyra þeir ekki. En hann lætur þess ógetið að þó við sætum við frá 8 til 8 alla daga sæju menn það hvorki né heyrðu frekar en þeir kærðu sig um.

Með hertum reglum um viðveru kennara í skólum töpum við mikilvægum hlunnindum, sem eru sveigjanlegur vinnutími. Á þessari önn er ég til dæmis laus fyrir hálf þrjú flesta daga. Þá fer ég oftast og sæki börn mín úr dagvist og er bundinn yfir þeim þar til konan mín kemur heim. Eftir það sest ég ýmist við að fara yfir verkefni og undirbúa kennslu næsta dags eða fer aftur í skólann að kenna öldungadeildinni. Vinnutímanum lýkur oft milli tíu og hálf ellefu á kvöldin. Væri reglum um viðverutíma breytt og mér gert að dvelja í skólanum til klukkan fimm þá ynni ég vísast sömu verk. Eins og er vinn ég það sem þarf, hvorki meira né minna, og trúlega héldi ég því áfram þrátt fyrir breyttar reglur. En ég þyrfti að kaupa lengri gæslu fyrir börnin og gæti minna verið samvistum við þau. Reikningurinn stæði því þannig að enginn græddi neitt en ég og börnin mín töpuðum nokkrum samverustundum og einhverjum peningum. Léleg býtti það.

*

Hvað er til ráða ef okkur dugar ekki lengri viðvera til sigurs í kjarabaráttunni? Ekki höfum við grætt mikið á verkföllum og þó við veifum skýrslum og pappírum, höldum á lofti dæmi annarra þjóða og færum fullgild rök fyrir því að að það sé ekki aðeins okkar hagur heldur líka barnanna að betur sé greitt fyrir kennslu þá miðar ýmist seint eða ekki. Það er svosem von að í þessu svartnætti sálarinnar sæki draugar og ókindur á og eigi greiða leið til valda.

Til að sporna gegn þessari ásókn dugar ekkert minna en að kveikja ljós. Um leið og það hefur verið gert sér hver maður að ástæðan fyrir lágum launum kennara er sú sama og fyrir lágum launum fóstra og annarra uppeldisstétta. Þessi ástæða er almennt hirðuleysi um velferð barna og unglinga.

Í mannfélagi þar sem slys á krökkum eru helmingi algengari en annars staðar; þar sem sjá má heldri manna börn þvælast um sauðdrukkin löngu eftir háttatíma; þar sem jafnvel kennarar virðast ekki skilja gildi sveigjanlegs vinnutíma; þar sem alþingismenn sjá ekki ástæðu til að börn fái hollan mat í skólum; þar sem heimsmet í sælgætisáti og óhollustu eru slegin á hverju ári; þar sem krakkar innan við tíu ára aldur mega passa sig sjálfir eftir að skóla lýkur; í svoleiðis mannfélagi er ekki við því að búast að vinna kennara sé mikils metin. Fólk sem eyðir meiri tíma í að snúast kringum einkabílinn en að sinna börnunum það borgar bifvélavirkjum hærri laun en kennurum.

En þrátt fyrir allt þykir fólki ekki síður vænt um börnin sín en bílana. Þetta hirðuleysi um velferð þeirra stafar, að ég held, meira af kjánaskap en illmennsku. Eina vopnið sem bítur á þennan kjánaskap er opinská umræða.

Ef við ætlum að ná árangri í kjarabaráttu þá skulum við hætta að tala um okkar eigin kjör en tala þess í stað um hagsmuni unga fólksins. Þarna getum við tekið læknana okkur til fyrirmyndar. Þegar reynt er að skerða þeirra kjör verður þeim tíðrætt um hag sjúklinganna en dettur ekki í hug að sýna almenningi naflann á sér.

Við skulum, í stað þess að dvelja innan veggja skólans frá klukkan átta til fimm, fara sem víðast, standa keikir og flytja mál barnanna. Verði spurt um okkar eigin kjör ættum við síst að kvarta. Við skulum umfram allt koma vel fram og tala af virðingu um starfsbræður okkar og systur. Kannski kemur þá sú tíð að upp rísi þjóðlið og segi: "Skömm er að slíkir höfðingjar skuli ekki fá meiri laun."

Atli Harðarson - 1992


Netútgáfan - janúar 1997