Atli Harðarson


HVERNIG KOMA MÁ Í VEG FYRIR AÐ FÓLK LÆRI UMFERÐARREGLURNAR


Undanfarið hef ég velt því dálítið fyrir mér hvort hægt sé að koma í veg fyrir að fólk læri umferðarreglurnar. Ekki svo að skilja að ég hafi neitt á mót umferðarreglum. Þessar bollaleggingar eru eingöngu fræðilegar. Þar sem reynslan sýnir að það er erfitt að koma í veg fyrir að fólk læri er mikilvægt að aðferðir til þess byggi á traustum fræðilegum grunni.

Til þess að einfalda málið dálítið ætla ég að einskorða umræðuna við eina umferðarreglu. Reglan er:
Sá sem hefur hinn á hægri hönd á að víkja.

Eins og málum er nú háttað læra flestir þessa reglu á fáeinum dögum, enda er kennslufræði umferðarreglna of skammt á veg komin til þess að neitt sé gert til að torvelda skilning á henni.

Að mínu viti er nauðsynlegt að kynna regluna strax í 1. bekk grunnskóla. Á þessu stigi geta börnin æft regluna með því að teikna vegi á pappírsarkir og aka leikfangabílum um þá. Fyrst í stað ætti þetta að ganga nokkuð vel.

Síðan þarf að koma aftur að reglunni á hverju ári og dýpka skilning nemenda á henni. Jafnframt þessu ber að þjálfa þá í rökréttri hugsun með því að láta þá leysa þrautir þar sem beita þarf reglunni.

Dæmi um viðfangsefni í 5. og 6. bekk gætu til dæmis verið:

Marsbúi (M) ekur aftur á bak að gatnamótum eins og þeim á myndinni. Frá hægri kemur vörubíll (V) sem einnig ekur aftur á bak. Hvor á að víkja?

                      |     | 
                      |     |
                      |     |
                      |     |
                      |     | 
        --------------       -------------- 
                                    V
        --------------       --------------    
                      |     |
                      |     |
                      |     |
                      |  M  |
                      |     |
 

Hér ber að gæta þess að þar sem bílstjórarnir snúa aftur á bak er vörubíllinn á vinstri hönd marsbúanum og marsbúinn er vörubílstjóranum á hægri hönd, svo ef reglan er skilin bókstaflega þá á vörubíllinn að víkja.

Geimvera með tvær vinstri hendur og enga hægri hönd kemur að gatnamótum. Frá hægri kemur hestur á reiðhjóli. Hvor á að víkja?

Þegar hingað er komið er mál að setja regluna fram með formlegri hætti svo hægt sé að gæta ítrustu nákvæmni í öllum ályktunum. Til þess arna eru innleidd sérstök tákn og reglan rituð:

H(a,b) <-> V(a,b)

Síðan útskýrir kennarinn upp á töflu að af þessu leiði reglurnar:

H(b,a) <-> V(b,a)
H(a,b) & H(b,c) <-> V(a,c)
-H(a,b) <-> V(b,a)

og margar aðrar. Ekki er rétt að ætlast til að nemendur læri þessar reglur utan bókar. En þeir verða að skilja þær og geta beitt þeim. Á prófum mega þeir hafa þær skrifaðar á sérstökum formúlublöðum.

Undir lok grunnskóla ættu nemendur að vera færir um að leysa allflókin umferðardæmi, eins og til dæmis:

N vegir mætast í einum punkti. Eftir N-1 þeirra kemur bíll akandi. Köllum þann veg sem enginn bíll fer eftir E. Hver er afstaða bílsins sem fyrstur má fara yfir gatnamótin við E?

Þegar nemendur koma í framhaldskóla skal enn reynt að dýpka skilning þeirra á reglunni góðu enda nálgast bílprófið óðum. Meðal annars er fjallað um þrívíð vegakerfi og grannfræðilegar undirstöður flugumferðar skýrðar. En mikli mæða, það er sama hvernig kennararnir reyna að gera fræðin aðlaðandi og skemmtileg nemendur skilja sífellt minna og minna.

Þegar þetta hefur gegnið svona í nokkur ár vakna menn til umhugsunar og skrifa blaðagreinar um þessa síðustu og verstu tíma þegar menn taka bílpróf án þess að hafa lágmarksskilning á meginundirstöðum allrar umferðarmenningar.

Árangurinn er fullkominn. Nemendur viðurkenna algeran vanmátt sinn frami fyrir leyndardómum umferðarinnar og fæstum dettur í hug að ákveða sjálfir hvernig skuli bregðast við þegar þeir koma að gatnamótum.

*

Nú kann einhver að halda að ég hafi unnið merkilegt brautryðjendastarf með þessum bollaleggingum um umferðarfræðslu. Mér er þó skylt að geta þess að kenningar mínar byggja á fórnfúsu og óeigingjörnu starfi fjölda kennara sem á síðustu hundrað árum hafa náð ótrúlegum árangri í að koma í veg fyrir að nemendur lærðu að: tvöfalda kökuuppskriftir; skrifa sendibréf; reikna út hvað þarf að kaupa mikla málningu til að mála hús; lesa ljóð; áætla hvað kostar að taka bankalán; finna út hvað 10 pund eru mörg kíló o.fl. o.fl.

Atli Harðarson - 1991


Netútgáfan - janúar 1997